Hagkerfi í háska

Mótbyr íslenzka hagkerfisins þessi misserin hefur furðulitla opinbera umfjöllun hlotið.  Þess í stað eru sérlaunakröfur einstakra hópa, oftast vel settra launþegahópa, fyrirferðamiklar, enda hafa vinnustöðvanir þeirra truflað gangverk samfélagsins og valdið miklu tjóni.  Sundurlyndisfjandinn lætur hér á sér kræla, þegar samstaða í nafni stöðugleika og framtíðarhagsmuna alls almennings er þjóðarnauðsyn.

Út yfir allan þjófabálk tekur deila flugmanna við Icelandair.  Í Morgunblaðinu laugardaginn 10. maí 2014 kom fram, að ráðgerðar verkfallsaðgerðir flugmanna á 9 daga tímabili mundu stöðva 600 flugferðir og trufla ferðir 100 000 manns.  Kostnaður Icelandair af þessu tiltæki flugmanna næmi 1 milljarði kr á dag. 

Hér eru firn mikil á ferð.  Óþolinmæði og skortur þolgæðis hjá mörgum launþegum er vísasti vegurinn til glötunar og til að tortíma þeim árangri, sem þegar hefur náðst í hagkerfinu, og til að setja hér allt í bál og brand.  Varanlegur stöðugleiki hagkerfisins mun einn tryggja launamönnum verulega bætt lífskjör.  Svona hagar fólk sér ekki í þeim löndum, þar sem traustur grunnur sterkra hagkerfa hefur verið lagður með samstöðu, þolgæði og þrautseigju.  Ef sérhagsmunabaráttan tekur svo stóran toll, að ógnar hagkerfinu og tefur stórlega fyrir því að uppskera megi ávöxt stöðugleika í lágri verðbólgu og sterkri mynt, þá verður ríkisvaldið að grípa til gagnráðstafana, sem duga. Að taka heilt þjóðfélag í gíslingu, eins og FÍA gerir, mun hitta félagið fyrir sem bjúgverpill.  Félaginu er hollara að horfa lengra fram á veginn en reyndin er nú. 

 Samkeppnihæf lífskjör við önnur lönd geta vel náðst hérlendis, en sú leið er grýtt, og skefjalaus stéttabarátta, sem snýst um að hrifsa til sín stærri sneið af kökunni en næsti maður, er siðlítil afstaða, vitagagnslaust baráttumál og stórskaðlegt samfélaginu.

Fyrst er auðvitað nauðsynlegt að baka kökuna áður en hafizt er handa við að skipta henni.  Varðandi ferðamannaiðnaðinn, sem verið hefur í sviðsljósi stéttaátaka undanfarið, má segja, að búið sé að hnoða deigið og rétt búið að stinga því inn í ofninn.  Verði það tekið út núna, mun það reynast óætt.  Ferðamannaiðnaðurinn er orðinn ein af undirstöðu atvinnugreinum landsins í skilningi gjaldeyrisöflunar, og röskun á viðskiptum hans í þeim mæli, sem lýst er hér að ofan, mun fljótt koma á hann óorði erlendis vegna truflana og óáreiðanleika.  Fólk með valfrelsi lætur ekki bjóða sér slíkt.  Stéttarfélög, sem ábyrgð bera á þessu ástandi, eru að saga í sundur greinina, sem félagar þeirra sitja á.  Ekki nóg með það, heldur saga þau í sundur stofn trésins, sem segja má, að þessi undirstöðugrein sé, sem nú hefur fjárfest mikið í flugvélum, hótelum, rútum, bílum og þjálfun starfsfólks.  Árangur við stjórn landsins, mældur í kaupmætti almennings, mun aldrei verða almennilegur, nema haldið verði í heiðri hið sígilda slagorð annars núverandi stjórnarflokka: 

Stétt með stétt.

Á forsíðu Morgunblaðsins 10. maí 2014 var varpað ljósi á, hversu eyðileggjandi stéttastríð flugmanna getur orðið fyrir sjávarútveginn, sem veiðir og verkar beint eftir pöntun og hefur skuldbundið sig til að afhenda ferskvöru á ákveðnum á ákveðnum stað á tilsettum tíma:

"Staðan er mjög viðkvæm, og markaðir okkar eru strax komnir í ákveðna hættu.  Öryggi í afhendingu á vöru í verzlunum erlendis er lífsspursmál fyrir okkur", sagði Svavar Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sæmarks í Kópavogi, en ferð áætlunarvélar Icelandair Cargo til East Midlands á Bretlandi og Liége í Belgíu um kl. 1930 kvöldið áður var aflýst, af því að flugstjórinn boðaði forföll á síðustu stundu vegna veikinda og enginn fékkst til að hlaupa í skarðið.  Dýr pest það.

Íslenzkur sjávarútvegur á á brattann að sækja um þessar mundir af þremur ástæðum, og því verður ekki trúað, að viðkomandi flugmaður geri sér nokkra grein fyrir því, hversu miklu tjóni framferði af þessu tagi getur valdið. 

(1) Það hefur orðið verðfall sjávarafurða á hefðbundnum mörkuðum landsins árin 2013-2014.  Ástæðan er dapurlegt efnahagsástand, jafnvel sums staðar verðhjöðnun, í Evrópu, og aukið framboð sumra tegunda, s.s. þorsks úr Barentshafi, og nú munu veiðar á makríl aukast stórlega.  Óvissan í Austur-Evrópu hefur ekki bætt úr skák.   

Í Fiskifréttum, 30. apríl 2014, gaf að líta eftirfarandi:

"Verulega syrtir í álinn í uppsjávargeiranum á þessu ári m.v. síðasta ár.  Gróflega áætlað gæti útflutningsverðmæti uppsjávarafurða dregizt saman um allt að 25 % eða um 20 milljarða kr, að mati Teits Gylfasonar hjá Iceland Seafood.  Munar þar mest um lélega loðnuvertíð, en auk þess minnkar kvóti norsk-íslenzku síldarinnar um þriðjung á milli ára, og óvissa ríkir á makrílmörkuðum meðal annars vegna ástandsins í Austur-Evrópu."

(2) Það er 39 % kvótaminnkun hjá íslenzkum skipum á árinu 2014 m.v. 2013, aðallega í loðnu og síld.  Þetta er alvarleg staða fyrir sjávarútveginn og þar með fyrir þjóðarbúið, þar sem sjávarútvegur er ein þriggja  undirstöðuatvinnugreinanna. Hætt er við, að makríllinn eigi sök á þessu, sé búinn að éta hinar tegundirnar út á gaddinn, og þær hafi þá hörfað.  Nú þegar ICES, Alþjóða hafrannsóknarráðið, hefur aukið veiðiheimildir á makríl 2014 umtalsvert, ætti að íhuga allt að þriðjungs aukningu veiðiheimilda á honum 2014, ef markaðir bjóða upp á arðsemi aukins magns. 

(3) Íslenzki fiskiskipastóllinn er orðinn gamall, og mun meðalaldur hans vera að nálgast þrítugt.  Þetta er allt of hár aldur fyrir fyrirtæki, sem vilja og verða vera í fremstu röð í heiminum til að verja og auka markaðshlutdeild sína.  Hagræðing greinarinnar í krafti kvótakerfisins hefur nú loksins leitt til þess, að framlegð greinarinnar leyfir fjárfestingar, en Íslands óhamingju verður allt að vopni.  Þá reyndist vera við völd í Stjórnarráðinu fólk, sem aðhylltist stjórnmálaskoðanir þeirrar gerðar, sem banvænar eru heilbrigðum fyrirtækjarekstri og hirti lungann úr þessari framlegð í ríkissjóð, en neituðu, að um skattheimtu væri að ræða og kölluðu veiðileyfagjöld.  Þegar skynsamari menn náðu loks undir sig Stjórnarráðinu 2013 og vildu strax hægja á eignaupptöku, sem augljóslega á sér enn stað, þegar veiðigjöldin munu nema allt að 42 kr/kg m.v. fisk upp úr sjó og áætlun fiskveiðiárið 2014/2015.  Þó að veiðigjöldin lækki í kr/kg, þá hækka þau samt sem hlutfall af hagnaði sjávarútvegsins vegna lakari afkomu hans út af falli markaðanna.  M.v. núverandi frumvarp til laga um veiðigjöld, munu þau samsvara 48 % tekjuskatti á sjávarútveginn.  Önnur fyrirtæki greiða hins vegar 20 % tekjuskatt og þykir hamlandi fyrir fjárfestingar í alþjóðlegu samhengi, eins og lýsir sér í því, að ríkisstjórnin þarf að veita erlendum aðilum ívilnanir frá þessu til að lokka þau til að fjárfesta.

48 % tekjuskattur á eina atvinnugrein er algerlega óboðlegt út frá réttlætissjónarmiði og hagfræðilegu sjónarmiði.  Samt emjar stjórnarandstaðan, þegar minnzt er á lækkun og kveður ríkissjóð ekki hafa efni á því.  Þá er hún komin í mótsögn við sjálfa sig varðandi skattheimtuna.  Þetta óréttlæti mun lama sjávarútveginn og valda fjármagnsflótta úr greininni.  Það er þess vegna algerlega glórulaust, og fegrar þá ekki myndina beiting innantómra frasa um að "þjóðin verði að njóta arðs af auðlindinni".  Arður af auðlindinni getur enginn orðið fyrr en varan, sem unnin er úr auðlindinni, hefur verið seld, afhent og greidd.  Til þess þarf sérstaka þekkingu, vilja, fjármagn og vinnuframlag, og allt þetta er innan vébanda útgerða og fiskvinnsla.  Ef íslenzkar útgerðir ekki sækja sjóinn og markaðssetja vöru sína, mun þjóðin einskis arðs njóta, nema lögum verði breytt, og hverjum sem er leyft að veiða hér innan lögsögunnar.  Augljóslega mun slíkt ekki hámarka þjóðhagslega arðsemi af auðlindinni.  Sjávarútvegurinn getur ekki þrifizt, nema hann njóti jafnræðis í atvinnuréttarlegum skilningi, eins og Stjórnarskráin tryggir.  Ef sjávarútvegurinn þrífst vel, mun þjóðarlíkaminn dafna, annars ekki.  Svo einföld er sú saga. 

Vandamál Íslands í hagstjórnarlegum efnum hefur alltaf verið skortur á gjaldeyri.  Þess vegna hafa örlög íslenzku krónunnar orðið jafndapurleg og raun ber vitni um.  Hún er hins vegar ekki frekar orsök þessara ófara en venjulegur tommustokkur er orsök rangrar lengdarmælingar.  Þess vegna mun aldrei nást stöðugleiki á Íslandi, nema gjaldeyrisöflunin aukist umtalsvert, e.t.v. um 200 milljarða kr á ári, svo að afgangur verði á viðskiptajöfnuðinum við útlönd um u.þ.b. 5 % af VLF á ári í venjulegu árferði.  Með slíkum afgangi verður landið fljótt skuldlítið við útlönd og getur tekið á sig áföll á mörkuðum og í náttúrunni án þess að sligast.  Slíkt framleiðsluknúið hagkerfi mun skapa þegnum sínum beztu lífskjör í Evrópu til lengri tíma litið algerlega óháð því, hvaða mynt verður hér við lýði.  Hér mun þó sannast hið fornkveðna: "hver er sinnar gæfu smiður" og "sitt er hvað gæfa og gjörvileiki".  

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þarf þetta ekki bara að fá að hrynja svo það verði uppgjör?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 14.5.2014 kl. 21:16

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Kristján;

Eftir Ragnarök rís oft eitthvað betra upp úr rústunum; það mun satt vera, en Ragnarök eru ofboðslega dýrkeypt og gætu tortímt þessu litla, og þrátt fyrir allt snotra þjóðfélagi, þannig að hið nýja gæti orðið af allt öðrum meiði.  Snoturleikinn er m.a. fólginn í samfellunni frá 874.  Fyrir hana er vert að berjast.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 15.5.2014 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband