Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Heggur sá, er hlífa skyldi

Samband viðskiptajafnaðar og gengisbreytingaÍslenzka krónan á undir högg að sækja vegna griðarlegs viðskiptahalla.  Megnið af honum er núna vegna taps á fjárfestingum erlendis.  Skuldir fyrirtækja erlendis eru óheyrilegar, og tekur skuldsetning bankanna út yfir allan þjófabálk.  Af þessum sökum er vissulega vá fyrir dyrum.  Skuldir landsins erlendis nema 10,5 þúsund milljörðum (billjónum) eða rúmlega áttfaldri vergri landsframleiðslu ársins 2007.   Þetta er meginástæða núverandi fjármálakreppu (fjárþurrðar) á Íslandi, því að útlendingar meta stöðuna þannig, að fyrirtækjunum (bönkunum) geti reynzt erfitt að standa í skilum.  Myntin íslenzka kemur hér hvergi nærri, og aðild að ESB mundi engu breyta til batnaðar.  

Eins og myndin hér að ofan sýnir, er náið samband á milli viðskiptajafnaðar landanna og gengis mynta þeirra.  Ísland er þarna með mesta hallann á viðskiptajöfnuði og þar af leiðandi mesta fall gengisins miðað við lönd á myndinni.  Okkar markmið getur aðeins verið eitt: að komast upp í 1. fjórðung ofan X-áss og hægra megin Y-áss.  Þar er tryggt, að gengið fellur ekki á erfiðleikatímum í efnahagsmálum heimsins. 

Noregur er dæmi um ríki í 1. fjórðungi, þó að landið sé ekki tilgreint á þessari mynd.  Noregur er með jákvæðan viðskiptajöfnuð upp á 19 % af VLF á árinu 2008 og rúm 16 % árið áður.  Norska krónan er enda pallstöðug.  Noregur afsannar þar með fjarstæðuna um, að lítið efnahagskerfi fái ekki staðizt.  Hagvöxtur hefur verið þokkalegur í Noregi, en meginástæðan er þó meiri verðmæti útflutnings en innlutnings og ábatasamar eignir í útlöndum.  Norðmenn hafa með öðrum orðum fjárfest af skynsamlegu viti bæði innan lands og utan. 

Styrkleikaþróun USD og EURFyrstu 7 mánuði ársins 2008 jókst útflutningur Íslendinga um 13 % frá sama tíma árið áður og innflutningurinn um 1,7 %.  Halli vöruskiptanna á ársgrunni nam þá 5,6 % af VLF, sem er gríðarleg framför.  Það er þó ljóst, að til að ná gengisstöðugleika verðum við að gera enn betur.  Mál er að linni misheppnaðri útrás og tekið verði til við að virkja auðlindir í landinu sjálfu af fullum krafti til eflingar útflutningi. 

Hagvöxtur ársins 2007 var 3,8 % á Íslandi, sem var 1,6 % yfir OECD meðaltali.  Hagvöxtur Bandaríkjanna er nú um 3 % á meðan stöðnun og jafnvel samdráttur sums staðar ríkir á evru svæðinu.  Þess vegna hækkar bandaríkjadalur nú á kostnað evrunnar. 

Hagvöxtur og jákvæður viðskiptajöfnuður eru nauðsynleg og nægjanleg skilyrði fyrir stöðugleika efnahagslífsins.  Í því ljósi eru sem út úr kú yfirlýsingar sumra þingmanna Samfylkingar og jafnvel ráðherra hennar um nauðsyn gjaldmiðilsskipta til lausnar efnahagsvandans.  Þetta óábyrga tal þessara stjórnarþingmanna er til þess eins fallið að veikja íslenzku krónuna.  Með þessu reyna þeir að ryðja brautina fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Þetta framferði þingmannanna léttir ekki almenningi róðurinn, nema síður sé, og er ótrúlega illa grundað.  Í þessu sambandi er vert að hrósa málflutningi Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, en málflutingur þess um málefni ríkisins glóir eins og gull af eiri saman borinn við á köflum þjóðhættulegan málflutning Samfylkingarinnar.


Vatn

CWB763"Vatn er olía 21. aldarinnar" lýsti iðnjöfurinn Andrew Liveris yfir, en hann er aðalforstjóri efnavinnslurisans Dow.  Segja má, að í efnahagskerfum heimsins gegni vatnið ekki síðra hlutverki en olían.  Eins og með olíuna er nú tekið að gæta skorts á vatni.  Aðalástæðan er hratt vaxandi vatnsnotkun í þróunarlöndum Asíu, þar sem sívaxandi millistétt gerist æ þurftarfrekari.  Frá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs hefur komið spá um tvöföldun vatnsneyzlu á hverjum 20 árum.  Þetta kveður bankinn vera ósjálfbæra þróun.  Loftslagsbreytingar eru taldar auka á þennan vanda. 

Mengað vatn er vaxandi og alvarlegt vandamál.  Ábyrgðarlítil iðnvæðing án aðgæzlu og strangra krafna um mengunarvarnir hefur valdið mengun í fátækum löndum á stöðuvötnum og ám.  Framleiðsla á niðurgreiddu lífrænu eldsneyti, t.d. í Bandaríkjunum, hefur stóraukið vatnsþörfina.  Vatn er niðurgreitt víðast hvar í heiminum með sóun sem fylgifiski, eins og venjulega. 

Án vatns hrynur athafnalífið.  Fimm stór matvæla-og drykkjarvöru fyrirtæki í heiminum nota samtals 575 milljarða lítra af vatni árlega, sem er tæplega 0,1 þúsundasti hluti af heildar vatnsnotkun heimsins og um tíföld vatnsnotkun Íslendinga.  Þetta vatnsmagn nægir mannkyninu til framfærslu í einn sólarhring.  Lætur nærri, að Íslendingar noti um sjö sinnum meira af vatni en nemur meðalnotkun á mann í heiminum.  Af þessum tölum er ljóst, að aðgengi vatns er mjög misskipt á milli manna. 

Landbúnaður er sú atvinnugrein, sem langmest notar af vatni, eins og myndin hér að ofan ber með sér.  Á Íslandi er það þó vafalaust iðnaðurinn, sem þurftarfrekastur er til vatnsins.  Ætla má, að á Íslandi séu um þessar mundir notaðir a.m.k. 50 milljarðar lítra af vatni árlega.  Ekki er nóg með, að á Íslandi sé yfrið til af vatni, heldur eru gæðin og á meðal þess bezta, sem gerist í heiminum.  Íslenzka vatnið er heilnæmt og mælingar sýna, að eftirstöðvar við eimun nema innan við tíunda hluta þess, sem algengt er. Ísland er að þessu leyti í einstakri samkeppnistöðu til að laða að sér erlendar fjárfestingar.  Þessi staðreynd hlýtur senn að fara að vega talsvert þungt til hagsbóta fyrir landsmenn.

Raforkuvinnsla er víðast hvar reist á mikilli vatnsnotkun.  Erlendis er megnið af þessu vatni nýtt til kælingar.  T.d. fara 40 % af vatninu, sem tekið er úr lónum og stöðuvötnum í Bandaríkjunum, til kælingar á orkuverum.  Þetta vatn er auðvitað mengunarvaldur, ef því er sleppt, e.t.v. 40°C heitara, út í náttúruna en það var tekið frá henni.  Þessu vandamáli er ekki til að dreifa í vatnsorkuverum, en jarðgufuorkuver eru mörg hver kræf til vatnsins, og þar verður að gæta sérstakrar varúðar til að menga ekki grunnvatnið.  

Segja má, að orkuvinnsla úr jarðhita sé ósjálfbær, ef orkunýtnin er undir 50 %.  Slíkt er einmitt tilvikið, þar sem megnið af gufunni fer til raforkuvinnslu, en lítil sem engin heitavatnsvinnsla til upphitunar á húsnæði á sér stað.  Á þetta benti Skipulagsstofnun ríkisins í úrskurði sínum um Bitruvirkjun, en hagsmunir komandi kynslóða á höfuðborgarsvæðinu eru í húfi, að farið sé að með gát við jarðhitanýtingu á Hellisheiði. 

Margt bendir til, að vatnsauðlind okkar Íslendinga verði verðmætari með hverju árinu vegna loftslagsbreytinga, sem margir kenna við gróðurhúsaáhrif af mannavöldum.  Ekki er fyrirsjáanlegt neitt lát á úrkomu á Íslandi.  Jafnvel sýna spálíkön aukna úrkomu hérlendis á næstu áratugum.  Við eigum að benda fjárfestum á þessa vannýttu auðlind, sem hægt er að nýta með sjálfbærum hætti almenningi til aukinnar hagsældar. 

Eitt form vatnsnýtingar er að virkja fallorku rennandi vatns.  Engan veginn er viðunandi, að háværar úrtöluraddir hægi á þróun vatnsorkunýtingar.  Megnið af lónsstæðum á Íslandi er á örfoka landi.  Samt skal fúslega játa, að sums staðar hafa fagrar gróðurvinjar farið undir vatn, en oftast var þá aðgengi að þeim erfitt.  Vatnsvirkjunum hafa fylgt samgöngubætur, þannig að almenningi gefst betri kostur á að kynnast landi sínu.  Manngerð lón á Íslandi munu vart nokkurn tíma spanna meira en 1 % af landinu.  Útlitslega er bæði um tap og ávinning að ræða.  

Orkuvinnslufyrirtækin skuldbinda sig yfirleitt til mun meiri uppgræðslu lands en nemur landnotkun þeirra.  Vel færi á því, að stórkaupendur raforku mundu í framtíðinni kaupa sér koltvíildiskvóta af skógarbændum þessa lands og legðu þannig grunn að ræktun nytjaskóga á Íslandi.  Ekki færi síður vel á því, að virkjanaeigendur legðu öflugt lið baráttunni við mestu umhverfisvá á Íslandi: eyðimerkurmyndun.    

 

 


Allt er hey í harðindum

Fagnaðarefni er, að Landsvirkjun skuli nú sjá sér fært að virkja við Búðarháls með hagkvæmum hætti.  Það sýnir, að samningar hafa náðst um hærra heildsöluverð raforku en Landsvirkjun stóð áður Mótmælendur í Kingsnorth júlí 2008til boða.  Þar að auki fylgir verðið vafalítið verðhækkunum á afurðum verksmiðjanna, sem raforkuna kaupa.

Um 80 % af heildarorkunotkun okkar Íslendinga kemur úr okkar eigin sjálfbæru og afturkræfu virkjunum.  Aðrar þjóðir komast fæstar í hálfkvisti við okkur, hvað þetta varðar.  Myndin með þessari vefgrein er frá mótmælum gegn byggingu nýs kolakynts raforkuvers í Kingsnorth á Englandi.  Evrópusambandið (ESB) hefur sett löndum ESB að markmiði, að árið 2020 komi 15 % heildarorkunotkunar úr endurnýjanlegum orkulindum.  Mótmælendur á myndinni hafa með sér "hvítabjörn" til að undirstrika ótta sinn við hlýnun jarðar.  Vitneskjan um kraftana, sem valda loftslagsbreytingum virðist þó enn vera á reiki.  Samkvæmt líkani IPCC ætti að hafa farið hlýnandi síðast liðinn áratug, en meðalhitastig jarðar hefur þvert á móti lækkað þá.  Fyrir þá mótmælendur, sem hér eiga í hlut, umhverfisöfgasinna og stjórnleysingja, helgar tilgangurinn þó meðalið.  Hver yrði afleiðingin af því að fara að vilja þeirra ?  Orkuskortur blasir við á Bretlandi, því að rífa þarf fjölda gamalla kolakyntra vera ásamt kjarnorkuverum á næstu árum.  Ekkert nýtt kolakynt raforkuver hefur fengizt reist í 20 ár.  Raforka úr kjarnorku er um tvöfalt dýrari  en raforka úr eldsneyti, og þá hefur ekki verið meðreiknaður niðurrifskostnaður og eyðingarkostnaður geislavirks úrgangs.  Um 70 milljarðar punda er áætlaður kostnaður við hreinsun allra núverandi kjarnorkuvera Breta, sem mundi duga til að reisa vindorkuver á sjó úti til framleiðslu á 60 GW rafafli.  Sá hængur er á þessum vindorkuverum, að þau framleiða að jafnaði aðeins 13 % af uppsettu afli, og viðhaldskostnaður vegna veðra og tæringar er hár samkvæmt dönskum heimildum.  Samkvæmt þeim kostar rafmagn til neytenda frá slíkum orkuverum 0,26 evrur/kWh eða 32 ISK/kWh.  Af þessu er ljóst, að þjóðir án aðgangs að vatnsorku eða jarðvarma standa frammi fyrir vali á milli gríðarlega hárra orkureikninga eða að halda eldsneytisbrennslunni áfram til vinnslu á raforku. 

andstaða, sem hérlendis gerir vart við sig gegn virkjunum, er ekki í neinum samhljómi við meginstraumana í þróun orku-og umhverfismála heimsins.  Hún er einnig reist á löngu úreltum viðhorfum til fyrirtækjanna, sem eru helztu kaupendur raforku á Íslandi.  Þau eru nú hluti af alþjóðlegu viðskipta-og framleiðslukerfi, sem nýta hérlendis beztu fáanlegu þekkingu til lágmörkunar á mengun og hámörkunar á arði.  Þetta tryggir varanlega fyrsta flokks vinnustaði.  Hvergi mundi slíkri atvinnuuppbyggingu vera mótmælt nú á dögum.  Haldreipi umhverfisofstækisfólks hérlendis er, að náttúran verði að njóta vafans.  Þó er náttúran sjálf sífelldum breytingum undirorpin, eins og ekki fer framhjá þeim, sem um landið hafa ferðazt undanfarna áratugi.  Frágangur flestra virkjana hérlendis afsannar rækilega þá kenningu, að mannvirki séu til lýta i annars ósnortinni náttúru.  Miðlunarlón vatnsaflsvirkjana eru þvert á móti til fegurðarauka í úmhverfinu að margra mati.  Mannvirki geta fallið ágætlega að náttúrunni, og náttúran haldið áfram að njóta sín þrátt fyrir mannvirkin.  

Áður fyrr lifðu Íslendingar á því, sem landið og miðin gáfu þeim.  Oft lifðu þeir þá við harðan kost og voru lengi á heljarþröm hungurs og vosbúðar.  Nú er öldin önnur.  Þegar þjóðin hafði náð stjórn eigin mála í sínar hendur, tæknivæddist hún.  Hún þarf nú ekki lengur að nýta landið með ósjálfbærum hætti, eins og forfeðurnir neyddust til að gera til að halda lífi, heldur hefur alla burði til að njóta þess, sem landið getur veitt með fallvötnum sínum og orku í iðrum jarðar.  Auðvitað jafngilda slíkar framkvæmdir breytingum, en þær bæta undantekningarlaust lífsgæðin í landinu.  Hluta af afrakstri auðlindanýtingarinnar ætti síðan að nýta til landgræðslu og skila landinu þannig því, sem af því var tekið í nauðvörn.  Ef við ekki teljum okkur hafa ráð á því, getum við engan veginn talizt vera föðurbetrungar.

 

Að traðka í salatinu

Nú hefur Samfylkingin látið í ljós, hvernig hún telur brýnast að leysa úr aðsteðjandi vandamálum íslenzks samfélags.  Annars vegar ætlar hún að þvælast fyrir erlendum fjárfestingum, er horfa til eflingar útflutningsiðnaðar landsmanna, í lengstu lög, og hins vegar rær hún öllum árum að útgáfu yfirlýsingar stjórnvalda um, að þau stefni að inngöngu landsins í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evru.  Þetta á að verða allra meina bót, en er einber flótti frá viðfangsefnunum.  Flokkurinn skilar í raun auðu, þegar úrlausnir eru annars vegar.  Hann er gagnslaus, þegar á reynir.

Það er með eindæmum að horfa upp á, hversu djúpt einn stjórnmálaflokkur getur sokkið.  Forsætisráðherra hefur lýst Bakka-úrskurði umhverfisráðherra sem óþörfum.  Það eru orð að sönnu, því að Skipulagsstofnun ríkisins hafði á sínum faglegu forsendum metið það svo, að hvert áform um framkvæmd tengt nýju álveri á Bakka við Húsavík mætti og ætti að fara í sjálfstætt, lögformlegt umhverfismat.  Gjörningur ráðherra er þess vegna klárlega stjórnmálalegs eðlis.  Ráðherrann er nógu ábyrgðarlaus til að lýsa því yfir, að úrskurður ráðuneytisins þurfi aðeins að hafa í för með sér nokkurra vikna seinkun á undirbúningsferlinu.  Samt er enn enga leiðsögn að fá frá umhverfisráðuneytinu um það, hvernig standa skuli að "heildstæðu umhverfismati".  Undirbúningur af þessu tagi er viðkvæmt ferli, og fái fjárfestir nasaþef af því, að stjórnvöld leggi stein í götu undirbúningsins, er hætta á því, að hann missi áhugann og snúi sér annað.  Það er nóg af óvirkjaðri endurnýjanlegri orku í heiminum.   

Það er önnur alvarleg hlið á þessu máli.  Hún er stjórnsýslulegs eðlis.  Að hálfu ráðuneytisins er tveimur fyrirtækjum mismunað með skömmu millibili.  Það er brot gegn atvinnurétti, sem væntanlega verður ekki við unað.  Ráðherra, sem starfar í umboði þingflokks Samfylkingar, hefur gerzt sekur um afar óvandaða stjórnsýslu, sem þar að auki sætir miklum stjórnmálalegum ágreiningi á Alþingi.  Þessi úrskurður mun þess vegna draga alvarlegan dilk á eftir sér.

Hin leiðin, sem Samfylkingin hefur valið sér, er einstefnugata til Brussel.  Valið á milli evru og krónu snýst um val á milli viðvarandi atvinnuleysis annars vegar og hás atvinnustigs í landinu hins vegar.  Ástæðan er sú, að Evrópubankinn í Frankfurt leggur meiri áherzlu á baráttu við verðbólgu en flestir seðlabankar í heiminum.  Þetta styrkir evruna á kostnað annarra mynta, og gerir útflutningsatvinnuvegum evrusvæðisins erfitt fyrir.  Líklegt er í ljósi sögunnar, að verðbólga á Íslandi yrði tíðum hærri en að jafnaði innan evrusvæðisins þrátt fyrir upptöku evru.  Þetta mundi gera íslenzkum útflytjendum til evrusvæðisins mjög erfitt fyrir.  Öll þessi þróun mundi fyrirsjáanlega draga úr hagvexti og þar með velmegun á Íslandi. 

Efnahagsþróun á evru svæði

 

Myndin "Going south", sem birt er með þessari vefgrein, sýnir þróun spurnar eftir vörum og þjónustu í 4 evrulöndum, Þýzkalandi, Ítalíu, Frakklandi og Spáni.  Gröfin gefa til kynna, að öll löndin 4 stefni hraðbyri inn í kreppu.  Því er spáð, að vegna hárra raunvaxta á svæðinu verði kreppan þar erfiðari og langvinnari en annars staðar á Vesturlöndum. 

Lausn okkar Íslendinga í bráð og lengd er að auka útflutningstekjur okkar svo mikið, að viðskiptajöfnuður við útlönd nemi a.m.k. 10 % af landsframleiðslu.  Það mun hafa mjög góð stöðugleikaáhrif á íslenzku krónuna, eins og sýnt var fram á í næstu vefgrein á undan hér á vefsetrinu.  Svissneski frankinn er gott dæmi um þetta, en fjármálageirinn er snar þáttur svissneska hagkerfisins, eins og hann er í hinu íslenzka. 

Fyrirsögn þessarar greinar er þýðing á norsku orðtæki "å tråkke i salaten¨, sem merkir að verða á fingurbrjótur.  Engu er líkara en Samfylkingin sé nú komin í sjálfseyðingarham; hafi ekki villzt inn í matjurtagarðinn, heldur ætli sér að vera þar og eyðileggja uppskeruna.  Þessi stefna er allt of áhættusöm fyrir hag heimilanna í landinu til að almenningur geti léð henni eyra.

 

 


Blóraböggull efnahagsþrenginga

Tekið er að sverfa að og blóraböggullinn var auðfundinn. Samband viðskiptajafnaðar og gengisbreytingaMeðfylgjandi graf er notað til að sýna fram á, að íslenzka krónan er þó ekki orsakavaldur, heldur er gengi hennar háð öðrum hagstærðum.  Þegar ódýrt lánsfé var ekki lengur fáanlegt á fjármálamörkuðum heimsins, færðu spákaupmenn fé sitt til, og þá kom í ljós sterkasti krafturinn, sem virkar á gengi gjaldmiðla til langframa og við þrengingar.  Það er viðskiptajöfnuður landanna.  Bláa línan á myndinni sýnir meðalsamband viðskiptajafnaðar og gengisbreytinga. Athugull lesandi sér strax ("den observante læser innser umiddelbart", eins og stóð í kennslubókunum), að að unnt er að draga nokkurn veginn beina línu frá stöðu Íslands, um Suður-Afríku, Bretland og til Japans.  Þetta þýðir, að gengi íslenzku krónunnar er háð viðskiptajöfnuði í sama mæli og gengi téðra landa.  Með öðrum orðum stafar hið mikla gengisfall íslenzku krónunnar af viðskiptahalla, sem á ekki sinn líka.  Hið mikla gengisfall krónunnar stafar af lögmáli um tengsl viðskiptajafnaðar og gengisbreytinga, en krónan er ekki í neins konar fríu falli sem haldlaus gjaldmiðill, eins og látið hefur verið í veðri vaka.  Afhjúpun þessarar staðreyndar, sem meðfylgjandi graf ber órækan vott um, opinberar jafnframt, að landsmenn geta sjálfir stjórnað genginu, og gengið þarf ekki að vera sveiflukennt.  Það, sem þarf að gera, er að ná jákvæðum viðskiptajöfnuði.  Við sjáum af myndinni, að í öllum löndum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við útlönd hefur gengið styrkzt á undanförnu hálfa ári.  Það er ekkert land staðsett í 4. fjórðungi (að neðan hægra megin).  Ef það hefði gerzt hjá okkur, hefði verðbólgan orðið mun minni en ella og efnahagslægðin grynnri.  

Ályktunin, sem af þessu má draga, er sú, að náum við Íslendingar jákvæðum viðskiptajöfnuði, þá verður ekki hætta á gengisfalli, þó að á móti blási, eins og núna.  Með öðrum orðum er jákvæður viðskiptajöfnuður trygging fyrir stöðugleika.  Það er þess vegna eftir gríðarlega miklu að slæðast.  

Núverandi gengisfall krónunnar ásamt gríðarlegum hækkunum á verði eldsneytis, hrávörum og matvælum á alþjóðlegum mörkuðum hafa valdið mikilli verðbólgu á Íslandi.  Við verðum að ná henni niður fyrir markmið Seðlabanka Íslands til að verða samkeppnihæf við önnur lönd.  Það verður mikil þrautaganga.  Falsspámenn hafa haldið því að þjóðinni, að auðveldasta lausnin á vanda hennar sé að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru.  Að uppfylla öll fimm skilyrði Maastricht sáttmálans varðandi evrópska myntsamstarfið er mjög erfitt og mundi kosta miklar fórnir almennings.  

Markmið þessarar vefgreinar var að sýna fram á, að Íslendingum standa aðrir, nærtækari og miklu betri kostir til boða til að ná efnahagsstöðugleika en að ganga í ESB og fórna fullveldi Alþingis og Seðlabanka og verða þannig leiksoppar ráðamanna í útlöndum að nýju.     


Af þursum og öðru steinrunnu hyski

Æðsti prestur róttækra vinstri manna á Íslandi ber fótastokk þrjátíu vetra truntu ógurlega án þess að færast þó hraðar úr stað en færilús á tjöruspæni.  Þetta gat að líta í grein formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Morgunblaðinu undir hinu kinduga heiti, "Álhöfðunum lamið við steininn", en sumir berja hins vegar hausnum við steininn. 

Í greininni segir undir lokin: "Nauðsynlegt er að halda uppi rökræðum við þursana sem tyggja áratuga klisjur og kreddur um að einu auðlindir Íslands fyrir utan sjóinn sé orkan, ...".  Þetta er alröng forsenda, sem veldur því, að vaðinn er reykur í allri téðri grein.

Megineinkenni greinarinnar er naumhyggja; sú árátta að stilla einni atvinnugrein upp gegn annarri og láta eins og þær séu fyrir hvor annarri.  Furðulegur samanburður á sér stað á milli sjávarútvegs og áliðnaðar á grundvelli hugtaks, sem stendur á brauðfótum í hagfræðinni, ef það er þá skilgreint þar, þ.e. "nettovirðisaukinn sem eftir stendur í íslenska hagkerfinu" sem hlutfall af árlegri veltu.  Á tímum alþjóðavæðingar og frjáls flutnings fjármagns, vöru, þjónustu og starfsfólks á milli landa, eru tilraunir til útreikninga á þessari stærð vanburða og hafa nákvæmlega ekkert hagnýtt gildi í nútímanum. 

Fyrir um þremur áratugum var ríkisreknum áætlunarbúskap Austur-Evrópu fleygt á ruslahauga sögunnar sem gagnslausu tæki reistu á fullkomlega misheppnaðri hugmyndafræði Marxismans.  Fyrir skipuleggjendur atvinnulífs hins ríkisrekna áætlunarbúskapar hafði þýðingu að leggja niður fyrir sér, hvar hver fjárfest rúbla eða austur-þýzkt mark skilaði flestum störfum.  Í áætlunarbúskapi Sovét-Íslands hefði verið eðlilegt að velta fyrir sér spurningunni, hvort ríkið ætti að fjárfesta í sjávarútvegi eða virkjunum og þungaiðnaði. 

Í efnahagskerfi, eins og hinu íslenzka, þar sem fjárfestingarfé til sjávarútvegs kemur úr annarri átt en fé til virkjana og fjárfestingar í þungaiðnaði eru af erlendum toga, er spurningin alveg út í hött.  Þegar fjárfestar velja á milli fjárfestingarkosta, vegur arðsemi til langs tíma mest  Þegar erlent fyrirtæki nær samningum við Landsvirkjun, svo að dæmi sé tekið, þá hafa báðir aðilar komið ár sinni betur fyrir borð en þeir geta í samningum við aðra.  Allir græða, og enginn tapar.

Þegar íslenzkt útgerðarfélag fjárfestir í togara erlendis, er það vafalaust að undangengnum hagstæðustu samningum, sem útgerðin getur náð.  Naumhyggja róttæklinga felst í þeim mikla misskilningi, að starfsemi þungaiðnaðarins taki verðmæti frá öðrum.  Að upphefja meting á milli starfsgreina, t.d. á milli sjávarútvegs og þungaiðnaðar, er hreinræktaður barnaskapur.  Upphrópanir eins og "störf í álframleiðslu eru einhver þau dýrustu sem hugsast geta ..." hafa enga þýðingu í frjálsu hagkerfi, ef einhver fjárfestir sækist samt eftir slíkri fjárfestingu og græðir á henni. 

Klisja á borð við í téðri grein: "Öðru atvinnulífi: nýsköpun og fjölbreytni, er ýtt til hliðar í þágu einhliða og blindrar áherslu á þungaiðnaðarvæðinguna sem álstefnan auðvitað er." eru alger öfugmæli miðað við reynsluna.  Þungaiðnaðurinn er hátækniiðnaður, sem kaupir margvíslega sérhæfða þjónustu á íslenzka markaðinum og hefur innleitt fjölda nýjunga í íslenzkt atvinnulíf.  Öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismál eru þar víða til algerrar fyrirmyndar.  Það er ekki annað en léttvægt bull að halda því fram, að þungaiðnaðurinn standi í vegi nýsköpunar og fjölbreytni atvinnulífsins. 

Vinsælustu viðkomustaðir ferðamanna eru virkjanir.  Nægir að nefna Bláa lónið, sem er hluti auðlindagarða Hitaveitu Suðurnesja, og nú berast fréttir af miklum vinsældum hins verkfræðilega afreks, Kárahnjúkavirkjunar, enda telja margir miðlunarlón eiga ágætlega heima í íslenzku umhverfi.

Hin mikla meinloka róttæklinga felst í því, að þungaiðnaðurinn sé fyrir annarri starfsemi og "eitthvað annað" geti ekki þrifizt hans vegna.  Auðvitað blessast "eitthvað annað" hvorki betur né ver með eða án þungaiðnaðar.  Málið er, að einkaframtakið verður að sjá arðsvon í fjárfestingum sínum.  Það er ekki nóg að liggja í grasinu og láta sig dreyma um alls konar starfsemi, sem enginn almennilegur markaður er fyrir. 

Þungaiðnaðurinn hefur stóreflt innviði þjóðfélagsins og lagt grunninn að þjóðfélagi, sem verður öflugasta velferðarþjóðfélag Evrópu með hæstu meðaltekjur á mann á næsta áratug, ef rétt verður á spilunum haldið. 

 

 


Að vera eða ekki að vera

Að vera eða ekki að vera, það er vandinn.  Þessi orð voru lögð í munn frægs sveimhuga á sinni tíð.  Nú virðist orku-og iðnaðarráðherra Íslands standa í sporum danska prinsins.  Tilefnið var þó aðeins undirritun framlengingar á viljayfirlýsingu með fulltrúa bandarísks álframleiðanda. 

Samt leikur á tveimur tungum, hvort hugur fylgdi máli hjá ráðherranum.  Hann hafði í hendi sér að stöðva iðnþróun Þingeyinga, lét það vera, en er þá vændur um, ekki sízt af samflokksmönnum sínum, að ganga í berhögg við stefnu Samfylkingar varðandi nýtingu íslenzkra orkulinda.

Ekki liggja vinstri-grænir á liði sínu við að gagnrýna ráðherrann.  Í pistli við hlið leiðara Morgunblaðsins í dag, 28. júní 2008, líkir varaþingmaður vinstri grænna Samfylkingunni í heild sinni við Ragnar Reykás.  Hvernig halda menn, að ríkisstjórn þessara flokka, t.d. undir forsæti Samfylkingar, yrði ? 

Sporin hræða frá Reykjavík R-listans, þar sem doði var aðaleinkennið, lóðaskortur og lóðaokur, samgöngumannvirki sátu á hakanum, enda einkabíllinn bannfærður.  Á sama tíma var útsvar höfuðborgarbúa keyrt úr lágmarki í hámark og ýmsir nýir skattar lagðir á. 

Það hefur ekki legið í augum uppi, hvers vegna stjórnmálaflokkar hafa lagt fæð á orkukræfan iðnað á Íslandi.  Nú er samt að sannast mikilvægi fjölbreytninnar fyrir þjóðarbúskapinn.  Sjávarútvegurinn býr við mikinn aflasamdrátt.  Fjármálageirinn er í alþjóðlegri lægð, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.  Í ferðamannaiðnaðinum er boðaður mikill samdráttur og hrikalegar uppsagnir.  Hvernig halda menn, að staðan væri í þessum geirum með stífan gjaldmiðil hér ?  

Hins vegar er metverð á raforku til álvera vegna spurnar eftir áli, sem er meiri en framleiðslugetan nú um stundir.  Fullyrða má, að orkusala frá íslenzkum virkjunum og framleiðsla stóriðjunnar, sem knúin er þessari endurnýjanlegu orku, minnkar til muna þann efnahagslega öldudal, sem þjóðin er að lenda í.  

Í Morgunblaðinu í dag birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við frægan poppara.  Poppari: "Ég vil undirstrika það sem ég hef oft sagt: ég er ekki á móti virkjunum.  Ég er á móti samstarfi við Alcoa og flest svipuð erlend stórfyrirtæki."  Þarna lá hundurinn grafinn, og þráðurinn er greinilega órofinn frá hinni hatrömmu baráttu Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins gegn erlendum fjárfestingum í iðjuverum á Íslandi. 

Nú er það þekkt, að téð fyrirtæki hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir öryggi, hollustuhætti á vinnustöðum sínum og umhverfisvernd.  Það er þess vegna aðeins hægt að draga eina ályktun af framgöngu virkjana-og stóriðjuandstæðinga á Íslandi.  Á tímum alþjóðavæðingar hefur þá dagað uppi í kreddum sínum og fordómum gegn starfsemi fyrirtækja í erlendri eigu á Íslandi. 

Iðnaðarráðherra, sem verið hefur ötull málsvari íslenzkrar útrásar, sem reist er á sömu alþjóðavæðingunni, þarf þess vegna ekki að bera kinnroða fyrir undirskrift sinni.    


Olíuverðið og forræðishyggjan

Margir hafa furðað sig á, að ekki skuli að ráði hafa slegið á spurn eftir olíu nú í upphafi 21. aldarinnar þrátt fyrir ferföldun olíuverðs á sama tímabili.  Samkvæmt lögmálinu um samband framboðs og eftirspurnar hefði strax átt að draga úr eftirspurn árið 2005.  Það gerðist ekki, en árin 2006 og 2007 hefur þó dregið úr eftirspurninni í iðnvæddu löndunum, aðildarlöndum OECD.  Hins vegar jókst notkun þróunarríkjanna á olíuvörum á sama tímabili um u.þ.b. 1,3 milljónir tunna á sólarhring.  Hvernig má það vera, þegar nærri lá, að verðið tvöfaldaðist á þessum árum ? 

Skýringanna er að leita í afskiptum stjórnmálamanna í þriðja heiminum af markaðinum.  Slík inngrip eru oftast til ills eins fyrir almenning.  Stjórnlyndir valdsmenn í þrija heiminum hafa beitt ríkissjóðum landa sinna til stórfelldra niðurgreiðslna á verði eldsneytis í löndum sínum og þess vegna hafa neytendur í löndum þeirra lítið sem ekkert orðið varir við gríðarhækkanir á verði eldsneytis hingað til.  Í mörgum tilvikum er um að ræða sömu lönd og iðnaðarráðherra Íslands hefur hvatt íslenzk fyrirtæki til að fjárfesta í virkjunum í.  Verður hlutverk "orkuútrásarinnar" það að keppa við niðurgreidda raforku í þróunarlöndum ? 

Þessi inngrip stjórnmálamanna í verðmyndun á frjálsum markaði hafa valdið ómældum hörmungum hjá fólki á hungursbarmi vegna verðhækkana á matvælum, sem tengjast orkuverði.  Þessi afskipti stjórnlyndra valdsmanna eru að keyra efnahagskerfi heimsins á slig og valda þannig tjóni, sem mælt verður í trilljónum króna vegna stöðnunar og samdráttar.

Stjórnmálamenn ættu að vanda sig alveg sérstaklega og fara í umfangsmiklar áhættugreiningar áður en þeir ákveða að skipta sér af verðmyndun á markaði.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ótíðindi fyrir ESB

Það sætir jafnan tíðindum, er alþýðan gerir uppreisn gegn hinum ráðandi öflum.  Það gerðist í írska lýðveldinu fimmtudaginn 12. júní 2008, þegar almenningur þar hafnaði því, að Evrópusambandinu yrði sett stjórnarskrá með samþykkt Lissabon sáttmálans. 

Þar með var þessi tillaga að stjórnarskrá fyrir ESB felld, því að samkvæmt leikreglunum þurfa allar aðildarþjóðirnar að samþykkja tillöguna.  Allir stjórnmálaflokkar Íra, utan einn, atvinnurekendasamtök og verkalýðssamtök auk flestra fjölmiðlanna og "álitsgjafa" höfðu undir bumbuslætti embættismanna í Dublin og í Brussel varað Íra við að leggja stein í götu "æ nánara sambands" ("ever closer union"), sem er slagorð ESB-sinna.  Gegn hótunum um að verða skilinn eftir á vegferð ESB til sambandsríkis reis írskur almenningur. 

Söguleg mistök framkvæmdastórnarinnar í Brussel eru að hundsa vilja almennings og vaða áfram í átt að sambandsríkinu í stað þess að beina þróun ESB á braut, sem getur hugnazt almenningi í aðildarlöndunum.

Þær þjóðir Vestur-Evrópu, sem hafa fengið að tjá hug sinn til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja ESB stjórnarskrá, hafa hafnað því.  Þessi afstaða almennings hefur komið fram í skoðanakönnunum í öllum löndum Vestur-Evrópu.  Almenningur er andvígur Bandaríkjum Evrópu, sem hann óttast, að framkvæmdastjórnin í Brussel og hálaunaðir embættismenn hennar stefni á að koma á laggirnar.  Keltar kæra sig ekki um, að Germanir hafi síðasta orðið um hagsmunamál Írlands, þýzka blokkin stendur andspænis Miðjarhafsblokkinni o.s.frv.  Fólk í öllum löndunum óttast að missa lýðræðisleg áhrif á málefni héraða sinna og landa í hendurnar á ólýðræðislegu skrifstofubákni í Brussel, sem dreymir stórveldisdrauma um miðstýringu á flestum sviðum mannlífsins í nafni samræmingar og stöðlunar á öllum sköpuðum hlutum.

Flestir Evrópumenn bundu vonir við, að innri markaðurinn með "sín frelsin fjögur", sem innleiddur var á 9. áratug 20. aldar, mundi bæta hag íbúanna með eflingu viðskipta og auknum hagvexti.  Þýzka markið bar þó ægishjálm yfir aðrar myntir á svæðinu, og var það einkum Frökkum þyrnir í augum.  Þegar "alræði öreiganna" í Austur-Evrópu varð gjaldþrota vegna risavaxins ríkisbákns, hafta á atvinnulífinu og kúgunar þegnanna, gafst Þjóðverjum sögulegt tækifæri til endursameiningar, "Wiedervereinigung an der Wende".  Þá settu Frakkar þeim stólinn fyrir dyrnar.  Þeir yrðu að leggja "D-markið" fyrir róða.  Þýzku þjóðinni var alla tíð óljúft að fórna D-markinu, og hún sér enn eftir því, en þýzka þingið, sem þá sat í Bonn, samþykkti þetta með ströngum skilyrðum, sem við nú þekkjum sem Maastricht sáttmálann.  Þannig kom evran undir og er ekki félegt fang.  

Viðurlög, stórfelldar sektir, liggja við broti á Maastrichtsáttmálanum.  Stóru ríkin hafa komizt upp með að sveigja hann og beygja eftir eigin höfði, en minni ríkin komast ekki upp með neitt múður.  Á öllu evru svæðinu ríkir megn óánægja með evruna.  Írar eru í spennitreyju hágengis eftir vaxtaskeið og verðþenslu.  Frakkar, Spánverjar og Ítalir eru enn ekki búnir að bíta úr nálinni með víxlverkun kaupgjalds og verðlags, sem Þjóðverjar aftur á móti náðu tökum á hjá sér, og njóta þeir nú ávaxtanna á formi sterkrar samkeppnistöðu við útlönd.  

Nú básúna iðulega ýmsar mannvitsbrekkur hérlendis þá skoðun sína, að "við gefum út yfirlýsingu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu", eins og einn þingmanna Samfylkingar orðaði það í grein í Fréttablaðinu í dag, 15. júní 2008.  Ekki er ljóst, hvort átt er við ríkisstjórnina eða Alþingi.  Slík yfirlýsing kæmi eins og skrattinn úr sauðarleggnum, hvaðan sem hún kæmi, enda yrði hún þá reist á eftirfarandi (frá sama þingmanni): "Þótt slík yfirlýsing myndi ekki breyta neinum efnislegum forsendum á einni nóttu fælist í henni mikilvæg stefnuyfirlýsing sem væri til þess fallin að auka tiltrú á íslensku efnahagslífi." 

Heyr á endemi !  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að það styrki hávaxtarsvæði með hámarks nýtingu á vinnuafli að tengjast stöðnuðu efnahagskerfi með bullandi atvinnuleysi og kraumandi óánægju þegnanna með stífa mynt og hið yfirþjóðlega og ólýðræðislega vald í Brussel ? 

"Nomenklatúra" (stjórnendur) Samfylkingarinnar er álíka sambandslaus við grasrótina, hinn íslenzka raunveruleika, lífsbaráttu íslenzks almennings, og "nomenklatúra" hins ólýðræðislega embættisveldis í Brussel. 


Vinstri váin

Símhleranir kaldastríðsáranna hefur borið á góma að undanförnu.  Skinhelgin hefur þar klæðzt heilagri vandlætingu vegna skerðingar á friðhelgi einkalífsins.  Staðreynd er, hvað sem kattarþvotti vinstri manna líður, að hópur fólks sá fyrir sér Sovét-Ísland í bleikum bjarma austursins.

 Átrúnaðargoðin hétu Karl Marx, Vladimir Lenin og Josef D. Stalín.  Dæmigerð lýsing á afstöðu þeirra, sem tóku trú á boðskap þeirra, er þessi, sem birtist í Morgunblaðinu 7. júní 2008.:

"Sem ung kona gekk amma til fylgis við alþjóðlega hugsjón sósíalismans, hugsjón sem fól í sér að hin vinnandi alþýða fengi fulla hlutdeild í að stjórna vinnuskilyrðum sínum og aðstæðum og gæti því gengið stolt til móts við nýja og betri tíma." 

Hér er með roðum gylltri lýsingu lýst mestu hörmungar-og fátæktarstefnu og fjötrum, sem mannkynið hefur nokkru sinni verið hneppt í, þ.e.a.s. þjóðnýtingu atvinnutækjanna og samyrkjubúskap, ógnarstjórn, fjöldafangelsunum, brottflutningi úr heimahéruðum og fjöldaaftökum.  Hver getur fullyrt, að framkvæmd "jafnaðarhugsjónarinnar" hefði orðið með öðrum hætti á "Sovét-Íslandi" ?

Svo slæmar sem símahleranir eru, sjá þó allir, að þær eru barnaleikur í samanburði við þau meðul, sem handhafar "jafnaðarhugsjónarinnar" beittu þá, sem stóðu uppi í hárinu á þeim eða þeir töldu "jafnaðarhugsjóninni" stafa ógn af. 

Fyrir fólk á okkar dögum er þó eftirfarandi afstaða vinstri manna hrollvekjandi.:

"Hins vegar er engan veginn útséð um endanlegan dóm sögunnar yfir jafnaðarhugsjóninni.  Hún er ung og engin ástæða til annars en að ætla að hún eigi framtíðina fyrir sér."

Það er deginum ljósara, að vinstri váin er handan við hornið á vegferð Íslendinga.  Það er ekki lengur hætta á líkamlegu ofbeldi vinstri sinnaðra yfirvalda hérlendis, frelsissviptingu eða aftökum, en það er mikil hætta á eyðileggingu efnahagskerfisins með sóun á fé ríkisins, ofsköttun, skuldasöfnun, atvinnuleysi og mjög versnandi kjörum alls almennings.  Allt þetta mun gerast, ef vinstri flokkarnir ná undirtökunum á Alþingi.  Þá verður mynduð hér ríkisstjórn um "jafnaðarhugsjónina", sem eldri Íslendingar þekkja af biturri reynslu, að leiða mun mikinn ófarnað yfir þjóðina. 

Ástæðan er sú, að vinstri menn berja enn hausnum við steininn, ríghalda í "jafnaðarhugsjónina" og neita að viðurkenna þau lögmál mannlegs samfélags, sem ein skila manninum einhverjum árangri, sem mæla má í hagsæld.  Eina aðferðin til að sem flestir njóti sín er að reisa athafnalífið á einkaeign og einkaframtaki með hvata til arðsamra fjárfestinga og hárra tekna með lágum sköttum og fáum skorðum að hálfu hins opinbera til athafna, ef þær ganga ekki á rétt annarra, hvorki núlifandi né komandi kynslóða.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband