Færsluflokkur: Evrópumál

Ástæður stöðnunar

Ísland var á árinu 2013 í 11. sæti Evrópu-ríkjanna varðandi VLF (verga landsframleiðslu) á mann og einkaneyzlu á mann. Í öllum bölvuðum barlóminum og nöldrinu hérlendis er hollt að íhuga þetta. Á undan voru eftirfarandi ríki í réttri röð frá toppi, og er rétt að gera nokkur þeirra að umræðuefni:

Lúxemborg - Noregur - Sviss - Holland - Írland - Austurríki - Svíþjóð - Danmörk - Þýzkaland - Belgía.

Lúxemborg er á toppinum aðallega vegna öflugs fjármálakerfis og lægri skattheimtu en annars staðar tíðkast, sem laðað hefur fé að þessu borgríki á milli Frakklands og Þýzkalands.  Lúxemborg er líkleg til að halda stöðu sinni, þó að ESB og BNA muni reyna að sauma að skattaparadísinni. 

Noregur er númer tvö í röðinni vegna olíu- og gasvinnslu, sem nemur um 2 milljónum tunna á sólarhring.  Vinnslukostnaður Norðmanna á þessu eldsneyti er hins vegar á meðal þess hæsta, sem gerist.  Á meðan vinnslukostnaður í Mið-Austurlöndum er innan við 10 USD/tunnu (tunna er 208 l)og á brezka landgrunninu um 60 USD/tunnu, þá er norskur vinnslukostnaður líklega um 90 USD/tunnu að meðaltali.  Með heimsmarkaðsverð á hráolíu undir 60 USD/tunnu, eins og nú er raunin á, þá er ljóst, að olíuiðnaðurinn færir Norðmönnum ekki lengur gull og græna skóga, heldur eymd og stórtap.  Í útflutningstekjum Norðmanna munar mest um sölu á gasi og olíu, og almennt kostnaðarstig í Noregi er hæst í Evrópu, og má rekja það til samkeppni um vinnuaflið frá þessum geira, sem nú er á fallanda fæti.  Fasteignaverð er stjarnfræðilega hátt í Noregi og spáð hrapi innan tíðar með alvarlegum afleiðingum fyrir mörg heimili og þjóðfélagið í heild.  Allt gerir þetta norska hagkerfið mjög viðkvæmt í núverandi árferði, svo að það er næsta víst, að Norðmenn verða ekki í þessu sæti að ári.  Norska krónan hefur fallið um fjórðung, og norski seðlabankinn, Norges Bank, ver hana nú enn frekara falli með gríðarlegum uppkaupum á NOK.  Það er þess vegna brostinn á fjármagnsflótti frá Noregi, og markaðurinn metur horfur Noregs árið 2015 slæmar.  

Svissland stendur mjög sterkt að vígi. Þar er rótgróinn iðnaður, bæði efnaiðnaður, knúinn að miklu leyti af vatnsaflsvirkjunum Svisslands, og tækjasmíði af fjölbreyttu tagi, frá klukkum til afriðla fyrir álver.  Þá má ekki gleyma svissneska súkkulaðinu og konfektinu, sem Svisslendingar taka jafnan með sér og úthluta á ferðum sínum erlendis.  Svissland er ferðamannaland, en skilgreiningin á því er 2 eða fleiri erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári.  Undir svissneska hagkerfinu eru þannig nokkrar traustar stoðir, og má þá ekki gleyma bankakerfinu, sem er ein af ástæðum styrkleika svissneska frankans, en fjármagn hefur flúið af evrusvæðinu í svissneska frankann og þannig gert svissneskum útflytjendum erfitt fyrir vegna hækkunar gengis CHF.  Greip svissneski seðlabankinn til þess ráðs að setja þak á gengi frankans 1,2 m.v. evru og seldi franka sleitulaust fyrir evrur þar til þessu hlutfalli var náð.  Ekki má gleyma svissneska landbúnaðinum, þ.m.t. vínyrkjunni, en þeir verja landbúnað sinn og telja varða við þjóðaröryggi, eins og svissneska herinn, sem nú er að vísu farinn að láta á sjá. Þrátt fyrir mikla velgengni eru Svisslendingar enn iðjusamir og nægjusamir, og þeir eru útsjónarsamir og vel menntaðir og munu þess vegna halda stöðu sinni sem ein af þremur ríkustu þjóðum Evrópu og sennilega leysa Noreg af hólmi sem númer 2.   

Þjóðirnar, sem koma þarna á eftir í röðinni, eru valtari í sessi af margvíslegum ástæðum.  Ein af þeim er öldrunin, sem nú leikur margar þjóðir svo grátt, að fari fram sem horfir, munu þær að mannsaldri liðnum líkjast mest einu risastóru elliheimili, þar sem aðeins 2 eru á vinnualdrinum 16-65 ára fyrir hvern á ellilaunum. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni, sem önnur eins óáran dynur á, og er hún mikil ógæfa.  Verður fjallað um þetta fyrirbæri hér á eftir.   

Seint á 4. áratug 20. aldarinnar reyndu hagfræðingar að útskýra, hversu lífseig Kreppan mikla var, með skorti á fólki.  "Breytingin úr fólksfjölgun í fólksfækkun getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér", sagði John Maynard Keynes árið 1937.  Árið eftir sagði annar virtur hagfræðingur, Alvin Hansen, að Bandaríkin, BNA, væru að verða uppiskroppa með fólk, land og nýjar hugmyndir.  Afleiðinguna sagði hann verða "tímamóta stöðnun, veikburða viðhjörnun, sem dæi fljótlega, og viðvarandi kreppur, sem skapa ólæknandi atvinnuleysi".  Maynard Keynes var átrúnaðargoð á Bretlandi fram að valdatöku Margaret Thatcher árið 1979, en þá var sérstök gerð frjálshyggju leidd þar til öndvegis og Keynesisma velt úr sessi, enda höfðu kenningar hans, sem voru í uppáhaldi hjá jafnaðarmönnum, reynzt gagnslausar á 7. og 8. áratuginum; og verra en það.  Þær voru stórskaðlegar efnahagslegum stöðugleika.   

Árið 2013 blés hagfræðingurinn Larry Summers við Harvard háskólann rykinu af hugtakinu "tímamóta stöðnun" til að lýsa langvarandi sýkingu vestrænu hagkerfanna.  Lítil eftirspurn og mikill sparnaður gerðu það ómögulegt að örva hagvöxt með hefðbundnum lágum vöxtum, sagði hann.  Lýðfræði gæti leikið aðalhlutverkið í veikingu hagkerfanna, sagði Summers, mun mikilvægara hlutverk en á 4. áratuginum.  Sé þetta rétt hjá Summers, sem margt bendir til, gætum við nú staðið frammi fyrir langvarandi stöðnunarskeiði og afturfararskeiði. 

Öldrun íbúanna getur haldið aftur af vexti og vöxtum með mismunandi hætti.  Minnkandi framboð vinnuafls liggur beinast við.  Úttakið frá einu hagkerfi er háð fjölda starfsmanna og framleiðni þeirra.  Í Japan hefur fólki á starfsaldri fækkað síðan um 1990 og í Þýzkalandi síðan um aldamótin, og fækkunin verður hraðari á næstu árum.  Fjölgun á vinnumarkaði mun stöðvast á Bretlandi á næsta áratugi, og í BNA verður fjölgunin aðeins 0,3 %. 

Að öðru jöfnu mun samdráttur í fjölgun starfsmanna um 0,5 % draga jafnmikið úr hagvexti.  Hagkerfisládeyðan gæti hafa flýtt fyrir starfslokum margra, og þess vegna hraðað fækkun á vinnumarkaði.  Í BNA öðluðust stórir eftirstríðsárgangar rétt til opinbers lífeyris árið 2008, þá 62 ára.  Þessi lífeyrisréttur gæti skýrt helming falls fólks á atvinnualdri, sem annaðhvort er að leita að vinnu eða er í vinnu, úr 66 % í 63 %. Á Íslandi er þetta hlutfall 67 % og fer lækkandi.  Þetta rímar vel við reynslu Japana, sem urðu fyrir stöðnun og verðhjöðnun á 10. áratugi síðustu aldar um svipað leyti og fólki á vinnualdri tók að fækka.  Lítill hagvöxtur þrátt fyrir lága vexti og ársverðbreytingar um 0 verða líklega viðvarandi ástand af þessum orsökum, og langvarandi verðhjöðnun vofir yfir evru-svæðinu.

Íbúafjöldi og aldur hefur líka áhrif á aðgengi fyrirtækja að viðskiptavinum og starfsmönnum, og þar af leiðandi á umfang fjárfestinga þeirra.  Keynes og Hansen höfðu áhyggjur af, að fækkandi íbúar þyrftu minna á framleiðslu bandarískra fyrirtækja að halda en íbúar í fjölgunarhami.  Nútíma líkön um hagvöxt eru reist á, að fyrirtæki þurfi ákveðna fjárfestingarupphæð per starfsmann-tæki, byggingar, land og ráð á þekkingu, til að framleiða hverja afurðareiningu. Ef færri starfsmenn eru fáanlegir, þá þurfa fyrirtækin jafnframt minna fjármagn. Neikvæð mannfjöldaþróun hefur þannig neikvæð áhrif á þróun fjárfestinga.  Nákvæmlega þetta hefur átt sér stað, t.d. í Þýzkalandi. 

Í rannsóknarritgerð komust Eugénio Pinto og Stacey Tevlin við bandaríska alríkis seðlabankann að því, að nettó fjárfesting (brúttó fjárfesting mínus afskriftir) er nálægt lágmarki sínu sem hlutfall heildarfjárbindingar frá seinni heimsstyrjöld í BNA.  Þetta er sumpart háð efnahagssveiflunni, því að bankakreppan leiddi af sér frestun fyrirtækja á nýframkvæmdum, og sumpart sérstakt fyrir okkar tíma.  Það hægðist á vexti fastafjármuna úr 3,1 % á ári tímabilið 1994-2003 í 1,6 % 2004-2013.  Hagfræðingar skýra 1/3 vaxtarsamdráttar með minnkandi aukningu vinnuafls og 2/3 til færri nýjunga.  Með öðrum orðum kaupa fyrirtækin minna af tækjabúnaði, af því að þau hafa færri starfsmönnum úr að spila, færri tækniframfarir að nýta sér.  Það má færa fyrir því rök, að minnkandi líkamleg frjósemi leiði til minnkandi andlegrar frjósemi, þegar litið er til meðaldurs þeirra, sem gert hafa merkar uppgötvanir.

Á Íslandi höfum við enn nægt landrými og auðlindir fyrir stækkandi þjóð.  Tækniþróunin hefur leitt til mikillar framleiðniaukningar og þess, að landið getur nú framfleitt margfaldri fornri jafnvægisíbúatölu sinni, sem var um 50 þúsund íbúar, og talið er, að mannfjöldinn hafi sveiflazt á milli 30 þúsund og 80 þúsund manns.  Með fleiri íbúum deilist fastur kostnaður á fleiri, svo að á meðan útflutningsgreinarnar geta tekið við fleira fólki, mun fjölgun íbúanna hérlendis leiða til bættra kjara heildarinnar.  Hver sú fjölgun getur orðið er háð tækniþróun og ytri aðstæðum, eins og mörkuðum, en er verðugt rannsóknarefni.  Hitt er ljóst, að Íslendinga þurfa ekki að bíða hin illu örlög fólksfækkunar á næstunni vegna takmörkunar á auðlindum. Hitt er annað mál, að frá árinu 2023 mun ellilífeyrisþegum fjölga hlutfallslega meira en fólki á aldrinum 16-65 ára.  Íslendingar verða nú þegar að stemma á að ósi, og er það efni í annan pistil.           

   

 


Komin að fótum fram

Óveðursský hrannast upp á Evrópuhimninum.  Vandamálin steðja alls staðar að.  Rússneski björninn öskrar í austri, og margir glúpna þá í vestri, því að orkumál Evrópumanna, flestra, eru í ólestri, á sama tíma og björninn gerir sig líklegan til að draga úr gasflæði til Evrópu á kaldasta tímanum í vetur.  Viðskiptahindranir Evrópusambandsins, ESB, á Rússland, hafa dregið máttinn úr útflutningseimreið Evrópu, Þýzkalandi, með þeim afleiðingum, að samdráttarskeið er að hefjast þar í hagkerfinu og ginnungagap verðhjöðnunar blasir við Þjóðverjum undir stjórn Bæjarans aðhaldssama, Wolfgang Schäuble. 

Samskipti Rússlands og Vesturveldanna kólna stöðugt, og Gorbachev, gamli, er farinn að tala um nýtt "kalt stríð" þarna á milli.  Mikil tíðindi urðu á G-20 fundi í Brisbane í Ástralíu 15. nóvember 2014, er Vladimir Pútín, útþenslukeisarinn í Kreml, flúði af fundinum eftir hörð átök við David Cameron, forsætisráðherra Breta, vegna framferðis Rússa í Úkraínu, og almennrar gagnrýni á Pútín á þessum vettvangi í Ástralíu.  Eru þessi tíðindi til vitnis um, að Vesturveldin ætla að láta Pútín heldur betur finna til tevatnsins, og má hann þá fara að biðja fyrir sér að hætti grísk katólskra, því að ríki hans stendur á brauðfótum þrátt fyrir gorgeirinn í Kremlverjum.   

Ofan á efnahagsvandamál Vesturlanda bætast reyndar vandamál varnarbandalagsins, NATO. Það blasir við, að NATO-ríkin verða að auka framlög sín til hermála, því að rússneski björninn hefur verið að vígbúast grimmilega og varið til þess um 10 % af landsframleiðslu.  Það mundi styrkja varnir Evrópu, ef Svíar og Finnar gengju í NATO, en þeir gáfu í reynd hlutleysi sitt upp á bátinn fyrir löngu.  Um inngöngu eru umræður í löndunum tveimur, en jafnaðarmennirnir þar setja sig upp á móti því og vilja ekki stugga við Rússum frekar en fyrri daginn.  Jafnaðarmenn skilja ekki sinn vitjunartíma, heldur ríghalda í fortíðina.  Friðþæging gagnvart áreitni hefur alltaf jafnast á við að míga í skóinn sinn í frosti.  Sannast jafnan, hversu litlir bógar jafnaðarmenn eru, þó að orðháka vanti ei í þeirra raðir. Að bíta í skjaldarrendur er hið eina, sem dugar, eins og Cameron gerði í Brisbane.  Þar urðu vatnskil, og er nú birninum nær að skríða í hýði sitt.

Það, sem nú veldur því, að Evrópa er helzti dragbíturinn á hagvöxt í heiminum, sem allir, nema jafnaðarmenn viðurkenna, að er grundvöllur þess að minnka fátækt í heiminum, er verðhjöðnun.  Í jaðarríkjum evru-svæðisins er nú þegar verðhjöðnun, og hin ríki evrunnar ramba á barmi verðhjöðnunar. Jafnvel Grikkir eru sagðir hættir að mestu að drekka, og er þá stutt í, að frjósi í helvíti. Hafði engan órað fyrir því í upphafi, að evran gæti haft svo gagnger áhrif á líf fólks.

Allur kostnaður lækkar í verðhjöðnun, nema afborganir skulda.  Það verður erfiðara að borga vexti og greiða afborganir af lánum í verðhjöðnun, af því að þetta tvennt lækkar ekki, en tekjurnar lækka.  Skuldir evru-ríkjanna flestra hafa vaxið undanfarin ár. 

Skuldir Þjóðverja hafa þó lækkað aðeins, og nema ríkisskuldir þó um 80 % af VLF, sem er langt yfir Maastricht-mörkunum, 60 %.  Skuldir heimila og fyrirtækja utan fjármálageirans nema 120 % af VLF, svo að heildarskuldir Þjóðverja nema um 200 % af VLF.  Þetta dugar þeim til að standa bezt að vígi og njóta beztu vaxtakjara á skuldabréfum eða aðeins um 2-3 %.  Hér að neðan eru upplýsingar um grafalvarlega skuldastöðu, sem hlýtur að framkalla greiðsluþrot í verðhjöðnun.  Nú þegar berast fregnir af óeirðum á Ítalíu, sem beinast að Þjóðverjum og sýna, hvert stefnir með evruna.  Þó að hún hafi gefið eftir á þessu ári, er hún einfaldlega of sterkur gjaldmiðill fyrir þjóðir með morkna innviði:

  

    

  1. Írar skulda mest evruríkjanna eða alls 430 % af VLF og vaxandi, þar af ríkið 120 %.
  2. Portúgalir skulda næstmest eða alls 390 % og minnkandi, þar af ríkið 130 %.
  3. Grikkir eru í heildina í 3. sæti með 300 % af VLF, en þar eru ríkisskuldir mestar eða 175 % af VLF.  Þeir geta ekki staðið undir þessu skuldafargi hjálparlaust, og vextir af grískum ríkisskuldabréfum eru nú 9 %, sem er óbærilegt.  Þar styttist nú í uppgjörið.
  4. Spánverjar skulda í heildina 300 % af VLF, eins og Grikkir, en ríkið er hins vegar betur statt með "aðeins" 100 % skuldabagga. 
  5. Á Ítalíu skulda heimilin tiltölulega lítið, en ríkið mikið, þ.e.a.s. heildarskuldir nema um 270 %, en skuldir ríkisins nema 130 % og eru vaxandi. 

Ef einhverju þessara 5 ríkja mistekst að endurfjármagna skuldir sínar, þá verður fjandinn laus.  Ítalir þurfa á hverju ári að endurfjármagna mestan hluta ríkisskuldanna, og þurfa þeir árið 2015 að útvega um 470 milljarða evra eða um þriðjung landsframleiðslu sinnar.  Það má ganga kraftaverki næst, ef þetta gengur snurðulaust.  Ef eitt ríki á evru-svæðinu lendir í vanskilum, mun það hafa keðjuverkandi áhrif.  Þjóðverjar hvorki geta né vilja setja fé skattborgaranna til svo stórfelldrar björgunarstarfsemi sem hér um ræðir, og þess vegna eru meira en 50 % líkindi á nokkrum ríkisgjaldþrotum á evru-svæðinu á næsta ári, sem munu þá ganga af evrunni dauðri. Hvað verður um einsmálsflokkinn á Íslandi, Samfylkinguna, þegar þetta verður um garð gengið ?

Í Þýzkalandi vex nú stjórnmálaflokki ásmegin, sem er á öndverðum meiði við núverandi stjórnarflokka hinnar stóru samsteypu í Berlín.  Alternative für Deutschland, AfD, hamrar á því við kjósendur, að evrustefna stjórnarflokkanna sé nauðhyggja og að við Þjóðverjum blasi sá kostur að afleggja evruna og taka upp sitt dáða DEM - Deutsche Mark.  AfD heldur því fram, að Þjóðverjum með Bundesbank í stafni mundi vegna betur með DEM en evru, og það er margt, sem bendir til þess.  Þeir væru þá lausir við eilíf vandamál með veik hagkerfi í EMU-myntbandalaginu, og óvinsældir evrunnar mundu þá ekki bitna á þeim.  Skörin er tekin að færast upp í bekkinn, þegar æstur Rómarlýður ræðst á þýzka sendiráðið í Róm og atar það út í rauðri málningu. Menningarmunurinn í Evrópu lætur ekki að sér hæða.

Evran án Þýzkalands væri auðvitað allt önnur Ella en nú, þó að vafi leiki á, að hún stæðist tímans tönn.  Líklegast er, að tími sameiginlegrar myntar sé liðinn í bili í Evrópu.  Þar af leiðandi mun eðli Evrópusambandsins gjörbreytast, og það verða, eins og Bretar hafa barizt fyrir, meira tolla- og viðskiptabandalag en ríkjasamband.

Er viturlegt að láta umsókn Íslands um aðild að ESB hvíla öllu lengur í skúffu í Brüssel ? Það er erfitt að koma auga á röksemdirnar fyrir því miðað við þróun mála síðan umsóknin var send inn.  Með því að láta umsóknina rykfalla í skúffunni gefa íslenzk stjórnvöld til kynna, að þau vilji taka upp þráðinn, þegar ESB gefur merki um, að ríkjasambandið sé tilbúið til að stækka á ný.  Þetta atferli er afar ólýðræðislegt gagnvart Íslendingum, sem aldrei voru spurðir um, hvort þeir vildu sækja um þessa aðild, og allar skoðanakannanir benda til, að meirihluti þjóðarinnar kæri sig ekki um að ganga í þetta ógæfulega ríkjasamband.  

Hitt er annað mál, að Ísland er hluti af Innri markaði ESB, og þar sem landið er í EES, ber okkur að taka upp margar tilskipanir EES, þó að ýmislegt bendi til, að Alþingi hafi þar verið full auðsveipt.  Þá væri ekki úr vegi, að nýr ráðuneytisstjóri Utanríkisráðuneytisins, sem er gagnkunnugur embættismannakerfi ESB, beitti sér fyrir því, að íslenzkum hagsmunum verði haldið á lofti við undirbúning tilskipana og reglugerða frá Berlaymont.     

   Tifandi tímasprengja

 

  


Samband Íslands við Evrópusambandið

Hagsmunatengsl og menningartengsl á milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) eru mikil og meiri en á milli Íslands og annarra landsvæða, eins og nú standa sakir.

Þess vegna er hætt við, að slæmt efnahagsástand í ESB á næstu misserum, einkum á evru-svæðinu, muni hafa neikvæð áhrif á viðskiptakjör Íslands í Evrópu.  Lítið framboð fiskimjöls vegna brests í ansjósunni frá Perú og minna framboð þorsks frá Rússum og Norðmönnum kann þó að bæta úr skák, en ládeyða og jafnvel verðhjöðnun í Evrópu mun tefja viðreisn álmarkaðarins.  Hvað verður um kísilmarkaðinn, ef áherzlan flyzt frá vindrafstöðvum og sólarhlöðum til Þóríum-kjarnorkuvera og jarðvarma er ekki gott að segja. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vandi evru-svæðisins er misgengi hagkerfa aðildarlanda myntbandalagsins.  Þjóðverjar hertu sultarólina upp úr aldamótunum síðustu, þegar þenslan í kjölfar endursameiningar Þýzkalands var tekin að grafa undan samkeppnihæfni þeirra eftir upptöku evrunnar.  Á meðan gömnuðu aðrir sér við innistæðulausar launahækkanir og hafa nú fengið þær margfaldar í hausinn sem bjúgverpil, því að evran er miskunnarlaus húsbóndi, sem refsar fyrir slíkt ábyrgðarleysi með því að gera viðkomandi þjóðfélög ósamkeppnihæf.

Aðhaldsaðgerðir Þjóðverja hrifu að sjálfsögðu, svo að verðlag hjá þeim hækkaði minna en annars staðar á evru-svæðinu.  Afleiðingin varð sú, að ríki með minni aga í ríkisfjármálum og í samningum um kaup og kjör fengu yfir sig hærri verðbólgu og verri viðskiptakjör við útlönd, sem þau geta ekki staðið undir, atvinnuleysið hefur þar orðið geigvænlegt, jafnvel yfir 20 %, og lífskjaraskerðing, þegar veizlunni lauk.  Sígandi lukka er bezt.

 Þessi óþolinmóðu ríki hafa ekki upp á nægilega mikið af vörum og þjónustu að bjóða, sem þau geta selt á hærra verði en keppinautarnir.  Þessi ríki stefna nú til efnahagslegrar Heljar og eru öðrum víti til varnaðar um það, sem gerist, þegar veikt hagkerfi gengur í myntbandalag við sterkt hagkerfi.  Mikil efnahagsleg vá steðjar nú að þessu myntsamstarfi vegna lítils hagvaxtar alls staðar á myntsvæðinu og verðhjöðnunar víða.  Fyrir myntsamstarf þjóða er ástand af þessu tagi eins og krabbamein í líkama. 

Um myntsamstarf fóru fram fróðlegar umræður á Bretlandi í aðdraganda atkvæðagreiðslu Skota um sjálfstæði.  Aðskilnaðarsinnar sögðust ætla að halda áfram með sterlingspundið, hvað sem tautaði og raulaði.  Það þótti sambandssinnum afleit hugmynd, og bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, kvað aðild Skota að sterlingspundinu vera ósamrýmanlega við fullveldi (e."incompatible with sovereignty").  Þessu lýsti seðlabankastjórinn yfir að vel yfirlögðu ráði.  Þetta var niðurstaða rannsókna Englandsbanka. 

Menn gæti að því, að yfirlýsing bankastjórans var ekki stjórnmálalegs eðlis, heldur niðurstaða hagfræðilegra rannsókna, sem saga evrunnar staðfestir. 

Þegar kemur að peningum og bankastarfsemi, á engin þjóð merkilegri sögu en Skotar, nema vera skyldi Gyðingaþjóðin.  David Hume var Skoti, sem árið 1748 setti fram fræðikenningu um samband peninga, verðbólgu og vaxtar. 

Myntbandalaginu, sem SNP, skozki þjóðarflokkurinn, sá fyrir sér um sterlingspundið að fullveldi fengnu, hefði svipað mjög til EMU, þ.e. evrópska myntbandalagsins um evruna.  Pundið héldi áfram sem mynt Skota, og Englandsbanki mundi ákvarða peningamagn í umferð og eitt vaxtastig fyrir bæði löndin og verða til þrautavara á krepputímum.  Slíkt myntbandalag mundi vissulega eyða skiptigengisáhættu og myntkostnaði í viðskiptum á milli landanna, sem virkar viðskiptaörvandi.  Viðskipti Skota við hin lönd Bretlands námu um 2/3 af VLF Skotlands árið 2013 eða GBP 110 milljörðum, svo að miklir hagsmunir eru í húfi.

Viðskipti eru þó ekki hið eina, sem þarf að beina sjónum að, þegar um myntsamstarf er að ræða.  Í þekktri ritgerð setti Robert Mundell við Columbia-háskólann árið 1961 fram próf fyrir vel heppnaðan samruna mynta.  Á kjörsvæði sameiginlegrar myntar verða framleiðsla - fjármagn og vinnuafl - að geta flutzt frjálst á milli án tillits til landamæra.  Núverandi sterlingsvæði fullnægir þessu vegna sameiginlegrar tungu og margra, sem flytjast á milli.  Fjármagn flyzt líka óheft á milli, svo að sparendur og lántakendur tengjast yfir landamæri um bankakerfið. 

Myntbandalag sterlings, án sambandsríkis, mundi hins vegar standa frammi fyrir mörgum vandamálum.  Hagsveiflur ríkjanna eru þokkalega vel samstiga, en ekki þó í fasa.  Það hefur óhjákvæmilega í för með sér, að peningamálastjórnunin er oft of strekkt öðrum megin við landamærin og of slök hinum megin við.  Þessi misleitni mundi líklega fara vaxandi, því að fjárstreymi inn og út úr sameiginlegum ríkissjóði hættir við upplausn ríkisins.  SNP flokkurinn í Skotlandi ætlar að auka útgjöld skozks ríkissjóðs um 3 % á ári, en Íhaldsstjórn Bretlands ætlar að ná jöfnuði á rekstri ríkissjóðs árið 2019.  Samt er hallinn á rekstri skozka ríkissjóðsins núna meiri en þess brezka, og tekjustofninn minnkar með hækkandi meðalaldri Skota og minna streymi úr eldsneytislindum Norðursjávar. 

Ef sameiginlega stefnu vantar varðandi ríkissjóðina, getur sterling-svæði hæglega orðið smá evru-svæði með Skotland í hlutverki Grikklands.  Þetta er ógæfulegt og útskýrir, hvers vegna allir sambandsflokkarnir eru andvígir myntbandalagi, ef til sambandsslita kæmi, og hvers vegna bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, kallaði myntbandalag "ósamrýmanlegt fullveldi" eða "incompatible with sovereignty" í ræðu 9. september 2014. 

Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga.  Bankastjóri Englandsbanka segir fullum fetum, að þátttaka ríkis í myntbandalagi og fullveldi þess sama ríkis fari engan veginn saman. 

Þó að núverandi stefna í ríkisfjármálum á Íslandi sé mun ábyrgari en sú skozka er um þessar mundir, er auðvelt að setja sér fyrir hugskotssjónir, að um Ísland mundu svipuð rök gilda og fyrir sjálfstætt Skotland innan sterlingsvæðis.  Íslendingar yrðu með öðrum orðum að vera viðbúnir því að leggja sig í framkróka við að líkja eftir hagsveiflu, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem þeir hygðust fá aðild að, en slíkt tækist aldrei almennilega, af því að samsetning íslenzka hagkerfisins er einstök.  Við yrðum dæmd til að vera nánast aldrei í fasa við ástand, sem viðkomandi seðlabanki tæki mið af við sínar ákvarðanir, hvort sem það væri evrubankinn, Englandsbanki, Seðlabanki BNA eða einhver annar.  Afleiðingin yrði sú, að hagkerfið á Íslandi mundi sveiflast á milli þenslu með töluverðri verðbólgu og samdráttar með töluverðu atvinnuleysi.  Það er þá vissulega hætt við, að gjaldeyrishagræðið yrði of dýru verði keypt, eins og nú er að koma á daginn á evru-svæðinu.  Eru ekki vítin til að varast þau ?  Samt ber möntrufólk hausnum við steininn, og batnar sá haus ekki við það.  Hann mun aldrei láta sér segjast, af því að jafnaðarmennirnir á Íslandi hafa alltaf talið Ísland of litla einingu til að standa sjálfstæða.  Það er engin ástæða fyrir kjósendur á Íslandi að velja slíkt fólk til valda, sem hefur slíka vantrú á þjóðinni, að hún geti ekki staðið á eigin fótum, og þess vegna verði að afhenda ríkjasambandi stjórnartaumana.

SNP-aðskilnaðarflokkur Skota lýsti því yfir í kosningabaráttunni fyrir 18. september 2014, að samþykktu Skotar aðskilnað, mundi SNP beita sér fyrir því, að Skotar héldu áfram að nota sterlingspundið.  Þessi valkostur - sterlingvæðing - er vissulega möguleg:  samkvæmt nýlegri rannsókn AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins nota 11 ríki annarra þjóða mynt óformlega.  Kiribati, eyjaklasi í Kyrrahafinu, hefur notað ástralska dalinn síðan 1979.  Svartfjallaland, Kosovo og Andorra nota öll evruna án þess að vera í ESB eða EES.  Ekvador og El Salvador nota bandaríkjadal.  

Það eru hins vegar tvö stór vandamál tengd þessari sterlingvæðingu Skota.  Ef Englandsbanki mundi ekki lengur bera neina ábyrgð á peningamálum Skotlands, þá verður peningamálastefna hans ákveðin alfarið á grundvelli hagsmuna ríkjanna, sem eftir verða í Sameinaða konungdæminu, þ.e. Englands, Wales og Norður-Írlands. 

Sem dæmi er núverandi munur á vaxtastigi Seðlabanka Íslands og Seðlabanka evrunnar um 5 %.  Hefði Seðlabanki Íslands verið með vexti niðri við 0 í meira en eitt ár, þá er anzi hætt við, að verðbólgan væri hér ríflega yfir viðmiðun Seðlabankans, 2,5 %, en hún er nú undir 2,0 %, enda var Peningastefnunefnd að lækka vextina um 0,25 %. 

Ef þensla eða samdráttur hæfist á Skotlandi, en Bretland sigldi lygnan sjó, þá mundi Englandsbanki ekkert aðhafast.  Áhrifin á skozkt fjármálakerfi gætu varla orðið verri.  Skotland hýsir stórt fjármálakerfi, sem stendur undir 12,5 % af þjóðarframleiðslu Skotlands.  Ef enginn seðlabanki styddi við bakið á þessum fjármálageira, mundi verða litið á hann sem áhættusamari fjárfestingarkost, og lántökukostnaður hans mundi hækka.  Mörg þessara fjármálafyrirtækja mundu flytja höfuðstöðvar sínar til Englands og taka hálaunafólk og feita skattstofna með sér þangað.  Af þessum sökum er ekki raunhæfur kostur að fara leið Svartfjallalands o.fl. og evru-, pund- eða dollarvæða peningakerfið á Íslandi í blóra við viðkomandi seðlabanka eða án hans sem bakhjarls.  

Bezti valkostur Skotlands eftir aðskilnað samkvæmt greiningu vikuritsins The Economist  hljómar róttækastur: nýr gjaldmiðill og nýr seðlabanki.  Þetta er reyndar afar algengt skref: 28 nýir seðlabankar hafa verið stofnsettir á síðasta aldarfjórðungi. 

Greining Bretanna á því, hvað sjálfstæðu Skotlandi væri fyrir beztu í peningalegum efnum fer ekkert á milli mála.  Íslendingar geta nýtt sér greiningar af þessu tagi, því að sambærileg greining virðist ekki hafa farið fram fyrir Ísland, þó að Seðlabanki Íslands hafi reyndar gefið út greiningu um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum.

Þess vegna yfirgnæfa flautaþyrlar umræðuna hérlendis með gildishlöðnum fullyrðingum, sem eiga sér engan stuðning í rannsóknum.  Það er heimskulega áhættusöm stefnumótun að taka upp mynt annarrar þjóðar eða ríkjasambands, eins og ofangreind rannsókn Bretanna sýnir og dæmin frá evru-svæðinu sanna. 

Það er raunar dýrt fyrir fámenna þjóð að halda úti eigin gjaldmiðli, en séu réttar forsendur ekki fyrir hendi, verður að öllum líkindum mun dýrara að fórna eigin gjaldmiðli og taka upp erlenda mynt.  Hvernig sem við snúum okkur, með eigin mynt eða aðra, komumst við aldrei framhjá lögmálum peningalegs stöðugleika og sjálfbærs hagvaxtar, sem í stuttu máli felst í ströngum aga ríkisrekstrar, peningamagns í umferð og í samningum aðila vinnumarkaðarins.  Ef launþegar ríkis, sveitarfélaga eða einkageirans þvinga með einhverjum ráðum viðsemjendur sína til snöggrar hækkunar launa, sem engin innistæða er fyrir, þá fer stöðugleikinn veg allrar veraldar, og versti óvinur allra launþega, verðbólgan, veður fram og gleypir allar heimskulegar prósentuhækkanir launa.  Menn verða að sýna biðlund og þolinmæði og leyfa hagkerfinu að vaxa fiskur um hrygg áður en tekið er út úr "Gleðibankanum".    

Það er meiri fylgni á milli hagsveiflna Skotlands og Englands en á milli hagsveiflna Íslands og Englands, Þýzkalands, Bandaríkjanna eða Kanada.  Vegna smæðar íslenzka hagkerfisins mundu seðlabankar þessara myntsvæða ekki taka minnsta tillit til þarfa og hugsanlegra vandræða íslenzka hagkerfisins, þó að við værum í myntbandalagi undir þeirra stjórn. 

Gjörðir viðkomandi seðlabanka mundu þess vegna ekki einasta verða gagnslausar á Íslandi, heldur gætu þær hæglega orðið stórskaðlegar íslenzka hagkerfinu.  Það liggur í augum uppi, að íslenzka hagkerfið yrði eins og bátskæna í stórsjó, sem ræki stjórnlaus fyrir veðri og vindum, ef enginn væri seðlabankinn til að lægja öldurnar.

Það vekur samt athygli við málatilbúnað ótrúlega margra hérlendis, sem tjá sig opinberlega, að þeir eru í hlutverki námuhestsins, sem var með blöðkur við augun, svo að sjónarhornið varð þröngt til að hann fældist síður.  Menn tala um eða rita um stórt viðfangsefni, sem þeir reyna að lýsa, en þeir einblína á einn þátt aðeins, t.d. eina löpp á fíl, og lýsa fílnum út frá löppinni.  Þeir bíta í sig, að þeirra lýsing sé sú rétta og verða hinir verstu, ef þeim er andmælt og bent á villur síns vegar. 

Þetta er engan veginn bundið við Ísland eða okkar tíma og nægir í því sambandi að minna á meðferð páfastóls á Galileo Galilei, sem hélt því fram, að jörðin væri hnöttótt og snerist um sólina, en kirkjan, að jörðin væri flöt og miðdepill alheims.  Í öllum málum er affarasælla að rannsaka og draga síðan ályktanir en að sleppa hinu fyrr nefnda og halda sig við sleggjudóma í stað hins síðar nefnda. 

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, að þröngsýni er ljóður á ráði vinstri manna, en þeim virðist fyrirmunað að meta málefni heildstætt, heldur einblína á afmarkaða þætti í stað heildarmyndarinnar og fimbulfamba út frá því endalaust út í loftið.

Það er því miður að koma í ljós núna, að evran var reist á sandi.  Hún hefur hangið uppi á styrk Þýzkalands, en nú er komið í ljós, að ójafnræðið er of mikið á milli ríkjanna í EMU-evrópska myntbandalaginu, ríkisbúskapur þeirra er of ólíkur og hagsveiflur þeirra of fjarri því að vera í takti.  Vinnuaflið á evru-svæðinu er ekki nógu hreyfanlegt á milli landanna, m.a. vegna tungumálaerfiðleika, svo að kostir Innri markaðarins nýtast ekki fullkomnlega til að jafna atvinnustigið. Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, hefur sagt við landsmenn sína, að Þýzkaland ætti sér enga aðra kosti en að hlaupa undir bagga með bágstöddum evruþjóðum.  Þetta hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þjóð, sem þykir þrengt að sér úr öllum áttum, og ekki í fyrsta skipti.

Það hefur nú runnið upp fyrir æ fleiri landsmönnum hennar, að þessi svo kallaði efnahagsstuðningur við bágstaddar evru-þjóðir gerir aðeins illt verra, og almannarómur í þessum bágstöddu löndum úthúðar Þjóðverjum fyrir aðhaldsstefnu sína í fjármálum heima og hjá ECB-seðlabanka evrunnar,  sem er í raun og veru stefna hinnar hagsýnu húsmóður, sem veit, að peningamál eru ekki vúdú, peningar vaxa ekki á trjánum, og það mun koma niður á börnunum að eyða um efni fram. 

Jafnaðarmenn í mörgum löndum eru þessu marki brenndir í ríkisfjármálum að slá lán og senda næstu kynslóð reikninginn.  Það tekur Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, ekki í mál.  Hann vill heldur ekki prenta peninga, sem engin verðmætasköpun er að baki, því að hann veit, að versti óvinur fátækra fjölskyldna er verðbólgan.  

Nú er kominn fram stjórnmálaflokkur í Þýzkalandi, sem andmælir viðteknum viðhorfum til ESB og evrunnar þar í landi og nýtur 10 % og vaxandi fylgis.  Með skírskotun til orðanotkunar frú Merkel kallar þessi stjórnmálaflokkur sig einmitt Alternative für Deutschland - AfD - valkostir fyrir Þýzkaland.  Boðskapurinn er sjálfstætt Þýzkaland, sem kasti evrunni og taki upp þýzka markið að nýju - DEM.  Merkel, kanzlari, hefur aftur á móti sagt við þýzka þingið, að Þjóðverjar eigi ekki annarra kosta völ en að styðja evruna og ESB með ráðum og dáð. 

Það er að renna upp fyrir mörgum, að slík stefna mun verða Þýzkalandi æ dýrkeyptari í tímans ráð, og mun örugglega hamla hagvexti og lífskjörum þar í landi hjá þjóð, þar sem meðalaldur íbúanna hækkar ískyggilega vegna viðkomu, sem er svo lítil, að íbúafjöldinn mun hrapa um tugi milljóna á fyrri hluta þessarar 21. aldar, nema Þjóðverjar taki aftur að fjölga sér, hraustlega.

Þessum flokki, AfD, vex nú fiskur um hrygg í fylkiskosningum og þrengir hann að kanzlaranum.  Hún mun þess vegna ekki geta beitt sér fyrir björgun evrunnar í sama mæli og áður, af ótta við kjósendur, sem mun hafa grafalvarlegar afleiðingar í yfirvofandi evrukrísu á hagsvæði í bullandi vandræðum með verðhjöðnun og samdrátt hagkerfis.  Hillir nú undir stórtíðindi af Evrópuvígstöðvunum, og er þá léttir fyrir Ísland að hafa ekki rígbundið trúss sitt við þessa truntu, heldur hafa fleiri valkosti.  Við þurfum sem betur fer ekki að leyfa þessari truntu að rótnaga heimatúnið, en getum notað hana sem fuglahræðu, og munum þá gauka að henni tuggu og brynna eftir þörfum.            

Mario DraghiMarine Le Pen 2014   

           

      

 

  

 


Þjóðerniskennd sækir í sig veðrið

Þessi misserin blása ferskir vindar um Evrópu á stjórnmálasviðinu.  Birtingarmynd þeirra er aðallega með tvennum hætti:

Annars vegar hefur flokkum vaxið ásmegin, sem eru gagnrýnir á myndun fjölmenningarsamfélaga í sínu hefðbundna þjóðríki.  Þessir flokkar gefa ekki mikið fyrir frelsin fjögur á Innri markaði Evrópusambandsins, ESB, a.m.k. ekki regluna um óhefta för vinnuafls á milli landa, og þeir eru yfirleitt í andstöðu við valdaframsal þjóðþinga sinna til embættismanna ESB í Brüssel og s.k. Evrópuþings.

Öflugastir þessara flokka eru Þjóðfylkingin í Frakklandi undir forystu Marie Le Pen, sem nýtur mikils fylgis í Frakklandi og vaxandi, eftir því sem getuleysi jafnaðarmanna á þjóðþingi Frakklands og í Elysée-höllinni í París til að fást við vandamál Frakklands verður lýðum ljósara.  

Frakkland er að sökkva í botnlaust skuldafen, þar sem ríkisskuldir eru komnar langt yfir 60 % af VLF, sem er viðmiðunin samkvæmt Maastricht-samninginum, og þar ríkir almenn svartsýni, verðhjöðnun er á næsta leyti og atvinnuleysi fer vaxandi.  Ef ekki verður snúið af braut árlegs ríkissjóðshalla upp á 4 %-5 %, þá verða munu skuldirnar innan 5 ára geta orðið Frökkum óviðráðanlegar, og þá mun hrikta í evrunni. 

Jafnaðarmenn hafa ekkert bein í nefinu til að kljást við vandamál með þeim meðulum, sem duga, og skila rekstrarafgangi á ríkissjóði.  Ráðstafanir samkvæmt hagspeki jafnaðarmanna eru eins og að hella olíu á eld. Hagspeki þeirra um að sáldra fé úr ríkissjóði um samfélagið og gera allt að helming landsmanna að bótaþegum, gengur ekki upp í raunveruleikanum, þó að málpípur þeirra séu oft býsna liðugar um málbeinið.  Endar ná sjaldnast saman hjá jafnaðarmönnum, og þá er unga fólkinu sendur reikningurinn með því að slá lán á æ verri kjörum eftir því sem dýpra er sokkið í skuldaforina. 

Annar flokkur á þjóðernislegum væng stjórnmálanna er UKIP-United Kingdom Independence Party á Bretlandseyjum.  Sá vill draga Bretland úr ESB. Hann fékk mikið fylgi, 25 %-30 %, í síðustu kosningum þar til Evrópuþingsins, og hefur þegar fengið fulltrúa í sveitarstjórn, og flótti er tekinn að bresta í þingmannalið Íhaldsflokksins yfir til UKIP Nigel Farage. 

David Cameron, forsætisráðherra brezku samsteypustjórnarinnar, hefur neyðzt til að reyna að hamla sérstaklega gegn UKIP með því að heita Bretum að semja völd til baka til Westminster og White Hall frá Berlaymont í Brüssel og síðan að leyfa þeim að kjósa um veru Bretlands í ESB.  Benda skoðanakannanir til, að stjórnmálalegt líf Camerons sé undir því komið, að honum verði mjög vel ágengt í Brüssel, svo að Bretar samþykki áframhaldandi veru lands síns í ESB.  Á eftirgjöf að hálfu Brüsselvaldsins eru hins vegar taldar litlar líkur.  Cameron gæti bjargað sér og flokki sínum með því að söðla um og hvetja Breta til að samþykkja úrsögn.  Dagar ESB í sinni núverandi mynd eru þess vegna taldir, enda er almenn óánægja í Evrópu með stjórnsýslu þess og lýðræðishalla.  Hér uppi á Íslandi lætur formaður jafnaðarmanna, Árni Páll Árnason, hins vegar út úr sér þvætting á borð við þann, að Íslendingar séu eina þjóðin í Evrópu, sem viti ekki, hvaða gjaldmiðil þeir muni nota eftir 10 ár.  Í Evrópu er ekki einu sinni vitað, hvernig ESB mun líta út eftir 10 ár, hvað þá hvort evran verður þá við lýði.   

Stuðningsmenn Þjóðfylkingarinnar, UKIP, Svíþjóðardemókratanna, Sannra Finna og annarra svipaðra um alla Evrópu, hafa þróun evrópskra samfélaga í átt til fjölmenningarsamfélaga á hornum sér og telja hana vega að rótum hefðbundinnar þjóðmenningar sinnar, sem þeir vilja fyrir engan mun fórna á altari samfélagsgerðar, sem þeir telja boðflennu í sínum ranni í þeim skilningi, að aldrei hafi alvarleg umræða farið fram um svo veigamikið mál eða kosningar um það.  Fólki finnst því vera troðið um tær, og að það og menning þess eigi í vök að verjast. 

Á tímum efnahagslegrar stöðnunar og vaxandi atvinnuleysis má líkja þessari þjóðfélagsgerjun við púðurtunnu, sem getur sprungið með byltingu, eins og t.d. valdataka Marie Le Pen í Elysée væri og úrsögn Bretlands úr ESB.  Þetta er nú allur stöðugleikinn, sem búrókrötunum í Brüssel hefur tekizt að koma á.  Hræringar Evrópu eru ekki hliðhollar ríkjasambandi í Evrópu.  Hræringar Evrópu stefna þvert á móti í átt til sundrunar Evrópu og miðstýrðra ríkja Evrópu.

Stærsta ríkið, að undanskildu Rússlandi, Þýzkaland, er ekki miðstýrt, heldur er mikil valddreifing í Sambandslýðveldinu, þar sem hvert fylki á sér þing og höfuðstað og fer með skattlagningarvald.  Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins í Berlín fer aðeins með málefni, sem telja má sameiginleg fyrir tvö eða fleiri fylki, landvarnir og utanríkismál og að sjálfsögðu rekstur á sameiginlegum ríkissjóði Þjóðverja.  Margir þjóðflokkar búa innan þýzku landamæranna með mismunandi menningu og mállýzkur.  Þjóðverjar verða margir hverjir að grípa til háþýzkunnar til að skilja hvern annan. 

Otto von Bismarck sameinaði þessa þjóðflokka m.a. með Deutsche Industrie Normen - DIN, svo að Svabar gætu framleitt íhluti fyrir Prússa, sem síðan gætu selt Rínlendingum tæki o.s.frv.  Jafnvel Bæjarar, sem sumir vilja ekki láta kalla sig Þjóðverja, heldur Bæjara, og að geðslagi svipar að sumu leyti mest til Austurríkismanna, una sér vel í þessu sambandsríki.  Stjórnarfyrirkomulag, sem Engilsaxar hönnuðu með Þjóðverjum eftir fall Þriðja ríkisins, virðist henta Þýzkalandi vel.  Reyndar spjara þeir sig undir hvaða kerfi sem er.  

Það er ekki hið sama uppi á teninginum í hinu Sameinaða brezka konungdæmi.  Brezka stjórnskipanin, sem fleytti þeim áfram til mesta heimsveldis sögunnar og sem réði niðurlögum einræðisherra á borð við Napóleon Bonaparte frá Korsíku, Vilhjálm 2. Prússakeisara af ætt Junkera, og Adolfs Hitlers, furðufugls með mikilmennskubrjálæði, ættaðan frá Linz í Austurríki, sem afarkostir Frakka í Versalasamningunum frá 1919 skoluðu að afloknum kosningum upp í kanzlarasæti í Berlín 30. janúar 1933, er nú að liðast í sundur, af því að sú gamla stjórnskipan svarar ekki kalli nútímans um sjálfstjórn minnihluta þjóða, sem af sögulegum, menningarlegum og efnahagslegum ástæðum vilja sjálfstjórn og jafnvel sjálfstæði. 

Þegar grannt er skoðað, eru það oft efnahagslegar ástæður, sem kynda undir sjálfstæðisbaráttu þjóða.  Olía og gas í lögsögu Skotlands hefur vafalítið lagzt á sveif með sjálfstæðissinnum Skotlands.  Katalóníubúar telja Madrid vera afætu á sér, og Quebeck er ríkt frá náttúrunnar hendi.  Boðskapur íslenzkra sjálfstæðissinna í upphafi 20. aldar var og, að auðlindir á hvern mann hérlendis væru miklar, og nægir að minna á herhvatir Einars Benediktssonar, skálds, um virkjun íslenzkra fallvatna. 

Þá er vert að hafa í huga, að viðskiptafrelsi, t.d. á Innri markaði ESB, hjálpar minni þjóðum við að afsetja sínar vörur og þjónustu, eins og um stórríki væri að ræða.  

 

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi 18. september 2014 setti af stað óstöðvandi þróun alls konar þjóðabrota í Evrópu í átt til sjálfstæðis.  Bretar ræða nú af kappi, hvað ný stjórnarskrá þeirra eigi að fjalla um.  Cameron hefur skipað William Hague, fyrrverandi leiðtoga Íhaldsmanna, formann stjórnarnefndar, sem á að koma með stjórnarskrártillögu. Vaxandi fylgi er fyrir því á Englandi, að aðeins þingmenn Englendinga fái að fjalla um ensk málefni og greiða um þau atkvæði, en hvorki þingmenn Skota, Wales-búa né Norður-Íra.  Við þetta ykist styrkur Íhaldsmanna á enska þinginu á kostnað jafnaðarmanna í Verkamannaflokkinum.

Um aldamótin síðustu voru 60 % Englendinga hlynntir því, að um ensk málefni á brezka þinginu yrði aðeins fjallað af þingmönnum Englendinga, samkvæmt Institute for Public Policy Research, en árið 2012 voru þeir orðnir 80 %.  Samkvæmt British Social Attitude Survey kölluðu 55 % af enskum kjósendum sig Breta árið 1997, en árið 2012 hafði þeim fækkað í 43 %, og kölluðu þá einnig 43 % sig Englendinga, en 14 % höfðu ekki gert upp hug sinn.  Þetta, þ.e. 43 %, sem líta fyrst á sig sem Englendinga og síðan Breta, er hærra hlutfall en á meðal Bæjara, Galisíumanna á Spáni og Bretóna á Bretagne-skaganum.  Hins vegar er þessi þróun komin lengra á meðal Skota og á meðal Katalóna og Baska á Spáni, þar sem aðskilnaðarhreyfingar eru öflugar.  Líklega er sama uppi á teninginum í Quebec, þar sem er starfandi öflug aðskilnaðarhreyfing. 

Fleiri svæði í Evrópu má nefna, þar sem sjálfstjórnartilhneiging hefur látið á sér kræla.  Má þar nefna Suður-Týról, þar sem þýzkumælandi fólk á erfitt með að sætta sig við ítalskt ríkisfang, Slésíu í Póllandi, þar sem margir Þjóðverjar hafa búið um aldir, og síðan auðvitað Úkraínu, þar sem rússneski björninn hefur beitt hervaldi í tilraun til að kljúfa ríkið og hernam hluta þess, Krím, og innlimaði í Rússland, þó að þar séu Úkraínumenn fjölmennir og einnig Tartarar, sem Jósef Djúgasvílí Stalín lét flytja nauðungarflutningum langt austur eftir í lok "Föðurlandsstríðsins mikla", sem hann reyndar sjálfur hóf með kumpánanum Adolf Hitler 1. september 1939 eftir að þeir skiptu Evrópu upp á milli sín u.þ.b. 10 dögum áður.

Belgía er nánast í stöðugri stjórnarkreppu vegna slæms samkomulags á milli Flæmingja og Vallóna, enda var Belgíu komið á fót til að verða stuðpúði á milli Þjóðverja og Frakka, sem eru þjóðir með ólíkar lyndiseinkunnir, svo að ekki sé meira sagt.

Hvaða ályktanir af ofangreindum róstum er hægt að draga með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar fyrir augum ?

Í fyrsta lagi voru sambandsslitin við Dani árið 1918 og lýðveldisstofnun árið 1944 sögulega réttar og tímabærar ákvarðanir, sem e.t.v. með vissum hætti hafa gefið tóninn fyrir þjóðríkjaþróunina í Evrópu nú í byrjun 21. aldarinnar.  Það er tekið eftir því, hvernig smáþjóðum Evrópu vegnar, þ.á.m. hinni íslenzku, lengst norður í Atlantshafi, og hvernig hún í kjölfar fjármálakreppu heimsins 2007-2008 hristi af sér fjötra fjármálakerfisins með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og vann síðan mikilvægt dómsmál í krafti eigin fullveldis í blóra við Brüssel og í fullkominni óþökk Breta og Hollendinga.  Það hefur verið dregin burst úr nefi gömlu nýlenduveldanna.   

Vinstri stjórnin stundaði ósæmilegt daður við framkvæmdastjórn ESB í Brüssel.  Þar léku skessur sér með fjöregg þjóðarinnar.  Upphafið var ósæmilegt vegna þess, að sú ríkisstjórn neitaði þjóðinni um að tjá sig sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort hún vildi fara á fjörurnar við ESB með hjónaband í huga eður ei.  Það er ótrúlega ósvífinn gjörningur að taka slíka umdeilda U-beygju í utanríkismálum án þess að leita fyrst eftir samþykki þjóðarinnar þar að lútandi.  Í stað þess var farin sú ósæmilega og ólýðræðislega leið að handjárna  þingmenn þáverandi stjórnarmeirihluta og skipa þeim að samþykkja aðildarumsóknina. Jafnvel ráðherrar gerðu grein fyrir atkvæði sínu með megnasta óbragð í munninum, og verður munnsöfnuður þeirra, t.d. Svandísar Svavarsdóttur, lengi í minnum hafður.

Þessi umsókn reyndist hið mesta feigðarflan, og viðræður í helztu málaflokkunum, sjávarútvegi og landbúnaði, báru engan árangur, svo að ESB sleit í raun viðræðunum með því að neita að afhenda nauðsynleg gögn, s.k. rýniskýrslu um sjávarútvegsmál, til að hægt væri að halda áfram.  Fyrri ríkisstjórn gerði þá hlé, og eftir kosningarnar í maí 2013 ákvað ný ríkisstjórn, að frekari viðræður væru vita vonlausar og leysti samninganefnd Íslands frá störfum.  Síðan það gerðist hafa mál þróazt með þeim hætti í Brüssel, að ákveðið var að hætta við allar stækkunartilraunir um 5 ára skeið, enda aðildarríkin að nálgast 30, og stjórnkerfi ESB orðið mjög þungt í vöfum og væri í bráðri þörf fyrir straumlínulögun.  Þar að auki blasa alvarleg vandamál við ESB-forystunni, bæði innan frá og utan, t.d. Bretar og Rússar, og efnahagslíf evru-ríkjanna er í kaldakolum. 

Að öllu þessu virtu blasir við, að það er tímaskekkja, að ofan í skúffu búrókrata í Berlaymont hvíli nú umsókn frá Íslandi um aðildarviðræður og aðlögunarferli.  Hvaða erindi á Ísland inn í það öngþveiti, sem þarna ríkir ?  Jafnaðarmennina á Íslandi dreymir um að koma Íslandi í enn samansúrraðra forræðis- og leyfisveitingasamfélag en reyndin er á nú þegar, og er þó nóg samt.  Þetta mun aðeins hafa í för með sér enn fleiri afætur á fámennum hópi vinnandi manna en raunin er á nú þegar og þess vegna versnandi hag allra, nema þeirra, sem fara á ESB-jötuna.  Allt tal um, að evran verði þá innan seilingar, er fávíslegt bull.  Ef menn vilja aðra mynt, eru aðrar leiðir útlátaminni en innganga í ríkjasamband. 

Umsóknarbréf Jóhönnu og Össurar á að afturkalla með þingsályktun frá Alþingi vafningalaust, hvernig sem fimmta herdeildin lætur.  Lýðræðislega séð er engin ástæða til að halda um þetta þjóðaratkvæðagreiðslu, af því að þjóðin var ekki spurð um þetta á sínum tíma.  Ef þingið vill ekki taka af skarið, getur það vísað málinu til þjóðarinnar, og þá verður sú snerra tekin, og getur orðið atgangur allharður, en enginn vafi getur leikið á um, að herfræði og vopnabúnaður sjálfstæðissinna er með þeim hætti, að fimmta herdeildin mun þurfa að lúta í gras.  Stólparitið að neðan sýnir gamlar kannanir.  Síðan þá hefur þróun mála orðið sjálfstæðissinnum í vil.      

Skoðun þjóðar

     

     

 

 

 

 

   

 

 

 


Af orkumálum Evrópu

Nú hefur nýskipaður forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins - ESB - í innsetningarræðu gert grein fyrir sínum helztu stefnumiðum.  Hann ætlar ekki að stækka ESB á næstu 5 árum, og af því leiðir, að hann ætlar ekki að setja tíma og fjármuni sambandsins í viðræður, sem ekki eru í gangi núna. 

Það er engum blöðum um það að fletta, að efnislega stöðvaði fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, viðræðurnar í janúar 2013, eftir að ESB hafði reynzt ófáanlegt til að ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarmál við hann og menn hans á forsendum skilmála Alþingis.  Núverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sleit þessum viðræðum með því að leysa samninganefndina frá störfum og tilkynna ESB um afstöðu ríkisstjórnarinnar til inngönguferlis.  Þess vegna sagði Juncker við Íslendinga, hvað sem líður farsakenndum furðutúlkunum Árna Páls, formanns Samfylkingar, í ræðu sinni, að ESB yrði því miður ekki tilbúið til að taka upp þráðinn fyrr en árið 2019.  Aðstoðarkona Junckers hefur síðan nafngreint þær þjóðir, sem Juncker átti við, og er Ísland þar á meðal. Enn verður Árni Páll að gjalti.

Carl Bildt virðist vera óánægður með þessa þróun mála, en hvorki Stórsvíinn né smámörlandinn fá nokkru breytt um "fait accompli" - frágengið mál í Brüssel.

Þessi frestun kemur sér ágætlega fyrir Íslendinga.  Á næstu 5 árum mun þróun ESB skýrast, og vonandi mun íslenzka hagkerfinu vaxa svo fiskur um hrygg, að landsmenn geti keikir gengið til samninga við þá, sem þá lystir að starfa nánar með.  Hvernig fer með núverandi umsókn, er nánast formsatriði.  Hún er dauð og hrökk upp af á meðulum frá ESB.  Það er aðeins eftir að auglýsa útförina, og hún mun fara fram án viðhafnar, þó tæplega í kyrrþey. 

Á sviði orkumála er margt á döfinni hjá ESB, enda hafa orðið atburðir og reyndar stefnumótun, sem knýja nú þróunina áfram.  Fróðlegt er fyrir Íslendinga að fylgjast með þessu, þó að Ísland sé of fjarri Bretlandi og meginlandinu til að geta með góðu móti tengzt þessari þróun, nema óbeint, og vegna vaxandi innflutningsþarfar Evrópu á orkukræfum vörum, sem gerir Íslendingum kleift að flytja utan alla orku, sem þeir kæra sig um að virkja, sem framleiðsluvörur með orku sem framleiðsluþátt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þýzka ríkisstjórnin hefur ákveðið að loka kjarnorkuverum landsins fyrir 2030.  Þá á að vinna a.m.k. 20 % raforkunnar úr endurnýjanlegum orkulindum í öllum ESB löndunum árið 2020. 

Þriðji hvatinn og ekki sá minnsti er stríð ESB við Rússa út af Úkraínu.  Það harðnar enn, og það verður að skrifa dráp á tæplega 300 manns, er glæpamenn, sem starfa í skjóli rússnesku ríkisstjórnarinnar, hvort sem þeir eru í rússneskum herklæðum eða í felubúningum, og þiggja af þeim vopn, skutu niður farþegaflugvél með tæplega 300 manns innanborðs í lofthelgi Úkraínu.  Það er glæpsamlegur verknaður, sem ógnar friði í Evrópu og Rússar bera ábyrgð á, þó að þeir beri af sér sakir, sem er lítilmannlegt.  Ekkert annað en kúvending Rússa í málefnum Austur-Úkraínu er siðferðislega ásættanlegt, en Pútín er búinn að koma sér í úlfakreppu og á óhægt um vik. Slíkir stjórnmálamenn eru hættulegir og þá þarf að fjarlægja.  

ESB er nú þegar búið að setja í gang 250 rafmagns- og gasverkefni til að verða í minni mæli háð Rússum um orku.  Eitt af þeim er að stuðla að nýtingu gríðarlegra jarðgaslinda, sem nýlega hafa fundizt undir botni austanverðs Miðjarðarhafs.  Eru mestu lindirnar í lögsögu Ísraels og Kýpur að því, er virðist.  Árið 2017 á að ljúka fyrsta áfanga lagnar lengsta sæstrengs í heimi.  Lögnin verður alls 1520 km löng í þremur hlutum.  

Strengurinn mun flytja rafmagn, sem framleitt verður í Ísrael og á Kýpur og sent verður um Kýpur og Krít til meginlands Grikklands, þar sem það mun fara inn á stofnkerfi Evrópu, líklega eftir talsverðar styrkingar á rafkerfinu.  Það verða líka tengingar við stofnkerfi Kýpur og Krítar til að draga verulega úr eldsneytis- og rafmagnskostnaði eyjarskeggjanna. 

Leiðin er sem sagt alls 1520 km löng, þar af eru 3 hlutar sæstrengir, 330 km, 880 km og 310 km.  Frá tæknilegu sjónarmiði er það lengd hvers hluta, sem máli skiptir, því að í áfangastöðunum á landi gefst tækifæri til að hækka spennuna og vega þannig upp spennufall á leiðinni.  Af þessum sökum mun Miðjarðarhafsstrengurinn geta notazt við kerfisspennu, sem sæstrengir hafa þegar verið gerðir fyrir, en Íslandsstrengurinn þarf líklega enn hærri spennu til að töpin verði fjárhagslega viðráðanleg.

Hvers vegna reiknar Landsvirkjun ekki með viðkomu í Færeyjum fyrir sinn sæstreng ?  Þá væri hægt að selja Fæeyingum rafmagn og minnka flutningstöpin.  Mest öll raforka Færeyinga er unnin með jarðefnaeldsneyti.  Það kann að verða viðskiptagrundvöllur fyrir sölu rafmagns frá Íslandi með viðkomustað í Færeyjum á leið til Skotlands, ef einhvern tíma finnst viðskiptagrundvöllur fyrir streng á milli Íslands og Skotlands, sem höfundur þessa pistils reyndar telur hverfandi líkur á.  Öðru máli gegnir um minni og styttri streng til Færeyja.  

Téðir sæstrengir í Miðjarðarhafinu verða á dýpi allt að 2,2 km, sem er tvöfalt mesta dýpi áformaðs sæstrengs frá Íslandi til Skotlands.  Sá hluti Miðjarðarhafsstrengsins, sem verður á mestu dýpi, verður með álleiðara í stað koparleiðara annars staðar.  Þetta þýðir tæknilegt gegnumbrot við hönnun nægilega sterkra strengja fyrir hinn feiknarlega togkraft, sem þeir verða fyrir við lögn á mikið dýpi.  Ber að fagna því, og verður þá einni tæknilegri hindrun af nokkrum slíkum rutt úr vegi Íslandsstrengsins. 

Það hafa verið uppi miklar efasemdir um hagkvæmni þess að leggja 1000 km langan sæstreng frá Íslandi með aðeins 700 MW flutningsgetu, svo að ekki sé nú minnzt á véfréttir af hugmynd úr Háaleitinu um að flytja aðeins núverandi yfirfallsorku um hann.  Fjárfestar munu missa neðri kjálkann niður á bringu, þegar þeir heyra um slíka nýtingu á 500 milljarða kr fjárfestingu. 

Téður Miðjarðarhafsstrengur mun geta flutt 2000 MW eða 2,0 GW.  Það er svipað og allt uppsett afl í vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum Íslands.  Orkulindir Íslands eru litlar á alþjóðlegan mælikvarða, ef hugsanlegum olíu- og gaslindum er sleppt, en mjög miklar á innlendan mælikvarða vegna fámennis.  Kostnaðaráætlun Miðjarðarhafsstrengsins með endabúnaði hljóðar upp á 3,5 milljarða evra eða 4,7 milljarða USD.  Strengurinn á að geta flutt jafnstrauminn í báðar áttir, eins og áform eru uppi um með þann íslenzka.  

Einingarkostnaður Miðjarðarhafsstrengsins er 3,1 MUSD/km, en þess íslenzka 4,0 MUSD/km samkvæmt kostnaðaráætlun Hagfræðideildar Háskóla Íslands.  Mismunurinn, tæp 30 %, kann að stafa af dýpri legu Íslandsstrengsins.  

Íslandsstrengurinn hefur of litla flutningsgetu fyrir hagkvæman rekstur á svo löngum og sterkbyggðum sæstreng, en aflflutningur um hann, 700 MW, verður jafnframt of mikill fyrir tengingu við hið litla íslenzka stofnkerfi rafmagns og getur hreinlega myrkvað landið við bilun. 

Íslandsstrengurinn er þess vegna sem stendur óburðug hugmynd frá viðskiptalegu og tæknilegu sjónarmiði.  Í hausthefti tímaritsins Þjóðmála mun verða sýnt fram á, að síðasta útgáfa af viðskiptahugmynd Landsvirkjunarmanna um að flytja raforkuna fram og til baka eftir strengnum, geyma hana að næturþeli í íslenzkum miðlunarlónum og nota hana endanlega sem jöfnunarrafmagn til að jafna bilið á milli framboðs og eftirspurnar á Bretlandseyjum að deginum gengur ekki upp, viðskiptalega, því að þá þarf tvisvar að borga háan flutningskostnað um strenginn, sem leggst ofan á verð næturrafmagns frá Bretlandi, þannig að kostnaðurinn við afhendingu að deginum á Bretlandi verður:    K = 50 + 2 x 140 =330 USD/MWh. 

Með þessar upplýsingar við hendina er áhugavert að bera saman flutningskostnað um Miðjarðarhafsstrenginn og Atlantshafsstrenginn á milli Íslands og Skotlands.  Höfundur þessa pistils hefur áður reiknað út flutningskostnað um þann síðarnefnda, 140 USD/MWh, og með sömu forsendum fékk hann út fyrir þann fyrrnefnda 65 USD/MWh, sem skapar grundvöll fyrir viðskipti með orku til Evrópu.  Þannig er flutningskostnaður Ísraelsstrengs til Evrópu innan við helmingur af flutningskostnaði Íslandsstrengs til Evrópu.  Mismuninn má aðallega skýra með hagkvæmni stærðarinnar.  Íslandsstrengurinn er allt of lítill til að bera sig, þó að einhverjum hafi tekizt að reikna flutningskostnað um hann 40 USD/MWh, þá skal hér bera brigður á þá útreikninga, og nægir að bera sæstrengskostnaðinn saman við kostnaðinn af Kárahnjúkavirkjun, sem framleiðir svipað orkumagn og strengurinn á að flytja á hverju ári.  Hún kostaði aðeins fjórðung af kostnaðaráætlun sæstrengs, hefur a.m.k. tvöfaldan afskriftartíma, 1/3 af hlutfallslegum rekstrarkostnaði og ávöxtunarkrafan var mun lægri, þar sem áhætta fjárfestingar Kárahnjúkavirkjunar var mjög lítil vegna langtíma orkusamnings um trygg viðskipti við Alcoa.  Hvernig dettur mönnum þá í hug að kynna flutningskostnað 40 USD/MWh til sögunnar, sem er aðeins u.þ.b. tvöfaldur vinnslukostnaður í Kárahnjúkum ?

Kýpurbúar greiða einna hæst verð fyrir rafmagn í Evrópu eða 26 Ecent/kWh, sem jafngildir 350 USD/MWh.  Til samanburðar greiða Ísraelsmenn 110 USD/MWh í smásölu.  Þá má gera ráð fyrir heildsöluverði á hvorum stað um 180 USD/MWh og 60 USD/MWh.  Gera má ráð fyrir, að vinnslukostnaður raforku í stóru gasorkuveri í Ísrael verði ekki hærri en 50 USD/MWh.  Þá verður kostnaður raforku, sem afhent er við strengenda á Grikklandi, um 115 USD/MWh, sem er svipað og markaðsverð á meginlandi Evrópu um þessar mundir.  Raforkuverð á Kýpur mun stórlækka og líklega einnig á Krít.  Hér er þess vegna grundvöllur til viðskipta í mótsetningu við tenginguna Ísland-Skotland, og tæknilegu vandamálin með tengingu sæstrengs við stofnkerfi, sem er aðeins þrefalt að stærð á við flutningsgetu strengs, verða ekki fyrir hendi.   

"Spurn eftir rafmagni í Evrópu er einstök. . . . Við teljum, að í framtíðinni muni jafnvel verða markaður fyrir annan streng", sagði Nasos Ktorides, stjórnarformaður í PPC-Quantum Energy, sem er samstarfsvettvangur Kýpur Quantum Energy og PPC Grikklands, sem er þeirra Landsvirkjun.  Þetta er áreiðanlega rétt mat. 

Í þessari stöðu eru viðskiptatækifæri Íslands hins vegar ekki fólgin í sæstreng, heldur að nýta raforkuna hér innanlands til að framleiða vörur fyrir evrópskan markað.  Því orkukræfari sem framleiðslan er, þeim mun meiri ávinningur verður af viðskiptunum í ljósi orkuskortsins í Evrópu og baráttunnar við Rússland. 

Tröllkonuhlaup    

             


Evrópusambandið í uppnámi

Það hefur hrikt í innviðum Evrópusambandsins (ESB) vegna átakanna við Rússa um Úkraínu, því að sitt hefur hverjum sýnzt í leiðtogaráði þess um stefnumótunina. Kemur ætíð í ljós, er á reynir á þessum vígstöðvum, að hver er sjálfum sér næstur, og engin Evrópukennd er fyrir hendi.  Evrópusambandið eru hagsmunasamtök, þar sem Þjóðverjar og Frakkar fara yfirleitt sínu fram, og hin ríkin ræða málin til málamynda í upplýsingaskyni, en gera sjaldnast ágreining um málamiðlun hinna tveggja.  Á þessu kann þó að verða breyting, og eru Bretar nú með uppsteyt, sem enda kann með sprengingu.

  Marine Le Pen, sigurvegari kosninganna til ESB-þingsins í maí 2014 ásamt Nigel Farage, hinum brezka, kveður ESB vera ólýðræðislegt skrímsli, sem minni mest á Ráðstjórnarríkin. 

Téður öxull Berlín-París er orðinn undinn og snúinn.  Forseti Frakklands er nú með minni stuðning frönsku þjóðarinnar en nokkur fyrirrennari hans hefur mátt upplifa.  Þessi forseti er með allt á hælunum, hvernig sem á er litið, og Jafnaðarmannaflokkur hans er trénaður ríkisafskiptaflokkur, sem ræður ekki við aðsteðjandi vandamál Frakklands. 

Berlín er þess vegna að smíða nýja öxla.  Stórmerkileg var myndin á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 10. júní 2014 af Fredrik Reinfeldt róa úti fyrir sumardvalarstað sínum með Angelu Merkel, David Camaron og Mark Rutte.  Þarna voru þessir 4 þjóðarleiðtogar, sem allir eru mótmælendatrúar, að mynda einhvers konar bandalag gegn katólska hluta Evrópusambandsins, ESB, og fyrsta viðfangsefnið var að velja forseta Framkvæmdastjórnar ESB og sjálfsagt hefur mönnun annarra leiðtogaembætta borið á góma í kjölfar hraklegra kosningaúrslita til ESB-þingsins að dómi téðra leiðtoga.  Það er mikill vandræðagangur vegna mönnunar æðstu embætta ESB um þessar mundir.  

 

Enn jukust vandræðin í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, þegar úrslit kosninganna til yfir 600 manna þings ESB urðu lýðum ljós.   Þá kom í ljós, að þriðjungur nýju fulltrúanna á þessu undarlega þingi var á vegum flokka, sem hafa það á stefnuskrá sinni að draga lönd sín út úr ESB og alveg sérstaklega að losa þau undan oki evrunnar, hins sameiginlega gjaldmiðils, sem þessir nýju þingmenn telja orsök efnahagslegra ófara landa sinna með ofboðslegu atvinnuleysi, stöðnun hagkerfisins og jafnvel verðhjöðnun, sem getur verið mikið böl.  Það urðu þess vegna vatnaskil í þessum kosningum, sem sárafáir virðast gera mikið veður út af hérlendis, enda er reiknað með, að "elítan" muni reyna að hunza þessa kosninganiðurstöðu, eins og allar kosninganiðurstöður, er hana varða og eru henni ekki að skapi.

  Aðildarsinnar hérlendis, sem nú um stundir kenna sig sumir við "Viðreisn", og allir berjast þeir við vindmyllur með því að heimta, að ríkisstjórn Íslands taki upp aðildarviðræður, þar sem Össur varð frá að hverfa, halda stífri efri vör að vanda.  Afstaða þeirra er gjörsamlega óskiljanleg og minnir ekki á neitt annað meira nú um stundir en hegðun strútsins, þegar hann lendir í vanda.  Þessi "Viðreisn", sem sumir aðildarsinna kenna sig við, er ekkert annað en viðreisn erlends valds á Íslandi.  Baráttumál þeirra er sem sagt afturhvarf til fortíðar.  Ekki er nú risið hátt á þeirri "Viðreisn".  Geðslegt á sjötugsafmæli lýðveldisins.

Í Rómarsáttmálanum frá 1957 stendur, að aðstandendur hans séu ákveðnir í því að vinna að æ nánara sambandi þjóða Evrópu, sem þýðir á endanum sambandsríki, þar sem hvert land hefur svipaða stöðu og "löndin" í Þýzkalandi eða fylkin í Bandaríkjunum.  Nú eru hins vegar að verða straumhvörf í þessari þróun og líklegt, að árið 2014 verði ekki talið síður merkilegt í sögu ESB en árið 1957. 

Ástæðan er sú, að árið 2014 er árið, þegar þegnar ESB-ríkjanna sögðu við "elítuna", "hingað og ekki lengra, nú er nóg komið, bezt er að snúa sér að því núna að vinda ofan af ólýðræðislegri þróun báknsins í Brüssel með öllum sérréttindum búrókratanna og ofurlaunum sumra ásamt slæmri meðferð á skattfé aðildarlandanna".

Flokkur Marine Le Pen (FN) fékk 25 % af atkvæðum Frakka, og fengu flokksmenn hennar mest fylgi í Frakklandi.  Það segir ekki litla sögu.  Það er ekki lengur talið útilokað, að hún skelli Hollande brókarlausum í næstu forsetakosningum.  Það yrði dauðadómur yfir ESB í sinni núverandi mynd.  Lýðurinn hefur nú fundið blóðbragð og mun ekki hika við að skella "elítunni", sem hann með réttu telur vera afætur á borð við úrkynjaða hirð Lúðvíks 16. á sinni tíð, sem eðlilega ekki kembdi hærurnar. 

Flokkur hinnar flugmælsku prímadonnu, Nigel Farage, UKIP, fékk 27 % á Bretlandi.  Það mun herða Íhaldsflokk Davids Camerones enn í andófinu gegn ESB og eykur enn líkur á þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB, jafnvel fyrr en seinna.  Cameron er kominn í nauðvörn fyrir Íhaldsflokkinn. 

Bretar munu líklega samþykkja úrsögn og munu í kjölfarið veita forystu viðskiptabandalagi í ætt við Efnahagsbandalag Evrópu á sinni tíð.  Öruggt má telja, að þá kvarnist enn meira úr ESB.  Slíkt yrði athygliverð þróun fyrir Íslendinga og mun krefjast góðrar taflmennsku af uanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg að halda stöðu okkar á markaði meginlands Evrópu, Bretlands og annarra. Við höfum um aldaraðir verið á áhrifasvæði Stóra-Bretlands, þó að Danir færu hér með húsbóndavald til 1918.  Það er líklegt til að þjóna vel viðskiptahagsmunum Íslands að binda trúss við Stóra-Bretland.  Þess má geta, að íslenzka krónan var um hríð tengd gengi sterlingspundsins á 3. áratugi 20. aldar.  Vegna gulltengingar sterlingspundsins gekk það gengissamstarf ekki lengi, en nú er öldin önnur.   

Forysta ESB getur ekki lengur hunzað vilja almennings í aðildarlöndunum og látið sem engin gjá sé á milli hans og Berlaymont.  Þar er óbrúanleg gjá.  Þjóðerniskennd á þar óneitanlega hlut að máli.  Það skín í gegnum málflutning sigurvegara kosninganna, að þeir vilja ekki taka við fyrirmælum um tilhögun heima fyrir frá útlendingum.  Frakkar og Hollendingar hafa reyndar áður kosið gegn ESB, þegar þeir höfnuðu Stjórnarskránni 1995, og Írar höfnuðu staðgengli hennar, Lissabon-sáttmálanum, 1998, þangað til þeir voru beðnir um að kjósa aftur. 

Ekki fer á milli mála, að andúð á innflytjendum er þáttur í afstöðu andófsflokkanna, sem mest juku fylgi sitt.  Eftir útþensluna til Austur-Evrópu hefur þessi óánægja aukizt, sumpart vegna ásóknar Austur-Evrópumanna í vinnu í Vestur-Evrópu.  Tækifærissinnaðir stjórnmálamenn eru fljótir að hagnýta sér djúpar tilfinningar á þessu sviði, og jarðvegurinn er frjór, þegar fjöldaatvinnuleysi ríkir og hagkerfin eru stöðnuð.  Á Íslandi eru annars konar aðstæður.  Þar er andstaðan meira grundvölluð á ótta við mikla kynblöndun, sem leiða kunni til glötunar hins forna yfirbragðs þjóðarinnar ásamt útþynningu menningarlegra sérkenna.  Nokkur blöndun hefur þó orðið á öllum öldum, sem forðað hefur fámennum stofni frá almennri úrkynjun.

Í fámennissamfélagi, eins og okkar, er óviturlegt að blása á þessar áhyggjur fjölda fólks.  Það verður að fara bil beggja í þessum efnum, takmarka fjöldann frá löndum utan ESB og leggja sig fram um að taka vel á móti þeim, sem hér fá landvistarleyfi og aðlaga þá sem hraðast að samfélaginu.  Erfðafræðilega styrkir blöndun af þessu tagi stofninn. 

Þyngst vegur þó óánægja með bágborið hagkerfi í Evrópu, sem hefur orðið stöðnun að bráð, sem leitt hefur til geigvænlegs atvinnuleysis, ekki sízt í evru-löndunum.  Að meðaltali nemur atvinnuleysið í ESB 11 %-12 %, en er í sumum löndum svo skelfilegt sem 25 % og þá yfir 50 % á meðal ungs fólks upp að þrítugu.  Almenningur í þessum kreppulöndum kennir regluverksfargani ESB og háu gengi evrunnar um með réttu eða röngu. 

Í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir verðhjöðnun hefur evru-bankinn, ECB, nú sett á neikvæða vexti, -0,10 %.  Þá þurfa menn að borga fyrir að geyma fé hjá bankanum.  Þjóðverjar eru sagðir æfir yfir þessari ráðstöfun hins ítalska bankastjóra ECB og bankaráðs hans og segja þessa aðgerð vera setta til höfuðs sparnaði, sem Þjóðverjar telja á meðal dyggða hins almenna manns.   

Það hafa komið fram ýmsar tillögur til úrbóta á ESB.  Minnka skrifræðið og ógilda ýmsar reglugerðir.  Ríkisstjórnir, þjóðþing og aðilar vinnumarkaðar ættu að endurheimta völd frá ESB á sviði félagsmála og vinnuréttar-foreldraorlofs og vinnutíma.  Þá ætti að draga úr völdum framkvæmdastjórnar og ESB-þingsins og færa völdin aftur til þjóðþinganna.  Það er alveg undir hælinn lagt, að þetta gangi eftir.  Ef lítið gerist í úrbótamálum, munu kjósendur grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri.  Þetta vita stjórnmálamennirnir, og þeir eru þess vegna á milli steins og sleggju.  Eina ráðið er að söðla um frá möntrunni um "æ nánara samband".  Juncker og hans nótar eru þó ekki á þeim buxunum.     

Þetta upplausnarástand, sem nú ríkir í Evrópusambandinu, gerir umsókn nú að þessu ríkjasambandi algerlega marklausa.  Það veit enginn, hvers konar fyrirbrigði ESB verður eftir t.d. 2 ár.  Þar af leiðandi er algerlega óhjákvæmilegt að setja málið aftur á byrjunarreit hér á Íslandi með afturköllun umsóknar og þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið, ef meirihluti Alþingis vill leita hófanna við breytt ESB í framtíðinni.

Sumir segja sem svo, að núverandi ríkisstjórn geti vel tekið upp þráðinn við ESB, þar sem Össur Skarphéðinsson skildi við málið í janúar 2013 eftir ríkjaráðstefnu ESB 2012, þar sem Össuri varð ekkert ágengt með umsókn Íslands.  Það eru samt lýðræðislegir og framkvæmdalegir meinbugir á þessum framgangsmáta. 

Æðstu stofnanir stjórnarflokkanna, Flokksþing og Landsfundur, höfnuðu þessari leið, en samþykktu að draga umsóknina til baka.  Hvað sem kann að líða túlkun á orðum frambjóðenda í kosningabaráttu, er þessi leið ófær af lýðræðislegum ástæðum.  

Frakkar og fleiri stöðvuðu inngönguferli Íslands, af því að kröfur Íslendinga til eigin stjórnunar á fiskveiðum og landbúnaðarmálum samræmdust ekki grundvallarstefnu og sáttmálum ESB í þessum efnum.  Ef menn halda, að Gunnari Braga takist að þoka málum áfram, sem lentu í frosti í meðförum Össurar, þá vaða menn reyk.  Gunnar Bragi er líklegur til að setja enn strangari skilyrði en Össur við "samningaborðið", því að hann vill ekki ná samningum.  Það er furðuleg sú þráhyggja aðildarsinna að halda, að Gunnar Bragi, utanríkisráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs, geti og muni vinna að framgangi málsins þeirra, aðildarsamningi Íslands við Evrópusambandið.  Þetta er eins og fáránleikaleikhús með sorglegum endi fyrir aðalleikarana, Viðreisnarmenn erlends valds á Íslandi.

Ríkisstjórnin er heiðarleg í afstöðu sinni til þessa máls.  Hún vill ekki endurvekja viðræður, sem gagnaðilinn stöðvaði, samkvæmt Rannsóknarskýrslu HHÍ, viðræður,  sem hún kærir sig ekki um að leiða til lykta.  Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja alls ekki, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í sinni núverandi mynd.  Það er ekki þar með sagt, að annar eða báðir flokkar hafni aðild að breyttu bandalagi.  Breytinga má vænta á ESB eftir hrakfarir sambandsríkissinna í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014.  

  

  

 

 

 

 


Átök á milli Rússlands og Evrópu

Í sögulegu samhengi virðast hagsmunir Rússa og þjóðanna vestan þeirra ekki fara saman.  Þannig hafa geisað fjölmargar styrjaldir á milli þessara þjóða í tímans rás, þar sem átakaefnin hafa verið land, auðlindir og áhrif vestan og sunnan Rússlands. 

Friðrik mikli, Prússakóngur, stundaði skefjalausa útþenslustefnu, lenti í átökum við Rússakeisara og mátti litlu muna, að Rússum tækist að taka Berlín í 7 ára stríðinu, en með heppni og herkænsku tókst Friðriki að varna því og reka Rússa af höndum sér. 

Þegar Frakkar höfðu seilst til áhrifa um alla Evrópu, nema í Svíþjóð og á Bretlandi undir forystu Korsíkumannsins Napóleons Bonaparte, þar á meðal sigrað austurríska herinn við Austerlitz og náð tökum á flestum öðrum þýzkumælandi svæðum Evrópu, en Þýzkaland hafði þá enn ekki verið sameinað, var lokahnykkurinn að leggja undir sig Rússland. 

Napóleón komst við illan leik til Moskvu 1812, en Rússar skildu eftir sig sviðið land, og rússneski veturinn varð Frökkum að fótakefli, svo að hinum mikla keisaraher Frakklands var nánast útrýmt á steppum Rússlands.  Draumar Frakkakeisara um frönskumælandi Evrópu hurfu þar með ofan í glatkistuna, og það var formsatriði fyrir Breta og Prússa nokkrum árum seinna að ganga frá Frökkum við Waterloo.  Síðan hafa Frakkar ekki borið sitt barr.  

Í Fyrri heimsstyrjöldinni neyddust Þjóðverjar og Austurríkismenn til að berjast á tvennum vígstöðvum, af því að Rússakeisari álpaðist af stað, vanbúinn, og hugði tækifæri fyrir sig til landvinninga í vestri.  Þetta reyndist hans banabiti, því að Þjóðverjar smygluðu kaffihúsasnatanum Vladimir Lenín yfir víglínuna frá Sviss, og hann steypti í kjölfarið Rússakeisara af stóli og samdi frið við Þýzkaland. 

Það var hins vegar of seint fyrir Þýzkaland, Austurríki og bandalagslönd þeirra, því að Bandaríkin og Kanada höfðu þá blandað sér í baráttuna á vesturvígstöðvunum af miklum þunga, og örlög keisarahersins þýzka voru þar með ráðin.   

Stefna kommúnistastjórnarinnar í Moskvu var fjandsamleg Evrópu að því leyti, að hún stundaði alls staðar undirróður, þar sem hún kom því við, með það að markmiði að koma á alræði öreiganna sem víðast, þó að heimsbylting væri ekki á stefnuskránni, eftir að Trotzky varð undir í valdabaráttunni við Stalín.   

Hinn andlýðræðislegi og þjóðernissinnaði stjórnmálaflokkur, NSDAP, náði völdum í Þýzkalandi eftir kosningar í landinu í janúar 1933 með því að skapa glundroða í landinu með ofbeldisfullum brúnstökkum, SA-Sturmabteilung, sem var deild í téðum stjórnmálaflokki.    Flokkurinn var mjög andsnúinn bolsévismanum í Rússlandi, en samt gerði Ribbentrop, utanríkisráðherra Þriðja ríkisins, griðasamning við Jósef Stalín, Molotoff og Kremlarklíkuna í ágúst 1939, og þar með taldi Adolf Hitler sig geta athafnað sig óáreittan í Evrópu án þess að þurfa að berjast á tveimur vígstöðvum í einu.  Það munaði mjóu, að hann kæmist upp með það.  Seigla, herkænska,  tækninýjungar og öflug njósnastarfsemi Breta komu í veg fyrir áform hans. 

Með Breta hart leikna, en ósigraða sumarið 1941, reyndust Þjóðverjar svo algerlega vanbúnir að leggja Rússa að velli, enda skárust Bandaríkin og Kanada í hildarleikinn árið 1942, og mátti hinn öflugi Wehrmacht-her lúta í gras 8. maí 1945 eftir ægilegar blóðfórnir þýzku þjóðarinnar. 

Þýzkaland missti gríðarlegt landflæmi eftir ósigurinn 1945, og landamæri Evrópu eru núna fjarri því að fylgja búsetu þjóðerna, þó að þjóðflutningar ættu sér stað í lok stríðsins. Það hefur hins vegar verið óskrifað lögmál eftir 1945 að hreyfa ekki við landamærum, enda yrði þá fjandinn laus. 

Vladimir Pútín, Rússlandsforseti á 3. kjörtímabili, sá sér leik á borði eftir vetrarólympíuleikana í Sochi 2014 að bregða út af þessu og sölsa Krímskaga frá Úkraínu undir Rússland, þó að þar búi fjölmargir Tatarar og Úkraínumenn, sem óttast Rússa.  Hafa ógnanir Rússa í garð nágrannaríkjanna síðan beinst að því að fá umheiminn til að samþykkja þessa landvinninga sem "fait accompli"-afgreitt mál.  Það á ekki að láta Rússa komast upp með slík bolabrögð gegn "alþjóðasamfélaginu".    

Mikil hernaðaruppbygging hefur átt sér stað í Rússlandi undanfarin ár.  Rússar verja nú 4,2 % af landsframleiðslu sinni eða 88 milljörðum bandaríkjadala árlega til hermála.  Þetta er hlutfallslega meira en hjá Bandaríkjamönnum (3,9 %) og miklu meira hlutfallslega en hjá Þjóðverjum (1,4 %), Kínverjum (2,0 %), Frökkum (2,2 %) og Bretum (2,3 %).  Upphæðin er þó aðeins 14 % af upphæðinni, sem Bandaríkjamenn verja til þessara mála á ári. 

Rússar búa við ýmsa alvarlega veikleika á innviðum sínum, sem gera þá illa í stakk búna fyrir átök við Vesturveldin.  Þar má nefna lága fæðingartíðni og bágborið heilsufar, sem hrjáir rússneska herinn og gerir honum erfitt fyrir að manna allar stöður.  Þeir hafa stefnt á að hafa eina milljón manns undir vopnum, en hafa í raun 700 þúsund manns.  Mikið af hergögnunum er uppfærsla á hergögnum Rauða hers Ráðstjórnarríkjanna.

Nú, þegar NATO hverfur á braut frá Afganistan, blasir við NATO nýtt og þó gamalþekkt hlutverk í Evrópu, sem er að halda Rússlandi í skefjum.  Nágrannar þeirra telja nú fulla þörf á því.  Til þess mun þurfa um hálfa milljón manns undir vopnum frá Eystrasaltslöndunum og suður til Rúmeníu.  Ríður á miklu, að herstjórn NATO takist að sýna þann fælingarmátt, sem dugar.  Það er ekki víst, að lengi verði þörf á svo miklum herstyrk búnum nútímavopnum, án kjarnorkuvopna, við austurlandamæri Evrópusambandsins, ESB, því að ekki er víst, að Rússar hafi efni á að verja vaxandi hluta landsframleiðslu sinnar til hermála.  

Hermálin taka nú yfir fimmtung ríkisútgjalda Rússlands.  Veikt hagkerfi, lækkandi orkuverð og hækkandi meðalaldur mun gera haukunum í Kreml erfitt fyrir.  Á meðan Pútín er í Kreml, munu hermálin þó njóta forgangs.  Vaxandi hernaðarmáttur Rússa leiðir Rússland fram á völlinn á ný sem valdamikið land.  Pútín veðjar á, að þetta láti hinn almenni Rússi sér vel líka.  Til þess eru refirnir skornir að halda honum og hirð hans sem lengst við völd. 

Ef hann hins vegar þarf enn að herða sultarólina, verður hann meðfærilegri.  Þess vegna þurfa Vesturveldin að herða að Rússum á efnahagssviðinu, og ein aðferðin til þess er að draga úr gas- og olíuviðskiptum við þá. 

Rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom er þegar farið að nota gasviðskiptin í kúgunarskyni við Úkraínu.  Þann 1. apríl 2014 tilkynnti Alexei Miller, forstjóri Gazprom, að gasverð til Úkrínumanna yrði hækkað um 44 % upp í USD 385,5 per þm3 (þúsund rúmmetrar).  Þetta þýðir, að árleg útgjöld Úkraínu til gaskaupa munu aukast úr USD 7,5 milljörðum í USD 10,8 milljarða, nema þeim takist að spara eldsneytisgas og/eða fá gas annars staðar frá.  

Úkraína skuldar Gazprom nú þegar USD 1,7 milljarða fyrir gasnotkun, og Rússar gætu fundið upp á að draga úr flæðinu um lagnir gegnum Úkraínu sem nemur notkun Úkraínu, 28 milljörðum m3 á ári.  Evrópa fær 24 % af sinni gasþörf frá Rússlandi, og helmingurinn, 80 milljarðar m3 á ári, fara eftir lögnum um Úkraínu.  Evrópa gæti þannig við refsiaðgerð Rússa orðið af 18 % af gasþörf sinni. 

Evrópa á fjölmarga valkosti í þessari stöðu, en hún verður þó að segja B, úr því að hún er búin að segja A, þ.e.a.s. ESB verður að standa við bakið á Kænugarðsstjórninni í baráttu hennar gegn ásælni Rússa.  ESB hlýtur þess vegna að veita aðstoð við greiðslu gasreiknings Kænugarðs gegn umbótum í stjórnarháttum þar og orkusparnaði, en vegna niðurgreiðslna á orku í Úkraínu hefur orku verið sóað þar óspart.  Úkraínumegin, þar sem gaslagnir þvera landamærin að Rússlandi, eru enn engir magnmælar, svo að ótæpilega er stolið úr lögninni.  ESB og AGS munu fljótlega láta setja upp mæla þar og við allar greiningar á lögnunum.  Úkraína framleiðir núna um 20 milljarða m3 af jarðgasi og væri hér um bil sjálfri sér næg um gas, ef nýtni væri með sama hætti og í Evrópu vestanverðri. 

Í marz 2014 skipaði Leiðtogaráð ESB Framkvæmdastjórninni að gera áætlun um að draga úr ríkjandi stöðu Gazprom á jarðgasafhendingu til ESB.  Það verður líklega lögð gasleiðsla frá Kákasusríkjunum og Mið-Asíuríkjunum, t.d. hinu gasauðuga Usbekistan, um Tyrkland til ESB.  Þó að vinnsla Norðmanna á olíu hafi allt að því helmingazt frá aldamótum, framleiða þeir enn mikið af jarðgasi og gætu aukið afhendingu til ESB um 10 milljarða m3 á ári.

Bretar eru að feta í fótspor Bandaríkjamanna og hefja vinnslu á jarðgasi úr setlögum með sundrunaraðferðinni (e. fracking).  Austur-Evrópa o.fl. eru sömuleiðis að fara inn á sömu braut, þó að andstaða við þessa aðferð sé enn sums staðar í Vestur-Evrópu.  Alls er áætlað, að vinnanlegt gas í jarðlögum ESB-ríkjanna nemi 11700 milljörðum m3 eða yfir 30 ára forða m.v. núverandi innflutningsþörf.  Þetta er fjórðungur af áætluðum forða Norður-Ameríku.  Núverandi vinnsla setlagagass í Norður-Ameríku nemur 70 milljörðum m3 á ári, en vinnsla ESB-landanna er aðeins talin munu nema 4 milljörðum m3 árið 2020. 

Eldsneytisgas er nú flutt með skipum á vökvaformi sem LNG (Liquefied Natural Gas).  Það hefur verið orkukræft og dýrt að breyta úr gasi í vökva og öfugt, en ný tækni við þetta er að draga stórlega úr þessum kostnaði, og það er líklegt, að Evrópa komi sér upp móttökubúnaði á LNG í ríkari mæli en nú er og muni auka kaup sín frá Persaflóanum og Vesturheimi umtalsvert.  Flutningar á LNG með tankskipum munu stóraukast.   

31 % eða 160 milljarðar m3 á ári af gasnotkun Evrópu fer nú til rafmagnsvinnslu.  200 milljarðar m3 fara til hitunar á húsnæði og eldamennsku og 150 milljarðar m3 til iðnaðarnota.  Með því að auka enn hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda og jafnvel kjarnorku má spara allt að 50 milljarða m3 á ári.

Þegar allt þetta er tekið saman, sést, að Evrópa getur orðið óháð Rússum um kaup á eldsneytisgasi, en það getur tekið allt að 15 árum.  Það er líklegt, að þessi stefna verði ofan á, og Rússar eru teknir til við mótvægisaðgerðir með stórfelldum viðskiptasamningi við Kínverja, sem m.a. felur í sér afhendingu á jarðgasi.

Það er líklegt, að til skemmri tíma litið muni árekstrar Rússlands og ESB halda orkuverði í Evrópu háu, en þegar til lengdar lætur mun sú þróun mótvægisaðgerða Vesturveldanna, sem lýst er hér að ofan, hafa áhrif á orkuverð til lækkunar, af því að birgjunum mun stórfjölga, og þar með mun samkeppnin aukast. 

Það er staðreynd, að Gazprom hefur haldið ESB í spennitreyju undanfarin 20 ár og gasverðinu þreföldu á við gasverð í BNA undanfarin 3 ár.  Slíkt gengur ekki til lengdar, og á því hlaut að verða breyting, þó að friðarspillandi framferði Rússa gagnvart nágrönnum sínum hefði ekki komið til.  Ef Vesturveldin með sitt NATO standa í lappirnar, munu Rússar fá að vita, hvar Davíð keypti ölið.

 

  

 

   

 

 

    

 

 


Spillt Evrópusamband

Það er ámáttleg helgislepjan, sem lekur af hérlendum mönnum, sem gengið hafa Evrópusambandinu (ESB) á hönd í andanum, um leið og trúarofsinn virðist vera að drepa þá.  Það mætti halda, að þar væri aldingarðurinn Eden án snáksins af málflutninginum að dæma.  Allt telja þeir vera þar með öðrum og betri brag en hér, en þar má þó svo sannarlega segja, að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla, þegar betur er að gáð.

Hvað er þá ESB ?   Í stuttu máli er ESB reist á draumsýn nokkurra manna, aðallega Frakka og Þjóðverja, um að treysta frið í Evrópu með því að tengja saman efnahagslega og fjármálalega hagsmuni þessara ríkja og annarra í Evrópu.  Allt er það gott og blessað. Landamærum Evrópu hafði verið breytt í Evrópu í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar, Þjóðverjum mjög í óhag, og Frakkar óttuðust hefndaraðgerðir Þjóðverja, þegar þeim yxi fiskur um hrygg, eins og gerðist á dögum Þriðja ríkisins, hvers stofnun og tilvist var bein afleiðing Versalasamninganna 1919, sem voru mjög auðmýjandi fyrir Þýzkaland.  

Síðan sáu menn tækifæri í hagræðingu með því að fella niður viðskiptahindranir innan ESB með stofnun Innri markaðarins.  Lokaskrefið hefur svo verið fólgið í "æ nánari samruna", sem leiði að lokum til stofnunar Sambandsríkis Evrópu.  Á þeirri vegferð eru þó margar vilpurnar, og almenningur fylgir ekki forkólfum að málum þar.

Viljum við Íslendingar hefja vegferð, sem leitt getur til aðildar Íslands að Sambandsríki Evrópu ?  Engin opinber umræða hefur farið fram á þeim nótum á Íslandi.  Í upphafi skyldi endinn skoða.  Á það hefur alltaf skort hjá aðildarsinnum.  Það er enginn hægðarleikur að sleppa úr klóm arnarins. Ef hjárænulegt tal um að "kíkja í pakkann" er tekið einu skrefi lengra, er það að "kíkja inn fyrir þröskuldinn" í Berlaymont og sjá svo til.  Ætli við mundum þá bráðlega heyra frá einhverri mannvitsbrekkunni hina viðteknu upphrópun eftir óvandaðan undirbúning: "þetta reddast" ? 

Það er hins vegar dauðans alvara að ganga í ríkjasamband, hvað þá sambandsríki, sem krefst vandaðrar greiningar á kostum, göllum og áhættum við inngöngu og umræðna á grundvelli greiningarinnar, sem lýkur með þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort sækja beri um.  Önnur nálgun þessa verkefnis er flaustur eitt, og þess vegna ber að skrúfa ferlið aftur á byrjunarreit.  Um það fjallar þingsályktunartillaga utanríkisráðherra.  Umsóknarferlið var og er bastarður, þar sem íslenzkir þátttakendur vor víðs fjarri því að hafa fast land undir fótum, af því að vandaðan og vel grundaðan undirbúning skorti algerlega.  Hámark ábyrgðarleysis og gösslaragangs er að hlaupa til, eins og kvíga að vori, og sækja um aðild að ríkjasambandi, nema einhvers konar neyðarástand ríki.  Neyðin var bara í hugum þeirra heittrúuðu.     

Það er engan veginn verið að loka neinum dyrum með samþykkt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, eins og sumir virðast halda.  Aðeins verið að biðja um vandaðri vinnubrögð en þau, sem viðhöfð voru áður en núverandi umsókn var send.  "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin." 

Til að greiða fyrir þróun Innri markaðarins hefur þurft að samræma regluverk og staðla aðildarlandanna, svo að framleiðslukerfin verði einsleit.  Til þessa verks þarf aragrúa embættismanna og starfsfólks þeirra, búrókrata.  Vanrækt var hins vegar að tryggja lýðræðislega ábyrgð innan þessa bákns, þannig að báknið í Berlaymont hefur verið á allt öðru skriði en almenningur í Evrópu.  Myndazt hefur djúp gjá á milli "elítunnar" í Evrópu og annarra íbúa álfunnar, sem staðfest verður í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí 2014.  Það er sama uppi á teninginum á Íslandi.  Hálaunamenn af ýmsu tagi og leiðtogar beggja vegna borðs á vinnumarkaðinum láta, eins og þeir vilji inn, en almenningur á Íslandi kærir sig ekki um það. 

Þessi meingallaða uppbygging ríkjasambandsins ber feigðina í sér og býður heim meiri spillingu en flest aðildarlöndin eiga að venjast í sínum heimaranni.  Sönnun þess er, að endurskoðendur ársreiknings ESB hafa ekki séð sér fært að staðfesta þá í um 15 ár vegna þess, að háar fjárhæðir hafa "týnzt".

Hér verða tínd til nokkur nýleg dæmi um spillinguna innan ESB, sem Karlamagnús skrifaði um í The Economist 26. apríl 2014:

Árið 1999 var framkvæmdastjórn undir forystu Santers neydd til afsagnar vegna fjársvika, misnotkunar á aðstöðu og frændhygli. 

Árið 2011 urðu nokkrir þingmenn á Evrópuþinginu uppvísir að því að þiggja fé fyrir tillögugerð um lagabreytingar frá blaðamönnum, sem þóttust vera hagsmunagæzluaðilar ("lobbyists"). 

Árið 2012 féll framkvæmdastjóri heilbrigðismála, John Dalli, frá Möltu, út af reglugerð um tóbaksmál, og er það mál enn sveipað þoku. 

Samt sagði einn hagsmunagæzluaðilinn í Brüssel af þessu tilefni: "Við höfum ekki Jack Abramoff", bandaríska áhrifavaldinn, sem var fangelsaður árið 2006 fyrir fjársvik, margvíslegt svindl og skattsvik í víðtæku hneykslismáli, þar sem við sögu komu bandarísk-indversk spilavíti. 

Alls staðar er spilling fyrir hendi, en hún er mjög misjöfn eftir löndum.  Þjóðverjar héldu t.d., að sér hefði tekizt að byggja upp heiðarlegt og gagnsætt samfélag með stofnun Sambandslýðveldisins 1949 eftir fall lögregluríkis þýzka nazistaflokksins í ógnarblóðbaði, þar sem Hitlersæskan hélt uppi vörnum í lokin vegna skorts á mannafla. Þjóðverjum var brugðið, þegar upplýst var, að ítalska mafían hefði búið um sig í landi þeirra.  Berjast þeir nú með oddi og egg gegn mafíunni, og þeim kann að takast að vinna á þessu aðskotadýri í þýzkri menningu, þó að Ítölum muni aldrei takast það, því að mafían er samgróin Suður-ítalskri menningu um aldaraðir.

Í Evrópu sér stofnunin OLAF um baráttu við fjársvik.  Hún rannsakar hundruði mála á ári hverju, en fæst ekki til að upplýsa, hversu mörg þeirra snerta ESB.  

Úrskurðarráð endurskoðenda (Auditors Court) í ESB hefur áhyggjur af hárri skekkju í bókhaldi ESB, sem nam 4,8 % af allri eyðslu ESB árið 2012.  Endurskoðendurnir taka þó greinilega fram, að þessi tala sé ekki mælikvarði á sóun og svindl, heldur á illa ráðstafað fé, e.t.v. af völdum mistaka eða óhæfni.  80 % fjárins er notað af ríkisstjórnum aðildarlandanna, og þess vegna er spillingin líklega á ábyrgð ríkisstjórnanna, sem leggst þá ofan á spillinguna, sem fyrir var. 

Framkvæmdastjórnin áætlar, að um 120 milljarðar evra (165 milljarðar USD) fari í súg spillingarinnar á hverju ári af fjárveitingum ESB.  Þetta er risaupphæð og svarar til þess, að um ISK 30 milljarðar hyrfu sporlaust út úr ríkisbókhaldinu íslenzka.  Reyndar mundi sú upphæð, sem íslenzka ríkið þyrfti að greiða í sameiginlega sjóði ESB slaga upp í þessa.  Eitthvað kemur til baka, og mundi örugglega hverfa sporlaust, eins og í öllum öðrum aðildarlöndum ESB, en það er ábyggilegt, að Ísland yrði nettó greiðandi inn í þessa gríðarlegu hít, sem fjárreiður Evrópusambandsins eru. 

Rósamál stækra aðildarsinna er að efla þurfi frekara samstarf Íslands við Evrópu.  Skoðun þeirra er, að þá muni stjórnarhættir á Íslandi gjörbreytast til batnaðar, og stöðugleiki hagkerfisins fást sem bónus vegna aðildar.  Þessi grundvöllur að afstöðu til örlagaríks máls er fullkomlega óboðlegur, barnalegur og órökstuddur með öllu.  Þvert á móti benda dæmin hér að ofan til, að spilling og hrossakaup kommissara og búrókrata í Brüssel muni hreinlega leggjast ofan á þá spillingu, sem fyrir er í landinu. 

Sumum aðildarsinnum verður tíðrætt um, að engin eiginleg sjálfstæðisbarátta við Dani hafi farið fram, heldur hafi "elíta" á Íslandi viljað fá meira athafnarými til að kúga almúgann.  Þeir gefa þannig í skyn, að ófrelsið hafi ekki borizt að utan, heldur að innan.

Það eru mikil endemi, vanþakklæti og vanþekking, þegar nútímamenn túlka baráttu 19. aldar manna á borð við Fjölnismenn, Jón Sigurðsson, forseta, Benedikt Sveinsson o.fl. með þeim hætti, að þeir hafi einvörðungu borið hagsmuni forréttindafólks fyrir brjósti, en ekki þjóðarinnar sem heildar.  Síðan bætir fólk með þessi viðrinislegu sjónarmið gráu ofan á svart með því að gera því skóna, að embættismenn í Berlaymont muni ná taki á meintri forréttindastétt á Íslandi, gangi Ísland í ESB, og leiðrétta misréttið.  Allt er þetta alger fásinna, því að hvergi er til þess vitað, að aðild hafi breytt innbyrðis valdahlutföllum í nokkru landi.

Hitt er annað mál, að ýmislegt jákvætt hefur borizt til Íslands í réttarfarslegum efnum, sem rekja má til Evrópuréttarins og samþykkta ESB, skárra væri það nú, og má þar t.d. nefna neytendaréttinn.  Ísland þarf hins vegar ekki að fórna fullveldi sínu til að þróa réttarfar sitt áfram.   

Það hefur ekki verið sýnt fram á með gildum rökum, hvernig ESB gæti aðstoðað við afnám gjaldeyrishaftanna.  Þó láta draumóramenn að því liggja, að staða Íslands sem umsóknarríkis létti eitthvað undir í þessum efnum.  Það hefur enginn sýnt fram á, að nokkuð sé hæft í því.  Þvert á móti er afnám haftanna eitt af skilyrðunum fyrir inngöngu í ESB, enda eru þau brot á reglu Innri markaðarins um frjálsa för fjármagns á milli landa.  Afturköllun umsóknarinnar mun ekkert kosta, hvernig sem aðildarsinnnar mála skrattann á vegginn. 

Þá víkur sögunni að evrunni.  Hún virðist enn hafa mikið aðdráttarafl í hugum sumra, en hefur hún reynzt þeim þjóðum vel, sem tekið hafa hana upp ?  Já og nei.  Hún hefur reynzt þeim vel, sem búið hafa við góðan aga á vinnumarkaðinum, þar sem samstaða hefur náðst um að halda launahækkunum í skefjum, þ.e. í prósentum talið innan framleiðniaukningar í hverri grein, til að þær kyndi ekki undir verðbólgu.  Þetta er kjarni málsins, og stöðugleiki hagkerfisins hefur reynzt á evrusvæðinu, eins og annars staðar, forsenda fyrir raunkjarabótum almennings.  Fullyrða má hins vegar, að evran hafi reynzt mun fleiri þjóðum, sem tekið hafa hana upp, böl en blessun.  Þetta verða einstakir kröfuhópar um viðbótar launahækkanir á Íslandi að hafa í huga.  Vinnustöðvanir þeirra eru blóðtaka fyrir þjóðfélag, sem stendur höllum fæti vegna slæmra viðskiptakjara.  Ábyrgðarhluti þeirra er mikill.  Heilbrigði hagkerfisins er í húfi. 

Gallinn við evrusvæðið er, að mjög misgóður agi ríkir í launamálum á svæðinu.  Suður-Evrópa hefur farið alveg hræðilega út úr verðlagshækkunum frá upptöku evru, sem eyðilagt hafa samkeppnihæfni landanna, svo að hagvöxtur hefur stöðvazt og atvinna hefur stórlega dregizt saman með fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu, þ.e. yfir 20 % í sumum löndum og yfir 50 % á meðal ungs fólks á vinnumarkaði undir þrítugu.  Það er ekki búið að bíta úr nálinni með þetta, og nú er hætta á, að löndin lendi í verðhjöðnun, sem er böl, sem erfitt er að losna við.

Frakkland er sérdæmi.  Það er stórt hagkerfi á evrópskan mælikvarða, sem látið hefur í minni pokann gagnvart Þýzkalandi, af því að Frakkar búa í mjög miðstýrðu samfélagi, og vinnumarkaðurinn er mjög stífur og þrúgaður af reglugerðafargani, sem hefur íþyngt fyrirtækjunum gríðarlega.  Frakkar hafa ekki borið gæfu til umbóta á þessu kerfi, eins og Þjóðverjar undir hinum skemmtanaglaða vini Putins, Gerhard Schröder, fyrrverandi kanzlara jafnaðarmanna, tóku sér þó fyrir hendur. 

Þegar jafnaðarmenn komu til valda í Frakklandi fyrir nokkrum árum með kosningasigri Hollandes, sem nú er óvinsælasti forseti í sögu Frakklands, hvað sem kvennamálum hans líður, þá keyrði allt um þverbak, því að hann hækkaði skattana, sem jók atvinnuleysi og verðbólgu og rýrði enn samkeppnistöðu Frakka.  Ný ríkisstjórn Frakka reynir nú að söðla um og taka upp efnahagsstefnu, sem sé hagvaxtarhvetjandi. 

Við þessar aðstæður hafa komið upp miklar efasemdarraddir í Frakklandi gagnvart ESB og um það, hvort evran henti Frakklandi, þegar allt kemur til alls.  Megn óánægja Frakka mun endurspeglast í miklu fylgi þjóðernissinna Marie le Pen í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí 2014, en á stefnuskrá þeirra er að draga Frakkland út úr ESB. 

Maastricht-skilyrði ESB um gjaldmiðlasamstarf ríkjanna áttu að skapa næga samleitni í peningamálum og ríkisfjármálum ríkjanna fyrir sterkan sameiginlegan gjaldmiðil, og þau eru góðra gjalda verð, og Íslendingar ættu að taka þau sér til eftirbreytni, en aðildarlöndin hafa ekki öll staðið við þessa skilmála.  Það má í raun segja, að Þýzkaland og Austurríki haldi nú uppi verðmæti gjaldmiðilsins evru.  Evran er að sönnu veikari en þýzkt mark væri, og það gagnast þýzkum útflutningsiðnaði vel, en hún er miklu sterkari, e.t.v. 30 % sterkari en flest hin ríkin ráða við, og þess vegna er að skapast ógnarspenna innan ESB, eins og frásögnin af Frökkum sýnir. Sú spenna boðar ekki gott fyrir framtíð þessa gjaldmiðilssamstarfs. 

Á meðan sú spenna varir og á meðan íslenzka hagkerfið er jafnbrothætt og raun ber vitni um, er algert óráð að leita inngöngu í myntsamstarf Evrópu, en það á að leita allra leiða til að efla stöðugleikann, svo að hagkerfið geti staðizt slíkt inngöngupróf í framtíðinni, hvaða mynt sem kann að verða fyrir valinu.  Eitt atriðið er að auka erlendar gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi fjárfestingar, því að skortur á gjaldeyri skapar óstöðugleika í yfirskuldsettu þjóðfélagi. 

Við Íslendingar viljum eiga gott samstarf við Evrópulöndin, enda eigum við í miklu viðskiptasambandi við þau mörg hver.  Síðan árið 1994 eða í 20 ár höfum við verið á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðið) með kostum þess og göllum.  Ein af fjölmörgum staðlausum fullyrðingum aðildarsinna er, að réttarstaða Íslands breytist sáralítið við inngöngu.  Þetta er eins og hver annar þvættingur, því að nú erum við í nánu viðskiptasambandi við ríkjasambandið, en erum ekki hluti af því.  Lögfræðilega er staðan sú, að aðild að EES samræmist íslenzku stjórnarskránni, en aðild að ESB gerir það ekki.  Þarf frekari vitnana við ?

Þá halda aðildarsinnar því fram, að ESB muni segja upp EES-samninginum við Ísland, ef umsóknin verður afturkölluð.  Þetta er hugarburður einn, eins og lafði Catherine Ashton, utanríkismálastjóri ESB, staðfesti bréflega nýlega við Evrópuþingið. 

Á hvaða sviði gæti hagur almennings á Íslandi hugsanlega vænkazt við inngöngu ?  Aðildarsinnar halda enn í evruvonina.  Hún er þó hálmstrá, af því að framtíð hennar er óljós, og það er alls óvíst, hvernig íslenzka hagkerfinu mundi reiða af með evru.  Ef landsmenn vilja taka upp erlendan gjaldmiðil í fyllingu tímans, að afléttum gjaldeyrishöftum og náðum efnahagsstöðugleika, en fyrr koma gjaldmiðilsskipti ekki til mála, væri áhættuminna að taka upp sterlingspund eða bandaríkjadal.     

  

   

 

  

    

 

 

 

  

  


Váboðar í Evrópu

Framferði Rússa í Úkraínu er með eindæmum.  Kremlverjar sendu dulbúnar, vopnaðar sveitir til Krímskagans, tóku völdin þar, héldu ólöglegar kosningar og lýstu Krímskagann síðan hluta af Rússlandi. 

Einu gildir, þó að Krímskaginn hafi áður verið hluti Rússlands og Vladimir 1. , Rússakeisari, hafi verið að sniglast þar.  Vladimir Putin á ekki að komast upp með ofbeldi gagnvart nágrannaríkjum undir neinum kringumstæðum. 

Hvers konar fordæmi er hann eiginlega að gefa í Evrópu ?  Ef Þjóðverjar o.fl. færu nú á flot með sams konar hundalógík, þá mundi brjótast út styrjöld í Evrópu í 3. sinn á 100 árum.  Putin verður að gera afturreka, og þá dugar varla að setja hann og meðreiðarsveinana á "svartan lista".  Sennilega dugar ekkert minna en efnahagslegur hernaður gegn Rússlandi og jafnvel nethernaður. 

Rússar hafa sent sérsveitir til héraða í Austur-Úkraínu, sem þeir telja hliðholl sér, tekið lögreglustöðvar, æst til uppþota og reynt að skapa glundroða í Úkraínu til að eyðileggja komandi forsetakosningar þar og e.t.v. til að skapa sér átyllu til að ráðast með landher sínum og flugher inn í Úkraínu með svipuðum hætti og Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 til að koma Þjóðverjum innan Póllands til hjálpar.  Rússar bölsótast yfir aðgerðum stjórnarinnar í Kænugarði, sem reynir að ná opinberum byggingum og embættum á sitt vald og binda þannig enda á þá lögleysu, sem nú viðgengst í Úkraínu, og Kremlarstjórnin ber ábyrgð á.

Sagan endurtekur sig í sífellu.  Kennisetning valdhafa Þriðja ríkisins (1933-1945) var, að allir þýzkumælandi menn ættu siðferðilegan rétt á að búa í einu ríki, Stór-Þýzkalandi, þjóðernisjafnaðarmanna.  Á þeim grundvelli var Austurríki tengt Þýzkalandi (Anschluss), Súdetahéruðin og síðan öll Tékkóslavakía innlimuð, og Heimsstyrjöldin síðari hófst 1. september 1939 með því að opna átti leiðina á milli Þýzkalands og Danzig (nú Gydansk) í Póllandi, sem var þýzk.  Til að róa Rússa var gerður við þá griðasáttmáli 10 sólarhringum áður og Póllandi skipt á milli Þýzkalands og Rússlands.  Vonandi er ekki annar griðasáttmáli í vændum, en undanlátssemi Þjóðverja við Rússa er tekin að ofbjóða mörgum.  

Þar sem Þýzkaland er forysturíki Evrópusambandsins, ESB, má segja, að enn standi átökin um Austur-Evrópu á milli Þýzkalands og Rússlands.  Nú er hins vegar jafnaðarmaður utanríkisráðherra Þýzkalands og finnst mörgum gæta óþarfa linkindar hjá honum í garð Rússa, þ.á.m. þeim, sem ábyrgzt hafa landamæri Úkraínu, Bretum og Bandaríkjamönnum.  Putin spilar á óeiningu Vesturlanda.  Hann á ekki að komast upp með slíkt.

Nú er spurningin, hvort Úkraínu verður skipt á milli Evrópusambandsins (ESB) og Rússlands ?  Framferði Rússa nú árið 2014 minnir um margt á framferði Þjóðverja á dögum Þriðja ríkisins.  Vladimir Putin, sem augljóslega er haldinn mikilmennskubrjálæði, hefur lýst því yfir, að allir Rússar eigi rétt á því að búa undir rússneskum verndarvæng og hann muni vinna að því, að svo verði á sínum valdaferli.  

Þetta er með algerum endemum, og Vesturveldin verða að setja upp í sig tennurnar strax og Vesturlandamenn að vona, að einhverjar vígtennur séu þar á meðal.  Í Evrópu er fátt um fína drætti í þeim efnum, en NATO undir forystu Bandaríkjanna (BNA) verður þar að koma til skjalanna. 

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er;  í þessu máli hefur ESB rétt einu sinni orðið sér til skammar, þegar á herti.  Þar er hver höndin upp á móti annarri, svo að viðbrögð Vesturveldanna eru friðkaup enn sem komið er, þó að Bretar og Bandaríkjamenn, sem ábyrgðust landamæri Úkraínu fyrir 20 árum, hafi talað fyrir harðari aðgerðum.  Þetta viðurkennir hinn stæki ESB-sinni, Joschka Fischer, græningi og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands í góðri grein, "Þáttur Evrópu í harmleik Úkraínu", sem Morgunblaðið birti 29. apríl 2014.  Joschka kvað Kremlverja nú beita "spægipylsuaðferðinni á Úkraínu, og um forysturíki ESB, Þýzkaland, hafði hann þetta að skrifa:

"Það hefur aðallega verið Þýzkaland, sem hefur streitzt gegn því að samþætta orku-og jarðgasmarkað Evrópu.  Eftir harmleikinn í Úkraínu getur enginn í Berlin varið þessa afstöðu, sér í lagi í ljósi þess, að leiðtogar Þýzkalands vilja ekki beita Rússa refsiaðgerðum.  Það verður ekki lengur neitt rými til afsakana um, hvers vegna ætti ekki að koma á orkusambandi."

Málið er, að efnahag Rússlands hnignar, vinsældir Putins voru í rénun, enda búinn að vera lengi við völd og mikið spillingarfargan í kringum hann.  Hann sá sér færi á að setja hefðbundna útþenslustefnu Rússlands á dagskrá sér til framdráttar, þegar byltingin gegn Janukovich, leppi Rússa, var gerð í Kænugarði í vetur.  Rússland stendur á brauðfótum, fámennisauðvald hefur tögl og hagldir, en almenningur lepur dauðann úr skel og huggar sig með bokkunni.  Drykkjuskapur er að gera út af við Rússland, meðalaldur fer lækkandi, og Rússum fækkar.

Rússland státar ekki af innri styrk Þriðja ríkisins, þar sem valdhafarnir hættu strax við valdatökuna 30. janúar 1933 að greiða sigurvegurum Fyrri heimsstyrjaldarinnar stríðsskaðabætur og beindu þess í stað fénu í fjárfestingar í innviðum Þýzkalands og hlutu vinsældir fyrir.  Þjóðverjum fjölgaði hratt í Weimarlýðveldinu og fram að Síðari heimsstyrjöld, og þeir tóku forystu í tækniþróun og iðnaðarframleiðslu, sem á dögum Þriðja ríkisins var reyndar beint að vígbúnaði. 

Það var að vísu þannig, að í febrúar 1942, þegar Albert Speer tók við embætti vígbúnaðarráðherra, nam hergagnaframleiðsla Þjóðverja aðeins fjórðungi þess, sem hún var í hámarki Fyrri heimsstyrjaldarinnar í tonnum talið hjá keisaranum.  Þjóðverjar voru í raun vanbúnir til stórátaka 1939.  Albert Speer þrefaldaði framleiðsluna á skömmum tíma með aðeins þriðjungs aukningu mannafla. 

Ekkert slíkt öflugt framleiðslukerfi er fyrir hendi í Rússlandi.  Ef dregið verður kerfisbundið úr viðskiptum við Rússa á öllum sviðum, munu ólígarkarnir velta valdhöfunum í Kreml úr sessi.  Rússland stendur á brauðfótum, en hættan er sú, að kalda stríðið fari úr böndunum og verði heitt, sem gæti leitt til tortímingar.

Eins og fram kemur hér að ofan hjá Joschka Fischer, bera Þjóðverjar taugar til Rússa, en sömu sögu er ekki að segja um Pólverja, sem enn muna hryðjuverkin í Katyn-skógi.  Joschka Fischer skrifaði eftirfarandi í téðri grein:

"Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur lagt fram réttu leiðina hérna; snögga stofnun orkusambands Evrópu, þar sem byrjað yrði á markaðinum fyrir jarðgas með sameiginlegri stefnu út á við og sameiginlegri verðskrá.  Þetta skref ásamt frekari greiningu á þeim ríkjum, sem leggja til orkuna, og tækniframförum í þá átt að koma á fót endurnýjanlegum orkugjöfum, mundu snúa við valdataflinu á milli  Kremlar og Evrópusambandsins, sem er mikilvægasti viðskiptavinur Rússlands, þegar kemur að olíu og jarðgasi."

Það er lítill vafi á því, að samtaka Vesturlönd geta knúið Rússa til uppgjafar í efnahagslegu og fjármálalegu stríði.  Strax þarf að hefjast handa með vinnslu jarðgass í Evrópu með "sundrunaraðferðinni" (e. fracking), sem gefizt hefur vel í BNA og Kanada, þannig að þessi lönd eru að verða sjálfum sér næg með jarðefnaeldsneyti, og gasverð þar hefur lækkað um 2/3 og raforkuverð um 1/3 ffyrir vikið.  Á meðan þessi þróun á sér stað þarf að frysta innistæður Rússa, hvar sem til þeirra næst, og draga úr viðskiptunum við þá. 

Það, sem ekki tókst við Stalingrad veturinn 1943, þar sem 6. her von Paulus, 265 000 manns, var umkringdur, galt afhroð og gafst upp 31. janúar 1943, og við Kursk sumarið 1943, þar sem Wehrmacht og Rauði herinn háðu mestu skriðdrekaorrustu sögunnar, verður unnt án blóðsúthellinga með samstilltu átaki Þýzkalands, Bretlands og Bandaríkjanna, þ.e. að koma Rússlandi á kné, en þó aðeins, ef Berlín þekkir sinn vitjunartíma, eins og Joschka Fischer bendir á.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvað er svona eftirsóknarvert við ESB

Þó að stækkunarteymi Stefáns Füle hafi ómótmælanlega stöðvað inngönguferli Íslands í Evrópusambandið, ESB, í marz 2011, með því að neita alfarið að birta rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál Íslands vegna ósamrýmanlegra skilmála utanríkismálanefndar Alþingis við sjávarútvegsstefnu ESB, þá tyggur samt hver mannvitsbrekkan eftir annarri núna, að íslenzka ríkisstjórnin verði að leiða inngönguferlið til lykta, svo að unnt verði að kjósa um niðurstöðuna.  Þetta er svipað og að halda fjölskyldufund og hvetja þar ungling til að sækja um skólavist aftur, þó að honum hafi þar verið hafnað og horfur hans á að ná inn hafi ekkert skánað frá höfnun.  Þessi staða er með ólíkindum, og á hana verður að binda endi strax.  

Í þokkabót bendir allt til, eins og lesa má út úr bók hins misheppnaða utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, að Frakkar hafi lagzt alfarið gegn stækkun ESB til norðurs og verið þar í forystu fyrir Suður-Evrópu, sem telur Ísland mundu skipa sér í sveit með Þýzkalandi í flokkadráttum innan ríkjasambandsins.  Það voru sem sagt "stórpólitískar" hindranir í vegi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem benda til, að tímasetning umsóknarinnar sé kolröng.

Þorsteini Pálssyni, orðuðum við nýjan stjórnmálaflokk á hægri vængnum, og téðum Össuri, mistókst hrapallega í 2 ár að leiða fram sérlausnir með ESB í sjávarútvegsmálum fyrir Ísland.  Þess vegna er alveg ljóst, að sópa verður skilyrðum utanríkismálanefndar Alþingis út af borðinu, ef takast á að koma inngönguferlinu af stað aftur.  Slíkt er hins vegar ekki á valdi ríkisstjórnarinnar.  Það getur Alþingi eitt gert, og þar er eðlilega enginn vilji til þess.  Krafa Þorsteins, Össurar, Benedikts Jóhannessonar og félaga um kosningar um framhald eður ei er þess vegna eins ólýðræðisleg og hægt er að hugsa sér miðað við núverandi Stjórnlög landsins.  Miðað við ítrekaða höfnun ESB á Íslandi í þessu dæmalausa inngönguferli væri það lítillækkandi fyrir Íslendinga að koma nú á hnjánum og óska eftir meiri tilslökunum að hálfu ESB en sambandið reyndist fúst að veita Össuri.  Lítil eru geð guma.

Benedikt kvað á Austurvelli stefnumál nýs flokks verða vestræna samvinnu og frjálsa verzlun.  Þegar umbúðirnar hafa verið teknar utan af þessum pakka, kemur í ljós, að innihaldið er innganga í ESB og skilyrðislaus aðlögun að CAP, Common Agricultural Policy, þ.e. að sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, þar sem sjávarútvegsstefnan er undir.  CAP er "acqui", eða það, sem þegar hefur verið ákveðið, og það er óumsemjanlegt.  

Það er mjög gott, að aðdáendur ESB komi nú til dyranna, eins og þeir eru klæddir, hætti þvættingi um "pakka", sem ESB bjóði landsmönnum að kíkja í, og játi hreinskilningslega fyrir þjóðinni, að þeir ætli að afhenda framkvæmdarstjórn ESB íslenzkan landbúnað og sjávarútveg á silfurfati til að ráðskast með. 

Aðdáendur ESB kalla andstæðinga ESB-umsóknar Íslands "einangrunarsinna".  Guð gefi, að við verðum sem mest einangruð frá boðvaldi Berlaymont.  Við höfum séð fantatökin í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þar sem ESB beitti sér gegn lánveitingu til Íslands.  Við höfum séð fantatökin í Icesave-málinu, þar sem breyta átti Íslandi í Kúbu norðursins, ef Icesave-skuldinni yrði ekki snarað um háls íslenzkra skattborgara, og við höfum séð makalausa meðferð ESB á andstæðingum sínum í deilum um veiðiheimildir á makríl, svo að dæmi séu nefnd. 

7. apríl 2014 var skýrsla birt, sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ, SA, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands, sem sagt fyrir landssamtök verkalýðsfélaga og auðvaldið í landinu, svo að ekki sé nú skafið utan af því.  Einhver mundi nú telja þetta vanheilagt bandalag, enda hefði alveg eins verið hægt að fá fréttamenn á RÚV eða Gróu á Leiti til að pára niður tilvitnanir í fólk á göngum Berlaymont-byggingarinnar, sem ekki er nokkur leið að festa hendur á.  Þetta eru arfaslök efnistök við umfjöllun örlagaríks deilumáls í landinu, og ekki virðist örla á sjálfstæðri greiningarvinnu, heldur engu líkara en fréttamenn hafi tekið viðtöl við skýrslukaupendurna.  Enginn er nokkru nær með vinnubrögð af þessu tagi.  Það er engin viðleitni sýnd til sjálfstæðrar rannsóknar á viðfangsefninu.  Þessi skýrsla stendur að þessu leyti langt að baki skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem greint var frá niðurstöðum umtalsverðrar greiningarvinnu, og nýjar mikils verðar upplýsingar komu fram.  Sú skýrsla varð mörgum mönnum opinberun á frámunalega slæleg vinnubrögð fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Þorsteins Pálssonar o.fl., og forkastanlegan blekkingarhjúp þeirra yfir stöðu umsóknarinnar, sem ESB stöðvaði í marz 2011 með því að neita að afhenda Össuri og Þorsteini rýniskýrslu sína, þar sem frávik sjávarútvegsstefnu Íslands (Alþingis) og sjávarútvegsstefnu ESB eru væntanlega tíunduð.  Á þessu eru aðeins tvær mögulegar skýringar, og útiloka þær ekki hvora aðra:

  1. Stækkunarteymi ESB mat það svo, réttilega, að himinn og haf skildi að Ísland og ESB, og þess vegna væri engin leið til að hefja aðlögunarferlið á sjávarútvegssviðinu.
  2. Framkvæmdastjórn ESB kærði sig ekki um stækkun ríkjasambandsins til norðurs.  Í skýrslu HHÍ eru leidd að því rök, að Frakkar hafi verið í forystu þeirra, sem ekki vildu Ísland inn að svo stöddu, enda mundi Ísland líklega leggjast á sveif með Þýzkalandi í átökum innan ESB.

Til staðfestingar á ofangreindri rökleiðslu er eftirfarandi tilkynning frá ESB í desember 2012, sem var rothögg á Össur og Þorstein, enda kastaði Össur hvíta handklæðinu inn í hringinn í janúar 2013 til merkis um fullkomna uppgjöf sína og ríkisstjórnar Jóhönnu í þessu ólukkulega umsóknarferli:

"Ráðherraráð ESB ítrekar, að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk ESB við mögulega inngöngu í sambandið."

Þegar þetta er lesið, sést, hversu lítils virði túður Össurar um sérlausnir fyrir Ísland er.  Túðrið er aðeins efniviður í blekkingavef hans.  Af sama meiði eru fullyrðingar hans og Þorsteins um, að Íslendingar geti leitt aðlögunarferlið til lykta með óbreyttum fyrirmælum frá Alþingi.  Það eru ósannindi.  Að láta þjóðina kjósa um þetta framhald ferlisins jafngildir þess vegna því að hafa þjóðina að ginningarfífli.  Núverandi stjórnvöld geta ómögulega staðið að slíku. Ómerkilegheitin eiga sér engin takmörk.  Samt blasir ósigur Össurar við.  Keisarinn er ekki í neinu.  Skýrsla Hagfræðistofnunar afhjúpaði hann.

Hláleg birtingarmynd þessa guðdómlega gleðileiks Össurar og Þorsteins er stofnun nýs stjórnmálaflokks um vestræna samvinnu og frjáls viðskipti.  Auðséð er, að kaupahéðnarnir eru ekki víðs fjarri, og búast má við, að krambúðarholusjónarmið móti stefnu viðrinisins, því að hvað annað en viðrini er hægt að kalla hægri flokk hvers æðsta stefnumál er að hámarka miðstýringarvald búrókratanna í Berlaymont á Íslandi, skrifræði, eftirlitsiðnað og leyfisveitingafargan ásamt laga- og reglugerðarflóði ESB-þingsins og framkvæmdastjórnarinnar.  Hægri menn vilja yfirleitt lágmarka forræðishyggju í þjóðfélaginu.  Þess vegna blandast hægri stefna og helztu pólitísku áhugamál Benedikts Jóhannessonar álíka vel saman og olía og vatn.  Fer ekki að koma eggjahljóð í Bjarta framtíð svo ákaft sem Benedikt gaggar ?  Því verður heldur ekki trúað, að gert verði út á hagsmunapeningana, s.k. IPA-styrki, til að halda téðum hægri flokki saman, enda virðist hann ekki munu hafa mikla þörf fyrir þá, þegar horft er til föðurhúsanna.

Að lokum má minna á makrílinn, en framkoma ESB við Íslendinga í því máli sýnir hug Grikkjans Damanaki og félaga hennar í framkvæmdastjórn ESB til smáríkis í norðri, sem enn hefur stöðu umsóknarríkis að sambandinu, illu heilli.  Hvernig halda menn, að framkoman yrði, ef landið hefði ekki lengur stöðu strandríkis, heldur væri sem dropi í hafi a.m.k. 500 milljóna manna ríkjasambands á leið til að verða sambandsríki ?  Er ekki rétt að staldra við og halda í þennan Brüsselleiðangur frá nýjum og gæfulegri upphafspunkti, þegar við getum áttað okkur betur á þróun Evrópusambandsins, en núna er þar hver höndin upp á móti annarri og erfitt að spá um framhaldið.  Slíkt nýtt inngönguferli verður að hefjast með rækilegri stefnumótun og samþykki á Alþingi, jafnvel með auknum meirihluta þings eftir breytingar á Stjórnarskrá og staðfestingu þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. 

Það yrði nákvæmlega ekkert hlustað á fulltrúa Íslands í framkvæmdastjórn ESB, sem mundi vilja halda uppi sjónarmiðum sjálfbærni, en um þau stóð styrinn á samningafundum Íslands við Noreg, Færeyjar og ESB.  Um ráðleggingar Alþjóða hafrannsóknarráðsins sagði Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Damanaki skrifaði undir þetta með gerð hrikalegs samnings um ofveiði:

"Ráðleggingarnar eru ekki reistar á vísindalegum rökum og eru engin vísbending um, hversu mikið er rétt að veiða á árinu 2014."

Alþjóða hafrannsóknarráðið ráðlagði 890 000 t veiði á makríl 2014.  Téður hneykslissamningur er um veiði Norðmanna, Færeyinga og ESB á 1 046 000 t eða 17,5 % umfram ráðleggingar ráðsins.  Téð 17,5 % eða 156 000 t fara til Fæeyinga, en 0,7 x 890 000 = 623 000 t fara til ESB og 0,3 x 890 000 = 267 000 t fara til Norðmanna.  Til að spanna veiðar Rússa, Grænlendinga og Íslendinga er líklegt, að bæta þurfi við a.m.k. 300 000 t, og verða veiðarnar þá alls um 1350 000 t eða 52 % umfram ráðleggingu Alþjóða hafrannsóknaráðsins.  Er þetta hægt, Matthías ?

Þessi meðferð auðlindarinnar er fyrir neðan allar hellur og hreinræktuð heimska, því að svo mikið framboð mun fella verðið.  Svona gera aðeins umhverfissóðar, enda hæla búrókratarnir í Berlaymont sér með eftirfarandi tilkynningu:

"Í umræðunum hefur ESB haldið á lofti þýðingu sjálfbærs makrílstofns og réttlátu samkomulagi um kvótaskiptingu fyrir öll strandríkin."´

Hér er hrúgað saman ósannindum, eins og Kremlverjar Ráðstjórnarinnar væru að verki, og Ísland, Grænland og Rússland eru ekki einu sinni talin til strandríkja.  Þetta er ögrun af versta tagi.  Í slíkt ríkjabandalag vilja Össur, Þorsteinn og Benedikt Jóhannesson ólmir fara. 

Hér fer vel á því að vitna í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu 5. apríl 2014: "Fiskur í sjó með stjörnur á maganum":

"Engum þarf að koma á óvart, að þessi smánarlega framkoma og innrásarsamningur ESB á strandríki N-Atlantshafsins gerist á sama tíma og stjórnarandstaðan reynir að hindra eðlilega afturköllun aðildarumsóknar meirihluta síðasta Alþingis að ESB.  ESB og Samfylkingin/Vinstri grænir hafa ávallt verið samferða í árásum sínum á Ísland.  Nú sem fyrr er markmiðið að komast yfir gjöful fiskimið Íslands, og makríllinn er bara byrjunin."  

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríllErna Solberg, formaður norska Hægri

 

    

 

      

   

EU


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband