Færsluflokkur: Evrópumál

Makríllinn er messu virði

Furðumikil átök tengjast makrílnum, enda er hann flökkustofn, sem er að vinna sér nýjar lendur í hlýsævi hér norður frá. Þjóðir á borð við Íra og Skota horfa langeygir á eftir honum hingað norður. Hann lét þó standa á sér í sumar, enda hlýnaði sjórinn seint að þessu sinni. Allt lífríki sjávar er óvissu undirorpið, og þekking á því af of skornum skammti miðað við hagsmunina. Nú hafa Rússar aukið við nýtingaróvissu þessarar nýju tegundar í lögsögu Íslands með hótun um innflutningsbann á makríl frá Íslandi.  Það yrði vissulega tilfinnanlegt og visst stílbrot í viðskiptasögu Rússlands og Íslands.

Vinstri stjórnin 2009-2013 heyktist á að kvótasetja makrílinn, eins og henni þó bar samkvæmt lögum, eins og Umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði hefur bent á.

Sjávarútvegsráðherra núverandi ríkisstjórnar olli miklum úlfaþyt með framlagningu frumvarps um kvótasetningu makríls í stað þess að styðjast við gildandi lög um fiskveiðistjórnun og gefa út reglugerð um varanlegar aflahlutdeildir makríls á grundvelli veiðireynslu áranna 2012-2014. Verður ekki séð, að frágangssök sé í því sambandi, þó að samningur um aflahlutdeild Íslands hafi ekki enn náðst.

Aðferðarfræði ráðherrans varð loddurum tilefni til að fiska í gruggugu vatni og halda því tilefnislaust fram, að "grundvallarbreyting verði á úthlutun veiðiheimilda í makríl, þar sem ekkert ákvæði er í frumvarpinu um þjóðareign kvótans né heldur um það,að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.   

Þar með festi frumvarpið í sessi, að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameigninni sem og, að fordæmi myndist í þá veru að úthluta aflaheimildum til lengri tíma en eins árs, eins og nú er raunin." 

Í gæsalöppunum á undan greinaskilunum hér að ofan er verið að mála skrattann á vegginn, vegna þess að í makrílfrumvarpinu var vísað til gildandi laga um fiskveiðistjórnunina, svo að ráðherrann ætlaði alls ekki út á nýjar brautir, hvað eignarhald kvótans áhrærir. Það er ímyndun Jóns Steinssonar, hagfræðings, eða vísvitandi rangtúlkun hans til að efna til múgæsingar. Þessi hagfræðingur leggur sig hvað eftir annað í framkróka við að blása í glæður tortryggni og vantrausts með vænisýki sinni.  

Eins og fram kemur í gæsalöppunum á eftir greinaskilunum, þá virðist Jón Steinsson haldinn ranghugmyndum um eignarhald fisksins í sjónum.  Óveiddan fisk á enginn, af því að miðin eru almenningur, og svo hefur verið frá öndverðu.  Til að verja stofnana og til að hámarka afraksturinn hefur ríkið hins vegar með réttu tekið sér vald til að stjórna veiðunum.  Það er gert á grundvelli umdeilanlegrar aflareglu og úthlutun ótímabundinna aflahlutdeilda á grundvelli þriggja ára veiðireynslu.  Við þetta myndast nýtingarréttur, sem er eitt form eignarréttar og er veðsetjanlegur og framseljanlegur. Þetta er með öðrum orðum markaðsdrifið stjórnkerfi fiskveiða, sem hefur hámarkað skilvirkni útgerðanna á heimsvísu.  Það, sem er gott fyrir útgerðina, er gott fyrir landið allt, því að útgerðin myndar ekki lokað hagkerfi, heldur nýtir sér þjónustu fjölmargra og greiðir sína skatta, eins og aðrir, og meira til (veiðigjöldin).  Það er eintóm óskhyggja Jóns Steinssonar o.fl., að ríkið eigi óveiddan fisk í sjónum og geti þess vegna ráðstafað honum að eigin vild.

Varðandi makrílinn ætlaði ráðherrann hins vegar illu heilli að hafa nýtingarréttinn takmarkaðan til 6 ára, en Jón vill hafa hann til eins árs og helzt bjóða veiðiréttindin upp á markaði árlega. 

Þetta er alveg arfaslök hagfræði, því að hvaða fjárfestir vill festa fé í skipi, búnaði og mannskap til eins árs, hafandi enga vissu um, hvort hann fái nokkuð að veiða að ári ? Hér vantar hvatann til athafna, og eignarrétturinn er fótum troðinn.  Kenningin fellur þess vegna vinstri mönnum í gerð, en það er ekki heil brú í henni fremur en í sameignarstefnu Karls Marx.

Aðgerðin er ólögleg, því að það getur enginn boðið upp það, sem hann á ekki, og ríkið á ekki óveiddan fisk í sjó, eins og Jón Steinsson, hagfræðingur, gefur sér og reisir falskenningu sína á. Hann er þess vegna eins konar falsspámaður, sem nokkrir hafa þó tekið trú á.

Það hefur myndazt mikill múgæsingur um grundvallarmisskilning Jóns á eðli fiskveiðistjórnunarkerfisins, og hann leiddi til undirskriftasöfnunar, þar sem skorað var á forseta lýðveldisins að synja öllum lögum staðfestingar, þar sem kveðið væri á um lengri úthlutun aflahlutdeildar en til eins árs. 

Með þessu er verið að heimta, að framvegis verði útgerðarmönnum mismunað alveg herfilega, því að þeir sem munu gera út á nýjar tegundir, fá þá aðeins úthlutað til eins árs, en hinir hafa ótímatakmarkaða úthlutun.  Þetta væri skýlaust brot á atvinnuréttindum og þess vegna Stjórnarskrárbrot.  Forseti lýðveldisins mun áreiðanlega sjá þessa alvarlegu meinbugi ásamt hinu hagfræðilega glapræði, sem í þessu felst, og haga staðfestingu slíkra laga samkvæmt því.

Um hið hagfræðilega glapræði hefur hinn kunni prófessor í hagfræði, Ragnar Árnason, þessi orð:

"Að mínu mati ber að úthluta aflaheimildum í makríl varanlega - annað er í raun lögbrot."

Það verður í raun og veru ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að hafa úthlutun tímabundna, þegar horft er til hinna hagfræðilegu kosta ótímabundinnar úthlutunar og jafnræðis útgerðarmanna og sjómanna við aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni ?

Í helgarblaði DV 25.-29. júní 2015 undir fyrirsögninni: 

" Þessi arður mun sjálfvirkt dreifast um allt hagkerfið",

segir Ragnar um hugmyndir Jóns Steinssonar um uppboð aflaheimilda:

"Ég skil eiginlega ekkert í Jóni að halda þessu fram.  Það er óumdeilt á meðal hagfræðinga, að aflamarkskerfi sé efnahagslega hagkvæmt.  Það er ríkjandi kerfi hjá vestrænum þjóðum og fleirum.  25 % af heildaraflanum á heimsvísu eru veidd innan þess kerfis, og þróun er í þá átt, að það hlutfall vaxi.  Kerfið gefur af sér góða efnahagslega reynslu, og það sem er ekki síður mikilvægt er, að það viðheldur og styrkir fiskistofna", segir Ragnar og bendir á, að erfitt sé að reka útgerð, ef óvissa er fyrir hendi, hver kvótinn verður. Því sé það hans skoðun, að úthluta beri aflaheimildum til eins langs tíma og hægt er.

Fjárfestingar í greininni eru til langs tíma; sá sem fjárfestir í skipi gerir það til 30 ára eða meira og í fiskvinnslu, svo að ekki sé minnzt á, að markaðsþróun er fjárfesting til enn lengri tíma.  Það að ætlast til þess, að sjávarútvegsfyrirtæki séu í sífelldri óvissu um aflarétt, er eins og að reyna að reka áliðnað, þar sem álfyrirtækin hafa aðeins framleiðslurétt til árs eða fárra ára í senn."

Ekkert álfyrirtæki gæti þrifizt við þessar afkáralegu aðstæður, og hér er um að ræða einhvers konar "útúrboruhagfræði", sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og enginn alvöru hagfræðingur mundi skrifa skilmálalaust undir.  Orð hagfræðiprófessorsins, Ragnars, ættu hins vegar að vera hverjum manni auðskilin.  Öll hagfræðileg og þjóðhagsleg rök hníga að því, að Íslendingar hafi þróað bezta fáanlega fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir sínar aðstæður, sem eru verðmæt efnahagslögsaga og veiðigeta, sem er langt umfram veiðiþol nytjastofnanna í þessari lögsögu.

  Íslenzkar útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki standa í harðri samkeppni við norska kollega og aðra, og stjórnmálamenn geta auðveldlega stórskaðað samkeppnisstöðu Íslendinga á erlendum mörkuðum, t.d. með álagningu verulega íþyngjandi veiðigjalda (þau eru núna líklega tvöfalt of há miðað við það, að þau tíðkast ekki hjá samkeppnisaðilunum). 

Í þessu sambandi er rétt að vísa í gagnorða forystugrein í Morgunblaðinu 23.05.2015 undir heitinu "Öfugmælaumræða á Alþingi",

en þar sagði m.a.:

"Það er mikið alvörumál, að þingmenn skuli ítrekað með ábyrgðarlausu tali grafa undan helzta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og halda rekstri hans í stöðugri óvissu.  Og það er ekki síður áhyggjuefni, að þeir virðast ekki átta sig á helztu kostum þess fiskveiðistjórnarkerfis, sem verið hefur við lýði í um aldarfjórðung, varanleika og framseljanleika aflaheimilda." 

Þá er augljóst, að fíflagangur á borð við kenningar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um úthlutun aflahlutdeilda til eins árs í senn eða jafnvel árlegt uppboð aflahlutdeilda mun fæla fjárfesta frá greininni, sem mundi strax leiða til þess, að greinin koðni niður og hætti að greiða hluthöfum arð og hætti að hafa nokkurt bolmagn til að greiða í sameiginlega sjóði landsmanna. Hver er eiginlega bættari með slíkri breytingu ?  Fyrir ríkissjóð væri þetta eins og að míga í skóinn sinn.

Hinn virti og kunni hagfræðiprófessor, RÁ, þvertekur fyrir órökstuddar og óskiljanlegar fullyrðingar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um, að með núverandi framkvæmd kvótakerfisins sé í raun verið að hlunnfara íslenzku þjóðina: 

"Nánari athuganir sýna, að þorri arðsins rennur beint til þjóðarinnar.  Aflakvótakerfi sparar kostnað við fiskveiðar og hækkar verðmæti aflans, sem landað er, þannig að nettó útflutningsframleiðsla úr sjávarútvegi verður hærri en áður.  Innflutningurinn til sjávarútvegsins minnkar, þ.e.a.s. olía og annað, og útflutningsverðmæti verður hærra.  Það þýðir hærra gengi krónunnar að öðru óbreyttu.  Hærra gengi krónunnar þýðir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna verður þeim mun hærri.  Helmingur þess, sem íslenzk heimili kaupa, er innflutningur, þannig að 1 % hækkun á gengi þýðir einfaldlega 0,5 % kjarabót fyrir fólkið í landinu. Þetta er gríðarlega stórt atriði", sagði Ragnar.

Í grein í Morgunblaðinu 24. júlí 2015,

"Makríll utan ESB - uppgjöf Grikklands",

notaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, makrílinn til að varpa ljósi á meðferð valdsins í Berlaymont á smáríkjum, en ein af firrum ESB-aðildarsinna á Íslandi hefur löngum verið, að hagsmunum smáríkja sé betur borgið innan múra ESB ("Festung Europa") en utan.

Hann telur útflutningsverðmæti frysts makríls og mjöls undanfarinn áratug hafa numið a.m.k. ISK 120 milljörðum.  Í ár verði Íslendingum heimilt að veiða meira en nokkru sinni fyrr eða um 172 kt í íslenzkri lögsögu, og að við ákvörðun afla miði sjávarútvegsráðherra við 17 % af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, eins og verið hefur. 

ESB og Norðmenn vildu hins vegar búa svo um hnútana, að 90 % veiðiheimildanna féllu þeim í skaut og að Íslendingar, Færeyingar og Rússar skiptu með sér 10 %. Þannig yrði hlutdeild Íslands e.t.v. 3,5 % í stað 17 %, og ofangreindar útflutningstekjur hefðu þá orðið um ISK 100 milljörðum lægri.  Þetta er bara sýnishorn af þeim kostnaði, sem fullveldisframsal Íslands til ESB hefði í för með sér.  

Til að gera sér grein fyrir þeim fjandskap, sem Ísland mundi mæta innan ESB, þar sem hagsmunaárekstrar yrðu, verður aftur vitnað í grein Björns Bjarnasonar:

"ESB-menn, einkum Skotar, sýndu mikla andstöðu við makrílveiðar íslenzkra skipa. Skozki ESB-þingmaðurinn, Struan Stevenson, sneri sér t.d. sumarið 2010 að Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á málþingi á vegum ESB-þingsins í Brussel og spurði:

"Ég er undrandi á því, að Íslendingar biðji okkur um að draga fram rauða dregilinn og fagna sér sem aðilum að ESB; þakkir þeirra felast í því að neita að greiða [Icesave-] skuldir sínar, loka loftrými okkar vikum saman með eldfjallaösku og reyna nú að eyðileggja makrílveiðar okkar.

Þetta er fyrir neðan allar hellur, og ég treysti því, að framkvæmdastjórnin segi þeim afdráttarlaust, að ESB láti ekki undan í þessu máli og að við samþykkjum ekki svo ábyrgðarlausa framkomu."

Þarna opnaðist Íslendingum sýn inn í hugarheim ESB-manna og viðtekin viðhorf í Berlaymont til Íslands og hagsmuna þess.  Í stuttu máli geta Íslendingar étið það, sem úti frýs fyrir ESB-mönnum, og hagsmunir lítillar þjóðar norður í Atlantshafi kemur ekki mál við þá. Það er gamla sagan með óðalið og kotið. Íslendingar verða í fjárhagslegum efnum sem þjóð og hver og einn að reiða sig á sjálfa sig.  

Þetta er í algerri mótsögn við málflutning umsóknarráðherrans (olíumálaráðherrans, eins og hann gjarna kallaði sig), Össurar Skarphéðinssonar, og smáþjóðafræðingana í hópi stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands, en þeir hafa löngum fimbulfambað fótalaust um öryggið, sem fælist í því að vera aðili að "smáþjóðasambandinu" ESB. Þetta er í bezta tilviki lágkúruleg pilsfaldapólitík, en í raun stórhættuleg tálsýn. Ekkert er fjær sanni en stórþjóðirnar láti hagsmuni smáþjóða njóta forgangs.  Það færði makríllinn okkur heim sanninn um, og það hefur Grikklandsfárið sýnt okkur í hnotskurn upp á síðkastið.  

Í hvorugu tilvikinu eru sjónarmið lítilmagnans nokkurs metin.  Stóru ríkin í ESB ráða algerlega ferðinni, og þau framfylgja sáttmálum Evrópusambandsins, t.d. hinni sameiginlegu landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, og bera mjög fyrir brjósti varðveizlu evru-samstarfsins, sem nú er í hers höndum; nema hvað ?  Barnaskapurinn ríður ekki við einteyming.

Toppurinn á þeim ísjaka er Grikkland, en ekkert evruland Suður-Evrópu þrífst með sama gjaldmiðil og Þýzkaland.  Raunar er hvergi hamingja með þann gjaldmiðil, enda var undirstaðan ranglega fundin og er nú orðin feyskin.     

 

 

 

 

   

 

 

 

 

 

  

 

   

 

   

 

    


 

 

 

 

     

 


Af sviðsmyndum og ómyndum

Sitt sýnist hverjum um það, hvort raforkusala um sæstreng frá Íslandi til Bretlands geti orðið arðsöm, eins og nú horfir með heimsmarkaðsverð á raforku, en það hefur hríðfallið frá því, að Bandaríkjamenn náðu undirtökunum á gas- og olíumörkuðum árið 2014 með jaðarframboði á grundvelli nýrrar vinnslutækni, þ.e. setlagasundrun með vatni, sandi og aðskotaefnum undir þrýstingi (e."fracking") til að vinna eldsneytisgas og olíuvinnsla úr tjörusandi. 

Nú eru Persar að koma inn á eldsneytismarkaðinn, og munu þeir heldur betur velgja Aröbunum undir uggum, ef að líkum lætur.  Mun þá botninn úr markaðinum, og eiga þá Norðmenn o.fl. enga möguleika lengur á þessum markaði til vinnslu með hagnaði. Verður þá tvennt í boði fyrir olíusjeika Norðursins.  Annaðhvort að opna rækilega fyrir útstreymi úr olíusjóði sínum og halda þannig uppi fölskum lífskjörum eða að herða sultarólina.  Blanda af þessu gæti orðið fyrir valinu að hætti Norðmanna.

Nær væri orkuyfirvöldum á Íslandi að kanna fýsileika raforkusölu um sæstreng frá Íslandi til Færeyja en til Bretlands.  Hér er um mun minna og viðráðanlegra verkefni að ræða.  Hins vegar kann að styttast í, að Færeyingar setji upp kjarnorkuver hjá sér af nýrri kynslóð og stærð, sem hentar þeim.  Þessi nýju kjarnorkuver nota frumefnið Þóríum í kjarnakljúfa sína og nýta efnið mun betur en Úran-kjarnakljúfarnir, svo að geislavirkur úrgangur verður viðráðanlegur og skaðlaus á innan við einni öld.  Búizt er við þessari orkubyltingu um 2025, og mun þá engum detta í hug lengur að leggja sæstreng yfir 500 km, hvað þá á 1 km dýpi.

Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði fróðlega grein, sem birtist í Morgunblaðinum á Bastilludaginn 2015 undir heitinu:

"Sviðsmynd Landsvirkjunar og sæstrengsumræðan".     Hann hefur greinina með eftirfarandi hætti:

"Margir hafa að undanförnu séð ástæðu til að stinga niður penna og fjalla um sæstreng.  Nú síðast Ketill Sigurjónsson á mbl.is; erindi hans þar virðist helzt það, að allir þeir, sem ekki hrópa "hallelúja" yfir sæstrengnum, hljóti að bera hagsmuni stóriðjunnar fyrir brjósti.  Þetta er ömurlegur málflutningur."

Þessi orð Elíasar varpa ljósi á þá staðreynd, að orkulindir landsins eru takmörkuð auðlind ekki sízt vegna þess, að málamiðlanir verður að gera á milli þeirra, sem vilja "nýta og njóta" og hinna, sem vilja bara "njóta" eða öllu heldur "nýta með því að njóta", þó að sú stefna sé nú reyndar komin í ógöngur vegna skipulagsleysis, svo að stefnir í óafturkræfar skemmdir á viðkvæmum landsvæðum vegna "ofnýtingar við að njóta", svo að yfirgengilegur sóðaskapur sumra ferðamanna og leiðsögumanna þeirra með tilheyrandi sóttkveikjuhættu sé nú látinn liggja á milli hluta.

Landsvirkjun hefur reynt með kúnstum, sem reyndar hefur verið flett ofan af hér á þessu vefsetri, að breiða yfir þá staðreynd, að líklega þarf að virkja upp undir 1200 MW fyrir Skotlandsstrenginn til að senda utan um 7500 GWh/a. Þetta er rúmlega fimmtungur af hagkvæmt virkjanlegu afli, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða.  Til samanburðar hafa Norðmenn ekkert virkjað fyrir sína sæstrengi, enda er raforkukerfi þeirra gjörólíkt hinu íslenzka.  

Það eru í meginatriðum 2 sviðsmyndir í umræðunni.  Sviðsmynd Landsvirkjunar er naglasúpusviðsmynd, þ.e. að selja orku, sem ekki er til, eins og einnig hefur verið útskýrt á þessu vefsetri.  Um hundakúnstir talsmanna Landsvirkjunar hefur Elías þessi orð:

"Sæstrengurinn kemur þá ofan á því sem næst fullnýtt kerfi.  Þegar enn er skrifað, eins og hægt sé að ná allt að 10 % betri nýtni úr kerfinu án þess að kosta nokkru til, sæmir það varla Landsvirkjun." 

Sviðsmynd Landsvirkjunar er með einum sæstreng, 1000 MW að flutningsgetu, og árlegan orkuútflutning inn á strenginn 5,0 TWh (flutningstöp ótilgreind,nýting 57 %, 5000 klst/a), sem yrði aflað á eftirfarandi hátt:

  • 2,0 TWh/ár frá bættri kerfisnýtingu og óskilgreindum stækkunum núverandi vatnsaflsvirkjana. Aðeins stækkun Búrfells er ráðgerð nú, þ.e. 100 MW afl og 0,3 TWh/a, svo að 1,7 TWh/ár virðast eiga að koma frá óskilgreindri bættri nýtingu vatnsorkukerfis.  Hér vantar allt að 1,7 TWh/a.
  • 1,5 TWh/ár frá vindmyllum (þýðir líklega 500 MW uppsett afl frá 170 vindrafstöðvum á um 90 m háum turnum), en Landsvirkjun hefur aðeins ráðgert Búrfellslund og Blöndulund, sem gefa líklega 0,9 TWh/ár. Hér vantar 0,6 TWh/ár.
  • 1,5 TWh frá jarðgufuvirkjunum, sem þarfnast a.m.k. 200 MW uppsetts afls frá um 40 holum í rekstri samtímis. Þetta er aðeins um 30 % af virkjanakostum Landsvirkjunar í jarðgufu, en mikil óvissa er enn um getu þessara gufuforðabúra til að standa undir virkjun áratugum saman.  Óvissustig: HÁTT 
  • Vegna vöntunar og óvissu gæti þurft að virkja nýtt vatnsafl, sem nemur 2,5 TWh/a (1,7+0,6+0,2=2,5)
  • Ekki hefur enn verið útveguð orka til tveggja kísilmálmvera og eins sólarkísilvers, sem Landsvirkjun þó virðist hafa veitt ádrátt um orku, sem gæti numið 2,5 TWh/a frá vatnsorkuverum. 
  • Alls þarfnast þessi sviðsmynd sæstrengs, ásamt iðnvæðingu næstu ára, vatnfallsvirkjana að framleiðslugetu um 5,0 TWh/a.  Þetta eru 75 % af þeim virkjanakostum vatnsafls, sem Landsvirkjun hefur lagt fram.  Það er óvíst, að Landsvirkjun fái virkjanaleyfi fyrir þessum 5,0 TWh/a á næstu 10 árum, og þess vegna er ljóst, að annað verður undan að láta, iðjuverin eða sæstrengurinn. 

Charles Hendry, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Bretlands, kynnti hins vegar aðra sviðsmynd sæstrengs á fundi í Reykjavík 20. apríl 2015.  Sú er ívið stærri í sniðum og með mun meira afhendingaröryggi en sviðsmynd Landsvirkjunar hér að ofan:

Tveir sæstrengir með 600 MW flutningsgetu hvor um sig og orkuflutningur inn á báða strengina 7,5 TWh/a (nýting 71 %, 6250 klst/a), sem aflað yrði á eftirfarandi hátt:

  • 4,3 TWh/a frá 530 MW nýjum jarðgufuvirkjunum.  Landsvirkjun hefur borið víurnar í 5,3 TWh/a af jarðgufuvirkjunum, svo að 80 % af þeim færi inn á sæstrengina.  Hér aftur er alger óvissa um, hvernig umrædd 5 svæði munu bregðast við virkjun. Óvissustig MJÖG HÁTT.
  • 1,2 TWh/a frá 400 MW vindmyllum.  Landsvirkjun hefur áformað 300 MW frá tveimur vindmyllulundum, svo að hér vantar 0,3 TWh/a.
  • 0,8 TWh/a frá 250 MW stækkun eldri virkjana Landsvirkjunar.  Miðað við stækkunaráform Landsvirkjunar vantar hér 0,5 TWh/a.
  • Þó að allt þetta gengi eftir, fengjust aðeins 6,3 TWh/a.  Þá vantar 1,2 TWh/a og vegna óvissu og vöntunar virkjunarkosta þarf að bæta við 0,5+0,3+0,5=1,3 TWh/a, sem þýðir, að 2,5 TWh/a þurfa að koma frá nýjum vatnsfallsvirkjunum, sem er nákvæmlega sama orkuþörf frá nýjum vatnsfallsvirkjunum og í sviðsmynd Landsvirkjunar.

Þriðja sviðsmyndin, sem reyndar er afbrigði af þeirri fyrstu hér að ofan, kom svo fram í Morgunblaðinu 17. júlí 2015 í frétt á bls. 16 undir fyrirsögninni:

"Sæstrengur sniðinn að stefnu ESB".  

Þarna eru tilvitnanir í Björgvin Skúla Sigurðsson, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun.  Eins og fram kemur í fyrirsögninni, snýst þessi "frétt" um að sýna fram á, að sæstrengstenging Íslands við Bretland mundi falla vel að orkustefnu Evrópusambandsins-ESB og að okkur beri að fylgja henni vegna aðildar að EES.

Eftirfarandi tilvitnun í "fréttina" snýr að þessu:

"Lögð er sérstök áherzla á að fjármagna innviðauppbyggingu, sem snýr að samtengingu orkumarkaða á milli landamæra.  Áður hafa ýmis slík verkefni verið studd, m.a. lagning sæstrengs frá Noregi til Bretlands.  Þessi vinna kann að hafa áhrif á möguleikann að tengja orkukerfi Íslands með sæstreng til Bretlands."

Það blasir við, að Landsvirkjun reynir að stækka markað sinn með flutningskerfi fyrir raforku sína, sem ESB ætti hlut í, og með því að selja "græna orku" til brezka ríkisins, sem sárlega þarf að auka hlutdeild slíkrar til að ná markmiðum ESB um hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun landsins.

  Það er alveg ljóst, að búið verður að kippa markaðslögmálum úr sambandi, ef þetta gengur eftir.  Þess vegna kemur ekki til mála, að risinn á íslenzka markaðinum taki þátt í þessu, heldur verður að stofna nýtt fyrirtæki um þær virkjanir, sem reisa þarf vegna rafmagnsflutninga til og frá Bretlandi, en samkvæmt sömu frétt í Morgunblaðinu jafngilda þær fjárfestingum að upphæð ISK 164 milljörðum, og er það líklega stórlega vanáætlað vegna mikillar óvissu um 2,0 TWh/a, sem Landsvirkjun heldur fram, að sé "strönduð" orka í vatnsorkukerfinu, en eru líklega að mestu helberir hugarórar og þegar nýttir af áliðnaðinum. 

Eins og fram hefur komið, verður samkeppni um vatnsorkuvirkjanir á milli iðjuvera á landinu og sæstrengs, hvað sem líður orðagjálfri talsmanna Landsvirkjunar um annað.  Stærsti notandi raforku í hópi núverandi iðjuvera er áliðnaðurinn.  Það er kaldranalegt að fá smjörþefinn af hugarfarinu til áliðnaðarins frá náunga, sem af trúarlegum sannfæringarkrafti hefur boðað landslýð fagnaðarerindi sæstrengsins um nokkurra ára bil.  Þessi ósköp gaf að líta í athugasemd við ágætt vefinnlegg Viðars Garðarssonar á Bastilludaginn 2015 undir fyrirsögninni "Markmið Landsvirkjunar". 

Þar tók Ketill Sigurjónsson meira upp í sig en hann eða nokkur annar getur staðið við, enda er um almenn og órökstudd stóryrði hans að ræða, sem eru ósönn, eins og þau voru sett þarna fram:

"Áliðnaður er sá viðskiptavinahópur, sem almennt skilar lægstri arðsemi raforkufyrirtækja og þar með lægstri arðsemi til eigenda slíkra fyrirtækja (sem í tilviki LV eru landsmenn allir)."

Sá, sem setur fram svigurmæli af þessu tagi um heila atvinnugrein, áliðnaðinn, setur sig á háan hest gagnvart öllum þeim, sem að Íslands hálfu hafa beitt sér fyrir samningum um raforkusölu til álvera, og opinberar téður Ketill reyndar um leið vanþekkingu sína á orkumálum almennt, og hvað er ákvarðandi fyrir arðsemi raforkusölu, eins og nú skal greina:

Eins og um alla aðra vöru og þjónustu, gildir það um raforkuvinnslu og raforkusölu, að hagnaður af starfseminni er í senn háður söluverðinu og kostnaðinum við framleiðslu og flutning til kaupandans. Af ástæðum, sem taldar verða upp hér að neðan, er framleiðslukostnaður og flutningskostnaður á hverja orkueiningu, t.d. MWh, umtalsvert lægri til álvera en til nokkurra annarra viðskiptavina orkufyrirtækjanna á Íslandi.  Af þeim sökum er viðskiptagrundvöllur og arðsemisgrundvöllur fyrir því, að álverin njóti lægsta verðs fyrir forgangsorku á markaðinum.  Þessu skautar téður Ketill algerlega framhjá, og þess vegna er engin skynsemi í fullyrðingu af því tagi, að álver séu óhagstæðir viðskiptavinir út af fyrir sig. Það markast einfaldlega af bilinu á milli umsamins verðs og kostnaðar í þeirri virkjun, sem stendur undir viðkomandi orkusölu á öllu samningstímabilinu. Ketill Sigurjónsson virðist aðeins horfa á aðra hlið jöfnunnar, söluverðið, og dregur af því alrangar, almennar ályktanir. Þetta hugarfóstur hans, að orkusamningar við álverin séu þjóðhagslega óhagkvæmir, hefur leitt hann út á braut óviðeigandi svigurmæla í garð heillar iðngreinar, sem flokka má til atvinnurógs.

Meðalraforkuverð Landsvirkjunar til álveranna þriggja var 25,9 USD/MWh að meðtöldum flutningi til þeirra árið 2014, og má þá ætla, að verð frá virkjun sé 24,0 USD/MWh. Meðalverð Landsvirkjunar nam þá 32,8 USD/MWh, en verð til almenningsveitna nam hins vegar 68 USD/MWh eða 8,9 kr/kWh.  Hlutfallið 24/68=0,35 er allt of lágt og ætti að vera nálægt 0,45, ef verðin mundu endurspegla raunverulegan tilkostnað, sem er eðlilegt og sanngjarnt. 

Það er hins vegar röng ályktun af þessu, að meðalverð til álvera ætti að hækka um 28 %, heldur er verðið til almenningsveitna orðið allt of hátt og þarf að lækka um 22 %. Það sést, þegar vinnslukostnaður í virkjun til þessara tveggja viðskiptamannahópa er skoðaður. Gríðarlegur hagnaður Landsvirkjunar um þessar mundir gefur þetta auðvitað til kynna, en það sést líka, ef jaðarkostnaður rafmagns í vatnsaflsvirkjun er reiknaður, því að þá fást 24,4 USD/MWh fyrir áliðnað og 54,2 USD/MWh eða um 7,1 kr/kWh fyrir almenningsveitur.  Það er alger óhæfa að selja orku úr núverandi kerfi á mun hærra verði en nemur reiknuðu verði frá næstu virkjun (jaðarkostnaður).

Helztu ástæður þess, að ódýrara er að framleiða rafmagn fyrir álver en almenningsveitur:

  • Nýtingartími uppsetts afls í virkjun er um 60 % hærri, ef hún framleiðir fyrir álver en fyrir almenningsveitur.  Ástæðan er, að það eru engar álagssveiflur í álveri, háðar tíma sólarhrings, viku, eða árstíð, eins og dæmigert er fyrir almenningsveitur.  Af þessum ástæðum nýtist fjárfestingin að sama skapi betur og hærri tekjur koma inn, en kostnaður eykst mjög lítið, sérstaklega í vatnsaflsvirkjunum, því að vatnið kostar ekkert, þar sem vatnsréttindin eru í höndum virkjunareigandans.
  • Ný virkjun kemst upp í fulla nýtingu á fyrsta ári eftir gangsetningu, ef hún framleiðir fyrir álver, en full nýting meðalstórrar virkjunar (150 MW) verður fyrst að áratug liðnum, ef hún framleiðir aðeins fyrir almenningsveitur.  Til að gefa sömu tekjur yfir samningstímabilið getur einingarverð til álvers þess vegna verið lægra en til almenningsveitna.
  • Eigandi álvers gerir skuldbindandi samning til 25-45 ára um kaup á a.m.k. 85 % af umsaminni orku á hverju ári, þó að hann noti hana ekki. Orkusölufyrirtæki til almennings er ekki skuldbundið til að kaupa orku frá einum birgi, enda mundi slíkt brjóta í bága við samkeppnislög. Þessi tekjutrygging verður þess valdandi, að hagstæðari lánskjör fást til fjárfestingar í virkjuninni, sem lækka fjármagnskostnaðinn. 
  • Mun meiri kröfur eru gerðar til aflstuðuls álvera en almenningsveitna, sem leiðir af sér lægri fjárfestingarþörf í rafbúnaði í virkjun fyrir álver m.v. sömu raunaflsþörf í MW, og töpin verða minni.
  • Samantekið leiðir þetta til, að vinnslukostnaður raforku fyrir álver er í mesta lagi 45 % af vinnslukostnaði raforku fyrir almenningsveitur.

 Það skekkir örlítið myndina af hlutföllum meðalorkuverða til mismunandi notenda, að þau fela í sér vegið meðalverð forgangsorku og afgangsorku (ótryggðrar orku), en varðandi álverin getur sú síðar nefnda numið allt að 10 % af heild, en nær líklega ekki svo háu hlutfalli hjá almenningsveitunum. Orkufyrirtækin eru ekki skuldbundin til stöðugrar afhendingar á afgangsorku, og þess vegna geta miðlunarlónin verið minni að sama skapi.

Önnur iðjuver, t.d. kísilver, hafa annars konar álagsmynztur en báðir notendahóparnir, sem að ofan voru til skoðunar, og liggur kostnaður orkuvinnslu til þeirra einhvers staðar á milli þeirra, og þar af leiðandi ætti verðið til þeirra að gera það einnig. 

Um væntanlegt sæstrengsálag ríkir óvissa, því að í öðru orðinu mæla talsmenn Landsvirkjunar fyrir aflsölu, þ.e. sölu á rafmagni aðeins á háálagstíma á Englandi, en hins vegar virðast Englendingarnir miða við hefðbundna orkusölu með nýtingartíma tveggja sæstrengja yfir 70 %, sbr 60 % nýtingu almenningsveitna á Íslandi og 95 % hjá álverum. Vinnslukostnaður orku inn á sæstreng er þess vegna hugsanlega svipaður og á orku til kísilvera. Hins vegar er flutningskostnaðurinn gríðarlegur og margfaldur á við vinnslukostnaðinn að meðtöldum gríðarlegum flutningstöpum 1200 km leið.

Niðurstaðan er sú, að takmörkun orkulindanna á Íslandi verður þess valdandi, að frekari iðnvæðing og sala um sæstreng fara ekki saman, og á grundvelli arðsemi fer ekki á milli mála, að velja ber iðnvæðinguna.    

 

    

 

 

   

 


 

 

 

 


Gríski harmleikurinn 2010-2015

E.t.v. væri rétt að hefja Gríska harmleikinn árið 2001, því að þá fleygðu Grikkir drökkmunni fyrir róða og tóku upp sameiginlega mynt Evrópusambandsins, ESB,án þess að rísa undir henni, sem reyndist öllu ESB örlagaríkt, enda var illa til stofnað. 

Í raun fullnægðu Grikkir ekki Maastricht-skilyrðunum, sem áttu að verða aðgöngumiði að evrunni, en þeim tókst með svikum og prettum að fleygja skjóðunni með sál Grikklands inn fyrir Gullna hliðið, ECB, við Frankafurðu (Frankfurt).

Reyndar brutu Þjóðverjar sjálfir árið 2003 skilyrðið um, að greiðsluhalli ríkissjóðs færi ekki yfir 3,0 % af VLF.  Á íslenzkan mælikvarða eru það ISK 60 milljarðar, en Þjóðverjar voru snöggir að rétta drekann af í skotstöðu og hafa síðan sett ákvæði í stjórnarskrá sína, sem bannar hallarekstur ríkissjóðs, og hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, viðrað góða hugmynd um lagasetningu þar að lútandi hérlendis.  Þjóðverjar voru reyndar þarna að ljúka uppbyggingarátaki í austurhéruðunum eftir Endursameiningu Þýzkalands.

Frakkar, aftur á móti, eru enn brotlegir við þetta ákvæði og eiga sér ekki viðreisnar von undir jafnaðarmönnum, sem skilja ekki nauðsyn uppstokkunar ofvaxins ríkiskerfis. Annað ákvæði Maastricht var um, að skuldastaða ríkissjóðs mætti ekki fara yfir 60 % af VLF. Eftir bankakreppuna 2008 hefur heldur betur snarazt á ESB-merinni, og lítur staðan núna þannig út:

  1. Grikkland     173 % (verður líklega um 200 % 2015)
  2. Ítalía        134 %
  3. Portúgal      126 %
  4. Írland        108 %
  5. Belgía        107 %
  6. Kýpur         106 %
  7. Spánn          99 %
  8. Frakkland      97 %
  9. Bretland       91 %
  10. Austurríki     89 %
  11. Slóvenía       80 %
  12. Þýzkaland      70 %
  13. Holland        68 %
  14. Malta          68 %
  15. Finnland       62 %
  16. Slóvakía       54 %
  17. Litháen        38 %
  18. Lettland       38 %
  19. Lúxemborg      26 %
  20. Eistland       10 %

 Til samanburðar munu skuldir íslenzka ríkissjóðsins nú vera svipaðar og hins brezka að tiltölu, en gætu farið niður undir Maastricht-viðmiðið árið 2016, ef áform ríkisstjórnarinnar ganga að óskum.

Skuldastaða Grikklands virðist óviðráðanleg, en Þjóðverjar og bandamenn þeirra í evruhópinum (Austurríki, Holland, Finnland og Eystrasaltsríkin) taka afskriftir þeirra ekki í mál, enda mundu kjósendur í þessum löndum bregðast æfir við og refsa valdhöfunum í næstu kosningum með því að kjósa pírata eða einhverja álíka. Á þýzka þinginu er lagt hart að Merkel, kanzlara, að standa fast á þessu, og Sigmar Gabriel, varakanzlari, efnahagsráðherra og formaður SPD, þýzkra jafnaðarmanna, tekur í sama streng. Bæjarinn, Wolfgang Schaeuble, stendur að sjálfsögðu í ístaðinu sem fjármálaráðherra Þýzkalands og neitar að afskrifa skuldir.  Þá mundi skrattinn losna úr grindum á Pýreneaskaganum, á Írlandi og víðar. Reyndar er kratinn Gabriel eitthvað að hlaupa útundan sér núna, enda hafa kratar aldrei verið þekktir fyrir staðfestu. 

Þjóðverjar hafa aftur á móti beitt sér fyrir lengingu lána Grikkja til 2054 og lækkun vaxta með þeim afleiðingum, að greiðslubyrði gríska ríkisins var 4,0 % af VLF árið 2013, en það var minna en greiðslubyrði íslenzka ríkissjóðsins, og í Portúgal var hún 5,0 %, á Ítalíu 4,8 % og á Írlandi 4,4 %.  Þjóðverjar þora þess vegna ekki að afskrifa hjá Grikkjum af ótta við, að allt fari úr böndunum vegna sams konar krafna annarra.

Greiðslugeta gríska ríkissjóðsins er hins vegar engin, því að hann var enn árið 2014 rekinn með 3,5 % halla, en hallinn hefur oftast verið meiri en 10 % undanfarin ár.  Verg landsframleiðsla Grikkja árið 2014 var EUR 179,1 mia eða aðeins EUR 16'300 á mann (MISK 2,4), en skuldir þeirra námu hins vegar MISK 4,3 á mann. Á Íslandi var VLF á mann tæplega þreföld sú gríska. Aðeins kraftaverk getur bjargað Grikklandi frá þjóðargjaldþroti. Kannski það verði erkiengillinn Gabriel, sem sjái aumur á þeim.

Það er ekki kyn þó að keraldið leki, því að VLF Grikkja hefur dregizt saman um 25 % síðan 2010, og atvinnuleysið er nú 26 % og yfir 50 % á meðal fólks 18-30 ára. Verðmætasköpunin er allt of lítil til að geta staðið undir bruðli fyrri ára.

Hvernig í ósköpunum má það vera, að svo illa sé nú komið fyrir grísku þjóðinni, að hún hafi í raun og veru glatað sjálfstæði sínu síðan hún gekk í ESB 1981 ?     Á þessu tímabili hafa vinstri menn, PASOK, lengst af verið við völd, og þeir hafa þanið út ríkisgeirann, þjóðnýtt fyrirtæki og stækkað velferðarkerfið langt umfam það, sem hagkerfið þolir.  Sökudólgarnir eru þess vegna grískir stjórnmálamenn, sem um árabil sóuðu almannafé og gerðust jafnvel svo djarfir, að falsa bókhald ríkisins til að lauma Grikklandi inn á evrusvæðið.  Brotin voru svo stórfelld, að grísk fangelsi væru væntanlega þéttsetin stjórnmálamönnum, ef sömu reglur mundu gilda um þá og athafnamenn.  Svo er hins vegar ekki. Það kann að breytast, ef þjóðfélagsleg ringulreið verður í Grikklandi, og herinn tekur völdin. Fyrir því er um hálfrar aldar gamalt fordæmi.

Jafnaðarmenn hafa farið offari við stjórn Grikklands í innleiðingu fáránlegra réttinda til greiðslu úr ríkissjóði, sem enn viðgangast, svo að það er í raun mikið svigrúm til sparnaðar í grískum ríkisrekstri. Þarna er ábyrgðarleysi jafnaðarmanna í umgengni við fé skattborgaranna um að kenna. Alls staðar standa þeir fyrir ráðstöfun skattfjár í hvert gæluverkefnið á fætur öðru.  Hér verða nefnd nokkur dæmi um bruðlið með fé skattborgaranna:

  • Um 76 % Grikkja fara á eftirlaun fyrir lögboðinn eftirlaunaaldur, sem er þó við 61 árs aldur.
  • Um 8 % eftirlaunaþega fóru á eftirlaun 26-50 ára.
  • Um 24 % eftirlaunaþega hófu töku ellilífeyris 51-55 ára.
  • Um 44 % á 56-60 árs
  • Afgangurinn, 24 %, hefur töku ellilífeyris við 61 árs aldur.

Er ekki skiljanlegt, að Þjóðverjar, sem hefja töku ellilífeyris við 67 ára aldur, séu ekki upp rifnir yfir því, að skattfé þeirra sé notað til að viðhalda slíku endemis sukki ?

Fjárhagslegar skuldbindingar evruríkjanna gagnvart Grikklandi voru EUR 245,2 mia og skiptust með eftirfarandi hætti í milljörðum evra á undan  EUR 86 mia björgunaraðgerðum, sem kann að verða farið í á grundvelli sparnaðartillagna Grikkja, sem fallizt var á 13. júlí 2015:

  • Þýzkaland 60 ~ 28 %
  • Frakkland 53 ~ 22 %
  • Ítalía    46 ~ 19 %
  • Spánn     31 ~ 13 %
  • Holland   15 ~  6 %
  • Belgía     9 ~  4 %
  • Austurríki 7 ~  3 %
  • Finnland   5 ~  2 %
  • Portúgal   3 ~  1 %
  • Slóvakía   2 ~  1 %
  • Aðrir      4 ~  1 %

Ef Ísland hefði verið á evru-svæðinu 2008, veit enginn, hvernig landinu hefði reitt af efnahagslega í bankakreppunni. ESB-aðildarsinnar halda því enn fram af trúarlegri sannfæringu, að hér hefði ekkert hrun orðið þá. Grikkir hafa afsannað slíka fullyrðingu, því að bankarnir tæmdust þar og voru lokaðir í 3 vikur.  Hvað er það annað en bankahrun og jafnvel sýnu verra en hér, því að hér hélt Seðlabankinn þó uppi óslitinni greiðslukortaþjónustu allan tímann þar til nýir bankar tóku við ? 

 Vegna þess að hagkerfi Íslands er ólíkt öllum hagkerfum evru-svæðisins að gerð og samsetningu, er mjög hætt við, að evran hefði reynzt íslenzka hagkerfinu spennitreyja.  Líklegt má telja, að landsmenn hefðu fallið í sömu gryfju og Grikkir eftir gjaldmiðilsskiptin að fara á "lánafyllerí" vegna mun lægri vaxta en landsmenn eiga að venjast.  Það gæti hafa snarazt algerlega á merinni hjá okkur, eins og Grikkjum, peningaflóð hefði valdið miklu meiri verðbólgu hér en að jafnaði varð reyndin á evru-svæðinu á sama tíma ásamt eignabólu, sem hefði sprungið 2008 með ógnarlegum samdrætti hagkerfisins og fjöldaatvinnuleysi og þar af leiðandi meiri landflótta en raun varð á. Það hefði vissulega getað orðið lausafjárþurrð banka hér við þessar aðstæður, eins og reyndin varð í Grikklandi.

Allt eru þetta getgátur, en það hefur hins vegar verið áætlað, að framlag Íslands til stöðugleikasjóðs evrunnar hefði á árabilinu 2012-2015 þurft að nema MEUR 270 eða ISK 40 mia, sem samsvarar 10 milljörðum kr á ári að jafnaði, og er þá ótalin viðbót upp á MEUR 17 = ISK 2,5 mia í ár.  Aðildargjald landsins að ESB er ekki vel þekkt, en gæti hugsanlega numið ISK 15 miö á ári, en eitthvað af því kæmi þó til baka.  Alveg óvíst er um endurheimtur fjár í stöðugleikasjóðinn og horfir mjög óbyrlega með hann um þessar mundir. Í raun er þetta fórnarkostnaður lánadrottnanna innan evru-svæðisins til að halda evrunni á floti.  Þjóðverjar óttast, að á peningamarkaði heimsins mundi evran glata trausti, ef Grikkir falla úr skaptinu. Gengi evru gæti þá hrunið niður fyrir 1 EUR/1 USD = 0,8, sem gæti valdið verðbólgu í Þýzkalandi, og Þjóðverjar mega ekki til slíks hugsa. Bæði þeir og Íslendingar hafa kynnzt óðaverðbólgu; Þjóðverjar þó sýnu verri vegna "Versalasamninganna".

Skattheimta af Íslendingum upp á ISK 25 mia á ári vegna verunnar í ESB og á  evru-svæðinu ofan á aðra skattheimtu hérlendis mundi ekki mælast vel fyrir, enda er hér um að ræða stórar upphæðir eða um 1,3 % af VLF.

Peningakerfi Grikklands hrundi í raun og veru skömmu eftir, að evrubankinn í Frankfurt, ECB, skrúfaði fyrir peningastreymi til gríska seðlabankans, því að bankarnir urðu þá allir að loka.  Þetta sýnir, að gríska hagkerfið er ósjálfbært, enda er vöruútflutningur lítill eða 13 % af VLF (innan við helmingur af íslenzka vöruútflutninginum að tiltölu), en aðaltekjurnar eru af ferðaþjónustu, og nokkuð af þeim markaði er svartur, eins og ferðamenn á Grikklandi hafa orðið varir við, sumir hverjir. Hins vegar er endurfjármögnun grískra banka að hálfu ESB stórmál, því að slíkt kann að leiða til mjög kostnaðarsams fordæmis, t.d. ef Spánverjar færu fram á hliðstæðu.  Gríski harmleikurinn er flókinn og erfiður viðureignar, enda allt ESB-kerfið undir.  Spennan eykst, og stytzt getur í stórtíðindi. 

Þann 9. júlí 2015 reit Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra, gagnmerka grein í Morgunblaðið undir heitinu:

"Reynsla Grikkja af Evrópusambandinu er mikil lexía, líka fyrir Íslendinga". 

Þar vitnar hann í Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Paul Krugman:

"Það hefur verið augljóst um skeið, að upptaka evru voru hræðileg mistök.  Evrópa hafði aldrei forsendur til að taka með árangri upp sameiginlega mynt. ... Að beygja sig fyrir afarkostum þrístirnisins, ESB, AGS og SBE, væri að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um sjálfstætt Grikkland."  

Hjörleifur heldur síðan áfram:

"Til hliðsjónar við þann kost, að Grikkir taki upp eigin mynt, bendir hann [Krugman - Innsk. BJo] á árangursríka gengisfellingu íslenzku krónunnar 2008-2009, og að Argentína hætti að binda pesóinn við dollara 2001-2002." 

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum hjá Hjörleifi Guttormssyni:

"Þeir, sem stóðu fyrir því 2009, að Ísland sækti um aðild að ESB, hafa hægt um sig þessa dagana.  Reynslan frá Grikklandi og mörgum fleiri ESB-ríkjum að undanförnu sýnir, hvílíkt glapræði þar var á ferðinni og aðför að sjálfstæði og velferð Íslendinga.  Af hálfu talsmanna ESB-aðildar Íslands síðasta áratuginn hefur áherzlan á upptöku evru verið meginstefið, sem bæta átti upp augljóst framsal fullveldis og aðgang að fiskimiðunum.  Það er mál til komið, að þeir, sem börðust fyrir ESB-aðild í tíð síðustu ríkisstjórnar, séu látnir horfa í spegil frammi fyrir alþjóð í ljósi þess, sem nú er að gerast á meginlandinu.  Það er ekki síður sögulegt, að um þessar mundir er reynt að stofna stjórnmálaflokk hérlendis undir merki viðreisnar með það meginerindi að knýja á um ESB-aðild Íslands."

 Blekberi þessa vefseturs telur sig vera fremur til hægri í stjórnmálum, en hann getur vafningalaust tekið undir hverja tilvitnaða málsgrein hér að ofan frá manni, sem er þekktur fyrir að vera fremur til vinstri í stjórnmálum.  Það sýnir eitt með öðru, að hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum spanna ekki allt litróf viðfangsefnanna.  Ef sagan verður þeim "viðreisnarmönnum" ekki víti til varnaðar, þá eiga þeir eftir að verða sér til rækilegrar skammar í framboðsraunum til Alþingis, og ekki mun þeim verða hlíft við sögunni. Það eiga eftir að gefast næg tilefni til að leiða þeim og öðrum ámóta villuráfandi ESB-sauðum villur síns vegar fyrir sjónir.

  

 

     

 


Að hafa kjósendur að fíflum

Nú hefur "fjórmenningaklíkan" framið annað axarskapt strax í kjölfar alræmdra bréfaskrifta sinna til Genosse Martins Schultz, félaga í SPD - Sozialdemokratische Partei Deutschlands og forseta ESB-þingsins, og grenndarkommissarsins, en með einu bréfi, frá 13. marz 2015, varð hún sér hroðalega til minnkunar með nokkrum fullyrðingum, sem engan veginn fá staðizt um  innihald og aðdraganda bréfs Utanríkisráðherra frá 12. marz 2015, sem sent var með fullum stjórnskipulegum heimildum og var diplómatísk afturköllun á umsókn fyrri ríkisstjórnar um aðildarviðræður við ESB.

Þegar Berlaymont fer í saumana á bréfi "fjórmenningaklíkunnar" mun fara kjánahrollur um búrókratana þar við tilhugsunina um tímasóunina, sem téð umsókn hafði í för með sér fyrir báknið í Brüssel og fyrir hina agnarsmáu utanríkisþjónustu eyríkisins í norðri. Fíflagangur stjórnarandstöðunnar á Íslandi varðandi samskipti Íslands við ESB heldur þó enn áfram, og nú vill hún láta þjóðina kjósa um það, hvort halda eigi strönduðum aðildarviðræðum Össurar áfram, já eða nei. Þetta eru dæmigerð handabakavinnubrögð dómgreindarlítils fólks, sem gerir sér ekki grein fyrir, að nauðsynlegar forsendur vantar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um endurupptöku viðræðna, eins og nú skal greina. Hvers vegna er þessi tillaga algerlega ótæk ?:

  1. Þegar Lúxemborgarinn Juncker tók við sem forseti framkvæmdastjórnar ESB í fyrra, var gefið út, að ESB mundi gera hlé á aðildarviðræðum við alla, sem hug hefðu á aðild, til ársins 2019.  Vesalings Juncker tók ekki fram, að þetta hlé ætti líka við um þá, sem héldu ESB uppi á snakki við "að kíkja í pakkann", enda er ekkert slíkt í bókum hans. Endurupptaka viðræðna um aðild er þess vegna mál næsta kjörtímabils á Íslandi, og málið gæti orðið umræðuefni í næstu Alþingiskosningum, en að kjósa um málið nú er eins ótímabært og hugsazt getur vegna ósamstöðu á Alþingi um efni spurningarinnar, vegna banns Stjórnarskrár Íslands við framsali valdheimilda til erlends ríkjasambands og vegna stöðu mála í ESB-sjálfu.  
  2. Bréf Utanríkisráðherra Íslands til Utanríkisráðherra Lettlands frá 12. marz 2015 strikar út allar "kaflalokanir" Össurar og samningateymis hans með óafturkræfum hætti.  Nú er staða Íslands gagnvart ESB formlega eins og hún var fyrir 16. júlí 2009, þó að aðlögunarferlið hafi hins vegar fært mönnum heim sanninn um, að framsal fullveldis yfir fiskveiðilögsögunni og samningsaðild um flökkustofna ásamt aðild Íslands að "Common Agricultural and Fishery Policy" - grundvallarstefnu ESB um landbúnað og fiskveiðar - væri óhjákvæmilegur fylgifiskur aðildar. Af þessum sökum er spurning til þjóðarinnar á þá leið, hvort hún vilji taka upp viðræður við ESB um aðild, að þær verði leiddar til lykta og síðan kosið um niðurstöðuna, algerlega ófullnægjandi.
  3. Ágúst Þór Árnason, aðjunkt við lagadeild Háskólans á Akureyri, rannsakaði umsóknarferli Íslands og aðlögunarferlið, sem fram fór í kjölfar þingsályktunar, sem kennd er við kattasmölun og samþykkt var með herkjum 16. júli 2009, komst að alveg nýrri niðurstöðu m.v. það, sem Össur Skarphéðinsson og þáverandi þingmeirihluti reyndu að halda að þjóðinni. Blekkingaleikurinn um afdrif viðræðnanna er stór ljóður á ráði Össurar, og framkoma hans við þing og þjóð er ámælisverð.        Eins og rakið er í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu 20. marz 2015 með fyrirsögninni,      "ESB vill ekki semja við Ísland":              "Meginniðurstaða hans (ÁÞÁ-innsk. BJo) var sú, að ljóst væri, að það yrði ekki um neinar sérlausnir eða undanþágur að ræða fyrir Ísland, nema þá tímabundnar og klárlega engar, sem yrðu hluti af löggjöf Evrópusambandsins."                     Það er hægt að treysta því, að aðjunktinn fer ekki með neitt fleipur, og menn verða að gera sér grein fyrir því, hvað þetta þýðir fyrir hugsanlegt framhald málsins, t.d. þjóðaratkvæðagreiðslu í framtíðinni um viðræður um inngöngu Íslands í ESB.  Til að komast lengra með þær viðræður en Össuri Skarphéðinssyni tókst, verður að fella burt skilyrði Alþingis frá 2009.  Er Vinstri hreyfingin grænt framboð reiðubúin til þess ?  Hvernig stendur á því, að Katrín Jakobsdóttir lemur hausnum við steininn og lætur eins og það sé einfalt mál að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Er henni stætt á því ? Þar skiptir efni spurningarinnar höfuðmáli.        Síðan hefur Agnes eftirfarandi eftir Ágústi Þór í símtali þann 19. marz 2015: "Það liggur fyrir, að það var Evrópusambandið, sem stoppaði viðræðurnar, og í þeim efnum skiptir ekki máli, hvort rætt er um aðlögunarferli eða samningaviðræður.  Þeir, sem vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og samningum verði lokið, verða að gera grein fyrir því, hvernig þeir ætla að ljúka samningum við ESB, sem vill ekki semja við Ísland" (með. skilyrðum Alþingis-innsk. BJo). Þetta er mergurinn málsins í sambandi við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar nú um þjóðaratkvæðagreiðslu.                        Hvers vegna lét Össur Skarphéðinsson hjá líða að útskýra fyrir þjóðinni, hvaða merkingu atburðir í Berlaymont í marz 2011 höfðu fyrir aðlögunarferlið ?  Þá urðu vatnaskil í utanríkismálum, því að þá stöðvaði ESB viðræðurnar um forræðið yfir íslenzka sjávarútveginum, en Össur fór á bak við þing og þjóð og skýrði aldrei frá raunverulegum málavöxtum.  Tæplega tveimur árum síðar, í janúar 2013, kórónaði Össur  blekkingaleikinn með því að skrökva því að þingi og þjóð, að hann hefði gert hlé á viðræðum fram yfir kosningar í apríl 2013. Hvernig gat Össur ætlazt til, að ný ríkisstjórn fengi Alþingi til að fella fyrirvara sína um aðild niður, sem hann þorði ekki að fara fram á á tímabilinu marz 2011-janúar 2013 ?   Hið rétta var, að ESB stöðvaði viðræðurnar í marz 2011 af ástæðum, sem Ágúst Þór útskýrir þinnig fyrir Agnesi: "Niðurstaða lykilmanna, sem ég ræddi við, var sú, að það væri ekki hægt að koma fram með rýniskýrsluna um sjávarútvegskaflann vegna þess, að í henni hefði verið krafa um tímasetta aðgerðaráætlun um það, hvernig Ísland ætlaði að taka upp Evrópulöggjöfina í sjávarútvegi.  Þeir vissu sem var, að viðbrögðin við slíkri kröfu gætu ekki orðið önnur en lok samningaviðræðna.  Þannig að við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru, var klárlega ekki hægt að ljúka viðræðunum."      Þetta þýðir, svo ekki er um að villast, að fullreynt er "að kíkja í pakkann", og nú verða aðildarsinnar að stíga skrefið til fulls, breyta stjórnarskránni til að heimila fullveldisframsal, og síðan  mætti spyrja þjóðina á aðgreindum kjörseðli, hvort hún vilji hefja aðildarviðræður að nýju, en nú án skilyrða Alþingis. Þetta væri auðvitað uppgjöf fyrir ESB, þar sem auðlindir landsins væru í húfi. Af útskýringu Ágústar Þórs má jafnframt ráða, að ESB vill kappkosta að fá Ísland inn í sambandið, og það ætlar einfaldlega að bíða og sæta færis, þegar hugarfarsbreyting hafi orðið á Íslandi.  Skýrir þetta ekki ýmislegt, s.s. fyrstu viðbrögð við bréfi Utanríkisráðherra og tilvist Evrópustofu. Hagsmunamatið í Berlaymont er, að Ísland sé eftirsónarvert aðildarland, eins og reyndar Carl Bildt hélt fram, þegar "hraðferð" Íslands í faðm ESB var á teikniborði hans og Össurar.                                          
  4. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðingur, áfellist mjög fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að hafa stofnað til viðræðna við erlent ríkjasamband, sem eðli máls samkvæmt hlyti að leiða til framsals valdheimilda íslenzkra stjórnvalda, sem er óheimilt samkvæmt gildandi stjórnarskrá.  Það er bráðnauðsynlegt, að stjórnvöld landsins viðhafi rétta röð á inngönguferlinu í ESB, hvað sem öðru líður.  Eitt verður að leiða af öðru, og hér gengur ekki að gösslast bara einhvern veginn áfram, eins og svo mjög einkenndi vinnubrögð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.                                     Fyrst verður að ræða og framkvæma stjórnarskrárbreytingar, síðan að ræða og ákveða, hvernig á að draga ESB aftur að samningaborðinu, og að lokum á að varpa spurningu til þjóðarinnar um það í almennri atkvæðagreiðslu, hvort hún vilji, að aðlögunarferlið verði tekið upp að nýju, þegar ESB er tilbúið til þess, og ferlið leitt til lykta, sem vinstri stjórnin ekki gerði.            Í niðurlagi greinar sinnar, "Stjórnarskráin leyfir ekki aðild", skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson: "Ástæða er til að segja nú við Alþingismenn, sérstaklega þá, sem sitja í stjórnarandstöðu:    Ef þið viljið, að Ísland hætti að vera fullvalda ríki og afhendi erlendu ríkjasambandi valdheimildir, sem núna eru í okkar eigin höndum, ættuð þið að gera fyrst tillögur um breytingar á stjórnarskránni í þessa veru.  Og hætta síðan að breyta íslenzkum rétti til samræmis við hinn erlenda rétt, þar til ljóst er orðið, að stjórnarskrá okkar leyfi aðildina.  Það gerir hún ekki nú." 

Það var einkenni á vinstri stjórninni, og það sama er uppi á teninginum hjá núverandi stjórnarandstöðu, að hún kunni ekki að vinna.  Stjórnarandstaðan kann augljóslega ekkert til verka, því að hún fer algerlega öfugt að og vinnur t.d. þjóðaratkvæðagreiðslu málið sitt með öfugum klónum, svo að slík atkvæðagreiðsla mundi verða algerlega marklaus, af því að "undirstaðan er ekki réttlig fundin".  ESB-menn í Berlaymont fylgjast náið með framvindu mála hérlendis, og mundu ekki verða hrifnir af því að fá ósk um endurupptöku viðræðna án nokkurra breytinga að Íslendinga hálfu til að gera snurðulausa inngöngu mögulega.  Þeir vita ósköp vel, að tal á Íslandi núna um endurupptöku viðræðna í Berlaymont er marklaust hjal fólksins, sem sendi þeim nýlega bréf, þar sem farið var með rangt mál og staðlausa stafi. 

 


Stjórnarandstaða gengur af göflunum

Á Alþingi í fyrra, 2014, lagði Utanríkisráðherrann, Gunnar Bragi Sveinsson, fram þingsályktunartillögu um afturköllun umsóknar um aðildarviðræður við Evrópusambandið, ESB, sem á sínum tíma var studd alræmdri þingsályktunartillögu frá 16. júlí 2009, þar sem köttum var smalað í gríð og erg að óþörfu, og annar eins grátur og gnístran tanna við samþykkt ráðamanna þjóðarinnar hefur ekki heyrzt síðan á Kópavogsfundinum 1662, er ráðamenn landsins voru neyddir undir fallbyssukjöftum danskra herskipa að sverja Danakonungi einvaldseið yfir Íslandi.

Stjórnarandstaðan kom á þinginu 2014 í veg fyrir þinglega afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu með aðferðum, sem ekki geisla sérstaklega af virðingu fyrir málefnalegri umfjöllun og að leyfa mönnum síðan að greiða atkvæði til að útkljá deilumál.  Mannvitsbrekkur stjórnarandstöðunnar bulla nú hver í kapp við aðra um, að þar sem tillaga Gunnars Braga hafi ekki hlotið samþykki þingsins, þá sé þingsályktunin, sem kennd er við kattasmölun 2009, enn í fullu gildi. Þetta er alveg út í hött, því að þingsályktunartillaga meirihluta fyrir Alþingiskosningar getur ekki bundið hendur nýs meirihluta eftir Alþingiskosningar.  Sjá allir, hversu ólýðræðislegt það væri.  

Bullustampar stjórnarandstöðunnar hafa nú staðfest heimsku sína með því að halda þessu sama fram í bréfi til forseta þings Evrópusambandsins, Martin Schultz,sjá viðhengi með þessu bloggi.  Slík framganga er einsdæmi í þingsögunni og sýnir, hvers konar rumpulýður nú vermir bekki stjórnarandstöðu á Íslandi.

12. marz 2015 kom Utanríkisráðherra stjórnarandstöðunni í opna skjöldu með því að senda bréf til formanns Ráðherraráðs Evrópu, Utanríkisráðherra Lettlands, og afrit til framkvæmdastjóra ESB, sem fer með grenndarmálefni ESB, en ESB hefur stöðvað aðlögunarferli allra hugsanlegra umsækjenda til ársins 2019. Kjarni bréfsins er þannig:

 

The Government of Iceland has no intentions to resume accession talks. Furthermore, any commitments made by the previous Government in the accession talks are superseded by the present policy. In light of the above it remains the firm position of the Government that Iceland should not be regarded as a candidate country for EU membership and considers it appropriate that the EU adjust its working procedures accordingly.“

Í þessum texta kemur ekkert fram, sem lýðum var ekki ljóst áður, en fyrri afstaða er þarna formlega staðfest gagnvart ESB.  Allar skuldbindingar, sem fyrri ríkisstjórn tók á sig í aðlögunarferlinu að ESB, eru afturkallaðar, þannig að umsóknin er færð á byrjunarreit, eins og Össur & Co. hefðu aldrei verið á þönum á milli Reykjavíkur og Brüssel með ærnum tilkostnaði.  Allir lokaðir samningskaflar eru þar með opnaðir aftur. Ennfremur leiðir af texta bréfsins, að hyggist framtíðarríkisstjórn sækja um inngöngu, verður að senda nýja umsókn til Berlaymont.  Þetta er kurteisleg afturköllun umsóknar í anda þjálfaðra diplómata. Það á sér samt engin stefnubreyting stað hjá ríkisstjórninni með þessum texta, heldur eru stjórnarflokkarnir einvörðungu að standa við samþykktir Landsfundar og Flokksþings síns í aðdraganda kosninganna vorið 2013, t.d. þessa frá Landsfundi Sjálfstæðisflokksins:  

"Áréttað er, að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Mikið hefur verið reynt að afflytja þennan skýra og hnitmiðaða texta með því að halda því fram, að Landsfundur hafi ekkert viljað gera án þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að kjósa skyldi um framhaldið, þó að ekki væri ætlunin að fara inn.  Það er alrangt. Landsfundurinn tók af skarið um að hætta þessum viðræðum, eins og nú hefur verið gert formlega með bréfi Utanríkisráðherra 12. marz 2015, en flokkurinn mundi á hinn bóginn ekki samþykkja áframhaldandi eða nýjar viðræður um aðild, nema þjóðin gæfi beinlínis til þess heimild.  Hafi frambjóðendur flokksins, t.d. á framboðsfundum, sagzt vilja halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort viðræðunum, sem sigldu í strand í marz 2011, skyldi fram halda, verða þeir að útskýra fyrir kjósendum fyrir næstu kosningar, hvað fyrir þeim vakti með því, en Ríkisstjórnin hefur með téðu bréfi framfylgt samþykktum beggja stjórnarflokkanna, og það er mergurinn málsins.  Hér má bæta því við, að ESB er ekki til viðtals um inngöngu nýrra ríkja fyrr en 2019, þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili um það, hvort taka eigi upp þráðinn, þar sem frá var horfið í marz 2011, er fullkomlega marklaus og sóun almannafjár.

Stjórnarandstaðan hefur þyrlað upp miklu moldviðri með kolrangri túlkun á stjórnskipulegu gildi þingsályktunartillagna.  Hún hefur gert sig að athlægi ekki aðeins á Íslandi, heldur einnig á vettvangi ESB-þingsins og í höfuðstöðvum ESB í Berlaymont-byggingunni í Brüssel með því að halda því fram, að þingsályktunin frá 16. júlí 2009 standi óhögguð þar til nýtt þing ógildi hana með annarri samþykkt.  Þessi túlkun stríðir gegn heilbrigðri skynsemi, því að þar með væri verið að virða vilja kjósenda í nýjum Alþingiskosningum að vettugi. Lögfræðilega stendur þessi túlkun Árna Páls, Katrínar Jakobsdóttur og hinna á brauðfótum, eins og stjórnlagaprófessorinn Björg Thorarensen hefur gert ítarlega grein fyrir, enda hefur sá skilningur aldrei áður verið viðraður, og  enginn stjórnlagafræðingur, svo að vitað sé, hefur fengizt til að taka undir með mannvitsbrekkunum, sem skrifuðu undir bréfið til ESB með þessari túlkun sinni, og mun skömm þeirra lengi uppi verða, en téð bréfsómynd er í viðhengi með þessari færslu:

  1. Fyrsta villan hjá dvergunum fjórum er að segja, að engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi verið haldin sem undanfari bréfs Utanríkisráðherra til ESB.  Í ESB er engin sérstök hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, og þeir láta yfirleitt greiða aftur atkvæði, ef niðurstaðan er þeim ekki að skapi.  Efnisatriði bréfs Utanríkisráðherra voru ákveðin í samvinnu við ESB-forystuna til að réttur skilningur kæmist kurteislega til skila.  Textinn er þess vegna gaumgæfður, en ekki flaustursverk, eins og gösslarar vinstri flokkanna gerðu sig ósjaldan seka um á síðasta kjörtímabili.                    Hvað á að spyrja um í þjóðaratkvæðagreiðslu ?  Aðlögunarviðræðurnar stöðvuðust í marz 2011 á skilyrðum Alþingis.  Á þá að spyrja: Vilt þú, að ríkisstjórnin reyni að loka þeim 4 köflum, sem eftir eru gagnvart ESB, án nokkurra skilyrða frá Alþingi ?  Augljóslega geta núverandi stjórnarflokkar ekki sopið þennan kaleik, þó að Árni Páll, Guðmundur Steingrímsson o.fl. gætu það líklega, en það yrði þeirra pólitíski banabiti að samþykkja hina sameiginlegu fiskveiðistjórnunarstefnu fyrir hönd Íslands.  Enginn stjórnmálamaður, sem hvatt hefur til viðræðna við ESB, þrátt fyrir allar viðvaranir andstæðinganna, mun eiga sér viðreisnar von á Íslandi, þegar komið verður heim frá Brüssel með skjal, sem felur í sér gróft stjórnarskrárbrot og afsal forræðis yfir efnahagslögsögu landsins og afsal samninga um flökkustofna í hendur Framkvæmdastjórnar ESB.  Slíkum "samningamönnum" verður við heimkomuna mætt með gljáfægðum fallstykkjum, sem ekki verða hlaðin púðurskotum, heldur verða fallbyssukjaftarnir í láréttri stöðu og hleypt af með samræmdum hætti, svo að ekki þarf um að binda.   
  2. Það er látið í bréfinu, eins og núverandi stjórnvöld séu bundin af þingsályktuninni frá 16. júlí 2009.  Það er með ólíkindum, hvernig höfundar bréfsins umgangast heilbrigða skynsemi, þinglegar hefðir á Íslandi og stjórnlagalegar staðreyndir.  Hvaða stjórnlagafræðingur, sem ESB leitar ráðgjafar hjá um þetta atriði, mun votta, að það er fjarri lagi að ályktun þings frá 2009 bindi hendur núverandi ríkisstjórnar, sem mynduð var eftir kosningar árið 2013, þar sem fyrri stjórnarflokkum var kastað út í hafsauga og báðir núverandi stjórnarflokkar voru með algerlega öndverða stefnu við téða þingsályktun, þ.e. að binda endi á umsóknarferlið.  Það er rökleysa, að með bréfi Utanríkisráðherra sé þingræðið hunzað.  Þingsályktun er viljayfirlýsing starfandi þings, sem viðkomandi ríkisstjórn er pólitískt skuldbundin að fylgja eftir, en þingsályktun hefur enga lagalega kvöð í för með sér, sem flutzt geti til næsta þings og næstu ríkisstjórnar fram yfir kosningar aðrar en þær að gefa þinginu skýrslu um stöðu ólokinna og lokinna mála, sem þingsályktanirnar fjölluðu um.  Þessari blekkingu hafa mannvitsbrekkurnar beitt bæði innan lands og utan undanfarið og orðið sér til stórskammar fyrir vikið. Að fara á flot með aðra eins dómadags vitleysu bæði innanlands og utan vitnar bezt um vitsmunastig þeirra, sem undirrituðu bréfið. 
  3. Þá segja formennirnir í hinu fordæmalausa bréfi, að ríkisstjórnin hafi framið brot á þingskaparlögum með því að bera bréfið ekki upp í Utanríkismálanefnd Alþingis.  Þeir skjóta sig í leiðinni í fótinn með því að segja, að það sé áskilið um allar stefnubreytingar.  Það er einmitt mergurinn málsins, að ríkisstjórnin er í engu að breyta stefnu sinni né þingmeirihlutans með bréfinu, sem er einvörðungu árétting á stjórnarsáttmálanum.  Þingsályktunin frá 16. júlí 2009, sem reyndar var ónauðsynleg umsóknarinnar vegna, glataði algerlega gildi sínu í Alþingiskosningunum í apríl 2013, af því að þá höfnuðu kjósendur fyrri stjórnarflokkum algerlega og kusu aðra flokka til valda, sem voru á öndverðum meiði við téða þingsályktun.  Að formennirnir skuli ekki skilja þetta, heldur vaða beint út í fenið með bréflega útgáfu á skilningsleysi sínu, vitnar um fullkomið dómgreindarleysi þeirra allra.                                               Hafi fólk haldið, að þeir væru stjórntækir, ætti enginn lengur að velkjast í vafa um, að svo er ekki, og þeir eru með bréfinu líka búnir að brjóta allar brýr að baki sér í Brüssel, þar sem þeir hafa nú stimplað sig kjána, enda var hitt bréfið samið með vitund ESB-manna í Brüssel.  Fyrir það hefur hinn kjaftgleiði formaður Samfylkingar farið gjörsamlega af hjörunum, og er greinilega í lélegu andlegu jafnvægi, prestssonurinn, því að hann ýjaði að landráðum í þessu sambandi. Ýmsum ofbýður ruddaorðbragð mannsins, og nú hefur hann fengið mótframboð í annars mjög dauflegum stjórnmálaflokki.        

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tólf rökleysur aðildarsinna - framhald

Í síðustu vefgrein var fjallað um fyrstu 6 rökleysur aðildarsinna fyrir inngöngu í Evrópusambandið - ESB, sem þeir hafa birt sem heilsíðuauglýsingu í dagblöðum dag eftir dag.  Í fyrstu 6 "röksemdunum" stóð ekki steinn yfir steini; nú skal kanna, hvort hinar 6 seinni eru bragglegri:

7. "Áherzla á lítil menningarsvæði -  Lítil málsvæði hafa fengið stuðning, og miklum fjármunum er varið til þess að þýða bækur frá smáþjóðum yfir á önnur mál og öfugt."                              Það er nú að seilast um hurð til lokunnar að ætla inn á gafl í Berlaymont til að fá íslenzkar bækur útgefnar í Evrópu eða þýðingar útgefnar á Íslandi.             Þetta heitir að skrapa botninn í leit eftir rökum fyrir aðild.

8. "Mikilvæg áhrif á Evrópuþingi - Á Evrópuþinginu sitja nú um 750 þingmenn.  Enginn þeirra kemur frá Íslandi.  Við inngöngu fengju Íslendingar 6 þingsæti eða tæplega 1 % þingmanna."              Það eru greinilega brandarakarlar og -kerlingar, sem samið hafa þessar rökleysur, og reyndar er vandséð, hver þeirra nær botninum.  Það má hverju barni ljóst vera, að þessi þingmennska á ESB-þinginu, jafnvel þó að þangað veldust vanir málþæfendur af Alþingi, mundi alls engu skila fyrir hagsmuni Íslands, og aðeins hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð Íslands.  Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, en það getur þó ekki átt við um 1 % þingmanna á ESB-þingi ofan af Íslandi.            Til að þetta séu rök, sem hægt er að taka alvarlega, þarf að sýna a.m.k. dæmi um, að slíkt hafi gerzt.

9. "Íslendingar halda öllum sínum auðlindum og fullum yfirráðum yfir þeim. - Engin erlend þjóð fengi rétt til þess að veiða við Ísland við inngöngu Íslands í ESB, og fiskveiðistjórnunarkerfið yrði samkvæmt ákvörðun Íslendinga."                                         Hér eru ósvífnar fullyrðingar bornar á borð fyrir landsmenn, sem ekki standast miðað við almenna þekkingu, sem fyrir hendi er um hina sameiginlegu fiskveiðistjórnunarstefnu ESB- "CAP-Common Agricultural and Fishery Policy of EU".  Þetta var krafa Íslendinga í aðlögunarviðræðunum við ESB, en þær strönduðu fyrir 4 árum á því, að ESB gat ekki fallizt á, að Íslendingar brytu þannig niður sameiginlega fiskveiðistefnu sambandsins, sem ásamt landbúnaðarstefnunni er einn af hyrningarsteinum ESB.                                                  Hér fara aðildarsinnar fram með óskhyggju, sem í ljósi sögunnar er hrein blekkingarstarfsemi, og sumir mundu segja þetta lygar af ómerkilegasta tagi.  Sýnir þetta, hversu málstaður aðildarsinna er ofboðslega lélegur, og hversu lélegir pappírar og hreinræktaðir skýjaglópar þeir sjálfir eru. 

10. "Ný tækifæri í landbúnaði - Svíar og Finnar fengu samþykkt að styrkja má landbúnað norðan 62. breiddargráðu meira en almennt gerist innan sambandsins.  Sama myndi gilda á Íslandi.  Reynsla nágrannalandanna er, að inngangan hefur jákvæð áhrif, bæði fyrir bændur og neytendur."           Þessi fullyrðing um jákvæða reynslu framleiðenda og neytenda landbúnaðarvara af ESB orkar mjög tvímælis.  Bændum er borgað fyrir það, sem þeir framleiða ekki, og er slíkt eins óheilbrigt og hugsazt getur í heimi, þar sem hungursneið er vandamál um 2 milljarða manna.  Tíð eru mótmæli bænda, t.d. í Frakklandi, gegn landbúnaðarstefnunni, þar sem þeir hafa sturtað úr vögnum sínum og úðað úr mykjudreifurum framan við stjórnarbyggingar.  Neytendur mega búa við tollvernd landbúnaðar gagnvart ríkjum utan ESB, og bitnar það á neytendum hérlendis, eins og Jón Gerald Sullenberger í Kosti hefur bent á, t.d. varðandi frosið brokkolí frá BNA.  Tæpur helmingur af fjárlögum ESB fer til landbúnaðarins, en megnið lendir hjá stórbændum.  Í íslenzkum dýrastofnum eru fólgin verðmæti, sem ástæða er til að varðveita.                               Aðalatriðið við rýmri innflutning landbúnaðarvara er, að íslenzkir bændur fái að sitja við sama borð og kollegar þeirra erlendis.  Þetta þýðir, að ekki á að leyfa innflutning á vörum, sem eru miklu rýrari að gæðum en innlendar samkeppnisvörur m.t.t. eiturefna, sýklalyfja, tilbúins áburðar o.þ.h., því að hollustan á að vera í fyrirrúmi.   

11. "Sterkara Ísland - Á Íslandi borgum við margfalda vexti á við fólk í nágrannalöndunum.  Vaxtaálag á lán vegna krónunnar er allt að 4,5 %.  Umframvaxtakostnaður þjóðarinnar er yfir 200 milljarðar á ári, sem er um 2 milljónir króna á hvert heimili.  Ríkissjóður greiðir um þrefalt hærri vexti en hann þyrfti miðað við kjör Grikkja."                                         Hér er snara nefnd í hengds manns húsi, þar sem kjör Grikkja eru borin saman við kjör Íslendinga.  Grikkir eru gjaldþrota í raun, hafa of litla greiðslugetu og eru rúnir lánstrausti eftir vist sína á evru-svæðinu.  Höfundur þessarar röksemdar getur þess ekki, að Evru-bankinn stendur um þessar mundir í mikilli baráttu við verðhjöðnun, og þess vegna eru millibankavextir neikvæðir á evrusvæðinu, og sparifjáreigendur fá enga ávöxtun. Evrusvæðið er með öðrum orðum helsjúkt, efnahagslega, en t.d. hvorki Bretar né Svíar með sína eigin gjaldmiðla eiga við sambærilegan hrörnunarsjúkdóm að stríða í sínum hagkerfum. Hér á landi eru vextir Seðlabankans raunar óeðlilega háir að flestra mati, þ.e. röksemdir Peningastefnunefndar að halda þurfi vöxtum uppi vegna óvissu í kjaradeilum eru mjög vafasamar, og fáir eru sammála henni.  Það er skrýtið ástand bæði á evru-svæðinu og á Íslandi, sem veldur þessum mikla vaxtamun.                                   Á vaxtastiginu eru tvær hliðar, og snýr önnur að sparendum og hin að lántakendum.  Fáar þjóðir búa við eins háa eiginfjármyndun og Íslendingar, og stafar það af óvenju almennu eignarhaldi fjölskyldna á íbúðunum, þar sem þær búa, og almennt háum lífeyrissparnaði á Íslandi. 

12. "Þjóð meðal þjóða - Líklegt er, að smæð þjóðarinnar verði okkur styrkur, ásamt með því, að við erum að semja við margar hefðbundnar vinaþjóðir.  Til slíkra viðræðna hlýtur þjóðin að ganga sannfærð um það að reyna að ná fram hinu bezta, en jafnframt tilbúin til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg. " O, sancta Simplicitas", sögðu Rómverjar - ó, heilaga einfeldni - er eiginlega allt, sem hægt er að taka sér í munn eftir lestur svo einfeldningslegs texta.          Eru menn búnir að gleyma öllum þvingunaraðgerðunum, sem hafðar voru í frammi að hálfu "vina okkar" í Evrópusambandinu í Icesave-deilunum, töfunum hjá AGS fyrir tilverknað ESB-ríkja, og síðast en ekki sízt málatilbúnaðinum gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, þar sem Íslendingar höfðu loks fullnaðarsigur ?       Höfundur þessarar "röksemdar" horfir framhjá grundvallaratriðinu í sambandi við samninga við ESB, að búið er að láta reyna á samningsvilja Berlaymont í aðlögunarviðræðum.  Það gerðist í marz árið 2011, fyrir réttum 4 árum, eins og Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, getur staðfest.  Þá steytti viðræðurnar á skeri - raunverulega slitnaði upp úr þeim árið 2011 vegna þess, að ESB féllst ekki á skilyrði Alþingis um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og málefni búfjársjúkdómavarna, en  Össur, umsóknarráðherra, neitaði að horfast í augu við sannleikann, sem var sá, að viðræðurnar höfðu verið með öllu árangurslausar, þó að köflum væri lokað, þar sem Ísland þegar hafði aðlagað sig stjórnkerfi ESB með aðild sinni að EES.                                            Þáverandi ríkisstjórn skorti hugrekki til að tjá Alþingi og þjóðinni sannleikann þá, og þess vegna heldur þessi bölvaði skrípaleikur áfram, eins og afturganga, sem gengur ljósum logum, þegar menn þurfa í raun og veru að snúa sér að alvöru viðfangsefnum. 

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritaði grein um þingsályktun fyrra þings frá 16. júlí 2009 og bréf Utanríkisráðherra til ESB 12. marz 2015.  Í greininni gætir meiri skarpskyggni en orðið hefur vart hjá núverandi forystu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs - VG - í ESB-málum frá 2009, og hægt er að taka undir hvert orð greinarinnar.       Í niðurlagi hennar segir á þessa leið:

"Ætla verður, að sá meirihluti landsmanna, sem um árabil hefur lýst sig andvígan aðild að Evrópusambandinu, fagni því, að endi sé loks bundinn á þetta öfugsnúna umsóknarferli.  Sama gildir væntanlega um þingmenn flokka, eins og VG, sem hefur, þrátt fyrir allt, sem á undan er gengið, enn á stefnuskrá sinni, að hag Íslands sé bezt  borgið utan ESB.  Með tilkynningu ríkisstjórnarinnar er stigið réttmætt og mikilvægt skref, en síðan er það allra réttur að reyna að vinna annarri stefnu fylgi í framtíðinni."

Framferði formanns VG varðandi afstöðuna til ESB ber vott um tækifærismennsku og ábyrgðarleysi, sem er ólíðandi í svo afdrifaríku máli.  Í stað þess að hengja hatt sinn á Evrópusnaga Samfylkingar væri henni nær að gefa gaum að ádrepu Hjörleifs Guttormssonar, "Ísland skorið niður úr ESB-snörunni", og væri þá nokkur von til, að hún hætti að haga sér eins og kjáni, þegar samband Íslands við ESB ber á góma.  Slagtog með ómerkinginum Árna Páli Árnasyni, sem sakar forsætisráðherra landsins um "landráð" fyrir samráð við ESB um efnistök í bréfi Utanríkisráðherra til ESB, 12. marz 2015, verður Katrínu Jakobsdóttur aldrei til framdráttar.      

Berlaymont sekkur        

 

 

 


Tólf rök gegn aðild Íslands að ESB

Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, 1959-1971, leysti landið úr fjötrum haftabúskapar, sem hafði þá verið við lýði í 3 áratugi síðan í Kreppunni miklu og leitt til ormagryfju sérhagsmuna, sem allir þáverandi stjórnmálaflokkar höfðu tekið þátt í.  Ríkisvaldið var þá notað til að hygla hlöðukálfum stjórnmálaflokkanna með innflutningsleyfum, hagstæðum gjaldeyri og öðru, sem almenningur hafði að öðru jöfnu ekki aðgang að.  Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur sáu sér leik á borði að afnema innflutningshöftin með einu pennastriki, og stendur nokkur ljómi af henni fyrir það ásamt ýmsum öðrum brautryðjendaverkum.

Að mörgu leyti hófst framfarasókn landsmanna að nýju með Viðreisnarstjórninni, og þess vegna er fremur bjart yfir þessari ríkisstjórn í endurminningunni.  Líklega hafa stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu haft þetta í huga, þegar þeir völdu samtökum sínum nafnið Viðreisn, en í samhengi við ESB getur þessi nafngift hins vegar aðeins minnt á viðreisn erlends valds á Íslandi, en það var við lýði í mismiklum mæli frá samþykkt Alþingis á Gamla sáttmála við Hákon, gamla, 1262, til 1. desember 1918, með gildistöku Fullveldissamnings Alþingis við Danakóng og danska þingið, eða í 656 ár. 

Um nokkra hríð hefur Viðreisn, þessi, birt heilsíðuauglýsingu í blöðum landsins með yfirskriftinnu, "Evrópusambandið - Tólf góð rök með aðild Íslands !".       Það er ástæða til að kanna, hvort Viðreisn hafi nú fundið Stóra-Sannleik, hversu góð rök þetta eru, þegar grannt er skoðað:

  1. "Stjórnmálastöðugleiki - Smáþjóð verður að eiga bandamenn, þegar hún lendir í vanda."  Þetta er kynleg framsetning, og helzt virðist, að boðskapurinn sé sá, að bandamennirnir eigi að koma á stjórnmálastöðugleika. Undirlægjuháttur og metnaðarleysi fyrir hönd sjálfstæðrar þjóðar skín úr þessu, en er einmitt einkennandi fyrir þá, sem kalla framsal fullveldis til Brüssel að deila fullveldi þjóðarinnar með tæplega 30 öðrum þjóðum og sumum þeirra margfalt stærri.  Þetta eru algerlega metnaðarlaus rök, og eiginlega óskiljanleg.
  2. "Efnahagsstöðugleiki - Stöðugt efnahagsumhverfi og trú viðskiptalanda á Íslandi eru forsendur þess, að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf.  Gengissveiflur ógna fyrirtækjum og einstaklingum."  Sá, sem hefur samið þetta, hefur verið með bundið fyrir bæði augu og eyrnatappa í eyrum í sögutímum á skólagöngu sinni og í fréttatímum frá Hruni a.m.k.  Hraðari uppbygging atvinnulífs hefur orðið á Íslandi frá dögum Heimastjórnar 1904 en í nokkru öðru landi Evrópu.  Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til mestu kjarabyltingar, sem um getur í Evrópu, og var VLF/íb. árið 2013 16 % yfir meðaltali í ESB, og Ísland var þá í 11. sæti af 37 Evrópulöndum, og hefur áreiðanlega hækkað sig á þessa mælikvarða árið 2015, og hvergi hefur raunkjarabót almennings orðið meiri í Evrópu en á Íslandi síðan þá.  Þessum góða árangri er hægt að spilla til langframa með því að keyra atvinnulífið í þrot með vinnustöðvunum og óraunhæfum kjarakröfum stórra hópa, en aðild að ESB mundi engu breyta um stefnu verkalýðsfélaganna.  Um þessar mundir er það evran, sem skapar gengisóstöðugleika, því að fjármagnseigendur flýja nú evruna og sprengja upp gengi CHF og USD.  Reynslan er ólygnust um, að klisjan um efnahagsstöðugleika innan ESB eru öfugmæli.
  3. "Bein áhrif á alþjóðamál - Með inngöngu kæmu Íslendingar að setningu fjölmargra laga og reglugerða, sem hafa áhrif á Íslandi um langa framtíð.  Fulltrúar smáþjóða hafa mikil áhrif."   ESB er ríkjasamband um 500 milljóna manna, sem er um 1515 faldur mannfjöldi á Íslandi.  ESB er ekki lengur bandalag ríkja, þar sem fulltrúar allra hafa sama atkvæðavægi.  Þessu er búið að breyta, stórþjóðunum í vil.  Yfir því kvarta nú hástöfum fámennari þjóðir á borð við Svía, sem telja á hlut sinn gengið, en þetta er eðlileg þróun innan ríkjasambands, sem þegar hefur nokkur einkenni sambandsríkis.  Fulltrúar Íslands yrðu ofurliði bornir í öllum ágreiningsmálum, nema þeir gætu myndað bandalög frá einu máli til annars, en það væri fífldirfska að eiga alla helztu hagsmuni landsins undir slíku, og aðeins spilafíklar mundu veðja á slíkt.  Í raun kallar varðstaða um hagsmuni Íslands á varðstöðu um fullveldið, sem er okkar beittasta vopn.
  4. "ESB er hagsmunasamband ríkja - Samræming laga og reglna er grunnur að frjálsum og opnum markaði 28 fullvalda ríkja.  Danir hafa verið í Evrópusambandinu í tæplega 40 ár og halda hnarreistir fullveldi sínu."  Það á ekki að hafa farið framhjá neinum manni, að Ísland er aðili að Innri markaði EES, sem spannar landsvæði ESB og EFTA-ríkjanna, nema Sviss, sem ekki gengu í ESB.  Sviss hefur einnig aðgang að þessum markaði með tvíhliða samningum. Mörgum hérlendis þykir nóg um allar tilskipanirnar og reglurnar, sem talin er þörf á að leiða í lög hér út af þessari aðild.  Nýlegt dæmi er "Eldsneytishneykslið", sem gerð var grein fyrir í vorhefti tímaritsins Þjóðmála 2015.  Þar var um að ræða, rétt eina ferðina, mjög slæma stjórnsýslu að hálfu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, sem hefur í för með sér yfir eins milljarðs kr útgjaldaauka á ári fyrir bíleigendur, getur valdið tjóni á bénsínvélum, hefur neikvæð áhrif á umhverfið og var algerlega þarflaust að innleiða á Íslandi.  Reglugerðafargan báknsins í Berlaymont sætir æ harðari gagnrýni, því að það er tekið að vinna gegn samkeppnihæfni aðildarlandanna út á við, sem er í andstöðu við upphafleg markmið.
  5. "Góð grunngildi - Friður, frelsi, mannréttindi, jafnrétti og umhverfisvernd eru meðal grunngilda sambandsins.  Með aðild taka Íslendingar þátt í því að vernda þessi gildi í allri Evrópu."  "Un fault cultiver son Jardin", skrifaði Voltaire, eða maður á að rækta garðinn sinn.  Íslendingar halda öll þessi gildi í heiðri, og aðild að ESB mundi engu breyta um það til eða frá fyrir einn eða neinn, innan eða utan ESB.  Það er fjarstæðukennt að nota þetta sem rök fyrir aðild Íslands að ESB, og vitnar um rökþrot aðildarsinna. 
  6. "Styrkari samningsstaða út á við - Evrópusambandið hefur gert fjölmarga alþjóðasamninga og hefur á að skipa sérfræðingum á öllum sviðum alþjóðamála.  Íslendingar verða í liði með færustu sérfræðingum heims."  Hér er ekki skafið utan af órökstuddum fullyrðingum, en sannleikurinn er sá, að samningsstaða Íslands út á við verður engin, því að ESB yfirtekur samninga landsins við önnur ríki.  Þannig mun Ísland aðeins verða aðili að milliríkjasamningum um deilistofna í lögsögu Íslands með Brüssel sem millilið.  Engin ástæða er til að ímynda sér, að ESB muni söðla um við aðild Íslands varðandi það, hversu mikið á að koma í hlut Íslands af makríl, svo að dæmi sé tekið.  Að reiða sig á slíkt væri glópska.  Að telja forræði Brüssel yfir hagsmunamálum Íslands í milliríkjasamningum vera góð rök fyrir aðild Íslands er hreinræktuð heimska. 

Seinni 6 rökleysunum verða gerð skil síðar.

Nú hefur utanríkisráðherra sent bréf til formanns ráðherraráðsins og til stækkunarteymis ESB í nafni ríkisstjórnar Íslands um það, að hann óski eftir því, að Ísland verði tekið af skrá um umsóknarríki. Þetta þýðir, að núverandi ríkisstjórn Íslands er hætt við ferlið, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf með svipaðri bréfasendingu með stuðningi í furðuþingsályktun frá 16. júlí 2009, þar sem fjölmargir þáverandi stjórnarliðar gáfu í skyn, að þeir væru andvígir inngöngu Íslands í ESB og mundu greiða atkvæði gegn henni, ef málið kæmist á það stig.

Því miður blekkti þáverandi utanríkisráðherra fulltrúa ESB til að trúa því, að hér væri alvöru aðildarumsókn á ferðinni, þar sem hugur fylgdi máli, eins og fulltrúar ESB geta vænzt. Það var ekki fyrr en árið 2011, þegar Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra á vegum VG, hóf bein samskipti við ESB út af köflum sjávarútvegsmála, landbúnaðarmála og búfjársjúkdómavarna, að ESB var leiddur sannleikurinn fyrir sjónir um, að umsóknin var skrípaleikur.  Þá neitaði ESB að halda viðræðum áfram, en Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, heyktist á að gera Utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir þessari stöðvun viðræðnanna, og aftur brást Össur algerlega skyldu sinni gagnvart Alþingi, er hann tilkynnti ríkisstjórninni í janúar 2013, að hann hefði gert hlé á viðræðum. Fyrir það að segja sannleikann í Brüssel var Jóni Bjarnasyni vikið úr ríkisstjórninni og Steingrímur J. Sigfússon gerður að ofurráðherra.  Þó að hann bukkaði sig og beygði í Berlaymont, hnikaðist hið strandaða umsóknarfley ekki af strandstað, enda var haffærniskírteini þess falsað, er því var hleypt af stokkunum sumarið 2009. 

Þessar stefnubreytingar og fráhvarf frá þingsályktun frá 16. júlí 2009 bar fyrri ríkisstjórn að tilkynna Alþingi, en því var sleppt af "taktískum" ástæðum til að gera umsóknina ekki að kosningamáli í Alþingiskosningum vorið 2013.  Núverandi ríkisstjórn er á engan hátt  bundin af þingsályktun fyrra þings og ber enga ábyrgð á mistökum fyrri ríkisstjórnar, sem fólust í að fara á flot með þetta mál á grundvelli hrossakaupa stjórnarflokkanna 2009, þar sem VG fékk að fækka virkjanakostum Rammaáætlunar gegn því, að Samf fengi að senda til ESB umsókn um aðildarviðræður. Stjórnarandstaðan bítur nú hausinn af skömminni með því að senda barnalegt bréf til framkvæmdastjórnar ESB þess efnis, að ríkisstjórnin hafi ekki stjórnskipulega heimild til að genga gegn fíflagangi fyrra þings frá 16. júlí 2009. Lögfræðilega er þetta þvættingur, og í fyrra beitti þessi sama stjórnarandstaða meirihlutann á Alþingi ofbeldi og hindraði hann með málþófi í að samþykkja þingsályktun um afturköllun umsóknar Össurar & Co.  Það er ekki öll vitleysan eins, en eitt er víst, að þjóðin kann ekki að meta fullkomlega ómálefnaleg vinnubrögð núverandi stjórnarandstöðu á Alþingi, enda kvarnast stöðugt utan af fylgi Kvislinganna.   

Núverandi ríkisstjórnarflokkar gengu báðir með kýrskýra stefnu til kosninga 2013 um að afturkalla aðildarumsóknina og að taka ekki aftur upp aðildarviðræður án undangengis samþykkis fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Samhliða næstu Alþingiskosningum væri hægt að greiða atkvæði um slíkt, og mundi þá næsta ríkisstjórnarmyndun taka mið af niðurstöðunni.  Ef stjórnarandstaðan meinar eitthvað með núverandi belgingi um, að farið hafi verið á bak við Alþingi í þessu máli, þá leggur hún einfaldlega fram vantrauststillögu á Utanríkisráðherrann og lætur þannig reyna á þinglegan stuðning við hann í stað innantóms gaspurs og hótana um að setja störf Alþingis í uppnám. Stöðug upphlaup stjórnarandstöðunnar eru leiðigjörn og engan veginn til þess fallin að auka veg hennar.  Að taka mál meirihlutans í gíslingu með undirmálsþvaðri er með öllu ólíðandi og á ekkert skylt við þingræði.       


Skjaldborg um spilaborg

Við fall járntjaldsins 1989 misstu vinstri menn víða fótanna.  Ástæðan er sú, að allar útgáfur jafnaðarstefnunnar eiga rót sína að rekja til sameignarstefnunnar, sem boðuð var af hagfræðinginum og stjórnmálafræðinginum, Karli Heinrich Marx o.fl. á 19. öld og raungerð í blóðugri byltingu Trotzkys og Leníns í Rússlandi 1917 að undirlagi þýzku leyniþjónustunnar til að losna við Rússa úr Evrópustyrjöldinni 1914-1918. Rússar færðu sig síðan upp á skaptið með sigri á Þjóðverjum í Heimsstyrjöldinni 1939-1945, færðu landamæri til vesturs og stofnuðu alþýðulýðveldi undir alræði öreiganna í löndum Mið- og Austur-Evrópu. 

Alþýða Austur-Þýzkalands, DDR - Þýzka alþýðulýðveldisins, mótmælti skoðanakúgun, hömlum á athafnafrelsi og ferðafrelsi og fjárhagslegri eymd með friðsamlegum hætti, þar til landamæraverðir DDR opnuðu landamærahlið ríkisins og fólkið streymdi yfir, gangandi, hjólandi og á Trabant.  Þar með féll Berlínarmúrinn fyrir samtakamætti fólksins, sem fengið hafði sig fullsatt á botnlausri forræðishyggju, snuðri og kúgun hvers konar, og hvert alþýðulýðveldið á fætur öðru sömuleiðis, eins og spilaborg. 

Alþýðulýðveldin reyndust einnig vera fjárhagslega gjaldþrota undir kómmúnisma eða sameignarstefnu, og allt þetta leiddi til, að sameignarstefnan varð hugmyndafræðilega og siðferðilega gjaldþrota, og jafnaðarstefnan missti þar með kjölfestu sína, þó að sófakommar megi ekki heyra á slíkt minnzt.  

Nú voru góð ráð dýr fyrir vinstri menn. Á Íslandi komu tveir málaflokkar í stað trúarinnar á félagshyggjuna, sem rekin hafði verið í Austur-Evrópu og víðar. Þeir voru af ólíkum meiði, svo að höfða mætti til ólíkra hópa.  

Í fyrsta lagi var mótuð argvítug andstaða við afnotarétt einkafyrirtækja af auðlindum landsins. Mest hefur verið barizt gegn núverandi ábyrgðarskiptingu í sjávarútvegi, að ríkið stjórni auðlindanýtingunni þar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og að afnotarétturinn (ein tegund eignarréttar) á auðlindinni sé dreifður á fjölmörg fyrirtæki, sem eiga í innbyrðis samkeppni um fjárfesta, starfsfólk og viðskiptavini. Vinstri menn berjast hins vegar fyrir einokun á sviði sjávarútvegs, sem að lokum mun leiða til taprekstrar og bæjarútgerða aftur, með þjóðnýtingu hinna fjölmörgu aflahlutdeilda, og endurúthlutun þeirra eftir stjórnmálalegum leiðum, þ.e. af stjórnmálamönnum beint eða af ríkisstofnun í umboði pólitíkusa.  Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug, að útgerðir, sem komnar verða upp á náð og miskunn stjórnmálamanna, muni verða þjóðhagslega arðsamari en núverandi fyrirkomulag, sem árið 2013 skilaði ríkinu í beinar tekjur 26 mia kr og líklega hærri upphæð í beina skatta af starfsmönnum útgerða, sem keppa við erlendar útgerðir, sem sama árið fengu 890 mia kr frá ESB í rekstrarstyrki? 

Hitt sviðið innan auðlindanýtingar, sem vinstri menn berjast gegn, er orkuöflun fyrir orkukræfan stóriðnað í erlendri eigu.  Um þetta ritar prófessor Jónas Elíasson í Morgunblaðið þann 9. febrúar 2015 í tímabærri grein með fyrirsögninni,

"Er Rammaáætlun að setja vatnsafl Íslands í glatkistuna ?":

"Hin pólitíska náttúruvernd er þó líklega áhrifaríkust. Vinstri grænir berjast gegn vatnsaflinu, það rímar við fortíðina hér á Íslandi, áliðnaðurinn lifir á vatnsaflinu, og þar sjá vinstri menn helztu tengingu Íslands við alheimskapítalismann. Þá mengaði áliðnaðurinn talsvert í upphafi síns ferils, en það var um næstsíðustu aldamót.  Núna, meira en 100 árum síðar, hefur þetta komizt í lag að mestu, og áliðnaður mengar mjög lítið í dag."

Þarna lýsir prófessorinn í hnotskurn um hvað stjórnmálabarátta vinstri sósíalista á Íslandi hefur hverfzt eftir að "roðinn í austri" varð grámyglulegri en grámosinn.  Baráttan gegn erlendum fjárfestingum nær reyndar enn lengra aftur eða a.m.k. aftur til 1965, er Landsvirkjun var stofnuð til að virkja fyrir stóriðju.

Hver hefur verið birtingarmynd baráttunnar á seinni árum ?  Athugum, hvað prófessor Jónas hefur um það að skrifa: 

"Í verkefnisstjórn Rammaáætlunar eru ýmsir faghópar, sá númer eitt hefur það hlutverk að meta verndargildi virkjunarkosta.  Skemmst er frá því að segja, að hópurinn finnur verndargildi í hverjum einasta virkjunarkosti, nokkuð óháð því, hvernig landið er.  Á eftir koma svo aðgerðarsinnar, sem láta eins og sá blettur, sem virkja á hverju sinni, sé sú verðmætasta náttúruperla, sem landið á.  Þessi saga er búin að endurtaka sig í Blöndu og við Kárahnjúka og stendur nú yfir varðandi Neðri-Þjórsá.  Þá er grátbroslegur farsi í gangi með Hagavatnsvirkjun, sem lýst er nýlega í Morgunblaðinu".

Hegðun "náttúruverndarmanna" er með öðrum orðum orðin algerlega fyrirsjáanleg áróðurssíbylja, sem ekkert mark er á takandi, af því að hún er berlega ekki reist á faglegum grunni, heldur er tilfinningalegs eðlis.  Ekki er ætlunin að gera lítið úr tilfinningum til náttúrunnar né annars, en breyta þarf lögum um Rammaáætlun, ef pláss á að vera fyrir þær þar.  Rammaáætlun er þess vegna misnotuð.

Áfram skal vitna í hinn skarpskædda prófessor:

"Spyrja má, hvort virkjunarandúðin sé ekki réttlætanleg vegna þess, hve vatnsvirkjanir valda miklum náttúruspjöllum, en það er af og frá. Ísland á nú sjö vatnsvirkjanir, sem kallaðar eru stórvirkjanir, þó að í reynd séu þær smáar í sniðum á erlendan mælikvarða. Í raun hafa engar af þessum virkjunum valdið alvarlegum náttúruspjöllum, friðunarsinnar hafa engin dæmi um slíkt til að færa fram í sínum málflutningi.  Allt, sem þeir geta tínt til, er vatnsrof í bökkum hér og þar og breytt fiskgengd, en slíkt er alltaf að gerast hvort eð er.  Aðalumkvörtun friðunarsinna, sú, að vatnsbotn lónanna sé svo verðmætt land, að alls ekki megi færa það í kaf, heldur engan veginn.  Þvert á móti, Ísland er fátækt af stöðuvötnum, og þau bæta mynd náttúrunnar fremur en hitt."

 Frekari rökstuðningur fyrir þeirri skoðun, að andstaða við og andróður friðunarsinna við vatnsaflsvirkjunum sé tilhæfulaus, er þarflaus.  Á þessum vígvelli hljóta þess vegna umbreyttir sameignarsinnar í græningja að tapa. 

Hitt sviðið, sem jafnaðarmenn gerðu að sínu, þegar fótunum var kippt undan þeim með falli kommúnismans í Berlín 1989, var aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB.  Þarna er um áþekka þráhyggju að ræða, þrátt fyrir glataðan og tapaðan málstað, og gagnvart vatnsaflsvirkjunum.  Það hefur einfaldlega ekki verið sýnt fram á, að atvinnuvegir landsins, hvað þá íbúarnir almennt, muni standa betur að vígi í samkeppninni og lífsbaráttunni inni í 500 milljón manna hnignandi ríkjasambandi en utan. 

Samt neyttu jafnaðarmenn og sameignarsinnar aflsmunar á Alþingi 16. júlí 2009, gegn miklum mótmælum þáverandi stjórnarandstöðu og óskum um þjóðaratkvæðagreiðslu, og heimiluðu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að senda umsókn til Brüssel. Þar voru firn mikil á ferð, því að formaður annars stjórnarflokksins hafði hafði daginn fyrir kosningar farið með svardaga um við nafn flokksráðsins, að hvorki vildi hann né gæti samþykkt umsókn um aðild að ESB.

Nú er þar til að taka, að Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs Haarde og skjaldborgin um íslenzka innistæðueigendur föllnu bankanna og stofnsetning nýrra banka á rústum þeirra gömlu höfðu farið mjög fyrir brjóstið á kommissörum í Berlaymont, sem purkunarlaust drógu taum lánadrottna bankanna, eins og allra banka í ESB, en ríkisstjórnir voru af ESB þvingaðar til að bjarga bönkum á kostnað skattborgaranna, ef þær létu bilbug á sér finna.  Ríkisstjórn jafnaðarmanna í Lundúnum virtist samt ekki þurfa hvatningu til að bjarga öllum tæpum bönkum á Englandi, nema þeim íslenzku. Þeim var miskunnarlaust fórnað.   

Í Brüssel, Frankfurt, Lundúnum, París og víðar óttuðust menn mjög áhlaup á bankana í Hruninu, og íslenzka leiðin var engan vegin fallin til að auka traust á bönkunum annars staðar.  Af þessum ástæðum voru Íslendingar litnir hornauga víða árið 2009, þ.m.t. í Brüssel, og íslenzka ríkisstjórnin lagði sig af þessum ástæðum í framkróka við friðþægingu, og fórst í þeim efnum ekki fyrir, heldur gekk mjög langt í að gera fjármagnseigendum til hæfis. Er lítill vafi á því, að vinstri stjórnin vildi ekki ljúka bankaendurreisninni í anda Neyðarlaganna, því að þá hefðu fjármagnseigendur, kröfuhafarnir, talið sig hlunnfarna, þó að þeir gætu ekki sótt rétt sinn.  Þeir gátu hins vegar stundað "lobbýisma"-reynt að hafa áhrif, t.d. hjá ESB og AGS. Margir telja, að fjármagnseigendur hafi haft hér erindi sem erfiði, og til marks um það eru skrif leiðarahöfundar Morgunblaðsins í ritstjórnargreininni, "Alvarlegar ásakanir", þann 26. janúar 2015:

"Það er óskiljanlegt, að það hafi orðið forgangsmál hjá ríkisstjórn landsins að koma sér í mjúkinn hjá kröfuhöfum á kostnað íslenzkra skattborgara og fyrirtækja."

Þetta er í samræmi við það, sem fram kemur í þessum pistli hér að ofan, en þar er útskýrt, hvernig á undirlægjuhætti stjórnvalda stóð 2009-2012 gagnvart erlendum fjármagnseigendum, kröfuhöfum föllnu bankanna. Allt snerist um að fegra ásýnd Íslands í augum peningafursta til þess að ganga í augun á kommissörum í Berlaymont. Var þá einskis látið ófreistað og jafnvel fórnað stórkostlegum hagsmunum íslenzka ríkisins á altari Brüssel-dýrkunarinnar. Vegsummerkin eru skýr í bankaendurreisninni, þegar hrægömmunum var fært eignarhald á tveimur bönkum, algerlega að þarflausu, og engin viðunandi skýring á þeim gjörningi hefur verið gefin.  Hér er komið "mótíf fyrir glæpnum".

 Varfærið mat á líkum á innheimtu frá skuldunautum bankanna hafði leitt til þess, að ríkið tók innlendar eignir gömlu bankanna eignarnámi og óháð mat hafði leitt til bóta, sem nam um 50 % af nafnverði eignanna.  Þetta var alveg nægur heimanmundur frá ríkinu til nýju bankanna, og meira en víða í sambærilegum tilvikum, enda hefur hvergi komið fram, að bráð nauðsyn hafi borið til að styrkja eiginfjárstöðu nýju bankanna umfram þessa forgjöf, því að allir höfuðatvinnuvegir landsins gengu á sæmilegum afköstum þrátt fyrir hrun bréfaborgarinnar, og þess vegna urðu innheimtur reyndar betri en reiknað hafði verið með á varfærinn hátt.  Engar bankarekstrarlegar ástæður knúðu á um hlutafjáraukningu bankanna árið 2009, enda var þá spurn eftir nýjum lánveitingum í lágmarki.

Í fróðlegri Morgunblaðsgrein Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns, og Þorsteins Þorsteinssonar, rekstrarhagfræðings, er vikið að innkomu kröfuhafanna í bankana tvo án útskýringa eða upplýsinga um andvirði eignarinnar:

"Því var valin sú leið að semja um endurgjald, sem miðaði við ákveðið grunnmat yfirfærðra eigna og fremur svartsýnar efnahagshorfur.  Að auki var samið um skilyrtar viðbótargreiðslur, ef verðmæti eigna reyndist síðar verða meira en grunnmatið. 

Þá var samið um, að Kaupþing og Glitnir gætu yfirtekið meirihluta hlutafjár í þeim nýju bönkum, sem út úr þeim voru klofnir og að hlutafjárframlag kæmi frá LBI (gamla Landsbankanum) inn í Landsbankann." 

Við téð grunnmat auk skilyrtra viðbótargreiðslna máttu kröfuhafarnir allvel una miðað við miðgildi matsverðs Deloitte.  Það var fullkomið stílbrot, sem helgaðist af annarlegum hvötum, eins og fram hefur komið, en ekki af viðskiptalegri nauðsyn, að gera aðila, hverra hagsmuna slitastjórnir áttu að gæta, að meirihlutaeigendum nýju bankanna, tveggja af þremur, enda voru starfsmenn þeirra þegar settir á afkastahvetjandi launakerfi við innheimtu af skuldunautum, sem margir áttu um sárt að binda.  Þá hefur íslenzka ríkið þegar orðið af hundruðum milljarða í arðgreiðslum og glötuðum eignum vegna þessa einstæða gjörnings.  Hér voru skattborgarar þessa lands hlunnfarnir með "eindæma ófyrirleitnum" hætti, og til að bíta hausinn af skömminni var þingheimur síðan blekktur til að blessa þennan hneykslanlega gjörning á mikilli hraðferð í málahrærigrauti rétt fyrir jólahlé 2009.  Hér héldu handhafar framkvæmda- og löggjafarvalds þannig á málum, að full þörf er á að rannsaka, hvort í gjörningunum felist stjórnarskráarbrot.  Þessi einkavæðing tveggja banka er sú sóðalegasta, sem sézt hefur.  Ríkisendurskoðun rannsakaði þá, sem fram fór á föllnu bönkunum á sinni tíð, en fann ekkert bitastætt.  Er ekki ástæða til rannsóknar hennar á þessari og rannsókn Umboðsmanns Alþingis á framkomu fyrri ríkisstjórnar gagnvart þáverandi Alþingi í þessu máli ?  

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dags. 13.02.2015, er fjallað um þennan málaflokk, og þar koma svipuð sjónarmið fram og hér hafa verið reifuð:

Í Evrópu var hikað.  Þýzkaland réði því.  Spánn og nokkur minni ríki evrunnar voru neydd til að færa skuldir einkabankakerfisins við fjármálastofnanir stórríkja ESB yfir á skattgreiðendur sína.

Ísland var ekki komið undir hramm ESB, en samt var reynt að þvinga það með hótunum í sama far.  En á því augnabliki höfðu ekki barsmíðar og grjótkast enn fleytt vinstri stjórn til valda, og hún hafði því ekki náð að setja sálufélaga sína yfir Seðlabanka Íslands.  Þess vegna stóðst stefnan um, að aldrei mætti láta íslenzkan almenning taka yfir skuldir óreiðumanna. 

Ef sú staða, sem kom upp 9 mánuðum síðar, hefði verið raunin í október 2008, er vafalaust, að Ísland væri nú í sömu stöðu og Grikkland. 

Þessir aðilar, komnir í illa fengna valdastólana, reyndu þó sitt, þótt seinir væru, til að vinda ofan af lánsemi Íslands í óláninu með því að troða Icesave-samningum kröfugerðaríkja ofan í kokið á Íslendingum."

Hér að ofan heldur maður á penna, sem gerst má vita, því að hann stóð í hringiðu atburðanna og átti sinn drjúga þátt í því, að á örlagaþrungnum tíma var staðið gegn óbilgjörnum kröfum Brüssel, London og den Haag um að hneppa íslenzku þjóðina í miklu verri skuldafjötra m.v. landsframleiðslu en Grikkir hafa verið að krebera undan í 7 ár, og jafnvel verri en Weimarlýðveldið þýzka mátti sæta að tiltölu í Versölum 1919. 

Fyrir að vera fjármagnseigendum svo óþægur ljár í þúfu sem að ofan getur, galt hann með embættismissi og ofsóknum, þegar menn lítilla sanda og lítilla sæva höfðu með ofbeldi hrifsað til sín völdin við Austurvöll og síðan unnið Alþingiskosningar með lygum og undirferli.  Allt var falt til að komast inn undir verndarvæng kommissara og búrókrata í Berlaymont. Þetta má ekki liggja í þagnargildi, þó að vinstri öflin geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til að þagga þetta bráðum 6 ára gamla mál niður eða að drepa því á dreif með því að draga athyglina að öðru og með sinni innantómu samanburðarfræði við aðrar einkavæðingar.  Þar var stjórnskipanin þó ekki fótum troðin með því að leita heimildar fyrir gjörninginum á Alþingi eftir að allt var um garð gengið.  "Eindæma ófyrirleitni" kvað Hæstiréttur upp úr um af öðru tilefni. 

       

   

   

    

 

   

    


Hrakfallabálkur og örlagavaldur

Grexit vofir yfirFimmtudaginn 22. janúar 2015 tilkynnti Seðlabanki Evrópusambandsins, SE, um kúvendingu í peningamálastefnu bankans, sem er í blóra við hefðbundna aðhaldsstefnu þýzka seðlabankans. Mikil óánægja er með þessa stefnubreytingu SE í Þýzkalandi, og kann hún að sá fræjum sundrungar innan myntsamstarfsins, og var þó ekki á vandræði evrunnar bætandi, einkum og sér í lagi nú eftir myndun ríkisstjórnar tveggja flokka í Grikklandi af sitt hvorum væng stjórnmálanna.  

Kúvendingin er til vitnis um örvæntingu í Frankfurt, þar sem Mario Draghi, hinn ítalski formaður bankastjórnar, og fjölmennt bankaráð SE, hefur aðsetur. Þar óttast menn að missa evrusvæðið niður í verðhjöðnunarspíral, sem gæti reynzt afar erfitt að snúa við úr, eins og reynsla Japana af slíku ferðalagi sýnir.  Eftir að lækkun olíuverðs hófst í júní 2014 hefur reyndar víðast hvar ríkt verðhjöðnun, þ.á.m. í BNA, þrátt fyrir 4500 milljarða USD seðlaprentun þar.  Ætli megi ekki líkja þessu seðlaprentunarúrræði við inflúensusprautu gegn annarri veiru en þeirri, sem herjar næst.  Sprautan gerir illt verra með því að veikja ónæmiskerfi líkamans ?

Fyrsta afleiðing téðrar tilkynningar var fall evrunnar.  Þann 14. janúar 2015 seig evran niður í sögulegt hlutfall við bandaríkjadal, þ.e. 1,17 USD=1,00 EUR, sem var upphaflega hlutfallið, þegar evran var kynnt til sögunnar 1. janúar 1999.  Síðan veiktist evran og var á pari við bandaríkjadal á fyrsta ársfjórðungi 2000 og hrundi svo niður í 0,83 USD í október 2000.  Þá tóku öflugir seðlabankar sig saman um að reisa evruna úr öskustó, og  komst hún í 1,6 USD, þegar dýrust var.  Þessi rússíbanareið "hinna stóru" er næstum því 1:2, og kannast minni þjóðir við slíkt á eigin skinni og hefur verið kallaður "forsendubrestur".   

Nú telur The Economist, að evran verði á pari við dalinn á þessu ári af stjórnmála- og efnahagslegum ástæðum.  Stjórnmálaástæðurnar eru nú um stundir aðallega tengdar Grikklandi og kosningunum þar 25. janúar 2015, og stjórnarmyndun lýðskrumara þar, sem eru farnir að gera hosur sínar grænar fyrir Kremlverjum.  Þeir eru hins vegar ekki aflögufærir og alveg áhrifalausir eftir að hafa böðlazt inn á Krím og inn í Austur-Úkraínu undir fölsku flaggi.   

Evran yrði fyrir alvarlegu áfalli við útgöngu Grikkja, Grexit.  Grikkir hafa orðið fyrir ólýsanlegum hörmungum af völdum evrunnar, af því að hagkerfi þeirra var ekki í stakkinn búið fyrir hana.  Samfylkingin á Grikklandi, PASOK, gösslaðist áfram, eins og sú íslenzka, hugsunarlaust og fyrirhyggjulaust, og smyglaði Grikklandi inn á evrusvæðið með hvítri lygi og bókhaldsbrellum og e.t.v. öðru verra.  Á Íslandi var hins vegar tekið í taumana áður en glórulausir amlóðar, sumir í klóm Bakkusar, en aðrir ekki, náðu að vinna hér óbætanlegt tjón. Urðu stjórnarár VG og Saf kjósendum víti til varnaðar. 

Miðað við skuldir gríska ríkisins uppi í rjáfri, 170 % af VLF, og samfelldan samdrátt hagkerfisins fram að þessu frá Hruni um u.þ.b. 20 % alls, og atvinnuleysi yfir 20 %, eiga Grikkir sér ekki viðreisnar von án nýrra og stórfelldra (um 50 %) afskrifta skulda.  Takist ekki samningar við nýja valdhafa í Grikklandi um þetta, munu Grikkir halda sína leið, hvað sem tautar og raular í Berlín, Frankfurt og Brüssel.  Þá mun jörð nötra í Frankafurðu, eins og í Bárðarbungu, þó að gosið komi annars staðar upp. Í Berlín hefur sennilega verið reiknað út, að ódýrara verði fyrir Þýzkaland að Grikkir hverfi úr myntsamstarfinu en að halda þeim þar.  Vegna fordæmisins fyrir aðra nauðstadda, t.d. Portúgali, er ekki víst, að evrusamstarfið lifi Grexit lengi af.  Nú dregur til tíðinda.

Verðlag lækkaði á evru svæðinu um 0,2 % á 12 mánaða tímabilinu desember 2013-nóvember 2014.  Til að ráða bót á þessu er nú verið að smyrja peningaprentvélarnar í Frankfurt, sem á að ræsa í marz 2015, og þær eiga að ganga í 1,5 ár og senda frá sér mia EUR 1200 á tímabilinu.  Þetta er mjög svipuð upphæð og bandaríski seðlabankinn sendi frá sér á 1,5 árum, en alls prentaði hann hins vegar mia USD 4500 á 6 árum frá Hruni.  Ekki er víst, að árangurinn verði jafngóður og í BNA, því að fjármálakerfi evrunnar er ekki jafnþróað og bandaríkjadals.  Þá á eftir að sjá Þjóðverja leyfa kaup bankans á skuldabréfum þýzkra fyrirtækja.  Þýzki seðlabankinn hefur hótað að hindra það og að setja að öðru leyti sand í tannhjól peningaprentvélar ECB, og þá þarf nú ekki að spyrja að leikslokum hjá ítalska prentvélstjóranum.   

Allt mun þetta leiða til mikils falls evrunnar, sem verður vítamínssprauta fyrir útflutningsiðnað alls evru-svæðisins.  Útflutningsiðnaðurinn mun þess vegna verða driffjöður efnahagsbata þar, ef hann lætur á sér kræla.  Það er hins vegar mjög hætt við því, að ferðamönnum frá evru-svæðinu muni fækka, m.a til Íslands.  Hvort aðrir bæta það upp hérlendis og fylli hundruði spánýrra hótelherbergja á eftir að koma í ljós.

Mjög lágt gengi evru, t.d. 1 EUR = 0,8 USD, mun valda mikilli óánægju, t.d. á meðal Engilsaxa, sem munu ekki taka þessu þegjandi, heldur væntanlega gera gagnráðstafanir, t.d. með kaupum á evrum á útsöluverði.  Hvernig slíkt viðskiptastríð fer saman við viðskiptastríð Vesturveldanna við Rússa, er óvíst.  Árin 2015-2016 skera úr um þetta og verða spennandi. 

Gagnvart Íslandi hefur mikil lækkun á gengi evrunnar líklega neikvæð áhrif á geiðslujöfnuðinn við útlönd, af því að verðmæti útflutnings minnkar mælt í öðrum myntum, og líklega mun innflutningur vaxa vegna lækkandi verða frá evrusvæðinu og gjaldmiðils, sem veikist. Þess skal þó geta hér, að viðskipti álveranna með aðföng og afurðir fara að mestu leyti fram í bandaríkjadölum.

Varnarbarátta evruríkjanna getur orðið harðvítug og langvinn og dregið úr kaupmætti almennings sem og ferðagleði út fyrir evrusvæðið.  Allt hefur þetta neikvæð áhrif á eimreiðar íslenzku atvinnuveganna, utan áliðnaðar, sjávarútveg/fiskiðnað og ferðamannaiðnaðinn.

Á móti kemur meira en helmingslækkun á FOB eldsneytiskostnaði í bandaríkjadölum, sem hins vegar styrkist nú mjög.  Með Innri markað Evrópu í lamasessi og Rússland lamað vegna refsiaðgerða Vesturveldanna út af Krím og Austur-Úkraínu, er líklegast, að heildarbreyting á viðskiptakjörum muni draga úr vexti landsframleiðslunnar hérlendis. Að leggja á sama tíma fram uppþembdar launakröfur sýnir, að verkalýðsforystan mætir algerlega ólesin í tíma og sýnir sig vera utangátta um hagsmuni umbjóðenda sinna með því að svara öllum spurningum með því, að læknar hafi fengið svo og svo mikið. 

Hvenær fóru ýstrusafnarar að bera sig saman við lækna ?  Var ekki verið að forða íslenzka heilbrigðiskerfinu frá því, að hér yrði að manna læknisstöður með útlendingum, sem engan veginn gætu veitt sambærilega þjónustu og innfæddir kollegar þeirra af ýmsum orsökum ?  Hvert % í launahækkun til hinna fjölmennu stétta ASÍ jafngildir 10 milljörðum kr í aukin launaútgjöld fyrirtækjanna, og það er einfaldlega miklu meira en kostnaðaraukning á ári af læknasamningunum. 

Við þessar aðstæður er eins ótímabært og hugsazt getur að heimta launahækkanir, sem eru langt umfram getu atvinnuveganna, sem aðilar beggja vegna samningaborðs hafa sjálfir öll tök á að reikna út, hver er, og eru líklega nokkurn veginn sammála um, hver er.  Verkfall nú á tímum er nokkurn veginn eins heimskuleg aðgerð og hægt er að hugsa sér, því að á verkfalli tapa allir, þegar upp er staðið, og þeir mest, er sízt skyldu.     

 

      

 


Evrópa í dróma

Sláandi mikill munur er nú á hagþróun í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, og í ríkjum Evrópusambandsins, ESB.  Í BNA var yfir 5,0 % hagvöxtur árið 2014, um 1,5 % verðbólga og til urðu yfir 300 000 störf á mánuði síðustu mánuði ársins, og atvinnuleysi þar nam 5,8 % í nóvember 2014.  Í ESB var hagvöxtur um 0,3 % 2014, verðhjöðnun 0,2 % og atvinnuleysið á evru-svæðinu var 11,5 % í október 2014 og vaxandi. Hver skyldi vera skýringin á þessum reginmun á árangri hagstjórnar í BNA og ESB ?  Svarið leiðir í ljós, að evran er meinloka stjórnmálamanna, sem hagfræðingar reyna að lappa upp á.

Í BNA er seðlabankinn búinn að stunda mjög öflugar örvunaraðgerðir, sem líkja má við seðlaprentun upp á trilljónir bandaríkjadala frá fjármálakreppunni 2008, þegar Lehman Brothers-bankinn féll.  Í BNA er auðvelt að fitja upp á nýjungum og stofna frumkvöðlafyrirtæki, launatengd gjöld eru lág og litlar hömlur eru á vinnumarkaði til ráðninga og brottrekstrar. 

Í seðlabanka ESB, ECB-bankanum, hefur ríkt grundvallarágreiningur um peningamálastefnuna.  Þjóðverjar vilja ekki, að ECB kaupi skuldabréf aðildarríkjanna, því að slíkt geti sett af stað verðbólgu, þó að síðar verði.  Þjóðverjar voru andvígir lækkun vaxta bankans niður fyrir núll.  ÉCB er sem sagt með neikvæða vexti á fé, sem hann fær til geymslu.  Slíkt er algert örvæntingarmerki.

Þýzkir sparifjáreigendur urðu óhressir með það, og þeir munu verða æfir, ef verðbólgan fer af stað. Þýzki seðlabankinn með Jens Weidemann í broddi fylkingar, ver hagsmuni þeirra með kjafti og klóm, því að þeir eru undirstaða þýzka bankakerfisins og þar með athafnalífsins.  Það reynir talsvert á umburðarlyndi þýzkra sparifjáreigenda núna, þegar evran tapar fjórðungi af verðgildi sínu gagnvart bandaríkjadal.  Ef ofan á þetta mundi bætast verðbólga í Þýzkalandi, mundu sparifjáreigendur þar fara að hugsa sér til hreyfings úr bönkunum, og þá hristast undirstöður þýzka hagkerfisins. 

Alls konar vandamál hrannast upp á ESB-himninum, svo að auðvelt er að rökstyðja, að forsendur hafa breytzt frá því, að meirihluti Alþingis var handjárnaður 16. júlí 2009 til að samþykkja umsókn um aðild að ESB.  Það er með engu móti hægt að halda því fram lengur, að Íslandi gæti gagnast aðild að Evrópusambandinu, eins og leikar standa nú. 

ESB-ríkin standa frammi fyrir orkukreppu, því að um fjórðungur af orkunotkuninni kemur eftir gasleiðslum frá Rússlandi.  Síðan árið 2014 stendur yfir efnahagsstríð á milli vestrænna ríkja og Rússlands, sem leitt getur til greiðslufalls á þessu ári á skuldum rússneska ríkisins.  Þá gætu Rússar hæglega gripið til þess örþrifaráðs að skrúfa fyrir gasið til Mið- og Vestur-Evrópu. 

ESB-ríkin búa við um 11 % og vaxandi atvinnuleysi.  Þar er kerfisvandi á ferðinni, sem bitnar verst á ungu fólki, 18-30 ára, og er atvinnuleysi í þessum hópi um 50 % í Suður-Evrópu.  Um er að ræða illvígt og langvarandi atvinnuleysi, sem aðeins öldrun þjóðfélaganna virðist geta breytt til batnaðar. Kerfisvandinn er fólginn í miklum kostnaði fyrir fyrirtækin við hverja ráðningu og miklum hömlum á brottrekstri.  Víða í ESB keyrir skattheimta á fyrirtæki og einstaklinga úr hófi fram, og launatengd gjöld eru há.  Þannig nema t.d. skatttekjur ríkisins sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu) 2013 í Danmörku 49 %, í Frakklandi 45 % og á Ítalíu 42 % á meðan meðaltalið nam 34,1 % í OECD.  Skattheimta af þessu tagi hamlar hagvexti og eyðileggur samkeppnihæfni, en hún er ær og kýr jafnaðarmanna, sem þykjast stjórna með því að rífa fé af þeim, sem leggja sig fram, og færa til hinna, sem minna mega sín, af því að þeir annaðhvort geta ekki eða nenna ekki að leggja sig fram.  Þetta er réttlæti ræningjans, því að hlutverk Hróa hattar er það engan veginn í nútíma vestrænu þjóðfélagi.  Hrói höttur starfaði undir lénskipulagi, og stundum mætti ætla af málflutningi vinstri manna hérlendis, að þeir telji sig þrúgaða undir lénskipulagi. 

Hagvöxtur er nánast enginn í ESB, enda þarf að öðru jöfnu mannaflaaukningu á vinnumarkaði til að um hagvöxt geti verið að ræða.  Annar þáttur er framleiðniaukning, en þar sem fjárfesting er af jafnskornum skammti og í ESB, er ekki hægt að búast við umtalsverðri framleiðniaukningu. Ástandið í hagkerfum Evrópu er alvarlegt og veldur nú alvarlegum eftirspurnarskorti í Evrópu, sem m.a. kemur niður á utanríkisviðskiptum Íslands. 

Hlutdeild launakostnaðar í heildarkostnaði fyrirtækja er 57 % í ESB að meðaltali.  Um er að ræða laun og launatengd gjöld.  Á Íslandi er þetta hlutfall hið hæsta í Evrópu, og þó að víðar væri leitað, eða 70 %.  Launabogi íslenzkra fyrirtækja er þess vegna spenntur til hins ýtrasta.  Vegna lítillar framleiðniaukningar felst svigrúm fyrirtækja til launahækkana aðallega í að fækka starfsfólki, en um helmingur launatengdu gjaldanna felst í framlögum til lífeyrissjóða, og þessi framlög verður að meta til launa, því að þau fela í sér sparnað launþeganna til elliáranna.  Málflutningí verkalýðsleiðtoganna nú í aðdraganda kjaraviðræðna má líkja við, að þeir ætli að saga í sundur greinina, sem þeir, og allir launþegar landsins, sitja á.  Ábyrgðarleysi þeirra er með algerum ólíkindum, ef þeir ætla að steypa landinu í glötun núna með kröfum, sem, ef samþykktar verða, munu valda mikilli hækkun á öllum vörum, gengislækkun, skuldahækkun, atvinnuleysi og minni ávöxtun lífeyrissjóðanna, sem þeir þó bera svo mjög fyrir brjósti.  Að vísa til kjarasamnings lækna, sem vinna hjá ríkinu, er eins fávíslegt og hugsazt getur.  Menntun lækna og starfsvettvangur er einfaldlega algerlega ósambærileg við aðstæður félaga í verkalýðsfélögunum.  Auk þess aflar téður vinnuveitandi tekna til launagreiðslna og annars með skattlagningarvaldi, sem viðsemjendur verkalýðsfélaganna hafa ekki.  Það fer bezt á því að gleyma læknum og kjarasamningi þeirra og hætta að bera saman ósambærilega hluti, enda leiðir slíkt aðeins út í ógöngur.  

Annar kostnaður fyrirtækjanna en launakostnaður nemur að jafnaði 30 % af verðmætasköpun þeirra, og er hann kallaður vergur rekstrarafgangur.  Hann samanstendur að mestu af afskriftum til endurnýjunar á fastafjármunum, vaxtakostnaði, tekjuskatti og hagnaði.  Síðasti liðurinn er nauðsynlegur til að umbuna fjármagnseigendum fyrir þá áhættu að leggja eigið fé í fyrirtækið, og þarf þess vegna að vera hærri en vaxtatekjur af bankainnistæðum eða skuldabréfum.  Fjárfestingar á Íslandi eru allt of litlar til að viðhalda hér þokkalegum hagvexti.  Skýringanna er m.a. að leita í mjög háum vaxtakostnaði og mjög háum launakostnaði í hlutfalli við getu fyrirtækjanna, svo að arðgreiðslur verða í mörgum tilvikum lægri en nemur eðlilegri ávöxtun eigin fjár fyrirtækjanna.

Ef t.d. launakostnaðarhlutfallið á Íslandi væri hið sama og að meðaltali í ESB, 57 %, þá ykist rekstarafgangur fyrirtækjanna um 90 mia kr, sem mundi þýða yfir 0,5 Mkr (milljónir króna) á hvern vinnandi mann á Íslandi á ári.  Yfirfært á samkeppnihæfni fyrirtækja á Íslandi má halda því fram, að íslenzkir launþegar fái um þessar mundir meira í sinn hlut en íslenzk fyrirtæki þola í raun og veru.    Það er þannig ljóst, að launþegar á Íslandi fá nú þegar meira í sinn hlut af þjóðarkökunni en með sanngirni má ætlast til.  Allir þurfa hins vegar að sameinast um að stækka þessa þjóðarköku, en það verður ekki gert með því að spenna launabogann um of, heldur með aukinni framleiðni og með auknum útflutningsverðmætum. 

Að sjálfsögðu jafngildir ofangreint hámarkshlutfall launakostnaðar, 70 %, ekki því, að kaupmáttur á Íslandi sé sá hæsti í Evrópu.  Hann er nú sá 11. hæsti, en hann vex hins vegar hraðast hérlendis og yfir 5,0 % árið 2014.  Til að viðhalda þeim vexti þurfa tekjur fyrirtækjanna að vaxa að raunvirði.  Þar eru lág verðbólga, efnahagsstöðugleiki og beinar erlendar fjárfestingar, lykilatriði.  Verðbólgan var árið 2014 undir 1,0 %, sem er mjög gott fyrir alla, ekki sízt unga fólkið, og nú hillir undir beinar erlendar fjárfestingar í kísiliðnaði á Íslandi.  Þeim munu fylgja fjárfestingar í orkuiðnaði fyrir lánsfé og eigið fé, sem kjörið er fyrir lífeyrissjóðina að taka þátt í.  Lífeyrissjóðir hafa árlega úr um 100 mia kr að spila í fjárfestingar, og ekki óeðlilegt, að fimmtungur þess fari til virkjana, en öllu vafasamara er af þeim að fjármagna kísilverin sjálf.  Þar er of mikil óvissa og áhætta fyrir þá, en orkufyrirtækin eru vön að setja varnagla í langtíma orkusölusamninga sína, sem veitir þeim forgangsrétt í þrotabú, ef illa fer, svo að þau hafa allt sitt á þurru.  Verkalýðsforingjum ber að gera sér grein fyrir því, hversu gríðarlegt tjón þeir vinna umbjóðendum sínum með því að standa fast á kröfugerð, sem er umfram getu atvinnuveganna að standa undir.

Það, sem hér hefur verið rakið, sýnir, að verðmætaskiptingin á milli fjármagnseigenda og launþega er hinum síðar nefndu meira í hag á Íslandi en nokkurs staðar þekkist.  Þetta er að mörgu leyti ánægjulegt og sýnir, að mikilvægar forsendur eru hér uppfylltar til að hagkerfið megi flokka sem Félagslegt markaðshagkerfi með dreifingu 70 % auðævanna til launþega, en eftir sitja 30 % hjá fjármagnseigendum.  Þetta er góður grunnur að tiltölulega miklum jöfnuði í þjóðfélaginu. Ef samkeppni á markaði væri virkari en raun ber vitni um, væri hér bezta dæmið um vel heppnað Félagslegt markaðshagkerfi, sem fyrirmyndar má leita að í Þýzkalandi og er að mörgu leyti eftirsóknarvert. 

Næstu ríki á eftir Íslandi í hlutdeild launakostnaðar af verðmætasköpun eru Svíþjóð með 65 % og Danmörk með 64 %.  Noregur og Finnland eru mun neðar á þessum lista.  Af þessu má draga þá ályktun, að þar, sem launakostnaðarhlutfallið er hátt, ríki meiri tekjujöfnuður en annars staðar.  Þetta er jákvætt fyrir lífsgildi þegnanna og markmiðin, sem flestir geta sameinazt um, að athafnalífið eigi að hafa.  Andstæðan væri lágt launakostnaðarhlutfall, þar sem fjármagnseigendur sópuðu að sér megninu af ávinningi atvinnustarfseminnar.

Með hliðsjón af þessari upptalningu verður ekki komið auga á veigamikla íslenzka hagsmuni, sem betur væru settir innan ESB en utan.  Þar er meiri ójöfnuður í tekjudreifingu og meira atvinnuleysi, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðfélagsóróann.  Ef við værum með evru og launahækkanir færu úr böndunum, mundum við fá hér gríkskt ástand. Fljótt á litið er það helzt stjórnmálastéttin og embættismenn, sem hagsmuni hafa af inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að Berlaymont er kjörlendi fyrir þessa hópa.  Sem betur fer setur þó meirihlutinn í þessum hópum hagsmuni Íslands ofar eigin hagsmunum.   

Hugsanlega mundu fésýslustofnanir hérlendis þrífast betur innan ESB en utan.  Það er hins vegar enn of skammt liðið frá því, að fésýslukerfi landsins var knésett af Bretum, sem ekki liðu fésýslumiðstöð á Íslandi, eins og þá var orðin raunin.  Rússnesk lánveiting til Seðlabanka Íslands var í boði 7. október 2008, en þá þótti hins vegar vænlegra að halla sér að AGS, sem lengi vel setti samþykkt Icesave-kvaðanna sem skilyrði lánveitinga.  ESB studdi þessar kröfur eindregið og tók beina afstöðu gegn Íslendingum með Bretum og Hollendingum í málaferlunum fyrir EFTA-dómstólinum þrátt fyrir hrottalega meðferð Breta á íslenzku bönkunum á Bretlandi og beitingu hryðjuverkalaga á Ísland, svo að ekki ætti nú reynslan að laða íslenzka fjármálageirann að ESB. 

Innflytjendur mundu væntanlega kætast við niðurfellingu tolla, t.d. á matvælum, en gæðum á íslenzka matvörumarkaðinum mundi hraka, ef íslenzkar landbúnaðarvörur yrðu að láta undan síga, og fyrir vikið yrði gjaldeyri kastað á glæ. Tollaniðurfelling þarf að gerast skipulega og getur gert það með gagnkvæmum samningum, þó að Ísland standi utan ríkjasambands.   

Ýmsir hérlendir starfsmenn stjórnsýslunnar og tilvonandi slíkir horfa með öfundaraugum með græðgibliki til búrókratanna í Brüssel, sem lifa þar í vellystingum og njóta skattfríðinda. 

Nú liggur umsókn Íslands um aðild að ESB í skúffu búrókrata stækkunarstjórans í Brüssel og rykfellur þar.  Með því að láta umsóknina liggja í láginni, gefa íslenzk stjórnvöld ranglega til kynna, að þau vilji sæta færis á inngöngu strax og ESB þóknast að gefa kost á viðræðum að nýju.  Þetta er algerlega ótækt, með fullri virðingu fyrir framkvæmdastjórninni í Berlaymont, af því að meirihluti þjóðarinnar, meirihluti þingmanna og ríkisstjórnin sjálf er andvígur aðild Íslands að ESB. 

Af ummælum margra þingmanna við atkvæðagreiðsluna um téða umsókn á Alþingi 16. júlí 2009 má ráða, að þáverandi meirihluti hafi verið beittur flokksagavaldi, þ.e. þvingaður með hótunum, til að samþykkja umsóknina.  Þjóðaratkvæðagreiðslu um málið var þá hafnað af Alþingi.  Hvorugur ríkisstjórnarflokkanna núverandi hefur í stefnuskrá sinni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllun umsóknar.  Hins vegar er þar að finna viljayfirlýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu, ef flokkarnir vilja afla heimildar til viðræðna um aðild að ESB.  Hvað sagt kann að hafa verið á einhverjum kosningafundum af einstökum frambjóðendum, bindur ekki hendur þingflokkanna.  Þeir hafa fullt lýðræðislegt umboð til að afturkalla umsóknina, og verður ekki betur séð en slíkt þjóni hagsmunum landsins bezt í núverandi stöðu.  Það mun hvort eð er þurfa að byrja frá grunni, vilji menn taka upp þráðinn aftur.

Þingmenn hafa líka fullt lýðræðislegt umboð til að óska eftir staðfestingu þjóðarinnar á slíkri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Til að spara fé væri þá ráðlegt, að slík atkvæðagreiðsla færi fram samhliða kjöri forseta lýðveldisins, sem verða munu næstu reglubundnu allsherjar kosningar í landinu 2016.    

 Evran krosssprungin 

 

     

 

   

     

 

    

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband