Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Byggðamál

Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá nóvember 2017 er kafli um byggðamál.  Hann hefst þannig:
"Mikil verðmæti felast í því, að landið allt sé í blómlegri byggð.  Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um allt land."

Ekki verður ráðið af framhaldinu, að höfundarnir geri sér grein fyrir, hvers konar stefnu þarf að viðhafa til að halda landinu "öllu" í byggð.  Í grundvallaratriðum þarf tvennt til, þ.e. í fyrsta lagi greiðfæra vegi, nægt þrífasa rafmagn og hraðvirkt samskiptakerfi og í öðru lagi að nýta náttúruauðlindir landsins til eflingar velferðarþjóðfélags um allt land. 

Þannig þarf nýtingarstefnu fyrir náttúruauðlindir landsins, sem styður við búsetu um landið allt.  Nýting náttúruauðlindanna verður þannig grundvöllur velmegunar og velferðarsamfélags um landið allt.  

Sjávarútvegurinn er klárlega landsbyggðar atvinnugrein, sem fullnægir þessum skilyrðum, af því að hann er í heildina rekinn með hagkvæmum hætti, og 78 % skatttekna af sjávarútveginum koma utan af landi.  Sömuleiðis hafa strandveiðar að sumarlagi þýðingu í þessu samhengi svo og byggðakvótinn, sem Byggðastofnun úthlutar, aðallega til s.k. brothættra byggða.  

Mestu máli skiptir þó fyrir hagvöxtinn, að sjávarútvegsfyrirtækjum vítt og breytt um landið hefur vaxið fiskur um hrygg með fiskveiðistjórnunarkerfi, sem fækkaði útgerðum og fiskiskipum og glæddi aflabrögð í kjölfar þess, að tekið var að fylgja vísindalegri veiðiráðgjöf.  

Ekki má hverfa frá þessu efni án þess að nefna fiskeldið, en það mun hafa byltingarkennd áhrif til hins betra á byggðir Vestfjarða og góð áhrif á Austfjörðum og vonandi í Eyjafirði með eldi þar í lokuðum kvíum, sem hafa verið þróaðar í Noregi.  Á Austfjörðum er hins vegar önnur öflug stoð undir atvinnulífi en sjávarútvegur og landbúnaður, sem ekki er að finna annars staðar utan Straumsvíkur og Grundartanga og senn á Bakka við Húsavík, en það er orkusækinn málmiðnaður.  

Það hefur frá upphafi umræðu um orkuvirkjanir og stóriðju í tengslum við þær sú ætlun stjórnvalda verið ljós, að þessi starfsemi mundi stuðla að innviðauppbyggingu, aukinni tækniþekkingu og byggðafestu í landinu.  Á undirbúningsárum ISAL, 1967-1970, ríkti hér atvinnuleysi í kjölfar síldarbrests, og framkvæmdirnar í Straumsvík og við Búrfell drógu úr bæði atvinnuleysi og landflótta.  Stækkun ISAL og upphaf Norðuráls, 1995-1998, komu einnig á heppilegum tíma m.v. atvinnuástand í landinu, og í kjölfarið kom uppgangsskeið. Fjarðaál og Fljótsdalsvirkjun voru klárlega traustar byggðafestuframkvæmdir, sem sneru neikvæðri byggðaþróun á Austfjörðum til hins betra. Gríðarleg gjaldeyrisöflun á sér nú stað í Austfirðingafjórðungi úr auðlindum lands og sjávar.  

Svo virðist sem núverandi stjórn og forstjóri Landsvirkjunar hafi gleymt þessu eðli iðnvæðingar Íslands eða fórnað því á altari misskilinnar gróðahyggju ríkisfyrirtækisins.  Landsvirkjun var aldrei hugsuð þannig, að selja ætti raforku frá virkjunum hennar á verði, sem sambærilegt væri við verð á Bretlandi, á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjunum, heldur á verði, sem gerði Ísland samkeppnishæft á sviði málmframleiðslu, myndi borga virkjanir og flutningslínur upp löngu áður en bókhaldslegum, hvað þá tæknilegum, afskriftatíma lyki og yrði þannig grundvöllur að lágu raforkuverði til almennings í samanburði við útlönd.  Langtíma raforkusamningar Landsvirkjunar hafa vissulega reynzt þjóðhagslega hagkvæmir og staðið undir einu lægsta raforkuverði til almennings á byggðu bóli.  

Landsvirkjun hefur síðan 2010 farið fram með nokkurri óbilgirni í samningaviðræðum um endurskoðun langtímasamninga um afhendingu raforku til orkusækinna málmframleiðslufyrirtækja og t.d. þvingað fram raforkuverð til ISAL í Straumsvík, sem sett hefur afkomu fyrirtækisins í uppnám, dregið úr fjárfestingaráhuga eiganda, og nú er svo komið, að hann reynir að selja fyrirtækið.  Á Grundartanga gekk töluvert á við endurnýjun raforkusamninga Norðuráls, og nú hafa ágreiningsmál járnblendiverksmiðjunnar og Landsvirkjunar verið lögð í gerðardóm. Hér er um geðþóttalega stefnubreytingu fyrirtækisins að ræða, sem var ekki mótuð af stjórnvöldum eða neitt rædd á Alþingi og hæpið, að njóti meirihlutastuðnings þar.  

Nú stefnir ESB á innleiðingu 5. frelsisins, sem er frjálst flæði orku á milli aðildarlanda EES.  Búizt er við hatrömmum deilum í Noregi um þetta, því að vegna loftlína til Svíþjóðar og sæstrengja til Danmerkur og Hollands og nýrra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands mun þetta fyrirkomulag rústa iðnaði Noregs, sem frá upphafi hefur verið staðsettur vítt og breitt  um byggðir Noregs og notið hagstæðra kjara við raforkukaup, m.a. í nafni byggðastefnu og almennrar atvinnuþróunar.  Hann mun eftir innleiðingu "orkusambands ESB" þurfa að keppa um raforkuna við þýzk stáliðjuver í hjarta Evrópu, svo að dæmi sé tekið. Horfa margir Norðmenn með örvæntingu á þá óheillaþróun, að stjórn orkumálanna færist í raun úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til embættismanna á nýrri "Orkusamvinnustofnun ESB", sem staðsett er í Slóveníu, og Norðmenn verða algerlega áhrifalausir í (án atkvæðisréttar).  

Á Íslandi hefur Landsvirkjun barizt fyrir því, að sæstrengur yrði lagður á milli Íslands og Skotlands.  Er nú augljóst, til hvers refirnir voru skornir.  Nú verður hægt að færa enn gildari rök gegn slíkum aflsæstreng en gert hefur verið.  Hann mun ekki aðeins hækka almennt raforkuverð í landinu, heldur mundi hann rústa atvinnulífi í landinu, ef Ísland jafnframt innleiðir 3. tilskipanabálk ESB í orkumálum frá 13. júli 2009-EU/2009/72.  Gegn því ber að berjast með kjafti og klóm svo á Íslandi sem í Noregi.

Á Íslandi hafa uppkaup útlendinga á landi færzt í vöxt. Fræg varð tilraun Kínverja fyrir okkrum árum til að ná tangarhaldi á stærstu jörð á Íslandi, Grímsstöðum á Fjöllum.  Sem betur fór var þetta hindrað, því að lagaumgjörð fyrir slíka gerninga er ófullnægjandi fyrir hagsmuni landsins.  Á þetta benti Hlynur Jónsson Arndal, rekstrarhagfræðingur, í Morgunblaðsgrein 26. júli 2017,

"Eignarhald útlendinga á íslenskum jörðum":

"Enn bjóða óupplýstir fréttamenn upp á umræðu, þar sem sneitt er hjá þessum staðreyndum og útlendingum stillt upp sem venjulegu fólki, sem vill gjarnan eignast fallega jörð á Íslandi til að njóta sveitarsælunnar.  Nú síðast með viðtali Ríkisútvarpsins við Jim Ratcliffe, sem keypt hefur fjölda jarða hér á landi að sögn fjölmiðla, en þeir sleppa að geta þess, að það er gert í gegnum hlutafélag."

Það er grundvallarmunur á því, hvort viðskipti eru gerð á nafni persónu eða lögaðila, t.d. hlutafélags, og vegna frelsis innan EES til landakaupa, er nauðsynlegt að Alþingi verji sameiginlega hagsmuni landsmanna með því að takmarka landakaup við persónur.

"En skiptir þetta máli ?  Um leið og jörð er seld háu verði til erlends eða íslenzks hlutafélags, þá er væntanlega söluhagnaðurinn skattlagður á Íslandi ?  En það verður í hinzta sinn, vegna þess að öll framtíðarviðskipti með slíka jörð geta farið fram í lágskattalandi, t.d. Lúxemborg, heimalandi Junckers nokkurs, þar sem hlutafélagið, nú skráður eigandi jarðarinnar, mun geta gengið kaupum og sölum, annaðhvort beint eða höndlað er með félag, sem á annað félag, sem á félagið, sem á jörðina.  Ef skattur yrði greiddur af hækkun jarðarverðs í formi hærra hlutabréfaverðs slíks félags, færi skatturinn í ríkissjóð Lúxemborgar.  Náðuð þið þessu ?" 

Hvers vegna er ekki minnzt einu orði á þetta þarfa viðfangsefni löggjafans í stjórnarsáttmála um byggðamál ?  Er þegjandi samkomulag um að breiða yfir galla EES-samningsins ?

 

 


Að þvælast fyrir atvinnulífinu

Suma stjórnmálamenn skortir algerlega skilning á mikilvægi öflugra fyrirtækja fyrir hag verkafólks og allra annarra launamanna, raunar líka fyrir hag sveitarfélaga, ríkissjóðs og þjóðfélagsins alls.  

Þeir einblína á skattheimtu ríkissjóðs af fyrirtækjunum og skilja ekki, að tekjustreymið til ríkissjóðs frá þeim á sér marga farvegi, enda fer þar öll verðmætasköpun hagkerfisins fram, og hörð skattheimta er fallin til að minnka skattstofninn og þar með heildartekjur ríkissjóðs.  

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er dæmi um svona stjórnmálamann.  Hún var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lungann úr árinu 2017, en vann þessum greinum aðallega ógagn, enda slær hjarta hennar í Berlaymont í Brüsselborg, eins og kunnugt er, þar sem rekin er sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna, sem fæstir Íslendingar vilja nokkuð með hafa.  

Dæmi um þetta er, þegar hún í janúar 2017 neitaði að liðka fjárhagslega til fyrir Hafró um einar MISK 10, svo að stofnunin gæti sent rannsóknarskip á miðin í leit að loðnu.  Útgerðarmenn hlupu þá undir bagga með Hafró, loðna fannst, og þúsundfaldra verðmæta var aflað á við leitarkostnaðinn.  

Síðsumars sama ár neitaði þessi ráðherra að framlengja afslætti á veiðigjöld, sem runnu út 31. ágúst 2017, með þeim afleiðingum, að veiðigjöld útgerðanna tvöfölduðust yfirleitt og þrefölduðust hjá sumum.  Auðvitað hefði ráðherrann átt að nota árið 2017 til að endurskoða reikniregluna.  Það er ekki flókið mál að leiða fram tiltölulega einfalda tvískipta reiknireglu, sem tekur mið af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó, þar sem annar hlutinn tekur ekki mið af afkomu, heldur er aðgangsgjald að miðunum, en hinn hlutinn er afkomutengdur, tekur tillit til auðlindarrentunnar, eins og sýnt hefur verið á þessu vefsetri:

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667 

Núna nema veiðigjöldin 12 % - 14 % af aflaverðmæti, og í augum uppi liggur, að við allar aðstæður er þetta allt of há gjaldtaka af útgerðunum, um þrefalt það, sem eðlilegt getur talizt í núverandi árferði.

  Forsætisráðherra hefur sagt, að sú endurskoðun, sem nú er hafin, sé miðuð við að taka gildi á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september 2018.  Þetta er algerlega óviðunandi hægagangur, því að á meðan blæðir útgerðunum út.  Er það þjóðhagslega hagkvæmt ?  Á að drepa útgerðirnar, svo að stjórnmálamenn geti komið sem bjargvættir í byggðirnar með ríkisstuðning upp á vasann ?  Silaháttur stjórnvalda getur verið óþolandi og er í sumum tilvikum stórhættulegur fyrir jafnvægi í atvinnugreinum og byggðafestu í þessu tilviki, þar sem sjávarútvegur er undirstaða byggðar meðfram ströndinni.

Þeim fáránlega boðskap hefur verið haldið á lofti, að einvörðungu verði lækkuð veiðigjöld á litlum og meðalstórum útgerðum. Þetta er í raun boðskapur um, að nú skuli innleiða pólitíska spillingu í íslenzka sjávarútveginn, þar sem vissir stjórnmálamenn ætla að innleiða mismunun útgerðanna eftir stærð þeirra.  Í kjölfarið hæfist örugglega fíflagangur á borð við skiptingu útgerða til að lenda í hagstæðari gjaldflokki eftir stærð.  Þessi mismunun er afspyrnu heimskuleg og óréttlát, og hún stenzt ekki stjórnarskrárvarinn atvinnufrelsisrétt allra.  Stjórnsýslulög yrðu einnig brotin með þessu athæfi, því að með ómálefnalegum hætti væri skattheimtuvaldi beitt til að mismuna lögaðilum í landinu.  

Að umræða af þessu tagi skuli gjósa upp á meðal stjórnmálamanna, sýnir svart á hvítu, að þeir hafa sumir hverjir ekkert vit á atvinnurekstri og ættu að halda afskiptum sínum af honum í algjöru lágmarki.  Í þessu tilviki má spyrja, hvar þeir hafa eiginlega verið, því að megnið af afurðum íslenzks sjávarútvegs fer á markað erlendis, og íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin eru yfirleitt mun minni en þau, sem þau keppa við á erlendum mörkuðum.  Ef ræða á um stærð, þá skiptir þetta stærðarhlutfall meginmáli í þessu samhengi, en ekki innlendur stærðarsamanburður.

Til að varpa ljósi á, að stjórnmálamenn blóðmjólka nú íslenzkar útgerðir með fáránlega háum veiðigjöldum, skal vitna í Morgunblaðið, 3. janúar 2018, bls. 40, þar sem viðtal birtist við Skjöld Pálmason, framkvæmdastjóra Odda hf á Patreksfirði:

"Við stöndum hreinlega ekki undir þessari skattbyrði, sem þarna er sett á okkur.  Eins og þetta er í dag, þá fara um 12 til 14 % af aflaverðmætinu í veiðigjöld.  Það er gríðarlega mikið, þegar hagnaður þessara fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, er nánast enginn.  Þessi peningur er bara ekki til, því miður."

Hér er verið að lýsa grimmdarlegri rányrkju hins opinbera, sem grefur ekki einvörðungu undan hag eigenda fyrirtækjanna, heldur atvinnuöryggi starfsfólksins og afkomu  viðkomandi sveitarfélaga.  Stjórnvöld verða hið snarasta að snúa af stórhættulegri braut vanhugsaðs gjaldkerfis.  

 "Jafnvel þótt árið 2015 hafi verið sæmilegt rekstrarár, þá var ekki mikill gróði í fyrirtækjunum.  Fjárfestingarþörf fyrirtækja í bolfiskvinnslu var mikil á þessum tíma og er það enn í dag, þar sem menn hafa ekki getað ráðizt í nauðsynlega endurnýjun."

"Þó að verið sé að endurnýja að miklu leyti skipaflota stóru útgerðanna, sem flestar hverjar eru í uppsjávarveiðum, þá hafa venjuleg bolfiskfyrirtæki alls ekki getað fjárfest í nauðsynlegum tækjum og tólum, sem þó er búið að hanna og þróa til að koma okkur framar í samkeppni við aðrar þjóðir.  Ef litið er yfir vertíðarflotann, þá eru þetta meira eða minna fjörutíu ára gömul skip."

Stóru útgerðirnar hafa góðu heilli fjárfest, enda er samkeppnishæfni þeirra í gæðum, framleiðni og kostnaði algerlega háð beitingu nýjustu tækni.  Nú þurfa þær að hafa upp í fjárfestingarnar, og enn þurfa þær að fjárfesta fyrir tugi milljarða ISK á næstu árum í stórum skipum og sjálfvirkum vinnslulínum með vatnsskurðarvélum, ofurkælingu og annarri nýrri tækni.  Minni útgerðir hafa samkvæmt lýsingunni hér að ofan ekki treyst sér til að fjárfesta, af því að framlegð þeirra hefur verið allt of lítil. 

Það er hvorki rekstrargrundvöllur né sanngirnisgrundvöllur fyrir því, að fyrirtæki með litla eða enga framlegð borgi auðlindargjald, því að hjá þeim er augljóslega engin auðlindarenta.  Af þeim ætti einvörðungu að taka hófstillt aðgangsgjald að miðunum, þar til þau hafa rétt úr kútnum, en það geta þau aðeins með fjárfestingum.  Í þessu felst auðvitað engin mismunun í gjaldheimtu eftir stærðarflokkum, því að stórar útgerðir geta líka lent í lágri framlegð, ef illa árar.   

 

 

 


Sjávarútvegur og nýja ríkisstjórnin

Sú var tíðin, að landsstjórnin varð að miða helztu efnahagsráðstafanir sínar við það, að sjávarútvegurinn skrimti.  Sú tíð er sem betur fer liðin, og nú er rekstur sjávarútvegsins sem heildar sjálfbær, þótt einstök fyrirtæki hjari varla og sumir útgerðarmenn lepji dauðann úr skel.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar ber keim af þessu sjálfstæði sjávarútvegsins, því að þar eru engin stórtíðindi, hvað þá bjargráð.  Það er samt ekki þannig, að stefna ríkisstjórnarinnar hafi engin áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Öðru nær. Eitt mesta hagsmunamál hans er að efla Hafrannsóknarstofnun, því að veiðiráðgjöfin, sem afkoman hvílir á að miklu leyti, er reist á vísindalegri þekkingaröflun hennar.  Ef þar eru brotalamir eða meinbugir, þá er afkoma landsins alls í vondum málum.  Það er samt ekki minnst á þessa lykilstofnun í sjávarútvegskaflanum, og það er miður, því að þessi rannsóknarstofnun er undirfjármögnuð.  Það þarf að eyrnamerkja hluta af auðlindargjaldi sjávarútvegsins fjárfestingum og nýsköpun Hafrannsóknarstofnunar, t.d. 25 %/ár. Það er varla hægt að verja þessu fé með eðlilegri hætti.  Væri það gert, gæti stofnunin þegar í stað lokið verkhönnun nýs rannsóknarskips í stað Bjarna Sæmundssonar og Ríkiskaup síðan boðið smíðina út.  Nú eru hagstæðir tímar til að kaupa skip.  Á örfáum árum mundi fjórðungur þessa auðlindargjalds á ári greiða nýtt rannsóknarskip upp.  Eðlilegt er, að annar fjórðungur renni til fjárfestinga og þróunar hjá Landhelgisgæzlu Íslands. 

Í sáttmálanum stendur:

"Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum, og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna":

Hvernig á ríkisstjórn að standa að þessu ? Hún þarf þá einna helzt með álögum sínum á greinina að gæta að því, að sjávarútvegur annarra landa, þ.á.m. Noregs, sem íslenzkur sjávarútvegur á í samkeppni við á erlendum mörkuðum, er stórlega niðurgreiddur úr ríkissjóðum viðkomandi landa. Hvorki norskur sjávarútvegur né sjávarútvegur í strandríkjum meginlandsins greiðir auðlindagjald.  Færeyingar og Grænlendingar eru hins vegar varlega að feta sig inn á þá braut. Í ljósi þessa og tilvitnaðra orða stjórnarsáttmálans hér að ofan er rökrétt afstaða stjórnvalda við núverandi aðstæður á Íslandi að stíga varlega til jarðar varðandi gjaldtöku af sjávarútvegi umfram skattlagningu, sem önnur fyrirtæki í landinu sæta.  Núverandi auðlindargjald er illa hannað og tekur of lítið tillit til afkomu greinarinnar.  Það skaðar beinlínis samkeppnihæfni greinarinnar, bæði við önnur fyrirtæki og fjármagnseigendur hér innanlands og á alþjóðlegum fiskmörkuðum.  

Blekbóndi hefur ritað nokkuð um þetta hér á vefsetrinu, t.d. í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667

, þar sem verð viðkomandi óslægðs fiskjar upp úr sjó er lagt til grundvallar.  Gjaldinu er skipt í tvennt, grunngjald, sem má líta á sem greiðslu fyrir aðgang að takmarkaðri náttúruauðlind, veiðileyfisgjald, eins og nefnt er í sáttmálanum, og veiðigjald, og saman mynda þessir 2 þættir auðlindargjaldið. 

Í sáttmálanum segir, að við álagningu auðlindargjalds skuli taka tillit til afkomu fyrirtækjanna í greininni.  Það er t.d. hægt að gera með því að líta til framlegðar fyrirtækjanna og leyfa þeim að draga frá skattstofni tekjuskatts helming greidds auðlindargjalds síðasta árs, hafi framlegð þá verið á bilinu 15 %- 20 %, og að draga frá allt auðlindargjaldið, ef framlegðin á skattlagningarárinu var undir 15 %.  

Sjávarútvegurinn hefur náð svo góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að hann virðist vera eina greinin, sem á raunhæfa möguleika á að standast skuldbindingar ríkisstjórnarinnar í París í desember 2015 um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda um 40 % árið 2030 m.v. árið 1990, og þarf hann þess vegna ekki að kaupa sér losunarheimildir.  Þetta hefur greinin gert upp á eigin spýtur með því að fjárfesta í nýjum, afkastameiri og sparneytnari búnaði. Veiðiskipum hefur fækkað og nýtnin, mæld í olíutonnum/aflatonn upp úr sjó, hefur tekið stórstígum framförum. 

Það, sem í stjórnarsáttmálanum stendur um þetta efni, horfir til enn lengri framtíðar en 2030, þ.e. til fullrar kolefnisjöfnunar greinarinnar.  Nýja ríkisstjórnin hefur sett sér það dýra og erfiða markmið, að Ísland verði að fullu kolefnisjafnað eigi síðar en árið 2040, þótt hún muni áreiðanlega ekki lifa svo lengi. Engin áfangaskipting né greining er til, sem stutt gæti þetta metnaðarfulla markmið.  Á meðan svo er, eru þetta bara draumórar skrifaranna. Í sáttmálanum segir:

"Einnig þarf að stuðla að kolefnisjöfnun greinarinnar, t.d. með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann".

Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur falið í sér framleiðslu á metanóli eða öðru kolefniseldsneyti.  Það getur falið í sér framleiðslu á vetni til að knýja rafala og rafhreyfil um borð eða að brenna vetni í sprengihreyfli.  Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur líka falið í sér að geyma raforku í rafgeymum fyrir rafhreyfla um borð.  Að 5 árum liðnum verða sennilega komnir á markaðinn rafgeymar, sem duga munu dagróðrarbátum.  Affarasælast er, að stjórnvöld setji upp hvata fyrir einkaframtakið til orkuskipta, en láti allar þvingunaraðgerðir lönd og leið.

Það er einkennilegt í þessu sambandi að leggja upp með þróun á tækni, sem fyrir utan metanól o.þ.h. er svo dýr, að hún er ekki á okkar færi, en sleppa algerlega að minnast á það, sem hendi er næst, en það er rafvæðing hafnanna með háspenntu dreifikerfi, sem þjónað getur allri þörf á landtengingu og þar með hleðslu á framtíðar rafgeymum um borð.  Hér þarf Orkusjóður að koma að fjármögnun, og það er eðlilegt, að hann fái markað fé af arðgreiðslum orkufyrirtækjanna, t.d. 25 %/ár, á meðan orkuskiptin standa yfir.  Án slíkrar stuðningsfjármögnunar og fjárhagslegra hvata er tómt mál að tala um algera kolefnisjöfnun Íslands fyrir árið 2040.

Það er drepið á fiskeldið í sjávarútvegskafla stjórnarsáttmálans:

"Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg, þarf að ræða framtíðar fyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga".

Það er ekki eftir neinu að bíða með þetta, enda nauðsynlegt fyrir fiskeldisfyrirtækin að fá greinargóðar upplýsingar um, hvað stjórnvöld ætlast fyrir í þessum efnum áður en þau ráðast í stórfelldar fjárfestingar.  Aðferðarfræðin, sem þróuð verður fyrir leyfis- og auðlindargjaldtöku af sjávarútveginum, þarf að vera svo almenn og einföld, að henni verði unnt að beita einnig á fiskeldisfyrirtækin.  Þannig er hugmyndafræðin, sem blekbóndi setti fram hér að ofan fyrir útreikninga aðgangsgjalds og veiðileyfagjalds yfirfæranleg á starfsleyfis- og rekstrarleyfisgjald.  

Eitt mesta gagn, sem stjórnvöld geta unnið öllum útflutningsgreinunum, er að tryggja þeim gjaldfrjálsan og hindrunarlausan aðgang að mörkuðum þeirra.  Alþjóðleg viðskiptamál eru nú mjög í deiglunni.  Verndarhyggju gætir nú í höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkjunum.  Þau eru okkur þó mikilvægur markaður fyrir fiskafurðir, svo að utanríkisráðuneytið hefur verk að vinna við gerð tvíhliða viðskiptasamnings við BNA, Breta o.fl.

 Vegna Brexit verður Íslendingum nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi við Breta.  Í Fiskifréttum 30. nóvember 2017 birti Guðsteinn Bjarnason frétt undir fyrirsögninni:

"Vonir um greiðari aðgang en EES veitir".

Hún hófst þannig:

"Íslenzk stjórnvöld gera sér vonir um, að við brotthvarf Breta úr ESB verði markaðsaðgangur Íslendinga að Bretlandi enn betri en samningurinn um EES tryggir okkur.

"Jafnvel þótt EES-samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslenzks útflutnings til Bretlands njóti annaðhvort tollfrelsis eða tollaívilnana, þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir", segir í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um hagsmuni Íslands vegna Brexit.  

"Á viðskiptasviðinu er því ljóst, að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helztu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum.""

Þarna virðist hugmyndin sú, að íslenzkar afurðir verði fluttar frá Bretlandi til ESB-landa, t.d. Frakklands, á kjörum samkvæmt væntanlegum fríverzlunarsamningi Bretlands og ESB, sem verði hagstæðari en núverandi EES-kjör Íslands inn á Innri markað ESB.  Það er engu að síður feiknalega mikilvægt fyrir Ísland að halda nokkurn veginn óbreyttu vöru- og þjónustuaðgengi að Innri markaðinum, fari svo, að EES-samninginum verði sagt upp, sem getur orðið raunin í ljósi æ nánari samruna ESB-landanna, sem er kominn langt út fyrir þau mörk, sem gert var ráð fyrir, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, sem gekk í gildi 1994.  

Utanríkisráðuneytið virðist vera rígbundið við núverandi EES-samning Íslands og ESB.  Ef vel á að vera, verða menn þar á bæ hins vegar að semja áætlun um, hvað gera skal í aðdraganda uppsagnar þessa samnings og í kjölfar uppsagnar.  Nú eru ýmis teikn á lofti um, að á þessu kjörtímabili gæti þurft að grípa til slíkrar áætlunar.  

Í tilvitnaðri skýrslu utanríkisráðuneytisins stendur:

""Slíkur samningur [við Breta] gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er [að brezka markaðinum], ef tollar féllu einnig niður af afurðum, sem nú bera toll inn til ESB." [Af þessu sést, að Innri markaðurinn er ekki tollfrjáls - innsk. BJo.]  

Tollar eru almennt hærri á mikið unnum sjávarafurðum en þeim, sem minna eru unnar.  Greiðari markaðsaðgangur ætti því ekki sízt við um ýmsar framleiðsluvörur úr fiskafurðum; einkum þær, sem njóta ríkrar tollverndar við innflutning til ESB í dag.  Þar á meðal má nefna makríl, síld, lax og túnfisk, ásamt karfa, steinbít og skarkola.

Með niðurfellingu tolla af unnum afurðum gætu skapazt tækifæri til meiri vinnslu afurðanna hér á landi og útflutnings þeirra til Bretlands sem fullunninnar vöru.""

Þetta síðast nefnda hefur geisilega þýðingu fyrir verðmætasköpun á Íslandi, og þannig gæti endurskoðun eða uppsögn EES-samningsins leitt til betri viðskiptakjara en nú tíðkast fyrir fullunnar matvörur frá Íslandi.  

Í þessu samhengi er vert að benda á, að magnhlutdeild fersks þorsks af þorskútflutningi hefur þrefaldazt frá síðustu aldamótum og nemur þriðjungi í ár, en verðmætin nema hins vegar tæplega 40 %.  Í Fiskifréttum var 23. nóvember 2017 vitnað í erindi Jóns Þrándar Stefánssonar, yfirmanns greininga hjá Markó Partner, á Sjávaútvegsráðstefnu í Reykjavík í nóvember 2017 um þetta efni:

"Jón Þrándur vék einnig að því, að mikil fjárfesting hefði orðið í nýrri tækniþróun hjá landvinnslunni og fyrirtækin væru farin að bjóða upp á vörur, sem ekki hefðu verið til áður.  "Það er farið að skera flökin með öðrum hætti og hnakka, og það er ýmiss konar vöruþróun að eiga sér stað, sem er bein afleiðing af tækniþróuninni.  Þetta hefur áhrif út á markaðina", segir Jón Þrándur.  

Hann benti á, að árið 2000 var um 70 % af öllum ferskum þorski flutt út til Bretlands.  Árið 2005 er þetta komið niður í 60 %, og 2010 er það komið niður í 44 %.  Á þessu ári stefnir í, að hlutfall ferskra þorskafurða inn á Bretlandsmarkað verði innan við 15 % af heildinni."

Það ætti að vera grundvöllur til sóknar á Bretlandsmarkað í krafti hagstæðs fríverzlunarsamnings á milli Íslands og Bretlands.  Verði svipaður samningur gerður á milli Bretlands og ESB, sem gefi betri kjör en Ísland hefur nú við ESB, kann að verða hagstætt að fljúga og sigla hluta af ESB-útflutninginum til Bretlands og áframsenda hann þaðan, e.t.v. með járnbrautarlest.   

 

 

 

 

 


Orkusamband EES-landa ?

Frá ríkisstjórn Íslands berast þau tíðindi, að hún hyggist hlíta dómi EFTA-dómstólsins frá í nóvember 2017, sem var á þá lund, að Alþingi hafi við innleiðingu matvælalöggjafar ESB verið óheimilt að banna innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.

Alþingismenn töldu sig vafalaust vera að verja lífshagsmuni þjóðarinnar með þessari gjörð árið 2009, enda hafa viðurkenndir vísindamenn á sviði sýkla- og veirufræði varað við því, að með slíku hrámeti að utan geti hæglega borizt fjölónæmir sýklar, sem ráðast á mannfólkið, og dýrasjúkdómar, sem mótefni vantar fyrir í íslenzka dýrastofna.

Sýkingar af völdum fjölónæmra sýkla eru alvarleg lýðheilsuógn.  Framandi dýrasjúkdómar hafa orðið landsmönnum mjög þungir í skauti og t.d. næstum útrýmt íslenzka sauðfjárstofninum.  

Ríkisstjórnin ætlar sér vafalaust í ýmsar mótvægisaðgerðir, t.d. aukið kerfisbundið eftirlit, og skilmerkilegar upprunamerkingar, sem blasa verða við neytendum.  Það er þó ómótmælanlegt, að téður innflutningur mun auka líkur á hættulegum sjúkdómum hérlendis.  Hver áhættuaukningin er, hefur enn ekki komizt á hreint. Hin hlið þessa máls, er að Alþingi er gert afturreka með ákvörðun sína.  Þar með blasir við fullveldisframsal með EES-samninginum.  

Það verður að lýsa nokkurri furðu á því, að ríkisstjórnin leggi að óreyndu niður skottið gagnvart Brüssel-valdinu og geri ekki tilraun til samningaumleitana við framkvæmdastjórn ESB um innflutning á þessum vörum, sem sumir vísindamenn telja íslenzkri fánu stórhættulega.  Ferst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þar öðru vísi en ríkisstjórn Davids Cameron, sem samdi um ýmsar tilslakanir við ESB fyrir Bretlands hönd og lagði þann samning síðan fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar með því fororði, að synjun mundi þýða úrsögn Bretlands úr ESB. Úr því varð BREXIT.   

Eðlilegt hefði verið af íslenzku ríkisstjórninni að fara sömu leið og leggja samningsniðurstöðuna fyrir þjóðina undir því fororði, að höfnun þýddi úrsögn Íslands úr EES.  Er ekki kominn tími til, að þjóðin taki sjálf afstöðu til veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með öllum þess kostum og göllum ?    

Sú staðreynd, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA getur gert Alþingi afturreka með samþykktir sínar í máli, sem getur varðað lífshagsmuni, sýnir, að Alþingi framseldi fullveldi sitt til ESA og ESB með því að samþykkja  samning um aðild Íslands að EES, sem gekk í gildi 1994.  M.v. það, sem í húfi er, var þetta ótvírætt stjórnarskrárbrot, og öndvert mat lögspekinga á sínum tíma hefur nú fallið um sjálft sig.   

Nú er í deiglunni enn eitt málið á ferli ESB til æ meiri sameiningar ("an ever closer union").  ESB hefur jafnframt ákveðið, að þetta mál heyri í öllum aðalatriðum undir EES-samning Íslands, Noregs og Liechtenstein.  Hér ræðir um orkusamband EES ("EEA Energy Union").  Það er skemmst frá því að segja, að orkusamband þetta mun svipta aðildarþjóðirnar forræði á orkumálum sínum.  Það verður ekki gert með eignaupptöku, heldur með því að setja á laggirnar Orkustofnun Evrópu-"European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", skammstafað ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  

Framkvæmdastjórn, leiðtogaráð og þing ESB hafa framselt valdheimildir til ACER til að taka stefnumótandi ákvarðanir um orkukerfi aðildarlandanna á sviðum, sem varða "sameiginlega hagsmuni" aðildarlandanna.  Það er ESA, sem úrskurðar í hverju tilviki, hvort ákvörðun varðar "sameiginlega hagsmuni" eða ekki.  Í hverju landi verður undirorkustofnun, UOS, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for Energi", skammstafað RME, sem sér um framkvæmd stefnu ACER í hverju landi.  M.a. mun UOS (RME) koma á fót kauphallarviðskiptum með raforku, þar sem hver sem er innan EES, getur boðið í raforku, sem á boðstólum er, og ESB vill, að öll framleiðanleg raforka sé á boðstólum.  Þetta þýðir, að dagar langtíma raforkusamninga eru taldir.  

Þetta hefur í för með sér gjörbreytingu til hins verra fyrir land eins og Noreg, þar sem langtímasamningar eru undirstaða rekstrar iðnfyrirtækja vítt og breytt um landið, og tengingar norska rafkerfisins við Svíþjóð, Finnland, Danmörku, Holland og senn við Bretland veita mikla flutningsmöguleika á afli til útlanda.  Félagar í samtökunum "Nei til EU" í Noregi óttast, að aðild Noregs að "Orkustofnun Evrópu" (ACER) geti rústað norskum iðnaði og valdið a.m.k. 30 % hækkun á raforkuverði í Noregi.  

Hvaða áhrif gæti ACER haft á Íslandi ? 

ACER á t.d. að fá vald til að ákveða uppbyggingu innviða, sem þvera landamæri, og varðandi "verkefni um sameiginlega hagsmuni".  Ef þátttakendur í slíkum samstarfsverkefnum eru ósammála um kostnaðarskiptinguna, þá sker ACER úr um það.  

Fyrir Ísland er t.d. hægt að hugsa sér, að ACER komist að þeirri niðurstöðu, að ófært sé, að land með mestu raforkunotkun á mann í heiminum sé eitt og ótengt úti í Ballarhafi.  Í landinu sé enn talsvert af ónýttum endurnýjanlegum orkulindum, og að nú sé kominn tími til að landið verði tengt við raforkukerfi meginlandsins, svo að fleiri geti notið góðs af ódýrri og endurnýjanlegri orku.  Þannig mundi sæstrengur frá Íslandi til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi þjóna markmiðum ESB um aukningu á orkuflutningum á milli landa frá núverandi 10 % í 15 % árið 2025 og 20 % árið 2030.   ACER mundi vafalaust niðurgreiða stofnkostnað af slíkum streng, sem yrði þá í einkaframkvæmd, og Landsnet yrði skikkað til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt og búast má við, að Landsnet  þyrfti að taka þátt í að greiða kostnaðinn við flutning raforkunnar frá virkjunum á Íslandi og til kaupandans.  Síðan hæfist samkeppni um íslenzka raforku á milli orkukaupenda hérlendis og erlendis. Afleiðingin fyrir alla raforkunotendur á Íslandi yrði jafnvel hærra raforkuverð en á raforkumarkaði á meginlandinu vegna hás flutningskostnaðar. Aðeins raforkukaupendur með langtímasamninga í gildi fengju að halda gildandi orkuverði samkvæmt samningi, en ACER leggst alfarið gegn endurnýjun slíkra samninga og m.v. völd sín er ekki að efa, að ACER mundi fá því framgengt, að áður en lyki yrði öll raforka á íslenzka stofnkerfinu á evrópskum markaði.  

Undirorkustofnun ACER á Íslandi, UOS,  verður verkfæri ACER og óháð íslenzkum yfirvöldum.  Ákvörðunarvald um það, hversu miklum vatnsforða úr lónunum má miðla í því augnamiði að selja orku frá Íslandi, verður hjá UOS.  Þannig er nær öruggt, að staðan í íslenzkum miðlunarlónum yrði iðulega orðin svo lág í upphafi árs, að kaupa yrði raforku að utan á því verði, sem hún fengist fyrir.  

Fyrir Ísland og Noreg, sem bæði eru rík af hagkvæmri, endurnýjanlegri orku, sem nú knýr hagkerfi beggja landa, er ofangreind sviðsmynd alger hrollvekja.  Um það er einfaldlega að ræða að afhenda yfirþjóðlegu valdi, ACER, ráðstöfunarrétt á erfðasilfri hvorrar þjóðar um sig.  Fyrir meirihluta Norðmanna er það algerlega óaðgengilegt fyrirkomulag samkvæmt skoðanakönnunum þar í landi, og sama verður örugglega uppi á teninginum hérlendis, ef ríkisstjórnin, Fullveldisstjórnin, ætlar að leggja fram frumvarp þess efnis á aldarafmælisári íslenzka fullveldisins, eins og norska ríkisstjórnin hyggst gera á fyrsta fjórðungi 2018, að Alþingi samþykki þriðju orkutilskipun ESB til innleiðingar í íslenzkan rétt.  Í báðum ríkjunum mun rísa upp hatrömm mótmælabylgja gegn slíku glapræði.  Samþykki Stórþingið og Alþingi ekki þessa innleiðingu, mun ESA úrskurða um brot á EES-skuldbindingum landanna, og EFTA-dómstóllinn mun líklega dæma ESA í hag.  Þá verður Noregi og Íslandi ekki lengur vært innan EES.  

lv-kapall-kynning-april-2011

 

 

 

 

 

 


Utanríkisstefna nýrrar ríkisstjórnar

Lokakafli "sáttmála" Fullveldisríkisstjórnarinnar ber fyrirsögnina "Alþjóðamál".  Sá veldur nokkrum vonbrigðum.  Undirkaflinn, "Evrópa og viðskiptakjör" svarar varla kalli tímans.  Fáeinum vikum áður en ritunin fór fram, féll dómur EFTA-dómstólsins á þá lund, að með aðgerðum íslenzkra stjórnvalda til að verja lýðheilsu og búfjárheilsu gegn ógn frá hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk, að mati innlendra fræðimanna, hafi þau gerzt brotleg við skuldbindingar EES-samningsins um matvælalöggjöf ESB.  Með þessum úrskurði er ljóst, að aðild Íslands að EES felur í sér stórfellt fullveldisframsal og ekki bara lítilsháttar, eins og haldið hefur verið fram.  Þar með hefur sannazt mat margra hérlendis, að samþykkt Íslands árið 1994 á EES-samninginum fól í sér Stjórnarskrárbrot, og við svo búið má ekki standa. 

Að sjá eftirfarandi texta frá skrifurum "sáttmálans" vekur furðu í þessu ljósi:

"Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel, og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði."

Það er hægt að túlka þennan texta sem hreina uppgjöf gagnvart ESB/EES á sviði sjúkdómavarna, en því verður ekki trúað að óreyndu, og þar með stæði þessi ríkisstjórn alls ekki undir nafni.  Framvinda mála hefur þvert á móti varpað ljósi á það, hversu varasamt það er fyrir Íslendinga að innleiða færibanda gjörðir ESB gagnrýnislítið.  Sama sjónarmið er uppi í Noregi.

Þetta mál og útganga Breta úr ESB kallar á endurskoðun EES-samningsins, og í Noregi, einu af þremur EFTA-löndum í EES, gætir einnig vaxandi efasemda um EES-aðild Noregs.  Téður dómur tekur af öll tvímæli um það, að fullveldisframsalið til EES/ESB er algerlega óviðunandi og virðist vera Stjórnarskrárbrot.  Það er ólíklegt, að ESB verði til viðtals um nokkrar undanþágur frá lagasetningu sinni og sáttmálum Íslandi og Noregi til handa.  Þar með er komið að stærsta utanríkispólitíska viðfangsefni kjörtímabilsins, sem er uppsögn EES-samningsins og tvíhliða viðskiptasamningi við ESB, hugsanlega í samfloti með Noregi og/eða Bretlandi.  Það er ekkert ýjað að þessum möguleika í "sáttmálanum". Það þýðir samt ekki að reyna að skjóta sér undan þessu erfiða viðfangsefni.

Talsmenn landbúnaðarins halda enn í vonina um, að semja megi við ESB um undanþágur frá matvælastefnu þess.  Það er í ætt við óraunhæfa bjartsýni Össurar Skarphéðinssonar framan af tímabilinu 2009-2013, þegar hann sem utanríkisráðherra landsins gerði ítrekaðar tilraunir til að semja Ísland inn í ESB, en það strandaði á landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu ESB, og Össur gafst að lokum upp á þvergirðingshætti ESB, enda kaus hann að hylja vandamálið í þokuskýi í kosningabaráttunni 2013.  Litlar líkur eru á, að einhverju verði um þokað nú, en þó er sjálfsagt af núverandi utanríkisráðherra að reyna það.  Hann verður hins vegar einnig að hafa Plan B, og það hlýtur að felast í þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins, þegar hann hefur kynnt Alþingi, hvað í boði er að hálfu ESB. Það væri keimlík nálgun viðfangsefnisins og hjá Bretum.   

Haraldur Benediktsson, Alþingismaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, hefur eftirfarandi að segja við Helga Bjarnason, blaðamann, eins og birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 28. nóvember 2017:

"Hvað er til bragðs að taka vegna dómsins ?":

"Við eigum að taka samtalið við Brüssel.  Við sömdum um Evrópska efnahagssvæðið á ákveðnum forsendum, og það var af ákveðinni ástæðu, sem við tókum landbúnaðarkafla ESB ekki inn í samninginn.  Mér finnst, að við eigum að fá sérstöðu okkar viðurkennda."

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hafði eftirfarandi fram að færa, "baksviðs":

"Þessi ákvæði eru í samningum, sem hafa verið gerðir.  Við hljótum að velta því fyrir okkur, hvort við ætlum að sætta okkur við niðurstöðuna eða fara til Evrópusambandsins til að skýra stöðuna hér fyrir því og óska eftir breytingum."

"Segja má, að þetta [matvælalöggjöf ESB] hafi verið tekið upp til að tryggja frjálst flæði á sjávarafurðum til Evrópu.  Það breytir því ekki, að við erum með raunverulega og verðmæta sérstöðu og hljótum að þurfa að hugsa um, hvernig bezt er að vernda hana." 

Enn er í gildi afmarkað viðskiptabann ESB og BNA á Rússland og refsiaðgerð Rússa, sem fólst aðallega í banni á innflutningi matvæla til Rússlands frá viðskiptabannsþjóðunum.  Það hefur frá fyrstu stundu orkað tvímælis, að Ísland tæki þátt í þessu banni, því að landið flytur ekkert út af þeim vörum og þjónustu, sem eru á bannlistanum.  Refsiaðgerðir Rússa hafa mest skaðað Íslendinga og Norðmenn, en Norðmenn voru mögulegir útflytjendur á hluta bannvaranna, t.d. frá Kongsberg våpenfabrikk.  

Íslendingar eiga alls ekki að berjast nú samtímis á tveimur vígstöðvum.  Þess vegna á að gera framkvæmdastjórn ESB grein fyrir því, að fallist hún ekki á umbeðnar lágmarkstilslakanir gagnvart Íslandi, þá verði Ísland dregið út úr viðskiptabanninu.  Verði sú raunin má reikna með, að Rússar aflétti refsiaðgerðum gegn Íslandi, en ESB hefur varla nægan innri styrk til að refsa Íslendingum með viðskiptaþvingunum.  Við þær aðstæður þurfum við að reiða okkur á gott viðskiptasamband við Rússland, Bretland og önnur lönd utan ESB um tíma.  Stefnumiðið á kjörtímabilinu ætti hins vegar að vera úrsögn úr EES og gerð viðskiptasamnings við ESB á svipuðum nótum og Kanada hefur gert eða Bretar munu gera, ef hann verður okkur hagstæðari.  

 

 


Einangrunarhyggja er ekki í boði

Brexit-sinnar, þ.e. fylgjendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ESB, boða margir hverjir, að þeir vilji sízt loka Bretland af í menningarlegu og viðskiptalegu tilliti, þegar Bretar munu hafa sagt skilið við ESB í marz 2019, heldur vilji þeir þvert á móti opna Bretland fyrir hvers konar löglegum viðskiptum um allan heim.  Þeir hafa talað um, að Bretland ætti að gegna forystuhlutverki í þágu frelsis, þegar þeir losna úr viðjum og út fyrir múra meginlandsins, "Festung Europa", sem er þýzkt hugtak úr seinni heimsstyrjöldinni og Bretland vann þá með þrautseigju bug á. 

Fyrir íslenzka hagsmuni ættu þetta að vera ágætis tíðindi.  Bretar munu ekki að óbreyttu verða hluti af EES eftir marz 2019, nema þá sem einhvers konar bráðabirgða ráðstöfun.  Ísland þarf þess vegna fyrr en seinna að ná fríverzlunarsamningi við Bretland um þær vörur og þjónustu, sem báðum ríkjum hentar.  Í fljótu bragði er það allt, nema matvæli, sem talin eru í viðtökulandinu geta valdið heilsufarsskaða að mati tilkvaddra vísindamanna á sviði manna- og dýrasjúkdóma.  Bretar sjálfir þekkja þetta vel, því að þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni af völdum dýrasjúkdóma. Það verða varla alvarlegar hindranir á vegi Bretlands og Íslands að ná samkomulagi um þetta og helzt niðurfellingu allra opinberra innflutningsgjalda á hættulausum vörum og þjónustu.  Fyrir Ísland mundi það þýða enn betri viðskiptakjör fyrir fiskafurðir en nú tíðkast innan EES.

  Erfiðari viðgangs verður "Festung Europa", þ.e. Evrópska efnahgssvæðið-EES.  E.t.v. verður að sprengja það upp, þar sem í ljós er komið varnarleysi íslenzkra stjórnvalda gagnvart lagasetningu ESB, sem varðar lífshagsmuni hérlendis.  Með öðrum orðum er nú komið skýrar í ljós en áður, að fullveldisframsal Íslands með samþykkt EES-samningsins, sem aldrei fór í þjóðaratkvæðagreiðslu, var stórfelldara en samræmanlegt er Stjórnarskrá Íslands.  Fyrir því að yfirgefa EES er einnig vaxandi vilji í Noregi, en blekbónda er ekki kunnugt um afstöðu Liechtenstein til framtíðar EES.  Við Brexit verða vatnaskil, sem gefa kost á að endurskoða viðskiptasambönd Íslands við umheiminn með róttækum hætti.  

Tvö hagspök lögðu saman í Morgunblaðsgrein, 20. júlí 2017, og varð útkoman,

"Niður með múrana",

sem er afar fróðleg og góð röksemd fyrir haftalausum viðskiptum, svo lengi sem öðrum og mikilvægari hagsmunum er ekki ógnað.  Sennilega verður tvíhliða samningur Íslands og ESB ofan á sem endanlegt fyrirkomulag á samskiptum Íslands og ESB, því að ESB mun ekki að óbreyttu samþykkja undanþágur á frelsunum 4 eða 5 (raforkuflutningar gætu orðið 5. frelsið) og matvælalöggjöf sinni.  Ísland getur ekki undirgengizt þessar kvaðir án þess að fórna fullveldisrétti sínum, eins og nánar verður vikið að í þessari vefgrein. Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA (Samtaka atvinnulífsins) og Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns Efnahagssviðs SA, hófst þannig:  

"Það er segin saga, að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna.  Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóða viðskiptum.  Hér sannast hið fornkveðna, að verðmætasköpunin er mest, þegar ríki sérhæfa sig í því, sem þau gera bezt og verzla það, sem þau vanhagar um, erlendis.  [Stundum er styrkur ríkja fólginn í að nýta sérstakar náttúruauðlindir, t.d. endurnýjanlega orku, hreint haf og land, eins og hérlendis, - innsk. BJo.]  

Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun.  Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess, að verkefni, sem áður borguðu sig ekki, verða arðbær, sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri, sem fyrir eru í landinu, og skapa önnur, sem eru heimamönnum hulin.  

Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.   

Beinar erlendar fjárfestingar hafa gefizt vel hérlendis, enda eru þær áhættulausar fyrir innlenda fjárfesta.  Slíkir erlendir fjárfestar færa landsmönnum, auk áhættufjármagns, nýja þekkingu á verkferlum og stjórnun á fólki og verkefnum, t.d. áhættustjórnun.  Þannig hafa öll stóriðjuverkefnin markað framfaraspor að sínu leyti í sínu héraði, nema "United Silicon" í Helguvík, þar sem erlendir fjárfestar voru lítt eða ekki viðriðnir, og þekkingarleysi virðist hafa ráðið för.  Það er afleitt vegarnesti.  

Það eru hins vegar skuggahliðar á aðild landsins að Innri markaði ESB með frjálsa flutninga fjármagns.  Ef Ísland hefði ekki haft þetta aðgengi að Innri markaðinum með fjármagn, er ólíklegt, að Hrun fjármálakerfisins íslenzka haustið 2008 hefði orðið jafnalgert og raun bar vitni um.  Hið sama má segja, ef bönkunum hefði verið stjórnað af festu og ábyrgð, þótt landið væri á Innri markaðinum.  Aðild að Innri markaðinum felur óneitanlega í sér fullveldisframsal, sem reyndist stórhættulegt á ögurstundu haustið 2008.  Af því ber að draga lærdóm. Sú áhættutaka felur í sér skammtíma ávinning og langtíma hættu.  Hvorki var að finna skjól né stuðning á EES-svæðinu né reyndar annars staðar, þegar á herti.  Sú dapurlega sögulega staðreynd sýnir, að ríkisstjórnir huga aðeins að hag eigin lands, þegar á herðir, og að það er enginn vinur lands í raun. Eina úrræðið er að standa á eigin fótum í hvaða stórsjó, sem er. Eina vörn einnar þjóðar er óskorað fullveldi hennar til að ráða sínum málum sjálf í blíðu og stríðu, sbr Neyðarlögin haustið 2008, sem björguðu landinu frá langvarandi allsherjar áfalli.    

 Allt frá miðbiki 20. aldar hefur verið rekinn harðvítugur áróður gegn beinum erlendum fjárfestingum á Íslandi og svo er enn.  Ástæðan tengdist hagsmunatogstreitu stórveldanna í Kalda stríðinu í upphafi, og hún hefur alla tíð verið af stjórnmálalegum einangrunartoga fremur en á viðskiptagrundvelli. Þessi neikvæða síbylja hefur haft áhrif á afstöðu landsmanna, sem reynslan ætti þó að hafa kennt annað.  Um þetta skrifa hagspekingarnir:

"Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni, hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu.  Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu.  Sláandi var, hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks, þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting.  Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins."

Þegar Bjarni Benediktsson var fjármála-og efnahagsráðherra 2013-2016, hafði hann forgöngu um að fella niður alla tolla og vörugjöld, nema af bifreiðum, eldsneyti og vissum matvælum.  Þetta var einstæður gjörningur, sem skipaði Íslendingum einhliða í hóp þjóða með minnstar innflutningshömlur á vörum.  Þessi gjörningur gerði viðskiptaumhverfið hérlendis heilbrigðara, lækkaði vöruverð í landinu, sem afnáminu nam, öllum til hagsbóta, og ruddi brautina fyrir beinar fjárfestingar erlendra verzlunarfyrirtækja á Íslandi, sem eflt hafa samkeppni, svo að verðhjöðnun er hér enn og hefur verið mánuðum saman, ef húsnæðislið neyzluverðsvísitölunnar er sleppt. 

Hrá matvæli eru ásteytingarsteinn.  Matvælalöggjöf ESB var illu heilli samþykkt á Alþingi í árslok 2009. Ísland lenti þar með á Innri markaði EES fyrir matvæli, og þar er engar undanþágur að finna. Alþingi þóttist þó reka varnagla gagnvart sjúkdómahættu með því að banna innflutning á fersku kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Þessi varnagli var illa ryðgaður og er dottinn í sundur með nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Við því verður ný ríkisstjórn að bregðast snöfurmannlega. Þar mun mæða á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, sem fara með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og utanríkismál.    

Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum.  Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES. 

Þar með er engum blöðum um það að fletta lengur, að framsal á fullveldi landsins til að verjast sjúkdómum hefur farið fram til EES.  Þetta fullveldisframsal er óviðunandi með öllu og útheimtir endurskoðun á EES- samningi Íslands og uppsögn hans, ef téð fullveldi til sjúkdómavarna fæst ekki endurheimt úr klóm Berlaymont í Brüssel.  Þessi afstöðubreyting markar þáttaskil í utanríkismálum Íslands og kemur á sama tíma og tengsl helztu viðskiptaþjóðar Íslands við EES eru að taka stakkaskiptum.  Hér er óhjákvæmilega komið helzta utanríkispólitíska viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar.  

 

 


Hnignun Evrópusambandsins

Stjórnarkreppa ríkir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.  Landið er forysturýki Evrópusambandsins (ESB), og þegar í Berlín ríkir einvörðungu starfsstjórn, án umboðs frá Bundestag, á engin stefnumörkun sér stað í Brüssel heldur, sem heitið getur.  Þetta hefur vafalítið tafið fyrir Brexit viðræðunum, enda er fyrri hluti þeirra á eftir áætlun, og þess vegna hafa samningaviðræður um viðskiptaskilmála ekki hafizt; karpað hefur verið um upphæð útgöngugjalds Bretlands, gagnkvæm réttindi fólks í Bretlandi og ESB og landamæraeftirlit á mörkum írska lýðveldisins og Norður-Írlands, en ekkert er farið að ræða um fyrirkomulag viðskiptasambands Bretlands við ESB.  Gagnkvæmir hagsmunir eru svo miklir, að telja verður líklegt, að hagfelldur samningur náist fyrir athafnalíf og almenning beggja vegna Ermarsunds. Veik staða ríkisstjórnar Bretlands og Þýzkalands gagnvart þjóðþingum sínum flækir stöðuna.   

Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, kom löskuð út úr þingkosningunum 24. september 2017, eins og Theresa May fyrr á árinu, og eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum CDU/CSU (flokkasamsteypa Merkel og Bæjarans Seehofers, sem nú hefur reyndar látið af völdum eftir afhroð í téðum kosningum), FDP (Frjálslynda lýðræðisflokksins) og græningja, þá er Angela Merkel sem lamaður leiðtogi. Þar hafa á fáeinum vikum í haust orðið alger umskipti. Hennar tími er augsýnilega liðinn, en hún hefur hvorki erfðaprins né erfðaprinsessu, enda er staðan óvænt.

Skýringin á viðræðuslitunum er óánægja FDP með afstöðu Merkel til flóttamanna í Þýzkalandi.  FDP ætlar að herja á flokkinn AfD, Alternative für Deutschland, sem er á móti aðild Þýzkalands að myntsamstarfi ESB-evrunni og er mjög gagnrýninn á viðtöku einnar milljónar flóttamanna frá aðallega múhameðskum löndum árið 2016, sem enginn veit, hvað á að gera við.  Fólk þetta á mjög erfitt með að aðlagast vestrænum samfélögum, það lifir margt hvert í andlegu miðaldamyrkri og er þungur baggi á velferðarkerfinu.  FDP ætlar að hræra í þessu grugguga vatni og ná enn meiri fylgisaukningu  í næstu kosningum á kostnað AfD, sem fékk 92 þingmenn í september 2017, svo að flokkurinn geti jafnvel gert kröfu um stjórnarmyndunarumboð í Berlín eftir næstu kosningar, sem gætu orðið innan tíðar, ef jafnaðarmenn, SPD, semja sig ekki inn í ríkisstjórn.

Í Austur-Evrópu er að magnast óánægja með ESB, af því að ESB vill þvinga aðildarlönd sín þar til að taka við flóttamönnum.  Austur-Evrópulöndin og Eystrasaltslöndin vilja harðari stefnumörkun gagnvart Rússlandi, sem þau óttast, að geti reynt "úkraínuseringu" gagnvart sér.  Angela Merkel hefur í raun borið kápuna á báðum öxlum gagnvart Vladimir Putín, sem alltaf sætir færis að koma höggi á Vesturlönd og rjúfa samstöðu þeirra. Merkel hefur leyft viðskipti við Rússa með iðnvarning á borð við þýzka bíla, og hún hefur leyft Nord-Stream 2 að halda áfram, en það er stórverkefni Þjóðverja og Rússa um gaslögn beint frá Rússlandi um botn Eystrasaltsins og til Þýzkalands.  Austur-Evrópumenn eru æfir út af þessu.  Fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, situr í stjórn gasrisans rússneska, sem hér á í hlut.  

Suðurvængur ESB er í lamasessi.  Katalónar vilja losna undan völdum Kastilíumanna, og sama á líklega við um Baska.  Það getur hæglega kvarnazt út úr ríki Spánarkonungs á næstu misserum, en ESB óttast það, því að þá verður fjandinn laus víða í Evrópu.  Meira að segja Bæjarar gætu í alvöru farið að velgja Prússunum í Brandenburg/Berlín undir uggum.  

Enginn hagvöxtur hefur verið á Ítalíu frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, og margir banka Ítalíu eru taldir standa veikt.  Ríkissjóður landsins er mjög skuldsettur.  Ítalir glíma við vantraust á fjármálakerfi sínu, lánshæfismatið á þeim er lágt, og lausafjárkreppa getur fyrirvaralaust leitt til bankagjaldþrots.  Þýzkir kjósendur eru andsnúnir því, að þýzka ríkið og þýzkir bankar hlaupi undir bagga, enda er um háar fjárhæðir að ræða á Ítalíu.  Ef allt fer á versta veg fyrir Ítölum, mun gengi evrunnar lækka enn meira en undanfarin misseri m.v.  bandaríkjadal og jafnvel verða ódýrari en bandaríkjadalur.  Þá mun vegur sterlingspunds vænkast og hrollur fara um margan (tevtónann) norðan Alpafjalla. 

Á Grikklandi er viðvarandi eymdarástand með 20 % atvinnuleysi (50 % á meðal fólks undir þrítugu), ríkisstofnanir eru sveltar og gamlingjar og sjúklingar lepja dauðann úr skel.  Þessi eymd er í boði ESB, sem neitar að klippa á skuldahala gríska ríkisins, þótt AGS mæli með því. Sósíalistar Syriza þrauka í ríkisstjórninni í Aþenu, á meðan eignir Grikkja á borð við höfnina í Pireus eru seldar útlendingum, í mörgum tilvikum Kínverjum, sem eru að tryggja sér aðstöðu á siglingaleiðum (beltiskenning aðalritarans, Xi).  

Ekki tekur betra við, þegar horft er til norðurs úr höfuðstöðvum ESB í Brüssel, Berlaymont.  Öflugasta ríki ESB á sumum sviðum, og næstöflugasta efnahagsveldi þess, er á leiðinni út úr sambandinu, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þar í júní 2016.  Þetta er  sársaukafullur skilnaður, bæði fyrir ESB og Bretland, og skilnaðarsamningaviðræður hafa gengið illa fram að þessu.  Gæti svo farið, að í marz 2019 hrökklist Bretland úr þessari yfir fertugu meginlandsvist sinni án viðskiptasamnings, og þá gilda ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.  Bezt væri fyrir báða aðila, svo og Íslendinga, að fríverzlunarsamningur kæmist á.  Íslendingar gætu notið góðs af honum, enda fer nú þegar talsvert af íslenzkum sjávarafurðum frá Bretlandi til meginlandsins. 

Bretum er í mun að halda frjálsu viðskiptaaðgengi sínu að Innri markaðinum, og framleiðendum í ESB er í mun að halda óbreyttu aðgengi að 60 milljóna manna öflugum markaði norðan Ermarsundsins, en Berlaymont og leiðtogaráðið eru hins vegar skíthrædd við, að flótti bresti í liðið, ef Bretar standa uppi með pálmann í höndunum árið 2019, eins og reyndin varð eftir hrikaleg vopnaviðskipti 1918 við Habsborgara og Þýzkaland og 1945 við Öxulveldin. Þótt Bretar tapi orrustum, virðast þeir alltaf vinna stríðið.  

Við þessar aðstæður hefur umræða í Noregi um aðild landsins að EES blossað upp, eins og grein í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017 bar með sér.  Hún bar fyrirsögnina:

Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins.

Í Noregi ríkir nú minnihlutastjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins.  Erna Solberg, forsætisráðherra, er fylgjandi aðild Noregs að ESB, en Framfaraflokkurinn er á móti.  Nýlegi kúventi stærsti flokkur Noregs, Verkamannaflokkurinn, í þessu máli og hefur nú þá afstöðu að berjast ekki fyrir aðild Noregs að ESB. Það kann að vera orðið mjótt á mununum um stuðning á Stórþinginu við aðild Noregs að EES.  Án Noregs þar hrynur EES eins og spilaborg, því að Norðmenn halda bákninu uppi fjárhagslega að mestu leyti.   

Á Íslandi hefur úrsögn landsins úr EES þó enn ekki hlotið mikla umfjöllun.  Gæfulegast væri að hafa samflot með Norðmönnum um endurskoðun samninga um EES, þar sem stefnt yrði á endurheimt óskoraðs fullveldis landanna, einnig yfir landamærum sínum, og viðskiptafrelsi með vörur og þjónustu, sem aðilar eru sammála um, að eru óskaðlegar fólki, dýrum og náttúru. Í sáttmála Fullveldisstjórnarinnar stendur í landbúnaðarkaflanum:  "Meginmarkmiðið er, að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð".  Þar sem þetta samræmist ekki matvælalöggjöf ESB, sem einnig gildir fyrir EES samkvæmt EFTA-dómi nýlega, er Íslandi ekki lengur vært innan EES. Hefur þá ekki verið minnzt á hættu, sem lýðheilsu stafar af innflutningi á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  

Norska Stórþingið og Alþingi verða að fela ríkisstjórnum landanna að semja um undanþágur við ESB, til að hægt sé að óska eftir sameiginlegum viðræðum landanna og hugsanlega Liechtenstein við ESB.  Það er líklegra en hitt, að þessi þjóðþing myndu, eftir umræður, samþykkja að óska eftir slíkum samningaviðræðum við ESB, en það er hins vegar líklegt, að ESB fari undan í flæmingi vegna þess, hvernig allt er í pottinn búið á þeim bæ.  Það er líka skynsamlegt fyrir Norðurlöndin að doka við og sjá, hver útkoman verður úr Brexit-viðræðunum, og nota tímann til að undirbúa jarðveginn innanlands, og að stilla saman strengi um leið og gerður er fríverzlunarsamningur við Bretland.  Íslendingar munu reyna að ná enn hagstæðari samningum við Breta fyrir vörur sínar, t.d. sjávarvörur, en nú eru í gildi.

Evran krosssprungin     

 

 

 

 


Laxeldi í lokuðum kvíum

Til að festa núverandi góðu lífskjör í sessi hérlendis verður að auka útflutningsverðmætin um að jafnaði 50 miaISK/ár að núvirði næstu 2 áratugina, ef tekið er mið af mannfjöldaspá og breytingu á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar (vaxandi hlutfallslegur fjöldi aldraðra af heild eykur samfélagslegan kostnað).  

Ísland hefur að ýmsu leyti sterka stöðu til að verða vaxandi matvælaframleiðsluland.  Hlýnandi loft og sjór gefur meiri vaxtarhraða bæði jurta og dýra.  Fyrir matvæli er vaxandi, vel borgandi markaður, og Íslendingar geta við markaðssetningu sína teflt fram miklum hreinleika lofts og vatns og nægu af hreinu vatni og umfangi samkvæmt vísindalegri ráðgjöf, m.ö.o. sjálfbærri matvælaframleiðslu.    

Laxeldi hefur á þessum áratugi gengið í endurnýjun lífdaganna við Ísland með tilstyrk Norðmanna, sem ásamt Kínverjum eru umsvifamestir á þessu sviði í heiminum.  Þeir eru líka í fremstu röð, hvað öryggi og tækni við sjókvíaeldi á laxi varðar.  

Nú býðst hérlandsmönnum að kynnast nýrri tækni á sviði laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem Norðmenn hafa verið með í þróun síðan 2007.  Á vegum fyrirtækisins AkvaFuture AS hófst árið 2014 eldi á laxi í lokuðum sjókvíum á viðskiptalegum grunni.  Stefnir fyrirtækið á slátrun 2,0 kt á árinu 2017 og 6,0 kt árið 2019.  Þetta er nýmæli, því að áður voru uppi efasemdir um, að hægt væri að ala lax upp í sláturþyngd í lokuðum sjókvíum.

Norðmenn sjá þann meginkost við lokaðar sjókvíar, að í þeim veldur laxalús ekki teljanlegu tjóni, en hún er mikill skaðvaldur í opnum kvíum úti fyrir Noregsströnd, og geta orðið 20 % afföll þar í kvíum af hennar völdum, þegar verst gegnir, samkvæmt Rögnvaldi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra AkvaFuture AS í viðtali við Fiskifréttir, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:

"Vilja ala lax í stórum stíl í Eyjafirði".

Í umræðunni hérlendis hefur laxeldi í opnum sjókvíum verið gagnrýnt harkalega, einkum af veiðiréttarhöfum villtra laxastofna, og þeir hafa m.a. bent á þessa úrbótaleið, sem Rögnvaldur Guðmundsson hefur nú þróað, enda kveðst hann ekki vita til, að nokkur lax hafi sloppið úr lokuðum sjókvíum á 10 ára tilraunaskeiði.  

"Miklir möguleikar eru á að nýta eldistæknina víðar en í Noregi, að sögn Rögnvaldar. Innanverður Eyjafjörður sé í því ljósi talin ákjósanleg staðsetning fyrir lokaðar eldiskvíar, því að þar er bæði skjólgott og hafstraumar miklir og stöðugir."

Það er gleðiefni, að frumkvöðull laxeldis í lokuðum sjókvíum í Noregi skuli nú hafa sótt um starfsleyfi fyrir slíkum rekstri í Eyjafirði, sem er einmitt einn þeirra fjarða, sem íslenzk lög leyfa sjókvíaeldi í.  Áætlun Rögnvaldar kveður á um að hefja sjókvíaeldi þar vorið 2019, og fyrsta framleiðslan þaðan berist á markað á fyrsta ársfjórðingi 2021. 

Þar sem úrgangur frá kvíunum, sem til botns fellur, verður aðeins um 30 % af því, sem gildir um opnar sjókvíar, má telja fullvíst, að burðarþolsmat fyrir lokaðar kvíar hljóði upp á meira en 20 kt í Eyjafirði áður en lýkur, en það er lífmassinn, sem sótt er um leyfi fyrir.  Þar sem bein störf eru um 7 á kt, verður þarna um 140 bein störf að ræða við framleiðslu, slátrun og pökkun.  Óbein störf í Eyjafirði gætu orðið 160 vegna þessarar starfsemi og annars staðar 140, samkvæmt norskri reynslu, svo að alls gæti þessi starfsemi skapað 440 ný störf.  Þetta myndi styrkja Eyjafjörð mikið sem atvinnusvæði.  

Verðmætasköpun hvers beins starfs í laxeldi er í Noregi talin jafngilda MISK 37, svo að verðmætasköpun téðra 20 kt í Eyjafirði mun nema 5,2 miaISK/ár, eða um 0,2 % af VLF.  Útflutningsverðmætin gætu numið 16 miaISK/ár.  Þetta er aðeins tæplega þriðjungur af nauðsynlegri árlegri aukningu útflutningsverðmæta, sem sýnir í hnotskurn, að landsmenn munu eiga fullt í fangi með að ná fram nauðsynlegri aukningu útflutningsverðmæta á næstu áratugum til að viðhalda hér óskertum lífskjörum og efnahagsstöðugleika.

Staðsetning þessa brautryðjandi laxeldis í Eyjafirði er ágæt.  Hann er tiltölulega fjölmennt atvinnusvæði, og þar vantar ný atvinnutækifæri í náinni framtíð.  Þá mun geta tekizt áhugavert samstarf laxeldis og fræðasamfélagsins á Akureyri, sem er umtalsvert.  Um þennan þátt sagði Rögnvaldur í téðu viðtali:

"Það er mat fyrirtækisins [AkvaFuture AS], að laxeldi í lokuðum eldiskvíum falli vel að áætlunum sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu.  Staðsetningin sé [er] því ákjósanleg, þar sem fyrir er öflugt háskólasamfélag og þjónustustig iðnfyrirtækja er hátt.  Ljóst er, að AkvaFuture mun nýta sér sjávartengt háskólasamfélag á Akureyri í sínu þróunarstarfi og nýsköpun."

Það er ekki ólíklegt, að laxeldi geti vaxið um a.m.k. 85 kt/ár frá því, sem nú er.  Það jafngildir aukningu  útflutningstekna um a.m.k. 70 miaISK/ár, sem dreift á 10 ár gefur 7 miaISK/ár eða 14 % af þeirri meðaltals árlegu aukningu, sem nauðsynleg er.  Fleira verður þess vegna að koma til skjalanna. Laxeldið verður samt mikilvægur þáttur í vextinum framundan.    

 

 

 

 


Lýðheilsa og heilsufar búfjárstofna í húfi

Slæmar fréttir bárust hingað til lands frá EFTA-dómstólinum 14. nóvember 2017.  Hann úrskurðaði, að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á hráu, ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum og vörum úr þessum afurðum, svo og leyfiskvöð á innflutningi þessara vara, bæri að flokka með ólögmætum viðskiptahindrunum samkvæmt matvælalöggjöf ESB og ákvæðum EES-samningsins, sem Ísland er aðili að.

Við þennan dóm er margt að athuga, bæði lögfræðilega og heilsufarslega.  Margir kunnáttumenn hérlendis á sviðum lýðheilsu, meinafræði og sýklafræði manna og dýra gjalda svo mjög varhug við þessum dómi, að þeir fullyrða blákalt, að fullnusta dómsins mundi stefna heilsufari manna og dýra í hættu hérlendis. Við svo búið má ekki standa, og afgreiðsla þessa máls verður ákveðinn prófsteinn á nýja ríkisstjórn landsins. Það er algert ábyrgðarleysi af núverandi bráðabirgða stjórnvöldum að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum fjölmargra sérfræðinga m.v. geigvænlegar afleiðingar þess, að allt fari hér á versta veg í þessum efnum.

Fráfarandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er sem fyrr úti á þekju og skautar léttilega yfir slíkar hindranir og sannar með því, hversu sneydd hæfileikum hún er til að fara með þetta veigamikla embætti í Stjórnarráði Íslands.  Það er guðsþakkarvert, að hún skuli vera þaðan á förum, enda átti hún þangað aldrei erindi.  Helgi Bjarnason hefur t.d. eftirfarandi eftir téðri Þorgerði í frétt sinni í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2017:

"Breyta þarf reglum um innflutning":

"Þorgerður Katrín segir, að íslenzk stjórnvöld þurfi að breyta þessum lögum, svo að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar."

Þorgerður þessi leyfir sér að boða það að gösslast áfram gegn ráðleggingum okkar færustu vísindamanna, þótt afleiðingarnar geti orðið geigvænlegar fyrir bændastéttina, dýrastofnana, heilsufar og hag þjóðarinnar og ríkissjóðs.  Blekbóndi er gjörsamlega gáttaður á fljótfærni og hugsunarleysi þessa ráðherra, sem dæmir sjálfa sig úr leik í pólitíkinni með þessari einstæðu afstöðu.  Enn bætti Þorgerður þó um betur:

"Þorgerður Katrín lýsir þeirri skoðun sinni, að hræðsluáróður hafi verið notaður gegn innflutningi á fersku kjöti og telur, að meiri hætta stafi af ferðamönnum og innflutningi á fersku grænmeti."

Mann rekur í rogastanz við lestur texta, sem vitnar um jafnhelbert dómgreindarleysi og blinda trú á regluverk og eftirlitskerfi ESB og hér er á ferð.  Ráðherrann, fráfarandi, hraunar hér yfir faglega og rökstudda skoðun fjölda innlendra sérfræðinga og kallar "hræðsluáróður".  Slíkur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur, sem að slíkum ráðherra stendur, er einskis trausts verður og hlýtur að lenda á ruslahaugum sögunnar eigi síðar en í næstu Alþingiskosningum, enda hvert ver eiginlega erindi Viðreisnar í stjórnmálin ?  Kerfisuppstokkun ?  Heyr á endemi !  

Ný ríkisstjórn í landinu verður að taka téðan dóm föstum tökum og semja vísindalega trausta greinargerð til ESA og ESB, þar sem rökstutt er, að íslenzk stjórnvöld sjái sér engan veginn fært að fullnusta þennan dóm EFTA-dómstólsins vegna mikillar áhættu fyrir hag landsins, sem slíkt hefði í för með sér.  Leita þarf lögfræðilegra leiða til að renna stoðum undir slíka afstöðu, ella verða Íslendingar að leita eftir breytingum á skuldbindingum sínum við EES í krafti fullveldisréttar síns.  Undanþágur í þessa veru verða líka að koma fram í væntanlegum fríverzlunarsamningi Íslands og Bretlands, sem taka þarf gildi í kjölfar harðsóttrar útgöngu Bretlands úr ESB.  Bretar hafa lýst því yfir, að í stað þess að dvelja í skjóli "Festung Europa", vilji þeir hafa forgöngu um víðtæka fríverzlun, og þeir eru líklegir til að skapa EFTA-þjóðunum aðgang að víðtæku fríverzlunarneti um heiminn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sagði í ofangreindri frétt:

""Þessi orrusta er töpuð, en kanna verður, hvort stríðið er tapað", segir Erna. Hún nefnir, að EFTA-dómstóllinn hafi ekki talið reglur Íslands falla undir þá grein EES-samningsins, sem heimilar ríkjunum að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda líf og heilsu manna og dýra.  Það verði athugað, hvort einhverjar leiðir séu til að virkja þetta ákvæði."

Spyrja má, hvort öryggishagsmunum Íslands hafi verið teflt nægilega skilmerkilega og ítarlega fram að Íslands hálfu gagnvart dómstólinum.  Málið er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur varðar það þjóðaröryggi, ef með stjórnvaldsaðgerðum er verið að opna nýjum fjölónæmum sýklum og veirum greiða leið inn í landið og þar með tefla lýðheilsu hérlendis á tæpasta vað og setja heilsufar búfjár í uppnám.

Það er líklega ekkert sambærilegt tilvik í Evrópu við sjúkdómastöðuna á Íslandi, og þess vegna ekkert fordæmi í Evrópu til að líta til við dómsuppkvaðninguna, en ef þessari hlið málsins hefði verið teflt fram af fullri festu, hefði mátt benda dómstólnum á fordæmi annars staðar í heiminum, t.d. frá Nýja-Sjálandi.  Nú þarf að tefla fram ítarlegri röksemdafærslu okkar færustu vísindamanna á þessu sviði gegn þeim rökum, sem EFTA-dómstóllinn hefur lagt til grundvallar, og verður þá ekki öðru trúað en minni hagsmunir verði látnir víkja fyrir meiri.  Að öðrum kosti verður Ísland að grípa til einhliða ráðstafana að beztu manna yfirsýn til að varðveita þá heilsufarslegu stöðu, sem 1100 hundruð ára einangrun hefur fært íslenzkum búfjárstofnum.  

Hvað segir Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus í sýklafræði við Háskóla Íslands af þessu tilefni ?:

"Það er alvarlegt mál, ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar.  Ég treysti ekki þeim mönnum, sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til að verja okkur fyrir þeim.  Kannski af því, að ég er orðin svo gömul, að ég hef séð of margt."

Í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017,

"Segja, að veikindaálagið muni aukast",

mátti greina miklar áhyggjur Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis og veirufræðings á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karls G. Kristinssonar, prófessors og yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans:

""Þessi niðurstaða hefur þýðingu fyrir lýðheilsu og mögulega einnig dýraheilsu.  Það er alveg óumdeilt í fræðaheiminum, að smitsjúkdómastaða íslenzku búfjárkynjanna er einstök á heimsvísu.  Þess nýtur íslenzkur landbúnaður og almenningur hérlendis", segir Vilhjálmur."

Á að fórna "einstakri stöðu á heimsvísu" vegna þrýstings frá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem kært hafa íslenzk yfirvöld fyrir ESA og krefjast þess að fá að flytja hömlulaust inn frá ESB og selja hér ferskt kjöt, ógerilsneydd egg og vörur úr þessum afurðum ? Það kemur ekki til mála. Það mun auðvitað sjást undir iljar þessara aðila, þegar fólk og fénaður tekur að veikjast hér af fjölónæmum sýklum, sem engar varnir eru gegn, og búfé að hrynja niður, eins og fordæmi eru um, af riðuveiki og mæðiveiki.  Þessir innflytjendur og seljendur verða þá fljótir að benda á eftirlitsaðilana sem sökudólga, en pottþétt heilbrigðiseftirlit með þessum innflutningi er óframkvæmanlegt. Sá beinharði kostnaður, sem af slíku mundi leiða fyrir skattborgarana, er margfaldur sá sparnaður, sem neytendur kynnu að njóta um hríð vegna lækkaðs matvöruverðs.  

""Sýklalyfjaónæmi er ein af helztu ógnunum við lýðheilsu í heiminum í dag.  Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að reyna að viðhalda okkar góðu stöðu, eins lengi og hægt er", segir Karl."

Í þessu máli eru ekki öll kurl komin til grafar, og það hlýtur að verða eitt fyrsta meginverkefni nýs utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra að stilla upp varnarlínu fyrir Ísland gagnvart ESB í þessu máli og síðan að sækja þaðan fram til að hnekkja þessum dómi, hugsanlega með sérsamningi Íslands eða EFTA við ESB, því að með hann á bakinu er Íslandi ekki vært innan EES.  Það er utanríkispólitískt stórmál með miklum afleiðingum fyrir Ísland, eins og úrsögn Bretlands úr ESB er stórmál fyrir Breta, en reyndar líka fyrir mörg fyrirtæki í ESB-ríkjunum.   

 Berlaymont sekkur

 

 

 

 


Kolefnissektir, kolefnisbinding og rafbílavæðing

Það er mikið fjasað um loftslagsmál, og Katrín Jakobsdóttir talaði um þau sem eitt aðalmála væntanlegrar ríkisstjórnar hennar, Framsóknar, Samfylkingar og pírata, sem aldrei kom þó undir í byrjun nóvember 2017, þótt eggjahljóð heyrðist vissulega úr ýmsum hornum. Það er þó alls ekki sama, hvernig á þessum loftslagsmálum er haldið fyrir hönd Íslendinga, og landsmönnum hefur nú þegar verið komið í alveg afleita stöðu í þessum efnum með óraunsærri áætlanagerð um losun CO2 og lítilli eftirfylgni með sparnaðar- og mótvægisaðgerðum. Vonandi breytir komandi ríkisstjórn um takt í þessum efnum, þannig að fé verði beint til mótvægisaðgerða innanlands í stað sektargreiðslna til útlanda.  

Afleiðing óstjórnarinnar á þessum vettvanfi er sú, að búið er að skuldbinda landsmenn til stórfelldra sektargreiðslna til útlanda vegna framúrkeyrslu á koltvíildiskvótanum, sem yfirvöldin hafa undirgengizt.  Þessi kvóti spannar 8 ár, 2013-2020. 

Íslenzk yfirvöld hafa samþykkt, að Íslendingar mundu losa að hámarki 15,327 Mt (M=milljón) af koltvíildi, CO2, á þessu tímabili með þeim hætti, sem skilgreind er í Kyoto-bókuninni.  Þetta var frá upphafi gjörsamlega óraunhæft, enda nam losunin á 3 fyrstu árunum, 2013-2015, 8,093 Mt, þ.e. 53 % kvótans á 38 % tímabilsins.

  Vegna mikils hagvaxtar á tímabilinu 2016-2020 og hægrar framvindu mótvægisaðgerða má búast við árlegri aukningu á þessu tímabili þrátt fyrir 3,5 %/ár sparneytnari bílvélar og jafnvel 5 %/ár nýtniaukningu eldsneytis á fiskiskipaflotanum, svo að losunin verði þá 14,2 Mt árin 2016-2020.  Heildarlosunin 2013-2020 gæti þá numið 22,3 Mt, en yfirvöldin eru við sama heygarðshornið og áætla aðeins 21,6 Mt.  Hvar eru samsvarandi mótvægisaðgerðir stjórnvalda ?  Skrifborðsæfingar búrókrata af þessu tagi eru landsmönnum of dýrkeyptar.

Það er jafnframt útlit fyrir, að skipuleg binding koltvíildis með skógrækt og landgræðslu á þessu seinna Kyoto-tímabili verði minni en stjórnvöld settu fram í aðgerðaáætlun árið 2010. Það er einkennilegur doði, sem gefur til kynna, að of mikið er af fögrum fyrirheitum og blaðri í kringum þessa loftslagsvá og of lítið af beinum aðgerðum, t.d. til að stemma stigu við afleiðingum óhjákvæmilegrar hlýnunar, s.s. hækkandi sjávarborðs. Það er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, þegar kemur að varúðarráðstöfunum.  Það þarf strax að ráðstafa fé í sjóð til þessara verkefna.

Ein talsvert mikið rædd aðgerð til að draga úr losun CO2 er að moka ofan í skurði til að stöðva rotnunarferli í þornandi mýrum, sem losar í meiri mæli um gróðurhúsalofttegundir en mýrarnar.  Áður var talið, að þurrkun ylli losun, sem næmi 27,6 t/ha á ári, og þar sem framræst land næmi 0,42 Mha (=4200 km2), væri árleg losun framræsts lands 11,6 Mt/ár CO2.

Nú hafa nýjar mælingar starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands sýnt, að þessi einingarlosun er tæplega 30 % minni um þessar mundir en áður var áætlað eða 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda, eins og fram kemur í Bændablaðinu, bls. 2, 2. nóvember 2017. 

Losun Íslendinga á koltvíldi vegna orkunotkunar, úrgangs, mýrarþurrkunar og annars árið 2016, var þá þannig:

Losun Íslendinga á koltvíildi, CO2, árið 2017:

  • Millilandaflug:        7,1 Mt   35 %
  • Iðnaður:               2,3 Mt   11 %
  • Samgöngur innanlands:  0,9 Mt    4 %
  • Landbúnaður:           0,7 Mt    3 %
  • Millilandaskip:        0,6 Mt    3 %
  • Fiskiskip:             0,4 Mt    2 %
  • Úrgangur:              0,3 Mt    1 %
  • Orkuvinnsla:           0,2 Mt    1 %
  • Ýmislegt:              0,1 Mt    0 %
  • Framræst land:         8,2 Mt   40 %
  • Heildarlosun:         20,8 Mt  100 %

 

 Til að nýta fjármuni sem bezt við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Íslendinga er skilvirkast að beina fé í stærstu losunarþættina. 

Framræst land vegur þyngst, 40 %.  Moka þarf ofan í skurði óræktaðs lands, sem ekki er ætlunin að rækta í fyrirsjáanlegri framtíð, og samtímis að planta þar skógarhríslum til mótvægis við losun, sem ekki er tæknilega unnt að minnka að svo stöddu.  Þar vegur millilandaflugið og iðnaðurinn þyngst.  Þessir aðilar eru örugglega fúsir til að fjárfesta í slíkri bindingu á Íslandi fremur en að greiða stórfé fyrir losun umfram kvóta til útlanda, enda er slík ráðstöfun fjár hagstæð fyrir þá, eins og sýnt verður fram á hér að neðan.  

Mismunur á áætlaðri heildarlosun Íslendinga tímabilið 2013-2020 og úthlutuðum losunarheimildum til þeirra er:

ML= 22,3 Mt-15,3 Mt = 7,0 Mt

Meðaleiningarverð yfir þetta "seinna Kyoto-tímabil" verður e.t.v. 5 EUR/t CO2, en það ríkir þó enn mikil óvissa um þetta verð.  Hitt eru menn sammála um, að það verður hærra á tímabilinu 2021-2030, e.t.v. 30 EUR/t. 

Líkleg kaupskylda á kvóta árið 2021 fyrir tímabilið 2013-2020 er þannig:

K=7 Mt x 5 EUR/t = MEUR 35  = miaISK 4,4.

Nú er áhugavert að finna út, hversu miklu framræstu landi er hægt að bleyta í (með því að moka ofan í skurði) og síðan að planta hríslum í sama landið fyrir þessa upphæð (og verður þá engin mýri til aftur), og síðan hver einingarkostnaðurinn er á koltvíildinu í þessum tvenns konar mótvægisaðgerðum, þ.e. samdrætti losunar og með bindingu. Svarið verður ákvarðandi um hagkvæmni þess fyrir ríkissjóð og einkafyrirtæki að fjárfesta fremur innanlands en erlendis í koltvíildiskvótum.

Samkvæmt Umhverfisráðgjög Íslands, 2.11.2017, eru afköst og einingarkostnaður við þrenns konar ræktunarlegar mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

  • Landgræðsla:  2,1 t/ha/ár og 167 kkr/ha
  • Skógrækt:     6,2 t/ha/ár og 355 kkr/ha
  • Bleyting:    19,5 t/ha/ár og  25 kkr/ha

Þá er hægt að reikna út, hversu mörgum hekturum þurrkaðs lands, A, er hægt að bleyta í og planta í  hríslum fyrir miaISK 4,4:

A x (355+25) = 4,4;  A = 11,6 kha = 116 km2

Skógræktin bindur CO2: mBI=6,2 x 11,6k=72  kt/ár.

Bleyting minnkar losun:mBL=19,5x 11,6k=226 kt/ár.

Alls nema þessar mótvægisaðgerðir: 298 kt/ár.

Eftir 25 ár hefur þessi bleyting minnkað losun um 5650 kt CO2 og skógrækt bundið (í 20 ár) um 1440 kt CO2.

Alls hefur þá miaISK 4,4 fjárfesting skapað 7090 kt kvóta á einingarkostnaði 621 ISK/t = 5,0 EUR/t.  

Sé reiknað með, að skógurinn standi sjálfur undir rekstrarkostnaði með grisjunarviði, þá virðast mótvægisaðgerðir innanlands nú þegar vera samkeppnishæfar á viðskiptalegum forsendum, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðhagslegu hagkvæmnina, þar sem um verðmætasköpun innanlands, ný störf og aukningu landsframleiðslu er að ræða.  Það er engum vafa undirorpið, að stjórnvöld og fyrirtæki á borð við millilandaflugfélögin, skipafélögin og stóriðjufyrirtækin eiga að semja við bændur og Skógrækt ríkisins um þessa leið.  

Er nóg landrými ?  

Framræst land er um 4200 km2 að flatarmáli og óræktað land er 85 % af því, þ.e. 3570 km2.  Sé helmingur af því tiltækur til þessara nota, þarf téð miaISK 4,4 fjárfesting þá aðeins 6,5 % af tiltæku, óræktuðu og framræstu landi, og það verður vafalaust til reiðu, ef samningar takast.  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband