Færsluflokkur: Bloggar

Brúin yfir Fossvog

Allt, sem borgarstjórnarmeirihlutinn undir forystu Samfylkingarinnar kemur nálægt, verður að kyndugu máli.  Þannig er með Fossvogsbrúna fyrirhuguðu.  Hvers vegna í ósköpunum er hún ekki ætluð öllum þeim samgöngutækjum, sem nú eru í notkun ?  Fjölskyldubílnum verður meinaður aðgangur, enda brúin ekki hönnuð fyrir hann, heldur einvörðungu fyrir ofurstrætó (sorgarlínu), reiðhjól og gangandi vegfardur (líklega líka rafskútur).  Þetta eru ær og kýr Samfylkingarinnar.  Vér einir vitum, og vér viljum fækka fjölskyldubílum, og vér beitum kúgunartilburðum til þess, eins og þurfa þykir, þ.á.m. að þrengja að fjölskyldubílnum, þar til hann stendur fastur í óleysanlegum umferðarhnúti.  Þetta viðhorf og aðferðarfræði er með öllu óviðunandi í vestrænu lýðræðissamfélagi, þótt það þekkist annars staðar. 

Rándýrar sérvizkulegar hugdettur, sem ekki eru studdar neinum tæknilegum eða hagrænum rökum, einkenna stjórnarhætti Samfylkingarinnar. Sú ákvörðun að meina fjölskyldubílnum afnot af fyrirhugaðri Fossvogsbrú er dæmi um þröngsýna og forstokkaða útilokunaráráttu Samfylkingar og meðreiðarsveina henna.  Þessi afstaða leiðir til þess, að mun færri en ella munu nýta sér þessa brú, og gagnsemi hennar og þjóðhagsleg arðsemi verður þar af leiðandi fremur lítil. 

Í Morgunblaðinu 11. apríl 2023 birtist frétt, sem varpar ljósi á fáránleika hönnunar- og skipulagsmála borgarinnar um þessar mundir og afar vafasama málsmeðferð.  Eftir að auglýst var eftir tillögum um þessa brú, sem skyldi kosta að hámarki MISK 2,0, sem er algerlega óraunhæft, var ákveðið að leggja út í þá ævintýramennsku að hafa brúna úr ryðfríu stáli.  Þetta mun hleypa kostnaðinum upp úr öllu valdi og valda óvissu um öryggi og endingu mannvirkisins.  Var leitað verkfræðilegrar ráðgjafar áður en þessi ákvörðun var tekin ? Fréttin var reist á viðtali við Magnús Rannver Rafnsson, verkfræðing: 

"Óvíst, hvernig Fossvogsbrú endist".

Þar stóð m.a.:

   ""Í stuttu máli er þarna mikil tæknileg óvissa.  Mér vitanlega hefur aldrei verið byggð brú af þessari stærðargráðu, sem er alfarið úr ryðfríu stáli, a.m.k. ekki hérna í norðrinu.  Það er algjör nýlunda", segir Magnús Rannver í samtali við Morgunblaðið.

Þetta hefur ekki verið reynt á Íslandi, og það eru mér vitanlega ekki til neinar rannsóknir, sem sýna, að þetta haldi líftímann, sem þess konar brú á að halda [þ.e. duga - innsk. BJo]. Þetta er sagt viðhaldsfrítt, en þó fellur misjafnlega á ryðfrítt stál með tímanum.  Það þarf þá að vanda sérstaklega til stálsins, ef það á að vera þannig", segir Magnús og bætir við, að ryðfrítt stál tærist."

Það er fátt til í henni versu mannvirkjalegs eðlis, sem er "viðhaldsfrítt" og sannarlega ekki brúarmannvirki yfir saltan sjó.  Suður ryðfrís stáls eru vandasamar, og þar getur hæglega myndazt tæring í tæringarumhverfi, sem rýrir burðargetu.  Þessi undarlega ákvörðun borgarinnar um hönnun og efnisval fyrir Fossvogsbrú hefur áreiðanlega ekki verið tekin að undangenginni vandaðri tæknilegri og fjárhagslegri áhættugreiningu.  Ferli ákvörðunartöku hjá borginni virðist vera í molum.  Á valdatíma Samfylkingarinnar í borginni var skilvirkt stjórnkerfi hennar brotið niður, og á rústunum reis óskapnaður ráðstjórnar, þar sem forkólfum hinna ýmsu pólitísku fylkinga er komið fyrir.  Þetta stjórnfyrirkomulag er óskilvirkt og býður hættunni heim á formi fúsks. 

""Forsendurnar [útboðsins] voru skýrar.  Þetta átti að vera umhverfisvæn lágkostnaðarbrú.  Við miðuðum okkar verk við það og lögðum til einfalda, umhverfisvæna lágkostnaðarbrú, en var ranglega vísað burt vegna óvissu um kostnað á þekktri og margreyndri brúartýpu", segir Magnús.  Úti og inni arkitektar kærðu útboðið til kærunefndar útboðsmála.

"Þegar tillagan er kynnt, er strax komin 50 % kostnaðarhækkun.  Það er áður en stríðið í Úkraínu byrjar og áður en verðbólga er orðin svona mikil.  Okkur finnst það í rauninni ekki sanngjarnt, því [að] við o.fl. þátttakendur vorum með tillögur, sem miðuðust við samkeppnisforsendur.  Við vorum í grunninn með lágstemmda, venjulega brú", segir Magnús.  Bendir hann að lokum á, að tillaga Úti og inni arkitekta hafi miðazt við steinsteypta brú, gerða að stærstum hluta úr forsteyptum einingum úr umhverfisvænni steypu." 

Borgin virðist standa undarlega að þessari Fossvogsbrú og spyrja má, hvort nokkrir brúarhönnuðir hafi komið nálægt málinu fyrir hennar hönd, eða hvort viðvaningsháttur og smekkur pólitíkusa og embættismanna hennar hafi ráðið ferðinni ?  Það væri algert ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi af hálfu borgaryfirvalda og væri þá ekki í fyrsta skiptið.  

 

 


Samfylkingin sinnir almannahagsmunum með ömurlegum hætti

Segja má, að víðast hvar á landinu, þar sem brölt Samfylkingarinnar hefur skilað liðsmönnum hennar í stjórnunaraðstöðu, hafi hagsmunamál almennings í byggðarlaginu þróazt mjög til verri vegar og fjármálin snarazt undir kvið drógarinnar. Verst og afdrifaríkast er þetta í stærsta sveitarfélaginu, en þar hefur verið rekin sérvizkuleg, raunar fávísleg skipulagsstefna, sukk og svínarí, sem nú virðist ætla að enda með skipbroti og greiðsluþroti borgarsjóðs. Það er saga til næsta bæjar. Í Reykjavík hefur læknir með strútsheilkenni farið með völdin fyrir hönd Samfylkingarinnar í meira en áratug með grafalvarlegum afleiðingum fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Þessu ættu landsmenn að gefa gaum, þegar þeir íhuga stuðning við stjórnmálaflokka á landsvísu og staðbundið.  Vítin eru til þess að varast þau. 

Morgunblaðið hefur gert óstjórninni í Reykjavík rækileg skil í leiðurum, enda þar á bæ kunnáttumenn um málefni Reykjavíkur og fjármál almennt.  Einn slíkur leiðari birtist 14. apríl 2023 og hét:

"Afneitun borgarstjóra".

Þar stóð m.a.:

"Því trúir enginn lengur, nema mögulega borgarstjóri sjálfur, sem lætur augljósar staðreyndir og opinberar aðfinnslur sem vind um eyru þjóta.  Jafnvel umsögn borgarinnar sjálfrar árið 2020: "Vandinn snýst [...] ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda, heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.". 

Afleiðingarnar blasa nú við, þó [að] sennilega muni þær reynast enn kaldranalegri við birtingu ársuppgjörs borgarsjóðs undir lok þessa mánaðar [apríl 2023].  Allt bendir til þess, að enn frekar og hraðar hafi sigið á ógæfuhliðina síðustu mánuði. 

Skýr vísbending um það kom á þriðjudag [11.04.2023], þegar Reykjavíkurborg læddi út tilkynningu að loknum starfsdegi um, að fyrirvaralaust væri hætt við annað skuldabréfaútboð hennar í röð, en borgin hyggst afla sér mrdISK 21 á fyrri hluta ársins [2023] með þeim hætti. Á því komu engar skýrar skýringar, en augljóst er, að borgin óttaðist, að henni byðust aðeins niðurlægjandi afarkjör.  Hversu lengi hún getur afþakkað þau án þess að eiga greiðsluþrot á hættu, er önnur saga."

Nú er öldin önnur en þá er Gaukur bjó á Stöng.  Sú var tíðin, að Reykjavíkurborg var orðlögð fyrir góða og trausta fjármálastjórn.  Þá stjórnuðu sjálfstæðismenn málefnum hennar, og þá var enginn fíflagangur á ferð á borð við lokun Reykjavíkurflugvallar, þéttingu byggðar, þrengingar gatna, risavaxið strætókerfi staðsett á miðjum núverandi akbrautum, sniðið að útlendum fyrirmyndum við ósambærilegar aðstæður, snjóruðningsviðbúnaður vanbúinn og stjórnlaus (og vitlaus), lóðahörgull og lóðaokur og svo mætti lengi telja.  Nú er Samfylkingarfólk í forystu borgarinnar ásamt auðsveipum liðleskjum búið að keyra málefni höfuðborgarinnar gjörsamlega út í eitt fúafen.  Þetta flokksafstyrmi, sem segir eitt og gerir annað, talar fjálglega um opna stjórnsýslu, en stundar meiri leyndarhyggju og þöggun umræðu en nokkur annar. Samfylkingarpótintátinn Dagur B. Eggertsson hefur brugðið upp Pótemkíntjöldum kringum fjármál borgarinnar og jafnan látið sem allt sé í himnalagi.  Að afneita staðreyndum er einkenni þeirra, sem búnir eru með andvaraleysi og mistökum að klúðra málum og hafa enga burði til að greiða úr þeim.  Eftirmæli þessa borgarstjóra Samfylkingarinnar verða ömurleg.

Þetta er ekki pólitískt tuð sjálfstæðismanna, ætlað til að koma höggi á Samfylkinguna.  Nei, þetta er dómur markaðarins.  Markaðurinn stingur ekki hausnum í sandinn, heldur greinir stöðuna af vandvirkni og kemst að þeirri niðurstöðu, að áhættan við að kaupa skuldabréf af borginni sé meiri en við flest önnur viðskipti hérlendis nú um stundir, og neitar að eiga í þessum viðskiptum, nema gegn niðurlægjandi háu áhættuálagi.  Þegar svona er komið, er orðið stutt í lokadóminn yfir starfsháttum Samfylkingarinnar og liðsodda hennar. Vilja menn þetta í landsmálin ? 

"Hinar hrollvekjandi staðreyndir málsins birtust með enn eindregnari hætti í bréfi, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi til borgarstjórnar í lok febrúar [2023] vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2023, þar sem fram kom, að borgin uppfyllti ekki lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar hennar.  Þar skeikar miklu.

Fyrir sitt leyti er borgarstjóri enn í afneitun, en í viðtali við mbl.is sagði hann:

"Þetta er bara rútínubréf frá eftirlitsnefndinni."  

Þessi orð þarf borgarstjóri að skýra betur og án tafar.  Hafa Reykjavíkurborg borizt mörg slík bréf frá eftirlitsnefndinni ?"  

Sú tilhneiging borgarstjórans að slá bara hausnum við steininn, þegar hann stendur frammi fyrir krefjandi og jafnvel óþægilegum viðfanfsefnum, fer langt með að útskýra þær ógöngur, sem borgina hefur rekið í. Skútan er í raun stjórnlaus.  Þar er enginn "skipper", bara gúmmíkarl á launum hjá borgarbúum án þess að skila neinu, sem ætlast mætti til af honum. Það er stórhættulegt að hafa svona lyddur við stjórnvölinn, en þetta er eftirlæti Samfylkingarinnar. 

Engum dettur í hug, að fréttamaðurinn fyrrverandi af RÚV snúi stöðunni hratt við.  Það er þó hægt, eins og dæmið frá Árborg 2010 sýnir. Þar höfðu Samfylkingin o.fl vinstri spekingar gengið allt of hratt um gleðinnar dyr, farið óvarlega með fé, svo að sveitarfélagið var komið í klær téðrar eftirlitsnefndar.  Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá hreinan meirihluta þar og viti menn; hann sneri stöðunni við á einu ári með sársaukafullum aðgerðum, sem voru þó nauðsynlegar.  

Aftur gerðist hið sama í Árborg.  Það er engu líkara en Samfylkingin megi ekki koma nálægt stjórnvelinum, og aftur hafa sjálfstæðismenn forgöngu um að koma lektunni á réttan kjöl. Þeir vita, að skilningur og heiðarleg upplýsingagjöf til íbúanna er grundvöllur úrbótanna, og þess vegna var haldinn íbúafundur í Árborg til að útskýra stöðuna.  Öðru vísi ferst leyndarhyggjuflokkinum Samfylkingunni í Reykjavík, eins og reifað var í téðri forystugrein Morgunblaðsins:

"Í bréfi eftirlitsnefndar kom fram, að fjalla þyrfti um það í borgarstjórn.  Þrátt fyrir að umræddir 2 mánuðir verði liðnir 28. apríl [2023], hefur efni þess ekki enn verið tekið á dagskrá borgarstjórnar, en hún kemur saman næsta þriðjudag [18. apríl 2023], svo [að] enn er von."

Það er ekki nóg með, að stefna Samfylkingarinnar leiði til glötunar, heldur eru vinnubrögðin afkáraleg og kolómöguleg.  Ekkert hefur í þessum efnum breytzt með tilkomu nýja formannsins beint úr bankanum.  Kristrún Frostadóttir, sem nú er í foreldraorlofi, virðist ekki hafa nægt bein í nefinu til að knýja Samfylkjarana til sómasamlegra vinnubragða.  Samfylkingarfólkið í borgarstjórn hefur lagt sig í framkróka við að fegra ömurlega fjárhagsstöðu og látið hjá líða í lengstu lög að gæta þeirrar lýðræðislegu skyldu sinnar að ræða fjárhagsstöðuna á hinum rétta opinbera vettvangi, sem er borgarstjórnin.  Þar með ljóstar Samfylkingin upp um sitt rétta eðli, sem er leyndarhyggja og hrossakaup á bak við luktar dyr.  Tal forsprakkanna um, að flokkurinn vilji hafa allt uppi á borðum og stjórna fyrir opnum tjöldum, er froðusnakk helbert.  Það er einkenni spilltra stjórnmálaflokka að reyna að telja kjósendum trú um, að flokkurinn standi fyrir einhver allt önnur gildi en reynslan sýnir, að eru í öndvegi þar.  Þannig er það líklega bara pólitískt "trix" hjá nýja formanninum að flíka ekki lengur trúaratriðinu um að halda áfram aðlögunarferlinu fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu.  Samfylkingunni er ekki unnt að treysta fyrir horn.  

 

 

 

 


Gengisfelling lýðræðis

Margir mætir menn hafa orðið til þess að andmæla kröftuglega ráðagerð ríkisstjórnarinnar um að innleiða forgangsreglu ESB-réttar á Íslandi og skipa þannig lýðræðislega samþykktum landsrétti á óæðri sess.  Í umræðunni hefur krystallazt, að lögfræðilega er þetta flaustur og flumbrugangur í utanríkisráðuneytinu og pólitískt verður dýrkeypt fyrir stjórnarflokkana að halda þessu til streitu.

  Nú reynir á pólitíska útsjónarsemi utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins við að hverfa frá þessum fyrirætlunum. Það hlýtur að vera ankannalegt andrúmsloft í utanríkisráðuneytinu að fara á flot með þau ósköp, sem hér um ræðir, og einkennileg forgangsröðun hjá ríkisstjórninni að hleypa málinu áfram til Alþingis sem stjórnarfrumvarpi.  Slíkt vitnar um óbeysið pólitískt þefskyn nú, þegar stjórnin má illa við pólitískum "bommertum" og gengur hálfhölt fram á vígvöllinn.  

Sá, sem ötulast og mest hefur andæft málinu, er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur.  Með baráttu sinni hefur hann með vissum hætti bjargað andliti Sjálfstæðisflokksins og dregið úr tjóninu, sem utanríkisráðherra hefði ella getað valdið flokkinum á landsvísu.  Mörgum sjálfstæðismanninum finnst réttilega, að Arnar Þór hafi höfðað til grunngilda Sjálfstæðisflokksins með skrifum sínum og ræðum, og þeir skilja ekki, hvers vegna utanríkisráðherra leggur upp í vegferð, sem þeim þykir einboðið, að endi slysalega.  Arnar Þór Jónsson á þess vegna heiður skilinn fyrir að vekja enn og aftur athygli á þeim málstað, sem Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður um.  Hann var ekki stofnaður til að leiða kratísk viðhorf til öndvegis á Íslandi og þar með að leiða evrópskt "búrókrataræði" til valda á Íslandi í stað hefðbundins lýðræðis, þar sem löggjöfin endurspeglar hagsmuni almennings í landinu samkvæmt mati réttilega kjörinna þingmanna samkvæmt Stjórnarskrá landsins.

Þann 20. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu lærdómsrík grein eftir Arnar Þór Jónsson um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Ætlar Alþingi að grafa undan sjálfu sér og gengisfella íslenzkt lýðræði ?"

Þetta er áreiðanlega á meðal róttækustu spurninga, sem sézt hafa á prenti frá varaþingmanni, enda er tilefnið ærið, og höfundi verður hugsað til endaloka þjóðveldisins með Gamla sáttmála.  M.v. "salami" aðferðina, sem fullveldið er beitt á okkar tímum, eru þessi hugrenningatengsl skiljanleg:

"Framangreind atriði [um Íslendinga handgengna Noregskonungi á 13. öld] eru nefnd hér, því [að] líkja má nýju frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 við nútímaútgáfu af trúnaðareiðum fyrri tíma.  Verði frumvarpið að lögum, er í raun verið að gera lýðveldið Ísland handgengið ESB með því að setja Íslendinga undir ok EES-réttar og festa okkur í viðjum erlends valds. 

Brýnt er, að þingmenn og aðrir skilji þungann og alvöruna, sem að baki býr. Með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi gengisfellt til frambúðar og íslenzkt lýðræði þar með líka. 

EES-rétturinn er enn vaxandi að umfangi, teygir sig stöðugt lengra, og regluverkið verður sífellt þyngra í vöfum.  Þetta umhverfi hentar illa íslenzkum fyrirtækjum, sem öll eru lítil/meðalstór á evrópskan mælikvarða.  Frumvarpið miðar að því marki að samstilla réttinn (þ. Gleichschaltung) á öllu EES-svæðinu. Ómögulegt er þó að segja, hvert þetta kann að leiða, því [að] ESB/EES-rétturinn hefur stöðugt verið að þenjast út og verið túlkaður á "dýnamískan" (lesist: pólitískan) hátt af hálfu dómstóls ESB. 

Þrátt fyrir þessi óljósu ytri mörk stöndum við hér frammi fyrir því, að réttur ESB/EES skuli hafa stöðu æðstu laga, m.ö.o. reglna, sem ekki má breyta og ætlað er að þjóna sem rammi utan um alla aðra lagasetningu með því að afmarka, hvað telst leyfilegt og hvað ekki."

Skyldi ekki mörgum sjálfstæðismanninum renna kalt vatn á milli skinns og hörunds við þennan lestur og þeirrar forsögu, að Alþingi hefur fengið þetta mál til umfjöllunar frá ríkisstjórninni, þar sem varaformaður flokksins fer með umráð málaflokksins ? Þetta mál er af slíkri stærðargráðu og getur haft slík áhrif á gengi Sjálfstæðisflokksins á meðal kjósenda, að þingflokkurinn verður að fá leiðsögn frá stofnunum flokksins og þá helzt æðsta vettvangi hans, Landsfundinum.  Þar til sú leiðsögn hefur fengizt, mundi utanríkisráðherra gera réttast í því að draga málið út úr þinginu um sinn.

"Ef Alþingi samþykkir frumvarpið og þar með forgang EES-réttar umfram íslenzk lög, má öllum vera ljóst, að ESB mun eftir það alls ekki sætta sig við, að Alþingi setji sérreglur, sem raska þeirri réttareiningu og þeirri rétthæð lagareglna, sem forgangsreglan miðar að. Með frumvarpinu er stefnt að því, að Alþingi geri Íslendinga ofurselda forgangsrétti EES-reglna, þrátt fyrir að þær eigi uppruna sinn hjá stofnunum ESB og þrátt fyrir að ESB hafi allt tangarhald á túlkunarvaldi um þessar reglur. 

Flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins, sem telja, að ESA og EFTA-dómstóllinn muni geta veitt ESB viðnám í því samhengi, sem hér um ræðir, hljóta að hafa óraunsæja sýn á styrk hinnar veiku EFTA-stoðar í EES-samstarfinu.  Annars gætu þau ekki með góðri samvizku stutt frumvarp, sem miðar að því að veikja grundvallarstofnanir og burðarstoðir okkar eigin lýðveldis." 

Eins og prófessor Stefán Már Stefánsson bendir á, er gengið of langt með forgangsréttarfrumvarpi utanríkisráðherra í niðurlægingu Alþingis og ögrun við eða öllu heldur broti á Stjórnarskrá.  Það er tvennt ólíkt að búa við það, eins og verið hefur, að ESA geri athugasemdir og Alþingi breyti þá íslenzkum lögum eftir atvikum til samræmis, enda sé breytingin ekki ögrun við Stjórnarskrá, eða að Alþingi gefi núverandi og framtíðar reglum ESB skefjalausan forgang umfram íslenzk lög. 

Meðal þess, sem einstakt er og óhagstætt fyrir landsmenn við EES-samninginn, er, að hann er undirorpinn stöðugum breytingum, sem ESB tilkynnir EFTA-ríkjunum í EES, að sambandið vilji láta gilda á öllu EES-svæðinu. Aldrei gerist hið gagnstæða. Ójafnræðið á milli ESB og EFTA er sláandi hér. 

EES-samningurinn var hugsaður sem biðleikur og aðlögun EFTA-ríkjanna að Evrópusambandinu áður en þau sæktu um aðild þar. Ekki er vitað til, að Ísland, Noregur og Liechtenstein sækist eftir aðild að ESB, og þess vegna er brýnt að endurskoða EES-samninginn til að auka jafnræði samningsaðila.  

 

   

   

 

 

 

 


Sjálfstæðismál

Sú ráðagerð ríkisstjórnarinnar að gefa Evrópusambandslöggjöf, sem Alþingi hefur innleitt hér vegna fyrri samþykktar sinnar á EES-samninginum (1993), forgang á landsrétt, mun vissulega hafa djúptækar pólitískar og réttarfarslegar afleiðingar og getur jafnvel haft þau áhrif á þjóðarvitundina, að almenningur fái svipaða tilfinningu og ríkti hér fyrir Heimastjórn 1904, að æðsta valdið í landinu sé erlendis, ekki í Kaupmannahöfn, eins og þá, heldur í höfuðstöðvum ESB í Brüssel.  Þetta er óbærileg tilhugsun, ekki sízt fyrir marga sjálfstæðismenn. 

 Um lagalegu ringulreiðina, sem af þessu mun hljótast, hafa fræðimenn á sviði lögfræði fjallað allítarlega og m.a. verið gerð grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2289692   

Um hinar pólitísku afleiðingar er hægt að velta vöngum, en líklegt er, að innan borgaralegu flokkanna vítt og breitt um landið sé mikil óánægja með þessa ráðagerð, svo mikil, að verði frumvarp utanríkisráðherra "keyrt gegnum þingið", muni ýmsir kjósendur flokkanna, sem eru á móti frumvarpinu, leita annað í næstu kosningum og þá þangað, sem andstaðan við málið er einna skýrust. 

Skeleggastur á opinberum vettvangi gegn því að innleiða forgang ESB-löggjafar á Íslandi hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur.  Hann hefur talað hart gegn þessu á mannamótum og skrifað rökfasta pistla gegn málinu á vefsetri sínu á Moggablogginu. Hann hefur reyndar verið ódeigur við að vara við því, að fullveldið renni smátt og smátt úr greipum okkar vegna veru okkar á Evrópska efnahagssvæðinu - EES og þess ólýðræðislega fyrirkomulags, að þjóðþing landsmanna þurfi að stimpla fyrirferðarmiklar tilskipanir og reglugerðir inn á lagasafn Íslands. 

Hvorki íslenzkir embættismenn né þingmenn eiga aðkomu að þessum málum á mótunarstigum þeirra, og í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB og EFTA og fjalla um mál, sem ESB vill, að EFTA-ríkin á Innri markaðinum lögleiði, hefur íslenzki fulltrúinn ekki látið að sér kveða, sbr 3. orkupakkann. Þarna er þó möguleiki fyrir Ísland að fá tilhliðranir og jafnvel að beita neitunarvaldi, en fremur slöpp hagsmunagæzla utanríkisráðuneytisins hefur verið reglan þarna.  Nú er spurning, hvað gerist með koltvíildisgjaldið á flug á milli ESB og Íslands, sem hækka mun farmiðann umtalsvert. 

Morgunblaðið hefur tekið einarða afstöðu gegn frumvarpi utanríkisráðherra eftir að hafa vegið kosti þess og galla.  Það hefur verið bent á, að einstaklingar gætu hafa hagnazt í einstökum tilvikum, ef þessi forgangsregla EES-réttar hefði verið í gildi, en aðferðarfræðin við þessa innleiðingu er röng, enda gengur hún í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. 

Morgunblaðið birti frétt um málið 27. marz 2023, reista á tilvitnunum í prófesor Stefán Má Stefánsson, sem blaðið kallar "einn helzta sérfræðing Íslands í Evrópurétti", og í Arnald Hjartarson, aðjunkt við lagadeild HÍ.  Ályktun blaðamannsins er, að "réttaröryggi [sé] teflt í tvísýnu með nýrri forgangsreglu":

 "Frumvarp utanríkisráðherra til breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið er óheppilegt, þar sem sú breyting hefði í för með sér, að lög, sem Alþingi samþykkir í framtíðinni hefðu ekki í öllum tilvikum tilætluð áhrif að mati Stefáns Más Stefánssonar, prófessors, og Arnaldar Hjartarsonar, aðjunkts við Lagadeild HÍ." 

Þessi ágalli frumvarpsins er nýr af nálinni í sögu Alþingis og löggjafar þess.  Þess vegna verðskuldar frumvarpið einkunnina örverpi (bastarður) og er ótækt með öllu.  

"Í dag gildir sú regla, að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-samninginn, að svo miklu leyti sem við á.  

Breytingartillagan felur aftur á móti í sér, að bætt verði við nýju ákvæði, sem kveður á um, að EES-reglur sem lögfestar hafa verið eða innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar öðrum almennum lagaákvæðum, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað."

Það skortir stjórnlagalegar forsendur fyrir þessari breytingu.  Ef starfsfólk utanríkisráðuneytis Íslands er þeirrar skoðunar, að Íslendingum sé ekki vandara um en Norðmönnum að innleiða slíkt forgangsákvæði fyrir ESB-réttinn, þá er það misskilningur.  EES-samningurinn var á sinni tíð samþykktur með auknum meirihluta í Stórþinginu, þ.e. meira en 3/4 greiddra atkvæða og 2/3 þingmanna þurftu að mæta til atkvæðagreiðslu hið minnsta.  Í Noregi er þess vegna litið svo á, að EES-samningurinn sé æðri venjulegum lögum, þótt hann jafnist ekki á við stjórnarskrána frá Eiðsvöllum 1814. 

Engu slíku er til að dreifa hérlendis, og þess vegna verða ráðherrar og þingmenn að gæta vel að sér við að semja lagafrumvörp, að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrá Íslands.  Með frumvarpi utanríkisráðherra um forgang ESB-löggjafar í fortíð (?) og framtíð er ráðherrann að leggja til framsal löggjafarvalds til stofnunar, sem Ísland á ekki aðild að.  Það er stjórnarskrárbrot.  Hortitturinn um, að Alþingi geti ákveðið annað, er ógildur kattarþvottur í þessu samhengi. Hvað sagði Stefán Már við Morgunblaðið ?:

""Það er svolítið hallærislegt að segja, að EES-réttur skuli hafa forgang, en svo er eiginlega ekkert að marka þetta, því [að] Alþingi getur alltaf skipt um skoðun og breytt því eftir á", segir Stefán Már í samtali við Morgunblaðið. "Hér er verið að segja eitthvað, sem er ekki alveg rétt.  Við getum ekki lofað forgangi til framtíðar, því [að] þá væri verið að framselja lagasetningarvaldið, og það bryti gegn stjórnarskránni.""

Skýrari getur falleinkunn lagaprófessorsins vart orðið á framlag utanríkisráðherra til þessa máls með örverpi sínu.  Ef ráðherrann dregur ekki málið til baka og skýrir lagahliðina út fyrir ESA, verður Alþingi að grípa til sinna ráða til að hindra framgang þess.  Það er engin nýlunda, að undirlægjuflokkarnir á Alþingi með Samfylkinguna í fararbroddi vilji samþykkja örverpið.  Það sýnir vel innviðina þar á bæ.  Stjórnarflokkarnir mega ekki gefa þessu dómgreindarlitla liði "blod på tanden" með því að traðka á Stjórnarskránni.

"Forsenda frumvarpsins virðist sú, að Alþingi muni taka það sérstaklega fram við síðari lagasetningu, ef til stendur að víkja frá eldri reglum EES-réttar, ella verði yngri reglan að víkja fyrir EES-reglunni.

Arnaldur og Stefán telja, að þessi forsenda fái tæpast staðizt, enda geti hæglega komið til þess, að Alþingi setji skýrar lagareglur í framtíðinni í góðri trú um, að þær standist EES-samninginn, en annað komi svo á daginn.  Við slíkar aðstæður væri vegið að réttaröryggi borgaranna.  "Borgararnir eiga að geta treyst því, sem fram kemur í íslenzkum lögum", segir Stefán Már og bætir við, að regla á borð við þá, sem tillagan boðar, gæti orðið til þess að koma borgaranum  í opna skjöldu, þegar hann heldur, að einhver regla gildi, en í ljós kemur svo, að hún samrýmist ekki EES-reglum. "EES-reglurnar eru mjög matskenndar, og það er ekki alltaf greinilegt, hver EES-reglan er af lestri hennar, heldur byggist reglan oft á túlkun þeim megin.  Atriði, sem voru óljós í gær, geta svo verið orðin skilyrðislaus eftir viku, ef ESB-dómstóllinn segir það."" 

Þetta er hárrétt greining hjá lagaprófessornum, sem sýnir, hversu veikburða hinn lögfræðilegi grundvöllur lagafrumvarps utanríkisráðherra er. Það er vel þekkt í ESB, að dómstóll þess tekur sér víðtækt vald til túlkunar laga í ágreiningsmálum og setur þar með fordæmi.  Dómstóllinn jaðrar við að taka sér lagasetningarvald, og þetta hefur m.a. leitt til þess, að "Rauðhempurnar í Karlsruhe" (Stjórnlagadómstóll Þýzkalands) hafa séð sig knúnar til að taka fram, að Þýzkaland hafi sína stjórnarskrá, sem ESB-dómstóllinn hafi ekki leyfi til að brjóta í bága við, þegar Þjóðverjar eigi í hlut. 

Að lokum sagði í tilvitnaðri frétt:

"Stefán telur, að skoða ætti lögskýringarreglu EES-samningsins upp á nýtt og athuga, hvort það sé ekki fær önnur lausn hér á landi, sem gangi skemmra.  Spurður, hver sé gallinn við núverandi reglu, svarar Stefán Már: "Ég hef ekki sagt, að það sé neinn galli við hana annar en sá, að ESA sættir sig ekki við hana.""

Þarna heyrist í rödd heilbrigðrar skynsemi. 

 

 

 

 


Ætla þingmenn að skapa réttarfarslega ringulreið ?

Vanda verður til verka við lagasetningu, en því hefur ekki alltaf verið að heilsa.  Nú virðist ætla að keyra um þverbak og veldur því óþörf auðsveipni við samræmingarþörf EES, en ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur íslenzka dómsstóla ekki hafa nægilega skýr lagaleg fyrirmæli um að láta ESB-réttinn njóta skýlauss forgangs í tilvikum, þar sem landsréttur, vilji Alþingis, kveður öðru vísi á. 

Ef frumvarp utanríkisráðherra, sem eru viðbrögð stjórnvalda við þessari kvörtun ESA, verður leitt í lög, verður Alþingi gert að hálfgerðum ómerkingi, því að frumvarp ráðherrans virðist geta haft afturvirk áhrif á löggerninga, og lög frá Alþingi eftir innleiðingu ESA-kröfunnar, sem sett eru í góðri trú, verður hægt að dæma ómerk, þótt yngri séu og sértækari en sú lagasetning, sem utanríkisráðherra leggur nú til.

Með vissum hætti er verið að slíta í sundur lögin með því að gefa ESB-rétti skýlausan forgang á landsrétt í fortíð og framtíð.  Íslendingar hafa áður lent í svipaðri stöðu.  Í fyrra skiptið var það áratug eftir samþykkt Gamla sáttmála, Magnús, konungur, lagabætir vildi samræma íslenzka löggjöf, Grágás, við norska löggjöf, með Járnsíðu.  Íslendingar sættu sig ekki við þetta, útkoman varð lögbókin Jónsbók, sem Íslendingar mótuðu og sömdu að mestu. Á meðan Ísland er ekki í Evrópusambandinu, hljóta allir ærlegir menn að sjá, að Alþingi Íslendinga verður að eiga síðasta orðið um gildandi lög í landinu.  Ef ríkisstjórn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlar ekki að draga frumvarpið til baka, er lágmark, að þjóðin fái að hafa síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

Þann 24. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring Karlottu Lífar Sumarliðadóttur um þetta mál undir fyrirsögninni:

"Ný regla hefði töluverð áhrif hér á landi".

Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð EES-forgangsregla er til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenzkum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir, verði hún að lögum.  

Þetta er [á] meðal þess, sem fram kemur í grein Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við Lagadeild Háskóla Íslands, og dr Hafsteins Dans Kristjánssonar, lektors við Lagadeild HÍ."

Hér vara þungavigtarmenn á lagasviðinu með varfærnu orðalagi sínu, sem mikil alvara býr þó undir, við afleiðingum innleiðingar skýlauss forgangsréttar ESB-réttar, bæði núgildandi og með öllum framtíðar breytingum og viðbótum, sem Íslendingar eiga enga aðkomu að á mótunarstigum. Hér er flausturslega að verki verið hjá utanríkisráðuneytinu, og það virðist enga lögfræðilega greiningu hafa viðhaft á þeirri réttarstöðu, sem uppi yrði í landinu eftir samþykkt þessa frumvarps.

Eftir að hafa kynnt sér efni þessa máls virðist höfundi þessa pistils, sem er leikmaður á sviði lögfræði, að téð frumvarp utanríkisráðherra verðskuldi einkunnargjöfina "lagatæknilegt örverpi". Slíkt sættu Íslendingar sig ekki við, nýkomnir undir hans hátign Noregskonung, í kjölfar Gamla sáttmála og fengu sína Jónsbók, sem entist vel og lengi.  

"Greinin birtist í vefriti Úlfljóts um helgina [22.-23.04.2023] og ber heitið: "Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenzkum rétti".  Hún er skrifuð í tilefni af frumvarpi utanríkisráðherra til breytinga á lögum um EES-samninginn, sem ætlað er að uppfylla kröfur ESA um forgangsáhrif EES-reglna."

Þessi Úlfljótsgrein gefur utanríkismálanefnd Alþingis tilefni til að kalla fræðimennina, sem eru höfundar hennar, á sinn fund og hlýða vandlega á niðurstöður greiningar þeirra á afleiðingum lögfestingar slíks frumvarps, og hvort samþykkt Alþingis á því muni fela í sér stjórnarskrárbrot. Utanríkismálanefnd kann nú þegar að vera á óheillabraut í umfjöllun sinni, og hún verður að staldra við og kynna sér til hlítar, hvað gagnrýnendur frumvarpsins hafa fram að færa, en ekki að hlýða einvörðungu á þá, sem hengja hatt sinn á, að með slíkri lagasetningu sé borgurum hérlendis færður aukinn réttur.  Það er augljóslega ekki hin almenna ályktun, sem draga má af frumvarpinu, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum um hríð.

"Af fyrirhugaðri forgangsreglu leiðir, að sett lög, sem innleiða EES-reglur, ganga ætíð framar ósamrýmanlegum settum lögum, og skiptir þá ekki máli, hvort síðar nefndu lögin eru yngri eða sértækari að því, er segir í greininni.  Mun það jafnframt eiga við um samspil laga, sem sett hafa verið fyrir gildistöku forgangsreglunnar til framtíðar litið."

   Þetta er ótæk lagasetning þegar af þeirri ástæðu, að hún skapar ringulreið í réttarframkvæmd.  Utanríkisráðherra hengir hatt sinn á það ákvæði frumvarpsins, að Alþingi geti hnýtt aftan við lög sín, að þau skuli njóta forgangs í landinu.  Við þetta er tvennt að athuga.  Það er lítillækkandi og óviðunandi, að rétt kjörið þjóðþing skuli þurfa að hlíta slíkum afarkostum, til að mark sé takandi á gjörðum þess.  Í öðru lagi gengur þetta í berhögg við síðari hluta bókunar 35 við EES-samninginn, sem ráðherrann þó vill véla Alþingi til að samþykkja.  Þess vegna er ástæða til að spyrja, hvort utanríkisráðuneytið hafi borið þennan hortitt undir ESA.  Eftirlitsstofnunin væri komin í andstöðu við sjálfa sig, ef hún telur þennan hortitt í samræmi við stefnu Evrópusambandsins um einsleitni Innri markaðarins. 

Alþingi getur engan veginn verið þekkt fyrir að samþykkja lagasetningu, sem framselur endanlega löggjafarvaldið á Íslandi til Brüssel.  Það er þyngra en tárum taki, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins reki með þessum hætti djúpan fleyg í raðir sjálfstæðismanna.  Heggur hún þar enn í sama knérunn, því að hún sem iðnaðarráðherra studdi dyggilega við Guðlaug Þ. Þórðarson, þegar sá hafði forystu um innleiðingu Þriðja áfanga orkulöggjafar Evrópusambandsins á Íslandi.

"Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði [marz 2023] lýsti Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ, áhyggjum af útvíkkun EES-samningsins, og telur hann frumvarp ráðherra ganga of langt.  Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hefur aftur á móti sagt, að hvorki sé vegið að stjórnarskrá né feli frumvarpið í sér framsal á fullveldi."

Þegar margreyndur fræðimaður á sviði laga tjáir sig með þessu móti, ættu minni spámenn á þessu fræðasviði, þótt þeir gegni háum embættum um sinn, ekki að kasta fram öndverðri skoðun án rækilegrar umhugsunar og rökstuðnings.  Hortittur á borð við þann í frumvarpinu, sem kveður á um, að Alþingi geti tekið fram, að einstök lög þess hafi forgang, er hvorki gjaldgengur í fullvalda ríki né samræmist hann kröfugerð ESA um bókun 35.  Þess vegna felur lagasetning um forgang ESB-löggjafar á landslög í sér gróft framsal Alþingis á löggjafarvaldi sínu, og slíkt er skýlaust stjórnarskrárbrot.  Hvernig stendur á því, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins er nú svo heillum horfinn að ætla að troða þvílíkum gjörningi ofan í kok þingflokksins og almennra flokksmanna ?  Verði málið keyrt alla leið, mun það hafa í för með sér alvarlegar og þungbærar meltingartruflanir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Flokksmenn um allt land ættu að láta þingmenn sína heyra sína skoðun á þessu, því að hér er stórmál á ferð.   

    "Í grein Friðriks Árna og Hafsteins Dans eru færð rök fyrir því, að verði forgangsreglan að lögum, muni einstaklingar og lögaðilar njóta ríkari möguleika en áður til að höfða mál fyrir íslenzkum dómstólum og byggja málatilbúnað sinn á því, að íslenzk lagaákvæði skuli víkja fyrir ákvæðum EES-samningsins og öðrum innleiddum EES-reglum að réttarfarsskilyrðum uppfylltum. 

Að sama skapi verði íslenzkum dómstólum skylt að ljá innleiddum EES-reglum aukið vægi í dómsúrlausnum andspænis ósamrýmanlegum settum lögum, sem munu þá víkja fyrir hinum fyrr nefndu á grundvelli forgangsreglunnar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað í síðar nefndu lögunum." 

Íslenzkt réttarfar yrði mjög einkennilegt eftir innleiðingu téðrar forgangsreglu með innlenda löggjafann svífandi í lausu lofti og lagasetningar, sem hægt væri að ómerkja af minnsta tilefni.  Þetta ástand yrði óbærilegt fyrir sjálfstæða þjóð, og hér yrði svipað ástand og var, þegar lagafyrirmæli komu frá kóngsa í Kaupmannahöfn.  Það tekur svo af öll tvímæli um, að forgangsregla þessi felur í sér stjórnarskrárbrot, að Íslendingar hafa sjálfir alls enga aðkomu að samningu og/eða setningu þessara laga á vettvangi Evrópusambandsins. Klíni Alþingi hortitti um forgang einstaka lagasetningar aftan við lögin, mun ESA vísast fetta fingur út í það, enda klárlega verra brot í augum ESA/ESB en núverandi fyrirkomulag. Alþingi verður að fella þetta ótæka og óþinglega frumvarp í atkvæðagreiðslu, ef utanríkisráðherra hefur ekki vit á að draga það til baka.  Verði stjórnarliðar handjárnaðir, mun það vísast hafa alvarlegar flokkslegar afleiðingar. 

Í fréttaskýringunni var réttaróvissan vegna forgangsreglunnar útskýrð.  Eitt dæmi um stórhættulegar afleiðingar forgangsreglunnar er lagasetning ESB um ríkisábyrgð bankareikninga.  Í nýju bankahruni kæmist ríkissjóður í greiðsluþrot við innleiðingu laga ESB um þessar ríkisábyrgðir:

"Jákvæðu áhrifin mundu felast í því, að einstaklingar gætu framfylgt réttindum sínum samkvæmt innleiddum EES-reglum með markvissari hætti fyrir íslenzkum dómstólum en þeir geta nú.  

Neikvæðu áhrifin gætu birzt í því, að einstaklingar og lögaðilar gætu þurft að sæta því, að lagaregla, sem þeir hafa reitt sig á í lögskiptum sínum innbyrðis eða við stjórnvöld, e.t.v. um langa hríð, væri í dómsmáli eða í framkvæmd stjórnvalda vikið fyrirvaralaust til hliðar á þeirri forsendu, að hún samræmdist ekki réttilega innleiddum EES-reglum."

Þessi staða er varhugaverð, því að hún er líkleg til að grafa undan trausti á réttarfari í landinu og fjölga mjög dómsmálum, sem skapar enn meiri tafir þar en nú er reyndin.  Frumvarpið er algerlega vanhugsað. 

Að lokum sagði í þessari ágætu fréttaskýringu:

"Í greininni er því einnig velt upp, hvort forgangsreglan geti haft afturvirk áhrif á úrlausn ágreinings, sem kemur til kasta dómstóla eða annars úrskurðaraðila eftir gildistöku hennar, ef ágreiningurinn er sprottinn af málsatvikum, sem áttu sér stað áður en reglan tók gildi.

Færð eru rök fyrir því, að þótt fyrirliggjandi frumvarp hafi ekki að geyma ráðagerð um bein  afturvirk réttaráhrif forgangsreglunnar, sé ekki útilokað, að hún geti breytt samspili lagareglna, að því er varðar málsatvik til framtíðar litið, þótt þau tengist lögskiptum, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar."

Frumvarpið mundi innleiða mikinn vafa og rugling í íslenzkan rétt, ef það yrði að lögum, og slíkt ber að forðast eins og heitan eldinn, enda er slíkt einkenni lélegrar lagasetningar.  Frumvarpið er hrákasmíð.

 

  

 

 

 

 

 


Falskur tónn loftslagspredikara

Eftir Tryggva Felixson birtist grein í Morgunblaðinu 31. marz 2023, sem af fyrirsögn hennar að dæma mætti ætla, að væru aðvörunarorð til landsmanna vegna hlýnunar andrúmsloftsins, en er í raun sá fjarstæðukenndi áróður, að hérlendis geti orðið orkuskipti án nýrra virkjana.  Í greininni er reynt með lævíslegum hætti að koma sektarkennd inn hjá Íslendingum vegna mikillar losunar koltvíildis á mann, en sannleikurinn er sá, að fáar eða engar þjóðir hafa gert meira en Íslendingar til að draga úr losun á heimsvísu á mann en Íslendingar. 

Landverndarforkólfar eru iðnir við að segja hálfsannleika í blekkingarskyni, og þess vegna er nauðsynlegt að draga upp heildarmyndina.  Loftslagsvána, ef vá skyldi kalla, er ekki hægt að fást við með lausnarmiðuðum hætti með því að flytja losun úr einu landi í annað, eins og virðast vera ær og kýr forpokaðra loftslagspredikara hérlendis. Þeir halda, að framleiðsla t.d. áls á heimsvísu muni minnka í sama mæli og dregið væri úr framleiðslunni hérlendis.  Fávíslegri verður málflutningur varla. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í kjölfar olíukreppa 8. áratugar 20. aldarinnar, sem leiddu til margföldunar olíuverðs, fóru fram orkuskipti húshitunar á Íslandi með s.k. hitaveituvæðingu eða rafvæðingu húshitunar, sem öflugra flutnings- og dreifikerfi gerði kleifa.  Á síðasta fjórðungi aldarinnar var gert stórátak í að útrýma olíukyndingu húsnæðis og innleiða í staðinn nýtingu innlendra orkulinda, þ.e. jarðvarma og vatnsafls, aðallega hið fyrrnefnda. Þetta gerðu fáar eða engar aðrar þjóðir á þeirri tíð, enda er húsnæði og notkun þess enn þann dag í dag einn stærsti losunarvaldur koltvíildis á heimsvísu, þótt svo sé ekki á Íslandi. Landvernd grípur gjarna til samanburðar koltvíildislosunar á mann og ætti nú að gera það fyrir húshitunina. Landverndarforkólfar minnast hins vegar aldrei á það, sem vel er gert, heldur hallmæla flestu.  Landvernd setur sig oft í eins konar fórnarlambshlutverk og býr til blóraböggla úr almenningi, sem stundar sína lífsbaráttu og reynir að auðvelda sér hana með því að nýta tækniþróunina, eins og hann getur.  Þetta kallar Landvernd ósjálfbæra neyzluhyggju, sem er innantómt og fullyrðingakennt froðusnakk.  

Ekki rekur höfund þessa vefpistils minni til gagnrýnisradda þá í þá veru, að það væri ósjálfbær lausn að ganga á íslenzkar orkulindir til að markaðssetja meiri jarðvarma og meira rafmagn.  Nær væri að loka stóriðjufyrirtækjum þess tíma en að virkja til að draga úr innflutningi jarðefnaeldsneyti.  Þennan afturúrkreistingslega áróður viðhefur Landvernd nú.  Þvættingur af þessu tagi getur aðeins náð hljómgrunni í afar veruleikafirrtu umhverfi. 

Hitt meginframlag Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu er einmitt nýting náttúrulegra orkulinda Íslands til að framleiða álmelmi og önnur melmi til útflutnings.  Þessu  þreyttist öðlingurinn, kennari minn í HÍ og síðar orkumálastjóri, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, ekki á að benda á með gildum rökum. Þau eru, að í heiminum er ákveðin þörf fyrir hendi á álmelmum, kísilmelmum o.fl. slíku.  Samdráttur í þessari framleiðslu hérlendis, mundi þýða aukna framleiðslu erlendis, og þá með meiri losun gróðurhúsalofttegunda bæði við framleiðsluna sjálfa og við raforkuvinnsluna vegna hennar.  Þar getur verið um að ræða tífalda losun á hvert tonn áls.  Það væri þess vegna skref aftur á bak, en ekki fram á við, eins og Landvernd fullyrðir, að draga saman seglin á Íslandi. Forkólfar Landverndar setja gjarna upp þröngsýnisgleraugun og horfa þá fram hjá þeirri staðreynd, að andrúmsloftið er sameiginlegt fyrir alla jarðarbúa, þegar upp er staðið. Líta má svo á, að Íslendingar, sem ráða yfir meiri endurnýjanlegum orkulindum á mann en aðrar þjóðir, axli ábyrgð á þessu ríkidæmi með því að nýta þær með þeim hætti, sem andrúmsloftið munar mest um í alþjóðlegu samhengi.

Téð grein Tryggva Felixsonar bar fyrirsögnina:

"Loftslagskrísan dýpkar - viðbrögð íslenzkra stjórnvalda einkennast af doða":

Þar voru gamalkunnar lummur:

"Það eru líkur á því, að 1,5°C hækkun á meðalhita jarðar verði raunveruleiki laust eftir 2030.  En sú staðreynd má ekki letja okkur til aðgerða.  Enn skiptir öllu máli að draga úr losun.  Ef við sitjum með hendur í skauti, mun losunin halda áfram að aukast, fara yfir 2°C eða jafnvel mun hærra.  En ef við göngum vasklega til verka, er von til þess hitastigið lækki aftur síðar á öldinni og nálgist eðlilegt ástand."

 Þokulegri getur boðskapur varla orðið.  Þarna stendur í raun og veru, að ekki sé útilokað, að IPCC muni meta það svo, að orðið hafi 1,5°C hækkun hitastigs andrúmsloftsins eftir um áratug hér frá. Síðan er gefið í skyn, að eitthvað muni um losun Íslendinga, en áhrif hennar eru langt innan skekkjumarka í þessum fræðum.  Hvenær fer hitastigshækkun yfir 2°C ?  Það veit enginn, og þróun hitastigsins samkvæmt gervihnattamælingum dr John Christy við við Háskólann í Alabama, BNA, bendir til, að það verði alls ekki á þessari öld.  Hvað er mun hærra en 2°C ?  Svona málflutningur í vönduðu dagblaði á borð við Morgunblaðið er óboðlegur.  Það er himinn og haf á milli hitastigsmælinga IPCC og vísindamanna á borð við John Christy, sem nota nákvæmustu og áreiðanlegustu mæliaðferðir, sem völ er á.  Hið sama á við um hitastigshækkunina og þá um leið áætlaðan tíma upp í 2°C hækkun m.v. upphaf iðnbyltingar. Hér má bæta við þeirri niðurstöðu kunns íslenzks veðurfræðings, Trausta Jónssonar, að hitastig hafi ekkert hækkað síðan 2004. Landverndarforkólfar halda uppteknum hætti og fiska í gruggugu vatni.  Þau þekkja ekki til vísindalegra vinnubragða.  Tilgangurinn helgar meðalið á þeim bænum.

"Loftslagsbreytingar eru ekki vandamál annarra [sic ! nú, hverra þá ?], eins og oft heyrist í umræðu hér á landi [hver heldur þessari vitleysu fram ?].  Við berum öll ábyrgð, en mest er ábyrgð ríkisstjórna og þjóðþinga. [Það liggur í augum uppi, að mest ábyrgð hvílir á herðum ríkisstjórna, sem fara fyrir þjóðum, sem mest losa og sýna litla viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Þessi ríki er að finna í Asíu.  Þjóðverjar fara nú að kröfu græningja og loka 3 síðustu kjarnorkuverum sínum.  Ekki mun slíkt draga úr hlýnun jarðar. ] Þar liggur lykillinn að aðgerðum, sem verða aflvaki nauðsynlegra breytinga; að gera einstaklingum og fyrirtækjum kleift að taka þátt í lausn vandans með skilvirkum hætti.  Valdefling er lykillinn að lausn.  Fjármagn og tæknilegar lausnir eru fyrir hendi, sem ekki hafa verið nýttar til að leysa aðkallandi vanda.  Að fjármagna breytingar að mestu með framlögum úr ríkissjóði, eins og virðist lenzka hér á landi, er ekki haldbært.  Það verður að beita mengunarbótareglunni með mun víðtækari hætti en nú er gert - reglunni, sem kveður á um, að sá borgi, sem mengar."

Þetta er að mestu leyti rangt.  Einkafjármagn er ekki á lausu í orkuskiptin, eins og þarf, af því að arðsemi og tækni skortir á þessu sviði.  Rafeldsneyti er dýrt í framleiðslu og raforku skortir til að framleiða það. Vélar eru ekki tilbúnar fyrir full umskipti til rafeldsneytis.  Það er sem sagt markaðsbrestur á þessu sviði, og þess vegna hefur ríkisvaldið stigið inn á sviðið, t.d. með afslætti á opinberum gjöldum rafmagnsbíla. Formaður Landverndar ofeinfaldar málin og vænir einkaframtakið um áhugaleysi.  Það er illa ígrundað, enda fer hann yfirleitt yfir á hundavaði. Spyrja má, hvers vegna allan þennan asa, þegar hinn talnafróði og talnaglöggi veðurfræðingur, Trausti Jónsson, heldur því nú fram, að ekkert hafi hlýnað frá 2004 ?  Í tilefni þessarar mengunarbótareglu Tryggva Felixsonar mætti spyrja, hvort hann sé sammála Evrópusambandinu um gjaldið á flugið, sem nú stendur fyrir dyrum, en íslenzka ríkisstjórnin hefur eytt töluverðu púðri í að andæfa, því að með þessu gjaldi stórversnar samkeppnisstaða Íslands.  Hvað varðar Landvernd um þjóðarhag ?

"Ísland sem ein ríkasta þjóðin [sic ! land er ekki þjóð] ber mikla ábyrgð.  [Þetta er hundalógík.  Auður skapar ekki ábyrgð á gerðum annarra.  Losun Íslendinga hefur ekki valdið neinni hlýnun.  Hún er of lítil til þess og hefur staðið of stutt.] Þau orð, sem höfð hafa verið um loftslagsaðgerðir, eru mörg, en innihaldslítil.  Hvorki stjórnvöld né atvinnulífið hafa axlað ábyrgð í verki, enn sem komið er. [Í hverju á sektarkenndin að vera fólgin - að nota mest allra af endurnýjanlegri og kolefnislausri orku ?] Í beinni og óbeinni losun á mann er Ísland því sem næst heimsmeistari. [Hvaða máli skiptir þetta fyrir andrúmsloftið, þegar um örfáar hræður er að ræða ? Það, sem máli skiptir í alþjóðlegum samanburði, er heildartonnafjöldi CO2 hvers lands, og framleiðsluafköst á hvert tonn CO2, t.d. tAl/tCO2.  Þar eru Íslendingar í fremstu röð.] Losun hér á landi hefur farið vaxandi, og stjórnvöld hafa ekki uppfært áætlun um aðgerðir í samræmi við losunarmarkmið. [Markmiðasetning stjórnvalda um samdrátt losunar var frá upphafi skrípaleikur, hrein sýndarmennska.] Viðbrögð íslenzkra stjórnvalda einkennast af áhugaleysi, sem er ekki í neinu samræmi við vandann, sem við blasir.  [Þessu má snúa við.  Menn á borð við Tryggva Felixson eru komnir fram úr sér, búa jafnvel til vandamál, sem er ekki fyrir hendi, hvað þá, að tæknin sé tilbúin að leysa viðfangsefnið.]"

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum úr smiðju afturhaldsins, þar sem lagzt er þversum gegn nýjum virkjunum.  Með því verða ofurhlýnunarpostular algerlega ótrúverðugir, því að almenningi hérlendis er fullljóst, að án nýrra virkjana verða engin orkuskipti. 

"Helzt ber á hugmyndum um að sækja enn meira í náttúru landsins til að auka orkuframleiðslu til orkuskipta.  Skortur á raforku er ekki vandinn.  Íslendingar eru margfaldir heimsmeistarar í raforkuframleiðslu á mann.  Vandinn liggur í því, hvernig við nýtum orkuna, sem við höfum til verðmætasköpunar.  Samanburður, sem OECD hefur gert, sýnir laka stöðu Íslands í þessum efnum.  Sífelld sókn í meiri raforku er ekki lausn, heldur hluti af kjarna vandans; ósjálfbær neyzla og framleiðsla og eyðilegging náttúru og víðerna landsins okkar."  

Þessi málflutningur er með eindæmum.  Þeir, sem svona láta, fara bara í hringi og geta aldrei leitt nein mál til lykta.  Tryggvi ber saman epli og appelsínur.  Augljóslega verður meiri virðisauki per MWh af raforku, sem notuð er á enda virðiskeðjunnar næst viðskiptavini, t.d. í bílaiðnaði Þýzkalands, en við að framleiða réttu álmelmin á Íslandi fyrir þennan sama bílaiðnað.  Íslendingum stendur hins vegar ekki til boða að framleiða bíla, og það hefur meira að segja ekki tekizt að fá framleiðendur íhluta fyrir bíla hingað.  

Vitund forkólfa Landverndar er svo brengluð, eins og af ofangreindu sést, að ekki er hægt að búast við neinu vitrænu þaðan.  Þau afneita þeirri staðreynd, að raforkuskortur sé í landinu, sem hamli framvindu orkuskiptanna, á meðan hann varir. Þá er það úr lausu lofti gripið, að neyzla landsmanna sé ósjálfbær og að hún hafi eyðilagt náttúru landsins.  Slíkar gildishlaðnar fullyrðingar falla um sjálfar sig í ljósi þess, að virkjanir, miðlunarlón og mannvirki, spanna innan við 0,5 % af flatarmáli landsins.   

 

 


Dómsdagsspádómar loftslagskirkjunnar

Þeir, sem beita dómsdagsspádómum sem verkfæri til að hræða fólk til fylgilags við sig, eru loddarar og þar af leiðandi rúnir trausti.  Þegar spádómar þeirra ganga ekki eftir, afhjúpast loddararnir, og má þá einu gilda, hvort þeir þykjast starfa á vísindalegum grunni eða ekki.  Þetta hefur einmitt gerzt með loftslagspostulana.  Það eitt út af fyrir sig nægir til að taka ekki mark á þeim lengur, enda eru aðrir, raunverulegir raunvísindamenn, sem hafa gagnrýnt tölulegar upplýsingar þessara postula og talið þær rangar, enda stangast þær á við niðurstöður beztu mæliaðferðanna, sem hvergi hafa verið hraktar með haldbærum vísindalegum rökum. 

Nú fer líklega að síga á seinni hluta þessa lotubundna hlýskeiðs, sem hófst fyrir um 10 k árum. Það eru kuldaskeiðin, sem virðast hafa verið ríkjandi á jörðunni.  Þekkt eru þó 4 hlýskeið á undan þessu með hærra hitastigi en nú er á jörðunni.  Vitað er, að hækkandi styrkur CO2 í andrúmslofti olli þeim ekki, því að engin markverð breyting varð þá á styrk þessarar gastegundar í andrúmsloftinu.  Hvað olli þá þessum hlýskeiðum ?  Mjög líklega hið sama og olli núverandi hlýskeiði.  Það eru sem sagt önnur náttúrulögmál en endurkast og ísog innrauðra geisla frá jörðunni í CO2 gasi, sem að öllum líkindum valda núverandi hlýnun.  Hið raunverulega vandamál til langs tíma er væntanlegt kuldaskeið. Loftslagspostularnir skoða ekki heildarmyndina af neinni alvöru, hvað þá að þeir reyni að komast til botns í orsakavöldum hlýskeiða almennt.  Koltvíildiskenningin er óleyfileg ofureinföldun á flóknu fyrirbæri.  

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, rekur loddarahátt heimsendaspámanna í Morgunblaðsgrein 29. marz 2023.  Það er svo sláandi lesning, að hún ein og sér nægir til að vekja alvarlega tortryggni í garð þeirra, sem hæst láta um þessar mundir um, að mannkynið sé að renna út á tíma með að bregðast við hlýnuninni.  Landverndarforkólfar eru háværir, og þeirra hugmyndafræði hljómar ágætlega við boðskap Rómarhópsins fyrir 51 ári, sem Óli Björn rekur upphaf vitleysunnar til í Morgunblaðsgrein sinni, 29. marz 2023: 

"Erum við dauðadæmd ?":

"Dómsdagsspár Rómarhópsins gengu ekki eftir. Á þeim áratugum, sem liðnir eru frá því, að bókin kom út (1972 á ensku og 1974 á íslenzku), hefur verðmætasköpun heimsins margfaldazt og lífskjör stórbatnað, sérstaklega þeirra, sem eru svo gæfusamir að búa í samfélögum, þar sem markaðsbúskapur hefur fengið að blómstra.  Rómarhópurinn hafði engan skilning á eðli markaða og horfði framhjá samspili verðs og framboðs og áttaði sig ekki á því, hvernig hugvit, þekking og tækniframfarir stuðla að auknum vexti og bættum lífskjörum."  

Nákvæmlega hið sama á við um forkólfa Landverndar. Hinir virtu fræðimann í þessum s.k. Rómarhópi, sem sömdu ritið "Endimörk vaxtar", voru sem sagt fákunnandi á lykilsviðum, sem vörðuðu viðvaranir þeirra til heimsbyggðarinnar og dómsdagsspár, ef ekki væri farið að ráðleggingum þeirra.  Þeir reyndust vera þröngsýnispúkar, og sumir í þessum hópi sennilega haldnir hatri á kapítalismanum, auðhyggjunni, sem hafði varðað veg mannkynsins til stöðugs lífskjarabata, bætts heilsufars og aukins langlífis.  Þegar hér var komið sögu, hafði kommúnisminn, sameignarstefnan, þegar sýnt, að þjóðfélag sósíalismans reyrði fólk í viðjar ófrelsis og kúgunar og að kerfið stóðst ekki auðhyggjunni, markaðshyggjunni, snúning, hvað lífskjör og lífsgæði snerti.  

Hið sama er uppi á teninginum nú, og nú ganga hinar spilltu og úreltu Sameinuðu þjóðir fram fyrir skjöldu með því að hampa dómsdagsspádómum í krafti "vísinda", sem þola ekki gagnrýna umræðu.  

"Hægt og bítandi gerði ég [ÓBK] mér grein fyrir, að vísindamennirnir væru ekki aðeins á villigötum, heldur beinlínis í pólitískri baráttu gegn markaðsbúskap - kapítalisma.  Þeir vildu kollvarpa þjóðskipulagi Vesturlanda með því að ala á hræðslu og ótta [á] meðal almennings."

Þessir þröngsýnu og villuráfandi fræðimenn töldu sér og öðrum trú um, að auðlindir jarðar væru að verða uppurnar og að auðhyggjan væri sökudólgurinn.  Það reyndist öðru nær.  Auðhyggjan varð bjargvætturinn.  Nú halda þröngsýnispúkar sig við eina lofttegund, CO2 - koltvíildi, sem þeir telja of mikið af í andrúmsloftinu, og að styrkur hennar þar vaxi of hratt.  Þeir gera þessa gastegund að blóraböggli hlýnunar jarðar, sem stefni í óefni, m.a. vegna bráðnunar jökla og hækkandi sjávarborðs.  Þeir skjóta fólki skelk í bringu með þeirri fullyrðingu, að við 3,5°C hlýnun frá um 1850 verði hlýnunin óviðráðanleg.

  Núverandi hlýskeið er ekki hið fyrsta í sögu jarðar.  Hvernig stendur á því, að í kjölfar fyrri hlýskeiða tóku við langvarandi kuldaskeið ?  Áróður loftslagskirkjunnar er ótrúverðugur og beinlínis einfeldningslegur.  Að baki býr löngun til heilaþvottar lýðsins og eyðileggingar á velmegunarþjóðfélögum auðhyggju og lýðræðis. 

"Spámenn hafa fylgt okkur frá örófi alda.  Sumir hafa klætt spádóma sína með trúarbrögðum, en aðrir byggja á vísindum eða a.m.k. með tilvísun til þeirra. Félagar í Rómarhópnum voru hvorki þeir fyrstu né þeir síðustu, sem sjá fyrir sér endalokin, ef mannkynið breytir ekki hegðun sinni. 

Vísindamenn hafa lengi reynt að átta sig á því, hvaða áhrif maðurinn og hegðun hans hefur á umhverfið og þá ekki sízt [á] loftslagið.  Þar hafa þeir sveiflazt fram og til baka og komizt að mismunandi niðurstöðum á ólíkum tímum."

Spádómar langt inn í framtíðina hafa alltaf verið af trúarlegum toga.  Raunverulegir vísindamenn gera ekki lítið úr sér með langtímaspádómum, nema þá almenns eðlis, eins og að sól okkar muni á endanum kulna og verða að svartholi.  Óvissan og áhrifaþættirnir eru yfirleitt of margir, til að nokkurt vit sé í að tímasetja atburði langt inni í framtíðinni.  Aftur á móti hafa loddarar hiklaust spilað á veikleika manna gagnvart slíku, og s.k. trúarhöfðingjar hafa ósjaldan stofnað í kringum sig trúarsöfnuð með hjálp ógnvænlegra spádóma. Þessi saga endurtekur sig núna að breyttu breytanda með loftslagskirkjunni.  Vísindalegum grundvelli er ekki fyrir að fara, þótt halelúja-hópurinn sé stór. 

 "Dagblaðið Boston Globe sló því upp í fyrirsögn árið 1970, að vísindamaður spáði nýrri ísöld fyrir 21. öldina. Ári síðar var svipuð fyrirsögn í Washington Post.  Brezka dagblaðið Guardian greindi frá því árið 1974, að gervitunglamyndir sýndu nýja ísöld skammt undan.  Sama ár flutti Reuters-fréttastofan svipaða frétt.  Það voru engin hlýindi í kortunum, heldur þvert á móti kólnun - ísöld var sögð framundan.  En svo breyttist allt."

 Þegar hér var komið sögu, hafði iðnvæðingin með jarðefnaeldsneytisbrennslu sinni staðið í 2 aldir og hitastigsmælingar víða um jörðina verið skráðar í eina öld. Hvers vegna var einvörðungu kenningum um kólnun andrúmsloftsins haldið á lofti ? Það er út af því, að mælingar á koltvíildisstyrk andrúmslofts voru tiltölulega nýlegar, og menn höfðu enn ekki áttað sig á, að hann fór vaxandi.  Lögmálið um ísog og endurkast CO2 á hitageislum hafði hins vegar verið þekkt í marga áratugi, og þegar tilhneigingin til hækkunar CO2 í  andrúmsloftinu var uppgötvuð, þá tengdu menn strax hitastigshækkunina við hana.  Þar sem fyrri hlýskeið jarðar sýndu engin merki um CO2-hækkun, er alveg áreiðanlegt, að önnur öfl eru hér einnig að verki. 

"Hækkandi sjávarstaða vegna hlýnunar mun útrýma þjóðum fyrir árið 2000 sagði í frétt AP árið 1989.  Fréttastofan greindi frá því, að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) spáðu hörmungum, ef hlýnun jarðar yrði ekki stöðvuð. Vitnað var til "háttsetts umhverfisfulltrúa SÞ", sem hélt því fram, að heilu þjóðirnar gætu þurrkazt út vegna hækkandi sjávarstöðu, ef hnattrænni hlýnun yrði ekki snúið við fyrir árið 2000.  Fréttin tónaði ágætlega við frásögn í New York times 42 árum áður, þar sem haft var eftir vísindamanni, að hlýnandi norðurskautsloftslag leiddi til bráðnunar jökla og hækkandi sjávarstöðu.

Árið 2007 spáði Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) því, að Himalajajöklar myndu hverfa árið 2035.  Þetta var síðar dregið til baka með þeirri útskýringu, að spáin hefði ekki verið [reist] á ritrýndum gögnum, heldur fjölmiðlaviðtali við vísindamann árið 1999 !"

Hvað veldur allri þessari yfirlýsingagleði s.k. vísindamanna í fjölmiðlum um ískyggilegar afleiðingar af ýktri hlýnun andrúmslofts jarðar ?  Til þess liggja 2 meginástæður.  Óvandaðir pappírar í vísindaheiminum (þeir eru alls staðar) reyna með óvönduðum meðulum að vekja athygli og slá um sig með "vísindaniðurstöðum", sem standast ekki vandaða skoðun, til að herja út fé til starfsemi sinnar úr opinberum sjóðum og einkasjóðum. 

Blaðamenn gleypa við nýjum staðhæfingum úr vísindaheiminum um þróun mála, sem rýra munu lífskjör margra jarðarbúa, jafnvel allra, er lengra sækir, og draga úr fjölbreytni lífríkis. Það er líka stunduð þöggun, þannig að gagnrýnisröddum úr hópi vísindamanna er ekki hleypt að gjallarhornunum. Þetta fyrirbrigði þekkjum við vel úr Kófinu.  Það er lýðræðisfjandsamlegt í eðli sínu. 

"Al Gore [sá sem fann upp alnetið að eigin sögn - innsk. BJo], fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hélt því fram árið 2008, að allur ís á norðurpólnum hyrfi á komandi 5 árum.  Tveimur árum síðar brýndi varaforsetinn fyrrverandi leiðtoga heims til að grípa til "róttækra ráðstafana" til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Annars stefndi í neyðarástand og innan 10 ára yrði ekki til baka snúið.  Árið 2016 kom og fór.  Árið 2019 skrifaði Al Gore blaðagrein undir fyrirsögninni "Það er ekki of seint"."

Áhrifavaldar (lobbýistar) úr vísindaheiminum hafa komið auga á þennan auðtrúa fyrrverandi varaforseta og yfirlýsingagleði þessa þekkta manns.  Þeir hafa talið honum trú um það, sem hann síðar gaspraði um, ómeðvitaður um, að hann væri orðinn gjörsamlega marklaus vegna endurtekinna staðlausra stafa sinna.  Þessi aðferðarfræði loftslagskirkjunnar með öllum sínum hindurvitnum og hótunum um helvíti, ef ekki yrði farið að vilja hennar, eru bara gamalkunnug stef úr mannkynssögunni og eiga ekkert skylt við raunvísindi, þótt stöðugt sé reynt að sveipa skykkju raunvísindanna utan um sjúklegan fullyrðingaflauminn.  

 


Landsnet gerir í nytina sína

Það er ekki hlutverk stjórnenda eða stjórnar Landsnets að tjá opinberlega skoðanir í nafni fyrirtækisins á ólíkum virkjanakostum.  Af frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 25. marz 2023 verður þó ráðið, að sú hafi orðið raunin, og sé Landsnet að hvetja til uppsetningar vindknúinna rafala til að bjarga orkuskiptunum. Þetta er mjög óeðlileg hegðun af þessu ríkisfyrirtæki, sem ætlazt er til að gæti hlutleysis og hlutlægni gagnvart fyrirtækjum og orkukostum, sem þau hafa hug á að tengja inn á stofnkerfið.  

Þetta á sérstaklega við í tilviki vindorkunnar vegna þess, hversu umdeild hún er í landinu vegna eðlis síns og landverndarsjónarmiða margra landsmanna. Til að koma í veg fyrir, að vindhvirflar hafi innbyrðis neikvæð áhrif á rekstur vindknúinna rafala, má bilið á milli burðarsúlnanna vart verða minna en d=8xh (h=hæð vurðarsúlu).  Þá fæst fyrir 6,0 MW aflgetu per súlu 2,3 MW/km2.  Til að fá sömu aflgetu frá vindrafalaþyrpingu og frá Hvammsvirkjun, 95 MW, þarf þá að umturna 41 km2 lands, og þar með er ekki öll sagan sögð.  Vegna slitrótts rekstrar vindknúinna rafala, þarf 2,5 sinnum fleiri vindrafala til að framleiða sömu orku og Hvammsvirkjun, 720 GWh/ár.  Það þýðir um 100 km2 lands.  Landþörf Hvammsvirkjunar með vegagerð og stíflu (inntakslón verður í árfarveginum) er á að gizka 5 % af þessu. 

 

Hér hefur ekki verið reiknað með sérlega löngum bilunartíma þessa vindknúna búnaðar, en fréttir frá Færeyjum greina frá mikilli bilanatíðni og löngum viðgerðartíma.  Í Færeyjum er miklu meiri reynsla af rekstri vindrafala en hér, þar sem stöðugt er vísað til tveggja í eigu Landsvirkjunar ofan Búrfellsvirkjunar og tveggja í einkaeigu í Þykkvabænum.  Ekki kæmi á óvart, að bilanatíðni og viðgerðatími yrði sízt lægri hér en í Færeyjum, og það dregur enn úr áreiðanleika afar óáreiðanlegrar raforkuvinnslu. 

Frétt Morgunblaðsins af Landsneti og vindrafölum bar fyrirsögnina:

"Vindorka notuð í rafeldsneyti".

Hún hófst þannig:

"Forstjóri Landsnets segir, að m.v. stöðuna í dag ráði kerfi fyrirtækisins tæknilega við að tengja vindorkugarða með 2500 MW uppsettu afli, sem er jafnmikil orka [sic! þetta er afl, en ekki orka - innsk. BJo] og nú er flutt um kerfið.  [Það getur ekki staðizt, að hægt sé að taka á móti 2500 MW í aðveitustöðvum Landsnets án þess að fjárfesta verulega.  Að 132 kV línurnar geti tekið við þessu viðbótar afli, er ótrúverðugt, því að þær eru nú þegar fulllestaðar.  Hvað gengur forstjóranum til að búa til ævintýri um "vindorkugarða", sem falli svo ljómandi vel að kerfi Landsnets ? - innsk. BJo.] 

Vindorka er ekki stöðug, og vatnsaflsvirkjanir geta ekki brúað nema lítinn hluta bilsins.  Stærsta áskorunin sé því að finna kaupendur, sem geti notað breytilega orku.  Horfir hann til þess, að það sé hægt með framleiðslu á rafeldsneyti, sem verði stór hluti af orkuskiptum í framtíðinni. 

Kom þetta fram í ávarpi Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, á vorfundi fyrirtækisins, sem fram fór í gærmorgun [24.03.2023] undir yfirskriftinni "Fjúka orkuskiptin á haf út ?".  Svarið við þeirri spurningu virtist vera neitandi m.v. erindi Landsnetsfólks á fundinum."

Raforka frá vindknúnum rafölum er lítils virði vegna óstöðugleika síns, og þess vegna er ekki boðið upp á hana erlendis eina og sér, heldur með stöðugleikatryggingu frá annars konar raforkuverum, oftast gasknúnum.  Slík verða aldrei reist hérlendis.  Vatnsaflsver hafa reglunargetuna í þetta fylgdarhlutverk, en jarðgufuver ekki.  Núverandi vatnsaflsver standa undir grunnálagi með jarðgufuvirkjunum og taka toppana, og þá er ekkert afgangs.  

Vetnið er grunnefnið í rafeldsneyti, og búnaðurinn til að rafgreina vatn og mynda vetni og súrefni er dýr.  Þegar þannig er í pottinn búið, skiptir full nýting búnaðarins allan sólarhringinn höfuðmáli fyrir samkeppnishæfni og arðsemi framleiðslunnar.  Ef Guðmundur Ingi finnur einhvern fjárfesti, sem vill framleiða vetni með rafmagni frá vindrafölum á Íslandi, sem kostar um 50 USD/MWh að viðbættum flutningskostnaði Landsnets, sem er hærri en t.d. í Noregi, þá skal höfundur þessa vefpistils éta hattinn sinn.  Guðmundur Ingi hefur sennilega kastað þessu fram að óathuguðu máli til að búa til "líklega" viðskiptavini vindrafalaþyrpinganna.  Er Guðmundur ekki kominn langt út fyrir verksvið Landsnets með slíkum vangaveltum (fabúleringum) ? 

"Hann [GIÁ] rifjaði upp mismunandi sviðsmyndir úr grænbók umhverfisráðuneytisins um það, hvað þurfi til að koma, til að orkuskiptin geti náð fram að ganga.  Samkvæmt sumum þeirra þarf að tvöfalda raforkuframleiðsluna frá því, sem nú er. Guðmundur tók fram, að enn vantaði nánari upplýsingar, en sjálfur myndi hann áætla, að miða þurfi við þær sviðsmyndir, sem lengst ganga; að tvöfalda þurfi framleiðsluna.  Núverandi virkjanakostir í vatnsafli og jarðvarma dugi engan veginn dugi engan veginn til, og þess vegna þurfi að horfa til nýrra kosta, eins og vindorkunnar."

Ef orkuþörf millilandaflugsins er sleppt að sinni, verður hægt að útvega næga raforku fyrir orkuskipti og aukningu almenns álags fram til 2050 með samþykktum virkjunum í Rammaáætlun 3, og þar eru aðeins 20-30 vindrafalar í Blöndulundi. Þessi orkuþörf nemur um 7,0 TWh/ár og 1500 MW.  Aflþörfina má hæglega lækka um 100 MW með innleiðingu snjallmæla og lægri taxta á lágálagstíma. Þannig er óeðlilegt hjá forstjóra Landsnets að tilfæra nauðsyn orkuskipta sem rök fyrir vindrafalaþyrpingum á Íslandi. Hvað gengur honum til með því ?

Það er hægt að fara í reikningsæfingar um virkjanaþörf til að anna orkuþörf millilandaflugsins, en slíkt er ótímabært.  Hún verður t.d. engin, ef ofan á verður að setja þóríumver í hverja flugvél ásamt rafhreyflum eða ef hagkvæmara mun þykja að setja upp þóríum-orkuver á verksmiðjusvæði rafeldsneytis.  Þá má ekki gleyma, að með rammaaáætlunum, sem koma á eftir #3, munu birtast ný tækifæri í jarðgufu- og vatnsaflsvirkjunum. 

"Þá vöru [vindorkuna] þurfi að vera hægt að selja, þrátt fyrir að vindurinn skapi ójafna orku.  Nefndi hann, að með núverandi virkjunum sé hægt að jafna á móti [með] vatnsafli um 250 MW.  Það dugi ekki, og því þurfi að leita nýrra lausna til að finna út úr því, hvernig megi nýta þennan orkukost."

  Raforkukerfi landsins er nú þegar yfirlestað á háálagstímum, svo að grípa þarf til að draga úr álagi vissra notenda. Þess vegna kemur spánskt fyrir sjónir, að forstjóri Landsnets segist geta fundið 250 MW aflgetu í virkjunum, sem verði á lausu til að grípa til á álagstíma, þegar raforkuvinnsla vindknúinna rafala skyndilega minnkar.  Hvað gerist þá við skyndilega álagsaukningu um 30 MW eða bilun í um 45 MW spenni eða rafala og minnkun framleiðslugetu kerfisins að sama skapi ?  Þessi málflutningur af hálfu Landsnets er marklaus.

"Greining sérfræðinga Landsnets hafa sýnt, að tæknilega sé flutningskerfið það sterkt, að tengja megi megi vindorkugarða með 2500 MW uppsett afl, sem er það afl, sem kerfi Landsnets nú flytur.  Tók Guðmundur Ingi fram, að ekki væri hægt að flytja alla orkuna, en hægt yrði að tengja vindorkugarðana við kerfið." 

Er ekki Landsnet að skjóta sig í fótinn með svona gorgeir ? Ein af röksemdum Landsnets fyrir nýrri Byggðalínu á 220 kV er, að gamla 132 kV línan sé fullnýtt, og sú staðreynd hamli tengingum nýrra viðskiptavina við kerfið. Nú á allt í einu að vera hægt að tvöfalda aflið inn á línuna.  Hvað með stöðugleikann ?  Er Münchausen kominn í vinnu hjá Landsneti ? 

"Til að nýta orkuna þurfi að líta til margra möguleika; ekki aðeins vatnsaflsvirkjana til jöfnunar.  Að hans mati er mögulegt að finna kaupendur, sem geta notað breytilega orku og spilað þannig á móti.  Telur hann Ísland heppið vegna þess, að í orkuskiptunum sé gert ráð fyrir, að þörf verði á rafeldsneyti og að sú framleiðsla geti tekið á sig ákveðinn breytileika.  Þess vegna þurfi að leggja áherzlu á þann þátt.  Til þess að sá breytileiki nýtist, þurfi að tengja allt landið saman og nota viðskiptalíkan Landsnets og hafa vindorkugarðana ekki alla í sama landshluta."  

Hér skirrist forstjóri Landsnets ekki við að fara út fyrir hlutverk Landsnets í draumkenndri þrá sinni eftir rafmagni frá vindknúnum rafölum á Íslandi. Til er álag, t.d. við vetnisframleiðslu, sem gæti tæknilega lagað sig að framleiðslugetu raforkukerfisins, en eru nokkrar líkur á, að samningar takist um nógu lágt rafmagnsverð, til að fjárfestar fallist á svo óheppilega skilmála ?  Að semja um slíkt er ekki í verkahring Landsnets, og það er ótrúlegt að sjá forstjóra Landsnets tjá sig með svo vilhöllum hætti í garð vindrafala.   

   

  


Hraði snigilsins við línulagnir er óviðunandi

Landsnet hefur það eftir verkfræðistofunni Eflu, að hægt hefði verið að komast hjá öllum raforkuskerðingum 2021-2022, ef ný 220 kV lína hefði þá verið tilbúin frá Fljótsdalsvirkjun til Hvalfjarðar. Í ljósi þess, að veturinn 2022-2023 hefur ekki verið beinn vatnsskortur í miðlunarlónum virkjana, eins og veturinn áður, en samt hefur þurft að skerða afl til notenda með skerðingarheimildir í rafmagnssamningum sínum, er þetta ekki sérlega trúverðug fullyrðing. Ástæðan er, að virkjanir önnuðu ekki hámarksálagi á loðnuvertíðinni, og var samt orkusalan úr landi til Vestmannaeyja mun minni en elilegt er vegna bilunar í nýjum sæstreng þangað.  Það er til skammar fyrir Landsnet, að rafmagnstenging Vestmannaeyja við land skuli ekki fullnægja (n-1) reglunni.

Þann 24. marz 2023 gerði Helgi Bjarnason grein fyrir skýrslu, sem Efla gerði nýlega fyrir Landsnet um ofangreindar orkuskerðingar, og þar eru ýmis óvænt tíðindi, sem ekki er víst, að öll standist rýni.  Frétt Helga í Morgunblaðinu bar fyrirsögnina:

 "Skerðingar kostuðu 5,3 milljarða".

Hún hófst þannig:

"Hægt hefði verið að koma í veg fyrir allar skerðingar á afhendingu raforku til stóriðju, rafkyntra hitaveitna, fiskimjölsverksmiðja og annarrar starfsemi á síðasta ári [2022], ef búið hefði verið að uppfæra Byggðalínuhringinn, eins og áformað er að gera.  Samfélagið varð fyrir mrdISK 5,3 kostnaði vegna skerðinganna á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu varð umtalsverð."

Að fylgjast með framvindu framkvæmda við 220 kV Byggðalínuna hefur verið svipað og að horfa á skít síga fyrir barð.  Framvindan er allt of hæg m.v. þróun rafmagnsálagsins í landinu.  Afleiðingin er gríðarlegt samfélagslegt tjón, sem skrifa verður á óskilvirkt regluverk, sem veitt hefur þvermóðskufullum afturhaldsöflum kost á að valda endalausum töfum.  Stærsta tapið við þetta er fólgið í glötuðum tækifærum óseldrar orku, sem nota hefði mátt til að framleiða verðmæti.  Mismunur orkutapa í 132 kV Byggðalínu og 220 kV Byggðalínu nemur meiri orku á hverju ári en Eflu reiknaðist til, að orkuskerðingar 2022 af völdum of lítillar flutningsgetu hefðu numið, og þjóðhagslegt tap af þessum völdum má áætla 10 mrdISK/ár.  Andstaðan við sjálfsagða uppbyggingu orkuinnviða í landinu er allt of dýr til að leyfa megi fráleitri hugmyndafræði að ráða ferðinni að miklu leyti, enda er hér um minnihlutahóp að ræða. 

"Niðurstaða greininga Eflu sýnir, að óuppfyllt orkuþörf fiskimjölsverksmiðja landsins og rafkyntra hitaveitna og stóriðjuvera á Suð-Vesturlandi nam samtals 270 GWh.  Hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessar skerðingar að öllu leyti, ef búið hafði verið að uppfæra Byggðalínuna, eins og gert er ráð fyrir í áætlunum um uppbyggingu flutningskerfisins." 

Hér er ekki allt á tandurhreinu.  Í fyrsta lagi virkar þessi vöntunarorka, 270 GWh, fremur lítil, og víst er um það, að þetta er bara brot af glötuðum sölutækifærum vegna allt of lítils framboðs raforku á Íslandi.  220 kV lína hefði vissulega annað þessum flutningum, en draga má í efa, að Fljótsdalsvirkjun hefði getað staðið undir þeirri framleiðslu, bæði afllega og orkulega, eins og allt var í pottinn búið 2022. Þá eru flöskuhálsar víðar í flutningskerfinu að þéttbýlisstöðum á Austfjörðum, sem takmarka álagið á þessum stöðum, þegar tarnir eru, eins og loðnuvertíð.

"Að sögn Gnýs [Guðmundssonar, rafmagnsverkfræðings og forstöðumanns kerfisþróunar Landsnets] var lagt mat á þann þjóðhagslega kostnað, sem af skerðingunum hlauzt.  Olíukaup fjarvarmaveitna og fiskiðjuvera námu samtals mrdISK 1,16, og skuggavirði losunar vegna brennslu olíunnar [m.v. kostnað koltvíildiskvóta - innsk. BJo] reiknast mrdISK 0,12 til viðbótar.

Loðnuvertíðin var mikilvæg vegna þess, hversu mikill kvóti var gefinn út eftir nokkur mögur ár.  Kostnaður vegna tapaðrar framleiðslu álvera á Suð-Vesturlandi nam mrdISK 2,8, en álverð var mjög hátt á þessum tíma.  Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga þurfti að skerða sína framleiðslu, og er áætlað, að verðmæti tapaðrar framleiðslu þess nemi mrdISK 1,25 [miklar skerðingarheimildir - innsk. BJo]. Samtals nam því beinn kostnaður samfélagsins mrd ISK 5,3 á þessu eina ári, auk þess sem losun koltvísýrings vegna olíubrennslu var umtalsverð."

Þegar beinn kostnaður fornfálegs flutningskerfis og tapaðra tækifæra er lagður saman, er ljóst, að raforkuskorturinn af völdum of fárra virkjana og ófullnægjandi flutningskerfis er farinn að hamla hagvexti.  Það er einmitt eftir nótum afturhaldsins, en eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur margoft fullyrt (út í loftið), er hagvöxturinn á Íslandi í senn ósjálfbær og allt of mikill. Landvernd berst fyrir aukinni fátækt á Íslandi og meiri fjárskorti á öllum sviðum samfélagsins en Íslendingar hafa kynnzt í hálfa öld, enda vill hún loka 54 ára gömlu álveri í Straumsvík, sem hefur sjaldan verið sprækara en nú, enda er þar gefinn gaumur að stöðugum fjárfestingum og viðhaldi.  Allt, sem Landvernd hefur afrekað, er að valda aukinni koltvíildislosun, og hið sama yrði einmitt uppi á teninginum á heimsvísu, ef einhverju málmframleiðslufyrirtækinu hérlendis yrði lokað. 

"Gnýr vekur athygli á þeirri niðurstöðu skýrslunnar, að kostnaður við byggingu nýrra flutningslína á milli Fljótsdals og Akureyrar hafi númið samtals um mrdISK 17. 

Til að ljúka við að tengja landshlutana saman, þurfi að [reisa] 3 línur frá Akureyri til Hvalfjarðar af svipuðu umfangi.  Sú framkvæmd eigi eftir að auka skilvirkni og nýtingu orkukerfisins næstu 50-70 árin til hagsbóta fyrir þjóðina alla." 

Þetta er rétt hjá Gný.  Ef tekinn er saman beinn fjárhagslegur ávinningur af minni orkutöpum og meiri flutningsgetu 220 kV Byggðalínu en 132 kV, er hann vægt áætlaður 20 mrdISK/ár.  Kostnaður við 220 kV línu á milli Klafa og aðveitustöðvar Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal, gæti numið mrdISK 40.  Af þessu má ráða, hversu arðsöm þessi framkvæmd er.  Þess vegna er þyngra en tárum taki, að útúrborulegum afturhaldsöflum, sem í raun er sértrúarsöfnuður um afturhvarf til fortíðar, skuli enn takast að þvælast fyrir þessum sjálfsögðu framkvæmdum.  Landsnet verður þó að gæta að sér að troða ekki bændum landsins um tær með því að vaða með þessa stóru línu yfir tún þeirra, eins og mörg dæmi voru um 132 kV línuna.  Nú eru breyttir tímar, en gamli tíminn á ekkert erindi aftur. 


Af úthafseldi

Fyrir nokkrum árum var frá því sagt hér á þessu vefsetri, að norskt sjóeldisfyrirtæki hefði látið smíða úthafskvíasamstæðu fyrir laxeldi í kínverskri skipasmíðastöð og að verið væri að draga samstæðuna sjóleiðina til Noregs. Ekki hefur frétzt af afdrifum þessarar úthafskvíar í rekstri.  Fjárfestingarnar eru meiri í þessum búnaði en í innfjarðakvíum, og rekstrarkostnaðurinn er líka hærri á hvert framleitt tonn af laxi.  Það má hins vegar vænta minni sjúkdóma og lúsar þarna úti, og ekki þarf að hvíla svæðin vegna botnfalls úrgangs frá kvíunum.

Hvatinn að þessari þróun er hreinlega plássleysi í fjörðunum, þar sem þessi starfsemi á annað borð er leyfð. Að nokkru leyti er svipað uppi á teninginum með landeldið, en samkeppnisstaða þess verður óvenjusterk á Íslandi vegna mikils landrýmis, hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, ef hún á annað borð er fáanleg (er sögð uppseld núna), heits og fersks vatns og aðgengis að sjó. 

Þann 22. marz 2023 gerði Helgi Bjarnason grein fyrir þessum málum með viðtali við Kjartan Ólafsson, athafnamann og stjórnarformann Arnarlax, undir fyrirsögninni:

"Undirbúa eldi undan suðurströnd".

 "Fyrirtæki Kjartans, Markó Partners, hefur fjárfest í Aqualoop, sem er að undirbúa framleiðslu á úthafskvíum og tekið þar sæti í stjórn.  Norska fyrirtækið gengur jafnframt til liðs við fyrirtæki, sem Markó Partners hafa stofnað, Iceland Offshore Salmon, sem er fyrsta íslenzka fyrirtækið, sem stofnað er í þeim tilgangi að hefja framleiðslu á laxi í hafinu suður af suðurströnd landsins."

Sennilega eru Norðmenn lengst komnir í þróun úthafskvía og rekstri þeirra á heimsvísu.  Þeir búa að þekkingu á hönnun olíuborpalla fyrir borun og vinnslu á tiltölulega miklu dýpi og í veðrahami og eru manna bezt í stakk búnir til að þróa úthafskvíar.  Hvort tímabært er að leggja fé í sambærilega þróun fyrir íslenzkar aðstæður skal ósagt láta í ljósi gríðarlegra áforma um landeldi hérlendis. 

"Aqualoop hefur verið að þróa lausnir fyrir úthafseldi í 5 eða 6 ár í tengslum við Háskólann í Þrándheimi [NTNU] og olíuiðnaðinn.  Næsta stig er að kanna virkni búnaðarins í tilraunatönkum og semja við skipasmíðastöð um framleiðslu hans.  Búnaðurinn grundvallast á tækni, sem notuð er við olíuvinnslu við strendur Noregs og víðar. Kvíarnar eru festar utan á botnfasta súlu, og hægt er að sökkva þeim, þegar aldan er að verða of mikil fyrir laxinn.  Kjartani lízt afar vel á þessa tækni; segir, að lykillinn að því að framleiða fisk í úthafinu sé, að hægt sé að takast á við úthafsölduna.  Nefnir hann í þessu sambandi, að tæknin hafi fengið vottun Norsk Veritas."

    Það er spurning í hverju þessi vottun er fólgin, því að varla er vitað með vissu, hvaða ógnarkraftar eru þarna á ferð, og aðstæður kunna að vera aðrar og erfiðari úti fyrir Suðurströnd Íslands en Vesturströnd Noregs. 

"Ein súla með 8 grindum getur framleitt um 20 kt/ár af laxi; sama magn og 2 firðir með 3 kvíabólum hvor, og svipað magn og Arnarlax áætlar að framleiða á næsta ári. Kjartan segir, að kolefnisfótspor slíkrar framleiðslu verði lítið og bendir jafnframt á möguleikann á því að sigla með afurðirnar á Bandaríkjamarkað, sem minnkar kolefnisfótsporið enn frekar. 

Nokkur önnur norsk fyrirtæki hafa hannað tæknibúnað fyrir úthafseldi, sem kominn er mislangt í þróun.  Norðmenn veittu rannsóknarleyfi á árunum 2015-2017 og stefna að því að koma upp útboðskerfi á þessu ári og veita leyfi samkvæmt því." 

Menn slá gjarnan um sig með kolefnissporinu, en hvers vegna ætti það að verða minna við smíði og rekstur úthafskvía en hefðbundinna sjókvía, þegar þjónustuvegalengdir eru miklu meiri.  Þetta er kannski unnið upp með því að sleppa siglingunni með afurðirnar í land, en kolefnissporið flyzt bara til og "vinningen går opp i spinningen", eins og Norðmenn segja stundum, þegar virðist gleymast að taka tillit til allra þátta.  Þá þýðir þetta minni verðmætaaukningu innanlands, sem er þjóðhagslega neikvætt.  Laxeldið þarf að hámarka virðisauka vörunnar á Íslandi og skapa trygga atvinnu, eins og núna á sér stað á Vestfjörðum með því að reisa afkastamikil laxasláturhús á norður- og suðurfjörðum og tilreiðslu fyrir neytendur.

 

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband