Færsluflokkur: Evrópumál

Orkumál í uppnámi vegna ESB

Valdahlutföllin innan Evrópusambandsins (ESB) hafa þegar breytzt vegna ákvörðunar Breta um að yfirgefa sambandið.  Hlutur efasemdarmanna um æ nánari samruna ríkjanna á leið til sambandsríkis Evrópu í stað ríkjasambands hefur rýrnað við að missa rödd Bretlands úr hópnum, og sameiningarsinnar færa sig að sama skapi upp á skaptið. Nú á að láta kné fylgja kviði á sviði orkuflutninga á milli ríkja.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að flaggskip ESB er Innri markaður þess með frelsunum fjórum.  Árið 2009 var gefinn út bálkur tilskipana á orkusviði, t.d. 2009/72/ESB á sviði raforkuflutninga, sem miðaði að "fimmta frelsinu" á Innri markaðinum.  Flutningar á raforku og eldsneytisgasi skyldu verða frjálsir og hindrunarlausir á milli ríkjanna, og raforkuflutningana skyldi tvöfalda upp í 20 % af orkunotkun ESB-ríkjanna árið 2030. 

Ætlunin með þessu var að nýta tiltæka orku með hagkvæmasta hætti innan EES.  Til þess verður stofnaður orkumarkaður í hverju landi undir eftirliti útibús frá "Orkusamstarfsstofnun" ESB í hverju landi. Öll tiltæk orka á að fara á þennan markað, og nýir langtímasamningar um orkuviðskipti verða óheimilir innan ESB.  Hugmyndin var sú, að hægt verði að bjóða í orku, hvar sem er, hvaðan sem er, og flytja hana hindrunarlaust til bjóðandans með útjöfnuðum flutningskostnaði. 

Augljóslega mun þessi markaðsvæðing jafna út verðmun á raforku innan EES.  Þá hlýtur raforkuverðið óhjákvæmilega að hækka í Noregi og á Íslandi, þar sem íbúarnir hafa búið við u.þ.b. helmingi ódýrara rafmagn en íbúar ESB-ríkjunum. Þá mun hlutur endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun í ESB vaxa við aukna raforkuflutninga á milli landa, og að sama skapi minnka í Noregi og á Íslandi, ef sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda.   Til þess eru refirnir skornir í Berlaymont. 

Árið 2011 var stofnuð áðurgreind "Orkusamstarfsstofnun" ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) með aðsetri í Slóveníu.  ACER er samstarfsvettvangur orkustofnana ríkjanna með einum fulltrúa frá hverju EES-ríki, en aðeins ESB-ríkin eiga þar atkvæðisrétt.  Ákvarðanir eru bindandi og endanlegar, teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður.  ACER felur ESA-Eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins-að framfylgja ákvörðunum sínum í EFTA-löndunum þremur innan EES, Noregi, Íslandi og Liechtenstein.  

Orkustofnun (OS) fer með stjórnsýslu orkumála á Íslandi undir yfirstjórn Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins, A&N.  Eftir innleiðingu tilskipunar 2009/72/ESB á Íslandi verður OS þó aðeins svipur hjá sjón, því að útibú frá ACER verður stofnað á Íslandi, "Orkustjórnsýslustofnun"-OSS, sem felld verður undir hatt OS sem sjálfstæð stjórnsýslueining, og mun OSS taka við orkustjórnsýsluhlutverki OS að miklu leyti og á að verða óháð ráðuneyti orkumála, öðrum innlendum stofnunum og fyrirtækjum, en samt fara inn á íslenzku fjárlögin.  OSS mun hafa eftirlit með raforkumörkuðum á Íslandi og eiga samstarf við systurstofnanir sínar í EES.  OSS lýtur ekki boðvaldi neinna íslenzkra yfirvalda, heldur verður eins og ríki í ríkinu með eigin framkvæmdastjóra, skipuðum til 6 ára í senn, sem tekur við skipunum frá ESA.     

Ákvarðanir á vegum ACER munu ganga til ESA, sem sendir þær til OSS til framkvæmdar.  OSS útbýr tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir flutningsmannvirki orku, en OS verður áfram leyfisveitandi. Önnur starfsemi OS en starfsemi OSS verður áfram undir yfirstjórn ráðuneytisins, A&N. Þetta er anzi ruglingslegt fyrirkomulag, sem býður upp á harkalega árekstra innanlands. 

Þetta er óviðunandi fyrirkomulag raforkumála fyrir Íslendinga.  Þeir missa með því lýðræðisleg stjórnunartök á ráðstöfun raforkunnar í hendur fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem þeir eru án atkvæðisréttar.  Það er hættulegur misskilningur, að áhættulítið sé fyrir Alþingi að samþykkja tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA frá 5. maí 2017 um að fella Þriðja orkulagabálk ESB inn í EES-samninginn.  Innan vébanda ACER er hvenær sem er hægt að ákveða að bjóða út sæstreng frá Íslandi ásamt lögn hans til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi.  Það yrði í verkahring OSS að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir tengingar sæstrengja við stofnrafkerfi Íslands.  Hlutverk OS yrði eftir sem áður að gefa út starfræksluleyfi, en það er formsatriði, því að ekki verður séð, hvernig OS gæti hafnað starfræksluleyfi sæstrengs, sem uppfyllir alla setta skilmála.  Gildir þá einu, þótt innan OS og ráðuneytisins væri vilji til að vernda íslenzkar fjölskyldur og fyrirtæki gegn beinni samkeppni erlendis frá um raforkuna.  

Eins og í pottinn er búið, verður að draga stórlega í efa, að innan ACER sé hægt að taka ákvörðun, sem sé lagalega bindandi fyrir Ísland.  Ríkisstjórn Íslands hyggst þó leggja frumvarp fyrir Alþingi, jafnvel vorið 2018, um að fara að tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA og samþykkja Þriðja orkulagabálk ESB sem hluta af EES-samninginum.  Ef Alþingi samþykkir þetta, er í leikmannsaugum augljóslega verið að fórna fullveldi landsins á mikilvægu sviði án nokkurs ávinnings fyrir landið.  Þvert á móti gæti þessi innleiðing valdið hér stórtjóni, hækkað raforkuverð gríðarlega til allra notenda án langtímasamnings og stórskaðað samkeppnishæfni nánast allra fyrirtækja í landinu.  Afleiðing af slíku er stórfelld lífskjararýrnun landsmanna.  Er meirihluti fyrir slíku á Alþingi ?  Fróðlegt væri að sjá almenna skoðanakönnun hérlendis um fylgi við þessa ráðstöfun, sem að mestu hefur legið í þagnargildi hingað til.  Í Noregi eru 18 % aðspurðra fylgjandi þessu ráðslagi, 38 % óákveðnir og 44 % andvígir.  Umræða mun á næstunni fækka hinum óákveðnu, því að Stórþingið mun taka málið til afgreiðslu í marz 2018.  Verður spennandi að sjá, hvort Stórþingsmenn munu ganga á hólm við kjósendur sína og lúta vilja ríkisstjórnar og stórs hluta embættismannaveldisins. 

 

 


Er lengur þörf á EES ?

Spurning um það, hvort þörf sé lengur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) væri óþörf, ef ekki fylgdi böggull skammrifi með þessu viðhengi Evrópusambandsins (ESB).  Þessi böggull er ekkert léttmeti, sem almenningur og forráðamenn þjóðarinnar geta látið sér í léttu rúmi liggja, því að þar er að finna æ fleiri alvarlegar vísbendingar um, að aðildin að EES feli í sér fullveldisframsal til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins, sem sé langt umfram aðild að viðskiptasamningum eða öðrum alþjóðasamtökum, sem Ísland á aðild að.

Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn á sínum tíma, sýndist sitt hverjum um þetta, og það var lögfræðilegt ágreiningsefni, hvort Stjórnarskrá landsins væri brotin með þessu.  Nú hefur 23 ára vera Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu og nýjustu tíðindi af æ nánari samruna ESB-ríkjanna ("an ever closer union"), sem oftar en ekki virðist að hálfu ESB vera látinn falla undir EES-samninginn, hins vegar taka af öll tvímæli um það, að framkvæmd EES-samningsins sé á þann veg, að samþykkt hans hafi í raun falið í sér stjórnarskrárbrot að hálfu Alþingis og forseta lýðveldisins, sem samninginn undirritaði.

Dæmin, sem hér verða tekin, eru tvö. Er annað nýlegt og hitt væntanlegt:  

Fyrra dæmið nær aftur til 2009, þegar Alþingi samþykkti að fella matvælastefnu ESB í íslenzk lög með þeirri undantekningu, að ekki yrð leyfður innflutningur á hráu og ófrystu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Var þetta ekki gert af meintri meinfýsi þeirra, sem sagðir eru vilja vernda íslenzkan landbúnað gegn óheftri samkeppni niðurgreiddra landbúnaðarafurða frá ESB, heldur af illri nauðsyn fjarlægrar eyþjóðar að verjast heilsufarsfári fjölónæmra sýkla, sem landlægir eru í ESB-löndunum, og að verja innlenda búfjárstofna gegn bráðdrepandi sýkla- og veirusýkingum.  Íslenzkir búfjárstofnar eru varnarlausir gegn erlendu fári, sem herjar á búfjárstofna erlendis og þeir hafa mótefni gegn.  Þetta var ekki ímyndun þingmanna, heldur sjálfsögð varúðarráðstöfun, ráðlögð af fjölda hámenntaðra og reyndra vísindamanna á sviðum sýkla- og veirufræða.

Íslenzkir matvælainnflytjendur kærðu þetta innflutningsbann fyrir ESA, sem úrskurðaði, að það bryti í bága við EES-samninginn og þar með skuldbindingar, sem Alþingi samþykkti með inngöngu Íslands í EES árið 1994.  Ágreiningurinn fór fyrir EFTA-dómstólinn, sem staðfesti úrskurð ESA í nóvember 2017. 

Hvað sem öðru líður, er ljóst af þessum málalyktum, að samþykkt Alþingis, gerð í góðri trú um réttarstöðu landsins og til að vernda mikilvæga hagsmuni landsmanna, verður samt að láta í minni pokann fyrir vilja og úrskurði yfirþjóðlegrar stofnunar.  Þar með er orðið eins ljóst og verða má, að stórfellt framsal fullveldis hefur átt sér stað til ESB, sem öllu ræður innan EES.  Við þetta verður ekki unað, þótt "Fullveldisríkisstjórnin" hafi ákveðið að kyssa á vöndinn og taka þegjandi og hljóðalaust, því sem að höndum ber.  

Rétt hefði í þessari stöðu verið að fara fram á samningaviðræður við ESB um þessi mál og fresta þar með gildistöku úrskurðarins um hríð til að vinna tíma til stefnumörkunar innanlands.  Hvernig sem þær samningaviðræður hefðu farið, er hitt ljóst, að nú blása vindar gagnkvæmra viðskiptasamninga á milli ríkja, svo að tímabært er að leggja EES niður.  Ástæðan er auðvitað úrsögn Bretlands úr ESB, sem taka mun gildi í marz 2019.  Bretar stefna á viðskiptasamning við ESB og aðrar þjóðir, þ.á.m. við Íslendinga og Norðmenn, og líklegt má telja, að EES ríkjunum þremur, utan ESB, muni standa svipaður viðskiptasamningur til boða við ESB og Bretlandi.  Þar með verður hægt að leggja viðrinið EES fyrir róða, öllum til léttis.

ESB áformar að koma á 5. frelsinu á Innri markaði EES.  Það fjallar um frjálst flæði hvers konar orku á milli EES-landanna, t.d. eldsneytisgass, olíu og raforku.  Norðmenn hafa af þessu miklar áhyggjur, af því að ESB hefur falið nýrri stofnun, "ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators", mikil völd.  E.t.v. má kalla þessa stofnun "Orkusamvinnustofnun EES".  Hún á að hafa síðasta orðið í hverju landi um öll orkutengd málefni, sem henni þóknast að skilgreina sem "EES-málefni" og ESA verður úrskurðaraðilinn.  Takmarkið með þessu er, að öll orka flæði frjálst og hindrunarlaust yfir landamæri þangað, sem hæstbjóðanda þóknast, að hún verði send innan EES.

Margir Norðmenn hafa af þessu gríðarlegar áhyggjur, enda óttast þeir að missa tökin á raforkumálum sínum vegna mikillar sjálfbærrar fallvatnsorku þar í landi, sem tiltölulega ódýrt er að breyta í raforku.  Óttast Norðmenn tæmingu miðlunarlóna og a.m.k. 30 % hækkun rafmagnsreiknings heimila og fyrirtækja af þessum völdum.  

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en hérlendis fljóta yfirvöldin að feigðarósi, hafa annaðhvort ekki af málinu frétt eða sjá ekki hættuna, sem hérlendis stafar af þessu samrunaferli ESB.  ACER gegnir nefnilega því hlutverki að auka orkuflutninga á milli landa.  Raforkuflutningar á milli landa nema nú 10 % og stefnt er á tvöföldun þessa hlutfalls 2030.  Á Íslandi er mesta raforkuvinnsla á mann í heiminum, og talsvert óvirkjað enn.  Fólki hjá ACER er kunnugt um þetta og um áhuga Landsvirkjunar o.fl. á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands.  Það er vel hægt að hugsa sér þá stöðu, að á vegum ACER verði fé látið af hendi rakna til að koma sæstrengsverkefninu á koppinn.  Útibú ACER á Íslandi hefði völd (samkvæmt ákvörðun ESB) til að skikka Landsnet til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt, og síðan mundi útibúið setja hér á laggirnar tilboðsmarkað fyrir raforku - bingo.  Mörg hundruð, jafnvel 1000 MW (megawött) mundu streyma úr landi, orkuverðið innanlands snarhækka og Íslendingar "sitja með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn orða það, þegar einhver fær ekki rönd við reist og/eða er tekinn í bólinu.  

Það er full ástæða til að vara alvarlega við því, sem hér er að eiga sér stað með æ nánari samruna á EES-svæðinu.  Þessi þróun hentar engan veginn Íslendingum og Norðmönnum, sem geta hæglega misst "erfðasilfur" sitt í hendur hrægamma með andvaraleysi.

Gleðilegt aldarafmælisár fullveldis !

 

 

  

 

 


Orkusamband EES-landa ?

Frá ríkisstjórn Íslands berast þau tíðindi, að hún hyggist hlíta dómi EFTA-dómstólsins frá í nóvember 2017, sem var á þá lund, að Alþingi hafi við innleiðingu matvælalöggjafar ESB verið óheimilt að banna innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.

Alþingismenn töldu sig vafalaust vera að verja lífshagsmuni þjóðarinnar með þessari gjörð árið 2009, enda hafa viðurkenndir vísindamenn á sviði sýkla- og veirufræði varað við því, að með slíku hrámeti að utan geti hæglega borizt fjölónæmir sýklar, sem ráðast á mannfólkið, og dýrasjúkdómar, sem mótefni vantar fyrir í íslenzka dýrastofna.

Sýkingar af völdum fjölónæmra sýkla eru alvarleg lýðheilsuógn.  Framandi dýrasjúkdómar hafa orðið landsmönnum mjög þungir í skauti og t.d. næstum útrýmt íslenzka sauðfjárstofninum.  

Ríkisstjórnin ætlar sér vafalaust í ýmsar mótvægisaðgerðir, t.d. aukið kerfisbundið eftirlit, og skilmerkilegar upprunamerkingar, sem blasa verða við neytendum.  Það er þó ómótmælanlegt, að téður innflutningur mun auka líkur á hættulegum sjúkdómum hérlendis.  Hver áhættuaukningin er, hefur enn ekki komizt á hreint. Hin hlið þessa máls, er að Alþingi er gert afturreka með ákvörðun sína.  Þar með blasir við fullveldisframsal með EES-samninginum.  

Það verður að lýsa nokkurri furðu á því, að ríkisstjórnin leggi að óreyndu niður skottið gagnvart Brüssel-valdinu og geri ekki tilraun til samningaumleitana við framkvæmdastjórn ESB um innflutning á þessum vörum, sem sumir vísindamenn telja íslenzkri fánu stórhættulega.  Ferst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þar öðru vísi en ríkisstjórn Davids Cameron, sem samdi um ýmsar tilslakanir við ESB fyrir Bretlands hönd og lagði þann samning síðan fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar með því fororði, að synjun mundi þýða úrsögn Bretlands úr ESB. Úr því varð BREXIT.   

Eðlilegt hefði verið af íslenzku ríkisstjórninni að fara sömu leið og leggja samningsniðurstöðuna fyrir þjóðina undir því fororði, að höfnun þýddi úrsögn Íslands úr EES.  Er ekki kominn tími til, að þjóðin taki sjálf afstöðu til veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með öllum þess kostum og göllum ?    

Sú staðreynd, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA getur gert Alþingi afturreka með samþykktir sínar í máli, sem getur varðað lífshagsmuni, sýnir, að Alþingi framseldi fullveldi sitt til ESA og ESB með því að samþykkja  samning um aðild Íslands að EES, sem gekk í gildi 1994.  M.v. það, sem í húfi er, var þetta ótvírætt stjórnarskrárbrot, og öndvert mat lögspekinga á sínum tíma hefur nú fallið um sjálft sig.   

Nú er í deiglunni enn eitt málið á ferli ESB til æ meiri sameiningar ("an ever closer union").  ESB hefur jafnframt ákveðið, að þetta mál heyri í öllum aðalatriðum undir EES-samning Íslands, Noregs og Liechtenstein.  Hér ræðir um orkusamband EES ("EEA Energy Union").  Það er skemmst frá því að segja, að orkusamband þetta mun svipta aðildarþjóðirnar forræði á orkumálum sínum.  Það verður ekki gert með eignaupptöku, heldur með því að setja á laggirnar Orkustofnun Evrópu-"European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", skammstafað ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  

Framkvæmdastjórn, leiðtogaráð og þing ESB hafa framselt valdheimildir til ACER til að taka stefnumótandi ákvarðanir um orkukerfi aðildarlandanna á sviðum, sem varða "sameiginlega hagsmuni" aðildarlandanna.  Það er ESA, sem úrskurðar í hverju tilviki, hvort ákvörðun varðar "sameiginlega hagsmuni" eða ekki.  Í hverju landi verður undirorkustofnun, UOS, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for Energi", skammstafað RME, sem sér um framkvæmd stefnu ACER í hverju landi.  M.a. mun UOS (RME) koma á fót kauphallarviðskiptum með raforku, þar sem hver sem er innan EES, getur boðið í raforku, sem á boðstólum er, og ESB vill, að öll framleiðanleg raforka sé á boðstólum.  Þetta þýðir, að dagar langtíma raforkusamninga eru taldir.  

Þetta hefur í för með sér gjörbreytingu til hins verra fyrir land eins og Noreg, þar sem langtímasamningar eru undirstaða rekstrar iðnfyrirtækja vítt og breytt um landið, og tengingar norska rafkerfisins við Svíþjóð, Finnland, Danmörku, Holland og senn við Bretland veita mikla flutningsmöguleika á afli til útlanda.  Félagar í samtökunum "Nei til EU" í Noregi óttast, að aðild Noregs að "Orkustofnun Evrópu" (ACER) geti rústað norskum iðnaði og valdið a.m.k. 30 % hækkun á raforkuverði í Noregi.  

Hvaða áhrif gæti ACER haft á Íslandi ? 

ACER á t.d. að fá vald til að ákveða uppbyggingu innviða, sem þvera landamæri, og varðandi "verkefni um sameiginlega hagsmuni".  Ef þátttakendur í slíkum samstarfsverkefnum eru ósammála um kostnaðarskiptinguna, þá sker ACER úr um það.  

Fyrir Ísland er t.d. hægt að hugsa sér, að ACER komist að þeirri niðurstöðu, að ófært sé, að land með mestu raforkunotkun á mann í heiminum sé eitt og ótengt úti í Ballarhafi.  Í landinu sé enn talsvert af ónýttum endurnýjanlegum orkulindum, og að nú sé kominn tími til að landið verði tengt við raforkukerfi meginlandsins, svo að fleiri geti notið góðs af ódýrri og endurnýjanlegri orku.  Þannig mundi sæstrengur frá Íslandi til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi þjóna markmiðum ESB um aukningu á orkuflutningum á milli landa frá núverandi 10 % í 15 % árið 2025 og 20 % árið 2030.   ACER mundi vafalaust niðurgreiða stofnkostnað af slíkum streng, sem yrði þá í einkaframkvæmd, og Landsnet yrði skikkað til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt og búast má við, að Landsnet  þyrfti að taka þátt í að greiða kostnaðinn við flutning raforkunnar frá virkjunum á Íslandi og til kaupandans.  Síðan hæfist samkeppni um íslenzka raforku á milli orkukaupenda hérlendis og erlendis. Afleiðingin fyrir alla raforkunotendur á Íslandi yrði jafnvel hærra raforkuverð en á raforkumarkaði á meginlandinu vegna hás flutningskostnaðar. Aðeins raforkukaupendur með langtímasamninga í gildi fengju að halda gildandi orkuverði samkvæmt samningi, en ACER leggst alfarið gegn endurnýjun slíkra samninga og m.v. völd sín er ekki að efa, að ACER mundi fá því framgengt, að áður en lyki yrði öll raforka á íslenzka stofnkerfinu á evrópskum markaði.  

Undirorkustofnun ACER á Íslandi, UOS,  verður verkfæri ACER og óháð íslenzkum yfirvöldum.  Ákvörðunarvald um það, hversu miklum vatnsforða úr lónunum má miðla í því augnamiði að selja orku frá Íslandi, verður hjá UOS.  Þannig er nær öruggt, að staðan í íslenzkum miðlunarlónum yrði iðulega orðin svo lág í upphafi árs, að kaupa yrði raforku að utan á því verði, sem hún fengist fyrir.  

Fyrir Ísland og Noreg, sem bæði eru rík af hagkvæmri, endurnýjanlegri orku, sem nú knýr hagkerfi beggja landa, er ofangreind sviðsmynd alger hrollvekja.  Um það er einfaldlega að ræða að afhenda yfirþjóðlegu valdi, ACER, ráðstöfunarrétt á erfðasilfri hvorrar þjóðar um sig.  Fyrir meirihluta Norðmanna er það algerlega óaðgengilegt fyrirkomulag samkvæmt skoðanakönnunum þar í landi, og sama verður örugglega uppi á teninginum hérlendis, ef ríkisstjórnin, Fullveldisstjórnin, ætlar að leggja fram frumvarp þess efnis á aldarafmælisári íslenzka fullveldisins, eins og norska ríkisstjórnin hyggst gera á fyrsta fjórðungi 2018, að Alþingi samþykki þriðju orkutilskipun ESB til innleiðingar í íslenzkan rétt.  Í báðum ríkjunum mun rísa upp hatrömm mótmælabylgja gegn slíku glapræði.  Samþykki Stórþingið og Alþingi ekki þessa innleiðingu, mun ESA úrskurða um brot á EES-skuldbindingum landanna, og EFTA-dómstóllinn mun líklega dæma ESA í hag.  Þá verður Noregi og Íslandi ekki lengur vært innan EES.  

lv-kapall-kynning-april-2011

 

 

 

 

 

 


Ólíkar blikur á lofti norðan og sunnan Alpafjalla

Í vor kom út efnahagsskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.  Almennt er árangur Íslendinga í efnahagsmálum frá Hruni þar talinn til hins bezta í heiminum um þessar mundir, sem sýnir dugnað þjóðarinnar framar öðru, en það eru þó  hættumerki við sjónarrönd, sem ríkisvald, fjármálakerfi og samningsaðilar atvinnulífsins þurfa að bregðast við  af eindrægni, eigi síðar en á fullveldisárinu, 2018.  Launadeila flugvirkja hjá Icelandair er reyndar til vitnis um, að einn neisti í púðurtunnuna getur sprengt lífskjarabót undanfarinna ára út í hafsauga.  

Það yrði hræðilegt, ef ógæfu þjóðarinnar yrði allt að vopni á aldarafmælisári fullveldisins.  Þótt brokkgeng hafi verið, hefur þjóðin einmitt sýnt á einni öld, að hún verðskuldar fullveldi, hún þrífst miklu betur með fullveldi en án þess og hún hefur burði til að axla fullveldið.  

Andrés Magnússon gerði téða OECD - skýrslu að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 29. júní 2017 undir fyrirsögninni:

"Öflugur hagvöxtur, en blikur á lofti":

Hættumerkin eru greinilegust á vinnumarkaðinum.  Sem stendur glitrar hann þó sem gull af eiri varðandi kaupmátt og atvinnutækifæri í samanburði við vinnumarkað annars staðar, en glæsileg staðan er sennilega ósjálfbær.  Ástæða þess er sú, að launakostnaður fyrirtækja hefur yfirleitt hækkað meira en nemur framleiðniaukningu þeirra.  Þá er gengið á varaforða eða safnað skuldum. Ef vísitala þessara stærða er sett á 100 árið 1995, þá eru raunlaun 2017 170 og VLF/vinnustund = 158 og VLF/launþega = 153.  M.ö.o. hefur raunlaunakostnaður aukizt yfir 11 % meira en verðmætasköpun á launþega.  Þetta er aðvörun um það, að nú sé ekki borð fyrir báru og svigrúm til launahækkana að jafnaði lítið sem ekkert. Þetta á við um flugvirkja sem aðra, nema þeir hafi verið hlunnfarnir um lífskjarabætur miðað við ofangreint.  Það er mjög ólíklegt, og þess vegna er ábyrgðarhlutur þeirra, sem neita að aðlaga sig raunverulegum aðstæðum á markaði, mikill.  Þeir saga í sundur greinina, sem þeir sjálfir sitja á.  

Ríkisstjórnin þarf augljóslega að koma með útspil til að eyða téðri ósjálfbærni, því að hún verður ella senn fóður fyrir verðbólgu, sem er versti óvinur launþega og atvinnurekenda.  Þar má tína til lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts á launþega og fyrirtæki.  

Stýrivextir Seðlabankans eru samt enn óþarflega háir að mati margra utan Peningastefnunefndar bankans, sem sá ekki ástæðu til að lækka vaxtabyrði fyrirtækja og einstaklinga á vaxtaákvörðunardegi 13. desember 2017.    Raunvextir hans eru um 2,6 %, sem skapa almennt raunvaxtastig í landinu um 5 %.  Þetta sligar atvinnulífið og dregur úr langtíma fjárfestingum þess og eykur að óþörfu greiðslubyrði ungs fólks, sem lagt hefur í mestu fjárfestingu ævinnar, kaup á fyrsta húsnæðinu. 

Tregða Seðlabankans til vaxtalækkana er misráðin.  Hann horfir um of á atvinnustigið og sér þá, að framleiðsluþættirnir eru fullnýttir, en hann horfir framhjá þeirri staðreynd, að í landinu eru yfir 6000 erlendir starfsmenn, 1/3 á vegum starfsmannaleiga og 2/3 ráðnir beint að utan af fyrirtækjunum.  Þar að auki eru 30 þúsund útlendingar búsettir í landinu.  Þetta erlenda fólk heldur uppi hagkerfi Íslands.  Gríðarlegur skortur væri á vinnuafli, ef þess nyti ekki við.  Hér er ekki einvörðungu um að ræða íbúa á EES-svæðinu, heldur líka t.d. Georgíumenn, sem eru kristnir og duglegir Kákasusmenn, komnir til að vinna, en ekki til að valda vandræðum, segja þeir sjálfir.  Þessa ótta við ofhitnun hagkerfisins gætir einnig hjá OECD, en kælingaráhrif ISK eru vanmetin:

"OECD segir þó, að þrátt fyrir, að horfur séu góðar, sé töluverð hætta á ofhitnun.  Bent er á, að kjarasamningar hafi verið gerðir af nokkru örlæti undanfarin ár, en þrátt fyrir það vilji ýmis verkalýðsfélög sækja enn frekari kjarabætur.  Stofnunin telur mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan þurfi að miðast við, að bregðast megi við auknum verðbólguvæntingum."

Skyldi nýja ríkisstjórnin vera sammála því að auka við rekstrarafgang ríkissjóðs ?  Eru auknar verðbólguvæntingar ?  Þess sér ekki stað í s.k. verðbólguálagi til langs tíma.  OECD hefur hér fengið gleraugu Seðlabankans lánuð.  

Í Businessweek 23. október 2017 var vikið að efnahagsástandinu á Ítalíu í greininni,

"La dolce procrastinazione".

Sem dæmi um slæmt ástand innviða er nefnt, að vatnsskortur hafi leitt til hættu á daglegri 8 klst vatnsskömmtun í Róm, af því að hið sögufræga vatnsveitukerfi borgarinnar leki 40 % af aðveitunni.  Þá safnist rusl upp í görðum og gras sé óslegið, á meðan borgaryfirvöld berjist við spillingarhneyksli hjá þjónustustofnunum borgarinnar.

Í október 2017 upplýsti stærsti vogunarsjóður heims, "Ray Dalio´s Bridgewater Associates", að hann hefði veðjað miaUSD 1,1 um, að hlutabréf nokkurra stærstu fyrirtækja Ítalíu mundu lækka, þ.á.m. tveggja stærstu bankanna og Enel Spa, hinnar ítölsku Landsvirkjunar.

Ítalir láta sér fátt um finnast og halda áfram að "sparka dósinni á undan sér", eins og þeirra hefur löngum verið háttur.  Á 11 ára aldri læra ítalskir skólanemendur söguna af Quintus Fabius Maximus Verrucosus, rómverska hershöfðingjanum, sem yfirbugaði með hægðinni Hannibal, hershöfðingja Karþagómanna, með því að forðast bardaga.  Hann hlaut viðurnefnið "Cunctator"-"frestarinn", og það er nú sem fyrr höfuðeinkenni ítalskra stjórnmálamanna, en ekki eftirbreytnivert.  

Tökum dæmi af flóttamönnum, sem koma sjóleiðina til Ítalíu.  Opinberlega skal taka fingrafar af öllum flóttamönnum, þegar þeir koma til Evrópu, og setja í sameiginlegan gagnagrunn ESB.  Í raun hafa Ítalir oft hunzað þessa reglu, og flóttamenn hafa haldið óskráðir til annarra landa frá Ítalíu.  Þetta er slæmt, því að landvistaróskir skal fjalla um í fyrsta komulandi umsækjanda á faraldsfæti.  Þegar slíkur flækingur birtist, t.d. á Íslandi eða í Svíþjóð, er það kerfislega eins og hann hafi borizt beint frá Mogadishu til Keflavíkurflugvallar eða Málmeyjar.  Sómalinn verður íslenzkt eða sænskt vandamál.  Ítölum hefur þannig tekizt að "sparka dósinni" norður eftir Evrópu. 

Þetta sýnir það, sem Færeyingar hafa lengi vitað, að það er ekki í lagi fyrir norðrið að deila landamærum sínum með suðrinu.  Rökrétt svar Íslands við þessu ástandi er að taka upp eigin landamæragæzlu.

Að smygla Ítalíu inn á evru-svæðið hefur verið nefnt "stærstu viðskipti sögunnar" ("the greatest trade ever"-af The Economist).  Uppgjörið fór aldrei fram, heldur lenti Ítalía í tvöfaldri kreppu í fjármálakreppunni 2007-2009, þegar iðnaðarframleiðslan dróst saman um fjórðung.  Atvinnuleysið náði 12,8 % í ársbyrjun 2014.  Ríkisskuldir Ítalíu náðu árið 2017 yfir miaEUR 2000 eða 132 % af VLF, samanborið við 96 % í Frakklandi og 62 % á Íslandi.  Viðmið Maastricht-samnings til upptöku evru er 60 %.  

Auðvitað liggur félagsleg eymd að baki þessum ítölsku tölum.  Fjöldi Ítala, sem býr við raunverulega fátækt (ekki aðeins tiltölulega fátækt), næstum þrefaldaðist á síðustu 10 árum; 4,7 M Ítala eða 7,9 % mannfjöldans, eiga ekki fyrir daglegu lífsframfæri sínu, þ.e. þeir eru vannærðir og hýrast í hreysum (Laugardalur ?!).  

Fjöldaatvinnuleysi æskulýðsins upp á 35,4 % hefur eyðilagt starfsmöguleika heillar kynslóðar Ítala og möguleika hennar til eðlilegrar fjölskyldumyndunar.  Aðeins 52,1 % ítalskra kvenna á aldrinum 20-64 ára voru í launaðri vinnu í ársbyrjun 2017.  Þetta er minnsta atvinnuþátttaka kvenna í Evrópu utan Grikklands.  

Að norrænu mati jafngilda þessar tölur dauðadómi yfir ítalska samfélaginu.  Þetta ömurlega ástand er aðallega vegna þess, að Ítölum var smyglað inn á evrusvæðið.  Samfylkingin ætlaði að smygla Íslendingum inn í þetta sama mynthelsi, þegar hún var hér í ríkisstjórn 2007-2013.  Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir það 2007-2008 og Alþingi með skilmálum sínum, þegar Össur Skarphéðinsson var hér utanríkisráðherra á vegum Samfylkingarinnar 2009-2013.

Nú hafa þau þröngsýnu og óþjóðhollu öfl, sem reru að því öllum árum að koma Íslandi í banvænan náðarfaðm ESB, verið hreinsuð út úr Stjórnarráði Íslands.  Það gerðist á Fullveldisdaginn, 1. desember 2017, þegar "Fullveldisríkisstjórnin" tók hér við völdum. Verður að vona, að hún standi undir nafni, en á það mun t.d. reyna við úrlausn hennar á úrskurði EFTA-dómstólsins um, að Alþingi hafi ekki haft heimild árið 2009 til að kveða á um undantekningar við innleiðingu matvælalöggjafar ESB.  Skýrara dæmi um fullveldisafsal verður varla fengið.  Slíkt brýtur í bága við Stjórnarskrá landsins og krefst viðbragða að hálfu stjórnvalda.  Verður Íslandi vært innan EES ? 

 

 

 


Einangrunarhyggja er ekki í boði

Brexit-sinnar, þ.e. fylgjendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ESB, boða margir hverjir, að þeir vilji sízt loka Bretland af í menningarlegu og viðskiptalegu tilliti, þegar Bretar munu hafa sagt skilið við ESB í marz 2019, heldur vilji þeir þvert á móti opna Bretland fyrir hvers konar löglegum viðskiptum um allan heim.  Þeir hafa talað um, að Bretland ætti að gegna forystuhlutverki í þágu frelsis, þegar þeir losna úr viðjum og út fyrir múra meginlandsins, "Festung Europa", sem er þýzkt hugtak úr seinni heimsstyrjöldinni og Bretland vann þá með þrautseigju bug á. 

Fyrir íslenzka hagsmuni ættu þetta að vera ágætis tíðindi.  Bretar munu ekki að óbreyttu verða hluti af EES eftir marz 2019, nema þá sem einhvers konar bráðabirgða ráðstöfun.  Ísland þarf þess vegna fyrr en seinna að ná fríverzlunarsamningi við Bretland um þær vörur og þjónustu, sem báðum ríkjum hentar.  Í fljótu bragði er það allt, nema matvæli, sem talin eru í viðtökulandinu geta valdið heilsufarsskaða að mati tilkvaddra vísindamanna á sviði manna- og dýrasjúkdóma.  Bretar sjálfir þekkja þetta vel, því að þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni af völdum dýrasjúkdóma. Það verða varla alvarlegar hindranir á vegi Bretlands og Íslands að ná samkomulagi um þetta og helzt niðurfellingu allra opinberra innflutningsgjalda á hættulausum vörum og þjónustu.  Fyrir Ísland mundi það þýða enn betri viðskiptakjör fyrir fiskafurðir en nú tíðkast innan EES.

  Erfiðari viðgangs verður "Festung Europa", þ.e. Evrópska efnahgssvæðið-EES.  E.t.v. verður að sprengja það upp, þar sem í ljós er komið varnarleysi íslenzkra stjórnvalda gagnvart lagasetningu ESB, sem varðar lífshagsmuni hérlendis.  Með öðrum orðum er nú komið skýrar í ljós en áður, að fullveldisframsal Íslands með samþykkt EES-samningsins, sem aldrei fór í þjóðaratkvæðagreiðslu, var stórfelldara en samræmanlegt er Stjórnarskrá Íslands.  Fyrir því að yfirgefa EES er einnig vaxandi vilji í Noregi, en blekbónda er ekki kunnugt um afstöðu Liechtenstein til framtíðar EES.  Við Brexit verða vatnaskil, sem gefa kost á að endurskoða viðskiptasambönd Íslands við umheiminn með róttækum hætti.  

Tvö hagspök lögðu saman í Morgunblaðsgrein, 20. júlí 2017, og varð útkoman,

"Niður með múrana",

sem er afar fróðleg og góð röksemd fyrir haftalausum viðskiptum, svo lengi sem öðrum og mikilvægari hagsmunum er ekki ógnað.  Sennilega verður tvíhliða samningur Íslands og ESB ofan á sem endanlegt fyrirkomulag á samskiptum Íslands og ESB, því að ESB mun ekki að óbreyttu samþykkja undanþágur á frelsunum 4 eða 5 (raforkuflutningar gætu orðið 5. frelsið) og matvælalöggjöf sinni.  Ísland getur ekki undirgengizt þessar kvaðir án þess að fórna fullveldisrétti sínum, eins og nánar verður vikið að í þessari vefgrein. Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA (Samtaka atvinnulífsins) og Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns Efnahagssviðs SA, hófst þannig:  

"Það er segin saga, að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna.  Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóða viðskiptum.  Hér sannast hið fornkveðna, að verðmætasköpunin er mest, þegar ríki sérhæfa sig í því, sem þau gera bezt og verzla það, sem þau vanhagar um, erlendis.  [Stundum er styrkur ríkja fólginn í að nýta sérstakar náttúruauðlindir, t.d. endurnýjanlega orku, hreint haf og land, eins og hérlendis, - innsk. BJo.]  

Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun.  Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess, að verkefni, sem áður borguðu sig ekki, verða arðbær, sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri, sem fyrir eru í landinu, og skapa önnur, sem eru heimamönnum hulin.  

Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.   

Beinar erlendar fjárfestingar hafa gefizt vel hérlendis, enda eru þær áhættulausar fyrir innlenda fjárfesta.  Slíkir erlendir fjárfestar færa landsmönnum, auk áhættufjármagns, nýja þekkingu á verkferlum og stjórnun á fólki og verkefnum, t.d. áhættustjórnun.  Þannig hafa öll stóriðjuverkefnin markað framfaraspor að sínu leyti í sínu héraði, nema "United Silicon" í Helguvík, þar sem erlendir fjárfestar voru lítt eða ekki viðriðnir, og þekkingarleysi virðist hafa ráðið för.  Það er afleitt vegarnesti.  

Það eru hins vegar skuggahliðar á aðild landsins að Innri markaði ESB með frjálsa flutninga fjármagns.  Ef Ísland hefði ekki haft þetta aðgengi að Innri markaðinum með fjármagn, er ólíklegt, að Hrun fjármálakerfisins íslenzka haustið 2008 hefði orðið jafnalgert og raun bar vitni um.  Hið sama má segja, ef bönkunum hefði verið stjórnað af festu og ábyrgð, þótt landið væri á Innri markaðinum.  Aðild að Innri markaðinum felur óneitanlega í sér fullveldisframsal, sem reyndist stórhættulegt á ögurstundu haustið 2008.  Af því ber að draga lærdóm. Sú áhættutaka felur í sér skammtíma ávinning og langtíma hættu.  Hvorki var að finna skjól né stuðning á EES-svæðinu né reyndar annars staðar, þegar á herti.  Sú dapurlega sögulega staðreynd sýnir, að ríkisstjórnir huga aðeins að hag eigin lands, þegar á herðir, og að það er enginn vinur lands í raun. Eina úrræðið er að standa á eigin fótum í hvaða stórsjó, sem er. Eina vörn einnar þjóðar er óskorað fullveldi hennar til að ráða sínum málum sjálf í blíðu og stríðu, sbr Neyðarlögin haustið 2008, sem björguðu landinu frá langvarandi allsherjar áfalli.    

 Allt frá miðbiki 20. aldar hefur verið rekinn harðvítugur áróður gegn beinum erlendum fjárfestingum á Íslandi og svo er enn.  Ástæðan tengdist hagsmunatogstreitu stórveldanna í Kalda stríðinu í upphafi, og hún hefur alla tíð verið af stjórnmálalegum einangrunartoga fremur en á viðskiptagrundvelli. Þessi neikvæða síbylja hefur haft áhrif á afstöðu landsmanna, sem reynslan ætti þó að hafa kennt annað.  Um þetta skrifa hagspekingarnir:

"Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni, hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu.  Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu.  Sláandi var, hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks, þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting.  Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins."

Þegar Bjarni Benediktsson var fjármála-og efnahagsráðherra 2013-2016, hafði hann forgöngu um að fella niður alla tolla og vörugjöld, nema af bifreiðum, eldsneyti og vissum matvælum.  Þetta var einstæður gjörningur, sem skipaði Íslendingum einhliða í hóp þjóða með minnstar innflutningshömlur á vörum.  Þessi gjörningur gerði viðskiptaumhverfið hérlendis heilbrigðara, lækkaði vöruverð í landinu, sem afnáminu nam, öllum til hagsbóta, og ruddi brautina fyrir beinar fjárfestingar erlendra verzlunarfyrirtækja á Íslandi, sem eflt hafa samkeppni, svo að verðhjöðnun er hér enn og hefur verið mánuðum saman, ef húsnæðislið neyzluverðsvísitölunnar er sleppt. 

Hrá matvæli eru ásteytingarsteinn.  Matvælalöggjöf ESB var illu heilli samþykkt á Alþingi í árslok 2009. Ísland lenti þar með á Innri markaði EES fyrir matvæli, og þar er engar undanþágur að finna. Alþingi þóttist þó reka varnagla gagnvart sjúkdómahættu með því að banna innflutning á fersku kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Þessi varnagli var illa ryðgaður og er dottinn í sundur með nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Við því verður ný ríkisstjórn að bregðast snöfurmannlega. Þar mun mæða á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, sem fara með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og utanríkismál.    

Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum.  Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES. 

Þar með er engum blöðum um það að fletta lengur, að framsal á fullveldi landsins til að verjast sjúkdómum hefur farið fram til EES.  Þetta fullveldisframsal er óviðunandi með öllu og útheimtir endurskoðun á EES- samningi Íslands og uppsögn hans, ef téð fullveldi til sjúkdómavarna fæst ekki endurheimt úr klóm Berlaymont í Brüssel.  Þessi afstöðubreyting markar þáttaskil í utanríkismálum Íslands og kemur á sama tíma og tengsl helztu viðskiptaþjóðar Íslands við EES eru að taka stakkaskiptum.  Hér er óhjákvæmilega komið helzta utanríkispólitíska viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar.  

 

 


Hnignun Evrópusambandsins

Stjórnarkreppa ríkir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.  Landið er forysturýki Evrópusambandsins (ESB), og þegar í Berlín ríkir einvörðungu starfsstjórn, án umboðs frá Bundestag, á engin stefnumörkun sér stað í Brüssel heldur, sem heitið getur.  Þetta hefur vafalítið tafið fyrir Brexit viðræðunum, enda er fyrri hluti þeirra á eftir áætlun, og þess vegna hafa samningaviðræður um viðskiptaskilmála ekki hafizt; karpað hefur verið um upphæð útgöngugjalds Bretlands, gagnkvæm réttindi fólks í Bretlandi og ESB og landamæraeftirlit á mörkum írska lýðveldisins og Norður-Írlands, en ekkert er farið að ræða um fyrirkomulag viðskiptasambands Bretlands við ESB.  Gagnkvæmir hagsmunir eru svo miklir, að telja verður líklegt, að hagfelldur samningur náist fyrir athafnalíf og almenning beggja vegna Ermarsunds. Veik staða ríkisstjórnar Bretlands og Þýzkalands gagnvart þjóðþingum sínum flækir stöðuna.   

Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, kom löskuð út úr þingkosningunum 24. september 2017, eins og Theresa May fyrr á árinu, og eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum CDU/CSU (flokkasamsteypa Merkel og Bæjarans Seehofers, sem nú hefur reyndar látið af völdum eftir afhroð í téðum kosningum), FDP (Frjálslynda lýðræðisflokksins) og græningja, þá er Angela Merkel sem lamaður leiðtogi. Þar hafa á fáeinum vikum í haust orðið alger umskipti. Hennar tími er augsýnilega liðinn, en hún hefur hvorki erfðaprins né erfðaprinsessu, enda er staðan óvænt.

Skýringin á viðræðuslitunum er óánægja FDP með afstöðu Merkel til flóttamanna í Þýzkalandi.  FDP ætlar að herja á flokkinn AfD, Alternative für Deutschland, sem er á móti aðild Þýzkalands að myntsamstarfi ESB-evrunni og er mjög gagnrýninn á viðtöku einnar milljónar flóttamanna frá aðallega múhameðskum löndum árið 2016, sem enginn veit, hvað á að gera við.  Fólk þetta á mjög erfitt með að aðlagast vestrænum samfélögum, það lifir margt hvert í andlegu miðaldamyrkri og er þungur baggi á velferðarkerfinu.  FDP ætlar að hræra í þessu grugguga vatni og ná enn meiri fylgisaukningu  í næstu kosningum á kostnað AfD, sem fékk 92 þingmenn í september 2017, svo að flokkurinn geti jafnvel gert kröfu um stjórnarmyndunarumboð í Berlín eftir næstu kosningar, sem gætu orðið innan tíðar, ef jafnaðarmenn, SPD, semja sig ekki inn í ríkisstjórn.

Í Austur-Evrópu er að magnast óánægja með ESB, af því að ESB vill þvinga aðildarlönd sín þar til að taka við flóttamönnum.  Austur-Evrópulöndin og Eystrasaltslöndin vilja harðari stefnumörkun gagnvart Rússlandi, sem þau óttast, að geti reynt "úkraínuseringu" gagnvart sér.  Angela Merkel hefur í raun borið kápuna á báðum öxlum gagnvart Vladimir Putín, sem alltaf sætir færis að koma höggi á Vesturlönd og rjúfa samstöðu þeirra. Merkel hefur leyft viðskipti við Rússa með iðnvarning á borð við þýzka bíla, og hún hefur leyft Nord-Stream 2 að halda áfram, en það er stórverkefni Þjóðverja og Rússa um gaslögn beint frá Rússlandi um botn Eystrasaltsins og til Þýzkalands.  Austur-Evrópumenn eru æfir út af þessu.  Fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, situr í stjórn gasrisans rússneska, sem hér á í hlut.  

Suðurvængur ESB er í lamasessi.  Katalónar vilja losna undan völdum Kastilíumanna, og sama á líklega við um Baska.  Það getur hæglega kvarnazt út úr ríki Spánarkonungs á næstu misserum, en ESB óttast það, því að þá verður fjandinn laus víða í Evrópu.  Meira að segja Bæjarar gætu í alvöru farið að velgja Prússunum í Brandenburg/Berlín undir uggum.  

Enginn hagvöxtur hefur verið á Ítalíu frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, og margir banka Ítalíu eru taldir standa veikt.  Ríkissjóður landsins er mjög skuldsettur.  Ítalir glíma við vantraust á fjármálakerfi sínu, lánshæfismatið á þeim er lágt, og lausafjárkreppa getur fyrirvaralaust leitt til bankagjaldþrots.  Þýzkir kjósendur eru andsnúnir því, að þýzka ríkið og þýzkir bankar hlaupi undir bagga, enda er um háar fjárhæðir að ræða á Ítalíu.  Ef allt fer á versta veg fyrir Ítölum, mun gengi evrunnar lækka enn meira en undanfarin misseri m.v.  bandaríkjadal og jafnvel verða ódýrari en bandaríkjadalur.  Þá mun vegur sterlingspunds vænkast og hrollur fara um margan (tevtónann) norðan Alpafjalla. 

Á Grikklandi er viðvarandi eymdarástand með 20 % atvinnuleysi (50 % á meðal fólks undir þrítugu), ríkisstofnanir eru sveltar og gamlingjar og sjúklingar lepja dauðann úr skel.  Þessi eymd er í boði ESB, sem neitar að klippa á skuldahala gríska ríkisins, þótt AGS mæli með því. Sósíalistar Syriza þrauka í ríkisstjórninni í Aþenu, á meðan eignir Grikkja á borð við höfnina í Pireus eru seldar útlendingum, í mörgum tilvikum Kínverjum, sem eru að tryggja sér aðstöðu á siglingaleiðum (beltiskenning aðalritarans, Xi).  

Ekki tekur betra við, þegar horft er til norðurs úr höfuðstöðvum ESB í Brüssel, Berlaymont.  Öflugasta ríki ESB á sumum sviðum, og næstöflugasta efnahagsveldi þess, er á leiðinni út úr sambandinu, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar í júní 2016.  Þetta er  sársaukafullur skilnaður, bæði fyrir ESB og Bretland, og skilnaðarsamningaviðræður hafa gengið illa fram að þessu.  Gæti svo farið, að í marz 2019 hrökklist Bretland úr þessari yfir fertugu meginlandsvist sinni án viðskiptasamnings, og þá gilda ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.  Bezt væri fyrir báða aðila, svo og Íslendinga, að fríverzlunarsamningur kæmist á.  Íslendingar gætu notið góðs af honum, enda fer nú þegar talsvert af íslenzkum sjávarafurðum frá Bretlandi til meginlandsins. 

Bretum er í mun að halda frjálsu viðskiptaaðgengi sínu að Innri markaðinum, og framleiðendum í ESB er í mun að halda óbreyttu aðgengi að 60 milljóna manna öflugum markaði norðan Ermarsundsins, en Berlaymont og leiðtogaráðið eru hins vegar skíthrædd við, að flótti bresti í liðið, ef Bretar standa uppi með pálmann í höndunum árið 2019, eins og reyndin varð eftir hrikaleg vopnaviðskipti 1918 við Habsborgara og Þýzkaland og 1945 við Öxulveldin. Þótt Bretar tapi orrustum, virðast þeir alltaf vinna stríðið.  

Við þessar aðstæður hefur umræða í Noregi um aðild landsins að EES blossað upp, eins og grein í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017 bar með sér.  Hún bar fyrirsögnina:

Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins.

Í Noregi ríkir nú minnihlutastjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins.  Erna Solberg, forsætisráðherra, er fylgjandi aðild Noregs að ESB, en Framfaraflokkurinn er á móti.  Nýlegi kúventi stærsti flokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, í þessu máli og hefur nú þá afstöðu að berjast ekki fyrir aðild Noregs að ESB. Það kann að vera orðið mjótt á mununum um stuðning á Stórþinginu við aðild Noregs að EES.  Án Noregs þar hrynur EES eins og spilaborg, því að Norðmenn halda bákninu uppi fjárhagslega að mestu leyti.   

Á Íslandi hefur úrsögn landsins úr EES þó enn ekki hlotið mikla umfjöllun.  Gæfulegast væri að hafa samflot með Norðmönnum um endurskoðun samninga um EES, þar sem stefnt yrði á endurheimt óskoraðs fullveldis landanna, einnig yfir landamærum sínum, og viðskiptafrelsi með vörur og þjónustu, sem aðilar eru sammála um, að eru óskaðlegar fólki, dýrum og náttúru. Í sáttmála Fullveldisstjórnarinnar stendur í landbúnaðarkaflanum:  "Meginmarkmiðið er, að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð".  Þar sem þetta samræmist ekki matvælalöggjöf ESB, sem einnig gildir fyrir EES samkvæmt EFTA-dómi nýlega, er Íslandi ekki lengur vært innan EES. Hefur þá ekki verið minnzt á hættu, sem lýðheilsu stafar af innflutningi á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  

Norska Stórþingið og Alþingi verða að fela ríkisstjórnum landanna að semja um undanþágur við ESB, til að hægt sé að óska eftir sameiginlegum viðræðum landanna og hugsanlega Liechtenstein við ESB.  Það er líklegra en hitt, að þessi þjóðþing myndu, eftir umræður, samþykkja að óska eftir slíkum samningaviðræðum við ESB, en það er hins vegar líklegt, að ESB fari undan í flæmingi vegna þess, hvernig allt er í pottinn búið á þeim bæ.  Það er líka skynsamlegt fyrir Norðurlöndin að doka við og sjá, hver útkoman verður úr Brexit-viðræðunum, og nota tímann til að undirbúa jarðveginn innanlands, og að stilla saman strengi um leið og gerður er fríverzlunarsamningur við Bretland.  Íslendingar munu reyna að ná enn hagstæðari samningum við Breta fyrir vörur sínar, t.d. sjávarvörur, en nú eru í gildi.

Evran krosssprungin     

 

 

 

 


Líður EES senn undir lok ?

Engum blöðum er um það að fletta, að BREXIT hefur mikil áhrif á forsendur EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem eru ESB-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Ástæðan er sú, að Bretland er helzta viðskiptaland Íslands og Noregs.

Þann 25. nóvember 2017 birtist þörf hugvekja um EES í Morgunblaðinu eftir Norðmanninn, Morten Harper, rannsóknarstjóra Félags norskra andstæðinga ESB, "Nej til EU".  Í ljósi þess, að EES var sett á laggirnar sem fordyri að ESB, eins konar biðsalur væntanlegra aðildarlanda í aðlögun, þá er tímabært að vega og meta alvarlega útgöngu Noregs og Íslands úr EES, af því að aðild landanna er engan veginn á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Áhuginn fyrir inngöngu í ESB fer minnkandi í báðum löndunum og efasemdir um heildarnytsemi EES fara vaxandi.

Það, sem kemur þessari umræðu af stað núna, er vitaskuld útganga Bretlands úr ESB, en Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands.  Bæði löndin undirbúa tvíhliða viðræður um framtíðar viðskiptasambönd landanna, og þá er jafnframt eðlilegt að íhuga tvíhliða viðskiptasamband við ESB, eins og t.d. Svisslendingar notast við. E.t.v. væri samflot EES-landanna utan ESB gagnlegt, ef ESB verður til viðræðu um endurskoðun á EES-samninginum, sem er undir hælinn lagt.

Morten Harper er fullveldisframsalið til ESB ofarlega í huga.  Það er fólgið í flóði reglna og tilskipana frá framkvæmdastjórn ESB; 12´000 slíkar hefur Noregur tekið upp frá árinu 1992.  Hvað skyldi Ísland hafa tekið upp margar af þessum toga frá 1994 ? 

Þá felur valdaframsal til eftirlitsstofnunarinnar ESA og EFTA-dómstólsins klárlega í sér fullveldisskerðingu landanna þriggja utan ESB í EES, og nú virðist eiga að troða hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB ríkjanna upp á hin EES ríkin (utan ESB).  Skemmst er að minnast nýlegs dómsorðs EFTA-dómstólsins, þar sem leitazt er við að þvinga Ísland til að láta af varúðarraáðstöfunum sínum til varðveizlu á heilsufari manna og búfjár í landinu.  

Nú skal vitna í ágæta grein Mortens Harper, 

"Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins":

"Lykilatriði í nýju skýrslunni, "25 ár í EES" [okkur Íslendinga vantar vandaða úttekt af þessu tagi], er, hvernig EES-samningurinn veldur einkum skaða á norska atvinnulífinu.  EES-skýrslan sýnir, hvernig norsk lög, kjarasamningar og ILO-samningar (Alþjóða vinnumálastofnunin) víkja fyrir reglum ESB/EES.  [Hér má minna á megna óánægju innan verkalýðshreyfingarinnar íslenzku með skuggahliðar frjáls flæðis vinnuafls innan EES.]  

Í umdeildum úrskurði í lok síðasta árs fylgdi Hæstiréttur [Noregs] ráðgjöf EFTA-dómstólsins og setti reglur ESB um frelsi fyrirtækja framar rétti verkamanna og 137. ákvæði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um hafnarverkamenn.  Nokkur verkalýðsfélög krefjast þess nú, að Noregur yfirgefi EES."

Það má furðu gegna, að slík krafa varðandi aðild Íslands að EES skuli enn ekki hafa birzt opinberlega frá neinu íslenzku verkalýðsfélagi.  Starfsmannaleigur, sem eru regnhlíf yfir þrælahald nútímans á Norðurlöndunum og réttindalausir iðnaðarmenn að íslenzkum lögum, ættu að vera nægilega ríkar ástæður til að segja sig úr lögum við þetta furðufyrirbrigði, sem ESB er.  

Svo kom rúsínan í pylsuendanum hjá Morten Harper:

"Noregur er mikill framleiðandi [raf]orku.  Framkvæmdastjórn ESB vill tengja Noreg eins náið og unnt er við ESB-orkukerfið og stefnir að fimmta frelsinu: frjálsu orkuflæði [undirstr. BJo].  Meirihluti ESB-orkulöggjafarinnar er talinn falla undir EES, [sem] gerir samninginn að verkfæri ESB til að samþætta Noreg í orkukerfið.  

Nánast ekkert hefur meiri þýðingu fyrir norskan iðnað en langtíma aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði.  Sífellt meiri útflutningur rafmagns til meginlandsins og Bretlands getur leitt til þess, að Noregur þurfi að greiða hærra raforkuverð fyrir sín not.  Aðeins við þjóðarorkukreppu getur Noregur komið í veg fyrir útflutning raforku.  Að öðru leyti er öllu stjórnað af samkeppnisreglum ESB/EES."

Blekbóndi þessa vefseturs hefur verið ólatur við að vara við samtengingu raforkukerfa Íslands og ESB með sæstreng til Skotlands vegna þeirrar sannfæringar, á grundvelli útreikninga, að þjóðhagslega hagkvæmast sé að nýta íslenzka raforku innanlands til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Lýsing Mortens Harper bendir til, að Norðmenn finni nú á eigin skinni gallana við útflutning á raforku úr sjálfbærum orkulindum Noregs (fallorku vatnsfalla) á svipuðum grundvelli og blekbóndi hefur varað hérlandsmenn við raforkuútflutningi frá Íslandi um sæstreng á þessu vefsetri.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur verið helzti hvatamaður slíkrar tengingar hérlendis, en hefur samt aldrei fengizt til að sýna á spilin sín, enda sennilega ekkert til að sýna.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur út frá tiltækum gögnum sýnt fram á með útreikningum, hversu ókræsileg þessi viðskipti yrðu, og hversu alvarlegir tæknilegir annmarkar eru á þeim. 

Nú rifjast það upp, að Hörður Arnarson var einn þeirra, sem málaði skrattann á vegginn um afleiðingar þess að hafna Icesave-samningunum við Breta/Hollendinga/ESB, þegar sú deila var hvað hatrömmust á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Ályktunin nú er þess vegna sú, að umræddu sæstrengsverkefni sé ætlað af ESB að verða farvegur fyrir innleiðingu 5. frelsis Innri markaðarins á Íslandi.  Þar með mundi Ísland lenda í sömu stöðu og Morten Harper lýsir fyrir Noreg um hækkun raforkuverðs af völdum mikils raforkuinnflutnings vegna innlends orkuskorts (tæmd miðlunarlón af völdum mikils raforkuútflutnings).  

Hvernig á að standa að endurskoðun á EES-samninginum ? Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í Noregi.  Ein leið er sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor, um aðild eða úrsögn.  Önnur leið er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja fullveldi Íslands gagnvart ESB undir hatti EES og hugsanlegur nýr samningur verði síðan borinn undir þjóðaratkvæði til synjunar eða samþykkis.  Allur norðurvængur Evrópusambandsins kann að verða í uppnámi á næstu misserum.  

Brezki fáninn-Union JackÞýzkt ESB

 


Lýðheilsa og heilsufar búfjárstofna í húfi

Slæmar fréttir bárust hingað til lands frá EFTA-dómstólinum 14. nóvember 2017.  Hann úrskurðaði, að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á hráu, ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum og vörum úr þessum afurðum, svo og leyfiskvöð á innflutningi þessara vara, bæri að flokka með ólögmætum viðskiptahindrunum samkvæmt matvælalöggjöf ESB og ákvæðum EES-samningsins, sem Ísland er aðili að.

Við þennan dóm er margt að athuga, bæði lögfræðilega og heilsufarslega.  Margir kunnáttumenn hérlendis á sviðum lýðheilsu, meinafræði og sýklafræði manna og dýra gjalda svo mjög varhug við þessum dómi, að þeir fullyrða blákalt, að fullnusta dómsins mundi stefna heilsufari manna og dýra í hættu hérlendis. Við svo búið má ekki standa, og afgreiðsla þessa máls verður ákveðinn prófsteinn á nýja ríkisstjórn landsins. Það er algert ábyrgðarleysi af núverandi bráðabirgða stjórnvöldum að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum fjölmargra sérfræðinga m.v. geigvænlegar afleiðingar þess, að allt fari hér á versta veg í þessum efnum.

Fráfarandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er sem fyrr úti á þekju og skautar léttilega yfir slíkar hindranir og sannar með því, hversu sneydd hæfileikum hún er til að fara með þetta veigamikla embætti í Stjórnarráði Íslands.  Það er guðsþakkarvert, að hún skuli vera þaðan á förum, enda átti hún þangað aldrei erindi.  Helgi Bjarnason hefur t.d. eftirfarandi eftir téðri Þorgerði í frétt sinni í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2017:

"Breyta þarf reglum um innflutning":

"Þorgerður Katrín segir, að íslenzk stjórnvöld þurfi að breyta þessum lögum, svo að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar."

Þorgerður þessi leyfir sér að boða það að gösslast áfram gegn ráðleggingum okkar færustu vísindamanna, þótt afleiðingarnar geti orðið geigvænlegar fyrir bændastéttina, dýrastofnana, heilsufar og hag þjóðarinnar og ríkissjóðs.  Blekbóndi er gjörsamlega gáttaður á fljótfærni og hugsunarleysi þessa ráðherra, sem dæmir sjálfa sig úr leik í pólitíkinni með þessari einstæðu afstöðu.  Enn bætti Þorgerður þó um betur:

"Þorgerður Katrín lýsir þeirri skoðun sinni, að hræðsluáróður hafi verið notaður gegn innflutningi á fersku kjöti og telur, að meiri hætta stafi af ferðamönnum og innflutningi á fersku grænmeti."

Mann rekur í rogastanz við lestur texta, sem vitnar um jafnhelbert dómgreindarleysi og blinda trú á regluverk og eftirlitskerfi ESB og hér er á ferð.  Ráðherrann, fráfarandi, hraunar hér yfir faglega og rökstudda skoðun fjölda innlendra sérfræðinga og kallar "hræðsluáróður".  Slíkur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur, sem að slíkum ráðherra stendur, er einskis trausts verður og hlýtur að lenda á ruslahaugum sögunnar eigi síðar en í næstu Alþingiskosningum, enda hvert ver eiginlega erindi Viðreisnar í stjórnmálin ?  Kerfisuppstokkun ?  Heyr á endemi !  

Ný ríkisstjórn í landinu verður að taka téðan dóm föstum tökum og semja vísindalega trausta greinargerð til ESA og ESB, þar sem rökstutt er, að íslenzk stjórnvöld sjái sér engan veginn fært að fullnusta þennan dóm EFTA-dómstólsins vegna mikillar áhættu fyrir hag landsins, sem slíkt hefði í för með sér.  Leita þarf lögfræðilegra leiða til að renna stoðum undir slíka afstöðu, ella verða Íslendingar að leita eftir breytingum á skuldbindingum sínum við EES í krafti fullveldisréttar síns.  Undanþágur í þessa veru verða líka að koma fram í væntanlegum fríverzlunarsamningi Íslands og Bretlands, sem taka þarf gildi í kjölfar harðsóttrar útgöngu Bretlands úr ESB.  Bretar hafa lýst því yfir, að í stað þess að dvelja í skjóli "Festung Europa", vilji þeir hafa forgöngu um víðtæka fríverzlun, og þeir eru líklegir til að skapa EFTA-þjóðunum aðgang að víðtæku fríverzlunarneti um heiminn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sagði í ofangreindri frétt:

""Þessi orrusta er töpuð, en kanna verður, hvort stríðið er tapað", segir Erna. Hún nefnir, að EFTA-dómstóllinn hafi ekki talið reglur Íslands falla undir þá grein EES-samningsins, sem heimilar ríkjunum að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda líf og heilsu manna og dýra.  Það verði athugað, hvort einhverjar leiðir séu til að virkja þetta ákvæði."

Spyrja má, hvort öryggishagsmunum Íslands hafi verið teflt nægilega skilmerkilega og ítarlega fram að Íslands hálfu gagnvart dómstólinum.  Málið er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur varðar það þjóðaröryggi, ef með stjórnvaldsaðgerðum er verið að opna nýjum fjölónæmum sýklum og veirum greiða leið inn í landið og þar með tefla lýðheilsu hérlendis á tæpasta vað og setja heilsufar búfjár í uppnám.

Það er líklega ekkert sambærilegt tilvik í Evrópu við sjúkdómastöðuna á Íslandi, og þess vegna ekkert fordæmi í Evrópu til að líta til við dómsuppkvaðninguna, en ef þessari hlið málsins hefði verið teflt fram af fullri festu, hefði mátt benda dómstólnum á fordæmi annars staðar í heiminum, t.d. frá Nýja-Sjálandi.  Nú þarf að tefla fram ítarlegri röksemdafærslu okkar færustu vísindamanna á þessu sviði gegn þeim rökum, sem EFTA-dómstóllinn hefur lagt til grundvallar, og verður þá ekki öðru trúað en minni hagsmunir verði látnir víkja fyrir meiri.  Að öðrum kosti verður Ísland að grípa til einhliða ráðstafana að beztu manna yfirsýn til að varðveita þá heilsufarslegu stöðu, sem 1100 hundruð ára einangrun hefur fært íslenzkum búfjárstofnum.  

Hvað segir Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus í sýklafræði við Háskóla Íslands af þessu tilefni ?:

"Það er alvarlegt mál, ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar.  Ég treysti ekki þeim mönnum, sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til að verja okkur fyrir þeim.  Kannski af því, að ég er orðin svo gömul, að ég hef séð of margt."

Í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017,

"Segja, að veikindaálagið muni aukast",

mátti greina miklar áhyggjur Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis og veirufræðings á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karls G. Kristinssonar, prófessors og yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans:

""Þessi niðurstaða hefur þýðingu fyrir lýðheilsu og mögulega einnig dýraheilsu.  Það er alveg óumdeilt í fræðaheiminum, að smitsjúkdómastaða íslenzku búfjárkynjanna er einstök á heimsvísu.  Þess nýtur íslenzkur landbúnaður og almenningur hérlendis", segir Vilhjálmur."

Á að fórna "einstakri stöðu á heimsvísu" vegna þrýstings frá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem kært hafa íslenzk yfirvöld fyrir ESA og krefjast þess að fá að flytja hömlulaust inn frá ESB og selja hér ferskt kjöt, ógerilsneydd egg og vörur úr þessum afurðum ? Það kemur ekki til mála. Það mun auðvitað sjást undir iljar þessara aðila, þegar fólk og fénaður tekur að veikjast hér af fjölónæmum sýklum, sem engar varnir eru gegn, og búfé að hrynja niður, eins og fordæmi eru um, af riðuveiki og mæðiveiki.  Þessir innflytjendur og seljendur verða þá fljótir að benda á eftirlitsaðilana sem sökudólga, en pottþétt heilbrigðiseftirlit með þessum innflutningi er óframkvæmanlegt. Sá beinharði kostnaður, sem af slíku mundi leiða fyrir skattborgarana, er margfaldur sá sparnaður, sem neytendur kynnu að njóta um hríð vegna lækkaðs matvöruverðs.  

""Sýklalyfjaónæmi er ein af helztu ógnunum við lýðheilsu í heiminum í dag.  Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að reyna að viðhalda okkar góðu stöðu, eins lengi og hægt er", segir Karl."

Í þessu máli eru ekki öll kurl komin til grafar, og það hlýtur að verða eitt fyrsta meginverkefni nýs utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra að stilla upp varnarlínu fyrir Ísland gagnvart ESB í þessu máli og síðan að sækja þaðan fram til að hnekkja þessum dómi, hugsanlega með sérsamningi Íslands eða EFTA við ESB, því að með hann á bakinu er Íslandi ekki vært innan EES.  Það er utanríkispólitískt stórmál með miklum afleiðingum fyrir Ísland, eins og úrsögn Bretlands úr ESB er stórmál fyrir Breta, en reyndar líka fyrir mörg fyrirtæki í ESB-ríkjunum.   

 Berlaymont sekkur

 

 

 

 


Marteinn Lúther, 1483-1546

Upprifjun á ævi þýzka guðfræðiprófessorsins Marteins Lúthers í sjónvarpi undanfarið í þýzkum og íslenzkum fræðsluþáttum hefur kastað ljósi á, hvílíkur eldhugi og byltingarmaður Marteinn Lúther var.  Ævistarf hans bylti samtíð hans á trúmálasviðinu og lagði grunninn að þróun Evrópu og Vesturlanda allra í átt til upplýsts sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins og andlegs frelsis hans, einstaklingshyggju með samfélagslegri ábyrgð í anda kristilegs kærleika. Án starfa Lúthers og samverkamanna hans væru Vesturlönd líklega að mörgu leyti lakar sett en reyndin er á okkar dögum.

Lúther var Saxi og fæddist og dó í Eisleben í Saxlandi, en starfaði aðallega í Wittenberg í Saxlandi, sem þá var sennilega miðstöð frjálslyndis og fróðleiksleitar þar um slóðir. Lúther gerðist ungur að árum munkur af reglu Ágústínusar og einhvern tímann á árabilinu 1513-1517 varð hinn rúmlega þrítugi munkur fyrir vitrun Guðs og fannst hann vera "endurborinn og hafa gengið gegnum opnar dyr inn í paradís". Þessi upplifun hans breytti vafalaust sjálfsmynd hans og sjálfstrausti og varð honum sennilega eldsneyti til mikilla afreka sem baráttumaður gegn valdakerfi kaþólsku kirkjunnar og fyrir andlegu frelsi og þekkingu lýðnum til handa. Hann var hins vegar ekki slíkur hefðbundinn byltingarforingi, sem berst fyrir auknum hlut alþýðunnar af auði aðalsins og annarra stóreignamanna. 

 Lúther einbeitti sér alla tíð að trúmálum, og honum ofbauð spilling rómversk-kaþólsku kirkjunnar, sem hann kynntist sem munkur, og fann sig knúinn til þess 31. október 1517 að tjá opinskátt hneykslun sína á framferði kirkjunnar manna.  Dropinn, sem fyllti mælinn, var sala sendimanna páfans á aflátsbréfum, sem voru eins konar skuldabréf, sem endurgreidd voru með ríkulegum vöxtum hinum megin með því að létta og stytta veru breyskra manna og kvenna í hreinsunareldinum, jafnvel löngu framliðinna. Í krafti fræða sinna sem Biblíufræðingur sá Lúther í gegnum þennan viðurstyggilega blekkingarvef og fjárplógsstarfsemi, því að hvergi var í Biblíunni minnzt á neinn hreinsunareld, svo að ekki sé nú minnzt á aflátsbréf eða eitthvað keimlíkt.  Páfastóllinn hafði innleitt hreinsunareldinn í kenningakerfi sitt til að ná tangarhaldi á lýðnum og beitti ógnarstjórn með því að skapa skelfingu syndugs lýðsins gagnvart dauðanum.  Var þetta hinn lúalegasti gjörningur Rómverjanna gagnvart fávísum og fátækum almúga.

Mótmæli Marteins Lúthers, sem hann negldi upp á aðalhurð hallarkirkjunnar í Wittenberg í Saxlandi, vafalaust með samþykki kjörfurstans, voru í 95 liðum, sem voru einn samfelldur reiðilestur út af andlegri kúgun og spillingu kirkjunnar manna.  Æðsti veraldlegi valdhafinn í Saxlandi var á þeim tíma tiltölulega frjálslyndur og hafði stofnað tiltölulega frjálslyndan háskóla í Wittenberg.  Þar stundaði Lúther fræðistörf á sérsviði sínu, Biblíunni. Kirkjunnar mönnum líkaði ekki alls kostar við þau fræðistörf, sem í þessum háskóla voru stunduð, m.a. útleggingar Lúthers á Nýja Testamentinu og rök hans fyrir því, að "hið heilaga orð" yrði að ná beint til fólksins, með því að boðskapurinn væri á móðurmáli þess, og hann þýddi sjálfur Biblíuna á alþýðumál Saxa, sem síðan varð grundvöllurinn að ritmáli allra þýzkumælandi manna, sem tala fjölbreytilegar mállýzkur.  Nokkru seinna vann Oddur Gottskálksson andlegt þrekvirki við grútartíru í fjósinu í Skálholti í óþökk þáverandi Skálholtsbiskups, Ögmundar Pálssonar, og myndaði að sama skapi grundvöll íslenzks ritmáls með verki sínu.  

Það er óvíst, að Lúther hefði opinberað andúð sína á gjörðum kirkjunnar þjóna og útleggingum þeirra á fagnaðarerindinu með jafnögrandi hætti og raunin varð, ef hann hefði ekki verið hvattur áfram af veraldlegum höfðingjum í Saxlandi, þ.á.m. téðum kjörfursta.  Þar, eins og á Íslandi, hafði lengi verið togstreita á milli kirkjuvaldsins og veraldlegra höfðingja um veraldlegar eignir, t.d. jarðnæði.  Veraldlegir höfðingjar Saxlands sáu sér nú leik á borði, er sterkrar gagnrýni á kirkjuna gætti innan hennar, að grafa undan áhrifamætti hennar með beinum og óbeinum stuðningi við harðvítuga og fræðilega gagnrýni á störf kirkjunnar þjóna frá munkum og prelátum og upp í páfastól sjálfan. Sennilega voru Siðaskipti samt ekki ætlun höfðingjanna, en fljótlega varð ekki aftur snúið, og úr varð alger viðskilnaður við rómversk kaþólsku kirkjuna, og höfðingjarnir tóku við hlutverki páfastóls sem verndarar kirkjunnar. Þar með sópuðu þeir gríðarlegum verðmætum kirkna og klaustra í gullkistur sínar, og höfðu þá hvorir um sig í hópi mótmælenda, trúmennirnir og auðmennirnir, nokkuð fyrir sinn snúð, og alþýðan uppskar sem sáð var með tíð og tíma.  

Höfðingjar Saxlands horfðu auðvitað blóðugum augum eftir háum fjárhæðum, sem runnu frá þeim og almúganum til Rómarborgar í formi skattheimtu, og steininn tók úr, þegar páfinn tók að fjármagna byggingu stórhýsis í Róm, Péturskirkjuna, með sölu fyrrnefndra aflátsbréfa.  Leiða má getum að því, að megnið af fjármögnun þessa stórhýsis hafi komið frá Þýzkalandi, enda stöðvaðist bygging kirkjunnar um tíma, þegar áhrifa andmælanna 95 á kirkjuhurðinni í Wittenberg tók að gæta um allan hinn þýzkumælandi heim fyrir tilstyrk mestu tækninýjungar þess tíma.  

Fullyrða má, að áhrifa róttækrar fræðilegrar gagnrýni og réttlátrar reiði Marteins Lúthers á andlega kúgun kirkjunnar, vafasamar útleggingar preláta og biskupa á Biblíunni, m.a. í krafti þess, að fáir utan prelátastéttar voru í færum að kynna sér Biblíuna af eigin raun á latínu, hefðu orðið miklu staðbundnari, minni og hægvirkari, ef Lúther og baráttufélagar hans í hópi guðfræðinga og höfðingja hefðu ekki tekið í gagnið byltingarkenndustu hönnun og nýsmíði þess tíma, prentsmiðju Jóhannesar Gútenbergs, 1400-1468, frá 1439, sem þá var búið að setja upp og þróa enn frekar í 70 ár á nokkrum stöðum í Þýzkalandi og víðar í Evrópu.  Auðvitað var prentun rándýr í árdaga prenttækninnar, en bandamenn Lúthers hafa vafalaust fjármagnað fyrirtækið með glöðu geði, því að áhrifamáttur boðskapar á móðurmálinu hefur verið orðinn vel þekktur.  

Andmælin 95 og rit Lúthers, þ.á.m. Biblíuþýðing hans á þýzku, sem varð grundvöllur háþýzku, þýzka ritmálsins, dreifðust eins og eldur í sinu um Þýzkaland og tendruðu þar frelsisbál.  Bændur landsins sáu nú kjör sín og aðstöðu í nýju ljósi; þeir þyrftu ekki um aldur og ævi að búa við þrældóm, harðýðgi, kúgun og gripdeildir að hálfu landeigenda og kirkju og gerðu uppreisn gegn yfirvöldunum og kröfðust frelsis fyrir sig og fjölskyldur sínar auk eigin landnæðis. 

Sundrung hefur frá upphafi einkennt lútherska söfnuði, enda vantaði söfnuðina miðstjórnarvald í líkingu við páfadóminn til að úrskurða um deilumál og halda hjörðinni saman. Einn fyrsti klofningurinn í röðum fylgismanna Lúthers var vegna afstöðunnar til vopnaðrar uppreisnar bænda í Þýzkalandi 1524-1525, sem var innblásin af andlegri byltingu Lúthers.  Sumir baráttufélaga Lúthers tóku einarða afstöðu með almúga sveitanna og blönduðu sér beinlínis í baráttuna, en Marteinn Lúther var hins vegar eindregið á móti því að reyna að rétta hlut almúgans snögglega gagnvart aðlinum með ofbeldi og blóðsúthellingum, enda ætti slíkt að verða friðsamlegt þróunarferli.  Hér verður fernt nefnt, sem kann að hafa ráðið afstöðu Lúthers til bændauppreisnarinnar:

  1. Biblíufræðingurinn, Lúther, fann því hvergi stað í boðskap biblíunnar, að Guði væri það þóknanlegt, að almúginn gripi til vopna gegn valdhöfum og raskaði þar með gildandi þjóðfélagsskipan.
  2. Lúther vildi að sönnu rétta kjör almúgans, en taldi skyndilausn á borð við vopnaða uppreisn ekki vænlega leið til þess, heldur þyrftu réttarbætur og bættur hagur að fylgja auknum þroska og menntun alþýðu, sem hann vissulega hafði hrundið af stað og vann alla tíð að.
  3. Lúther gerði sér grein fyrir því, að við ofurefli var að etja á vígvellinum, þar sem voru brynjaðir riddarar aðalsins og vel vopnum búnir og þjálfaðir fótgönguliðar gegn óþjálfuðum og illa búnum bændunum.  Uppreisn myndi aðeins leiða til blóðbaðs og auka enn við sára neyð og eymd bænda, hvað og á daginn kom.  
  4. Lúther var í bandalagi við saxneska höfðingja, sem vernduðu hann gegn hefndaraðgerðum kaþólsku kirkjunnar, enda vildu þeir losna undan andlegri og skattalegri kúgun kaþólsku kirkjunnar. Annars hefði Lúther líklega ekki kembt hærurnar. Hagsmunir höfðingjanna og Marteins Lúthers sköruðust, og hann taldi réttilega óráðlegt að rjúfa bandalagið við þá, því að þá stæði hann á berangri. Lúther leit jafnan svo á, að hagsmunir mótmælendasafnaðanna og veraldlegu höfðingjanna færu saman.  Þeir urðu síðan verndarar hinnar lúthersku kirkju, og þaðan höfum við í raun núverandi tengingu ríkis og kirkju á Norðurlöndunum, þar sem ríkisvaldið er bakhjarl lúthersku kirkjunnar, þótt fullt trúfrelsi ríki.   

Lúther var agndofa yfir þeim frelsisöflum, sem hann hafði leyst úr læðingi, og sama hefur vafalaust átt við um höfðingjana, sem studdu hann með ráðum og dáð í skefjalausri valdabaráttu sinni við kirkjuvaldið í Róm.  Þeir stóðu að mörgu leyti í pólitískri þjóðfrelsisbaráttu fyrir sjálfstæði lands síns og hagsmunum þjóðar sinnar gagnvart fornu drottinvaldi hins gíruga Rómarvaldis. 

Þessir umbrotatímar minna á okkar eigin tíma, þegar megn óánægja er víða að brjótast út með Brüssel-valdið, sem reisir valdheimildir sínar gagnvart aðildarþjóðunum einmitt á Rómarsáttmálanum og síðari sáttmálum Evrópusambandsríkjanna. Brüssselvaldið grípur nú þegar inn í daglegt líf almennings án þess að hafa hlotið til þess lýðræðislegt umboð eða bera lýðræðislega ábyrgð gagnvart almúganum. Þessi óánægja almennings brauzt síðast út í þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi í júní 2016, þegar meirihluti kjósenda fól þingi og ríkisstjórn að draga Bretland undan stofnanavaldi og skattheimtu ESB. Nú sýnir Brüsselvaldið samningamönnum Bretlands um útgönguna klærnar, og enginn veit enn, hvernig samskiptum útgönguríkisins við ESB-ríkin verður háttað. 

Lúther skrifaði bók til að reyna að stöðva ofbeldið, en það var þá um seinan.  Bókin hét: "Gegn gripdeildum og drápum bændamúgs".  Lúther var augsýnilega enginn lýðskrumari, og hann var ekki lýðræðissinni í okkar skilningi hugtaksins. Lýðurinn lét ekki segjast við þetta andóf Lúthers. Hann hafði verið leystur úr andlegum viðjum aldalangrar kúgunar Rómarkirkjunnar.  Úr því að Guð hafði talað beint til hans með hinu ritaða orði Biblíunnar, hvað var þá að óttast frá hendi kónga og biskupa ?

Það er óyggjandi, að andleg bylting Marteins Lúthers lagði grunninn að einstaklingsfrelsi, einkaframtaki, mannréttindum og upplýsingastefnunni, sem þróaðist í Evrópu, einkum í löndum mótmælenda.  Upplýsingastefnan lagði grunninn að grunnmenntun almennings í lestri, skrift og reikningi, sem var stærsta einstaka skrefið í átt að auknum lýðréttindum, jafnræði og lýðræði.  "Kirkjur [mótmælenda] voru skólar lýðræðis", hefur The Economist eftir brezkum trúar þjóðfélagsfræðingi í ítarlegri umfjöllun um Martein Lúther 4. nóvember 2017, sem blekbóndi hefur stuðzt við í þessari umfjöllun um þann mann, sem mestum vatnaskilum olli á miðöldum um þróun vestrænnar menningar, svo að ekki sé nú skafið utan af því.

Blekbóndi hafði frá grunnskólaárum sínum frekar horn í síðu Marteins Lúthers, því að stráksi kenndi honum hálft í hvoru um meinleg örlög Jóns, biskups, Arasonar í Skálholti í nóvember 1550 ásamt tortímingu menningarverðmæta klaustranna og ránsferðum Dana þangað.  Í kjölfarið fór hagur landsmanna versnandi og við tóku hindurvitni og lögleysa með galdraofsóknum.  Ómögulegt er hins vegar að segja um, hvernig þróunin hefði orðið hér á landi, ef kaþólikkar hefðu náð að koma í veg fyrir Siðaskiptin hér á landi.  Eitt er víst, að eftir mikla óáran hérlendis vegna "Litlu ísaldar", eldgosa og landlægs afturhalds í atvinnulegum efnum, náðu Íslendingar að hrista af sér andlega og stjórnarfarslega hlekki og beinlínis að rísa úr öskustó í krafti "upplýsingarinnar", einkaframtaks og einarðrar stjórnmálaforystu í anda Jóns Sigurðssonar, forseta, og var ekki linnt látunum fyrr en fullveldi var endurheimt og fullt frelsi með stofnun lýðveldis á Þingvöllum 1944.  

Í krafti dugnaðar og þekkingaröflunar í útlöndum með innleiðingu nýjustu tækni á hverju sviði tókst landsmönnum að bæta hag sinn á um 150 árum frá því að vera ein bágstaddasta þjóð Evrópu í efnalegu tilliti í það er vera ein sú bezt stæða um þessar mundir.  Ekki er þó sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að veldur hver á heldur, og varðveizla gæðanna er líka vandasöm.   

 

 

 


Utanríkismál í uppnámi eina ferðina enn

Fyrir Alþingiskosningar 28. október 2017 hafa utanríkismálin legið í láginni.  Það er óheppilegt, því að vinstri flokkarnir búast til að svíkjast aftan að þjóðinni í þeim efnum rétt einu sinni.  Þeim er á engan hátt treystandi til að halda af ábyrgð og festu á hagsmunamálum Íslands gagnvart erlendum þjóðum, eins og dæmin frá 2009-2013 sanna.

Afturganga síðustu ríkisstjórnar, umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, ESB, hefur t.d. ekki verið kveðin niður, og utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur haft á orði, að eftir kosningar verði Samfylkingin "í dauðafæri" að blása til nýrrar sóknar um aðalhugðarefni sitt, inngöngu í ESB og upptöku evru. 

Forsætisráðherraefni vinstri grænna, hin vingulslega Katrín Jakobsdóttir, mun eiga auðvelt með aftur að kyngja öllum heitstrengingum sínum í nafni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, um að standa vörð um fullveldi Íslands, enda mun skoðunarkönnun hafa sýnt, að drjúgur hluti stuðningsmanna VG styður nú aðild Íslands að ESB, svo furðulegt sem það hljómar í samanburði við opinbera stefnuskrá VG, þar sem varað er við því, að stórauðvaldið noti fríverzlunarsamninga til að læsa klónum í auðlindir (smá) ríkja.  ESB er ekki nefnt þar á nafn.  

Undir "verkstjórn" Katrínar Jakobsdóttur má telja víst, að stjórnarskrárkapall verði lagður, þar sem leitazt verður við að lækka þröskuld fullveldisframsals til að greiða leið aðildar landsins að ESB.  Það verður gert undir þeim formerkjum, að greiða þurfi fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og það verður vísað til vafa um lögmæti EES-aðildar.  Tíminn mun fara í tóma vitleysu, eins og hjá síðustu ríkisstjórn vinstri flokkanna, 2009-2013, og landið fyrir vikið reka af leið stöðugleika og til upplausnar, eins og vant er undir vinstri stjórn, en vinstri forkólfarnir eru hreinlega ekki nægir bógar til að standa í ístaðinu.  Þar ber mest á lyddum og landeyðum. Þar vantar festu og myndugleika höfðingja Sunnlendinga á sinni tíð, Jóns Loftssonar í Odda, sem stóð gegn ásælni kaþólsku kirkjunnar í kirkjujarðir, þrátt fyrir bannfæringu biskups, og stóð á rétti jarðeigenda til eignarhalds með vísun til frelsis forfeðranna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þennan myndugleika til að bera, enda ber hann höfuð og herðar yfir aðra formenn stjórnmálaflokka, sama hvernig á hann er litið. 

Hann lýsti því yfir á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll, 25.10.2017, að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita öllu afli sínu gegn endurnýjun aðildarumsóknar og berjast gegn samþykkt hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hugsanleg vinstri stjórn eftir kosningarnar, 28.10.2017, mun væntanlega setja á. Hann lýsti því jafnframt yfir, að sér þætti ekki mikið koma til stjórnmálamanna, sem kasta ágreiningsmálum á sínum vettvangi í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að taka sjálfir afstöðu.  Slíkir hafa gefið pólitíska sannfæringu upp á bátinn fyrir völdin, en eru fyrir vikið engir leiðtogar.  Þetta taldi Bjarni Benediktsson vera misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum.  Þær ætti að nota til fá staðfestingu eða höfnun þjóðar á gjörningi eða ákvörðun ríkisstjórnar, og stjórnmálaleiðtogar yrðu að standa eða falla með afstöðu sinni, líkt og gerðist í Brexit-atkvæðagreiðslu Bretanna, þar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði af sér eftir að málstað hans var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þessari skýru afstöðu Bjarna Benediktssonar var fagnað með drynjandi lófataki á téðum fundi.  Katrín Jakobsdóttir kýs hins vegar að ganga til kosninga, "opin í báða enda enda".   

Hætt er við deilum á næsta kjörtímabili um aðild Íslands að NATO, sem landinu getur ekki orðið til framdráttar, því að okkur er nauðsyn á skjóli varnarsamtaka vestrænna ríkja nú sem fyrr.  Vinstri grænir eru á móti aðild Íslands að NATO.  Það mun ekki fara fram hjá helztu bandamönnum okkar, ef forysta ríkisstjórnar Íslands lendir í höndum slíks flokks, sem að þessu leyti sker sig úr í Evrópu og myndar skálkabandalag með "Die Linke"-vinstri sinnum í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED-hins austur þýzka kommúnistaflokks Walters Ulbricht og félaga.  Það getur orðið örlagaríkt eftir kosningar, að skessur kasti á milli sín fjöreggi þjóðarinnar.

Samkvæmt stefnuskrá vinstri grænna verða ekki gerðir neinir nýir fríverzlunarsamningar við erlend ríki undir forsjá VG.  Ástæðan mun vera ótti um, að einhver græði.  Það er banvæn meinloka hjá vinstri grænum, að enginn megi græða.  Allt okkar samfélag er þó reist á því, að einstaklingar og fyrirtæki græði.  Að hafna gróða er ávísun á eymd og fátækt eins samfélags.  Slíkur flokkur er í raun ekki stjórntækur í lýðræðissamfélagi, enda eru "Die Linke" ekki taldir stjórntækir í Berlín.  Sannleikurinn er sá, að allir landsmenn græða á greiðum og hömlulitlum viðskiptum.  Það er nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi á næstu misserum við okkar helztu viðskiptaþjóð, Breta.  Það er glapræði að standa á sama tíma í aðildarviðræðum við framkvæmdastjórn ESB.  Að berjast samtímis á tveimur vígstöðvum er ávísun á vandræði og að lokum algert tap.

Þá má ekki gleyma flóttamannavandamálinu, en þar reka vinstri flokkarnir óheillastefnu, sem einkennist af algeru virðingarleysi í meðferð skattfjár, hreinræktaða sóun, sem engum gagnast, nema fólkssmyglurum og lögfræðingum, sem reyna að tefja fyrir brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda og vilja nú fá tryggar og auknar greiðslur fyrir þennan gjörning úr ríkissjóði, eins og lögfræðingur á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík svo ósmekklega hefur lagt til. 

Á sama tíma og allar Evrópuþjóðir hækka þröskuldinn fyrir hælisleitendur, ætla vinstri flokkarnir að lækka hann.  Það þýðir bara eitt: smyglarar munu beina straumi flóttafólks hingað í meiri mæli, eins og gerðist með Albani, eftir misráðna ákvörðun Alþingis um málefni albanskra hælisleitenda.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir, að hann vilji taka upp norsku regluna um brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda á innan við 48 klst.  Útlendingastofnun er nú komin niður í nokkrar vikur, og við þann árangur fækkaði hælisleitendum, sem gera út á heimsku og barnaskap Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í útlendingamálum okkar. 

Það er sjálfsagt mál að verja landið gegn afætum frá útlöndum með tilhæfulausar hælisumsóknir.  Það er engum greiði gerður með félagslegu dekri við hælisumsækjendur frá löndum, sem skilgreind eru örugg, í lengri tíma.  Vinstri grænir, samfylkingar og píratar munu örugglega klúðra þessum málum í barnaskap sínum og einfeldni með 10-20 milljarða ISK/ár kostnaði fyrir skattborgara.

Á sama tíma og að þessu rituðu er rétt að gera sér grein fyrir því, að atvinnulífinu hérlendis er um þessar mundir haldið uppi af hörkuduglegum útlendingum, líka frá löndum utan EES, þ.á.m. (kristnum) Georgíumönnum, sem halda uppi hagvexti og halda verðbólgu í skefjum, öllum til hagsbóta. Að stemma stigu við erlendum afætum á félagslega kerfinu hér á ekkert skylt við ímigust á útlendingum.  

Stærsta utanríkismálið í höndum nýrrar vinstri stjórnar verður án vafa umræða um að endurvekja strandaðar aðildarviðræður frá ársbyrjun 2013, sem höfðu reyndar steytt á skeri löngu áður, þegar ESB neitaði að opinbera rýniskýrslu sína um stöðu íslenzkra sjávarútvegsmála.  Sú neitun jafngilti þeirri niðurstöðu ESB, að íslenzk sjávarútvegsstefna væri ósamrýmanleg hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.  

Í forystugrein Morgunblaðsins 17. október 2017,

"Engin fyrirstaða hjá VG",

eru leiddar að því líkur, að VG-forystan verði Samfylkingunni enn leiðitamari í næsta ESB-leiðangri en í þeim síðasta, og þótti þó flestum nóg um undirlægjuhátt flokksforystu VG þá.  Stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar kýrskýr.  Engar aðildarviðræður, nema þjóðin samþykki fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu að hefja þær að nýju. Þeir valdsmenn, sem leggi slíkt mál fyrir þjóðina, verði síðan að standa og falla með skýrri afstöðu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn mun tvímælalaust berjast hatrammlega fyrir höfnun þjóðarinnar á slíkri beiðni vinstri flokkanna og til vara, að þær hefjist ekki fyrr en fríverzlunarsamningur við Breta hefur verið til lykta leiddur. 

Höfnun felur í sér vantraust á þá ráðherra, sem fyrir aðildarviðræðum berjast, og þeim er þá ekki lengur til setunnar boðið, heldur verða að taka hatt sinn og staf. Ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs munu bera kápuna á báðum öxlum, svo óheiðarleg sem sú framkoma er gagnvart kjósendum, en þetta óhreinlyndi þeirra stafar af valdagræðgi.  Ráðherrar vinstri grænna munu vilja halda völdum óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þar kemur afstaða sósíalistans til lýðræðisins berlega í ljós.  Hann ber hvorki virðingu fyrir vilja, sjálfsaflafé né eignarrétti kjósandans.  Kjósandinn í huga sósíalistans er verkfæri hans til að framkvæma sósíalismann, eins og sósíalistanum þóknast að túlka hann á hverjum tíma.  Kjósandinn getur ekki treyst vinstri grænum fyrir horn.  

Úr téðri forystugrein:

"Nú er öldin önnur.  Þeir flokksmenn [VG], sem voru eindregið á móti Evrópusambandsaðild, eru horfnir á braut, og eftir sitja þeir, sem annaðhvort eru hlynntir aðild eða láta sig litlu varða, hvort fullveldið verður framselt til Brüssel.

Formaður flokksins er einn þessara, eins og sást glöggt í vinstri stjórninni, sem sótti um aðild og naut í einu og öllu stuðnings núverandi formanns. 

Fleira bendir til, að Vinstri græn verði létt í taumi að þessu sinni.  Í kosningaáherzlum flokksins fyrir kosningarnar 28. október 2017 er t.a.m. ekki minnzt á andstöðu flokksins við aðild að Evrópusambandinu.  Þeirri stefnu hefur einfaldlega verið stungið undir stól til að undirbúa stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna."

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað þá skýru stefnu til nýrra aðildarviðræðna við ESB, að þær skuli alls ekki hefja, nema samþykki fáist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst og síðan á Alþingi. Stjórnarflokkunum ber þá að taka lýðræðislegum afleiðingum úrslitanna, en þeir eiga ekki að hanga áfram við völd, eins og vinstri stjórnin 2009-2013 gerði svo skammarlega eftir þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave-samningana".  Ef á að endurtaka sama leikinn og árið 2009 að gösslast í viðræður án umboðs frá þjóðinni beint, mun hins vegar hitna illilega í kolunum, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu.  Það eru gjörólíkar tímar nú gengnir í garð.   

 

 

 Tifandi tímasprengja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband