Færsluflokkur: Evrópumál
20.1.2016 | 09:41
Hagsmunir og hugðarefni
Er utanríkisráðherra Íslands að vinna vinnuna sína ? Um það er ástæða til að efast, því að 21. desember 2015 hafði hann uppi orð um það, að ekkert hefði komið fram, sem gæti breytt þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússland. Þetta er alrangt.
Það hefur heldur ekkert komið opinberlega fram um, að utanríkisráðherrann hafi kannað, hvað þurfi að koma til að Íslands hálfu til að Rússar mundu aflétta innflutningsbanni á íslenzk matvæli.
Allt er þetta í raun hið undarlegasta mál, því að þátttaka Íslands í þessu viðskiptabanni BNA, Kanada, Japan og ESB, skiptir engu máli fyrir áhrif þess á Rússa, vegna þess að vörur og þjónusta, sem þar um ræðir, eru ekki á boðstólum á Íslandi. Þar af leiðandi er þátttaka Íslands í því tóm vitleysa.
Utanríkisráðherra Íslands vildi sýna samstöðu landsins með sjónarmiðum Vesturveldanna, og það hefur hann reyndar margoft gert með yfirlýsingum, sem mundu standa óhaggaðar, þótt Ísland drægi sig út úr þessu viðskiptabanni af þeirri einföldu og augljósu ástæðu, að byrðunum af því er mjög misjafnlega skipt niður á þátttökuþjóðir. Það tók þó steininn úr, er viðbrögð ESB urðu ljós við því, að utanríkisráðherra fór fram á jöfnun byrða þátttökuríkjanna með því, að ESB mundi fella niður eða lækka verulega innflutningstolla á vissum íslenzkum matvælum. Við það var ekki komandi.
Hlutfall viðskipta Íslands við Rússland fyrir bann þeirra á innflutning matvæla frá BNA, EES o.fl., í refsingarskyni við útflutningsbann þessara ríkja á mjög afmarkaðri gerð vöru og þjónustu, nam um 1,5 % af VLF og er megnið af því matvæli. Hlutfall viðskipta bannþjóðanna sem hlutfall af þeirra VLF er á bilinu 0,05 % - 0,2 %, og aðeins lítill hluti af útflutningi þeirra fellur undir bann þeirra og refsiaðgerðir Rússa. Áfallið fyrir viðskipti Íslands er 7,5 - 30 sinnum stærra fyrir hagkerfi Íslands en hinna þátttökuríkjanna í þessu banni. Samt neitaði ESB Íslandi um sanngjarnar málalyktir á tilmælum Íslands. Það, ásamt öðrum málavöxtum, er næg ástæða til að framlengja ekki þetta illa ígrundaða og illa kynnta, nánast ólýðræðislega, viðskiptabann Íslands á Rússland, sem er hvorki fugl né fiskur, hvað áhrif á rússnesku hernaðarvélina áhrærir. Það á fortakslaust í þessu tilviki og öðrum tilvikum viðskiptabanns að bera slíka tillögu undir Alþingi, og slík ákvörðun á ekki að öðlast lögmæti án stuðnings gilds meirihluta á Alþingi. Vítin eru til þess að varast þau.
Í ljósi þessa sláandi samanburðar virkar það eins og blaut tuska í andlit landsmanna, að ESB skyldi ekki ljá máls á að létta undir með Íslendingum.
Að öllu þessu virtu ætti Ísland ekki að framlengja þátttöku sína í viðskiptabanni, sem rennur út í janúarlok 2016, heldur að slást í hóp Færeyinga og Grænlendinga og reyna að endurreisa viðskiptasamböndin í Rússlandi og selja þangað uppsjávarfisk, landbúnaðarafurðir og annað, sem Rússar geta og vilja borga almennilega fyrir, eins og var reyndin á áður en fór að sneyðast um gjaldeyrissjóð þeirra á árinu 2014, þegar olía og eldsneytisgas tóku að lækka mjög í verði. Er leitt til þess að vita, að ríkisstjórnin skyldi samþykkja þessa heimskulegu tillögu utanríkisráðherrans. Hún er tímabundin, og við næstu vegamót ætti að hafa farið fram umræða og atkvæðagreiðsla um málið á Alþingi. Tíma þess yrði vel varið í slíka stefnumótun miðað við margt annað á dagskrá þingsins.
28.12.2015 | 10:25
Syrtir í álinn fyrir evrunni
Evran hefur látið undan síga allt árið 2015 og lengur, og stefnir nú í, að hún verði verðminni en bandaríkjadalur. Gjaldmiðlar lifa ekki á fornri frægð, heldur endurspegla styrk viðkomandi hagkerfis, og fer ekki á milli mála, að þar hefur bandaríska hagkerfið vinninginn í heiminum um þessar mundir á meðal stórmynta, t.d. mælt í hagvexti og atvinnuþátttöku, en nærri lætur, að atvinnuleysi á evrusvæðinu, um 11 %, sé tvöfalt meira en í BNA.
Veiking evrunnar hefur létt undir útflutningi evruríkjanna, og það hefur gefið sumum þeirra byr í seglin, t.d. Þýzkalandi og Írlandi, en enn sannast á Írlandi, sem litlu og opnu hagkerfi, að "ein stærð fyrir alla" hentar Írum illa. Lágir vextir skapa nú eftirspurnarspennu á Írlandi, fasteignabólu, sem getur sprungið illilega í andlitið á þeim.
Á árinu 2016 mun reyna á litlu hagkerfin á evru-svæðinu að þessu leyti, Eystrasaltsríkin, Kýpur, Möltu og Írland. Evrubankinn verður jafnan að taka mest tillit til stóru ríkjanna, og það getur annaðhvort valdið ofþenslu, eins og hætta er á núna, eða kreppu, hjá þeim minni, t.d. Írum. Fróðlegt verður að sjá, hvernig téðum ríkjum reiðir af að þessu leyti. Þau hafa tök á mótvægisaðgerðum, en hafa þau vilja og þrek til að beita þeim ?
Einnig er áhugavert að velta fyrir sér langtímahorfum evrunnar. Í þeim efnum verður stuðzt við greinina: "The force assaulting the euro" á síðu Free exchange í The Economist, 6. júní 2015.
Hinn hægi vöxtur og ríkissjóðshalli í flestum evru-löndunum á aðeins eftir að versna í framtíðinni af lýðfræðilegum ástæðum (aldurssamsetning). Ríkið, sem harðast verður úti, er ekki lítið Miðjarðarhafsríki, heldur eimreið myntbandalags Evrópusambandsins, ESB, Sambandslýðveldið Þýzkaland.
Hækkandi meðalaldur evru-þjóðanna, fækkun á vinnumarkaði og fjölgun ellilífeyrisþega, mun draga úr hagvexti, sem annars gæti orðið, nema framleiðni vaxi til mótvægis og ellilífeyrisaldur verði hækkaður.
Nú eru neikvæð áhrif of lítillar viðkomu, sem hófst á 8. áratugi 20. aldarinnar, og hafði aldrei áður gerzt, að koma niður á hagkerfum flestra Evrópulanda. Þetta á þó í litlum mæli við um Frakka, og á alls ekki við um Breta og Íslendinga.
Á tímabilinu 2013 - 2030 mun fækka á vinnumarkaði evru-svæðisins, 20-64 ára gamalla, um 6,2 % samkvæmt spá Framkvæmdastjórnar ESB. Mest mun fækka í Þýzkalandi, þrátt fyrir flóttamannastrauminn, sem nú veldur reyndar úlfúð, eða um 12,7 %. Næst á eftir koma Portúgal með 12,1 % fækkun og Spánn með 11,3 % fækkun. Í Frakklandi mun aðeins fækka um 0,9 %, en á Bretlandi verður 2,3 % fjölgun á vinnumarkaði samkvæmt spánni og í Svíþjóð 8,1 % fjölgun.
Þegar fækkar á vinnumarkaði, fjölgar í hópi ellilífeyrisþega, því að fólk deyr eldra en áður. Þessi tvöfaldi þrýstingur á hagkerfi (víðast hvar eru gegnumstreymissjóðir, sem ríkið fjármagnar), hækkar hið svonefnda öldrunarhlutfall, ÖH, sem skilgreint er sem hlutfall 65 ára og eldri (í teljara) og 20-64 ára (í nefnara). Um þessar mundir er ÖH yfirleitt um 30 % (20 %-35 %), en mun hækka gríðarlega til 2030 og verða yfirleitt um 45 %, þ.e. 35 % (Írland) - 52 % (Þýzkaland).
Hvort sem Grikkland verður utan eða innan evru/ESB, þá verður landið að fást við snemmbær lífeyrisréttindi þegna sinna, sem í sumum tilvikum er við hálfsextugt. Þó að evrusvæðið lagi lífeyrisréttindin að hækkandi aldri við dánardægur, þá mun hagvöxtur eiga erfitt uppdráttar á næstu 15 árum af þessum lýðfræðilegu ástæðum.
Lítill sem enginn hagvöxtur mun eiga þátt í því, að evru-þjóðunum mun reynast erfitt að fást við mikla skuldabyrði opinberra aðila og einkaaðila, og þá verða viðkomandi auðveld fórnarlömb næsta samdráttarskeiðs eða fjárhagskreppu.
Hraðfara öldrun Þjóðverja skiptir máli í þessu viðfangi vegna vægis þeirra í myntsamstarfinu. Viðnámsþróttur þýzka hagkerfisins hleypti krafti í evruna á tímum bankakreppunnar 2007-2010. Síðan þá hefur evrunni hins vegar hrakað, og megna Þjóðverjar greinilega ekki lengur að halda henni sterkri, og lýðfræði stærsta hagkerfisins innan evrunnar mun veikja hana enn meira.
Nýjustu horfur lýðfræðinnar innan ESB benda til, að Bretland verði fjölmennasta ríkið þar að því gefnu, að Sameinaða konungdæmið verði áfram eitt ríki, sem haldi áfram í ESB, árið 2050. Bretar gætu þá jafnframt búið við öflugasta hagkerfi Evrópu. Þess má geta, að Rússum fækkar nú ört, og er sú neikvæða þróun eitt þeirra stærstu vandamála.
Öldrun mun hefta kraftakarl evru-svæðisins. Þjóðverjar eiga bara eitt gott svar við því.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, ritaði fróðlega grein í Fréttablaðið, 26. nóvember 2015:
"Krónan og kjörin". Þar hafnar hann yfirborðskenndu skrafi gutlara af ólíku tagi um íslenzku krónuna, ISK, sem gera hana að blóraböggli allra "skavanka" á íslenzku efnahagslífi og jafnvel þjóðlífi. Hann færir rök að því, að evran henti ekki alls kostar vel opnum, litlum hagkerfum, sem er í samræmi við frásögn í upphafi þessa vefpistils:
"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru. Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm. Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út.
Færa má rök fyrir því, að í Finnlandi sé evran ein af orsökum þessarar þróunar. Útflutningsgreinar þar í landi hafa lent í erfiðleikum af þremur ástæðum:
vegna falls Nokia, minni eftirspurnar eftir pappír og efnahagserfiðleika í Rússlandi. Við slíkar aðstæður hefði gengislækkun bætt stöðu annarra útflutningsgreina og veitt þannig viðspyrnu gegn samdrætti og launalækkunum. Vegna myntsamstarfsins er það hins vegar ekki mögulegt. Þannig kom gjaldmiðill, sem endurspeglar ekki efnahagslegan veruleika Finnlands, í veg fyrir sveigjanleika, þegar hagkerfið lenti í vandræðum."
Í litlu og opnu hagkerfi, sem háð er miklum utanríkisviðskiptum, á borð við hið íslenzka, er afleit lausn á myntmálum að tengjast annarri mynt, hverrar verðmæti ræðst af hagkerfi eða hagkerfum, sem sveiflast ólíkt litla hagkerfinu. Árangursmælikvarðar á borð við þróun landsframleiðslu á mann sýna þetta. Sameiginleg mynt er stundum hvati til ofþenslu og í annan tíma dragbítur.
Hins vegar veldur, hver á heldur í litlu hagkerfi með eigin mynt. Hægt er að sníða helztu agnúa af henni með styrkri og samþættri hagstjórn, þar sem miðað er jafnan við dágóðan viðskiptajöfnuð við útlönd, allt að 5 % af VLF, óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð af stærra taginu, allt að 100 % af árlegum innflutningsverðmætum, og launaþróun í landinu, sem tekur mið af framleiðnibreytingu í hverri grein og afkomu útflutningsatvinnuveganna.
Rekstur ríkissjóðs þarf að vera sveiflujafnandi á hagsveifluna og skuldir ríkissjóðs litlar, innan við 20 % af VLF. Með þessu móti fæst stöðugleiki, sem gera mun kleift að lækka raunvexti umtalsvert í landinu, sem yrði mörgum kærkomin kjarabót. Hins vegar þarf ríkisvaldið að hvetja til almenns sparnaðar með því að heimta einvörðungu skatt af raunávöxtun yfir MISK 1,0 og þá aðeins 15 %.
14.12.2015 | 16:16
Hryðjuverkaógnin varðar alla
Föstudagskvöldið 13. nóvember 2015 verður lengi í minnum haft, því að þá létu jihadistar (islamistar í heilögu stríði gegn "trúleysingjunum") til skarar skríða í París og myrtu þar og særðu tæplega 500 manns.
Þann 19. nóvember 2015 tilkynnti forsætisráðherra Frakka opinberlega, að hætta væri á hryðjuverkaárás á almenning í Frakklandi, þar sem eiturefnum eða sýklahernaði yrði beitt. Er þessi aðvörun vafalaust gefin að gefnu tilefni, þar sem leyniþjónusta Frakklands eða annarra landa hefur komizt á snoðir um óhugnanlega fyrirætlun jihadista um örkuml og/eða kvalafullan dauðdaga enn fleiri en þeir skutu á eða sprengdu í loft upp föstudagskvöldið hræðilega í París.
Lega Íslands hjálpar til við að draga úr líkum á hryðjuverkum hér, en útilokar þau ekki. Eftir því sem gerzt er vitað, skortir allmikið á, að íslenzka lögreglan hafi sambærilegar forvirkar rannsóknarheimildir á við lögreglu hinna Norðurlandanna. Það er full ástæða til að samræma þessar heimildir, og fyrr verður í raun ekki samstarfsvettvangur Norðurlandanna fullnýttur á þessu sviði. Ekki skal draga úr gildi mats lögreglu á þörf hennar á nýjum vopnum, en upplýsingaöflun og geta til að uppræta glæpahópa áður en þeir láta til skarar skríða er jafnvel enn mikilvægari. Til þess getur reyndar þurft öflugan vopnabúnað. Ný heimsmynd blasir við, og þá dugar ekki að stinga hausnum í sandinn.
Þrátt fyrir, að lögreglan hafi í raun bjargað íslenzka lýðveldinu í árslok 2008 og ársbyrjun 2009, þegar óður skríll bar eld að Alþingishúsinu og réðst til atlögu við Stjórnarráðið, og kannski þess vegna, veitti vinstri stjórnin lögreglunni þung högg með því að draga úr fjárveitingum til hennar á sínum tíma, og nemur þessi kjánalegi sparnaður allt að miakr 10 á verðlagi 2015, uppsafnaður. Það er þess vegna lágmark að auka fjárveitingar 2016 um miakr 0,5 m.v. 2015. Innanríkisráðuneytið vinnur að langtímaáætlun um löggæzluna, og væntanlega verður aukið í ár frá ári.
Á sama tíma og áhrif Frakka innan Evrópu hafa dvínað undanfarin ár, hafa þeir beitt sér hernaðarlega meira á erlendum vettvangi en nokkur önnur Evrópuþjóð, og aðgerðir þeirra hafa í mörgum tilvikum beinzt gegn Múhameðstrúarmönnum. Fleiri Múhameðstrúarmenn búa í Frakklandi en í nokkru öðru landi Evrópu, og á það sér sögulegar skýringar frá nýlendutímanum. Í verstu fátæktarhverfum franskra borga og bæja eru Múhameðstrúarmenn fjölmennir, og þeir hafa ekki aðlagazt franska þjóðfélaginu. Sama má segja um Belgíu og önnur lönd. Þessi staða mála er gróðrarstía jihad, heilags stríðs, gegn Frakklandi, og þess vegna eru árásir og fjöldamorð islamistanna í París engin tilviljun.
Jihadistarnir fyrirlíta lifnaðarhætti Vesturlanda og ráðast þess vegna gjarna á táknmyndir þeirra, s.s. fólk á veitingastöðum, börum, tónleikum og íþróttaleikvöngum og jafnvel í kirkjum. Þannig voru skotmörkin í París greinilega ekki valin af handahófi.
Frakklandsforseti lýsti í kjölfarið yfir stríði við hin islömsku glæpasamtök ISIS, kalífadæmi Íraks og Sýrlands. Frakkar hófu síðan loftárásir á ISIS í Sýrlandi, en þetta er eins vonlaus baráttuaðferð Frakkanna og hugsazt getur. Til að uppræta hernaðargetu kalífadæmisins þarf landhernað og til að uppræta öfgafulla hópa í Frakklandi og annars staðar, sem hlýða kalli kalífadæmisins, þarf öflugt eftirlit með öllum, sem farið hafa þangað og snúið til baka eða alizt hafa upp í gróðrarstíu öfgafullra trúarskoðana, þar sem moskurnar vissulega eru í brennidepli.
Frakkar eiga ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Þeim, eins og öllum öðrum við slíkar aðstæður, er hollt að líta í eigin barm. Frelsi, jafnrétti og bræðralag er e.t.v. ekki öllum ætlað, frekar en fyrri daginn.
Frakkar hafa glutrað niður forystuhlutverki sínu í Evrópu vegna bágs efnahags og skorts á sveigjanleika í samskiptum við aðra. Þeim gengur illa í alþjóðlegri samkeppni, enda eru þeir almennt ekki hallir undir auðvaldskerfið. Þeir vilja fremur reiða sig á opinber inngrip í markaðinn, og almennt horfa þeir mjög til miðstýringarvaldsins í París, sem Napóleón Bonaparte frá Korsíku byggði upp af natni fyrir meira en 200 árum.
Frakkland er heldur ekki óskastaður flóttamanna. Dæmi um þetta var, þegar Frakkar ákváðu í September 2015 á hápunkti flóttamannastraumsins til Þýzkalands, að setja á svið atburð, sem sýna átti evrópska samstöðu. Franskir embættismenn héldu til Munchen í Bæjaralandi í þremur rútum með túlka af frönsku á arabísku og gjallarhorn. Hugmyndin var að fylla rúturnar af flóttamönnum og flytja þá vestur yfir Rín til að létta þrýstingi af Þjóðverjum. Frakkarnir áformuðu að sækja um 1000 hælisleitendur, en tókst aðeins að telja örfá hundruð á að fara með sér til Frakklands. Flóttamennirnir höfðu lítinn áhuga á að verða aðnjótandi franskrar samstöðu, en kusu fremur að búa í Þýzkalandi. Rúturnar héldu til baka yfir Rín hálftómar, þrátt fyrir margfalt meira flóttamannaálag á Þýzkaland en Frakkland. Þetta er sláandi dæmi og sýnir muninn á ímynd Þjóðverja og Frakka í huga flóttamannanna. Þessi munur mætti verða Frökkum nokkurt áhyggjuefni.
Það hefur gerzt hvað eftir annað í mismunandi málaflokkum, t.d. gríska myntdramanu og evrukreppunni í heild sinni, að Frakkar sprikla, en að lokum fer ESB þá leið, sem Þjóðverjar, undir leiðsögn kanzlarans, Angelu Merkel, hafa stikað. Hið merkilega er, að Evrópumenn virðast oftast nokkuð ánægðir með þetta fyrirkomulag. Til þess liggja bæði efnahagslegar og sálrænar ástæður.
Of mikið væri að segja, að nú, 70 árum eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar, stæðu allir og sætu, eins og Þjóðverjar vilja, en það má til sanns vegar færa, að engum mikilvægum málefnum Evrópu er ráðið án þess að taka tillit til vilja Þjóðverja.
Nú gerast Þjóðverjar sjálfir hins vegar tregari í taumi við Angelu Merkel með hverri vikunni, sem líður, vegna flóttamannavandans, en frumkvæði hennar að opna Þýzkaland fyrir sýrlenzkum flóttamönnum þykir ekki lengur merki um ígrundaða ákvarðanatöku og ætlar að reynast kanzlaranum þungur pólitískur baggi og þýzkum skattborgurum þungar klyfjar. Enginn veit, hvort jihadistarnir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu fá með þessu gríðarlega flæði Múhameðstrúarmanna til Evrópu meira fóður fyrir sitt heilaga stríð gegn gestgjöfunum, en margir óttast það. Þessi ótti er líklegur til að framkallast í stjórnmálasveiflu til hægri við ríkjandi mið-hægri flokka, eins og CDU/CSU í Þýzkalandi og flokk Sarkozys í Frakklandi. Væringar munu vaxa í Evrópu fyrir vikið. Landamæralaus Evrópa gengur auðvitað engan veginn upp, og Íslendingum ber að vera í stakk búnir til að loka landamærum sínum þrátt fyrir aukakostnað, sem þó getur reynzt hverfandi miðað við afleiðingar lágmarks landamæraeftirlits.
30.10.2015 | 15:29
Bretaveldi á krossgötum
Á Bretlandi mun fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það eigi síðar en í árslok 2017, hvort Bretar verði áfram í Evrópusambandinu, ESB, eða segi sig úr því. Þetta verður sögulegur atburður hvorum megin hryggjar, sem Bretar lenda.
Þann 12. október 2015 var stofnuð hreyfing til að berjast fyrir veru Breta í ESB, "Britain Stronger in Europe", undir formennsku Rose, lávarðar. Andstæðingarnir hafa verið skipulagðir um hríð og haft sig í frammi. Skoðanakannanir á meðal kjósenda hafa gefið tvíræða niðurstöðu. Bretar virðast beggja blands. Englendingar vilja fremur út, en Skotar halda áfram í ESB.
Það er vitað, að uppsetning spurninganna í þjóðaratkvæðagreiðslum hefur áhrif á niðurstöðuna. T.d. hefur fólk tilhneigingu til að merkja fremur við svarið já en nei. Upphaflega spurningin var á þessa leið:
"Ætti Sameinaða konungdæmið að verða áfram aðili að Evrópusambandinu" ?,
en að kröfu landskjörstjórnar var bætt við spurninguna "eða að yfirgefa Evrópusambandið".
Við þessa viðbót brá svo við, að andstæðingum ESB óx ásmegin, fóru úr 34 % fylgi í 40 % fylgi um þessar mundir, en fylgjendur ESB eru með 38 % fylgi. Yfir fimmtungur tekur ekki afstöðu, enda vantar rúsínuna í pylsuendann; samninga Camerons, forsætisráðherra, um eftirgjöf að hálfu ESB á völdum til brezka þingsins.
Það má segja, að þetta örlagaríka mál fyrir Evrópu sé nú í járnum á Bretlandi. ESB vill halda Bretum inni, en ekki gegn hvaða gjaldi, sem er.
Það hefur gengið á ýmsu með afstöðu almennings til ESB á Bretlandi. Árið 2011 náði fylgi andstæðinganna hámarki hingað til, sem var 52 %. Það er skýrt með evrukrísunni og Grikklandsfárinu, sem þá voru mjög í fréttum. Síðan dalaði fylgi andstæðinganna, en seinni hluta 2015 hefur fylgi andstæðinganna enn vaxið, og er það skýrt með kreppuástandi ESB vegna flóttamanna frá Afríku og Austurlöndum nær.
Bretar hafa aldrei viljað sleppa sínu sögufræga sterlingspundi, og þeir hafa miklar efasemdir um straum flóttamanna til Bretlands á þessu ári. Hann hefur orðið mikill þrátt fyrir, að Bretland standi utan Schengen-samstarfsins. Margir Bretar telja auðveldara að stjórna innflæði þeirra, sem koma frá átakasvæðum og annars staðar frá utan ESB og innan, standi landið utan ESB, og margir hafa áhyggjur af, að brezk menning og þjóðareinkenni séu á hverfanda hveli í því þjóðahafi, sem blasir við vegfaranda í Lundúnum.
Margir enskir kjósendur telja, að þeir séu að taka þjóðlegri afstöðu með úrsögn, og það kann að ráða úrslitum að lokum ásamt almennri tortryggni í garð aðkomumanna, sem heimamenn telja munu leggjast upp á velferðarkerfið og/eða undirbjóða vinnuafl heimamanna.
Cameron hefur lofað Bretum því að endursemja við ESB um heimkvaðningu endanlegrar ákvarðanatöku í nokkrum málaflokkum, sem nú eru á forræði ESB í Brussel. Ekki er talið, að hann muni hafa erindi sem erfiði að öllu leyti, því að slík eftirgjöf að hálfu ESB yrði fordæmisgefandi fyrir önnur aðildarríki, sem ekki eru of sæl í vistinni hjá húsbændunum í Berlaymont. Léleg niðurstaða í Brussel fyrir Cameron mun ekki blíðka Breta. Hafni Bretar ESB, verður stjórnmálaferill Davids Cameron á enda, og úrsögnin kann að hafa keðjuverkandi áhrif á Bretlandseyjum og víðar.
Það, sem Cameron ætlar að fá fram gagnvart ESB, er:
1) Innflytjendur: Cameron ætlar að stöðva "velferðarflækinginn" með því að takmarka nokkrar opinberar sporslur til nýrra innflytjenda. Einkum vill hann 4 ára bann við opinberum fjárhagslegum stuðningi við innflytjendur, þ.á.m. til fólks í vinnu, sem kemur frá öðrum ESB-löndum.
2) Hann vill draga úr miðstýringunni frá Brussel, og í sumum tilvikum vill hann færa völdin aftur heim til höfuðborga aðildarlandanna. Víða í Evrópu er stuðningur við þessa ósk, en hún stangast á við möntruna í Berlaymont (höfuðstöðvum ESB): "ever closer union".
3) Hann vill átak við að leggja lokahönd á Innri markaðinn á sviðum eins og þjónustu, stafrænni tækni og orkumálum.
4) Hann vill, að Bretar séu undanskildir ákvæði margra sáttmála ESB um "æ nánara samband á meðal þjóða Evrópu".
5) Hann vill færa þjóðþingunum, sem hann kallar hinn sanna uppruna lýðræðislegs valds í Evrópuverkefninu, meiri völd til að ógilda lagasetningu ESB í viðkomandi landi.
6) Cameron vill að lokum tryggingu fyrir því, að hið sífellt nánara samband evrulandanna beinist ekki gegn hagsmunum landanna, sem utan evrusvæðisins eru.
Þessi samningsmarkmið Camerons við framkvæmdastjórn ESB og síðar leiðtogaráðið eru væg og greinilega sniðin til að auðvelda ESB-forkólfum að koma til móts við Breta. Hætt er þó við, að almenningi muni finnast lítið til koma, og verði vandræði ESB í hámæli í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar, er næsta víst, að brezka þjóðin mun skipa ríkisstjórn og þingi að draga Bretland út úr ESB.
Það er hugsanlegt, að í kjölfarið verði þróað nýtt fyrirkomulag aukaaðildar með Breta innsta á gafli og Ísland, Noreg, Liechtenstein og líklega fleiri í slagtogi með þeim. Ólíklegt er, að aukaaðildarríkjum muni verða leyft að taka upp evru, ef svo ólíklega færi, að eitthvert þeirra sæktist eftir því. Á sama hátt gæti Berlaymont ekki hindrað aukaaðildarríki að gera viðskiptasamninga austur og vestur eða að taka upp einhvern annan gjaldmiðil en evru. Fullt aðgengi að Innri markaðinum væri samt tryggt, eins og nú er innan EES.
Talið er, að úrsögn Breta muni framkalla kröfu Skota um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og að þá muni niðurstaða fyrri atkvæðagreiðslunnar snúast við. Þetta gæti endað með, að Sameinaða konungdæmið (United Kingdom) verði sundraða konungdæmið, þ.e.a.s. Skotar hverfi af þinginu í Lundúnum og e.t.v. Walesverjar og Norður-Írar með þeim. Mundi þetta breyta evrópskum stjórnmálum talsvert og draga úr vægi Bretlandseyja gagnvart meginlandi Evrópu, sem jafnan hefur verið mikið, því að Skotar mundu leita inngöngu í ESB, en spurning, hvort þeir sækjast eftir aðild að NATO.
Hins vegar hafa málsvarar sjálfstæðs Skotlands haft orð á því, að þeir vilji efla tengslin við Norðurlöndin. Skotland verður sem sagt að líkindum ekki strandríki, heldur mun ESB fara með hagsmuni þeirra, svo að baráttan um flökkustofnana mun lítið breytast við þessar sviptingar. Sú barátta, ásamt baráttunni fyrir viðskiptafrelsi, ætti að vera helzta viðfangsefni íslenzkra utanríkismála nú um stundir, en áherzlur utanríkisráðuneytisins eru einhvers staðar úti í móa.
David Cameron hitti forsætisráðherra Norðurlandanna í heimsókn sinni til Reykjavíkur í viku 44/2015. Bretar virðast horfa meir til Norðurlandanna en áður um samstarf, og er það ánægjulegt. Íslendingar eiga að taka óskum Breta um nánara samstarf af vinsemd og með áhuga, hvað sem hagsmunaárekstrum fortíðar og ógurlegum mistökum ríkisstjórnar Verkamannaflokksins í Lundúnum haustið 2008 líður, þegar hún fór á taugum af ótta við hrun brezka fjármálakerfisins. Það er sjálfsagt að taka vel í óskir Breta um fýsileikarannsókn ("Feasibility Study") á aflsæstreng á milli landanna, en vara verður við öllum opinberum útgjöldum í þágu þessa tvíbenta verkefnis, og ekki kemur til mála, að Landsvirkjun, sem þegar er ríkjandi á íslenzka raforkumarkaðinum, verði aðili að þessu verkefni, heldur verður að stofna einkafyrirtæki um það án eignaraðildar eða ábyrgðar ríkisins.
Stjórnmál meginlandsins eru líka í deiglunni. Suður-Evrópu er í viðvarandi kreppu undir evruhelsinu. Austur-Evrópa er óttaslegin vegna ógnandi hegðunar Rússa og útþenslustefnu ríkisstjórnarinnar í Kreml. Heraflauppbygging á þess vegna sér stað austan gamla járntjaldsins og smitar örlítið vestur fyrir.
Þar eru vandamálin fólgin í öldrun samfélaganna og litlum hagvexti, þ.e.a.s. stöðnun. Evrópa er að verða undir í samkeppninni við Bandaríki hagvaxtar og asísku tígrana. Evrópa er þó ekki liðin undir lok, og enginn skyldi vanmeta hana. Ef Evrópuþjóðirnar létta meira undir með barnafjölskyldum, fer unga fólkið að fjölga sér meira en verið hefur raunin á í tæplega hálfa öld. Innflytjendur fjölga sér og ótæpilega, sem mörgum innfæddum er þyrnir í augum, og gætu sett barneignir á oddinn aftur.
Hvaða ályktanir geta Íslendingar dregið af þróun mála á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum ? Í stuttu máli, að Íslendingar eru á réttu róli, hvort sem litið er á þróun efnahagslífsins eftir Hrun eða auðlindanýtinguna. Skelfileg meðferð ESB og ECB (Evrubankans) á þjóðum, sem illa fóru út úr sömu vandræðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, t.d. Grikkjum og Írum, í samanburði við þróun efnahags- og haftamála á Íslandi, ætti að færa flestum heim sanninn um, að það var hárrétt af þjóðinni að hafna helstefnu vinstri stjórnarinnar í þágu kröfuhafa föllnu bankanna og fjármálaveldis Evrópu, sem svo sterk ítök hefur í Berlaymont, að vinstri stjórnin vildi fórna efnahagslegu sjálfstæði landsmanna til að uppgjörsmál bankanna tefðu ekki fyrir inngöngu Íslands í ESB. Hvílíkur Jón í Hvammi !
Um auðlindahlið þessa máls er lærdómsríkt að lesa viðtal við fyrrverandi þingmann brezka Verkamannaflokksins fyrir Grimsby, Austin Mitchell, sem nýlega hlaut Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til bættra samskipta Breta og Íslendinga, en þegar Íslendingar gerðu sig líklega til að stugga við útlendingum á miðunum við Ísland, kom til harkalegra hagsmunaárekstra við Breta. Viðtalið átti Stefán Gunnar Sveinsson, og birtist það í Morgunblaðinu laugardaginn 24. október 2015:
"Mitchell er í hópi þeirra, sem hafa verulegar efasemdir um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Hann segist hafa varað Íslendinga við inngöngu og eitt sinn haldið erindi um ástæðu þess, sem sé einföld:
"Landið reiðir sig á fisk. Eina leiðin til þess að tryggja sjálfbærar veiðar er, að þjóðríkið ráði sinni eigin efnahagslögsögu." Mitchell segir, að það yrði feigðarflan fyrir Íslendinga að ganga í ESB, nema hægt yrði að tryggja undanþágu frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins.
"Stefnan er reist á nýtingu á sameiginlegri auðlind, en fiskimiðin eiga ekki að vera það, þau eiga að vera ykkar eign, nema þið fáið undanþágu, segjum í þúsund ár", bætir Mitchell við hlæjandi. "Þá mætti íhuga það."
Hann segir, að fiskveiðistefna ESB hafi stórskaðað breskan sjávarútveg. "Það hefði verið rökrétt, eftir að Íslendingar lokuðu miðunum fyrir breskum skipum, að Bretar gerðu hið sama við sín eigin fiskimið, því að þau eru gjöful, en það var ekki hægt vegna sjávarútvegsstefnunnar.""
Það er helber óskhyggja draumóramanna (annað verra orð mætti um þá nota, eins og textinn hér að ofan ber með sér) um aðild Íslands að ESB, að varanleg undanþága fáist frá CAP, "Common Agricultural Policy". Slíkt er fordæmalaust, enda mundi það veita öðrum ríkjum svakalegt fordæmi um, að unnt sé að rífa upp sáttmála ESB, sem allar aðildarþjóðirnar hafa samþykkt og sem tilvera ESB er reist á. Slíkt stríðir gegn grunnsamþykktum aðildarlandanna, og allar líkur standa til, að Evrópudómstóllinn mundi hafna slíku, fengi hann málið til úrlausnar. Ísland er á réttu róli með sitt óskoraða fullveldi í stafni, og landsmenn sigla nú seglum þöndum á framfara- og hagvaxtarskeiði, sem hófst strax eftir síðustu kosningar eftir óþarfa tafir.
6.9.2015 | 14:43
Snigillinn hefur stöðvazt
Í byrjun september 2015 voru birtar skoðanakannanir um fylgi við stjórnmálaflokka á Íslandi, sem sýna tveimur krataflokkum skriftina á veggnum. Því fer fjarri, að þessi þróun mála sé einsdæmi fyrir Ísland, heldur er um að ræða sömu tilhneigingu um alla Evrópu. Þessi þróun hefur valdið heilabrotum, og þess vegna verður gripið niður í hugleiðingar The Economist um málefnið í þessari vefgrein og blandað við eigin.
Píratar á Íslandi eru angi af alþjóðlegri hreyfingu, sem þó nýtur hvergi viðlíka fylgis og í skoðanakönnunum á Íslandi, þar sem stuðningurinn var í byrjun september 2015 36 %. Þetta er óánægjufylgi og mótmæli gegn ríkjandi valdastétt í öllum stjórnmálaflokkum. Rætur óánægjunnar standa þó mun dýpra en hjá persónum og leikendum, þannig að mannaskipti mundu engu breyta.
Óánægjufylgi af þessu tagi hefur í Evrópu safnazt á þjóðernissinnaða flokka til hægri og vinstri á hinu pólitíska litrófi, sem allir eru þó á móti skrifræðisbákninu í Brussel og vilja taka upp hefðbundið landamæraeftirlit og vísa flóttamönnum til baka, enda gætir mikillar tortryggni í þessum hópum gagnvart Múhameðstrúarmönnum.
Athyglivert er í öllu þessu umróti, að síðasta skoðanakönnun í Þýzkalandi gaf CDU, flokki Angelu Merkel, 43 % atkvæða, yfir landið allt. Þetta er merkilegur árangur kanzlarans og stefnu flokks hennar, sem hefur í öndvegi Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Þessi stefna beið ekki skipbrot í hruni fjármálakerfis heimsins 2008. Þvert á móti sigldu Þjóðverjar þá tiltölulega lygnan sjó undir forystu CDU/Merkel. Merkel hefur nú tekið forystu um að opna Þýzkaland fyrir sýrlenzkum flóttamönnum, og á eftir að koma í ljós, hversu farsæl sú stefna er. Það er skoðun blekbónda, að Sjálfstæðisflokkinum á Íslandi væri hollt að leita fyrirmynda hjá CDU. Til þess þarf ekki miklar breytingar; aðeins að skerpa á nokkrum atriðum.
Um fall jafnaðarstefnunnar var grein í The Economist þann 1. ágúst 2015 eftir "Karlamagnús", og verður nú gripið niður í henni.
Gunter Grass, sem var áhugasamur um miðju-vinstri hugmyndir Willys Brandts, fyrrum borgarstjóra Vestur-Berlínar og kanzlara V-Þýzkalands, skrifaði grein um hinn hæga stíganda jafnaðarstefnunnar eftir seinni heimsstyrjöld, "Úr dagbók snigils".
Nú hefur þessi snigill stöðvazt alveg. Mið-hægriflokkar hafa knésett jafnaðarmenn í kosningum um alla Evrópu undanfarin ár og tekið við valdataumunum. Undantekning eru Færeyjar, en þar varð tilviljun til þess, að jafnaðarmenn sigruðu í nýlegum kosningum til Lögþingsins, þar sem Lögmaðurinn var fundinn sekur um ósannsögli gagnvart Lögþinginu.
Má lánleysi jafnaðarmanna furðu gegna í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008, sem mið-vinstriflokkum tókst engan veginn að notfæra sér til að knýja á um aukin ríkisafskipti, reglugerðasmíði, aukinn eftirlitsiðnað og minni áherzlu á frjálsan markað. Öll þessi áhugamál jafnaðarmanna eru til þess fallin að draga úr samkeppnihæfni fyrirtækja, og það hefur runnið upp fyrir kjósendum, að slíkt er ekki launþegum í hag.
Í forysturíki Evrópu, Þýzkalandi, hefur Angela Merkel, formaður kristilegra demókrata, CDU, ríkt síðan 2005. Á Bretlandi hefur íhaldsstjórn verið við völd síðan 2010, og Jafnaðarmannaflokkurinn þar, sem koltapaði nýlegum þingkosningum, er uppteknastur við innri baráttu, naflaskoðun, um framtíðarstefnu og nýjan formann, sem gæti hæglega orðið svo langt til vinstri, að almennir kjósendur útskúfi flokkinum. Á Íslandi urðu næstum slík formannsskipti í vor hjá Samfylkingunni, en hún virðist reyndar vera á tortímingarbraut með sitjandi formanni, sem hangir í embætti á eigin atkvæði. Aumari frammistöðu formanns eru vart dæmi um.
Í Frakklandi er við völd í forsetahöllinni jafnaðarmaður með minna fylgi í skoðanakönnunum en nokkur fyrirrennara hans, og er endurkjör hans næsta vonlaust. Meira spennandi er, hvernig formanni Þjóðarframvarðanna reiðir af, en hún er andsnúin ESB og innflytjendastefnu þess og stefnir á að taka við sem húsbóndi og húsfreyja í Elysée-höllinni eftir næstu forsetakosningar.
Jafnvel í Skandinavíu, sem var löngum þekkt fyrir hófsama vinstri stefnu við stjórnvölinn, hefur verið skipt um stefnu. Að vísu sneru Svíar aftur til jafnaðarmannastjórnar árið 2014 eftir 8 ára mið-hægri stjórn, en nýja ríkisstjórnin fylgir fjárlagaáætlun fyrri ríkisstjórnar og er upp á náð og miskunn stjórnarandstöðu í Riksdagen komin.
Hægri menn í Noregi bundu enda á 12 ára vinstri sinnaða samsteypustjórn árið 2013, og Helle Thorning Schmidt, danskur jafnaðarmaður, sem fór fyrir vinstri samsteypustjórn, missti völdin í Kristjánsborgarhöll í júní 2015.
Í fyrrverandi Austantjaldslöndum eru dæmi um ríkisstjórnir, sem náð hafa nokkrum árangri, en eru samt hallar undir ríkisrekstur, t.d. í Tékklandi, en annars staðar hafa þjóðernissinnar og hægri menn hagnazt pólitískt á óvissunni, sem einkennt hefur eftirhruns tímann í Evrópu.
Auðvitað skipta persónuleikar máli, og einmitt núna eru fáir beinskeyttir persónuleikar í forystusveit jafnaðarmanna í Evrópu. Eftirminnilegir persónuleikar í hópi leiðtoga jafnaðarmanna á borð við Willy Brandt, Helmut Schmidt og Gerhard Schröder í Þýzkalandi, Bruno Kreisky í Austurríki, Einar Gerhardsen og Gro Harlem Bruntland í Noregi og jafnvel Tony Bair á Bretlandi,
höfðu sjálfstraust og sóttust ekki bara eftir einróma ákvörðunum. Í fremur litlausum hópi núverandi jafnaðarmannaleiðtoga stendur Sigmar Gabriel, leiðtogi SPD, þýzkra jafnaðarmanna og varakanzlari, upp úr, en það virðist ekki duga þýzkum jafnaðarmönnum til að ná forystu í Þýzkalandi, en þeir hafa þó 25 % fylgi nú í skoðanakönnunum.
Mótlæti jafnaðarmanna í Evrópu á sér dýpri rætur en persónutengdar. Ein er óþreyja almennings í garð valdhafa. Miðju-vinstri flokkar voru víða við völd, þegar fjármálakreppan reið yfir; á Bretlandi, í Grikklandi, Portúgal og á Spáni. Kjósendur náðu sér niðri á valdhöfunum og voru í engu skapi til að taka við afsökunum. Í Grikklandi var PASOK, jafnaðarmannaflokkur, lengst af aðalvaldaflokkurinn eftir herforingjastjórnina 1974, en nú er hann með 4 % fylgi í skoðanakönnunum. Það er sama og Björt framtíð hér um þessar mundir, sem nú fær væntanlega bráðlega nábjargirnar.
Þessi óþreyja kjósenda getur skýrt nokkrar undantekningar frá reglunni. Ítalir, sem umborið höfðu hæpið háttarlag Silvios Berlusconis, sem illa samræmdist katólskri háttprýði, snerust til vinstri, þegar Demókrataflokkurinn eignaðist frambærilegan leiðtoga, Matteo Renzi. Hann virðist nú einn á báti á evrópska sviðinu, þar sem endir örlagaþrungins efnahagsdrama er skrifaður af Þjóðverjum á mið-hægri væng.
Frú Merkel, sem sat að völdum, þegar fjármálakreppan reið yfir, hélt völdunum, af því að kreppan í Þýzkalandi varð skammvinn, og hún festi sig í sessi sem fremsti leiðtogi Evrópuríkis með hörku gagnvart skuldugum þjóðum og hélt þó Evrópusamstarfinu gangandi. Þetta blessaða Evrópusamstarf er þó alfarið smurt af evrum, sem verða til við verðmætasköpun í Þýzkalandi. Hvað verður um það, ef/þegar Bretar segja skilið við ESB 2017 ?
Þrátt fyrir allar deilurnar um aðhaldssemi (austerity) í Evrópu þá hefur boðun hennar hljómað skynsamlegri í eyrum kjósenda en töfrabrögð í anda Keynes. Kjósendur hafa hugsanlega ályktað sem svo, að yrði á annað borð að skera niður opinberan kostnað, þá færi flokkum minni ríkisafskipta það betur úr hendi en flokkum, sem hallir eru undir mikil og vaxandi ríkisafskipti. Þetta sannaðist á síðasta kjörtímabili á Íslandi, þar sem niðurskurðurinn var algerlega misheppnaður, og þetta sannast núna í Reykjavík undir jafnaðarmanni í borgarstjórastóli, sem stingur hausnum í sandinn gagnvart geigvænlegri skuldasöfnun borgarinnar.
Ær og kýr jafnaðarmanna eru mikil opinber útgjöld til að koma á þjóðfélagsumbreytingum, og þessa hugmyndafræði skorti allan trúverðugleika, þegar markaðirnir vantreystu og hækkuðu vexti mjög á skuldabréfum skuldugra þjóða. Meira aðlaðandi hefur verið sú tilhneiging sumra mið-hægri ríkisstjórna "að stela" nokkrum stefnumálum vinstrisins, t.d. að hækka lágmarkslaun í Þýzkalandi og á Bretlandi, eða að taka hjónaband samkynhneigðra upp á arma sér, eins og Íhaldsflokkurinn, brezki.
Frá falli Ráðstjórnarríkjanna hafa hefðbundnir stórflokkar haft tilhneigingu til klofnings, en miðju-vinstrið hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum af völdum fækkunar iðnverkamanna og fækkunar félaga í verkalýðsfélögum. Stéttasamsetning vestrænna þjóðfélaga er að breytast, svo að ekki sé nú minnzt á aldurssamsetninguna, sem þvinga mun fram minnkandi útgjöld til velferðarmála á hvern íbúa yfir sextugu vegna fækkunar á vinnumarkaði. Það eru líklega lýðfræðilegar ástæður meðvirkandi í falli jafnaðarmanna Evrópu.
Nýtt vandamál, sem fjármálakreppan jók, er vaxandi gengi lýðskrumara, sem ógna ríkjandi öflum. Jafnaðarmannaflokki Grikklands, PASOK, var nærri útrýmt af öfgakenndum Syriza flokkinum. Jafnaðarmenn Spánar hafa misst fylgi til andaðhaldsflokksins Podemos.
Jafnvel UKIP, andstöðuflokkur við aðild Breta að ESB, sem aðallega hýsti óánægða íhaldsmenn, hefur dregið til sín fylgi frá jafnaðarmönnum. Matthew Taylor, fyrrverandi aðstoðarmaður síðasta sigursæla brezka jafnaðarmannaleiðtogans, Blairs, segir, að nýjar hreyfingar geti státað af því að vera á svipaðri bylgjulengd og almenningur og þröngva stóru flokkunum þannig til hliðar. Nýgræðingarnir, segir Taylor, hafa frumlegra og breytilegra skipulag, en hefðbundnir vinstri flokkar séu bundnir við flokksþing og goggunarröð innan flokkanna.
Efasemdir kjósenda varðandi innflytjendastefnu stjórnvalda stafa m.a. af ótta verkalýðs við aukið atvinnuleysi og samkeppni á vinnumarkaði. Ímynd jafnaðarmanna sem rausnarlegur flokkur fyrir hönd skattgreiðenda, sem ekkert aumt megi sjá án þess að snara út fúlgum fjár, er að snúast upp í stjórnmálalega byrði fyrir jafnaðarmannaflokkana í heimi alþjóðavæðingar og flóttamannastraums.
Franz Walter, stjórnmálasagnfræðingur við háskólann í Göttingen, hefur bent á, að þýzki jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, hafi verið áhrifaríkt stjórnmálaafl í yfir 150 ár, en aðeins verið við völd í 30 ár. Með hægfara nálgun sinni á fjarlægum markmiðum eru þeir e.t.v. ánægðari með að undirbúa valdatöku sína en að hafa völdin, segir Walter. Ennfremur segir hann, að þeir séu alsælir með að dreyma um betri framtíð, og í mörgum tilvikum eru aðrir að skapa þessa framtíð núna. Sem sagt, jafnaðarmenn eru draumóramenn, en litlir sem engir stjórnendur. Á þessi lýsing ekki býsna vel við jafnaðarmanninn í borgarstjórastóli Reykjavíkur ? Ákvarðanafælni lýsir honum vel.
Birtingarmynd stjórnmálalegrar óþreyju kjósenda á Íslandi er Sjóræningjaflokkurinn. Sá flokkur hefur sogað til sín fylgi jafnaðarmanna á Íslandi og Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur ekki verið útskýrt almennilega, en tvennt getur t.d. valdið þessu:
1) Kjósendur fundu fyrir afli sínu í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave. Þáverandi stjórnarflokkar, jafnaðarmenn (Samfylking) og róttækir félagshyggjumenn (vinstri grænir), börðust hatrammlega gegn þessum þjóðaratkvæðagreiðslum, sem þó gáfu mjög góða raun, þegar upp var staðið. Jafnaðarmenn við stjórnvöl borgarinnar með borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, í broddi fylkingar, hafa staðið gegn því að höggva á Gordíons-hnútinn, sem myndazt hefur um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að vísa málinu til kjósenda. Borgaralegu flokkarnir, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram með þremur flugbrautum. Þeir styðja báðir þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn, því að framtíð hans varðar auðvitað landsmenn alla. Hið mótsagnakennda er, að sjóræningi stendur að meirihlutanum með Degi í borgarstjórn, en hann hefur ekki látið steyta á þessu mikla lýðræðismáli sjóræningjaflokksins, pírata. Sá flokkur reynist þess vegna vera nákvæmlega jafnlaus í rásinni og hann virðist vera, og kjósendur geta þess vegna síður en svo reitt sig á, að hann standi við stóru orðin. Stjórnarflokkarnir eru með stjórnarskrárbreytingu í bígerð, sem m.a. á að breyta ákvæðinu um synjunarheimild forseta lýðveldisins í heimildarákvæði þings og þjóðar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ráðgefandi eða bindandi, eftir atvikum.
Þess má geta, að margir kjósendur hérlendis virtust vilja fá að kjósa um framhald aðildarviðræðna að ESB, sem stjórnarflokkarnir lögðust gegn, af því að hún hefði verið fullkomlega órökrétt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var það ESB, sem stöðvaði viðræðurnar, af því að lágmarksskilyrði Alþingis og landbúnaðar- og sjávarútvegssáttmáli ESB voru ósamrýmanleg.
Hitt var, að stjórnarflokkarnir, sem umboð hafa til að stjórna landinu út þetta kjörtímabil, eru báðir andvígir inngöngu Íslands í ESB. Það var þess vegna fjarstæðukennt að fela þeim að semja við ESB um inngöngu, og ESB hefði ekki tekið í mál að taka þátt í slíkum pólitískum farsa, enda hafa menn þar á bæ öðrum hnöppum að hneppa um þessar mundir.
Hvor röksemdin um sig dugði til að fella tillöguna um þjóðaratkvæði um framhald samkomulagsgerðar um aðild Íslands að ESB, enda hefði þjóðin þannig verið dregin á asnaeyrunum á kjörstað, þar sem niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gat engu breytt um núverandi stöðu.
2) Hitt atriðið, sem tína má til skýringar á miklu óánægjufylgi, er mikill húsnæðiskostnaður hérlendis. Hann er ekki vegna hærri byggingarkostnaðar en í nágrannalöndunum, þó að hérlendis geti hann lækkað, heldur vegna miklu hærri fjármagnskostnaðar. Um þetta ritar Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf, beinskeytta grein í Morgunblaðið 5. september 2015 undir fyrirsögninni:
"Á að horfa á eftir ungu fólki úr landi eða bjóða því framtíð hér ?" Greinin hefst þannig:
"Við erum nú að upplifa hér á landi eina mestu eignatilfærslu, sem núlifandi Íslendingar hafa upplifað. Eignatilfærslan er frá þeim, sem skulda, yfir til þeirra, sem lána. Fyrir utan þá, sem standa í rekstri, er það unga fólkið okkar, sem skuldar, þ.e. það sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Einnig skulda þeir, sem byggja leiguhúsnæði fyrir það fólk, sem ekki hefur sjálft fjárráð til að festa sér fasteign.
Eignatilfærslan er það stórkostleg í íslenzku þjóðfélagi, að hún kemur í veg fyrir, að venjulegt fólk geti eignazt þak yfir höfuðið og heldur uppi leiguverði, þannig að hvorug leiðin er valkostur fyrir það unga fólk, sem er að reyna að hefja sitt sjálfstæða líf.
Þeir, sem eru kallaðir til sem álitsgjafar til að fjalla um vandamálið, eru þeir sömu og hagnast mest á eignatilfærslunni, enda forðast þeir að ræða hana."
Sigurður Ingólfsson kemst síðan að því, að árlegur mismunur á fjármagnskostnaði (án afborgana) á Íslandi og í nágrannalöndunum nemi MISK 1,5-2,5 af MISK 30 láni til húsnæðiskaupa, og síðan skrifar hann:
"Það þarf ekki mikinn speking til að draga þá ályktun, að þetta sé aðalástæðan fyrir því, að allt of fáar íbúðir eru byggðar nú þrátt fyrir uppsveiflu í þjóðfélaginu."
Í lokakafla greinarinnar stendur:
"Þeim fækkar, sem geta tekið lán með þessum aðferðum, en hvað gerir það til; fjármagnseigendurnir (vogunarsjóðirnir) eru búnir að ná því, sem þeir geta, út úr viðskiptunum og verða fljótlega farnir með það fé, sem þeir hafa sogað til sín á þennan hátt, og þurfa ekki á þeim að halda eftir það."
Það er áreiðanlegt, að hér eru miklir hagsmunir í húfi, sem snerta nægilega marga til að valda stjórnmálalegri ólgu og flótta til stjórnleysingjanna frá núverandi stjórnarflokkum og frá jafnaðarmönnum, en hinir síðar nefndu eru sekir um að hafa fært vogunarsjóðunum tvo banka á silfurfati. Í þessu sambandi breytir engu, þó að sjóræningjar hafi engar lausnir á takteinum á þessu mikla þjóðfélagslega viðfangsefni frekar en öðrum aðsteðjandi vanda, enda er þar fátt um fína drætti.
Grein Sigurðar lýkur með eftirfarandi spurningu:
"Er ekki kominn tími til fyrir stjórnvöld, að þau taki að sér að stjórna fjármálum þjóðarinnar sjálf ?"
Undir allt þetta er unnt að taka. Kannski bera menn þá von í brjósti, að Pírataflokkurinn muni hrista upp í peningamálastjórnuninni og taka ráðin af Seðlabankanum varðandi vaxtaákvarðanir. Hefðu þeir bolmagn til þess, og hafa þeir bein í nefinu til þess ? Kannski þeir láti kjósa um vextina ?
Aðgerðir núverandi félagsmálaráðherra eru hálfkák eitt. Miðað við greiningu Sigurðar Ingólfssonar hér að ofan skilur Eygló Harðardóttir ekki vandamálið, og þess vegna munu tillögur hennar einvörðungu gera viðfangsefnið erfiðara viðfangs, komist þær til framkvæmda.
Vonir standa til, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi hins vegar áttað sig á kjarna vandans og að ríkisstjórnin muni á kjörtímabilinu hefja vegferð í rétta átt til lausnar, þ.e. til lækkunar á fjármagnskostnaði við húsbyggingar. Í Noregi eru nú íslenzkir byggingarverkamenn, iðnaðarmenn, verkfræðingar og aðrir, sem teknir eru að horfa heim eftir verðugum verkefnum, þar sem hallar undan fæti í norsku hagkerfi. Lækkun fjármagnskostnaðar mun strax leiða til fjölgunar nýbygginga hér, og það mun að öllum líkindum duga til að laga fylgistölur stjórnarflokkanna.
Hvað sem þessum vangaveltum líður, ættu núverandi stjórnvöld að íhuga vandlega stefnumótun, sem leitt getur til raunhæfra úrræða til lækkunar fjármagnskostnaðar húsbyggjenda.
Evrópumál | Breytt 8.9.2015 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.9.2015 | 13:10
Sýndarveruleiki utanríkisráðherra
Þegar raunveruleikinn loks rann upp fyrir ráðuneyti utanríkismála við Rauðarárstíg í Reykjavík, þá greip það í tómt. Hringt var af Rauðarárstíg í skiptiborðið í Berlaymont í Brussel, en viðkomandi, sem beðið var um . Sambönd ráðuneytisstjórans, fyrrverandi aðalsamninsamband við, voru þá í orlofigamanns um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, í Berlaymont, eru þá ekki beysnari en þetta. Eru engin takmörk fyrir eymd einnar stjórnsýslu ?
Í ársbyrjun 2014 var rífandi gangur í samskiptum Íslands og Rússlands á viðskiptasviðinu, og samskipti stjórnvaldanna endurspegluðu þetta. Á einum áratugi, 2004-2013, þrettánfaldaðist vöruútflutningur Íslands til Rússlands og nam líklega ISK 35 milljörðum árið 2014. Íslenzkir útflytjendur fiskafurða hafa í samvinnu við rússneska innflytjendur þróað nýjan og dýrmætan markað, sem líklega var einstæður í þeim skilningi, að annars staðar er ekki unnt að þróa annan sambærilega verðmætan markað fyrir þær uppsjávarafurðir, sem hér um ræðir. Þar að auki hlupu Rússar undir bagga með Íslendingum, þegar ESB o.fl. gerðu tilraun til að kúga Íslendinga til að hverfa frá fyrirætlunum sínum um nýtingu á nýrri tegund í lögsögunni, makrílnum.
Við þessar aðstæður var rétt af utanríkisráðuneytinu að funda með Rússum í Reykjavík um þróun viðskipta landanna á fjölmörgum sviðum. Í tilkynningu Utanríkisráðuneytisins í Reykjavík 30. janúar 2014 stóð, að fulltrúar ríkjanna mundu hittast einu sinni eða tvisvar á ári til að ræða fjölbreytileg verkefni til að stuðla að og greiða fyrir viðskiptum á milli landanna. Á fundinum var rætt um ferðaþjónustu, matvæli, fjarskipti, fjárfestingatækifæri og orkumál auk nýsköpunarverkefna. Tekið var fram, að sendiráð landanna ynnu ötullega að því að fylgja þessum málum fram í samstarfi við atvinnulífið.
Í ársbyrjun 2014 lék sem sagt allt í lyndi á milli Íslendinga og Rússa. Hefði utanríkisráðherra Íslands betur haldið í heiðri ofangreinda viljayfirlýsingu í stað þess að eltast við ESB og áhangendur þess á Alþingi, en hann átti á þessum tíma nokkuð undir högg að sækja hjá þeim vegna ógildingar umsóknarinnar um aðild að ESB.
Nú tekur hann til við að láta eins og fíll í postulínsbúð algerlega að þarflausu. Í aðdraganda innlimunar Krím í Rússland í marz 2014, sem auðvitað var brot á alþjóðalögum og bar að mótmæla, kallaði Gunnar Bragi Sveinsson sendiherra Rússlands á sinn fund og sagði grundvallaratriði, að Rússar stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum og drægju herlið sitt til baka úr Úkraínu.
Látum þessa framkvæmd utanríkisstefnunnar vera, en svo fór Utanríkisráðherra yfir strikið þann 7. marz 2014, er hann lýsti yfir stuðningi við alþjóðlegar aðgerðir í þágu Úkraínu, og hinn 17. marz 2014 lýsti hann því yfir, að alþjóðasamfélagið þyrfti að senda skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi. Íslendingar gætu á grundvelli EES-samningsins tekið þátt í refsiaðgerðum ESB og ættu að gera það.
Þarna gekk ráðherrann of langt. Íslendingar hefðu ekki átt að taka þátt í sérsniðnum refsiaðgerðum ESB, því að þátttaka Íslands breytti alls engu um þær, þar eð viðkomandi vörur og þjónusta eru ekki í boði á Íslandi. Utanríkisráðherra með bein í nefinu hefði útskýrt þetta skilmerkilega fyrir starfsbræðrum og síðan og tilkynnt rússneska sendiherranum, að hann teldi viljayfirlýsingu þjóðanna frá ársbyrjun 2014 í fullu gildi.
Um lokahnykk vitleysunnar skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, í Morgunblaðið 21. ágúst 2015, "Harka hleypur í Rússaviðskipti":
"Hinn 20. mars 2014, eftir samráð utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd, tilkynnti utanríkisráðuneytið, að ráðherrann hefði þann sama dag staðfest "þvingunaraðgerðir gegn rússneskum og úkraínskum einstaklingum, sem tengjast aðgerðum Rússa á Krímskaga." Utanríkisráðherra fordæmdi innlimun Rússlands á Krím og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 16. mars."
Utanríkisráðherra tók sér stöðu með "haukunum" í þessu máli algerlega að þarflausu og þrátt fyrir að vera í engu hafður með í ráðum um refsiaðgerðirnar og að þær vörðuðu Ísland ekkert. Síðan kom innflutningsbann Rússa á matvæli frá "refsiþjóðunum", nema Íslendingum og örfáum öðrum. Þá þekkti utanríkisráðuneyti Íslands ekki sinn vitjunartíma og lét algerlega hjá líða að tryggja sér áframhaldandi undanþágu. Fyrir vikið stendur Ísland viðskiptalega mun ver að vígi í viðskiptaátökum við ESB, sem munu halda áfram sem þáttur í baráttunni um deilistofnana, vinnuframboð á Íslandi minnkar, fyrirtæki verða fyrir skelli og dregur úr hagvexti. Síðast en ekki sízt er búið að ómerkja gott og vaxandi viðskiptasamband við stóran markað.
Þetta eru pólitísk afglöp af stærri gerðinni, sem draga munu dilk á eftir sér. Fyrir þeim er æðsta stjórn Utanríkisráðuneytisins ábyrg, og þessi ábyrgð merkir í þessu tilviki, að ráðuneytisstjórinn og/eða ráðherrann verður að axla sín skinn.
4.8.2015 | 18:48
Joschka Fischer og vondi Þjóðverjinn
Joschka Fischer, utanríkisráðherra endursameinaðs Þýzkalands og varakanzlari 1998-2005, hefur ritað grein í kjölfar kistulagningar sjálfstæðs Grikklands aðfararnótt 13. júlí 2015, og birti Morgunblaðið hana þann 28. júlí 2015. Fyrirsögn greinarinnar boðar að vonum váleg tíðindi:
"Vondi Þjóðverjinn snýr aftur".
Greinin hefst þannig:
"Það brast nokkuð mikilvægur þáttur Evrópusambandsins hina löngu aðfararnótt 13. júlí, þegar samið var um örlög Grikklands. Síðan þá hafa Evrópubúar lifað í öðruvísi Evrópusambandi.
Það, sem breyttist þessa nótt, var það Þýzkaland, sem Evrópubúar hafa þekkt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Á yfirborðinu snerust viðræðurnar um að koma í veg fyrir, að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið (hið svonefnda "Grexit") og þær grimmu afleiðingar, sem því myndu fylgja fyrir Grikki og hina sameiginlegu mynt. Undirniðri var hins vegar verið að ræða það, hvaða hlutverki fjölmennasta land og mesta efnahagsveldi álfunnar myndi gegna í Evrópu."
Ekki er efni til að bera brigður á næmni "græningjans" JF fyrir þróun stjórnmálanna í Evrópu og sérstaklega í heimalandi hans, Þýzkalandi. Við horfum nú á "pólariseringu" Evrópu. Annars vegar eru skuldunautar, og hins vegar eru lánadrottnar. Francois Hollande, Frakklandsforseti, hefur nýlega talað fyrir stofnun Evruríkis með myndun ríkisstjórnar og þings Evruríkisins. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, og fjármálaráðherra hans, hafa tekið í sama streng. Þetta eru fulltrúar stórskuldugra landa, sem ekki ná sér efnahagslega á strik með evruna sem gjaldmiðil. Hún er enn of sterk fyrir rómönsku ríkin.
Það, sem Joschka Fischer er að segja, er, að Þjóðverjar eru nú leynt og ljóst andvígir þessum samruna ("ever closer union"). Ástæðan er auðvitað sú, að við stofnun ríkis evrulandanna mundu lánadrottnaríkin þurfa að axla byrðar skuldunautanna, og til þess eru þau ekki tilbúin, enda hefur Angela Merkel, CDU, nýlega hafnað þessum samrunahugmyndum. CSU í Bæjaralandi og fjármálaráðherrann, Wofgang Schaeuble, CDU, hafa þar með orðið ofan á innan ríkisstjórnarinnar í Berlín. Sá meirihluti endurspeglar vilja meirihluta þýzku þjóðarinnar eftir öllum sólarmerkjum að dæma.
Angela Merkel fylgir þar almenningsálitinu í Þýzkalandi og stjórnmálastöðunni þar í landi. CDU, flokkur hennar, mundi hrynja, ef hún féllist á slíka stofnun ríkis. Komnir eru fram á sjónarsviðið í Þýzkalandi stjórnmálaflokkar, t.d. AfD og hreyingin Junge Freiheit, sem hirða mundu mikið fylgi af CDU, og reyndar líka af SPD (jafnaðarmönnum), ef horfið væri inn á braut ríkjasameiningar.
Hjá hinum almenna Þjóðverja ræður ekki endilega þjóðerniskennd þessari afstöðu, heldur réttmæt vissa um, að lífskjörum í Þýzkalandi mundi hraka mikið við slíka stofnsetningu rikis. Það eru töluverðar áhyggjur núna hjá almenningi í Þýzkalandi út af kostnaði við móttöku flóttamannaflóðs. Þjóðverjar vita sem er, að þeir standa núna á hátindi efnislegrar velmegunar og stjórnmálalegra áhrifa í álfunni, en Þýzkalandi mun óhjákvæmilega hraka, eins og reyndar flestum öðrum ríkjum í Evrópu, vegna hækkandi meðalaldurs og mikillar fækkunar á vinnumarkaði. Talið er, að Stóra-Bretland með sitt sterlingspund muni að aldarfjórðungi liðnum hafa farið fram úr Þýzkalandi, hvað mannfjölda og landsframleiðslu snertir. Hins vegar eru miklar blikur á lofti hjá Bretum líka, því að ríki þeirra kann senn að sundrast og þeir (flestir) að lenda utan Innri markaðar Evrópu. Af öllum þessum fjárhagslegu ástæðum er hinn almenni Þjóðverji fullur efasemda um sjálfbærni sameiningar evrusvæðisins í eitt ríki. Hann sér fram á, að unga kynslóðin muni ekki með góðu móti geta risið undir öllum þessum byrðum.
Joschka Fischer hélt greiningu sinni áfram:
"En í Þýzkalandi í dag eru slíkar hugmyndir [stjórnmálaleg sameining Evrópu] taldar vonlausar og "Evrópu-rómantískar"; tími þeirra er liðinn. Þar sem Evrópa er annars vegar, mun Þýzkaland upp frá þessu aðallega fylgja sínum eigin þjóðarhagsmunum, alveg eins og allir aðrir.
En slík hugsun byggist á falskri forsendu. Sú leið, sem Þýzkaland mun velja á 21. öld - til "evrópsks Þýzkalands" eða "þýzkrar Evrópu" - hefur verið mesta grundvallarspurningin í sögu landsins og utanríkisstefnu þess síðustu tvær aldirnar. Og henni var svarað á þessari löngu nótt í Brussel, og þýzk Evrópa hafði betur gagnvart evrópsku Þýzkalandi."
Joschka Fischer setur stöðu Þýzkalands hér í sögulegt ljós og "dramatíserar" nokkuð til að vekja athygli á þeim vatnaskilum, sem eru að verða í utanríkismálastefnu Þýzkalands. Þá vaknar spurningin um, hvernig þessi vatnaskil snerta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Þá er þar fyrst til að taka, að setji Þjóðverjar hagsmuni sína framar hagsmunum Evrópu, eins og JF boðar, þá mun evrusamstarfið splundrast. Þjóðirnar munu aftur hverfa til sinna gömlu mynta með einum eða öðrum hætti, hugsanlega með einhvers konar myntbandalögum, t.d. Norður-Evrópu annars vegar og Suður-Evrópu hins vegar. Sterlingspundssvæðið gæti orðið þriðja myntsvæðið.
Öxullinn Berlín-París mun brotna, en við taka tveir aðrir öxlar, Berlín-London og París-Róm. Ísland mun augljóslega lenda innan áhrifasvæðis þess fyrrnefnda.
Evran mun lækka enn meir en orðið er áður en hún splundrast, og þess vegna verður ekki eins hagkvæmt fyrir Ísland að selja vörur inn á evru-svæðið og verið hefur, t.d. ál og fisk. Kína er á sama tíma í hnignun, og stjórnvöld í Peking kunna bráðlega að standa frammi fyrir gífurlegum efnahagsvanda, mengunarvanda og uppþotum. Bandaríkin (BNA) standa við þessar aðstæður uppi með pálmann í höndunum, og vöruútflutningur mun af þessum sökum aukast frá Íslandi til BNA.
Upplausn í Evrópu og átök við Rússland munu á ný auka hernaðarlegt mikilvægi Íslands fyrir NATO. Við þessar aðstæður getum við ekki sýnt hálfvelgju gagnvart Rússum, nema sýna bandamönnum okkar fingurinn um leið. Það yrði örlagaríkt, og allar greiningar, sem yrðu að vera undanfari slíkrar ákvörðunar, vantar. Ferðum flugsveita, herskipa og kafbáta hingað mun þess vegna fjölga, þó að herstöð verði ekki endurnýjuð, nema hitni enn frekar í kolunum.
Við þessar aðstæður munu ESB-áhangendur á Íslandi missa fótanna, og stjórnmálaflokkar þeirra, Samfylking og Björt framtíð, gufa smám saman upp. Sú uppgufun er þegar hafin, eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Í tvísýnu ástandi, eins og hér hefur verið lýst, er stjórnleysingjum og andstæðingum höfundarréttar, sem nú kalla sig sjóræningja eða "pírata", ekki treystandi fyrir horn.
Svikurunum, Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sat í ríkisstjórn, sem barðist fyrir innlimun Íslands í stórríkið, Evrópusambandið, ESB, mun verða refsað. Trúverðugleiki flokksins er enginn. Honum er ekki treystandi fyrir horn heldur. Flokkurinn skuldbatt sig með stefnumörkun fyrir kosningar um að styðja ekki umsókn um aðild að ESB, og allir vita um hrossakaup hans við Samfylkinguna eftir kosningarnar 2009.
Núna er minna atvinnuleysi á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, og líklega verður hagvöxturinn hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi árið 2015. Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna virðist jafnframt ætla að verða mest á Íslandi 2015. Fjárfestingar kunna að nema 25 % af landsframleiðslu 2015, og þannig er lagður traustur grunnur að framtíðinni með sjálfbærri nýtingu auðlinda.
Markmið Íslands ætti að vera að fullnægja Maastricht-skilyrðum hagstjórnar á þessu kjörtímabili; að sjálfsögðu ekki til að taka upp evru, heldur til að treysta gengi gjaldmiðils landsins, hækka lánshæfismatið umtalsvert til að lækka vaxtakostnað og treysta stöðugleika hagkerfisins í sessi. Með þessu móti styttist í, að Ísland skáki þeim þremur Evrópuþjóðum, sem lengi hafa státað af hæstu landsframleiðsluverðmætum á mann.
Það verður ekki betur séð en Íslandi vegni nú bezt allra Evrópuþjóða á batabrautinni eftir fjármálakreppuna 2008. Svo er reyndar fyrir að þakka miklum fjölda innflytjenda, sem halda atvinnulífi landsins gangandi og fara yfirleitt vel með fé, sem þeim áskotnast. Núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti hennar á hrós skilið, en þessi sami þingmeirihluti verður að sýna himpigimpum stjórnarandstöðunnar vígtennurnar, svo að þingræðið virki, eins og mælt er um í Stjórnarskrá. Minnihlutinn hefur ekkert af viti fram að færa. Hann á rétt á því að fá að sýna kjósendum á spilin sín (hundana), en hann á engan rétt á því að þvælast fyrir og jafnvel hindra, að vilji meirihluta þingsins fái framgang og verði eftir atvikum að lögum.
31.7.2015 | 21:01
Makríllinn er messu virði
Furðumikil átök tengjast makrílnum, enda er hann flökkustofn, sem er að vinna sér nýjar lendur í hlýsævi hér norður frá. Þjóðir á borð við Íra og Skota horfa langeygir á eftir honum hingað norður. Hann lét þó standa á sér í sumar, enda hlýnaði sjórinn seint að þessu sinni. Allt lífríki sjávar er óvissu undirorpið, og þekking á því af of skornum skammti miðað við hagsmunina. Nú hafa Rússar aukið við nýtingaróvissu þessarar nýju tegundar í lögsögu Íslands með hótun um innflutningsbann á makríl frá Íslandi. Það yrði vissulega tilfinnanlegt og visst stílbrot í viðskiptasögu Rússlands og Íslands.
Vinstri stjórnin 2009-2013 heyktist á að kvótasetja makrílinn, eins og henni þó bar samkvæmt lögum, eins og Umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði hefur bent á.
Sjávarútvegsráðherra núverandi ríkisstjórnar olli miklum úlfaþyt með framlagningu frumvarps um kvótasetningu makríls í stað þess að styðjast við gildandi lög um fiskveiðistjórnun og gefa út reglugerð um varanlegar aflahlutdeildir makríls á grundvelli veiðireynslu áranna 2012-2014. Verður ekki séð, að frágangssök sé í því sambandi, þó að samningur um aflahlutdeild Íslands hafi ekki enn náðst.
Aðferðarfræði ráðherrans varð loddurum tilefni til að fiska í gruggugu vatni og halda því tilefnislaust fram, að "grundvallarbreyting verði á úthlutun veiðiheimilda í makríl, þar sem ekkert ákvæði er í frumvarpinu um þjóðareign kvótans né heldur um það,að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Þar með festi frumvarpið í sessi, að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameigninni sem og, að fordæmi myndist í þá veru að úthluta aflaheimildum til lengri tíma en eins árs, eins og nú er raunin."
Í gæsalöppunum á undan greinaskilunum hér að ofan er verið að mála skrattann á vegginn, vegna þess að í makrílfrumvarpinu var vísað til gildandi laga um fiskveiðistjórnunina, svo að ráðherrann ætlaði alls ekki út á nýjar brautir, hvað eignarhald kvótans áhrærir. Það er ímyndun Jóns Steinssonar, hagfræðings, eða vísvitandi rangtúlkun hans til að efna til múgæsingar. Þessi hagfræðingur leggur sig hvað eftir annað í framkróka við að blása í glæður tortryggni og vantrausts með vænisýki sinni.
Eins og fram kemur í gæsalöppunum á eftir greinaskilunum, þá virðist Jón Steinsson haldinn ranghugmyndum um eignarhald fisksins í sjónum. Óveiddan fisk á enginn, af því að miðin eru almenningur, og svo hefur verið frá öndverðu. Til að verja stofnana og til að hámarka afraksturinn hefur ríkið hins vegar með réttu tekið sér vald til að stjórna veiðunum. Það er gert á grundvelli umdeilanlegrar aflareglu og úthlutun ótímabundinna aflahlutdeilda á grundvelli þriggja ára veiðireynslu. Við þetta myndast nýtingarréttur, sem er eitt form eignarréttar og er veðsetjanlegur og framseljanlegur. Þetta er með öðrum orðum markaðsdrifið stjórnkerfi fiskveiða, sem hefur hámarkað skilvirkni útgerðanna á heimsvísu. Það, sem er gott fyrir útgerðina, er gott fyrir landið allt, því að útgerðin myndar ekki lokað hagkerfi, heldur nýtir sér þjónustu fjölmargra og greiðir sína skatta, eins og aðrir, og meira til (veiðigjöldin). Það er eintóm óskhyggja Jóns Steinssonar o.fl., að ríkið eigi óveiddan fisk í sjónum og geti þess vegna ráðstafað honum að eigin vild.
Varðandi makrílinn ætlaði ráðherrann hins vegar illu heilli að hafa nýtingarréttinn takmarkaðan til 6 ára, en Jón vill hafa hann til eins árs og helzt bjóða veiðiréttindin upp á markaði árlega.
Þetta er alveg arfaslök hagfræði, því að hvaða fjárfestir vill festa fé í skipi, búnaði og mannskap til eins árs, hafandi enga vissu um, hvort hann fái nokkuð að veiða að ári ? Hér vantar hvatann til athafna, og eignarrétturinn er fótum troðinn. Kenningin fellur þess vegna vinstri mönnum í gerð, en það er ekki heil brú í henni fremur en í sameignarstefnu Karls Marx.
Aðgerðin er ólögleg, því að það getur enginn boðið upp það, sem hann á ekki, og ríkið á ekki óveiddan fisk í sjó, eins og Jón Steinsson, hagfræðingur, gefur sér og reisir falskenningu sína á. Hann er þess vegna eins konar falsspámaður, sem nokkrir hafa þó tekið trú á.
Það hefur myndazt mikill múgæsingur um grundvallarmisskilning Jóns á eðli fiskveiðistjórnunarkerfisins, og hann leiddi til undirskriftasöfnunar, þar sem skorað var á forseta lýðveldisins að synja öllum lögum staðfestingar, þar sem kveðið væri á um lengri úthlutun aflahlutdeildar en til eins árs.
Með þessu er verið að heimta, að framvegis verði útgerðarmönnum mismunað alveg herfilega, því að þeir sem munu gera út á nýjar tegundir, fá þá aðeins úthlutað til eins árs, en hinir hafa ótímatakmarkaða úthlutun. Þetta væri skýlaust brot á atvinnuréttindum og þess vegna Stjórnarskrárbrot. Forseti lýðveldisins mun áreiðanlega sjá þessa alvarlegu meinbugi ásamt hinu hagfræðilega glapræði, sem í þessu felst, og haga staðfestingu slíkra laga samkvæmt því.
Um hið hagfræðilega glapræði hefur hinn kunni prófessor í hagfræði, Ragnar Árnason, þessi orð:
"Að mínu mati ber að úthluta aflaheimildum í makríl varanlega - annað er í raun lögbrot."
Það verður í raun og veru ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að hafa úthlutun tímabundna, þegar horft er til hinna hagfræðilegu kosta ótímabundinnar úthlutunar og jafnræðis útgerðarmanna og sjómanna við aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni ?
Í helgarblaði DV 25.-29. júní 2015 undir fyrirsögninni:
" Þessi arður mun sjálfvirkt dreifast um allt hagkerfið",
segir Ragnar um hugmyndir Jóns Steinssonar um uppboð aflaheimilda:
"Ég skil eiginlega ekkert í Jóni að halda þessu fram. Það er óumdeilt á meðal hagfræðinga, að aflamarkskerfi sé efnahagslega hagkvæmt. Það er ríkjandi kerfi hjá vestrænum þjóðum og fleirum. 25 % af heildaraflanum á heimsvísu eru veidd innan þess kerfis, og þróun er í þá átt, að það hlutfall vaxi. Kerfið gefur af sér góða efnahagslega reynslu, og það sem er ekki síður mikilvægt er, að það viðheldur og styrkir fiskistofna", segir Ragnar og bendir á, að erfitt sé að reka útgerð, ef óvissa er fyrir hendi, hver kvótinn verður. Því sé það hans skoðun, að úthluta beri aflaheimildum til eins langs tíma og hægt er.
Fjárfestingar í greininni eru til langs tíma; sá sem fjárfestir í skipi gerir það til 30 ára eða meira og í fiskvinnslu, svo að ekki sé minnzt á, að markaðsþróun er fjárfesting til enn lengri tíma. Það að ætlast til þess, að sjávarútvegsfyrirtæki séu í sífelldri óvissu um aflarétt, er eins og að reyna að reka áliðnað, þar sem álfyrirtækin hafa aðeins framleiðslurétt til árs eða fárra ára í senn."
Ekkert álfyrirtæki gæti þrifizt við þessar afkáralegu aðstæður, og hér er um að ræða einhvers konar "útúrboruhagfræði", sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og enginn alvöru hagfræðingur mundi skrifa skilmálalaust undir. Orð hagfræðiprófessorsins, Ragnars, ættu hins vegar að vera hverjum manni auðskilin. Öll hagfræðileg og þjóðhagsleg rök hníga að því, að Íslendingar hafi þróað bezta fáanlega fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir sínar aðstæður, sem eru verðmæt efnahagslögsaga og veiðigeta, sem er langt umfram veiðiþol nytjastofnanna í þessari lögsögu.
Íslenzkar útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki standa í harðri samkeppni við norska kollega og aðra, og stjórnmálamenn geta auðveldlega stórskaðað samkeppnisstöðu Íslendinga á erlendum mörkuðum, t.d. með álagningu verulega íþyngjandi veiðigjalda (þau eru núna líklega tvöfalt of há miðað við það, að þau tíðkast ekki hjá samkeppnisaðilunum).
Í þessu sambandi er rétt að vísa í gagnorða forystugrein í Morgunblaðinu 23.05.2015 undir heitinu "Öfugmælaumræða á Alþingi",
en þar sagði m.a.:
"Það er mikið alvörumál, að þingmenn skuli ítrekað með ábyrgðarlausu tali grafa undan helzta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og halda rekstri hans í stöðugri óvissu. Og það er ekki síður áhyggjuefni, að þeir virðast ekki átta sig á helztu kostum þess fiskveiðistjórnarkerfis, sem verið hefur við lýði í um aldarfjórðung, varanleika og framseljanleika aflaheimilda."
Þá er augljóst, að fíflagangur á borð við kenningar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um úthlutun aflahlutdeilda til eins árs í senn eða jafnvel árlegt uppboð aflahlutdeilda mun fæla fjárfesta frá greininni, sem mundi strax leiða til þess, að greinin koðni niður og hætti að greiða hluthöfum arð og hætti að hafa nokkurt bolmagn til að greiða í sameiginlega sjóði landsmanna. Hver er eiginlega bættari með slíkri breytingu ? Fyrir ríkissjóð væri þetta eins og að míga í skóinn sinn.
Hinn virti og kunni hagfræðiprófessor, RÁ, þvertekur fyrir órökstuddar og óskiljanlegar fullyrðingar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um, að með núverandi framkvæmd kvótakerfisins sé í raun verið að hlunnfara íslenzku þjóðina:
"Nánari athuganir sýna, að þorri arðsins rennur beint til þjóðarinnar. Aflakvótakerfi sparar kostnað við fiskveiðar og hækkar verðmæti aflans, sem landað er, þannig að nettó útflutningsframleiðsla úr sjávarútvegi verður hærri en áður. Innflutningurinn til sjávarútvegsins minnkar, þ.e.a.s. olía og annað, og útflutningsverðmæti verður hærra. Það þýðir hærra gengi krónunnar að öðru óbreyttu. Hærra gengi krónunnar þýðir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna verður þeim mun hærri. Helmingur þess, sem íslenzk heimili kaupa, er innflutningur, þannig að 1 % hækkun á gengi þýðir einfaldlega 0,5 % kjarabót fyrir fólkið í landinu. Þetta er gríðarlega stórt atriði", sagði Ragnar.
Í grein í Morgunblaðinu 24. júlí 2015,
"Makríll utan ESB - uppgjöf Grikklands",
notaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, makrílinn til að varpa ljósi á meðferð valdsins í Berlaymont á smáríkjum, en ein af firrum ESB-aðildarsinna á Íslandi hefur löngum verið, að hagsmunum smáríkja sé betur borgið innan múra ESB ("Festung Europa") en utan.
Hann telur útflutningsverðmæti frysts makríls og mjöls undanfarinn áratug hafa numið a.m.k. ISK 120 milljörðum. Í ár verði Íslendingum heimilt að veiða meira en nokkru sinni fyrr eða um 172 kt í íslenzkri lögsögu, og að við ákvörðun afla miði sjávarútvegsráðherra við 17 % af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, eins og verið hefur.
ESB og Norðmenn vildu hins vegar búa svo um hnútana, að 90 % veiðiheimildanna féllu þeim í skaut og að Íslendingar, Færeyingar og Rússar skiptu með sér 10 %. Þannig yrði hlutdeild Íslands e.t.v. 3,5 % í stað 17 %, og ofangreindar útflutningstekjur hefðu þá orðið um ISK 100 milljörðum lægri. Þetta er bara sýnishorn af þeim kostnaði, sem fullveldisframsal Íslands til ESB hefði í för með sér.
Til að gera sér grein fyrir þeim fjandskap, sem Ísland mundi mæta innan ESB, þar sem hagsmunaárekstrar yrðu, verður aftur vitnað í grein Björns Bjarnasonar:
"ESB-menn, einkum Skotar, sýndu mikla andstöðu við makrílveiðar íslenzkra skipa. Skozki ESB-þingmaðurinn, Struan Stevenson, sneri sér t.d. sumarið 2010 að Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á málþingi á vegum ESB-þingsins í Brussel og spurði:
"Ég er undrandi á því, að Íslendingar biðji okkur um að draga fram rauða dregilinn og fagna sér sem aðilum að ESB; þakkir þeirra felast í því að neita að greiða [Icesave-] skuldir sínar, loka loftrými okkar vikum saman með eldfjallaösku og reyna nú að eyðileggja makrílveiðar okkar.
Þetta er fyrir neðan allar hellur, og ég treysti því, að framkvæmdastjórnin segi þeim afdráttarlaust, að ESB láti ekki undan í þessu máli og að við samþykkjum ekki svo ábyrgðarlausa framkomu."
Þarna opnaðist Íslendingum sýn inn í hugarheim ESB-manna og viðtekin viðhorf í Berlaymont til Íslands og hagsmuna þess. Í stuttu máli geta Íslendingar étið það, sem úti frýs fyrir ESB-mönnum, og hagsmunir lítillar þjóðar norður í Atlantshafi kemur ekki mál við þá. Það er gamla sagan með óðalið og kotið. Íslendingar verða í fjárhagslegum efnum sem þjóð og hver og einn að reiða sig á sjálfa sig.
Þetta er í algerri mótsögn við málflutning umsóknarráðherrans (olíumálaráðherrans, eins og hann gjarna kallaði sig), Össurar Skarphéðinssonar, og smáþjóðafræðingana í hópi stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands, en þeir hafa löngum fimbulfambað fótalaust um öryggið, sem fælist í því að vera aðili að "smáþjóðasambandinu" ESB. Þetta er í bezta tilviki lágkúruleg pilsfaldapólitík, en í raun stórhættuleg tálsýn. Ekkert er fjær sanni en stórþjóðirnar láti hagsmuni smáþjóða njóta forgangs. Það færði makríllinn okkur heim sanninn um, og það hefur Grikklandsfárið sýnt okkur í hnotskurn upp á síðkastið.
Í hvorugu tilvikinu eru sjónarmið lítilmagnans nokkurs metin. Stóru ríkin í ESB ráða algerlega ferðinni, og þau framfylgja sáttmálum Evrópusambandsins, t.d. hinni sameiginlegu landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, og bera mjög fyrir brjósti varðveizlu evru-samstarfsins, sem nú er í hers höndum; nema hvað ? Barnaskapurinn ríður ekki við einteyming.
Toppurinn á þeim ísjaka er Grikkland, en ekkert evruland Suður-Evrópu þrífst með sama gjaldmiðil og Þýzkaland. Raunar er hvergi hamingja með þann gjaldmiðil, enda var undirstaðan ranglega fundin og er nú orðin feyskin.
25.7.2015 | 13:16
Af sviðsmyndum og ómyndum
Sitt sýnist hverjum um það, hvort raforkusala um sæstreng frá Íslandi til Bretlands geti orðið arðsöm, eins og nú horfir með heimsmarkaðsverð á raforku, en það hefur hríðfallið frá því, að Bandaríkjamenn náðu undirtökunum á gas- og olíumörkuðum árið 2014 með jaðarframboði á grundvelli nýrrar vinnslutækni, þ.e. setlagasundrun með vatni, sandi og aðskotaefnum undir þrýstingi (e."fracking") til að vinna eldsneytisgas og olíuvinnsla úr tjörusandi.
Nú eru Persar að koma inn á eldsneytismarkaðinn, og munu þeir heldur betur velgja Aröbunum undir uggum, ef að líkum lætur. Mun þá botninn úr markaðinum, og eiga þá Norðmenn o.fl. enga möguleika lengur á þessum markaði til vinnslu með hagnaði. Verður þá tvennt í boði fyrir olíusjeika Norðursins. Annaðhvort að opna rækilega fyrir útstreymi úr olíusjóði sínum og halda þannig uppi fölskum lífskjörum eða að herða sultarólina. Blanda af þessu gæti orðið fyrir valinu að hætti Norðmanna.
Nær væri orkuyfirvöldum á Íslandi að kanna fýsileika raforkusölu um sæstreng frá Íslandi til Færeyja en til Bretlands. Hér er um mun minna og viðráðanlegra verkefni að ræða. Hins vegar kann að styttast í, að Færeyingar setji upp kjarnorkuver hjá sér af nýrri kynslóð og stærð, sem hentar þeim. Þessi nýju kjarnorkuver nota frumefnið Þóríum í kjarnakljúfa sína og nýta efnið mun betur en Úran-kjarnakljúfarnir, svo að geislavirkur úrgangur verður viðráðanlegur og skaðlaus á innan við einni öld. Búizt er við þessari orkubyltingu um 2025, og mun þá engum detta í hug lengur að leggja sæstreng yfir 500 km, hvað þá á 1 km dýpi.
Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði fróðlega grein, sem birtist í Morgunblaðinum á Bastilludaginn 2015 undir heitinu:
"Sviðsmynd Landsvirkjunar og sæstrengsumræðan". Hann hefur greinina með eftirfarandi hætti:
"Margir hafa að undanförnu séð ástæðu til að stinga niður penna og fjalla um sæstreng. Nú síðast Ketill Sigurjónsson á mbl.is; erindi hans þar virðist helzt það, að allir þeir, sem ekki hrópa "hallelúja" yfir sæstrengnum, hljóti að bera hagsmuni stóriðjunnar fyrir brjósti. Þetta er ömurlegur málflutningur."
Þessi orð Elíasar varpa ljósi á þá staðreynd, að orkulindir landsins eru takmörkuð auðlind ekki sízt vegna þess, að málamiðlanir verður að gera á milli þeirra, sem vilja "nýta og njóta" og hinna, sem vilja bara "njóta" eða öllu heldur "nýta með því að njóta", þó að sú stefna sé nú reyndar komin í ógöngur vegna skipulagsleysis, svo að stefnir í óafturkræfar skemmdir á viðkvæmum landsvæðum vegna "ofnýtingar við að njóta", svo að yfirgengilegur sóðaskapur sumra ferðamanna og leiðsögumanna þeirra með tilheyrandi sóttkveikjuhættu sé nú látinn liggja á milli hluta.
Landsvirkjun hefur reynt með kúnstum, sem reyndar hefur verið flett ofan af hér á þessu vefsetri, að breiða yfir þá staðreynd, að líklega þarf að virkja upp undir 1200 MW fyrir Skotlandsstrenginn til að senda utan um 7500 GWh/a. Þetta er rúmlega fimmtungur af hagkvæmt virkjanlegu afli, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Til samanburðar hafa Norðmenn ekkert virkjað fyrir sína sæstrengi, enda er raforkukerfi þeirra gjörólíkt hinu íslenzka.
Það eru í meginatriðum 2 sviðsmyndir í umræðunni. Sviðsmynd Landsvirkjunar er naglasúpusviðsmynd, þ.e. að selja orku, sem ekki er til, eins og einnig hefur verið útskýrt á þessu vefsetri. Um hundakúnstir talsmanna Landsvirkjunar hefur Elías þessi orð:
"Sæstrengurinn kemur þá ofan á því sem næst fullnýtt kerfi. Þegar enn er skrifað, eins og hægt sé að ná allt að 10 % betri nýtni úr kerfinu án þess að kosta nokkru til, sæmir það varla Landsvirkjun."
Sviðsmynd Landsvirkjunar er með einum sæstreng, 1000 MW að flutningsgetu, og árlegan orkuútflutning inn á strenginn 5,0 TWh (flutningstöp ótilgreind,nýting 57 %, 5000 klst/a), sem yrði aflað á eftirfarandi hátt:
- 2,0 TWh/ár frá bættri kerfisnýtingu og óskilgreindum stækkunum núverandi vatnsaflsvirkjana. Aðeins stækkun Búrfells er ráðgerð nú, þ.e. 100 MW afl og 0,3 TWh/a, svo að 1,7 TWh/ár virðast eiga að koma frá óskilgreindri bættri nýtingu vatnsorkukerfis. Hér vantar allt að 1,7 TWh/a.
- 1,5 TWh/ár frá vindmyllum (þýðir líklega 500 MW uppsett afl frá 170 vindrafstöðvum á um 90 m háum turnum), en Landsvirkjun hefur aðeins ráðgert Búrfellslund og Blöndulund, sem gefa líklega 0,9 TWh/ár. Hér vantar 0,6 TWh/ár.
- 1,5 TWh frá jarðgufuvirkjunum, sem þarfnast a.m.k. 200 MW uppsetts afls frá um 40 holum í rekstri samtímis. Þetta er aðeins um 30 % af virkjanakostum Landsvirkjunar í jarðgufu, en mikil óvissa er enn um getu þessara gufuforðabúra til að standa undir virkjun áratugum saman. Óvissustig: HÁTT
- Vegna vöntunar og óvissu gæti þurft að virkja nýtt vatnsafl, sem nemur 2,5 TWh/a (1,7+0,6+0,2=2,5)
- Ekki hefur enn verið útveguð orka til tveggja kísilmálmvera og eins sólarkísilvers, sem Landsvirkjun þó virðist hafa veitt ádrátt um orku, sem gæti numið 2,5 TWh/a frá vatnsorkuverum.
- Alls þarfnast þessi sviðsmynd sæstrengs, ásamt iðnvæðingu næstu ára, vatnfallsvirkjana að framleiðslugetu um 5,0 TWh/a. Þetta eru 75 % af þeim virkjanakostum vatnsafls, sem Landsvirkjun hefur lagt fram. Það er óvíst, að Landsvirkjun fái virkjanaleyfi fyrir þessum 5,0 TWh/a á næstu 10 árum, og þess vegna er ljóst, að annað verður undan að láta, iðjuverin eða sæstrengurinn.
Charles Hendry, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Bretlands, kynnti hins vegar aðra sviðsmynd sæstrengs á fundi í Reykjavík 20. apríl 2015. Sú er ívið stærri í sniðum og með mun meira afhendingaröryggi en sviðsmynd Landsvirkjunar hér að ofan:
Tveir sæstrengir með 600 MW flutningsgetu hvor um sig og orkuflutningur inn á báða strengina 7,5 TWh/a (nýting 71 %, 6250 klst/a), sem aflað yrði á eftirfarandi hátt:
- 4,3 TWh/a frá 530 MW nýjum jarðgufuvirkjunum. Landsvirkjun hefur borið víurnar í 5,3 TWh/a af jarðgufuvirkjunum, svo að 80 % af þeim færi inn á sæstrengina. Hér aftur er alger óvissa um, hvernig umrædd 5 svæði munu bregðast við virkjun. Óvissustig MJÖG HÁTT.
- 1,2 TWh/a frá 400 MW vindmyllum. Landsvirkjun hefur áformað 300 MW frá tveimur vindmyllulundum, svo að hér vantar 0,3 TWh/a.
- 0,8 TWh/a frá 250 MW stækkun eldri virkjana Landsvirkjunar. Miðað við stækkunaráform Landsvirkjunar vantar hér 0,5 TWh/a.
- Þó að allt þetta gengi eftir, fengjust aðeins 6,3 TWh/a. Þá vantar 1,2 TWh/a og vegna óvissu og vöntunar virkjunarkosta þarf að bæta við 0,5+0,3+0,5=1,3 TWh/a, sem þýðir, að 2,5 TWh/a þurfa að koma frá nýjum vatnsfallsvirkjunum, sem er nákvæmlega sama orkuþörf frá nýjum vatnsfallsvirkjunum og í sviðsmynd Landsvirkjunar.
Þriðja sviðsmyndin, sem reyndar er afbrigði af þeirri fyrstu hér að ofan, kom svo fram í Morgunblaðinu 17. júlí 2015 í frétt á bls. 16 undir fyrirsögninni:
"Sæstrengur sniðinn að stefnu ESB".
Þarna eru tilvitnanir í Björgvin Skúla Sigurðsson, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun. Eins og fram kemur í fyrirsögninni, snýst þessi "frétt" um að sýna fram á, að sæstrengstenging Íslands við Bretland mundi falla vel að orkustefnu Evrópusambandsins-ESB og að okkur beri að fylgja henni vegna aðildar að EES.
Eftirfarandi tilvitnun í "fréttina" snýr að þessu:
"Lögð er sérstök áherzla á að fjármagna innviðauppbyggingu, sem snýr að samtengingu orkumarkaða á milli landamæra. Áður hafa ýmis slík verkefni verið studd, m.a. lagning sæstrengs frá Noregi til Bretlands. Þessi vinna kann að hafa áhrif á möguleikann að tengja orkukerfi Íslands með sæstreng til Bretlands."
Það blasir við, að Landsvirkjun reynir að stækka markað sinn með flutningskerfi fyrir raforku sína, sem ESB ætti hlut í, og með því að selja "græna orku" til brezka ríkisins, sem sárlega þarf að auka hlutdeild slíkrar til að ná markmiðum ESB um hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsins.
Það er alveg ljóst, að búið verður að kippa markaðslögmálum úr sambandi, ef þetta gengur eftir. Þess vegna kemur ekki til mála, að risinn á íslenzka markaðinum taki þátt í þessu, heldur verður að stofna nýtt fyrirtæki um þær virkjanir, sem reisa þarf vegna rafmagnsflutninga til og frá Bretlandi, en samkvæmt sömu frétt í Morgunblaðinu jafngilda þær fjárfestingum að upphæð ISK 164 milljörðum, og er það líklega stórlega vanáætlað vegna mikillar óvissu um 2,0 TWh/a, sem Landsvirkjun heldur fram, að sé "strönduð" orka í vatnsorkukerfinu, en eru líklega að mestu helberir hugarórar og þegar nýttir af áliðnaðinum.
Eins og fram hefur komið, verður samkeppni um vatnsorkuvirkjanir á milli iðjuvera á landinu og sæstrengs, hvað sem líður orðagjálfri talsmanna Landsvirkjunar um annað. Stærsti notandi raforku í hópi núverandi iðjuvera er áliðnaðurinn. Það er kaldranalegt að fá smjörþefinn af hugarfarinu til áliðnaðarins frá náunga, sem af trúarlegum sannfæringarkrafti hefur boðað landslýð fagnaðarerindi sæstrengsins um nokkurra ára bil. Þessi ósköp gaf að líta í athugasemd við ágætt vefinnlegg Viðars Garðarssonar á Bastilludaginn 2015 undir fyrirsögninni "Markmið Landsvirkjunar".
Þar tók Ketill Sigurjónsson meira upp í sig en hann eða nokkur annar getur staðið við, enda er um almenn og órökstudd stóryrði hans að ræða, sem eru ósönn, eins og þau voru sett þarna fram:
"Áliðnaður er sá viðskiptavinahópur, sem almennt skilar lægstri arðsemi raforkufyrirtækja og þar með lægstri arðsemi til eigenda slíkra fyrirtækja (sem í tilviki LV eru landsmenn allir)."
Sá, sem setur fram svigurmæli af þessu tagi um heila atvinnugrein, áliðnaðinn, setur sig á háan hest gagnvart öllum þeim, sem að Íslands hálfu hafa beitt sér fyrir samningum um raforkusölu til álvera, og opinberar téður Ketill reyndar um leið vanþekkingu sína á orkumálum almennt, og hvað er ákvarðandi fyrir arðsemi raforkusölu, eins og nú skal greina:
Eins og um alla aðra vöru og þjónustu, gildir það um raforkuvinnslu og raforkusölu, að hagnaður af starfseminni er í senn háður söluverðinu og kostnaðinum við framleiðslu og flutning til kaupandans. Af ástæðum, sem taldar verða upp hér að neðan, er framleiðslukostnaður og flutningskostnaður á hverja orkueiningu, t.d. MWh, umtalsvert lægri til álvera en til nokkurra annarra viðskiptavina orkufyrirtækjanna á Íslandi. Af þeim sökum er viðskiptagrundvöllur og arðsemisgrundvöllur fyrir því, að álverin njóti lægsta verðs fyrir forgangsorku á markaðinum. Þessu skautar téður Ketill algerlega framhjá, og þess vegna er engin skynsemi í fullyrðingu af því tagi, að álver séu óhagstæðir viðskiptavinir út af fyrir sig. Það markast einfaldlega af bilinu á milli umsamins verðs og kostnaðar í þeirri virkjun, sem stendur undir viðkomandi orkusölu á öllu samningstímabilinu. Ketill Sigurjónsson virðist aðeins horfa á aðra hlið jöfnunnar, söluverðið, og dregur af því alrangar, almennar ályktanir. Þetta hugarfóstur hans, að orkusamningar við álverin séu þjóðhagslega óhagkvæmir, hefur leitt hann út á braut óviðeigandi svigurmæla í garð heillar iðngreinar, sem flokka má til atvinnurógs.
Meðalraforkuverð Landsvirkjunar til álveranna þriggja var 25,9 USD/MWh að meðtöldum flutningi til þeirra árið 2014, og má þá ætla, að verð frá virkjun sé 24,0 USD/MWh. Meðalverð Landsvirkjunar nam þá 32,8 USD/MWh, en verð til almenningsveitna nam hins vegar 68 USD/MWh eða 8,9 kr/kWh. Hlutfallið 24/68=0,35 er allt of lágt og ætti að vera nálægt 0,45, ef verðin mundu endurspegla raunverulegan tilkostnað, sem er eðlilegt og sanngjarnt.
Það er hins vegar röng ályktun af þessu, að meðalverð til álvera ætti að hækka um 28 %, heldur er verðið til almenningsveitna orðið allt of hátt og þarf að lækka um 22 %. Það sést, þegar vinnslukostnaður í virkjun til þessara tveggja viðskiptamannahópa er skoðaður. Gríðarlegur hagnaður Landsvirkjunar um þessar mundir gefur þetta auðvitað til kynna, en það sést líka, ef jaðarkostnaður rafmagns í vatnsaflsvirkjun er reiknaður, því að þá fást 24,4 USD/MWh fyrir áliðnað og 54,2 USD/MWh eða um 7,1 kr/kWh fyrir almenningsveitur. Það er alger óhæfa að selja orku úr núverandi kerfi á mun hærra verði en nemur reiknuðu verði frá næstu virkjun (jaðarkostnaður).
Helztu ástæður þess, að ódýrara er að framleiða rafmagn fyrir álver en almenningsveitur:
- Nýtingartími uppsetts afls í virkjun er um 60 % hærri, ef hún framleiðir fyrir álver en fyrir almenningsveitur. Ástæðan er, að það eru engar álagssveiflur í álveri, háðar tíma sólarhrings, viku, eða árstíð, eins og dæmigert er fyrir almenningsveitur. Af þessum ástæðum nýtist fjárfestingin að sama skapi betur og hærri tekjur koma inn, en kostnaður eykst mjög lítið, sérstaklega í vatnsaflsvirkjunum, því að vatnið kostar ekkert, þar sem vatnsréttindin eru í höndum virkjunareigandans.
- Ný virkjun kemst upp í fulla nýtingu á fyrsta ári eftir gangsetningu, ef hún framleiðir fyrir álver, en full nýting meðalstórrar virkjunar (150 MW) verður fyrst að áratug liðnum, ef hún framleiðir aðeins fyrir almenningsveitur. Til að gefa sömu tekjur yfir samningstímabilið getur einingarverð til álvers þess vegna verið lægra en til almenningsveitna.
- Eigandi álvers gerir skuldbindandi samning til 25-45 ára um kaup á a.m.k. 85 % af umsaminni orku á hverju ári, þó að hann noti hana ekki. Orkusölufyrirtæki til almennings er ekki skuldbundið til að kaupa orku frá einum birgi, enda mundi slíkt brjóta í bága við samkeppnislög. Þessi tekjutrygging verður þess valdandi, að hagstæðari lánskjör fást til fjárfestingar í virkjuninni, sem lækka fjármagnskostnaðinn.
- Mun meiri kröfur eru gerðar til aflstuðuls álvera en almenningsveitna, sem leiðir af sér lægri fjárfestingarþörf í rafbúnaði í virkjun fyrir álver m.v. sömu raunaflsþörf í MW, og töpin verða minni.
- Samantekið leiðir þetta til, að vinnslukostnaður raforku fyrir álver er í mesta lagi 45 % af vinnslukostnaði raforku fyrir almenningsveitur.
Það skekkir örlítið myndina af hlutföllum meðalorkuverða til mismunandi notenda, að þau fela í sér vegið meðalverð forgangsorku og afgangsorku (ótryggðrar orku), en varðandi álverin getur sú síðar nefnda numið allt að 10 % af heild, en nær líklega ekki svo háu hlutfalli hjá almenningsveitunum. Orkufyrirtækin eru ekki skuldbundin til stöðugrar afhendingar á afgangsorku, og þess vegna geta miðlunarlónin verið minni að sama skapi.
Önnur iðjuver, t.d. kísilver, hafa annars konar álagsmynztur en báðir notendahóparnir, sem að ofan voru til skoðunar, og liggur kostnaður orkuvinnslu til þeirra einhvers staðar á milli þeirra, og þar af leiðandi ætti verðið til þeirra að gera það einnig.
Um væntanlegt sæstrengsálag ríkir óvissa, því að í öðru orðinu mæla talsmenn Landsvirkjunar fyrir aflsölu, þ.e. sölu á rafmagni aðeins á háálagstíma á Englandi, en hins vegar virðast Englendingarnir miða við hefðbundna orkusölu með nýtingartíma tveggja sæstrengja yfir 70 %, sbr 60 % nýtingu almenningsveitna á Íslandi og 95 % hjá álverum. Vinnslukostnaður orku inn á sæstreng er þess vegna hugsanlega svipaður og á orku til kísilvera. Hins vegar er flutningskostnaðurinn gríðarlegur og margfaldur á við vinnslukostnaðinn að meðtöldum gríðarlegum flutningstöpum 1200 km leið.
Niðurstaðan er sú, að takmörkun orkulindanna á Íslandi verður þess valdandi, að frekari iðnvæðing og sala um sæstreng fara ekki saman, og á grundvelli arðsemi fer ekki á milli mála, að velja ber iðnvæðinguna.
22.7.2015 | 17:58
Gríski harmleikurinn 2010-2015
E.t.v. væri rétt að hefja Gríska harmleikinn árið 2001, því að þá fleygðu Grikkir drökkmunni fyrir róða og tóku upp sameiginlega mynt Evrópusambandsins, ESB,án þess að rísa undir henni, sem reyndist öllu ESB örlagaríkt, enda var illa til stofnað.
Í raun fullnægðu Grikkir ekki Maastricht-skilyrðunum, sem áttu að verða aðgöngumiði að evrunni, en þeim tókst með svikum og prettum að fleygja skjóðunni með sál Grikklands inn fyrir Gullna hliðið, ECB, við Frankafurðu (Frankfurt).
Reyndar brutu Þjóðverjar sjálfir árið 2003 skilyrðið um, að greiðsluhalli ríkissjóðs færi ekki yfir 3,0 % af VLF. Á íslenzkan mælikvarða eru það ISK 60 milljarðar, en Þjóðverjar voru snöggir að rétta drekann af í skotstöðu og hafa síðan sett ákvæði í stjórnarskrá sína, sem bannar hallarekstur ríkissjóðs, og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, viðrað góða hugmynd um lagasetningu þar að lútandi hérlendis. Þjóðverjar voru reyndar þarna að ljúka uppbyggingarátaki í austurhéruðunum eftir Endursameiningu Þýzkalands.
Frakkar, aftur á móti, eru enn brotlegir við þetta ákvæði og eiga sér ekki viðreisnar von undir jafnaðarmönnum, sem skilja ekki nauðsyn uppstokkunar ofvaxins ríkiskerfis. Annað ákvæði Maastricht var um, að skuldastaða ríkissjóðs mætti ekki fara yfir 60 % af VLF. Eftir bankakreppuna 2008 hefur heldur betur snarazt á ESB-merinni, og lítur staðan núna þannig út:
- Grikkland 173 % (verður líklega um 200 % 2015)
- Ítalía 134 %
- Portúgal 126 %
- Írland 108 %
- Belgía 107 %
- Kýpur 106 %
- Spánn 99 %
- Frakkland 97 %
- Bretland 91 %
- Austurríki 89 %
- Slóvenía 80 %
- Þýzkaland 70 %
- Holland 68 %
- Malta 68 %
- Finnland 62 %
- Slóvakía 54 %
- Litháen 38 %
- Lettland 38 %
- Lúxemborg 26 %
- Eistland 10 %
Til samanburðar munu skuldir íslenzka ríkissjóðsins nú vera svipaðar og hins brezka að tiltölu, en gætu farið niður undir Maastricht-viðmiðið árið 2016, ef áform ríkisstjórnarinnar ganga að óskum.
Skuldastaða Grikklands virðist óviðráðanleg, en Þjóðverjar og bandamenn þeirra í evruhópinum (Austurríki, Holland, Finnland og Eystrasaltsríkin) taka afskriftir þeirra ekki í mál, enda mundu kjósendur í þessum löndum bregðast æfir við og refsa valdhöfunum í næstu kosningum með því að kjósa pírata eða einhverja álíka. Á þýzka þinginu er lagt hart að Merkel, kanzlara, að standa fast á þessu, og Sigmar Gabriel, varakanzlari, efnahagsráðherra og formaður SPD, þýzkra jafnaðarmanna, tekur í sama streng. Bæjarinn, Wolfgang Schaeuble, stendur að sjálfsögðu í ístaðinu sem fjármálaráðherra Þýzkalands og neitar að afskrifa skuldir. Þá mundi skrattinn losna úr grindum á Pýreneaskaganum, á Írlandi og víðar. Reyndar er kratinn Gabriel eitthvað að hlaupa útundan sér núna, enda hafa kratar aldrei verið þekktir fyrir staðfestu.
Þjóðverjar hafa aftur á móti beitt sér fyrir lengingu lána Grikkja til 2054 og lækkun vaxta með þeim afleiðingum, að greiðslubyrði gríska ríkisins var 4,0 % af VLF árið 2013, en það var minna en greiðslubyrði íslenzka ríkissjóðsins, og í Portúgal var hún 5,0 %, á Ítalíu 4,8 % og á Írlandi 4,4 %. Þjóðverjar þora þess vegna ekki að afskrifa hjá Grikkjum af ótta við, að allt fari úr böndunum vegna sams konar krafna annarra.
Greiðslugeta gríska ríkissjóðsins er hins vegar engin, því að hann var enn árið 2014 rekinn með 3,5 % halla, en hallinn hefur oftast verið meiri en 10 % undanfarin ár. Verg landsframleiðsla Grikkja árið 2014 var EUR 179,1 mia eða aðeins EUR 16'300 á mann (MISK 2,4), en skuldir þeirra námu hins vegar MISK 4,3 á mann. Á Íslandi var VLF á mann tæplega þreföld sú gríska. Aðeins kraftaverk getur bjargað Grikklandi frá þjóðargjaldþroti. Kannski það verði erkiengillinn Gabriel, sem sjái aumur á þeim.
Það er ekki kyn þó að keraldið leki, því að VLF Grikkja hefur dregizt saman um 25 % síðan 2010, og atvinnuleysið er nú 26 % og yfir 50 % á meðal fólks 18-30 ára. Verðmætasköpunin er allt of lítil til að geta staðið undir bruðli fyrri ára.
Hvernig í ósköpunum má það vera, að svo illa sé nú komið fyrir grísku þjóðinni, að hún hafi í raun og veru glatað sjálfstæði sínu síðan hún gekk í ESB 1981 ? Á þessu tímabili hafa vinstri menn, PASOK, lengst af verið við völd, og þeir hafa þanið út ríkisgeirann, þjóðnýtt fyrirtæki og stækkað velferðarkerfið langt umfam það, sem hagkerfið þolir. Sökudólgarnir eru þess vegna grískir stjórnmálamenn, sem um árabil sóuðu almannafé og gerðust jafnvel svo djarfir, að falsa bókhald ríkisins til að lauma Grikklandi inn á evrusvæðið. Brotin voru svo stórfelld, að grísk fangelsi væru væntanlega þéttsetin stjórnmálamönnum, ef sömu reglur mundu gilda um þá og athafnamenn. Svo er hins vegar ekki. Það kann að breytast, ef þjóðfélagsleg ringulreið verður í Grikklandi, og herinn tekur völdin. Fyrir því er um hálfrar aldar gamalt fordæmi.
Jafnaðarmenn hafa farið offari við stjórn Grikklands í innleiðingu fáránlegra réttinda til greiðslu úr ríkissjóði, sem enn viðgangast, svo að það er í raun mikið svigrúm til sparnaðar í grískum ríkisrekstri. Þarna er ábyrgðarleysi jafnaðarmanna í umgengni við fé skattborgaranna um að kenna. Alls staðar standa þeir fyrir ráðstöfun skattfjár í hvert gæluverkefnið á fætur öðru. Hér verða nefnd nokkur dæmi um bruðlið með fé skattborgaranna:
- Um 76 % Grikkja fara á eftirlaun fyrir lögboðinn eftirlaunaaldur, sem er þó við 61 árs aldur.
- Um 8 % eftirlaunaþega fóru á eftirlaun 26-50 ára.
- Um 24 % eftirlaunaþega hófu töku ellilífeyris 51-55 ára.
- Um 44 % á 56-60 árs
- Afgangurinn, 24 %, hefur töku ellilífeyris við 61 árs aldur.
Er ekki skiljanlegt, að Þjóðverjar, sem hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur, séu ekki upp rifnir yfir því, að skattfé þeirra sé notað til að viðhalda slíku endemis sukki ?
Fjárhagslegar skuldbindingar evruríkjanna gagnvart Grikklandi voru EUR 245,2 mia og skiptust með eftirfarandi hætti í milljörðum evra á undan EUR 86 mia björgunaraðgerðum, sem kann að verða farið í á grundvelli sparnaðartillagna Grikkja, sem fallizt var á 13. júlí 2015:
- Þýzkaland 60 ~ 28 %
- Frakkland 53 ~ 22 %
- Ítalía 46 ~ 19 %
- Spánn 31 ~ 13 %
- Holland 15 ~ 6 %
- Belgía 9 ~ 4 %
- Austurríki 7 ~ 3 %
- Finnland 5 ~ 2 %
- Portúgal 3 ~ 1 %
- Slóvakía 2 ~ 1 %
- Aðrir 4 ~ 1 %
Ef Ísland hefði verið á evru-svæðinu 2008, veit enginn, hvernig landinu hefði reitt af efnahagslega í bankakreppunni. ESB-aðildarsinnar halda því enn fram af trúarlegri sannfæringu, að hér hefði ekkert hrun orðið þá. Grikkir hafa afsannað slíka fullyrðingu, því að bankarnir tæmdust þar og voru lokaðir í 3 vikur. Hvað er það annað en bankahrun og jafnvel sýnu verra en hér, því að hér hélt Seðlabankinn þó uppi óslitinni greiðslukortaþjónustu allan tímann þar til nýir bankar tóku við ?
Vegna þess að hagkerfi Íslands er ólíkt öllum hagkerfum evru-svæðisins að gerð og samsetningu, er mjög hætt við, að evran hefði reynzt íslenzka hagkerfinu spennitreyja. Líklegt má telja, að landsmenn hefðu fallið í sömu gryfju og Grikkir eftir gjaldmiðilsskiptin að fara á "lánafyllerí" vegna mun lægri vaxta en landsmenn eiga að venjast. Það gæti hafa snarazt algerlega á merinni hjá okkur, eins og Grikkjum, peningaflóð hefði valdið miklu meiri verðbólgu hér en að jafnaði varð reyndin á evru-svæðinu á sama tíma ásamt eignabólu, sem hefði sprungið 2008 með ógnarlegum samdrætti hagkerfisins og fjöldaatvinnuleysi og þar af leiðandi meiri landflótta en raun varð á. Það hefði vissulega getað orðið lausafjárþurrð banka hér við þessar aðstæður, eins og reyndin varð í Grikklandi.
Allt eru þetta getgátur, en það hefur hins vegar verið áætlað, að framlag Íslands til stöðugleikasjóðs evrunnar hefði á árabilinu 2012-2015 þurft að nema MEUR 270 eða ISK 40 mia, sem samsvarar 10 milljörðum kr á ári að jafnaði, og er þá ótalin viðbót upp á MEUR 17 = ISK 2,5 mia í ár. Aðildargjald landsins að ESB er ekki vel þekkt, en gæti hugsanlega numið ISK 15 miö á ári, en eitthvað af því kæmi þó til baka. Alveg óvíst er um endurheimtur fjár í stöðugleikasjóðinn og horfir mjög óbyrlega með hann um þessar mundir. Í raun er þetta fórnarkostnaður lánadrottnanna innan evru-svæðisins til að halda evrunni á floti. Þjóðverjar óttast, að á peningamarkaði heimsins mundi evran glata trausti, ef Grikkir falla úr skaptinu. Gengi evru gæti þá hrunið niður fyrir 1 EUR/1 USD = 0,8, sem gæti valdið verðbólgu í Þýzkalandi, og Þjóðverjar mega ekki til slíks hugsa. Bæði þeir og Íslendingar hafa kynnzt óðaverðbólgu; Þjóðverjar þó sýnu verri vegna "Versalasamninganna".
Skattheimta af Íslendingum upp á ISK 25 mia á ári vegna verunnar í ESB og á evru-svæðinu ofan á aðra skattheimtu hérlendis mundi ekki mælast vel fyrir, enda er hér um að ræða stórar upphæðir eða um 1,3 % af VLF.
Peningakerfi Grikklands hrundi í raun og veru skömmu eftir, að evrubankinn í Frankfurt, ECB, skrúfaði fyrir peningastreymi til gríska seðlabankans, því að bankarnir urðu þá allir að loka. Þetta sýnir, að gríska hagkerfið er ósjálfbært, enda er vöruútflutningur lítill eða 13 % af VLF (innan við helmingur af íslenzka vöruútflutninginum að tiltölu), en aðaltekjurnar eru af ferðaþjónustu, og nokkuð af þeim markaði er svartur, eins og ferðamenn á Grikklandi hafa orðið varir við, sumir hverjir. Hins vegar er endurfjármögnun grískra banka að hálfu ESB stórmál, því að slíkt kann að leiða til mjög kostnaðarsams fordæmis, t.d. ef Spánverjar færu fram á hliðstæðu. Gríski harmleikurinn er flókinn og erfiður viðureignar, enda allt ESB-kerfið undir. Spennan eykst, og stytzt getur í stórtíðindi.
Þann 9. júlí 2015 reit Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, gagnmerka grein í Morgunblaðið undir heitinu:
"Reynsla Grikkja af Evrópusambandinu er mikil lexía, líka fyrir Íslendinga".
Þar vitnar hann í Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Paul Krugman:
"Það hefur verið augljóst um skeið, að upptaka evru voru hræðileg mistök. Evrópa hafði aldrei forsendur til að taka með árangri upp sameiginlega mynt. ... Að beygja sig fyrir afarkostum þrístirnisins, ESB, AGS og SBE, væri að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um sjálfstætt Grikkland."
Hjörleifur heldur síðan áfram:
"Til hliðsjónar við þann kost, að Grikkir taki upp eigin mynt, bendir hann [Krugman - Innsk. BJo] á árangursríka gengisfellingu íslenzku krónunnar 2008-2009, og að Argentína hætti að binda pesóinn við dollara 2001-2002."