Ríkjandi stétt í tilvistarvanda

Um öll Vesturlönd næðir um valdhafa og forystu hefðbundinna valdaflokka, þótt í stjórnarandstöðu sé.  Ísland er þar engin undantekning. Lítið umburðarlyndi gagnvart valdhöfum er tímanna tákn. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram til skýringa á þessari óvenjulegu stöðu, sem einhverjir spekingar kynnu að kalla "postmoderníska", en fáir eru nokkru nær með þann orðalepp.

Taugaveiklun stjórnarandstöðunnar á Íslandi birtist ljóslega, þegar stjórnarkreppa vofði yfir á Íslandi í kjölfar Fésbókarfærslu SDG þann 5. apríl 2016, en þá skaut hann yfir markið með því að stilla bæði forseta lýðveldisins og þingflokki sjálfstæðismanna upp við vegg auk þess að móðga sinn eigin þingflokk.  Því fer fjarri, að stjórnarandstaðan hafi hreinan skjöld varðandi aflandsfélög.  T.d. reyndist innsti koppur í búri Samfylkingar, gjaldkerinn, hafa siglt undir fölsku flaggi, vera erkikapítalisti og dylja félagana þess að vera eigandi aflandsfélags. Orðrómur er um, að háttsettir menn innan verkalýðshreyfingarinnar úr röðum stjórnarandstöðuflokkanna séu á meðal eigenda aflandsfélaga.  Það væri óskandi, að nöfn allra þessara íslenzku eigenda verði birt sem fyrst, svo að hreinsa megi andrúmsloftið.  

Algeng skýring erlendis er, að "elítan", hafi misst traust almennings og trúverðugleika á flestum sviðum með mistökum sínum, úrræðaleysi og jafnvel spillingu. Á dögum borgarabyltinga 17. aldar (England), 18. aldar (Frakkland) og 19. aldar (Norðurlönd) var talað um úrkynjun aðalsins. Borgarar og bændur veltu aðlinum úr sessi.  Á Íslandi voru yfir 90 % mannskapsins leiguliðar og þurrabúðarmenn.  Þeir eignuðust loks jarðirnar og bátana á 19. og 20. öld, og sú breyting leiddi til kjarabyltingar á Íslandi. Hvað nú, er byltingarhugur í almúganum á Íslandi ?   

Á Íslandi hefur stéttaskiptingunni stundum verið lýst svo af alþýðu manna, að hrossataðskögglarnir fljóti jafnan ofan á, en menntakerfið hefur mjög dregið úr stéttaskiptingu á Íslandi. Á sumum vettvöngum þjóðfélagsins er þó erfitt að mótmæla þessu með hrossataðskögglana, en annars staðar á þessi myndlíking ekki við, því að við stjórn eru víða hinir mætustu menn og fremstir á meðal jafningja, eða eins og Rómverjar kölluðu Octavianus, sem síðar varð Augustus, fyrsti keisari Rómarveldis, "Primus inter Pares".

Einn þeirra, sem hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að leita skýringa á þjóðfélagsstöðunni, sem við blasir, er prófessor Ívar Jónsson í Morgunblaðsgrein 24. október 2015.  Þar skrifaði hann m.a.:

"Ógæfa Sjálfstæðisflokksins stafar af því að hafa lagt ofuráherzlu á að tileinka sér engilsaxneska nýfrjálshyggju Thatcherismans í stað þýzkrar nýfrjálshyggju Ordoliberalismans, sem leggur höfuðáherzlu á að tryggja samkeppni og réttlæti með sérstökum aðgerðum og regluverki gegn fákeppni.  Um leið er markmiðið að stemma stigu við samþjöppun efnahagslegs og stjórnmálalegs valds einokunar- og fákeppnisfyrirtækja.

Umræða um slíka nýfrjálshyggju var áberandi í Sjálfstæðisflokkinum á 6. áratuginum og Viðreisnarárunum, og þar var fremstur í flokki hugmyndafræðingurinn Birgir Kjaran, ritstjóri Frjálsrar verslunar.  Á þeim árum einkenndist stefna Sjálfstæðisflokksins af raunsæi og pragmatisma, en ekki hreinni hugmyndafræði.  Útgangspunkturinn var samfélagsleg ábyrgð, sem fólst í áherzlum á hagsmuni þjóðarinnar, stétt með stétt, frjálsri verzlun, raunverulegri samkeppni og umhverfisvernd grænu byltingarinnar."

Það er gott og blessað að rifja upp forna dýrðartíma Sjálfstæðisflokksins frá valdatíma Ólafs Thórs og Bjarna Benediktssonar, eldri.  Flokkurinn sló þá á strengi, sem endurómuðu í brjóstum þjóðar, sem var að feta sig áfram á braut sjálfstæðis, og var þá enn eftirbátur margra í lífskjörum, enda ríkti hér harðsvírað haftakerfi, sem vinstri flokkarnir höfðu smeygt um háls þjóðarinnar í Kreppunni miklu, og Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka barðist gegn og afnam síðan að mestu með Alþýðuflokkinum í upphafi valdaferils Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971. Viðreisnarstjórnin er líklega sú ríkisstjórn Íslands, sem mestum vatnaskilum olli í hagkerfinu á 20. öld til hagsbóta fyrir almenning. Núverandi ríkisstjórn með Bjarna Benediktsson, yngri, sem fjármála- og efnahgsráðherra er þegar orðin sú ríkisstjórn, sem mestum hagsbótum hefur komið í kring fyrir almenning á fyrstu tveimur áratugum 21. aldarinnar.  Afrek hennar með uppgjöri við slitabú föllnu bankanna til að greiða fyrir afnámi gjaldeyrishafta verður seint fullþakkað.

Til að fást við vandamál nútímans dugir hins vegar ekki að horfa til fortíðar, þótt hún sé glæst á köflum.  Það er ekki nóg að beita gömlum ráðum á viðfangsefni nútímans, þó að hugmyndafræði Ludwigs Erhards og Konrads Adenauers um að stöðva svartamarkaðsbrask í Vestur-Þýzkalandi eftirstríðsáranna og að stemma stigu við auðsöfnun og valdasamþjöppun með valdbeitingu ríkisins til að sundra risum á markaðinum til að tryggja frjálsa samkeppni, hafi gefizt vel í Vestur-Þýzkalandi eftir fall Þriðja ríkisins og geti áreiðanlega verið gagnleg á Íslandi nútímans einnig að breyttu breytanda. 

Nú dugir fólki þó ekki lengur efnaleg velferð, heldur vill það móta samfélag sitt með því að koma að ákvarðanatöku.  Það er brýnt að svara þessu með því að móta reglur um atkvæðagreiðslur í nærsamfélaginu og um málefni ríkisins á netinu, og nýta þannig tæknina til eflingar lýðræðinu, svo að það nái að þróast án óheyrilegs kostnaðar, sem atkvæðagreiðslum með pappír og blýanti upp á gamla móðinn fylgir.  Sjálfstæðisflokkinum væri í lófa lagið að ríða hér á vaðið í einu af sveitarfélögunum, þar sem hann hefur einn farið með völdin um langt árabil. 

Síðar í grein sinni,

"Sjálfstæðisflokkur í sjálfheldu - Fjórflokkurinn í kreppu", segir Ívar Jónsson:

"Samkvæmt stefnuskrá Pírata eru þau ekki andvíg verðtryggingu lána, en vilja kanna lögmæti verðtryggingarinnar.  Þau vilja lögfesta lágmarkslaun, en styðja ekki afgerandi skipulagsprinsipp norræns velferðarkerfis, þ.e. jafnan rétt til aðstoðar óháð tekjum viðkomandi.  Þau eru opin fyrir nýfrjálshyggjukerfi með tilheyrandi mati á þörf hvers og eins.  Píratar vilja einnig auka einkavæðingu velferðarkerfisins með því að styrkja hlut einkafyrirtækja í kerfinu til að minnka skrifræði í kerfinu.  Þau vilja einfalda skattakerfið, en skýra ekki, hvernig þau vilja gera það, eða hvort það feli í sér andstöðu við skattakerfi, sem byggist á mörgum stighækkandi skattþrepum. Þá má nefna, að Píratar hafa ekki stefnu í vaxtamálum, og þau eru ekki andvíg hávaxtastefnu nýfrjálshyggjunnar.  Loks hafa þau enga skýra stefnu gegn fákeppnisfyrirtækjum."

Hér orkar margt tvímælis hjá prófessor Ívari.  Út af fyrir sig ættu Píratar, sem eru uppreisnarflokkur gegn ríkjandi stétt, að geta tekið undir hið gamla slagorð sjálfstæðismanna, "Báknið burt", og þess vegna kemur ekki á óvart, að þeir vilji einfalda opinbera stjórnsýslu og þar með skattakerfið, sem reyndar er og hefur verið í einföldunarferli á þessu kjörtímabili, þó að óskandi væri, að Sjálfstæðisflokkinum hefði orðið betur ágengt með samstarfsflokkinn í þeim efnum en raun ber vitni um. Ef kjósendur veita pírötum verulegt brautargengi í næstu Alþingiskosningum, blasir við, að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugmyndafræðilega og fylgislega myndað tveggja flokka ríkisstjórn með pírötum, en hvort slíkt verður raunhæft fer eftir því, hvernig þingflokkur pírata verður skipaður.  Þessi hreyfing stjórnleysingja er enn að mestu óskrifað blað, en eðli málsins samkvæmt eiga stjórnleysingjar meira sameiginlegt með frjálshyggjumönnum en forræðishyggjufólki, sem leynt og ljóst vinnur að útþenslu báknsins.  

Jafnaðarstefnan hefur gjörsamlega gengið sér til húðar á Vesturlöndum, og hún er alls óskyld hinni þýzku markaðshyggju með félagslegu ívafi. Að allir fái sömu bætur úr ríkissjóði án tillits til efnahags er hagfræðilegt óráð.  Þá yrðu upphæðirnir svo lágar, að þeir, sem virkilega þurfa á öryggisneti hins opinbera að halda, stæðu í sömu sporum í sinni neyð. Þetta jafnaðarkerfi er löngu hrunið hvarvetna, enda var það hagfræðilegt óráð. Öldrunarsamfélög Vesturlanda hafa ekki lengur efni á jafnaðarmönnum við völd.  Þess vegna hrynur af þeim fylgið.

Dæmi um óréttlætið, sem í þessu felst, er fyrirætlun félagsmálaráðherra að hækka fæðingarorlofsfé miðlungs- og hátekjumanna, en láta ungar mæður, sem ekki hafa verið á vinnumarkaðinum, liggja óbættar hjá garði.  Það er fullkomin ósvinna, að samfélagið skuli ekki fremur kjósa, og það strax, að leggja út öryggisnet sitt til slíkra mæðra, hvort sem þær eru einhleypar eður ei, og greiða þeim fæðingarorlofsfé, sem dugir til að framfleyta slíkum mæðginum eða mæðgum.  

Prófessor Ívar klínir mörgu á nýfrjálshyggjuna, sem hún á ekki.  Eitt er hávaxtastefnan.  Nú ríkir fyrrverandi Trotzkyisti í Seðlabankanum við misjafnan orðstír, maður, sem sóttur var til Basel í Sviss, af því að hann var ekki talinn hallur undir "nýfrjálshyggju", heldur hafði starfað fyrir dr Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra og formann Alþýðubandalagsins (Alþýjasleifarlagsins). Hann versnaði þó varla við að vinna fyrir dr Ólaf. 

Þessi maður hefur ásamt sinni peningastefnunefnd haldið raunvöxtum í landinu í hæstu hæðum, svo háum, að menn hafa aldrei séð annað eins, og er líklega heimsmet sem meðaltal í 3 ár og gerir öllum atvinnurekstri erfitt fyrir, svo að ekki sé nú minnzt á kaupendur sinnar fyrstu íbúðar. Gagnsemin er mjög umdeilanleg við ríkjandi stöðnun og jafnvel verðhjöðnun erlendis. Verðbólguspá Seðlabankans undir stjórn þessa manns hefur reynzt vera kerfisbundið allt of há, og hefur bankinn þannig orðið sekur um að skapa allt of miklar verðbólguvæntingar í þjóðfélaginu, sem eru þensluhvetjandi.  Hávaxtastefna dregur úr hagvexti, og það er þess vegna órökrétt að klína henni á nýfrjálshyggju. Fjármálakerfið hefur ekki frekar reynzt skjólstæðingur frjálshyggjumanna en jafnaðarmanna, nema síður sé, sbr tímabilið 2003-2008 á Íslandi.  

Því skal mótmæla með vísun í Landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins 2015, að nýfrjálshyggja eigi sér heimilisfesti í flokkinum. Stefnu Sjálfstæðisflokksins svipar, ef eitthvað er, meira til markaðshyggju með félagslegu ívafi í anda CDU í Þýzkalandi en til Thatcherisma eða Reaganisma, en þau tvö hafa mest verið kennd við nýfrjálshyggju á Vesturlöndum undanfarna áratugi. 

Í lok greinar sinnar skrifar téður Ívar Jónsson:

"Það er því ekki sjáanleg nein alvarleg ógn við núverandi nýfrjálshyggjukerfi.  Líklegt er því, að pólitísk óvissa ríki áfram og að Fjórflokknum muni halda áfram að hnigna, nema ef ske kynni, að þau öfl eflist innan Sjálfstæðisflokksins, sem vilja fara þýzku nýfrjálshyggjuleiðina." 

Ef prófessor Ívar telur vísitölutryggingu fjárskuldbindinga verðskulda heitið "núverandi nýfrjálshyggjukerfi", þá verður að benda honum á, að lögin um hana, Ólafslög, eru kennd við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, prófessor Ólaf Jóhannesson, og að fyrsta tæra vinstri stjórn lýðveldisins, 2009-2013, virtist engan áhuga hafa á að draga úr vísitölutengingum, hvað þá að afnema þær, enda reyndist sú ríkisstjórn draga taum alþjóðlegs fjármálavalds í hvívetna. 

Vísitölutengingar í einu hagkerfi eru sjúkdómseinkenni, en ekki sjúkdómur. Sjúkdómurinn er óstöðugt hagkerfi.  Íslenzka hagkerfið er nú betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr að fóstra stöðugleika.  Það er vegna fjölbreytilegra og stórra tekjustofna í erlendri mynt. Jón Daníelsson, fræðimaður við London School of Economics, er með athygliverðar kenningar um, að hávaxtastefna Seðlabanka Íslands vinni gegn stöðugleikamarkmiðum ríkisstjórnarinnar. 

Frelsi innlánseigenda og lántakenda til að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra skuldbindinga hefur verið aukið, og stefnumiðið hlýtur að vera, að hér verði slíkur stöðugleiki í hagkerfinu, að vísitölutengingar verði óþarfar til skemmri og lengri tíma.  Hingað til virðist markaðurinn þó ekki hafa viljað útrýma verðtryggingu. Fullt valfrelsi í þeim efnum er eðlilegt. 

Sú almenna krafa að fá meiri aðkomu að ákvörðunum um málefni, sem almenningur ber fyrir brjósti, hefur myndað sér farveg í Pírötum.  Slíkt beint lýðræði á sér góðan samhljóm í grunngildum Sjálfstæðisflokksins um einstaklingsfrelsi til orðs og æðis.  Hér, eins og í öllum öðrum málum, er varða Stjórnarskrána, er hins vegar nauðsynlegt að vanda til verka, og fúskarar eiga ekki að fá að véla um hana, heldur verður að fá verkefnið stjórnlagafræðingum, svo að fullt samræmi verði innan Stjórnarskrárinnar eftir sem áður, og svo að ákvæðin um þjóðaratkvæðagreiðslu verði hafin yfir allan vafa, séu sanngjörn og leiði ekki til öngþveitis eða mikilla viðbótar útgjalda.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband