Spillt Evrópusamband

Það er ámáttleg helgislepjan, sem lekur af hérlendum mönnum, sem gengið hafa Evrópusambandinu (ESB) á hönd í andanum, um leið og trúarofsinn virðist vera að drepa þá.  Það mætti halda, að þar væri aldingarðurinn Eden án snáksins af málflutninginum að dæma.  Allt telja þeir vera þar með öðrum og betri brag en hér, en þar má þó svo sannarlega segja, að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla, þegar betur er að gáð.

Hvað er þá ESB ?   Í stuttu máli er ESB reist á draumsýn nokkurra manna, aðallega Frakka og Þjóðverja, um að treysta frið í Evrópu með því að tengja saman efnahagslega og fjármálalega hagsmuni þessara ríkja og annarra í Evrópu.  Allt er það gott og blessað. Landamærum Evrópu hafði verið breytt í Evrópu í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar, Þjóðverjum mjög í óhag, og Frakkar óttuðust hefndaraðgerðir Þjóðverja, þegar þeim yxi fiskur um hrygg, eins og gerðist á dögum Þriðja ríkisins, hvers stofnun og tilvist var bein afleiðing Versalasamninganna 1919, sem voru mjög auðmýjandi fyrir Þýzkaland.  

Síðan sáu menn tækifæri í hagræðingu með því að fella niður viðskiptahindranir innan ESB með stofnun Innri markaðarins.  Lokaskrefið hefur svo verið fólgið í "æ nánari samruna", sem leiði að lokum til stofnunar Sambandsríkis Evrópu.  Á þeirri vegferð eru þó margar vilpurnar, og almenningur fylgir ekki forkólfum að málum þar.

Viljum við Íslendingar hefja vegferð, sem leitt getur til aðildar Íslands að Sambandsríki Evrópu ?  Engin opinber umræða hefur farið fram á þeim nótum á Íslandi.  Í upphafi skyldi endinn skoða.  Á það hefur alltaf skort hjá aðildarsinnum.  Það er enginn hægðarleikur að sleppa úr klóm arnarins. Ef hjárænulegt tal um að "kíkja í pakkann" er tekið einu skrefi lengra, er það að "kíkja inn fyrir þröskuldinn" í Berlaymont og sjá svo til.  Ætli við mundum þá bráðlega heyra frá einhverri mannvitsbrekkunni hina viðteknu upphrópun eftir óvandaðan undirbúning: "þetta reddast" ? 

Það er hins vegar dauðans alvara að ganga í ríkjasamband, hvað þá sambandsríki, sem krefst vandaðrar greiningar á kostum, göllum og áhættum við inngöngu og umræðna á grundvelli greiningarinnar, sem lýkur með þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort sækja beri um.  Önnur nálgun þessa verkefnis er flaustur eitt, og þess vegna ber að skrúfa ferlið aftur á byrjunarreit.  Um það fjallar þingsályktunartillaga utanríkisráðherra.  Umsóknarferlið var og er bastarður, þar sem íslenzkir þátttakendur vor víðs fjarri því að hafa fast land undir fótum, af því að vandaðan og vel grundaðan undirbúning skorti algerlega.  Hámark ábyrgðarleysis og gösslaragangs er að hlaupa til, eins og kvíga að vori, og sækja um aðild að ríkjasambandi, nema einhvers konar neyðarástand ríki.  Neyðin var bara í hugum þeirra heittrúuðu.     

Það er engan veginn verið að loka neinum dyrum með samþykkt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, eins og sumir virðast halda.  Aðeins verið að biðja um vandaðri vinnubrögð en þau, sem viðhöfð voru áður en núverandi umsókn var send.  "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin." 

Til að greiða fyrir þróun Innri markaðarins hefur þurft að samræma regluverk og staðla aðildarlandanna, svo að framleiðslukerfin verði einsleit.  Til þessa verks þarf aragrúa embættismanna og starfsfólks þeirra, búrókrata.  Vanrækt var hins vegar að tryggja lýðræðislega ábyrgð innan þessa bákns, þannig að báknið í Berlaymont hefur verið á allt öðru skriði en almenningur í Evrópu.  Myndazt hefur djúp gjá á milli "elítunnar" í Evrópu og annarra íbúa álfunnar, sem staðfest verður í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí 2014.  Það er sama uppi á teninginum á Íslandi.  Hálaunamenn af ýmsu tagi og leiðtogar beggja vegna borðs á vinnumarkaðinum láta, eins og þeir vilji inn, en almenningur á Íslandi kærir sig ekki um það. 

Þessi meingallaða uppbygging ríkjasambandsins ber feigðina í sér og býður heim meiri spillingu en flest aðildarlöndin eiga að venjast í sínum heimaranni.  Sönnun þess er, að endurskoðendur ársreiknings ESB hafa ekki séð sér fært að staðfesta þá í um 15 ár vegna þess, að háar fjárhæðir hafa "týnzt".

Hér verða tínd til nokkur nýleg dæmi um spillinguna innan ESB, sem Karlamagnús skrifaði um í The Economist 26. apríl 2014:

Árið 1999 var framkvæmdastjórn undir forystu Santers neydd til afsagnar vegna fjársvika, misnotkunar á aðstöðu og frændhygli. 

Árið 2011 urðu nokkrir þingmenn á Evrópuþinginu uppvísir að því að þiggja fé fyrir tillögugerð um lagabreytingar frá blaðamönnum, sem þóttust vera hagsmunagæzluaðilar ("lobbyists"). 

Árið 2012 féll framkvæmdastjóri heilbrigðismála, John Dalli, frá Möltu, út af reglugerð um tóbaksmál, og er það mál enn sveipað þoku. 

Samt sagði einn hagsmunagæzluaðilinn í Brüssel af þessu tilefni: "Við höfum ekki Jack Abramoff", bandaríska áhrifavaldinn, sem var fangelsaður árið 2006 fyrir fjársvik, margvíslegt svindl og skattsvik í víðtæku hneykslismáli, þar sem við sögu komu bandarísk-indversk spilavíti. 

Alls staðar er spilling fyrir hendi, en hún er mjög misjöfn eftir löndum.  Þjóðverjar héldu t.d., að sér hefði tekizt að byggja upp heiðarlegt og gagnsætt samfélag með stofnun Sambandslýðveldisins 1949 eftir fall lögregluríkis þýzka nazistaflokksins í ógnarblóðbaði, þar sem Hitlersæskan hélt uppi vörnum í lokin vegna skorts á mannafla. Þjóðverjum var brugðið, þegar upplýst var, að ítalska mafían hefði búið um sig í landi þeirra.  Berjast þeir nú með oddi og egg gegn mafíunni, og þeim kann að takast að vinna á þessu aðskotadýri í þýzkri menningu, þó að Ítölum muni aldrei takast það, því að mafían er samgróin Suður-ítalskri menningu um aldaraðir.

Í Evrópu sér stofnunin OLAF um baráttu við fjársvik.  Hún rannsakar hundruði mála á ári hverju, en fæst ekki til að upplýsa, hversu mörg þeirra snerta ESB.  

Úrskurðarráð endurskoðenda (Auditors Court) í ESB hefur áhyggjur af hárri skekkju í bókhaldi ESB, sem nam 4,8 % af allri eyðslu ESB árið 2012.  Endurskoðendurnir taka þó greinilega fram, að þessi tala sé ekki mælikvarði á sóun og svindl, heldur á illa ráðstafað fé, e.t.v. af völdum mistaka eða óhæfni.  80 % fjárins er notað af ríkisstjórnum aðildarlandanna, og þess vegna er spillingin líklega á ábyrgð ríkisstjórnanna, sem leggst þá ofan á spillinguna, sem fyrir var. 

Framkvæmdastjórnin áætlar, að um 120 milljarðar evra (165 milljarðar USD) fari í súg spillingarinnar á hverju ári af fjárveitingum ESB.  Þetta er risaupphæð og svarar til þess, að um ISK 30 milljarðar hyrfu sporlaust út úr ríkisbókhaldinu íslenzka.  Reyndar mundi sú upphæð, sem íslenzka ríkið þyrfti að greiða í sameiginlega sjóði ESB slaga upp í þessa.  Eitthvað kemur til baka, og mundi örugglega hverfa sporlaust, eins og í öllum öðrum aðildarlöndum ESB, en það er ábyggilegt, að Ísland yrði nettó greiðandi inn í þessa gríðarlegu hít, sem fjárreiður Evrópusambandsins eru. 

Rósamál stækra aðildarsinna er að efla þurfi frekara samstarf Íslands við Evrópu.  Skoðun þeirra er, að þá muni stjórnarhættir á Íslandi gjörbreytast til batnaðar, og stöðugleiki hagkerfisins fást sem bónus vegna aðildar.  Þessi grundvöllur að afstöðu til örlagaríks máls er fullkomlega óboðlegur, barnalegur og órökstuddur með öllu.  Þvert á móti benda dæmin hér að ofan til, að spilling og hrossakaup kommissara og búrókrata í Brüssel muni hreinlega leggjast ofan á þá spillingu, sem fyrir er í landinu. 

Sumum aðildarsinnum verður tíðrætt um, að engin eiginleg sjálfstæðisbarátta við Dani hafi farið fram, heldur hafi "elíta" á Íslandi viljað fá meira athafnarými til að kúga almúgann.  Þeir gefa þannig í skyn, að ófrelsið hafi ekki borizt að utan, heldur að innan.

Það eru mikil endemi, vanþakklæti og vanþekking, þegar nútímamenn túlka baráttu 19. aldar manna á borð við Fjölnismenn, Jón Sigurðsson, forseta, Benedikt Sveinsson o.fl. með þeim hætti, að þeir hafi einvörðungu borið hagsmuni forréttindafólks fyrir brjósti, en ekki þjóðarinnar sem heildar.  Síðan bætir fólk með þessi viðrinislegu sjónarmið gráu ofan á svart með því að gera því skóna, að embættismenn í Berlaymont muni ná taki á meintri forréttindastétt á Íslandi, gangi Ísland í ESB, og leiðrétta misréttið.  Allt er þetta alger fásinna, því að hvergi er til þess vitað, að aðild hafi breytt innbyrðis valdahlutföllum í nokkru landi.

Hitt er annað mál, að ýmislegt jákvætt hefur borizt til Íslands í réttarfarslegum efnum, sem rekja má til Evrópuréttarins og samþykkta ESB, skárra væri það nú, og má þar t.d. nefna neytendaréttinn.  Ísland þarf hins vegar ekki að fórna fullveldi sínu til að þróa réttarfar sitt áfram.   

Það hefur ekki verið sýnt fram á með gildum rökum, hvernig ESB gæti aðstoðað við afnám gjaldeyrishaftanna.  Þó láta draumóramenn að því liggja, að staða Íslands sem umsóknarríkis létti eitthvað undir í þessum efnum.  Það hefur enginn sýnt fram á, að nokkuð sé hæft í því.  Þvert á móti er afnám haftanna eitt af skilyrðunum fyrir inngöngu í ESB, enda eru þau brot á reglu Innri markaðarins um frjálsa för fjármagns á milli landa.  Afturköllun umsóknarinnar mun ekkert kosta, hvernig sem aðildarsinnnar mála skrattann á vegginn. 

Þá víkur sögunni að evrunni.  Hún virðist enn hafa mikið aðdráttarafl í hugum sumra, en hefur hún reynzt þeim þjóðum vel, sem tekið hafa hana upp ?  Já og nei.  Hún hefur reynzt þeim vel, sem búið hafa við góðan aga á vinnumarkaðinum, þar sem samstaða hefur náðst um að halda launahækkunum í skefjum, þ.e. í prósentum talið innan framleiðniaukningar í hverri grein, til að þær kyndi ekki undir verðbólgu.  Þetta er kjarni málsins, og stöðugleiki hagkerfisins hefur reynzt á evrusvæðinu, eins og annars staðar, forsenda fyrir raunkjarabótum almennings.  Fullyrða má hins vegar, að evran hafi reynzt mun fleiri þjóðum, sem tekið hafa hana upp, böl en blessun.  Þetta verða einstakir kröfuhópar um viðbótar launahækkanir á Íslandi að hafa í huga.  Vinnustöðvanir þeirra eru blóðtaka fyrir þjóðfélag, sem stendur höllum fæti vegna slæmra viðskiptakjara.  Ábyrgðarhluti þeirra er mikill.  Heilbrigði hagkerfisins er í húfi. 

Gallinn við evrusvæðið er, að mjög misgóður agi ríkir í launamálum á svæðinu.  Suður-Evrópa hefur farið alveg hræðilega út úr verðlagshækkunum frá upptöku evru, sem eyðilagt hafa samkeppnihæfni landanna, svo að hagvöxtur hefur stöðvazt og atvinna hefur stórlega dregizt saman með fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu, þ.e. yfir 20 % í sumum löndum og yfir 50 % á meðal ungs fólks á vinnumarkaði undir þrítugu.  Það er ekki búið að bíta úr nálinni með þetta, og nú er hætta á, að löndin lendi í verðhjöðnun, sem er böl, sem erfitt er að losna við.

Frakkland er sérdæmi.  Það er stórt hagkerfi á evrópskan mælikvarða, sem látið hefur í minni pokann gagnvart Þýzkalandi, af því að Frakkar búa í mjög miðstýrðu samfélagi, og vinnumarkaðurinn er mjög stífur og þrúgaður af reglugerðafargani, sem hefur íþyngt fyrirtækjunum gríðarlega.  Frakkar hafa ekki borið gæfu til umbóta á þessu kerfi, eins og Þjóðverjar undir hinum skemmtanaglaða vini Putins, Gerhard Schröder, fyrrverandi kanzlara jafnaðarmanna, tóku sér þó fyrir hendur. 

Þegar jafnaðarmenn komu til valda í Frakklandi fyrir nokkrum árum með kosningasigri Hollandes, sem nú er óvinsælasti forseti í sögu Frakklands, hvað sem kvennamálum hans líður, þá keyrði allt um þverbak, því að hann hækkaði skattana, sem jók atvinnuleysi og verðbólgu og rýrði enn samkeppnistöðu Frakka.  Ný ríkisstjórn Frakka reynir nú að söðla um og taka upp efnahagsstefnu, sem sé hagvaxtarhvetjandi. 

Við þessar aðstæður hafa komið upp miklar efasemdarraddir í Frakklandi gagnvart ESB og um það, hvort evran henti Frakklandi, þegar allt kemur til alls.  Megn óánægja Frakka mun endurspeglast í miklu fylgi þjóðernissinna Marie le Pen í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí 2014, en á stefnuskrá þeirra er að draga Frakkland út úr ESB. 

Maastricht-skilyrði ESB um gjaldmiðlasamstarf ríkjanna áttu að skapa næga samleitni í peningamálum og ríkisfjármálum ríkjanna fyrir sterkan sameiginlegan gjaldmiðil, og þau eru góðra gjalda verð, og Íslendingar ættu að taka þau sér til eftirbreytni, en aðildarlöndin hafa ekki öll staðið við þessa skilmála.  Það má í raun segja, að Þýzkaland og Austurríki haldi nú uppi verðmæti gjaldmiðilsins evru.  Evran er að sönnu veikari en þýzkt mark væri, og það gagnast þýzkum útflutningsiðnaði vel, en hún er miklu sterkari, e.t.v. 30 % sterkari en flest hin ríkin ráða við, og þess vegna er að skapast ógnarspenna innan ESB, eins og frásögnin af Frökkum sýnir. Sú spenna boðar ekki gott fyrir framtíð þessa gjaldmiðilssamstarfs. 

Á meðan sú spenna varir og á meðan íslenzka hagkerfið er jafnbrothætt og raun ber vitni um, er algert óráð að leita inngöngu í myntsamstarf Evrópu, en það á að leita allra leiða til að efla stöðugleikann, svo að hagkerfið geti staðizt slíkt inngöngupróf í framtíðinni, hvaða mynt sem kann að verða fyrir valinu.  Eitt atriðið er að auka erlendar gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi fjárfestingar, því að skortur á gjaldeyri skapar óstöðugleika í yfirskuldsettu þjóðfélagi. 

Við Íslendingar viljum eiga gott samstarf við Evrópulöndin, enda eigum við í miklu viðskiptasambandi við þau mörg hver.  Síðan árið 1994 eða í 20 ár höfum við verið á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðið) með kostum þess og göllum.  Ein af fjölmörgum staðlausum fullyrðingum aðildarsinna er, að réttarstaða Íslands breytist sáralítið við inngöngu.  Þetta er eins og hver annar þvættingur, því að nú erum við í nánu viðskiptasambandi við ríkjasambandið, en erum ekki hluti af því.  Lögfræðilega er staðan sú, að aðild að EES samræmist íslenzku stjórnarskránni, en aðild að ESB gerir það ekki.  Þarf frekari vitnana við ?

Þá halda aðildarsinnar því fram, að ESB muni segja upp EES-samninginum við Ísland, ef umsóknin verður afturkölluð.  Þetta er hugarburður einn, eins og lafði Catherine Ashton, utanríkismálastjóri ESB, staðfesti bréflega nýlega við Evrópuþingið. 

Á hvaða sviði gæti hagur almennings á Íslandi hugsanlega vænkazt við inngöngu ?  Aðildarsinnar halda enn í evruvonina.  Hún er þó hálmstrá, af því að framtíð hennar er óljós, og það er alls óvíst, hvernig íslenzka hagkerfinu mundi reiða af með evru.  Ef landsmenn vilja taka upp erlendan gjaldmiðil í fyllingu tímans, að afléttum gjaldeyrishöftum og náðum efnahagsstöðugleika, en fyrr koma gjaldmiðilsskipti ekki til mála, væri áhættuminna að taka upp sterlingspund eða bandaríkjadal.     

  

   

 

  

    

 

 

 

  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband