Færsluflokkur: Evrópumál
10.4.2014 | 21:46
Hvað er svona eftirsóknarvert við ESB
Þó að stækkunarteymi Stefáns Füle hafi ómótmælanlega stöðvað inngönguferli Íslands í Evrópusambandið, ESB, í marz 2011, með því að neita alfarið að birta rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál Íslands vegna ósamrýmanlegra skilmála utanríkismálanefndar Alþingis við sjávarútvegsstefnu ESB, þá tyggur samt hver mannvitsbrekkan eftir annarri núna, að íslenzka ríkisstjórnin verði að leiða inngönguferlið til lykta, svo að unnt verði að kjósa um niðurstöðuna. Þetta er svipað og að halda fjölskyldufund og hvetja þar ungling til að sækja um skólavist aftur, þó að honum hafi þar verið hafnað og horfur hans á að ná inn hafi ekkert skánað frá höfnun. Þessi staða er með ólíkindum, og á hana verður að binda endi strax.
Í þokkabót bendir allt til, eins og lesa má út úr bók hins misheppnaða utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, að Frakkar hafi lagzt alfarið gegn stækkun ESB til norðurs og verið þar í forystu fyrir Suður-Evrópu, sem telur Ísland mundu skipa sér í sveit með Þýzkalandi í flokkadráttum innan ríkjasambandsins. Það voru sem sagt "stórpólitískar" hindranir í vegi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem benda til, að tímasetning umsóknarinnar sé kolröng.
Þorsteini Pálssyni, orðuðum við nýjan stjórnmálaflokk á hægri vængnum, og téðum Össuri, mistókst hrapallega í 2 ár að leiða fram sérlausnir með ESB í sjávarútvegsmálum fyrir Ísland. Þess vegna er alveg ljóst, að sópa verður skilyrðum utanríkismálanefndar Alþingis út af borðinu, ef takast á að koma inngönguferlinu af stað aftur. Slíkt er hins vegar ekki á valdi ríkisstjórnarinnar. Það getur Alþingi eitt gert, og þar er eðlilega enginn vilji til þess. Krafa Þorsteins, Össurar, Benedikts Jóhannessonar og félaga um kosningar um framhald eður ei er þess vegna eins ólýðræðisleg og hægt er að hugsa sér miðað við núverandi Stjórnlög landsins. Miðað við ítrekaða höfnun ESB á Íslandi í þessu dæmalausa inngönguferli væri það lítillækkandi fyrir Íslendinga að koma nú á hnjánum og óska eftir meiri tilslökunum að hálfu ESB en sambandið reyndist fúst að veita Össuri. Lítil eru geð guma.
Benedikt kvað á Austurvelli stefnumál nýs flokks verða vestræna samvinnu og frjálsa verzlun. Þegar umbúðirnar hafa verið teknar utan af þessum pakka, kemur í ljós, að innihaldið er innganga í ESB og skilyrðislaus aðlögun að CAP, Common Agricultural Policy, þ.e. að sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, þar sem sjávarútvegsstefnan er undir. CAP er "acqui", eða það, sem þegar hefur verið ákveðið, og það er óumsemjanlegt.
Það er mjög gott, að aðdáendur ESB komi nú til dyranna, eins og þeir eru klæddir, hætti þvættingi um "pakka", sem ESB bjóði landsmönnum að kíkja í, og játi hreinskilningslega fyrir þjóðinni, að þeir ætli að afhenda framkvæmdarstjórn ESB íslenzkan landbúnað og sjávarútveg á silfurfati til að ráðskast með.
Aðdáendur ESB kalla andstæðinga ESB-umsóknar Íslands "einangrunarsinna". Guð gefi, að við verðum sem mest einangruð frá boðvaldi Berlaymont. Við höfum séð fantatökin í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þar sem ESB beitti sér gegn lánveitingu til Íslands. Við höfum séð fantatökin í Icesave-málinu, þar sem breyta átti Íslandi í Kúbu norðursins, ef Icesave-skuldinni yrði ekki snarað um háls íslenzkra skattborgara, og við höfum séð makalausa meðferð ESB á andstæðingum sínum í deilum um veiðiheimildir á makríl, svo að dæmi séu nefnd.
7. apríl 2014 var skýrsla birt, sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ, SA, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands, sem sagt fyrir landssamtök verkalýðsfélaga og auðvaldið í landinu, svo að ekki sé nú skafið utan af því. Einhver mundi nú telja þetta vanheilagt bandalag, enda hefði alveg eins verið hægt að fá fréttamenn á RÚV eða Gróu á Leiti til að pára niður tilvitnanir í fólk á göngum Berlaymont-byggingarinnar, sem ekki er nokkur leið að festa hendur á. Þetta eru arfaslök efnistök við umfjöllun örlagaríks deilumáls í landinu, og ekki virðist örla á sjálfstæðri greiningarvinnu, heldur engu líkara en fréttamenn hafi tekið viðtöl við skýrslukaupendurna. Enginn er nokkru nær með vinnubrögð af þessu tagi. Það er engin viðleitni sýnd til sjálfstæðrar rannsóknar á viðfangsefninu. Þessi skýrsla stendur að þessu leyti langt að baki skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem greint var frá niðurstöðum umtalsverðrar greiningarvinnu, og nýjar mikils verðar upplýsingar komu fram. Sú skýrsla varð mörgum mönnum opinberun á frámunalega slæleg vinnubrögð fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Þorsteins Pálssonar o.fl., og forkastanlegan blekkingarhjúp þeirra yfir stöðu umsóknarinnar, sem ESB stöðvaði í marz 2011 með því að neita að afhenda Össuri og Þorsteini rýniskýrslu sína, þar sem frávik sjávarútvegsstefnu Íslands (Alþingis) og sjávarútvegsstefnu ESB eru væntanlega tíunduð. Á þessu eru aðeins tvær mögulegar skýringar, og útiloka þær ekki hvora aðra:
- Stækkunarteymi ESB mat það svo, réttilega, að himinn og haf skildi að Ísland og ESB, og þess vegna væri engin leið til að hefja aðlögunarferlið á sjávarútvegssviðinu.
- Framkvæmdastjórn ESB kærði sig ekki um stækkun ríkjasambandsins til norðurs. Í skýrslu HHÍ eru leidd að því rök, að Frakkar hafi verið í forystu þeirra, sem ekki vildu Ísland inn að svo stöddu, enda mundi Ísland líklega leggjast á sveif með Þýzkalandi í átökum innan ESB.
Til staðfestingar á ofangreindri rökleiðslu er eftirfarandi tilkynning frá ESB í desember 2012, sem var rothögg á Össur og Þorstein, enda kastaði Össur hvíta handklæðinu inn í hringinn í janúar 2013 til merkis um fullkomna uppgjöf sína og ríkisstjórnar Jóhönnu í þessu ólukkulega umsóknarferli:
"Ráðherraráð ESB ítrekar, að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk ESB við mögulega inngöngu í sambandið."
Þegar þetta er lesið, sést, hversu lítils virði túður Össurar um sérlausnir fyrir Ísland er. Túðrið er aðeins efniviður í blekkingavef hans. Af sama meiði eru fullyrðingar hans og Þorsteins um, að Íslendingar geti leitt aðlögunarferlið til lykta með óbreyttum fyrirmælum frá Alþingi. Það eru ósannindi. Að láta þjóðina kjósa um þetta framhald ferlisins jafngildir þess vegna því að hafa þjóðina að ginningarfífli. Núverandi stjórnvöld geta ómögulega staðið að slíku. Ómerkilegheitin eiga sér engin takmörk. Samt blasir ósigur Össurar við. Keisarinn er ekki í neinu. Skýrsla Hagfræðistofnunar afhjúpaði hann.
Hláleg birtingarmynd þessa guðdómlega gleðileiks Össurar og Þorsteins er stofnun nýs stjórnmálaflokks um vestræna samvinnu og frjáls viðskipti. Auðséð er, að kaupahéðnarnir eru ekki víðs fjarri, og búast má við, að krambúðarholusjónarmið móti stefnu viðrinisins, því að hvað annað en viðrini er hægt að kalla hægri flokk hvers æðsta stefnumál er að hámarka miðstýringarvald búrókratanna í Berlaymont á Íslandi, skrifræði, eftirlitsiðnað og leyfisveitingafargan ásamt laga- og reglugerðarflóði ESB-þingsins og framkvæmdastjórnarinnar. Hægri menn vilja yfirleitt lágmarka forræðishyggju í þjóðfélaginu. Þess vegna blandast hægri stefna og helztu pólitísku áhugamál Benedikts Jóhannessonar álíka vel saman og olía og vatn. Fer ekki að koma eggjahljóð í Bjarta framtíð svo ákaft sem Benedikt gaggar ? Því verður heldur ekki trúað, að gert verði út á hagsmunapeningana, s.k. IPA-styrki, til að halda téðum hægri flokki saman, enda virðist hann ekki munu hafa mikla þörf fyrir þá, þegar horft er til föðurhúsanna.
Að lokum má minna á makrílinn, en framkoma ESB við Íslendinga í því máli sýnir hug Grikkjans Damanaki og félaga hennar í framkvæmdastjórn ESB til smáríkis í norðri, sem enn hefur stöðu umsóknarríkis að sambandinu, illu heilli. Hvernig halda menn, að framkoman yrði, ef landið hefði ekki lengur stöðu strandríkis, heldur væri sem dropi í hafi a.m.k. 500 milljóna manna ríkjasambands á leið til að verða sambandsríki ? Er ekki rétt að staldra við og halda í þennan Brüsselleiðangur frá nýjum og gæfulegri upphafspunkti, þegar við getum áttað okkur betur á þróun Evrópusambandsins, en núna er þar hver höndin upp á móti annarri og erfitt að spá um framhaldið. Slíkt nýtt inngönguferli verður að hefjast með rækilegri stefnumótun og samþykki á Alþingi, jafnvel með auknum meirihluta þings eftir breytingar á Stjórnarskrá og staðfestingu þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu.
Það yrði nákvæmlega ekkert hlustað á fulltrúa Íslands í framkvæmdastjórn ESB, sem mundi vilja halda uppi sjónarmiðum sjálfbærni, en um þau stóð styrinn á samningafundum Íslands við Noreg, Færeyjar og ESB. Um ráðleggingar Alþjóða hafrannsóknarráðsins sagði Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Damanaki skrifaði undir þetta með gerð hrikalegs samnings um ofveiði:
"Ráðleggingarnar eru ekki reistar á vísindalegum rökum og eru engin vísbending um, hversu mikið er rétt að veiða á árinu 2014."
Alþjóða hafrannsóknarráðið ráðlagði 890 000 t veiði á makríl 2014. Téður hneykslissamningur er um veiði Norðmanna, Færeyinga og ESB á 1 046 000 t eða 17,5 % umfram ráðleggingar ráðsins. Téð 17,5 % eða 156 000 t fara til Fæeyinga, en 0,7 x 890 000 = 623 000 t fara til ESB og 0,3 x 890 000 = 267 000 t fara til Norðmanna. Til að spanna veiðar Rússa, Grænlendinga og Íslendinga er líklegt, að bæta þurfi við a.m.k. 300 000 t, og verða veiðarnar þá alls um 1350 000 t eða 52 % umfram ráðleggingu Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Er þetta hægt, Matthías ?
Þessi meðferð auðlindarinnar er fyrir neðan allar hellur og hreinræktuð heimska, því að svo mikið framboð mun fella verðið. Svona gera aðeins umhverfissóðar, enda hæla búrókratarnir í Berlaymont sér með eftirfarandi tilkynningu:
"Í umræðunum hefur ESB haldið á lofti þýðingu sjálfbærs makrílstofns og réttlátu samkomulagi um kvótaskiptingu fyrir öll strandríkin."´
Hér er hrúgað saman ósannindum, eins og Kremlverjar Ráðstjórnarinnar væru að verki, og Ísland, Grænland og Rússland eru ekki einu sinni talin til strandríkja. Þetta er ögrun af versta tagi. Í slíkt ríkjabandalag vilja Össur, Þorsteinn og Benedikt Jóhannesson ólmir fara.
Hér fer vel á því að vitna í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu 5. apríl 2014: "Fiskur í sjó með stjörnur á maganum":
"Engum þarf að koma á óvart, að þessi smánarlega framkoma og innrásarsamningur ESB á strandríki N-Atlantshafsins gerist á sama tíma og stjórnarandstaðan reynir að hindra eðlilega afturköllun aðildarumsóknar meirihluta síðasta Alþingis að ESB. ESB og Samfylkingin/Vinstri grænir hafa ávallt verið samferða í árásum sínum á Ísland. Nú sem fyrr er markmiðið að komast yfir gjöful fiskimið Íslands, og makríllinn er bara byrjunin."
27.3.2014 | 21:10
Blekkingaveitan
Þann 1. febrúar 2009 var Stjórnarráði Íslands breytt í blekkingaveitu. Sú breyting var innsigluð með Alþingiskosningunum í apríl 2009 og myndun meirihlutastjórnar vinstri manna, sem fræg varð að endemum og hékk við völd allt síðast liðið kjörtímabil og olli miklu tjóni.
Ríkisstjórn þessi kom óheiðarlega fram gagnvart fólkinu í landinu, huldi bankamálin leyndarhjúpi og reyndi að smeygja um háls almenningi skuldaklafa fallinna banka í nafni lagalegrar nauðsynjar, sem var alls ekki fyrir hendi, og gerði ósvífna og svæsna tilraun til að smygla landinu inn í Evrópusambandið, ESB, með bolabrögðum á Alþingi og hráskinnaleik allt kjörtímabilið. Sá ljóti leikur heldur enn áfram, og er mál að linni.
Smám saman hefur reynzt unnt að fletta ofan af svívirðilegum blekkingum ráðherra vinstri stjórnarinnar, t.d. varðandi hina fádæma illa undirbúnu umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Í þessu sambandi er vert að rifja upp orð Abrahams Lincolns, lögfræðings og eins mikilhæfasta forseta Bandaríkja Norður Ameríku, BNA, en hann mælti þessi frægu orð:
"Það er stundum unnt að blekkja alla og jafnvel alltaf hægt að blekkja suma, en það er ekki mögulegt að blekkja alla alltaf."
Það er kominn tími til fyrir heimatrúboð ESB á Íslandi að gera sér grein fyrir því, hvað felst í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, varðandi blekkingavefinn um umsóknina. Einkennandi fyrir þetta heimatrúboð er reyndar, að það gefur dauðann og djöfulinn fyrir öll rök í málinu, en vill inn, hvað sem það kostar. Þetta viðhorf jaðrar við landráð og er alveg dæmalaus eitruð blanda af þráhyggju, minnimáttarkennd, metnaðarleysi, fláræði og undirlægjuhætti.
Þegar menn kynna sér málavöxtu, fer ekki hjá því, að upp fyrir þeim renni, að umsóknin var á sínum tíma andvana fædd, af því að Alþingi skilyrti hana með skilmálum, sem voru algerlega óaðgengilegir fyrir stækkunarteymi ESB og bakhjarla þess í framkvæmdastjórninni. Össuri Skarphéðinssyni mistókst að fá utanríkismálanefnd Alþingis til að slá af kröfum sínum og koma til móts við kröfur stækkunarteymisins um tímasetta áætlun um aðlögun sjávarútvegsstefnu Íslands að hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB, sem Frakkar, Spánverjar og Portúgalir voru ófáanlegir til að vinna að "sérlausn" á fyrir Ísland. Þar við bættist, að Frakkar töldu hreint ekki æskilegt út frá valdajafnvægi í ESB að fjölga norrænu þjóðunum í ríkjasambandinu. Það var ekki einu sinni stjórnmálalegur grundvöllur fyrir inngöngu Íslands, hvað þá tæknilegur grundvöllur sameiginlegs hagsmunamats. Að þessu hefði Össur komizt, hefði hann unnið heimavinnuna sína, en hann kaus að gösslast áfram og "kíkja í pakkann", en þetta var barnalegt slagorð hans, ætlað til heimabrúks, aðallega til að ginna auðtrúa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til fylgilags við þingsályktunartillögu sína um umsókn um aðild Íslands að ESB. Þeir bitu flestir á agnið og misstu við það stjórnmálalegan trúverðugleika sinn. Hvað er eftir af stjórnmálamanni, sem glatað hefur trausti kjósenda sinna ?
Um þessa "kíkja í pakkann" blekkingu Össurar hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, eftirfarandi að segja í grein í Morgunblaðinu, 24. marz 2014, "ESB-viðræðunum lauk í mars 2011":
"Enginn þarf lengur að fara í grafgötur um stöðu ESB-málsins. Sé tilgangur ESB-viðræðna sá einn "að kíkja í pakkann", er augljóst, að Frakkar, Spánverjar og Portúgalar banna það að óbreyttu. Brusselmenn vilja, að Íslendingar hverfi frá skilyrðum í sjávarútvegsmálum. Hver vill stíga til móts við þá ?
ESB-viðræðunum er sjálfhætt. Formsatriði vefjast þó fyrir ríkisstjórn og alþingi. Deilan snýst um, hver eigi að kasta rekunum. Að rifist skuli um, hvort öll þjóðin eigi að koma að þeirri ákvörðun, er í raun óskiljanlegt."
Til þess að breiða yfir þessar staðreyndir, sem fram komu í skýrslu HH'I, hefur verið þyrlað upp ótrúlegu moldviðri um eitthvað, sem heimatrúboðið kallar loforð stjórnmálamanna núverandi stjórnarflokka um þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort halda eigi aðlögun Íslands áfram eða halda umsókninni áfram á ís. Þetta er argasti útúrsnúningur á stefnu beggja stjórnarflokkanna, því að þeir lofuðu því, að þjóðin fengi með bindandi hætti að tjá hug sinn áður en þeir tækju upp þráðinn aftur, og hún fengi þannig tækifæri til að stöðva vitleysuna.
Þeir lofuðu því aldrei, enda höfðu þeir enga heimild til þess frá flokkum sínum, Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og Flokksþingi Framsóknarflokksins, að lofa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að láta reka sig í framhald aðlögunarviðræðna, enda sjá allir, nema heimatrúboðið, hversu fjarstæðukennt slíkt hefði verið. Annaðhvort skilur heimatrúboðið hvorki mælt né ritað mál, eða það rangtúlkar stefnu flokkanna með ósvífnum hætti að hætti öfgaafla: "Tilgangurinn helgar meðalið". "Der Erfolg berechtigt den Mittel."
Leyndarhjúpur, blekkingar og beinar lygar hafa einkennt ESB-umsóknina frá upphafi. Aðildarsinnar vilja halda áfram uppteknum hætti og spyrja þjóðina algjörlega marklausrar spurningar, þ.e. hvort halda eigi viðræðum áfram, sem stöðvaðar voru af gagnaðilanum. Fólk, sem berst fyrir slíkri vitleysu, er annaðhvort á valdi mikilla blekkinga, eða purkunarlausir loddarar. Ef spyrja á þjóðina marktækrar spurningar um framhald aðlögunar, verður hún að vera í þessum dúr:
"Gefur þú ríkisstjórninni samþykki þitt fyrir því, að fullveldi Alþingis yfir auðlindum Íslands til lands og sjávar verði fórnað í þeim mæli, sem nauðsynlegt kann að verða til að leiða aðlögun stjórnkerfis Íslands að stjórnkerfi ESB til lykta í umsóknarferli að ESB ?"
Svikabrigzl aðildarsinna hafa verið svakaleg, svo innihaldslaus sem þau hafa verið, og þess vegna er ekki úr vegi að rifja upp nokkur atriði úr ranni Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
Kvöldið fyrir Alþingiskosningarnar í apríl 2009 lýsti Steingrímur J. Sigfússon því yfir, að hann teldi sig ekkert umboð hafa til samninga um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Tveimur vikum seinna hafði hann snúizt um 180° í þessum efnum, eða hann gaf bara flokksmönnum sínum langt nef, sagði þeim að éta, það sem úti frýs, og settist í stól fjármálaráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þetta eru auðvitað ófyrirgefanleg svik að hálfu Steingríms og Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi varaformanns VG, en það má þó sá flokkur eiga, að þingmenn hans í utanríkismálanefnd Alþingis studdu það síðar, að sett voru skilyrði varðandi íslenzkan landbúnað og sjávarútveg, sem ósamrýmanleg voru CAP, "Common Agricultural Policy". Þessi skilyrði stöðvuðu feigðarflan Össurar og Þorsteins Pálssonar í marz 2011, en þá neitaði ESB-stækkunarteymið að sýna rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál, nema skilyrðum Alþingis í þeim málaflokki yrði gjörbreytt. Þar sem núverandi Alþingi er sízt líklegra til að breyta þessum skilmálum í átt að kerfi ESB, eru engar líkur á, að unnt yrði að draga umsóknina af strandstað, þó að aftur yrði setzt við. Þó að þjóðin mundi svara dökkletruðu, gæsalöppuðu spurningunni hér að ofan játandi, ber Alþingi engin skylda til þess að stjórnlögum að breyta skilyrðum sínum, því að slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur eru aðeins ráðgefandi.
Össur Skarphéðinsson lofaði því sumarið 2009, að umsókn Íslands færi á hraðferð um gáttir ESB og mundi taka 12-18 mánuði að leiða hana til lykta. Þetta reyndist kolrangt hjá honum. Það eru aðeins 2 skýringar í boði á því. Annaðhvort skrökvaði hann þessu, eða hann vissi ekki út í hvað hann var að fara. Ef fyrri kosturinn er réttur, verður að telja Össur lygalaup, og ef sá seinni er réttur, hafði hann alls enga þekkingu á umsóknarferlinu og gerði sér ekki grein fyrir, að ferlið er strangt aðlögunarferli, þar sem engin samningasnilli kemur við sögu, heldur einvörðungu heimavinna umsóknarríkis. Heimavinnan fyrir umsóknarríkið reyndist gjörsamlega vera í skötulíki í tilviki Íslands, svo að skömm er að, reyndar, og því fór sem fór. Það hafði engin vönduð greining á umsóknarferlinu átt sér stað, heldur var vaðið út í fenið af fullkominni óforsjálni. Þess vegna horfir málið skammarlega við bæði frá Brüssel og Reykjavík.
Össur Skarphéðinsson og Þorsteinn Pálsson hafa allan tímann haldið því fram, að viðræðurnar gengju vel. Síðan í marz 2011 hafa þetta verið helber ósannindi, því að síðan ESB neitaði í marzbyrjun 2011 að afhenda íslenzku "viðræðunefndinni" rýniskýrslu sína um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál Íslands, þá hefur hvorki gengið né rekið. Stækkunarteymið sá, að kerfi Íslands og ESB eru ósamrýmanleg, og af skilyrðum Alþingis gat teymið ráðið, að íslenzka aðlögunarteymið hefði ekkert umboð til að aðlaga íslenzka sjávarútvegsstjórnun að CAP - hinni sameiginlegu stefnu ESB um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.
Að undirlagi Frakka skipaði framkvæmdastjórnin svo fyrir, að rýniskýrslan skyldi ekki sýnd. Össuri var tjáð, að svo yrði ekki gert fyrr en íslenzka "viðræðunefndin" rýmkaði opnunarskilyrði sjávarútvegskaflans, sem þýðir að koma með tímasetta áætlun um aðlögun íslenzka sjávarútvegsins að reglum ESB. Málið er þó enn flóknara, því að Frakkar voru og eru á móti stækkun ESB til norðurs, sem þeir telja, að mest muni verða vatn á myllu Þjóðverja. Íslenzkir inngöngusinnar gefa nákvæmlega ekkert fyrir íslenzka stjórnkerfið á þessum eða öðrum sviðum. Þeir vilja inn, hvað sem það kostar. Þeir eru helteknir hugarfari læmingjans, sem gengur fyrir björg. Þess vegna hrína engin rök á þeim. Þeir eru sem steingervingar í íslenzkri umræðu, þora ekki að koma til dyranna, eins og þeir eru klæddir, en láta sem þeir viti ekkert og skilji fátt.
Enn þann dag í dag þegja þeir Össur og Þorsteinn þunnu hljóði um þessa stöðu umsóknarinnar. Þess í stað þyrla þeir upp blekkingarskýi um, að hægt sé að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og leiða aðlögunina til lykta. Það er haugalygi hjá þeim, nema Alþingi gjörbreyti skilmálum sínum. Hvers vegna minnast þeir aldrei á, að þetta þurfi að gera til að unnt sé að halda áfram ? Af því að þeir eru óheiðarlegir og þora ekki að standa þjóðinni reikningsskap gerða sinna. Þeir stunda purkunarlausa blekkingariðju. Við þurfum ekkert á slíkum mönnum að halda. Þeir eru verri en engir.
Þorsteinn Pálsson hefur með sérlega ómerkilegum hætti ausið úr skálum reiði sinnar yfir formann Sjálfstæðisflokksins á opinberum vettvangi, gjörsamlega að tilefnislausu, því að formaðurinn hefur í þessu máli aðeins framfylgt stefnumörkun Landsfundar síns flokks. Þorsteinn Pálsson líkist í þessu máli kolkrabba, sem sprautar bleki til að fela sig. Hann vill breiða yfir mistök sín og dómgreindarbrest. Amma leikfélaga hans í bernsku kallaði þetta að klína smjörklípu á köttinn. Kötturinn mundi ekki stunda veiðiskap á meðan hann væri að hreinsa sig. Þorsteini hefði verið nær að gera heiðarlega grein fyrir stöðu umsóknarinnar um aðild að ESB en ausa óhróðri yfir þá, sem nú standa í brúnni. Lítilfjörleg framkoma það og aumkvunarverð.
Enn hefur ekkert komið fram, hvorki frá atvinnulífinu, öðrum hagsmunaaðilum né öðrum, sem breyti forsendum fyrir hagsmunamatinu, sem að baki lá eftirfarandi ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins á árinu 2013:
"Áréttað er, að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þessa einföldu ályktun hafa margir misskilið eða rangtúlkað alveg herfilega, og í meðförum Alþingis verður eitthvað nýtt að koma í ljós, sem kippi stoðunum undan þessari ályktun, svo að þingmenn flokksins fái ástæðu til að sniðganga ályktunina. Talsmenn aðildar landsins að ESB eru gjörsamlega rökvana; þeir fara með innantóma frasa um, að Íslendingar séu Evrópuþjóð og að þar séu landsins beztu markaðir. Í ljósi aðildar landsins að Innri markaði ESB, eru þetta rökleysur einar fyrir aðild. Forsendubrestur gæti t.d. verið fall EES-samningsins og útilokun tvíhliða samnings, en ekkert bendir í þá átt núna. Þess vegna mega þingmenn Sjálfstæðisflokksins biðja guð að gleypa sig, ef þeir ætla ekki að raungera ofangreinda ályktun Landsfundar á kjörtímabilinu, og því fyrr, þeim mun betra, vonandi fyrir næsta Landsfund, svo að kasta megi rekunum á rétt eitt dellumál vinstri stjórnarinnar.
20.3.2014 | 21:03
Þvættingur aðildarsinna
Ekki ríður nú heimatrúboð ESB feitum hesti frá viðureigninni við þá, sem aldrei hafa fundið eða hafa þegar losað sig við "kraftbirtingarhljóm" inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Einn þvættingurinn úr heimatrúboðinu er, að þeir, sem ekki finna "kraftbirtingarhljóminn" séu einangrunarsinnar, og hinir ofstækisfyllstu halda því fram, að Ísland sé einangrað. Ekkert er fjær sanni, því að við viljum, að landið hafi frelsi til samninga og samskipta við þær þjóðir, sem við höfum hug á að efla tengsli við, en séum ekki bundin á klafa Berlaymont innan viðskiptamúra ESB. Það hefur að vísu komið í ljós í utanríkissamskiptum landsins, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir, en hvernig það á að breytast við inngöngu í ESB er óútskýrt.
Damanaki og aðrir, sem mótuðu samningsafstöðu ESB um nýtingu á makríl í Edinborg í marz 2014, opinberuðu hentistefnu sína og skilningsleysi á hagsmunamálum Íslendinga. Jafnframt sýndu þeir í verki, hvers vegna 80 % nytjastofna í lögsögu ESB eru ofnýttir og sumum liggur við útrýmingu. Það er vegna þess, að sjálfbær nýting auðlinda er einvörðungu í nösunum á þeim, og ætíð er látið undan þrýstingi hagsmunaaðila, þó að slíkt stríði algerlega gegn ráðleggingum vísindamanna. Hvernig halda menn nú, að málum yrði skipað, ef Berlaymont yrði hleypt að ákvarðanatöku um nytjar íslenzku lögsögunnar ? Það eru ótrúlegir einfeldningar, sem enn trúa því, að innganga í ESB geti átt sér stað á forsendum Íslendinga og að allt verði nánast óbreytt varðandi fiskveiðistjórnun og eignarhald á sjávarútveginum. Sjá menn ekki skriftina á veggnum í Edínaborg ?
Það hefur verið sýnt fram á, að umsóknin um aðild Íslands sigldi í strand í marz 2011, fyrir þremur árum, þegar Frakkar, Spánverjar og Portúgalir komu í veg fyrir birtingu rýniskýrslu ESB á sjávarútvegskafla aðlögunarferlisins á þeim forsendum, að skilyrði meirihlutans í utanríkismálanefnd Alþingis væru ósamrýmanleg sjávarútvegsstefnu ESB. Þetta fóru Össur og Þorsteinn með sem mannsmorð, og ríkisstjórn Jóhönnu heimtaði trúnað um upplýsingar, sem fram komu í utanríkismálanefnd um þetta. Þess vegna var þjóðin leynd sannleikanum, og Össur hélt því blákalt fram gegn betri vitund, að vel gengi.
Að kröfu Jóhönnu rak Steingrímur Jón Bjarnason úr stóli sjávarútvegsráðherra og tók sjálfur við embættinu 31. desember 2011. Það gat hins vegar engu breytt um viðræðurnar, því að vandamálið lá í utanríkismálanefnd Alþingis, sem Össur fékk ekki haggað. Steingrímur hélt utan til Brüssel í ársbyrjun 2012 og ætlaði að binda endi á viðræðurnar með því að þröngva Füle til að birta rýniskýrsluna. Við slíka birtingu hefði orðið stjórnmálaleg sprenging á Íslandi, umsóknin orðið sjálfdauð og Steingrímur verið skorinn úr snörunni. Í stað þess veslaðist hann upp, pólitískt, og missti formannsembættið í flokkinum sínum, VG.
Þvættingurinn nú um, að kjósa verði úm framhald inngönguferlisins, sem Össur frestaði fram yfir kosningar 2013 og Gunnar Bragi stöðvaði strax eftir stjórnarmyndun, er algerlega úr lausu lofti gripinn, og frá bæjardyrum Berlaymont hlýtur hann að virka sem út úr kú, því að hvað svo ? ESB birtir ekki rýniskýrslu sína, nema utanríkismálanefnd Alþingis lagi skilyrði sín að hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Á því eru hins vegar engar líkur. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna er þess vegna fíflagangur, þar sem kjósendur yrðu hafðir að erkifíflum, því að niðurstaðan mundi engu breyta. Sá skrípaleikur yrði auðvitað í boði Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, og því miður hefur Vinstri hreyfingin grænt framboð misstigið sig illilega og klofið samstöðu andstæðinga aðildar að ESB með því að boða þingsályktunartillögu um að leggja umsóknina á ís og kjósa um framhaldið í lok kjörtímabilsins. Katrín gerir sig seka um að draga kjósendur á asnaeyrunum með ákvarðanafælni sinni. Að kjósa um steindautt mál, fortíð, sem enginn fær breytt, er fáránlegt og viðbjóðsleg blekkingarstarfsemi, svo að ekki sé nú minnzt á sóunina.
Við stöndum nú frammi fyrir nauðsyn kalds hagsmunamats í utanríkismálum og verðum að hafna tilfinningaþrungnum þvættingi um, að við eigum heima í ríkjasambandi Evrópumanna. Þar eru þau vatnaskil að verða núna, að til að vegna vel þar, verður að ganga í takti við Berlínarbændur. Gæsagangur er hefðbundið göngulag Prússa og alls ekki bundið við Þriðja ríkið, en ekki er víst, að það henti eyjarskeggjum norður í Atlantshafi alls kostar, þó að sumir kunni því vel.
Íslendingar hafa frá fornu fari átt góð og oftast vinsamleg samskipti við Þjóðverja, þó að verulegan skugga bæri á í heimsstyrjöldinni síðari, er við lögðum okkur í framkróka við að þjóna brezka heimsveldinu, fóðra Breta með fiski, enda hernumin þjóð af Bretum, og urðum fyrir miklum mannskaða á hafinu af völdum þýzka flotans, sem reyndi að vinna upp, það sem Luftwaffe tapaði óvænt sumarið og haustið 1940 í orrustunni um Bretland, þar sem ný tækni Bretanna reið baggamuninn.
Enn á ný horfa Þjóðverjar til austurs. Það hafa þeir gert, frá því að þeir réttu úr kútnum eftir 30 ára stríðið, 1618-1648, sem fór mjög illa með þá, og raunar löngu áður með Junkerum á 15. öld. Þangað hafa þeir sótt "Lebensraum" fyrir vaxandi mannfjölda. Nú er slíkri þörf ekki lengur til að dreifa, af því að þeim fækkar, og hið sama gildir um Rússa, sem hafa verið meðspilarar Þjóðverja frá því á tíma Gorbatsjoffs, sem leyfði járnkrumlu kommúnista utan um Austur-Þýzkaland að leysast upp árið 1989. Í kjölfarið unnu Þjóðverjar afrek við sameiningu hernámssvæðis Rússa við Vestur-Þýzkaland og bera nú um stundir ægishjálm yfir önnur ríki Evrópu vestan Rússlands vegna dugnaðar síns, skipulagningar, iðni og nákvæmni.
Nú mun reyna gríðarlega á ríkisstjórnina í Berlín og viðskiptajöfra Þýzkalands við að sigla á milli skers og báru, nú þegar rússneski björninn lyftir hrömmunum og gerir sig líklegan til landvinninga í vesturátt. Af þeim atburðum í Úkraínu, sem þegar hafa orðið, svo og auknum hernaðarumsvifum í Rússlandi, má ráða, að í Evrópu sé aftur að myndast mikil spenna á milli þjóða.
Lykilatriði um þróun mála verður afstaða ríkisstjórnarinnar í Berlín. Þýzkaland er auðvitað mjög tengt hagsmunaböndum til vesturs, en einnig til austurs, og Rússar geta í einu vetfangi lamað hið öfluga hagkerfi Þýzkalands með því að orkusvelta það. Svo að segja með einu handtaki geta þeir skrúfað fyrir lífæð hagkerfisins, gaslagnir um Úkraínu og á botni Eystrasalts.Til lengdar mun það vopn hins vegar snúast í höndum Rússa, því að Þjóðverjar munu afla sér eldsneytisgass eftir öðrum leiðum, en það tekur fáein ár.
Í kjölfar aðgerða af þessu tagi yrði Rússland einangrað, eins og var á ráðstjórnartímanum, og veldi Pútíns mun þá hrynja. Þá munu Þjóðverjar stíga inn á sviðið sem hjálparhellur, því að markmið þeirra er og hefur lengi verið lýðræðislegt réttarríki í Rússlandi, þar sem þeir geta fjárfest í auðlindum og markaðssett sínar vörur og tækniþekkingu. Það er alls ekki ólíklegt, að Evrópu verði á fyrri hluta 21. aldarinnar stjórnað af öxlinum Berlín-Moskva, en öxullinn Berlín-París muni tærast í sundur, enda þegar orðinn feyskinn.
Við þessar aðstæður munu ekki öll aðildarlönd ESB telja sér vært þar, svo að núverandi ESB mun klofna. Hvaða utanríkispólitísku greiningar lágu eiginlega að baki þeirri hugmynd, að Ísland ætti heima í ESB ? Engar. Hugmyndin var reist á tilfinningalífi nokkurra jafnaðarmanna og peningamanna á Íslandi. Hvílíkur Jón í Hvammi, var sagt, þegar mönnum blöskraði. Álpast var út í forarvilpuna algerlega hugsunarlaust.
Hvar liggja þá meginhagsmunir Íslands ? Það getur hugsazt, að Washington fái meiri áhuga fyrir Evrópu og vilji endurnýja fótfestu sína þar, að breyttu breytanda, þegar viðsjár fara þar vaxandi, eins og nú eru horfur á. Í Moskvu ríkir forseti, sem er umhugað að reisa við stolt Rússa, sem beið hnekki við upplausn Ráðstjórnarríkjanna, og að víkka út landamæri ríkisns til að fleiri Rússar fái notið dásemda Kremlarstjórnvaldsins. Slíkt fellur í kramið heima fyrir.
Þetta minnir á það, þegar austurríski áhugaarkitektinn frá Linz, sem lét kjósa sig arftaka Hindenburgs 1934 og varð þar með bæði kanzlari og forseti Þýzkalands, der Führer Deutschlands, sópaði þýzkumælandi fólki undir sinn verndarvæng með myndun Stór-Þýzkalands.
Það er gríðarlega eldfimt að breyta landamærum einhliða í Evrópu, og ESB og NATO verða strax að brýna klærnar. Fyrstu viðbrögð að neita nokkrum rússneskum pótintátum um vegabréfsáritun eru hláleg, og betur má, ef duga skal. Rússlandsforseti er kominn með "blod på tanden", nákvæmlega eins og Þýzkalandsforsetinn 1936, skömmu eftir vel heppnaða Olympíuleika í Berlín, er hann sendi lítt búna Wehrmacht-liða og endursameinaði Rínarlönd Þýzkalandi. Þar hefði verið útlátalítið að veita karli viðnám og hrekja hann úr valdasessi. Tannlaust og klóalaust tígrisdýr getur hins vegar ekki stöðvað Rússlandsforseta. Eins og Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, hefur bent á, eru til viðskiptalegar aðferðir, sem duga gegn þeim karli. Nú er spurningin, hvort silkihanzkar forseta íslenzka lýðveldisins í Bodö og ofanígjöf við norskan ráðuneytisstjóra þar eru rétta aðferð okkar Íslendinga gagnvart yfirgangi Kremlverja.
Eins og fyrir 100 árum, árið 1914, getur lítill neisti fljótt orðið að miklu báli árið 2014. Það er erfitt að finna rök fyrir því, að við þessar aðstæður sé Íslendingum hollast að binda trúss sitt enn traustari böndum við ESB, sem er gerandi í átökunum við Rússa. Skynsamlegra er fyrir okkur, sem erum á jaðri Evrópu, að horfa nú til vesturs en austurs og suðurs í stjórnmálalegu og viðskiptalegu tilliti, þó að við reynum að halda í horfinu þar í viðskiptalegu tilliti.
Ef svo fer fram sem horfir með verðhjöðnun í Evrópu, þá mun markaðsverð fyrir afurðir okkar fara lækkandi, svo að markaður fyrir vörur frá Íslandi verður þar ófýsilegur. Þá er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, að horfa til annarra átta.
Hið ískyggilega við þessa þróun mála í Evrópu er, að á sama tíma aukast viðsjár með þjóðum Austur-Asíu, t.d. á milli Kínverja og Japana. Þar er á yfirborðinu um að ræða deilur um yfirráð yfir ákveðnum eyjaklasa, en deilurnar snúast í raun um forystuhlutverk í þessum heimshluta. Báðar þjóðirnar efla nú mjög vígbúnað sinn, einkum flotann.
Þessi neikvæða þróun heimsmálanna er slæm fyrir Íslendinga, sem þrífast bezt með jákvæðum samskiptum og frjálsum viðskiptum. Heimurinn mun þó afram hafa þörf fyrir aðalafurðir okkar, heilnæmar sjávarafurðir og gæðaál. Ástand af þessu tagi er líklegt til að gera orkulindirnar enn verðmætari en áður. Það er bráðnauðsynlegt fyrir hagkerfið og lífskjörin í landinu að auka enn nýtingu þeirra með gerð nýrra miðlunarlóna og vatnsaflsvirkjana. Að standa gegn slíku er að leggjast þversum gegn framförum, sem eru forsendur bættrar afkomu almennings, sem sterkt ákall er eftir.
Ákvarðanafælni hefur einkennt orkumálin hérlendis undanfarin ár með þeim afleiðingum, að alvarlegur raforkuskortur vofir nú yfir landsmönnum, enda hefur miðlunargetan ekkert aukizt frá tilkomu Hálslóns og landshlutatenging raforkukerfis landsins er til vanza, og stendur þróun atvinnulífsins fyrir þrifum. Fyrirhyggjuleysi þeirra, sem hér hafa um vélað, er nú aldeilis að koma landsmönnum í koll með margmilljarða króna tjóni af völdum vatnsskorts. Einkennileg gæluverkefni hafa drepið orkumálaumræðunni á dreif, og tímabært er að fást við gagnleg verkefni í stað sýndarmennsku og hégómaskapar. Eru vonir bundnar við, að ný stjórn Landsvirkjunar, sem væntanleg er í næsta mánuði, brjóti blað í þessum efnum, t.d. með því að landa samningum, sem eitthvað kveður að, og kalla á umtalsverðar beinar erlendar fjárfestingar í landinu.
Neyðarástand verður í landinu, ef miðlunarlón á borð við Þórisvatn tæmist í vor, en á því er hætta. Það verður strax að bregðast við með markvissum aðgerðum. Bent hefur verið á breytt tíðarfar, og þá er að bregðast við því, en ekki bara sitja prúð(ur) með hendur í skauti. Eitt ráðið er að bæta vatnsnýtinguna með því að fjölga virkjunum í Þjórsá. Annað er að virkja stórt fyrir norðan, t.d. í Jökulsá á Fjöllum. Þriðja að auka miðlunargetu sunnan heiða, t.d. með Hágöngumiðlun, og fjórða að auðvelda miðlunargetu á milli landshluta með öflugri Sprengisandslínu. Það er hægt að milda umhverfisáhrif af henni með nýrri gerð stólpa og axla (brúa), sem lítið ber á, og grafa hana í jörðu á 25 km kafla, sem gerir hana ósýnilega frá um 70 % af veginum, sem þarna kemur.
14.3.2014 | 22:49
Landhelgin er í húfi
Á mæli sumra má skilja, að þeir séu haldnir vantrú á mynt landsmanna, en ofurtrú á hagkerfinu íslenzka. Þetta samrýmist illa, en lýsir sér þannig, að ýmist lýsa þeir því yfir, að þeir vilji gjarna sjá aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, ESB, leiddar til lykta, eins og þeir kalla fulla aðlögun, og síðan greiða atkvæði um skilmálana, eða þeir lýsa því blákalt yfir, að þeir vilji skilmálalaust inn í ESB til að landið ætti þess kost að skipta um mynt og innleiða evru í stað krónu. Til að vist á evrusvæðinu leiði ekki til ófarnaðar, verður hagkerfi viðkomandi lands að vera sterkt og samkeppnihæft, mun öflugra en íslenzka hagkerfið er núna, þó að það stefni í rétta átt undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra.
Hjá ESB-trúboðinu og hælbítum krónunnar rekst hvað á annars horn og ber vitni djúpstæðra ranghugmynda og flótta frá staðreyndum, sem nú er hægt að afla sér eftir útkomu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ. Þá erum við kjósendur ekki lengur ofurseld blekkingavef Össurar Skarphéðinssonar og Þorsteins Pálssonar, en umsóknin um aðild strandaði á þeirra vakt af ástæðum, sem hér verða tíundaðar.
Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr samningahæfileikum þeirra félaganna, en hitt er afar gagnrýnivert við þá að leggja sig allan tímann í líma við að telja þjóðinni trú um allt aðra samningsstöðu en uppi er í raun og jafnframt að klappa þann steininn, að Össur hafi gert hlé á viðræðunum í ársbyrjun 2013 vegna Alþingiskosninganna sama ár, þegar staðreyndin er sú, að umsóknin hafði steytt á skeri þá fyrir löngu, og skerið var vegarnesti Alþingis til Össurar, sem var ósamrýmanlegt stjórnkerfi ESB á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það þarf að velta Össuri upp úr tvöfeldni hans á Alþingi.
Það er hafið yfir vafa, að til að myntskipti, þ.e. í raun upptaka fastgengisstefnu, geti orðið hagkerfinu til styrktar, þ.e. aukið langtíma hagvöxt í landinu, verður hagkerfið að standa traustum fótum. Ef myntin er evra, eins og ýmsa virðist dreyma um, þá þarf að greiða ríkisskuldir hratt niður, því að þær mega ekki vera hærri en 60 % af VLF í evrulandi. Til að þetta gangi eftir þarf að verða hár viðskiptajöfnuður við útlönd, t.d. ISK 100 milljarðar á ári, sem verður aðeins í góðæri og með lítilli aukningu á einkaneyzlu. Þetta útheimtir að sjálfsögðu góðan aga á ríkisfjármálunum, svo að skuldasöfnun hætti og við taki hár greiðslujöfnuður á fjárlögum.
Verðbólgan þarf að verða með því lægsta, sem gerist í Evrópu. Ekki er víst, að það verði eftirsóknarvert á næstunni, því að evrusvæðið er að falla í verðhjöðnun, en hún er mikið böl.
Til að samlaga hagkerfi Íslands hagkerfi evrusvæðisins þurfa vextir Seðlabanka Íslands ennfremur að verða mjög nálægt vöxtum Seðlabanka evrunnar, en þeir eru líklega 0,5 % um þessar mundir.
Með öðrum orðum þarf styrkur íslenzka hagkerfisins til lengdar að vera svipaður og þýzka hagkerfisins. Þeir, sem halda, að þetta sé raunhæft, hafa í raun ofurtrú á íslenzka hagkerfinu, og þá er óskiljanlegt, hvers vegna þeir hafa vantrú á íslenzku krónunni, því að hún endurspeglar styrkleika og veikleika hagkerfisins, en lifir ekki sjálfstæðu lífi í frjálsu hagkerfi, eins og allir stefna að, bæði inngöngusinnar og fullveldissinnar. Ef hagkerfið verður svona sterkt, eins og skilyrði myntskiptanna útheimta, þá verður myntin líka sterk. Annað væri alger þversögn.
Með umsókn um aðild að ESB var verið að setja umráðarétt Íslendinga yfir landhelginni, 200 sjómílur frá yztu töngum landsins, í uppnám, og boðskapurinn til ESB er sá á meðan umsóknin er við lýði, að Íslendingar séu til viðræðu við Berlaymont um sameiginleg not af henni með fiskveiðiþjóðum ESB. Þetta er hart aðgöngu fyrir þá, sem "vilja kíkja í pakkann", en á þetta stöðumat er ekki hægt að bera brigður eftir útkomu skýrslu HHÍ um aðildarumsóknina. Verður nú gripið niður í einn höfundinn, Ágúst Þór Árnason, lögfræðing og kennara við lagadeild Háskólans á Akureyri:
"Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann, hann sigldi í strand áður en hann komst á það stig, að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann, og í kjölfarið að hefja viðræður um kaflann. Ástæðan var sú, að Evrópusambandið vildi setja viðmið um opnun hans, sem hefðu verið óaðgengileg með öllu fyrir Ísland." Þau hefðu falið í sér, að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu ESB áður en viðræður hæfust um kaflann."
Þarf frekari vitnana við um, hvert stefndi, og hvers vegna viðræðurnar eru fyrir löngu strandaður, þó að tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi og Þorsteinn Pálsson berji enn hausnum við steininn og haldi uppi blekkingariðju um, að nú sé hægt að bruna af stað í viðræður án þess að slá neitt af kröfum Íslands um óskert íslenzkt fullveldi yfir landhelginni umhverfis Ísland ?
Slíku fullveldi er ESB nú þegar búið að hafna. Íslendingar verða að deila fullveldinu yfir landhelginni með tæplega 30 öðrum þjóðum, þ.á.m. þjóðum með gríðarlegan fiskiskipaflota, sem skortir verkefni, og má þar nefna Spánarflotann til sögunnar. Það er hinn nöturlegi sannleikur, sem felst í texta lögfræðingsins hér að ofan.
Heyra menn ekki, hverjum klukkan glymur nú, þegar ESB hefur sýnt sitt rétta andlit í samskiptunum við okkur á sjávarútvegssviðinu ? Þrátt fyrir fögur fyrirheit í haust um samstöðu gegn Norðmönnum til að tryggja sjálfbærar veiðar á makrílnum, þá snýr Damanaki gjörsamlega við blaðinu nú í marz 2014 og samþykkir stórfelldar veiðar umfram vísindalega ráðgjöf, e.t.v. til að þóknast Norðmönnum, olíusjeikum norðursins, á viðsjárverðum tímum, þegar mál geta þróast með þeim hætti, að Rússar skrúfi fyrir gasflutning til ESB-landa.
Þetta sýnir, að það er ekki vitglóra í því svo mikið sem að gæla við hugmyndina um nánara samband við Berlaymont, að ganga í ríkjasambandið þeirra, eins og suma virðist dreyma um hérlendis, því að hagsmunir okkar munu aldrei verða virtir, ef þessu ríkjasambandi hentar eitthvað annað þá stundina. Fiskistofnum er þá hiklaust fórnað á altari stjórnmálanna, þar sem aðrir hagsmunir eru ríkari. Hvað þurfa menn skýr dæmi fyrir framan sig til að skilja áður en skellur í tönnunum ? "Heiðra skaltu skúrkinn, til að hann skaði þig ekki" má í þessu tilviki alls ekki túlka þannig, að bezt sé að henda mestu verðmætunum, fullveldi landsins, í faðm skúrksins, en það virðist vera einbeitt afstaða Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Þorsteins Pálssonar.
Við, sem erum á öndverðum meiði við þetta fólk um þessi málefni, höfum aldrei verið sannfærðari en nú um réttmæti skoðana okkar. Það er ekki minnsta ástæða til að láta fólk, sem virðist hafa tapað ráði og rænu og er ófært um að halda uppi rökstuddu andófi, en grípur til skrípaláta innan veggja Alþingis og skrílsláta þar utan veggja, setja meirihluta Alþingis í einhvers konar herkví. Það verður að höggva á hnútinn að hætti Alexanders, mikla, og samþykkja þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknar um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Það er þungbært fyrir Noregsvin, sem numið hefur og starfað í Noregi og hefur tengsli þangað, að verða vitni að ótrúlegu framferði þeirra í makrílmálinu. Af einskæru ofstæki í garð Íslendinga fórna þeir orðspori sínu sem fiskveiðiþjóðar, sem setur sjálfbæra nýtingu á vísindalegum grundvelli í öndvegi. Þeir boða rányrkju á makríl og tekst með offorsi og baktjaldamakki að fá aðrar þjóðir í lið með sér. Til hvers eru refirnir skornir ?
Ef sú kenning er rétt, að ætlunin sé að bola Íslendingum út úr makrílveiðum og af makrílmörkuðum með því að minnka svo stofninn, að hann syndi ekki lengur í neinum mæli inn í íslenzka lögsögu, þá er mála sannast, að algert ábyrgðarleysi hefur tekið völdin í Ósló, svo að ekki sé nú kveðið svo fast að orði sem vert væri. Hvaða önnur skýring er í boði ?
Á vettvangi norræns samstarfs verða Íslendingar nú að taka glímu við sína norsku frændur, krefja þá skýringa og núa þeim fjandsemi við "sitt broderfolk der ute i Atlanteren" um nasir á hverjum fundi og á öllum vígstöðvum reyndar. Norska þjóðin metur meir frændsemi Íslendinga en örlítið meiri markaðshlutdeild í makríl.
10.3.2014 | 20:34
Umsóknin strandaði fyrir löngu
Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu (ESB) frá 16. júlí 2009 hefur allt fram að birtingu skýrslu Hagfræðideildar Háskóla Íslands verið hjúpuð blekkingarskýi. Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, blekkti meirihluta þingheims árið 2009 til að greiða götu umsóknarinnar gegnum Alþingi með slagorðinu "að kíkja í pakkann", og margar auðtrúa sálir utan þings bitu á agnið.
Hið undarlega er, að allstór hópur fólks skellir skollaeyrum við þeirri staðreynd hinnar dæmalaust illa undirbúnu umsóknar, að hún strandaði á umsóknarskilmálum Alþingis um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál árið 2011, sem höfundar rýniskýrslu stækkunarteymis ESB töldu óaðgengilega sem upphaf aðlögunar þessara málaflokka að stjórnkerfi ESB. Þjóðaratkvæðagreiðsla, hvernig sem hún færi, fengi engu um þetta breytt.
Ein ástæða þess, að fólk hefur ginið við þessari pakkastaðleysu er, að þannig var inngangsferli ESB fram til ársins 1994, og Norðmenn voru hinir síðustu til að fara í hið nú aflagða inngönguferli Evrópusambandsins. Norsk stjórnvöld með krata í broddi fylkingar reyndu tvisvar sinnum að semja Noreg inn í ESB, en þjóðin synjaði ákvörðun Stórþingsins samþykkis í bæði skiptin, árið 1972 og árið 1994. Ein af ástæðunum var ófullnægjandi fullveldisréttur Noregs yfir landbúnaði, sjávarútvegi og orkulindum. Það er eins og aðdáendur ESB hérlendis hafi ekkert fylgzt með þróun ríkjasambandsins í 20 ár.
Aðlögunarferlið, sem Ísland var sett í eftir móttöku umsóknar, sem varð til á fölskum forsendum, svo að vægt sé til orða tekið, var sniðið við fyrrverandi kommúnistaríki Mið- og Austur-Evrópu. Hugmyndin var sú að umsóknarferlið snerist ekki um samningaviðræður umsóknarríkis og stækkunarteymis ESB, heldur um aðlögun stjórnkerfis umsóknarríkisins að stjórnkerfi ESB. Lykilatriði þar er, að klæðskerasaumur er aflagður, en ein flík skal nú henta öllum. Flíkin sú er sett saman úr sáttmálum ESB. Það er óneitanlega þannig, að í þessu ferli er það ekki stjórnkerfi ESB, sem er aðlagað stjórnkerfi umsóknarríkisins, eins og skilja má af tali ESB-trúboðanna á Íslandi um "sérlausnir", heldur er umsóknarríkið lagað að ESB, eins og við þekkjum hérlendis nú þegar, með ákveðnum umsömdum umþóttunartíma. Vandinn með framhaldið nú er, að Alþingi fyrra kjörtímabils setti skilmála um aðlögun, sem ESB-mönnum þóttu óaðgengilegir. Núverandi Alþingi mun ekki veikja þessa skilmála. Hvers vegna er ekki umræða á Alþingi núna um þessa skilmála í stað ómálefnalegrar umræðu, jafnvel innantóms gaspurs um "fundarstjórn forseta". Þessi aðferðarfræði ESB-aðildarsinna er eins vonlaus og hún er heimskuleg.
Frá því að umsóknin strandaði og þar til Össur þóttist leggja hana á ís (hún hafði þá þegar verið kistulögð af ESB), eða í hátt í tvö ár, mistókst kumpánunum Össuri Skarphéðinssyni og Þorsteini Pálssyni að lokka "sérlausn" út úr ESB, þó að starfsheiður þeirra lægi við. Það er þess vegna fullreynt og hámark ósvífni og ómerkilegheita þeirra að tala enn um, að hægt sé að finna "sérlausn" fyrir Ísland á formi varanlegrar undanþágu frá sáttmálum ESB. Þeir þora ekki að viðurkenna, að þeir féllu á þessu prófi, heldur reyna nú að etja öðrum á foraðið með svikabrigzlum og svigurmælum.
Niðurstaða rýniskýrslu stækkunarteymis ESB um stjórnkerfi Íslands á landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum var sú, að himinn og haf skildi að Ísland og ESB í þessum efnum, og ESB neitaði að ræða um aðlögun þessara málaflokka á grundvelli skilmála frá Utanríkismálanefnd Alþingis, sem Össur Skarphéðinsson og Þorsteinn Pálsson höfðu í farteskinu í Brüssel. Þar með strönduðu viðræðurnar. Þjóðaratkvæðagreiðsla getur engu um það breytt. Það er aðeins formsatriði að slíta þeim, því að þær geta ekki hafizt aftur, nema núverandi Alþingi komi til móts við rýniskýrslu ESB. Það er hins vegar útilokað m.v. samsetningu þingsins. Aðeins nýir og veikari skilmálar að hálfu Alþingis fá þessu breytt, og ekki einu sinni ríkisstjórnin getur knúið núverandi þing til þess. Meirihluti þingheims er hollari Stjórnarskránni en svo. Tal Árna Páls, Róberts Marshal o.fl. um trúnaðarbrest, ef Alþingi dregur umsóknina til baka án þess, "að þjóðin fái að koma að málinu" er fullkomið lýðskrum úr munni þessara bergþursa Icesave-ánauðar og umsóknar að almenningi forspurðum og fullkomlega órökréttur málflutningur. Við yrðum að athlægi í Brüssel, því að þar vita menn manna bezt, hvernig komið er fyrir umsókninni.
Þá kumpána, Össur og Þorstein, skorti djörfung og dug til að viðurkenna orðinn hlut í Brüssel fyrir þingi og þjóð, þegar þetta gerðist árið 2011, og það er mjög ámælisvert. Í framhaldinu mistókst árin 2011-2012 að finna "sérlausn", sem verður að kalla algert klúður hjá þeim m.v. talsmáta þeirra fyrr og nú, og nú reyna þeir að breiða yfir eigið árangursleysi með því að þyrla upp moldviðri um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald "viðræðnanna", sem Björg Thorarensen, varaformaður "viðræðunefndarinnar", sem var, telur stjórnskipulega ótæka aðferð m.v. núverandi Stjórnarskrá, sem kveður á um, að þingmenn séu aðeins bundnir af eigin samvizku, þegar þeir taka afstöðu á þingi. Þessir tvímenningar eru orðnir ómarktækir. Þorsteinn Pálsson, sem öllu snýr á haus nú orðið, hefur reyndar kveðið upp úr um þá furðulegu lögskýringu, að Stjórnarskráin banni þingmönnum ekki að hlíta ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hundalógík hefur slíkt jafnan heitið.
Umsóknin strandaði á samningsskilmálum Alþingis frá síðasta kjörtímabili. Það, sem liggur að baki kröfunni um þjóðaratkvæði núna um framhald "viðræðna", er hin ólýðræðislega og andvana fædda hugmynd um að knýja núverandi Alþingi til að endurskoða skilmála fyrra Alþingis í átt að kröfum stækkunarteymis ESB. Ef þessi stórbokkalegu og yfirgangssömu áform gengju eftir, mundi niðurstaða síðustu Alþingiskosninga verða höfð að engu, og slíkt mundi jafngilda mestu kosningasvikum sögunnar. Að sjálfsögðu mundi slík endurskoðun jafngilda endalokum núverandi ríkisstjórnar.
Með öðrum orðum hefur nú auðvaldið í landinu gert bandalag við stjórnarandstöðuna um að splundra rétt kjörnum meirihluta á Alþingi. Auðvaldið sér inngöngu Íslands í hillingum, sem fyrir það hefur þó einvörðungu bókhaldslega þýðingu, því að það getur gert upp í þeirri mynt, sem því sýnist, og stjórnarandstaðan reynir með undirferli og fláræði að fiska í gruggugu vatni, hver flokkur með sínu lagi og ósamstiga.
Hér er um andhverfu lýðræðislegra vinnubragða að ræða með lýðræðið á vörunum. Þarna sést ljóslega, hvernig lýðskrumarar geta afskræmt lýðræðið, þegar þeir reyna að brjóta fulltrúalýðræðið á bak aftur með afskræmingu beins lýðræðis á vörunum.
Þess vegna hefur prófessor Björg Thorarensen varað alvarlega við því ferli að setja á laggirnar þjóðaratkvæðagreiðslu til að hafa áhrif á starfsemi Alþingis. Synjun lögfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og t.d. í Icesave-málunum, er annars eðlis en að "fjarstýra" stefnumörkun á Alþingi með "Alþingi götunnar" og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það á aldrei að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, ef niðurstaða hennar getur engu breytt á hvorn veginn, sem hún fer. Þannig er farið með þá þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ESB-áhangendur hérlendis hafa heimtað undanfarið. Ef meirihluti þátttakenda kýs að staðfesta stöðvun aðlögunar landsins að ESB og slíta viðræðum, er niðurstaðan sú sama og hjá ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar. Ef meirihlutinn kýs áframhaldandi aðlögun með ærnum tilkostnaði, má hugsa sér í kjölfarið eftirfarandi samtal íslenzku viðræðunefndarinnar og stækkunarteymis ESB í Berlaymont:
- Füle: Velkomin aftur. Eruð þið tilbúin með tímasetta áætlun um aðlögun stjórnkerfis landbúnaðar og sjávarútvegs Íslands í samræmi við rýniskýrslu okkar ?
- Formaður aðlögunarnefndar Íslands: Íslenzka þjóðin tók ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu að senda okkur hingað á ykkar fund.
- Füle: Hvað ætlið þið að bjóða okkur ? Við erum fulltrúar 500 milljóna manna, og þið eruð fulltrúar 330 þúsund manns. Þið getið ekki ætlazt til, að við breytum okkar skipulagi í átt að ykkar, jafnvel þó að ykkar kerfi hafi yfirburði á sumum sviðum. Við verðum að kemba öllum með einum kambi.
- Formaður aðlögunarnefndar Íslands: Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna á Íslandi voru ófáanlegir til að hnika til skilmálum Alþingis frá fyrra kjörtímabili. Við höfum þess vegna ekki umboð til að samþykkja að koma til móts við rýniskýrslu ykkar um landbúnað og sjávarútveg, en við höfum hug á að leita með ykkur að "sérlausnum" fyrir Ísland í þessum málaflokkum.
- Füle: Það er þegar fullreynt með herra Skarphéðinssyni og herra Pálssyni, að við höfum ekki umboð frá Framkvæmdastjórn ESB, Leiðtogaráðinu og þinginu til slíkra sérlausna, sem þessir herramenn sóttust eftir. Andstæðir hagsmunir innan okkar raða eru of miklir, og áhugi þessara aðila á að fá Ísland inn er ekki nægur, til að við viljum leggja í alla þá vinnu. Herrar mínir og frúr. Við komumst greinilega ekkert lengra með ykkur en fulltrúa ríkisstjórnar Sigurðardóttur. Berið Alþingi kveðju okkar og þau skilaboð, að tilslökun að hálfu þingsins sé frumskilyrði þess, að inngönguferli ykkar verði fram haldið. Góða ferð heim !
5.3.2014 | 20:24
List hins mögulega
Með gríðarlegum bægslagangi var krafizt þjóðaratkvæðis um framhald á inngönguferli Íslands í Evrópusambandið áður en ljóst varð, að umsóknin er strönduð. Átti þar líklega í hlut flokksbundið fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og margir aðrir. Varð ótrúlegur hiti í fólki út af steindauðu máli, þ.e.a.s. þjóðaratkvæðagreiðsla upp á einar 200 milljónir kr getur ekki hleypt nýju lífi í dautt svikaferli, eins og hér verður gerð grein fyrir. Síðasti utanríkisráðherra skuldar þing og þjóð sýringar á þögn sinni um raunverulega stöðu mála og látalæti undanfarið um, að framhaldið sé á valdi Íslendinga.
Miklu moldviðri er þyrlað upp um svik núverandi ráðherra við loforð sín í kosningabaráttu. Koma þessar ásakanir úr hörðustu átt, þar sem núverandi formaður Samfylkingar, Árni Páll Árnason, lofaði fyrir Alþingiskosningar 2009 þjóðaratkvæði um umsókn að ESB, og ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Steingrímur, Katrín og Svandís, gengu algerlega í berhögg við stefnu flokks síns með því að samþykkja aðildarumsókn á Alþingi 16. júlí 2009. Þetta eru alræmdustu svikahrappar íslenzkra stjórnmála um þessar mundir auk Össurar.
Það stendur óhaggað, að ráðherrar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa í farteskinu frá æðstu stofnunum flokka sinna að draga skuli umsóknina frá 16. júlí 2009 til baka. Síðan í baráttunni fyrir kosningarnar 27. apríl 2013 er mikið vatn runnið til sjávar og fram komnar upplýsingar, t.d. í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, sem gera kosningar um framhald inngönguaðlögunar fráleitar, algerlega marklausar og nánast hlægilegar, ekki sízt frá sjónarhóli ESB.
Núverandi ráðherrar eru með framlagningu þingsályktunar ríkisstjórnarinnar um að hætta við umsókn um aðild að Evrópusambandinu að efna kosningaloforð flokka sinna. Við þetta er í ályktuninni hnýtt ákvæði um, að ekki skuli senda umsókn til ESB að nýju án þess að leita samþykkis þjóðarinnar á því fyrst. Það er hægt að fallast á það sjónarmið Bjargar Thorarensen, lagaprófessors, að þetta ákvæði þingsályktunarinnar megi missa sín, af því að það bindi um of hendur þings, þar sem meirihluti vill sækja á ný um aðild. Slíkt er ekki hægt að útiloka að breyttu breytanda, og þess vegna má sleppa þessu, þó að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur geti haft þetta áfram í sínum samþykktum. Björg Thorarensen telur fráleitt að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni, sem meirihluti þingheims hefur tekið upp á sína arma. Stjórnskipulega hefur hún mikið til síns máls.
Það verður hins vegar að vona í lengstu lög, að næst standi hugsanleg umsókn á traustari grunni, þ.e. Alþingi sé þá í raun reiðubúið að ganga aðlögunargötuna á enda og þjóðin hafi samþykkt umsóknina á þeim forsendum í bindandi atkvæðagreiðslu. Ekkert af þessu var þáttur í þeirri vanreifuðu ólánsumsókn, sem hleypt var af stokkunum 16. júlí 2009, og því fór sem fór. Hún strandaði á skeri ósamrýmanlegra stefnumiða Alþingis og Evrópusambandsins. Þetta voru mistök síðasta þingmeirihluta, og núverandi þingmeirihluti fær því ekki breytt. Þess vegna er rökrétt að draga umsóknina til baka og að núllstilla ferlið. Þegar RÚV, Fréttablaðið, Samfylkingin og Björt framtíð verða búin að vinna meirihlutann á sitt band, verður sótt um aftur og þeyst á fáki fráum inn um gáttir Berlaymont. Baráttulaust mun það aldrei verða.
Hvers vegna er útilokað, að Alþingi verði nú við kröfu stjórnarandstöðunnar um ráðgefandi almennar kosningar um spurninguna, hvort halda eigi inngönguferlinu áfram ? Það eru 2 meginástæður fyrir því, enda lofaði hvorugur stjórnarflokkanna bæði að hætta við inngönguferlið og að halda um það ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Eingöngu átti að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, ef ekki næðist meirihluti á þingi um afturköllun, enda er hitt fullkomlega órökrétt. Þetta atriði hefur verið teygt og togað á alla vegu.
Sér hver heilvita maður, hvílíkt rugl það væri, að ná samstöðu um aðalmálið, að hætta við, en ákveða þó þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka upp þráðinn að nýju. Þetta er dæmalaust rugl hvínandi úr tálknum stjórnarandstöðunnar, sem virðist gjörsamlega tapa glórunni, þegar ESB er annars vegar. Skiptir þá engu máli, þó að skilja hafi mátt eitthvað annað á einhverjum frambjóðendum til þings, enda eru síðan komnar fram nýjar upplýsingar, sem útiloka þjóðaratkvæðagreiðslu:
- Inngönguferlið stöðvaðist á síðasta kjörtímabili, þegar efniviður rýniskýrslu ESB á hið íslenzka stjórnkerfi landbúnaðar- og sjávarútvegsmála var kynnt aðlögunarnefndinni 2011. Þar var enga eftirgjöf í kröfum um aðlögun að stjórnkerfi ESB í þessum málaflokkum að finna. Það var heldur ekki neinn ádráttur gefinn um "sérlausn". Í stað þess að leita til Alþingis um heimild til að koma til móts við kröfur ESB, þá gafst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur upp á umsóknarferlinu við svo búið, enda gerði makríldeilan við ESB henni ekki auðveldar um vik. Össur Skarphéðinsson var nú orðinn strandkapteinn, eins og engum þurfti að koma á óvart, en breiddi lævíslega yfir það með því að færa í hönd farandi Alþingiskosningar sem ástæðu fyrir því að gera hlé á inngönguferlinu. Engin áhrif taldi hann makrílinn hafa á ferlið. Hann lét líta svo út, að beinast lægi við að taka upp þráðinn eftir kosningar, en þar strandar algerlega á Alþingi, svo að þetta var hreinn blekkingarleikur. Össur ætlaði að berjast fyrir aðlögunarheimild frá Alþingi sem ráðherra eftir kosningar, en var kastað út í yztu myrkur af kjósendum, og að láta að vilja ESB núna mundi jafngilda illvígum svikum flestra núverandi stjórnarþingmanna við kjósendur sína. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna breytir engu, en kostar stórfé.
- Samkvæmt hinni ágætu Stjórnarskrá lýðveldisins ber þingmönnum einvörðungu að fylgja sannfæringu sinni, og það væri þess vegna brot á Stjórnarskránni, ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu breytti afstöðu þingmanna. Með öðrum orðum getur þjóðaratkvæðagreiðsla aðeins orðið ráðgefandi á Íslandi. Það dettur engum í hug, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort halda beri ferlinu inn í ESB áfram, verði sú, að núverandi Alþingi samþykki tímasetta aðgerðaáætlun um aðlögun íslenzka stjórnkerfisins að kröfum ESB varðandi landbúnað og fiskveiðar til að hleypa lífi í steindautt inngönguferli. Slíkt mundi jafngilda því, að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur breyttust í einu vetfangi úr stjórnmálaflokkum með yfirlýsta andstöðu við inngöngu Íslands í ESB yfir í að verða flokkar fylgjandi inngöngu. Slíkt mundi jafngilda mestu kosningasvikum Íslandssögunnar og kemur að sjálfsögðu alls ekki til greina.
Hvers vegna eiga landsmenn að drattast með það lík í lestinni út þetta kjörtímabil, sem þessi umsókn er ? Hún klýfur flokka, og hún klýfur þjóðina. Það verður ekki hægt að lífga þetta lík við, nema forsendur gjörbreytist í ESB og/eða á Íslandi, og þá er miklu hreinlegra að sækja um á nýjum forsendum. Strætisvagninn kemur aftur, þó að við hoppum ekki upp í hann núna, og það er heiðvirðust málafylgja inn á við og út á við að sitja við hreint borð.
Það eru hins vegar öflugir hagsmunaaðilar í þessu landi, sem ekki mega heyra á slíkt minnzt. Þeim og skoðanasystkinum þeirra á Alþingi hefur tekizt að hylja sannleikann í þessu máli í blekkingarvef.
Því miður hefur talsverður fjöldi nytsamra sakleysingja látið blekkjast, enda eru hart rekin trippin í áróðrinum gegn ríkisstjórninni. Hafa sumir fréttamenn þar farið offari og opinberað sig sem óyfirvegaða í starfi, sumir mundu segja sem skaphunda, gjammandi fram í, og með útblásið egó, sem er í engu samræmi við starfsvettvang þeirra, þar sem rósemi hugans, víðsýni og staðgóð þekking á umfjöllunarefni er undirstaða árangurs, þ.e. að hjálpa almenningi við að taka upplýsta afstöðu til mála.
Þriðji hópur þeirra, sem vilja halda dauðahaldi í inngönguferlið, virðist engra sérstakra hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi, en hefur þá lífsskoðun, að Ísland eigi helzt heima í ríkjasambandi, t.d. af því, að það sé of lítil eining til að standa sjálfstætt, og er gjaldmiðillinn, krónan, þá oft nefnd til sögunnar.
Við þessa 3 hópa glímir ríkisstjórnin, núverandi meirihluti á Alþingi og allir þeir, sem telja hag Íslands betur borgið sem fullvalda ríki en útnári í gríðarfjölmennu ríkjasambandi. Tveir fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ráðizt gróflega og einkar ósmekklega að samflokksmönnum sínum opinberlega fyrir þessa skoðun þeirra og málafylgju, svo að eftirmálar gætu af hlotizt, því að erfitt er yfir að slétta. Hið fyrra skiptið óð Þorsteinn Pálsson fram með fádæma svikabrigzl á hendur formanni Sjálfstæðisflokksins í Vikulokunum á Rás 1, og hið seinna skiptið fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fram með fúkyrðaflaumi í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins um samflokksmenn sína, sem aðra afstöðu hafa til ESB en hún sjálf, og kallaði þá ýmist "frekjupunga", "harðlínumenn" eða "svartstakka". Stimplar af þessu tagi bera hugarfari viðkomandi vitni.
Orðaleppar af þessu tagi eru ekki líklegir til að auka þolinmæðina gagnvart fólki í flokkinum, sem leynt og ljóst, með stóryrðum, hótunum og hávaða á Austurvelli reynir að koma í veg fyrir, að yfirgnæfandi meirihluti þingliðs Sjálfstæðisflokksins framfylgi Landsfundarsamþykkt flokksins um afturköllun umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið í félagi við Framsóknarþingmenn, sem eru með sams konar samþykkt frá æðstu samkundu síns flokks í farteskinu.
Margnefnd skýrsla HHÍ varpar ljósi á eftirfarandi:
- Inngönguferlið í ESB strandaði árið 2011 á skilyrðum Alþingis, og ekkert hefur þokazt síðan. Stækkunarteymi ESB gerði fjölmargar athugasemdir við stjórnkerfi Íslendinga á landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og fór fram á tímasetta og sundurliðaða áætlun um aðlögun þessa kerfis að stjórnkerfi ESB. Allt samkvæmt bókinni hjá ESB, og óþarfi að verða heimóttarlegur út af því.
- Þessi nýja staða var aldrei kynnt Alþingi á ári drekans, 2012, heldur var því blákalt haldið fram, að viðræður gengju vel, þó að skýrsla HHÍ sýni, að afraksturinn var hreinn tittlingaskítur. Eina ráðið til að ná fleyinu af strandstað var að ganga á fund Alþingis og reyna að fá skilmálum þess í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum breytt. Allt ár drekans virðist hafa liðið án þess að upplýsa Alþingi um hið rétta í málinu, að inngönguferlið hefði strandað á skilyrðum Alþingis. Þetta er grafalvarleg hegðun fyrrverandi ríkisstjórnar, sem Össur á eftir að svara fyrir.
- Fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, og vikapilti hans, Þorsteini Pálssyni, varð allt ár drekans ekkert ágengt við að ná fram "sérlausnum" varðandi téða tvo málaflokka, enda hefur ESB engan áhuga á slíku, þar sem þær eru erfiðar í framkvæmd. Verður að líta svo á, að hvorki sé núverandi þing fúsara til að gefa eftir fyrir ESB en hið fyrra né sé núverandi ríkisstjórn eða samninganefnd á hennar vegum líklegri til að finna "sérlausnir". Þegar af þessum ástæðum er út í hött og væri fáránleg hegðun gagnvart ESB að efna nú til þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort draga á umsóknina til baka eða að halda vonlausu þjarkinu áfram með ærnum kostnaði úr ríkissjóði. Það er sjálfhætt við þessa umsókn.
- Í ársbyrjun 2013 gefast þeir kumpánar, Össur og Þorsteinn, upp, en þá brestur þor og stjórnmálaleg heilindi til að viðurkenna stöðu sína sem strandkapteins og hjálparkokks hans. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og mistókst hrapallega ætlunarverk sitt. Í stað þess að ganga þá hreint til verks og slíta viðræðunum, þegar hér var komið sögu, þá þóttist Össur gera hlé á umsóknarferlinu fram yfir Alþingiskosningar, rétt eins og ekkert yrði auðveldara fyrir nýja ríkisstjórn en að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og ljúka ferlinu. Hér var rétt ein blekking stjórnmálarefsins á ferð.
- Allt eru þetta firn mikil vegna óheilindanna að hálfu Össurar og Þorsteins, sem nú blasa við. Þó kastaði fyrst tólfunum, þegar stöðuskýrsla HHÍ var gefin út í febrúar 2014 og í kjölfarið þingsályktunartillaga lögð fram um að draga umsóknina til baka. Þá þyrla þeir kumpánar og meðreiðarsveinar þeirra upp moldviðri út af meintum sviknum loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald eða stöðvun viðræðna, og tekur Þorsteinn þá sýnu meira upp í sig af svikabrigzlum í garð formanns Sjálfstæðisflokksins. Allt er þetta moldviðri ætlað til að hylja mistök þeirra kumpána við að framfylgja stefnu sinni og draumsýn um inngöngu Íslands í ESB og til að draga dul á, að umsóknin stendur föst og kemst ekki lengra. Að sínu leyti er jafnljóst, að nýjar upplýsingar skýrslunnar hafa gert allar fyrri meiningar og tal um skilmálalaust þjóðaratkvæði algerlega marklausar, af því að ómögulegt er við núverandi aðstæður að koma inngönguferlinu af stað aftur.
28.2.2014 | 21:52
Skollaleikurinn og skýrslan
Fyrsti þáttur skollaleiksins um Ísland inn í ESB fór fram á sumarþinginu 2009. Þá höfnuðu þáverandi stjórnarsinnar tillögu sjálfstæðismanna á þingi um að leyfa þjóðinni að tjá hug sinn til þess að senda aðildarumsókn til Brüssel.
Það var þó augljóslega kúvending í utanríkisstefnu Íslands að sækja um inngöngu í ríkjasamband Evrópu. Þetta var líka kúvending í stefnu annars stjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda voru sumir þingmenn flokksins augljóslega "í handjárnum" og með óbragð í munninum, þegar þeir samþykktu.
Eftirminnileg eru orð Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, sem sagði já við umsókn um aðild að samtökum stórauðvaldsins, sem væru á borð við hver önnur krimmasamtök. Þótti jafnvel andstæðingum umsóknar, sem á hlýddu, ráðherran taka nokkuð stórt upp í sig. Þingmenn með slíka fyrirvara með atkvæði sínu voru hins vegar bara að atast í ESB. Hugur fylgdi ekki máli, og því fór sem fór. Össur náði engum árangri og gafst upp. Ríkisstjórn Íslands varð að athlægi í Brüssel, af því að hún hélt, að hægt væri að töfra fram "sérlausnir". Þegar Össur minntist á þetta á blaðamannafundi í Brüssel, var hann umsvifalaust og skorinort, en kurteislega, leiðréttur af Füle. Þá hló marbendill. Að sækja um aðild að ESB án þess að ætla inn er einsdæmi fyrir ESB, og einvörðungu pólitískum furðudýrum getur dottið þvílík vitleysa í hug. Hvílíkur tvískinnungur !
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, var einn af stofnendum VG. Hann lætur ekki forystu flokksins teyma sig á asnaeyrunum og gerir grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar að ESB og afturköllun hennar í frábærri grein í Morgunblaðinu, 25. febrúar 2014, "Stór áfangi í sjálfstæðismálum Íslendinga". Getur höfundur þessa bloggs vottað, og er sjálfur ekki minnst hissa, að hann getur skrifað undir þessa grein fyrrverandi iðnaðarráðherra með punkti og priki. Öðru vísi mér áður brá.
Í upphafi greinarinnar skrifar Hjörleifur:
"Samþykkt ríkisstjórnar Íslands síðast liðinn föstudag þess efnis að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er líklega merkasti áfangi í sjálfstæðismálum þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun."
Hvaða afstöðu ætlar núverandi formaður VG að taka til téðrar þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar ? Ef hún hafnar henni, er hún gengin í ESB-björg Samfylkingarinnar, er á öndverðum meiði við fyrri og nýrri samþykktir flokks síns og grefur undan sjálfstæði landsins, sbr skrif Hjörleifs hér að ofan.
Ef hún skilar auðu í þessu sjálfstæðismáli, þá sannar hún, að hún er pólitískt viðrini. Að þora ekki að standa við stefnu flokks síns kann ekki góðru lukku að stýra. Það mun skaða flokkinn til lengdar og formanninn í bráð og lengd.
Ef hún á hinn bóginn styður þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, þá tekur hún sér stöðu með sjálfstæðissinnum á borð við Hjörleif Guttormsson.
Með birtingu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, hófst seinni hluti skollaleiksins um aðildarviðræður íslenzku ríkisstjórnarinnar við Stefan Füle og stækkunarteymi ESB í Brüssel. Skýrslan ber með sér fræðilegan þokka, og er þess vegna vandað verk. Af henni má hvarvetna ráða, að Össur Skarphéðinsson, Þorsteinn Pálsson og félagar hafa engum árangri náð fyrir Íslands hönd í þessum viðræðum. Þar sem full aðlögun að "Acquis" (því sem hefur verið ákveðið af ESB) hefur verið náð, er allt klappað og klárt, en á sviðum, þar sem svo er ekki, hefur hvorki gengið né rekið. Með öðrum orðum hafa heitstrengingar Össurar Skarphéðinssonar um "sérlausnir" fyrir Ísland reynzt túður eitt út í loftið. Hann hafði til þess 3,5 ár og hundruði milljóna kr að semja um sérlausnir án árangurs. Þetta er fullreynt. Áframhald er ígildi hreins fíflagangs, þar sem ríkisstjórnin mundi stórskaða hagsmuni Íslands bæði innan ESB og utan með áframhaldandi aðlögun, sem við yrðum síðan að vinda ofan af, af því að hvorki þing né þjóð mun samþykkja óbreytta löggjöf og regluverk ESB t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það er fullreynt í 3,5 ára þjarki Össurar og Þorsteins í Brüssel, að ekkert er í boði annað en allir sáttmálar ESB, þ.m.t. Rómarsáttmálinn og hin sameiginlega landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB. Flutningur á forræði auðlindanna til Brüssel blasir við, enda berjast aðildarsinnar einmitt fyrir því. Skilyrðislausri inngöngu Íslands í ESB.
