Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Líkleg sýn stjórnmálaflokkanna á ACER

ACER er orkustofnun ESB.  Hlutverk hennar er að taka við stjórn orkuflutningsmála, rafmagns og gass, af hverju ríki, bæði innan aðildarlandanna og á milli þeirra.  Ætlunin er að bæta nýtingu orkuveranna og ráðstöfun orkunnar innan ESB, sérstaklega þeirra orkuvera, sem vinna raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og að jafna orkuverðið alls staðar á ESB-svæðinu. 

Tveimur meginráðum er beitt að hálfu ESB í þessu viðfangi. Annað er að fela orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), mikil og vaxandi völd á sviði orkuflutningsmála, sem áður voru í höndum hvers ríkis um sig.  Þar með missa kjörnir fulltrúar á þjóðþingunum úrræði til að móta orkustefnuna. Hitt úrræði ESB er að setja á laggirnar sameiginlegan orkumarkað, sem spannar orkuseljendur og orkukaupendur í öllum ESB-ríkjunum.  Þetta kerfi á og mun leiða til útrýmingar allra flöskuhálsa í orkuflutningskerfunum og til minni orkuverðsmunar en nemur 0,25 ISK/kWh á milli svæða. 

Hugmyndafræðin á bak við þetta er, að markaðurinn sé bezt til þess fallinn að beina orkunni til hagkvæmastra nota, þ.e. hámarks verðmætasköpunar. Á Íslandi og í Noregi eru hins vegar önnur sjónarmið uppi, sem vegast á við þetta hreinræktaða markaðsviðhorf til raforku.  Þar er átt við samkeppnishæfni atvinnuveganna, sem er m.a. háð tiltölulega lágu raforkuverði, byggðasjónarmið, innlenda verðmætasköpun úr náttúruauðlindunum o.fl.  Sértæk orkunýting á borð við orkusækna framleiðslu í krafti langtímasamninga um raforku á samkeppnishæfu verði fyrir hákostnaðarlönd fjarri markaði á ekki lengur upp á pallborðið í Noregi og á Íslandi, verði þessi stefna ESB ofan á.   

Hin sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB samþykkti í fyrra (2017) eftir margra ára þref, að EFTA-ríkin í EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, skyldu innleiða þetta ESB-kerfi hjá sér líka með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með samþykkt þjóðþinga sinna og gefa þessu fyrirkomulagi þar með lagagildi í 3 EFTA-löndum af 4.  Verður þetta þá ríkjandi réttur í löndunum, og innlent dómskerfi getur ekki einu sinni hnekkt ákvörðunum ACER og útibús þess í einstökum löndum, heldur fara ágreiningsmál innanlands fyrir úrskurðarnefnd á vegum útibús ACER í hverju landi, og millilandadeilur verða útkljáðar af ACER.

Hvernig samræmist þetta meginstefnu íslenzkra stjórnmálaflokka ?

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru allir á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB.  Getur verið, að þeir séu samt fylgjandi aðild að hluta, og er þá ekki átt við EES (Evrópska efnahagssvæðið) aðild í upphaflegri mynd, þ.e. þar sem tveggja stoða samkomulagsgrundvöllur EFTA og ESB var að fullu virtur.  Átt er við sneiðingaraðferðina (salami), þar sem eitt málefnasvið í einu er fært undir yfirráð ESB, eins og fjármálaeftirlit og orkuflutningssviðið, sem fært verður undir orkustofnun ESB, ACER. Það er gert hérlendis með því fyrst að færa allt eftirlit með Landsneti undir OS, og er frumvarp um það þegar komið fram, og síðan að færa OS undir ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem tekur tekur við samþykktum og skipunum frá ACER og flytur OS boðskapinn.  OS verður ekki lengur undir stjórn atvinnuvegaráðuneytisins (iðnaðar).  Þetta er dæmigert fullveldisframsal með sneiðingaraðferð.    

Staða EFTA-ríkjanna er þó hér sýnu verri en ESB-ríkjanna, því að hvert hinna síðarnefndu á einn fulltrúa í ACER með atkvæðisrétti, en fulltrúar EFTA-ríkjanna hafa ekki atkvæðisrétt.  Staða þeirra verður þrælsleg, og það verður engin leið fyrir ríkisstjórnarflokkana hérlendis að réttlæta slíka lagasetningu með vísun til stefnuskráa sinna.  Þeir munu þá í einu vetfangi glata öllum trúverðugleika, a.m.k. á þessu sviði utanríkismálanna, enda má þá tala um svik við kjósendur þessara stjórnmálaflokka. 

Tveir ríkisstjórnarflokkanna íslenzku af þremur eiga sér systurflokka í Noregi, sem berjast gegn samþykki Stórþingsins á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  Hér er um að ræða Senterpartiet, sem Framsóknarflokkurinn hefur lengi átt samleið með, og SV, hvers stjórnmálastefna er keimlík stefnu VG.  Því verður ekki trúað, að þessir íslenzku stjórnmálaflokkar séu kærulausari gagnvart fullveldisframsali síns ríkisvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru aðilar, en systurflokkar þeirra eru í Noregi. Þetta mál snýst um að fórna sjálfsákvörðunarrétti á tilteknu sviði og öðlast ekkert, nema vandræði, í staðinn.  

Systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Noregi er einna helzt Hægri flokkurinn þar á bæ, og hann situr í ríkisstjórn, en er nú að verða eini stjórnmálaflokkurinn í Noregi, sem hefur ESB-aðild landsins á stefnuskrá sinni. Að þessu leyti svipar honum nú orðið meir til "Viðreisnar" hérlendis.  Þessi afstaða greinir Hægri algerlega frá Sjálfstæðisflokkinum, þótt stefnu flokkanna svipi saman í efnahagsmálum og öðrum utanríkismálum. Þetta kom greinilega fram með viðbrögðum Hægri-ráðherra við frægri ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi 6. febrúar 2018, þar sem hann lýsti andstöðu sinni við "sneiðaraðferð" ESB við innlimun Íslands í ESB, bakdyramegin um EES. Það verður erfitt eða ógjörningur að útskýra ESB-andstöðu Sjálfstæðisflokksins, ef þingflokkur hans samþykkir aðild að ESB í sneiðum.  Þetta EES-mál hefur þannig stórpólitíska þýðingu fyrir íslenzku ríkisstjórnarflokkana. Þess vegna vappa þingmenn í kringum málið, eins og kettir í kringum heitan graut, og bíða úrslitanna í Stórþinginu norska þann 22. marz 2018. 

Systurflokkur Samfylkingarinnar í Noregi er Verkamannaflokkurinn.  Hann barðist áður, t.d. 1972 og 1994, fyrir inngöngu Noregs í ESB, en hefur nú gefið þá baráttu upp á bátinn.  Flokksforystan er þó enn gagnrýnislítil á það, að hver ESB-stofnunin á fætur annarri fái úrslitaáhrif um norsk málefni og hagsmuni á sínu sviði, eins og Noregur væri innanborðs í ESB. Þann 8. marz 2018 urðu vatnaskil í ACER-málinu í Noregi, því að þá sendu um 100 oddvitar norskra sveitarstjórna úr Verkamannaflokkinum flokksforystunni sameiginlega yfirlýsingu, þar sem þeir lýstu eindreginni andstöðu við inngöngu Noregs í orkusamband EES og hvöttu þingmenn Verkamannaflokksins til að endurspegla afstöðu meirihluta grasrótar flokksins, t.d. í verkalýðsfélögunum, með því að hafna ACER.  Hérlendis hefur enn ekki orðið vart neinnar félagslegrar virkni í verkalýðsfélögunum í þessa átt, enda eiga þau ekki lengur nein ítök í þingflokkunum, eins og áður.  

Félagsmenn verkalýðsfélaganna um allan Noreg hafa sýnt og sannað undanfarnar vikur í aðdraganda umfjöllunar Stórþingsins um ACER-málið, að þeir eru algerlega á öndverðum meiði við flokksforystuna að þessu leyti og sætta sig alls ekki við það, að atvinnuöryggi þeirra verði sett í uppnám með hugarfóstri "búrókratanna í Brüssel" um 5. frelsið á Innri markaði ESB, frjálst flæði orku, ekki sízt raforku, um allt EES-svæðið.  

Það er ekki við öðru að búast af þeim, sem vilja, að Ísland verði ríki í ríkjasambandi ESB, en þeir muni greiða atkvæði með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, svo að bálkurinn öðlist lagagildi á Íslandi, og ESB fái þar með óskoruð völd yfir flutningsmálum raforku  innanlands og til útlanda, þrátt fyrir að landið geti ekki haft nein teljandi áhrif á mótun stefnunnar, sem ACER framfylgir.  

Verði innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins ofan á á Alþingi, svo fráleitt sem það hljómar, er líklegt, að það verði Phyrrosarsigur ESB-fylgjenda og muni leiða til háværra krafna um uppsögn EES-samningsins.  Í ljósi þeirra vatnaskila, sem verða hjá ESB og EFTA við útgöngu Breta úr ESB, er fullkomlega tímabært að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, uppsögn eða áframhaldandi aðild.  Það er líka krafa samtakanna "Nei til EU" í Noregi gagnvart norskum yfirvöldum.  

  

 

 

 


Heimsókn formanns "Nei við ESB" til Íslands

Aðild að Evrópusambandinu, ESB, er alls ekkert umræðuefni í norskri þjóðfélagsumræðu lengur og er útilokuð miðað við þróunina á þeim bænum eftir samþykki ESB-ríkjanna á stjórnarskrárígildinu, Lissabon-sáttmálanum, árið 2009, sem kveður á um, að stofnanir sambandsins skuli stefna að sambandsríki í stað ríkjasambands.  Afleiðingar þessa eru óhjákvæmilega þær, að kvarnast mun úr sambandinu, og er Bretland fyrsta dæmið þar um. Bretar hafa nú sýnt öðrum þjóðum ESB fordæmi, og ESB mun ekki takast að gera hlut Breta verri eftir útgöngu en fyrir.  ESB er ekki stætt á því að veita Bretum lakari viðskiptakjör en Kanadamönnum.  Þá standa frjálsir fjármagnsflutningar eftir, en Bretar geta hótað að bjóða fjármálafyrirtækjunum skattaívilnanir, ef ESB ætlar að reyna að knésetja þá á fjármálasviðinu.  

Ef einhver heldur, að þessi samrunaþróun muni engin áhrif hafa á samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, þá er slíkt reginmisskilningur, eins og þegar er komið í ljós.  Fulltrúar ESB nenna ekki lengur að eyða tíma í þvarg um sérlausnir við EFTA-löndin, heldur heimta, að lagabálkar ESB séu teknir hráir upp í löggjöf EFTA-landanna, eins og þau væru innan vébanda ESB, þótt þau hafi nánast enga aðkomu að þessum reglugerðum, tilskipunum og lögum.  Nýjasta dæmið er um það, að EFTA-ríkin skuli ganga í orkusamband ESB og leiða þar með orkustofnunina ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) til úrslitaáhrifa um ráðstöfun raforku hvers lands. Fyrir EFTA-löndin, Ísland og Noreg, er ávinningur af aðild að orkusambandi ESB enginn, en ókostirnir margvíslegs eðlis og alvarlegir.

Bein stjórnun einnar stofnunar ESB, ACER í þessu tilviki, á innri málefnum EFTA-ríkjanna, er stjórnarskrárbrot í bæði Noregi og á Íslandi.  Gerð er tilraun til að klæða þetta stjórnarskrárbrot í dulbúning með því að breyta Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, í myndrita, sem tekur við ákvörðunum frá ACER og sendir þær til Orkustofnunar Íslands eða deildar innan hennar, Orkustjórnsýslustofnunar, sem verður ósnertanleg af lýðræðislega kjörnum yfirvöldum landsins og hagsmunaaðilum innanlands og framkvæmir fyrirskipanir ACER, er varða Ísland.  Þessi orkustjórnsýslustofnun verður útibú ACER á Íslandi.

Téð Orkustjórnsýslustofnun , sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for energi", verður einsdæmi og  algert aðskotadýr innan íslenzkrar stjórnsýslu og brýtur í bága við þrískiptingu ríkisvaldsins, sem með þessu verður fjórskipt, þar sem fjórði hlutinn verður sem ríki í ríkinu, utan við lög og rétt á Íslandi, en undir ESA og EFTA-dómstólinum.  Norskir stjórnlagafræðingar hrista hausinn yfir því örverpi, sem þarna hefur komið undir í samskiptum ESB og EFTA, en íslenzkir stjórnlagafræðingar hafa enn ekki kveðið sér hljóðs opinberlega um þetta fyrirbrigði, svo að vitað sé. 

Hvað sagði formaður "Nei til EU", Kathrine Kleveland, um orkumálin í viðtali við Morgunblaðið, 1. marz 2018 ?:

""Í dag höfum við ástæðu til þess að segja nei við EES vegna orkureglugerðar ESB.  "Nei til EU" vinnur að því að fá norska Stórþingið til þess að neita tilskipun ESB gegnum EES, sem felur í sér, að það taki yfir orkustefnu okkar", segir Kathrine Kleveland, sem gladdist, þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi 6. febrúar 2018, að hann hefði efasemdir um aðild Íslands að EES og tenginguna við ACER."  

Það var líklega í fyrsta skiptið, sem á Alþingi var brugðizt við vaxandi íhlutunarkröfu ESB um innri málefni EFTA-ríkjanna innan EES, þegar fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því beinlínis yfir, að hann mundi aldrei samþykkja, að einhver af fjölmörgum stofnunum ESB fengi lagaheimild frá Alþingi til að skipta sér af innri málefnum Íslands, sem væri fjarri anda EES-samningsins um tveggja stoða lausn.  

Þessi yfirlýsing ásamt fleiru, sem fram kom í máli ráðherrans, vakti óskipta athygli í Noregi.  Yfirlýsingin varð vatn á myllu þeirra, sem nú berjast harðri baráttu gegn innlimun Noregs í orkusamband ESB, og að sama skapi urðu sumir ráðherrar og aðstoðarráðherrar óánægðir, þegar kvað við nýjan tón á Íslandi.  Það er á allra vitorði, að hafni Stórþingið frumvarpi ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í norska lagasafnið, þá verður þessari tilraun ESB til að klófesta ráðstöfunarrétt endurnýjanlegrar orku Noregs og Íslands hrint.  Af þessum sökum er mikilvægt, að hérlendir efasemdarmenn um Orkusambandið og ACER á Alþingi og annars staðar láti í sér heyra á norskum vettvangi.  

""Ég trúi því, að Noregur og Ísland geti hjálpazt að með því, að bæði segi nei við orkustefnu ESB.  Það er ógnvekjandi, að ESB hafi nú þegar sett sæstrenginn Ice Link á dagskrá orkusambandsins", segir Kleveland og bendir á, að hitunarkostnaður sé minni á Íslandi en í Evrópu.  Ef regluverk ESB nái fram að ganga, muni rafmagns- og hitunarkostnaður aukast bæði í Noregi og á Íslandi."

""Á meðan við erum í EES, þurfum við stöðugt að taka við lögum og reglugerðum beint frá ESB.  Við verðum að segja oftar nei", segir Kleveland, ánægð með BREXIT, og að Bretar ætli að ganga úr ESB."

Reglufarganið frá Berlaymont er yfirþyrmandi fyrir fámennar þjóðir og margfalt meira en nauðsyn krefur til að halda uppi eðlilegum og hindrunarlausum viðskiptum við ESB-löndin.  Á aldarfjórðungs veru sinni í EES hafa íslenzk stjórnvöld tekið upp að jafnaði 460 ESB-reglur á ári.  Megnið af þeim snertir atvinnuvegina, og í heild mynda þær þungt farg á atvinnuvegunum, sem dregur sérstaklega úr samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Þá, sem stóðu að EES-samninginum að Íslands hálfu fyrir aldarfjórðungi, hefur ekki órað fyrir því regluflóði og kostnaðarauka, sem þeir voru að kalla yfir ríkissjóð og atvinnufyrirtækin. Það er ekkert vit orðið í því lengur að kaupa aðgengi að Innri markaðinum þessu dýra verði, þegar fríverzlunarsamningar við Bretland og ESB verða í boði.    

Í baráttunni fyrir aukinni framleiðni til að varðveita kaupmáttaraukningu almennings er uppsögn EES-samningsins og grisjun laga- og reglugerðafrumskógarins ásamt gerð tvíhliða (eða á vegum EFTA) fríverzlunarsamninga eitt af þeim ráðum, sem hægt er að grípa til.  

Kleveland minnist á það hneyksli, að Ice Link (aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands) skuli hafa ratað á forgangslista ACER um verkefni til greiða fyrir orkuflutningum á milli svæða og á milli landa, svo að orkuflutningarnir verði svo hnökralausir, að raforkuverðmunur verði innan við 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh).  Hver gaf Landsvirkjun og Landsneti, sem tilgreindir eru hérlendir aðstandendur verkefnisins, leyfi til að heimila ACER að setja Ice Link á framkvæmdaáætlun án lýðræðislegrar umræðu hérlendis um þetta afdrifaríka mál ?  

Það er full ástæða fyrir stjórnvöld að krefja Landsvirkjun, sem samkvæmt kerfinu á ekki að skipta sér af orkuflutningsmálum, og Landsnet, um viðhlítandi skýringar á þessum gjörningi.  Hann sjálfur bregður hins vegar birtu á það, að aflsæstrengslögn til Íslands er litlum vafa undirorpin, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB sem lög frá Alþingi.  Verði sú afdrifaríka ákvörðun tekin á Alþingi, þá verða Íslendingar bráðlega í sömu aðstöðu og Norðmenn með Trójuhest í stjórnkerfi raforkumála, sem setur reglur að eigin geðþótta um raforkuviðskipti Íslands við raforkumarkað ESB (EES).  Hvers konar afmælisgjöf er þetta eiginlega frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands ?  

  

 

 

 


Jöfnun dreifingarkostnaðar raforku

Lesendur þessa vefrits eru nú orðnir allfróðir um fyrirætlanir Evrópusambandsins (ESB) í orkuflutningsmálum.  Þeir vita, að framkvæmdastjórn ESB og orkustofnun ESB, ACER, leggja mikla áherzlu á að auka hjá sér hlutdeild endurnýjanlegrar orku og bæta flutningsmannvirkin, svo að engir flöskuhálsar hindri frjálst flæði orku frá öllum virkjunum, ekki sízt rafstöðvum endurnýjanlegra orkulinda, hvert sem er innan ESB.  Með þessu á að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku, auka nýtingu fjárfestinga og tryggja með aðferðum frjáls markaðar, að orkan fari þangað, sem hagkvæmast er að nýta hana, þ.e. til hæstbjóðanda hverju sinni.

Ein af afleiðingum þessa kerfis verður útjöfnun orkuverðs.  Við raforkuverð til notenda bætist að sjálfsögðu flutningsgjald einokunarfyrirtækja á borð við Landsnet á Íslandi, Statnett í Noregi og National Grid á Bretlandi, sem hanna, byggja, reka, viðhalda og eiga flutningsmannvirkin og eru reyndar ábyrg fyrir kerfisrekstrinum.  Næst almennum notendum eru hins vegar dreifingarfyrirtækin.  Þau eru sérleyfisskyld, þ.e. standa ein að dreifingu raforku á sínum svæðum og bera auðvitað ríkar skyldur gagnvart "skjólstæðingum" sínum í krafti sérleyfisins. 

Hérlendis er þó pottur brotinn varðandi kostnaðardreifingu dreifingarfyrirtækjanna á viðskiptavini sína eftir búsetu.  Það er ekki eðlilegt, að einokunarfyrirtæki megi mismuna viðskiptavinum á dreifingarsvæði sínu eða dreifingarsvæðum, ef þau eru fleiri en eitt, enda kunna að vera hæpnir kostnaðarútreikningar gerðir í tilraun til að styðja  slíka mismunun viðskiptavina eftir búsetu. Það er hins vegar ekki hægt að fetta fingur út í mishátt dreifingargjald hjá ólíkum veitufyrirtækjum.  

Í ljósi þeirrar viðleitni ESB til jöfnunar raforkuverðs (frá virkjun), sem nú blasir við, er haldlaust að vísa í einhverjar gamlar regur ESB um, að kostnaður notenda eigi að endurspegla raunkostnað við að koma orkunni til þeirra, enda er heilmikill sameiginlegur kostnaður.  Vanalega er um það að ræða hérlendis, að dreifbýlisnotandi borgar hærra verð fyrir dreifingu til sín en þéttbýlisnotandi hjá sömu dreifiveitu.  Kveður svo rammt að þessu hjá einni veitunni, OR, að munurinn virðist geta orðið þar 38 %. Hann er 29 % hjá RARIK og hjá Orkubúi Vestfjarða, OV, 11 %. 

Þingmenn eða ríkisstjórn ættu nú þegar að leggja fram frumvarp til laga um, að sama veitufyrirtæki megi aðeins beita einum dreifingartaxta fyrir raforku.  Eftir sem áður geta verið ólíkir taxtar hjá mismunandi dreifiveitum, og fer verðið einfaldlega eftir meðalkostnaði á dreifiveitusvæðinu.  Þá verður áfram frjáls verðlagning á orku frá virkjun í heildsölu og smásölu.  Flutningsgjaldið er svo annar handleggur, og gæti tekið stakkaskiptum til hins verra, ef til landsins verður lagður aflsæstrengur, því að hann mun útheimta styrkingu stofnkerfisins, hvers kostnaður leggst á rafmagnsnotendur innanlands samkvæmt reglum ACER-orkustofnunar ESB. 

Ef raforkumarkaðurinn á Íslandi fær að þróast eðlilega án afskipta ACER, þ.e. án aflsæstrengstengingar við útlönd, þá mun lítil raunverðhækkun verða á orku frá virkjun. Sigurður Jóhannsson hjá Hagfræðideild Háskóla Íslands skrifaði minnisblað 3. október 2017 um "Líklegar tekjur af vatnsréttindum vegna Hvalárvirkjunar".  Þar skrifar hann m.a.:

"Hér er gert ráð fyrir, að rafmagnsverð frá Hvalárvirkjun hækki um 2 %/ár umfram annað verðlag á 15 árum, en breytist ekki eftir það.  Þetta er í samræmi við algenga spá um rafmagnsverð í Bretlandi.  Sennilega er sú spá varleg fyrir Ísland - ekki er ólíklegt, að munur á verði rafmagns hér á landi og í grannlöndunum fari minnkandi."

Með því að draga líklega þróun rafmagnsverðs á Bretlandi inn í verðspá fyrir raforku á Íslandi, er greinilega verið að gæla við verðlagsáhrif aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands.  Hér skal efast um, að þessi spá rætist, en fremur spá allt að 1 %/ár raunverðhækkun raforku á meðan orkuskiptin standa yfir, enda verður að virkja nýjar orkulindir til að anna viðbótar orkuþörf.  

 

 Vinnslukostnaður nýrra virkjana mun hækka, en á móti kemur, að eldri virkjanir verða skuldlausar og meginkostnaður virkjana, einkum vatnsaflsvirkjana, er fjármagnskostnaður. Engin raunveruleg þörf er þess vegna á 2 %/ár raunhækkun raforkuverðs á smásölumarkaði, hvað þá á því, að verðið á Íslandi nálgist verðið á Bretlandi.  Það er út í hött, nema af sæstreng verði.  

Orkunotkun dreifbýlisnotanda á ári er vanalega mun meiri en t.d. húseiganda í þéttbýli. Meiri orka er  almennt ódýrari á hverja orkueiningu en minni, sem vegur upp á móti gisnari byggð. Þetta stafar af því, að dreifbýlisnotandinn stundar í mörgum tilvikum atvinnustarfsemi.  Magnmunurinn verður mun meiri, ef dreifbýlisnotandinn hitar húsnæði sitt upp með rafmagni, en þéttbýlisnotandinn er með tengingu við hitaveitu.  Ofan á allt ójafnræðið leggst síðan, að dreifbýlisnotandinn hefur í mörgum tilvikum aðeins aðgang að einfasa rafmagni frá veitu, en þéttbýlisnotandinn getur fengið aðgang að þriggja fasa rafmagni frá veitu, ef hann þarf á því að halda.

Nú er fyrirhugað að stofna "stöðugleikasjóð" með tekjum ríkissjóðs af auðlindarentu af náttúruauðlindum og arðgreiðslum fyrirtækja ríkisins af þeim, í fyrsta umgangi vegna nýtingar orkulinda.  Taka má mið af norska Olíusjóðinum, en 18 % útgjalda norska ríkissjóðsins eru um þessar mundir fjármögnuð með Olíusjóðinum. Skal hér gera tillögu um, að íslenzka ríkið vindi bráðan bug að stofnun þessa sjóðs og noti á næstu árum 3 % af höfuðstóli hans til að styðja fjárhagslega við verkefni, sem flýtt geta orkuskiptum og sem stuðla að orkusparnaði eða orkukostnaðarsparnaði og bættri orkunýtni.  Hér má nefna:

a) Leit að volgu eða heitu vatni á "köldum" svæðum.  Getur lækkað hitunarkostnað húsnæðis.

b) Nýtingu varmadælna til upphitunar húsnæðis, t.d. í tengslum við (a).  Getur sparað umtalsverða raforku við upphitun.

c) Flýtingu á lagningu þrífasa jarðstrengja.  Dregur úr orkutöpum og eykur gæði rafmagns á afhendingarstað.  Í kjölfarið eru teknar niður loftlínur, sem léttir á neikvæðum umhverfisáhrifum rafvæðingarinnar og lækkar viðhalds/rekstrarkostnað.

Allt leiðir þetta til jöfnunar lífskjara í landinu, óháð búsetu, en þannig vilja bæði Íslendingar og Norðmenn, að orkuauðlindunum sé varið, en ekki, að raforkan sé send með miklum orkutöpum til útlanda til verðmætasköpunar þar og í staðinn sé flutt inn dýr raforka, sem kyrkir atvinnustarfsemi hér.  

 

 


Orkustofnun ESB - ACER

Umdeildasti hluti Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem Alþingi og norska Stórþingið eiga að fjalla um á útmánuðum 2018, er Reglugerð EU 713/2009 um Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators).  Ísland og Noregur munu aðeins mega hafa þarna áheyrnarfulltrúa, en fulltrúar allra ESB-ríkjanna verða með atkvæðisrétt.  Ekkert jafnræði er á milli EFTA og ESB í þessari samkundu. Engu að síður varð niðurstaða "samningaviðræðna" ESB og EFTA, að líta bæri á EFTA-ríkin sem aðildarríki í Orkusambandinu.  Þetta er algerlega ótækt fyrirkomulag, því að mikið ójafnræði er með aðilum og ESB-stofnun fær yfirgripsmikil völd yfir orkumálum EFTA-landanna, ef meirihluti er á þjóðþingunum fyrir því. Það er kominn tími til, að íslenzkir stjórnlagafræðingar tjái sig opinberlega um þetta atriði og um "frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr 65/2003 með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar 2009/72/EB og viðurlagsákvæði)".  Það hafa fjölmargir kollegar þeirra í Noregi þegar gert m.t.t. norsku stjórnarskráarinnar og flestir á þá lund, að aðild Noregs að Orkusambandi ESB sé skýlaust stjórnarskrárbrot.  Með leikmannsaugum séð er hið sama uppi á teninginum hérlendis.  

Hlutverk ACER er að gera tillögur um og fylgja eftir aðgerðum, sem tryggja, að Innri orkumarkaður ESB virki, eins og til er ætlazt. Í hnotskurn felur þetta í sér, að flutningskerfi allra aðildarlandanna séu byggð upp, tengd saman og stýrt þannig, að rafmagn flæði frjálst um allt sambandið.  

Í ACER skulu aðildarríki EES taka þátt í þróun sameiginlegs orkumarkaðar.  Stofnunin skal líka fylgjast með, að fjárfestingaráætlanir ríkjanna stuðli að eftirsóttri þróun markaðarins.  F.o.m. 2021 á framkvæmdastjórn ESB að rýna þær og samþykkja eða krefjast breytinga á þeim. Þetta þýðir t.d., að eftirlitshlutverk Orkustofnunar með Landsneti verður yfirtekið af ACER, þar með rýni á og samþykki/höfnun Kerfisáætlunar Landsnets, og ACER mun hafa síðasta orðið um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.  Það munu lögfræðingar væntanlega flokka til verulegs fullveldisframsals, þar sem um gjaldtöku af almenningi er að ræða.  

ACER á reglubundið að gera tillögu til Framkvæmdastjórnarinnar, ráðherraráðsins og ESB-þingsins um aðgerðir til að bæta virkni markaðarins.  Þær geta bæði verið tillögur um að auka við millilandatengingarnar og um reglur varðandi rekstur flutningskerfisins.  Þessar reglur eru nefndar netskilmálar, og geta spannað allt frá skilyrðum um aðgang að flutningskerfinu, skiptingu flutningsgetu á milli notenda, reglur um verðlagningu og til krafna um gæði og viðhald netsins.

Mælikvarðinn á það, hvernig til tekst, er verðmunur orkuhlutans (án flutnings- og dreifingarkostnaðar) á milli einstakra svæða eða landa.  Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er þegar kominn á framkvæmdaáætlun ACER, og þessi mælikvarði sýnir, að ACER stefnir að svipuðu orkuverði á Íslandi og annars staðar í EES, sem þýðir aðeins eitt: stórhækkun almenns raforkuverðs á Íslandi.

Norska Landsnet, Statnett, á og rekur stærstan hluta millilandasæstrengja Noregs.  ACER getur úrskurðað, hvernig kostnaðarskipting og rekstrarfyrirkomulag sæstrengja á milli Íslands og EES-landa verður, samkvæmt grein 8 í Reglugerð EU 713/2009, ef til ágreinings kemur.  Fjárfesting í slíkum sæstreng ásamt endabúnaði getur numið miaISK 500-1000, svo að fjárhagsbyrði Landsnets út af sæstreng getur orðið tilfinnanleg og hugsanlega hækkað flutningsgjald til almennings umfram hækkanir vegna styrkingar flutningskerfis á landi að sæstreng.

Dæmi um ágreining landa á milli vegna rekstrar sæstrengs:  gefum okkur, að mótaðili Landsnets sé flutningsfyrirtækið í Hollandi, sem krefjist þess, að 40 % af flutningsgetu sæstrengsins sé helgað jöfnunarafli.  Þetta er afl, sem Landsnet er skuldbundið til að afhenda dag hvern, þegar vantar afl frá hollenzkum sólar- og vindrafstöðvum.  Verðið fyrir slíka afhendingu er ákveðið fyrir löng tímabil í einu.  Slíkur samningur takmarkar á hinn bóginn flutningsgetu fyrir afl frá íslenzkum virkjunareigendum, sem vilja flytja út rafmagn á svo kallaðan skyndimarkað, þar sem verðið er ákvarðað á klukkustundar fresti.  Ef íslenzk orkuvinnslufyrirtæki telja sig græða meira á skyndimarkaðinum en á jöfnunarmarkaðinum, höfum við dæmigerðan hagsmunaárekstur á milli landanna tveggja.  Í slíkum tilvikum úrskurðar ACER um, hvernig aflflutningi skuli hátta. 

Ef upp kemur deila á milli flutningsfyrirtækja tveggja landa um, hvernig verja skuli hagnaði af rekstri sæstrengs á milli landanna, þá úrskurðar ACER.  Á þessum grundvelli fer ekki á milli mála, að ákvarðanir ACER munu hafa áhrif á raforkuverð í hverju landi.  Í fyrsta lagi ákveður ACER, hversu margir sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda, og í öðru lagi ákveður ACER, hvernig hugsanlegum hagnaði verður varið.  

Það er deginum ljósara, að stærsti einstaki áhrifavaldurinn á raforkuverð til neytenda á Íslandi eftir samþykkt frumvarps um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, verður yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili (er án atkvæðisréttar).  Þetta er augljóst og ósamþykkjanlegt fullveldisframsal, enda klárlega Stjórnarskrárbrot.  

 

 


Sjálfstæð hugsun og EES

Ánægjuleg tíðindi bárust af Alþingi þriðjudaginn 6. febrúar 2018.  Þar var fjármála- og efnahagsráðherra í andsvörum um lög og/eða reglur um fjármálagerninga, en sem kunnugt er hafa bæði Alþingi og Stórþingið norska samþykkt að fella tilskipana- og lagabálka ESB (Evrópusambandsins) um sameiginlegt eftirlitskerfi með fjármálastofnunum inn í EES-samninginn. Sagði ráðherrann frá því, að langan tíma hefði tekið að mjaka ESB að viðunandi lausn þessara mála fyrir EFTA-ríkin, en það verður æ erfiðara og hefur t.d. ekki gengið varðandi orkumálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi á almennari nótum um vaxandi ásælni ESB inn á svið, sem hingað til hafa verið alfarið á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hvers lands eða opinberra stofnana í hverju landi. 

Það var engu líkara en ráðherrann væri við þetta tækifæri með hugann við mál, sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið 2018 og fjallar einmitt um að fela nýlegri stofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem hlotið hefur víðtækar valdheimildir frá æðstu stjórnstofnunum ESB á sviði orkumála, óskorað vald í hverju EES-landi á sviði orkuflutningsmála. Ekki nóg með það, heldur skal setja í hverju landi á laggirnar stofnun, óháða stjórnvöldum, en samt á fjárlögum hvers ríkis, sem stjórnar orkuflutningsmálum hvers lands og lýtur einvörðungu boðvaldi ACER.  Þeir lögfræðingar eru líklega vandfundnir, sem ekki sjá í þessu fyrirkomulagi felast meiri háttar og þar af leiðandi óviðunandi stjórnarskrárbrot. 

Við samþykki Alþingis á því að fella "Þriðja orkumarkaðslagabálk" ESB inn í EES-samninginn, verður sem sagt stofnað útibú frá ACER á Íslandi, sem verður algerlega utan seilingar rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi, en mun engu að síður í krafti þessarar samþykktar Alþingis öðlast æðsta vald í málefnum raforkuflutninga á Íslandi.  Þar munu verða teknar ákvarðanir, sem áður voru á verksviði Orkustofnunar og á sviði Landsnets.  

Hér væri með þessu móti komin upp stjórnskipunarstaða á Íslandi (og í Noregi), sem er fordæmalaus, þ.e. yfirþjóðleg stofnun, ACER, skipar hér málum, sem varðar ekki aðeins stöðu ríkisins og málefni þess, heldur einnig beina hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga og fyrirmæli frá yfirþjóðlegri stofnun, sem Ísland er ekki aðili að, til fyrirbrigðis, sem ekki lýtur innlendu stjórnvaldi.   Það sagði Bjarni Benediktsson í áður nefndum umræðum á Alþingi, að væri algerlega óásættanlegt fyrir Íslendinga.  

Þar með má ætla, að komin sé upp sú staða í ríkisstjórn, að stjórnarfrumvarp um valdatöku ACER á Íslandi á sviði raforkuflutninga innanlands og til og frá Íslandi um nýja sæstrengi, verði ekki lagt fram. Það er útilokað, að ráðherra orkumála leggi það fram í eigin nafni, enda skal efast um, að málið njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, þótt ESB-sinnar séu vafalaust boðnir og búnir að greiða leið þessa víðtæka fullveldisframsals, sem mundi hafa djúptæk áhrif á hagsmuni allra landsmanna og til hins verra fyrir langflesta, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.

Alþingi hefur í hendi sér að fresta afgreiðslu þessa frumvarps, komi það engu síður fram, og reyna ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum að ná fram s.k. tveggja stoða lausn, sem tryggir hagsmuni EFTA-ríkjanna.  Þetta má þó kalla vonlausa leið, því að hún hefur verið reynd í a.m.k. 6 ár af mismunandi ríkisstjórnum í löndunum án árangurs. 

Það er einnig möguleiki hreinlega að fresta málinu um óákveðinn tíma.  Það mun þá koma til kasta ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem væntanlega kærir frestunina til EFTA-dómstólsins, sem líklega mun dæma, að frestunin sé brot á EES-samninginum. Þar við mun sitja.  Þessir aðilar geta ekki vísað EFTA-löndunum úr EES.  Hins vegar getur ESB sagt EES-samninginum upp, og það getur hvert EFTA-landanna þriggja, sem aðild á að EES, einnig.  Það væri svo sannarlega engin goðgá. Það er afar ólíklegt, að ráðherraráð ESB samþykki að segja EES-samninginum upp á þessum forsendum á meðan Bretar eru á leið út úr ESB og ótti steðjar að forystu ESB um, að flótti bresti í liðið.  

Í 200-mílum Morgunblaðsins birtist föstudaginn 9. febrúar 2018 fræðandi og vönduð grein eftir Hjört J. Guðmundsson undir fyrirsögninni:

Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir.

Hún hófst þannig:

"Meðal þess, sem fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári [2017], tekur til, eru viðskipti með sjávarafurðir.  Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96 % allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir, og á næstu 3-7 árum verður það, sem eftir stendur, einnig afnumið.  

Þannig er stefnt að því, að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100 % tollfrjáls, þegar upp verður staðið samkvæmt því, sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja, þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins."

Á sínum tíma, þegar færð voru rök fyrir nauðsyn inngöngu Íslands í EES, var tollfrjálst aðgengi íslenzka sjávarútvegsins að markaði ESB, höfuðröksemdin.  Hafi þetta einhvern tímann verið gild röksemd, er hún það ábyggilega ekki lengur, því að Íslandi mun vafalaust standa til boða fríverzlunarsamningur við Bretland og ESB af sama toga og Kanadasamningurinn, kjósi Íslendingar að segja skilið við EES.  

Hin frelsin 4 á Innri markaði EES eru Íslandi lítils virði, og sum þeirra hafa reynzt landsmönnum stórskaðleg eða munu reynast það í framtíðinni.  Hér er um að ræða frjálst flæði fjármagns, sem var undirrót bankahruns hér 2008, frjálst flæði þjónustu, sem valdið hefur árekstrum hér, t.d. í ferðageiranum, frjálst flæði fólks, sem með Schengen hefur opnað landamærin upp á gátt og valdið hættu, og frjálst flæði orku, t.d. raforku, sem ESB nú reynir með afarkostum að troða upp á EFTA-þjóðirnar.  

Ef Norðmenn og Íslendingar neita að bergja á þessum kaleik, þurfa þeir ekki að óttast afleiðingar, því að í versta tilviki endar málið með uppsögn EES-samningsins.  Þá munu taka við fríverzlunarsamningar, og staða þjóðanna verður ekki lakari eftir en áður.  Það er hægt að sýna fram á, að efnahagslega verður hún mun betri, a.m.k. ef í kjölfarið verður gengið rösklega til verks við grisjun laga- og reglugerðaskógarins frá ESB, sem er sniðinn við annars konar atvinnulíf og minna í sniðum en einkennandi er í ESB-ríkjunum.  

Undir lok greinar sinnar skrifaði Hjörtur:

"Þannig er ljóst, að þegar kemur að beinum tollum, hefur stjórnvöldum í Kanada tekizt að semja um betri aðgang að Innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helzti kosturinn við aðild Íslands að samningnum.  Þannig er fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenzkum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslenzk fyrirtæki."

 

 

 


Goðsögnin um gagnsemi EES

Blekbóndi þessa vefseturs samdi grein í lok janúar 2018, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 3. febrúar 2018 undir fyrirsögninni, "Eru dagar EES taldir ?".  Hún hefur nú birzt á heimasíðu norsku andófssamtakanna, "Nei við ESB", 

https://neitileu.no/aktuelt/er-eos-avtalens-dager-talte    á norsku.

Nýlega sýndi Hjörtur Guðmundsson, alþjóða stjórnmálafræðingur, fram á, sbr https://www.mbl.is/200milur/frettir/2018/02/12/fullt_tollfrelsi_med_sjavarafurdir/,

að með nýjum fríverzlunarsamningi við ESB hafa Kanadamenn fengið hagstæðari viðskiptaskilmála með sjávarafurðir en Íslendingar njóta á Innri markaði EES.  Er það með ólíkindum og gefur til kynna, að í vöruviðskiptum væru Íslendingar ekki verr settir með fríverzlunarsamning við ESB og Bretland en með núverandi veru á Innri markaðinum.  Það eru gjörbreyttir tímar í Evrópu með ákvörðun Breta um að yfirgefa ESB.  "Festung Europa" er fallin, þó með öðrum hætti en árið 1944.

Í téðri blaðagrein var látin í ljós ósk um, að til þess fær aðili mundi athuga efnahagsleg heildaráhrif aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu-EES.  Þetta var orðað þannig í greininni:

"Vel væri við hæfi í tilefni aldarfjórðungsafmælis EES-samningsins, að t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands-HHÍ mundi leggja mat sitt á árlegan heildarkostnað hagkerfisins af aðildinni og árlegan heildarávinning miðað við, að Ísland nyti að fullu sömu fríverzlunarréttinda við ESB og Kanadamenn sömdu nýlega um.  Tilgáta höfundar er sú, að þjóðhagslegur ávinningur af uppsögn EES-samningsins sé ótvíræður og vaxandi."

Nú vill svo til, að HHÍ lauk við skýrslu um þetta efni fyrir utanríkisráðuneytið í janúar 2018.  Um er að ræða skýrslu nr C18:01

"Áhrif samningsins um EES á íslenzkt efnahagslíf".

Í stuttu máli sagt stendur þessi skýrsla engan veginn undir nafni, því að því fer fjarri, að höfundarnir geri grein fyrir heildaráhrifum þess fyrir Ísland að standa utan við EES, þ.e. að segja upp EES-samninginum, en gera þess í stað fríverzlunarsamning við ESB og Bretland.  Samkvæmt reglum WTO (World Trade Organisation) á slíkur samningur ekki að vera meira hamlandi á viðskipti en nýjasti samningur aðila þar á undan, sem nú er téður fríverzlunarsamningur  ESB og Kanada, og þá verður nánast um frjálst aðgengi að ræða fyrir allar iðnaðarvörur, sjávarafurðir o.fl. 

Í téðri skýrslu er verið að bera ávinning aðildar saman við fortíðina fyrir aðild og fundið út, að ávinningur sjávarútvegs af EES nemi 4,5 miaISK/ár.  Litlu verður vöggur feginn.  Það er erfitt að sjá, hverjum skýrsla af þessu tagi má verða að gagni.  Það verður að skrifa það að mestu leyti á verkstjórn verkkaupans. Það er gamla sagan: ráðgjöfum verður að stjórna nákvæmlega, ef þeir eiga ekki að hlaupa út undan sér og út um víðan völl og skila af sér gagnslitlu og jafnvel villandi verki.

Aðildin að EES kostar í beinum útgjöldum um 23 miaISK/ár á verðlagi 2018 samkvæmt athugun Viðskiptaráðs Íslands árið 2015, en til baka kemur eitthvert fé á formi styrkja o.fl., svo að mismunurinn má heita bitamunur en ekki fjár í þessu sambandi, og verða ekki eltar ólar við hann hér. 

Það, sem skiptir öllu máli í þessu sambandi, en var ekki snert við í téðri skýrslu HHÍ, er óbeinn kostnaður atvinnulífsins af EES.  Aftur á móti hefur Viðskiptaráð Íslands ráðizt í þetta mikilvæga rannsóknarverkefni og fundið út, að heildarkostnaður af opinberum reglum fyrir athafnalífið nemi 175 miaISK/ár, uppfært til verðlags 2018.  Þetta jafngildir 7,0 % af VLF.  Meginhluti þeirrar upphæðar er reyndar fenginn frá HHÍ fyrir nokkrum árum og nemur 143 miaISK/ár og stafar af minni framleiðniaukningu en ella sökum regluverksbyrði.  Það er grafalvarlegt, að sá kostnaður er talinn vaxa um 1,0 %/ár.  Þetta er hagvaxtarlamandi og hamlandi fyrir samkeppnishæfni landsins, því að fyrirtækin hérlendis eru langflest mun minni en algengast er í löndum ESB.

Óumdeilt er, að lög og reglugerðir ásamt eftirlitsstofnunum verða að vera fyrir hendi í nútíma þjóðfélagi í viðleitni til að treysta frjálsa samkeppni og hagsmuni neytenda og til að tryggja sjálfbæra nýtingu ásamt fleiri ástæðum.  Erlend ríki, sem við eigum í viðskiptum við, krefjast líka, að fylgt sé ákveðnum gæðastöðlum.  Það er hins vegar svo, að lítil fyrirtæki, með 1-9 starfsmenn,bera að jafnaði hlutfallslega tvöfalt hærri kostnað af opinberu regluverki en meðalstór fyrirtæki með 10-49 starfsmenn, ferfaldan á við 50-249 manna fyrirtæki og tífaldan á við fyrirtæki með 250 eða fleiri starfsmenn.  

Ein birtingarmynd þessa er, að reiknað á hvern íbúa lands eru starfsmenn opinberra eftirlitsstofnana 25 sinnum fleiri hér en í Þýzkalandi og 15 sinnum fleiri en á hinum Norðurlöndunum.  

Það eru fyrirtækin, sem líða fyrir þessa skertu samkeppnishæfni, og hún kemur hart niður á afkomu þeirra og þar af leiðandi getu til að standa undir launum, annarri skattheimtu og eðlilegum arðgreiðslum til eigenda.  Það er þess vegna fyllsta ástæða til að spyrna við fótum.  

Fyrir nokkrum árum fann hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands það út, að beinn kostnaður fyrirtækja vegna eftirlits- og reglugerðabákns næmi 22 miaISK/ár, en óbeini kostnaðurinn, sem væri vegna hamlandi áhrifa reglugerðafrumskógarins á framleiðni, næmi 143 miaISK/ár og færi hækkandi um 1,0 %/ár.  Samtals eru þetta 165 miaISK/ár, sem uppfært til verðlags 2018 nemur um 175 miaISK/ár.   

Í ljósi þess, að Ísland mun hafa innleitt a.m.k. 11´000 "gjörðir" ESB, eftir að EES-samningurinn tók hér gildi í ársbyrjun 1994, eða um 460 á ári, þá er varla goðgá að ætla, að 80 % allra laga og stjórnvaldsfyrirmæla á Íslandi, sem áhrif hafa á rekstrarafkomu fyrirtækja, séu upprunnin hjá ESB.  Ekki er þar með sagt, að þeir séu allir óþarfir, en í ljósi sérstaklega íþyngjandi áhrifa þeirra á íslenzkt atvinnulíf er ekki úr vegi að álykta, að létta megi 60 % af umfangi ESB-reglnanna af atvinnulífinu án þess, að slíkt komi niður á markaðsaðgengi þeirra eða gæðastjórnun.  

Niðurstaðan er þá, að árlegur kostnaður ESB-aðildarinnar fyrir Ísland nemi:

KEES=miaISK 175 x 0,8 x 0,6 = miaISK 84,

sem jafngildir 3,4 % af VLF.

Það er ekki nóg með þetta, heldur er nú í undirbúningi í ráðuneytunum frumvarp til Alþingis um, að orkustjórnvaldsstofnun ESB, ACER, verði fengið hér æðsta vald um ráðstöfun raforkunnar, og að Landsnet muni þá alfarið lúta stjórn útibús ACER á Íslandi og að eftirlitshlutverki Orkustofnunar með Landsneti verði einnig fyrir komið í útibúi ACER á Íslandi.  Þar sem útibú ACER á Íslandi mun ekki lúta neinu innlendu stjórnvaldi, getur ESB/ACER ákveðið, að Landsnet skuli taka þátt í að leggja aflsæstreng til Íslands, og síðan verði Ísland innlimað í orkumarkað EES, jafnvel þótt ríkisstjórn og Alþingi leggist gegn því.  ACER hefur nú þegar sett aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands á verkefnaskrá sína, og er ætlunin að taka hann í notkun árið 2027.  Þetta er stórmál, en hefur samt ekki hlotið neina viðeigandi umfjöllun hérlendis.  Er þetta það, sem koma skal ?

  Fullveldisframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar verður vart skýrara en þetta. Ætlar meirihluti Alþingismanna að láta þetta yfir sig ganga á fullveldisári ?  "Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann."  Ef þetta er lagatæknilega hægt í þingsal, er ljóst, að ekkert hald er í Stjórnarskránni, þegar ásælni erlends valds til ráðstöfunar íslenzkra orkulinda er annars vegar. 

Útibú ACER á Íslandi, algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum, mun rýna nýja raforkusamninga og hafna þeim, ef umsamið raforkuverð er dæmt vera undir "markaðsverði" raforku.  Hætt er við, að virkjanafyrirtæki muni ekki lengur hafa hug á slíkum samningum, en kjósa fremur að flytja raforkuna utan.  Óhjákvæmileg afleiðing slíks orkubrotthvarfs úr hagkerfinu er minni verðmætasköpun í landinu, atvinnuleysi og snarhækkun raforkuverðs til almennings og fyrirtækja án langtímasamninga.  Af hverju heyrist ekkert frá verkalýðsfélögum, ASÍ, SA, SI eða Neytendasamtökunum ?  Halló, er nokkur heima ? 

Búast má við tvöföldun orkuverðs frá virkjun og helmingshækkun flutningsgjalds, alls 6 ISK/kWh.  Þetta þýðir hækkun raforkukostnaðar almennings um:

24 miaISK/ár án VSK.

Sé þetta nú lagt við fyrri kostnað af reglugerðabákninu (almenningur borgar allt á endanum), þá fæst: 

Heildarkostnaður EES = 108 miaISK/ár eða 4,3 % af VLF.

 

 

  

 

 

 


Sérstaða Íslands og Noregs

Um næstu mánaðamót er væntanleg til landsins Kathrine Kleveland, formaður norsku andófssamtakanna "Nei við ESB".  Mun hún kynna hérlendis skelegga baráttu samtaka sinna gegn stöðugt vaxandi framsali fullveldis Noregs til yfirþjóðlegra stofnana ESB vegna EES-samningsins.  Nákvæmlega hið sama á við Ísland í þessum efnum, en hér virðast menn dofnari og líta á það, sem gerist, sem einhvers konar óhjákvæmilega þróun.  Ef téð Katrín megnar að vekja Íslendinga af Þyrnirósarsvefni á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands, má ætla, að tíma hennar hér verði vel varið.

Sérstaða Íslands og Noregs er mikil innan Evrópu.  Báðar þjóðirnar búa í stóru landi m.v. fólksfjölda og ráða yfir enn stærra hafsvæði, margföldu á við landsflatarmálið. Þessi hafsvæði eru matarkista og undir hafsbotni eru eldsneytislindir, sem Norðmenn hafa nýtt sér í miklum mæli.  Hafa þeir safnað skatttekjum af olífélögum og arðgreiðslum ríkisolíufélagsins Statoil í sjóð síðan 1996, sem að stærð er um 2,5 x VLF Noregs eða um miaISK 100´000.  Frá 2016 hefur Stórþingið samþykkt að styðja við rekstur ríkissjóðs með fé úr sjóðnum, sem nemur um 3 % af eignum sjóðsins á ári.  Þetta er nálægt langtíma ávöxtun sjóðsins, en undanfarin ár hefur hún verið mun meiri, og hefur vöxtur sjóðsins verið ævintýralega hraður á núverandi áratugi.  Ríkissjóður Noregs væri líklega rekinn með bullandi tapi, ef olíusjóðurinn væri ónotaður, því að hann stendur undir um 18 % af útgjöldum norska ríkisins. Samt gengur norska ríkið ekki á höfuðstól sjóðsins, heldur hefur skotið öflugri stoð undir tekjugrunn hans.    

Á raforkusviðinu sker staða Noregs og Íslands sig algerlega úr í Evrópu. 

Í fyrsta lagi er raforkan unnin með sjálfbærum hætti úr vatnsafli að næstum 100 % í Noregi og 70 % á Íslandi og um 30 % þar úr jarðgufu.  Í ESB er hlutfall sjálfbærrar raforkuvinnslu innan við 30 %.

Í öðru lagi eru Norðurlöndin tvö sjálfum sér næg með raforku. Í Noregi er reyndar tiltæk í miðlunarlónum 15 % meiri orka en nemur raforkuþörfinni í landinu, en á Íslandi er betri nýting á fjárfestingum raforkukerfisins og sáralítil umframorka.  Það er reyndar vanfjárfest þar, því að ekki er unnt að fullnægja þörfum markaðarins innanlands vegna veikburða flutningskerfis (Landsnets) og teflt er á tæpasta vað með orkuforðann, eins og í ljós kemur í slökum vatnsárum (orkuskerðingar).

Í þriðja lagi er afhendingaröryggi raforku mikið í Noregi.  Á Íslandi á hið sama við, þar sem ekki eru flöskuhálsar og dreifingin er með jarðstrengjum (þriggja fasa).  Á meginlandi Evrópu var löngum mikið afhendingaröryggi raforku, en með "Die Energiewende" í Sambandslýðveldi Þýzkalands hefur snarazt á merinni í þessum efnum, og hefur á hverju ári undanfarið legið við hruni rafkerfisins á háálagstímabilum með litlu sólskini og lygnu veðri. 

Hjá þýzkumælandi merkir "Die Energiewende" eða orkuskipti, enn sem komið er, sjálfbæra raforkuvinnslu, sem er langt í land með að ná.  Á meginlandinu er reynt að leysa kola- og gasorkuver af hólmi með sólarhlöðum og vindorkuverum, en slíkt leiðir til óstöðugs framboðs raforku.  Eins og kunnugt er hafa Norðmenn og Íslendingar sett sér háleit markmið um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngugeiranum og verða fremstir í Evrópu á þessu sviði.  Það verður hins vegar ekki hægt, ef auka á útflutning raforku í Noregi og hefja hann hér. Þannig er ljóst, að sala á "grænu" rafmagni frá Noregi og Íslandi niður til meginlands Evrópu dregur ekkert úr loftslagsvánni.  Bretar hafa í þessum efnum skotið Þjóðverjum ref fyrir rass, því að engin kolakynt raforkuver eru lengur starfrækt á Bretlandi, en meira en þriðjungur raforkuvinnslu Þýzkalands fer fram í kolakyntum orkuverum, og sum þeirra nota jafnvel brúnkol.

Í fjórða og síðasta lagi búa Norðmenn og Íslendingar við ódýra raforku.  Orkuhluti raforkureiknings flestra hérlendis er sennilega á bilinu 4,5-5,5 ISK/kWh, og í Noregi er sá hluti yfirleitt á bilinu 3,3-5,2 ISK/kWh.  Á Bretlandi er verðið samsvarandi um 9,1 ISK/kWh, og í Þýzkalandi getur raforkuverð frá virkjun rokið upp í 30 ISK/kWh.  

Raforkan er á Íslandi og í Noregi alfarið afurð sjálfbærra náttúruauðlinda, en aðeins að litlu leyti í ESB.  Íslendingar og Norðmenn viðurkenna, að stjórnvöldum landanna beri að hafa vald til að beina nýtingu hinna sjálfbæru auðlinda sinna í ákveðinn farveg, sem gagnist öllum íbúum sem bezt, óháð búsetu.  Þetta þýðir að nota raforkuna til stórtækrar verðmætasköpunar, t.d. að breyta raforku í útflutningsvöru vítt og breitt um landið í iðjuverum.  

Þannig er þessu alls ekki háttað í ESB, þar sem litið er á raforku sem vöru, sem "fljóta" eigi hindrunarlaust yfir landamæri til hæstbjóðanda.  Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EU frá 13. júlí 2009, er einmitt til að ryðja úr vegi öllum hindrunum í hverju landi við þessu frjálsa flæði.  Til þess eru völd yfir ráðstöfun raforkunnar flutt frá rétt kjörnum þjóðþingum og yfirvöldum í hverju landi til stjórnsýslustofnunar ESB fyrir orku, ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  Þar hafa aðeins ESB-ríki atkvæðisrétt og segja útibúum ACER í hverju landi algerlega fyrir verkum um uppbyggingu orkuflutningskerfa og stjórnun raforkuflutninga.

Þessi staða mála er ekki í anda tveggja stoða samstarfsins, sem var grundvöllur upphaflega EES-samningsins.  Að Íslandingar og Norðmenn séu skyldaðir með lagasetningu að taka við skipunum um tilhögun orkumála eða annarra mikilvægra mála frá stofnun, sem ríkjasamband hefur komið sér upp, þar sem Íslendingar og Norðmenn eru ekki aðilar, er óviðunandi og brýtur í bága við stjórnarskrár landanna.  Á sömu lund talaði fjármála- og efnahagsráðherra úr pontu Alþingis 6. febrúar 2018 í umræðu um annað mál.  Ætlar ríkisstjórnin samt fram með þetta mál á vorþingi 2018.  Það væri með miklum ólíkindum, og því mun ekki verða tekið með þegjandi þögninni.  Í stað þess að rýja sig trausti með slíku háttarlagi ætti ríkisstjórnin nú í febrúar að taka þetta mál af dagskrá þingsins og færa það í allt annan farveg og leita í þeim efnum samhljóms hjá norskum stjórnvöldum.

 

 

Í verkefnaskrá Alþingis kemur fram, að fjalla eigi um málið á Alþingi í marz 2018 undir eftirfarandi sakleysislegu lýsingu: "Snýr að mestu að sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar", þegar raunin er sú, að færa á stjórnun ráðstöfunar á raforkunni frá Alþingi og ríkisstjórn til ACER með ESA í Brüssel sem millilið.  "Something is rotten in the state of Danemark."  Hér sannast "salamiaðferðin" upp á búrókrata EES, sem Morgunblaðið gerði að umræðuefni í leiðara 9. febrúar 2018:

""Agúrkuvertíð" ESB stendur allan ársins hring, þar sem sneitt er svo fínlega af fullveldi ríkjanna, að einstaka þjóðir taka ekki eftir því, enda gera þeirra eigin forystumenn sitt til að draga athyglina frá þessum lýðræðislegu skemmdarverkum."

Þessari forystugrein lauk þannig:

"Það er ekki líklegt, að nokkur íslenzkur stjórnmálaflokkur muni standa vaktina fyrir landsins hönd, hvað þetta varðar fremur en nokkuð annað, sem kemur úr þessari átt.  Það er ömurlegt."

Vonir standa til, að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að rumska. 

 

   


Norðurslóðir, öryggis- og þróunarmál

Það er mikið blaður í undirköflum stjórnarsáttmálans í kaflanum "Alþjóðamál", sem bera heitið "Norðurslóðir og loftslagsmál" og "Öryggis- og þróunarmál".

Í fyrri undirkaflanum er t.d. þessi málsgrein: "Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans".

Hvað skyldi þetta nú merkja ?  Er stefna ríkisstjórnarinnar sú, að öll vinnsla náttúruauðæfa verði bönnuð þar, þ.m.t. olíu- og gasvinnsla ?  Ætlar ríkisstjórnin þá að draga til baka rannsóknar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu, sem íslenzk stjórnvöld hafa þegar gefið út ?  Það mun reyndar vera búið að skila til baka mestum hluta leyfanna, og jafnvel Kínverjar meta framtíðina á þessu sviði þannig, að ekki muni borga sig að bora þarna eftir olíu, þótt hún fyndist. Markaðsöflin hafa tekið ómakið af ríkisstjórninni, og þetta síðasta grobbefni "olíumálaráðherrans" fyrrverandi, Össurar Skarphéðinssonar, er nú fyrir borð borið.  

Ríkisstjórnin verður þó að taka efnislega afstöðu.  Umhverfisráðherrann er á móti olíuvinnslu þarna m.a. á þeim hæpnu forsendum, að bann við að dæla upp olíu undan hafsbotni Drekasvæðis minnki framboð á olíu.  Það eru engin rök.  Olíueftirspurnin í heiminum hefur nú þegar náð toppi.  Bandaríkjamenn toppuðu 2005, og orkuskiptin eru nú þegar farin að hafa áhrif á eftirspurnina, svo að verðinu er spáð viðvarandi undir núverandi skammtímatoppi 70 USD/tunnu. Það eru e.t.v. um 10 milljarðar tonna undir botni Drekasvæðis, og slíkt magn má finna annars staðar og dæla því upp með minni tilkostnaði en þarna norður frá.  Í Arabalöndunum er kostnaðurinn aðeins 10 USD/tunnu, en efnahagur þeirra er háður olíuvinnslunni, svo að þau verða að fá á bilinu 40-70 USD fyrir olíutunnuna til að forðast hrun efnahagslífsins.  Þeirra bíður flestra ömurlegt hlutskipti eftir orkuskiptin í heiminum.  

Það eru miklu veigameiri rök gegn olíuvinnslu þarna, að áhætta er tekin með lífríki hafsins.  Mengunarslys gæti jafnvel haft áhrif á lífríkið í íslenzku lögsögunni og hugsanlega skaðað orðspor Íslendinga sem matvælaframleiðenda.  Það eru engin efni hér til að meta þessa áhættu.  Til þess þarf vandaða, tæknilega áhættugreiningu til að komast að líkindunum á mengunarslysi m.v. umfang og reikna þannig hámarkstjón út.  Að slíku loknu er hægt að taka upplýsta ákvörðun, en stjórnvöldum leyfist hvorki að láta skeika að sköpuðu né að koma með sverar yfirlýsingar á valdi tilfinninganna.  Gleymum ekki, að frændur okkar, Norðmenn, hafa lagt fyrir í digran olíusjóð, og við gætum þurft á digrum sjóði að halda vegna loftslagsbreytinga eða náttúruhamfara í framtíðinni.

Það er ekki um neinar smáfjárhæðir til handa íslenzka ríkinu að ræða, ef bjartsýnar spár fyrir hönd fyrrverandi leyfishafa hefðu rætzt, heldur gæti fjárstraumurinn úr olíulindum Drekasvæðis í ríkissjóð numið 40 faldri landsframleiðslu Íslands.  Þess vegna getur enginn ýtt olíuvinnslu út af borðinu í einu vetfangi, heldur verður að bera saman ávinning og áhættu.

Í Noregi er nú talsverð umræða um "Orkusamband Evrópu", sem Evrópusambandið-ESB er að koma á laggirnar og hefur lagt fyrir EFTA-ríkin í EES að innleiða hjá sér.  Í þessu augnamiði hefur verið stofnað til "Orkusamstarfsstofnunar ESB"-"ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators".  Verið er að stofna útibú frá ACER í hverju landi, sem er óháð stjórndeild innan Orkustofnunar hvers lands, og framkvæmir ákvarðanir, teknar innan ACER, sem hefur endanlegt vald yfir orkuflutningsgeiranum í hverju landi og yfir orkuflutningum á milli ESB-landanna.  Þetta á við rafmagn og gas nú þegar, og mun vafalaust spanna olíu líka. ESB mun ekkert muna um að styrkja sæstrengslögn frá Íslandi til Bretlands/ESB til þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkunotkun sinni.  Hvaða áhrif halda menn, að slíkt muni hafa á raforkuverðið hérlendis og þar með afkomu heimila og fyrirtækja ?

ESB nær með þessu ekki eignarhaldi á orkulindum Noregs og Íslands, hvorki fossum, jarðgufugeymum né gas- og olíulindum, en aftur á móti fær ESB með þessu fullt ráðstöfunarvald yfir allri orku, sem tilbúin er til að fara á markað.  Samkvæmt EES-samninginum verður Ísland að innleiða "Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB" í sitt lagasafn, af því að Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt, að þessi innleiðing skuli eiga sér stað á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein.  Í því felst þó  skýlaust fullveldisafsal íslenzka ríkisins yfir ráðstöfunarrétti "erfðasilfursins", sem nú er rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum að mestu leyti, en gæti í framtíðinni hugsanlega einnig spannað jarðgas og/eða olíu af norðurslóðum.  

Nú ættu Alþingismenn að rísa upp á afturfæturnar og segja: "hingað og ekki lengra". Við munum hvorki samþykkja þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp þessa efnis. Komi þá það, sem koma skal.  Þetta mun kalla á kvörtunarbréf frá ESA og kæru á landið til EFTA-dómstólsins.  "So what ?"  Það eru nýir tímar í Evrópu núna með útgöngu Breta úr ESB.  Þeir munu gera fríverzlunarsamning við ESB, og við ættum að geta fengið svipaðan samning bæði við ESB og Breta.  Þá munum við ekki lengur þurfa að taka hér upp um 460 gjörðir á ári frá ESB, sem við höfum engin áhrif haft á á undirbúnings- og ákvarðanastigum máls, og íslenzka ríkið mun þá ekki lengur þurfa að greiða fúlgur fjár til ESB/EES, svo að ekki sé nú minnzt á frjálst flæði fólks. Uppsögn EES-samningsins mun reynast þjóðhagslega hagstæðari kostur en að viðhalda honum.  Hvaða þingmenn munu þekkja sinn vitjunartíma ?


Orkumál í uppnámi vegna ESB

Valdahlutföllin innan Evrópusambandsins (ESB) hafa þegar breytzt vegna ákvörðunar Breta um að yfirgefa sambandið.  Hlutur efasemdarmanna um æ nánari samruna ríkjanna á leið til sambandsríkis Evrópu í stað ríkjasambands hefur rýrnað við að missa rödd Bretlands úr hópnum, og sameiningarsinnar færa sig að sama skapi upp á skaptið. Nú á að láta kné fylgja kviði á sviði orkuflutninga á milli ríkja.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að flaggskip ESB er Innri markaður þess með frelsunum fjórum.  Árið 2009 var gefinn út bálkur tilskipana á orkusviði, t.d. 2009/72/ESB á sviði raforkuflutninga, sem miðaði að "fimmta frelsinu" á Innri markaðinum.  Flutningar á raforku og eldsneytisgasi skyldu verða frjálsir og hindrunarlausir á milli ríkjanna, og raforkuflutningana skyldi tvöfalda upp í 20 % af orkunotkun ESB-ríkjanna árið 2030. 

Ætlunin með þessu var að nýta tiltæka orku með hagkvæmasta hætti innan EES.  Til þess verður stofnaður orkumarkaður í hverju landi undir eftirliti útibús frá "Orkusamstarfsstofnun" ESB í hverju landi. Öll tiltæk orka á að fara á þennan markað, og nýir langtímasamningar um orkuviðskipti verða óheimilir innan ESB.  Hugmyndin var sú, að hægt verði að bjóða í orku, hvar sem er, hvaðan sem er, og flytja hana hindrunarlaust til bjóðandans með útjöfnuðum flutningskostnaði. 

Augljóslega mun þessi markaðsvæðing jafna út verðmun á raforku innan EES.  Þá hlýtur raforkuverðið óhjákvæmilega að hækka í Noregi og á Íslandi, þar sem íbúarnir hafa búið við u.þ.b. helmingi ódýrara rafmagn en íbúar ESB-ríkjunum. Þá mun hlutur endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun í ESB vaxa við aukna raforkuflutninga á milli landa, og að sama skapi minnka í Noregi og á Íslandi, ef sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda.   Til þess eru refirnir skornir í Berlaymont. 

Árið 2011 var stofnuð áðurgreind "Orkusamstarfsstofnun" ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) með aðsetri í Slóveníu.  ACER er samstarfsvettvangur orkustofnana ríkjanna með einum fulltrúa frá hverju EES-ríki, en aðeins ESB-ríkin eiga þar atkvæðisrétt.  Ákvarðanir eru bindandi og endanlegar, teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður.  ACER felur ESA-Eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins-að framfylgja ákvörðunum sínum í EFTA-löndunum þremur innan EES, Noregi, Íslandi og Liechtenstein.  

Orkustofnun (OS) fer með stjórnsýslu orkumála á Íslandi undir yfirstjórn Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins, A&N.  Eftir innleiðingu tilskipunar 2009/72/ESB á Íslandi verður OS þó aðeins svipur hjá sjón, því að útibú frá ACER verður stofnað á Íslandi, "Orkustjórnsýslustofnun"-OSS, sem felld verður undir hatt OS sem sjálfstæð stjórnsýslueining, og mun OSS taka við orkustjórnsýsluhlutverki OS að miklu leyti og á að verða óháð ráðuneyti orkumála, öðrum innlendum stofnunum og fyrirtækjum, en samt fara inn á íslenzku fjárlögin.  OSS mun hafa eftirlit með raforkumörkuðum á Íslandi og eiga samstarf við systurstofnanir sínar í EES.  OSS lýtur ekki boðvaldi neinna íslenzkra yfirvalda, heldur verður eins og ríki í ríkinu með eigin framkvæmdastjóra, skipuðum til 6 ára í senn, sem tekur við skipunum frá ESA.     

Ákvarðanir á vegum ACER munu ganga til ESA, sem sendir þær til OSS til framkvæmdar.  OSS útbýr tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir flutningsmannvirki orku, en OS verður áfram leyfisveitandi. Önnur starfsemi OS en starfsemi OSS verður áfram undir yfirstjórn ráðuneytisins, A&N. Þetta er anzi ruglingslegt fyrirkomulag, sem býður upp á harkalega árekstra innanlands. 

Þetta er óviðunandi fyrirkomulag raforkumála fyrir Íslendinga.  Þeir missa með því lýðræðisleg stjórnunartök á ráðstöfun raforkunnar í hendur fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem þeir eru án atkvæðisréttar.  Það er hættulegur misskilningur, að áhættulítið sé fyrir Alþingi að samþykkja tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA frá 5. maí 2017 um að fella Þriðja orkulagabálk ESB inn í EES-samninginn.  Innan vébanda ACER er hvenær sem er hægt að ákveða að bjóða út sæstreng frá Íslandi ásamt lögn hans til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi.  Það yrði í verkahring OSS að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir tengingar sæstrengja við stofnrafkerfi Íslands.  Hlutverk OS yrði eftir sem áður að gefa út starfræksluleyfi, en það er formsatriði, því að ekki verður séð, hvernig OS gæti hafnað starfræksluleyfi sæstrengs, sem uppfyllir alla setta skilmála.  Gildir þá einu, þótt innan OS og ráðuneytisins væri vilji til að vernda íslenzkar fjölskyldur og fyrirtæki gegn beinni samkeppni erlendis frá um raforkuna.  

Eins og í pottinn er búið, verður að draga stórlega í efa, að innan ACER sé hægt að taka ákvörðun, sem sé lagalega bindandi fyrir Ísland.  Ríkisstjórn Íslands hyggst þó leggja frumvarp fyrir Alþingi, jafnvel vorið 2018, um að fara að tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA og samþykkja Þriðja orkulagabálk ESB sem hluta af EES-samninginum.  Ef Alþingi samþykkir þetta, er í leikmannsaugum augljóslega verið að fórna fullveldi landsins á mikilvægu sviði án nokkurs ávinnings fyrir landið.  Þvert á móti gæti þessi innleiðing valdið hér stórtjóni, hækkað raforkuverð gríðarlega til allra notenda án langtímasamnings og stórskaðað samkeppnishæfni nánast allra fyrirtækja í landinu.  Afleiðing af slíku er stórfelld lífskjararýrnun landsmanna.  Er meirihluti fyrir slíku á Alþingi ?  Fróðlegt væri að sjá almenna skoðanakönnun hérlendis um fylgi við þessa ráðstöfun, sem að mestu hefur legið í þagnargildi hingað til.  Í Noregi eru 18 % aðspurðra fylgjandi þessu ráðslagi, 38 % óákveðnir og 44 % andvígir.  Umræða mun á næstunni fækka hinum óákveðnu, því að Stórþingið mun taka málið til afgreiðslu í marz 2018.  Verður spennandi að sjá, hvort Stórþingsmenn munu ganga á hólm við kjósendur sína og lúta vilja ríkisstjórnar og stórs hluta embættismannaveldisins. 

 

 


Byggðamál

Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá nóvember 2017 er kafli um byggðamál.  Hann hefst þannig:
"Mikil verðmæti felast í því, að landið allt sé í blómlegri byggð.  Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um allt land."

Ekki verður ráðið af framhaldinu, að höfundarnir geri sér grein fyrir, hvers konar stefnu þarf að viðhafa til að halda landinu "öllu" í byggð.  Í grundvallaratriðum þarf tvennt til, þ.e. í fyrsta lagi greiðfæra vegi, nægt þrífasa rafmagn og hraðvirkt samskiptakerfi og í öðru lagi að nýta náttúruauðlindir landsins til eflingar velferðarþjóðfélags um allt land. 

Þannig þarf nýtingarstefnu fyrir náttúruauðlindir landsins, sem styður við búsetu um landið allt.  Nýting náttúruauðlindanna verður þannig grundvöllur velmegunar og velferðarsamfélags um landið allt.  

Sjávarútvegurinn er klárlega landsbyggðar atvinnugrein, sem fullnægir þessum skilyrðum, af því að hann er í heildina rekinn með hagkvæmum hætti, og 78 % skatttekna af sjávarútveginum koma utan af landi.  Sömuleiðis hafa strandveiðar að sumarlagi þýðingu í þessu samhengi svo og byggðakvótinn, sem Byggðastofnun úthlutar, aðallega til s.k. brothættra byggða.  

Mestu máli skiptir þó fyrir hagvöxtinn, að sjávarútvegsfyrirtækjum vítt og breytt um landið hefur vaxið fiskur um hrygg með fiskveiðistjórnunarkerfi, sem fækkaði útgerðum og fiskiskipum og glæddi aflabrögð í kjölfar þess, að tekið var að fylgja vísindalegri veiðiráðgjöf.  

Ekki má hverfa frá þessu efni án þess að nefna fiskeldið, en það mun hafa byltingarkennd áhrif til hins betra á byggðir Vestfjarða og góð áhrif á Austfjörðum og vonandi í Eyjafirði með eldi þar í lokuðum kvíum, sem hafa verið þróaðar í Noregi.  Á Austfjörðum er hins vegar önnur öflug stoð undir atvinnulífi en sjávarútvegur og landbúnaður, sem ekki er að finna annars staðar utan Straumsvíkur og Grundartanga og senn á Bakka við Húsavík, en það er orkusækinn málmiðnaður.  

Það hefur frá upphafi umræðu um orkuvirkjanir og stóriðju í tengslum við þær sú ætlun stjórnvalda verið ljós, að þessi starfsemi mundi stuðla að innviðauppbyggingu, aukinni tækniþekkingu og byggðafestu í landinu.  Á undirbúningsárum ISAL, 1967-1970, ríkti hér atvinnuleysi í kjölfar síldarbrests, og framkvæmdirnar í Straumsvík og við Búrfell drógu úr bæði atvinnuleysi og landflótta.  Stækkun ISAL og upphaf Norðuráls, 1995-1998, komu einnig á heppilegum tíma m.v. atvinnuástand í landinu, og í kjölfarið kom uppgangsskeið. Fjarðaál og Fljótsdalsvirkjun voru klárlega traustar byggðafestuframkvæmdir, sem sneru neikvæðri byggðaþróun á Austfjörðum til hins betra. Gríðarleg gjaldeyrisöflun á sér nú stað í Austfirðingafjórðungi úr auðlindum lands og sjávar.  

Svo virðist sem núverandi stjórn og forstjóri Landsvirkjunar hafi gleymt þessu eðli iðnvæðingar Íslands eða fórnað því á altari misskilinnar gróðahyggju ríkisfyrirtækisins.  Landsvirkjun var aldrei hugsuð þannig, að selja ætti raforku frá virkjunum hennar á verði, sem sambærilegt væri við verð á Bretlandi, á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjunum, heldur á verði, sem gerði Ísland samkeppnishæft á sviði málmframleiðslu, myndi borga virkjanir og flutningslínur upp löngu áður en bókhaldslegum, hvað þá tæknilegum, afskriftatíma lyki og yrði þannig grundvöllur að lágu raforkuverði til almennings í samanburði við útlönd.  Langtíma raforkusamningar Landsvirkjunar hafa vissulega reynzt þjóðhagslega hagkvæmir og staðið undir einu lægsta raforkuverði til almennings á byggðu bóli.  

Landsvirkjun hefur síðan 2010 farið fram með nokkurri óbilgirni í samningaviðræðum um endurskoðun langtímasamninga um afhendingu raforku til orkusækinna málmframleiðslufyrirtækja og t.d. þvingað fram raforkuverð til ISAL í Straumsvík, sem sett hefur afkomu fyrirtækisins í uppnám, dregið úr fjárfestingaráhuga eiganda, og nú er svo komið, að hann reynir að selja fyrirtækið.  Á Grundartanga gekk töluvert á við endurnýjun raforkusamninga Norðuráls, og nú hafa ágreiningsmál járnblendiverksmiðjunnar og Landsvirkjunar verið lögð í gerðardóm. Hér er um geðþóttalega stefnubreytingu fyrirtækisins að ræða, sem var ekki mótuð af stjórnvöldum eða neitt rædd á Alþingi og hæpið, að njóti meirihlutastuðnings þar.  

Nú stefnir ESB á innleiðingu 5. frelsisins, sem er frjálst flæði orku á milli aðildarlanda EES.  Búizt er við hatrömmum deilum í Noregi um þetta, því að vegna loftlína til Svíþjóðar og sæstrengja til Danmerkur og Hollands og nýrra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands mun þetta fyrirkomulag rústa iðnaði Noregs, sem frá upphafi hefur verið staðsettur vítt og breitt  um byggðir Noregs og notið hagstæðra kjara við raforkukaup, m.a. í nafni byggðastefnu og almennrar atvinnuþróunar.  Hann mun eftir innleiðingu "orkusambands ESB" þurfa að keppa um raforkuna við þýzk stáliðjuver í hjarta Evrópu, svo að dæmi sé tekið. Horfa margir Norðmenn með örvæntingu á þá óheillaþróun, að stjórn orkumálanna færist í raun úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til embættismanna á nýrri "Orkusamvinnustofnun ESB", sem staðsett er í Slóveníu, og Norðmenn verða algerlega áhrifalausir í (án atkvæðisréttar).  

Á Íslandi hefur Landsvirkjun barizt fyrir því, að sæstrengur yrði lagður á milli Íslands og Skotlands.  Er nú augljóst, til hvers refirnir voru skornir.  Nú verður hægt að færa enn gildari rök gegn slíkum aflsæstreng en gert hefur verið.  Hann mun ekki aðeins hækka almennt raforkuverð í landinu, heldur mundi hann rústa atvinnulífi í landinu, ef Ísland jafnframt innleiðir 3. tilskipanabálk ESB í orkumálum frá 13. júli 2009-EU/2009/72.  Gegn því ber að berjast með kjafti og klóm svo á Íslandi sem í Noregi.

Á Íslandi hafa uppkaup útlendinga á landi færzt í vöxt. Fræg varð tilraun Kínverja fyrir okkrum árum til að ná tangarhaldi á stærstu jörð á Íslandi, Grímsstöðum á Fjöllum.  Sem betur fór var þetta hindrað, því að lagaumgjörð fyrir slíka gerninga er ófullnægjandi fyrir hagsmuni landsins.  Á þetta benti Hlynur Jónsson Arndal, rekstrarhagfræðingur, í Morgunblaðsgrein 26. júli 2017,

"Eignarhald útlendinga á íslenskum jörðum":

"Enn bjóða óupplýstir fréttamenn upp á umræðu, þar sem sneitt er hjá þessum staðreyndum og útlendingum stillt upp sem venjulegu fólki, sem vill gjarnan eignast fallega jörð á Íslandi til að njóta sveitarsælunnar.  Nú síðast með viðtali Ríkisútvarpsins við Jim Ratcliffe, sem keypt hefur fjölda jarða hér á landi að sögn fjölmiðla, en þeir sleppa að geta þess, að það er gert í gegnum hlutafélag."

Það er grundvallarmunur á því, hvort viðskipti eru gerð á nafni persónu eða lögaðila, t.d. hlutafélags, og vegna frelsis innan EES til landakaupa, er nauðsynlegt að Alþingi verji sameiginlega hagsmuni landsmanna með því að takmarka landakaup við persónur.

"En skiptir þetta máli ?  Um leið og jörð er seld háu verði til erlends eða íslenzks hlutafélags, þá er væntanlega söluhagnaðurinn skattlagður á Íslandi ?  En það verður í hinzta sinn, vegna þess að öll framtíðarviðskipti með slíka jörð geta farið fram í lágskattalandi, t.d. Lúxemborg, heimalandi Junckers nokkurs, þar sem hlutafélagið, nú skráður eigandi jarðarinnar, mun geta gengið kaupum og sölum, annaðhvort beint eða höndlað er með félag, sem á annað félag, sem á félagið, sem á jörðina.  Ef skattur yrði greiddur af hækkun jarðarverðs í formi hærra hlutabréfaverðs slíks félags, færi skatturinn í ríkissjóð Lúxemborgar.  Náðuð þið þessu ?" 

Hvers vegna er ekki minnzt einu orði á þetta þarfa viðfangsefni löggjafans í stjórnarsáttmála um byggðamál ?  Er þegjandi samkomulag um að breiða yfir galla EES-samningsins ?

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband