Færsluflokkur: Evrópumál

Þýzkaland á tímabili Trumps

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á ættir að rekja til Þýzkalands og Bretlandseyja.  Afi hans, Friedrich Trump, var frá Kallstadt í Pfalz. Nú hafa ummæli ráðamanna í Washington, þar sem köldu hefur blásið til Þýzkalands, NATO og Evrópusambandsins, ESB, valdið Þjóðverjum miklum vonbrigðum, jafnvel hugarangri.  Ástæðan er sú, að auk Þjóðverja sjálfra áttu Bandaríkjamenn mestan þátt í vel heppnaðri endurreisn Vestur-Þýzkalands, Sambandslýðveldisins, eftir heimsátökin og hildarleikinn 1939-1945, og Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af traustri staðsetningu þýzku þjóðarinnar í samtökum vestrænna lýðræðisþjóða, þótt Bandaríkjamenn hafi þar auðvitað verið að gæta eigin hagsmuna ekki síður en annarra Vesturlanda í baráttunni við Jósef Stalín og eftirmenn hans í Kreml.  Þjóðverjar hafa síðan vanizt því að njóta skjóls af Bandaríkjamönnum, og nægir að nefna loftbrúna miklu til Vestur-Berlínar og ræðu Johns Fitzgeralds Kennedys við Berlínarmúrinn, "Ich bin ein Berliner", þegar allt ætlaði um koll að keyra af hrifningu í Þýzkalandi.  "Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng."

Nú hefur efnahagsráðgjafi Trumps, Peter Navarro, ásakað þýzku stjórnina um að möndla ("manipulate") með gengi evrunnar og þannig að misnota Bandaríkin og aðra, af því að evran sé veikari en þýzka markið væri, ef það væri enn í brúki.  Þetta er í raun og veru óboðlegur málflutningur frá æðstu stöðum í BNA.

Þessari gagnrýni úr Hvíta húsinu kunna Þjóðverjar gizka illa, enda er hún afar ósanngjörn.  Þetta kemur í kjölfar hótunar Trumps um að setja 35 % toll á BMW og lítilsvirðandi ummæla um NATO og ESB. Berlín stjórnar brúðuleikhúsinu í Brüssel og hefur undirtökin í Evrópu á öllum sviðum, nema hernaðarsviðinu, en verður nú að hækka framlög sín til varnarmála upp í 2,0 % af VLF eða upp í 60 miaEUR/ár að kröfu Hvíta hússins.  Þetta höfðu aðildarríkin reyndar skuldbundið sig til, þegar ógnin úr austri jókst, en flestir hunzað.  Ef Íslendingar þyrftu að gera hið sama, mundu slík útgjöld ríkissjóðs nema 50 miaISK/ár, sem er talsvert lægra en árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Íslendingar gætu þetta, en það mundi vissulega koma niður á öllu öðru, sem ríkissjóður fjármagnar.   

Þjóðverjar telja, að Trump eigi sjálfur "sök" á hækkun bandaríkjadals með því að lofa skattalækkunum og auknum fjárfestingum í innviðum, sem hafi leitt til vaxtahækkana Seðlabanka BNA og þar af leiðandi styrkingar bandaríkjadals, USD.  Mikill halli er á viðskiptum BNA við útlönd, og ætlar Trump að breyta þeim halla í afgang.  Þá mun bandaríkjadalur styrkjast enn.  Donald Trump siglir hins vegar ekki lygnan sjó, og virðast demókratar stefna á að koma honum frá völdum ("impeachment"), eins og Richard Nixon, en þó strax á fyrra kjörtímabilinu.  Ef þeir ná meirihluta á þingi árið 2018, gætu þeir rekið karlinn frá völdum í kjölfarið. Þá  verður líf í tuskunum. 

Forseti bankastjórnar Seðlabanka evrunnar, Ítalinn Mario Draghi, heldur stýrivöxtum bankans við núllið og kaupir alls konar skuldabréf, rusl segja sumir, til að örva efnahagslífið utan Þýzkalands.  Fjármálaráðherra Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, varaði Draghi við að halda út á þessa braut, en af virðingu við sjálfstæði Seðlabankans lofaði hann Draghi því að gagnrýna hann ekki opinberlega fyrir tiltækið.  Það hafa hins vegar mikilsvirtir þýzkir hagfræðingar gert, t.d. einn af hugmyndafræðingum evrunnar, dr Otmar Issing.

Ein af ástæðum andstöðu Þjóðverja við þessa slökun á peningamálastefnunni var einmitt, að þá mundi viðskiptajöfnuður Þjóðverja vaxa mjög. Fyrirsjáanlegt var, að slíkt mundi skapa óstöðugleika í álfunni og óánægju víða. Nú gera Bandaríkjamenn Þjóðverja að blóraböggli fyrir stefnu, sem hinir síðar nefndu eru andsnúnir, þó að þeir virðist hafa grætt mest á henni.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hinir lágu vextir eru eitur í beinum Þjóðverja, því að þá minnkar ávöxtun af sparnaði þeirra hjá bönkum og líftryggingafélögum, sem starfa líka sem lífeyrissjóðir. Fjármögnun ellilífeyris þýzkrar alþýðu er í uppnámi, því að framlög þýzka ríkissjóðsins til sívaxandi fjölda ellibelgja munu líklega lækka, því að þýzkur vinnumarkaður mun senn skreppa saman, af því að Þjóðverjum hefur brugðizt bogalistin við að fjölga sér.

Viðskiptajöfnuður Þjóðverja er stærri en viðskiptajöfnuður Kínverja, og þar með sá mesti í heimi, og nemur 9,0 % af landsframleiðslu þeirra.  Þetta eru um 3375 EUR/íb eða 412 kISK/íb, og til samanburðar nam viðskiptajöfnuður Íslendinga árið 2016 um 7,1 % af landsframleiðslu, en þar sem landsframleiðsla á mann er hér hærri en í Þýzkalandi, þá var viðskiptajöfnuður á mann hér hærri eða 507 kISK/íb. Ísland og Þýzkaland skera sig að þessu leyti úr í Evrópu með jákvæðum hætti, og þótt víðar væri leitað.

Stærðarmunur þjóðanna gerir það hins vegar að verkum, að Íslendingar liggja ekki undir ámæli fyrir sinn góða árangur, en Þjóðverjar hafa mátt sæta gagnrýni fyrir vikið að hálfu Framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel, AGS í Washington, fjármálaráðuneyti BNA og OECD síðan árið 2005, er þeir tóku ákvörðun um að bæta samkeppnishæfni Þýzkalands.  Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins tóku þá ákvörðun um að halda mjög aftur af umsömdum launahækkunum. Vegna þess að laun í öðrum evrulöndum hækkuðu meira en í Þýzkalandi eftir þetta, virkaði ákvörðun verkalýðssambanda og samtaka atvinnurekenda í Þýzkalandi sem gengislækkun á efnahagskerfið, þýzkar vörur hækkuðu minna en aðrar í verði, eða jafnvel ekkert vegna framleiðniaukningar, og atvinna jókst í Þýzkalandi. Árið 2005 var atvinnuleysi í Þýzkalandi 10,3 %, en árið 2015 aðeins 4,3 %.  Stefnan kennd við Peter Hartz undir forystu jafnaðarmanna við stjórnvölinn í Berlín svínvirkaði. Nú hafa laun tekið að hækka í Þýzkalandi á ný, og árið 2016 hækkuðu þau að jafnaði um 2,3 %, sem er þó innan við þriðjungur raunlaunahækkunar á Íslandi í fyrra. 

Þar sem Ísland er orðið eitt dýrasta land Evrópu, er nú höfuðnauðsyn að fylgja fordæmi Þjóðverja og spenna bogann lágt í komandi kjarasamningum, því að annars brestur strengurinn með þeim afleiðingum, að verðbólgan losnar úr læðingi, öllum til tjóns, og veldur þar mestu tjóni, sem minnst borð er fyrir báru nú. 

Það eru váboðar framundan hjá Þjóðverjum, eins og fleirum. Framleiðnin frá árinu 2008 hefur aðeins aukizt um 0,5 % á ári m.v. 3,25 %/ár áður í vöruframleiðslugeiranum. Í flestum þjónustugeirum hefur framleiðniaukning verið svipuð, og í fjármálageiranum og í opinbera geiranum hefur hún minnkað.  Hið sama er uppi á teninginum víðast hvar í OECD, og þar með í aðalviðskiptalöndum Íslands. 

Mikil skuldsetning dregur úr fjárfestingargetu, sem hægir á tækniframförum, sem yfirleitt leiða til aukinnar framleiðni.  Óðinn í Viðskiptablaðinu var hins vegar 9. febrúar 2017 með merkilega kenningu í ljósi stefnu Trumps um "America First" og innvistun framleiðslunnar, sem hefur þegar átt sér stað í Þýzkalandi.  Fylgir Trump bara strauminum ?:

"Annað, sem gerzt hefur á síðustu árum, er, að viðsnúningur hefur orðið í úthýsingu verkefna til annarra ríkja.  Undanfarna áratugi hafa þróaðri ríki, einkum Vesturlönd og Japan, flutt stóra hluta af frumframleiðslu til ríkja á borð við Kína.  Lengi vel var talað um Kína sem vinnustofu heimsins.  Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur á þessari þróun, og töluvert af framleiðsluferlum, sem áður fóru fram erlendis, hafa verið fluttir heim aftur til Þýzkalands [heim ins Reich - gamalt orðalag - innsk. BJo].  Má sem dæmi nefna, að í málmiðnaði jókst hlutur innlendra aðila í vergri virðisaukningu úr 34 % árið 2008 í 37 % í fyrra.  Í framleiðslu á raftækjum hefur hlutfallið aukizt úr 31 % í 34 % á sama tíma.  Þegar afkastaminni þættir í framleiðsluferlinu eru fluttir heim, kemur það niður á framleiðni í geiranum í heild sinni."

Þrátt fyrir hærri launakostnað heima fyrir, taka framleiðendur þetta skref til baka af ótta við þróun stjórnmála og efnahagsmála erlendis.  Kommúnisminn í Kína gæti verið kominn að leiðarlokum.  Mikið er um uppþot í Kína og fjöldamótmæli vegna spillingar og ódugnaðar embættismanna og svakalegrar loft- og vatnsmengunar.  Að lokum skrifaði Óðinn:

"Hér á landi er vandinn vissulega ekki fólginn í of lágum vöxtum, heldur er þvert á móti æskilegt að lækka vexti verulega.  Þetta [lágir vextir - innsk. BJo] undirstrikar hins vegar þann vanda, sem sem evrusvæðið - og reyndar Vesturlönd almennt, standa frammi fyrir.  Skýrsluhöfundar Commerzbank klykkja svo út með því að benda á, að verði ekki gripið inn í þessa þróun, sé hætt við því, að Þýzkaland stefni í japanskar aðstæður - þ.e. mjög lítinn hagvöxt til lengri tíma litið."

Útlitið í Evrópu er óbeysið.  Í Þýzkalandi sparar fólk mjög til elliáranna með því að leggja fyrir á banka.  Þar er mun minna um fjárfestingar fólks í íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Neyzlustigið er tiltölulega lágt, enda Þjóðverjar nýtnir og sparneytnir frá fornu fari.  Þar er sparsemi dyggð.  Þegar gamlingjar Þýzkalands verða orðnir enn fleiri en nú eða um 2035, verður þó enn meira tekið út úr þýzkum bönkum en lagt verður fyrir, og þá mun hagkerfi landsins hafa veikzt svo mjög, að nágrannarnir þurfa ekki lengur að kvarta.  Þá verður margt annað líka með öðru móti en nú.  Framtíðin virðist vera ósjálfbær, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.     

 

 


Kúreki kveikir upp

45. forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, er búinn að kveikja upp í "Oval Office", embættisskrifstofu sinni, hagar sér eins og villtur kúreki, ríður mikinn í kringum hjörðina og þyrlar upp stórum rykmekki.  Þar fer augljóslega óhefðbundinn forseti með slíka lyndiseinkunn, að öruggt má telja, að það á eftir að skerast í odda á milli hins sjálfumglaða húsbónda í Hvíta húsinu og bandaríska þingsins í Washington D.C.

Forsetinn hefur undirritað eina tilskipun á dag, fyrstu dagana í embætti, í kastljósi fjölmiðla, sem hann annars hefur sagt stríð á hendur.  Eru þessir stórkarlalegu tilburðir fremur broslegir, en það er ómögulegt að segja fyrir um, hvernig þessu leikriti "hins afburðasnjalla og víðfræga" sonar Fred Trumps, kaupsýslumanns, sem ættaður var frá hinu huggulega vínyrkjuhéraði Þýzkalands, Pfalz, lyktar. 

Fyrsta tilskipun Donalds Trumps mun hafa fjallað um að draga BNA út úr viðskiptasamkomulagi Kyrrahafsríkja.  Þetta er fyrsta skrefið í að stöðva flóð kínverskra vara og fjármagns til BNA og draga þannig úr samkeppni bandarísks vinnuafls við hið kínverska.  Á sama tíma er Donald hvassorður um útþenslu Kínverja á Kínahafi, þar sem þeir eru að koma sér upp flotastöðvum í óþökk allra nágrannanna.  Þá ögrar Donald valdhöfum kínverska kommúnistaflokksins í Peking með því að ræða við forseta Taiwan (Formósu).  Donald Trump ætlar að stöðva framsókn Kínverja sem alheimsstórveldis, er ógnað geti BNA. Þetta mun ekki ganga átakalaust. 

Donald Trump virðist vera upp sigað við Evrópusambandið, ESB, sem er alveg ný afstaða í Hvíta húsinu.  Virðist hann helzt vilja sundra Evrópu, e.t.v. svo að hún ógni ekki BNA á viðskiptasviðinu, og hann hefur skotið Evrópumönnum, utan Rússlands, skelk í bringu með þeim palladómi, að NATO sé úrelt þing.  Hefur hann gefið í skyn, að NATO þjóni ekki hagsmunum BNA á meðan hinar NATO-þjóðirnar dragi lappirnar í útgjöldum til hermála og taki sér far á vagni, sem Bandaríkjamenn dragi.  Krafan er 2,0 % af VLF til hermála, sem á Íslandi þýðir rúmlega miaISK 50 til varnar- og öryggismála.  Ætli fari ekki innan við 1/10 af þeirri upphæð í mál, sem má flokka sem slík hérlendis nú ?  Hvað gerir Donald, þegar honum verður sagt frá því og hinum sérstaka varnarsamningi á milli Íslands og BNA ?  Það er eins gott, að skrifstofan er ávöl, því að annars gæti komið hljóð úr horni. 

Donald rekur hornin í ESB úr vestri og virtist í kosningabaráttunni vilja vingast við Vladimir Putin,fyrrverandi KGB-foringja og núverandi Kremlarbónda, sem hefur heldur betur rekið hornin í ESB úr austri.  Það á sem sagt að þrengja að ESB úr tveimur áttum á sama tíma og fjandsamlegir vindar blása í átt að BNA úr austri, suðri (Mexíkó) og vestri.  Það er sem sagt allt upp í loft. 

Upp í loft er líka allt hér í Evrópu, þar sem Bretar eru á leið út úr ESB.  Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú í ræðu í Leicester House gert opinbera grein fyrir því, hvaða línu ríkisstjórnin í Lundúnum ætlar að taka í þessu ferli.  Það verður "hreinn" viðskilnaður, sagði hún, sem er rökrétt afstaða ríkisstjórnarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og felur í sér, að Bretar munu ekki sækjast eftir veru á Innri markaði ESB/EFTA með "frelsunum fjórum", heldur losa sig algerlega undan tilskipanafargani búrókratanna í Brüssel og taka fulla stjórn á landamærum sínum. 

Með þessu móti hafa Bretar frjálsar hendur um viðskiptasamninga við ESB og alla aðra.  Það var alger hvalreki fyrir þá að fá yfirlýsingu frá Donald Trump  um, að hann mundi liðka fyrir yfirgripsmiklum viðskiptasamningi á milli Bretlands og BNA.  Bretar geta þannig orðið stjórnmálalegur og viðskiptalegur milliliður á milli BNA og ESB, sem er draumastaða fyrir þá. 

Eftir téða ræðu Theresu May í Leicester House hvein í tálknum í Edinborg.  Þjóðarflokkur Skota, sem Sturgeon, yfirráðherra Skota fer fyrir, virðist telja hag sínum betur borgið á Innri markaði ESB en með óheftan aðgang að Englandi, Norður-Írlandi og aðild að öllum viðskiptasamningum Englendinga.  Hefur hún hótað aðskilnaði við England, ef verður af "hardest of hard Brexits" og inngöngu í ESB.  Þetta er hins vegar kolrangt mat hjá henni, því að það síðasta, sem framkvæmdastjórninni og leiðtogaráðinu í Berlaymont kann að detta í hug er að veita klofningsríki í Evrópu aðild, því að þar með yrði fjandinn laus í fjölda aðildarríkja.  Nægir að nefna Katalóníu á Spáni. Skotar munu þess vegna ekki fá aðild að ESB í sinni núverandi mynd, og þar með minnkar hvatinn til að rjúfa sig frá Englandi.  Allt er þetta "skuespill for galleriet".

Hvaða áhrif hefur þessi hrærigrautur hérlendis ?  Í öryggismálum verðum við að reiða okkur á NATO nú sem endranær og vona, að Bandaríkjaþing slaki ekki á varnarskuldbindingum Bandaríkjastjórnar og bandaríska heraflans gagnvart NATO-ríkjum. 

Í viðskiptamálum þurfum við fríverzlunarsamning við Bretland, sem tryggir íslenzkum útflytjendum tollfrjálsan aðgang að Bretlandsmarkaði.  Ef Bretar ná hagstæðum fríverzlunarsamningi við ESB, þarf að athuga, hvort við getum fengið tollfrjálsan aðgang að ESB-löndunum, og getum þá gengið úr EES, ef okkur sýnist svo. 

Þriðja stoð utanríkisstefnunnar ætti að vera að rækta sambandið við Berlín, því að þar er frjór jarðvegur fyrir náið samstarf og þangað er nú komin valdamiðstöð meginlands Evrópu vestan Rússlands.  Ef þessar 3 stoðir eru í lagi, er öryggishagsmunum og viðskiptahagsmunum Íslands borgið.

Varðandi frjálsa fjármagnsflutninga á milli Bretlands og Íslands þarf að gæta að því, að Bretar hafa undir rós hótað ESB því, að ætli samningamenn ESB um viðskilnað Bretlands að verða erfiðir og leiðinlegir, þá geti Bretar breytt hagkerfi sínu í skattaparadís til að stríða ESB-mönnum og draga frá þeim fjármagn.  Bretar hafa sterk spil á hendi, af því að öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu er í Lundúnum, og þar fara jafnvel mestu viðskiptin með evrur fram. 

Um þetta skrifar Wolfgang Münchau á Financial Times í Morgunblaðið 26. janúar 2017:

"Í þriðja lagi á Bretland sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er meðlimur G-20 hópsins og einnig G-7 hópsins.  Ef aðildarríki ESB vilja stemma stigu við skattasniðgöngu alþjóðafyrirtækja, stuðla að sanngjarnari áhrifum hnattvæðingar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða finna lausnir til að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, þá munu þau þurfa á Bretlandi að halda."

Í framkvæmdastjórn ESB eru jaxlar, sem vilja hræða önnur ríki frá að feta í fótspor Breta með því að sýna þeim í tvo heimana, þegar tekið verður til við að semja um viðskilnaðinn.  Í leiðtogaráðinu er stemningin önnur.  Mikið mun velta á því, hvernig þingkosningar fara í Hollandi í vor, forsetakosningar í Frakklandi í sumar og síðast, en ekki sízt, hver niðurstaða kosninganna til Sambandsþingsins í Berlín verður.  Munu Þjóðverjar refsa Merkel ?  Þeir virðast vera í skapi til þess núna. 

Bretar hafa ýmislegt uppi í erminni.  Spenna eykst í Evrópu, en viðskilnaðarsamningar verða ekki leikur kattarins að músinni, heldur miklu líkari viðskiptum Tomma og Jenna.  Münchau skrifar:

"Ef til "harðrar útgöngu" kemur, myndi hún ýta Bretlandi í átt að annars konar viðskiptalíkani, eins og Philip Hammond, fjármálaráðherra, komst að orði.  Mætti líka orða þetta sem svo, að í stað þess að leiða hinn vestræna heim í baráttunni við skattasniðgöngu, gæti Bretland orðið enn eitt skattaskjólið.  Það væri ekki sniðugt fyrir land á stærð við Bretland að taka upp sama líkan og Singapúr, að mínu mati.  Síðar nefnda landið er í raun einungis fjármálamiðstöð, en hið fyrr nefnda býr að fjölbreyttu hagkerfi og þarf fyrir vikið að móta víðtækari stefnu.  Hyggilegra væri að leggja áherzlu á nýsköpun og marka stefnu til að auka framleiðni.  Þótt lágskattaleiðin væri sennilega ekki sú hagkvæmasta, þá skapar hún engu að síður ógn fyrir ESB." 

Ekki er ólíklegt, að vinsamleg stefna Trumps gagnvart Rússum og fjandsamleg afstaða hans gagnvart ESB, muni bráðlega leiða til þess, að viðskiptabann Vesturlanda á Rússa og innflutningsbann Rússa á matvörum, verði felld niður.  Eftir er að sjá, hvort Íslendingar verða þá fljótir að endurvekja viðskiptasambönd sín við Rússa.  Það yrði sjávarútveginum og þjóðarbúinu kærkomin búbót á tímum tekjusamdráttar af öðrum völdum, en árlegt sölutap vegna lokunar Rússlands hefur numið 20-30 miaISK/ár. 

Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, er ástand alþjóðamála hugleikið.  Hann varpar fram eftirfarandi útskýringu á óánægju vestrænna kjósenda, t.d. bandarískra, sem komu Trump til valda, í Morgunblaðsgrein, 26. janúar 2017,

"Vesturlönd á afdrifaríkum krossgötum":

"Hnattvæðing efnahags- og fjármálastarfsemi hefur á sama tíma gerbreytt leikreglum í alþjóða viðskiptum og leitt til gífurlegrar auðsöfnunar fárra.  Eignir 8 ríkustu manna heims eru nú metnar til jafns við samanlagðan hlut 3´500 milljóna manna eða um helmings mannkyns.  Inn í þetta fléttast örar tæknibreytingar, sem gera þorra mannkyns að þátttakendum í samfélagsumræðu óháð hefðbundnum fjölmiðlum."

Hér fellur Hjörleifur í gryfju Oxfam, sem tiltekur heildareignir manna, en ekki hreinar eignir.  Hinir auðugri skulda margfalt meira en hinir, eins og nýlega kom fram á Íslandi vegna "skuldaleiðréttingarinnar".  Þá ber að halda því til haga, að téð hnattvæðing hefur lyft a.m.k. einum milljarði manna úr fátækt í bjargálnir, og áttamenningarnir hafa sumir hverjir veitt gífurlegum upphæðum til fátækra og sumir ánafnað góðgerðarstofnunum öllum auði sínum.  Flestir í þessum átta manna hópi voru frumkvöðlar, m.a. Zuckerberg á Fésbók, sem ekki hafa tekið fé af neinum, heldur orðið auðugir, af því að fólk vildi gjarna kaupa nýjungar, sem þeir höfðu á boðstólum á undan öðrum mönnum. Er það gagnrýnivert ? Að stilla þessum áttmenningum upp sem óvinum almennings og vandamáli er í ætt við Marxisma, sem er algerlega gagnslaus sem þjóðfélagsgreining nú sem áður. 

 


Af siðferði sannfæringar og ábyrgðar

Hrikalegum limlestingum máttu yfir 60 manns sæta, og þar af mættu 12 dauða sínum strax, í þröngri Berlínargötu að kvöldi 19. desember 2016, er Norður-afríkanskur glæpamaður á snærum ISIS, ofstækisfullra Múhameðstrúarmanna í heilögu stríði (Jihad) gegn kristnum frelsis- og lýðræðisgildum og nútímalegum lifnaðarháttum, ók stórum hlöðnum flutningabíl miskunnarlaust á fólk, sem átti sér einskis ills von á jólamarkaði.  Þetta er illvirki óðra morðhunda af meiði Súnní-múslima í heilögu stríði í nafni trúar sinnar og helgiritsins Kóransins. Þetta voðaverk getur kveikt í púðurtunnu, sem Angela Merkel, kanzlari, ber ábyrgð á með því þann 4. september 2015 að opna landamæri Þýzkalands fyrir flóttamönnum Mið-Austurlanda, og Norður-Afríkumenn fylgdu í kjölsoginu. Aðrar Evrópuþjóðir kunna Þjóðverjum litlar þakkir fyrir þetta "góðverk" og saka þá nú um siðferðilega útþenslustefnu ("moral imperialism").  Það er vandlifað í þessum heimi. Laun heimsins eru vanþakklæti.    

Þjóðverjar hafa frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 lítið sem ekkert beitt sér í löndum Múhameðstrúarmanna, en þeir hafa aftur á móti verið allra manna rausnarlegastir og hjálplegastir gagnvart Múhameðstrúarmönnum í neyð, nú síðast með því að opna landamæri sín fyrir straumi flóttamanna af hörmungarsvæðum, t.d. Sýrlandi í borgarastyrjöld. Þessi góðmennska og rausnarskapur er goldin með vanþakklæti, og gjörðin er nú mjög umdeild í Þýzkalandi og í öðrum löndum Evrópusambandsins, ESB. 

Þeir hafa mikið til síns máls, sem halda því fram, að menningarmunur aðkomufólksins og Evrópumanna sé óbrúanlegur, því að "Ímanarnir", íslömsku prelátarnir á Vesturlöndum, halda áfram heilaþvotti sínum í moskum og öðrum samkomustöðum Múhameðstrúarmanna, þar sem brýnt er fyrir aðkomufólkinu að ganga ekki vestrænum siðum "heiðingjanna" og lífsgildum þeirra á hönd, heldur að halda sem fastast í forneskjulega lifnaðarhætti sína og siði að viðlögðum refsingum þessa heims og annars. 

Aðlögun er ómöguleg við þessar aðstæður, og aðkomufólkið verður áfram í ormagryfju sjúkdóma, fordóma, trúargrillna, kvennakúgunar og haturs á vestrænu fólki og siðum þeirra. Þetta er frjór jarðvegur glæpamanna. Slíkur forneskjuhópur á Vesturlöndum er sem þjóðfélagsleg tímasprengja. 

Þjóðverjar eru NATO-þjóð, en þeir tóku hins vegar engan hernaðarlegan þátt í misheppnuðum aðgerðum Frakka, Breta, Bandaríkjamanna o.fl. út af hinu misheppnaða "arabíska vori", t.d. loftárásunum á Líbýju. Þvert á móti vöruðu þeir við slíkum ríkisreknum ofbeldisaðgerðum gegn Múhameðstrúarmönnum, þótt þeim að nafninu til væri beint gegn brjáluðum einræðisherra, Gaddafi. Múhameðsmenn eru ekki og verða seint tilbúnir til að innleiða vestræna stjórnarhætti heima hjá sér.  Að halda slíkt er vanmat á mætti aldalangs heilaþvottar og heimska. 

Þjóðverjar hafa verið með fámennt stuðningslið í Afghanistan á vegum NATO, og er það eiginlega eina hernaðarþátttaka þeirra á múslímsku landi frá Síðari heimsstyrjöld.  Þrátt fyrir þessa tiltölulega friðsamlegu afstöðu Þjóðverja gagnvart Múhameðsmönnum er nú ráðizt á þá í þeirra helgasta véi, á jólaföstunni sjálfri í höfuðborg þeirra, og hefur fallandi Kalífadæmið lýst fyrirlitlegum verknaðinum á hendur sér. Siðleysi þessa hugleysislega glæps téðrar Íslamsgreinar er algert, og hún verðskuldar útskúfun. 

Þjóðverjum hafa lengi verið hugstæð hugtökin "Gesinnungsethik" og "Verantwortungsethik", sem kannski mætti þýða sem sannfæringarsiðferði og ábyrgðarsiðferði.  Á milli þessara tveggja heimspekilegu hugtaka er spenna, sem endurspeglast í muninum á hugsjónahyggju og raunhyggju, sem þekkist alls staðar, en hugtökin varpa líka ljósi á siðferðisspennu, sem er "mjög þýzk" samkvæmt þjóðfélagsfræðinginum Manfred Güllner. Átökin þarna á milli má sjá í öllum stórmálum Þjóðverja á stjórnmálasviðinu, t.d. evruvandræðunum og flóttamannavandanum. 

Þjóðverjar hafa marga fjöruna sopið í seinni tíma sögu sinni allt frá 30 ára stríðinu 1618-1648, sem var trúarbragðastyrjöld, þar sem erlendir konungar og keisarar blönduðu sér í baráttuna.  Styrjöldin gekk mjög nærri þjóðinni, sem svalt heilu og hálfu hungri og er sögð hafa bjargað sér á kartöflunni, sem þá var nýkomin til Evrópu.  Friðrik, mikli, Prússakóngur, stóð í vopnaskaki við nágranna sína og Rússa og náði naumlega að forða prússneska hernum frá ósigri fyrir rússneska birninum á 18. öld.  19. öldin var blómaskeið Þjóðverja, en hernám Napóleóns mikla blés Þjóðverjum sjálfstæðisbaráttu í brjóst, sem nefnd var rómantíska stefnan, og fangaði hún athygli ungra íslenzkra sjálfstæðisfrumkvöðla í Kaupmannahöfn, sem var margt til lista lagt og lögðu grundvöllinn að íslenzku sjálfstæðisbaráttunni. Sagt er, að Íslendingar verði jafnan varir við það, þegar Þjóðverjar bylta sér. Þjóðverjum sjálfum er hlýtt til sögueyju víkinganna í norðri. 

Hinn menningarlegi grundvöllur fyrir sameiningu Þýzkalands var lagður með rómantísku stefnunni, og stjórnmálaskörungurinn Otto von Bismarck rak smiðshöggið á sameininguna 1871 með klækjum, eldi og blóði.  

Þegar Vilhjálmur 2. varð Þýzkalandskeisari rak hann Bismarck, járnkanzlarann, og var það ógæfuspor, enda reyndist þessi keisari hæfileikasnauður sem stjórnmálamaður og herstjórnandi og hinn mesti óþurftarmaður, sem hratt Þjóðverjum út í styrjöldina 1914-1918.  Ósigurinn leiddi til landmissis, Versalasamninganna, Weimar-lýðveldisins og Þriðja ríkisins með öllum þess hörmungum. Þýzka þjóðin mátti í raun þola sitt annað 30 ára stríð 1914-1945, að breyttu breytanda.

Hugtökin sannfæringarsiðferði og ábyrgðarsiðferði komu fyrst fram hjá þjóðfélagsfræðinginum Max Weber, sem notaði þau í janúar 1919 í ræðu, sem hann hélt fyrir vinstri sinnaða stúdenta í bókabúð í München.  Þýzki herinn hafði gefizt upp á öllum vígstöðvum fyrir 2 mánuðum.  Keisarinn hafði sagt af sér, Þýzkaland var á barmi öreigabyltingar, og München var að verða höfuðborg skammlífs "Ráðstjórnarlýðveldis Bæjara". Þessi ræða Webers er talin vera sígilt innlegg í stjórnmálafræðina.  Ræðan var haldin til að slá á draumórakenndar deilur hugsjónamanna um, hvaða stefnu niðurlægt og sveltandi Þýzkaland ætti að taka. 

Weber lýsti ginnungagapi á milli þessa tvenns konar siðferðis.  Þeir, sem fylgja sannfæringu sinni vilja halda í hreinleika siðferðis síns alveg án tillits til afleiðinga stefnumörkunar þeirra fyrir raunheiminn: 

"Ef verknaður í góðu skyni leiðir til slæmrar niðurstöðu, þá, í augum gerandans, er hann sjálfur ekki ábyrgur fyrir slæmum afleiðingum, heldur heimurinn eða heimska annarra manna eða Guðs vilji, sem skóp þá þannig."

Á hinn bóginn, sá sem lætur stjórnast af ábyrgðartilfinningu "tekur með í reikninginn nákvæmlega meðaltal mannlegra galla ... hann hefur ekki einu sinni rétt til að gera fyrirfram ráð fyrir góðsemi manna og fullkomnun". 

Þessi tegund stjórnmálamanna mun svara fyrir allar afleiðingar gjörða sinna, einnig óvæntar afleiðingar.  Weber lét áheyrendur sína ekki velkjast í vafa um, hvort siðferðið ætti hug hans. Hann kvað þá, sem aðhylltust siðferði sannfæringar, vera "vindbelgi í 9 af 10 tilvikum".

Hr Güllner segir, að almennt sé siðferði sannfæringar algengast á meðal vinstri manna, mótmælenda og í minni mæli á meðal íhaldsmanna og kaþólikkka.

Þannig virðast jafnaðarmenn, sem líta á sig sem krossfara þjóðfélagslegs réttlætis, ekki aðeins vera "ófærir og ófúsir" til að stjórna, þó að þeir beri raunverulega ábyrgð að mati hr Güllners.  Þetta gæti útskýrt, hvers vegna jafnaðarmaður hefur aðeins verið kanzlari í 20 ár síðan 1949 borið saman við 47 ár undir Kristilegum demókrötum. 

Siðferði sannfæringar er þó einnig fyrir hendi í röðum mið-hægrimanna, sem síðan á 6. áratuginum hafa nálgazt Evrópuverkefnið eins og leiðarenda sem leið fyrir Þýzkaland til að þróast upp úr þjóðríkinu og leysa upp sekt sína um leið og fullveldið er gefið upp á bátinn.  Í þessu ferli láðist Þjóðverjum að koma auga á, að fæstar aðrar Evrópuþjóðir deildu þessu markmiði með þeim. Þegar evru-vandræðin gusu upp, þá lýstu margir íhaldsmenn yfir andstöðu við fjárstuðning á grundvelli siðferðis sannfæringar, segir Thilo Sarrazin, umdeildur álitsgjafi.  Þeir vildu lýsa reglubrotum ríkja í vandræðum sem slæmum í eðli sínu, jafnvel þótt það mundi þýða hrun myntsamstarfsins. 

Samkvæmt siðferði ábyrgðar er slík afstaða ekki einvörðungu óraunhæf, heldur röng, og það, sem ekki gengur upp, geti ekki verið siðlegt. Stjórnendur Þýzka sambandslýðveldisins hafa flestir verið af þessu sauðahúsi. 

Á 9. áratugi 20. aldar fóru milljónir Þjóðverja í mótmælagöngur gegn þróun kjarnorkuvopnabúrs NATO, en Helmut Schmidt, kanzlari, sem lét koma þessum vopnum fyrir, féllst þannig á hernaðarleg rök fælingarmáttarins.  Að launum frá félögum sínum í Jafnaðarmannaflokkinum, SPD, fékk hann aðallega fordæmingu.  Í evru-vandræðunum féllst Angela Merkel hikandi á fjárstuðning við veikburða ríki til að halda myntsamstarfinu áfram. Brandenburger Tor

Gagnvart flóttamannastrauminum sneri Merkel við blaðinu og tók upp siðferði sannfæringar. Það var ólíkt henni. Hún var samt ákaft vöruð við þessu af fólki siðferðilegrar ábyrgðar, og Merkel snerist 180° seint á árinu 2016. Uppi sitja þó Þjóðverjar með eina milljón nýkominna múslima frá ýmsum löndum og kunna á þeim engin skil, flestum. Það felur í sér stórvandamál að hleypa svo stórum og framandi hópi fólks inn í land, þegar aðkomufólkið er haldið trúargrillum og prelátar þess halda áfram að ala á tortryggni og jafnvel hatri á gestgjöfunum. 

Það er himinn og haf á milli hugarheims hins venjulega Þjóðverja og Íslamista, og þegar öfgamenn úr röðum gestgjafa eða gesta gera sig seka um hryðjuverk í landinu gagnvart andstæðum hópi, þá getur hið pólitíska ástand fljótt orðið eldfimt og það komið fram þegar haustið 2017 í gjörbreyttum valdahlutföllum á Sambandsþinginu í Berlín (Reichstag) með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Nú verður hrært í gruggugu vatni á báða bóga. Dagar dóttur mótmælendaprestsins í DDR (Deutsche Demokratische Republiblik), frú Merkel, sem kanzlara eru sennilega taldir vegna umræddra mistaka hennar.

Þýzkt ESB 

 

  

 


Söguleg umbrot

Sé litið yfir Evrópusöguna síðustu 2000 árin, má álykta, að upphaf stefnumarkandi þróunar á hverjum tíma eigi sér jafnan stað í Róm og/eða Lundúnum.  Rómarríkið lagði grundvöll að samfélagi og menningu Evrópu fram á þennan dag og mótaði þá landaskipan, sem við nú búum við. Rómarkirkjan klofnaði á fyrri hluta 16. aldar vegna spillingar Páfadóms að tilstuðlan Englendinga og Þjóðverja, og oft hafa Þjóðverjar þróað hugmyndir og aðferðir hinna tveggja af sinni alkunnu skipulagsgáfu, festu og nákvæmni. 

Iðnbyltingin hófst á Bretlandi um 1760 með mikilvægri tækniþróun, þar sem gufuvél James Watt markaði tímamót í frelsun manna undan líkamlegu oki erfiðisvinnunnar, og þar með kippti tækniþróunin fótunum undan þrælahaldi, sem hafði afar lengi verið undirstaða auðsköpunar hvarvetna.  Um svipað leyti lagði Adam Smith fram fræðilegan grundvöll að markaðshagkerfinu, sem ásamt enska þingræðiskerfinu hefur knúið áfram vestræn þjóðfélög til nútíma velferðarsamfélags og staðið af sér ofstæki einræðisafla, iðulega með miklum blóðfórnum.   

Uppruna þjóðernisjafnaðarmanna 20. aldar má rekja til niðurlægingar Fyrri heimsstyrjaldarinnar fyrir nokkur ríki Evrópu, þar sem Bretland og Bandaríkin réðu úrslitum á vígvöllunum, og stjórnmálaflokks Benitos Mussolinis, sem var fyrirrennari og að sumu leyti fyrirmynd þjóðernisjafnaðarmannaflokks þýzkra verkamanna Austurríkismannsins  Adolfs Hitlers. Sá flokkur var vissulega vinstri flokkur að nútíma skilningi, þó að hann stillti sér upp sem höfuðandstæðingi kommúnismans, af því að hann vildi spenna auðvaldskerfið fyrir vagn ríkisvaldsins. Einstaklingarnir voru tannhjól í samfélagsvél ríkisins. Það er vinstrimennska. Að sumu leyti svipar kínverskum kommúnisma til þessa kerfis.  Þar eru jafnvel stundaðar þjóðernishreinsanir, t.d. í Tíbet, og Han fólkið talinn yfirburða stofn kínverska ríkisins. 

Evrópusambandið (ESB) er reyndar hvorki ættað í Róm né í Lundúnum, heldur í Stál- og kolabandalagi Benelux-landanna ásamt Frakklandi og Þýzkalandi um 1950, en stofnsáttmáli Evrópubandalagsins frá 1957 er þó tengdur við og kenndur við Róm. Vatnaskil urðu hins vegar í þróun Evrópusambandsins, þegar Bretar samþykktu 23. júní 2016 að segja sig úr ESB. Brezka þingið hefur nú innsiglað þá stefnumörkun. Þar með stöðvuðu Bretar stöðuga útþenslu þess, og samdráttur yfirráðasvæðis þess hófst.  ESB mun ekki bera sitt barr eftir þetta, enda gætu fleiri, t.d. Danir, fylgt í kjölfarið og gengið í viðskiptabandalag með Bretum. Hafinn er nýr kafli í stjórnmálaþróun Evrópu að frumkvæði Lundúna. 

Þann 4. desember 2016 gengu Ítalir að kjörborðinu og kusu um stjórnarskrárbreytingar, sem forsætisráðherrann, Matteo Renzi, hafði haft forgöngu um.  Þær snerust um að styrkja miðstjórnarvaldið í Róm, og reyndist slíkt eitur í beinum Ítala.  Renzi ætlaði að auka skilvirkni og draga úr spillingu með því að draga völd frá héruðunum og til Rómar.  Sagðist hann draga burst úr nefi Mafíunnar með slíku, en Ítalir gáfu lítið fyrir það, enda hafa þeir aldrei verið hallir undir Rómarvaldið.  Hinir fornu Rómverjar létu sér það í léttu rúmi liggja, svo lengi sem þeir fengu skattfé af íbúunum og liðsmenn í Rómarherinn. Allir kunnu þó að meta vegakerfi og áveitukerfi Rómverja, sem höfðu á að skipa beztu verkfræðingum Evrópu þess tíma, og Pax Romana, friði innan landamæra Rómarveldis.

Samkvæmt lagabreytingu, að frumkvæði Renzis, átti stjórnmálaflokkur, sem hlyti yfir 40 % fylgi í þingkosningum, að fá meirihluta þingsæta í neðri deild þingsins á silfurfati, og efri deild átti bara að verða ráðgefandi.  Þetta hugnaðist Ítölum illa. 

Renzi sagði strax af sér eftir ósigurinn, og formaður Fimm stjörnu hreyfingarinnar, Beppe Grillo, trúður að atvinnu, krafðist tafarlausra þingkosninga í kjölfarið, en flokki hans er spáð sigri í næstu kosningum.  Eftir þær mun trúðurinn trúlega mynda ríkisstjórn á Ítalíu. 

Beppe Grillo styður aðild Ítalíu að ESB, en hefur lofað Ítölum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild landsins að myntbandalagi ESB, evrunni, komist hann til valda.  Síðan Ítalir tóku upp evruna í byrjun aldarinnar, hefur hagkerfi Ítalíu ekki borið sitt barr, hagvöxtur verið sáralítill, ráðstöfunartekjum almennings hrakað, atvinnuleysi vaxið, einkum á meðal ungviðis og í suðurhlutanum, og skuldsetning allra kima þjóðfélagsins keyrt úr hófi fram, ekki sízt ríkissjóðs.  Nú er mikið um vanskil í bönkum, og ítalska fjármálakerfið stendur tæpt, verst þriðji stærsti banki landsins og sá elzti, starfandi, kenndur við hina fögru borg Toscana, Siena.  Hlutabréf hans hafa fallið um 85 %, sem segir sína sögu, og hlutabréf hafa almennt fallið á Ítalíu eftir ósigur Renzis og evran tekið dýfu. Fjármálamarkaðir finna á sér óveður í aðsigi. 

Berlín hefur frestað gjaldþroti Grikklands og hjálpað Kýpverjum, Írum, Spánverjum og Portúgölum, en Berlín ræður ekki við að bjarga Ítalíu. Greiðsluþrot Ítalíu og brottfall úr myntbandalaginu verður reiðarslag fyrir myntsamstarfið, sem mun leika á reiðiskjálfi, og e.t.v. fá rothögg með heilablæðingu.  Mikil atburðarás var þess vegna ræst í Evrópu sunnudaginn 4. desember 2016. Ekki er útlitið björgulegt fyrir íslenzka útflytjendur og ferðaþjónustu, ef svo fer fram sem horfir. 

Lítum nú á, hvað fyrsti aðalhagfræðingur Evrubankans, Þjóðverjinn Otmar Issing, sagði um framferði Ítalans Mario Draghi og evrubanka hans ásamt stjórnmálamönnum  evrulands haustið 2016 með tilvitnunum í grein Andrésar Magnússonar í Viðskiptablaðinu, 20. október 2016:

"Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja:

""Einn dag mun þessi spilaborg hrynja" var á meðal þess, sem Issing sagði í viðtali við Central Banking á dögunum, en það er eitt vinsælasta tímarit seðlabankaheimsins.  Hann sagði, að evran hefði verið svikin í tryggðum af stjórnmálunum og harmaði, að tilraunin hefði mistekizt allt frá upphafi, en hefði síðan úrkynjazt í fjármálapólitísk áflog, þar sem engin fantabrögð væru undanskilin.

"Ef við leggjum kalt mat á framhaldið, þá mun evran böðlast áfram, skjögrandi frá einni kreppunni til hinnar næstu.  Það er erfitt að spá fyrir um, hversu lengi það mun ganga þannig til, en það getur ekki gengið að eilífu.""

Það er hafið yfir vafa, að hinn skeleggi Otmar Issing hefur lög að mæla.  Það, sem hann á við, er, að stjórnmálamenn brutu reglurnar, sem að tilstuðlan þýzkra hagfræðinga voru settar um evruna, þegar hún var grundvölluð, t.d. með því að bjarga bönkum og ríkjum frá greiðsluþroti með ríkisfé og peningaprentun, með því að brjóta reglur Maastricht samkomulagsins um hámarks halla á ríkissjóðum 3 % af VLF ár eftir ár og með dúndrandi viðskiptahalla víða. 

Issing spáir hruni evrunnar eftir ótilgreindan tíma, og nú bendir ýmislegt til, að sá tími sé að renna upp með hruni fjármálakerfis Ítalíu og/eða úrsögn Ítalíu úr myntsamstarfinu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar valdatöku yfirtrúðs Ítalíu og Fimm stjörnu hreyfingar hans, sem þegar hefur náð völdum í Róm.   

Heyrzt hefur, að eitt af "erfiðu málunum" í stjórnarmyndunarviðræðunum hérlendis í vetur hafi verið krafa tiltekinna stjórnmálaflokka um að setja aðildarumsókn Íslands að ESB á dagskrá aftur.  Í ljósi raunveruleikans á Íslandi og í Evrópu er þetta alveg dæmalaus þráhyggja og pólitískur sauðsháttur.  Nægir að benda á, að evran er á hverfanda hveli og að Samfylkingin fékk einn mann kjörinn í síðustu Alþingiskosningum (og 2 uppbótarmenn), sem má túlka sem höfnun kjósenda á stefnu hennar, m.a. um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem lögeyris á Íslandi.  Aðrir flokkar héldu þessari stefnu lítið sem ekkert á lofti, og þess vegna er í meira lagi ólýðræðislegt og einstaklega óskynsamlegt að eyða púðri á þetta mál í íslenzkum stjórnmálum nú og á næstunni.  Hvað hafði Issing að segja um stjórnendur ESB í Brüssel ?:

"Issing, prófessor, úthúðaði framkvæmdastjórn ESB, sagði hana pólitíska ókind, sem gæfist upp á að framfylgja grundvallarreglum sambandsins í öllum meginatriðum. "Freistnivandinn er yfirþyrmandi", segir hann um kommissara framkvæmdastjórnarinnar. 

Hann var engu mjúkmálli um Seðlabanka Evrópu, sem hann segir vera á hálli braut til Heljar og hafa í raun eyðilagt hið sameiginlega myntkerfi með því að koma gjaldþrota ríkjum til bjargar þvert á vinnureglur bankans, lög og undirliggjandi milliríkjasáttmála.  "Stöðugleikabandalagið hefur meira eða minna misheppnazt, og agi á markaði verið látinn lönd og leið með afskiptum Seðlabanka Evrópu.  Fyrir vikið eru engin fjármálaleg stjórntæki lengur tiltæk, hvorki markaðsleg né pólitísk", sagði Issing og bætti við: "Þetta er allt, sem þarf til að kalla hamfarir yfir myntsamstarfið"."

""Efnisgreinin, sem bannar Seðlabanka Evrópu að hlaupa undir bagga með gjaldþrota ríkissjóðum, er þverbrotin daglega", segir Issing. Hann vísar úrskurðum Evrópudómstólsins um, að þær ráðstafanir sé lögmætar, á bug og segir þá einfeldningslega og dómarana blindaða af Evrópuhugsjóninni."

Það er ómetanlegt, að hinn vel upplýsti og hreinskilni Otmar Issing skuli tjá sig opinberlega um morkna innviði bæði ESB og ECB.  Hann er í raun og veru að segja, að framkvæmdastjórn ESB og bankastjórn evrubankans, ECB, hafi látið reka á reiðanum og ekki haft bein í nefinu til að halda sjó í stormviðrum og miklum þrýstingi frá stjórnmálamönnum, forstjórum og bankastjórum í aðildarríkjunum, þegar framkvæmdastjórn og bankastjórn bar skylda til að standa vörð um grundvallaratriði, sem njörvuð höfðu verið niður í samningum á milli aðildarríkjanna.  Með þessu hafi þeir grafið svo undan trausti á Evrópusambandinu og evrunni, að hvort tveggja sé nú sært til ólífis. 

Hér eru þessir tveir sjúklingar, ESB og ECB, úrskurðaðir dauðvona án lífsvonar.  Náið samband ólíkra ríkja Evrópu er að leiða til skilnaðar, af því að siðferðiskenndin er ólík og ósamrýmanleg.  Það er andstætt mannlegu eðli, að svo ólíkt hugarfar, sem hér um ræðir, geti deilt sömu örlögum.  Martin Luther var að breyttu breytanda talsmaður sömu viðhorfa og grundvallarafstöðu og Otmar Issing.  Það verður að halda sig við Bókina í fjölþjóðasamstarfi, en prelátarnir mega ekki túlka hana út og suður að eigin vild, og slíkt hefur þá alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Upp úr þessu umróti gætu risið "Suður-Kirkjan" og Norður-Kirkjan" með fríverzlunarsvæði og sameiginlega mynt innbyrðis og viðskiptasamning sín á milli.  Bretland mun standa utan við báðar Kirkjurnar með sitt sterlingspund og fríverzlunarbandalag með þeim, sem ekki kæra sig um að vera í fyrrgreindum tveimur "Kirkjum" og auðvitað viðskiptasamning við þær. 

Hvar halda menn, að Ísland eigi bezt heima í þessu tilliti ?  Væri ekki ráð að staldra við, leyfa þróun Evrópu að hafa sinn gang og umrótinu að linna áður en gösslazt er út í viðræður við samband á fallanda fæti ?  ESB hefur hvort eð er lýst því yfir, að engin ný ríki verði tekin inn fyrir 2020.  Það er fullkomin tímaskekkja af tilteknum stjórnmálaflokkum á Íslandi að ræða það af tilfinningaþrunginni alvöru dag eftir dag í stjórnarmyndunarviðræðum að láta þjóðina kjósa um framhald aðildarviðræðna eða um aðild að ESB.  Verði sú reyndin, verður hlegið um alla Evrópu, þótt Evrópumönnum sé sízt hlátur í hug, þegar talið berst að ESB.   


Hrakfarir uppboðsleiðar

Það er sláandi, að stjórnmálaflokkarnir, sem nú vilja biðja þjóðina um leyfi til að senda inn öðru sinni umsóknarbeiðni til Evrópusambandsins, ESB, hafa allir boðað, að þeir muni á nýhöfnu kjörtímabili berjast fyrir byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætla þeir að kasta fyrir róða núverandi aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali, sem þó hefur umbylt stöðu sjávarútvegs til hins betra, skiljanlega þó ekki án fórna, fyrna, þ.e. þjóðnýta aflahlutdeildir, og bjóða þær upp. 

ESB hefur að vísu ekki tekið upp þetta kerfi, en sjávarútvegurinn hér mun komast á vonarvöl, þ.e. á ríkisframfæri, eins og hann er í ESB-löndunum, með þessari fáránlegu þjóðnýtingu, sem er bylting í anda bolsévismans. Í Færeyjum yrði engin þjóðnýting, þótt Færeyingar mundu innleiða uppboðsleið, því að aflahlutdeildir útgerðanna renna úr gildi þar á næsta ári samkvæmt ákvörðun, sem mun hafa verið tekin af Lögþinginu árið 2008.  Í Færeyjum má þó vænta harðra deilna um það, hvort fara á "íslenzku leiðina", "uppboðsleiðina" eða einhverja aðra leið en sóknardagaleið, sem þeir hafa gefizt upp á, ef rétt er skilið.

Á Íslandi virðist "uppboðsleið" aðallega njóta fylgis í pósthólfi 101, á meðal stjórnmálaforkólfa á höfuðborgarsvæðinu og á meðal fáeinna fræðimanna, sem þó eru hvorki sérfræðingar í sjávarútvegsfræðum né í fiskihagfræði. 

Á meðal fólks, sem vinnur í sjávarútvegi, virðist enginn stuðningur vera við "uppboðsleið", hvorki á meðal sjómanna, fiskvinnslufólks né útgerðarmanna.  Þannig hafa forystumenn sjómanna tjáð verulegar áhyggjur sínar af hag umbjóðenda sinna, verði þessari allsendis óþörfu félagslegu tilraunastarfsemi hleypt af stokkunum.  Þeir, sem íhuga afleiðingar "uppboðsleiðar", gera sér glögga grein fyrir því, að atvinnuöryggi í sjávarútvegi getur aðeins versnað við að hverfa frá aflahlutdeildarkerfi til "uppboðsleiðar".  Fyrirtæki, sem annars eru grunnstoðir hinna dreifðu byggða, munu veikjast, og þar með munu mörg sveitarfélög óhjákvæmilega veiklast.  "Uppboðsleið" er þannig aðför að íslenzkum sjávarútvegi og hinum dreifðu byggðum landsins.

Það þarf hins vegar ekki að ímynda sér neitt í þessum efnum, því að það vill svo til, að nokkur reynsla er þegar komin á "uppboðsleið", og hún er svo neikvæð, að með endemum er, að nokkur heilvita maður skuli mæla með innleiðingu hennar á Íslandi og að þar í bendu skuli vera a.m.k. 4 stjórnmálaflokkar, þ.e. Píratahreyfingin, Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn. Er það tilviljun, að þetta eru sömu stjórnmálaflokkarnir og stefna leynt og ljóst að innlimun Íslands í Evrópusambandið ?

Þann 13. október 2016 birtist í Fiskifréttum afar fróðleg grein aftir Sigurð Stein Einarsson,

"Er uppboðsleiðin raunhæf ?".  Þar greinir hann frá tilraunum nokkurra þjóða með "uppboðsleið", sem allar eru á eina lund:

eftir skamma hríð hurfu þær frá "uppboðsleiðinni".  Hér verður gripið niður í greininni:

"Eistar buðu upp 10 % aflaheimilda á árunum 2001-2003.  Árið 2003 var árangurinn af uppboðskerfinu metinn, og var niðurstaðan fjarri því að vera jákvæð.  Uppboðskerfið var talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, orðið til þess, að smærri fyrirtæki urðu gjaldþrota og leitt til stórminnkandi starfsöryggis sjómanna.  Fyrst og fremst af þessum ástæðum var ákveðið að hætta uppboðum á aflaheimildum."

Þetta er nákvæmlega það, sem andstæðingar "uppboðsleiðar" hérlendis hafa varað við, að gerast mundi.  Það er í raun borðleggjandi, og reynsla Eista staðfestir það.  Hérlendis eru samt "spekingar", sem fullyrða á grundvelli skrifborðsvinnu sinnar einvörðungu, að "uppboðsleið" sé bezta leiðin til að hámarka skatttekjur ríkissjóðs af sjávarafla.  Þetta stenzt ekki í raun:

"Í austurhluta Rússlands stóð einnig yfir uppboð á aflaheimildum 2001 til 2003.  Vonir stóðu til, að leiðin myndi auka hlut ríkisins í auðlindarentunni, auka gagnsæi varðandi úthlutun á fiskveiðiheimildum og gera atvinnugreinina arðbærari, t.d. með fækkun fiskiskipa.

Aflaheimildirnar, sem boðnar voru út, voru í Austur-Rússlandi og Barentshafi.  Í austurhluta Rússlands störfuðu 160´000 manns við sjávarútveg hjá 1´500 fyrirtækjum.  Mikilvægi sjávarútvegsins í þessum hluta landsins var ótvíræður, og stóð hann undir 27 % allrar framleiðslu á Primorsky-skaga og 55 % framleiðslu á Kamtsjatka.

Árið 2001 var boðin upp 1,0 milljón tonna og 1,2 milljónir tonna árið 2002.  Ekki seldist allt, sem fór á uppboð, en tilboðin í heimildirnar reyndust mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.  Ríkið fékk í sinn hlut miaISK 20,3 árið 2001, miaISK 29,6 2002 og miaISK 38,6 2003.  Bar þetta ekki vitni um stórkostlegan árangur ?

Hér heima hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðarinnar lítill gaumur verið gefinn.  Einblínt er á aukinn hlut ríkisins í auðlindarentunni, en ótrúlega lítið er fjallað um áhrif uppboðsleiðarinnar á sjávarbyggðir. Hafa verður í huga, að sjávarútvegsfyrirtæki eru meginstoðir atvinnulífs víða á landsbyggðinni og starfsmenn þeirra á sjó og í landi drjúgur hluti íbúa.  Starfsgrundvöllur fyrirtækjanna skiptir því samfélögin afar miklu máli, en aflaheimildunum byggja þau tilvist sína á. 

Sjávarútvegur í austurhluta Rússlands skilaði miaISK 6 hagnaði árið 2000.  Dramatískur viðsnúningur átti sér hins vegar stað 2001; tap varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu, sem nam miöISK 6.  Upplýst var, að árið 2001 væru 90 % sjávarútvegsfyrirtækja á umræddu svæði þegar illa stödd og jafnvel á barmi gjaldþrots.  Þá hófu sveitarfélög á uppboðssvæðinu strax 2001 að kvarta sáran, því að uppboðskerfið leiddi til þess, að 96 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnu til ríkisins, en einungis 4 % til sveitarfélaga.  Áður höfðu 34 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnið til sveitarfélaga. 

Skuldir sjávarútvegsins á svæðinu fóru úr 30 % af framleiðsluverðmæti ársins 2000 í 66 % af framleiðsluverðmæti ársins 2002, en sú þróun bendir ótvírætt til þess, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi boðið of hátt verð í þær heimildir, sem boðnar voru upp.  Fyrir lá, að kvótakaupin voru fjármögnuð með lánsfé, og skuldsetning fyrirtækjanna jókst því hratt.  Fyrir félögin skipti öllu að verða sér úti um kvóta, og sum þeirra gripu til þess ráðs að selja eignir til að fjármagna kvótakaup."

"Uppboðsleiðin" á Íslandi hefur ekki verið útfærð til hlítar, en það má gera því skóna, að þessar lýsingar frá útlöndum megi í miklum mæli heimfæra á Ísland.  Aflahlutdeildarhafar, sem missa kvóta, munu í örvæntingu teygja sig upp í rjáfur á uppboðsmarkaði til að afla sér og sínu fólki lífsviðurværis.  Minni fyrirtækin munu þurfa að skuldsetja sig, og þau munu sennilega fara á hausinn, hvort sem þau hreppa rándýrar aflaheimildir eða sitja eftir slyppar og snauðar.  Útgerðum mun þess vegna á skömmum tíma fækka um nokkur hundruð, e.t.v. 400. 

Eignastaða útgerðanna stórversnar vegna afskrifta aflahlutdeilda og skuldsetningar við kaup aflahlutdeilda, sem rifnar voru af þeim.  Tekjur rýrna með minnkandi aflaheimildum.  Atvinnuöryggi á sjó og í landi fellur undir velsæmismörk.  Mörg minni sjávarplássin munu sjá skriftina á veggnum, og kvótatilflutningur í fortíðinni verður hjóm eitt hjá hörmungunum, sem "uppboðsleiðin" leiðir af sér.  Fræðimenn hafa reyndar sýnt fram á, að kvótakerfið sjálft hafi haft óveruleg áhrif á byggðaþróun Íslands umfram þau áhrif, sem gríðarlegur aflasamdráttur hafði að ráði Hafrannsóknarstofnunar. 

Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og hafa gert frá 1990.  Íslenzkur sjávarútvegur berst nú í bökkum á erlendum fiskmörkuðum í argvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg, sem yfirleitt greiðir engin veiðigjöld. Hátt gengi ISK fækkar krónum í kassann og dregur mjög úr hagnaði. 

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skapað umgjörð góðrar umgengni við auðlindina, betri en önnur fiskveiðistjórnunarkerfi megna.  "Uppboðsleiðin" felur ekki í sér sambærilega hvata til góðrar umgengni um veiðistofnana og aflahlutdeildarkerfið.  Verðmætasköpun aflahlutdeildarkerfis og vísindalega ákvarðaðs aflamarks í hverri tegund er meiri en nokkurra annarra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, og þess vegna er skattsporið stærst með aflahlutdeildarkerfinu, og þar af leiðandi innbyrðir samfélagið mest í sameiginlega sjóði með aflahlutdeildarkerfi og frjálsu framsali aflahlutdeilda á skip.  Hvers vegna að umbylta kerfi, sem gefur mest ?  Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey sá enga ástæðu til þess í viðamikilli úttekt á stjórnarháttum og hagkerfi fyrir örfáum árum, og slíkt er í raun ekki tilraunarinnar virði og væri hið versta glapræði, eins og hér hefur verið rakið. Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 


Lýðveldinu brugguð launráð

Tilburðir stjórnarandstöðu til að stilla saman strengi um ríkisstjórnarmyndun eru skrýtnar út frá lýðræðislegu sjónarmiði.  Í löndum, þar sem slík blokkamyndun á sér stað, fer hún fram á þingum landanna, en hér var blásið til lokaðs fundar flokksbroddanna að viðstöddu fjölmiðlafólki utan dyra, en ekkert bitastætt upplýst um efni fundanna. Upphaflega hugmynd Pírataklíkunnar mun hafa verið að skrifa stjórnarsáttmála og kynna hann þjóðinni fyrir kosningar, en ekkert kom.  Um þessa uppákomu skyni skroppinnar stjórnarandstöðu má hafa þau orð, að fjallið tók jóðsótt, en út kom lítil mús. 

Óhjákvæmilega virðast þessir flokksbroddar gera lítið úr vilja kjósenda og gefa sér eitthvað fyrirfram í þeim efnum, sem engri átt nær.  Það eru t.d. áhöld um, hvort tvær þessara flokksnefna fá yfirleitt kjörna fulltrúa á þing 29. október 2016.  Fylgi þeirra er svo lítið, að þeir eiga ekki nokkurt erindi í ríkisstjórn.  Loddararnir ætla greinilega ekki að taka nokkurt tillit til vilja kjósenda frekar en fyrri daginn, t.d. höfnun óskar þingflokks Sjálfstæðisflokksins sumarið 2009 um þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort sækja ætti um aðild Íslands að ESB. 

Maður er nefndur Hjörleifur Guttormsson, er náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra á vegum flokksins.  Hann er m.a. þekktur fyrir skarplegar greiningar á stjórnmálaástandinu hérlendis og erlendis, og grein hans í Morgunblaðinu, 25. október 2016,

"Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018 ?",

sýnir, að samloðun Pírataklíkunnar, fallhættuflokkanna Bjartrar framtíðar og Samfylkingar, fullveldissvikaranna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði og varadekksins Viðreisnar, felst í þráhyggjunni um stjórnarskrárbreytingar til að opna fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, og að knýja síðan á um endanlega aðlögun Íslands að ESB eftir að hafa kollvarpað íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem allir téðir stjórnmálaflokkar, að varadekkinu meðtöldu, virðast sammála um, þó að vöflur séu á VG í þeim efnum. Ætlunin er að brjóta miskunnarlaust niður bólvirki fullveldisins, þar á meðal grunnstoðir atvinnulífsins, til að ryðja braut örvæntingarfullra Íslendinga inn í "hið brennandi hús". 

Nú verður vitnað ótæpilega í téða grein Hjörleifs:

"Átökin um aðild [að ESB - innsk. BJo] héldu hins vegar áfram hérlendis og voru fyrir alþingiskosningarnar 1999 bakgrunnurinn í uppstokkun flokka á vinstri væng, þegar til urðu Samfylkingin og Vinstri grænir. Allar götur síðan hefur Samfylkingin gert ESB-aðild að þungamiðju sinnar stefnu, en VG hafnaði aðild frá upphafi. Við það var staðið til vors 2009, en þá var merkið fellt með sögulegum svikum af hálfu forustu VG við myndun ríkisstjórnar að afstöðnum kosningum.  Um þau efni og framhaldið í kjölfar aðildarumsóknar að ESB í júlí 2009 geta menn lesið í nýútkominni bók Jóns Torfasonar, skjalavarðar, Villikettirnir og vegferð VG."

Það gekk ekki hnífurinn á milli Steingríms J. Sigfússonar og Katrínar Jakobsdóttur, formanns og varaformanns VG, vorið 2009, þegar þau ráku rýtinginn í bak fjölda stuðningsmanna VG með því að svíkja eiðstafinn um að verja fullveldi Íslands með kjafti og klóm.  Þau fórnuðu þessari fornu kjölfestu VG fyrir ráðherrastólana um leið og þau lugu að kjósendum fyrir kosningar 2009, því að þessu var handsalað á milli flokkanna fyrir þær. 

Eftir þennan viðbjóðslega valdastreitugjörning má segja, að Katrín hljóti að hafa teflon-húð, því að hún er að skora nokkuð hátt í vinsældakönnunum enn þá.  Hún bítur þó höfuðið af skömminni með því að gera út á traust í þessari kosningabaráttu, haustið 2016, því að hún er ekki traustsins verð fyrir 5 aura. Eftir aðdraganda kosninga 2009 og gjörninga Teflon-Kötu í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms 2009-2013, ætti hún réttu lagi að vera rúin trausti. 

"Aðvörunum um framtíð ESB hefur rignt yfir undanfarið; síðasti skellurinn yfirlýsingar þýzka hagfræðingsins Otmar Issing (f.1936), eins helzta hugmyndafræðingsins að baki evrunnar og frá 2006 forseti Centre for Financial Studies (CFS) við Göthe-háskólann í Frankfurt.  Viðtal við hann undir fyrirsögninni: "Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja", (sjá Viðskiptablaðið, 20. október 2016) hefur farið sem eldur í sinu um fréttaheiminn.  Hann segir þar framkvæmdastjórn ESB í Brüssel vera "pólitíska ókind" og Seðlabanka evrunnar "á hálli leið til Heljar".  Evran segir hann, að hafi verið misheppnuð frá fyrsta degi, og raunar áður en hún varð til."

Það sætir pólitískum jarðskjálfta, þegar virtasti hagfræðingur Þýzkalands kveður upp dauðadóm yfir evrunni.  Skilningssljóir á Íslandi á hina stjórnmálalegu þróun eru í afneitun, þegar þeir boða landsmönnum enn fagnaðareindið um inngöngu Íslands í ESB til að geta kastað ISK fyrir róða og tekið upp mynt Evrópusambandsins, evruna.  Þessa pólitísku afneitun er aðeins hægt að skýra með heimsku, og dómgreindarleysi er ein birtingarmynd heimskunnar.  Sumir fulltrúar þessarar heimsku hafa setið á svikráðum við þjóð sína á Litlu-Brekku í Bakarabrekkunni í 101-Reykjavík undanfarið til að leggja á ráðin um að smygla henni í faðm kommissaranna í Brüssel, ef hún glepst á fagurgala lygamarðanna.

"Það er þetta Evrópusamband, sem núverandi stjórnarandstaða og Viðreisn vilja leiða Ísland inn í á fullveldisafmælingu 2018.  Þetta hefur verið staðfest með lítils háttar blæbrigðum af talsmönnum flokkanna í kosningasjónvarpi RÚV undanfarið, og helzta bindiefnið á milli þeirra er að fá þjóðina til að samþykkja að taka á ný upp aðildarviðræður við ESB og knýja jafnframt fram stjórnarskrárbreytingar, sem heimili slíka aðild. 

Enginn hefur kveðið fastar á um þetta en Össur Skarphéðinsson, sem sagði 18. október 2016, að í utanríkismálum legði Samfylkingin mesta áherzlu á, "að við höldum áfram aðildarumsókninni, ekki sízt vegna þess, að við viljum taka upp nýjan gjaldmiðil; við teljum krónuna hafa gengið sér til húðar.  Í sama þætti sagði Ari Trausti frá VG, "að ef það kemur upp ósk um að taka upp aðildarsamningana eða starta nýjum, þá auðvitað tökum við þátt í því."

Hér vekur Hjörleifur máls á samsæri, sem ESB-flokkarnir vildu gera fyrir kosningarnar 29. október 2016 um að ryðja brautina fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Við fengum ekkert að vita eftir Litlu-Brekku-fundinn 27. október 2016, eins og forsætisráðherraefnið og falsstærðfræðingurinn Smári McCarthy þó hafði lofað tveimur dögum áður, en það gæti verið vegna þess, að umræðuefnið þolir ekki dagsljósið, eins og nú standa sakir. 

Hvað skyldi Otmar Issing segja um þann fíflagang fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, hins digra Össurar, sem enginn hefur þó borið brigður á, að er doktor í kynlífi laxfiska, að Íslandi ríði nú á að kasta ISK og innleiða EUR ?  "Wahnsinn" mundi líklega hrökkva af vörum hans. 

"Hvernig sem því máli er háttað [örlögum aðildarumsóknar, sem Alþingi samþykkti 16.07.2009], er ljóst, að hugsanleg vinstri stjórn með aðild Pírata hyggst knýja á um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem drjúgur meirihluti Íslendinga, sem afstöðu taka samkvæmt skoðanakönnunum, hefur verið andvígur um langt árabil."

Hjörleifur Guttormsson þekkir flárátt eðli vinstri manna.  Þeir munu ríða gandreið á Pírataeinfeldingunum og hafa þá sem gólftusku sína í hugsanlegu stjórnarsamstarfi.  Hjörleifur á þakkir skildar fyrir að vekja athygli kjósenda á hinni raunverulegu og yfirvofandi hættu ("clear and imminent danger"), sem landinu stafar af þeim, sem sitja á svikráðum við alþýðu manna, eins og á kjörtímabilinu 2009-2013.

Nú kemur rúsínan í pylsuendanum hjá Hjörleifi Guttormssyni:

"Fráhvarf forystu Vinstri grænna frá upphaflegri andstöðu við ESB-aðild er annað og djúpstæðara en almenningur gerir sér grein fyrir. Eftir að einarðir ESB-andstæðingar höfðu einn af öðrum hrakizt úr þingflokki VG, hljóðnuðu andstöðuraddir forystumanna, sem eftir sátu, við ESB-aðild.  Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009, minnist ég þess ekki, að Steingrímur J., sem formaður, eða arftakinn, Katrín Jakobsdóttir, hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.  Klisjunni virðist eingöngu hafa verið viðhaldið til að villa á sér heimildir og til að missa sem fæsta eindregna andstæðinga ESB-aðildar út úr röðunum.  Öðru vísi verður ekki útskýrð þögn þessa fólks í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið.-

Það sama er uppi á teninginum nú í aðdraganda kosninga.  Í kosningaáherzlum VG, eins og þær birtast á heimasíðu flokksins, er ekki að finna stakt orð um Evrópusambandið, af eða á.  Þurfum við frekari vitnana við ?"

Hér höfum við það "directly from the horse´s mouth", að Vinstri hreyfingin grænt framboð siglir undir fölsku flaggi "í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið", og formaður flokksins, Teflon-Kata, ber kápuna á báðum öxlum.  Hún bítur svo höfuðið af skömminni með því að fara nú fram undir merkjum "trausts".  Þetta er eitt versta fláræðið í nafni valdasýki, sem sézt hefur á Íslandi í háa herrans tíð. 

Kröfuhafar og aflandskrónueigendur fara ekki í grafgötur um, hvað í uppsiglingu er hér á Íslandi nú og hafa fengið "blod på tanden" við tilhugsunina um, að Teflon-Kata stefni nú hraðbyri í stól forsætisráðherra með eintómar liðleskjur og afturúrkreistinga í hirðinni.  Um þetta segir m.a. í forystugrein Morgunblaðsins 26. október 2016, "Aprígöbb í október og ein alvörufrétt":

"Önnur frétt, sem hefur enn meiri þunga, var birt í gær í Financial Times.  Hún hefur ekki náð sömu athygli og allt fyrrnefnt sprikl.  Þar má lesa, að hinir frægu kröfuhafar, sem haft hafa fjölmörg handbendi hér á sínum snærum, bindi vonir við kosningarnar.  Þeir telja, að núverandi stjórnarflokkar hafi haft óþægilegt sjálfstraust í samningum við kröfuhafa síðustu misserin.  Þeir spá upplausn í landstjórninni eftir kosningarnar, og að veik ríkisstjórn sé í burðarliðnum, og binda raunir vonir við það.  Helzt mundu þeir sjálfsagt vilja, að slík ríkisstjórn skartaði Steingrími J. Sigfússyni innanborðs.  Þá gætu kröfuhafar á ný farið að tala um "silfurfatsstjórn" á Íslandi."

Bezti varnarleikur íslenzkra kjósenda laugardaginn 29. október 2016 gegn því, að kröfuhafar föllnu bankanna og aflandskrónueigendur fái hér ríkisstjórn á silfurfati er að styðja Sjálfstæðisflokkinn til að berjast í fremstu víglínu fyrir hagsmunum Íslands.

Skjaldarmerki lýðveldisinsListakjörh_my_pictures_falkinn 

 

 


Er bankahrun í vændum ?

Það er engum blöðum um það að fletta, að ástand fjármálamarkaða heimsins er óeðlilegt.  Í tæplega 6 ár hafa stýrivextir stórra seðlabanka verið niðri við núllið eða jafnvel undir því.  Þrátt fyrir þetta og peningaprentun í þokkabót með miklum kaupum seðlabanka á misjöfnum skuldabréfum, hefur ekki tekizt að koma hjólum efnahagslífsins í gang, og það hillir ekki undir það, nema síður sé. 

Suður-Evrópuþjóðirnar taka við þessar aðstæður hagstæð lán og bæta þar með á ódýran hátt við skuldasúpu sína, en hvað gerist, er vextir hækka á ný ?  Gríska ríkið er í raun nú þegar í greiðsluþroti, og ítalska bankakerfið er mikið áhyggjuefni og talið standa tæpt.  Það er svo stórt, að björgun þess verður stöðugleikasjóði evru-landanna um megn. 

Fórnarlömb lágvaxtaskeiðs eru innlánseigendurnir.  Þeir eru æfir yfir að fá ekki umbun fyrir sparnað sinn, eins og þeir eru vanir.  Þarna skilur algerlega á milli Evrópu sunnan og norðan Alpafjalla.  Af þessum sökum magnast nú  spenna og ágreiningur um peningamálastefnuna á milli Norður-og Suður-Evrópu.

Pieter Omtziegt, hollenzkur þingmaður í Kristilega demókrataflokkinum, hefur kallað ECB-evrubankann Miðjarðarhafs-seðlabanka, sem nú reki þá stefnu að dreifa auði frá norrænum sparendum til suðrænna spreðara. 

Í þýzka dagblaðinu, Die Welt, hefur íhaldssamur hagfræðingur, Hans-Werner Sinn, fullyrt, að lágir vextir hafi nú kostað Þýzkaland 327 milljarða evra.  Þetta eru 12 % af VLF/ár Þýzkalands, og þess vegna ljóst, að verulega svíður undan, þótt ekki komizt þessi fjármagnsflutningur í hálfkvisti við stríðsskaðabætur Versalasamninganna, enda má nú fyrr rota en dauðrota. Það á ekki af Þjóðverjum að ganga. 

Í annarri grein um þetta efni vitnaði Die Welt í áætlun DZ bankans í Þýzkalandi um, að eftir að hafa búið í 6 ár við lága vexti muni "meðal-Þjóðverjinn" hafa tapað 2450 evrum í árslok 2016, eða u.þ.b. 320 þúsund ISK á lágvaxtastefnu evrubankans.  Á þýzka meðalfjölskyldu nemur þetta um MISK 1,0, svo að það er tekið að svíða undan.   

Þjóðverjar leggja fyrir 17 % af ráðstöfunartekjum sínum. Hollendingar leggja fyrir 14 % ofan á iðgjöld til lífeyrissjóða, þar sem nú eru 1300 milljarðar evra, sem er tvöföld landsframleiðsla þeirra.  Á Íslandi nema eignir lífeyrissjóða um 1,5-faldri VLF. Hollendingar og Íslendingar eru líklega einu þjóðirnar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, sem búa nú við fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi. Íslendingar búa svo vel eftir síðasta frumkvæði og átak ríkisstjórnarinnar við fjármögnun lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins.   

Í Þýzkalandi eru um 80 % af eignum heimilanna á sparnaðarreikningum, í réttindum í líftryggingafélögum eða í lífeyrissjóðum.  Ávöxtun þessara eigna er eðlilega mjög háð vaxtastiginu í landinu, og langvinnt lágvaxtaskeið skapar þess vegna eldfimt þjóðfélagsástand í Þýzkalandi, eins og nú þegar er orðin raunin.  Formaður AfD hefur sagt, að Angela Merkel muni þurfa að flýja land, þegar hún hrekst frá völdum.  Það er þó allt of langt gengið og algerlega óviðeigandi að bera ástandið saman við árið 1945, eins og heyrzt hefur.   

Í Þýzkalandi búa flestir í leiguhúsnæði. Í Suður-Evrópu nema eignir íbúanna í fjármálakerfinu aðeins um 20 % af heildareignum þeirra, af því að þar er mun algengara, að fólk búi í eigin húsnæði. 

Nýlega bárust hollenzkum félögum í lífeyrissjóðum slæm tíðindi, sem rekja má til lélegrar ávöxtunar lífeyrissjóðanna.  Lífeyrisgreiðslur munu að líkindum verða skertar árið 2017, og iðgjöldin verða hækkuð. Við þessar aðstæður er skiljanlegt, að íbúarnir, margir hverjir, gjaldi varhug við flóðbylgju flóttamanna, sem verða munu þungir á fóðrum sameiginlegra sjóða, því að þeir eiga mjög langt í land aðlögunar til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Lágvaxtastefnan kemur hart niður á lífeyrissjóðunum.  Fjármögnun ellilífeyris er verða að stórfelldu þjóðfélagslegu vandamáli víðast í Evrópu utan Íslands.

Annað umræðuefni í þessu sambandi er efnahagslegt ójafnræði íbúanna.  Í nýrri bók eftir hagfræðinginn Marcel Fratzscher fullyrðir hann,  að 40 % íbúa Þýzkalands, þeir sem minnstar eignir eiga, eigi minna en nokkurs staðar þekkist annars staðar á evrusvæðinu. Þetta er m.a. vegna þess, hvernig húsnæðismálum er háttað í Þýzkalandi og áður er á drepið. Sannast hér enn og aftur, hversu skynsamleg ráðstöfun það er að hálfu yfirvalda, t.d. á Íslandi, að hvetja með raunhæfum aðgerðum til einkaeignar á húsnæði.  Skilur hér greinilega á milli hægri og vinstri manna. 

Af þessum sökum hefur grafið um sig djúpstæð óánægja í Þýzkalandi með núverandi vaxtastig í landinu, því að það mun fyrirsjáanlega enn auka á fjárhagslegt og þar af leiðandi félagslegt ójafnræði þegnanna.  Fjármálageirinn hefur þess vegna stjórnmálalegan bakhjarl, þegar hann nú þrýstir á ríkisstjórnina í Berlín, sérstaklega á fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, að taka sér nú á raunhæfan hátt stöðu með sparendum, sem eru reyndar taldir siðferðisleg og fjárhagsleg kjölfesta Þýzkalands frá fornu fari. 

"Þetta er í fyrsta skipti, sem fólk og fyrirtæki í Norðrinu verða fyrir skakkaföllum af völdum evru-vandræðanna",

segir Guntram Wolff hjá Brügel, ráðgjafarstofnun (Think Tank) í Brüssel. 

Hérlendis hefur yfirvofandi hætta á fjármálamörkuðunum ekki farið framhjá mönnum, og þess mátti sjá stað í forystugrein Morgunblaðsins, 27. september 2016:

"Aðvörunarmerki hræða"

"Evrusvæðið er í ógöngum.  Við bætist stjórnmálalegt uppnám álfunnar.  Það eykur vandann, að staða kanzlara Þýzkalands og forseta Frakklands hefur veikzt síðustu misseri. Þessi tvö, Merkel og Hollande, hafa verið raunverulegir stjórnendur álfunnar. ["Wir schaffen das"-innsk. BJo.] Bakland þeirra heima brast hins vegar hjá báðum og þar með myndugleikinn gagnvart öðrum ESB-ríkjum.  Stórmál hrannast upp, og vottar ekki fyrir lausnum. Efnahagur Ítalíu er við þolmörk." ....

"Það sýnir, hve ástandið er kvikt, að vandamál eins banka í Þýzkalandi veikti alla markaði álfunnar.  Hlutabréf í Deutsche Bank hafa fallið mjög að undanförnu og tóku enn nýja dýfu í gær.  Þau eru nú þriðjungi lægri en þau lögðust lægst í bankakreppunni 2007-2009.  Síðasta ógæfa þýzka bankans var sú, að bandarísk dómsmálayfirvöld gerðu honum að greiða miaUSD 14 í sekt fyrir vafasama viðskiptahætti.  Verð bréfa í bankanum hafa lækkað um meira en helming, það sem af er ári."

Þessi lýsing á ástandinu í kjölfestulandi evrunnar, Þýzkalandi, sýnir verra efnahagsástand á evrusvæðinu en þar hefur orðið áður í hennar sögu. Fjármálakerfið þar nálgast nú hengiflugið, og evran mun ekki standa af sér bankahrun í Þýzkalandi, því að þýzka útflutningsvélin hefur hindrað enn hraðari lækkun evrunnar en reyndin hefur orðið.

Hælisleitendur hafa í þokkabót grafið undan stjórnmálalegum stöðugleika í landinu, og forsetakosningar í Frakklandi 2017 gera að verkum, að ekki er að vænta róttækra aðgerða til lausnar á efnahags- og þjóðfélagsvanda.  Það verður flotið sofandi að feigðarósi, enda Bretar á förum úr ESB, og þegar þangað er komið, verður neyðarástand á meginlandinu. 

Þá er nú betra, og reyndar bráðnauðsynlegt, ef forðast á öngþveiti á Íslandi, að við stjórnvölinn  í Stjórnarráðinu sé hæft fólk, sem hefur vit á fjármálum, er með tengsl erlendis og með getu til að stjórna þjóðfélagi í háska.

Um þetta ritaði "Innherji" í Viðskipta-Moggann, 29. september 2016 með vísun í íslenzkt forystufé:

"En það er fleira en fé, sem er til forystu fallið, að eigin mati í það minnsta.  Nú fer í hönd sú tíð, að forystufólk íslenzkra stjórnmála lítur yfir hjörð sína og hristir sig, svo að hátt lætur í bjöllum þess, í yfirfærðri merkingu.  Þótt stillt sé, að því er virðist, geta veður skipast fljótt í lofti, og hjörðin öll verður að geta treyst á að verða leidd til byggða af viti og styrk. Það er því mikilvægara en oft áður, að val á þeim, sem forystan verður falin, sé yfirvegað og byggt á reynslu og getu þeirra, sem koma til greina."

 

 

 


Vaxandi spenna í Evrópu

Niðurstöður nýlegra fylkiskosninga í Þýzkalandi sýna, að geð kjósenda er verulega tekið að grána.  Ein ástæðan er hár kostnaður við móttöku framandi hælisleitenda, frumstæð hegðun þeirra og slæmt heilsufar margra flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, en einnig er mjög vaxandi óánægja með ofurlága vexti, sem margir Þjóðverjar, Austurríkismenn, Hollendingar o.fl. telja til þess fallna að flytja mikla fjármuni frá sparendum í norðri til skuldara í suðri.

Vaxandi fylgi hægri flokksins, AfD - Alternative für Deutschland, er engin tilviljun, heldur viðbragð kjósenda við þeirri þrúgandi stöðu, að hælisleitendur leggjast af miklum þunga á innviði Þýzkalands, húsnæðisframboð minnkar, og lágir vextir valda óeðlilegum hækkunum á húsnæði í þokkabót, álag á sjúkrahúsin eykst m.a. vegna framandi sjúkdóma, sem fylgt hafa hælisleitendum, og fjöldi atvinnulausra vex úr 2,5 milljónum vegna innflæðis fólks og stöðnunar atvinnulífs, sem lágir vextir og peningaprentun hafa ekki hrinið á. 

Því miður versnar ástandið stöðugt í Sýrlandi, og þurrkar í Norður-Afríku valda uppskerubresti, svo að ekki hillir undir, að hælisleitendur verði fluttir til baka, eins og Angela Merkel þó hefur talað um, að stefnt væri að.  Um hrikalega hegðun hælisleitenda og stórfelld samskiptavandamál er yfirleitt þagað þunnu hljóði enn sem komið er.  Óánægjan fær útrás m.a. með því að kjósa AfD, enda lofast þau til að taka innflytjendamál og "islamvæðingu Evrópu" föstum tökum.   

Víkjum nú að efnahags- og peningamálum ESB með því að styðjast við grein í "The Economist", 30. apríl 2016, "Mario battles the Wutsparer" (Mario [Draghi] berst við reiða sparendur (innistæðueigendur)):

"Þjóðverjar njóta þess að spara.  Þeim finnst siðferðislega rangt að taka lán", segir Reint Gropp, þýzkur hagfræðingur.  Á þýzku og hollenzku þýðir skuld sekt, "Schuld".

Germanskar þjóðir á borð við Þjóðverja, Austurríkismenn og Hollendinga, eiga háar upphæðir á bankareikningum sínum.  Þeir högnuðust þess vegna á háum vöxtum.  Á síðustu árum hafa vextir fallið niður að núlli, og við þessar aðstæður hefur magnazt óánægja í þessum löndum, af því að íbúunum er ekki umbunað fyrir ábyrga fjármálahegðun, og þeir hafa nú fundið blóraböggul: Evrubankinn, ECB, og hans grunsamlegi ítalski formaður bankastjórnar, Mario Draghi. 

Í apríl 2016 réðist þýzki fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, á ECB fyrir neikvæða stýrivexti og peningaprentun og sakaði Mario Draghi um að bera ábyrgð á uppgangi, AfD, sem í fylkiskosningum í sumar stórjók fylgi sitt á kostnað flokks fjármálaráðherrans og kanzlarans, CDU. 

Sannleikurinn er sá, að lágvaxtastefna ECB veldur bönkum á evrusvæðinu mjög miklum erfiðleikum.  Nú hafa t.d. borizt fregnir af veikri stöðu eins stærsta banka Þýzkalands, fjárfestingarbankans Deutsche Bank-DB.  DB stendur í alþjóðlegum viðskiptum, hefur tapað stórum fjárhæðum á þeim og verið ákærður fyrir sviksamlega viðskiptahætti í Bandaríkjunum-BNA, sem geta kostað hann um miaUSD 10 í sektum.  Virði hlutabréfa bankans hefur fallið um meira en helming á rúmu ári, sem þýðir, að ótti hefur grafið um sig um afdrif bankans. 

Upplýsingar um of veika eiginfjárstöðu banka í BNA bætast við fregnir af tæpri stöðu ítalskra banka.  Þetta eru allt aðvörunarmerki um það, að bankakerfi heimsins þoli ekki lágvaxtastefnu stærstu seðlabanka heimsins, og þess vegna gæti orðið nýtt alþjóðlegt bankahrun innan tíðar.  Angela Merkel þorir ekki að koma DB til bjargar af ótta við þýzka kjósendur í kosningum til Bundestag að ári liðnu.  Þetta ástand getur leitt til fyrirvaralauss áhlaups á sparibanka Evrópu, sem leitt getur af sér bankahrun.  Ríkissjóðir flestra ríkja Evrópu eru ekki lengur í stakkinn búnir að hlaupa undir bagga með bönkum, svo að væntanleg bankakreppa verður öðruvísi og víðast líklega enn alvarlegri en 2007-2008. 

Á Íslandi er eiginfjárstaða stærstu bankanna þriggja með traustasta móti, en ef ratar sitja í Stjórnarráðinu, þegar ósköpin dynja yfir, munu þeir örugglega ekki rata á beztu lausnirnar, heldur gætu þeir hæglega magnað vandann með aðgerðarleysi eða örvæntingarfullu fáti með grafalvarlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, sparifjáreigendur og alla landsmenn. Það er vert að hafa þetta sjónarmið ofarlega í huga, þegar gengið verður til kosningu 29. október 2016.

 

 

 

 


Húsnæðismarkaðurinn hér og þar

Það skiptir máli, hvaða stjórnmálaflokkar fara með völd í landinu.  Ef fólk heldur, að glæsileg staða efnahags landsins sé tilviljun, þá er það misskilningur.  Verðmætasköpun atvinnulífsins er undirstaða lífskjara almennings, og þess vegna skiptir rekstrarumhverfið miklu máli, og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga hafa á þetta mikil áhrif.  Við göngum senn til kosninga, og þá er mikilvægt fyrir buddu hvers og eins að taka ekki áhættu með vonarpening og að varast vinstri slysin. Þau hafa alltaf orðið dýrkeypt. Alþingismenn, sem hafa sjónarmið hinnar "hagsýnu húsmóður" að leiðarljósi, eru líklegastir til að ráðstafa sameiginlegu fé kjósenda af skynsamlegustu viti, en stjórnmálamenn, sem lofa öllum öllu eru líklegir til að eyða sameiginlegu fé áður en þeir afla þess og valda hér verðbólgu. Skuldsetning og verðbólga eru fylgifiskar óráðsíu í ríkisfjármálum. 

Húsnæðismálin skipta alla máli, unga sem aldna.  Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mikilvægt er fyrir fjárhag og velferð fjölskyldna að eiga húsnæðið, sem þær búa í.  Að eignast húsnæði hefur alltaf verið erfitt, enda eru húsnæðisbyggingar eða húsnæðiskaup langstærsta fjárfesting flestra yfir ævina.  Fyrir aldraða, sem látið hafa af störfum, er það í raun skilyrði fyrir sæmilegri afkomu að eiga skuldlausa húseign.  Af þessum ástæðum er séreignarstefnan á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, en blekbónda er til efs, að forysta annarra stjórnmálaflokka sé sama sinnis. Vinstri menn hafa horn í síðu eignamyndunar einstaklinga, af því að þeir telja fjárhagslegt sjálfstæði ekki keppikefli, heldur skuli sem flestir þurfa að reiða sig á sameiginlega forsjá hins opinbera.  Slíka telja þeir líklegasta til fylgilags við sameignarstefnuna.   

Óðinn gerði

"Norðurlöndin og staðreyndir um húsnæðisvexti"

að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 15. september 2016:

"Það er líklegt, að eitt stærsta málið fyrir þingkosningarnar, sem fara fram 29. október [2016], verði húsnæðismál, ekki sízt erfiðleikar ungs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið."

Þetta á sér t.d. þær skýringar, að frá aldamótaárinu 2000 til 2013 hækkaði byggingarkostnaður án lóðagjalda um tæplega 20 % á föstu verðlagi.  Skúrkarnir, sem þessu valda, eru hvorki efnissalar né byggingameistarar, heldur aðallega hið opinbera, ríki og sveitarfélög.  Ríkið með hækkun skatta á tímum vinstri stjórnarinnar, en nánast allar skattahækkanir leiða til hækkunar byggingarkostnaðar, ekki sízt hækkun virðisaukaskatts.  Á núverandi kjörtímabili var efra þrep hans hins vegar lækkað úr 25,5 % í 24,0 %, og nefnd stjórnvalda hefur lagt til eitt VSK-þrep, 19 %.  Undir vinstri stjórn verður það áreiðanlega ekki lækkað.  Á núverandi kjörtímabili hafa vörugjöld verið afnumin, sem virkar til lækkunar á byggingarkostnaði.

Þá var sett ný löggjöf af vinstri stjórninni, sem leiddi til breytinga á byggingarreglugerð, sem orsökuðu hækkun byggingarkostnaðar.  Þannig vann vinstri stjórnin að því bæði leynt og ljóst að leggja stein í götu þeirra, sem eignast vildu eigið húsnæði. Ofan af þessu hefur nú verið undið að mestu. 

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, sagði við Vilhjálm A. Kjartansson, blaðamann á Morgunblaðinu, í grein VAK,

"Lóðaverð hækkar byggingarkostnað",

þann 9. september 2016,

"að skipulagsstefnur sveitarfélaga geti haft töluvert að segja um byggingarkostnað". 

Sveitarfélögin, sum hver, eru nú Svarti-Pétur húsnæðiskostnaðarins. Björn bar saman kostnað 100 m2 íbúðar í lyftuhúsi á Akureyri og 115 m2 íbúð í lyftuhúsi í Reykjavík.  Í Reykjavík er kvöð um bílageymslu í bílakjallara, en á Akureyri eru bílastæði leyfð á lóð. 

"Fermetraverð íbúðarinnar á Akureyri er 314 kkr, en 562 kkr í Reykjavík." 

Einingarverðið í Reykjavík er tæplega 80 % hærra en á Akureyri.  Björn Karlsson segir, að bílakjallarinn geti hækkað verð á slíkri íbúð um allt að 5 Mkr.  Hann segir ennfremur, að lóðaverð (tilgreinir ekki hvar) hafi hækkað um 500 % á síðustu 12 árum. Þarna er skúrkurinn fundinn.   

Þessi framkoma yfirvalda við húsbyggjendur er fyrir neðan allar hellur.  Markaðsverð á hvern m2 hækkaði um þriðjung frá árinu 2000-2013, og meginsökudólgarnir eru sveitarfélög (ekki öll) og ríkið, þó að það hafi bætt sig, sbr hér að ofan. Þarna er meðvitað með sérvizkulegri kröfu skipulagsyfirvalda verið að leggja stein í götu húsbyggjenda, sem harðast kemur niður á þeim, sem eru að eignast sitt fyrsta þak yfir höfuðið. Vinstri stefna í hnotskurn. 

 

Sum sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, hreint og beint okra á lóðaúthlutunum.  Þetta er forkastanleg hegðun, sem verst kemur niður á unga fólkinu, sem er að hefja búskap og/eða hefur hug á "að koma sér þaki yfir höfuðið", ætlar með einum eða öðrum hætti að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði. 

Sveitarfélög, sem lóðaokur stunda, gera það með þeim hætti að mynda lóðaskort.  Síðan t.d. bjóða þau út lóðir og selja hæstbjóðanda.  Í Viðskipta-Mogganum 22. september 2016 var t.d. greint frá því, að sami verktakinn hefði hreppt allar lóðirnar í einu útboði og greitt fyrir þær verð, sem svarar til 4,9 Mkr að meðaltali á íbúð.  Þetta er óhæfa. 

Þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, lét hann það verða eitt af sínum fyrstu verkum að afnema lóðaskortinn, sem vinstri meirihlutinn þar hafði framkallað, enda er lóðaskortur óþarfi, þar sem nægt er byggingarland.  Í Reykjavík var þess þá einfaldlega gætt, að framboðið annaði eftirspurninni, og lóðirnar voru boðnar til kaups á verði, sem endurspeglaði kostnað við uppbyggingu hverfis án álagningar. Fyrstur kom, og fyrstur fékk. Þannig eiga sýslumenn að vera, og með þessari stefnu stuðla sveitarfélög að lækkun byggingarkostnaðar, sem er brýnt hagsmunamál almennings í landinu. Það sýnir sig oft, að hagsmunir vinstri flokkanna fara ekki saman við hagsmuni almennings.   

Byggingarkostnaður skiptist nú þannig samkvæmt Hannari og Samtökum iðnaðarins:

  • Framkvæmdarkostnaður       60 %
  • Lóðarkaup                  20 %
  • Fjármagnskostnaður         12 %
  • Hönnunarkostnaður           3 %
  • Annar kostnaður             5 %

Af þessu yfirliti sést, að sveitarfélögin eru í lykilaðstöðu til að lækka byggingarkostnað með því að auka framboð lóða til að mæta eftirspurn og láta lóðirnar af hendi á kostnaðarverði

Fjármagnskostnaðinn er líka unnt að lækka.  Hann markast að nokkru af stýrivöxtum Seðlabankans, sem hefur í 2 ár haldið þeim hærri en peningaleg rök standa til og með því skapað gróðrarstíu spákaupmennsku vaxtamunarviðskipta, sem styrkt hefur gengið enn meir en ella, en gríðarleg gengishækkun í boði Seðlabankans á þessu ári er orðin vandamál fyrir útflutningsatvinnuvegina.  Þess vegna ættu réttu lagi að verða enn frekari vaxtalækkanir á næstu vaxtaákvörðunardögum Seðlabankans. 

Nú verður áfram vitnað í Óðin:
"Viðreisn, stjórnmálaafl Benedikts Jóhannessonar, hefur hamrað mjög á samanburðinum milli vaxta á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum."

Óðinn vitnar síðan í skrif Bjarna Halldórs Janussonar, formanns ungliðahreyfingar Viðreisnar um vexti á Norðurlöndunum, sem Óðinn telur afar villandi.  Staða húsnæðiskaupenda á Íslandi sé í raun traustari en staða húsnæðiskaupenda annars staðar á Norðurlöndunum, þegar til lengri tíma er litið. 

Bjarni Halldór skrifar:

"Lánakjör til fasteignakaupa eru mun hagstæðari á Norðurlöndunum en á Íslandi.  Á Norðurlöndum eru breytilegir vextir á bilinu 1-2 %."

Þetta er augnabliksstaðan, en þegar um lántöku til 25-40 ára með breytilegum vöxtum er að ræða, er út í hött að einblína á núið. Hér er blekking höfð í frammi að hálfu Viðreisnar, sem hefur tilhneigingu til að fegra allt í útlöndum á kostnað Íslands. 

Árið 1995 voru breytilegir vextir í Svíþjóð 8,8 %/ár.  Vextir langtíma húsnæðislána með föstum vöxtum í Danmörku hafa á árabilinu 1998-2016 sveiflazt á bilinu 2,0 %- 8,2 %, og meðaltal þessara vaxta verið 5,2 % í Danmörku.  Meðalvextir húsnæðislána í Danmörku með breytilegum vöxtum eru 2,7 %, en eru nú neikvæðir, -0,23 %, og hafa hæst orðið 6,4 %.  Áfram verður vitnað í Óðin:

"Það, sem ræður vöxtunum í viðkomandi löndum, eru stýrivextir seðlabankanna.  Með töluverðri einföldun má segja, mjög háir og mjög lágir stýrivextir þýði, að eitthvað verulegt sé að efnahagnum á myntsvæði viðkomandi seðlabanka."

Stýrivextir í Danmörku eru núna -0,65 % og í Svíþjóð -0,50 %.  Það er efnahagsstöðnunin í ESB og baráttan við verðhjöðnun í evru-löndunum, sem veldur neikvæðu vaxtastigi í Danmörku og Svíþjóð, en þá þurfa fjármagnseigendur að borga fyrir að setja fé á bankareikninga.  Þeim hefur hingað til verið hlíft við þessu, og þess vegna er afkoma viðskiptabanka í ESB slæm. Á Ítalíu vofir yfir bankahrun.

Þegar flótti fjármagns frá evrunni gerði vart við sig, seldu menn evrur og keyptu danskar og sænskar krónur.  Til að bregðast við þessu og til að vinna gegn stöðnunaráhrifum frá hinum ESB-löndunum lækkuðu seðlabankar Danmerkur og Sviþjóðar stýrivexti meira en dæmi eru um þar.  Hér er Seðlabankinn sem þurs, sem ekki áttar sig á stöðu mála fyrr en um seinan. 

"Þegar að því kemur, að stýrivextir hækka í löndunum tveimur [Danmörku og Svíþjóð], verður til nýtt vandamál.  Þeir, sem hafa keypt húsnæði á svo lágum vöxtum, eins og verið hafa undanfarið, munu sjá greiðslubyrðina snarhækka, enda eru lán með breytilegum vöxtum reglan, en ekki undantekning.  Ekki nóg með það, heldur hefur húsnæðisverð hækkað viðstöðulaust í algjörum takti við lága vexti.  Þetta hefur gerzt víðar í Evrópu."

Það munu alvarlegir timburmenn fylgja í kjölfar hækkunar vaxta á Norðurlöndunum og annars staðar, þar sem þeir eru við núllið núna.  Ástandið núna erlendis er mjög óeðlilegt og mun leiða til fjöldagjaldþrota, þegar vextir hækka á ný.  Að dásama þetta fyrirkomulag ber vitni um heimsku. 

Hvað skrifar Óðinn um afleiðingar óhjákvæmilegra vaxtahækkana ?:


"Eftirspurnin mun minnka, húsnæðisverð lækka, greiðslubyrði hækka, og ástandið gæti orðið ekki ósvipað því, sem var á Íslandi eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008.  Seðlabankar Svíþjóðar og Danmerkur hafa eðlilega miklar áhyggjur af þessu.  Það er óðs manns æði að fara inn á fasteignamarkaðinn víða í Evrópu vegna lágra vaxta, því að fyrr eða síðar, og líklega fyrr en seinna, munu vextir hækka."

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, sem er ályktun Óðins um vitlaus viðmið Viðreisnar og þá um leið annarra evru-hallra stjórnmálaflokka hérlendis, sem allir virðast blindir og heyrnarlausir varðandi það, sem nú er að gerast í Evrópu.

"Það er ábyrgðarmál að segja ungu fólki í dag, að þau muni búa við betri kjör á Norðurlöndunum, þegar staðreyndin er sú, að líklega er hvergi eins bjart fram undan í efnahagsmálum og á Íslandi.  Kaupmátturinn vex hratt, gengi krónunnar styrkist, og atvinnuleysið er horfið.  ...... Það er líka afar sérstakt, að flokkur tryggingastærðfræðingsins Benedikts Jóhannessonar skuli af öllum flokkum halda þessari tálsýn að ungu fólki.  Margur hefði haldið, að hann af öllum mönnum skildi, hvernig umgangast ætti hugtakið vexti.

Nú er reyndar svo komið, að styrking ISK er fremur ógn en tækifæri, því að hún hefur gengið svo langt, að hún er farin að veikja samkeppnishæfni landsins.  Slík veiking mun innan tíðar leiða til minni hagvaxtar, sem kemur niður á lífskjörum og getu ríkissjóðs til að standa undir bættu almannatryggingakerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi o.s.frv. 

Þessi neikvæða þróun er í boði Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem styðst við meingölluð líkön af íslenzka hagkerfinu og virðist skorta hagfræðilegt innsæi og hugrekki til að taka sjálfstæða afstöðu á grundvelli borðleggjandi staðreynda.  Vextirnir eru afkáralega háir m.v. vaxtastigið í heiminum og stöðu íslenzka hagkerfisins.  Þeir þurfa líklega að lækka um 2 %, svo að jafnvægi verði náð.   

Ásalóð (Oslo)

 

   

 


Að hafa asklok (ESB) fyrir himin

Vinstri stjórnin 2009-2013 starfaði eftir hugmyndafræði. Hér verður meginhugmyndafræði hennar gerð að umfjöllunarefni í tilefni af drögum að skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um einkavæðingu tveggja banka 2009-2010, sem er að finna sem viðhengi á þessari vefsíðu. 

Hugmyndafræði Stjórnarinnar yfirskyggði heilbrigða skynsemi og lá að baki atburðarás við umsóknarferli að Evrópusambandinu (ESB), sem hófst með "kattasmölun" á Alþingi í júlí 2009, réði hreinni uppgjöf Svavars Gestssonar gagnvart harðsvíruðum kröfum Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á greiðslum innistæðutrygginga í föllnum íslenzkum bönkum erlendis, og hún stjórnaði undarlegu og óvæntu einkavæðingarferli tveggja nýju bankanna þriggja, sem átti ekki eftir að hafa heillavænleg áhrif á hag skuldugra viðskiptavina gömlu bankanna, sem voru fluttir yfir í nýju bankana með um 50 % afskriftum, sem innheimtust í miklu hærra hlutfalli.

Einkavæðingu þessa bar brátt að, enda var hvorki gert ráð fyrir henni í Neyðarlögunum né í áætlunum FME (Fjármálaeftirlitsins) haustið 2008. Hvers vegna voru tveir nýir ríkisbankar skyndilega afhentir kröfuhöfum föllnu bankanna á silfurfati ?  Svarið er að finna með því að skoða meginhugmyndafræði Stjórnarinnar, sem var þessi að mati blekbónda:

  • Neyðarlögin, sem Alþingi samþykkti haustið 2008 að tillögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, munu hvorki halda fyrir íslenzkum né alþjóðlegum dómstólum, enda sat Vinstri hreyfingin-grænt framboð hjá við afgreiðslu þessararar lagasetningar. 
  • Við (Íslendingar) verðum að friðþægja fyrir þessi lög með því að færa kröfuhöfum föllnu bankanna fórnir í þeirri von, að þeir láti hvorki reyna á gildi Neyðarlaganna hérlendis né erlendis.
  • Með þessari friðþægingu mun sérstaða íslenzku leiðarinnar ("við greiðum ekki skuldir óreiðumanna") minnka, en hún var Evrópusambandinu (ESB) mikill þyrnir í augum.  ESB hafði mótað þá stefnu, að ríkissjóðir í Evrópu skyldu hlaupa undir bagga með bönkunum, og tóku ríkissjóðir margra landa stórlán í þessu skyni, sem þeir eru enn að bíta úr nálinni með.  ESB óttaðist áhlaup á bankana og fall bankakerfis Evrópu, ef þetta yrði ekki gert.  Þess vegna voru yfirvöld á Íslandi, bæði ríkisstjórn Geirs Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur, undir miklum þrýstingi frá leiðtogum ESB og Evrópulandanna.  ESB ætlaði að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að þeir ógnuðu ekki fjármálastöðugleika Evrópu. Jafnvel forseti íslenzka lýðveldisins mátti þola aðför að hálfu forsætisráðherra Dana í tilraun Danans til að knýja fram stefnubreytingu, sem dr Ólafur Ragnar Grímsson lagðist harðlega gegn, eins og enn er mönnum í fersku minni.
  • Með friðþægingunni átti að greiða fyrir hraðferð Íslands inn í ESB, en handjárnaðir þingmenn vinstri stjórnarinnar samþykktu umsókn um aðild 16. júlí 2009 og höfnuðu skömmu áður þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Til að kóróna skrípaleikinn vilja þeir núna þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, sem sigldu í strand 2011.  

Þessi hugmyndafræði er heildstæð og rúmast öll undir askloki Evrópusambandsins, þangað sem vanmáttug vinstri öflin ætluðu að leita skjóls fyrir Ísland í hörðum heimi. Öll var þessi hugmyndafræði afsprengi algers metnaðarleysis fyrir Íslands hönd, enda reist á sandi þekkingarleysis, reynsluleysis, getuleysis, dómgreindarleysis og þjóðhættulegra viðhorfa til fullveldis landsins.   

Þetta er ítarlega rakið í tímabærri skýrslu,

"Einkavæðing bankanna hin síðari",

sem er að finna undir hlekk "skyrsla-12_september_2016.pdf" hér á síðunni, þannig að lesendur geta þar sannreynt, hvort sparðatíningur þeirra, sem nú hafa verið afhjúpaðir, um framsetningu og frágang eigi við rök að styðjast. 

E.t.v. má þó segja, að um drög að skýrslu hafi verið að ræða, þegar hún var upphaflega birt, því að boðuð hefur verið rýni á henni, og hún var síðar kynnt á fundi Fjárlaganefndar.  Hún er samin og gefin út af meirihluta Fjárveitingarnefndar Alþingis, Vigdísi Hauksdóttur, formanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni, Valgerði Gunnarsdóttur, Páli Jóhanni Pálssyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Haraldi Benediktssyni, sem þannig hafa sinnt eftirlitshlutverki sínu, sem oft hefur þó verið vanrækt af nefndum þingsins. 

Meirihlutinn hefur átt á brattann að sækja við efnisöflun, en hefur samt tekizt að leiða fram mikið af nýjum gögnum, svo að nú mun koma til kasta Ríkisendurskoðunar að varpa enn betra fjárhagslegu ljósi á málið, Umboðsmanns Alþingis að kanna lagalegu hliðina á gjörningum vinstri stjórnarinnar og jafnvel Ríkislögmanns. Landsdómur hefur og verið nefndur að gefnu tilefni, en það er ótímabært. 

Líta má á þessa skýrslu sem mikilvæga upplýsingaöflun Alþingis fyrir íbúa þessa lands að mynda sér skoðun um þá dularfullu og að mörgu leyti illskiljanlegu atburði, sem hér urðu í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Reynt hefur verið eftir föngum að þagga þetta mál niður, af því að það varpar ljósi á, hversu vinstri flokkunum á Íslandi eru hroðalega mislagðar hendur við stjórnarathafnir, og að þeim er um megn að gæta hagsmuna Íslands. 

Þrátt fyrir gríðarlega fjárhagslega áhættu, sem þáverandi ríkisstjórn tók í sambandi við nýju bankana, hefur samt á endanum tekizt að sigla fleyinu (ríkissjóði) klakklaust í höfn á þessu kjörtímabili.  Það er þó ekki vinstri stjórninni að þakka, heldur endurreisn efnahagslífsins, sem knúin var áfram af útflutningsatvinnuvegunum í krafti gengisfalls krónunnar og gosi í Eyjafjallajökli 2010, sem vakti heimsathygli á Íslandi sem spennandi orlofsáfangastað í viðsjárverðum heimi. 

Með skattlagningu bankanna og samningum við þrotabú gömlu bankanna um stöðugleikaframlög þeirra til ríkissjóðs Íslands sem forsendu afnáms gjaldeyrishafta, hefur blaðinu algerlega verið snúið við í samskiptum íslenzka ríkisvaldsins við fjármálaöfl heimsins og kröfuhafa föllnu bankanna. 

Í stað fúsks, undirlægjuháttar og annarlegra forgangssjónarmiða um innlimun Íslands í ríkjasamband er nú komin fagmennska, þekking, yfirvegun og metnaður fyrir hönd fullvalda íslenzkrar þjóðar, svo að ríkissjóður ber ekki lengur skarðan hlut frá borði Hrunsins.  Þennan gríðarlega mun á vinnubrögðum og viðhorfum má persónugera í samanburði á tveimur fjármála- og efnahagsráðherrum, hinum tækifærissinnaða, vinstri sinnaða þingmanni, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, og hinum trausta, borgaralega sinnaða formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.

Grípum nú niður í téðri skýrslu:

"Eigendur þessara banka (Aríonbanka og Íslandsbanka) fengu því í hendurnar áhættulausa fjárfestingu, sem skilaði þeim 132,4 miökr á árunum 2009-2012 og 216,0 miökr, sé Landsbankinn tekinn með.  Hagnaður bankanna síðast liðin 7 ár er 468,7 miakr." 

Þetta sýnir svart á hvítu, hvað það var, sem vinstri stjórn J & S færði kröfuhöfum föllnu bankanna, hvað friðþæging ríkisstjórnarinnar kostaði íslenzka ríkissjóðinn í glötuðum tekjum. Þetta hefur ekki verið hrakið. 

"Samtals var ríkissjóður settur í áhættu fyrir 296 miökr við endurreisn bankanna.  Þetta er sama fjárhæð og í upprunalegu áætlunum neyðarlaganna, en þar var miðað við, að ríkið eignaðist alla bankana.  Með því að taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu (FME), glopraði fjármálaráðherra niður gríðarlegum ávinningi. 

Skýrslan sýnir, að samningagerðin gekk alfarið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhaldið á bönkunum, varpa allri ábyrgð á íslenzka skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða króna arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum.  Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati og afsöluðu meira og minna öllum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð, sem það tók á sig frá hruni bankanna."

Þetta er lýsing á því, hvernig þáverandi ábyrgðarmaður ríkissjóðs "afsalaði honum tekjum", svo að notað sé orðalag vinstri manna sjálfra, þegar skattalækkun er til umræðu, eða öllu heldur, hvernig þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra hlunnfór ríkissjóð með stórfelldri vanrækslu, þegar honum bar að gæta hagsmuna ríkissjóðs á viðsjárverðum tímum. Var ekki von, að hann þyrfti að skerða kjör öryrkja og aldraðra stórlega 1. júlí 2009 og þyrfti að láta fara fram hvern flata niðurskurðinn á fætur öðrum á Landsspítalanum, sællar minningar ?

Við sjáum af skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem birt var 12. september 2016 og sem er sem viðhengi með þessum pistli, að vinstri stjórnin með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar framdi afglöp.  Þessi afglöp voru engin tilviljun stundarmistaka í hita leiksins, heldur bein afleiðing þjóðníðingslegrar stefnumörkunar á grundvelli hugmyndafræði, sem rakin er í upphafi þessa pistils. Í skýrslunni segir:

"Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók við 1. febrúar 2009, kaus að fara þá leið að byggja endurreisn bankanna ekki á neyðarlögunum, heldur ganga til samninga við kröfuhafa." 

Í þessum pistli er gerð tilraun til að útskýra á grundvelli skýrslunnar, hvers vegna atburðarásin tók þessa óvæntu stefnu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband