EES-samningurinn verður sífellt stórtækari

Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða.  Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".  

Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.  

Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju.  Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991.  Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis.  Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.  

Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu.  Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.   

Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna.  Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði.  Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.

Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.  

 Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER. 

Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.  

Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi.  Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn.  Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ?  Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Stóralvarlegt mál, Bjarni, og sýnir hvílíkur dragbítur þessi EES-samningur er í ýmsum áhrifum sínum og hættulegur báðum þessum löndum. Íslenska þjóðfylkingin vill úrsögn úr EES, en að gerður  verði tvíhliða viðskiptasamningur við ESB.

Heill þér fyrir að að standa jafnan vaktina til varnar landi og þjóð.

Jón Valur Jensson, 27.1.2018 kl. 10:04

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlegg þitt hér að ofan, Jón Valur.  Ég er algerlega sammála þér.  Málið er háalvarlegt, þótt sumir átti sig ekki á því í fyrstu.  Þetta er dæmi um í hvílíkar ógöngur Íslendingar og Norðmenn leiðast vegna nánari samruna ESB-ríkjanna, sem smitast yfir í EES-samninginn.  Hann er orðinn allt annar en var og á bara eftir að versna.  Það verður að skera upp herör gegn þessum ósóma.  Valkostum fjölgar með úrsögn Breta úr ESB.  Fríverzlunarsamningur Íslands við ESB og Bretland er raunhæfur valkostur.  Það sýnir nýr fríverzlunarsamningur Kanada við ESB.  Það á að láta brjóta á þessu orkusambandsmáli og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að EES.  

Bjarni Jónsson, 27.1.2018 kl. 10:31

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innilega sammála þér, Bjarni. Heilar þakkir aftur.

Jón Valur Jensson, 28.1.2018 kl. 01:12

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvernig í ósköpunum stendur á því að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa ekki vakið máls á þessu? Við erum að tala um svo alvarlegt mál, sem mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðarbúið og alla íbúa þessa lands. 

Það kemur svo sem ekki á óvart að ruv og vinstrifjölmiðlar þegi, það kemur heldur ekki á óvart að þeir stjórnmálamenn sem ástunda trú á ESB þegi. En hvers vegna þorir mogginn ekki að opinbera það og hvers vegna ræða þeir stjórnmálamenn sem eru á móti aðild að ESB ekki þetta mál?

Það er eins og enginn þori og kannski lýsir það best stjórnmála elítunni, en hvaða afsökun hefur mogginn?!

Gunnar Heiðarsson, 28.1.2018 kl. 08:57

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég hef líka spurt mig þessarar spurningar, Gunnar Heiðarsson.  Þögnin segir okkur mikið um þjóðfélagsástandið, og alveg sérstaklega um ástandið á fjölmiðlunum.  Ég hef bara ekki heyrt múkk frá þeim um þetta mál.  Staðan er allt önnur í Noregi.  Þar er þetta að verða hitamál í stjórnmálunum, eftir því sem styttist í, að Stórþingið fjalli um málið.  Mogginn fékk í gær aðsenda grein frá mér til birtingar í prentútgáfunni um málið.  Þar dreg ég ekkert undan.  Það verður spennandi að sjá viðbrögðin.  

Ég held, að margir séu þeirrar skoðunar, að EES-aðildin sé Íslandi nauðsynleg.  Hafi hún einhvern tíma verið það, er hún nú orðin bæði skaðleg og óþörf.  Ástæðurnar eru valdasamþjöppun í ESB á æ fleiri sviðum, sem flyzt yfir í EES-samninginn, og BREXIT.  Menn gera sér ekki grein fyrir því, að BREXIT gjörbreytir stöðunni í Evrópu. 

Bjarni Jónsson, 28.1.2018 kl. 11:32

6 Smámynd: Merry

Sæll Bjarni, 

"Menn gera sér ekki grein fyrir því, að BREXIT gjörbreytir stöðunni í Evrópu. "  

Einmitt , án Britisk pening, allt verða erfiðra í Evrópu.

Merry, 28.1.2018 kl. 23:48

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Íbúafjöldi Bretlands, 66 M, jafngildir 13 % af íbúafjölda í núverandi ESB.  Verg landsframleiðsla ESB nemur nú 20 % af VLF heimsins, en verður eftir útgöngu Bretlands 15 %.  Árgjald Breta til ESB mun vera um miaGBP 15, og munar um minna.  Útganga Breta er högg á ESB, en ekki náðarhöggið.  Það gæti þó komið fyrir 2020.  Nú verður ESB annaðhvort að fara að spara og segja upp búrókrötum eða hækka árgjaldið inn í klúbbinn.

Bjarni Jónsson, 29.1.2018 kl. 11:20

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sannarlega áhugaverð umræða. Og ég tek sérstaklega dmeð ykkur Gunnari Heiðarssyni (kl. 8.57) og þér, Bjarni, í svörum þínum og ábendingum. Það verður spennandi að sjá þessa grein frá þér í blaðinu.

Jón Valur Jensson, 30.1.2018 kl. 02:31

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jón Valur: formaður norsku andófssamtakanna, "Nei til EU", sem hatrammlega berst gegn innleiðingu Orkusambands ESB í norskan rétt, Kathrine Kleveland, er væntanleg til Íslands í febrúar 2018 og mun halda erindi á aðalfundi Heimssýnar, ef mér skjátlast ekki.  Þar gefst gott tækifæri til að fræðast enn betur um málið.  

Bjarni Jónsson, 30.1.2018 kl. 10:58

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög gott að vita. En notum ekki orðið "hatrammlega" um okkar afstöðu eða samherja okkar, jafnvel þótt harðvítug geti barátta okkar verið, því að persónulegt hatur er samt ekki að finna í henni. En vissulega hötum við þá hugmynd að hverfa inn í Evrópusambandið!

Jón Valur Jensson, 30.1.2018 kl. 13:20

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér athugasemdina, Jón Valur.

Kathrine Kleveland brennur í andanum fyrir því að fá norsk stjórnvöld ofan af því glapræði, sem þau stefna nú lóðbeint að, en ég ætla henni alls ekki persónulega óvild í garð andstæðinga sinna, enda er slíkt ætandi fyrir sálartetur hvers manns.  Hún, eins og við, berst fyrir hugsjónum sínum um frjálst og fullvalda föðurland.

Síðustu fregnir eru, að hún muni koma til landsins 01.03.2018.  Það verður fengur að komu hennar.   

Bjarni Jónsson, 30.1.2018 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband