Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Forgangsröðun

Óheillaspírall verðhjöðnunarÁ ögurstundum þjóðar, sem nú lifum við, er mikilvægara en í annan tíma að forgangsraða viðfangsefnum og að velja stefnumið og leiðir, sem sameina þjóðina fremur en að sundra henni.  Hvað skyldi þetta nú þýða í hinum kalda raunveruleika efnahagshruns ?

Það verður að forgangsraða í þágu Litlu-Gunnu og Litla-Jóns, þó að það kosti róttæka stefnubreytingu, t.d. í utanríkismálum.  Draugagangurinn í IMF, Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, þar sem t.d. fulltrúa Sviss hafði verið tjáð, að umsóknin fyndist ekki, sýnir, að efasemdarraddir um IMF hérlendar höfðu talsvert til síns máls.  Evrópusambands ríkin eru á þeim buxunum að kúga Íslendinga til hlýðni.  Slíkt er illur fyrirboði um það, sem bíður þjóðarinnar, ef hún lætur glepjast til að fara inn í risaríkið. 

Grófasta birtingarmynd þessarar fjárkúgunar er beiting brezkra hryðjuverkalaga gegn íslenzkri bankastarfsemi í Lundúnum.  Það er óþolandi að vera í varnarbandalagi með þjóð, sem þannig fer með okkur.  Það á að taka slíkt ofbeldismál upp á vettvangi NATO um leið og samningaviðræður eru teknar upp í Moskvu um lán frá ríki, sem sýndi okkur hjálpsemi, þegar Bretar settu á landsmenn hafnbann í landhelgisdeilu.  Hinn siðferðislegi styrkur Íslands í þessu deilumáli um innlánsreikninga erlendis í einkabanka skráðum á Íslandi felst í því að hafa boðizt til að leggja málið fyrir dóm.  Á þessum grundvelli getum við sýnt fyrrverandi bandamönnum vígtennurnar og látið reyna á það, hvort landfræðileg lega landsins kemur okkur enn að haldi. 

Þýzk vísitala viðskiptavæntinga Hitt atriðið, sem nú þarf að leggja áherzlu á, er að forðast leiðir út úr vandanum, sem vitað er, að djúpstæður ágreiningur ríkir um á Íslandi.  Ekki þarf að eyða mörgum orðum að fáránleika hugmynda um að taka upp evru í blóra við Evrópubankann, ECB, og Evrópusambandið, ESB.  Við uppfyllum nú ekkert Maastricht skilyrðanna og munum ekki uppfylla þau öll næsta áratuginn vegna skulda ríkisins.  Þá hefur framkvæmdastjórn ESB nú sýnt Íslandi fádæma óbilgirni með því að setja Íslendingum stólinn fyrir dyrnar við afgreiðslu lánsumsóknar til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF.  Rökin fyrir því eru einfeldningsleg og ruddaleg.  Það má ekki gefa fordæmi, segir framkvæmdastjórnin.  Þetta er tóm vitleysa.  Það getur einfaldlega ekki orðið um neitt fordæmi að ræða í máli þjóðar, þar sem bankakerfið lagðist á hliðina á einni viku.  Slíkt er einstakt í Evrópu, enda var bankakerfið 12 sinnum stærra en þjóðarbúið.  Sviss komst næst því og var samt aðeins 2/5 að tiltölu. Tilskipun ESB á við um einstök bankagjaldþrot.  Siðferðisstyrkur Íslendinga í þessu máli felst í því að hafa boðizt til að leggja málið í gerðardóm og/eða fyrir dómsvald Evrópudómstóls. 

Miskunnarleysi framkvæmdastjórnar ESB er þannig gagnvart Íslandi, að hún skirrist ekki við að hneppa ókomnar kynslóðir Íslendinga í skuldafjötra til að bjarga eigin skinni og misheppnuðum tilskipunum um frelsi fjármagnsins, sem var eftirlitslítið á öllu evrópska efnahagssvæðinu, EES. 

Hvernig í ösköpunum halda menn, að vistin innan ESB gæti reynzt okkur bærileg ?  Hægt er að ímynda sér ósvífna og yfirgangssama embættismenn ESB lýsa því yfir, að vegna slæms fordæmis komi ekki til greina, að Íslendingar stjórni veiðum sjálfir á fiskimiðum sínum.  Nauðsynlegt sé, heildarinnar vegna, að allir sitji við sama borð.  Að stefna á samninga við ESB um aðild að sambandinu er að fenginni reynslu álíka mikill undirlægjuháttur og að gefa Bretum sjálfdæmi um það, hvort þeir fái afnot Keflavíkurflugvallar fyrir vígvélar sínar um jólin. 

Nú er framkvæmdastjórn ESB að verða uppvís að því að stinga undir stól gögnum um hrun makrílstofnsins í Miðjarðarhafi.  Þetta gerir hún að kröfu nokkurra áhrifamikilla aðildarríkja fyrir fund nefndar, sem á að ákveða makrílkvóta næsta árs.  Þessi vinnubrögð framkvæmdastjórnarinnar eru dæmigerð fyrir ábyrgðarleysi hennar, enda tröllríður lýðræðishallinn og spillingin þar húsum.  Þeir, sem ímynda sér, að einn íslenzkur fulltrúi þar til viðbótar 27 fulltrúum mundi einhverju breyta um vinnubrögðin þar á bæ, gera sig seka um hræðilegan barnaskap og leik að eldi.  Atburðir síðustu vikna ættu að hafa fært mönnum heim sanninn um, að í ESB eru ekki saman komnir neinir Íslandsvinir, þegar hagsmunaárekstrar verða, og að með aðild Íslands yrði tekin stórkostleg áhætta með fullveldisrétt Alþingis og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, sem bundið gæti komandi kynslóðum drápsklyfjar.  Þessi fullveldisréttur er eina brjóstvörn íslenzkra hagsmuna í viðsjárverðum heimi.  Án hans verður troðið á okkur miskunnarlaust.

Í þessari stöðu íslenzka þjóðfélagsins eru góð ráð dýr.  Það verður að láta reyna á það, hvort enn er hald í legu landsins, kæra Breta bæði fyrir ráðherraráði ESB og Nato og láta kné fylgja kviði, ef Nato guggnar á að refsa Bretum fyrir að beita hryðjuverkalögum gegn bandalagsþjóð.  Á sama tíma eigum við að taka upp að nýju samningaviðræður við Rússa um lántöku.  Réttindi til olíu-og gasleitar og-vinnslu eða forgangur til kaupa á olíu og gasi frá Drekasvæðinu og annars staðar úr íslenzkri lögsögu eru líka atriði, sem hægt er að egna fyrir orkuhungraða Evrópu.  Þjóðverjar hafa gefið fordæmi um náið samstarf við Rússa á þessu sviði með mikilli gaslögn á botni Eystrasalts í óþökk Pólverja, Eystrasaltslandanna, Svía o.fl.   

 

Atvinnuleysi í BNAMun aðgengilegra gæti reynzt að taka upp bandaríkjadal en evru.  Ekki er  vitað til, að Seðlabanki BNA setji nein skilyrði sambærileg Maastricht skilyrðunum.  Það er þó ótækt að ætla sér að varpa krónunni fyrir róða fyrir bandaríkjadal án samstarfssamnings við Seðlabanka BNA.  Að öðrum kosti gæti hæglega komið til peningaþurrðar hérlendis skömmu eftir skiptin.  Kosturinn við íslenzku krónuna er m.a. sá, að Seðlabanki Íslands ræður peningamagni í umferð, ræður afköstum seðlaprentsmiðjunnar.  Það er æskilegt að hafa tiltækt "Plan B", ef flotsetning krónunnar misheppnast.  Slíkt er t.d. fólgið í myntskiptum.  Ef flotsetning ætlar að verða of dýrkeypt miðað við nýja mynt, þarf að vera unnt að draga fram "Plan B". 

Eins og sést á grafinu hér fyrir ofan, vex atvinnuleysi nú hröðum skrefum í BNA og náði 6,5 % í október 2008.  Þetta er tvöfalt meira en nú er á Íslandi, en minna en í ESB.  Nú er talin vera veruleg hætta á verðhjöðnun ("deflation") bæði í BNA og í ESB.  Eftirspurn í hagkerfinu minnkar þá hröðum skrefum, og atvinnuleysi getur orðið hrikalegt við slíkar aðstæður.  Efsta myndin með þessari vefgrein er til marks um hjálparleysi hagfræðinnar andspænis vítahring verðhjöðnunar, sem t.d. Japönum hefur reynzt mikil þrautaganga að brjótast út úr.  Allir halda að sér höndum.  Þó að nafnvextir séu 0 %, geta samt verið háir raunvextir við þessar aðstæður.  Viljum við dragast inn í spíral af þessu tagi ?  Krónan getur hjálpað okkur við slíkar aðstæður.   

 


Valfrelsið

Við lifum á sögulegum tímum.  Peningakerfi landsins er hrunið, og efnahagskerfið á leið í djúpa og þungbæra kreppu.  Ekki má láta hjá líða að draga lærdóma af óförunum.  Til þess þarf greiningarvinnu, og ætlunin er stofna til sérstaks saksóknaraembættis til að fullnægja réttlætinu.  Ísland verður væntanlega ekki að alþjóðlegri fjármálamiðstöð á vorum dögum, og þykir sumum það reyndar bættur skaðinn, því að Íslendingum henti bezt að stunda framleiðslu á vörum.  Ættum við líklega að einbeita okkur að því í framtíðinni.

Allar fjölskyldur í landinu hafa orðið fyrir tilfinningalegu og fjárhagslegu áfalli.  Þjóðarstoltið hefur verið sært; þjóðin hefur upplifað vantraust á sig erlendis frá í kjölfar lausafjárþrots og þjóðnýtingar bankanna.  Þetta er heiðvirðum og grandvörum Litlu-Gunnu og Litla-Jóni þungbært tilhugsunar. 

Íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir margs konar alvarlegum áföllum í sögu sinni.  Nægir að nefna fall Þjóðveldis 1262, Svarta dauða 1402, aftöku Jóns biskups Arasonar og tveggja sona hans í Skálholti við siðskiptin 1550 og klaustur-og kirkjurán í kjölfarið, einveldissamþykkt á Kópavogsfundi undir vopnavaldi nýlenduherranna 1662, móðuharðindin og bóluna 1783-1786 og fall Skálholtsstóls eftir Suðurlandsskjálfta um 1786.  Eftir öll þessi áföll réttu forfeður okkar og formæður úr kútnum.  Var þó hver og einn þessara atburða alvarlegri og þungbærari en síðustu atburðir, þó að slæmir séu. 

Þegar eitthvað hrynur til grunna, myndast tækifæri til nýsköpunar og uppbyggingar.  Styrkur okkar nú er sá, að við höfum fullt valfrelsi til að fara þær leiðir til endursköpunar, sem okkur þóknast.  Ákveðið var að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Sum evrópusambandsríki sýna okkur nú sitt rétta andlit, sem hlýtur að fæla okkur frá að ganga í eina sæng með slíkum á stjórnlagasviðinu.  

Sagt hefur verið, að við stæðum nú betur að vígi innan ESB (Evrópusambandið) en utan.  Hvað er til í því ?  Þýzkaland hafnaði sameiginlegum björgunar aðgerðum gagnvart bönkum innan ESB.  Af þessum sökum er evran í uppnámi og hefur fallið mikið gagnvart USD.   Þjóðverjar tóku lítinn þátt í ævintýramennsku þensluskeiðsins 2003-2007.  Í Þýzkalandi bólgnaði húsnæðismarkaðurinn ekki út, og Þjóðverjar héldu aftur af launahækkunum á þessu tímabili.  Verðbólgan hjá þeim varð þess vegna minni en að jafnaði á evrusvæðinu.  Fyrir vikið dafnaði þýzkur útflutningsiðnaður, sumpart á kostnað hinna evrulandanna.  Þjóðverjar komu ekki til veizlunnar og neituðu þess vegna eðlilega að taka fjárhagslega ábyrgð á afleiðingum veizluhaldanna.  Það er barnaskapur að ímynda sér, að öðru máli hefði nokkurn tíma gegnt um Íslendinga en aðra, sem gerðu sig seka um vítavert gáleysi. Tómt mál er að tala um evru í þessu sambandi, því að skilyrðum um upptöku hennar höfum við aldrei fullnægt nægilega lengi.

Nú getum við valið um að stefna inn í ESB með það að markmiði að taka upp evruna, ef hún lifir núverandi kreppu af, í fjarlægri framtíð, þegar við höfum uppfyllt öll Maastricht skilyrðin, að efla EES samstarfið með nánara peningalegu samstarfi við Noreg, eða að yfirgefa EES, tengjast bandaríkjadal og reiða okkur meira á markaði utan Evrópu. 

Það er afspyrnu þröngsýnt sjónarhorn að sjá ekkert, nema inngöngu í ESB sem lausn á núverandi vandamálum.  Það er í raun og veru núna orðið úrelt stefnumið. Með afstöðu af því tagi minnir Samfylkingin meir á sértrúarsöfnuð en stjórnmálaflokk.  Fyrir vikið er hún vart gjaldgeng á stjórnmálavettvangi og tekin að minna á Fimmtu herdeild ESB hérlendis.

Hvað heldur kerfinu uppi ?Nú leggjum við upp í nýja vegferð.  Hvert ætlum við ?  Lísa í Undralandi spurði köttinn: "Hvaða leið á ég að fara" ?  Kötturinn svaraði: "Hvert ætlarðu" ?  Lísa hafði mjög óljósar hugmyndir um það.  Þá sagði kötturinn:"Ef þú veizt ekki, hvert þú ætlar, þá skiptir engu máli, hvaða leið þú velur". 

Við ætlum væntanlega að komast út úr þessari kreppu, eins fljótt og hægt er.  Þá ætlum við endilega að búa í þjóðfélagi stöðugleika og jafnra tækifæra.  Ennfremur viljum við, að allar vinnufúsar hendur fái hér störf við hæfi.  Það er einnig markmið í sjálfu sér, að ríkið verði skuldlaust innan aldarfjórðungs.  Þannig nýtast skattpeningar bezt og lánskjör verða bezt, þegar á erlendum lánum þarf að halda. 

Hagþróun þróunarríkja og þróaðra ríkjaESB fullnægir ekki öllum skilyrðum, sem hér eru sett.  Það mundi rýra mjög valfrelsi okkar okkar að lenda innan múra ólýðræðislegs fyrirbrigðis, sem stefnir að myndun sambandsríkis.  Hagvöxtur á Íslandi þarf að verða meir í líkingu við efri ferilinn (þróunarríkin) á hægra grafinu en þann lægri, sem sýnir hagvöxt þróaðra ríkja.  Við þurfum á öllum okkar auðlindum að halda til að knýja efnahagskerfið út úr kreppunni og til uppgreiðslu skuldanna.  Við getum ekki fórnað meiru af fullveldi okkar en þegar er raunin vegna hættu á, að ESB ríkin, með sitt hugarfar nýlendukúgara, læsi klónum í fiskimiðin eða orkulindirnar.  Hver er sjálfum sér næstur.

Leiðin að ofangreindu marki er að auka orkunýtingu, er jafngilda mundi tvöföldun núverandi raforkunotkunar, þannig að hún næmi allt að 30 TWh (T=Tera) árið 2025.  Þessi viðbótar orka, 15 TWh/a, yrði nýtt til þess að knýja samgöngutækin, sem væri gjaldeyrissparandi, og til alls konar iðnaðarframleiðslu.  Heimurinn mun kalla á þessar vörur, lönd ESB, BNA, Japan og þróunarlöndin. 

Það á eftir að koma í ljós, hvernig íslenzka krónan mun henta þessu hagkerfi, sem drifið verður áfram af útflutningsiðnaði.  Næstu 20 árin þarf gengisskráning að vera letjandi fyrir innflutning og hvetjandi fyrir útflutning.  Helzt þurfa Íslendingar sjálfir að stjórna genginu með þessa hagsmuni að leiðarljósi.  Það gerir enginn á þessari jörð annar en Seðlabanki Íslands.  Hann gerir það t.d. með tiltölulega lágum vöxtum og takmörkunum peningamagns í umferð til að draga úr verðbólgu. 

Hið nýja íslenzka hagkerfi þrífst ekki innan múra ESB.  Vettvangurinn er allur heimurinn.  Evran er ekki á dagskrá.   

 


Myntbandalag

Fjármálakreppa með hruni 85 % bankakerfis Íslands er nú að breytast í efnahagskreppu með fjöldaatvinnuleysi, þar sem 20 þúsund manns gætu misst vinnu sína.  Boðað er, að ríkissjóður verði rekinn með halla, sem nemur yfir 10 % af VLF (heildar landsframleiðsla) árið 2009.  Ekki hefur verið skýrt út, hvar á að taka lán fyrir þessum halla á tímum algerrar lánsfjárþurrðar innanlands og vantrausts erlendis.  Skattahækkun er óráð við geigvænlegum lausafjárskorti fyrirtækja og heimila.  Þingmenn verða að hætta þusi og masi um aukaatriði og bretta upp ermarnar til að skera niður halla ríkissjóðs.  Þar verður settur mælikvarði á þingið.

Halli ríkissjóðaLáni frá IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóður) er í megindráttum ætlað að styrkja peningamálastefnuna og fer í gjaldeyrisvarasjóðinn.  Því er ætlað hlutverk við að reisa krónuna við, en hún féll auðvitað um koll við hrun bankanna.  Takist þetta, mun verða verðhjöðnun í landinu. Taldar eru líkur á, að skuldir íslenzka ríkissjóðsins muni nema u.þ.b. 100 % af VLF á árinu 2009.  Eins og sést á myndinni hér til hliðar, skuldar ríkissjóður Japans um 170 % af VLF og ríkissjóðir Ítalíu og Grikklands um 100 % af VLF.  Skuldir íslenzka ríkisins yrðu ekki einsdæmi, en afar þungbærar og hagvaxtarhamlandi. Ríkissjóðir evru landanna skulda um 60 % af VLF að jafnaði, en eitt af Mastricht skilyrðunum fyrir upptöku evru er, að skuldir ríkissjóðs séu undir 60 % af VLF.  Það mun taka Ísland u.þ.b. einn áratug að ná þessu marki.  Þó að við kæmumst inn í ESB (Evrópusamband) á næsta ári, yrðum við engu bættari í peningamálum.  Að fara í samningaviðræður um inngöngu í ESB með allt á hælunum væri algert óráð, og fylgjendur þess sjónarmiðs gera sig seka um fullkomið óraunsæi, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið.

Orðstýr okkar Íslendinga í fjármálaheiminum hefur í Hrunadansinum beðið alvarlegan hnekki.  Þegar varaformaður Samfylkingar heldur því fram, að Íslendingum verði hleypt á sérskilmálum inn í myntbandalag Evrópu, komi þeir skríðandi á hnjánum inn í ESB, eins og Samfylking boðar, fer hann með fleipur eitt.  Lítil eru geð guma og furðulegt, að Samfylkingin skuli kosta öllu til að gera Ísland að hjáleigu í stórríki Evrópu, sem forkólfar ESB stefna að með Lissabon sáttmálanum (ný stjórnarskrá).  Með þessari glæfralegu stefnu sinni, sem minnir á læmingja, sem hlaupa fyrir björg, mun þessi undarlegi stjórnmálaflokkur á endanum mála sig út í horn í íslenzkum stjórnmálum.

Segja má, að vel hæfi skel kjafti, þar sem fara formaður og varaformaður Samfylkingar.  Formaðurinn, sem jafnframt gegnir embætti utanríkisráðherra landsins og fékk sem slík nýlega einkunnina 2,4 í frammistöðumati, er fram fór undir heitinu "Framboð til Öryggisráðs SÞ", hefur nú farið í ham Gróu á Leiti, og er tekin til við að lepja upp gróusögur og lágkúrulegan óhróður um formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, eins og getur á að líta í viðtali við "Gróu" í Morgunblaðinu laugardaginn 1. nóvember 2008.  Nú vill svo til á ögurstundu í sögu íslenzka lýðveldisins, að téðu starfi í seðlabankanum gegnir maður, sem er karl í krapinu. Má því fullyrða, að Íslands óhamingju verði ekki allt að vopni.  Samfylkingin stefnir hins vegar augljóslega að því að koma þar að væskli eða lufsu, strengjabrúðu undir slikju "fagmennsku", sem ráðherrarnir geta fjarstýrt.  

Þessi framganga Samfylkingar er alger dónaskapur, því að Seðlabanki lýtur forræði forsætisráðherra.  Til þess eru refirnir skornir hjá þessum skrýtna flokki með þráhyggjuna, að beina athyglinni frá bankamálaráðherra, sem í undangengnum mánuði tók próf og hlaut 1,5, er 15 % bankakerfisins, sem lýtur forsjá hans, stóð eftir.  Hægt er að halda þessari einkunnagjöf áfram til handa ráðherrum undirmálsflokksins.  Garmurinn  í Iðnaðarráðuneytinu fær 0,0, því að engu framfaramáli hefur hann komið í höfn, enda fóru allir kraftar í gandreið um heiminn á vegum útrásar, þegar hann átti að búa í haginn á Íslandi.

Norskir Stórþingsmenn, m.a. fulltrúar í fjárlaganefnd, hafa gefið til kynna, að þeir séu fúsir að ræða við stjórnvöld á Íslandi um náið samstarf.  Slíkt gæti gagnazt Íslendingum mjög við að flýta viðreisn efnahagslífsins, sem nú er ein rjúkandi rúst eftir peningafursta og útrásarberserki.  Slík flýting skiptir öllu máli fyrir þúsundir fjölskyldna.  Við bankahrunið rýrnaði traustið á gjaldmiðli okkar, og hefur þurft minna áfall í öðrum löndum til að veikja gjaldmiðla.  Þess vegna yrði það viðreisninni mikill styrkur, ef samstarf við Noreg yrði unnt að þróa yfir í myntbandalag, þar sem íslenzka krónan yrði tengd hinni traustu norsku krónu.  Noregur mundi bregða yfir okkur huliðshjálmi trausts á meðan við værum að ávinna okkur það með dugnaði, heiðarleika og ráðdeild, sem ættu að verða aðalsmerki siðbætts markaðshagkerfis á Íslandi, enda okkur flestum í blóð borin.  

Óhætt er að mæla með lestri greinar Edmunds S. Phelps, prófessors í hagfræði við Columbia háskóla í New York, sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 29. október 2008, bls. 21, undir fyrirsögninni "Hvers konar hagkerfi ?".  Nú standa Íslendingar á tímamótum, eins og sigruð þjóð eftir styrjöld, og þurfa að móta sér ný stefnumið.  Þá er gott að leita í smiðju til manna á borð við prófessor Phelps: "Þegar þjóð velur sér hagkerfi, hlýtur hún fyrst og fremst að velta því fyrir sér, hvernig lífi hún vilji lifa." Enn skrifar Phelps: "Ég hef oft haldið því fram, að kjarni þess lífs, sem gefur okkur hvað mesta hamingju, felist í tækifærum til þess að ná árangri; takast á við ögranir og sigrast á þeim; að læra af reynslunni og þroskast sem manneskjur í lífi og starfi."  Og þá kemur Phelps að vali hagkerfis. "Ef gott líf gefur tækifæri til þess að læra, þroskast og uppgötva hæfileika sína, láta frjálsan vilja stjórna athöfnum sínum og takast á við ögranir, þá er ljóst, að gott hagkerfi er það hagkerfi, sem gefur einstaklingunum tækifæri til slíks."  Prófessor Phelps, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, mælir með markaðshagkerfi og færir sterk rök fyrir þeim meðmælum í tilvitnaðri grein sinni. 

Veitum aðhald, krefjumst siðbótar fremur en siðskipta, stöndum vörð um áunnin landsréttindi.  Byltingin étur börnin sín.

 

 

  

 

 


Annus Horribilis

Þegar spurningin um það, hvort íslenzkir skattborgarar eigi að gangast í ábyrgð fyrir innistæður einkabanka á erlendri grundu, er vegin og metin, er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt sé að láta lagabókstafinn vega meir en skoðun ráðherra, þingmanna eða almennings erlendis.  Íslendingar spiluðu rassinn úr buxunum, en þeir spiluðu engu að síður eftir leikreglum evrópska efnahagssvæðisins, EES, sem í þessu tilliti eru reglur Evrópusambandsins, ESB.  Ekki er vitað til, að þar séu nokkur ákvæði um, að ríkissjóður heiSkuldir ríkis af VLFmalands alþjóðlegra banka skuli baktryggja innistæður á erlendri grundu, enda hlyti Fjármálaeftirlitið (FME) þá fyrir löngu að hafa gripið í taumana. 

Nú hefur verið upplýst, að jafnaðarmennirnir Björgvin og Darling, sem stjórna ráðuneytum bankamála og fjármála í löndum sínum, hafi átt með sér fund í Lundúnum 2. september 2008, sem sá síðar nefndi hefur vitnað til með dularfullum hætti.  Brýnt er, að gjörðabók þessa fundar verði birt hið snarasta til að taka af allan vafa um, hvor jafnaðarmannanna fer nú með fleipur.   Ætla má, að korni illinda landanna tveggja nú hafi verið sáð á þessum fundi í kumpánlegu hjali jafnaðarmannanna.  Eftir stendur, að nú sýna þessir jafnaðarmannaflokkar Íslands og Stóra-Bretlands sitt rétta andlit, þar sem sá íslenzki virðist hafa tilhneigingu til að bogna í hnjánum gagnvart systurflokkinum.  Þeir skirrast ekki við að bera hagsmuni Litlu-Gunnu og Litla-Jóns á Íslandi fyrir borð.

Allar aðstæður í alþjóðamálum eru nú að umturnast við tap á fé vogunarsjóða, sem nemur upphæðum, sem eru hærri en nemur verðmætum allrar árlegrar heimsframleiðslu eða yfir 60 trilljónum bandaríkjadala.     Brezka fjármálakerfið, "City of London", sem er hið stærsta í Evrópu og jafnvel stærra en "Wall Street" í BNA, er í miklum vandræðum og hefur þegar þegið mikinn ríkisstuðning frá jafnaðarmönnum í ríkisstjórn Stóra-Bretlands.  Við þessar aðstæður hefur þessi sama ríkisstjórn gert út af við íslenzka bankakerfið og þar með gert atlögu að fjárhagslegu sjálfstæði Íslands, og gerir nú ósvífna og hrottafengna tilraun til fjárkúgunar á íslenzku þjóðinni.  Komist jafnaðarmennirnir upp með allt þetta, hneppa þeir þar með íslenzku þjóðina í ánauð í aldarfjórðung.  Grafið hér að ofan af skuldum ríkissjóðs sem hlutfalli af VLF (heildar landsframleiðslu) sýnir, að á árabilinu 1996-2000 voru skuldirnar lækkaðar um 4 % af VLF á ári.  Nemi skuldir landsins af völdum brezku ríkisstjórnarinnar 100 % af VLF, þegar upp verður staðið, gæti tekið okkur aldarfjórðung að greiða þær.   Fari allt á versta veg, verður þetta meiri klafi á hvert mannsbarn á Íslandi en lagður var á hvern ríkisborgara Weimarlýðveldisins með Versalasamningunum 1919 eftir ósigur Vilhjálms 2. Þýzkalandskeisara í heimsstyrjöldinni 1914-1918.   Þessi aðör brezkra jafnaðarmanna að sjálfstæði Íslands, sem þeir hafa fylgt eftir með stöðvun gjaldeyrisflutninga til og frá Íslandi til að kúga okkur til hlýðni, er með þeim hætti, að Ísland getur aðeins fallizt á að greiða lágmark, sem lög og reglur kveða á um. 

Að slíkum ákvörðunum teknum þarf að hefja gagnsókn.  Sækja gegn brezkum jafnaðarmönnum í mögnuðu áróðursstríði á öllum vígstöðvum og draga þá að lokum fyrir dóm fyrir að hafa valdið Íslendingum feiknartjóni með því að fara offari gegn Landsbankanum og Kaupþingi.  Brezki Íhaldsflokkurinn mun snúast á sveif með Íslendingum, og dagar Skotans í Downingstræti 10 og Marxistans fyrrverandi við hliðina munu verða taldir í "Whitehall". 

Auðvaldsskipulagið í heiminum er að hruni komið.  Árangursríkasta samfélagsskipan manna hingað til er að drepast úr innanmeini.  Auðvaldsseggirnir eitruðu auðvaldskerfið.  Ríkisstjórnir, þingin, seðlabankar og fjármálaeftirlit heimsins hafa fyrir löngu dregizt aftur úr og botnuðu ekkert í því lengur, hvernig kerfið virkaði.  Sífellt nýjar fjármálaafurðir sáu dagsins ljós og vogunarsjóðir voru látnir óáreittir við athæfi sitt.  Fjárglæfrar voru stundaðir, og það er grundvallar atriði hefðbundins auðvaldsskipulags í anda Johns Lockes og Adams Smiths, að menn gjaldi mistaka sinna og misgjörða og njóti að sama skapi heiðarlega fengins ávinnings í sveita síns andlitis.  Svo kann að fara, að fallkandidatar íslenzka auðvaldsins þurfi einnig að svara til saka fyrir íslenzkum dómstólum. 

Stórfelldur ríkisrekstur blasir við í flestum löndum heims næstu misserin.  Sameignarsinnar og jafnaðarmenn munu reyna að þvælast fyrir nýrri einkavæðingu í lengstu lög.  Þeir geta þó ekki bent á nein dæmi þess, að opinber rekstur hafi skapað þegnunum meiri hagsæld en einkarekstur.  Við eigum val á milli hafta og stöðugrar fátæktar undir oki ríkisumsvifa, sem nema yfir 50 % af VLF annars vegar og auðsældar áratugum saman fram að næstu kreppu hins vegar, sem því miður verður ekki umflúin, nema stökkbreyting verði á "homo sapiens".

Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðismenn komu í veg fyrir, að útblásnir útrásarmenn næðu tangarhaldi á Orkuveitu Reykjavíkur með REI ævintýrinu.  Ýmsir Sjálfstæðismenn vöruðu við hættunni, 6 borgarfulltrúar flokksins lögðu við hlustir, og Framsóknarflokkurinn sleit meirihluta samstarfinu í borgarstjórn að lokum og gekk til liðs við sameignarsinna og jafnaðarmenn til að þóknast úrásarjöfrum.    Þessir aðilar dásömuðu allir kosti þess fyrir Reykvíkinga að eiga hlut að útrás og deildu hart á Sjálfstæðismenn fyrir andstöðu við "Casino" kerfið.  Iðnaðarráðherra jafnaðarmanna lék undir feigðarflanið á hörpu sína og fór gandreið til fjarlægra "fjárfestingartækifæra", þar sem engum hafði dottið í hug að fjárfesta áður.  Allt naut þetta velþóknunar og örvunar forseta lýðveldisins, sem er af og kanski enn á vinstri kantinum.  Ekki má gleyma því, að Framsóknarflokkurinn ber stjórnskipulega ábyrgð á framkvæmd einkavæðingar bankanna, þar sem hún fór fram með viðskiptaráðherra úr Framsóknarflokkinum í ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins. 

Það er þess vegna hjákátlegt, og jafnvel nálegt, þegar andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gefa til kynna, að stefna Sjálfstæðisflokksins hafi beðið skipbrot með falli frjáls markaðar á Íslandi.  Sjálfstæðisflokkurinn gerði tilraun til að hefta ofurvald auðjöfranna með svo nefndu "fjölmiðlafrumvarpi" á sinni tíð.  Alþingi samþykkti reyndar frumvarpið, en forseti lýðveldisins braut þetta andóf flokksins á bak aftur. 

Að skella skuldinni af hruni auðvaldsskipulagsins á Sjálfstæðisflokkinn og stefnu Sjálfstæðismanna um einstaklingsfrelsi og einkaframtak í öndvegi er álíka gáfulegt og að ásaka vegagerðarmenn um slysafaraldur í umferðinni.  Hitt er annað mál, að nýja vegi verður nú að hanna með nýjum hætti. 

  

 

 


Váfugl

Óheillakráka BretaÍslendingar hafa illilega orðið fyrir barðinu á djúpstæðri tortryggni og fjandsamlegri hegðun yfirvalda vestrænna ríkja undanfarnar vikur.  Viljum við á grundvelli þessarar reynslu afsala okkur stjórnmálalegu sjálfstæði og fullveldi landsins í hendur afla af því sauðahúsi, sem leikið hefur okkur svo grátt, að jafna má við uppgjafarskilmála gagnvart sigraðri þjóð ?  Svarið er, að við viljum eiga friðsamleg, menningarleg og viðskiptaleg samskipti við allar þjóðir Evrópusambandsins, en auðlindir lands og sjávar og fullveldi Alþingis ætlum við að ríghalda í fram í rauðan dauðann. 

Í núverandi stöðu kann yfirlýsing af þessu tagi að hljóma, eins og andi Jóns Hreggviðssonar sé tekinn að svífa yfir vötnunum.  Nú er hins vegar þannig komið þjóðinni, að grípa þurfi næsta hreintarf og ríða á honum yfir firnindin í leit að rollum búsins.  Þannig er sjálfsagt að láta reyna á það til hlítar, hvort Rússar eru tilkippilegir.  Það fjarar að vísu hratt undan þeim á efnahagssviðinu um þessar mundir, vegna þess að þjóðartekjur þeirra eru reistar á útflutningi eldsneytis, sem hríðlækkar í verði í kreppunni. 

Við þessar aðstæður er nöturlegt að frétta, að bandarískur sjóður hefur boðizt til að taka Landsvirkjun á leigu og greiða fyrirfram einhvern áætlaðan hagnað hennar í 10-20 ár.  Þessi viðskiptahugmynd minnir á tillögu eins Samfylkingar þingmannsins í blaðagrein fyrir fáeinum vikum um svipað efni.  Hugmyndin er fráleit m.a. af því, að 80 % af orkusölu Landsvirkjunar er bundin í langtímasamningum.  Hagnaður þessa vesturheimska sjóðs yrði þá fólginn í því að okra á Litlu-Gunnu og Litla-Jóni; nýta sér það, að raforkuverð til almennings er lægra á Íslandi en víðast hvar annars staðar. 

Festung EuropaÍ aðdraganda heimskreppunnar hriktir í Evrópusambandinu (ESB).  Samstaðan hefur ekki verið upp á marga fiska, og ástandið þar á bæ mun versna.  Fyrsta fórnarlamb þrenginganna er svo nefnt 3 x 20 markmið ESB, sem fjallar um 20 % minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda m.v. 1990 og 20 % sjálfbæra orkunotkun af heildar orkunotkun árið 2020.  Miðað við bágborna stöðu ESB í umhverfisverndarmálum erum við Íslendingar í öfundsverðri stöðu. 

Næsta fórnarlamb kreppunnar kann að verða evran sjálf.  Hún var tekin að sýna veikleikamerki áður en ósköpin dundu yfir.  Hugmyndafræðingar innri markaðarins reiknuðu ekki með, að núverandi staða gæti komið upp.  ESB skortir þess vegna stjórntæki til sameiginlegra viðbragða.  "Stjórnarskránni" eða Lissabon samninginum var ætlað að færa hinni ólýðræðislegu framkvæmdastjórn þetta vald.  Þess vegna er það nú rætt á göngum ESB-skrifstofanna í Brussel að þvinga Íra að kjörborðinu í október 2009.  Þetta jafngildir því að færa forsætisráðherra Íra viskýflösku og skammbyssu og segja honum að gera það, sem gera þarf. 

Hvaða áhrif mun kreppan hafa á stjórnmálin ?  Því er spáð, að þau muni pólast, þ.e.a.s. að öfgaflokkum til hægri og vinstri muni vaxa ásmegin.  Þetta kann að birtast með einkar skýrum hætti í næstu kosningum til Evrópuþingsins, sem munu verða árið 2009.  Ein stjórnkerfisbreytinga Lissabon sáttmálans átti að vera að auka völd þingsins vegna þess lýðræðishalla, sem flestum er ljóst, að er á núverandi stjórnkerfi.  Gangi hann í gegn, og öfgamenn ná tökum á þinginu, verður ESB óstarfhæft og splundrast.

Þann 16. október 2008 kom út skáldsagan Váfugl eftir Hall Hallsson.  Bókin fjallar um framtíðina á Íslandi eftir miðja 21. öldina.  Hugsjónamenn berjast þá fyrir sjálfstæði landsins með því að reyna að losa það úr ríkjasambandi Evrópu.  Hér er um mjög áhugaverðar vangaveltur  hugmyndaríks rithöfundar með mikla sagnfræðilega þekkingu í farteskinu að ræða.  Eins og nú standa sakir blæs ekki byrlega fyrir ESB.  Miklir kraftar togast á um stefnumörkun ESB.  Frá því á 20. öld hafa verið uppi miklir draumar um sameinaða Evrópu.  Gerðar voru tvær misheppnaðar tilraunir með járni og blóði, en á 21. öldinni hefur evran verið tækið.  Hvort hún stenzt væntanlega áraun kreppunnar skal efast um.  Í öllum ESB löndunum eru uppi efasemdir um réttmæti og nytsemi hins yfirþjóðlega valds, og hér skal hafa uppi þá kenningu, að slík sjónarmið muni magnast og setja mark sitt á þróun Evrópu samstarfsins.  Þjóðirnar eru allar andsnúnar einu Evrópuríki.  Innri markaðurinn mun standa, en evruna skortir hryggjarstykkið, eitt ríkisvald, til að þrífast á erfiðleikatímum. 


Brezka ljónið í vígahug

Undanfarnar tvær vikur hefur fjárhagur Íslendinga orðið fyrir meira tjóni en nokkurn gat órað fyrir á svo skömmum tíma.  Hér hafa gengið yfir móðuharðindi af manna völdum.  Engan gat heldur órað fyrir því, ríkisstjórn Stóra-Bretlands mundi ráðast á Íslendinga, þegar þeir áttu í vök að verjast, og greiða stærsta banka þeirra náðarhöggið, einmitt þegar Seðlabanki Íslands hafði varið stórfé í tilraun sinni til að halda eina eftirlifandi alþjóðlega banka landsins á floti.  Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Stóra-Bretlands beittu lúalegum brögðum og spörkuðu í Íslendinga, þegar þeir komu engum vörnum við.  Hér er um að ræða ráðherra Verkamannaflokksins brezka, sem Samfylkingin á Íslandi telur til systurflokka sinna.  Fjármálakerfi Bretlands er hið stærsta í Evrópu, og það er rótgróið.  Ráðherrum Samfylkingarinnar brezku mátti vera ljóst, að með innistæðulausu og óábyrgu tali sínu á opinberum vettvangi mundu þeir vekja ugg í brjósti innistæðueigenda, sem leiða mundi til stórfellds fjárflótta  frá Kaupþingi í Lundúnum.  Níðangursleg árás brezka fjármálaeftirlitsins á bankann kórónaði verknaðinn.  Þessir tveir ráðherrar brezku Samfylkingarinnar hafa með dólgslegu framferði sínu bakað brezkum skattborgurum stórfellda skaðabótaábyrgð.  Þegar Íslendingar hafa sleikt sár sín, er ekki um neitt annað að ræða fyrir þá en herja á England að hætti þeirra bræðra, Þórólfs og Egils Skallagrímssona. 

Þetta er þeim mun leiðinlegra sem Bretum og Íslendingum verður yfirleitt vel til vina.  Bretar eru þægilegir í viðkynningu, og það er margt líkt í fari Íslendinga og Breta.  Samt er það svo, að sögulega séð hefur oft kastazt í kekki með Bretum og Íslendingum.  Hefur þá jafnan verið um hagsmunaárekstra að ræða.  Í þetta sinn urðum við hins vegar fórnarlömb stjórnmálaátaka á Bretlandi.  Brezka Samfylkingin er rúin trausti, enda stöðvaðist hagvöxtur á Bretlandi á 2. ársfjórðungi, og brezkt efnahagslíf hefur síðan verið á samdráttarskeiði.  IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) telur lakasta efnahagsárangurinn verða á Bretlandi af öllum þróuðum ríkjum á 12 mánaða tímabilinu fram að 4. ársfjórðungi 2008.  Forkólfar brezku Samfylkingarinnar sáu sér við þessar aðstæður leik á borði að búa til blóraböggul handa þjáðum Bretum.  Með þessu fórnuðu þeir með köldu blóði feiknar verðmætum Íslendinga. 

 

Hagþróun heimsinsHér til hliðar er mynd, sem sýnir þróun landsframleiðslu frá 2000 - 2008 og spá fyrir árið 2009.  IMF spáir 0,5 % hagvexti í ríku löndunum árið 2009.  Nú eru jafnvel talin vera ýmis teikn á lofti um, að þá muni verðhjöðnun halda innreið sína sums staðar.  Þegar vörur verða ódýrari á morgun en í gær, hefur mikilvægur hvati viðskipta verið fjarlægður, og er þetta hið versta ástand. 

Ekki verður skilizt við söguvettvang á Íslandi án þess að færa tveimur mönnum þakkir fyrir stórkostlegt framlag þeirra til að bjarga Íslandi úr bráðum voða skuldasúpunnar, sem "óreiðumenn" höfðu hlaðið með von um að fá að njóta starfskrafta þeirra áfram.  Forsætisráðherra lyftir Grettistaki undir óhemju vinnuálagi.  Á formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands hvílir einnig gríðarlegt álag og ábyrgð, sem hann rís undir með miklum sóma.  Báðir gefa þeir sér tíma til að tala til þjóðar sinnar á örlagastund. 

Sérstaklega er vert að þakka seðlabankastjóra fyrir afar skilmerkilega og skýra greiningu á flókinni stöðu, sem kom á hárréttum tíma í Kastljóss viðtali í liðinni viku.  Á grundvelli skarplegrar greiningar lýsti hann stefnu, sem bankastjórnin hafði mótað til að bjarga þjóðinni frá örbirgð og klafa, sem hefði komizt í samjöfnuð við helsi Versalasamninganna á Þjóðverjum árið 1919.  Hið mikilvægasta af öllu: hann gaf Litlu-Gunnu og Litla-Jóni von. 

Hvernig yfirborðslegir "álitsgjafar" og óáheyrilegir þingmenn Samfylkingarinnar á Íslandi hafa sokkið ofan í lágkúrulega og frámunalega illa grundaða gagnrýni á seðlabankastjóra hefur ekki aukið hróður þeirra við núverandi aðstæður, þegar sjálfstæðismenn berjast á öllum vígstöðvum.  Við þessar aðstæður stndar  Samfylkingin á Íslandi það helzt að mála skrattann á vegginn.  Slíkt framferði er háskaleikur, og púðurkerlingin getur hæglega sprungið fram í þá, sem slíkan leik stunda.   


Þrumulostin þjóð

heimiliskakan2008Hrun íslenzka fjármálakerfisins mun leiða til lífskjararýrnunar þjóðarinnar, sem jafnast á við afturhvarf til fortíðar um áratugi.  Við sogumst ofan í kreppuástand, sem á sér nokkrar rætur.  Í fyrsta lagi er um að ræða illvígari alþjóðlega lánsfjárkreppu en dæmi eru um áður.  Hún á upptök sín í ríkistryggðum íbúðalánasjóðum Bandaríkjanna, Freddy Mac og Fanny Mae.  Ríkisstjórn Bill Clintons beitti þeim til að fjölga húsnæðiseigendum í BNA.  Hún hvatti fjármálastofnanir til að slaka á eðlilegum viðskiptakröfum og draga úr kröfum sínum um tryggingar.  Þannig komu undirmálslánin ("Sub Prime") undir að tilstuðlan ríkisins.  Lánavöndlar, þar sem undirmálslánum var pakkað í fagrar umbúðir, voru seldir um allan heim.  Það er hald manna, að upphæð þessara undirmálslána nemi a.m.k. 3 trilljónum Bandaríkjadala.  Því miður mun síðasta samþykkt Bandaríkjaþings um USD 0,7 trilljónir til að hreinsa ófögnuðinn út úr kerfinu engan veginn hrökkva til þess, og efnahagskerfi heimsins mun sökkva enn dýpra ofan í hrikalegan öldudal. 

Önnur ástæða þessa alvarlega ástands er ódýrt lánsfé síðast liðinn áratug, sem leitt hefur til mikils framboðs og eftirpurnar.  Ráðstöfun þessa fjár hefur í mörgum tilvikum verið fullkomlega glórulaus, og vel hefur sannazt, að margur verður af aurum api.  Gömul búhyggindi um að safna fyrningum til mögru áranna hafa verið látin lönd og leið.  Grænjaxlar hófu ótrúlegar sjónhverfingar, en nú er tjaldið fallið, og sýningunni er lokið.  Út gengur hnípin þjóð í vanda og telur sig með réttu hafa verið svikna.

Þriðja ástæðan fyrir því, að hjól efnahagslífsins í heiminum eru að stöðvast, er hin gríðarlega orkuverðshækkun á tímabilinu 2006-2008, sem ekkert efnahagskerfi ræður við. 

Þessar 3 ástæður leggjast leggjast allar á eitt.  Þær munu valda heimskreppu á þessu og næsta ári, og þjóðir heims munu verða lengi að ná sér eftir þetta.  Þróun fraktverðsTil merkis um niðursveifluna er grafið myndinni hér til hliðar, sem sýnir þróun á flutningsverði með stórskipum.  Verðið hefur hrunið, og í kjölfarið mun fylgja hrun hráefnisverðs, eldsneytis, málma og matvöru. 

Hvað gerir ríkisstjórn Íslands við þessar aðstæður ?  Hún leggur fram fjárlagafrumvarp með 60 milljarða króna halla fyrir árið 2009.  Þetta jafngildir um 5 % af VLF, sem er mjög hátt hlutfall.  Engu er líkara en ríkisstjórnin lifi í öðrum heimi.  Hefur hún ekki heyrt af alþjóðlegri lánsfjárkreppu ?  Hvernig ætlar hún að fjármagna þennan gegndarlausa halla, sem m.v. hefðbundin lausatök á ríkisfjármálunum getur endað í 100 milljörðum króna ?  Ríkisstjórnin er með þessu að boða baráttu við fyrirtæki og einstaklinga um molana, því að lánsfjárþurrð verður ríkjandi allt næsta ár.  Alþingi verður að horfast í augu við vandann og reyna að koma saman hallalausum fjárlögum.  Þessi gríðarhalli magnar vandann, og það er algert ábyrgðarleysi. 

 

Þróun ríkisútgjaldaEf farið verður að vilja Samfylgingar og leitað á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, eða menn fara tötrum klæddir með betlistaf í hendi til Brussel til að kasta sér í faðm Evrópusambandsins, verðum fyrsta krafan frá báðum hvort eð er að ná jafnvægi í ríkisbúskapinum. 

Það lak út af ríkisstjórnarfundi, að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hefði þar látið í ljós, að væri einhvern tíma þörf á þjóðstjórn, væri það nú.  Gallinn við þessa tillögu er, að hún kemur þremur mánuðum of seint.  Nú er enginn tími til að fara í stjórnarmyndunar viðræður.  Sá tími kann hins vegar að koma, þegar um hægist, og það er ekki auðvelt að sætta sig við, að varaformaður Sjálfstæðislokksins setji ofan í við seðlabankastjóra vegna hugmyndar, sem trúnaður átti að ríkja um.  Gjamm Samfylkingar í garð formanns bankastjórnar seðlabankans er illþolandi.  Það gildir um hann, eins og forsætisráðherra, að þjóðin má þrátt fyrir allt hrósa happi í ógöngum sínum að njóta leiðsagnar þessara manna. 


Í afvötnun

Efnahagskerfi heimsins eHlutabréfamarkaðurinnru á barmi glötunar.  Svarthol upp á 3 trilljónir bandaríkjadala hefur myndazt í efnahagskerfi heimsins.  Innan við þriðjungur þess hefur verið hreinsaður út.  Þetta tengist ofboðslegri þenslu fjármálageirans víðast hvar í heiminum á tímum ódýrs fjármagns, sofandaháttar yfirvalda, sem ábyrgð bera á peningamálum og ríkisfjármálum heimsins og sífellt meiri tilhneigingar fjármálamanna til fjárglæfra.  Bandaríska ríkisstjórnin og Seðlabanki Bandaríkjanna reyna að klóra í bakkann og biðja þingið um USD 700 mia í björgunarsjóð, sem er innan við helmingur þess, sem á eftir að fara í súginn.  Við þessar aðstæður er mikið álitamál, hvort fórna á skattpeningum á altari fjármagnsins.  Við þessar aðstæður stígur formaður Samfylkingar á sviðið og virðist ofarlega í huga að hefja ofsóknir, einhvers konar nornaveiðar, gegn íslenzkum fjárfestum og bankamönnum.  Hún varpar fram ósmekklegustu yfirlýsingu stjórnmálamanns, til lausnar vandans væntanlega, sem lengi hefur heyrzt, að fjárfestar í landinu hafi hagað sér eins og áhættufíklar og þá þurfi nú að senda í afvötnun og endurhæfingu.  Þetta er afar grunnfærin greining á vandamálinu, sem einskis manns vanda leysir.  Allt þetta fólk, sem er í skotlínu utanríkisráðherra, ber ábyrgð gagnvart öðrum en stjórnmálamönnum, guði sé lof.  "Lausnir" sem þessar á þjóðfélagsvanda hafa ekki verið boðaðar síðan á dögum Mao, formanns, og Kremlarbóndans, alræmda, Georgíumannsins Jósefs Stalíns. 

Þó að hlutur sumra fjárfesta sé ófagur, verðskulda þeir þó varla Gúlag af nokkru tagi eða valdboðna endurhæfingu.  Fjárplógsmenn keyptu sig inn í fyrirtæki til að sundra þeim eða mergsjúga.  Það er löglegt, en siðlaust athæfi að gera vinnustaði að leiksoppi ævintýramennsku fámennrar klíku.  Gott fyrirtæki sameinar tvennt.  Það býr vel að starfsfólki sínu í aðbúnaði og gerir vel við það í launum um leið og starfsemi þess er nægilega arðsöm til að unnt sé að greiða eigendum þess, hluthöfunum, arð í samræmi við áhættu og vexti á markaðinum.  Mjög hæpið er hins vegar, að stjórnvöldum, embættismönnum, stjórnmálamönnum og eftirlitsstofnunum þeirra, sem eru mun seinlátari og í alla staði daufari en einkarekið athafnalífið, sé treystandi til bragarbótar á þessum athöfnum.   

Þegar athafnalífinu er líkt við mannslíkama, er fjármálakerfið stundum sagt vera heilinn.  Það er vegna þess, að lögmál fjármálanna stjórna fjárfestingunum og annarri ráðstöfun fjármagns.  Hillist embættis-og stjórnmálamenn núna til þess að fjötra fjármálakerfið, mun það leiða til lakari ráðstöfunar fjármagns og þar með lægri ávöxtunar.  Þetta athæfi væri glapræði, enda mundi það leiða til minni hagvaxtar og minni atvinnu, og þar með yrði minni kaka til skiptanna fyrir Litlu-Gunnu og Litla-Jón. 

FjármálamarkaðirFjármálafyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki á markaði, stunduðu viðstöðulausa vöruþróun til að auka markaðshlutdeild sína.  Það var gert með stærðfræðinga og aðra raunvísindamenn innan borðs, sem beita áttu beztu þekktu aðferðum til að draga úr áhættu vinnuveitenda sinna.  Þegar nóg framboð er á ódýru fjármagni er skiljanlegt, að þróunin á þessu sviði leiði samt til þess, að tekin sé stöðugt meiri áhætta.  Afleiðingar eignabólunnar má sjá á grafinu hér til hliðar um hrun hlutabréfamarkaðar og flótta fjármagnsins í gullið.   

Það er sammerkt öllum kreppum, að undanfarinn er mikil efnahagsbóla, sem lýsir sér í hækkun fasteigna langt umfram eðlilegar markaðsaðstæður og gríðarlegri hækkun hlutabréfa.  Öll þessi bóla er knúin áfram af ódýru fjármagni.  Á tímum heimsvæddra viðskipta leitar mikið fjármagn eirðarlaust heimshornanna á milli í leit að meiri ávöxtun.  Umfang vandans er þess vegna sumpart afsprengi tækniþróunar í höndum misviturra manna. 

Ef þessi greining er rétt, þá hefur vaxtastig seðlabanka almennt verið of lágt á undanförnu þensluskeiði.  Það á augljóslega við um "Federal Reserve" eða Seðlabanka BNA, enda hefur sá seðlabanki þrígreint markmið, þ.e. að hámarka hagvöxt, að vinna gegn atvinnuleysi og að viðhalda stöðugleika. 

Ef einhvern aðila á að senda í endurhæfingu, þá eru það stjórnvöld um allan heim.  Hvergi stóðu þau á bremsunum, þegar eignirnar bólgnuðu út, heldur helltu sums staðar olíu á eldinn.  Stjórnvöld um heim allan eru nú, eins og allir aðrir, að læra sína lexíu.  Stjórnvöld bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála.  Þáttur í að viðhalda stöðugleika er að grípa í taumana, ef efnahagskerfið er að síga niður í verðhjöðnun, sem er verri en verðbólga, eða að tútna óeðlilega út.  Ef stjórnvöld telja sig ekki hafa tæki og tól í þetta, verður löggjafinn að útvega þeim þau.  Þetta er sá lærdómur, sem t.d. Vesturlönd munu draga af því ófremdarástandi, sem nú hrjáir efnahagskerfi þeirra. 

Ógæfuleg Þórðargleði sameignarsinna gagnast engum, en veitir þeim sjálfum stundarfró.  Dæmi um þetta gat að líta í Morgunblaðinu 18. september 2008 í greininni, "Ragnarök nýfrjálshyggjunnar".  Þar brennur eftirfarandi spurning heitast í muna formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi: "Hvað erum við að upplifa þessa dagana ?  Eru það ekki ragnarök nýfrjálshyggjunnar, hins óhefta græðgiskapítalisma, sem á endanum er að kollsigla sjálfan sig ?"  Vonarneisti hefur kviknað í hjarta sameignarsinnans um, að auðvaldskerfið sé að líða undir lok.  Þegar þessi sameignarpostuli hefur um nokkra hríð gælt við afhroð auðvaldsins, kemur rúsínan í pylsuendanum, byltingin með þjóðnýtingu athafnalífsins og alræði öreiganna:"Nú, þegar þessi ragnarök nýfrjálshyggjukapítalismans ganga yfir, er stóra spurningin, hvort ekki sé lag.  Svo notað sé gamalt, en gott orðalag: að manngildið verði á nýjan leik sett ofar auðgildinu og samfélag mannsins sjálfs í öndvegi, en ekki einir saman gróðahagsmunir fjármagnseigenda og þeirra, sem braskað hafa með annarra fé eða myndað froðugróða í sýndarheimi afleiðu-, vafninga-og lánsviðskipta." 

Hér er umbúðalaust talað um að reisa ríki sameignarsinna á rústum auðvaldsskipulagsins.  Þetta gæti e.t.v. þessi formaður gert, þegar hinn formaður jafnaðarmannanna er búinn að reka "áhættufíklana" út á gaddinn til "endurhæfingar".  

Þetta lið hefur engar alennilegar tillögur að lausn aðsteðjandi vanda, enda hefur það hvorki áhuga fyrir né skilning á eðli auðvaldsskipulagsins.  Þetta er forræðishyggjulið, sem vill vera með nefið ofan í hvers manns koppi. 

Efnahagsstjórn stjórnvalda brást.  Það er ekki bankanna eða annarra fjármálastofnana að stjórna peningamagni í umferð.  Það gera seðlabankar og ríkisstjórnir.  Það verður spennandi að sjá, hvað rísa mun úr rústunum, en það verður að öllum líkindum auðvaldið áfram og bætt hagstjórn stjórnvalda á grundvelli nýrrar þekkingar með dýrkeyptum mistökum.  Reynslan af fátæktarviðjum sameignarstefnunnar var svo hrikaleg, að hún fælir enn þá frá.

Í Silfri Egils 21.09.2008 var afar áhugavert viðtal við Lárus Welding, bankastjóra Glitnis.  Lárus hafði greinilega íhugað ádrepu formanns bankstjórnar Seðlabanka Íslands vel og dregið skynsamlegar ályktanir af.  Lárus kann greinilega að greina hismið frá kjarnanum og lét ekki hafa sig út í neitt froðusnakk.  Hann kvað möguleika Íslendinga mikla og þeir ættu að einhenda sér í aukna nýtingu auðlinda sinna til lands og sjávar í stað þess að sóa kröftunum í fánýta umræðu um gjaldmiðilssskipti, sem hvort eð er koma ekki til greina fyrr en jafnvægi í þjóðarbúskapinum hefur verið náð.  Íslenzka krónan er samnefnari krafta, sem virka á efnahagskerfi Íslands utan frá og innan frá.  Að gera hana að blóraböggli jafngildir flótta frá aðsteðjandi viðfangsefni og skapar vítahring. 

  

 

 

 


Loddarar

Viðtal StöðvarStaða bankanna 2 við formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem sýnt var að kvöldi fimmtudagsins 18. september 2008, var hressandi sem tær fjallalind þyrstum manni, enda reis gengi íslenzku krónunnar strax morguninn eftir.  Er jafnlíklegt orsakasamband þar á milli og á milli orða forseta lýðveldisins um styrkleika efnahagskerfa Asíu á núverandi erfiðleikaskeiði Vesturheims og þess, að daginn eftir birtingu þess viðtals kolféllu verðbréf í Asíu. 

Það var rétt tímasetning hjá seðlabankstjóra að tjá þjóðinni hug sinn um þá, í mörgum tilvikum meira eða minna málhalta talsmenn bankanna, sem tala af lítilsvirðingu eins og óvitar um gjaldmiðil íslenzku þjóðarinnar.  Þetta er framferði þeirra, sem taka skortstöðu gegn íslenzku krónunni, og er lítt til virðingar fallið.  Það hafa verið leidd að því rök, m.a. af hagfræðingum, að dýfur krónunnar, þegar líður að ársfjórðungs uppgjöri bankanna, stafi af mikilli sölu á krónum til að kaupa gjaldeyri, svo að ársfjórðungs uppgjörið líti betur út. Í morgunþætti á útvarpsstöð föstudaginn 19. september 2008 heyrðist þekktur hagfræðingur áætla, að gjaldeyrisvarasjóður bankanna næmi alls um 1000 milljörðum króna, sem er tvöfaldur gjaldeyrisvarasjóður Seðlabanka Íslands.  Er ljóst, að eitthvað verður undan að láta við aðfarir sem þessar.  Bankarnir svífast einskis í baráttu fyrir lífi sínu á viðsjárverðum tímum, og þeim virðist takast betur upp en mörgum öðrum bönkum, eins og dæmin sanna frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku. 

Skammtíma hagsmunir bankanna og Litlu-Gunnu og Litla-Jóns, sem þó halda þeim nú á floti með innlánum sínum, virðast ekki fara saman, en langtíma hagsmunirnir eru þó sameiginlegir.  Þeir snúast um að hámarka hagvöxtinn á Íslandi.  Starfsemi bankanna gegnir þar lykilhlutverki, en á undanförnum árum fóru þeir offari á sviði ráðninga, launa og erlendrar skuldsetningar.  Það væri þó hræðileg afturför, ef kæmi til þjóðnýtingar á þeim.  Eigendur þeirra verða einfaldlega að súpa seyðið af gjörðum sínum, og ríkissjóður að einskorða sig við að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda. 

Nýleg rannsókn leiddi í ljós, að fjármagnskreppur fortíðarinnar hafa að meðaltali kostað viðkomandi ríkissjóði 16 % af VLF/a (verg landsframleiðsla á ári).  Á íslenzkan mælikvarða losar þetta 200 milljarða króna.  Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin hafa á skömmum tíma áttfaldað gjaldeyrisvarasjóðinn, sem nú nemur um 500 milljörðum króna.  Þetta er þó engan veginn tapað fé, enda ávaxtar það sig að megninu til á erlendum reikningum.  Enn er ekkert, sem bendir til, að íslenzkir skattgreiðendur muni verða fyrir skakkaföllum vegna björgunaraðgerða ríkisins á fjármálamarkaðinum.  Væri það enda algert kjaftshögg á auðvaldsskipulagið svo skömmu eftir einkavæðingu bankanna (2001). 

Það er ekki tilviljun, að bankarnir virðast standa ótrúlega traustum fótum í því gjörningaveðri, sem nú ríður yfir.  Það er vegna þess, að Litla-Gunna og Litli-Jón hafa fulla vinnu, og mörg viðfangsefni þeirra skapa gjaldeyri.  Litla-Gunna og Litli-Jón voru líka fljót að herða sultarólina, þegar krónan þeirra gaf þeim til kynna, að veizlunni yrði að ljúka.  

Loddarar reyna að telja Litlu-Gunnu og Litla-Jóni trú um, að krónan sé gerandi og orsakavaldur í lífi þeirra.  Fræðin og staðreyndirnar tala allt öðru máli.  Gengið ákvarðast af inn-og útstreymi gjaldeyris.  Til lengdar skiptir verðmætasköpun útflutningsatvinnuveganna höfuðmáli í þessu sambandi.  Hér skal spá því, og sú spá er reist á tölfræði, að nái Íslendingar að jafna metin í viðskiptunum við útlönd, svo að nemi 5 % - 10 % af VLF og að styrkja gjaldeyisvarasjóðinn hægt og bítandi upp í 50 % af VLF, þá verði ISK traustur gjaldmiðill, sem um leið tryggi hér sveigjanleika efnahagslífsins, sem okkur er nauðsynlegur vegna þess, að okkar kerfi, eins og Bretanna, sveiflast ekki í takti við meðaltalið á meginlandi Evrópu. 

Hvers vegna eiga Litla-Gunna og Litli-Jón að færa þessar fórnir ?  Það er vegna þess, að þessi viðbótar sveigjanleiki miðaður við "fastgengi" mun veita þeim til muna meira atvinnuöryggi og gefa þeim a.m.k. 1 % meiri hagvöxt að jafnaði á ári, sem þýðir, að börnin þeirra munu hafa úr minnst 22 % meiru að spila en ella að 20 árum liðnum. 

Lýðskrumarar reyna að ganga í augun á Litlu-Gunnu og Litla-Jóni núna, þegar þau eiga andstreymt og eru viðkvæmari en ella gagnvart klisjum óvandaðra stjórnmálamanna.  Þær munu hitta þá sjálfa fyrir, þegar dómur sögunnar hefur verið kveðinn upp.  Þá mun ekki verða hátt á þeim risið.  Litla-Gunna og Litli Jón munu áreiðanlega ná áttum.

 

 

 


"Mannah" af himnum ofan

Ráðherrar Samfylkingarinnar dansa um sviðið í nýju fötunum keisarans.  Þeir boða engar hugmyndir um lausnir á vandanum, sem nú blasir við þjóðinni.  Iðnaðarráðherra blaðrar um málefni 5-25 ár inni í framtíðinni, s.s. olíuvinnslu á Drekasvæði, rafmagnsbíla eða lífrænt eldsneyti.  Tvennt hið síðar nefnda verður ekki séð, að þurfi atbeina ríkisvaldsins, heldur muni markaðurinn verða einfær um þá þróun.  Allt er þetta til að drepa málum á dreif og leiða athygli almennings frá aðgerðarleysi hans í auðlindanýtingunni, sem tekin er að leggjast eins og mara á efnahagskerfið.  Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.

Umhverfisráðherra varð nýlega ber að naumhyggju, sem ekki á sér sinn líka í sögu Stjórnarráðsins.  Hún lýsti því blákalt yfir, að nóg væri komið af virkjunum í landinu og miðlunarlónum.  Þetta var hortugt svar ráðherrans við beiðni Landsvirkjunar um, að Bjallavirkjun yrði tekin inn í svo nefnda "Rammaáætlun".  Verður ekki annað séð en þessi ráðherra hafi með þessu frumhlaupi dæmt sig úr leik og gert sig vanhæfa um alla úrskurði um virkjanir.  Umhverfisráðherra beit síðan höfuðið af skömminni með því að fara niðrandi orðum um "þrjátíu ára gamla hugmynd" Landsvirkjunar.  Opinberaði ráðherra fáfræði sína og skilningsleysi á viðfangsefninu með því að gera því skóna, að Landsvirkjun hlyti að beita 30 ára gömlum aðferðum við virkjunarframkvæmdir við Bjalla.  Þá virtist ráðherra ekki gera sér neina grein fyrir gríðarlegri hagkvæmni þessarar virkjunar, sem felst í aukinni nýtingu virkjunarmannvirkja í Tungnaá og Þjórsá vegna vatnsmiðlunarinnar.  Þess vegna er miðlunarlónið tiltölulega stórt miðað við uppsett afl í virkjun. 

Það er grundvallar atriði við mat á virkjunarkostum, að vegnir séu og metnir kostir og gallar þeirra.  Haldgóð aðferðarfræði er fyrir hendi til að reikna arðsemi virkjana, en þegar að því kemur að reikna út ávinninginn af því að fara ekki í virkjunina, vandast málið á Íslandi.  Enginn þarf hérlendis að flytjast burt, af því að lóð hans eða nýtjaland fari á kaf, eins og algengt er erlendis, og er stærsti ásteytingarsteinn vatnsaflsvirkjana í heiminum.  Áhrifin á ferðamennsku um viðkomandi svæði eru þau, að hún glæðist.  Þeir eru fleiri, sem sjá sér fært að kanna ókunna stigu á virkjunarsvæðum en hinir, sem fælast frá.  Þetta hefur alls staðar gerzt.  Erlendis er það haft gegn miðlunarlónum, að þau kæfi mikinn gróður, og rotnandi jurtaleifar myndi metangas, sem er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en koltvíildi.  Á Íslandi er megnið af landinu, sem undir miðlunarlón hefur farið, gróðurvana.  Ýmislegt hefur verið tínt til hérlendis gegn vatnsaflsvirkjunum, en sammerkt öllum þeim andróðri er, að þar hefur skrattinn verið málaður á vegginn.  Annaðhvort hefur þar vanþekking og fáfræði riðið húsum, eða fordómafullir og forhertir andstæðingar alþjóðlegra stórfyrirtækja hafa átt hlut að máli.   

Þess vegna má segja, að andstaðan við vatnsaflsvirkjanir hérlendis sé innflutt, og breytist í hégilju við innflutninginn.  Andstæðingar virkjana, einkum vatnsafls, koma aðallega af vinnustöðum hins opinbera, eða þeir eru styrkþegar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.  Það er fyrir þetta fólk, sem Samfylkingin dansar um sviðið í nýju fötunum keisarans. 

Þann 6. september 2008 birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu undir eftirfarandi fyrirsögn: "Átelja seinagang stjórnvalda".  Þar var sagt frá áfalli, sem framtíðar efnahagur almennings á Íslandi varð fyrir, er hið virta norska fyrirtæki, REC Group", gafst upp á íslenzkri stjórnsýslu og fór til Kanada með sín fjárfestingaráform.  Þetta fyrirtæki nýtur virðingar í Noregi fyrir framsækna stefnu sína og góðan árangur á sviði tækni og umhverfismála.  Þeir ráða við allt framleiðsluferli sólarrafhlöðunnar að meðtalinni hráefnisvinnslunni.  Það er samdóma skoðun þeirra, er til þekkja, að íslenzkt atvinnulíf hafi orðið af miklum tekjum, tækni- og markaðsþekkingu, þegar REC Group hrökklaðist af landi brott. 

Hvaða stjórnvöld skyldu hér hafa um vélað, nema þeir tveir ráðherrar, ráðuneyti þeirra og stofnanir, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni ?  Samfylkingin dregur lappirnar og þvælist fyrir hverju þjóðþrifa málinu á fætur öðru.  Á sama tíma og forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir skorinort, að leiðin út úr efnahagsvandanum sé að framleiða, framleiða og framleiða meira til útflutnings, þá gegna ráðherrar Samfylkingar kalli afturhaldsins í landinu og virðast einvörðungu bíða eftir "mannah af himnum ofan". 

Í tilvitnaðri forsíðufrétt gat m.a. að líta eftirfarandi: "Norska hátæknifyrirtækið REC Group, sem hafði áhuga á að reisa sólarkísilverksmiðju við Þorlákshöfn, segir að langt umhverfismatsferli og óvissa um tímalengd, óviss orka í framhaldsáfanga og hærri fjárfestingarkostnaður hérlendis hafi ráðið mestu um að ákveðið var að taka Kanada fram yfir Ísland.  Í rökstuðningi REC segir að umhverfismatsferlið  taki hér of langan tíma og geti hugsanlega tekið lengri tíma þar sem einstakir umsagnaraðilar virðist geta farið fram yfir lögboðinn umsagnarfrest átölulaust."

Þessi umsögn virts og eftirsótts fjárfestis er mjög harður áfellisdómur yfir íslenzkri stjórnsýslu.  Hverjir skyldu nú sitja þar á fleti fyrir ?  Þar tróna þeir tveir ráðherrar Samfylkingarinnar, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, æðstu menn iðnvæðingar og umhverfisverndar innan stjórnsýslunnar.  Samfylkingin virðist alls staðar leggja lamandi hönd á stjórnsýsluna, þar sem hún kemst til valda.  Hið sama var t.d. uppi á teninginum í Reykjavíkurborg, og eru borgarbúar enn ekki búnir að bíta úr nálinni með það, þó að björgulegar horfi þar nú um stundir en áður.  Þessi sami stjórnmálaflokkur hefur enda það á stefnuskrá sinni að flytja hluta af stjórnsýslunni frá Reykjavík til að geta sleikt þröskulda Brusselveldisins og 80 þúsund manna skrifræðisbákns þess.  Er kyn, þó að keraldið leki ?

Íslendingum hefur hlotnazt "Mannah af himnum" í vöggugjöf, þar sem eru fallvötnin og jarðhitinn.  Það er síðan undir gæfu þeirra sjálfra komið, hvernig þeim tekst að nýta þá himnasendingu, sem eilíf og umhverfisvæn orka er.  Nýtingarmenn geta enn leitað í smiðju frumkvöðla sjálfstæðisbaráttunnar og fléttað boðskap þeirra við beztu tækni nútímans til að skapa hér hið mesta hagsældarsamfélag í fjölbreytilegu og heilnæmu náttúrulegu umhverfi. 

Til að gefa lesendum kost á að virða fyrir sér náttúrulegt umhverfi til hugarhægðar eftir lesturinn er Grænlandssyrpa Svisslendingsins Ursulu Riesen birt undir tengli hér að neðan, í þetta skipti með enskum texta.  Fyrir fáeinum árum aðstoðaði ég Ursulu þessa lítillega, þegar hún kom hingað til lands í því skyni að fara í hjólreiðaferð um landið.  Er hún mikill náttúruunnandi, og hefur hún komið hingað nokkrum sinnum. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband