Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.7.2017 | 10:59
Of háreistar hugmyndir
Velgengni fiskeldis hér við land og á landi er fagnaðarefni. Á tækni- og rekstrarsviði starfseminnar má þakka velgengnina beinni norskri fjárfestingu í 4 fyrirtækjanna, sem hefur gert þeim kleift að fjárfesta fyrir um 10 miaISK/ár að undanförnu, og á næstu árum er búizt við fjárfestingu í fiskeldi um 5 miaISK/ár Nánast allt er þetta bein norsk fjárfesting, sem eflir íslenzka hagkerfið.
Nemur hinn norski eignarhlutur á bilinu 34 %-60 % í þessum fyrirtækjum. Framlegð fyrirtækjanna hefur jafnframt verið góð eða yfir 20 % af söluandvirði afurðanna. Há framlegð helgast af skorti á heimsmarkaði fyrir lax vegna framboðsbrests um 7 % af völdum fiskisjúkdóma, m.a. í Noregi. Markaðsáhrifin hafa orðið 50 % hækkun á laxi upp í um 1000 ISK/kg, sem tæpast verður þó varanleg.
Það er engum blöðum að fletta um byggðalegt mikilvægi fiskeldisins, þar sem það er stundað, enda hefur það sums staðar snúið fólksfækkun upp í fólksfjölgun, og sömuleiðis um þjóðhagslegt mikilvægi þess. Um þessar mundir er hallinn mjög mikill á vöruviðskiptum við útlönd eða um 150 miaISK/ár. Hluti af þessu er vegna fjárfestinga, en megnið eru neyzlu- og rekstrarvörur. Þetta gengur ekki til frambúðar og brýn þörf á að auka tekjur af vöruútflutningi, því að endi þetta með halla á viðskiptajöfnuði (þjónustujöfnuður (ferðamennskan) meðtalin), eins og stefnir í nú, þá hefst skuldasöfnun við útlönd og ISK hrynur.
Ef laxeldið fær að tífaldast m.v. núverandi framleiðslu og vaxa upp í 100 kt/ár, munu gjaldeyristekjur aukast um 90 miaISK/ár m.v. núverandi verðlag á laxi, en á móti kemur innflutningskostnaður aðfanga. Þar vegur fóðrið mest, og það er óskandi, að innlend hlutdeild í fóðrinu margfaldist, t.d. með framleiðslu repjumjöls og sérverkaðs fiskimjöls fyrir laxinn.
Það þarf greinilega mun meiri viðbót við vöruútflutninginn en laxeldið, og þar mun væntanlegur kísilútflutningur vega þungt, en starfsemi eins kísilframleiðandans af 4, sem orðaðir hafa verið við þessa starfsemi hérlendis, PCC á Bakka við Húsavík, mun hefjast í desember 2017, ef áætlanir ganga eftir.
Þótt mikil þörf sé á auknum gjaldeyri inn í landið á næstu árum, þá ber að gjalda varhug við stórkarlalegum hugmyndum um vaxtarhraða og lokaumfang laxeldis í sjókvíum við Ísland. Þessir villtu draumar komu fram í viðtali við Knut Erik Lövstad hjá Beringer Finance í sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017:
""Eldisfyrirtækin hafa fengið leyfi fyrir framleiðslu á 40 kt/ár af laxi, og þau hafa lagt inn umsóknir fyrir 130 kt/ár [til viðbótar]. Ef umsóknirnar verða samþykktar, gæti framleiðslan orðið 170 kt/ár", segir hann."
Það er ljóst, að Lövstad býst við mjög örum vexti, því að hann nefnir tvöföldun árið 2018 upp í 21 kt, og að árið 2020 muni hún verða 66 kt, þ.e. meira en sexföldun á þremur árum. Þetta jafngildir árlegum meðalvexti um 87 %. Ef sá vöxtur héldi áfram upp í 170 kt/ár, næðist sú framleiðsla árið 2022. Hér er allt of geist farið og öllu nær að reikna með, að árið 2022 hafi framleiðslan náð 60 kt/ár, verði um miðbik næsta áratugar 75 kt/ár og nálgist e.t.v. 100 kt/ár undir 2030 í sjókvíum, en þá því aðeins, að reynslan gefi tilefni til 30 kt/ár aukningar á starfsleyfum m.v. frumráðleggingu Hafrannsóknarstofnunar.
Rökin fyrir þessum varúðarsjónarmiðum eru í fyrsta lagi umhverfisverndarlegs eðlis, og í öðru lagi þurfa innviðir þessarar atvinnugreinar tíma til að þroskast og laga sig að þörfum greinarinnar.
Það er enn ekki komin nein teljandi reynsla af hinni nýju tækni fiskeldisfyrirtækjanna, þ.á.m. nýrri hönnun eldiskvíanna. Við þurfum haldfastar tölur um stroktíðnina úr hinum nýju eldiskerum til að unnt sé að leggja mat á, hversu marga fiska má leyfa í hverjum firði Vestfjarða og Austfjarða auk Eyjafjarðar. Slík reynsla fæst tæpast fyrr en árið 2022, og þangað til er ekki ráðlegt að leyfa yfir 50 kt/ár á Vestfjörðum og 20 kt/ár á Austfjörðum, alls 70 kt/ár samkvæmt frumáhættumati Hafró. Þetta frummat vísindamanna stofnunarinnar kemur blekbónda ekki mikið á óvart, þótt talan fyrir Austfirði virki nokkuð lág.
Ef fyrirtækin vilja meira, eiga þau kost á að fara út í laxeldi í landkerum og losna þannig við áhættu stroks og lúsar, en á móti kemur aukinn orkukostnaður vegna nýtingar hitaveitu til upphitunar á sjó, sem getur gefið meiri vaxtarhraða en í sjó. Þá þarf öflugt hreinsikerfi. Rafmagnskostnaður er einnig meiri vegna dælingar, en þetta virðist samt álitlegur kostur, þegar skortur er á laxi á markaðina.
Það er mikil verðmætasköpun per tonn í laxeldi um þessar mundir, jafnvel meiri en í íslenzka sjávarútveginum, sem á þó heimsmet í verðmætasköpun sjávarútvegs. Þannig segir Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að samkvæmt mati Norðmanna skapi hvert ársverk í laxeldi MNOK 2,7 eða um MISK 33. Þá hafi fjöldi ársverka í greininni í Noregi árið 2014 við eldi, slátrun, vinnslu og markaðssetningu verið 9´500, og afleidd störf hafi þá reynzt vera 19´000, eða tvö fyrir hvert beint starf, svo að heildarfjöldi ársverka var 28´500.
Þar sem Norðmenn framleiddu um 1,3 Mt árið 2014 af laxi í sjóeldiskvíum við Noreg, þýðir þetta, að framleiðsla á 1,0 kt útheimtir 22 ársverk (mannár). Þetta þýðir, að til að framleiða 40 kt/ár, sem ætla má, að verði raunin hér árið 2020, þarf tæplega 900 ársverk, þar af tæplega 300 bein störf. Allir sjá, hvílíkur búhnykkur hér er á ferðinni.
Hins vegar sér prófessor Daði Már ástæðu, eins og blekbóndi, til að slá varnagla við vaxtarhugmyndum, sem uppi eru:
""Þetta er lyftistöng fyrir þessi samfélög [fiskeldis]. Og það er í sjálfu sér ástæða til að vera jákvæður gagnvart fiskeldi sem grundvallar atvinnugrein á Íslandi, eins og annars staðar."
Hins vegar þurfi fiskeldismenn og stjórnvöld að stíga varlega til jarðar. Ýmis þjóðhagslegur kostnaður fylgi atvinnugreininni.
"Umhverfisáhrifin af fiskeldi eru umtalsverð. Þau eru mjög vandlega staðfest í nágrannalöndunum, og það er einnig vandlega staðfest, að þeir, sem hafa slakað verulega á kröfum í umhverfismálum, hafa iðulega séð eftir því til lengri tíma litið. Við ættum að láta það verða lexíu fyrir okkur.""
Það er ekki sanngjarnt að velta laxeldisfyrirtækjum á Íslandi upp úr mengunarsögu laxeldisfyrirtækja í öðrum löndum. Það er vegna þess, að íslenzku fyrirtækin hafa lært af áföllum annars staðar og innleitt nýjustu tækni og aðferðir við eldið. Þar má nefna traustari sjóeldiskvíar, myndavélavætt eftirlit í kringum þær og með fóðruninni, svo að hún er stöðvuð, þegar græðgin minnkar í fiskinum. Þá ætla fiskeldisfyrirtækin hér að hvíla eldissvæðin í eitt ár af þremur til að leyfa svæðinu að hreinsast. Allt er þetta til fyrirmyndar. Stroktíðnin er lykilstærð fyrir ákvörðun um hámark starfsleyfa. Enn tröllríður húsum sú úrelta stroktíðni, að einn lax sleppi upp í árnar úr hverju tonni í sjóeldiskvíum. Hafi einhvern tímann verið eitthvað hæft í því hlutfalli, er alveg víst, að það á ekki við laxeldi við strendur Íslands nú, enda mundi það jafngilda stroklíkindum 0,5 %/ár=5000 ppm, en fyrir nokkrum árum voru stroklíkindi í sjókvíaeldi við Noreg 20 ppm. Nýjar rauntölur vantar, en ef vel á að vera, þurfa þessi líkindi við Íslandsstrendur að minnka um eina stærðargráðu og verða 2 ppm. Það mundi þýða, að með 70 kt í sjóeldiskvíum, mundu 70 laxar sleppa á ári upp í árnar. Það gæti numið 1 % af íslenzku hrygningarstofnunum í ánum, sem falla í firði, þar sem sjókvíaeldi er leyft. Erfðafræðingar þurfa að meta hættuna á úrkynjun íslenzku laxastofnana við þessar aðstæður, en ágizkun leikmanns er, að hún sé hverfandi.
Niðurstaðan er þessi: Fiskeldið, einkum laxeldið, er hvalreki fyrir byggðir Vestfjarða og Austfjarða, sem staðið hafa höllum fæti. Mikil verðmætasköpun á sér stað, og 2 óbein störf fylgja hverju starfi beint við eldið.
Stefnumörkun skortir að hálfu stjórnvalda um útreikning og töku sanngjarns auðlindagjalds af greininni og um vaxtarhraða hennar. Stjórnvöld verða að leyfa henni að ná lágmarks hagkvæmni stærðarinnar sem fyrst, t.d. árið 2022, s.s. 60 kt/ár til slátrunar, en eftir það ber að hægja á framleiðsluaukningu á meðan frekari reynslu af starfseminni er safnað. Ólíklegt er, að verjandi þyki nokkurn tíma að taka áhættu af meira en 100 kt/ár sjókvíaeldi, en fyrirtækin gætu aftur á móti fljótlega fært út kvíarnar með verulegu eldi í landkerum.
16.7.2017 | 09:29
Efling á réttum tíma
Hröð þróun á sér nú stað í sjávarútvegi til að treysta samkeppnistöðu greinarinnar á tímum lækkandi fiskverðs, a.m.k. í krónum (ISK) talið. Gríðarlegar og tímabærar fjárfestingar eiga sér nú stað í nýjum fiskiskipum, sem leiða munu til mikillar hagræðingar, því að í mörgum tilvikum kemur eitt skip í stað tveggja. Þetta mun lækka sóknarkostnað á hverja veidda einingu vegna minna mannahalds og gríðarlegs olíusparnaðar. Einnig styttist úthaldstími, en það er þó aðallega vegna gjöfulli miða, sem eru beinn afrakstur af fórnum fyrri ára við uppbyggingu veiðistofnanna. Að sjálfsögðu eiga hinir sömu nú að njóta eldanna, sem kveiktu þá.
Fjöldi launþega í sjávarútvegi náði hámarki þessarar aldar árið 2013 og nam þá 10´200 manns, en árið 2017 er búizt við, að meðalfjöldi launþega verði 8´500 í sjávarútvegi. Launþegum í greininni fækkaði um 600 á 12 mánaða skeiði á milli aprílmánaða 2016 og 2017. Þetta sýnir hraða breytinganna, sem nú ganga yfir.
Sem dæmi um tækniþróun togskipanna má taka frásögn Baksviðs Guðna Einarssonar á bls. 18 í Morgunblaðinu, 17. júní 2017, af nýjum skipum Vinnslustöðvarinnar:
"Skrokklag nýju togaranna er með nýju sniði og skrúfurnar þær stærstu, sem þekkjast, miðað við vélarafl. Skrúfan er 4,7 m í þvermál. Með því á að stytta togtímann og nýta vélaraflið til hins ýtrasta. Áætlað er, að eldsneytissparnaður verði allt að 40 % m.v. hefðbundna togara. Togararnir geta dregið tvö troll samtímis og hafa þannig 60 % meiri veiðigetu en togari með eitt troll. Ganghraði Breka í reynslusiglingu var 14 sjómílur."
Þetta eru byltingarkenndar breytingar, og við þessar aðstæður fyllir fiskeldi nú upp í skarð, sem myndast við hagræðingu í sjávarútvegi, heldur uppi atvinnustigi og snýr jafnvel við óheillavænlegri margra ára íbúaþróun, eins og á Vestfjörðum. Atvinnugreinin er þó ekki gallalaus frekar en önnur atvinnustarfsemi. Mestar áhyggjur stafa af stroki laxa úr sjókvíaeldiskerum. Hafrannsóknarstofnun hefur nú lagt fram sínar ráðleggingar um stefnumörkun í greininni, og eru þær nauðsynlegt vegarnesti. Þar gætir eðlilegrar varfærni nú á byrjunarstigum mikils vaxtarhraða, þar sem ráðlagt hámarkseldi á Vestfjörðum er 50 kt/ár og 20 kt/ár á Austfjörðum. Með meiri reynslu af sjókvíaeldinu og aukinni þekkingu á starfseminni og umhverfisáhrifum hennar verður grundvöllur til endurskoðunar á þessum tillögum. Þær fela í sér talsvert vaxtarsvigrúm fyrir sjókvíaeldi á laxi eða sjöföldun m.v. núverandi framleiðslustig.
Almenningur hefur of lítið verið fræddur um líkindi seiðastroks úr nýrri gerð sjóeldiskvía og afleiðingar þess af vísindamönnum, og upphrópanir og staðleysur hafa sett of mikinn svip á umræðuna. Þess vegna var grein Arnars Pálssonar, erfðafræðings, í Fréttablaðinu 8. júní 2017, vel þegin. Hann nefndi hana:
"Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna"
og henni lauk þannig:
"Niðurstöður Bolstad [Geir Bolstad er norskur vísindamaður á sviði erfðafræði - innsk. BJo] og félaga eru óvissu háðar, eins og allar rannsóknir á náttúrunni. En spurningin er ekki lengur, hvort gen frá eldisfiski hafi áhrif á villta laxastofna, heldur hversu mikil og hvers eðlis þau eru. Stóra spurningin er: leiðir erfðablöndunin til hnignunar og útdauða villtra stofna ? [Það er nánast útilokað, að slíkt geti gerzt hérlendis, því að laxeldi í sjókvíum er bannað meðfram ströndinni, þar sem helztu laxveiðiár landsins renna í sjó fram. - innsk. BJo]
Það er full ástæða til að endurskoða laxeldi í sjókvíum hérlendis. Sérstaklega þar sem íslenzkir laxar eru fjarskyldir eldislaxi. Ástæðan er sú, að flæði gena frá eldisfiskum getur breytt eiginleikum villtra íslenzkra laxastofna, gert þá minna hæfa í lífsbaráttunni og dregið úr getu þeirra til að þróast í framtíðinni.
Frændur vorir í Noregi og vinir í Síle hafa brennt sig á flestu, sem hægt er í laxeldi. Vonandi berum við gæfu til að læra af mistökum þeirra og fórna ekki lífríki vatna og hafs fyrir ódýrar og skammsýnar lausnir í laxeldi."
Það vildi okkur Íslendingum til happs, að iðnaði óx ekki fiskur um hrygg hérlendis fyrr en tækniþróunin var komin svo langt, að hægt var að koma við árangursríkum mengunarvörnum. Hið sama á við um laxeldið. Þar er nú að ryðja sér til rúms norsk hönnun sjókvía, sem mjög (a.m.k. um eina stærðargráðu)hefur dregið úr stroki laxa þar. Jafnframt eru settar upp neðansjávareftirlitsmyndavélar, og fylgzt er með myndum frá þeim allan sólarhringinn. Þannig er hægt að bregðast strax við stroki og fanga laxinn áður en hann sleppur upp í árnar.
Með innleiðingu nýrrar tækni á þessu sviði er búið að draga úr líkum á stroki laxaseiða, sem eru reyndar ekki orðin kynþroska, og jafnframt búið að innleiða mótvægisaðgerðir við stroki. Allt þetta hefur minnkað líkur á stroki upp í árnar, sem blekbóndi mundi ætla, að sé nálægt 1 ppm við eldi samkvæmt gildandi norskum staðli um sjókvíaeldi, þ.e. með 95 % vissu má ætla, að af einni milljón seiða á einu eldissvæði sleppi að jafnaði eitt upp í árnar í viðkomandi firði á ári. Slíkt sleppihlutfall er skaðlaust fyrir íslenzka náttúru. Reynslutölur og/eða áætluð gildi um þetta þurfa endilega að birtast frá eldisfyrirtækjunum, samtökum þeirra eða eftirlitsaðilunum, því að framtíð fyrirtækjanna veltur á frammistöðu þeirra í þessum efnum.
Hins vegar á sér stað annars konar og afar markverð þróun á sviði fiskeldis, sem nánast útilokar þessa áhættu. Þar er átt við fiskeldi í landkerum. Á Íslandi njóta þau jarðhita, jafnvel affallsvatns, en raforkunotkun er talsverð vegna dælingar, og þurfa slík fyrirtæki langtímasamning um heildsöluverð á raforku. Virðisaukaskattur af jarðvarma og raforku er endurgreiddur til útflutningsiðnaðar.
Matorka hefur hefur hafið eldi á bleikju og laxi á Reykjanesi og áformar að framleiða 3,0 kt/ár f.o.m. 2018. Fyrirtækið rekur seiðaeldisstöð að Fellsmúla í Landssveit. Framleiðslugetan þar er 1,0 M (milljón) seiði á ári. Fyrri áfangi Reykjanesstöðvarinnar getur framleitt 1,5 kt/ár af sláturfiski í 6 kerum.
Afurðaverðið á slægðri bleikju um þessar mundir er um 800 ISK/kg og um 1710 ISK/kg af flökum. Fyrir laxinn fæst enn hærra verð.
Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku, sagði eftirfarandi í samtali við Guðjón Guðmundsson hjá Fiskifréttum á bls. 5, fimmtudaginn 22. júní 2017,:
"Við erum með samning við HS Orku um nýtingu á affallsvarma, sem gerir eldisstöðina hérna einstaka á heimsvísu, og erum aðilar að Auðlindagarðinum [það er fjölnýting á jarðgufu, sem HS Orka aflar í Svartsengi og víðar og er til stakrar fyrirmyndar - innsk. BJo]. Íslendingar eru með einstaka möguleika á landeldi, sem til að mynda bjóðast ekki í öðrum löndum [undirstr. BJo]."
Laxeldi í sjókvíum er þröngur stakkur skorinn, þar sem Suðurströndin hentar ekki, Vesturströndin sunnan Látrabjargs er lokuð laxeldi í sjó og sömuleiðis Norðurströndin, nema Eyjafjörður. Nýleg ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar útilokar líka Ísafjarðardjúp, og Stöðvarfjörð frá laxeldi og leggst gegn aukningu í Berufirði. Þótt burðarþol Vestfjarða, Eyjafjarðar og Austfjarða hafi áður verið lauslega áætlað 200 kt/ár af fiskmassa í sjókvíum, er ólíklegt, að sláturmassinn úr sjókvíum fari nokkurn tíma yfir 100 kt/ár hérlendis af umhverfisverndarástæðum, og frumráðlegging Hafró er 70 kt/ár í sjóeldiskvíum. Þetta verður þó hægt að bæta upp hringinn í kringum landið, þar sem jarðhita og hagstætt rafmagn er að hafa, með fiskeldi í landkerum. Líklegt er, að téð frumráðlegging Hafró um starfsleyfi fyrir aðeins helmingi þeirrar framleiðslugetu, sem þegar hefur verið sótt um, muni flýta fyrir þróun landkereldis hérlendis.
Til að ná framleiðslugetu sláturfisks 100 kt/ár á landi þarf 400 framleiðsluker á stærð við kerin, sem Matorka notar nú.
Á Austfjörðum fer nú fram ánægjuleg uppbygging laxeldis, sem kemur sér vel fyrir byggðir þar, sem stóðu höllum fæti vegna hagræðingar innan sjávarútvegsins, sem talin var nauðsynleg til að halda velli í samkeppninni. Þann 20. júní 2017 birtist um þetta frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu,
"10 þúsund tonna laxaframleiðsla hafin":
"Áfangar nást þessa dagana hjá austfirzku laxeldisfyrirtækjunum. Nýjar og öflugar sjókvíar hafa verið settar upp í Berufirði og Reyðarfirði og norskt leiguskip, svokallaður brunnbátur, er að flytja laxaseiði frá seiðastöðvum fyrirtækjanna í Þorlákshöfn. Á bilinu 1800 - 1900 þúsund seiði eru sett út þessa dagana, og mun það skila um 10 þúsund tonnum af laxi í fyllingu tímans."
Þó að hér sé um dágott magn að ræða, er það samt of lítið fyrir hagkvæman rekstur. Einingarkostnaður verður of hár fyrir samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði, nema hagkvæmni stærðarinnar fái að njóta sín. Þess vegna sækjast laxeldisfyrirtækin eftir starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir auknu magni. Má ætla, að stærð eldisfyrirtækjanna hérlendis nái nauðsynlegu lágmarki um 2020 og verði þá slátrað a.m.k. 40 kt. Stjórnvöld verða að átta sig á þessu, þ.e. nauðsyn á að ná hagkvæmni stærðarinnar, og það eru ábyrgðarlausar úrtölur hjá sjávarútvegs- og landúnaðarráðherra, að nú þurfi að hægja á leyfisveitingaferlinu, enda væru slík stjórnvaldsinngrip óleyfileg samkvæmt núgildandi lögum. Væri ráðherranum nær að leggja hönd á plóg við þróun sanngjarns afgjaldskerfis fyrir afnot af náttúruauðlind við strendur landsins, eða ætlar hún kannski að innleiða uppboð á téðri auðlind ?
Eftir að "krítískum massa" er náð hérlendis, e.t.v. um 60 kt/ár í slátrun hjá öllum sjókvía eldisfyrirtækjunum, má þó segja, að 5 %- 15 % árlegur vöxtur sé eðlilegur upp í það gildi, sem talið verður verjanlegt út frá rekstrarreynslunni, stroklíkindum og metnu burðarþoli fjarða. Þetta gildi verður líklega 70 - 100 kt/ár í sjókvíum hérlendis.
"Bæði fyrirtækin [Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi - innsk. BJo] hafa verið að byggja sig upp, tæknilega. Hafa [þau] keypt stóra fóðurpramma og þjónustubáta.
Fiskeldi Austfjarða er með aðstöðu á Djúpavogi og slátrar þar sínum laxi. Laxar hafa komið sér upp starfsstöð á Eskifirði. Ekki hefur verið ákveðið, hvar fiskinum verður slátrað. Laxar hafa leyfi til framleiðslu á 6 þúsund tonnum í Reyðarfirði og fullnýta það leyfi í ár. Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður og einn stofnenda, segir, að sótt hafi verið um leyfi til stækkunar, og vonast hann til þess, að það fáist, þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingunni á næsta ári."
Það er brýnt, að stjórnvöld virki ekki sem dragbítar á þessa mikilvægu starfsemi fyrir byggðirnar og þjóðarhag. Fyrirtækin þurfa sem fyrst að fá vitneskju um það magn, sem í byrjun er ætlunin að leyfa á hverjum stað ásamt fyrirhugaðri aukningu, og þau skilyrði, sem leyfunum fylgja, ásamt auðlindagjaldinu, sem þau mega búast við að greiða, að mestu til viðkomandi sveitarfélaga, vonandi.
Frétt Helga Bjarnasonar um Fiskeldi Austfjarða, sem birtist á bls. 26 í Morgunblaðinu, 30. júní 2017, lauk þannig:
"Fiskeldi Austfjarða er tilbúið til áframhaldandi stækkunar. [Fyrirtækið] er vel fjármagnað og hefur aðgang að nauðsynlegri þekkingu, að sögn Guðmundar, og markaður fyrir laxaafurðir er mjög góður. "Við viljum halda áfram fjárfestingum, ráða fleira fólk og byggja fyrirtækið frekar upp. Til þess þurfum við skýra framtíðarsýn [stjórnvalda]. Allir, sem að fiskeldi koma, þurfa að ganga í takti", segir Guðmundur Gíslason."
Nú er framtíðarsýn stjórnvalda hérlendis á laxeldi í sjó að fæðast. Sumir hafa gagnrýnt erlenda hlutdeild í fiskeldi á Íslandi. Afstaða þeirra einkennist af þröngsýni fremur en þekkingu á gildi beinna erlendra fjárfestinga. Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir mikilvægi nýrrar tækni- og stjórnunarþekkingar, sem jafnan berst með erlendum fjárfestum, auk fjölþættra markaðssambanda þeirra á birgja- og söluhlið viðskiptanna. Það er hörmung að hlýða á steinrunninn málflutning um brottflutning arðs erlendra hluthafa. Þá gleymist, að allt fé kostar og það er sanngjarnt, að sá, sem hættir fé sínu til atvinnustarfsemi hér, njóti eðlilegrar ávöxtunar á sínu fé, ekki síður en aðrir. Í áhættustarfsemi á borð við laxeldi er allt að 15 %/ár eðlileg ávöxtunarkrafa af eigin fé, en á uppbyggingarskeiði verður ávöxtunin mun minni eða engin, af því að fiskeldi er fjármagnsfrek starfsemi. Íslenzkar lánastofnanir voru ófúsar að lána innlendum aðilum til uppbyggingar fiskeldis eftir Hrun fjármálakerfisins, og þá var eðlilegt og líklega affarasælt að leita út fyrir landsteinana, enda er þar jafnframt tækniþekkingu á starfseminni að finna.
Ætli sé á nokkurn hallað, þótt sagt sé, að Arnarlax sé leiðandi fiskeldisfélag á Vestfjörðum. Í 200 mílum Morgunblaðsins, 31. maí 2017, gat að líta eftirfarandi frásögn Skúla Halldórssonar:
"Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur tekið í notkun nýjan og öflugan fóðurpramma, sem borið getur 650 t af fóðri. Til samanburðar geta hinir tveir prammarnir í eldinu, sem fyrir voru, aðeins borið 300 t hvor.
Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir í samtali við Morgunblaðið, að kaupin á prammanum séu liður í öruggri sókn fyrirtækisins, sem stofnað var árið 2009.
"Þetta er merki um, hvað íslenzkt fiskeldi er orðið faglegt og er að nota nýjustu tækni og tól til uppbyggingar á greininni hér á Íslandi", segir Víkingur.
Pramminn var smíðaður í Eistlandi og kostaði MISK 300 að sögn Víkings. Allt er til alls þar um borð, eldhús og káetur auk stjórnstöðvar með kraftmiklar ljósavélar. [Starfsemi á borð við þessa er alveg kjörið að rafvæða og jafnvel að vera með rafstreng úr landi. - innsk. BJo]
Arnarlax mun þó ekki láta þar staðar numið. "Við reiknum með, að við smíðum annan pramma af svipaðri stærð. Það sýnir bara, hversu mikil uppbygging er í þessum geira, sem er í raun orðinn stór iðnaður hér á landi", segir Víkingur.
Pramminn verður settur niður í Tálknafirði síðar í vikunni af sérútbúnu skipi, sem Arnarlax leigir að utan til verksins.
"Það er mjög öflugur vinnubátur, sem er m.a. með kafbát til að skoða allar festingar. Allt er þetta gert eftir ströngustu kröfum, því að það er það, sem við viljum gera til að koma í veg fyrir hvers kyns óhöpp og slys."
Hérlendis eru hannaðir og smíðaðir fjarstýrðir dvergkafbátar. Það er ekki ólíklegt, að það muni þykja hagkvæmt að fá slíkan dvergkafbát til eftirlits með eldiskvíum í sjó. Viðurlög við stroki ógeldra eldislaxa úr sjókvíum þurfa að vera þungbær rekstraraðilum, svo að þeir sjái sér augljósan hag í að fjárfesta í traustasta búnaðinum og að hafa með honum reglubundið, strangt eftirlit, þar sem beitt sé tækni, sem gefur kost á aukinni nákvæmni við eftirlitið.
""Við [hjá Arnarlaxi] slátrum 10 kt á þessu ári. Héðan frá Bíldudal flytjum við því 10 kt af ferskum laxi út um allan heim."
Stór hluti laxins fer út til Bandaríkjanna og er seldur í Whole Foods-verzlunum þar í landi, en sömuleiðis er hann fluttur út til Evrópu og Asíu."
Þessi markaðssetning gefur væntanlega hæsta mögulega verðið. Það hefur undanfarið verið um 1000 ISK/kg, en verðið hefur ekki alltaf verið svona hátt. Árið 2015 fór að gæta minnkandi framboðs af völdum sjúkdóma í laxeldi í Noregi og í Síle, og árið 2016 nam samdráttur framboðs 7 % frá hámarkinu. Afleiðingin var 50 % hærra verð en 2014 í USD talið. Venjulegt verð hafði með öðrum orðum verið undir 700 ISK/kg að núviðri lengst af. Framlegðin er af þessum sökum há um þessar mundir, og það kemur sér vel fyrir laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem standa í miklum fjárfestingum við uppbygginguna eða fyrir a.m.k. 4,0 miaISK/ár.
Sjórinn við Ísland er kaldari en víðast hvar, þar sem laxeldi í sjó er stundað, svo að fiskurinn verður hægvaxnari en ella, en á móti kemur, að hann er hraustari og þarf jafnvel ekki lyfjagjöf. Takmörkuð eða engin lyfjagjöf ætti að verða eitt af skilyrðum starfsleyfis.
Hérlendis hlýtur að verða þróun í þá átt, að innlendir framleiðendur til sjós og lands anni þörfum innlends fiskeldis fyrir fóður. Úr repjuræktun hérlendis á að verða unnt að vinna 50 kt/ár af laxafóðri sem aukaafurð við repjuolíuvinnslu, en fiskeldið hérlendis gæti þurft á að halda 200 kt/ár af fóðri í sjókvíum og landkerum. Hér er kominn traustur markaður fyrir íslenzka fiskimjölsframleiðendur, ef þeir fara í ákveðið þróunarstarf fyrir þennan markað:
"Fóðrið er allt fengið að utan að sögn Víkings, þar sem enga fóðurverksmiðju er að finna á Íslandi, sem búið getur til fóður af réttum gæðum.
Styrking ISK hefur því ekki haft jafnslæm áhrif á eldið og raun ber vitni hjá útgerðunum.
"Fóðrið er náttúrulega stærsti kostnaðarliðurinn, og þetta kemur ekki eins hart niður á okkur og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum. En þetta [gengið] hefur samt talsvert að segja.""
Kjartan Ólafsson er stjórnarformaður Arnarlax. Eftir honum er haft í Markaði Fréttablaðsins, 29. júní 2017, að framlegð, EBITDA, árið 2017 sé áætluð um MEUR 20 eða um miaISK 2,3. Ætla má, að þetta jafngildi ríflega 20 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem er dágóð framlegð, sem gæti staðið undir auðlindagjaldi, t.d. allt að 5 % af framlegð.
Hins vegar þurrkast framlegðin með öllu út og myndast tap af rekstrinum, ef afurðaverðið lækkar um 12 %. Í ljósi þess, að nú er tímabundið yfirverð á markaðinum vegna skorts á laxi, þá er bráðnauðsynlegt fyrir þetta fyrirtæki, og önnur í greininni, að lækka hjá sér einingarkostnað, þ.e. að auka framleiðnina. Mest munar þá um framleiðsluaukningu, eins og vant er:
"Kjartan segir fyrirtækið stefna að því að auka framleiðsluna í 12,5 kt/ár á næstu tveimur árum. Leyfamálin séu þó þröskuldur. Til þess að hægt sé að byggja upp meiri afkastagetu í seiðaframleiðslu, þurfi stjórnvöld að skýra stöðu leyfamála og útgáfu nýrra leyfa til eldis."
Það er ótímabært og beinlínis skaðlegt að hægja sérstaklega á útgáfu laxeldisleyfa fyrr en þau nema um 60 kt/ár til slátrunar. Hámarkslífmassi í kvíum er meiri en sláturmassinn. Það er jafnframt ljóst, að leyfi fyrir 60 kt/ár-100 kt/ár ætti ekki að veita fyrr en á tímabilinu 2020-2025, að öðru óbreyttu, þegar reynsla hefur fengizt við íslenzkar aðstæður af hinni nýju tækni við sjókvíaeldið, sem nú er verið að innleiða, og þegar haldgóð tölfræði er fyrir hendi um umhverfisáhrifin, þ.á.m. strokin úr kvíunum.
1.6.2017 | 14:02
"Costco-áhrifin"
Í viku 21/2017 hófst eldsneytissala og önnur vörusala Costco í Kauptúni, Garðabæ. Blekbóndi telur hafa orðið vatnaskil í viðskiptasögu Íslands með þessum atburði.
Alla sína tíð hafa Íslendingar mátt búa við litla samkeppni söluaðila neyzluvarnings og fjárfestingarvara í landinu. Að sumu leyti hefur áhugaleysi birgja stafað af smæð markaðarins og ýmsum viðskiptahömlum, en kaupmáttur þessa markaðar hefur vaxið mikið og hömlum verið aflétt. Afleiðingar takmarkaðrar samkeppni voru hátt vöruverð, lítið vöruúrval og oft takmörkuð gæði. Um þverbak keyrði í þessum efnum á einokunartímanum. Samvinnuhreyfingin hélt um tíma uppi samkeppni við kaupmenn, en hún dó drottni sínum af innanmeinum, eins og kunnugt er. Kaupfélagshugsjónin stóðst innlenda framtaksmanninum ekki snúning, og danski kaupmaðurinn lagði upp laupana.
Hingað hafa hvorki sótt erlendir bankar né neyzluvöruseljendur á smásölumarkaði fyrr en nú, að tuskusalar og hin alþjóðlega Costco-samsteypa opna hér útibú. Hér hefur ríkt fákeppni og verðlag haldizt of hátt af þeim sökum. Til að neytendur hafi hag af markaðslögmálunum, verður að ríkja raunveruleg samkeppni, en ekki sýndarsamkeppni.
Nú hillir undir raunverulega samkeppni á sviði neyzluvarnings og ýmissar fjárfestingarvöru heimilanna almenningi til hagsbóta, einnig þeim á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem verzla annars staðar. Skammtímaáhrifin eru minni ös á annatímum í "gömlu" verzlununum og lækkað vöruverð þar.
Hvernig bregðast álitsgjafar við þessum tíðindum ? Almennt er þessu framfaraskrefi fagnað, en þó heyrist fýlutónn úr herbúðum vinstri manna. Þeir finna nýrri samkeppni allt til foráttu ? Hvernig skyldi standa á því ?
Skýringarnar liggja grafnar djúpt í hugskoti vinstri mannsins. Að vissu leyti er glæp auðvaldsins stolið frá honum. Hatur vinstri manna á kaupmönnum hérlendis hefur lengi verið við lýði, og ekki dró úr því, þegar samvinnuhreyfingin varð undir í samkeppninni, nema á skagfirzka efnahagssvæðinu. Hatrið hefur verið nært á meintu okri kaupmanna, sem neytendur geta nú sýnt vanþóknun sína á með fótunum. Ánægjan með ríkjandi þjóðfélagsskipulag er líkleg til að vaxa við þessar aðstæður, og ekki mun uppdráttarsýki vinstri armsins dvína við það.
Önnur hlið á fýlunni út í Costco er, að þar fer bandarísk verzlunarsamsteypa, jafnvel sú næststærsta þar í landi, og þar með telja kommar, að bandaríska auðvaldið hafi náð að læsa klóm sínum í íslenzka neytendur. Það telur "Íslandskomminn" vera áfall fyrir vígstöðu sína. "Íslandskomminn" hugsar sem svo, að nú muni bandaríska auðvaldið maka krókinn á íslenzkri alþýðu og flytja allan arðinn úr landi, sem sé alger frágangssök, og þess vegna beri að berjast gegn þessu fyrirbrigði með kjafti og klóm. Vindmylluriddararnir láta ekki að sér hæða.
Þetta er sama vitleysan og haldið hefur verið fram gagnvart allri erlendri atvinnustarfsemi á Íslandi. Það er horft framhjá meginatriði málsins, að hinir erlendu fjárfestar, í þessu tilviki Costco, hafa fjárfest talsvert, sumir mikið á íslenzkan mælikvarða, fjármagn kostar, og þess vegna eiga hinir erlendu fjárfestar rétt á að njóta arðs af fjárfestingum sínum. Þeir greiða há opinber gjöld vegna fjárfestingarinnar og rekstrarins, og sömu sögu er að segja af starfsmönnum þeirra hérlendis, þótt í tilviki Costco muni vera margir Bretar a.m.k. fyrst um sinn. Það léttir á þöndum atvinnumarkaði á Íslandi. Nú reynir á utanríkisráðuneyti Íslands að gera vitrænan samning við brezku ríkisstjórnina um frelsin fjögur, sem taki við, þegar Bretar ganga úr Brüssel-hnappheldunni.
Maður er nefndur Svavar Gestsson, lærisveinn Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra Þjóðviljans og ráðherra, og hefur stundum verið kenndur við erlendan sparnaðarreikning hins fallna Landsbanka frá 2008, sem Svavar samdi um, að íslenzkir skattgreiðendur skyldu ábyrgjast greiðslur á. Var sá gjörningur alveg dæmigerður fyrir dómgreindarleysi og getuleysi vinstri forkólfanna, þegar til stykkisins kemur. Verður hann lengi í minnum hafður sem víti til varnaðar. Er saga vinstri manna á Íslandi e.t.v. eitt samfleytt feigðarflan ?
Líklega er téður Svavar eins konar Nestor vinstra liðsins á Íslandi, og af því má ráða, hvers konar lið þar er á ferðinni. Þar leiðir blindur haltan. Seint verður sagt, að sá söfnuður stigi í vitið. Téður Svavar mun hafa tjáð sig með fýlufullum hætti um opnun Costco verzlunarinnar í Kauptúni. Í ljósi skýringanna, sem hér hafa verið hafðar uppi um þessa fjandsamlegu afstöðu gegn hagsmunum almennings, þarf engan að undra, að hljóð komi úr þessari átt. Marxistum margra gerða er sama um hagsmuni alþýðunnar. Það, sem skiptir þá máli, er, að marxistískt þjóðskipulag sé við lýði, með öðrum orðum ríkiseinokun.
Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gat ekki dulið önuglyndi sitt og öfuguggahátt, þegar hún gaf eftirfarandi ritaða umsögn um opnun Costco:
"Vond áhrif á vöruverð, skipulag og samgönguhætti og mannlíf í byggð til lengri tíma, og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinda ofan af henni."
"Nomenklatúran" telur sem sagt samkeppni hafa vond áhrif á vöruverð. Það er ágætt fyrir almenning að fá það á hreint, að ef fyrirtæki neyðast til að lækka vöruverð til að missa ekki alla viðskiptavinina til samkeppnisaðilanna, þá eru það "vond áhrif á vöruverð" að dómi ráðandi afla lengst til vinstri í stjórnmálunum. Þetta mat hlýtur að stafa af því, að Sóley Tómasdóttir og skoðanasystkini hennar óttist, að einhverjir kaupahéðnar leggi upp laupana. Það er hins vegar lögmál markaðarins, að hinir hæfustu lifa af. "Nómenklatúran" vill auðvitað ráða því, hverjir lifa og hverjir ekki. Fáir telja, að tilveran yrði betri, ef málum væri þannig fyrir komið.
Sóley telur, að "skipulag og samgönguhættir" líði fyrir Costco. Það fellur ekki að geðþótta hennar, að Costco sé í deiliskipulagi Garðabæjar (hafnaði ekki Sóley og skoðanasystkini hennar um umsókn Costco um lóð í Reykjavík á sínum tíma ?) og að fólk aki þangað á sínum einkabíl, birgi sig upp af vörum og fylli eldsneytistank einkabifreiðarinnar af benzíni eða dísilolíu í leiðinni, nú eða hlaði rafgeyma rafmagnsbílsins. Þetta er ekki mögulegt í draumaheimi Sóleyjar, þar sem almenningssamgöngur eru alfa & omega.
Það er ekki ljóst, hvers konar sveitarómantík býr að baki fortíðarþrá eftir "mannlífi í byggð". Það er nokkuð ljóst, að sveitafólk, sem leið á "í bæinn", þ.e. Garðabæ, mun birgja sig upp, eins og það getur, og fara langt með að borga ferðakostnaðinn með þeim hætti.
Að lokum hugsar Sóley Tómasdóttir til byltingarinnar, sem á að koma höfðingjum vinstri manna, Marxistunum, til valda. Þeir munu þurfa að byrja á því "að vinda ofan af vitleysunni". Þá munu þeir loka fyrirtækjum alþjóðlegs auðvalds og þjóðnýta önnur, reka almenning með harðri hendi upp í strætisvagna og einoka fjölmiðlana.
Að verða vitni að Costco-áhrifunum á vinstri menn er jafngildi þess að líta ofan í ormagryfju. Fólk, sem snýr öllu á haus, getur ekki gengið heilt til skógar.
20.5.2017 | 17:47
Úr heimi Marxismans
Marxisminn er löngu dauður, en náhirð hans lætur samt öllum illum látum til að láta líta út fyrir annað. Engu er líkara en hún viti ekki af stjórnmálaþróuninni erlendis. Á Íslandi lýsir þessi fáránlega hegðun sér t.d. með fordæmingu á einkarekstri í heilbrigðisgeiranum og í menntageiranum.
Verktakar selja ríkinu þjónustu sína á fjölmörgum sviðum. Hvers vegna umturnast "náhirð Marxismans", þegar verktaki býðst til að létta undir með Landsspítalanum og létta kvöldu fólki lífið með því að bjóða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með bæklunarlækningum og allt að 5 sólarhringa sjúkrahússlegu í kjölfarið með 5 % afslætti m.v. kostnaðinn á þjóðarsjúkrahúsinu ?
Svandís Svavarsdóttir, Alþingismaður, lýsti því yfir í útvarpsþætti á Gufunni 20.05.2017, að hún vildi ekki, að menn auðguðust af að þjóna sjúklingum. Hvílík firra og fordómar ! Þar með er hún að lýsa því yfir, að hún vilji ekki, að læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir í sjúkrageiranum hafi góð laun. Það hefur einmitt komið fram, að þessar stéttir á Íslandi hafa hæstu laun stéttarbræðra og -systra á Norðurlöndunum. Það hefði aldrei orðið með Marxisma Svandísar í Stjórnarráði Íslands. Heldur vill hún, að sænskir læknar auðgist á þjónustu við Íslenzka sjúklinga. Það er ekki heil brú í málflutningi "náhirðar Marxismans" á Íslandi. Hún er andlega helsjúk.
Þessi fordómafulla og kaldrifjaða afstaða "náhirðar Marxismans" er enn öfugsnúnari í ljósi þess, að náhirðin yppir öxlum yfir því, að sjúklingar, sem beðið hafa aðgerðar í meira en þrjá mánuði (margir hafa beðið margfalt lengur) neyti réttar síns samkvæmt reglum EES og fari utan í aðgerð á einkasjúkrahúsi með a.m.k. 80 % hærri kostnaði en Sjúkratryggingar Íslands þyrftu að greiða Klíníkinni Ármúla.
Í nýlegum tilvikum af þessu tagi fóru sjúklingarnir til Svíþjóðar, sem einu sinni var vagga jafnaðarstefnunnar, sem er eins konar lýðræðisútgáfa af Marxisma. Þessi deyfða útgáfa Marxisma reyndist þó hagkerfinu sænska þung í skauti, skattar lömuðu einkaframtakið, enda urðu þeir um tíma hinir hæstu á byggðu bóli, og ríkissjóður sökk í skuldir, svo að lánshæfnin hrundi. Hagkerfið var stopp, þegar þessum kerfiskörlum og -kerlingum var hent á haugana í kosningum.
Borgaralegu flokkarnir endurreistu Svíþjóð með sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda og sparnaði, t.d. með því að leyfa einkaframtak á sviðum, sem ríkið hafði áður einokað, s.s. í heilbrigðisþjónustu og menntun. Árangurinn af þessari nýbreytni var ljómandi góður, aukin gæði, stytting eða útrýming biðlista og lækkun kostnaðar fyrir ríkissjóð á hvern sjúkling og í heild.
Það er gjörsamlega óþolandi, að "náhirð Marxismans" hérlendis komist upp með það að koma í veg fyrir sams konar þróun í átt til fjölbreyttra rekstrarforma á þjónustusviðum ríkisins. Íslendingar verða að athlægi fyrir fíflaganginn að senda sjúklinga utan í aðgerðir, sem bæði mannskapur og aðstaða er til að framkvæma hér heima. Það þarf nú á tímum að fara alla leið til Venezúela til að finna jafnviðundurslega stjórnarhætti. Er ekki réttast að senda Svandísi & Co. til Maduros, eftirmanns Chaves, honum til halds og trausts við að innleiða einræði í Venezúela, en það er endastöð Marxismans.
Það er engin hætta á því, að Landsspítalinn verði með einhverjum hætti undir í samkeppninni við einkaframtakið. Hann nýtur forskots sem háskólasjúkrahús, og samkeppnin mun leiða til þess, eins og á öðrum sviðum, að hver gerir það, sem hann er beztur í, þ.e. samkeppnin mun leiða til aukinnar sérhæfingar, sem bæði mun auka gæði og afköst. Öll sú þróun er sjúklingum og skattborgurum í vil.
Thomas Piketty heitir Frakki nokkur og falsspámaður, enda átrúnaðargoð "náhirðar Marxisma" allra landa. Hann skrifaði fyrir nokkrum árum bók, "Fjármagn á 21. öld", sem Hernando de Soto, hagfræðingur frá Perú, hefur tætt í sundur sem bölvaðan bolaskít.
Helzta kenning bókarinnar er þessi:
"fjármagn "býr til, með sjálfvirkum hætti, ósjálfbæran og órökréttan ójöfnuð", sem óumflýjanlegt er, að leiði yfir heimsbyggðina eymd, ofbeldi og stríðsátök, og mun halda áfram á sömu braut á þessari öld".
Þetta er kenningarlegt hálmstrá "náhirðar Marxismans" á okkar dögum. Með því eru réttlættir ofurskattar á fyrirtæki og einstaklinga ásamt sívaxandi ríkisumsvifum, m.a. í samkeppni við einkaframtakið, og einokun ríkisins, hvar sem henni verður við komið. De Soto hefur með vísindalegum rannsóknum sínum afhjúpað Piketty sem lýðskrumara og fúskara. Almenningur á Vesturlöndum hefur áttað sig á, að tími stéttastríðs er liðinn og jafnaðarstefnan er aðeins fyrir "búrókratana", enda passa þeir jafnan upp á, að "sumir séu jafnari en aðrir".
Hernando de Soto skrifaði 24. ágúst 2015 grein í Morgunblaðið,
"Fátæka fólkið gegn Piketty":
"Hingað til hafa gagnrýnendur Pikettys eingöngu gert tæknilegar aðfinnslur við meðferð hans á talnagögnum, en ekki hrakið þá pólitísku kenningu hans, sem er svo bersýnilega röng, að við stefnum öll til glötunar. Þetta veit ég, því að á undanförnum árum hafa rannsóknarhópar undir minni stjórn gert vettvangsrannsóknir í löndum, þar sem 21. öldin hefur einkennzt af eymd, ofbeldi og stríðsátökum. Það, sem við uppgötvuðum, var, að það, sem flest fólk vill í raun, er meira fjármagn frekar en minna, og það vill, að fjármagnið byggi á raunverulegum verðmætum frekar en sýndarauði."
Öfugt við það, sem Marxistar halda fram um meinta heimsveldisstefnu auðmagnsins, hafa vestræn fyrirtæki leyst hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum, svo að þetta fólk myndar nú nýja miðstétt, aðallega í austanverðri Asíu, hefur tök á að kosta menntun barna sinna, hefur efni á að ferðast um heiminn og er orðið meðvitað um rétt sinn. Afleiðingin er sú, að það er ekki lengur ótvírætt hagkvæmt fyrir vestræn fyrirtæki að framleiða vörur í þessum löndum, og þau eru þess vegna farin að flytja starfsemi sína heim. Þessi þróun hefur verið áberandi í Þýzkalandi undanfarin 5 ár og er ein af ástæðum góðs atvinnuástands þar. Donald Trump er aðeins að fylgja þróuninni, þegar hann hvetur bandarísk fyrirtæki til að flytja framleiðslustarfsemi sína, atvinnu og verðmætasköpun, heim.
Aftur að Hernando de Soto:
"Yfir tveggja ára tímabil höfum við tekið viðtöl við um helming þeirra 37 frumkvöðla, sem lifðu af eigin sjálfsmorðstilraunir, og við fjölskyldur þeirra. Kom í ljós, að allir voru þeir knúnir til að reyna að svipta sig lífi, því að það litla fjármagn, sem þeir áttu, hafði verið hrifsað af þeim.
Um 300 milljónir Araba búa við þessar sömu aðstæður. Við getum lært margt af þeim.
Í fyrsta lagi er fjármagnið ekki uppspretta eymdar og ofbeldis, heldur frekar vöntun á fjármagni. Versta form ójafnaðar er að eiga ekkert fjármagn.
Í öðru lagi: fyrir flest okkar, sem búum ekki á Vesturlöndum og erum ekki fangar hins evrópska flokkunarkerfis [við hagskýrslugerð], eru fjármagn og vinnuafl ekki náttúrulegir óvinir, heldur tvær samtvinnaðar hliðar á samfelldu ferli.
Í þriðja lagi er það aðallega vangetan við að afla sér fjármagns og geta varið eign sína, sem stendur í vegi fyrir því, að þeir fátæku geti bætt hag sinn.
Í fjórða lagi er það ekki eingöngu vestrænn hæfileiki, að einstaklingar bjóði valdamönnum byrginn. Bouazizi og hver og einn einasti af mönnunum, sem reyndu að svipta sig lífi fyrir málstaðinn, eru engu síður merkilegir en Charlie Hebdo."
Þarna greinir de Soto frá rannsóknum sínum á örlögum "arabíska vorsins", sem hófst í desember 2010 í Túnis og hefur því miður litlu sem engu skilað í auknum mannréttindum og einstaklingsfrelsi í Arabalöndunum, nema þá helzt í Túnis, hinni fornu Karþago.
Þessi lönd eru í heljarklóm argvítugra stjórnmálalegra trúarbragða, og prelátarnir eru eins konar andlegir fangelsisstjórar með heljartök á fólkinu. Á meðan svo er, mun svartnætti afturhalds, kvennakúgunar og einræðis halda aftur af þróun Arabalandanna. Það er himinn og haf á milli lifnaðarhátta Vesturlandamanna og Araba, þar sem hinir síðar nefndu flestir eru hlekkjaðir við trúarkenningar í miðaldamyrkri fáfræði, fordóma og kúgunar.
Það hefur fjarað undan efnahag olíuríkjanna í Arabaheiminum við helmingun olíuverðs og aukið framboð annars staðar frá. Ef samansúrrað einveldi sjeika og trúarhöfðingja grotnar niður, þegar þessi öfl hafa ekki lengur efni á að halda helmingi fólksins í sýndarvinnu með olíupeningum, þá mun eitthvað nýtt ná að rísa úr rústunum, verði eignarrétturinn tryggður. Hann er alls staðar undirstaða þess, að almenningur komist til bjargálna og að framtaksmenn nái að rífa upp lífskjörin með frumkvæði sínu og dugnaði.
Óli Björn Kárason (ÓBK) er skeleggasti baráttumaður íslenzka framtaksmannsins á Alþingi um þessar mundir. Hann er jafnframt óþreytandi á ritvellinum, þar sem hann bregður beittum brandi sínum af vígfimi og gerði t.d. sem fyrrverandi ritstjóri Þjóðmála og Viðskiptablaðsins á þeim vettvöngum. Óli Björn birti miðvikudaginn 3. maí 2017 eina af sínum betri greinum í Morgunblaðinu,
"Óvild í garð framtaksmannsins".
Hún hófst þannig:
"Sjálfstæði atvinnurekandinn á enn undir högg að sækja. Það hefur ekki tekizt að hrinda atlögunni, sem staðið hefur yfir linnulítið í mörg ár. Fjandskapur ríkir gagnvart einkaframtakinu og það gert tortryggilegt. Árangur í rekstri er litinn hornauga.
Á Íslandi starfa þúsundir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Eigendur hafa sett allt sitt undir, en hafa aldrei farið fram á að njóta sérréttinda; aðeins, að sanngirni sé gætt og regluverk ríkis og sveitarfélaga sé stöðugt."
Það vantar mikið upp á, að stöðugleika hafi verið gætt að hálfu yfirvalda undanfarin ár. Yfir 100 skattalagabreytingar á niðurlægingarkjörtímabilinu 2009-2013 og langflestar til hækkunar, t.d. á tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga, fjármagnstekjuskatti og tryggingagjaldi, og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra er að heykjast á að standa við handsal forvera síns í starfi um áfangaskiptar lækkanir hins íþyngjandi tryggingagjalds nokkuð jafndreift yfir kjörtímabilið.
Hagstjórnin hefur ekki ráðið við hömlulausa styrkingu ISK, sem nú er í hæstu hæðum, og skráning hennar þar er gjörsamlega ósjálfbær, því að fyrirtæki, sem háð eru verðlagningu á erlendum mörkuðum, ráða ekki við þetta gengi gjaldmiðilsins. Það er a.m.k. 20 % of hátt skráð til að útflutningsatvinnuvegirnir séu samkeppnisfærir og skili lágmarksframlegð fyrir vöxt og viðgang sinn.
Þetta þýðir, að framlegð framtaksmannsins þurrkast upp, þótt stærri fyrirtæki skrimti með um 15 % framlegð, eins og var nálægt meðaltali hjá sjávarútveginum 2016. Við þær aðstæður er fullkomlega eðlilegt að fella veiðigjöldin niður, en þá er hins vegar hækkun þeirra í farvatninu vegna mikillar afturvirkni reikningsaðferðar veiðigjaldanna og vegna tímabundins afsláttar vegna skulda, sem ekki er lengur við lýði. Að leggja auðlindagjald á fyrirtæki með undir 20 % framlegð er stórskaðlegt og má líkja við að éta útsæðið. Svandís Svavarsdóttir er hins vegar jafnkokhraust og áður og segir stjórnmálamenn skorta þrek til að sækja meira fé í ríkissjóð frá þeim, sem verðmætin skapa. Hver vill strita sem þræll fyrir Svandísi Svavarsdóttur, sem segir í raun við verðmætaskaparana: "allt þitt er mitt", og svo skammtar hún þeim hungurlús til að hanga á horriminni. Þessi hörmulegi hugsunarháttur lagði ríkt land, Venezúela, í rúst, svo að þar ríkir nú hungursneyð.
Til að kóróna stjórnleysið hefur sjávarútvegsráðherra, sem ekkert virðist fylgjast með starfsumhverfi greinarinnar, skipað nefnd, sem réttara væri að nefna rammpólitíska en þverpólitíska, sem virðist hafa það hlutverk að finna leiðir til að auka opinbera gjaldtöku af greininni. Þetta er svo óviðeigandi, að engu tali tekur. Það, sem er brýnt að gera í þessu sambandi, er að þróa samræmda aðferðarfræði til að meta náttúruauðlindir til fjár og samræmda reikniaðferð fyrir "auðlindagjald", sem runnið getur í ríkissjóð og/eða viðkomandi sveitarsjóð eftir atvikum. Grunnur að slíkri aðferðarfræði hefur verið kynntur á þessu vefsetri.
Hvað hefur ÓBK að skrifa um verktöku fyrir Sjúkratryggingar Íslands ?:
"Í þingsal er alið á fjandskap í garð einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. Margir fjölmiðlungar eru duglegir við að sá fræjum tortryggni og óvildar í garð þeirra, sem hafa haslað sér sjálfstæðan völl í heilbrigðisþjónustu. Góð reynsla af einkarekstri skiptir litlu, fjölbreyttari og betri þjónusta er aukaatriði, lægri kostnaður ríkisins (skattgreiðenda) er léttvægur. Stytting biðlista eftir aðgerðum er ekki aðalatriðið, heldur, að komið sé í veg fyrir einkarekstur, jafnvel þótt það leiði til þjóðhagslegrar sóunar og lakari lífskjara einstaklinga, sem þurfa að bíða mánuðum saman eftir úrlausn sinna mála. Fjandmenn einkarekstrar vilja miklu fremur senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi. Í stað þess að tryggja öllum landsmönnum góða og trausta heilbrigðisþjónustu er rekstrarformið mikilvægast - trúaratriði. Hinir "sanntrúuðu" leiða aldrei hugann að mikilvægi einkarekstrar s.s. á sviði heilsugæzlu, sérfræðiþjónustu, endurhæfingar og hjúkrunarheimila.
Óvild í garð einkarekinna skóla er sama markinu brennd, og afleiðingar eru minni samkeppni og fábreyttari valkostir. Kostnaðinn bera nemendur, kennarar og samfélagið allt."
Það er með ólíkindum, að ofangreind lýsing ÓBK af stöðu heilbrigðis- og menntamála á Íslandi árið 2017 skuli vera rétt. Blekbóndi fullyrðir, að Íslendingar skjóta sig í fótinn með því að láta "náhirð Marxismans", sem ÓBK af sinni skagfirzku hógværð kallar "hina sanntrúuðu", komast upp með að þvælast fyrir sjálfsögðum framfaramálum á sviði ríkisrekstrar á Íslandi.
Að Ísland skuli vera eftirbátur nágrannalandanna að þessu leyti er ekki lengur viðunandi, og hinn nýi heilbrigðisráðherra verður að setja á sig gula gúmmíhanzkann, sem var áður hans vörumerki, og taka af skarið um þessi mál með því að heimila Sjúkratryggingum Íslands að gera þá samninga við Klíníkina Ármúla og aðra faglega samþykkta aðila, sem duga til að vinna upp samkeppnisforskot nágrannanna að þessu leyti. Dráttur á því er þjóðfélagslegt sjúkdómseinkenni, molbúaháttur, sem stafar af einangrun landsins, sem er furðu mikil á vissum sviðum, þrátt fyrir allt.
Á Alþingi 15. maí 2017 tróð Katrín Jakobsdóttir í pontu og brýndi heilbrigðisráðherra að setja meira fé til Landsspítalans til að stytta hina hræðilega löngu biðlista eftir alls konar bæklunaraðgerðum. Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Yfirvinna á Landsspítalanum nam í fyrra 15 % af venjulegum vinnustundum. Það er a.m.k. 10 % of hátt, sem sýnir, að spítalinn er nú þegar yfirlestaður og getur ekki bætt við sig verkefnum með góðu móti. Öll viðbót kemur væntanlega niður á annarri starfsemi og verður mun dýrari en einkaframtakið getur boðið að arðgreiðslum meðtöldum. Það er til of mikils mælzt, að marxistar skilji, að allt fjármagn kostar, og arðgreiðslur eru aðeins ávöxtun þess fjár, sem einkaframtakið er búið að festa í aðstöðu til að geta þjónað viðskiptavinunum (sjúklingunum). Ef banna á arðgreiðslur, hverfa fjárfestingar. Jafnvel Maduro í Venezúela mun skilja þetta "the hard way" á undan "náhirð Marxismans" á Íslandi.
Blekkingariðja og ófrægingarherferð "náhirðar Marxismans" snýst um að telja fólki trú um þau margafsönnuðu ósannindi, að hagsmunir launþega og framtaksmannsins séu ósamrýmanlegir. Hið sanna er, að hagur beggja fer saman. Framtaksmaðurinn er háður góðu og hæfu starfsfólki til að standast samkeppnina við aðra framtaksmenn, svo að ekki sé nú minnzt á samkeppnina við rótgróin stórfyrirtæki á markaðinum. Framtaksmaðurinn laðar til sín gott og hæft fólk með því að gera vel við það. Það getur hann aðeins, ef honum vegnar vel.
Til að þetta gangi allt upp, þarf að ríkja efnahagslegt jafnvægi í landinu og skipting á verðmætasköpun á milli framtaksmannsins og hans fólks þannig, að fyrirtækið skili framlegð til fjárfestinga, afskrifta, arðgreiðslu og skattgreiðslna. Nauðsynlegt jafnvægi er ekki fyrir hendi nú, því að hið opinbera hrifsar til sín of stóra sneið af kökunni og gengi gjaldmiðilsins er of hátt fyrir getu framtaksmannsins, ef afurðaverð hans er háð verði á erlendum mörkuðum.
Samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins fara ekki aðeins saman hagur framtaksmannsins og landsins, heldur er hann aflvaki verðmætasköpunar í landinu.
ÓBK orðaði þetta vel og eftirminnilega í téðri Morgunblaðsgrein:
"Framtaksmaðurinn er og hefur alltaf verið drifkraftur framfara og þar með bættra lífskjara. Hann er aflvaki breytinga - kemur auga á tækifærin, býður nýja vöru og þjónustu, skapar störf og eykur lífsgæði samferðamanna sinna. Með nýrri hugsun og nýjum aðferðum ógnar framtaksmaðurinn hinum stóru og knýr hjól samkeppninnar."
Þjóðfélagskerfi, þar sem framtaksmaðurinn þrífst, hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og yfirburði gagnvart þjóðfélagskerfi Marxismans og daufari útgáfu hans, jafnaðarstefnunni. Það er tímaskekkja á Íslandi að ljá eyra við nágauli "náhirðar Marxismans" árið 2017.
17.5.2017 | 21:40
Loftslagsvá, kísill og orkuskipti
Forseti Bandaríkjanna (BNA) og ríkisstjórn hans virðast ekki gefa mikið fyrir Parísarsamkomulagið frá desember 2015, en öðru máli gegnir um Xi Jinping, forseta Kína, sem hringdi í Emmanuel Macron, stuttu eftir kjör hans sem forseta Frakklands, til að tilkynna, að hann stæði staðfastur við skuldbindingar Kínverja í Parísarsamkomulaginu, hvað sem liði afstöðu annarra ríkja, þ.á.m. þess ríkis, sem losar næstmest af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið næst á eftir Kínverska alþýðulýðveldinu. Kína er að breytast úr þróunarríki með höfuðáherzlu á framleiðsludrifið hagkerfi í þróað ríki með blandað hagkerfi, þar sem þjónusta er verulegur hluti landsframleiðslunnar.
Fyrir þessari afstöðu kínverska kommúnistaflokksins eru skýrar ástæður í bráð og lengd. Það er orðin pólitísk og heilsufarsleg nauðsyn í Kína að sveigja af leið mengunar, og það hefur þegar verið gert. Það hefur líka verið gert í BNA, og afneitun forsetaefnis og jafnvel forseta nú á vandamálinu mun litlu breyta um óhjákvæmilega þróun og varúðaraðgerðir þróaðra ríkja og annarra mikilla mengunarvalda. Þar að auki fjarar fyrr og hraðar undan áhrifamætti Donalds Trumps en menn áttu von á, og virðist stutt í, að hann verði "ein lahmer Vogel", óflugfær fugl. Ein af mörgum greinum um loftslagsbreytingar birtist í The Economist,
"No cooling", þann 22. apríl 2017:
"Íbúar hafa fundið nýjan blóraböggul vegna eitraðs misturs, sem hvílir yfir mörgum kínverskum borgum mikinn hluta ársins. Þar til nýlega voru sökudólgarnir, sem venjan var að benda á, hinir augljósu: losun út í andrúmsloftið frá kolakyntum orkuverum, útblástur frá bifreiðum og ryk frá byggingarsvæðum. Á þessu ári hafa aftur á móti tekið að birtast frásagnir í ríkisfjölmiðlum í Kína um, að loftslagsbreytingar eigi sinn þátt í loftmenguninni.
Kínverskir vísindamenn segja, að í Austur-Kína hafi hlýnun jarðar leitt til minna regns og minni vinds, sem hreinsað hafi loftið hingað til."
"Í Kína er nú fyrir hendi skilningur stjórnvalda, og í vaxandi mæli hjá almenningi, á því, að af loftslagsbreytingum stafar raunveruleg hætta; að loftslagsbreytingar valda hækkun sjávarborðs, sem ógnar strandbyggð, og valda einnig vaxandi alvarlegum þurrkum í norðri, flóðum í suðri, og eiturmistri í þéttbýli."
Það eru enn nokkrir sérvitringar, einnig hérlendis, sem berja hausnum við steininn og telja kenninguna um hættuna af tengslum vaxandi styrks koltvíildis í andrúmslofti jarðar og hækkandi lofthitastigs vera orðum aukna, því að fleiri þættir vegi þungt fyrir lofthitastigið, og þeir muni á endanum snúa núverandi þróun hitastigsins við.
Hvað sem líður sannfærandi röksemdafærslu þeirra, er staðan núna óyggjandi alvarleg, og hún er það vegna gróðurhúsaáhrifanna. Efasemdarmennirnir hafa ekki hrakið, að til er "point of no return", þ.e. hitastig andrúmslofts, þar sem óviðráðanleg keðjuvirkni tekur við til hækkunar hitastigs, sem gjörbreyta mun lífinu á jörðinni, víðast hvar til hins verra, og margar tegundir dýra og gróðurs munu ekki lifa þær breytingar af. Hvort "homo sapiens" verður þar á meðal, er ekki víst, en vafalaust mun fækka verulega einstaklingum innan þessarar afvegaleiddu dýrategundar, hverrar forfeður og -mæður tóku upp á því að ganga upprétt við aðrar loftslagsbreytingar og villtust að lokum út úr Afríku og fóru á flandur um heiminn á tveimur jafnfljótum með börn og buru.
Það standa engin rök til þess núna að sitja með hendur í skauti og bíða þess, sem verða vill, enda væri það ólíkt hinum athafnasama "homo sapiens", sem hefur meiri aðlögunarhæfni en flestar aðrar tegundir og hefur nú búsetu um alla jörð.
Þetta er hins vegar ekki aðeins varnarbarátta, heldur ber að hefja sókn til úrbóta og líta á þessa stöðu mála sem tiltekna þróun, og nýta sér viðskiptatækifærin, sem í henni felast. Það gera Þjóðverjar með orkustefnu sinni, " die Energiewende", og það ætla Kínverjar nú að gera:
"Kínverjar vonast eftir ágóða með því að þróa "græna tækni", sem þeir geti selt á heimsmarkaði. Þeir fjárfesta nú feiknarlega í henni. Í janúar 2017 kynntu þeir áætlun um að fjárfesta miaUSD 360 fram að árslokum 2020 í raforkuvinnslubúnaði, sem notar endurnýjanlegar eða lágkolefnis orkulindir, þ.á.m. sól, vind, fallorku vatns og kjarnorku. Þetta á að skapa 13 M störf og þýða, að helmingur nýrra raforkuvera á árabilinu 2016-2020 muni nota endurnýjanlega orku eða kjarnorku."
Þetta eru gleðitíðindi frá mesta mengunarvaldinum og ekki orðin tóm, því að árið 2013 náði kolanotkun orkuvera hámarki sínu í Kína, um 2,8 milljörðum tonna. Olíunotkun fer þó enn vaxandi þar og er að orkujafngildi 0,8 milljarðar t af kolajafngildi, og gasnotkun eykst líka og er um 0,3 milljarðar t af kolajafngildi í orku. Til samanburðar nemur virkjuð fallvatns-, kjarn- og vindorka í Kína aðeins 0,5 milljörðum tonna af kolum í orkujafngildi.
Á Íslandi er yfir 99 % raforkunnar frá vatnsaflsvirkjunum eða jarðgufuvirkjunum, sem eru að mestu lausar við gróðurhúsaáhrif. Nú berast fregnir af gríðarlegum áformum Kínverja um nýtingu jarðhita til upphitunar húsnæðis.
Því miður vantar nú hreina raforku á Íslandi til að anna eftirspurn, því að olíu er brennt í varakötlum, þar sem þó er búið að rafvæða fiskimjölsverksmiðjur og hitaveitur, og orkufyrirtækin eru ekki í stakk búin til að afhenda raforku til allra iðjuvera, sem þó hafa fengið starfsleyfi, fyrr en árið 2020. Það er of lítið borð fyrir báru. Engin goðgá væri, til að auka öryggi raforkuafhendingar og efla sveigjanleika til að anna eftirspurn, að skylda hvert raforkuvinnslufyrirtæki til lágmarksframleiðslugetu 3 % umfram sölusamninga, enda megi fyrirtækin umsetja þessa orku á markaði fyrir ótryggða orku.
Flutningskerfi raforku um landið er svo bágborið, að straumrof að kerskála álvers í Hvalfirði rýfur flutning Byggðalínu úr norðurátt og suðurátt til Austurlands með miklu framleiðslutjóni, rofi á samskiptakerfum, óþægindum og sums staðar neyðarástandi í allt að 2,0 klst sem afleiðingu. Samt hjakkar allt í sama farinu hjá Landsneti.
Notendur á biðlista eftir raforku eru t.d. kísilverin Thorsil og Silicor, sem reyndar hefur gengið brösuglega að fjármagna. Fjárfestingarþörf fyrsta áfanga (2 ofnar) Thorsil í Helguvík er talin nema MUSD 275, og þar verða til 130 störf við rekstur, viðhald og stjórnun. Þetta jafngildir fjárfestingu 2,1 MUSD/starf, sem er mikið og í raun bezta atvinnutrygging starfsmanna, því að mikið er í húfi fyrir fjárfestana að halda svo dýrri starfsemi gangandi. Þessir starfsmenn munu framleiða sem svarar til 415 t/mann, sem er lítil framleiðni á mælikvarða álveranna, en þar er reyndar mikið um verktakavinnu til viðbótar við eigin starfsmenn.
John Fenger er stjórnarformaður Thorsil. Hann hefur langa og víðtæka iðnaðarreynslu. Agnes Bragadóttir birti þann 20. febrúar 2016 viðtal við hann í Morgunblaðinu:
""Öllum framleiðendum, sem fylgir slíkur útblástur, er fyrir lagt að starfa innan strangs sameiginlegs evrópsks regluverks. Regluverkið (EU ETS) miðar að því að lágmarka umhverfisáhrif rekstraraðila innan EES, og byggir kerfið á metnaðarfullum markmiðum um 43 % samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda á milli áranna 2005 og 2030. Thorsil mun starfa innan þessara reglna.
Það hafa verið gerðar greiningar á því, hvert kolefnisfótspor kísilvinnslu sé. Í þeim efnum er athyglisvert að benda á, að kísilmálmur er notaður í margs konar framleiðslu, sem fyrirbyggir eða dregur úr útblæstri á koltvísýringi. Þar má nefna sólarkísiliðnaðinn; notkun sólarkísils kemur í staðinn fyrir kolaver; kísill er notaður í framleiðslu bíla og annarra farartækja til þess að létta þau, og því kemur minni útblástur frá farartækjum. Þá er hann einnig notaður í ýmiss konar þéttiefni til einangrunar og orkusparnaðar. Útkoman samkvæmt þessum greiningum er þessi: hvert kg [CO2], sem fylgir vinnslunni í okkar kísilveri, sparar 9 kg af útblæstri við notkun á vörum, sem kísilmálmur frá okkur er notaður í.
Við fáum rafmagnið hér, við erum með mjög gott vinnuafl, og hér er mjög góð aðstaða. Við erum með flutninga, sem eru mjög hagkvæmir, og hér er kominn markaður fyrir kísilmálm. Áliðnaðurinn á Íslandi notar kísilmálm, og einnig gæti byggzt hér upp sólarkísilvinnsla. Hér ætti því að verða til markaður fyrir umtalsvert magn af kísilmálmi innan fárra ára, sem nýttur væri á Íslandi", segir John Fenger."
Þetta eru athyglisverðar upplýsingar frá innanbúðarmanni í kísiliðnaðinum. Hann upplýsir, að kolefnisfótspor kísilvinnslunnar er ekkert; þvert á móti mun framleiðslan hér draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Það hefur líka verið sýnt fram á, að notkun áls frá Íslandi dregur meira úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu en nemur losuninni við framleiðslu þess hérlendis. Þá er sleppt ávinninginum hérlendis vegna gríðarlegrar losunar við raforkuvinnslu til álframleiðslu erlendis. Í kísilvinnslunni er ávinningur andrúmsloftsins nífaldur, og hann er hlutfallslega svipaður í innlendri álvinnslu að losun við orkuvinnsluna meðtalinni.
Það er þess vegna fjarstæðukennt, að umhverfisráðherrann í núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skuli helzt ekkert tækifæri láta ónotað til að reka horn í síðu íslenzks iðnaðar. Er ráðherrann enn á röngu róli varðandi umhverfisáhrif íslenzks iðnaðar, og fer nú að verða tímabært fyrir hana að kynna sér staðreyndir um hann. Það er leiðigjarnt að heyra hana japla í fjárfestingarívilnunum. Þær voru allar samþykktar af ESA, svo að þær eru að líkindum ekki hærri en tíðkast í EES. Færi vel á því, að hún [Björt] legði eitthvað jákvætt og frumlegt til málanna áður en hún fer í árásarham næst, því að hún vinnur umhverfinu aðeins ógagn með því að dreifa ósannindum um íslenzkan iðnað.
Á Íslandi er misjafnt, hvernig gengur að draga úr eldsneytisnotkun, enda hvatarnir misjafnir, þótt allir ættu að skilja, hver úrslitahvatinn er, en hann má orða með orðum Hamlets: "to be or not to be [homo sapiens]".
Útgerðarfyrirtækin hafa staðið sig mjög vel við að draga úr olíunotkun og um leið úr orkukostnaði sínum, þannig að m.v. árangurinn frá 1990 munu þau ná markmiðinu um 40 % minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 m.v. 1990. Hinn fjarstæðukenndi og öfugsnúni refsivöndur sjávarútvegsráðherrans að auka veiðigjöldin, ef fyrirtækin hagræða í rekstri sínum, svo að störf flytjist til og/eða þeim fækki, mun hvorki auðvelda útgerðarfyrirtækjunum olíusparnað né ýta undir s.k. byggðafestu. Sjávarútvegsráðherra sæmir ekki að ógna atvinnugrein, sem henni ber að efla, en allt hefur hingað til verið á sömu bókina lært hjá henni í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Það hefur enn ekki orðið sá vendipunktur hjá hinum aðalnotanda jarðefnaeldsneytis á vökvaformi hérlendis, að dugi til að ná sams konar markmiði og útgerðirnar. Ríkisvaldið hefur þó lagt sitt lóð á vogarskálarnar, en sveitarfélögin og raforkufyrirtækin hafa dregið lappirnar við að laga byggingarskilmála að aukinni raforkuþörf vegna hleðslutækja rafbílanna og við að styrkja stofna, svo að fyrirtæki, húsfélög og einstaklingar geti sett upp nægilega öfluga tengla fyrir hleðslutækin. Á meðan nauðsynlegir innviðir ekki blasa við væntanlegum notendum, munu viðskiptavinir með bílrafmagn láta bíða eftir sér.
Sumir forsvarsmenn raforkufyrirtækja hafa jafnvel gert málstaðnum ógagn með belgingi um, að ekkert þurfi að virkja eða fjárfesta í flutnings- eða dreifikerfum vegna orkuskipta í samgöngum. Það gerði t.d. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, OR, á ársfundi félagsins 2017. Bjarni Már Júlíusson, BMJ,framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar, ON, dótturfyrirtækis OR, tók ekki svo djúpt í árinni í fréttaskýringu Skapta Hallgrímssonar í Morgunblaðinu 5. maí 2017, undir fyrirsögninni:
"Rafbílavæðing gæti sparað sex milljarða",
en hann vanmat þar gróflega sparnaðinn og kostnaðinn við orkuskiptin. Þar sem hinn fjárhagslegi ávinningur, nettó sparnaðurinn, er mismunur þessara stærða, þá varð áætlaður sparnaður "aðeins" þriðjungi of lágur í málflutningi BMJ. Nú verður gerð grein fyrir óvandaðri talnameðferð ON/OR, hvað orkuskiptin varðar:
Eldsneytissparnaður:
BMJ sagði um 200´000 bíla í notkun á Íslandi. Hið rétta er, að fólksbílarnir voru um 240 k í lok árs 2016, og heildarbílafjöldinn var um 277 k. Sé miðað við fólksbíla einvörðungu í þessu dæmi, er bílafjöldinn 17 % of lágur hjá BMJ. Það hefur áhrif á reiknaðan eldsneytissparnað og raforkuþörf. Enn stærri villu, 54 %, gerði hann, þegar hann hélt því fram, að eldsneyti á þessa bíla væri flutt inn fyrir um miaISK 12 á ári. Sú tala er út í loftið, því að þessi 240 k farartæki brenna um 300 kt/ár að andvirði um MUSD 240 eða miaISK 26. BMJ telur eldsneytiskostnaðinn (CIF) vera miaISK 14 lægri en hann er í raun.
Þá er komið að raforkuöfluninni ásamt flutningi og dreifingu hennar til rafbílanotendanna, en þar keyrir vitleysan um þverbak hjá ON/OR:
"Rafmagnið kostar vitaskuld sitt, en ná mætti fram verulegum sparnaði með rafvæðingu bílaflotans og Bjarni Már segir næga raforku til."
Blekbóndi hefur undirstrikað það, sem BMJ lepur upp eftir forstjóra sínum, og blekbóndi leyfir sér að kalla þvætting. Það er engin raforka til ráðstöfunar núna, sem neinu nemur, hvorki hjá ON, sem berst við fallandi framleiðslugetu stærstu virkjunar sinnar, Hellisheiðarvirkjunar vegna minnkandi jarðgufuforða, né hjá stærsta félaginu, Landsvirkjun, sem hefur lýst því yfir, að engin raforka umfram gerða samninga sé til reiðu fyrr en árið 2020. Skortstaðan endurspeglast í svo háu verði ótryggðrar raforku, að hún er ósamkeppnishæf við svartolíu.
Er þetta eitthvert smáræði, sem þarf af orku fyrir rafbílana ? Í heildina er fráleitt um smáræði að ræða, og það er þörf á virkjun og eflingu flutningskerfisins og dreifikerfanna strax, þótt aukning á fjölda rafbíla sé hæg, því að það er ekkert borð fyrir báru í raforkukerfinu.
Það er hægt að fara 2 leiðir til þess að finna út raforkuþörf rafmagnsbíla. Annars vegar með því að margfalda saman fjölda bíla, áætlaðan meðalakstur á ári og orkunýtni í kWh/km. Blekbóndi þekkir af eigin raun síðast nefndu stærðina út frá mælingum inn á hleðslutæki eigin tengiltvinnbíls, og er niðurstaðan 0,35 kWh/km að meðaltali yfir árið.
E=240 k x 15 k km x 0,35 = 1,3 TWh/ár
Þetta jafngildir meðalaflþörf 150 MW yfir árið, en toppaflþörf verður ekki undir 300 MW, og verður álagið vegna hleðslu rafbílanna væntanlega mest á kvöldin. Orkan er meira en þriðjungur af núverandi orkuþörf almenningsveitna, og aflið er um 12 % af núverandi toppálagi landsins. Það munar mikið um þessa aukningu raforkunotkunar, og það dugar skammt að stinga hausnum í sandinn gagnvart hinu óumflýjanlega.
Hin aðferðin er að reikna orkuinnihald olíunnar, sem rafmagnið á að leysa af hólmi. Ef orkunýtni rafbúnaðarins er áætluð 2,5 föld á við sprengihreyflana, þá fæst raforkuþörfin 1,3 TWh/ár. Báðar aðferðirnar gefa sömu útkomu, sem alltaf þykir trúverðugt fyrir áreiðanleika niðurstöðunnar.
Um fjárhagshliðina fimbulfambar BMJ með eftirfarandi hætti:
"Varlega má áætla, að verja þurfi innan við helmingi þessarar upphæðar [meints miaISK 12 innflutningskostnaðar fólksbílaeldsneytis-innsk. BJo], ef við skiptum yfir í hreina íslenzka orku. Þannig mætti spara um miaISK 6 í gjaldeyri á ári, sem færu einhvern veginn öðruvísi inn í hagkerfið. Þetta skiptir því miklu máli, og ekki síður vegna samninga um loftslagsmarkmið, sem Íslendingar hafa skrifað undir."
Það er kolrangt, að aðeins þurfi að fjárfesta fyrir miaISK 6 í raforkukerfinu vegna rafbílavæðingar. Ef reiknað er með 300 MW virkjunarþörf vegna hennar, jafngildir það fjárfestingarþörf í virkjunum upp á um miaISK 70, og með styrkingu flutnings- og dreifikerfa mun kostnaðurinn fara yfir miaISK 100, og ríflega helmingur þess kostnaðar er í erlendum gjaldeyri. Það er rífleg stærðargráðuvilla á ferðinni í upplýsingunum, sem BMJ býður blaðamanni og lesendum Morgunblaðsins upp á. Hvað vakir fyrir honum í þessum gufumekki ?
Þetta er hins vegar ekki rétta aðferðin við að bera saman kostnaðinn. Það er eðlilegra að athuga, hvað raforkan á rafbílana kostar notandann án skatta og bera saman við eldsneytiskostnaðinn án skattheimtu.
Ef gert er ráð fyrir, að orkuverðið við stöðvarvegg sé 6,1 kr/kWh, flutningsgjald þaðan og til dreifiveitu sé 1,7 kr/kWh og dreifingargjaldið sé 5,7 kr/kWh, þá fæst árlegur raforkukostnaður: Kr=1,3 TWh/ár x 13,5 kr/kWh = 18 miaISK/ár, samanborið við eldsneytiskostnaðinn 26 miaISK/ár. Nettó sparnaður á ári: S = (26-18) miaISK = miaISK 8. Gjaldeyrissparnaðurinn er enn meiri, svo að þjóðhagslegur sparnaður er verulegur af þessum orkuskiptum. BMJ er reyndar þeirrar skoðunar líka, en með öllu er á huldu, hvernig hann komst að því, enda eru tölur hans rangar og sennilega aðferðarfræðin líka.
Að lokum verður vitnað í téða fréttaskýringu:
"Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir ekkert land betur til þess fallið en Ísland að rafbílavæðast. "Fyrir því eru nokkrar ástæður. Allt rafmagn er grænt og endurnýjanlegt, mengunarlítið, það er ódýrt og loftslagið hér er ákjósanlegt, því að rafhlöður þola vel kulda, en ekki mikinn hita.""
Hér orkar ýmislegt tvímælis hjá téðum forstjóra. Það er t.d. mjög dregið í efa, að rafmagnið, sem dótturfyrirtæki OR, ON, framleiðir, sé "grænt og endurnýjanlegt, mengunarlítið." Jarðgufugeymirinn, sem Hellisheiðarvirkjun nýtir neðanjarðar, þolir ekki núverandi álag, um 280 MW, og alls ekki fullnýtingu uppsetts afls, 303 MW, svo að afköst hans minnka, ef ekki er varið umtalsverðum fjármunum til að bora "viðhaldholur". Þessi nýting er strangt tekið ósjálfbær, og forstjórinn ætti ekki að leggja lykkju á leið sína til að reyna að breiða yfir það með froðusnakki.
Er hægt að kalla það mengunarlitla vinnslu, sem veldur því, að styrkur eiturgufunnar brennisteinsvetnis fer yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu, ef vindáttin er óhagstæð ? Auðvitað ekki, og umhverfið allt hefur látið mjög á sjá vegna þessarar mengunar, brennisteins og annars frá virkjuninni.
Þegar svo téður forstjóri fer að tjá sig um samband lofthitastigs og rafgeymanýtingar, er hann kominn út á hálan ís. Sannleikur málsins er sá, að meðallofthitastig á Íslandi hentar algengustu rafgeymum rafbíla um þessar mundir ekki sérlega vel. Þannig er brúttó meðalnýtni þeirra á veturna um 30 % lakari en á sumrin, sem þýðir, að á bilinu -5°C til 15°C er stigull nýtninnar 3 %/°C. Hér þarf að taka með í reikninginn, að öll upphitun og lýsing bílsins kemur frá rafgeymunum. Vegna lægra meðalhitastigs á Íslandi en víðast hvar annars staðar er ekki hægt að halda því blákalt fram, að Ísland henti rafbílum betur en önnur lönd. Mengunarlega séð á þó sú fullyrðing rétt á sér.
Það er hvimleitt, að forráðamenn raforkufyrirtækjanna vandi sig ekki betur en raun ber vitni um, sumir hverjir, þegar þeir bera á borð upplýsingar fyrir almenning um málefni, sem hann að óreyndu gæti gert ráð fyrir, að talsmennirnirnir kynnu skil á og færu rétt með. Að túðra út í loftið blekkir marga aðeins einu sinni. Þar með missa blekkingasmiðir strax trúverðugleika sinn.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2017 | 14:01
Orkustefna í smíðum
Íslendingar nota allra manna mest af orku, þegar lögð eru saman jarðhiti, vatnsorka, olíuvörur og kol. Sumpart stafar þetta af tiltölulega mikilli upphitunarþörf húsnæðis vegna veðurfarsins og sumpart af því, að bifreiðaeign er hvergi meiri að tiltölu, en aðallega stafar mikil orkunotkun þó af miklum orkusæknum iðnaði. Staðsetning hans á Íslandi hlífir andrúmsloftinu við meira af gróðurhúsagösum árlega en nemur allri losun Íslendinga að fluginu meðtöldu vegna annars eðlis orkulinda hérlendis en í líklegum staðsetningarlöndum stóriðju.
Nú er hins vegar spurningin, hvert við viljum halda á orkunotkunarsviðinu, og um það hlýtur orkustefna sú, sem nú er í smíðum hjá ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, að snúast. Ekki er úr vegi, að almenningur leggi þar eitthvað "í púkkið".
Eftirfarandi tilvitnun í ráðherrann birtist í Fréttablaðinu 5. apríl 2017 undir fyrirsögninni:
"Orkustefnan upp úr skúffunni":
""Staðreyndin er sú, að í raun er ekki til formleg orkustefna fyrir Ísland. Ég tel það bagalegt, og mér finnst mikilvægt, að stjórnvöld taki af skarið og marki formlega orkustefnu til lengri tíma. Sú vinna er raunar þegar hafin innan míns ráðuneytis", sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á ársfundi Landsnets í gær."
Spyrja má, hvaða gagn sé að orkuáætlun ríkisins. Á móti má segja, að það jaðri við ósvinnu, að land, sem státar af mestu orkunotkun á mann í heiminum, hafi enga formlega orkustefnu að fara eftir. Það er nánast ósvinna, en um gagnsemina gildir, að veldur hver á heldur.
Orkustefna felur í sér leiðbeiningar til allra hagsmunaaðila á sviði orkumála um, hvert ríkisvaldið hyggst stefna í þessum þjóðhagslega mikilvæga og víðfeðma málaflokki, og hvers vegna, og þá eru meiri líkur á en nú, að aðalleikendur á sviðinu muni ganga í takti. Orkumál eru alls staðar umdeild, ekki sízt á Íslandi orkugnægtar, enda miklir hagsmunir í húfi. Það er vandasamt og e.t.v. ekki hægt að móta orkustefnu, sem ólíkar ríkisstjórnir og Alþingi geta unnið eftir. Nú eru 5 ára áætlanir í tízku í Stjórnarráðinu, en Orkuáætlun fyrir Ísland þarf að spanna ferfalt lengri tíma.
Stefna á ekki að vera nákvæmlega útfærð áætlun með nákvæmum magnsetningum og tímasetningum, því að á grundvelli stefnunnar eru síðan sett markmið, og þar eru verkefni magnsett og tímasett. Til að ná markmiðunum þarf ennfremur verkáætlun, þar sem fram kemur, hvernig markmiðum á að ná. Orkustefna mun þannig hafa stefnumótandi áhrif fyrir ákvarðanatöku alls athafnalífs og mun hafa áhrif á flest svið þjóðlífsins, er fram í sækir.
Árið 2016 varð stórmerkileg þróun í íslenzka hagkerfinu. Hagvöxtur varð 7,2 %, sem er með því mesta, sem þekkist um þessar mundir, en raforkuvinnslan minnkaði á sama tíma um 1,3 %; hjá stórnotendum dróst raforkunotkun saman um 0,5 % og hjá almenningi um 4,2 %. Þetta er merki um sveigju hagkerfisins frá framleiðslu til þjónustu. Sem dæmi má nefna til samanburðar, að á Indlandi varð hagvöxtur svipaður eða um 7 %, en hann var orkudrifinn, því að raforkunotkun jókst um 5 %.
Yfirleitt hefur hagvöxtur á Íslandi og annars staðar verið orkudrifinn. Var hann það kannski, þótt hann væri ekki knúinn rafmagni á Íslandi 2016 ? Jarðhitanotkun minnkaði um 4,5 % m.v. 2015, sem má skýra með hærra meðalhitastigi utanhúss og bættri hitastýringu, og fallið gefur til kynna, að rúmtak húsnæðis hafi aukizt sáralítið, enda áherzla á þéttingu byggðar í Reykjavík, þar sem gamalt húsnæði (illa einangrað) var iðulega rifið til að rýma fyrir öðru með minni varmatöpum.
Aftur á móti kemur í ljós við tölurýni, að notkun á eldsneyti úr jarðolíu jókst um 8,8 %, og kolanotkun jókst um 14,2 %. Þetta er hroðaleg tilhneiging í landi endurnýjanlegra orkugjafa að mestu, þar sem ríkisvaldið hefur skuldbundið landsmenn til 40 % minni eldsneytisnotkunar árið 2030 en 1990. Þjónustuhagkerfið verður að söðla um í vali á orkugjöfum eða hefja meiriháttar mótvægisaðgerðir með fjármögnun ræktunar, sem bindur mikið koltvíildi á hvern hektara. Forysta Landverndar á ekki að komast upp með að reka hornin í öll vatsaflsvirkjunaráform í landinu, nú síðast á Vestfjörðum, og reka samtímis áróður fyrir stofnun þjóðgarðs og aukinni ferðamennsku á sömu landsvæðum, sem er sú starfsemi, sem mestri mengun veldur á láði, legi og í lofti.
Hagvöxturinn var sem sagt eldsneytisdrifinn, þegar betur er að gáð. Sú þróun hefur átt sér stað síðan 2012, þegar hlutdeild endurnýjanlegrar orku náði hámarki sínu, 86,8 %, en árið 2016 féll sú hlutdeild niður í 82,4 %. Sú óheillaþróun heldst í hendur við stækkun þjónustugeirans umfram aðrar greinar. Hér skal varpa fram þeirri fullyrðingu, að fyrir hverja krónu í tekjur í erlendum gjaldeyri er sóðaskapur og mengun náttúrunnar mest af völdum ferðaþjónustu af öllum greinum íslenzks atvinnulífs.
Það blasir nú við, að meginhlutverk orkustefnu verður að snúa þessari öfugþróun við hið snarasta. Sökudólgurinn er þekktur. Hann heitir ferðaþjónusta. Ríkið getur beitt hvötum til að draga úr eldsneytisnotkun á hvern farþegakílómeter með eldsneytissköttum eða kolefnisgjaldi. Norðmenn leggja t.d. eldsneytisskatt á allar flugvélar, sem fara frá Noregi. Eigum við ekki að fylgja fordæmi þeirra ? Það er bara tímaspurning, hvenær ESB o.fl. munu halda á sömu braut. Ívilnanir við kaup bílaleiga á bílum ættu ennfremur að verða bundnar við "umhverfisvæna" bíla. Þetta mun flýta rafvæðingu bílaflotans, þegar innviðauppbygging leyfir, en kolefnisgjaldinu ætti hiklaust að verja til að styrkja og að búa í haginn fyrir orkuskiptin.
Orkustefnan verður að styðja við markmið Íslands í loftslagsmálum. Hvernig gerir hún það bezt ?
Í fyrsta lagi með því að stuðla að nægu kolefnisfríu orkuframboði á samkeppnishæfu verði, og í öðru lagi með því að stuðla að afnámi allra flöskuhálsa í flutningskerfi og dreifikerfum raforku. Í þessu skyni þarf blöndu af hvötum og hrísvöndum í stefnuna.
Með auknum rannsóknum á hagkvæmum virkjunarkostum skal leitast við að fækka virkjunarkostum í biðflokki, svo að virkjunarfyrirtækin hafi um fleiri virkjunarkosti að velja í nýtingarflokkinum, þar sem þau geta virkjað og framleitt raforku án þess að hækka raforkuverðið umfram neyzluverðsvísitölu. Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja snurðulaus orkuskipti, sem samfélagið allt hagnast á.
Til að tryggja nægt framboð raforku í landinu, einnig þegar óvæntir atburðir verða, bilanir eða náttúruhamfarir, skal með lagasetningu skylda virkjanafyrirtæki með starfsleyfi yfir 10 MW, sem selja orku inn á stofnkerfið, til að vera með framleiðslugetugetu í venjulegu árferði, t.d. meðalvatnsári, sem er að lágmarki 3 % umfram umsamda forgangsorkusölu hvers fyrirtækis á ári og aflgetan skal aldrei fara undir 5 % umfram umsamið forgangsafl. Orkustofnun skal fylgjast með þessu og hafi heimild til stjórnvaldssekta samkvæmt reglugerð iðnaðarráðuneytis, ef út af bregður, nema um óviðráðanlega atburði (force majeure) sé að ræða. Þetta knýr fyrirtækin til að virkja í tæka tíð áður en stórtjón verður af völdum orku- og aflskorts.
Öllum almennum notendum skal standa til boða sú orka, sem hann kýs. Þannig er það ekki nú. Til þess þarf að styrkja flutningskerfið og dreifikerfin. Ef Landsneti verður ekki ágengt gagnvart viðkomandi sveitarfélögum og landeigendum með línulagnir í lofti eða jörðu, skal fyrirtækið leggja alla valkosti fyrir ráðherra iðnaðar, sem úrskurðar eða leggur málið fyrir Alþingi til ákvörðunar.
Dreifingarfyrirtækjum ber að hanna og setja upp dreifikerfi, sem fullnægja þörfum allra íbúa og fyrirtækja, sem fá rafmagn á málspennu undir 72 kV. Allir íbúar landsins og lögaðilar skulu eiga rétt á þriggja fasa rafmagni, enda er snurðulaust aðgengi að þriggja fasa rafmagni forsenda orkuskipta. Samhliða þrífösun sveitanna skal leggja stofn og heimtaugar í jörðu og taka niður loftlínur. RARIK og aðrir dreifingaraðilar skulu þess vegna flýta áætlunum sínum, eins og tæknilegur kostur er, með fjárhagslegu fulltingi ríkisins. Þetta er hagkvæmt, og þetta er jafnréttismál.
Á heimsvísu er staðan mjög slæm m.t.t. gríðarmikillar notkunar á jarðefnaeldsneyti sem orkulind. Orka jarðefnaeldsneytisins er leyst úr læðingi við bruna, sem myndar heilsuskaðleg efni og gróðurhúsalofttegundina CO2. Árið 2014 nam hlutdeild jarðefnaeldsneytis 81,6 % af heildarorkunotkun heimsins, og endurnýjanlegir orkugjafar voru aðeins 14,0 % af heild. Þar að auki komu 4,4 % frá kjarnorku.
Yfirlit orkunotkunar á heimsvísu eftir orkulindum leit þannig út 2014 samkvæmt IEA-International Energy Agency:
- Olía: 31,6 %
- Kol: 28,7 %
- Gas: 21,3 %
- Lífmassi: 10,3 %
- Kjarnorka: 4,4 %
- Fossorka: 2,2 %
- Vindur, sól: 1,5 %
Árið 2014 voru notaðir 4,3 milljarðar (mia) tonna af olíu, og með núverandi þróun verður notkunin 4,8 mia t árið 2040, sem jafngildir 12 % aukningu eða tæplega 0,5 % á ári. Þetta er feigðarbraut, því að fræðimenn á vegum IEA telja, að til að halda hækkun hitastigs andrúmslofts jarðar í skefjum, þannig að árið 2040 hafi heildarhitastigshækkun frá 1750 orðið innan við 2°C, þá verði árleg olíunotkun manna að minnka um 1,1 mia t fram til 2040, þ.e. niður í 3,2 mia t eða um ríflega fjórðung. Það eina, sem getur snúið þessari óheillaþróun við, er tæknibylting á sviði kolefnisfrírrar raforkuvinnslu. Hún gæti orðið snemma á næsta áratugi á formi umhverfisvænna kjarnorkuhvarfa, sem kljúfa t.d. frumefnið þóríum.
Þjóðir standa misvel að vígi við að minnka olíunotkun. Íslendingar standa þar vel að vígi, af því að þeir hafa bolmagn til fjárfestinga í nýrri tækni, sem leysa mun olíuþörfina af hólmi, og þeir búa yfir orkulindum, hverra nýting leiðir til tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda. Í miðlunarlónum á sér stað rotnun jurtaleifa, sem leiðir til myndunar metangass, og koltvíildi losnar úr jarðgufunni. Þetta er þó hverfandi á hverja orkueiningu í samanburði við bruna jarðefnaeldsneytis. Þess vegna ber að fjölga vatnsvirkjunarkostum í nýtingarflokki Rammaáætlunar með því að gefa eldsneytissparnaði vatnsaflsvirkjana og almennum hreinleika við vinnsluna meira vægi við val á milli nýtingar- og verndarflokks.
Orkustefna stjórnvalda á hiklaust að marka leiðina að uppfyllingu skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu í desember 2015 og að Íslandi án nettó losunar gróðurhúsalofttegunda um miðja þessa öld. Hvort tveggja útheimtir fjölþætta markmiðasetningu og verkáætlanir um allt þjóðfélagið, því að þjóðarátak þarf til. Lítið bólar á slíku.
Við skulum ekki fara í grafgötur með, að öll starfsemi Íslendinga á láði, legi og í lofti hefur sáralítil hækkunaráhrif á hitastig jarðar, því losunin nemur lægra hlutfalli en 0,03 % á ári af áætlaðri heildarlosun vegna eldsneytisbruna. Engu að síður ber okkur að taka fullan þátt í þessari baráttu, því að allt er undir. Þjóðhagslega munum við hagnast strax á orkuskiptunum, því að ríflega 10 % af gjaldeyrisútlátum vegna vöruinnflutnings munu sparast við að losna við benzín, dísilolíu, flotaolíu og svartolíu.
17.4.2017 | 16:43
Fiskeldi í farvatni annarra
Fiskeldi í nágrannalöndum okkar við Atlantshafið er miklu lengra komið en hér að umfangi, en tæknin er svipuð, og nú siglir greinin hraðbyri hér við land. Ástæðan er miklar fjárfestingar Norðmanna, sem náð hafa undraverðum árangri við laxeldi í norskum fjörðum síðan 1970. Ekki hefur þróunin verið áfallalaus, og sumt er óafturkræft, s.s. mikil staðbundin erfðablöndun villtra stofna og erfðabreytts eldislax.
Við munum aldrei verða hálfdrættingar á við Norðmenn í þessari grein vegna víðtækra takmarkana á starfssvæðum sjókvíaeldis hér við land samkvæmt verndarlögum fyrir íslenzka laxfiskastofna frá árinu 2004. Er ekki hafður uppi ágreiningur um þá lagasetningu, svo að blekbónda sé kunnugt um.
Nú mun slátrun eldisfisks í heiminum nema um 90 Mt/ár. Til samanburðar munu fiskveiðar hvers konar í heiminum nema um 80 Mt/ár og vera fallandi, en verði ofveiði hætt og sóknargetu stillt í hóf m.v. arðsemi af sjálfbærum veiðum, er talið, að jafnstöðuaflinn muni nema 90 Mt/ár. Veiðar á villtum sjávardýrum munu fyrirsjáanlega ekki anna vaxandi matvælaþörf heimsins og vaxandi spurn eftir dýraeggjahvítuefni. Höfin verða nú aðeins við 20 % af eftirpurninni, þótt þau þeki um 70 % af yfirborði jarðar. Af þessum sökum lofar markaður fyrir eldisfisk góðu, ekki sízt úr hreinu umhverfi, þar sem beitt er tiltölulega litlu af sýklalyfjum.
Gríðarleg vaxtaráform eru hjá fiskeldisfyrirtækjum um allan heim, sem gefur til kynna góða arðsemi í greininni. Áform um framleiðsluaukningu eru síður en svo einsdæmi hér á Íslandi, og nægir að horfa til nágrannalandanna, Noregs, Færeyja og Skotlands, í þeim efnum.
Norðmenn slátra núna um 1,3 Mt/ár af eldislaxi og fá um 800 ISK/kg. Það er um tvöfalt hærra en fæst fyrir þorskígildiskílógrammið, þígkg, á mörkuðum. Andstætt því, sem margir halda, hafa Norðmenn alls ekki fullnýtt framleiðslugetuna í eldiskvíum í norskum fjörðum, heldur hafa þeir áform um næstum fjórföldun á rúmlega 30 árum fram til ársins 2050. Það er athyglisvert í ljósi áhyggju hérlendis af erfðablöndun. Í raun vantar fleiri staðreyndir á borðið um skaðsemi erfðablöndunar, og hversu stór hluti eldislax í ánum má verða af villtum laxi áður en sá fyrrnefndi getur gert usla í erfðaeiginleikum seiðanna.
Samt eru talsverð afföll í norska laxeldinu af völdum fiskisjúkdóma og sníkjudýra, sem hækkar kostnað og draga úr tekjum, þannig að arðsemin verður minni en ella.
Mesta ógnin mun stafa af s.k. laxalús, sem er blóðsuga, dregur úr vexti og getur leitt til dauða bæði seiða og fullorðinna fiska. Norðmenn rannsaka hana af miklu kappi til að finna ráð gegn henni, sem dugar. Hún drepst við sjávarhita undir 3,5 °C, og við Vestfirði og Austfirði fer sjávarhiti undir þau mörk á veturna. Þetta er mikill kostur fyrir heilbrigt eldi. Jafnvel við Norður-Noreg er sjávarhiti hærri en við Ísland, svo að lúsavandamál hér við land er ekkert í líkingu við það, sem við er að glíma við Noreg, Færeyjar eða Skotland, hvað sem verður, ef sjávarhiti hækkar enn meira en nú hefur orðið reyndin við Ísland. Af þessum sökum eru lyfjagjöf og afföll minni hér en þar í eldinu, en aftur á móti er vaxtarhraðinn hér minni. Það ætti að vera möguleiki á hærra verði per kg fyrir eldislax frá Íslandi vegna heilnæmara umhverfis og uppvaxtar og þar með meiri gæða vörunnar.
Vegna hækkandi sjávarhita eru vaxtarskilyrði lax betri við Ísland nú en fyrir 30 árum. Norðmenn hafa eygt í þessu viðskiptatækifæri og hafa fjárfest í fiskeldi hér við land fyrir tugi milljarða ISK. Það er fagnaðarefni, því að þeir horfa til starfrækslu hér um áratugaskeið, þeir búa yfir beztu fáanlegu tækni (BAT=best available technology), þeir hafa góð viðskiptasambönd og menningarheimur þeirra er af sama toga og okkar.
Í Noregi hefur verið innleiddur strangur staðall fyrir þessa starfsemi, NS 9415,og fyrirtæki með norskt eignarhald og norska tækni hérlendis starfa eftir þessum staðli. Í því felst gæðatrygging, og það er sjálfsagt mál að innleiða þennan staðal á Íslandi í íslenzka staðlasafnið, ÍST nnnn (NS 9415).
Að vinna eftir þessum staðli veitir ákveðna gæðatryggingu, m.a. fyrir umhverfið einnig. Aðaláhættan fyrir umhverfið er fólgin í erfðablöndun hins norsk ættaða eldislax við villta laxa í íslenzkum ám. Fjöldi strokulaxa úr eldiskvíum á ári, sem nær upp í árnar, skiptir höfuðmáli fyrir þessa áhættu. Leyfilegur líklegasti meðalfjöldi á ári er háður fjölda villtra laxa í ám, sem renna í viðkomandi fjörð og aðliggjandi firði. Á Vestfjörðum eru villtir laxar tiltölulega fáir, sennilega innan við 10 % af heildarfjölda göngulaxa á ári. Þetta gerir Vestfirði enn viðkvæmari en ella gagnvart strokulöxum.
Ætlunin með nýjum og traustbyggðum eldiskvíum og fastmótuðum verklagsreglum, sem uppfylla kröfur téðs staðals, er að lágmarka hættu á stroki, og ef strok verður, að það uppgötvist svo fljótt, að hafa megi hendur í hári strokulaxanna áður en þeir ná upp í árnar.
Eftir því sem blekbóndi kemst næst, eru líkur á stroki, og að strokulaxar nái upp í norskar ár úr eldisstöðvum, þar sem staðallinn NS 9415 hefur verið innleiddur, 20 ppm/ár, þ.e. úr hópi einnar milljónar fiska í eldisstöð strjúka að jafnaði 20 laxar á ári. Á Vestfjörðum hefur burðarþol 4 fjarða verið metið 80 kt/ár, og ekki er ólíklegt, að 2 ómetnir firðir gefi 20 kt/ár til viðbótar, eða að metið burðarþol Vestfjarða verði 100 kt/ár. Blekbóndi skilur þetta burðarþol þannig, að það vísi til heildarlífmassans í eldisstöðvum fjarðarins, en ekki árlegs slátrunarmassa. Ætla má, að þá verði árleg eldisafköst til slátrunar um 2/3 af burðarþolinu.
Setjum sem svo, að þetta gefi slátrunarafkastagetu tæplega 70 kt/ár og að meðalslátrunarmassi fisks sé 5,0 kg; þá verða í eldiskvíum á Vestfjörðum um 27 M eldislaxar á sama tíma. Samkvæmt norskum stroklíkindum má þá búast við 540 stroklöxum upp í vestfirzkar ár á ári. Ef 5000 villtir laxar ganga í vestfirzkar ár á ári, sem er um 7 % af heildarfjölda göngulaxa upp í íslenzkar ár að jafnaði, þá verður hlutfall eldislaxa þar af villtum hrygningarlaxi um 11 %. Blekbóndi gizkar á, að út frá sjónarmiðum erfðablöndunar sé þetta hlutfall hátt yfir öryggismörkum, en það er einmitt hlutverk eftirlitsstofnana að skera úr um þetta. Hefur það verið gert opinberlega ?
Það er sem sagt hugsanlegt, að burðarþolið verði ekki takmarkandi þáttur fyrir stærð leyfis, heldur erfðafræðileg áhætta. Þetta sýnir, að líkindi á stroki eldislaxa upp í árnar er alger lykilstærð varðandi vöxt sjókvíaeldis við Ísland, ef fiskur er ógeltur. Íslenzkt laxeldi verður að róa að því öllum árum að ná meðaltali stroks niður fyrir norsku bráðabirgða reynslutöluna 20 ppm, helzt niður um heila stærðargráðu. Það er býsna ströng krafa, en það ber að hafa í huga, að 3. hvert ár mun vera meiningin að hvíla kvíasvæðin. Það fækkar stroklöxum niður í 360 m.v. fullnýtt 100 kt burðarþol og hlutfall þeirra af villtum verður rúmlega 7 %, sem er strax í áttina.
Burðarþol fjarða, sem þegar hafa verið metnir við Ísland fyrir sjókvíaeldi, er sem stendur 125 kt/ár. Eldisfyrirtækin hafa lýst hug á 185 kt/ár, og það er hugsanlegt, að matið á Vestfjörðum, Austfjörðum, í Eyjafirði og Axarfirði, nái upp í 200 kt/ár. Þegar reynsla fæst af stroktíðni eldislaxanna í Noregi og á Íslandi með nýrri tækni og nýjum vinnubrögðum undir hinum nýja staðli, þá verður hægt að stilla leyfisveitingar eftir leyfilegu hlutfalli eldislaxa af villtum löxum í hverjum firði, og leyfin kunna þá að verða umtalsvert minni en burðarþolið.
Í Skotlandi er nú slátrað um 160 kt/ár af eldislaxi, og Skotar hafa áform um 25 % aukningu eða upp í 200 kt/ár árið 2020. Þar nema verðmæti laxeldisafurða um 40 % af heildarverðmætum matvæla, sem flutt eru út, þrátt fyrir, að Skotar fái aðeins 560 ISK/kg, sem er umtalsvert lægra en Norðmenn og Íslendingar fá (um 800 ISK/kg). Með 100 kt/ár framleiðslu af fiskeldisafurðum á Íslandi og 800 ISK/kg (7,1 USD/kg), mundu útflutningsverðmæti fiskeldis nema 25 % af heildarútflutningsverðmætum matvæla frá Íslandi. Þetta er dálagleg búbót fyrir íslenzka þjóðarbúið.
Það er ekki bara sungið halelúja, þegar kemur að laxeldinu. Orri Vigfússon, formaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, skrifaði 22. marz 2017 í Fréttablaðið greinina,
"Óraunhæfir fiskeldisdraumar", sem hefst þannig:
"Opið sjókvíaeldi á laxfiskum er stórhættulegt og hefur valdið ómældum og óafturkræfum skaða í vistkerfum, þar sem það hefur verið reynt í nágrannalöndum okkar."
Hér eru stór orð höfð uppi, en að blekbónda sækir sá grunur, að höfundurinn magni þarna upp fortíðardraug með ástandslýsingu, sem að einhverju leyti gat átt við á síðustu öld eða fyrir einum mannsaldri, 30 árum. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, og miklu fé hefur verið varið til rannsókna, og mikið er búið að fjárfesta í nýjum búnaði með góðum árangri, t.d. við að draga úr líkum á því, að strokulaxar komist upp í árnar. Orri gefur í skyn, að hérlendis eigi ekki að nota beztu fáanlegu tækni (BAT) við kvíaeldið. Hvað á hann við með því ? Einn af kostunum við miklar norskar fjárfestingar í greininni hérlendis er einmitt, að þannig fá eldisfyrirtækin hérlendis aðgang að BAT og gildandi verklagsreglum samkvæmt strangasta staðli, sem í notkun er í þessum efnum.
"Gamla tæknin, sem á að nota hér á landi, hefur nú þegar skaðað vistkerfið á flestum stöðum, þar sem hún hefur verið reynd."
Hér reynir höfundurinn að koma því inn hjá almenningi, að beitt sé úreltri tækni við fiskeldi á Íslandi. Þar með sáir hann efasemdum að ósekju um trúverðugleika fiskeldisfyrirtækjanna, sem hafa lýst því yfir, að þau noti nú nýjustu og öruggustu útfærslu af sjókvíum, beiti öflugra eftirliti með ástandi þeirra og meiri sjálfvirkni við fóðrun og annað en áður hefur þekkzt í þessari starfsemi á Íslandi. Þá gerir hann með þessum dylgjum lítið úr viðkomandi eftirlitsstofnunum og leyfisútgefendum, sem vissulega væru að bregðast hlutverki sínu með stórauknum leyfisveitingum, ef metin áhætta væri of mikil fyrir villta íslenzka laxastofna.
Einkennandi fyrir málflutning allra gagnrýnenda sjókvíaeldis við Íslandsstrendur er klisjan um, að einn lax sleppi úr hverju tonni eldisfiskjar í sjókvíum. Hér skal fullyrða, að hafi þessi strokfjöldi einhvern tímann verið raunverulegur, er hann löngu úreltur og á engan veginn við lengur. Að bera slík ósannindi á borð verður málstað veiðiréttarhafa og annarra, sem honum hampa, til minnkunar.
Hvaða stroklíkindum jafngildir þessi fjöldi, 1 lax/t ? Hann jafngildir u.þ.b. líkindunum 0,4 % í samanburði við gildandi stroklíkur í Noregi núna um 0,002 %. Þumalfingursregla hagsmunaaðila laxveiðiréttinda o.fl. felur í sér grófa villu, sem nemur tveimur stærðargráðum, eða nánar tiltekið er viðmiðunartalan þeirra 200 sinnum of há. Hitt er annað mál, að fyrir aðstæður á Vestfjörðum og Austfjörðum, þar sem villtir laxar eru tiltölulega fáir í ánum, eru líkindin 0,002 % of há til að erfðafræðilega skaðlaust geti talizt. Þess vegna er nauðsynlegt að fara hægt í sakirnar og fylgjast grannt með laxastrokum næstu árin áður en leyfi verða gefin fyrir meira laxeldi en 40 kt samtímis í sjókvíum hér við landið. Til að heimila eldi umfram 40 kt þyrftu stroklíkur að lækka um allt að heilli stærðargráðu í 2 ppm.
Tilvitnaðri grein sinni lýkur Orri Vigfússon þannig:
"Nú er rétti tíminn til að horfa til vistvænna aðferða í fiskeldi í stað þess að setja viðkvæmt lífríkið hér við land í uppnám með úreltri eldistækni, sem mengar út frá sér, veldur erfðablöndun við villta stofna og magnar upp lúsafaraldra og sjúkdóma, sem hafa reynzt illviðráðanlegir í nágrannalöndum okkar."
Eina aðferðin, sem fullnægir skilyrðum Orra, er laxeldi í eldiskerum á landi. Þar er aðsemin hins vegar ekki sambærileg, þótt sums staðar mætti nota jarðhita til að auka vaxtarhraða laxins. Til að útiloka erfðablöndun hefur sums staðar í litlum mæli verið beitt geldingu á lax í sjókvíum. Allt er þetta á tilraunastigi og kann að verða sett sem skilyrði fyrir fullnýtingu burðarþols íslenzkra fjarða, þ.e. eldi á erfðabreyttum norskum laxi á bilinu 100 kt - 200 kt. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en hægt verður að leyfa svo mikið laxeldi af vísindalegu öryggi með beztu fáanlegu þekkingu (BAT) að vopni.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2017 | 18:22
Að hlaupa illilega á sig
Öllum verða á mistök, og "errare humanum est" sögðu Rómverjar, eða það er mannlegt að skjátlast. Þetta vita allir og eiga að taka tillit til þess í viðbrögðum sínum og gjörðum öllum í stað þess að hrapa að niðurstöðum, hrópa úlfur, úlfur og fella sleggjudóma.
Alveg sérstaklega ætti þessi vísdómur að eiga við hið opinbera vegna þeirrar yfirburðastöðu, sem því hefur verið fengin yfir einstaklingum og félögum þeirra á mörgum sviðum.
Nú hefur Umhverfisstofnun misstigið sig herfilega og traðkað í salatinu, eins og Norðmenn taka stundum til orða, þegar einhverjum verður illilega á. Stofnunin kokgleypti mæliniðurstöður verktaka um styrk mengunarefna frá iðnfyrirtækinu United Silicon, USi, þó að einföld rýni á þeim hefði átt að gefa til kynna strax, að þær voru ótrúverðugar.
Básúnað var út, að krabbameinsvaldandi efni, arsen, væri losað út í andrúmsloftið frá verksmiðjunni í styrk, sem er yfir heilsuverndarmörkum. Það voru 3 atriði, sem hvert og eitt hefðu átt að varna því, að Umhverfisstofnun birti ofurhá mæligildi verktakans, Orkurannsókna Keilis, svo að lokun verksmiðjunnar lá í loftinu í kjölfarið. Þá hefði stofnunin og ríkissjóður sem bakhjarl fengið yfir sig ofurháar skaðabótakröfur. Þessi atriði voru:
- Mæligildi verktakans hækkuðu áður en viðkomandi verksmiðja tók til starfa.
- Vindátt stóð ekki af verksmiðjunni í átt að mælinum, þegar háu gildin voru mæld.
- Mælir í strompi verksmiðjunnar sýndi allan tímann mun lægri og eðlilegri gildi.
Við þessar aðstæður átti Umhverfisstofnun að sannreyna, hvort mælir verksmiðjunnar hefði gilt og rekjanlegt kvörðunarskírteini til fjölþjóðlegra staðla. Ef svo var, átti að fara ofan í saumana á verklagi þessa verktaka í stað þess að básúna tóman þvætting yfir þjóðina um, að USi eitraði út frá sér með þungmálmum og krabbameinsvöldum.
Um er að ræða mjög nákvæmar mælingar á styrk efna u.þ.b. 0,1 % úr mg á m3, þannig að ekkert má út af bregða, svo að ekki hljótist af stórar skekkjur. Þarna voru aðdróttanir um sýnu alvarlegri mengun en viðarsótsagnir. Séu hins vegar PAH-tjöruefni úr kolum losuð út í andrúmsloftið yfir leyfilegum mörkum, verður skilyrðislaust að stöðva þá mengun strax, því að þar eru vissulega krabbameinsvaldar á ferð.
Þá að öðru máli, þar sem eftirlitsstofnanir ríkisins brugðust gjörsamlega:
Nú hefur Rannsóknarnefnd Alþingis um sölu ríkiseignarinnar Búnaðarbankans árið 2003, sem sett var á laggirnar í fyrra, skilað af sér bitastæðri skýrslu fyrir um MISK 30, sem er einni stærðargráðu ódýrari skýrsla en gerð var t.d. um fall sparisjóðanna. Þá hefur t.d. Ríkisendurskoðun skilað skýrslu um þetta efni, sem var vitagagnslaus og beinlínis villandi, því að hún fann ekkert að þessu ferli. Virðisauki við skýrsluskrif er mjög upp og niður.
Nýja skýrslan leiðir þó fram í dagsljósið stórkostlega blekkingaiðju, sem var í raun gróf markaðsmisnotkun, því að seljandanum var talin trú um, að kaupandinn væri í raun annar en hann var. Sökudólgurinn hefur nú bitið höfuðið af skömminni með því að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem segir, að lygarnar hafi engu máli skipt fyrir seljandann, ríkið, sem hafi fengið umsamda upphæð fyrir sinn snúð. Siðblindinginn er að sjálfsögðu dómgreindarlaus og kann engin skil á réttu og röngu. Borgarstjóra þykir við hæfi að gera meiriháttar þróunarsamning um byggingarland við félag þessa manns. Reykvíkingar munu tjá hug sinn til slíks athæfis í borgarstjórnarkosningum að vori.
Það kom glögglega í ljós við rannsókn á þessu Búnaðarbankamáli, að það er ekki nóg að skipa rannsóknarnefnd. Það skiptir öllu máli, að nefndarmenn kunni að vinna og geti leyst sjálfir vandasöm viðfangsefni. Hinar fyrri nefndir eru því marki brenndar að hafa verið dýrar og skilað af sér innihaldsrýrum doðröntum. Þessum ungu nefndarmönnum, sem krufið hafa viðfangsefni sitt til mergjar, ætti nú að fela fleiri verkefni af svipuðum toga. Að rekja slóð peninganna er í mörgum tilvikum aðkallandi. Illgresið verður að rífa upp með rótum og hindra, að það nái að sá fræjum sínum á ný.
Það er deginum ljósara, að þeir, sem mestan skítinn setja í tannhjól markaðshagkerfisins, eru "klíkukapítalistarnir", þ.e. þeir, sem ekki vilja eða treysta sér ekki til að lúta reglum heiðvirðrar frjálsrar samkeppni, heldur sækja undir pilsfald ríkisins með fyrirgreiðslu að hálfu stjórnmálamanna og/eða embættismanna eða nota aðstöðu sína til að koma ár sinni fyrir borð með markaðsmisnotkun. Þetta kallast rentusækni.
Í litlu þjóðfélagi er enn meiri hætta á hvers konar óheiðarleika af þessu tagi, og honum verður að verjast með því að taka mjög hart á samkeppnisbrotum og svindli. Ef litið er til annarra vestrænna ríkja, sést, að refsingar eru hér of vægar og eftirlit bitlítið. Svik og prettir, sem beinast að almannahagsmunum, eiga t.d. ekki að fyrnast. Þeir, sem uppvísir verða að slíku, eiga ekki að fá fleiri tækifæri á viðskiptasviðinu. Miskunnarleysi heitir það, sem hér á við.
Nú eru kaup vogunarsjóða á allt að 10 % hlut þrotabús Kaupþings á undirverði í Arion-banka í umræðunni. Fátt eitt er vitað um fjáreigendur eða uppruna fjárins. Þegar eigandi að stærsta banka landsins á í hlut, er slíkt einfaldlega óviðunandi, og væri víðast hvar á Vesturlöndum, enda stafar fjármálastöðugleikanum ógn af.
Vinstri stjórnin, alræmda, færði kröfuhöfum föllnu bankanna, Kaupþings og Glitnis, Arion og Íslandsbanka á silfurfati af einhverjum dularfullum og annarlegum ástæðum árið 2009, og nauðsynlegt er að komast til botns í þeim gjörningum. Hvað gekk henni til ? Grunsemdir eru um það, en létta þarf aldarlangri leynd af gjörningum vinstri stjórnarinnar og færa sönnur á grunsemdir eða afsanna þær.
Íslandsbanki var færður ríkissjóði sem stöðugleikaframlag slitabús Glitnis í fyrra, en nú er eitthvert "skítamix" að fara af stað með 87 % eignarhlut slitabúsins í Arion. Það verður að ríkja gegnsæi við sölu á banka, og vogunarsjóðir eru næstum síðasta sort, þegar kemur að eigendum banka. Það þarf að gera strangar viðskiptasiðferðiskröfur til eigenda banka, og þeir þurfa að vera "komnir til að vera". Nú reynir á FME, sem á sínum tíma sá ekkert athugavert við aðkomu Hauck & Aufhäuser. Hefur þeim skánað ?
Einn maður gerði efnislega athugasemd við þau sýndarkaup á sínum tíma. Það var Vilhjálmur Bjarnason, þáverandi "bara aðjunkt" og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum. Hann var hæddur fyrir málefnalega gagnrýni sína m.a. af þeim, sem síðar voru afhjúpaðir sem fúskarar, t.d. hjá Ríkisendurskoðun, sem í tvígang hvítþvoði kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum. Opinbert eftirlitskerfi hérlendis er því miður vita tannlaust og verður að brýna klærnar í stað þess að fægja bara neglurnar.
Vilhjálmur skrifaði góða grein í Morgunblaðið 31. marz 2017, "Skúrkar kaupa banka":
"Það er sárt til þess að vita, að þeir, sem áttu að gæta að hagsmunum íslenzka ríkisins, þegar heimilissilfrið var selt, lýsa sig jafnfávísa og raun ber vitni, þegar það koma fram gögn við ein "merkustu" viðskipti þessarar aldar. Vissi bílstjóri Olaviusar Olavius [FI] ekki neitt, hafandi verið viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri ?
Reyndar er það svo, að Olavius Olavius býr utan Íslands flestum stundum, en hefur þó haft aðsetur á sveitasetri á Vesturlandi á stundum. Hann telur Íslendinga fátæka þjóð og telur sig geta komið fram við hana, eins og skrælingja, og þess vegna alltaf sagt: ef ég get einhverja ögn af einhverju tagi, sama hvað það er lítið, þá geri ég það í augsýn alls heimsins. Þannig verður niðurlæging Íslendinga mest."
Þarna eru skírskotanir til "bungaló" í Borgarfirði og seinni tíma ámælisverðra atvika í rekstrarsögu Olaviusar á Íslandi. Olavius er enginn Pétur, þríhross, heldur óuppdreginn fjárplógsmaður, sem komið hefur óorði á auðvaldsskipulagið og þannig gefið afturhaldi ríkiseinokunar á mörgum sviðum "blod på tanden".
"Með því að láta viðgangast viðskiptatilburði, eins og viðhafðir voru í viðskiptum með Búnaðarbanka Íslands hf, megnum við hvorki að sigla né verzla. Þess vegna eignumst við aldrei peninga. Þess vegna verðum við ekki aðeins kúguð þjóð, heldur einnig þjóð í lífsháska."
Við verðum að gera miklu strangari kröfur til okkar sjálfra og annarra í viðskiptasiðferðilegum efnum, hafa þar með varann á okkur og staldra við, þegar málavextir koma undarlega fyrir sjónir, eru óskýrir eða virka óeðlilegir. Núna er nauðsyn siðbótar, eins og var svo sannarlega fyrir 500 árum, en nú vantar Martin Luther.
30.3.2017 | 20:41
Að staldra við
Hljóðnað hefur í sæstrengsumræðunni frá útgáfu s.k. "Kvikuskýrslu" árið 2016 um sæstreng á milli Íslands og Skotlands, enda var slagsíða á henni, og hún var harðlega gagnrýnd. Má þó segja, að hún hafi falið í sér nægilega röksemdafærslu fyrir stjórnvöld að leggja þessa vanburðugu hugdettu á ís, en tækifærið virðist ekki hafa verið notað, sem enn veldur óskiljanlegum draugagangi. Síðast fréttist af einhverjum erlendum verktaka á tali við ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, um áhuga sinn á þessum sæstreng. Vonandi hefur ráðherra gert honum skilmerkilega grein fyrir því, að íslenzka ríkið verður ekki með nokkrum hætti skuldbundið gagnvart tæknilegum og fjárhagslegum rekstri á téðum sæstreng.
Agnes Bragadóttir skrifaði frétt í Morgunblaðið 24. marz 2017 undir fyrirsögninni,
"Áhættan ekki hjá Íslendingum. Þar vitnaði hún í Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, m.a. þannig:
"Hörður sagði, að Landsvirkjun hefði ávallt sagt, að ef til þess kæmi, að lagður yrði sæstrengur, þá yrði að útfæra verkefnið þannig, að áhættan, hvort sem væri rekstraráhætta, framkvæmdaáhættan eða markaðsáhættan, lægi hjá öðrum en Íslendingum."
Þetta eru reyndar hugarórar einir, nema Hörður ætli ekki að láta Íslendinga virkja og eignast virkjanirnar. Hörður virðist ætla að leggja upp með það, að útlendingar, og þá áreiðanlega einkafyrirtæki, því að engin ríkissjóður verður þar bakhjarl, fjármagni, eigi og reki sæstrenginn, og þar verði þá öll áhættan. Þetta er alveg með ólíkindum glámskyggn og barnaleg framsetning á viðskiptaumhverfi sæstrengs, og það er eiginlega alveg ótrúlegt, að forstjórinn skuli bjóða blaðamanni og lesendum Morgunblaðsins upp á aðra eins dómadags vitleysu.
Um er að ræða lengsta sæstreng hingað til og á mesta meðaldýpinu, þar sem 500 km hans verða á meira en 500 m dýpi. Mjög miklar kröfur þarf að gera til togþols og þrýstingsþols slíks sæstrengs. Hættan á miklu fjárhagstapi vegna langs viðgerðartíma á Norður-Atlantshafi er mikil, þar sem kyrrt þarf að vera í sjóinn a.m.k. í eina viku, á meðan viðgerð fer fram.
Það er hægt að hugsa sér fjölmargar sviðsmyndir, þar sem áhættan við lagningu og rekstur sæstrengsins getur komið eiganda hans í koll og riðið honum að fullu. Hann getur líka orðið gjaldþrota vegna tækninýjunga við umhverfisvæna vinnslu á rafmagni, t.d. í þóríum-kjarnorkuverum, sem ræna hann viðskiptunum.
Eigendur virkjana og flutningsmannvirkja á Íslandi, væntanlega Landsvirkjun og Landsnet, munu þá sitja uppi með ónýttar fjárfestingar, sem lán hafa verið tekin fyrir út á sæstrengsviðskiptin. Þau munu samt væntanlega ekki falla í gjalddaga, nema greiðslufall verði. Það er erfitt að komast hjá þeirri tilhugsun, að íslenzkir skattborgarar og raforkunotendur muni þá sitja uppi með tjón, sem vafalítið mundi hafa í för með sér hækkun á raforkuverði á Íslandi, og þannig getur tjón af glannalegum viðskiptum hæglega lent á almennum íslenzkum raforkunotendum. Er þá skemmst að minnast, hvar tjón af völdum glannafenginna fjárfestinga OR á Hellisheiðinni lenti.
Hvers vegna í ósköpunum þessa áhættusækni fyrir hönd íslenzkra skattborgara ? Það eru næg viðskiptatækifæri fyrir Landsvirkjun hér innanlands, og það hefur verið sýnt fram á, að þessi viðskiptahugmynd um téðan sæstreng er andvana fædd og hún verður ekki bragglegri með tímanum. Þess vegna er Landsvirkjun og öðrum opinberum aðilum hollast að láta af þessum hugmyndum, og án opinberrar tilstuðlunar og áhættutöku verður ekkert af svo stórkarlalegum hugmyndum.
28.3.2017 | 13:56
Hættuleg velgengni
Mannkynið hefur tekið stakkaskiptum frá upphafsskeiði iðnvæðingar til vorra daga, e.t.v. ekki í þroska, heldur í aðbúnaði öllum og lífsháttum. Framfarir í raunvísindum voru forsenda þess upphafs þeirra tækniframfæra, sem oft er kennt við smíði gufuvélar James Watt um 1750. Hún markaði mannkyninu braut orkunýtingar til að leysa af hólmi vöðvaafl manna og dýra lífsframfæris og verðmætasköpunar.
Aðalorkugjafinn til að knýja vélar og til upphitunar hvers konar frá þessum tíma og hingað til hefur verið jarðefnaeldsneyti, kol, olía og jarðgas. Við bruna þessara efna, eins og við bruna á viði fyrr og nú, myndast ýmis skaðleg efni, mengunarefni, slæm fyrir öndunarfæri og aðra líkamsstarfsemi manna og dýra, sót, rykagnir, þungmálmar o.fl., en líka gastegund, sem er ekki mengunarefni, heldur eðlileg og nauðsynleg í andrúmsloftinu fyrir viðgang lífsins, en styrkur hennar í andrúmslofti og uppleyst í vatni hefur margvísleg áhrif.
Gastegundin, CO2, koltvíildi, hefur safnazt upp í andrúmsloftinu, og styrkur þess hefur vaxið um tæplega 50 % eða um 130 ppm frá því fyrir iðnbyltingu. Styrkurinn er lítill, en aukningin er hlutfallslega mikil og matið áreiðanlegt. Efnagreining á ís úr jökli hefur leitt þetta í ljós. Eðlisfræðileg áhrif slíkrar uppsöfnunar eru þekkt. Gasið endurkastar og sýgur í sig hluta af varmaútgeislun jarðarinnar; mun meira en af varmaútgeislun sólar til jarðar (önnur bylgjulengd). Afleiðingarnar eru allt að 1,0°C hlýnun neðstu laga lofthjúps jarðar og hlýnun sjávar á 270 árum með vaxandi stigli.
Koltvíildið sést ekki, en afleiðingarnar af auknum styrk þess í andrúmsloftinu leyna sér ekki. Bráðnun jökla, bráðnun íshellunnar á pólunum, hækkandi yfirborð sjávar, auknar veðurfarsöfgar og hitamet víða á jörðunni nánast árlega. Alvarlegast er, að hækki meðalhitastig á jörðunni yfir 2°C (um aðra gráðu í viðbót), þá losna kraftar úr læðingi, sem geta gert hitastigshækkunina stjórnlausa og óafturkræfa. Framtíð lífs á jörðunni í sinni núverandi mynd er í húfi.
Í þessu ljósi ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir mannkyn allt, að forseti Bandaríkjanna, mesta stórveldis heims, ætlar að hafa Parísarsamkomulagið frá desember 2015 að engu. Þetta verður Bandaríkjamönnum til minnkunar. Það hlálega er, að Donald Trump segir mikilvægara að vernda bandarísk störf en að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir, sem þannig tala, skilja ekki, að arðsömum störfum mun óhjákvæmilega fækka mjög við stjórnlausa hlýnun á jörðunni og að kostnaðurinn við að verjast skaðlegum afleiðingum hennar mun kyrkja efnahagslífið.
Losun vegna starfsemi á landi á Íslandi er mikil á hvern íbúa eða 13,7 t/íb eða 85 % meiri en í Evrópusambandinu, ESB. Iðnaðurinn losar helminginn af þessu, svo að með því að leggja niður orkusækinn iðnað, kæmumst við undir ESB-meðaltalið. Það mundi hins vegar ekki leysa úr hinni hnattrænu hlýnun að fórna viðkomandi störfum og verðmætasköpun á Íslandi, því að það er eins víst og 2x2=4, að nýjar verksmiðjur yrðu reistar erlendis í staðinn eða afköstin aukin í eldri verksmiðjum til mótvægis við tapaða framleiðslu hér. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í raforkuverum erlendis mundi framleiðsla á sama magni málma erlendis og nú eru framleiddir á Íslandi hafa í för með sér losun á a.m.k. 10 Mt/ár af CO2 ígildi (Mt=milljón tonn), sem er meira en losun allrar landstarfsemi á Íslandi ásamt fiskveiðiflota og losun alls farþegaflugs til og frá Íslandi ásamt flutningum á sjó til samans.
Þetta vita þeir, sem um þessi mál fjalla innanlands og utan, og þess vegna þurfa Íslendingar ekki að bera kinnroða fyrir því, að losun iðnaðar á gróðurhúsalofttegundum sé mikil og vaxandi hérlendis eða sæti ámæli ábyrgra aðila erlendis. Þessi starfsemi fellur undir "Emission Trade System"-ETS hjá ESB, sem úthluta mun síminnkandi losunarheimildum, og þurfa losunarfyrirtækin að kaupa sér heimildir, sem umfram eru úthlutunina eða að jafna hana út með ræktun. Verð er núna innan við 10 EUR/t CO2, en líklegt verð er um 30 EUR/t CO2 að áratug liðnum. Hagkvæmast verður fyrir viðkomandi fyrirtæki að kaupa sér heimildir á kvótamarkaði á Íslandi, þar sem kvótinn kemur frá bindingu CO2 með ýmiss konar ræktun, t.d. skógrækt. Það væri klókt að gera nú þegar samninga við skógarbændur um slík viðskipti.
Ræktaður skógur er nú á 430 km2 hérlendis. Ef hann verður tífaldaður, mun heildarflatarmál skógar útjafna alla losun iðnaðarins á gróðurhúsalofttegundum (það er væntanlega aðeins skógur yngri en frá 1990, sem taka má með í reikninginn). Það er nægt landrými til þess, því að flatarmál framræsts lands og óræktaðs nemur 80 % af flatarmáli slíks skóglendis, og það ætti að vera talsvert af annars konar landi, söndum og melum, til ráðstöfunar fyrir landgræðslu af ýmsu tagi, t.d. repjuræktun.
Bleiki fíllinn í "gróðurhúsinu" er millilandaflugið. Losun gróðurhúsalofttegunda í háloftunum hefur þreföld gróðurhúsaáhrif fyrir hvert tonn útblásturs á við losun á jörðu niðri. Á árinu 2017 er búizt við 2,4 M ferðamönnum með flugi til landsins. Ef þeir fljúga að jafnaði 8´000 km alls hver um sig, þarf um 0,48 Mt af eldsneyti í þessa flutninga, og losun gróðurhúsalofttegunda við bruna á því nemur 4,3 Mt af koltvíildisígildum, og varlega áætlað verður þá losun af völdum þessara ferðamanna 4,4 Mt með losun hér innanlands. Þetta er 85 % af allri losun Íslendinga á sjó og landi, sem sýnir í hnotskurn, að umhverfinu stafar nú um stundir langmest hætta af ferðaþjónustunni, og svo mun verða allan næsta áratug, en eftir 2030 standa vonir til, að orkuskipti geti orðið í flugvélum, t.d. með rafknúnum hreyflum, fyrst í innanlandsflugi og síðan í tvinnflugvélum á lengri vegalengdum. Þegar ruðningsáhrif einnar atvinnugreinar í atvinnulífinu og umhverfisáhrif eru orðin jafngeigvænleg og ferðaþjónustunnar á Íslandi, þar sem í ár er búizt við 7,2 erlendum ferðamönnum á íbúa landsins, þá hefur vöxturinn verið allt of hraður og tímabært að spyrna við fótum. Ísland er reyndar nú þegar orðið dýrasta land í heimi, en það toppsæti er mjög óþægilegt að verma.
Losun Íslendinga og farþegaflugs til og frá Íslandi á gróðurhúsalofttegundum á árinu 2017 verður líklega eftirfarandi í milljónum tonna og sem hlutfall af heild í svigum:
- Iðnaður 2,3 Mt (24 %)
- Landumferð 0,9 Mt ( 9 %)
- Landbúnaður 0,7 Mt ( 7 %)
- Sjávarútvegur 0,5 Mt ( 5 %)
- Millilandaskip 0,3 Mt ( 3 %)
- Úrgangur 0,3 Mt ( 3 %)
- Virkjanir 0,2 Mt ( 2 %)
- Ferðaþjónusta 4,4 Mt (47 %)
Engum blöðum er um það að fletta, að sjávarútvegurinn er sú grein, sem er til fyrirmyndar á Íslandi um tækniþróun og hagnýtingu tækninnar til bættrar nýtingar hráefnisins og bættrar orkunýtingar, reiknað í orkunotkun á hvert framleitt afurðatonn. Þannig hefur olíunotkun flotans minnkað úr 207 kt árið 1990 í um 130 kt árið 2016 eða um 77 kt, sem eru 37 %. Ef tekinn er með olíusparnaður fiskvinnslunnar, hafði sjávarútvegurinn í heild árið 2014 dregið úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um 43 % samkvæmt nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir Umhverfisráðuneytið, 16 árum fyrr en markmið Parísarsamkomulagsins tilgreindi 40 % minnkun. Þar munar um, að árið 2014 höfðu fiskimjölsverksmiðjurnar minnkað losun sína um 95 % frá 1990. Það er alveg áreiðanlegt, að sjávarútvegurinn mun ekki láta þar við standa, en það stendur upp á yfirvöldin að ryðja burt nokkrum hindrunum. Þar er t.d. um að ræða að efla flutningskerfi raforku, svo að það hefti ekki orkuskiptin, eins og það gerir nú, og að efla rafdreifikerfi hafnanna, svo að það anni þörfum skipaflotans fyrir orkunotkun við bryggju og til að hlaða stóra rafgeyma um borð í framtíðinni.
Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur hjá SFS, segir í viðtali við sjávarútvegsútgáfu Morgunblaðsins, 2. marz 2017:
"Þegar tæknin um borð í þessum 12 nýju skipum, sem eru ýmist komin til landsins eða væntanleg, er skoðuð, þá sést, að olíunotkun þeirra er oftast á bilinu 30 % - 40 % minni en hjá gömlu skipunum. Ekki nóg með það, heldur er oft verið að skipta út tveimur eldri skipum fyrir eitt nýtt."
Þetta þýðir, að m.v. óbreyttan afla verður olíunotkun nýju skipanna aðeins 33 % á hvert tonn fiskjar af olíunotkun skipanna, sem þau leysa af hólmi, sem er frábær árangur.
Annað svið, þar sem olían verður leyst af hólmi með umhverfisvænum hætti, eru farartæki og vinnuvélar á landi. Þar sýna nú frændur vorir, Norðmenn, fagurt fordæmi. Í janúar 2017 var helmingur innfluttra bíla til Noregs rafknúinn, alraf- eða tengiltvinnbílar. Hérlendis er sambærilegt hlutfall aðeins 14 %. Hver er skýringin á þessari forystu Norðmanna ?
Þeir hafa fellt niður opinber gjöld á rafbíla, sem eru jafnvel hærri en hér. Eldsneytisverðið þar er hærra en hér, og raforkuverðið er yfirleitt lágt (hækkar þó við lágstöðu í miðlunarlónum), svo að hinn fjárhagslegi hvati bílkaupenda er meiri þar en hér. Þar að auki hafa norsk yfirvöld verið í fararbroddi við innviðauppbyggingu fyrir rafbílana, og þar eru ekki viðlíka flöskuhálsar í flutningskerfi raforku og hér. Því hefur heyrzt fleygt, að Norðmenn ætli að banna innflutning dísil- og jafnvel benzínknúinna fólksbíla árið 2025. Miklir opinberir hvatar og hreinar orkulindir raforkuvinnslunnar eru meginskýringin á forystu Norðmanna, og er þó ekki gert lítið úr umhverfisvitund Norðmanna.
Stefán E. Stefánsson skrifar eftirfarandi í ViðskiptaMoggann 23. marz 2017:
"Í nýju mati Alþjóða orkustofnunarinnar kemur fram, að ef takast á að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C fram til ársins 2050, sé nauðsynlegt að auka hlutdeild rafbíla í heiminum þannig, að 70 % allra bíla verði einungis knúin raforku um miðja öldina. Í dag er hlutfallið hins vegar 1 %. Því er ljóst, að mikið verk er að vinna."
Erlendis eru a.m.k. 3/4 raforkunnar unnin úr jarðefnaeldsneyti, að hluta til frá Norðmönnum, en Norðmenn hyggjast hins vegar útvega næga raforku fyrir rafbíla sína með gríðarlegum vindmyllulundum, sem spara munu vatn í miðlunarlónunum, en sennilega hækka raforkuverðið.
Hérlendis hefur verið haldið á lofti villandi sjónarmiðum um, að nóg sé að spara og að ekkert þurfi að virkja til að rafvæða bílaflotann. Til að leysa alla jarðefnaeldsneytisnotkun í landinu af hólmi, þarf að virkja 6,0 TWh/ár á næstu 50 árum, og það er yfir 30 % aukning á núverandi raforkuvinnslu í landinu.
Við eigum aðra hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkosti hérlendis en vindmyllulundi, og það er mikilvægt að loka ekki dyrunum á þá með skammsýnum og þröngsýnum aðgerðum á borð við stofnsetningu þjóðgarðs á öllu miðhálendinu, eins og þingflokkur vinstri-grænna hefur gert að tillögu sinni á Alþingi. Slíkt er alls ekki í þágu umhverfisverndar, enda hafa helztu talsmenn þessarar hugmyndar lofað prísað ferðaþjónustuna sem umhverfisvænan valkost í atvinnumálum landsmanna. Slíkt vitnar um dómgreindar- og þekkingarleysi, og með tillögu um samfelldan þjóðgarð á öllu miðhálendinu gætir ofurtrúar á miðstýringu og forræði ríkisvaldsins, sem oftast snýst til verri vegar í höndum valdsmanna og leiðir til ófarnaðar áður en upp er staðið. Fjölbreytileg notkun og skýr ábyrgð sveitarfélaganna er gæfulegri. Landsvirkjun hefur t.d. í umsögn sinni bent á tylft virkjunarkosta, sem fórnað yrði á altari slíks þjóðgarðs, og segir þar ennfremur:
"Landsvirkjun hefur ekki aðra skoðun á því, hvort myndaður verði þjóðgarður, sem kenndur er við miðhálendið, en hann verði afmarkaður með langtíma hagsmuni þjóðarinnar í huga, þ.á.m. þörf okkar fyrir raforku til brýnna eigin þarfa, svo sem samgangna, og til að efla og viðhalda fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna, m.a. með því að taka að okkur verkefni, sem annars mundu unnin með aðstoð ósjálfbærrar orkuvinnslu."