Færsluflokkur: Evrópumál

Líður EES senn undir lok ?

Engum blöðum er um það að fletta, að BREXIT hefur mikil áhrif á forsendur EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem eru ESB-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Ástæðan er sú, að Bretland er helzta viðskiptaland Íslands og Noregs.

Þann 25. nóvember 2017 birtist þörf hugvekja um EES í Morgunblaðinu eftir Norðmanninn, Morten Harper, rannsóknarstjóra Félags norskra andstæðinga ESB, "Nej til EU".  Í ljósi þess, að EES var sett á laggirnar sem fordyri að ESB, eins konar biðsalur væntanlegra aðildarlanda í aðlögun, þá er tímabært að vega og meta alvarlega útgöngu Noregs og Íslands úr EES, af því að aðild landanna er engan veginn á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Áhuginn fyrir inngöngu í ESB fer minnkandi í báðum löndunum og efasemdir um heildarnytsemi EES fara vaxandi.

Það, sem kemur þessari umræðu af stað núna, er vitaskuld útganga Bretlands úr ESB, en Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands.  Bæði löndin undirbúa tvíhliða viðræður um framtíðar viðskiptasambönd landanna, og þá er jafnframt eðlilegt að íhuga tvíhliða viðskiptasamband við ESB, eins og t.d. Svisslendingar notast við. E.t.v. væri samflot EES-landanna utan ESB gagnlegt, ef ESB verður til viðræðu um endurskoðun á EES-samninginum, sem er undir hælinn lagt.

Morten Harper er fullveldisframsalið til ESB ofarlega í huga.  Það er fólgið í flóði reglna og tilskipana frá framkvæmdastjórn ESB; 12´000 slíkar hefur Noregur tekið upp frá árinu 1992.  Hvað skyldi Ísland hafa tekið upp margar af þessum toga frá 1994 ? 

Þá felur valdaframsal til eftirlitsstofnunarinnar ESA og EFTA-dómstólsins klárlega í sér fullveldisskerðingu landanna þriggja utan ESB í EES, og nú virðist eiga að troða hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB ríkjanna upp á hin EES ríkin (utan ESB).  Skemmst er að minnast nýlegs dómsorðs EFTA-dómstólsins, þar sem leitazt er við að þvinga Ísland til að láta af varúðarraáðstöfunum sínum til varðveizlu á heilsufari manna og búfjár í landinu.  

Nú skal vitna í ágæta grein Mortens Harper, 

"Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins":

"Lykilatriði í nýju skýrslunni, "25 ár í EES" [okkur Íslendinga vantar vandaða úttekt af þessu tagi], er, hvernig EES-samningurinn veldur einkum skaða á norska atvinnulífinu.  EES-skýrslan sýnir, hvernig norsk lög, kjarasamningar og ILO-samningar (Alþjóða vinnumálastofnunin) víkja fyrir reglum ESB/EES.  [Hér má minna á megna óánægju innan verkalýðshreyfingarinnar íslenzku með skuggahliðar frjáls flæðis vinnuafls innan EES.]  

Í umdeildum úrskurði í lok síðasta árs fylgdi Hæstiréttur [Noregs] ráðgjöf EFTA-dómstólsins og setti reglur ESB um frelsi fyrirtækja framar rétti verkamanna og 137. ákvæði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um hafnarverkamenn.  Nokkur verkalýðsfélög krefjast þess nú, að Noregur yfirgefi EES."

Það má furðu gegna, að slík krafa varðandi aðild Íslands að EES skuli enn ekki hafa birzt opinberlega frá neinu íslenzku verkalýðsfélagi.  Starfsmannaleigur, sem eru regnhlíf yfir þrælahald nútímans á Norðurlöndunum og réttindalausir iðnaðarmenn að íslenzkum lögum, ættu að vera nægilega ríkar ástæður til að segja sig úr lögum við þetta furðufyrirbrigði, sem ESB er.  

Svo kom rúsínan í pylsuendanum hjá Morten Harper:

"Noregur er mikill framleiðandi [raf]orku.  Framkvæmdastjórn ESB vill tengja Noreg eins náið og unnt er við ESB-orkukerfið og stefnir að fimmta frelsinu: frjálsu orkuflæði [undirstr. BJo].  Meirihluti ESB-orkulöggjafarinnar er talinn falla undir EES, [sem] gerir samninginn að verkfæri ESB til að samþætta Noreg í orkukerfið.  

Nánast ekkert hefur meiri þýðingu fyrir norskan iðnað en langtíma aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði.  Sífellt meiri útflutningur rafmagns til meginlandsins og Bretlands getur leitt til þess, að Noregur þurfi að greiða hærra raforkuverð fyrir sín not.  Aðeins við þjóðarorkukreppu getur Noregur komið í veg fyrir útflutning raforku.  Að öðru leyti er öllu stjórnað af samkeppnisreglum ESB/EES."

Blekbóndi þessa vefseturs hefur verið ólatur við að vara við samtengingu raforkukerfa Íslands og ESB með sæstreng til Skotlands vegna þeirrar sannfæringar, á grundvelli útreikninga, að þjóðhagslega hagkvæmast sé að nýta íslenzka raforku innanlands til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Lýsing Mortens Harper bendir til, að Norðmenn finni nú á eigin skinni gallana við útflutning á raforku úr sjálfbærum orkulindum Noregs (fallorku vatnsfalla) á svipuðum grundvelli og blekbóndi hefur varað hérlandsmenn við raforkuútflutningi frá Íslandi um sæstreng á þessu vefsetri.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur verið helzti hvatamaður slíkrar tengingar hérlendis, en hefur samt aldrei fengizt til að sýna á spilin sín, enda sennilega ekkert til að sýna.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur út frá tiltækum gögnum sýnt fram á með útreikningum, hversu ókræsileg þessi viðskipti yrðu, og hversu alvarlegir tæknilegir annmarkar eru á þeim. 

Nú rifjast það upp, að Hörður Arnarson var einn þeirra, sem málaði skrattann á vegginn um afleiðingar þess að hafna Icesave-samningunum við Breta/Hollendinga/ESB, þegar sú deila var hvað hatrömmust á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Ályktunin nú er þess vegna sú, að umræddu sæstrengsverkefni sé ætlað af ESB að verða farvegur fyrir innleiðingu 5. frelsis Innri markaðarins á Íslandi.  Þar með mundi Ísland lenda í sömu stöðu og Morten Harper lýsir fyrir Noreg um hækkun raforkuverðs af völdum mikils raforkuinnflutnings vegna innlends orkuskorts (tæmd miðlunarlón af völdum mikils raforkuútflutnings).  

Hvernig á að standa að endurskoðun á EES-samninginum ? Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í Noregi.  Ein leið er sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor, um aðild eða úrsögn.  Önnur leið er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja fullveldi Íslands gagnvart ESB undir hatti EES og hugsanlegur nýr samningur verði síðan borinn undir þjóðaratkvæði til synjunar eða samþykkis.  Allur norðurvængur Evrópusambandsins kann að verða í uppnámi á næstu misserum.  

Brezki fáninn-Union JackÞýzkt ESB

 


Lýðheilsa og heilsufar búfjárstofna í húfi

Slæmar fréttir bárust hingað til lands frá EFTA-dómstólinum 14. nóvember 2017.  Hann úrskurðaði, að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á hráu, ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum og vörum úr þessum afurðum, svo og leyfiskvöð á innflutningi þessara vara, bæri að flokka með ólögmætum viðskiptahindrunum samkvæmt matvælalöggjöf ESB og ákvæðum EES-samningsins, sem Ísland er aðili að.

Við þennan dóm er margt að athuga, bæði lögfræðilega og heilsufarslega.  Margir kunnáttumenn hérlendis á sviðum lýðheilsu, meinafræði og sýklafræði manna og dýra gjalda svo mjög varhug við þessum dómi, að þeir fullyrða blákalt, að fullnusta dómsins mundi stefna heilsufari manna og dýra í hættu hérlendis. Við svo búið má ekki standa, og afgreiðsla þessa máls verður ákveðinn prófsteinn á nýja ríkisstjórn landsins. Það er algert ábyrgðarleysi af núverandi bráðabirgða stjórnvöldum að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum fjölmargra sérfræðinga m.v. geigvænlegar afleiðingar þess, að allt fari hér á versta veg í þessum efnum.

Fráfarandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er sem fyrr úti á þekju og skautar léttilega yfir slíkar hindranir og sannar með því, hversu sneydd hæfileikum hún er til að fara með þetta veigamikla embætti í Stjórnarráði Íslands.  Það er guðsþakkarvert, að hún skuli vera þaðan á förum, enda átti hún þangað aldrei erindi.  Helgi Bjarnason hefur t.d. eftirfarandi eftir téðri Þorgerði í frétt sinni í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2017:

"Breyta þarf reglum um innflutning":

"Þorgerður Katrín segir, að íslenzk stjórnvöld þurfi að breyta þessum lögum, svo að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar."

Þorgerður þessi leyfir sér að boða það að gösslast áfram gegn ráðleggingum okkar færustu vísindamanna, þótt afleiðingarnar geti orðið geigvænlegar fyrir bændastéttina, dýrastofnana, heilsufar og hag þjóðarinnar og ríkissjóðs.  Blekbóndi er gjörsamlega gáttaður á fljótfærni og hugsunarleysi þessa ráðherra, sem dæmir sjálfa sig úr leik í pólitíkinni með þessari einstæðu afstöðu.  Enn bætti Þorgerður þó um betur:

"Þorgerður Katrín lýsir þeirri skoðun sinni, að hræðsluáróður hafi verið notaður gegn innflutningi á fersku kjöti og telur, að meiri hætta stafi af ferðamönnum og innflutningi á fersku grænmeti."

Mann rekur í rogastanz við lestur texta, sem vitnar um jafnhelbert dómgreindarleysi og blinda trú á regluverk og eftirlitskerfi ESB og hér er á ferð.  Ráðherrann, fráfarandi, hraunar hér yfir faglega og rökstudda skoðun fjölda innlendra sérfræðinga og kallar "hræðsluáróður".  Slíkur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur, sem að slíkum ráðherra stendur, er einskis trausts verður og hlýtur að lenda á ruslahaugum sögunnar eigi síðar en í næstu Alþingiskosningum, enda hvert ver eiginlega erindi Viðreisnar í stjórnmálin ?  Kerfisuppstokkun ?  Heyr á endemi !  

Ný ríkisstjórn í landinu verður að taka téðan dóm föstum tökum og semja vísindalega trausta greinargerð til ESA og ESB, þar sem rökstutt er, að íslenzk stjórnvöld sjái sér engan veginn fært að fullnusta þennan dóm EFTA-dómstólsins vegna mikillar áhættu fyrir hag landsins, sem slíkt hefði í för með sér.  Leita þarf lögfræðilegra leiða til að renna stoðum undir slíka afstöðu, ella verða Íslendingar að leita eftir breytingum á skuldbindingum sínum við EES í krafti fullveldisréttar síns.  Undanþágur í þessa veru verða líka að koma fram í væntanlegum fríverzlunarsamningi Íslands og Bretlands, sem taka þarf gildi í kjölfar harðsóttrar útgöngu Bretlands úr ESB.  Bretar hafa lýst því yfir, að í stað þess að dvelja í skjóli "Festung Europa", vilji þeir hafa forgöngu um víðtæka fríverzlun, og þeir eru líklegir til að skapa EFTA-þjóðunum aðgang að víðtæku fríverzlunarneti um heiminn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sagði í ofangreindri frétt:

""Þessi orrusta er töpuð, en kanna verður, hvort stríðið er tapað", segir Erna. Hún nefnir, að EFTA-dómstóllinn hafi ekki talið reglur Íslands falla undir þá grein EES-samningsins, sem heimilar ríkjunum að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda líf og heilsu manna og dýra.  Það verði athugað, hvort einhverjar leiðir séu til að virkja þetta ákvæði."

Spyrja má, hvort öryggishagsmunum Íslands hafi verið teflt nægilega skilmerkilega og ítarlega fram að Íslands hálfu gagnvart dómstólinum.  Málið er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur varðar það þjóðaröryggi, ef með stjórnvaldsaðgerðum er verið að opna nýjum fjölónæmum sýklum og veirum greiða leið inn í landið og þar með tefla lýðheilsu hérlendis á tæpasta vað og setja heilsufar búfjár í uppnám.

Það er líklega ekkert sambærilegt tilvik í Evrópu við sjúkdómastöðuna á Íslandi, og þess vegna ekkert fordæmi í Evrópu til að líta til við dómsuppkvaðninguna, en ef þessari hlið málsins hefði verið teflt fram af fullri festu, hefði mátt benda dómstólnum á fordæmi annars staðar í heiminum, t.d. frá Nýja-Sjálandi.  Nú þarf að tefla fram ítarlegri röksemdafærslu okkar færustu vísindamanna á þessu sviði gegn þeim rökum, sem EFTA-dómstóllinn hefur lagt til grundvallar, og verður þá ekki öðru trúað en minni hagsmunir verði látnir víkja fyrir meiri.  Að öðrum kosti verður Ísland að grípa til einhliða ráðstafana að beztu manna yfirsýn til að varðveita þá heilsufarslegu stöðu, sem 1100 hundruð ára einangrun hefur fært íslenzkum búfjárstofnum.  

Hvað segir Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus í sýklafræði við Háskóla Íslands af þessu tilefni ?:

"Það er alvarlegt mál, ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar.  Ég treysti ekki þeim mönnum, sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til að verja okkur fyrir þeim.  Kannski af því, að ég er orðin svo gömul, að ég hef séð of margt."

Í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017,

"Segja, að veikindaálagið muni aukast",

mátti greina miklar áhyggjur Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis og veirufræðings á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karls G. Kristinssonar, prófessors og yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans:

""Þessi niðurstaða hefur þýðingu fyrir lýðheilsu og mögulega einnig dýraheilsu.  Það er alveg óumdeilt í fræðaheiminum, að smitsjúkdómastaða íslenzku búfjárkynjanna er einstök á heimsvísu.  Þess nýtur íslenzkur landbúnaður og almenningur hérlendis", segir Vilhjálmur."

Á að fórna "einstakri stöðu á heimsvísu" vegna þrýstings frá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem kært hafa íslenzk yfirvöld fyrir ESA og krefjast þess að fá að flytja hömlulaust inn frá ESB og selja hér ferskt kjöt, ógerilsneydd egg og vörur úr þessum afurðum ? Það kemur ekki til mála. Það mun auðvitað sjást undir iljar þessara aðila, þegar fólk og fénaður tekur að veikjast hér af fjölónæmum sýklum, sem engar varnir eru gegn, og búfé að hrynja niður, eins og fordæmi eru um, af riðuveiki og mæðiveiki.  Þessir innflytjendur og seljendur verða þá fljótir að benda á eftirlitsaðilana sem sökudólga, en pottþétt heilbrigðiseftirlit með þessum innflutningi er óframkvæmanlegt. Sá beinharði kostnaður, sem af slíku mundi leiða fyrir skattborgarana, er margfaldur sá sparnaður, sem neytendur kynnu að njóta um hríð vegna lækkaðs matvöruverðs.  

""Sýklalyfjaónæmi er ein af helztu ógnunum við lýðheilsu í heiminum í dag.  Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að reyna að viðhalda okkar góðu stöðu, eins lengi og hægt er", segir Karl."

Í þessu máli eru ekki öll kurl komin til grafar, og það hlýtur að verða eitt fyrsta meginverkefni nýs utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra að stilla upp varnarlínu fyrir Ísland gagnvart ESB í þessu máli og síðan að sækja þaðan fram til að hnekkja þessum dómi, hugsanlega með sérsamningi Íslands eða EFTA við ESB, því að með hann á bakinu er Íslandi ekki vært innan EES.  Það er utanríkispólitískt stórmál með miklum afleiðingum fyrir Ísland, eins og úrsögn Bretlands úr ESB er stórmál fyrir Breta, en reyndar líka fyrir mörg fyrirtæki í ESB-ríkjunum.   

 Berlaymont sekkur

 

 

 

 


Marteinn Lúther, 1483-1546

Upprifjun á ævi þýzka guðfræðiprófessorsins Marteins Lúthers í sjónvarpi undanfarið í þýzkum og íslenzkum fræðsluþáttum hefur kastað ljósi á, hvílíkur eldhugi og byltingarmaður Marteinn Lúther var.  Ævistarf hans bylti samtíð hans á trúmálasviðinu og lagði grunninn að þróun Evrópu og Vesturlanda allra í átt til upplýsts sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins og andlegs frelsis hans, einstaklingshyggju með samfélagslegri ábyrgð í anda kristilegs kærleika. Án starfa Lúthers og samverkamanna hans væru Vesturlönd líklega að mörgu leyti lakar sett en reyndin er á okkar dögum.

Lúther var Saxi og fæddist og dó í Eisleben í Saxlandi, en starfaði aðallega í Wittenberg í Saxlandi, sem þá var sennilega miðstöð frjálslyndis og fróðleiksleitar þar um slóðir. Lúther gerðist ungur að árum munkur af reglu Ágústínusar og einhvern tímann á árabilinu 1513-1517 varð hinn rúmlega þrítugi munkur fyrir vitrun Guðs og fannst hann vera "endurborinn og hafa gengið gegnum opnar dyr inn í paradís". Þessi upplifun hans breytti vafalaust sjálfsmynd hans og sjálfstrausti og varð honum sennilega eldsneyti til mikilla afreka sem baráttumaður gegn valdakerfi kaþólsku kirkjunnar og fyrir andlegu frelsi og þekkingu lýðnum til handa. Hann var hins vegar ekki slíkur hefðbundinn byltingarforingi, sem berst fyrir auknum hlut alþýðunnar af auði aðalsins og annarra stóreignamanna. 

 Lúther einbeitti sér alla tíð að trúmálum, og honum ofbauð spilling rómversk-kaþólsku kirkjunnar, sem hann kynntist sem munkur, og fann sig knúinn til þess 31. október 1517 að tjá opinskátt hneykslun sína á framferði kirkjunnar manna.  Dropinn, sem fyllti mælinn, var sala sendimanna páfans á aflátsbréfum, sem voru eins konar skuldabréf, sem endurgreidd voru með ríkulegum vöxtum hinum megin með því að létta og stytta veru breyskra manna og kvenna í hreinsunareldinum, jafnvel löngu framliðinna. Í krafti fræða sinna sem Biblíufræðingur sá Lúther í gegnum þennan viðurstyggilega blekkingarvef og fjárplógsstarfsemi, því að hvergi var í Biblíunni minnzt á neinn hreinsunareld, svo að ekki sé nú minnzt á aflátsbréf eða eitthvað keimlíkt.  Páfastóllinn hafði innleitt hreinsunareldinn í kenningakerfi sitt til að ná tangarhaldi á lýðnum og beitti ógnarstjórn með því að skapa skelfingu syndugs lýðsins gagnvart dauðanum.  Var þetta hinn lúalegasti gjörningur Rómverjanna gagnvart fávísum og fátækum almúga.

Mótmæli Marteins Lúthers, sem hann negldi upp á aðalhurð hallarkirkjunnar í Wittenberg í Saxlandi, vafalaust með samþykki kjörfurstans, voru í 95 liðum, sem voru einn samfelldur reiðilestur út af andlegri kúgun og spillingu kirkjunnar manna.  Æðsti veraldlegi valdhafinn í Saxlandi var á þeim tíma tiltölulega frjálslyndur og hafði stofnað tiltölulega frjálslyndan háskóla í Wittenberg.  Þar stundaði Lúther fræðistörf á sérsviði sínu, Biblíunni. Kirkjunnar mönnum líkaði ekki alls kostar við þau fræðistörf, sem í þessum háskóla voru stunduð, m.a. útleggingar Lúthers á Nýja Testamentinu og rök hans fyrir því, að "hið heilaga orð" yrði að ná beint til fólksins, með því að boðskapurinn væri á móðurmáli þess, og hann þýddi sjálfur Biblíuna á alþýðumál Saxa, sem síðan varð grundvöllurinn að ritmáli allra þýzkumælandi manna, sem tala fjölbreytilegar mállýzkur.  Nokkru seinna vann Oddur Gottskálksson andlegt þrekvirki við grútartíru í fjósinu í Skálholti í óþökk þáverandi Skálholtsbiskups, Ögmundar Pálssonar, og myndaði að sama skapi grundvöll íslenzks ritmáls með verki sínu.  

Það er óvíst, að Lúther hefði opinberað andúð sína á gjörðum kirkjunnar þjóna og útleggingum þeirra á fagnaðarerindinu með jafnögrandi hætti og raunin varð, ef hann hefði ekki verið hvattur áfram af veraldlegum höfðingjum í Saxlandi, þ.á.m. téðum kjörfursta.  Þar, eins og á Íslandi, hafði lengi verið togstreita á milli kirkjuvaldsins og veraldlegra höfðingja um veraldlegar eignir, t.d. jarðnæði.  Veraldlegir höfðingjar Saxlands sáu sér nú leik á borði, er sterkrar gagnrýni á kirkjuna gætti innan hennar, að grafa undan áhrifamætti hennar með beinum og óbeinum stuðningi við harðvítuga og fræðilega gagnrýni á störf kirkjunnar þjóna frá munkum og prelátum og upp í páfastól sjálfan. Sennilega voru Siðaskipti samt ekki ætlun höfðingjanna, en fljótlega varð ekki aftur snúið, og úr varð alger viðskilnaður við rómversk kaþólsku kirkjuna, og höfðingjarnir tóku við hlutverki páfastóls sem verndarar kirkjunnar. Þar með sópuðu þeir gríðarlegum verðmætum kirkna og klaustra í gullkistur sínar, og höfðu þá hvorir um sig í hópi mótmælenda, trúmennirnir og auðmennirnir, nokkuð fyrir sinn snúð, og alþýðan uppskar sem sáð var með tíð og tíma.  

Höfðingjar Saxlands horfðu auðvitað blóðugum augum eftir háum fjárhæðum, sem runnu frá þeim og almúganum til Rómarborgar í formi skattheimtu, og steininn tók úr, þegar páfinn tók að fjármagna byggingu stórhýsis í Róm, Péturskirkjuna, með sölu fyrrnefndra aflátsbréfa.  Leiða má getum að því, að megnið af fjármögnun þessa stórhýsis hafi komið frá Þýzkalandi, enda stöðvaðist bygging kirkjunnar um tíma, þegar áhrifa andmælanna 95 á kirkjuhurðinni í Wittenberg tók að gæta um allan hinn þýzkumælandi heim fyrir tilstyrk mestu tækninýjungar þess tíma.  

Fullyrða má, að áhrifa róttækrar fræðilegrar gagnrýni og réttlátrar reiði Marteins Lúthers á andlega kúgun kirkjunnar, vafasamar útleggingar preláta og biskupa á Biblíunni, m.a. í krafti þess, að fáir utan prelátastéttar voru í færum að kynna sér Biblíuna af eigin raun á latínu, hefðu orðið miklu staðbundnari, minni og hægvirkari, ef Lúther og baráttufélagar hans í hópi guðfræðinga og höfðingja hefðu ekki tekið í gagnið byltingarkenndustu hönnun og nýsmíði þess tíma, prentsmiðju Jóhannesar Gútenbergs, 1400-1468, frá 1439, sem þá var búið að setja upp og þróa enn frekar í 70 ár á nokkrum stöðum í Þýzkalandi og víðar í Evrópu.  Auðvitað var prentun rándýr í árdaga prenttækninnar, en bandamenn Lúthers hafa vafalaust fjármagnað fyrirtækið með glöðu geði, því að áhrifamáttur boðskapar á móðurmálinu hefur verið orðinn vel þekktur.  

Andmælin 95 og rit Lúthers, þ.á.m. Biblíuþýðing hans á þýzku, sem varð grundvöllur háþýzku, þýzka ritmálsins, dreifðust eins og eldur í sinu um Þýzkaland og tendruðu þar frelsisbál.  Bændur landsins sáu nú kjör sín og aðstöðu í nýju ljósi; þeir þyrftu ekki um aldur og ævi að búa við þrældóm, harðýðgi, kúgun og gripdeildir að hálfu landeigenda og kirkju og gerðu uppreisn gegn yfirvöldunum og kröfðust frelsis fyrir sig og fjölskyldur sínar auk eigin landnæðis. 

Sundrung hefur frá upphafi einkennt lútherska söfnuði, enda vantaði söfnuðina miðstjórnarvald í líkingu við páfadóminn til að úrskurða um deilumál og halda hjörðinni saman. Einn fyrsti klofningurinn í röðum fylgismanna Lúthers var vegna afstöðunnar til vopnaðrar uppreisnar bænda í Þýzkalandi 1524-1525, sem var innblásin af andlegri byltingu Lúthers.  Sumir baráttufélaga Lúthers tóku einarða afstöðu með almúga sveitanna og blönduðu sér beinlínis í baráttuna, en Marteinn Lúther var hins vegar eindregið á móti því að reyna að rétta hlut almúgans snögglega gagnvart aðlinum með ofbeldi og blóðsúthellingum, enda ætti slíkt að verða friðsamlegt þróunarferli.  Hér verður fernt nefnt, sem kann að hafa ráðið afstöðu Lúthers til bændauppreisnarinnar:

  1. Biblíufræðingurinn, Lúther, fann því hvergi stað í boðskap biblíunnar, að Guði væri það þóknanlegt, að almúginn gripi til vopna gegn valdhöfum og raskaði þar með gildandi þjóðfélagsskipan.
  2. Lúther vildi að sönnu rétta kjör almúgans, en taldi skyndilausn á borð við vopnaða uppreisn ekki vænlega leið til þess, heldur þyrftu réttarbætur og bættur hagur að fylgja auknum þroska og menntun alþýðu, sem hann vissulega hafði hrundið af stað og vann alla tíð að.
  3. Lúther gerði sér grein fyrir því, að við ofurefli var að etja á vígvellinum, þar sem voru brynjaðir riddarar aðalsins og vel vopnum búnir og þjálfaðir fótgönguliðar gegn óþjálfuðum og illa búnum bændunum.  Uppreisn myndi aðeins leiða til blóðbaðs og auka enn við sára neyð og eymd bænda, hvað og á daginn kom.  
  4. Lúther var í bandalagi við saxneska höfðingja, sem vernduðu hann gegn hefndaraðgerðum kaþólsku kirkjunnar, enda vildu þeir losna undan andlegri og skattalegri kúgun kaþólsku kirkjunnar. Annars hefði Lúther líklega ekki kembt hærurnar. Hagsmunir höfðingjanna og Marteins Lúthers sköruðust, og hann taldi réttilega óráðlegt að rjúfa bandalagið við þá, því að þá stæði hann á berangri. Lúther leit jafnan svo á, að hagsmunir mótmælendasafnaðanna og veraldlegu höfðingjanna færu saman.  Þeir urðu síðan verndarar hinnar lúthersku kirkju, og þaðan höfum við í raun núverandi tengingu ríkis og kirkju á Norðurlöndunum, þar sem ríkisvaldið er bakhjarl lúthersku kirkjunnar, þótt fullt trúfrelsi ríki.   

Lúther var agndofa yfir þeim frelsisöflum, sem hann hafði leyst úr læðingi, og sama hefur vafalaust átt við um höfðingjana, sem studdu hann með ráðum og dáð í skefjalausri valdabaráttu sinni við kirkjuvaldið í Róm.  Þeir stóðu að mörgu leyti í pólitískri þjóðfrelsisbaráttu fyrir sjálfstæði lands síns og hagsmunum þjóðar sinnar gagnvart fornu drottinvaldi hins gíruga Rómarvaldis. 

Þessir umbrotatímar minna á okkar eigin tíma, þegar megn óánægja er víða að brjótast út með Brüssel-valdið, sem reisir valdheimildir sínar gagnvart aðildarþjóðunum einmitt á Rómarsáttmálanum og síðari sáttmálum Evrópusambandsríkjanna. Brüssselvaldið grípur nú þegar inn í daglegt líf almennings án þess að hafa hlotið til þess lýðræðislegt umboð eða bera lýðræðislega ábyrgð gagnvart almúganum. Þessi óánægja almennings brauzt síðast út í þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi í júní 2016, þegar meirihluti kjósenda fól þingi og ríkisstjórn að draga Bretland undan stofnanavaldi og skattheimtu ESB. Nú sýnir Brüsselvaldið samningamönnum Bretlands um útgönguna klærnar, og enginn veit enn, hvernig samskiptum útgönguríkisins við ESB-ríkin verður háttað. 

Lúther skrifaði bók til að reyna að stöðva ofbeldið, en það var þá um seinan.  Bókin hét: "Gegn gripdeildum og drápum bændamúgs".  Lúther var augsýnilega enginn lýðskrumari, og hann var ekki lýðræðissinni í okkar skilningi hugtaksins. Lýðurinn lét ekki segjast við þetta andóf Lúthers. Hann hafði verið leystur úr andlegum viðjum aldalangrar kúgunar Rómarkirkjunnar.  Úr því að Guð hafði talað beint til hans með hinu ritaða orði Biblíunnar, hvað var þá að óttast frá hendi kónga og biskupa ?

Það er óyggjandi, að andleg bylting Marteins Lúthers lagði grunninn að einstaklingsfrelsi, einkaframtaki, mannréttindum og upplýsingastefnunni, sem þróaðist í Evrópu, einkum í löndum mótmælenda.  Upplýsingastefnan lagði grunninn að grunnmenntun almennings í lestri, skrift og reikningi, sem var stærsta einstaka skrefið í átt að auknum lýðréttindum, jafnræði og lýðræði.  "Kirkjur [mótmælenda] voru skólar lýðræðis", hefur The Economist eftir brezkum trúar þjóðfélagsfræðingi í ítarlegri umfjöllun um Martein Lúther 4. nóvember 2017, sem blekbóndi hefur stuðzt við í þessari umfjöllun um þann mann, sem mestum vatnaskilum olli á miðöldum um þróun vestrænnar menningar, svo að ekki sé nú skafið utan af því.

Blekbóndi hafði frá grunnskólaárum sínum frekar horn í síðu Marteins Lúthers, því að stráksi kenndi honum hálft í hvoru um meinleg örlög Jóns, biskups, Arasonar í Skálholti í nóvember 1550 ásamt tortímingu menningarverðmæta klaustranna og ránsferðum Dana þangað.  Í kjölfarið fór hagur landsmanna versnandi og við tóku hindurvitni og lögleysa með galdraofsóknum.  Ómögulegt er hins vegar að segja um, hvernig þróunin hefði orðið hér á landi, ef kaþólikkar hefðu náð að koma í veg fyrir Siðaskiptin hér á landi.  Eitt er víst, að eftir mikla óáran hérlendis vegna "Litlu ísaldar", eldgosa og landlægs afturhalds í atvinnulegum efnum, náðu Íslendingar að hrista af sér andlega og stjórnarfarslega hlekki og beinlínis að rísa úr öskustó í krafti "upplýsingarinnar", einkaframtaks og einarðrar stjórnmálaforystu í anda Jóns Sigurðssonar, forseta, og var ekki linnt látunum fyrr en fullveldi var endurheimt og fullt frelsi með stofnun lýðveldis á Þingvöllum 1944.  

Í krafti dugnaðar og þekkingaröflunar í útlöndum með innleiðingu nýjustu tækni á hverju sviði tókst landsmönnum að bæta hag sinn á um 150 árum frá því að vera ein bágstaddasta þjóð Evrópu í efnalegu tilliti í það er vera ein sú bezt stæða um þessar mundir.  Ekki er þó sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að veldur hver á heldur, og varðveizla gæðanna er líka vandasöm.   

 

 

 


Utanríkismál í uppnámi eina ferðina enn

Fyrir Alþingiskosningar 28. október 2017 hafa utanríkismálin legið í láginni.  Það er óheppilegt, því að vinstri flokkarnir búast til að svíkjast aftan að þjóðinni í þeim efnum rétt einu sinni.  Þeim er á engan hátt treystandi til að halda af ábyrgð og festu á hagsmunamálum Íslands gagnvart erlendum þjóðum, eins og dæmin frá 2009-2013 sanna.

Afturganga síðustu ríkisstjórnar, umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, ESB, hefur t.d. ekki verið kveðin niður, og utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur haft á orði, að eftir kosningar verði Samfylkingin "í dauðafæri" að blása til nýrrar sóknar um aðalhugðarefni sitt, inngöngu í ESB og upptöku evru. 

Forsætisráðherraefni vinstri grænna, hin vingulslega Katrín Jakobsdóttir, mun eiga auðvelt með aftur að kyngja öllum heitstrengingum sínum í nafni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, um að standa vörð um fullveldi Íslands, enda mun skoðunarkönnun hafa sýnt, að drjúgur hluti stuðningsmanna VG styður nú aðild Íslands að ESB, svo furðulegt sem það hljómar í samanburði við opinbera stefnuskrá VG, þar sem varað er við því, að stórauðvaldið noti fríverzlunarsamninga til að læsa klónum í auðlindir (smá) ríkja.  ESB er ekki nefnt þar á nafn.  

Undir "verkstjórn" Katrínar Jakobsdóttur má telja víst, að stjórnarskrárkapall verði lagður, þar sem leitazt verður við að lækka þröskuld fullveldisframsals til að greiða leið aðildar landsins að ESB.  Það verður gert undir þeim formerkjum, að greiða þurfi fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og það verður vísað til vafa um lögmæti EES-aðildar.  Tíminn mun fara í tóma vitleysu, eins og hjá síðustu ríkisstjórn vinstri flokkanna, 2009-2013, og landið fyrir vikið reka af leið stöðugleika og til upplausnar, eins og vant er undir vinstri stjórn, en vinstri forkólfarnir eru hreinlega ekki nægir bógar til að standa í ístaðinu.  Þar ber mest á lyddum og landeyðum. Þar vantar festu og myndugleika höfðingja Sunnlendinga á sinni tíð, Jóns Loftssonar í Odda, sem stóð gegn ásælni kaþólsku kirkjunnar í kirkjujarðir, þrátt fyrir bannfæringu biskups, og stóð á rétti jarðeigenda til eignarhalds með vísun til frelsis forfeðranna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þennan myndugleika til að bera, enda ber hann höfuð og herðar yfir aðra formenn stjórnmálaflokka, sama hvernig á hann er litið. 

Hann lýsti því yfir á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll, 25.10.2017, að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita öllu afli sínu gegn endurnýjun aðildarumsóknar og berjast gegn samþykkt hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hugsanleg vinstri stjórn eftir kosningarnar, 28.10.2017, mun væntanlega setja á. Hann lýsti því jafnframt yfir, að sér þætti ekki mikið koma til stjórnmálamanna, sem kasta ágreiningsmálum á sínum vettvangi í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að taka sjálfir afstöðu.  Slíkir hafa gefið pólitíska sannfæringu upp á bátinn fyrir völdin, en eru fyrir vikið engir leiðtogar.  Þetta taldi Bjarni Benediktsson vera misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum.  Þær ætti að nota til fá staðfestingu eða höfnun þjóðar á gjörningi eða ákvörðun ríkisstjórnar, og stjórnmálaleiðtogar yrðu að standa eða falla með afstöðu sinni, líkt og gerðist í Brexit-atkvæðagreiðslu Bretanna, þar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði af sér eftir að málstað hans var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þessari skýru afstöðu Bjarna Benediktssonar var fagnað með drynjandi lófataki á téðum fundi.  Katrín Jakobsdóttir kýs hins vegar að ganga til kosninga, "opin í báða enda enda".   

Hætt er við deilum á næsta kjörtímabili um aðild Íslands að NATO, sem landinu getur ekki orðið til framdráttar, því að okkur er nauðsyn á skjóli varnarsamtaka vestrænna ríkja nú sem fyrr.  Vinstri grænir eru á móti aðild Íslands að NATO.  Það mun ekki fara fram hjá helztu bandamönnum okkar, ef forysta ríkisstjórnar Íslands lendir í höndum slíks flokks, sem að þessu leyti sker sig úr í Evrópu og myndar skálkabandalag með "Die Linke"-vinstri sinnum í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED-hins austur þýzka kommúnistaflokks Walters Ulbricht og félaga.  Það getur orðið örlagaríkt eftir kosningar, að skessur kasti á milli sín fjöreggi þjóðarinnar.

Samkvæmt stefnuskrá vinstri grænna verða ekki gerðir neinir nýir fríverzlunarsamningar við erlend ríki undir forsjá VG.  Ástæðan mun vera ótti um, að einhver græði.  Það er banvæn meinloka hjá vinstri grænum, að enginn megi græða.  Allt okkar samfélag er þó reist á því, að einstaklingar og fyrirtæki græði.  Að hafna gróða er ávísun á eymd og fátækt eins samfélags.  Slíkur flokkur er í raun ekki stjórntækur í lýðræðissamfélagi, enda eru "Die Linke" ekki taldir stjórntækir í Berlín.  Sannleikurinn er sá, að allir landsmenn græða á greiðum og hömlulitlum viðskiptum.  Það er nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi á næstu misserum við okkar helztu viðskiptaþjóð, Breta.  Það er glapræði að standa á sama tíma í aðildarviðræðum við framkvæmdastjórn ESB.  Að berjast samtímis á tveimur vígstöðvum er ávísun á vandræði og að lokum algert tap.

Þá má ekki gleyma flóttamannavandamálinu, en þar reka vinstri flokkarnir óheillastefnu, sem einkennist af algeru virðingarleysi í meðferð skattfjár, hreinræktaða sóun, sem engum gagnast, nema fólkssmyglurum og lögfræðingum, sem reyna að tefja fyrir brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda og vilja nú fá tryggar og auknar greiðslur fyrir þennan gjörning úr ríkissjóði, eins og lögfræðingur á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík svo ósmekklega hefur lagt til. 

Á sama tíma og allar Evrópuþjóðir hækka þröskuldinn fyrir hælisleitendur, ætla vinstri flokkarnir að lækka hann.  Það þýðir bara eitt: smyglarar munu beina straumi flóttafólks hingað í meiri mæli, eins og gerðist með Albani, eftir misráðna ákvörðun Alþingis um málefni albanskra hælisleitenda.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir, að hann vilji taka upp norsku regluna um brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda á innan við 48 klst.  Útlendingastofnun er nú komin niður í nokkrar vikur, og við þann árangur fækkaði hælisleitendum, sem gera út á heimsku og barnaskap Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í útlendingamálum okkar. 

Það er sjálfsagt mál að verja landið gegn afætum frá útlöndum með tilhæfulausar hælisumsóknir.  Það er engum greiði gerður með félagslegu dekri við hælisumsækjendur frá löndum, sem skilgreind eru örugg, í lengri tíma.  Vinstri grænir, samfylkingar og píratar munu örugglega klúðra þessum málum í barnaskap sínum og einfeldni með 10-20 milljarða ISK/ár kostnaði fyrir skattborgara.

Á sama tíma og að þessu rituðu er rétt að gera sér grein fyrir því, að atvinnulífinu hérlendis er um þessar mundir haldið uppi af hörkuduglegum útlendingum, líka frá löndum utan EES, þ.á.m. (kristnum) Georgíumönnum, sem halda uppi hagvexti og halda verðbólgu í skefjum, öllum til hagsbóta. Að stemma stigu við erlendum afætum á félagslega kerfinu hér á ekkert skylt við ímigust á útlendingum.  

Stærsta utanríkismálið í höndum nýrrar vinstri stjórnar verður án vafa umræða um að endurvekja strandaðar aðildarviðræður frá ársbyrjun 2013, sem höfðu reyndar steytt á skeri löngu áður, þegar ESB neitaði að opinbera rýniskýrslu sína um stöðu íslenzkra sjávarútvegsmála.  Sú neitun jafngilti þeirri niðurstöðu ESB, að íslenzk sjávarútvegsstefna væri ósamrýmanleg hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.  

Í forystugrein Morgunblaðsins 17. október 2017,

"Engin fyrirstaða hjá VG",

eru leiddar að því líkur, að VG-forystan verði Samfylkingunni enn leiðitamari í næsta ESB-leiðangri en í þeim síðasta, og þótti þó flestum nóg um undirlægjuhátt flokksforystu VG þá.  Stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar kýrskýr.  Engar aðildarviðræður, nema þjóðin samþykki fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu að hefja þær að nýju. Þeir valdsmenn, sem leggi slíkt mál fyrir þjóðina, verði síðan að standa og falla með skýrri afstöðu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn mun tvímælalaust berjast hatrammlega fyrir höfnun þjóðarinnar á slíkri beiðni vinstri flokkanna og til vara, að þær hefjist ekki fyrr en fríverzlunarsamningur við Breta hefur verið til lykta leiddur. 

Höfnun felur í sér vantraust á þá ráðherra, sem fyrir aðildarviðræðum berjast, og þeim er þá ekki lengur til setunnar boðið, heldur verða að taka hatt sinn og staf. Ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs munu bera kápuna á báðum öxlum, svo óheiðarleg sem sú framkoma er gagnvart kjósendum, en þetta óhreinlyndi þeirra stafar af valdagræðgi.  Ráðherrar vinstri grænna munu vilja halda völdum óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þar kemur afstaða sósíalistans til lýðræðisins berlega í ljós.  Hann ber hvorki virðingu fyrir vilja, sjálfsaflafé né eignarrétti kjósandans.  Kjósandinn í huga sósíalistans er verkfæri hans til að framkvæma sósíalismann, eins og sósíalistanum þóknast að túlka hann á hverjum tíma.  Kjósandinn getur ekki treyst vinstri grænum fyrir horn.  

Úr téðri forystugrein:

"Nú er öldin önnur.  Þeir flokksmenn [VG], sem voru eindregið á móti Evrópusambandsaðild, eru horfnir á braut, og eftir sitja þeir, sem annaðhvort eru hlynntir aðild eða láta sig litlu varða, hvort fullveldið verður framselt til Brüssel.

Formaður flokksins er einn þessara, eins og sást glöggt í vinstri stjórninni, sem sótti um aðild og naut í einu og öllu stuðnings núverandi formanns. 

Fleira bendir til, að Vinstri græn verði létt í taumi að þessu sinni.  Í kosningaáherzlum flokksins fyrir kosningarnar 28. október 2017 er t.a.m. ekki minnzt á andstöðu flokksins við aðild að Evrópusambandinu.  Þeirri stefnu hefur einfaldlega verið stungið undir stól til að undirbúa stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna."

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað þá skýru stefnu til nýrra aðildarviðræðna við ESB, að þær skuli alls ekki hefja, nema samþykki fáist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst og síðan á Alþingi. Stjórnarflokkunum ber þá að taka lýðræðislegum afleiðingum úrslitanna, en þeir eiga ekki að hanga áfram við völd, eins og vinstri stjórnin 2009-2013 gerði svo skammarlega eftir þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave-samningana".  Ef á að endurtaka sama leikinn og árið 2009 að gösslast í viðræður án umboðs frá þjóðinni beint, mun hins vegar hitna illilega í kolunum, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu.  Það eru gjörólíkar tímar nú gengnir í garð.   

 

 

 Tifandi tímasprengja


Bílaframleiðendur á krossgötum

Evrópa snýr nú baki við útblástursspúandi bifreiðum, þó helzt dísilbílum.  Þýzkir bílasmiðir standa nú frammi fyrir ásökunum um víðtækt samráð, m.a. um svindl við útblástursmælingar dísilbíla.  Harald Krüger, stjórnarformaður Bayerische Motoren Werke, BMW, hefur hafnað slíkum ásökunum og enn á eftir að leiða hið sanna í ljós. Bílaframleiðsla er nú á óvenjumiklu breytingaskeiði.  

Sala dísilbíla í Evrópu fellur hratt.  Áður en VW-möndlið með mælingar á útblæstrinum komst í hámæli voru dísilbílar helmingur af nýjum bílum í stærstu löndum Evrópu og víðar. Morgan Stanley-bankinn hefur birt nýjar sölumælingar frá júní 2017 í Þýzkalandi.  Þar kom fram, að dísilbílar voru undir 39 % af seldum nýjum fólksbílum.  Annar banki spáir því, að markaðshlutdeild dísilbíla í nýjum fólksbílum verði senn komin niður í 30 % um alla Evrópu.  

Ein ástæða þessa er ímigustur á ótímabærum dauðsföllum af völdum mengunar.  Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu er mengunarmistur ("smog") orsök að dauða tæplega hálfrar milljónar manna á ári í Evrópu. Líklega er átt við vestan Rússlands. Níturildi frá dísilbílum gengur inn í þetta mengunarmistur. 

Yfirfært á Ísland nemur þetta 400 manns á ári, sem er ferfalt hærri tala en áður hefur komið fram.  Líklega er hlutfall ótímabærs dauðdaga af völdum bílmengunar hærra, þar sem hún bætist ofan á slæmt loft annnars staðar frá, t.d. frá kolaorkuverum.  Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkrir dagar á ári yfir hættumörkum H2S, brennisteinsvetnis, sem aðallega kemur þá frá Hellisheiðarvirkjun. Það ku standa til bóta. Þar að auki eru stilludagar fáir hér, svo að tíð loftskipti verða oftast.  Líklegast eru ótímabærir dauðdagar hérlendis hlutfallslega færri en helmingur slíkra dauðdaga í Evrópu. Það er þess vegna ekki þörf á boðum og bönnum á dísilvélinni hérlendis eða sprengihreyflunum yfirleitt, eins og í stórborgum Evrópu.   

Yfirvöld hafa þar reitt hátt til höggs.  Dísilbílar kunna senn að verða bannaðir í nokkrum borgum, t.d. í París,  London, Ósló og jafnvel í heimalandi Rudolfs Diesel. Í Ósló er furðumikil mengun á veturna vegna viðarkyndingar í sparnaðarskyni, og þar eru langvarandi stillur. Heimaborg Daimler Benz, höfuðborg Schwaben, Stuttgart, hefur líka verið nefnd, enda stendur hún í dalverpi, þar sem stillur eru tíðar.

Í sumum löndum, þ.m.t. á Íslandi, er boðuð hækkun á olíugjaldi eða kolefnisgjaldi á dísilolíu, svo að hún hafi ekki lengur kostnaðarforskot á benzínið. Á Íslandi er óviðeigandi að jafna mun á benzín- og dísilolíuverði til neytenda með því að hækka opinber gjöld á dísilolíu, vegna þess að tekjur ríkisins af bifreiðum og notkun þeirra eru óhóflegar m.v. fjárveitingar úr ríkissjóði til vega, brúa og bílferja.  Hlutfall útgjalda ríkisins til vegamála og gjalda bíleigenda af bílum sínum og notkun þeirra, 55 %, mundi lítið hækka, þótt ríkisstjórn og Alþingi mundu lækka álögur sínar á benzínið til að hafa þær svipaðar og af dísilolíu.  Dísilolían knýr flesta atvinnuvegi landsins.  Það mundi létta undir með þeim að lækka verð á henni og draga um leið úr undirliggjandi verðbólguþrýstingi. Þetta mundi ekki tefja merkjanlega fyrir orkuskiptunum.     

Sum lönd hafa kveðið upp dauðadóm yfir sprengihreyflinum í fólksbílum.  Í júlí 2017 kvað franska ríkisstjórnin upp úr með, að sala nýrra benzín- og dísilbíla yrði bönnuð f.o.m. 2040.  Í Bretlandi mun slíkt bann taka gildi árið 2050.  Norðmenn slá alla út á þessu sviði og ætla að banna sprengihreyfla í nýjum bílum árið 2025. Þetta er mögnuð afstaða í ljósi þess, að Norðmenn eru enn þá olíuframleiðsluþjóð.

Skilyrði fyrir svona framúrstefnulegri afstöðu ríkisvalds er, að innviðirnir hafi verið þróaðir fyrir það, sem taka á við.  Í Noregi er fjórðungur nýrra bíla umhverfisvænn, en á Íslandi 8 %.  Skýringin á mismuninum er markvissari stefnumörkun og eftirfylgni á öllum sviðum orkuskiptanna í Noregi. Því fer víðs fjarri, að hérlendis sé raunhæft að setja markmið af þessu tagi, og slíkt er líka óskynsamlegt. Við getum ekki verið á undan tækniþróuninni í heiminum, enda til hvers ?  Losun umferðar á Íslandi af heildarlosun landsmanna nemur aðeins 8 %, þegar tekið hefur verið tillit áhrifa losunar flugvéla í háloftunum.  Vísbending um nægilega þróaða innviði fyrir rafmagnsbílinn verður, að bílaleigurnar sjái sér hag í að kaupa nýja rafmagnsbíla.  Þá fyrst mun komast skriður á rafbílavæðinguna hérlendis.

Talsmaður einnar af stærstu bílaleigunum hér, sem á 25 rafbíla, lét nýlega hafa eftir sér í blaði, að rafmagnsbílar væru versta fjárfesting, sem fyrirtæki hans hefði lagt í.  Ástæðan er léleg nýting á bílunum vegna langs endurhleðslutíma og ónógrar langdrægni.  Mjög margir bílar eru leigðir út frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og Isavia verður að sjá sóma sinn í að setja upp viðeigandi tengla við bílastæði bílaleiganna þar og í samráði við þær.  

Slíka tengla (ekki hraðhleðslustöðvar) þarf að setja upp á bílastæðum gististaðanna vítt og breitt um landið, og íbúar fjölbýlishúsanna verða á hverju kvöldi að hafa aðgang að tengli til að tengja hleðslutæki sitt við, sem og aðrir íbúar.  Hraðhleðslustöðvar ættu að vera á hverri eldsneytisstöð, sem ætlar að halda áfram starfrækslu.

  Bílasmiðir skynja vel, hvað til þeirra friðar heyrir og hafa komið fram með loforð um að framleiða aðeins tvinnbíla (sem sagt ekki einvörðungu tengiltvinnbíla) og rafmagnsbíla.  Volvo hefur tekið forystuna með markmiði um þetta f.o.m. 2019.  Daimler og VW hafa uppi áform um fjöldaframleiðslu á rafhlöðuknúnum bílum, en þeir eru nú framleiddir í svo litlum mæli hjá þeim, að sú framleiðsla er með tapi.  Hjá Audi var í fyrra búizt við, að svo mundi verða til 2028, en nú er skammt stórra högga á milli. Nú er búizt til varnar í Evrópu, "Festung Europa", gegn bandarískri innrás fjöldaframleidds rafmagnsbíls frá hinum ótrúlega frumkvöðli, rafmagnsverkfræðinginum Elon Musk. Það verður líf í tuskunum á rafbílamarkaðinum.    

Þýzku risarnir vilja þó enn ekki gefa dísilinn upp á bátinn.  Þeir hafa náð eyrum búrókratanna í Brüssel um, að stríð gegn dísilnum muni draga svo mjög fjárhagslegan þrótt úr þeim, að þá muni skorta fé til að þróa umhverfisvæna og samkeppnishæfa valkosti í tæka tíð.  Elzbieta Bienkowska, "kommissar" iðnaðarmála í Berlaymont, varaði nýlega við því, að bann við notkun dísils gæti valdið hruni á dísilmarkaðinum.  Hún hefur fallizt á röksemdir Þjóðverjanna og boðar þróun án gösslaragangs og boðafalla.  

Í bílablaði Fréttablaðsins var 17. ágúst 2017 undir fyrirsögninni,

"Dísilvélar munu áfram gegna mikilvægu hlutverki í bílasamgöngum", 

vitnað í Harald Krüger, stjórnarformann BMW Group, og hófst fréttin þannig:

"Í ræðu, sem Harald Krüger, stjórnarformaður BMW Group, hélt í síðustu viku [v.32/2017] við upphaf ráðstefnu Innanríkisráðuneytis Þýzkalands, sem bar yfirskriftina "National Diesel Forum", kom m.a. fram, að fyrirtækið ætlaði sér að vera áfram í fremstu röð þýzkra bílaframleiðenda við þróun bíla, sem nota rafmagn sem orkugjafa.  Hann sagði einnig, að BMW myndi halda áfram þróun dísilvéla, sem uppfylla muni alla ströngustu mengunarstaðla heims, þar á meðal Euro 6."

Engum blandast hugur um, að "Bayerische Motoren Werke" er í fremstu röð bílaframleiðenda og nægir að nefna til sögunnar koltrefjar, tengiltvinnbíla og hánýtni sprengihreyfla. Téður Haraldur veit, hvað hann syngur. Dagar dísilvélarinnar eru ekki taldir.  Hérlendis ættu yfirvöld að forðast ótímabær bönn á notkun véla, en láta duga að leggja sitt lóð á vogaskálar nýrra innviða og halda sig eingöngu við jákvæða hvata til markaðarins til að örva orkuskiptin. 

Þegar bílasmiðir hafa náð betri tökum á framleiðslutækni rafmagnsbíla og náð hagkvæmni fjöldans, þá verða rafbílar jafnvel ódýrari í innkaupum, og eru nú þegar sannarlega mun ódýrari í rekstri, þar sem raforkuverð er almenningi hagstætt.  Þá verða innviðirnir hérlendis að verða tilbúnir, þ.á.m. virkjanir, flutningskerfi og dreifikerfi, og mun þá ekki standa á bílkaupendum með orkuskiptin.  Þetta er ekki blúndulagt verkefni, heldur átakaverkefni, þar sem fást þarf við tregðulögmálið á ýmsum sviðum.  Það kostar klof að ríða röftum, segir þar.

 


Myntþrefið

Það vakti vissulega athygli í júlí 2017, er fjármála- og efnahagsráðherra Íslands reit greinarstúf í Fréttablaðið, þar sem ráðherra peningamálanna áskildi sér rétt til þess að hafa þá skoðun, að réttast væri að leggja íslenzku myntina, ISK, niður.  Líklegt og eðlilegt er, að þetta sjónarmið ráðherrans hafi fallið í grýttan jarðveg á meðal landsmanna, því að flokkur ráðherrans tók dýfu í skoðanakönnunum í kjölfarið.  Skyldi engan undra, enda er hér um einsdæmi að ræða frá stofnun embættis fjármálaráðherra.  Þótt þessi fjármálaráðherra ynni sér ekkert annað til frægðar, er hann þar með kominn í annála.  Líklega er þessi sprungna blaðra bara til að undirstrika málefnafátækt flokks ráðherrans, sem er eins máls flokkur, og þetta eina mál er nú sem steinbarn í kviði flokksins.

Ráðherrann varði sig með því að vísa til Evrópu, en til höfuðstöðva Evrópusambandsins, ESB, í Brüssel liggja pólitískar taugar ráðherrans, eins og kunnugt er.  Hann hélt því fram, að fjármálaráðherrar evrulandanna hefðu í raun gert það sama og hann, þegar þessi lönd fórnuðu gjaldmiðlum sínum fyrir evruna.  Þetta er röng og óviðeigandi samlíking hjá ráðherranum, enda ber aðildarlöndum ESB, sem uppfylla Maastricht-skilyrðin, að taka upp evru.  

Það er þó vitað, að evran er pólitískt hrúgald, sem hróflað var upp aðallega að ósk Frakka, sem þoldu ekki samanburðinn á milli sterks Deutsche Mark, DEM, og veiks fransks franka.  Misjafn styrkur þessara tveggja gjaldmiðla endurspeglaði þó aðeins muninn á efnahagsstjórn þessara ríkja, skipulagshæfni og dugnaði. Nú heldur Þýzkaland uppi gengi evrunnar, sem t.d. hefur styrkzt um 15 % gagnvart GBP frá Brexit kosningunum í júní 2016.  

Þegar kommúnistastjórnir Austur-Evrópu voru komnar að fótum fram, þá fengu Vestur-Þjóðverjar gullið tækifæri með beitingu DEM gegnvart ráðstjórninni í Moskvu til að láta draum allra Þjóðverja um endursameiningu Þýzkalands rætast.  Enginn veggur, heldur ekki Kremlarmúrar, er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann. Bandaríkjamenn voru hlynntir endursameiningunni, en hin hernámsveldin tvö, Bretar og Frakkar, drógu lappirnar.  Þá ákvað Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, að egna fyrir Francois Mitterand, þáverandi forseta Frakklands, með ástfóstri Frakka, evrunni.  Hann lofaði því, að ef Frakkar samþykktu endursameiningu Þýzkalands, þá mundu Þjóðverjar fórna þýzka markinu, DEM, og taka upp evru.  Mitterand gekk að þessu, og þegar Bretar voru einir eftir, samþykktu þeir með semingi endursameiningu Þýzkalands. Það hefur þó frá fyrstu tíð verið þáttur í utanríkisstefnu Englands að halda Þjóðverjum sundruðum.  Þeir tímar eru liðnir, þótt Þjóðverjar hafi tapað gríðarlegum landsvæðum í umróti 20. aldarinnar.  Nú sækir sundrungarhættan Bretana sjálfa heim.   

Síðla vetrar árið 2000, eftir að evran leit dagsins ljós og var komin í veski Evrópumanna, var blekbóndi á ferðinni í vestanverðu Þýzkalandi á bílaleigubíl og ók eftir sveitavegum, sem sumir hverjir voru fyrstu hraðbrautir Þýzkalands (þá Þriðja ríkisins).  Hann mætti þá bændum og búaliði á dráttarvélum með heyvagna í eftirdragi, fulla af glaðbeittum Germönum á leið á Karnival, kjötkveðjuhátíð.  Á einn vagnanna var strengdur borði með ógleymanlegum texta, sem blekbónda fannst stafa beint út úr þýzku þjóðarsálinni:"D-Mark, D-Mark, Schade das du alles vorbei ist".  

Þýzka þjóðin saknaði myntar sinnar, sem vaxið hafði með henni úr rústum heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 og  endurspeglaði sparsemi, eljusemi, heiðarleika, kunnáttu og seiglu þýzks almennings, des deutschen Volkes, og hún átti erfitt með að sætta sig við þessa fórn, enda var hún afrakstur pólitískra hrossakaupa.   Die Bundesbank, eða þýzki Seðlabankinn, hafði alla tíð, og hefur enn, miklar efasemdir um grundvöll evrunnar, enda er stöðugur reipdráttur í höfuðstöðvum evrubankans í Frankfurt am Main um peningamálastjórnunina á milli lífsviðhorfa rómanskra og germanskra þjóða.

Í stjórnartíð Tonys Blair, formanns Verkamannaflokksins brezka, sem vildi, að Bretar fórnuðu sterlingspundinu og tækju upp evru, var unnin ítarleg greining á kostum þess og göllum fyrir Breta að taka upp evru.  Þá var Gordon Brown fjármálaráðherra, sá sem varð síðar alræmdur sem forsætisráðherra fyrir að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga í Hruninu, sem olli m.a. hruni íslenzkra banka í London.  Þessi greining leiddi í ljós, að frumskilyrði þess, að upptaka evru gæti gagnazt Bretum, en ekki skaðað þá, væri, að hagkerfi Bretlands og Þýzkalands væru í fasa.  Svo var ekki þá og er ekki enn, og þess vegna hafnaði ríkisstjórn Bretlands upptöku evrunnar.  Hægt er að efast um, að til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið á Bretlandi í júní 2016 um aðildina að ESB, ef GBP hefði verið fórnað á sinni tíð.  

Hvalreka fyrir áhugafólk um myntmál Íslands má nefna fræðandi og röggsamlega samda grein, "Misskilningur um krónuna leiðréttur", sem Viðskiptablaðið birti þann 27. júlí 2017, eftir hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason.  Greinin hófst þannig:

"Baráttumenn fyrir því að leggja íslenzku krónuna niður, byggja mál sitt að verulegu leyti á misskilningi og jafnvel staðleysum.  Þeir halda því fram, að [íslenzka] krónan valdi sveiflum og óstöðugleika í efnahagslífinu.  Þeir fullyrða, að krónan sé orsökin fyrir hærri vöxtum á Íslandi en í nágrannalöndunum.  Hvort tveggja er í grundvallardráttum rangt."

Hér kveður við nýjan tón og allt annan en þann, sem m.a. heyrist nú klifað á í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.  Prófessor Ragnar bendir síðan á 2 raunverulegar orsakir óstöðugleika í íslenzku efnahagslífi hingað til.  Hin fyrri er smæð hagkerfisins, sem veldur því, að færri stoðir eru undir því.  Ef ein stoðin brestur, t.d. af markaðsástæðum, er hætt við, að hinar gefi eftir vegna ofálags, og þá myndast óstöðugleiki með verðbólgu og jafnvel atvinnuleysi.

Hin ástæðan, sem prófessorinn tilgreinir, er, "að grunnatvinnuvegir á Íslandi eru í óvenju ríkum mæli byggðir á náttúrugæðum".  Þetta á við um landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustuna og að vissu leyti um orkukræfan iðnað, en þessi náttúrugæði, sem landsmenn nýta núorðið, eru af misjöfnum toga, svo að áhættudreifingin er þar með allt öðrum og betri hætti fyrir afkomu hagkerfisins en áður var.  Þetta þýðir, að þótt sveiflur í náttúrunni og á viðkomandi mörkuðum hafi áhrif upp og niður á afkomu hverrar greinar, þá er sveiflan sjaldnast í fasa hjá tveimur, hvað þá öllum.  Náttúrunýtingin er miklu fjölbreyttari en áður, sem þýðir minni hættu á efnahagslegum óstöðugleika af völdum náttúrunnar.  

"Þannig mætti fara yfir hverja hagsveifluna á fætur annarri á Íslandi.  Raunveruleikinn er auðvitað sá, að þær eiga rætur sínar að rekja til breytinga í raunverulegum framleiðslutækifærum og framleiðslugetu, en ekki þess gjaldmiðils, sem notaður hefur verið í landinu."

Þá andmælir prófessor Ragnar með kröftugum hætti þeirri staðhæfingu, að gjaldmiðillinn, ISK, sé orsök hárra vaxta á Íslandi, enda hafi raunvextir alls ekki alltaf verið háir hér á landi.  Hann kveður ástæðu hárra vaxta vera, "að hið opinbera, þ.e. sá armur þess, sem nefnist Seðlabanki Íslands, hefur einfaldlega ákveðið að hafa háa vexti á Íslandi."

"Það er ekki heldur rétt, þótt Seðlabankinn reyni að halda því fram, að háir vextir séu nauðsynlegir vegna þess, hvað krónan er smá.  Þvert á móti má færa að því sterk rök, að það sé einmitt vegna smæðar myntarinnar, sem ófært sé að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annars staðar."

Myntin endurspeglar aðeins þjóðarbúskapinn og árangur efnahagsstjórnunarinnar.  Hún er ekki sjálfstæður gerandi öðru vísi en þannig, að breytingar á gengi ISK leiða hagkerfið í átt að nýju jafnvægisástandi.  Þannig leiðir góður árangur útflutningsgreina til hækkunar gengis og veikir þar með samkeppnisstöðu þessara greina.  Þetta getur þó haft í för með sér óæskileg ruðningsáhrif, eins og landsmenn hafa orðið áþreifanlega varir við undanfarin misseri.  Það hægir á aukningu ferðamannastraums til landsins vegna styrkingar ISK, en allar aðrar útflutningsgreinar líða fyrir vikið.  Tiltölulega háir stýrivextir Seðlabankans, sem eru dæmi um ranga efnahagsstjórnun við núverandi aðstæður, hafa magnað vandann, því að minna fé leitar úr landi og meira inn en ella.

Niðurlagi greinar Ragnars Árnasonar er vert að gefa góðan gaum:

"Í hagfræði eru til kenningar um hagkvæmustu myntsvæði.  Þar togast á kostir þess að eiga í viðskiptum á milli landsvæða í einni mynt, og ókostir þess að þurfa að hafa sömu peningastjórn í þeim báðum. Eitt af skilyrðunum fyrir því, að hagkvæmt geti verið að sameina myntir tveggja landsvæða, er, að hagsveiflur viðkomandi svæða séu svo samstilltar, að sama peningastjórn henti báðum.  Hvað Ísland og flest nágrannalöndin beggja vegna Atlantshafs snertir, er þessu ekki að heilsa.  Þvert á móti er það eiginlega merkilegt, hversu lítil (og jafnvel neikvæð) fylgni er á milli hagsveiflna á Íslandi og hagsveiflna í Evrópu og Norður-Ameríku.  Því myndi peningastjórn þessara landa að öllum líkindum henta Íslandi afar illa og hugsanlega valda alvarlegum búsifjum.  Efnahagsþróunin í Grikklandi í kjölfar fjármálahrunsins er dæmi um, hversu illa getur farið, þegar sjálfstæðum gjaldmiðli hefur verið varpað fyrir róða."

Ef Þjóðverjar væru enn með DEM, er talið, að það væri nú allt að 40 % sterkara en evran er nú, þ.e.a.s. í stað hlutfallsins EUR/USD=1,17 væri það nú 1,64.  Þetta er merki um gríðarlega samkeppnishæfni þýzka hagkerfisins, vegna þess að framleiðni (tæknistig) Þjóðverja er há, reglubundnar launahækkanir eru lágar (um 2 %/ár), og Þjóðverjar spara hátt hlutfall launa sinna.  Þetta veldur gríðarlegum viðskiptaafgangi hjá Þjóðverjum ár eftir ár, sem nemur um 7 % af VLF  þeirra.  Á Íslandi hefur hann undanfarið verið um 6 % af VLF, en fer minnkandi. Ríkisbúskapur Þjóðverja er í jafnvægi, á meðan rómönsku þjóðirnar safna ríkisskuldum.  Þetta ójafnvægi er tekið út með miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu.  Það hefur þó lækkað úr 12 % í kjölfar fjármálakreppunnar og niður í 9,1 % í júní 2017 samkvæmt Eurostat, Hagstofu ESB, aðallega vegna rífandi gangs í Þýzkalandi, sem býr við óeðlilega lága vexti og lágt gengi m.v. stöðu hagkerfisins.  Ef Íslendingar byggju við "fastgengi" EUR, USD, GBP eða annarrar myntar, og hefðu afhent peningamálastjórnunina öðrum, þá mundi hagkerfið sveiflast stjórnlaust á milli hárrar verðbólgu og mikils atvinnuleysis.  Það, sem skiptir landsmenn máli, er ekki heiti myntarinnar, heldur kaupmáttur ráðstöfunartekna.

Af þessum samanburði að dæma má búast við meiri óstöðugleika í hagkerfinu án ISK, þar sem hún er ekki sveifluvaldur sjálf, eins og hver hefur þó hugsunarlaust étið upp eftir öðrum.  Áhrif ISK eru að nokkru sveiflujafnandi, eins og sannaðist eftir Hrunið og er að sannast núna, með því að viðskiptajöfnuður Íslands fer minnkandi, og þróun ISK mun þá fyrr en síðar endurspegla versnandi viðskiptajöfnuð.  

Í raun þarf að kryfja þessi mál ítarlega til að komast til botns í því, hvaða lausn er líklegust til að gefa hæstan kaupmátt, en það virðist einfaldlega alls ekki vera áhættunnar virði fyrir kaupmátt landsmanna til lengdar að fórna íslenzku krónunni.   

 

 

 

 

 


Höfin eru í hættu

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur nú efnt eitt kosningaloforða sinna, sem var um að hefja ferli, sem losar Bandaríkin (BNA) undan Parísarsáttmálanum frá desember 2015 um losun gróðurhúsalofttegunda.  Þetta er mjög umdeild ákvörðun í BNA og áhrifin af henni verða líklega aðallega pólitísk og sparnaður fyrir ríkissjóð BNA um 3 miaUSD/ár í styrki til fátækra landa vegna orkuskipta.  Bandaríkin eru, eins og aðrar þróaðar þjóðir, á óstöðvandi vegferð til kolefnisfrírrar tilveru.  Þau eru leiðandi á ýmsum sviðum mengunarvarna, eins og nýlega kom fram í viðtali á RÚV við sérfræðing frá Cleveland um fínkornótt ryk undir 2,5 míkron í borgum.  

Höfin spanna 3/4 yfirborðs jarðar og eru matarkista mannkyns.  Þau sjá 3 milljörðum manna (af um 7 milljörðum) fyrir allt að fimmtungi próteinþarfar þeirra og eru þannig stærri uppspretta próteins (eggjahvítuefna) en nautakjöt. Meðalneyzla fiskmetis í heiminum er 20 kg/mann og hefur aldrei verið meiri, en aukningin kemur nánast öll frá fiskeldi, því að afli úr hafi stendur í stað.  Helmingur neyzlunnar kemur frá fiskeldinu, sem er umsvifamest í Kína. Tíundi hluti jarðarbúa hefur framfæri sitt af veiðum úr sjó og af fiskeldi.  

Þessum lífshagsmunum mannkyns er ógnað úr þremur áttum.  Í fyrsta lagi af losun manna á gróðurhúsalofttegundum.  Hafið sogar í sig hluta af koltvíildinu (CO2) og súrnar við það. Við lægra pH-gildi (aukna súrnun) eykst hættan á upplausn kalks, og þá verður öllum skeldýrum hætta búin.  Vísindamenn búast við, að öll kóralrif verði horfin árið 2050, en þau eru mikilvægur hlekkur í lífkeðjunni, þar sem þau eru nú.

Hlýnun andrúmslofts væri mun meiri en sú u.þ.b. 1,0°C hlýnun frá iðnbyltingu (1750), sem raunin er núna, ef ekki nyti við hafanna, því að þau taka til sín yfir 90 % varmaaukningarinnar á jörðinni, sem af gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum leiðir. Þetta hefur þegar leitt til meðalhlýnunar hafanna um 0,7°C. Afleiðingin af því er t.d. hækkun sjávarborðs og tilfærsla átu og annarra lífvera í átt að pólunum.

Önnur hætta, sem steðjar að höfunum, er mengun frá föstum og fljótandi efnum.  "Lengi tekur sjórinn við" er orðtak hérlendis.  Víðátta og gríðarlegt rúmtak hafanna gaf mönnum lengi vel þá tilfinningu, að í þau gæti allur úrgangur og rusl farið að ósekju og að frá höfunum mætti taka takmarkalaust .  Nú vita menn betur.  Rusl á alls ekki heima þar og skolp verður að hreinsa, fjarlægja eiturefni og föst efni niður í 0,1 míkron, ef þau leysast treglega upp.  

Plastefni eru mikil ógn fyrir lífríki hafanna og fyrir a.m.k. 40 % mannkyns, sem neytir mikils fiskmetis úr sjó. Talið er, að 5 trilljónir (=þúsund milljarðar) plastagna séu í höfunum núna og 8 milljónir tonna  bætist við árlega, Mt/ár.  Áætlað er, að verði ekkert að gert, þá muni plastmassinn í höfunum verða meiri en massi fiskistofnanna fyrir 2050.  Þetta er ógnun við allt lífríki, sem háð er höfunum, ekki sízt tegundinni, sem efst trónir í fæðukeðjunni.  Fjölmargt annað mengar höfin, t.d. afrennsli ræktarlands, þar sem tilbúinn áburður og eiturefni eru notuð til að auka framleiðsluna.  Þetta hefur þegar valdið mörgum lífkerfum hafanna skaða.  

Þriðja ógnin við lífríki hafsins stafar af ofveiði.  Á tímabilinu 1974-2013 hefur þeim stofnum, sem ofveiddir eru, fjölgað gríðarlega, eða úr 10 % í 32 %, og þeim fer enn fjölgandi.  Að sama skapi hefur vannýttum tegundum fækkað úr 40 % í 10 % á sama tímabili.  Fullnýttir eru þá 58 % stofnanna.  

Ofveiði skapar ekki einvörðungu hættu á hruni fiskistofna og þar með minni afla, heldur er ofveiði fjárhagslega óhagkvæm.  Nú nemur heimsaflinn um 95 Mt/ár, en væru veiðar allra tegunda rétt undir sjálfbærnimörkum þeirra, þá mundi veiðin geta aukizt um 16,5 Mt/ár eða um 17 %, og tekjur af veiðinni mundu aukast um 32 miaUSD/ár.

Í brezka tímaritinu The Economist birtist þann 27. maí 2017 grein um ástand hafanna undir heitinu,

"All the fish in the sea".  

Þar stóð þetta m.a. um fiskveiðistjórnun:

"Með góðri stjórnun ætti fræðilega að vera hægt að stækka fiskistofnana með innleiðingu kvótakerfis tengdu eignarrétti ásamt öðrum takmörkunum á óheftri nýtingu.  Kvótar og svipuð stjórntæki hafa virkað vel sums staðar.  Á bandarísku hafsvæði voru 16 % nytjastofna ofveiddir árið 2015, og hafði ofveiddum stofnum fækkað úr 25 % árið 2000.  En það eru annmarkar á kerfinu.  Af því að útgerðirnar vilja koma með vænsta fiskinn í land, þá á sér stað brottkast minni eintaka, sem oft drepast í kjölfarið, og þar sem mismunandi tegundir eru hverjar innan um aðra, er meðafla fleygt fyrir borð, ef skipið er ekki með kvóta í þeirri tegund.

Þar að auki er ákvörðunartaka um kvótann oft með böggum hildar.  Stofnanir og stjórnmálamenn gefa oft of mikið eftir gagnvart valdamiklum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi samkvæmt Rainer Fröse hjá Helmholtz hafrannsóknarstofnuninni í Kiel í Þýzkalandi.  Þrýstihópar, sem færa sér í nyt mikilvægi sjávarútvegs fyrir ákveðin byggðarlög, þrýsta á um skammtímaávinning í stað langtíma sjálfbærni.  "Þeir ná í eplin með því að saga trjágreinarnar af", segir herra Fröse." 

Hér er vakið máls á göllum, sem komið hafa í ljós eftir innleiðingu á kvótakerfi við fiskveiðar.  Brottkast smáfiskjar er hins vegar ekki dæmigert fyrir kvótakerfi.  Það tíðkast víða, þar sem lægra verð fæst fyrir slíkan.  Bezta ráðið gegn brottkasti er, að ótímabundið eignarhald á afnotarétti auðlindarinnar festi sig í sessi.  Þegar útgerðir og sjómenn taka að treysta á eignarhaldið, rennur upp fyrir þeim, að brottkast vinnur gegn langtíma hagsmunum þeirra. Þetta virðist hafa gerzt á Íslandi, því að brottkast smáfiskjar er talið hafa minnkað umtalsvert á þessari öld m.v. það, sem var.  

Lýsingin að ofan er af of stífu kvótakerfi.  Árangursríkt fiskveiðistjórnunarkerfi þarf að vera sveigjanlegt á milli tegunda, á milli ára, á milli skipa og á milli fyrirtækja og tegunda svo að nokkuð sé nefnt.  Sé svo, hverfur hvati til að kasta meðafla fyrir borð, sem enginn kvóti er fyrir, enda er slíkt brottkast bæði kostnaðarsamt og felur í sér sóun á auðlindinni. Þessi sveigjanleiki er fyrir hendi hérlendis, svo að umgengni íslenzkra sjómanna og útgerðarmanna um auðlindina er talin vera til fyrirmyndar á heimsvísu. 

Það, sem Rainer Fröse hjá hafrannsóknarstofnuninni í Kiel kvartar undan, er vel þekktur galli á fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins, ESB.  Bretar hafa fundið þetta á eigin skinni, því að fiskveiðiflotar ESB-landanna hafa aðgang að fiskveiðilögsögu Bretlands upp að 12 sjómílum, og brezk fiskimið eru ekki svipur hjá sjón eftir ofveiði þessa mikla flota.  

Árið 2019 munu Bretar losna úr viðjum ESB, öðlast fullveldi á ný og þar með ráða yfir allri fiskveiðilögsögu sinni.  Þar með mun framboð fiskmetis af brezkum skipum stóraukast á Bretlandi, sem mun minnka spurn eftir fiski frá Íslandi og e.t.v. lækka fiskverð á Bretlandi.  Þetta að viðbættu falli sterlingspundsins mun gera útflutning sjávarafurða til Bretlands óhagkvæmari héðan en áður.  Aftur á móti mun eftirspurnin að sama skapi aukast fyrst um sinn á meginlandi Evrópu.

Sjávarútvegsyfirvöld á Bretlandi eru farin að íhuga, hvers konar fiskveiðistjórnunarkerfi hentar Bretum bezt, og einn valkostanna er aflahlutdeildarkerfi að íslenzkri fyrirmynd.  Ef Bretar taka upp aflareglu í líkingu við þá íslenzku og fylgja henni stranglega eftir, þá mun þeim með tíð og tíma takast að reisa nytjastofna sína við, en þeir eru flestir illa farnir. Gangi þetta eftir, mun sjávarútvegur þeirra ekki aðeins verða rekinn með hagkvæmari hætti en nú og með minni niðurgreiðslum, heldur mun framboð fisks á brezkum fiskmörkuðum úr brezkri lögsögu aukast enn.

Fjárstuðningur við sjávarútveg úr ríkissjóðum er vandamál um allan heim.  Niðurgreiðslurnar stuðla að ofveiði nytjastofna bæði á úthafsmiðum og innan lögsögu ríkja, og þær skekkja samkeppnisstöðuna.  Hjá Alþjóða viðskiptamálastofnuninni, WTO, hyggjast menn leggja fram tillögur um nýjar reglur um opinberar niðurgreiðslur fiskveiða á ráðherrasamkomu í desember 2017.  Þær eru taldar nema 30 miaUSD/ár í heiminum og 70 % þeirra koma frá vel stæðum ríkjum, sem væntanlega halda útgerðum á floti af byggðalegum ástæðum.  Ísland, eitt örfárra ríkja, hefur ekki greitt niður sjávarútveg sinn frá innleiðingu aflahlutdeildarkerfisins.  Þvert á móti greiðir íslenzkur sjávarútvegur mjög há opinber gjöld, sem hafa numið um 30 % af framlegð í góðæri.  Veiðigjaldafyrirkomulagið á Íslandi er þeirrar náttúru, að það tekur tillit til afkomunnar með allt að þriggja ára töf, sem er alvarlegur galli.  

Umræðan um sjávarútveginn íslenzka er með röngum formerkjum.  Í stað þess að reyna að bæta rekstrarumhverfi hans og gera það sanngjarnara nú á tímum rekstrarerfiðleika vegna lágs fiskverðs í ISK, þá er rekinn áróður gegn honum með rangtúlkunum á lögum um stjórnun fiskveiða og því haldið blákalt fram, að honum beri og hann geti borgað enn meir til samfélagsins.  Þetta eru þó fullyrðingar greinilega viðhafðar að órannsökuðu máli.  Villtustu hugmyndirnar snúast jafnvel um að kollvarpa núverandi stjórnkerfi og taka upp bastarð, sem alls staðar hefur gefizt hroðalega, þar sem hann hefur verið reyndur og síðan fljótlega aflagður.  Þetta er hin meingallaða hugmynd um uppboð aflamarks eða hluta þess.  Sérfræðingar um auðlindastjórnun og uppboð segja þau ekki henta í greinum, sem þegar hafa vel virkandi stjórnkerfi reist á varanlegum og framseljanlegum afnotarétti.  Nær væri stjórnvöldum að hanna auðlindamat og samræmt og sanngjarnt auðlindagjald fyrir allar nýttar náttúruauðlindir utan einkaeigna.  Það á ekki að þurfa að vefjast fyrir stjórnvöldum.  Það hefur birzt sitthvað á prenti um þann efnivið, t.d. á þessu vefsetri.  

Þann 8. júni 2017 birtist fróðleg grein um fiskveiðistjórnun Íslendinga í Fréttablaðinu eftir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðing SFS, sem bar heitið:

"Sjálfbær nýting íslenzka þorskstofnsins".  

Hún hófst þannig:

"Vel heppnuð endurreisn íslenzka þorskstofnsins er að mínu mati langmikilvægasti árangur á sviði sjálfbærni, sem náðst hefur í stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum.  

Þar sem sjávarútvegur er mikilvæg stoð efnahagslífs okkar, áttum við engan annan kost en að takast á við tvíþættan vanda ofveiði og óhagkvæmni af fullri alvöru. Þetta var gert með því að innleiða markvissa fiskveiðistjórnun með nauðsynlegri festu við ákvörðun leyfilegs heildarafla ásamt eftirfylgni með aflaskráningu og eftirliti.  Þannig var kerfi aflakvóta við stjórn fiskveiða komið á í áföngum á níunda áratugi síðustu aldar, og það síðan þróað í átt til virkari stjórnunar heildarafla og aukins sveigjanleika með framsali á tíunda áratuginum og síðar.  

Í kjölfar ráðgjafar frá árinu 1992 um alvarlega stöðu þorskstofnsins var dregið verulega úr veiðiálaginu.  Um miðjan tíunda áratuginn voru Íslendingar síðan á meðal leiðandi þjóða í þróun langtíma aflareglna í fiskveiðum.  Aflareglum er ætlað að tryggja, að veiðiálag sé hóflegt og nýtingin sjálfbær.  Mikilvægt markmið með minnkun veiðiálags á þorskinn var að gera stofninum mögulegt að stækka og ná fyrri stærð, en stór veiðistofn gerir veiðar hagkvæmari, og stór og fjölbreyttur hrygningarstofn er talinn hafa meiri möguleika á að geta af sér stærri nýliðunarárganga.

Árið 2007 var veiðihlutfall þorsks samkvæmt aflareglu lækkað úr 25 % í 20 % af viðmiðunarstofni fiska fjögurra ára og eldri."

Frá því að "Svarta skýrslan" kom út hjá Hafrannsóknarstofnun árið 1975 hefur ástand og þróun þorskstofnsins löngum verið áhyggjuefni hérlendis.  Þannig hafa Íslendingar horfzt í augu við hrörnun fiskistofna, eins og allir aðrirÁrið 1955 var viðmiðunarstofn þorsks um 2,4 Mt og hrygningarstofninn um 1,0 Mt.  Viðmiðunarstofninn hrapaði á 35 árum um 1,8 Mt (51 kt/ár) niður í lágmark um 0,6 Mt. Hrygningarstofninn hagaði sér dálítið öðruvísi.  Hann hrapaði úr um 1,0 Mt/ár árið 1955 og niður í varúðarmark, 0,15 Mt, árið 1980, en neðan varúðarmarks er þrautalendingin friðun stofnsins.  Hrygningarstofninn sveiflaðist síðan á milli aðgerðarmarks, 0,2 Mt og varúðarmarks um aldamótin, en með hinni nýju aflareflu frá árinu 2007 hefur hrygningarstofninn rétt úr kútnum og er nú kominn í um 0,5 Mt, og í kjölfarið hefur viðmiðunarstofninn stækkað upp í um 1,3 Mt, sem þá gefur aflamark í þorski 260 kt/ár, sem er nálægt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.  Það eru auðvitað strax komnir fram á sjónarsviðið beturvitringar, sem fullyrða að veiða megi umtalsvert meira af þorski hér við land.  Brjóstvitið hefur mörgum reynzt notadrjúgt, þegar öðru var ekki til að dreifa, en það verður auðvitað að sýna fram á með rökum og tilvísunum í rannsóknir, að 20 % sé of lágt veiðihlutfall m.v. hámörkun afrakstrar til langs tíma.  Annars eru upphrópanir gegn Hafró broslegar í bezta falli.    

Á Íslandi var mikið í húfi, því að sjávarútvegur aflaði mests gjaldeyris allra atvinnuveganna, þegar þorskstofninn hrundi.  Hann hrundi vegna langvarandi ofveiði innlendra og erlendra togara, og við lok síðustu landhelgisdeilunnar 1976 voru með opinberri hvatningu og tilstyrk pöntuð yfir 100 öflug veiðiskip.  Þessa miklu sóknargetu stóðu landsmenn uppi með, þegar viðmiðunarstofninn hafði hrapað niður fyrir 1,0 Mt og hrygningarstofninn niður í varúðarmörk.

Neyðin kennir nakinni konu að spinna, og stjórnmálamönnum 9. áratugar 20. aldar tókst með aðstoð hæfra sérfræðinga að setja á laggirnar fiskveiðistjórnunarkerfi, sem leysti samtímis 2 meginviðfangsefni: að endurreisa þorskstofninn og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti og að fénýta hana með arðbærum hætti.  Það er þó vert að gefa því gaum, að þorskstofninn er fjarri því að hafa endurheimt stærð sína frá miðjum 6. áratuginum, heldur er hann nælægt því, sem hann var á miðjum 7. áratugi 20. aldar.  Með 20 % aflareglunni gæti hann stefnt í hámark sitt, ef náttúruleg skilyrði fyrir hann hafa ekki versnað, sem hætt er við.  Með 25 % aflareglu gerði hann það ekki. 

"Á nýliðnum árum hafa stjórnvöld sett aflareglur um veiðar þriggja tegunda botnfiska - ýsu, ufsa og gullkarfa - til viðbótar við þorskinn.  Þessar veiðar hafa síðan fengið vottun eftir alþjóðlegum sjálfbærnikröfum samkvæmt fiskveiðistjórnunarstaðli Ábyrgra fiskveiða, sem gerir kröfu um formlega nýtingarstefnu (aflareglu) stjórnvalda, byggða á svokallaðri varúðarleið [varúðarleið er reikniaðferð fyrir viðmiðunarstofn, sem t.d. var beitt við ákvörðun aflamarks á loðnu í vetur - innsk. BJo].  Sömu veiðar, auk annarra, hafa einnig hlotið vottun samkvæmt MSC-staðli.

Ábyrg, sjálfbær og hagkvæm nýting fiskistofna er nauðsynleg undirstaða öflugs sjávarútvegs.  Mikilvægt er, að nýting fiskistofna á Íslandsmiðum byggi ávallt á þessum grunni."

Ljóst er, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið nýtur virðingar og trausts erlendis, bæði á vettvangi fræðimanna á sviði sjávarlíffræði/sjávarútvegs og á markaði sjávarafurða. Að hækka aflaregluna núna gæti stefnt þessari viðurkenningu í tvísýnu. Það skýtur mjög skökku við, að hjáróma raddir innanlands skuli enn heyrast um að bylta þessu kerfi eða að auka opinbera gjaldtöku af útveginum.  Til þess standa engin haldbær rök, hvorki sanngirnis- né efnahagsleg rök. 

Að auka auðlindargjaldið enn frekar er einhvers konar lýðskrum af ómerkilegasta tagi, sem er bæði efnahagslegt og byggðalegt óráð.  Nær væri að finna sameiginlegan grundvöll fyrir verðmætamat á öllum nýttum náttúruauðlindum, sem ekki eru í einkaeign, og taka hóflegt (innan við 5 % af framlegð og ekkert, fari hún undir 20 %) auðlindargjald af þeim öllum.  Núverandi ráðherra sjávarútvegsmála virðist því miður vera stödd á algerum villigötum (eða hafvillu), hvað þetta varðar.   

 

 

   

 

 

 

 

 


Bretland byrjar illa

Forsætisráðherra Breta, Theresa May, tók þarflitla ákvörðun í apríl um þingkosningar 8. júní 2017 , þótt kjörtímabilið þyrfti ekki að enda fyrr en 2020, þ.e. að afloknum skilnaði Bretlands við Evrópusambandið, ESB.  Virtist hún þá treysta því, að mælingar í skoðanakönnun héldust og skiluðu sér í kjörkassana 7 vikum síðar.  Það er af, sem áður var, að brezki forsætisráðherrann geti tekið andstæðinginn í bólinu og boðað til kosninga með þriggja vikna fyrirvara.  Þessi mismunur á lengd kosningabaráttu reyndist Theresu May afdrifaríkur, og fyrsti ráðherra Skotlands og flokkur hennar beið reyndar afhroð.  Þar með er búinn draumur Nicola Sturgeon um nýtt þjóðaratkvæði um aðskilnað Skotlands frá Englandi, Wales og Norður-Írlandi.

May hafði við valdatöku sína haustið 2016 að afloknu formannskjöri í brezka Íhaldsflokkinum í kjölfar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní sagt, að næstu þingkosningar yrðu 2020.  Íhaldsflokkurinn hafði 5 sæta meirihluta á þingi, og hún hefur væntanlega verið spurð að því í heimsókn sinni til Berlínar og víðar í vetur, hvort hún gæti tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi með svo tæpan meirihluta, enda voru það meginrök hennar fyrir ákvörðun um flýtingu kosninga, að "Westminster" væri regandi, en þjóðin ákveðin í að fara úr ESB.  Hún vildi "hard Brexit", sem þýðir alskilnað við stofnanir ESB og ekki aðild að Innri markaðinum um EFTA og EES, heldur skyldi Bretland gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB og öll ríki, sem gæfu kost á slíku.  Bretland yrði ekki innan "Festung Europa" - varnarvirkis Evrópu, sem er þýzkt hugtak úr Heimsstyrjöldinni síðari.

Theresa May hafði sem ráðherra hjá Cameron stutt veru Bretlands í ESB.  Þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildina urðu ljós, sneri hún við blaðinu og tók upp harða afstöðu gegn ESB og fór fram undir þeim merkjum í formannskjörinu.  Kosningaklækir áttu líklega þar þátt, því að öllum var ljóst, að dagar brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, voru taldir, um leið og Bretland tók stefnuna út úr ESB.  Hún ætlaði að hremma atkvæðin, en krókur kom á móti bragði frá "gamla kommanum" Corbyn.  Hann sneri við stefnu Verkamannaflokksins um, að Bretar skyldu halda áfram í ESB, og studdi úrsögnina á þinginu og í kosningabaráttunni.  Við þetta gátu stuðningsmenn UKIP, sem flestir komu reyndar frá Verkamannaflokkinum, snúið aftur til föðurhúsanna.  

Það var einmitt þetta, sem gerðist, því að flest kjördæmin, þar sem mjótt var á munum á milli stóru flokkanna tveggja, féllu Verkamannaflokkinum í skaut, Íhaldsmönnum til furðu og sárra vonbrigða.  Þannig varð Verkamannaflokkur Jeremy Corbyns sigurvegari kosninganna með um 40 % atkvæða, jók fylgi sitt um ein 10 % og þingmannafjölda um 33 eða rúmlega 14 %.  Kosningarnar reistu formann Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, úr öskustó, pólitískt séð, og það verður ómögulegt fyrir Theresu May að kveða hann í kútinn.  Hann er einfaldlega meiri baráttumaður en hún og naut sín vel í kosningabaráttunni, en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum.  Theresa May særðist til stjórnmálalegs ólífis í þessari kosningabaráttu, ástæða er til að draga dómgreind hennar í efa, hún er lélegur leiðtogi í kosningabaráttu og hvorki sterk né stöðug, eins og hún hamraði þó stöðugt á.  

Íhaldsflokkurinn fékk þó meira fylgi kjósenda en hann hefur fengið í háa herrans tíð eða 42,4 %, sem er fylgisaukning um rúmlega 5 % frá síðustu þingkosningum.  Þrátt fyrir það mun Theresa May að líkindum verða sett af innan tíðar, því að hún lét kosningarnar snúast um sig að miklu leyti, tapaði 12 þingmönnum og glutraði niður 5 sæta þingmeirihluta.  Hún þykir ekki á vetur setjandi sem leiðtogi, og menn vilja alls ekki fara í nýjar þingkosningar undir forystu hennar.  Það þykja vera alvarlegar eyður í þekkingu hennar, t.d. um efnahagsmál, og hún hefur ekki haft lag á að fylla í eyður verðleikanna með réttu vali á ráðgjöfum, heldur setur hún í kringum sig fámennan hóp ráðgjafa, sem er með sömu annmarkana og hún sjálf.  Nú hefur hún fórnað tveimur aðalráðgjöfunum, en það mun hrökkva skammt.  Líklegt er, að minnihlutastjórn hennar verði skammlíf og að boðað verði til kosninga aftur síðar á þessu ári.  Þá verður einhver annar í brúnni hjá Íhaldsflokkinum, en það er óvíst, að það dugi.  Vindar blása nú með Verkamannaflokkinum, sem fer að láta sníða rauð gluggatjöld fyrir Downing stræti 10.  Yngstu kjósendurnir eru Corbyn hlynntir, eins og hinum hálfáttræða Sanders í BNA, og þeir hafa aftur fengið nægan áhuga á pólitík til að fara á kjörstað.  

"It is the economy, stupid", var einu sinni sagt sem svar við spurningunni um, hvað réði helzt gjörðum kjósenda í kjörklefanum.  Í því ljósi var ekki óeðlilegt, að Verkamannaflokkurinn ynni sigur, því að hagur Breta hefur versnað mikið frá fjármálakreppunni 2007-2008 og kaupmáttur hjá mörgum lækkað um 10 % að raunvirði síðan þá vegna lítilla nafnlaunahækkana, verðlagshækkana og mikils gengisfalls sterlingspundsins.  Að flýta kosningum að þarflitlu við slíkar aðstæður ber vott um lélegt jarðsamband.  

Núverandi staða á Bretlandi er hörmuleg m.t.t. þess, að brezka ríkisstjórnin þarf á næstu dögum að hefja mjög erfiðar viðræður við meginlandsríkin undir hjálmi ESB um útgöngu úr þeim félagsskapi. Samninganefnd ESB sezt þá niður með Bretum, sem vinna fyrir ríkisstjórn flokks, sem tapaði meirihluta sínum í nýafstöðnum kosningum.  Theresu May mistókst að styrkja stöðu sína og er nú augljóslega veikur leiðtogi, sem ekki getur tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi sínum.  Staða brezku samninganefndarinnar er veikari fyrir vikið, og af þessum ástæðum verður May að taka pokann sinn og hreint umboð að koma frá þjóðinni nýrri ríkisstjórn til handa. 

Liggur við, að þörf sé á þjóðstjórn nú í London til að styrkja stöðuna út á við.  Þessar viðræður verða stríð að nútímahætti, enda tekizt á um framtíðarskipan Evrópu, sem hæglega geta endað án nokkurs samnings.  Nú er ekki lengur sterkur foringi í stafni hjá Bretum, eins og 1939, þegar staðfastur dagdrykkjumaður (að mati púrítana) og stórreykingamaður var settur í stafn þjóðarskútunnar, sem á tímabili ein atti kappi við meginlandsríkin, sem þá lutu forræði grænmetisætunnar og bindindismannsins  alræmda í Berlín.  Bretar unnu sigur í þeim hildarleik.  Þessi lota getur orðið lengri en lota misheppnaða málarans frá Linz. Sennilega munu Bretar einnig hafa betur í þessari viðureign, þegar upp verður staðið, þó að það muni ekki koma strax í ljós.  

 

 


Sjávarútvegur í stórsjó

Stjórnendur í sjávarútvegi horfast nú í augu við óhagstæð viðskiptakjör vegna sterkrar krónu, ISK, fremur lágs fiskverðs, að neikvæðum áhrifum  hásetaverkfalls ógleymdum, og aukins kostnaðar við mannahald í kjölfar sama tveggja mánaða verkfalls. Að geta ekki sinnt föstum viðskiptavinum um langa hríð tekur tíma að bæta fyrir á erlendum mörkuðum. 

Til að létta lundina eru þó fremur jákvæð tíðindi af lífríki hafsins um þessar mundir, sem gefa von um lækkaðan tilkostnað á sóknareiningu og fleiri þorskígildistonn á fiskveiðiárinu 2017/2018 en á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þetta segir í Morgunblaðsfrétt, 19. apríl 2017, undir fyrirsögninni:

"Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari":

"Verkefnastjóri [Hafrannsóknarstofnunar í marzralli 2017] var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið, að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar.  Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið, og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum."

Sem kunnugt er hefur aflamark í þorski og fleiri tegundum iðulega frá miðjum 9. áratug síðustu aldar verið skorið stórlega niður með lækkandi stofnvísitölum samkvæmt mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og á fiskveiðiárinu 2016/2017 er ráðgjöfin enn undir því marki, sem ráðlagt var fyrir 40 árum. 

Uppbygging stofnanna hefur kostað langvinnar fórnir, en það er tvímælalaust heillavænlegt að ganga ekki of nærri hrygningarstofnunum með því að beita aflareglu á hverja tegund samkvæmt viðurkenndri vísindalegri þekkingu.  Hitt er annað mál, að þessi þekking er enn gloppótt og efla þarf mjög vísindarannsóknir á lífríki hafsins til að skjóta traustari stoðum undir veiðiráðgjöfina. Eyrnamerkja á hluta veiðigjaldanna rannsóknarverkefnum og fjárfestingum í búnaði hjá Hafrannsóknarstofnun, eins og ætlunin var við setningu laga um þessa umdeilanlegu gjaldtöku.

Samkeppnin knýr fyrirtækin til frekari hagræðingar; ekki sízt á tímum minnkandi tekna og lakari framlegðar.  Það blasir t.d. við hjá HB Granda að sameina þurfi bolfiskvinnslu í Reykjavík og á Akranesi á einum stað.  Nú er lagt upp í Reykjavík og ekið með óunninn fisk þaðan til vinnslu á Akranesi, og tilbúinni vöru er ekið til baka eða til Keflavíkurflugvallar.  Þessi akstur bætir ekki gæði vörunnar, er óumhverfisvænn, eykur við mikla vegumferð og er kostnaðarsamur.  Þar sem aðstaða fyrir alla starfsemina er ófullnægjandi á Akranesi, en fullnægjandi í Reykjavík, er eðlilegt, að fyrirtækið kjósi að sameina alla starfsemina í Reykjavík. 

Akranes er ekki "brothætt byggð", heldur kaupstaður með mikla atvinnustarfsemi og nýtur góðs af mikilli iðnaðarstarfsemi á Grundartanga.  Fyrirtæki, sem starfa á frjálsum markaði, verða að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar, sem þau telja gagnast bezt til lengdar starfsemi sinni.  Reykjavík, Akranes og Grundartangi eru í raun eitt atvinnusvæði vegna Hvalfjarðarganga, og nú eru jafnvel ferjusiglingar yfir til Reykjavíkur í bígerð. 

Ef Faxaflóahafnir ætla að byggja samkeppnishæfa bryggjuaðstöðu á Akranesi til að þjóna HB Granda þar, er fyrirtækið komið með mjög sterka samningsstöðu og getur í raun "deilt og drottnað".  Er það ákjósanleg staða fyrir Akranes og Reykjavík ?  Hefur málið verið hugsað til enda ?

Morgunblaðið gerði skilmerkilega grein fyrir þessum hagræðingarmálum HB Granda 29. marz 2017 undir fyrirsögnunum:

"Vildu flutning til Akraness 2007" og "Sameina vinnslurnar til að hagræða".

Undir þeirri seinni skrifaði Guðni Einarsson:

"HB Grandi er að setja upp botnfiskvinnslu á Vopnafirði.  Vilhjálmur [Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda] sagði það gert til að skapa vinnu allt árið fyrir fólk, sem starfar þar í uppsjávarvinnslu.  Stefnt er að því að vinna þar um 700 t af þorski í ár á milli uppsjávarvertíða.  Um 40 starfsmenn uppsjávarfiskvinnslunnar munu starfa við botnfiskvinnsluna.  Til samanburðar voru unnin um 7300 t af þorski á Akranesi í fyrra. 

HB Grandi keypti í haust veiðiheimildir upp á 1600 þít, og verður hluti heimildanna unninn á Vopnafirði. HB Grandi keypti hátt í 4000 t af botnfiski á mörkuðum í fyrra [2016].  Þar af voru rúm 3000 t af ufsa, sem unnin voru í Reykjavík.  Félagið ætlar að hætta að kaupa fisk á mörkuðum.  Vilhjálmur sagði, að gengju áform félagsins eftir, yrði vinnsla 7300 t flutt frá Akranesi til Reykjavíkur.  Heildarvinnslan þar mundi þá aukast úr um 21 kt í 24 kt á ári."

Stefna HB Granda er af þessu að dæma að styrkja tvær vinnslustöðvar í sessi hérlendis; aðra á suðvestur horninu og hina á norðaustur horninu.  Það er verið að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins með því að auka framleiðnina og framleiðsluna á báðum stöðunum, tryggja virðiskeðjuna frá veiðum til viðskiptavinar í sessi og draga úr áhættu varðandi landshlutatengd áföll og bæta gæðatryggingu vörunnar.  Allt rímar þetta vel við heilbrigða skynsemi, og yfirvöld ættu ekki að reyna með yfirlýsingum út í loftið eða skammsýnum aðgerðum að reyna að hafa áhrif á þá óhjákvæmilegu og að mörgu leyti jákvæðu atvinnuþróun, sem hér fer fram. 

Þegar stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja standa frammi fyrir eða hafa tekið erfiðar, en að sínum dómi nauðsynlegar ákvarðanir í hagræðingarskyni, þá skal ekki bregðast, að upp hefjist ógeðfelld umræða, oft pólitískt lituð, um sérgæzku og jafnvel mannvonzku þeirra, sem ábyrgðina bera, svo að ekki sé nú minnzt á hinn sígilda blóraböggul þeirra mannvitsbrekkna, sem hér eiga í hlut, fiskveiðistjórnunarkerfið.  Þessi umræða minnir að mörgu leyti á löngu úreltan stéttastríðstalsmáta, sem er ekkert annað en innantómt glamur nú á dögum.  Þetta varð Gunnari Þórðarsyni, viðskiptafræðingi, að umritunarefni í Fiskifréttum 21. apríl 2017 undir fyrirsögninni,

"Óábyrg umræða":

"Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd, að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á, að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því, að íslenzkur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum.  Hér er engin hótun á ferðinni, heldur aðeins bent á þá staðreynd, að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu, nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta.  Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár.  Fullvinnsla hefur hins vegar aukizt mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski.  Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðizt við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu."

Þarna er drepið á þá gríðarlegu ógn, sem atvinnu og verðmætasköpun í landinu stafar af gengisþróun ISK, sem er um 20 % of há að verðgildi m.v. okkar helztu viðskiptamyntir um þessar mundir. Þetta hágengi vinnur gegn hagsmunum landsins, því að það mun senn svipta fólk atvinnu og kippa stoðunum undan verðmætasköpun.  Seðlabankinn og núverandi peningastefnunefnd hafa brugðizt hlutverki sínu, sem er varðveizla peningalegs stöðugleika í bráð og lengd. 

Norska krónan, NOK, hefur fallið um helming, 50 %, frá 2014 til 2017 gagnvart ISK, þrátt fyrir miklar gjaldeyristekjur af olíu- og gassölu og varasjóð frá þeim tekjum, sem nemur um miaUSD 800.  Hvers vegna er ekki beitt sömu ráðum hér til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum mikils gjaldeyrisinnstreymis á íslenzka hagkerfið, þ.e. með því að taka þetta fé tímabundið út úr innlenda hagkerfinu og fjárfesta erlendis þar til slaki eða jafnvel kreppa ógnar því ? Þess í stað hleður Seðlabankinn undir ISK með því að safna gildum gjaldeyrissjóði, sem er honum svo dýrkeyptur, að bankinn er búinn að glutra niður nánast öllu eigin fé sínu.

Evra er augljóslega ekki svarið við þessum erfiðleikum, því að Seðlabanki evrunnar er að berjast við hagkerfissamdrátt, en hér er hagkerfisþensla núna.  Þannig er það iðulega, að hagkerfissveifla á Íslandi er í mótfasa við hagkerfissveiflu á meginlandi Evrópu.  Íslandi hentar þannig engan veginn að gerast aðili að þessu myntbandalagi.  Ekkert okkar helztu viðskiptalanda er á svipuðum stað, þ.e. á toppi hagsveiflunnar, eins og Ísland um þessar mundir.  Okkar bezta úrræði er að stjórna efnahagskerfinu og peningamálunum af skynsamlegu viti.  Þekking, geta og vilji er það, sem þarf, eins og venjulega.  Skussar ráða ekki við viðfangsefni af þessu tagi.

"Stór fyrirtæki, sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu, munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki, sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu.  Þetta er í sjálfu sér ekki alvont, þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun, en rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart, þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um, hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun, sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni.  Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla það, sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð.  Það er mikilvægt, að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda, og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina."

 Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snarast hefur á merinni, þegar afkoma sjávarútvegsins í ár er borin saman við árið 2015.  Vegna mjög afturvirkrar álagningar veiðigjalda og brottfalls tímabundins afsláttar á veiðigjöldum munu útgerðarfélögin þurfa að bera hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018.  Það er brýnt að endurskoða þessa skattheimtu, svo að ekki sé horft lengra aftur í tímann en eitt ár, og að sett verði þak á veiðigjöldin, t.d. 5 % af framlegð og að engin veiðigjöld verði innheimt af fyrirtækjum með framlegð undir 20 % af tekjum.  Núverandi skattheimta er flókin, ósanngjörn og meðalhófs er ekki gætt.

Jafnframt þarf auðvitað að samræma álagningu auðlindagjalds af öllum fyrirtækjum, sem nýta náttúruauðlindir, t.d. virkjanafyrirtækin, flutningsfyrirtækið Landsnet, ferðaþjónustan og fiskeldið.  Það er hægt að beita samræmdri aðferðarfræði á allar þessar greinar.  Spangól sjávarútvegsráðherra um nauðsyn hækkunar á eina þessara greina í einhvers konar refsingarskyni er algerlega út í loftið og sýnir í senn ábyrgðarleysi og getuleysi hennar við að leggja eitthvað uppbyggilegt að mörkum sem ráðherra.

Tækniþróun í flestum greinum atvinnulífsins leiðir til aukinnar afkastagetu og aukinnar sjálfvirkni.  Þetta er nú um stundir að stækka og fækka vinnslustöðvum fiskiðnaðarins.  Það væri glapræði að reyna að sporna við þessari þróun og ekki gæfulegra en að hverfa aftur í torfkofana.  Um þessa þróun skrifaði Gunnar Þórðarson í téðri grein:

"Með nýrri tækni, eins og vatnsskurðarvélum og þjörkum, aukast afköst á manntíma, og þannig mun starfsmönnum og vinnsluhúsum fækka.  Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri, þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf.  Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni.  Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð, að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi til framtíðar.  Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif á hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð."

Það er hægt að taka heils hugar undir þessa þörfu hugvekju Gunnars Þórðarsonar, og ályktun hans um hvað felst í samfélagslegri ábyrgð á fullan rétt á sér.  Hið sama á við um flestar atvinnugreinar og sjávarútveginn, að þær auka framleiðni sína með sjálfvirknivæðingu.  Þetta er þeim einfaldlega nauðsyn til að standast samkeppnina.  Það er óviturlegt af sveitarfélögum og launþegafélögum að reyna að stöðva "tímans þunga nið".  Mun gæfulegra er, eins og téður Gunnar bendir á, að vinna með fyrirtækjunum að þessari þróun sjálfum sér og umbjóðendum sínum til hagsbóta.  Á stéttabaráttuvindgangi tapa allir, en græða að sama skapi á stéttasamvinnu.  Það er líka eðlilegt og almenningi til hagsbóta, að sveitarfélög keppi upp að vissu marki um hylli fyrirtækja og fólks, t.d. með góðri fjármálastjórnun.

 


Íslenzk og erlend raforkumál

Víða í Evrópu er raforkumarkaðurinn í sárum vegna opinberra niðurgreiðslna á mannvirkjum til raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum. Rótgróin raforkufyrirtæki, sem áður fyrr voru eftirsóknarverðir fjárfestingarkostir, berjast nú í bökkum. Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið í þróun vind- og sólarhlaða, sem sáralítið munar enn um.  Það hefur verið farin Krýsuvíkurleið að því að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.  Betra hefði verið að setja féð í þróun stórra raforkuvera, sem gengið geta stöðugt.  Orkumál Evrópu eru af þessum sökum í ólestri, og yfirvöldin virðast allsendis ófær um að móta sjálfbæra orkustefnu.   

Raforkukerfi Evrópu er þannig upp byggt, að þegar hillir undir skort á raforkumarkaði, þá hækkar raforkuverðið, sem á endanum verður fyrirtækjum nægur hvati til að reisa nýtt orkuver.  Menn hafa þá valið þess konar raforkuver, sem framleiða með lægstum jaðarkostnaði hverju sinni.  Hefðbundið hefur þetta jafngilt því að velja hagkvæmasta eldsneytið, t.d. að reisa gaskynt raforkuver. Þetta gekk þokkalega vel upp áður en hið opinbera raskaði jafnvæginu á þessum markaði með því að draga taum endurnýjanlegra orkulinda, sem þó geta ekki leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi með núverandi tækni.   

Til skjalanna eru komin sól og vindur með miklum opinberum fjárhagslegum stuðningi.  Slík orkuver eru með mjög lágan breytilegan kostnað, því að hvorki kosta sólargeislar né vindgustur fé enn sem komið er.  Fastur kostnaður þeirra er hins vegar svo hár, að slík orkuver hafa hingað til verið ósamkeppnisfær án stórfelldra opinberra niðurgreiðslna.  

Af þessum ástæðum geta orkuver endurnýjanlegrar orku bolað hefðbundnum eldsneytisverum út af markaðinum, þegar byrlega blæs eða sólin skín.  Þeim er samt ekki lokað, af því að rekstur hinna er stopull og háður birtu og lofthraða, eins og kunnugt er.  Þessi breytti rekstrarhamur eldsneytisorkuveranna hefur kippt fótunum undan arðsemi þeirra, og enginn hefur áhuga á að endurnýja þau án opinberra styrkja. Raforkukerfi Evrópu er komið á opinbert framfæri.   

Allt hefur þetta leitt til ofgnóttar raforku á evrópskum orkumarkaði með þeim afleiðingum, að raforkuverð er með lægsta móti nú, enda er hvorki hagvexti né mannfjöldaaukningu til að dreifa yfirleitt í þessum ríkjum.  Í þessu ljósi er eftirfarandi staðhæfing hins fullyrðingasama forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, við Trausta Hafliðason á Viðskiptablaðinu, sem birtist þar 2. marz 2017 undir fyrirsögninni:

"Hillir undir milljarða króna arðgreiðslu",

ankannaleg:

"Ég tel, að álverð sé enn of lágt.  Það hefur líka verið sveifla upp á við annars staðar, eins og t.d. á olíu-, raforku- og stálmarkaði."

Olíuverð hækkaði mun minna en olíusjeikarnir ætluðust til, þegar þeir drógu úr framboði jarðolíu um síðast liðin áramót. Olíuverð fer nú lækkandi með vorinu á norðurhveli.

 Hvar hefur raforkuverð hækkað annars staðar en á Íslandi undanfarið ?  Er forstjórinn hér enn einu sinni að slá um sig með innistæðulitlum fullyrðingum ? 

Sami forstjóri hefur rofið álverðstenginguna í orkusamningi við ISAL, og sama verður líklega uppi á teninginum 2019 hjá Norðuráli, þegar nýr orkusamningur fyrirtækjanna tekur gildi.  Með þessu hefur þessi forstjóri rænt Landsvirkjun ávinningi af hækkuðu álverði, nema með orkusölu til Fjarðaáls.  Jafnframt gerir hann viðkomandi álfyrirtækjum mjög erfitt að standast öðrum snúning, þegar álverð er lágt. Umhyggja hans fyrir álverunum á Íslandi er einskær hræsni.

 Það er til lítils að kaupa skýrslur um íslenzk orkumál frá útlöndum, ef þær þjóna ekki öðru hlutverki en að planta hér staðleysum um eðli íslenzks orkukerfis og að koma hér á framfæri falsboðskap um nauðsyn orkuverðshækkunar hérlendis, sem er algerlega út úr kú við íslenzkar aðstæður.  Það eru kolrangar greiningar á orkukerfinu hérlendis, sem leiða til slíkrar niðurstöðu.  Núverandi forstjóri Landsvirkjunar er búinn að gera margar misheppnaðar atrennur að slíkum tillöguflutningi, en aðeins maurapúkar eru líklegir til að kaupa þær, og er þá mikið sagt.

Nýlega kynnti Landsvirkjun enn eina skrýtnu útlendu skýrsluna og nú frá danska ráðgjafarfyrirtækinu Copenhagen Economics varðandi fyrirkomulag íslenzkra orkumála.  Það var rétt hjá Dönunum, að nauðsynlegt er að setja varnagla í lög um, að hlutlaus aðili á markaði, t.d. Orkustofnun, gæti hagsmuna almennings og aðvari opinberlega um yfirvofandi skort á afli og/eða raforku, og geti sá aðili þá tekið upp viðræður við orkufyrirtækin um, hvernig þjóðhagslega er hagkvæmast að ráða bót á slíkri stöðu. Á þetta hefur áður verið bent, m.a. á þessu vefsetri, svo að þetta er ekki ný hugmynd.

Óbeint er jafnframt lýst stuðningi við auðlindagjaldtöku, sem í tilviki orkufyrirtækjanna íslenzku mundi verða á formi fasteignagjalds fyrir vatnsréttindi og jarðhitaréttindi, en útfærslu á slíku hefur blekbóndi lýst á þessu vefsetri. Stjórnvöld þurfa hins vegar að koma á samræmdu fyrirkomulagi um gjaldtöku af vatnsréttindum, jarðhitaréttindum, vindréttindum o.s.frv.  Þessi mál hafa þegar þroskazt nóg í meðförum hagsmunaaðila og dómstóla til að tímabært sé að reka endahnútinn á þau.    

Landsvirkjun fékk Copenhagen Economics til þessara skýrsluskrifa, en það er eins og fyrri daginn, þegar kemur að skrifum útlendinga um íslenzk orkumál, að þau draga um of dám af venjubundnu umhverfi höfundanna, sem ekki hafa kynnt sér aðstæður hér á landi til hlítar.  Þannig virðast þeir telja, að raforkuverð hérlendis sé of lágt og að það verði að hækka til að orkufyrirtækin fáist til að virkja. Það er kerfið, sem gilt hefur á meginlandi Evrópu og víðar og lýst er hér að ofan.

Raforkuverð virkjunareigenda hérlendra hlýtur að ráðast af vegnum meðalkostnaði orku frá öllum virkjunum þeirra.  Vinnslukostnaðurinn er lægstur í elztu virkjununum og hæstur í nýjustu virkjununum.  Þetta kemur ekki fram í túlkun Dananna á hækkunarþörfinni, sem er eins og búktal frá Herði Arnarsyni, og felur þess vegna ekki í sér nein nýmæli.  

Það eru tvenns konar verðlagskraftar í gangi hérlendis fyrir raforku.  Sá fyrri er, að yfirleitt eru nýir virkjanakostir dýrari í kr/kWh (föstu verðlagi) en hinir eldri.  Þetta virkar til hækkunar á orkuverði til almennings og hækkunar á orkuverði í nýjum langtímasamningum. 

Sá seinni er sá, að vinnslukostnaður í starfræktum virkjunum fer lækkandi eftir því, sem afskriftir þeirra lækka.  Má sem dæmi nefna Búrfell #1, sem er 46 ára gömul virkjun og að mestu fjárhagslega afskrifuð, þó að hún framleiði á fullu með sáralitlum tilkostnaði, eða e.t.v. 0,2 kr/kWh.

Þessi seinni kraftur er að verða öflugri en hinn vegna vaxandi vægis eldri virkjana í heildarsafni virkjana, og þess vegna er engin ástæða til að hækka raforkuverð til almennings, þótt jaðarkostnaður fari hækkandi. Ef nýjar virkjanir þyrfti ekki, ætti orkuverð til almennings að lækka af þessum sökum. 

Á Íslandi hefur sú stefna verið við lýði að selja megnið af raforku frá nýjum virkjunum í heildsölu samkvæmt langtímasamningum á verði, sem standa mundi vel undir kostnaði við þá orkuvinnslu í viðkomandi nýrri virkjun með ákveðinni ávöxtunarkröfu, og almenningur nyti jafnframt góðs af sömu virkjun með lægra orkuverði en ella vegna hagkvæmni stærðarinnar.

Þetta líkan er alls ekki fyrir hendi erlendis og hefur augljóslega ekki verið útskýrt fyrir Dönunum, því að þeir enduróma bara falskan tón verkkaupans, Landsvirkjunar, um hagkvæmni sæstrengs til Bretlands og nauðsyn mikillar raforkuverðhækkunar á Íslandi. Er ekki betri einn fugl í hendi en tveir í skógi, þ.e.a.s. er ekki hagsmunum almennings á Íslandi betur borgið með lágu raforkuverði, eins og hann býr við nú, en háu raforkuverði og fjárhagslega mjög áhættusömum framkvæmdum tengdum aflsæstreng til Bretlands ?

Til fróðleiks og samanburðar við skrýtinn málflutning Landsvirkjunarforystu um framtíðina hérlendis er hér snaraður útdráttur úr grein í The Economics 25. febrúar 2017,

"Clean Energy´s dirty secret":

"Næstum 150 árum eftir frumhönnun ljósrafhlöðunnar (e. photovoltaic cell) og vindrafstöðvar þá framleiða þau enn aðeins 7 % af raforkunotkun heimsins.  Samt er nokkuð eftirtektarvert að gerast í þessum efnum. Þessar orkustöðvar hafa tekið stakkaskiptum á síðast liðnum 10 árum frá því að gegna smávægilegu hlutverki í orkukerfum heimsins yfir í að sýna mesta vöxt allra orkulinda fyrir raforkuvinnslu, og fallandi kostnaður á orkueiningu gerir þær nú samkeppnishæfar við jarðefnaeldsneyti. Olíurisinn BP býst við, að þessar endurnýjanlegu orkulindir muni standa undir helmingi aukningar raforkunotkunar heimsins á næstu 20 árum.  Það er ekki lengur langsótt, að handan við hornið sé hrein, ótakmörkuð og ódýr raforka; og kominn tími til.

Það er þó triUSD 20 hindrun í veginum (triUSD 1=miaUSD 1000), þar sem er fjárfestingaþörf á allra næstu áratugum til að leysa af hólmi reykspúandi orkuver og styrkja orkuflutningskerfið.  Fjárfestar hafa gjarna fjármagnað verkefni í orkugeiranum, af því að þau hafa skilað traustum arði, en græna orkan er með böggum hildar.  Því meira sem fjárfest er í þessari grænu orku, þeim mun meira lækkar verðið frá öllum orkulindunum.  Þetta veldur erfiðleikum við orkuskiptin, því að allar orkulindir þurfa að skila ágóða á meðan á orkuskiptunum stendur, ef hindra á afl- og orkuskort.  Ef þessum markaðsvanda er ekki kippt í liðinn, munu niðurgreiðslurnar fara vaxandi."

Af þessari frásögn af orkumálum heimsins, sem á algerlega við Evrópu, geta Íslendingar dregið 2 mikilvægar ályktanir og samræmist hvorug áróðurstilburðum Landsvirkjunar, sem er á mjög einkennilegri vegferð sem ríkisfyrirtæki:

Í fyrsta lagi er raforkuverð í Evrópu ekki á uppleið, og í öðru lagi verður þar enginn hörgull á umhverfisvænni raforku eftir um 10-20 ár.

Af þessum ástæðum eru það falsspámenn, sem reyna að telja Íslendingum trú um hið gagnstæða.  Sæstrengur er svo dýr, að hann verður ekki fjárhagslega sjálfbær um fyrirsjáanlega framtíð.  Á þetta er margbúið að sýna fram á með útreikningum, m.a. á þessu vefsetri.

Það er svo önnur saga, að m.v. þriðju útgáfu Rammaáætlunar verður engin raforka aflögu til beins útflutnings sem hrávara um sæstreng.  Íslendingar munu þurfa á öllum sínum orkulindum að halda innanlands til að knýja vaxandi atvinnulíf á landi, samgöngutæki og atvinnutæki á láði, lofti og legi. 

Það eru falsspámenn, sem boða, að aðeins þurfi að virkja svo sem 250 MW rafafl fyrir 1300 km sæstreng.  Nauðsynlegri viðbót megi ná út úr kerfi, sem annars er ætlað til innlendrar notkunar.  Það er fífldjörf áhættusækni að ætla að keyra orkukerfið í þrot hér (tæma miðlunarlónin) og ætla síðan að reiða sig á "hund að sunnan".  Bili hann, sem töluverðar líkur eru á, þegar verst gegnir (lögmál Murphys), eins og dæmin annars staðar frá sanna, myrkvast Ísland. 

Það þarf ekki að fjölyrða um það neyðarástand, sem hér mun þá verða. Halda menn, að forstjóri Landsvirkjunar eða einhver stjórnmálamaður, sem þetta glapræði kynni að styðja, sé sá bógur, að hann geti tekið ábyrgð á slíku ástandi ?  Þeir munu þá ekki þurfa að kemba hærurnar.  Það færi bezt á því, að henda öllum sæstrengsáformum á bálið og einbeita sér þess í stað að raunhæfum verkefnum. Nóg hefur verið bullað um ávinning þess að virkja lítils háttar og græða síðan stórkostlega á raforkuútflutningi um sæstreng, sem er svo dýr, að flutningskostnaður einn og sér verður miklu hærri per MWh en fæst fyrir þá MWh (megawattstund) á Englandi. 

Síðan heldur The Economist áfram að lýsa ömurlegri stöðu orkumála í Evrópu.  Er þá ekki við hæfi að fá "sérfræðinga að sunnan" til að kenna oss, fávísum og "jaðarsettum" ?:

"Í fyrsta lagi hafa rausnarlegar opinberar niðurgreiðslur, um miaUSD 800 síðan 2008 (100 miaUSD/ár) afmyndað markaðinn. Þær komu af virðingarverðum ástæðum - til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum og örva þróun dýrrar tækni, þ.á.m. vindrafstöðvar og sólarhlöður.  Niðurgreiðslurnar fóru að bíta á sama tíma og stöðnun tröllreið raforkumörkuðum þróaðra landa vegna bættrar orkunýtni og fjármálakreppunnar 2008.  Afleiðingin varð offramboð á raforku, sem hefur mjög komið niður á tekjum raforkuframleiðendanna á heildsölumarkaði raforku og fælt þá frá fjárfestingum.

Í öðru lagi er græn orka slitrótt.  Breytileiki vinda og sólskins - sérstaklega í löndum óheppilegs veðurfars fyrir þessar rafstöðvar - hefur í för með sér, að vindmyllur og sólarhlöður framleiða raforku bara stundum.  Til að viðhalda orkuflæði til viðskiptavinanna þarf að reiða sig á hefðbundin orkuver, s.s. kolaver, gasver eða kjarnorkuver, að þau fari í gang, þegar endurnýjanlega orkan bregst. Þar sem þau standa ónotuð í löngum lotum, hafa fjárfestar lítinn áhuga á þeim.  Til að halda þeim við og tiltækum þurfa þau þá opinberan stuðning. 

Allir í orkugeiranum verða fyrir áhrifum af þriðja þættinum: raforkuver endurnýjanlegrar orku hafa hverfandi eða engan rekstrarkostnað - af því að vindur og sólskin kosta ekkert.  Á markaði, sem metur mest raforku, sem framleidd er á lægsta skammtíma kostnaði, taka vind- og sólarorkuver viðskipti frá birgjum með hærri rekstrarkostnað, eins og kolaorkuverum, þrýsta niður raforkuverði og þannig lækka tekjur allra birgjanna á þessum markaði."

Af þessari tilvitnun sést, að staða orkumála í Evrópu er algerlega ósjálfbær.  Í Evrópu eykst losun koltvíildis vegna raforkunotkunar þessi misserin, þótt orkunotkunin vaxi ekkert.  Þetta er vegna misheppnaðrar orkustefnu og ákvörðunar um að draga úr notkun kjarnorkuvera áður en þróaðir hafa verið umhverfisvænir valkostir til að taka við af henni, t.d. "þóríum-kjarnorkuver", en slys af þeirra völdum eru enn ólíklegri en af völdum öruggustu úraníum-vera, og helmingurnartími úrgangsins er aðeins nokkrir áratugir. 

Beitum heilbrigðri skynsemi.  Raforkukerfi landsins á að þjóna atvinnulífinu hérlendis og fólkinu, sem hér býr.  Raforkukerfi landsins á ekki að nota í braski með orku inn og út af um 1200 MW sæstreng til útlanda.  Hvers vegna gefur Alþingi stjórn Landsvirkjunar ekki til kynna, að hún sé á kolrangri braut með tilraunum til að skjóta falsrökum undir áróður fyrir sæstreng og nauðsyn mikillar hækkunar á raforkuverði til almennings ? 

    

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband