Færsluflokkur: Evrópumál
28.3.2018 | 09:52
Dýr yrði Hafliði allur
Ætli nokkurs staðar í heiminum viðgangist, að ríki þurfi að leiða í lög hjá sér lög og reglugerðir annars ríkis eða ríkjasambands, til að geta selt þangað vörur og þjónustu án hárra innflutningsgjalda ?
Það er einmitt þessi staða, sem uppi er á milli EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) og hefur verið í aldarfjórðung. Hér er ekki um neitt smáræði að ræða, heldur hefur regluflóðið numið að jafnaði 460 reglugerðum eða lögum að jafnaði á ári hverju. Þetta er mikil byrði á litlu samfélagi eins og okkar, og gefur strax til kynna, að landsmenn séu þarna á villigötum.
Viðskiptaráð Íslands (VÍ) lagði í skýrslunni:
"Vilji er ekki allt sem þarf-Aðgerðir til einföldunar regluverks"-útg. 7. október 2015, mat á kostnaðinn, sem af heildarregluverkinu leiðir fyrir þjóðfélagið. Um er að ræða beinan kostnað og óbeinan kostnað fyrir ríki, sveitarfélög og fyrirtæki. Mestur er óbeini kostnaðurinn, sem heldur aftur af eðlilegri framleiðniaukningu vegna íþyngjandi byrða af regluverkinu, og vex sá um 1 %/ár að mati VÍ.
Auðvitað þarf hvert þjóðfélag, sem ætlar að eiga í viðskiptum við efnaðan markað, eins og hinn evrópska og norður-ameríska, á regluverki að halda, en umfang regluverks og eftirlits með því þarf að sníða að stærð hvers þjóðfélags. Einkenni íslenzks atvinnulífs eru lítil fyrirtæki með 0-9 starfsmönnum. Þau bera tvöfaldan regluverkskostnað á hvern starfsmann á við 10-49 manna fyrirtæki, ferfaldan á við 50-249 manna fyrirtæki og tífalda á við fyrirtæki 250 eða fleiri.
Starfsmenn eftirlitsstofnana eru hérlendis 15 sinnum fleiri á íbúa en á hinum Norðurlöndunum og 25 sinnum fleiri en í Þýzkalandi. Þessar tölur gefa til kynna, að regluflóðið frá ESB, sem við erum neydd til að taka upp hér vegna EES-samningsins til að vera á Innri markaði ESB, sé okkur efnahagslega þungbært, miklu dýrkeyptara en fjölmennari þjóðum og að það sé dragbítur á lífskjarabata. Sem fámenn þjóð megum við ekki við þeim kostnaði, sem hlýzt af því að vera taglhnýtingar ESB. Það hefur verið gengið hér óvarlega um gleðinnar dyr, ekki gætt að gríðarlegum kostnaði smáríkis við að skuldbinda sig til að koma á ofvöxnu bákni m.v. íbúafjölda og alls ekki reynt að leita annarra og hagkvæmari lausna, heldur bara hjakkað í sama farinu, enda er ESB/EES draumaland búrókratans. Halda menn, að það sé tilviljun, að Svisslendingar, sú kostnaðarmeðvitaða þjóð, höfnuðu EES-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu ?
Við erum taglhnýtingar ríkjasambandsins í þeim skilningi, að við verðum að taka við því, sem að okkur er rétt, ef það varðar fjórfrelsið á Innri markaðinum, án þess að hafa haft nokkur teljandi áhrif á setningu þessara reglna. Þetta er þrælsleg staða, sem er orðin óþolandi, eftir að ESB færði sig upp á skaptið og tók að heimta það af EFTA-þjóðunum í EES, að þær tækju upp risaregluverk og gríðarlega íþyngjandi um atriði utan við fjórfrelsið, eins og t.d. um orkumál. Þar keyrir um þverbak, því að Orkustofnun ESB, ACER, á að yfirtaka stjórnun Orkustofnunar Íslands og skera á á áhrif íslenzka ríkisvaldsins á alla þætti, er varða raforkuflutninga, innanlands sem og til og frá útlöndum. Þessar staðreyndir ættu að duga til að sýna öllum Íslendingum, sem ekki vilja ólmir verða þegnar ESB, að EES-samstarfið er komið að leiðarlokum.
Hver má þá ætla, að þessi umframkostnaður sé, þ.e. kostnaður af gildandi regluverki á Íslandi 2018 umfram þann kostnað, sem ætla má, að þjóðfélagið þyrfti að bera, ef landið væri utan EES, en hefði í staðinn fríverzlunarsamning við Bretland og ESB í anda nýs fríverzlunarsamnings Kanada við ESB ?
Viðskiptaráð Íslands (VÍ) áætlaði árið 2015 beinan og óbeinan kostnað atvinnulífsins af framkvæmd opinbers regluverks og eftirlits. Á verðlagi 2018 jafngildir kostnaðurinn 175 miaISK/ár. Ef reiknað er með, að 80 % af þessum kostnaði stafi af skylduinnleiðingu gerða ESB og að minnka megi að skaðlausu umfang þeirra hérlendis um 60 %, þá fæst hreinn kostnaður atvinnulífsins vegna EES-aðildarinnar 84 miaISK/ár.
Fallist Alþingi á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að kröfu ESB, eru þingmenn með slíku samþykki ekki einvörðungu að færa núverandi völd ríkisins yfir raforkuflutningsmálum landsins til fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, í trássi við Stjórnarskrá landsins,gr.2, heldur eru þeir að framkalla umtalsverða hækkun á næstu árum á framfærslukostnaði heimilanna og rekstrarkostnaði fyrirtækjanna vegna hækkunar á raforkukostnaði.
Sú hækkun á rót að rekja til hækkunar á heildsöluverði frá virkjun vegna útflutnings um Ice Link á raforkumarkað með 2-3 földu núverandi verði hérlendis og til kostnaðar við eflingu flutningskerfisins að landtökustað Ice Link. Þá þarf auðvitað að slá í merina, hvað hvers konar virkjanaframkvæmdum líður til að hafa eitthvað að selja um 1200 MW sæstreng. Samkvæmt reglum ACER leggst kostnaður við flutningskerfi innanlands vegna sæstrengs á notendur innanlands.
Ef Landsnet verður mjög skuldsett út af fjárfestingu í Ice Link, þá versna lánskjör fyrirtækisins, sem kemur niður á framkvæmdakostnaði innanlands, en hér verður kostnaðarvangaveltum af því sleppt. Vægt áætlað mun smásöluverð og flutningsgjald hækka um samtals 6 ISK/kWh eða um 75 % árið 2027 á núvirði m.v. 2018. Þetta mun leiða til kostnaðarhækkana hjá almennum notendum um 24 miaISK/ár (allir án langtímasamninga). Þessi breytti markaður mun ennfremur sennilega leiða til þess, að fleiri langtímasamningar verði ekki gerðir um raforkuviðskipti og eldri samningar ekki framlengdir. Þetta mun gjörbreyta verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun landsins til hins verra, sem óhjákvæmilega mun ógna fjármálastöðugleika. Markaðsverð raforku mun hrynja, þegar gegnumbrot verður í vinnslu raforku með umhverfisvænum hætti, t.d. í þóríum kjarnorkuverum eða með samrunahverflum. Þá sitja flutningsfyrirtækin uppi með hundruði milljarða ISK í skuldir vegna fjárfestingar, sem engin not eru af, og innlendur iðnaður hefur goldið afhroð. Menn verða að horfa niður fyrir sig til að aðgæta, hvar þeir stíga. Að láta rigna upp í nefið á sér hefur aldrei þótt vera til vegsauka á Íslandi.
Hér eru engar smáræðis kostnaðartölur á ferðinni vegna EES-aðildar, og ekki mundu þær lækka við inngöngu í ESB, því að einhvern hluta reglugerðafargansins frá ESB losna landsmenn við núna, og verandi í ESB væri Ísland nú þegar í orkusambandi ESB og Ice Link verkefnið væri vafalítið í gangi. Lágmarkskostnaður af EES og ACER verður 110 miaISK/ár um 5 % af VLF til skamms tíma, en er frá líður verður kostnaðurinn svimandi hár, ef afleiðingarnar verða lokun verksmiðja orkukræfs iðnaðar og mun óhagkvæmari orkuskipti en annars.
23.3.2018 | 10:05
Höfnun ACER ógnar ekki útflutningi til ESB
Reglur EES-samningsins um frjáls vöruviðskipti munu verða áfram í gildi, þótt Alþingi hafni aðild Íslands að Orkusambandi ESB. Ótti um, að störf tapist á Íslandi við að hafna því, að ráðstöfunarréttur raforkunnar lendi í höndum Orkustofnunar ESB, er ástæðulaus. Það er aftur á móti hætta á því, að störf tapist á Íslandi, ef veruleg raforkuverðshækkun verður á innanlandsmarkaði, t.d. vegna tengingar við raforkumarkað ESB. Gangi Ísland í Orkusamband ESB, öðlast ACER-Orkustofnun ESB úrslitaáhrif á það, hvort aflsæstrengur verður lagður frá Íslandi til útlanda, og íslenzk yfirvöld verða að sama skapi áhrifalaus um það. Það er einmitt hlutverk ACER að ryðja brott staðbundnum hindrunum gagnvart bættum millilandatengingum.
Það er munur á biðsal ESB, sem kallast EES, og ESB sjálfu. Þar má nefna neitunarvald EFTA-ríkjanna þriggja í EES gagnvart gjörðum frá ESB og afar takmarkaða aðkomu EFTA-ríkjanna að málum á undirbúningsstigi. Af Stjórnarskrá Íslands, gr. 2, leiðir, að ekki er hægt að gera skuldbindandi og íþyngjandi samninga fyrir Íslands hönd við erlent ríki, ríkjasamband eða yfirþjóðlega stofnun, án þess að Alþingi fjalli um slíkt og afgreiði með atkvæðagreiðslu, þar sem Alþingi hefur frjálsar hendur, bundið af lögum og Stjórnarskrá lýðveldisins.
Í EES-samninginum eru ESB settar þröngar skorður varðandi rafsiaðgerðir við beitingu neitunarvalds EFTA-ríkjanna, og þar eru ekki settar fram neinar kröfur um röksemdafærslu við beitingu neitunarvalds.
ESB getur brugðizt við með tvennum hætti:
- ESB getur viðurkennt, að það er viss stjórnarfarslegur munur á ESB og Íslandi (og hinum 2 EFTA-löndunum í EES).
- ESB getur sett fram kröfu um það, að sá hluti EES-samningsins, sem málið snertir, falli úr gildi.
Í EES eru ákvarðanir teknar einróma. Ísland, Noregur og Liechtenstein samræma afstöðu sína í fastanefnd EFTA, sem ekki getur samþykkt ný lög eða tilskipun án samþykkis landanna þriggja. Þess vegna hefur Ísland neitunarvald gagnvart gagnvart sérhverjum ESB-gerningi. Þetta leiðir af kafla 93 í EES-samninginum og kafla 6 í samninginum um fastanefnd EFTA-ríkjanna.
Fylgispekt við samning styður væg eða engin viðbrögð:
ESB getur samþykkt höfnunina án nokkurra ákveðinna viðbragða. M.t.t. fyrirsjáanleika fyrir aðilana og fylgispekt við samninginn er þetta líklegast. Kafli 3 í EES-samninginum leggur aðilum fylgispekt á herðar, sem felur í sér, að enginn aðilanna skal valda óþarfa erfiðleikum í samstarfinu. Þetta ýtir undir, að hugsanleg viðbrögð að hálfu ESB skulu breyta innihaldi og virkni EES-samningsins eins lítið og hægt er. M.ö.o.: núverandi viðskiptafrelsi verður óskert.
ESB getur ekki hafið refsiaðgerðir gegn Íslandi, en getur ógilt viðkomandi hluta EES-samningsins samkvæmt kafla 102. Meiningin er að jafna út ávinninginn, sem Ísland fær við að hafna viðkomandi tilskipun eða lögum. Meginhluti samningsins og viðaukarnir gilda eftir sem áður. Reglurnar um t.d. frjáls vöruviðskipti og bann við viðskiptahindrunum verða ekki snertar.
Öllum tilskipunum og lögum í EES-samninginum er raðað i 22 efnisflokka í viðhengjum. Orka er viðhengi 4. Það er hér, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB með ACER-kerfinu, sem Alþingi væntanlega fær til afgreiðslu, verður settur, nema Alþingi hafni málinu. Það er Sameiginlega EES-nefndin, sem ákveður, hvort og þá hvaða hluti samningsins skuli falla úr gildi. Þar eru EFTA, þ.e.a.s Ísland, Noregur, Liechtenstein og ESB jafnréttháir aðilar, og ákvörðun útheimtir samkomulag allra.
Í skriflegu svari sínu til Stórþingsins 5. marz 2018 staðfesti Terje Söviknes, olíu- og orkuráðherra, að það er einvörðungu viðkomandi kafli EES-samningsins, hér orkukaflinn, sem hægt er að ógilda. Ráðherrann skrifaði ennfremur:
"Spurningin um, hvaða kafla samningsins málið snertir, er viðfangsefni stjórnmálamanna og verður ekki áfrýjað til EFTA- eða ESB-dómstólsins". Með öðrum orðum þarf að fara samningaleiðina og finna lausn.
Hvað í EES-samninginum snertir ACER beint ?:
Allar aðgerðir og viðbrögð í EES-samstarfinu fara eftir hlutfallsreglunni. Ásamt fylgispektinni þýðir þetta, að "það sem beinlínis snertir" skal túlka þröngt. Eðlilegi skilningurinn, sem einnig er vel þekktur í lögfræðinni, er að takmarka ógildinguna við reglurnar, sem nýju reglurnar áttu að breyta eða koma í staðinn fyrir. Varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálkinn jafngildir þetta, að ESB getur aðeins krafizt ógildingar þeirra ákvæða, sem átti að breyta eða afnema í Öðrum orkumarkaðslagabálkinum (sbr raforkulög Alþingis um aðgreiningu aðila á raforkumarkaði í fernt frá 2003 með síðari breytingum). Þetta mun engin skaðleg áhrif hafa hér og varla í Noregi heldur.
Þótt ESB muni krefjast ógildingar á hluta orkuregluverksins, gætu íslenzk fyrirtæki áfram starfað eins og áður í orkugeira ESB/EES landanna, ef þau hefðu þar starfsemi núna. Hið sama mundi gilda um fyrirtæki frá EES í hérlendum orkugeira. EES samningurinn á að vernda áunnin réttindi einstaklinga og fyrirtækja, eins og stendur í kafla 102:
"Réttindi og skyldur, sem fólk og markaðsaðilar hafa þegar áunnið sér samkvæmt þessum samningi, skulu standa áfram."
Stuðzt var við grein Mortens Harper, lögfræðings og verkefnastjóra hjá "Nei til EU", dags. 08.03.2018, á vefsetri samtakanna.
19.3.2018 | 13:05
Raforkumál í deiglunni
Staða íslenzkra og norskra raforkumála er einstæð í Evrópu vestan Rússlands vegna þess, að á Íslandi og í Noregi eru nægar endurnýjanlegar orkulindir til að anna raforkuþörf landanna um fyrirsjáanlega framtíð, þótt tekið sé tillit til orkuskiptanna. ESB-löndin hungrar hins vegar eftir raforku úr sjálfbærum orkulindum, og það er nettó innflutningur á raforku inn á ESB-landsvæðið.
Framkvæmdastjórn ESB ætlar að nýta markaðshagkerfið til að bæta skilvirkni raforkukerfisins, enda samræmist það stefnunni um að draga úr rekstri kolakyntra raforkuvera. Hún hefur jafnframt lýst því yfir, að hún vilji tengja Noreg traustum böndum við Orkusambandið, og ACER hefur í raun lýst hinu sama yfir gagnvart Íslandi með því að setja Ice Link (aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands) inn á forgangsverkefnaskrá sína. Það er þess vegna alveg ljóst, til hvers refirnir eru skornir. ESB er á höttunum eftir "hinni grænu rafhlöðu" Norðurlandanna tveggja.
Tæki ESB í þessu sambandi er sameiginlegur raforkumarkaður ESB, þar sem allir heildsölukaupendur raforku í ESB-löndunum geta boðið í tiltæka raforku, hvar sem er á markaðssvæðinu.
Til að gera þetta kleift í raun var nauðsynlegt fyrir ESB að stofna orkuskrifstofu eða orkustofnun með valdheimildir frá ráðherraráði og ESB-þingi til að yfirtaka stjórn orkuflutningsmála í hverju landi. Þetta er hlutverk orkustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Allt reglusetningarvald og eftirlit með starfsemi orkuflutningsfyrirtækja, sem á Íslandi er núna sumpart hjá atvinnuvegaráðuneytinu og sumpart hjá Orkustofnun, OS, er sameinað í orkustofnun hvers lands, og hún er gerð algerlega óháð innlendu stjórnvaldi og innlendum hagsmunaaðilum, en sett undir beina stjórn ACER. Þar með lúta orkuflutningsfyrirtæki fyrir rafmagn og eldsneytisgas, á Íslandi Landsnet (á Íslandi er ekkert víðtækt gasrörakerfi) beinni stjórn ACER.
Þessu fyrirkomulagi gátu EFTA-löndin Ísland og Noregur ekki kyngt, enda felur það í sér klárt stjórnarskrárbrot, að yfirþjóðleg stofnun stjórni innlendri stofnun, sem ríkisvaldið á engin ítök í. Í stað þess að hafna þessu alfarið sem grímulausri innlimun Íslands, Noregs og Liechtenstein í ESB með sneiðaðferðinni ("salamiaðferðin"), eins og vert hefði verið, þá fengu EFTA-löndin ESB til að samþykkja dulbúning á gjörð, sem stjórnlagafræðingarnir Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson tjá sig um þannig, "að framsalið rúmist ekki innan venjuhelgaðrar reglu um, að almenna löggjafanum sé heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana".
Íslenzk stjórnvöld og þar með Alþingi hafa einfaldlega teygt sig allt of langt í þjónkun sinni við ESB-valdið. Nú verður að spyrna við fótum áður en ráðstöfunarréttur íslenzkrar raforku verður afhentur ESB á silfurdiski.
Þann 17. marz 2018 skrifaði Sigurbjörn Svavarsson prýðilega grein í Morgunblaðið:
"Valdastofnanir ESB og EES-samningurinn":
"A fundi fjármála- og efnahagsráðherra ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES 14. október 2014 náðist loks samkomulag um meginatriði við aðlögun umræddra reglugerða að EES-samninginum. Þar var lögð áherzla á, að aðlögun regluverksins yrði reist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins [með sjónhverfingum - innsk. BJo]. Bindandi ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum EFTA-ríkjanna innan EES og fyrirtækjum, sem þar starfa, skyldi taka af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), en ekki beint af eftirlitsstofnunum ESB, þó samkvæmt fyrirmælum valdastofnana ESB og með óbreyttu innihaldi gerðanna [ESA mun ekkert annað gera en ljósrita ákvarðanir ACER á pappír með ESA haus og vatnsmerki. ESA er Trójuhestur ESB/ACER inn fyrir fullveldismúra EFTA-ríkjanna.] Þetta var réttlæting fyrir aðgengi og gagnkvæmni að gerðunum.
Samkvæmt þessu eru allar formlegar valdheimildir á hendi Eftirlitsstofnunar EFTA, sem fær mun víðtækara starfssvið en hún hefur núna, þar með talið aðfararhæfi að íslenzkum aðilum. Dómsvald um þessar gerðir verður hjá EFTA-dómstólinum, en ekki hjá íslenzkum dómstólum. [Þetta framsal dómsvalds stríðir gegn Stjórnarskrá og er dæmalaust - innsk. BJo.]
Á síðasta Alþingi voru samþykktar 9 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (um fjármálaþjónustu), og 178 gerðir eru framundan á þessu þingi. [Mun Alþingi spyrna við fótum - innsk. BJo.]
Upptaka gerða um ACER, Eftirlitsstofnun á orkumarkaði, var samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017, þ.e. um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn (um orkumál), og framkvæmd þeirra verður með sama hætti og fjármálagerðanna [þ.e. með ESA sem óvirkan (ljósritandi) millilið á milli ACER og OS]. Stofnunin [ACER] mun beita valdheimildum sínum sínum gegnum ESA, og dómsvaldið verður hjá EFTA-dómstólinum.[Það er á leiðinni frá ESB 1000 bls viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn (600 síður), sem enn mun auka við völd ACER-innsk. BJo.]"
Þetta fyrirkomulag er gjörsamlega óviðunandi fyrir fullvalda þjóð á borð við Íslendinga og Norðmenn, og það er sennilega þetta, sem formaður Sjálfstæðisflokksins átti við í ræðupúlti Alþingis 6. febrúar 2018, þegar hann kvartaði undan þróun EES-samstarfsins úr tveggja stoða í einnar stoðar einleik ESB og of mikinn eftirgefanleika að hálfu Noregs og Liechtenstein gagnvart vaxandi valdsækni ESB-stofnana í EFTA-löndunum.
Nú verður að spyrna við fótum á Íslandi. Við erum á góðri leið með að verða étin í sneiðum af ESB. Nú er komið að raforkugeiranum. Samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hefur verið líkt við það að opna landhelgina fyrir Bretum. Málið er enn alvarlegra, því að með eftirlit og dómsvald í raun í höndum ESB, er verið að opna landhelgina og afhenda ESB Landhelgisgæzluna í þokkabót.
Augu Alþingismanna eru að opnast fyrir því, að hér er mikið alvörumál á ferðinni og að við svo búið má ekki standa. Flokksþing framsóknarmanna samþykkti 11. marz 2018 svofellda ályktun:
"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið."
Þessi ályktun olli straumhvörfum á hinu pólitíska sviði orkumálanna, og eiga framsóknarmenn miklar þakkir skildar fyrir. Greinargerð með ályktuninni var svohljóðandi:
"Evrópusambandið hefur ákveðið að taka upp aukna miðstýringu í orkumálum undir yfirstjórn orkustofnunar (ACER) og leggur áherzlu á, að sama regluverk og þar með vald ACER nái til Íslands. Framsóknarflokkurinn hafnar því, enda er algerlega óásættanlegt, að erlendu stjórnvaldi verði falin bein eða óbein völd yfir orkumálum þjóðarinnar."
Allt felur þetta í sér svo afdráttarlausa afstöðu Framsóknarflokksins, að það er óhugsandi, að boðað frumvarp um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn verði lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar.
Á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 var þetta mikla sjálfstæðismál landsins mikið rætt, eins og vonlegt er. Hjá atvinnuveganefnd var kveðið afdráttarlaust að orði með augljósri skírskotun til væntanlegs frumvarps frá atvinnuvegaráðuneytinu um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Þetta hefur réttilega verið túlkað í Noregi sem yfirlýsing um, að flokkurinn vilji, að þingmenn beiti neitunarvaldi sínu samkvæmt EES-samninginum við afgreiðslu frumvarps um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Það er mat manna, t.d. innan andófshreyfingarinnar "Nei til EU", að væntanleg afstaða ríkisstjórnar og Alþingis muni fjölga þeim Stórþingsmönnum, sem greiða munu atkvæði gegn innlimun Noregs í Orkusamband ESB. Nú ræða Stórþingsmenn um að fresta afgreiðslu Stórþingsins, sem vera átti 22. marz 2018. Tíminn mun vinna með andófsmönnum.
Utanríkismálanefnd Landsfundar horfði lengra fram á veginn:
"Nú, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES-samningsins, er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum. Áríðandi er, að haldið verði áfram að efla hagsmunagæzlu innan ramma EES og tryggja, að möguleikar Íslands á fyrri stigum EES-mála verði nýttir til fulls.
Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við, að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn, sem felur í sér valdheimildir, sem falla utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins."
Dæmigert fyrir aðstöðu EFTA-ríkjanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á undirbúningsstigum í ESB er orkustofnunin ACER, en þar hefur hvert ríki fulltrúa með atkvæðisrétt og ákvarðanir eru teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti ræður, en EFTA-ríkin munu einungis fá áheyrnarfulltrúa þarna. Þetta ójafnræði á milli EFTA og ESB gerir vistina í EES óbærilega.
16.3.2018 | 10:57
Norsk náttúruverndarsamtök á móti valdatöku ACER
Í Noregi var þegar í kosningabaráttunni fyrir Stórþingskosningarnar 2017 umræða um afstöðuna til þess, hvort Norðmenn ættu að ganga á hönd Orkustofnunar Evrópusambandsins, ACER. Fjórir stjórnmálaflokkar tóku reyndar höndum saman í Orku- og umhverfisnefnd Stórþingsins þegar á árinu 2016 um gagnrýna afstöðu til ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Furðulegt andvaraleysi stafar frá Alþingi Íslendinga og grasrótarsamtökum hérlendis í samanburði við líflega lýðræðislega umræðu í Noregi í 2 ár nú. Hverju sætir þessi doði ? Það er verðugt rannsóknarefni, sem líklega hentar bezt stjórnmálafræðingum.
Gleðileg undantekning frá andvaraleysinu hingað til er þó Framsóknarflokkurinn, en hann reið á vaðið með skýrri ályktun á flokksþingi sínu 10.-11. marz 2018, sem er svo skelegg og afdráttarlaus andstöðuyfirlýsing við inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, að Framsóknarflokkinum er ókleift að standa að ríkisstjórnarfrumvarpi um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Framsóknarflokkurinn hefur þar með brotið ísinn og sagt hingað og ekki lengra með valdatöku ESB-stofnana á afmörkuðum sviðum í þjóðfélaginu.
Í nóvember 2017 sendu 6 náttúruverndar- og útivistarsamtök sameiginlegt bréf til NVE (Norsk vassdrags- og energivesen-Orkustofnun Noregs), þar sem þau létu í ljós áhyggjur vegna gallaðrar umfjöllunar um afleiðingar þess að raungera Kerfisáætlun Statnetts frá 2017 (Statnett er norska Landsnet). Sama átti við um leyfðu sæstrengina til Þýzkalands og Bretlands og leyfisumsóknina fyrir áformaðan Skotlandsstreng, "North Connect". Téð samtök fara fram á, að:
"það fari fram óháð, fagleg áhættugreining fyrir ráðgerða þróun stofnkerfisins, mögulegan aflrekstur (sveiflukennt álag) núverandi virkjana og þörfina fyrir aukna raforkuvinnslu vegna evrópskrar tengingar. Umfjöllun leyfisumsóknar vegna Skotlandsstrengsins skal setja í bið, þar til slíkt mat verður fyrir hendi."
Hér kveður við kunnuglegan tón. Nú stendur svo mikill útflutningur raforku fyrir dyrum í Noregi, að afgangsorkan í norska vatnsvirkjanakerfinu, 20 TWh, er að verða upp urin, og þá þarf auðvitað að huga að nýjum virkjunum, svo að eðlileg orkuskipti getið farið fram, en eins og kunnugt er leiða Norðmenn rafbílavæðinguna.
Á Íslandi er staðan hins vegar þannig samkvæmt gildandi Rammaáætlun, að útflutningur raforku um sæstreng og afnám jarðefnaeldsneytisnotkunar með rafvæðingu geta ekki farið saman sökum orkuskorts. Hlutverk ACER, Orkustofnunar ESB, er að að múlbinda þjóðarhagsmuni í nafni "sameiginlegra hagsmuna" ESB (common interests), og þar af leiðandi verður ekki hlustað á sérhagsmunakvak af þessu tagi frá einstökum þjóðum. ACER hefur nú þegar fullt vald til að valta yfir slík sjónarmið og mun beita því á Íslandi, fái þessi ESB-stofnun vald til þess. Á meðan framlagning slíks frumvarps er boðuð á Alþingi, vofir sú hætta yfir. Væri nú ríkisstjórninni sæmst að fá staðfestingu Alþingis á beitingu lögmæts neitunarvalds gegn téðri viðbót við EES-samninginn.
Samtökin norsku beina síðan sjónum að afleiðingum aflrekstrar vatnsaflsvirkjananna, sem er nýjung í Noregi og bein afleiðing rafmagnsviðskiptanna við útlönd. Nákvæmlega hið sama mun verða uppi á teninginum hérlendis, verði af aflsæstreng hingað. Samtökin vitna til skýrslu verkfræðistofunnar Multiconsult frá ágúst 2017, þar sem gerð er grein fyrir afleiðingum aflrekstrar á umhverfið:
"Sameiginlegt fyrir öll vatnsföll er, að aflrekstur veldur verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Mikilvægar afleiðingar fyrir lífríkið í vötnum og ám er, að vatn flæðir undan ungfiski, skordýrum og botndýrum við skyndilega breytingu vatnsflæðis. Hlutverk löggjafarinnar um margbreytileika lífríkis og vatnsreglugerðarinnar er að varðveita lífríki vatnasvæðis, og aflrekstur getur stangazt á við þetta. Það verður erfitt að samþætta aukinn aflrekstur vatnsaflsvirkjana okkar við stefnumið vatnsreglugerðarinnar um góða líffræðilega stöðu á vatnasvæðum, og einkum á þetta við um afrekstur rennslisvirkjana."
Ályktun náttúruverndar- og útivistarsamtakanna norsku er m.a., að "krefjast verði af Statnett að stöðva frekari undirbúningsvinnu við sæstrengsverkefni til Bretlands, þar til gerð hefur verið grein fyrir afleiðingunum fyrir náttúruna".
Þar sem eru aflsæstrengir til útlanda, er stórmál á ferðinni fyrir náttúruvernd í vatnsorkulandi, eins og Noregi eða Íslandi. Hérlendis hefur stóriðjuálag verið yfirgnæfandi í raforkukerfinu síðan 1970, og einkenni þess er mjög jafnt álag allan sólarhringinn og allan ársins hring. Það er alger andstæða sæstrengsrekstrar við útlönd. Þar af leiðandi eru skaðleg áhrif hraðfara breytinga á vatnsflæði [m3/s] um vatnsaflsvirkjanir ekki vandamál hér og hljóta þar af leiðandi litla umfjöllun í umhverfismati virkjana. Þegar kemur að áhættugreiningu hérlendis fyrir sæstreng til útlanda, sem vonandi verður þó aldrei þörf á, verður að taka þetta með í reikninginn, því að eðli raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum í ESB er óstöðugleiki umfram annað, og ESB sækist eftir raforku frá Noregi og Íslandi, þegar ekki blæs byrlega og ský dregur fyrir sólu. Þá er ætlunin að tappa af "hinni grænu rafhlöðu" Norðurlandanna. Almenningur í Noregi áttar sig vel á afleiðingum slíkrar spákaupmennsku fyrir atvinnulífið og náttúruna, eins og ráða má af skoðanakönnun nú í marz 2018, þar sem 9 % lýstu sig hlynnt inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, 52 % voru á móti og 39 % voru óviss.
Það er óheppilegt að reyna að láta jarðgufuvirkjanirnar hérlendis taka upp sveiflurnar í stað vatnsaflsvirkjana. Gufuvirkjanir þurfa helzt að ganga á stöðugu og tiltölulega miklu álagi m.v. uppsett afl vegna nýtninnar, þar reglunartregða mikil, og heildaraflgeta þeirra er mun minni en vatnsaflsvirkjananna.
Hérlendis hafa hvorki sézt yfirlýsingar með né á móti ACER frá hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum, nema Framsóknarflokkinum, eins og áður segir, en nú stendur yfir Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, og er þess vænzt, að hann kveði upp úr um afstöðu flokksins til þessa stórmáls. Það hlýtur að reka að því, að fleiri taki afstöðu, og verður fróðlegt að sjá afstöðu t.d. Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og verkalýðsfélaga. Áhyggjur stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka í Noregi hafa verið teknar saman á eftirfarandi hátt:
"Áfram skulu innlend stjórnvöld móta orkustefnu Noregs. Það er ekki óskað eftir orkustefnu, sem felur það í sér að færa völd frá norskum yfirvöldum til yfirþjóðlegra stofnana ESB.
Þegar kemur að afgreiðslum, sem bíða Stórþingsins veturinn 2018, er spurningin um umráðarétt þjóðarinnar sett á oddinn varðandi ACER. Andstæðingar valdaafsals ríkisins krefjast þess, að þingmenn nýti sér neitunarvald sitt gagnvart tengingu við ACER.
Markmið andófsmanna er að fá meirihluta Stórþingsmanna til að hafna ACER-tengingu Noregs. Stjórnmálaflokkarnir AP (Verkamannaflokkur), SP (Miðflokkur), SV (Sósíalistíska vinstrið) og MDG (Græningjar) sömdu sameiginlegt nefndarálit í Orku- umhverfisnefnd í júní 2016, þar sem þeir lýstu efasemdum um tillögu ríkisstjórnarinnar um "ACER-lausn". Í athugun "Nei til EU" fyrir Stórþingskosningar 2017 lagði Krf, Kristilegi þjóðarflokkurinn, sérstaka áherzlu á andstöðu sína við fullveldisframsal til ACER. Það er ekkert öðruvísi í frumvarpi ríkisstjórnarinnar nú en í tillögum hennar þá. Grundvöllur höfnunar á ACER-regluverkinu ætti þess vegna að vera fyrir hendi. Þar eð regluverkið augljóslega felur í sér fullveldisframsal, ætti Stórþingið að geta sameinazt um, að við afgreiðsluna verði viðhöfð krafa Stjórnarskráarinnar um aukinn meirihluta (3/4)."
Ef draga á dám af stjórnmálastöðunni í Noregi og hefðbundinni andstöðu Sjálfstæðisflokksins við fullveldisframsal Alþingis til yfirþjóðlegra stofnana, verður ekki meirihluti fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn hér. Flokkar, sem trúandi er til stuðnings við að leiða stofnun ESB á orkuflutningssviði hér til valda, eru eiginlega bara stjórnarandstöðuflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin. Hér má þó benda á, að flótti er brostinn á í liði krataflokksins norska vegna andstöðu meirihluta verkalýðshreyfingarinnar og LO-Alþýðusambands Noregs við fullveldisframsalið.
13.3.2018 | 21:25
Viðhorf hagsmunasamtaka til ACER
Í Noregi hafa sveitarfélög og fylkisstjórnir auk fjölda landshlutafélaga stjórnmálaflokkanna og verkalýðsfélaga um Noreg endilangan ályktað gegn því að afhenda orkustofnun ESB ráðstöfunarrétt yfir raforkunni. Nú síðast samþykkti "Landsorganisasjonen"-LO, þ.e. norska Alþýðusambandið eindregna hvatningu til þingmanna Stórþingsins, ekki sízt Verkamannaflokksins, um að greiða atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi 22. marz 2018 um að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn.
Norðmenn fara í blysfarir og halda fundi um allt land gegn því að afhenda ACER-orkustofnun ESB ráðstöfunarréttinn yfir raforkunni, en um það snýst nýjasta dæmið um miðstýringaráráttu ESB. Þetta ómak gera fjölmargir Norðmenn sér, af því að þeir telja, réttilega, stórfellda þjóðarhagsmuni vera í húfi. Hérlendis ríkti doði og ládeyða gagnvart aðsteðjandi hættu frá valdatöku ESB á þjóðhagslega mikilvægu sviði, raforkuflutningum innanlands og til útlanda, þar til flokksþing framsóknarmanna samþykkti einróma 11.03.2018, að standa beri vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnaði upptöku lagaverks um aukna miðstýringu orkumála í EES-samninginn.
Hin sameiginlega EES-nefnd hefur þegar samþykkt valdaframsal til orkustofnunar ESB, og nú er beðið eftir að sjá, hvaða Stórþingsmenn og Alþingismenn hafa geð í sér til að kyssa á vöndinn. Vonandi aðeins minnihluti þeirra. Landsfundur sjálfstæðismanna um næstu helgi hefur í hendi sér að stöðva þetta óþurftarmál, sem borizt hefur atvinnuvegaráðuneytinu frá hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB. Fari málið fyrir Alþingi, eiga þingmenn hiklaust að beita neitunarvaldinu, sem fólgið er í EES-samninginum. Eftirlitsstofnun EFTA-ESA mun mótmæla, og hugsanlega mun falla EFTA-dómur um brot á EES-samningi, en hann verður aðeins ráðgefandi og ekki aðfararhæfur hér.
Fjöldi Norðmanna er réttilega þeirrar skoðunar, að sú stjórnkerfisbreyting, að meginstarfsemi orkustofnunar Noregs, NVE, færist undan stjórn ráðuneytis, sem er undir eftirliti og yfirstjórn Stórþingsins, og undir stjórn orkustofnunar ESB, skammstöfuð ACER, sem stendur fyrir Agency for the Cooperation of Energy Regulators, ógni starfsöryggi í orkusæknum iðnaði í dreifbýli landsins. Þá blasir líka við, að raforkuverð til almennings mun hækka umtalsvert. Allar áhyggjur Norðmanna út af þessu máli eiga í raun við hérlendis líka. Aðstæður eru mjög keimlíkar, og að halda því fram, að okkur sé vörn í núverandi rafmagnslegri einangrun landsins (enginn millilandastrengur enn), er haldlaus, því að ACER fær einmitt völd til að ákveða slíka millilandatengingu, og Ice Link er nú þegar kominn á forgangslista ACER
Hér að neðan er þýðing á frásögn af úrdrætti ályktunar verkalýðssambands starfsmanna í iðnaði og orkufyrirtækjum, "Industri Energi", IE, Íslendingum til glöggvunar á umræðunni í Noregi, en hana má líka sjá undir tengli norsku andófssamtakanna, "Nei til EU", hér á vefsetrinu:
"Niðurstaða greiningar IE er, að væntanlegir aflsæstrengir til Þýzkalands og Bretlands geti hækkað Smásöluverð rafmagns í Noregi um 0,1-0,4 NOK/kWh (1,3-5,2 ISK/kWh). Þetta er reist á því, að rafmagnsverðið (smásöluverð til almennings) er um þessar mundir u.þ.b. tvöfalt hærra á Bretlandi en í Noregi, u.þ.b. 0,6 NOK/kWh m.v. á Bretlandi 0,3 NOK/kWh í Noregi. (Bretland: 8,0 ISK/kWh, Ísland: 5,9 ISK/kWh, Noregur: 4,0 ISK/kWh, íslenzk stóriðja: 2,5-3,5 ISK/kWh (heildsöluverð). Varðandi raforkuverð til norsks almennings ber að hafa í huga, að hann kyndir að mestu húsnæði sitt með rafmagni, oftast þilofnum, og meðalheimili þar kaupir þar af leiðandi um 20 MWh/ár, sem er ferfalt á við meðalheimili hérlendis, og sólarhringsálagið er jafnara. Þar af leiðandi er vinnslukostnaður fyrir norskan almenning tiltölulega lægri en fyrir íslenzkan almenning. Bæði norskur og íslenzkur almenningur nýtur góðs af mikilli raforkusölu til orkusækins iðnaðar. Ofan á þessi raforkuverð bætast flutningsgjald, dreifingargjald, jöfnunargjald og virðisaukaskattur.
Vegna sæstrengjanna þarf að fjárfesta í flutningskerfi að landtökustað þeirra. Statnett hefur áætlað að þurfa þannig að fjárfesta fyrir miaNOK 2 vegna hvors sæstrengjanna tveggja til Þýzkalands og Bretlands (jafngildi miaISK 26) og þessi kostnaður mun knýja á um hækkun flutningsgjaldsins innanlands í Noregi, sem raforkunotendur innanlands verða að bera samkvæmt reglum ACER. Hvernig kostnaður millilandatenginga mun verða skipt á milli flutningsfyrirtækja viðkomandi landa, er samkomulagsatriði þeirra á milli, og ef þau ná ekki samkomulagi, sker ACER úr. Fjárhagur Landsnets og íslenzkra raforkunotenda verður í uppnámi af þessum sökum. Við blasir stjórnarskrárbrot, þar sem yfirþjóðleg stofnun, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru fullgildir aðilar, er farin að leggja fjárhagslegar álögur á alla landsmenn.
Þar eð norska raforkukerfið er lítið í samanburði við brezka kerfið, mun viðskiptakerfi með frjálsu flæði leiða til, að raforkuverðlagið í Noregi nálgast hið brezka og ekki öfugt. Yfirleitt er raforkuverðlagið á meginlandi Evrópu enn hærra en á Bretlandi, sem leiða mun til enn meiri raforkuverðhækkana í Noregi en að ofan getur vegna Þýzkalandsstrengsins. Norðmenn munu flytja út rafmagn, sem gæti annars haldið rafmagnsverðinu niðri og atvinnustarfsemi uppi í Noregi, en flytja síðan hærra rafmagnsverð til baka. Þetta er slæm þjóðhagfræði, en orkuvinnslufyrirtækin hagnast til skamms tíma.
Hjá stéttarfélaginu IE í Noregi eru menn þeirrar skoðunar, að fylgjendur aukinna raforkuviðskipta yfir landamæri vanmeti neikvæðar afleiðingar af hærra rafmagnsverði í Noregi. Það getur tortímt orkusæknum iðnaði, og það mun hækka kostnað norskra neytenda og fyrirtækja í bæði einka- og opinbera geiranum. Gert er ráð fyrir, að hækkun um 0,1 NOK/kWh (1,3 ISK/kWh) hækki rafmagnsreikning sveitarfélaganna um u.þ.b. 4,0 miaNOK/ár, sem umreiknað eftir íbúafjölda landanna gerir 3,6 miaISK/ár.
Á hinn bóginn telja menn í IE, að fylgjendurnir ofmeti jákvæðu loftslagsáhrifin. Heildarraforkuvinnslan í Noregi, u.þ.b. 133 TWh/ár, jafngildir 3 %-4 % af heildarraforkunotkun í EES. Útflutningsgetan er mun minni (0,5 %) og verður varla merkjanleg í samanburði við þörf ESB-landanna fyrir endurnýjanlega orku eða í samanburði við þörf þeirra fyrir jöfnunarorku með þeirra eigin raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum lindum (sól og vindi). Þá má ekki gleyma miklum orkutöpum í sæstrengjum, sem jafngilda orkusóun.
Aftur á móti eru skaðleg áhrif á náttúru og umhverfi vanmetin. Möguleikinn á að græða meira fé á opnum evrópskum markaði, með hærri og breytilegum verðum, mun virka hvetjandi á raforkuvinnslufyrirtækin til að auka álag virkjananna. Vinnslan er aukin (aflaukning), þegar eftirspurnin er mikil og verðið hátt, og dregið er úr vinnslunni, þegar verðið er lágt. Þetta þýðir, að lækkað er og hækkað (með útflutningi og innflutningi rafmagns) í miðlunarlónunum með stuttum millibilum. Rannsóknir sýna, að slíkur rekstur virkjananna hefur afar neikvæð áhrif á fisk og aðrar lífverur í ám og lónum og veldur tjóni á náttúrunni í grennd. Í umræðum um þetta og um heildaráhrif fleiri sæstrengja hefur IE einkum gagnrýnt, að ekki eru gerðar vandaðar áhættugreiningar áður en leyfi eru veitt til slíkra rekstrarhátta í samræmi við norskar og alþjóðlegar forskriftir.
Andstaða IE við tengingu við ACER er þess vegna að miklu leyti vegna ótta um, að Noregur missi stjórn á stefnumörkun fyrir rafmagnsviðskipti yfir landamæri sín. Menn eru þeirrar skoðunar, að verði stjórnun innlendra yfirvalda leyst af hólmi með erlendri (ACER),muni slíkt leiða til fleiri sæstrengja, hærra rafmagnsverðs, hærri kostnaðar atvinnulífsins og glataðra starfa í Noregi.
Norsku verkalýðssamtökin, LO (Landsorganisasjonen), þ.e. norska ASÍ, og landshlutadeildir þar innanborðs, hafa tekið drjúgan þátt í umræðunni í Noregi og vara Stórþingið við alvarlegum þjóðhagslegum afleiðingum þess að samþykkja valdatöku ACER yfir raforkuflutningsmálum Noregs. Samtökin eru tortryggin út í að hleypa öðrum en Statnett (í eigu ríkisins) að eignarhaldi á utanlandssæstrengjunum. Í umsögn um frumvarpsdrög í marz 2017 stóð þetta m.a. frá LO:
"LO er mjög ósammála samþykktinni um að veita öðrum en Statnett kost á að leggja, eiga og reka utanlandsstrengi frá Noregi." Aldrei hefur nein viðlíka ályktun verið gerð á Íslandi, enda hefur alls ekki verið í umræðunni, að Landsnet ætti eða ræki millilandaaflstreng.
"LO á Þelamörk fer þess á leit við ríkisstjórn og Stórþing að forða Noregi frá fullveldisafsali til orkustofnunar ESB, ACER. ACER hefur að stefnumiði að skapa evrópskt stofnkerfi fyrir bæði gas og rafmagn án tillits til hagsmuna einstakra þjóða. Núverandi samstarf er ráðgefandi, en ACER á hins vegar að taka bindandi meirihlutaákvarðanir. Í raun er lagt til, að ACER skuli semja reglurnar um það, hvernig straumstefnu skal hátta hverju sinni um útflutningsstrengina. [Það er mun meira en reglur um straumstefnuna, sem felast mun í forskriftum ACER. Það er t.d. nýting strengjanna, hlutfall jöfnunarorku með sólarhringsfyrirvara pöntunar og augnabliksorkuafhendingar - innsk. BJo.] Í Noregi er orkusækinn efnaferlaiðnaður [t.d. álver og kísilver-innsk. BJo] lykilstarfsemi í mörgum byggðum. Það er rík ástæða til að óttast, að Noregur missi sitt mikilvægasta samkeppnisforskot, ef mikill hluti norsks rafmagns verður flutt beint út."
Allt, sem hér stendur um Noreg, getur átt við um Ísland að breyttu breytanda.
11.3.2018 | 13:43
Líkleg sýn stjórnmálaflokkanna á ACER
ACER er orkustofnun ESB. Hlutverk hennar er að taka við stjórn orkuflutningsmála, rafmagns og gass, af hverju ríki, bæði innan aðildarlandanna og á milli þeirra. Ætlunin er að bæta nýtingu orkuveranna og ráðstöfun orkunnar innan ESB, sérstaklega þeirra orkuvera, sem vinna raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og að jafna orkuverðið alls staðar á ESB-svæðinu.
Tveimur meginráðum er beitt að hálfu ESB í þessu viðfangi. Annað er að fela orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), mikil og vaxandi völd á sviði orkuflutningsmála, sem áður voru í höndum hvers ríkis um sig. Þar með missa kjörnir fulltrúar á þjóðþingunum úrræði til að móta orkustefnuna. Hitt úrræði ESB er að setja á laggirnar sameiginlegan orkumarkað, sem spannar orkuseljendur og orkukaupendur í öllum ESB-ríkjunum. Þetta kerfi á og mun leiða til útrýmingar allra flöskuhálsa í orkuflutningskerfunum og til minni orkuverðsmunar en nemur 0,25 ISK/kWh á milli svæða.
Hugmyndafræðin á bak við þetta er, að markaðurinn sé bezt til þess fallinn að beina orkunni til hagkvæmastra nota, þ.e. hámarks verðmætasköpunar. Á Íslandi og í Noregi eru hins vegar önnur sjónarmið uppi, sem vegast á við þetta hreinræktaða markaðsviðhorf til raforku. Þar er átt við samkeppnishæfni atvinnuveganna, sem er m.a. háð tiltölulega lágu raforkuverði, byggðasjónarmið, innlenda verðmætasköpun úr náttúruauðlindunum o.fl. Sértæk orkunýting á borð við orkusækna framleiðslu í krafti langtímasamninga um raforku á samkeppnishæfu verði fyrir hákostnaðarlönd fjarri markaði á ekki lengur upp á pallborðið í Noregi og á Íslandi, verði þessi stefna ESB ofan á.
Hin sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB samþykkti í fyrra (2017) eftir margra ára þref, að EFTA-ríkin í EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, skyldu innleiða þetta ESB-kerfi hjá sér líka með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með samþykkt þjóðþinga sinna og gefa þessu fyrirkomulagi þar með lagagildi í 3 EFTA-löndum af 4. Verður þetta þá ríkjandi réttur í löndunum, og innlent dómskerfi getur ekki einu sinni hnekkt ákvörðunum ACER og útibús þess í einstökum löndum, heldur fara ágreiningsmál innanlands fyrir úrskurðarnefnd á vegum útibús ACER í hverju landi, og millilandadeilur verða útkljáðar af ACER.
Hvernig samræmist þetta meginstefnu íslenzkra stjórnmálaflokka ?
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru allir á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB. Getur verið, að þeir séu samt fylgjandi aðild að hluta, og er þá ekki átt við EES (Evrópska efnahagssvæðið) aðild í upphaflegri mynd, þ.e. þar sem tveggja stoða samkomulagsgrundvöllur EFTA og ESB var að fullu virtur. Átt er við sneiðingaraðferðina (salami), þar sem eitt málefnasvið í einu er fært undir yfirráð ESB, eins og fjármálaeftirlit og orkuflutningssviðið, sem fært verður undir orkustofnun ESB, ACER. Það er gert hérlendis með því fyrst að færa allt eftirlit með Landsneti undir OS, og er frumvarp um það þegar komið fram, og síðan að færa OS undir ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem tekur tekur við samþykktum og skipunum frá ACER og flytur OS boðskapinn. OS verður ekki lengur undir stjórn atvinnuvegaráðuneytisins (iðnaðar). Þetta er dæmigert fullveldisframsal með sneiðingaraðferð.
Staða EFTA-ríkjanna er þó hér sýnu verri en ESB-ríkjanna, því að hvert hinna síðarnefndu á einn fulltrúa í ACER með atkvæðisrétti, en fulltrúar EFTA-ríkjanna hafa ekki atkvæðisrétt. Staða þeirra verður þrælsleg, og það verður engin leið fyrir ríkisstjórnarflokkana hérlendis að réttlæta slíka lagasetningu með vísun til stefnuskráa sinna. Þeir munu þá í einu vetfangi glata öllum trúverðugleika, a.m.k. á þessu sviði utanríkismálanna, enda má þá tala um svik við kjósendur þessara stjórnmálaflokka.
Tveir ríkisstjórnarflokkanna íslenzku af þremur eiga sér systurflokka í Noregi, sem berjast gegn samþykki Stórþingsins á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB. Hér er um að ræða Senterpartiet, sem Framsóknarflokkurinn hefur lengi átt samleið með, og SV, hvers stjórnmálastefna er keimlík stefnu VG. Því verður ekki trúað, að þessir íslenzku stjórnmálaflokkar séu kærulausari gagnvart fullveldisframsali síns ríkisvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru aðilar, en systurflokkar þeirra eru í Noregi. Þetta mál snýst um að fórna sjálfsákvörðunarrétti á tilteknu sviði og öðlast ekkert, nema vandræði, í staðinn.
Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Noregi er einna helzt Hægri flokkurinn þar á bæ, og hann situr í ríkisstjórn, en er nú að verða eini stjórnmálaflokkurinn í Noregi, sem hefur ESB-aðild landsins á stefnuskrá sinni. Að þessu leyti svipar honum nú orðið meir til "Viðreisnar" hérlendis. Þessi afstaða greinir Hægri algerlega frá Sjálfstæðisflokkinum, þótt stefnu flokkanna svipi saman í efnahagsmálum og öðrum utanríkismálum. Þetta kom greinilega fram með viðbrögðum Hægri-ráðherra við frægri ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi 6. febrúar 2018, þar sem hann lýsti andstöðu sinni við "sneiðaraðferð" ESB við innlimun Íslands í ESB, bakdyramegin um EES. Það verður erfitt eða ógjörningur að útskýra ESB-andstöðu Sjálfstæðisflokksins, ef þingflokkur hans samþykkir aðild að ESB í sneiðum. Þetta EES-mál hefur þannig stórpólitíska þýðingu fyrir íslenzku ríkisstjórnarflokkana. Þess vegna vappa þingmenn í kringum málið, eins og kettir í kringum heitan graut, og bíða úrslitanna í Stórþinginu norska þann 22. marz 2018.
Systurflokkur Samfylkingarinnar í Noregi er Verkamannaflokkurinn. Hann barðist áður, t.d. 1972 og 1994, fyrir inngöngu Noregs í ESB, en hefur nú gefið þá baráttu upp á bátinn. Flokksforystan er þó enn gagnrýnislítil á það, að hver ESB-stofnunin á fætur annarri fái úrslitaáhrif um norsk málefni og hagsmuni á sínu sviði, eins og Noregur væri innanborðs í ESB. Þann 8. marz 2018 urðu vatnaskil í ACER-málinu í Noregi, því að þá sendu um 100 oddvitar norskra sveitarstjórna úr Verkamannaflokkinum flokksforystunni sameiginlega yfirlýsingu, þar sem þeir lýstu eindreginni andstöðu við inngöngu Noregs í orkusamband EES og hvöttu þingmenn Verkamannaflokksins til að endurspegla afstöðu meirihluta grasrótar flokksins, t.d. í verkalýðsfélögunum, með því að hafna ACER. Hérlendis hefur enn ekki orðið vart neinnar félagslegrar virkni í verkalýðsfélögunum í þessa átt, enda eiga þau ekki lengur nein ítök í þingflokkunum, eins og áður.
Félagsmenn verkalýðsfélaganna um allan Noreg hafa sýnt og sannað undanfarnar vikur í aðdraganda umfjöllunar Stórþingsins um ACER-málið, að þeir eru algerlega á öndverðum meiði við flokksforystuna að þessu leyti og sætta sig alls ekki við það, að atvinnuöryggi þeirra verði sett í uppnám með hugarfóstri "búrókratanna í Brüssel" um 5. frelsið á Innri markaði ESB, frjálst flæði orku, ekki sízt raforku, um allt EES-svæðið.
Það er ekki við öðru að búast af þeim, sem vilja, að Ísland verði ríki í ríkjasambandi ESB, en þeir muni greiða atkvæði með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, svo að bálkurinn öðlist lagagildi á Íslandi, og ESB fái þar með óskoruð völd yfir flutningsmálum raforku innanlands og til útlanda, þrátt fyrir að landið geti ekki haft nein teljandi áhrif á mótun stefnunnar, sem ACER framfylgir.
Verði innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins ofan á á Alþingi, svo fráleitt sem það hljómar, er líklegt, að það verði Phyrrosarsigur ESB-fylgjenda og muni leiða til háværra krafna um uppsögn EES-samningsins. Í ljósi þeirra vatnaskila, sem verða hjá ESB og EFTA við útgöngu Breta úr ESB, er fullkomlega tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, uppsögn eða áframhaldandi aðild. Það er líka krafa samtakanna "Nei til EU" í Noregi gagnvart norskum yfirvöldum.
8.3.2018 | 10:17
Stjórnarskráin og ACER
Á þessu vefsetri hefur verið bent á nokkur atriði varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálkinn frá ESB, sem er á verkefnaskrá Alþingis að fjalla um vorið 2018, og orkar mjög tvímælis m.t.t. Stjórnarskráarinnar. Sætir furðu, að íslenzkir stjórnlagafræðingar virðast ekki hafa gert tilraun til fræðilegrar greiningar á þessu stórmáli enn þá, þótt að því hljóti að koma, enda hafa norskir starfsbræður þeirra ekki legið á liði sínu í þessum efnum.
Flestir fræðimenn á sviði lögfræði í Noregi, sem opinberlega hafa tjáð sig um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, telja, að innleiðing hans í norsk lög feli í sér Stjórnarskrárbrot og að lögleiðing bálksins sé þegar af þeirri ástæðu ótæk. Ekkert bendir til annars en sömu röksemdir eigi við á Íslandi.
Helzti ásteytingarsteinninn er, að víðtæk völd yfir orkumálum á Íslandi, sem samþykkt Alþingis um að fella téðan orkumálabálk ESB inn í EES-samninginn, mundu falla í skaut ESB, yfirþjóðlegra samtaka, þar sem Ísland er ekki aðili. Þetta brýtur í bága við helztu réttlætingu upphaflega EES-samningsins, sem var þannig, að samþykkt í ESB, lög eða reglugerð, átti ekki að fá réttarfarslegt gildi á Íslandi án sérstaks samþykkis Alþingis. Nú er stefnt á, að stórar og smáar ákvarðanir orkustofnunar ESB (ACER) á sviði raforkuflutningsmála komi til framkvæmdar hérlendis án atbeina eða rýni nokkurra hefðbundinna íslenzkra stjórnvalda. Það er einfaldlega verið að innlima Ísland og Noreg í ESB á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, sneið eftir sneið. Lætur meirihluti þingheims bjóða sér annað eins ?
Í frumvarpi ríkisstjórnar Noregs, og sjálfsagt Íslands líka, er téð grundvallar fullveldisregla brotin. Samþykkt í orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), þar sem Ísland mun ekki fá atkvæðisrétt, mun hljóta stöðu stjórnvaldsákvörðunar á Íslandi við að fara um hendur starfsmanna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem sendir ákvörðun ACER til orkustofnunar, OS, sem á að verða óháð yfirvöldum og hagsmunaaðilum á Íslandi. OS staðfestir skipunina frá ESA, og þar með getur enginn stöðvað framkvæmd ákvörðunar ACER án þess að brjóta lögin hér (lög um EES-samninginn). Grundvallarregla EES-samningsins um "neyðarhemil", þar sem Alþingi getur hafnað samþykkt frá ESB, er tekin úr sambandi með valdatöku ESB-stofnunar á Íslandi. Þetta mun gerast á sviði, sem gengur næst sjávarútveginum að þjóðhagslegu mikilvægi.
Norskur prófessor í réttarfarsfræðum, Henrik Björnebye, skrifar m.a. þetta í grein 15. janúar 2018 í Klassekampen,
"All energi under en kam":
"Vinna ESB á síðustu árum við að koma orkusambandi á laggirnar er til vitnis um metnaðarfull markmið í orkumálum. Þær 454 blaðsíður af markaðsreglum fyrir rafmagn, sem danska "EU-Tidende" hefur birt, fjalla svo nákvæmlega um tæknileg atriði, að maður verður helzt að vera verkfræðingur, hagfræðingur og lögfræðingur til að skilja umfangið. Um er að ræða reglugerðir, og þar með verður að taka þær orðréttar upp í norskan rétt án aðlögunar, ef gjörningurinn verður felldur inn í EES-samninginn."
Augljóslega kallar þessi ESB-gjörningur á gríðarlega vinnu í íslenzka stjórnkerfinu, svo að ekki sé nú minnzt á þýðingarátakið. Ekki verður annað séð en Íslandi væri vel borgið án allrar þessarar vinnu á kostnað skattborgaranna, enda eru þessir ESB-gjörningar samdir fyrir allt aðrar aðstæður en ríkja hér á eylandinu. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður einvörðungu til trafala og kostnaðarauka á Íslandi, þótt hingað verði engir aflsæstrengir lagðir, en þá fyrst mun nú steininn taka úr, og það mun þá ekki verða á færi íslenzkra stjórnvalda að hafa nokkur áhrif á ákvörun um aflsæstreng né framkvæmd verkefnisins. Alþingismönnum er þess vegna ráðlagt að hafna þessu lagafrumvarpi, ef það verður lagt fram.
Orkusamband ESB, svo og ACER, eru í stöðugri þróun. Þar með er dúkað fyrir "salami" aðferðina, þ.e. að Alþingi samþykki hverja breytingu fyrir sig sem "minni háttar" inngrip í stjórnsýsluna, en saman jafngildi breytingarnar meiri háttar fullveldisframsali. Valdaumfang ACER mun aðeins vaxa með tímanum og hugsanlega spanna allan orugeirann á endanum. Það er mjög ósanngjarnt af ESB að biðja norska og íslenzka þingmenn um að samþykkja nokkuð, sem er vitað, að verður háð stöðugum breytingum í átt til meira fullveldisframsals, þar sem Norðmenn og Íslendingar verða aðeins með áheyrnarfulltrúa í ACER án atkvæðisréttar.
Þegar fullveldisframsal til ACER er metið, kemur til skoðunar, hvort hvort ACER hafi einvörðungu boðvald yfir ríkisstofnun. Hér er um að ræða, hvort væntanleg orkustjórnvaldsstofnun (OSS) á Íslandi, Orkustofnun eða sérstofnun, er ríkisstofnun eða ekki. Í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum er skýrt ákvæði um, að OSS skuli vera öllum óháð, nema ESA, sem flytja á henni fyrirskipanir frá ACER, og OSS hefur engin tök á að andmæla ACER. Fullnægir OSS þá skilgreiningu á ríkisstofnun ? Auðvitað ekki, og þar með blasir klárlega við Stjórnarskrárbrot. Það er með eindæmum, að lagt skuli upp með lagatæknilegt örverpi á borð við þetta. Það getur ekki staðizt vandaða lögfræðilega rýni.
4.3.2018 | 09:54
Frændríki á sama báti
Ísland og Noregur eru á sama báti. Því ræður uppruninn, staðsetning, landshættir og atvinnuvegirnir. Þess vegna var tímabært, að formanni norsku andófssamtakanna, "Nei til EU", Kathrine Kleveland, væri boðið til Íslands. Það gerðu íslenzku systursamtökin Heimssýn nýlega. Kom hún til landsins 1. marz 2018 og hélt magnþrungið erindi hjá Heimssýn um baráttu samtaka sinna gegn innlimun Noregs í ESB, bakdyramegin um EES (Evrópska efnahagssvæðið).
Það er kominn tími til að reisa burst við EES, því að tilætlunarsemi ESB um aðlögun EFTA-ríkjanna að regluverki ESB virðist hafa tekið stökkbreytingu við áhrifaleysi Breta innan ESB eftir BREXIT. Með þessum hætti breytist EFTA í taglhnýting ESB í stað þess að vera sjálfstætt viðskiptabandalag á jafnræðisgrunni við ESB. Þessi þróun er augljós og með öllu óviðunandi, enda óþarfi að beygja sig undir þvílíkt ok.
Þann 1. marz 2018 birti Morgunblaðið viðtal Guðrúnar Erlingsdóttur við Kathrine Kleveland í tilefni téðrar heimsóknar. Verður nú vitnað í þetta viðtal og lagt út af því:
""Ég hef áhuga á að koma umræðunni um EES-samninginn í gang á Íslandi, það er orðið tímabært", segir Kleveland, ... "
Gagnrýnin umræða um aðild Noregs að EES hefur staðið yfir um skeið í Noregi og á sér tvær rætur. Annars vegar úrslit BREXIT-atkvæðagreiðslunnar í júní 2016 og horfur á, að Bretland sé á leiðinni út úr EES-samstarfinu 2019-2020, og hins vegar sameiginlegt stjórnkerfi ESB-ríkjanna á æ fleiri sviðum, sem ESB purkunarlaust treður upp á EFTA-ríkin innan EES, þótt það stríði gegn upphaflegu grunnreglunni um samskipti jafnrétthárra aðila, EFTA og ESB, um málefnin, sem á döfinni eru hverju sinni.
Bretar eru ein af aðalviðskiptaþjóðum Norðmanna og Íslendinga, og BREXIT og nýgerður fríverzlunarsamningur Kanada við ESB veita kærkomið tækifæri til gagnrýninnar endurskoðunar á EES-samstarfinu við ESB. Það er ljóst, að ESB vill breyta þessu samstarfi þannig, að stofnanir þess á mikilvægum sviðum efnahagslífsins fari með stjórnun mála í EFTA-ríkjunum, eins og um ESB-ríki væri að ræða, þótt EFTA-ríkin séu nánast áhrifalaus innan ESB. Þetta er erfiður biti fyrir Ísland og Noreg að kyngja, eins og komið hefur fram hjá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í ræðupúlti Alþingis, og hjá mörgum Stórþingsmönnum og lagaprófessorum, norskum.
Það blasir við, að fyrirkomulag innan EES í anda ESB stríðir gegn stjórnarskrám bæði Íslands og Noregs. Löndunum er þá ekki lengur vært innan EES. Þjóðþing þessara landa verða að koma ríkisstjórnunum á rétt spor í þessum efnum. Þær eru í heljargreipum embættismanna, sem hallir eru undir skrifræðið í Berlaymont. Atvinnulífið stynur undan skrifræði og eftirlitsstarfsemi, sem fyrirskrifuð er frá Berlaymont og sniðið er við mun fjölmennari samfélög en okkar. Beinn og óbeinn nettó kostnaður vegna EES-aðildar Íslands gæti numið yfir 80 miaISK/ár (kostnaður umfram ávinning). EES-aðild er orðin hagvaxtarhamlandi og hefur gengið sér til húðar.
""Umræðan um ESB er ekki eins mikilvæg í Noregi og umræðan um EES, vegna þess að meirihluti Norðmanna trúir því, að við þurfum á EES að halda. Á samningnum eru þó margar neikvæðar hliðar, og það þarf að skoða, hvaða þýðingu hann hefur fyrir Noreg, og hvort við þörfnumst hans", segir Kleveland."
Norðmenn voru í nóvember 2017 spurðir um afstöðu sína til orkustofnunar ESB, ACER. Þá kváðust 70 % þeirra, sem afstöðu tóku, vera andvígir aðild Noregs að þessari stofnun ESB (þeir munu einvörðungu öðlast áheyrnarrétt, ef til kemur). Reyndar tóku 38 % aðspurðra ekki afstöðu, en þessi niðurstaða gefur til kynna, að senn muni meirihluti Norðmanna snúast öndverður gegn veru landsins í EES. Samtökin "Nei til EU" hafa á stefnuskrá sinni, sem samþykkt var á landsfundi samtakanna fyrir nokkru, að Noregur segði upp EES-samninginum. Það fer að verða lýðræðislega knýjandi fyrir bæði Norðmenn og Íslendinga að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa veru. Kjósendur fá þá tækifæri til að leggja blessun sína yfir stjórnarskrárbrot, sem margir telja felast í framkvæmdinni, eða að hafna innlimun í ESB sneið eftir sneið ("salamiaðferðin").
""Í umræðunni um EES á Íslandi og í Noregi þarf að ræða, hvers vegna samningurinn er umfangsmeiri en aðrir viðskiptasamningar ESB, sem gerðir eru við yfir 150 lönd, og að EES-löndin eru þau einu, sem þurfa að breyta lögum til þess að eiga viðskipti innan ESB", segir Kleveland og bætir við, að þegar Noregur skrifaði undir EES-samninginn við ESB, hafi Norðmönnum verið sagt, að EES-samningurinn tæki bara til viðskiptalífsins."
EES-samningurinn var gerður við Norðmenn árið 1992 og var að þeirra hálfu og ESB hugsaður sem biðleikur, þar til Noregur gengi í ESB. Samningum um inngöngu Noregs var síðan lokið árið 1994, og þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í kjölfarið, eins og stjórnarskráin kveður á um, þegar gengið er í fjölþjóðleg samtök, sem yfirtaka hluta af þeim völdum og ábyrgð, sem áður voru hjá þingi, dómstólum og ríkisstjórn, þ.e. inngangan felur í sér fullveldisframsal. Þjóðin hafnaði samninginum í annað sinn, en hið fyrra var haustið 1972. Var blekbóndi þá nýkominn til námsdvalar í Noregi og hefur aldrei upplifað jafntilfinningaríka kosningabaráttu.
Síðan þetta var hefur EES-samningurinn tekið meiri breytingum en nokkurn óraði fyrir og er einfaldlega orðinn alltof viðamikill og dýrkeyptur fyrir smáþjóðir að halda uppi til að fá aðgang að Innri markaði ESB. Þetta blasti við, þegar ljóst varð, að Bretar væru búnir að fá sig fullsadda af vistinni hjá Germönum og Göllum, og Kanadamenn sömdu um hagstæðari viðskiptakjör fyrir útflutningsvörur sínar við ESB en Íslendingum bjóðast á Innri markaðinum. Þótt Bretum þyki skorta í hann frelsi til fjármagnsflutninga, getur Kanadasamningurinn vel þjónað hagsmunum EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs.
Rökrétt viðbrögð stjórnvalda við núverandi stöðu mála eru þau, sem fundur Heimssýnar samþykkti 1. marz 2018 og endaði þannig:
"Í ljósi ofanritaðs leggur aðalfundur Heimssýnar til, að gagnrýnin skoðun fari fram á aðild Íslands að samninginum um Evrópska efnahagssvæðið. Slík skoðun ætti að miða að því að leiða í ljós þá kosti, sem í boði eru og bezt eru til þess fallnir að tryggja í senn fullveldi Íslands og aðra hagsmuni Íslendinga til langframa."
Ef ríkisstjórnin ekki fer að þessum ráðum, er hún komin í hlutverk strútsins í breytilegum heimi og stingur hausnum í sandinn og gerir ekkert af viti í þessum mikilsverðu málum á meðan. Ef vönduð rannsókn á viðfangsefninu fer hins vegar fram, getur farið fram um hana ítarleg þjóðfélagsumræða og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um uppsögn EES-samningsins.
28.2.2018 | 10:16
Orkustofnun ESB - ACER
Umdeildasti hluti Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem Alþingi og norska Stórþingið eiga að fjalla um á útmánuðum 2018, er Reglugerð EU 713/2009 um Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Ísland og Noregur munu aðeins mega hafa þarna áheyrnarfulltrúa, en fulltrúar allra ESB-ríkjanna verða með atkvæðisrétt. Ekkert jafnræði er á milli EFTA og ESB í þessari samkundu. Engu að síður varð niðurstaða "samningaviðræðna" ESB og EFTA, að líta bæri á EFTA-ríkin sem aðildarríki í Orkusambandinu. Þetta er algerlega ótækt fyrirkomulag, því að mikið ójafnræði er með aðilum og ESB-stofnun fær yfirgripsmikil völd yfir orkumálum EFTA-landanna, ef meirihluti er á þjóðþingunum fyrir því. Það er kominn tími til, að íslenzkir stjórnlagafræðingar tjái sig opinberlega um þetta atriði og um "frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr 65/2003 með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar 2009/72/EB og viðurlagsákvæði)". Það hafa fjölmargir kollegar þeirra í Noregi þegar gert m.t.t. norsku stjórnarskráarinnar og flestir á þá lund, að aðild Noregs að Orkusambandi ESB sé skýlaust stjórnarskrárbrot. Með leikmannsaugum séð er hið sama uppi á teninginum hérlendis.
Hlutverk ACER er að gera tillögur um og fylgja eftir aðgerðum, sem tryggja, að Innri orkumarkaður ESB virki, eins og til er ætlazt. Í hnotskurn felur þetta í sér, að flutningskerfi allra aðildarlandanna séu byggð upp, tengd saman og stýrt þannig, að rafmagn flæði frjálst um allt sambandið.
Í ACER skulu aðildarríki EES taka þátt í þróun sameiginlegs orkumarkaðar. Stofnunin skal líka fylgjast með, að fjárfestingaráætlanir ríkjanna stuðli að eftirsóttri þróun markaðarins. F.o.m. 2021 á framkvæmdastjórn ESB að rýna þær og samþykkja eða krefjast breytinga á þeim. Þetta þýðir t.d., að eftirlitshlutverk Orkustofnunar með Landsneti verður yfirtekið af ACER, þar með rýni á og samþykki/höfnun Kerfisáætlunar Landsnets, og ACER mun hafa síðasta orðið um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi. Það munu lögfræðingar væntanlega flokka til verulegs fullveldisframsals, þar sem um gjaldtöku af almenningi er að ræða.
ACER á reglubundið að gera tillögu til Framkvæmdastjórnarinnar, ráðherraráðsins og ESB-þingsins um aðgerðir til að bæta virkni markaðarins. Þær geta bæði verið tillögur um að auka við millilandatengingarnar og um reglur varðandi rekstur flutningskerfisins. Þessar reglur eru nefndar netskilmálar, og geta spannað allt frá skilyrðum um aðgang að flutningskerfinu, skiptingu flutningsgetu á milli notenda, reglur um verðlagningu og til krafna um gæði og viðhald netsins.
Mælikvarðinn á það, hvernig til tekst, er verðmunur orkuhlutans (án flutnings- og dreifingarkostnaðar) á milli einstakra svæða eða landa. Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er þegar kominn á framkvæmdaáætlun ACER, og þessi mælikvarði sýnir, að ACER stefnir að svipuðu orkuverði á Íslandi og annars staðar í EES, sem þýðir aðeins eitt: stórhækkun almenns raforkuverðs á Íslandi.
Norska Landsnet, Statnett, á og rekur stærstan hluta millilandasæstrengja Noregs. ACER getur úrskurðað, hvernig kostnaðarskipting og rekstrarfyrirkomulag sæstrengja á milli Íslands og EES-landa verður, samkvæmt grein 8 í Reglugerð EU 713/2009, ef til ágreinings kemur. Fjárfesting í slíkum sæstreng ásamt endabúnaði getur numið miaISK 500-1000, svo að fjárhagsbyrði Landsnets út af sæstreng getur orðið tilfinnanleg og hugsanlega hækkað flutningsgjald til almennings umfram hækkanir vegna styrkingar flutningskerfis á landi að sæstreng.
Dæmi um ágreining landa á milli vegna rekstrar sæstrengs: gefum okkur, að mótaðili Landsnets sé flutningsfyrirtækið í Hollandi, sem krefjist þess, að 40 % af flutningsgetu sæstrengsins sé helgað jöfnunarafli. Þetta er afl, sem Landsnet er skuldbundið til að afhenda dag hvern, þegar vantar afl frá hollenzkum sólar- og vindrafstöðvum. Verðið fyrir slíka afhendingu er ákveðið fyrir löng tímabil í einu. Slíkur samningur takmarkar á hinn bóginn flutningsgetu fyrir afl frá íslenzkum virkjunareigendum, sem vilja flytja út rafmagn á svo kallaðan skyndimarkað, þar sem verðið er ákvarðað á klukkustundar fresti. Ef íslenzk orkuvinnslufyrirtæki telja sig græða meira á skyndimarkaðinum en á jöfnunarmarkaðinum, höfum við dæmigerðan hagsmunaárekstur á milli landanna tveggja. Í slíkum tilvikum úrskurðar ACER um, hvernig aflflutningi skuli hátta.
Ef upp kemur deila á milli flutningsfyrirtækja tveggja landa um, hvernig verja skuli hagnaði af rekstri sæstrengs á milli landanna, þá úrskurðar ACER. Á þessum grundvelli fer ekki á milli mála, að ákvarðanir ACER munu hafa áhrif á raforkuverð í hverju landi. Í fyrsta lagi ákveður ACER, hversu margir sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda, og í öðru lagi ákveður ACER, hvernig hugsanlegum hagnaði verður varið.
Það er deginum ljósara, að stærsti einstaki áhrifavaldurinn á raforkuverð til neytenda á Íslandi eftir samþykkt frumvarps um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, verður yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili (er án atkvæðisréttar). Þetta er augljóst og ósamþykkjanlegt fullveldisframsal, enda klárlega Stjórnarskrárbrot.
25.2.2018 | 15:12
Völd ACER á Íslandi - hækkun raforkuverðs
Það hafa ýmsir gert lítið úr þeim breytingum, sem samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Alþingi mun hafa í för með sér. Skáka hinir sömu þá í því skjólinu, að engin utanlandstenging sé við íslenzka raforkukerfið. Þetta er skammgóður vermir. Ekki er örgrannt um, að slíkar viðbárur hafi sézt frá íslenzkum embættismönnum. Samt hefur að sjálfsögðu engin undanþága fengizt hjá ESB Íslandi til handa varðandi þá stefnumörkun ACER að tengja öll svæði og lönd svo tryggilega saman í eitt stofnkerfi, að verðmunur raforku jafnist út.
Þeir hinir sömu ofurbjartsýnismenn virðast ekki hafa skilið inntak Orkusambands ESB. Orkustofnun þess, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), er ekki einvörðungu ráðgefandi um orkumál, heldur eru þar teknar ákvarðanir um framkvæmdir í krafti atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður. EFTA ríkin munu ekki öðlast þar atkvæðisrétt, þótt þau leiði ACER til valda í orkugeirum sínum. Ójafnræði EFTA og ESB í ACER verður algert. Slíkt stríðir algerlega gegn ákvæðum EES-samningsins um, að ESB og EFTA skuli leysa sameiginleg viðfangsefni á jafnréttisgrundvelli (s.k. tveggja stoða lausn).
Markmið ACER er, að raforkuflutningsgeta tenginga frá hverju aðildarlandi EES nemi a.m.k. 15 % af vinnslugetu landsins árið 2030 og hún aukist í 30 % á ótilgreindum tíma. EES-ríki munu ekki komast upp með neitt múður, þar til þessu er náð. Það er lágmark, að menn átti sig á, hvað undirskrift þeirra merkir, þegar þeir skuldbinda heila þjóð, eins og gerzt hefur í hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB.
Á forgangslista ACER um orkutengiverkefni á milli landa, sem eru yfir 170 talsins, er sæstrengurinn "Ice Link", sem ACER vill leggja á milli Íslands og Bretlands og taka í rekstur árið 2027. Ef honum verður valin flutningsgetan 1200 MW, eins og nefnt hefur verið í öðrum skýrslum, mun raforkuflutningsgeta samtengingar Íslands við útlönd að líkindum einmitt nema rúmlega 30 % upp úr 2030, ef af þessum óheillagjörningi verður.
Á téðri verkefnaskrá ACER eru Landsvirkjun og Landsnet tilfærð sem aðstandendur verkefnisins ásamt því, sem gæti verið dótturfélag brezka Landsnets, National Grid. Hver hefur heimilað þessum íslenzku fyrirtækjum, þar sem annað er að fullu í eigu ríkissjóðs (og á ekkert að skipta sér af orkuflutningsmálum) og hitt að mestu í eigu þess fyrrnefnda, að láta skrá þennan sæstreng á forgangslista ACER og sig sem aðstandendur ? Þetta er ábyrgðarlaust pukur með óvinsælt mál á Íslandi og hátimbruð ósvífni í ljósi þess, að hér hefur engin umræða farið fram um, að hugsanlegan sæstreng ætti að nota til að tengja Ísland við markaðskerfi ESB fyrir raforku, þar sem hvaða orkukaupi sem er á EES-svæðinu getur boðið í alla tiltæka raforku hér á markaðinum. Allt annað hefur verið gefið í skyn, þ.e. langtímasamningur um tiltekna orku með fjárhagslegum stuðningi úr brezka ríkissjóðinum við kaup á sjálfbærri raforku inn á brezka stofnkerfið. Hér er sviksamlegt atferli á ferðinni, því að glepjist Alþingi á að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn, geta íslenzk stjórnvöld ekki lengur átt síðasta orðið um lagningu aflsæstrengs á milli Íslands og útlanda. Valdið verður alfarið í höndum ACER og útibús þess á Íslandi.
Sérfræðingahópur ACER vinnur að því stefnumiði ACER að jafna raforkuverð í ESB/EES. Hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ef meiri raforkuverðsmismunur en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh) sé fyrir hendi á milli tveggja aðlægra svæða eða landa, þá sé klárlega þörf á að efla raforkuflutningsgetuna á milli þeirra til að njóta ávaxta sameiginlegs orkumarkaðar. Á milli Íslands og Bretlands er um 16 faldur þessi munur um þessar mundur og m.v. meginlandið 10-30 faldur (það er mjög sveiflukennt verð á meginlandinu vegna mikilla óstöðugra endurnýjanlegra orkulinda á borð við sól og vind). Tæknileg og markaðsleg skilyrði eru þess vegna fyrir hendi, til að ACER ákveði, að sæstrengur verði lagður til Íslands. Orkustofnun ESB vantar enn heimild til að ákveða þetta, en á meðan frumvarp um það er til í iðnaðarráðuneytinu og Alþingi hefur ekki hafnað því, vofir þessi hætta yfir.
Stjórnvöld hér verða þá ekki spurð, því að það er hlutverk ACER að ryðja úr vegi öllum staðbundnum hindrunum gegn svo greiðum orkuflutningum, að mismunur orkuverðs (flutningskostnaður, dreifingarkostnaður og skattar ekki meðtaldir) verði að hámarki 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh).
Nú eru í undirbúningi 2 sæstrengir frá Noregi til viðbótar við eina 5 í rekstri; annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands. Flutningsgeta hvors um sig verður svipuð og Ice Link. Í leyfisumsókn Statnetts til NVE (norku Orkustofnunarinnar) um sæstrengi til Bretlands og Þýzkalands er tekið fram, að kostnaður Statnetts við flutningsmannvirki á landi að landtökustöðum sæstrengjanna sé áætlaður miaNOK 4,0 eða miaISK 52. Út frá þessu má ætla, að kostnaður Landsnets vegna eins svipaðs sæstrengs með landttöku einhvers staðar á Suður-eða Austurlandi næmi miaISK 26. Samkvæmt reglum ACER leggst þessi kostnaður á Landsnet, og notendur innanlands verða að standa undir kostnaðinum. Hvaða áhrif mundi þetta hafa á flutningsgjaldið, sem innheimt er af raforkunotendum á Íslandi ?
Flutningsgjaldið til almennings nemur um þessar mundir (án skatta) 1,84 ISK/kWh. Ef kostnaður af kerfisstyrkingu vegna sæstrengs dreifist jafnt á allan núverandi flutning, mun hækkunin geta numið 0,11 ISK/kWh, sem er 6,0 % hækkun til almennings. Ef styrkingin leggst einvörðungu á flutning til almennings, mun hækkunin nema 0,53 ISK/kWh eða 29 %. Í ljósi þess, að almenningur á óbeint megnið af Landsneti, er ekki ólíklegt, að almenningur verði látinn bera megnið af þessum kostnaði, t.d. 60 %, sem þýðir 0,32 ISK/kWh eða 17 % hækkun flutningsgjalds til almennings.
ACER fyrirskipar, að ágóða af orkuflutningum um sæstreng megi ekki nota til að lækka flutningsgjald til almennings, heldur skuli leggja hann í sjóð til að standa undir enn frekari fjárfestingum og viðhaldi, þar til orkuverðsmismunur á milli viðkomandi svæða er orðinn minni en jafngildi 0,25 ISK/kWh. ACER verður einráð stofnun um þessi mál hérlendis, ef ríkisstjórnin leggur fram ACER-frumvarpið og Alþingi samþykkir það.
Með þessum hætti mundi Alþingi hafa falið yfirþjóðlegri stofnun ígildi skattheimtuvalds á Íslandi. Slíkt stríðir gegn lýðræðislegum stjórnarháttum, gegn réttlætistilfinningu langflestra skattborgara landsins, og væntanlega fer það ekki framhjá meirihluta Alþingismanna, að slíkt er ótvírætt Stjórnarskrárbrot.
Þetta er ótrúlegt, en satt.
Varðandi ráðstöfun hagnaðar af sæstreng stendur í reglu ESB nr 714/2009 um raforkuflutninga yfir landamæri, grein 16.6:
"Tekjur af afmarkaðri flutningsgetu skal nota til:
a) að tryggja, að þessari afmörkuðu flutningsgetu sé við haldið, og/eða
b) að hindra rýrnun flutningsgetunnar og auka hana með fjárfestingum í stofnkerfinu og þá aðallega í nýjum flutningsmannvirkjum."
Til viðbótar styrkingu stofnkerfis í landi vegna Ice Link kann Landsnet að verða þvingað til umtalsverðrar kostnaðarþátttöku í honum, e.t.v. sem nemur miaISK 150. Það mundi jafngilda u.þ.b. þreföldun langtímaskulda Landsnets, og það er engum vafa undirorpið, að slík skuldabyrði mundi veikja getu fyrirtækisins til uppbyggingar innviða innanlands og jafnvel leiða til enn meiri hækkunar flutningsgjalds raforku innanlands. Óvissa og ófriður út af starfsemi Landsnets mundi ekki dvína við að færa fyrirtækið undir stjórn ACER.