Samfylkingin siglir undir fölsku flaggi í þessu máli, því að hún vill í raun skilyrðislaust þarna inn. Þess vegna ætlar allt um koll að keyra núna. Samfylkingin er af þessum sökum ófær um að ræða hina ágætu skýrslu efnislega. Þess í stað upphefur hún fádæma skítkast, og er formaður Sjálfstæðisflokksins aðalskotskífan. Það er ekki hægt annað en að fá skeifu, þegar hlustað er eða horft á varaformann Samfylkingar missa gjörsamlega stjórn á skapi sínu í ræðustóli Alþingis og belgja sig út af dólgslegum fúkyrðum í garð Bjarna Benediktssonar, þegar hann færði henni dagskrá Alþingis. Hún kórónaði svo barnalega hegðun sína með því að færa honum eitthvert snifsi í ræðustól ásamt með stöllu sinni. Innganga Íslands í ESB eru trúarbrögð Katrínar Júlíusdóttur, en rök hefur hún engin.
Fólk, sem hagar sér með þessum hætti og er gjörsamlega ófært um að rökræða sitt eina pólitíska stefnumál, skilyrðislausa inngöngu í ESB, má aldrei aftur komast í valdastóla á Íslandi.
Um hvað snýst allt fjaðrafokið ? Það snýst um misskilning og rangtúlkun á orðum formanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri. Flokkinum var mótuð sú stefna á Landsfundi 2013 að slíta viðræðum við ESB og ekki taka upp viðræður að nýju, hvorki eftir núverandi hlé Össurar Skarphéðinssonar, sem gafst upp á limminu, né eftir viðræðuslit.
Það var að sjálfsögðu alls ekki á Landsfundi gert ráð fyrir því að setja stefnuna um viðræðuslit í þjóðaratkvæði. Flokkurinn stendur og fellur með stefnu sinni. Tal um slíkt er hreinræktuð heimska, því að enginn alvöru stjórnmálaflokkur markar eindregna stefnu í grundvallarmáli, og býður svo upp á þjóðaratkvæði um hana eftir Alþingiskosningar. Stuðningur við flokkinn er stuðningur við stefnu hans. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut mest fylgi allra flokka í Alþingiskosningunum, og að hverfa frá stefnu hans væru svik við kjósendur hans.
Þá er komið að hinum þætti ESB-stefnunnar, þættinum um þjóðaratkvæðið. Moldviðrið, sem stjórnarandstaðan hefur þyrlað upp um "svikin" loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðismenn mótuðu kýrskýra stefnu á síðasta Landsfundi. Hún var ekki sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort ætti að slíta viðræðunum um aðild að ESB. Nei, alvöru stjórnmálaflokkur tekur ekki afstöðu í grundvallarmáli og skilyrðir stefnuna svo við þjóðaratkvæði. Flokkurinn leggur sjálfan sig undir í þessu máli og leggur stefnu sína undir í næstu kosningum. Til þess eru stjórnmálaflokkar að sameina fólk, sem berjast vill fyrir ákveðnum málum.
Hinn hluti hinnar mótuðu afstöðu Landsfundar var hins vegar yfirlýsing um það, að hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn lenti innan eða utan ríkisstjórnar eftir þingkosningarnar 27. apríl 2013, ef svo má komast að orði, mundi flokkurinn berjast fyrir því, að þráðurinn yrði ekki tekinn upp að nýju við ESB, nema meirihluti yrði fyrir því í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með öðrum orðum, ef sú stefna hefði orðið ofan á við ríkisstjórnarmyndun eftir síðustu kosningar að halda aðlöguninni áfram, þá mundi Sjálfstæðisflokkurinn berjast fyrir því, að svo yrði ekki gert án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta er of hart aðgöngu fyrir stjórnarandstöðuna til að hún geti og/eða vilji skilja boðskapinn rétt. Þess vegna hefur hún kosið að afflytja boðskap frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, eins og henni hentar, en það er lítilmannlegt af fulltrúum hennar að velta sér upp úr meintri ónákvæmni þeirra í framsetningu stefnu flokksins. Enginn frambjóðandi hafði umboð til að útþynna stefnu flokksins. Segja má, að þeir, sem tjáðu sig með óljósum hætti, hvað þetta varðar, hafi ekki búizt við slíku afhroði beggja fyrrverandi stjórnarflokka í kosningum, að þeir lægju báðir afvelta úti í móa að þeim loknum. Hið umdeilda loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu var þannig varnagli flokksins.
Lágkúra Samfylkingar ríður ekki við einteyming þessi dægrin. Nú hefur varaformaðurinn "toppað" formanninn, hvað orðbragð og framkomu snertir. Andlegt jafnvægisleysi Katrínar Júlíusdóttur, sem fram kom í ræðustóli Alþingis um skýrslu HHÍ og ímyndað loforð stjórnmálaandstæðinga hennar í kosningabaráttu, er á svo alvarlegu stigi, að það má ekki blaka við henni án þess að hún falli kylliflöt. Þetta er ekki þingleg hegðun og svo sannarlega er ekki hægt að treysta manneskju, sem er svona veik á svellinu, fyrir ráðherraembætti. Hún hefur hins vegar komizt til metorða í Samfylkingunni, og þingið situr uppi með hana og sandkassaleik hennar þetta kjörtímabilið.
Nú er málum svo komið, að það verður vart hjá því komizt að taka snerruna um aðild eða ekki aðild. Skýrsla HHÍ, árangursleysi 3,5 ára aðildarviðræðna, orð stækkunarstjóra ESB og öll gögn stækkunardeildarinnar, sanna, að engar undanþágur aðrar en hreinn tittlingaskítur eru á boðstólum. Í þjóðaratkvæðagreiðslu verður að spyrja spurningarinnar: "Vilt þú, að Ísland fullnusti aðlögun að regluverki Evrópusambandsins og undirgangist síðan alla sáttmála og löggjöf þess með inngöngu í Evrópusambandið ?"
Það er ekki hægt að ljúka þessari grein með jafnleiðinlegu fyrirbrigði og Samfylkingunni og forystu hennar, heldur skal nú vitna í lokakafla téðrar Morgunblaðsgreinar Hjörleifs, náttúrufræðings:
"Sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar lýkur aldrei, og í því efni þarf hver kynslóð að svara kalli. Ákvörðun um að slíta nú aðildarviðræðum við ESB skapar Íslendingum kærkomið andrúm til að hugsa sinn gang í samskiptum við aðrar þjóðir. Lega landsins, ríkulegar náttúruauðlindir og nálægðin við norðurskautið kalla í senn á árvekni og sveigjanleika í samskiptum út á við. Niðurnjörvun Íslands sem jaðarríkis í gangverki stórvelda meginlandsins er það, sem sízt hentar okkar hagsmunum í bráð og lengd. Yfirvegað mat á heildarhagsmunum á að ráða för nú sem endranær, og það er Alþingis í samvinnu við önnur stjórnvöld og almenning að vísa veginn."
23.2.2014 | 16:17
Skrípaleikurinn og skýrslan
Aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins, ESB, hófst formlega með þvinguðu samþykki Alþingis 16. júlí 2009 og lauk í ársbyrjun 2013 með ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að tillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um að gera hlé á aðlögunarferlinu vegna Alþingiskosninga, sem í hönd fóru. Af hverju ákvað Össur að gera þetta hlé ? Sumpart var það vegna ágreinings í röðum þáverandi stjórnarflokka, og sumpart var það af ástæðum, sem útskýrðir eru í nýútkominni skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ.
Nú hefur ríkisstjórnin í kjölfar útgáfu skýrslu HHÍ tekið ákvörðun um að leggja fyrir Alþingi að binda enda á flausturslegasta flan lýðveldissögunnar í utanríkismálum. Það er rökrétt að binda enda á aðlögun að ríkjasambandi, sem meirihluti þjóðarinnar hefur aldrei kært sig um að ganga í. Hvers vegna ætti stjórnkerfið að fara í kostnaðarsama fulla aðlögun til þess eins að hætta við allt saman, þegar alls kyns laga- og Stjórnarskráarbreytingar væru að baki ?
Aðlögun Íslands að ESB stóð í 3,5 ár á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar. Ágætlega unnin skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir, að enginn ávinningur varð af þessu seindræga ferli. Ekki voru til svo mikið sem drög að samkomulagi um "sérlausn", þegar Össur gafst upp í byrjun kosningaárs 2013. Samt skorti ekki áhuga utanríkisráðherrans á að ná "sérlausnum" fyrir Ísland, eins og hann kallar varanlegar undanþágur af alkunnum orðhengilshætti. Af þessum sökum var talið vonlaust að hefja formlega aðlögun að landbúnaðar- og sjávarútvegsbálki ESB. Þetta blasir nú við eftir birtingu skýrslu HHÍ.
Enn heldur fyrrverandi utanríkisráðherra því fram, að hægt sé að ná "sérlausnum" fyrir Ísland. Hvernig í ósköpunum getur maður, sem barðist fyrir því í 3,5 ár að ná "sérlausnum" fyrir Ísland án árangurs, ætlazt til, að nokkur trúi því, að núverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, tækist að "semja um sérlausnir" fyrir Ísland á þessu kjörtímabili, ef honum væri falið það ? Dr Össur gafst upp og ætlast til, að Gunnar Bragi taki við keflinu. Þetta er lélegasti brandari íslenzkra stjórnmála um langa hríð.
Þá, sem halda þessu fram, er ekki hægt að taka alvarlega, því að Gunnar Bragi hefur marglýst yfir andstöðu sinni við inngöngu Íslands í ESB. Það er hreint og beint ekki hægt að ætlast til þess af núverandi þingheimi, sem að meirihluta til vill eyða orku, tíma og peningum í annað þarfara en einskis nýtt hjal við Stefan Füle um tímasetta aðlögunaráætlun Íslands að hinni sameiginlegu peningamálastefnu, fiskveiðistjórnunarstefnu og landbúnaðarstefnu ESB.
Það sem Össuri Skarphéðinssyni, dr í kynlífi laxfiska, einkum murtu í Þingvallavatni, tókst ekki, þrátt fyrir innilega löngun og jafnvel ástríðu, er ósanngjarnt og mjög óeðlilegt að ætlast til, að óbreyttum Gunnari Braga takist.
Setjum svo, að Gunnar Bragi legði út á vatnið og kæmist að landi hinum megin. Hann hefði þá gengið á vatni, og aftur hefði orðið kraftaverk, en kálið (í þessu tilviki súrkál, uppáhaldsfæða forystuþjóðarinnar) væri ekki sopið, þótt í ausuna væri komið. Lagalega tryggingu skortir alfarið, af því að samningur við aðildarríki er lögformlega víkjandi gagnvart sáttmálum ESB. Ef eitthvert aðildarríkjanna mundi ekki, er frá liði, sætta sig við "sérlausnirnar", sem vissulega mundu brjóta í bága við sáttmálana, einn eða fleiri, ef um væri að ræða raunverulegar "sérlausnir", þá mun það kæra Ísland og aðildarsamning til t.d. leiðtogaráðsins. Um deilur af þessu tagi hefur Evrópudómstóllinn einn lögsögu, og enginn efast um, að hann mun leggja sáttmálana, sem eru ígildi stjórnarskráar ESB, til grundvallar úrskurði sínum og þannig ógilda "sérlausnirnar".
Þegar þarna væri komið, værum við komin í klærnar á framkvæmdastjórninni, sem mundi fara með okkur, eins og brókina sína. Stæðum við frammi fyrir slíku fullveldisafsali, er ljóst, að Stjórnarskrá Íslands mundi ekki heimila veru landsins í klúbbi af þessu tagi, og Alþingi væri nauðugur einn kostur að samþykkja úrsögn Íslands úr Evrópusambandinu.
Af ofansögðu má ljóst vera, að eina rökrétta leið Alþingis núna er að binda enda á umsóknarferlið, sem hófst 16. júlí 2009. Þá bregður svo við, að formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs umturnast og heimtar skýringu á eftirfarandi texta úr kosningastefnuaskrá Sjálfstæðisflokksins 2013:
"Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu, hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram."
Það, sem þarna stendur hefur síðan verið teygt, togað, misskilið og rangtúlkað af fleirum en téðri Katrínu, sem árið 2009 sveik samþykktir síns eigin flokks og samþykkti að leita inngöngu í ESB og fulla aðlögun að regluverki þess, en hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um þá afdrifaríku ákvörðun.
Kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins tók hins vegar af öll tvímæli um það, að svo skyldi ekki fara á þessu kjörtímabili, heldur skyldi veita þjóðinni tækifæri til að tjá hug sinn um svo afdrifaríka ákvörðun. Þjóðin kaus Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn til valda 27. apríl 2013 út á stefnuskrár flokkanna, sem m.a. lutu að því að draga umsókn um aðild að ESB til baka. Allt er þetta eins lýðræðislegt og hægt er að hugsa sér. Það er sögulega rangt og algerlega órökrétt m.v. stefnu þessara flokka, að þeir hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætta við afglöp og óráð fyrri ríkisstjórnar.
Helzta ályktunin, sem draga má af skýrslu HHÍ um aðildarumsókn Íslands að ESB, er, að tal fyrrverandi utanríkisráðherra um sérlausnir er hugarburður einn, enda náði hann ekki samkomulagi um neina "sérlausn" á 3,5 ára umsóknartíma.
Áhugamenn um inngöngu Íslands í ESB hafa tekið ákvörðun ríkisstjórnarinnar illa, en þeir hafa reynzt gjörsamlega rökþrota í málflutningi sínum. Það er fullkomlega óboðlegt að japla á innihaldslausum tuggum, sem jafngilda því, að Ísland eigi "af því bara" að halda áfram aðlögunarferlinu að ESB. Þetta fólk, sem nú getur ekki á heilu sér tekið, grípur hins vegar til svikabrigzla í garð forystu Sjálfstæðisflokksins og meirihluta þingflokks hans vegna þess, að ekki sé við þessi tímamót boðað til kosninga um, hvort stöðva eigi þetta ógæfulega ferli.
Þetta eru mikil endemi í ljósi þess, að þingflokkurinn er núna að framfylgja síðustu Landsfundarsamþykkt flokksins um þessi mál upp á punkt og prik. Það verða haldnar kosningar eftir þennan dag, og þær fyrstu væntanlega í vor. Síðan koma Alþingiskosningar, og þá gefst kjósendum kostur á að tjá hug sinn til flokkanna út af þessu máli og öðrum. Heitustu fylgjendur aðildar, sem margir hverjir eru hinir sömu og höfðu í frammi alls kyns hótanir og hrakspár í garð kjósenda, ef þeir höfnuðu hinum alræmdu Icesave-samningum, mega þakka fyrir að þurfa ekki nú að horfa upp á enn einn niðurlægjandi ósigur sinn í kosningum.
Málefnastaða þeirra í fortíð og nútíð er svo veik, og þeir liggja svo vel við höggi nú miðað við þróun mála í Evrópusambandinu, og andstæðingar ESB-aðildar eru svo öflugir og vel vopnum búnir, að fyrir þá er það létt verk að ganga á milli bols og höfuðs á andstæðingunum.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2014 | 21:01
Orkustefna í bráð og lengd
Við mótun orkustefnu fyrir Ísland verður ekki undan því vikizt að taka tillit til helztu dráttanna í orkumálum heimsins. Hverjir eru þeir ?
Þeir mótast um þessar mundir tvímælalaust af loftslagsmálunum. Dómsdagur vofir yfir mannkyni, ef það heldur áfram mengun láðs, lofts og lagar, í sama mæli og nú. Koltvíildi (CO2) var í fyrndinni í miklu meiri mæli en nú í andrúmsloftinu, líklega um 20 %, en jurtirnar hafa með sinni ljóstillífun, sem er undirstaða lífs á jörðunni, "étið" upp megnið af koltvíildinu, svo að það er nú aðeins brotabrot af því, sem áður var, eða um 400 ppm (hlutar úr milljón). Núverandi form lífs á jörðunni er háð ofurfínu jafnvægi, sem "sigurvegarinn", "homo sapiens", verður að gæta sín á að raska ekki um of.
Koltvíildið veldur s.k. gróðurhúsaáhrifum, þ.e. endurkastar hitageislum frá jörðu og aftur til jarðarinnar. Aukinn styrkur koltvíildis af manna völdum hitar þannig upp andrúmsloftið, og vísindamenn hafa áætlað, að 2°C meðalhlýnun gufuhvolfsins muni verða "óafturkræf" í þeim skilningi, að þá muni hlýna stöðugt hraðar, sama hvað mannkyn tekur sér fyrir hendur, og að lokum gera jörðina allsendis óbyggilega fyrir lífið í sinni núverandi mynd vegna hlýnunar og breyttrar samsetningar lofttegunda í andrúmsloftinu. Menn telja sig nú þegar geta rakið breytt eðli háloftavinda og veðurfars á jörðunni til hlýnunar. Hitt er annað mál, að aðrar kenningar eru um, að við lifum nú hlýskeið á milli ísalda, svo að hlýnun af manna völdum muni aðeins seinka ragnarökum af völdum fimbulkulda. Hér er ekkert fast í hendi, en rétt af mannkyni að gæta varfærni m.v. það, sem í húfi er.
Af þessu leiðir, að þjóðum heimsins ber að taka höndum saman um allar sjálfbærar aðgerðir, sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.á.m. um aðgerðir, sem leyst geta af hólmi jarðefnaeldsneyti, en af jarðefnaeldsneytinu stafar megnið af gróðurhúsaáhrifunum.
Þekktar birgðir jarðefnaeldsneytis eru nú meiri en óhætt er að brenna m.v. ofangreinda 2°C hitastigshækkun. Í raun ætti þess vegna að hætta frekari leit að jarðefnaeldsneyti og beina kröftunum fremur að þróun nýrra orkugjafa eða bindingu koltvíildis. Síðasta ríkisstjórn á Íslandi hafði samt ekki víðari sjóndeildarhring í orku- og umhverfismálum en svo, að hún lagði grunn að eldsneytisleit á Drekasvæðinu, en fækkaði virkjanakostum á Íslandi frá því, sem Verkefnastjórn um Rammaáætlun hafði lagt til. Þetta var algerlega glórulaus stefnumörkun og engan veginn í takti við orku- og umhverfisstefnu Evrópusambandsins, ESB, sem hún þó meig utan í við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.
Íslenzka orkukerfið er eitt örfárra orkukerfa í heiminum, þar sem nánast engin vinnsla raforku fer fram með jarðefnaeldneyti. Þessu er farið með allt öðrum hætti í Evrópusambandinu, ESB, þar sem mjög dýrt átak er í gangi til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda, eins og vinds, sólar og viðarkurls með litlum árangri þó. Af umræðunni í Þýzkalandi má reyndar ætla, að "die Energiewende", eða vendipunktur í orkumálum, hafi nú þegar steytt á skeri vegna kostnaðar og árangursleysis.
Einmitt, af því að mengunin virðir engin landamæri, þótti rétt, að ESB ætti frumkvæði að aðgerðum til að hamla gegn vágestinum, sem hlýnun gufuhvolfsins er. Í því skyni kom ESB á laggirnar ETS (Emission Trade System) til að lágmarka kostnaðinn við að draga úr losun koltvíildis, þó að sýnt væri, að kostnaður við losunarheimildir mundi virka íþyngjandi á evrópska atvinnustarfsemi. Núverandi verð á losunarkvóta er að vísu aðeins um 5 EUR/tonn af CO2, sem er ekki nægur hvati til að draga úr losun. Framkvæmdastjórn ESB framdi þau mistök að úthluta fyrirtækjum of stórum kvóta í upphafi, og önnur fengu undanþágur, sem skekkir innbyrðis samkeppnistöðu atvinnugreina um vinnuafl o.fl. Þrátt fyrir miklu minni losun íslenzks atvinnulífs á framleiðslueiningu ákvað síðasta ríkisstjórn samt, að íslenzk fyrirtæki skyldu sæta ETS, viðskiptum með losunarheimildir koltvíildis. Það var þó greinilega ekki af umhyggju við umhverfið, heldur af alræmdri þjónkun sinni við ESB.
Misheppnuð orku- og mengunarvarnastefna ESB hefur stórlega komið niður á samkeppnihæfni fyrirtækja innan ESB og lífskjörum almennings í ESB-löndunum án þess að dregið hafi úr losun gróðurhúsalofttegunda að sama skapi. Nægir í því sambandi að nefna, að fyrirtæki í ESB greiða nú þrefalt til fjórfalt verð fyrir eldsneytisgas og meira en tvöfalt verð fyrir raforkuna á við fyrirtæki í Bandaríkjunum, BNA, vegna vaxandi framboðs á leirsteinsgasi (shale gas) í BNA, en bann við slíkri vinnslu er víða í ESB, þó ekki á Bretlandi, sem er að hefja mikla gasvinnslu. Eina ástæða þess, að ESB hefur náð losunarmarkmiðum sínum er efnahagskreppan þar og flótti iðnfyrirtækja frá ESB m.a. vegna orkuverðsins. Þó voru hvorki efnahagskreppa né fyrirtækjaflótti þáttur í loftslagsstefnu ESB. Hún sætir þess vegna æ meiri gagnrýni aðildarlandanna.
Þessi frásögn sýnir í hnotskurn muninn á aðstöðu Íslendinga og umheimsins varðandi orkumálin. Umheimurinn berst við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en Íslendingar eru nú þar, sem margar aðrar þjóðir dreymir um að verða á síðari hluta 21. aldar. Af stefnu ESB í orkumálum má ráða, að hjá leiðtogaráði og framkvæmdastjórn ríki örvænting um framtíðina.
Núverandi stefna nefnist 20-20-20-20 og vísar til þess, að árið 2020 skuli aðildarlöndin hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % m.v. árið 1990 og að 20 % raforkunnar verði þá framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og að orkunýtnin hafi þá batnað um 20 % á 30 árum. Þetta getur reynzt mörgum löndum ESB efnahagslega um megn.
Samt hefur framkvæmdastjórnin nú reitt svipuna enn hærra til höggs og hækkað markmiðin í 40 % minnkun losunar árið 2030, og hún vill skuldbinda aðildarríkin til að framleiða þá 27 % raforkunnar úr endurnýjanlegum lindum. Hér má kenna fingrafar þýzka sambandslýðveldisins, sem reynir að troða sínum "Orkuviðsnúningi" - "Energiewende" upp á hin ríkin, þó að árangur þessa viðsnúnings sé enginn, mælt í koltvíildislosun, en hefur verið hrikalega dýrkeyptur fyrir atvinnulíf, heimili og skattgreiðendur, því að orkuverð er svimandi hátt þrátt fyrir gríðarlegar niðurgreiðslur á raforku úr endurnýjanlegum lindum, s.s. vindi, sól og trjákurli. Það verður á brattann að sækja fyrir Berlín að fá hin ríkin til að taka upp kjarnorkustefnu Þýzkalands, sem snýst um að loka öllum kjarnorkuverum landsins innan 10 ára.
Vel þekkt er kjarnorkustefna Frakka, en a.m.k. helmingur raforku Frakklands kemur frá kjarnorkuverum, og er ekkert lát á, hvað sem "Energiewende" austan Rínar líður. Pólverjar hafa nú ákveðið að draga úr hlutdeild kola í raforkuvinnslu sinni, sem er um 80 %, með því að reisa tvö ný kjarnorkuver, þau fyrstu í sögu landsins, norður við Eystrasaltsströndina, skammt frá Kalíningrad, rússneskri hjálendu, þar sem eru kjarnorkuver og verða áfram. Til þessa ætla Pólverjar að verja allt að EUR 20 milljörðum. Verður þá Þýzkaland bókstaflega umlukið kjarnorkuverum á landi.
Þjóðverjar ætla að taka "stóra stökkið" þangað, sem Íslendingar eru í vinnslu raforku m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda og taka þar með forystu í heiminum á þessu sviði. Mun Þjóðverjum takast þetta ? Það eru mörg ljón í veginum, eins og fyrri daginn. Ekki kæmi á óvart, að þeim tækist þetta með því að hætta við lokun allra kjarnorkuvera og leyfa kjarnorkuver af nýrri kynslóð.
Mörgum Þjóðverjum er um og ó út af ofurmetnaði leiðtoga þeirra í umhverfislegum efnum, en aðrir halda því fram, að ekki sé nógu langt gengið. Telja þeir, að til að ná markmiðinu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80 % - 95 % m.v. 1990 árið 2050, sem talið er nauðsynlegt til að hindra hlýnun gufuhvolfsins yfir 2°C, þá verði árið 2030 að hafa náðst 55 % minnkun losunar og 45 % raforkunnar þurfi þá að koma úr endurnýjanlegum orkulindum. Þetta sjónarmið er sennilega rétt, en algerlega óraunhæft m.v. núverandi tækni. Líklega er samrunaorkan eina orkulindin, sem bjargað getur jörðunni frá of mikilli hlýnun og samtímis staðið undir vaxandi orkunotkun á mann.
Af þessu er ljóst, hversu mikið er talið vera í húfi. Nú er það einnig ljóst, að Íslendingar geta lagt sín litlu lóð á vogarskálarnar og sýnt umheiminum samstöðu í þessu örlagaríka máli. Spyrja má, hvernig við, sem framleiðum nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti, getum bætt um betur. Það getum við með því að framleiða enn meiri raforku hérlendis en gert er núna og létta þannig örlítið á raforkukerfum, sem menga miklu meira en okkar. Þetta getum við gert með sjálfbærum og afturkræfum hætti með því að beita beztu tækni við virkjanir og línulagnir, svo að það ætti ekki að vera áhorfsmál, ef útlendingar vilja kaupa af okkur orkuna á verði, sem stendur undir arðsemi fjárfestinga, sem er viðunandi m.v. áhættuna.
Nú vill svo til, að einn er sá málmur, sem svo hagar til um, að notkun hans vex hratt í heiminum, hann er talinn vera umhverfisvænn vegna hlutfalls styrks og eðlisþunga, hann er auðveldlega endurnýtanlegur, og tiltölulega mikla raforku þarf til að vinna hann í upphafi. Þetta er greinilega málmur framtíðarinnar, og þessi málmur er þess vegna kjörinn til framleiðslu á Íslandi til útflutnings. Þannig má draga örlítið úr framleiðsluþörf hans í löndum, sem ekki hafa umhverfislega jafnhagstæð skilyrði til þess og Íslendingar. Að móta slíka stefnu er vissulega umhverfisvernd í verki.
Glöggur lesandi hefur nú getið sér þess til með réttu, að hér muni vera átt við álið. Af þessum málmi eru nú þegar framleidd hérlendis um 900 kt/a (þúsund tonn á ári), og vinnslugeta orkulinda Íslands leyfir hæglega 2/3 aukningu, svo að framleiðslan verði 1,5 Mt/a (M=milljón). Viðbótin útheimtir viðbótar virkjanir upp á 9,0 TWh/a, sem er um 50 % aukning við núverandi vinnslugetu. Það er vel hægt að finna slíkum virkjunum stað án óbærilegra náttúrufórna. Þar sem slíkt er þó alltaf háð einstaklingsbundnu mati, má kjósa um valkostina í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef Alþingi sýnist svo, eða margir skrifa undir áskorun þess efnis. Þetta yrði okkar myndarlegasta framlag til aðstoðar við orkubyltinguna, sem nauðsynleg er að margra mati til að bjarga heiminum frá hreinu helvíti síhækkandi hitastigs. Er hægt að skjóta sér undan því að hlaupa undir slíkan bagga ?
Nú væri ekki furða, þó að einhver hugsaði með sér, hvort ekki væri vitlegra að beina íslenzku rafmagni, sem framleitt yrði með sjálfbærum hætti, beint inn á orkukerfi Evrópumanna, t.d. Breta, í stað þess að leggja í áhættusamar iðnaðarfjárfestingar á Íslandi með viðeigandi umhverfisraski og álagi á íslenzka náttúru á formi mengandi efna frá verksmiðjunum. Þessari spurningu er bezt að svara í nokkrum liðum:
- Það hefur enn ekki verið þróaður sæstrengur með nægilegt einangrunarþol fyrir þá háu jafnspennu, sem nauðsynleg er til að afltöpin verði viðunandi lág né með nægilegt togþol fyrir dýpið á lagnarleiðinni á milli Íslands og Skotlands. Líklegt er, að sæstrengjaframleiðendur teygi sig hægt og rólega í þá átt, sem gerir tæknilega kleift að framleiða, leggja og reka slíkan streng, en það verður tæpast fyrr en um 2025. Það verður alltaf dýrt og áhættusamt að reka slíkan streng, og hann gæti hæglega verið mánuðum saman úr rekstri vegna bilunar. Hver vill hætta fé sínu í mjög áhættusamt fyrirtæki, þar sem stofnkostnaðurinn er svo gríðarlegur, að flutningskostnaðurinn verður um 140 USD/MWh. Ef fást eiga yfir 30 USD/MWh fyrir orkuna Skotlandsmegin, þarf kaupandinn að snara út heildsöluverði 170 USD/MWh - 200 USD/MWh, og það er einfaldlega hærra en greitt er nú um stundir fyrir endurnýjanlega orku á Bretlandi í heildsölu. Allt bendir til, að aukið framboð á jarðgasi muni fella orkuverð í Evrópu, og einna fyrst á Bretlandi, eins og þegar hefur gerzt í Bandaríkjunum (BNA). Af þessum sökum dettur engum heilvita manni í hug að fjárfesta um ISK 500 milljarða í von og óvon um, að brezk yfirvöld muni skuldbinda ríkissjóð um áratuga skeið til að greiða niður græna raforku frá Íslandi til að bæta örlítið tölfræðina sína um hlutfall raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Í stuttu máli er enginn rekstrargrundvöllur fyrir aflsæstreng frá Íslandi til Skotlands í fyrirsjáanlegri framtíð.
Með nútíma tækni er unnt að draga mjög úr umhverfisraski bæði við virkjanir og iðjuver og draga svo úr mengun iðjuvera, að sáralítilla og hættulausra (afturkræfra) ummerkja sjái stað í viðkvæmri náttúru Íslands, enda er annað fullkomlega óboðlegt. Góð vísbending um gæði tæknilegs rekstrar álvera var birt í Aluminium International Today, janúar/febrúar hefti 2014, þar sem losun gróðurhúsalofttegunda sem CO2 jafngildi í t/t Al var birt. Af töflunni hér að neðan um 10 beztu löndin, hvað litla losun gróðurhúsalofttegunda varðar, má ráða, að álverin á Íslandi séu í hópi þeirra, sem tæknilega bezt eru rekin í heiminum. Það þýðir, að þau beita beztu fáanlegu tækni við sinn rekstur og að mannskapurinn ræður við þá tækni. Með beztu fáanlegu tækni nú á dögum er hægt að stunda iðnrekstur án þess að skilja eftir sig fótspor í náttúrunni. Þetta á sérstaklega vel við um Ísland, þar sem víða er enginn skortur á vatni, en álver þurfa á miklu vatni að halda.
- Þýzkaland: 1,72
- Ástralía: 1,86
- Spánn: 1,96
- Ísland: 2,11
- Brasilía: 2,17
- Noregur: 2,20
- Kanada: 2,36
- Frakkland: 2,66
- Rússland: 2,66
- Bandaríkin: 3,16
Að bæta við framleiðslugetu áls á Íslandi um 600 kt/a útheimtir virkjanir með vinnslugetu tæplega 9 TWh/a, sem er 50 % aukning m.v. núverandi stöðu, og færi vinnslugeta landsins þá upp í tæpar 27 TWh/a. Að bæta við aftöppun úr kerfinu upp á 900 MW um sæstreng til Bretlands gæti þýtt rúmlega 5 TWh/a orku, og Landsvirkjun ætlar ekki að virkja hana alla fyrir sæstrenginn. Það þýðir aðeins eitt. Landsvirkjun ætlar að skapa hér viðvarandi vatnsskort í miðlunarlónum, nema í beztu vatnsárum, eins og nú er að verða reyndin á Austurlandi með orkuflutningi frá Kárahnjúkavirkjun norður og suður vegna skorts á miðlunargetu á Suðurlandi og Norðurlandi.
Það er einkennilegt fólk, sem gengur með þær grillur, að friður geti skapazt um það fyrirkomulag á Íslandi að tæma lónin án virðisaukandi starfsemi hérlendis fyrir tilstuðlun orkunnar með þeim afleiðingum, að atvinnurekstur á Íslandi verði fyrir árvissum skakkaföllum vegna orkuskorts. Þessi hugmynd er með eindæmum illa ígrunduð og mun aldrei hljóta hljómgrunn hérlendis, hvernig sem áróðursmenn sæstrengs hamast. Það má segja um Landsvirkjun í þessu sambandi, að svo flýgur hver sem hann er fiðraður.
Það má hins vegar spyrja, hvort skynsamlegt sé að auka við álframleiðsluna, setja fleiri egg í sömu körfuna, eins og sagt er. Svarið við því veltur á ýmsu. Fyrst er til að taka markaðshorfur álsins. Verðið er lágt núna eða tæplega 2000 USD/t að meðtöldu gæðaálagi eða "premíu", en það er lítið vit í að framleiða ál á Íslandi án virðisaukandi forvinnslu fyrir lokavinnsluferli hjá kaupanda. Dæmi um slíka vinnslu er álverið í Straumsvík, ISAL, þar sem frá upphafi verksmiðjunnar árið 1969 til 2013 voru steyptir völsunarbarrar af fjölmörgum gerðum fyrir völsunarverksmiðjur, en nú er verið að bylta steypuskála fyrirtækisins til að steypa sívalninga, sem gefa enn meiri virðisauka og fara í þrýstimótun alls konar bita, t.d. fyrir bílaiðnaðinn, flugvélaiðnaðinn, skipaiðnaðinn, lestir og byggingariðnaðinn.
Nú eru mjög miklar birgðir áls í heiminum eða um 15 Mt, sem endast mundu framleiðendum í 15 vikur án viðbótar inn á markaðinn. Ástæðan er meiri aukning á framleiðslugetu en eftirspurnaraukning. Sú staða hefur nú snúizt við, og árið 2016 er talið, að verð taki að hækka umtalsvert að nýju. Aukning eftirspurnar hefur verið gríðarleg eða um 4-8 % á ári undanfarin ár, og hefur Kína leikið þar aðalhlutverkið. Horfur fyrir álframleiðendur, sem nota raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og sem hafa náð góðum tökum á rekstrinum og þar með öryggis-, heilsu- og umhverfismálunum, eru mjög góðar.
Íslendingar hafa í raun allt sitt á þurru varðandi viðskiptin við eigendur álveranna. Þeir hætta ekki fé sínu til fjárfestinga, nema til þjónustustarfsemi við álverin. Raforkufyrirtækin hætta engu til, af því að arðsemi viðskiptanna er tryggð í orkusamningi með mjög hárri kaupskyldu, lágmarksverði, sem hækkar samkvæmt ýmsum álþjóðlegum vísitölum, og langtímasamningum, með 20-40 ára gildistíma. Með slíka samninga upp á vasann trítla fulltrúar virkjanafyrirtækjanna á fund lánastofnana og fá hagstæðustu fjármögnun, sem völ er á, vegna lágmarksáhættu. Þessum eggjum í títtnefndri körfu er þess vegna ekki hætta við að brotna, enda hefur áliðnaðurinn í 45 ára sögu sinni á Íslandi lagt sitt lóð á vogarskálar stöðugleikans.
Það þarf ekki að orðlengja það, að álframleiðsla á Íslandi er aðferð til að skapa fjölbreytileg störf í landinu og til að skapa álitlegan gjaldeyri úr orkulindum landsins, vatnsorku og jarðvarma. Vindorkan hérlendis er bara fyrir vindbelgi til að belgja sig út um, því að vindmyllurnar, þó að stórar séu, framleiða bæði lítið og dýrt rafmagn, sem hvergi er réttlætt, nema til að auka hlut endurnýjanlegra orkulinda. Hér hefur þessi hlutdeild í raforkuvinnslu verið fast að 100 % síðan um 1980. Vindmyllur án kolefnissparnaðar eru ekkert annað en aðhlátursefni, þótt með öðrum hætti sé en í skáldsögunni um riddarann sjónumhrygga.
Þá er spurningin sú, hvort landsmenn vilji fórna meira landi undir miðlunarlón, sem er óhjákvæmilegt, þó að engin aukning verði í iðnaðinum, til að geta afhent umsamda orku á útmánuðum sem aðra mánuði ársins. Þetta er unnt að gera án þess að eyðileggja varanlega nokkrar gersemar, eins og nýleg tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra gefur vonir um.
15.2.2014 | 17:44
Stjórnlagadómstóll Þýzkalands brýtur blað
Þann 7. febrúar 2014 brutu rauðhempurnar, ekki þó rauðhetturnar, í Karlsruhe, blað í sögu evrusamstarfsins. Þá kvað Stjórnlagadómstóll Sambandslýðveldisins Þýzkalands upp úrskurð um lögmæti þess að skuldbinda þýzka skattgreiðendur fyrir lánveitingum til evruríkja í fjárhagsvanda. Þetta var athygliverður úrskurður, sem sýnir í hnotskurn umbrotin í Þýzkalandi út af þeirri braut æ nánari samruna, sem ESB er á. Er þar komið að leiðarlokum ?
Úrskurðurinn var á þá leið, að þetta væri óheimilt og bryti líklega í bága við sáttmála ESB, t.d. Lissabonsáttmálann. Rauðhempurnar þekkja vel valdmörk sín og kváðu Evrópudómstólinn einan hafa lögsögu í málum, er vörðuðu sáttmála ESB. Það er þó augljóst, að með úrskurði sínum setja rauðhempurnar starfsemi björgunarsjóðs evrunnar, svo og skuldabréfakaup evrubankans af bönkum evrusvæðisins, hvers andvirði hefur síðan gengið til kaupa á ríkisskuldabréfum viðkomandi ríkis, í algert uppnám. Þeir, sem héldu, að vandi evrunnar væri leystur, vaða augljóslega í villu og svíma. Það er uppi lögfræðilegur ágreiningur um lögmæti samþykkta ESB í einstökum ríkjum, og það er uppi mikil fjárhagsleg spenna, jafnvel togstreita, á milli lántökulanda og lánveitendalanda innan evrusvæðisins. Evran gengur vel á meðan allt leikur í lyndi, en þegar eitthvað bjátar á, koma veikleikar þessa hugarfósturs Frakka í ljós. Gallinn við evruna var, að hún var hugsuð út frá stjórnmálalegum forsendum, en síður hagfræðilegum. Hún rændi Þjóðverja þýzka markinu, sem Frakkar óttuðust, að bera mundi ægishjálm yfir aðrar myntir Evrópu. Frakkar hugsuðu málið ekki til enda. Með því að lækka verðbólguna í Þýzkalandi í krafti þýzks aga niður í lágmark á evrusvæðinu, varð þýzk framleiðsla sú samkeppnihæfasta á evrusvæðinu og þó víðar væri leitað. Þjóðverjar búa nú við veikan gjaldmiðil m.v. DEM, en firnasterka útflutningsatvinnuvegi. Frakkar sitja með bjúgverpil í fanginu, eða þeir sitja með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða.
Enn eru þeir menn á Íslandi, sem telja hagsmunum Íslands bezt borgið innan ESB, við framkvæmdastjórnarborðið, eins og þeir stundum minnast á. Þeir hinir sömu skulda þjóðinni beinhörð rök fyrir aðild Íslands. Hvaða hagsmunum yrði betur borgið ? Þá dugar ekki hlandvolgt japl um, að Íslendingar séu Evrópuþjóð og eigi samleið með þeim þjóðum Evrópu, sem gengið hafa í ríkjasamband, þar sem forystan leynt og ljóst stefnir á sambandsríki án þess nokkru sinni að spyrja þjóðirnar, hvort þær hafi hug á því. Kalt hagsmunamat til langrar framtíðar þarf að leggja til grundvallar.
Við erum með fullt aðgengi að Innri markaðinum vegna EES-samningsins og gætum vafalítið náð tvíhliða samningi um slíkt aðgengi, þó að EES hrykki upp af. Ástæðan er sú, að ESB-ríkin hafa sízt minni þörf fyrir vörur okkar en við á að selja þeim helztu vöruflokkana, ál og sjávarafurðir, því að það eru mjög álitlegir markaðir fyrir þessar vörur annars staðar. Svisslendingar gáfu ESB langt nef í þjóðaratkvæðagreiðslu um helgina 8.-9. febrúar 2014. Það var aðallega vegna þess, að Svisslendingar ráða ekki lengur landamærum sínum, og meiri fjöldi fólks streymir til Sviss frá suður- og austurhluta Evrópu en góðu hófi þykir gegna. Brüssel fýldi strax grön, en andstaðan á meðal almennings í Evrópu gegn frjálsu flæði vinnuafls er orðin slík, að viðbrögð Brüssel verða stormur í vatnsglasi.
Hagsmunir Íslands og ESB rekast hvað eftir annað á í sjávarútvegsmálum; nú síðast í makríldeilunni. Ef Ísland væri innan stokks, þá væru fulltrúar þess keflaðir þar og ofurliði bornir með meirihlutavaldi, en nú erum við sem strandríki fullgildir samningsaðilar. Að vera fyrir utan getur hæglega jafngilt 20 milljörðum kr meira í útflutningstekjur á ári í þessari einu fiskitegund.
Samkvæmt reglum ESB má ekki meina fyrirtækjum í öðrum ESB-ríkjum að fjárfesta í íslenzkum fyrirtækjum, einnig í sjávarútvegi, sem mundi breyta íslenzkum sjávarútvegi talsvert, og ekki endilega til bóta m.v. ástandið í evrópskum sjávarútvegi. Þó að gert sé ráð fyrir frjálsu flæði fjármagns, er þá ekki líklegt, að minna af hagnaðinum yrði fjárfest innanlands, ef fjármagnseigendur hafa höfuðstöðvar erlendis ? Þetta getur skipt tugum milljarða kr.
Ekki þarf að orðlengja um ákvörðun aflamarks eða úthlutun veiðiheimilda. Allt yrði það á hverfanda hveli. Líklegt er, að í byrjun yrði þetta óbreytt, nema að forminu er ákvörðunarvaldið í Brüssel, en síðan kynni Spánn eða hvaða aðildarland sem er að kæra fyrirkomulagið til Evrópudómstólsins, sem mundi dæma á grundvelli sáttmála ESB Íslandi í óhag. Þá yrðum við eins og fjárhættuspilari, sem búinn er að spila rassinn úr buxunum. Óþarft er að slá tölu á það fjárhagstjón landsins, sem gæti kippt stoðunum undan getu þess til að bæta hér lífskjörin og greiða upp erlendar skuldir.
Með aðild að ESB skapast möguleiki á gjaldmiðilsskiptum, eins og Lettar framkvæmdu um síðustu áramót. Ekki er víst, að hamingjan verði höndluð með því, eins og lesa má í eftirfarandi frásögn The Economist 1. febrúar 2014. Þá má benda á gríðarlegan kostnað samfara evruþátttökunni og ESB-aðildinni, sem að nokkru fer í björgunarsjóð evrunnar og í að viðhalda djúptækri spillingu í meðferð styrktarfjár frá ESB.
"Í grískri goðafræði er Cerberus þríhöfða hundur, sem gætir hliðanna að Hades. Í nútíma sögu Grikkja er þríeykið þríhöfða skrímsli, sem hefur fest landið í efnahagslegri myrkraveröld. Í fjármálaráðuneytinu í Aþenu hrópa meira að segja ræstingakonurnar "morðingjar" að gestum á vegum þríeykisins. Í Lissabon eru fúkyrði á borð við "Til fjandans með þríeykið". Vinsælt nýyrði á portúgölsku er "entroikado", sem þýðir hagfurða. "
Hver segir, að svipað ástand gæti ekki skapazt á Íslandi ? Íslenzka hagkerfið gengur ekki í takti við hagkerfi Evrópu, heldur meira í takti við aflabrögð á Íslandsmiðum og framboð sjávarafla í heiminum. Fastgengi evrunnar gæti stórskaðað gjaldeyrisöflun Íslands og vextir evrubankans gætu ýtt undir þenslu og magnað samdrátt hérlendis vegna misgengis hagsveiflu hér og þar.
Á Spáni hafa laun lækkað um a.m.k. 20 % árin 2011-2013 , og atvinnuleysið er um 25 % að jafnaði, og yfir helmingur ungmenna undir þrítugu gengur atvinnulaus. Evran er þægileg í viðskiptum, en það er skammgóður vermir, því að samfélagslegur fórnarkostnaður af henni er geigvænlegur. Hann er jafnvel meiri en Evrópa getur staðið undir, og þess vegna mun hún að öllum líkindum splundrast. Það er meiri reisn yfir því að reyna að ná stöðugleika á eigin spýtur í sjálfstæðu hagkerfi en að vera hreppsómagi með sterkan gjaldmiðil. Um þetta skrifaði Laxness eitthvað á þá leið, að feitur þjónn væri lítils virði, en barður þræll væri mikill maður, því að í brjósti hans byggi frelsisneistinn. Hér sem oftar veltur afstaða manna til ESB-aðildar á því, hversu mikils þeir meta frelsið, frelsið til áhrifa á samfélag sitt. Augljóslega minnka áhrif landsmanna á skipan þjóðfélagsmála hérlendis, ef þeir ganga í ríkjasamband.
"Evrópuþingið hefur nú hafið rannsókn á vinnubrögðum þríeykisins. Þingmenn á Evrópuþinginu hafa heimsótt lönd, sem þríeykið hefur í meðferð, og hafa stefnt embættismönnum þríeykisins til grillunar. Vinstri menn saka þríeykið um óhæfni, jafnvel um að hunza félagsleg réttindi, sem tryggð eru í sáttmálum ESB, og vilja afnema þríeykið. Hægri menn segja þríeykið vera nauðsynlegt verkfæri, sem hafi sannað verðleika sína, en afnema eigi það með tímanum. Báðir aðilar telja lagagrundvöll þríeykisins hæpinn, og það beri mjög óljósa ábyrgð.
Þríeykið liggur undir harðastri gagnrýni í Grikklandi og ekki að ástæðulausu. Landsframleiðslan hefur rýrnað um fjórðung síðan við upphaf evrukreppunnar, og 27 % vinnuaflsins er atvinnulaust."
Þetta er ljót lesning, sem sýnir, hvílíkum hreðjatökum ESB tekur þá, sem standa höllum fæti á evrusvæðinu og ógna með einhverjum hætti stöðugleikanum þar. Þar er hvorki skeytt um skömm né heiður, heldur vaðið út í miskunnarlausar aðgerðir án þess að kanna, hvort þær njóta lagastoðar eður ei, allt í nafni evrunnar.
Hið kaldranalega fyrir Íslendinga við þennan lestur er, að væru þeir komnir á evrusvæðið, þá gætu þeir hæglega orðið fórnarlömb þríeykisins eða arftaka þess, lent í hakkavél, sem færir þá áratugi til baka í lífskjörum, af því að hagkerfi þeirra er viðkvæmt fyrir ytri áföllum vegna smæðar sinnar.
Af þessari sögu er aðeins hægt að draga einn lærdóm. Alþingi á nú þegar á vorþinginu, þó að stutt verði vegna sveitarstjórnarkosninga, að draga til baka hina fljótfærnislegu og jafnvel skaðlegu umsókn að Evrópusambandinu, ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af trakteringum ESB í bankahrunsmálinu, Icesave, í deilum um nýtingu fiskistofna o.fl., og við höfum horft upp á meðferðina á þeim, sem innanbúðar eru í ESB og hafa lent í efnahagslegum vandræðum. Þeir eru eins og flugur fastar í köngulóarvef. Umsóknarferli, sem umvafið var þeim blekkingarvef, að Íslendingar gætu sveigt ESB af leið og fengið sínu framgengt í samningaviðræðum, var reist á dómgreindarleysi og þekkingarleysi og hlaut þess vegna að steyta á skeri. Úr því að eindregnum aðildarsinnum tókst ekki að leiða þetta dæmalausa ferli til lykta, er náttúrulega borin von, að andstæðingum aðildar verði eitthvað ágengt með stækkunarteymi ESB. Umsókn Íslands hefur engu skilað, nema ærnum kostnaði fyrir ríki og sveitarfélög í aðlögun og verður fleygt í glatkistuna árið 2014, eins og tveimur umsóknum Noregs, árið 1972 og 1994.
Það er ekki þar með sagt, að samskiptin við ESB verði lögð í frost. Þvert á móti geta þau nú hafizt á eðlilegum forsendum. Sá sem vill berjast fyrir aðild Íslands að ESB verður að finna málstað sínum betri rök en hingað til hefur verið veifað, og hann verður að sannfæra meirihluta þingheims um það. Þá verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það, hvort taka skuli upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og leiða aðlögunina til lykta. Því mun verða hafnað, nema forsendur gjörbreytist.