Tólf rök gegn aðild Íslands að ESB

Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, 1959-1971, leysti landið úr fjötrum haftabúskapar, sem hafði þá verið við lýði í 3 áratugi síðan í Kreppunni miklu og leitt til ormagryfju sérhagsmuna, sem allir þáverandi stjórnmálaflokkar höfðu tekið þátt í.  Ríkisvaldið var þá notað til að hygla hlöðukálfum stjórnmálaflokkanna með innflutningsleyfum, hagstæðum gjaldeyri og öðru, sem almenningur hafði að öðru jöfnu ekki aðgang að.  Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur sáu sér leik á borði að afnema innflutningshöftin með einu pennastriki, og stendur nokkur ljómi af henni fyrir það ásamt ýmsum öðrum brautryðjendaverkum.

Að mörgu leyti hófst framfarasókn landsmanna að nýju með Viðreisnarstjórninni, og þess vegna er fremur bjart yfir þessari ríkisstjórn í endurminningunni.  Líklega hafa stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu haft þetta í huga, þegar þeir völdu samtökum sínum nafnið Viðreisn, en í samhengi við ESB getur þessi nafngift hins vegar aðeins minnt á viðreisn erlends valds á Íslandi, en það var við lýði í mismiklum mæli frá samþykkt Alþingis á Gamla sáttmála við Hákon, gamla, 1262, til 1. desember 1918, með gildistöku Fullveldissamnings Alþingis við Danakóng og danska þingið, eða í 656 ár. 

Um nokkra hríð hefur Viðreisn, þessi, birt heilsíðuauglýsingu í blöðum landsins með yfirskriftinnu, "Evrópusambandið - Tólf góð rök með aðild Íslands !".       Það er ástæða til að kanna, hvort Viðreisn hafi nú fundið Stóra-Sannleik, hversu góð rök þetta eru, þegar grannt er skoðað:

  1. "Stjórnmálastöðugleiki - Smáþjóð verður að eiga bandamenn, þegar hún lendir í vanda."  Þetta er kynleg framsetning, og helzt virðist, að boðskapurinn sé sá, að bandamennirnir eigi að koma á stjórnmálastöðugleika. Undirlægjuháttur og metnaðarleysi fyrir hönd sjálfstæðrar þjóðar skín úr þessu, en er einmitt einkennandi fyrir þá, sem kalla framsal fullveldis til Brüssel að deila fullveldi þjóðarinnar með tæplega 30 öðrum þjóðum og sumum þeirra margfalt stærri.  Þetta eru algerlega metnaðarlaus rök, og eiginlega óskiljanleg.
  2. "Efnahagsstöðugleiki - Stöðugt efnahagsumhverfi og trú viðskiptalanda á Íslandi eru forsendur þess, að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf.  Gengissveiflur ógna fyrirtækjum og einstaklingum."  Sá, sem hefur samið þetta, hefur verið með bundið fyrir bæði augu og eyrnatappa í eyrum í sögutímum á skólagöngu sinni og í fréttatímum frá Hruni a.m.k.  Hraðari uppbygging atvinnulífs hefur orðið á Íslandi frá dögum Heimastjórnar 1904 en í nokkru öðru landi Evrópu.  Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til mestu kjarabyltingar, sem um getur í Evrópu, og var VLF/íb. árið 2013 16 % yfir meðaltali í ESB, og Ísland var þá í 11. sæti af 37 Evrópulöndum, og hefur áreiðanlega hækkað sig á þessa mælikvarða árið 2015, og hvergi hefur raunkjarabót almennings orðið meiri í Evrópu en á Íslandi síðan þá.  Þessum góða árangri er hægt að spilla til langframa með því að keyra atvinnulífið í þrot með vinnustöðvunum og óraunhæfum kjarakröfum stórra hópa, en aðild að ESB mundi engu breyta um stefnu verkalýðsfélaganna.  Um þessar mundir er það evran, sem skapar gengisóstöðugleika, því að fjármagnseigendur flýja nú evruna og sprengja upp gengi CHF og USD.  Reynslan er ólygnust um, að klisjan um efnahagsstöðugleika innan ESB eru öfugmæli.
  3. "Bein áhrif á alþjóðamál - Með inngöngu kæmu Íslendingar að setningu fjölmargra laga og reglugerða, sem hafa áhrif á Íslandi um langa framtíð.  Fulltrúar smáþjóða hafa mikil áhrif."   ESB er ríkjasamband um 500 milljóna manna, sem er um 1515 faldur mannfjöldi á Íslandi.  ESB er ekki lengur bandalag ríkja, þar sem fulltrúar allra hafa sama atkvæðavægi.  Þessu er búið að breyta, stórþjóðunum í vil.  Yfir því kvarta nú hástöfum fámennari þjóðir á borð við Svía, sem telja á hlut sinn gengið, en þetta er eðlileg þróun innan ríkjasambands, sem þegar hefur nokkur einkenni sambandsríkis.  Fulltrúar Íslands yrðu ofurliði bornir í öllum ágreiningsmálum, nema þeir gætu myndað bandalög frá einu máli til annars, en það væri fífldirfska að eiga alla helztu hagsmuni landsins undir slíku, og aðeins spilafíklar mundu veðja á slíkt.  Í raun kallar varðstaða um hagsmuni Íslands á varðstöðu um fullveldið, sem er okkar beittasta vopn.
  4. "ESB er hagsmunasamband ríkja - Samræming laga og reglna er grunnur að frjálsum og opnum markaði 28 fullvalda ríkja.  Danir hafa verið í Evrópusambandinu í tæplega 40 ár og halda hnarreistir fullveldi sínu."  Það á ekki að hafa farið framhjá neinum manni, að Ísland er aðili að Innri markaði EES, sem spannar landsvæði ESB og EFTA-ríkjanna, nema Sviss, sem ekki gengu í ESB.  Sviss hefur einnig aðgang að þessum markaði með tvíhliða samningum. Mörgum hérlendis þykir nóg um allar tilskipanirnar og reglurnar, sem talin er þörf á að leiða í lög hér út af þessari aðild.  Nýlegt dæmi er "Eldsneytishneykslið", sem gerð var grein fyrir í vorhefti tímaritsins Þjóðmála 2015.  Þar var um að ræða, rétt eina ferðina, mjög slæma stjórnsýslu að hálfu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, sem hefur í för með sér yfir eins milljarðs kr útgjaldaauka á ári fyrir bíleigendur, getur valdið tjóni á bénsínvélum, hefur neikvæð áhrif á umhverfið og var algerlega þarflaust að innleiða á Íslandi.  Reglugerðafargan báknsins í Berlaymont sætir æ harðari gagnrýni, því að það er tekið að vinna gegn samkeppnihæfni aðildarlandanna út á við, sem er í andstöðu við upphafleg markmið.
  5. "Góð grunngildi - Friður, frelsi, mannréttindi, jafnrétti og umhverfisvernd eru meðal grunngilda sambandsins.  Með aðild taka Íslendingar þátt í því að vernda þessi gildi í allri Evrópu."  "Un fault cultiver son Jardin", skrifaði Voltaire, eða maður á að rækta garðinn sinn.  Íslendingar halda öll þessi gildi í heiðri, og aðild að ESB mundi engu breyta um það til eða frá fyrir einn eða neinn, innan eða utan ESB.  Það er fjarstæðukennt að nota þetta sem rök fyrir aðild Íslands að ESB, og vitnar um rökþrot aðildarsinna. 
  6. "Styrkari samningsstaða út á við - Evrópusambandið hefur gert fjölmarga alþjóðasamninga og hefur á að skipa sérfræðingum á öllum sviðum alþjóðamála.  Íslendingar verða í liði með færustu sérfræðingum heims."  Hér er ekki skafið utan af órökstuddum fullyrðingum, en sannleikurinn er sá, að samningsstaða Íslands út á við verður engin, því að ESB yfirtekur samninga landsins við önnur ríki.  Þannig mun Ísland aðeins verða aðili að milliríkjasamningum um deilistofna í lögsögu Íslands með Brüssel sem millilið.  Engin ástæða er til að ímynda sér, að ESB muni söðla um við aðild Íslands varðandi það, hversu mikið á að koma í hlut Íslands af makríl, svo að dæmi sé tekið.  Að reiða sig á slíkt væri glópska.  Að telja forræði Brüssel yfir hagsmunamálum Íslands í milliríkjasamningum vera góð rök fyrir aðild Íslands er hreinræktuð heimska. 

Seinni 6 rökleysunum verða gerð skil síðar.

Nú hefur utanríkisráðherra sent bréf til formanns ráðherraráðsins og til stækkunarteymis ESB í nafni ríkisstjórnar Íslands um það, að hann óski eftir því, að Ísland verði tekið af skrá um umsóknarríki. Þetta þýðir, að núverandi ríkisstjórn Íslands er hætt við ferlið, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf með svipaðri bréfasendingu með stuðningi í furðuþingsályktun frá 16. júlí 2009, þar sem fjölmargir þáverandi stjórnarliðar gáfu í skyn, að þeir væru andvígir inngöngu Íslands í ESB og mundu greiða atkvæði gegn henni, ef málið kæmist á það stig.

Því miður blekkti þáverandi utanríkisráðherra fulltrúa ESB til að trúa því, að hér væri alvöru aðildarumsókn á ferðinni, þar sem hugur fylgdi máli, eins og fulltrúar ESB geta vænzt. Það var ekki fyrr en árið 2011, þegar Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra á vegum VG, hóf bein samskipti við ESB út af köflum sjávarútvegsmála, landbúnaðarmála og búfjársjúkdómavarna, að ESB var leiddur sannleikurinn fyrir sjónir um, að umsóknin var skrípaleikur.  Þá neitaði ESB að halda viðræðum áfram, en Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, heyktist á að gera Utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir þessari stöðvun viðræðnanna, og aftur brást Össur algerlega skyldu sinni gagnvart Alþingi, er hann tilkynnti ríkisstjórninni í janúar 2013, að hann hefði gert hlé á viðræðum. Fyrir það að segja sannleikann í Brüssel var Jóni Bjarnasyni vikið úr ríkisstjórninni og Steingrímur J. Sigfússon gerður að ofurráðherra.  Þó að hann bukkaði sig og beygði í Berlaymont, hnikaðist hið strandaða umsóknarfley ekki af strandstað, enda var haffærniskírteini þess falsað, er því var hleypt af stokkunum sumarið 2009. 

Þessar stefnubreytingar og fráhvarf frá þingsályktun frá 16. júlí 2009 bar fyrri ríkisstjórn að tilkynna Alþingi, en því var sleppt af "taktískum" ástæðum til að gera umsóknina ekki að kosningamáli í Alþingiskosningum vorið 2013.  Núverandi ríkisstjórn er á engan hátt  bundin af þingsályktun fyrra þings og ber enga ábyrgð á mistökum fyrri ríkisstjórnar, sem fólust í að fara á flot með þetta mál á grundvelli hrossakaupa stjórnarflokkanna 2009, þar sem VG fékk að fækka virkjanakostum Rammaáætlunar gegn því, að Samf fengi að senda til ESB umsókn um aðildarviðræður. Stjórnarandstaðan bítur nú hausinn af skömminni með því að senda barnalegt bréf til framkvæmdastjórnar ESB þess efnis, að ríkisstjórnin hafi ekki stjórnskipulega heimild til að genga gegn fíflagangi fyrra þings frá 16. júlí 2009. Lögfræðilega er þetta þvættingur, og í fyrra beitti þessi sama stjórnarandstaða meirihlutann á Alþingi ofbeldi og hindraði hann með málþófi í að samþykkja þingsályktun um afturköllun umsóknar Össurar & Co.  Það er ekki öll vitleysan eins, en eitt er víst, að þjóðin kann ekki að meta fullkomlega ómálefnaleg vinnubrögð núverandi stjórnarandstöðu á Alþingi, enda kvarnast stöðugt utan af fylgi Kvislinganna.   

Núverandi ríkisstjórnarflokkar gengu báðir með kýrskýra stefnu til kosninga 2013 um að afturkalla aðildarumsóknina og að taka ekki aftur upp aðildarviðræður án undangengis samþykkis fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Samhliða næstu Alþingiskosningum væri hægt að greiða atkvæði um slíkt, og mundi þá næsta ríkisstjórnarmyndun taka mið af niðurstöðunni.  Ef stjórnarandstaðan meinar eitthvað með núverandi belgingi um, að farið hafi verið á bak við Alþingi í þessu máli, þá leggur hún einfaldlega fram vantrauststillögu á Utanríkisráðherrann og lætur þannig reyna á þinglegan stuðning við hann í stað innantóms gaspurs og hótana um að setja störf Alþingis í uppnám. Stöðug upphlaup stjórnarandstöðunnar eru leiðigjörn og engan veginn til þess fallin að auka veg hennar.  Að taka mál meirihlutans í gíslingu með undirmálsþvaðri er með öllu ólíðandi og á ekkert skylt við þingræði.       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband