Færsluflokkur: Evrópumál
28.6.2018 | 11:20
Engin ógn við Ísland ?
Sendiherra Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi, herra Michael Mann, hefur fundizt þörf á að hlaupa undir bagga með þeim hérlendum mönnum, sem eru málsvarar þess, að Íslendingar gangi Orkusambandi ESB á hönd með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB. Óþarfi er að kveinka sér undan slíku, heldu fagna því að fá innsýn í hugarheim sendiherrans.
Í ávarpi sínu til Íslendinga um Orkusamband ESB nefnir sendiherrann sérstaklega til sögunnar ráðgjafa iðnaðarráðherra í þessu máli, en hún virðist því miður hafa gert skoðanir þessa ráðgjafa síns í þessu máli að sínum, þótt þær stangist á við staðreyndir máls í veigamiklum atriðum. Öll atriðin í málflutningi þessa ráðgjafa, sem þýðingu hafa fyrir fullveldisframsal, sem af samþykki þessa orkulagabálks mundi leiða, hafa verið hrakin í pistlum á þessu vefsetri. Þá hefur hér og víðar verið sýnt fram á, að sjónarmiðið um lítil áhrif innleiðingar bálksins á framkvæmd raforkumála á Íslandi án sæstrengs er haldlaust. Um niðurstöður téðs ráðgjafa, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, skrifaði sendiherrann í grein sinni í Fréttablaðinu 7. júní 2018,
"Orkupakkinn er engin ógn við Ísland":
"Það var okkur [stjórnendum ESB-innsk. BJo] ánægjuefni, að óháður ráðgjafi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skyldi komast að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar þurfi ekki að óttast þessar nýjustu breytingar."
Ráðherrann, sem hér um ræðir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur á opinberum vettvangi varið afstöðu sína með því að gera á allan hátt lítið úr áhrifum Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á mótun orkustefnu Íslands, þótt Alþingi mundi staðfesta innleiðingu hans í EES-samninginn. Þá má spyrja, hvort þessi gjörð séu mistök að hálfu ESB, því að henni var vissulega ætlað það hlutverk að verða brimbrjótur ESB við öfluga samtengingu raforkukerfa allra ESB-landanna og alveg sérstaklega, þar sem tæknilegar og/eða stjórnmálalegar aðstæður hafa hagað því þannig, að litlar eða engar slíkar tengingar hafa verið við önnur lönd hingað til.
Það er hámark barnaskaparins og/eða blekkingarleiks í þessu ACER-máli, að núverandi einangrun íslenzka raforkukerfisins frá öðrum löndum valdi því, að téð löggjöf muni nánast engu breyta á Íslandi. Á þessu vefsetri hefur verið sýnt fram á, að hún getur gjörbreytt þróun íslenzkra orkumála með fullkomlega ólýðræðislegum hætti.
Hér skal þess vegna fullyrða, að téð afstaða ráðherrans stríðir gegn ályktun Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var einróma á Landsfundi flokksins í marz 2018:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Ef ráðherrann ætlar að halda áfram að vinna að því að yfirfæra ráðstöfunarrétt á raforku Íslands til raforkumarkaðar ESB, sem starfar undir eftirliti Orkustofnunar ESB-ACER, þá grefur hún þar með undan trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins gagnvart þjóðinni og grefur jafnframt undan stöðu sinni innan flokksins, því að hér er um stórmál að ræða, sem ekki er hægt að gera lítið úr.
Nú skal vitna frekar til herra Michaels Mann:
"Þriðji orkupakkinn, svokallaði, sem Íslendingum er skylt að innleiða samkvæmt EES-samninginum [1], er rökrétt framhald fyrri orkupakkanna tveggja, sem hafa verið innleiddir á Íslandi án vandkvæða. [2]
Megintilgangurinn með orkupakkanum er að veita neytendum ódýra og örugga orku með tilstilli markaðsafla, og hann er ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenzkrar orkustefnu.[3] Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helztu skyldum, sem fylgja nýju löggjöfinni."[4]
- Það, sem einkennir EES-samninginn og var óspart hampað á sínum tíma (1992-1993) af málsvörum hans, og gerir hann frábrugðinn beinni aðild að ESB, er einmitt rétturinn til að hafna ESB-reglum á leið þeirra inn í EES-samninginn. Það er rangt hjá sendiherranum, að Alþingi beri einhver skylda til að skrifa upp á allt, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni kemur. Þjóðþingum EFTA-landanna í EES er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum. Á þeim grundvelli hefur fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tjáð þá skoðun sína í pontu Alþingis, að enginn geti á fundi í Brüssel (aðsetur Sameiginlegu EES-nefndarinnar) bundið hendur Alþingis. Slíkt væri í blóra við Stjórnarskrá Íslands, enda væri þá fullveldi Íslands farið fyrir lítið. Sendiherra ESB verður að gæta orða sinna, þegar hann ávarpar Íslendinga í blaðagrein. Að skrifa, að "Íslendingum [sé] skylt að innleiða [Þriðja orkupakkann] samkvæmt EES-samninginum" má líta á sem ögrun að hálfu ESB. Ef ESB ætlar út í einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi í kjölfar synjunar Alþingis, verður slíkt skýlaust brot á EES-samninginum og ber að kæra fyrir EFTA-dómstólinum.
- Það er ekki rétt, að Annar orkumarkaðslagabálkur ESB hafi verið innleiddur á Íslandi "án vandkvæða". Margir hérlendis eru þeirrar skoðunar, að vegna smæðar íslenzka raforkumarkaðarins henti fjórskipting hans að hætti ESB illa hérlendis. Hún hefur tekið langan tíma, og nú, 14 árum eftir innleiðinguna, er henni enn ólokið. T.d. er eignarhald Landsnets enn mjög afbrigðilegt og fjarri því að vera, eins og fyrirskrifað er af ESB. Hitt er vafalaust rétt hjá sendiherranum, að Þriðji bálkurinn er "rökrétt framhald" hinna tveggja, og þessum útgáfum er alls ekki lokið enn. Með útgáfu Fjórða bálksins, sem er í bígerð, er talið, að völd ACER verði aukin enn meir. Hin dæmigerða aðferðarfræði ESB er kennd við spægipylsu. ESB færir sig stöðugt upp á skaptið.
- Með öflugum samtengingum á milli aðildarlandanna ætlar ESB að jafna orkuverðið innan sambandsins og tryggja, að engir flöskuhálsar komi í veg fyrir gjörnýtingu á virkjunum endurnýjanlegrar orku. Viðmiðun ESB er, að þar sem verðmismunur á milli landa er meiri en 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh), þar skuli auka flutningsgetuna á milli. Verðmunur raforku á Íslandi og ESB er miklu meiri en þetta, og þess vegna mun ESB/ACER beita öllum tiltækum ráðum til að raungera sæstrenginn "Ice Link".
- Þarna veður sendiherrann reyk. Samkvæmt Þriðja bálkinum verður stofnuð Ný orkustofnun á Íslandi, NOS, einnig nefnd Landsreglarinn. Hún á að verða algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum hérlendum, en mun lúta stjórn ACER með ESA sem millilið. Þetta er einstætt fyrirkomulag, ólýðræðislegt og andstætt Stjórnarskrá Íslands. Meginhlutverk NOS verður að fylgjast með því, að Ísland fylgi eftir Kerfisþróunaráætlun ESB, en þar er einmitt Skotlandsstrengurinn "Ice Link" eitt skráðra verkefna. Með innleiðingu Þriðja bálksins hefur Ísland skuldbundið sig til að hlýða Kerfisþróunaráætluninni, og það verður staðfest með stofnun NOS, sem verður á íslenzku fjárlögunum. Af þessum ástæðum mun Ísland engra undanþágna njóta, sem máli skipta.
Evrópumál | Breytt 30.6.2018 kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.6.2018 | 10:41
Utanríkisráðuneyti á háskabraut - hvað gerir forseti ?
- "Stefán Már benti í því sambandi á [hann ráðlagði stjórnvöldum að snúa af markaðri braut innleiðingar], að ákvarðanir, sem teknar væru af stofnun Evrópusambandsins, væru afar einhliða, en ákveðin gagnkvæmni væri mikilvægur þáttur við mat á mörkum leyfilegs framsals ríkisvalds samkvæmt stjórnarskránni. Þær væru einnig í andstöðu við tveggja stoða kerfið og á svig við þann fyrirsjáanleika, sem gert hafi verið ráð fyrir við undirritun EES-samningsins [sem sagt þessi innleiðing er bæði Stjórnarskrárbrot og brot á EES-samninginum-túlkun BJo].
- "Fram kemur í greinargerð utanríkisráðherra, að ekki hafi verið talin þörf á að fara þá leið, að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) héldi utan um framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar hér á landi í stað stofnunar Evrópusambandsins, þar sem umræddar valdheimildir beindust aðeins að hinu opinbera hér á landi og stofnunum þess, en ekki að einstaklingum og lögaðilum. Fram kemur í álitsgerð Stefáns Más, að þetta sé ákveðið viðmið, sem hafa verði í huga, þegar heimildir til framsals valds séu metnar. Hins vegar segir hann í samtali við mbl.is, að þar skipti miklu máli, hvort um sé að ræða raunverulegar sjálfstæðar ákvarðanir stofnunar á vegum EFTA, eða hvort hún sé í raun aðeins að afrita ákvarðanir stofnana Evrópusambandsins. [Þessi orð Stefáns Más eiga t.d. við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem um það er samið á milli EFTA og ESB, að ESA skuli vera milliliður boðskipta á milli ACER og nýrrar sjálfstæðrar orkustofnunar í EFTA-löndum EES. Þar sem ESA i þessu tilviki er aðeins stimpilstofnun, er þarna um að ræða heimildarlaust framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegar stofnunar, ACER - innsk. BJo.] Þar er vísað til þess, þegar stofnun á vegum EFTA tekur ákvörðun á grundvelli uppkasts frá stofnun Evrópusambandsins. "Ef um er að ræða stofnun, sem tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir, heldur hefur bara þann tilgang að stimpla eitthvað, sem annar gerir, þá er tæplega unnt að ræða um aðra stoð. Þá er hún bara milliliður. Formlega tekur hún þá ákvörðun, og það skiptir að vísu einhverju máli. Það, sem mestu máli skiptir, er þó, að hún tekur enga sjálfstæða ákvörðun um efni málsins." [Það er rangt hjá utanríkisráðherra, að valdheimildir Persónuverndarráðs beinist einvörðungu að stofnunum hins opinbera hérlendis. Kæru einstaklinga eða lögaðila hérlendis á málsmeðferð Persónuverndarstofnunar verður vísað til Persónuverndarráðs ESB, og þar með mun úrskurður þess hafa bein áhrif á einstaklinga og/eða fyrirtæki hérlendis. Það stríðir gegn íslenzku stjórnarskránni. Gjörðina má þess vegna ekki leiða í lög hérlendis - innsk. BJo.]
- "Stefán Már segir mikilvægt að horfa heildstætt á það framsal valds, sem átt hefur sér stað, en ekki aðeins einstakar gerðir, sem teknar eru upp í gegnum EES-samninginn. Saman teknar séu slíkar gerðir, sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn eftir gildistöku hans að verða talsverður pakki. Þegar gætt sé að því, að EES-samningurinn hafi á sínum tíma verið talinn á mörkum þess, sem stjórnarskráin leyfði, að því er varðar framsal ríkisvalds [má ætla, að nú sé komið út fyrir leyfileg mörk Stjórnarskrár-innsk. BJo]. Af því leiði, að því séu takmörk sett, hve miklu sé hægt að bæta við hann að óbreyttri stjórnarskrá." [Hér kveður Stefán Már upp úr um það á hófsaman hátt, að stöðva verði þennan stanzlausa straum innleiðinga viðbóta í EES-samninginn, því að í heildina séð sé framsal ríkisvalds orðið meira en Stjórnarskráin heimili. Það er brýnt, að forseti lýðveldisins gefi gaum að þessu atriði og öðrum í álitsgerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, þegar hann veltir því fyrir sér, hvort hann á að samþykkja eða synja þessum lögum samþykkis-innsk. BJo.]
"Stefán Már segir ekkert hafa verið því til fyrirstöðu lagalega séð, að farin væri sú leið, að ákvarðanir varðandi persónuverndarlöggjöfina gagnvart EFTA/EES-ríkjunum væru teknar af stofnunum á vegum EFTA, sem ríkin ættu aðild að, í stað þess, að þær væru teknar af ESB í andstöðu við tveggja stoða kerfi EES-samningsins."
Það þarf enga mannvitsbrekku til að gera sér grein fyrir, hvað hér er á ferðinni. ESB nennir ekki lengur að sinna sérþörfum EFTA-landanna innan EES. Það er orðin skoðun Framkvæmdastjórnarinnar, að ófært sé að þurfa að hefja samningaviðræður við EFTA-ríkin um undanþágur eða sérafgreiðslu, þegar ESB-ríkin hafa loksins náð lendingu sín á milli. Þess vegna var tveggja stoða lausninni hafnað í þessu persónuverndarmáli að kröfu ESB, og EFTA-löndin innan EES fá sömu meðhöndlun og ESB-löndin. Þetta leiðir hins vegar til fyrirkomulags, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki. Í hnotskurn sýnir þetta, að EES-samstarfið, eins og til þess var stofnað árið 1993, er nú komið að fótum fram.
Sérfræðingur ríkisstjórnarinnar við undirbúning þessa máls birti henni niðurstöður sínar á eins skýran og afdráttarlausan hátt og honum var auðið sem fræðimaður í Evrópurétti. Hann var hins vegar ekki settur dómari í málinu, og þess vegna bar niðurstaða hans ekki blæ dómsúrskurðar. Þetta notfærði utanríkisráðherra sér með ósanngjörnum og ófaglegum hætti og sneri niðurstöðu sérfræðingsins á haus, þ.e. þannig, að hann telji innleiðinguna "standast stjórnarskrána". "Aðspurður segir Stefán Már, að þarna sé nokkuð frjálslega farið með", skrifaði Hjörtur Guðmundsson. Flestir skilja áður en skellur í tönnunum.
Úr því sem komið er, ber Alþingi að hreinsa andrúmsloftið og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að EES eða uppsögn EES-samningsins. Við gildistöku uppsagnar tekur gildi fríverzlunarsamningur, sem í gildi var við ESB fyrir 1994, ásamt almennum viðskiptaskilmálum WTO (Alþjóða viðskiptastofnunin), sem hafa þróazt mjög til bóta í átt til fríverzlunar í áranna rás. Iðnvarningur var tollfrjáls og sjávarafurðir með að hámarki 6 % toll, sem góðar líkur eru á, að fengist lækkaður með vísun í WTO og nýlegan viðskiptasamning á milli ESB og Kanada, jafnvel afnuminn. Í millitíðinni má semja um gagnkvæm atvinnuréttindi, námsréttindi og vísindasamstarf ásamt öðru, sem æskilegt er að halda; í stuttu máli allt annað en kvöðina um að taka upp þær gjörðir ESB, sem sambandið telur, að erindi eigi inn í EES-samninginn.
18.6.2018 | 09:47
Orkustofnun ESB, aflsæstrengur og orkuverðshækkanir
Orkustofnun ESB, ACER, og hinn íslenzki afleggjari hennar, ef af verður, nýja Orkustofnunin, NOS, á að hafa eftirlit með því, að Ísland fylgi Kerfisþróunaráætlun ESB í orði og á borði, ef landið gengur í Orkusamband ESB. Aflsæstrengur á milli Íslands og Skotlands, "Ice Link", er á meðal forgangsverkefna í Kerfisþróunaráætlun ESB.
VERÐIÐ:
Í Noregi hafa orkuviðskipti um sæstrengi til útlanda óumdeilanlega valdið raforkuverðshækkunum. Samt er þar aðallega um "raforkuskipti" að ræða, þ.e. Norðmenn flytja raforku út á daginn, ef ekki blæs eða skín sól á viðkomandi orkuver á meginlandinu eða á Bretlandi, en spara á móti vatn í miðlunarlónum sínum á nóttunni með innflutningi raforku.
Þetta viðskiptalíkan gengur varla upp fyrir "Ice Link", sem er miklu dýrari en norskir sæstrengir og krefst í raun hárrar nýtingar allt árið um kring með flutningi þangað, sem raforkuverðið er hærra, ef hann á að geta borið sig, fjárhagslega. Auk þess er ekkert ónotað afl í íslenzkum virkjunum í líkingu við það, sem er í norskum vatnsaflsvirkjunum.
1200 MW sæstrengur þarf að flytja um 9 TWh/ár (terawattstundir á ári) frá Íslandi til að standa undir sér, fjárhagslega. Þetta er tæplega helmingsaukning á núverandi raforkuvinnslu á Íslandi, sem augljóslega mun útheimta megnið af þeim virkjunum, sem nú eru í framkvæmdahluta Rammaáætlunar. Er ekki þegar af þeirri ástæðu ljóst, að þessar sæstrengshugmyndir eru draumórar einir ?
Meðalvinnslukostnaður í þessum tilvonandi virkjunum verður miklu hærri en að meðaltali í núverandi raforkukerfi. Þetta mun óhjákvæmilega strax leiða til mikillar verðhækkunar til almennings og síðar til stóriðju, við endurskoðun langtímasamninga, ef þeir þá verða úrskurðaðir leyfilegir af ESA, þegar þar að kemur.
GETA ÍSLENZK YFIRVÖLD SAMT SAGT NEI ?
Ef Alþingi, illu heilli, samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og framselur þannig fullveldi á orkusviði til Orkustofnunar ESB, ACER, getur Ísland samt hafnað aflsæstrengjum ? Það eru mjög litlar líkur á, að sú tilraun heppnist. Íslenzk höfnun mundi vera í andstöðu við grundvallarhugmyndina með Orkusambandinu og framkalla hneykslun í Ljubljana, aðsetri ACER, og í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel.
ACER og afleggjari hennar á Íslandi, Nýja orkustofnun, NOS, munu fá það hlutverk að vakta, að Ísland framfylgi að sínu leyti Kerfisþróunaráætlun ESB. Með því að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB að hluta orkulaganna á Íslandi og síðan að stofna NOS, hefur Ísland samþykkt þessar forsendur NOS, þ.e. Kerfisþróunaráætlun ESB.
ESB lætur útbúa Kerfisþróunaráætlun til 10 ára, TYNDP, (Ten Years Network Development Plan), sem spannar skrá um forgangsverkefni, "Projects of Common Interest, PCI". Á þessari skrá eru yfir 170 verkefni og "Ice Link", Skotlandsstrengurinn, er þar á meðal á hagkvæmniathugunarstigi, en með bráðabirgða tímasetningu um gangsetningu árið 2027.
ESB/ACER setja sem lágmarkskröfu á hvert land Orkusambandsins, að 15 % af raforkuvinnslugetu hvers lands sé hægt að flytja út, og þess vegna mun verða þrýst á Ísland að samþykkja fyrsta aflsæstrenginn til útlanda. Stefnumið Orkusambands ESB er sameiginlegur orkumarkaður allra aðildarlandanna með sama verði og sama aðgengi raforku alls staðar. Enginn þarf að fara í grafgötur með, að ESB er full alvara með Kerfisþróunaráætlun sinni og Forgangsverkefnaskrá hennar.
Ef (gamla) Orkustofnun hafnar umsókn eigenda "Ice Link" verkefnisins, munu þeir áreiðanlega áfrýja þeim úrskurði til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA sem broti gegn grunnreglunum, sem Ísland hefur viðurkennt með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.
Eigendurnir munu væntanlega njóta stuðnings NOS, sem gegnir því hlutverki að sjá til þess, að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt. Enginn getur fullyrt um, hver niðurstaðan verður. Endanlegur úrskurður EFTA-dómstólsins verður þó kveðinn upp í samræmi við réttarkerfi ESB, og þess vegna þarf heldur enginn að efast um niðurstöðuna.
Langflestir kunnugra telja, að að fáeinum árum liðnum muni ACER fá aukin völd (4. orkubálkurinn), og þá verður leyfishlutverk hefðbundins orkustjórnvalds hvers lands endurskoðað og þar með leyfisveitingar OS á sviði raforkuflutninga afnumdar. Með samþykki Alþingis á innleiðingu téðs orkubálks í EES-samninginn, væri þingið að fórna ráðstöfunarrétti raforkunnar á altari Evrópusamstarfsins. Þar með væru umráð okkar yfir annarri verðmætustu auðlindinni fyrir borð borin. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hvers konar sess í sögunni þeir þingmenn mundu ávinna sér, sem gerðu sig seka um slíkt glapræði, þrátt fyrir varnaðarorð.
16.6.2018 | 16:06
Forrannsókn Alþingis á ACER-málinu
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú stendur upp á Alþingi að fjalla um innleiðingu í EES-samninginn á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, því að í Sameiginlegu EES-nefndinni var 5. maí 2017 illu heilli og algerlega að óþörfu samþykkt í Brüssel að taka þennan gjörning inn í EES-samninginn. Ekkert fréttist af málinu á vorþinginu 2018. Hvers vegna er það ekki dregið fram í dagsljósið, fundinn á því kostur og löstur og síðan afgreitt í samræmi við stefnumörkun stjórnmálaflokkanna ?
Þjóðþing Noregs og Liechtenstein hafa staðfest það fyrir sitt leyti, og í Noregi myndaðist gjá á milli þings og þjóðar við það. Alþingi á snöfurmannlega að synja þessum ólögum staðfestingar, enda eru 80 % þjóðarinnar andvíg því, að þessi varasami gjörningur ESB fái lagagildi á Íslandi samkvæmt skoðanakönnun Maskínu um mánaðamótin apríl-maí 2018.
Pólitískt má ætla, að téður gjörningur ESB njóti lítils stuðnings á Alþingi, því að tveir stjórnarflokkar hafa nýlegar landsfundarsamþykktir gegn ACER í farteski sínu, og af talsmanni þess þriðja í málinu má ætla, að hann sé alfarið á móti líka. Einn stjórnarandstöðuflokkur hefur á landsþingi sínu markað sér stefnu á móti inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.
Ef Alþingi fær frumvarp til laga til umfjöllunar, ber því á málefnalegan hátt að finna á því kost og löst til að leggja til grundvallar ákvörðun sinni. Það sem frá ráðuneytum utanríkis- og iðnaðarmála hefur fram að þessu komið um þetta mál, er ótrúleg þynnka og greinilega ekki reist á faglegri greiningu af neinum toga, fjárhegslegri, lögfræðilegri né rekstrartæknilegri fyrir raforkukerfið. Blaðrið einkennist af fávizku eða barnalegri trúgirni á áróður búrókrata ESB og/eða stjórnarinnar í Ósló og hreinræktuðum hræðsluáróðri, sem er íslenzkum ráðuneytum ekki til sóma. Í raun er málflutningur þeirra, sem þegar eru gengnir Evrópusambandinu á hönd, óboðlegur íslenzkum almenningi, því að einkenni hans er ömurleg útgáfa af "af því bara" flótta frá raunveruleikanum.
Það, sem Alþingi þarf að krefjast af ríkisstjórn Íslands, er hún að lokum leggur fram téð ólánsfrumvarp, er vönduð greining á eftirfarandi viðfangsefnum, sem upp mundu koma eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER:
- Möguleikar Íslands á að hafna tillögu ACER um aflsæstreng eða -sæstrengi til Íslands.
- Áhrif lagningar og rekstrar aflsæstrengs til útlanda á íslenzka náttúru við sæstrengslandtakið og á lífríki í og við miðlunarlón og virkjaðar ár, þegar virkjanir eru stilltar á hámarksafl til að anna mikilli afleftirspurn frá útlöndum.
- Áhrif aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á rafmagnsverð og flutningsgjald raforku fyrir atvinnulíf og heimili, einnig langtímaáhrif á iðnaðaruppbyggingu og endurskoðun langtímasamninga um raforkusölu innanlands.
- Áhrif aðildar á þjóðhagsleg verðmæti íslenzkra orkuauðlinda, þ.e. verðmæti auðlindanna fyrir verðmætasköpun á Íslandi og hagsæld íslenzkra heimila.
- Möguleikar íslenzkra stjórnvalda til að gera sjálf ráðstafanir til að tryggja nægt framboð afls- og orku á íslenzka raforkumarkaðinn, þ.e. möguleikar þeirra til að hafa áhrif á stjórnun aflflæðisins um strenginn.
- Síðast en ekki sízt þarf að sýna fram á, að valdsvið ACER á Íslandi feli ekki í sér framsal á ríkisvaldi til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili. Ennfremur þarf að sýna fram á með lögfræðilegum rökum, að lögaðilar eða einkaaðilar á Íslandi geti ekki óbeint með ESA sem millilið lent undir valdsviði ACER, t.d. varðandi sektir og aðrar íþyngjandi aðgerðir.
4.6.2018 | 09:42
Stjórnvöld og Stjórnarskráin
Arnaldur Hjartarson, aðjunkt við Lagadeild Háskóla Íslands, ritaði þann 2. júní 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Stjórnarskráin, EES-samningurinn og reglur um persónuvernd".
Tilefni greinarinnar er frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu nýs umdeilds lagabálks ESB um persónuvernd. Þessi lagabálkur og krafa ESB gagnvart EFTA-ríkjunum um upptöku hans án tveggja stoða fyrirkomulags er enn ein staðfesting á stefnubreytingu ESB til hins verra fyrir EFTA, sem ekki dugar að láta sem ekkert sé.
Það er fengur að grein fræðimanns á sviði lögfræði um þetta viðkvæma mál. Of lítið bitastætt hefur verið í þeim efnum. Það er mikill samhljómur með þessari grein aðjunktsins og greinargerð norsku andófssamtakanna "Nei til EU", sem birtist hér á vefsíðunni 2. júní 2018 undir heitinu "Persónuvernd með fullveldisframsali", https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2217736 .
Það er ekki hægt að bera í bætifláka fyrir þetta frumvarp með þeirri viðbáru, að fullveldisframsalið, sem í því felst breyti litlu fyrir daglegt líf fólksins í landinu, sé "lite inngripende", eins og Norðmenn segja, sbr niðurlagsorð aðjunktsins:
"Þær reglur, sem felast í reglugerð ESB um persónuvernd, eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á íslenzkt samfélag. Alþingi gefst nú tækifæri til að ræða hið nýja frumvarp. Vonandi gefst nægur tími til að kanna, hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar."
Þetta er mjög varfærnislega orðað, þótt tilefnið sé ærið, því að í augum leikmanna blasa við gróf stjórnarskrárbrot, ef af þessari innleiðingu verður. Þar að auki er téðum samningaviðræðum ekki lokið, því að Sameiginlega EES-nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun þessa máls. Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin farið fram úr sér með framlagningu þessa frumvarps. ESB á líka eftir að samþykkja aðlaganir gagnvart EFTA. Frumvarp þetta er vanbúið og ótækt inn í lagasafn Íslands. Alþingi ber þess vegna að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar eða hreinlega að fella það.
Aðjunktinn sýnir fram á, að í frumvarpinu felst bæði framsal framkvæmdavalds og dómsvalds til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland á enga aðild. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa umboð til slíks gjörnings:
"Þessari stofnun ESB [EDPB-Persónuverndarráðinu-innsk. BJo] verður í einhverjum tilvikum heimilað að gefa Persónuvernd bindandi fyrirmæli. Í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds.
Ákvarðanir stofnunar ESB virðist einungis mega bera undir Evrópudómstólinn, en íslenzka ríkið á ekki aðild að þeim dómstóli. Þá mun ætlunin með reglugerð ESB jafnframt vera sú að binda hendur íslenzkra dómstóla, þegar kemur að mati á lögmæti þeirra ákvarðana Persónuverndar, sem tengjast ákvörðunum stofnunar ESB, sbr 143. mgr. formálsorða reglugerðarinnar. Ef þetta er rétt, þá felst í þessu fyrirætlun um framsal dómsvalds."
Það er glapræði að grafa undan réttarríkinu með því að halda áfram á þessari braut spægipylsuðferðar við sniðgöngu íslenzku Stjórnarskrárinnar. Stjórnvöld verða að leita sér fullnægjandi umboðs áður en lengra er haldið. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvert mál af þessu tagi fullveldisframsals er ein leið til að afla fullnægjandi lýðræðislegs umboðs fyrir þessum og öðrum slíkum gjörningum. Önnur leið er stjórnarskrárbreyting, sem veitir Alþingi slíkar heimildir með skilyrðum, t.d. með ákvæðum um aukinn meirihluta, þegar framsal fullveldis ríkisins á sér stað til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili.
2.6.2018 | 18:55
Persónuvernd með fullveldisframsali
Hin nýja persónuverndargjörð ESB er óskapnaður, sem á eftir að reynast okkur óþægur ljár í þúfu, þótt ekki væri nema vegna kostnaðarlega mjög íþyngjandi áhrifa á atvinnulíf og opinbera stjórnsýslu. Ef kostnaðaraukinn svarar til 1 % af launakostnaði fyrirtækjanna, sem er vægt áætlað, er um að ræða 10 miaISK/ár, sem betur væru komnir í launaumslögunum eða í fjárfestingum fyrirtækjanna. Verst kemur þetta niður á minnstu fyrirtækjunum, sprotunum, sem eiga að verða drifkraftar framleiðniaukningar í landinu.
Nú er viðkvæðið, að þessi innleiðing sé óhjákvæmileg. Það er nauðhyggja, sem stafar af innrætingu Evrópusambandsins. Hvernig fara Svisslendingar að, og hvernig ætla Bretar að skiptast á persónuupplýsingum við fyrrverandi félaga sína í ESB, þegar þeir hafa yfirgefið þá ? Hvernig verður þessum samskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku háttað. Það er holur hljómur í þessu samræmingarhjali ESB.
Hvað sögðu fulltrúar norsku andófssamtakanna "Nei til EU", þegar þeir mættu hjá viðkomandi nefnd Stórþingsins til að veita umsögn um þetta alræmda persónuverndarfrumvarp. Það er fróðlegt að kynna sér það. Þýðing vefbónda fer hér á eftir:
""Nei til EU" heldur því fram, að frumvarpið um framkvæmd persónuverndargjörðarinnar hafi í för með sér valdframsal til ESB, sem er mikið áhyggjuefni og sem ríkisstjórnin virðist allt of lítinn gaum gefa. Enn einu sinni á að yfirfæra vald til yfirþjóðlegrar stofnunar, í þessu tilviki Persónuverndarráðsins (EDPB). Frumvarpið gefur ekki sannfærandi tryggingu gegn því, að ESB-dómstóllinn fái hlutverk við dómsúrskurð um samþykktir Persónuverndar (-stofnunarinnar norsku).
Gjörðin er reist á því, að hver starfsemi um sig beri ábyrgð á framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar. Það er ekki lengur tilkynningarskylda til Persónuverndarstofnunar né krafa um fyrirframsamþykki hennar.
Það er óljóst, hvernig jafnræðis verður gætt með þessu móti. Hver starfsemi um sig verður að túlka og vinna á eigin spýtur eftir reglunum og ákvarða sjálf, hvort orðið skuli við kröfum um að fá að sjá gögn eða að þeim verði eytt. Þá getur auðveldlega orðið um mismunandi framkvæmd að ræða frá einni skrá til annarrar. Krafa um tilkynningarskyldu til eftirlitsstofnunar mundi trúlega veita fyrirsjáanlegri og gegnsærri stjórnun.
Yfirfærir vald til ESB-stofnunar:
Vandræðalegast við þessa gjörð er samt, að enn einu sinni er yfirþjóðlegt vald veitt ESB-stofnun, sem kölluð er Persónuverndarráðið (EDPB). Ráðið getur úrskurðað um ágreiningsmál á milli tveggja eða fleiri eftirlitsstofnana einstakra þjóða um meðhöndlun málefnis yfir landamæri, eða þegar deilt er um, hvaða eftirlitsstofnun (hvaða lands) á að sjá um mál fyrirtækis, sem starfar í nokkrum löndum. Eftirlitsstofnanir í hverju landi eru í mörgum tilvikum skyldaðar til að æskja umsagnar Persónuverndarráðsins, sem getur fylgt máli eftir með bindandi samþykkt, ef skyldurnar eru ekki uppfylltar.
ESB-stofnunin á að geta gert samþykktir, sem eru bindandi fyrir Persónuverndina í Noregi án þess, að samþykktin fari um hendur eftirlitsstofnunarinnar ESA. Þetta brýtur gegn tveggja stoða kerfi EES-samningsins, þar sem aðgreining á að vera á milli málsmeðferðar gagnvart EFTA- og ESB-löndum. Völd á sviði persónuverndar á þannig að flytja beint til ESB-stofnunar (1).
Persónuverndargjörðin slær föstu, að Persónuvernd skal vera óháð stofnun og að yfirvöld í hverju landi skuli ekki geta gefið fyrirmæli (grein 52). Persónuvernd er núna óháð stjórnvaldsstofnun, og ríkisstjórnin getur ekki skipað fyrir eða breytt einstökum ákvörðunum hennar. Þessu er ætlað að tryggja sjálfstæða stöðu persónuverndarinnar. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé þá mótsagnakennt, að norska persónuverndin skuli vera óháð innlendum yfirvöldum, en vera gert að taka við fyrirmælum frá Persónuverndarráði ESB (2).
Ríkisstjórnin viðurkennir í frumvarpinu, að valdaframsal eigi sér stað, en heldur því fram, að það "breyti litlu", sé "lite inngripende", og þar af leiðandi megi beita grein 26 í Stjórnarskrá (um hreinan meirihluta í Stórþinginu). "Nei til EU" vill þá vísa til þess, að hin svokallaða kenning um "litlar breytingar" er umdeild í lögfræðinni og að hún styðst ekki við neitt í Stjórnarskrá. Við teljum frumvarpið ekki geta hlotið afgreiðslu samkvæmt grein 26. Það er heldur ekki hægt að afgreiða það samkvæmt gr. 115 (í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta), þar eð Noregur á ekki fullgilda aðild með atkvæðisrétti að Persónuverndarráðinu. Frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að leggja Persónuvernd undir Persónuverndarráð ESB ber þess vegna að hafna (3).
Málflutningur fyrir ESB-dómstólinum ?:
Í svarbréfi til laganefndar Stórþingsins mælir dómsmálaráðherrann því í mót, að framkvæmd persónuverndargerðar ESB hafi í för með sér, að ESB-dómstóllinn fái nýtt hlutverk sem æðsta dómsvald gagnvart norsku eftirlitsstofnuninni einnig. Í bréfinu er fullyrðingin: "Ákvarðanir Persónuverndarinnar er einvörðungu hægt að sannreyna fyrir norskum dómstólum."
Er þetta nú víst ? Það er ESB-dómstóllinn, sem er úrskurðaraðili um ákvarðanir Persónuverndarráðsins. Eins og komið hefur fram, eru ákvarðanir Persónuverndarráðsins bindandi einnig fyrir norsku Persónuverndina. Hvernig mun ESB bregðast við því, að norskur dómstóll breyti ákvörðun, sem raunverulega kemur frá Persónuverndarráði ESB (4)?
Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar aðlaganir, sem gera á fyrir Noreg og hin EFTA-löndin. Aðalatriðið er, að krafan í kafla 58 nr 4 um að fylgja skuli sáttmálum ESB skuli ekki gilda (orðin "í samræmi við sáttmálann"). EES-aðlögunin er ekki samþykkt í ESB. Það, sem stendur í persónuverndargjörðinni núna þýðir, að ESB-dómstóllinn fær lögsögu í EFTA-löndunum (5).
Í sögu EES-samningsins eru mörg dæmi um einhliða forsendur norskra ríkisstjórna, sem ekki hafa staðizt. Við erum þeirrar skoðunar, að tekin sé mikil áhætta með innleiðingu persónuverndargjörðarinnar áður en EES-aðlaganir hafa verið samþykktar í æðstu stofnunum ESB.
(1) Persónuverndarráð ESB gerir bindandi samþykktir fyrir persónuverndarstofnun hvers aðildarlands. Það er gjörsamlega ótækt fyrir EFTA-löndin, brýtur tveggja stoða grunnregluna og er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi. Þessi innleiðing er þar af leiðandi ólögleg.
(2) Að Persónuvernd, sem er sjálfstæð gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, skuli eiga að lúta boðvaldi Persónuverndarráðs ESB, skýtur skökku við og er frágangssök í þessu máli.
(3) "Lítil breyting" er heiti á spægipylsuaðferð við fullveldisframsal. Þessari rökleysu er líka beitt á Íslandi, en hér á hún mun minna erindi en í Noregi. Ástæðan er sú, að EES-samningurinn var á sínum tíma samþykktur af Stórþinginu með auknum meirihluta, yfir 75 % mættra þingmanna greiddi atkvæði með, en á Alþingi var EES-samningurinn samþykktur í bullandi ágreiningi og fremur mjótt á munum. Þjóðin hefur aldrei verið spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa aðild. Þrír eða fjórir lögfræðingar voru fengnir til að meta, hvort samningurinn samræmdist Stjórnarskrá. Þeir komust að því, að hann væri á mörkunum, væri á "gráu svæði". Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni, og það gengur hreint ekki lengur að halda svona áfram og fótumtroða Stjórnarskrána.
(4) Hvernig halda menn, að ESB muni bregðast við, ef íslenzkur dómstóll dæmir framkvæmd, sem ættuð er frá Persónuverndarráði ESB, ólöglega ?
(5) ESB hefur enn ekki samþykkt aðlögun þessar gjörðar að EFTA-ríkjunum. Þess vegna hefur ESB-dómstóllinn fortakslausa lögsögu þar eftir innleiðingu gjörðarinnar í EES-samninginn. Er ekki rétt að bíða þessarar staðfestingar ESB ? Jafnvel Sameiginlega EES-nefndin hefur ekki afgreitt málið. Það má vel reyna á það hvað gerist, ef samþykkt Alþingis er frestað. EES-samstarfið er komið á leiðarenda.
31.5.2018 | 21:21
Stjórnarskráin og EES
Stjórnarskráin er verðmætt leiðbeiningaskjal fyrir Alþingismenn og aðra um það, sem er í lagi og það, sem ber að forðast við lagasetningu. Fullveldisákvæðin eru þar ekki upp á punt, heldur sett í varúðarskyni til að missa ekki tökin á stjórn landsins til útlanda.
Dæmigert fyrir EES-samstarfið er, að fullveldið glatast smátt og smátt með valdflutningi yfir einu málefnasviðinu á fætur öðru til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, og stofnana hennar. Alþingismenn eru hér á mjög hálum ísi. Þeir hafa aldrei leitað samþykkis þjóðarinnar á þessu fyrirkomulagi, sem aðild landsins að EES hefur í för með sér.
ESB hefur gjörbreytzt síðan 1993, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, og kemur ekki lengur fram við EFTA-ríkin á jafnræðisgrundvelli, heldur heimtar, að þau lúti stjórn stofnana sinna á hverju sviðinu á fætur öðru.
Mikil umræða hefur farið fram í Noregi um þetta málefni. Norska Stórþingið stendur þó stjórnlagalega aðeins betur að málum en Alþingi, því að við samþykkt EES-samningsins árið 1992 var farið að kröfu norsku stjórnarskrárinnar um meðferð valdframsalsmála ríkisvaldsins til útlanda og farið eftir grein 115 í Stjórnarskránni, sem áskilur a.m.k. 2/3 mætingu þingmanna við atkvæðagreiðslu, og að 3/4 þeirra samþykki hið minnsta. Hið sama var gert 2016 við innleiðingu fjármálaeftirlits ESB í EES-samninginn.
Lagasérfræðingar við háskólana í Ósló, Björgvin og Tromsö bentu sumir á áður en Stórþingið afgreiddi ACER-málið 22. marz 2018, að innganga Noregs í Orkusamband ESB væri andstæð stjórnarskrá Noregs, en aðrir töldu, að hana yrði Stórþingið að afgreiða samkvæmt grein 115. Yfirfært á íslenzku stjórnarskrána þýðir þetta, að innganga Íslands í Orkusamband ESB er andstæð henni. Stórþingið lét einfaldan meirihluta duga í ACER-málinu, en það mun fá eftirmála, því að ætlun samtakanna "Nei til EU" er að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar þingsins fyrir Hæstarétti.
Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB samanstendur af nokkrum regluverkum, og það er einkum gjörðin um orkustofnunina (ACER-gjörð 713/2009) og rafmarkaðstilskipunin (tilskipun 2009/72), sem vekja spurningar um fullveldisframsal.
ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki. Orkustofnunin hefur einnig framkvæmdavald og eigið ákvörðunarvald. Ákvarðanir hjá ACER eru teknar með auknum meirihluta samkvæmt Þriðja orkubálkinum, en það mun sennilega breytast með væntanlegum Fjórða orkubálki í einfaldan meirihluta.
Gagnvart Íslandi er látið líta svo út, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA taki hina formlegu ákvörðun, sem þó kemur frá ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili. Það var hins vegar tekið fram við þetta samkomulag EFTA og ESB, að ESA-ákvörðunin verði í samræmi við drögin frá ACER; sem sagt "monkey business" eða afritsákvörðun.
Erik Holmöyvik og Halvard Haukeland Fredriksen, báðir prófessorar við lagadeild Háskólans í Björgvin, lýsa stöðunni, sem upp kemur við ágreining á milli yfirvalda ólíkra landa þannig:
"Hér blasir sú lausn við, að ACER taki bindandi ákvörðun fyrir orkustjórnvöld í ESB-löndum og ESA taki síðan nauðsynlega samhljóða ákvörðun, sem bindi norsk stjórnvöld. Að ACER taki raunverulega ákvarðanirnar, endurspeglast af alls konar EES-aðlögunum að málsmeðferðarreglum [ESB], sem raunverulega minnka ESA niður í millilið, sem miðlar sambandi á milli norskra orkuyfirvalda og ACER."
Eivind Smith, prófessor við Svið opinbers réttar, Háskólanum í Ósló, heldur því fram, að ESA-ákvörðun hafi bein áhrif á norskan rétt. Í viðtali við Klassekampen tjáir hann það þannig:
"Hér er einmitt um að ræða ákvörðun, sem virkar beint inn í þjóðarrétt í Noregi og sem grípur inn í valdréttindi yfir framkvæmdavaldinu, sem Stjórnarskráin færir löggjafanum."
Smith skrifar ennfremur: "Hin nýja valdstjórn yfir orkumálum (RME-landsreglari) á að verða óháð pólitískri stjórnun með hætti, sem ekki á við um neina stofnun í stjórnkerfinu."
Stjórnlagalega er hér fitjað upp á nýjung, sem hefði átt að fá rækilega lögfræðilega og stjórnmálalega umfjöllun áður en til mála kæmi að innleiða hana á Íslandi. Framkvæmdavald, sem lætur sér detta í hug að umgangast Stjórnarskrá lýðveldisins með þessum hætti, er á hálum ísi. Að ráðherra og ráðuneytisstarfsmenn skuli enn tala með þeim hætti, að þetta fyrirkomulag breyti nánast engu í raun á Íslandi, af því að við höfum enn enga afltengingu til útlanda, er fáheyrt og hrein ósvífni. Þetta fyrirkomulag færir einmitt ákvörðunarvald um m.a. sæstrenginn "Ice Link" úr höndum íslenzka löggjafans, ríkisstjórnarinnar og íslenzkra dómstóla í hendur ACER/ESB og EFTA-dómstólsins.
ESA-"ákvörðunum" verður í Noregi beint til óháðrar einingar í NVE, sem er orkustofnun Noregs. Þessi óháða eining er Landsreglari fyrir orku, "Reguleringsmyndighet for energi"-RME. Sjálfstæði RME er skilgreint í Orkulögum Noregs, greinum 2-3, þar sem skýrt kemur fram, að stjórnvöld landsins munu ekki geta gefið RME nein fyrirmæli. RME mun fá eigin fjárveitingu á fjárlögum. Holmöyvik og Haukeland Fredriksen telja, að ESA yfirtaki þar með stjórnun þeirra þátta orkumálanna, sem falla undir RME. Hvaða augum skyldu íslenzkir stjórnlagafræðingar líta á þessi mál með hliðsjón af íslenzku Stjórnarskránni ? Í huga leikmanns samræmist þetta fullveldisframsal henni engan veginn. Hvað ætla þingmenn hérlendis að arka langt út í stjórnlagalega ófæru í þessum efnum ? Þótt ráðherra utanríkismála telji sig bundinn af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar um framlagningu þingsályktunartillögu um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þá verða Alþingismenn að ganga óbundnir til atkvæðagreiðslu um hana, og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á ekki að verða hægt að túlka sem vantraustsyfirlýsingu á utanríkisráðherra eða ríkisstjórnina. Það má tryggja með samþykkt sérstakrar traustsyfirlýsingar í kjölfarið. Alþingi verður einfaldlega að fá tækifæri til að nýta sér samningsbundinn synjunarrétt sinn samkvæmt EES-samninginum.
27.5.2018 | 10:39
Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel
Utanríkisráðherra hefur upplýst, að á 24 ára tímabilinu, 1994-2017, hafi rúmlega 9000 gerðir Evrópusambandsins, ESB, eða rúmlega 13 % allra gerða sambandsins, verið tekin upp í EES samninginn eða upp í íslenzka stjórnsýslu samkvæmt honum. Þetta eru 375 gerðir á ári eða rúmlega 1 á dag hvern einasta dag, sem liðið hefur frá gildistöku EES-samningsins hérlendis 1. janúar 1994.
Þetta keyrir úr öllu hófi fram, og það verður að binda endi á þetta vegna gríðarlegs kostnaðar, sem þessi fjöldi opinberra gerða, reglugerða, tilskipana og laga, hefur í för með sér í litlu samfélagi hjá fyrirtækjum og stjórnsýslu. Það er engin hemja, að við skulum þurfa, 350 þúsund hræður, að bera þessar byrðar til að njóta aðgengis að Innri markaði ESB með öllu því margvíslega álagi, sem slíkt hefur í för með sér, t.d. vegna hömlulauss innstreymis fólks, undirboða og lagabrota á vinnumarkaði og víðar í þjóðfélaginu.
Það blasir við, að það er hægt að losa landsmenn mestmegnis undan þessu fargi með uppsögn EES-samningsins og gerð fríverzlunarsamnings við ESB og Bretland, eins og nýlegt fordæmi er til um (Kanada). Sá gríðarlegi óbeini og beini kostnaður, sem af þessu samneyti við stórþjóðir Evrópu leiðir, kemur niður á lífskjörum landsmanna. Skattheimtan hérlendis er nú þegar á meðal hins hæsta, sem þekkist í Evrópu, m.a. vegna gríðarlegrar yfirbyggingar lítils samfélags, og framleiðniaukning fyrirtækjanna hefur um langt árabil verið óeðlilega lág. Reglugerðafarganið virkar hamlandi á þróun fyrirtækjanna í átt til aukinnar verðmætasköpunar. Stórskorið reglugerðafargan og eftirlitsbákn að hætti miklu stærri samfélaga lendir hér kostnaðarlega á fáum hræðum, sem heldur niðri lífskjarabata. Holtaþokuvæl um nauðsyn ESB til að tryggja frið í Evrópu heldur ekki vatni. Það hefur NATO gert án tilstuðlunar ESB, sbr Balkanstríðið. Við eigum að eiga sem frjálsust viðskipti í allar áttir og ekki að binda trúss okkar allt á einn hest. Samstarf EFTA og ESB á vettvangi EES er komið í öngstræti, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti í tvígang á í vetur. Framsóknarflokkurinn hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að endurskoða EES-samstarfið.
Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita meira fé í EES-samstarfið undir því yfirskyni, að taka eigi meiri þátt í undirbúningi mála. Eru embættismenn látnir komast upp með það að ráða för ? Það er borin von, að EFTA-ríkin geti haft marktæk áhrif á undirbúning mála hjá ESB. Framkvæmdastjórnin hlustar ekki lengur (eftir BREXIT) neitt á kvakið í EFTA-löndunum. Það er vegna þess, að kjarni undirbúningsvinnunnar fer fram á bak við luktar dyr í Berlaymont, þar sem aðeins ríkin 28, nú bráðum 27, mega taka þátt. Fjárveitingum úr ríkissjóði væri betur varið hér innanlands eða til undirbúnings uppsagnar EES-samningsins með því að leita hófanna um gerð fríverzlunarsamninga. Þegar allt er tínt til, mundu sparast stórar fjárhæðir við að hætta að eltast við búrókratana í Berlaymont.
Sum stórmál, sem ESB heimtar, að verði innleidd í EES-samninginn, eru þannig vaxin, að vandséð er, að þau komi að nokkru gagni í EFTA-löndunum, en þau valda þar gríðarlegum kostnaðarauka. Nýtt dæmi er persónuverndarlöggjöfin. Fylgir henni einhver áþreifanlegur kostur fyrir almenning á Íslandi, sem verður í askana látinn ? Það virðast fylgja henni ókostir, t.d. fyrir hluta vísindasamfélagsins, og henni fylgir viðbótar launakostnaður, sem gæti hækkað kostnað sumra fyrirtækja umtalsvert, og e.t.v. um 1 % fyrir landið í heild. Safnast, þegar saman kemur.
Ekkert lát er á flóðinu frá Brüssel. Það má hverju barni vera ljóst, að íslenzk stjórnsýsla ræður ekkert við þetta gríðarlega magn. Þótt íslenzka utanríkisþjónustan mundi beita öllum kröftum sínum að ESB/EES, mundi slíkt engu skila í ávinningi eða sparnaði fyrir íslenzka þjóðarbúið. Ísland verður aldrei annað en óvirkur viðtakandi samþykkta frá Berlaymont, enda á forysta ESB fullt í fangi með að samræma afstöðu 28 ríkja, þótt EFTA-ríkin bætist ekki við.
Þegar rýnt er í efnivið gerðanna kemur í ljós, að hann kemur ekki að neinu gagni við að bæta stjórnsýsluna hér, en veldur miklum kostnaði um allt þjóðfélagið, bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjunum. Allur lendir sá kostnaður á heimilum landsins. Það blóðuga við þetta er, að það er algerlega óþarft. Það er til fýsilegur valkostur við þetta.
Fjöldi slíkra mála er í deiglunni hjá ESB eða er til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni. Eitt mál úr síðarnefnda hópinum er gjörð 391/2009 um skipaeftirlit. Hún veitir Framkvæmdastjórninni heimild til að sekta vottuð eftirlitsfyrirtæki, sem hún hefur þegar viðurkennt sem hæf í eftirlitshlutverkið. EFTA-ríkin vilja, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, fái þetta valda í EFTA-ríkjunum, og þar stendur hnífurinn í kúnni. ESB skeytir engu um tveggja stoða kerfið lengur, og þingheimur verður að fara að gefa sér tíma til að ræða viðbrögð við þessari tilhneigingu Framkvæmdastjórnarinnar, sem stafar af stefnu sambandsins um valdflutning frá aðildarríkjunum til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar.
Hin svo nefnda aðferðargjörð nr 734/2013 fjallar um samræmda framkvæmd á reglum um ríkisstuðning með sektarheimild í höndum yfirþjóðlegs valds. ESB hefur hafnað tillögu EFTA-landanna um að fela innlendum aðila í hverju landi sektarheimildina í staðinn fyrir ESA. Innleiðing í EES-samninginn mun leiða til þess, að ESA fær aukin völd til að beita þvingunarúrræðum og sektum gagnvart lögaðilum á Íslandi. Þetta brýtur skýlaust í bága við Stjórnarskrá Íslands. Hversu langt eru stjórnvöld tilbúin að ganga eftir þessari braut lögleysunnar ?
Það er dagljóst, að Ísland tapar fullveldi sínu í hendur Evrópusambandinu með þessu áframhaldi samkvæmt spægipylsuaðferðinni, þ.e.a.s. jafnt og þétt á sér stað fullveldisframsal til Brüssel á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, nánast án umræðu í samfélaginu og án þess, að þjóðin hafi fengið beint að tjá sig í atkvæðagreiðslu um málið. Það er vitað, að meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu Íslands í ESB, en þangað siglum við þó hraðbyri. Þetta eru fullkomlega ólýðræðislegir stjórnarhættir, og stjórnmálamönnum er hollast að grípa í taumana strax áður en það verður um seinan með óræðri lagalegri stöðu landsins og eldfimu stjórnmálaástandi sem afleiðingu. Höggvið á hnútinn með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr EES og gerð fríverzlunarsamninga.
17.5.2018 | 10:59
Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis
Evrópusambandið (ESB) hefur grafið undan EES-samstarfinu (Evrópska efnahagssvæðið) með því að heimta af EFTA-löndunum í EES, að þau taki við fyrirmælum frá stofnunum ESB, eins og EFTA-löndin væru nú þegar gengin í ESB. Það breytir aðeins forminu, en ekki hinu stjórnlagalega inntaki þessa fyrirkomulags, að ESA - Eftirlitsstofnun EFTA - er látin taka við fyrirmælunum og gera um þau samhljóða samþykktir áður en þau eru send útibúi ESB-stofnunarinnar í EFTA-landinu til framkvæmdar. Útibúið, sem kallað hefur verið landsreglarinn, verður óháð stjórnvöldum landsins og mun móta hér stefnuna í raforkuflutningsmálum þjóðarinnar, verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur í EES-samninginn.
ESA hefur ekki þegið neinar heimildir til að fjalla efnislega um og breyta fyrirmælum ESB-stofnunarinnar, ACER, og þess vegna er þessi uppsetning lögformlegt fúsk, ætluð til að friða þá, sem enn telja, að EES eigi að starfa samkvæmt upprunalegu tveggja stoða kerfi jafnrétthárra aðila. Tveggja stoða kerfið er sýndarmennska ein og skær. Blekkingariðjan heldur ekki lengur vatni og stenzt ekki Stjórnarskrá. EES-samstarfið er nú byggt á sandi.
ACER (Orkustofnun ESB) hefur nú þegar tekið bindandi ákvarðanir um kostnaðarskiptingu á milli ESB-landa, sem varða upphæðir, er nema hundruðum milljarða ISK. Árið 2014 ákvarðaði ACER kostnaðarskiptingu fyrir gaslögn á milli Póllands og Eystrasaltslandanna, þar sem Lettlandi, Litháen og Eistlandi var gert að greiða sem nemur tugum milljarða ISK til Póllands.
ACER hefur líka vald til að ákvarða nýtingu á flutningsgetu flutningskerfis yfir landamæri. Hún snýst ekki um samningaviðræður, eins og sumir hérlendis hafa látið í veðri vaka, heldur ræður hið yfirþjóðlega vald, ACER, hvernig flutningsgetan er nýtt. Bent hefur verið á þá miklu áhættu, sem slíkt felur í sér fyrir nýtingu og rekstur íslenzka vatnsorkukerfisins, sem hefur tiltölulega litla miðlunargetu og má lítt við miklum sveiflum í vatnsrennsli.
Ef Ísland og ESB-land lenda í orkudeilum, getur ACER úrskurðað í deilumálinu. ACER gjörðin í Þriðja orkubálkii veitir ákvarðanavald eftir nokkrum leiðum:
- Kafli 7 veitir ACER vald til ákvarðanatöku um s.k. tæknileg viðfangsefni. Þannig mun stofnunin ákveða reglurnar um aflflutning um sæstrengina. Þetta felur í sér mikla áhættu fyrir íslenzka raforkukerfið, sem þarf stjórnunar við til að lágmarka hér hættu á raforkuskorti, og til að girða fyrir of snöggar breytingar á lónsstöðu eða vatnsrennsli.
- Kafli 8 veitir ACER völd til að úrskurða í deilumálum stofnana eða fyrirtækja í þjóðríkjunum, eða, ef stofnunin telur vera of litla flutningsgetu í sæstrengjum, loftlínum eða gasrörum á milli landa, að fyrirskipa þá nauðsynlegar umbætur, sem oftast felast í nýjum mannvirkjum. ACER getur ákveðið, hver skal greiða hvað í samstarfsverkefni tveggja eða fleiri landa.
Ísland mundi ekki eiga aðild að ACER með atkvæðisrétti. Við aðild að Orkusambandinu yrði Ísland hins vegar bundið af samþykktum ACER. Í tilviki EFTA-landanna yrði sett á laggirnar kerfi, þar sem Eftirlitsstofnun EFTA-ESA- að forminu til á að gera samþykktir á vegum ACER, en samþykktin verður skrifuð hjá ACER og ljósrituð hjá ESA. Þannig er komið fyrir "tveggja stoða kerfinu". Þetta er dæmigerð sniðganga á upprunalegu tveggja stoða kerfi EFTA og ESB og dæmir EES-samninginn raunverulega úr leik.
Samþykkt ESA fer síðan til nýrrar valdsstofnunar á sviði orkumála, sem Norðmenn kalla RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi", sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháð innlendu stjórnvaldi. Nýja orkuvaldsstofnunin, sem kalla má útibú ACER á Íslandi, á að taka við fyrirmælunum frá ESA og framkvæma þau upp á punkt og prik; hvorki ríkisstjórnin né Alþingi getur sent henni nein tilmæli, hvað þá fyrirmæli. Með þessu móti komast fyrirmæli ACER um milliliði óbreytt til íslenzkra aðila. Yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland ekki er aðili, yrði einráð á mikilvægu málefnasviði á Íslandi. Á slíkt að verða gjöf Alþingis til þjóðarinnar á 100 ára afmælisári fullveldis hennar ? Er það draumsýn iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ? Það eru endemi að þurfa að varpa slíku fram, en málflutningur að hálfu ráðuneyta þeirra gefur því miður tilefni til þess.
Aðrir þættir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þ.e. gjörð 714/2009 um raforkuflutning á milli landa, felur í sér valdflutning frá íslenzkum stjórnvöldum til ESA gagnvart einkaaðilum um það að sækja upplýsingar og sekta, ef upplýsingaskyldan er sniðgengin. Þetta veitir ESA stöðu stjórnvalds á Íslandi, sem er klárt Stjórnarskrárbrot.
Það er alveg makalaust, að fulltrúi Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni skyldi hafa verið látinn samþykkja þessi ósköp 5. maí 2017 í Brüssel. Það á eftir að kasta ljósi á það, hvernig það fór fram, og hverjir komu þar við sögu. Augljóslega verður Alþingi að synja slíkum mistökum samþykkis. Hér verður einfaldlega að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
13.5.2018 | 21:34
Skýr vísbending um þjóðarvilja
Maskína gerði 24. apríl - 7. maí 2018 könnun á viðhorfi landsmanna til tiltekins atriðis við stjórnun orkumála Íslendinga. Spurningin var eftirfarandi:
"Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því, að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana ?"
Gild svör voru 685 (81 %) af 848 í s.k. Þjóðgátt Maskínu.
Niðurstaðan varð eftirfarandi:
- Mjög andvíg 57,4 %
- Fremur andvíg 23,0 %
- Í meðallagi 11,3 %
- Fremur fylgjandi 4,5 %
- Mjög fylgjandi 3,8 %
- Veit ekki 16,4 %
Margt vekur athygli við þessa niðurstöðu:
a) Andvígir nema 80,4 %
b) Fylgjandi nema aðeins 8,3 %, sem er miklu lægra hlutfall en í svipaðri könnun í Noregi í vetur, sbr að neðan.
c) Þeir, sem myndað hafa sér skoðun á málinu, eru merkilega margir og hlutfallslega umtalsvert fleiri hérlendis en í Noregi í nóvember 2017 og apríl 2018.
d) Andstaðan er mjög mikil um allt land við að færa aukið vald yfir orkumálum landsmanna til útlanda. Enginn reyndist fylgjandi því á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem ásamt Norðurlandi vestra eru í kjördæmi iðnaðarráðherra. Hróðug birti iðnaðarráðherra minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA, sem átti að sýna fram á, að nánast engu mundi breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu, þótt Ísland gengi í Orkusamband ESB. Þetta hefur verið hrakið rækilega, og líklegt er, að ráðherrann njóti nánast einskis fylgis í kjördæmi sínu við þetta sjónarmið, sem hún gerði að sínu. Afstaða hennar og annarra þingmanna sama sinnis var pólitískt glapræði. Það er þó hægt að rétta kúrsinn af enn þá, því að enn hefur Alþingi ekki afgreitt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.
Ýmsum getur þótt athyglisvert að sjá skiptingu fólks, sem lýsti sig fylgjandi færslu aukins valds yfir orkumálefnum landsins til útlanda, eftir stjórnmálaflokkum. Það mætti verða þingmönnum leiðarvísir, þegar þeir munu taka endanlega afstöðu til málsins. Hér að neðan kemur fram hlutfallslegt fylgi við 8 stjórnmálaflokka, sem svarendur í þessari könnun nefndu, og hlutfall þeirra, sem fylgjandi voru umspurðri valdatilfærslu orkumálanna til "evrópskra stofnana":
- Stjórnmálaflokkur Fylgi Fylgjandi
- Sjálfstæðisflokkur 29,5 % 2,8 %
- Samfylking 17,2 % 18,6 %
- Vinstri hr.gr.fr. 12,1 % 0,0 %
- Píratahreyfing 11,7 % 18,7 %
- Viðreisn 9,7 % 18,4 %
- Miðflokkur 8,7 % 1,4 %
- Framsóknarflokkur 8,1 % 0,0 %
- Flokkur fólksins 3,0 % 6,3 %
Niðurstaðan varð óræk. Í stjórnarflokkunum er lítið sem ekkert fylgi við að færa stjórnun raforkumála að einhverju leyti til útlanda. Fylgi við það er nánast einvörðungu bundið við Píratahreyfinguna, Samfylkinguna og Viðreisn, en þar er samt undir fimmtungi fylgisins fylgjandi slíku.
Í heildina eru 8,3 % fremur eða mjög fylgjandi slíkum valdatilflutningi, 11,3 % eru beggja blands og 80,4 % eru fremur eða mjög andvíg slíkum valdatilflutningi, en 16,4 % vita ekki.
Í nóvember 2017 var gerð svipuð skoðanakönnun í Noregi, en þar var spurningin þessi:
"Eftirlitsstofnun ESA í Brussel á að taka bindandi ákvarðanir á vegum Orkustofnunar ESB um norskt rafmagn og orku. Styður þú aðild Noregs að þessu orkusambandi ?"
Niðurstaðan varð, að 18 % styddu, 38 % væru óákveðnir og 44 % styddu ekki slíkan gerning. Samanburður sýnir, að Íslendingar eru miklu afdráttarlausari í afstöðu sinni gegn slíkum gerningi, og þeir virðast líka í mun meiri mæli en Norðmenn hafa nú þegar tekið afstöðu til málsins, þótt umræður á Alþingi hafi ekki hafizt. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þó a.m.k. tvisvar tjáð sig í ræðustóli Alþingis afdráttarlaust gegn flutingi valds yfir innlendum málefnum til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki á fulla aðild. Lítils háttar umræða hefur orðið um Orkustofnun ESB á flestum fjölmiðlunum og á fáeinum vefsetrum. Íslenzkur almenningur er greinilega vel með á nótunum.
Það kann jafnframt að vera að renna upp fyrir æ fleirum hérlendis um þessar mundir, að þróun EES-samstarfsins hefur nú tekið allt aðra og óheillavænlegri stefnu en nokkur átti von á í upphafi. Segja má, að svartsýnustu menn hafi ekki órað fyrir því í janúar 1993, þegar Alþingi samþykkti þennan samning í miklum ágreiningi, að EFTA-ríkin yrðu aldarfjórðungi seinna meðhöndluð sem ESB-ríki af Framkvæmdastjórn ESB. Þegar núverandi eðli þessa samstarfs, og margvíslegur kostnaður því samfara, hefur verið leitt betur í ljós og þetta allt saman borið saman við viðskiptakjör, sem bjóðast með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland o.fl., þá verður tímabært að halda hér alvöru skoðanakönnun á formi þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðuna til áframhaldandi aðildar landsins að EES-samninginum.