Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
4.7.2018 | 10:41
Undanhaldsmenn vorra tíma
Alþingi samþykkti nýlega gríðarlegan lagabálk frá Evrópusambandinu, ESB, um persónuvernd. Það eru áhöld um, hvort persónuvernd Íslendinga verði markvert betur komið eftir innleiðingu þessa lagabálks en áður. Það er líka ástæða til að staldra við og athuga, hvort s.k. persónuvernd sé komin út í öfgar. Kári Stefánsson, læknir, hefur t.d. bent á, hversu öfugsnúin persónuverndarlagaflækjan er orðin, þegar hún kemur í veg fyrir, að bjargað sé lífi með upplýsingagjöf til þeirra, sem búa að áhættusömum erfðaeiginleikum.
Það er engum vafa undirorpið, að beinn fjárhagslegur kostnaður þjóðfélagsins er allt of hár m.v. ávinning samfélagsins af risaumgjörð um lítið. M.v. kostnaðaráætlanir, sem sézt hafa, t.d. í Viðskiptablaðinu 21. júní 2018, má ætla, að heildarstofnkostnaður á Íslandi muni nema miaISK 20 og rekstrarkostnaður kerfisins verði 11 miaISK/ár. Þetta höfum við upp úr því að kokgleypa lagasetningarvald búrókratanna í Brüssel, sem ýja ekki hálfri hugsun að aðstæðum í 0,35 M manna samfélagi, þegar þeir semja sín lög. Það er fáheyrt, að ráðamenn hér skuli hafa afnumið lýðræðið hérlendis að stórum hluta og sett landsmenn í spennitreyju stjórnlauss kostnaðarauka, sem lítið sem ekkert gefur í aðra hönd. Ekki sízt í ljósi veikrar samkeppnisstöðu fyrirtækjanna verður að stöðva þessa öfugþróun hið snarasta. Á aldarafmælisári fullveldis er afmælisbarnið, óskabarn þjóðarinnar, að verða hjómið eitt. Það verður holur hljómur frá sömu stjórnmálamönnum, sem í hátíðarræðum munu berja sér á brjóst og dásama fullveldið.
Stofnkostnaður á við 65 MW virkjun og rekstrarkostnaður á við 950 MW vatnsaflsvirkjun, sem fer beint út um gluggann, er þyngri en tárum taki, enda mun þessi gjörningur óhjákvæmilega draga niður lífskjörin hér í okkar smáa samfélagi. Þegar af þeirri ástæðu er þetta óverjandi gjörningur, en verra er þó, að í innleiðingu hans í íslenzka lagasafnið felst skýlaust Stjórnarskrárbrot og að auki brot á upphaflega EES-samninginum, sem kvað fortakslaust á um tveggja stoða fyrirkomulag, jafnréttisstöðu EFTA og ESB, við innleiðingu nýrra gjörða frá ESB. Það sýnir sig, að þrýstingur frá hinum tveimur EFTA-löndunum og ESB er íslenzkum valdsmönnum ofviða. Við þessu er aðeins eitt svar. Róttæk breyting á tengslum Íslands við ESB.
Þetta kom allt fram í greinargerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti til utanríkisráðherra, sem fékk Stefán ráðuneytingu til halds og trausta í undirbúningi innleiðingar, en hunzaði síðan ráðleggingar hans fullkomlega. Svona gera menn ekki.
Það var ekki að ófyrirsynju, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, reit á innlendan vettvang sinn í Morgunblaðinu 16. júní 2018 greinina:
"Er sjálfstæðisbaráttan að gleymast ?"
"Í stórmerkri ræðu, sem Bjarni, heitinn, Benediktsson, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, flutti á Landsfundi flokksins á Þingvöllum 18. júní 1943, ræddi hann um fullveldið 1918, sem við minnumst á þessu ári, og sagði:
"En sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að þessu leyti lauk með sigri 1918, segja sumir. Vissulega má til sanns vegar færa, að þá hafi ánauð hennar verið lokið. En var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar þar með fengið ? Var verkefni hinnar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni ?
Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu ? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína, nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefðu lögformlegt gildi, nema óðalsbóndinn samþykkti ? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri, að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæzlunnar ? Og mundi bóndi telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að 30 menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann ?
Slíku frelsi mundi enginn íslenzkur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum mundi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum mundi þykja það óþörf spurning, ef hann væri að því spurður, hvort hann vildi ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn, að hann ætti rétt á algeru frelsi. En aðstaða íslenzku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess, sem nú var lýst."
Þetta var áhrifarík lýsing á aðstöðu íslenzku þjóðarinnar árið 1943 hjá dr Bjarna Benediktssyni. Það er sláandi, að mörg atriði í þessari dæmisögu eiga við aðstöðu Íslendinga á 100 ára afmælisári fullveldisins, þótt lýðveldið sé orðið 74 ára, vegna þróunarinnar á EES-samninginum, sem Alþingi samþykkti í ársbyrjun 1993. Viðskiptaaðgangur að Innri markaði EES er einfaldlega allt of dýru verði keyptur. HINGAÐ
Þingmenn samþykkja nú hvern stórgjörninginn frá Brüssel og telja það skyldu sína, sem er alrangt í þeim tilvikum, þegar þessir gjörningar virða ekki upprunalegt tveggja stoða samkomulag EFTA og ESB og/eða þegar innleiðing þessara gjörninga felur í sér brot á Stjórnarskrá Íslands, sem að beztu manna yfirsýn var í tilviki nýsamþykktrar persónuverndarlöggjafar.
Styrmir skrifar:
"Og hvernig má það vera, að forystusveit þess flokks, sem óumdeilanlega hafði algera forystu í lokakafla sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar, hafi haft þær athugasemdir um stjórnarskrárbrot að engu, sem fram komu ?"
Í lok gagmerkrar greinar sinnar skrifaði Styrmir og skal taka undir hvert orð:
"Það er hægt að krefjast breytinga á EES, og það er líka hægt að segja þeim samningi upp. Á Þingvöllum fyrir 75 árum talaði Bjarni, heitinn, um "undanhaldsmenn" þeirra tíma. Getur verið, að undanhaldsmenn okkar tíma séu þeir, sem hörfa skref af skrefi undan ásókn Brüssel ?
Hvað ætla þeir að gera með orkumálapakka ESB í haust ? Ætla þeir að opna leiðina fyrir yfirráð Brüssel yfir þeirri auðlind, sem felst í orku fallvatnanna ?"
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: undanhaldsmenn vorra tíma eru þeir, sem hörfa skref eftir skref undan ásókn Brüssel. Þessa skulu landsmenn minnast, þegar þeir heyra væmnar skjallræður um baráttumennina fyrir sjálfstæði Íslands á aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki beðið eftir niðurstöðu nefndar um reynsluna af EES. Sú reynsla liggur í augum uppi. Flokkurinn verður nú sjálfur að rísa undir nafni og móta stefnu gagnvart EES samkvæmt því. Að öðrum kosti er hætt við, að flokkurinn missi hreinlega fótanna í íslenzku samfélagi.
2.7.2018 | 10:45
Hlutverk raforkugeirans
Íslenzki raforkugeirinn gegnir auðvitað margháttuðu hlutverki, en efst á blaði hlýtur að vera þjónustuhlutverk við fólk og fyrirtæki í landinu (Íslandi, en ekki Englandi eða annars staðar). Þessi stuðningur við mannlíf og atvinnustarfsemi verður að vera óháður búsetu fólks og staðsetningu fyrirtækja. Ef viðskipti þessara aðila við íslenzk raforkufyrirtæki bæta ekki lífskjör fólks og samkeppnisstöðu fyrirtækja í samanburði við útlönd, þá er maðkur í mysunni.
Á sólstöðum, 21. júní 2018, birtist í Morgunblaðinu frétt, sem bendir til, að þingmenn þurfi að fara að hrista upp í raforkugeira á villigötum. Fyrirsögn fréttarinnar var þannig:
"Hátt raforkuverð neyðir bónda til að hætta ræktun":
Fréttin hófst þannig:
""Það borgar sig að loka fremur en að vera með opið á veturna"(1), segir Gísli Hallgrímsson, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Brúnulaugar í Eyjafirði, sem mun í haust hætta ræktun paprika á veturna. Að sögn Gísla veldur hátt raforkuverð því, að lítill sem enginn hagnaður skapast af starfseminni(2). Þá geri reglur RARIK, sem er með einkaleyfi á dreifingu raforku á svæðinu, garðyrkju afar erfitt fyrir. "Gjaldskráin hefur hækkað mikið undanfarin ár. (3) Auk þess eru reglurnar þannig, að þar sem íbúar eru færri en 50 talsins, er verðið talsvert hærra en á stöðum, þar sem íbúarnir eru fleiri.(4) Það er að mínu mati mjög undarleg skýring, og ég veit ekki, hvað liggur þar að baki", segir Gísli og bætir við, að hátt verð neyði hann til þess að loka fyrirtækinu á veturna."(5)
- Þegar rafmagnsverð til garðyrkjubænda hérlendis er orðið svo hátt, að þeir treysta sér ekki til að framleiða grænmeti á samkeppnishæfu verði, þá er það vísbending um, að íslenzki raforkugeirinn sé kominn út af sporinu sem þjónustuaðili við almenning í landinu. Raforkufyrirtækin hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, að mikilvægara sé að skila eigendunum arði en að halda raforkuverðinu stöðugu eða jafnvel að lækka það. Þar sem um fyrirtæki í almannaeigu er að ræða í flestum tilvikum, er þetta meinloka, sem fulltrúar eigendanna, sveitarstjórnarfulltrúar og Alþingismenn, þurfa að leiðrétta. Hækkun raforkuverðs jafngildir þá skattahækkun.
- Framboð ótryggðrar raforku í landinu er allt of lítið. Slíkir viðskiptaskilmálar geta hentað garðyrkjubændum og fiskimjölsverksmiðjum með olíukatla til vara. Það þarf að virkja meira til að auka þetta framboð, en sáralítið er á döfinni núna af nýjum virkjunum. Fyrir ótryggða orku er nóg fyrir viðkomandi virkjun að fá rekstrarkostnaðinn greiddan, en hann er lágur í íslenzkum virkjunum, einkum vatnsaflsvirkjunum, og til að spanna hann ætti að vera nóg að verðleggja ótryggða orku á 1,5 ISK/kWh að jafnaði, frá framleiðanda.
- Það skortir haldbærar skýringar á gjaldskrárhækkunum raforkufyrirtækja undanfarin ár, og Orkustofnun verður að standa meir á bremsunum gagnvart einokunarfyrirtækjunum. Raforkuframleiðendum hefði átt að vera í lófa lagið að hækka minna en verðbólgu nemur, vegna skuldalækkana, og hinum, flutnings- og dreifingaraðilunum, að halda sig við almennar verðlagshækkanir.
- Að sama dreifingarfyrirtæki mismuni viðskiptavinum sínum eftir búsetu, er hneyksli og stenzt varla jafnræðisreglu laga og stjórnlaga landsins. Þingmenn hafa rætt þetta ramma óréttlæti, en ekki drifið í að gefa út þingsályktun eða samþykkja lög, ef nauðsyn krefur, sem fyrirskrifa, að allir viðskiptavinir sama dreififyrirtækis skuli búa við sams konar gjaldskrá, óháð búsetu, en auðvitað eiga "stórnotendur" á borð við garðyrkjubændur að búa við lægri gjaldskrá en almenn heimili vegna margfaldra viðskipta, óháð staðsetningu. Eftirlitsaðili dreififyrirtækja raforku þarf að gæta þess, að einokunarfyrirtækin "svíni" ekki á viðskiptavinum sínum, sem ekki geta leitað annað.
- Orkustofnun þarf að meta, hvort dreifingarfyrirtækin sýna nægt kostnaðarlegt aðhald gagnvart viðskiptavinunum til að verðskulda sérleyfið, eða hvort fela á sérleyfið öðrum aðila, sem getur veitt betri þjónustu. Sérleyfi á einokun til dreifingar rafmagns á ekki að vera sjálfsagt mál til eilífðarnóns. Það er grafalvarlegt, ef verðlagning á rafmagni er svo há, að lýsing í gróðurhúsum, sem er stöðugt og jafnt álag, borgi sig ekki á Íslandi.
Á undanförnum misserum hafa komið fram kvartanir fleiri aðila undan háu verði ótryggðs rafmagns. Hefur þar hæst borið hitaveitur með rafskautakatla og olíukatla til vara og fiskimjölsverksmiðjur, sem rafvætt hafa þurrkferlið, en til vara haldið gömlu olíukötlunum. Á sama tíma og Landsvirkjun gasprar yfir umframorku í landinu upp á 2,0 TWh/ár, sem tiltækt yrði til sölu inn á sæstreng með "litlum" tilkostnaði, sem er tóm vitleysa, þá er tilfinnanlegur hörgull búinn að vera á tiltækri umframorku fyrir innlenda markaðinn. Hér skýtur mjög skökku við.
Eins og málum er nú háttað, er jafnframt mjög óljóst, hvort nokkur aðili í landinu ber raunverulega ábyrgð á því, að jafnan sé svo mikið framboð raforku í landinu, að ekki verði skortur á forgangsorku. Einna helzt virðist ábyrgðin á þessu liggja hjá Orkustofnun, en hún hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja eitt eða neitt.
Það er brýnt að auka orkuöryggið í landinu samfara orkuskiptunum. Það þarf að gera með tvennum hætti:
- Efla þarf flutningsgetuna á milli landshluta og innan landshluta. Á milli landshluta er brýnast að tengja saman Suðurland og Norðurland með um 500 MW jafnstraumsjarðstreng á Sprengisandsleið. Með því verður hægt að spara miklar línubyggingar í og nálægt byggð á Suð-Austurlandi og víðar. Það er líka brýnt að tengja saman Austurland og Norðurland með 220 kV loftlínu á milli Hryggstekks í Skriðdal og Kröflu.
- Auka uppsett afl og miðlunargetu orkuvinnslufyrirtækjanna, svo að árleg orkuvinnslugeta þeirra fari aldrei niður fyrir að vera 5 % yfir árlegum forgangsorkuskuldbindingum þeirra. Þetta gæti jafnframt stækkað markað ótryggðrar raforku.
30.6.2018 | 14:55
Ofríki gagnvart undirstöðugrein
Stjórnmálamenn og allir aðrir hérlendir menn verða að gera sér grein fyrir þjóðhagslegu mikilvægi samkeppnishæfni atvinnuveganna, sérstaklega fyrirtækja í útflutningi. Alþingismenn hafa mikil áhrif til góðs eða ills á samkeppnishæfni atvinnuveganna, því að með lagasetningu eru þau starfsskilyrði, sem ekki ráðast beinlínis á markaði, ákveðin. Þetta á t.d. við um skattlagningu og gjaldtöku.
Að undirlagi stjórnarandstöðuþingmanna tók þingheimur mjög illa ígrundaða og skaðlega ákvörðun undir lok vorþings 2018 um að láta meingallaða og mjög íþyngjandi gjaldtöku af sjávarútveginum viðgangast áfram til ársloka 2018. Þetta ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum grundvallar atvinnuvegar á Íslandi er þungur áfellisdómur yfir stjórnarandstöðunni á Alþingi.
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, skrifaði þarfa hugvekju um samkeppnishæfni í Morgunblaðið, 4. júní 2018:
"Samkeppnishæf lífskjör":
"Mikil samkeppnishæfni er nauðsynlegt hráefni í þjóðarkökuna, enda hafa nær engin ríki háa landsframleiðslu [á mann], en laka samkeppnishæfni. Það, sem meira er, þá helzt mikil samkeppnishæfni einnig í hendur við það, sem ekki verður metið til fjár.
Gott dæmi um það er vísitala félagslegra framfara (SPI). Sú vísitala var sköpuð vegna þess, að efnahagslegir mælikvarðar segja ekki alla söguna um raunveruleg lífskjör og lífsgæði. SPI tekur því ekki til neinna fjárhagslegra mælikvarða. Þess í stað notar vísitalan mælikvarða á borð við aðgengi að hreinu vatni, barnadauða, aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði, glæpatíðni, lífslíkur, sjálfsmorðstíðni, jafnrétti, fordóma í garð hinsegin fólks og innflytjenda og svo mætti lengi telja.
Staðreyndin er sú, að það er samband á milli samkeppnishæfni og mikilla félagslegra framfara. Nær ekkert ríki í heiminum hefur litla samkeppnishæfni og miklar félagslegar framfarir. Af efstu 20 ríkjunum í samkeppnishæfni IMD eru 17 einnig á topp 20 lista yfir félagslegar framfarir. Sömu sögu má rekja, þegar kemur að hamingjuvísitölunni samkvæmt "World Happiness Report". Þó að orsakasamhengið geti verið í báðar áttir, sýnir reynslan, að án samkeppnishæfs atvinnulífs er ómögulegt að byggja upp viðunandi lífskjör."
Nú um stundir dynja á okkur fréttir úr atvinnulífinu, sem gefa vísbendingar um versnandi samkeppnisstöðu landsins, og það þarf enginn að velkjast í vafa um versnandi stöðu, því að IMD-háskólinn hefur nýlega birt mæliniðurstöður sínar fyrir 2018. Í hópi 63 ríkja fellur Ísland niður um 4 sæti síðan 2017. Ísland er nú í 24. sæti og lækkar í fyrsta sinn síðan 2013.
Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar eru ofar á listanum yfir samkeppnisstöðu þjóða. Samtímis er Ísland nálægt toppi OECD þjóða um skattheimtu á mann. Þarna er samhengi, og þetta verður að laga.
Slæm samkeppnisstaða boðar ekkert gott fyrir þróun samfélagslegra innviða samkvæmt ofansögðu. Versni samkeppnisstaðan, minnkar atvinnan og skattstofnar rýrna. Við þessar aðstæður verður að telja það fullkomna glópsku af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að grafa undan "félagslegum framförum" með því að verða þess valdandi, að grafið er undan samkeppnishæfni undirstöðuatvinnugreinar landsins með því að gera Atvinnuveganefnd Alþingis afturreka með lágmarkslagfæringu til bráðabirgða á veiðigjöldum útgerðanna í landinu.
Það er ekki einvörðungu, að ríkisvaldið sé að innheimta auðlindagjald af atvinnugrein, þar sem engin auðlindarenta er núna, heldur er sjávarútveginum mismunað herfilega innanlands og utan, þar sem engin önnur atvinnugrein, sem náttúruauðlindir nýtir hérlendis, greiðir enn auðlindagjald til ríkisins, og erlendur sjávarútvegur, sem Íslendingar keppa við erlendis, greiðir yfirleitt engin veiðigjöld, heldur fær hann styrki úr sjóðum ESB og/eða úr ríkissjóðum viðkomandi landa, jafnvel sá norski.
Með þessu móti er íslenzki sjávarútvegurinn ekki aðeins settur í erfiða stöðu erlendis, heldur veikir ríkisvaldið með þessu framtaksleysi sínu viljandi samkeppnisstöðu hans innanlands um fé og fólk. Ríkisvaldið verður að hrista af sér slenið og setja á laggirnar samræmt kerfi, sem skerðir ekki jafnræði atvinnugreina og skerðir ekki samkeppnisstöðuna erlendis. Með núverandi fyrirkomulagi eru þingmenn að saga burt greinina, sem við öll sitjum á. Að þeir geri það með almannaheill á vörunum og stéttastríðstali um "eign þjóðarinnar", toppar tvískinnung og/eða flónsku stjórnmálanna.
Katrín Olga orðaði þetta vel í lok téðrar greinar sinnar:
"Oft er látið sem svo, að fyrirtækin og fólkið í landinu eigi í baráttu, að velgengni annars sé á kostnað hins. Fyrir mér er ekkert fjær sanni, því að eins og rannsóknir og mælingar gefa svo sterklega til kynna, haldast lífsgæði og rekstrarumhverfi fyrirtækja hönd í hönd. Stöndum vörð um hag okkar allra og vinnum að aukinni samkeppnishæfni."
Almennt og sanngjarnt veiðigjald þarf að vera tvíþætt. Annars vegar aðgangsgjald að auðlindinni og hins vegar aðlindagjald, þegar auðlindarenta er fyrir hendi í greininni. Nota má framlegð, EBITDA, fyrirtækjanna sem mælikvarða á það, hvort þau hafi notið auðlindarentu, en hún er hagnaður náttúruauðlindahagnýtenda umfram hagnað annarra, sem rekja má til hinnar sérstöku aðstöðu. Sjávarútvegsfyrirtækin eru í fjármagnsfrekri starfsemi, og þess vegna má ekki setja viðmið EBITDA síðasta árs fyrir auðlindagjald í ár lægra en 18 % af tekjum þeirra. Almennt gæti þá einföld formúla tvískipts veiðigjalds litið þannig út:
- Fyrri hlutann verða allir að greiða sem gjald fyrir aðgang að auðlindinni, en aðgangsgjaldið er samt tekjuháð: AÐG=0,5 % x MVxm, þar sem MV er meðalverð, ISK/kg, á óslægðum afla og m er veiðimassinn (aflaþungi upp úr skipi).
- Seinni hlutann verða þeir að greiða, sem voru með meðalframlegð (EBITDA) á sama árshelmingi í fyrra yfir 18 % af tekjum, enda er auðlindarenta annars ekki talin vera fyrir hendi í fyrirtækinu: AUG=5,0 % x MVxm x MV/500
- Heildarafnotagjaldið, HAG=AÐG + AUG
Þessa einföldu reglu má nota til að leggja á hvers konar afnotagjöld af náttúrunni. Fyrir jafnræðissakir er brýnt að koma á samræmdu álagningarkerfi.
Skaðar þetta samkeppnisstöðuna við útlönd ? Árin 2016-2017 var meðalverð af óslægðum þorski 248 ISK/kg. M.v. þetta verð hefðu veiðigjöldin orðið:
AÐG=1,2 ISK/kg, sem mundi svara til um 3 % af framlegð, ef hún er 15 %. Þetta er ekki sligandi, þótt rekstur kunni að vera erfiður að öðru leyti:
AUG=6,2 ISK/kWh og HAG=7,4 ISK/kg, sem mundi svara til um 15 % af framlegð, ef hún er 20 %. Þetta er umtalsvert, en ekki sligandi fyrir þokkalegan rekstur.
Með þessu móti greiða allir fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni, og þjóðin fær auðlindarentuna í sinn hlut eða a.m.k. drjúgan hluta hennar. Það, sem meginmáli skiptir er, að það er ekki verið að blóðmjólka mjólkurkúna, heldur getur hún fitað sig í haganum og haft þannig borð fyrir báru, ef harðnar á dalnum. Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrek starfsemi, sem verður að geta fjárfest mikið án þess að hleypa sér í skuldir, svo að hann viðhaldi og helzt styrki samkeppnisstöðu sína á alþjóðlegum mörkuðum.
26.6.2018 | 11:16
Viðhorf Fionu Reilly til verðmætasköpunar
Fiona Reilly er framkvæmdastjóri enska fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem kynnt hefur fyrir íslenzkum stjórnvöldum viðskiptahugmynd um einpóla sæstreng til flutnings á um 650 MW rafafls og þar af leiðandi flutningsgetu á 5000 GWh/ár raforku frá Íslandi til Englands (ekki Skotlands). Það er áhugavert, hvernig hún kynnir Íslandsstrenginn fyrir Englendingum, og mættu sumir Íslendingar draga lærdóm af því, sem hún kveður vera notagildi rafmagns frá Íslandi á Englandi.
Hér fer á eftir lausleg þýðing á enskum texta Fionu á heimasíðu Atlantic Superconnection:
"Með einstöku samstarfi við Ísland um endurnýjanlega orku getum við flutt næstum takmarkalausa uppsprettu hreinnar raforku frá vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum til Bretlands - og samtímis skapað starfa-, vaxtar- og fjárfestingartækifæri í alþjóðlegu iðnaðarvaxtarsprotahéraði Bretlands."
Þetta er mergurinn málsins í sambandi við raforkusölu til útlanda. Þar verður rafmagnið þá notað til verðmætasköpunar. Er þá ekki nær að nota það til atvinnusköpunar hér innanlands, þar sem má nota það til mun meiri verðmætasköpunar en fæst fyrir það með sölu inn á sæstreng til útlanda og með miklu minni orkutöpum í ferlinu ?
Með því að nota rafmagnið frá íslenzkum virkjunum til að efla atvinnu um allt land og skapa grundvöll að samkeppnishæfum útflutningi á vörum til útlanda eða þjónustu við erlend fyrirtæki, t.d. í gagnaverum, verða meiri líkur á sátt landsmanna um mannvirkjagerð á orkusviði í þágu þessarar verðmætasköpunar en nokkur von er til, að nokkurn tímann verði náð um virkjanir og loftlínulagnir fyrir raforkusölu inn á sæstreng. Á þessu tvennu er siðferðislegur reginmunur.
Þegar lögð eru saman orkutöp í endabúnaði sæstrengs og í strengnum sjálfum, má búast við a.m.k. 10 % á leiðinni frá Íslandi til Englands, 1500 km. Orkunotkun í flutningum með aðföng og afurðir fyrir orkukræf iðnfyrirtæki á Íslandi er vissulega mikil, en flutningatækin, t.d. skipin, eru yfirleitt samnýtt fyrir aðra flutninga, svo að heildarkostnaður á hverja einingu verður lægri vegna aukins magns. Við þetta má bæta, að eftir 10-15 ár gætu skip til millilandaflutninga verið knúin með rafmagni, sem þá að mestu leyti mun koma frá sjálfbærum orkugjöfum.
Fyrir sæstreng Fionu Reilly þarf að virkja að lágmarki 600 MW á Íslandi. Hvað verður um fjárfestingar í öllum mannvirkjum hérlendis, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum að landtökustað, ef verðlækkun eða jafnvel verðfall verður á raforku á Innri orkumarkaði ESB ? Þá munu þessi sæstrengsviðskipti verða óarðbær með öllu, og það tekur allmörg ár að fá not fyrir mannvirkin hérlendis aftur. Tækniþróunin getur valdið slíku verðfalli. Þóríum kjarnorkuver af fjölbreytilegum stærðum hafa verið nefnd sem mögulegur orsakavaldur slíks verðfalls, en á nokkrum stöðum er unnið hörðum höndum að því að gera þau markaðs- og samkeppnishæf.
Að beintengja íslenzka raforkumarkaðinn við raforkumarkað Englands eða meginlandsins er hættulegt fyrir þjóðhagslega hagkvæman rekstur íslenzka raforkukerfisins. Verðmyndunin á þessum tveimur gerðum markaða er gjörólík, og orkumálin geta á augabragði snúizt í höndunum á okkur, svo að ekki sé nú minnzt á þau ósköp, ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER-Orkustofnun ESB. Þá mun leyfisveitingavaldið fyrir lagningu millilandasæstrengs aðeins að forminu til verða hjá íslenzkum stjórnvöldum, en í raun hjá ACER og útibúi hennar á Íslandi, "landsreglaranum", ásamt ESA og EFTA-dómstólinum. Það er algerlega þarflaust af Alþingi að samþykkja rússneska rúllettu sem aðferð við ráðstöfun á rafmagni úr íslenzkum orkulindum.
22.6.2018 | 10:41
Utanríkisráðuneyti á háskabraut - hvað gerir forseti ?
- "Stefán Már benti í því sambandi á [hann ráðlagði stjórnvöldum að snúa af markaðri braut innleiðingar], að ákvarðanir, sem teknar væru af stofnun Evrópusambandsins, væru afar einhliða, en ákveðin gagnkvæmni væri mikilvægur þáttur við mat á mörkum leyfilegs framsals ríkisvalds samkvæmt stjórnarskránni. Þær væru einnig í andstöðu við tveggja stoða kerfið og á svig við þann fyrirsjáanleika, sem gert hafi verið ráð fyrir við undirritun EES-samningsins [sem sagt þessi innleiðing er bæði Stjórnarskrárbrot og brot á EES-samninginum-túlkun BJo].
- "Fram kemur í greinargerð utanríkisráðherra, að ekki hafi verið talin þörf á að fara þá leið, að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) héldi utan um framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar hér á landi í stað stofnunar Evrópusambandsins, þar sem umræddar valdheimildir beindust aðeins að hinu opinbera hér á landi og stofnunum þess, en ekki að einstaklingum og lögaðilum. Fram kemur í álitsgerð Stefáns Más, að þetta sé ákveðið viðmið, sem hafa verði í huga, þegar heimildir til framsals valds séu metnar. Hins vegar segir hann í samtali við mbl.is, að þar skipti miklu máli, hvort um sé að ræða raunverulegar sjálfstæðar ákvarðanir stofnunar á vegum EFTA, eða hvort hún sé í raun aðeins að afrita ákvarðanir stofnana Evrópusambandsins. [Þessi orð Stefáns Más eiga t.d. við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem um það er samið á milli EFTA og ESB, að ESA skuli vera milliliður boðskipta á milli ACER og nýrrar sjálfstæðrar orkustofnunar í EFTA-löndum EES. Þar sem ESA i þessu tilviki er aðeins stimpilstofnun, er þarna um að ræða heimildarlaust framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegar stofnunar, ACER - innsk. BJo.] Þar er vísað til þess, þegar stofnun á vegum EFTA tekur ákvörðun á grundvelli uppkasts frá stofnun Evrópusambandsins. "Ef um er að ræða stofnun, sem tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir, heldur hefur bara þann tilgang að stimpla eitthvað, sem annar gerir, þá er tæplega unnt að ræða um aðra stoð. Þá er hún bara milliliður. Formlega tekur hún þá ákvörðun, og það skiptir að vísu einhverju máli. Það, sem mestu máli skiptir, er þó, að hún tekur enga sjálfstæða ákvörðun um efni málsins." [Það er rangt hjá utanríkisráðherra, að valdheimildir Persónuverndarráðs beinist einvörðungu að stofnunum hins opinbera hérlendis. Kæru einstaklinga eða lögaðila hérlendis á málsmeðferð Persónuverndarstofnunar verður vísað til Persónuverndarráðs ESB, og þar með mun úrskurður þess hafa bein áhrif á einstaklinga og/eða fyrirtæki hérlendis. Það stríðir gegn íslenzku stjórnarskránni. Gjörðina má þess vegna ekki leiða í lög hérlendis - innsk. BJo.]
- "Stefán Már segir mikilvægt að horfa heildstætt á það framsal valds, sem átt hefur sér stað, en ekki aðeins einstakar gerðir, sem teknar eru upp í gegnum EES-samninginn. Saman teknar séu slíkar gerðir, sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn eftir gildistöku hans að verða talsverður pakki. Þegar gætt sé að því, að EES-samningurinn hafi á sínum tíma verið talinn á mörkum þess, sem stjórnarskráin leyfði, að því er varðar framsal ríkisvalds [má ætla, að nú sé komið út fyrir leyfileg mörk Stjórnarskrár-innsk. BJo]. Af því leiði, að því séu takmörk sett, hve miklu sé hægt að bæta við hann að óbreyttri stjórnarskrá." [Hér kveður Stefán Már upp úr um það á hófsaman hátt, að stöðva verði þennan stanzlausa straum innleiðinga viðbóta í EES-samninginn, því að í heildina séð sé framsal ríkisvalds orðið meira en Stjórnarskráin heimili. Það er brýnt, að forseti lýðveldisins gefi gaum að þessu atriði og öðrum í álitsgerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, þegar hann veltir því fyrir sér, hvort hann á að samþykkja eða synja þessum lögum samþykkis-innsk. BJo.]
"Stefán Már segir ekkert hafa verið því til fyrirstöðu lagalega séð, að farin væri sú leið, að ákvarðanir varðandi persónuverndarlöggjöfina gagnvart EFTA/EES-ríkjunum væru teknar af stofnunum á vegum EFTA, sem ríkin ættu aðild að, í stað þess, að þær væru teknar af ESB í andstöðu við tveggja stoða kerfi EES-samningsins."
Það þarf enga mannvitsbrekku til að gera sér grein fyrir, hvað hér er á ferðinni. ESB nennir ekki lengur að sinna sérþörfum EFTA-landanna innan EES. Það er orðin skoðun Framkvæmdastjórnarinnar, að ófært sé að þurfa að hefja samningaviðræður við EFTA-ríkin um undanþágur eða sérafgreiðslu, þegar ESB-ríkin hafa loksins náð lendingu sín á milli. Þess vegna var tveggja stoða lausninni hafnað í þessu persónuverndarmáli að kröfu ESB, og EFTA-löndin innan EES fá sömu meðhöndlun og ESB-löndin. Þetta leiðir hins vegar til fyrirkomulags, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki. Í hnotskurn sýnir þetta, að EES-samstarfið, eins og til þess var stofnað árið 1993, er nú komið að fótum fram.
Sérfræðingur ríkisstjórnarinnar við undirbúning þessa máls birti henni niðurstöður sínar á eins skýran og afdráttarlausan hátt og honum var auðið sem fræðimaður í Evrópurétti. Hann var hins vegar ekki settur dómari í málinu, og þess vegna bar niðurstaða hans ekki blæ dómsúrskurðar. Þetta notfærði utanríkisráðherra sér með ósanngjörnum og ófaglegum hætti og sneri niðurstöðu sérfræðingsins á haus, þ.e. þannig, að hann telji innleiðinguna "standast stjórnarskrána". "Aðspurður segir Stefán Már, að þarna sé nokkuð frjálslega farið með", skrifaði Hjörtur Guðmundsson. Flestir skilja áður en skellur í tönnunum.
Úr því sem komið er, ber Alþingi að hreinsa andrúmsloftið og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að EES eða uppsögn EES-samningsins. Við gildistöku uppsagnar tekur gildi fríverzlunarsamningur, sem í gildi var við ESB fyrir 1994, ásamt almennum viðskiptaskilmálum WTO (Alþjóða viðskiptastofnunin), sem hafa þróazt mjög til bóta í átt til fríverzlunar í áranna rás. Iðnvarningur var tollfrjáls og sjávarafurðir með að hámarki 6 % toll, sem góðar líkur eru á, að fengist lækkaður með vísun í WTO og nýlegan viðskiptasamning á milli ESB og Kanada, jafnvel afnuminn. Í millitíðinni má semja um gagnkvæm atvinnuréttindi, námsréttindi og vísindasamstarf ásamt öðru, sem æskilegt er að halda; í stuttu máli allt annað en kvöðina um að taka upp þær gjörðir ESB, sem sambandið telur, að erindi eigi inn í EES-samninginn.
20.6.2018 | 09:52
Fiona Reilly og einpóla aflsæstrengur
Þann 14. júní 2018 birtist frétt í Viðskipta Mogganum um nýja viðskiptahugmynd fyrir aflsæstreng á milli Bretlands og Íslands. Þar var smáviðtal við Fionu Reilly, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem kynnt hefur íslenzkum stjórnvöldum hugmynd starfsmanna fyrirtækisins um ódýrara sæstrengsverkefni með minni flutningsgetu en áður hefur verið í umræðunni. Þarna er óbein staðfesting á því, að fyrri sæstrengshugmyndir hafa ekki verið arðbærar. Er þessi útfærsla áhugaverðari frá íslenzkum sjónarhóli séð en fyrra fyrirkomulag ?
Fréttina bar að með undarlegum hætti. Í stað þess að kynna þessa viðskiptahugmynd með formlegum hætti fyrir þjóðinni, læðist iðnaðarráðuneytið með veggjum og eftirlætur Bretum frumkynninguna í Viðskipta Mogganum. Er það eftir öðru metnaðarleysi í þessu ráðuneyti, sem setti í maí 2018 á koppinn:
"starfshóp með aðkomu allra þingflokka til að vinna orkustefnu fyrir Ísland. Er þess vænzt, að hópurinn leggi tillögur sínar fyrir ráðherra í byrjun árs 2020. Meðal verkefna hópsins er að horfa til hugmynda um útflutning raforku frá Íslandi um sæstreng. Morgunblaðið leitaði viðbragða ráðherra við hugmyndum Atlantic Superconnection um lagningu fyrrnefnds strengs, en engin viðbrögð komu frá ráðuneytinu."
Þetta stóð í baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar, 15. júní 2018, í Morgunblaðinu, og sýnir, hversu rislágt þetta ráðuneyti er um þessar mundir, ráðuneyti, sem hvetur Alþingi til að kokgleypa Þriðja orkumarkaðslagabálk Evrópusambandsins (ESB) á þeim forsendum, að hann mundi hafa hér lítil sem engin áhrif hérlendis, svo lengi sem engin raftenging sé á milli Íslands og útlanda. Þar er farið með rangt mál og litið framhjá þeirri staðreynd, að hlutverk téðs lagabálks er einmitt að færa ESB völd til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum gegn nýjum og bættum raftengingum á milli landa. "Oh, sancta simplicitas !"
Öll framganga iðnaðarráðuneytisins í sæstrengsmálum er óboðleg landsmönnum. Ráðherrann getur í hvoruga löppina stigið og ætlar ekki að gera það fyrr en að tveimur árum liðnum. Einkafyrirtæki, sem stæði frammi fyrir brýnu úrlausnarefni um nýtingu náttúruauðlinda, sem það ætti afnotarétt á, mundi ekki geta varið slíkan seinagang fyrir hluthöfum sínum. Liggur fiskur undir steini ?
Nú verður vitnað í téða frétt Viðskipta Moggans:
"Leggja til minni sæstreng":
"Strengurinn, sem AS hefur á teikniborðinu nú, er einpóla í stað tvípóla. Sú útfærsla gerir því ráð fyrir einum streng í stað tveggja, sem er forsendan fyrir tvípóla tækni. Einpóla strengur yrði 60 % - 70 % ódýrari en strengur, sem byggði á tvípóla tækni."
Nafn fyrirtækisins, Atlantic Superconnection, gefur til kynna, að það þrói ofurleiðaratækni. Sú tækni mundi vissulega koma sér vel á 1500 km leið frá Suð-Austur Íslandi til Norð-Austur Englands, þar sem fyrirtækið áformar landtöku sæstrengs og telur þá staðsetningu auka hagkvæmni þessa raforkuflutningsverkefnis m.v. landtöku á Skotlandi. Ofurleiðni er þó ekki á dagskrá, en þó minni orkutöp en hefðbundið má búast við á svo langri leið, því að fyrirtækið býst við 5 % flutningstöpum, sem er helmingur af því, sem má vænta, að töpum í endamannvirkjum sæstrengsins meðtöldum. Kann þetta að stafa einvörðungu af hærri rekstrarspennu í streng AS en nokkur plasteinangrun hefur verið gerð fyrir hingað til. Þar er þó komin aukin rekstraráhætta vegna óreyndrar tækni.
Að notast við aðeins einn leiðara virkar í hina áttina, þ.e. til aukinna tapa, en aukinn núvirtan tapskostnað í áranna rás af þessum sökum telur fyrirtækið greinilega munu verða lægri en núvirtan aukinn fjármagnskostnað af tveggja póla sæstreng.
Það eru fleiri meinbugir á einpóla útfærslunni. Straumurinn til baka er leiddur um haf og jarðlög með því að grafa forskaut niður í hafsbotninn öðrum megin og bakskaut hinum megin. Sæstrengur undir Eystrasalti á milli Svíþjóðar og Þýzkalands er 250 km að lengd á 450 kV spennu og getur flutt 600 MW, en aðeins frá Svíþjóð. Forskautið er samsett af 40 títaníum möskvanetum, hvert um sig 20 m2, en bakskautið er óeinangraður koparhringur, 2,0 km í þvermál. Hættu af völdum rafstraums í náttúrunni þarf hér að meta og sömuleiðis truflanir af völdum segulsviðs á lífríki og búnað, t.d. siglingatæki.
Fiona Reilly hefur upplýst, að fyrirhugaður einpóla sæstrengur með endabúnaði eigi að geta flutt 600-700 MW og muni kosta miaGBP 2,0 eða miaISK 285 auk miaISK 50-80 fyrir flutningskerfi á Íslandi niður að lendingarstað sæstrengsins. Verða það engin smáræðis mannvirki.
Án stórbilana er raunhæft að ætla, að slík mannvirki geti flutt 5000 GWh/ár af raforku. M.v. 25 ára afskriftartíma og 8,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns í verkefninu, jafngildir þetta flutningskostnaði um 60 USD/MWh. Þetta er 25 % lægri flutningskostnaður en með 1200 MW, tvípóla sæstreng, sem áður var í umræðunni.
Fiona Reilly hefur upplýst, að hún geti selt þessa raforku í heildsölu á Englandi fyrir 65 GBP/MWh, sem samsvarar um 87 USD/MWh. Þetta þýðir, að hún telur sig aðeins þurfa að borga 27 USD/MWh fyrir raforku inn á inntaksmannvirki sæstrengsins síns á Íslandi.
Þetta yrðu hraksmánarleg viðskipti fyrir Íslendinga af eftirfarandi ástæðum:
- Sala raforku inn á sæstreng skapar engan virðisauka á Íslandi í mótsetningu við sölu raforku til t.d. álvera, þar sem um 40 % af veltu þeirra verður eftir í landinu að jafnaði. Ofangreint verð, 27 USD/MWh, er þar að auki aðeins rúmlega 70 % af núverandi verði til eins álversins hérlendis, sem samið var við um framlengingu raforkusamninga fyrir nokkrum árum, að flutningsgjaldi meðreiknuðu.
- Þvert á það, sem Fiona Reilly heldur fram í viðtali við Stefán E. Stefánsson, með fullri virðingu fyrir henni, munu raforkusamningar við sæstrengseiganda hækka raforkuverð til almennings á Íslandi. Ástæðurnar eru í fyrsta lagi, að ætlunin er að þurrka alla ótryggða orku upp af markaðinum hér og senda hana til Englands. Þetta er ódýrasta raforkan á markaðinum. Samkvæmt Fionu er ætlunin að fá aðgang að 450 MW toppafli hér, en til þess þarf að bæta við yfir 400 MW af vélakosti, sem mun verða kostnaðarsamt og borgar sig varla, og víðast hvar þarf þá viðbótar fallgöng vatns, eins og í Búrfellsvirkjun 2. Í öðru lagi er ætlunin að bæta við einhverju lítilræði af virkjunum, 150-250 MW eru nefnd (um 30 % af heild í þessum viðskiptum) til orkuvinnslu. Þetta lítilræði verður þá vafalaust fullnýtt í grunnorkusölu, sem þýðir, að almenningur fær engin afnot af þessum virkjunum. Það er einmitt viðskiptahugmyndin með raforkusölu til stóriðju að byggja stærri virkjanir en hún þarf á að halda, svo að almenningur fái afnot af þeim virkjunum á hagkvæmum kjörum. Stóriðjan greiðir þannig niður raforkukostnað almennings með sanngjörnum hætti. Niðurlag viðtalsins við Fionu Reilly, sem birtist 14. júní 2018, bendir til, að hún hafi misskilið viðræðuaðila sína á Íslandi eða að þeir séu úti á þekju um þetta eðli íslenzka raforkukerfisins, sem er öðru vísi en hjá öðrum Evrópuþjóðum, nema Norðmönnum að nokkru leyti. Norðmenn búa hins vegar við mikið ónotað afl í sínum vatnsaflsvirkjunum utan hávetrartímans, þar sem þeir hita hús sín með raforku. Þessa vegna er út í hött hérlendis að benda til Noregs til að rökstyðja raforkusölu héðan um sæstreng.
18.6.2018 | 09:47
Orkustofnun ESB, aflsæstrengur og orkuverðshækkanir
Orkustofnun ESB, ACER, og hinn íslenzki afleggjari hennar, ef af verður, nýja Orkustofnunin, NOS, á að hafa eftirlit með því, að Ísland fylgi Kerfisþróunaráætlun ESB í orði og á borði, ef landið gengur í Orkusamband ESB. Aflsæstrengur á milli Íslands og Skotlands, "Ice Link", er á meðal forgangsverkefna í Kerfisþróunaráætlun ESB.
VERÐIÐ:
Í Noregi hafa orkuviðskipti um sæstrengi til útlanda óumdeilanlega valdið raforkuverðshækkunum. Samt er þar aðallega um "raforkuskipti" að ræða, þ.e. Norðmenn flytja raforku út á daginn, ef ekki blæs eða skín sól á viðkomandi orkuver á meginlandinu eða á Bretlandi, en spara á móti vatn í miðlunarlónum sínum á nóttunni með innflutningi raforku.
Þetta viðskiptalíkan gengur varla upp fyrir "Ice Link", sem er miklu dýrari en norskir sæstrengir og krefst í raun hárrar nýtingar allt árið um kring með flutningi þangað, sem raforkuverðið er hærra, ef hann á að geta borið sig, fjárhagslega. Auk þess er ekkert ónotað afl í íslenzkum virkjunum í líkingu við það, sem er í norskum vatnsaflsvirkjunum.
1200 MW sæstrengur þarf að flytja um 9 TWh/ár (terawattstundir á ári) frá Íslandi til að standa undir sér, fjárhagslega. Þetta er tæplega helmingsaukning á núverandi raforkuvinnslu á Íslandi, sem augljóslega mun útheimta megnið af þeim virkjunum, sem nú eru í framkvæmdahluta Rammaáætlunar. Er ekki þegar af þeirri ástæðu ljóst, að þessar sæstrengshugmyndir eru draumórar einir ?
Meðalvinnslukostnaður í þessum tilvonandi virkjunum verður miklu hærri en að meðaltali í núverandi raforkukerfi. Þetta mun óhjákvæmilega strax leiða til mikillar verðhækkunar til almennings og síðar til stóriðju, við endurskoðun langtímasamninga, ef þeir þá verða úrskurðaðir leyfilegir af ESA, þegar þar að kemur.
GETA ÍSLENZK YFIRVÖLD SAMT SAGT NEI ?
Ef Alþingi, illu heilli, samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og framselur þannig fullveldi á orkusviði til Orkustofnunar ESB, ACER, getur Ísland samt hafnað aflsæstrengjum ? Það eru mjög litlar líkur á, að sú tilraun heppnist. Íslenzk höfnun mundi vera í andstöðu við grundvallarhugmyndina með Orkusambandinu og framkalla hneykslun í Ljubljana, aðsetri ACER, og í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel.
ACER og afleggjari hennar á Íslandi, Nýja orkustofnun, NOS, munu fá það hlutverk að vakta, að Ísland framfylgi að sínu leyti Kerfisþróunaráætlun ESB. Með því að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB að hluta orkulaganna á Íslandi og síðan að stofna NOS, hefur Ísland samþykkt þessar forsendur NOS, þ.e. Kerfisþróunaráætlun ESB.
ESB lætur útbúa Kerfisþróunaráætlun til 10 ára, TYNDP, (Ten Years Network Development Plan), sem spannar skrá um forgangsverkefni, "Projects of Common Interest, PCI". Á þessari skrá eru yfir 170 verkefni og "Ice Link", Skotlandsstrengurinn, er þar á meðal á hagkvæmniathugunarstigi, en með bráðabirgða tímasetningu um gangsetningu árið 2027.
ESB/ACER setja sem lágmarkskröfu á hvert land Orkusambandsins, að 15 % af raforkuvinnslugetu hvers lands sé hægt að flytja út, og þess vegna mun verða þrýst á Ísland að samþykkja fyrsta aflsæstrenginn til útlanda. Stefnumið Orkusambands ESB er sameiginlegur orkumarkaður allra aðildarlandanna með sama verði og sama aðgengi raforku alls staðar. Enginn þarf að fara í grafgötur með, að ESB er full alvara með Kerfisþróunaráætlun sinni og Forgangsverkefnaskrá hennar.
Ef (gamla) Orkustofnun hafnar umsókn eigenda "Ice Link" verkefnisins, munu þeir áreiðanlega áfrýja þeim úrskurði til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA sem broti gegn grunnreglunum, sem Ísland hefur viðurkennt með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.
Eigendurnir munu væntanlega njóta stuðnings NOS, sem gegnir því hlutverki að sjá til þess, að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt. Enginn getur fullyrt um, hver niðurstaðan verður. Endanlegur úrskurður EFTA-dómstólsins verður þó kveðinn upp í samræmi við réttarkerfi ESB, og þess vegna þarf heldur enginn að efast um niðurstöðuna.
Langflestir kunnugra telja, að að fáeinum árum liðnum muni ACER fá aukin völd (4. orkubálkurinn), og þá verður leyfishlutverk hefðbundins orkustjórnvalds hvers lands endurskoðað og þar með leyfisveitingar OS á sviði raforkuflutninga afnumdar. Með samþykki Alþingis á innleiðingu téðs orkubálks í EES-samninginn, væri þingið að fórna ráðstöfunarrétti raforkunnar á altari Evrópusamstarfsins. Þar með væru umráð okkar yfir annarri verðmætustu auðlindinni fyrir borð borin. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hvers konar sess í sögunni þeir þingmenn mundu ávinna sér, sem gerðu sig seka um slíkt glapræði, þrátt fyrir varnaðarorð.
12.6.2018 | 09:40
Skiptar skoðanir um raforkumál Vestfirðinga
Þann 2. júní 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa VesturVerks á Ísafirði undir fyrirsögninni,
"Dylgjur á dylgjur ofan".
Þegar Birna valdi grein sinni heiti, gæti hún hafa nýlokið við lestur greinar Tómasar Guðbjartssonar, hjartaskurðlæknis og náttúruverndarsinna, sem birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2018 undir heitinu:
"Þar sem vegur sannleikans endar".
Í raun er ekki miklu við grein Birnu að bæta; svo vel gerir hún grein fyrir því, hvers vegna Vestfirðingar og aðrir umhverfis- og framfarasinnaðir landsmenn ættu að sameinast um að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, sem eru í nýtingarhluta Rammaáætlunar, og þar sem virkjunartilhögun hefur verið rýnd af yfirvöldum og lögformlegt umhverfismat verið staðfest. Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, eins og hún hefur verið kynnt af virkjunaraðilanum, VesturVerki, nýtur stuðnings heimamanna og sennilega langflestra Vestfirðinga. Allt þetta eru næg rök fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis.
Gerð var dólgsleg tilraun fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar til að svipta íbúana lýðræðislegu forræði sínu á framkvæmdaleyfinu. Það var fyrirlitleg aðför að lýðræðinu, kolólögleg og heimskuleg, enda rann hún út í sandinn. Nú hafa sömu aðilar kært framkvæmd kosninganna í Árneshreppi, og eru þetta firn mikil.
Tómas Guðbjartsson, læknir, rembist eins og rjúpan við staurinn með áróðursherferð sinni að telja Vestfirðingum og öðrum trú um, að meiri verðmæti fari í súginn með virkjuninni en hún muni skapa. Það er mjög ósannfærandi málflutningur, reistur á hans eigin tilfinningalega mati, sem alls ekki er þó ætlunin að gera lítið úr, en á samt ekki að hafa neitt vægi við opinbera ákvarðanatöku af þessu tagi, þar sem taka þarf tillit til fjölmargra opinberra hagsmuna, hagsmuna samfélagsins á Ströndum, á Vestfjörðum í heild og hagsmuna landsins alls.
Ef aðeins er litið á nærsamfélag virkjunarinnar, er alveg öruggt, að virkjunin mun leiða til þess, að fleiri geta og munu njóta náttúrufegurðar svæðisins. Það er einfaldlega segin saga, að ferðamennska og íslenzkar virkjanir eiga mjög góða samleið.
Um umhverfishlið málsins hefur Birna þetta að segja í téðri grein og hefur þar mikið til síns máls:
"Mönnum verður tíðrætt um umhverfisáhrif virkjunarinnar, enda verður aldrei hjá því komizt að skerða land vegna slíkra framkvæmda. Það er aftur á móti leitun að vatnsaflsvirkjun af þessari stærð, sem er jafnlítið inngrip í náttúruna og Hvalárvirkjun. Ekki verður hróflað við náttúruperlum, s.s. fossum, giljum eða árfarvegum, þótt vissulega muni rennsli minnka í þeim á ákveðnum tímum árs, líkt og gerist reyndar í náttúrunni sjálfri. Þrjú uppistöðulón á háheiðinni ásamt stíflumannvirkjum verða helztu sjáanlegu ummerki virkjunarinnar, sem verður að öðru leyti öll neðanjarðar."
Ekkert hefur stuðlað meir að því að auka samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi en virkjanir vatnsafls og jarðvarma, nema öll skrefin, sem tekin voru við útfærslu landhelginnar.
Samkeppnisstaða landsins hefur látið undan síga á undanförnum misserum, og það er ávísun á lakari lífskjör og verri félagslega samkeppnisstöðu en við viljum sjá hérlendis. Afturhaldssemi gagnvart frekari nýtingu orkulindanna með beztu fáanlegu tækni og lágmarks áhrifum á náttúruna, sem þar að auki eru öll afturkræf samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þar um, er ávísun á áframhaldandi neikvæða þróun samkeppnisstöðu landsins og þar af leiðandi aukinn ójöfnuð í samfélaginu á milli landshluta og á milli stétta. Hvorugt viljum við hafa.
Tómas Guðbjartsson hefur fullyrt, að Hvalárvirkjun sé óþörf fyrir Vestfirðinga og fyrir landið í heild. Þetta er kolrangt. 55 MW virkjun mun hækka skammhlaupsafl á Vestfjörðum, sem er nú svo lágt, að það stendur stöðugleika raforkukerfisins þar fyrir þrifum, sem kemur fram í miklu spennuflökti við bilanir. Þar að auki er hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum forsenda þess, að unnt verði að færa flutnings- og dreifikerfið úr lofti í jörðu. Nægileg hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum er óhugsandi án nýrra virkjana þar. Slík aðgerð yrði tvímælalaust til mikilla bóta fyrir afhendingaröryggi rafmagns og ásýnd Vestfjarða.
Hvalárvirkjun er ákjósanlega staðsett fyrir hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, því að með innmötun eftir aðeins einum legg, 132 kV Vesturlínu, kemur hringtenging á Vestfjörðum að mjög takmörkuðum notum. Frá Nauteyri, sem verður mikilvæg aðveitustöð í Vestfjarðahringnum, staðsett í Ísafjarðardjúpi og með innmötun frá Hvalárvirkjun og Vesturlínu, mun koma tenging til norðurs við aðveitustöð í Ísafjarðarbæ, sem þannig mun loksins njóta bráðnauðsynlegrar 132 kV hringtengingar áður en langt um líður. Slíkt fyrirkomulag er bráðnauðsynlegt til að anna auknu álagi á norðanverðum Vestfjörðum án þess að þurfa að grípa til olíukyntrar neyðarrafstöðvar Landsnets á Bolungarvík.
Aukning raforkunotkunar á Vestfjörðum er hlutfallslega meiri en víðast hvar annars staðar á landinu. Ástæðan er sú, að byggðin eflist nú mikið með aðflutningi fólks og góðri viðkomu. Undirstaða þeirrar jákvæðu þróunar er sú, að nú er einkaframtakið að raungera þá stefnumörkun stjórnvalda frá því í byrjun 21. aldarinnar, að á Vestfjörðum (Austfjörðum og í Eyjafirði) yrði heimilað sjókvíaeldi á laxfiskum.
Þar sem jarðhita skortir víðast hvar á Vestfjörðum, hefur ný atvinnugrein og mannfjöldaaukning í för með sér aukið álag á raforkukerfið og auknar kröfur um gæði raforkunnar. Langhagkvæmast og skynsamlegast er, að alhliða uppbygging raforkukerfis Vestfjarða haldist í hendur við þessa umbyltingu atvinnuhátta.
Því miður virkar ríkisvaldið hamlandi á þessa þróun, því að það er of seint á ferð með hringtengingu vegakerfis Vestfjarða, og það verður nú að sjá til þess, að Nauteyrarstöðin komist í fullt gagn sem fyrst eftir gangsetningu Hvalárvirkjunar.
Tómas Guðbjartsson heldur uppi einskis nýtu pexi við virkjunaraðilann um eignarhald HS Orku og VesturVerks. Það virðist hafa farið fram hjá honum, að öll ríki, nema ríki á borð við Norður-Kóreu, sækjast eftir beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífi sínu. Samkeppnishæfustu lönd heims eru með meiri hlutdeild slíkra fjárfestinga en Ísland. Ástæðan fyrir því, að þetta er þjóðunum hagstætt, er, að fjármagn kostar, og sá kostnaður lendir þá ekki á þjóðunum sjálfum, þar sem erlendar fjárfestingar eiga í hlut. Annar vanmetinn kostur er sú stjórnunarþekking, tækniþekking og viðskiptaþekking auk viðskiptatengsla, sem erlendri fjárfestingu fylgir. Laxeldið er gott dæmi um þetta.
Afturhalds- og einangrunarsinnar benda þá á, að erlendir fjármagnseigendur flytja ágóða sinn utan. Það gera þeir þó í enn meiri mæli á formi vaxtatekna, ef fjármögnun innanlands er með erlendum lántökum. Fjárfestarnir beina oftast drjúgum hluta ágóða síns til endurfjárfestinga innanlands. Tómas Guðbjartsson virðist vera málpípa þeirra sósíalistísku viðhorfa, að fjármagnseigendur eigi ekki rétt á umbun fyrir að setja fé í áhættusamar framkvæmdir í samanburði við bankainnlán eða verðbréfakaup. Þegar þetta blandast saman við andstöðu hans við umhverfisvænstu framkvæmdir nútímans, er ekki laust við, að holur hljómur verði í áróðrinum öllum.
Birna Lárusdóttir lýkur grein sinni með eftirfarandi orðum, sem einnig verða lokaorð þessa vefpistils:
"Ef við horfum á stóru myndina, er virkjun vatnsfalla til orkuframleiðslu ein umhverfisvænsta leiðin, sem völ er á til að stemma stigu við notkun jarðefnaeldsneytis og hlýnun jarðar. Virkjun Hvalár er liður í því. Um þetta ættu umhverfissinnar allra landa að geta verið á einu máli. Á grundvelli sjálfbærrar nýtingar náttúrunnar ættum við því að geta sameinazt um að tala upp innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, þannig að íbúar þessa fámennasta landshluta Íslands fái setið við sama borð og aðrir landsmenn."
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2018 | 10:39
Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel
Utanríkisráðherra hefur upplýst, að á 24 ára tímabilinu, 1994-2017, hafi rúmlega 9000 gerðir Evrópusambandsins, ESB, eða rúmlega 13 % allra gerða sambandsins, verið tekin upp í EES samninginn eða upp í íslenzka stjórnsýslu samkvæmt honum. Þetta eru 375 gerðir á ári eða rúmlega 1 á dag hvern einasta dag, sem liðið hefur frá gildistöku EES-samningsins hérlendis 1. janúar 1994.
Þetta keyrir úr öllu hófi fram, og það verður að binda endi á þetta vegna gríðarlegs kostnaðar, sem þessi fjöldi opinberra gerða, reglugerða, tilskipana og laga, hefur í för með sér í litlu samfélagi hjá fyrirtækjum og stjórnsýslu. Það er engin hemja, að við skulum þurfa, 350 þúsund hræður, að bera þessar byrðar til að njóta aðgengis að Innri markaði ESB með öllu því margvíslega álagi, sem slíkt hefur í för með sér, t.d. vegna hömlulauss innstreymis fólks, undirboða og lagabrota á vinnumarkaði og víðar í þjóðfélaginu.
Það blasir við, að það er hægt að losa landsmenn mestmegnis undan þessu fargi með uppsögn EES-samningsins og gerð fríverzlunarsamnings við ESB og Bretland, eins og nýlegt fordæmi er til um (Kanada). Sá gríðarlegi óbeini og beini kostnaður, sem af þessu samneyti við stórþjóðir Evrópu leiðir, kemur niður á lífskjörum landsmanna. Skattheimtan hérlendis er nú þegar á meðal hins hæsta, sem þekkist í Evrópu, m.a. vegna gríðarlegrar yfirbyggingar lítils samfélags, og framleiðniaukning fyrirtækjanna hefur um langt árabil verið óeðlilega lág. Reglugerðafarganið virkar hamlandi á þróun fyrirtækjanna í átt til aukinnar verðmætasköpunar. Stórskorið reglugerðafargan og eftirlitsbákn að hætti miklu stærri samfélaga lendir hér kostnaðarlega á fáum hræðum, sem heldur niðri lífskjarabata. Holtaþokuvæl um nauðsyn ESB til að tryggja frið í Evrópu heldur ekki vatni. Það hefur NATO gert án tilstuðlunar ESB, sbr Balkanstríðið. Við eigum að eiga sem frjálsust viðskipti í allar áttir og ekki að binda trúss okkar allt á einn hest. Samstarf EFTA og ESB á vettvangi EES er komið í öngstræti, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti í tvígang á í vetur. Framsóknarflokkurinn hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að endurskoða EES-samstarfið.
Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita meira fé í EES-samstarfið undir því yfirskyni, að taka eigi meiri þátt í undirbúningi mála. Eru embættismenn látnir komast upp með það að ráða för ? Það er borin von, að EFTA-ríkin geti haft marktæk áhrif á undirbúning mála hjá ESB. Framkvæmdastjórnin hlustar ekki lengur (eftir BREXIT) neitt á kvakið í EFTA-löndunum. Það er vegna þess, að kjarni undirbúningsvinnunnar fer fram á bak við luktar dyr í Berlaymont, þar sem aðeins ríkin 28, nú bráðum 27, mega taka þátt. Fjárveitingum úr ríkissjóði væri betur varið hér innanlands eða til undirbúnings uppsagnar EES-samningsins með því að leita hófanna um gerð fríverzlunarsamninga. Þegar allt er tínt til, mundu sparast stórar fjárhæðir við að hætta að eltast við búrókratana í Berlaymont.
Sum stórmál, sem ESB heimtar, að verði innleidd í EES-samninginn, eru þannig vaxin, að vandséð er, að þau komi að nokkru gagni í EFTA-löndunum, en þau valda þar gríðarlegum kostnaðarauka. Nýtt dæmi er persónuverndarlöggjöfin. Fylgir henni einhver áþreifanlegur kostur fyrir almenning á Íslandi, sem verður í askana látinn ? Það virðast fylgja henni ókostir, t.d. fyrir hluta vísindasamfélagsins, og henni fylgir viðbótar launakostnaður, sem gæti hækkað kostnað sumra fyrirtækja umtalsvert, og e.t.v. um 1 % fyrir landið í heild. Safnast, þegar saman kemur.
Ekkert lát er á flóðinu frá Brüssel. Það má hverju barni vera ljóst, að íslenzk stjórnsýsla ræður ekkert við þetta gríðarlega magn. Þótt íslenzka utanríkisþjónustan mundi beita öllum kröftum sínum að ESB/EES, mundi slíkt engu skila í ávinningi eða sparnaði fyrir íslenzka þjóðarbúið. Ísland verður aldrei annað en óvirkur viðtakandi samþykkta frá Berlaymont, enda á forysta ESB fullt í fangi með að samræma afstöðu 28 ríkja, þótt EFTA-ríkin bætist ekki við.
Þegar rýnt er í efnivið gerðanna kemur í ljós, að hann kemur ekki að neinu gagni við að bæta stjórnsýsluna hér, en veldur miklum kostnaði um allt þjóðfélagið, bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjunum. Allur lendir sá kostnaður á heimilum landsins. Það blóðuga við þetta er, að það er algerlega óþarft. Það er til fýsilegur valkostur við þetta.
Fjöldi slíkra mála er í deiglunni hjá ESB eða er til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni. Eitt mál úr síðarnefnda hópinum er gjörð 391/2009 um skipaeftirlit. Hún veitir Framkvæmdastjórninni heimild til að sekta vottuð eftirlitsfyrirtæki, sem hún hefur þegar viðurkennt sem hæf í eftirlitshlutverkið. EFTA-ríkin vilja, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, fái þetta valda í EFTA-ríkjunum, og þar stendur hnífurinn í kúnni. ESB skeytir engu um tveggja stoða kerfið lengur, og þingheimur verður að fara að gefa sér tíma til að ræða viðbrögð við þessari tilhneigingu Framkvæmdastjórnarinnar, sem stafar af stefnu sambandsins um valdflutning frá aðildarríkjunum til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar.
Hin svo nefnda aðferðargjörð nr 734/2013 fjallar um samræmda framkvæmd á reglum um ríkisstuðning með sektarheimild í höndum yfirþjóðlegs valds. ESB hefur hafnað tillögu EFTA-landanna um að fela innlendum aðila í hverju landi sektarheimildina í staðinn fyrir ESA. Innleiðing í EES-samninginn mun leiða til þess, að ESA fær aukin völd til að beita þvingunarúrræðum og sektum gagnvart lögaðilum á Íslandi. Þetta brýtur skýlaust í bága við Stjórnarskrá Íslands. Hversu langt eru stjórnvöld tilbúin að ganga eftir þessari braut lögleysunnar ?
Það er dagljóst, að Ísland tapar fullveldi sínu í hendur Evrópusambandinu með þessu áframhaldi samkvæmt spægipylsuaðferðinni, þ.e.a.s. jafnt og þétt á sér stað fullveldisframsal til Brüssel á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, nánast án umræðu í samfélaginu og án þess, að þjóðin hafi fengið beint að tjá sig í atkvæðagreiðslu um málið. Það er vitað, að meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu Íslands í ESB, en þangað siglum við þó hraðbyri. Þetta eru fullkomlega ólýðræðislegir stjórnarhættir, og stjórnmálamönnum er hollast að grípa í taumana strax áður en það verður um seinan með óræðri lagalegri stöðu landsins og eldfimu stjórnmálaástandi sem afleiðingu. Höggvið á hnútinn með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr EES og gerð fríverzlunarsamninga.
15.5.2018 | 13:46
Enginn ávinningur af aðild að Orkusambandinu
Nú þegar hefur talsvert verið rætt og ritað um Orkusamband ESB. Umræðan hefur vakið áhuga almennings og athygli á því, að ESB seilist til vaxandi og afdrifaríkra áhrifa í EFTA-löndunum. Aðeins 16 % sögðust "ekki vita" um málið, þegar þeir fengu spurningu frá "Maskínu" um valdframsal á orkusviði til evrópskrar stofnunar, 80 % voru því andvíg, en aðeins 8 % meðmælt. Þetta er áfall fyrir ESB-aðdáendur og þá, sem hérlendis hafa haldið uppi óburðugum og í raun óboðlegum áróðri fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB (þó án atkvæðisréttar þar).
Orkusambandið er skilgreint með Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem öll ESB ríkin hafa samþykkt. Framkvæmdastjórn ESB heimtar af EFTA-ríkjunum þremur í EES, að þau innleiði "Þriðja orkubálkinn" í EES-samninginn, enda er yfirlýst stefna hennar að nátengja Noreg, sem er mesta orkuútflutningsland Evrópu á eftir Rússlandi, við orkumarkað ESB. Líklegt er, að í leiðinni sé litið hýru auga til endurnýjanlegra orkulinda eyríkisins í norðri.
Það, sem stendur upp úr umræðunni hérlendis hingað til, er eftirfarandi:
- Enginn hefur með vitrænum rökum bent á nokkurt gagn af því fyrir Íslendinga að ganga í Orkusamband ESB.
- Innganga í Orkusambandið fæli í sér framsal valds yfir raforkuflutningum í landinu og yfir millilandaflutningum raforku til Orkustofnunar ESB, ACER. Hún mun þá stofna útibú sitt í Reykjavík, "landsreglara" sem tekur við stjórnvaldi Orkustofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins yfir raforkuflutningunum. Landsnet mun þá þurfa að vinna eftir reglugerðum útibúsins, leggja alla netmála sína og gjaldskrá til rýni og samþykktar hjá útibúinu, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for energi", RME, og er einfaldlega Orkustjórnvald, sem einvörðungu lýtur boðvaldi ACER, Orkustofnunar ESB. Ágreiningsmál verða útkljáð af ESA/ACER.
- Síðast en ekki sízt mun Landsnet verða að laga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER. Útibúið fær drögin að Kerfisáætlun, gerir við þau frumathugasemdir, þýðir þau og sendir áfram til ACER um falsstoð EFTA í orkumálum, ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). ACER rýnir Kerfisáætlun Landsnets og gaumgæfir, hvernig hún samrýmist Kerisþróunaráætlun sinni, þ.e. ESB. Þar er nú þegar "Ice Link", 1200 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, og Landsnet verður að skipuleggja raforkuflutninga frá íslenzkum virkjunum að landtökustað sæstrengsins.
- Völd Orkustofnunar (OS) yfir raforkuflutningsmálum verða eftir þessa innleiðingu hjómið eitt. Leyfisveitingavaldið verður áfram þar, en allar umsóknir verða að fullnægja skilmálum, sem útibú ACER annaðhvort semur eða samþykkir. Hvernig á OS að hafna umsókn, t.d. frá einhverju sæstrengsfélagi í einkaeigu, eins og tilvikið er með NorthConnect, sæstreng á milli Noregs og Skotlands, ef hún fullnægir öllum settum skilmálum. Hafni OS samt slíkri umsókn, verður höfnunin umsvifalaust kærð til ESA. Völd OS á raforkuflutningssviði verða aðeins að forminu til. Hvers konar blindingsleikur er það að fullyrða, að þetta fyrirkomulag jafngildi smáræðisbreytingum á íslenzkri stjórnsýslu ? Þeir, sem slíku halda fram, hafa ekki unnið heimavinnuna sína og skilja ekki virkni Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB. Vitlausast af öllu er að fullyrða, að núverandi raforkueinangrun Íslands feli í sér einhverja vörn gegn ásælni ESB.
- Þrír stjórnmálaflokkar hafa haldið fundi í æðstu stofnunum sínum síðan ACER-málið komst í hámæli hérlendis. Tveir stjórnarflokkar í marz og einn stjórnarandstöðuflokkur í apríl 2018 lýstu sig andvíga inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. Þriðji stjórnarflokkurinn virðist vera andsnúinn málinu líka. Komi til atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og ef þingmenn ganga óbundnir til hennar, má gera sér vonir um, að þeir felli hana og komi þar með í veg fyrir stjórnarskrárbrot og alls konar flækjur og stefnubreytingu í orkumálum, sem leiða mundu af samþykkt.
- Íslenzka raforkukerfið er gjörólíkt að uppbyggingu því, sem nú starfar á raforkumarkaði ESB. ACER tekur ekkert tillit til þess, því að grundvallarregla ESB er "ein regla fyrir alla" ("one size fits all"). Að reyna að bezta rekstur íslenzka raforkukerfisins, eftir að það tengist orkumarkaði ESB og með ACER hér við völd, verður ómögulegt. Tilraun til að samstýra vatnsborðshæð í miðlunarlónum landsins eða tilraun til að draga úr hröðum álagsbreytingum verður dæmt ólögmætt inngrip í frjálsan orkumarkað. Raforkuverð til heimila og fyrirtækja án langtímasamninga mun hækka, orkuskiptin verða dýrari en ella og ásókn í virkjanleyfi, einnig erlendis frá, mun aukast.
Á vegum ESB hafa verið settar á laggirnar um 40 stofnanir á ýmsum sviðum, s.s. bankaeftirlit, matvörueftirlit, loftferðaeftirlit, og Orkustofnun, sem hefur aðsetur í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. "European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", ACER, var stofnsett 2010. ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki gagnvart stjórnendum og starfsmönnum ESB eða vinnur að því að semja regluverk fyrir orkukerfin.
Orkustofnun ESB hefur líka framkvæmdavald og ákvarðanavald. ACER á að hafa eftirlit með orkustjórnvaldsstofnunum, hér OS og landsreglaranum (útibúi ACER), og kerfisstjórnendum (hér Landsneti) þjóðríkjanna. Tilgangurinn er að sjá til þess, að reglusetningu ESB fyrir rafmagns- og gasmarkaðinn sé framfylgt. Það er kyrfilega gengið frá öllum endum, svo að fullveldi EFTA-ríkjanna verður ekki undankomu auðið, og skiptir þá núverandi fyrirkomulag raforkutenginga við útlönd engu máli. Að lokum verða öll ágreiningsmál dæmd samkvæmt EES-rétti, og landsréttur verður að víkja fyrir honum að viðlögðum kærum frá ESA fyrir brot á EES-samninginum.
Gjörð ESB nr 713/2009 um stofnun orkustjórnvaldsstofnunarinnar ACER er hluti af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Sá spannar einnig Þriðju raforkumarkaðstilskipunina, tilskipunina um Innri gasmarkaðinn og gjörðina um raforkuviðskipti yfir landamæri. Þriðja orkumarkaðslagabálkinn samþykkti norska Stórþingið til innleiðingar í EES-samninginn 22. marz 2018, en hann hefur enn ekki verið formlega gerður að hluta EES-samningsins, því að Alþingi á eftir að fjalla um málið. Í Stórþinginu er meirihluti fyrir inngöngu Noregs í ESB, en í þessu máli er gjá á milli þings og þjóðar í Noregi. Aðeins um 10 % norsku þjóðarinnar hefur tjáð sig fylgjandi því fullveldisframsali á sviði orkumála, sem téð breyting á EES-samninginum mundi hafa í för með sér.
Ætla má samkvæmt skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018, að yfir 80 % íslenzku þjóðarinnar sé andvígur slíku framsali og að samhljómur sé á milli þings og þjóðar í þessu máli. Sú staða, að meiri líkur en minni eru á synjun Alþingis, varpar ljósi á þá staðreynd, að EES-samningurinn er orðinn úreltur.