Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Íslenzk matvælaframleiðsla

Það er rétt, sem haldið er fram, gagnstætt úrtöluröddum, að vaxandi viðskiptatækifæri bíða íslenzks landbúnaðar.  Hann mun hvorki keppa á magni né verði, heldur á gæðum, vottuðum gæðum, á öllum sviðum ræktunar og eldis.  Ástæðurnar fyrir tiltölulega björtum horfum eru hlýnandi loftslag og vaxandi meðvitund neytenda um mikilvægi matvælagæða fyrir heilsufar og vellíðan. Grundvöllur gæðanna er takmarkalítið hreint vatn, lítil loftmengun utan þéttbýlis, hreinn jarðvegur og sæmilega hrein strandlengja og sjór næst landi, þótt mikið verk sé óunnið hérlendis til að koma skolphreinsun í bezta mögulega horf.  Hreinsun þess er ábótavant og ekki nóg að dæla óþverranum út fyrir stórstraumsfjöru.

Innan íslenzka landbúnaðarins er almenn vitund um styrkleika og veikleika, tækifæri og áhættur innan þessarar margbreytilegu atvinnugreinar.  Sem dæmi hafa sauðfjárbændur sett sér markmið um, að kolefnisfótspor lambakjötsins hverfi árið 2022, en það nemur nú 28,6 kg CO2eq/kg lambakjöts.  Þetta markmið er til mikillar fyrirmyndar, mun skipa íslenzkri sauðfjárrækt í fremstu röð í umhverfisvernd og mun styrkja samkeppnishæfni hennar innanlands og utan. 

Um framtíð íslenzks landbúnaðar tjáði dr Sæmundur Sveinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, LbhÍ, sig í viðtali við Sigurð Boga Sævarsson í Morgunblaðinu, 2. október 2017, undir fyrirsögninni,

"Styrkist sem matvælaland":

"Hlýnun andrúmsloftsins af völdum gróðurhúsalofttegunda gæti skapað nýjan veruleika og aðstæður í landbúnaði á Íslandi.  Viðbúið er, að hlýnun raski öllum skilyrðum til jarð- og kornyrkju ytra, en aftur gætu þau orðið hagfelldari á Íslandi."

Þetta þýðir, að framleiðni í íslenzkum landbúnaði mun vaxa á þessari öld, og á sama tíma mun verð á matvælum fara hækkandi.  Alþjóðleg samkeppnishæfni íslenzks landbúnaðar mun þar af leiðandi batna.  Þessar viðskiptalega góðu horfur hans ásamt lífsnauðsynlegu hlutverki við fæðuöflun handa landsmönnum, bæði við venjulegar og óvenjulegar ytri aðstæður, leggur yfirvöldum hérlendis þær skyldur á herðar að styðja við landbúnaðinn, þegar á móti blæs, og efla viðgang hans og vöxt.  Ísland er matvælaframleiðsluland og getur orðið enn meira framleiðsluland á lífmassa jurta og dýra, þegar fram í sækir, ef skynsamlega er haldið á spilunum. Að mati blekbónda er grænmeti hvergi betra en frá íslenzkum bændum og svo má lengi telja.

Áfram með dr Sæmund:

"Þá vitum við líka, að, ef tekst með ræktun og friðun að koma gróðurhulu á íslenzkan eldfjallajarðveg, sem er mjög algeng jarðvegsgerð hér á landi, getur hann bundið mjög mikið af koltvísýringi í sig, og það væri mótvægi við loftslagsbreytingarnar.  Í þessum verkefnum hafa íslenzkir bændur hlutverki að gegna, enda eru þeir mikilvægir vörzlumenn landsins."

Hér er komið að efnilegri nýsköpun innan íslenzks landbúnaðar, sem yfirvöldum ber að stuðla að, að hefjist strax, svo að ávinningur mótvægisaðgerða fari að gera sig gildandi innan 5 ára.  Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir slagsmál við ESB út af tugmilljarða ISK greiðslum þangað frá íslenzkum fyrirtækjum og ríkissjóði eftir CO2 losunaruppgjör 2031 í tengslum við skuldbindingar Íslands á Parísarráðstefnunni í desember 2015 og aðild Íslands að sameiginlegri markmiðasetningu EES um losun frá stóriðjunni, millilandaflugi og millilandasiglingum.

  Á skal að ósi stemma, og það jafngildir því að kasta atvinnutækifærum og viðskiptatækifærum á glæ að láta hjá líða að nýta mikið tiltækt landrými á Íslandi til að binda koltvíildi.  Einkar athyglisvert, að íslenzkur eldfjallajarðvegur getur bundið óvenjumikið koltvíildi.  Meðalbinding með skógrækt hérlendis mun nú nema 7,7 t CO2/ha á ári.  Koltvíildisbindingin getur verið sameiginlegt verkefni bænda, stjórnvalda og fyrirtækja, sem sjá fram á, að þau muni vanta koltvíildiskvóta á næsta áratugi og e.t.v. síðar í stað þess að greiða svipaðar eða hærri upphæðir til erlendra aðila fyrir koltvíildiskvóta. Sem dæmi munu álverin þurfa að kaupa sér sívaxandi koltvíildiskvóta, sem gæti numið 1,0 Mt árið 2030.  Hann er hægt að útjafna hér með skógrækt á 130 kha lands.  Þetta landrými er fyrir hendi, sem sýnir gríðarlega möguleika íslenzkra bænda að sækja fram í atvinnulegum efnum.  Það er þjóðhagslega hagkvæmt að útjafna CO2 hérlendis í stað þess að senda fúlgur fjár utan.  Ríkissjóður er eigandi mikilla landareigna, sem leggja má undir þessa starfsemi, og ábyrgðarmenn hans eiga að sýna frumkvæði við að ýta þessari starfsemi úr vör.

Í þessu ljósi er s.k. "eyðibýlastefna", sem fráfarandi landbúnaðarráðherra hefur verið sökuð um að reka gagnvart sauðfjárbændum í nauðum, algert glapræði og eins skammsýn og mest getur verið.  Það á ekki að kaupa bændur til að hætta búskap vegna tímabundinna markaðserfiðleika í tiltekinni grein, heldur að aðstoða þá við að koma fleiri stoðum undir starfsemina, eins og hér hefur verið gert að umræðuefni.  Stærsta umhverfisvá Íslands er uppblástur lands, og öll landgræðsla er vörn gegn þeirri vá, og í henni felst mikil umhverfisvernd, þótt hún feli í sér byltingarkennda breytingu á gróðurfari.  

"Við [LbhÍ] þurfum klárlega að styrkja tengslin við bændur.  Því vil ég, að nú verði farið í stefnumótunarvinnu með bændum, fulltrúum hagsmunafélaga þeirra og afurðastöðva og leitað eftir sjónarmiðum fólks um, hver þróunin í landbúnaðinum verði á næstu árum - sú vinna verður gríðarlega þýðingarmikil fyrir mótun á áherzlum skólans til næstu ára."

Þetta er skynsamlega mælt hjá Sæmundi, rektor.  Afrakstur þessarar vinnu verður vafalaust tekinn saman í skýrslu, sem stjórnvöld landbúnaðarmála geta notfært sér og fellt inn í sína stefnumörkun.  Að lokum sagði Sæmundur í þessu viðtali:

"Við þurfum líka að horfa til þess, hvernig megi auka virði framleiðslu landbúnaðarafurða frekar en magn.  Enn fremur verður að tryggja sjálfbærni í framleiðslu þessara afurða.  Hér innanlands þarf ekki endilega að auka framleiðsluna, en hún þarf klárlega að verða virðismeiri og til þess þarf þekkingu, og þar gegnir LbhÍ lykilhlutverki."  

Vegna verðfalls erlendis blasir við fjárhagsvandi sauðfjárbænda, vegna þess að 35 % framleiðslunnar eru flutt utan um þessar mundir.  Það er engin ástæða fyrir ríkissjóð að greiða með útflutningsvöru, en það er full ástæða til að viðhalda lambakjötsframleiðslu í landinu, m.a. til að draga úr líkum á fæðuskorti við hættuaðstæður innanlands eða utan. Þá þarf að styðja við framleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn, þegar verð erlendis eru undir kostnaði við framleiðsluna hér. Þetta verður líklega bezt gert með beingreiðslum, t.d. á 90 % af innanlandsneyzlunni, sem þá nemur um 5900 t.  Til að jafna verðsveiflur niður á við má t.d. miða við afurðaverð til bænda síðustu 9 ár á núvirði.  Það nemur 582 ISK/kg, en afurðaverð í ár er 369 ISK/kg.  Mismunurinn er 213 ISK/kg, og uppbótin verður þá 213 kISK/t x 5900 t/ár = 1,3 miaISK/ár.  Þessu fé er betur varið til að viðhalda byggð og atvinnustarfsemi í dreifbýli en til að leggja niður búskap, sem með því að aðlaga sig markaðsaðstæðum er líkleg til bættrar afkomu og arðsemi í framtíðinni, eins og rektorinn benti á.

Ein er sú grein landbúnaðarins, sem meiri opinbera umfjöllun hefur hlotið en sauðfjárræktin, og það er fiskeldið, sem ýmist er stundað sem strandeldi eða landeldi, en verður í framtíðinni e.t.v. stundað í stórkvíum fyrir utan firðina, eins og Norðmenn eru að hefja tilraunir með núna.  Mestur vöxtur hérlendis er í laxeldi, en þar hefur ásteytingarsteinninn verið strok eldislaxa úr strandkvíum, og síðan ganga þeirra upp í nærliggjandi ár og hrygning þeirra þar.  

Hnífurinn stendur í kúnni með það, hvort áhættan sé nú orðin ásættanlega lítil til að leyfa umtalsvert laxeldi í Ísafjarðardjúpi, a.m.k. 15 kt/ár í fyrsta áfanga.  Laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem sjókvíaeldi stunda, hafa nú innleitt nýja og traustari gerð eldiskvía og tileinkað sér ný og stranglega skjalfest vinnubögð samkvæmt norskum gæðastaðli.  Fyrsta reynslan af þessari nýju tækni er svo jákvæð, að af henni má draga þá ályktun, að strokhlutfallið úr eldiskvíunum sé svo lágt, að m.v. 30 kt/ár í Ísafjarðardjúpi þurfi ekki að búast við hærra hlutfalli eldislax í ám Ísafjarðardjúps en 4 % af villtum laxi þar, sem er leyfilegt hámark samkvæmt Hafrannsóknarstofnun.  

Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir þróun byggðar og atvinnustarfsemi á Vestfjörðum, að yfirvöld dragi ekki lappirnar við að opna á þessa starfsemi í Ísafjarðardjúpi, svo að einhverju nemi.  Það hangir reyndar svo mikið á spýtunni, að varðar þjóðarhag, því að laxeldið er svo öflug grein, að framtíðar starfsemi hennar í Ísafjarðardjúpi getur haft mælanleg áhrif á landsframleiðsluna.  Þess vegna væri engin goðgá, að Alþingi mundi setja sérlög um laxeldi þar, sem mundi þá verða fordæmisgefandi rammi fyrir sjókvíaeldi almennt.

Geldlax hefur verið nefndur sem valkostur, en geldingin verið bæði ómannúðleg og dýr og fiskurinn þrifizt illa í kjölfarið.  Sú aðferð hefur ekki verið vænleg, en nú berast tíðindi frá Noregi um líffræðilega aðferð, sem hindrar myndun kynkirtla í fiskinum.  Aðferðin þykir lofa góðu, og hún snýst ekki um erfðabreytingu.  Fiskifréttir sögðu frá þessu 19. október 2017 í greininni:

"Risaskref í áttina að eldi á geldlaxi":

"Í fréttatilkynningu frá Nofima [rannsóknarstofnun norska matvælaiðnaðarins] segir, að fiskurinn, sem um ræðir, líti eins út og hegði sér rétt eins og frjór lax.  Hins vegar mætti hugmyndin, sem þessi niðurstaða byggir á, mikilli tortryggni, þegar hún var upphaflega kynnt, en aðferðin byggir á því, að fiskurinn er ekki erfðabreyttur, heldur átt við myndun ákveðinna boðefna, svo að kynkirtlamyndun verður fiskinum ómöguleg."

Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en eldi geldfisks hefst á Íslandi, þar sem téð aðferð er ný af nálinni, miklar rannsóknir eftir í Noregi og síðan leyfisferli á Íslandi.  Að bíða eftir geldfiski er ekki gild afsökun stjórnvalda fyrir því að draga lappirnar í þessu leyfismáli fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Það er ekki eftir neinu að bíða fyrir Hafró að endurskoða afstöðu sína á grundvelli nýrra upplýsinga eða ella fyrir Alþingi að setja sérlög um þessa starfsemi.  

 

 

 

 

 

 


Orkuflutningskerfi í bóndabeygju

Rafmagn úr sjálfbærum orkulindum, hitaveitur frá jarðvarmalindum og hagkvæm nýting sjávarauðlindanna umhverfis Ísland, mynda undirstöðu samkeppnishæfs nútíma samfélags á Íslandi.  Án einhvers þessa væru þjóðartekjur á mann ekki á meðal hinna hæstu í heimi, heldur jafnvel undir miðbiki í Evrópu, orkukostnaður landsmanna væri hundruðum milljarða ISK hærri á ári en nú er, og mengun væri svo miklu meiri, að sjóndeildarhringur væri ekki í meira en 100 km fjarlægð, heldur e.t.v. í 50 km fjarlægð.  Allar þessar 3 náttúruauðlindir skipta þess vegna sköpum fyrir landsmenn í bráð og lengd.

Það er hins vegar ekki nóg að virkja endurnýjanlegar orkulindir og setja þar upp rafala með viðeigandi búnaði, að bora holur eftir heitu vatni og að veiða fiskinn; það verður að koma vörunni til neytandans, svo að allir framleiðsluliðirnir græði, birgirinn, notandinn og hið opinbera.  Þetta er yfirleitt ekki vandamál, en það er þó orðið að meiri háttar þjóðarvandamáli, hversu miklir annmarkar eru af mannavöldum á því að flytja raforkuna frá afhendingarstað virkjunar og til dreifiveitu, sem flytur hana til kaupandans. Ríkisvaldið getur ekki liðið, að eitt ár líði á eftir öðru, án þess að mikilvæg atvinnusvæði fái nægt rafmagn, svo að ekki sé nú minnzt á ófullnægjandi afhendingaröryggi á Vestfjörðum.  Vekur furðu langlundargerð þingmanna í NA-kjördæmi, að þeir skuli ekki hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þetta mikla hagsmunamál Eyfirðinga.  

Aðallega stafar þetta af andstöðu íbúa við loftlínulögn í sjónmáli úr hlaðvarpanum.  Stundum finnst þeim, að þeir njóti ekki ávinnings af línunni til samræmis við óþægindi og "sjónmengun", sem þeir telja sér trú um, að  stafa muni af nýrri loftlínu, jafnvel þótt sú gamla hverfi.  

Landsnet (LN) þarf í slíkum tilvikum að koma til móts við íbúana og sýna þeim fram á, að fyrirtækið hafi lágmarkað sjónræn áhrif mannvirkisins, eins og tæknilega er hægt.  Þetta þýðir, að minnst áberandi línustæði er valið, t.d. frá þjóðvegi séð, línuturnar valdir þeirrar gerðar, að þeir falli sem bezt að landslaginu og lína færð í jörðu á viðkvæmustu stöðunum (að dómi sveitarstjórnar) í þeim mæli, sem tæknilega er fært.  Hafi þetta allt verið skipulagt og kynnt, ætti viðkomandi sveitarstjórn að bera skylda til að samþykkja framkvæmdina án tafar og veita henni öll tilskilin leyfi, enda hlýtur andstæð afstaða að valda sveitarfélaginu stórtjóni, a.m.k. til lengdar.  

Sem dæmi um kreppuástand í einu héraði vegna ófullnægjandi flutningsgetu raforku þangað má taka Eyjafjörð og vitna í baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 13. október 2017,

"Kreppir að um orku á Eyjafjarðarsvæðinu":

""Staðan er vond og langt í úrbætur", segir Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.  Hún segir, að orkuskortur hamli uppbyggingu.

"Við höfum verið að reyna að koma okkar svæði að, m.a. hjá Íslandsstofu, en þar hrista menn bara hausinn.  Við erum ekki að ræða um stóriðju, en til að atvinnulífið geti haldið áfram að blómstra, þarf orku, sem er til í kerfinu.  Það vantar bara leiðir til að koma henni til okkar", segir Elva."

Hömlur af þessu tagi eru verri en nokkur viðskiptahöft, þær eyðileggja alls konar tækifæri fyrirtækja og einstaklinga og lama samkeppnihæfni svæðisins.  Það varðar þjóðarhag, að stjórnvöld taki þessi mál föstum tökum strax.

"Árni V. Friðriksson, formaður samtaka atvinnurekenda á Akureyri og í nágrenni, segir, að vegna þess, hversu flutningsgetan er lítil til og frá Akureyri, séu fyrirtækin eins og á enda kerfisins.  Þegar önnur hvor leiðin lokast, sérstaklega austurlínan, sem er öflugri en vesturlínan, skapist vandamál hjá notendum.  Þeir, sem séu við endann, verði verr úti en aðrir, þegar flökt verði á rafmagninu.  Bilanir, sem verði langt í burtu, geti bitnað á þeim.  

Öflug fyrirtæki eru í matvælaframleiðslu á Akureyri, eins og mjólkursamlag og bjórgerð.  Einnig þjónustufyrirtæki og fyrirtæki í málmiðnaði."

Hér kemur fram, að gagnvart öðrum mesta þéttbýliskjarna landsins getur LN ekki uppfyllt grundvallarreglu sína um afhendingaröryggi raforku, s.k. (n-1) reglu, sem snýst um, að notendur eigi ekki að verða fyrir tjóni af einni stakri bilun í flutningskerfinu.  Jafnframt þekkist það hvergi í þróuðum löndum, að bilun hjá öðrum raforkunotanda í meira en 200 km fjarlægð valdi flökti á spennu og tíðni hjá öðrum notanda, langt út fyrir fjölþjóðleg viðmiðunarmörk, svo að tjón verði á búnaði og framleiðslu.  Þetta setur íslenzka flutningskerfið í hóp frumstæðra flutningskerfa og hamlar verðmætasköpun í landinu.  Þetta ástand er gjörsamlega óviðunandi, og nýkjörið Alþingi verður að fjalla af festu og alvöru um úrlausnir, væntanlega undir forystu þingmanna NA-kjördæmis.

Árlegur meðalkostnaður vegna ófyrirséðra bilana á stofnkerfi raforku 2005-2015 var miaISK 1,5 á verðlagi 2015.  Þá er ótalið tjón af völdum bilana í dreifiveitum og hjá notendum, en stundum verða bilanir hjá notendum af völdum spennusveiflna með upptök í stofnkerfi eða dreifiveitu.  Langflestar fyrirvaralausar bilanir urðu á Vestfjörðum, 150 hjá Orkubúi Vestfjarða (OV) árið 2016, og í flutningskerfi Landsnets verða árlega um 30 slíkar bilanir á 132 kV Vesturlínu og í 66 kV kerfinu á Vestfjörðum, alls um 180 raforkutruflanir á ári eða annan hvern dag að jafnaði.  Algerlega óviðunandi ástand raforkukerfis á stóru og sífellt mikilvægara landsvæði.   

Eftir því, sem álagið á Vestfjörðum eykst með miklum fjárfestingum í atvinnulífi þar, t.d. í laxeldi, þá verður hver straumleysismínúta dýrari.  Með sama áframhaldi verður þess ekki langt að bíða, að ófullnægjandi raforkugæði kosti Vestfirðinga 2,0 miaISK/ár, ef ekkert verður að gert. Með svo frumstætt raforkukerfi verður ekki unnt að efla atvinnulíf á Vestfjörðum sem vert væri og annars væri raunhæft.  Samkvæmt núverandi burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar bera Vestfirðir u.þ.b. 50 kt/ár af laxi til slátrunar.  Varlega áætlað mun það standa undir 40 miaISK/ár í veltu, en árlegt tjón vegna rafmagnstruflana gæti numið 5 %/ár af þessari veltu.   Þetta er fyrir neðan allar skriður og sýnir, að OV og LN verða að einhenda sér þegar í stað í nauðsynlegar umbætur.  Þær hafa þegar beðið allt of lengi. 

Rafmagnsgæði á Vestfjörðum geta ekki orðið fullnægjandi með því einvörðungu að færa loftlínur í jörðu og mynda hringtengingu allra helztu aðveitustöðva.  Til viðbótar er Vestfirðingum nauðsyn að verða sjálfum sér nógir um raforku, en því fer fjarri, að svo sé nú og vantar rúmlega helming af aflþörfinni eða um 22 MW.

Orku- og aflþörf Vestfirðinga mun vaxa hratt á næstu árum, ef þróun atvinnulífsins þar gengur að óskum, og gæti aflþörfin numið 120 MW árið 2040 með 80 kt/ár fiskeldi (landker meðtalin), 10´000 manna byggð, rafbílavæðingu, rafvæðingu hafnanna og repjuvinnslu fyrir fiskeldið.

Að ráðast fljótlega í virkjun Hvalár á Ströndum, 55 MW, er alls engin goðgá, því að sú þróun atvinnulífs, sem að ofan er nefnd, felur í sér 80 MW viðbótar aflþörf árið 2040 m.v. 2016 og fullnýtingu virkjunarinnar strax eftir gangsetningu með sölu á orku út fyrir Vestfirði.  Á innan við einum áratugi munu Vestfirðir geta tekið til sín alla orku Hvalárvirkjunar og Vestfirðingar þurfa þá nýja vatnsaflsvirkjun.

Hér er um að ræða byltingu á högum Vestfirðinga, sem er framkölluð með öflugri uppbyggingu fiskeldis, sem flestir þingmanna NV-kjördæmis geta vafalítið stutt.  Slíkur stuðningur er nauðsynlegur, því að þessi atvinnuþróun er útilokuð án innviðauppbyggingar, sem m.a. felur í sér klæddan og burðarmikinn láglendisveg frá Bolungarvík og suður til Bíldudals og frá Patreksfirði til Bjarkarlundar.  

ipu_dec_5-2011 

 

 


Sæstreng bar ekki hátt í kosningabaráttu 2017

Sæstrengur á milli Íslands og Skotlands hefur stundum vakið talsverða umræðu hérlendis, en hafi hann borið á góma í nýafstaðinni kosningabaráttu um sæti á Alþingi, hefur slíkt farið fram hjá blekbónda.  Þann 19. október 2017 birtist þó skrýtin grein í sérblaði Viðskiptablaðsins, "Orka & iðnaður", þó ótengd kosningabaráttunni að því, er virðist, og verður vikið að téðri grein í þessum pistli.

Að lítt rannsökuðu máli ætlar blekbóndi að halda því fram, að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki tekið skýra afstöðu með eða á móti aflsæstreng til útlanda.  Slíkt afstöðuleysi er hægt að réttlæta með því, að enginn viti enn, hvernig kaupin muni gerast á eyrinni og fyrr sé ekki tímabært að taka afstöðu.  Hér verður sýnt fram á í stuttu máli, að enginn viðskiptagrundvöllur er eða verður fyrir þessari hugmynd.  Áður en menn fara að mæla þessu verkefni bót ættu þeir að sjá sóma sinn í að leggja fram útreikninga, sem benda til þjóðhagslegrar hagkvæmni verkefnisins. Annars er áróður fyrir þessum sæstreng úr lausu lofti gripinn. 

Með vísun til grundvallarafstöðu ættu stjórnmálaflokkarnir hins vegar að vera í færum nú þegar að styðja við hugmyndina um téðan sæstreng eða að hafna henni.  Þessi grundvallarafstaða snýst um það, hvernig siðferðilega er réttmætt að nýta náttúruauðlindir Íslands.  Á að reyna að hámarka verðmætasköpun úr auðlindunum hér innanlands og þar með að nýta þær til að skapa fjölbreytilega atvinnu hér innanlands, eða á að senda þær utan sem hrávöru og láta aðra um að beita hugviti sínu og markaðssamböndum til verðmætasköpunar ?  Þriðji kosturinn er, eins og vant er, að gera ekki neitt.  Það heitir í munni sumra "að láta náttúruna njóta vafans" og er ofnotuð klisja.

Tökum dæmi af áliðnaðinum á Íslandi. Hann notar mikla raforku, eða um 14,5 MWh/t Al og framleiðslan er um 0,98 Mt/ár Al. Ætla má, af upplýsingum um tekjur hans og kostnað að dæma, að jafnaðarlega verði um 40 % af veltu hans eftir í landinu. 

Álverin eru fjölþættir og flóknir vinnustaðir, sem gera miklar kröfur til sjálfra sín um gæði, umhverfisvernd og öryggi starfsmanna.  Allt krefst þetta hátæknilausna, enda eru fjölmargir verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar o.fl. sérfræðingar að störfum fyrir íslenzku álverin, bæði á launaskrá þeirra og sem verktakar. 

Þess vegna er afurðaverð íslenzku álveranna talsvert hærra en hráálsverðið, s.k. LME.  Má reikna með 20 % "premíu" eða viðbót að jafnaði, svo að um USD 2500 fáist nú fyrir tonnið af áli frá Íslandi.  Þessi framleiðsla væri útilokuð hérlendis án nýtingar hinna endurnýjanlegu orkulinda Íslands, og þess vegna má draga þá ályktun, að með verðmætasköpun hérlendis úr raforkunni fáist: 69 USD/MWh (=2500 x 0,4/14,5) fyrir raforkuna í stað um 30 USD/MWh, sem álverin kaupa raforkuna á.  Verðmætasköpunin innanlands nemur tæplega 40 USD/MWh, sem þýðir 2,3 földun orkuverðmætanna fyrir landsmenn með því að nýta orkuna innanlands.  

Er mögulegt fyrir sæstreng að keppa við 69 USD/MWh ?  Svarið er nei, útreikningar blekbónda hér að neðan benda eindregið til, að sæstrengur sé engan veginn samkeppnisfær við stóriðju um raforkuna á Íslandi.  Til marks um það er útboð á vegum National Grid, brezka Landsnets, í haust um kaup á umhverfisvænni orku inn á landskerfið.  Mun lægri verð voru boðin en áður hafa þekkzt, t.d. var raforka frá vindmyllum úti fyrir ströndum ("offshore windmills") boðin á 57,5 GBP/MWh, sem samsvaraði 76 USD/MWh.  Það verður alls ekki séð, að Englendingar (Skota vantar ekki umhverfisvæna raforku) muni vilja kaupa raforku frá Íslandi við hærra verði en þeir geta fengið innlenda, endurnýjanlega orku á.

Gerum samt ráð fyrir, að vegna niðurgreiðslna brezka ríkisins til vindmyllufyrirtækjanna mundu Englendingar vilja kaupa orku frá Íslandi við enda sæstrengsins í Skotlandi (þá er eftir að flytja orkuna til Englands með talsverðum kostnaði) fyrir 80 USD/MWh.  

Þetta er raunar hærra en þjóðhagslegt virði raforkunnar á Íslandi, en munu íslenzku virkjanafyrirtækin fá á bilinu 30 - 69 USD/MWh í sinn hlut fyrir raforkuviðskiptin við Englendinga ?  Lægra verðið lætur nærri að vera meðaltal núverandi verða fyrir orku til álveranna, og hærra verðið er lágmark þjóðhagslega hagkvæms raforkuútflutnings.

  Virkjanafyrirtækin mundu fá í sinn hlut úr Englandsviðskiptunum: VV=80-FG = 0 (sbr útskýringar að neðan).   

þ.e. mismun enska orkuverðsins og orkuflutningsgjaldsins um sæstrenginn og endamannvirki hans.  Blekbóndi gerði sér lítið fyrir og reiknaði út, hvaða gjald eigandi sæstrengskerfisins yrði að taka, svo að fjárfesting hans gæti skilað 8 %/ár arðsemi yfir 25 ára afskriftartíma að teknu tilliti til 10 % orkutapa um þessi mannvirki og 2 %/ár af stofnkostnaði í annan rekstrarkostnað. 

Ef gert er ráð fyrir 1200 MW flutningsgetu mannvirkjanna og 90 % nýtingu á þeim á ári að jafnaði m.v. fullt álag, nemur orkusalan út af mannvirkjunum 8,6 TWh/ár.  (Þetta er um 45 % af núverandi orkusölu á Íslandi.)  Sé gert ráð fyrir stofnkostnaði sæstrengsmannvirkja 4,7 MUSD/km, eins og gefið hefur verið upp fyrir sambærilegt sæstrengsverkefni á milli Ísrael og meginlands Grikklands, þá mun "ÍSSKOT" verkefnið kosta MUSD 5´640.

Niðurstaða útreikninganna á þessum forsendum er sú, að fjármagnskostnaður (vextir og afskriftir) nema 535 MUSD/ár og rekstrarkostnaður alls er 149 MUSD/ár.  

Heildarkostnaðurinn nemur 684 MUSD/ár, sem útheimtir flutningsgjald um mannvirkin: FG=80 USD/MWh. 

Ásgeir Magnússon, blaðamaður, er höfundur áður nefndrar greinar,

"Hverfandi áhrif sæstrengs á orkuverð".  

Heiti greinarinnar er illa rökstutt, en hún er reist á skýrslu frá brezku Landsvirkjun.  Má benda á þveröfuga reynslu Norðmanna, en norskir raforkuseljendur hafa freistazt til að selja of mikla orku utan og þá lækkað svo mikið í miðlunarlónum Noregs, að þeir hafa orðið að flytja inn rándýra orku til að koma í veg fyrir orkuskort.  Á Íslandi er miðlunargetan tiltölulega mun minni en í Noregi, og hér verður að sama skapi meiri hætta á vatnsleysi á veturna, sem þá mundi útheimta innflutning á margföldu innlendu raforkuverði.  Hér er um hreinræktaða spákaupmennsku að ræða með alla raforkunotendur hérlendis sem tilraunadýr og hugsanleg fórnarlömb. 

Það er ótrúlega yfirborðsleg umfjöllun um orkumál í téðri grein Andrésar, þar sem hvað rekur sig á annars horn.  Hér verður birtur úrdráttur til að sýna, hversu lágt er hægt að leggjast í áróðri fyrir samtengingu raforkukerfa Íslands og Englands (um Skotland), sem á sér marga tæknilega og umhverfislega annmarka, sem ekki verða gerðir að umræðuefni hér:

"Kæmi til þess [tengingar raforkukerfa Englands og Íslands-innsk.BJo], má ljóst vera [svo !], að sæstrengur myndi auka tekjur af orkusölu hér á landi [ofangreindir útreikningar benda til annars-innsk.BJo], auka gjaldeyrisflæði til landsins og rjúfa markaðseinangrun raforkumarkaðarins hér á landi [Englendingar mundu verða stærsti einstaki raforkukaupandinn.  Það felur í sér mikla viðskiptalega áhættu. - innsk. BJo].  Í framhaldi af því myndu rekstrarskilyrði stóriðju á Íslandi taka að breytast [eru refirnir ekki til þess skornir ? - innsk.BJo], þó að það tæki sinn tíma vegna þeirra löngu samninga, sem þar eru í gildi. [Orkusamningar til langs tíma, 25-35 ára, eru ekki síður í hag virkjanafjárfestisins, því að með slíka afkomutryggingu fær hann hagstæðari lánakjör - innsk. BJo.]  Segja má, að stóriðjan hafi verið notuð til orkuútflutnings, en hún getur tæplega keppt við beinan orkuútflutning um sæstreng til lengdar.  [Fyrri setningin er rétt, en sú seinni kolröng, eins og útreikningar blekbónda hér að ofan sýna - innsk. BJo.]

Áhrif sæstrengs á atvinnulíf gætu því reynzt töluverð, en sjálfsagt þykir mörgum ekki síðri ávinningur í umhverfisáhrifum þess, að stóriðjan geti vikið. [Þetta er amböguleg málsgrein og virðist reist á dylgjum um, að stóriðjan mengi.  Þegar um stærstu raforkunotendurna hérlendis, álverin, er að ræða, er umhverfissporið hverfandi og t.d. ekki merkjanlegt í gróðri við Straumsvík og í lífríkinu úti fyrir ströndinni vegna öflugra mengunarvarna - innsk. BJo.]  Fyrir nú utan hitt, að þannig leysi hrein og endurnýjanleg íslenzk orka af hólmi mengandi og óafturkræfa orkugjafa erlendis. [Þetta er hundalógík, því að orkukræf iðjuver hérlendis, sem hætta rekstri, verða að öllum líkindum leyst af hólmi með mengandi og ósjálfbærum orkugjöfum erlendis - innsk. BJo.]

Þekkingarlaust fólk um orku- og iðnaðarmál finnur oft hjá sér þörf til að tjá sig opinberlega með afar neikvæðum og grunnfærnislegum hætti um þennan málaflokk.  Það virðist skorta skynsemi til að átta sig á því, að það hlýtur að gera málstað sínum óleik með því að túðra tóma vitleysu.

Hér hefur verið sýnt fram á, að orkuútflutningur um sæstreng frá Íslandi til Skotlands með landtengingu við England getur ekki staðið undir neinum virkjanakostnaði á Íslandi vegna nauðsynlegs flutningsgjalds um sæstrengsmannvirkin.  Sæstrengurinn verður sennilega aldrei samkeppnisfær við orkusækinn iðnað á Íslandi.   

Tröllkonuhlaup

 

 

 

 

 

 


Hægir á hjólum efnahagslífsins

Þann 4. október 2017 ákvað Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að lækka stýrivexti bankans um 0,25 %.  Þetta er staðfesting Seðlabankans á því, að nú hægir á hjólum efnahagslífsins, spurn eftir vinnuafli og hagvöxtur fer minnkandi. Samt er enn góður hagvöxtur, en hann fer minnkandi, og hagkerfið virðist stefna inn til mjúkrar lendingar. 

Frekari rök fyrir vaxtalækkun er verðhjöðnun í landinu síðustu 12 mánuði 3,1 % á helztu vörum og þjónustu, sem almenningur notar, en 1,4 % verðbólga, sé húsnæðiskostnaði, sem e.t.v. vigtar of mikið í vísitölunni, bætt við. Nýleg rannsókn leiddi í ljós, að verðlækkunaraðgerðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta kjörtímabili, þ.e. afnám almennra vörugjalda og tolla ásamt lækkun VSK á flestum vörum úr 25,5 % í 24,0 %, hafa nú skilað sér að fullu til neytenda.  Þá breyttist viðskiptaumhverfið til hins betra við þetta, svo að COSTCO og Hennes & Mauritz ákváðu að hasla sér völl á Íslandi.  Öllu þessu voru vinstri grænir á móti, eins og sönnum afturhaldsflokki sæmir, sem lítur á neytendur og skattborgara sem jarmandi sauðfé í rétt, sem ríkið eigi að rýja inn að skinni. Því miður virðast vinstri grænir alltaf velja verri kostinn, eigi þeir tveggja kosta val.  Ef þessum fíl verður hleypt inn í postulínsbúðina, þá mun verða hér hörð lending hagkerfisins og kaupmáttur ráðstöfunartekna alls þorra þjóðarinnar mun hrynja.  Það er nefnilega engan veginn sama, hvaða stjórnarstefnu er fylgt um okkar sameiginlega sjóð, ríkissjóðinn, blessaða. 

Við þessar aðstæður er von á vinstri stjórn eftir Alþingiskosningar 28. október 2017.  Þá má því miður búast við "harðri lendingu" hagkerfisins af sömu ástæðum og bíða varð uppsveiflu eftir samdráttinn mikla 2008-2009 allt þar til 2013, en þá tók ný ríkisstjórn við, sem jók mönnum bjartsýni. Hagvöxtur fór reyndar að taka við sér árið 2012 vegna makrílgengdar og fjölgunar erlendra ferðamanna.

Ástæður langdreginnar kreppu á Íslandi voru stærsti hugmyndafræðilegi sigur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, fram að þeim tíma, þ.e. 132 skattahækkanir vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Mun vinstri grænum takast að slá þetta met á næsta kjörtímabili með ríkisstjórn undir forsæti frasa lýðskrumarans Katrínar Jakobsdóttur, sem gerð hefur verið afturreka með grundvöll kosningabaráttu sinnar, margtugginnar þvælu um ójafna tekju- og eignaskiptingu á Íslandi og hár arðgreiðslur í sjávarútvegi, sem eru einfaldlega miklu lægri en gengur og gerist í íslenzkum fyrirtækjum sem hlutfall af hagnaði. Arður af fyrirtækjum eru sambærilegir vöxtum af öðrum fjárfestingum.  Þetta skilja ekki vinstri grænir og kalla þjófnað.  Er þetta fólk "med fulle fem" ?

Við vitum a.m.k. um hvað draumfarir vinstri manna á síðasta þingi snerust.  VG gerði tillögu um 333 miaISK auknar álögur á 5 árum, þ.e. árið 2018 miaISK 53, 2019 miaISK 64, 2020 miaISK 69, 2021 miaISK 72 og 2022 miaISK 75.  Í árslok 2022 munu þessar auknu skattbyrðar hafa numið 0,99 MISK á hvert mannsbarn í landinu eða 3,9 MISK á hverja 4 manna fjölskyldu.  Auðvitað munu þessar auknu byrðar lenda þyngst á þeim, sem nú þegar standa undir bróðurpartinum af tekjuskattsbyrðinni, þ.e. 4 hæstu tekjutíundunum, þeim einstaklingum, sem eru með um 5 MISK/ár í tekjur og hærra. Að reyna að halda því fram, að þessum hækkunum sé hægt að ná án þess að auka við skattbyrði almennings, eins og Katrín Jakobsdóttir hefur gert, er aumkvunarverður loddaraháttur.  Katrín þessi er fullkominn sauður í sauðargæru, þegar kemur að fjármálum ríkisins og efnahagsmálum almennt, enda hefur hún verið gerð afturreka með vitleysuna með opinberum útreikningum, sem sýna, að hún getur í mesta lagi kreist 15 miaISK/ár út úr launafólki með 25 MISK/ár eða meir,út úr eigendum yfir MISK 150 og sparendum.  Það vellur með öðrum orðum upp úr henni vitleysan.

Það verða þess vegna vafalaust fleiri fyrir barðinu á vinstri flokkunum, þegar þeir taka til við að hækka skattana, því að ekki er ólíklegt, að þeir hækki tekjuskatt á fyrirtæki og virðisaukaskattinn.  Fjármagnstekjuskattur er hagfræðilega skaðlegasta skattahækkunaraðgerðin.

Um hugsanlegar skattahækkanir fórust Alþingismanni vinstri grænna svo orð í andsvörum við fyrirspurn Samfylkingarþingmanns, samkvæmt grein Óla Björns Kárasonar í Morgunblaðinu 4. október 2017:

"Hugmyndafræði skattheimtuflokkanna er skýr":

"Ég get þó upplýst háttvirtan þingmann um, að það liggur fyrir, að við höfum rætt um tekjuskatt, þ.e. þrepaskipt tekjuskattskerfi [tekjuskattskerfið er nú þegar þrepaskipt, svo að VG ætlar líklega að bæta við þrepi, hugsanlega 75 %, eins og sossarnir í Frakklandi gerðu, en neyddust svo til að afnema-innsk. BJo].  Við höfum talað um auðlegðarskatt [eignaskatt, afar óréttlátt tvísköttun, sem leggst þungt á suma eldri borgara-innsk. BJo], auðlindagjöld [vegna jafns atvinnuréttar má ekki undanskilja neina náttúruauðlind auðlindaskatti, ef ein er skattlögð], fjármagnstekjuskatt [dregur úr nauðsynlegum sparnaði-innsk. BJo], kolefnisgjald [mjög þungbær fyrir atvinnulíf og samgöngur, byggðaskattur, dregur úr hagvexti-innsk. BJo], gjöld á ferðaþjónustu [meiri en hækkun VSK ?-innsk. BJo], bætta skattheimtu, sykurskatt [bitnar verst á efnaminna fólki, óréttlátur] o.s.frv. Þetta er ekkert nýtt í málflutningi vinstri grænna, og það hefur í sjálfu sér ekkert breytzt, frá því að við vorum saman í ríkisstjórn, hvar við viljum helzt taka tekjurnar og setja þær niður."

Nú er aftur komið eggjahljóð í Samfylkingu og vinstri græna, og þá er staglazt á því, að hækka eigi skattbyrði tekjuhærri hópanna.  Fjórar tekjuhæstu tíundirnar, þ.e. með tekjur yfir 5 MISK/ár, standa nú þegar undir bróðurpartinum af skatttekjum ríkissjóðs, líklega yfir 90 % af tekjuskattinum.  Það er eðlilegt, enda eru í neðri hópunum fólk, sem búið er að ljúka meginstarfsferli sínum eða er að undirbúa hann.  Þar eru auðvitað líka aðrir hópar, sem eiga erfitt uppdráttar af ýmsum fullgildum ástæðum, tímabundnum eða varanlegum.  Til að létta þessu fólki lífsbaráttuna er rétt að nota bætta stöðu ríkissjóðs með lækkandi vaxtabyrði til að hækka persónuafsláttinn. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagzt vilja beita sér fyrir um tvöföldun hans á næsta kjörtímabili í 100 kkr/mán.  Það er snöfurmannlega boðið, enda rík sanngirnisástæða til.  Úrræði vinstri manna að hækka jaðarskattinn er hins vegar fallið til að veikja skattstofninn og minnka skatttekjurnar til lengdar, því að skattheimtan á Íslandi er nú þegar í hæstu hæðum, t.d. í samanburði við önnur OECD-lönd. Það er nefnilega hægt að mótmæla með fótunum og hefur áður gerzt.  

Vinstri menn hafa aðra sýn á "veikingu skattstofna", enda eru þeir vanir að snúa staðreyndum á haus.  Þegar fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, lagði það til við þingið í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 2013-2016, að efra þrep virðisaukaskatts yrði lækkað úr 25,5 % í 24,0 %, töluðu vinstri menn um "veikingu skattstofna" í stað lækkunar vöruverðs.  

""Þær breytingar, sem gerðar hafa verið undanfarin ár [á sköttum] fólu í flestum tilfellum í sér afsal á tekjum ríkissjóðs, en eru látnar heita einfaldanir, en ekki skattalækkanir, eins og rétt væri", sagði fulltrúi Vinstri grænna í umræðum um fjármálaáætlunina í maí síðastliðnum."

Að lokum er hér rétt að vitna í leiðara Fréttablaðsins 2. október 2017 eftir Þorbjörn Þórðarson:

"Óháð stuðningi við einstaka flokka er mikilvægt, að kjósendur geri sér grein fyrir, að atkvæði með auknum ríkisútgjöldum mun til lengri tíma ýta undir óstöðugleika í hagkerfinu hér á landi og veikja þá vinnu, sem ráðizt hefur verið í á undanförnum árum til að styrkja umgjörð peningastefnunnar.  Án ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum verður aldrei hægt að treysta stoðir velferðarkerfisins til langframa."

Það var þarft hjá Þorbirni að benda á órjúfanleg tengsl á milli aðhaldssamrar og agaðrar ríkisfjármálastefnu og heilbrigðra peningamála með um 3 % vaxtamun við stóru myntsvæðin, háan kaupmátt m.v. útlönd og stöðugt verðlag í landinu.

 


Landsbyggðarskattur

Vinstri hreyfingin grænt framboð er uppruna sínum trú og kýs að vera í stríði við athafnalífið í landinu, ef hún á þess nokkurn kost.  Þess vegna hefur hún boðað hækkun skatta á fyrirtækin í landinu, almennra og sértækra, t.d. verulega hækkun veiðigjalda á sjávarútveginn, sem er sértækasta skattlagning á Íslandi, því að aðrir nýtendur náttúruauðlinda greiða ekki auðlindagjald.  Það er réttlætismál að jafna aðstöðu atvinnugreinana gagnvart skattlagningarvaldinu að þessu leyti. 

Við núverandi aðstæður eru auknar almennar álögur á atvinnulífið hagfræðilegt glapræði, sem leiða mun til efnahagslegrar kollsteypu.  Hækkun auðlindagjalds nú á grein, þar sem engin auðlindarenta er lengur fyrir hendi, jafngildir fólskulegri aðför að viðkomandi fyrirtækjum og setur fjölda starfa í uppnám.  Framlegð (EBITDA) sjávarútvegsins í ár samkvæmt nýrri áætlun Deloitte verður aðeins um 20 % af tekjum hans, en til samanburðar var hún 22,5 % í fyrra og 25,8 % á viðmiðunarári veiðigjalda núverandi fiskveiðiárs, 2015, sem var sjávarútveginum tiltölulega hagfellt. Með aðeins 20 % framlegð, er engin auðlindarenta lengur fyrir hendi, og við þær aðstæður er enginn siðferðilegur grundvöllur fyrir álagningu auðlindagjalds.

Staðan er stórvarasöm í ljósi þess, að líklegt má heita, að vinstri grænir verði stefnumótandi innan næstu ríkisstjórnar, og þeir ganga með böggum hildar, þar sem eru kolröng mynd af raunveruleikanum og bilaður stefnuviti að þjóðhagslega hagkvæmu marki.  Næsta ríkisstjórn gæti orðið undir leiðsögn strandkapteins með biluð siglingatæki. Hættan, sem vofir yfir, er ekki aðallega af völdum loðmullulegrar stefnuskráar, heldur af hinu, að vinstri grænir ætla sér út í alls konar þjóðfélagstilraunir, sem hvergi koma fram í hinni opinberu stefnuskrá og tilgreint verður dæmi um hér á eftir. 

Framundan eru kjarasamningar.  Eftir sögulega einstæða hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á 4 ára tímabili, 2014-2017, er nú svo komið á 4. ársfjórðungi 2017, að Sviss er eina Evrópulandið með meiri kaupmátt ráðstöfunartekna en Ísland að meðaltali.  Keppikefli landsmanna á að vera að verja þessa stöðu, og það heimskulegasta, sem menn gera við þessar aðstæður, er að boða skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, og þá gera blindingjarnir í VG einmitt það.  Heimskinginn velur alltaf vitlausasta möguleikann, sagði kennari nokkur í MR fyrir hálfri öld við nemanda uppi við töflu. Sá var reyndar jafnan illa lesinn í tímum.  

Við þessar aðstæður boðar Sjálfstæðisflokkurinn skattalækkanir.  Hann vill t.d. lækka neðra þrep tekjuskatts einstaklinga niður í 35 %, og formaður flokksins hefur lýst því yfir, að hann telji eðlilegt að stefna að því, að jaðarskatturinn verði ekki hærri en 35 %, sem þýðir væntanlega eitt tekjuskattsþrep á endanum.  Þessi ráðstöfun auk lækkunar tryggingargjalds mundi að sjálfsögðu verða mjög jákvætt innlegg í kjaraviðræður og bæta horfur á sjálfbærum kjarasamningum, sem ekki mundu ógna atvinnuöryggi og ekki yrðu eldsneyti fyrir verðbólgubál.  Stefna vinstri flokkanna passar engan veginn við raunveruleikann; hún hentar einhverju allt öðru þjóðfélagi, þjóðfélagi villuráfandi og illa lesnum vinstri mönnum.  

Þann 12. október 2017 skrifaði Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, sem nú skipar 3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, ötulasti baráttumaður á þingi fyrir hagsmunum Vestfirðinga, sem nú berst tvísýnni baráttu fyrir þingsæti sínu, m.a. við erkiafturhald í atvinnumálum, grein í Morgunblaðið:

"Veiðigjöld eru óréttlátur landsbyggðarskattur":

"Það [ágreiningur stjórnmálaflokka] á t.d við um skatta og sérstaklega þó það, sem viðkemur álögum á atvinnulífið.  Vinstri flokkarnir stefna á að hækka skatta og draga þannig úr athafnasemi fólks [og myndun eigin fjár hjá fólki og fyrirtækjum - innsk. BJo] og þar með þrótt úr allri verðmætasköpun í landinu.  Sjálfstæðisflokkurinn ætlar aftur á móti að lækka skatta og stuðla þannig að sem mestri hagsæld fyrir alla, vegna þess að kröftugt atvinnulíf er forsenda öflugs velferðarsamfélags.  Fyrir okkur öll."

Því hefur verið haldið fram hér á þessu vefsetri, að vinstri grænir séu úlfar í sauðargæru.  Með því er átt við, að komist þeir í aðstöðu til, muni þeir framkvæma róttækari og skaðlegri uppskurð á atvinnulífinu og þar með hagkerfinu en brosmildur formaðurinn lætur í veðri vaka fyrir kosningar og fram kemur í opinberri stefnuskrá flokksins.  Þetta hefur nú einn þingmanna flokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé, staðfest á fundi Ufsa, félags ungs áhugafólks um sjávarútveg, þar sem hann lýsti þeim ásetningi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem hvergi kemur þó fram í stefnuskrá flokksins, að þjóðnýta útgerðirnar.  Þar með er gríma kommúnistanna fallin gagnvart sjávarútveginum.  Þetta mun í framkvæmd setja allt á annan endann í þjóðfélaginu, eyðileggja margra ára þróunar- og markaðsstarf og færa sjávarútveginn í hendur stjórnmálamanna, sem aldrei hafa ráðið við slík verkefni, enda eru þau ekki í þeirra verkahring.  Það eru ekki fullnægjandi viðbrögð vinstri grænna að setja upp smeðjusvip við þessum tíðindum.  Það er nákvæmlega ekkert að marka þá, þegar þeir bregða yfir sig sauðargærunni.  Um þessar aðfarir sagði í leiðara Morgunblaðsins, 16. október 2017:

"ANDLITIÐ SEGIR EKKI ALLT; þegar gríman fellur, blasa hætturnar við":

"Kolbeinn Óttarsson Proppé útskýrði nánar, hvernig markaðslögmálin yrðu aftengd í sjávarútvegi og ráðstjórnarkerfi innleitt: þriðjungur fiskveiðiheimilda skyldi fara á leigumarkað [leiguliðar eru uppáhalds skjólstæðingar VG-innsk. BJo] til ákveðins árafjölda.  Þá skyldi þriðjungur renna í byggðafestukvóta [fyrir stjórnmálamenn að ráðskast með-innsk. BJo], sem væri þó ekki sá byggðakvóti, sem nú væri við lýði [fyrir brothættar byggðir-innsk. BJo].  Loks skyldi þriðjungur fara til útgerða gegn hóflegu gjaldi, þar sem sjávarútvegurinn þyrfti að búa við ákveðinn fyrirsjáanleika.

Augljóst er, að þeir sem tala með þessum hætti hafa engan skilning á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja eða fyrirtækja yfirleitt.  Það er vitaskuld enginn fyrirsjáanleiki í því fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að halda þriðjungi fiskveiðiheimilda.

Það er ástæða fyrir því, að VG felur þessa stefnu sína, en birtir hana ekki í stefnuskránni á heimasíðunni.  Í sjávarútvegsmálum líkt og á öðrum sviðum er huggulega andlitið birt almenningi, en að baki leynist stefna, sem valda mundi uppnámi og efnahagslegu áfalli fyrir þjóðarbúið í heild og landsmenn alla, næði hún fram að ganga."

Nú er komið í ljós, að opinber stefnuskrá VG eru "pótemkíntjöld" til að dylja sýn á þjóðfélagið, sem minnir mest á þjóðfélagssýn Hugos Chavez, sem ásamt arftakanum, strætisvagnabílstjóranum Nicolas Maduro, keyrði auðugasta ríki Suður-Ameríku í fen fátæktar og eymdar "alræðis öreiganna". 

Kjósendur geta með engu móti treyst frambjóðendum VG til Alþingis.  Þeir eru Trójuhestar brenglaðrar þjóðfélagssýnar og heimskulegrar hugmyndafræði, sem þeir vilja beita til að vinna bug á ástandi, sem er ekki fyrir hendi.  Einhver mundi víst segja, að þetta sé kolruglað lið.  

Hin opinbera stefna VG til sjávarútvegsins er að stórhækka veiðigjöld á útgerðirnar.  Sú stefna mun reyndar rústa sjávarútveginum í sinni núverandi mynd, svo að kannski er meiningin að koma honum þannig í þrot, yfirtaka hann síðan með þjóðnýtingu og fara síðan leiðina, sem Kolbeinn Proppé lýsti og tíunduð er hér að ofan.    

Á yfirstandandi fiskveiðiári má búast við tvöföldun veiðigjalda m.v. síðasta fiskveiðiár vegna stórgallaðra reikningsaðferða við álagninguna og brottfalls fjárfestingarafsláttar.  Ef veiðigjöldin ná þannig miaISK 12, munu þau nema um 22 % af áætlaðri framlegð ársins 2017, sem verður allt að miaISK 20 lægri en á viðmiðunarárinu 2015.  Þessi skattheimta er himinhrópandi óréttlát vegna þess, að hlutfall skattgjaldsins af framlegð, EBITDA, jafnast á við hreinræktaða rányrkju, er a.m.k. fjórfalt m.v. fjárhagslega sjálfbær velsæmismörk í þokkalegu árferði, og þetta er í eðli sínu landsbyggðarskattur, sem dregur fjármagn úr sjávarbyggðum hringinn í kringum landið og í ríkissjóð, sem dreifir fénu aðallega til höfuðborgarsvæðisins.  

Ætlar landsbyggðin að draga Trójuhestinn VG, t.d. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í NV-kjördæmi, sjálfviljug inn fyrir sína "borgarmúra" ?

 

 


Haltrandi rafvæðing

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet er á eftir tímaáætlunum sínum um uppbyggingu raforkuflutningskerfis landsins.  Fyrir vikið er 132 kV flutningskerfið oflestað (Byggðalínuhringurinn), og viðskiptavinir fyrirtækisins, dreifiveitur og endanlegir rafmagnsnotendur líða fyrir þessa stöðu.  Þetta hefur komið niður á atvinnuþróun í landinu, t.d. í Eyjafirði, og hefur tafið rafkatlavæðingu fiskimjölsverksmiðja. Málið er í öngstræti og þarfnast atbeina stjórnmálamanna til að uppræta það samfélagslega tjón, sem af þessu hlýzt.

 Ástandið verður verra með hverju árinu, sem líður, og kerfið er orðið mjög veikt, þegar það annar ekki toppálagi og hrynur við eina truflun á kerfinu, sem orðið getur fyrirvaralaust vegna atburða í rekstri stórra iðnfyrirtækja, eins og dæmin sanna, eða vegna veðurs.  Til að afnema flöskuhálsana, verður að veita áætlunum fyrirtækisins brautargengi strax, enda eru framkvæmdir þess afturkræfar, ef seinni kynslóðir sætta sig ekki við mannvirkin.

Nú eru stjórnarskipti framundan og samkvæmt skoðanakönnunum frá því síðla í september 2017 verður Vinstri hreyfingin grænt framboð forystuafl innan næstu ríkisstjórnar.  Vegna hefðbundinnar andstöðu þessa stjórnmálaflokks við nýjar virkjanir og flutningslínur blæs ekki byrlega fyrir raforkumálum landsins næstu árin.  Landið, sérstaklega landsbyggðin, má ekki við frekari stöðnun á þessu sviði.  Hér er um að ræða stórfellt hagsmunamál byggðanna.  Það skyldu landsbyggðarmenn hafa ríkulega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017.

Það blasir við, að flokkur, sem í orði kveðnu styður hröð orkuskipti, leggur í raun stein í götu þeirra með andstöðu sinni við nýjar virkjanir og styrkingu flutningskerfisins.  Það er fráleitt, sem t.d. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur haldið opinberlega fram, að rafbílavæðing jafngildi aðeins 1-2 % aukningu raforkunotkunar í landinu.  Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur, hefur komizt að þeirri niðurstöðu í lokaritgerð sinni til meistaraprófs í rafmagnsverkfræði vorið 2017, að árið 2030 verði rafmagnsþörf rafmagnsfartækja á vegum landsins 769 GWh (rúmlega 4 % af núverandi notkun) og aflþörfin 172 MW (rúmlega 8 % af núverandi meðalafli) og að á árinu 2040 verði þessar tölur 1276 GWh (tæplega 7 %) og 324 MW (rúmlega 15 %).  Við þetta má bæta 62 MW árið 2030 vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja, yfir 100 MW vegna rafvæðingar hafnanna og 87 MW vegna aukningar almennrar notkunar árið 2030 frá 2016, alls a.m.k. 420 MW (20 %) viðbótar aflþörf án stóriðju árið 2030. Að stinga hausnum í sandinn gagnvart þessum staðreyndum jafngildir því að grafa undan orkuskiptunum. Það er þó "system í galskapet" hjá vinstri grænum, því að þeirra háttur er einmitt að stinga hausnum í sandinn, þegar raunveruleikinn knýr dyra í gerviveröld þeirra.

Ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók, verður þegar í stað að hefja undirbúning að orkuöflun og orkuflutningi fyrir þau.  Treysta menn Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að hafa forystu um þessi mál ?  Ef sú forysta á að verða öðru vísi en í skötulíki, verður sá flokkur að söðla um, og það eru litlar líkur á, að hugmyndafræðilega gaddfreðnir tréhestar sjái þörf á því eða geti það yfirleitt.

Það má gera því skóna, að kínversk stjórnvöld ætli að leiða Kína til forystu á mörgum tæknisviðum og í heimsviðskiptum og -stjórnmálum, en þau eru ekki gaddfreðnir tréhestar, þótt þau aðhyllist sína eigin útgáfu af kommúnisma. Í Kína er nú stærsti rafbílamarkaður heims, og stjórnvöld í Peking áforma að banna sölu á nýjum bílum, sem einvörðungu eru knúnir jarðefnaeldsneyti, til að draga úr mengun í kínverskum borgum, sem fyrir löngu er orðin háskaleg heilsu manna.  Norðmenn eru að íhuga að setja á slíkt bann hjá sér árið 2025 og Frakkar og Bretar 2040. Við hérlendis höfum gullin tækifæri í þessum efnum vegna endurnýjanlegrar og mengunarlítillar raforkuvinnslu og verðum að taka þessi mál föstum tökum, ef við eigum ekki að verða eftirbátar annarra á þessu sviði.  Er vinstri grænum treystandi til forystu í þessum efnum ?  Stefna þeirra og málflutningur bendir í aðra átt. Þetta og önnur innviðauppbygging mun sitja á hakanum, því að öllum viðbótar skatttekjum mun verða sóað í rekstur, sbr loforðaflaum upp á 200 miaISK/ár.  

Nú eru framleiddar um 1,2 M rafbíla á ári í heiminum, en árið 2025 er búizt við, að fjöldi þeirra hafi a.m.k. tífaldazt í 12 M og nemi þá um 10 % markaðarins.  Á Íslandi gengur rafbílavæðing óþarflega hægt, og er það vegna vanburðugrar hleðsluaðstöðu. Það er átaks þörf við fjölbýlishús og gististaði. 

Um 46 % nýrra bíla fara til bílaleiganna, og þær telja sér enn ekki fært að rafvæða flota sinn af ofangreindum orsökum.  Hlutfall tengiltvinnbíla og alrafbíla af heildarsölu nýrra bíla er þess vegna aðeins 9,0 % í ár, þótt hlutfallið til almennra nota sé 16,6 %.  Það væri ráð til að hraða þessari þróun að forgangsraða uppsetningu hleðslustöðva í samráði við samtök bílaleiganna.

Hafnir landsins hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til eflingar rafkerfis síns fyrir landtengingu allra skipa í höfn, þ.á.m. skemmtiferðaskipa.  Þar af leiðandi þarf ríkissjóður að efla orkusjóð, svo að hann geti veitt höfnunum styrki til að fara af stað með hönnun og háspennulagnir í samvinnu við dreifiveiturnar. Ríkissjóður mun síðan fá til baka virðisaukaskatt af raforkusölunni.     

  

 


Fasteignir, fiskeldi og orkuöflun

Vestfirðingar berjast nú fyrir því að mega nýta landsins gæði alþýðu allri til hagsbóta.  Það er ekki vanþörf á auknum umsvifum athafnalífs á Vestfjörðum, eins og fasteignaverðið er vísbending um, enda er jákvætt samband á milli fasteignaverðs og atvinnuframboðs. 

Þetta má lesa út úr nýlegum upplýsingum Byggðastofnunar, sem fékk Þjóðskrá Íslands til að bera saman fasteignaverð í 31 bæ og þorpi víðs vegar um landið m.v. 161,1 m2 einbýlishús.  Sams konar samanburður hefur átt sér stað undanfarin ár.

Eignin er ódýrust á Bolungarvík, en hefur undanfarin ár verið ódýrust ýmist á Patreksfirði eða á Vopnafirði.  Nú bregður hins vegar svo við, að fasteignamatið hækkaði hlutfallslega mest 2016-2017 á þessum tveimur stöðum.  Er engum blöðum um það að fletta, að meginskýringin eru miklar fjárfestingar í fiskeldi á Suðurfjörðum Vestfjarða undanfarin misseri og miklar fjárfestingar HB Granda á Vopnafirði í atvinnutækjum og kaup á þorskkvóta fyrir skip, sem þaðan eru gerð út.  

Viðmiðunarhúsið á Bolungarvík kostar aðeins MISK 14,4, en miðgildi fasteignaverðsins á samanburðarstöðunum er MISK 26.  Nær það varla kostnaði við slíkt fullfrágengið hús.  Að byggja hús á Bolungarvík er greinilega mjög áhættusamt, því að þurfi húsbyggjandi að selja, fær hann aðeins um helming upp í kostnaðinn.  Þetta er vítahringur fyrir staði í þessari stöðu.  Á Höfn í Hornafirði er sveitarfélagið núna að reyna að rjúfa þennan vítahring með því að stuðla að nýbyggingum íbúðarhúsnæðis fyrir fólk, sem vantar í vinnu þar. Þar sem vinnu vantar, er eina ráðið til að rjúfa þann vítahring að efla framboð fjölbreytilegra starfa.

Nú vill svo til fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp, að slík efling athafnalífs er innan seilingar.  Fyrir hendi eru fyrirtæki, sem sækjast eftir að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Allt bendir til, að umskipti til hins betra hafi átt sér stað við hönnun og rekstur laxeldissjókvía, svo að stroktíðni sé innan marka, sem talizt geta skaðleg fyrir "hreint" kyn villtra laxa í laxám, sem ósa eiga út í Ísafjarðardjúp, hvað þá annars staðar. 

Það er þess vegna fullt tilefni fyrir Hafrannsóknarstofnun að endurskoða fljótlega áhættumat sitt, enda verður árlegt hámarkstjón í Ísafjarðardjúpi innan við 5 % af næsta öruggri árlegri verðmætasköpun 30 kt laxeldis þar.  Raunveruleg áhættugreining vegur saman líkindi tjóns og ávinnings, og niðurstaðan verður þá ótvírætt almannahagsmunum í vil.  

Burðarþolsmat Vestfjarða fyrir laxeldi hljóðar upp á 50 kt.  Það er varfærnislegt og mun sennilega hækka í tímans rás.  Þar við bætist möguleikinn á laxeldi í landkerum.  Í heild gæti laxeldi á Vestfjörðum numið 80 kt árið 2040.  Orkuþörf þess má áætla 160 GWh/ár og aflþörfina 30 MW.

Ef svo vindur fram sem horfir um atvinnuþróun, mun íbúum á Vestfjörðum fjölga um 5 k (k=þúsund) 2017-2040.  Vegna almennrar rafhitunar munu þeir þurfa tiltölulega mikla orku, sem gæti numið 125 GWh/ár og 20 MW.

Rafbílavæðing er framundan á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, og gæti þurft 64 GWh/ár og 16 MW að 23 árum liðnum.

Hafnirnar verður að rafvæða með háspenntri dreifingu og gætu stór og smá skip þurft 35 GWh/ár og 8 MW árið 2040 á Vestfjörðum.

Ef spurn verður eftir repjumjöli í fóður fyrir laxinn, gæti vinnsla þess og repjuolíu á skipin þurft 12 GWh/ár og 8 MW.  

Alls eru þetta tæplega 400 GWh/ár og 80 MW.  Það er alveg útilokað fyrir íbúa og atvinnurekstur á Vestfjörðum að reiða sig á tengingu við landskerfið um Vesturlínu fyrir þessa aukningu.  Í fyrsta lagi er þessi orka ekki fyrir hendi í landskerfinu, og eftirspurnin er og verður sennilega umfram framboð á landinu í heild.  Í öðru lagi er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum algerlega óboðlegt um þessar mundir, og á tímum orkuskipta er óásættanlegt að reiða sig á rafmagn frá dísilknúnum rafölum.  

Þá er enginn annar raunhæfur kostur en að virkja vatnsafl á Vestfjörðum, og samkvæmt gildandi Rammaáætlun, sem er miðlunarleið ríkisins við val á milli nýtingar orkulinda og verndunar, eru Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun í nýtingarflokki á Vestfjörðum.  Líklega er nú verið að vinna að lögformlegu umhverfismati fyrir þá fyrrnefndu að stærð 340 GWh/ár og 55 MW.  Hún mun ein ekki duga fyrir aukninguna næstu 2 áratugina á Vestfjörðum.  Bændavirkjunum mun fjölga, en meira verður að koma til, svo að Vestfirðir verði raforkulega sjálfbærir, og orkulindirnar eru þar fyrir hendi. 

Hægt er að núvirða framlegð Hvalárvirkjunar fyrstu 20 ár starfseminnar, og fæst þá andvirði vatnsréttindanna í ánum, sem leggja virkjuninni til orku.  Andvirðið er þannig reiknað miaISK 14,4.  Hæstiréttur hefur dæmt, að sveitarfélögum sé heimilt að leggja fasteignagjald á andvirði vatnsréttinda.  Sé notað álagningarhlutfallið 0,5 %, fæst árleg upphæð í sveitarsjóð af vatnsréttindum Hvalárvirkjunar 72 MISK/ár.  Soltinn sveitarsjóð munar um minna.

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, heldur áfram að skrifa greinar í Fréttablaðið með áróðri um það, að "náttúran skuli njóta vafans" og homo sapiens af kvíslinni Vestfirðingar, búsettir á Vestfjörðum, geti étið, það sem úti frýs, hans vegna.  Svo hvimleiður sem þessi málflutningur hans kann að þykja, á hann fullan rétt á að hafa þessa skoðun og tjá hana, þar sem honum sýnist.  Rökin eru samt varla tæk fyrir nokkurt eldhúsborð á Íslandi.  Þann 8. september 2017 birtist eftir téðan lækni grein í Fréttablaðinu:

"Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum":

"Ástæðan [fyrir kynningarátaki Tómasar og Ólafs Más Björnssonar, augnlæknis, á landslagi í Árneshreppi] er sú, að okkur hefur fundizt skorta mjög á upplýsingagjöf um framkvæmdina og við teljum, að náttúran á þessu stórkostlega svæði hafi ekki fengið að njóta vafans.  Við erum ekki aðeins að beina spjótum okkar að framkvæmdaaðilum virkjunarinnar, HS Orku og Vesturverki, heldur ekki síður að þeim, sem veitt hafa virkjuninni brautargengi í Rammaáætlun og sveitarstjórn Árneshrepps.

Einnig truflar okkur, að eigandi Eyvindarfjarðarár sé ítalskur huldubarón, sem selt hefur vatnsréttindi sín til kanadísks milljarðamærings, Ross Beaty, sem er eigandi 68 % hlutar í HS Orku - fyrirtæki, sem síðan á 70 % í Vesturverki, framkvæmdaaðila virkjunarinnar.  Því er vandséð, að íslenzkir eða vestfirzkir hagsmunir séu í forgangi."

Hér er hreinn tittlingaskítur á ferðinni, nöldur af lágkúrulegum toga, sem engan veginn verðskuldar flokkun sem rökstudd, málefnaleg gagnrýni.  Síðasta málsgrein læknisins sýnir, að hann er algerlega blindur á hina hlið málsins, sem eru hagsmunir fólksins, sem á Vestfjörðum býr og mun búa þar.  Þetta "sjúkdómseinkenni" hefur verið kallað að hafa rörsýn á málefni.  Það var sýnt fram á það í fyrrihluta þessarar vefgreinar, að nýtt framfaraskeið á Vestfjörðum stendur og fellur með virkjun, sem annað getur þörfum vaxandi fiskeldis, vaxandi íbúafjölda og orkuskiptum á Vestfjörðum.  Að leyfa sér að halda því fram, að slík virkjun þjóni hvorki hagsmunum Vestfirðinga né þjóðarinnar allrar, ber vitni um þjóðfélagslega blindu og tengslaleysi við raunveruleikann, en e.t.v. er einnig um að ræða hroka beturvitans.  

 

 

 

 


Landbúnaður í mótbyr

"Íslenzkur landbúnaður getur gegnt lykilhlutverki í því mikilvæga verkefni, að við sem þjóð náum árangri í loftslagsmálum.  Bændur ættu að senda stjórnvöldum tilboð strax í dag um að gera kolefnisbúskap að nýrri búgrein."

Þannig hóf Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, merka grein sína í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017,

"Tækifærið er núna".

Hann mælir þar fyrir því, sem virðist vera upplagt viðskiptatækifæri og hefur verið mælt með á þessu vefsetri. Ef vitglóra væri í hafnfirzka kratanum á stóli landbúnaðarráðherra, hefði hún tekið sauðfjárbændur á orðinu síðla vetrar, er þeir bentu henni á aðsteðjandi vanda vegna markaðsbrests, og lánað þeim ónotaðar ríkisjarðir, sem eru margar, til að rækta nytjaskóg, sem fljótlega yrði hægt að nota til kolefnisjöfnunar gegn hækkandi gjaldi.

Haraldur skrifar:

"Sauðfjárbændur hafa ályktað, að búgrein þeirra verði kolefnisjöfnuð.  Innan tíðar á að liggja fyrir fyrsta tilraun til útreiknings á bindingu og losun sauðfjárbúa."

Með vottaða kolefnisjöfnun í farteskinu við markaðssetningu lambakjöts öðlast bændur viðspyrnu á markaði, sem ríkisvaldið á að aðstoða þá við.  Ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs virðist hins vegar bara vera fúl á móti öllum þeim atvinnugreinum, sem eiga með réttu að vera skjólstæðingar hennar.  Það er alveg sama, hvort hér um ræðir sjávarútveg, laxeldi eða landbúnað, ráðherrann hlustar ekki og hreyfir hvorki legg né lið til að koma til móts við þessar greinar og aðstoða þær til að þróast til framtíðar. Menn átta sig ekki vel á, hvar stefnu þessa ráðherra í atvinnumálum er að finna.  Er hennar e.t.v. að leita í Berlaymont í Brüssel ? Þessum ráðherra virðist aldrei detta neitt í hug sjálfri, heldur reiðir sig á aðra með því að skipa nefndir.  Það er allur vindur úr þessum hafnfirzka krata, sem pólitískt má líkja við undna tusku.  

Af hverju bregzt hún ekki kampakát við herhvöt Haraldar í niðurlagi greinar hans ?:

"Gerum árið 2017 að tímamótaári, þar sem við leggjum grunn að nýrri og öflugri búgrein, kolefnisbúskap, sem getur fært okkur sem þjóð mikil tækifæri til að takast á við skuldbindingar okkar og ekki sízt að skapa með því grunn að styrkari byggð í sveitum.  Það er óþarfi að gefast upp fyrir þessu verkefni með því að senda mikla fjármuni til annarra landa [ESB-innsk. BJo] í því skyni að kaupa losunarheimildir, þegar vel má kaupa slíka þjónustu af landbúnaði og íslenzkum bændum."

Þetta er hverju orði sannara, og blekbóndi hefur bent á það á þessu vefsetri, að nú stefnir í milljarða ISK yfirfærslur til ESB út af því, að embættismenn og ráðherrar hafa skrifað undir óraunhæfar skuldbindingar fyrir hönd Íslands um minnkun á losun koltvíildis.  Þessi lömun ráðherranna umhverfis og landbúnaðar er orðin landsmönnum öllum dýrkeypt, en sá fyrrnefndi virðist aðeins rumska, ef mál á hennar könnu komast í fréttirnar.  Annars er hún gjörsamlega utan gátta, nema ef halda á tízkusýningu innan gáttar.  Þá er hún til í tuskið, enda vill hún sýna, hvernig "sterk kona" hagar sér.  Því miður er Stjórnarráð Íslands hér til umfjöllunar, en ekki Sirkus Íslands.  Sá síðar nefndi er þó áhugaverðari, enda er þar hæft fólk á sínu sviði.  

Haraldur Benediktsson fræddi okkur á því í téðri grein, að "[sem] dæmi má nefna, að mælingar hérlendis hafa sýnt, að losun vegna tiltekinnar landnotkunar, t.d. framræslu á mýrartúni, er um 80 % minni en þau viðmið, sem alþjóðlegar leiðbeiningar styðjast við."

Þetta eru allnokkur tíðindi. Lengi hefur verið hnjóðað í landbúnaðinn fyrir ótæpilegan skurðgröft, sem hafi orðið valdur að losun á 11,6 Mt/ár af koltvíildisjafngildum, sem er svipað og öll losun vegna orkunotkunar á Íslandi á láði, í lofti og á legi, að teknu tilliti til þrefaldra gróðurhúsaáhrifa af losun þotna í háloftunum m.v. brennslu á jörðu niðri.  Þessi áhrif hafa þá lækkað niður í 2,3 Mt/ár, sem er svipað og af völdum iðnaðarins á Íslandi.  Þessi mikla losun, 11,6 Mt/ár CO2eq, frá uppþornuðum mýrum átti að vera vegna niðurbrots gerla (baktería) á lífrænum efnum, en fljótt hægist á slíku niðurbroti, og hitt vill gleymast, að frá mýrum losnar metan, CH4, sem er meir en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.

Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir barðinu á þeirri stjórnvaldsákvörðun að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum.  Enn muna menn eftir Gunnari Braga, þáverandi utanríkisráðherra, er hann óð gleiðgosalegur um lendur Kænugarðs og hafði í hótunum við gerzka stórveldið.  Rússar svöruðu ári seinna með því að setja innflutningsbann á ýmis matvæli frá Íslandi. 

Var lambakjöt á bannlista Rússanna ?  Það hefur ekki verið staðfest.  Það, sem meira er; Jón Kristinn Snæhólm hafði það eftir sendiherra Rússa á Íslandi í þætti á ÍNN 1. september 2017, að hjá Matvælastofnun (MAST) lægi nú rússneskur spurningalisti.  Ef MAST svarar honum á fullnægjandi hátt fyrir Rússa, þá er ekkert í veginum fyrir því að flytja íslenzkt lambakjöt út til Rússlands, var haft eftir sendiherranum.  Það er ástæða fyrir núverandi utanríkisráðherra Íslands að komast til botns í þessu máli og gefa yfirlýsingu út um málefnið.  Ennfremur ætti hann að beita utanríkisráðuneytinu til að semja við Rússa um kaup á t.d. 10 kt af lambakjöti á þriggja ára skeiði að uppfylltum gæðakröfum gerzkra.  

 

 

 


Raforkumál í öngstræti

Í hverri viku ársins verður tjón hjá viðskiptavinum raforkufyrirtækjanna í landinu, sem rekja má til veiks raforkukerfis. Oft er það vegna þess, að notendur eru aðeins tengdir einum legg við stofnkerfið, þ.e. nauðsynlega hringtengingu vantar.

Nýlegt dæmi um þetta varð austur á Breiðdalsvík í viku 34/2017, þar sem stofnstrengur bilaði með þeim afleiðingum, að straumlaust varð í 7 klst.  Auðvitað verður tilfinnanlegt tjón í svo löngu straumleysi, og hurð skall nærri hælum í brugghúsi á staðnum, þar sem mikil framleiðsla hefði getað farið í súginn, ef verr hefði hitzt á.  

Flestar fréttir eru af tjóni hjá almennum notendum, en stórnotendur verða þó fyrir mestu tjóni, því að þar er hver straumleysismínúta dýrust.  Þar, eins og víðar, er líka viðkvæmur rafmagnsbúnaður, sem ekki þolir spennu- og tíðnisveiflur, sem hér verða nokkrum sinnum á ári.  Getur þetta hæglega leitt til framlegðartaps yfir 11 MISK/ár og svipaðrar upphæðar í búnaðartjóni.

Á þessari öld hafa Vestfirðingar orðið harðast fyrir barðinu á raforkutruflunum á stofnkerfi landsins og  straumleysi, enda er landshlutinn háður einum 132 kV legg frá Glerárskógum í Dölum til Mjólkárvirkjunar, og sú virkjun ásamt öðrum minni á Vestfjörðum annar ekki rafmagnsþörf Vestfirðinga.  Hún er aðeins 10,6 MW, 70 GWh/ár eða um þriðjungur af þörfinni um þessar mundir. Þess ber að geta, að talsverður hluti álagsins er rafhitun húsnæðis, sem gerir Vestfirðinga að meiri raforkukaupendum en flesta landsmenn í þéttbýli.

Vestfirðingar verða árlega fyrir meiri truflunum og tjóni á búnaði og framleiðslu en flestir aðrir af völdum ófullnægjandi raforkuframleiðslu og flutningskerfis.  Til úrbóta er brýnt að koma á hringtengingu á Vestfjörðum.  Beinast liggur við að gera það með 132 kV tengingu Mjólkárvirkjunar við nýja virkjun, Hvalárvirkjun, 50 MW, 360 GWh/ár, í Ófeigsfirði á Ströndum.  Þessa nýju virkjun, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar III, þarf jafnframt að tengja við nýja 132 kV aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, sem Landsnet þarf að reisa og tekið getur við orku frá fleiri vatnsaflsvirkjunum þar í grennd og veitir kost á hringtengingu Ísafjarðarkaupstaðar og allra bæjanna á Norður- og Suðurfjörðunum. Með því jafnframt að leggja allar loftlínur, 60 kV og á lægri spennu, í jörðu, má með þessu móti koma rafmagnsmálum Vestfirðinga í viðunandi horf. Viðunandi hér er hámark 6 straumleysismínútur á ári hjá hverjum notanda að meðaltali vegna óskipulagðs rofs. 

Þegar raforkumál landsins eru reifuð nú á tímum, verður að taka fyrirhuguð orkuskipti í landinu með í reikninginn.  Án mikillar styrkingar raforkukerfisins er tómt mál að tala um orkuskipti. Það er mikil og vaxandi hafnlæg starfsemi á Vestfjörðum, sem verður að rafvæða, ef orkuskipti þar eiga að verða barn í brók.  Aflþörf stærstu hafnanna er svo mikil, að hún kallar á háspennt dreifikerfi þar og álagsaukningu á að gizka 5-20 MW eftir stærð hafnar.  Öll skip í höfn verða að fá rafmagn úr landi og bátarnir munu verða rafvæddir að einum áratug liðnum.

Laxeldinu mun vaxa mjög fiskur um hrygg og e.t.v. nema 80 kt/ár á Vestfjörðum.  Það verður alfarið rafdrifið og mun e.t.v. útheimta 30 MW auk álagsaukningar vegna fólksfjölgunar, sem af því leiðir.  Fólkið á sinn fjölskyldubíl, reyndar 1-2, og rafknúin farartæki á Vestfjörðum munu útheimta 20 MW.  Fólksfjölgun til 2030 gæti þýtt álagsaukningu 10 MW.  Alls gæti álagsaukning á raforkukerfi Vestfjarða á næstu 15-20 árum vegna atvinnuuppbyggingar, fólksfjölgunar og orkuskipta orðið um 100 MW.

Við þessu verður að bregðast með því að efla orkuvinnslu í landshlutanum og hringtengja allar aðveitustöðvar á svæðinu.  Dreifikerfið þarf eflingar við til að mæta þessu aukna álagi, og allar loftlínur 60 kV og á lægri spennu þurfa að fara í jörðu af rekstraröryggislegum og umhverfisverndarlegum ástæðum.  

 

 

 

 


Flaustursleg reglugerð

Sjávarútvegsráðherra setti þann 13. júlí 2017 reglugerð um álagningaraðferð og innheimtu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.  Reglugerðin er m.a. reist á lögum frá 2012 um veiðigjöld.  Segja má, að ráðherra þessi hafi hrakizt frá einu axarskaptinu til annars, síðan hún tók við þessu embætti.  Hún glutraði hér niður gullnu tækifæri til að sýna, að hún hefði loks náð tökum á þessu vandasama starfi, sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála gegnir.  Þar sem hún kaus að sveigja hvergi af leið, þótt allar aðstæður í sjávarútvegi byðu svo á að horfa, stefnir hún nú á að magna ósanngirnina, sem í þessari endemis skattheimtu, veiðigjöldum, felst.  Verður hér reifað í hverju þessi ósanngirni felst.  Ráðherra þessi ber kápuna á báðum öxlum í samskiptum sínum við hagsmunaaðila, sem til ráðuneytis hennar leita, eins og nýjustu fréttir af viðskiptum hennar við bændaforystuna benda til.

Fyrst verður vitnað í lok forystugreinar Morgunblaðsins 14. júlí 2017, 

"Afkáralegir ofurskattar":

"Allt frá því að vinstri stjórnin setti ný lög um veiðigjöld sem hluta af umfangsmikilli skattahækkunarstefnu sinni, hefur verið varað við því, að gjöldin væru allt of há og að afleiðingarnar gætu orðið þær, sem nú hefur komið í ljós.  Það blasir við, að ekki er hægt að bjóða undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar upp á slíka ofurskatta, sem að auki eru svo afkáralegir í framkvæmd."

Það er enn látið viðgangast, að sjávarútvegurinn, einn allra, greiði fyrir aðganginn að náttúruauðlind allra landsmanna, en þær eru þónokkrar, eins og kunnugt er.  Þetta veikir samkeppnisstöðu sjávarútvegsins bæði innanlands og utan og er hrópandi óréttlæti til lengdar.  Dæmi um greinar, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeign, eru fjarskiptafyrirtækin, ferðaþjónustustarfsemi í þjóðlendum, virkjunarfyrirtækin og fyrirtæki með fiskeldi í sjókvíum.  Það er óskiljanlegt, að ekki skuli enn vera gerður reki að samræmdu nýtingargjaldi náttúruauðlinda.  Halda ráðherrar, að nóg sé að sýna myndavélum tanngarðinn ?

Í ljósi þess, að staða útgerðanna tók stakkaskiptum til hins betra eftir að full innleiðing fiskveiðistjórnunarkerfisins frá 1984 var farin að virka á hag útgerðanna, þá er ekki óeðlilegt, að útgerðirnar greiði af auðlindarentunni, en það stríðir gegn Stjórnarskrá ríkisins að heimta ekki að sama skapi auðlindagjald af öllum nýtingaraðilum á landi, í lofti og á sjó, með sömu útreikningsaðferðum, svo að jafnræðis atvinnustarfsemi sé gætt.  Sýnir það mikið döngunarleysi stjórnvalda að hafa enga sýnilega tilburði uppi í þessa átt.

 Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, SÍF, hafði þetta að segja við Kjartan Stefánsson hjá Fiskifréttum, 11. maí 2017, um tekjurýrnun sjávarútvegsins árið 2017 m.v. 2015, sem er viðmiðunarár veiðigjaldanna fiskveiðiárið 2017/2018:

"Ef tekið er tillit til gengis og verðvísitölu sjávarútvegsins, þá má áætla, að tekjur vegna bolfiskafurða, svo að dæmi sé tekið, verði um miaISK 25-30 lægri árið 2017 en þær voru árið 2015."

Þetta er meira en fjórðungslækkun tekna í þessari grein, enda hefur gengið styrkzt um 26 % frá upphafi árs 2014.  Á kostnaðarhlið hefur orðið lækkun á olíuverði um 20 %-30 % 2015-2017 og hækkun á launalið, þar sem launavísitala gagnvart sjávarútvegi hefur hækkað um 27 % á sama tíma (laun í landvinnslu hafa hækkað um 25 % - 30 %). 

Heildaráhrif þessara breytinga eru mikil á framlegðina, sem er það, sem eftir er, þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá tekjunum, og verður þá til skiptanna til að greiða afborganir og vexti, skatta, veiðigjöld, arð og að fjárfesta fyrir.  Þessi mismunur þarf að vera yfir 20 % af tekjum, svo að vel sé, ella er út í hött að tala um auðlindarentu í sjávarútvegi, sem myndi andlag veiðigjalds.  Framtíðarkerfi ætti þess vegna að miða við, að falli framlegð undir 20 %, þá falli auðlindagjald á viðkomandi fyrirtæki niður fyrir sama tímabil. 

Árið 2015 áraði vel í sjávarútvegi, enda nam vegið meðaltal framlegðar botnfiskveiða og botnfiskvinnslu þá um 27 %.  Áætlun SFS um framlegð sömu aðila árið 2017 er aðeins 16 %.  Af þessum ástæðum er nýsett reglugerð sjávarútvegsráðherra um forsendur veiðigjalds fiskveiðiárið 2017/2018 óskiljanleg, og engu er líkara en þar fari efnahagslegur blindingi með völdin.  Þessi ákvörðun mun hækka veiðigjöldin upp í um miaISK 11, sem er meira en tvöföldun frá fiskveiðiárinu 2016/2017 og mun ríða allmörgum útgerðum að fullu og skerða getu hinna til nýsköpunar.  

Ráðherrann lét hjá líða að taka tillit til mikillar lækkunar fiskverðs við ákvörðun sína og á þeim grundvelli að framlengja áður gildandi afslátt á veiðigjöldum til skuldsettra fyrirtækja.  Þetta er óafsakanlegt í ljósi stöðunnar.  Þá hefði hún átt að gera ráðstafanir til að taka tillit til minni framlegðar lögaðila, sem veiðigjöld eru lögð á.   Hlutfall ofangreindra heildarframlegða er 16/27=59 %.  Ef því væri beitt á útreiknað veiðigjald og síðan veittur hefðbundinn afsláttur vegna skuldsetningar fyrirtækis, þá yrði sennilega lítil breyting á upphæð veiðigjalda nú á milli fiskveiðiára. Óbreytt veiðigjöld á næsta fiskveiðiári m.v. núverandi er hámark þess, sem sanngjarnt getur talizt.  Sjávarútvegsráðherra er ekki að vinna vinnuna sína.  Hverra erinda gengur hún eiginlega ?

Sjávarútvegsráðherra segir nú, að hún hafi lengi verið talsmaður breytinga á veiðigjöldum.  Talsmáti hennar hingað til hefur hins vegar allur verið til hækkunar á þeim, og opinberar hún þannig skilningsleysi sitt á sambandi skattheimtu, nýsköpunar og fjárfestinga.  Það er mjög bagalegt að sitja uppi með slíkan sjávarútvegsráðherra.

Í þessu sambandi skal vitna til niðurlags téðs viðtals Fiskifrétta við Hallveigu Ólafsdóttur:  

"Að lokum verður ekki hjá því komizt að nefna umræðu um að auka gjaldtöku í sjávarútvegi.  Sérstakar álögur eru nú þegar fyrir hendi í formi veiðigjalda, og heildarfjárhæð þeirra hefur á umliðnum árum verið áþekk þeim tekjuskatti, sem sjávarútvegur greiðir.  Það er því mikilvægt, þegar kallað er eftir auknum sérstökum álögum á atvinnugreinina, að stjórnmálamenn horfi bæði á þau rekstrarskilyrði, sem fyrirtæki standa frammi fyrir, og taki tillit til þeirrar fjölbreyttu flóru íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, sem nú er raunin. Sjávarútvegsfyrirtæki eru jafnmisjöfn og þau eru mörg, bæði að því er stærð og fjárhagslega stöðu varðar.  Þau eru því mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við auknar gjaldtökur.  

Fjölbreytileiki er einn af styrkleikum íslenzks sjávarútvegs og lykill að samkeppnishæfni greinarinnar.  Það er mikilvægt að gleyma ekki þessari staðreynd, þegar rætt er um aukna gjaldtöku."

Sjávarútvegsráðherra gerir sig nú líklega til að vega að sjávarútveginum, eins og rakið hefur verið.  (Það, sem sauðfjárbændur hafa til málanna að leggja við hana varðandi markaðsstöðu lambakjötsins erlendis og mótvægisaðgerðir fer inn um annað eyrað og út um hitt.) Hún mun þar með draga úr þeim styrkleika, sem hagfræðingur SFS nefnir og er fjölbreytni fyrirtækjanna.  Nú reka um 1000 lögaðilar útgerð í landinu.  Ætlar sjávarútvegsráðherra með sinni hugsunarlausu reglugerð meðvitað með atbeina skattheimtuvalds ríkisins að fækka þeim ?  Að óreyndu hefði maður haldið, að ríkisvaldið, ráðherra, myndi forðast að gera erfitt ástand útgerðanna enn verra og verða þar með valdur að óþarfa fækkun útgerðanna. Ráðherra, sem vinnur gegn hagsmunum útgerðanna í landinu, vinnur gegn hagsmunum hagkerfisins og þar með heildarinnar.  

Sjávarútvegsráðherra skýtur sér gjarna á bak við nefnd, sem hún skipaði í byrjun maí 2017 undir formennsku Þorsteins Pálssonar, flokksbróður síns og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.  Nefnd þessi á að skila af sér drögum að lagafrumvarpi eigi síðar en 1. desember 2017.  Við því er ekki að búast, að lög, sem reist yrðu á vinnu þessarar nefndar, taki gildi fyrr en á fiskveiðiárinu 2018/2019, og þess vegna hefði ráðherrann átt að gera bráðabirgða bragarbót á reiknireglum veiðigjalds í nýju reglugerðinni, sbr það, sem sett er fram hér að ofan.

Ráðherrann hefur hreykt sér af því að hafa skipað "þverpólitíska" nefnd, sem leita eigi sátta um sjávarútvegsmál.  Ráðherrann fór þó illa að ráði sínu við samsetningu þessarar nefndar.  Ef hún á annað borð átti að vera "þverpólitísk", þá þurfti hún auðvitað að endurspegla styrkleikahlutföllin á þingi.  Því fer hins vegar víðs fjarri, og getur hún vart kallast lýðræðislega valin.  

Það er svo önnur saga, að þessi aðferðarfræði ráðherrans er ólíkleg til árangurs, hvað þá að ná sáttum á pólitískum forsendum í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.  Miklu nær hefði verið að leita til fiskihagfræðinga, innlendra og jafnvel erlendra, og hagsmunaaðilanna í greininni, sem í sameiningu mundu reyna að finna þjóðhagslega hagkvæmustu stjórnunaraðferðina í ljósi reynslunnar bæði innan lands og utan.  Samkvæmt því, sem gerst er vitað nú, er slíkt framtíðarstjórnkerfi fiskveiða keimlíkt núverandi kerfi.  

Útgerðarfyrirtækin, stór og smá, eru kjölfesta byggðarinnar við strandlengju landsins.  Þau standa í harðri samkeppni innanlands og utan og þurfa svigrúm til hagræðingar til að standast samkeppnina.  Í fordómafullri umræðu í garð þessara fyrirtækja, sem gjarna gýs upp, þegar hagrætt er, og ráðherrann er ekki saklaus þar, gleymist oft, að ekki er allt sem sýnist; fyrir tilverknað útgerðarfélaga hefur vaxið upp klasi sprotafyrirtækja, sem allmörgum hefur vaxið fiskur um hrygg með auknum fjárfestingum útgerða og fiskvinnslufyrirtækja.  Þetta gerði Jens Garðar Helgason, formaður SFS, að umræðuefni á ársfundi samtakanna 19. maí 2017:

"Á Akranesi hefur byggzt upp þekkingarfyrirtækið Skaginn með 170 starfsmenn, sem einmitt byggir á því, að íslenzkur sjávarútvegur er að fjárfesta til framtíðar og í framtíðinni.

Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að úthrópa HB Granda fyrir að standa ekki við samfélagslegar skuldbindingar og stuðla ekki að byggðafestu.  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þessari niðurstöðu, þegar fyrirtækið er að fækka úr 270 starfsmönnum á Akranesi í 185, og fyrirheit eru um að reyna að finna sem flestum vinnu annars staðar hjá fyrirtækinu - annaðhvort á Akranesi eða í Reykjavík ?  Akranes er 6´800 manna samfélag í hálftíma akstri frá Reykjavík.  Á sama tíma hefur HB Grandi fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag austur á fjörðum.  Tíu milljarðar, sem hafa tryggt starfsöryggi og byggðafestu Vopnafjarðar til framtíðar.  Samfélag, sem er einn tíundihluti Akraness í 700 km fjarlægð frá Reykjavík.  Að halda því fram, að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg, er í einu orði sagt "galið"."

Á þessum sama ársfundi benti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, á, að íslenzkur sjávarútvegur hefði ekki orðið arðbær fyrr en á 21. öldinni.  Þessi staðreynd er nauðsynlegt skilyrði, en ekki nægilegt, fyrir því að álykta, að haldið hafi verið inn á rétta braut með innleiðingu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfisins árin 1984 og 1990.  Þessi hagnaður er undirstaða velmegunar í flestum íslenzkum sjávarplássum, sem er þá algerlega háð núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali aflaheimilda og frjálsri ráðstöfun aflans, eins og téður Ásgeir hélt fram. Jafnframt sagði hann, "að það væri mýta [goðsögn], að kvótakerfið hefði komið landsbyggðinni á kaldan klaka.  Samkeppnishæfur sjávarútvegur væri forsenda fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi".  

Stjórnmálafólk, sem ekki áttar sig á þessum staðreyndum, á vart erindi á Alþingi Íslendinga, hvað þá í ríkisstjórn.  

Hitt skilyrðið, sem með arðsemisþættinum leyfir að álykta sem svo, að haldið hafi verið inn á rétta braut við innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis, er, að það felur í sér hvata til sjálfbærrar nýtingar veiðistofnanna og að það hefur í raun umbylt veiðunum við Ísland úr ósjálfbærri nýtingu auðlindarinnar í sjálfbæra nýtingu, eins og viðsnúningur þorskstofnsins til hins betra er gleggsta dæmið um. 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband