Kjarabaráttan

Tekjudreifingin í þjóðfélaginu verður vinstri sinnuðum stjórnmálamönnum oft að umræðuefni.  Þeim er tekjudreifingin mun hugstæðari en tekjuöflunin, sem hægri mönnum þykir sumum vera merki um músarholulega öfund.  Er þá jafnan viðkvæðið, að ójöfn tekjudreifing sé mikið þjóðfélagslegt böl, og fari vaxandi nú um stundir.  Eðlilegast hlýtur að vera að ákvarða kjör á markaði, og þá að sjálfsögðu án ofbeldis.  Verkfallsofbeldið virðist tíðast koma upp í greinum, þar sem samkeppni er lítil á eftirspurnarhlið eftir vinnukrafti, t.d. hjá hinu opinbera, og í flugstarfseminni, svo að eitthvað sé nefnt.  Er ekki að efa, að meiri vinnufriður yrði, ef hið opinbera byði starfsemina út í verktöku, en væri ekki sjálft að stússa í öllu á milli himins og jarðar.  Á íslenzka flugmarkaðinum voru í gamla daga Loftleiðir, sællar minningar, og Flugfélag Íslands, en eftir sameininguna urðu Flugleiðir og nú Icelandair ráðandi á markaðinum.  Um þetta félag má segja, að margur er knár, þótt hann sé smár, og er þá átt við samanburð við flugfélög, sem það á í höggi við.

Kjarabarátta er áberandi þessar vikurnar, einnig á meðal hinna betur settu, en gagnrýni vinstri manna á þá, sem eru hátt yfir meðallaunum og vilja samt meira en aðrir í prósentum talið, hefur þó ekki verið áberandi, þrátt fyrir allt jafnræðisjaplið. 

Há laun eru ekki gagnrýniverð í sjálfu sér, þó að slíkar raddir heyrist, enda séu þau heiðarlega um samin á frjálsum markaði annaðhvort í félagslegum samningum eða í einkasamningum.  Það fer hins vegar í verra, þegar stéttarfélög gera sér lítið fyrir og taka hópa í gíslingu með verkfallsaðgerðum til þess að knýja vinnuveitendur sína til að ganga að kröfum sínum.  Þá er ekki lengur um frjálsa samninga að ræða fremur en þar sem gíslar eru teknir og krafizt lausnargjalds.  Beiting verkfallsvopnsins er komin út í algjörar ógöngur.  Ef launþegar í þessari stöðu fá ekki laun við sitt hæfi, liggur beint við að segja upp störfum og skipta um vinnuveitanda.  Ef hann finnst bara á erlendri grundu, verður að sjálfsögðu að taka margt með í reikninginn.  Ekki er víst, þegar allt er með reiknað, að markaðurinn sé tilbúinn til að veita viðkomandi betri kjör, þegar allt kemur til alls, en gamli vinnuveitandinn. 

Fórnarlömbin eru t.d. nemendur, aldraðir, samfélag á borð við Vestmannaeyjar eða landið allt, þegar samgöngur að og frá landinu eru lamaðar.  Með þessum hætti hafa stéttir reynt að hrifsa til sín meira en markaðurinn er tilbúinn til að greiða.  Slíkar launahækkanir, sem þvingaðar eru fram með ofbeldi, eru aldrei farsælar og sjaldnast viðvarandi, nema raunveruleg framleiðniaukning eigi sér stað og sé jafnhá eða hærri en launahækkunin. 

Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði athygliverða grein í Morgunblaðið, 2. maí 2014, undir heitinu "Er ójöfn tekjudreifing "stærsta mál samtímans" ?"

Þar deilir hann á öndvegissetrið Eddu, sem "rekið er í Háskóla Íslands og kostað af skattfé".  Þetta setur reynir að koma því inn hjá fólki, að ójöfn tekjudreifing sé "stærsta mál samtímans".  Hér skal aftur á móti halda því fram, að slíkt eigi ekki við, ef markaðurinn er frjáls og tekjudreifingingin er ákvörðuð í óþvinguðum samningum.  Þá munu launin til lengdar ráðast af framboði og eftirspurn.  Tilraunir einstakra stétta til að hrifsa meira til sín en markaðurinn vill samþykkja geta haft voveiflegar afleiðingar fyrir þá og vinnuveitandann til skemmri tíma og munu engu skila til lengri tíma. 

Hannes gerir nýlega bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, "Fjármagn á 21. öld", að umræðuefni.  Piketty þessi er mjög hallur undir forræðishyggju, og sem dæmi um það telur hann, að "kapítalisminn fari sér líklega að voða, sé þróunin í átt til ójafnari tekjudreifingar ekki stöðvuð."  Piketty hyggst koma auðvaldinu til bjargar með alþjóðlegum hátekju- og auðlegðarsköttum, og sé skattfénu síðan endurdreift til fátæks fólks.

Aðaláhyggjuefni Pikettys er, að arður fjármagnseigenda vaxi hraðar en atvinnulífið, því að þá stækki hlutur fjármagnseigenda í þjóðartekjum á kostnað venjulegra launþega. 

Það er rangt að stilla hagsmunum fjármagnseigenda upp  gegn hagsmunum launþega, því að hvorugur getur án hins verið.  Ef fjármagnseigendur fjárfesta ekki, verður stöðnun og afturför og enginn varanlegur hagvöxtur.  Launþegar leggja fram vinnuafl sitt og hugvit til að skapa auðinn.  Þetta er ein kærleikskeðja, þó að sumir kalli það fremur ástar-haturssamband.

Í upphafi 20. aldar var tekjudreifing á Vesturlöndum og raunar um allan heim mjög ójöfn.  Hlutur 1 % auðugasta fólksins í heildartekjum var um 1910 20 % - 25 % víða á Vesturlöndum, en 70 árum seinna var hann kominn niður í 5 % - 8 %, en er um þessar mundir 10 % - 15 %.  Þetta er ekkert sérstakt áhyggjuefni, því að fátækt í heiminum fer hratt minnkandi.

Piketty telur, að dagar hagvaxtarins í heiminum séu taldir.  Því hefur áður verið spáð, en þeir spádómar hafa hingað til orðið sér til skammar.  Margir vinstri menn á Íslandi og annars staðar eru reyndar á móti hagvexti og telja hann vera af hinu illa, af því að hann sé ekki sjálfbær.  Það er bábilja við íslenzkar aðstæður, þar sem megnið af orkunotkun, sem knýr hagkerfið, er að heita má úr endurnýjanlegum orkulindum og segja má, að nýting annarra auðlinda sé yfirleitt sjálfbær, s.s. sjávarauðlindarinnar.

Hagvöxtur er undirstaða verðmætaaukningar og kjarabóta.  Ef hagvöxtur stöðvast, eru kjörin dæmd til að versna, af því að fólkinu fjölgar.  Andstaða við hagvöxt varðar leiðina til ánauðar í fátæktarfjötrum.  Til að tryggja hagvöxt þarf bæði fjárfestingar og hæft vinnuafl.  Ef allt fjármagnið er á einni hendi, þ.e. ríkisins, er voðinn vís, eins og sagan sýnir, samkeppni verður hverfandi, og spilling grasserar, þegar slík einokun ríkir, og reyndar einokun af öllu tagi.

Stétt með stétt.

 

 

 

 

 

 

 

 

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband