Færsluflokkur: Evrópumál
31.7.2015 | 21:01
Makríllinn er messu virði
Furðumikil átök tengjast makrílnum, enda er hann flökkustofn, sem er að vinna sér nýjar lendur í hlýsævi hér norður frá. Þjóðir á borð við Íra og Skota horfa langeygir á eftir honum hingað norður. Hann lét þó standa á sér í sumar, enda hlýnaði sjórinn seint að þessu sinni. Allt lífríki sjávar er óvissu undirorpið, og þekking á því af of skornum skammti miðað við hagsmunina. Nú hafa Rússar aukið við nýtingaróvissu þessarar nýju tegundar í lögsögu Íslands með hótun um innflutningsbann á makríl frá Íslandi. Það yrði vissulega tilfinnanlegt og visst stílbrot í viðskiptasögu Rússlands og Íslands.
Vinstri stjórnin 2009-2013 heyktist á að kvótasetja makrílinn, eins og henni þó bar samkvæmt lögum, eins og Umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði hefur bent á.
Sjávarútvegsráðherra núverandi ríkisstjórnar olli miklum úlfaþyt með framlagningu frumvarps um kvótasetningu makríls í stað þess að styðjast við gildandi lög um fiskveiðistjórnun og gefa út reglugerð um varanlegar aflahlutdeildir makríls á grundvelli veiðireynslu áranna 2012-2014. Verður ekki séð, að frágangssök sé í því sambandi, þó að samningur um aflahlutdeild Íslands hafi ekki enn náðst.
Aðferðarfræði ráðherrans varð loddurum tilefni til að fiska í gruggugu vatni og halda því tilefnislaust fram, að "grundvallarbreyting verði á úthlutun veiðiheimilda í makríl, þar sem ekkert ákvæði er í frumvarpinu um þjóðareign kvótans né heldur um það,að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Þar með festi frumvarpið í sessi, að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameigninni sem og, að fordæmi myndist í þá veru að úthluta aflaheimildum til lengri tíma en eins árs, eins og nú er raunin."
Í gæsalöppunum á undan greinaskilunum hér að ofan er verið að mála skrattann á vegginn, vegna þess að í makrílfrumvarpinu var vísað til gildandi laga um fiskveiðistjórnunina, svo að ráðherrann ætlaði alls ekki út á nýjar brautir, hvað eignarhald kvótans áhrærir. Það er ímyndun Jóns Steinssonar, hagfræðings, eða vísvitandi rangtúlkun hans til að efna til múgæsingar. Þessi hagfræðingur leggur sig hvað eftir annað í framkróka við að blása í glæður tortryggni og vantrausts með vænisýki sinni.
Eins og fram kemur í gæsalöppunum á eftir greinaskilunum, þá virðist Jón Steinsson haldinn ranghugmyndum um eignarhald fisksins í sjónum. Óveiddan fisk á enginn, af því að miðin eru almenningur, og svo hefur verið frá öndverðu. Til að verja stofnana og til að hámarka afraksturinn hefur ríkið hins vegar með réttu tekið sér vald til að stjórna veiðunum. Það er gert á grundvelli umdeilanlegrar aflareglu og úthlutun ótímabundinna aflahlutdeilda á grundvelli þriggja ára veiðireynslu. Við þetta myndast nýtingarréttur, sem er eitt form eignarréttar og er veðsetjanlegur og framseljanlegur. Þetta er með öðrum orðum markaðsdrifið stjórnkerfi fiskveiða, sem hefur hámarkað skilvirkni útgerðanna á heimsvísu. Það, sem er gott fyrir útgerðina, er gott fyrir landið allt, því að útgerðin myndar ekki lokað hagkerfi, heldur nýtir sér þjónustu fjölmargra og greiðir sína skatta, eins og aðrir, og meira til (veiðigjöldin). Það er eintóm óskhyggja Jóns Steinssonar o.fl., að ríkið eigi óveiddan fisk í sjónum og geti þess vegna ráðstafað honum að eigin vild.
Varðandi makrílinn ætlaði ráðherrann hins vegar illu heilli að hafa nýtingarréttinn takmarkaðan til 6 ára, en Jón vill hafa hann til eins árs og helzt bjóða veiðiréttindin upp á markaði árlega.
Þetta er alveg arfaslök hagfræði, því að hvaða fjárfestir vill festa fé í skipi, búnaði og mannskap til eins árs, hafandi enga vissu um, hvort hann fái nokkuð að veiða að ári ? Hér vantar hvatann til athafna, og eignarrétturinn er fótum troðinn. Kenningin fellur þess vegna vinstri mönnum í gerð, en það er ekki heil brú í henni fremur en í sameignarstefnu Karls Marx.
Aðgerðin er ólögleg, því að það getur enginn boðið upp það, sem hann á ekki, og ríkið á ekki óveiddan fisk í sjó, eins og Jón Steinsson, hagfræðingur, gefur sér og reisir falskenningu sína á. Hann er þess vegna eins konar falsspámaður, sem nokkrir hafa þó tekið trú á.
Það hefur myndazt mikill múgæsingur um grundvallarmisskilning Jóns á eðli fiskveiðistjórnunarkerfisins, og hann leiddi til undirskriftasöfnunar, þar sem skorað var á forseta lýðveldisins að synja öllum lögum staðfestingar, þar sem kveðið væri á um lengri úthlutun aflahlutdeildar en til eins árs.
Með þessu er verið að heimta, að framvegis verði útgerðarmönnum mismunað alveg herfilega, því að þeir sem munu gera út á nýjar tegundir, fá þá aðeins úthlutað til eins árs, en hinir hafa ótímatakmarkaða úthlutun. Þetta væri skýlaust brot á atvinnuréttindum og þess vegna Stjórnarskrárbrot. Forseti lýðveldisins mun áreiðanlega sjá þessa alvarlegu meinbugi ásamt hinu hagfræðilega glapræði, sem í þessu felst, og haga staðfestingu slíkra laga samkvæmt því.
Um hið hagfræðilega glapræði hefur hinn kunni prófessor í hagfræði, Ragnar Árnason, þessi orð:
"Að mínu mati ber að úthluta aflaheimildum í makríl varanlega - annað er í raun lögbrot."
Það verður í raun og veru ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að hafa úthlutun tímabundna, þegar horft er til hinna hagfræðilegu kosta ótímabundinnar úthlutunar og jafnræðis útgerðarmanna og sjómanna við aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni ?
Í helgarblaði DV 25.-29. júní 2015 undir fyrirsögninni:
" Þessi arður mun sjálfvirkt dreifast um allt hagkerfið",
segir Ragnar um hugmyndir Jóns Steinssonar um uppboð aflaheimilda:
"Ég skil eiginlega ekkert í Jóni að halda þessu fram. Það er óumdeilt á meðal hagfræðinga, að aflamarkskerfi sé efnahagslega hagkvæmt. Það er ríkjandi kerfi hjá vestrænum þjóðum og fleirum. 25 % af heildaraflanum á heimsvísu eru veidd innan þess kerfis, og þróun er í þá átt, að það hlutfall vaxi. Kerfið gefur af sér góða efnahagslega reynslu, og það sem er ekki síður mikilvægt er, að það viðheldur og styrkir fiskistofna", segir Ragnar og bendir á, að erfitt sé að reka útgerð, ef óvissa er fyrir hendi, hver kvótinn verður. Því sé það hans skoðun, að úthluta beri aflaheimildum til eins langs tíma og hægt er.
Fjárfestingar í greininni eru til langs tíma; sá sem fjárfestir í skipi gerir það til 30 ára eða meira og í fiskvinnslu, svo að ekki sé minnzt á, að markaðsþróun er fjárfesting til enn lengri tíma. Það að ætlast til þess, að sjávarútvegsfyrirtæki séu í sífelldri óvissu um aflarétt, er eins og að reyna að reka áliðnað, þar sem álfyrirtækin hafa aðeins framleiðslurétt til árs eða fárra ára í senn."
Ekkert álfyrirtæki gæti þrifizt við þessar afkáralegu aðstæður, og hér er um að ræða einhvers konar "útúrboruhagfræði", sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og enginn alvöru hagfræðingur mundi skrifa skilmálalaust undir. Orð hagfræðiprófessorsins, Ragnars, ættu hins vegar að vera hverjum manni auðskilin. Öll hagfræðileg og þjóðhagsleg rök hníga að því, að Íslendingar hafi þróað bezta fáanlega fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir sínar aðstæður, sem eru verðmæt efnahagslögsaga og veiðigeta, sem er langt umfram veiðiþol nytjastofnanna í þessari lögsögu.
Íslenzkar útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki standa í harðri samkeppni við norska kollega og aðra, og stjórnmálamenn geta auðveldlega stórskaðað samkeppnisstöðu Íslendinga á erlendum mörkuðum, t.d. með álagningu verulega íþyngjandi veiðigjalda (þau eru núna líklega tvöfalt of há miðað við það, að þau tíðkast ekki hjá samkeppnisaðilunum).
Í þessu sambandi er rétt að vísa í gagnorða forystugrein í Morgunblaðinu 23.05.2015 undir heitinu "Öfugmælaumræða á Alþingi",
en þar sagði m.a.:
"Það er mikið alvörumál, að þingmenn skuli ítrekað með ábyrgðarlausu tali grafa undan helzta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og halda rekstri hans í stöðugri óvissu. Og það er ekki síður áhyggjuefni, að þeir virðast ekki átta sig á helztu kostum þess fiskveiðistjórnarkerfis, sem verið hefur við lýði í um aldarfjórðung, varanleika og framseljanleika aflaheimilda."
Þá er augljóst, að fíflagangur á borð við kenningar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um úthlutun aflahlutdeilda til eins árs í senn eða jafnvel árlegt uppboð aflahlutdeilda mun fæla fjárfesta frá greininni, sem mundi strax leiða til þess, að greinin koðni niður og hætti að greiða hluthöfum arð og hætti að hafa nokkurt bolmagn til að greiða í sameiginlega sjóði landsmanna. Hver er eiginlega bættari með slíkri breytingu ? Fyrir ríkissjóð væri þetta eins og að míga í skóinn sinn.
Hinn virti og kunni hagfræðiprófessor, RÁ, þvertekur fyrir órökstuddar og óskiljanlegar fullyrðingar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um, að með núverandi framkvæmd kvótakerfisins sé í raun verið að hlunnfara íslenzku þjóðina:
"Nánari athuganir sýna, að þorri arðsins rennur beint til þjóðarinnar. Aflakvótakerfi sparar kostnað við fiskveiðar og hækkar verðmæti aflans, sem landað er, þannig að nettó útflutningsframleiðsla úr sjávarútvegi verður hærri en áður. Innflutningurinn til sjávarútvegsins minnkar, þ.e.a.s. olía og annað, og útflutningsverðmæti verður hærra. Það þýðir hærra gengi krónunnar að öðru óbreyttu. Hærra gengi krónunnar þýðir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna verður þeim mun hærri. Helmingur þess, sem íslenzk heimili kaupa, er innflutningur, þannig að 1 % hækkun á gengi þýðir einfaldlega 0,5 % kjarabót fyrir fólkið í landinu. Þetta er gríðarlega stórt atriði", sagði Ragnar.
Í grein í Morgunblaðinu 24. júlí 2015,
"Makríll utan ESB - uppgjöf Grikklands",
notaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, makrílinn til að varpa ljósi á meðferð valdsins í Berlaymont á smáríkjum, en ein af firrum ESB-aðildarsinna á Íslandi hefur löngum verið, að hagsmunum smáríkja sé betur borgið innan múra ESB ("Festung Europa") en utan.
Hann telur útflutningsverðmæti frysts makríls og mjöls undanfarinn áratug hafa numið a.m.k. ISK 120 milljörðum. Í ár verði Íslendingum heimilt að veiða meira en nokkru sinni fyrr eða um 172 kt í íslenzkri lögsögu, og að við ákvörðun afla miði sjávarútvegsráðherra við 17 % af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, eins og verið hefur.
ESB og Norðmenn vildu hins vegar búa svo um hnútana, að 90 % veiðiheimildanna féllu þeim í skaut og að Íslendingar, Færeyingar og Rússar skiptu með sér 10 %. Þannig yrði hlutdeild Íslands e.t.v. 3,5 % í stað 17 %, og ofangreindar útflutningstekjur hefðu þá orðið um ISK 100 milljörðum lægri. Þetta er bara sýnishorn af þeim kostnaði, sem fullveldisframsal Íslands til ESB hefði í för með sér.
Til að gera sér grein fyrir þeim fjandskap, sem Ísland mundi mæta innan ESB, þar sem hagsmunaárekstrar yrðu, verður aftur vitnað í grein Björns Bjarnasonar:
"ESB-menn, einkum Skotar, sýndu mikla andstöðu við makrílveiðar íslenzkra skipa. Skozki ESB-þingmaðurinn, Struan Stevenson, sneri sér t.d. sumarið 2010 að Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á málþingi á vegum ESB-þingsins í Brussel og spurði:
"Ég er undrandi á því, að Íslendingar biðji okkur um að draga fram rauða dregilinn og fagna sér sem aðilum að ESB; þakkir þeirra felast í því að neita að greiða [Icesave-] skuldir sínar, loka loftrými okkar vikum saman með eldfjallaösku og reyna nú að eyðileggja makrílveiðar okkar.
Þetta er fyrir neðan allar hellur, og ég treysti því, að framkvæmdastjórnin segi þeim afdráttarlaust, að ESB láti ekki undan í þessu máli og að við samþykkjum ekki svo ábyrgðarlausa framkomu."
Þarna opnaðist Íslendingum sýn inn í hugarheim ESB-manna og viðtekin viðhorf í Berlaymont til Íslands og hagsmuna þess. Í stuttu máli geta Íslendingar étið það, sem úti frýs fyrir ESB-mönnum, og hagsmunir lítillar þjóðar norður í Atlantshafi kemur ekki mál við þá. Það er gamla sagan með óðalið og kotið. Íslendingar verða í fjárhagslegum efnum sem þjóð og hver og einn að reiða sig á sjálfa sig.
Þetta er í algerri mótsögn við málflutning umsóknarráðherrans (olíumálaráðherrans, eins og hann gjarna kallaði sig), Össurar Skarphéðinssonar, og smáþjóðafræðingana í hópi stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands, en þeir hafa löngum fimbulfambað fótalaust um öryggið, sem fælist í því að vera aðili að "smáþjóðasambandinu" ESB. Þetta er í bezta tilviki lágkúruleg pilsfaldapólitík, en í raun stórhættuleg tálsýn. Ekkert er fjær sanni en stórþjóðirnar láti hagsmuni smáþjóða njóta forgangs. Það færði makríllinn okkur heim sanninn um, og það hefur Grikklandsfárið sýnt okkur í hnotskurn upp á síðkastið.
Í hvorugu tilvikinu eru sjónarmið lítilmagnans nokkurs metin. Stóru ríkin í ESB ráða algerlega ferðinni, og þau framfylgja sáttmálum Evrópusambandsins, t.d. hinni sameiginlegu landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, og bera mjög fyrir brjósti varðveizlu evru-samstarfsins, sem nú er í hers höndum; nema hvað ? Barnaskapurinn ríður ekki við einteyming.
Toppurinn á þeim ísjaka er Grikkland, en ekkert evruland Suður-Evrópu þrífst með sama gjaldmiðil og Þýzkaland. Raunar er hvergi hamingja með þann gjaldmiðil, enda var undirstaðan ranglega fundin og er nú orðin feyskin.
25.7.2015 | 13:16
Af sviðsmyndum og ómyndum
Sitt sýnist hverjum um það, hvort raforkusala um sæstreng frá Íslandi til Bretlands geti orðið arðsöm, eins og nú horfir með heimsmarkaðsverð á raforku, en það hefur hríðfallið frá því, að Bandaríkjamenn náðu undirtökunum á gas- og olíumörkuðum árið 2014 með jaðarframboði á grundvelli nýrrar vinnslutækni, þ.e. setlagasundrun með vatni, sandi og aðskotaefnum undir þrýstingi (e."fracking") til að vinna eldsneytisgas og olíuvinnsla úr tjörusandi.
Nú eru Persar að koma inn á eldsneytismarkaðinn, og munu þeir heldur betur velgja Aröbunum undir uggum, ef að líkum lætur. Mun þá botninn úr markaðinum, og eiga þá Norðmenn o.fl. enga möguleika lengur á þessum markaði til vinnslu með hagnaði. Verður þá tvennt í boði fyrir olíusjeika Norðursins. Annaðhvort að opna rækilega fyrir útstreymi úr olíusjóði sínum og halda þannig uppi fölskum lífskjörum eða að herða sultarólina. Blanda af þessu gæti orðið fyrir valinu að hætti Norðmanna.
Nær væri orkuyfirvöldum á Íslandi að kanna fýsileika raforkusölu um sæstreng frá Íslandi til Færeyja en til Bretlands. Hér er um mun minna og viðráðanlegra verkefni að ræða. Hins vegar kann að styttast í, að Færeyingar setji upp kjarnorkuver hjá sér af nýrri kynslóð og stærð, sem hentar þeim. Þessi nýju kjarnorkuver nota frumefnið Þóríum í kjarnakljúfa sína og nýta efnið mun betur en Úran-kjarnakljúfarnir, svo að geislavirkur úrgangur verður viðráðanlegur og skaðlaus á innan við einni öld. Búizt er við þessari orkubyltingu um 2025, og mun þá engum detta í hug lengur að leggja sæstreng yfir 500 km, hvað þá á 1 km dýpi.
Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði fróðlega grein, sem birtist í Morgunblaðinum á Bastilludaginn 2015 undir heitinu:
"Sviðsmynd Landsvirkjunar og sæstrengsumræðan". Hann hefur greinina með eftirfarandi hætti:
"Margir hafa að undanförnu séð ástæðu til að stinga niður penna og fjalla um sæstreng. Nú síðast Ketill Sigurjónsson á mbl.is; erindi hans þar virðist helzt það, að allir þeir, sem ekki hrópa "hallelúja" yfir sæstrengnum, hljóti að bera hagsmuni stóriðjunnar fyrir brjósti. Þetta er ömurlegur málflutningur."
Þessi orð Elíasar varpa ljósi á þá staðreynd, að orkulindir landsins eru takmörkuð auðlind ekki sízt vegna þess, að málamiðlanir verður að gera á milli þeirra, sem vilja "nýta og njóta" og hinna, sem vilja bara "njóta" eða öllu heldur "nýta með því að njóta", þó að sú stefna sé nú reyndar komin í ógöngur vegna skipulagsleysis, svo að stefnir í óafturkræfar skemmdir á viðkvæmum landsvæðum vegna "ofnýtingar við að njóta", svo að yfirgengilegur sóðaskapur sumra ferðamanna og leiðsögumanna þeirra með tilheyrandi sóttkveikjuhættu sé nú látinn liggja á milli hluta.
Landsvirkjun hefur reynt með kúnstum, sem reyndar hefur verið flett ofan af hér á þessu vefsetri, að breiða yfir þá staðreynd, að líklega þarf að virkja upp undir 1200 MW fyrir Skotlandsstrenginn til að senda utan um 7500 GWh/a. Þetta er rúmlega fimmtungur af hagkvæmt virkjanlegu afli, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Til samanburðar hafa Norðmenn ekkert virkjað fyrir sína sæstrengi, enda er raforkukerfi þeirra gjörólíkt hinu íslenzka.
Það eru í meginatriðum 2 sviðsmyndir í umræðunni. Sviðsmynd Landsvirkjunar er naglasúpusviðsmynd, þ.e. að selja orku, sem ekki er til, eins og einnig hefur verið útskýrt á þessu vefsetri. Um hundakúnstir talsmanna Landsvirkjunar hefur Elías þessi orð:
"Sæstrengurinn kemur þá ofan á því sem næst fullnýtt kerfi. Þegar enn er skrifað, eins og hægt sé að ná allt að 10 % betri nýtni úr kerfinu án þess að kosta nokkru til, sæmir það varla Landsvirkjun."
Sviðsmynd Landsvirkjunar er með einum sæstreng, 1000 MW að flutningsgetu, og árlegan orkuútflutning inn á strenginn 5,0 TWh (flutningstöp ótilgreind,nýting 57 %, 5000 klst/a), sem yrði aflað á eftirfarandi hátt:
- 2,0 TWh/ár frá bættri kerfisnýtingu og óskilgreindum stækkunum núverandi vatnsaflsvirkjana. Aðeins stækkun Búrfells er ráðgerð nú, þ.e. 100 MW afl og 0,3 TWh/a, svo að 1,7 TWh/ár virðast eiga að koma frá óskilgreindri bættri nýtingu vatnsorkukerfis. Hér vantar allt að 1,7 TWh/a.
- 1,5 TWh/ár frá vindmyllum (þýðir líklega 500 MW uppsett afl frá 170 vindrafstöðvum á um 90 m háum turnum), en Landsvirkjun hefur aðeins ráðgert Búrfellslund og Blöndulund, sem gefa líklega 0,9 TWh/ár. Hér vantar 0,6 TWh/ár.
- 1,5 TWh frá jarðgufuvirkjunum, sem þarfnast a.m.k. 200 MW uppsetts afls frá um 40 holum í rekstri samtímis. Þetta er aðeins um 30 % af virkjanakostum Landsvirkjunar í jarðgufu, en mikil óvissa er enn um getu þessara gufuforðabúra til að standa undir virkjun áratugum saman. Óvissustig: HÁTT
- Vegna vöntunar og óvissu gæti þurft að virkja nýtt vatnsafl, sem nemur 2,5 TWh/a (1,7+0,6+0,2=2,5)
- Ekki hefur enn verið útveguð orka til tveggja kísilmálmvera og eins sólarkísilvers, sem Landsvirkjun þó virðist hafa veitt ádrátt um orku, sem gæti numið 2,5 TWh/a frá vatnsorkuverum.
- Alls þarfnast þessi sviðsmynd sæstrengs, ásamt iðnvæðingu næstu ára, vatnfallsvirkjana að framleiðslugetu um 5,0 TWh/a. Þetta eru 75 % af þeim virkjanakostum vatnsafls, sem Landsvirkjun hefur lagt fram. Það er óvíst, að Landsvirkjun fái virkjanaleyfi fyrir þessum 5,0 TWh/a á næstu 10 árum, og þess vegna er ljóst, að annað verður undan að láta, iðjuverin eða sæstrengurinn.
Charles Hendry, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Bretlands, kynnti hins vegar aðra sviðsmynd sæstrengs á fundi í Reykjavík 20. apríl 2015. Sú er ívið stærri í sniðum og með mun meira afhendingaröryggi en sviðsmynd Landsvirkjunar hér að ofan:
Tveir sæstrengir með 600 MW flutningsgetu hvor um sig og orkuflutningur inn á báða strengina 7,5 TWh/a (nýting 71 %, 6250 klst/a), sem aflað yrði á eftirfarandi hátt:
- 4,3 TWh/a frá 530 MW nýjum jarðgufuvirkjunum. Landsvirkjun hefur borið víurnar í 5,3 TWh/a af jarðgufuvirkjunum, svo að 80 % af þeim færi inn á sæstrengina. Hér aftur er alger óvissa um, hvernig umrædd 5 svæði munu bregðast við virkjun. Óvissustig MJÖG HÁTT.
- 1,2 TWh/a frá 400 MW vindmyllum. Landsvirkjun hefur áformað 300 MW frá tveimur vindmyllulundum, svo að hér vantar 0,3 TWh/a.
- 0,8 TWh/a frá 250 MW stækkun eldri virkjana Landsvirkjunar. Miðað við stækkunaráform Landsvirkjunar vantar hér 0,5 TWh/a.
- Þó að allt þetta gengi eftir, fengjust aðeins 6,3 TWh/a. Þá vantar 1,2 TWh/a og vegna óvissu og vöntunar virkjunarkosta þarf að bæta við 0,5+0,3+0,5=1,3 TWh/a, sem þýðir, að 2,5 TWh/a þurfa að koma frá nýjum vatnsfallsvirkjunum, sem er nákvæmlega sama orkuþörf frá nýjum vatnsfallsvirkjunum og í sviðsmynd Landsvirkjunar.
Þriðja sviðsmyndin, sem reyndar er afbrigði af þeirri fyrstu hér að ofan, kom svo fram í Morgunblaðinu 17. júlí 2015 í frétt á bls. 16 undir fyrirsögninni:
"Sæstrengur sniðinn að stefnu ESB".
Þarna eru tilvitnanir í Björgvin Skúla Sigurðsson, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun. Eins og fram kemur í fyrirsögninni, snýst þessi "frétt" um að sýna fram á, að sæstrengstenging Íslands við Bretland mundi falla vel að orkustefnu Evrópusambandsins-ESB og að okkur beri að fylgja henni vegna aðildar að EES.
Eftirfarandi tilvitnun í "fréttina" snýr að þessu:
"Lögð er sérstök áherzla á að fjármagna innviðauppbyggingu, sem snýr að samtengingu orkumarkaða á milli landamæra. Áður hafa ýmis slík verkefni verið studd, m.a. lagning sæstrengs frá Noregi til Bretlands. Þessi vinna kann að hafa áhrif á möguleikann að tengja orkukerfi Íslands með sæstreng til Bretlands."
Það blasir við, að Landsvirkjun reynir að stækka markað sinn með flutningskerfi fyrir raforku sína, sem ESB ætti hlut í, og með því að selja "græna orku" til brezka ríkisins, sem sárlega þarf að auka hlutdeild slíkrar til að ná markmiðum ESB um hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsins.
Það er alveg ljóst, að búið verður að kippa markaðslögmálum úr sambandi, ef þetta gengur eftir. Þess vegna kemur ekki til mála, að risinn á íslenzka markaðinum taki þátt í þessu, heldur verður að stofna nýtt fyrirtæki um þær virkjanir, sem reisa þarf vegna rafmagnsflutninga til og frá Bretlandi, en samkvæmt sömu frétt í Morgunblaðinu jafngilda þær fjárfestingum að upphæð ISK 164 milljörðum, og er það líklega stórlega vanáætlað vegna mikillar óvissu um 2,0 TWh/a, sem Landsvirkjun heldur fram, að sé "strönduð" orka í vatnsorkukerfinu, en eru líklega að mestu helberir hugarórar og þegar nýttir af áliðnaðinum.
Eins og fram hefur komið, verður samkeppni um vatnsorkuvirkjanir á milli iðjuvera á landinu og sæstrengs, hvað sem líður orðagjálfri talsmanna Landsvirkjunar um annað. Stærsti notandi raforku í hópi núverandi iðjuvera er áliðnaðurinn. Það er kaldranalegt að fá smjörþefinn af hugarfarinu til áliðnaðarins frá náunga, sem af trúarlegum sannfæringarkrafti hefur boðað landslýð fagnaðarerindi sæstrengsins um nokkurra ára bil. Þessi ósköp gaf að líta í athugasemd við ágætt vefinnlegg Viðars Garðarssonar á Bastilludaginn 2015 undir fyrirsögninni "Markmið Landsvirkjunar".
Þar tók Ketill Sigurjónsson meira upp í sig en hann eða nokkur annar getur staðið við, enda er um almenn og órökstudd stóryrði hans að ræða, sem eru ósönn, eins og þau voru sett þarna fram:
"Áliðnaður er sá viðskiptavinahópur, sem almennt skilar lægstri arðsemi raforkufyrirtækja og þar með lægstri arðsemi til eigenda slíkra fyrirtækja (sem í tilviki LV eru landsmenn allir)."
Sá, sem setur fram svigurmæli af þessu tagi um heila atvinnugrein, áliðnaðinn, setur sig á háan hest gagnvart öllum þeim, sem að Íslands hálfu hafa beitt sér fyrir samningum um raforkusölu til álvera, og opinberar téður Ketill reyndar um leið vanþekkingu sína á orkumálum almennt, og hvað er ákvarðandi fyrir arðsemi raforkusölu, eins og nú skal greina:
Eins og um alla aðra vöru og þjónustu, gildir það um raforkuvinnslu og raforkusölu, að hagnaður af starfseminni er í senn háður söluverðinu og kostnaðinum við framleiðslu og flutning til kaupandans. Af ástæðum, sem taldar verða upp hér að neðan, er framleiðslukostnaður og flutningskostnaður á hverja orkueiningu, t.d. MWh, umtalsvert lægri til álvera en til nokkurra annarra viðskiptavina orkufyrirtækjanna á Íslandi. Af þeim sökum er viðskiptagrundvöllur og arðsemisgrundvöllur fyrir því, að álverin njóti lægsta verðs fyrir forgangsorku á markaðinum. Þessu skautar téður Ketill algerlega framhjá, og þess vegna er engin skynsemi í fullyrðingu af því tagi, að álver séu óhagstæðir viðskiptavinir út af fyrir sig. Það markast einfaldlega af bilinu á milli umsamins verðs og kostnaðar í þeirri virkjun, sem stendur undir viðkomandi orkusölu á öllu samningstímabilinu. Ketill Sigurjónsson virðist aðeins horfa á aðra hlið jöfnunnar, söluverðið, og dregur af því alrangar, almennar ályktanir. Þetta hugarfóstur hans, að orkusamningar við álverin séu þjóðhagslega óhagkvæmir, hefur leitt hann út á braut óviðeigandi svigurmæla í garð heillar iðngreinar, sem flokka má til atvinnurógs.
Meðalraforkuverð Landsvirkjunar til álveranna þriggja var 25,9 USD/MWh að meðtöldum flutningi til þeirra árið 2014, og má þá ætla, að verð frá virkjun sé 24,0 USD/MWh. Meðalverð Landsvirkjunar nam þá 32,8 USD/MWh, en verð til almenningsveitna nam hins vegar 68 USD/MWh eða 8,9 kr/kWh. Hlutfallið 24/68=0,35 er allt of lágt og ætti að vera nálægt 0,45, ef verðin mundu endurspegla raunverulegan tilkostnað, sem er eðlilegt og sanngjarnt.
Það er hins vegar röng ályktun af þessu, að meðalverð til álvera ætti að hækka um 28 %, heldur er verðið til almenningsveitna orðið allt of hátt og þarf að lækka um 22 %. Það sést, þegar vinnslukostnaður í virkjun til þessara tveggja viðskiptamannahópa er skoðaður. Gríðarlegur hagnaður Landsvirkjunar um þessar mundir gefur þetta auðvitað til kynna, en það sést líka, ef jaðarkostnaður rafmagns í vatnsaflsvirkjun er reiknaður, því að þá fást 24,4 USD/MWh fyrir áliðnað og 54,2 USD/MWh eða um 7,1 kr/kWh fyrir almenningsveitur. Það er alger óhæfa að selja orku úr núverandi kerfi á mun hærra verði en nemur reiknuðu verði frá næstu virkjun (jaðarkostnaður).
Helztu ástæður þess, að ódýrara er að framleiða rafmagn fyrir álver en almenningsveitur:
- Nýtingartími uppsetts afls í virkjun er um 60 % hærri, ef hún framleiðir fyrir álver en fyrir almenningsveitur. Ástæðan er, að það eru engar álagssveiflur í álveri, háðar tíma sólarhrings, viku, eða árstíð, eins og dæmigert er fyrir almenningsveitur. Af þessum ástæðum nýtist fjárfestingin að sama skapi betur og hærri tekjur koma inn, en kostnaður eykst mjög lítið, sérstaklega í vatnsaflsvirkjunum, því að vatnið kostar ekkert, þar sem vatnsréttindin eru í höndum virkjunareigandans.
- Ný virkjun kemst upp í fulla nýtingu á fyrsta ári eftir gangsetningu, ef hún framleiðir fyrir álver, en full nýting meðalstórrar virkjunar (150 MW) verður fyrst að áratug liðnum, ef hún framleiðir aðeins fyrir almenningsveitur. Til að gefa sömu tekjur yfir samningstímabilið getur einingarverð til álvers þess vegna verið lægra en til almenningsveitna.
- Eigandi álvers gerir skuldbindandi samning til 25-45 ára um kaup á a.m.k. 85 % af umsaminni orku á hverju ári, þó að hann noti hana ekki. Orkusölufyrirtæki til almennings er ekki skuldbundið til að kaupa orku frá einum birgi, enda mundi slíkt brjóta í bága við samkeppnislög. Þessi tekjutrygging verður þess valdandi, að hagstæðari lánskjör fást til fjárfestingar í virkjuninni, sem lækka fjármagnskostnaðinn.
- Mun meiri kröfur eru gerðar til aflstuðuls álvera en almenningsveitna, sem leiðir af sér lægri fjárfestingarþörf í rafbúnaði í virkjun fyrir álver m.v. sömu raunaflsþörf í MW, og töpin verða minni.
- Samantekið leiðir þetta til, að vinnslukostnaður raforku fyrir álver er í mesta lagi 45 % af vinnslukostnaði raforku fyrir almenningsveitur.
Það skekkir örlítið myndina af hlutföllum meðalorkuverða til mismunandi notenda, að þau fela í sér vegið meðalverð forgangsorku og afgangsorku (ótryggðrar orku), en varðandi álverin getur sú síðar nefnda numið allt að 10 % af heild, en nær líklega ekki svo háu hlutfalli hjá almenningsveitunum. Orkufyrirtækin eru ekki skuldbundin til stöðugrar afhendingar á afgangsorku, og þess vegna geta miðlunarlónin verið minni að sama skapi.
Önnur iðjuver, t.d. kísilver, hafa annars konar álagsmynztur en báðir notendahóparnir, sem að ofan voru til skoðunar, og liggur kostnaður orkuvinnslu til þeirra einhvers staðar á milli þeirra, og þar af leiðandi ætti verðið til þeirra að gera það einnig.
Um væntanlegt sæstrengsálag ríkir óvissa, því að í öðru orðinu mæla talsmenn Landsvirkjunar fyrir aflsölu, þ.e. sölu á rafmagni aðeins á háálagstíma á Englandi, en hins vegar virðast Englendingarnir miða við hefðbundna orkusölu með nýtingartíma tveggja sæstrengja yfir 70 %, sbr 60 % nýtingu almenningsveitna á Íslandi og 95 % hjá álverum. Vinnslukostnaður orku inn á sæstreng er þess vegna hugsanlega svipaður og á orku til kísilvera. Hins vegar er flutningskostnaðurinn gríðarlegur og margfaldur á við vinnslukostnaðinn að meðtöldum gríðarlegum flutningstöpum 1200 km leið.
Niðurstaðan er sú, að takmörkun orkulindanna á Íslandi verður þess valdandi, að frekari iðnvæðing og sala um sæstreng fara ekki saman, og á grundvelli arðsemi fer ekki á milli mála, að velja ber iðnvæðinguna.
22.7.2015 | 17:58
Gríski harmleikurinn 2010-2015
E.t.v. væri rétt að hefja Gríska harmleikinn árið 2001, því að þá fleygðu Grikkir drökkmunni fyrir róða og tóku upp sameiginlega mynt Evrópusambandsins, ESB,án þess að rísa undir henni, sem reyndist öllu ESB örlagaríkt, enda var illa til stofnað.
Í raun fullnægðu Grikkir ekki Maastricht-skilyrðunum, sem áttu að verða aðgöngumiði að evrunni, en þeim tókst með svikum og prettum að fleygja skjóðunni með sál Grikklands inn fyrir Gullna hliðið, ECB, við Frankafurðu (Frankfurt).
Reyndar brutu Þjóðverjar sjálfir árið 2003 skilyrðið um, að greiðsluhalli ríkissjóðs færi ekki yfir 3,0 % af VLF. Á íslenzkan mælikvarða eru það ISK 60 milljarðar, en Þjóðverjar voru snöggir að rétta drekann af í skotstöðu og hafa síðan sett ákvæði í stjórnarskrá sína, sem bannar hallarekstur ríkissjóðs, og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, viðrað góða hugmynd um lagasetningu þar að lútandi hérlendis. Þjóðverjar voru reyndar þarna að ljúka uppbyggingarátaki í austurhéruðunum eftir Endursameiningu Þýzkalands.
Frakkar, aftur á móti, eru enn brotlegir við þetta ákvæði og eiga sér ekki viðreisnar von undir jafnaðarmönnum, sem skilja ekki nauðsyn uppstokkunar ofvaxins ríkiskerfis. Annað ákvæði Maastricht var um, að skuldastaða ríkissjóðs mætti ekki fara yfir 60 % af VLF. Eftir bankakreppuna 2008 hefur heldur betur snarazt á ESB-merinni, og lítur staðan núna þannig út:
- Grikkland 173 % (verður líklega um 200 % 2015)
- Ítalía 134 %
- Portúgal 126 %
- Írland 108 %
- Belgía 107 %
- Kýpur 106 %
- Spánn 99 %
- Frakkland 97 %
- Bretland 91 %
- Austurríki 89 %
- Slóvenía 80 %
- Þýzkaland 70 %
- Holland 68 %
- Malta 68 %
- Finnland 62 %
- Slóvakía 54 %
- Litháen 38 %
- Lettland 38 %
- Lúxemborg 26 %
- Eistland 10 %
Til samanburðar munu skuldir íslenzka ríkissjóðsins nú vera svipaðar og hins brezka að tiltölu, en gætu farið niður undir Maastricht-viðmiðið árið 2016, ef áform ríkisstjórnarinnar ganga að óskum.
Skuldastaða Grikklands virðist óviðráðanleg, en Þjóðverjar og bandamenn þeirra í evruhópinum (Austurríki, Holland, Finnland og Eystrasaltsríkin) taka afskriftir þeirra ekki í mál, enda mundu kjósendur í þessum löndum bregðast æfir við og refsa valdhöfunum í næstu kosningum með því að kjósa pírata eða einhverja álíka. Á þýzka þinginu er lagt hart að Merkel, kanzlara, að standa fast á þessu, og Sigmar Gabriel, varakanzlari, efnahagsráðherra og formaður SPD, þýzkra jafnaðarmanna, tekur í sama streng. Bæjarinn, Wolfgang Schaeuble, stendur að sjálfsögðu í ístaðinu sem fjármálaráðherra Þýzkalands og neitar að afskrifa skuldir. Þá mundi skrattinn losna úr grindum á Pýreneaskaganum, á Írlandi og víðar. Reyndar er kratinn Gabriel eitthvað að hlaupa útundan sér núna, enda hafa kratar aldrei verið þekktir fyrir staðfestu.
Þjóðverjar hafa aftur á móti beitt sér fyrir lengingu lána Grikkja til 2054 og lækkun vaxta með þeim afleiðingum, að greiðslubyrði gríska ríkisins var 4,0 % af VLF árið 2013, en það var minna en greiðslubyrði íslenzka ríkissjóðsins, og í Portúgal var hún 5,0 %, á Ítalíu 4,8 % og á Írlandi 4,4 %. Þjóðverjar þora þess vegna ekki að afskrifa hjá Grikkjum af ótta við, að allt fari úr böndunum vegna sams konar krafna annarra.
Greiðslugeta gríska ríkissjóðsins er hins vegar engin, því að hann var enn árið 2014 rekinn með 3,5 % halla, en hallinn hefur oftast verið meiri en 10 % undanfarin ár. Verg landsframleiðsla Grikkja árið 2014 var EUR 179,1 mia eða aðeins EUR 16'300 á mann (MISK 2,4), en skuldir þeirra námu hins vegar MISK 4,3 á mann. Á Íslandi var VLF á mann tæplega þreföld sú gríska. Aðeins kraftaverk getur bjargað Grikklandi frá þjóðargjaldþroti. Kannski það verði erkiengillinn Gabriel, sem sjái aumur á þeim.
Það er ekki kyn þó að keraldið leki, því að VLF Grikkja hefur dregizt saman um 25 % síðan 2010, og atvinnuleysið er nú 26 % og yfir 50 % á meðal fólks 18-30 ára. Verðmætasköpunin er allt of lítil til að geta staðið undir bruðli fyrri ára.
Hvernig í ósköpunum má það vera, að svo illa sé nú komið fyrir grísku þjóðinni, að hún hafi í raun og veru glatað sjálfstæði sínu síðan hún gekk í ESB 1981 ? Á þessu tímabili hafa vinstri menn, PASOK, lengst af verið við völd, og þeir hafa þanið út ríkisgeirann, þjóðnýtt fyrirtæki og stækkað velferðarkerfið langt umfam það, sem hagkerfið þolir. Sökudólgarnir eru þess vegna grískir stjórnmálamenn, sem um árabil sóuðu almannafé og gerðust jafnvel svo djarfir, að falsa bókhald ríkisins til að lauma Grikklandi inn á evrusvæðið. Brotin voru svo stórfelld, að grísk fangelsi væru væntanlega þéttsetin stjórnmálamönnum, ef sömu reglur mundu gilda um þá og athafnamenn. Svo er hins vegar ekki. Það kann að breytast, ef þjóðfélagsleg ringulreið verður í Grikklandi, og herinn tekur völdin. Fyrir því er um hálfrar aldar gamalt fordæmi.
Jafnaðarmenn hafa farið offari við stjórn Grikklands í innleiðingu fáránlegra réttinda til greiðslu úr ríkissjóði, sem enn viðgangast, svo að það er í raun mikið svigrúm til sparnaðar í grískum ríkisrekstri. Þarna er ábyrgðarleysi jafnaðarmanna í umgengni við fé skattborgaranna um að kenna. Alls staðar standa þeir fyrir ráðstöfun skattfjár í hvert gæluverkefnið á fætur öðru. Hér verða nefnd nokkur dæmi um bruðlið með fé skattborgaranna:
- Um 76 % Grikkja fara á eftirlaun fyrir lögboðinn eftirlaunaaldur, sem er þó við 61 árs aldur.
- Um 8 % eftirlaunaþega fóru á eftirlaun 26-50 ára.
- Um 24 % eftirlaunaþega hófu töku ellilífeyris 51-55 ára.
- Um 44 % á 56-60 árs
- Afgangurinn, 24 %, hefur töku ellilífeyris við 61 árs aldur.
Er ekki skiljanlegt, að Þjóðverjar, sem hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur, séu ekki upp rifnir yfir því, að skattfé þeirra sé notað til að viðhalda slíku endemis sukki ?
Fjárhagslegar skuldbindingar evruríkjanna gagnvart Grikklandi voru EUR 245,2 mia og skiptust með eftirfarandi hætti í milljörðum evra á undan EUR 86 mia björgunaraðgerðum, sem kann að verða farið í á grundvelli sparnaðartillagna Grikkja, sem fallizt var á 13. júlí 2015:
- Þýzkaland 60 ~ 28 %
- Frakkland 53 ~ 22 %
- Ítalía 46 ~ 19 %
- Spánn 31 ~ 13 %
- Holland 15 ~ 6 %
- Belgía 9 ~ 4 %
- Austurríki 7 ~ 3 %
- Finnland 5 ~ 2 %
- Portúgal 3 ~ 1 %
- Slóvakía 2 ~ 1 %
- Aðrir 4 ~ 1 %
Ef Ísland hefði verið á evru-svæðinu 2008, veit enginn, hvernig landinu hefði reitt af efnahagslega í bankakreppunni. ESB-aðildarsinnar halda því enn fram af trúarlegri sannfæringu, að hér hefði ekkert hrun orðið þá. Grikkir hafa afsannað slíka fullyrðingu, því að bankarnir tæmdust þar og voru lokaðir í 3 vikur. Hvað er það annað en bankahrun og jafnvel sýnu verra en hér, því að hér hélt Seðlabankinn þó uppi óslitinni greiðslukortaþjónustu allan tímann þar til nýir bankar tóku við ?
Vegna þess að hagkerfi Íslands er ólíkt öllum hagkerfum evru-svæðisins að gerð og samsetningu, er mjög hætt við, að evran hefði reynzt íslenzka hagkerfinu spennitreyja. Líklegt má telja, að landsmenn hefðu fallið í sömu gryfju og Grikkir eftir gjaldmiðilsskiptin að fara á "lánafyllerí" vegna mun lægri vaxta en landsmenn eiga að venjast. Það gæti hafa snarazt algerlega á merinni hjá okkur, eins og Grikkjum, peningaflóð hefði valdið miklu meiri verðbólgu hér en að jafnaði varð reyndin á evru-svæðinu á sama tíma ásamt eignabólu, sem hefði sprungið 2008 með ógnarlegum samdrætti hagkerfisins og fjöldaatvinnuleysi og þar af leiðandi meiri landflótta en raun varð á. Það hefði vissulega getað orðið lausafjárþurrð banka hér við þessar aðstæður, eins og reyndin varð í Grikklandi.
Allt eru þetta getgátur, en það hefur hins vegar verið áætlað, að framlag Íslands til stöðugleikasjóðs evrunnar hefði á árabilinu 2012-2015 þurft að nema MEUR 270 eða ISK 40 mia, sem samsvarar 10 milljörðum kr á ári að jafnaði, og er þá ótalin viðbót upp á MEUR 17 = ISK 2,5 mia í ár. Aðildargjald landsins að ESB er ekki vel þekkt, en gæti hugsanlega numið ISK 15 miö á ári, en eitthvað af því kæmi þó til baka. Alveg óvíst er um endurheimtur fjár í stöðugleikasjóðinn og horfir mjög óbyrlega með hann um þessar mundir. Í raun er þetta fórnarkostnaður lánadrottnanna innan evru-svæðisins til að halda evrunni á floti. Þjóðverjar óttast, að á peningamarkaði heimsins mundi evran glata trausti, ef Grikkir falla úr skaptinu. Gengi evru gæti þá hrunið niður fyrir 1 EUR/1 USD = 0,8, sem gæti valdið verðbólgu í Þýzkalandi, og Þjóðverjar mega ekki til slíks hugsa. Bæði þeir og Íslendingar hafa kynnzt óðaverðbólgu; Þjóðverjar þó sýnu verri vegna "Versalasamninganna".
Skattheimta af Íslendingum upp á ISK 25 mia á ári vegna verunnar í ESB og á evru-svæðinu ofan á aðra skattheimtu hérlendis mundi ekki mælast vel fyrir, enda er hér um að ræða stórar upphæðir eða um 1,3 % af VLF.
Peningakerfi Grikklands hrundi í raun og veru skömmu eftir, að evrubankinn í Frankfurt, ECB, skrúfaði fyrir peningastreymi til gríska seðlabankans, því að bankarnir urðu þá allir að loka. Þetta sýnir, að gríska hagkerfið er ósjálfbært, enda er vöruútflutningur lítill eða 13 % af VLF (innan við helmingur af íslenzka vöruútflutninginum að tiltölu), en aðaltekjurnar eru af ferðaþjónustu, og nokkuð af þeim markaði er svartur, eins og ferðamenn á Grikklandi hafa orðið varir við, sumir hverjir. Hins vegar er endurfjármögnun grískra banka að hálfu ESB stórmál, því að slíkt kann að leiða til mjög kostnaðarsams fordæmis, t.d. ef Spánverjar færu fram á hliðstæðu. Gríski harmleikurinn er flókinn og erfiður viðureignar, enda allt ESB-kerfið undir. Spennan eykst, og stytzt getur í stórtíðindi.
Þann 9. júlí 2015 reit Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, gagnmerka grein í Morgunblaðið undir heitinu:
"Reynsla Grikkja af Evrópusambandinu er mikil lexía, líka fyrir Íslendinga".
Þar vitnar hann í Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Paul Krugman:
"Það hefur verið augljóst um skeið, að upptaka evru voru hræðileg mistök. Evrópa hafði aldrei forsendur til að taka með árangri upp sameiginlega mynt. ... Að beygja sig fyrir afarkostum þrístirnisins, ESB, AGS og SBE, væri að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um sjálfstætt Grikkland."
Hjörleifur heldur síðan áfram:
"Til hliðsjónar við þann kost, að Grikkir taki upp eigin mynt, bendir hann [Krugman - Innsk. BJo] á árangursríka gengisfellingu íslenzku krónunnar 2008-2009, og að Argentína hætti að binda pesóinn við dollara 2001-2002."