Færsluflokkur: Kjaramál

Röng ráð við vitlausu stöðumati

Meginviðhorf vinstri grænna í þessari kosningabaráttu eru fallin um koll.  Með öðrum orðum er undirstaða áróðurs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017 reist á ósannindum. Það er mikið áhyggjuefni, ef vinstri grænum tekst að tæla fólk um hríð til stuðnings við sig á fölskum forsendum á öld upplýsinganna.  Enn meira áhyggjuefni er, að í sjálfsblekkingu sinni um stöðu samfélagsins mun VG í ríkisstjórn framkvæma, eins og sýndarveruleiki flokksbroddanna sé sannleikur.  Landsmenn eru þá í stöðu skipverja undir stjórn blinds skipstjóra með bilaðan áttavita. Hvað má verða slíkum til bjargar ?

Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum frambjóðendum VG verið eins og biluð plata, sem í síbylju fer með utan að lærðar staðleysur um óréttlætið í íslenzku samfélagi, sem stafi af mjög ójafnri tekjuskiptingu og ójafnri eignadreifingu á meðal íbúanna.  Nú er ekki lengur hægt að hækka skattana undir klisjunni: "Hér varð hrun", heldur sé nú þjóðarnauðsyn að hækka skatta til að jafna tekjuskiptingu og eignadreifingu í íslenzka samfélaginu.  Þessi málflutningur vinstri grænna er illa þefjandi "bolaskítur", hreinræktað bull, reist á samfélagslegum bábiljum vindmylluriddara. 

Það er nákvæmlega engin þörf á að hækka neina skatta núna.  Þvert á móti eru slík heimskupör stórhættuleg við núverandi efnahagsaðstæður og geta framkallað hér "harða lendingu" með "stagflation", þ.e. efnahagslega stöðnun með verðbólgu og atvinnuleysi.  Skipið er dauðadæmt með blindan skipstjóra og biluð siglingatæki í brúnni.  

Bábilja VG #1: Það er svo mikill tekjuójöfnuður á Íslandi, að nauðsynlegt er að þrepskipta tekjuskattinum enn meir og hækka jaðarskattheimtuna:

Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið hjá VG, sem sýnir, að meginmálflutningur flokksins eru lygar einar, og ráðstafanirnar verða þess vegna stórskaðlegar fyrir hagkerfið.  Flokkurinn er algerlega ótrúverðugur, því að hann reisir ekki málflutning sinn á staðreyndum, heldur hugarórum, og  flokksmenn VG stunda hreint lýðskrum.

Samkvæmt nýjustu gögnum frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, er Ísland í langneðsta sæti ójafnaðarlistans, GINI, um ójafna tekjuskiptingu, þar sem efst tróna Síle - með 47 stig, Mexíkó-46 og Bandaríkin-39, en neðst eru Ísland-23, Noregur-25 og  Danmörk-25.  Það er 10 % munur á Íslandi og Noregi.  Þetta er heilbrigðisvottorð fyrir íslenzka þjóðfélagið, og því ber að fagna, að jöfnuðurinn hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þeirrar stefnu í kjarasamningum að hækka lægstu laun tiltölulega mest.  Það er hins vegar hægt að ganga svo langt í jöfnun ráðstöfunartekna, að nauðsynlegur hvati til að klífa upp tekjustigann verði of veikur.  Þá tapar allt samfélagið, af því að slíkt kemur niður á landsframleiðslunni.  

Bábilja VG #2: Eignadreifingin er svo ójöfn á Íslandi, að nauðsynlegt er að taka upp eignaskatt, sem lygalaupar VG nefna auðlegðarskatt:

Samkvæmt gögnum frá Credit Suisse, sem Halldór Benjamín Þorbergsson vitnar til í ágætri Morgunblaðsgrein sinni 12. október 2017:

"Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi":

"Þar kemur fram, að eignajöfnuður á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi.  Í heildarsamanburði Credit Suisse er fjöldi ríkja með minni eignaójöfnuð en Ísland, en þau eiga það sammerkt að vera mun fátækari ríki.  Það er jákvæð fylgni á milli eignaójöfnuðar ríkja og ríkidæmis þeirra.  Lægra menntunarstig dregur úr [eigna] ójöfnuði.  Aukið ríkidæmi þjóða eykur hlutfallslegan [eigna] ójöfnuð vegna dreifingar fjármagns og framleiðslutækja.  Jöfn dreifing fjármagns og fjármuna hefur verið reynd; sú tilraun gekk ekki vel." 

Blautlegir draumar VG-forkólfa fjalla um þetta síðast nefnda, þ.e. að ná fram hérlendis á endanum jafnri dreifingu fjármagns og fjármuna, en það er ekki hægt, nema skapa hér fátæktarríki, alræði öreiganna.  Vinstri grænir eru úlfar í sauðargæru.  Þeir koma óheiðarlega fram, breiðandi yfir nafn og númer.

Það er þess vegna ákveðið hagstjórnarlegt afrek á Íslandi að ná einu mesta ríkidæmi heims sem þjóð og á sama tíma að vera með mesta eignajöfnuð ríkra þjóða. 

Loddarar vinstrisins halda því líka fram í þessari kosningabaráttu, þar sem hvorki er skeytt um skömm né heiður, að eignaójöfnuður fari vaxandi á Íslandi.  Þetta er rétt ein bábiljan, fullyrðing, sem er algerlega úr lausu lofti gripin.  Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands voru 62 % eigin fjár á Íslandi í eigu þeirra 10 % heimila, sem mest áttu eigið fé árið 2016.  Á velmektardögum Samfylkingar og VG, var hlutfallið hæst og náði þá 86 %, en hefur farið stöðugt lækkandi síðan. Að meðaltali tímabilið 1997-2016, 20 ára skeið, er hlutfall 10 % heimila með mest eigið fé 64 % af heildar eiginfé, svo að hlutfallið er núna undir meðaltali. 

Hvaðan hafa bullustampar Samfylkingar og VG þá vizku sína, að eignaójöfnuður á Íslandi hafi farið vaxandi að undanförnu ?  Þetta er fullkomlega ómarktækt fólk.  Málflutningur þess er reistur á sandi !

 Merki Sjálfstæðisflokksins

 

 

 


Sósíalismi er ekki svarið

Landsmenn standa frammi fyrir langtíma hagvaxtarrýrnun af völdum óhagstæðrar þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar.  Að öðru óbreyttu mun þetta leiða til hægari lífskjarabata þjóðarinnar og að lokum lífskjararýrnunar, ef fer fram sem horfir.

Svo kann að fara af þessum sökum, að landsmenn upplifi aldrei aftur viðlíka hagvöxt og í fyrra, 7,2 %, og að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi ekki mikið úr þessu. Svona svartsýni styður mannfjöldaspá Hagstofu Íslands.  Á hálfri öld, 2017-2065, mun fjöldi fólks yfir 64 ára aldri 2,4 faldast, hækka úr 50 k í 120 k.  Hið s.k. framfærsluhlutfall, þ.e. fjöldi fólks undir tvítugu og yfir 64 sem hlutfall af fjöldanum 20-64 ára mun á sama tíma hækka úr 51 % í 72 %.  Þetta er mjög íþyngjandi breyting fyrir samfélagið, því að árlegur sjúkrakostnaður fólks yfir 64 ára aldri er að jafnaði ferfaldur á við árlegan sjúkrakostnað yngri borgaranna.

Samkvæmt Sölva Blöndal, hagfræðingi hjá GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum, 23. ágúst 2017, má bást við, að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2015-2050 m.v. 3,0 % raunaukningu á ári, fara úr 7,0 % í 15,2 %.  Þetta þýðir með núverandi verðlagi og hlutdeild ríkisins í sjúkrakostnaði yfir 200 miaISK/ár útgjaldaauka ríkisins.  Hvernig í ósköpunum á að fjármagna þetta ?

Hjá OECD hafa menn komizt að því, að meðaltal ríkissjóðsútgjalda til heilbrigðismála muni árið 2060 nema 14 % af VLF og hafa orðið ósjálfbær um miðja öldina, þ.e. eitthvað verður undan að láta á útgjaldahlið ríkisfjármálanna.  Kerfið hrynur. 

Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast nú þegar til að draga úr tjóninu, sem blasir við.  Er meiri sósíalismi svarið ?  Nei, áreiðanlega ekki.  Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á nýlegum flokksráðsfundi eins og Hugo Chavez áður en hann kollsigldi ríkasta landi Suður-Ameríku í gjaldþrot:

"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."

Stefna Katrínar og hennar nóta birtist við afgreiðslu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi.  Þær fólu í sér svo mikla hækkun ríkisútgjalda á næstu árum, að þær mundu grafa undan getu ríkisins til að takast á við öldrunarvandann, sem við blasir í framtíðinni.  

Það eru aðeins tvær leiðir til að fjármagna útgjaldahugdettur vinstri manna.  Annaðhvort með skuldasöfnun eða skattahækkunum.  Hvort tveggja dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til langs tíma og er þannig ávísun á enn stórfelldari kjaraskerðingu barna okkar og barnabarna en ella verða nauðsynlegar.

Skynsamlegustu viðbrögðin núna við aðsteðjandi vanda eru þríþætt:

  1. Reyna að bæta lýðheilsuna með fræðsluátaki í skólum og í fjölmiðlum um skaðsemi óhófsneyzlu, hreyfingarleysis og óholls matarræðis.  Ef þetta leiðir til betri heilsu eldri borgara, sparast opinber útgjöld, þótt langlífi aukist.  
  2. Reyna að lækka einingarkostnað á hvers konar þjónustu hins opinbera.  Til þess hafa aðrar þjóðir nýtt einkaframtakið.  Af hverju er það talið ósiðlegt hér, sem er viðurkennd sparnaðarleið fyrir skattborgarana erlendis ?  Kasta verður kreddum og pólitískum fordómum á haf út, þegar meðferð skattfjár er annars vegar.  Um þetta skrifar Sölvi Blöndal í téðri grein: "Áskorunin felst m.a. í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar.  Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög o.fl.  Sá, sem aflar fjárins, þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni.  Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir, sem vert er að nefna, eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar."  Ef innflytjendur eiga að styrkja hagkerfið, þurfa þeir að hafa menntun og þekkingu, sem spurn er eftir hér. Ekki er víst, að afkvæmi þeirra fjölgi sér hraðar en "frumbyggjarnir".
  3. Nýta verður núverandi svigrúm ríkisfjármála til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs, því að að einum áratug liðnum mun "ellibyrðin" hafa vaxið til muna.   

 Hugmyndafræði vinstri manna er meira í ætt við trúarbrögð en stjórnmálastefnu, því að annars væri hugmyndafræði þeirra löngu dauð vegna slæmrar reynslu af henni á sviði efnahagsmála og á sviði frelsis einstaklinga og félagasamtaka.  Hugmyndafræði vinstri manna á enn verr við á 21. öldinni en áður, því að nú verður að setja aukna verðmætasköpun á oddinn sem aldrei fyrr til að "hinn öfugi aldurspýramídi" hrynji síður.  Um þetta skrifar Óli Björn Kárason, Alþingismaður, í ágætri miðvikudagsgrein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2017,

"Játning: ég mun aldrei skilja sósíalista":

"Hugmyndafræði vinstri manna - sósíalista - gefur ekkert fyrir þjóðfélag frjálsra einstaklinga, sem eru fjárhagslega sjálfstæðir.  Mælikvarði velferðar og réttlætis [þeirra] mælir umsvif ríkisins.  Íslenzkir vinstri menn - líkt og skoðanabræður þeirra í öðrum löndum - byggja á þeirri bjargföstu trú, að ríkið sé upphaf og endir allra lífsgæða.  Aukin umsvif ríkis og annarra opinberra aðila er markmið í sjálfu sér, en [eru] ekki aðeins æskileg."

 

 

 

 


Um laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Nýleg skýrsla Hafrannsóknarstofnunar - Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar á milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi - olli Vestfirðingum og fleirum gríðarlegum vonbrigðum.  Þetta var þó ekki áhættumat, heldur líkindamat, því að áhættumat fæst bæði við líkindi og afleiðingar atburðar.  Á grundvelli líkinda á, að strokulax úr kvíum nái að æxlast með náttúrulegum laxi í tveimur ám í Ísafjarðardjúpi, lagðist stofnunin gegn sjókvíaeldi á ógeltum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir, að opinbert burðarþolsmat gæfi til kynna, að lífríki Ísafjarðardjúps mundi þola 30 kt (k=þúsund) af laxi í sjókvíum án tillits til erfðablöndunar.  Hver er áhættan ?  Hér verður litið á afleiðingar þess að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi á mannlífið við Djúpið og á laxalífið. 

Þegar vandað er til ákvörðunar, er ávinningur metinn hlutlægt á móti tjóninu.  Hlutlægur mælikvarði er ætlaður fjárhagslegur ávinningur og ætlað fjárhagslegt tap.

Fyrst að meintum ávinningi.  Mikið hefur verið skrifað í blöðin um málefnið og margt tilfinningaþrungið, svo að ljóst er, að mörgum er heitt í hamsi, enda miklir hagsmunir í húfi.  Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, reit ágæta hugvekju í Morgunblaðið, 22. júlí 2017, 

"Frá yztu nesjum samtímans":

"Viðfangsefnið er líka annað, þar sem spurningunni um, hvort hægt sé að lifa af landsins gæðum frá ári til árs, hefur verið skipt út fyrir aðra um, hvernig bæta á lífskjör í landinu án þess að mega nýta frekar auðlindir þess með sjálfbærum hætti."

Þetta er rétt greining hjá þingmanninum á núverandi stöðu atvinnuþróunar í landinu.  Megnið af hagkerfi landsins er reist á hagnýtingu náttúrugæða, og nú er að bætast við þá flóru fiskeldi, sem getur orðið verðmæt stoð, sem hefur tekjuaukandi og sveiflujafnandi áhrif á efnahagslífið.  Fyrir landið allt er þess vegna til mikils að vinna, þar sem fiskeldið jafnar atvinnuréttindi fólks í landinu vegna nýrra og verðmætra tækifæra á landsbyggðinni.  

Vestfirðingum þykir að sér þrengt að hálfu ríkisvaldsins varðandi atvinnuuppbyggingu í sinni heimabyggð, og það er auðskilið.  Teitur Björn tekur dæmi:

"Þrjú brýn framfaramál í deiglunni á Vestfjörðum eru nokkuð lýsandi dæmi fyrir baráttu byggðanna hringinn um landið.  Þetta eru í fyrsta lagi vegur um Barðaströnd í stað vegslóða, í öðru lagi raforkuflutningskerfi, sem slær ekki út við fyrsta snjóstorm hvers vetrar og í þriðja lagi skynsamleg uppbygging á einni umhverfisvænstu matvælaframleiðslu, sem völ er á."

Hvað er "skynsamleg uppbygging" fiskeldis ?  Er hún aðeins fyrir hendi, ef engin staðbundin óafturkræf breyting verður á lífríki náttúrunnar, eða er hægt að samþykkja slíkar breytingar, ef metið fjárhagstjón er t.d. innan við 5 % af metnum fjárhagslegum ávinningi ?

Alþingismaðurinn skrifar síðan, sennilega fyrir hönd langflestra Vestfirðinga, sem nú sjá breytta og bætta tíma innan seilingar, ef ríkisvaldið ekki leggst þversum:

"Þess vegna er það ekki í boði, að sanngjarnri kröfu íbúa á Vestfjörðum um eðlilega uppbyggingu innviða sé nú svarað með skeytingarleysi eða hiki af hálfu ríkisvaldsins og stofnana þess.  Það er líka ótækt, að á lokametrum langs og lögbundins stjórnsýsluferils sé öllu til tjaldað af hálfu þrýstihópa til að stöðva mál og teflt af óbilgirni til að knýja fram sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna."

Það er hægt að taka heils hugar undir það, að ríkisvaldinu ber að veita almannahagsmunum brautargengi.  Ef þeir brjóta á lögvörðum réttindum einstaklinga, komi fullar bætur fyrir að Stjórnarskrá og lögum.  Þetta getur átt við um vegalögn, raflínulögn og fiskeldi úti fyrir strönd og í grennd við árósa. 

Kristín Hálfdánsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, talar sennilega fyrir munn margra þar.  Hún hóf grein í Morgunblaðinu 15. ágúst 2017,þannig:

"Laxeldi í Djúpinu":

"Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum er ekkert mál stærra eða mikilvægara en, hvort laxeldi í Ísafjarðardjúpi fái brautargengi.  Engin önnur atvinnu- og verðmætasköpun er sjáanleg til að byggja upp nýjar meginstoðir í atvinnulífi á þessu svæði til framtíðar.  Skapað vel launuð og fjölbreytt störf, sem munu hafa úrslitaáhrif á byggðaþróun og snúa áratuga langri hnignun í sókn fyrir íbúana."

Hér er ekki lítið undir, heldur getur ákvörðun um sjókvíaeldi í Djúpinu skipt sköpum um, hvort byggðin fær að blómstra í fjölbreytileika atvinnulífs og mannlífs eða þarf enn að heyja varnarbaráttu.

Hver yrði ávinningurinn af 30 kt/ár sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi ?  

Samkvæmt Pétri G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og formanni Fjórðungssambands Vestfirðinga, eru nú "180 bein störf í kringum fiskeldi á Vestfjörðum, skattspor nær milljarði. Í áætlunum fiskeldisfyrirtækja er gert ráð fyrir 700-800 beinum störfum - sé miðað við, að varfærnislegt burðarþol Hafrannsóknarstofnunar verði nýtt.  Í verðmætum má reikna með 60 milljörðum [ISK] í útflutningstekjum."

Burðarþolsmat Hafró fyrir Ísafjarðardjúp hljóðaði upp á 30 kt/ár.  Frumráðlegging stofnunarinnar var um að sleppa sjókvíaeldi norsks lax í Ísafjarðardjúpi, sem gæti hrygnt í tveimur laxveiðiám þar með ósa út í Djúpið, af ótta við kynblöndun og erfðabreytingar.  Þær geta í versta tilviki orðið svo skaðlegar, að laxastofnar þessara tveggja áa deyi út, þ.e. úrkynjist og lifi ekki af veruna í hafinu.  

Hafrannsóknarstofnun ráðleggur að leyfa allt að 50 kt/ár laxeldi í sjókvíum Vestfjarða án Ísafjarðardjúps.  Pétur G. Markan gæti þess vegna átt við, að 700-800 ársverk hjá fiskeldisfyrirtækjunum sinni fiskmassa í sjókvíum að jafnaði 80 kt/ár ásamt skrifstofustörfum og annarri nauðsynlegri þjónustu við framleiðsluna. Þetta þýðir 10 ársverk/kt, þegar fullri framleiðslu verður náð og þar af leiðandi hámarks framleiðni. 

Þetta passar við upplýsingar frá Noregi um 9500 bein ársverk (og 19000 óbein) eða 7,3 bein störf/kt.  Það er reiknað með lægri framleiðni í fiskeldi á Íslandi en í Noregi, af því að framleiðslan verður væntanlega alltaf meira en tíföld í Noregi. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi skapar hvert beint ársverk MNOK 2,7, sem er um MISK 36.  Vegna minni framleiðni verða þetta e.t.v. 0,75 x 36 = MISK 27 á Íslandi.  

Heimfært á 30 kt/ár laxeldi í Ísafjarðardjúpi er þar um að ræða 300 bein ársverk og 600 óbein ársverk dreifð um landið, þó trúlega mest á Vestfjörðum. Þetta gæti þýtt fólksfjölgun í Ísafjarðardjúpi um 2400 manns. Verðmætasköpun þessara beinu ársverka verður V=300 x 36 MISK/ár = 11 miaISK/ár.  Þetta er hinn staðbundni fjárhagslegi ávinningur af að leyfa 30 kt/ár laxeldi (í sjókvíum) í Ísafjarðardjúpi.  

Hvert getur hámarks tjónið af að leyfa þetta fiskeldi orðið ?  Það verður væntanlega, ef laxinn hverfur úr Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá, en þar hefur meðalveiðin verið um 500 laxar/ár.  Því var haldið fram af Magnúsi Skúlasyni, formanni Veiðifélags Þverár og bónda í Norðtungu í Fréttablaðsgrein 18. júlí 2017, "Að skapa störf með því að eyða þeim annars staðar", að með allri þjónustu skili sala veiðileyfa um 20 miaISK/ár inn í landið.  Ef þessu er deilt á 30´000 fiska/ár, þá skila þessar veiðileyfatekjur 670 kISK/fiskHámarkstjón í Djúpinu er þá 670 kISK/fisk x 500 fiskar/ár = 335 MISK/ár eða 3 % af ávinninginum.  Laxeldisfyrirtækin gætu tryggt sig fyrir þessu tjóni eða lagt brotabrot af sölutekjum sínum í tjónasjóð á hverju ári.  Ef veiðin í ánum tveimur minnkar meira en að meðaltali yfir landið, myndavélar sýna eldislax við ósana og hann veiðist í meira en 4 % magni í ánum, þá verði skylt að bæta tjónið.

Ef gert er ráð fyrir stærð hrygningarstofns 700 löxum í téðum tveimur ám, þá kveður varúðarregla Hafrannsóknarstofnunar á um, að ekki megi fleiri en 0,04 x 700 = 28 eldislaxar ganga í árnar.  Hvert er þá hámarks leyfilegt strokhlutfall upp í árnar til að hrygna, SHmax, af fjölda eldislaxa ?

Áætlaður fjöldi fiska í eldi er 30 kt/2 kg = 15 M fiskar.  15 M x SHmax = 28 ;  SHmax = 1,9 ppm/ár.  Þetta er sá "hámarksleki", sem laxeldisfyrirtækin ættu að keppa að.

Geta laxeldisfyrirtækin sýnt fram á, að þau geti uppfyllt þessa kröfu ?  Á Íslandi er líklega ekki enn til marktækur gagnagrunnur fyrir slíka tölfræði, en hann mun koma, þegar laxeldinu vex fiskur um hrygg.

Fyrst er þess þá að geta, að með tiltækum mótvægisaðgerðum virðist, að í Noregi komist aðeins lítill hluti strokufiska upp í árnar og hrygni þar, e.t.v. innan við 2 %. Það hækkar auðvitað leyfilegt strokhlutfall úr eldiskvíunum, e.t.v. upp í 126 ppm.

Magnús Skúlason skrifar:

"Samkvæmt norskum rannsóknum liggur fyrir, að einn lax sleppur að meðaltali fyrir hvert alið tonn af eldislaxi."  Ef þetta ætti við um Ísafjarðardjúp með 30 kt eldismassa, þá slyppu þar árlega út 30 þúsund laxar, og sleppihlutfallið væri 2000 ppm.  Þetta stenzt ekki skoðun á upplýsingum frá norsku Umhverfisstofnuninni.

Í Fiskifréttum birtist 17. ágúst 2017 fróðleg grein um þetta efni eftir Svavar Hávarðsson, blaðamann,

"Kolsvört skýrsla um villtan lax í Noregi".

Greinin hófst þannig:

"Mikil hætta steðjar að norskum villtum laxastofnum, og allar helztu ástæður hennar eru raktar til laxeldis í sjókvíum.  Erfðablöndun er þegar orðin útbreidd og mikil."

Aðstæður á Íslandi og í Noregi eru ósambærilegar að þessu leyti, því að laxeldið er þar stundað úti fyrir ósum allra helztu laxveiðiáa Noregs, en í tíð Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, var sjókvíaeldi bannað árið 2004 úti fyrir ströndum Vesturlands, Norðurlands (nema Eyjafirði) og Norð-Austurlands, og verður ekki stundað úti fyrir Suðurlandi fyrir opnu hafi. Fjarlægðin er bezta vörnin gegn genaflæði á milli stofna. Fáeinir laxar geta villzt af leið, en það getur engin teljandi áhrif haft á eðli íslenzku laxastofnanna, nema staðbundin í viðkomandi firði. 

Það er lykilatriði við að meta líkur á erfðabreytingum á íslenzkum löxum í Ísafjarðardjúpi, hvað búast má við miklum "fiskaleka" úr kvíunum.  Tölur frá Noregi geta verið leiðbeinandi í þeim efnum, því að unnið er eftir sama stranga staðli báðum löndunum. Af tilvitnaðri Fiskifréttargrein má "slá á laxalekann" í Noregi:

"Norsk fyrirtæki framleiddu 1,2 Mt af eldislaxi árið 2016.  Frá þessum fyrirtækjum var tilkynnt um 131 k laxa, sem sloppið höfðu úr kvíum - samanborið við 212 k laxa að meðaltali áratuginn á undan.  Þessum tölum taka vísindamennirnir með fyrirvara; segja, að rannsóknir sanni, að tvisvar til fjórum sinnum fleiri laxar séu líklegir til að hafa sloppið en tilkynnt er um."

Ef reiknað er með, að 393 k laxar hafi sloppið úr norskum eldiskvíum árið 2016, þá gæti lekahlutfallið hafa verið: LH=393 k/720 M=550 ppm, sem er óviðunandi hátt fyrir íslenzkar aðstæður.  Það mundi t.d. þýða, að 8250 laxar slyppu úr sjókvíum í Ísafjarðardjúpi með 30 kt eldismassa. Þetta er tífaldur hrygningarstofn laxa í Ísafjarðardjúpi, en þess ber að gæta, að með eftirliti og mótvægisaðgerðum er hægt að fanga megnið af þessum fiskum áður en þeir ná að hrygna í ánum.  

Jón Örn Pálsson, sjávarlíffræðingur, hefur sagt, að 6000 eldislaxar á ári hafi leitað í norskar ár árin 2014-2015.  Ef 6 k af 393 k eldislaxar hafa leitað í norskar ár árið 2016, þá er það 1,5 % af þeim, sem sluppu.  Heimfært á Ísafjarðardjúp þýðir það, að 0,015x8250=124 eldislaxar sleppa upp í ár, þar sem stofninn er um 700 fiskar.  Hlutfallið er tæplega 18 %, en varúðarmark Hafrannsóknarstofnunar er 4 %.  Samkvæmt þessu má telja fullvíst, að í umræddum tveimur ám muni verða erfðabreytingar á laxastofnum. Það er hins vegar algerlega háð sleppihlutfallinu og virkum mótvægisaðgerðum.  Það er þess vegna ekki hægt að slá því föstu á þessari stundu, að með því að leyfa 30 kt laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verði þar skaðlegar erfðabreytingar á villtum laxastofnum í þeim mæli, að löxum taki þar að fækka. 

Fjárhagslegur ávinningur er svo miklu meiri en hugsanlegt tjón, að réttlætanlegt er að leyfa að fara af stað með lífmassa í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi 15 kt og stunda um leið vísindarannsóknir á lífríkinu og fylgjast náið með "lekanum" og fjölda eldislaxa, sem ná upp í árnar.  Tímabundin rannsóknar- og eftirlitsáætlun væri samin af viðkomandi fiskeldisfyrirtækjum og Umhverfisstofnun og kostuð af hinum fyrrnefndu.  Mótvægisaðgerð gæti líka verið fólgin í fjölgun náttúrulegra laxa í Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá.

Nú hefur starfshópur Landssambands fiskeldisfyrirtækja, Veiðiréttarhafa í íslenzkum ám o.fl. skilað skýrslu til ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem reifuð er uppstokkun á umgjörð fiskeldis á Íslandi.  Flest stendur þar til bóta, en í ljósi óljósra líkinda á hugsanlegu tjóni af völdum laxeldis í Ísafjarðardjúpi og gríðarlegra hagsmuna íbúanna á svæðinu, sem eru meira en þrítugfaldir hugsanlegt hámarkstjón, er ekki hægt að rökstyðja bann með niðurstöðu "áhættugreiningar".  Rökrétt hefði verið á grundvelli "áhættugreiningar" að leyfa minna laxeldi, með ströngum skilyrðum, en burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar á Ísafjarðardjúpi skilgreindi.  Hver veit, nema Alþingi komist að slíkri niðurstöðu ? 

 

 

 

 

 

 

 


Myntþrefið

Það vakti vissulega athygli í júlí 2017, er fjármála- og efnahagsráðherra Íslands reit greinarstúf í Fréttablaðið, þar sem ráðherra peningamálanna áskildi sér rétt til þess að hafa þá skoðun, að réttast væri að leggja íslenzku myntina, ISK, niður.  Líklegt og eðlilegt er, að þetta sjónarmið ráðherrans hafi fallið í grýttan jarðveg á meðal landsmanna, því að flokkur ráðherrans tók dýfu í skoðanakönnunum í kjölfarið.  Skyldi engan undra, enda er hér um einsdæmi að ræða frá stofnun embættis fjármálaráðherra.  Þótt þessi fjármálaráðherra ynni sér ekkert annað til frægðar, er hann þar með kominn í annála.  Líklega er þessi sprungna blaðra bara til að undirstrika málefnafátækt flokks ráðherrans, sem er eins máls flokkur, og þetta eina mál er nú sem steinbarn í kviði flokksins.

Ráðherrann varði sig með því að vísa til Evrópu, en til höfuðstöðva Evrópusambandsins, ESB, í Brüssel liggja pólitískar taugar ráðherrans, eins og kunnugt er.  Hann hélt því fram, að fjármálaráðherrar evrulandanna hefðu í raun gert það sama og hann, þegar þessi lönd fórnuðu gjaldmiðlum sínum fyrir evruna.  Þetta er röng og óviðeigandi samlíking hjá ráðherranum, enda ber aðildarlöndum ESB, sem uppfylla Maastricht-skilyrðin, að taka upp evru.  

Það er þó vitað, að evran er pólitískt hrúgald, sem hróflað var upp aðallega að ósk Frakka, sem þoldu ekki samanburðinn á milli sterks Deutsche Mark, DEM, og veiks fransks franka.  Misjafn styrkur þessara tveggja gjaldmiðla endurspeglaði þó aðeins muninn á efnahagsstjórn þessara ríkja, skipulagshæfni og dugnaði. Nú heldur Þýzkaland uppi gengi evrunnar, sem t.d. hefur styrkzt um 15 % gagnvart GBP frá Brexit kosningunum í júní 2016.  

Þegar kommúnistastjórnir Austur-Evrópu voru komnar að fótum fram, þá fengu Vestur-Þjóðverjar gullið tækifæri með beitingu DEM gegnvart ráðstjórninni í Moskvu til að láta draum allra Þjóðverja um endursameiningu Þýzkalands rætast.  Enginn veggur, heldur ekki Kremlarmúrar, er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann. Bandaríkjamenn voru hlynntir endursameiningunni, en hin hernámsveldin tvö, Bretar og Frakkar, drógu lappirnar.  Þá ákvað Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, að egna fyrir Francois Mitterand, þáverandi forseta Frakklands, með ástfóstri Frakka, evrunni.  Hann lofaði því, að ef Frakkar samþykktu endursameiningu Þýzkalands, þá mundu Þjóðverjar fórna þýzka markinu, DEM, og taka upp evru.  Mitterand gekk að þessu, og þegar Bretar voru einir eftir, samþykktu þeir með semingi endursameiningu Þýzkalands. Það hefur þó frá fyrstu tíð verið þáttur í utanríkisstefnu Englands að halda Þjóðverjum sundruðum.  Þeir tímar eru liðnir, þótt Þjóðverjar hafi tapað gríðarlegum landsvæðum í umróti 20. aldarinnar.  Nú sækir sundrungarhættan Bretana sjálfa heim.   

Síðla vetrar árið 2000, eftir að evran leit dagsins ljós og var komin í veski Evrópumanna, var blekbóndi á ferðinni í vestanverðu Þýzkalandi á bílaleigubíl og ók eftir sveitavegum, sem sumir hverjir voru fyrstu hraðbrautir Þýzkalands (þá Þriðja ríkisins).  Hann mætti þá bændum og búaliði á dráttarvélum með heyvagna í eftirdragi, fulla af glaðbeittum Germönum á leið á Karnival, kjötkveðjuhátíð.  Á einn vagnanna var strengdur borði með ógleymanlegum texta, sem blekbónda fannst stafa beint út úr þýzku þjóðarsálinni:"D-Mark, D-Mark, Schade das du alles vorbei ist".  

Þýzka þjóðin saknaði myntar sinnar, sem vaxið hafði með henni úr rústum heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 og  endurspeglaði sparsemi, eljusemi, heiðarleika, kunnáttu og seiglu þýzks almennings, des deutschen Volkes, og hún átti erfitt með að sætta sig við þessa fórn, enda var hún afrakstur pólitískra hrossakaupa.   Die Bundesbank, eða þýzki Seðlabankinn, hafði alla tíð, og hefur enn, miklar efasemdir um grundvöll evrunnar, enda er stöðugur reipdráttur í höfuðstöðvum evrubankans í Frankfurt am Main um peningamálastjórnunina á milli lífsviðhorfa rómanskra og germanskra þjóða.

Í stjórnartíð Tonys Blair, formanns Verkamannaflokksins brezka, sem vildi, að Bretar fórnuðu sterlingspundinu og tækju upp evru, var unnin ítarleg greining á kostum þess og göllum fyrir Breta að taka upp evru.  Þá var Gordon Brown fjármálaráðherra, sá sem varð síðar alræmdur sem forsætisráðherra fyrir að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga í Hruninu, sem olli m.a. hruni íslenzkra banka í London.  Þessi greining leiddi í ljós, að frumskilyrði þess, að upptaka evru gæti gagnazt Bretum, en ekki skaðað þá, væri, að hagkerfi Bretlands og Þýzkalands væru í fasa.  Svo var ekki þá og er ekki enn, og þess vegna hafnaði ríkisstjórn Bretlands upptöku evrunnar.  Hægt er að efast um, að til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið á Bretlandi í júní 2016 um aðildina að ESB, ef GBP hefði verið fórnað á sinni tíð.  

Hvalreka fyrir áhugafólk um myntmál Íslands má nefna fræðandi og röggsamlega samda grein, "Misskilningur um krónuna leiðréttur", sem Viðskiptablaðið birti þann 27. júlí 2017, eftir hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason.  Greinin hófst þannig:

"Baráttumenn fyrir því að leggja íslenzku krónuna niður, byggja mál sitt að verulegu leyti á misskilningi og jafnvel staðleysum.  Þeir halda því fram, að [íslenzka] krónan valdi sveiflum og óstöðugleika í efnahagslífinu.  Þeir fullyrða, að krónan sé orsökin fyrir hærri vöxtum á Íslandi en í nágrannalöndunum.  Hvort tveggja er í grundvallardráttum rangt."

Hér kveður við nýjan tón og allt annan en þann, sem m.a. heyrist nú klifað á í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.  Prófessor Ragnar bendir síðan á 2 raunverulegar orsakir óstöðugleika í íslenzku efnahagslífi hingað til.  Hin fyrri er smæð hagkerfisins, sem veldur því, að færri stoðir eru undir því.  Ef ein stoðin brestur, t.d. af markaðsástæðum, er hætt við, að hinar gefi eftir vegna ofálags, og þá myndast óstöðugleiki með verðbólgu og jafnvel atvinnuleysi.

Hin ástæðan, sem prófessorinn tilgreinir, er, "að grunnatvinnuvegir á Íslandi eru í óvenju ríkum mæli byggðir á náttúrugæðum".  Þetta á við um landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustuna og að vissu leyti um orkukræfan iðnað, en þessi náttúrugæði, sem landsmenn nýta núorðið, eru af misjöfnum toga, svo að áhættudreifingin er þar með allt öðrum og betri hætti fyrir afkomu hagkerfisins en áður var.  Þetta þýðir, að þótt sveiflur í náttúrunni og á viðkomandi mörkuðum hafi áhrif upp og niður á afkomu hverrar greinar, þá er sveiflan sjaldnast í fasa hjá tveimur, hvað þá öllum.  Náttúrunýtingin er miklu fjölbreyttari en áður, sem þýðir minni hættu á efnahagslegum óstöðugleika af völdum náttúrunnar.  

"Þannig mætti fara yfir hverja hagsveifluna á fætur annarri á Íslandi.  Raunveruleikinn er auðvitað sá, að þær eiga rætur sínar að rekja til breytinga í raunverulegum framleiðslutækifærum og framleiðslugetu, en ekki þess gjaldmiðils, sem notaður hefur verið í landinu."

Þá andmælir prófessor Ragnar með kröftugum hætti þeirri staðhæfingu, að gjaldmiðillinn, ISK, sé orsök hárra vaxta á Íslandi, enda hafi raunvextir alls ekki alltaf verið háir hér á landi.  Hann kveður ástæðu hárra vaxta vera, "að hið opinbera, þ.e. sá armur þess, sem nefnist Seðlabanki Íslands, hefur einfaldlega ákveðið að hafa háa vexti á Íslandi."

"Það er ekki heldur rétt, þótt Seðlabankinn reyni að halda því fram, að háir vextir séu nauðsynlegir vegna þess, hvað krónan er smá.  Þvert á móti má færa að því sterk rök, að það sé einmitt vegna smæðar myntarinnar, sem ófært sé að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annars staðar."

Myntin endurspeglar aðeins þjóðarbúskapinn og árangur efnahagsstjórnunarinnar.  Hún er ekki sjálfstæður gerandi öðru vísi en þannig, að breytingar á gengi ISK leiða hagkerfið í átt að nýju jafnvægisástandi.  Þannig leiðir góður árangur útflutningsgreina til hækkunar gengis og veikir þar með samkeppnisstöðu þessara greina.  Þetta getur þó haft í för með sér óæskileg ruðningsáhrif, eins og landsmenn hafa orðið áþreifanlega varir við undanfarin misseri.  Það hægir á aukningu ferðamannastraums til landsins vegna styrkingar ISK, en allar aðrar útflutningsgreinar líða fyrir vikið.  Tiltölulega háir stýrivextir Seðlabankans, sem eru dæmi um ranga efnahagsstjórnun við núverandi aðstæður, hafa magnað vandann, því að minna fé leitar úr landi og meira inn en ella.

Niðurlagi greinar Ragnars Árnasonar er vert að gefa góðan gaum:

"Í hagfræði eru til kenningar um hagkvæmustu myntsvæði.  Þar togast á kostir þess að eiga í viðskiptum á milli landsvæða í einni mynt, og ókostir þess að þurfa að hafa sömu peningastjórn í þeim báðum. Eitt af skilyrðunum fyrir því, að hagkvæmt geti verið að sameina myntir tveggja landsvæða, er, að hagsveiflur viðkomandi svæða séu svo samstilltar, að sama peningastjórn henti báðum.  Hvað Ísland og flest nágrannalöndin beggja vegna Atlantshafs snertir, er þessu ekki að heilsa.  Þvert á móti er það eiginlega merkilegt, hversu lítil (og jafnvel neikvæð) fylgni er á milli hagsveiflna á Íslandi og hagsveiflna í Evrópu og Norður-Ameríku.  Því myndi peningastjórn þessara landa að öllum líkindum henta Íslandi afar illa og hugsanlega valda alvarlegum búsifjum.  Efnahagsþróunin í Grikklandi í kjölfar fjármálahrunsins er dæmi um, hversu illa getur farið, þegar sjálfstæðum gjaldmiðli hefur verið varpað fyrir róða."

Ef Þjóðverjar væru enn með DEM, er talið, að það væri nú allt að 40 % sterkara en evran er nú, þ.e.a.s. í stað hlutfallsins EUR/USD=1,17 væri það nú 1,64.  Þetta er merki um gríðarlega samkeppnishæfni þýzka hagkerfisins, vegna þess að framleiðni (tæknistig) Þjóðverja er há, reglubundnar launahækkanir eru lágar (um 2 %/ár), og Þjóðverjar spara hátt hlutfall launa sinna.  Þetta veldur gríðarlegum viðskiptaafgangi hjá Þjóðverjum ár eftir ár, sem nemur um 7 % af VLF  þeirra.  Á Íslandi hefur hann undanfarið verið um 6 % af VLF, en fer minnkandi. Ríkisbúskapur Þjóðverja er í jafnvægi, á meðan rómönsku þjóðirnar safna ríkisskuldum.  Þetta ójafnvægi er tekið út með miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu.  Það hefur þó lækkað úr 12 % í kjölfar fjármálakreppunnar og niður í 9,1 % í júní 2017 samkvæmt Eurostat, Hagstofu ESB, aðallega vegna rífandi gangs í Þýzkalandi, sem býr við óeðlilega lága vexti og lágt gengi m.v. stöðu hagkerfisins.  Ef Íslendingar byggju við "fastgengi" EUR, USD, GBP eða annarrar myntar, og hefðu afhent peningamálastjórnunina öðrum, þá mundi hagkerfið sveiflast stjórnlaust á milli hárrar verðbólgu og mikils atvinnuleysis.  Það, sem skiptir landsmenn máli, er ekki heiti myntarinnar, heldur kaupmáttur ráðstöfunartekna.

Af þessum samanburði að dæma má búast við meiri óstöðugleika í hagkerfinu án ISK, þar sem hún er ekki sveifluvaldur sjálf, eins og hver hefur þó hugsunarlaust étið upp eftir öðrum.  Áhrif ISK eru að nokkru sveiflujafnandi, eins og sannaðist eftir Hrunið og er að sannast núna, með því að viðskiptajöfnuður Íslands fer minnkandi, og þróun ISK mun þá fyrr en síðar endurspegla versnandi viðskiptajöfnuð.  

Í raun þarf að kryfja þessi mál ítarlega til að komast til botns í því, hvaða lausn er líklegust til að gefa hæstan kaupmátt, en það virðist einfaldlega alls ekki vera áhættunnar virði fyrir kaupmátt landsmanna til lengdar að fórna íslenzku krónunni.   

 

 

 

 

 


Stjórnarandstaða í ruslflokki

Stjórnarandstaðan á Íslandi hefur engan annan valkost við ríkisstjórnina fram að færa en stórhækkaða skattbyrði á miðstéttina, útþenslu ríkisbáknsins með hallarekstri, verðbólgu og vinnudeilum sem afleiðingu.  

Nú síðast hafa talsmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir o.fl., tekið að fjargviðrast út af sýnilegum viðbúnaði lögreglunnar á mannamótum í Reykjavík gegn illvirkjum. Er svo að skilja af málflutninginum, að slík návist lögreglunnar sé viðstöddum hættuleg; hún dragi að illvirkja.  

Hér er svo nýstárlegur málflutningur á ferð, að nauðsynlegt er að deila þessari speki með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum, sem tekin eru upp á þessu sama í kjölfar viðbjóðslegra hryðjuverka Múhameðstrúarmanna á Vesturlöndum, sem standa nú í forneskjulegu "heilögu stríði", Jihad, gegn Vesturlöndum og þeirri menningu, sem þau standa fyrir. 

Hér er á ferðinni eitt dæmið af mörgum um glópsku fólksins í stjórnarandstöðunni.  Þau hafa löngum haldið því fram, að vörnum landsins yrði bezt fyrir komið án hervarna og án aðildar að NATO.  Nú halda þau því með sama hætti fram, að hættulegt sé að hafa í frammi sýnilegar varnir og viðbúnað gegn hryðjuverki.  Vinstri menn eru öfugmælaskáld okkar tíma, og enginn kemst með tærnar, þar sem þeir hafa hælana í fíflaganginum. Eru vinstri menn margir hverjir hérlendir sennilega lengst til vinstri í vinstra litrófinu á Vesturlöndum og svipar til "Die Linke" í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED, "Sozialistische Einheitspartei Deutschlands", sem fór með alræðisvald í DDR á sinni tíð.  Er það ekki leiðum að líkjast, eða hitt þó heldur.   

Kári er maður nefndur, Stefánsson, kenndur við Erfðagreiningu, sonur Stefáns Jónssonar, frábærs fréttamanns og liðtæks penna, fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins, sem var arftaki Kommúnistaflokks Íslands á sinni tíð.  Þrátt fyrir að vera framtaksmaður virðist Kári, þessi, vera býsna langt til vinstri í ýmsum skoðunum, en það aftrar honum þó ekki frá því að gefa núverandi stjórnarandstöðu á Íslandi falleinkunn fyrir ferlega frammistöðu.  Hann líkir henni við sveitahund, sem beit í álfótlegg föður hans forðum og vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið.  Kári ritaði um þetta óvenju skemmtilega grein í Fréttablaðið 6. júní 2017,

"Heppin þjóð":

"Og ég prísa okkur samt sæl, þótt undarlegt megi virðast.  Þegar bölvunin verður blessun, sem gerist af og til [danskt orðalag-innsk. BJo], minnir það mig gjarnan á sögu, sem ég hef oft sagt af því, þegar faðir minn sté út úr bíl við bæ í Suðursveit, og hundur rauk á hann og beit hann  í hægri fótlegginn.  Faðir minn var einfættur og með gervifótlegg úr áli hægra megin, þannig að hundgreyið fékk taugaáfall og þaut ýlfrandi frá bænum, niður brekkuna, fyrir fjóshorn og sást ekki aftur í nokkra daga.  En faðir minn leit á mig og sagði brosandi út undir eyru: "þarna sérðu, strákur, það er ekki alltaf vont að hafa glatað fæti".

Stjórnarandstaðan á Þingi er sá hundur, sem hefur sannfært mig um, að núverandi ríkisstjórn sé ekki það versta, sem hefði getað komið fyrir okkur.  Stjórnarandstaðan er gagnslaus, hugmyndasnauð og málstola.  Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim, sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra, sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér ?  Hvar er stjórnarandstaðan ?  Skyldi hún halda, að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin ?  Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því, að í þá ferð fer hún ein.  Það fylgir henni enginn.  

Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar, mundu, að þetta hefði gerað verið verra.  Við hefðum getað endað með núverandi stjórnarandstöðu í ríkisstjórn, og það er staðreynd, að þótt ríkisstjórnin sé býsna slöpp, er stjórnarandstaðan líklega verri.  Þar af leiðandi eigum við kannski að prísa okkur sæl fyrir þann gervifót, sem ríkisstjórnin er, þótt það þýði, að við verðum ein og óstudd að sjá um að veita henni aðhald.  Stjórnarandstaðan á Þingi leggur þar næstum ekkert af mörkum."

Hér tekur framtaksmaður af eðalkommaætt stjórnarandstöðuna á kné sér og lætur hana hafa það óþvegið að hætti hússins.  Hér er enginn aukvisi á ferð og augljóst, að getuleysi, flumbrugangur, kjaftavaðall og rangar áherzlur stjórnarandstöðunnar hafa gengið svo fram af vinstri manninum, að hann sér þann kost vænstan að stofna nýjan stjórnmálaflokk, "Kárínurnar", til að freista þess að berjast fyrir hugðarefnum sínum á Alþingi, þar sem þar sé enginn, sem talar máli hans.  Þetta eru nokkur tíðindi ofan á "ekki-fréttina" af stofnun Sósíalistaflokks Íslands.  Skyldu ekki vinstri menn fyllast valkvíða, þegar þeir ganga að kjörborðinu næst ?  Kannski þeir gefist þá upp á að gera upp á milli fulltrúa hins eina sannleika og kjósi bara Píratana, sem hvarvetna annars staðar eru að hverfa af vettvangi stjórnmálanna.  

Hvernig svara stjórnmálaflokkarnir kalli framtíðarinnar ?  Hvað bíður okkar í framtíðinni ?  Um það skrifaði Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og formaður menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, áhugaverða grein í Viðskiptablaðið 8. júní 2017,

"Er erfitt að spá fyrir um framtíðina ?:

"Ferðaþjónustan er gott dæmi um undirbúningsleysi stjórnvalda, en fiskveiðistjórnun og stýring á því sviði er að flestu leyti til fyrirmyndar.  Stefnumörkun, t.d. í atvinnumálum, menntamálum og á öðrum sviðum, þarf að vera mun skýrari og byggja á meira samstarfi stjórnvalda og atvinnufyrirtækja."

Er stjórnarandstaðan líkleg til afreka á þessu sviði ?  Hún vill rífa niður fiskveiðistjórnunarkerfið. Afstaða hennar til atvinnulífsins er bæði einhæf og neikvæð, enda reist á skilningsleysi á þörfum þess og getu.  Stjórnarandstaðan lítur á atvinnulífið sem skattstofn, og er sjávarútvegurinn gott dæmi um það, en hún hefur lýst fyrirætlunum sínum um stórfellt aukna skattheimtu af honum til að fjármagna aukin ríkisumsvif.  Við núverandi aðstæður mundi slíkt hafa hrun hinna minni fyrirtækja vítt og breitt um landið í för með sér, sem oft eru reist á dugnaði eins framtaksmanns eða framtakshjóna.  

"Þetta [ný iðnbylting] kallar á nýja hugsun, alveg eins og rafmagnið umbreytti þjóðfélaginu.  Við hættum fyrir löngu að tala um rafmagnið og mikilvægi þess.  Það er orðið sjálfsagður hlutur, og allt okkar líf og starf byggist á því.  Sama gildir um Internetið, það er orðið 40 ára gamalt.  Við tölum um það með öðrum hætti en áður, og það er orðið sjálfsagt til samskipta og viðskipta.  Nýting Internetsins, þráðlausra og stafrænna lausna og nýting gervigreindar, er rétt að byrja."

Það er ekki ríkisvaldið, heldur einkaframtakið, stórfyrirtæki, framtaksmenn og frumkvöðlar, sem eru í fararbroddi þessarar þróunar.  Stjórnarandstaðan vill bara skattleggja einkaframtakið undir drep og þenja út ríkisbáknið.  Þar með kæfir hún þróun og frumkvöðlastarfsemi hérlendis og veldur atgervisflótta og flótta verðmætra starfa til útlanda.  Stefna íslenzku stjórnarandstöðunnar er í þágu nýrra starfa á erlendri grundu.  

"Við verðum að taka þátt í þessari 4. iðnbyltingu, því að lífskjör Íslendinga, lífsgæði og lífsgleði, munu ráðast af því, hvernig til tekst.  Verðmætasköpun mun í vaxandi mæli byggja á hugviti, sköpun og þekkingu til að auka framleiðni og verðmætasköpun.  Þekkingin getur auðveldlega flutzt af landi brott, ef við sköpum ekki tækifæri hér á landi.  Hún verður ekki í höftum eða bundin við Ísland, eins og fasteignir, fiskveiðikvóti eða aðrar náttúruauðlindir.  Auk innlendrar þekkingar verður að laða til landsins erlenda þekkingu, erlenda nemendur og erlent vinnuafl á sviði þekkingarsköpunar, en ekki eingöngu láglaunastarfa."

Tæknibyltingin, sem Þorkell Sigurlaugsson lýsir hér, verður reist á tækniþekkingu einstaklinga, frumkvöðlum og einkaframtaksmönnum, en ekki á frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins.  Hlutverk stjórnmálamanna í þessari þróun er að skapa hagstæða efnahagslega umgjörð um þessa starfsemi, sem flyzt óhjákvæmilega þangað, sem starfsskilyrðin eru bezt, eins og Þorkell bendir á.  Stjórnarandstaðan hefur margsýnt það, þegar hluti hennar hefur verið við völd og með málflutningi sínum á síðasta og núverandi kjörtímabili, að hún hefur engan skilning á þörfum framtaksmanna, og hún hefur þannig dæmt sig úr leik sem valkostur til að leiða þjóðina inn í framtíðina, enda getur hún ekki haft augun af baksýnisspeglinum.    

 

 

 

 


"Costco-áhrifin"

Í viku 21/2017 hófst eldsneytissala og önnur vörusala Costco í Kauptúni, Garðabæ.  Blekbóndi telur hafa orðið vatnaskil í viðskiptasögu Íslands með þessum atburði.

Alla sína tíð hafa Íslendingar mátt búa við litla samkeppni söluaðila neyzluvarnings og fjárfestingarvara í landinu. Að sumu leyti hefur áhugaleysi birgja stafað af smæð markaðarins og ýmsum viðskiptahömlum, en kaupmáttur þessa markaðar hefur vaxið mikið og hömlum verið aflétt.  Afleiðingar takmarkaðrar samkeppni voru hátt vöruverð, lítið vöruúrval og oft takmörkuð gæði. Um þverbak keyrði í þessum efnum á einokunartímanum.  Samvinnuhreyfingin hélt um tíma uppi samkeppni við kaupmenn, en hún dó drottni sínum af innanmeinum, eins og kunnugt er. Kaupfélagshugsjónin stóðst innlenda framtaksmanninum ekki snúning, og danski kaupmaðurinn lagði upp laupana. 

Hingað hafa hvorki sótt erlendir bankar né neyzluvöruseljendur á smásölumarkaði fyrr en nú, að tuskusalar og hin alþjóðlega Costco-samsteypa opna hér útibú.  Hér hefur ríkt fákeppni og verðlag haldizt of hátt af þeim sökum. Til að neytendur hafi hag af markaðslögmálunum, verður að ríkja raunveruleg samkeppni, en ekki sýndarsamkeppni.   

Nú hillir undir raunverulega samkeppni á sviði neyzluvarnings og ýmissar fjárfestingarvöru heimilanna almenningi til hagsbóta, einnig þeim á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sem verzla annars staðar.  Skammtímaáhrifin eru minni ös á annatímum í "gömlu" verzlununum og lækkað vöruverð þar. 

Hvernig bregðast álitsgjafar við þessum tíðindum ?  Almennt er þessu framfaraskrefi fagnað, en þó heyrist fýlutónn úr herbúðum vinstri manna.  Þeir finna nýrri samkeppni allt til foráttu ?  Hvernig skyldi standa á því ?

Skýringarnar liggja grafnar djúpt í hugskoti vinstri mannsins.  Að vissu leyti er glæp auðvaldsins stolið frá honum.  Hatur vinstri manna á kaupmönnum hérlendis hefur lengi verið við lýði, og ekki dró úr því, þegar samvinnuhreyfingin varð undir í samkeppninni, nema á skagfirzka efnahagssvæðinu.  Hatrið hefur verið nært á meintu okri kaupmanna, sem neytendur geta nú sýnt vanþóknun sína á með fótunum.  Ánægjan með ríkjandi þjóðfélagsskipulag er líkleg til að vaxa við þessar aðstæður, og ekki mun uppdráttarsýki vinstri armsins dvína við það. 

Önnur hlið á fýlunni út í Costco er, að þar fer bandarísk verzlunarsamsteypa, jafnvel sú næststærsta þar í landi, og þar með telja kommar, að bandaríska auðvaldið hafi náð að læsa klóm sínum í íslenzka neytendur.  Það telur "Íslandskomminn" vera áfall fyrir vígstöðu sína.  "Íslandskomminn" hugsar sem svo, að nú muni bandaríska auðvaldið maka krókinn á íslenzkri alþýðu og flytja allan arðinn úr landi, sem sé alger frágangssök, og þess vegna beri að berjast gegn þessu fyrirbrigði með kjafti og klóm.  Vindmylluriddararnir láta ekki að sér hæða.

Þetta er sama vitleysan og haldið hefur verið fram gagnvart allri erlendri atvinnustarfsemi á Íslandi.  Það er horft framhjá meginatriði málsins, að hinir erlendu fjárfestar, í þessu tilviki Costco, hafa fjárfest talsvert, sumir mikið á íslenzkan mælikvarða, fjármagn kostar, og þess vegna eiga hinir erlendu fjárfestar rétt á að njóta arðs af fjárfestingum sínum.  Þeir greiða há opinber gjöld vegna fjárfestingarinnar og rekstrarins, og sömu sögu er að segja af starfsmönnum þeirra hérlendis, þótt í tilviki Costco muni vera margir Bretar a.m.k. fyrst um sinn.  Það léttir á þöndum atvinnumarkaði á Íslandi.  Nú reynir á utanríkisráðuneyti Íslands að gera vitrænan samning við brezku ríkisstjórnina um frelsin fjögur, sem taki við, þegar Bretar ganga úr Brüssel-hnappheldunni. 

Maður er nefndur Svavar Gestsson, lærisveinn Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra Þjóðviljans og ráðherra, og hefur stundum verið kenndur við erlendan sparnaðarreikning hins fallna Landsbanka frá 2008, sem Svavar samdi um, að íslenzkir skattgreiðendur skyldu ábyrgjast greiðslur á.  Var sá gjörningur alveg dæmigerður fyrir dómgreindarleysi og getuleysi vinstri forkólfanna, þegar til stykkisins kemur.  Verður hann lengi í minnum hafður sem víti til varnaðar.  Er saga vinstri manna á Íslandi e.t.v. eitt samfleytt feigðarflan ?   

Líklega er téður Svavar eins konar Nestor vinstra liðsins á Íslandi, og af því má ráða, hvers konar lið þar er á ferðinni. Þar leiðir blindur haltan. Seint verður sagt, að sá söfnuður stigi í vitið.  Téður Svavar mun hafa tjáð sig með fýlufullum hætti um opnun Costco verzlunarinnar í Kauptúni.  Í ljósi skýringanna, sem hér hafa verið hafðar uppi um þessa fjandsamlegu afstöðu gegn hagsmunum almennings, þarf engan að undra, að hljóð komi úr þessari átt. Marxistum margra gerða er sama um hagsmuni alþýðunnar.  Það, sem skiptir þá máli, er, að marxistískt þjóðskipulag sé við lýði, með öðrum orðum ríkiseinokun.

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gat ekki dulið önuglyndi sitt og öfuguggahátt, þegar hún gaf eftirfarandi ritaða umsögn um opnun Costco:

"Vond áhrif á vöruverð, skipulag og samgönguhætti og mannlíf í byggð til lengri tíma, og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að vinda ofan af henni." 

"Nomenklatúran" telur sem sagt samkeppni hafa vond áhrif á vöruverð.  Það er ágætt fyrir almenning að fá það á hreint, að ef fyrirtæki neyðast til að lækka vöruverð til að missa ekki alla viðskiptavinina til samkeppnisaðilanna, þá eru það "vond áhrif á vöruverð" að dómi ráðandi afla lengst til vinstri í stjórnmálunum.  Þetta mat hlýtur að stafa af því, að Sóley Tómasdóttir og skoðanasystkini hennar óttist, að einhverjir kaupahéðnar leggi upp laupana.  Það er hins vegar lögmál markaðarins, að hinir hæfustu lifa af.  "Nómenklatúran" vill auðvitað ráða því, hverjir lifa og hverjir ekki.  Fáir telja, að tilveran yrði betri, ef málum væri þannig fyrir komið. 

Sóley telur, að "skipulag og samgönguhættir" líði fyrir Costco.  Það fellur ekki að geðþótta hennar, að Costco sé í deiliskipulagi Garðabæjar (hafnaði ekki Sóley og skoðanasystkini hennar um umsókn Costco um lóð í Reykjavík á sínum tíma ?) og að fólk aki þangað á sínum einkabíl, birgi sig upp af vörum og fylli eldsneytistank einkabifreiðarinnar af benzíni eða dísilolíu í leiðinni, nú eða hlaði rafgeyma rafmagnsbílsins.  Þetta er ekki mögulegt í draumaheimi Sóleyjar, þar sem almenningssamgöngur eru alfa & omega. 

Það er ekki ljóst, hvers konar sveitarómantík býr að baki fortíðarþrá eftir "mannlífi í byggð".  Það er nokkuð ljóst, að sveitafólk, sem leið á "í bæinn", þ.e. Garðabæ, mun birgja sig upp, eins og það getur, og fara langt með að borga ferðakostnaðinn með þeim hætti.

Að lokum hugsar Sóley Tómasdóttir til byltingarinnar, sem á að koma höfðingjum vinstri manna, Marxistunum, til valda. Þeir munu þurfa að byrja á því "að vinda ofan af vitleysunni".  Þá munu þeir loka fyrirtækjum alþjóðlegs auðvalds og þjóðnýta önnur, reka almenning með harðri hendi upp í strætisvagna og einoka fjölmiðlana. 

Að verða vitni að Costco-áhrifunum á vinstri menn er jafngildi þess að líta ofan í ormagryfju.  Fólk, sem snýr öllu á haus, getur ekki gengið heilt til skógar

 


Sjávarútvegur í stórsjó

Stjórnendur í sjávarútvegi horfast nú í augu við óhagstæð viðskiptakjör vegna sterkrar krónu, ISK, fremur lágs fiskverðs, að neikvæðum áhrifum  hásetaverkfalls ógleymdum, og aukins kostnaðar við mannahald í kjölfar sama tveggja mánaða verkfalls. Að geta ekki sinnt föstum viðskiptavinum um langa hríð tekur tíma að bæta fyrir á erlendum mörkuðum. 

Til að létta lundina eru þó fremur jákvæð tíðindi af lífríki hafsins um þessar mundir, sem gefa von um lækkaðan tilkostnað á sóknareiningu og fleiri þorskígildistonn á fiskveiðiárinu 2017/2018 en á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þetta segir í Morgunblaðsfrétt, 19. apríl 2017, undir fyrirsögninni:

"Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari":

"Verkefnastjóri [Hafrannsóknarstofnunar í marzralli 2017] var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið, að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar.  Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið, og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum."

Sem kunnugt er hefur aflamark í þorski og fleiri tegundum iðulega frá miðjum 9. áratug síðustu aldar verið skorið stórlega niður með lækkandi stofnvísitölum samkvæmt mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og á fiskveiðiárinu 2016/2017 er ráðgjöfin enn undir því marki, sem ráðlagt var fyrir 40 árum. 

Uppbygging stofnanna hefur kostað langvinnar fórnir, en það er tvímælalaust heillavænlegt að ganga ekki of nærri hrygningarstofnunum með því að beita aflareglu á hverja tegund samkvæmt viðurkenndri vísindalegri þekkingu.  Hitt er annað mál, að þessi þekking er enn gloppótt og efla þarf mjög vísindarannsóknir á lífríki hafsins til að skjóta traustari stoðum undir veiðiráðgjöfina. Eyrnamerkja á hluta veiðigjaldanna rannsóknarverkefnum og fjárfestingum í búnaði hjá Hafrannsóknarstofnun, eins og ætlunin var við setningu laga um þessa umdeilanlegu gjaldtöku.

Samkeppnin knýr fyrirtækin til frekari hagræðingar; ekki sízt á tímum minnkandi tekna og lakari framlegðar.  Það blasir t.d. við hjá HB Granda að sameina þurfi bolfiskvinnslu í Reykjavík og á Akranesi á einum stað.  Nú er lagt upp í Reykjavík og ekið með óunninn fisk þaðan til vinnslu á Akranesi, og tilbúinni vöru er ekið til baka eða til Keflavíkurflugvallar.  Þessi akstur bætir ekki gæði vörunnar, er óumhverfisvænn, eykur við mikla vegumferð og er kostnaðarsamur.  Þar sem aðstaða fyrir alla starfsemina er ófullnægjandi á Akranesi, en fullnægjandi í Reykjavík, er eðlilegt, að fyrirtækið kjósi að sameina alla starfsemina í Reykjavík. 

Akranes er ekki "brothætt byggð", heldur kaupstaður með mikla atvinnustarfsemi og nýtur góðs af mikilli iðnaðarstarfsemi á Grundartanga.  Fyrirtæki, sem starfa á frjálsum markaði, verða að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar, sem þau telja gagnast bezt til lengdar starfsemi sinni.  Reykjavík, Akranes og Grundartangi eru í raun eitt atvinnusvæði vegna Hvalfjarðarganga, og nú eru jafnvel ferjusiglingar yfir til Reykjavíkur í bígerð. 

Ef Faxaflóahafnir ætla að byggja samkeppnishæfa bryggjuaðstöðu á Akranesi til að þjóna HB Granda þar, er fyrirtækið komið með mjög sterka samningsstöðu og getur í raun "deilt og drottnað".  Er það ákjósanleg staða fyrir Akranes og Reykjavík ?  Hefur málið verið hugsað til enda ?

Morgunblaðið gerði skilmerkilega grein fyrir þessum hagræðingarmálum HB Granda 29. marz 2017 undir fyrirsögnunum:

"Vildu flutning til Akraness 2007" og "Sameina vinnslurnar til að hagræða".

Undir þeirri seinni skrifaði Guðni Einarsson:

"HB Grandi er að setja upp botnfiskvinnslu á Vopnafirði.  Vilhjálmur [Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda] sagði það gert til að skapa vinnu allt árið fyrir fólk, sem starfar þar í uppsjávarvinnslu.  Stefnt er að því að vinna þar um 700 t af þorski í ár á milli uppsjávarvertíða.  Um 40 starfsmenn uppsjávarfiskvinnslunnar munu starfa við botnfiskvinnsluna.  Til samanburðar voru unnin um 7300 t af þorski á Akranesi í fyrra. 

HB Grandi keypti í haust veiðiheimildir upp á 1600 þít, og verður hluti heimildanna unninn á Vopnafirði. HB Grandi keypti hátt í 4000 t af botnfiski á mörkuðum í fyrra [2016].  Þar af voru rúm 3000 t af ufsa, sem unnin voru í Reykjavík.  Félagið ætlar að hætta að kaupa fisk á mörkuðum.  Vilhjálmur sagði, að gengju áform félagsins eftir, yrði vinnsla 7300 t flutt frá Akranesi til Reykjavíkur.  Heildarvinnslan þar mundi þá aukast úr um 21 kt í 24 kt á ári."

Stefna HB Granda er af þessu að dæma að styrkja tvær vinnslustöðvar í sessi hérlendis; aðra á suðvestur horninu og hina á norðaustur horninu.  Það er verið að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins með því að auka framleiðnina og framleiðsluna á báðum stöðunum, tryggja virðiskeðjuna frá veiðum til viðskiptavinar í sessi og draga úr áhættu varðandi landshlutatengd áföll og bæta gæðatryggingu vörunnar.  Allt rímar þetta vel við heilbrigða skynsemi, og yfirvöld ættu ekki að reyna með yfirlýsingum út í loftið eða skammsýnum aðgerðum að reyna að hafa áhrif á þá óhjákvæmilegu og að mörgu leyti jákvæðu atvinnuþróun, sem hér fer fram. 

Þegar stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja standa frammi fyrir eða hafa tekið erfiðar, en að sínum dómi nauðsynlegar ákvarðanir í hagræðingarskyni, þá skal ekki bregðast, að upp hefjist ógeðfelld umræða, oft pólitískt lituð, um sérgæzku og jafnvel mannvonzku þeirra, sem ábyrgðina bera, svo að ekki sé nú minnzt á hinn sígilda blóraböggul þeirra mannvitsbrekkna, sem hér eiga í hlut, fiskveiðistjórnunarkerfið.  Þessi umræða minnir að mörgu leyti á löngu úreltan stéttastríðstalsmáta, sem er ekkert annað en innantómt glamur nú á dögum.  Þetta varð Gunnari Þórðarsyni, viðskiptafræðingi, að umritunarefni í Fiskifréttum 21. apríl 2017 undir fyrirsögninni,

"Óábyrg umræða":

"Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd, að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á, að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því, að íslenzkur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum.  Hér er engin hótun á ferðinni, heldur aðeins bent á þá staðreynd, að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu, nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta.  Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár.  Fullvinnsla hefur hins vegar aukizt mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski.  Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðizt við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu."

Þarna er drepið á þá gríðarlegu ógn, sem atvinnu og verðmætasköpun í landinu stafar af gengisþróun ISK, sem er um 20 % of há að verðgildi m.v. okkar helztu viðskiptamyntir um þessar mundir. Þetta hágengi vinnur gegn hagsmunum landsins, því að það mun senn svipta fólk atvinnu og kippa stoðunum undan verðmætasköpun.  Seðlabankinn og núverandi peningastefnunefnd hafa brugðizt hlutverki sínu, sem er varðveizla peningalegs stöðugleika í bráð og lengd. 

Norska krónan, NOK, hefur fallið um helming, 50 %, frá 2014 til 2017 gagnvart ISK, þrátt fyrir miklar gjaldeyristekjur af olíu- og gassölu og varasjóð frá þeim tekjum, sem nemur um miaUSD 800.  Hvers vegna er ekki beitt sömu ráðum hér til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum mikils gjaldeyrisinnstreymis á íslenzka hagkerfið, þ.e. með því að taka þetta fé tímabundið út úr innlenda hagkerfinu og fjárfesta erlendis þar til slaki eða jafnvel kreppa ógnar því ? Þess í stað hleður Seðlabankinn undir ISK með því að safna gildum gjaldeyrissjóði, sem er honum svo dýrkeyptur, að bankinn er búinn að glutra niður nánast öllu eigin fé sínu.

Evra er augljóslega ekki svarið við þessum erfiðleikum, því að Seðlabanki evrunnar er að berjast við hagkerfissamdrátt, en hér er hagkerfisþensla núna.  Þannig er það iðulega, að hagkerfissveifla á Íslandi er í mótfasa við hagkerfissveiflu á meginlandi Evrópu.  Íslandi hentar þannig engan veginn að gerast aðili að þessu myntbandalagi.  Ekkert okkar helztu viðskiptalanda er á svipuðum stað, þ.e. á toppi hagsveiflunnar, eins og Ísland um þessar mundir.  Okkar bezta úrræði er að stjórna efnahagskerfinu og peningamálunum af skynsamlegu viti.  Þekking, geta og vilji er það, sem þarf, eins og venjulega.  Skussar ráða ekki við viðfangsefni af þessu tagi.

"Stór fyrirtæki, sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu, munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki, sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu.  Þetta er í sjálfu sér ekki alvont, þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun, en rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart, þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um, hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun, sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni.  Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla það, sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð.  Það er mikilvægt, að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda, og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina."

 Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snarast hefur á merinni, þegar afkoma sjávarútvegsins í ár er borin saman við árið 2015.  Vegna mjög afturvirkrar álagningar veiðigjalda og brottfalls tímabundins afsláttar á veiðigjöldum munu útgerðarfélögin þurfa að bera hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018.  Það er brýnt að endurskoða þessa skattheimtu, svo að ekki sé horft lengra aftur í tímann en eitt ár, og að sett verði þak á veiðigjöldin, t.d. 5 % af framlegð og að engin veiðigjöld verði innheimt af fyrirtækjum með framlegð undir 20 % af tekjum.  Núverandi skattheimta er flókin, ósanngjörn og meðalhófs er ekki gætt.

Jafnframt þarf auðvitað að samræma álagningu auðlindagjalds af öllum fyrirtækjum, sem nýta náttúruauðlindir, t.d. virkjanafyrirtækin, flutningsfyrirtækið Landsnet, ferðaþjónustan og fiskeldið.  Það er hægt að beita samræmdri aðferðarfræði á allar þessar greinar.  Spangól sjávarútvegsráðherra um nauðsyn hækkunar á eina þessara greina í einhvers konar refsingarskyni er algerlega út í loftið og sýnir í senn ábyrgðarleysi og getuleysi hennar við að leggja eitthvað uppbyggilegt að mörkum sem ráðherra.

Tækniþróun í flestum greinum atvinnulífsins leiðir til aukinnar afkastagetu og aukinnar sjálfvirkni.  Þetta er nú um stundir að stækka og fækka vinnslustöðvum fiskiðnaðarins.  Það væri glapræði að reyna að sporna við þessari þróun og ekki gæfulegra en að hverfa aftur í torfkofana.  Um þessa þróun skrifaði Gunnar Þórðarson í téðri grein:

"Með nýrri tækni, eins og vatnsskurðarvélum og þjörkum, aukast afköst á manntíma, og þannig mun starfsmönnum og vinnsluhúsum fækka.  Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri, þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf.  Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni.  Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð, að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi til framtíðar.  Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif á hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð."

Það er hægt að taka heils hugar undir þessa þörfu hugvekju Gunnars Þórðarsonar, og ályktun hans um hvað felst í samfélagslegri ábyrgð á fullan rétt á sér.  Hið sama á við um flestar atvinnugreinar og sjávarútveginn, að þær auka framleiðni sína með sjálfvirknivæðingu.  Þetta er þeim einfaldlega nauðsyn til að standast samkeppnina.  Það er óviturlegt af sveitarfélögum og launþegafélögum að reyna að stöðva "tímans þunga nið".  Mun gæfulegra er, eins og téður Gunnar bendir á, að vinna með fyrirtækjunum að þessari þróun sjálfum sér og umbjóðendum sínum til hagsbóta.  Á stéttabaráttuvindgangi tapa allir, en græða að sama skapi á stéttasamvinnu.  Það er líka eðlilegt og almenningi til hagsbóta, að sveitarfélög keppi upp að vissu marki um hylli fyrirtækja og fólks, t.d. með góðri fjármálastjórnun.

 


Skipulagsmál í skötulíki

Ástand húsnæðismarkaðarins hérlendis er til skammar, því að um sjálfskaparvíti mistækra og sérlundaðra stjórnmálamanna í höfuðborginni er að ræða að mestu leyti. Þetta sjálfskaparvíti hefur margvíslegar afleiðingar.  Verst kemur gegndarlaus hækkun húsnæðisverðs niður á kaupendum fyrstu íbúðar, en einnig vega hækkanirnar inn í verðlagsvísitölur, sem er skaðræði í landi verðtryggingar. 

Um alvarlegar afleiðingar hás íbúðaverðs skrifaði Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf í Morgunblaðið 23. marz 2017:

"Komum skikki á byggingarmálin":

"Þegar við höfum hrakið unga fólkið okkar úr landi með því stjórnleysi í húsnæðismálum, sem hér er lýst, þá skulum við ekki reikna með, að nema hluti þess komi til baka.  Á nokkrum árum fækkar þannig unga, vel menntaða fólkinu okkar, á meðan þjóðin eldist.  Hver á þá að halda þjóðfélaginu uppi ?"

Stjórnvöld hafa brugðizt þeirri skyldu sinni að hafa nóg framboð lóða af fjölbreytilegu tagi á boðstólum og að gera byggingarreglugerð og byggingarskilmála þannig úr garði, að húsbyggjendum sé kleift að reisa ódýr hús, þótt vönduð séu.  Hvað þetta varðar er mikill munur á sveitarfélögum, og það er alveg ljóst, sveitarfélög, sem sósíalistar stjórna, eru miklir eftirbátar hinna, sem stjórnað er af borgaralega sinnuðu fólki. Sósíalistum er síður en svo umhugað um, að ungt fólk eignist húsnæði, heldur snýst hugmyndafræði þeirra um, að fólk búi í leiguhúsnæði alla sína tíð.  Af þessum sökum er nægt framboð ódýrra lóða eitur í beinum sósíalista, og þess vegna vilja þeir ekki sjá yfir 10 þúsund íbúðir í Úlfarsárdal. 

Um samanburð sveitarfélaga segir byggingaverktaki í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu 19. apríl 2017:

"Minni kvaðir lækka íbúðaverð:

"Þorvaldur Gissurarson, forstjóri verktakafyrirtækisins ÞG Verks, áætlar, að vegna áðurnefndra breytinga á reglugerðinni, lægra lóðaverðs og sveigjanlegri skipulagsskilmála verði fermetraverð nýrra íbúða á Selfossi allt að 30 % lægra en í nýju fjölbýli í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu.  Lægra lóðaverð vegi þungt í þessu samhengi."

Að sveitarfélag geri sig sekt um slík reginmistök í skipulagsmálum að leggja höfuðáherzlu á fyrirbærið "þétting byggðar" er höfuðsynd í þessu sambandi og er orðið húsbyggjendum og íbúðakaupendum gríðarlega dýrt; það er nokkuð, sem þeir og aðrir kjósendur þurfa að kvitta fyrir í næstu kosningum.  Um þetta skrifar Sigurður Ingólfsson í téðri grein:

"Það sést vel, að byggingarkostnaður og verð fasteigna fara illa saman.  Þar kemur auðvitað margt til, og er lóðarkostnaður og lóðaframboð stór þáttur í þeirri þróun.  Þegar lítið framboð er af lóðum, er lítið byggt, og þá hækkar eftirspurnin verð fasteigna, eins og nú gerist.  Þegar þar við bætist, að höfuðáherzlan er lögð á dýrar lóðir, sem er afleiðing þéttingar byggðar, þá hækkar verðið enn frekar.

Lausleg skoðun á söluverði fasteigna á mismunandi stöðum í Reykjavík sýnir, að þar sem þétting byggðar stendur aðallega yfir, er fasteignaverðið 40 %- 50 % hærra en t.d. í Úlfarsárdal (úthverfi) og er jafnvel 90 % - 100 % hærra, eins og við Laugaveg.

Sé gengið út frá, að byggingarkostnaðurinn sjálfur sé svipaður á þessum stöðum, þá er niðurstaðan, að lóðarkostnaðurinn sé um 13 % af verði fjölbýlishúss í úthverfi, um 38 % á þéttingarsvæðum í Reykjavík og um 55 % við Laugaveginn.

Hefði Reykjavíkurborg þannig úthlutað lóðum fyrir 4000 íbúðir, 75 m2 að stærð, í Úlfarsárdal, hefði það sparað kaupendum þeirra 48 milljarða króna í heild og borgin haft um leið tekjur af þeim upp á 15,3 milljarða króna.  Hver íbúð hefði kostað um 30 milljónir kr á verðlagi nú, sem hefði vafalaust lækkað enn frekar við mikið framboð íbúða.

Á framangreindum tölum sést, að það er um 30 % ódýrara að kaupa íbúð í úthverfi höfuðborgarsvæðisins en á þéttingarsvæðunum.  Það eru meira en 10 milljónir kr miðað við 75 m2 íbúð (nettó).  Þetta er ríflega sú upphæð, sem rætt er um, að ungt fólk þurfi til að festa sér íbúð.  Er ekki kominn tími til að fara að stjórna þessum málaflokki ?"

Þetta er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnun skipulagsmálanna í Reykjavík á undanförnum árum, a.m.k. 2 kjörtímabil, og löngu er orðið tímabært, að Reykvíkingar hristi af sér þá óværu, sem nú situr í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og stjórnar þar af fádæma þröngsýni, þekkingarleysi á hagsmunum borgarbúa og hreinræktaðri afdalamennsku, með fullri virðingu fyrir íbúum í afskekktum dölum. Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er reynt að bregða yfir úlfinn sauðargæru háfleygra byggingaráforma, en slíkt eru orðin tóm, því að stefnan er löngu mörkuð til vinstri.

Þessi fáránlega tilhögun skipulagsmála höfuðborgarinnar hefur hækkunaráhrif á íbúðarhúsnæði langt út fyrir mörk Reykjavíkur og á verðlagsvísitöluna í landinu.  Þeir, sem hyggja á flótta undan hárri húsaleigu eða byggingarkostnaði ættu þó að hugsa sig um tvisvar áður en þeir halda í húsnæðisleit og þar með í atvinnuleit til útlanda, a.m.k. til Norðurlandanna, því að þar hefur verðlag á húsnæðismarkaði hækkað gríðarlega á undanförnum árum, aðallega vegna lágra vaxta, sem magna upp eftirspurnina.  Á Norðurlöndunum eru lágir vextir til að stemma stigu við fjármagnsflótta frá evru-svæðinu, sem hækkaði verðgildi mynta Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, svo að Seðlabankar þessara landa sáu sér þann kost vænstan að lækka stýrivextina niður að núlli og jafnvel undir það.  Hinir seinheppnu vistmenn á Svörtuloftum eru þó hvergi bangnir, þótt samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hér hrynji vegna gengis, sem er a.m.k. 20 % of hátt m.v. kostnaðarstigið í landinu, sem enn mun hækka hjá flestum fyrirtækjum nú í maí-júní. 

Í Viðskiptablaðinu 23. marz 2017 var úttekt á húsnæðiskostnaði Norðurlandanna eftir Snorra Pál Gunnarsson:

"Norræna tálsýnin"     Þar sagði m.a.:

"Þótt gæta verði að mörgu í þessum samanburði, fer því fjarri, að hægt sé að halda því fram með rökum, að grasið sé grænna [á] meðal frændþjóða okkar og auðveldara að koma sér [þar] þaki yfir höfuðið.  Þvert á móti gætu Íslendingar búið við lakari og áhættumeiri kjör á norrænum fasteignamarkaði en hér á landi."

Það er ekki aðeins aukin spurn eftir húsnæði vegna lágra vaxta, sem hækkað hefur íbúðaverðið meira í Svíþjóð og Noregi en á Íslandi og svipað í Danmörku, heldur einnig landleysi, sem tekið er að hrjá sum sveitarfélög þar, eins og t.d. Seltjarnarnes og Kópavog á Íslandi.  Snorri Páll gerir nánari grein fyrir hækkununum þannig:

"Undir lok síðasta árs [2016] var húsnæðisverð hlutfallslega hæst í Svíþjóð og tæplega helmingi [50 %] hærra en á Íslandi. Næst kom Noregur, þar sem húsnæðisverð var um 27 % hærra en hér á landi, en húsnæðisverð í Svíþjóð og Noregi er í sögulegu hámarki um þessar mundir.  Ísland og Danmörk koma þar á eftir með svipuð húsnæðisverð.  Loks er húsnæðisverð lægst í Finnlandi, sem er að ákveðnu leyti sér á báti, hvað varðar verðþróun á húsnæðismarkaði, en þar hefur húsnæðisverð verið nokkuð stöðugt síðan 2011." 

Til að sýna "húsnæðisbóluna" á Norðurlöndunum skal hér tilgreina fermetraverð í 10 þekktum borgum á Norðurlöndunum.  Verð eru í MISK/m2:

  1. Stokkhólmur:       1,10
  2. Ósló:              0,92
  3. Helsingfors        0,76
  4. Gautaborg          0,70
  5. Þrándheimur        0,62
  6. Kaupmannahöfn      0,60
  7. Björgvin           0,58
  8. Reykjavík          0,48
  9. Árósar             0,46
  10. Málmhaugar         0,38

Það, sem skiptir kaupandann höfuðmáli, er árleg greiðslubyrði hans af hverjum fermetra.  Snorri Páll gerir þannig grein fyrir henni:

"Greiðslubyrði af 100 m2 húsnæði í Ósló, sem kostar að meðaltali um MISK 92,3 með 75 % láni hjá DNB með jöfnum greiðslum til 25 ára á 2,55 % breytilegum vöxtum, er tæplega 314 kISK/mán.  Hjá Nordea í Svíþjóð er greiðslubyrðin af 100 m2 íbúð í Stokkhólmi, sem kostar að meðaltali um MISK 111 með 75 % láni til 25 ára á 2,04 % vöxtum, um 356 kISK/mán.  Hjá íslenzkum banka er greiðslubyrðin af slíkri íbúð í Reykjavík með 75 % láni hins vegar um 255 kISK/mán samkvæmt reiknivélum bankanna, sem er svipað og í Danmörku.  Greiðslubyrðin á verðtryggðum íbúðalánum, sem eru um 80 % af húsnæðislánum í landinu, er jafnvel enn lægri, og þar að auki bjóða lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður lægri vexti en viðskiptabankarnir."

Greiðslubyrði íbúðalána er sem sagt hærri á Norðurlöndunum en hérlendis, og hún er jafnframt þungbærari sem hærra hlutfall ráðstöfunartekna en hér.  Ekki nóg með það, heldur er áhætta lántakenda meiri á hinum Norðurlöndunum, því að fyrr eða síðar munu vextir þar hækka, og þá mun íbúðaverð lækka aftur.  Til að ná sögulegu meðaltali þurfa vextir u.þ.b. að tvöfaldast, svo að væntanlegar vaxtahækkanir á hinum Norðurlöndunum munu verða verulegar.  Þá mun eftirspurnin falla og verðið lækka. 

Þeir, sem þá þurfa að selja, munu verða fyrir fjárhagslegu tapi, sem getur leitt til eignamissis, jafnvel gjaldþrots.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að jafnaðarmenn á Íslandi klifa stöðugt á Norðurlöndunum sem hinni miklu fyrirmynd Íslendinga á öllum sviðum ?  Þeir, sem til þekkja, vita vel, að Norðurlöndin standa frammi fyrir miklum efnahagsvanda vegna mikils ríkisbúskapar, hárra skatta, mikilla skulda og lítillar framleiðniaukningar.  Samkeppnishæfni þeirra er af þessum sökum ógnað.

Þótt verðlag á húsnæðismarkaði sé svipað eða hærra á hinum Norðurlöndunum en hér, er það engin afsökun fyrir allt of háu verðlagi á húsnæðismarkaði hér í landi hárra vaxta og yfirleitt nægs landrýmis.  Það hlýtur að verða eitt af kosningamálum komandi sveitarstjórnarkosninga til hvaða aðgerða stjórnmálamenn ætla að grípa til að lækka íbúðaverð og þar með leiguverð með raunhæfum hætti.  Eitt er víst, að í þá umræðu eru ákafir talsmenn þéttingar byggðar ekki gjaldgengir. 

 


Þýzkaland á tímabili Trumps

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á ættir að rekja til Þýzkalands og Bretlandseyja.  Afi hans, Friedrich Trump, var frá Kallstadt í Pfalz. Nú hafa ummæli ráðamanna í Washington, þar sem köldu hefur blásið til Þýzkalands, NATO og Evrópusambandsins, ESB, valdið Þjóðverjum miklum vonbrigðum, jafnvel hugarangri.  Ástæðan er sú, að auk Þjóðverja sjálfra áttu Bandaríkjamenn mestan þátt í vel heppnaðri endurreisn Vestur-Þýzkalands, Sambandslýðveldisins, eftir heimsátökin og hildarleikinn 1939-1945, og Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af traustri staðsetningu þýzku þjóðarinnar í samtökum vestrænna lýðræðisþjóða, þótt Bandaríkjamenn hafi þar auðvitað verið að gæta eigin hagsmuna ekki síður en annarra Vesturlanda í baráttunni við Jósef Stalín og eftirmenn hans í Kreml.  Þjóðverjar hafa síðan vanizt því að njóta skjóls af Bandaríkjamönnum, og nægir að nefna loftbrúna miklu til Vestur-Berlínar og ræðu Johns Fitzgeralds Kennedys við Berlínarmúrinn, "Ich bin ein Berliner", þegar allt ætlaði um koll að keyra af hrifningu í Þýzkalandi.  "Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng."

Nú hefur efnahagsráðgjafi Trumps, Peter Navarro, ásakað þýzku stjórnina um að möndla ("manipulate") með gengi evrunnar og þannig að misnota Bandaríkin og aðra, af því að evran sé veikari en þýzka markið væri, ef það væri enn í brúki.  Þetta er í raun og veru óboðlegur málflutningur frá æðstu stöðum í BNA.

Þessari gagnrýni úr Hvíta húsinu kunna Þjóðverjar gizka illa, enda er hún afar ósanngjörn.  Þetta kemur í kjölfar hótunar Trumps um að setja 35 % toll á BMW og lítilsvirðandi ummæla um NATO og ESB. Berlín stjórnar brúðuleikhúsinu í Brüssel og hefur undirtökin í Evrópu á öllum sviðum, nema hernaðarsviðinu, en verður nú að hækka framlög sín til varnarmála upp í 2,0 % af VLF eða upp í 60 miaEUR/ár að kröfu Hvíta hússins.  Þetta höfðu aðildarríkin reyndar skuldbundið sig til, þegar ógnin úr austri jókst, en flestir hunzað.  Ef Íslendingar þyrftu að gera hið sama, mundu slík útgjöld ríkissjóðs nema 50 miaISK/ár, sem er talsvert lægra en árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Íslendingar gætu þetta, en það mundi vissulega koma niður á öllu öðru, sem ríkissjóður fjármagnar.   

Þjóðverjar telja, að Trump eigi sjálfur "sök" á hækkun bandaríkjadals með því að lofa skattalækkunum og auknum fjárfestingum í innviðum, sem hafi leitt til vaxtahækkana Seðlabanka BNA og þar af leiðandi styrkingar bandaríkjadals, USD.  Mikill halli er á viðskiptum BNA við útlönd, og ætlar Trump að breyta þeim halla í afgang.  Þá mun bandaríkjadalur styrkjast enn.  Donald Trump siglir hins vegar ekki lygnan sjó, og virðast demókratar stefna á að koma honum frá völdum ("impeachment"), eins og Richard Nixon, en þó strax á fyrra kjörtímabilinu.  Ef þeir ná meirihluta á þingi árið 2018, gætu þeir rekið karlinn frá völdum í kjölfarið. Þá  verður líf í tuskunum. 

Forseti bankastjórnar Seðlabanka evrunnar, Ítalinn Mario Draghi, heldur stýrivöxtum bankans við núllið og kaupir alls konar skuldabréf, rusl segja sumir, til að örva efnahagslífið utan Þýzkalands.  Fjármálaráðherra Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, varaði Draghi við að halda út á þessa braut, en af virðingu við sjálfstæði Seðlabankans lofaði hann Draghi því að gagnrýna hann ekki opinberlega fyrir tiltækið.  Það hafa hins vegar mikilsvirtir þýzkir hagfræðingar gert, t.d. einn af hugmyndafræðingum evrunnar, dr Otmar Issing.

Ein af ástæðum andstöðu Þjóðverja við þessa slökun á peningamálastefnunni var einmitt, að þá mundi viðskiptajöfnuður Þjóðverja vaxa mjög. Fyrirsjáanlegt var, að slíkt mundi skapa óstöðugleika í álfunni og óánægju víða. Nú gera Bandaríkjamenn Þjóðverja að blóraböggli fyrir stefnu, sem hinir síðar nefndu eru andsnúnir, þó að þeir virðist hafa grætt mest á henni.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hinir lágu vextir eru eitur í beinum Þjóðverja, því að þá minnkar ávöxtun af sparnaði þeirra hjá bönkum og líftryggingafélögum, sem starfa líka sem lífeyrissjóðir. Fjármögnun ellilífeyris þýzkrar alþýðu er í uppnámi, því að framlög þýzka ríkissjóðsins til sívaxandi fjölda ellibelgja munu líklega lækka, því að þýzkur vinnumarkaður mun senn skreppa saman, af því að Þjóðverjum hefur brugðizt bogalistin við að fjölga sér.

Viðskiptajöfnuður Þjóðverja er stærri en viðskiptajöfnuður Kínverja, og þar með sá mesti í heimi, og nemur 9,0 % af landsframleiðslu þeirra.  Þetta eru um 3375 EUR/íb eða 412 kISK/íb, og til samanburðar nam viðskiptajöfnuður Íslendinga árið 2016 um 7,1 % af landsframleiðslu, en þar sem landsframleiðsla á mann er hér hærri en í Þýzkalandi, þá var viðskiptajöfnuður á mann hér hærri eða 507 kISK/íb. Ísland og Þýzkaland skera sig að þessu leyti úr í Evrópu með jákvæðum hætti, og þótt víðar væri leitað.

Stærðarmunur þjóðanna gerir það hins vegar að verkum, að Íslendingar liggja ekki undir ámæli fyrir sinn góða árangur, en Þjóðverjar hafa mátt sæta gagnrýni fyrir vikið að hálfu Framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel, AGS í Washington, fjármálaráðuneyti BNA og OECD síðan árið 2005, er þeir tóku ákvörðun um að bæta samkeppnishæfni Þýzkalands.  Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins tóku þá ákvörðun um að halda mjög aftur af umsömdum launahækkunum. Vegna þess að laun í öðrum evrulöndum hækkuðu meira en í Þýzkalandi eftir þetta, virkaði ákvörðun verkalýðssambanda og samtaka atvinnurekenda í Þýzkalandi sem gengislækkun á efnahagskerfið, þýzkar vörur hækkuðu minna en aðrar í verði, eða jafnvel ekkert vegna framleiðniaukningar, og atvinna jókst í Þýzkalandi. Árið 2005 var atvinnuleysi í Þýzkalandi 10,3 %, en árið 2015 aðeins 4,3 %.  Stefnan kennd við Peter Hartz undir forystu jafnaðarmanna við stjórnvölinn í Berlín svínvirkaði. Nú hafa laun tekið að hækka í Þýzkalandi á ný, og árið 2016 hækkuðu þau að jafnaði um 2,3 %, sem er þó innan við þriðjungur raunlaunahækkunar á Íslandi í fyrra. 

Þar sem Ísland er orðið eitt dýrasta land Evrópu, er nú höfuðnauðsyn að fylgja fordæmi Þjóðverja og spenna bogann lágt í komandi kjarasamningum, því að annars brestur strengurinn með þeim afleiðingum, að verðbólgan losnar úr læðingi, öllum til tjóns, og veldur þar mestu tjóni, sem minnst borð er fyrir báru nú. 

Það eru váboðar framundan hjá Þjóðverjum, eins og fleirum. Framleiðnin frá árinu 2008 hefur aðeins aukizt um 0,5 % á ári m.v. 3,25 %/ár áður í vöruframleiðslugeiranum. Í flestum þjónustugeirum hefur framleiðniaukning verið svipuð, og í fjármálageiranum og í opinbera geiranum hefur hún minnkað.  Hið sama er uppi á teninginum víðast hvar í OECD, og þar með í aðalviðskiptalöndum Íslands. 

Mikil skuldsetning dregur úr fjárfestingargetu, sem hægir á tækniframförum, sem yfirleitt leiða til aukinnar framleiðni.  Óðinn í Viðskiptablaðinu var hins vegar 9. febrúar 2017 með merkilega kenningu í ljósi stefnu Trumps um "America First" og innvistun framleiðslunnar, sem hefur þegar átt sér stað í Þýzkalandi.  Fylgir Trump bara strauminum ?:

"Annað, sem gerzt hefur á síðustu árum, er, að viðsnúningur hefur orðið í úthýsingu verkefna til annarra ríkja.  Undanfarna áratugi hafa þróaðri ríki, einkum Vesturlönd og Japan, flutt stóra hluta af frumframleiðslu til ríkja á borð við Kína.  Lengi vel var talað um Kína sem vinnustofu heimsins.  Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur á þessari þróun, og töluvert af framleiðsluferlum, sem áður fóru fram erlendis, hafa verið fluttir heim aftur til Þýzkalands [heim ins Reich - gamalt orðalag - innsk. BJo].  Má sem dæmi nefna, að í málmiðnaði jókst hlutur innlendra aðila í vergri virðisaukningu úr 34 % árið 2008 í 37 % í fyrra.  Í framleiðslu á raftækjum hefur hlutfallið aukizt úr 31 % í 34 % á sama tíma.  Þegar afkastaminni þættir í framleiðsluferlinu eru fluttir heim, kemur það niður á framleiðni í geiranum í heild sinni."

Þrátt fyrir hærri launakostnað heima fyrir, taka framleiðendur þetta skref til baka af ótta við þróun stjórnmála og efnahagsmála erlendis.  Kommúnisminn í Kína gæti verið kominn að leiðarlokum.  Mikið er um uppþot í Kína og fjöldamótmæli vegna spillingar og ódugnaðar embættismanna og svakalegrar loft- og vatnsmengunar.  Að lokum skrifaði Óðinn:

"Hér á landi er vandinn vissulega ekki fólginn í of lágum vöxtum, heldur er þvert á móti æskilegt að lækka vexti verulega.  Þetta [lágir vextir - innsk. BJo] undirstrikar hins vegar þann vanda, sem sem evrusvæðið - og reyndar Vesturlönd almennt, standa frammi fyrir.  Skýrsluhöfundar Commerzbank klykkja svo út með því að benda á, að verði ekki gripið inn í þessa þróun, sé hætt við því, að Þýzkaland stefni í japanskar aðstæður - þ.e. mjög lítinn hagvöxt til lengri tíma litið."

Útlitið í Evrópu er óbeysið.  Í Þýzkalandi sparar fólk mjög til elliáranna með því að leggja fyrir á banka.  Þar er mun minna um fjárfestingar fólks í íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Neyzlustigið er tiltölulega lágt, enda Þjóðverjar nýtnir og sparneytnir frá fornu fari.  Þar er sparsemi dyggð.  Þegar gamlingjar Þýzkalands verða orðnir enn fleiri en nú eða um 2035, verður þó enn meira tekið út úr þýzkum bönkum en lagt verður fyrir, og þá mun hagkerfi landsins hafa veikzt svo mjög, að nágrannarnir þurfa ekki lengur að kvarta.  Þá verður margt annað líka með öðru móti en nú.  Framtíðin virðist vera ósjálfbær, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.     

 

 


Lömun sjávarútvegs með verkfalli

Verkfall nokkurra sjómannafélaga er eldra en ríkisstjórnin.  Tjónið af því er svo mikið, að það hefur neikvæð áhrif á þjóðhagsstærðir á borð við hagvöxtinn í ár.  Þúsundir saklausra borgara líða fyrir þessi kjaraátök sumra sjómanna og útgerða, og fjárhagur skuldsettra einstaklinga og minni fyrirtækja mun ekki bera sitt barr.  Markaðir og traust viðskiptavina íslenzkra birgja glatast, og það mun kosta fjárhagslegar fórnir að ná mörkuðum aftur, nú þegar mikill fiskneyzlutími fer í hönd á föstunni. Þessu stríðsástandi verður að linna, því að allir hérlandsmenn tapa. Vinnumarkaðsráðherrann getur varla verið stikkfrí.  Liggur hann undir feldi ?

Við þessar aðstæður er hlutur sjávarútvegsráðherrans  einnig einstaklega rýr, og hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar, að sjávarútvegsráðherra væri á flótta frá stærsta vandamáli þjóðfélagsins í einu lengsta verkfalli sögunnar hérlendis. Kostnaðarlappinn á þessu verkfalli er nú kominn í miaISK 100, þegar tekið er tillit til viðtekins stuðuls óbeinnar verðmætasköpunar sjávarútvegsins, 2,5. 

"Rannsóknir hafa sýnt, að að framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslunnar sé minnst 2,5 sinnum meira en tekjur greinarinnar sjálfrar gefa til kynna",

stendur í Fiskifréttum hjá Guðjóni Einarssyni 9. febrúar 2017.  Hver getur staðið undir þeirri byrði að fá á sig hengdan þennan verðmiða ? 

Tjónið, sem hlýzt af þessu sjómannaverkfalli, er geigvænlegt, hvað sem merkimiðum líður, og það er alveg með ólíkindum langlundargeð landsstjórnenda að láta þessa dæmalausu tortímingaráráttu viðgangast.   Um það skrifar hinn knái fyrrverandi utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, í Morgunblaðið 3. febrúar 2017,

"Kæruleysi stjórnvalda":

"Erlendir markaðir eru að glatast, þar sem afhendingaröryggi ferskra sjávarafurða er ekki lengur tryggt.  Samkvæmt greiningu sjávarklasans tapast á hverjum degi MISK 640 í útflutningstekjum [tjónið nemur þá nú tæplega miaISK 40-innsk. BJo], og daglegt heildartap er nærri milljarði króna, ef deilan leysist ekki von bráðar.  Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi, og tjónið mikið, á meðan fiskveiðiflotinn liggur óhreyfður við bryggju." 

Það er hneyksli, sem um munar, að sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir, að hún muni ekki koma nálægt lausn þessarar deilu, þótt öllum öðrum en henni sé ljóst, að ríkisvaldið heldur á lyklinum að lausn þessarar deilu sem handhafi skattlagningarvaldsins.  Er sjávarútvegsráðherra búin að stimpla sig út ?  Lilja skrifaði ennfremur: 

"Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í vikunni kom fram, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið meta, hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýzt af deilunni [sjávarklasinn gerði það-innsk. BJo].  Það er heldur ekki búið að kanna, hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum fyrir þau sveitarfélög, sem koma verst út [kassinn er þegar tómur víða-innsk. BJo].

 Raunar er engu líkara en sjómannaverkfallið komi ráðherra sjávarútvegsmála ekkert við, því að þótt málið hafi ekki verið krufið til mergjar, hefur ráðherra útilokað allar sértækar aðgerðir, sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar.  Slíkt kæruleysi er varasamt og getur valdið meiri þjóðhagslegum skaða af hinu langvinna verkfalli."

Ráðherrann er fallinn á prófi í aðalfaginu sínu. Upptökupróf verður ekki haldið.  Með fjarveru sinni og áhugaleysi er hún orðin meðábyrg fyrir líklega dýrasta verkfalli Íslandssögunnar. 

Þann 9. febrúar 2017 birtist forystugrein í Morgunblaðinu,

"Svigrúm til lausnar",

þar sem bent var á og það rökstutt, að ríkisvaldið getur hjálpað til við lausn deilu, þar sem herzlumuninn vantar.  Vilji er allt, sem þarf.:

"Annað, sem skiptir máli í samanburði á starfsumhverfi sjávarútvegs hér á landi og erlendis, er, að íslenzkur sjávarútvegur er einn í þeirri stöðu að greiða sérstakan auðlindaskatt, svo kallað veiðigjald.  Aðrar þjóðir fara ekki þá leið að skattleggja sjávarútveg sinn sérstaklega; þvert á móti hafa sumar þeirra veitt sjávarútvegi sínum, sem á í beinni samkeppni við okkar sjávarútveg, myndarlega ríkisstyrki. 

Í samanburði við aðrar greinar innanlands, sem nýta náttúruauðlindir, er staðan einnig skökk, sjávarútveginum í óhag.  Hann þarf einn að þola það að vera skattlagður sérstaklega með auðlindaskatti. Óskiljanlegt er, að þeir, sem í ýmsum öðrum málum segjast andvígir allri mismunun, skuli sætta sig við, að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar sé mismunað svo gróflega. 

Það er ekki að ástæðulausu, að þetta er fært í tal nú, þegar verkfall sjómanna hefur staðið í nær tvo mánuði.  Það skattaumhverfi, sem greininni er búið, á stóran þátt í þeirri óánægju, sem ríkir innan sjómannastéttarinnar.  Þar vegur afnám sjómannaafsláttarins þungt, en fleira hefur verið nefnt, svo sem mismunun gagnvart sjómönnum á meðferð dagpeninga."

Mál er, að linni og að sjávarútvegsráðherra í samráði við flokksbróður sinn, fjármála- og efnahagsráðherra, blandi sér í slaginn með innlegg í málið, sem stillt geti til friðar, svo að ríkissáttasemjari geti síðan hamrað járnið á meðan heitt er, eða, ef enn gengur ekki saman, teflt fram miðlunartillögu, sem ríkisstjórnin er þá tilbúin að lögfesta, ef annar aðilinn, eða báðir, hafna henni.  Við svo búið má ekki standa. Að sitja með hendur í skauti og bíða eftir, að staðir asnar drattist að samningaborðinu og þori að semja, er enginn raunverulegur valkostur nú, þegar loðnuvertíð gæti verið innan seilingar og kaþólikkar ætla að belgja sig út af fiski og meðlæti á í hönd farandi föstu. 

Hitt er það, sem forsætisráðherra hefur ýjað að, að þessi deila sýnir, það sem löngu var vitað, að vinnumarkaðskerfi okkar er veikur hlekkur í þjóðaröryggiskeðjunni, þar sem minnihluti félagsmanna í fáeinum verkalýðsfélögum getur hafið stríðsrekstur gegn byggðarlögum hringinn í kringum landið og valdið þjóðarbúinu tapi, sem nemur meira en 3 % af vergri landsframleiðslu án þess, að ríkissáttasemjari eða aðrir fái rönd við reist.  

Ríkisstjórnin ætti að gangsetja vinnu, sem miðar að endurskoðun kreppulaga um stéttarfélög og vinnudeilur eða a.m.k. að vinna að lagasetningu um vinnudeilur, sem eflir mjög valdsvið og úrræði ríkissáttasemjara í anda hinna Norðurlandanna.  Það er ótækt, að embætti ríkissáttasemjara sé í lamasessi, þegar tilteknar stéttir í vinnudeilum lama starfsemi sjúkrahúsa, skóla eða annarrar stærstu vöruútflutningsgreinarinnar, svo að dæmi sé nefnt.  Þjóðarnauðsyn krefst úrræða ríkisvaldsins til varnar  gegn slíkum stóráföllum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband