Færsluflokkur: Evrópumál

Hvað er Orkusamband ESB ?

Myndun Innri markaðar ESB snýst að miklu leyti um að semja sameiginlegar, yfirþjóðlegar reglur fyrir mismunandi svið á markaðinum.  Nýjasta sviðið þar er orka, fyrst um sinn raforka og eldsneytisgas. Ætlun ESB er að skapa fimmta frelsið, frjálst flæði orku þvert á landamæri.  Grunnforsenda framkvæmdastjórnarinnar er, að sameiginlegar reglur séu í allra hag, en það er ofeinföldun á veruleikanum. EFTA-ríkin tvö, Noregur og Ísland, geta farið flatt á því að ganga í Orkusamband ESB vegna gjörólíkra aðstæðna og hagsmuna á þessum Norðurlöndum m.v. ESB-löndin.

Forgangsmál stjórnvalda í einstökum ríkjum um ráðstöfun orkunnar og stjórnvaldsákvarðanir í einstökum löndum um orkumál lítur framkvæmdastjórn ESB á sem hindranir fyrir frjálst flæði, sem séu samkeppnishamlandi og beri þess vegna að afnema. Með Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Coordination og Energy Regulators), eru "búrókrötum" fengin tól í hendurnar til að koma böndum á sjálfstæða stefnumörkun hvers aðildarlands í orkumálum.  Að sjálfsögðu þýðir það jafnframt valdaafsal stjórnvalda hvers lands á sviði orkumála, í fyrstu umferð varðandi ráðstöfun raforku og eldsneytisgass.

Þetta fyrirkomulag stingur illilega í stúf við hefðbundin sjónarmið á Íslandi og í Noregi, þar sem jafnan hefur verið litið á afurðir vatnsfallanna og jarðgufunnar sem tæki til að bæta og jafna lífsskilyrði landsmanna í dreifðum byggðum landanna. Þetta sjónarmið verður algerlega undir, ef Alþingismenn samþykkja í vor innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.   

Höfundar Orkustefnu ESB horfa reyndar framhjá því, að á orkumörkuðum EES ríkja miklir hagsmunaárekstrar.  Stór og lítil lönd hafa ólíkra hagsmuna að gæta og sömuleiðis litlir og stórir þátttakendur á markaðinum; það eru andstæður á milli innflutnings- og útflutningslanda á orku, og hagur einstakra þátttakenda (fyrirtækja) er ekki endilega í samræmi við hag samfélagsins o.s.frv. 

Í ESB-kerfinu er reynt að breiða yfir og jafna þessar andstæður með tilskipunum og lögum, sem öll aðildarlöndin eru skuldbundin að fylgja.  Hér á landi, í Noregi og Liechtenstein, ríkja varnaglar frá upphaflegri gerð EES-samningsins, því að annars væru þessi ríki væntanlega gengin í ESB. Það er hlutverk Alþingis og stjórnmálaflokkanna að meta, hvort gjörningar ESB, sem sameiginlega EES-nefndin hefur úrskurðað, að spanna skuli EFTA-löndin í EES, þjóni hagsmunum íslenzku þjóðarinnar.  Ef gjörningarnir þjóna ekki hagsmunum Íslendinga að mati þingmanna, hefur Alþingi rétt á að hafna gjörningunum samkvæmt upphaflega EES-samninginum.  Hér má geta þess, að þrefað hefur verið um Orkustefnu ESB í sameiginlegu EES-nefndinni a.m.k. síðan 2011, en nú hefur ESB aftekið með öllu að veita EFTA-ríkjunum undanþágu eða sérmeðferð og einnig hafnað aðild þeirra með atkvæðisrétti að ACER-Orkustofnun ESB.  Er þetta til vitnis um einstrengingslegra viðhorf til EFTA-ríkjanna, eftir að Bretar urðu valdalitlir í ESB, og eftir því sem samrunaferli ESB vindur fram á grundvelli "stjórnarskráarinnar", Lissabon-sáttmálans.     

Framkvæmdastjórn ESB er mjög umhugað, að reglurnar fyrir sameiginlegan orkumarkað séu kallaðar Orkusamband ESB.  Ætlunin er, að orkusambandið sjái "borgurum og fyrirtækjum Evrópu fyrir öruggri, samkeppnishæfri og sjálfbærri orku".  Í Berlaymont (höfuðstöðvum ESB) er líka rætt um Orkusambandið sem brautryðjanda að markmiðum um hreina orku, um aukna hlutdeild endurnýjanlegrar orku, minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda og um bætta orkunýtni.  Undir þessum merkjum er farið fram með Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og sem slíkan sakleysingja hafa íslenzkir og norskir embættismenn og stjórnmálamenn í Noregi reynt að kynna hann.  Þar er þó flagð undir fögru skinni, sem ásælist "græna orku" Norðurlandanna tveggja, án þess að notkun norræns rafmagns á meginlandi Evrópu breyti nokkru um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Miklu frekar felst orkusóun í að senda rafmagn langar leiðir með miklum orkutöpum í stað þess að nýta það sem næst orkulindinni.     

Markmið ESB á orkusviðinu eru, að fyrir 2020 á endurnýjanleg orka að nema 20 % af heildarorkunotkun ESB, losun gróðurhúsalofttegunda á að minnka um 20 % m.v. 1990, og orkunýtnina á að bæta um 20 % m.v. 1990.  Árið 2030 er markmiðið, að losunin verði 40 % minni en á viðmiðunarárinu, og hlutdeild endurnýjanlegrar orku verði 27 % og nýtnin hafa batnað um 27 %. Árið 2050 á losun gróðurhúsalofttegunda að verða 80 % - 95 % minni en 1990. Forkólfar ESB eru að fyllast örvæntingu yfir, hversu erfiðlega ætlar að ganga að ná þessum markmiðum og munu ekkert gefa eftir í samningum við EFTA um haldreipi sitt, ACER.  Íslendingar og Norðmenn verða þess vegna einfaldlega að láta steyta á þessu máli í samskiptum EFTA og ESB.  

Á þessari stundu er erfitt að gera sér grein fyrir, hvað verður úr Orkusambandinu, og þess vegna ber að gjalda enn meiri varhug við því.  Það er sem sagt ekki fyrir hendi neitt afmarkað og skilgreint Orkusamband, sem hægt er að taka afstöðu til.  Um jafnræðisaðild fyrir EFTA-land er ekki að ræða, heldur er ætlazt til að hálfu ESB, að EFTA-ríkin í EES færi ESB á silfurdiski völd yfir flutningskerfum sínum fyrir jarðgas og rafmagn og ráðstöfunarrétt á orkunni inn á sameiginlegan EES-markað.  Þetta er sambærileg kröfuharka og í aðildarviðræðum Íslands við ESB, þar sem krafizt var opnunar landhelginnar, og þó verri, því að hér vill ESB eftirlitið líka, þ.e. Landhelgisgæzluna. Þegar svona er komið, er vart annað fyrir lítið land að gera en að slíta sambandinu.  "Far vel, Franz." 

Tilskipanir og lög um Orkusambandið munu streyma frá ESB, eftir að þjóðþing EFTA-ríkjanna hafa samþykkt innleiðinguna, eða hafnað henni, og þetta fyrirkomulag er auðvitað óboðlegt fullvalda þjóð.  Ef þingmenn á Alþingi og á norska Stórþinginu ætla að halda stjórnarskrár landa sinna í heiðri, og þeim ber skylda til þess, þá hafna þeir lögleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Til þess hafa þeir líka rétt samkvæmt ákvæðum um neitunarvald í upphaflega EES-samninginum.

Téður orkubálkur var samþykktur af ráðherraráði og þingi ESB árið 2009, og hann hefur gilt í öllum ESB-ríkjunum frá 2011, þegar Orkustofnun ESB, ACER, tók til starfa.  Hún vinnur að styrkingu flutningskerfa landanna fyrir raforku og jarðgas.  Aðallega er þar um að ræða að hvetja til, að reistar verði loftlínur, lagðir jarðstrengir, sæstrengir eða gasrör með fylgibúnaði til að efla orkuflutninga á milli landa og útrýma flöskuhálsum í þeim efnum. Ætlunin er, að EES-ríkin verði nægilega vel samtengd til að orkuverðið geti orðið mjög svipað í öllum löndunum. Þetta stefnumið er mjög óhagfellt Íslendingum og Norðmönnum.  

ACER heldur skrá um fjöldamörg verkefni, sem eru í gangi, í undirbúningi eða í athugun (under consideration).  Í síðasta hópinum er sæstrengur, sem hefur hlotið verkheitið Ice Link og á að liggja á milli Íslands og Bretlands.  Samkvæmt skránni er kostnaðar- og arðsemisathugun lokið, gangsetning fyrirhuguð 2027, og aðstandendur verkefnisins eru þar nefndir Landsnet, Landsvirkjun og National Grid Interconnector Holdings Ltd.  Af þessum gögnum ACER má ráða, að stofnunin muni ekki hika við að beita sér fyrir því, að þessu verkefni verði hrint af stokkunum, komist hún í aðstöðu til þess. Hér skal fullyrða, að það er enginn meirihluti fyrir því í landinu, að ACER komist í þessa aðstöðu.  Það er hollt fyrir Alþingismenn að hugleiða þessa stöðu.  

 Þá munu þeir gera sér grein fyrir því, að með því að leiða ACER til valda yfir orkumálum á Íslandi, eru þeir um leið að greiða leið fyrir tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi ESB um Bretland.  

 

 


EFTA-ríkin og miðstýring orkumála ESB

Í Noregi hafa miklar umræður og rannsóknir farið fram um afleiðingar þess fyrir Noreg að gangast undir vald stjórnsýslustofnunar Evrópusambandsins, ESB, á sviði orkumála, í fyrstu atrennu á grundvelli 1000 bls. laga- og reglugerðabálks ESB, 2009/72/EU. Mörgum þykir stjórnarskrárbrot blasa við og haldnar eru blysfarir til að mótmæla valdaafsali þjóðríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar á sviði orkumála.

Hérlendis er allt á rólegu nótunum enn þá, en íslenzkum almenningi kann þó að ofbjóða einnig.      Nú þegar eru í smíðum hjá ESB nokkur þúsund bls. viðbætur við téðan orkulagabálk, sem færa enn meiri völd til orkustjórnsýslustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem staðsett er í Ljubljana í Slóveníu.  Rannsóknarskýrsla norska De-facto félagsins, "EUs energiunion og norsk tilknytning til ACER ?", er afar fróðleg, og þar sem hagsmunum Íslands og Noregs gagnvart ACER svipar mjög saman, verður birt hér að neðan samantekt á skýrslunni, sem er þýðing á 2. kafla hennar. 

Með innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í EES-samninginn öðlast ACER völd til að láta leggja til Íslands aflsæstreng þaðan, sem hentugast þykir, og tengja hann við stofnkerfi í báða enda án þess að spyrja kóng eða prest hérlendis.  Eftir það verður staða Norðurlandanna tveggja gagnvart ACER og sameiginlegum raforkumarkaði ESB alveg sambærileg:

Í skýrslunni eru færð eftirfarandi rök fyrir því, að  Noregur á að nota neitunarmöguleika sinn gagnvart innlimun í Orkusamband ESB og tengingu við ACER:

  • Noregur verður með í orkusambandi, sem tekur stöðugum breytingum, og þar sem teknar eru ákvarðanir um stöðugt víðara svið orkumálanna hjá yfirþjóðlegri stofnun ESB, ACER.  Noregur missir innlenda stjórn á þessu mikilvæga stjórnunarsviði.
  • Takmark ESB er, að orka streymi frjálst yfir landamæri og að flutningsgetan verði næg, svo að verðmunur milli ólíkra svæða og landa verði minni en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh), í fyrstu atrennu innan skilgreindra svæða.
  • Aukin flutningsgeta og viðskipti með rafmagn mun hækka rafmagnsverð í Noregi.  Það kemur niður á bæði almennum notendum, iðnaði og starfsemi í einka- og opinbera geiranum.
  • Skilmálarnir um viðskipti með rafmagn um sæstrengina verða ákvarðaðir af ESB. Það getur hæglega þýtt sveiflukenndari vatnshæð í miðlunarlónum en hingað til hefur þekkzt. Stórþingið á í marz 2018 að ákveða, hvort tvær ESB-tilskipanir skuli verða teknar í norsk lög og reglugerðir - orð fyrir orð, þ.e. tilskipanirnar um viðskipti með rafmagn þvert á landamæri og um að færa völd frá Noregi til stjórnvaldsstofnunarinnar ACER.
  • Á Noreg kann að verða lögð kvöð af ESB/ACER um að leggja fleiri sæstrengi, ef raforkuverð í Noregi verður áfram meira en 0,25 ISK/kWh lægra en annars staðar á ESB-raforkumarkaðinum.  Ef flutningsgeta sæstrengja í rekstri og í undirbúningi er ekki næg til að jafna út verðmun á milli Noregs og annarra, er mögulegt að þvinga Noreg til að nota tekjurnar frá sæstrengjum í rekstri til að fjármagna nýja sæstrengi.  
  • Núverandi umframorka í norska raforkukerfinu mun hverfa, og þar með verður grundvöllur hagstæðs raforkuverðs fyrir orkusækinn iðnað rýrður verulega. Fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða varla gerðir.  Þetta getur sett þúsundir starfa á landsbyggðinni í Noregi í uppnám.  
  • Til að gjörnýta tekjumöguleika sæstrengjanna (t.d. með því að selja að deginum og kaupa að nóttunni) munu eigendur vatnsaflsvirkjana hafa hvata til að auka aflsveiflur virkjananna.  Það þýðir tíðar breytingar á rennsli ánna og hæð miðlunarlónanna, og slíkt hefur miklar neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið, náttúru- og útivistarhagsmunina.
  • Við yfirlestur þessarar skýrslu kom í ljós, að það er mikil andstaða í Noregi við frekari samþættingu í Orkusamband ESB og við tengingu Noregs við ACER í stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar.  Náttúru- og útivistarsamtök óttast afleiðingar aukinna aflsveiflna fyrir vatnskerfin.  Það kann þannig að vera meirihluti á norska Stórþinginu gegn því að færa völd yfir orkumálunum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER.
  • Það sem sameinar andstæðinga valdaframsals úr landinu til ACER, er óskin um, að völdin yfir orkumálum landsins skuli áfram vera í höndum norskra yfirvalda.  Fólk óskar ekki eftir stjórnarfyrirkomulagi, sem flytur völd frá norskum orkumálayfirvöldum til yfirþjóðlegra ESB-stofnana.
  • Varðandi ákvarðanir Stórþingsins veturinn 2018 er spurningin um innlenda stjórnun orkumálanna sett á oddinn í sambandi við hugsanlega samþykkt á tengingu Noregs við ACER.  Andófsfólk slíkrar samþykktar krefst þess, að við nýtum undanþáguákvæði EES-samningsins til að neita norskri ACER-tengingu.  
  • Andófsmenn eru þeirrar skoðunar, að hugsanleg ACER-tenging útheimti 3/4 meirihluta í Stórþinginu samkvæmt grein nr 115 í Stjórnarskránni um fullveldisframsal.  

Norska verkalýðshreyfingin er með þessum hætti á 32  blaðsíðum búin að kryfja viðfangsefnið Orkusamband ESB og tenging Noregs við ACER.  Niðurstaðan er einhlít.  Norska Stórþingið á að hafna þessum gjörningi frá ESB. Ef norski Verkamannaflokkurinn leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar, er úti um það. 

Þá vaknar spurningin hér á Íslandi, hvers vegna íslenzka verkalýðshreyfingin sofi Þyrnirósarsvefni, þegar tenging Íslands við ACER er annars vegar.  Útilokað er, að um sofandahátt eða þekkingarleysi sé að ræða.  Öllu líklegra er, að valdamikil öfl innan verkalýðshreyfingarinnar líti ACER-tengingu Íslands með velþóknun, enda sé hún aðeins enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að ESB og muni flýta fyrir væntanlegri aðild. Í raun má halda því fram, að verið sé að innlima EFTA-ríkin bakdyramegin inn í ESB með því að færa ESB-stofnun sömu völd þar og hún hefur í ESB-ríkjunum.  Sjá má nú skriftina á veggnum.   

 


Sjálfstæð hugsun og EES

Ánægjuleg tíðindi bárust af Alþingi þriðjudaginn 6. febrúar 2018.  Þar var fjármála- og efnahagsráðherra í andsvörum um lög og/eða reglur um fjármálagerninga, en sem kunnugt er hafa bæði Alþingi og Stórþingið norska samþykkt að fella tilskipana- og lagabálka ESB (Evrópusambandsins) um sameiginlegt eftirlitskerfi með fjármálastofnunum inn í EES-samninginn. Sagði ráðherrann frá því, að langan tíma hefði tekið að mjaka ESB að viðunandi lausn þessara mála fyrir EFTA-ríkin, en það verður æ erfiðara og hefur t.d. ekki gengið varðandi orkumálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi á almennari nótum um vaxandi ásælni ESB inn á svið, sem hingað til hafa verið alfarið á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hvers lands eða opinberra stofnana í hverju landi. 

Það var engu líkara en ráðherrann væri við þetta tækifæri með hugann við mál, sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið 2018 og fjallar einmitt um að fela nýlegri stofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem hlotið hefur víðtækar valdheimildir frá æðstu stjórnstofnunum ESB á sviði orkumála, óskorað vald í hverju EES-landi á sviði orkuflutningsmála. Ekki nóg með það, heldur skal setja í hverju landi á laggirnar stofnun, óháða stjórnvöldum, en samt á fjárlögum hvers ríkis, sem stjórnar orkuflutningsmálum hvers lands og lýtur einvörðungu boðvaldi ACER.  Þeir lögfræðingar eru líklega vandfundnir, sem ekki sjá í þessu fyrirkomulagi felast meiri háttar og þar af leiðandi óviðunandi stjórnarskrárbrot. 

Við samþykki Alþingis á því að fella "Þriðja orkumarkaðslagabálk" ESB inn í EES-samninginn, verður sem sagt stofnað útibú frá ACER á Íslandi, sem verður algerlega utan seilingar rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi, en mun engu að síður í krafti þessarar samþykktar Alþingis öðlast æðsta vald í málefnum raforkuflutninga á Íslandi.  Þar munu verða teknar ákvarðanir, sem áður voru á verksviði Orkustofnunar og á sviði Landsnets.  

Hér væri með þessu móti komin upp stjórnskipunarstaða á Íslandi (og í Noregi), sem er fordæmalaus, þ.e. yfirþjóðleg stofnun, ACER, skipar hér málum, sem varðar ekki aðeins stöðu ríkisins og málefni þess, heldur einnig beina hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga og fyrirmæli frá yfirþjóðlegri stofnun, sem Ísland er ekki aðili að, til fyrirbrigðis, sem ekki lýtur innlendu stjórnvaldi.   Það sagði Bjarni Benediktsson í áður nefndum umræðum á Alþingi, að væri algerlega óásættanlegt fyrir Íslendinga.  

Þar með má ætla, að komin sé upp sú staða í ríkisstjórn, að stjórnarfrumvarp um valdatöku ACER á Íslandi á sviði raforkuflutninga innanlands og til og frá Íslandi um nýja sæstrengi, verði ekki lagt fram. Það er útilokað, að ráðherra orkumála leggi það fram í eigin nafni, enda skal efast um, að málið njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, þótt ESB-sinnar séu vafalaust boðnir og búnir að greiða leið þessa víðtæka fullveldisframsals, sem mundi hafa djúptæk áhrif á hagsmuni allra landsmanna og til hins verra fyrir langflesta, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.

Alþingi hefur í hendi sér að fresta afgreiðslu þessa frumvarps, komi það engu síður fram, og reyna ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum að ná fram s.k. tveggja stoða lausn, sem tryggir hagsmuni EFTA-ríkjanna.  Þetta má þó kalla vonlausa leið, því að hún hefur verið reynd í a.m.k. 6 ár af mismunandi ríkisstjórnum í löndunum án árangurs. 

Það er einnig möguleiki hreinlega að fresta málinu um óákveðinn tíma.  Það mun þá koma til kasta ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem væntanlega kærir frestunina til EFTA-dómstólsins, sem líklega mun dæma, að frestunin sé brot á EES-samninginum. Þar við mun sitja.  Þessir aðilar geta ekki vísað EFTA-löndunum úr EES.  Hins vegar getur ESB sagt EES-samninginum upp, og það getur hvert EFTA-landanna þriggja, sem aðild á að EES, einnig.  Það væri svo sannarlega engin goðgá. Það er afar ólíklegt, að ráðherraráð ESB samþykki að segja EES-samninginum upp á þessum forsendum á meðan Bretar eru á leið út úr ESB og ótti steðjar að forystu ESB um, að flótti bresti í liðið.  

Í 200-mílum Morgunblaðsins birtist föstudaginn 9. febrúar 2018 fræðandi og vönduð grein eftir Hjört J. Guðmundsson undir fyrirsögninni:

Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir.

Hún hófst þannig:

"Meðal þess, sem fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári [2017], tekur til, eru viðskipti með sjávarafurðir.  Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96 % allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir, og á næstu 3-7 árum verður það, sem eftir stendur, einnig afnumið.  

Þannig er stefnt að því, að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100 % tollfrjáls, þegar upp verður staðið samkvæmt því, sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja, þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins."

Á sínum tíma, þegar færð voru rök fyrir nauðsyn inngöngu Íslands í EES, var tollfrjálst aðgengi íslenzka sjávarútvegsins að markaði ESB, höfuðröksemdin.  Hafi þetta einhvern tímann verið gild röksemd, er hún það ábyggilega ekki lengur, því að Íslandi mun vafalaust standa til boða fríverzlunarsamningur við Bretland og ESB af sama toga og Kanadasamningurinn, kjósi Íslendingar að segja skilið við EES.  

Hin frelsin 4 á Innri markaði EES eru Íslandi lítils virði, og sum þeirra hafa reynzt landsmönnum stórskaðleg eða munu reynast það í framtíðinni.  Hér er um að ræða frjálst flæði fjármagns, sem var undirrót bankahruns hér 2008, frjálst flæði þjónustu, sem valdið hefur árekstrum hér, t.d. í ferðageiranum, frjálst flæði fólks, sem með Schengen hefur opnað landamærin upp á gátt og valdið hættu, og frjálst flæði orku, t.d. raforku, sem ESB nú reynir með afarkostum að troða upp á EFTA-þjóðirnar.  

Ef Norðmenn og Íslendingar neita að bergja á þessum kaleik, þurfa þeir ekki að óttast afleiðingar, því að í versta tilviki endar málið með uppsögn EES-samningsins.  Þá munu taka við fríverzlunarsamningar, og staða þjóðanna verður ekki lakari eftir en áður.  Það er hægt að sýna fram á, að efnahagslega verður hún mun betri, a.m.k. ef í kjölfarið verður gengið rösklega til verks við grisjun laga- og reglugerðaskógarins frá ESB, sem er sniðinn við annars konar atvinnulíf og minna í sniðum en einkennandi er í ESB-ríkjunum.  

Undir lok greinar sinnar skrifaði Hjörtur:

"Þannig er ljóst, að þegar kemur að beinum tollum, hefur stjórnvöldum í Kanada tekizt að semja um betri aðgang að Innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helzti kosturinn við aðild Íslands að samningnum.  Þannig er fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenzkum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslenzk fyrirtæki."

 

 

 


Goðsögnin um gagnsemi EES

Blekbóndi þessa vefseturs samdi grein í lok janúar 2018, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 3. febrúar 2018 undir fyrirsögninni, "Eru dagar EES taldir ?".  Hún hefur nú birzt á heimasíðu norsku andófssamtakanna, "Nei við ESB", 

https://neitileu.no/aktuelt/er-eos-avtalens-dager-talte    á norsku.

Nýlega sýndi Hjörtur Guðmundsson, alþjóða stjórnmálafræðingur, fram á, sbr https://www.mbl.is/200milur/frettir/2018/02/12/fullt_tollfrelsi_med_sjavarafurdir/,

að með nýjum fríverzlunarsamningi við ESB hafa Kanadamenn fengið hagstæðari viðskiptaskilmála með sjávarafurðir en Íslendingar njóta á Innri markaði EES.  Er það með ólíkindum og gefur til kynna, að í vöruviðskiptum væru Íslendingar ekki verr settir með fríverzlunarsamning við ESB og Bretland en með núverandi veru á Innri markaðinum.  Það eru gjörbreyttir tímar í Evrópu með ákvörðun Breta um að yfirgefa ESB.  "Festung Europa" er fallin, þó með öðrum hætti en árið 1944.

Í téðri blaðagrein var látin í ljós ósk um, að til þess fær aðili mundi athuga efnahagsleg heildaráhrif aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu-EES.  Þetta var orðað þannig í greininni:

"Vel væri við hæfi í tilefni aldarfjórðungsafmælis EES-samningsins, að t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands-HHÍ mundi leggja mat sitt á árlegan heildarkostnað hagkerfisins af aðildinni og árlegan heildarávinning miðað við, að Ísland nyti að fullu sömu fríverzlunarréttinda við ESB og Kanadamenn sömdu nýlega um.  Tilgáta höfundar er sú, að þjóðhagslegur ávinningur af uppsögn EES-samningsins sé ótvíræður og vaxandi."

Nú vill svo til, að HHÍ lauk við skýrslu um þetta efni fyrir utanríkisráðuneytið í janúar 2018.  Um er að ræða skýrslu nr C18:01

"Áhrif samningsins um EES á íslenzkt efnahagslíf".

Í stuttu máli sagt stendur þessi skýrsla engan veginn undir nafni, því að því fer fjarri, að höfundarnir geri grein fyrir heildaráhrifum þess fyrir Ísland að standa utan við EES, þ.e. að segja upp EES-samninginum, en gera þess í stað fríverzlunarsamning við ESB og Bretland.  Samkvæmt reglum WTO (World Trade Organisation) á slíkur samningur ekki að vera meira hamlandi á viðskipti en nýjasti samningur aðila þar á undan, sem nú er téður fríverzlunarsamningur  ESB og Kanada, og þá verður nánast um frjálst aðgengi að ræða fyrir allar iðnaðarvörur, sjávarafurðir o.fl. 

Í téðri skýrslu er verið að bera ávinning aðildar saman við fortíðina fyrir aðild og fundið út, að ávinningur sjávarútvegs af EES nemi 4,5 miaISK/ár.  Litlu verður vöggur feginn.  Það er erfitt að sjá, hverjum skýrsla af þessu tagi má verða að gagni.  Það verður að skrifa það að mestu leyti á verkstjórn verkkaupans. Það er gamla sagan: ráðgjöfum verður að stjórna nákvæmlega, ef þeir eiga ekki að hlaupa út undan sér og út um víðan völl og skila af sér gagnslitlu og jafnvel villandi verki.

Aðildin að EES kostar í beinum útgjöldum um 23 miaISK/ár á verðlagi 2018 samkvæmt athugun Viðskiptaráðs Íslands árið 2015, en til baka kemur eitthvert fé á formi styrkja o.fl., svo að mismunurinn má heita bitamunur en ekki fjár í þessu sambandi, og verða ekki eltar ólar við hann hér. 

Það, sem skiptir öllu máli í þessu sambandi, en var ekki snert við í téðri skýrslu HHÍ, er óbeinn kostnaður atvinnulífsins af EES.  Aftur á móti hefur Viðskiptaráð Íslands ráðizt í þetta mikilvæga rannsóknarverkefni og fundið út, að heildarkostnaður af opinberum reglum fyrir athafnalífið nemi 175 miaISK/ár, uppfært til verðlags 2018.  Þetta jafngildir 7,0 % af VLF.  Meginhluti þeirrar upphæðar er reyndar fenginn frá HHÍ fyrir nokkrum árum og nemur 143 miaISK/ár og stafar af minni framleiðniaukningu en ella sökum regluverksbyrði.  Það er grafalvarlegt, að sá kostnaður er talinn vaxa um 1,0 %/ár.  Þetta er hagvaxtarlamandi og hamlandi fyrir samkeppnishæfni landsins, því að fyrirtækin hérlendis eru langflest mun minni en algengast er í löndum ESB.

Óumdeilt er, að lög og reglugerðir ásamt eftirlitsstofnunum verða að vera fyrir hendi í nútíma þjóðfélagi í viðleitni til að treysta frjálsa samkeppni og hagsmuni neytenda og til að tryggja sjálfbæra nýtingu ásamt fleiri ástæðum.  Erlend ríki, sem við eigum í viðskiptum við, krefjast líka, að fylgt sé ákveðnum gæðastöðlum.  Það er hins vegar svo, að lítil fyrirtæki, með 1-9 starfsmenn,bera að jafnaði hlutfallslega tvöfalt hærri kostnað af opinberu regluverki en meðalstór fyrirtæki með 10-49 starfsmenn, ferfaldan á við 50-249 manna fyrirtæki og tífaldan á við fyrirtæki með 250 eða fleiri starfsmenn.  

Ein birtingarmynd þessa er, að reiknað á hvern íbúa lands eru starfsmenn opinberra eftirlitsstofnana 25 sinnum fleiri hér en í Þýzkalandi og 15 sinnum fleiri en á hinum Norðurlöndunum.  

Það eru fyrirtækin, sem líða fyrir þessa skertu samkeppnishæfni, og hún kemur hart niður á afkomu þeirra og þar af leiðandi getu til að standa undir launum, annarri skattheimtu og eðlilegum arðgreiðslum til eigenda.  Það er þess vegna fyllsta ástæða til að spyrna við fótum.  

Fyrir nokkrum árum fann hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands það út, að beinn kostnaður fyrirtækja vegna eftirlits- og reglugerðabákns næmi 22 miaISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem væri vegna hamlandi áhrifa reglugerðafrumskógarins á framleiðni, næmi 143 miaISK/ár og færi hækkandi um 1,0 %/ár.  Samtals eru þetta 165 miaISK/ár, sem uppfært til verðlags 2018 nemur um 175 miaISK/ár.   

Í ljósi þess, að Ísland mun hafa innleitt a.m.k. 11´000 "gjörðir" ESB, eftir að EES-samningurinn tók hér gildi í ársbyrjun 1994, eða um 460 á ári, þá er varla goðgá að ætla, að 80 % allra laga og stjórnvaldsfyrirmæla á Íslandi, sem áhrif hafa á rekstrarafkomu fyrirtækja, séu upprunnin hjá ESB.  Ekki er þar með sagt, að þeir séu allir óþarfir, en í ljósi sérstaklega íþyngjandi áhrifa þeirra á íslenzkt atvinnulíf er ekki úr vegi að álykta, að létta megi 60 % af umfangi ESB-reglnanna af atvinnulífinu án þess, að slíkt komi niður á markaðsaðgengi þeirra eða gæðastjórnun.  

Niðurstaðan er þá, að árlegur kostnaður ESB-aðildarinnar fyrir Ísland nemi:

KEES=miaISK 175 x 0,8 x 0,6 = miaISK 84,

sem jafngildir 3,4 % af VLF.

Það er ekki nóg með þetta, heldur er nú í undirbúningi í ráðuneytunum frumvarp til Alþingis um, að orkustjórnvaldsstofnun ESB, ACER, verði fengið hér æðsta vald um ráðstöfun raforkunnar, og að Landsnet muni þá alfarið lúta stjórn útibús ACER á Íslandi og að eftirlitshlutverki Orkustofnunar með Landsneti verði einnig fyrir komið í útibúi ACER á Íslandi.  Þar sem útibú ACER á Íslandi mun ekki lúta neinu innlendu stjórnvaldi, getur ESB/ACER ákveðið, að Landsnet skuli taka þátt í að leggja aflsæstreng til Íslands, og síðan verði Ísland innlimað í orkumarkað EES, jafnvel þótt ríkisstjórn og Alþingi leggist gegn því.  ACER hefur nú þegar sett aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands á verkefnaskrá sína, og er ætlunin að taka hann í notkun árið 2027.  Þetta er stórmál, en hefur samt ekki hlotið neina viðeigandi umfjöllun hérlendis.  Er þetta það, sem koma skal ?

  Fullveldisframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar verður vart skýrara en þetta. Ætlar meirihluti Alþingismanna að láta þetta yfir sig ganga á fullveldisári ?  "Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann."  Ef þetta er lagatæknilega hægt í þingsal, er ljóst, að ekkert hald er í Stjórnarskránni, þegar ásælni erlends valds til ráðstöfunar íslenzkra orkulinda er annars vegar. 

Útibú ACER á Íslandi, algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum, mun rýna nýja raforkusamninga og hafna þeim, ef umsamið raforkuverð er dæmt vera undir "markaðsverði" raforku.  Hætt er við, að virkjanafyrirtæki muni ekki lengur hafa hug á slíkum samningum, en kjósa fremur að flytja raforkuna utan.  Óhjákvæmileg afleiðing slíks orkubrotthvarfs úr hagkerfinu er minni verðmætasköpun í landinu, atvinnuleysi og snarhækkun raforkuverðs til almennings og fyrirtækja án langtímasamninga.  Af hverju heyrist ekkert frá verkalýðsfélögum, ASÍ, SA, SI eða Neytendasamtökunum ?  Halló, er nokkur heima ? 

Búast má við tvöföldun orkuverðs frá virkjun og helmingshækkun flutningsgjalds, alls 6 ISK/kWh.  Þetta þýðir hækkun raforkukostnaðar almennings um:

24 miaISK/ár án VSK.

Sé þetta nú lagt við fyrri kostnað af reglugerðabákninu (almenningur borgar allt á endanum), þá fæst: 

Heildarkostnaður EES = 108 miaISK/ár eða 4,3 % af VLF.

 

 

  

 

 

 


Sérstaða Íslands og Noregs

Um næstu mánaðamót er væntanleg til landsins Kathrine Kleveland, formaður norsku andófssamtakanna "Nei við ESB".  Mun hún kynna hérlendis skelegga baráttu samtaka sinna gegn stöðugt vaxandi framsali fullveldis Noregs til yfirþjóðlegra stofnana ESB vegna EES-samningsins.  Nákvæmlega hið sama á við Ísland í þessum efnum, en hér virðast menn dofnari og líta á það, sem gerist, sem einhvers konar óhjákvæmilega þróun.  Ef téð Katrín megnar að vekja Íslendinga af Þyrnirósarsvefni á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands, má ætla, að tíma hennar hér verði vel varið.

Sérstaða Íslands og Noregs er mikil innan Evrópu.  Báðar þjóðirnar búa í stóru landi m.v. fólksfjölda og ráða yfir enn stærra hafsvæði, margföldu á við landsflatarmálið. Þessi hafsvæði eru matarkista og undir hafsbotni eru eldsneytislindir, sem Norðmenn hafa nýtt sér í miklum mæli.  Hafa þeir safnað skatttekjum af olífélögum og arðgreiðslum ríkisolíufélagsins Statoil í sjóð síðan 1996, sem að stærð er um 2,5 x VLF Noregs eða um miaISK 100´000.  Frá 2016 hefur Stórþingið samþykkt að styðja við rekstur ríkissjóðs með fé úr sjóðnum, sem nemur um 3 % af eignum sjóðsins á ári.  Þetta er nálægt langtíma ávöxtun sjóðsins, en undanfarin ár hefur hún verið mun meiri, og hefur vöxtur sjóðsins verið ævintýralega hraður á núverandi áratugi.  Ríkissjóður Noregs væri líklega rekinn með bullandi tapi, ef olíusjóðurinn væri ónotaður, því að hann stendur undir um 18 % af útgjöldum norska ríkisins. Samt gengur norska ríkið ekki á höfuðstól sjóðsins, heldur hefur skotið öflugri stoð undir tekjugrunn hans.    

Á raforkusviðinu sker staða Noregs og Íslands sig algerlega úr í Evrópu. 

Í fyrsta lagi er raforkan unnin með sjálfbærum hætti úr vatnsafli að næstum 100 % í Noregi og 70 % á Íslandi og um 30 % þar úr jarðgufu.  Í ESB er hlutfall sjálfbærrar raforkuvinnslu innan við 30 %.

Í öðru lagi eru Norðurlöndin tvö sjálfum sér næg með raforku. Í Noregi er reyndar tiltæk í miðlunarlónum 15 % meiri orka en nemur raforkuþörfinni í landinu, en á Íslandi er betri nýting á fjárfestingum raforkukerfisins og sáralítil umframorka.  Það er reyndar vanfjárfest þar, því að ekki er unnt að fullnægja þörfum markaðarins innanlands vegna veikburða flutningskerfis (Landsnets) og teflt er á tæpasta vað með orkuforðann, eins og í ljós kemur í slökum vatnsárum (orkuskerðingar).

Í þriðja lagi er afhendingaröryggi raforku mikið í Noregi.  Á Íslandi á hið sama við, þar sem ekki eru flöskuhálsar og dreifingin er með jarðstrengjum (þriggja fasa).  Á meginlandi Evrópu var löngum mikið afhendingaröryggi raforku, en með "Die Energiewende" í Sambandslýðveldi Þýzkalands hefur snarazt á merinni í þessum efnum, og hefur á hverju ári undanfarið legið við hruni rafkerfisins á háálagstímabilum með litlu sólskini og lygnu veðri. 

Hjá þýzkumælandi merkir "Die Energiewende" eða orkuskipti, enn sem komið er, sjálfbæra raforkuvinnslu, sem er langt í land með að ná.  Á meginlandinu er reynt að leysa kola- og gasorkuver af hólmi með sólarhlöðum og vindorkuverum, en slíkt leiðir til óstöðugs framboðs raforku.  Eins og kunnugt er hafa Norðmenn og Íslendingar sett sér háleit markmið um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngugeiranum og verða fremstir í Evrópu á þessu sviði.  Það verður hins vegar ekki hægt, ef auka á útflutning raforku í Noregi og hefja hann hér. Þannig er ljóst, að sala á "grænu" rafmagni frá Noregi og Íslandi niður til meginlands Evrópu dregur ekkert úr loftslagsvánni.  Bretar hafa í þessum efnum skotið Þjóðverjum ref fyrir rass, því að engin kolakynt raforkuver eru lengur starfrækt á Bretlandi, en meira en þriðjungur raforkuvinnslu Þýzkalands fer fram í kolakyntum orkuverum, og sum þeirra nota jafnvel brúnkol.

Í fjórða og síðasta lagi búa Norðmenn og Íslendingar við ódýra raforku.  Orkuhluti raforkureiknings flestra hérlendis er sennilega á bilinu 4,5-5,5 ISK/kWh, og í Noregi er sá hluti yfirleitt á bilinu 3,3-5,2 ISK/kWh.  Á Bretlandi er verðið samsvarandi um 9,1 ISK/kWh, og í Þýzkalandi getur raforkuverð frá virkjun rokið upp í 30 ISK/kWh.  

Raforkan er á Íslandi og í Noregi alfarið afurð sjálfbærra náttúruauðlinda, en aðeins að litlu leyti í ESB.  Íslendingar og Norðmenn viðurkenna, að stjórnvöldum landanna beri að hafa vald til að beina nýtingu hinna sjálfbæru auðlinda sinna í ákveðinn farveg, sem gagnist öllum íbúum sem bezt, óháð búsetu.  Þetta þýðir að nota raforkuna til stórtækrar verðmætasköpunar, t.d. að breyta raforku í útflutningsvöru vítt og breitt um landið í iðjuverum.  

Þannig er þessu alls ekki háttað í ESB, þar sem litið er á raforku sem vöru, sem "fljóta" eigi hindrunarlaust yfir landamæri til hæstbjóðanda.  Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EU frá 13. júlí 2009, er einmitt til að ryðja úr vegi öllum hindrunum í hverju landi við þessu frjálsa flæði.  Til þess eru völd yfir ráðstöfun raforkunnar flutt frá rétt kjörnum þjóðþingum og yfirvöldum í hverju landi til stjórnsýslustofnunar ESB fyrir orku, ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  Þar hafa aðeins ESB-ríki atkvæðisrétt og segja útibúum ACER í hverju landi algerlega fyrir verkum um uppbyggingu orkuflutningskerfa og stjórnun raforkuflutninga.

Þessi staða mála er ekki í anda tveggja stoða samstarfsins, sem var grundvöllur upphaflega EES-samningsins.  Að Íslandingar og Norðmenn séu skyldaðir með lagasetningu að taka við skipunum um tilhögun orkumála eða annarra mikilvægra mála frá stofnun, sem ríkjasamband hefur komið sér upp, þar sem Íslendingar og Norðmenn eru ekki aðilar, er óviðunandi og brýtur í bága við stjórnarskrár landanna.  Á sömu lund talaði fjármála- og efnahagsráðherra úr pontu Alþingis 6. febrúar 2018 í umræðu um annað mál.  Ætlar ríkisstjórnin samt fram með þetta mál á vorþingi 2018.  Það væri með miklum ólíkindum, og því mun ekki verða tekið með þegjandi þögninni.  Í stað þess að rýja sig trausti með slíku háttarlagi ætti ríkisstjórnin nú í febrúar að taka þetta mál af dagskrá þingsins og færa það í allt annan farveg og leita í þeim efnum samhljóms hjá norskum stjórnvöldum.

 

 

Í verkefnaskrá Alþingis kemur fram, að fjalla eigi um málið á Alþingi í marz 2018 undir eftirfarandi sakleysislegu lýsingu: "Snýr að mestu að sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar", þegar raunin er sú, að færa á stjórnun ráðstöfunar á raforkunni frá Alþingi og ríkisstjórn til ACER með ESA í Brüssel sem millilið.  "Something is rotten in the state of Danemark."  Hér sannast "salamiaðferðin" upp á búrókrata EES, sem Morgunblaðið gerði að umræðuefni í leiðara 9. febrúar 2018:

""Agúrkuvertíð" ESB stendur allan ársins hring, þar sem sneitt er svo fínlega af fullveldi ríkjanna, að einstaka þjóðir taka ekki eftir því, enda gera þeirra eigin forystumenn sitt til að draga athyglina frá þessum lýðræðislegu skemmdarverkum."

Þessari forystugrein lauk þannig:

"Það er ekki líklegt, að nokkur íslenzkur stjórnmálaflokkur muni standa vaktina fyrir landsins hönd, hvað þetta varðar fremur en nokkuð annað, sem kemur úr þessari átt.  Það er ömurlegt."

Vonir standa til, að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að rumska. 

 

   


Næst er það orkusamband

Með vísun til stjórnarskráar sinnar, Lissabon-sáttmálans, sækir Evrópusambandið-ESB nú fram til aukinnar miðstjórnar aðildarríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES á hverju sviðinu á fætur öðru.  Nú hefur verið samþykkt á samstarfsvettvangi ESB og EFTA, að orkumál verði næsta viðfangsefni æ nánari samruna (an ever closer union). Þetta mun koma hart niður á hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, sem hafa mjög svipaðra hagsmuna að gæta innbyrðis, en eru í ósambærilegri stöðu við ESB-ríkin í orkumálum. 

Þetta stafar af því, að Norðurlöndin tvö framleiða nánast alla sína raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og þar er enginn hörgull á raforku á hagstæðu verði fyrir notendur, nema staðbundið á Íslandi vegna flutningsannmarka, sem er sjálfskaparvíti. ESB-löndin flytja inn gríðarmikið af orku, rafmagni, gasi og olíu, aðeins 13 % orkunotkunarinnar er sjálfbær og raforkan er þar dýr.  

Í Noregi eru um 20 TWh/ár af raforku til reiðu á markaði umfram innlenda raforkuþörf eða 15 % af vinnslugetu vatnsaflsvirkjana þar í landi.  Þetta er aðeins meira en nemur allri raforkuvinnslu Íslands og er óeðlilega mikið, en stafar af lokun verksmiðja, betri nýtni í notendabúnaði og í virkjunum við uppfærslu þeirra ásamt fjölda nýrra smávirkjana.  Á Íslandi er yfirleitt sáralítil umframorka, þótt forstjóri Landsvirkjunar tilfæri hana sem rök fyrir aflsæstreng til útlanda, og ótryggða orkan er seld tiltölulega háu verði, sem gefur til kynna lítið framboð. 

Hins vegar getur snögglega orðið breyting á þessu, og það er orkustjórnsýslustofnun ESB, ACER, sjálfsagt kunnugt um.  Yfirlýsingar frá framkvæmdastjórn ESB sýna áhuga hennar á að samþætta Noreg í raforkunet ESB, og þá er ekki ósennilegt, að hún renni hýru auga til Íslands, þar sem raforkunotkun á mann er mest í heiminum. Tækin til þess eru að yfirtaka ráðstöfunarrétt raforkunnar með því að flytja æðsta vald raforkuflutningsmála í ríkjunum til ACER, leggja sæstrengi, stofna raforkumarkað og samtengja í hvoru landi og samtengja þá við raforkumarkaði ESB.  BINGO. Raforkan mun stíga í verði í Noregi og á Íslandi og fara til hæstbjóðanda.  Á skrifborði búrókrata kann þetta að líta vel út, en það eru fórnarlömb í þessum viðskiptum: almenningur á Íslandi og í Noregi.  

Í árbók 2018 norsku andófssamtakanna "Nei við ESB" er mikinn fróðleik að finna um ESB, þ.á.m. um "Orkusamband ESB".  Arne Byrkjeflot, stjórnmálaráðgjafi "Nei við ESB" á þar greinina "Energiunionen neste", og er hér að neðan einn kafli þaðan:

"ESB krefst ekki eignarréttarins, það krefst ráðstöfunarréttarins":

"Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB gefur tilefni til að ræða um varanlega auðlind okkar, fossaaflið, í víðu samhengi.  Í þetta skiptið snýst málið ekki um eignarhaldið, heldur um það, hver á að stjórna og setja reglur um nýtingu rafmagnsins.  Það snýst um völd yfir innviðum.  ESB hefur auk þess kynnt áætlun sína um þróun orkusambands síns. Stefnan er sú, að öll tiltæk raforka skuli streyma frjálst yfir landamæri, þannig að þeir, sem mest eru reiðubúnir að borga, fái orkuna.  Þeir geta þá pantað orkuna, hvaðan sem er, frá Nordland (fylki í Noregi) eða frá Bretagne skaga Frakklands.  Þeir fá raforkuna á sama verði og þeir, sem búa við fossinn eða við virkjunina.  Rafmagn er eina varan, sem seld er samkvæmt frímerkisreglunni.

Grunnhugmyndin er sú, að þannig fáist rétt verðlagning á rafmagnið og að það verði þá notað á hagkvæmasta hátt.  [Þetta minnir á málflutning Viðreisnar varðandi verðlagningu á aflahlutdeildum sjávarútvegsins - innsk. BJo.]  Ef Norðmenn hefðu haft þessa stefnu í árdaga orkunýtingar, þá hefðu starfsleyfislögin aldrei verið samþykkt.  [Þessi lög skilyrtu starfsleyfi virkjana við orkunýtingu í héraði eða í dreifðum byggðum Noregs, og voru í staðinn gerðir langtíma orkusamningar á hagstæðu verði fyrir iðjufyrirtækin, sem tryggði alþjóðlega samkeppnishæfni þeirra - innsk. BJo.]"

Á Íslandi verður uppi sama staða og í Noregi eftir lagningu fyrsta aflsæstrengsins til Íslands.  Ef Alþingi samþykkir innleiðingu "Þriðja orkumarkaðslagabálks" ESB í íslenzkt lagasafn, þá missa lýðræðislega kjörin yfirvöld á Íslandi völd á því til ACER (Stjórnsýslustofnun ESB um orkumál), hvort og hvenær slíkur aflsæstrengur verður lagður, og hvar hann verður tekinn í land og tengdur við íslenzka stofnkerfið, og hvernig rekstri hans verður háttað.  Orkustofnun verður samkvæmt téðum lagabálki að töluverðu leyti (varðandi raforkumál) breytt í stofnun undir stjórn útibús ACER á Íslandi, og útibúið verður utan seilingar lýðræðislegra stjórnvalda og hagsmunaaðila á markaði.  Landsnet verður líka sett undir útibú ACER á Íslandi.

Aðild Íslands og Noregs að Orkusambandi ESB þjónar ekki hagsmunum Íslands og Noregs, nema síður sé.  Á þessum tveimur Norðurlöndum hefur áratugum saman öll raforka verið unnin á endurnýjanlegan og mengunarlítinn hátt.  Í ESB er þetta hlutfall um þessar mundir um 26 %, og þar er mikill þrýstingur á að hækka þetta hlutfall.  Það er ennfremur engin þörf á raforkuinnflutningi til þessara Norðurlanda, eins og til ESB, sem vanhagar bæði um eldsneyti og raforku.  

Með nýjum sæstrengjum frá Noregi til Bretlands og Þýzkalands og sæstreng frá Íslandi til Bretlands mun flutningsgeta sæstrengja til útlanda nema um helmingi af vinnslugetu virkjana í hvoru landi.  Það er ACER og útibú þess í Noregi og á Íslandi, sem ráða mun rekstri þessara sæstrengja, þ.e. afli á hverjum tíma og í hvora átt það er sent.  Orkuflutningurinn verður tiltölulega mikill vegna mikillar spurnar eftir grænni orku, og þetta mun leiða til mikillar verðhækkunar á raforku í báðum löndum.  Vegna mikils flutningskostnaðar, sem getur lent með ósanngjörnum hætti á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi, gætu Íslendingar og Norðmenn lent í þeirri ókræsilegu stöðu að búa við hæsta raforkuverð í Evrópu og nota raforku að stórum hluta úr kolakyntum og kjarnorkuknúnum orkuverum, sem orka er flutt inn frá á nóttunni.  

Hér er um að ræða dæmigert sjálfskaparvíti, sem komið getur upp hjá smáþjóðum, sem ekki gá að sér í samskiptum við öflugt ríkjasamband, sem þróast í átt til sambandsríkis.  Það er engu líkara en nauðhyggja ráði för.  Þessi nauðhyggja snýst um, að Ísland og Noregur verði að vera aðilar að EES, annars sé voðinn vís.  Þetta er sams konar nauðhyggja og beitt var í hræðsluáróðri gegn Bretum 2016 í aðdraganda BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þá var því spáð, að efnahagur Bretlands færi í kalda kol við útgöngu.  Það rættist auðvitað ekki.  Þvert á móti jókst hagvöxtur Bretlands og var meiri en hagvöxtur ESB.  

Enn eru menn við sama heygarðshornið.  Hvers vegna í ósköpunum ætti efnahagur Bretlands, Noregs og Íslands að versna við að losna úr viðjum ESB ?  Fríverzlunarsamningar munu tryggja snurðulaus viðskipti, og löndin losna við kostnað reglugerðafargans búrókrataveldisins í Brüssel auk mikilla beinna útgjalda til ESB á hverju ári.  Það mun renna upp fyrir fleiri þjóðum, að hag þeirra verður betur borgið utan en innan við múra ESB (Festung Europa).  Sýnt hefur verið fram á, að talsverð líkindi eru á, að árið 2027 verði lönd sambandsríkisins ESB 13 talsins og aðildarlönd tollabandalagsins EFTA verði 14 talsins.   

 

 


Efling Alþingis

Fyrsti kafli Stjórnarsáttmálans á eftir Inngangi heitir "Efling Alþingis".  Þar er þó ekki snert við málaflokki, hvar niðurlæging Alþingis er mest, heldur látið svo heita, að eflingu Alþingis megi helzt verða það til framdráttar, að fá að skipa í margvíslegar þverpólitískar nefndir.  Er óhætt að fullyrða, að þarna er heldur betur sleginn falskur tónn í upphafi téðs sáttmála:

"Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga."

Það er skrýtið að setja þetta í stjórnarsáttmála, því að í þessari romsu um fyrirhugaðar nefndarskipanir ráðherranna felst engin stefnumörkun.  Það getur varla orðið til eflingar Alþingis, að þingmenn fái að sitja í nefndum eða að koma að skipan slíkra. 

Það gæti t.d. orðið til eflingar Alþingis að fara að ráði Vigdísar Hauksdóttur, fyrrverandi Alþingismanns, að efla lagaskrifstofu Alþingis, sem rýna mundi lagafrumvörp m.t.t. þess, hvort þau kunni að stangast á við stjórnlög eða önnur lög og hvort afnema megi að skaðlausu eldri lög samhliða gildistöku nýrra.

Þá hefur það vafalaust á sínum tíma verið hugsað til eflingar Alþingis, að þingmenn skyldu rýna val dómsmálaráðherra á dómurum, t.d. við Landsrétt, sem mest er í umræðunni nú, og samþykkja val ráðherrans eða að breyta því.  Með því liggur í augum uppi, að þingið, yfirboðari ráðherrans, tekur af honum ábyrgðina, sem hann annars ber samkvæmt Stjórnarskrá.  Í þessu sambandi er þá ekki lengur aðalatriði, hvernig ráðherra komst að niðurstöðu sinni.  Að matsnefndin skyldi ekki veita ráðherranum neitt svigrúm um val, er áfellisdómur yfir ábyrgðarlausri matsnefnd, en ráðherrann sinnti rýniskyldu sinni innan þess þrönga tímafrests, sem henni var settur í lögum.  

Á meðal Alþingismanna má virkja betur sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum með því að efla aðstoð við þá á Alþingi í stað þess að kaupa að rándýra sérfræðiþjónustu. Þetta væri til þess fallið að spara fé og að efla sjálfstæði þingsins.  

Þó yrði eflingu og virðingu Alþingis það mest til framdráttar, ef ákveðið yrði, að nóg væri komið af því að gegna "stimpilhlutverki" á Íslandi fyrir tilskipanir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, og fyrir lög frá þingi ESB, s.k. Evrópuþingi, sem er rangnefni.  Á 24 ára skeiði aðildar Íslands að EES-Evrópska efnahagssvæðinu, hefa að jafnaði á hverju ári verið tekin 460 lög í íslenzka lagasafnið og reglugerðir í opinbera reglugerðasafnið hérlendis.  Þetta eru að öllum líkindum meiri afköst en afköst þings og embættismanna í málum af innlendum uppruna.  Þetta flóð frá búrókrötum í Brüssel hefur tekið út yfir allan þjófabálk og gert íslenzka embættismenn að þjónum ESB og svipt íslenzka þingmenn raunverulegu löggjafarvaldi í miklum mæli. 

Hafa ber í huga, að flestar gerðir ESB, sem teknar eru inn í EES-samninginn, hafa kostnað í för með sér fyrir hið opinbera, fyrir atvinnulífið og þar með að lokum fyrir þjóðina alla.  Hversu mikill þessi "skriffinnsku- og eftirlitskostnaður" í raun er, er afar mikilvægt að leggja mat á.  Við þetta þarf að bæta beinum útlögðum kostnaði vegna aðildarinnar að EES-samninginum, og taka þar með ferðir og uppihald vegna s.k. samráðsfunda EFTA og ESB, sem ekki verður séð, að neinu handföstu hafi skilað, ásamt þýðingarkostnaði á 11´000 "gjörðum" á 24 árum.

Þennan kostnað þarf að bera saman við ávinninginn, sem er t.d. fólginn í meintum mismuni á viðskiptakjörum Íslands, Noregs og Liechtenstein við ESB annars vegar og hins vegar kjörum í viðskiptasamningi Svisslands og ESB eða bera saman við nýgerðan viðskiptasamning Kanada við ESB. 

Blekbóndi ætlar hér að gerast svo djarfur að varpa fram þeirri tilgátu, að EES-samningurinn sé fjárhagslega óhagstæðari, svo að hafið sé yfir allan vafa. Með uppsögn EES-samningsins og gerð tvíhliða viðskiptasamnings, sem samningur Kanada og ESB gæti verið fyrirmyndin að, losna þjóðþing Noregs og Íslands við gagnrýni um, að þau brjóti stjórnarskrár landanna með því að taka viðurhlutamiklar gerðir ESB upp í lagasöfn sín.  

Þar er nú að komast í eldlínuna "Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB".  Óhætt er að segja, að hann feli í sér stórfellt fullveldisframsal fyrir bæði Ísland og Noreg, því að með samþykkt hans færa þjóðþingin miðlægri orkustjórnsýslustofnun ESB, sem nefnist því sakleysislega nafni "Agency for the Cooperation of Energy Regulators-ACER" völd yfir raforkuflutningsmálum ríkjanna, þ.e. yfir meginhluta Orkustofnunar og alfarið yfir Landsneti hérlendis.  Út frá hagsmunamati fyrir Ísland og Noreg er þetta allt of langt gengið.  "Þriðji orkumarkaðslagabálkur" ESB er í viðamiklum og áferðarfallegum umbúðum og þjónar sjálfsagt hagsmunum meginlandsríkja Evrópu, en aðstæður í orkumálum Noregs og Íslands eru gjörólíkar aðstæðum á meginlandinu, og hagsmunir þessara tveggja Norðurlands samræmast ekki orkuhagsmunum meginlandsins.  Vonandi átta nægilega margir Alþingismenn sig á því í tæka tíð.    

 

 


Norðurslóðir, öryggis- og þróunarmál

Það er mikið blaður í undirköflum stjórnarsáttmálans í kaflanum "Alþjóðamál", sem bera heitið "Norðurslóðir og loftslagsmál" og "Öryggis- og þróunarmál".

Í fyrri undirkaflanum er t.d. þessi málsgrein: "Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans".

Hvað skyldi þetta nú merkja ?  Er stefna ríkisstjórnarinnar sú, að öll vinnsla náttúruauðæfa verði bönnuð þar, þ.m.t. olíu- og gasvinnsla ?  Ætlar ríkisstjórnin þá að draga til baka rannsóknar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu, sem íslenzk stjórnvöld hafa þegar gefið út ?  Það mun reyndar vera búið að skila til baka mestum hluta leyfanna, og jafnvel Kínverjar meta framtíðina á þessu sviði þannig, að ekki muni borga sig að bora þarna eftir olíu, þótt hún fyndist. Markaðsöflin hafa tekið ómakið af ríkisstjórninni, og þetta síðasta grobbefni "olíumálaráðherrans" fyrrverandi, Össurar Skarphéðinssonar, er nú fyrir borð borið.  

Ríkisstjórnin verður þó að taka efnislega afstöðu.  Umhverfisráðherrann er á móti olíuvinnslu þarna m.a. á þeim hæpnu forsendum, að bann við að dæla upp olíu undan hafsbotni Drekasvæðis minnki framboð á olíu.  Það eru engin rök.  Olíueftirspurnin í heiminum hefur nú þegar náð toppi.  Bandaríkjamenn toppuðu 2005, og orkuskiptin eru nú þegar farin að hafa áhrif á eftirspurnina, svo að verðinu er spáð viðvarandi undir núverandi skammtímatoppi 70 USD/tunnu. Það eru e.t.v. um 10 milljarðar tonna undir botni Drekasvæðis, og slíkt magn má finna annars staðar og dæla því upp með minni tilkostnaði en þarna norður frá.  Í Arabalöndunum er kostnaðurinn aðeins 10 USD/tunnu, en efnahagur þeirra er háður olíuvinnslunni, svo að þau verða að fá á bilinu 40-70 USD fyrir olíutunnuna til að forðast hrun efnahagslífsins.  Þeirra bíður flestra ömurlegt hlutskipti eftir orkuskiptin í heiminum.  

Það eru miklu veigameiri rök gegn olíuvinnslu þarna, að áhætta er tekin með lífríki hafsins.  Mengunarslys gæti jafnvel haft áhrif á lífríkið í íslenzku lögsögunni og hugsanlega skaðað orðspor Íslendinga sem matvælaframleiðenda.  Það eru engin efni hér til að meta þessa áhættu.  Til þess þarf vandaða, tæknilega áhættugreiningu til að komast að líkindunum á mengunarslysi m.v. umfang og reikna þannig hámarkstjón út.  Að slíku loknu er hægt að taka upplýsta ákvörðun, en stjórnvöldum leyfist hvorki að láta skeika að sköpuðu né að koma með sverar yfirlýsingar á valdi tilfinninganna.  Gleymum ekki, að frændur okkar, Norðmenn, hafa lagt fyrir í digran olíusjóð, og við gætum þurft á digrum sjóði að halda vegna loftslagsbreytinga eða náttúruhamfara í framtíðinni.

Það er ekki um neinar smáfjárhæðir til handa íslenzka ríkinu að ræða, ef bjartsýnar spár fyrir hönd fyrrverandi leyfishafa hefðu rætzt, heldur gæti fjárstraumurinn úr olíulindum Drekasvæðis í ríkissjóð numið 40 faldri landsframleiðslu Íslands.  Þess vegna getur enginn ýtt olíuvinnslu út af borðinu í einu vetfangi, heldur verður að bera saman ávinning og áhættu.

Í Noregi er nú talsverð umræða um "Orkusamband Evrópu", sem Evrópusambandið-ESB er að koma á laggirnar og hefur lagt fyrir EFTA-ríkin í EES að innleiða hjá sér.  Í þessu augnamiði hefur verið stofnað til "Orkusamstarfsstofnunar ESB"-"ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators".  Verið er að stofna útibú frá ACER í hverju landi, sem er óháð stjórndeild innan Orkustofnunar hvers lands, og framkvæmir ákvarðanir, teknar innan ACER, sem hefur endanlegt vald yfir orkuflutningsgeiranum í hverju landi og yfir orkuflutningum á milli ESB-landanna.  Þetta á við rafmagn og gas nú þegar, og mun vafalaust spanna olíu líka. ESB mun ekkert muna um að styrkja sæstrengslögn frá Íslandi til Bretlands/ESB til þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun sinni.  Hvaða áhrif halda menn, að slíkt muni hafa á raforkuverðið hérlendis og þar með afkomu heimila og fyrirtækja ?

ESB nær með þessu ekki eignarhaldi á orkulindum Noregs og Íslands, hvorki fossum, jarðgufugeymum né gas- og olíulindum, en aftur á móti fær ESB með þessu fullt ráðstöfunarvald yfir allri orku, sem tilbúin er til að fara á markað.  Samkvæmt EES-samninginum verður Ísland að innleiða "Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB" í sitt lagasafn, af því að Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt, að þessi innleiðing skuli eiga sér stað á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein.  Í því felst þó  skýlaust fullveldisafsal íslenzka ríkisins yfir ráðstöfunarrétti "erfðasilfursins", sem nú er rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum að mestu leyti, en gæti í framtíðinni hugsanlega einnig spannað jarðgas og/eða olíu af norðurslóðum.  

Nú ættu Alþingismenn að rísa upp á afturfæturnar og segja: "hingað og ekki lengra". Við munum hvorki samþykkja þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp þessa efnis. Komi þá það, sem koma skal.  Þetta mun kalla á kvörtunarbréf frá ESA og kæru á landið til EFTA-dómstólsins.  "So what ?"  Það eru nýir tímar í Evrópu núna með útgöngu Breta úr ESB.  Þeir munu gera fríverzlunarsamning við ESB, og við ættum að geta fengið svipaðan samning bæði við ESB og Breta.  Þá munum við ekki lengur þurfa að taka hér upp um 460 gjörðir á ári frá ESB, sem við höfum engin áhrif haft á á undirbúnings- og ákvarðanastigum máls, og íslenzka ríkið mun þá ekki lengur þurfa að greiða fúlgur fjár til ESB/EES, svo að ekki sé nú minnzt á frjálst flæði fólks. Uppsögn EES-samningsins mun reynast þjóðhagslega hagstæðari kostur en að viðhalda honum.  Hvaða þingmenn munu þekkja sinn vitjunartíma ?


EES-samningurinn verður sífellt stórtækari

Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða.  Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".  

Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.  

Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju.  Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991.  Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis.  Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.  

Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu.  Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.   

Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna.  Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði.  Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.

Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.  

 Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER. 

Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.  

Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi.  Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn.  Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ?  Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?

 

 

 


Efnahagsstefnan og vinnumarkaðurinn

Efnahagskafli stjórnarsáttmálans er furðulega stuttur.  Á eftir honum kemur enn styttri kafli um vinnumarkaðinn.  Þetta sætir undrun í ljósi mikilvægis málaflokksins fyrir öll landsins börn.  Kaflinn hefst þannig:

"Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess, að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði.  Ríkisstjórnin mun leggja áherzlu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum, sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.  Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar mun ljúka störfum, og í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar."

Hverjar eru forsendur "efnahagslegs styrks" ?  Þær eru arðsöm nýting náttúruauðlinda landsins, sem eru meginundirstaða útflutningsgreinanna.  Öflugar útflutningsgreinar, sem tryggja landsmönnum jákvæðan viðskiptajöfnuð, eru sem sagt undirstaða "efnahagslegs styrks".  Þessar útflutningsgreinar eru hérlendis sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta.  Ekki má gleyma, að landbúnaðurinn sparar landsmönnum háar upphæðir, sem annars færu í enn meiri matvælainnflutning en raunin þó er.  Heilnæmi íslenzks landbúnaðar er vanmetinn af sumum, en heilnæmið er í raun ómetanlegt fyrir heilsufar landsmanna.

Velgengni íslenzks sjávarútvegs á sér margar skýringar, en meginástæðan er auðvitað hagstæðar aðstæður fyrir lífríki hafsins við Ísland, og það hefur verið vitað frá landnámi.  Afkastageta fiskveiðiflota, erlendra og innlends, ofgerði veiðistofnunum á síðustu öld.  Íslendingar leystu þann vanda með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í nokkrum áföngum í 200 sjómílur og ruddu brautina í alþjóðlegri hafréttarlöggjöf.  

Þetta dugði þó ekki til, og var þá tekið upp kerfi, sem bæði fækkaði innlendum útgerðum og veiðiskipum, s.k. kvótakerfi.  Þetta kerfi, aflahlutdeildarkerfi á skip, þar sem aflamark er ákvarðað með aflareglu, nú 20 %, af vísindalega ákvörðuðum veiðistofni, hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu (ICES) sem umhverfislega sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi, og allt bendir til, að það sé efnahagslega sjálfbært líka.

Sjávarútvegurinn er máttarstólpi dreifðrar byggðar með ströndum fram, og með kvótakerfinu fóru þær sumar halloka, eins og við mátti búast.  Nú eru sumum þessara byggða að opnast ný tækifæri með fiskeldi, og það er skylda stjórnvalda að sýna þessari grein jákvætt viðmót, því að hún mætir óverðskuldaðri óvild.  Hún mun þá senn öðlast þjóðhagslegt mikilvægi og verða ein af öflugustu stoðunum undir gjaldeyrisöfluninni og stoð og stytta byggðanna, þar sem henni er leyft að starfa.  

Grundvöllur öflugs útflutningsiðnaðar á Íslandi er hagkvæm raforka, unnin með sjálfbærum hætti úr fallorku vatns og úr mismunandi sjálfbærum forðageymum jarðgufu. Rafvæðing landsins gekk hægt, þar til Viðreisnarstjórnin dembdi sér í djúpu laugina, fékk samþykki Alþingis fyrir stofnun Landsvirkjunar 1965, og árið eftir kom naumlegt og sögulegt samþykki Alþingis fyrir stofnun ISAL-Íslenzka Álfélagsins, sem lagði grunninn að fyrstu stórvirkjun landsins og 220 kV flutningslínum þaðan og til höfuðborgarsvæðisins.

Samningurinn var harðlega gagnrýndur á sinni tíð, en hann reyndist gerður af meiri framsýni en andstæðingarnir áttuðu sig á.  Þessi orkuviðskipti, sem voru til 45 ára, og hafa verið framlengd að breyttu breytanda í 25 ár, lögðu grunn að nútímalegu og öflugu raforkustofnkerfi á SV-landi, en aðrir landshlutar hafa setið eftir, og það er ekki vanzalaust að hálfu yfirvaldanna. Doðinn yfir raforkuflutningsmálum landsins gengur ekki lengur, enda verða orkuskiptin aldrei barn í brók, nema yfirvöld orkumála girði sig í brók og taki til hendinni í þágu íbúanna, sem vantar rafmagn af góðum gæðum.    

Nú hefur frétzt af nýlegri tilskipun frá ESB um orkumál, sem ætlunin er að innleiða í Noregi og á Íslandi árið 2018.  Orkumálayfirvöld á Íslandi hafa enn ekki áttað sig á, hversu hættuleg þessi tilskipun er, en með innleiðingu hennar fær ACER-Orkusamstarfsstofnun ESB - úrslitavald um þau orkumálefni hvers lands, sem hún skilgreinir sjálf sem "sameiginleg verkefni"

Þetta mál minnir á söguna af því, er Noregskonungur falaðist eftir Grímsey af Íslendingum.  Guðmundur, ríki, taldi enga meinbugi á því vera að láta kóngi eftir Grímsey, en Þórarinn Nefjólfsson benti á hættuna, sem var fólgin í því, að kóngsmenn færu á langskipum þaðan og hertækju Ísland.  Þá ætla ég, sagði Þórarinn, efnislega, að þröngt muni verða fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum.  

Nákvæmlega sama er uppi á teninginum, ef Íslendingar innleiða þessa orkutilskipun í lagasafn sitt.  Þá getur ESB með beinum fjárhagslegum hætti átt frumkvæði að lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda, stofnað hér orkukauphöll og leyft hverjum sem er innan EES að bjóða í alla raforku, sem ekki er bundin með langtímasamningum, og ACER getur bannað nýja slíka samninga og framlengingu gamalla.  Gangi þetta eftir, má ætla, að þröngt verði fyrir dyrum margra fyrirtækja og heimila hérlendis, því að ekki mun framboð raforku vaxa við þetta, og verðið mun rjúka upp í evrópskar hæðir, sem hæglega getur merkt tvöföldun.    

Það er ekkert minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum. Það á líklega að læða því, illu heilli, í gegnum þingið, en er meirihluti þar fyrir slíku stórfelldu fullveldisframsali ?

Aftur á móti er skrifað í Stjórnarsáttmálann, að "Þjóðarsjóður [fyrrverandi þingmaður í Kraganum nefndi hann Þjóðbrókarsjóð í blaðagrein] verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni.  Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum."

Þetta er fallegt og göfugt stefnumið, en hvers virði er öflugur "Þjóðbrókarsjóður", ef atvinnulífið sjálft verður ein rjúkandi rúst ?

Í Noregi er hafin mikil barátta gegn samþykki Stórþingsins á þessum orkumarkaðslagabálki ESB.  Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Norðmanna andsnúinn henni.  Með aukinni umræðu og upplýsingagjöf munu línur skýrast.  Það er mikið í húfi.  Höfnun eða frestun á samþykki mun að öllum líkindum þýða útskúfun úr EES. Þess vegna er þessi undirlægjuháttur í málinu, en farið hefur fé betra.  

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband