Færsluflokkur: Bloggar
12.4.2023 | 09:39
Þróun fjárfestinga í fiskeldi
Nöldrarar, sem allt hafa á hornum sér, en leggja lítið vitrænt til mála, hafa gagnrýnt norskt eignarhald á fyrirtækjum, sem stunda laxeldi í sjó hér við land. Staða þeirra mála er þó að því leyti sambærileg við orkukræfa málmframleiðslu landsins, að lífvænlegur stóratvinnurekstur á þessu sviði hefði aldrei orðið barn í brók án fjárfestinga erlendra þekkingarfyrirtækja á þessum sviðum atvinnurekstrar. Í tilviki laxeldisins urðu Norðmenn fyrir valinu í krafti umsvifa sinna við Norður-Atlantshafið, og af því að þeir voru þá þegar í útrás. (Minnir dálítið á landnám Íslands.)
Laxeldið er fjármagnsfrekt, og til að fjárfestingar nýtist, þarf framleiðsluþekkingu, sem reist er á vísindalegum rannsóknum og reynslu af rekstri eldiskera við fjölbreytilegar aðstæður. Það þarf líka markaðsþekkingu, bæði fyrir aðföng og afurðir. Þessa grunnþætti til árangurs skorti hérlendis, þegar Norðmenn hófu uppbyggingu sína hér, og síðast en ekki sízt skorti hér fjármagn, því að lánstraust innlendra aðila, sem fengizt höfðu við starfsemina, var ekki fyrir hendi hjá innlendum lánastofnunum.
Gagnrýni á erlent eignarhald er þess vegna gagnrýni á uppbyggingu þessarar efnilegu starfsemi í heild sinni. Af henni hefði alls ekki orðið án erlends eignarhalds. Úrtöluraddirnar eru eins og venjulega á vinstri kanti stjórnmálanna, en þar liggja málpípur Evrópusambands aðildar Íslands á fleti fyrir, sbr umsókn ríkisstjórnar Samfylkingar og VG 2009. Þarna er á ferðinni einhvers konar pólitískur geðklofi, þegar kemur að erlendum fjárfestingum.
Í Morgunblaðinu 18. marz 2023 birtist afar greinargóð baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar um þetta efni undir fyrirsögninni:
"Hlutur íslenzkra fjárfesta eykst".
Fréttin hófst þannig:
"Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að koma sterkt inn í laxeldi. Með því eykst hlutur Íslendinga í vissum félögum verulega. Með kaupum Ísfélags Vestmannaeyja á hlut í eignarhaldsfélagi um meirihlutaeign í Ice Fish Farm á Austfjörðum á félagið 16,44 % hlut í félaginu og íslenzkt eignarhald [þá] komið upp í um 42 %. Síldarvinnslan á rúmlega þriðjung í Arctic Fish á Vestfjörðum. Þá eiga íslenzk útgerðarfélög eða hafa átt að fullu vaxandi fiskeldisfyrirtæki eins og Háafell í Ísafjarðardjúpi og Samherja fiskeldi. Íslenzkir lífeyrissjóðir, sérstaklega Gildi, hafa verið að fjárfesta í fiskeldi.
Rökrétt virðist, að sjávarútvegsfyrirtæki, sem búa við kvótaþak og ýmsar takmarkanir, og í ljósi þess, að ekki eru líkur á auknum veiðum, hugi að fjárfestingum í fiskeldi. Nokkur ár eru síðan framleiðsla eldisfisks í heiminum varð meiri en veiðar skila á land og ljóst, að heimurinn hefur þörf fyrir aukna matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum.
Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-inn, fræðsluseturs í fiskeldi, telur það jákvætt fyrir íslenzkt fiskeldi að fá sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri íslenzka fjárfesta í hluthafahópinn. Það sé gott fyrir ímynd atvinnugreinarinnar, sem gagnrýnd hefur verið fyrir erlent eignarhald. Það hafi ekki síður þýðingu, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi þekkingu á og reynslu af fullvinnslu og sölu sjávarafurða, sem geti nýtzt fiskeldinu."
Ímynd fyrirtækja vegna eignarhalds verður varla í askana látin. Meira virði eru samlegðaráhrifin, sem af þessum innlendu fjárfestingum hljótast. Það er ekki hægt að hugsa sér eðlilegri íslenzka fjárfesta í laxeldinu, hvort sem er í sjó við Ísland eða á landi, en íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Það er t.d. vegna tækniþróunar þeirra á sviði fullnýtingar hráefnisins, tilreiðslu og pökkun og markaðssetningar. Það er líklegt, að einhverjir viðskiptavina þeirra vilji líka kaupa íslenzkan eldislax. Að geta boðið hann styrkir markaðsstöðu íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Þessi samlegðaráhrif munu styrkja íslenzkan þjóðarbúskap, því að framleiðnin getur vaxið og afurðaverð jafnvel hækkað fyrir vikið.
"Aðild stórs framleiðanda fiskimjöls og lýsis að fiskeldisfyrirtæki, sem notar mikið fóður, er einnig rökrétt skref í þróun sjávarútvegsfyrirtækjanna. Megnið af fóðrinu, sem notað er í sjóeldi hér á landi, er framleitt í Noregi, m.a. úr hráefni frá íslenzkum framleiðendum. Það hlýtur að vera skynsamlegra út frá umhverfissjónarmiðum og hagkvæmara að framleiða fóðrið hér á landi. Síldarvinnslan á meirihlutann í stærstu fóðurverksmiðju landsins, Laxá á Akureyri, og tilkynnti á síðasta ári, að fyrirtækið og fóðurframleiðandinn BioMar Group hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja fóðurverksmiðju hér á landi."
Fjárfestingar íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í fiskeldisfyrirtækjum hérlendis opna möguleika á innlendri samþættingu allrar framleiðslukeðju fiskeldisins. Það er verðugt stefnumið að samþætta framleiðslukeðju laxeldisins innlendum iðnaði, og það ætti vissulega að verða þekkingargrundvöllur í landinu til þess, því að aðgangur að framleiðslutækni og framleiðsluleyfum batnar til muna við tengt eignarhald. Samkeppnisgrundvöllurinn ætti og að vera fyrir hendi vegna mun minni flutningsþarfar innlendrar framleiðslu.
Aðeins rafkynt framleiðsla þessa mjöls kemur til greina, og þar rekst iðnaðurinn enn og aftur á þá nöturlegu staðreynd í landi náttúrulegrar og endurnýjanlegrar orkugnóttar, að raforku vantar fyrir nýja notendur. Engu er líkara en hin forpokaða og glórulausa skoðun Landverndar, að nóg sé komið af virkjunum og flutningslínum, af því að raforkunotkun á mann sé hér meiri en annars staðar, tröllríði húsum leyfisveitingavaldsins á Íslandi, svo að hér ríkir nú raunverulega "virkjanastopp". Þetta er ömurlegt sjálfskaparvíti, þar sem hvorki Landsvirkjun né orkuráðherrann hafa uppi sjáanlega tilburði til lausnar. Sérvizka og beturvitablæti Landverndar o.fl. kostar samfélagið nú þegar tugi mrdISK/ár í beinum útgjöldum og glötuðum atvinnutækifærum. Þetta er óviðunandi með öllu og ábyrgðarleysi af Alþingi og stjórnvöldum að láta þetta viðgangast.
Þessari fróðlegu baksviðsgrein lauk þannig:
"Fyrirtækin, sem eru að byggja upp landeldisstöðvöðvar, eru í fjármögnunarferli og þess vegna óvíst um endanlegt eignarhald. Samherji fiskeldi hefur verið hreint dótturfélag Samherja. Það var gert að sjálfstæðu félagi vegna fjárfrekrar uppbyggingar á Reykjanesi og víðar. Í tengslum við mrdISK 3,5 hlutafjáraukningu var tilkynnt um, að Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi, hefði tekið þátt í hlutafjáraukningunni og verið kosinn í stjórn.
Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti einstaki hluthafinn í Landeldi með um þriðjungs eignarhlut, en Landeldi er að byggja stóra stöð í Þorlákshöfn. Stofnendur félagsins og starfsmenn eru enn með meirihluta hlutafjár á sínu valdi. Virðast stjórnendur horfa meira til íslenzkra fjárfesta en erlendra. Íslenzk og sænsk félög, sem tengjast Aðalsteini Gunnari Jóhannssyni, athafnamanni, eru eigendur að Geo Salmo, sem er að undirbúa landeldisstöð í Þorlákshöfn. Félagið lítur til norskra fjárfesta og íslenzkra í þeirri vinnu við fjármögnun, sem nú stendur yfir, að því er fram hefur komið í Morgunblaðinu.
Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS), sem er að byggja landeldisstöð í Vestmannaeyjum, er í eigu fjölskyldu úr sjávarútvegi í Eyjum, sem ætlar að taka fyrstu skrefin í verkefninu, hvað svo sem síðar verður."
Það er ótrúlega mikill áhugi á meðal innlendra fjárfesta á landeldi laxins. Það virðist samt vera á brattann að sækja með fé, enda vextir alls staðar óvenju háir, verkefnin fjármagnsfrek, rekstrarkostnaður hár og lítil tæknileg reynsla af þessum rekstri. Óvissa um arðsemi er þess vegna fyrir hendi. Markaðirnir munu hins vegar reynast gjöfulir. Einkar athyglisvert er, að tekin er sú áhætta að reisa landeldisstöð í Vestmannaeyjum í ljósi mikillar raforkuþarfar og þarfar á hitaveituvatni. Þessi starfsemi krefst mikils áreiðanleika í afhendingu hvors tveggja, en hörgull hefur verið á þessum gæðum í Vestmannaeyjum, sem þó stendur til bóta. Raforkuafhending til þessarar starfsemi verður að lúta (n-1) reglunni, sem þýðir, að stærsta einingin má falla úr rekstri án þess afhending verði rofin, nema örstutt.
Það verður tæplega jafnarðsamur rekstur í landeldi og í sjóeldi, en viðskiptahugmyndin er virðingarverð og áhugaverð í ljósi próteinþarfar heimsins, einkum þar sem áreiðanlegur aðgangur er að rafmagni og heitu vatni. Vindrafalaraforka kemur hér ekki til greina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2023 | 17:55
Umdeilanleg úttekt ríkisendurskoðanda
Það er öllum ljóst, að félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum er mjög andsnúið sjókvíaeldi á þeirri norskættuðu laxtegund, sem valin hefur verið til þessarar starfsemi á þeim afmörkuðu svæðum, þar sem íslenzk löggjöf leyfir hana á annað borð. Veiðiréttarhafar og fulltrúar þeirra hafa verið stórorðir, jafnvel heiftúðugir í garð atvinnugreinarinnar. Þótt þessi illska sé heimskuleg og reist sumpart á erfðafræðilegri vanþekkingu, eins og rakið var hér með vísun til Hafró í síðasta vefpistli, þá er ljóst, veiðiréttarhafar eða þeir, sem náin tengsl hafa við þá, eru vanhæfir til að starfa að úttkekt á vegum ríkisins á laxeldi í sjó við Ísland.
Nú háttar einmitt þannig til, að þetta á við um sjálfan ríkisendurskoðandann, og alveg dæmalaust, að dómgreind hans skyldi ekki hvísla í eyra hans að víkja í þessu máli. Í orðalagi skýrslu þessarar úttektar má jafnvel sjá gárur eftir æsingatitring veiðiréttarhafa. Af þessum sökum hefur trúverðugleiki skýrslunnar beðið hnekki, og taka ber hana "med en klype salt", eins og Norðmenn taka til orða, þegar lítið er að marka eitthvað.
Andrés Magnússon skrifaði baksviðsfrétt um téða skýrslu í Morgunblaðið 13. febrúar 2023. Hún hófst þannig:
"Fiskeldisskýrsla ríkisendurskoðanda vakti athygli í fyrri viku, enda hvöss gagnrýni á stjórnsýsluna og vöxt greinarinnar, en með fylgdu ýmsar ábendingar til stofnana ríkisins. Stjórnarandstaðan henti hana á lofti, og það gerðu andstæðingar sjókvíaeldis líka, veiðiréttarhafar sem náttúruverndarsamtök.
Skýrslan komst aftur í fréttir í liðinni viku, þegar upplýst var, að Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, væri sjálfur veiðiréttarhafi. Þó [að] þeir hagsmunir séu minni en svo, að þeir valdi vanhæfi, situr eftir, að ríkisendurskoðandi er veiðiréttarhafi og [að] þeir hafa talað einni röddu gegn sjókvíaeldi. [Pistilhöfundur er ósammála Andrési um, að þessir hagsmunir séu of litlir til að valda vanhæfi, þegar hitamál eru annars vegar, eins og í þessu tilviki.]
Það er því engin goðgá að spyrja, hvort það hafi í einhverju getað litað úttektina, sér í lagi þar sem niðurstöður hennar eru til þess fallnar að þrengja að sjókvíaeldi, að lausn á lélegri stjórnsýslu sé meira af hinu sama, fyrir utan það, að úttektin er ekki gallalaus."
Lokamálsgrein blaðamannsins bendir til, að hann túlki skýrsluna sem hvatningu til að fjölga í starfsliði eftirlitsstofnana. Það er einfeldningsleg ráðlegging til stjórnmálamanna og sæmir Ríkisendurskoðun illa. Hún á að kryfja mál til mergjar og benda á leiðir til að auka skilvirkni ríkisstarfsmanna, en ekki að hvetja til að ausa í eftirlitsstofnanir meira fé án þess að bæta stjórnarhætti, sem virðast ekki vera upp á marga fiska.
"Fleira má að henni [téðri skýrslu] finna, eins og gagnrýni á, að Hafrannsóknastofnun hafi breytt aðferðarfræði sinni, en ríkisendurskoðandi segist hafa orðið þess áskynja við úttektina, að reiknistuðullinn væri í reynd kominn frá hagsmunaaðilum, en bætir svo við: "Ekki tókst að staðfesta, að svo væri" ! Órökstuddar sögur eiga ekki erindi í opinberar skýrslur. [Þarna vegur vanhæfur ríkisendurskoðandi ómaklega að Hafró, þar sem menn vinna störf sín undir alþjóðlegri rýni og í samráði við virta erlenda vísindamenn á viðkomandi sviði. Hér skín vanhæfi ríkisendurskoðanda í gegn, því að hann virðist lepja upp kjaftasögu veiðiréttarhafa og "náttúruverndara", sem spinnst út frá ímyndun þeirra og/eða misskilningi á vísindalegum gögnum Hafró - innsk. BJo.]
Gerðar eru 23 ábendingar til ráðuneyta og stofnana, sem að mestu lúta að því að auka eftirlit, herða skilyrði greinarinnar og auka gjaldtöku. E.t.v. endurspeglar það aðallega hefðbundnar hugmyndir ríkisstarfsmanna um, að fjölga þurfi ríkisstarfsmönnum, því [að] þar er hvergi rakið, að hvaða leyti núverandi eftirlit sé ónógt eða núverandi skilyrði of linkuleg. [Þetta er annað dæmi, þar sem vanhæfis ríkisendurskoðanda gætir. Hann vill láta setja sjókvíaeldið í spennitreyju ríkisafskipta og skattheimtu án þess að rökstyðja, hvers vegna. Það væri alvarlegt lögbrot vegna mismununar og aðfarar að atvinnufrelsi, - innsk. BJo.]
Þrátt fyrir ábendingar um flókna og margbrotna stjórnsýslu, fjallar ríkisendurskoðandi lítt um umkvartanir um, hve öll afgreiðsla leyfa Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar er hæg. Aðeins er nefnt, að ferill umhverfismats taki tíma, sem er frekar naum lýsing á ástandinu, þegar leyfisumsóknir velkjast um í kerfinu árum saman. Hefði ekki verið ómaksins vert að grafast fyrir um ástæður þeirrar óskilvirkni, sem kostar fiskeldið og þjóðarbúið of fjár ?"
Eftirlitsstofnanirnar með fiskeldinu standa ekki við lögboðna fresti á afgreiðslu umsókna frá fiskeldinu. Það er alvarlegasti ljóðurinn á ráði þeirra, og hann er óviðunandi, af því að hann er lögbrot og rándýr, en á hann er ekki minnzt í þessari furðuskýrslu Ríkisendurskoðunar. Það rýrir enn gildi og trúverðugleika þessarar skýrslu, og fer hvort tveggja þá að nálgast núllið.
Andrés Magnússon er svipaðs sinnis um þessa kostulegu skýrslu Ríkisendurskoðunar og höfundur þessa vefpistils, þótt hann fari of mildilegum höndum um hrákasmíð. Hún tekur ekki á vandanum, sem er sleifarlag eftirlitsstofnana, sem er þungur baggi á atvinnugreininni. Fiskeldið fær engan veginn þá þjónustu hjá afætum ríkisins, sem það á rétt á og greiðir fyrir. Hvers vegna var þagað um það í óvandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar ?
Í lokin reit Andrés:
"Vitanlega er stjórnsýsluúttektin ekki alónýt. Það er margt fróðlegt þar og ýmsar nauðsynlegar ábendingar. En ef það vantar í hana allt um fjárheimildir stjórnsýslunnar til þessa og þar er ofaukið ályktunum um pólitísk álitaefni, þá blasir við, að hún er eitthvað allt annað en ætlazt var til."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2023 | 11:09
Hafró flengir veiðiréttarhafa og fylgifiska
Atvinnurógur samtaka veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins ásamt málpípum, sem þykjast bera málstað náttúrunnar fyrir brjósti, en eru sekir um að leggja algerlega huglægt mat á alla nýtingu, gagnvart laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum, gengur svo langt, að þessir aðilar heimta, að téð starfsemi verði lögð niður, aðallega vegna hættu á erfðablöndun eldisfisksins við náttúrulega íslenzka laxastofna. Í þessari rógsherferð hafa þessir aðilar ekki skirrzt við að saka Hafrannsóknastofnun Íslands um alls konar ávirðingar, sbr einhver Valdimar Ingi Gunnarsson í Bændablaðinu 17. febrúar 2023, sem hafði þar uppi ósæmilegar dylgjur, eins og Ragnar Jóhannesson, rannsóknastjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, rakti og hrakti í grein sinni í Bændablaðinu 9. marz 2023:
"Áhættumat erfðablöndunar útskýrt".
Eftir lestur fróðlegrar greinar Ragnars stendur ekki steinn yfir steini í hræðsluáróðri og fúkyrðaflaumi téðra veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara varðandi meinta hættu erfðablöndunar, sem villtir laxar í nytjaám Íslands séu í. Þessi hætta er einfaldlega ímyndun og tilbúningur illvígra gagnrýnenda sjókvíaeldisins, eins og Ragnar sýndi fram á. Nú verður vitnað í téða grein Ragnars:
"Hlutverk Hafrannsóknastofnunar er að styðja við verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi, en gæta jafnframt að náttúruvernd og sjálfbærni nytjastofna.
Áhættumat erfðablöndunar var þróað til þess eins að spá fyrir um áhættuna á erfðablöndun norskættaðs eldislax við villta íslenzka laxastofna í ám landsins. Matið tekur ekki tillit til annarra mögulegra umhverfisáhrifa sjókvíaeldis, s.s. laxalúsar eða mengunar. Matið gerir engan greinarmun á laxeldi eftir því, hvort um innlend eða erlend fyrirtæki er að ræða [var ein af dylgjum téðs Valdimars - innsk. BJo]. Við þróun spálíkans var leitað fyrirmynda hjá nágrannaþjóðum, og matið var unnið í samvinnu við fremstu vísindamenn heims á þessu sviði.
Við gerð áhættumatsins voru varfærnissjónarmið höfð að leiðarljósi, þar sem náttúran var látin njóta vafans. Ráðist var í umfangsmikla vöktun og mótvægisaðgerðir gegn erfðablöndun. Ákveðið var að endurmeta [áhættuna] á 3 ára fresti og byggja þá á rauntölum úr vöktun.
Íslenzka áhættumatið hefur verið notað sem fyrirmynd að áhættumati fyrir laxeldi í Kanada. Ávirðingum Valdimars um náttúruníð, fúsk og spillingu er því algjörlega vísað til föðurhúsanna."
Þarna bregst Ragnar Jóhannesson með málefnalegum hætti við svívirðilegum árásum téðs Valdimars á Hafró og rakalausum tilraunum hugstola veiðiréttarhafa og náttúrugjammara til að grafa undan trúverðugleika Hafró sem hlutlægrar og óvilhallrar vísindastofnunar. Þeir, sem hafa ekki annað fram að færa en hástemmdan og tilfinningahlaðinn atvinnuróg og níð gagnvart virðingarverðri vísindastofnun, sem aflað hefur sér trausts innanlands og utan, hafa augljóslega ekki fundið fjölina sína og munu aldrei finna hana, nema þeir bæti ráð sitt.
"Áhættumatið [líkanið] reiknar út áætlaðan fjölda göngufiska úr sjókvíaeldi upp í veiðiár samkvæmt gefnum forsendum. Matið reiknar út ágengni (e. intrusion) í einstökum ám út frá þekktum upplýsingum um stofnstærð í hverri á. Rauntölur frá Noregi hafa sýnt, að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni en villtur fiskur, og því má reikna með því, að erfðablöndunin verði einnig margfalt minni en ágengnin. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera a.m.k. 4 % á hverju ári áratugum saman, til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar.
Í áhættumati frá 2020 var áætluð ágengni um og innan við 1 % í 89 af þeim 92 veiðiám, sem eru í matinu, og þar af var engin ágengni áætluð í 43 ám."
Í raun og veru er allt moðverk og hræðsluáróður gegn sjókvíaeldinu vegna meintrar hættu á erfðablöndun í hvert skipti, sem eldislaxar sleppa út úr kvíunum, hrakin á grundvelli útreikninga, sem reistir eru á rannsóknarniðurstöðum. Fullyrðingaflaumur veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara er reistur á ímyndaðri hættu, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Hvað segir reynslan ? Á 6 ára skeiði reyndust 10 strokulaxar fara upp í 92 veiðiár, þar af 2 úr eldi erlendis, og gefur það meðalágengni 0,09 %. Hæsta ágengnin var 1,19 % í Staðará í Steingrímsfirði. Þetta sýnir, að tilfinningaþrungið moldviðri veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara er innantómur lygaáróður til að grafa undan afkomu fjölda manns í landinu, sem vinnur að nauðsynlegri gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið. Eru það ólíkt meiri tekjur en hafast upp úr krafsinu við sölu réttar til að veiða og sleppa meira eða minna særðum villtum laxi eftir öngul í gininu.
Höfundurinn, Ragnar Jóhannesson hjá Hafró, gerði ítarlega grein fyrir útreikningunum, sem jók gildi greinarinnar töluvert:
"Matið byggir á tiltölulega einföldum þáttum. Fyrst ber að nefna umfang eldisins p, sem er umfang þessarar framleiðslu í hverjum firði fyrir sig. Því næst er meðalhlutfall strokufiska á hvert framleitt tonn [t], sem við auðkennum sem S [=n/t, strokufjöldi/t]. Raunverulegar stroktölur eru að sjálfsögðu breytilegar á milli ára [og fjarða-innsk. BJo], en meðaltal síðustu 10 ára í Noregi gefur gefur töluna S=0,8 stk/t. Meðaltal síðustu 6 ára hérlendis gefur töluna S=0,5 stk/t [með tímanum hefur þetta hlutfall lækkað í báðum löndum].
Einungis [lítill] hluti þeirra fiska, sem strjúka, mun ganga upp í ár og það hlutfall, auðkennt sem L, er nefnt endurkomuhlutfall. Áætlaður heildarfjöldi eldislaxa, sem gengur í veiðiár [eins fjarðar], e, er því: e=p*s*L stk.
Nú er áætlað endurkomuhlutfall (L) mismunandi [annað] fyrir sjógönduseiði (snemmstrok [L1]) og fisk, sem er orðinn nær fullvaxta (síðstrok [L2]), og að auki er hegðun þeirra önnur. Strok 11 k laxa úr 2 kvíum Arnarlax í febrúar 2018 (síðbúið strok, stórir fiskar) var í raun ágætt álagspróf á fyrstu útgáfu áhættumatsins. Raunin varð sú, að mun færri fiskar skiluðu sér í veiðiár en búizt var við, og endurkomuhlutfallið [L2] var því lækkað úr 3,3 % í 1,1 % við endurmat árið 2020."
Komið hefur í ljós, að endurkomuhlutfall strokufiska á ári lækkar hratt með auknum massa fiska á bilinu 0-600 g og hægar eftir það [þ.e. L1>L2]. Fyrir þessu gerði Ragnar góða grein:
"Eins og nú er vel kunnugt, varð strok úr sjókví við Haganes í Arnarfirði 2021, og gat Arnarlax ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa. Útreikningar okkar gáfu svipaða niðurstöðu varðandi strokfjölda. Hér var um sjógönguseiði að ræða (snemmstrok). Þau synda á haf út í fæðuleit og snúa svo til baka á upprunastað eftir a.m.k. eins vetrar dvöl í sjó [1-3 vetur]. Því var þetta strok álagspróf á stuðla, sem notaðir voru fyrir snemmstrok, enda fyrsta strokið af því tagi hérlendis, sem vitað var um.
Við endurmat á stuðlum fyrir snemmstrok var notast við greiningu á umfangsmiklum sleppitilraunum, sem norska Hafrannsóknastofnunin stóð fyrir á árunum 2005-2008. Sú greining leiddi í ljós, að endurkoma fellur með strokstærð, eins og sýnt er á Mynd 1 [í greininni, ekki hér, en sviðið fyrir L1 er 0,52 %-0,08 % fyrir 0-1400 g]. Samkvæmt gögnum frá Arnarlaxi var meðalþyngd þeirra [strokfiskanna] um 900 g við strok. Í fyrra veiddust 25 fiskar úr þessu stroki í ám í Arnarfirði, meginþorrinn í frárennsli Mjólkárvirkjunar. Það stemmir nokkuð vel við þá 40 fiska, sem vænta mátti eftir 1 vetur í sjó [samkvæmt líkani - innsk. BJo]. Einnig var dreifing þeirra lítil á frekar takmörkuðu svæði, eins og matið gerði ráð fyrir."
Það getur verið fróðlegt að slá á efri mörk strokufiskafjölda upp í ár landsins við 100 kt/ár laxaframleiðslu í sjókvíum við landið (Vestfirði og Austfirði). Þetta eru E=100 kt*0,5 stk/t*0,0011=55 stk/ár. Ef hrygningarstofninn á þessum svæðum er 16 kt, þá er ágengnin Á= 55/16 k = 0,3 %, sem er heilli stærðargráðu undir hættumörkunum 4 %. Það virðist þess vegna vera borð fyrir báru, hvað erfðaáhættuna varðar, þótt sjókvíaeldið yrði rúmlega tvöfaldað, frá því sem það er núna. Innantómar upphrópanir ofstækismanna eiga ekki að fá að móta atvinnuþróun og nýtingu auðlinda í íslenzkri lögsögu. Þar verður vísindaleg greining og bezta tækni áfram að fá að ráða för.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2023 | 10:11
Til hvers er verið að setja markmið ?
Markmið verður að vera mælanlegt og tímasett. Annars er það eitthvað annað, t.d. stefnumið. Þetta er þó ekki nóg. Það verður að vera raunhæfur möguleiki á að ná markmiðinu með hnitmiðaðri áætlun og skipulegri og faglegri vinnu. Í kjölfar samþykktrar markmiðssetningar þarf áætlunin fljótlega að fæðast og vinnan að henni að hefjast. Þannig vinna fyrirtækin í landinu að því að bæta rekstur sinn eða fjárhagsstöðu. Markmiðasetning er öflugt stjórntæki til að beina vinnu starfsmanna inn á umbótabrautir, sem stjórnendur telja vænlega til árangurs fyrir fyrirtækið.
Komið hefur í ljós, að þessu er allt öðru vísi varið hjá sumum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem stjórna mikilvægum málaflokkum á vegum ríkisins.
Alræmdasta nýlega dæmið er af ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem á síðasta kjörtímabili fóru með umhverfismál og forsæti ríkisstjórnarinnar, þegar ákveðið var að bæta um betur, svo að um munaði, og setja markið á 55 % samdrátt koltvíildislosunar út í andrúmsloftið árið 2030 m.v. losunina árið 1990. Það var þegar í upphafi ljóst, að í framkvæmdaáætluninni til að ná þessu markmiði yrðu að vera virkjanir endurnýjanlegrar orku, sem mundu leysa af hólmi eldsneytisorkuna, sem spöruð yrði. Ekkert bólaði á þessu hjá Katrínu Jakobsdóttur, sem básúnaði þetta markmið hins vegar út erlendis í hópi annarra þjóðarleiðtoga, sem grunaði ekki, að manneskjan færi með fleipur.
Nú er komið í ljós, að vonlaust er að reyna að ná þessu markmiði, því að forsendur skortir, enda hefur verið setið með hendur í skauti í orkumálunum og stóð aldrei annað til hjá Katrínu. Nú er hún búin að spila rassinn úr buxunum. Brennsla jarðefnaldsneytis á Íslandi og í íslenzkum skipum og flugvélum mun ná nýjum hæðum í ár og líklega á næstu árum ár frá ári, enda þarf að brenna tugþúsundum tonna af olíu til að framleiða rafmagn. Katrín verður þjóðinni til skammar með innihaldslausu rausi sínu á erlendri grundu. Þessi ólíkindalæti reyfarahöfundarins í forsætinu ganga ekki lengur.
Nú hefur annarri hneykslunarhellu skotið upp á yfirborðið, nokkuð óvænt m.v. digurbarkalega markmiðasetningu þar. Það eru háskólarnir. Þeir dala stöðugt í samanburði við marga erlenda háskóla. Sé rétt munað, setti núverandi rektor HÍ markmið um að koma HÍ í hóp 100 beztu á lista "Times Higher Education" á tilgreindu ári, en hann hefur nú fallið á botninn þar. Það kemur höfundi þessa pistils ekki sérlega mikið á óvart, að HÍ standist ekki samanburð við háskóla nágrannalandanna. Kennsla til fyrrihluta prófs í verkfræði tók á sínum tíma 3 ár í HÍ, en þegar kandídatarnir settust í Norðurlandaskólana, a.m.k. hinn ágæta "Norges Tekniske Högskole" - NTH í Þrándheimi, þá voru þeir settir með 3. árs nemum þar. Ástæðan var sennilega sú, að námið á NTH var mun nær þörfum atvinnulífsins og verklegra en námið í HÍ, og sennilega er það þannig enn þá. Það kostar mikið að koma upp verklegri kennsluaðstöðu, en það skilar sér fljótt. Það er líka dýrkeypt að útskrifa unnvörpum kandidata úr háskólum, sem atvinnulífið hefur litla eða enga þörf fyrir og á sama tíma að takmarka svo aðgengi að eftirsóttum greinum, t.d. sjúkraþjálfun, líftækni, lyfjafræði og hugbúnaðargerð, að hörgull í atvinnulífinu upp á tæplega 10 þúsund manns hefur myndazt.
Frétt Gísla Freys Valdórssonar í Morgunblaðinu 10. marz 2023 undir fyrirsögninni:
"Þörf á orku og fjölbreyttari menntun",
hófst þannig:
""Það er ekki nóg að setja sér markmið um orkuskipti og loftslagsmál; það þarf líka að standa við þau."
Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka Iðnaðarins (SI) í opnunarávarpi sínu á fjölmennu Iðnþingi samtakanna, sem haldið var í gær. Þar fjallaði Árni m.a. um orkuþörfina hér á landi og benti á, að raforka á Íslandi væri nú uppseld og aflgeta kerfisins komin að þolmörkum. Eftirspurnin eftir raforku hafi þó sennilega aldrei verið meiri og mörgum álitlegum verkefnum hafi á undanförnum árum verið ýtt út af borðinu vegna framboðsskorts."
Þetta er ófögur lýsing á stöðu orkumála í landinu og í raun alger áfellisdómur yfir yfirvöldum orkumála í landinu. Hér á árum áður hefðu þessar lýsingar getað átt við síðasta árið fyrir gangsetningu nýrrar virkjunar, en nú er því ekki að heilsa. Næsta virkjun af þokkalegri stærð (um 100 MW) er ekki í sjónmáli, og þessi staða hefur í raun varað í meira en ár. Samfélagið hefur orðið fyrir stórtapi, enda hægir á hagvexti, þegar innlenda orku skortir. Ástandið er grafalvarlegt, enda er markmið ríkisstjórnarinnar um minnkun koltvíildislosunar gjörsamlega komið á hliðina, og Katrín, forsætisráðherra, hefur með óraunsæi og hégómagirni sinni hengt stórskuld koltvíildisgjalda til útlanda um háls skattborgaranna. Þessir stjórnarhættir eru óráðsía, en sennilega yppir frú Katrín bara öxlum, tekur eina eða tvær fettur og skellihlær svo að öllu saman í fullkomnu ábyrgðarleysi. Einhver annar á að bjarga málum, þegar þar að kemur.
""Stórnotendur þurfa að búa við mögulegar skerðingar raforku, og ekkert er til aukreitis vegna orkuskipta hérlendis né nýrra tækifæra í iðnaði. Engu að síður eru markmið stjórnvalda skýr: að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040", sagði Árni. "Því blasir það við, að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, ef við ætlum að vera virkir þátttakendur í hinni grænu iðnbyltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum."
Það væri réttara að tala hreint út. Hér verður raforku- og rafaflskortur næstu 5 árin hið minnsta, og þess vegna er tómt mál að tala um kolefnishlutleysi og full orkuskipti árið 2040. Reyndar er hægt að ná kolefnishlutleysi á undan fullum orkuskiptum með því að binda CO2, t.d. með skógrækt, og fá alþjóðlega vottun á þá bindingu. Samtök iðnaðarins hefðu mátt svara spurningunni fyrir sitt leyti um, hvernig á að auka raforkuvinnslu með jarðgufu og orku fallvatna sem hraðast, því að vindknúnir rafalar koma að afar takmörkuðu gagni einir og sér og landskemmdir af þeirra völdum eru allt of víðfeðmar m.v. gagnsemina. Véfréttin í Delfí mundi svara þannig, að ríkisstjórnin og þingmeirihluti hennar verði að taka af skarið með einum eða öðrum hætti, en er þingmeirihluti fyrir hendi til þess ? Stendur hnífurinn þar í kúnni ?
"Áslaug Arna benti þó á, að íslenzkir háskólar væru langt á eftir norrænum háskólum í menntun í svonefndum STEAM-greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði). Þá birti hún jafnframt tölur um samanburð á íslenzku háskólunum, þar sem fram kemur, að Háskólinn í Reykjavík (HR) er í neðsta sæti af 37 skólum á Norðurlöndum, þar sem gæði kennslu eru metin, og [að] Háskóli Íslands (HÍ) [sé] í 32. sæti.
Þá situr HR í 301.-350. sæti á lista "Times Higher Education", en HÍ í 501.-600. sæti. Það var á þessum lista, sem HÍ hafði sett sér markmið um að vera [á] meðal 100 beztu."
Þetta er hrikalegur áfellisdómur yfir íslenzka menntakerfinu og sérstaklega háskólastiginu. Þó að þarna sé augljóst ósamræmi, þar sem HR liggur á botninum í samanburði innan Norðurlandanna, en HÍ hjá "Times Higher Education", er þó full ástæða til að taka mark á þessum niðurstöðum, enda eru þær samhljóma árangri íslenzkra grunnskólanemenda í PISA-könnunum. Hið alsorglegasta við að horfa upp á þessi ósköp er, að þeir, sem eiga að stjórna þessum málum, virðast alls ekki vita, hvað til bragðs á að taka, og æpa bara á meira fé, sem annaðhvort kemur þá úr vösum stúdenta eða úr tómum ríkissjóði (auknar lántökur). Í báðum tilvikum er verið að kaupa gallaða vöru, og það er óviðunandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2023 | 11:29
Meinsemdin er kratismi úr hófi fram
Nýlega vakti 1. þingmaður Suðurkjördæmis þarfa og tímabæra athygli á meinsemd í hagkerfinu, sem er offjölgun opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga. Það er samhengi á milli þessarar offjölgunar og mikils hallarekstrar á ríkissjóði og sjóðum margra sveitarfélaga. Í síðari hópnum vegur borgarsjóður þyngst. Í Reykjavík hefur Samfylkingin farið með stjórnartaumana í meira en áratug í mismunandi samkrulli. Óstjórnin er þar verri en í nokkru öðru sveitarfélagi, og nú hótar Samfylkingin að halda með gjaldendur í Reykjavík og reyndar skattgreiðendur alla í landinu út á algert fjárhagslegt og tæknilegt forað, sem hún kallar Borgarlínu. Borgarlína Samfylkingarinnar er óskapnaður, sem enginn innlendur samgönguverkfræðingur hefur sézt mæla með. Fær og reyndur samgönguverkfræðingur hefur hins vegar gagnrýnt Borgarlínufyrirkomulagið eindregið og bent á aðra eðlilegri og ódýrari leið. Borgarlína Samfylkingar verður sorgarlína og mikill baggi á rekstri Reykjavíkur og sveitarfélaganna, sem þátt í glapræðinu taka, mun auka hallarekstur ríkissjóðs og tefja stórlega arðsamar og nauðsynlegar framkvæmdir á samgöngusviði um land allt.
Fjöldaframleiðsla fólksbílsins var mikið framfaraskref, sem gerði almenningi kleift að eignast vélknúinn fararskjóta og fara sínar eigin leiðir. Í samanburði við einkabílinn eru strætisvagnar og sporvagnar/járnbrautarlestir óttalegt neyðarbrauð í þéttbýli, nema þar sem gatnakerfið er yfirlestað og rými er ekki fyrir hendi til útvíkkunar. Við slíkar aðstæður hefur verið lagt neðanjarðar sporvagnakerfi eða jafnvel einteinungar ofanjarðar. Hér hefur hin andframfarasinnaða og bílfjandsamlega Samfylking beitt sér fyrir því að oflesta samgöngukerfið með því að þvælast fyrir lögn Sundabrautar með skipulagslegum skemmdarverkum og með því að taka hagkvæmustu framkvæmdir til afkastaaukningar samgöngukerfisins, mislæg gatnamót, út af aðalskipulagi Reykjavíkur, svo að ekki sé minnzt á kjánalegar þrengingar gatna (fækkun akreina) og krúsídúllur. Hér er um forheimskulega stjórnvaldsaðgerð að ræða, sem gerð er í blóra við vilja Vegagerðarinnar, sem sjá mundi um nauðsynlegar umbótaframkvæmdir á borð við Sundabraut og mislæg gatnamót.
Menn geta nú rétt ímyndað sér, hvers konar fíflagangur yrði uppi á teninginum, ef þetta krataóbermi (Samfylkingin) kæmist að kjötkötlum ríkisins. Alls konar vitleysa fengi að viðgangast, vanhugsuð gæluverkefni, og ríkið mundi þenjast enn meira út með ráðningum út og suður, lamandi skattahækkunum á hagkerfið og samt skuldasöfnun ríkissjóðs. Þjóðin kannast við tilburði Samfylkingarinnar. Þar á bæ er hegðunin þannig, að þau virðast halda að fyrirtæki og heimili séu bara mjólkurkýr hins opinbera. Þar sem Samfylkingin er við völd, þar er hætt við sukki og svínaríi.
Þann 27. febrúar 2023 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Alþingismann, sem áður var getið, undir fyrirsögninni:
"Sláandi tölur, sem kalla á umræðu".
Hún hófst þannig:
"Opinberum starfsmönnum fjölgaði um 11.400 á árunum 2015-2021 eða um 21,4 %. Á sama tíma fjölgaði starfsfólki á almennum vinnumarkaði um 4.200 eða um 3 %."
Þetta er órækt dæmi um ofþenslu hjá hinu opinbera, sem á hlut í miklum hallarekstri ríkissjóðs og margra sveitarfélagssjóða. Hinn mikli hallarekstur er einn af efnahagsþáttunum, sem kyndir undir of mikilli verðbólgu nú um stundir. Prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, Ragnar Árnason, kallar núverandi verðbólgu eftirspurnarverðbólgu, enda varð gríðarlegur hagvöxtur í fyrra, 2022, eða yfir 6 %. Það ríkir þensla í hagkerfinu og talsverð spurn eftir vinnuafli, jafnvel umfram framboð á ýmsum sviðum. Hallarekstur og skuldasöfnun opinberra aðila virkar sem olía á eldinn við þessar aðstæður.
Núverandi verðbólga á Íslandi er samsett fyrirbrigði, enda er há verðbólga í helztu viðskiptalöndum, t.d. yfir 10 % á Bretlandi, og í nokkrum löndum evrusvæðisins er hún um og yfir 20 %. Hérlendir loddarar, einkum áhugamenn um ESB-aðild Íslands, hafa flíkað hreinni vanþekkingu og/eða vísvítandi blekkingu um það, að innleiðing evru sem lögeyris á Íslandi myndi virka sem töfrasproti til að þrýsta verðbólgu og vöxtum á Íslandi niður í þýzk gildi. Þetta er bull og vitleysa. Landsmenn verða sjálfir að koma jafnvægi á fjárhagsbúskapinn hjá sér og efla útflutningsgreinarnar og eigin framleiðslu til að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd skili aftur drjúgum (jákvæðum) afgangi.
Það er hættulegt villuljós, sem vinstri sinnaðir og yfirborðskenndir hagfræðingar hafa undanfarið haldið á lofti hérlendis, t.d. á Gufunni (RÚV-1), að launahækkanir innanlands umfram launahækkanir í helztu viðskiptalöndum okkar hafi lítil áhrif á innlenda verðbólgu. Þar sem 2/3 hlutar verðmætasköpunar fyrirtækjanna fara í launakostnað, eins og hérlendis, sem er eitt hæsta þekkta hlutfall í þessum efnum í heiminum, verður að mæta raunlaunahækkunum með framleiðniaukningu í sama mæli. Annars neyðast fyrirtækin til að velta aukningunni út í verðlagið og samkeppnishæfni þeirra mun versna að sama skapi, einkum við innflutning og á erlendum mörkuðum. Þetta veikir viðskiptajöfnuðin, sem fellir verðgildi ISK, og slíkt kyndir undir verðbólgu.
"Mesta athygli vekur nefnilega sú niðurstaða, að störfum í opinberri stjórnsýslu hafi fjölgað mest. Þar bættust við 4.600 starfsmenn á árunum 2015-2021, sem jafngildir fjölgun um 60 % !"
Það er ei kyn, þótt keraldið leki. Þetta er ósjálfbær fjölgun, því að hún er baggi, sem dregur úr lífskjarasókn í landinu, þar sem þessi mikla fjölgun er langt umfram fjölgunina í einkageiranum, sem stendur undir kostnaðinum af hinum. Byrði einkageirans af hinum opinbera þyngist, og er hún þó nú þegar á meðal þeirra þyngstu í Evrópu. Þess vegna þarf nú að vinda ofan af þessari óheillaþróun og útvista verkefnum frá hinu opinbera til einkageirans. Þetta getur gerzt á heilbrigðissviði, kennslusviði, eftirlitssviði o.fl. Hið opinbera getur áfram borið ábyrgðina á þjónustunni, en fengið aðra í framkvæmdina og sparað fé, því að opinberir starfsmenn eru dýrir og ekki alltaf jafnskilvirkir og þeir í einkageiranum.
Guðrún gerði þróun launakostnaðar á hvern starfsmann í opinbera geiranum m.v. í einkageiranum að umræðuefni í téðri Morgunblaðsgrein:
"Merkilegt er annars til þess að hugsa, að á undanförnum árum og áratugum hafi vinnumarkaðurinn okkar þróazt með þeim hætti, að einkageirinn á oft í vandræðum með að fá fólk til starfa í samkeppni við opinbera geirann og kjaraþróunina þar. Samt heldur einkamarkaðurinn opinbera kerfinu uppi eðli máls samkvæmt !
- Laun eru orðin hærri víða í opinbera kerfinu en á einkamarkaði.
- Lífeyrisréttindi eru orðin jöfn í opinbera geiranum og á einkamarkaði.
- Vinnutíminn er styttri hjá hinu opinbera.
- Starfsöryggið er meira með ráðningarvernd hins opinbera.
- Verðmætin verða til í einkageiranum til að standa undir stjórnsýslu og opinberri starfsemi að stórum hluta."
Þetta er uppskrift að spennu á vinnumarkaði, þegar hagvöxtur er góður, eins og um þessar mundir. Við slíkar aðstæður er hætt við launaskriði, sem kyndir undir eftirspurnarverðbólgu, hvað sem líður kratískum viðhorfum sumra hagfræðinga, sem eru blindaðir af eigin predikunar- og áróðursþörf. Það tíðkast hvergi í vestrænum samfélögum, a.m.k. ekki, þar sem efnahagslegur stöðugleiki ríkir, að hið opinbera sé leiðandi í launakjörum á vinnumarkaði. Hér er enn komin uppskrift að efnahagslegum óstöðugleika hérlendis, sem er sjálfskaparvíti auðvitað.
"Eina leiðin og eina ráðið til að auka verðmætasköpun er að örva einkaframtakið, enda verður nánast allur útflutningur til í einkageiranum.
Straumurinn liggur hins vegar í aðra átt í samfélaginu okkar, og það er með miklum ólíkindum. Það birtist ekki sízt í stórfjölgun starfa hjá ríki og sveitarfélögum á sama tíma og störfum fjölgar takmarkað á almennum markaði."
Nú lítur vel út með spurn eftir Íslandi sem áfangastað ferðamanna frá Bandaríkjunum, Evrópu og víðar að þrátt fyrir bölsýni vegna versnandi lífskjara á þessum svæðum vegna hárrar verðbólgu. Hún er svipuð í BNA, ESB og á Íslandi, en matvöruverð hefur hækkað minna á Íslandi en á evrusvæðinu, eins og Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sýndi glögglega fram á í Morgunblaðsgrein sinni 8. marz 2023. Engu að síður er verðlag hátt á Íslandi fyrir ferðamenn frá þessum svæðum, og stafar það af hárri skattheimtu og háum launum, en lágmarkslaun eru hérlendis þau hæstu, sem þekkjast. Hins vegar er uppistaðan í ferðamannastrauminum lífeyrisþegar og annað fólk, sem hefur getað lagt fé til hliðar til að geta ferðazt.
Sökin á ofangreindri öfugþróun í atvinnulífinu, sem veldur óstöðugleika, liggur að nokkru hjá skólakerfinu, sem ekki útskrifar fólk með þá þekkingu og færni, sem atvinnulífið á einkamarkaði þarf á að halda. Þá þrýstir fólkið á um að komast að í opinbera geiranaum, þótt það fái þar ekki störf alls kostar við hæfi m.v. menntun sína. Í öðrum tilvikum er staðan þó sú, að það kýs fremur að starfa í opinbera geiranum en hjá fyrirtækjum, þar sem samkeppnin knýr á um að sýna frumkvæði og aukna skilvirkni á hverju ári og vegna þeirrar stöðu, sem nú ríkir í opinbera geiranum og 1. þingmaður Suðurkjördæmis telur upp í tilvitnaðri grein.
"Hvað sem hver segir, þá ber brýna nauðsyn til þess að stíga á bremsur, stöðva þenslu opinbera kerfisins, koma á það böndum og draga úr umsvifum þess með því að flytja þaðan verkefni og störf til einkageirans í mun meira mæli en gert hefur verið. Í þeim efnum höfum við ekki val."
Í sumum tilvikum er búið að kostnaðargreina verk hjá hinu opinbera, sem einkaframtakið getur unnið. Þá er hægt að bjóða verkið út til að sannreyna, að spara megi fé skattgreiðenda (útsvarsgreiðenda), með því að færa verkefni frá hinu opinbera til einkageirans. Þannig hafa Sjúkratryggingar Íslands nú boðið út liðskiptaaðgerðir á mjöðm og hné. Landsspítalinn fær greiddar ISK 1.985.694 fyrir mjaðmaraðgerð, en lægsta tilboð einkageirans hljóðaði upp á ISK 1.070.000. Mismunurinn er ISK 915.694 eða 46 % af verði Landsspítalans.
Fyrir hnéð fær Landsspítalinn ISK 2.024.481, en lægsta tilboðið hljóðaði upp á 1.070.000. Mismunurinn er ISK 954.481 eða 47 %. Í þessum tilvikum fer ekki á milli mála, að það er í almannaþágu að fylgja ráðum 1. þingmanns Suðurkjördæmis og færa öll þessi verkefni frá Landsspítalanum og til einkageirans. Vegna mikils álags á Landsspítalann, sem er á mjög erfiðu skeiði núna vegna frestunar vinstri stjórnarinnar 2009-2013 á öllum framkvæmdum við nýja Landsspítalann, er þetta sjálfsagt mál, en mikilvægast er þó að leysa úr brýnum vanda sjúklinganna, sem eru fórnarlömb biðlistanna, sem eru fylgifiskur opinbers eignarhalds og rekstrar.
Í lokin skrifaði þingmaðurinn:
"Við verðum í raun að starfa í samræmi við þá staðreynd, að verðmætin skapast í atvinnurekstri einkaframtaksins, en ekki í skrifborðsskúffum opinberra embættismanna. Mörg dæmi eru hins vegar um, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sannfæringu fyrir því, að verðmætin skapist innan skrifstofuveggja hins opinbera. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra."
Þarna skilur einmitt á milli hægri og vinstri manna. Kratar trúa því, að sem mestur opinber rekstur og eignarhald sé í þágu almennings, þótt dæmin sýni annað. Þetta eru trúarbrögð kratanna, og þess vegna berja þeir hausnum við steininn, þegar staðreyndirnar tala sínu máli. Leiðin til fátæktar og ánauðar liggur um leiðir vinstri manna í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2023 | 10:43
Mikið unnið fyrir gýg
Nýlega bárust af því tíðindi, að "umframdauðsföll" (fjöldi dauðsfalla á tilteknu tímabili umfram meðaltal viðmiðunarára) árið 2022 hefðu verið fleiri á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Tölfræðin var evrópsk og var borin til baka af innlendum yfirvöldum. Engu að síður var um umframdauðsföll að ræða, og þá vaknar spurningin hvers vegna. Það er óhjákvæmilegt að tengja þessa stöðu við ofvaxnar sóttvarnaraðgerðir hérlendis gegn C-19 faraldrinum, en óvíða munu bólusetningar hafa verið jafnalmennar og hér. Bóluefnin voru og eru á bráðabirgða leyfi, vegna þess að langtíma áhrif þeirra voru óþekkt. Hins vegar hafa verið óvenju margar tilkynningar um neikvæð áhrif á heilsuna skömmu eftir sprautun. Varnaráhrifin á líkamann gegn C-19 smitun eru lítil og dala hratt. Af þessum sökum er furðulegt, að heilbrigðisyfirvöld skuli halda áfram bólusetningum með þessum vafasömu bóluefnum, sem þó kosta sitt, og lyfjafyrirtækin maka krókinn fyrir eitthvað, sem kalla má misheppnaða tilraunavöru.
Það var varað við því, að frelsissviptingar og mikil inngrip í rekstur fyrirtækja og líf almennings mundu hafa neikvæðari afleiðingar á heilsu fólks og lífslíkur en smitun af SARS-CoV-2 veirunni hefði í för með sér. Það er nú komið á daginn með fleiri umframdauðsföllum hérlendis en numið hefur fjölda dauðsfalla af völdum veikinda vegna veirunnar. Þetta gefur til kynna, að sóttvarnarráðstafanirnar hafi verið úr hófi fram m.v. tilefnið og að frelsissviptingar hafi verið læknisfræðilega illa ígrundaðar, svo að ekki sé nú minnzt á lagalegt heimildarleysi.
Arnar Þór Jónsson, lögmaður, hefur ritað mikið um varhugaverða tilhneigingu lýðræðisríkja til gerræðislegra ráðstafana gagnvart borgurunum. Eina slíka ágæta grein gat að líta í Morgunblaðinu 21. febrúar 2023 undir fyrirsögninni:
"Hvað sameinar ?".
Í kaflanum "Hver er lærdómurinn ?" gat þetta m.a. að líta:
"Þegar þetta er ritað, hrannast upp rannsóknir, sjá t.d. https://mbl.is/go/jamanet , sem benda til, að bóluefnin hafi ekki verið eins örugg og yfirvöld vildu vera láta. Sömuleiðis er komið í ljós, að áhrif þeirra voru mun minni en boðað var í upphafi https://mbl.is/go/cell . Falsfréttir gærdagsins geta verið viðurkenndar staðreyndir í dag https://mbl.is/go/lancet . Hver er lærdómurinn af öllu þessu ? Gæti hann verið sá, að við ættum ekki að treysta fyrirvaralaust því, sem okkur er sagt ?"
Þegar um lyfjaiðnaðinn er að ræða og einkum hið vanheilaga samband hans og heilbrigðisyfirvalda er svarið já. Rannsóknir, sem lyfjafyrirtækin gera á eigin framleiðslu, eru tortryggilegar vegna hagsmunaárekstra, eins og sannaðist með bóluefnin gegn C-19. Þessi bóluefni stóðu engan veginn undir væntingum, og reynslan af þeim var allt önnur og lakari en viðkomandi lyfjafyrirtæki gáfu til kynna. Iðulega hafa embættismenn í samskiptum við lyfjafyrirtækin orðið uppvísir að fúski og óheiðarleika, þar sem þeir hafa metið eiginn fjárhag mikilvægari en velferð þeirra, sem þeir þó eiga að vinna fyrir af heilindum og þiggja laun hjá. Kaup íslenzkra yfirvalda á dýrum bóluefnum, sem eru í raun svikin vara, eru gagnrýniverð. Enn er haldið áfram að dæla óþverranum í fólk, einkum þá, sem eru með veiklað ónæmiskerfi fyrir. Þetta ónæmiskerfi fer þó á hliðina í kjölfar bólusetningar. Þetta er óhugnanleg tilraunastarfsemi á almenningi, sem sumir telja vera ósiðlega hegðun.
"Aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar hafa valdið víðtækum samfélagslegum og einstaklingsbundnum skaða. Sumir hafa skaðazt vegna sprautanna https://mbl.is/go/science . Aðrir hafa skaðazt vegna aðgerða, sem yfirstigu allt stjórnskipulegt meðalhóf. Aðgerðirnar skertu sjálfræði fólks og rufu líkamleg mörk, sem fram að þessu höfðu verið virt, sbr "minn líkami, mitt val".
Aðgerðirnar leiddu ekki aðeins til mismununar, heldur einnig til útskúfunar þess minnihluta, sem neitaði að hlýða í blindni, gerði fyrirvara, vildi viðhafa gagnrýna, sjálfstæða hugsun, vildi ekki undirgangast sprautumeðferð af persónulegum, heilsufarslegum ástæðum."
Þetta er gríðarlega harður dómur um störf þríeykisins og störf þess ráðherra, sem gaf út flestar reglugerðirnar til að hlaupa eftir duttlungum téðs þríeykis. Ef dómurinn er réttur, sem hann sennilega er að mestu leyti, þá hefur þetta sama þríeyki og téður ráðherra ekki haft hugmynd um, hvað þau voru að gera og áttu að gera. Aðgerðir þeirra voru á jaðri hins löglega og sennilega stundum handan lagaheimilda. Samt bólar enn ekkert á lagafrumvarpi, sem skilgreinir valdmörk heilbrigðisráðherra og ráðgjafa hans, þegar upp gýs sjúkdómsfaraldur hérlendis. Þá er embætti landlæknis og sóttvarnalæknis ekki treystandi fyrir ráðgjöfinni til ráðherra. Þar þurfa fleiri að koma að málum, m.a. mismunandi hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu.
Allar þessar fórnir voru færðar til einskis, eins og tölurnar um dauðsföll 2020-2022 sýna. Dauðsföllum var lítillega frestað 2020-2021, og tíðni þeirra jókst síðan umfram frestunina, m.a. vegna sálarlegra afleiðinga vanhugsaðra geðþóttaákvarðana stjórnvalda, sem störfuðu í myrkri.
"Heilbrigt fólk var lokað inni á heimilum sínum, skipað að klæðast grímum án viðunandi vísindalegra röksemda, látið undirgangast ítrekuð, niðurlægjandi og nærgöngul próf og sprautað án viðunandi upplýsts samþykkis. Allt var þetta gert vegna sjúkdóms, sem snemma var vitað https://mbl.is/go/biomech , að fæstum stafaði nokkur veruleg hætta af. Þetta hefði ekki gerzt, ef læknar hefðu rækt siðferðilegar skyldur sínar og upplýst fólk með viðunandi hætti. Nú eru afleiðingarnar að koma fram, m.a. í hærri dánartíðni https://mbl.is/go/daudsfoll en dæmi eru um í lýðveldissögunni."
Þarna fóru 3 embættismenn ríkisins offari og ráku skefjalausan hræðsluáróður til að fá hljómgrunn fyrir öfgakenndar aðgerðir sínar, sem reyndust vera fálm eitt í myrkri. Vísindum var sópað út í horn og allt leikið af fingrum fram á tilfinninganótunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2023 | 11:42
Langvinnt þrætuepli
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifaði ágæta grein um sögu skipulags fiskveiða við Ísland frá 1983. Niðurstaða hans var skýr: það verður aldrei sátt í landinu um stjórn fiskveiða. Þetta er sennilega alveg rétt hjá honum. Það, sem stjórnvöld ættu að hafa að leiðarljósi við framlagningu frumvarpa til Alþingis um fiskveiðistjórnun hér eftir sem hingað til frá 1983, er að að hámarka afrakstur veiðanna til langs tíma. Slíkt eflir þjóðarhag mest.
Guðmundur Kristjánsson orðar þetta þannig í lok greinar sinnar:
"Þess vegna segi ég, að það verður aldrei sátt um lög um stjórn fiskveiða. Ef núna koma ný lög um stjórn fiskveiða, þar sem þessi veiðiréttur verður færður ríkissjóði, þá verða þeir, sem hafa keypt þennan rétt, aldrei sáttir. Ef þessu verður ekki breytt, verða þeir, sem vilja, að ríkissjóður eigi þennan rétt, aldrei sáttir. Þetta er staðan í dag. Þess vegna segi ég: Það eina, sem hægt er að gera í dag, er, að lög um stjórn fiskveiða endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenzka þjóð. Deilumálið er skipting arðseminnar."
Þetta er vafalaust rétt hjá Guðmundi Kristjánssyni. Seint mun ríkja almenn ánægja með íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, en það er þó ómótmælanlegt, að það er umhverfisvænsta og skilvirkasta fyrirkomulag fiskveiða á jörðunni. Þess vegna væri guðsþakkarvert, að stjórnmálamenn og aðrir áhugamenn um þrætubókarlist hættu illa grundaðri heilaleikfimi sinni um þetta mál, enda einkennist umræðan um sjávarútveg of mikið af ofstækisfullum fullyrðingum, reistum á vanþekkingu á greininni og þar með því, hvernig hún getur bezt hámarkað verðmætasköpun sína fyrir íslenzka þjóðarbúið.
Útbólgnir tilfinningaþrælar hafa lengi verið með mikinn belging út af eignfærslu útgerðanna á veiðiheimildum sínum. Hafa þeir þá látið í það skína, að útgerðirnar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér með einu pennastriki að sölsa undir sig eignir þjóðarinnar. Það er þó öðru nær, því að allar 3 greinar ríkisvaldsins hafa þvingað þetta bókhaldsfyrirkomulag fram, eins og Guðmundur Kristjánsson rakti skilmerkilega í grein sinni:
Á þessum árum, 1990-1993, var allur kvóti/veiðiréttur gjaldfærður, hvort sem það var aflamark eða aflahlutdeild. En þá kom ríkisskattstjóri í nafni ríkisins [framkvæmdavaldsins - innsk. BJo] og sagði, að þetta væri eign, en ekki kostnaður, og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað. Útgerðin sagði aftur á móti, að þetta væri ekki eign, þar sem þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenzkri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenzkra laga. Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma stefndu útgerðinni fyrir dómstóla, og var niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993, að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/kvótann) sem eign í efnahagsreikningi. Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997, þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helzta eign."
Þessi eignfærsluákvörðun íslenzka ríkisvaldsins hefur margvísleg áhrif og hefur af upphlaupsmönnum verið notuð til tilefnislausra árása á sjávarútveginn, sem væri að sölsa undir sig eign þjóðarinnar. Það er öðru nær. Hins vegar hefur þessi ákvörðun framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds, óneitanlega styrkt aflahlutdeildarkerfið í sessi, því að aflahlutdeildirnar njóta nú verndar eignarréttarákvæða Stjórnarskrárinnar.
Það eru ekki réttarfarsleg skilyrði fyrir hendi til að raungera illa ígrundaðar hugmyndir um fyrningu eða uppboð aflaheimilda. Það er hið bezta mál, því að þessar hugmyndir eru rekstrarlegt óráð og hafa gefizt hörmulega, þar sem eitthvað í líkingu við þær hefur verið framkvæmt erlendis.
Í heilaleikfimisæfingum sínum hafa innantómir þrætubókarmenn lengi fullyrt, að veiðigjöld á útgerðirnar væru allt of lág. Þeir eru þó í lausu lofti með stóryrði um þetta, því að þeim hefur láðst að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi, en hún var í upphafi lögð fram sem hin fræðilega forsenda slíkrar gjaldheimtu. Þá verður auðvitað líka að hafa í huga, að fyrirtækin, sem íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki keppa við á erlendum mörkuðum eru ekki aðeins yfirleitt töluvert stærri en hin íslenzku, heldur niðurgreidd af yfirvöldum viðkomandi landa. Þess vegna ber að gæta mikillar hófsemi við sérsköttun á íslenzkan sjávarútveg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2023 | 16:20
Tregða við útgáfu framkvæmdaleyfis í Neðri-Þjórsá
Engum blöðum er um það að fletta, að á framkvæmdatíma virkjunar njóta viðkomandi sveitarfélög góðs af mjög auknum umsvifum. Verktakar á heimavelli verða yfirleitt mjög uppteknir við fjölbreytilegar hliðar framkvæmdanna, og íbúarnir, ekki sízt ungir, fá uppgripavinnu.
Þetta er auðvitað ekki nóg. Sveitarfélögin mega ekki bera skarðan hlut frá borði á rekstrartíma virkjunarinnar, en samkvæmt frétt Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu 20.02.2023, sem reist er á viðtali við Harald Þór Jónsson, oddvita og sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er sú einmitt raunin í sveitarfélagi hans. Það sé vegna þess, að skerðingar framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna teknanna af virkjunum séu hærri en nemur þessum tekjum.
Fyrir vikið er komin upp tregða í sveitarstjórninni við afgreiðslu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Þetta er alvarlegt mál fyrir landsmenn, sem bráðvantar meira af ódýrri og áreiðanlegri sjálfbærri raforku. Að einhverju leyti verður að skrifa þessa stífni, sem upp er komin, á reikning Landsvirkjunar, og kemur þá upp í hugann dómsmál á milli Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps um gjaldtöku af Fljótsdalsvirkjun, sem hreppurinn vann. Af fréttinni að dæma virðast afar takmarkaðar viðræður hafa farið fram á milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar um óánægjuefni sveitarstjórnarinnar. Í ljósi þess, hversu mikið liggur á þessari virkjun, er það áfellisdómur yfir Landsvirkjun og reyndar ríkisstjórninni að hafa ekki nýtt langan meðgöngutíma Orkustofnunar með virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar til að móta stefnu til framtíðar um tekjustreymi af virkjunum til sveitarfélagsins. Það mundi þá verða fyrirmynd annars staðar í landinu.
Í árdaga virkjana á Þjórsár-Tugnaársvæðinu þurfti að leita allra leiða til að halda framleiðslukostnaði lágum. Nú er öldin önnur, því að þessar virkjanir eru að miklu leyti afskrifaðar í bókhaldi Landsvirkjunar, þótt þær haldi áfram að mala gull, jafnvel í meira mæli en nokkru sinni áður. Á þessum grundvelli er óhætt að semja um gjöld af virkjunum, sem séu meira í samræmi við gjöld af mannvirkjum annars konar starfsemi en virkjana en nú er. Það mun ekki þurfa að hafa áhrif á verðlagningu raforku frá Landsvirkjun, heldur mun draga aðeins úr gróða ríkisfyrirtækisins og arðgreiðslum þess til ríkissjóðs. Ánægja heimamanna með þetta nábýli er meira virði en nokkrar MISK í ríkissjóð.
Téðri frétt Morgunblaðsins, sem bar yfirskriftina:
"Setja fyrirvara við fleiri virkjanir",
lauk þannig:
""Orkuvinnsla í sveitarfélaginu þjónar ekki hagsmunum þess í óbreyttri mynd", segir Haraldur Þór og minnir í þessu sambandi á áform um orkuskipti á Íslandi. Vegna þeirra þurfi að reisa margar nýjar virkjanir á næstu árum, m.a. í nærumhverfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fá samtöl hafi þó verið [á] milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um þau mál. Nú þurfi því að tryggja með lögum, að til áhrifasvæðis virkjana skili sér efnahagslegur ávinningur af orkuvinnslu, sem sé brýnt byggðamál. Sveitarfélögin þurfi að staldra við í skipulagsmálum, á meðan leikreglunum sé breytt og efnahagslegur ávinningur nærumhverfisins tryggður. Slíkt sé forsenda orkuskipta og hagvaxtar."
Ríkisstjórnin virðist hafa sofið á verðinum í þessu máli og ekki áttað sig á, að frumkvæðis um lagasetningu er þörf af hennar hálfu til að greiða fyrir framkvæmdaleyfum nýrra virkjana. Sveitastjórnarráðherra og orkuráðherra virðast þurfa að koma þessu máli í gæfulegri farveg en nú stefnir í með því að taka upp þráðinn við samtök sveitarfélaganna. Það gengur ekki að láta þetta dankast, því að á meðan líður tíminn og gangsetning nýrra vatnsaflsvirkjana og jarðgufuvirkjana verður hættulega langt inni í framtíðinni fyrir orkuöryggi landsmanna. Andvaraleysi stjórnvalda verður landsmönnum dýrt spaug, því að afl- og orkuskerðingar blasa við næstu vetur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2023 | 16:55
Leyfa ber sameiningar fyrirtækja í hagræðingarskyni
Á síðum Morgunblaðsins hafa þeir tekizt á um réttmæti framkvæmdar Samkeppniseftirlitsins (SKE) á samkeppnislögunum, Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Sá fyrr nefndi hefur bent á, að það er fleira matur en feitt kjöt, þ.e. í þessu tilviki, að sem mestur fjöldi fyrirtækja á hinum litlu íslenzku mörkuðum, sé engin trygging fyrir lægsta mögulega verði til íslenzkra neytenda, því að verðið getur til lengdar ekki orðið lægra en nemur heildar framleiðslukostnaði hjá hagkvæmasta fyrirtækinu. Hann er háður framleiðni fyrirtækisins, og hún er að jafnaði hærri hjá stærri fyrirtækjum en smærri. Af þessum ástæðum er einstrengingsleg túlkun SKE á samkeppnislögunum óskynsamleg og skaðleg; í raun ósjálfbær, því að erlend samkeppni er yfirleitt fyrir hendi. Forstjóri þessarar stofnunar þarf að vera mun víðsýnni og betur að sér um hagfræði en nú er reyndin.
SKE hefur valdið íslenzku atvinnulífi margvíslegum búsifjum með stirðbusahætti, löngum afgreiðslutíma og kröfuhörku, án þess að séð verði, að hagur strympu (neytenda) hafi nokkuð skánað við allan bægslaganginn. Nýjasta dæmið er um sölu Símans á Mílu, þar sem SKE þvældist fyrir á dæmalaust ófaglegan hátt og hafði upp úr krafsinu að færa mrdISK 10 frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenzkir lífeyrissjóðir, til hluthafa franska kaupandans.
Ragnar Árnason tók í Morgunblaðsgrein sinni 16.02.2023 ágætis dæmi af íslenzka sjávarútveginum; hvernig væri komið fyrir honum, ef SKE hefði lögsögu yfir honum. Íslenzkar eftirlitsstofnanir setja of oft sand í tannhjól atvinnulífsins að þarflausu, og þess vegna er guðsþakkarvert, að SKE hefur ekki lögsögu yfir þessari eimreið íslenzkra útflutningsgreina.
Yfirskrift greinarinnar var:
"Enn um hlutverk Samkeppniseftirlitsins":
"Sjávarútvegurinn er eflaust einn skilvirkasti atvinnuvegur landsmanna og mikilvæg stoð efnahagslegrar velsældar í landinu. Hollt er að hugleiða stöðu hans, ef hann þyrfti að búa við ægivald Samkeppniseftirlitsins, en öfugt við fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, er hann (samkvæmt 3. gr. samkeppnislaga) því undanþeginn.
Sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli þróazt í átt að stórfyrirtækjum og lóðréttum samruna veiða, vinnslu og markaðssetningar. Með þessu hefur honum tekizt að ná mjög mikilli rekstrarhagkvæmni með þeim afleiðingum, að íslenzkur sjávarútvegur er afar samkeppnishæfur á alþjóðlegum mörkuðum. Stendur hann þar raunar í fremstu röð, jafnvel framar þjóðum, sem hafa miklu meiri sjávarauðlindum úr að ausa (eins og t.d. Noregi). [Veiðigjöld tíðkast ekki gagnvart norska sjávarútveginum - innsk. BJo.]
Hver hefði þróun íslenzks sjávarútvegs orðið, ef hann hefði orðið að lúta þeim samkeppnisskilyrðum, sem Samkeppniseftirlitið hefur sett landbúnaði og ýmsum öðrum atvinnugreinum landsmanna ? Samkeppniseftirlitið hefði þá auðvitað staðið í vegi fyrir sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja í stærri fyrirtæki, svo [að] ekki sé minnzt á lóðréttan samruna [á] milli veiða og vinnslu. Afleiðingin hefði orðið minni framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, hærri framleiðslukostnaður og lakari samkeppnisaðstaða á erlendum mörkuðum. Þar með hefði framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins orðið minna og hagsæld neytenda að sama skapi lakari."
Þrátt fyrir harða samkeppni á erlendum mörkuðum hefur íslenzki sjávarútvegurinn náð að blómstra. Því má þakka skynsamlegri löggjöf um fiskveiðistjórnun og því, að atvinnugreinin hefur sjálf tekið ábyrgð á eigin þróun, og hún hefur augljóslega gefizt vel, eins og Ragnar rekur hér að ofan, enda er sjálfs höndin hollust.
Sannleikurinn er sá, að völd Samkeppnieftirlitsins eru vandmeðfarin og stofnunin hefur ítrekað farið offari í afskiptum sínum af fyrirætlunum atvinnulífsins til hagræðingar. Samkeppniseftirlitið á að láta af óhóflegri afskiptasemi sinni og ekki að grípa fram fyrir hendur fyrirtækjanna, nema sterk rök liggi til þess, að inngripið bæti hag landsmanna. Því hefur farið fjarri hingað til, að SKE hafi rökstutt mál sitt skilmerkilega. Það hefur bara þjösnazt áfram. Nýlegt dæmi er af viðskiptum franska sjóðstýringarfélagsins Ardin France S.A. og Símans um Mílu, þar sem SKE bannaði heildsölusamning um viðskipti Mílu og Símans, og bannið kostaði hluthafa Símans (lífeyrissjóðina) mrdISK 10. Enginn bannaði öðrum að gera viðlíka heildsölusamninga við Mílu um mikla gagnaflutninga. Þarna urðu viðskiptavinir Símans fyrir tjóni án þess, að ljóst sé, að viðskiptavinir samkeppnisaðila Símans hafi hagnazt.
SKE ber að halda sig til hlés, nema vissa sé um, að hagsmunir neytenda séu í húfi, því að yfirleitt eru það hagsmunir landsmanna, að fyrirtæki fái að þróast, eins og þau sjálf telja hagkvæmast, í áttina til meiri framleiðni og lækkunar á einingarkostnaði hverrar framleiddrar vöru eða þjónustueiningar. Búrókratar ríkisins eru alveg örugglega ekki betur til þess fallnir en stjórnir og eigendur fyrirtækjanna.
SKE er kaþólskari en páfinn. Hvernig stóð á því, að SKE komst í mjög löngu máli að þveröfugri niðurstöðu á við norska SKE í máli kjötafurðastöðva landbúnaðarins um samstarf þeirra í millum ? Norðmenn eru leiðandi í EFTA-hluta EES, og úrskurður norska SKE hefði átt að gefa tóninn innan EFTA. Nei, ekki aldeilis, Blönddælingurinn lætur ekki framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins stjórna afstöðu SKE. Þar skal hans eigin þrönga sýn og eintrjáningsháttur vera ráðandi, á meðan hann er þar forstjóri. Þessi frekja og afskiptasemi búrókratans gengur ekki lengur. Hann er of dýr á fóðrum fyrir neytendur til að geta rekið SKE eftir eigin duttlungum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2023 | 11:26
Skýr skilaboð Landsvirkjunar
Í forstjóratíð Harðar Arnarsonar hjá Landsvirkjun hafa sumir stjórnendur þar á bæ, að honum meðtöldum, tjáð sig með hætti, sem ýmsum hefur ekki þótt samræmast hagsmunum eigenda fyrirtækisins, hvað sem gilda kann um sjónarmið stjórnarmanna fyrirtækisins. Þetta á t.d. við um aflsæstrengstengingu á milli erlendra raforkukerfa og þess íslenzka og vindknúna rafala.
Nú kveður við nýjan tón, því að Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, skrifaði vel jarðtengda og fræðandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 17.02.2023 undir fyrirsögninni:
"Raforkuvinnsla á láði eða legi".
Undir millifyrirsögninni "Eðli vindorku" var gerð grein fyrir því, að með vindafli yrði að fylgja vatnsafl í raforkukerfinu, nema notandinn gæti sætt sig við sveiflur vindaflsins, og sá notandi er vart fyrir hendi á Íslandi. Af þessum ástæðum er út í hött að leyfa uppsetningu vindspaðaþyrpinga og tengingu þannig knúinna rafala við íslenzka raforkukerfið:
"Til að geta afhent raforku inn á flutningskerfið, sem unnin er með vindorku, þarf að vera [fyrir hendi] jöfnunarafl. Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku. M.ö.o.: þegar vindar blása ekki, þarf að vera hægt að vega það upp með jöfnunarafli frá vinnslukerfinu. Í íslenzka raforkukerfinu getur slíkt afl einungis komið frá vatnsaflsstöðvum, enda er landið ótengt öðrum löndum. Þá er kerfið ekki hannað til að takast á við miklar aflsveiflur."
"Also sprach Zarathustra." Einar Mathiesen veit gjörla, að jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar og annarra eru ekki í færum til að taka upp aflsveiflur í kerfinu vegna innbyggðrar tregðu. Vatnsorkuverin geta þetta upp að vissu marki og sjá um reglunina í kerfinu núna. Það sér hver maður í hendi sér, að með öllu er glórulaust að reisa vatnsorkuver til að standa tilbúin að yfirtaka álagið, þegar vind lægir undir hámarks framleiðslumark vindspaðavers. Framleiðslukostnaður í vatnsorkuveri er lægri en í vindorkuveri, en aðeins ef nýtingartími vatnsorkuversins er samkvæmt hönnunarforsendum þess. Erlendis eru gasknúin raforkuver reist til að gegna þessu jöfnunarhlutverki, en hér kemur það ekki til greina. Þessi innflutta hugmyndafræði um vindorkuver fyrir íslenzka raforkukerfið er vanburða.
"Því má halda fram, að raforkuvinnsla með vindorku sé ekki fullbúin vara, nema endanotandi geti tekið á sig sveiflur í notkun, sem fylgir breytilegum orkugjafa, sem vindorka er; þá þarf ekki afljöfnun. Í umræðu um vindorku er iðulega skautað framhjá þessari staðreynd. Landsvirkjun er eini rekstraraðilinn á markaðinum, sem hefur yfir að ráða jöfnunarafli. Það afl er afar takmarkað, bæði til skemmri og lengri tíma, eins og fram kom á opnum fundi Landsvirkjunar 2. febrúar [2023] undir yfirskriftinni: "Hvað gerist, þegar vindinn lægir ?", en um hann er fjallað á vef Landsvirkjunar."
Hér staðfestir framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma, að vindorkan sé ein og sér lítils virði, nema fyrir þá, sem ekki verða fyrir umtalsverðu tjóni, þótt framboðið sveiflist með vindafari. Þeir eru sárafáir, ef nokkrir slíkir í landinu. Þegar þetta er lagt saman við þá staðreynd, að burðarsúlur og vindspaðar hafa skaðleg áhrif á miklu stærra svæði m.v. orkuvinnslugetu en hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hlýtur rökrétt ályktun yfirvaalda og annarra að verða sú, að ekkert vit sé í að leyfa þessi mannvirki í íslenzkri náttúru. Yfirvöld ættu að lágmarki að gera að skilyrði, að orkusölusamningar hafi verið gerðir um viðskipti með alla orkuvinnslugetu mannvirkjanna, þar sem kaupandi sættir við að sæta álagsbreytingum í samræmi við framboð orku frá viðkomandi vindorkuveri.
Í lokakafla greinarinnar lýsir framkvæmdastjórinn yfir stuðningi við hina klassísku virkjanastefnu Landsvirkjunar. Það er ánægjuleg tilbreyting við stefin, sem kveðin hafa verið í háhýsinu á Háaleitisbrautinni undanfarin 13 ár. Það hefur nú að mestu verið rýmt vegna myglu, svo að loftið þar stendur vonandi til bóta. Millifyrirsögn lokakaflans var: "Ekki sama, hvað það kostar":
"Að velja hagkvæma fjárfestingarkosti til raforkuvinnslu er lykilatriði, þegar kemur að samkeppnishæfni. Íslendingar hafa byggt upp samkeppnisforskot á alþjóðavísu með vali á hagkvæmum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum - og nú mögulega í einhverjum mæli með vindorkuverum á landi. [Einnig báru Íslendingar gæfu til að gera raforkusamninga um sölu á megninu af orku þessara virkjana og náðu þannig fljótt fullnýtingu fjárfestinganna - innsk. BJo.] Þessu má ekki glutra niður með því að ráðast í dýrar og óhagkvæmar virkjanir [les vindorkuver - innsk. BJo], sem kosta margfalt á við meðalkostnaðarverð raforku á Íslandi.
Í endurminningum fyrsta stjórnarformanns Landsvirkjunar og eins af brautryðjendum í orkumálum þjóðarinnar, Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, kemur fram, að lykillinn að farsælli uppbyggingu orkuvinnslu sé ekki, að áformin séu sem stærst, heldur að finna hagkvæma virkjunarkosti, til heilla fyrir land og þjóð. Óhætt er að taka undir það."
Vart er hægt að lýsa yfir meiri hollustu við klassíska stefnu Landsvirkjunar en að vitna í æviminningar dr Jóhannesar Nordal og lýsa yfir stuðningi við það, sem þar kemur fram. Ævintýramennska á sviði sölu raforku um sæstreng til útlanda og að útbía náttúru landsins með vindorkurafölum fellur ekki að klassískri virkjanastefnu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)