Skrílræði eða stjórnskipulegt lýðræði

Mótmæli á Austurvelli , feb-2010Píratar, vinstri grænir o.fl. hafa dögum saman lagt leið sína niður á Austurvöll í aprílmánuði 2016 og efnt þar til skrílsláta í anda stjórnleysingja (anarkista) og kommúnista, en báðir þessir hópar fyrirlíta þingræðið og hafa í sögulegu samhengi notað hvert tækifæri til að kasta skít í tannhjól þess.  

Það er fullkomlega löglegt að safnast saman til friðsamlegra mótmæla, en þegar þau eru orðin hávaðasöm, t.d. í grennd við hátíðahöld á Austurvelli að morgni 17. júní, eins og mjög hvimleitt dæmi er um, eða valda stórfelldum sóðaskapi eða jafnvel eignaskemmdum, þá gegnir allt öðru máli.  Steininn tekur þó úr, þegar skrílslæti eiga sér stað við Alþingishúsið á starfstíma þess, og er beinlínis ætlað að trufla starfsfrið þingsins.  Slíkt er forkastanlegt, enda stjórnarskrárbrot, sem á alls ekki líðast.  Lögreglan ver að sönnu þinghúsið gegn innrás, en þegar hávaði upphefst þar, eða skríll tekur að fleygja matvælum eða öðru í átt að þinghúsinu, þá hefur stjórnlagabrot verið framið, sem útheimtir virkar lögregluaðgerðir.  Kröfur fólks, sem rýfur friðhelgi Alþingis og raskar friði þess og frelsi, eru að engu hafandi, enda eru slík skrílslæti brot á 36. greinar Stjórnarskrárinnar. Slíkir afbrotamenn eru ómerkingar og ber að sæta hæfilegri refsingu eftir lögreglurannsókn og dómsuppkvaðningu. 

Vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á fyrsta starfsdegi ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, dýralæknis, var felld með 38 atkvæðum gegn 25, og þar með getur ríkisstjórnin starfað út kjörtímabilið eða svo lengi, sem hún hefur meirihlutafylgi á Alþingi.  Stjórnarandstaðan lagði samt fram aðra tillögu um kosningar strax, þ.e. innan 45 daga, og var hún einnig kolfelld, en með 37 gegn 26.  Í geðshræringu mikilla atburða og óláta gáfu þingmenn stjórnarinnar ádrátt um styttingu kjörtímabilsins um eitt þing, en það er óþingræðislegur gjörningur á meðan ríkisstjórnin hefur traustan þingmeirihluta. Ber að líta svo á, að ráðherrarnir telji sig ekki hafa traustan þingmeirihluta á síðasta þingi kjörtímabilsins.  Það væri miður, því að ríkisstjórnin þarf allt kjörtímabilið til að treysta í sessi þær aðgerðir, sem flokkarnir voru kosnir til og sem þeir einsettu sér að vinna að allt kjörtímabilið. Má þar nefna haftalosunina, umbætur á skattakerfinu, sölu ríkiseigna, endurreisn heilbrigðiskerfisins, aukna fjölbreytni í menntakerfið og að auðvelda fólki að eignast sína fyrstu íbúð. Offors stjórnarandstöðunnar eru ólýðræðislegir tilburðir til að draga úr árangri þessa stjórnarsamstarfs með því að færri mál verði til lykta leidd á kjörtímabilinu en efni stóðu til.

Það hefði ennfremur verið í hæsta máta óþingræðislegt að ganga nú í vor til kosninga áður en öll kurl eru komin til grafar í hinu mikla hitamáli, sem skók ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, áður en ný framboð fá tækifæri til að kynna sig almennilega, ofan í forsetakosningarnar og þrátt fyrir, að báðir stjórnarflokkar kjósi helzt að halda samstarfinu áfram til að leiða mikilvæg mál til lykta. Stjórnarandstaðan er afar seinheppin í sínum málatilbúnaði, sem bendir til svipaðrar hrakfallasögu á næsta kjörtímabili og hinu síðasta (2009-2013), ef sömu flokkar ná að tæla pírata til fylgilags við sig eftir kosningar.  Nú er reyndar alveg eftir að sjá, hvernig pírötum mun ganga í sínum framboðsraunum í öllum kjördæmum landsins.  Ná þeir að halda hópinn, eða springur púðurtunnan undir sjóræningjunum.  Þreyta er komin í samstarfið innan þingflokksins og óvíst, að meðferð vinnusálfræðingsins dugi, þegar streita kosningabaráttunnar fer að segja til sín.  Fari Birgitta þá að naga eins og rotta, en samkvæmt Helga Hrafni rægir hún fólk "þónokkuð oft og mikið", þá mun sjóræningjafleyið springa í loft upp áður en það kemst í höfn.  Kannski dugir andstæðingunum þá að hitta á réttan stað í einu skoti, eins og Bismarck tókst gegn Hood vestur af Íslandi 1941. 

Lögfræðingurinn, Skúli Magnússon, gerði breytilega lengd kjörtímabils að umræðuefni 9. apríl 2016 í Morgunblaðsgrein sinni:

"Stjórnskipulegt lýðræði og krafan um kosningar":

"Á allra síðustu dögum hafa ýmsir tekið svo til orða, að ríkisstjórnin sé "rúin trausti" og í samfélaginu sé uppi "hávær krafa" um, að gengið verði til kosninga tafarlaust.  Er þá yfirleitt vísað til mótmæla almennings, einkum á Austurvelli, og mælinga í skoðanakönnunum.  Ekki fer á milli mála, að þeir, sem hafa þennan málflutning í frammi, telja sig fulltrúa lýðræðislegra sjónarmiða."

Það er ekki í anda gildandi Stjórnarskráar að taka ákvörðun um Alþingiskosningar á grundvelli háværra mótmæla, þar sem fullyrt er út í loftið, að stjórnin sé "rúin trausti", eða á grundvelli skoðanakannana, sem allar hafa sína annmarka, og eru alls ekki ígildi leynilegra kosninga. 

Ríkisstjórn, sem nýtur stuðnings meirihluta Alþingismanna, ber samkvæmt Stjórnarskrá að starfa út kjörtímabilið.  Meirihluti þingsins getur hins vegar ákveðið að dagsetja kosningar áður en kjörtímabilinu á að ljúka, en þá aðeins, af því að hann treystir sér ekki til að styðja ríkisstjórnina lengur.  Annars gætu ríkisstjórnarflokkar freistað þess að framlengja umboð sitt, þegar þeir telja byrlega blása fyrir sig á meðal kjósenda.  Slíkt er ekki sanngjarnt gagnvart stjórnarandstöðu og ekki í anda núverandi Stjórnarskráar.  Athugum, hvað téður Skúli skrifaði um þetta:

"Af umfjöllun Ólafs (Dr Ólafs Jóhannessonar, fyrrverandi forsætisráðherra - innsk. BJo) er hins vegar ljóst, að sú lýðræðishugmynd, sem hér er vísað til, gerir ekki ráð fyrir því, að "almannaviljinn", eins og hann er mældur eða talinn af sumum vera á hverjum tíma, ráði ferðinni í hverju og einu máli. Þegar litið er yfir íslenzku stjórnarskrána, uppruna hennar og meginreglur, er þannig ljóst, að hún byggist á þeirri hugmynd, að vernd grundvallarréttinda, svo og skýrar og fyrirsjáanlegar leikreglur í anda réttarríkisins, séu bæði forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku og setji þeim mörk.  Með öðrum orðum er íslenzk stjórnskipun reist á hugmynd um stjórnskipulegt lýðræði, sem líta má á sem andstæðu óhefts meirihlutaræðis, skrílræðis og lýðhyggju (poppúlisma)."

Þetta er merkileg lögfræðileg niðurstaða, sem virðist vera rökrétt túlkun Stjórnarskráarinnar. Til að hnykkja á þessu þyrfti að bæta við einu ákvæði í íslenzku Stjórnarskrána, sem er t.d. í þeirri norsku, þ.e. að kjörtímabilið séu 4 ár og hvorki þinginu né ríkisstjórn sé heimilt að breyta því.  Það mætti hafa varnagla um, að forseti lýðveldisins hafi þessa heimild, sem hann megi beita til styttingar eða lengingar kjörtímabils um eitt ár vegna óviðráðanlegra ytri afla eða vegna stjórnarkeppu.  Að þingmenn geti með pólitískum refshætti og loddaraskap, af þæginda- eða hagkvæmnisástæðum, stytt kjörtímabilið, eru ekki góðir stjórnarhættir.  Það er hætt við, að margur þingmaðurinn eigi eftir að sjá eftir því að hafa hvatt til þessa óheillaráðs.

Skúli Magnússon klykkir út með eftirfarandi, sem einnig geta orðið lokaorðin hér:

"Hver geta þá verið rökin fyrir kröfunni um, að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því, að svo sé gert ?  Frá sjónarhóli stjórnarskrárinnar og stjórnskipulegs lýðræðis eru slík rök vandfundin." Unnur Brá Konráðsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þormar

Gleymum því ekki að Sigmundur Davíð flaug eins og fuglinn Fönix upp úr  ösku búsáhaldabyltingarinnar, nú er hann brunninn til ösku í eldi fjölmiðlafárs.

Mun einhver nýr Fönix fljúga upp úr þeirri ösku, t.d. Birgitta Jónsdóttir eða einhver henni líkur?

Ekki lýst mér á það.

Hörður Þormar, 13.4.2016 kl. 14:31

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þingkosningar eiga einfaldlega að vera á áætlun vorið 2017.  Óþolinmóðir nú geta alveg jafnt beðið og óþolinmóðir árið 2012. 
Þegar upp er staðið munu hvort sem er öll framboð græða á því að hafa nægan tíma til þess að undirbúa sig fyrir kosningar.

Kolbrún Hilmars, 13.4.2016 kl. 17:14

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hárrétt athugað, Hörður Þormar.  Í skáldlegu ljósi má líta á uppgang SDG úr svaði Búsáhaldabyltingarinnar sem fuglinn Fönix, sem flaug of nærri sólinni (ofmetnaðist ?) og féll brenndur til pólitísks ólífis til jarðar.  Allt nýjabrum er farið af stjórnleysingjanum Birgittu Jónsdóttur, og ég hygg, að fólk sé búið að fá nóg af fúkyrðaflauminum, sem frá henni streymir í pontu Alþingis.  Hún er líklega þegar "rúin trausti", því að hinir stjórnleysingjarnir eru búnir að fá nóg af óheiðarlegri framkomu hennar.

Einmitt, Kolbrún Hilmars.  Samkvæmt Stjórnarskrá er kjörtímabilið 4 ár, og stjórnmálamenn mega ekki semja um styttingu á því svo lengi sem starfhæf ríkisstjórn er við völd.  Tilboð stjórnarinnar um styttingu var enda skilyrt við afgreiðslu þingmála, sem ætlunin var að afgreiða á kjörtímabilinu.  Nú er stjórnarandstaðan að klúðra því, og þá getur engin stytting orðið.

Bjarni Jónsson, 13.4.2016 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband