Færsluflokkur: Evrópumál
19.8.2018 | 16:26
Er Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB meinlaus fyrir Ísland ?
Þeir, sem fullyrða, að "þriðji orkupakki ESB" sé meinlaus, eru á hálum ísi. Leitt er að sjá Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, falla í þessa gryfju á vefsetri sínu og á FB 15.08.2018. Hann vitnar máli sínu til stuðnings í grein í Úlfljóti 14.07.2018 eftir Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Að mati höfundar þessa pistils er ekkert vit í að reisa afstöðu sína til aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á téðri grein Rögnu, enda felur téð Úlfljótsgrein ekki í sér neina vitræna greiningu á því, hvað tæknilega og lagalega felst í aðild að téðu Orkusambandi (Energy Union).
Skal nú rýna tilvitnun Björns í Rögnu:
"Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER [eftirlitsstofnunar ESB með orkumarkaði (sic)] verða í höndum ESA [Eftirlitsstofnunar EFTA]. Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða, sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda, er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa. Íslenzkt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng. Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins."
Þetta er eins yfirborðsleg umfjöllun um lagaheimildir og hlutverk ESA og ACER og hugsazt getur og leiðir auðvitað til kolrangrar ályktunar lesanda, sem ekki hefur séð í gegnum áróður ESB og íslenzkra ráðuneyta (utanríkis- og iðnaðar) fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.
Þar er fyrst til að taka, að ESA hefur engar heimildir til sjálfstæðrar meðferðar erinda frá ESB/ACER til Landsreglarans í hverju EFTA-landi, heldur er ESA sett upp sem óvirkur milliliður til þess eins að fullnægja að forminu til tveggja stoða fyrirkomulagi EES-samningsins. Þar sem ESA hefur ekkert annað hlutverk en að ljósrita reglugerðir, tilmæli og úrskurði frá ESB/ACER og senda til Landsreglarans svo og að ljósrita skýrslur m.a. um virkni raforkumarkaðar í landinu og fylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER frá Landsreglaranum og senda þær til ESB/ACER, þá verður að segja hverja sögu, eins og hún er: ESA breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut í þessu ferli. Það er þess vegna blekking fólgin í því að skrifa í Úlfljót, að heimildir verði í höndum ESA, sem hefur engar heimildir samkvæmt þeim lagabálki, sem hér er til umfjöllunar.
Þetta þýðir tvennt. Í fyrsta lagi brot á EES-samninginum, sem kveður á um tveggja stoða lausn. Það er ESB, sem er brotlegt, því að Framkvæmdastjórnin féllst ekki á neins konar heimildir til ESA, nema ljósritunarheimildir á ESA-bréfsefni.
Í öðru lagi þýðir þetta Stjórnarskrárbrot, því að valdamikið embætti er stofnað í landinu og verður á íslenzkum fjárlögum, en lýtur hvorki íslenzku framkvæmdavaldi né dómsvaldi, heldur er stjórnað af stofnun ESB, þar sem Ísland á engan fullgildan fulltrúa. Þetta fyrirkomulag er lögfræðilegt örverpi og ómerkileg og óviðunandi meðferð á Stjórnarskrá. Það er reyndar óskiljanlegt, að nokkur hérlendis skuli mæla þessu sviksamlega fyrirkomulagi bót.
Þegar Ragna fimbulfambar um afmarkaðar heimildir vegna ágreiningsmála út af sæstreng, þá virðist hún vera algerlega úti á þekju. Hún sleppir aðalatriði málsins, sem er Landsreglarinn. Hans staða og hlutverk er algerlega einstætt og fráleitt í íslenzku samfélagi. Hann mun starfa utan seilingar íslenzks framkvæmdavalds og dómsvalds og mun starfa samkvæmt Evrópugerðinni Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB. Hlutverkið verður að koma hér á fót uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti ESB/ACER. Þetta er allsendis óháð lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda og furðulegt að geipa um téðan sæstreng án þess að minnast á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Alþingi mun skuldbinda Íslendinga til að framfylgja að sínu leyti, ef þingmenn samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Gefin hefur verið út skrá um forgangsverkefni ESB/ACER til að ná markmiðum Kerfisþróunaráætlunar. Hún inniheldur m.a. aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027. Ef áhugasamur sæstrengsfjárfestir gefur sig fram og sækir um leyfi fyrir sæstreng, sem fullnægir skilyrðum Kerfisþróunaráætlunar, þá verður ómögulegt fyrir íslenzk stjórnvöld að hindra lagningu hans, tengingu og rekstur, því að ágreiningsmál við Orkustofnun, sem verður formlegur leyfisveitandi, mun á endanum lenda fyrir EFTA-dómstólinum. Ágreiningur á milli Landsreglara á Íslandi og á Bretlandi um rekstur strengsins verður leystur á vettvangi ACER eða fyrir gerðardómi, ef Bretar verða þá farnir úr Orkusambandi ESB.
"Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði sofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits."
Þessi texti Rögnu orkar tvímælis, því að Orkustofnun hefur ekki raforkueftirlit með höndum, heldur er það Mannvirkjastofnun, sem sinnir því hlutverki. Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið deila hins vegar með sér eftirliti með raforkumarkaðinum og með Landsneti. Sú starfsemi mun flytjast til Landsreglarans, sem gefa mun út reglugerðir fyrir Landsnet og yfirfara netmála (tæknilega tengiskilmála) fyrir flutningskerfi raforku og yfirfara gjaldskrár flutningsfyrirtækisins fyrir þjónustu við almenna raforkumarkaðinn og fyrir stóriðjumarkaðinn.
Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein. Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum. Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.
17.8.2018 | 17:05
Henta ESB-reglur íslenzka raforkumarkaðinum ?
Á opinberum vettvangi, í aðsendum greinum til Morgunblaðsins og víðar, hefur skilmerkilega verið gerð grein fyrir því, að íslenzkum almenningi og fyrirtækjum í landinu, sem sagt raforkunotendum hérlendis, hentar illa fyrirkomulag Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaði, en þar er um að ræða eins konar uppboðsmarkað, þar sem verðið ræðst af framboði og eftirspurn.
Meginástæða þess, að markaðskerfi ESB hentar ekki hér, er, að rekstrarkostnaður virkjana hér er óháður kostnaði frumorkunnar, vatns og jarðgufu, en kostnaður við þessa þætti getur hins vegar komið fram í stofnkostnaði, t.d. við öflun vatns- eða gufuréttinda. Í ESB endurspeglast eldsneytiskostnaður hins vegar í raforkuverði hvers tíma, og samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækja er aðallega fólgin í að ná lágum fastakostnaði, sem fæst t.d. með því að reisa ný og hagkvæmari raforkuver en þau, sem fyrir eru í rekstri.
Á Íslandi og í Noregi er þessu öfugt farið. Nýjar virkjanir eru dýrari í stofnkostnaði per MW talið en hinar eldri. Hver er þá hvatinn til að reisa ný raforkuver við slíkar aðstæður ? Hugsanlega að auka markaðshlutdeild sína, en það er erfitt, ef selja þarf orku undir kostnaðarverði. Lausn á þessu gæti verið sú að leggja auðlindargjald á orku frá eldri virkjunum, t.d. 20 ára og eldri.
Nú vill svo til, að við höfum lifandi dæmi um vandamál vatnsorkukerfis, sem starfar á raforkumarkaði eftir forskrift ESB, fyrir augunum. Það er í Noregi. Nú er þurrkaár þar, og miðlunarlón voru aðeins um 60 % full þann 12. ágúst 2018, en eru þá að jafnaði 75 % full. Norðmenn verðleggja vatn miðlunarlónanna eftir magni og árstíma. Þegar allur miðlunartíminn er framundan, en lónin aðeins 60 % full, verður vatnið og þar með rafmagnið dýrt. Þess vegna hafa virkjunarfyrirtækin hækkað raforkuverðið, og verð til almennings hefur hækkað úr um 11,3 cEUR/kWh (evrusent á kWh) í yfir 20 cEUR/kWh eða meira en 77 % og fer enn hækkandi. Þetta getur orðið almenningi mjög þungbært í vetur, því að hann kyndir hús sín með rafmagni, en svona virkar frjáls raforkumarkaður í hnotskurn.
Virkjanafyrirtækin halda þó áfram að flytja raforku út, því að raforkuverð í Evrópu hefur fylgt olíuverði að miklu leyti og er hátt núna. Í ár hafa virkjanafyrirtækin norsku flutt út nettó 3,7 TWh (terawattstundir), tæplega 3 % af raforkuvinnslugetu Noregs, um sæstrengi til útlanda, og sá gjörningur veldur enn lægri stöðu miðlunarlóna og þar með hærra verði til almennings en ella.
Ástæðan fyrir því, að raforkuútflutningur hefur ekki hækkað raforkuverðið í Noregi á undanförnum misserum er, að þess hefur verið gætt að halda hárri miðlunarstöðu, sem svarar til 10 TWh/ár af raforku. Hérlendis er miðlunargetan miklu minni en í Noregi, og þess vegna mun fyrsti sæstrengurinn þegar hafa neikvæð áhrif á stöðu miðlunarlóna og hækka verðið til landsmanna, ef þá verður búið að taka upp markaðskerfi ESB.
Það er sjálfsagt hérlendis að verðleggja miðlunarforðann til að stjórna hæð allra lónanna og til að ákvarða verð á ótryggðri raforku, en það á ekki að láta lága miðlunarstöðu varpast yfir í verð á forgangsorku. Almenningur á ekki að bera allar byrðarnar, eins og markaðskerfi ESB hefur í för með sér.
Viljum við markaðskerfi raforku á Íslandi ? Ef Alþingi hleypir Trójuhesti ESB/ACER, Landsreglaranum, inn fyrir "borgarmúrana" til að stjórna hér orkumarkaðsmálum, þá verðum við ekki spurð, ekki virt viðlits, því að Alþingi hefur þá leitt Evrópurétt inn á gafl á orkumálasviði, og það verður meginhlutverk Landsreglarans að innleiða hér markaðskerfi að forskrift ESB, og það mun hann geta gert án þess að spyrja kóng eða prest hér innanlands. Þeir eru þess vegna undarlega borubrattir, sem fullyrða út í loftið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé meinlaus og skerði ekki sjálfstæði landsmanna í orkumálum.
Munu Landsreglarinn og ACER telja það samrýmast Evrópugjörðum um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði, að einn aðilinn þar, Landsvirkjun, sé með yfir 80 % markaðshlutdeild ? Það verður að telja harla ólíklegt, að 100 % ríkisfyrirtæki með algerlega ríkjandi stöðu á markaði fái að starfa þar í skjóli ESB-samkeppnislaga, sem þýðir, að Landsreglaranum ber að krefjast breytinga á eignarhaldi Landsvirkjunar og jafnvel uppskiptingar. Um þetta munu rísa deilur í landinu, sem ekki munu enda fyrir íslenzkum dómstólum, heldur hjá EFTA-dómstólinum, og hann dæmir samkvæmt s.k. Evrópurétti, sem Ísland hefur þá undirgengizt með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Forhertustu fylgjendur EES geta ekki haldið því fram, að forræði Íslendinga yfir samkeppnismálum á raforkumarkaði standi óskert eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Landsreglarinn mun hafa sitt fram í krafti innleiðingar Alþingis, og við höfum ekki hugmynd um í hverra höndum gullmyllan Landsvirkjun lendir. Þetta mun valda gríðarlegri óánægju hérlendis og ekki síður verðsveiflurnar á rafmagni, sem af markaðsvæðingunni leiðir. Hér skal vitna í Elías Bjarna Elíasson, verkfræðing, á Fésbók 15.08.2018 um þessi mál:
"Lögin segja, að hér skuli koma á fót frjálsum markaði, og fagleg athugun leiðir í ljós, að sá markaður ræður ekki við að útvega landsmönnum orku, sem er bæði örugg og ódýr."
Hér er komið svar við spurningunni í fyrirsögninni. ESB-reglur henta íslenzka raforkumarkaðinum engan veginn. Það er svo bara túður út í loftið, að þær muni engin áhrif hafa hér fyrr en sæstrengstenging er komin á, og að þá tengingu höfum við í okkar höndum. Það er ótrúlegt fleipur, sem veltur út úr blindum EES- og ESB-sinnum.
Ekki bætir úr skák, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB fylgir enginn kostur, nema í augum þeirra, sem telja aflsæstrengslögn til útlanda til ávinnings. Þeir, sem kanna það mál, sjá þó fljótlega, að með Ísland inni á sameiginlegum raforkumarkaði ESB mundi almenningur og allur atvinnurekstur í landinu verða fyrir áfalli, því að eitt helzta samkeppnisforskot Íslands væri horfið. Góðum lífskjörum á Íslandi hefði verið fórnað á altari ESB.
Stuðningsmenn innleiðingar téðs orkubálks halda því blákalt fram, að Íslendingar muni hafa í hendi sér leyfisveitingarvaldið vegna "Icelinks". Þeir hinir sömu hafa ekki unnið heimavinnuna sína og hafa sennilega aldrei gert. Það verður Landsreglarinn, sem semur öll viðskiptaleg og tæknileg skilyrði, sem umsækjandi um lagnarleyfi og rekstrarleyfi verður að uppfylla, og hann hefur auðvitað Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Kerfisáætlun Landsnets, sem hann stjórnar í raun og veru, til hliðsjónar. Ef umsækjandinn uppfyllir öll umsóknarskilyrðin, á hvaða forsendum ætlar Orkustofnun sem leyfisveitandi þá að hafna umsókninni ?
Setjum svo, að OS hafni af einhverjum ástæðum. Þá mun umsækjandinn örugglega kæra höfnunina, og ágreiningurinn endar hjá EFTA-dómstólinum. Hann dæmir málið einfaldlega eftir Evrópurétti, svo að ekki þarf að spyrja að leikslokum. Það verður óbjörgulegt upplitið á þeim, sem lapið hafa vitleysuna upp hver eftir öðrum, að Íslendingar muni hafa leyfisveitingarvaldið í höndum sér. Síðan eru dæmi um, að menn kóróni vitleysuna og haldi því fram opinberlega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé "meinlaus" !
14.8.2018 | 13:44
ACER, halelúja
Á vegum Lagadeildar Háskólans í Reykjavík, HR, var að morgni 13. ágúst 2018 haldin þriggja klst ráðstefna með yfirskriftinni,
"Orkumál og EES-samningurinn-Hver eru áhrif þriðja orkupakkans ?"
Nærtækast er að skilja fyrirsögnina þannig, að ráðstefnan hafi átt að svara því, hver yrðu áhrif "þriðja orkupakkans" á orkumál Íslands og EES-samninginn. Þrátt fyrir fjölbreytt úrval fyrirlesara, sem voru 5 talsins, erlendir og innlendir, yfirgáfu áhugasamir gestir Lagadeildar fyrirlestrasalinn upp úr hádeginu án þess að fá skýr svör við þessu. Málið var ekki krufið til mergjar. Það er synd, því að salurinn var fullsetinn af ungum og gömlum og með örlítið gagnrýnni fyrirlesurum bæði á EES-samninginn og á Orkusamband ESB, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB snýst um, hefði verið varpað skýrara ljósi á áhrif innleiðingar þessa lagabálks í íslenzka lagasafnið á fullveldi Íslendinga yfir orkumálunum og EES-samninginn m.t.t. grunnreglunnar um tveggja stoða nálgun EFTA- og ESB-ríkjanna á ný viðfangsefni, sem nánast undantekningarlaust eiga uppruna sinn innan vébanda ESB.
Ef einhver gestanna hefur velt spurningunni í heiti ráðstefnunnar fyrir sér, þegar hann gekk út úr salnum í lokin, er ekki ólíklegt, að niðurstaða hans/hennar hafi orðið sú, að áhrifin verði engin, sem máli skipti. Þarna var hellt yfir gestina miklu magni upplýsinga, en þess var rækilega gætt að segja ekki alla söguna, og þess vegna varð niðurstaðan hættulega villandi.
Tökum aðeins tvö, dæmi: tveggja stoða kerfi EES og fullveldi lýðveldisins.
Stofnað verður embætti Landsreglara, sem yfirtekur raforkumarkaðseftirlitshlutverk Orkustofnunar, OS, og ráðuneytis, gefur út reglugerðir um Landsnet og yfirfer og samþykkir netmála og gjaldskrá Landsnets, ef Alþingi samþykkir þennan viðamikla lagabálk, sem vissulega er ekki saminn til einskis. Þetta embætti verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum, þ.e. ráðuneytum, Alþingi og dómstólum. Ágreiningsefnum varðandi störf Landsreglara verður skotið til EFTA-dómstólsins.
Hver hefur eftirlit með og stjórnar Landsreglaranum ? Í ESB-löndunum er það Orkustofnun ESB, ACER, sem er samráðsvettvangur allra Landsreglaranna og jafnframt stofnun með forstjóra, sem er framlengdur armur "orkukommissara" framkvæmdastjórnar ESB. Hlutverk ACER er að sjá til þess, að "Evrópugjörðum" um orkumál sé framfylgt í öllum ESB-löndunum og að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt, en á meðal verkefna þar er "Icelink", aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027. Ef ACER verður vör við misfellur í framkvæmd stefnunnar, eru þær tilkynntar til Framkvæmdastjórnarinnar, sem þá hamrar á aðildarríkinu, og hægt er að leggja ESB-sektir á einstök fyrirtæki fyrir brot á reglum. ACER getur þar af leiðandi orðið býsna íþyngjandi fyrir íbúana.
Það væri skýlaust brot á tveggja stoða reglunni og fullveldi EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, að láta sama fyrirkomulag gilda um þau. Þá var gripið til þess málamyndagjörnings að fela ESA-Eftirlitsstofnun EFTA hlutverk ACER EFTA-megin, þ.e. að vera Orkustofnun EFTA. Þetta er blekkingarleikur, umbúðir án innihalds, því að Landsreglarar EFTA-ríkjanna eiga ekki að setjast niður til skrafs og ráðagerða um tillögur og úrskurði ACER, og innan ESA verður engin orkuskrifstofa, sem fær það hlutverk að laga Evrópugjörðir frá ESB/ACER að hagsmunum EFTA-ríkjanna. ESB hefur enda alfarið hafnað slíkum valdheimildum til handa ESA, sem þýðir, að Evrópugjörðir á sviði orkumála og úrskurðir ACER, þar sem EFTA-ríkin munu hafa áheyrnarrétt án atkvæðisréttar, ef úr verður, munu verða endurskrifaðar orðrétt eða hreinlega ljósritaðar á bréfhaus ESA.
ESA sem milliliður á milli ACER og Landsreglarans hefur þar af leiðandi ekkert stjórnskipulegt gildi, og stjórnlagalega stendur eftir, að Orkustofnun ESB fær íhlutunarrétt um mikilvæga almannahagsmuni á Íslandi um embætti Landsreglarans. Þetta er skýlaust stjórnlagabrot og brot á upphaflegum EES-samningi. Alþingi verður að beita synjunarvaldi sínu í þessu máli, þegar það fær málið til afgreiðslu, enda er það örugglega í samræmi við þjóðarviljann samkvæmt skoðanakönnun, sem framkvæmd var sumarið 2018. Þá komast tveir stjórnarflokkanna ekki upp með að hundsa nýlegar, skýrar Landsfundar- og Flokksþingsályktanir í þessu mikilvæga máli án flokkslegs uppnáms og hrakfara í næstu kosningum, enda býður Miðflokkurinn nýja stuðningsmenn velkomna á forsendum varðveizlu fullveldis í orkumálum og á öðrum sviðum.
Auk þeirra málefna, sem hér hefur verið fjallað um, skipta fjárhagslegu hagsmunirnir í þessu máli mestu. Þeim voru ekki gerð verðug skil á umræddri ráðstefnu. Fyrst er að geta hræðsluáróðurs ACER-fylgjenda á Íslandi gegn því að fella þingsályktunartillögu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi. Jafnvel ráðherra mun hafa gert svo lítið úr sér í kaffihléi á téðri ráðstefnu að fullyrða, að Norðmenn yrðu fyrir stórtjóni, ef þeir kæmust ekki inn í Orkusamband ESB (vegna höfnunar Íslands). Tveir þingmenn á norska Stórþinginu komu hingað í vor gagngert til að segja við íslenzka þingmenn, að þeir skyldu ekki hugsa um norska hagsmuni, heldur ákveða sig á grundvelli íslenzkrar Stjórnarskrár og íslenzkra hagsmuna.
Norðmenn munu auðvitað áfram eiga viðskipti við ESB með gas, olíu og rafmagn, eins og hingað til, enda má benda á, að stærsti orkubirgir ESB, Rússar, eru ekki á leiðinni inn í ESB, og Bretar eru á leiðinni þaðan út. Það yrði norsku þjóðinni vafalaust þóknanlegt, að Íslendingar höfnuðu ESB/ACER yfirráðum hér, enda var mikill meirihluti norsku þjóðarinnar á öndverðum meiði við meirihluta Stórþingsins í vetur um afstöðuna til ACER. Það er algerlega óboðlegt, að ráðherra endurómi hræðsluáróður ráðuneytisfólks, sem andlega er gengið í björg og ESB á hönd hér, eins og í Noregi.
Verður íslenzka raforkukerfinu betur stjórnað undir reglusetningu og eftirliti Landsreglarans en undir núverandi stjórnskipan ? Á ráðstefnunni voru engin rök færð fyrir því, hvers vegna svo ætti að vera. Þó hafa heyrzt hjáróma raddir í þá veru hérlendis, en það er eiginlega af og frá. Landsreglarinn mun koma hér á fót markaðskerfi um raforkuviðskipti í anda Evrópugjörða, því að það er hlutverk hans. Sýnt hefur verið fram á, að slíkt kerfi leysir engin vandamál hér, en getur valdið stórvandræðum og jafnvel raforkuskorti. Lausn á öllum þeim vanda verður síðan boðuð á formi aflsæstrengs til útlanda, sem fella myndi hið nýja markaðskerfi á Íslandi inn í orkumarkað ESB (EES). Það þýðir, að iðnrekandi í Mið-Evrópu getur boðið í raforku á íslenzka markaðnum. Mun þá ýmsum kotbóndanum hérlendis þykja tekið að þrengjast um fyrir dyrum sínum. Hver einasti raforkunotandi á Íslandi mun til lengdar ganga með skertan hlut frá borði á þessum markaði. Það þýðir óhjákvæmilega lakari lífskjör á Íslandi en ella og minni samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
9.8.2018 | 13:33
Evrópa er í losti - hvað svo ?
Framkoma Donalds Trump gagnvart leiðtogum hefðbundinna bandamanna Bandaríkjamanna í Evrópu er einsdæmi á okkar tímum og gerist e.t.v. einu sinni á 200 ára fresti, nema einhver skaðvænleg þróun eigi sér nú stað í framkomu ríkja í millum. Hvað sem í skerst á næstunni, jafnvel þótt bandaríska þingið taki fram fyrir hendur forsetanum, hefur þegar orðið trúnaðarbrestur yfir Atlantshafið, og kalt stríð virðist hafið yfir Kyrrahafið. Á þetta horfa Rússar og núa saman höndum af ánægju. Fundur Trumps og Putins í Helsinki í júlí 2018 olli miklu fjaðrafoki í Washington DC, sem vonlegt er, og sennilega angist í Berlín, Brüssel og París. Þjóðverjar hafa nú gert sér grein fyrir, að ekki dugir lengur að hafa varnir landsins í algerum ólestri, eins og reyndin hefur verið á þessari öld.
Ef einhvers konar söguleg þróun endurspeglast í gjörðum Bandaríkjamanna undanfarið, þá er hún helzt sú á viðskiptasviðinu, að dagar tollabandalaga eru taldir, en tími tvíhliða viðskiptasamninga er runninn upp. Hvaða skjól hafa Þjóðverjar af ESB, ef vera þeirra þar veldur álagningu hárra tolla á bílaútflutning þeirra til Bandaríkjanna, BNA, eins og Bandaríkjaforseti hefur hótað, en nú dregið í land með um sinn ?
Atburðirnir ýta eindregið undir það, að Ísland segi upp EES-samninginum, en bindi ekki trúss sitt við tæknilegar viðskiptahömlur hins pólitíska tollabandalags ESB, sem er auðvitað líka stjórnmálabandalag með löngun til að verða sambandsríki á heimsmælikvarða, sem forseti Bandaríkjanna hefur lýst yfir, að sé versti andstæðingur Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu. Þá er nú langt til jafnað, þegar viðskipti Bandaríkjanna og Kína eru höfð í huga.
Hvaða áhrif hefur þetta ástand á ESB ? Það aukast líkur á, að enn meir kvarnist úr bandalaginu, þegar einhver mynd kemst loksins á viðskilnað Breta, en nú er allt upp í loft í þeim viðræðum, enda ríkisstjórn Bretlands stórlöskuð. Verður því samt ekki trúað, að Bretar fari með hálfvelgju út úr ESB, verði í tollabandalagi áfram, jafnvel á Innri markaðinum með fjórfrelsin í einhverri mynd virk og Evrópudómstólinn sem úrskurðaraðila í þrætum þeirra við ESB. Þá er líklegt, að lífi verði blásið í UKIP, sem nái svo miklu fylgi af hægri væng, að Verkamannaflokkurinn nái völdum með erkisósíalistann og þjóðnýtingarsinnann Corbyn sem húsbónda í nr 10 (Downing Street). Það yrði afturhvarf til fortíðar fyrir Breta, þegar þeim hins vegar ríður á leiðtoga með framtíðarsýn fyrir öflugt Bretland utan ESB, sem stendur frjálst að gerð viðskiptasamninga við hvern sem er, og verður í fylkingarbrjósti frjálsra alþjóða viðskipta innan vébanda WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, sem Bandaríkjamenn leika svo grátt um þessar mundir. Þeir neita m.a. að samþykkja dómara í 7 manna úrskurðarteymi, en allar aðildarþjóðirnar, rúmlega 130, verða að samþykkja dómaraskipunina. Þar með lama Bandaríkjamenn þessa mikilvægu alþjóðastofnun. Vonir standa til, að þeir sjái sig um hönd.
Það er ekki síður áhugavert, hvernig Þjóðverjar taka nú á málaum. Munu þeir stökkva inn í tómarúmið, sem Bandaríkjamenn skilja eftir sig á alþjóðavettvangi ? Þar er mikil gerjun í gangi. AfD (Alternative für Deutschland) togar miðju stjórnmálanna til hægri þar í landi. Þetta sést mjög greinilega í Bæjaralandi núna í aðdraganda þingkosninga í október 2018, þar sem AfD getur kostað valdaflokkinn CSU ríkjandi stöðu í fylkinu. Ef stjórnmál Þýzkalands hnikast til hægri, jafngildir það sjálfstæðari stefnumörkun innanlands og í utanríkismálum. Þetta gæti aukið enn á innbyrðis vanda ESB, en þar rekast Austur-Evrópuríkin mjög illa. Þau hafa t.d. neitað að taka við nokkrum flóttamanni, en Þjóðverjar sitja uppi með 1-2 milljónir slíkra og fyrirséð, að fólkið á erfitt með að fá vinnu, aðlagast þar með seint og illa og verður að skjólstæðingum almannatrygginga fyrir vikið. Þetta er undirrót óánægjunnar.
Frá því að Gústaf 2. Adolf, Svíakonungur, tók þátt í 30 ára stríðinu með mótmælendum, sem var borgarastyrjöld í Þýzkalandi 1618-1648, og kannski lengur, hafa sterk og fjölþætt tengsl verið á milli Svía og Þjóðverja. Þetta kom berlega í ljós í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar, fylgist vel með stjórnmálum Þýzkalands og skrifaði grein um þau, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2018 undir fyrirsögninni:
"Orrustan um sál Þýzkalands".
Orrusta um sama málefni hefur áður verið háð. Niðurstaðan ræður jafnan örlögum Evrópu. Fyrirsögnin hefur þess vegna djúpa og áhrifamikla skírskotun. Carl Bildt skrifaði m.a.:
"Á yfirborðinu er umræðan, sem nú heltekur Þýzkaland, um, hvort það eigi að senda hælisleitendur, sem þegar hafa verið skrásettir í öðrum ESB-ríkjum, til baka, eins og innanríkisráðherrann, Horst Seehofer, leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi (CSU), hefur talað fyrir. En þegar kafað er dýpra, er spurningin fyrir Þýzkaland, hvort landið ætti að fara sínar eigin leiðir eða halda áfram að leita sameiginlegra lausna."
Varðandi hælisleitendur er þegar þrautreynt, að það finnast engar sameiginlegar lausnir innan ESB eða innan Evrópu. Mörg ríki ESB hafa harðneitað að taka við flóttamönnum, þannig að Þýzkaland situr enn uppi með yfir eina milljón flóttamanna frá 2015, sem ætlunin var að dreifa á ESB-ríkin. Nú er ósköpunum eitthvað að linna í Sýrlandi, þannig að ætla mætti, að margir Sýrlendinganna gætu snúið heim til að taka þátt í uppbyggingunni. Það er einboðið að fylgja reglunum og senda þá, sem eru skráðir inn í Evrópu annars staðar, þangað.
Evrópa hvorki getur né vill taka við efnahagsflóttamönnum, sem margir hverjir eru hvorki læsir né skrifandi á latneskt letur, en uppfullir af fornaldargrillum Múhameðs úr Kóraninum og hafa engan vilja til að laga sig að vestrænum hugsunarhætti og lifnaðarháttum. Velferðarkerfi Vesturlanda fara á hliðina, ef slíkum byrðum verður hlaðið á þau. Þess vegna má víða greina sterk varnarviðbrögð á meðal almennings, og Svíþjóðardemókratarnir gætu t.d. fengið meira en fjórðungsfylgi í þingkosningum í Svíþjóð í september 2018 og þar með orðið stærsti flokkurinn í Riksdagen.
Síðar í grein sinni skrifar Carl Bildt:
"Árás þjóðernissinnaðra afla á sýn Kohls [Helmut Kohl var kanzlari Þýzkalands í 16 ár, þ.á.m. þegar Austur-Þýzkaland var innlimað í Sambandslýðveldið Þýzkaland-BRD árin 1989-1990, 40 árum eftir stofnun BRD úr rústum hluta Þriðja ríkisins-innsk. BJo.] gæti haft afleiðingar í för með sér, sem næðu langt umfram deiluna um innflytjendamál. Það er ekki bara hlutverk Þýzkalands í Evrópu, sem er í húfi, heldur einnig framtíð samrunaferlis Evrópu. Þýzkaland, sem varpar af sér arfleifð Kohls, myndi allt í einu verða uppspretta mikillar óvissu, frekar en brjóstvörn stöðugleikans í hjarta Evrópu. Þar sem Vesturveldin eiga þegar undir högg að sækja frá mönnum eins og Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, og Donald Trump, Bandaríkjaforseta, væri það hið síðasta, sem Evrópa þarfnaðist."
Þetta er að nokkru úrelt greining á stöðunni. Þjóðverjar kæra sig ekki um meiri samruna Evrópuríkjanna, af því að þeir vita sem er, að ekkert ríki ESB hefur áhuga á meiri samruna, nema hann auðveldi þeim að krækja í þýzka peninga, sem alþýða Þýzkalands hefur unnið fyrir og sparað til elliáranna, en hið sama verður ekki sagt um rómönsku þjóðirnar, og slavarnir berjast enn við spillingarhít kommúnistastjórna Kalda stríðsins.
Bandaríkjamenn hafa kastað pólitískum sprengjum inn í ESB-samstarfið og NATO. Donald Trump hefur úthúðað kanzlara Þýzkalands, heimtað 70 % aukningu strax á framlögum Þjóðverja til varnarmála og hótað háum tollum á bíla, sem ESB-ríkin flytja út til BNA. Þetta mun hrista ærlega upp í stjórnendum Þýzkalands og færa þeim heim sanninn um, að þeir verða að setja hagsmuni síns eigin lands í forgrunn stjórnmálastefnu sinnar, þótt slíkt verði á kostnað samstarfsins innan ESB og þó að afturkippur komi jafnvel í samrunaferlið. Þýzkur almenningur er þarna á undan leiðtogunum í Berlín, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarið og mun sýna sig í næstu fylkiskosningum, sem haldnar verða í Bæjaralandi í október 2018.
29.7.2018 | 09:06
Út úr EES með með samningi á milli EFTA og ESB
Á heimsvísu finnast fjölmargir svæðisbundnir viðskiptaskilmálar. Þeir eru iðulega reistir á ákvæðum WTO, Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.
Þegar árið 2012 hafði EFTA gert 23 fríverzlunarsamninga, sem spönnuðu 32 lönd, og þeim fjölgar stöðugt. ESB hefur líka gert fjölmarga slíka samninga, svo að í báðum herbúðum er reynsla fyrir slíku.
Þannig er fullkomlega raunhæft að koma á hefðbundnum viðskipta- og samstarfssamningi á milli EFTA og ESB. Eftir tvenns konar samband EFTA-landanna fjögurra við ESB í aldarfjórðung er fyllilega tímabært að sameina EFTA-löndin í einum samningi við ESB. Segja má, að stærð núverandi EFTA leyfi það ekki, að þessi fríverzlunarsamtök Evrópu gangi klofin til samninga við ESB, annars vegar Ísland, Noregur og Liechtenstein og hins vegar Sviss eitt á báti. Þótt EFTA-löndin séu tiltölulega fámenn, þá er EFTA samt þriðji mikilvægasti vöruviðskiptaaðilinn fyrir ESB og sá næst mikilvægasti á þjónustusviðinu.
BREXIT-ferlið gengur brösuglega, og það mun hugsanlega leiða til inngöngu BRETA í EFTA, sem þá verður mikilvægasti viðskiptavinur ESB á flestum sviðum. Bretar hafa eðlilega engan áhuga á EES, ef frá er skilin Lávarðadeild brezka þingsins, en það gæti orðið góður kostur fyrir alla, að EFTA og ESB mundu leggja niður EES og gera með sér fríverzlunar- og samstarfssamning með Breta í EFTA í staðinn.
Um það leyti sem inngönguviðræður Íslands við ESB stóðu yfir fyrir um 6 árum, setti ESB af stað mat á EES-samninginum og Svisslandssamningunum og hefur gefið til kynna vilja sinn um endurskoðun hvors tveggja.
Fríverzlunarsamningur EFTA og ESB verður að mynda minnsta samnefnara. Það þýðir, að nýr samningur þarf að fjalla um atriði, sem sameiginlegir eru EES-samninginum og Svisslandssamningunum. Þetta þýðir í raun að leggja af stofnanir EES, og að tilskipanir geti ekki komið á færibandi til EFTA-ríkjanna, heldur þurfi samningaviðræður í hvert skipti, sem óskað er breytinga/viðbóta á viðskiptasamninginum.
Vegna Svisslands mun nýi samningurinn í upphafi ekki spanna þjónustusvið. Þá þarf að skilgreina leyfilegar fjárfestingar. T.d. leyfa Íslendingar ekki erlendar fjárfestingar í fiskiskipaútgerðum, og landakaup verða væntanlega takmörkuð. Ákvæði um viðskipti með landbúnaðarvörur og unnin matvæli munu ekki fela í sér þrýsting um frjáls viðskipti með þessar vörur, bæði til að vernda eigin landbúnað gegn niðurgreiddum erlendum landbúnaði og vegna smithættu. Væntanlega verður eftirfarandi ákvæði EFTA-samningsins lagt til grundvallar um landbúnaðarvörur:
"Varðandi vörurnar í viðhengi D, hluta III, lýsa aðildarþjóðirnar sig fúsar til að vinna að samræmdri þróun viðskiptanna, að svo miklu leyti sem landbúnaðarstefna þeirra leyfir slíkt."
Tollaívilnanir og sjúkdómavarnir, sem af þessum samningi leiða, eru ekki vandamál í líkingu við þau, sem af EES-samninginum leiða.
Þar sem EFTA-ESB viðskiptasamningur verður í raun alveg nýr samningur á milli svæða með að nokkru leyti öðrum löndum við samningaborðið en aðild eiga að EES, verður unnt að fara fram á samningaviðræður við ESB, þótt EES-samninginum hafi þá enn ekki verið sagt upp. Takist ekki að leiða slíkar samningaviðræður til lykta, verður annaðhvort hægt að halda áfram um sinn með EES-samninginn eða að þrengja gildissvið hans og/eða kveða skýrara að orði um svigrúm EFTA-ríkjanna til að hafna tillögum ESB um nýjar innleiðingar á Evrópugjörðum. Það verður þá líka hægt að huga að enn öðrum valkostum á borð við samning reistan á reglum WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, tvíhliða viðskiptasamning eða tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB.
Sé ESB ófúst til að hefja slíka samningaferla, sem drepið hefur verið á hér að ofan, þá er sú leið til, að Ísland, eitt sér eða ásamt hinum EFTA-löndunum tveimur, tilkynni, að ætlunin sé að segja upp EES-samninginum, en semja helzt fyrst við ESB um nýjan svæðissamning, sem reistur sé á Vaduz-sáttmálanum. Við slíkar aðstæður mun ESB mjög sennilega sjá hag sínum bezt borgið með því, að millibilsástandið, þar sem gamli viðskiptasamningurinn með viðbótum frá WTO-regluverkinu yrði lagður til grundvallar, myndi vara sem stytzt, þar eð Vaduz-sáttmálinn spannar víðtækara samstarf.
Það eru margir valkostir í stöðunni varðandi samskiptin við ESB, og það er fullkomlega raunhæft að taka upp samningaviðræður við ESB um samning, sem leyst getur hinn meingallaða og í raun úr sér gengna EES-samning af hólmi, samning, sem sumir telja ESB hafa brotið með kröfum um yfirþjóðlega stjórnun málaflokka í EFTA-ríkjunum, eins og í ESB-ríkjunum.
25.7.2018 | 09:35
Nútímalegur viðskiptasamningur við ESB í stað EES-helsis
Á fyrri hluta 8. áratugar 20. aldarinnar gerðu Norðmenn og Íslendingar viðskiptasamning við ESB. Sá samningur tæki sjálfkrafa gildi við útgöngu úr EES-samstarfinu, ef ekki hefur innan árs frá uppsögn EES-samningsins tekizt að gera fríverzlunarsamning við ESB, t.d. í líkingu við samning ESB við Kanada og Japan.
Á tveimur sviðum var EES-samningurinn ívið hagstæðari Íslandi og Noregi en gamli viðskiptasamningurinn var. Í fyrsta lagi voru tollar á unnum fiskafurðum ívið lægri samkvæmt EES-samninginum, og í öðru lagi getur ESB ekki gripið til aðgerða gegn meintum undirboðum íslenzks iðnaðar í EES, eins og viðskiptasamningurinn leyfði. Þetta eru þó harla léttvægir kostir.
Rannsóknarstjóri við Sjávarútvegsháskóla Noregs, Peter Örebech, reiknaði út í skýrslu um norska valkostaverkefnið (við EES) haustið 2011, að hækkun tollheimtu af unnum fiskafurðum við að hverfa aftur til gamla viðskiptasamningsins gæti að hámarki orðið 1,8 % af útflutningsandvirði þessara afurða. Örebech komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að þetta hefði engin áhrif á markaðshlutdeild Noregs í ESB á þessu sviði, svo að tekjulækkun sjávarútvegsins yrði engin. Hið sama mun gilda fyrir Ísland.
Á Íslandi tíðkast enginn opinber stuðningur við útflutningsiðnað, sem ekki er leyfilegur samkvæmt ESA og Evrópurétti, nema þá á sviði raforkumála, þar sem ESA hefur fett fingur út í það, að raforkuvinnslufyrirtækin hafi frían aðgang að orkulindunum. Þetta er að vísu ekki alls kostar rétt, en má engu að síður bæta úr með auðlindagjaldi eða fasteignagjaldi af vatnsréttindum og gufuréttindum, eins og Hæstiréttur hefur dæmt Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun, sem er líka sjálfsagt mál til að jafna aðstöðumun atvinnugreina innanlands, sem nýta náttúruauðlindir. Allar eiga þær að greiða sams konar auðlindagjald, þegar auðlindarenta finnst í bókhaldi þeirra.
Fyrir matvælaiðnaðinn var EES-samningurinn að vissu leyti um tíma betri en viðskiptasamningurinn var. Annars vegar átti EES-samningurinn að vernda afurðastöðvar landbúnaðarins gegn því að verða undir í samkeppni við innflutning frá ESB, og hins vegar fól hann í sér vissar tollalækkanir fyrir fiskiðnaðinn, sem flutti út vörur til ESB.
Þessi sviðsmynd er breytt. Í nokkrum samningalotum við ESB er búið að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur. Í raun hefur átt sér stað mikil aukning innflutnings landbúnaðarvara frá ESB, en útflutningur slíkra vara hefur að mestu staðið í stað. Í þessu sambandi verður að nefna innflutning á hráu kjöti, mjólkurvörum og eggjum, en ESB hefur sýnt ósveigjanleika og óbilgirni gagnvart röksemdum íslenzkra stjórnvalda um nauðsyn þess að beita sérstökum varúðarráðstöfunum til verndar íslenzkum dýrastofnum og mönnum gagnvart sýkingum frá bakteríum, sem ekki hafa náð fótfestu hérlendis. Það er gjörsamlega ólíðandi átroðsla að hálfu ESB að hunza ráðleggingar færustu sérfræðinga hér á sviði þessara sýkinga, og myndar sterk rök fyrir uppsögn mjög íþyngjandi samnings E.
Fyrir þjónustustarfsemi hérlendis er erfitt að sýna fram á, að hún hafi unnið stærri markað en hún hefur tapað með EES-samninginum. Dæmi hafa komið upp um ólöglega og ósiðlega starfsemi hérlendis við útleigu á vinnuafli, sem er nánast meðhöndlað eins og þrælar, í skjóli fjórfrelsisins á Innri markaðinum um frjálsa för fólks. Mikill innflutningur verkafólks hefur klárlega dregið úr launaskriði hér, en sterkur grunur leikur á um undirboð og reyndar ófá dæmi um þau, sem gera löghlýðnum íslenzkum atvinnurekendum lífið erfitt.
Uppsögn EES-samningsins og útganga úr Schengen-fyrirbærinu mundi gera slíkri og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi erfiðara um vik, en vinnuveitendur gætu eftir sem áður leitað eftir erlendum vinnukrafti, ef þörf reynist á á toppi hagsveiflunnar. Við 3 % árlegan hagvöxt eða minni er aðeins þörf fyrir slíkt í undantekningartilvikum.
Þegar öllu er á botninn hvolft, er ekkert viðskiptalegt hagræði af EES-samninginum í samanburði við fríverzlunarsamning. EES-samningurinn opnar fámennt velferðarsamfélag fyrir straumi efnahagsflóttamanna og glæpagengja. Hann er mjög íþyngjandi byrði á fyrirtækjum og stjórnkerfi landsins vegna reglugerðafargans, sem hamlar nauðsynlegri framleiðniaukningu á öllum sviðum. Það er grundvallar misskilningur, að smáþjóð geti með góðum árangri tekið þátt í því risavaxna búrókratíska kerfi, sem ESB er. Reynslan sýnir það einfaldlega, að gerðir ESB eru hér innleiddar á færibandi gagnrýnislaust, þótt þær eigi hingað ekkert erindi í sinni hráu mynd.
24.7.2018 | 15:33
Viðskipti með jarðir á Íslandi
Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.
Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki. Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið. Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil. Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.
Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.
Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild. Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu. Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.
Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum. Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli. Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.
Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi. Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum. Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:
- Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur. Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.
- Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.
Evrópumál | Breytt 2.8.2018 kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2018 | 10:45
Út úr EES-samstarfinu
Norðmenn hafa lagt niður fyrir sér, hvað gæti tekið við af EES og samið um það skýrslur. Ein þeirra, "Alternativer til dagens EÖS-avtale", kölluð "Alternativrapporten", er sérlega áhugaverð og fróðleg. Hér verður stuðzt við gr. 1.8 í skýrslunni.
EES-samningurinn er í eðli sínu "svæðasamningur" á milli EFTA og ESB, en hvert EFTA-ríkjanna þriggja, sem samninginn samþykktu á sínum tíma (Sviss hafnaði honum), getur þó sagt honum upp með ársfyrirvara. Ákvæði samningsins um, hvað skal gera, ef eitt EFTA-ríkjanna óskar eftir að hætta, eru skýr og greinileg. Rétturinn til uppsagnar er skilyrðislaus, og það þarf ekki að gefa neina skýringu á brotthvarfinu. Engar mótaðgerðir eða refsiaðgerðir hinna eru leyfilegar samkvæmt samninginum.
Úrsögnin fer fram samkvæmt skýrum reglum í EES-samninginum. Að leggja niður ESA og EFTA-dómstólinn, sem þó gerist aðeins, ef öll EFTA-ríkin kjósa fremur viðskiptasamning án slíkra stofnana, ætti einnig að verða auðvelt viðfangs.
Lögformleg staða EES á Íslandi gerir úrsagnarferlið hérlendis einfaldara en verið gæti. Það verður t.d. engin þörf á að breyta Stjórnarskránni. Megnið af EES-samninginum er tekinn inn í íslenzka lagasafnið með eigin löggjöf, EES-löggjöfinni. Hana má einfaldlega afnema í heilu lagi ásamt ákvæðum um forgang þessarar löggjafar umfram aðra íslenzka löggjöf. Sá forgangur var að kröfu ESB til að tryggja samleitt réttarfar EFTA- og ESB-ríkjanna.
Það yrði hins vegar mikið verk að fjarlægja öll ummerki ESB-löggjafar í íslenzkri löggjöf, og það er þarflaust. Þótt landið hefði staðið utan EES allan tímann, hefðu margar svipaðar lagabreytingar sennilega farið fram hér af fúsum og frjálsum vilja í samræmingarskyni eða vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga landsins. Þær eru hvorki ógn við fullveldið né í bága við Stjórnarskrá, eins og framkvæmd EES-samningsins þó óneitanlega er.
Óháð tengslum við ESB mun áfram verða þörf á samræmingu, samhæfingu og samvinnu. Slíkt viðgengst einnig gagnvart öðrum mörkuðum án þess þó, að við afhendum yfirstjórn okkar mála (framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald að töluverðu leyti) til Kína, Japans, Indlands, Rússlands eða Bandaríkjanna samkvæmt EES-fyrirkomulagi, svo að nokkrir stórir markaðir séu nefndir.
Tilgangurinn með úrsögn úr EES er þannig að endurheimta svigrúm landsmanna til þess í auknum mæli að reka sjálfstæða stefnu með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar að leiðarljósi. Svigrúmið markast af þeim tengslum, sem við taka eftir úrsögnina, en boðskapurinn er a.m.k. viðeigandi á aldarafmælisári fullveldisins.
Fyrir öll möguleg samskiptaform, sem fyrirsjáanlega geta tekið við gagnvart ESB, má þó ganga út frá því sem vísu, að grundvöllurinn verði sá, sem þegar hefur verið lagður af Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO), og að til viðbótar komi mismunandi skuldbindingar og réttindi, sem samið verður um tvíhliða eða á milli EFTA og ESB, því að aðild að EFTA verður áfram tryggð með sama hætti og aðild Svisslands.
Þróun ESB í áttina að sterkari yfirþjóðlegri stjórnun og minnkandi fullveldi aðildarþjóðanna er ögrandi gagnvart samstarfi við ESB á vettvangi EES, af því að Íslendingar eru nú fráhverfari hugmyndinni um ESB-aðild landsins en nokkru sinni fyrr. Efasemdir um réttmæti og nytsemi EES-aðildar hafa undanfarin misseri komið skýrar fram opinberlega en áður, sbr umræðuna um jarðakaup útlendinga, enda hefur ágreiningsmálum Íslands og ESB farið fjölgandi, frá ágreiningi um réttmæti Neyðarlaganna til skiptingar deilistofna í hafinu og innleiðingar viðamikilla lagabálka, sem fela í sér framsal valds til stofnana ESB.
Í þessari stöðu, þar sem ESB krefst íslenzkrar aðlögunar á nýjum sviðum, sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir, að undir EES-samninginn væru seld, er sjálfsagt og klókt af Íslendingum að vega og meta bæði viðskiptasamband og samvinnu almennt við hið evrópska ríkjasamband í ljósi hinna mikilvægustu þjóðarhagsmuna. Það fer vel á því á aldarafmælisári endurheimtu fullveldis landsins frá danska ríkinu.
21.7.2018 | 14:19
EES er orðið ótækt og óþarft
Með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, er Ísland með eins konar aukaaðild að Evrópusambandinu, ESB, án þess að hafa sömu réttindi og aðildarþjóðirnar til að vinna að þeim gjörðum sambandsins, lögum, tilskipunum og reglugerðum, sem landinu er gert að innleiða í réttar- og stjórnkerfi sitt.
Aukaaðildin felst í því, að Framkvæmdastjórnin merkir hluta af gjörðum sínum sem viðeigandi fyrir EFTA-ríkin, og í sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem 3 EFTA-ríki og ESB eiga fulltrúa, er síðan þrefað um fyrirkomulag upptöku EFTA-ríkjanna í lögbækur sínar eða reglugerðaflóru. Þar var löngum viðkvæði EFTA, að viðhafa yrði tveggja stoða regluna við innleiðinguna, þ.e. að EFTA-megin mundi sjálfstæð stofnun sjá um samskiptin á milli ESB og ríkisvaldsins í hverju EFTA-ríki. Ýmist hafa þetta verið "Pótenkímtjöld" með ESA-ásjónu, en EFTA-stofnun á bakvið, sem togar í alla spotta, eða engin tilraun er gerð til tveggja stoða lausnar. Þjóðþing EFTA-ríkjanna eiga alltaf síðasta orðið um lögfestingu gjörðarinnar eða synjun lögfestingar. Það er hinn sjálfsagði "stjórnlagalegi fyrirvari", því að á fundi úti í Brüssel er ekki hægt að skuldbinda þjóðina endanlega, hvað þá að taka endanlega ákvörðun um fullveldisframsal.
Þrýstingur myndast á þjóðþingin frá ESB og í mörgum tilvikum frá hinum EFTA-ríkjunum tveimur um að samþykkja, því að öll þrjú verða að samþykkja, svo að gjörðin öðlist gildi í hverju EFTA-landi, nema Sviss, sem er utan við þessi ósköp samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þar á sínum tíma.
Fyrir fullvalda ríki er þetta fyrirkomulag ótækt, enda fer andstaðan við það vaxandi í Noregi og á Íslandi. Þetta hjálendufyrirkomulag er bæði allt of dýrt fyrir lítið samfélag og alveg óþarft fyrir frí og hindrunarlaus viðskipti, eins og Kanadamenn sömdu um við ESB haustið 2017, og Bretar munu vafalaust semja um innan tíðar.
Það hrannast upp lögfræðilegar álitsgerðir og rök fyrir því, að núverandi einhliða lagasetningarsamband við ESB undir hatti vafasams EES-samnings, sem Alþingi samþykkti 12. janúar 1993, sé búið að brjóta svo herfilega á Stjórnarskrá Íslands, að stöðva verði þessa færibandaframleiðslu nú þegar, eða að breyta Stjórnarskrá til að heimila slíkt framsal. Formenn stjórnmálaflokkanna komu saman í Þingvallabænum snemmsumars til að ræða stjórnarskrárbreytingar, en engin tillaga hefur sézt um útfærslu, sem geri EES-aðild Íslands lögmæta í framkvæmd.
Lögfræðileg gagnrýni á framkvæmd EES-samningsins kom nú síðast fram í athyglisverðri ritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi til lokaprófs í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR). Erna Ýr Öldudóttir birti viðtal sitt við hinn nýútskrifaða lögfræðing í Morgunblaðinu þann 28. júní 2018 undir fyrirsögninni:
"Forsenda valdframsals breytt".
Fréttin hófst þannig:
"Í ljósi þess, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur þróazt, er það fyrirkomulag nú ekki talið standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast íslenzku stjórnarskránni [og var þó talið vera á gráu svæði-innsk. BJo].
Þetta er á meðal þess, sem kemur fram í lokaritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR), sem ber yfirskriftina "Fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins". Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild HR, leiðbeindi við skrifin." [EES-samningurinn var ekki og er ekki þjóðréttarlegs eðlis. Þess vega á ekkert valdframsal að eiga sér stað á grundvelli þessa samnings, sem aðallega er viðskiptalegs eðlis-innsk. BJo.]
Við þessar aðstæður er tvennt í stöðunni:
- Að ríkisstjórnin leiti hófanna um breytta EES-skilmála, annaðhvort ein á báti eða í samfloti við EFTA, eða kanni möguleikana á nýjum fríverzlunarsamningi við ESB (sá gamli tekur gildi við útgöngu), og geri síðan Alþingi og þjóðinni grein fyrir niðurstöðunni. Síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytta aðild að EES, já eða nei.
- Að breyta Stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilt með auknum meirihluta að samþykkja valdframsal til yfirþjóðlegra stofnana, þótt Ísland sé þar ekki aðili. Í norsku stjórnarskránni er áskilið samþykki 75 % mættra Stórþingsmanna, og að að lágmarki 2/3 þingmanna sé mættur. Þetta þýðir, að a.m.k. 50 % þingmanna verður að samþykkja slíkan gjörning, svo að hann öðlist lagagildi. Sams konar ákvæði mætti viðhafa hér.
10.7.2018 | 10:57
Norskir rafbílaeigendur fá að kenna á því
Norska ríkið hefur með alls konar gylliboðum lokkað bifreiðakaupendur til að velja sér rafknúna bifreið. Þetta ásamt tiltölulega lágu rafmagnsverði í Noregi og þar af leiðandi lægri rekstrarkostnaði rafmagnsbíla en jarðefnaeldsneytisknúinna bíla, ásamt ýmsum fríðindum, hefur leitt til mikillar forystu Norðmanna við innleiðingu orkuskiptanna. Hlutfallslega eru hreinrafbílar og tengiltvinnbílar samtals um 7 sinnum fleiri í Noregi en á Íslandi.
Í Noregi er "augnabliksmarkaður" á raforku. Framboð, eftirspurn og kerfisálag ræður verðinu. Í júní 2018 rauk verðið skyndilega upp að deginum, og er það óvenjulegt um hásumarið í Noregi, en stafar vafalaust af miklum útflutningi raforku um sæstrengi til útlanda og hugsanlega þurrkatíð. Norskum rafbílaeigendum brá í brún, þegar verð frá hleðslustöð nam sem svarar til 16,2 ISK/km (1,2 NOK/km), á meðan verð frá eldsneytisdælu nam 12,2 ISK/km (0,9 NOK/km). Þarna er raforkukostnaðurinn skyndilega orðinn 33 % hærri en eldsneytiskostnaðurinn og meira en þrefalt hærri en á Íslandi.
Á Íslandi er þokkalegur stöðuleiki í raforkuverði, en eldsneytisverðið sveiflast með markaðsverði hráolíu. Um þessar mundir nemur orkukostnaður rafbíls um 5 ISK/km og eldsneytisbíls um 20 ISK/km. Orkukostnaður rafbíls er 25 % af orkukostnaði jarðefnaeldsneytisbíls. Þetta myndar sterkan hvata til orkuskipta í umferðinni hérlendis, þótt innkaupsverð rafbíla sé enn þá hærra en hinna vegna lítils fjölda. Rafbílar eru einfaldari að gerð, og viðhaldskostnaður þeirra þar af leiðandi lægri. Rafgeymakostnaðurinn vegur þarna á móti, en hann hefur hins vegar lækkað um 80 % á kWh á einum áratugi.
Það var aflgjaldið í raforkuverðinu við rafgeymahleðslustöð, sem sums staðar í Noregi hafði hækkað um 60 % og hleypt raforkukostnaðinum 33 % upp fyrir eldsneytiskostnaðinn, þ.e. úr 2,5 NOK/mín upp í 4,0 NOK/min.
Hér sjáum við angann af því, hvað verðsveiflur á orku geta haft mikil áhrif á orkuskiptin. Grundvöllur skjótra orkuskipta er lækkun orkukostnaðar notenda, auk þjóðhagslegs gildis gjaldeyrissparnaðarins, sem af þeim hlýzt. Fyrirsjáanleiki um þróun innlends orkuverðs er lykilatriði í þessu sambandi, svo að litlir og stórir fjárfestar meti fjárhagsáhættuna litla af því að stíga þau skref til orkuskipta, sem eru nauðsynleg til að ná mjög metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda. Ef stjórnvöld stíga vanhugsuð skref í orkumálum, sem leiða til jafnvægisleysis þar og jafnvel meðalverðshækkana, þá tefja þau þar með orkuskiptin.
Nú vinnur Landsnet að undirbúningi einhvers konar uppboðsmarkaðar fyrir raforku á Íslandi. Hvaða vandamál á hann að leysa ? Ef hann bætir ekki kjör almennings á Íslandi, er verr farið en heima setið. Það er öruggt, að verðsveiflur á raforku munu aukast við innleiðingu uppboðsmarkaðar, en óvíst er um ársmeðalverðið. Þessa tilraun ætti um sinn að takmarka við markað ótryggðrar raforku, því að ella getur tilraunin orðið of dýru verði keypt, jafnvel þótt markaður utan langtímasamninga hérlendis nemi aðeins um 20 % af heild.
Varnaðarorð Elíasar Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, eiga vel við hér, en grein eftir hann birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2018 undir fyrirsögninni:
"Lög og raforkumarkaður" .
Hún hófst þannig:
"Fyrir frjálsan raforkumarkað er afar mikilvægt, að lagaramminn sé rétt hannaður eftir aðstæðum, einkum þar sem vatnsorka er ráðandi. Nokkur dæmi eru um, að óheppilegur lagarammi valdi slæmum verðsveiflum á slíkum mörkuðum og jafnvel hruni. Þetta er alþekkt."
Síðan snýr hann sér að líklegum afleiðingum þess að innleiða hérlendis Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, þótt rafkerfið sé ótengt útlöndum:
"Skoðun mín er hins vegar sú, að hönnun þriðja orkupakka ESB, sem er rammi um markað fyrir raforku úr gasi og kolum, sé óheppileg fyrir okkar vatnsorkukerfi og veiti hvorki raforkumarkaði hér rétt aðhald né tryggi nauðsynlega hvata. Þetta getur bæði valdið hærra orkuverði hér en ella og kallað á óhagkvæmar fjárfestingar og annan kostnað hjá notendum. Ekki er tímabært að skoða málin eftir komu sæstrengs."
Það er áríðandi á þessum tímapunkti, að stjórnvöld og landsmenn allir átti sig á því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB hefur samþykkt til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna, illu heilli, nema Sviss, er miðaður við raforkukerfi, sem í grundvallaratriðum er ólíkt íslenzka raforkukerfinu. Framhjá þessari staðreynd hafa bæði iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið horft, þegar þau í blekkingarskyni og/eða af vanþekkingu á því um hvað málið snýst, hafa haldið því fram, að áhrif innleiðingarinnar muni verða lítil fyrir Íslendinga, á meðan enginn er aflsæstrengurinn. Þetta er afneitun á því, að búrókrötunum í Brüssel hefur eðlilega ekki dottið það í hug að líta til hagsmuna Íslands, þegar þeir smíðuðu téðan orkumarkaðslagabálk, og íslenzkum kunnáttumönnum á sviði "vatnafærni" var ekki veitt neitt tækifæri til að koma þar sjónarmiðum sínum að. (Vatnafærni er ekki kunnáttan um það, hvernig bezt er að fara yfir ár, heldur samsafn fræða, er lúta að rekstri vatnsorkuvera.)
Eitt hefur áhrif á annað. Stórir lagabálkar frá ESB, sem innleiddir eru sem lög hér, hafa áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og á hag allra. Þess vegna verður að vanda til verka. Þar sem enginn kostur er á að sníða agnúana af og laga bálkana að íslenzkum aðstæðum, á Alþingi ekki að hika við að nota stjórnskipulegan rétt sinn og hafna gjörðum ESB, sem bersýnilega valda landsmönnum meira tjóni en gagni.