Færsluflokkur: Evrópumál

Viðskipti með jarðir á Íslandi

Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.  

Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki.  Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið.  Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil.  Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.

  Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.

Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild.  Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu.  Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.  

Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum.  Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli.  Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.  

Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi.  Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum.  Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:  

  1. Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur.  Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.  
  2. Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.  
 
Aðalinntakið í ofangreindum kvöðum er gegnsæi eignarhalds, skattlagning hérlendis og nýting lands með hefðbundnum hætti eða til landgræðslu.  Þótt megináhugi fjárfesta kunni að beinast að lax- og silungsveiðihlunnindum, verða þeir annaðhvort að stunda atvinnustarfsemi á jörðunum eða að veita öðrum umboð til þess.  Það má sem sagt ekki kaupa jörð til að leggja hana í eyði.
Þann 17. júlí 2018 skrifaði Agnes Bragadóttir Baksviðsgrein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:
"Geta falið eignarhaldið ef þeir vilja":
 
"Erlendir auðkýfingar hafa síðustu ár keypt fjölda jarða.  Erfitt er að henda reiður á því, hversu stór hluti íslenzkra jarða er kominn í eigu útlendinga, því að eignarhald erlendra aðila er í ákveðnum tilvikum í gegnum íslenzk fyrirtæki.  Það á t.d. við um eignarhaldið á Hótel Kötlu.  Útlendingar, sem kaupa jarðir í gegnum íslenzk fyrirtæki, geta því falið eignarhald sitt, ef þeim sýnist svo."
Það ætti að vera krafa löggjafans, að eignarhald jarðnæðis á Íslandi sé gegnsætt, þannig að rekja megi eignarhaldið á einfaldan hátt til einstaklinga og að það sé til á reglulega uppfærðri skrá.  
Síðan vitnaði Agnes í viðtal sitt við Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor:
""Það er bara spurning um það, hversu langt menn vilja ganga, en fyrst af öllu verða menn að vita, hvar leyfileg mörk liggja.  Það eru möguleikar fyrir okkur að koma upp eins konar varnarmúrum.
Girðingarnar gagnvart þriðju ríkjum eru nokkuð klárar, því að það eru engar skuldbindingar gagnvart þeim.  T.d. gætu Þjóðverjar ekki keypt upp jarðir hér, bara í krafti fjármagns.  [Englendingurinn Ratcliff hefur keypt jarðir í Vopnafirði, bara í krafti fjármagns.  Hvers vegna geta Þjóðverjar það ekki ? - innsk. BJo.]Það væri hægt að setja girðingar gagnvart því.  Öðru máli gegnir, ef fyrirtæki kemur hingað í þeim tilgangi að stofna til atvinnustarfsemi.  Þá væru jarðakaup félaga frá þriðju ríkjum heimil, og sama ætti við um útlendinga, sem kæmu hingað til þess að verða launþegar", sagði Stefán Már.
Ég tel tvímælalaust, að hægt sé að setja búsetuskilyrði í lög í tengslum við sölu á jörðum."
 
Það á ekki að vera keppikefli löggjafans að setja upp girðingar hér gegn erlendum fjárfestingum á þessu sviði né öðrum.  Hins vegar á að hindra jarðakaup, sem einvörðungu snúast um að nýta hlunnindi jarðarinnar.  Með í kaupunum verður að vera alhliða nýting jarðarinnar, svo að samræmi sé við almenna byggðastefnu landsmanna, landbúnaðarstefnu og stefnu um að hefta losun koltvíildis við uppblástur lands og bindingu kolefnis með skógrækt og annarri ræktun. 
 
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, tengdi ógöngur landsölumála við EES-samninginn í Morgunblaðsgrein sinni 21. júlí 2018:
"Jarðakaup útlendinga eftir aldarfjórðung í EES".
 
Þar lýsir hann skelfilegum lausatökum stjórnmálamanna og embættismanna hérlendra við gerð þessa dæmalausa samnings.  Felst í efnistökum Hjörleifs staðfesting á því, sem haldið hefur verið fram á þessu vefsetri, að Íslendingar hafa einfaldlega færzt of mikið í fang með því að ætla að hafa í fullu tré við risaríkjasamband, sem hér seilist til áhrifa á öllum þremur sviðum ríkisvaldsins:
 
"Það ferli, sem hér er komið á fullt skrið víða um land, á rætur í EES-samningnum og háskalegum vettlingatökum íslenzkra stjórnvalda við gerð hans.  Í opnu bréfi til Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra, sem birtist í Tímanum 1. febrúar 1991, vakti ég athygli á, hvert stefndi, þvert á yfirlýsingar hans við upphaf málsins 1989.  
Í svargrein hans í sama blaði viku síðar vísaði Steingrímur í forkaupsrétt sveitarfélaga og bætti við:
"Allt slíkt er gert ráð fyrir að herða.  Eignarhald erlendra aðila á landi, sem ekki er nauðsynlegt vegna atvinnureksturs, verður ekki leyft."
 
Eftir stjórnarskiptin 1991 var fallið frá flestum fyrirvörum við samninginn af Íslands hálfu og vísað til væntanlegra ákvæða í fjárfestinga-, fasteigna-, jarða- og ábúðarlögum, sem sett voru síðar á árabilinu 1996-2004.  Þegar til kastanna kom, reyndust þau haldlítil eða haldlaus, enda þar að margra mati gengið lengra í að opna fyrir fjárfestingar útlendinga en EES-rétturinn krafðist."
 
 Það er ljóst af lýsingu Hjörleifs, að upphafleg fyrirætlun Steingríms Hermannssonar um að koma í veg fyrir uppkaup á jörðum einvörðungu vegna veiðihlunninda, sem síðan leiðir gjarna til, að jörðin fer í eyði, hefur farið gjörsamlega í handaskolum.  Það er ekki líklegt, þótt Hjörleifur virðist síðar í greininni binda nokkrar vonir við það, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur takist betur upp við það að búa til kerfi, sem laðar að fjárfesta, sem hefja hér raunverulega atvinnustarfsemi eða leigja bændum jarðir sínar á sanngjörnu verði til hefðbundinnar starfsemi eða nýsköpunar, en láta ekki þar við sitja að kaupa jarðir af bændum eða öðrum til þess einvörðungu að nýta veiðihlunnindi.
 
Til að embættismenn hætti að fara eins og kettir í kringum heitan graut af ótta við athugasemdir ESA og kærur til EFTA-dómstólsins fyrir brot á jafnstöðu þjóðerna innan EES, er eina ráðið að segja EES-samninginum upp.  Það er löngu tímabært og mundi létta alls konar áþján af stjórnsýslu, ráðherrum, Alþingismönnum, dómurum og ekki sízt af atvinnulífinu.  Það er ljóst, að ella verða hér sífelldar uppákomur vegna augljósra stjórnlagabrota, sem þó er reynt að breiða yfir við innleiðingu nýrra Evrópugjörða.   
 

 

 

 

 


Út úr EES-samstarfinu

Norðmenn hafa lagt niður fyrir sér, hvað gæti tekið við af EES og samið um það skýrslur.  Ein þeirra, "Alternativer til dagens EÖS-avtale", kölluð "Alternativrapporten", er sérlega áhugaverð og fróðleg.  Hér verður stuðzt við gr. 1.8 í skýrslunni.

EES-samningurinn er í eðli sínu "svæðasamningur" á milli EFTA og ESB, en hvert EFTA-ríkjanna þriggja, sem samninginn samþykktu á sínum tíma (Sviss hafnaði honum), getur þó sagt honum upp með ársfyrirvara. Ákvæði samningsins um, hvað skal gera, ef eitt EFTA-ríkjanna óskar eftir að hætta, eru skýr og greinileg.  Rétturinn til uppsagnar er skilyrðislaus, og það þarf ekki að gefa neina skýringu á brotthvarfinu.  Engar mótaðgerðir eða refsiaðgerðir hinna eru leyfilegar samkvæmt samninginum.

Úrsögnin fer fram samkvæmt skýrum reglum í EES-samninginum.  Að leggja niður ESA og EFTA-dómstólinn, sem þó gerist aðeins, ef öll EFTA-ríkin kjósa fremur viðskiptasamning án slíkra stofnana, ætti einnig að verða auðvelt viðfangs.  

Lögformleg staða EES á Íslandi gerir úrsagnarferlið hérlendis einfaldara en verið gæti.  Það verður t.d. engin þörf á að breyta Stjórnarskránni.  Megnið af EES-samninginum er tekinn inn í íslenzka lagasafnið með eigin löggjöf, EES-löggjöfinni.  Hana má einfaldlega afnema í heilu lagi ásamt ákvæðum um forgang þessarar löggjafar umfram aðra íslenzka löggjöf. Sá forgangur var að kröfu ESB til að tryggja samleitt réttarfar EFTA- og ESB-ríkjanna. 

Það yrði hins vegar mikið verk að fjarlægja öll ummerki ESB-löggjafar í íslenzkri löggjöf, og það er þarflaust.  Þótt landið hefði staðið utan EES allan tímann, hefðu  margar svipaðar lagabreytingar sennilega farið fram hér af fúsum og frjálsum vilja í samræmingarskyni eða vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga landsins. Þær eru hvorki ógn við fullveldið né í bága við Stjórnarskrá, eins og framkvæmd EES-samningsins þó óneitanlega er. 

Óháð tengslum við ESB mun áfram verða þörf á samræmingu, samhæfingu og samvinnu.  Slíkt viðgengst einnig gagnvart öðrum mörkuðum án þess þó, að við afhendum yfirstjórn okkar mála (framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald að töluverðu leyti) til Kína, Japans, Indlands, Rússlands eða Bandaríkjanna samkvæmt EES-fyrirkomulagi, svo að nokkrir stórir markaðir séu nefndir. 

Tilgangurinn með úrsögn úr EES er þannig að endurheimta svigrúm landsmanna til þess í auknum mæli að reka sjálfstæða stefnu með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar að leiðarljósi.  Svigrúmið markast af þeim tengslum, sem við taka eftir úrsögnina, en boðskapurinn er a.m.k. viðeigandi á aldarafmælisári fullveldisins.  

Fyrir öll möguleg samskiptaform, sem fyrirsjáanlega geta tekið við gagnvart ESB, má þó ganga út frá því sem vísu, að grundvöllurinn verði sá, sem þegar hefur verið lagður af Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO), og að til viðbótar komi mismunandi skuldbindingar og réttindi, sem samið verður um tvíhliða eða á milli EFTA og ESB, því að aðild að EFTA verður áfram tryggð með sama hætti og aðild Svisslands.  

Þróun ESB í áttina að sterkari yfirþjóðlegri stjórnun og minnkandi fullveldi aðildarþjóðanna er ögrandi gagnvart samstarfi við ESB á vettvangi EES, af því að Íslendingar eru nú fráhverfari hugmyndinni um ESB-aðild landsins en nokkru sinni fyrr.  Efasemdir um réttmæti og nytsemi EES-aðildar hafa undanfarin misseri komið skýrar fram opinberlega en áður,  sbr umræðuna um jarðakaup útlendinga, enda hefur ágreiningsmálum Íslands og ESB farið fjölgandi, frá ágreiningi um réttmæti Neyðarlaganna til skiptingar deilistofna í hafinu og innleiðingar viðamikilla lagabálka, sem fela í sér framsal valds til stofnana ESB. 

Í þessari stöðu, þar sem ESB krefst íslenzkrar aðlögunar á nýjum sviðum, sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir, að undir EES-samninginn væru seld, er sjálfsagt og klókt af Íslendingum að vega og meta bæði viðskiptasamband og samvinnu almennt við hið evrópska ríkjasamband í ljósi hinna mikilvægustu þjóðarhagsmuna.  Það fer vel á því á aldarafmælisári endurheimtu fullveldis landsins frá danska ríkinu.  

 

 


EES er orðið ótækt og óþarft

Með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, er Ísland með eins konar aukaaðild að Evrópusambandinu, ESB, án þess að hafa sömu réttindi og aðildarþjóðirnar til að vinna að þeim gjörðum sambandsins, lögum, tilskipunum og reglugerðum, sem landinu er gert að innleiða í réttar- og stjórnkerfi sitt. 

Aukaaðildin felst í því, að Framkvæmdastjórnin merkir hluta af gjörðum sínum sem viðeigandi fyrir EFTA-ríkin, og í sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem 3 EFTA-ríki og ESB eiga fulltrúa, er síðan þrefað um fyrirkomulag upptöku EFTA-ríkjanna í lögbækur sínar eða reglugerðaflóru. Þar var löngum viðkvæði EFTA, að viðhafa yrði tveggja stoða regluna við innleiðinguna, þ.e. að EFTA-megin mundi sjálfstæð stofnun sjá um samskiptin á milli ESB og ríkisvaldsins í hverju EFTA-ríki. Ýmist hafa þetta verið "Pótenkímtjöld" með ESA-ásjónu, en EFTA-stofnun á bakvið, sem togar í alla spotta, eða engin tilraun er gerð til tveggja stoða lausnar. Þjóðþing EFTA-ríkjanna eiga alltaf síðasta orðið um lögfestingu gjörðarinnar eða synjun lögfestingar. Það er hinn sjálfsagði "stjórnlagalegi fyrirvari", því að á fundi úti í Brüssel er ekki hægt að skuldbinda þjóðina endanlega, hvað þá að taka endanlega ákvörðun um fullveldisframsal.  

Þrýstingur myndast á þjóðþingin frá ESB og í mörgum tilvikum frá hinum EFTA-ríkjunum tveimur um að samþykkja, því að öll þrjú verða að samþykkja, svo að gjörðin öðlist gildi í hverju EFTA-landi, nema Sviss, sem er utan við þessi ósköp samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þar á sínum tíma. 

Fyrir fullvalda ríki er þetta fyrirkomulag ótækt, enda fer andstaðan við það vaxandi í Noregi og á Íslandi.  Þetta hjálendufyrirkomulag er bæði allt of dýrt fyrir lítið samfélag og alveg óþarft fyrir frí og hindrunarlaus viðskipti, eins og Kanadamenn sömdu um við ESB haustið 2017, og Bretar munu vafalaust semja um innan tíðar.  

Það hrannast upp lögfræðilegar álitsgerðir og rök fyrir því, að núverandi einhliða lagasetningarsamband við ESB undir hatti vafasams EES-samnings, sem Alþingi samþykkti 12. janúar 1993, sé búið að brjóta svo herfilega á Stjórnarskrá Íslands, að stöðva verði þessa færibandaframleiðslu nú þegar, eða að breyta Stjórnarskrá til að heimila slíkt framsal. Formenn stjórnmálaflokkanna komu saman í Þingvallabænum snemmsumars til að ræða stjórnarskrárbreytingar, en engin tillaga hefur sézt um útfærslu, sem geri EES-aðild Íslands lögmæta í framkvæmd.

 Lögfræðileg gagnrýni á framkvæmd EES-samningsins kom nú síðast fram í athyglisverðri ritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi til lokaprófs í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR).  Erna Ýr Öldudóttir birti viðtal sitt við hinn nýútskrifaða lögfræðing í Morgunblaðinu þann 28. júní 2018 undir fyrirsögninni:

"Forsenda valdframsals breytt".

Fréttin hófst þannig:

"Í ljósi þess, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur þróazt, er það fyrirkomulag nú ekki talið standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast íslenzku stjórnarskránni [og var þó talið vera á gráu svæði-innsk. BJo].

Þetta er á meðal þess, sem kemur fram í lokaritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR), sem ber yfirskriftina "Fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins".  Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild HR, leiðbeindi við skrifin." [EES-samningurinn var ekki og er ekki þjóðréttarlegs eðlis.  Þess vega á ekkert valdframsal að eiga sér stað á grundvelli þessa samnings, sem aðallega er viðskiptalegs eðlis-innsk. BJo.]

Þegar EES-samningurinn var á umræðustigi hérlendis, árin 1991-1993 (hann hlaut lagagildi hér 1. janúar 1994)var uppi mikill ágreiningur um það, hvort hann bryti í bága við íslenzku Stjórnarskrána. Miklar áhyggjur voru t.d. á meðal þingmanna á takmarkalaus landakaup útlendinga á landi eftir inngöngu í EES.  Lofað var trygginga gegn því, en þær tryggingar stjórnvalda fóru algerlega í handaskolum, engir varnaglar settir í EES-samninginn og lagalegum takmörkunum skolað burt af ótta við kæru frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. Íslenzk stjórnvöld hafa aldrei haft neina burði til að gæta hagsmuna Íslands í þessu umfangsmikla og flókna EES-samstarfi, þar sem ESB ræður lögum og lofum.  
 Djúpstæður ágreiningur í þjóðfélaginu endurspeglaðist í þingsal. Þrautaráðið var að fá teymi kunnáttumanna um stjórnlögin til að fjalla um málið.  Í raun var niðurstaða teymisins sú, að EES-samningurinn væri ekki alls kostar í samræmi við Stjórnarskrá.  Þetta var orðað svo, að samningurinn væri á yztu brún hins leyfilega.  Því miður var látið hjá líða þá að gefa þjóðinni kost á að gefa EES-samninginum lögmæti eða að synja honum samþykkis.  Alþingi leyfði Stjórnarskránni ekki þá að njóta vafans, og síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina með ótal hæpnum innleiðingum.  Um þverbak hefur keyrt í kjölfar samþykktar ESB á Lissabon-sáttmálanum 2009, og undanfarin ár hefur hver stórgjörðin rekið aðra, þar sem ótvírætt valdframsal á sér stað til stofnana ESB, þar sem Íslendingar eru ekki aðilar. 
Lokaritgerð Alexöndru Bjarkar er samantekt á þessu og staðfesting á því mati, að EES-aðildin brjóti gegn Stjórnarskránni.  

Við þessar aðstæður er tvennt í stöðunni:

  1. Að ríkisstjórnin leiti hófanna um breytta EES-skilmála, annaðhvort ein á báti eða í samfloti við EFTA, eða kanni möguleikana á nýjum fríverzlunarsamningi við ESB (sá gamli tekur gildi við útgöngu), og geri síðan Alþingi og þjóðinni grein fyrir niðurstöðunni.  Síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytta aðild að EES, já eða nei. 
  2. Að breyta Stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilt með auknum meirihluta að samþykkja valdframsal til yfirþjóðlegra stofnana, þótt Ísland sé þar ekki aðili.  Í norsku stjórnarskránni er áskilið samþykki 75 % mættra Stórþingsmanna, og að að lágmarki 2/3 þingmanna sé mættur.  Þetta þýðir, að a.m.k. 50 % þingmanna verður að samþykkja slíkan gjörning, svo að hann öðlist lagagildi.  Sams konar ákvæði mætti viðhafa hér.  
Það er skoðun höfundar þessa pistils, að enginn áhugi sé innan ESB á endurskoðun EES-samningsins, nema þá í átt til enn nánari samruna ESB og EFTA.  Hins vegar er ESB ekki stætt á því að neita Íslendingum um svipaðan fríverzlunarsamning og gerður var við Kanada haustið 2017.  Þess vegna er eðlilegast að segja EES-samninginum fljótlega upp með samningsbundnum árs fyrirvara um gildistöku.  Ef samningar um nýjan fríverzlunarsamning dragast á langinn, tekur einfaldlega gamli viðskiptasamningurinn gildi á ný, og hann tryggir alveg þokkalegt aðgengi að Innri markaði ESB.  Um svipað leyti munu Íslendingar jafnframt standa í samningaviðræðum við Breta um fríverzlunarsamning, sem ástæða er til að búast við, að ganga muni greiðlega. Ef fríverzlunarsamningur kemst á á milli Breta og ESB, er einboðið, að Íslendingum standi svipaður samningur til boða við ESB. 
Það er ljóst, að utanríkisráðuneytisins bíða stórverkefni, en tilburðir til undirbúnings eru takmarkaðir, og gufumökkur svífur þar yfir, eins og yfir gyðjunni í Delphi á sínum tíma, enda skilaboðin úr ráðuneytinu í véfréttastíl.  Utanríkismálanefnd Alþingis verður að setja sporann í nárann á truntunni og keyra hana áfram með svipu, ef hún ætlar ekki að hafast úr sporunum, en vill bara "business as usual".
 
"Hverjar eru helztu niðurstöður lokaritgerðarinnar ?"
 
"Helzt þær, að samningurinn ber í dag mörg einkenni þess að vera yfirþjóðlegs eðlis.  Þær forsendur og þau sjónarmið, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna EES-samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni, verða að teljast matskennd og mörkin á túlkun stjórnarskrárinnar óljós. Þegar skoðað er, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins hefur þróazt, verður hann ekki talinn standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni.  Fræðimenn hafa m.a. haft uppi varúðarorð um þróunina, og hefur þeim fjölgað í gegnum tíðina."
 
Hér er kveðið skýrt að orði um þá stöðu, sem nú er uppi, að á sínum tíma hafi lagalegur rökstuðningur verið ófullnægjandi fyrir því, að Stjórnarskráin heimilaði EES-samninginn, og að núverandi framkvæmd EES-samningsins feli í sér ótvírætt Stjórnarskrárbrot.  Við svo búið má ekki standa.  Stjórnvöld eru að bregðast Stjórnarskránni og landsmönnum með því að sópa vandamálinu stöðugt undir teppið.  Það er alger óþarfi, því að viðunandi úrlausn er handan við hornið.  Lokaspurning og -svar var á þessa leið:
"Varðstu einhvers fleira vísari, sem vert væri að greina frá ?"
 
"Helzt er það, hversu mikla hagsmuni Ísland hefur af því, að EES-samningnum sé fundin traust stjórnskipuleg stoð.  Án þess erum við að takast á við síendurtekin stjórnskipuleg vandamál við upptöku og innleiðingu á EES-löggjöf."
 
Lausnirnar hafa verið tíundaðar hér að ofan.  Stjórnvöld verða að fara að sýna lit í þessu máli á því, að strútur sé ekki við stjórnvölinn, og sýna getu til að marka farsæla stefnu í stórmáli, sem í senn verði í samræmi við Lýðveldisstjórnarskrána og efnahagslega hagsmuni landsins. Það er ekkert sérstakt stórvirki.  Vilji er allt, sem þarf.   
 Grexit vofir yfir

 


Norskir rafbílaeigendur fá að kenna á því

Norska ríkið hefur með alls konar gylliboðum lokkað bifreiðakaupendur til að velja sér rafknúna bifreið.  Þetta ásamt tiltölulega lágu rafmagnsverði í Noregi og þar af leiðandi lægri rekstrarkostnaði rafmagnsbíla en jarðefnaeldsneytisknúinna bíla, ásamt ýmsum fríðindum, hefur leitt til mikillar forystu Norðmanna við innleiðingu orkuskiptanna. Hlutfallslega eru hreinrafbílar og tengiltvinnbílar samtals um 7 sinnum fleiri í Noregi en á Íslandi.  

Í Noregi er "augnabliksmarkaður" á raforku.  Framboð, eftirspurn og kerfisálag ræður verðinu.  Í júní 2018 rauk verðið skyndilega upp að deginum, og er það óvenjulegt um hásumarið í Noregi, en stafar vafalaust af miklum útflutningi raforku um sæstrengi til útlanda og hugsanlega þurrkatíð.  Norskum rafbílaeigendum brá í brún, þegar verð frá hleðslustöð nam sem svarar til 16,2 ISK/km (1,2 NOK/km), á meðan verð frá eldsneytisdælu nam 12,2 ISK/km (0,9 NOK/km).  Þarna er raforkukostnaðurinn skyndilega orðinn 33 % hærri en eldsneytiskostnaðurinn og meira en þrefalt hærri en á Íslandi.    

Á Íslandi er þokkalegur stöðuleiki í raforkuverði, en eldsneytisverðið sveiflast með markaðsverði hráolíu.  Um þessar mundir nemur orkukostnaður rafbíls um 5 ISK/km og eldsneytisbíls um 20 ISK/km.  Orkukostnaður rafbíls er 25 % af orkukostnaði jarðefnaeldsneytisbíls. Þetta myndar sterkan hvata til orkuskipta í umferðinni hérlendis, þótt innkaupsverð rafbíla sé enn þá hærra en hinna vegna lítils fjölda. Rafbílar eru einfaldari að gerð, og viðhaldskostnaður þeirra þar af leiðandi lægri. Rafgeymakostnaðurinn vegur þarna á móti, en hann hefur hins vegar lækkað um 80 % á kWh á einum áratugi.  

Það var aflgjaldið í raforkuverðinu við rafgeymahleðslustöð, sem sums staðar í Noregi hafði hækkað um 60 % og hleypt raforkukostnaðinum 33 % upp fyrir eldsneytiskostnaðinn, þ.e. úr 2,5 NOK/mín upp í 4,0 NOK/min.

Hér sjáum við angann af því, hvað verðsveiflur á orku geta haft mikil áhrif á orkuskiptin.  Grundvöllur skjótra orkuskipta er lækkun orkukostnaðar notenda, auk þjóðhagslegs gildis gjaldeyrissparnaðarins, sem af þeim hlýzt.  Fyrirsjáanleiki um þróun innlends orkuverðs er lykilatriði í þessu sambandi, svo að litlir og stórir fjárfestar meti fjárhagsáhættuna litla af því að stíga þau skref til orkuskipta, sem eru nauðsynleg til að ná mjög metnaðarfullum  markmiðum stjórnvalda. Ef stjórnvöld stíga vanhugsuð skref í orkumálum, sem leiða til jafnvægisleysis þar og jafnvel meðalverðshækkana, þá tefja þau þar með orkuskiptin.  

Nú vinnur Landsnet að undirbúningi einhvers konar uppboðsmarkaðar fyrir raforku á Íslandi.  Hvaða vandamál á hann að leysa ?  Ef hann bætir ekki kjör almennings á Íslandi, er verr farið en heima setið.  Það er öruggt, að verðsveiflur á raforku munu aukast við innleiðingu uppboðsmarkaðar, en óvíst er um ársmeðalverðið.  Þessa tilraun ætti um sinn að takmarka við markað ótryggðrar raforku, því að ella getur tilraunin orðið of dýru verði keypt, jafnvel þótt markaður utan langtímasamninga hérlendis nemi aðeins um 20 % af heild.

Varnaðarorð Elíasar Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, eiga vel við hér, en grein eftir hann birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2018 undir fyrirsögninni:

"Lög og raforkumarkaður"

Hún hófst þannig:

"Fyrir frjálsan raforkumarkað er afar mikilvægt, að lagaramminn sé rétt hannaður eftir aðstæðum, einkum þar sem vatnsorka er ráðandi.  Nokkur dæmi eru um, að óheppilegur lagarammi valdi slæmum verðsveiflum á slíkum mörkuðum og jafnvel hruni.  Þetta er alþekkt."

Síðan snýr hann sér að líklegum afleiðingum þess að innleiða hérlendis Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, þótt rafkerfið sé ótengt útlöndum:

"Skoðun mín er hins vegar sú, að hönnun þriðja orkupakka ESB, sem er rammi um markað fyrir raforku úr gasi og kolum, sé óheppileg fyrir okkar vatnsorkukerfi og veiti hvorki raforkumarkaði hér rétt aðhald né tryggi nauðsynlega hvata.  Þetta getur bæði valdið hærra orkuverði hér en ella og kallað á óhagkvæmar fjárfestingar og annan kostnað hjá notendum.  Ekki er tímabært að skoða málin eftir komu sæstrengs."

Það er áríðandi á þessum tímapunkti, að stjórnvöld og landsmenn allir átti sig á því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB hefur samþykkt til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna, illu heilli, nema Sviss, er miðaður við raforkukerfi, sem í grundvallaratriðum er ólíkt íslenzka raforkukerfinu.  Framhjá þessari staðreynd hafa bæði iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið horft, þegar þau í blekkingarskyni og/eða af vanþekkingu á því um hvað málið snýst, hafa haldið því fram, að áhrif innleiðingarinnar muni verða lítil fyrir Íslendinga, á meðan enginn er aflsæstrengurinn.  Þetta er afneitun á því, að búrókrötunum í Brüssel hefur eðlilega ekki dottið það í hug að líta til hagsmuna Íslands, þegar þeir smíðuðu téðan orkumarkaðslagabálk, og íslenzkum kunnáttumönnum á sviði "vatnafærni" var ekki veitt neitt tækifæri til að koma þar sjónarmiðum sínum að. (Vatnafærni er ekki kunnáttan um það, hvernig bezt er að fara yfir ár, heldur samsafn fræða, er lúta að rekstri vatnsorkuvera.)

Eitt hefur áhrif á annað.  Stórir lagabálkar frá ESB, sem innleiddir eru sem lög hér, hafa áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og á hag allra.  Þess vegna verður að vanda til verka.  Þar sem enginn kostur er á að sníða agnúana af og laga bálkana að íslenzkum aðstæðum, á Alþingi ekki að hika við að nota stjórnskipulegan rétt sinn og hafna gjörðum ESB, sem bersýnilega valda landsmönnum meira tjóni en gagni.

 

 

 

 

 


Engin ógn við Ísland ?

Sendiherra Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi, herra Michael Mann, hefur fundizt þörf á að hlaupa undir bagga með þeim hérlendum mönnum, sem eru málsvarar þess, að Íslendingar gangi Orkusambandi ESB á hönd með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB. Óþarfi er að kveinka sér undan slíku, heldu fagna því að fá innsýn í hugarheim sendiherrans.

Í ávarpi sínu til Íslendinga um Orkusamband ESB nefnir sendiherrann sérstaklega til sögunnar ráðgjafa iðnaðarráðherra í þessu máli, en hún virðist því miður hafa gert skoðanir þessa ráðgjafa síns í þessu máli að sínum, þótt þær stangist á við staðreyndir máls í veigamiklum atriðum. Öll atriðin í málflutningi þessa ráðgjafa, sem þýðingu hafa fyrir fullveldisframsal, sem af samþykki þessa orkulagabálks mundi leiða, hafa verið hrakin í pistlum á þessu vefsetri. Þá hefur hér og víðar verið sýnt fram á, að sjónarmiðið um lítil áhrif innleiðingar bálksins á framkvæmd raforkumála á Íslandi án sæstrengs er haldlaust. Um niðurstöður téðs ráðgjafa, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skrifaði sendiherrann í grein sinni í Fréttablaðinu 7. júní 2018,

"Orkupakkinn er engin ógn við Ísland":

"Það var okkur [stjórnendum ESB-innsk. BJo] ánægjuefni, að óháður ráðgjafi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skyldi komast að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar þurfi ekki að óttast þessar nýjustu breytingar."

Ráðherrann, sem hér um ræðir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur á opinberum vettvangi varið afstöðu sína með því að gera á allan hátt lítið úr áhrifum Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á mótun orkustefnu Íslands, þótt Alþingi mundi staðfesta innleiðingu hans í EES-samninginn.  Þá má spyrja, hvort þessi gjörð séu mistök að hálfu ESB, því að henni var vissulega ætlað það hlutverk að verða brimbrjótur ESB við öfluga samtengingu raforkukerfa allra ESB-landanna og alveg sérstaklega, þar sem tæknilegar og/eða stjórnmálalegar aðstæður hafa hagað því þannig, að litlar eða engar slíkar tengingar hafa verið við önnur lönd hingað til. 

Það er hámark barnaskaparins og/eða blekkingarleiks í þessu ACER-máli, að núverandi einangrun íslenzka raforkukerfisins frá öðrum löndum valdi því, að téð löggjöf muni nánast engu breyta á Íslandi.  Á þessu vefsetri hefur verið sýnt fram á, að hún getur gjörbreytt þróun íslenzkra orkumála með fullkomlega ólýðræðislegum hætti.

Hér skal þess vegna fullyrða, að téð afstaða ráðherrans stríðir gegn ályktun Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var einróma á Landsfundi flokksins í marz 2018:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Ef ráðherrann ætlar að halda áfram að vinna að því að yfirfæra ráðstöfunarrétt á raforku Íslands til raforkumarkaðar ESB, sem starfar undir eftirliti Orkustofnunar ESB-ACER, þá grefur hún þar með undan trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins gagnvart þjóðinni og grefur jafnframt undan stöðu sinni innan flokksins, því að hér er um stórmál að ræða, sem ekki er hægt að gera lítið úr.  

Nú skal vitna frekar til herra Michaels Mann:

"Þriðji orkupakkinn, svokallaði, sem Íslendingum er skylt að innleiða samkvæmt EES-samninginum [1], er rökrétt framhald fyrri orkupakkanna tveggja, sem hafa verið innleiddir á Íslandi án vandkvæða. [2]

Megintilgangurinn með orkupakkanum er að veita neytendum ódýra og örugga orku með tilstilli markaðsafla, og hann er ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenzkrar orkustefnu.[3] Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helztu skyldum, sem fylgja nýju löggjöfinni."[4]

  1. Það, sem einkennir EES-samninginn og var óspart hampað á sínum tíma (1992-1993) af málsvörum hans, og gerir hann frábrugðinn beinni aðild að ESB, er einmitt rétturinn til að hafna ESB-reglum á leið þeirra inn í EES-samninginn.  Það er rangt hjá sendiherranum, að Alþingi beri einhver skylda til að skrifa upp á allt, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni kemur.  Þjóðþingum EFTA-landanna í EES er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum.  Á þeim grundvelli hefur fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tjáð þá skoðun sína í pontu Alþingis, að enginn geti á fundi í Brüssel (aðsetur Sameiginlegu EES-nefndarinnar) bundið hendur Alþingis.  Slíkt væri í blóra við Stjórnarskrá Íslands, enda væri þá fullveldi Íslands farið fyrir lítið. Sendiherra ESB verður að gæta orða sinna, þegar hann ávarpar Íslendinga í blaðagrein.  Að skrifa, að "Íslendingum [sé] skylt að innleiða [Þriðja orkupakkann] samkvæmt EES-samninginum" má líta á sem ögrun að hálfu ESB.  Ef ESB ætlar út í einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi í kjölfar synjunar Alþingis, verður slíkt skýlaust brot á EES-samninginum og ber að kæra fyrir EFTA-dómstólinum.
  2. Það er ekki rétt, að Annar orkumarkaðslagabálkur ESB hafi verið innleiddur á Íslandi "án vandkvæða".  Margir hérlendis eru þeirrar skoðunar, að vegna smæðar íslenzka raforkumarkaðarins henti fjórskipting hans að hætti ESB illa hérlendis.  Hún hefur tekið langan tíma, og nú, 14 árum eftir innleiðinguna, er henni enn ólokið. T.d. er eignarhald Landsnets enn mjög afbrigðilegt og fjarri því að vera, eins og fyrirskrifað er af ESB.  Hitt er vafalaust rétt hjá sendiherranum, að Þriðji bálkurinn er "rökrétt framhald" hinna tveggja, og þessum útgáfum er alls ekki lokið enn.  Með útgáfu Fjórða bálksins, sem er í bígerð, er talið, að völd ACER verði aukin enn meir. Hin dæmigerða aðferðarfræði ESB er kennd við spægipylsu. ESB færir sig stöðugt upp á skaptið. 
  3. Með öflugum samtengingum á milli aðildarlandanna ætlar ESB að jafna orkuverðið innan sambandsins og tryggja, að engir flöskuhálsar komi í veg fyrir gjörnýtingu á virkjunum endurnýjanlegrar orku.  Viðmiðun ESB er, að þar sem verðmismunur á milli landa er meiri en 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh), þar skuli auka flutningsgetuna á milli.  Verðmunur raforku á Íslandi og ESB er miklu meiri en þetta, og þess vegna mun ESB/ACER beita öllum tiltækum ráðum til að raungera sæstrenginn "Ice Link".
  4. Þarna veður sendiherrann reyk.  Samkvæmt Þriðja bálkinum verður stofnuð Ný orkustofnun á Íslandi, NOS, einnig nefnd Landsreglarinn.  Hún á að verða algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum hérlendum, en mun lúta stjórn ACER með ESA sem millilið. Þetta er einstætt fyrirkomulag, ólýðræðislegt og andstætt Stjórnarskrá Íslands.   Meginhlutverk NOS verður að fylgjast með því, að Ísland fylgi eftir Kerfisþróunaráætlun ESB, en þar er einmitt Skotlandsstrengurinn "Ice Link" eitt skráðra verkefna.  Með innleiðingu Þriðja bálksins hefur Ísland skuldbundið sig til að hlýða Kerfisþróunaráætluninni, og það verður staðfest með stofnun NOS, sem verður á íslenzku fjárlögunum. Af þessum ástæðum mun Ísland engra undanþágna njóta, sem máli skipta.
Sendiherrann hélt í greininni áfram að kasta ryki í augu lesenda Fréttablaðsins:
 
"Þar sem EES er tveggja stoða kerfi, munu þær valdheimildir, sem ACER fer með í aðildarríkjum EFTA, verða á vegum ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, á Íslandi, en Ísland er eitt aðildarríkja ESA."
 
Að láta ESA leika Orkustofnun EFTA er skrípaleikur, enda er afar takmörkuð þekking á orkumálum innan ESA.  ESA hefur engar heimildir til að breyta fyrirmælum ACER til NOS og mun sem milliliður ACER og NOS virka sem ljósritunarstofa.  Það er hreinræktuð blekking að nota ESA til að draga dul á þá staðreynd, að þetta fyrirkomulag felur í raun í sér valdaframsal frá íslenzkum orkuyfirvöldum og dómstólum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER, og EFTA-dómstólsins, sem leggur ESB-réttinn til grundvallar í dómum sínum.
 
Sendiherrann er á hálum ísi, þegar hann tínir til BREXIT til að rökstyðja mál sitt:
"Jafnvel þótt sæstrengur til Bretlands verði einhvern tíma að veruleika [forgangsverkefnalisti ACER tilgreinir árið 2027 sem ár gangsetningar], myndi það ekki tengja Ísland við ESB-markaðinn, þar sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu frá og með marz á næsta ári."
Það er enn óráðið, hvort Bretland gengur úr Orkusambandi ESB.  Báðir aðilar kunna að sjá hag sínum bezt borgið með óbreyttu ástandi þar.  Þótt Bretar gangi úr Orkusambandinu, munu rafmagnsviðskipti þeirra við ESB-löndin að sjálfsögðu halda áfram, og þeir mundu geta þjónað sem milliliður viðskipta á milli Íslands og ESB um "Ice Link".
 
Að lokum skal hér vitna í lokakafla greinar Michaels Mann, sem bregður ljósi á tvískinnunginn, sem einkennir málflutning embættismanna ESB:
 
"Evrópusambandið fagnar alltaf heilbrigðum skoðanaskiptum um stefnur og lög sambandsins og leggur sig fram um að tryggja, að EES-ríki, utan ESB, svo sem Ísland, geti sætt sig við reglubreytingar.  Það er þess vegna, sem Ísland fékk svo margar varanlegar undanþágur frá þriðja orkupakkanum."
EFTA-löndin fengu engar undanþágur frá Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem máli skipta. Sendiherrann vísar til hreins sparðatínings, enda er það nú meginstefna ESB við útgáfu gjörða, að ein stærð henti öllum ("one size fits all").  Það er óneitanlega holur hljómur í þessum orðum sendiherrans, þegar þess er gætt, að meginumkvörtunarefni EFTA- landanna er þvergirðingsháttur ESB gagnvart samningamönnum EFTA-ríkjanna, þegar hinir síðar nefndu fara fram á, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé haldið í heiðri.  Formaður Sjálfstæðisflokksins kvartaði tvívegis undan þessu í þingræðum í vetur. 
Valdramsal til stofnana ESB á sviði orkumála, ACER, og á sviði persónuverndar, "Evrópska persónuverndarráðið", EDPB, eru dæmi um skýrt stjórnlagabrot á Íslandi og í Noregi, sem ESB þverskallast við að taka tillit til, en heimtar í æ ríkari mæli, að EFTA-ríkin þrjú lúti í einu og öllu sömu reglum og ESB-ríkin.  Þess vegna var margra ára þóf í Sameiginlegu EES-nefndinni um ACER-málið, og þess vegna er hún enn ekki búin að afgreiða nýju persónuverndarlöggjöfina frá sér.
Mjúkmæli sendiherra Evrópusambandsins um, að ESB leggi sig fram um, að EFTA-ríkin geti sætt sig við reglubreytingar frá ESB, horfir þveröfugt við Íslandi og Noregi.  Vilji ESB til að laga sig að sérkröfum EFTA-ríkjanna er sama og enginn núna, og þetta mun leiða til þess, að fyrr en síðar skilja leiðir, enda er nóg af öðrum valkostum á boðstólum.   

 

 


Utanríkisráðuneyti á háskabraut - hvað gerir forseti ?

Utanríkisráðuneyti Íslands er orðið bert að einfeldningslegri rangtúlkun á mati lagaprófessors og sérfræðings í Evrópurétti á því, hvort innleiðing nýrrar persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn, og þar með upptaka löggjafarinnar í lagasafn Íslands, brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands eða ekki. 
Stefán Már Stefánsson var stjórnvöldum til ráðuneytis á undirbúningsstigum málsins og skrifaði skýrslu.  Utanríkisráðherra og hans fólk virðast hafa lesið hana eins og skrattinn Biblíuna, þ.e.a.s. aftur á bak, og niðurstaðan er eftir því, klúður.  Verður þessum orðum nú fundinn staður með því að vitna í frétt Hjartar J. Guðmundssonar á vef Morgunblaðsins, 18. júní 2018:
    1.   "Stefán Már benti í því sambandi á [hann ráðlagði stjórnvöldum að snúa af markaðri braut innleiðingar], að ákvarðanir, sem teknar væru af stofnun Evrópusambandsins, væru afar einhliða, en ákveðin gagnkvæmni væri mikilvægur þáttur við mat á mörkum leyfilegs framsals ríkisvalds samkvæmt stjórnarskránni.  Þær væru einnig í andstöðu við tveggja stoða kerfið og á svig við þann fyrirsjáanleika, sem gert hafi verið ráð fyrir við undirritun EES-samningsins [sem sagt þessi innleiðing er bæði Stjórnarskrárbrot og brot á EES-samninginum-túlkun BJo].
    2. "Fram kemur í greinargerð utanríkisráðherra, að ekki hafi verið talin þörf á að fara þá leið, að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) héldi utan um framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar hér á landi í stað stofnunar Evrópusambandsins, þar sem umræddar valdheimildir beindust aðeins að hinu opinbera hér á landi og stofnunum þess, en ekki að einstaklingum og lögaðilum.  Fram kemur í álitsgerð Stefáns Más, að þetta sé ákveðið viðmið, sem hafa verði í huga, þegar heimildir til framsals valds séu metnar. Hins vegar segir hann í samtali við mbl.is, að þar skipti miklu máli, hvort um sé að ræða raunverulegar sjálfstæðar ákvarðanir stofnunar á vegum EFTA, eða hvort hún sé í raun aðeins að afrita ákvarðanir stofnana Evrópusambandsins. [Þessi orð Stefáns Más eiga t.d. við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem um það er samið á milli EFTA og ESB, að ESA skuli vera milliliður boðskipta á milli ACER og nýrrar sjálfstæðrar orkustofnunar í EFTA-löndum EES.  Þar sem ESA i þessu tilviki er aðeins stimpilstofnun, er þarna um að ræða heimildarlaust framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegar stofnunar, ACER - innsk. BJo.]  Þar er vísað til þess, þegar stofnun á vegum EFTA tekur ákvörðun á grundvelli uppkasts frá stofnun Evrópusambandsins. "Ef um er að ræða stofnun, sem tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir, heldur hefur bara þann tilgang að stimpla eitthvað, sem annar gerir, þá er tæplega unnt að ræða um aðra stoð.  Þá er hún bara milliliður.  Formlega tekur hún þá ákvörðun, og það skiptir að vísu einhverju máli.  Það, sem mestu máli skiptir, er þó, að hún tekur enga sjálfstæða ákvörðun um efni málsins." [Það er rangt hjá utanríkisráðherra, að valdheimildir Persónuverndarráðs beinist einvörðungu að stofnunum hins opinbera hérlendis.  Kæru einstaklinga eða lögaðila hérlendis á málsmeðferð Persónuverndarstofnunar verður vísað til Persónuverndarráðs ESB, og þar með mun úrskurður þess hafa bein áhrif á einstaklinga og/eða fyrirtæki hérlendis.  Það stríðir gegn íslenzku stjórnarskránni.  Gjörðina má þess vegna ekki leiða í lög hérlendis - innsk. BJo.]
    3. "Stefán Már segir mikilvægt að horfa heildstætt á það framsal valds, sem átt hefur sér stað, en ekki aðeins einstakar gerðir, sem teknar eru upp í gegnum EES-samninginn.  Saman teknar séu slíkar gerðir, sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn eftir gildistöku hans að verða talsverður pakki.  Þegar gætt sé að því, að EES-samningurinn hafi á sínum tíma verið talinn á mörkum þess, sem stjórnarskráin leyfði, að því er varðar framsal ríkisvalds [má ætla, að nú sé komið út fyrir leyfileg mörk Stjórnarskrár-innsk. BJo]. Af því leiði, að því séu takmörk sett, hve miklu sé hægt að bæta við hann að óbreyttri stjórnarskrá." [Hér kveður Stefán Már upp úr um það á hófsaman hátt, að stöðva verði þennan stanzlausa straum innleiðinga viðbóta í EES-samninginn, því að í heildina séð sé framsal ríkisvalds orðið meira en Stjórnarskráin heimili.  Það er brýnt, að forseti lýðveldisins gefi gaum að þessu atriði og öðrum í álitsgerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, þegar hann veltir því fyrir sér, hvort hann á að samþykkja eða synja þessum lögum samþykkis-innsk. BJo.]

"Stefán Már segir ekkert hafa verið því til fyrirstöðu lagalega séð, að farin væri sú leið, að ákvarðanir varðandi persónuverndarlöggjöfina gagnvart EFTA/EES-ríkjunum væru teknar af stofnunum á vegum EFTA, sem ríkin ættu aðild að, í stað þess, að þær væru teknar af ESB í andstöðu við tveggja stoða kerfi EES-samningsins."

 

Það þarf enga mannvitsbrekku til að gera sér grein fyrir, hvað hér er á ferðinni. ESB nennir ekki lengur að sinna sérþörfum EFTA-landanna innan EES.  Það er orðin skoðun Framkvæmdastjórnarinnar, að ófært sé að þurfa að hefja samningaviðræður við EFTA-ríkin um undanþágur eða sérafgreiðslu, þegar ESB-ríkin hafa loksins náð lendingu sín á milli.  Þess vegna var tveggja stoða lausninni hafnað í þessu persónuverndarmáli að kröfu ESB, og EFTA-löndin innan EES fá sömu meðhöndlun og ESB-löndin.  Þetta leiðir hins vegar til fyrirkomulags, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki.  Í hnotskurn sýnir þetta, að EES-samstarfið, eins og til þess var stofnað árið 1993, er nú komið að fótum fram.  

Sérfræðingur ríkisstjórnarinnar við undirbúning þessa máls birti henni niðurstöður sínar á eins skýran og afdráttarlausan hátt og honum var auðið sem fræðimaður í Evrópurétti.  Hann var hins vegar ekki settur dómari í málinu, og þess vegna bar niðurstaða hans ekki blæ dómsúrskurðar.  Þetta notfærði utanríkisráðherra sér með ósanngjörnum og ófaglegum hætti og sneri niðurstöðu sérfræðingsins á haus, þ.e. þannig, að hann telji innleiðinguna "standast stjórnarskrána". "Aðspurður segir Stefán Már, að þarna sé nokkuð frjálslega farið með", skrifaði Hjörtur Guðmundsson.  Flestir skilja áður en skellur í tönnunum.  

 Úr því sem komið er, ber Alþingi að hreinsa andrúmsloftið og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að EES eða uppsögn EES-samningsins.  Við gildistöku uppsagnar tekur gildi fríverzlunarsamningur, sem í gildi var við ESB fyrir 1994, ásamt almennum viðskiptaskilmálum WTO (Alþjóða viðskiptastofnunin), sem hafa þróazt mjög til bóta í átt til fríverzlunar í áranna rás.  Iðnvarningur var tollfrjáls og sjávarafurðir með að hámarki 6 % toll, sem góðar líkur eru á, að fengist lækkaður með vísun í WTO og nýlegan viðskiptasamning á milli ESB og Kanada, jafnvel afnuminn.  Í millitíðinni má semja um gagnkvæm atvinnuréttindi, námsréttindi og vísindasamstarf ásamt öðru, sem æskilegt er að halda; í stuttu máli allt annað en kvöðina um að taka upp  þær gjörðir ESB, sem sambandið telur, að erindi eigi inn í EES-samninginn.  

 


Orkustofnun ESB, aflsæstrengur og orkuverðshækkanir

Orkustofnun ESB, ACER, og hinn íslenzki afleggjari hennar, ef af verður, nýja Orkustofnunin, NOS, á að hafa eftirlit með því, að Ísland fylgi Kerfisþróunaráætlun ESB í orði og á borði, ef landið gengur í Orkusamband ESB.  Aflsæstrengur á milli Íslands og Skotlands, "Ice Link",  er á meðal forgangsverkefna í Kerfisþróunaráætlun ESB.

 VERÐIÐ:

Í Noregi hafa orkuviðskipti um sæstrengi til útlanda  óumdeilanlega valdið raforkuverðshækkunum.  Samt er þar aðallega um "raforkuskipti" að ræða, þ.e. Norðmenn flytja raforku út á daginn, ef ekki blæs eða skín sól á viðkomandi orkuver á meginlandinu eða á Bretlandi, en spara á móti vatn í miðlunarlónum sínum á nóttunni með innflutningi raforku. 

Þetta viðskiptalíkan gengur varla upp fyrir "Ice Link", sem er miklu dýrari en norskir sæstrengir og krefst í raun hárrar nýtingar allt árið um kring með flutningi þangað, sem raforkuverðið er hærra, ef hann á að geta borið sig, fjárhagslega. Auk þess er ekkert ónotað afl í íslenzkum virkjunum í líkingu við það, sem er í norskum vatnsaflsvirkjunum.

  1200 MW sæstrengur þarf að flytja um 9 TWh/ár (terawattstundir á ári) frá Íslandi til að standa undir sér, fjárhagslega.  Þetta er tæplega helmingsaukning á núverandi raforkuvinnslu á Íslandi, sem augljóslega  mun útheimta megnið af þeim virkjunum, sem nú eru í framkvæmdahluta Rammaáætlunar.  Er ekki þegar af þeirri ástæðu ljóst, að þessar sæstrengshugmyndir eru draumórar einir ?

Meðalvinnslukostnaður í þessum tilvonandi virkjunum verður miklu hærri en að meðaltali í núverandi raforkukerfi.  Þetta mun óhjákvæmilega strax leiða til mikillar verðhækkunar til almennings og síðar til stóriðju, við endurskoðun langtímasamninga, ef þeir þá verða úrskurðaðir leyfilegir af ESA, þegar þar að kemur.

GETA ÍSLENZK YFIRVÖLD SAMT SAGT NEI ?

Ef Alþingi, illu heilli, samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og framselur þannig fullveldi á orkusviði til Orkustofnunar ESB, ACER, getur Ísland samt hafnað aflsæstrengjum ?  Það eru mjög litlar líkur á, að sú tilraun heppnist.  Íslenzk höfnun mundi vera í andstöðu við grundvallarhugmyndina með Orkusambandinu og framkalla hneykslun í Ljubljana, aðsetri ACER, og í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel.

ACER og afleggjari hennar á Íslandi, Nýja orkustofnun, NOS, munu fá það hlutverk að vakta, að Ísland framfylgi að sínu leyti Kerfisþróunaráætlun ESB. Með því að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB að hluta orkulaganna á Íslandi og síðan að stofna NOS, hefur Ísland samþykkt þessar forsendur NOS, þ.e. Kerfisþróunaráætlun ESB.  

ESB lætur útbúa Kerfisþróunaráætlun til 10 ára, TYNDP, (Ten Years Network Development Plan), sem spannar skrá um forgangsverkefni, "Projects of Common Interest, PCI".  Á þessari skrá eru yfir 170 verkefni og "Ice Link", Skotlandsstrengurinn, er þar á meðal á hagkvæmniathugunarstigi, en með bráðabirgða tímasetningu um gangsetningu árið 2027.

ESB/ACER setja sem lágmarkskröfu á hvert land Orkusambandsins, að 15 % af raforkuvinnslugetu hvers lands sé hægt að flytja út, og þess vegna mun verða þrýst á Ísland að samþykkja fyrsta aflsæstrenginn til útlanda.  Stefnumið Orkusambands ESB er sameiginlegur orkumarkaður allra aðildarlandanna með sama verði og sama aðgengi raforku alls staðar.  Enginn þarf að fara í grafgötur með,  að ESB er full alvara með Kerfisþróunaráætlun sinni og Forgangsverkefnaskrá hennar.

Ef (gamla) Orkustofnun hafnar umsókn eigenda "Ice Link" verkefnisins, munu þeir áreiðanlega áfrýja þeim úrskurði til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA sem broti gegn grunnreglunum, sem Ísland hefur viðurkennt með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.

Eigendurnir munu væntanlega njóta stuðnings NOS, sem gegnir því hlutverki að sjá til þess, að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt. Enginn getur fullyrt um, hver niðurstaðan verður.  Endanlegur úrskurður EFTA-dómstólsins verður þó kveðinn upp í samræmi við réttarkerfi ESB, og þess vegna þarf heldur enginn að efast um niðurstöðuna.

 Langflestir kunnugra telja, að að fáeinum árum liðnum muni ACER fá aukin völd (4. orkubálkurinn), og þá verður leyfishlutverk hefðbundins orkustjórnvalds hvers lands endurskoðað og þar með leyfisveitingar OS á sviði raforkuflutninga afnumdar. Með samþykki Alþingis á innleiðingu téðs orkubálks í EES-samninginn, væri þingið að fórna ráðstöfunarrétti raforkunnar á altari Evrópusamstarfsins.  Þar með væru umráð okkar yfir annarri verðmætustu auðlindinni fyrir borð borin.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hvers konar sess í sögunni þeir þingmenn mundu ávinna sér, sem gerðu sig seka um slíkt glapræði, þrátt fyrir varnaðarorð.      

  

 

  


Forrannsókn Alþingis á ACER-málinu

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú stendur upp á Alþingi að fjalla um innleiðingu í EES-samninginn á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, því að í Sameiginlegu EES-nefndinni var 5. maí 2017 illu heilli og algerlega að óþörfu samþykkt í Brüssel að taka þennan gjörning inn í EES-samninginn. Ekkert fréttist af málinu á vorþinginu 2018. Hvers vegna er það ekki dregið fram í dagsljósið, fundinn á því kostur og löstur og síðan afgreitt í samræmi við stefnumörkun stjórnmálaflokkanna ? 

Þjóðþing Noregs og Liechtenstein hafa staðfest það fyrir sitt leyti, og í Noregi myndaðist gjá á milli þings og þjóðar við það.  Alþingi á snöfurmannlega að synja þessum ólögum staðfestingar, enda eru 80 % þjóðarinnar andvíg því, að þessi varasami gjörningur ESB fái lagagildi á Íslandi samkvæmt skoðanakönnun Maskínu um mánaðamótin apríl-maí 2018. 

Pólitískt má ætla, að téður gjörningur ESB njóti lítils stuðnings á Alþingi, því að tveir stjórnarflokkar hafa nýlegar landsfundarsamþykktir gegn ACER í farteski sínu, og af talsmanni þess þriðja í málinu má ætla, að hann sé alfarið á móti líka.  Einn stjórnarandstöðuflokkur hefur á landsþingi sínu markað sér stefnu á móti inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  

Ef Alþingi fær frumvarp til laga til umfjöllunar, ber því á málefnalegan hátt að finna á því kost og löst til að leggja til grundvallar ákvörðun sinni.  Það sem frá ráðuneytum utanríkis- og iðnaðarmála hefur fram að þessu komið um þetta mál, er ótrúleg þynnka og greinilega ekki reist á  faglegri greiningu af neinum toga, fjárhegslegri, lögfræðilegri né rekstrartæknilegri fyrir raforkukerfið.  Blaðrið einkennist af fávizku eða barnalegri trúgirni á áróður búrókrata ESB og/eða stjórnarinnar í Ósló og hreinræktuðum hræðsluáróðri, sem er íslenzkum ráðuneytum ekki til sóma. Í raun er málflutningur þeirra, sem þegar eru gengnir Evrópusambandinu á hönd, óboðlegur íslenzkum almenningi, því að einkenni hans er ömurleg útgáfa af "af því bara" flótta frá raunveruleikanum.  

Það, sem Alþingi þarf að krefjast af ríkisstjórn Íslands, er hún að lokum leggur fram téð ólánsfrumvarp, er vönduð greining á eftirfarandi viðfangsefnum, sem upp mundu koma eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER:

  • Möguleikar Íslands á að hafna tillögu ACER um aflsæstreng eða -sæstrengi til Íslands.
  • Áhrif lagningar og rekstrar aflsæstrengs til útlanda á íslenzka náttúru við sæstrengslandtakið og á lífríki í og við miðlunarlón og virkjaðar ár, þegar virkjanir eru stilltar á hámarksafl til að anna mikilli afleftirspurn frá útlöndum.
  • Áhrif aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á rafmagnsverð og flutningsgjald raforku fyrir atvinnulíf og heimili, einnig langtímaáhrif á iðnaðaruppbyggingu og endurskoðun langtímasamninga um raforkusölu innanlands.
  • Áhrif aðildar á þjóðhagsleg verðmæti íslenzkra orkuauðlinda, þ.e. verðmæti auðlindanna fyrir verðmætasköpun á Íslandi og hagsæld íslenzkra heimila.
  • Möguleikar íslenzkra stjórnvalda til að gera sjálf ráðstafanir til að tryggja nægt framboð afls- og orku á íslenzka raforkumarkaðinn, þ.e. möguleikar þeirra til að hafa áhrif á stjórnun aflflæðisins um strenginn.
  • Síðast en ekki sízt þarf að sýna fram á, að valdsvið ACER á Íslandi feli ekki í sér framsal á ríkisvaldi til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili.  Ennfremur þarf að sýna fram á með lögfræðilegum rökum, að lögaðilar eða einkaaðilar á Íslandi geti ekki óbeint með ESA sem millilið lent undir valdsviði ACER, t.d. varðandi sektir og aðrar íþyngjandi aðgerðir. 

 


Stjórnvöld og Stjórnarskráin

Arnaldur Hjartarson, aðjunkt við Lagadeild Háskóla Íslands, ritaði þann 2. júní 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Stjórnarskráin, EES-samningurinn og reglur um persónuvernd".

Tilefni greinarinnar er frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu nýs umdeilds lagabálks ESB um persónuvernd. Þessi lagabálkur og krafa ESB gagnvart EFTA-ríkjunum um upptöku hans án tveggja stoða fyrirkomulags er enn ein staðfesting á stefnubreytingu ESB til hins verra fyrir EFTA, sem ekki dugar að láta sem ekkert sé.

Það er fengur að grein fræðimanns á sviði lögfræði um þetta viðkvæma mál. Of lítið bitastætt hefur verið í þeim efnum. Það er mikill samhljómur með þessari grein aðjunktsins og greinargerð norsku andófssamtakanna "Nei til EU", sem birtist hér á vefsíðunni 2. júní 2018 undir heitinu "Persónuvernd með fullveldisframsali", https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2217736 .

Það er ekki hægt að bera í bætifláka fyrir þetta frumvarp með þeirri viðbáru, að fullveldisframsalið, sem í því felst breyti litlu fyrir daglegt líf fólksins í landinu, sé "lite inngripende", eins og Norðmenn segja, sbr niðurlagsorð aðjunktsins:

"Þær reglur, sem felast í reglugerð ESB um persónuvernd, eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á íslenzkt samfélag.  Alþingi gefst nú tækifæri til að ræða hið nýja frumvarp.  Vonandi gefst nægur tími til að kanna, hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Þetta er mjög varfærnislega orðað, þótt tilefnið sé ærið, því að í augum leikmanna blasa við gróf stjórnarskrárbrot, ef af þessari innleiðingu verður.  Þar að auki er téðum samningaviðræðum ekki lokið, því að Sameiginlega EES-nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun þessa máls.  Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin farið fram úr sér með framlagningu þessa frumvarps.  ESB á líka eftir að samþykkja aðlaganir gagnvart EFTA.  Frumvarp þetta er vanbúið og ótækt inn í lagasafn Íslands.  Alþingi ber þess vegna að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar eða hreinlega að fella það.  

Aðjunktinn sýnir fram á, að í frumvarpinu felst bæði framsal framkvæmdavalds og dómsvalds til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland á enga aðild.  Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa umboð til slíks gjörnings:  

"Þessari stofnun ESB [EDPB-Persónuverndarráðinu-innsk. BJo] verður í einhverjum tilvikum heimilað að gefa Persónuvernd bindandi fyrirmæli.  Í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds.  

Ákvarðanir stofnunar ESB virðist einungis mega bera undir Evrópudómstólinn, en íslenzka ríkið á ekki aðild að þeim dómstóli.  Þá mun ætlunin með reglugerð ESB jafnframt vera sú að binda hendur íslenzkra dómstóla, þegar kemur að mati á lögmæti þeirra ákvarðana Persónuverndar, sem tengjast ákvörðunum stofnunar ESB, sbr 143. mgr. formálsorða reglugerðarinnar.  Ef þetta er rétt, þá felst í þessu fyrirætlun um framsal dómsvalds."

Það er glapræði að grafa undan réttarríkinu með því að halda áfram á þessari braut spægipylsuðferðar við sniðgöngu íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Stjórnvöld verða að leita sér fullnægjandi umboðs áður en lengra er haldið.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvert mál af þessu tagi fullveldisframsals er ein leið til að afla fullnægjandi lýðræðislegs umboðs fyrir þessum og öðrum slíkum gjörningum.  Önnur leið er stjórnarskrárbreyting, sem veitir Alþingi slíkar heimildir með skilyrðum, t.d. með ákvæðum um aukinn meirihluta, þegar framsal fullveldis ríkisins á sér stað til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili. 

Festung Europa


Persónuvernd með fullveldisframsali

Hin nýja persónuverndargjörð ESB er óskapnaður, sem á eftir að reynast okkur óþægur ljár í þúfu, þótt ekki væri nema vegna kostnaðarlega mjög íþyngjandi áhrifa á atvinnulíf og opinbera stjórnsýslu.  Ef kostnaðaraukinn svarar til 1 % af launakostnaði fyrirtækjanna, sem er vægt áætlað, er um að ræða 10 miaISK/ár, sem betur væru komnir í launaumslögunum eða í fjárfestingum fyrirtækjanna. Verst kemur þetta niður á minnstu fyrirtækjunum, sprotunum, sem eiga að verða drifkraftar framleiðniaukningar í landinu.

Nú er viðkvæðið, að þessi innleiðing sé óhjákvæmileg.  Það er nauðhyggja, sem stafar af innrætingu Evrópusambandsins. Hvernig fara Svisslendingar að, og hvernig ætla Bretar að skiptast á persónuupplýsingum við fyrrverandi félaga sína í ESB, þegar þeir hafa yfirgefið þá ?  Hvernig verður þessum samskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku háttað.  Það er holur hljómur í þessu samræmingarhjali ESB.

Hvað sögðu fulltrúar norsku andófssamtakanna "Nei til EU", þegar þeir mættu hjá viðkomandi nefnd Stórþingsins til að veita umsögn um þetta alræmda persónuverndarfrumvarp.  Það er fróðlegt að kynna sér það.  Þýðing vefbónda fer hér á eftir:

""Nei til EU" heldur því fram, að frumvarpið um framkvæmd persónuverndargjörðarinnar hafi í för með sér valdframsal til ESB, sem er mikið áhyggjuefni og sem ríkisstjórnin virðist allt of lítinn gaum gefa.  Enn einu sinni á að yfirfæra vald til yfirþjóðlegrar stofnunar, í þessu tilviki Persónuverndarráðsins (EDPB).  Frumvarpið gefur ekki sannfærandi tryggingu gegn því, að ESB-dómstóllinn fái hlutverk við dómsúrskurð um samþykktir Persónuverndar (-stofnunarinnar norsku).

Gjörðin er reist á því, að hver starfsemi um sig beri ábyrgð á framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar. Það er ekki lengur tilkynningarskylda til Persónuverndarstofnunar né krafa um fyrirframsamþykki hennar.

Það er óljóst, hvernig jafnræðis verður gætt með þessu móti.  Hver starfsemi um sig verður að túlka og vinna á eigin spýtur eftir reglunum og ákvarða sjálf, hvort orðið skuli við kröfum um að fá að sjá gögn eða að þeim verði eytt. Þá getur auðveldlega orðið um mismunandi framkvæmd að ræða frá einni skrá til annarrar.  Krafa um tilkynningarskyldu til eftirlitsstofnunar mundi trúlega veita fyrirsjáanlegri og gegnsærri stjórnun.  

Yfirfærir vald til ESB-stofnunar:

Vandræðalegast við þessa gjörð er samt, að enn einu sinni er yfirþjóðlegt vald veitt ESB-stofnun, sem kölluð er Persónuverndarráðið (EDPB). Ráðið getur úrskurðað um ágreiningsmál á milli tveggja eða fleiri eftirlitsstofnana einstakra þjóða um meðhöndlun málefnis yfir landamæri, eða þegar deilt er um, hvaða eftirlitsstofnun (hvaða lands) á að sjá um mál fyrirtækis, sem starfar í nokkrum löndum.  Eftirlitsstofnanir í hverju landi eru í mörgum tilvikum skyldaðar til að æskja umsagnar Persónuverndarráðsins, sem getur fylgt máli eftir með bindandi samþykkt, ef skyldurnar eru ekki uppfylltar. 

ESB-stofnunin á að geta gert samþykktir, sem eru bindandi fyrir Persónuverndina í Noregi án þess, að samþykktin fari um hendur eftirlitsstofnunarinnar ESA.  Þetta brýtur gegn tveggja stoða kerfi EES-samningsins, þar sem aðgreining á að vera á milli málsmeðferðar gagnvart EFTA- og ESB-löndum.  Völd á sviði persónuverndar á þannig að flytja beint til ESB-stofnunar (1).  

Persónuverndargjörðin slær föstu, að Persónuvernd skal vera óháð stofnun og að yfirvöld í hverju landi skuli ekki geta gefið fyrirmæli (grein 52).  Persónuvernd er núna óháð stjórnvaldsstofnun, og ríkisstjórnin getur ekki skipað fyrir eða breytt einstökum ákvörðunum hennar.  Þessu er ætlað að tryggja sjálfstæða stöðu persónuverndarinnar.  Við erum þeirrar skoðunar, að það sé þá mótsagnakennt, að norska persónuverndin skuli vera óháð innlendum yfirvöldum, en vera gert að taka við fyrirmælum frá Persónuverndarráði ESB (2).  

Ríkisstjórnin viðurkennir í frumvarpinu, að valdaframsal eigi sér stað, en heldur því fram, að það "breyti litlu", sé "lite inngripende", og þar af leiðandi megi beita grein 26 í Stjórnarskrá (um hreinan meirihluta í Stórþinginu).  "Nei til EU" vill þá vísa til þess, að hin svokallaða kenning um "litlar breytingar" er umdeild í lögfræðinni og að hún styðst ekki við neitt í Stjórnarskrá.  Við teljum frumvarpið ekki geta hlotið afgreiðslu samkvæmt grein 26. Það er heldur ekki hægt að afgreiða það samkvæmt gr. 115 (í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta), þar eð Noregur á ekki fullgilda aðild með atkvæðisrétti að Persónuverndarráðinu. Frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að leggja Persónuvernd undir Persónuverndarráð ESB ber þess vegna að hafna (3).  

Málflutningur fyrir ESB-dómstólinum ?:

Í svarbréfi til laganefndar Stórþingsins mælir dómsmálaráðherrann því í mót, að framkvæmd persónuverndargerðar ESB hafi í för með sér, að ESB-dómstóllinn fái nýtt hlutverk sem æðsta dómsvald gagnvart norsku eftirlitsstofnuninni einnig.  Í bréfinu er fullyrðingin: "Ákvarðanir Persónuverndarinnar er einvörðungu hægt að sannreyna fyrir norskum dómstólum."

Er þetta nú víst ?  Það er ESB-dómstóllinn, sem er úrskurðaraðili um ákvarðanir Persónuverndarráðsins.  Eins og komið hefur fram, eru ákvarðanir Persónuverndarráðsins bindandi einnig fyrir norsku Persónuverndina.  Hvernig mun ESB bregðast við því, að norskur dómstóll breyti ákvörðun, sem raunverulega kemur frá Persónuverndarráði ESB (4)?

Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar aðlaganir, sem gera á fyrir Noreg og hin EFTA-löndin.  Aðalatriðið er, að krafan í kafla 58 nr 4 um að fylgja skuli sáttmálum ESB skuli ekki gilda (orðin "í samræmi við sáttmálann").  EES-aðlögunin er ekki samþykkt í ESB.  Það, sem stendur í persónuverndargjörðinni núna þýðir, að ESB-dómstóllinn fær lögsögu í EFTA-löndunum (5).

Í sögu EES-samningsins eru mörg dæmi um einhliða forsendur norskra ríkisstjórna, sem ekki hafa staðizt.    Við erum þeirrar skoðunar, að tekin sé mikil áhætta með innleiðingu persónuverndargjörðarinnar áður en EES-aðlaganir hafa verið samþykktar í æðstu stofnunum ESB.

(1) Persónuverndarráð ESB gerir bindandi samþykktir fyrir persónuverndarstofnun hvers aðildarlands.  Það er gjörsamlega ótækt fyrir EFTA-löndin, brýtur tveggja stoða grunnregluna og er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.  Þessi innleiðing er þar af leiðandi ólögleg.

(2)  Að Persónuvernd, sem er sjálfstæð gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, skuli eiga að lúta boðvaldi Persónuverndarráðs ESB, skýtur skökku við og er frágangssök í þessu máli.

(3)  "Lítil breyting" er heiti á spægipylsuaðferð við fullveldisframsal.  Þessari rökleysu er líka beitt á Íslandi, en hér á hún mun minna erindi en í Noregi.  Ástæðan er sú, að EES-samningurinn var á sínum tíma samþykktur af Stórþinginu með auknum meirihluta, yfir 75 % mættra þingmanna greiddi atkvæði með, en á Alþingi var EES-samningurinn samþykktur í bullandi ágreiningi og fremur mjótt á munum.  Þjóðin hefur aldrei verið spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa aðild.  Þrír eða fjórir lögfræðingar voru fengnir til að meta, hvort samningurinn samræmdist Stjórnarskrá.  Þeir komust að því, að hann væri á mörkunum, væri á "gráu svæði".  Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni, og það gengur hreint ekki lengur að halda svona áfram og fótumtroða Stjórnarskrána.

(4)  Hvernig halda menn, að ESB muni bregðast við, ef íslenzkur dómstóll dæmir framkvæmd, sem ættuð er frá Persónuverndarráði ESB, ólöglega ?

(5)  ESB hefur enn ekki samþykkt aðlögun þessar gjörðar að EFTA-ríkjunum.  Þess vegna hefur ESB-dómstóllinn fortakslausa lögsögu þar eftir innleiðingu gjörðarinnar í EES-samninginn.  Er ekki rétt að bíða þessarar staðfestingar ESB ?  Jafnvel Sameiginlega EES-nefndin hefur ekki afgreitt málið.  Það má vel reyna á það hvað gerist, ef samþykkt Alþingis er frestað.  EES-samstarfið er komið á leiðarenda.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband