Færsluflokkur: Evrópumál
2.9.2016 | 17:10
Af orkumálum Englands
Bretar, og einkum munu það hafa verið Englendingar, sýndu ótrúlegt stjórnmálalegt sjálfstæði og þrek 23. júní 2016, þegar meirihluti kjósenda þar á bæ, um 52 %, hafnaði áframhaldandi veru Stóra-Bretlands í Evrópusambandinu, ESB, þvert gegn mesta og harðvítugasta áróðursmoldviðri sem sézt hefur frá bæði innlendum og erlendum stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og fræðimönnum.
Var hér s.k. "elíta" eða hin ráðandi öfl saman komin. Minnti þetta moldviðri marga Íslendinga óþyrmilega á hræðsluáróður gegn höfnun "Icesave"-samninganna, þar sem vinstra liðið og rebbarnir, sem nú skríða í "Viðreisnar"-grenið, vildu á ísmeygilegan hátt smeygja drápsklyfjum um háls íslenzkum skattborgurum vegna gjaldþrots einkabanka. Hér, eins og á Bretlandi í aðdraganda "Brexit", máluðu háskólastarfsmenn og forkólfar í samtökum atvinnulífsins skrattann á vegginn í mjög sterkum litum. Þó dró verkalýðsforystan á Bretlandi lappirnar, en hér dró hún ekki af sér.
Blekbóndi vonaðist eftir niðurstöðunni, sem varð á Bretlandi, og telur, að Bretar hafi hér tekið "rétta" ákvörðun, bæði hvað eigin hagsmuni og framtíð Evrópu varðar. Ákvörðunin veldur vatnaskilum í Evrópusögunni, eins og ákvörðun Breta um að stemma stigu við veldi Frakka og berjast gegn Napóleóni, keisara, sem þeir réðu að lokum niðurlögum á í bandalagi við Prússa árið 1815, eftir að franski herinn hafði orðið að hörfa, stórlaskaður, frá Moskvu 1812.
Rúmlega hálfri öld síðar hreyfðu Bretar hvorki legg né lið, þegar Prússar þrömmuðu alla leið inn í París, enda sat þá klækjarefur mikill að völdum í Berlín, Ottó von Bismarck. Um svipað leyti sameinaði hann þýzku ríkin "með blóði og járni", og tók þá að fara um brezka ljónið, hvers mottó var að "deila og drottna" í Evrópu.
Því miður tók ábyrgðarlaus gemlingur, stríðsæsingamaðurinn Vilhjálmur 2. við keisaratign í Berlín, og hann tók sér stöðu við hlið kollega síns í Vín eftir morðið á krónprinsi Habsborgara í Sarajevo 1914. Í oflæti sínu atti hann Reichswehr til að berjast bæði á austur- og vesturvígstöðvum.
Í þetta skipti sneru Bretar við blaðinu og tóku afstöðu gegn Prússum og með Frökkum. Brezki herinn stöðvaði framrás þýzka hersins í Frakklandi og bjargaði þessum forna andstæðingi Englendinga frá falli með ægilegum blóðfórnum í ömurlegum og langdregnum skotgrafahernaði, þar sem eiturgasi var beitt á báða bóga.
Bretar reyndu lengi vel að friðþægja foringja Þriðja ríkisins, en var að lokum nóg boðið með útþenslutilburðum og samningasvikum hans og sögðu Stór-Þýzkalandi stríð á hendur 3. september 1939, sem um hálfum mánuði fyrr hafði gert griðasáttmála við Sovétríkin. Af þessum sökum mættu Þjóðverjar vanbúnir "til leiks", þó að Albert Speer, sem gerður var að vígbúnaðarráðherra í febrúar 1942, hafi náð eindæma afkastaaukningu í framleiðslu hergagna fyrir Wehrmacht, en það var þá of seint, enda mesta iðnveldi heimsins komið í stríðið gegn Þriðja ríkinu.
Leiðtogar Þjóðverja, Angela Merkel, Wolfgang Schäuble og iðnjöfrar Þýzkalands, hafa gert sér grein fyrir vatnaskilunum, sem úrsögn Breta veldur fyrir ESB, þ.e. þróun í átt til stórríkis Evrópu hefur verið stöðvuð, og hér eftir mun ESB líklega þróast meira í þá átt, sem Bretar börðust jafnan fyrir, þegar þeir voru innanborðs, þ.e. í átt til viðskiptabandalags, en hin stjórnmálalega sameining hefur mistekizt. Hið sama má segja um hina fjármálalegu og peningalegu sameiningu. Það eru þverbrestir í peningabandalaginu (monetary union), sem hljóta að leiða til þess, að úr því kvarnast fyrr en síðar. Hvergi þykir lengur eftirsóknarvert að komast í þetta myntbandalag, nema í hópi sérvitringa á Íslandi, sem finna má unnvörpum undir merkjum Píratahreyfingarinnar, Samfylkingar og Viðreisnar.
Hver er staða orkumálanna í Evrópu á þessum umbrotatímum ? Hún er þannig, að verð á allri frumorku, olíu, gasi, kolum og rafmagni, hefur lækkað mikið síðan 2014. Hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, vinds og sólar, hefur vaxið, en skuldbindingar ríkjanna um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda uxu í flestum tilvikum líka á Parísarráðstefnunni í desember 2015, svo að flest ríkin munu eiga fullt í fangi með að ná markmiðum sínum 2030. Hlutdeild kolakyntra orkuvera er há og eykst enn í sumum löndum, því að kolaverð hefur lækkað á markaðinum, eftir að offramboð varð á þeim í Bandaríkjunum, sem þá hófu útflutning, þegar jarðgasvinnslan tók stökk þar í landi með nýrri tækni, leirsteinsbroti (e. fracking). Allar Evrópuþjóðir, sem nú nota kjarnorku til raforkuvinnslu, virðast stefna á að draga úr hlutdeild hennar eða að leggja niður öll sín kjarnorkuver af ótta við kjarnorkuslys og óviðráðanlega geislun á þéttbýlum svæðum. Ekki bætir úr skák, að meðferð geislavirks úrgangs úran-kjarnakljúfanna er ábótavant.
Af þessum sökum er ekki ljóst, hvernig ýmsar Evrópuþjóðir ætla að brúa bilið á milli gömlu kolefnistækninnar og næstu orkubyltingar. Til að þjóðirnar verði óháðar jarðefnaeldsneyti, verður að öðru óbreyttu að koma ný tækni fram á sjónarsviðið, sem staðið getur undir grunnraforkuvinnslunni. Vonir eru bundnar við þóríum-kjarnakljúfana, sem hægt verði að klæðskerasauma að þörfum notenda, og að þess vegna verði ekki þörf á stórum flutningslínum til viðbótar við núverandi öflugu línur.
Lítum nú á, hvað Bretar eru að hugsa í þessum efnum, og drepum niður í grein í The Economist, 6. ágúst 2016, "When the facts change ... "
"Fyrir tæplega 3 árum gerði brezka ríkisstjórnin samning við EdF, sem er Landsvirkjun og Landsnet Frakka undir einum hatti í eigu franska ríkisins, um að niðurgreiða orkuverð frá fyrsta kjarnorkuveri, sem reist hefur verið á Bretlandi síðan 1995: Hinkley Point C við strönd Somerset.
Þann 28. júlí 2016, nokkrum klukkustundum eftir að stjórn EdF samþykkti með litlum meirihluta að halda áfram með Hinkley Point fjárfestinguna upp á miaGBP 18, jafngildi miaUSD 24 (miaISK 2800), steig ríkisstjórn Theresu May óvænt á bremsurnar og boðaði verkefnisrýni, sem ljúka mundi haustið 2016. Haldið er, að ríkisstjórnin vilji gera samning við China General Nuclear Power, kínverskan risa, sem hefur boðizt til að leggja fram þriðjung fjárfestingarfjár í Hinkley Point og í staðinn fá að reisa eigið kjarnorkuver í Bradwell í Essex, en rýni nýju ríkisstjórnarinnar kann að leiða til kúvendingar.
Hinkley er "stór og þar er um að ræða tækni síðustu aldar, sem er ekki það, sem brezka orkukerfið þarfnast í framtíðinni", segir Michael Grubb í Lundúnaháskóla.
Árið 2012 spáðu brezkir orkuspekingar því, að verðið á öðrum orkuuppsprettum en kjarnorku, t.d. jarðgasi, mundi í fyrirsjánlegri framtíð verða meira en tvöfalt núverandi verð. Þannig spáðu þeir, að heildsöluverð raforku, sem er viðmið fyrir niðurgreiðslur til EdF, mundi verða yfir 70 GBP/MWh eða yfir 110 USD/MWh. Heildsöluverðið er núna undir 40 GBP/MWh eða undir 50 USD/MWh. Í júlí 2016 tilkynnti ríkisendurskoðunin brezka, The National Audit Office, að skekkjan í þessum spám hefði næstum fimmfaldað niðurgreiðsluupphæðirnar yfir 35 ára rekstrartímabil Hinkley Point C-kjarnorkuversins, þ.e. úr miaGBP 6 í miaGBP 30.
Þarna er um gríðarlegar upphæðir að ræða í niðurgreiðslur á orkuverði, svo að eðlilegt er, að ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á aðþrengdum ríkissjóði, staldri við.
Hérlendis birti Landsvirkjun árið 2010 svipaða spá um þróun raforkuverðs á Englandi, og stjórn fyrirtækisins mótaði síðan þá fáránlegu stefnu að láta raforkuverð á Íslandi hækka í sama hlutfalli og á Englandi, þ.e. að raunvirði yrði það nú orðið tvöfalt hærra en nú hérlendis, ef þessari stefnu hefði verið fylgt. Hún kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum, og var í raun tilræði við neytendur, sem fór hljótt, enda gekk hún alls ekki eftir.
Liður í að þrýsta upp raforkuverðinu hérlendis átti einmitt að vera að samtengja raforkukerfi Englands og Íslands. Þetta fáránlega uppátæki mun ekki ganga eftir af ýmsum ástæðum, t.d. vegna þróunar orkuverðs og vegna einarðrar andstöðu hér innanlands, en þyngst á metunum vegur þó, að, eins og nú horfir með Rammaáætlun, munu ekki nógu margir virkjunarkostir verða settir í nýtingarflokk til að standa undir vaxandi innanlandsþörf og útflutningi raforku um sæstreng.
Nú verður sýnt, hvernig spár um raforkuverð árið 2025 úr öllum helztu orkulindum, nema úraníum í kjarnakljúfi, hafa lækkað á tímabilinu 2012-2016 í USD/MWh:
- kjarnorka 2025, spá 2012: 110-160; miðg.135
- kjarnorka 2025, spá 2016: 120-190; miðg.155
- vindorka á hafi,spá 2012: 190-260; miðg.225
- vindorka á hafi,spá 2016: 100-160; miðg.130
- vindorka á landi,sp 2012: 110-180; miðg.145
- vindorka á landi,sp 2016: 60-100; miðg. 80
- sólarorka 2025, spá 2012: 200-380; miðg.290
- sólarorka 2025, spá 2016: 60-100; miðg. 80
- jarðgas 2025, spá 2012: 140-150; miðg.145
- jarðgas 2025, spá 2016: 90-100; miðg. 95
Samkvæmt þessu má búast við markaðsverði raforku á Englandi árið 2025 að jafngildi um 90 USD/MWh, sem er 80 % hærra en var í raun árið 2016, að því tilskildu, að Bretar haldi áfram að niðurgreiða raforku frá vindorkuverum úti fyrir ströndinni og að þeir hætti við Hinkley Point C.
Þetta verð, 90 USD/MWh, er fjarri því að geta staðið undir kostnaði við virkjanir og flutningslínur á Íslandi og 1200 km sæstreng ásamt endamannvirkjum og skilað eigendunum ásættanlegum arði. Til þess þarf verðið á Englandi að verða 130 USD/MWh, og það er mjög ólíklegt langvarandi verð þar án uppbóta úr ríkissjóði. Ástæðan er tækniþróunin við vinnslu rafmagns á sjálfbæran hátt og mikið framboð á jarðgasi. Árið 2025 kunna þóríum-kjarnorkuverin að hafa rutt sér til rúms og munu þá um 2030 hafa lækkað markaðsverð raforku frá því, sem er á árinu 2016. Við þetta er að bæta, að þróun rafgeyma tekur nú stórstígum framförum, og verð þeirra lækkar að sama skapi. Risa rafgeymasett munu gera kleift að safna og geyma umframorku frá vindorkuverum og sólarorkuverum og nota hana á háálagstímum.
Á tímabilinu 2016-2030 ætla Bretar að loka öllum kolakyntum orkuverum sínum og öllum, nema einu, kjarnorkuverum. Þannig falla 23 GW á brott úr stofnkerfi Breta eða tæplega helmingur aflgetunnar. Hinkley Point C, 3,2 GW, átti að bæta þetta brottfall upp með því að verða upphafið að byggingu fleiri kjarnorkuvera. Einingarkostnaðurinn er 7,5 USD/MW, sem er þrefaldur einingarkostnaður meðalstórra virkjana á Íslandi.
Ef niðurstaða rýni ríkisstjórnar Theresu May verður sú að hætta við risastór orkuver knúin ákveðinni úraníum-samsætu, þá verður stefnan tekin á gaskynt raforkuver, þó að slíkt þýði, að brezk orkumál verði háðari Rússum en nú er. Gasverin færu þá í gang, þegar vantar vind og/eða sól. Þetta mundi þýða, að Bretar gætu ekki staðið við markmið með lögum frá 2008 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % árið 2050 m.v. 1990, því að gaskynt raforkuver mundu þurfa að standa undir allt að 75 % af raforkuvinnslunni, þar til ný orkutækni ryður sér rúms. Um er að ræða fjölþrepa ver, CCGTS (Combined-cycle gas turbines), þar sem varmi kælibúnaðarins verður nýttur í mörgum tilvikum.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2016 | 14:26
Stjórnmálamaður í sporum Don Kíkóta
Fyrir daga aflahlutdeildarkerfisins, sem Alþingi samþykkti og sett var á laggirnar árið 1984, voru veiðar að mestu leyti frjálsar á Íslandsmiðum. Endanleg viðurkenning fékkst á 200 sjómílna lögsögu Íslendinga árið 1976, og þá hurfu erlendir togarar að mestu af Íslandsmiðum, og íslenzka ríkið gat farið að stjórna veiðunum að eigin vild. Mátti það ekki seinna vera, því að 1982-1984 hrundi þorskveiðin úr 460 kt í 280 kt, líklega vegna ofveiði.
Það er út af fyrir sig æskilegast að hafa veiðar frjálsar, eins og verið hafði frá alda öðli, en veiðigetan var orðin langt umfram þol veiðistofnanna, og þá var ekki um neitt annað að ræða til að vernda viðgang lífríkis í sjónum og til að bjarga afkomu sjávarútvegsins og þar með lífskjörum í þessu landi en að innleiða stranga takmörkun á veiðunum.
Hvernig átti að gera þetta ? Um það urðu heitar umræður á árunum 1979-1983. Uppboð aflaheimildanna hefði misheppnazt. Vart hefði nokkur útgerðarmaður haft efni á að bjóða í aflaheimildirnar, því að allar útgerðir voru reknar með tapi og skuldastaðan erfið. Staðan á þessum tíma var sú, að aflaheimildirnar voru verðlausar fyrir útgerðirnar, sem hengu á heljarþröm. Einhverjir aðrir hefðu þó hugsanlega boðið í heimildirnar og leigt þær útgerðarmönnunum. Hvernig hefðu sjávarbyggðirnar farið út úr því ? Mörg þorp og bæir gætu þá hafa misst lífsbjörgina.
Rætt var um innleiðingu sóknarmarks sem aðalstjórnkerfis, en það var horfið frá því, enda meiri hætta og álag á sjómenn og landvinnslufólk fólgið í því og skipulag markaðssetningar illmöguleg af því að aflabrögð voru ófyrirsjáanleg og stöðugleiki vöruafhendingar lítill. Sóknarkerfið hefur leitt til hruns hrygningarstofns þorsks í lögsögu Færeyinga niður í 20 kt, og þeir komast ekki með tærnar, þar sem Íslendingar hafa hælana í verðmætasköpun á hvert aflakg, eins og fram kemur í Morgunblaðsgreininni, "Samhengi hlutanna - af uppboðsraunum Færeyinga", þann 11. ágúst 2016, eftir Kristján Þórarinsson og Steinar Inga Matthíasson.
Kerfið, sem ofan á varð hérlendis, aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali aflahlutdeilda og virðisaukandi keðju frá skipi til markaðar, er þjóðhagslega hagkvæmasta kerfið, sem völ var og er á. Þetta er staðreynd, sem vert er að draga fram í ljósi samanburðar við önnur lönd með annars konar fyrirkomulag.
Kvótakerfinu var komið á til að bjarga veiðistofnunum og útgerðunum frá hruni. Innleiðingin var fullkomlega málefnaleg, þar sem aflahlutdeild á skip var ákvörðuð á grundvelli veiðireynslu 3 undanfarandi ára. Engum var gert að hætta veiðum þá, en allir bjuggu þó við skertan kost, því að aflamark í helztu tegundum snarlækkaði samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Útgerðirnar voru allt of margar og veiðiskipin allt of mörg, til að þær gætu allar lifað af við þessar aðstæður, enda var reksturinn mjög misjafn, og margir lögðu upp laupana, einkum eftir að frjálsa framsalið var leyft um 1990.
Yfir 90 % aflahlutdeildanna hafa frá innleiðingu kvótakerfisins verið seldar og keyptar af öðrum útgerðum, gömlum og nýjum. Útgerðum og veiðiskipum hefur fækkað mikið, og var það einmitt hlutverk kvótakerfisins frá byrjun að láta markaðinn sjá um fækkunina, því að skip og útgerðir voru einfaldlega allt of margar til að nokkur rekstrargrundvöllur væri í sjávarútveginum á sama tíma og leyft aflamark minnkaði.
Á árunum fyrir kvótakerfi, 1980-1983, var meðalframlegð þorskveiða aðeins 7 %, þótt þorskaflinn hafi farið í hæstu hæðir, t.d. 450 kt árið 1981. Á fyrstu árum kvótakerfisins nam framlegðin (EBITDA) 15 % og meðalþorskafli um 330 kt/ár. Frá upphafsári frjáls framsals aflahlutdeilda, 1991, og til 2007 var meðalframlegðin 20 % og meðalþorskafli um 220 kt/ár, og 2008-2014 náði framlegðin 28 %, og meðalþorskaflinn var um 170 kt/ár. Þetta sýnir gríðarlega góðan hagrænan árangur kvótakerfisins, sem auðvitað hefur gagnazt þjóðarbúinu öllu og bætt hag almennings. Það hefur ekki verið sýnt fram á það með skilmerkilegum hætti, að nokkurt annað fyrirkomulag við stjórnun fiskveiðanna skili þjóðarbúinu meiri búbót og tryggi um leið sjálfbæra nýtingu veiðistofnanna.
Nú er verð á aflahlutdeildum (veiðikvótum) hátt, og þess vegna eiga nýliðar vissulega erfitt uppdráttar, og stjórnmálamenn af verri sortinni reyna óspart að sá fræjum öfundar og óánægju með fiskveiðistjórnunarkerfi í þann jarðveg. Því er haldið fram, að auknar greiðslur útgerðarmanna fyrir veiðiheimildir í ríkissjóð, t.d. með uppboðum, gagnist almenningi betur. Þetta er tóm vitleysa. Hvers vegna ætti ofurskattlagning á sjávarútveg að gefast almenningi betur en önnur ofurskattlagning á atvinnurekstur ?
Nýr formaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, OH, starfar eftir 130 daga áætlun, sem virðist ætla að koma Samfylkingunni undir 5 % þröskuldinn, enda er hún greinilega harðákveðin í því að eyða kröftum sínum í vonlaus verkefni, sem útilokað er, að bætt geti hag almennings með nokkrum hætti. Minnir hún að þessu leyti á vindmylluriddarann sjónumhrygga frá 17. öld. Öðru þessara hugðarefna sinna lýsir hún í Morgunblaðsgrein, "Ávinningur af útboði veiðiheimilda",
þann 6. ágúst 2016. Hitt vindmyllumálið hennar er, að þjóðin kjósi um aðildarviðræður að ESB. Vesalings nýi formaðurinn er 7 árum of sein með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, því að sumarið 2009 felldi hún á Alþingi tillögu frá sjálfstæðismönnum um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort sækja ætti um aðild að ESB eður ei. Hefði hún betur samþykkt þá tillögu í stað þess að ana út í mestu hrakfallasögu íslenzkra utanríkismála á lýðveldistímanum. Hverjum dettur það eiginlega í hug, eftir að brezka þjóðin ákvað úrsögn Bretlands úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016, að Íslendingar hafi minnsta áhuga fyrir samningaviðræðum nú um aðild landsins að Evrópusambandinu ? Halló, er einhver heima ? Ætli vanti ekki ein 92 % upp á almenna dómgreind þarna á sama tíma og fylgi flokksins mælist 8 % ?
Nú skal vitna í téða grein OH:
"Samfylkingin hefur lengi barizt fyrir útboði [ekki uppboði ? - innsk. BJo] veiðiheimilda. Sú aðgerð ein og sér færir samfélaginu réttlátari [1] hlut í auðlindaarðinum og gerir nýliðun [2] í greininni mögulegri. Í dag er staðan þannig, að eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, fær aðeins um 10 % af arðinum, en útgerðarmönnum er leyft að ráðstafa 90 % hlut [3]. Það hallar verulega á okkur eigendur auðlindarinnar, og það mun ekki nást um kerfið, á meðan svo er."
Hér er heldur betur fiskað í gruggugu vatni, og hugtakaruglingurinn er í algleymi:
- Hvaða réttlæti felst í því að rífa keyptar aflahlutdeildir af fyrirtækjum með eignarnámi (stríðir gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti) og færa þær "sófaútgerðarmönnum" á silfurfati ? Þar er sósíalismi andskotans að verki og verður aldrei leyfður af dómstólum. Þegar af þeirri ástæðu er allt þetta uppboðshjal út í loftið og líkist mest baráttu Don Kíkóta við vindmyllurnar; gjörsamlega gagnslaust.
- Nýlega fór fram uppboð á nokkur þúsund tonnum (um 10 %) af veiðiheimildum í Færeyjum,sjá vefgreinina "Misheppnuð uppboðshugmynd" (tengill til hliðar undir "nýjustu færslum) hér á vefsetrinu, frá 3. ágúst 2016. Þar varð alls engin nýliðun, enda hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug, að uppboðsleið sé vel fallin til nýliðunar. Í Færeyjum hrepptu fjársterkir útlendingar allar veiðiheimildarnar, sem í boði voru. Þetta kerfi er sniðið fyrir auðvaldið á Evrópska efnahagssvæðinu. Innan þess er mismunun í útboðum eða uppboðum óheimil eftir þjóðernum. Þær reglur ESB er ekki hægt að taka úr sambandi, þegar skylt er að bjóða út á öllu EES, sem er, þegar vænt tilboðsfjárhæð er yfir tilteknum mörkum, og verður þá ekki unnt að beita "salami-aðferðinni" í blekkingarskyni. Með uppboðskerfinu munu aflaheimildir safnast hratt á fjársterkustu útgerðirnar, og við munum sitja uppi með "nokkrar Þorlákshafnir" eftir hvert uppboð. Hinir stóru munu verða enn stærri enn hraðar en nú, og hinir minni, einnig þeir, sem nú starfa á heilbrigðum rekstrargrundvelli, munu fljótt missa fótanna vegna skertra aflaheimilda. Hér er um útfærslu á "fyrningarleiðinni" að ræða, sem svo sannarlega má kenna við "sósíalisma andskotans".
- Hvernig í ósköpunum kemst OH að þessari reikningslegu niðurstöðu ? Samkvæmt Fiskifréttum 15. október 2015 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi árið 2014 taldar vera 13,5 miakr, en opinber gjöld, tekjuskattur, veiðigjöld og tryggingagjald, námu þá 22,9 miakr. Af þessari upphæð námu veiðigjöld 35 %. Samkvæmt kokkabókum blekbónda skiptast ávöxtun fjármagnseigenda og gjöld til ríkisins í hlutföllunum 37 % : 63 %, en ekki 90 % : 10 %, eins og "reikningskennarinn" fær út. Hún gerir sig seka um hugtakarugling og slær fram bölvaðri vitleysu til að sá fræjum óánægju og öfundar.
Hvað skyldi nú virtur lögfræðingur hafa um uppboð veiðiheimilda að segja. Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður, skrifaði 27. ágúst 2015 á Sjónarhóli Morgunblaðsins, "Sjóræningjar í sjávarútvegi". Hann kallar aðferðina þar reyndar stefnu pírata, sem kemur heim og saman við mat Össurar Skarphéðinssonar, að enginn munur sé á stefnu pírata og samfylkinga. Hefur ruglandi stjórnarandstöðunnar þar með náð nýjum hæðum, enda er hún með óframkvæmanlega stefnu skýjaglópa, sem ómögulegt er að fá botn í:
"Aftur að stefnu Pírata. Meðal annars kveður hún á um, að ríkið eigi að bjóða aflaheimildir til leigu á opnum markaði, og skuli leigugjaldið renna í ríkissjóð. Þetta felur í sér upptöku núverandi aflaheimilda af hálfu ríkisins, svo að ríkið geti boðið upp heimildirnar til leigu á opnum markaði. Stefnan ber ekki með sér til hversu langs tíma aðilar á markaði fái heimildirnar leigðar, en líklega er það eitt fiskveiðiár í senn. Þá er spurningin, hvort jafnræðisregla Pírata feli það í sér, að allir ríkisborgarar á EES-svæðinu, t.d. Spánverjar, megi taka þátt í opnu uppboði aflaheimilda í krafti markaðsforsendna og fái í kjölfarið að veiða fiskinn við strendur landsins. [Ríkið hættir á að verða kært af ESA og dregið fyrir EFTA-dómstólinn fyrir mismunum. Það hefur þá gert eignarnám hjá íslenzkum fyrirtækjum til að afhenda eignirnar auðvaldinu í ESB. Er þetta ekki í stíl við lágkúruna og undirlægjuhátt vinstri stjórnarinnar 2009-2013 gagnvart ESB í Icesave-deilunni ? - innsk. BJo]
Í þessu sambandi er einnig rétt að velta fyrir sér, hver sé reynsla þeirra aðila, sem hafa byggt útgerð sína alfarið á leigu aflaheimilda. Reynslan hefur sýnt, að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir slíkri útgerð, enda hafa viðkomandi aðilar enga tryggingu fyrir því, að þeir hafi aflaheimildir á hverju ári, og á hvaða verði þeir fái þær. [Útgerðir, sem verða undir í uppboðunum og missa kvóta, munu missa rekstrargrundvöll og hin smærri fara fljótlega á hausinn. Hin munu lækka tilboð sín, þegar þau verða búin að bíta af sér samkeppnina. - innsk. BJo].
Þá má benda á, að þeir, sem alfarið byggja á leigukvóta, hafa ekki sömu hvata til góðrar umgengni um fiskistofnana og þeir, sem hafa fjárfest í aflahlutdeildum. Sterkur grunur er t.d. fyrir því, að aðilar, sem hafa stundað slíkan rekstur, hafi stundað brottkast á fiski í stórum stíl. [Það er alþjóðlega viðurkennt, að bezta og skilvirkasta leiðin til sjálfbærrar nýtingar á lifandi auðlindum er innleiðing einkaeignarréttar á henni, eins og er kjarninn í íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu. - innsk. BJo].
Þá blasir við, að veiking starfandi útgerða, og fjölgun þeirra, sem byggja á ótraustum rekstri með leigu aflaheimilda af ríkinu á frjálsum markaði, styrkir ekki byggð í landinu. [Eitt helzta ádeiluefnið á kvótakerfið hefur verið frjálst framsal aflaheimilda, þó að ljóst sé, að það hefur stuðlað mest að hagræðingu og þar með treyst afkomu fyrirtækjanna og þar með atvinnuöryggi í flestum tilvikum. Á frjálsum markaði verða þó sum fyrirtæki undir í samkeppninni, og það hefur komið, a.m.k. tímabundið, niður á ákveðnum þorpum og bæjum, en með "uppboðsleiðinni" á að fjölga fórnarlömbunum til muna, og fyrir hinar dreifðu byggðir landsins þýðir það, að þær munu fara úr öskunni í eldinn. Nú eru t.d. útgerðir með aflahlutdeild í þorski um 400 talsins. Þær munu missa spón úr aski sínum til ríkisins samkvæmt "uppboðsleiðinni", e.t.v. 15 % á ári. Setjum svo, að 10 "uppboð" verði haldin á þessum tæplega 40 kt/ár, þá gætu setið eftir 390 "fórnarlömb" kvótaskerðingar, og 15 % skerðing á einu ári getur riðið sumum þeirra að fullu, hvað þá 30 % á tveimur árum. - innsk. BJo].
Við bætist, að leigukvóti mun engan veginn stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland, treysta atvinnu og byggð í landinu, hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni eða stuðla að því, að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi. Það má því færa sterk rök fyrir því, að stuðlað sé að miklum skammtímasjónarmiðum með ríkis- eða markaðsleigunni. [OH virðist halda, að almannahagur sé bættari með skammtímaávinning ríkissjóðs af sjávarauðlindinni en hámörkun þjóðhagslegs ávinnings af sömu auðlind til langs tíma litið. Þetta er grundvallarmisskilningur hjá henni, eins og hagfræðingar hafa margsannað, að með hverri krónu, sem fær að fljóta um hagkerfið án viðkomu hjá hinu opinbera, eru sköpuð mun meiri verðmæti, jafnvel tvöföld, en hið opinbera er fært um að gera. Þar með stækka skattstofnar, og tekjur hins opinbera vaxa með sjálfbærum hætti við tiltölulega lága skattheimtu. - innsk. BJo].
"Uppboðsleiðin" er einhver skaðlegasta hugmynd um fyrirkomulag í athafnalífinu, sem nokkur stjórnmálaflokkur hefur sett á oddinn hérlendis á lýðveldistímanum. Hún leysir ekkert vandamál, en skapar fjölmörg ný. Hún felur í sér hrikalegt brot á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum og eignarréttindum. OH heldur, að með því að hefja uppboðin með kvótaaukningu, sem t.d. er búizt við í þorski, þá brjóti hún minna af sér gagnvart útgerðum í landinu. Í þessu sjónarmiði felst í senn mikil ósanngirni gagnvart þeim og mikill misskilningur.
Ósanngirnin felst í því, að hefðbundnar þorskútgerðir hafa tekið á sig í mörgum tilvikum um 20 % skerðingu aflaheimilda, sem þær keyptu á sínum tíma. Þegar séð er fram á svo góðan árangur verndunarstarfsins, að hægt sé að bæta útgerðunum upp tap aflahlutdeilda sinna, þá hótar OH að þjóðnýta þessar viðbætur frá ári til árs. Útgerðarmenn eru með öðrum orðum nógu góðir til að taka skellinn, þegar Hafró ráðleggur að draga úr aflamarki, en ekki nógu góðir til að taka við viðbót, þegar aflamark má hækka. Þetta er jöfnuður OH og sósíalismi andskotans.
Hún mun ekki komast upp með þetta óréttlæti, því að við hækkun ákvarðaðs aflamarks, þá vex hver aflahlutdeild skips sjálfvirkt að sama skapi. Að ganga á þennan rétt, er stjórnarskrárbrot.
Að berjast fyrir "uppboðsleið" er loddaraskapur, þar sem látið er í veðri vaka, að hún gagnist almenningi með því, að ríkissjóður hans fitni. Langtíma kostnaður ríkisins verður hins vegar margfaldur skammtíma ávinningur ríkissjóðs vegna tjónsins, sem þessi atvinnustefna veldur, eins og rakið hefur verið hér, og eftir stendur, að aflaheimildir hafa safnazt á enn færri hendur en ella væri. Með forsjárhyggju ríkisins að vopni geta stjórnmálamenn komið sjávarútveginum á vonarvöl og tryggjt sér um leið aðstöðu til að deila og drottna að hætti gamla tímans. Loddarahátturinn felst í að gera þetta undir merkjum markaðshyggju.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.7.2016 | 10:44
Hnignun Vesturlanda
Forysturíki Vesturlanda, Bandaríki Norður-Ameríku, BNA, er í úlfakreppu. Kynþættirnir eiga þar í stöðugum erjum, þar sem skotvopnum er beitt á báða bóga að hætti kúrekanna, og gríðarleg ólga er undir niðri, svo að ástandið er víða eldfimt, þó að sú sé ekki reglan. Tvímælalaust virðist vera friðsamlegra, þar sem íbúarnir eru einsleitir m.t.t. uppruna.
Þar sem meiri kynþáttaleg einsleitni ríkir, er miðstéttin hins vegar hundóánægð með sitt hlutskipti og sinn skerf af kökunni, en raunlaun miðstéttarinnar hafa litlum breytingum tekið í yfir 25 ár þrátt fyrir framleiðniaukningu og vöxt landsframleiðslu á mann. Tekju- og eignalegur ójöfnuður hefur þannig vaxið í BNA á þessu tímabili, og er það meginskýringin á vinsældum öldungsins, jafnaðarmannsins Bernie Sanders, í forkosningum demókrata og almennri þjóðfélagsóánægju í flestum ríkjum landsins, sem er ný af nálinni í "Guðs eigin landi", landi tækifæranna. Helzt að vaxandi olíu- og gasvinnsla með leirbroti ("fracking") hafi hresst upp á kjörin, þar sem hún hefur verið innleidd.
Þegar þegnarnir fá á tilfinninguna, að ekki séu allir jafnir fyrir lögunum, þá grefur um sig vantraust á yfirvöldum, og skrattinn getur losnað úr grindum. Eitt dæmi um, að ekki er sama Jón og séra Jón varð skömmu eftir þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna 2016, er James Comey, yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI, gerði grein fyrir rannsókn sinna manna á netþjónsmáli utanríkisráðherrans, þáverandi, Hillary Clinton, en hún lét beina öllum embættisnetpósti sínum um einkanetþjón sinn, sem þá var harðbannað af öryggisástæðum í utanríkisráðuneytinu og er enn, og jafnframt bannaði hún undirmönnum sínum að viðhafa þetta fyrirkomulag. Brot þeirra hefði framkallað tafarlausa brottvísun úr starfi og saksókn. Hvað hafði hún að fela fyrir hinum opinbera netþjóni ? Hér er einbeittur brotavilji á ferð, sem vitnar um meiri dómgreindarskort en svo, að þorandi sé að fela henni embætti forseta Bandaríkjanna, sem hún nú svo ákaft sækist eftir. Donald Trump er strigakjaftur, en hefur hann orðið uppvís að verknaði, sem vitnar um alvarlegan dómgreindarbrest ? Af tvennu illu virðist Donald vera skárri kostur í "sívölu skrifstofuna" (oval office), og líklega nær hann þangað, ef draga má ályktun af gengi beggja í kosningabaráttu.
Í 12 mínútur lýsti Comey miklum ávirðingum á hendur Hillary Clinton á blaðamannafundi, sem sannfærðu áheyrendur um, að FBI mundi kæra hana fyrir þjóðhættulegt hátterni. Comey sneri hins vegar við blaðinu, þegar 3 mínútur voru eftir af ræðunni, með þeirri haldlitlu skýringu, að hann væri ekki viss um, að gjörningurinn hefði verið "að yfirlögðu ráði". Vissi þá Hillary Clinton ekki, hvað hún var að aðhafast með þessu framferði ? Er það ekki sýnu verst, þegar meta á hæfni hennar til að gegna stöðu forseta Bandaríkjanna ?
Bandaríkjamenn hljóta nú að spyrja sig, hvort það hafi áður gerzt, að
"stórkostleg vanræksla samfara yfirgengilegu kæruleysi í umgengni við viðkvæmustu trúnaðarmál þjóðarinnar"
dygðu ekki til ákæru ? Það er augljóslega ekki sama, hver brýtur af sér í BNA, og það hlýtur að draga m.a. þann dilk á eftir sér, að almenningur snúist til varnar og kjósi andstæðinginn, þó að hann sé enginn engill sjálfur. Hætt er við, að pólitískur tilgangur Comeys snúist upp í mikinn og réttmætan æsing yfir því, að allir séu ekki jafnir fyrir lögunum. Gildir þá hið fornkveðna:
"Ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og friðinn í sundur slíta".
Í Evrópu er fíll í stofunni, sem heitir Evrópusamband, ESB. Fyrirbrigðið verður sífellt óvinsælla í aðildarlöndunum, einkum í kjarnaríkjunum, sem tekið hafa upp evru, því að myntinni er kennt um efnahagslega stöðnun, skuldasöfnun og geigvænlegt atvinnuleysi, einkum á meðal fólks undir þrítugu. Almenningur hefur um hríð tortryggt búra í Brüssel á skattfríum háum launum, sem þurfa ekki að standa kjósendum reikningsskap gjörða sinna og unga út íþyngjandi tilskipunum og reglugerðum og virðast vinna umboðslaust að myndum Sambandsríkis Evrópu, sem á lítinn hljómgrunn á meðal aðildarþjóðanna. Evrópusambandið hefur þannig verið á lestarspori, sem almenningur samsamar ekki sínum hagsmunum. Þetta veldur einnig vaxandi tortryggni almennings í garð ráðandi afla í eigin löndum, sem vinna með Brüssel. Þann 23. júní 2016 fékk almenningur í Bretlandi útrás fyrir óánægju sína og sagði þinginu, þar sem meirihlutinn er samdauna ráðandi öflum í Brüssel, fyrir verkum um að draga Bretland út úr öngþveiti meginlandsins og að taka þess í stað stjórn landsins í eigin hendur, þ.á.m. stjórn á umferð um landamærin.
Mesti ótti forkólfa ESB stafar nú ekki af Rússum, sem þó stunda vopnaskak aðallega til innanhússbrúks, heldur af fordæminu, sem Brexit, útganga Bretlands úr ESB, gefur hinum aðildarþjóðunum. Frakkar og Hollendingar höfnuðu á sinni tíð stjórnarskrá ESB, sem kennd var við franska aðalsmanninn Giscard d´Estaing og átti að varða veginn til eins ríkis. Henni var þá lítillega hnikað til og skírð "Lissabon-sáttmálinn". Hálfkák af þessu tagi og sniðganga meirihlutaviljans mun á endanum verða ESB og sameiningarhugsjóninni dýrkeypt.
Það mun líklega verða krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum tveimur löndum og víðar um aðildina að ESB að fengnu fordæminu frá Bretlandi. Verði slík atkvæðagreiðsla haldin í þessum löndum, eru meiri líkur en minni á, að "Frexit" og "Nexit" verði samþykkt; svo mikið er vantraustið í garð "elítunnar" - hinna ríkjandi afla á stjórnmála- og fjármálasviði. Kann nú leið Marie le Pen til búsforráða í Elysée-höllinni í París að verða greiðari en verið hefur. Stjórnleysingjar og nýkommar Evrópu mega þá snapa gams.
Svipaða sögu má segja af norðurvængnum, Danmörku, Svíþjóð, og jafnvel Finnlandi, og af suðurvængnum, Kýpur, Grikklandi og Ítalíu. Á Ítalíu hefur enginn hagvöxtur verið í einn áratug, skuldastaða ríkisins er þung (130 % af VLF) og bankakreppa er þar yfirvofandi eftir álagspróf evrubankans í haust. Eina úrræði margra aðildarlandanna er að losa sig við helsið, sem fólgið er í evrunni, jafnvel þótt hún hafi fallið um 10 % gagnvart bandaríkjadal á 2 árum.
Á Íslandi á það einnig við, að almenningur ber takmarkað traust til löggjafarsamkomunnar og stjórnmálamanna og kaupsýslumanna almennt. Íslenzkir stjórnmálamenn voru þó ekki valdir að hruni fjármálakerfisins, heldur fylgdu framan af reglum EES, en þeir tóku þó þveröfugan pól í hæðina 2008, gegn vilja ESB, varðandi endurreisn fjármálastofnana miðað við erlenda stjórnmálamenn, því að í október 2008 samþykkti Alþingi s.k. Neyðarlög, sem björguðu þjóðinni undan þeirri kvöð að ábyrgjast skuldir bankanna, en ríkistryggðu hins vegar innlendar bankainnistæður. Má þakka þessum gjörningi hraðari viðsnúning hérlendis en erlendis eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem hefði verið óhugsandi með landið innan vébanda ESB.
Valdhafarnir í vinstri stjórninni 2009-2013 létu reyndar síðan brezka og hollenzka stjórnmálamenn svínbeygja sig og kúga til að semja samt sem áður um, að íslenzka ríkið gengist í ábyrgð fyrir skuldir íslenzkra banka í þessum löndum. Þetta var ófyrirgefanleg eftirgjöf óþjóðlegra afla til að þóknast lánadrottnum og búrum í Brüssel, en þjóðin hafnaði í tvígang, og eftir situr vantraust almennings. Vinstri stjórnin ætlaði með þessum risaskuldbindingum ríkisins að greiða leið landsins inn í ESB. Það var bæði óþjóðholl og heimskuleg ákvörðun, því að stækkunarstjóri ESB hefði ekki verið í neinum færum til að veita Íslandi afslátt af sáttmálum ESB. Allt, sem Alþingi hefði upp skorið með þessum gerningi, hefði verið stórfelld og langdregin kjaraskerðing almennings á Íslandi. Hrikalegt dómgreindarleysi fylgjenda forræðishyggju og sameignarstefnu í hnotskurn.
Nú síðast hafa uppljóstranir í s.k. Panamaskjölum um geymslu fjár í skattaskjólum orðið tilefni vantrausts almennings í garð stjórnmála- og kaupsýslustéttarinnar. Enn sýndi vinstri stjórnun þýlindi sitt í garð fésýsluaflanna með því að stytta verulega fyrningartíma fjármálaflutninga í skattaskjól fyrir gjaldþrot. Þá setti nú skrattinn upp á sér skottið, þegar Katrín Jakobsdóttir kvað sér og sínum pótintátum bezt treystandi til að fást við skattaskjólin. Það er nú líka betra að hafa eitthvert fjármálavit með í för, þegar leggja á til atlögu við skattaskjólin. Annars verður sú barátta hálfkák eitt, eins og allur hennar ráðherraferill reyndist. Stjórnleysingjum og nýkommum er í engu treystandi.
Hins vegar er allt annað uppi á teninginum í efnahagsmálum Íslendinga nú en allra annarra ríkja Evrópu og reyndar víðast hvar um heiminn. Stöðnun hefur ríkt í Evrópu og víðast hvar annars staðar síðan 2008, en síðan 2011 hefur verið hér þokkalegur hagvöxtur og rífandi gangur síðan 2013, eins og hér verður tíundað. Hið merkilega er, að þrátt fyrir 11 % kaupmáttaraukningu undanfarið ár hefur verðbólgu hérlendis verið haldið í skefjum, þó að Seðlabankinn hafi gert sitt til að auka verðbólguvæntingar með allt of háum verðbólguspám. Þjóðhagslíkön bankans eru meingölluð.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) spáir því, að árið 2016 verði 4,9 % hagvöxtur hérlendis, sem yrði mesti hagvöxtur síðan 2007, er hann var 9,5 %. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ, sem birt var 3. maí 2016, segir, að ferðaþjónustan, aukin einkaneyzla og fjárfesting, muni drífa hagvöxtinn áfram næstu ár. Traustar undirstöður sjávarútvegs og iðnaðar, gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna og traust efnahagsstjórn hafa framkallað núverandi velmegun. Á að tefla þessu öllu í tvísýnu með því að kasta perlu fyrir svín og kjósa hér glópa til valda ?
Seðlabankinn hefur það lögbundna hlutverk m.a. að halda verðbólgunni undir 2,5 %/ár, og hefur það tekizt síðan í febrúar 2014, eða í 30 mánuði, þótt í fyrra hafi verið samið um almennar 30 % launahækkanir á vinnumarkaði. Í fyrra jókst líka einkaneyzlan um 4,8 %, og í ár spáir ASÍ 6,0 % vexti einkaneyzlu, sem þýðir að hún nær methæðum ársins 2007. Hagfræðingar ASÍ skrifa:
"Aukin neyzla heimilanna á rætur að rekja til jákvæðrar þróunar efnahgslífsins, þar sem m.a. aukinn kaupmáttur, meiri væntingar, efnahagslegur stöðugleiki og fjölgun starfa hafa gefið heimilum rými til að auka neyzlu sína. Þetta er ólíkt þróuninni fyrir hrun að því leyti, að skuldastaða heimilanna hefur hingað til farið batnandi m.a. vegna skuldalækkunar stjórnvalda og nýtingar séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána."
Samanburður á þessari lýsingu á efnahagsstöðu Íslendinga og t.d. efnahagsstöðunni í ESB-löndunum sýnir svart á hvítu, hvers virði sjálfstæði landsins er, og hversu hárrétt stefna það er hjá núverandi stjórnvöldum landsins að leita ekki inngöngu í ESB.
Þeim mun hlálegra er, að nýstofnaður stjórnmálaflokkur, Viðreisn, hefur það á sinni stefnuskrá að leita inngöngu í þennan klúbb fyrir landsins hönd og leiða "samningaviðræður" til lykta. Það mun koma í ljós nú á næstu mánuðum, hvernig þróun ESB verður eftir Brexit, og hvers konar aukaaðildarkjör, ef nokkur, Bretum munu bjóðast, en af ummælum forystumanna ESB hingað til má ráða, að aðeins sé hægt að vera í ESB og lúta sáttmálum þess í einu og öllu eða að vera utan við. Þetta er í samræmi við það, sem andstæðingar aðildarumsóknar hafa ætíð haldið fram.
15.7.2016 | 13:33
Evrópusamband í uppnámi
Af hegðun og talsmáta valdsmanna Evrópusambandsins (ESB) má ráða, að þeir upplifi ESB sem viðkvæma skútu í ólgusjó og að velferð Evrópu (vestan Rússlands) velti á því, að þessi skúta komist klakklaust í höfn. Þetta er rangt mat hjá ráðamönnum ESB. Það gerir Evrópu ekkert til, þótt hið ólýðræðislega skrifræðisbákn í búranna í Brüssel líði undir lok í sinni núverandi mynd. Þúsundir embættismanna munu þá hins vegar missa vænan spón úr aski sínum við slíka þróun mála, en þeir eru afætur, sem þungar eru á fóðrum fyrir minnkandi hlöður ESB-landanna.
Bretar hafa fyrir löngu áttað sig á, að þeir eiga ekki samleið með ESB, enda eru þeir á 2. farrými síðan evran var sett á laggirnar um aldamótin á grundvelli Maastricht-sáttmálans og EMU-myntsamstarfsins, sem Bretland hrökklaðist úr. Þessi gjörningur, að setja hina sameiginlegu mynt á koppinn, var stjórnmálalegs eðlis, dulbúinn sem viðskiptaleg hagræðing. Evran er líkið í lestinni í ESB-skútunni, sem virkar sundrandi fremur en sameinandi. Að þvinga Þýzkaland til að gefa sitt þýzka mark (DEM) upp á bátinn í skiptum fyrir að samþykkja endursameiningu landsins 1990 var versti afleikur Frakklands í Evrópu eftir Seinni heimsstyrjöld í og hefur þegar gert Frakka að minnipokamönnum gagnvart Þjóðverjum. Þegar ráðamenn Bandaríkjamanna þurfa að ná í ráðamenn Evrópu, þá hringja þeir til Berlínar við Spree.
Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Bretlandi 23. júní 2016 komu þessum blekbónda ekki á óvart, enda fékk UKIP-Sjálfstæðisflokkur Sameinaða konungdæmisins tæp 28 % atkvæða í kosningum til Evrópuþingsins 2014, um helmingur Íhaldsmanna er andsnúinn veru Bretlands í ESB og bætast þar við tæplega 20 %, og Verkamannaflokkurinn er alls ekki heill í stuðningi sínum við aðild Breta, enda erfitt að sjá gagnsemi ESB fyrir þá, sem Corbyn & Co segjast helzt bera fyrir brjósti. Niðurstaðan var klár meirihluti kjósenda, tæplega 52 % eða um 1,3 milljónir manna, með útgöngu Bretlands. Söguleg úrslit.
Málpípur ESB hafa leyft sér þá dæmalausu alhæfingu, að Brexit-sinnar séu um illa upplýst fólk, sem samfélagslega nauðsynlegt sé að hafa vit fyrir, og þess vegna skuli virða úrslitin að vettugi, jafnvel semja að nýju og kjósa aftur. Þarna lýsa aðdáendur ESB frati á megininntak lýðræðishugtaksins, og fyrirlitning á fólki skín þarna í gegn. Háskólakennarar á Íslandi hafa jafnvel gert sig seka um þessa þjónkun við "elítu" Evrópu, og er það ekki í fyrsta skipti. Er illskiljanlegt, að hérlandsmenn skuli hafa tekið trú á ríkjasamband og ríghaldi í hana, þó að það sé nú komið að fótum fram, eins og hér verður rakið.
Með myndun ríkisstjórnar Theresu May í kjölfar afsagnar Davids Camerons eftir ósigur hans er þó tekinn af allur vafi um, að ríkisstjórn Bretlands mun virða vilja meirihluta kjósenda, og þingið mun vafalaust leggja blessun sína yfir úrslitin líka. Theresa May fjarlægði m.a. þá George Osborne, valdamesta ráðherra Cameron-stjórnarinnar, að forsætisráðherranum undanskildum, og Michael Gove, sem óvænt bauð sig fram til formennsku Íhaldsflokksins, en skipaði Boris Johnson utanríkisráðherra. Er hroðalegt að heyra, hversu illa honum er tekið í Berlín og París. Bretar standa nú með pálmann í höndunum, gengi punds hefur lækkað svo mikið, að vörur þeirra verða ódýrari en áður í ESB-löndunum, þótt á þær verði lagður hefðbundinn tollur, og þeir geta óheftir snúið viðskiptum sínum annað, t.d. til Bandaríkjanna, eins og Boris hefur boðað.
Úrslitin í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eru einkar athygliverð fyrir þann hamslausa hræðsluáróður, sem rekinn var frá Brüssel, City of London, Downingstræti 10, AGS og víðar, "all the usual suspects", gamalkunnir tónar í eyrum Íslendinga frá 2009-2011. Hið merkilega er, að almenningur er orðinn svo vel upplýstur, að hann lætur ekki þessa fjármálakóna draga sig lengur á asnaeyrunum. Ef allt væri með felldu í hinum ESB-ríkjunum núna, mundu þjóðþingin þar fara að fordæmi brezka þingsins og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru landanna í ESB. Þjóðþingin og hin ráðandi öfl ESB óttast fólkið, svo að bið getur orðið á slíku, en að þingkosningum mun koma, og sums staðar eru þær á næsta leiti. "Æ nánari samruni" er kominn á leiðarenda, og tími þjóðríkisins er runninn upp að nýju í Evrópu. Stjórnmálaflokkar, sem skynja þetta, munu blómstra. Hinir munu visna og deyja drottni sínum.
Að halda því fram, að án stjórnmálalegs yfirþjóðlegs valds í Evrópu muni þjóðríkin þar fara í hár saman, er afneitun á staðreyndum. Síðustu vopnuðu átök í Evrópu voru á Balkanskaganum, þegar Júgóslavía hafði liðazt í sundur í nokkur þjóðríki, og það var ekki ESB, heldur NATO, sem skakkaði leikinn þar. Friðurinn í Evrópu hefur verið tryggður síðan 1949 með NATO, og svo mun áfram verða. Evrópuher ESB verður aldrei barn í brók og er aðeins líklegur til að dreifa kröftum, sem þó eru ekki til skiptanna í gömlu Evrópu.
Allir hafa hag af frjálsum viðskiptum með lágmarks tollvernd. Þar sem þar eru gagnkvæmir hagsmunir í húfi, þarf ekki ríkjasamband, hvað þá sambandsríki, til að koma á og viðhalda frjálsu flæði vöru, þjónustu og peninga. Það er hins vegar eðlilegt og nauðsynlegt af öryggisástæðum, að hvert ríki stjórni sjálft umferðinni um landamæri sín, og þar af leiðandi hentar EES (Evrópska efnahagssvæðið) með sínu fjórfrelsi Bretum ekki. EFTA er líklega heppilegri samstarfsvettvangur fyrir þá, og líklega mun þá EES-viðhengið lognast út af. Það getur vel orðið Íslandi hagfellt.
Ef EFTA eflist og gerir viðskiptasáttmála við breytt ESB, gegnir EES engu hlutverki lengur. Um þessa þróun ritaði Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, merka grein í Morgunblaðið 30. júní 2016, sem bar heitið:
"Úrsögn Bretlands úr ESB getur haft víðtæk áhrif í norðanverðri Evrópu".
"Vaxandi óánægja er með ESB-aðild í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Það kann því svo að fara, að innan tíðar opnist nýjar leiðir um efnahagssamstarf milli Norðurlandanna allra og Bretlands í kjölfar aðskilnaðar á síðasta þriðjungi 20. aldar."
Hér kveður við allt annan tón en hjá hinum ráðandi öflum í Evrópu, sem viðhafa endemis svartagallsraus um afleiðingar úrsagnarinnar fyrir Breta, og sams konar hjáróma raddir heyrast á Íslandi. Brezkir sjómenn, ekki sízt skozkir, eygja nú tækifæri á bættri fiskveiðistjórnun innan brezkrar lögsögu, þar sem ofveiði undir handarjaðri hrossakaupa-ESB muni linna og aukinn afli samt verða hlutskipti Breta. Það er brýnt fyrir Íslendinga, Færeyinga og Norðmenn að ná samstarfi við Breta, sem leiði til samkomulags um sanngjarna skiptingu deilistofnanna á grundvelli sameiginlegra vísindarannsókna.
Mat Hjörleifs á núverandi stöðu mála í Evrópu kom fram í téðri grein og má telja raunsætt saman borið við vaðalinn, sem nú tröllríður umræðunni:
"Brezku kosningarnar hafa staðfest það rækilega, sem öllum mátti vera ljóst, að Evrópusambandið er ólýðræðisleg valdablokk fjármagns og stórfyrirtækja, sem færir völd og áhrif burt frá þjóðríkjunum í hendur yfirþjóðlegra stofnana, þar sem raunveruleg völd eru í höndum gömlu meginlandsríkjanna.
Þetta sýndu ljóslega fyrstu viðbrögðin við úrsögn Breta, þegar kvaddur var saman leiðtogafundur Þjóðverja, Frakka og Ítala, en hin aðildarríkin 24 máttu standa álengdar og bíða frétta.
Evrópusambandið átti í miklum erfiðleikum fyrir, einkum ríkin 16, sem búa við evruna sem sameiginlega mynt. Viðbrögð við vanda myntsambandsins hafa birzt í kröfum um hertan samruna, m.a. um sameiginlega fjármálastjórn aðildarríkjanna. Slíkar hugmyndir eru nú fjær því að hljóta brautargengi en áður. Engin sameinandi leið hefur verið mörkuð um viðbrögð við flóttamannastraumnum, og Schengen-samstarfið er í miklu uppnámi. Leynimakkið kringum TTIP-viðskiptasamning ESB og Bandaríkjanna hefur sætt mikilli gagnrýni og enn aukið á tortryggni almennings. Það eru því framundan afar erfiðir tímar innanvert í ESB í aðdraganda þess, að ganga þarf formlega frá útgöngu Breta í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar og semja um framtíðar samskipti."
Með þessari greiningu sinni hittir Hjörleifur naglann á höfuðið. ESB-þjóðirnar eru komnar út í kviksyndi í sínum farkosti, sem þær ekki geta snúið við, og þá er eina ráðið að fara að ráði Breta og yfirgefa farkostinn áður en hann sekkur. Evran er snaran, sem nú herðist að hálsi evru-ríkjanna, og eina ráðið, sem valdhafarnir sjá til bjargar henni er æ nánara samstarf, en þar steytir á vilja aðildarþjóðanna. Engin þjóðanna vill "dýpka" samstarfið enn meir, en slík dýpkun þýðir framsal til Brüssel á enn stærri hluta fullveldis.
Bretar voru á sérkjörum í ESB og greiddu minnst þangað miðað við efnahag. Þá eru þeir hvorki þjakaðir af evru né Schengen. Hins vegar líkaði Bretum ekki sú þróun, sem þeir horfðu upp á, að þeir væru 2. flokks aðilar, og mikilvægasta stefnumótunin færi fram í hópi evru-ríkjanna. Bretar munu aldrei fórna sterlingspundinu, og þeir vilja Evrópusamstarf, sem snýst um viðskipti og menningu. Þeir munu berjast við ESB-ríkin um forystu í fjármálum álfunnar og víðar og um að hýsa alþjóðleg fyrirtæki. Þetta sjáum við af nýlegu útspili fyrrverandi fjármálaráðherra, George Osbornes, um að lækka skattheimtu af hagnaði fyrirtækja niður í 15 %. Þetta er fyrsta gagnsókn Breta í kjölfar ruddalegra ummæla forkólfa hinna ráðandi ríkja ESB og Junckers um, að Bretar skuli nú hypja sig úr sambandinu. Slíkt tal er óviðeigandi, því að áframhaldandi samstarf við fullvalda Bretland og frjáls viðskipti með vörur, fjármagn og þjónustu er augljóslega allra hagur, og hagsmunaðilar í öllum Evrópulöndunum (vestan Rússlands) munu vinna að því.
Í kjölfar Brexit bárust fregnir af því, ítalskir bankar stæðu nú mjög höllum fæti, svo að styttast færi í nauðsynlegar björgunaraðgerðir hinna evruríkjanna, þ.e. Sambandslýðveldisins Þýzkalands, því að hin ríkin eru vart aflögufær. Sannleikurinn er sá, að neikvæðir innlánsvextir evru-bankans í Frankfurt hafa leikið alla bankastarfsemi evru-svæðisins grálega, svo að jafnvel risinn Deutsche Bank og banki þýzka Mittelstand, die Commerzbank, eiga um sárt að binda. Það er þess vegna ógnvænlegra tíðinda að vænta á þessu ári frá fjármálaheimi "evrulands", sem enn hefur ekki náð sér eftir hina grafalvarlegu alþjóðlegu lausafjárkreppu 2007-2008, sem leiddi til bankagjaldþrota, nema þar sem ríkissjóðir og/eða seðlabankar komu til bjargar.
Um hið hræðilega ástand í evruríkinu Grikklandi skrifar Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, í Markaðinn 1. júní 2016:
"Hver er þá grunnvandinn ? Mergurinn málsins er sá, að gríska ríkið er einfaldlega gjaldþrota og getur ekki borgað skuldir sínar, en Evrópusambandið neitar að viðurkenna þessa staðreynd. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn virðist skilja þetta, og sennilega gera embættismenn ESB það líka, en pólitískt virðist ómögulegt að viðurkenna það, því að það myndi þýða, að ESB yrði að viðurkenna, að stefnan gagnvart vandamálum Grikklands hafi verið röng."
Það er unnt að leiða þessa röksemdafærslu skrefinu lengra. Viðurkenning ESB á vandamáli Grikkja hlyti að fela í sér viðurkenningu á því, að evran steypti Grikkjum í glötun. Þeir voru vanbúnir að taka hana upp og var smyglað inn. Efnahagslíf þeirra þoldi ekki fastgengi fremur en efnahagslíf Ítala, Portúgala, Spánverja og Frakka, svo að fjórðungur evruríkjanna sé nefndur til sögunnar. Senn mun draga til tíðinda, og þá verður ríkjum hollara að standa utan við mökkinn.
26.6.2016 | 11:36
"Brexit" og áhrifin hérlendis
Bretar gáfu ríkisstjórn sinni bein fyrirmæli, framhjá þinginu, um að draga Bretland út úr Evrópusambandinu, ESB. Þetta er söguleg niðurstaða harðrar kosningabaráttu, þar sem hin ráðandi öfl innan og utan Bretaveldis ráku skefjalausan áróður fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB. Moldviðri fáránlegs hræðsluáróðurs var beitt, þar sem reynt var að halda barnalegum þvættingi að fólki í þá veru, að viðskipti Breta, lífsafkoma og jafnvel lífshamingja mundi bíða hnekki við úrsögn, svo að ekki sé nú minnzt á stríðshættuna, sem ætti að skapast með Bretland utan ESB !
Ekkert slíkt mun gerast, enda hverjum væri slíkt eiginlega í hag ? Flaggskip þýzks athafnalífs, bílaiðnaðurinn, flytur árlega út 1-2 milljónir farartækja til Bretlands. Hann mun ekki þola Brüssel-búkrötum (embættismönnum) að setja sand í tannhjól viðskipta Þýzkalands og Bretlands, sem hafa oftast verið mikil og góð, ef undan eru skilin stríðsárin 1914-1918 og 1940-1945. Enginn óskar nú eftir tollamúrum innan Evrópu, og þess vegna verða þeir ekki reistir. Hins vegar gætu þeir lækkað út á við í ríkjum, sem segja sig úr Evrópusambandinu, og þau munu verða fleiri.
Búkratarnir aftur á móti munu nú reyna að skjóta öðrum aðildarþjóðum skelk í bringu, svo að enginn dirfist að fara sömu leið og Bretar. Búkratar munu þess vegna reyna að tala við Breta með tveimur hrútshornum, en það mun allt snúast í höndunum á þeim áður en yfir lýkur, svo að Bretar munu standa eftir með pálmann í höndunum, eins og þeir hafa alltaf gert. Það er sjálfsögð lýðræðisleg krafa eftir það, sem á undan er gengið, að allar aðildarþjóðirnar geri nú stöðumat hjá sér um það, eins og Bretar, hvort þær vilja áfram halda afætunum í Brüssel uppi á skattfrjálsum ofurlaunum.
Evrópusambandið mun líða undir lok. Það gegnir engu hlutverki lengur, en er þjóðunum aðeins til byrði, nema þjóðum Austur-Evrópu, sem fá mikla þróunarstyrki úr sjóðum ESB. Gömlu ríkin eru í raun ekki lengur aflögufær, og sum rekin með of miklum ríkissjóðshalla m.v. Maastrichtskilyrðin, og nýju aðildarríkin þurfa ekki lengur á þessum ölmusum að halda, enda fylgir þeim mikil spilling. Evran í sinni núverandi mynd mun að sjálfsögðu líða undir lok, enda skortir hana hagfræðilega undirstöðu. Undirstaðan er stjórnmálalegs eðlis. Frakkar þvinguðu Þjóðverja til að gefa sitt sterka mark (DEM) upp á bátinn gegn því, að Frakkar féllust á endursameiningu Þýzkalands.
Samskipti Bretlands og Íslands hófust að ráði á "ensku öldinni", 1415-1475, á Íslandi, og síðan þá hefur Ísland í raun verið á áhrifasvæði Breta í Norður-Atlantshafi og er enn, þar sem Þýzkalandi tókst ekki að knýja þá til uppgjafar árið 1940 þrátt fyrir afkróun brezka landhersins í Dunquirke og harðvítugar loftárásir á borgir Bretlands, þegar þeir brezka ríkisstjórnin með stuðningi þingsins neitaði að semja um framtíð Evrópu við sigursæla valdhafa Þriðja ríkisins.
Nú hafa Bretar enn tekið ákvörðun, sem valda mun vatnaskilum í Evrópu, en í þetta sinn er auðvitað engin hætta á vopnuðum átökum á milli Breta og Þjóðverja´, og í raun eru það fjarstæðukenndar grillur, að Evrópusambandið varðveiti friðinn í Evrópu. Skýringar á því, að ekki er hætta á endurtekningu stríðsupphafs 1914 og 1939, eru a.m.k. þrjár:
- Nú stendur lýðræði traustum fótum í Þýzkalandi, eins og í Bretlandi. Annað ríkjanna er lýðveldi og hitt konungsveldi, "United Kingdom", stjórnskipan ríkjanna er ólík, en lýðræðið virkar í báðum löndunum. Bæði hafa þessi lönd ætíð haft á að skipa dugandi fólki með mikla menningarhefð.
- Brezka ríkisstjórnin hefur á að skipa kjarnorkuherafla, en sú þýzka ekki. Bæði ríkin eru í NATO.
- Þýzka þjóðin eldist nú svo hratt, að hún getur ekki lengur mannað Bundeswehr, arftaka Wehrmacht og Reichswehr, heldur reiðir ríkisstjórnin í Berlín sig á NATO. Þjóðverjum fækkar, en Bretum fjölgar, og munu þeir um miðja 21. öldina verða fleiri en Þjóðverjar, ef svo fer fram sem horfir. Bretar munu fyrirsjáanlega taka við forystuhlutverki í Evrópu og deila þar og drottna, eins og þeir gerðu fyrir sameiningu Þýzkalands 1871 með járni og blóði að frumkvæði Prússakanzlara, Ottos von Bismarcks.
Á Íslandi tók þýzka öldin við af hinni ensku, og börðust Þjóðverjar og Englendingar á banaspjótum á Reykjanesi syðra, Englendingar með bækistöð í Grindavík og Þjóðverjar í Hafnarfirði. Fyrsta mótmælendakirkjan var reist í Hafnarfirði af Hansakaupmönnum, og þeir kynntu siðbótina fyrstir manna fyrir Íslendingum. Frá þessum tíma hafa viðskipti og menningarleg samskipti Íslendinga við báðar þessar merku þjóðir oftast verið góð, og þannig verður það áfram.
Íslendingar hafa þó tekizt á við þessar þjóðir, t.d. um fiskimiðin við Ísland, einkum Breta. Sorgarkafli kom svo í samskiptum Breta og Íslendinga 2008-2012 vegna íslenzkra banka í Lundúnum, en honum lauk með dómi EFTA-dómstólsins í janúar 2012. Enn á þó eftir að svipta hulunni af því, hvers vegna brezka ríkisstjórnin felldi leifarnar af íslenzka bankakerfinu í október 2008 og gerði tilraun til að hrinda íslenzka ríkinu í greiðsluþrot. Þar kunna innanlandsdeilur á Bretlandi að hafa fléttazt inn, og hafi átt að kenna Skotum lexíu um það, hvernig færi fyrir fámennum sjálfstæðum þjóðum í ölduróti fjármálaheimsins. Of seint er að krefjast bóta, en afsökunarbeiðni væri við hæfi.
Bretar eru helzta viðskiptaþjóð Íslendinga, og mikilvægi þessara viðskiptatengsla mun ekki minnka við útgöngu þeirra úr ESB; þvert á móti er líklegt, að þessi viðskipti vaxi enn, t.d. ef Bretar ganga nú í EFTA. Mikilvægi þessa viðskiptasambands gæti orðið svo mikið, að ráðlegt þyki einhvern tímann að fasttengja ISK við GBP, eins og gert var um 1930. Spurning er nú, hvort tímabært sé fyrir Íslendinga að endurskoða aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, ef öflugra EFTA tekst að gera öflugan viðskiptasamband við ESB.
Fráfarandi forseti hefur tjáð sig um líklegar afleiðingar útgöngu Breta úr ESB. Allt er þar skynsamlega mælt. Hann telur aðildarsinna á Íslandi nú hljóta að átta sig á því, að aðildarviðræður verða ekki teknar upp að Íslands hálfu næstu 10-15 árin. Með því að setja á þjóðaratkvæðagreiðslu um það við þessar aðstæður, eins og m.a. Samfylkingin, Viðreisn og Píratahreyfingin hafa viljað, yrðum við að athlægi um alla Evrópu að mati blekbónda. Þess vegna er nú rökrétt að draga umsóknina formlega til baka, eins og Svisslendingar gerðu nýlega, því að hraðfara hnignunarskeið er nú hafið í Evrópusambandinu. Það er við hæfi, að formaður Viðreisnar líki "Brexit" nánast við heimsendi. Hann er þá einn af þeim, sem trúðu bölvaðri lygaþvælunni, sem haldið var fram fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna til að hræða Breta til fylgilags við ESB. Messerschmitt sprengjuvélar dugðu ekki til að hræða forfeður og formæður flestra atkvæðisværra Breta nú árið 1940 til uppgjafar. Það þarf meira en fjarstæðukenndan lygavef árið 2016.
24.6.2016 | 11:04
Nýr bóndi að Bessastöðum 2016
Hvernig við verjum atkvæði okkar í forsetakosningum, getur jafnvel orðið afdrifaríkara en listavalið í Alþingiskosningum, því að á Bessastöðum er bara einn öryggisloki samkvæmt Stjórnarskrá, en á listum er fjöldi manns. Að verja atkvæði sínu að óathuguðu máli samkvæmt einhvers konar tilfinningalegum áhrifum af silkimjúku hjali hönnuðu hjá almannatenglum er óábyrgt. Það á ekki sízt við um forsetakosningar.
Við eigum ekki að kjósa reynslulausan mann í stjórnunarlegum efnum í embætti forseta Íslands. Í tilviki Guðna Th. Jóhannessonar getur slíkt jafnvel reynzt háskalegt, því að dómgreind hans á atburði líðandi stundar virðist ekki vera upp á marga fiska, þegar fyrri ummæli hans í ræðu og riti er skoðuð.
Þá hefur hann verið svo ístöðulaus, að hann hefur alla kosningabaráttuna verið á harðahlaupum frá þessu fyrra skjalfesta mati sínu, hvort sem um er að ræða atburði í fortíð eða nútíð, t.d. landhelgisdeilurnar, Evrópusambandsaðild Íslands, Neyðarlögin um fjármálakerfið og Icesave, svo að nokkuð sé nefnt úr blómagarði Guðna, sem sumir mundu þó fremur vilja kenna við illgresi. Sýnin er alls staðar brengluð, þar sem hvergi vottar fyrir hlutlægri greiningu á grundvelli fullveldisréttar Íslands. Það er eins og forneskjulegt nýlenduhugarfar gegnsýri alla afstöðu sagnfræðingsins til manna og málefna. Það er mjög líklegt, að honum hugnist ekki "Brexit", sem brezka þjóðin ákvað í gær, 23. júní 2016, af því að nánast öll samfelld "elítan", hin ráðandi öfl heimsins, ráku hamslausan hræðsluáróður gegn úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, ESB. ESB hafð þegar steytt á skeri, og brezkur almenningur skynjaði, að aðild Bretlands var orðin landinu baggi og að ESB hefur í raun gengið sér til húðar. Þvættingur um nauðsyn ESB til varðveizlu friðar í Evrópu er grátlega heimskulegur. Hver heldur í raun og veru, að Bretar muni nú einangrast viðskiptalega í Evrópu og fara að láta ófriðlega !?
Nú háttar þannig til, að okkur kjósendum er veittur sá valkostur að velja mann í embætti forseta Íslands, sem hefur alla tíð haft skoðanir á öllum ofangreindum íslenzku málefnum, sem eru á öndverðum meiði við fyrri skoðanir Guðna, og um þennan mann, Davíð Oddsson, ríkir alls engin óvissa. Enginn þarf að fara í grafgötur um, að hann eða hún er að velja heilsteyptan baráttumann, með skarpa og óbrenglaða dómgreind, fyrir hagsmunum Íslands í hvívetna með því að kjósa Davíð til embættis forseta Íslands.
Hið sama verður með engu móti sagt um Guðna Th. Jóhannesson, eins og hér og víðar hefur komið fram. Sitji kjósandinn uppi með eitthvað eftir kosningabaráttu hans, er það óvissa; óvissa um viðsjárverðan persónuleika, sem virðist háll sem áll og ómögulegt að henda reiður á. Slíkum manni er alls ekki treystandi fyrir æðsta embætti lýðveldisins. Forsetaframbjóðandi verður að vera hreinn og beinn og þora að kannast við verk sín, eigi að vera unnt að treysta honum. Forseti þarf að vera fastur fyrir, og Guðni hefur ekki sýnt það í þessari kosningabaráttu, heldur þvert á móti. Ístöðuleysið skín í gegnum fagurgalann.
Sagt er, að slíkt ístöðuleysi á Bessastöðum muni ekkert gera til, því að sá ístöðulausi hafi lofað að vísa deilumálum til þjóðarinnar. Þarna liggur þó einmitt vafinn og hundurinn grafinn. Hvernig er hægt að treysta því, að ístöðulaus forseti láti ekki undan miklum þrýstingi, eins og dr Ólafur hefur lýst opinberlega, að hann var beittur af innlendum og erlendum valdaöflum varðandi staðfestingu viðurhlutamikilla laga frá Alþingi. Vindhani snýst aðeins eftir vindátt næst honum, en ekki samkvæmt vindátt utan lóðarmarka. Það skulum við kjósendur hafa í huga, þegar við göngum að kjörborðinu laugardaginn 25. júní 2016, því að hvesst getur á toppinum.
Sagt er, að hluti af valdi forseta sé áhrifavald. Hér skal fullyrða, að vindhani hefur ekkert áhrifavald á vindstefnuna, hvort sem sá vindur blæs úr Alþingishúsinu, frá Brüssel, London, Berlín, Washington eða Moskvu, ef svo má að orði komast.
Það er hins vegar vitað, að það er hlustað á Davíð Oddsson, hvar sem hann kemur, og ekki síður á erlendri grundu en innlendri. Um það vitnar ferill hans allur, og hvers vegna ekki að taka tillit til þess við þá ráðningu, sem hér fer fram til embættis ?
Davíð Oddsson mun þó örugglega ekki dvelja langdvölum erlendis, enda engin þörf á langdvöl til að tala máli Íslands augliti til auglitis við erlenda ráðamenn. Til slíks þarf ekki marga daga, hvað þá margar vikur á ári, og margar aðrar og ódýrari leiðir eru til árangursríkra samskipta.
Davíð Oddsson mun ekki verða skattborgurum dýr á fóðrum á Bessastöðum, taki hann þar við búsforráðum, og hann mun ekki fara fram úr fjárheimildum sínum. Kostnaður við forsetaembættið mun stórlækka frá því, sem verið hefur um langa hríð, en afrakstur þjóðarinnar sennilega stórhækka, því að peningunum verður varið með skilvirkum hætti og mest hér innanlands, ef marka má orð Davíðs sjálfs, og það hefur hingað til mátt. Það er skoðun blekbónda þess, er hér ritstýrir, að skattborgarar muni fá mest fyrir peningana sína með Davíð Oddsson sem forseta, allra þeirra níu, er nú bjóða sig fram til þjónustu á Bessastöðum. Fái hann tækifæri til, mun hann áreiðanlega setja litríkan, farsælan og skemmtilegan svip á þetta annars nokkuð formfasta og hátíðlega æðsta embætti lýðveldisins.
Verst er, að heimiliskötturinn Franz þyrfti þá að skipta um umhverfi. Kettir eru íhaldssamir, en af lýsingum að dæma er þessu húsdýri margt til lista lagt, og sem fyrrverandi villiketti ætti honum ekki að verða skotaskuld úr búsetu á Bessastöðum, ef því er að skipta.
21.6.2016 | 09:58
Óvænt seinni tíma sagnfræði
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í framboði til embættis forseta lýðveldisins í kosningunum 25. júní 2016 er sagnfræðingur nokkur, góðkunningi þjóðarinnar af sjónvarpsskjánum; nú síðast fékk RÚV hann til álitsgjafar um hina dramatísku atburði í aprílbyrjun 2016, sem lyktaði með þeim einstæða atburði, að forsætisráðherrann hrökklaðist út úr ríkisstjórn sinni, en við keflinu tók einn ráðherranna, dýralæknir að mennt, sem áreiðanlega nýtist í starfi, og ríkisstjórnin hélt áfram störfum með sömu áhöfn að viðbættum einum efnilegum utanþingsráðherra í utanríkisráðuneytinu.
Verða þessir atburðir nú ekki frekara umfjöllunarefni hér, né mat Guðna Thorlaciusar á þeim, en hins vegar hefur verið óumflýjanlegt að reyna að kynnast ögn nánar, hvaða mann téður Guðni hefur að geyma út frá skrifum hans og tjáskiptum í fjölmiðlum, og við þau kynni hefur margan manninn rekið í rogastanz. Skal nú tína sitthvað til af hneykslunarefni, sem birzt hefur opinberlega. Satt bezt að segja má kenna sögutúlkun og útleggingar Guðna við "postmodernisma", þar sem öllu er snúið á haus og fátt er um heilbrigð, föst viðmið. Téður Guðni veit fullvel, að skoðanir hans eiga ekki upp á pallborðið hjá þorra þjóðarinnar. Hann hefur þess vegna gripið til þess ráðs í kosningabaráttunni að fara í hlutverk hins vinsæla Ragnars Reykáss. Alkunna er, hvernig RR gat snúizt á punktinum 180°, en téður Thorlacius mun hafa gert gott betur á fundum, því að hann mun hafa snúizt um 360° ! Það er ekkert varið í mann, sem ekki treystir sér til að standa við skoðanir sínar, sem skjalfest er, að hann hafði fyrir fáeinum árum. Að sigla þannig undir fölsku flaggi til búsforráða á Bessastöðum er með öllu óboðlegt.
Viku fyrir forsetakosningar 2012 ritaði Guðni grein um dr Ólaf Ragnar Grímsson, að því er virðist til að klekkja á forsetanum, sem þá átti í baráttu við RÚV-arann Þóru Arnórsdóttur. Skrif Guðna um Icesave sýna, að hann gerðist talsmaður samsærisins mikla gegn íslenzku þjóðinni 2008-2010, þar sem ESB, AGS, brezka, hollenzka og íslenzka ríkisstjórnin, Samfylking, Vinstri hreyfingin grænt framboð (með undantekningum), ýmsir háskólakennarar, Seðlabankinn, Landsvirkjun o.fl. í sameiningu reyndu að telja Íslendingum trú um, að land þeirra færi á vonarvöl, nema ríkissjóður þeirra baktryggði innistæðutryggingasjóð innistæðueigenda í útibúum íslenzkra banka erlendis, eins og innanlands. Allt evrópska bankakerfið var sagt standa eða falla með þessu. Sagnfræðingurinn, sem nú leitar eftir stuðningi þjóðarinnar við að komast í embætti forseta Íslands, sá þá ekki sóma sinn í að standa með þjóð sinni í baráttunni, heldur níddist á henni. Reyndar er aðeins skjalfest, svo að blekbónda sé kunnugt um, að einn frambjóðenda í forsetakjörinu 2016 hafi haft þrek og þor á örlagastundu til að stappa stálinu í þjóð sína og "neita að greiða skuldir óreiðumanna", og það var Davíð Oddsson í embætti formanns þriggja manna bankastjórnar Seðlabankans og síðar ritstjóra Morgunblaðsins. Hvernig sem fer í forsetakosningunum laugardaginn 25. júní 2016, mun sagan áreiðanlega halda þessu til haga, því að staðreyndirnar tala sínu máli.
Umrætt samsæri voru svik aldarinnar, sem Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi steypuforstjóri hjá BM Vallá, er að svipta hulunni af og vinnur þar margfalt þarfara verk en öll sagnfræðingastéttin með nútímasögu Íslands að sérsviði, samanlögð.
Nú skal vitna í forystugrein Morgunblaðsins,
"Ekki fer öllum vel úr hendi að skrá sögu Icesave", þann 13. júní 2016:
"Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi ráðherra flokksins í vinstri stjórninni, vildi ekki láta rangfærslunum [Guðna Th. Jóhannessonar - innsk. BJo] ósvarað. Hann er einn þeirra fulltrúa VG, sem stóðu vaktina með þjóðinni gegn vinstristjórninni og þeim stuðningsmönnum hennar, sem vildu hengja Icesave-klafann á þjóðina. Grípum aðeins niður í skrif sagnfræðingsins Ögmundar, sem báru yfirskriftina: Lítil fræði í sagnfræði Guðna: "Ekki þykja mér skrif Guðna endurspegla skilning á [Icesave-málinu]. Fjarri lagi.
Hann segir:"Línur í Icesave-deilunni hafa ætíð markazt af því, hvort menn sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því. En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, þegar upp er staðið. Til þess eru staðreyndirnar of skýrar. Þetta á líka við um forsetann. Valdhöfum í Lundúnum og Haag má hann þakka fyrir að hafa losnað úr Icesave-snörunni. Þeir neituðu að samþykkja fyrirvara Alþingis, og því þurfti að semja upp á nýtt."
Í fyrsta lagi er það rangt, að afstaða til Icesave-samninganna hafi alltaf farið eftir flokkspólitískum línum. Í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði voru á Icesave-tímanum nokkrir þingmenn andvígir samningunum, og einn ráðherra sagði af sér embætti af þessum sökum. Þetta er söguleg staðreynd, sem ekki verður horft framhjá. Allra sízt af hálfu sagnfræðings. [Yfir 90 % þátttakenda í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave voru samninginum andvígir; ekki voru það allt saman framsóknarmenn og sjálfstæðismenn - hvers konar bull er þetta í sagnfræðinginum Guðna Th. Jóhannessyni ? - innsk. BJo].
Í öðru lagi endurspeglar það mikið skilningsleysi á málinu að tala um, að Bretar og Hollendingar hafi skorið forsetann niður úr "Icesave-snörunni með því að samþykkja ekki fyrirvara Alþingis, sem settir voru eftir miklar deilur á þingi í sumarlok 2009. Á hvern hátt var forsetinn skorinn niður úr "Icesave-snörunni" ? Það skyldi þó aldrei hafa verið þjóðin, sem losaði úr snörunni Alþingi og þær ríkisstjórnir, sem setið höfðu frá hausti 2008, beittar ítrekuðum þvingunum af Bretum, Hollendingum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar liggja skýrar staðreyndir á borðinu"."
Með þessari umsögn inni um sagnfræði Guðna Th. Jóhannessonar gefur Ögmundur Jónasson, sagnfræðingur og fyrrverandi ráðherra, Guðna, forsetaframbjóðanda, falleinkunn í sagnfræði. Er slíkum fallista treystandi fyrir forsetaembættinu ? Klárlega alls ekki. Maður, sem stundar skáldskap í nafni sagnfræði hefur misst fótanna í fræðilegum og siðferðilegum efnum. Slíkur persónuleiki getur orðið beggja handa járn í forsetaembætti, vindhani, sem lætur stjórnast af hvaða goluþyt sem er.
Berlega hefur komið fram, að Guðni Jóhannesson er hallur undir Evrópusambandið og studdi aðildarumsókn Íslands að því. Til að greiða fyrir umsókninni fannst honum sjálfsagt að fórna langtímahagsmunum þjóðarinnar á altari alþjóðlegra fjármagnseigenda árið 2009, enda gætu Íslendingar ekki staðið við Icesave-samningana frekar en Þjóðverjar við Versalasamningana ! Hvers konar nauðhyggja og hundalógík er þetta eiginlega hjá sagnfræðiprófessornum og forsetaframbjóðandanum ?
Annar maður, lögfræðingur og fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, Víglundur Þorsteinsson að nafni, hefur aftur á móti lagt mikið að mörkum til rannsókna á mjög óeðlilegri atburðarás í seinni tíma sögu Íslendinga, og hann hefur afhjúpað vinstri stjórnina 2009-2013 sem handbendi alþjóðlegra fjármálaafla, sem beittu lúalegum brögðum í tilraun til að svínbeygja Íslendinga undir afarkosti sína. Vinstri stjórnin lagðist á hnén gagnvart ESB, AGS og kröfuhöfum föllnu bankanna þrátt fyrir skjöld Neyðarlaganna, sem samin voru fyrir atbeina bankastjórnar Seðlabanka Íslands.
Vitna nú í Morgunblaðsgrein Víglundar frá 14. júní 2016,
"Af hverju sviku þau ?":
"Neyðarlögin og ákvarðanir FME á grundvelli þeirra í október 2008 lögðu grundvöllinn að því að leysa úr málum með því að horfast í augu við allsherjar forsendubrest, nýir bankar voru stofnaðir af FME í samræmi við neyðarlögin, og útlán voru flutt niðurfærð í samræmi við forsendubrestinn í hina nýju banka."
Ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins, sem Samfylkingin rauf í janúarlok 2009, með hana dinglandi utan gátta og vankaða með, hafði fyrir tilstilli þingmeirihluta síns og á grundvelli ítarlegs undirbúnings Seðlabankans lagt grunninn að endurreisn fjármálakerfisins á Íslandi með frumlegri lagasmíð, þar sem lánadrottnar bankanna fengu að súpa seyðið af óvarlegum lánveitingum sínum, innlendum innistæðum var bjargað og erlendar innistæður voru látnar njóta forgangs í þrotabúin. Þessi snjalla lagasetning reyndist í janúar 2012 standast að alþjóðlegum rétti, þegar EFTA-dómstóllinn hreinsað Ísland af ákærum brezku og hollenzku ríkisstjórnarinnar, sem framkvæmdastjórn ESB studdi opinberlega. Líklega á enginn einn maður meiri heiður af þessu snilldarbragði, téðum Neyðarlögum, en Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans.
"Þegar fundargerðir þessarar nefndar [samræmingarnefnd, sem sett var á laggirnar í desember 2008 til að hafa yfirumsjón og eftirlit með endurreisn bankakerfisins-innsk. BJo] eru skoðaðar, sést, að allt er með felldu fram í miðjan janúar 2009, en þá byrjar að votta fyrir þeim breytingum, sem í hönd fóru. Í lok janúar lét þáverandi forstjóri FME af störfum og kvaddi nefndina. Fljótt eftir að vinstri velferðarstjórnin tók til starfa, verða ráðuneytisstjóraskipti í forsætis- og fjármálaráðuneyti með tilheyrandi breytingum á nefndinni. Straumhvörfin verða 11. febrúar 2009, þegar Indriði H. Þorláksson er mættur á vettvang sem sérlegur sendimaður Steingríms J.; þá má ráða, að eitthvað nýtt stóð til. Eitt var þó enn ógert til að klára að plægja jarðveginn fyrir hina nýju stefnu, en það var að reka þrjá seðlabankastjóra með sérstakri lagabreytingu, svo að þeir yrðu ekki í vegi hinnar nýju vinstri velferðarstjórnar, sem kenndi sig síðar við að hafa slegið "skjaldborg um heimilin"."
Hér voru mikil firn á ferð, þar sem ofstækisfullir stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmálanna gerðu aðför að sjálfstæði Seðlabankans, en segja má, að hann eigi að vera 4. vald Lýðveldisins og stjórna peningamálastefnunni. Vinstri menn virða engin grið, og það ber að meðhöndla þá samkvæmt því.
Draga má niðurstöðu rannsóknar Víglundar saman með eftirfarandi orðum hans sjálfs í greininni:
"Til að komast inn í ESB var ákveðið að semja við Breta og Hollendinga og brjóta gegn neyðarlögunum. Þessar einbeittu ákvarðanir Samfylkingarinnar voru mótaðar strax haustið 2008 og leiddu m.a. til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn féllst á að boða Landsfund í febrúar 2009 til að leggja tillögu um það [inngönguna - innsk. BJo] til ákvörðunar. Atburðarásin varð hins vegar önnur, VG og vinstri armur Samfylkingarinnar ásamt tækifærissinnanum Össuri náðu saman í búsáhaldabyltingunni. Ný stjórn komst til valda."
Hér voru mikil undirmál á ferð, þar sem nota átti öngþveitið, sárindin og áfallið af falli bankanna til að fórna fjárhagslegu fullveldi Íslands á altari kröfuhafa bankanna að vilja ESB, AGS og flestra "vina- og bandalagsþjóða" Íslendinga. Þetta var samansúrrað ráðabrugg með fjöregg íslenzku þjóðarinnar, sem hefði skapað hér grískt ástand í boði ESB fyrir tilstilli vanstilltra vinstri afla á Íslandi. Að mati blekbónda bliknar Landsdómsákæran á hendur Geir Hilmari Haarde algerlega í samanburði við þær sakargiftir, sem hér hafa verið reifaðar á hendur forkólfum vinstri stjórnarinnar og handbenda þeirra.
Sagnfræðingurinn í forsetaframboði, Guðni Thorlacius, dansaði með óþjóðlegum yfirvöldum téðs tíma (2009-2013) á Íslandi með afstöðu sinni til örlagaþrunginna deilumála. Þetta er að mati höfundar þessa pistils svo alvarlegur ljóður á ráði frambjóðandans, að ekki ætti að koma til greina að hálfu þeirra, er átta sig á boðskap Víglundar hér að ofan og á sínum tíma höfnuðu Icesave-samningunum, að ljá téðum Guðna atkvæði sitt.
30.5.2016 | 18:26
Magnað góðæri undir borgaralegri stjórn
Ísland sker sig úr í hópi Vesturlanda fyrir góðæri, sem hér ríkir. Þessi misserin er hér 4 % - 5 % hagvöxtur. Aðeins Svíþjóð og Bretland komast í hálfkvisti við þennan góða efnahagsárangur á meðal Evrópuríkja, en í evrulandi ríkir víðast efnahagsleg stöðnun þrátt fyrir tilraunir evrubankans með seðlaprentun upp á um miaEUR 80 á mánuði. "Fastgengi" hentar fáum. Að láta gengi gjaldmiðils í einu landi ráðast af því, hvernig hagkerfi og peningamálastjórnun ganga í öðru landi, er slæm hugmynd.
Fjármálamarkaðir heimsins hafa verið dapurlegir 2015-2016. Efnahagsástandið í olíuframleiðslulöndunum er talin vera meginástæðan, en t.d. Persaflóaríkin hafa selt gríðarlegt magn verðbréfa til að fjármagna mjög illa rekna ríkissjóði sína. Þetta olli hruni á hlutabréfamarkaði í fyrra. Hinn ríkisrekni norski olíusjóður varð við þetta fyrir miklu tapi. Þar við bætist, að til að halda norska ríkissjóðinum á floti er nú farið að veita þangað fé úr téðum sjóði. Þrátt fyrir þennan öfluga olíusjóð Norðmanna, sem átti að verða þeirra lífeyrissjóður og er að tiltölu álíka stór og íslenzka lífeyrissjóðakerfið, en Norðmenn eiga ekkert slíkt kerfi, þá hefur norska hagkerfið glatað trausti markaðarins, sem hefur leitt til 30 % falls NOK. Norski olíuiðnaðurinn, sem að meirihluta er ríkisrekinn, hefur sagt upp tugum þúsunda starfsmanna síðan árið 2014, og sér ekki fyrir endann á aukningu atvinnuleysis í Noregi. Íslendingar starfandi í Noregi hafa margir hverjir orðið fyrir barðinu á minnkandi umsvifum í Noregi. Þeir geta nú flestir fundið sér starf við hæfi á Íslandi.
Ríkisdrifin einhæfni atvinnuvega er einhver versta moðsuða í atvinnulegu tilliti, sem jafnaðarmönnum hefur til hugar komið, en þeir höfðu undirtökin í norskum stjórnmálum, þegar olíuvinnslustefna Norðmanna var mótuð. Þeir flugu hátt, og fall þeirra er að sama skapi mikið.
Nú verður vitnað í grein eftir Chris Giles í Financial times, sem birtist í Morgunblaðinu 10. marz 2016 undir fyrirsögninni:
"Hagfræðingar gera lítið úr hættu á heimskreppu".:
"Fjárfestar og fjármálamarkaðir hafa verið of fljótir á sér að trúa því versta um ástand alþjóðahagkerfisins. Það hefur aukið líkurnar á sjálfskapaðri og óþarfri niðursveiflu, að því er haft var eftir leiðandi hagfræðingum í vikunni.
Olivier Blanchard, fyrrverandi yfirhagfræðingur hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, kallar eftir, að fólk skoði "staðreyndirnar". Blanchard og kollegar hans hjá Peterson Institute of International Economics, PIIE, segja, að svartsýni um þróun efnahagsmála á heimsvísu á árinu 2016 gangi í berhögg við grundvallar staðreyndir í efnahagslífinu.
Þeir benda á, að fjármálamarkaðir veiti tæplega gott spágildi um væntanlega niðursveiflu og að réttara sé að líta á lækkandi verðlag á mörkuðum sem stöðugleikaafl frekar en undanfara mikils hruns. Blanchard og samstarfsmenn hans vilja meina, að slík lækkun verðlags sé til marks um, að markaðurinn sé að stefna aftur í eðlilegt horf, því að verðlag á mörkuðum var þegar orðið upp blásið vegna tilrauna seðlabanka til að örva efnahagslífið."
Fjármálamarkaðurinn á Íslandi hefur frá árslokum 2015 dregið dám af hinum erlenda og stóð nánast í stað á fyrsta ársfjórðungi 2016. Hið sama verður ekki sagt um raunhagkerfið og viðskiptajöfnuð við útlönd. Nú eru reyndar teikn á lofti um, að verðbréfamarkaðurinn sé að taka við sér víða erlendis og að hann muni jafnframt rétta úr kútnum hérlendis.
Á Íslandi jókst landsframleiðsla á mann um 4,5 % á ári tímabilið 2003-2007. Síðan féll hún um 3,0 % á ári til 2010, og síðan þá hefur hún vaxið um 1,8 % á ári að jafnaði og frá stjórnarskiptunum 2013 um 4,0 % á ári. Mest munar um auknar fjárfestingar á öllum sviðum þjóðlífsins, aukna einkaneyzlu, aukin útflutningsverðmæti bolfisks og ferðaþjónustu. Það er mun bjartara yfir íslenzka hagkerfinu en annars staðar um þessar mundir, og það ætti að endurspeglast á innlenda fjármálamarkaðinum, er frá líður. Það er verið að skjóta traustari stoðum undir gjaldeyrisöflunina með fjárfestingum í a.m.k. þremur virkjunum, Þeistareykjum, Búrfelli 2 og Hellisheiðarvirkjun, og þremur iðjuverum, sem framleiða eiga kísil til útflutnings, PCC á Bakka og United Silicon og Thorsil í Helguvík. Það er líka verið að fjárfesta fyrir tugi milljarða kr í gistirými um allt land. Til að anna spurn eftir vinnuafli þarf að flytja það frá útlöndum, og það virkar dempandi á verðbólguna.
"Þó svo að fást þurfi við ýmis vandamál víða um heim, ekki sízt vegna lítillar framleiðniaukningar, "þá eru flest hagkerfi, og þá ekki sízt Kína og Bandaríkin, að vaxa með sjálfbærari hætti í dag en þau gerðu fyrir áratugi, þótt þau vaxi hægar", segir hann (Blanchard). "Fyrir vikið er enn brýnna, að við leyfum okkur ekki að láta truflast af því, þegar skott fjármálamarkaðarins dillar á kjölturakka efnahagslífsins"."
Þarna er minnzt á litla framleiðniaukningu, sem sé eitt af vandamálum vestrænna hagkerfa um þessar mundir. Það á líka við um Ísland. Undantekning er þó sjávarútvegurinn, þar sem launakerfi sjómanna er afar afkastahvetjandi, og í landvinnslunni (sem og á sjónum) hefur tæknivæðingin verið hraðfara á undanförnum árum með sjálfvirknivæðingu, og leitt til framleiðniaukningar þar. Aukin fiskigengd stuðlar að enn meiri framleiðni á sjó, og þar er fiskveiðistjórnunarkerfið að skila árangri, enda er nú verið að skila útgerðarmönnum aflaskerðingum, sem þeir tóku á sig í fiskverndarskyni.
Landbúnaðurinn hefur einnig aukið framleiðni sína mikið með fækkun bænda, meiri framleiðslu og mikilli vélvæðingu. Senn mun fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi jafngilda 44´000 manns á landinu að jafnaði, sem er 13 % aukning, sem gæti þýtt allt að 20 % neyzluaukningu, þar sem hér er að langmestu leyti um fullvaxið fólk að ræða. Markaður landbúnaðarins fer stækkandi bæði innanlands og utan, svo að hagur framleiðenda og úrvinnsluaðila ætti að fara batnandi. Hlutfall matarkostnaðar af heildarútgjöldum heimila fer síminnkandi.
Íslenzkur landbúnaður stendur veikt að vígi í verðsamkeppni við matvæli framleidd á suðlægari breiddargráðum, sem þar að auki er víða fjárhagslega styrktur, t.d. í Evrópusambandinu. Hins vegar stendur hann sterkt að vígi í samkeppni um gæði matvælanna. Hann keppir í þeim efnum í raun við lífrænt ræktað grænmeti og kjöt af lífrænt öldum dýrum. Ef blekbóndi hefur val á milli íslenzkrar landbúnaðarvöru og lífrænnar vöru erlendis frá, þá velur hann þá fyrr nefndu á grundvelli gæðanna.
Í íslenzkri stóriðju hefur með tæknivæðingu og dugnaði starfsmanna náðst fram hagræðing, sem hefur skilað sér í aukinni framleiðni. Miðað við stærð er framleiðni veranna góð, en t.d. álverið í Straumsvík er svo lítið, að það nær ekki hagkvæmni stærðarinnar hjá samkeppnisverunum erlendis. Það á einnig erfitt uppdráttar vegna hás raforkuverðs, sem er í bandaríkjadölum og fylgir vísitölu neyzluverðs í BNA.
Ferðaþjónustan veitir flestum starfsmönnum atvinnu af "útflutningsgreinunum", líklega upp undir 20 þúsund manns á háannatíma. Ferðaþjónustan er mannaflsfrek, og þar er lítil framleiðni. Þessa framleiðni, þ.e. afrakstur af hverjum ferðamanni per starfsmann, er hægt að auka með því að selja aðgang að ferðamannastöðum. Það er líka æskilegt til að dreifa álagi og þar með að forða tjóni á viðkvæmri náttúru. Ferðamenn eru vanir slíku, og ef verðinu er stillt í hóf m.v. þá þjónustu, sem í boði er, þá þykir slík gjaldtaka ekki tiltökumál. Hún mundi standa undir aðstöðusköpun, umhverfisvernd og öryggiseftirliti á staðnum.
15.5.2016 | 13:05
Í tilefni forsetakosninga 2016
Ótrúlegur fjöldi fólks lýsti opinberlega yfir áhuga sínum á að taka við embætti af dr Ólafi Ragnari Grímssyni þann 1. ágúst 2016, en nokkrir hafa heltst úr lestinni áður en kom að skiladegi meðmælendalista. Vekur áhugi svo margra grunsemdir um, að einhvers misskilnings gæti um eðli þessa embættis, því að embættinu eiga, eðli þess samkvæmt, ekki að gegna neinir "meðaljónar", heldur afburðamenn, sem landsmenn geta litið til með trausti og stolti.
Við lestur Stjórnarskrárinnar kemur í ljós, að ákvæðin um forsetaembættið bera með sér, að grunnur hennar er frá þeim tíma, er Danakóngur var að missa völd sín í hendur þingsins. Þar eru leifar af orðalagi um, að forsetinn (kóngurinn) skuli hafa hitt og þetta með höndum, sem kóngurinn hafði áður, en annars staðar er klykkt út með, að ráðherrarnir hafi í raun og veru fengið þessi völd í hendur. Þessum ruglingi er brýnt að eyða. Stjórnarskráin á að merkja, það sem þar stendur skrifað, hvorki meira né minna. Hún á að vera auðlesið og auðskilið plagg "hverjum" unglingi um fermingaraldur.
Blekbónda er í minni, að í gagnfræðadeild Laugarnesskóla voru nemendur upp úr 1960 látnir lesa bók, sem hét "Félagsfræði", og þar var m.a. öll Stjórnarskráin, sem hinn frábæri kennari, Pálmi Pétursson, útlistaði á sinn skýra og skemmtilega hátt fyrir nemendunum, 13-14 ára.
Á Íslandi er þingbundin ríkisstjórn. Stjórnmálaleg völd eru hjá Alþingi, og hlutverk forsetans er að staðfesta lög frá Alþingi eða að synja þeim staðfestingar, og falli þingmeirihluti í Alþingiskosningum, þá felur hann eftir atvikum nýjum manni umboð til stjórnarmyndunar; forseti velur þar með næsta forsætisráðherra.
Eins og fram kom 5. apríl 2016, er þingrofsvaldið hjá forseta lýðveldisins og forsætisráðherra í sameiningu, þ.e. báðir þurfa að samþykkja þingrof, og þingrof á ekki að samþykkja, ef á þingi ríkir starfhæfur meirihluti að baki ríkisstjórnar. Þannig er meginreglan, að sama ríkisstjórn skuli sitja út kjörtímabil, nema hún missi starfhæfan meirihluta á þingi.
Á hvort tveggja hefur reynt hjá dr Ólafi. Er þess skemmst að minnast, að eftir kosningarnar vorið 2013 valdi hann að fela Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, umboð til stjórnarmyndunar, en sniðgekk formann stærsta flokksins, Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, þó að hann hefði bæði unnið persónulegan sigur og flokkur hans bætt við sig fylgi og væri stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Þessi ráðstöfun orkaði þess vegna tvímælis, en hefur væntanlega ráðizt af viðhorfum forsetans sjálfs. Það er þó erfitt að rígnegla reglu um þetta val í Stjórnarskrá, því að forseti ber ábyrgð á sínum gjörðum og verður líka að standa þjóðinni reikningsskap á 4 ára fresti og verður þá að axla lýðræðislega ábyrgð.
Þá eru alþekktar 3 synjanir forsetans á lögum frá Alþingi, sem dr Ólafur reið á vaðið með. Sú fyrsta (fjölmiðlalög) var geðþóttaákvörðun hans og orkaði tvímælis, þar sem lögin áttu ekki að öðlast gildi fyrr en á næsta kjörtímabili.
Hinar tvær voru fyllilega réttmætar (Icesave) á þeim grundvelli, að þar var Alþingi að skuldbinda ríkissjóð til greiðslu á skuldum einkaaðila, sem enginn vissi þá, hversu háar yrðu, er upp yrði staðið. Það má þannig segja, að þessi alræmdi gjörningur vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi brotið í bága við 21. grein Stjórnarskrárinnar, og þetta voru auðvitað algerlega fráleit lög. Nú vitum við, að þessi skuld hefði numið um miaISK 210, sem fallið hefðu í gjalddaga í júní árið 2016.
Í viðtali Ólafar Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur við forseta lýðveldisins, sem birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 13. maí 2016, greinir hann frá þeirri ósvífni og gríðarlega þrýstingi, sem hann varð fyrir í lok árs 2009 og í byrjun árs 2010, í því skyni að sannfæra hann um nauðsyn þess að samþykkja ólögin um Icesave. Í fyrstu útgáfuna voru reyndar sett ströng skilyrði stjórnarandstöðunnar, sem forsetinn samþykkti, en viðsemjendurnir, Bretar og Hollendingar, höfnuðu. Seinni tveimur útgáfunum synjaði forsetinn samþykkis, og fóru lögin þá í þjóðaratkvæði, þar sem þjóðin tók undir orð Davíðs Oddssonar, sem hann hafði viðhaft í sjónvarpsviðtali á RÚV haustið 2008, bresti blekbónda ekki tímaskynið, að við greiðum ekki skuldir óreiðumanna.
Nú hafa verið rifjuð upp orð forsetaframbjóðandans Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings, sem hann viðhafði um þetta leyti. Þau sýna, svo að ekki verður um villzt, að hefði hann verið í sporum Ólafs Ragnars, hefði hann samþykkt Svavarssamninginn án skilyrða. Tilfærð orð Guðna, sagnfræðings, og núverandi forsetaframbjóðanda, hjá Tý í Viðskiptablaðinu 12. maí 2016, eru þessi:
"Það getur verið, að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri, og kannski er þetta það bezta, sem við, eða einhver annar, gæti fengið. Haldið eða sleppið, það eru skilaboðin, sem við fengum.
Ég held, að hver sá, sem gagnrýnir samninganefndina fyrir linkind, sé að horfa, viljandi eða óviljandi, framhjá því, hversu ótrúlega erfið staða íslenzkra stjórnvalda er."
Þessi afstaða fræðimannsins er í samræmi við afstöðu ýmissa annarra fræðimanna, t.d. við Háskóla Íslands, á þessum tíma, þó að nú vilji allir Lilju kveðið hafa. Þeir guggnuðu gagnvart hótunum í garð Íslendinga erlendis frá. Gunguháttur af þessu tagi er þjóðhættulegur og á alls ekki heima á Bessastöðum á Álftanesi. Téður Guðni hefur nú í kosningabaráttunni verið spurður um afstöðu sína til inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB. Er skemmst frá því að segja, að hann virðist fylgja línu Nestors íslenzkra jafnaðarmanna, Jóns Baldvins Hannibalssonar, um, að við "göngum ekki inn í brennandi hús". Forsetaframbjóðandinn hefur hins vegar ekki þá grundvallarafstöðu, að innganga þjóni ekki hagsmunum Íslands, heldur tekur hann aðspurður sér fyrir hendur að tíunda kosti og galla inngöngu. Vingulsháttur af þessu tagi er ótraustvekjandi og sæmir illa leiðtogaefni.
Það er þó alveg út í hött, að forsetaframbjóðendur séu að tjá sig að fyrra bragði, eins og frambjóðendur til Alþingis, um, að þeir muni beita sér fyrir eða stuðla að framgangi alls konar mála, sem stjórnmálalegur ágreiningur er um í landinu, eins og t.d. auknum tekjujöfnuði. Að forsetaframbjóðandi ætli, nái hann embætti, að reyna að breyta tekjuskiptingu, sem þegar er orðin á markaði, er algerlega óviðeigandi málflutningur og sýnir, að slíkir framjóðendur eiga ekkert erindi sem húsbændur á Bessastöðum, því að þeir gera sér ekki grein fyrir eðli embættisins.
Forsetaembættið er þó ekki stjórnskipulega óþarft, en það þarf að auka vægi þess og skilgreina betur hlutverk þess. Landið á samt áfram að vera þingræðisland.
Í 2. gr. Stsk. stendur:
"Alþingi og forseti Íslands fara með löggjafarvaldið."
Einhlítara og eðlilegra væri:
"Alþingi fer með löggjafarvaldið. Forseti lýðveldisins staðfestir gildistöku laga með undirskrift sinni, þegar hann hefur gengið úr skugga um, að þau brjóta ekki í bága við Stjórnarskrá. Ef hann telur vafa leika á um lögmæti nýrra laga, sendir hann þau til Hæstaréttar til úrskurðar um álitaefni. Ef Hæstiréttur telur lögin í lagi, staðfestir forseti þau; annars endursendir hann þinginu þau með rökstuddri höfnun.
Ráðherra má með tilstyrk forseta lýðveldisins setja neyðarlög, en þau falla þá úr gildi 35 dögum frá staðfestingu forseta, nema Alþingi hafi í millitíðinni samþykkt þau með meirihluta greiddra atkvæða."
3. gr. Stsk.: "Forseti og önnur stjórnvöld .... fara með framkvæmdavaldið."
Að blanda forseta inn í framkvæmdavaldið gengur ekki, þar sem skal ríkja þingbundin ríkisstjórn. Alþingi skal samþykkja ráðherraskipanina, og ráðherrar skulu lúta eftirliti Alþingis. Forseti velur í raun aðeins forsætisráðherra og skiptir sér síðan ekki af framkvæmdavaldinu.
11. gr. Stsk.: "Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum."
Bezt væri, að stjórnlagafræðingar fengju það hlutverk að gera endurskoðaða Stjórnarskrá svo skýra úr garði, að þessi texti verði óþarfur.
13. gr. Stsk.: "Forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt."
Forseti á að vera sjálfstæður í stjórnarathöfnum á þeim sviðum, sem honum eru falin til ábyrgðar. Þessi texti ætti að falla út.
15. gr. Stsk.: "Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim."
Í raun er þetta alls ekki svo. Hér ætti að standa forsætisráðherra í stað forseta.
20. gr. Stsk.: "Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það."
Ekki verður séð, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt í Stjórnarskrá, þar sem þingbundin ríkisstjórn ríkir. Fremur ætti að standa, að Alþingi geti vikið ráðherra eða heilli ríkisstjórn frá með samþykki vantrauststillögu. Hjá forseta lýðveldisins einum ætti hins vegar þingrofsvaldið að vera. Það getur annars orðið að bitbeini í pólitískum hráskinnaleik, sællar minningar frá 5. apríl 2016.
21. gr. St.sk.: "Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til."
Það mundi skapa rugling og togstreitu í stjórnkerfinu, ef forseti stæði í samningum við önnur ríki. Hér ætti að standa utanríkisráðherra í stað forseta, og hnykkja ætti á afsalsvarnaglanum þannig, að afsal eigna eða ríkisábyrgð á skuldsetningu annarra, kvaðir eða breytingar á stjórnarhögum, þarfnist, eftir samþykki Alþingis, staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
26. gr. St.sk. kveður á um staðfestingu og synjun forseta á lögum frá Alþingi. Hér er forseta veitt geðþóttavald til að synja lögum staðfestingar og ætti að afnema það, enda geti 15 % kosningabærra manna beint tilmælum til forseta lýðveldisins um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsett lög. 20 % kosningabærra manna geti einnig beint til forseta áskorun um framlagningu lagafrumvarps á Alþingi, og í því eina tilviki geti hann upp á eigin spýtur synjað lögum staðfestingar og endursent þinginu. Þetta geti hann þó einnig gert með tilstyrk Hæstaréttar, sem hafi dæmt, að lög frá Alþingi brjóti í bága við Stjórnarskrá.
Forsetaframbjóðendur 2016 virðast ekki allir gera sér grein fyrir, hvað það þýðir, að á Íslandi ríkir þingbundin ríkisstjórn, og samkvæmt núverandi Stjórnarskrá hefur forsetinn enga aðkomu að stefnumörkun ríkisstjórna né málsmeðferð á Alþingi. Þegar frambjóðendur til forsetaembættisins viðra áhuga sinn á framgangi hinna ýmsu þjóðfélagsmála í því skyni að afla framboði sínu fylgis, er það alveg út í hött með hliðsjón af valdmörkum og hlutverki íslenzka forsetaembættisins.
Forseti lýðveldisins þarf helzt að hafa sannað framúrskarandi hæfileika sína á einhverju sviði, en það er ekki nóg að hafa rétt dratthalazt í vinnuna kl. 0900 og dundað þar við misjafnan orðstír.
Forseti þarf að vera vel að sér um sögu lands og þjóðar og þekkja til helztu afreka landsmanna á vísindasviðum, atvinnusviðum og listasviðum.
Forseti þarf að vera vel ritfær og talfær á móðurmálinu, á öðru Norðurlandamáli og ensku að lágmarki.
Ætli ekki mundi fækka verulega í hópi frambjóðenda, sem þó hefur tekizt að afla tilskilinna meðmælenda, ef þessi einfalda kröfulýsing yrði lögð til grundvallar framboðum ?
Hvað sem því líður, hljóta kjósendur að reyna að gera sér sem bezta grein fyrir þessum og öðrum hæfileikum frambjóðenda til forseta, sem þeim þykja máli skipta við valið. Þá þýðir lítið fyrir frambjóðendur að drekkja umræðunni með málum, sem engu máli skipta fyrir embættisfærslu og framgöngu forseta innanlands eða utan. Landsmenn þurfa að geta litið til forsetans með stolti sem æðsta fulltrúa íslenzka lýðveldisins.
Nú er kominn fram á sviðið í baráttunni um forsetaembættið 2016 nýr frambjóðandi, sem uppfyllir kröfulýsinguna að ofan til forseta. Hann hefur sýnt, svo að ekki verður um villzt, að hann hefur þrek til að standa gegn hagsmunaöflum erlendis og innanlands, sem vilja fórna hagsmunum almennings á Íslandi á altari sérhagsmuna. Hér er t.d. átt við Icesave-baráttuna.
Hann hefur jafnframt sýnt svart á hvítu, að hann velkist ekki í vafa um, hvort þjónar hagsmunum þjóðarinnar betur að halda óskoruðu fullveldi landsins eða að deila því með tæplega 30 öðrum þjóðum í ríkjasambandi.
Þar að auki hefur þessi maður manna beztu þekkinguna á því, hvernig stjórnskipun landsins virkar í raun, og er slíkt mikill styrkur fyrir forseta. Þennan mann, Davíð Oddsson, þarf ekki að kynna frekar til sögunnar.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.4.2016 | 09:54
Ríkjandi stétt í tilvistarvanda
Um öll Vesturlönd næðir um valdhafa og forystu hefðbundinna valdaflokka, þótt í stjórnarandstöðu sé. Ísland er þar engin undantekning. Lítið umburðarlyndi gagnvart valdhöfum er tímanna tákn. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram til skýringa á þessari óvenjulegu stöðu, sem einhverjir spekingar kynnu að kalla "postmoderníska", en fáir eru nokkru nær með þann orðalepp.
Taugaveiklun stjórnarandstöðunnar á Íslandi birtist ljóslega, þegar stjórnarkreppa vofði yfir á Íslandi í kjölfar Fésbókarfærslu SDG þann 5. apríl 2016, en þá skaut hann yfir markið með því að stilla bæði forseta lýðveldisins og þingflokki sjálfstæðismanna upp við vegg auk þess að móðga sinn eigin þingflokk. Því fer fjarri, að stjórnarandstaðan hafi hreinan skjöld varðandi aflandsfélög. T.d. reyndist innsti koppur í búri Samfylkingar, gjaldkerinn, hafa siglt undir fölsku flaggi, vera erkikapítalisti og dylja félagana þess að vera eigandi aflandsfélags. Orðrómur er um, að háttsettir menn innan verkalýðshreyfingarinnar úr röðum stjórnarandstöðuflokkanna séu á meðal eigenda aflandsfélaga. Það væri óskandi, að nöfn allra þessara íslenzku eigenda verði birt sem fyrst, svo að hreinsa megi andrúmsloftið.
Algeng skýring erlendis er, að "elítan", hafi misst traust almennings og trúverðugleika á flestum sviðum með mistökum sínum, úrræðaleysi og jafnvel spillingu. Á dögum borgarabyltinga 17. aldar (England), 18. aldar (Frakkland) og 19. aldar (Norðurlönd) var talað um úrkynjun aðalsins. Borgarar og bændur veltu aðlinum úr sessi. Á Íslandi voru yfir 90 % mannskapsins leiguliðar og þurrabúðarmenn. Þeir eignuðust loks jarðirnar og bátana á 19. og 20. öld, og sú breyting leiddi til kjarabyltingar á Íslandi. Hvað nú, er byltingarhugur í almúganum á Íslandi ?
Á Íslandi hefur stéttaskiptingunni stundum verið lýst svo af alþýðu manna, að hrossataðskögglarnir fljóti jafnan ofan á, en menntakerfið hefur mjög dregið úr stéttaskiptingu á Íslandi. Á sumum vettvöngum þjóðfélagsins er þó erfitt að mótmæla þessu með hrossataðskögglana, en annars staðar á þessi myndlíking ekki við, því að við stjórn eru víða hinir mætustu menn og fremstir á meðal jafningja, eða eins og Rómverjar kölluðu Octavianus, sem síðar varð Augustus, fyrsti keisari Rómarveldis, "Primus inter Pares".
Einn þeirra, sem hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að leita skýringa á þjóðfélagsstöðunni, sem við blasir, er prófessor Ívar Jónsson í Morgunblaðsgrein 24. október 2015. Þar skrifaði hann m.a.:
"Ógæfa Sjálfstæðisflokksins stafar af því að hafa lagt ofuráherzlu á að tileinka sér engilsaxneska nýfrjálshyggju Thatcherismans í stað þýzkrar nýfrjálshyggju Ordoliberalismans, sem leggur höfuðáherzlu á að tryggja samkeppni og réttlæti með sérstökum aðgerðum og regluverki gegn fákeppni. Um leið er markmiðið að stemma stigu við samþjöppun efnahagslegs og stjórnmálalegs valds einokunar- og fákeppnisfyrirtækja.
Umræða um slíka nýfrjálshyggju var áberandi í Sjálfstæðisflokkinum á 6. áratuginum og Viðreisnarárunum, og þar var fremstur í flokki hugmyndafræðingurinn Birgir Kjaran, ritstjóri Frjálsrar verslunar. Á þeim árum einkenndist stefna Sjálfstæðisflokksins af raunsæi og pragmatisma, en ekki hreinni hugmyndafræði. Útgangspunkturinn var samfélagsleg ábyrgð, sem fólst í áherzlum á hagsmuni þjóðarinnar, stétt með stétt, frjálsri verzlun, raunverulegri samkeppni og umhverfisvernd grænu byltingarinnar."
Það er gott og blessað að rifja upp forna dýrðartíma Sjálfstæðisflokksins frá valdatíma Ólafs Thórs og Bjarna Benediktssonar, eldri. Flokkurinn sló þá á strengi, sem endurómuðu í brjóstum þjóðar, sem var að feta sig áfram á braut sjálfstæðis, og var þá enn eftirbátur margra í lífskjörum, enda ríkti hér harðsvírað haftakerfi, sem vinstri flokkarnir höfðu smeygt um háls þjóðarinnar í Kreppunni miklu, og Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka barðist gegn og afnam síðan að mestu með Alþýðuflokkinum í upphafi valdaferils Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971. Viðreisnarstjórnin er líklega sú ríkisstjórn Íslands, sem mestum vatnaskilum olli í hagkerfinu á 20. öld til hagsbóta fyrir almenning. Núverandi ríkisstjórn með Bjarna Benediktsson, yngri, sem fjármála- og efnahgsráðherra er þegar orðin sú ríkisstjórn, sem mestum hagsbótum hefur komið í kring fyrir almenning á fyrstu tveimur áratugum 21. aldarinnar. Afrek hennar með uppgjöri við slitabú föllnu bankanna til að greiða fyrir afnámi gjaldeyrishafta verður seint fullþakkað.
Til að fást við vandamál nútímans dugir hins vegar ekki að horfa til fortíðar, þótt hún sé glæst á köflum. Það er ekki nóg að beita gömlum ráðum á viðfangsefni nútímans, þó að hugmyndafræði Ludwigs Erhards og Konrads Adenauers um að stöðva svartamarkaðsbrask í Vestur-Þýzkalandi eftirstríðsáranna og að stemma stigu við auðsöfnun og valdasamþjöppun með valdbeitingu ríkisins til að sundra risum á markaðinum til að tryggja frjálsa samkeppni, hafi gefizt vel í Vestur-Þýzkalandi eftir fall Þriðja ríkisins og geti áreiðanlega verið gagnleg á Íslandi nútímans einnig að breyttu breytanda.
Nú dugir fólki þó ekki lengur efnaleg velferð, heldur vill það móta samfélag sitt með því að koma að ákvarðanatöku. Það er brýnt að svara þessu með því að móta reglur um atkvæðagreiðslur í nærsamfélaginu og um málefni ríkisins á netinu, og nýta þannig tæknina til eflingar lýðræðinu, svo að það nái að þróast án óheyrilegs kostnaðar, sem atkvæðagreiðslum með pappír og blýanti upp á gamla móðinn fylgir. Sjálfstæðisflokkinum væri í lófa lagið að ríða hér á vaðið í einu af sveitarfélögunum, þar sem hann hefur einn farið með völdin um langt árabil.
Síðar í grein sinni,
"Sjálfstæðisflokkur í sjálfheldu - Fjórflokkurinn í kreppu", segir Ívar Jónsson:
"Samkvæmt stefnuskrá Pírata eru þau ekki andvíg verðtryggingu lána, en vilja kanna lögmæti verðtryggingarinnar. Þau vilja lögfesta lágmarkslaun, en styðja ekki afgerandi skipulagsprinsipp norræns velferðarkerfis, þ.e. jafnan rétt til aðstoðar óháð tekjum viðkomandi. Þau eru opin fyrir nýfrjálshyggjukerfi með tilheyrandi mati á þörf hvers og eins. Píratar vilja einnig auka einkavæðingu velferðarkerfisins með því að styrkja hlut einkafyrirtækja í kerfinu til að minnka skrifræði í kerfinu. Þau vilja einfalda skattakerfið, en skýra ekki, hvernig þau vilja gera það, eða hvort það feli í sér andstöðu við skattakerfi, sem byggist á mörgum stighækkandi skattþrepum. Þá má nefna, að Píratar hafa ekki stefnu í vaxtamálum, og þau eru ekki andvíg hávaxtastefnu nýfrjálshyggjunnar. Loks hafa þau enga skýra stefnu gegn fákeppnisfyrirtækjum."
Hér orkar margt tvímælis hjá prófessor Ívari. Út af fyrir sig ættu Píratar, sem eru uppreisnarflokkur gegn ríkjandi stétt, að geta tekið undir hið gamla slagorð sjálfstæðismanna, "Báknið burt", og þess vegna kemur ekki á óvart, að þeir vilji einfalda opinbera stjórnsýslu og þar með skattakerfið, sem reyndar er og hefur verið í einföldunarferli á þessu kjörtímabili, þó að óskandi væri, að Sjálfstæðisflokkinum hefði orðið betur ágengt með samstarfsflokkinn í þeim efnum en raun ber vitni um. Ef kjósendur veita pírötum verulegt brautargengi í næstu Alþingiskosningum, blasir við, að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugmyndafræðilega og fylgislega myndað tveggja flokka ríkisstjórn með pírötum, en hvort slíkt verður raunhæft fer eftir því, hvernig þingflokkur pírata verður skipaður. Þessi hreyfing stjórnleysingja er enn að mestu óskrifað blað, en eðli málsins samkvæmt eiga stjórnleysingjar meira sameiginlegt með frjálshyggjumönnum en forræðishyggjufólki, sem leynt og ljóst vinnur að útþenslu báknsins.
Jafnaðarstefnan hefur gjörsamlega gengið sér til húðar á Vesturlöndum, og hún er alls óskyld hinni þýzku markaðshyggju með félagslegu ívafi. Að allir fái sömu bætur úr ríkissjóði án tillits til efnahags er hagfræðilegt óráð. Þá yrðu upphæðirnir svo lágar, að þeir, sem virkilega þurfa á öryggisneti hins opinbera að halda, stæðu í sömu sporum í sinni neyð. Þetta jafnaðarkerfi er löngu hrunið hvarvetna, enda var það hagfræðilegt óráð. Öldrunarsamfélög Vesturlanda hafa ekki lengur efni á jafnaðarmönnum við völd. Þess vegna hrynur af þeim fylgið.
Dæmi um óréttlætið, sem í þessu felst, er fyrirætlun félagsmálaráðherra að hækka fæðingarorlofsfé miðlungs- og hátekjumanna, en láta ungar mæður, sem ekki hafa verið á vinnumarkaðinum, liggja óbættar hjá garði. Það er fullkomin ósvinna, að samfélagið skuli ekki fremur kjósa, og það strax, að leggja út öryggisnet sitt til slíkra mæðra, hvort sem þær eru einhleypar eður ei, og greiða þeim fæðingarorlofsfé, sem dugir til að framfleyta slíkum mæðginum eða mæðgum.
Prófessor Ívar klínir mörgu á nýfrjálshyggjuna, sem hún á ekki. Eitt er hávaxtastefnan. Nú ríkir fyrrverandi Trotzkyisti í Seðlabankanum við misjafnan orðstír, maður, sem sóttur var til Basel í Sviss, af því að hann var ekki talinn hallur undir "nýfrjálshyggju", heldur hafði starfað fyrir dr Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra og formann Alþýðubandalagsins (Alþýjasleifarlagsins). Hann versnaði þó varla við að vinna fyrir dr Ólaf.
Þessi maður hefur ásamt sinni peningastefnunefnd haldið raunvöxtum í landinu í hæstu hæðum, svo háum, að menn hafa aldrei séð annað eins, og er líklega heimsmet sem meðaltal í 3 ár og gerir öllum atvinnurekstri erfitt fyrir, svo að ekki sé nú minnzt á kaupendur sinnar fyrstu íbúðar. Gagnsemin er mjög umdeilanleg við ríkjandi stöðnun og jafnvel verðhjöðnun erlendis. Verðbólguspá Seðlabankans undir stjórn þessa manns hefur reynzt vera kerfisbundið allt of há, og hefur bankinn þannig orðið sekur um að skapa allt of miklar verðbólguvæntingar í þjóðfélaginu, sem eru þensluhvetjandi. Hávaxtastefna dregur úr hagvexti, og það er þess vegna órökrétt að klína henni á nýfrjálshyggju. Fjármálakerfið hefur ekki frekar reynzt skjólstæðingur frjálshyggjumanna en jafnaðarmanna, nema síður sé, sbr tímabilið 2003-2008 á Íslandi.
Því skal mótmæla með vísun í Landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins 2015, að nýfrjálshyggja eigi sér heimilisfesti í flokkinum. Stefnu Sjálfstæðisflokksins svipar, ef eitthvað er, meira til markaðshyggju með félagslegu ívafi í anda CDU í Þýzkalandi en til Thatcherisma eða Reaganisma, en þau tvö hafa mest verið kennd við nýfrjálshyggju á Vesturlöndum undanfarna áratugi.
Í lok greinar sinnar skrifar téður Ívar Jónsson:
"Það er því ekki sjáanleg nein alvarleg ógn við núverandi nýfrjálshyggjukerfi. Líklegt er því, að pólitísk óvissa ríki áfram og að Fjórflokknum muni halda áfram að hnigna, nema ef ske kynni, að þau öfl eflist innan Sjálfstæðisflokksins, sem vilja fara þýzku nýfrjálshyggjuleiðina."
Ef prófessor Ívar telur vísitölutryggingu fjárskuldbindinga verðskulda heitið "núverandi nýfrjálshyggjukerfi", þá verður að benda honum á, að lögin um hana, Ólafslög, eru kennd við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, prófessor Ólaf Jóhannesson, og að fyrsta tæra vinstri stjórn lýðveldisins, 2009-2013, virtist engan áhuga hafa á að draga úr vísitölutengingum, hvað þá að afnema þær, enda reyndist sú ríkisstjórn draga taum alþjóðlegs fjármálavalds í hvívetna.
Vísitölutengingar í einu hagkerfi eru sjúkdómseinkenni, en ekki sjúkdómur. Sjúkdómurinn er óstöðugt hagkerfi. Íslenzka hagkerfið er nú betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr að fóstra stöðugleika. Það er vegna fjölbreytilegra og stórra tekjustofna í erlendri mynt. Jón Daníelsson, fræðimaður við London School of Economics, er með athygliverðar kenningar um, að hávaxtastefna Seðlabanka Íslands vinni gegn stöðugleikamarkmiðum ríkisstjórnarinnar.
Frelsi innlánseigenda og lántakenda til að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra skuldbindinga hefur verið aukið, og stefnumiðið hlýtur að vera, að hér verði slíkur stöðugleiki í hagkerfinu, að vísitölutengingar verði óþarfar til skemmri og lengri tíma. Hingað til virðist markaðurinn þó ekki hafa viljað útrýma verðtryggingu. Fullt valfrelsi í þeim efnum er eðlilegt.
Sú almenna krafa að fá meiri aðkomu að ákvörðunum um málefni, sem almenningur ber fyrir brjósti, hefur myndað sér farveg í Pírötum. Slíkt beint lýðræði á sér góðan samhljóm í grunngildum Sjálfstæðisflokksins um einstaklingsfrelsi til orðs og æðis. Hér, eins og í öllum öðrum málum, er varða Stjórnarskrána, er hins vegar nauðsynlegt að vanda til verka, og fúskarar eiga ekki að fá að véla um hana, heldur verður að fá verkefnið stjórnlagafræðingum, svo að fullt samræmi verði innan Stjórnarskrárinnar eftir sem áður, og svo að ákvæðin um þjóðaratkvæðagreiðslu verði hafin yfir allan vafa, séu sanngjörn og leiði ekki til öngþveitis eða mikilla viðbótar útgjalda.