Móðursýkisleg læti - ofveiði í ánum

Stangveiðimenn, veiðiréttarhafar og "the usual suspects", náttúruverndarsamtök, hafa farið offari gegn sjókvíaeldi lax á Vestfjörðum og Austfjörðum, eftir að gat fannst á einni sjókví á Vestfjörðum sunnanverðum.  Geipa mótmælendur um stórvá, sem að íslenzkum, villtum laxastofnum steðji, eins og þeir um 3500 laxar, sem munu hafa sloppið gegnum eitt gat í þetta skiptið, muni allir valda óafturkræfum erfðabreytingum á íslenzkum villtum stofnum.

Þetta er helber hræðsluáróður, sem getur stafað af vanþekkingu, andúð á erlendum fjárfestingum í landinu, eða þetta er tilraun til að afvegaleiða almenningsálitið í landinu frá slæmu tíðindunum af íslenzku löxunum, sem er hnignun stofnanna án nokkurra erfðabreytinga. 

Meint vanþekking er erfðafræðilegs eðlis.  Eldislaxinn er svo úrkynjaður, að aðeins lítill hluti sloppinna hænga og hrygna nær að eðla sig með villta laxinum.  Seyði blendinganna eiga mjög erfitt uppdráttar, svo að þau drepast flest, og nær ekkert sleppur lifandi til hafs og til baka aftur.  Í þeim ám, þar sem fjöldi eldislaxa á hrygningarstöðvum er undir 10 % af fjölda villtra laxa, er engin hætta talin á varanlegri erfðablöndun, en í varúðarskyni miðar Hafrannsóknarstofnun við að hámarki 4,0 % í sínu áhættumati til ákvörðunar hámarksfjölda eldislaxa í firði eða fjarðarhluta. Af erfðafræðilegum orsökum þyrfti fjöldi eldislaxa í á að vera meira en 10 % árlega í um 15 ár, til að hætta verði á varanlegri erfðablöndun.  Einstaka slepping, eins og þarna ræðir um á Vestfjörðum, hefur mjög litla þýðingu, og hún gefur ekkert tilefni til að rjúka upp til handa og fóta, eins og gerðist við Alþingishúsið og víðar helgina 7.-8. október 2023. Þeir, sem hrópa úlfur, úlfur, hvað eftir annað í geðshræringu, en án tilefnis, eru ómerkingar.      

Andúð á erlendum fjárfestingum hefur lengi orðið forsjárhyggjufólki tilefni til æsinga.  Jafnstaða fjárfesta innan EES er þó einn hyrningarsteina EES-samstarfsina, og þess vegna eru niðurrifsupphrópanir afturhaldssinna nú í garð norskra frænda okkar ósæmilegar og alger tímaskekkja.  Erlendar fjárfestingar í landinu eru hlutfallslega minni en víðast hvar annars staðar innan EES og eru almennt allt of litlar til að ná að styrkja hér hagvöxt og tækniþekkingu ásamt markaðsaðgengi til framtíðar. Þess vegna eru norsku fjárfestingarnar í laxeldinu kærkomnar.  

Þá er komið að ástæðu smjörklípunnar miklu, en hún er ofveiði á löxum í íslenzkum ám, sem er líkleg skýring á hnignun stofnanna, en veiðiréttarhafar og stangveiðimenn mega ekki heyra minnzt á. Til að beina athygli almennings frá því, sem við leikmanni blasir sem hrottaleg ofveiði í íslenzkum ám, er gripið til "vúdú" um, að fáein þúsund úrkynjaðra eldislaxa geti þrengt sér inn í genamengi íslenzku laxastofnanna og breytt þannig eðliseiginleikum þeirra til hins verra.  Þessi "vúdú-fræði" hundsa algerlega almenna vitneskju um úrval náttúrunnar og vitneskju frá öðrum löndum um, að eldislaxar í ám og blendingar þeirra verða undir í lífsbaráttunni og hverfa fljótlega. 

Á árunum 2012-2022 (10 ár) má ætla út frá gögnum Hafrannsóknarstofnunar, að að jafnaði hafi verið drepnir 32.303 laxar/ár, ef 15 % af veiddum og slepptum löxum hefur verslazt upp og drepizt.  Stofnarnir eru taldir telja um 50.000 fiska, svo að veiðiálag á stofnana nemur um 65 %.  Þetta er meira en þrefalt viðmiðunarhlutfallið, sem fiskifræðingar ráðleggja fyrir nytjastofna í sjó.

Hér er græðgin að ganga mjög nærri laxastofnunum.  Ef Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, fréttir af þessu, mun hún umsvifalaust skipa um vandamálið 20 manna launaða nefnd af ráðuneytinu, hundsa algerlega niðurstöðu hópsins, ef einhver verður, og semja frumvarp til laga um að þjóðnýta veiðiréttinn í ánum.  Hún getur í því efni vísað til fordæma frá öðrum vestrænum löndum. 

Gamanlaust er hins vegar full þörf á að koma böndum á þessa rányrkju með tilstilli veiðiráðgjafar frá Hafró og eftirliti Fiskistofu. Þá hafa veiðiréttarhafar verið að kukla við seiðasleppingar í ár.  Fyrir fúsk af þessu tagi ætti að taka, nema að ráðgjöf og undir eftirliti Hafrannsóknarstofnunar.  Þeir, sem breytt hafa genamengi fiska mest í íslenzkum ám, eru veiðiréttarhafar sjálfir.  Þeir hafa ríka ástæðu til að beita smjörklípuaðferðinni til að beina athygli frá köldum staðreyndum um vafasama fiskveiðistjórnun sína. 

Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Fiskeldis Austfjarða hf, ritaði tímabæra grein í Morgunblaðið um þessi mál 5. október 2023:   

"Milljón veiddir laxar":

"Hins vegar má segja, að umræðan hafi farið úr böndunum umliðna daga og ýmsar fullyrðingar, upphrópanir og gífuryrði verið látin falla, sem eiga sér engan stað í raunveruleikanum.  

Fulltrúar veiðimanna og veiðifélaga tala um útrýmingu hins villta íslenzka laxastofns [þeir eru reyndar margir - innsk. BJo]. Sum hafa gerzt svo ósmekkleg að líkja þessu við Chernobyl-slysið í Úkraínu". 

Yfirlýsingagleði illa gefinna leiðir þá oft í gönur, en það er varla hægt að hugsa sér heimskulegri samanburð en þennan.  Skyldleikinn er enginn við kjarnorkuslysið.  Ímyndunarveikin stjórnar talfærunum og/eða skriffærunum.  Vitsmunirnir eru ónógir til að leita sér þekkingar á viðfangsefninu, heldur er vaðið áfram í villu og svíma og haft sem hæst og reynt að sviðsetja dramatík með því að raða eldislöxum úr ám upp við inngang Alþingishússins. Það er andrúmsloft af þessu tagi, sem ofstækisstjórnmálamenn nýta sér, og Svandís Svavarsdóttir er þar engin undantekning. 

"Förum í tölulegar staðreyndir.  Samkvæmt tölum frá Hafrannsóknastofnun (skýrsla nr HV 2023-22) veiddu íslenzkir og erlendir stangveiðimenn á tímabilinu 2012-2022 yfir hálfa milljón laxa eða nákvæmlega 507.397 stk.  Af þeim var 216.578 löxum sleept og 290.819 laxar voru drepnir.  Tæplega 300.000 laxar voru drepnir af stofni, sem talsmennirnir segja, að telji aðeins 50.000 fiska !  Tölurnar eru því miður enn skuggalegri, ef horft er á tímabilið 2002-2022.  Á því tímabili voru veiddir rúmlega milljón laxar, og þar af voru 728.778 drepnir við árbakkann.

Rannsóknir benda til þess, að 5-30 % af öllum laxi, sem er sleppt, drepist [og hvers konar dýravelferð er það að sleppa særðum fiski í gini eða annars staðar ? - innsk. BJo]. Ef við förum milliveginn til að gæta allrar sanngirni, þá hafa á síðast liðnum 10 árum um 35.000 laxar verið drepnir af göfugum stangveiðimönnum í nafni "veiða og sleppa" [á hverju ári - innsk. BJo].  Spurningin, sem vaknar, er einföld: er þessi veiði til hagsbóta fyrir deyjandi stofn ?  Ég hygg, að flestir, sem hallast að Chernobyl-kenningunni segi, að þetta sé til bóta fyrir laxinn; hinir ættu að hugsa sig vel um áður en þeir svara."   Hafrannsóknarstofnun verður að taka á þessu máli og veita veiðiréttarhöfum ráðgjöf, því að þeir virðast ekki kunna fótum sínum forráð. Frá leikmannssjónarmiði virðist það ekki geta verið sjálfbær auðlindarnýting, þar sem um 2/3 hlutar heildarstofns eru drepnir á hverju ári. Hverju sætir þá þessi skefjalausa veiðiásókn.  Er íslenzkum laxastofnum fórnað á altari Mammons ?  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband