Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stungið á kýlum

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, stakk á nokkrum kýlum, sem kalla má þjóðfélagsmeinsemdir, í merkri grein í Morgunblaðinu 20. september 2024.  Það má velta fyrir sér, hvers vegna vitleysa og augljós fíflagangur virðast orðin svo algeng í þjóðfélaginu núna.  Líklegt er, að gæði stjórnunar verkefna og stefnumótunar haldist í hendur við gæði skólakerfisins.  Það einkennist nú um stundir af metnaðarleysi og einhvers konar útþynningu á raunverulegri menntun, eins og ömurlegur árangur 15 ára nemenda á samræmdum prófum OECD, s.k. PISA-prófum, gefur til kynna.  Það er ekkert gamanmál eða einkamál barnamálaráðherra, að menntunarstig grunnskólans hefur hrapað á nokkrum áratugum, þótt keyrt hafi um þverbak, eftir að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, læsti klónum í ágæta námsskrá frá 1999 og gaf út aðra, sem einkennist af metnaðarleysi. 

Téð gagnrýnigrein Jóhannesar bar yfirskriftina:

"Þjóð á rangri leið".

Hún hófst þannig:

"Það er eitthvað skrítið í gangi í íslenzkum stjórnmálum. Tökum umhverfisstefnuna sem dæmi.  Eftir að hafa barizt sérstaklega fyrir því að bæta kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB inn í EES-samninginn, eru íslenzk yfirvöld nú allt í einu hissa á, að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og því eina þjóðin, sem borgar slíkan skatt fyrir flug yfir Atlantshafið, og sú þjóð, sem borgar mest fyrir skipaflutninga. Þetta frumkvæði hefur stórskaðað samkeppnishæfni landsins og lífskjör almennings." 

Téð kerfi ESB er til að beina stórflutningum til járnbrautalesta, sem búrókratar hafa fundið út, að sé með minnst sótspor.  Þetta er þó hæpið, þegar vistvæn raforka er aðeins um þriðjungur heildarraforkunotkunar og þegar allur ferill flutningatækjanna er krufinn til mergjar. Að láta þetta gilda um eyjarskeggja lengst norður í ballarhafi er óréttlátt, því að þeir eiga enga valkosti aðra en flugvélar og skip.  Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn, sem um þetta véluðu, annaðhvort sváfu á verðinum eða eru liðleskjur, þegar standa þarf fast í lappirnar, til að verjast ósanngirni eða hagsmunaátroðslu. 

"Í "land og líf"-stefnu yfirvalda á að breyta 13 % af ræktarlandi (156 km2) í mýrar og 12 % (150 km2) í skóga. Þó að þetta hljómi mikið, eru áhrif skógræktarinnar ekki nema rétt á pari við þá útblástursminnkun, sem ein 10 MW vatnsaflsvirkjun á Íslandi býr til með því að flytja álframleiðslu frá kolaorku-Kína til hreinorku-Íslands.  En í stað þess að líta slíkt jákvæðum augum, hefur hér ríkt virkjanastopp síðustu 2 áratugi, og nú er komin orkukreppa.  Stórir 100 MW virkjanakostir voru settir á bið í 2 áratugi (Hvammsvirkjun) eða friðaðir í pólitískum skollaleik (Norðlingaölduveita).  Það má ekki einu sinni tengja orkuframleiðslu milli landshluta, og allt að ígildi 200 MW frá Kárahnjúkavirkjun sóað, því [að] notandinn fær ekki orkuna. 

 

Skyndilega eiga vindmyllur að leysa allt.  Þær snúast þó ekki í logni og þurfa helzt að vera staðsettar við hlið vatnsorkuvers (sem yfirvöld hata) til að forðast risafjárfestingu í dreifikerfi og varaafli.  Fyrir vikið er hætt við, að rafmagnsreikningur allra rjúki upp, þegar borga þarf brúsann." 

Þetta er þörf ádrepa. Það er engin glóra í því að moka ofan í skurði til að endurskapa mýrar, sem undir hælinn er lagt, hvort draga úr losun koltvíildis, eða hvort meint minnkun verði viðurkennd alþjóðlega.  13 % af ræktarlandi er tífalt það, sem verjandi er að leggja undir þessa vafasömu hugdettu. 

 

Að taka ræktarland undir skógrækt í stórum stíl orkar líka tvímælis.  Skógrækt ætti að vera þáttur í landgræðslu, að koma upp skjólbeltum og að skapa störf við hirðingu og nýtingu skóganna. 

Stærsta meinlokan í þjóðfélaginu um þessar mundir er andstaðan við nýjar virkjanir, þótt þær séu umhverfisvænstu fjárfestingar, sem í boði eru á Íslandi vegna náttúru landsins.  Hér er átt við hinar hefðbundnu virkjanir. 

Andstæðingar nýrra vatnsafls- og jarðgufuvirkjana hafa gripið þau falsrök algerlega úr lausu lofti, að enginn orkuskortur sé í landinu.  Nýlega heyrðist í Vikulokunum á Gufunni frá einum þingmanni, sem að vísu er á þingi fyrir pírata, sem eru hreinir ratar í málflutningi sínum, að ekki skipti máli fyrir þjóðarbúið, hvort lokað væri einu álveri með öllu því tekjutapi og kostnaði, sem því fylgir, því að það væri líka dýrt að virkja.  Sá aumkvunarverði maður, sem þarna átti í hlut, skilur ekki muninn á fjárfestingu og rekstrarkostnaði.  Þegar fólk af þessu "kalíberi" slæðist inn á Alþingi, er ekki von á góðu.  Það leiðinlega er, að margt þekkingarsnautt og dómgreindarlaust fólk telur sig vel í stakkinn búið til að hafa vit fyrir öðrum og setja lýðnum lög. 

Nýlega lagði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, orð í belg út af því, að honum þótti of mikið gert úr orkuskortinum.  Það er furðuhjal hjá þessum forstjóra, sem hefur ekki getað orðið við neinum umtalsverðum óskum um forgangsorku í a.m.k. hálfan áratug nú.  Rökstuðningur hans lýsti ekki djúpri þekkingu á sögu afgangsorkunnar ("secondary energy"), sem nú kallast ótryggð orka.  Það var alls ekki reiknað með, að þyrfti að skerða hana til kaupenda á hverju ári, heldur var reiknað með vatnsskorti í lónum í u.þ.b. 3 árum af 30.  Ef þarf að skerða nokkur ár í röð, minnka skerðingarheimildir Landsvirkjunar á hverju ári eftir fyrsta ár skerðingarlotu.  Nú um stundir fyllist Þórislón ekki ár eftir ár vegna mikils álags, sem á kerfinu er.  Sem betur fer fylltist Hálslón á þessu hausti, en lítil flutningsgeta Byggðalínu hamlar orkuflutningum á milli landshluta, eins og Jóhannes Loftsson drepur á. Forstjóri Landsvirkjunar setti sig á háan hest og ætlaði að áminna "krakkana", m.a. hjá Landsneti, en datt strax af baki. 

"Hitaveitureikningurinn gæti farið sömu leið, því [að] samkvæmt fjárhagsspá OR 2024-2028 á að fjárfesta fyrir mrdISK 68 í kolefniskvótasprotaverkefni, þar sem mengun er dælt niður í jörðina.  Varhugavert er, að opinber fyrirtæki standi í slíkri áhættufjárfestingu, því [að] þá er almenningur ábyrgur, og hitaveitureikningurinn mun hækka, ef tilraunin misferst og allt tapast."

Það er hægt að taka heils hugar undir þetta með Jóhannesi Loftssyni, því að verkefnið, sem um ræðir, er afar varhugaverð viðskiptahugmynd og felst í að dæla uppleystu koltvíildi, bæði erlendu og innlendu, niður í jörðina.  Ferlið er orku- og vatnsfrekt, og undir hælinn verður lagt, hvaða verð þarf að greiða fyrir koltvíildið, því að einangrað er það verðmæt vara, t.d. til að hraða vexti í gróðurhúsum og sem hráefni í s.k. rafeldsneyti, sem koma á í stað jarðefnaeldsneytis og unnið er úr vetni og koltvíildi með rafmagni.  Það er fífldirfska að leggja almannafé undir af þessu tilefni, og ætti stjórn OR, þar sem Samfylkingin lengi hefur ráðið miklu, að hætta við þessi áhættusömu áform.  Þetta er langt fyrir utan það, sem OR er ætlað að fást við. 

Forstjóri Landsvirkjunar lagði líka orð í belg um rafeldsneytið.  Hann taldi, að erlendis yrði rafeldsneyti framleitt með rafmagni á verði, sem Íslendingar gætu ekki keppt við.  Það er með ólíkindum og sýnir einvörðungu, að búið er að spenna raforkuverð til iðnaðarverkefna allt of hátt hér, og hann á mesta sök á því.  Þá taldi hann markaðinn hér vera of lítinn fyrir þessa framleiðslu.  Það er harla ólíklegt, ef vinnuvélar, skip og flugvélar eru teknar með í reikninginn. Landsnet hefur í orkuspá sinni reiknað með raforkuþörf fyrir rafeldsneytisframleiðslu hérlendis. Hörður Arnarson er ekki beint uppörvandi og genginn í björg með afturhaldinu, sem viðurkennir engan orkuskort á Íslandi. 

"Það er að fjara undan frelsinu. Rétttrúnaðurinn hefur tekið yfir stjórnmálin, og sýndarmennska gervilausna er látin draga athyglina frá raunverulegu vandamálunum.  Slíkur veruleikaflótti gengur þó aldrei til lengdar, og á síðustu 2 áratugum hafa vandamálin hrannazt upp og skert lífsgæði okkar til frambúðar.  En vont getur lengi versnað, og hnignunin mun því halda áfram, og nýtt lífsgæðahrun blasir við.  Eina leiðin út er,  að þjóðin finni aftur jarðtenginguna, sem var áður en ábyrgðarlausu stjórnmálin tóku yfir."  

Þetta virðist vera dómsdagsspádómur, en Jóhannes hefur greint stöðuna nú rétt.  Stjórnmálin eru látbragðsleikur, þar sem hæfileikarýrt fólk án leiðtogahæfni er allt of áberandi, og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem kynti gömlu foringjana, er vart nema svipur hjá sjón.  Menntakerfið getur ekki framleitt afburðafólk, þegar allt er steypt í mót lítillar getu og metnaðarleysis. 

"Íslenzk yfirvöld eiga ekki að borga skatta til útlanda.  Íslenzk yfirvöld eiga ekki að búa til orkuskort.  Íslenzk yfirvöld eru ekki sprotafjárfestar, og rafbílavæðing er ekkert nema rándýr, gagnslaus dyggðaflöggun.  Umferðarvandi verður ekki leystur með draumórum, og fara þarf aftur í hagkvæmar, raunhæfar lausnir, eins og t.d. mislæg gatnamót.  Það leysir heldur enginn húsnæðisvanda með því að byggja bara dýrt fyrir borgarlínu, sem enginn tímir að borga fyrir.  

Er ekki kominn tími á að fá aftur ábyrgð í stjórnmál á Íslandi ?  Gerum Ísland ábyrgt aftur."

Það er grundvallaratriði að koma böndum á vöxt opinbera báknsins, því að innan þess eru sterkir kraftar til fjölgunar starfsfólks og nýrra viðfangsefna (lögmál Murphys).  Við getum vel verið án sumra þeirra og önnur væru betur komin hjá einkageiranum, því að opinber rekstur og góð og skilvirk þjónusta fara einfaldlega ekki saman.  Um það vitna mýmörg dæmi og koma mörg hver fram í fréttum hverrar viku. 

Þá þarf meðferð opinbers fjár að batna stórlega, og er þar s.k. samgöngusáttmáli hrópandi dæmi.  Sérvizkuhópar á vinstri vængnum hafa náð allt of miklum áhrifum m.v. fylgi í þjóðfélaginu, og má þar nefna bílaandstæðinga, sem móta afspyrnu þröngsýna, dýra og óhagkvæma stefnu Reykjavíkurborgar í umferðarmálum og virkjanaandstæðinga, sem samkvæmt nýlegri skoðanakönnun njóta stuðnings 3 % þjóðarinnar. Haldið er dauðahaldi í vonlaust og niðurdrepandi kennslufyrirkomulag skóla án aðgreiningar, sem engum nemendum hentar, og hælisleitendalöggjöfin og framkvæmd hennar hefur valdið miklu meiri kostnaði og vandræðum innanlands en þetta litla samfélag getur afborið.  

 

 

 

  

 

 


Meingallaður og varasamur samgöngusáttmáli

S.k. Samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið er reistur á röngum forsendum, enda hefur hann hlotið alvarlega og málefnalega gagnrýni fagfólks.  Hann er hugarfóstur og óskhyggja stjórnmálamanna, en án jarðtengingar við raunveruleikann að talsverðu leyti. Hann opnar fyrir stórhættu á bruðli með almannafé vegna kolrangrar forgangsröðunar verkefna, og bráðnauðsynleg verkefni um allt land munu fyrir vikið líða fyrir enn meiri fjárskort en ella. Amatörar í verkefnastjórn virðast síðan eiga að höndla með þennan sáttmála í stað þess að framkvæma rökrétta forgangsröðun með ströngum reglum verkefnastjórnunar, sem tryggja eins góða meðferð opinbers fjár og kostur er. 

Miðjusett borgarlína leysir engan umferðarvanda. Hún magnar hann, því að hún mun þrengja að almennri bifreiðaumferð, og hún mun ekki ná að draga til sín nógu marga farþega til að fækka svo bílum í umferðinni, að auknar tafir hennar vegna verði vegnar upp. Því mun fara fjarri.  Borgarlínan mun fara úr böndunum fjárhagslega m.v. hvert stefnir nú, og hún verður hræðilegur fjárhagslegur myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hafa ekki efni á þessu bruðli.  Bruðl er það, þegar offjárfest er m.v. þörfina, og þessi offjárfesting slær líklega öll slík met í landinu.  Það er algert dómgreindarleysi að hleypa þessu afkvæmi Samfylkingarinnar jafnlangt og raun ber vitni um núna. 

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, ritaði ítarlega og rökfasta grein um þennan dæmalausa sáttmála, sem birtist í Morgunblaðinu 12. september 2024 undir fyrirsögninni:  

   "Alvarlegir ágallar samgöngusáttmálans".

"Ágallar samgöngusáttmálans eru m.a. þessir:

1. Fyrst ber að geta þess, að samgöngusáttmálinn er út frá fræðum verkefnastjórnunar ekki verkefni (e. project), heldur verkefnaáætlun (e. program).  Í verkefnaáætluninni er listi af verkefnum, sem ná yfir a.m.k. 16 ár, þ.e. til ársins 2040.  Á þessu tímabili munu fara fram fjórar sveitarstjórnarkosningar.  Það skiptir öllu máli, að verkefnaáætlunin byggi á vönduðu stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu (e. project governance framework).  Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á opinberum framkvæmdum hér á landi á síðari árum sýna fram á, að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum, þegar kemur að verkefnastjórnsýslu." 

Skilningur "Betri samgangna" á verkefnastjórnsýslu virðist því miður ekkert skárri en almennt hjá hinu opinbera, og það er ávísun á fjárhagslegt fúafen.  Sum einkafyrirtæki kunna góð skil á kerfisbundinni verkefnastjórnun allt frá verkefnishugmynd að afhendingu framkvæmdarinnar til eigandans eftir vel heppnaða ræsingu og frágengnar úrbætur.  

Forgangsröðun verkefna í tímaröð er heldur ekki reist á almennri skynsemi, því að samkvæmt almennri skynsemi ætti að ráðast fyrst í afmarkaðar aðgerðir, sem bæta augljóslega umferðarflæðið og eru þess vegna arðsamastar.  Enn ríkir í Reykjavík forkastanlegt og sérvizkulegt bann við mislægum gatnamótum, sem leiðir til klúðurslegra lausna með ljósastýringum og þar af leiðandi hættu á gatnamótum.  Fordild og ofstæki Samfylkingarvitringanna um umferðarmál lætur ekki að sér hæða.  

"Þannig hafa nær allar opinberar stórframkvæmdir hér á landi farið umtalsvert fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum.  Nægir að nefna Hörpu, nýjan Landsspítala og Vaðlaheiðargöng.  Lítil viðleitni hefur verið í opinbera stjórnkerfinu, m.a. í fjármálaráðuneytinu, til að bæta úr þessu.    

Upplýsingar um vandað stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu til að stjórna verkefnaáætlun og einstökum verkefnum vantar í gögn um sáttmálann.  Það virðist m.ö.o. ekki vera gert ráð fyrir faglegri verkefnastjórnsýslu í samgöngusáttmálanum."   

Þeir, sem halda um taumana í apparatinu Betri samgöngum, virðast m.ö.o. ekki hafa þá verkþekkingu, hvað þá sérþekkingu á verkefnastjórnun, til að gera sér grein fyrir mikilvægi hennar við undirbúning, framkvæmd og frágang stórverkefna.  Það er stórhættulegt að spyrða saman svona mörg verk í eina verkefnasyrpu án þess að hafa nokkra þekkingu á því, hvernig bezt er og hagkvæmast að standa að stjórnuninni. Hvers vegna er verið að búa til þetta pólitíska apparat, Betri samgöngur, þegar Vegagerðin er fyrir hendi og á lögum samkvæmt að sjá um stofnbrautir í þéttbýli ?  Er það til þess að koma hinu pólitísk gæluverkefni Borgarlínunni á koppinn, þótt fjárhagur borgarinnar sé nú með þeim endemum, að hún hefur ekki efni á Strætó, hvað þá "strætó á sterum", og er að koma þessu vonlausa fyrirbæri yfir á ríkið. Samfylkingin og fylgihnettir hennar í borgarstjórn er ekki bara fjárhagslegt vandamál vegna báknsútþenslu og bruðls, heldur samgönguvandamál, því að hún hefur gelt aðalskipulagið með fíflagangi eins og að fjarlægja mislæg gatnamót þaðan.  Í mörgum tilvikum eru þau hagkvæmasti og öruggasti kosturinn, og þess vegna fyrsti valkostur Vegagerðarinnar.  Þarna er sama sagan og í orkumálunum.  Rugludallar vinstrisins standa í vegi framfara.  Til að höggva á hnútinn þarf þá að koma til kasta Alþingis. 

 "Við samanburð á upplýsingum Vegagerðarinnar frá 2023 og gögnum samgöngusáttmálans kemur í ljós, að forsendur, verk- og tímaáætlanir sáttmálans byggja á veikum grunni."

Sáttmálinn og Betri samgöngur eru pólitísk hugarfóstur, þar sem umferðartæknileg þekking og almenn verkefnastjórnunarþekking koma lítið sem ekkert við sögu.  Slíkt ber eðli málsins samkvæmt feigðina í sér og ætti að spara skattgreiðendum stórfé með því að leysa hvort tveggja upp. 

"Fjármögnun verkefna samgöngusáttmálans er forsenda þess, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti með góðri samvizku axlað fjárhagslega ábyrgð á sáttmálanum.  Sveitarfélögin eru öll illa stödd fjárhagslega eftir að hafa tekið við fjölda verkefna frá ríkinu á síðustu áratugum án þess, að tilsvarandi fjármagn hafi fylgt.  Rekstur sveitarfélaganna, sem bera eiga þessa fjárhagslegu skuldbindingu, er þegar í járnum, og munu þau varla ráða við þann aukakostnað, sem hlýzt af samgöngusáttmálanum, hvorki á framkvæmdatíma né síðar, þegar rekstur kerfisins tekur við."

Þetta er skýringin á draugaganginum í kringum borgarlínu, sem lýst hefur sér í furðuvendingum á borð við samgöngusáttmála og Betri samgöngur, sem hvort tveggja er óþarft, ef allt er með felldu.  Hvort tveggja verður hengingaról sveitarfélaganna og Samgönguáætlunar Alþingis, sem sveltur illu heilli fyrir vikið. 

"5. Í uppfærðum samgöngusáttmála er gert ráð fyrir, að Betri samgöngur ohf. fari fyrir verkefnum sáttmálans og fái heimildir til lántöku.  Annars vegar verða það lán, sem sveitarfélögin ábyrgjast til framkvæmda og hins vegar lán með ríkisábyrgð til að fjármagna nauðsynleg húsnæðis- og lóðakaup og niðurrif vegna framkvæmda við stofnvegi.  Þar sem fjárhagur sveitarfélaganna allra er bágur, er nokkuð ljóst, að framkvæmdir verða að mestu fjármagnaðar með lántöku.  Sú ábyrgð, sem sveitarfélögin undirgangast í því efni, er gríðarlega mikil og óvissan einnig mjög mikil.  Auk þess virðist ekki vera gert ráð fyrir fjármagns- og vaxtakostnaði í kostnaðaráætlunum.  Sveitarfélögin eru hér sett í mjög erfiða stöðu, því [að] gríðarleg fjárhagsleg áhætta fylgir því að undirrita sáttmálann." 

Þetta nær engri átt.  Með allt á hælunum, hvað áætlanagerð varðar, á að þröngva sveitarfélögunum út í skuldafen, sem mun standa þeim fyrir þrifum í marga áratugi, á meðan örfáar hræður munu nota hugarfóstur Samfylkingarinnar, "strætó á sterum", sem er allt of fyrirferðamikill á samgönguásum höfuðborgarsvæðisins m.v. þær örfáu hræður, sem nota hann allt árið.   


Skólar Vesturlanda víða á villigötum

Hvergi á Vesturlöndum hefur grunnskólanum hrakað meira en á Íslandi, ef marka má PISA-niðurstöður.  Samt skellir kennaraforystan og menntamálayfirvöld skollaeyrum, og engin viðleitni er sjáanleg til úrbóta.  Af PISA-niðurstöðum er þó ljóst, að versnandi árangur grunnskólanema er þó vandamál víðar en hér, og kann einhvers konar tízkubylgju um breytta og slakari kennsluhætti að vera um að kenna.

Í leiðara The Economist um menntamál, 13. júlí 2024, mátti m.a. lesa þetta í þýðingu ritara (ekki gervigreindar):

Það er vel þekkt, að C-19 faraldurinn truflaði skólastarfið mjög.  Á tímabilinu 2018-2022 tafðist meðaltáningur í ríku löndunum um u.þ.b. 6 mánuði m.v. áætlaða framvindu í lestri og um 9 mánuði í stærðfræði samkvæmt OECD. Það, sem er á vitorði færri, er, að vandinn hófst löngu fyrir C-19.  Dæmigerður nemandi í OECD-landi stóð jafnaldra sínum 15 árum fyrr ekki á sporði í lestri og reikningi, þegar C-19 hófst.

Í Bandaríkjunum sýna próf til margra ára í stærðfræði og lestri, að árangur náði hámarki snemma á 2. áratugi 21. aldarinnar.  Síðan þá hefur meðalárangur þar annaðhvort staðið í stað eða honum hefur hrakað. Í Finnlandi, Frakklandi, Þýzkalandi og Hollandi o.fl. löndum sýna alþjóðleg próf, að árangri hefur lengi hrakað.  Hvað hefur farið úrskeiðis ? 

Ytri áföll hafa haft áhrif.  Margir hafa viljað flytja til Bretlands, og þeir tala fæstir ensku.  Farsímar trufla nemendur, svo að þeir lesa ekki heima.  C-19 faraldurinn setti allt á annan endann.  Margar héraðsstjórnir lokuðu skólum of lengi, hvattar af stéttarfélögum kennara, og börn glutruðu niður vananum að læra. Mætingar á mörgum stöðum eru lakari en fyrir C-19.  Bekkjardeildir hafa orðið hávaðasamari. 

Engu að síður bera menntayfirvöld mikla sök á stöðnuninni.  Í Bandaríkjunum t.d. voru umbætur í skólum einu sinni sameiginlegt málefni beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Núna er hægrið heltekið af menningarstríðs málflutningi, en margir vinstra megin stunda, það sem George W. Bush nefndi "hið mjúka ofstæki lítilla væntinga" og halda því fram, að skólastofurnar séu með slagsíðu í átt að minnihlutahópum og að það sé ómögulegt og siðlaust að gera sömu kröfur til allra nemenda.  Aðrir vilja heimavinnu og próf léttari eða sleppt vegna geðheilsu nemenda. 

Tízkuhugsun er andstaða festunnar.  Ein kenning er um það, að gervigreind muni gera hefðbundinn lærdóm minna gagnlegan, svo að skólar ættu að leggja áherzlu á "að leysa viðfangsefni", "gagnrýna hugsun" og nemendur, sem gengur vel að vinna í teymi.  Á grundvelli þessa hafa lönd tekið upp námsskrár, sem einblína á óljósa "þekkingu" og gera lítið úr staðreyndalærdómi sem gamaldags.  Nokkrir, m.a. Skotar, hafa séð nemendum hraka í reikningi sem afleiðingu.  Þeim, sem staðið hafa gegn þessari nýtízku, s.s. Englendingum, hefur gengið betur.

Stjórnvöld ættu að einbeita sér að grundvallar atriðunum.  Þau ættu að verja ströng próf, vinna gegn einkunnabólgu og skapa svigrúm fyrir einkaskóla til að auka valfrelsi.  Þau ættu að greiða kennurum samkeppnihæf laun til að geta ráðið góða kennara og reka slaka kennara, þótt það stríði gegn vilja stéttarfélaga.  Þetta þarf ekki að hækka kostnað, því að fámennar bekkjardeildir eru minna mikilvægar en foreldrar ímynda sér.  Færri og betri kennarar geta náð betri árangri en margir slakir kennarar.  Japanskir nemendur slá bandarískum jafnöldrum sínum við á prófum, þótt meðalskólastofan í grunnskóla í Japan sé með 10 fleiri borð en sambærileg í Bandaríkjunum. 

Annað verkefni er að safna saman og dreifa upplýsingum um, hvers konar kennslustundir gagnast bezt - verkefni, sem margar skólastjórnir hunza.  Stéttarfélög kunna að láta sér lynda, að litið sé á góða kennslu sem of dularfulla til að mæla, en börn líða fyrir það.  Skólakerfi á heimsmælikvarða, eins og í Singapúr, eru með stöðugar tilraunir í þessum efnum, misheppnast fljótt og halda áfram.  Önnur halda áfram með það, sem ekki virkar. 

Mikið er undir.  Í ríkum löndum fækkar starfsfólki, þegar meðalaldur þjóðar hækkar.  Framleiðni verður að vaxa til að viðhalda lífskjörum.  Þörf verður á vel þjálfum hugum til að fást við ný erfið viðfangsefni af viti, frá ójöfnuði til loftslagsbreytinga.  H.G. Wells, smásagnahöfundur og framtíðarspámaður, skrifaði, að saga mannkyns væri "kapphlaup á milli menntunar og hruns".  Það er kapphlaup, sem mannkynið hefur ekki ráð á að tapa.  Þetta var leiðari úr The Economist.

Að gera lítið úr vandanum, sem íslenzki grunnskólinn stendur frammi fyrir, eru grundvallar mistök yfirvalda menntamála á Íslandi og að setjast á sundurgreindar upplýsingar um PISA-prófin er uppgjöf.  Með óbreyttri stefnu menntamálaráðuneytisins bregðast íslenzk yfirvöld æskunni og gera sig sek um vanrækslu, sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar á flestum sviðum samfélagsins, minni framleiðniaukningar en nauðsynleg er, og lakari lífsgæða. 

        

 

  

 


Um próf

Í huga þessa skrifara er skóli á öllum stigum óhjákvæmilega tengdur prófum, enda þjálfa prófin nemendur í að sýna þekkingu sína á fögum heillar annar eða vetrar (tveggja anna).  Þessi þjálfun kemur sér iðulega vel í starfi síðar á ævinni.  Vitneskjan um, að próf yrði haldið til að skera úr um, hvort nemandanum yrði heimilað að færast upp um deild (og nær lokaprófi), virkaði alla tíð sem ágætis aðhald um að slaka ekki á.  Nám er ekki leikur, heldur vinna, sem krefst sjálfsaga.  Kennarar gerðu þekkingarkröfur, og nemendur lærðu að sama skapi að gera kröfur til sjálfra sín, vildu þeir á annað borð ná viðunandi árangri í skólanum.  

Engu er líkara en nú sé viðkvæðið í menntamálaráðuneytinu og á meðal kennaraforystunnar o.fl., að próf séu of íþyngjandi fyrir bæði nemendur og kennara, og bezt sé að trufla skólastarfið sem minnst með þeim.  Afleiðingin er sú, að nemendur þjálfast ekki í að taka próf, sem leiðir til þess, að þegar próf er loks lagt fyrir þá, þá verður niðurstaðan hörmuleg, eins og á PISA-prófunum, og kannski vantar líka þekkingargrunninn, a.m.k. í sumum skólum. Hverjum er greiði gerður með þessum ósköpum ?  Alla vega ekki nemendum, sem virðast koma grænir á bak við bæði eyrun út úr grunnskóla, og enginn þykist vita, hvernig á því stendur.  Enginn samanburður á milli deilda sama skóla né á milli skóla er leyfður, svo að erfitt er um vik að fá heildarsýn yfir stöðuna eða átta sig á, hvaða kennsluaðferðir eru betri en aðrar.  Þetta hlýtur hins vegar að leiða til þess, að framhaldsskólarnir fái til sín nemendur, sem eiga á brattann að sækja, ef þá hreinlega er ekki slegið af kröfum.  Samfélagslega er þetta slæmt, því að sleifarlag í grunnskóla setur tóninn um allt framhaldið, og atvinnulífið hefur úr minna bitastæðum einstaklingum að moða, og þeir munu fyrr eða síðar reka sig á vegg. 

Meyvant Þórólfsson þekkir þessi mál gjörla, enda prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum.  Af fjölmörgum greinum hans í Morgunblaðinu að undanförnu er ljóst, að hann væri vel fallinn til að leiða "grundvallarendurskoðun" á grunnskólakerfinu og til að semja nýja námsskrá, sem er bráðnauðsynlegt. 

 Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024 með því dýrafræðilega heiti:

"Landspróf og slíðurhyrnd jórturdýr - söguvitund".

Hún hófst þannig:

"Árið 1957 birtist svohljóðandi prófverkefni á landsprófi miðskóla í náttúrufræði:

"Nefnið 8 tegundir slíðurhyrndra jórturdýra.  Takið fram um hverja tegund, hvort hún er til villt eða tamin eða er aldauða og um villtar tegundir, hvar þær lifa."

Spurningin, hvort tiltekin tegund slíðurhyrndra jórturdýra finnst villt, tamin eða sé aldauða, var vissulega vel fallin til svars, þ.e. auðvelt að gefa fyrir rétt eða rangt.  Réttmætið var hins vegar lítið, af því [að] spurningin hjálpaði lítið við að meta raunverulega þekkingu og skilning nemenda á náttúruvísindum." 

Því verður þó ekki neitað, að sá nemandi, sem svarað hefur þessari spurningu rétt, hefur þetta tiltekna námsefni á valdi sínu, og fyrir það á hann skilda umbun á prófi.  Hann er jafnframt líklegur til að geta skrifað stutta ritgerð um, hvenær og hvar slíðurhyrnd jórturdýr komu fram, og hvers vegna hver tegund útdauðra dýra hafi liðið undir lok, ef um þetta var fjallað í námsbókinni.  Til að prófa þekkingu nemenda á þessu tiltekna námsefni var spurningin ekki slæm.  Er ekki lengur ætlazt til, að nemendur tileinki sér efni námsbókanna ?  Gæði námsbókanna er svo allt annað mál.

"Á 3. áratugi 20. aldar náðu breytt viðhorf yfirhöndinni, og nýjar matsaðferðir festust í sessi sbr titil ritsins "Nýjar prófaðferðir" frá 1922 eftir Steingrím Arason.  Í stað munnlegra yfirheyrslna voru tekin upp samræmd, skrifleg próf, sem ætlað var að fyrirbyggja "allt handahóf" og afstýra því, að matsniðurstöður yrðu komnar undir áliti og geðfelldni kennara og prófdómara, eins og ritstjórar Skólablaðsins bentu á.

Steingrímur og félagar vildu þannig forðast skekkjur, er fylgdu jafnan huglægu mati, einkum svonefnd geislabaugsáhrif (halo effect).  Þau lýsa sér þannig, að fyrri vitneskja um nemanda getur skekkt matsniðurstöður, hvort sem sú vitneskja er jákvæð eða neikvæð fyrir nemandann.  Í fámenni íslenzks samfélags vissu kennarar og prófdómarar töluvert um bakgrunn hvers barns eða unglings, sem metinn var, og það gat augljóslega skekkt matsniðurstöður.  Slíkur vandi þekkist reyndar enn í íslenzku skólakerfi, þegar kemur að mati og einkunnagjöf við lok grunnskóla.

Steingrímur Arason taldi taldi gerð prófa, sem hann hafði kynnzt í námi við Columbia-háskóla í New York, tryggustu leiðina til að forðast slíkar skekkjur og stuðla þannig að heiðarlegu og hlutlægu mati.  Hann barðist fyrir gildi prófanna, sem réttmætra matstækja og þar með jöfnuði, nýbreytni og afnámi kennsluhátta, er stuðluðu að "þululærdómi". 

 Það var ekki skrýtið, að viðhorfin til skólanna breyttust á 3. áratugi 20. aldar, því að þetta var fyrsti áratugurinn eftir rothöggið á lénsskipulagið, aðalskerfið, sem leið undir lok í heimsstyrjöldinni 1914-1918. Þar með leystust ný öfl úr læðingi.  Á Vesturlöndum var borgaralegt lýðræðiskerfi aðalkerfið, sem við tók, en í upplausn þjóðfélagsbreytinganna náðu ofstækisöfl sums staðar undirtökunum, t.d. kommúnistar í Rússlandi og fasistar á Ítalíu, en Bjórkjallarauppreisn nazista Adolfs Hitlers í München 1923 var kæfð í fæðingu og Adolf stungið í fangelsi, þar sem hann ritaði "Mein Kampf", stefnumörkun hins þjóðernislega sósíalistaflokks þýzkra verkamanna.

Skriflegu prófin höfðu margt til síns ágætis, sem munnlegu prófin höfðu ekki, en samt var haldið áfram með munnleg próf, t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem munnlegt próf var í öllum stúdentsprófsgreinunum ásamt skriflegu prófi 1969, ef ritari man rétt. 

Það er ekkert vit í að afnema skrifleg próf og taka þess í stað upp e.k. símat kennara, því að þá er búið að innleiða hættu, sem Steingrímur Arason vildi sneiða hjá og fólst í mögulegri óhlutlægni kennara gagnvart nemendum, t.d. frændhygli, (geislabaugsáhrif). 

Nú er íslenzki grunnskólinn í lægð, eins og PISA-prófin bera vitni um, og á meðan svo er, er mjög bagalegt að hafa ekki samræmd skrifleg próf á þessu skólastigi, en þau gætu hjálpað til við að feta umbótabraut.  Við svo búið má ekki standa. 

"Þegar leið á öldina [20.], var engu líkara en allt færi úr böndum.  Samkvæmt ákvæðum fræðslulaganna frá 1946 átti landspróf miðskóla að "jafna stöðu unglinga til aðgangs að æðri menntun" og því eðlilegt, að hlutfall þeirra, sem þreyttu prófið, færi sífellt vaxandi; í upphafi gengust færri en 10 % nemenda undir landspróf, á 6. áratuginum um 20 %, og fjöldinn var kominn í þriðjung árgangs um 1970.

En á sama tíma skaut óvæntur púki upp kollinum.  Hann birtist sem áköf bóknámsdýrkun ásamt framsetningu prófverkefna af því tagi, sem lýst var hér á undan.  Spurt var um ótal smáatriði, sem töldust vel fallin til svars, en sögðu jafnan lítið um raunverulega kunnáttu nemenda."

  Ritari þessa pistils mundi telja líklegra, að nemandi, sem kynni góð skil á smáatriðum, hefði aðalatrið fagsins á valdi sínu en sá, sem flaskar á smáatriðunum.  Á Landsprófi stóðu allir nemendur, sem vildu halda námi áfram, eins jafnt að vígi og frekast var kostur, því að þeir voru allir metnir á sama mælikvarða.  Nú er mismikil "bólga" í einkunnagjöf kennara, og kemur það niður á nemendum, þar sem "bólgan" er minni, við val inn í framhaldsskólana.  Að leggja niður "samræmd" skrifleg próf á lokaári grunnskóla er þess vegna skref aftur á bak m.v. hagsmuni nemenda.  

Að lokum skrifaði Meyvant:

"Skólafólk virðist enn brennt af þessum óförum.  Í handbókinni "Fjólbreyttar leiðir í námsmati" frá árinu 2019, sem má finna á leslista í kennaranámi nú á dögum, er því haldið fram, að margir hafi efasemdir um samræmd próf.  Þau stýri kennslu og valdi ofuráherzlu á staðreyndanám auk þess, sem þau leiði af sér einhæfa kennsluhætti.  Í skýrslu menntamálayfirvalda frá 2020 um framtíð slíkra prófa kveður við svipaðan tón: "Prófin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að stýra um of skólastarfi, að aðeins sé prófað í bóklegum greinum og þeim atriðum, sem auðvelt er að meta."

Um miðjan 8. áratuginn var landspróf aflagt og samræmd lokapróf tekin upp.  En þar með hvarf ekki púkinn, nema síður væri.  Alla tíð síðan hefur verið tekizt á um mat að loknu skyldunámi, eðli þess og þátt í aðgengi að framhaldsskólanámi.  Engum dylst, að faglega útfærð lokapróf stuðla að gæðum náms í mikilvægum námsgreinum, eins og þeim, sem prófað er úr í PISA og TIMSS.  Hvernig sem öllu er á botninn hvolft, þá á hver nemandi skilið að fá sig metinn á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt í námsgreinum, eins og stærðfræði, náttúruvísindum og móðurmáli, þegar grunnskóla lýkur.  Að mati undirritaðs virðist nýtt námsmatskerfi, Matsferill, ekki uppfylla þau skilyrði."

Ritari þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um niðurstöðu hans í lokin.  Hlutverk grunnskóla er að búa nemendur undir lífið og inngöngu í framhaldsskóla.  Grunnskólakennarar geta þess vegna ekki leikið lausum hala og kennt eins og þeim þóknast.  Það má koma til móts við þá með því að takmarka fagfjöldann, sem prófað er í samræmt, við 4 greinar, og ættu PISA-prófgreinarnar að vera þeirra á meðal.  

Með menntamálaforystu og kennaraforystu af því tagi, sem Íslendingar búa við nú um stundir, er ekki kyn, þótt keraldið leki.  

  

 

 

  

 

 


Ráðherrann ráðalausi

Ef Ísland tæki ekki þátt í PISA-prófum OECD, væri hörmuleg frammistaða íslenzka grunnskólans við menntun grunnskólabarna ekki á almennu vitorði.  Dauðyflisháttur menntamálaforystunnar gagnvart niðurstöðum PISA er hins vegar yfirþyrmandi, því að hún hreinlega stingur hausnum í sandinn og lætur eins og Ísland geti vel við unað að vera með grunnskóla í ruslflokki, hvað þekkingarmiðlun varðar á alþjóðlegan mælikvarða. Gæðum samfélagsins mun þá hraka, og þeim er þegar tekið að hraka.  Það verður dýrkeypt að láta menn komast upp með alls konar fúsk.  Eitt dæmið er Samgöngusáttmálinn.  Sýnt hefur verið fram á, að útreikningar hans hvíla ekki á réttum forsendum og almennilegt verkefnisstjórnunarskipulag er ekki fyrir hendi hjá "Betri samgöngum".  Sú ökuferð mun þess vegna óhjákvæmilega lenda úti í skurði. 

Morgunblaðið hefur ekki látið deigan síga við gagnrýni sína á þá, sem ábyrgðina bera á leikskólum, grunnskóla og framhaldsskólum. Forystugrein blaðsins 4. september 2024 bar lýsandi ástandi vitni, ástandi, sem lýsir alvarlegri þjóðfélagsmeinsemd, en er með algerum ólíkindum árið 2024:

"Menntamál í ólestri"

og undirfyrirsögnin lýsti örvæntingu ritstjórnarinnar með stöðu, sem er samfélagsógn: "Tómlæti stjórnvalda um uppfræðslu grunnskólabarna er óþolandi".

"Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað mikið um menntamál og þá fyrst og fremst málefni grunnskólans.  Þar hefur námsárangri hrakað ár frá ári í nær aldarfjórðung, og reglulegum viðvörunum þar um hefur annaðhvort ekki verið sinnt eða með augljóslega röngum aðferðum. Með hverjum deginum hafa svo birzt verri fréttir, nú síðast, að læsi barna hraki stöðugt og að hluti barna þekki ekki einu sinni stafrófið í lok 1. bekkjar."

Þögn kennara og kennaraforystunnar um þessa uggvænlegu þróun veldur ugg.  Kennaraforystan gerir lítið úr gagnsemi samræmdra prófa, en þau geta þó verið afar gagnleg fyrir nemendur og kennara og foreldra.  Kennaraforystan virðist ekki vilja sjá neinn samanburð á milli skóla, og það torveldar auðvitað umbætur á náminu.  Hún virðist neita því, að draga megi lærdóma af PISA, en hangir á, að íslenzkum nemendum líði tiltölulega vel í skóla.  Metnaðarleysið keyrir um þverbak.

"Ekki er þó unnt að bera við fjársvelti, en kennurum og öðru starfsliði hefur á þessum tíma fjölgað mun örar en nemendum.  Sérstaklega er þó kvartað undan því, að stjórnvöld hafa afnumið nær allar samræmdar mælingar á námsgetunni, en vilja hafa leynd um þær mælingar á frammistöðu nemenda og skóla, sem þó fara fram undir merkjum PISA og OECD."

Það er óvitaháttur af stjórnvöldum að gera sig sek um þetta, því að þar með taka þau sitt aðalstjórn- og eftirlitstæki með skólastarfinu og fleygja því út í hafsauga.  Það er ekki kyn, þótt keraldið leki.  Kenneraforystan er metnaðarlaus fyrir hönd nemendanna og vill hafa skólana á sjálfstýringu, þar sem þekkingarlegur árangur þeirra er aukaatriði, og menntamálaráðuneytið er gagnslaust í mótunar- og eftirlitshlutverki sínu, enda er íslenzki grunnskólinn ekki nema svipur hjá sjón frá því, sem áður var.  Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, kippti stoðunum undan honum með metnaðarlausri og skaðlegri námskrá.  

"Aftur á móti hefur tómlæti menntamálaráðherra vakið nokkra furðu; grunnskólarnir hafa tekið til starfa á ný, en ekkert bólar á viðbrögðum.  Eða jú, í gær kvaðst ráðherrann reikna með því, að senn yrði sent út fundarboð fyrir stóran vinnufund."

Þessi ráðherra er hugmyndasnauður og villuráfandi sauður, sem sýnir ekki einu sinni viðleitni til að snúa málum til betri vegar innan grunnskólans, enda skilur hann ekki, hvar skórinn kreppir. 

"Hér duga augljóslega engin vettlingatök. Hér ræðir um uppsafnaðan og vanræktan vanda grunnskólans, sem kallar á grundvallarendurskoðun hans.  En það er merkilegt, að í þeirri umræðu, sem þó hefur átt sér stað, hefur lítið borið á spurningum um ýmsa grunnþætti, s.s. skipan grunnskólans, námskrá, aðferðir eða annað af því taginu. 

Var til heilla að færa grunnskólann til sveitarfélaga ?  Var hringlið með námskrána til bóta ?  Gætu nýjar, en óreyndar kennsluaðferðir, eins og "byrjendalæsi", hafa valdið einhverju um vandræðin ?" 

Núna eru viðhöfð einskær vettlingatök, og menntamálaráðuneytið er ófært um að veita leiðsögn um "grundvallarendurskoðun" á grunnskólanum.  Þótt ætlunin með færslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga kunni að hafa verið að ýta undir fjölbreytileika, hefur lítið verið um samninga við einkafyrirtæki um að taka að sér kennsluna í verktöku fyrir sveitarfélögin með eða án aukakostnaðar fyrir foreldra.  Það þarf að koma á heilbrigðri samkeppni á milli skóla, og þá er frumskilyrði að hafa raunveruleg samræmd próf og niðurstaða þeirra niður á bekkjardeildir (ekki nemendur) ásamt PISA-niðurstöðum verði gerðar opinberar.  Um þetta þarf að kveða á um í lögum, því að menntamálaráðuneytið hefur tekið sér vald til að hindra þetta, og kennaraforystan er þversum í málinu, en á meðan "grundvallarendurskoðun" með nýrri lagasetningu og nýrri alvöru námskrá er ekki gerð, mun allt hjakka í sama farinu og Ísland jafnvel lenda á botninum í PISA. Það yrði mesta þjóðaráfall frá hruni fjármálakerfisins 2008. 

  

 


Skynsamleg tillaga kunnáttumanns virt að vettugi

Hvers vegna er gagntillögu reynds íslenzks  samgönguverkfræðings um "létta hliðsetta borgarlínu", sem útheimtir mun minni fjárfestingar og veldur miklu minni tafakostnaði á framkvæmdatíma en miðjusetta borgarlínan, sópað út af borðinu sem ótækri eða ógildri, jafnvel af hinum ágæta stjórnanda, bæjarstjóranum í Kópavogi.  Það olli vonbrigðum, því að vissulega er um raunhæfan valkost að ræða. Þegar  takmarkað fé er til ráðstöfunar í mörg verkefni, eru ýmsar viðurkenndar leiðir farnar til að forgangsraða fénu, ef pólitísk hentistefna ræður ekki ferðinni eða aðrar hundakúnstir. Ein er t.d. að forgangsraða eftir arðsemi framkvæmda, og ef um umferðarmannvirki er að ræða, er að sjálfsögðu reiknaður með áætlaður kostnaður af slysum fyrir og eftir framkvæmd. Þetta er ekki hægt að gera fyrir borgarlínuna, því að arðsemi hennar hefur ekki verið reiknuð, en að líkindum verður stórtap af henni, og þess vegna er ótímabært að ráðstafa fé til hennar.  Henni er þess vegna pakkað inn í umbúðir, sem heita "Samgöngusáttmáli, og smyglað þannig inn á framkvæmdaáætlun.  Þetta er verk Samfylkingar og pírata, enda óeðlileg vinnubrögð. Þörf fyrir borgarlínu gæti komið síðar á þessari öld, og þá er hægt að setja hana á braut yfir öðrum mannvirkjum eða neðan jarðar.  Núverandi hugmyndafræði borgarlínu er úrelt og sogar til sín fjármagn, en ekki farþega. 

Morgunblaðið lætur ekki sjónhverfingar ósvífinna  stjórnmálamanna villa sér sín.  Þar birtist skörp forystugrein 22.08.2024 undir fyrirsögninni:

    "Borgin blekkt".

Hún hófst þannig:

"Yfirgengilega orlofssugan, Dagur B., formaður borgarráðs, virðist enn halda á lofti hinu óskiljanlega verkefni sínu um "borgarlínu", og snýtir það fyrirbæri óendanlegum fjármunum úr nösum fjármálaráðherrans, og virðist þá engu skipta, hver það er, sem situr í fjármálaráðherrastóli það augnablikið.

Á borgarstjóratíð sinni lofaði "orlofssugu óhemjan" því margoft og reglubundið og helzt svona 3 mánuðum fyrir hverjar kosningar, að einmitt það kjörtímabil, sem senn færi nú í hönd, myndi borgin í allri sinni góðsemi og takmarkalausri framsýni leggja Miklubrautina loks í stokk, á meðan borgin yrði jafnframt á fleygiferð um leið að leggja "borgarlínuna", sem myndi þó í bezta falli flytja svo sem 4 % þeirra, sem fara þyrftu um borgina.  Og þá byndu borgaryfirvöld vonir við, að fullkomlega væri búið að eyðileggja alla bifreiðaumferð í borginni og trylla almenna borgara með himinháum gjöldum frá hverju horni til horns og margt benti til, að þeim myndi einnig takast í sömu andrá að setja borgarsjóð Reykjavíkur á höfuðið, eins og meirihlutinn hefði lengi stefnt að."

Loforðaflaumur stjórnmálamanna um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu einkennist af litlu viti, engri framsýni og stórkarlalegum loftköstulum um hundruða milljarða ISK verkefni á sama tíma og Samfylkingin hefur tekið út af aðalskipulagi borgarinnar mannvirki, sem með tiltölulega litlum kostnaði mundu greiða mjög úr umferðarteppum í borginni á fljótvirkan hátt, ekki sízt, ef samhliða yrði fjölgað akreinum efir hentugleikum.  Hér er átt við mislæg gatnamót.  Óvitarnir sóa fjármunum í að fækka akreinum og vilja grafa göng og leggja vegstokka.  Að skipuleggja umferðarkerfið er ekki á færi skammsýnna og sveimhuga stjórnmálamanna, sem ekki kunna með fé að fara, heldur er þetta eðlilegt viðfangsefni sérfræðinga í umferðarfræðum. Hvers vegna að mennta umferðarverkfræðinga, ef þekking þeirra er sniðgengin, en amatörar látnir um stefnumörkun ? Úr þekkingaráttinni hafa komið ágætar tillögur, sem kosta aðeins brot af draumórum stjórnmálamanna.  Ef ekki verður farið að greiða úr umferðarvandanum á höfuðborgarsvæðinu með arðsömustu  fjárfestingunum þegar í stað, blasir við umferðartæknilegt og fjárhagslegt skipbrot í boði Samfylkingarinnar. 

"Þegar upp komst um strákinn Dag B., og hvernig hann hefði hagað sér, er hann saug ólöglegar orlofsgreiðslur til sín og sinna upp úr botnlausum borgarsjóði, sem hann hafði gert gjaldþrota, þá svaraði hann, eins og aðeins sá einn getur, sem kann ekki að skammast sín.  Hann sagði, að þessar ótrúlegu orlofsgreiðslur til sín hefðu komið "algjörlega sjálfvirkt", eins og þegar menn vinna hæsta vinning í lottóinu.  En það er reyndar einnig þekkt úr lottóinu, að þegar aðeins einn fær risavinninginn, getur hann orðið stór, eins og í orlofstilviki Dags B. Eggertssonar." 

  Téður Dagur hefur fyrir löngu sýnt og sannað, að þar fer algerlega ábyrgðarlaus stjórnmálamaður.  Hann hefur reynzt vera ótrúlega dýr á fóðrum, en skaðlegust hefur "borgarlínan" hans reynzt, því að hún er látin móta skipulagsmál borgarinnar með lóðum á dýrum þéttingarreitum, og nágrannasveitarfélögin hafa undirgengizt helsi, sem felst í banni við að brjóta nýtt land til byggðar utan ákveðinna marka.  Þau verða að brjótast undan þessu helsi, en skipulag "borgarlínunnar" ætti að verða banabiti Samfylkingarinnar.  

 


Sleifarlag á orkusviði

Það þurfti enga mannvitsbrekku til að sjá fyrir kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna virkjunarleyfis vinds ofan Búrfells. Það virðist vera sleifarlag í samskiptum Landsvirkjunar og orkuráðherrans við þennan hagsmunaaðila.  Orkuráðherranum Guðlaugi Þór Þórðarsyni virðast vera mjög mislagðar hendur, enda hefur engin ný  virkjun yfir 10 MW komizt á framkvæmdastig á hans dögum í loftslags- orku og umhverfisráðuneytinu.  Ráðherrann virðist skorta hugmyndaflug til að ná frumkvæði, þegar á þarf að halda, t.d. í samningaviðræðum.  Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við ýmsa viðsemjendur sína hefur heldur ekki einkennzt af samningalipurð og kurteisi. Þetta tvíeyki er illa fallið til að liðka fyrir nýjum virkjunum, þar sem fyrirstaða er.  Íslands óhamingju verður allt að vopni, var einu sinni sagt.

Óskar Bergsson birti sláandi frétt í Morgunblaðinu 28.08.2024 af ömurlegri stöðu raforkumála Vestfjarða, en ekki er að sjá, að þessi volaði orkuráðherra hafi orðið Vestfirðingum að nokkru gagni, en þó hafa þeir leitað til hans með sín mál.  Þessi sjónumhryggi riddari virðist ekki eiga erindi sem erfiði í pólitíkina, en þó bauð hann sig fram gegn sitjandi formanni á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, enda vantar ekki gortið og sjálfshælnina.  Téð frétt bar fyrirsögnina:

"Rafmagn á Vestfjörðum framleitt með olíubrennslu".

Hún hófst þannig:

"Orkubú Vestfjarða hefur brennt 60-70 þúsund lítrum af olíu vegna rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og í Bolungarvík [sem ekki fá rafmagn frá stofnkerfi landsins, þegar ein stofnlína er óvirk - innsk. BJo].  Ástæðan er sú, að Landsnet vinnur nú að fyrirbyggjandi viðhaldi á Vesturlínu, og því hefur Orkubúið þurft að grípa til olíubrennslu [í olíukyntum kötlum hitaveitanna - innsk. BJo] og skerðinga á raforku.  Landsnet hefur einnig þurft að brenna 45-50 þúsund lítrum í ágúst [2024] vegna viðhaldsins."

Þessi olíubrennsla til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum um hásumar er vegna þess, að virkjanir Vestfjarða anna álaginu ekki þá, hvað þá yfir veturinn.  Þrátt fyrir þetta ófremdarástand gerist lítið í virkjanamálum Vestfirðinga.  Hvalárvirkjun var seinkað eftir offors nokkurt, og téður ráðherra virðist hvorki hreyfa legg né lið til að greiða götu Vatnsdalsvirkjunar, eins og Orkubúið hefur þó farið fram á.  Afturhaldið heldur því enn fram, að næg umhverfisvæn orka sé í landinu, en nú ríkir mikill kvíði fyrir komandi vetri, því að ekkert þriggja stærstu miðlunarlónanna mun ná að fyllast í haust og munar talsverðu.  Óreiðan og óstjórnin er slík, að helzt lítur út fyrir, að reisa verði gasknúið raforkuver á Íslandi til að leysa bráðan aflvanda. 

 "Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að í tilvikum sem þessum hafi Landsnet heimild til að skerða flutning til notenda, sem séu með samninga um skerðanlegan flutning.  Hann tekur undir orð Kristjáns Jóns Guðmundssonar, skrifstofustjóra rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði, sem lét þau orð falla í Morgunblaðinu sl. mánudag [26.08.2024], að ef búið væri að virkja í Vatnsfirði, hefði verið óþarfi hjá Landsneti að skerða flutning á raforku til Vestfjarða.  [Landsnet mun áfram verða að taka straum af Vesturlínu vegna viðhalds og viðgerða, en það mun ekki valda olíubrennslu, eins og nú, eftir að ný almennileg Vestfjarðavirkjun kemst í gagnið.]

"Það er ekki nægjanleg orka fyrir hendi, þegar eina flutningslínan inn á svæðið er straumlaus.  Það er óásættanlegt, að heill landshluti hafi ekki nægjanlegan aðgang að orku.  Ástæða þess, að Orkubú Vestfjarða hefur haldið Vatnsdalsvirkjun svo mikið á lofti í umræðunni er, að hún leysir umrætt vandamál, um leið og hún eykur afhendingaröryggi um 90 %.  Virkjunin er nálægt tengipunktinum í Mjólká, þar sem 90 % af orkunotkun Vestfirðinga fara um.  Verði virkjunin að veruleika, þarf ekki að bíða eftir tvöföldun flutningslínunnar inn á Vestfirði eða nýrri línu í tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og uppbyggingu nýrra virkjana þar."

Ef ráðizt verður strax í hönnun nýrra virkjana á Vestfjörðum af myndarskap, t.d. í Vatnsfirði, þar sem orku-, loftslags- og umhverfisráðherra virðist reyndar draga lappirnar við að breyta friðlýsingu í þágu hagkvæmrar og umhverfisvænnar virkjunar, þá má fresta Vestfjarðalínu 2 lengi.  Hana ætti að leggja í jörðu norðan Gilsfjarðar, svo að rekstraröryggið verði fullnægjandi.  Sinnuleysi orkuráðherrans vegna orkumálefna Vestfirðinga er yfirþyrmandi, því að íbúar og fyrirtæki búa við miklu meira hamlandi skilyrði í orkumálum en annars staðar á landinu þekkist, og er þá langt til jafnað.  Loftslagsráðherrann hlýtur að sjá, að með umbótum í orkumálum Vestfirðinga mun talsvert draga úr losun koltvíildis.  

"Þrjú fyrirtæki á Vestfjörðum hafa orðið fyrir skerðingu á raforku vegna viðhaldsins á Vesturlínu: Rækjuverksmiðjan Kampi, Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal og Orkubú Vestfjarða, þar sem skerðingin var mest.  Orkubúið kaupir skerðanlegan flutning vegna rafkyntra hitaveitna í sveitarfélögunum.

"Á öllum þessum stöðum þarf í tilvikum sem þessum að keyra olíukatla til að halda húsum heitum á þessum stöðum", segir Elías.  

Í langtímaáætlunum Landsnets stendur til að tvöfalda Vesturlínu að hluta.  Þær áætlanir miða við, að búið verði að byggja nýjar virkjanir og tengja þær inn á tengipunkt í Ísafjarðardjúpi."

Þar sem Vestfirðir njóta ekki hringtengingar við stofnkerfi raforku, eins og aðrir landshlutar hafa notið frá lokun hrings Byggðalínu, þá er furðulegt, að ríkisvaldið skuli ekki hafa beitt sér meira fyrir eflingu rafmagnsframleiðslu innan Vestfjarða en raun ber vitni um.  Vestfirðingar þurfa einfaldlega að lágmarki að verða sjálfum sér nógir um rafmagn.  Þeir eiga hönk upp í bakið á ríkisvaldinu að þessu leyti, ef svo má segja.  Þeir hafa vissulega undanfarið farið á fjörurnar við ríkisvaldið, en er þá mætt með súðarsvip og dauðyflishætti.  Það er vissulega svo, að í ýmsum ráðherrastólanna virðast sitja hrein dauðyfli, sem ófær eru um að veita nokkra raunverulega forystu, en á bekk stjórnarandstöðunnar er útlitið ekki gæfulegra.  Margir þeirra, sem gefa kost á sér til forystu í pólitíkinni, gera það án þess, að séð verði, að þeir eigi þangað nokkurt erindi. Þjóðfélagið famleiðir ekki lengur forystusauði.  Það er alvarlegt mál.    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   


Óbeysið verður það

Landsmenn hafa gáttaðir fylgzt með sjálftöku fyrrverandi borgarstjóra Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar, á MISK 10 orlofsgreiðslu 10 ár aftur í tímann, sem mun vera einsdæmi á Íslandi fyrr og síðar, enda téður Dagur engum líkur.  Hann gegndi á tímabilinu æðstu stöðu Reykjavíkurborgar.  Hver hélt þá utan um orlofstöku hans ?  Enginn veitti honum heimild til að fara í orlof, og enginn hefur hafnað orlofsbeiðni hans.  Menn í slíkum stöðum leyfa sér ekki slíkt framferði að safna upp orlofi og senda síðan reikning 10 ár aftur í tímann fyrir orlofi, sem ekkert eftirlit var með, hvort var tekið eður ei.  Hér er á ferðinni ótrúleg peningagræðgi og siðleysi.  

Slíku fólki er í engu treystandi, allra sízt fyrir opinberum fjármunum.  Vitað var, að óreiða hefur ríkt í fjármálum Reykjavíkur í stjórnartíð þessa manns, svo að borgin nýtur ekki lengur lánstrausts.  Nú stefnir í, að sá stjórnmálaflokkur, sem þessi óreiðupési hefur boðið sig fram til almannaþjónustu fyrir, Samfylkingin, muni jafnvel leika aðalhlutverkið við næstu stjórnarmyndun, og téður Dagur þá jafnvel sitja á þingi fyrir flokkinn.  Þess vegna vekur þögn formanns þessa flokks, Kristrúnar Frostadóttur, alveg sérstaka athygli, því að með þögn sinni um þetta hneykslismál er hún að leggja blessun sína yfir sukk og svínarí í umgengni við opinbert fé.  Bankadrottningin þáði stórfé sem bónus frá bankanum, sem hún starfaði hjá, þótt óljóst sé fyrir hvað, og taldi þetta fram til skatts með þeim hætti, sem skattayfirvöld sættu sig ekki við.  Fjárhagslegu siðgæði virðist svo ábótavant í forystu Samfylkingar, að flokkinum sé ekki treystandi fyrir horn.

Morgunblaðið gerði þessum borgarstjórablús allgóð skil.  Forystugrein blaðsins 19. ágúst 2024 bar yfirskriftina:

"Viðskilnaður fyrrverandi borgarstjóra-Er sjálftakan ásættanleg að mati Samfylkingar ?"

"Þegar Morgunblaðið grennslaðist fyrir um, hvernig þessum málum væri háttað hjá helztu sveitarfélögum öðrum og hjá ríkinu, kom í ljós, eins og við var að búast, að orlofsuppgjör Dags. B. Eggertssonar er algert einsdæmi. 

Uppgjörið við fyrrverandi borgarstjóra og raunar einnig aðstoðarmann hans vegna borgarstjóraskiptanna er sérkennilegt af fleiri ástæðum.  Þegar samið var um nýtt meirihlutasamstarf, lá fyrir, hvenær þáverandi borgarstjóri myndi hætta.  Það kom engum á óvart, og þess vegna hefði fyrrverandi borgarstjóri tæplega þurft á starfslokagreiðslum að halda vegna mismunar á launum borgarstjóra og launum formanns borgarráðs.  Þá hefði hann einnig getað tekið orlofsdagana sína, hefði hann talið, að hann ætti þá 10 ár aftur í tímann.

Hið sama gildir um aðstoðarmann fyrrverandi borgarstjóra, Diljá Ragnarsdóttur, áður kosningastjóra Samfylkingarinnar. Diljá var ráðin sem aðstoðarmaður ári áður en Dagur átti að hætta, en safnaði á þeim tíma réttindum, sem við starfslok námu á 8. milljón ISK vegna biðlauna og ótekins orlofs.  Með biðlaunum Dags eru greiðslur til borgarstjóra og aðstoðarmanns hans, sem aðeins hafði starfað í ár, hátt á 3. tug milljóna ISK vegna borgarstjóraskiptanna.  Má það teljast með miklum ólíkindum." 

Þessi frásögn varpar ljósi á það, hvernig Samfylkingin hleður gjörsamlega óverðskuldað skattfé almennings undir hlöðukálfa sína.  Tekur framferðið út yfir allan þjófabálk, enda siðlaust og að margra mati löglaust. Fyrrverandi borgarstjóri átti engin biðlaun að fá, því að hann gekk beint í starf formanns borgarráðs.  Ósvífnin og græðgin ríða hér ekki við einteyming, og það á líka við um hinn hlöðukálfinn í þessari sögu.  Hún var ráðin til tilgreinds stutts tíma sem aðstoðarmaður borgarstjóra.  Til hvers í ósköpunum, úr því að hann notaði þá ekki tækifærið til orlofstöku ?  Umsamin biðlaun hennar og orlofsinnistæða til greiðslu eru úr öllu hófi fram ?  Samfylkingarforkólfum er ekki treystandi fyrir horn, þegar kemur að opinberum fjármunum.  Samfylkingin er rotinn stjórnmálaflokkur.  Það hefur formaður flokksins staðfest með þögn sinni.

 "Samfylkingin hlýtur að þurfa að greina frá því, hvort þessi viðskilnaður er ásættanlegur og þar með, hvort þetta er það, sem vænta má, nái flokkurinn stjórnartaumunum í landsstjórninni í næstu kosningum.  Þetta er sérstaklega brýnt í ljósi þess, að skoðanakannanir mæla flokkinn nú stærstan, og líkur standa til, að formaður hans muni leitast eftir að leiða landssjórnina að kosningum loknum.  Almenningur á rétt á að vita, hvaða vinnubrögð Samfylkingin telur ásættanleg."

Almenningur hefur þegar fengið svar við þessari áleitnu spurningu, því að með þögninni hefur formaður Samfylkingar gefið hlöðukálfum sínum til kynna, að flokkurinn agnúist ekki út í sjálftöku úr opinberum sjóðum, enda verði "allir skattstofnar nýttir til fulls".  

 


Sjálfstæðinu í loftslagsmálum fórnað 2009

Ekki þarf að rekja sorgarsögu vinstri stjórnarinnar 2009-2013, en hún vann mörg óþurftarverk, enda þurfti allt undan að láta hjá henni, svo að málið eina fengi framgang.  Enginn fer í grafgötur um, að það var að þóknast stækkunarkommisarnum í Brüssel í einu og öllu.  Þar með var látið af sjálfstæðri loftslagsstefnu í íslenzka stjórnarráðinu og fórnað sterkri samningsstöðu, sem fólst í einstaklega háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsmanna, m.a. til húshitunar og til að knýja málmframleiðslu, sem yfirleitt notaði raforku úr kolaorkuverum.  Þarna nýttu Íslendingar sér auðvitað sérstaka samkeppnishæfni landsins á sviði vatnsfalla og jarðgufu.  Vinstri stjórnin gaf þetta allt upp á bátinn og hengdi Ísland aftan í loftslagsstefnu Evrópusambandsins, sem var algerlega óraunhæft og allt of dýrt, en þar við situr.  Katrín Jakobsdóttir, sem var menntamálaráðherra í þessari vinstri stjórn og vann menntakerfinu mikið tjón, bætti um betur sem forsætisráðherra síðar og skuldbatt Íslendinga á alþjóðavettvangi með óraunsæjum og raunar óframkvæmanlegum markmiðasetningum um samdrátt losunar 2030 og nettó núlllosun 2040.  Fíflagangurinn mun koma okkur í koll, ef svo heldur fram sem horfir.  Tveir  þingmenn Sjálfstæðisflokksins (og kannski fleiri) vilja taka í taumana, en þar verður á brattann að sækja.

Björn Lomborg skrifaði enn eina merka grein í Morgunblaðið 17. ágúst 2024 um loftslagstengd efni, og hét þessi:

"Mýtan um græn orkuskipti".

Hún hófst þannig:

"Þótt mörg og fögur orð sé að finna í lofræðum um græn orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti, þá eru þau umskipti samt ekki að verða.  Það reynist óviðráðanlega kostnaðarsamt að ná markverðri breytingu með núverandi stefnu.  Við þurfum að gjörbreyta stefnunni."

Þetta er nú orðið augljóst mál, en stjórnmálamenn, sem reka þessa andvana fæddu stefnu, hafa stungið hausnum í sandinn og þar við situr, þótt slík hegðan þjóni ekki hagsmunum umbjóðenda þeirra, og þeir hafi ekki verið kosnir til að fara undan í flæmingi, þegar nýrrar stefnumörkunar er þörf.  Þetta er þó því miður einkenni á stjórnmálum samtímans, einnig í ráðuneytum stórra og mikilvægra málaflokka.

"Á heimsvísu eyðum við nú þegar tæpum 2 billjónum bandaríkjadala árlega [ 1 billjón=1 trilljón(trn)=1 þúsund milljarðar] til að reyna að knýja fram orkuskipti.  Undanfarinn áratug hefur notkun sólar- og vindorku aukizt í það mesta, sem hefur verið.  En það hefur ekki dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis.  Á sama tíma höfum við bara aukið enn meira við brennslu jarðefnaeldsneytis." 

Þessi sorglega niðurstaða stafar sumpart af því, að vegna óhjákvæmilegs slitrótts rekstrar sólar- og vindorkuvera þarf að brenna jarðefnaeldsneyti til að fylla í skarðið, en sumpart er ástæðan aukin orkueftirspurn. Á Íslandi er yfirleitt unnt að fylla í skarðið með vatnsafli.

"Ótal rannsóknir sýna, að þegar samfélög auka við endúrnýjanlega orku, kemur sú orka sjaldnast í stað kola, gass eða olíu.  Heildarnotkunin eykst bara.  Nýlegar rannsóknir sýna, að fyrir hverjar 6 einingar af nýrri grænni orku kemur minna en 1 eining í stað jarðefnaeldsneytis [< 17 %].  Greining í Bandaríkjunum sýnir, að niðurgreiðslur á endurnýjanlegum orkugjöfum leiða einfaldlega til þess, að meiri heildarorka er notuð.  M.ö.o.: aðgerðir, sem ætlað er að efla græna orku leiða til meiri losunar."

Ekki er víst, að þetta síðasta sé alls kostar rétt, því að aukinni orkuþörf hefði ella verið fullnægt með enn meiri eldsneytisbrennslu.  Hins vegar er ljóst af þessu, að niðurgreiðslur á sólar- og vindorku auka orkueftirspurn og eru óskilvirk leið og slæm ráðstöfun skattfjár í viðleitni til að draga úr losun koltvíildis.  Á Íslandi koma slíkar niðurgreiðslur ekki til greina, enda mun notkun þessara orkugjafa hækka meðalraforkuverð í landinu og verða þar með verðbólguvaldandi.  

"Mannkynið hefur [er haldið] óslökkvandi þorsta í orku á viðráðanlegu verði, sem er nauðsynlegt fyrir alla þætti nútímalífs.  Á síðustu hálfri öld hefur orkan, sem við fáum úr olíu og kolum, tvöfaldazt, vatnsaflið hefur þrefaldazt og gasið fjórfaldazt, og við höfum upplifað sprengingu í notkun kjarnorku, sólar- og vindorku.  Allur heimurinn, og einstaklingar að jafnaði, hefur aldrei haft meiri orku tiltæka. 

Sú mikilfenglega áætlun, sem liggur til grundvallar grænum orkubreytingum nútímans, snýst að mestu leyti um að þrýsta á mikla niðurgreiðslu endurnýjanlegrar orku, sem alls staðar muni með töfrum láta jarðefnaeldsneyti hverfa.  En nýleg rannsókn dró fram þá niðurstöðu, að tal um "umskipti" væri villandi.  Vísindahópurinn komst að því, að viðbót nýrra orkugjafa hefði hvergi, án undantekninga, leitt til viðvarandi samdráttar í notkun þekktra orkugjafa."

Stjórnmálamenn og embættismenn þeirra hafa rétt einu sinni tekið algerlega rangan pól í hæðina í stórmáli.  Þeir hafa litið fram hjá aðalforsendunni fyrir því, að "orkuumskipti" séu möguleg, en hún er sú, að tæknin sé raunverulega tilbúin til að leysa verkefnið.  Þeir virðast hafa ímyndað sér, að slitróttir orkugjafar á borð við vind og sól gætu leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi, en það er borin von.  Þeim hefði verið nær að setja brot af því fé, sem þeir hafa sólundað í gagnslítil verkefni, í rannsóknir og þróun á umhverfisvænum, stöðugum og hagkvæmum orkugjöfum. Það hefur alltaf verið tækniþróunin, sem leyst hefur orkuskiptaviðfangsefnið þangað til nú, að pólitíkusar tóku til sinna ráða og hafa auðvitað keyrt allt í skrúfuna. 

"Aðaldrifkrafturinn hefur alltaf verið sá, að nýja orkan er annaðhvort betri eða ódýrari [eða hvort tveggja - innsk. BJo].

Sól og vindur bregðast í báðum atriðum.  Þau eru ekki betri, því [að] ólíkt jarðefnaeldsneyti, sem getur framleitt rafmagn, hvenær sem við þurfum á því að halda, geta þau aðeins framleitt orku í samræmi við duttlunga dagsbirtu og veðurs. 

Þetta þýðir, að þau eru ekki heldur ódýrari.  Í bezta falli eru þau aðeins ódýrari, þegar sólin skín eða vindurinn blæs á réttum hraða.  Þess utan eru þau að mestu gagnslaus og óendanlega dýr. 

 Þegar við reiknum með kostnaði af aðeins 4 tíma geymslu, verða vind- og sólarorkulausnir ósamkeppnishæfar m.v. jarðefnaeldsneyti.  Til þess að ná raunverulega sjálfbærum umskiptum yfir í sólar- eða vindorku mundi þurfa geymslurými  af umfangi, sem gerir þessa kosti óviðráðanlega óhagkvæma."

Í vatnsorkulöndum, þar sem vatnsskortur er, eins og á Íslandi, eru þessi gölluðu orkuform dýrmætari en annars staðar, ef þau geta komið í veg fyrir orkuskerðingu.  Hér geta m.ö.o. þessir aflgjafar keyrt á öllu því afli, sem vindur og sól leyfa, alltaf, því að vatnsfallsver eru auðstýranleg og þá er sparað vatn í miðlunarlónum með því að draga úr afli þeirra á móti, og fjöldi véla í rekstri miðaður við hámarksnýtni vél- og rafbúnaðar.  Engu að síður munu þessir nýju orkugjafar hækka meðalkostnað í íslenzka raforkukerfinu meira en nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir, og neikvæð umhverfisáhrif vindhverflanna og þeirra risastóru spaða eru ískyggileg og miklu meiri en hefðbundinna íslenzkra virkjana reiknað í framleiddri raforku (km2/GWh) yfir tæknilegan endingartíma. 

"Á þessari braut munum við aldrei ná orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti.  Það mundi krefjast miklu meiri niðurgreiðslu á sólar- og vindorku sem og rafhlöðum og vetni fyrir okkur öll [og fórna] að sætta okkur við óhagkvæmari tækni fyrir mikilvægar vörur eins og stál og áburð.  Í ofanálag mundu raunveruleg umskipti einnig krefjast þess, að stjórnmálamenn legðu gríðarlega skatta á jarðefnaeldsneyti til að gera það síður eftirsóknarvert. McKinsey áætlar verðmiðann á raunverulegum breytingum yfir 5 trnUSD/ár. 

Þessi eyðsla myndi hægja á hagvexti og gera raunkostnað fimmfalt hærri.  Árlegur kostnaður fyrir fólk, sem býr í ríkum löndum, gæti farið yfir 13 kUSD/íb ár.  Kjósendur mundu ekki samþykkja þann sársauka."

 Það er svo gríðarlegur kostnaður, sem stjórnmálamenn eru að flækja almenning í með rangri stefnumörkun í loftslagsmálum, að sliga mundi hagkerfi landanna, sem þátt taka í vitleysunni, og valda þar óðaverðbólgu, sem brjóta mundi niður efnahagslega getu til stórverkefna og auka fátækt í heiminum.  Andstæðingar neyzlu yrðu þá kátir, en skamma stund yrði sú hönd höggi fegin.  

"Eina raunhæfa leiðin til að ná fram umskiptum er að stórbæta grænu orkutæknina.  Þetta þýðir meiri fjárfestingu í rannsóknum og þróun á grænni orku.  Nýsköpunar er þörf í vindi og sól, en einnig í geymslum, kjarnorku og mörgum öðrum mögulegum lausnum.  Að ná kostnaði við aðra orku niður fyrir verð jarðefnaeldsneytis er eina leiðin til að hægt sé innleiða grænar lausnir á heimsvísu, ekki bara hjá yfirstétt fáeinna ríkra landa, sem hafa áhyggjur af loftslagsmálum."

Lomborg segir í raun og veru, að núverandi tæknistig megni ekki að leiða fram raunveruleg orkuskipti.  Gerviorkuskiptum var þjófstartað samkvæmt reglu allmargra stjórnmálamanna um, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu.  Stjórnmálamenn veðjuðu á rangan hest með gríðarlegri sóun á opinberu fé sem afleiðingu og seinkun á raunverulegum umbótum. Hvenær mun yfirstéttin sjá að sér ?  Þá verður hún að kyngja stórum fullyrðingum og heitstrengingum, en þá mun lýðum verða ljóst, að keisarinn er ekki í neinu.  Almenn þjóðfélagsóánægja og -óþol er svo mikil í ríka heiminum um þessar mundir, að áfallaþol almennings er orðið lítið áður en upp úr sýður. Kannski koma einhverjir stjórnmálamenn með vit í kollinum fram á sjónarsviðið og ná að greiða úr þessari flækju.  Þá er betra að hafa í huga, að kraftaverkin taka tíma.    

 

   

  

 

 

 


Óttinn við loftslagsbreytingar að dvína ?

Loftslagstrúboðið hefur horn í síðu sjálfstæðs predikara heilbrigðrar skynsemi í þeim efnum, Danans Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus og gestafyrirlesara við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Morgunblaðið hefur verið iðið við að kynna lesendum sínum skrif þessa sjálfstæða fræðimanns, sem hefur gagnrýnt viðhorf vestrænna stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga um það, hvernig barizt skuli við hlýnun jarðar, enda hefur sá skortur á kerfisbundinni aðferðarfræði, sem þar ríkir, valdið öngþveiti og árangursleysi. Björn Lomborg hefur bent á, að brýnna sé að verja fé í baráttu við hungur og sjúkdóma í þriðja heiminum.

Þann 29. júlí 2024 birtist enn ein ádeilugreinin á vestræn stjórnvöld undir tvíræðri fyrirsögn þýðandans: 

"Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá".

Hún hófst þannig:

"Frá 10. áratuginum hafa loftslagsbreytingar orðið þráhyggja stjórnmálamanna og yfirstétta ríkra landa.  Hún fæddist og dafnaði í jarðvegi, þar sem heimurinn hafði rétt naumlega séð fyrir endann á Kalda stríðinu [sem eins og kunnugt er lauk með ósigri kommúnismans - innsk. BJo].  Í sögulegu ljósi var friðsælt, traust ríkti um allan heim, víðtækur hagvöxtur og örar framfarir gegn fátækt.  Sérstaklega leið íbúum höfuðborga Evrópu, eins og stærstu vandamál plánetunnar væru leyst. Loftslagsbreytingar væru síðasta víglínan. 

Þessir talsmenn loftslagsaðgerða hafa beitt sér af miklum ákafa og sannfæringu fyrir því, að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti.  Einmitt þann orkugjafa, sem hafði knúið áfram tveggja alda undraverðan vöxt.  Vissulega myndi þetta kosta hundruð billjóna [trilljóna-1 trilljón=1000 milljarðar] dala, en það yrði alltaf meiri hagvöxtur.

Þvílík þröngsýn og barnaleg sýn á heiminn.  Tíminn hefur leikið grátt þá heimskulegu hugmynd, að loftslagsbreytingar væru síðasta víglína mannkyns, sem eftir væri, eða að íbúar jarðar myndu sameinast um að leysa vandann.  Geopólitískir árekstrar og viðskiptahagsmunir valda því, að hröð alþjóðleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti eru óhugsandi."

Þetta er hinn bitri sannleikur, og þess vegna stendur hin opinbera loftslagsstefna Vestursins á brauðfótum.  Orkuskipti á heimsvísu í anda loftslagspostula eru ómöguleg fyrr en tækniþróunin hefur fært manninum raunhæfan orkugjafa til að taka við kolum, olíu og gasi.  Þjóðir á borð við Íslendinga, sem búa við mikið af s.k. endurnýjanlegum stöðugum orkulindum, s.s. vatnsföll og jarðgufu, og geta þannig framleitt næga raforku til að rafvæða eldsneytisferla og framleiða lífeldsneyti, sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, komast næst því að leysa þau verkefni, sem þarf til að uppfylla draumóra stjórnmálamanna.  Vinstri stjórnin 2009-2013 kom hins vegar á fót slíku skrifræðisbákni í kringum leyfisveitingaferli virkjana, að stöðnun hefur orðið á sviði nýrra virkjana yfir 10 MW.  S.k. Rammaáætlun er eitt af því, sem kasta þarf á haugana og hefur reynzt verri en gagnslaus.  Afleiðingin af vitleysunni, sem viðgengst, er, að upp spretta vindorkuver, eins og gorkúlur á haugi, sem eru miklu dýrari og umhverfisverndarlega verri kostur en vel hannaðar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir, reiknað á einingu framleiddrar raforku.  

"Leiðtogar frá Evrópu og Bandaríkjunum tala um "núllmarkmið", eins og það hafi alþjóðlegan stuðning.  En fljótt var ljóst, að þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá.  Fyrir það fyrsta er hinn óstöðugi möndull Rússlands, Írans og Norður-Kóreu ekkert á því að styðja viðleitni vestrænna ríkja við að draga úr loftslagsbreytingum.  Reyndar, samkvæmt McKinsey, myndi núllmarkmiðið krefja Rússa um mrdUSD 273 til loftslagsaðgerða á hverju ári.  U.þ.b. þrefalt það, sem þeir eyddu til hermála á síðasta ári.  Það mun ekki gerast. 

Geopólitískar hindranir rista enn dýpra.  Vöxtur Kína hefur þarfnazt þess að brenna sífellt meira af kolum.  Þaðan kemur yfirgnæfandi mesta magn gróðurhúsalofttegunda í heiminum auk þess að vera með mestu aukningu allra þjóða á síðasta ári.  Endurnýjanleg orka var 40 % af orkuframleiðslu Kína árið 1971, en minnkaði niður í 7 % árið 2011 með stigvaxandi kolabrennslu.  Síðan þá hefur endurnýjanleg orka aukizt aftur í 10 %.  Öflugar loftslagsaðgerðir gætu kostað Kína næstum 1,0 trnUSD/ár [1000 mrdUSD/ár] og hamlað vegferð þess í átt að því að verða rík þjóð." 

 Evrópusambandið (ESB) hefur í hyggju að leggja innflutningstolla á vörur, sem framleiddar eru með stóru kolefnisspori, en gæti verið að skjóta sig í fótinn með svo sértækum aðgerðum.  Tíminn einn vinnur þessa baráttu, þ.e. það verður að gefa tækninni hvata til að þróa lausnir.  Vind-og sólarorka geta ekki varðað veginn að lokalausninni, en kjarnorkan getur það, en er ekki síður áhættusöm en aukinn koltvíildisstyrkur í andrúmslofti enn sem komið er.  Þetta sýnir ótti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar um öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu, sem rússneski herinn hertók og hefur nú hætt framleiðslu rafmagns í, en frá kjarnakljúfunum stafar enn mikil hætta, ef kælikerfi versins laskast eða byggingar þess verða fyrir eldflaug eða stórri sprengju. 

"Á sama tíma, þrátt fyrir allt málskrúðið, eiga auðug lönd sífellt minna fé handbært fyrir loftslagsbaráttuna.  Árlegur hagvöxtur á mann [á] meðal ríkra landa dróst saman úr 4 % á 7. áratuginum [20. aldar] í 2 % á 10. áratuginum.  Núna erum við rétt yfir 1,0 %.  Mörg þessara landa standa frammi fyrir þrýstingi á að eyða meira í varnarmál, heilbrigðisþjónustu og innviði á sama tíma og pólitískur þrýstingur og breyttar þjóðfélags- og aldurssamsetningar gera leiðir þeirra til stöðugleika og vaxtar mun óvissari.

Samt sem áður heldur fólk um alla Evrópu og Norður-Ameríku, sem fæddist í tiltölulega rólegum heimi 10. áratugarins, áfram í einstrengingslegum ákafa að þrýsta á afiðnvæðingu og samdrátt til að takast á við loftslagsbreytingar.  Þ.á.m. í vaxandi hagkerfum heimsins.  Öllum skal líða jafnilla."  

Í ESB er staðnað hagkerfi, sumpart vegna evrunnar, sem hentar ekki öllum þjóðunum alltaf á evrusvæðinu.  Vaxtastig evrubankans er jafnvel of hátt um þessar mundir fyrir þýzka hagkerfið, sem hefur glímt við miklar orkuverðshækkanir vegna kúgunartilburða Rússa.  Loftslagsstefna ESB er að sama skapi að verða afar íþyngjandi fyrir hagkerfin þar og rýrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum.  Hér innanlands hefur einmitt borið á innflutningi á þeim veruleikafirrtu kenningum róttækra græningja, sem Lomborg gerir að umræðuefni, þ.e. að alls ekki skuli virkja meira, en skapa svigrúm fyrir orkuskipti með því að loka iðjuverum landsins.  Þessi stefna, t.d. Landverndar, ber feigðina í sér og er dauðadómur yfir góðum lífskjörum á Íslandi.  Slíkar kenningar eru illa ígrundaðar, eiginlega bara kaffihúsasnakk, enda varða þær leiðina til fátæktaránauðar.  

"Nú þegar eru kjósendur í Evrópu að snúa baki við stjórnmálamönnum, sem hafa talað fyrir minni hagvexti og hagsæld í nafni loftslagsbreytinga.  6-7 kosningalotur eru framundan fyrir miðja öld, og hörð loftslagsstefna, sem getur kostað hvern mann í ríka heiminum meira en 10 kUSD/ár [1,4 MISK/ár] er dauðadæmd.  Þessar stefnur munu gera það líklegra, að kjósendur snúi sér að popúlískum [lýðskrums] þjóðernissinnuðum leiðtogum, sem munu alfarið hverfa frá rándýrum núllmarkmiðum.  Þá verður loftslagsstefnan í molum."

Kostnaður við "núllstefnuna" er svo hár, að lífskjörin verða rekin aftur um 40 ár, ef henni verður haldið til streitu, og það er engin glóra í því að keyra lífskjörin á Vesturlöndum niður, á meðan aðalmengunarvaldarnir þeysa fram í lífskjarasókn.  Allt sýnir þetta, hvað loftslagsstefna ESB, sem er sú stefna, sem rekin er blint hérlendis, er illa ígrunduð.  

"Heimurinn þarf betri leið fram á við.  Bezta lausnin er ekki sú að þrýsta á fólk til að hafa það verra með því að þvinga fram ótímabær umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í ófullnægjandi græna valkosti.  Þess í stað ættum við að auka fjárfestingar í grænni nýsköpun í því [augnamiði] að draga úr kostnaði við hreina orku, þar til [að] hún verði orðin hagkvæmari en jarðefnaeldsneyti.  Þetta er miklu kostnaðarminna og mun hvetja alla, þ.á.m. Indland og önnur vaxandi hagkerfi, til að vilja breyta sínum orkugjöfum."

Þetta er hárrétt stefnumörkun af hálfu Lomborg að mati þessa skrifara og sú eina sjálfbæra, sem í augsýn er.  Jarðefnaeldsneytisforðinn fer minnkandi, sem mun valda hækkandi verði, svo að ekki mun líða á löngu, þar til að vestræn tækni getur boðið upp á eitthvað skárra en kjarnorku úr afar geislavirkum úranísótópi, hráefnisfrekar sólarhlöður eða hrottalega landfrekar vindmyllur.  

 

  

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband