Skjaldborg um spilaborg

Við fall járntjaldsins 1989 misstu vinstri menn víða fótanna.  Ástæðan er sú, að allar útgáfur jafnaðarstefnunnar eiga rót sína að rekja til sameignarstefnunnar, sem boðuð var af hagfræðinginum og stjórnmálafræðinginum, Karli Heinrich Marx o.fl. á 19. öld og raungerð í blóðugri byltingu Trotzkys og Leníns í Rússlandi 1917 að undirlagi þýzku leyniþjónustunnar til að losna við Rússa úr Evrópustyrjöldinni 1914-1918. Rússar færðu sig síðan upp á skaptið með sigri á Þjóðverjum í Heimsstyrjöldinni 1939-1945, færðu landamæri til vesturs og stofnuðu alþýðulýðveldi undir alræði öreiganna í löndum Mið- og Austur-Evrópu. 

Alþýða Austur-Þýzkalands, DDR - Þýzka alþýðulýðveldisins, mótmælti skoðanakúgun, hömlum á athafnafrelsi og ferðafrelsi og fjárhagslegri eymd með friðsamlegum hætti, þar til landamæraverðir DDR opnuðu landamærahlið ríkisins og fólkið streymdi yfir, gangandi, hjólandi og á Trabant.  Þar með féll Berlínarmúrinn fyrir samtakamætti fólksins, sem fengið hafði sig fullsatt á botnlausri forræðishyggju, snuðri og kúgun hvers konar, og hvert alþýðulýðveldið á fætur öðru sömuleiðis, eins og spilaborg. 

Alþýðulýðveldin reyndust einnig vera fjárhagslega gjaldþrota undir kómmúnisma eða sameignarstefnu, og allt þetta leiddi til, að sameignarstefnan varð hugmyndafræðilega og siðferðilega gjaldþrota, og jafnaðarstefnan missti þar með kjölfestu sína, þó að sófakommar megi ekki heyra á slíkt minnzt.  

Nú voru góð ráð dýr fyrir vinstri menn. Á Íslandi komu tveir málaflokkar í stað trúarinnar á félagshyggjuna, sem rekin hafði verið í Austur-Evrópu og víðar. Þeir voru af ólíkum meiði, svo að höfða mætti til ólíkra hópa.  

Í fyrsta lagi var mótuð argvítug andstaða við afnotarétt einkafyrirtækja af auðlindum landsins. Mest hefur verið barizt gegn núverandi ábyrgðarskiptingu í sjávarútvegi, að ríkið stjórni auðlindanýtingunni þar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og að afnotarétturinn (ein tegund eignarréttar) á auðlindinni sé dreifður á fjölmörg fyrirtæki, sem eiga í innbyrðis samkeppni um fjárfesta, starfsfólk og viðskiptavini. Vinstri menn berjast hins vegar fyrir einokun á sviði sjávarútvegs, sem að lokum mun leiða til taprekstrar og bæjarútgerða aftur, með þjóðnýtingu hinna fjölmörgu aflahlutdeilda, og endurúthlutun þeirra eftir stjórnmálalegum leiðum, þ.e. af stjórnmálamönnum beint eða af ríkisstofnun í umboði pólitíkusa.  Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug, að útgerðir, sem komnar verða upp á náð og miskunn stjórnmálamanna, muni verða þjóðhagslega arðsamari en núverandi fyrirkomulag, sem árið 2013 skilaði ríkinu í beinar tekjur 26 mia kr og líklega hærri upphæð í beina skatta af starfsmönnum útgerða, sem keppa við erlendar útgerðir, sem sama árið fengu 890 mia kr frá ESB í rekstrarstyrki? 

Hitt sviðið innan auðlindanýtingar, sem vinstri menn berjast gegn, er orkuöflun fyrir orkukræfan stóriðnað í erlendri eigu.  Um þetta ritar prófessor Jónas Elíasson í Morgunblaðið þann 9. febrúar 2015 í tímabærri grein með fyrirsögninni,

"Er Rammaáætlun að setja vatnsafl Íslands í glatkistuna ?":

"Hin pólitíska náttúruvernd er þó líklega áhrifaríkust. Vinstri grænir berjast gegn vatnsaflinu, það rímar við fortíðina hér á Íslandi, áliðnaðurinn lifir á vatnsaflinu, og þar sjá vinstri menn helztu tengingu Íslands við alheimskapítalismann. Þá mengaði áliðnaðurinn talsvert í upphafi síns ferils, en það var um næstsíðustu aldamót.  Núna, meira en 100 árum síðar, hefur þetta komizt í lag að mestu, og áliðnaður mengar mjög lítið í dag."

Þarna lýsir prófessorinn í hnotskurn um hvað stjórnmálabarátta vinstri sósíalista á Íslandi hefur hverfzt eftir að "roðinn í austri" varð grámyglulegri en grámosinn.  Baráttan gegn erlendum fjárfestingum nær reyndar enn lengra aftur eða a.m.k. aftur til 1965, er Landsvirkjun var stofnuð til að virkja fyrir stóriðju.

Hver hefur verið birtingarmynd baráttunnar á seinni árum ?  Athugum, hvað prófessor Jónas hefur um það að skrifa: 

"Í verkefnisstjórn Rammaáætlunar eru ýmsir faghópar, sá númer eitt hefur það hlutverk að meta verndargildi virkjunarkosta.  Skemmst er frá því að segja, að hópurinn finnur verndargildi í hverjum einasta virkjunarkosti, nokkuð óháð því, hvernig landið er.  Á eftir koma svo aðgerðarsinnar, sem láta eins og sá blettur, sem virkja á hverju sinni, sé sú verðmætasta náttúruperla, sem landið á.  Þessi saga er búin að endurtaka sig í Blöndu og við Kárahnjúka og stendur nú yfir varðandi Neðri-Þjórsá.  Þá er grátbroslegur farsi í gangi með Hagavatnsvirkjun, sem lýst er nýlega í Morgunblaðinu".

Hegðun "náttúruverndarmanna" er með öðrum orðum orðin algerlega fyrirsjáanleg áróðurssíbylja, sem ekkert mark er á takandi, af því að hún er berlega ekki reist á faglegum grunni, heldur er tilfinningalegs eðlis.  Ekki er ætlunin að gera lítið úr tilfinningum til náttúrunnar né annars, en breyta þarf lögum um Rammaáætlun, ef pláss á að vera fyrir þær þar.  Rammaáætlun er þess vegna misnotuð.

Áfram skal vitna í hinn skarpskædda prófessor:

"Spyrja má, hvort virkjunarandúðin sé ekki réttlætanleg vegna þess, hve vatnsvirkjanir valda miklum náttúruspjöllum, en það er af og frá. Ísland á nú sjö vatnsvirkjanir, sem kallaðar eru stórvirkjanir, þó að í reynd séu þær smáar í sniðum á erlendan mælikvarða. Í raun hafa engar af þessum virkjunum valdið alvarlegum náttúruspjöllum, friðunarsinnar hafa engin dæmi um slíkt til að færa fram í sínum málflutningi.  Allt, sem þeir geta tínt til, er vatnsrof í bökkum hér og þar og breytt fiskgengd, en slíkt er alltaf að gerast hvort eð er.  Aðalumkvörtun friðunarsinna, sú, að vatnsbotn lónanna sé svo verðmætt land, að alls ekki megi færa það í kaf, heldur engan veginn.  Þvert á móti, Ísland er fátækt af stöðuvötnum, og þau bæta mynd náttúrunnar fremur en hitt."

 Frekari rökstuðningur fyrir þeirri skoðun, að andstaða við og andróður friðunarsinna við vatnsaflsvirkjunum sé tilhæfulaus, er þarflaus.  Á þessum vígvelli hljóta þess vegna umbreyttir sameignarsinnar í græningja að tapa. 

Hitt sviðið, sem jafnaðarmenn gerðu að sínu, þegar fótunum var kippt undan þeim með falli kommúnismans í Berlín 1989, var aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB.  Þarna er um áþekka þráhyggju að ræða, þrátt fyrir glataðan og tapaðan málstað, og gagnvart vatnsaflsvirkjunum.  Það hefur einfaldlega ekki verið sýnt fram á, að atvinnuvegir landsins, hvað þá íbúarnir almennt, muni standa betur að vígi í samkeppninni og lífsbaráttunni inni í 500 milljón manna hnignandi ríkjasambandi en utan. 

Samt neyttu jafnaðarmenn og sameignarsinnar aflsmunar á Alþingi 16. júlí 2009, gegn miklum mótmælum þáverandi stjórnarandstöðu og óskum um þjóðaratkvæðagreiðslu, og heimiluðu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að senda umsókn til Brüssel. Þar voru firn mikil á ferð, því að formaður annars stjórnarflokksins hafði hafði daginn fyrir kosningar farið með svardaga um við nafn flokksráðsins, að hvorki vildi hann né gæti samþykkt umsókn um aðild að ESB.

Nú er þar til að taka, að Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs Haarde og skjaldborgin um íslenzka innistæðueigendur föllnu bankanna og stofnsetning nýrra banka á rústum þeirra gömlu höfðu farið mjög fyrir brjóstið á kommissörum í Berlaymont, sem purkunarlaust drógu taum lánadrottna bankanna, eins og allra banka í ESB, en ríkisstjórnir voru af ESB þvingaðar til að bjarga bönkum á kostnað skattborgaranna, ef þær létu bilbug á sér finna.  Ríkisstjórn jafnaðarmanna í Lundúnum virtist samt ekki þurfa hvatningu til að bjarga öllum tæpum bönkum á Englandi, nema þeim íslenzku. Þeim var miskunnarlaust fórnað.   

Í Brüssel, Frankfurt, Lundúnum, París og víðar óttuðust menn mjög áhlaup á bankana í Hruninu, og íslenzka leiðin var engan vegin fallin til að auka traust á bönkunum annars staðar.  Af þessum ástæðum voru Íslendingar litnir hornauga víða árið 2009, þ.m.t. í Brüssel, og íslenzka ríkisstjórnin lagði sig af þessum ástæðum í framkróka við friðþægingu, og fórst í þeim efnum ekki fyrir, heldur gekk mjög langt í að gera fjármagnseigendum til hæfis. Er lítill vafi á því, að vinstri stjórnin vildi ekki ljúka bankaendurreisninni í anda Neyðarlaganna, því að þá hefðu fjármagnseigendur, kröfuhafarnir, talið sig hlunnfarna, þó að þeir gætu ekki sótt rétt sinn.  Þeir gátu hins vegar stundað "lobbýisma"-reynt að hafa áhrif, t.d. hjá ESB og AGS. Margir telja, að fjármagnseigendur hafi haft hér erindi sem erfiði, og til marks um það eru skrif leiðarahöfundar Morgunblaðsins í ritstjórnargreininni, "Alvarlegar ásakanir", þann 26. janúar 2015:

"Það er óskiljanlegt, að það hafi orðið forgangsmál hjá ríkisstjórn landsins að koma sér í mjúkinn hjá kröfuhöfum á kostnað íslenzkra skattborgara og fyrirtækja."

Þetta er í samræmi við það, sem fram kemur í þessum pistli hér að ofan, en þar er útskýrt, hvernig á undirlægjuhætti stjórnvalda stóð 2009-2012 gagnvart erlendum fjármagnseigendum, kröfuhöfum föllnu bankanna. Allt snerist um að fegra ásýnd Íslands í augum peningafursta til þess að ganga í augun á kommissörum í Berlaymont. Var þá einskis látið ófreistað og jafnvel fórnað stórkostlegum hagsmunum íslenzka ríkisins á altari Brüssel-dýrkunarinnar. Vegsummerkin eru skýr í bankaendurreisninni, þegar hrægömmunum var fært eignarhald á tveimur bönkum, algerlega að þarflausu, og engin viðunandi skýring á þeim gjörningi hefur verið gefin.  Hér er komið "mótíf fyrir glæpnum".

 Varfærið mat á líkum á innheimtu frá skuldunautum bankanna hafði leitt til þess, að ríkið tók innlendar eignir gömlu bankanna eignarnámi og óháð mat hafði leitt til bóta, sem nam um 50 % af nafnverði eignanna.  Þetta var alveg nægur heimanmundur frá ríkinu til nýju bankanna, og meira en víða í sambærilegum tilvikum, enda hefur hvergi komið fram, að bráð nauðsyn hafi borið til að styrkja eiginfjárstöðu nýju bankanna umfram þessa forgjöf, því að allir höfuðatvinnuvegir landsins gengu á sæmilegum afköstum þrátt fyrir hrun bréfaborgarinnar, og þess vegna urðu innheimtur reyndar betri en reiknað hafði verið með á varfærinn hátt.  Engar bankarekstrarlegar ástæður knúðu á um hlutafjáraukningu bankanna árið 2009, enda var þá spurn eftir nýjum lánveitingum í lágmarki.

Í fróðlegri Morgunblaðsgrein Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns, og Þorsteins Þorsteinssonar, rekstrarhagfræðings, er vikið að innkomu kröfuhafanna í bankana tvo án útskýringa eða upplýsinga um andvirði eignarinnar:

"Því var valin sú leið að semja um endurgjald, sem miðaði við ákveðið grunnmat yfirfærðra eigna og fremur svartsýnar efnahagshorfur.  Að auki var samið um skilyrtar viðbótargreiðslur, ef verðmæti eigna reyndist síðar verða meira en grunnmatið. 

Þá var samið um, að Kaupþing og Glitnir gætu yfirtekið meirihluta hlutafjár í þeim nýju bönkum, sem út úr þeim voru klofnir og að hlutafjárframlag kæmi frá LBI (gamla Landsbankanum) inn í Landsbankann." 

Við téð grunnmat auk skilyrtra viðbótargreiðslna máttu kröfuhafarnir allvel una miðað við miðgildi matsverðs Deloitte.  Það var fullkomið stílbrot, sem helgaðist af annarlegum hvötum, eins og fram hefur komið, en ekki af viðskiptalegri nauðsyn, að gera aðila, hverra hagsmuna slitastjórnir áttu að gæta, að meirihlutaeigendum nýju bankanna, tveggja af þremur, enda voru starfsmenn þeirra þegar settir á afkastahvetjandi launakerfi við innheimtu af skuldunautum, sem margir áttu um sárt að binda.  Þá hefur íslenzka ríkið þegar orðið af hundruðum milljarða í arðgreiðslum og glötuðum eignum vegna þessa einstæða gjörnings.  Hér voru skattborgarar þessa lands hlunnfarnir með "eindæma ófyrirleitnum" hætti, og til að bíta hausinn af skömminni var þingheimur síðan blekktur til að blessa þennan hneykslanlega gjörning á mikilli hraðferð í málahrærigrauti rétt fyrir jólahlé 2009.  Hér héldu handhafar framkvæmda- og löggjafarvalds þannig á málum, að full þörf er á að rannsaka, hvort í gjörningunum felist stjórnarskráarbrot.  Þessi einkavæðing tveggja banka er sú sóðalegasta, sem sézt hefur.  Ríkisendurskoðun rannsakaði þá, sem fram fór á föllnu bönkunum á sinni tíð, en fann ekkert bitastætt.  Er ekki ástæða til rannsóknar hennar á þessari og rannsókn Umboðsmanns Alþingis á framkomu fyrri ríkisstjórnar gagnvart þáverandi Alþingi í þessu máli ?  

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dags. 13.02.2015, er fjallað um þennan málaflokk, og þar koma svipuð sjónarmið fram og hér hafa verið reifuð:

Í Evrópu var hikað.  Þýzkaland réði því.  Spánn og nokkur minni ríki evrunnar voru neydd til að færa skuldir einkabankakerfisins við fjármálastofnanir stórríkja ESB yfir á skattgreiðendur sína.

Ísland var ekki komið undir hramm ESB, en samt var reynt að þvinga það með hótunum í sama far.  En á því augnabliki höfðu ekki barsmíðar og grjótkast enn fleytt vinstri stjórn til valda, og hún hafði því ekki náð að setja sálufélaga sína yfir Seðlabanka Íslands.  Þess vegna stóðst stefnan um, að aldrei mætti láta íslenzkan almenning taka yfir skuldir óreiðumanna. 

Ef sú staða, sem kom upp 9 mánuðum síðar, hefði verið raunin í október 2008, er vafalaust, að Ísland væri nú í sömu stöðu og Grikkland. 

Þessir aðilar, komnir í illa fengna valdastólana, reyndu þó sitt, þótt seinir væru, til að vinda ofan af lánsemi Íslands í óláninu með því að troða Icesave-samningum kröfugerðaríkja ofan í kokið á Íslendingum."

Hér að ofan heldur maður á penna, sem gerst má vita, því að hann stóð í hringiðu atburðanna og átti sinn drjúga þátt í því, að á örlagaþrungnum tíma var staðið gegn óbilgjörnum kröfum Brüssel, London og den Haag um að hneppa íslenzku þjóðina í miklu verri skuldafjötra m.v. landsframleiðslu en Grikkir hafa verið að krebera undan í 7 ár, og jafnvel verri en Weimarlýðveldið þýzka mátti sæta að tiltölu í Versölum 1919. 

Fyrir að vera fjármagnseigendum svo óþægur ljár í þúfu sem að ofan getur, galt hann með embættismissi og ofsóknum, þegar menn lítilla sanda og lítilla sæva höfðu með ofbeldi hrifsað til sín völdin við Austurvöll og síðan unnið Alþingiskosningar með lygum og undirferli.  Allt var falt til að komast inn undir verndarvæng kommissara og búrókrata í Berlaymont. Þetta má ekki liggja í þagnargildi, þó að vinstri öflin geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til að þagga þetta bráðum 6 ára gamla mál niður eða að drepa því á dreif með því að draga athyglina að öðru og með sinni innantómu samanburðarfræði við aðrar einkavæðingar.  Þar var stjórnskipanin þó ekki fótum troðin með því að leita heimildar fyrir gjörninginum á Alþingi eftir að allt var um garð gengið.  "Eindæma ófyrirleitni" kvað Hæstiréttur upp úr um af öðru tilefni. 

       

   

   

    

 

   

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband