Færsluflokkur: Evrópumál
1.2.2018 | 15:13
Efling Alþingis
Fyrsti kafli Stjórnarsáttmálans á eftir Inngangi heitir "Efling Alþingis". Þar er þó ekki snert við málaflokki, hvar niðurlæging Alþingis er mest, heldur látið svo heita, að eflingu Alþingis megi helzt verða það til framdráttar, að fá að skipa í margvíslegar þverpólitískar nefndir. Er óhætt að fullyrða, að þarna er heldur betur sleginn falskur tónn í upphafi téðs sáttmála:
"Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga."
Það er skrýtið að setja þetta í stjórnarsáttmála, því að í þessari romsu um fyrirhugaðar nefndarskipanir ráðherranna felst engin stefnumörkun. Það getur varla orðið til eflingar Alþingis, að þingmenn fái að sitja í nefndum eða að koma að skipan slíkra.
Það gæti t.d. orðið til eflingar Alþingis að fara að ráði Vigdísar Hauksdóttur, fyrrverandi Alþingismanns, að efla lagaskrifstofu Alþingis, sem rýna mundi lagafrumvörp m.t.t. þess, hvort þau kunni að stangast á við stjórnlög eða önnur lög og hvort afnema megi að skaðlausu eldri lög samhliða gildistöku nýrra.
Þá hefur það vafalaust á sínum tíma verið hugsað til eflingar Alþingis, að þingmenn skyldu rýna val dómsmálaráðherra á dómurum, t.d. við Landsrétt, sem mest er í umræðunni nú, og samþykkja val ráðherrans eða að breyta því. Með því liggur í augum uppi, að þingið, yfirboðari ráðherrans, tekur af honum ábyrgðina, sem hann annars ber samkvæmt Stjórnarskrá. Í þessu sambandi er þá ekki lengur aðalatriði, hvernig ráðherra komst að niðurstöðu sinni. Að matsnefndin skyldi ekki veita ráðherranum neitt svigrúm um val, er áfellisdómur yfir ábyrgðarlausri matsnefnd, en ráðherrann sinnti rýniskyldu sinni innan þess þrönga tímafrests, sem henni var settur í lögum.
Á meðal Alþingismanna má virkja betur sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum með því að efla aðstoð við þá á Alþingi í stað þess að kaupa að rándýra sérfræðiþjónustu. Þetta væri til þess fallið að spara fé og að efla sjálfstæði þingsins.
Þó yrði eflingu og virðingu Alþingis það mest til framdráttar, ef ákveðið yrði, að nóg væri komið af því að gegna "stimpilhlutverki" á Íslandi fyrir tilskipanir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, og fyrir lög frá þingi ESB, s.k. Evrópuþingi, sem er rangnefni. Á 24 ára skeiði aðildar Íslands að EES-Evrópska efnahagssvæðinu, hefa að jafnaði á hverju ári verið tekin 460 lög í íslenzka lagasafnið og reglugerðir í opinbera reglugerðasafnið hérlendis. Þetta eru að öllum líkindum meiri afköst en afköst þings og embættismanna í málum af innlendum uppruna. Þetta flóð frá búrókrötum í Brüssel hefur tekið út yfir allan þjófabálk og gert íslenzka embættismenn að þjónum ESB og svipt íslenzka þingmenn raunverulegu löggjafarvaldi í miklum mæli.
Hafa ber í huga, að flestar gerðir ESB, sem teknar eru inn í EES-samninginn, hafa kostnað í för með sér fyrir hið opinbera, fyrir atvinnulífið og þar með að lokum fyrir þjóðina alla. Hversu mikill þessi "skriffinnsku- og eftirlitskostnaður" í raun er, er afar mikilvægt að leggja mat á. Við þetta þarf að bæta beinum útlögðum kostnaði vegna aðildarinnar að EES-samninginum, og taka þar með ferðir og uppihald vegna s.k. samráðsfunda EFTA og ESB, sem ekki verður séð, að neinu handföstu hafi skilað, ásamt þýðingarkostnaði á 11´000 "gjörðum" á 24 árum.
Þennan kostnað þarf að bera saman við ávinninginn, sem er t.d. fólginn í meintum mismuni á viðskiptakjörum Íslands, Noregs og Liechtenstein við ESB annars vegar og hins vegar kjörum í viðskiptasamningi Svisslands og ESB eða bera saman við nýgerðan viðskiptasamning Kanada við ESB.
Blekbóndi ætlar hér að gerast svo djarfur að varpa fram þeirri tilgátu, að EES-samningurinn sé fjárhagslega óhagstæðari, svo að hafið sé yfir allan vafa. Með uppsögn EES-samningsins og gerð tvíhliða viðskiptasamnings, sem samningur Kanada og ESB gæti verið fyrirmyndin að, losna þjóðþing Noregs og Íslands við gagnrýni um, að þau brjóti stjórnarskrár landanna með því að taka viðurhlutamiklar gerðir ESB upp í lagasöfn sín.
Þar er nú að komast í eldlínuna "Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB". Óhætt er að segja, að hann feli í sér stórfellt fullveldisframsal fyrir bæði Ísland og Noreg, því að með samþykkt hans færa þjóðþingin miðlægri orkustjórnsýslustofnun ESB, sem nefnist því sakleysislega nafni "Agency for the Cooperation of Energy Regulators-ACER" völd yfir raforkuflutningsmálum ríkjanna, þ.e. yfir meginhluta Orkustofnunar og alfarið yfir Landsneti hérlendis. Út frá hagsmunamati fyrir Ísland og Noreg er þetta allt of langt gengið. "Þriðji orkumarkaðslagabálkur" ESB er í viðamiklum og áferðarfallegum umbúðum og þjónar sjálfsagt hagsmunum meginlandsríkja Evrópu, en aðstæður í orkumálum Noregs og Íslands eru gjörólíkar aðstæðum á meginlandinu, og hagsmunir þessara tveggja Norðurlands samræmast ekki orkuhagsmunum meginlandsins. Vonandi átta nægilega margir Alþingismenn sig á því í tæka tíð.
30.1.2018 | 10:58
Norðurslóðir, öryggis- og þróunarmál
Það er mikið blaður í undirköflum stjórnarsáttmálans í kaflanum "Alþjóðamál", sem bera heitið "Norðurslóðir og loftslagsmál" og "Öryggis- og þróunarmál".
Í fyrri undirkaflanum er t.d. þessi málsgrein: "Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans".
Hvað skyldi þetta nú merkja ? Er stefna ríkisstjórnarinnar sú, að öll vinnsla náttúruauðæfa verði bönnuð þar, þ.m.t. olíu- og gasvinnsla ? Ætlar ríkisstjórnin þá að draga til baka rannsóknar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu, sem íslenzk stjórnvöld hafa þegar gefið út ? Það mun reyndar vera búið að skila til baka mestum hluta leyfanna, og jafnvel Kínverjar meta framtíðina á þessu sviði þannig, að ekki muni borga sig að bora þarna eftir olíu, þótt hún fyndist. Markaðsöflin hafa tekið ómakið af ríkisstjórninni, og þetta síðasta grobbefni "olíumálaráðherrans" fyrrverandi, Össurar Skarphéðinssonar, er nú fyrir borð borið.
Ríkisstjórnin verður þó að taka efnislega afstöðu. Umhverfisráðherrann er á móti olíuvinnslu þarna m.a. á þeim hæpnu forsendum, að bann við að dæla upp olíu undan hafsbotni Drekasvæðis minnki framboð á olíu. Það eru engin rök. Olíueftirspurnin í heiminum hefur nú þegar náð toppi. Bandaríkjamenn toppuðu 2005, og orkuskiptin eru nú þegar farin að hafa áhrif á eftirspurnina, svo að verðinu er spáð viðvarandi undir núverandi skammtímatoppi 70 USD/tunnu. Það eru e.t.v. um 10 milljarðar tonna undir botni Drekasvæðis, og slíkt magn má finna annars staðar og dæla því upp með minni tilkostnaði en þarna norður frá. Í Arabalöndunum er kostnaðurinn aðeins 10 USD/tunnu, en efnahagur þeirra er háður olíuvinnslunni, svo að þau verða að fá á bilinu 40-70 USD fyrir olíutunnuna til að forðast hrun efnahagslífsins. Þeirra bíður flestra ömurlegt hlutskipti eftir orkuskiptin í heiminum.
Það eru miklu veigameiri rök gegn olíuvinnslu þarna, að áhætta er tekin með lífríki hafsins. Mengunarslys gæti jafnvel haft áhrif á lífríkið í íslenzku lögsögunni og hugsanlega skaðað orðspor Íslendinga sem matvælaframleiðenda. Það eru engin efni hér til að meta þessa áhættu. Til þess þarf vandaða, tæknilega áhættugreiningu til að komast að líkindunum á mengunarslysi m.v. umfang og reikna þannig hámarkstjón út. Að slíku loknu er hægt að taka upplýsta ákvörðun, en stjórnvöldum leyfist hvorki að láta skeika að sköpuðu né að koma með sverar yfirlýsingar á valdi tilfinninganna. Gleymum ekki, að frændur okkar, Norðmenn, hafa lagt fyrir í digran olíusjóð, og við gætum þurft á digrum sjóði að halda vegna loftslagsbreytinga eða náttúruhamfara í framtíðinni.
Það er ekki um neinar smáfjárhæðir til handa íslenzka ríkinu að ræða, ef bjartsýnar spár fyrir hönd fyrrverandi leyfishafa hefðu rætzt, heldur gæti fjárstraumurinn úr olíulindum Drekasvæðis í ríkissjóð numið 40 faldri landsframleiðslu Íslands. Þess vegna getur enginn ýtt olíuvinnslu út af borðinu í einu vetfangi, heldur verður að bera saman ávinning og áhættu.
Í Noregi er nú talsverð umræða um "Orkusamband Evrópu", sem Evrópusambandið-ESB er að koma á laggirnar og hefur lagt fyrir EFTA-ríkin í EES að innleiða hjá sér. Í þessu augnamiði hefur verið stofnað til "Orkusamstarfsstofnunar ESB"-"ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators". Verið er að stofna útibú frá ACER í hverju landi, sem er óháð stjórndeild innan Orkustofnunar hvers lands, og framkvæmir ákvarðanir, teknar innan ACER, sem hefur endanlegt vald yfir orkuflutningsgeiranum í hverju landi og yfir orkuflutningum á milli ESB-landanna. Þetta á við rafmagn og gas nú þegar, og mun vafalaust spanna olíu líka. ESB mun ekkert muna um að styrkja sæstrengslögn frá Íslandi til Bretlands/ESB til þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun sinni. Hvaða áhrif halda menn, að slíkt muni hafa á raforkuverðið hérlendis og þar með afkomu heimila og fyrirtækja ?
ESB nær með þessu ekki eignarhaldi á orkulindum Noregs og Íslands, hvorki fossum, jarðgufugeymum né gas- og olíulindum, en aftur á móti fær ESB með þessu fullt ráðstöfunarvald yfir allri orku, sem tilbúin er til að fara á markað. Samkvæmt EES-samninginum verður Ísland að innleiða "Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB" í sitt lagasafn, af því að Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt, að þessi innleiðing skuli eiga sér stað á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein. Í því felst þó skýlaust fullveldisafsal íslenzka ríkisins yfir ráðstöfunarrétti "erfðasilfursins", sem nú er rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum að mestu leyti, en gæti í framtíðinni hugsanlega einnig spannað jarðgas og/eða olíu af norðurslóðum.
Nú ættu Alþingismenn að rísa upp á afturfæturnar og segja: "hingað og ekki lengra". Við munum hvorki samþykkja þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp þessa efnis. Komi þá það, sem koma skal. Þetta mun kalla á kvörtunarbréf frá ESA og kæru á landið til EFTA-dómstólsins. "So what ?" Það eru nýir tímar í Evrópu núna með útgöngu Breta úr ESB. Þeir munu gera fríverzlunarsamning við ESB, og við ættum að geta fengið svipaðan samning bæði við ESB og Breta. Þá munum við ekki lengur þurfa að taka hér upp um 460 gjörðir á ári frá ESB, sem við höfum engin áhrif haft á á undirbúnings- og ákvarðanastigum máls, og íslenzka ríkið mun þá ekki lengur þurfa að greiða fúlgur fjár til ESB/EES, svo að ekki sé nú minnzt á frjálst flæði fólks. Uppsögn EES-samningsins mun reynast þjóðhagslega hagstæðari kostur en að viðhalda honum. Hvaða þingmenn munu þekkja sinn vitjunartíma ?
26.1.2018 | 10:51
EES-samningurinn verður sífellt stórtækari
Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða. Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".
Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.
Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju. Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991. Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis. Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.
Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu. Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.
Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna. Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði. Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.
Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.
Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER.
Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.
Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi. Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn. Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ? Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?
12.1.2018 | 11:31
Efnahagsstefnan og vinnumarkaðurinn
Efnahagskafli stjórnarsáttmálans er furðulega stuttur. Á eftir honum kemur enn styttri kafli um vinnumarkaðinn. Þetta sætir undrun í ljósi mikilvægis málaflokksins fyrir öll landsins börn. Kaflinn hefst þannig:
"Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess, að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Ríkisstjórnin mun leggja áherzlu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum, sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar mun ljúka störfum, og í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar."
Hverjar eru forsendur "efnahagslegs styrks" ? Þær eru arðsöm nýting náttúruauðlinda landsins, sem eru meginundirstaða útflutningsgreinanna. Öflugar útflutningsgreinar, sem tryggja landsmönnum jákvæðan viðskiptajöfnuð, eru sem sagt undirstaða "efnahagslegs styrks". Þessar útflutningsgreinar eru hérlendis sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta. Ekki má gleyma, að landbúnaðurinn sparar landsmönnum háar upphæðir, sem annars færu í enn meiri matvælainnflutning en raunin þó er. Heilnæmi íslenzks landbúnaðar er vanmetinn af sumum, en heilnæmið er í raun ómetanlegt fyrir heilsufar landsmanna.
Velgengni íslenzks sjávarútvegs á sér margar skýringar, en meginástæðan er auðvitað hagstæðar aðstæður fyrir lífríki hafsins við Ísland, og það hefur verið vitað frá landnámi. Afkastageta fiskveiðiflota, erlendra og innlends, ofgerði veiðistofnunum á síðustu öld. Íslendingar leystu þann vanda með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í nokkrum áföngum í 200 sjómílur og ruddu brautina í alþjóðlegri hafréttarlöggjöf.
Þetta dugði þó ekki til, og var þá tekið upp kerfi, sem bæði fækkaði innlendum útgerðum og veiðiskipum, s.k. kvótakerfi. Þetta kerfi, aflahlutdeildarkerfi á skip, þar sem aflamark er ákvarðað með aflareglu, nú 20 %, af vísindalega ákvörðuðum veiðistofni, hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu (ICES) sem umhverfislega sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi, og allt bendir til, að það sé efnahagslega sjálfbært líka.
Sjávarútvegurinn er máttarstólpi dreifðrar byggðar með ströndum fram, og með kvótakerfinu fóru þær sumar halloka, eins og við mátti búast. Nú eru sumum þessara byggða að opnast ný tækifæri með fiskeldi, og það er skylda stjórnvalda að sýna þessari grein jákvætt viðmót, því að hún mætir óverðskuldaðri óvild. Hún mun þá senn öðlast þjóðhagslegt mikilvægi og verða ein af öflugustu stoðunum undir gjaldeyrisöfluninni og stoð og stytta byggðanna, þar sem henni er leyft að starfa.
Grundvöllur öflugs útflutningsiðnaðar á Íslandi er hagkvæm raforka, unnin með sjálfbærum hætti úr fallorku vatns og úr mismunandi sjálfbærum forðageymum jarðgufu. Rafvæðing landsins gekk hægt, þar til Viðreisnarstjórnin dembdi sér í djúpu laugina, fékk samþykki Alþingis fyrir stofnun Landsvirkjunar 1965, og árið eftir kom naumlegt og sögulegt samþykki Alþingis fyrir stofnun ISAL-Íslenzka Álfélagsins, sem lagði grunninn að fyrstu stórvirkjun landsins og 220 kV flutningslínum þaðan og til höfuðborgarsvæðisins.
Samningurinn var harðlega gagnrýndur á sinni tíð, en hann reyndist gerður af meiri framsýni en andstæðingarnir áttuðu sig á. Þessi orkuviðskipti, sem voru til 45 ára, og hafa verið framlengd að breyttu breytanda í 25 ár, lögðu grunn að nútímalegu og öflugu raforkustofnkerfi á SV-landi, en aðrir landshlutar hafa setið eftir, og það er ekki vanzalaust að hálfu yfirvaldanna. Doðinn yfir raforkuflutningsmálum landsins gengur ekki lengur, enda verða orkuskiptin aldrei barn í brók, nema yfirvöld orkumála girði sig í brók og taki til hendinni í þágu íbúanna, sem vantar rafmagn af góðum gæðum.
Nú hefur frétzt af nýlegri tilskipun frá ESB um orkumál, sem ætlunin er að innleiða í Noregi og á Íslandi árið 2018. Orkumálayfirvöld á Íslandi hafa enn ekki áttað sig á, hversu hættuleg þessi tilskipun er, en með innleiðingu hennar fær ACER-Orkusamstarfsstofnun ESB - úrslitavald um þau orkumálefni hvers lands, sem hún skilgreinir sjálf sem "sameiginleg verkefni".
Þetta mál minnir á söguna af því, er Noregskonungur falaðist eftir Grímsey af Íslendingum. Guðmundur, ríki, taldi enga meinbugi á því vera að láta kóngi eftir Grímsey, en Þórarinn Nefjólfsson benti á hættuna, sem var fólgin í því, að kóngsmenn færu á langskipum þaðan og hertækju Ísland. Þá ætla ég, sagði Þórarinn, efnislega, að þröngt muni verða fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum.
Nákvæmlega sama er uppi á teninginum, ef Íslendingar innleiða þessa orkutilskipun í lagasafn sitt. Þá getur ESB með beinum fjárhagslegum hætti átt frumkvæði að lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda, stofnað hér orkukauphöll og leyft hverjum sem er innan EES að bjóða í alla raforku, sem ekki er bundin með langtímasamningum, og ACER getur bannað nýja slíka samninga og framlengingu gamalla. Gangi þetta eftir, má ætla, að þröngt verði fyrir dyrum margra fyrirtækja og heimila hérlendis, því að ekki mun framboð raforku vaxa við þetta, og verðið mun rjúka upp í evrópskar hæðir, sem hæglega getur merkt tvöföldun.
Það er ekkert minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum. Það á líklega að læða því, illu heilli, í gegnum þingið, en er meirihluti þar fyrir slíku stórfelldu fullveldisframsali ?
Aftur á móti er skrifað í Stjórnarsáttmálann, að "Þjóðarsjóður [fyrrverandi þingmaður í Kraganum nefndi hann Þjóðbrókarsjóð í blaðagrein] verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum."
Þetta er fallegt og göfugt stefnumið, en hvers virði er öflugur "Þjóðbrókarsjóður", ef atvinnulífið sjálft verður ein rjúkandi rúst ?
Í Noregi er hafin mikil barátta gegn samþykki Stórþingsins á þessum orkumarkaðslagabálki ESB. Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Norðmanna andsnúinn henni. Með aukinni umræðu og upplýsingagjöf munu línur skýrast. Það er mikið í húfi. Höfnun eða frestun á samþykki mun að öllum líkindum þýða útskúfun úr EES. Þess vegna er þessi undirlægjuháttur í málinu, en farið hefur fé betra.
10.1.2018 | 11:31
Orkumál í uppnámi vegna ESB
Valdahlutföllin innan Evrópusambandsins (ESB) hafa þegar breytzt vegna ákvörðunar Breta um að yfirgefa sambandið. Hlutur efasemdarmanna um æ nánari samruna ríkjanna á leið til sambandsríkis Evrópu í stað ríkjasambands hefur rýrnað við að missa rödd Bretlands úr hópnum, og sameiningarsinnar færa sig að sama skapi upp á skaptið. Nú á að láta kné fylgja kviði á sviði orkuflutninga á milli ríkja.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að flaggskip ESB er Innri markaður þess með frelsunum fjórum. Árið 2009 var gefinn út bálkur tilskipana á orkusviði, t.d. 2009/72/ESB á sviði raforkuflutninga, sem miðaði að "fimmta frelsinu" á Innri markaðinum. Flutningar á raforku og eldsneytisgasi skyldu verða frjálsir og hindrunarlausir á milli ríkjanna, og raforkuflutningana skyldi tvöfalda upp í 20 % af orkunotkun ESB-ríkjanna árið 2030.
Ætlunin með þessu var að nýta tiltæka orku með hagkvæmasta hætti innan EES. Til þess verður stofnaður orkumarkaður í hverju landi undir eftirliti útibús frá "Orkusamstarfsstofnun" ESB í hverju landi. Öll tiltæk orka á að fara á þennan markað, og nýir langtímasamningar um orkuviðskipti verða óheimilir innan ESB. Hugmyndin var sú, að hægt verði að bjóða í orku, hvar sem er, hvaðan sem er, og flytja hana hindrunarlaust til bjóðandans með útjöfnuðum flutningskostnaði.
Augljóslega mun þessi markaðsvæðing jafna út verðmun á raforku innan EES. Þá hlýtur raforkuverðið óhjákvæmilega að hækka í Noregi og á Íslandi, þar sem íbúarnir hafa búið við u.þ.b. helmingi ódýrara rafmagn en íbúar ESB-ríkjunum. Þá mun hlutur endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun í ESB vaxa við aukna raforkuflutninga á milli landa, og að sama skapi minnka í Noregi og á Íslandi, ef sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda. Til þess eru refirnir skornir í Berlaymont.
Árið 2011 var stofnuð áðurgreind "Orkusamstarfsstofnun" ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) með aðsetri í Slóveníu. ACER er samstarfsvettvangur orkustofnana ríkjanna með einum fulltrúa frá hverju EES-ríki, en aðeins ESB-ríkin eiga þar atkvæðisrétt. Ákvarðanir eru bindandi og endanlegar, teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður. ACER felur ESA-Eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins-að framfylgja ákvörðunum sínum í EFTA-löndunum þremur innan EES, Noregi, Íslandi og Liechtenstein.
Orkustofnun (OS) fer með stjórnsýslu orkumála á Íslandi undir yfirstjórn Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins, A&N. Eftir innleiðingu tilskipunar 2009/72/ESB á Íslandi verður OS þó aðeins svipur hjá sjón, því að útibú frá ACER verður stofnað á Íslandi, "Orkustjórnsýslustofnun"-OSS, sem felld verður undir hatt OS sem sjálfstæð stjórnsýslueining, og mun OSS taka við orkustjórnsýsluhlutverki OS að miklu leyti og á að verða óháð ráðuneyti orkumála, öðrum innlendum stofnunum og fyrirtækjum, en samt fara inn á íslenzku fjárlögin. OSS mun hafa eftirlit með raforkumörkuðum á Íslandi og eiga samstarf við systurstofnanir sínar í EES. OSS lýtur ekki boðvaldi neinna íslenzkra yfirvalda, heldur verður eins og ríki í ríkinu með eigin framkvæmdastjóra, skipuðum til 6 ára í senn, sem tekur við skipunum frá ESA.
Ákvarðanir á vegum ACER munu ganga til ESA, sem sendir þær til OSS til framkvæmdar. OSS útbýr tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir flutningsmannvirki orku, en OS verður áfram leyfisveitandi. Önnur starfsemi OS en starfsemi OSS verður áfram undir yfirstjórn ráðuneytisins, A&N. Þetta er anzi ruglingslegt fyrirkomulag, sem býður upp á harkalega árekstra innanlands.
Þetta er óviðunandi fyrirkomulag raforkumála fyrir Íslendinga. Þeir missa með því lýðræðisleg stjórnunartök á ráðstöfun raforkunnar í hendur fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem þeir eru án atkvæðisréttar. Það er hættulegur misskilningur, að áhættulítið sé fyrir Alþingi að samþykkja tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA frá 5. maí 2017 um að fella Þriðja orkulagabálk ESB inn í EES-samninginn. Innan vébanda ACER er hvenær sem er hægt að ákveða að bjóða út sæstreng frá Íslandi ásamt lögn hans til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi. Það yrði í verkahring OSS að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir tengingar sæstrengja við stofnrafkerfi Íslands. Hlutverk OS yrði eftir sem áður að gefa út starfræksluleyfi, en það er formsatriði, því að ekki verður séð, hvernig OS gæti hafnað starfræksluleyfi sæstrengs, sem uppfyllir alla setta skilmála. Gildir þá einu, þótt innan OS og ráðuneytisins væri vilji til að vernda íslenzkar fjölskyldur og fyrirtæki gegn beinni samkeppni erlendis frá um raforkuna.
Eins og í pottinn er búið, verður að draga stórlega í efa, að innan ACER sé hægt að taka ákvörðun, sem sé lagalega bindandi fyrir Ísland. Ríkisstjórn Íslands hyggst þó leggja frumvarp fyrir Alþingi, jafnvel vorið 2018, um að fara að tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA og samþykkja Þriðja orkulagabálk ESB sem hluta af EES-samninginum. Ef Alþingi samþykkir þetta, er í leikmannsaugum augljóslega verið að fórna fullveldi landsins á mikilvægu sviði án nokkurs ávinnings fyrir landið. Þvert á móti gæti þessi innleiðing valdið hér stórtjóni, hækkað raforkuverð gríðarlega til allra notenda án langtímasamnings og stórskaðað samkeppnishæfni nánast allra fyrirtækja í landinu. Afleiðing af slíku er stórfelld lífskjararýrnun landsmanna. Er meirihluti fyrir slíku á Alþingi ? Fróðlegt væri að sjá almenna skoðanakönnun hérlendis um fylgi við þessa ráðstöfun, sem að mestu hefur legið í þagnargildi hingað til. Í Noregi eru 18 % aðspurðra fylgjandi þessu ráðslagi, 38 % óákveðnir og 44 % andvígir. Umræða mun á næstunni fækka hinum óákveðnu, því að Stórþingið mun taka málið til afgreiðslu í marz 2018. Verður spennandi að sjá, hvort Stórþingsmenn munu ganga á hólm við kjósendur sína og lúta vilja ríkisstjórnar og stórs hluta embættismannaveldisins.
31.12.2017 | 17:50
Er lengur þörf á EES ?
Spurning um það, hvort þörf sé lengur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) væri óþörf, ef ekki fylgdi böggull skammrifi með þessu viðhengi Evrópusambandsins (ESB). Þessi böggull er ekkert léttmeti, sem almenningur og forráðamenn þjóðarinnar geta látið sér í léttu rúmi liggja, því að þar er að finna æ fleiri alvarlegar vísbendingar um, að aðildin að EES feli í sér fullveldisframsal til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins, sem sé langt umfram aðild að viðskiptasamningum eða öðrum alþjóðasamtökum, sem Ísland á aðild að.
Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn á sínum tíma, sýndist sitt hverjum um þetta, og það var lögfræðilegt ágreiningsefni, hvort Stjórnarskrá landsins væri brotin með þessu. Nú hefur 23 ára vera Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu og nýjustu tíðindi af æ nánari samruna ESB-ríkjanna ("an ever closer union"), sem oftar en ekki virðist að hálfu ESB vera látinn falla undir EES-samninginn, hins vegar taka af öll tvímæli um það, að framkvæmd EES-samningsins sé á þann veg, að samþykkt hans hafi í raun falið í sér stjórnarskrárbrot að hálfu Alþingis og forseta lýðveldisins, sem samninginn undirritaði.
Dæmin, sem hér verða tekin, eru tvö. Er annað nýlegt og hitt væntanlegt:
Fyrra dæmið nær aftur til 2009, þegar Alþingi samþykkti að fella matvælastefnu ESB í íslenzk lög með þeirri undantekningu, að ekki yrð leyfður innflutningur á hráu og ófrystu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Var þetta ekki gert af meintri meinfýsi þeirra, sem sagðir eru vilja vernda íslenzkan landbúnað gegn óheftri samkeppni niðurgreiddra landbúnaðarafurða frá ESB, heldur af illri nauðsyn fjarlægrar eyþjóðar að verjast heilsufarsfári fjölónæmra sýkla, sem landlægir eru í ESB-löndunum, og að verja innlenda búfjárstofna gegn bráðdrepandi sýkla- og veirusýkingum. Íslenzkir búfjárstofnar eru varnarlausir gegn erlendu fári, sem herjar á búfjárstofna erlendis og þeir hafa mótefni gegn. Þetta var ekki ímyndun þingmanna, heldur sjálfsögð varúðarráðstöfun, ráðlögð af fjölda hámenntaðra og reyndra vísindamanna á sviðum sýkla- og veirufræða.
Íslenzkir matvælainnflytjendur kærðu þetta innflutningsbann fyrir ESA, sem úrskurðaði, að það bryti í bága við EES-samninginn og þar með skuldbindingar, sem Alþingi samþykkti með inngöngu Íslands í EES árið 1994. Ágreiningurinn fór fyrir EFTA-dómstólinn, sem staðfesti úrskurð ESA í nóvember 2017.
Hvað sem öðru líður, er ljóst af þessum málalyktum, að samþykkt Alþingis, gerð í góðri trú um réttarstöðu landsins og til að vernda mikilvæga hagsmuni landsmanna, verður samt að láta í minni pokann fyrir vilja og úrskurði yfirþjóðlegrar stofnunar. Þar með er orðið eins ljóst og verða má, að stórfellt framsal fullveldis hefur átt sér stað til ESB, sem öllu ræður innan EES. Við þetta verður ekki unað, þótt "Fullveldisríkisstjórnin" hafi ákveðið að kyssa á vöndinn og taka þegjandi og hljóðalaust, því sem að höndum ber.
Rétt hefði í þessari stöðu verið að fara fram á samningaviðræður við ESB um þessi mál og fresta þar með gildistöku úrskurðarins um hríð til að vinna tíma til stefnumörkunar innanlands. Hvernig sem þær samningaviðræður hefðu farið, er hitt ljóst, að nú blása vindar gagnkvæmra viðskiptasamninga á milli ríkja, svo að tímabært er að leggja EES niður. Ástæðan er auðvitað úrsögn Bretlands úr ESB, sem taka mun gildi í marz 2019. Bretar stefna á viðskiptasamning við ESB og aðrar þjóðir, þ.á.m. við Íslendinga og Norðmenn, og líklegt má telja, að EES ríkjunum þremur, utan ESB, muni standa svipaður viðskiptasamningur til boða við ESB og Bretlandi. Þar með verður hægt að leggja viðrinið EES fyrir róða, öllum til léttis.
ESB áformar að koma á 5. frelsinu á Innri markaði EES. Það fjallar um frjálst flæði hvers konar orku á milli EES-landanna, t.d. eldsneytisgass, olíu og raforku. Norðmenn hafa af þessu miklar áhyggjur, af því að ESB hefur falið nýrri stofnun, "ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators", mikil völd. E.t.v. má kalla þessa stofnun "Orkusamvinnustofnun EES". Hún á að hafa síðasta orðið í hverju landi um öll orkutengd málefni, sem henni þóknast að skilgreina sem "EES-málefni" og ESA verður úrskurðaraðilinn. Takmarkið með þessu er, að öll orka flæði frjálst og hindrunarlaust yfir landamæri þangað, sem hæstbjóðanda þóknast, að hún verði send innan EES.
Margir Norðmenn hafa af þessu gríðarlegar áhyggjur, enda óttast þeir að missa tökin á raforkumálum sínum vegna mikillar sjálfbærrar fallvatnsorku þar í landi, sem tiltölulega ódýrt er að breyta í raforku. Óttast Norðmenn tæmingu miðlunarlóna og a.m.k. 30 % hækkun rafmagnsreiknings heimila og fyrirtækja af þessum völdum.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en hérlendis fljóta yfirvöldin að feigðarósi, hafa annaðhvort ekki af málinu frétt eða sjá ekki hættuna, sem hérlendis stafar af þessu samrunaferli ESB. ACER gegnir nefnilega því hlutverki að auka orkuflutninga á milli landa. Raforkuflutningar á milli landa nema nú 10 % og stefnt er á tvöföldun þessa hlutfalls 2030. Á Íslandi er mesta raforkuvinnsla á mann í heiminum, og talsvert óvirkjað enn. Fólki hjá ACER er kunnugt um þetta og um áhuga Landsvirkjunar o.fl. á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands. Það er vel hægt að hugsa sér þá stöðu, að á vegum ACER verði fé látið af hendi rakna til að koma sæstrengsverkefninu á koppinn. Útibú ACER á Íslandi hefði völd (samkvæmt ákvörðun ESB) til að skikka Landsnet til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt, og síðan mundi útibúið setja hér á laggirnar tilboðsmarkað fyrir raforku - bingo. Mörg hundruð, jafnvel 1000 MW (megawött) mundu streyma úr landi, orkuverðið innanlands snarhækka og Íslendingar "sitja með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn orða það, þegar einhver fær ekki rönd við reist og/eða er tekinn í bólinu.
Það er full ástæða til að vara alvarlega við því, sem hér er að eiga sér stað með æ nánari samruna á EES-svæðinu. Þessi þróun hentar engan veginn Íslendingum og Norðmönnum, sem geta hæglega misst "erfðasilfur" sitt í hendur hrægamma með andvaraleysi.
Gleðilegt aldarafmælisár fullveldis !
Evrópumál | Breytt 1.1.2018 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2017 | 11:51
Orkusamband EES-landa ?
Frá ríkisstjórn Íslands berast þau tíðindi, að hún hyggist hlíta dómi EFTA-dómstólsins frá í nóvember 2017, sem var á þá lund, að Alþingi hafi við innleiðingu matvælalöggjafar ESB verið óheimilt að banna innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.
Alþingismenn töldu sig vafalaust vera að verja lífshagsmuni þjóðarinnar með þessari gjörð árið 2009, enda hafa viðurkenndir vísindamenn á sviði sýkla- og veirufræði varað við því, að með slíku hrámeti að utan geti hæglega borizt fjölónæmir sýklar, sem ráðast á mannfólkið, og dýrasjúkdómar, sem mótefni vantar fyrir í íslenzka dýrastofna.
Sýkingar af völdum fjölónæmra sýkla eru alvarleg lýðheilsuógn. Framandi dýrasjúkdómar hafa orðið landsmönnum mjög þungir í skauti og t.d. næstum útrýmt íslenzka sauðfjárstofninum.
Ríkisstjórnin ætlar sér vafalaust í ýmsar mótvægisaðgerðir, t.d. aukið kerfisbundið eftirlit, og skilmerkilegar upprunamerkingar, sem blasa verða við neytendum. Það er þó ómótmælanlegt, að téður innflutningur mun auka líkur á hættulegum sjúkdómum hérlendis. Hver áhættuaukningin er, hefur enn ekki komizt á hreint. Hin hlið þessa máls, er að Alþingi er gert afturreka með ákvörðun sína. Þar með blasir við fullveldisframsal með EES-samninginum.
Það verður að lýsa nokkurri furðu á því, að ríkisstjórnin leggi að óreyndu niður skottið gagnvart Brüssel-valdinu og geri ekki tilraun til samningaumleitana við framkvæmdastjórn ESB um innflutning á þessum vörum, sem sumir vísindamenn telja íslenzkri fánu stórhættulega. Ferst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þar öðru vísi en ríkisstjórn Davids Cameron, sem samdi um ýmsar tilslakanir við ESB fyrir Bretlands hönd og lagði þann samning síðan fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar með því fororði, að synjun mundi þýða úrsögn Bretlands úr ESB. Úr því varð BREXIT.
Eðlilegt hefði verið af íslenzku ríkisstjórninni að fara sömu leið og leggja samningsniðurstöðuna fyrir þjóðina undir því fororði, að höfnun þýddi úrsögn Íslands úr EES. Er ekki kominn tími til, að þjóðin taki sjálf afstöðu til veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með öllum þess kostum og göllum ?
Sú staðreynd, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA getur gert Alþingi afturreka með samþykktir sínar í máli, sem getur varðað lífshagsmuni, sýnir, að Alþingi framseldi fullveldi sitt til ESA og ESB með því að samþykkja samning um aðild Íslands að EES, sem gekk í gildi 1994. M.v. það, sem í húfi er, var þetta ótvírætt stjórnarskrárbrot, og öndvert mat lögspekinga á sínum tíma hefur nú fallið um sjálft sig.
Nú er í deiglunni enn eitt málið á ferli ESB til æ meiri sameiningar ("an ever closer union"). ESB hefur jafnframt ákveðið, að þetta mál heyri í öllum aðalatriðum undir EES-samning Íslands, Noregs og Liechtenstein. Hér ræðir um orkusamband EES ("EEA Energy Union"). Það er skemmst frá því að segja, að orkusamband þetta mun svipta aðildarþjóðirnar forræði á orkumálum sínum. Það verður ekki gert með eignaupptöku, heldur með því að setja á laggirnar Orkustofnun Evrópu-"European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", skammstafað ACER, sem staðsett er í Slóveníu.
Framkvæmdastjórn, leiðtogaráð og þing ESB hafa framselt valdheimildir til ACER til að taka stefnumótandi ákvarðanir um orkukerfi aðildarlandanna á sviðum, sem varða "sameiginlega hagsmuni" aðildarlandanna. Það er ESA, sem úrskurðar í hverju tilviki, hvort ákvörðun varðar "sameiginlega hagsmuni" eða ekki. Í hverju landi verður undirorkustofnun, UOS, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for Energi", skammstafað RME, sem sér um framkvæmd stefnu ACER í hverju landi. M.a. mun UOS (RME) koma á fót kauphallarviðskiptum með raforku, þar sem hver sem er innan EES, getur boðið í raforku, sem á boðstólum er, og ESB vill, að öll framleiðanleg raforka sé á boðstólum. Þetta þýðir, að dagar langtíma raforkusamninga eru taldir.
Þetta hefur í för með sér gjörbreytingu til hins verra fyrir land eins og Noreg, þar sem langtímasamningar eru undirstaða rekstrar iðnfyrirtækja vítt og breytt um landið, og tengingar norska rafkerfisins við Svíþjóð, Finnland, Danmörku, Holland og senn við Bretland veita mikla flutningsmöguleika á afli til útlanda. Félagar í samtökunum "Nei til EU" í Noregi óttast, að aðild Noregs að "Orkustofnun Evrópu" (ACER) geti rústað norskum iðnaði og valdið a.m.k. 30 % hækkun á raforkuverði í Noregi.
Hvaða áhrif gæti ACER haft á Íslandi ?
ACER á t.d. að fá vald til að ákveða uppbyggingu innviða, sem þvera landamæri, og varðandi "verkefni um sameiginlega hagsmuni". Ef þátttakendur í slíkum samstarfsverkefnum eru ósammála um kostnaðarskiptinguna, þá sker ACER úr um það.
Fyrir Ísland er t.d. hægt að hugsa sér, að ACER komist að þeirri niðurstöðu, að ófært sé, að land með mestu raforkunotkun á mann í heiminum sé eitt og ótengt úti í Ballarhafi. Í landinu sé enn talsvert af ónýttum endurnýjanlegum orkulindum, og að nú sé kominn tími til að landið verði tengt við raforkukerfi meginlandsins, svo að fleiri geti notið góðs af ódýrri og endurnýjanlegri orku. Þannig mundi sæstrengur frá Íslandi til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi þjóna markmiðum ESB um aukningu á orkuflutningum á milli landa frá núverandi 10 % í 15 % árið 2025 og 20 % árið 2030. ACER mundi vafalaust niðurgreiða stofnkostnað af slíkum streng, sem yrði þá í einkaframkvæmd, og Landsnet yrði skikkað til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt og búast má við, að Landsnet þyrfti að taka þátt í að greiða kostnaðinn við flutning raforkunnar frá virkjunum á Íslandi og til kaupandans. Síðan hæfist samkeppni um íslenzka raforku á milli orkukaupenda hérlendis og erlendis. Afleiðingin fyrir alla raforkunotendur á Íslandi yrði jafnvel hærra raforkuverð en á raforkumarkaði á meginlandinu vegna hás flutningskostnaðar. Aðeins raforkukaupendur með langtímasamninga í gildi fengju að halda gildandi orkuverði samkvæmt samningi, en ACER leggst alfarið gegn endurnýjun slíkra samninga og m.v. völd sín er ekki að efa, að ACER mundi fá því framgengt, að áður en lyki yrði öll raforka á íslenzka stofnkerfinu á evrópskum markaði.
Undirorkustofnun ACER á Íslandi, UOS, verður verkfæri ACER og óháð íslenzkum yfirvöldum. Ákvörðunarvald um það, hversu miklum vatnsforða úr lónunum má miðla í því augnamiði að selja orku frá Íslandi, verður hjá UOS. Þannig er nær öruggt, að staðan í íslenzkum miðlunarlónum yrði iðulega orðin svo lág í upphafi árs, að kaupa yrði raforku að utan á því verði, sem hún fengist fyrir.
Fyrir Ísland og Noreg, sem bæði eru rík af hagkvæmri, endurnýjanlegri orku, sem nú knýr hagkerfi beggja landa, er ofangreind sviðsmynd alger hrollvekja. Um það er einfaldlega að ræða að afhenda yfirþjóðlegu valdi, ACER, ráðstöfunarrétt á erfðasilfri hvorrar þjóðar um sig. Fyrir meirihluta Norðmanna er það algerlega óaðgengilegt fyrirkomulag samkvæmt skoðanakönnunum þar í landi, og sama verður örugglega uppi á teninginum hérlendis, ef ríkisstjórnin, Fullveldisstjórnin, ætlar að leggja fram frumvarp þess efnis á aldarafmælisári íslenzka fullveldisins, eins og norska ríkisstjórnin hyggst gera á fyrsta fjórðungi 2018, að Alþingi samþykki þriðju orkutilskipun ESB til innleiðingar í íslenzkan rétt. Í báðum ríkjunum mun rísa upp hatrömm mótmælabylgja gegn slíku glapræði. Samþykki Stórþingið og Alþingi ekki þessa innleiðingu, mun ESA úrskurða um brot á EES-skuldbindingum landanna, og EFTA-dómstóllinn mun líklega dæma ESA í hag. Þá verður Noregi og Íslandi ekki lengur vært innan EES.
Evrópumál | Breytt 24.12.2017 kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.12.2017 | 11:48
Ólíkar blikur á lofti norðan og sunnan Alpafjalla
Í vor kom út efnahagsskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Almennt er árangur Íslendinga í efnahagsmálum frá Hruni þar talinn til hins bezta í heiminum um þessar mundir, sem sýnir dugnað þjóðarinnar framar öðru, en það eru þó hættumerki við sjónarrönd, sem ríkisvald, fjármálakerfi og samningsaðilar atvinnulífsins þurfa að bregðast við af eindrægni, eigi síðar en á fullveldisárinu, 2018. Launadeila flugvirkja hjá Icelandair er reyndar til vitnis um, að einn neisti í púðurtunnuna getur sprengt lífskjarabót undanfarinna ára út í hafsauga.
Það yrði hræðilegt, ef ógæfu þjóðarinnar yrði allt að vopni á aldarafmælisári fullveldisins. Þótt brokkgeng hafi verið, hefur þjóðin einmitt sýnt á einni öld, að hún verðskuldar fullveldi, hún þrífst miklu betur með fullveldi en án þess og hún hefur burði til að axla fullveldið.
Andrés Magnússon gerði téða OECD - skýrslu að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 29. júní 2017 undir fyrirsögninni:
"Öflugur hagvöxtur, en blikur á lofti":
Hættumerkin eru greinilegust á vinnumarkaðinum. Sem stendur glitrar hann þó sem gull af eiri varðandi kaupmátt og atvinnutækifæri í samanburði við vinnumarkað annars staðar, en glæsileg staðan er sennilega ósjálfbær. Ástæða þess er sú, að launakostnaður fyrirtækja hefur yfirleitt hækkað meira en nemur framleiðniaukningu þeirra. Þá er gengið á varaforða eða safnað skuldum. Ef vísitala þessara stærða er sett á 100 árið 1995, þá eru raunlaun 2017 170 og VLF/vinnustund = 158 og VLF/launþega = 153. M.ö.o. hefur raunlaunakostnaður aukizt yfir 11 % meira en verðmætasköpun á launþega. Þetta er aðvörun um það, að nú sé ekki borð fyrir báru og svigrúm til launahækkana að jafnaði lítið sem ekkert. Þetta á við um flugvirkja sem aðra, nema þeir hafi verið hlunnfarnir um lífskjarabætur miðað við ofangreint. Það er mjög ólíklegt, og þess vegna er ábyrgðarhlutur þeirra, sem neita að aðlaga sig raunverulegum aðstæðum á markaði, mikill. Þeir saga í sundur greinina, sem þeir sjálfir sitja á.
Ríkisstjórnin þarf augljóslega að koma með útspil til að eyða téðri ósjálfbærni, því að hún verður ella senn fóður fyrir verðbólgu, sem er versti óvinur launþega og atvinnurekenda. Þar má tína til lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts á launþega og fyrirtæki.
Stýrivextir Seðlabankans eru samt enn óþarflega háir að mati margra utan Peningastefnunefndar bankans, sem sá ekki ástæðu til að lækka vaxtabyrði fyrirtækja og einstaklinga á vaxtaákvörðunardegi 13. desember 2017. Raunvextir hans eru um 2,6 %, sem skapa almennt raunvaxtastig í landinu um 5 %. Þetta sligar atvinnulífið og dregur úr langtíma fjárfestingum þess og eykur að óþörfu greiðslubyrði ungs fólks, sem lagt hefur í mestu fjárfestingu ævinnar, kaup á fyrsta húsnæðinu.
Tregða Seðlabankans til vaxtalækkana er misráðin. Hann horfir um of á atvinnustigið og sér þá, að framleiðsluþættirnir eru fullnýttir, en hann horfir framhjá þeirri staðreynd, að í landinu eru yfir 6000 erlendir starfsmenn, 1/3 á vegum starfsmannaleiga og 2/3 ráðnir beint að utan af fyrirtækjunum. Þar að auki eru 30 þúsund útlendingar búsettir í landinu. Þetta erlenda fólk heldur uppi hagkerfi Íslands. Gríðarlegur skortur væri á vinnuafli, ef þess nyti ekki við. Hér er ekki einvörðungu um að ræða íbúa á EES-svæðinu, heldur líka t.d. Georgíumenn, sem eru kristnir og duglegir Kákasusmenn, komnir til að vinna, en ekki til að valda vandræðum, segja þeir sjálfir. Þessa ótta við ofhitnun hagkerfisins gætir einnig hjá OECD, en kælingaráhrif ISK eru vanmetin:
"OECD segir þó, að þrátt fyrir, að horfur séu góðar, sé töluverð hætta á ofhitnun. Bent er á, að kjarasamningar hafi verið gerðir af nokkru örlæti undanfarin ár, en þrátt fyrir það vilji ýmis verkalýðsfélög sækja enn frekari kjarabætur. Stofnunin telur mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan þurfi að miðast við, að bregðast megi við auknum verðbólguvæntingum."
Skyldi nýja ríkisstjórnin vera sammála því að auka við rekstrarafgang ríkissjóðs ? Eru auknar verðbólguvæntingar ? Þess sér ekki stað í s.k. verðbólguálagi til langs tíma. OECD hefur hér fengið gleraugu Seðlabankans lánuð.
Í Businessweek 23. október 2017 var vikið að efnahagsástandinu á Ítalíu í greininni,
"La dolce procrastinazione".
Sem dæmi um slæmt ástand innviða er nefnt, að vatnsskortur hafi leitt til hættu á daglegri 8 klst vatnsskömmtun í Róm, af því að hið sögufræga vatnsveitukerfi borgarinnar leki 40 % af aðveitunni. Þá safnist rusl upp í görðum og gras sé óslegið, á meðan borgaryfirvöld berjist við spillingarhneyksli hjá þjónustustofnunum borgarinnar.
Í október 2017 upplýsti stærsti vogunarsjóður heims, "Ray Dalio´s Bridgewater Associates", að hann hefði veðjað miaUSD 1,1 um, að hlutabréf nokkurra stærstu fyrirtækja Ítalíu mundu lækka, þ.á.m. tveggja stærstu bankanna og Enel Spa, hinnar ítölsku Landsvirkjunar.
Ítalir láta sér fátt um finnast og halda áfram að "sparka dósinni á undan sér", eins og þeirra hefur löngum verið háttur. Á 11 ára aldri læra ítalskir skólanemendur söguna af Quintus Fabius Maximus Verrucosus, rómverska hershöfðingjanum, sem yfirbugaði með hægðinni Hannibal, hershöfðingja Karþagómanna, með því að forðast bardaga. Hann hlaut viðurnefnið "Cunctator"-"frestarinn", og það er nú sem fyrr höfuðeinkenni ítalskra stjórnmálamanna, en ekki eftirbreytnivert.
Tökum dæmi af flóttamönnum, sem koma sjóleiðina til Ítalíu. Opinberlega skal taka fingrafar af öllum flóttamönnum, þegar þeir koma til Evrópu, og setja í sameiginlegan gagnagrunn ESB. Í raun hafa Ítalir oft hunzað þessa reglu, og flóttamenn hafa haldið óskráðir til annarra landa frá Ítalíu. Þetta er slæmt, því að landvistaróskir skal fjalla um í fyrsta komulandi umsækjanda á faraldsfæti. Þegar slíkur flækingur birtist, t.d. á Íslandi eða í Svíþjóð, er það kerfislega eins og hann hafi borizt beint frá Mogadishu til Keflavíkurflugvallar eða Málmeyjar. Sómalinn verður íslenzkt eða sænskt vandamál. Ítölum hefur þannig tekizt að "sparka dósinni" norður eftir Evrópu.
Þetta sýnir það, sem Færeyingar hafa lengi vitað, að það er ekki í lagi fyrir norðrið að deila landamærum sínum með suðrinu. Rökrétt svar Íslands við þessu ástandi er að taka upp eigin landamæragæzlu.
Að smygla Ítalíu inn á evru-svæðið hefur verið nefnt "stærstu viðskipti sögunnar" ("the greatest trade ever"-af The Economist). Uppgjörið fór aldrei fram, heldur lenti Ítalía í tvöfaldri kreppu í fjármálakreppunni 2007-2009, þegar iðnaðarframleiðslan dróst saman um fjórðung. Atvinnuleysið náði 12,8 % í ársbyrjun 2014. Ríkisskuldir Ítalíu náðu árið 2017 yfir miaEUR 2000 eða 132 % af VLF, samanborið við 96 % í Frakklandi og 62 % á Íslandi. Viðmið Maastricht-samnings til upptöku evru er 60 %.
Auðvitað liggur félagsleg eymd að baki þessum ítölsku tölum. Fjöldi Ítala, sem býr við raunverulega fátækt (ekki aðeins tiltölulega fátækt), næstum þrefaldaðist á síðustu 10 árum; 4,7 M Ítala eða 7,9 % mannfjöldans, eiga ekki fyrir daglegu lífsframfæri sínu, þ.e. þeir eru vannærðir og hýrast í hreysum (Laugardalur ?!).
Fjöldaatvinnuleysi æskulýðsins upp á 35,4 % hefur eyðilagt starfsmöguleika heillar kynslóðar Ítala og möguleika hennar til eðlilegrar fjölskyldumyndunar. Aðeins 52,1 % ítalskra kvenna á aldrinum 20-64 ára voru í launaðri vinnu í ársbyrjun 2017. Þetta er minnsta atvinnuþátttaka kvenna í Evrópu utan Grikklands.
Að norrænu mati jafngilda þessar tölur dauðadómi yfir ítalska samfélaginu. Þetta ömurlega ástand er aðallega vegna þess, að Ítölum var smyglað inn á evrusvæðið. Samfylkingin ætlaði að smygla Íslendingum inn í þetta sama mynthelsi, þegar hún var hér í ríkisstjórn 2007-2013. Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir það 2007-2008 og Alþingi með skilmálum sínum, þegar Össur Skarphéðinsson var hér utanríkisráðherra á vegum Samfylkingarinnar 2009-2013.
Nú hafa þau þröngsýnu og óþjóðhollu öfl, sem reru að því öllum árum að koma Íslandi í banvænan náðarfaðm ESB, verið hreinsuð út úr Stjórnarráði Íslands. Það gerðist á Fullveldisdaginn, 1. desember 2017, þegar "Fullveldisríkisstjórnin" tók hér við völdum. Verður að vona, að hún standi undir nafni, en á það mun t.d. reyna við úrlausn hennar á úrskurði EFTA-dómstólsins um, að Alþingi hafi ekki haft heimild árið 2009 til að kveða á um undantekningar við innleiðingu matvælalöggjafar ESB. Skýrara dæmi um fullveldisafsal verður varla fengið. Slíkt brýtur í bága við Stjórnarskrá landsins og krefst viðbragða að hálfu stjórnvalda. Verður Íslandi vært innan EES ?
9.12.2017 | 11:37
Einangrunarhyggja er ekki í boði
Brexit-sinnar, þ.e. fylgjendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ESB, boða margir hverjir, að þeir vilji sízt loka Bretland af í menningarlegu og viðskiptalegu tilliti, þegar Bretar munu hafa sagt skilið við ESB í marz 2019, heldur vilji þeir þvert á móti opna Bretland fyrir hvers konar löglegum viðskiptum um allan heim. Þeir hafa talað um, að Bretland ætti að gegna forystuhlutverki í þágu frelsis, þegar þeir losna úr viðjum og út fyrir múra meginlandsins, "Festung Europa", sem er þýzkt hugtak úr seinni heimsstyrjöldinni og Bretland vann þá með þrautseigju bug á.
Fyrir íslenzka hagsmuni ættu þetta að vera ágætis tíðindi. Bretar munu ekki að óbreyttu verða hluti af EES eftir marz 2019, nema þá sem einhvers konar bráðabirgða ráðstöfun. Ísland þarf þess vegna fyrr en seinna að ná fríverzlunarsamningi við Bretland um þær vörur og þjónustu, sem báðum ríkjum hentar. Í fljótu bragði er það allt, nema matvæli, sem talin eru í viðtökulandinu geta valdið heilsufarsskaða að mati tilkvaddra vísindamanna á sviði manna- og dýrasjúkdóma. Bretar sjálfir þekkja þetta vel, því að þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni af völdum dýrasjúkdóma. Það verða varla alvarlegar hindranir á vegi Bretlands og Íslands að ná samkomulagi um þetta og helzt niðurfellingu allra opinberra innflutningsgjalda á hættulausum vörum og þjónustu. Fyrir Ísland mundi það þýða enn betri viðskiptakjör fyrir fiskafurðir en nú tíðkast innan EES.
Erfiðari viðgangs verður "Festung Europa", þ.e. Evrópska efnahgssvæðið-EES. E.t.v. verður að sprengja það upp, þar sem í ljós er komið varnarleysi íslenzkra stjórnvalda gagnvart lagasetningu ESB, sem varðar lífshagsmuni hérlendis. Með öðrum orðum er nú komið skýrar í ljós en áður, að fullveldisframsal Íslands með samþykkt EES-samningsins, sem aldrei fór í þjóðaratkvæðagreiðslu, var stórfelldara en samræmanlegt er Stjórnarskrá Íslands. Fyrir því að yfirgefa EES er einnig vaxandi vilji í Noregi, en blekbónda er ekki kunnugt um afstöðu Liechtenstein til framtíðar EES. Við Brexit verða vatnaskil, sem gefa kost á að endurskoða viðskiptasambönd Íslands við umheiminn með róttækum hætti.
Tvö hagspök lögðu saman í Morgunblaðsgrein, 20. júlí 2017, og varð útkoman,
"Niður með múrana",
sem er afar fróðleg og góð röksemd fyrir haftalausum viðskiptum, svo lengi sem öðrum og mikilvægari hagsmunum er ekki ógnað. Sennilega verður tvíhliða samningur Íslands og ESB ofan á sem endanlegt fyrirkomulag á samskiptum Íslands og ESB, því að ESB mun ekki að óbreyttu samþykkja undanþágur á frelsunum 4 eða 5 (raforkuflutningar gætu orðið 5. frelsið) og matvælalöggjöf sinni. Ísland getur ekki undirgengizt þessar kvaðir án þess að fórna fullveldisrétti sínum, eins og nánar verður vikið að í þessari vefgrein. Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA (Samtaka atvinnulífsins) og Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns Efnahagssviðs SA, hófst þannig:
"Það er segin saga, að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna. Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóða viðskiptum. Hér sannast hið fornkveðna, að verðmætasköpunin er mest, þegar ríki sérhæfa sig í því, sem þau gera bezt og verzla það, sem þau vanhagar um, erlendis. [Stundum er styrkur ríkja fólginn í að nýta sérstakar náttúruauðlindir, t.d. endurnýjanlega orku, hreint haf og land, eins og hérlendis, - innsk. BJo.]
Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun. Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess, að verkefni, sem áður borguðu sig ekki, verða arðbær, sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri, sem fyrir eru í landinu, og skapa önnur, sem eru heimamönnum hulin.
Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.
Beinar erlendar fjárfestingar hafa gefizt vel hérlendis, enda eru þær áhættulausar fyrir innlenda fjárfesta. Slíkir erlendir fjárfestar færa landsmönnum, auk áhættufjármagns, nýja þekkingu á verkferlum og stjórnun á fólki og verkefnum, t.d. áhættustjórnun. Þannig hafa öll stóriðjuverkefnin markað framfaraspor að sínu leyti í sínu héraði, nema "United Silicon" í Helguvík, þar sem erlendir fjárfestar voru lítt eða ekki viðriðnir, og þekkingarleysi virðist hafa ráðið för. Það er afleitt vegarnesti.
Það eru hins vegar skuggahliðar á aðild landsins að Innri markaði ESB með frjálsa flutninga fjármagns. Ef Ísland hefði ekki haft þetta aðgengi að Innri markaðinum með fjármagn, er ólíklegt, að Hrun fjármálakerfisins íslenzka haustið 2008 hefði orðið jafnalgert og raun bar vitni um. Hið sama má segja, ef bönkunum hefði verið stjórnað af festu og ábyrgð, þótt landið væri á Innri markaðinum. Aðild að Innri markaðinum felur óneitanlega í sér fullveldisframsal, sem reyndist stórhættulegt á ögurstundu haustið 2008. Af því ber að draga lærdóm. Sú áhættutaka felur í sér skammtíma ávinning og langtíma hættu. Hvorki var að finna skjól né stuðning á EES-svæðinu né reyndar annars staðar, þegar á herti. Sú dapurlega sögulega staðreynd sýnir, að ríkisstjórnir huga aðeins að hag eigin lands, þegar á herðir, og að það er enginn vinur lands í raun. Eina úrræðið er að standa á eigin fótum í hvaða stórsjó, sem er. Eina vörn einnar þjóðar er óskorað fullveldi hennar til að ráða sínum málum sjálf í blíðu og stríðu, sbr Neyðarlögin haustið 2008, sem björguðu landinu frá langvarandi allsherjar áfalli.
Allt frá miðbiki 20. aldar hefur verið rekinn harðvítugur áróður gegn beinum erlendum fjárfestingum á Íslandi og svo er enn. Ástæðan tengdist hagsmunatogstreitu stórveldanna í Kalda stríðinu í upphafi, og hún hefur alla tíð verið af stjórnmálalegum einangrunartoga fremur en á viðskiptagrundvelli. Þessi neikvæða síbylja hefur haft áhrif á afstöðu landsmanna, sem reynslan ætti þó að hafa kennt annað. Um þetta skrifa hagspekingarnir:
"Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni, hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu. Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu. Sláandi var, hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks, þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting. Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins."
Þegar Bjarni Benediktsson var fjármála-og efnahagsráðherra 2013-2016, hafði hann forgöngu um að fella niður alla tolla og vörugjöld, nema af bifreiðum, eldsneyti og vissum matvælum. Þetta var einstæður gjörningur, sem skipaði Íslendingum einhliða í hóp þjóða með minnstar innflutningshömlur á vörum. Þessi gjörningur gerði viðskiptaumhverfið hérlendis heilbrigðara, lækkaði vöruverð í landinu, sem afnáminu nam, öllum til hagsbóta, og ruddi brautina fyrir beinar fjárfestingar erlendra verzlunarfyrirtækja á Íslandi, sem eflt hafa samkeppni, svo að verðhjöðnun er hér enn og hefur verið mánuðum saman, ef húsnæðislið neyzluverðsvísitölunnar er sleppt.
Hrá matvæli eru ásteytingarsteinn. Matvælalöggjöf ESB var illu heilli samþykkt á Alþingi í árslok 2009. Ísland lenti þar með á Innri markaði EES fyrir matvæli, og þar er engar undanþágur að finna. Alþingi þóttist þó reka varnagla gagnvart sjúkdómahættu með því að banna innflutning á fersku kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Þessi varnagli var illa ryðgaður og er dottinn í sundur með nýlegum dómi EFTA-dómstólsins. Við því verður ný ríkisstjórn að bregðast snöfurmannlega. Þar mun mæða á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, sem fara með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og utanríkismál.
Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum. Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES.
Þar með er engum blöðum um það að fletta lengur, að framsal á fullveldi landsins til að verjast sjúkdómum hefur farið fram til EES. Þetta fullveldisframsal er óviðunandi með öllu og útheimtir endurskoðun á EES- samningi Íslands og uppsögn hans, ef téð fullveldi til sjúkdómavarna fæst ekki endurheimt úr klóm Berlaymont í Brüssel. Þessi afstöðubreyting markar þáttaskil í utanríkismálum Íslands og kemur á sama tíma og tengsl helztu viðskiptaþjóðar Íslands við EES eru að taka stakkaskiptum. Hér er óhjákvæmilega komið helzta utanríkispólitíska viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar.
5.12.2017 | 17:43
Hnignun Evrópusambandsins
Stjórnarkreppa ríkir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi. Landið er forysturýki Evrópusambandsins (ESB), og þegar í Berlín ríkir einvörðungu starfsstjórn, án umboðs frá Bundestag, á engin stefnumörkun sér stað í Brüssel heldur, sem heitið getur. Þetta hefur vafalítið tafið fyrir Brexit viðræðunum, enda er fyrri hluti þeirra á eftir áætlun, og þess vegna hafa samningaviðræður um viðskiptaskilmála ekki hafizt; karpað hefur verið um upphæð útgöngugjalds Bretlands, gagnkvæm réttindi fólks í Bretlandi og ESB og landamæraeftirlit á mörkum írska lýðveldisins og Norður-Írlands, en ekkert er farið að ræða um fyrirkomulag viðskiptasambands Bretlands við ESB. Gagnkvæmir hagsmunir eru svo miklir, að telja verður líklegt, að hagfelldur samningur náist fyrir athafnalíf og almenning beggja vegna Ermarsunds. Veik staða ríkisstjórnar Bretlands og Þýzkalands gagnvart þjóðþingum sínum flækir stöðuna.
Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, kom löskuð út úr þingkosningunum 24. september 2017, eins og Theresa May fyrr á árinu, og eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum CDU/CSU (flokkasamsteypa Merkel og Bæjarans Seehofers, sem nú hefur reyndar látið af völdum eftir afhroð í téðum kosningum), FDP (Frjálslynda lýðræðisflokksins) og græningja, þá er Angela Merkel sem lamaður leiðtogi. Þar hafa á fáeinum vikum í haust orðið alger umskipti. Hennar tími er augsýnilega liðinn, en hún hefur hvorki erfðaprins né erfðaprinsessu, enda er staðan óvænt.
Skýringin á viðræðuslitunum er óánægja FDP með afstöðu Merkel til flóttamanna í Þýzkalandi. FDP ætlar að herja á flokkinn AfD, Alternative für Deutschland, sem er á móti aðild Þýzkalands að myntsamstarfi ESB-evrunni og er mjög gagnrýninn á viðtöku einnar milljónar flóttamanna frá aðallega múhameðskum löndum árið 2016, sem enginn veit, hvað á að gera við. Fólk þetta á mjög erfitt með að aðlagast vestrænum samfélögum, það lifir margt hvert í andlegu miðaldamyrkri og er þungur baggi á velferðarkerfinu. FDP ætlar að hræra í þessu grugguga vatni og ná enn meiri fylgisaukningu í næstu kosningum á kostnað AfD, sem fékk 92 þingmenn í september 2017, svo að flokkurinn geti jafnvel gert kröfu um stjórnarmyndunarumboð í Berlín eftir næstu kosningar, sem gætu orðið innan tíðar, ef jafnaðarmenn, SPD, semja sig ekki inn í ríkisstjórn.
Í Austur-Evrópu er að magnast óánægja með ESB, af því að ESB vill þvinga aðildarlönd sín þar til að taka við flóttamönnum. Austur-Evrópulöndin og Eystrasaltslöndin vilja harðari stefnumörkun gagnvart Rússlandi, sem þau óttast, að geti reynt "úkraínuseringu" gagnvart sér. Angela Merkel hefur í raun borið kápuna á báðum öxlum gagnvart Vladimir Putín, sem alltaf sætir færis að koma höggi á Vesturlönd og rjúfa samstöðu þeirra. Merkel hefur leyft viðskipti við Rússa með iðnvarning á borð við þýzka bíla, og hún hefur leyft Nord-Stream 2 að halda áfram, en það er stórverkefni Þjóðverja og Rússa um gaslögn beint frá Rússlandi um botn Eystrasaltsins og til Þýzkalands. Austur-Evrópumenn eru æfir út af þessu. Fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, situr í stjórn gasrisans rússneska, sem hér á í hlut.
Suðurvængur ESB er í lamasessi. Katalónar vilja losna undan völdum Kastilíumanna, og sama á líklega við um Baska. Það getur hæglega kvarnazt út úr ríki Spánarkonungs á næstu misserum, en ESB óttast það, því að þá verður fjandinn laus víða í Evrópu. Meira að segja Bæjarar gætu í alvöru farið að velgja Prússunum í Brandenburg/Berlín undir uggum.
Enginn hagvöxtur hefur verið á Ítalíu frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, og margir banka Ítalíu eru taldir standa veikt. Ríkissjóður landsins er mjög skuldsettur. Ítalir glíma við vantraust á fjármálakerfi sínu, lánshæfismatið á þeim er lágt, og lausafjárkreppa getur fyrirvaralaust leitt til bankagjaldþrots. Þýzkir kjósendur eru andsnúnir því, að þýzka ríkið og þýzkir bankar hlaupi undir bagga, enda er um háar fjárhæðir að ræða á Ítalíu. Ef allt fer á versta veg fyrir Ítölum, mun gengi evrunnar lækka enn meira en undanfarin misseri m.v. bandaríkjadal og jafnvel verða ódýrari en bandaríkjadalur. Þá mun vegur sterlingspunds vænkast og hrollur fara um margan (tevtónann) norðan Alpafjalla.
Á Grikklandi er viðvarandi eymdarástand með 20 % atvinnuleysi (50 % á meðal fólks undir þrítugu), ríkisstofnanir eru sveltar og gamlingjar og sjúklingar lepja dauðann úr skel. Þessi eymd er í boði ESB, sem neitar að klippa á skuldahala gríska ríkisins, þótt AGS mæli með því. Sósíalistar Syriza þrauka í ríkisstjórninni í Aþenu, á meðan eignir Grikkja á borð við höfnina í Pireus eru seldar útlendingum, í mörgum tilvikum Kínverjum, sem eru að tryggja sér aðstöðu á siglingaleiðum (beltiskenning aðalritarans, Xi).
Ekki tekur betra við, þegar horft er til norðurs úr höfuðstöðvum ESB í Brüssel, Berlaymont. Öflugasta ríki ESB á sumum sviðum, og næstöflugasta efnahagsveldi þess, er á leiðinni út úr sambandinu, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar í júní 2016. Þetta er sársaukafullur skilnaður, bæði fyrir ESB og Bretland, og skilnaðarsamningaviðræður hafa gengið illa fram að þessu. Gæti svo farið, að í marz 2019 hrökklist Bretland úr þessari yfir fertugu meginlandsvist sinni án viðskiptasamnings, og þá gilda ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar. Bezt væri fyrir báða aðila, svo og Íslendinga, að fríverzlunarsamningur kæmist á. Íslendingar gætu notið góðs af honum, enda fer nú þegar talsvert af íslenzkum sjávarafurðum frá Bretlandi til meginlandsins.
Bretum er í mun að halda frjálsu viðskiptaaðgengi sínu að Innri markaðinum, og framleiðendum í ESB er í mun að halda óbreyttu aðgengi að 60 milljóna manna öflugum markaði norðan Ermarsundsins, en Berlaymont og leiðtogaráðið eru hins vegar skíthrædd við, að flótti bresti í liðið, ef Bretar standa uppi með pálmann í höndunum árið 2019, eins og reyndin varð eftir hrikaleg vopnaviðskipti 1918 við Habsborgara og Þýzkaland og 1945 við Öxulveldin. Þótt Bretar tapi orrustum, virðast þeir alltaf vinna stríðið.
Við þessar aðstæður hefur umræða í Noregi um aðild landsins að EES blossað upp, eins og grein í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017 bar með sér. Hún bar fyrirsögnina:
Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins.
Í Noregi ríkir nú minnihlutastjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins. Erna Solberg, forsætisráðherra, er fylgjandi aðild Noregs að ESB, en Framfaraflokkurinn er á móti. Nýlegi kúventi stærsti flokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, í þessu máli og hefur nú þá afstöðu að berjast ekki fyrir aðild Noregs að ESB. Það kann að vera orðið mjótt á mununum um stuðning á Stórþinginu við aðild Noregs að EES. Án Noregs þar hrynur EES eins og spilaborg, því að Norðmenn halda bákninu uppi fjárhagslega að mestu leyti.
Á Íslandi hefur úrsögn landsins úr EES þó enn ekki hlotið mikla umfjöllun. Gæfulegast væri að hafa samflot með Norðmönnum um endurskoðun samninga um EES, þar sem stefnt yrði á endurheimt óskoraðs fullveldis landanna, einnig yfir landamærum sínum, og viðskiptafrelsi með vörur og þjónustu, sem aðilar eru sammála um, að eru óskaðlegar fólki, dýrum og náttúru. Í sáttmála Fullveldisstjórnarinnar stendur í landbúnaðarkaflanum: "Meginmarkmiðið er, að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð". Þar sem þetta samræmist ekki matvælalöggjöf ESB, sem einnig gildir fyrir EES samkvæmt EFTA-dómi nýlega, er Íslandi ekki lengur vært innan EES. Hefur þá ekki verið minnzt á hættu, sem lýðheilsu stafar af innflutningi á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.
Norska Stórþingið og Alþingi verða að fela ríkisstjórnum landanna að semja um undanþágur við ESB, til að hægt sé að óska eftir sameiginlegum viðræðum landanna og hugsanlega Liechtenstein við ESB. Það er líklegra en hitt, að þessi þjóðþing myndu, eftir umræður, samþykkja að óska eftir slíkum samningaviðræðum við ESB, en það er hins vegar líklegt, að ESB fari undan í flæmingi vegna þess, hvernig allt er í pottinn búið á þeim bæ. Það er líka skynsamlegt fyrir Norðurlöndin að doka við og sjá, hver útkoman verður úr Brexit-viðræðunum, og nota tímann til að undirbúa jarðveginn innanlands, og að stilla saman strengi um leið og gerður er fríverzlunarsamningur við Bretland. Íslendingar munu reyna að ná enn hagstæðari samningum við Breta fyrir vörur sínar, t.d. sjávarvörur, en nú eru í gildi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)