Syrtir í álinn fyrir evrunni

Evran hefur látið undan síga allt árið 2015 og lengur, og stefnir nú í, að hún verði verðminni en bandaríkjadalur.  Gjaldmiðlar lifa ekki á fornri frægð, heldur endurspegla styrk viðkomandi hagkerfis, og fer ekki á milli mála, að þar hefur bandaríska hagkerfið vinninginn í heiminum um þessar mundir á meðal stórmynta, t.d. mælt í hagvexti og atvinnuþátttöku, en nærri lætur, að atvinnuleysi á evrusvæðinu, um 11 %, sé tvöfalt meira en í BNA.

Veiking evrunnar hefur létt undir útflutningi evruríkjanna, og það hefur gefið sumum þeirra byr í seglin, t.d. Þýzkalandi og Írlandi, en enn sannast á Írlandi, sem litlu og opnu hagkerfi, að "ein stærð fyrir alla" hentar Írum illa.  Lágir vextir skapa nú eftirspurnarspennu á Írlandi, fasteignabólu, sem getur sprungið illilega í andlitið á þeim. 

Á árinu 2016 mun reyna á litlu hagkerfin á evru-svæðinu að þessu leyti, Eystrasaltsríkin, Kýpur, Möltu og Írland.  Evrubankinn verður jafnan að taka mest tillit til stóru ríkjanna, og það getur annaðhvort valdið ofþenslu, eins og hætta er á núna, eða kreppu, hjá þeim minni, t.d. Írum.  Fróðlegt verður að sjá, hvernig téðum ríkjum reiðir af að þessu leyti.  Þau hafa tök á mótvægisaðgerðum, en hafa þau vilja og þrek til að beita þeim ?

Einnig er áhugavert að velta fyrir sér langtímahorfum evrunnar. Í þeim efnum verður stuðzt við greinina:  "The force assaulting the euro" á síðu Free exchange í The Economist, 6. júní 2015.

Hinn hægi vöxtur og ríkissjóðshalli í flestum evru-löndunum á aðeins eftir að versna í framtíðinni af lýðfræðilegum ástæðum (aldurssamsetning).  Ríkið, sem harðast verður úti, er ekki lítið Miðjarðarhafsríki, heldur eimreið myntbandalags Evrópusambandsins, ESB, Sambandslýðveldið Þýzkaland. 

Hækkandi meðalaldur evru-þjóðanna, fækkun á vinnumarkaði og fjölgun ellilífeyrisþega, mun draga úr hagvexti, sem annars gæti orðið, nema framleiðni vaxi til mótvægis og ellilífeyrisaldur verði hækkaður. 

Nú eru neikvæð áhrif of lítillar viðkomu, sem hófst á 8. áratugi 20. aldarinnar, og hafði aldrei áður gerzt, að koma niður á hagkerfum flestra Evrópulanda.  Þetta á þó í litlum mæli við um Frakka, og á alls ekki við um Breta og Íslendinga. 

Á tímabilinu 2013 - 2030 mun fækka á vinnumarkaði evru-svæðisins, 20-64 ára gamalla, um 6,2 % samkvæmt spá Framkvæmdastjórnar ESB.  Mest mun fækka í Þýzkalandi, þrátt fyrir flóttamannastrauminn, sem nú veldur reyndar úlfúð, eða um 12,7 %.  Næst á eftir koma Portúgal með 12,1 % fækkun og Spánn með 11,3 % fækkun. Í Frakklandi mun aðeins fækka um 0,9 %, en á Bretlandi verður 2,3 % fjölgun á vinnumarkaði samkvæmt spánni og í Svíþjóð 8,1 % fjölgun. 

Þegar fækkar á vinnumarkaði, fjölgar í hópi ellilífeyrisþega, því að fólk deyr eldra en áður.  Þessi tvöfaldi þrýstingur á hagkerfi (víðast hvar eru gegnumstreymissjóðir, sem ríkið fjármagnar), hækkar hið svonefnda öldrunarhlutfall, ÖH, sem skilgreint er sem hlutfall 65 ára og eldri (í teljara) og 20-64 ára (í nefnara).  Um þessar mundir er ÖH yfirleitt um 30 % (20 %-35 %), en mun hækka gríðarlega til 2030 og verða yfirleitt um 45 %, þ.e. 35 % (Írland) - 52 % (Þýzkaland). 

Hvort sem Grikkland verður utan eða innan evru/ESB, þá verður landið að fást við snemmbær lífeyrisréttindi þegna sinna, sem í sumum tilvikum er við hálfsextugt.  Þó að evrusvæðið lagi lífeyrisréttindin að hækkandi aldri við dánardægur, þá mun hagvöxtur eiga erfitt uppdráttar á næstu 15 árum af þessum lýðfræðilegu ástæðum. 

Lítill sem enginn hagvöxtur mun eiga þátt í því, að evru-þjóðunum mun reynast erfitt að fást við mikla skuldabyrði opinberra aðila og einkaaðila, og þá verða viðkomandi auðveld fórnarlömb næsta samdráttarskeiðs eða fjárhagskreppu.

Hraðfara öldrun Þjóðverja skiptir máli í þessu viðfangi vegna vægis þeirra í myntsamstarfinu.  Viðnámsþróttur þýzka hagkerfisins hleypti krafti í evruna á tímum bankakreppunnar 2007-2010.  Síðan þá hefur evrunni  hins vegar hrakað, og megna Þjóðverjar greinilega ekki lengur að halda henni sterkri, og lýðfræði stærsta hagkerfisins innan evrunnar mun veikja hana enn meira. 

Nýjustu horfur lýðfræðinnar innan ESB benda til, að Bretland verði fjölmennasta ríkið þar að því gefnu, að Sameinaða konungdæmið verði áfram eitt ríki, sem haldi áfram í ESB, árið 2050. Bretar gætu þá jafnframt búið við öflugasta hagkerfi Evrópu. Þess má geta, að Rússum fækkar nú ört, og er sú neikvæða þróun eitt þeirra stærstu vandamála.  

Öldrun mun hefta kraftakarl evru-svæðisins.  Þjóðverjar eiga bara eitt gott svar við því. 

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, ritaði fróðlega grein í Fréttablaðið, 26. nóvember 2015:

"Krónan og kjörin".  Þar hafnar hann yfirborðskenndu skrafi gutlara af ólíku tagi um íslenzku krónuna, ISK, sem gera hana að blóraböggli allra "skavanka" á íslenzku efnahagslífi og jafnvel þjóðlífi. Hann færir rök að því, að evran henti ekki alls kostar vel opnum, litlum hagkerfum, sem er í samræmi við frásögn í upphafi þessa vefpistils:

"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru.  Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm.  Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út.

Færa má rök fyrir því, að í Finnlandi sé evran ein af orsökum þessarar þróunar.  Útflutningsgreinar þar í landi hafa lent í erfiðleikum af þremur ástæðum:

vegna falls Nokia, minni eftirspurnar eftir pappír og efnahagserfiðleika í Rússlandi.  Við slíkar aðstæður hefði gengislækkun bætt stöðu annarra útflutningsgreina og veitt þannig viðspyrnu gegn samdrætti og launalækkunum.  Vegna myntsamstarfsins er það hins vegar ekki mögulegt.  Þannig kom gjaldmiðill, sem endurspeglar ekki efnahagslegan veruleika Finnlands, í veg fyrir sveigjanleika, þegar hagkerfið lenti í vandræðum."

Í litlu og opnu hagkerfi, sem háð er miklum utanríkisviðskiptum, á borð við hið íslenzka, er afleit lausn á myntmálum að tengjast annarri mynt, hverrar verðmæti ræðst af hagkerfi eða hagkerfum, sem sveiflast ólíkt litla hagkerfinu.  Árangursmælikvarðar á borð við þróun landsframleiðslu á mann sýna þetta. Sameiginleg mynt er stundum hvati til ofþenslu og í annan tíma dragbítur.

  Hins vegar veldur, hver á heldur í litlu hagkerfi með eigin mynt.  Hægt er að sníða helztu agnúa af henni með styrkri og samþættri hagstjórn, þar sem miðað er jafnan við dágóðan viðskiptajöfnuð við útlönd, allt að 5 % af VLF, óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð af stærra taginu, allt að 100 % af árlegum innflutningsverðmætum, og launaþróun í landinu, sem tekur mið af framleiðnibreytingu í hverri grein og afkomu útflutningsatvinnuveganna. 

Rekstur ríkissjóðs þarf að vera sveiflujafnandi á hagsveifluna og skuldir ríkissjóðs litlar, innan við 20 % af VLF.  Með þessu móti fæst stöðugleiki, sem gera mun kleift að lækka raunvexti umtalsvert í landinu, sem yrði mörgum kærkomin kjarabót. Hins vegar þarf ríkisvaldið að hvetja til almenns sparnaðar með því að heimta einvörðungu skatt af raunávöxtun yfir MISK 1,0 og þá aðeins 15 %.   

          

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband