Færsluflokkur: Bloggar

Torskiljanlegir stjórnarhættir matvælaráðherra

Nú standa öll spjót á matvælaráðherra.  Það er sama, hvar hún drepur niður fæti sem ráðherra.  Alls staðar er sviðin jörð.  Ekkert grær í fótsporum hennar.  Þetta verður ekki útskýrt með öðrum hætti en þeim, að þarna fari stækur kommúnisti sínu fram.  Kommúnisti ber enga virðingu fyrir lögum í lýðræðisþjóðfélagi.  Í huga stæks kommúnista verða lögin að víkja fyrir pólitík flokksins.  Einmitt þannig vinnur Svandís Svavarsdóttir.  Það ber hins  vegar vott um dómgreindarskort á háu stigi að halda, að hún geti vaðið uppi sem ráðherra með lögbrotum og frámunalega óvandaðri stjórnsýslu.  Allt ber að sama brunni.  Manneskjan er óhæf til að gegna ráðherraembætti.  Það verður að gera meiri kröfur um vitræna stjórnsýslu og forystu á einu sviði framkvæmdavaldsins en téð Svandís hefur burði til að sýna. Þessi ráðherra verður að taka pokann sinn. 

Svandís Svavarsdóttir sætir nú athugun Umba, Umboðsmanns Alþingis, sem hefur sent henni spurningar, sem eru áþekkar spurningum Teits Björns Einarssonar, Alþingismanns, sem hefur með réttu verið afar gagnrýninn á stjórnarathafnir þessa alræmda ráðherra gagnvart fyrirtækinu Hval hf og starfsmönnum þess. 

Morgunblaðið greindi frá nokkrum spurningum Umba í frétt 26.07.2023 undir fyrirsögninni:

"Umboðsmaður vill svör um bann".

Svörin munu áreiðanlega bögglast fyrir þessum óhæfa ráðherra, því að Teitur Björn, Alþingismaður, hefur enn ekki fengið nein efnisleg svör við sínum spurningum.  Hvað á að láta þennan ráðherra komast lengi upp með að þumbast við ?  Hún hefur áður af öðru tilefni bara yppt öxlum og sagzt vera í pólitík.  Þetta er bara alls ekki boðlegt í lýðræðisríki, þar sem ráðherra er með öllu óheimilt að taka lögin sínar hendur, enda gilda valdmörk.  Fyrir borgarana er óviðunandi að búa við þessi ósköp.  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur enga burði til að losa sig við óværuna.  Þess vegna hlýtur að koma til uppgjörs á stjórnarheimilinu. 

"Umboðsmaður óskar svara við ýmsum spurningum varðandi stjórnsýslu ráðherra.  Þ.á.m., að reglugerðin sé byggð á sjónarmiðum um velferð dýra með það fyrir augum að afla gagna um, hvort ákvæði laga um velferð þeirra og hvalveiðar séu uppfyllt við veiðar á langreyði með þeim aðferðum, sem beitt er við veiðarnar.  Segir, að um velferð dýra gildi sérstök lög og samkvæmt þeim sé ráðherra falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um veiðiaðferðir í samráði við þann ráðherra, sem fer með stjórn veiða á villtum fuglum og spendýrum, en það er umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra."  

 

  Ráðherrarnir, sem þarna eru tilgreindir, hafa látið undir höfuð leggjast að setja reglugerð um veiðar langreyða, og þess vegna má ætla, að bann matvælaráðherra um veiðar á langreyðum í sumar hvíli á ónógum hlutlægum viðmiðunum að lögum.  Ráðherrann tók geðþóttaákvörðun sem sjálfskipaður umboðsmaður hvala í fljótræði, og m.a. þess vegna hangir þessi aðför að rekstri fyrirtækis og afkomu fjölda manns í lausu lofti lagalega séð.  Þetta er gríðarlega alvarlegur fingurbrjótur fyrir ráðherra.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að stjórnarandstæðingar á Alþingi kvaka ekkert núna í fjölmiðlum, nema miðflokksmenn ?  Eru hinir jafnblindir og ráðherrann ?  Líka töfrum gædda bankadrottningin, sem með töfrasprota breytti 3 M í 100 M og ætlaði að sleppa undan jaðarskatti launa með mismuninn ?

"Þá er bent á, að þótt matvælaráðherra fari með yfirstjórn mála, sem varða velferð dýra, sé framkvæmd stjórnsýslunnar á hendi Matvælastofnunar, þ.m.t. að takmarka eða stöðva starfsemina.  Segir, að í minnisblaði skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu komi fram, að ekki hafi verið sett reglugerð um framkvæmd veiða á hvölum, og því geti Matvælastofnum einungis stuðzt við ákvæði laga um velferð dýra við mat á því, hvort staðið sé að veiðum í samræmi við lögin. Telur skrifstofan nauðsynlegt að setja reglugerð um veiðiaðferðir, svo [að] tryggt sé, að aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi sem minnstum sársauka.  Skýringa er óskað á því, hvort heimilt hafi verið í þessu ljósi að byggja reglugerðina um veiðibann á ákvæðum laga um hvalveiðar, en ekki á lögum um velferð dýra. 

Ráðherrann fór offari í aðför sinni að löglegri atvinnustarfsemi í landinu og sýndi fyrirlitningu sína á lögum og reglum í landinu.  Svona nokkuð geta borgaralegir stjórnmálaflokkar ekki látið viðgangast þegjandi og hljóðalaust.  Var ekkert bókað um þetta mál í ríkisstjórn ?  Geta samstarfsflokkar vinstri grænna í ríkisstjórn setið þar áfram, á meðan þessi löglausi ráðherra situr þar að störfum ? Sé svo, verður að spyrja, hvenær sé eiginlega komið nóg af glópsku og yfirgangi eins ráðherra, svo að stjórnarslitum varði að sitja áfram með þeim ráðherra í ríkisstjórn ?

"Einnig er spurt, hvernig álit fagráðs um velferð dýra hafi getað orðið tilefni til þess, að ráðherra gaf út reglugerð á grundvelli laga um halveiðar, en ekki horft til úrræða Matvælastofnunar í málinu.  Ekki verði séð, að hlutverk fagráðs um dýravelferð sé að vera matvælaráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga á sviði sjávarútvegsmála."

Allt blasir þetta við ólögfróðum, upplýstum almenningi.  Það liggur í augum uppi, að ráðherrann, sem að eigin sögn tekur ákvarðanir út frá pólitík og hvorki út frá samkomulagi stjórnarflokkanna, góðum stjórnsýsluháttum né landslögum, greip þetta tækifæri, sem þessi undarlega skýrsla fagráðsins til Matvælastofnunar var(hún átti ekkert erindi til ráðherrans fyrir en að fenginni umsögn Matvælastofnunar), og kastaði skít í tannhjól stjórnarsamstarfsins með því að ganga í berhögg við ríkisstjórnarsáttmálann að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins. Svo geipar gamall Hafnarfjarðarkrati, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, um það, að söguleg þáttaskil hafi orðið, því að þingmenn sjálfstæðisflokksins séu farnir að hóta stjórnarslitum. 

Eiga sjálfstæðismenn þá að láta sér lynda hvað sem er í stjórnarsamstarfi ? Ef svo væri, þá brygðist Sjálfstæðisflokkurinn hugsjónum sínum og fylgismönnum. Atlaga Svandísar Svavarsdóttur að stjórnarsamstarfinu er ekki aðeins atlaga að samstarfsflokkum VG í ríkisstjórninni, heldur að formanni vinstri grænna, forsætisráðherranum, sem hefur talað mörgum vinstri græningjanum þvert um geð, þegar hún talar um mikilvægt friðarhlutverk NATO í Evrópu og fagnar stækkun þess, sem geri varnir Vesturlanda gegn öfga- og ofbeldisöflum enn öflugri. Katrín Jakobsdóttir hefur hins vegar sýnt, að hún er enginn bógur til að gegna stöðu forsætisráðherra, þegar í harðbakkann slær, því að hún hefur ekki bolmagn til að knýja Svandísi til að standa við stjórnarsáttmálann eða víkja ella.  Þess vegna er þessi ríkisstjórn hennar ekki á vetur setjandi.  

"Þá er spurt, af hverju umsögn fagráðs um málið hafi ekki verið borin undir Matvælastofnun áður en ákvörðun um reglugerðarsetninguna var tekin, og hvernig það geti samrýmzt reglum stjórnsýsluréttar og sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti."

Ráðherrann gefur einfaldlega ekkert fyrir viðmið atvinnurekanda síns, ríkisins, né siðlega hegðun, því að hún "er í pólitík".  Það þýðir, að Svandís Svavarsdóttir tekur geðþóttaákvarðanir eins og henni einni sýnist, að samrýmist hennar pólitík.  Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu, að losna verður hið fyrsta við þetta fyrirbrigði úr pólitík.   

 

 

 


Hernaðarbrölti Rússlands verður að linna

Með hernaðarbrölti sínu í Úkraínu frá 24.02.2022 hafa Rússar staðfest, hversu frumstæðir þeir eru hernaðarlega og algerlega tillitslausir um örlög varnarlausra borgara og sinna eigin óbreyttu hermanna.  Gjörspilltir og siðlausir stjórnendur rússneska hersins og klíkan í Kreml láta sig engu skipta, hversu margir varnarlausir borgarar Úkraínu falla eða særast, og þeir etja hermönnum sínum út í opinn dauðann. Jafnvel er stór stífla vatnsorkuvers sprengd í loft upp, og stærsta kjarnorkuver Úkraínu er í öryggislegu uppnámi mánuðum saman.

Herkænsku eða nútímalegri herfræði er ekki fyrir að fara hjá Rússaher.  Allt er þar kunnuglegt frá heimsstyrjöldunum og hernaðinum í Afganistan og Sýrlandi.  Flugher Rússa hefur mistekizt að ná yfirráðum í lofti, og herþotur Úkraínumanna eru of fáar og úreltar frá Ráðstjórnartímabilinu til að þær geti haft í fullu tré við þær rússnesku.  Þess vegna hafa herirnir grafið sig niður í skotgrafir, eins og tíðkuðust í Fyrri heimsstyrjöldinni.

Öðru máli mun gegna, þegar úkraínski flugherinn tekur að beita hinum öflugu og fjölhæfu bandarísku orrustuþotum, F16.  Úkraínumenn munu þá öðlast yfirráð í úkraínskri lofthelgi, og þannig munu þeir geta beitt bryndeildum sínum af fullum þunga, en þeim hefur ekki verið beitt í neinum mæli enn þá.  Þá verður rússnesku glæpahyski og drykkjurútum sópað út úr Úkraínu, og landamærin frá 1991 endurheimt.  Hvað þá verður um stórrússneska prumpið er óvíst, en það mun þó líklega ekki bera sitt barr eftir þetta. Óþarft er að gera því skóna, að bylting hugarfarsins muni eiga sér stað og að Rússar muni taka upp lýðræðislega stjórnarhætti.  Það gætu hins vegar Hvít-Rússar gert hjá sér.  

KGB-karlfauskurinn frá Leningrad, nú Sankti-Pétursborg, hefur hótað að beita kjarnorkuvopnum, ef ósigur rússneska hersins blasir við.  Það er eintómur derringur fantsins.  Bandaríkjamenn hafa látið rússnesku valdaklíkuna vita, að þá muni NATO-flugflotinn taka völdin í rússneskri lofthelgi og leggja í rúst, það sem honum sýnist.  Kínverjar munu og hafa varað fantinn í Kreml við slíku athæfi, og hann sjálfur er of huglaus til að þora að storka eigin örlögum með þeim hætti. 

Nú hefur þessi sami siðblindingi neitað að framlengja leyfi Úkaínumanna til að skipa matvörum út í hafnarborgum sínum og að tryggja flutningaskipum frið á leiðinni yfir Svartahafið.  Hann veit, að afleiðingin verður hungursneyð í Afríku, en hann skeytir engu um mannslíf og hefur aldrei gert.  Það, sem fyrir honum vakir, er að skapa flóttamannaöldu til Evrópu, eins og hann gerði um árið frá Sýrlandi með því að sprengja upp borgir þar.  Illmennið svífst einskis. 

Joschka Fischer, fyrrverandi leiðtogi þýzkra græningja og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, viðrar mikils verð þýzk sjónarmið til grimmdarlegs hernaðar Rússlands í Evrópu, sem hófst með árás á austurhéruð Úkraínu og Krím 2014 og alls herjar innrás 24.02.2022 með stefnu Rússahers á Kænugarð.  Greinin bar vafasama fyrirsögn m.v. efnistökin:

"Aukin hætta er af veikingu Rússlands".

Þessu máli er allt öðru vísi varið.  Það mun stafa áframhaldandi stórhætta af útþenslustefnu Rússlands, ef nú verður tekið á þeim með silkihönzkum.  Til að tryggja frið og velsæld í Evrópu eftir föngum á næstu áratugum verða Vesturveldin að hrista af sér slenið, hætta að hlusta á bullið úr Kreml og láta Úkraínumönnum hið allra fyrsta í té vopnin og þjálfunina, sem þeir fara fram á, til að gera þeim kleift að hrekja illfyglin heim til sín og endurreisa þar með landamærin frá 1991. Síðan þarf strax í kjölfarið að verða við ósk Úkraínustjórnar um aðild að NATO. 

Rússland hefur opinberað ógeðslegt eðli sitt, og þegar hættunni af kínverska drekanum er bætt við, verður ljóst, að lýðræðisríkin verða að vígbúast.  Það gera þau bezt með auknum fjárveitingum til landvarna og fjárfestingum í hátæknibúnaði í því skyni.

"Hauslaust stríð Rússa í Úkraínu hefur geisað í nærri 1,5 ár, og glæpsamlegt framferði innrásarinnar hefur ekki breytzt. 

Stórt kjarnorkuveldi [gjörspillt með allt í niðurníðslu-innsk. BJo] vill neita nágranna sínum - "bræðraþjóð" um áður viðurkenndan tilverurétt.  Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur valið að heyja landvinningastríð.  Ef hann nær markmiðum sínum, verður Úkraína innlimuð í Rússland og hverfur af kortínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.  

En með hverri vikunni, sem líður, bendir sífellt [fleira] til, að áætlanirnar hafi snúizt í höndunum á honum.  Langt frá því að skila skjótum sigri er "sérsök hernaðaraðgerð" Pútíns orðin að blóðugu klúðri og þrautagöngu, sem Rússar gætu allt eins tapað. Þótt "aðgerðin" hafi vissulega kostað stórar fórnir í Úkraínu, hefur hún einnig valdið almenningi í Rússlandi miklu tjóni."

Menn verða að gera sér grein fyrir því, að við miskunnarlausa fasistastjórn í Kreml er að eiga og að þessi lýsing þýzka útanríkisráðherrans fyrrverandi á sér hliðstæðu í Þriðja ríki Adolfs Hitlers.  Leifturstríð Þriðja ríkisins voru þó árangursrík í byrjun, en í höndum afturúrkreistinga frumstæðs Rússlands alger bögglingur.  Afleiðingin af landvinningastefnu nazistastjórnarinnar í Berlín, sem háð var undir formerkjum þarfar yfirburðakynstofns fyrir "Lebensraum", reyndist alger tortíming þessarar hugmyndafræði, og eftir lá Þýzkaland í rúst.

Rússland þykist nú heyja stríð til að uppræta nazisma í Úkraínu.  Þetta bull á sér sögulegar skýringar, sem Pútín hefur kosið að draga fram til að kynda undir þjóðernistilfinningum Rússa, sem misnotaðar hafa verið til að koma því inn hjá þeim, að þeir eigi að ráða yfir öllum slavneskum þjóðum og Eystrasaltsþjóðunum að auki hið minnsta.  Þessar sögulegu rætur eru frá 1941, frá upphafi "Operation Barbarossa" í júní það ár.  Þá sáu frelsishetjur Úkraínu sér leik á borði að koma ár sinni fyrir borð hjá Wehrmacht og þýzkum stjórnvöld með því að bjóða fram aðstoð sína í hernaðinum gegn Ráðstjórnarríkjunum gegn því, að Úkraína fengi sjálfstæði eða losnaði a.m.k. úr krumlum Moskvustjórnarinnar. 

Þetta hentaði þó ekki kynþáttakenningasmiðum Þriðja ríkisins, sem voru algerlega úti að aka, og í hópi herforingja í Wehrmacht voru menn, sem eygðu gagnið, sem Wehrmacht gæti af þessu haft, enda Úkraínumenn alltaf verið orðlagðir hermenn.  Pólitískir skussar fengu því svo framgengt, að Abwehr, leyniþjónusta Wehrmacht, handsamaði forystumenn uppreisnar Úkraínumanna. 

Sjálfstæðisvitundin hefur alla tíð verið fyrir hendi á meðal Úkraínumanna frá því, að þeir illu heilli rötuðu undir illskeyttan hramm zarsins í Moskvu. Ef andskotinn sjálfur hefði ráðizt á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941, hefðu Úkraínumenn leitað bandalags við hann gegn ógnarstjórninni í Kremlarkastala.

"Á örlagatímum uppreisnar Prígosíns reyndist Rússland Pútíns vera það, sem gagnrýnendur hans höfðu lengi haldið fram: mafíuríki, sem skortir öfluga innviði - en er því miður með eitt stærsta kjarnorkuvopnabúr heims.  

Þetta var stund sannleikans, og vísun Pútíns til ársins 1917 og falls keisarans var reyndar mjög viðeigandi.  Þessi atburður minnir sannarlega á atburðina það ár, sem leiddu ekki til einnar, heldur tveggja byltinga - fyrst í febrúar og síðan í október."

Saga Rússlands er hörmuleg.  Þeir báru aldrei gæfu til að þróa stjórnarfar í átt til lýðræðis, eins og annars staðar í Evrópu, þar sem valddreifing átti sér stað frá konungi/keisara til aðalsmanna, sem smám saman lögðu meiri völd í hendur héraðsþinga og/eða þjóðþings.  Í Rússlandi hafði zarinn alla tíð öll völd að hætti Mongólanna, sem réðu yfir Rússum í 300 ár, og aðallinn stóð að skattheimtu fyrir zarinn, en lýðurinn var einskis metinn og valdalaus.  Þess vegna voru byltingarnar 1917 ferð Rússa úr öskunni í eldinn, og enn stjórnar zarinn, nú með hjálp ólígarka (auðmanna), rotnu þjóðfélagi, þar sem lýðurinn má síns einskis, enda eru þjóðfélagsvandamálin svakaleg. Rússar eiga mjög erfitt með að fóta sig í nútímanum og eru engan veginn í stakk búnir til að ráða yfir nokkurri annarri þjóð, enda hafa þeir ekkert fram að færa annað en mannhatur og spillt hugarfar. 

"Því nær sem [dregur að endalokunum], [þeim mun] meiri verður hættan á, að Kreml grípi til órökrænna aðgerða, eins og að fyrirskipa notkun kjarnorkuvopna.  Uppreisn Prígósíns gefur okkur sýnishorn af ringulreiðinni, sem bíður.

Næstum allt er hugsanlegt núna, frá upplausn Rússneska sambandsríkisins til uppgangs annarrar öfgaþjóðernisstjórnar með drauma nýkeisarasinna um endurreisn keisaraveldisins." 

Í heimsstyrjöldinni síðari greip nazistastjórnin í Berlín aldrei til gashernaðar, og hún lagði meiri áherzlu á þróun flauga Werner´s von Braun á Penemünde en á að framleiða kjarnorkusprengju.  Það er margt sameiginlegt með fyrrverandi einræðisherra í Berlín og núverandi einræðisherra í Moskvu.  Báðir bjuggu/búa við algera yfirburði andstæðingsins í lofti með undantekningu fyrstu ára Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Ógnin, sem þeim stafaði/stafar af miskunnarlausri hefnd úr lofti er svo mikil, að hvorugur þorði/þorir að grípa til gjöreyðingarvopna.  Rússar eru þó uppvísir af að beita fosfórsprengjum á óbreytta borgara Úkraínu, svo að ekki sé nú minnzt á klasasprengjurnar, sem þeir hafa beitt á óbreytta borgara, og nú fá rússneskir hermenn að finna til tevatnsins með þeirri sprengjutegund líka, þótt margfalt hærra hlutfall bandarískra klasasprengja (97 %) springi við lendingu en þeirra rússnesku (40 % - 50 %).  

Það er rétt hjá J. Fischer, að þróun mála innan Rússneska sambandsríkisins er ófyrirsjáanleg núna.  Það á ekki að draga úr einbeitingu Vesturveldanna við það verkefni að efla úkraínska herinn svo mjög, að hann nái að ganga á milli bols og höfuðs á rússneska hernum með lágmarks mannfalli í eigin röðum og reka steppuskrílinn austur fyrir lögmæt landamæri Úkraínu frá 1991. Það yrði mesta friðaraðgerð, sem nú er hugsanleg fyrir Evrópu.  Síðan getur rotin yfirstétt Rússlands borizt á banaspjótum.  

Stuðningsfólk Kremlverja á Vesturlöndum hafa þar verið nefndir "useful idiots" sem á íslenzku mætti kalla gagnlega grautarhausa - ga-ga.  Þeir finnast einnig á Íslandi.  Málflutningur þeirra er vellingur úr áróðursvél Kremlar, og undirtónninn er Bandaríkjahatur og fyrirlitning á vestrænu stjórnskipulagi og lifnaðarháttum.  Ga-ga halda því fram, að landvinningahernaður Rússa gegn Úkraínu sé NATO að kenna.  Það er álíka gáfulegur málflutningur og brennuvargsins, sem reynir að koma sökinni á eldvarnir og slökkvilið. 

Yfirleitt er ekki heil brú í málflutningi ga-ga fremur en í söguskýringum siðblindingjans í Kreml.  Vilji úkraínsku þjóðarinnar er alltaf sniðgenginn í málflutningi ga-ga.  Yfirgnæfandi meirihluti hennar, óháð móðurmáli, vill leggja allt í sölurnar til að losna úr klóm rússneska bjarnarins, sem alla tíð hefur reynt að eyða menningu Úkraínu og kúga íbúana á hinn svívirðilegasta hátt.  Mál er, að linni og að Úkraínumenn fái frið og öryggi til að lifa sem frjálsir menn og konur í eigin landi, yrkja hina frjósömu jörð sína og nýta aðrar auðlindir í lögsögu sinni og eigið hugvit til að endurskapa þjóðfélag sitt að eigin höfði með vestræn gildi í öndvegi.  Til þess þurfa þeir vernd NATO og til að njóta hennar verður land þeirra að vera þar fullgildur aðili. Það verður verðugt viðfangsefni NATO að að vernda þá og að halda austrænum steppudýrum í skefjum. 

Vesturveldin eiga alls ekki að ljá eyra við gjamminu úr Kreml, ekki frekar en ætti að leyfa sjúklegum brennuvargi að leggja orð í belg um eldvarnir, hvað þá að skipuleggja þær. Rússar eru alls staðar til bölvunar, og þeir geta einskis trausts notið. 

 

   

 


Strengjabrúður í samsæri ?

Í baksýnisspeglinum er talsverður draugagangur varðandi framgang sóttvarnaryfirvalda hérlendis og erlendis í baráttunni við Kófsfarsóttina 2020-2021, sem var endurtekning á baráttu riddarans hugumstóra og þjóns hans við vindmyllurnar á Spáni forðum. Framganga yfirvaldanna var frumstæð og laus við leiðtogahæfileika, en þrælslundin var yfir og allt um kring.  Óhæfur heilbrigðisráðherra vinstri grænna gaf auðvitað tóninn í fíflaganginum hérlendis, en hún virðist hafa verið strengjabrúða ósvífinna auðvaldsafla erlendis.  Verður það grafskrift Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að hafa sýnt óheftum alþjóðlegum auðvaldsöflum slíka undirgefni, að stórsá á ríkissjóði og heilsufari þjóðarinnar, eins og umframdauðsföll 2022-2023 í landinu bera vott um ? 

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, hefur rannsakað alþjóðlega sögu Kófsins og sviðsettrar baráttu yfirvalda við öndunarfærasjúkdóminn C-19 af völdum líklega manngerðrar veiru, SARS-CoV-2, og fjölmörgum afbrigðum hennar. Morgunblaðsgreinar hans um afrakstur rannsóknarvinnu hans, sem hann á heiður skilinn fyrir, enda umtalsverð að vöxtum, eru í einu orði sagt sláandi. 

Hann færir þar rök fyrir því, að um alheimssamsæri valdsækinna gróðapunga sé að ræða, sem yfirvöldin   hafi í ótta sínum við hið óþekkta og það, sem miklu verra er, eftir að staðreynda um tiltölulega  meinlitla, bráðsmitandi pest, hafði verið safnað og þær birtar, haldið áfram á braut gagnrýnislausrar undirgefni við óprúttin hagsmunaöfl, sem leika sér að örlögum mannkyns.  Fyrirsögn Morgunblaðsgreinar hans 18.07.2023 er ekki að innihaldi skorin við nögl:

"Glæpur aldarinnar: Planið".

Það er vert að grípa niður í dúndurgrein kollega Jóhannesar:

"Í Bandaríkjunum bönnuðu heilbrigðisyfirvöld fyrst flestar covid-mælingar, þannig að um miðjan marz 2020 voru skimanir þar hundraðfalt sjaldgæfari en á Íslandi.  

Þennan skort á skimunum nýtti Fauci sér til að ofmeta dánartíðnina tífalt og miða hana bara við þessar örfáu mælingar, en ekki við raunverulegan fjölda smita.  Samtímis birti Imperial College (einn skipuleggjenda Event 201) skýrslu, sem spáði allt að 500 k covid-andlátum í Bretlandi, nema útgöngubanni yrði beitt.  Því var svo fylgt. 

Allt var gert til að ofmeta hættuna.  Nóg var, að einstaklingur hefði mælzt með covid mánuði fyrir andlát, til að andlát væri flokkað sem covid-andlát.  Afleiðingin var veruleg fækkun skráðra krabbameins[tilvika] og hjartaáfalla.  Covid læknaði þannig sjúka með því að drepa þá með bókhaldsbrellum og öðru." 

Þetta fúsk með tölur, sem magnaði upp óttann við faraldurinn, er staðreynd, og hún getur átt sér ýmsar skýringar, en nú hafa Jóhannes Loftsson et. al. leitt að því sterkar líkur, að megindrættir þessara svika við almannaheill hafi verið skipulagðir áður en faraldurinn brast á.  Það er glæpur gegn mannkyni.  Að taka síðan upp á þeim fáránleika að fordæmi einræðisstjórnarinnar í Kína að loka fólk inni í sóttkví gerði ekkert annað en að magna upp ótta almennings. 

Hvað sem alþjóðlegu samsæri líður er ljóst, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda voru með öllu ábyrgðarlausar og lausar við vísindalega skírskotun. Brotalöm stjórnkerfisins var þannig leidd fram í dagsljósið. Ratar voru við stjórnvölinn. Stjórnvöldum er ekki hægt að treysta. Einstaklingarnir verða að treysta á sjálfa sig, sína dómgreind og kunnáttu til að varðveita heilsu sína og sinna. 

"Í lok 2020, eftir ár af frelsisskerðingum í krafti neyðarréttar, þurftu yfirvöld um allan heim að réttlæta ofbeldið og voru því til í hvaða tilraunabóluefni sem er gegn því að komast fremst í röðina. 

En til að græða sem mest þurftu allir [að láta] bólusetja sig.  Fyrir sjúkdóm, sem var 1000-falt skæðari þeim elztu en þeim yngstu, hefði dugað að bólusetja bara þá elztu.  Þá var byrjað að ljúga að fólki, að bóluefnin stöðvuðu smit, þótt engar mælingar sýndu fram á slíkt, og gangsett eldra plan um bóluefnavegabréf og bóluefnaskyldu.  Einnig var sagt, að ein bólusetning yrði nóg.  Það var líka lygi, því [að] strax í janúar 2021 var vitað, að virkni bóluefnisins féll um 50 %-75 % þremur mánuðum eftir bólusetningu."

 Þetta er hroðaleg lýsing á heilbrigðisyfirvöldum, sem brugðust algerlega þeirri skyldu sinni að verja almenning eftir beztu getu og vísindalegu þekkingu.  Framgangan er með algerum ólíkindum.  Í raun og veru þarf hæfa rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á þessu máli með það í huga, hvort lagagrundvöllur er hérlendis til saksóknar fyrir refsivert athæfi.  

"Nær allar þessar aðgerðir yfirvalda voru óvísindalegar.  Hraðsuðubóluefni, viðurkenna ekki loftborinn vírus, banna covid-skimanir, nota bókhaldsbrellur til að ýkja dánartíðni, lækna með lífslokameðferð, gefa banvæna skammta af HCQ, nota grímur gegn vírusum, lofa hjarðónæmi og bara einni sprautu í stað áskriftar. 

Allt var þetta ráðlagt af aðilum tengdum Event 201, sem höfðu ríka hagsmuni af því, að bóluefnaleiðin yrði farin.  Planið gekk upp og þeir, sem stóðu að því, stórgræddu.  Gróðinn hefði samt orðið mun meiri, ef ekki hefði verið fyrir eina óþægilega staðreynd.  Bóluefnin voru eitruð." 

Að annað eins og þetta skuli komast á kreik í kjölfar móðursýkinnar, sem ríkti vegna faraldursins á árunum 2020-2021, sýnir, að maðkur var í mysunni, en ef um "Plan" (samsæri) var að ræða, var það óhemju frumstætt.  Hvers vegna var veirunni hleypt út áður en sómasamlegum og lögboðnum tilraunum með bóluefnin var lokið ?  Verða þessi mRNA-bóluefni aldrei barn í brók ?  Á að trúa því, að vísvitandi hafi verið ákveðið að gera tilraun á mannkyninu með óprófuð bóluefni, sem vísbendingar voru fyrir hendi um, þegar bráðabirgðaleyfin fyrir þeim voru veitt, að voru gölluð ?

 

 


Fótalaust risaverkefni stjórnmálamanna

Þegar stjórnmálamenn taka upp á arma sér risavaxin gæluverkefni, þá er hætta á ferðum fyrir samfélagsþróunina og pyngju skattborgaranna.  Þetta var til umfjöllunar í Staksteinum Morgunblaðsins 11.07.2023 í tilefni af því, að hinn vel heppnaði einkaframtaksmaður og frumkvöðull um nýsköpunarstarfsemi á Ísafirði, sem hefur skyndilega breytzt í eitt verðmætasta fyrirtæki landsins, mörgum fjárfestum til furðu, tjáði sig um mesta fíflagang seinni tíma á höfuðborgarsvæðinu, Borgarlínuna.

Fyrirsögn Staksteina var:

"Borgarlínan missir af vagninum".

"Hugvit, dugnaður og útsjónarsemi Kerecis hafa búið til gríðarleg verðmæti úr næstum engu [fiskroði]. Til hægri og vinstri, góða fólkið og hitt, ybbar sem þybbar, allir lofuðu það og frumkvöðulinn, Guðmund Fertram Sigurjónsson."

Ólíkt ýmsum öðrum frumkvöðlum kann þessi til verka bakgrunns síns vegna, og hann er einkaframtaksmaður, sem hefur hugsað vel um starfsfólk og veitt því hvata til að bæta árangur sinn.  Það uppsker nú ríkulega, eins og aðrir hluthafar fyrirtækisins.  Ekki kunnu allir fjárfestar að meta þessa stefnu, t.d. lífeyissjóðirnir.  Sá allra óheppnasti í þeim hópi varðandi vænlega fjárfestingakosti í atvinnulífinu virðist vera Lífsverk, sem seldi hluti sína í Kerecis í apríl 2023 af því, er skilja má, að stefna fyrirtækisins væri of rausnarleg gagnvart starfsmönnum og ekki nógu gegnsæ.  Slík varkárni getur átt við í fjármálageiranum, þar sem óljós tengsl eru á milli hagnaðar fjármálastofnana og frammistöðu starfsmanna.  Í þróunar- og framleiðslufyrirtæki er auðvelt að rekja gengi fyrirtækja til frammistöðu starfsmanna.  Hjá lífeyrissjóðunum eru þannig teknar "skrifborðsákvarðanir" án tengsla við raunveruleikann í sumum tilvikum.

"Í viðtali við Kristján Kristjánsson á Bylgjunni lýsti hann [Guðmundur] ánægju með nýsköpunarumhverfið og aðstæður á Ísafirði, nema lélegar samgöngur.  Tengja þyrfti Vestfirði suður með láglendisvegi, sem væri ódýrt m.v. útflutningstekjur fyrir vestan, hvað þá annað: "Svo er verið að setja mrdISK 250 í Borgarlínu, sem er bara gömul tækni.  Tími almenningssamgangna er búinn." Við þetta fór kurr um góða fólkið á félagsmiðlum, hann væri kannski ekki svo góður eftir allt saman !" 

"Góða fólkið á félagsmiðlunum" og stjórnmálamennirnir þeirra hjá ríki og borg hafa tekið kolrangan pól í hæðina varðandi samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu, af því að þau eru alls ekkert með á nótunum í þeim efnum.  Þau horfa til baka, en ekki fram á við og eru að auki með böggum hildar vegna úreltra fordóma (mengun, sjálfbærni o.s.frv.) í garð einkabílsins.  Þau hafa ekki hugmynd um, hvað gæluverkefnið þeirra, Borgarlínan, mun kosta skattborgarana og sérstaklega bíleigendur, sem verða fyrir auknum töfum í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu vegna botnlausrar sérvizkunnar, sem knýr fíflaganginn áfram. Rakkarnir fóru strax að gelta, þegar Guðmundur Fertram nefndi mrdISK 250, en þeir vita ekkert um góða verkefnastjórnun.  Þar er nefnilega fjármagnskostnaður á verktíma reiknaður inn í vekefniskostnaðinn, og verktíminn er í þessu tilviki óvenju langur eða a.m.k. 20 ár. Hið versta er þó, að þjóðhagslegur sparnaður af Borgarlínu verður aldrei neinn af þeim ástæðum, sem Guðmundur nefnir (úrelt þing), og þar af leiðandi verður bruðl fákunnandi góðs fólks með skattfé enn þungbærara en ella.  Ofan á verkefniskostnaðinn er óhjákvæmilegt að bæta fórnarkostnaði bíleigenda vegna rangra fjárfestinga í umferðarmannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu, en hann mun senn nema um 100 mrdISK/ár.  Er ekki rétt að fleygja sökudólgunum á dyr með lýðræðislegum hætti ?

"Davíð Þorláksson hjá Betri samgöngum æmti og kvaðst ekki kannast við mrdISK 250, en það er nú meinið !  Síðasta áætlun frá 2021 miðaði í mikilli bjartsýni við mrdISK 53.  Allt hefur tafizt síðan og kostnaður verðbólgnað, en allir þekkja útgjaldaáætlanir hins opinbera.  Kostnaður við vagnana er þarna ekki með; það er ekki einu sinni vitað, hvaða orkugjafa á að nota.  Og þá er allur rekstrarkostnaður eftir, en Betri samgöngur hafa ekki viljað sýna neina rekstraráætlun.  

Guðmundur Fertram kann bæði uppbyggingu og rekstur.  Mrd250 eru trúlega ekki fjarri lagi, en Betri samgöngur eiga a.m.k. engar betri tölur."

Sá er grundvallarmunur á viðfangsefnum Kerecis og Betri samgangna, að Guðmundur Fertram vissi þegar frá upphafi sinnar vegferðar með sáraumbúðirnar, að gríðarleg þörf og eftirspurn yrði eftir þeim, ef vel tækist til.  Þessu er alveg öfugt farið með Borgarlínana.  Það er engin þörf fyrir hana og eftir henni verður miklu minni spurn en nauðsynleg er, til að hún geti staðið undir sér, þ.e. fjárfestingunni ásamt rekstrarkostnaði.  Það er út af því, sem Guðmundur segir, að hún er reist á úreltri tækni nú þegar, hvað þá árið 2050.  Þetta gæluverkefni stjórnmálamannanna er ættað úr draumóraveröld þeirra, og í ljósi bráðra hagsmuna skattborgaranna og afar takmarkaðs framkvæmdafjár til góðra samgönguverkefna, er nauðsynlegt að hætta strax við þetta Borgarlínuverkefni og snúa sér að verkfræðilegum og hagkvæmum lausnum til að leysa bráðan umferðarvanda á höfuðborgarsvæðinu.  


Ævintýri á Ísafirði

Kaupin á Kerecis fyrir tæplega mrdISK 180 eru ekki ævintýri líkust, eins og Morgunblaðið orðaði það í forystugrein sinni mánudaginn 10. júlí 2023.  Þau eru ævintýri í viðskiptaheimi nútímans.  15 ára sproti, sem í fyrra mun í fyrsta skipti hafa skilað rekstrarlegum hagnaði, er seldur fyrir upphæð, sem nemur um 60 faldri ársveltu fyrirtækisins.  Þetta er líklega einsdæmi á seinni tímum, en tíðkaðist e.t.v. í stafrænu bólunni, sem sprakk með hvelli um aldamótin. 

Hér er þó ekki bóla á ferð á meðal taugaveiklaðra kauphallarmanna, heldur vafalítið "ískalt" mat Dananna í Coloplast, sem keyptu Kerecis.  Hér eru stórtíðindi á ferð, sem sýna í hnotskurn, hvernig alþjóðleg tenging Íslands við fjármálamarkaði og vörumarkaði heimsins styrkir hag almennings í landinu, dreifbýlisins og alls íslenzka hagkerfisins (ISK hækkaði um 3 %, þegar tíðindin tóku að leka út, áður en EUR 1 birtist á nokkrum reikningi hér).

Það er ljóst, að Coloplast veðjar á bjarta framtíð og mikla spurn eftir vörum Kerecis frá hátt borgandi viðskiptavinum.  Verðmæti þorsks, hvers roð fer í framleiðsluferli Kerecis, tífaldast, og þannig er bundið um hnútana, að markaðsleyfi Kerecis á bezt borgandi markaðinum, Bandaríkjunum, er bundið við þorsk af Vestfjarðamiðum, og grundvöllurinn er vottun Hafrannsóknarstofnunar um heilnæmi hafsins við Ísland og sjálfbærar veiðar í lögsögu Íslands. 

Þetta gulltryggir Ísfirðinga.  Þeir eru með gullgæs í höndunum, og gulleggin munu ekki koma eftir dúk og disk, heldur hefur mörgum verið orpið í hreiðrið með þessum ótrúlegu viðskiptum.  Sagt er, að um mrdISK 60 eða rúmlega þriðjungur kaupverðsins muni lenda í vasa vestfirzkra fjárfesta með eignarhlut í Kerecis.  Í mörgum tilvikum er þar um að ræða starfsmenn fyrirtækisins, sem stóðu með því í blíðu og stríðu. Því miður bar lífeyrissjóður pistilhöfundar ekki gæfu til að græða á þessu ævintýri, heldur varð á það axarskapt að selja hluti sína í Kerecis á grundvelli kolrangs stöðumats og fordildar í garð framleiðslufyrirtækisins.  Þetta er einhver seinheppnasta eignastýring seinni tíma og ætti að rata í kennslubækur sem víti til varnaðar.

Kerecis er auðmagnsævintýri hins vinnandi manns hugar og handa, sem marxisminn eða afsprengi hans jafnaðarstefnan hefði aldrei getað framkallað og skrifstofumenn í Reykjavík bera ekki skynbragð á.  Hér er það afrakstur einkaframtaksins, raunvísindamannsins Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, sem starfsmennirnir og almenningur á Ísafirði og víðar nýtur góðs af.  Sem sagt Adam Smith í hnotskurn. 

Í forystugrein Morgunblaðsins 10.07.2023: 

"Ævintýri líkast",

sagði m.a. þetta:

"Kaupandinn danski hefur vitaskuld horft til þessara þátta [þarfarinnar fyrir vöruna] og sömuleiðis þess að geta nýtt umfangsmikið sölukerfi sitt til að selja vörurnar úr ísfirzka þorskroðinu, sem reynzt hafa svo árangursríkar.  Um leið er ljóst, að fyrirhugaður vöxtur fyrirtækisins mun snerta íslenzkt atvinnulíf með öðrum hætti en, ef það hefði áfram verið að stórum hluta áfram í íslenzkri eigu."

Sala fyrirtækisins til útlanda mun hafa margfeldisáhrif til góðs fyrir íslenzka hagkerfið.  Það mun losa um féð, sem áður var bundið í fyrirtækinu, og viðbótarféð mun geta ávaxtast í öðrum fyrirtækjum og verkefnum hérlendis.  Guðmundur Fertram fær nú væntanlega meiri tíma til að einbeita sér að vöruþróun.  Ef rétt var tekið eftir, býst hann við áframhaldandi 10 % vexti framleiðslunnar árlega á næstu árum. Þessi gullgæs verður þannig bráðlega feitasta gæsin á Ísafirði, og þótt víðar væri leitað.  Ævintýrin gerast enn, en tökum eftir, hér er ekki ómenntaður strákur úr koti karls og kerlingar á ferð, heldur vel menntaður raunvísindamaður, efnafræðingur og verkfræðingur, sem gerir garðinn frægan.   

"Fyrir íslenzkt atvinnulíf eru þetta engu að síður mikil og góð tíðindi - og hvatning til að halda áfram að styðja við nýjungar og vöxt í atvinnulífinu.  Þá minnir þetta á mikilvægi þess, sem unnið hefur verið að, sem er að fullvinna þann afla, sem íslenzk skip landa. Íslenzkar útgerðir hafa sýnt þessu mikinn áhuga, sem m.a. má sjá hjá Kerecis, og telja má víst, að frekari árangur muni nást á því sviði, en hér á landi er þegar miklum mun hærra hlutfall sjávarafurða unnið en í öðrum löndum." 

 Til að auka verðmætasköpun sína hefur íslenzkur sjávarútvegur fjárfest töluvert í þróun bættrar nýtni og fullrar nýtingar hráefnisins.  Sáraumbúðir úr þorskroði eru aðeins eitt dæmi af mörum, þótt það sé hið langglæsilegasta.  Fyrirtæki í íslenzkum sjávarútvegi hafa sameinazt, hagrætt og aukið framleiðni og fjárfest í nýrri tækni.  Þetta er þeirra leið, því að íslenzka kvótakerfið setur þeim miklar magnhömlur.  M.a. þess vegna hefur fé leitað úr sjávarútvegi í laxeldi bæði úti fyrir strönd og á landi. Þetta er hiklaust vaxtarbroddur íslenzks atvinnulífs um þessar mundir. 

"Þessi kaflaskil í sögu Kerecis voru kynnt á Ísafirði, en þar eru upphaf fyrirtækisins og höfuðstöðvar.  Þar tekur við ákveðin óvissa, enda nýir eigendur hvorki Ísfirðingar né Íslendingar líkt og stofnandinn.  Það þýðir þó ekki, að starfsemin sé á förum frá Ísafirði, ef marka má orð stofnandans í samtali við Morgunblaðið.  Fram kom, að leyfi fyrirtækisins fyrir Bandaríkjamarkað byggðust á verksmiðjunum á Ísafirði, sem væru 2 og sú 3. í smíðum.  Þar er gott að vera með framleiðsluna benti stofnandinn á og taldi, að þar væri framundan áframhaldandi vöxtur." 

Líklega er óvissa ekki rétta lýsingin á þessum tímamótum á Ísafirði, heldur tilhlökkun að taka þátt í mesta viðskiptaævintýri samtímans á Íslandi. Fjármagn spyr ekki um þjóðerni.  Fjármagnseigendur spyrja um samkeppnishæfni staðar fyrir gerðar fjárfestingar og nýjar.  Enginn skákar Ísfirðingum með framleiðslu á sáraumbúðum úr þorskroði.  Þar er valinn maður í hverju rúmi og skilvirkni mikil, og þorskmið Ísfirðinga eru á meðal hinna hreinustu á jörðunni og hafa um það alþjóðlega vottun.  Hér er þess vegna traustur grundvöllur að byggja aukna gramleiðslu á og fjölga störfum.  Ísfirðingar standa með pálmann í höndunum, en eins og í öðrum góðum ævintýrum er hægt að falla í gryfjur og glutra niður gylltum tækifærum. Með góðu skipulagi og heilbrigðu samstarfi margra aðila mun það ekki gerast. 

 


Suðurnesjalína 2 - hryggilegur aðdragandi

Fagna ber þeim tíðindum, að samkomulag skuli loksins vera í höfn á milli Landsnets og sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd um lagningu viðbótar flutningslínu, 220 kV, frá stofnraforkukerfinu og til Suðurnesja. Svo er að sjá, að hvati að samkomulaginu hafi verið fyrirspurnir til sveitarstjórnarinnar um aðstöðu fyrir starfsemi fyrirtækja, sem þurfa meiri raforku en gamla Suðurnesjalína 1 getur bætt á sig. Það er sorglegt, ef eigingirnin gengur svo langt, að reynt er að hindra uppbyggingu annars staðar á Suðurnesjum, þar sem vitað var af eftirspurn umfram flutningsgetu gömlu línunnar. Þetta vekur spurningar um réttmæti þess að leyfa einstökum sveitarfélögum að komast upp með aðrar eins tafir og hér hafa orðið, enda tíðkast slíkt yfirleitt ekki á hinum Norðurlöndunum. 

Nú er þó komin farsæl lausn, sem veitir Vogum og öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum, fyrirtækjum og stofnunum (Isavia) möguleika til eflingar og viðgangs og fjölgar ekki flutningslínum til Suðurnesja, því að gamla 132 kV línan verður grafin niður, þótt Landsnet telji slíkt draga úr rekstraröryggi þessarar flutningsleiðar. 

Morgunblaðið greindi frá þessu 1. júlí 2023 undir fyrirsögninni:

 "Vogar samþykkja Suðurnesjalínu 2".

Fréttin hófst þannig:

"Bæjarstjórn Voga samþykkti samhljóða í gær lagningu Suðurnesjalínu 2 um land sveitarfélagsins á bæjarstjórnarfundi.  Landsnet og sveitarfélagið hafa um árabil deilt um, hvernig eigi að leggja línuna.  Landsnet vildi gera Suðurnesjalínu 2 að loftlínu, en sveitarfélagið vildi breyta leiðinni og hafa línu í jörð.  Samkomulagið, sem samþykkt var í gær [30.06.2023], felur í sér, að Suðurnesjalína 2 verði loftlína, en Suðurnesjalína 1 verði tekin niður og lögð í jörðu."

Það eru raffræðileg og kostnaðarleg rök fyrir þeirri afstöðu Landsnets að miða frá upphafi við 220 kV loftlínu.  Sveitarfélagið hafði ekki næga sérfræðiþekkingu á sínum snærum til að leggja mat á þessi rök, heldur tefldi fram tilfinningum um breytta ásýnd, sem samt var ekki svo mjög breytt vegna Suðurnesjalínu 1, sem uppi hefur verið í áratugi.  220 kV jarðstrengur tekur mikið rými í jörðu vegna öryggislegs  helgunarsvæðis yfir og til beggja handa og talsvert rask verður á yfirborði vegna graftrar og umferðar vinnuvéla.  Strengur af þessu tagi framleiðir sjálfur mikið launafl, rýmdarafl, sem veldur spennuhækkun hans, sem verður að vega á móti með spanafli frá spanspólum, sem þyrfti að raðtengja við strenginn í aðveitustöðvum á báðum endum og líklega á einum stað á leiðinni.

"Guðmundur [Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets] bendir á, að gífurlega mikil eftirspurn sé frá atvinnurekendum, sem vilja hefja uppbyggingu á ýmiss konar rekstri á Reykjanesinu.  Um þriðjungur fyrirspurna, sem Landsneti berast, séu frá fyrirtækjum, sem vilja hefja starfsemi á Reykjanesinu, en slíkt hafi þurft að takmarka vegna rafmagnsöryggis og takmarkana á flutningsgetu án Suðurnesjalínu 2.  Hann segir, að t.d. verði landeldi á svæðinu aukið verulega á næstu árum, eftir að Suðurnesjalína 2 er komin í gagnið.  

"Hér eru aðstæður mjög ákjósanlegar fyrir ýmsa starfsemi.  Landeldi sem dæmi.  Það er lífefnaiðnaður hérna, sem er að þróast, gagnaver og ýmislegt annað, s.s. hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla."  

Óhætt er að fullyrða, að tafirnar á Suðurnesjalínu 2 hafa valdið tugmilljarða ISK tekjutapi undanfarin 10 ár.  Mikil atvinnutækifæri og þróunarmöguleikar atvinnulífs hafa farið forgörðum vegna veiks stjórnkerfis, sem er berskjaldað gagnvart kærugleði afturhaldssinna og sérvitringa, sem vita í raun lítið, hvað þeir eru að gera, en þykjast vera verndarar náttúrunnar.  Eðli náttúrunnar hérlendis er þó ekki stöðugleiki og varðveizla þess, sem er, heldur stöðugar breytingar, ekki sízt á eldbrunnu Reykjanesinu.  "Náttúruverndarar" eru margir hverjir án jarðsambands. Eiga þeir endalaust að komast upp með að þvælast fyrir sjálfsögðum framförum ?

"Gunnar Axel [bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga] segir, að ekki sé um fullnaðarsigur að ræða, en tekur þó fram, að niðurstaða hafi náðst, sem komi til móts við sjónarmið beggja aðila.  Hann fagnar því, að tekizt hafi að verja ásýnd svæðisins."

Hvernig á að verja "ásýnd svæðisins", ef hraun tekur að renna til norðurs í átt að Reykjanesbraut ?  Má þá ekki ryðja upp varnargörðum til að stýra rennslinu ?  Er grundvallarmunur á "ásýnd svæðisins" með eina 220 kV línu um það, en eina 220 kV línu og gamla 132 kV línu, sem er miklu minni en hin.  Þessi málflutningur heldur ekki vatni í ljósi alls herkostnaðarins. Baráttan var glórulaus. 

"Þetta er kjarni samkomulagsins.  Í stað þess, að það verði hér 2 loftlínur, verður aðeins ein, sem kemur til móts við meginsjónarmið bæjaryfirvalda, sem er að draga sem mest úr ásýnd þessa verkefnis.  Þetta er auðvitað svæði, sem er gátt allra erlendra ferðamanna í landið."

Þarna er vitleysan kórónuð.  Milljarðatugir ISK hafa farið í súginn vegna erlendra ferðamanna, sem bæjarstjórnin í Vogum ímyndar sér, að láti sig einhverju skipta, hvort álengdar frá Reykjanesbraut sést ein stór háspennulína eða ein stór og ein lítil.  Þetta fólk, sem kemur til eins dýrasta ákvörðunarstaðar ferðamanna í heiminum, kemur úr umhverfi, þar sem eru ekki 2 háspennulínur inn að þéttbýli, heldur skógur af risastórum 400 kV og þaðan af stærri loftlínum.  Heimóttarskapurinn ríður ekki við einteyming.  


Búrfellslundi frestað í áratug

Barátta sveitarfélaga með orkuvinnslu og flutningslínur innan sinna sveitarmarka fyrir hlutdeild í söluandvirði orkunnar, sem til verður í viðkomandi sveitarfélagi við nýtingu náttúrulegra orkulinda þar, er eðlileg og er tíðkuð við sambærilegar aðstæður erlendis.  Þótt ávinningur s.k. orkusveitarfélaga af virkjunum hafi verið ótvíræður, t.d. vegna vegagerðar og brúunar vatnsfalla, þá gildir hið fornkveðna, að allt orkar tvímælis, þá gert er. 

Sveitarfélögin hefðu e.t.v. lagt áherzlu á önnur atriði til tekjuöflunar og atvinnusköpunar, ef ekki hefði verið virkjað og ekkert virkjunarleyfi í augsýn.  Það er líka skiljanleg óþæginda tilfinning að horfa á eftir orkunni annað, þar sem hún skapar gull og græna skóga, en orkusveitarfélagið hafi takmarkaðar beinar tekjur af verkefninu. 

Nú hefur það borið til tíðinda, að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur nýtt sér heimild í lögum um frestun á þeirri ákvörðun Alþingis um 10 ár að setja Búrfellslund í nýtingarflokk Rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkulinda.  Þar með blæs ekki byrlega fyrir stórfelldri nýtingu vinds til raforkuvinnslu á Íslandi fyrr en Alþingi hefur með lagasetningu komið til móts við hlutdeildarkröfur orkusveitarfélaganna.  Um þetta skrifaði Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, grein í Morgunblaðið 19. júní 2023 undir fyrirsögninni:

"Frestun Búrfellslundar var fyrirséð".

"Búrfellslundur átti að verða fyrsta vindorkuverið á Íslandi með 120 MW uppsett[u] afl[i].  Tekjur Skeiða- og Gnúpverjahrepps af virkjuninni yrðu engar, en áhrifin á nærumhverfið gríðarleg.  

Sveitarfélög taka ákvörðun um uppbyggingu í sínu nærumhverfi á forsendum þess að skapa atvinnu og tekjur fyrir nærsamfélagið.  Búrfellslundur skilar hvorugu fyrir okkar sveitarfélag.  Það ætti því ekki að koma neinum á óvart, að á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þann 7. júní [2023] hafi sveitarstjórnin ákveðið að nýta sér í fyrsta sinn á Íslandi þessa heimild í 7. gr. laga um rammaáætlun og fara fram á frestun á innleiðingu [í) skipulag sitt. 

Við getum einfaldlega ekki metið, hvort þetta sé áhugavert fyrir sveitarfélagið fyrr en ný lög liggja fyrir.  Í núverandi lagaumgjörð verður Búrfellslundur ekki byggður."

Oddviti og sveitarstjóri hreppsins metur það svo, að á rekstrartíma s.k. Búrfellslundar muni hreppurinn engra tekna njóta af þessu vindrafalafargani, sem ætlunin var að hola niður í allfjölförnum víðernum landsins, enda verða burðarsúlurnar staðsettar í nágrannasveitarfélagin, Rangárþingi ytra.  Þótt svæðið sé talið þegar raskað af öðrum virkjunum og flutningslínum, fellur sú "röskun" svo vel að umhverfinu, að ósambærilegt er því að leggja flæmi undir allt að 200 m há mannvirki (súla+spaðar), sem framleiða eiga raforku með þeim óskilvirkasta hætti, sem hugsazt getur. 

Uppsetning vindknúinna rafala í íslenzkri náttúru, sem nýtur sérstöðu á heimsmælikvarða, er meinloka, sem peningapungar vilja knýja fram hér, eins og annars staðar.  Slíkar meinlokur þrífast auðvitað ekki síður innan ríkisfyrirtækisins, sem hér hefur ríkjandi stöðu á raforkumarkaði.  Það er ríkur vilji á meðal landsmanna að jarðsetja þessa meinloku.  Við eigum að einbeita okkur að nýtingu okkar hefðbundnu orkulinda, þótt afturhaldið í landinu leggist þar þversum fyrir af fádæma þrjózku og skammsýni. 

Íbúar hreppsins og nágrannahreppsins og hreppssjóður Rangárþings ytra munu væntanlega njóta fjárhagslegs ávinnings á framkvæmdatíma Búrfellslundar, en hann verður dýru verði keyptur með allsherjar róti á framkvæmdasvæðinu og gríðarlegum flutningum um sveitarfélögin.  Það þarf t.d. að hella gríðarlegu magni af steypu ofan í jörðina fyrir undirstöður súlnanna, sem halda m.a. uppi spöðum og rafölum.  Hreppsnefndin á hrós skilið fyrir að nýta sér lagalegan rétt sinn til að fresta skipulagsvinnu vegna Búrfellslundar, þar til lagarammi tekjuskiptingar og þessarar gerðar raforkuvera hefur séð dagsins ljós.  Flumbrugangur einkennir framgöngu Landsvirkjunar í þessu máli.  Það er þó þyngra en tárum taki, hversu illa fyrirtækinu gengur að koma vitrænum áformum sínum á rekspöl.  Vegna orkuskorts er það þegar orðið að þjóðhagslegu vandamáli.  Skipstjóri, sem ekkert veiðir af viti, þarf ekki að íhuga stöðu sína.  Honum er gert að taka pokann sinn.   


Hrikaleg stjórnsýsla heilbrigðismála í tíð Svandísar

Það er alveg sama, hvar Svandís Svavarsdóttir drepur niður fæti í stjórnsýslunni.  Hún skilur alls staðar eftir sig sviðna jörð sökum vanræktrar rannsóknarskyldu, ofstækis og dómgreindarleysis.  Þetta leiðir yfirleitt til deilna í réttarsölum, og hefur Hæstiréttur dæmt hana fyrir að níðast á sveitarfélagi á Suðurlandi sem ráðherra skipulagsmála.  Í fersku minni eru ofsóknir hennar sem umhverfisráðherra gegn lúpínunni. Hernaður hennar gegn einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi ásamt ofstækisfullum bólusetningarherferðum gegn hættulítilli pest með rándýrum, gagnslausum og hættulegum bóluefnum voru reistar á múgsefjun, sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin spilaði undir og lygum lyfjafyrirtækjanna, sem stórgræddu á þessum sirkus.  Nú blasir við, að þessi sama Svandís verður dæmd fyrir margvísleg brot í starfi sem matvælaráðherra, ef höfðað verður mál gegn ríkinu, og hún hefur vísast gert það skaðabótaskylt um nokkra milljarða ISK.  Hvenær fá þingmenn nóg af að styðja þennan misheppnaða stjórnmálamann til valdamikilla embætta ?  Manneklan hjá vinstri grænum verður þjóðinni dýrkeypt áður en lýkur. 

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir, skrifaði stórmerkilega grein um afglöp ráðherra og aðra stjórnendur heilbrigðismála á Íslandi í Kófinu, sem birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2023.  Læknirinn afhjúpar þar fúsk þeirra, sem gæta áttu að almannaheill á tíma kórónuveirufaraldurs, þóttust  gera það með vísindalegum ráðum, en þverbrutu vísindalegar reglur og reyndust leiksoppar Alþjóða heilbrigðisráðsins og áróðurs lyfjafyrirtækjanna.  Grein læknisins nefndist:

"Hví var bólusett gegn covid-19 ?"

og hófst þannig:

"Af hverju skal bólusetja gegn covid-19, ef áhættan af sjálfum sjúkdóminum var hverfandi og bóluefnin ekki bara gagnslaus, heldur stórskaðleg ?

Þeirri spurningu er enn ósvarað af yfirvöldum með upplýstum hætti.  Niðurstöður Pfizer frá nóvember 2020 voru skýrar og óumdeilanlegar.  Skoðum það nánar."

Þessi inngangur læknisins er ekki gripinn úr lausu lofti, heldur reistur á opinberum staðreyndum.  Lyfjaiðnaðurinn dró heilbrigðisyfirvöld margra landa, þ.á.m. á Evrópska efnahagssvæðinu, á asnaeyrunum og makaði krókinn á misheppnuðu sulli, sem fengið hafði allsendis ófullnægjandi reynslu og vísindalega rýni, þegar því var hleypt inn í almenning á bráðabirgða leyfi með voveiflegum afleiðingum. Þetta er hneyksli aldarinnar fram að þessu.  Yfirvöldin bregðast fullkomlega í verndarhlutverki sínu gagnvart almenningi, sem verður fórnarlamb áróðurs, sem veldur múgsefjun á grundvelli frumstæðrar óttatilfinningar.  Yfirvöldin spiluðu á fólk.  Sú tilraun heppnaðist, en eiga þau að komast upp með það refsilaust, nú þegar spilin eru lögð á borðið af sérfróðum mönnum á þessu sviði á borð við Guðmund Karl Snæbjörnsson ?

"Opinber gögn tuga landa með hundruð milljóna íbúa (Ioannidis, okt. 2020) sýndu hverfandi eða enga áhættu í öllum aldurshópum.  Áhætta á aldursbilinu 0-69 ára var 590 ppm [hlutar úr milljón] og á meðal ungs fólks 0-19 ára 3 ppm. Um var að ræða bæði heilbrigða og veika einstaklinga.  

Aðrar rannsóknir stórra og fjölmennra þjóðfélaga sýndu, að heilbrigðum börnum var engin hætta búin af covid-1 og ekkert heilbrigt barn hafði látizt.  

Ábyrg heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hefðu gefið gaum að þessum staðreyndum, sinnt rannsóknarskyldu sinni og greiningu staðreynda, sem voru fyrir hendi haustið 2020, í stað þess að fara í móðursýkislega meðvirkni með erlendri múgsefjun, sem alla tíð var stórhætta á, að stýrt (manipulated) væri með þann vafasama ásetning að græða á leiðitömum og hræddum yfirvöldum.  Með ofangreindar upplýsingar í höndunum hefðu yfirvöld átt að aflétta öllum fjöldatakmörkum og hömlum á starfsemi manna og lifnaðarháttum.  Hættan var ekki fyrir hendi og vitað er, að veirur þessarar gerðar stökkbreytast yfirleitt í átt til meiri smithættu og vægari einkenna (afleiðinga).  Það var engin glóra í aðgerðum stjórnvalda hér gegn frelsi einstaklinga og atvinnufrelsi.  Á þessu bar heilbrigðisráðherrann meginábyrgð. 

"Niðurstöður 2 mánaða rannsóknarhluta Pfizer í nóvember 2020 með 44 k þátttakendum tala skýru máli.  Bóluefnin komu ekki í veg fyrir smit, hindruðu ekki sjúkdóma, og dánartíðnin var hærri en hjá óbólusettum.  Þetta var ljóst áður en ráðizt var í að bólusetja fólk um allan heim, nú yfir mrd 5,3.  Bóluefnin hindruðu ekki smit, heldur fjölgaði þeim ásamt því, að fólk fékk fjölda aukaverkana og fleiri dóu."

Þetta er hrikaleg lýsing á stöðu, sem ábyrg stjórnvöld hefðu ígrundað vandlega.  Á grundvelli þeirrar rannsóknar hefðu ábyrg stjórnvöld á Íslandi og annars staðar tekið sjálfstæða ákvörðun um, að nýju bóluefnin gegn C-19 væru ónothæf.  Það gerðu þau ekki, heldur létu hagsmunaaðila draga sig á asnaeyrunum og sýndu þannig fram á óhæfni sína til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þágu öryggis og heilsufars þjóða sinna.  Þetta er svakalegur áfellisdómur yfir Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra, og ráðgjöfum hennar, landlækninum og sóttvarnarlækninum.  Ekkert þeirra hafði vitsmuni eða þrek til að standa í ístaðinu, og lítið lagðist fyrir sósíalistann í ráðherrastóli, sem gerðist handbendi ofurgróðapunga án þess að blikna.  Hvar eru hinar miklu hugsjónir öreigabyltingarinnar ?  Þær hafa aldrei verið annað en skálkaskjól í sókn til valda. 

 "Vísindin sýndu hvorki þörf né, að ráðlegt væri að bólusetja fólk, því [að] verndin var engin, en skaðinn mikill.  Hví fóru yfirvöld þvert á niðurstöður vísinda ? 

Hví neituðu þau að gefa lyf, sem virka vel og hefðu getað kveðið niður heimsfaraldurinn ? 

Um leið og þessar niðurstöður lágu fyrir í nóvember 2020, og hvað þá [í) febrúar 2021, hefði átt að hætta við allar bólusetningar."

Yfirvöldin bættu gráu ofan á svart með því að bera fyrir sig vísindin, en það voru gervivísindi, sem þau annaðhvort áttuðu sig ekki á, eins og hverjir aðrir flautaþyrlar, eða beittu fyrir sig gegn betri vitund til að knýja sína stefnu fram.  Það er alveg stórfurðulegt, að enn skulu sami landlæknir og ráðherra gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina.  Þær brugðust kolrangt við, þegar þeim mátti ljóst vera, að eina ábyrga leiðin væri að snúa af villu síns vegar.  Enn virðast þær ekki skilja ábyrgðarhlut sinn.  Við næstu vegamót, næsta faraldur, munu landlæknir og pólitíkin varpa allri sjálfstæðri hugsun fyrir róða og láta stjórnast af hagsmunaaðilum og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.  

"Ásetningur yfirvalda er ljós.  Skaðinn var allan tímann ljós, og yfirvöld hundsuðu vísindaleg varúðarmerki, en sungu þess í stað hástöfum falsettuna sína "árangursrík og örugg og allir saman nú".  

Bólusetning þessi er því ekki neitt annað en misbeiting valds, gerð af einbeittum ásetningi og er skýlaust brot samkvæmt skilgreiningu 2. greinar OSAPG (Office of the UN Special Adviser on the Prevention of Genocide), samnings um forvarnir og refsingu fyrir glæp  þjóðarmorðs frá 1948."

Hvílík vanræksla heilbrigðisráðherra, landlæknis,  sóttvarnarlæknis og lyfjaeftirlitsins er það að sleppa lyfjaiðnaðinum lausum á þjóðina með nýtt og að mestu óreynt sull, sem síðan reyndist bæði gagnslaust og hættulegt ?  Vanrækslan var fólgin í að láta hjá líða að leggja hlutlægt mat á áhættuna af faraldrinum á móti kostnaði, gagni og hættu af aukaverkunum. Næg gögn voru fyrir hendi í tæka tíð til að gera þetta.  Til hvers í ósköpunum eru allar þessar silkihúfur í heilbrigðisgeiranum, ef bara er fylgt í blindni hverju því, sem rekur á fjörur þeirra að utan ?  

 

 

 


Hvalreki fyrir Vestfirðinga

Mannlíf og atvinnulíf hefur tekið stakkaskiptum til hins betra á Vestfjörðum með miklum fjárfestingum í laxeldi, sjóeldiskvíum, fóðurprömmum, sláturhúsum og tilreiðslu þessarar próteinríku matvælaframleiðslu fyrir kröfuharðan og velborgandi markað.  Einnig vex seiðaeldi fiskur um hrygg.  Helgi Bjarnason birti afar fróðlega frétt um athafnir Háafells í Ísafjarðardjúpi, en þar er laxeldi nú að fara myndarlega af stað.  Burðarþol Ísafjarðardjúps mun nú vera metið 30 kt lífmassi samtímis í kvíum þar.  Hafrannsóknarstofnun fylgist með þróun lífríkisins á botninum og í ám, sem í Djúpið falla. Með þróun í hönnun sjókvía og stöðugu myndavélaeftirliti með þeim ásamt þróun rekstrarins í enn umhverfisvænni átt, er líklegt, að hægt verði að lyfta burðarþolsmatinu yfir 30 kt. 

Nú fjölgar íbúum Vestfjarða, ekki sízt börnunum, og fólk með fjölþætta og í mörgum tilvikum sérhæfða þekkingu og reynslu kaupir sér eða byggir yfir sig hús, enda eru laxeldisfyrirtækin góðir vinnuveitendur.  Þetta setur þrýsting á innviði Vestfjarða, sem ekki hafa haldið í við þessa þróun, þótt þetta sé sjálfbærasta byggðaþróun, sem hugsazt getur.  Hún er ekki baggi á opinberum sjóðum, heldur þvert á móti stórfelld tekjulind fyrir sveitasjóði og ríkissjóð.  Á þessu sviði, eins og á virkjanasviðinu, er þó óánægja á meðal sveitarstjórnarfólks með skiptingu opinberra tekna.  Ríkisvaldið þarf að laga þetta til að greiða fyrir staðbundinni innviðauppbyggingu.  Þar með mun heildar verðmætasköpun enn vaxa og samkeppnishæfni landsins batna, því að hér er að verða til ein stærsta gjaldeyrislind landsins. 

Téð Morgunblaðsfrétt bar eftirfarandi fyrirsögn: 

 "Laxinn dafnar vel í Djúpinu".

Hún hófst þannig:

"Lax, sem Háafell elur í Ísafjarðardjúpi, dafnar afar vel.  Fiskurinn var settur út í kvíar í Vigurál á síðasta ári, og hefst slátrun í haust. Í vor var annað kvíabólið tekið í notkun, Kofradýpi.  Háafell stendur í miklum fjárfestingum við uppbyggingu mannvirkja og tækjabúnaðar vegna eldisins auk lífmassans.  Framkvæmdir eru hafnar við stækkun seiðastöðvarinnar á Nauteyri, og nýr fóðurprammi og vinnubátur til nota í Kofradýpi koma í sumar."

Af þessu má ráða, að Ísafjarðardjúp henti vel til laxeldis og að miklu sé kostað til við að efla það.  Það eru afar jákvæð teikn fyrir fólkið, sem býr eða hyggst búa á þessu atvinnusvæði, því að miklar fjárfestingar tryggja viðvarandi atvinnu og vaxandi atvinnu, eftir því sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun gefa leyfi fyrir meiri lífmassa í kvíunum í Djúpinu, nema einhver stjórnenda Matvælastofnunar fái allt í einu þá flugu í höfuðið að kalla fagráð saman til skrafs og ráðagerða með siðfræðing eða heimsspeking sem talsmann þess, en fagráð stofnunarinnar setti ráðherra matvæla úr jafnvægi, svo að hún ók út í skurð og var þar, þegar síðast fréttist. Öll afskipti téðs ráðherra af atvinnulífinu eru til bölvunar, og skyldi engan undra. 

Háafell rekur framsækna stefnu við eldið, tilreiðslu og markaðssetningu, í því augnamiði að hámarka verðmætasköpun.  Er það allt til fyrirmyndar:

 "Háafell er í úttektarferli hjá Whole Foods Market verzlanakeðjunni í Bandaríkjunum.  Gauti [Geirsson, framkvæmdastjóri] segir, að þótt endanleg niðurstaða sé ekki komin, sé ljóst, að Háafell uppfylli öll helztu skilyrði eins kröfuharðasta kaupanda í heimi og starfsfólk Háafells sé stollt af því.  Hann fagnar nýjum möguleika, sem felst í strandsiglingum. Með þeim sé hægt að koma afurðunum fyrir skip Eimskips, sem siglir einu sinni í viku frá Reykjavík til Bandaríkjanna.  Laxinn komi ferskur inn á Bandaríkjamarkað, og þetta sé auk þess umhverfisvæn leið og ódýr flutningsmáti." 

Fyrirtækið gerir sér far um að lágmarka neikvæð áhrif sín á lífríki Djúpsins og að lágmarka kolefnissporið.  Aukin umsvif laxeldis við og á Íslandi ásamt strandsiglingum gera mögulegt að hætta innflutningi á laxafóðri, en framleiða það allt á Íslandi og flytja til notenda með strandferðaskipi.  Það fer að verða grundvöllur til slíkrar þróunar, sem efla mun atvinnustig í dreifbýli landsins og spara gjaldeyri.  Strandsiglingar þessar eru mikil búbót, og munu létta á illa förnum þjóðvegum landsins. 

"Mikilvægt er að hafa sögu til að segja um uppruna afurðanna, þegar farið er inn á heimsmarkað og reynt að ná betra verði en aðrir fá.  Gauti segir, að Háafell hafi sérstöðu í umhverfismálum.  Það noti ekki kopar í ásætuvarnir á kvíunum, það tengi fóðurpramma sína við rafmagn í landi, noti hrognkelsi sem náttúrulega leið til að fyrirbyggja lús og vakti vel umhverfi kvíanna.  Þá nefnir hann, að nýi fóðurpramminn, sem er væntanlegur, hafi möguleika á að taka sjó og blanda fóðrinu við hann áður en því er dælt út í kvíar og gefið neðansjávar.  Það komi í veg fyrir plastmengun, sem hætta sé á, þegar fóðrinu er blásið með lofti í gegnum leiðslur, minnki orkunotkun og geti dregið úr lús." 

Þetta er athyglisvert.  Þarna er um að ræða örplast, sem kvarnast úr plastlögnum, sem fóðrið slítur við blástur.  Það er merkilegt, að þessi aðferð skuli spara orku og kann að stafa af því, að orkufrekt er að framleiða þrýstiloft. 

Að lokum kom eins konar "manifesto" fyrir þennan fyrirmyndarrekstur:

""Okkur er annt um lífríkið í Ísafjarðardjúpi og stundum okkar eldi þannig, að það hafi ekki óafturkræf áhrif á umhverfið.  HG hefur stundað þar fiskeldi í 20 ár og veitt rækju í áratugi, og þar eru uppeldisstöðvar þorsks.  Okkar starfsemi á ekki að vera á kostnað umhverfisins", segir Gauti."

 


Lítið lagðist fyrir drottninguna af Kviku

Hvar gerist það í raunhagkerfinu, að MISK 3 verði að MISK 104 á um 2 árum.  Það þarf líklega annaðhvort að fara í undirheimana eða á slóðir þess vafasama pappírs Samfylkingarinnar til að finna aðra eins ávöxtun.  Núverandi formaður Samfylkingarinnar gegndi áður stöðu aðalhagfræðings Kviku-banka og naut þá þessara vildarkjara þar.  Hún fór á flot með það í skattframtali sínu, að MISK 101, sem hún var allt í einu með í höndunum, væri ávöxtun og bæri þá 22 % skattheimtu.  Þessu trúði Skatturinn ekki, því að slíkt gerist ekki í raunheimum ofan jarðar.  Skatturinn taldi þetta einfaldlega launaumbun (bónus) til aðalhagfræðingsins frá Kviku og ætti því að bera jaðarskattheimtuna um 46 %. 

Þarna munar hárri upphæð, sem núverandi formaður Samfylkingarinnar ætlaði í græðgi sinni að sleppa við að borga til samfélagsþarfanna.  Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur að gera sér grein fyrir innræti og gerð formanns Samfylkingarinnar áður en þeir ljá henni atkvæði.  Hún talar beint og óbeint fyrir vaxandi skattheimtu á fyrirtæki og almenning, en hún virðist nota hvert tækifæri, sem hún telur sig fá, til að að lækka skattheimtu af eigin ofurtekjum.  Þetta er sérlega skammarlegt fyrir hana og Samfylkinguna, sem verður tíðrætt um "að láta breiðu bökin borga".

Morgunblaðið gerði málinu skil 30. júní 2023 undir ósköp sakleysislegri fyrirsögn, þótt sú, sem í hlut á, sé ekki sakleysingi:

"Hagnaðurinn metinn sem laun".

Sú frétt hófst þannig:

"Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi aðalhagfræðingur Kviku banka, greiddi Skattinum tæpar MISK 25 í vor vegna hagnaðar af áskriftarréttindum bankans, sem hún hafði fjárfest í.  Kristrún sagði í samtali við mbl.is í gær, að málinu væri lokið af sinni hálfu, en þetta væri ekki endilega endanleg niðurstaða, þar sem fara má með mál af þessu tagi fyrir yfirskattanefnd."

 Ekki er víst, að allir átti sig á skattalagabroti formannsins af þessu orðalagi.  Nær er að segja hverja sögu, eins og hún er.  Formaður Samfylkingar gerðist brotleg við skattalög með því að vantelja fram launatekjur sínar og hugðist þannig halda MISK 25 í eigin vasa sínum í stað þess að láta þessa fjárhæð greiðlega af hendi rakna til samfélagsþarfanna. Þetta er hrikalegur vitnisburður um siðleysið og hræsnina, sem lekur af þessum nýja formanni Samfylkingarinnar, sem sótt var í fjármálaheiminn.  Það segir meira en mörg orð um það, hvar hjarta Samfylkingarinnar slær, og hvaða hagsmuni hún kann að setja á oddinn.  Hvort það samræmist hagsmunum alþýðunnar, sem Samfylkingin ber í orði kveðnu fyrir brjósti, er umdeilanlegt, en það er óumdeilanlega óheiðarlegt að koma ekki til dyranna, eins og maður er klæddur. 

Kristrún læðist með veggjum í þessu máli og er greinilega í vondum málum.  Hún rembist við að láta líta út fyrir, að hún hafi lagt fram MISK 3 sem áhættufé, sem hún hefði getað tapað.  Eru fordæmi fyrir því í sambærilegum málum ?  Ekki er svo, ef afstaða Skattsins er skoðuð, því að hann telur skýlaust um launaumbun til Kristrúnar að ræða:

 "Það fór þó ekki svo, því [að] hlutabréf Kviku hækkuðu mikið [eins og búizt var við - innsk. BJo] frá þeim tíma, sem Kristrún hóf þar störf.  Kristrún gat innleyst fjárfestinguna á 3 mismunandi dagsetningum fram í tímann, og var endanlegur hagnaður hennar um MISK 101."

Þarna lýsa blaðamenn Morgunblaðsins leikriti, sem Kvika setti á svið fyrir drottninguna af Kviku o.fl. starfsmenn fyrirtækisins til þess að fara í kringum orðið "bónus", sem hefði óhjákvæmilega þurft að fara í hæsta tekjuskattsþrepið. Með því að lýsa þessum vildargerningi sem "fjárfestingu", gátu óprúttnir spreytt sig á að reyna að borga ríflega helmingi lægri skatt, en Skatturinn sá við þeim, og var það vel.  Allt lyktar þetta ákaflega illa. 

Staksteinar Morgunblaðsins 30.06.2023 vitnuðu í pistilinn "Tilfallandi athugasemdir", sem ekki var gerð nánari grein fyrir:

""Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, segir fátt um Íslandsbankamálið, ólíkt formönnum allra annarra stjórnmálaflokka.  Ástæðan er Kvika, fjárfestingarbanki, sem hyggst ná eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með samruna.

Kristrún var, þar til fyrir skemmstu, aðalhagfræðingur Kviku.  Hún hagnaðist um MISK 100 á kaupréttarsamningum.  Hún var lengi í vandræðum með að gefa skiljanlegar skýringar á því.""

   Það er út af því, að téð Kristrún er tvöföld í roðinu.  Hún ætlaði að komast upp með að telja Skattinum trú um, að ofangreind upphæð væri ávöxtun MISK 3 hennar, en Skatturinn sá við blekkingarstarfseminni.  Nú segir hún, að málinu sé lokið af sinni hálfu.  Það er út af því, að hún veit, að málstaður hennar er óverjandi gagnvart Yfirskattanefnd og að sú kynni að úrskurða 25 % sektarálag á skattstofninn.  Hitt er svo allt annað mál, hvort kjósendur, sem einnig eru skattborgarar í þessu landi, gera sér þessar "trakteringar" drottningarinnar af Kviku að góðu.  Þeir hafa enga ástæðu til þess.  Nú hafa þeir séð inn í kviku formanns Samfylkingarinnar, og ef allt er með felldu, munu þeir forðast að lyfta litla fingri til að lyfta drottningunni af Kviku til valda á Íslandi.  Hún er einskis trausts verð, og bezt fer á því að refsa henni með því að leiða Samfylkinguna á eyðimerkurgöngu hennar.

""En kom svo með þessa hagfræðilegu skýringu: "Ég datt í lukkupottinn", sagði Kristrún.  Íslandsbankamálið, sem nú er til umræðu, er aðeins undanfari að yfirtöku Kviku á Íslandsbanka.""

 Í þessu samhengi er vert að hafa í huga hið fornkveðna: "æ sér gjöf til gjalda".  MISK 100 eru ekkert annað en gjöf til Kristrúnar frá Kviku.  Með þetta veganesti fer hún í pólitíkina, og í fjármálageiranum hlýtur að vera ætlazt til, að þetta fé ávaxtist með afstöðu formanns Samfylkingarinnar.  Það er löngu þekkt, að ógerlegt er að þjóna tveimur herrum.  Aðeins þeir kjósendur Samfylkingarinnar, sem telja hagsmuni sína og Kviku-fjárfestingarbanka fara saman, geta með góðri samvizku kosið þennan stórundarlega stjórnmálaflokk. 

""Galdurinn, sem nú er í gangi, er oft nefndur: "Glitnir, taka tvö".  Samfylkingin hefur frá stofnun verið fimmta herdeild auðmanna.  Með formennsku Kristrúnar er innvígð og smurð auðkona í kjörstöðu til að hjálpa baklandi sínu að "detta í lukkupottinn".""

 Mun samsærið ganga upp ?

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband