Færsluflokkur: Evrópumál

Stjórnarskráin og EES

Stjórnarskráin er verðmætt leiðbeiningaskjal fyrir Alþingismenn og aðra um það, sem er í lagi og það, sem ber að forðast við lagasetningu.  Fullveldisákvæðin eru þar ekki upp á punt, heldur sett í varúðarskyni til að missa ekki tökin á stjórn landsins til útlanda.

Dæmigert fyrir EES-samstarfið er, að fullveldið glatast smátt og smátt með valdflutningi yfir einu málefnasviðinu á fætur öðru til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, og stofnana hennar.  Alþingismenn eru hér á mjög hálum ísi.  Þeir hafa aldrei leitað samþykkis þjóðarinnar á þessu fyrirkomulagi, sem aðild landsins að EES hefur í för með sér. 

ESB hefur gjörbreytzt síðan 1993, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, og kemur ekki lengur fram við EFTA-ríkin á jafnræðisgrundvelli, heldur heimtar, að þau lúti stjórn stofnana sinna á hverju sviðinu á fætur öðru.

Mikil umræða hefur farið fram í Noregi um þetta málefni.  Norska Stórþingið stendur þó stjórnlagalega aðeins betur að málum en Alþingi, því að við samþykkt EES-samningsins árið 1992 var farið að kröfu norsku stjórnarskrárinnar um meðferð valdframsalsmála ríkisvaldsins til útlanda og farið eftir grein 115 í Stjórnarskránni, sem áskilur a.m.k. 2/3 mætingu þingmanna við atkvæðagreiðslu, og að 3/4 þeirra samþykki hið minnsta. Hið sama var gert 2016 við innleiðingu fjármálaeftirlits ESB í EES-samninginn.  

Lagasérfræðingar við háskólana í Ósló, Björgvin og Tromsö bentu sumir á áður en Stórþingið afgreiddi ACER-málið 22. marz 2018, að innganga Noregs í Orkusamband ESB væri andstæð stjórnarskrá Noregs, en aðrir töldu, að hana yrði Stórþingið að afgreiða samkvæmt grein 115.  Yfirfært á íslenzku stjórnarskrána þýðir þetta, að innganga Íslands í Orkusamband ESB er andstæð henni.  Stórþingið lét einfaldan meirihluta duga í ACER-málinu, en það mun fá eftirmála, því að ætlun samtakanna "Nei til EU" er að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar þingsins fyrir Hæstarétti.

Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB samanstendur af nokkrum regluverkum, og það er einkum gjörðin um orkustofnunina (ACER-gjörð 713/2009) og rafmarkaðstilskipunin (tilskipun 2009/72), sem vekja spurningar um fullveldisframsal.  

ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki.  Orkustofnunin hefur einnig framkvæmdavald og eigið ákvörðunarvald.  Ákvarðanir hjá ACER eru teknar með auknum meirihluta samkvæmt Þriðja orkubálkinum, en það mun sennilega breytast með væntanlegum Fjórða orkubálki í einfaldan meirihluta.  

Gagnvart Íslandi er látið líta svo út, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA taki hina formlegu ákvörðun, sem þó kemur frá ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili.  Það var hins vegar tekið fram við þetta samkomulag EFTA og ESB, að ESA-ákvörðunin verði í samræmi við drögin frá ACER; sem sagt "monkey business" eða afritsákvörðun.

Erik Holmöyvik og Halvard Haukeland Fredriksen, báðir prófessorar við lagadeild Háskólans í Björgvin, lýsa stöðunni, sem upp kemur við ágreining á milli yfirvalda ólíkra landa þannig:

"Hér blasir sú lausn við, að ACER taki bindandi ákvörðun fyrir orkustjórnvöld í ESB-löndum og ESA taki síðan nauðsynlega samhljóða ákvörðun, sem bindi norsk stjórnvöld.  Að ACER taki raunverulega ákvarðanirnar, endurspeglast af alls konar EES-aðlögunum að málsmeðferðarreglum [ESB], sem raunverulega minnka ESA niður í millilið, sem miðlar sambandi á milli norskra orkuyfirvalda og ACER."

Eivind Smith, prófessor við Svið opinbers réttar, Háskólanum í Ósló, heldur því fram, að ESA-ákvörðun hafi bein áhrif á norskan rétt.  Í viðtali við Klassekampen tjáir hann það þannig:

"Hér er einmitt um að ræða ákvörðun, sem virkar beint inn í þjóðarrétt í Noregi og sem grípur inn í valdréttindi yfir framkvæmdavaldinu, sem Stjórnarskráin færir löggjafanum."

Smith skrifar ennfremur: "Hin nýja valdstjórn yfir orkumálum (RME-landsreglari) á að verða óháð pólitískri stjórnun með hætti, sem ekki á við um neina stofnun í stjórnkerfinu."

Stjórnlagalega er hér fitjað upp á nýjung, sem hefði átt að fá rækilega lögfræðilega og stjórnmálalega umfjöllun áður en til mála kæmi að innleiða hana á Íslandi.  Framkvæmdavald, sem lætur sér detta í hug að umgangast Stjórnarskrá lýðveldisins með þessum hætti, er á hálum ísi. Að ráðherra og ráðuneytisstarfsmenn skuli enn tala með þeim hætti, að þetta fyrirkomulag breyti nánast engu í raun á Íslandi, af því að við höfum enn enga afltengingu til útlanda, er fáheyrt og hrein ósvífni.  Þetta fyrirkomulag færir einmitt ákvörðunarvald um m.a. sæstrenginn "Ice Link" úr höndum íslenzka löggjafans, ríkisstjórnarinnar og íslenzkra dómstóla í hendur ACER/ESB og EFTA-dómstólsins.  

ESA-"ákvörðunum" verður í Noregi beint til óháðrar einingar í NVE, sem er orkustofnun Noregs.  Þessi óháða eining er Landsreglari fyrir orku, "Reguleringsmyndighet for energi"-RME.  Sjálfstæði RME er skilgreint í Orkulögum Noregs, greinum 2-3, þar sem skýrt kemur fram, að stjórnvöld landsins munu ekki geta gefið RME nein fyrirmæli.  RME mun fá eigin fjárveitingu á fjárlögum.  Holmöyvik og Haukeland Fredriksen telja, að ESA yfirtaki þar með stjórnun þeirra þátta orkumálanna, sem falla undir RME.  Hvaða augum skyldu íslenzkir stjórnlagafræðingar líta á þessi mál með hliðsjón af íslenzku Stjórnarskránni ?  Í huga leikmanns samræmist þetta fullveldisframsal henni engan veginn.  Hvað ætla þingmenn hérlendis að arka langt út í stjórnlagalega ófæru í þessum efnum ? Þótt ráðherra utanríkismála telji sig bundinn af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar um framlagningu þingsályktunartillögu um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þá verða Alþingismenn að ganga óbundnir til atkvæðagreiðslu um hana, og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á ekki að verða hægt að túlka sem vantraustsyfirlýsingu á utanríkisráðherra eða ríkisstjórnina.  Það má tryggja með samþykkt sérstakrar traustsyfirlýsingar í kjölfarið.  Alþingi verður einfaldlega að fá tækifæri til að nýta sér samningsbundinn synjunarrétt sinn samkvæmt EES-samninginum.   

 

 

 


Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel

Utanríkisráðherra hefur upplýst, að á 24 ára tímabilinu, 1994-2017, hafi rúmlega 9000 gerðir Evrópusambandsins, ESB, eða rúmlega 13 % allra gerða sambandsins, verið tekin upp í EES samninginn eða upp í íslenzka stjórnsýslu samkvæmt honum.  Þetta eru 375 gerðir á ári eða rúmlega 1 á dag hvern einasta dag, sem liðið hefur frá gildistöku EES-samningsins hérlendis 1. janúar 1994.

Þetta keyrir úr öllu hófi fram, og það verður að binda endi á þetta vegna gríðarlegs kostnaðar, sem þessi fjöldi opinberra gerða, reglugerða, tilskipana og laga, hefur í för með sér í litlu samfélagi hjá fyrirtækjum og stjórnsýslu.  Það er engin hemja, að við skulum þurfa, 350 þúsund hræður, að bera þessar byrðar til að njóta aðgengis að Innri markaði ESB með öllu því margvíslega álagi, sem slíkt hefur í för með sér, t.d. vegna hömlulauss innstreymis fólks, undirboða og lagabrota á vinnumarkaði og víðar í þjóðfélaginu.

Það blasir við, að það er hægt að losa landsmenn mestmegnis undan þessu fargi með uppsögn EES-samningsins og gerð fríverzlunarsamnings við ESB og Bretland, eins og nýlegt fordæmi er til um (Kanada).  Sá gríðarlegi óbeini og beini kostnaður, sem af þessu samneyti við stórþjóðir Evrópu leiðir, kemur niður á lífskjörum landsmanna.  Skattheimtan hérlendis er nú þegar á meðal hins hæsta, sem þekkist í Evrópu, m.a. vegna gríðarlegrar yfirbyggingar lítils samfélags, og framleiðniaukning fyrirtækjanna hefur um langt árabil verið óeðlilega lág. Reglugerðafarganið virkar hamlandi á þróun fyrirtækjanna í átt til aukinnar verðmætasköpunar.  Stórskorið reglugerðafargan og eftirlitsbákn að hætti miklu stærri samfélaga lendir hér kostnaðarlega á fáum hræðum, sem heldur niðri lífskjarabata.  Holtaþokuvæl um nauðsyn ESB til að tryggja frið í Evrópu heldur ekki vatni. Það hefur NATO gert án tilstuðlunar ESB, sbr Balkanstríðið.  Við eigum að eiga sem frjálsust viðskipti í allar áttir og ekki að binda trúss okkar allt á einn hest. Samstarf EFTA og ESB á vettvangi EES er komið í öngstræti, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti í tvígang á í vetur.  Framsóknarflokkurinn hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að endurskoða EES-samstarfið. 

 Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita meira fé í EES-samstarfið undir því yfirskyni, að taka eigi meiri þátt í undirbúningi mála. Eru embættismenn látnir komast upp með það að ráða för ? Það er borin von, að EFTA-ríkin geti haft marktæk áhrif á undirbúning mála hjá ESB. Framkvæmdastjórnin hlustar ekki lengur (eftir BREXIT) neitt á kvakið í EFTA-löndunum.  Það er vegna þess, að kjarni undirbúningsvinnunnar fer fram á bak við luktar dyr í Berlaymont, þar sem aðeins ríkin 28, nú bráðum 27, mega taka þátt.  Fjárveitingum úr ríkissjóði væri betur varið hér innanlands eða til undirbúnings uppsagnar EES-samningsins með því að leita hófanna um gerð fríverzlunarsamninga. Þegar allt er tínt til, mundu sparast stórar fjárhæðir við að hætta að eltast við búrókratana í Berlaymont. 

Sum stórmál, sem ESB heimtar, að verði innleidd í EES-samninginn, eru þannig vaxin, að vandséð er, að þau komi að nokkru gagni í EFTA-löndunum, en þau valda þar gríðarlegum kostnaðarauka.  Nýtt dæmi er persónuverndarlöggjöfin.  Fylgir henni einhver áþreifanlegur kostur fyrir almenning á Íslandi, sem verður í askana látinn ?  Það virðast fylgja henni ókostir, t.d. fyrir hluta vísindasamfélagsins, og henni fylgir viðbótar launakostnaður, sem gæti hækkað kostnað sumra fyrirtækja umtalsvert, og e.t.v. um 1 % fyrir landið í heild. Safnast, þegar saman kemur.

Ekkert lát er á flóðinu frá Brüssel.  Það má hverju barni vera ljóst, að íslenzk stjórnsýsla ræður ekkert við þetta gríðarlega magn. Þótt íslenzka utanríkisþjónustan mundi beita öllum kröftum sínum að ESB/EES, mundi slíkt engu skila í ávinningi eða sparnaði fyrir íslenzka þjóðarbúið.  Ísland verður aldrei annað en óvirkur viðtakandi samþykkta frá Berlaymont, enda á forysta ESB fullt í fangi með að samræma afstöðu 28 ríkja, þótt EFTA-ríkin bætist ekki við.

Þegar rýnt er í efnivið gerðanna kemur í ljós, að hann kemur ekki að neinu gagni við að bæta stjórnsýsluna hér, en veldur miklum kostnaði um allt þjóðfélagið, bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjunum.  Allur lendir sá kostnaður á heimilum landsins.  Það blóðuga við þetta er, að það er algerlega óþarft.  Það er til fýsilegur valkostur við þetta.

Fjöldi slíkra mála er í deiglunni hjá ESB eða er til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni.  Eitt mál úr síðarnefnda hópinum er gjörð 391/2009 um skipaeftirlit.  Hún veitir Framkvæmdastjórninni heimild til að sekta vottuð eftirlitsfyrirtæki, sem hún hefur þegar viðurkennt sem hæf í eftirlitshlutverkið.  EFTA-ríkin vilja, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, fái þetta valda í EFTA-ríkjunum, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  ESB skeytir engu um tveggja stoða kerfið lengur, og þingheimur verður að fara að gefa sér tíma til að ræða viðbrögð við þessari tilhneigingu Framkvæmdastjórnarinnar, sem stafar af stefnu sambandsins um valdflutning frá aðildarríkjunum til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar.  

Hin svo nefnda aðferðargjörð nr 734/2013 fjallar um samræmda framkvæmd á reglum um ríkisstuðning með sektarheimild í höndum yfirþjóðlegs valds.  ESB hefur hafnað tillögu EFTA-landanna um að fela innlendum aðila í hverju landi sektarheimildina í staðinn fyrir ESA.  Innleiðing í EES-samninginn mun leiða til þess, að ESA fær aukin völd til að beita þvingunarúrræðum og sektum gagnvart lögaðilum á Íslandi. Þetta brýtur skýlaust í bága  við Stjórnarskrá Íslands.  Hversu langt eru stjórnvöld tilbúin að ganga eftir þessari braut lögleysunnar ? 

Það er dagljóst, að Ísland tapar fullveldi sínu í hendur Evrópusambandinu með þessu áframhaldi samkvæmt spægipylsuaðferðinni, þ.e.a.s. jafnt og þétt á sér stað fullveldisframsal til Brüssel á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, nánast án umræðu í samfélaginu og án þess, að þjóðin hafi fengið beint að tjá sig í atkvæðagreiðslu um málið.  Það er vitað, að meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu Íslands í ESB, en þangað siglum við þó hraðbyri.  Þetta eru fullkomlega ólýðræðislegir stjórnarhættir, og stjórnmálamönnum er hollast að grípa í taumana strax áður en það verður um seinan með óræðri lagalegri stöðu landsins og eldfimu stjórnmálaástandi sem afleiðingu.  Höggvið á hnútinn með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr EES og gerð fríverzlunarsamninga. 

  

    

 


Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis

Evrópusambandið (ESB) hefur grafið undan EES-samstarfinu (Evrópska efnahagssvæðið) með því að heimta af EFTA-löndunum í EES, að þau taki við fyrirmælum frá stofnunum ESB, eins og EFTA-löndin væru nú þegar gengin í ESB. Það breytir aðeins forminu, en ekki hinu stjórnlagalega inntaki þessa fyrirkomulags, að ESA - Eftirlitsstofnun EFTA - er látin taka við fyrirmælunum og gera um þau samhljóða samþykktir áður en þau eru send útibúi ESB-stofnunarinnar í EFTA-landinu til framkvæmdar. Útibúið, sem kallað hefur verið landsreglarinn, verður óháð stjórnvöldum landsins og mun móta hér stefnuna í raforkuflutningsmálum þjóðarinnar, verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur í EES-samninginn.

ESA hefur ekki þegið neinar heimildir til að fjalla efnislega um og breyta fyrirmælum ESB-stofnunarinnar, ACER, og þess vegna er þessi uppsetning lögformlegt fúsk, ætluð til að friða þá, sem enn telja, að EES eigi að starfa samkvæmt upprunalegu tveggja stoða kerfi jafnrétthárra aðila. Tveggja stoða kerfið er sýndarmennska ein og skær. Blekkingariðjan heldur ekki lengur vatni og stenzt ekki Stjórnarskrá.  EES-samstarfið er nú byggt á sandi.

ACER (Orkustofnun ESB) hefur nú þegar tekið bindandi ákvarðanir um kostnaðarskiptingu á milli ESB-landa, sem varða upphæðir, er nema hundruðum milljarða ISK.  Árið 2014 ákvarðaði ACER kostnaðarskiptingu fyrir gaslögn á milli Póllands og Eystrasaltslandanna, þar sem Lettlandi, Litháen og Eistlandi var gert  að greiða sem nemur tugum milljarða ISK til Póllands.  

ACER hefur líka vald til að ákvarða nýtingu á flutningsgetu flutningskerfis yfir landamæri.  Hún  snýst ekki um samningaviðræður, eins og sumir hérlendis hafa látið í veðri vaka, heldur ræður hið  yfirþjóðlega vald, ACER, hvernig flutningsgetan er nýtt.  Bent hefur verið á þá miklu áhættu, sem slíkt felur í sér fyrir nýtingu og rekstur íslenzka vatnsorkukerfisins, sem hefur tiltölulega litla miðlunargetu og má lítt við miklum sveiflum í vatnsrennsli.  

Ef Ísland og ESB-land lenda í orkudeilum, getur ACER úrskurðað í deilumálinu.  ACER gjörðin í Þriðja orkubálkii veitir ákvarðanavald eftir nokkrum leiðum:

  • Kafli 7 veitir ACER vald til ákvarðanatöku um s.k. tæknileg viðfangsefni.  Þannig mun stofnunin ákveða reglurnar um aflflutning um sæstrengina.  Þetta felur í sér mikla áhættu fyrir íslenzka raforkukerfið, sem þarf stjórnunar við til að lágmarka hér hættu á raforkuskorti, og til að girða fyrir of snöggar breytingar á lónsstöðu eða vatnsrennsli.
  • Kafli 8 veitir ACER völd til að úrskurða í deilumálum stofnana eða fyrirtækja í þjóðríkjunum, eða, ef stofnunin telur vera of litla flutningsgetu í sæstrengjum, loftlínum eða gasrörum á milli landa, að fyrirskipa þá nauðsynlegar umbætur, sem oftast felast í nýjum mannvirkjum.  ACER getur ákveðið, hver skal greiða hvað í samstarfsverkefni tveggja eða fleiri landa.  

Ísland mundi ekki eiga aðild að ACER með atkvæðisrétti.  Við aðild að Orkusambandinu yrði Ísland hins vegar bundið af samþykktum ACER.  Í tilviki EFTA-landanna yrði sett á laggirnar kerfi, þar sem Eftirlitsstofnun EFTA-ESA- að forminu til á að gera samþykktir á vegum ACER, en samþykktin verður skrifuð hjá ACER og ljósrituð hjá ESA. Þannig er komið fyrir "tveggja stoða kerfinu". Þetta er dæmigerð sniðganga á upprunalegu tveggja stoða kerfi EFTA og ESB og dæmir EES-samninginn raunverulega úr leik.

Samþykkt ESA fer síðan til nýrrar valdsstofnunar á sviði orkumála, sem Norðmenn kalla RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi", sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháð innlendu stjórnvaldi.  Nýja orkuvaldsstofnunin, sem kalla má útibú ACER á Íslandi, á að taka við fyrirmælunum frá ESA og framkvæma þau upp á punkt og prik; hvorki ríkisstjórnin né Alþingi getur sent henni nein tilmæli, hvað þá fyrirmæli.  Með þessu móti komast fyrirmæli ACER um milliliði óbreytt til íslenzkra aðila. Yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland ekki er aðili, yrði einráð á mikilvægu málefnasviði á Íslandi.  Á slíkt að verða gjöf Alþingis til þjóðarinnar á 100 ára afmælisári fullveldis hennar ?  Er það draumsýn iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ?  Það eru endemi að þurfa að varpa slíku fram, en málflutningur að hálfu ráðuneyta þeirra gefur því miður tilefni til þess.

Aðrir þættir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þ.e. gjörð 714/2009 um raforkuflutning á milli landa, felur í sér valdflutning frá íslenzkum stjórnvöldum til ESA gagnvart einkaaðilum um það að sækja upplýsingar og sekta, ef upplýsingaskyldan er sniðgengin.  Þetta veitir ESA stöðu stjórnvalds á Íslandi, sem er klárt Stjórnarskrárbrot.  

Það er alveg makalaust, að fulltrúi Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni skyldi hafa verið látinn samþykkja þessi ósköp 5. maí 2017 í Brüssel. Það á eftir að kasta ljósi á það, hvernig það fór fram, og hverjir komu þar við sögu.  Augljóslega verður Alþingi að synja slíkum mistökum samþykkis.  Hér verður einfaldlega að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.    

  

 


Skýr vísbending um þjóðarvilja

Maskína gerði 24. apríl - 7. maí 2018 könnun á viðhorfi landsmanna til tiltekins atriðis við stjórnun orkumála Íslendinga. Spurningin var eftirfarandi: 

"Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því, að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana ?"

Gild svör voru 685 (81 %) af 848 í s.k. Þjóðgátt Maskínu. 

Niðurstaðan varð eftirfarandi:

  1. Mjög andvíg        57,4 %
  2. Fremur andvíg      23,0 %
  3. Í meðallagi        11,3 %
  4. Fremur fylgjandi    4,5 %
  5. Mjög fylgjandi      3,8 %
  6. Veit ekki          16,4 %

Margt vekur athygli við þessa niðurstöðu:

 

a) Andvígir nema 80,4 % 

b) Fylgjandi nema aðeins 8,3 %, sem er miklu lægra hlutfall en í svipaðri könnun í Noregi í vetur, sbr að neðan.  

c) Þeir, sem myndað hafa sér skoðun á málinu, eru merkilega margir og hlutfallslega umtalsvert fleiri hérlendis en í Noregi í nóvember 2017 og apríl 2018.

d) Andstaðan er mjög mikil um allt land við að færa aukið vald yfir orkumálum landsmanna til útlanda.  Enginn reyndist fylgjandi því á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem ásamt Norðurlandi vestra eru í kjördæmi iðnaðarráðherra.  Hróðug birti iðnaðarráðherra minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA, sem átti að sýna fram á, að nánast engu mundi breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu, þótt Ísland gengi í Orkusamband ESB.  Þetta hefur verið hrakið rækilega, og líklegt er, að ráðherrann njóti nánast einskis fylgis í kjördæmi sínu við þetta sjónarmið, sem hún gerði að sínu.  Afstaða hennar og annarra þingmanna sama sinnis var pólitískt glapræði.  Það er þó hægt að rétta kúrsinn af enn þá, því að enn hefur Alþingi ekki afgreitt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.

Ýmsum getur þótt athyglisvert að sjá skiptingu fólks, sem lýsti sig fylgjandi færslu aukins valds yfir orkumálefnum landsins til útlanda, eftir stjórnmálaflokkum.  Það mætti verða þingmönnum leiðarvísir, þegar þeir munu taka endanlega afstöðu til málsins.  Hér að neðan kemur fram hlutfallslegt fylgi við 8 stjórnmálaflokka, sem svarendur í þessari könnun nefndu, og hlutfall þeirra, sem fylgjandi voru umspurðri valdatilfærslu orkumálanna til "evrópskra stofnana": 

  • Stjórnmálaflokkur   Fylgi   Fylgjandi
  • Sjálfstæðisflokkur  29,5 %    2,8 %
  • Samfylking          17,2 %   18,6 %
  • Vinstri hr.gr.fr.   12,1 %    0,0 %
  • Píratahreyfing      11,7 %   18,7 %
  • Viðreisn             9,7 %   18,4 %
  • Miðflokkur           8,7 %    1,4 %
  • Framsóknarflokkur    8,1 %    0,0 %
  • Flokkur fólksins     3,0 %    6,3 %

Niðurstaðan varð óræk.  Í stjórnarflokkunum er lítið sem ekkert fylgi við að færa stjórnun raforkumála að einhverju leyti til útlanda.  Fylgi við það er nánast einvörðungu bundið við Píratahreyfinguna, Samfylkinguna og Viðreisn, en þar er samt undir fimmtungi fylgisins fylgjandi slíku.  

 

Í heildina eru 8,3 % fremur eða mjög fylgjandi slíkum valdatilflutningi, 11,3 % eru beggja blands og 80,4 % eru fremur eða mjög andvíg slíkum valdatilflutningi, en 16,4 % vita ekki.

Í nóvember 2017 var gerð svipuð skoðanakönnun í Noregi, en þar var spurningin þessi:

"Eftirlitsstofnun ESA í Brussel á að taka bindandi ákvarðanir á vegum Orkustofnunar ESB um norskt rafmagn og orku.  Styður þú aðild Noregs að þessu orkusambandi ?"

Niðurstaðan varð, að 18 % styddu, 38 % væru óákveðnir og 44 % styddu ekki slíkan gerning.  Samanburður sýnir, að Íslendingar eru miklu afdráttarlausari í afstöðu sinni gegn slíkum gerningi, og þeir virðast líka í mun meiri mæli en Norðmenn hafa nú þegar tekið afstöðu til málsins, þótt umræður á Alþingi hafi ekki hafizt.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þó a.m.k. tvisvar tjáð sig í ræðustóli Alþingis afdráttarlaust gegn flutingi valds yfir innlendum málefnum til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki á fulla aðild.  Lítils háttar umræða hefur orðið um Orkustofnun ESB á flestum fjölmiðlunum og á fáeinum vefsetrum.  Íslenzkur almenningur er greinilega vel með á nótunum.  

Það kann jafnframt að vera að renna upp fyrir æ fleirum hérlendis um þessar mundir, að þróun EES-samstarfsins hefur nú tekið allt aðra og óheillavænlegri stefnu en nokkur átti von á í upphafi.  Segja má, að svartsýnustu menn hafi ekki órað fyrir því í janúar 1993, þegar Alþingi samþykkti þennan samning í miklum ágreiningi, að EFTA-ríkin yrðu aldarfjórðungi seinna meðhöndluð sem ESB-ríki af Framkvæmdastjórn ESB.  Þegar núverandi eðli þessa samstarfs, og margvíslegur kostnaður því samfara, hefur verið leitt betur í ljós og þetta allt saman borið saman við viðskiptakjör, sem bjóðast með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland o.fl., þá verður tímabært að halda hér alvöru skoðanakönnun á formi þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðuna til áframhaldandi aðildar landsins að EES-samninginum.  

 

 


EES og þjóðarhagur

Á Íslandi hefur tekizt að skapa velferðarþjóðfélag og almenn lífskjör í fremstu röð, betri en í löndum ESB.  Þá má spyrja sig; eru þessi góðu lífskjör hér þrátt fyrir veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu-EES eða vegna þess. Skoðum fyrst, hvað Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 19. apríl 2018, um getu fyrirtækjanna, sem undir þessum góðu lífskjörum standa:

"Það er dýrt að hækka laun á Íslandi":

"Allur alþjóðlegur samanburður ber með sér, að efnahagsástand á Íslandi er með því bezta, sem þekkist.  Á undanförnum árum hafa laun og kaupmáttur hækkað mun meira hér á landi en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við.  Það kann að koma á óvart, að laun á vinnustund eru hærri hér á Íslandi en í Danmörku, Þýzkalandi og meira að segja Noregi.  Eina landið, sem býður hærri laun en Ísland um þessar mundir, er Sviss."

Ef aðild að Evrópusambandinu er slíkt töframeðal, sem áhangendur aðildar Íslands að ESB vilja vera láta, hvernig stendur þá á því, að öll aðildarlöndin, þ.m.t. Lúxemborg, eru eftirbátar Íslands, þegar kemur að launum fyrir hverja vinnustund ? EFTA-landið, sem utan EES stendur, Sviss, státar af hærri launum á vinnustund en Ísland.  Þetta bendir alls ekki til, að við getum þakkað góð lífskjör hérlendis aðildinni að EES.  

Það er reyndar svo, að Viðskiptaráð hefur komizt að því, að aðild Íslands að EES leggi atvinnulífinu svo þunga bagga á herðar, að dragi vel merkjanlega úr getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar.  Íslenzk fyrirtæki eru yfirleitt lítil í evrópskum samanburði, og reglugerðar- og eftirlitsbyrðin, bæði innri og ytri, leggst þyngst á minnstu fyrirtækin.  Gæti framleiðniaukning verið um 0.5 %/ár minni fyrir vikið að mati Viðskiptaráðs, sem safnast upp í 13,3 % á 25 ára gildistíma EES-samningsins hér.  Framleiðniaukning stendur undir raunlaunahækkunum til launþeganna, og það er líklegt, að kaupmáttur lægstu launa gæti verið a.m.k. 15 % hærri hér, ef landið hefði einfaldlega áfram búið við fríverzlunarsamning við ESB og ekki þurft að taka upp þær yfir 9´000 gerðir frá ESB, sem raun er á.  

Stjórnlagalega séð hefur aðild Íslands að EES reynzt vera hrein mistök, eins og krystallast í persónuverndarlöggjöfinni frá ESB.  Yfirstjórn persónuverndarmála færist til Persónuverndarráðs ESB-"European Data Protection Board"-EDPB, þar sem Ísland á engin ítök, og stjórna mun "Persónuvernd", stofnun á Íslandi, sem verður óháð íslenzkum yfirvöldum. Úrskurðarvald í íslenzkum persónuverndarmálum, sem ná yfir landamæri innan EES, færist til ESB-dómstólsins.  Tveggja stoða grunnregla samstarfs EFTA og ESB í EES er þverbrotin, og þar með fær yfirþjóðleg stofnun stjórnvald hérlendis.  Þessi meðferð á Stjórnarskrá lýðveldisins nær engri átt, og hún hlýtur að merkja, að gríðarleg lagaleg óvissa um lögmæti þessarar innleiðingar í EES-samninginn skapast.  Stjórnvöld arka að óþörfu út í fúafen réttaróvissu.

  Mörg fyrirtæki munu þurfa að bæta við sig persónuverndarstarfsmanni til að sjá um innra eftirlit þessara mála, vera tengiliður fyrirtækisins við "Persónuvernd" og til að framfylgja persónuverndarlöggjöf, sem fáir þekkja og enn færri skilja til hlítar.  Hér er verið að skjóta spörfugl með kanónu að hætti ESB, sem gefur út tilskipanir, sem verða að henta 80 milljóna þjóð. Slík föt verða allt of stór og dýr fyrir 0,35 milljón manna þjóð.  Við búum við alræði búrókrata í Brüssel, sem eyða öllum ávinningi tæknivæðingar í hagræðingarátt með því að drekkja litlu þjóðfélagi í rándýru skrifræðisflóði án sjáanlegs ávinnings. Jafnvel Bretar, sem þó telja 65 milljón manns, fengu sig fullsadda af þessu og sögðu skilið við það.  

Eftir 1. maí 2018 ræður nokkurra verkalýðsforingja mætti ætla, að fjárhirzlur fyrirtækjanna væru fullar fjár, svo að nú sé skaðlaust að heimta enn meira og jafnvel að beita skæruhernaði til að knýja þau til að láta meira af hendi.  Þetta stéttastríðstal er óráðshjal, fávíslegur pólitískur vindgangur og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og þá efnahagsþróun, sem nú blasir við.

Nú þarf hins vegar að "pakka í vörn" og létta byrðum af atvinnulífinu til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.  Að öðrum kosti hrynur atvinnustigið og þar með lífskjör almennings. Slíkt getur gerzt hratt, eins og dæmin sanna. Þá munu lýðskrumarar hlaupa út um víðan völl undan ábyrgð sinni sem halaklipptir kálfar. Um stöðu fyrirtækjanna skrifaði Ásta Fjeldsted: 

"Nú heyrast háværar raddir vinnuveitenda um erfiðleika vegna hárra launagjalda og aukinnar erlendrar samkeppni.  Þessar áhyggjur kunna að koma ýmsum á óvart í ljósi þess, hversu gott efnahagsástandið er.  En þær eru raunverulegar, og í þeim felast alvarleg viðvörunarmerki fyrir íslenzkt samfélag.  Fyrirtækin í landinu sjá einfaldlega ekki fram á að geta borið kostnaðinn af þeim launahækkunum, sem krafizt er."

Síðan sýnir hún fram á, að launþeginn fær innan við helming af launakostnaði vinnuveitans greiddan út sem laun eftir skatt með sýnidæmi:

  • útgreidd laun f. skatt: kISK 500  (100 %)
  • trygg.gj. & lífeyr.:    kISK 120  ( 24 %)
  • orlof & annað:          kISK 120  ( 24 %)
  • launakostnaður:         kISK 740  (148 %)
  • greidd laun e. skatt    kISK 350  ( 70 %)

Greidd laun eftir skatt nema aðeins 47,3 % af launakostnaði vinnuveitandans.

 

Þetta er mjög slæm staða fyrir atvinnulífið, því að launakostnaður fyrirtækisins er orðinn svimandi, þótt launamaðurinn sé ekki ofhaldinn af sínum hlut. Ráðið við þessu er að hraða framleiðniaukningu með bættri stjórnun og tæknivæðingu og að draga úr skattheimtu, bæði á vinnuveitandann og launþegann.  Til þess þarf að draga úr yfirbyggingu fyrirtækja og hins opinbera, grisja reglugerðarfrumskóginn og minnka eftirlitsiðnaðinn.  Þetta verður ekki gert á meðan landið er í EES.  EES er berlega hluti þessa vandamáls.  Þess vegna þarf að tryggja viðskiptakjörin með fríverzlunarsamningum við ESB, Bretland o.fl. og segja upp EES-samninginum, enda hefur hann nú gengið sér til húðar.  Ef þingmenn vilja glöggva sig á þjóðarviljanum áður en þessi skref eru stigin, geta þeir samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið.  

Þorsteinn Víglundsson vill fara þveröfuga leið, auka skriffinnskuna og þar með yfirbygginguna enn meir með því, að Ísland gangi í ESB og þurfi þar með að taka upp meira en 2800 gerðir á ári sem löggjöf og reglugerðir.  Það er þá eðlilegt, að hann styðji veru landsins í fordyri ESB, EES, því að þannig aðlagast íslenzka þjóðfélagið stöðugt að ríkjasambandinu, og nú er svo komið, að við sogumst með sívaxandi hraða inn í það vegna þess, að við tökum upp stjórnkerfi ESB-landanna, eins og það kemur af skepnunni, með innleiðingu nýrra ESB-gerða í EES-samninginn.  Þar fer gamli varnaglinn um tveggja stoða kerfið forgörðum, eins og t.d. við upptöku persónuverndargerðarinnar, þar sem Persónuverndarráð ESB verður hæstráðandi þessara mála á Íslandi og ESB-dómstóllinn æðsti úrskurðaraðili, en Stjórnarskrá lýðveldisins liggur hins vegar óbætt hjá garði.  Þetta nær náttúrulega engri átt. Of margir hafa verið stungnir líkþorni og fljóta nú þegjandi að feigðarósi.

Þann 10. apríl 2018 hnykkti Þorsteinn Víglundsson á óbeysnum skoðunum sínum með skrifum í Morgunblaðið:

"Hvað græðum við eiginlega á EES ?".

Þorsteinn kveður það "fagnaðarefni, að lögð hafi verið fram á Alþingi beiðni um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að EES.  Mikilvægt er þó, að þar verði vandað til verka."

Það má taka undir þetta, en veldur, hver á heldur.  Til að skýrslan komi landinu að gagni, verður að velja til verka hæfa fræðimenn, sem leggja sig fram um að koma á framfæri hlutlægu mati.  Líta má til Noregs um fyrirmynd, en þar er líka víti til að varast.

Þorsteinn skrifar:

"Norðmenn létu vinna úttekt á EES-samningnum og samskiptunum við Evrópusambandið, og var niðurstaðan birt í skýrslunni Udenfor og Indenfor árið 2012.  Niðurstaða skýrsluhöfunda var, að áhrif samningsins væru mjög mikil á norskt samfélag, en þau áhrif væru heilt yfir mjög jákvæð."

Síðasta setningin er umdeilanleg og spannar ekki viðhorf almennings í Noregi né allra stjórnmálaflokkanna þar.  Sérstaklega hafa efasemdir fræðimanna, stjórnmálamanna og almennings aukizt síðustu misserin vegna þess, að áhrif samrunaþróunar ESB-ríkjanna smitast yfir í EES-samstarfið.  Það lýsir sér með því, að ESB virðir sérstöðu EFTA-ríkjanna að vettugi með því að sniðganga tveggja stoða fyrirkomulagið, sem upphaflega var lagt til grundvallar EES-samninginum.  Stjórnlagafræðingar, íslenzkir og norskir, sjá mikla meinbugi á því, að stofnanir ESB fari með yfirstjórn málaflokka í EFTA-löndunum, t.d. ACER á orkuflutningssviðinu og EDPB á persónuverndarsviðinu.  Skiptir þá litlu máli, þótt ESA í Brüssel sé sett upp til málamynda sem milliliður ACER í Ljubljana og útibús hennar í Reykjavík.  Varðandi persónuverndina virðist ESB-dómstóllinn eiga að útkljá deilumál, og er það alveg nýtt af nálinni fyrir EFTA-ríkinn um úthýsingu dómsvalds úr landinu, og gróft brot á Stjórnarskrá.

Það var sá alvarlegi ljóður á forskrift norskra yfirvalda til ritnefndar "Utenfor og innenfor"- EES-skýrslunnar, að hún fékk ekki það hlutverk að bera EES-aðild Noregs saman við aðra valkosti landsins í viðskiptalegum efnum.  Þess vegna var samin önnur skýrsla, "Alternativrapporten" eða "Valkostaskýrslan", og er aðalhöfundur hennar Sigbjörn Gjelsvik, sem nú situr á Stórþinginu fyrir Miðflokkinn.  Þetta er mjög nytsöm, fróðleg og efnisrík skýrsla, einnig fyrir Íslendinga.  Á henni má reisa vitrænar umræður um, hvernig skipulagi  utanríkisviðskipta Íslands verður bezt hagað. 

Í skipunarbréfi nefndar, sem stjórna á gerð téðrar íslenzku skýrslu, er nauðsynlegt að taka samanburð valkosta með í reikninginn. Að öðrum kosti mun skýrslan hanga í lausu lofti. 

Þorsteinn Víglundsson hrapar að niðurstöðu slíkrar valkostagreiningar, þegar hann skrifar:

"Ekki er ástæða til að ætla, að niðurstaða íslenzkrar úttektar yrði önnur [en sú norska.  Það er ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram um það. Norðmenn er 14,2 sinnum fleiri en Íslendingar og hagkerfi þeirra að sama skapi stærra.  Olíu- og gasiðnaður landsins gerir hagkerfi þeirra talsvert frábrugðið okkar hagkerfi. Við þurfum að fara betur með opinbert fé en þeir, því að þeir taka nú árlega ávöxtun olíusjóðsins inn í ríkissjóð, og stendur hún undir um 18 % ríkisútgjaldanna-innsk. BJo].  

Áhrif samningsins hafa verið mikil og að langstærstum hluta jákvæð. [Það eru svo margar skuggahliðar á áhrifum EES-samningsins, að þetta er ótæk fullyrðing.  T.d. hefði Hrunið 2008 ekki orðið jafnsvakalegt og varð, ef Ísland hefði ekki haft samning við ESB um frjálst flæði fjármagns-innsk. BJo.]

Raunar væri óhugsandi fyrir íslenzkt atvinnulíf að standa utan EES-svæðisins í dag, enda hefur vægi EES-svæðisins í utanríkisviðskiptum aukizt verulega frá gildistöku samningsins.  [Þessari illa rökstuddu fullyrðingu verður að vísa til föðurhúsanna.  Það er ekkert, sem bendir til, að Íslendingum mundi vegna verr með fríverzlunarsamninga við ESB og Bretland en þvingandi, valdlausa og dýrkeypta annexaðild að ESB, og nægir að benda á Sviss því til sönnunar-innsk. BJo.]

 

 

 

 


Óðs manns æði

Talsverð umræða hefur nú skapazt í landinu um Orkusamband ESB og Orkustofnunina ACER, sem skilgreind eru í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009 og Sameiginlega EES-nefndin í Brüssel samþykkti 5. maí 2017 að beina til þjóðþinganna þriggja á Íslandi, í Noregi og í Liechtenstein, að "aflétta stjórnlagalegum fyrirvara á" um innleiðingu í EES-samninginn, þ.e.a.s. gjörningurinn er þegar kominn inn í orkukafla samningsins, 4. viðauka, en skortir lagagildi í hverju þessara þriggja landa, þar til síðasta þjóðþingið hefur veitt gjörninginum blessun sína.

Í þessu tilviki er Alþingi síðasti löggjafinn til að fjalla um málið; hinir hafa báðir samþykkt, sá norski með braki, brestum og eftirmálum.  Pólitísku drunurnar í Noregi af gjámyndun á milli þings og þjóðar í þessu máli eru síður en svo þagnaðar og munu líklega vara allt þetta kjörtímabil, sem hófst haustið 2017, og taka undir í fjöllunum í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, nema Stórþingið snúi af villu síns vegar við boðaða endurupptöku málsins í Stórþinginu, ef Alþingi vinnur það þarfaverk að synja þessu samkomulagi Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis.  

Umræðan hérlendis er misjöfn að gæðum, eins og gengur.  Fram fyrir skjöldu hefur stigið iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, með þann boðskap helztan, að umrædd staðfesting Alþingis mundi varla nokkru breyta á Íslandi.  Til að finna þessum áróðri stað hefur hún látið iðnaðarráðuneytið kaupa minnisblað af innlendum lögmanni, sem áður var framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA í Brüssel. 

Ráðherrann hefur dregið niðustöður þessa minnisblaðs saman í 7 liði, sem allir eiga að sýna, að hún eigi alls ekki við ályktanir þeirra tveggja stjórnarflokka, sem ályktað hafa um málið, og að hún mundi engu breyta, sem máli skiptir um íslenzka stjórnsýslu.  Hvort tveggja er kolrangt hjá ráðherranum og má furðu gegna, að hún skuli fara á flot með aðra eins vitleysu gagnvart fólki, sem kann að lesa. Fyrst verða flokksályktanirnar skoðaðar, og síðan verður sérfræðingur um orkumál leiddur fram á sviðið til að aðgæta, hvort um lítils háttar breytingar er að ræða:  

a) ályktun Framsóknarflokksins frá 11. marz 2018 hljóðaði svona (aldrei er góð vísa of oft kveðin): "Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið." 

Það er óyggjandi, að hluti fullveldis Íslands í orkumálum mundi glatast og færast til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili, ef Þriðji orkubálkurinn verður innleiddur í EES-samninginn. Það er jafnframt ljóst, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB er hluti af orkulöggjöf sambandsins.  Þar af leiðandi fer ekki á milli mála, að ofangreind samþykkt Framsóknarflokksins á við um væntanlega þingsályktun utanríkisráðherra og frumvarp iðnaðarráðherra um innleiðingu téðs lagabálks í EES-samninginn.  Þingmenn Framsóknarflokksins hafa skýra viðmiðun frá síðasta Flokksþingi sínu.  

b) Ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18. marz 2018 um þetta mál hljóðaði þannig:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Það, sem hér er átt við, er, að samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB hefur ESB, og í EFTA-löndunum þremur ESA, eftirlit með, að settum viðskiptareglum sé fylgt, þ.e. fjórskiptingu raforkumarkaðarins sé við haldið (frjáls samkeppni orkuvinnslu og sölu, einokunarfyrirtæki raforkuflutninga sé óvilhallt einstökum aðilum á markaði og sérleyfi dreifingarfyrirtækja, t.d. um verðlagningu, sé undir opinberu eftirliti.  Þá hefur ESB/ESA eftirlit með, að langtímasamningar um raforkusölu séu í samræmi við markaðsaðstæður og feli ekki í sér undirboð, sem skekki samkeppnisstöðu).  Ekkert nýtt, sem er umfram þetta, mega fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja.

Það ætti hverju mannsbarni að vera ljóst, sem kynnir sér málin, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur einmitt í sér viðbótar framsal valds yfir íslenzka orkumarkaðinum til ESB/ESA, sbr útibú ACER á Íslandi og skuldbindingu landsins með innleiðingunni um að vinna að því að raungera Kerfisþróunaráætlun ESB. 

Það er hulin ráðgáta, hvernig iðnaðarráðherra dettur í hug að reyna að fara á flot með kenningu um hið gagnstæða í veikri von um, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telji sig óbundna af ofangreindri skýru ályktun gegn Þriðja bálkinum.  Allar efasemdir um, að áhrifin af téðum lagabálki verði mikil, ættu þó að gufa upp sem dögg fyrir sólu við lestur Morgunblaðsgreinar Elíasar B. Elíassonar 28. apríl 2018:

"Á að stofna nýja Orkustofnun til að gera ekkert ?":

"Hin nýja Orkustofnun skal skipuð samkvæmt tilskipun nr 72 frá 2009, en þar segir í grein 35, að sérhvert ríki skuli skipa eina stofnun með reglugerðarvald sem landsstofnun.  Nú fjalla þessi lög um fleiri lönd en Ísland, og íslenzki textinn liggur ekki fyrir, svo að hér verður enska orðið "regulator" þýtt sem reglari.  [Norðmenn kalla þessa stofnun hjá sér "Reguleringsmyndighet for energi-RME", og virðist hún verða sjálfstæð deild í NVE, þeirra Orkustofnun, OS-innsk. BJo.] Á Íslandi mun hin nýja Orkustofnun verða landsreglari. [Landsreglarinn tekur við núverandi reglusetningarhlutverki ráðuneyta og OS um orkuflutninga og mun þess vegna hafa yfirstjórn Landsnets með höndum.  Hvernig er hægt að kalla það léttvæga breytingu ?-innsk. BJo.]

Það vekur fyrst athygli, hvað reglarinn skal vera óháður öllum stjórnvöldum og stofnunum, jafnt opinberum sem einka.  Starfsfólk reglarans má hvorki leita eftir né þiggja fyrirmæli frá öðrum um neitt það, er við kemur valdi hans eða beitingu þess. Þá er langur kafli um stefnumörkun, sem einkum gengur út á, að reglarinn fylgi stefnu ESB í einu og öllu í nánu samstarfi við ACER, Orkustofnun Evrópu.  [Stefna ESB í orkuflutningsmálum krystallast í Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem Ice Link sæstrengurinn er á forgangslista yfir 170 verkefna - innsk. BJo.] Hann á t.d. að sjá til þess að efla tengingar á milli landa, þróa virka svæðisbundna samkeppnismarkaði, að kerfisstjórar [hér Landsnet-innsk. BJo] hafi hæfilega hvata til að bæta virkni kerfisins og fleira.  

Þó svo, að landsreglarinn stjórni með því að setja öðrum reglurum reglur, þá munu gerðir hans vissulega snerta einkaaðila.  Þar fór sú afsökunin.  [Þetta er mjög mikilvægt atriði í stjórnlagalegum skilningi málsins, því að erlent vald yfir einkaaðilum á Íslandi er grundvallarbrot gegn Stjórnarskrá lýðveldisins - innsk. BJo.]  Grein 37 telur síðan upp skyldur reglaranna, sem eru auðvitað fyrst þær að hafa samráð við og hlýða stofnunum ESB; með öðrum orðum að fara að lögum ESB.

Eitt dæmið er að viðhafa baunatalningu á hestaflafjölda nýrra aflstöðva í því skyni að að tryggja afhendingaröryggi.  Þetta dæmi, sem og dæmið um, að hér skuli koma á virkum samkeppnismarkaði með rafmagn, lýsir algerri vanþekkingu á aðstæðum hér hjá hverjum þeim, sem lætur sér detta í hug að fara eftir þessu." [Að fulltrúi Íslands í Sameiginlegu EES-nefndinni, sem væntanlega var undir stjórn utanríkisráðherra, skyldi samþykkja þessi ósköp inn í EES-samninginn 5. maí 2017, vitnar um óafsakanlega yfirsjón og vanmat á því, sem hér er undir, þ.e. ráðstöfun rafmagnsafurða orkulinda Íslands, inn á orkumarkað ESB.  Ef í þessu máli er ekki ástæða fyrir þjóðkjörna fulltrúa að grípa í neyðarhemilinn, leiðrétta stórfelld mistök utanríkisþjónustunnar og synja þessum afarkosti staðfestingar, þá verður væntanlega aldrei ástæða til þess og leiðin greið fyrir Ísland inn í ESB.  Þetta er kjarni langvinnra átaka um Ísland - innsk. BJo.]

Elías fjallar síðan um sérstöðu Íslands sem vatnsorkulands og færir fyrir því sterk rök, að tæknilega eigi reglur ESB um raforkumarkaði mjög illa við Ísland og geti valdið hér stórtjóni, sé reynt að beita þeim.  Hann heldur því fram, að það verði að vera hægt að setja reglur um það, hvernig vatn er tekið úr lónum, og að þær reglur verði að standa framar reglum "landsreglarans" (útibús ACER á Íslandi):

"Miðlunarlónum þarf að stýra þannig, að þau fylgist að, þegar lækkar í þeim, í samræmi við þá áhættu, sem við blasir, ef lón tæmist.  Það verður með öðrum orðum af þjóðhagslegum ástæðum að stýra þeim eftir samræmdu áhættumati. Slíkt mundi jafngilda markaðsmisnotkun á sérhverjum samkeppnismarkaði.  

Vegna aðstæðna getur þurft að takmarka vatnsborðssveiflur miðlunarlóna við þröng mörk.  Dæmi um slíkt hér á landi er Þingvallavatn.  

Vegna aðstæðna getur þurft að takmarka mjög sveiflur í vatnsrennsli frá miðlunarlónum.  Bæði getur það ógnað lífi veiðimanna og skaðað lífríkið í ánni.  Hraðar breytingar á markaðsverði mundu auka mjög tilhneiginguna til að fara út í slíkar sveiflur.  

Allar þessar ástæður eiga við um vatnsorkuver og eru í andstöðu við frjálsan samkeppnismarkað að vilja ESB.  Augljóst er, að hvorki [nýja] Orkustofnun, vegna sambands síns við ACER og ESB, né aðrir reglarar, sem starfa eftir hennar reglugerðum [t.d. Landsnet] mega hafa vald til að véla um þessa hluti.  Þeir gætu [þá] jafnvel í vissum málum þurft að ganga gegn hagsmunum þjóðar sinnar."

Hér eru færð skýr rök fyrir því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB henti engan veginn íslenzka raforkukerfinu og yrði reyndar stórskaðlegur, ef reynt yrði að beita honum hér, þ.e. ef reynt yrði að koma hér á markaðsfyrirkomulagi með raforkuna að hætti ESB.

Þessu hefur iðnaðarráðherra heldur engan gaum gefið, þegar hún hefur reynt að greiða götu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis með því að reyna með útúrsnúningum, rangtúlkunum og hálfkveðnum vísum um efni lagabálksins, með aðstoð lögmanns, sem áður gegndi framkvæmdastjórastöðu hjá ESA, að telja mönnum trú um, að áhrif innleiðingarinnar yrðu lítil, sbr eftirfarandi: Ólafur Jóhannes Einarsson:

"ACER hefði engin áhrif á leyfisveitingar hér og stjórnsýslu hér á landi, né heldur valdheimildir gagnvart einkaaðilum.  Valdheimildirnar gagnvart EFTA-löndunum verða hjá Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, en ekki hjá ACER."

Síðan koma sterk aðvörunarorð frá Elíasi B. Elíassyni til Alþingismanna í lokin:

"Ef þessum og fleiri atriðum tengdum auðlindum okkar er ekki gefinn hæfilegur forgangur, getur reynzt skaðlegt að reyna að koma hér á samkeppnismarkaði, eins og landsreglarinn á að hafa sem eitt meginmarkmiðið.  Það væri því í anda við málflutning stjórnvalda að fresta lögfestingu þriðja áfangans, þar til semja þarf um sæstreng og semja þá um þriðja áfangann í leiðinni.  Í sannleika sagt þá er ekkert vit í öðru.  

Ef sæstrengur kemur, er samkeppnisstöðu alls okkar iðnaðar hætt, nema helzt stóriðju, sem getur varið sig í einhvern tíma.  Samningar um sæstreng eru hreint út sagt óðs manns æði, hafandi lögfestingu þriðja áfangans á bakinu." [Undirstrikun BJo.]

Hér verður vart bætt um betur í röksemdafærslu fyrir íslenzkum hagsmunum gagnvart Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem mundi valda íslenzka hagkerfinu og nýtingarstjórnun orkulinda landsins stórtjóni, ef hann verður innleiddur í EES-samninginn, á meðan Ísland er enn í EES. 

 

 

 


Goðsögnin um gagnsemi EES

Hér á landi étur hver upp eftir öðrum, að Íslendingar eigi velmegun sína nú um stundir aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu að þakka. (Gleymist þá Hrunið, sem segja má, að sé því að kenna ?) Hér er heldur betur ruglað spilunum, og þessi áróður er til þess eins fallinn að draga úr sjálfstrausti og sjálfstæðisvitund landsmanna.  Það er reynt að koma því inn hjá þeim, að til að lifa í nútímalegu velferðarþjóðfélagi með tiltölulega góð lífskjör á evrópskan mælikvarða þurfum við að binda trúss okkar við stóra skonnortu, sem siglir undir bláum fána með 28 gulum stjörnum núna.  Þetta er rangtúlkun á staðreyndum málsins.  Það, sem Ísland þarf til velferðar, er viðskiptafrelsi og óskert fullveldi, og þetta samrýmist ekki vistinni í EES.

Sams konar sjónarmið um gallana við ESB hafa vafalaust legið að baki hjá mörgum þeirra, sem mynduðu meirihluta á Bretlandseyjum í júní 2016 fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu, ESB.  Sannleikurinn er sá, að miðstýring ESB eykst hröðum skrefum, þ.e. að segja flutningur á hefðbundnu valdi þjóðríkjanna til framkvæmdastjórnar ESB, og þessi samrunaþróun sogar EFTA-ríkin til sín, eins og svarthol (samanhrunin sól) sogar til sín allt sólkerfið og allt, sem í grenndinni er, einnig ljósið, sem þó er massalaust, samkvæmt lögmáli Max Plancks, ef rétt er munað úr eðlisfræðinni forðum daga. 

Gott dæmi um þessa háskalegu þróun fyrir EFTA-löndin þrjú í EES-"samstarfinu", sem vilja halda sjálfstæði sínu í líkingu við fjórða EFTA-landið, Sviss, með sinn tvíhliða samninga við ESB, er Orkusamband ESB. Þegar þjóðþing EFTA-landanna þriggja samþykktu EES-samninginn 1992-1993, var ekkert í líkingu við núverandi stofnanavæðingu og flutning málefnasviða frá stjórnvöldum aðildarlandanna til Framkvæmdastjórnarinnar á döfinni. 

Allar þrjár æðstu stofnanir ESB samþykktu árið 2009 að setja á laggirnar Orkustofnun ESB, ACER. Þar var viðtekin skoðun, að stórbæta þyrfti samtengingar á milli rafkerfa og gaskerfa aðildarlandanna til að auka afhendingaröryggi orkunnar, til að flýta fyrir orkuskiptum (ná markmiðum ESB um koltvíildislosun) og til að jafna orkuverð á ESB-svæðinu.

Ekkert af þessu á við á Íslandi, og þar af leiðandi eigum við ekkert erindi í ACER.  Við mundum einskis ávinnings njóta, brjóta Stjórnarskrána og taka gríðarlega áhættu vegna ólýðræðislegrar ákvarðanatöku um raforkuflutningsmál landsins.  Þróun slíkrar aðildar er ennfremur algerlega í þoku, því að stöðugt bætir Framkvæmdastjórnin við gerðum.  Þannig er nú 4000 blaðsíðna viðbót í gerjun, sem mun kallast Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn.  Það er talið öruggt, að með honum munu völd ACER aukast enn. "Salami" eða sneiðaðferðin er hluti af stjórnlist ESB til sálrænnar aðlögunar aðildarþjóðanna að "hinni óhjákvæmilegu þróun" að "Sambandsríki Evrópu".  Í þessu samhengi gerir Framkvæmdastjórnin engan greinarmun á EFTA-ríki og ESB-ríki.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Í Noregi og á Íslandi vita hins vegar margir, að ESB er hvorki upphaf né endir alls.  Það er ágætislíf utan við EES, eins og Bretar munu brátt komast að.  

Einkennandi fyrir málflutning stuðningsmanna inngöngu Íslands í Orkusamband ESB er að fimbulfamba um það, sem ekki skiptir máli, eða um aukaatriði eða hrein formsatriði, á meðan efnisatriði máls liggja óbætt hjá garði.  Dæmi um þetta eru öll 7 atriði iðnaðarráðuneytisins í samantekt þess á minnisblaði lögmannsins Ólafs Jóhannesar Einarssonar, dags. 12. apríl 2018, sem Heimssýn mótmælti kröftuglega 23. apríl 2018

  1. Eignarréttur orkuauðlinda skiptir engu máli í sambandi við ACER, því að ráðstöfunarréttur (Norðmenn kalla þetta "styringsretten".) raforkunnar fer til raforkumarkaðar ESB, sem mun geta boðið í alla raforku á markaði á Íslandi samkvæmt Þriðja orkubálkinum.
  2. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi."  Það hefur varla nokkur haldið því fram, að Þriðji orkubálkurinn hefði áhrif á Rammaáætlun, en hitt er víst, að ásókn í íslenzkar orkulindir mundi vaxa mjög með tilkomu aflsæstrengs.  Það er jafnframt undir hælinn lagt, hvað úr þessu Orkusambandi verður, nema telja má öruggt, að valdsvið ACER víkki, jafnvel út fyrir orkuflutninga.
  3. Að "ACER myndi þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni [áheyrnaraðild] ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi", kemur efnisatriðum málsins ekki við, því að hið formlega vald OS verður án innihalds, og úrskurður getur aðeins orðið ACER þóknanlegur.  Annars fer málið til ESA/EFTA-dómstólsins.
  4. Það er beinlínis rangt, að ACER hafi aðeins valdheimildir gagnvart opinberum eftirlitsaðilum, því að útibú ACER á Íslandi verður ekki opinber stofnun, heldur óháð íslenzkum yfirvöldum og undir stjórn ACER um strengjabrúðuna ESA.  
  5. ESA er lögræðilegt skálkaskjól fyrir stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi, sem felst í völdum yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem löndin njóta ekki jafnstöðu á við ESB-löndin, yfir málefnum á Íslandi, sem spanna allt þjóðfélagið (raforkuflutningar).
  6. Það er gróf rangtúlkun, að valdheimildir ACER eigi ekki við á Íslandi "svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki", þ.e. aflsæstrengir til útlanda.  Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda Íslendinga til að aðlaga flutningskerfi raforku landsins að Kerfisþróunaráætlun ESB.  Þar er "Ice Link" eitt rúmlega 170 samtengiverkefna á milli landa.  Sjá menn ekki skriftina á veggnum ?
  7. "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs ...  ."Hvaða máli skiptir þetta, þegar aðrir ákveða, hvort og hvenær strengurinn verður lagður ?

Að þvílíku fyrirbrigði sem ACER-málinu skuli skola upp að ströndum Íslands sem afrakstri EES-"samvinnunnar" sýnir, hversu dýrkeyptur þessi EES-samningur er.  Upptaka um 500 ESB gerða hér á ári hverju veldur auk þess íslenzku atvinnulífi og stjórnsýslu miklum óþarfa erfiðleikum og þar af leiðandi óþarfa kostnaði, sem beint og óbeint gæti numið yfir 80 miaISK/ár.  Fjárfestingaþörf Landsnets vegna orkuflutninga að og frá fyrsta sæstreng, 1200 MW, gæti numið svipaðri upphæð.  Það má hiklaust draga þá ályktun af öllu þessu, að vist smáríkis langt norður í Atlantshafi með "stórveldum" meginlandsins henti alls ekki og verði alger tímaskekkja á tímum "BREXIT".  

 

 


Að binda sitt trúss á rangt hross

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði í viku 16/2018 við mikilli hættu, sem hann taldi heimsbúskapnum stafa af skuldsetningu þjóða.  Skuldahlutfall þjóða er í sögulegu hámarki eða 225 % af heimsframleiðslu.  Staða ríkissjóða ESB-ríkjanna er slæm, nema Þýzkalands og Hollands.  Bæði lönd eru með um 6 % viðskiptaafgang af VLF, og skuldir ríkissjóða þessara landa eru um 60 % af VLF.  Ísland er nú í þessum úrvalsflokki Evrópuþjóða, hvað hagstjórn varðar, með ríkisskuldir 35 % af VLF og viðskiptaafgang 4 %.

Mikill vandi blasir við löndum Evrópusambandsins, einkum evrusvæðisins.  Ofangreind tvö lönd halda í raun verðgildi evrunnar uppi, en hún gæti orðið fyrir áfalli á næstu misserum vegna slæmrar skuldastöðu nokkurra ríkissjóða, og er sá ítalski stærstur þeirra.  Komið er í ljós, að ný ríkisstjórn Þýzkalands ætlar ekki að ganga í ábyrgð fyrir önnur evrulönd. Ríkisstjórnin í Berlín endurspeglar að þessu leyti vilja mikils meirihluta Þjóðverja, sem vinna og spara fyrir því, sem þeir veita sér, og til elliáranna.  Þeim, og forráðamönnum Bundesbank, hefur gramizt mjög lágvaxtastefna Evrubanka Ítalans Draghis og telja sig greiða meira en nóg í þágu ESB.   

Á fundi Angelu Merkel og Emmanuels Macron í Berlín í apríl 2018 kom í ljós gjá á milli ríkisleiðtoganna tveggja, hvað sýn á þróun evrusvæðisins varðar. Iðnir og sparsamir Þjóðverjar vilja ekki deila fjárhagslegum örlögum sínum með öðrum þjóðum evrusvæðisins, sem kannski má kalla lata og eyðslusama í samanburði við Hollendinga og Þjóðverja, a.m.k. eru hagkerfi sumra ríkjanna í megnasta ólestri.  Fyrir vikið eru horfur evrunnar dökkar, þegar næsta kreppa ríður yfir.  Hvers vegna í ósköpunum ættu Íslendingar að binda sitt trúss við þessa skepnu, sem líklega fellur úr hor næst, þegar syrtir í álinn ?  Hagkerfi Íslands á svo fátt sameiginlegt með hagkerfi evrunnar, að á þessum ólíku stöðum er hagsveiflan aldrei í fasa.  Evran sjálf var hagfræðilegt glapræði, eins og í pottinn var búið, og pólitísk tilraunastarfsemi hugsjónamanna um Sambandsríki Evrópu.  Hvað má þá segja um kenningar hér uppi á Íslandi um, að keppa beri að því að taka upp evru ? Sennilega má lýsa slíkri afstöðu sem áhættusækni, sem jaðrar við ábyrgðarleysi. Það þarf mjög vandaða áhættugreiningu hinna beztu manna áður en tekið verður róttækt skref í gjaldmiðilsmálum, hvort sem það verður í átt að EUR, GBP, NOK, USD eða öðrum gjaldmiðli.

Nú virðist vera að hefjast samdráttarskeið á evrusvæðinu.  Iðnaðarframleiðsla Þýzkalands hefur ekki vaxið frá í desember 2017, og í febrúar 2018 dróst hún saman um 1,6 % m.v. mánuðinn á undan að teknu tilliti til dagafjölda.  Samkvæmt Samtökum evrópskra bílaframleiðenda dróst framleiðsla þeirra saman um 5,3 % í marz 2018 m.v. sama mánuð 2017.  Hagsveiflumælir þýzku hagstofunnar, IMK, þykir einna áreiðanlegastur hagvísa.  Núna metur hann 30 % líkur á kreppu, en þær voru undir 10 % í marz 2018.  Þegar hagvísar snúast niður á við um leið og neikvæðar fréttir berast af pólitíkinni, þá er ekki von á góðu:

  1. Þjóðverjar munu ekki fallast á sameiginleg fjárlög fyrir evrusvæðið til að mæta efnahagslegum skakkaföllum.
  2. Ekkert verður úr áformum um sameiginlega ríkisskuldabréfaútgáfu evruríkjanna.
  3. Það verður ekkert sameiginlegt innistæðutryggingakerfi.  
  4. Sameiginlegu eftirlitskerfi með bankakerfinu hefur verið komið á, og voru Íslendingar þvingaðir í það dýra samkrull á vettvangi EES-samstarfsins, en að koma á sameiginlegu evrópsku bankakerfi er verkefni, sem sennilega lýkur aldrei. 

Um þessa stöðu skrifar Wolfgang Münchau í Financial Times og Morgunblaðið fimmtudaginn 26. apríl 2018:

"En að það skuli fara saman að það dragi úr hagvexti eða jafnvel verði samdráttur í myntbandalagi, og það vilji ekki taka á vandamálum sínum, er einn stærsti áhættuþátturinn, sem alþjóða hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir."

Síðan tekur Münchau dæmi af mesta áhyggjuvaldinum á evrusvæðinu um þessar mundir, Ítalíu:

"Á Ítalíu hefur framleiðni varla aukizt, svo að nokkru nemi, frá því að landið gerðist eitt af stofnríkjum evrusvæðisins árið 1999.  Samt var árið 2017 tiltölulega gott í efnahagslífinu.  Það skiptir töluverðu máli fyrir land með ríkisskuldir, sem nema 132 % af landsframleiðslu, hvort hagvöxtur er að jafnaði minni en 1 % eða um 2 %.  Bilið þar á milli er munurinn á því, hvort landið er gjaldfært eða á leið í greiðsluþrot."

Af þessu að dæma er vissast að búa sig undir slæm tíðindi frá Ítalíu.  Ítalía gæti hrökklast út úr myntbandalaginu, og þá verður gríðarlegt rót á öllu evrusvæðinu.  Fullyrða má, að gengi hennar mun taka tímabundna dýfu, en um jafnvægisgengið fer eftir atburðarásinni.

"Ítalía er bezta dæmið um, hvers vegna umbætur á evrusvæðinu eru spurning um líf og dauða.  Evrópusambandið hefur engin úrræði til að bregðast við, ef ítalska ríkið getur ekki lengur greitt af skuldum sínum.  Ítalía er of stór til að falla, og of stór til að hægt sé að bjarga.  Efnahagsstöðugleikastofnun ESB, sem á að leysa vandann, er ekki nægilega stór til að ráða við slíkan skell.  Ég efast ekki um, að evran sem slík mundi ná að lifa áfram í einhverri mynd, en ef engar umbætur eiga sér stað, þá stóraukast líkurnar á, að myntbandalagið bútist í sundur."  

Evrópusambandið á við yfirþyrmandi vandamál að etja og miklar heimiliserjur í þokkabót.  Við slíkar aðstæður reyna stjórnendur þess og 33´000 búrókratar að sækja fram á öðrum sviðum, þar sem hagræðingar er að vænta af sameiginlegri stjórnun frá Brüssel.  Eitt þessara sviða eru orkumálin, þar sem í upphafi á að einbeita sér að auknum flutningum á milli landa.  T.d. eiga raforkuflutningar að aukast um 50 %, fara úr 10 % 2015 í 15 % af raforkuvinnslu árið 2030 og stefnt er á 30 %.  Þetta á að flýta fyrir orkuskiptum og jafna raforkuverðið á milli landa.  Ráðast á á markaði, hverjir fá hversu mikið af orku og á hvaða verði.  Ætlun Framkvæmdastjórnarinnar er, að þetta auki verðmætasköpun innan ESB og örvi þannig hagvöxt.  

Það getur vel verið, að svo verði í ESB, en á Íslandi mundi það hins vegar draga úr hagvexti að taka þátt í slíku, og það mundi örugglega tefja orkuskiptin.  Ástæðurnar eru, að hækkun raforkuverðs dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna við útlönd, og minni og dýrari raforka verður til ráðstöfunar til orkuskiptanna.  

Krafan frá ESB um inngöngu EFTA-landanna í EES í Orkusamband ESB er dæmigerð fyrir minna umburðarlyndi og minni skilning að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar og búrókrata hennar á sérþörfum EFTA-ríkjanna en áður var.  EES-samningurinn er orðinn helsi á Íslendingum í þeim skilningi, að ESB treður stjórnkerfi sínu upp á landsmenn í blóra við EES-samning og Stjórnarskrá landsins, og gjörðir ESB eru allar íþyngjandi fyrir landsmenn, aukið skrifræði og reglugerðafargan dregur úr getu fyrirtækja og stofnana til framleiðniaukningar, og byrðarnar geta orðið svo svæsnar, eins og í tilviki Orkusambandsins, að þær dragi beinlínis úr hagvexti og valdi atvinnuleysi. Það má hiklaust halda því fram, að EES-samningurinn sé orðinn úreltur.  Stjórnvöld ættu ekki að berja lengur hausnum við steininn, heldur að skipuleggja útgöngu úr þessu ólýðræðislega, óhentuga og rándýra viðskiptalega og stjórnmálalega samkrulli.

Þann 4. maí 2018 skrifaði Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, grein í Morgunblaðið um afleiðingar þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Hann lauk grein sinni þannig:

"Enginn hefur getað sagt, hvað við höfum upp úr því að samþykkja, en það væri algerlega ástæðulaust fyrir ESB að knýja á um samþykkt þriðja orkupakkans, ef ekki væri ætlunin, að sæstrengur fylgdi í kjölfarið.  Allar umsóknir um sæstreng og tengdar virkjanir yrði Ísland að meðhöndla af ýtrustu sanngirni og í samræmi við aðrar reglur ESB, eins og Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður, minnir á í minnisblaði sínu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 12. apríl 2018 og minnir þar á þjónustutilskipunina.  Þau rök, að sjálfræði Íslands sé í svo litlu skert með samþykkt þriðja orkupakkans, að það skaði okkur ekki, sneiða hjá þessum kjarna máls."

 

Þessar fórnir í þágu aukins samruna ESB og þar með EES til að viðhalda aðgangi að Innri markaði ESB eru í raun unnar fyrir gýg, því að jafnvel betri viðskiptaskilmálum virðist vera unnt að ná með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland, ef tekið er mið af fríverzlunarsamningi Kanada og ESB frá haustinu 2017. Málflutningur áköfustu stuðningsmanna ESB/EES einkennist af nauðhyggju, þar sem litið er framhjá þeirri staðreynd, að markaður ESB-ríkjanna vegur minna með hverju árinu, sem líður, af heimsviðskiptunum og mun senn aðeins verða 440 milljón manna markaður samfélaga, sem eldast hraðar en flest önnur samfélög, að hinu japanska undanskildu.    

 


Valkostir við EES

Um allt þjóðfélagið gera menn sér grein fyrir því, að EES-samstarfið er komið að leiðarlokum í sinni núverandi mynd.  Alþingi, sem er einhvers konar þversnið þjóðarinnar, hefur ekki farið varhluta af alvarlegum efasemdum um, að núverandi fyrirkomulag gangi lengur.  Frægar eru ræður fjármála- og efnahagsráðherra um þetta efni 6. febrúar og 22. marz 2018.  

Breyting á afstöðu manna á Íslandi og í Noregi til EES-samstarfsins stafar af þeirri samrunabraut, sem ESB er á, og afar takmörkuðu umburðarlyndi þar á bæ gagnvart sjálfstæði EFTA-ríkjanna. Forsendur upprunalega EES-samningsins eru þar með brostnar. Kemur þetta fram bæði í Sameiginlegu EES-nefndinni með því, að s.k. "tveggja stoða" samstarf er í raun virt að vettugi, og í framkvæmd með stjórnunarfyrirkomulagi, sem stríðir gegn Stjórnarskrám Íslands og Noregs og er fólgið í því, að stjórnvald á afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins er flutt frá aðildarlöndum EES og til stofnunar ESB, sem hefur hlotið víðtækar valdheimildir frá Framkvæmdastjórninni. 

Ágætt dæmi um slíkan málaflokk eru flutningsmál rafmagns og jarðgass.  Um valdatilflutning á þessum sviðum er fjallað í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009, þar sem völdum Orkustofnunar ESB, ACER, er lýst, hvers vegna hún er sett á stofn og til hvers starfsemi hennar á að leiða.  Völd ACER í ESB-löndunum voru innsigluð í ráðherraráðinu 2009 og staðfest á ESB-þinginu sama ár.

Það gekk erfiðlega að troða þessum orkubálki niður um kok EFTA-landanna í sameiginlegu EES-nefndinni, en eftir 6 ára þref tókst það 5. maí 2017.  Þann 22. marz 2018 var gjörningurinn leiddur í lög af Stórþingi Noregs við griðarleg mótmæli hagsmunaaðila, verkalýðsfélaga, Alþýðusambandsins og alls almennings.  Hérlendis hefur utanríkisráðuneytið rekið undarlegan áróður fyrir þessari innleiðingu á Íslandi, gert lítið úr mikilvægi málsins hérlendis og mikið úr tjóni, sem Norðmenn geti orðið fyrir við höfnun Alþingis. Sjá viðhorf alþýðu til þessa í viðhengi með þessari færslu. Þá hefur iðnaðarráðuneytið lagt sig í framkróka við að reyna að sannfæra mann og annan um, að samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn muni nánast engu breyta varðandi fullveldi Íslands yfir raforku úr virkjunum á Íslandi.  Þetta er fjarstæða, sem hefur verið hrakin rækilega hér á vefsetrinu og af Heimssýn, sjá: https://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/2215324 .

Í EES-samstarfinu þurfa allir aðilar, 3 EFTA þjóðir og ESB, að vera sammála, og hver EFTA-þjóð hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu á gjörð ESB í EES-samninginn.  Áróður téðra tveggja ráðuneyta fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB á ekki við nein rök að styðjast, landið hefur af honum ekkert gagn, en tekin er mikil stjórnlagaleg og stjórnskipuleg áhætta, áróðurinn gengur algerlega fótalaus og kemur úr hörðustu átt, þar sem flokkur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra samþykkti á Landsfundi sínum 16.-18. marz 2018 eftirfarandi ályktun:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Það er pólitískt glapræði af þessum ráðherrum að reyna að grafa undan alvörunni í þessari ályktun og óskiljanleg sú vegferð, sem þeir hafa tekizt á hendur í þessum efnum, þegar litið er til líklegrar afstöðu kjósendanna, en skoðanakönnun mun bráðlega leiða það í ljós. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir eru líka algerlega á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn.  Það kom fram á Flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, og afstaða talsmanns VG í þessu máli, Kolbeins Proppé, bendir eindregið til, að VG sé ekki aðeins á móti þriðja bálkinum, heldur hafi að auki efasemdir um annan bálkinn, sem er afar skiljanlegt.  Það er mjög æskilegt að sníða af honum alvarlega vankanta fyrir íslenzkar aðstæður, en þar verður ESA og EFTA-dómstólinum að mæta. Því mætti taka því fagnandi, ef Sameiginlega EES nefndin myndi fella Annan orkumarkaðslagabálkinn úr gildi að kröfu ESB sem andsvar við höfnun Alþingis. 

Að mörgu leyti er heppilegast, að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein, ákveði sameiginlega að slíta EES-samstarfinu, og að þessi ríki ásamt Sviss bjóði Bretum aðild að EFTA.  Síðan taki þessi öfluga samsteypa upp samningaviðræður við ESB um fríverzlunarsamning.  

Að svo komnu er þó ekki stjórnmálalegur grundvöllur fyrir þessu, svo að skynsamlegt væri af utanríkisráðuneytinu að kanna jarðveginn hjá ESB og hjá Bretum fyrir fríverzlunarsamningi með fyrirmynd í samninginum á milli ESB og Kanada frá 2017.  

Einn ávinningur af því að losna af klafa EES er að létta byrðum af athafnalífi og opinberri stjórnsýslu, sem stafa af reglugerða- og eftirlitsbákni, sem sniðið er við tugmilljónaþjóðir, en er hér með sama hætti og annars staðar í EES, því að ESB vinnur samkvæmt "one size fits all", þ.e. engar sérsniðnar lausnir, enda yrði slíkt stjórnkerfi óviðráðanlegt, jafnvel fyrir 33´000 búrókrata í Berlaymont. 

Annar ávinningur af að losna undan EES eru hagstæðari viðskiptakjör við ESB.  Kanadamenn njóta nú lægri tolla fyrir sjávarafurðir sínar en Íslendingar og Norðmenn.

Þriðji ávinningurinn er að taka aftur stjórn á landamærum ríkisins, sem getur losað þjóðfélagið undan miklum beinum og óbeinum kostnaði af frjálsu flæði fólks og er í raun nauðsynlegt í sjálfsvarnarskyni fyrir smáþjóð, þegar ytri landamæri ESB eru hriplek á tímum vaxandi flóttamannaþrýstings.   

Í fjórða og síðasta lagi losnar löggjafinn þá undan því óviðunandi ástandi að vera afgreiðslustofnun við innleiðingu yfirþjóðlegrar löggjafar í EES-samninginn, sem þá um leið öðlast lagagildi á Íslandi.  Nú er svo komið, að stjórnkerfi ESB krefst þess í sumum tilvikum, að með samþykkt sinni brjóti Alþingi Stjórnarskrá lýðveldisins.  Þetta á t.d. við, þegar stjórn innlendra málefna er færð í hendur stofnana sambandsins, þar sem Ísland að sjálfsögðu á engan fullgildan fulltrúa.  Þetta er ekkert minna en frágangssök, sem réttlætir að endurskoða þessi samskipti frá grunni. Lágmarks viðspyrna er, að utanríkisráðuneytið og Alþingi setji ESB skorður í EES-samstarfinu, þegar valtað er yfir grunnregluna um EFTA og ESB sem tvo jafnréttháa aðila í tveggja stoða samstarfi.   

 

 

 


Ráðuneyti tekur afstöðu

Svo er að sjá sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi tekið sér það fyrir hendur að sýna þingheimi og öðrum fram á, að eftirfarandi ályktun, sem einróma var samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í 18. marz 2018, eigi alls ekki við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Til þess pantaði ráðherrann minnisblað frá fyrrverandi framkvæmdastjóra "innra markaðssviðs ESA" (Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd EES-samningsins), Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni.  Ráðuneytið dró niðurstöður lögmannsins saman í 7 liði, sem verða tíundaðir hér á eftir, og athugað, hvernig til hefur tekizt:

  1. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu heimildum íslenzkra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum, sem eru í opinberri eigu, eins og nú þegar er gert í íslenzkum lögum."  Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn spannar aðeins flutningskerfi fyrir jarðgas og raforku.  Orkulindirnar eru þar ekki undir, hvað sem verða kann um framhaldið, t.d. 1000 blaðsíðna 4. orkumarkaðslagabálk, sem nú er í vinnslu hjá ESB.
  2. "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi." Þetta er rétt svo langt sem það nær.  Ef hins vegar Ísland gengur í Orkusamband ESB (án þess að eiga atkvæðisrétt í ACER, Orkustofnun ESB), þá mun ACER (ESB) að öllum líkindum þrýsta á um tengingu landsins við sameiginlegan raforkumarkað ESB um sæstrenginn Ice Link, sem stofnunin hefur þegar sett á forgangsverkefnalista sinn.  Eftir slíka tengingu hverfur ráðstöfunarréttur allrar tiltækrar orku á íslenzka raforkumarkaðinum óhjákvæmilega til ESB-raforkumarkaðarins, því að öllum raforkukaupendum þar verður heimilt að bjóða í íslenzka raforku. Kemur þá innlend stjórnun auðlindanýtingar og virkjana fyrir lítið.
  3. "Samstarfsstofnun evrópskra [svo ?!] orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi."  Þetta er alrangt, og villan liggur í því, að ekki er minnzt á útibú ACER á Íslandi, sem ætlað er mikilvægt stjórnsýslulegt hlutverk á sviði raforkuflutninga. Útibúið (Norðmenn kalla það RME hjá sér-Reguleringsmyndighet for energi) verður sjálfstæð stofnun gagnvart hagsmunaaðilum á Íslandi og algerlega óháð vilja íslenzkra yfirvalda.  Útibúið verður undir stjórn ACER með ESA sem millilið á milli ACER og útibúsins á skipuritinu, en ESA hefur alls engar heimildir hlotið til að breyta út af ákvörðunum ACER.  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER, og er ætlað að hálfu ESB að ryðja brott öllum staðbundnum hindrunum á vegi ætlunarverks ACER að bæta raforkutengingar á milli landa, þar til verðmunur þeirra á milli verður undir 2,0 EUR/MWh.  Þetta er gert með því að fela útibúinu allt reglugerðar- og eftirlitsvald á sviði raforkuflutninga. Leyfisveitingavaldið verður áfram hjá Orkustofnun,OS, en ef OS hafnar leyfisumsókn, sem uppfyllir öll skilyrði útibúsins, verður höfnun vísast kærð til ESA/EFTA-dómstólsins. Ráðuneytinu skjátlast þess vegna algerlega um valdaleysi ACER á Íslandi.  Til að bæta gráu ofan á svart, verður Ísland valdalaust innan ACER án atkvæðisréttar.
  4. "ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum."  Þessi túlkun ráðuneytisins stenzt ekki.  Útibú ACER er ekki opinber eftirlitsaðili, því að útibúið verður algerlega óháð opinberu valdi á Íslandi, ráðuneyti, OS og innlendum dómstólum.  Landsnet mun verða að "sitja og standa", eins og útibúið fyrirskrifar.  Landsnet hefur mikil áhrif á almannahagsmuni á Íslandi, viðskiptavini og birgja, og þannig myndi stofnun ESB, ACER, fá óbeinar valdheimildir gagnvart einkaaðilum á Íslandi án þess, að ríkisvaldið fái rönd við reist.  Slíkt er gróft Stjórnarskrárbrot.
  5.  "Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)."  Með því að troða ESA inn í stjórnunarferli ACER í EFTA-löndunum þremur er gerð ósvífnisleg blekkingartilraun.  Reynt er að láta líta svo út, að ESA gegni hliðstæðu hlutverki og ACER EFTA-megin og fullnægi þannig kröfum EES-samningsins um tveggja stoða lausnir allra sameiginlegra viðfangsefna ESB og EFTA.  ESA getur ekki gegnt þessu hlutverki vegna skorts á sérfræðingum á orkusviði, og ESA hefur heldur engar heimildir til að ráðskast neitt með ákvarðanir ACER.  ESA verður þess vegna ekkert annað en miðlari boða og banna frá ACER til útibúa ACER í EFTA-löndunum.  Norðmenn kalla ESA í þessu sambandi "dýrustu ljósritunarvél í heimi".  Stjórnlagafræðingar þar í landi telja þetta aumkvunarverða fyrirkomulag engu breyta um það, að yfirþjóðleg stofnun, ACER, þar sem EFTA-ríkin eru ekki fullgildir aðilar, fær völd yfir mikilvægum málaflokki í EFTA-löndunum, þar sem hún hefur tækifæri til áhrifa á lífshagsmuni almennings.  Þetta er í Noregi óleyfilegt að heimila, nema með a.m.k. 75 % greiddra atkvæða í Stórþinginu, og á Íslandi leyfir Stjórnarskráin þetta alls ekki.  Því til staðfestu eru álitsgerðir prófessora í stjórnlögum við Háskóla Íslands. Að ráðuneytið skuli bera þessa blekkingu á borð fyrir almenning, sýnir, hversu slæman málstað það nú hefur opinberlega gert að sínum.
  6. "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki." Þetta er alrangt.  ACER fær hér valdheimildir strax og innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn hlýtur lagagildi á Íslandi, enda næði ESB aldrei fram vilja sínum um greið orkusamskipti á milli svæða og landa, þar sem tengingar vantar við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef túlkun ráðuneytisins væri rétt. ACER var stofnað til að ryðja burt staðbundnum hindrunum, eins og andstöðu ríkisstjórna og/eða þjóðþinga við tengingar af þessu tagi.  Þegar þrýstingur frá ACER hefur leitt til ákvörðunar um lögn Ice Link, mun Landsnet bera skylda til að styrkja flutningskerfið innanlands í þeim mæli, að það geti flutt fullt afl, t.d. 1300 MW að meðtöldum töpum, frá virkjunum að afriðlastöð sæstrengsins.  Hér er um gríðarleg mannvirki að ræða, eins og menn geta séð af því, að flutningsgeta 132 kV byggðalínu er aðeins 1/10 af þessari þörf og flutningsgeta 220 kV línu er minni en 1/3 af þessari þörf.  Valdsvið ACER á Íslandi getur þannig leitt til gjörbreytinga á raforkuflutningskerfi landsins.  Það er þannig helber uppspuni, að bindandi ákvarðanir ACER á Íslandi nái aðeins til sæstrengja frá Íslandi til útlanda.  
  7. "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum."  Kjarni málsins liggur óbættur hjá garði hér að ofan.  Látið er í það skína, að íslenzk yfirvöld muni ráða því, hvort sæstrengur verði lagður frá Íslandi til útlanda, eftir að ACER hefur verið leidd hér til valda.  Þetta er þó hrein blekking, þótt að forminu til virðist rétt.  Ástæðan er sú, að forsendur leyfisveitinga á þessu sviði verða ekki lengur í höndum íslenzka ríkisins, heldur verða þær samdar af útibúi ACER á Íslandi. Ef sæstrengsfélagið, sem um leyfisveitinguna sótti til handhafa íslenzka ríkisvaldsins, t.d. OS, sættir sig ekki við úrskurðinn, verður deilan ekki útkljáð fyrir íslenzkum dómstóli, heldur ESA og EFTA-dómstólinum, sem auðvitað munu líta til þess, hvort umsóknin uppfyllti kröfur útibús ACER.  Í Noregi er Statnett aleigandi að sæstrengjum til útlanda.  Í umræðunum í aðdraganda afgreiðslu Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB kom fram, að hann gerir ráð fyrir, að eignarhaldið á nýjum sæstrengjum ráðist á markaði, en flutningsfyrirtækjunum verði ekki tryggð einokunaraðstaða.  Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir sínum stuðningi, að allir sæstrengir frá Noregi yrðu áfram að fullu í eigu Statnett, sem er alfarið í beinni eigu norska ríkisins.  Engin trygging hefur samt fengizt fyrir slíku frá ACER(ESB). Fullyrðing um, að íslenzka ríkið geti tryggt sér tilgreint eignarhald á aflsæstreng til útlanda, er fleipur eitt.

Tilraun iðnaðarráðuneytisins til að sýna fram á, að samþykkt Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn breyti litlu sem engu um íslenzk orkumál, hefur algerlega fallið um sjálfa sig, enda stríðir hún gegn heilbrigðri skynsemi.  Sá, sem ekkert veit um ACER, hlýtur að spyrja sig, til hvers stofnað er til Orkustofnunar ESB, ef hún á lítil sem engin áhrif að hafa í landi, sem rafmagnslega er ótengt við umheiminn ?  Sá, sem eitthvað veit um ACER, veit, að hún er stofnuð gagngert til að auka orkuflutninga á milli landa og þá auðvitað að koma þeim á, þar sem þeir eru ekki fyrir hendi.  Ætlunin er göfug: að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa og að jafna orkuverðið innan ESB.  Fyrir Ísland og Noreg verður þetta allt með öfugum formerkjum.  Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni hérlendis mun rýrna úr 99 % í e.t.v. 85 %, og raforkuverðið mun stórhækka.  Það eru engir kostir  fyrir Ísland fólgnir í framsali mikilvægs fullveldis yfir ráðstöfun raforkunnar til markaðsafla ESB-landanna; aðeins gallar.  Að ráðuneyti orkumála skuli reyna að draga fjöður yfir það, jaðrar við kjánaskap og er líklega pólitískt glapræði.        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband