Að þvælast fyrir atvinnulífinu

Suma stjórnmálamenn skortir algerlega skilning á mikilvægi öflugra fyrirtækja fyrir hag verkafólks og allra annarra launamanna, raunar líka fyrir hag sveitarfélaga, ríkissjóðs og þjóðfélagsins alls.  

Þeir einblína á skattheimtu ríkissjóðs af fyrirtækjunum og skilja ekki, að tekjustreymið til ríkissjóðs frá þeim á sér marga farvegi, enda fer þar öll verðmætasköpun hagkerfisins fram, og hörð skattheimta er fallin til að minnka skattstofninn og þar með heildartekjur ríkissjóðs.  

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er dæmi um svona stjórnmálamann.  Hún var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lungann úr árinu 2017, en vann þessum greinum aðallega ógagn, enda slær hjarta hennar í Berlaymont í Brüsselborg, eins og kunnugt er, þar sem rekin er sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna, sem fæstir Íslendingar vilja nokkuð með hafa.  

Dæmi um þetta er, þegar hún í janúar 2017 neitaði að liðka fjárhagslega til fyrir Hafró um einar MISK 10, svo að stofnunin gæti sent rannsóknarskip á miðin í leit að loðnu.  Útgerðarmenn hlupu þá undir bagga með Hafró, loðna fannst, og þúsundfaldra verðmæta var aflað á við leitarkostnaðinn.  

Síðsumars sama ár neitaði þessi ráðherra að framlengja afslætti á veiðigjöld, sem runnu út 31. ágúst 2017, með þeim afleiðingum, að veiðigjöld útgerðanna tvöfölduðust yfirleitt og þrefölduðust hjá sumum.  Auðvitað hefði ráðherrann átt að nota árið 2017 til að endurskoða reikniregluna.  Það er ekki flókið mál að leiða fram tiltölulega einfalda tvískipta reiknireglu, sem tekur mið af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó, þar sem annar hlutinn tekur ekki mið af afkomu, heldur er aðgangsgjald að miðunum, en hinn hlutinn er afkomutengdur, tekur tillit til auðlindarrentunnar, eins og sýnt hefur verið á þessu vefsetri:

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667 

Núna nema veiðigjöldin 12 % - 14 % af aflaverðmæti, og í augum uppi liggur, að við allar aðstæður er þetta allt of há gjaldtaka af útgerðunum, um þrefalt það, sem eðlilegt getur talizt í núverandi árferði.

  Forsætisráðherra hefur sagt, að sú endurskoðun, sem nú er hafin, sé miðuð við að taka gildi á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september 2018.  Þetta er algerlega óviðunandi hægagangur, því að á meðan blæðir útgerðunum út.  Er það þjóðhagslega hagkvæmt ?  Á að drepa útgerðirnar, svo að stjórnmálamenn geti komið sem bjargvættir í byggðirnar með ríkisstuðning upp á vasann ?  Silaháttur stjórnvalda getur verið óþolandi og er í sumum tilvikum stórhættulegur fyrir jafnvægi í atvinnugreinum og byggðafestu í þessu tilviki, þar sem sjávarútvegur er undirstaða byggðar meðfram ströndinni.

Þeim fáránlega boðskap hefur verið haldið á lofti, að einvörðungu verði lækkuð veiðigjöld á litlum og meðalstórum útgerðum. Þetta er í raun boðskapur um, að nú skuli innleiða pólitíska spillingu í íslenzka sjávarútveginn, þar sem vissir stjórnmálamenn ætla að innleiða mismunun útgerðanna eftir stærð þeirra.  Í kjölfarið hæfist örugglega fíflagangur á borð við skiptingu útgerða til að lenda í hagstæðari gjaldflokki eftir stærð.  Þessi mismunun er afspyrnu heimskuleg og óréttlát, og hún stenzt ekki stjórnarskrárvarinn atvinnufrelsisrétt allra.  Stjórnsýslulög yrðu einnig brotin með þessu athæfi, því að með ómálefnalegum hætti væri skattheimtuvaldi beitt til að mismuna lögaðilum í landinu.  

Að umræða af þessu tagi skuli gjósa upp á meðal stjórnmálamanna, sýnir svart á hvítu, að þeir hafa sumir hverjir ekkert vit á atvinnurekstri og ættu að halda afskiptum sínum af honum í algjöru lágmarki.  Í þessu tilviki má spyrja, hvar þeir hafa eiginlega verið, því að megnið af afurðum íslenzks sjávarútvegs fer á markað erlendis, og íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin eru yfirleitt mun minni en þau, sem þau keppa við á erlendum mörkuðum.  Ef ræða á um stærð, þá skiptir þetta stærðarhlutfall meginmáli í þessu samhengi, en ekki innlendur stærðarsamanburður.

Til að varpa ljósi á, að stjórnmálamenn blóðmjólka nú íslenzkar útgerðir með fáránlega háum veiðigjöldum, skal vitna í Morgunblaðið, 3. janúar 2018, bls. 40, þar sem viðtal birtist við Skjöld Pálmason, framkvæmdastjóra Odda hf á Patreksfirði:

"Við stöndum hreinlega ekki undir þessari skattbyrði, sem þarna er sett á okkur.  Eins og þetta er í dag, þá fara um 12 til 14 % af aflaverðmætinu í veiðigjöld.  Það er gríðarlega mikið, þegar hagnaður þessara fyrirtækja fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, er nánast enginn.  Þessi peningur er bara ekki til, því miður."

Hér er verið að lýsa grimmdarlegri rányrkju hins opinbera, sem grefur ekki einvörðungu undan hag eigenda fyrirtækjanna, heldur atvinnuöryggi starfsfólksins og afkomu  viðkomandi sveitarfélaga.  Stjórnvöld verða hið snarasta að snúa af stórhættulegri braut vanhugsaðs gjaldkerfis.  

 "Jafnvel þótt árið 2015 hafi verið sæmilegt rekstrarár, þá var ekki mikill gróði í fyrirtækjunum.  Fjárfestingarþörf fyrirtækja í bolfiskvinnslu var mikil á þessum tíma og er það enn í dag, þar sem menn hafa ekki getað ráðizt í nauðsynlega endurnýjun."

"Þó að verið sé að endurnýja að miklu leyti skipaflota stóru útgerðanna, sem flestar hverjar eru í uppsjávarveiðum, þá hafa venjuleg bolfiskfyrirtæki alls ekki getað fjárfest í nauðsynlegum tækjum og tólum, sem þó er búið að hanna og þróa til að koma okkur framar í samkeppni við aðrar þjóðir.  Ef litið er yfir vertíðarflotann, þá eru þetta meira eða minna fjörutíu ára gömul skip."

Stóru útgerðirnar hafa góðu heilli fjárfest, enda er samkeppnishæfni þeirra í gæðum, framleiðni og kostnaði algerlega háð beitingu nýjustu tækni.  Nú þurfa þær að hafa upp í fjárfestingarnar, og enn þurfa þær að fjárfesta fyrir tugi milljarða ISK á næstu árum í stórum skipum og sjálfvirkum vinnslulínum með vatnsskurðarvélum, ofurkælingu og annarri nýrri tækni.  Minni útgerðir hafa samkvæmt lýsingunni hér að ofan ekki treyst sér til að fjárfesta, af því að framlegð þeirra hefur verið allt of lítil. 

Það er hvorki rekstrargrundvöllur né sanngirnisgrundvöllur fyrir því, að fyrirtæki með litla eða enga framlegð borgi auðlindargjald, því að hjá þeim er augljóslega engin auðlindarenta.  Af þeim ætti einvörðungu að taka hófstillt aðgangsgjald að miðunum, þar til þau hafa rétt úr kútnum, en það geta þau aðeins með fjárfestingum.  Í þessu felst auðvitað engin mismunun í gjaldheimtu eftir stærðarflokkum, því að stórar útgerðir geta líka lent í lágri framlegð, ef illa árar.   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Góð ríkisstjórn er sú, sem sem fæstir taka eftir. Svo einfalt er það. Í flækjustigi nútíma stjórnmála og þörf bjúrókratsins og ofmenntaðs sérfræðingaflórsins, að minna sífellt á sig til að réttlæta tilveru sína, er sennilega lítil von til þess að almenningur og fyrirtæki hætti að verða vör við Báknið.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 6.1.2018 kl. 00:44

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

"Báknið" hefur síðan 1994 verið beintengt við Berlaymont í Brüssel, sem fóðrar það með upp undir 500 tilskipunum og reglugerðum á ári.  Afleiðingin er útþensla báknsins, þ.m.t. "eftirlitsskessunnar", sem leggst með fullum þunga á atvinnulífið og mergsígur það, launþegum og fyrirtækiseigendum til tjóns.  Það er orðið tímabært að skera á þessa kratísku "fóðurslöngu" á milli Brüssel og Reykjavíkur. 

Bjarni Jónsson, 7.1.2018 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband