Færsluflokkur: Kjaramál

Fánýti eða framfarir

Alþingiskosningar eru í vændum, ótímabærar að margra mati.  Kjósendur geta virt fyrir sér störf núverandi þingmeirihluta, 2013-2016, og borið þau saman við störf fyrrverandi þingmeirihluta, 2009-2013. Þá blasir við skýr munur og stökk fram á við í lífskjörum og eignastöðu allra tekjuhópa samfélagsins á seinna tímabilinu.  Nægir að nefna samkeppnishæfni landsins og lánshæfismat, skuldastöðu ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga, atvinnuþátttöku, atvinnustig og kaupmátt. 

Einnig hljóta kjósendur að hlusta eftir því, sem frambjóðendur til Alþingis hafa fram að færa.  Ekki verður orðum eytt að hinu undirfurðulega loforði Oddnýjar Harðardóttur fyrir hönd Samfylkingarinnar, að ríkissjóður fari nú inn á þá nýstárlegu braut bótagreiðslna að greiða þær fyrirfram.  Líklega tíðkast það hvergi, að fólk fái bætur frá hinu opinbera áður en það öðlast rétt til þeirra.  Hér áttu vaxtabætur í hlut, en hvers vegna ekki ýmsar aðrar bætur og styrki fyrirfram ?  Tíminn er peningar, og það er dýrt að bíða. Þetta er yfirborðslegt og illa ígrundað lýðskrumsloforð, þar sem Samfylkingin sýnir skattgreiðendum lítilsvirðingu.  Þeir hafa komið auga á þann kæk Samfylkingarinnar og ætla að jarðsetja hana án viðhafnar.

Katrín Jakobsdóttir hefur gert traust að einkennismáli sínu fyrir þessar kosningar.  Það er merkilegt, því að hún gengur þar að fiskaminni kjósenda sem gefnu.  Hún varð uppvís að mestu svikum lýðveldissögunnar við kjósendur á síðasta kjörtímabili, þegar hún gegndi stöðu mennta- og menningarmálaráðherra við lítinn orðstír.  Hún hafði fyrir kosningar 2009, þá varaformaður VG, lofað kjósendum því, að hún mundi berjast gegn umsókn um aðild Íslands að ESB. Á meðan hún var með þá lygi á vörunum, voru hún og Steingrímur, þá formaður VG, að semja við SF um ríkisstjórnarmyndun, þar sem kjarninn í samstarfinu var umsókn Íslands með hraðpósti til Brüssel.  Svikahrappurinn er svo ósvífinn að reyna nú að hylja pólitíska nekt sína með voðum, sem á stendur "TRAUST".  Dr Josef Göbbels hefði ekki lagt í jafn mikil öfugmæli í áróðri sínum og þessi, enda koma þau nú sem bjúgverpill í kjöltu Teflon-Kötu.  Dugar teflonhúðin lengur ? Komi á hana rispa, er hún fljót að flagna af.

Þá verður að minnast á haturs-ástarsamband VG-forystunnar við AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.  Fyrir téðar kosningar gerði hún sig breiða og vildi ekkert af AGS vita við stjórn íslenzkra málefna.  Eftir kosningar leiddi hún AGS til öndvegis á Íslandi og reif niður innviði íslenzks samfélags til að þóknast AGS.  Er til nokkuð ómerkilegra í pólitík en Vinstri hreyfingin grænt framboð ?

Teflon-Kata hefur markað sér stefnu fyrir þessar kosningar, sem hún ætlar að framfylgja eftir kosningar, taki hún sæti í ríkisstjórn, sem vonandi verður bið á. Hún fullyrðir, að ójöfnuður hafi aukizt í þjóðfélaginu, og hennar ráð við því er að hækka skatta, líklega bæði beina og óbeina. Þetta er skaðleg aðgerð fyrir almenning, af því að landið verður þá síður samkeppnishæft um dýrt vinnuafl, t.d. háskólafólk og iðnmeistara, hagvöxtur minnkar og þar með vinnuframboð.  Teflon-Kata áformar sem sagt að kasta barninu út með baðvatninu. 

Það sýnir hins vegar vel málefnafátækt VG/Katrínar, að hún hefur tekið alrangan pól í hæðina og að það er hreinn tilbúningur hjá henni eða ímyndun vegna almennrar hagsældar, að ójöfnuður hafi aukizt á meðal landsins barna.  Um þetta eru orð Hagstofu Íslands órækust:

"Litlar breytingar urðu á dreifingu ráðstöfunartekna á milli áranna 2014 og 2015 samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar (tekjuárin 2013 og 2014). Gini-stuðullinn hækkaði lítillega á milli ára, úr 22,7 í 23,6.  Þessi breyting er þó vel innan vikmarka og því ekki hægt að draga þá ályktun, að ójöfnuður hafi aukizt á milli ára. [Téður Gini-stuðull hækkar með auknum tekjuójöfnuði - innsk. höf.]"

Katrín, formaður VG, ætlar samt að nota þessa ómarktæku hækkun Gini sem átyllu til skattahækkana, komist hún til valda.  Ef að líkum lætur, mun slíkt koma niður á framkvæmdum, atvinnutækifærum og verðstöðugleika, því að hún mun ráðast til atlögu við fyrirtækin í landinu, vinnuveitendur, sem þá munu draga úr fjárfestingum, fækka hjá sér fólki og neyðast til að velta kostnaðaraukanum út í verðlagið. Fjandsemi nýrra valdhafa við atvinnulífið getur hæglega valdið verulegri lækkun á gengi ISK, og þar með er verðhækkanaspírallinn, "landsins forni fjandi", kominn í gang, sem allir tapa á, hinir lakast settu mest.

Um afleiðingar skattheimtu ritar Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, góða grein í Morgunblaðið 14. október 2016:

"Hádegismaturinn er aldrei ókeypis":

"Flestir fyrirtækjaskattar eru síðan ákveðinn blekkingarleikur, því að fyrirtæki eru bara milliliðir, sem fjármagna skattborgunina í gegnum þá vöru, sem þau eru að selja og neytandinn borgar á endanum fyrir.  Þannig er bankaskatturinn fjármagnaður með hærri útlánsvöxtum, skattur á leigusala er fjármagnaður með hærra leiguverði, og almennur tekjuskattur á fyrirtæki er fjármagnaður með með dýrari þjónustu, á sama tíma og svigrúm atvinnurekandans til að þróa þjónustuna og borga starfsmönnum hærri laun minnkar. 

Á einn eða annan hátt þá endar reikningurinn fyrir örlæti stjórnmálamanna alltaf á launþeganum.  Þegar fjárlögum 2016 er skipt niður á fjölda launþega (191 þúsund), þá blasir við allhrikaleg sviðsmynd:

Í dag kostar hinn "ókeypis" hluti heilbrigðisþjónustunnar okkur um 860 þúsund kr á ári til viðbótar við 20 % eiginframlagið.  762 þúsund kr fara síðan í "ókeypis" almannatryggingar og velferðarmál, og 380 þúsund kr fara síðan í vaxtagjöld fyrir lán, sem stjórnmálamenn hafa tekið."

Gjalda verður varhug við stjórnmálamönnum, sem hafa fátt annað fram að færa en loforð um, að hið opinbera greiði alls kyns kostnað fyrir skattborgarann.  Þá fyrst er efnahag hans hætta búin. Reikningarnir fyrir örlætisgjörninga stjórnmálamanna lenda allir hjá launafólki og öðrum neytendum. Að styðja stjórnmálaflokka örlætisgjörninganna í kosningum mun von bráðar lenda sem bjúgverpill í kjöltu kjósenda.

 

Samkvæmt lífskjararannsóknum Hagstofunnar er jöfnuður lífskjara hvergi meiri innan OECD en á Íslandi.  Hagfræðingar hafa varað við afleiðingum þess að auka hann meira, því að slíkt getur eyðilagt hvata einstaklinga til að sækja fram til bættra lífskjara, t.d. með því að afla sér menntunar.  Ef það er ekki fjárhagslega eftirsóknarvert að afla sér aukinnar þekkingar eftir grunnskólanám, þá mun Ísland dragast aftur úr í lífskjörum, og hér magnast enn skortur á iðnaðarmönnum og háskólamenntuðum sérfræðingum. 

Tveir mælikvarðar á tekjujöfnuð eða öllu heldur ójöfnuð eru Gini-stuðullinn og Fimmtungsstuðullinn.  Sá fyrr nefndi er 0, þegar allir fá sömu tekjur.  Það er hvorki eftirsóknarvert né raunhæft að reyna að koma slíku á, þótt æstustu vinstri sinnar telji það e.t.v. Gini er 100 %, ef einn fær allar tekjur þjóðfélagsins.  Það er argasta ósanngirni og sjúkt samfélag, sem leyfir slíkt.  Margt bendir til, að Gini á bilinu 22 %-25 % henti íslenzka samfélaginu. 

Fimmtungsstuðull, FS, er hlutfall á milli meðaltekna í efsta og neðsta tekjufimmtungi.  Hann er jafnframt lægri á Íslandi en í öðrum löndum (eins og Gini): 

  • Ár      Gini      FS
  • 2009    29,6 %    4,2
  • 2010    25,7 %    3,6
  • 2011    23,6 %    3,3
  • 2012    24,0 %    3,4
  • 2013    24,0 %    3,4
  • 2014    22,7 %    3,1
  • 2015    23,6 %    3,4 

Á samdráttarárinu mikla, 2009, jókst tekjuójafnrétti mikið.  Á hagvaxtarárinu 2015 er tekjujöfnuðurinn jafn eða meiri en á stöðnunartímanum 2010-2013.  Á hagvaxtarskeiðum bera allir meira úr býtum en áður, og á núverandi hagvaxtarskeiði á Íslandi hefur lífskjarabati lægri tekjuhópanna verið hlutfallslega meiri en hinna. 

Viðskiptablaðið birti þann 6. október 2016 yfirlitsgrein um þróun eignastöðu mismunandi þjóðfélagshópa:

"Eignastaðan batnar",

og þar kemur fram, að eignastaða hinna lakar settu hefur tekið stakkaskiptum á þessu kjörtímabili, sem færir sönnur á, að eignajöfnuður eykst í góðæri:

"Hagstofan birtir einnig tölur um eiginfjárstöðu, flokkaða eftir tíundarhlutum.  Árið 2010 voru 4/10 hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé, en í árslok 2015 voru 2/10 hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé.  Þriðja tíundin komst ekki í jákvæða eiginfjárstöðu fyrr en í fyrra. 

Á tímabilinu 2010-2015 hefur hagur fjórðu tíundarinnar vænkazt mest, hlutfallslega.  Hún var með neikvæða eiginfjárstöðu um MISK 613 árið 2010, en var komin í jákvæða eiginfjárstöðu upp á miaISK 6,1 í fyrra. Hlutfallslega hefur eiginfjárstaða tíunda hlutarins, þ.e.a.s. þess hluta þjóðarinnar, sem mest eigið fé á, aukizt minnst, eða um 39 % á tímabilinu.  Árið 2010 átti þessi hópur fólks um 86,4 % af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið í 63,7 %."

Þarf frekari vitnana við um það, að jöfnuður hefur vaxið í góðærinu á þessu kjörtímabili ?  Að halda öðru fram, eins og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gerir purkunarlaust, er ekkert annað en bölmóður og ósannindavaðall.  Hún á ekki að komast upp með það að hefja eftir kosningar tangarsókn gegn lífskjörum almennings undir því yfirskyni, að nauðsynlegt sé að auka samneyzluna til að auka aftur jöfnuðinn í samfélaginu.  Slíkt tal er uppspuni og þvættingur.

Síðan stóð í téðri grein í Viðskiptablaðinu um efnahagshorfurnar:

"Greiningardeild Arion-banka sagði í síðustu hagspá sinni, að aðstæður í efnahagslífinu væru til þess fallnar að auka bjartsýni, atvinnuleysi væri með minnsta móti, afnám hafta væri komið vel á veg og hagvaxtarhorfur væru betri en í flestum þróuðum ríkjum. Af þeim 35 ríkjum, sem mynda OECD, voru aðeins 3 ríki, sem gátu státað af meiri hagvexti en Ísland á fyrsta fjórðungi ársins [2016]."

Það er ljóst, að núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar hefur um allt það, er mestu máli skiptir, tekizt svo vel upp við stjórnun landsins, að viðkomandi stjórnmálaflokkar eiga hrós skilið og rós í hnappagatið frá kjósendum í næstu Alþingiskosningum, enda er hinn valkosturinn alveg skelfilegur. 

Ríkisstjórnin hefur reynzt róttæk umbótastjórn í þeim skilningi, að hún hefur reynzt þess umkomin að framkvæma kerfisbreytingar, sem sveimhugar stjórnarandstöðunnar láta sig ekki einu sinni dreyma um, því að þar á bæ fer allt púðrið í vangaveltur um fánýti á borð við nýja stjórnarskrá, eins og Ísland væri Þriðja heims land, fjárhagslega aftöku útgerðarmanna, sem engum hérlendis gagnast, fyrirfram greiddar bætur, sem eru hlægileg vitleysa, gælur við skattahækkanir og þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort Ísland eigi að taka upp slitinn þráð í viðræðum um inngöngu Íslands í ESB.  Hið síðast nefnda mundi gera Íslendinga að athlægi um alla Evrópu, en til samkomulags við blinda aðdáendur ESB mætti þó spyrja þjóðina, hvort hún vilji ganga í ESB, en það er reyndar ekki kostnaðarins virði að spyrja, þegar svarið er löngu vitað með vissu. 

Ríkisstjórnin hélt svo vel á spilunum gagnvart slitabúum föllnu bankanna, að ríkissjóður hreppti frá þeim eignir, sem eru hærri en tap ríkissjóðs á gjaldþroti sömu banka.  Hún hefur jafnframt létt á "snjóhengju aflandskróna", svo að haftaafnám er mögulegt og þegar framkvæmt að nokkru leyti.  Þetta hafði stjórnarandstaðan hvorki hugmyndaflug né getu til að gera, enda voru vinstri flokkarnir handbendi fjármálaafla á valdatíma sínum 2009-2013, sem hámarki náði með því að færa kröfuhöfunum nýju bankana tvo á silfurfati.  Þvílík endemis stjórnsýsla. 

Af öðrum umbótamálum ríkisstjórnarinnar má nefna menntamálin.  Þar lá Teflon-Kata á fleti fyrir árin 2009-2013 og var óttalega framkvæmdalítil, enda í heljargreipum sérhagsmuna innan þessa málaflokks, þar sem VG á hauka í horni stéttarfélaga kennara.  Helzt vann hún sér það til frægðar að henda peningum í LÍN til að lána stúdentum erlendis algerlega án þarfagreiningar fyrir hvern stað.  Á síðustu dögum haustþingsins 2016 þvældist hún síðan fyrir merku umbótafrumvarpi Illuga Gunnarssonar, arftaka sínum á stóli menntamálaráðherra, um LÍN, þar sem átti að færa sjóðinn til nútímahorfs og þess, sem þekkt er með hliðstæða sjóði á hinum Norðurlöndunum.  Stúdentahreyfingar á Íslandi hvöttu Alþingi eindregið til að samþykkja frumvarp Illuga, en andstaðan við róttækar umbætur var svo rík á meðal stjórnarandstöðunnar, að henni tókst að draga málið svo á langinn, að ekki vannst tími til að afgreiða umbótafrumvarp Illuga sem lög frá Alþingi.  Þessi mistök þingsins verður að skrifa mest á Teflon-Kötu, formann VG, sem hefði getað greitt leið þessa umbótafrumvarps.  Nú er meðalaldur háskólastúdenta við útskrift með BA eða BSc gráðu 31 árs, sem er mun hærri aldur en annars staðar tíðkast.  Í frumvarpi Illuga var fólginn árangurshvati, og slíkt er eitur í beinum afturhaldsins. 

Annað afar tímabært umbótamál er jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna.  Nú hafa sérhagsmunahópar í röðum opinberra starfsmanna, sem augsýnilega hafa asklok fyrir himin, stöðvað framgang þessa mikla réttlætismáls, þótt ríkisstjórnin hafi útvegað stórfé til að fullfjármagna lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, sem eru einu lífeyrissjóðir landsins, sem ekki eiga fyrir skuldbindingum sínum í framtíðinni, eins og nú standa sakir.  Ríkissjóður stendur þar reyndar í ábyrgð, og með fullfjármögnun átti að taka það sjálfsagða skref að afnema þessa ríkisábyrgð.  Á öllum sviðum á að draga úr ríkisábyrgð til að draga úr hættunni á ríkisgjaldþroti, þegar næsti brotsjór ríður yfir íslenzka hagkerfið. Jöfnun lífeyrisréttinda í einkageira og hinum opinbera geira atvinnulífsins er stórfellt réttlætismál, og auðvitað dregur afturhaldið lappirnar í slíku máli.  Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.    

 

 


Almannatryggingar - úrbætur

Það er engin hemja, að réttur þegnanna til greiðslu úr almannatryggingakerfi Tryggingastofnunar skuli vera skertar vegna greiðslu, sem sömu þegnar hafa unnið sér inn frá lífeyrissjóði sínum.  Þarna kemur ríkissjóður aftan að félögum í lífeyrissjóðunum og beitir þá misrétti miðað við hina, sem verið hafa á vinnumarkaðinum án þess að spara, t.d. til elliáranna, með inngreiðslum í lífeyrissjóð. 

Þann 19. september 2016 var undirritað samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði á milli opinbera geirans og einkageirans.  Ríkissjóður  og sveitarfélögin brúuðu bilið, sem þurfti til samkomulags, með skuldbindingum um háar fjárhæðir, og samkomulagið er enn ein rósin í hnappagat fjármála- og efnahagsráðherra, því að nú loksins er lífeyriskerfi landsmanna sjálfbært og ríkissjóður ekki í ábyrgð fyrir afkomu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna.  Jafnræði hefur náðst á vinnumarkaði varðandi lífeyrisréttindi. 

Þetta er stórt framfaraskref fyrir allt þjóðfélagið, og væri nú verðugt, að ráðherrann léti kné fylgja kviði á sviði lífeyrisréttinda og beitti sér fyrir afnámi téðrar neikvæðu tengingar lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og ellilífeyris frá Tryggingastofnun. 

Um þetta o. fl. skrifar Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, í þrælmagnaðri grein,

"Uppgjöf formanns LEB", 

sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2016:

"Vinstri stjórnin skerti kjör öryrkja og eldri borgara miskunnarlaust og kom á skerðingum, langt umfram alla aðra, þannig að eldri borgarar voru skertir, miðað við stöðuna í dag, um 150´000 kr á mánuði."

Þetta leyfði hin hraksmánarlega "norræna velferðarstjórn" sér að gera og þóttist þó hafa "myndað skjaldborg um heimilin".  Annað eins ginnungagap á milli orða og efnda hefur ekki myndazt á nokkru kjörtímabili á lýðveldistímanum, enda eiga viðkomandi tveir stjórnmálaflokkar fremur erfitt uppdráttar um þessar mundir, hvað sem verður.  Það er einfaldlega ekkert að marka vinstri menn. 

Fé Tryggingastofnunar ætti síðast af öllu að skerða, enda ekki feitan gölt að flá, og eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að afnema skerðingar á grunnlífeyri allra.

Í lok greinar sinnar skrifar Halldór í Holti:

"Um 40 þúsund eldri borgarar gera þá réttmætu kröfu, að lífeyrissjóðsgreiðslur, sem einstaklingar hafa áunnið sér með greiðslum af eigin launum, komi ekki til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar með ólögum, sem fyrir löngu hefði átt að mæta með lögsókn til að sækja lögvarða eign einstaklinga í lífeyrissjóðum.  Formanni LEB hefði verið meiri sómi að því að beita sér fyrir þeirri lögsókn fremur en að mæla með samþykkt á uppfærðu lífeyriskerfi."

Óli Björn Kárason, sem hlut 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í "Kraganum", ritar vikulega í Morgunblaðið, og þann 7. september 2016 nefndist hugvekja hans,

"Frítekjumark er réttlætismál".  Þar skrifar þessi pólitíski hugsjóna- og baráttumaður m.a.:

"Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu, verði sameinuð í einn bótaflokk, ellilífeyri.  Fjárhæð sameinaðs bótaflokks verður 212´776 kr á mánuði.  Heimilisuppbót til þeirra, sem búa einir, helzt óbreytt.  Tekjur eldri borgara verða meðhöndlaðar með sama hætti, óháð uppruna (atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur).  Frítekjumörk verða afnumin, en fjárhæð ellilífeyris skerðist um 45 % vegna vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en þó ekki vegna greiðslna séreignarlífeyrissparnaðar."

Þetta er gott og blessað, en þó er nauðsynlegt að gera við þetta 2 athugasemdir, svo að sanngirni sé gætt í garð iðgjaldagreiðenda lífeyrissjóða og þeirra, sem einvörðungu fá ofangreindar 212´776 kr sér til framfærslu.  Er þá vísað til stefnumiðs Sjálfstæðisflokksins um afnám tekjutenginga ellilífeyris. 

  1. Skattleysismarkið er nú 145´000 kr á mánuði.  Þetta þarf að hækka upp í ellilífeyrismörkin eða um 47 %.  Það er engin hemja að skattleggja tekjur eða lífeyri, sem eru undir fátæktarmörkum.  Ef þetta er talið of dýrt fyrir ríkissjóð, verður að flækja þetta með því, að þeir, sem eru með tekjur yfir skilgreindum framfærslumörkum af Hagstofunni, verði með neðri skattleysismörkin, 145 kkr, en hinir með hin efri, 213 kkr. 
  2. Frumvarp félagsmálaráðherra afnemur núverandi frítekjumark, 110´000 kr á mánuði, fyrir greiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun.  Þetta er ekki í takti við tímann, þegar æ stærri hluti fólks, sem kemst á ellilífeyrisaldur, hefur starfsþrek og áhuga á að vinna sér inn aukatekjur.  Með frumvarpinu er fólk latt til að vinna á efri árum, því að 45 % teknanna dragast frá greiðslum Tryggingastofnunar.  Það er óeðlilegt, að jaðarskattur á aðrar tekjur eldri borgara en greiðslur frá Tryggingastofnun sé 45 %.  Annaðhvort þarf að lækka þennan jaðarskatt, t.d. niður í 25 %, eða að innleiða frítekjumark í nýju lögin, t.d. 110´000 kr.     

Um þetta skrifar Óli Björn í Morgunblaðið í téðri grein:

"Með innleiðingu frítekjumarks verður eldri borgurum gert kleift að bæta sinn hag verulega.  Þetta ættu þingmenn að hafa í huga, þegar þeir ganga til þess verks að afgreiða frumvarp félagsmálaráðherra."

Til að létta undir með ríkissjóði er sjálfsagt að hækka eftirlaunaaldurinn.  Meðalaldur við dauðsfall er um aldarfjórðungi hærri nú á Íslandi en var í Þýzkalandi um 1880, þegar járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, lagði til við þýzka þingið, Reichstag, að sameiginlegu tryggingakerfi yrði komið á laggirnar fyrir allt Þýzkaland, sem þá var nýsameinað.  Þetta var svar hans við þjóðfélagsbreytingum, sem af iðnvæðingunni leiddu og bættu hag verkalýðsstéttanna til muna, svo að ekki sé nú minnzt á miðstéttina.  Vaxandi þrýstings um aukin réttindi gætti að hálfu þessara stétta á þá, sem enn höfðu tögl og hagldir í þjóðfélaginu, aðalinn, sem missti ekki tök sín á þjóðfélaginu fyrr en í kjölfar hildarleiksins 1914-1918.  Nú er gerjun í íslenzka þjóðfélaginu, enda lýðfræðilegar breytingar hafnar, sem krefjast framtíðarhugsunar við lagasetningu.

Lýðfræðileg staða Íslands er tekin að snúast á verri veg, eins og tók að gæta annars staðar á Vesturlöndum fyrir síðustu aldamót og í Japan verulega um 1990.  Meðalaldur þjóðanna hækkar vegna lítillar viðkomu.  Það þýðir, að hlutfallslega fækkar þeim, sem eru á aldrinum 18-67 ára, en þeim, sem eru 67 ára og eldri fjölgar hlutfallslega.  Nú eru um fimmfalt fleiri á vinnumarkaðsaldri en nemur fjölda eldri borgara, en eftir tvo áratugi gæti þetta hlutfall hafa helmingazt. Eldri borgarar, 67+, stefna á að verða a.m.k. fjórðungur íslenzku þjóðarinnar, og í mörgum löndum er sú nú þegar orðin raunin.  Þeir eru nú í fjárhagslegri spennitreyju ríkisvaldsins, sem líkja má við fátæktargildru, þar sem þeim eru allar bjargir bannaðar.  Það verður þegar í stað að gera bragarbót á og draga úr þungri refsingu kerfisins fyrir að sýna sjálfsbjargarviðleitni. Slíkar refsingar koma ætíð niður á hagsmunum heildarinnar, en það skilja ekki jafnaðarmenn. 

Almannatryggingakerfið er augljóslega ósjálfbært núna, og þess vegna er brýnt að hækka eftirlaunaaldurinn, þó ekki um 25 ár með vísun í þróunina frá upphafi almannatryggingakerfisins, heldur um t.d. 6 mánuði á ári f.o.m. 2018 þar til 70 árum er náð 2024, og endurskoða þá stigulinn.  Jafnframt ætti að gera aldursmörk fyrir elilífeyri sveigjanleg, svo að t.d. mætti hefja töku 50 % ellilífeyris 65 ára, sem þá mundi lækka réttindin við lögboðinn ellilífeyrisaldur, eins og fresta mætti töku ellilífeyris þá gegn hækkun fram að 75 ára aldri. Í raun og veru þarf að aðlaga vinnumarkaðinn að breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og mjög mismunandi heilsufari hennar við aldursmörk ellilífeyris. Um þetta o.fl. skrifar Óli Björn í téðri Morgunblaðsgrein.

"Kostnaður við frítekjumarkið er verulegur, en á móti er hægt að ganga rösklegar til verka við hækkun eftirlaunaaldurs.  Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að eftirlaunaaldurinn hækki í áföngum í 70 ár á næstu 24 árum, og er það í samræmi við tillögur Pétursnefndarinnar. Í bókun með tillögunum undirstrikaði ég, að gengið væri of skammt og að miklu skipti, að hækkun lífeyrisaldurs kæmi til framkvæmda á ekki lengri tíma en næstu 15 árum.  Um leið var bent á, að stjórnvöld yrðu að meta kosti og galla þess að setja inn í lög ákvæði um reglubundna endurskoðun lífeyrisaldurs út frá lífaldri, sem stöðugt verður hærri."

Eldri borgarar eru mjög mismunandi hópur og samtímis mjög stækkandi hópur.  Þessi hópur á, eins og allir aðrir hópar í samfélaginu, rétt á að geta notað krafta sína til að efla sinn hag án þess að verða refsað harðlega fyrir það af ríkisvaldinu, og hinu sama ríkisvaldi ber á sama tíma skylda til að breyta umgjörð tryggingakerfisins til aukins sveigjanleika til að mæta breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.  Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að taka frumkvæði með ferskri hugsun, sem tekur mið af þróuninni ?

 


Skattkerfisumbætur

Þann 6. september 2016 skiluðu "6 sérfræðingar í skattamálum" tillögum til "Samráðsvettvangs um aukna hagsæld" um umbætur á skattkerfinu.  Ekki var vanþörf á því.  Á þessu kjörtímabili hefur reyndar verið gerð gangskör að umbótum til einföldunar á tolla- og vörugjaldafrumskóginum og einnig á óbeinu- (neyzlu) og beinu (tekju) skattheimtunni.  Breytingarnar eru til hagsbóta fyrir skattborgarana og ríkissjóð.  Þetta tvennt fer nefnilega saman, þegar stjórnað er af skynsamlegu viti, en þegar vankunnátta, þröngsýni og ofstæki eru við völd, skaðast allir, eins og skemmst er að minnast frá 2009-2013.

Skattkerfið er flókið, krefst mikillar skriffinnsku, jafnvel í kringum litla atvinnustarfsemi, í um 17 þúsund tilvikum vegna tekna innan við 3 Mkr/ár.  Þarna er líka verið að leggja steina í götu "litla" atvinnurekandans, sem er þó driffjöður atvinnulífsins og kjarni miðstéttarinnar.  Með því að létta "litla" atvinnurekandanum lífið, hvort sem hann er einyrki eða með nokkra í vinnu, mun hagsæld miðstéttarinnar vaxa, og það er gott fyrir þjóðfélagið allt. 

Innheimtudagar ríkissjóðs eru 269 á ári, sem er dæmigert fyrir "bákn", sem vaxið hefur án yfirsýnar nokkurs manns.  Skattkerfið gæti verið mun skilvirkara og verið síður letjandi til tekjuöflunar en nú, ef við hönnun þess væri tekið meira tillit til hagsmuna skattborgaranna en nú er.  Hið opinbera má ekki refsa fólki fyrir frumkvæði í lífsbaráttunni og fyrir að leggja meira á sig.  Ef A bætir við sig tekjum, mun B njóta góðs af því.  Þetta skilur fólk ekki, sem nærist á öfund í garð náungans, þolir ekki velgengni annarra, en nennir sjálft ekki að teygja sig eftir lífsbjörginni.  Kerfið er dugnaðarfólki og ríkissjóði óhagfellt, því að lægri skattheimta á Íslandi mun leiða til hærri skatttekna vegna aukins hagvaxtar og vaxandi skattstofna. 

Það vekur athygli, að nefndin lagði til eitt virðisaukaskattþrep, 19 %, í stað núverandi tveggja, 11 % og 24 %.  Á þessu kjörtímabili var bilið stytt á milli þrepanna með hækkun úr 7 % í 11 % og lækkun úr 25,5 % í 24,0 %.  Jafnframt var skattstofninn breikkaður með fækkun undaþága.  T.d. var ferðaþjónustan felld meira inn í VSK-stofninn en verið hafði.  Þessari grein hafði verið haldið í bómull, og svo er að nokkru leyti enn. Þessi VSK-breyting var gerð í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna, sem þyrlaði upp miklu moldviðri, og Framsóknarflokkurinn stóð gegn meiri hækkun neðra þreps en upp í 11 % vegna áhrifa frá lýðskruminu.  Tillagan nú gengur út á að fara enn lengra á sömu braut og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vildi 2014-2015, en það eru litlar líkur á, að hún geti hlotið brautargengi á Alþingi eftir næstu kosningar m.v. afstöðu þingflokkanna á núverandi Alþingi.    

Það er þó spurning, hvort þær gætu hlotið brautargengi með því að undanskilja innlenda matvælaframleiðslu og orku og setja þessa lífsnauðsynlegu framfærsluþætti í núllflokk.  Það ættu að vera nokkuð hreinar línur að fylgja í framkvæmd, þó að ekki sé í samræmi við stefnumiðið um breikkun skattstofnsins.  Þá kann þetta að fela í sér óleyfilega mismunun innlendra og erlendra framleiðenda matvæla, en á móti kemur minnkandi tollvernd. 

Um tekjuskatt einstaklinga leggja sérfræðingarnir til fækkun skattþrepa, og slíkt mun einmitt koma til framkvæmda um áramótin 2016/2017, er miðþrepið, 38,35 %, fellur brott.  Það vekur nokkra furðu, að sérfræðingarnir leggja ekki til eins þreps, heldur tvíþrepa tekjuskattskerfi.  Daði Már Kristófersson, formaður nefndarinnar, segir í viðtali við Vilhjálm A. Kjartansson í Morgunblaðinu 7. september 2016,

"Sérfræðingar leggja til einföldun á skattkerfinu" : 

"Ástæðan fyrir því, að við höfum 2 þrep í stað þess að fara niður í eitt, er reynsla annarra þjóða af tveggja þrepa kerfi.  Það hefur sýnt sig, að tveggja þrepa kerfi er skilvirkara en eitt þrep (sic !) og kemur vel út í rannsóknum."

Hvort það kemur betur út í rannsóknum sem tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð en eins þreps kerfi er ekki sagt, og tekjuöflun á að vera eina hlutverk skattkerfis, og um það má efast, því að hvati til vinnu er óneitanlega meiri í eins þreps kerfi en í tveggja þrepa, og hvati til undanskota er meiri í tveggja þrepa kerfi.  Skattstofninn er þess vegna líklegri til vaxtar, ef aðeins er beitt einu þrepi. Hinar neikvæðu hamlandi hliðar tveggja þrepa kerfa magnast við hækkun skattheimtunnar yfir 40 %.  Sérfræðingarnir leggja til 43 %, og þar með verða jaðarskattsáhrifin of há að mati blekbónda.  Betra er, að ekki sé meiri en 10 % munur á milli þrepa, þ.e. efra þrepið verði 35 %, þegar það byrjar að telja við tekjurnar 650 kkr/mán, sem algengar eru á meðal þeirra, sem leggja þurfa hart að sér við kaup á húsnæði og/eða eru að koma út á vinnumarkað klyfjaðir námslánum.  Að taka 43 % af hverri umframkrónu, sem dugnaðarfólk aflar sér, er ótækt, og á að milda þennan jaðarskatt niður í 35 %.

Það fáránlega fyrirkomulag var innleitt á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms að tvöfalda skattheimtu af sparnaði og reikna vísitölubætur inn í skattgrunn fjármagnsteknanna.  Hið síðar nefnda leggja sérfræðingarnir að sjálfsögðu til, að verði afnumið, en til að efla sparnað í landinu, sem er undirstaða fjárfestinga, ætti að auki að lækka skattheimtuna úr 20 % í 15 % og hafa bankainnistæður eins eiganda í sama sparnaðarflokki upp í 5 Mkr fríar undan skatti. Þetta mundi örva miðstéttina til sparnaðar.

Tekjuskattur fyrirtækja er nú almennt 20 % hérlendis.  Með því að lækka þessa skattheimtu, hefur þjóðum á borð við Íra, þar sem þessi skattheimta ku vera 12,5 % um þessar mundir (Írska lýðveldið), tekizt að draga til sín fjárfestingar erlendra fyrirtækja, og opinberar tekjur af þeim hafa margfaldlega unnið upp minni ríkistekjur vegna lægra tekjuskattshlutfalls á fyrirtækin.  Reyndar verður tekjutapið sáralítið, því að hvatinn til að auka téðan skattstofn vex með lækkandi skattheimtuhlutfalli. Miklar beinar erlendar fjárfestingar á Írlandi eru meginástæða þess, að Írar eru að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem kom hart niður á þeim, af því að skuldsetning írska ríkisins jókst mjög við björgunaraðgerðir í bankakerfinu. 

Fjárfestar í ýmsum tiltölulega stórum nývirkjum á Íslandi hafa gert lækkun tekjuskatts af starfsemi þessara fyrirtækja ásamt ýmiss konar öðrum ívilnunum að skilyrði fyrir því að fjárfesta í þessari atvinnustarfsemi.  Það á að steinhætta að verða við þessum skilyrðum þeirra, en láta eitt yfir alla atvinnustarfsemi í landinu ganga og lækka skattheimtu af hagnaði fyrirtækja niður í 15 %. 

Það þarf ekki að taka það fram, að s.k. "þunn eiginfjármögnun" er ekki fremur líðandi en önnur sniðganga skattalaga.  Skatta ber almennt að greiða, þar sem verðmætin verða til, og himinhár fjármagnskostnaður til brúðulands með mun lægri skattheimtu en landið, þar sem fjárfest var, er óeðlilegur.  Evrópusambandið er að reyna að beita sér gegn þessu ásamt OECD, og sömu sögu er að segja um ríkisstjórn Íslands með undirbúningi lagasetningar í samræmi við alþjóðlegar ráðleggingar. 

Sexmanna sérfræðinganefndin telur grunnauðlindanýtingu standa undir 22 % af framleiðslu hagkerfis Íslands.  Þessi tala verður mun hærri, e.t.v. þreföld, þegar allar hliðargreinar og afleiddar greinar auðlindanýtingarinnar eru taldar með. Auðlindirnar eru þess vegna kjölfesta núverandi lífskjara á Íslandi. Sexmenningarnir leggja til, að umhverfis- og auðlindagjöld verði hækkuð og að tekjunum verði varið til að lækka aðra skatta.  Hér eru þeir því miður staddir uppi í fílabeinsturni, og kjörin gerast ekki þannig á eyrinni. Það er t.d. undir hælinn lagt, að stjórnmálamenn lækki skatta, og vinstri menn gera það nánast aldrei, því að þeir skattleggja allt, sem hreyfist, og þeir líta á fjölskyldur og fyrirtæki sem skattstofna fyrir hið opinbera og virðast halda, að starfsemi þessara aðila snúist um að afla hinu opinbera tekna.  Þetta er stórhættulegur misskilningur. 

Gera þarf greinarmun á úthlutun nýrra verðmæta, t.d. svæðum úti fyrir strönd fyrir eldiskvíar, og úthlutun hefðbundinna verðmæta, t.d. fiskveiðiheimilda í lögsögu Íslands:

  1. Er verið að úthluta nýrri auðlind, eða er hefð á nýtingu hennar ?  Ef ný auðlind, þá þarf að kanna, hvort rentusækni er í greininni, þ.e. ásókn í ívilnanir eða meðgjöf að hálfu hins opinbera á kostnað annarra, sem sækjast eftir sama.  Ef rentusækni er fyrir hendi í greininni, þá er þar væntanlega einnig að finna auðlindarentu. 
  2. Ef hefð er fyrir nýtingu, og menn standa frammi fyrir nauðsyn kvótasetningar, þarf að draga fram lögfræðileg rök eða annars konar jafngild rök fyrir annars konar úthlutun en á grundvelli nýtingar í nánustu fortíð. Þó að takmarkaðri auðlind sé úthlutað á grundvelli nýtingarreynslu, þarf samt að kanna, hvort rentusækni hafi myndazt í greininni. Rentusækni þýðir, að líklega hefur myndazt auðlindarenta, annars ekki. 

Dæmi um úthlutun nýrra auðlinda:    

  •  Uppeldissvæði fisks í kvíum við strendur landsins.  Þetta er takmörkuð auðlind, og nánast fullnýtt auðlind í sumum nágrannalöndum okkar, t.d. við strendur Noregs.  Þar eru starfs- og rekstrarleyfi til þessarar viðkvæmu starfsemi margfalt dýrari en hér.  M.a. af þessum ástæðum hafa norsk fyrirtæki í þessari grein fjárfest í fyrirtækjum hérlendis, og því ber að fagna, því að þar með flyzt erlent fjármagn til atvinnu- og verðmætasköpunar á Íslandi.  Norðmenn búa yfir langri reynslu og þekkingu í fremstu röð í þessari grein.  Svæði, þar sem fiskeldi í sjó verður leyft, eru nánast bundin við Vestfirði og Austfirði af ótta við blöndun við íslenzka stofna, en suðurströndin er ekki talin heppileg til þessarar starfsemi vegna brims.  Fyrirtækin kosta að vísu að miklu leyti sjálf rannsóknir og umhverfismat, en engu að síður er ljóst, að verð á starfs- og rekstrarleyfum hérlendis er óeðlilega lágt borið saman við nágrannana, og færri fá þessi leyfi en vilja.  Af þessum ástæðum hefur skýlaust myndazt þarna rentusækni, og gegn slíku ber að beita markaðsráðum, þ.e. útboði á starfsleyfum, t.d. til 25 ára, sem megi ganga kaupum og sölum á tímabilinu með forkaupsrétti hins opinbera. Rekstrarleyfin ættu að þurfa endurnýjunar við árlega í ljósi þess, hversu miklar kröfur er nauðsynlegt að gera til rekstraröryggis eldiskvíanna. 
  • Úthlutun virkjanaleyfa er annað dæmi um úthlutun takmarkaðrar auðlindar, þar sem meiri eftirspurn er en framboð.  Um vatnsorkuver hefur Hæstiréttur nýlega dæmt, að vatnsréttindin myndi andlag fasteignagjalda.  Viðkomandi sveitarfélag vill beita hæsta taxta í gjaldskrá sinni, en virkjunarfyrirtækið móast því miður við.  Með úrskurði dómstóla kemst þannig auðlindarenta vatnsorkuvera á hreint, og mun auðlindagjaldið renna til viðkomandi sveitarfélaga samkvæmt þessu, eins og önnur fasteignagjöld.  Fyrir jarðhita í þjóðlendum eða á öðrum svæðum, sem eru utan einkaeignarlanda, þarf að meta verðmæti jarðgufunnar eða heita vatnsins til að reikna út auðlindarentuna.  Nú er enginn virðisaukaskattur af jarðhita, en raforkan er í lægra þrepinu.  Eðlilegast er að hafa hana í núllflokki VSK til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja og mynda mótvægi við hækkanir út af auðlindagjaldi. 

Dæmi um úthlutun hefðbundinna auðlinda:

  • Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið eitt heitasta umræðuefni stjórnmálanna í heilan mannsaldur hérlendis. Umræðan hófst í kjölfar "Svörtu skýrslunnar" 1977, þar sem Hafrannsóknarstofnun birti varnaðarorð sín um, að sóknin í þorskstofninn væri ósjálfbær.  Fljótlega varð ljóst, að draga yrði úr sókninni til að vernda stofnana, og spurningin var aðeins um, hvernig það yrði gert. Í desember 1983 lagði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímssson, fram frumvarp um úthlutun aflahlutdeilda 1984 á skip á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan.  Var til einhver sanngjarnari leið til þessarar úthlutunar ? Hún var í eðli sínu þannig, að þó að yfirvöld stæðu frammi fyrir ósjálfbærum sjávarútvegi með miklum taprekstri vegna allt of mikils sóknarþunga í stofna á undanhaldi, þá ýttu þau engum út af miðunum, heldur létu markaðsöflin um það.  Þannig hafa núverandi útgerðarmenn keypt yfir 90 % af sínum aflahlutdeildum, og skiptir þá auðvitað engu, þótt einhverjir hafi fengið skuldalækkun hjá bönkum til að geta haldið starfsemi sinni áfram.  Það ríkir frjáls markaður með aflahlutdeildir á Íslandi, og afurðirnar eru seldar á frjálsum markaði, oftast í harðri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg á erlendum mörkuðum.  Af þessum sökum er engin rentusækni í íslenzkum sjávarútvegi samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu, og þar af leiðandi er þar enga auðlindarentu að finna. Þetta er hægt að staðfesta hagfræðilega með því að leita til rits Hagstofunnar, "Hagur veiða og vinnslu 2014", sem var sjávarútveginum hagfelldara ár en árin tvö á eftir.  Þar kemur fram, að arðsemi eigin fjár útgerðarinnar nam 13 %, sem að teknu tilliti til áhættu fjárfestingar er sízt meiri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Hitt er annað mál, að útgerðarmenn eiga íslenzka ríkinu mikla þökk upp að inna fyrir að hafa gert þeim kleift að reisa starfsemi sína úr öskustó til sjálfbærni með innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.  Þar af leiðandi er siðferðisgrundvöllur fyrir því, að þeir létti fjárhagslega undir með ríkinu við fjárfestingar stofnana ríkisins, sem aðallega þjóna sjávarútveginum, t.d. Landhelgisgæzlunni, Hafrannsóknarstofnun og Hafnasjóði, með því að stofna sjávarútvegssjóð, og þangað renni 2 %-5 % af verðmætum óslægðs afla upp úr sjó, háð gengisvísitölu. 
  • Annað kerfi, sem reynt hefur verið við úthlutun fiskveiðiheimilda, er s.k. "uppboðsleið".  Hún er fólgin í því, að ríkið aflar sér eignarréttar á hluta veiðiheimildanna og býður þær síðan upp. Ríkið ræður núna yfir rúmlega 5 % allra veiðiheimilda og getur þar af leiðandi gert tilraunir með "uppboðsleiðina", ef sæmileg sátt verður um það á meðal hagsmunaaðilana, en að öðru leyti þyrfti að fara s.k. fyrningarleið. Á Íslandi er þetta mjög torsótt leið, af því að ólíklegt er, að útgerðarmenn vilji láta afnotarétt af miðunum af hendi við ríkið.  Einu gildir, hvort um aukningu aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna er að ræða.  Heimildir þeirra hafa áður verið skertar, og þeim ber afnotaréttur á aukningunni líka.  Þessi aðferð, "uppboðsleið", hefur verið reynd í nokkrum löndum, t.d. í Eistlandi, og alls staðar hefur verið horfið frá henni jafnharðan aftur.  Nú eru Færeyingar að gera tilraunir með þessa aðferð, en þar í landi munu allar fiskveiðiheimildir falla til Landsstjórnarinnar 2018 samkvæmt lögum þar í landi frá 2008.  Það eru mjög skiptar skoðanir í Færeyjum um "uppboðsleiðina".  Nýlega var boðinn upp kolmunnakvóti í tvígang án þess, að nokkur byði.  Það var fyrst, eftir að lágmarksverð hafði verið lækkað mjög, að tilboð bárust, og voru þau ekkert umfram veiðigjöldin, sem verið höfðu.  Það er mikil hætta á markaðsmisnotkun í þessu kerfi, t.d. að stórútgerðir bíti fljótlega af sér samkeppni og sammælist að því loknu um lág tilboð.  Röksemdin fyrir þessu "ríkisvædda markaðskerfi" er, að  "fólkið", þ.e. ríkissjóður, fái meira í sinn hlut af verðmætum auðlindarinnar. Þetta er afstyrmislegt sjónarmið, því að með núverandi fyrirkomulagi hefur tekizt að hámarka virði auðlindarinnar með beintengingu markaðar og veiða og gjörnýtingu aflans. Allt þjóðfélagið nýtur góðs af.  Ef á að breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins, er það ávísun á gjaldþrot útgerða. Slík þjóðnýting (fyrning aflaheimilda) brýtur í bága við jafnréttissjónarmið til atvinnurekstrar og brýtur á atvinnuréttindum útgerðarmanna og sjómanna, því að atvinna og atvinnutekjur sjómanna munu verða í uppnámi.  Af hverju reyna vinstri menn ekki að móta aðrar einfaldari og löglegri leiðir en þessa meingölluðu "uppboðsleið", sem hvorki á hljómgrunn á meðal sjómanna né útgerðarmanna. 

 


Dillan um stjórnun fiskveiða

Sú meinloka hefur grafið um sig, að í sjávarútveginum íslenzka grasseri rentusækni og að þar sé þess vegna auðlindarentu að finna.  Þetta stenzt ekki samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu rentusækni. Rentusækni er hins vegar auðvelt að sýna fram á í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem nýta náttúruauðlindir Íslands, og þar er brýnt að meta auðlindarentuna.   

Rentusækni má búast við, þar sem takmarkaðri auðlind er úthlutað af hinu opinbera til útvalinna með hætti, sem mismunar aðilum á markaði.  Við upphaf núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis árið 1984 setti ríkisvaldið aflamark, sem skerti afla allra útgerða í þorski  o.fl. tegunda í fiskverndarskyni.  Hvert skip fékk sína aflahlutdeild, sem reist var á fiskveiðireynslu næstu 3 ára á undan.  Viðurkennt er, að þessi úthlutun var málefnaleg í alla staði, enda var enginn þvingaður af miðunum, nema hann treysti sér ekki til að gera út á skertan afla.  Erfiðir tímar aflaskerðinga fóru í hönd, og sumir lögðu upp laupana. 

Um 1990 var frjálst framsal aflaheimilda heimilað, og síðan þá hafa aflahlutdeildirnar gengið kaupum og sölum og útgerðum fækkað hraðar en áður.  Hið opinbera skiptir sér lítið af þessum viðskiptum, og þess vegna má segja, að frjáls markaður sé á afnotaréttinum, sem er eitt form eignarréttar.  Á frálagshliðinni ríkir einnig frjáls samkeppni fyrir megnið af afurðunum, þar sem keppt er við niðurgreiddan fisk erlendis.  Í flestum öðrum löndum er þess vegna rentusækni í sjávarútvegi annaðhvort vegna úthlutunar hins opinbera á veiðiheimildum eða vegna opinbers stuðnings við markaðssetningu afurðanna, nema hvort tveggja sé.  Hvorugu er til að dreifa hérlendis. 

Engu að síður má finna fyrir því rök, að sjávarútvegurinn greiði ríkinu gjald fyrir að hafa komið á og viðhaldið sjálfbæru fiskveiðistjórnunarkerfi, sem stjórnað er á hlutlægan hátt samkvæmt ráðgjöf vísindamanna, en þá ætti afgjaldið ekki að renna beint í ríkissjóð, heldur til að kosta þjónustu ríkisins við sjávarútveginn, u.þ.b. 4 % af verðmæti afla upp úr sjó.  Það er auðskilin reikniregla og gjald, sem ekki ætti að ríða neinum rekstri á slig, eins og reyndin hefur verið með núverandi vitlausa veiðigjaldakerfi. 

Hugmyndafræðingur uppboðsleiðarinnar svo kölluðu, sem blekbóndi leyfir sér að kalla mestu dillu í seinni tíma hagsögu Íslands, Jón Steinsson, hagfræðingur, JS-h, fékk birta eftir sig greinina,

"Færeyingar bjóða upp veiðiheimildir",

í Fréttablaðinu 16. ágúst 2016. Hann hleypur þar herfilega á sig, ef fögnuður hans yfir "árangursríku" uppboði Færeyinga á aflaheimildum í júlí 2016 er borinn saman við mat Jörgen Niclasen, formanns Fólkaflokksins í Færeyjum, JN, sem einnig verður tíundað í þessari vefgrein. 

Skoðum nú tilvitnun í grein JS-h, sem vitnar um fljótfærnislega ályktun hans af uppboði Færeyinga á hluta aflaheimilda sinna :

"Það er skemmst frá því að segja, að uppboðin tókust mjög vel.  Færeysk stjórnvöld fengu hátt verð fyrir veiðiheimildarnar, ef verðið er borið saman við þau veiðigjöld, sem íslenzkar útgerðir greiða í dag.  Fyrir þorskkvóta í Barentshafi fengu Færeyingar að meðaltali 3,42 DKK/kg, sem gera u.þ.b. 62 ISK/kg.  Til samanburðar munu íslenzkar útgerðir greiða rúmar 11 ISK/kg í veiðigjald af þorskkvóta á næsta fiskveiðiári.  Munurinn er því meira en fimmfaldur. 

Færeyingar fengu að meðaltali 3,66 DKK/kg fyrir makrílkvóta (u.þ.b. 66 ISK/kg).  Til samanburðar verður veiðigjald á makríl á Íslandi einungis 2,78 ISK/kg á næsta fiskveiðiári."

Hrifning JS-h hlýtur að stafa af háum hlut landssjóðsins í Færeyjum af afurðaverði sjávarútvegsins, en þeirri hrifningu má líkja við ánægjuna af að míga í skóinn sinn berfættur í frosti.  Þessi hlutur landssjóðs er óeðlilega hár m.v. venjulegar rekstrarforsendur fyrirtækja, eins og sýnt verður dæmi af.  Þetta verð á aflaheimildum er ósjálfbært, enda varð engin nýliðun í greininni við þetta uppboð.  Aflaheimildirnar hrepptu örfá fjársterk fyrirtæki og mest lenti hjá fyrirtæki, sem talið er vera leppur Hollendinga, sem vantar afla fyrir vinnslu sína í Hollandi. 

Þetta er ófögur mynd af niðurstöðunni, sem stingur í stúf  við fagnaðarlæti JS-h, en hvað hefur málsmetandi Færeyingur um málið að segja ?  Börkur Gunnarsson birti 24. ágúst 2016 frétt í Morgunblaðinu um uppboð Færeyinga með fyrirsögninni,

"Enginn í Færeyjum ánægður með uppboðið".  

Þar var á ferð viðtal við fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jörgen Niclasen:

""Engum í Færeyjum finnst þetta uppboð á kvóta hafa tekizt vel", segir Jörgen Niclasen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi formaður Fólkaflokksins, sem kom í stutta heimsókn til Íslands á dögunum.  "Þetta er búið að vera algjörlega misheppnað.  Allt í lagi að hafa gert tilraun, en þessi tilraun mistókst algjörlega. 

Það, sem boðið var upp, var aldrei meira en 10 % af kvótanum.  Þetta voru 10 kt af makríl, 5 kt af síld, 25 kt af kolmunna og 3 kt af botnfiski í Barentshafi.  Þetta uppboðsdæmi hljómar kannski vel á pappír, en í framkvæmd var það gripið glóðvolgt af raunveruleikanum og afhjúpað. 

Draumur fólks um, að aðrir en stóru fyrirtækin kæmust að, reyndist vitleysa; á uppboðinu fengu þeir stóru allt.  Þeir, sem hafa efni á því að tapa.  Draumurinn um að fá rétt verð reyndist rugl.  Verðið var of hátt, og aðeins þeir risastóru, sem vilja halda bátunum sínum gangandi, fengu kvóta.  Eitt fyrirtæki keypti 65 % kvótans.  Það fyrirtæki er með augljós tengsl við fjársterka aðila í Hollandi." .....

"Þannig að þú mælir ekki með uppboðsleiðinni ?  Ég held, að þú getir ekki fundið nokkurn mann í Færeyjum, sem finnst það góð hugmynd.  Við vorum með 6 uppboð á þessu ári.  Ef við höldum þessu mikið lengur áfram, þá mun færeyskur sjávarútvegur staðna og erlend fyrirtæki taka útveginn yfir.""

JS-h og kumpánar eru sem sagt gripnir glóðvolgir í bælinu með einskis nýta hugmyndafræði sína, sem eftir þetta hlýtur að eiga formælendur fáa, þó að kaffihúsasnatar muni vafalaust hampa henni áfram.  Hér höfum við, "directly from the horse´s mouth", þ.e. frá fyrstu hendi, að öll varnaðarorð hérlendra manna við "uppboðsleið aflaheimilda" voru á rökum reist og að þau hafa hlotið staðfestingu í reynd hjá frændum okkar, Færeyingum.  Það sýnir firringu stjórnmálanna, að hérlendis skuli a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Píratahreyfingin og Viðreisn, hafa tekið upp þá glórulausu stefnu að innleiða þessa aðferð í stað aflahlutdeildarkerfisins á Íslandi.  Vonandi verður þeim refsað vægðarlaust í kosningunum.   

Í viðtali Fiskifrétta við Árna Bjarnason, forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Valmund Valmundsson, formann Sjómannasambands Íslands, þann 25. ágúst 2016, kemur fram, að "Samtök sjómanna og skipstjórnenda leggjast alfarið gegn hugmyndum um uppboðsleið á aflaheimildum og telja þá leið vega að starfsöryggi sjómanna og hagsmunum þjóðarinnar".  

Þarf frekari vitnana við um það, að boðskapur uppboðsleiðarinnar er gjörsamlega úr tengslum við vinnandi fólk og heilbrigða skynsemi í landinu, grasrótina, sem stundum er kölluð ?

Árni Bjarnason segir:

"Það alvarlegasta við þessar hugmyndir er, að yrðu þær að veruleika, byggju sjómenn í fyrsta sinn í sögu fiskveiða við Ísland ekki við neitt atvinnuöryggi.  Þeir gætu aldrei vitað, hvort þeirra útgerð fengi heimildir eður ei.  Það felst í þessum hugmyndum ámælisvert virðingarleysi fyrir sjómönnum.  Píratar vilja innkalla allar aflaheimildir.  Það eru vissulega nokkur hundruð útgerðir á Íslandi, en hverjir myndu ráða við að kaupa aflaheimildirnar á uppboði ?  Það yrðu stærstu fyrirtækin, og um leið yrði atvinnuöryggi fleiri hundruð sjómanna í veði sem og útgerðarfyrirtækja.  Þetta er bara lýðskrum fyrir kosningar.  Það vantar mikið upp á, að hægt sé að taka málflutning af þessu tagi alvarlega, og ég trúi því ekki, að fólk kjósi svona lagað yfir sig."

Þetta er hverju orði sannara, og skýr afstaða Árna og Valmundar sýnir svart á hvítu, að þeir standa báðum fótum á jörðinni eða öllu heldur á þilfarinu.  Varla dirfist nokkur með viti að halda því fram, að þessir tveir menn hafi ekki full tök á viðfangsefninu, sem hér er til umræðu.  Málflutningur þeirra sýnir, að þeir hafa krufið málið til mergjar og komizt að þeirri skýru niðurstöðu, sem þessi blekbóndi er algerlega sammála, að uppboðsleið við fiskveiðistjórnun mundi setja afkomu og lifibrauð bæði sjómanna og útgerða í fullkomið uppnám, og hún er þess vegna einfaldlega þjóðhagslega skaðleg og sjávarútveginum og þar með efnahag landsins stórhættuleg.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, greindi í Fiskifréttum 18. ágúst 2016 kostnað við að koma makríl til viðskiptavinar, og greiðslugetu veiðigjalds/uppboðs:

  • Skilaverð á sjófrystum makríl frá Íslandi er núna um 122 kr/kg.
  • Frá því dragast laun sjómanna: 44 kr/kg
  • Síðan fara í olíu: 16 kr/kg
  • Í veiðarfæragjald og viðhald: 20 kr/kg
  • Annar kostnaður (tryggingagjöld, sölukostnaður, löndun, flutningar o.fl.): 18 kr/kg
  • Afgangurinn er framlegðin upp í fasta kostnaðinn (vextir, afskriftir, fjárfestingar og arður): 24 kr/kg = 20 %.

"Þessi útreikningur er byggður á reikniformúlum Hagstofunnar.  Hvar á þá að taka 66 kr/kg veiðigjaldið, spyr framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og bætir við, að þetta sé auðvitað glórulaust dæmi." 

Ef Vinnslustöðin hefði boðið 66 kr/kg fyrir makrílkvóta, eins og gert var í Færeyjum, þá hefði önnur veiði og verkun en á makríl augljóslega orðið að standa undir þeim kaupum.  Til skemmri tíma geta stór og fjölbreytt fyrirtæki e.t.v. stundað slíkt, þó varla, ef heimildir í öðrum tegundum eru rifnar af þeim.  Svona yfirboð eru óeðlilegir viðskiptahættir og aðeins stundaðir, ef önnur sjónarmið en góð og gild viðskiptasjónarmið ráða ferðinni, t.d. að bíta af sér samkeppni veikari fyrirtækja.  Með þessu væri hið opinbera að breyta útgerðarmönnum í þurfalinga, leiða sjúkt hugarfar og óeðlilega viðskiptahætti til öndvegis í íslenzkum sjávarútvegi og gegn þessu ber að berjast með kjafti og klóm, því að þetta mun leiða til gömlu bæjarútgerðanna áður en lýkur með viðvarandi taprekstri og niðurgreiðslum til sjávarútvegsins og jafnvel gengisfellingum hans vegna, eins og í gamla daga.  Félegt a´tarna, eða hitt þó heldur.   

Hugmyndafræðingur uppboðsleiðarinnar, téður JS-h, tjáir sig með eftirfarandi hætti um fyrirætlanirnar:

"Í því sambandi er vert að minna á, að flestir, sem tala fyrir uppboði á veiðiheimildum á Íslandi telja einmitt skynsamlegt, að kerfisbreytingin eigi sér stað hægt og bítandi yfir nokkurra ára skeið með þeim hætti, að 10 - 20 % af veiðiheimildum hverrar tegundar séu boðnar út ár hvert til 5 eða 10 ára. [Þetta þýðir, að á 5 til 10 árum færi eignaupptakan fram, og öllum útgerðarmönnum yrði í raun breytt í leiguliða ríkisins, þar til þeir gæfu reksturinn upp á bátinn.  Útgerð reist algerlega á leigukvóta hefur hvergi þrifizt, og umgengni við auðlindina mundi versna, því að skammtímasjónarmið mundu taka völdin við veiðarnar.  Leigugjaldið mundi lækka frá því sem nú er, því að í stað þess að afskrifa kvótakostnaðinn á löngum tíma, eins og aðrar óforgengilegar eignir (sjálfbær lífmassi í sjónum), þá þyrfti að afskrifa leigukvótann á 5 - 10 árum.  Kvótaverðið mundi þess vegna lækka, en það mundi kaupgeta leiguliðanna gera líka, og það er misskilningur hjá JS-h, að þetta mundi eitthvað "bæta stöðu nýliða og minni útgerða á Íslandi", eins og hann skrifar í tilvitnaðri grein, því að rekstrargrundvöllur hyrfi. Innsk. BJo]   

 

 

 

 

 

 

 


Orkan er undirstaðan

Undirstaða ríkjandi lífsgæða á Íslandi eru endurnýjanlegu orkulindirnar jarðvarmi og fallvatnsorka og nýting landsmanna á þessum orkulindum.  Þegar nýting þeirra hófst fyrir um 100 árum, voru lífsgæði í Evrópu einna rýrust á Íslandi mæld í heilsufari, langlífi, kaupmætti og landsframleiðslu á mann.  Nú á árinu 2016 eru lífsgæði einna mest á Íslandi á hvaða mælikvarða sem er. Án jarðvarma og fallvatnsorku væru lífskjör á Íslandi hins vegar lökust af öllum Norðurlöndunum og sennilega undir miðbiki lífskjara í Evrópu.  Hér væri allt öðru vísi umhorfs en nú, og landið væri vart samkeppnishæft við umheiminn. Með orkunni skilur á milli feigs og ófeigs, hvorki meira né minna.  

Til að lýsa raunverulegri stöðu efnahagskerfisins á Íslandi nú um stundir er hægt að tilfæra eftirfarandi úr forystugrein Morgunblaðsins,

"Bjart útlit", þann 25. apríl 2016:  

"En jafnvel vinstri stjórn síðasta kjörtímabils, sem taldi sér rétt að nýta hið óvænta tækifæri til að koma öllum sínum pólitísku áhugamálum í framkvæmd á kostnað efnahagsbatans, tókst ekki að koma í veg fyrir, að efnahagslífið rétti sig við.  Smám saman braggaðist efnahagurinn afar hægt, þegar stjórnvöld voru upptekin af eigin kreddum, en hraðar eftir að kjósendur höfðu rekið vinstristjórnina út úr stjórnarráðinu og kosið breytta stefnu. 

Margar vísbendingar hafa komið um það á síðustu misserum, að efnahagur landsins hefur verið að færast í rétt horf.  Atvinnuleysi er lítið og telst ekki lengur efnahagslegt vandamál, enda innflutningur á erlendu vinnuafli hafinn á nýjan leik.  Verðbólga hefur verið lág, og hagvöxtur er kraftmikill, á sama tíma og og þjóðir Evrusvæðisins búa við skuldavanda og stöðnun. 

Í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í liðinni viku (v.16/2016 - innsk. BJo), má lesa, að hagur heimilanna hafi sjaldan verið betri en nú og að fjárhagsstaða fyrirtækja haldi áfram að batna.  Kaupmáttaraukning var með allra mesta móti í fyrra, og í ár stefnir í svipaða þróun.  Vísitala kaupmáttar hefur aldrei verið hærri en nú, sem leitt hefur til mikillar aukningar einkaneyzlu.

Skuldastaða heimilanna hefur lækkað mjög, og eru skuldirnar nú svipað hlutfall af ráðstöfunartekjum og þær voru um síðustu aldamót og eru svipaðar eða lægri en í mörgum löndum, sem við berum okkur helzt saman við."

Þetta er glæsilegur árangur í hagstjórn og vert að hafa í huga, að honum er auðvelt að glutra niður, ef eitruð blanda fákunnáttu um hagstjórn og ábyrgðarleysis stjórnlyndra frömuða gæluverkefna og tilraunastarfsemi jafnaðarmanna tæki við í Stjórnarráðinu eftir næstu kosningar, eins og gerðist hér eftir kosningarnar í apríl 2009. 

Því má bæta við tilvitnunina hér að ofan, að atvinnuleysi er nú undir 3,0 % á Íslandi og minnkandi, en t.d. yfir 10 % á evrusvæðinu, og þar ríkir stöðnun, þrátt fyrir stanzlausa peningaprentun síðan fjármálakreppan hélt innreið sína fyrir 9 árum, sem gæti breytzt í glundroða vegna mikils útlánataps banka og vegna hlutabréfalækkunar og neikvæðra vaxta evrubankans í Frankfurt. Gríski harmleikurinn mun bráðlega verða tekinn til sýningar aftur, enda er ástandinu í Grikklandi nú lýst sem nýlenduástandi.  Uppreisn gegn slíkri niðurlægingu getur brotizt út í Grikklandi hvenær sem er með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.   

Kaupmáttur launafólks  á Íslandi er nú í hæstu hæðum og jókst um 11 % á 12 mánaða skeiði til apríl 2016, sem er einsdæmi á Íslandi, og þó að víðar væri leitað. Þetta má þakka lágri verðbólgu, sem á sama tímabili hefur verið undir 2,0 % og um 1,0 %, ef húsnæðisliðnum væri sleppt úr neyzluverðsvísitölunni, eins og margar þjóðir gera. 

Ein af ástæðum lágrar verðbólgu er, að ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi á þessu kjörtímabili og samtímis hafa beinir og óbeinir skattar verið lækkaðir, sem minnkað hefur þrýsting á launa- og vöruhækkanir.  Nefna má lækkun efra þreps virðisaukaskatts úr 25,5 % í 24,0 %, afnám vörugjalda af öllu, nema jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum því, og tollalækkanir á öðru en matvælum.  Allt er þetta til mikilla hagsbóta fyrir almenning í landinu og styrkir samkeppnisstöðu landsins um fólk og fyrirtæki, enda flykkist fólk nú til landsins, bæði brottfluttir innfæddir og útlendingar í atvinnuleit, sem sumir ílendast og gerast íslenzkir ríkisborgarar. Enn fara þau fleiri innfæddir utan en út, flestir til Norðurlandanna í nám. 

Allt þetta saman tekið sýnir svart á hvítu, að það er grundvallarmunur á gjörðum borgaralegrar ríkisstjórnar og vinstri stjórnar, en þessi glæsilega staða þjóðmála væri þó útilokuð án orkugjafanna í iðrum jarðar og í ánum og án núverandi nýtingar þeirra.  Úrtöluraddirnar hefur þó ekki vantað við hvert eitt hænuskref.  Hefði verið tekið mark á þeim, væri Ísland ekki hreint land og ríkt, heldur sótugt, reykmettað og fremur fátækt á evrópskan mælikvarða.  Þeir, sem lagzt hafa gegn framförum, sem dregið hafa úr fátækt og lyft lífskjörum almúgans, hafa með réttu fengið stimpilinn "afturhaldsöfl".  Með þá einhæfni atvinnugreina, sem stefna afturhaldsins býður upp á, væru kjör landsmanna mun lakari en raunin er nú, atvinnustigið lægra og færri landsmenn sæju sér fært að snúa heim að námi loknu.  Fjölbreytni tryggir farsæld. 

Eitt mesta sameiginlega hagsmunamál landsmanna nú og á næstu árum er að lækka skuldir alls staðar til að auka ráðstöfunarféð og til að efla mótstöðukraftinn, þegar núverandi hagvaxtarskeiði lýkur, því að allt gott tekur enda, eins og kunnugt er, og víða erlendis hefur mjög lítill hagvöxtur orðið frá hruni hins alþjóðlega fjármálakerfis árið 2008. Eignastaða heimilanna hefur ekki verið betri frá aldamótunum síðustu, Landsvirkjun hefur lækkað skuldir sínar um miakr 100 á um hálfum áratug, ríkissjóður lækkaði skuldir sínar um 10 % árið 2015 og mun lækka þær um 10 % í ár.  Jafnvel sveitarfélög eru að lækka skuldir sínar með nokkrum undantekningum, og sker höfuðborgin sig úr fyrir afspyrnu lélega fjármálastjórnun síðan 2010, og er hraði skuldaaukningar borgarsjóðs nú um 13 miakr/ár þrátt fyrir skattheimtu í sögulegu hámarki.  Þetta er engin tilviljun.  Sukk vinstri manna með fjármuni annarra hefur aldrei riðið við einteyming og er innbyggt í hugmyndafræði þeirra. Það er félagshyggjuöflunum siðferðilega um megn að sýna ráðdeildarsemi, þegar umgengni við fé annarra á í hlut.   

Hvað sem ólíkri ráðdeildarsemi líður, er þó eitt víst, að lífskjör á Íslandi væru ekki nema svipur hjá sjón, ef landið væri ekki rigningasamt og hálent eldfjallaland.  Fyrir vikið er hér víða mikill jarðhiti og orkumikil fallvötn, sem landsmenn hafa borið gæfu til að hagnýta í miklum mæli með sjálfbærum og afturvirkum hætti og þannig sparað gríðarlegan gjaldeyri og aflað enn meiri gjaldeyris, svo að ekki sé nú minnzt á, að fyrir vikið er Ísland með hreinasta loft og vatn iðnvæddra ríkja, enda fer hér fram endurnýjanleg og mengunarlítil orkuvinnsla til nánast allrar húshitunar og rafmagnsnotkunar, sem vekur heimsathygli og gæti verið einsdæmi á jörðunni. Ísland nýtur nú þessarar ímyndar við sölu á afurðum og landkynningu fyrir ferðamenn. 

Sem dæmi er aðeins rúmlega þriðjungur raforkuvinnslu Þjóðverja og rúmlega fjórðungur raforkuvinnslu Breta úr endurnýjanlegum orkulindum, en tæplega 100 % á Íslandi.  Raforkuvinnsla Norðmanna er nánast öll, >95 %, í vatnsaflsvirkjunum, og þeir hita hús sín að mestu með rafmagni frá þeim, en raforkuverðið er þar sveiflukennt og fer eftir framboði og eftirspurn, svo að þeir grípa stundum til annarra úrræða við húshitun, t.d. gas- eða viðarkyndingar, sem þá veldur slæmu lofti í þéttbýli. 

Það má gera ráð fyrir, að ein af ástæðum þess, að Ísland er nú vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna, sé sú staðreynd, að landsmenn eru leiðandi á heimsvísu í nýtingu sjálfbærra orkulinda með þeim afleiðingum í umhverfislegu tilliti, að hér er skyggni betra en annars staðar á björtum degi og loft og vatn heilnæmara. Íslenzk jarðhitafyrirtæki á borð við OR hafa verið leiðandi í heiminum við að fanga koltvíildi og brennisteinsvetni og binda þessar gastegundir í berglögum neðanjarðar.  Fer nú styrkur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjunum ekki lengur yfir  sett hættumörk.  

Gjaldeyristekjur af ferðamönnum, yfir miakr 400 árið 2015, eru þess vegna að einhverju leyti svo háar sem raun ber vitni vegna orkunýtingarinnar, sem hvarvetna þykir til mikillar fyrirmyndar, og gjaldeyristekjur af stóriðjunni, um miakr 250 á sama ári, eru alfarið vegna orkuvinnslunnar, svo að sjálfbær orkunýting hefur gríðarlega jákvæð áhrif á tekjuhlið þjóðarbúsins.   

Sjávarútvegurinn, hvers útflutningsverðmæti námu miakr 265 (miakr 151 upp úr sjó) árið 2015, nýtir enn þá svartolíu og dísilolíu til að knýja skipin, en orkubylting mun eiga sér stað í sjávarútveginum á næstu 35 árum, sem mun losa hann við jarðefnaeldsneytið.  Þar hefur hins vegar átt sér stað stöðug jákvæð þróun í orkunýtni á síðustu 25 árum, og um þessar mundir vex hraði þeirrar þróunar með miklum fjárfestingum í fiskiskipum.  Frá 1990-2013 minnkaði losun sjávarútvegs á koltvíildi um 181 kt eða 27 %, sem er samdráttur losunar um 7,9 kt/ár að jafnaði, og nægir þessi taktur til til að ná Parísarmarkmiðinu um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. 1990 án nokkurra viðbótar ráðstafana.  Kvótakerfið hefur knúið þessa jákvæðu þróun áfram með fækkun togara. Losun gróðurhússlofttegunda fiskiskipa hafði í árslok 2014 minnkað um 33 % frá 1990 og nam þá aðeins 10 % af heildarlosun landsmanna, en nam 18 % 1990. Íslenzkur sjávarútvegur er framúrskarandi atvinnuvegur á heimsvísu. 

Sem dæmi um vel heppnaða aðferðarfræði má taka útgerðarfélagið Ramma.  Fyrirtækið er að fá nýjan frystitogara, Sólberg ÓF, með 4640 kW aðalvél.  Það leysir af hólmi tvö skip, hvort með 2000 kW aðalvél.  Við þetta batnar orkunýtnin úr 5,1 MWh/t olíu í 11,1 MWh/t olíu á fullu álagi við veiðarnar, sem er ríflega tvöföldun.  Á árabilinu 1998-2015 hefur orðið 53 % olíusparnaður við að sækja aflaheimildir Ramma eða 3,1 % á ári að jafnaði, og til (og með) ársins 2017 verður 67 % olíusparnaður, sem svarar til 3,5 % olíusparnaðar að meðaltali á ári.  Það er sem sagt mjög góður og stígandi taktur í olíusparnaði útgerðarinnar samfara fjárfestingum hennar. 

Í Fiskifréttum 28. apríl 2016 hafði Guðjón Einarsson þetta eftir Ólafi H. Marteinssyni, framkvæmdastjóra Ramma hf.:

"Það eru ekki tæknibreytingar, sem hafa gert þetta að verkum, heldur kvótakerfið, merkilegasta framlag Íslendinga til umhverfismála.  Árið 2017, þegar nýja skipið hefur verið tekið í notkun, stefnum við að því að nota 5 milljónir lítra til að veiða sömu aflaheimildir og fyrr" (15 Ml árið 1998 - innsk. BJo).

Orkusparnaður um 2/3 á hvert veitt tonn á stóran þátt í að breyta taprekstri útgerða sveitarfélaga, ríkisins og annarra frá því um 1980 í arðsaman rekstur einkafyrirtækja, almenningshlutafélaga í sumum tilvikum, á 21. öldinni. 

Á næstu þremur áratugum munu útgerðarmenn, vinnuvélaeigendur og bíleigendur fjárfesta í nýrri tækni, sem leysa mun jarðefnaeldsneyti alfarið af hólmi. Að mestu leyti verður um að ræða rafala, rafhreyfla og ýmsa orkugjafa til vinnslu rafmagns, t.d. í þóríum-kjarnakljúfum og efnarafölum (fuel cells), en einnig sprengihreyfla, sem brenna tilbúnu innlendu eldsneyti úr koltvíildi og vetni, t.d. metanóli.  Þar með losna útgerðirnar við fjárhagslegan bagga koltvíildisskatts og óvissu vegna verðsveiflna á alþjóðlegum olíumarkaði, og þjóðhagsleg hagkvæmni útgerðanna vex enn, þar sem erlendur tilkostnaður á hvert kg afla snarminnkar. 

Langmesti orkukostnaður íslenzkra heimila er vegna fjölskyldubílsins eða bílanna. Ef reiknað er með, að meðalfjölskyldan aki um 20´000 km/ár og að meðaleldsneytisnotkunin sé lág, 0,07 l/km, hjá fjölskyldum landsins, þá notar "meðalfjölskyldan" 1400 l/ár, sem kosta nú um 280´000 kr/ár. 

Sömu fjölskyldu gefst nú kostur á að kaupa tengiltvinnbíl, þegar hún hyggur á bílakaup.  Raforkunotkun meðalbíls af þeirri gerð er undir 0,26 kWh/km í rafhami við íslenzkar aðstæður mælt inn á hleðslutæki bílrafgeymanna.  Sé bílnum ekið 15´000 km/ár á rafmagni, notar hann 3900 kWh/ár af raforku, sem kosta um 55´000 kr.  Áætla má, að slíkur bíll noti undir 0,05 l/km af eldsneyti þá 5000 km/ár, sem jarðefnaeldsneyti knýr hann, aðallega á langkeyrslu.  Kostnaður þessara 250 l/ár nemur um 50´000 kr/ár.  Þá nemur heildarorkukostnaður þessa tengiltvinnbíls 105´000 kr/ár, sem er tæplega 38 % af orkukostnaði hefðbundins eldsneytisbíls m.v. jarðolíuverðið 50 USD/tunnu, sem er lágt til lengri tíma litið. 

Þar með er orkukostnaður fararskjóta þessarar fjölskyldu orðinn um 70 % af orkukostnaði íbúðarinnar hennar, og hún nær að draga úr heildarorkukostnaði sínum um rúmlega 40 % með því að nýta að mestu innlendar orkulindir. Þessi sparnaður verður að sjálfsögðu enn meiri með hreinum rafmagnsbíl.

Upphitunarkostnaður blekbónda á 193 m2 húsnæði nemur 120 kkr/ár með sköttumÍ alþjóðlegu samhengi er staðan þannig, að meðalverð á orku til húshitunar frá hitaveitu án skatta er 6,5 cEUR/kWh, en á Íslandi 2,0 cEUR/kWh, og er hlutfallið um 3,3.  Meðalupphitunarkostnaður án skatta á íbúð hérlendis með jarðvarma gæti hugsanlega numið 70 kkr/ár, en ef þyrfti að hita sama húsnæði upp með olíu, mundi sá kostnaður nema um 1,0 Mkr/ár eða 14 földum kostnaðinum frá íslenzkri hitaveitu að jafnaði. 

Ráðstöfunartekjur á hverja fjölskyldu hérlendis án hefðbundnu innlendu orkugjafanna mundu vera allt að 30 % minni en raunin er nú, sem mundi gjörbreyta lífskjörum hérlendis til hins verra. 

Andvirði eldsneytisinnflutnings árið 2015 nam um 83 miakr FOB.  Eldsneytiskostnaður þjóðfélagsins væri tvöfaldur að öðru óbreyttu, ef ekki nyti við innlendra orkugjafa til upphitunar húsnæðis, og innflutningskostnaður vöru 2015 hefði þá numið 730 miakr FOB, eða 12 % hærri upphæð en raunin varð.

  Óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans er um þessar mundir um 400 miakr, en alls óvíst er, hver hann væri án endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Hér gæti verið viðvarandi fjárhagslegur óstöðugleiki og lakari lífskjör en að meðaltali í Evrópu, en nú eru þau á meðal hinna beztu. 

Það er ekki einvörðungu, að framfærslukostnaðurinn væri miklu hærri án innlendu orkulindanna, heldur væru gjaldeyristekjurnar jafnvel 40 % lægri og þjóðartekjur og tekjur launþega að sama skapi lægri. 

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma væri kaupmáttur almennings án innlendu orkulindanna, jarðhita og fallvatna, aðeins helmingur af núverandi kaupmætti, og landsframleiðsla á mann næmi ekki kUSD 55, eins og nú, heldur í hæsta lagi kUSD 35. 

Nú mun einhver segja, að hvað sem jarðhita og vatnsafli líður, hefðum við þó vindinn, og mundum vafalaust hafa nýtt hann í miklum mæli. Það er rétt, en vindorkan hefði ekki laðað hingað erlenda fjárfesta, og raforkuverð á Íslandi væri a.m.k. 5-falt dýrara en það er nú, ef aðeins nyti við endurnýjanlegrar orku frá vindmyllum.  Hlutfall orkukaupa (án bíls) til heimilis í 100 m2 húsnæði af meðallaunum einstaklings er í Evrópu utan Íslands 8,3 %, og er þetta hlutfall á Íslandi aðeins 1/6 af 8,3 % eða 1,4 %.  Án jarðhita og vatnsafls á Íslandi væri þetta hlutfall á meðal hins hæsta í Evrópu vegna legu landsins. 

Af því, sem hér hefur verið tínt til, er ljóst, að jarðhitanýting og virkjun vatnsfalla eru meginskýring þess, að Íslendingum tókst á 20. öldinni að sækja fram úr örbirgð til tiltölulega ágætra lífskjara og mun takast að ná einum beztu lífskjörum í Evrópu fyrir miðja 21. öldina, ef fram heldur sem horfir.

 


Svarti-Pétur á húsnæðismarkaði

Mjög mikil uppsöfnuð þörf fyrir nýtt húsnæði er víða um land, e.t.v. 10´000 íbúða vöntun, nú eftir hrun fjármálakerfisins 2008 og stöðnunarskeið með skattpíningu vinstri stjórnarinnar. Til viðbótar uppsöfnuðum húsnæðisvanda vegna fjármálakreppu fjölgar þjóðinni um 1-2 % á ári og þúsundir streyma til landsins í leit að vinnu.  Þetta veldur spennu og verðbólgu á húsnæðismarkaðinum.   

Þegar eftirspurnin er með mesta móti og framboðið með minna móti, er ekki kyn, þó að spenna verði á markaðinum og húsnæðisverðið hækki langt umfram hækkun verðlags á öðru í landinu eða allt að 10 % á ári. Þrátt fyrir sveiflukenndan markað, hefur samt þótt við hæfi að vigta hann inn í neyzluverðsvísitölu, þó að ýmsar þjóðir sleppi því. 

Það verður sem skjótast að vinda ofan af spennunni á húsnæðismarkaðinum, en það er ekki hlaupið að því á tíma, þegar sprenging er á hótelmarkaðinum og verið er að bæta við um 3000 herbergjum í gistirými á landinu.  Það eru og fleiri ljón í veginum.

Eitt er allt of lítið framboð af lóðum í þéttbýlinu Suð-vestanlands og þó alveg sérstaklega í höfuðborginni, Reykjavík.  Þar er blóraböggullinn án nokkurs vafa borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, sem lofaði kjósendum stórátaki í húsnæðismálum, "nægu" framboði lóða og þúsundum íbúða, leigu- og eignaríbúðum, á kjörtímabilinu.  Hann er að svíkja þetta meginkosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og mun sitja uppi með Svarta-Pétur húsnæðismarkaðarins í lok þessa kjörtímabils. 

Aðferðarfræði vinstri stjórnarinnar í borginni er röng og algerlega vonlaus til árangurs við að vinna bug á húsnæðiseklunni, en aðferðarfræðin kallast þétting byggðar.  Sú aðferð er allt of seinleg og dýr, og samhliða er alger framkvæmdadoði á jaðarsvæðunum, t.d. við Úlfarsfell.  Fyrir þessa frammistöðu í einu mesta hagsmunamáli borgarbúa, einkum þeirra, sem eru að leita eftir sinni fyrstu eignaríbúð, verðskuldar borgarstjórinn falleinkunn, og sennilega setur hann á kjörtímabilinu met í sviknum kosningaloforðum í borginni. Þessi hallærisstefna er ein af ástæðum bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar.  Með mikilli lóðasölu mundu tekjur af gatnagerðargjöldum aukast og aðrar tekjur borgarinnar umfram gjöld mundu fylgja í kjölfarið. Það er afturhaldskeimur að stjórnun borgarinnar og átakanlegur skortur á framsækni.

Um þetta efni var fjallað í forystugrein Morgunblaðsins,

"Lítið um efndir", 17. febrúar 2016:

"Í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga fór Samfylkingin á mikið flug í húsnæðismálum og lofaði því m.a., að í Reykjavík yrðu reistar 2500-3000 leigu-og búseturéttaríbúðir.  Í máli forvígismanna flokksins í borginni kom þá einnig fram, að gert yrði ráð fyrir um 5000 nýjum íbúðum í heildina á þessu kjörtímabili."

Nú er orðið alveg ljóst, að við þessi fyrirheit verður ekki staðið.  Morgunblaðið hefur gert úttekt á framvindu lóða- og byggingamála hjá borginni, og um þau flest á við, að "verkefni er ekki hafið".  Allt er á sömu bókina lært hjá Samfylkingunni.  Þar eru engin mál hugsuð til hlítar, heldur samanstendur stefnan af slagorðum, sem forsprakkarnir halda, að falla muni kjósendum í geð.  Samfylkingin er stefnulaust rekald hræsnara og lýðskrumara. Kjósendur vöruðu sig hvorki á ábyrgðarleysi Samfylkingarinnar né því, að vegur hennar er varðaður óheilindum.  Nú er Samfylkingin hins vegar komin á leiðarenda og að bugast undan byrði svikanna.

Í téðum leiðara stendur ennfremur:

"Á sama tíma og dekur meirihlutans við tafsama þéttingu byggðar skilar engu, upplifir fólk í úthverfum borgarinnar ekkert annað en algjört vilja- og áhugaleysi borgaryfirvalda til þess að hefja framkvæmdir þar.  Hálfkláruð hverfi, sem hægur vandi ætti að vera að byggja til fulls, mega sitja á hakanum, á meðan sífellt fleiri verkefni til þéttingar byggðar í eldri hverfum eru tilkynnt, en ekki hafin."

Er nokkrum blöðum að fletta lengur um það, hvar sökin liggur á uppspenntu verði íbúðarmarkaðarins, sem stafar af miklu ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar.  Sökudólgurinn er vinstri stjórnin og gegnsæi píratinn í Reykjavík, þar sem fremstur fer Dagur Bergþóruson Eggertsson með sinn handgengna áhugamann (les: fúskara) um skipulagsmál, Hjálmar, nokkurn, Sveinsson, fyrrum dagskrárgerðarmann á RÚV, sem formann skipulags- og umhverfisráðs borgarinnar. 

Blindur leiðir haltan. Óreiðan, sem þessir tveir menn hafa skapað í skipulagsmálum borgarinnar, hefur valdið mikilli ógæfu fjölda ungra manna og kvenna, sem fyrir vikið verða að búa við háa húsaleigu í samkeppni við "airbnb" o.fl. tengt ferðaiðnaðinum og ráða ekki við að festa kaup á sinni fyrstu íbúð.

Í lokin skrifar leiðarahöfundur:

"Raunin er því miður sú, að borgaryfirvöld draga lappirnar og hindra eðlilega uppbyggingu.  Verst er, að lítil von er um, að ástandið batni, því að borgaryfirvöld virðist í senn skorta vilja og getu til að koma þessum málum í eðlilegt horf."

Það verður ekkert vitrænt aðhafzt að hálfu borgaryfirvalda fyrr en eftir næstu sveitarstjórnarkosningar 2018, og þá því aðeins, að borgarbúar beri gæfu til að stokka með róttækum hætti upp í borgarstjórninni og kasta Svarta-Pétri burt úr spilastokkinum. Þá verða borgaryfirvöld að spýta í lófana með nægu lóðaframboði til að fullnægja eftirspurn, eins og Davíð Oddsson og félagar gerðu á sinni tíð í borgarstjórn, og þau þurfa að afleggja þrúgandi lóðaokrið, sem viðgengst hjá núverandi meirihluta með fasteignagjöld uppi í rjáfri.  Þá, 2018, verður túristablaðran sprungin, hótelbyggingum að mestu lokið, svo að svigrúm myndast á byggingamarkaðinum fyrir íbúðarhús, og verður tími til kominn. 

Annað, sem gerir fólki erfitt fyrir að fjármagna sína fyrstu íbúð, er hár fjármagnskostnaður.  Nú eru meginvextir Seðlabanka Íslands 5,75 %, reistir á kolrangri verðbólguspá hans, enda stýrivextir erlendis yfirleitt á bilinu -1 % til + 1 %. Raunvextir í landinu hafa líklega aldrei áður verið svo háir jafnlengi og nú, svo að þeir halda vafalaust aftur af hagvexti, en með sannfærandi hætti hefur SÍ ekki sýnt fram á, að verðbólgan væri hærri, ef téðir nafnstýrivextir væru umtalsvert lægri, t.d. 3,0 %. Það er eitthvað bogið við þjóðhagslíkan Seðlabankans, og það er meira en lítið bogið við Seðlabankastjórann, sem vissi svo lítið um önnur tól Seðlabankans en vaxtatólið á fundi hjá Viðskipta- og efnahagsnefnd Alþingis nýverið, að hagfræðingur í starfsumsóknarviðtali í Seðlabankananum hefði ekki komið til greina við ráðningu þar.  Flugfreyjan, Jóhanna Sigurðardóttir, taldi þó svo mikið við liggja að troða þessum manni í stól Seðlabankastjóra, að nánast fyrsta verk ríkisstjórnar hennar var að bola þáverandi bankastjórn Seðlabankans burt með nýrri lagasetningu um æðstu stjórn bankans.

Hvort sem húsbyggjandi tekur óverðtryggð eða verðtryggð lán, verður fjármagnskostnaðurinn sligandi við þessar aðstæður.  Verkefni stjórnmálanna og hagstjórnarinnar nú ætti þess vegna ekki að vera að afnema verðbótaþátt vaxta, sem tryggir í raun sparnað í landinu og framboð lánsfjármagns, heldur að lækka stýrivexti Seðlabankans og vaxtamun viðskiptabankanna. 

Þjóðhagslíkan Seðlabankans virðist vera gallað, og verður nú vonandi bætt á grundvelli fenginnar reynslu, og kostnaður bankanna sem hlutfall af tekjum fer of hægt lækkandi.  Nú eru 2 af 3 stærstu bönkunum að verða ríkisbankar, svo að ríkissjóður nýtur hárra arðgreiðslna, en bankarekstur er allt of áhættusamur, til að skynsamlegt sé fyrir ríkið að binda hundruði milljarða í þeim rekstri.  Það gæti þó verið skynsamlegt fyrir ríkissjóð að vera minnihlutaeigandi og eiga fulltrúa í bankaráði beggja bankanna til að geta fylgzt með ákvarðanatöku, eins og kostur er. Þá verður reyndar að vera þar fólk með heilbrigða dómgreind til að leggja mat á það, sem bankarnir eru að bauka, en því fór fjarri á síðasta kjörtímabili, einnig í Fjármálaeftirlitinu, sem svaf á verðinum og rumskar enn aðeins við og við, þegar hávaði verður. 

Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra lýst því yfir, að hann telji efnahagsreikninga bankanna vera of stóra.  Þetta er að miklu leyti vegna sölu fullnustueigna bankanna og vegna virðisaukningar á eignum bankanna frá flutningi þeirra frá föllnu bönkunum, sbr "dauðalistann", sem Morgunblaðið hefur birt.  Eftir því, sem efnahagsreikningur bankanna blæs meira út, verður afleiðingin af falli þeirra alvarlegri fyrir eigandann og þjóðfélagið og jafnvel líkur á falli þeirra meiri. 

Viðhorf formanns Sjálfstæðisflokksins eru þess vegna skiljanleg og eðlileg.  Það er við þessar aðstæður eðlilegt að herða skattheimtu á alla banka, þegar hagnaður fer yfir ákveðin mörk, setja á þrepskipt tekjuskattskerfi á fjármálaþjónustu.  Þar með verður dregið úr gróðahvata bankanna, sem kemur m.a. fram í miklum vaxtamuni inn- og útlána.  Að skilja algerlega að innlána- og fjárfestingastarfsemi bankanna yrði ekki viðskiptavinum þeirra til heilla, því að þeir yrðu þá hlutfallslega enn dýrari í rekstri og enn torseljanlegri. 

Í Fréttablaðinu 27. febrúar 2016 birtist eftirfarandi frétt:

"Rannsókn Samkeppniseftirlitsins (SE) á meintri misnotkun á sameiginlegri markaðsráðandi stöðu stóru viðskiptabankanna þriggja er ennþá ólokið.  Rannsóknin hófst vegna kvartana árið 2010.  Kvartanirnar vörðuðu skilmála íbúðalána bankans, sem samkvæmt kvörtununum hindra einstaklinga í því að færa viðskipti sín til annarra banka og hamla þannig samkeppni."

Seinagangi Samkeppnisstofnunar er viðbrugðið, og vinnubrögð hennar hafa sætt ámæli, og iðulega hefur hún verið gerð afturreka með úrskurði sína, en vonandi rekur hún nú af sér slyðruorðið með því að ljúka þessari bankarannsókn með úrskurði, sem er til þess fallinn að auka raunverulega samkeppni á milli bankanna.  Hún hlýtur aðallega að vera háð á sviði vaxtamunarins, sem er of hár, sumpart vegna of hás kostnaðar bankanna.  Bankarnir hafa þess vegna mikla möguleika á að heyja grimma samkeppni sín á milli, neytendum í hag með enn frekari hagræðingu. 

Hér skal draga í efa, að fullyrðingar ýmissa gagnrýnenda fjármálakerfisins þess efnis, að afnám verðtrygggðra vaxta yrði til að bæta hag neytenda, standist hagfræðilega rýni.  Þetta á t.d. ekki við, þegar áætluð verðbólga, AB, er hærri en raunveruleg verðbólga, RB, eins og verið hefur á Íslandi undanfarin misseri af ýmsum ástæðum, aðallega verðhjöðnun og neikvæðum stýrivöxtum víða erlendis,  vegna þess, að þá reikna bankarnir of hátt verðbólguálag inn í vaxtakjörin, sem þeir bjóða viðskiptamönnum sínum. Dæmið snýst við lántakendum óverðtryggðra vaxta í vil, þegar verðbólguspá er undir raunverðbólgu.  Þegar stöðugleiki ríkir í hagkerfinu, má lántakendum vera sama, hvort lánsformið þeir velja, óverðtryggt eða verðtryggt, og það er sjálfsagt að veita lántakendum fullt valfrelsi um þetta á markaðinum, óháð lánstíma.  Valið getur t.d. markast af því, hvernig lántakandi kýs að dreifa greiðslubyrðinni yfir lánstímann.  Ekki ætti heldur að svipta sparendur réttinum á verðtryggðum innlánsreikningum.

Það er ákveðið reikningslegt samband á milli óverðtryggðra vaxta, OV, og verðtryggðra vaxta, VV:

  • OV=(1+VV)*(1+AB)-1 = VV+VV*AB+AB

Raunverulegt dæmi frá einum bankanum um þessar mundir er: OV=6,75 % og VV=3,5 %.  Með stýrivexti Seðlabankans 5,75 % er ekki von til, að VV verði lægri en 3,5 %, en það er augljóslega vel í lagt með verðbólguvæntingar (3,14 %), þegar OV nær 6,75 %.  Þetta dæmi sýnir, að lán með óverðtryggðum vöxtum þarf alls ekki að vera hagstæðara en hitt.

 

 

 

 


Skattamál í sviðsljósi

Meginágreiningur stjórnmálanna um innanríkismálin er um þátttöku hins opinbera í starfsemi þjóðfélagsins og eignarhald á auðlindum og atvinnustarfsemi, þ.m.t. á fjármálakerfinu í landinu.

Hin borgaralegu viðhorf til þessara mála eru að leggja frjálsa samkeppni, markaðshagkerfið og dreift eignarhald  með eignarhlut sem flestra, til grundvallar, en hið opinbera sjái um löggæzlu, réttarfar og öryggi ríkisins og annað, þar sem styrkleikar samkeppni og markaðar fá ekki notið sín. 

Á Norðurlöndunum er þar að auki samhljómur um, að hið opinbera, ríkissjóður og sveitarfélög, fjármagni að mestu grunnþjónustu á borð við menntun, lækningar, vegi, flugvelli o.þ.h.  Á Íslandi er ágreiningur um rekstrarformin, þ.e. hvort hið opinbera skuli vera beinn rekstraraðili eða geti fengið einkaframtakið til liðs við sig í verktöku með einum eða öðrum hætti.

Opinber rekstur er hlutfallslega mikill á Íslandi.  Stærsti útgjaldaþáttur ríkisins er vegna sjúklinga.  Þar er hlutdeild íslenzka ríkisins 80 %, en að jafnaði 72 % í OECD.  Árið 2012 námu útgjöld íslenzka ríkissjóðsins vegna sjúkra 7,2 % af VLF, en þetta hlutfall var að jafnaði 6,6 % í OECD. 

Kári Stefánsson, læknir, berst fyrir því, að heildarframlög í þjóðfélaginu til sjúklingameðferðar hækki sem hlutfall af VLF.  Hann getur þess þá ekki, að framlög ríkisins í þennan málaflokk eru með því hæsta, sem þekkist, og til að auka heildarframlögin er þá nær að auka hlutdeild sjúklinga upp að vissu marki til jafns við aðrar þjóðir OECD. 

Þetta er þó í raun og veru deila um keisarans skegg, því að markmið allra ætti að vera hámörkun á nýtingu takmarkaðs skattfjár, þ.e. velja ber rekstrarform, sem uppfyllir gæðakröfur fyrir lægstu upphæð.  Þetta hljómar einfalt, en það getur tekið tíma að finna þetta út í raun, og þá má hafa hliðsjón af reynslu annarra þjóða.  Almenna reynslan er sú, að með því að virkja markaðshagkerfið má nýta skattfé betur en með opinberum rekstri.  Við mat á þessu þarf þó að taka tillit til íslenzkra aðstæðna, t.d. mjög lítils markaðar, þar sem ógnir fákeppninnar vofa víða yfirNýkynnt umbót heilbrigðisráðherra við fjármögnun heilsugæzlustöðva virðist framfaraskref í þessu tilliti, þar sem opinber- og einkarekstur fær að keppa á jafnréttisgrundvelli. Er líklegt, að bæði framleiðni og gæði starfseminnar vaxi við þessa nýbreytni. 

Það hlýtur að vera stefnumál allra sanngjarnra manna, að launamenn haldi eftir til eigin ráðstöfunar sem mestum hluta eigin aflafjár. Hið sama á við um fyrirtækin, því að hörð skattheimta á hendur þeim takmarkar getu þeirra og áræðni eigenda til vaxtar, nýráðninga og fjárfestinga, sem eru undirstaða framtíðar lífskjara í landinu. 

Hér verður fyrst tínt upp úr Staksteinum Morgunblaðsins 19. janúar 2016, þar sem vitnað er til Ásdísar Kristjánsdóttur, hagfræðings, á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og SA:

"Heildarskatttekjur hins opinbera (ríkisins, innskot BJo)voru 35 % af landsframleiðslu hér á landi árið 2014.  Með þessu háa hlutfalli sláum við út nánast allar þær þjóðir, sem við viljum bera okkur saman við. .... Í Svíþjóð, sem seint verður talin skattaparadís, er hlutfallið t.d. "aðeins" 33 % og í Finnlandi 31 %."

Ef Kári fengi sitt fram um aukin framlög úr ríkissjóði án sparnaðar á móti, sem vonandi verður ekki í einu vetfangi, myndi þurfa að afla samsvarandi tekna á móti, og þá mundi síga enn á ógæfuhlið landsmanna varðandi umsvif opinbers rekstrar, og hlutfall ríkistekna verða um 38 % af VLF, sem kæmi niður á ráðstöfunartekjum almennings í landinu og væri fallið til að draga úr hagvexti. 

Í raun þarf ekki frekari vitnana við um, að skattheimtan er orðin of þungbær á Íslandi, virkar þar af leiðandi samkeppnishamlandi við önnur lönd og hægir þar með á lífskjarabata í landinu.  Það er þess vegna brýnt að minnka skattheimtuna með því að draga úr álagningunni. Barátta Kára fyrir auknum ríkisútgjöldum til sjúklinga sem hlutfall af VLF er algerlega ótímabær, en þetta hlutfall hækkar þó óhjákvæmilega smám saman, þegar elli kerling gerir sig heimakomna hjá fleiri landsmönnum. 

Hér verður velt vöngum um, hvernig hægt er að minnka skattheimtuna án þess að ógna jafnvægi ríkissjóðs.

Vinstri stjórnin 2009-2013 hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi án þess á hinn bóginn að hafa erindi sem erfiði með skatttekjur ríkisins.  Hún kleip líka utan af fjárveitingum til grunnþjónustu, sjúkrahúsa og skóla, og skar samgöngumálin niður við trog, allt án tilrauna til kerfisuppstokkunar.  Síðan var fé sólundað í gæluverkefni stjórnarinnar, sem öll voru andvana fædd. 

Þessa stjórnarhætti má nefna óráðsíu, og þess vegna var hagkerfið í hægagangi og mikil uppsöfnuð fjármunaþörf í þjóðfélaginu, þegar borgaralega ríkisstjórnin tók við 2013. Af þessum ástæðum hefur útgjaldahlið ríkissjóðs þanizt út á þessu kjörtímabili, þó því miður ekki til samgöngumála, en tekjurnar hafa þó hækkað meira þrátt fyrir takmarkaðar lækkanir skattheimtu og niðurfellingu tolla og vörugjalda, nema af jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum slíku eldsneyti. 

Vinstri stjórnin jók skuldir ríkissjóðs öll sín valdaár, eins og vinstri stjórnir gera alltaf, og svo var komið, að árlegar  vaxtagreiðslur ríkissjóðs fóru yfir miaISK 80.  Með því að lækka skuldir um miaISK 800 á núverandi kjörtímabili, sem er mögulegt með bankaskattinum, stöðugleikaframlagi bankanna og sölu ríkiseigna, má lækka skuldir ríkisins úr núverandi 64 % af VLF í 24 % af VLF, sem gæti verið lægsta hlutfall í Evrópu og er ávísun á hærra lánshæfismat landsins.  Við þetta mundi árleg vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um miaISK 50 og verða undir miaISK 30.  Þetta mun skapa ríkissjóði svigrúm til að auka samkeppnishæfni Íslands um fólk og fyrirtæki með skattalækkunum og uppbyggingu arðsamra innviða á borð við vegi, brýr, jarðgöng og flugvelli. 

Skattar á íslenzk fyrirtæki án tryggingagjalds og tekna af þrotabúum nema 4,9 % af landsframleiðslu hér, sem er meira en þekkist nokkurs staðar annars staðar, og er t.d. meðaltalið í OECD 3,0 %.  Það er t.d. brýnt að stórlækka og breyta álagningu og ráðstöfun hins ósanngjarna auðlindagjalds á sjávarútveginn til að jafna stöðu hans við aðra atvinnuvegi og gera hann betur í stakkinn búinn að búa við aflasveiflur og markaðssveiflur án skuldasöfnunar. Nú hefur Hæstiréttur dæmt, að sveitarfélög mega leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi orkufyrirtækja, þó að ágreiningur sé enn um álagningarflokkinn.  Hér er um að ræða ígildi auðlindargjalds á orkuiðnaðinn, sem fallið er til þess að jafna aðstöðu athafnalífs í landinu, sem hið opinbera má ekki gera sig sekt um að skekkja. 

Í Viðskipta Mogganum 17. september 2015 hefur Margrét Kr. Sigurðardóttir eftirfarandi eftir téðri Ásdísi:

"Viðbótartryggingargjaldið, sem atvinnulífið er enn að greiða til ríkisins, reiknast okkur til, að séu líklega nær miaISK 20 á hverju ári."

Tekjur af tryggingagjaldi voru árið 2008 miaISK 53 og hafa aukizt til 2015 um miaISK 26 bæði vegna álagningarhækkunar vinstri stjórnarinnar úr 5,5 % af launum í 7,49 % og vegna stækkunar vinnumarkaðarins og minna atvinnuleysis.  Það verður svigrúm fyrir ríkissjóð til að gefa miaISK 20-30 eftir á árunum 2016-2017, ef fram fer sem horfir, enda er ekki vanþörf á að létta á fyrirtækjunum til að bæta samkeppnishæfni þeirra, sem versnar við launahækkanir umfram framleiðniaukningu og með sterkari ISK. 

Talið er, að skattsvik í landinu nemi um miaISK 80 eða 4% af VLF.  Þó að aðeins næðist í helminginn af þessu, er þar um gríðarupphæð að ræða, sem á hverju ári slagar upp í ofangreindan vaxtasparnað ríkisins.  Aukið svigrúm ríkisins til innviðauppbyggingar gæti þannig numið miaISK 90 innan tíðar, ef vel verður á spilunum haldið, en það er borin von að svo verði, ef glópum verður hleypt að ríkisstjórnarborðinu í kjölfar næstu kosninga.  Þá munu efnilegar horfur breytast til hins verra á svipstundu vegna trúðsláta og sirkussýninga. Vítin eru til þess að varast þau.  "ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN." Steingrímur í skjóli pírata er óbærileg tilhugsun.

Um skattsvik ritaði Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, þann 29. október 2015 í Morgunblaðið, greinina:

"Lífeyris- og bótasvik tengjast skattsvikum":

"Ferðabransinn (sic) er gróðurreitur svartrar vinnu og skattsvika.  Ört vaxandi hlutur greinarinnar í þjóðarbúskapnum þýðir, að hlutfallslega sífellt færri munu standa undir velferðarkerfinu með beinum sköttum í framtíðinni.  Skattsvikin munu fljótlega valda óviðráðanlegu misvægi; það verður ekki unnt að leysa málið með því að láta innan við þriðjung þjóðarinnar borga sífellt hærri beina skatta.  Sjálft velferðarkerfið er í húfi.  Skattsvik hafa lengi reynzt átaksill, en eru ekki viðfangsefni þessarar greinar.  Óbeina skatta þurfa allir að greiða, skattsvikarar og ferðamenn líka.  Á meðan ekki finnst nein lausn á þeim vanda, sem skattsvikin eru, ættu stjórnvöld fremur að auka óbeina skatta en minnka þá, ólíkt því, sem nú er stefnt að."

Hér er talað tæpitungulaust um skattsvik og spjótunum beint sérstaklega að ferðaþjónustunni.  Stjórnvöld eru nú einmitt að fækka undanþágum frá virðisaukaskatti og stefna á að jafna aðstöðu allra atvinnugreina m.t.t. skattheimtu. Einfaldast og skilvirkast er auðvitað að hafa aðeins eitt virðisaukaskattþrep, en sumir þrýstihópar mega ekki heyra það nefnt. Veruleg fækkun undanþága er sjálfsagt mál, og ferðaþjónustan hlýtur að flytjast senn hvað líður í hærra virðisaukaskattsþrepið með alla sína þjónustu.  Vonandi verður þá hægt að lækka það. 

Afnám vörugjalds og tolla var jafnframt góður gjörningur til að bæta lífskjörin í landinu og lækka verðlag, sem hefur stungið í stúf við verðlag nágrannalandanna.  Þessar aðgerðir stjórnvalda voru þess vegna til þess fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands um fólk og viðskipti.

Nú er átak í gangi hjá skattyfirvöldum á Íslandi og annars staðar að hafa uppi á skattsvikurum, en betur má, ef duga skal.  Skattrannsóknarstjóri fékk nýlega gögn erlendis frá um fé í skattaskjólum, en afrakstur þeirrar rannsóknar hefur ekki farið hátt hérlendis.  Skattsvik eru þjóðfélagsböl, sem yfirvöldum ber að sýna klærnar og enga miskunn. 

Ragnar Önundarson gerði moldvörpurnar að umræðuefni í téðri grein:

"Varaþingmaður tók nýlega sæti á Alþingi og hóf strax umræðu um erfið kjör aldraðra og vildi auka útgjöld án þess að gera tillögu um öflun tekna.  Allir geta verið sammála um, að aldraðir eigi skilin betri kjör, en aldrei kemur fram neinn skilningur á rótum vandans og þaðan af síður raunhæf tillaga um lausn. Ekkert er minnzt á þá fjölmörgu hátekjumenn, sem vandanum valda.  Það eru skattsvikararnir, sem hvorki greiða skatta né í lífeyrissjóð í gegnum lífið, og það fer saman.

Þriðju svikin þeirra eru "bótasvikin"; að vera á bótum, sem þeir eiga ekki rétt á í raun.  Hefðbundin rök fyrir útgjöldum án tekna þess efnis, að aldraðir hafi "byggt þetta samfélag upp" o.s.frv., eru augljóslega röng í tilviki skatt- og lífeyrissvikara.  Þeir heimta betri kjör og fyrsta flokks þjónustu, hafandi árum og áratugum saman stolið tekjum af þeim sameiginlega sjóði, sem greiðir velferðarkerfið.  Þeir hafa efni á lúxus, sem aðrir geta ekki leyft sér, snjósleðum, fjórhjólum, hestum, hestakerrum og aflmiklum trukkum til að draga herlegheitin fram og til baka fyrir framan nefið á þeim, sem borga skólagöngu barnanna þeirra og heilbrigðisþjónustu þeirra og fjölskyldu þeirra.  Þessir menn valda því, að ríkissjóður sker lífeyri fólks, sem býr við alvarlega fötlun og veikindi, við nögl.  Það er þreytandi að hlusta á innantóm orð þingmanna og loforð um útgjöld, en hvenær sem komið er að kjarna vandans, horfa þeir í hina áttina."

Margir Íslendingar geta skrifað undir þetta, og það er harmsefni, af því að ástandið, sem lýst er, ber vitni um þjóðfélagslega meinsemd og óréttlæti, sem stjórnvöld alls lýðveldistímans hafa ekki borið gæfu til að taka á af einurð og karlmennsku, heldur látið dankast og kaffærast í gagnslítilli skriffinnsku.  Þessi þjóðfélagslegi tvískinnungur að líða það, að ekki séu allir jafnir fyrir skattalögunum, er áreiðanlega rót töluverðrar þjóðfélagsóánægju, sem stjórnmálamönnum allra flokka væri sæmst að leita lausna á og hrinda úrbótum í framkvæmd. 

Það nær engri átt, hversu fáir þjóðfélagsþegnar á vinnumarkaðinum leggja eitthvað teljandi að mörkum til sameiginlegra þarfa af launum sínum, eins og Ragnar Önundarson benti á, og sniðgöngumenn ættu að hafa hægt um sig, þegar kemur að því, að þeir telji sig hafa öðlast rétt á framlagi úr sameiginlegum sjóði landsmanna.  Afætur eru þeir, og afætur skulu þeir heita.  Megi skömm þeirra lengi uppi vera.

Að lokum skal hér vitna í John Fitzgerald Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta:

"Efnahagskerfi, sem þrúgað er af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, og það mun heldur aldrei skapa nægilegan hagvöxt né nægilega mörg störf."


"Garmurinn hann Ketill"

Andúðin á auðlindanýtingu (náttúrunnar) tekur á sig ýmsar myndir, en er alltaf jafnfurðuleg og gæti jafnvel stundum minnt á kvalanautn (masókisma).  Hér skal fullyrða, að án núverandi auðlindanýtingar væru Íslendingar ekki í einu af 4 efstu sætunum í Evrópu yfir verga landsframleiðslu (VLF) á mann, eins og nú er raunin, heldur mun neðar á þeim lista, og svo mætti lengi telja eftirsóknarverðar kennistærðir hagkerfisins, t.d. atvinnuþátttöku, fólksfjölgun, rekstrarafgang ríkissjóðs og lækkun skulda ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.  Jafnframt er leitun að landi með meiri jöfnuð lífskjara samkvæmt Gini-stuðlinum. Hið opinbera hefur mjög útjafnandi áhrif í anda "Sozial Marktwirtschaft" eða markaðshyggju með félagslegu ívafi. 

Þann 12. janúar 2016 birtist ein af þessum einkennilegu greinum í Fréttablaðinu, þar sem reynt er að rakka niður auðlindanýtingu með fullyrðingum út í loftið.  Greinin ber heitið:

"Einhæfni auðlinda og virðiskeðjan",

og er höfundurinn Þröstur Ólafsson, hagfræðingur. Í huga blekbónda mætti líkja tilraun á Íslandi til að þróa hagkerfi án nýtingar á auðlindum náttúrunnar við tilraun til að reisa hús án sökkla.  Um slíkt hús mætti sannarlega hafa orð heilagrar ritningar, að það væri reist á sandi og stæðist því ekki "veður og vinda".  Lítum nú á sýnishorn af því, sem téður hagfræðingur leggur til málanna, og rýnum merkinguna:

"Hér er næg almenn atvinna og þúsundir lítt menntaðra útlendinga á leiðinni.  Afkoma fólks fer batnandi.  Brottflutningur menntaðs fólks er vegna skorts á sérhæfðum atvinnutækifærum, sem á mikið skylt við óþroskað, einhæft hagkerfi. Auðlindahagkerfi eru í eðli sínu einhæf.  Hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafa mikla þörf fyrir fjölmenntað fólk."

Hér tekur Þröstur, hagfræðingur, algerlega rangan pól í hæðina og slær um sig með fullyrðingum, sem ekki standast.  Hvaðan hefur hann það, að þúsundir lítt menntaðra útlendinga séu á leiðinni til landsins ?  Ætli mesta vöntunin á vinnuafli verði ekki í byggingargeiranum og í ferðaþjónustu ? Hinn fyrr nefndi þarf á sérhæfðu fólki að halda, m.a. iðnaðarmönnum, og þá er dónaskapur að skrifa um sem "lítt menntaða", enda búa þeir yfir verðmætri þekkingu og reynslu.  Síðar nefnda greinin þarf í mörgum tilvikum líka á sérhæfingu og tungumálakunnáttu að halda, t.d. í eldhúsi og við gestamóttöku.

Það vantar því miður upplýsingar um, hvers konar "menntafólk" er að flytjast frá landinu, en það er vert að benda á, að sprenging hefur orðið í fjölda útskrifaðs fólks úr háskólum, og þess vegna ekki kyn, þó að keraldið leki, enda búið að vara við offjölgun á ýmsum hugvísindasviðum. Samt hafa margir valið sér námsgreinar, sem þeir gengu ekki gruflandi að, að lítil spurn væri eftir í almennu atvinnulífi, og opinberi geirinn tekur ekki endalaust við. Hins vegar er um þessar mundir mikil spurn eftir hvers konar raunvísinda- og tæknifólki, svo að ekki sé nú minnzt á heilbrigðisgeirann. 

Íslenzka hagkerfið er hvorki óþroskað né einhæft, enda eru þetta órökstuddir sleggjudómar manns, sem þekkir lítið sem ekkert til íslenzks atvinnulífs. Opinber málflutningur af þessu tagi er hagfræðingastéttinni til vanza. 

Íslenzka hagkerfið er ungt og sprækt, eins og einstæður hagvöxtur þess ber með sér.  Þroski þess kemur m.a. fram í því, að það ræður við ströngustu gæðakröfur á alþjóðlegum mörkuðum, þar sem það keppir, t.d. á álmörkuðum og fiskmörkuðum.  Hagkerfið er ekki einhæft, heldur fjölbreytt, enda er það reist á styrkum stoðum matvælaframleiðslu til lands og sjávar, mestu raforkuvinnslu á mann í heiminum, stóriðju, sem notar megnið af þessari orku og fjölþættri ferðaþjónustu, sem er umsvifameiri hérlendis en dæmi eru um annars staðar, reiknað á hvern íbúa landsins.

Þannig er það eins og hver önnur gatslitin klisja og innistæðulaus alhæfing hjá hagfræðinginum, að auðlindahagkerfi sé í eðli sínu einhæft.  Það er þvættingur, að hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafi mikla þörf fyrir "fjölmenntað" fólk.  Þegar litið er til úrvinnslustarfsemi þessara greina og hliðargreinar frumgreinanna, er ljóst, að sú vöruþróun krefst fjölbreytilegrar sérhæfingar og jafnvel vísindalegrar þekkingar.  Sem dæmi má taka sjávarútveginn, sem leggur sjálfur til 8,5 % af VLF, en með sprotum og hliðargreinum alls 25 % - 30 % af VLF.

"Síðan var uppbygging stóriðju meginþungi í efnahagsstefnu landsins.  Nýr einhæfur auðlindaatvinnuvegur varð til. Okkur mistókst að byggja upp úrvinnsluiðnað og skapandi störf tengd stóriðjunni, sem juku verðmætasköpunina og skildu stærri hluta virðisaukans eftir í landinu."

Hagfræðingurinn er utan gátta, eins og fyrri daginn.  Hlutverk orkukræfa iðnaðarins á Íslandi hefur alla tíð verið að breyta endurnýjanlegri orku í málm, aðallega "græna" málminn ál, og það hefur jafnlengi verið vitað, að úrvinnsluiðnaður áls fengi ekki þrifizt. Af veltu áliðnaðarins sitja um 40 % eftir í landinu, og það er alls ekki lítið, þegar litið er til þess, að fjárfestingin er áhættulaus fyrir Íslendinga. Annaðhvort þarf umfang úrvinnslunnar, t.d. felgusmíði, að vera svo mikið, að flytja þyrfti ál til landsins, eða innanlandsnotkun að taka við afurðunum.  Hið fyrra er of dýrt, og hið síðara er óraunhæft.

Slíkur úrvinnsluiðnaður verður að vera tiltölulega nálægt viðskiptavinunum, því að annars verða flutningarnir of dýrir og tímafrekir.  Það er dálítið steypt hérlendis úr áli, og Alpan fékk um hríð ál frá ISAL, en það var svo lítið magn af hverju melmi, að viðskiptin lognuðust útaf. Menn geta verið vissir um, að væri viðskiptalegur grundvöllur fyrir slíkri úrvinnslu á Íslandi, hefðu álframleiðendurnir Rio Tinto Alcan og Alcoa þegar komið henni á legg.

Það hefur hins vegar sprottið upp frumkvöðlastarfsemi í samvinnu við álverin um þróun og smíði sjálfvirks búnaðar til uppsetningar í álverum, t.d. í skautsmiðjum.  Á grundvelli þessarar sprotastarfsemi hefur framleiðslufyrirtækjum vaxið fiskur um hrygg og flutt út tækjabúnað til álvera um allan heim. Fyrirtækin hafa í sumum tilvikum afhent alverk, þ.e. hannað, smíðað, sett upp og tekið búnaðinn í notkun og fellt hann inn í framleiðslukerfi viðkomandi verksmiðju.  Þessum útflutningsfyrirtækjum hefði ekki tekizt svo vel upp, ef þau hefðu ekki fengið tækifæri til þróunar hjá álverunum á Íslandi og ef þau hefðu ekki fram úr skarandi starfsfólki á að skipa, verkfræðingum, tæknifræðingum, iðnfræðingum, rafvirkjum, rafeindavirkjum, vélvirkjum o.fl.  Þetta svið hefur hentað íslenzkum aðstæðum miklu betur en úrvinnsluiðnaður álvera, hefur aukið tækniþekkingu í landinu, og öll verðmætasköpunin verður eftir í landinu. 

Hitt er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á, enda hefur Þröstur, hagfræðingur, greinilega ekki hugmynd um það, að í álverunum starfar fjölbreytilegur hópur og fjölmargir sérfræðingar, þar af dálaglegur hópur með háskólagráðu, hvort sem eru á launaskrá álveranna eða eru verktakar hjá þeim.  Stærstu rafkerfi landsins eru innan vébanda álveranna, stærstu þrýstiloftsveitur og meðal stærstu vatnsveitna, og þar er gríðarleg sjálfvirkni, enda stærstu tölvusamskiptakerfi framleiðslufyrirtækja.  Álverið í Straumsvík hefur þróað sína sjálfvirkni sjálft með innlendum hugbúnaðarsérfræðingum, og gæti legið í iðntölvum ISAL afrakstur 250 mannára í hugbúnaðarvinnu, margt í fremstu röð sinnar tegundar í heiminum, og sumt algert brautryðjendastarf og með snilldarbrag. 

"Auðlindaafurðir eru óstöðugustu afurðir á mörkuðum.  Gleymum því heldur ekki, að ungt fólk með fjölhæfa menntun er ekki á launaskrá stóriðjuvera."

Þessi texti hagfræðingsins er tóm þvæla.  Sjávarafurðir eru auðlindarafurð, en þrátt fyrir bágborið efnahagsástand heimsins undanfarin misseri, hefur sjávarútveginum tekizt að fá hærra verð ár eftir ár fyrir t.d. þorskflök í EUR/kg. Þegar aflabrestur hefur orðið, hefur einingarverðmætið verið aukið. Ferðamannaiðnaðurinn gerir að stórum hluta út á náttúru Íslands og er þess vegna reistur á auðlindarnýtingu.  Hann vex um 20 % - 30 % á ári, þó að víða ári illa.  Hvaða starfsemi skyldi Þröstur Ólafsson hafa í huga, sem er ónæm fyrir markaðssveiflum ? 

Einn af styrkleikum íslenzka hagkerfisins er sá, að það stendur á þremur ólíkum undirstöðum, sem sveiflast ekki endilega í sama takti.  Þessar undirstöður eru matvælaiðnaður, málmiðnaður og ferðaþjónusta. 

Ef Þröstur, hagfræðingur, hefði gert lauslega könnun á starfsmanna- og verktakaskrá álveranna, hefði hann varla farið með fleipur um, að ungt fólk með verðmæta og alþjóðlega menntun sé ekki að finna á launaskrá stóriðjuvera.

Í téðri grein hins önuga og öfugsnúna hagfræðings gat líka að líta árás á íslenzku myntina.  Enn hagar hagfræðingurinn sér eins og fíll í postulínsbúð:

"Ekki má gleyma garminum honum Katli, þegar rætt er um fráhrindandi aðstæður fyrir ungt menntað fólk til að setjast að á Íslandi.  Þar á ég við íslenzku krónuna, sem fengið hefur þá heiðursnafnbót frá forsætisráðherra að vera sterkasti gjaldmiðill í heimi."

Hér er Þröstur, hagfræðingur, á mjög hálum ísi, faglega séð, því að hann teflir nákvæmlega engum rökum fram gegn krónunni.  Rökum teflir aftur á móti fram  kollegi hans, Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í greininni:

"Krónan og kjörin",

í Fréttablaðinu 26. nóvember 2015. Hann byrjar á því að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum, en þar er við lýði þrenns konar myntfyrirkomulag:

"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru.  Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm.  Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út."

Björn Brynjúlfur færir síðan fyrir því rök, að ástæða hrakfara Finna og Dana sé fastgengið og að ástæða velgengni hinna sé eigin, sveigjanleg, mynt. Gengi NOK, norsku krónunnar, hefur fallið miðað við ISK síðan á miðju ári 2014 um meira en þriðjung vegna þess, að olíuiðnaðurinn hefur gegnsýrt norska hagkerfið síðan 1980.  Þetta gengisfall gerist þrátt fyrir norska olíusjóðinn, sem er mun stærri en nemur norsku landsframleiðslunni á ári og er fullur af ígildi erlends gjaldeyris, og fé er tekið að streyma úr honum til norska ríkissjóðsins. 

Norski Seðlabankinn hefur auðvitað haft hönd í bagga með þessari þróun til að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og efnahagskreppu í Noregi.  Hvernig halda menn, að staðan væri hjá frændum vorum með evru eða tengingu við hana.  Í Norðurvegi væri þá grátur og gnístran tanna, en öll kurl eru að vísu ekki komin til grafar, t.d. úr lánasafni norsku bankanna.

Í lok greinar sinnar skrifar Björn Brynjúlfur, og er hægt að taka heils hugar undir það:

"Í stað þess að líta til krónunnar sem orsakar efnahagslegra vandamála væri nær að einblína á hagstjórnina.  Endurbætur á því sviði verða alltaf mikilvægasta verkefnið í efnahagsmálum og munu skila ávinningi burtséð frá því, hvaða mynt er notuð.  Þá má jafnframt færa fyrir því rök, að slíkar aðgerðir séu nauðsynlegur aðdragandi upptöku annarrar myntar.  Aðdáendur og andstæðingar krónunnar hljóta því að sammælast um nauðsyn bættrar hagstjórnar."

Það er himinn og haf á milli málflutnings þeirra tveggja hagfræðinga, sem hér hefur verið vitnað til.  Annar setur sig á háan hest og talar (skrifar) niður til heilu atvinnugreinanna án þess að færa minnstu rök fyrir fordómafullum skrifum sínum, sem virðast mótast af vanþekkingu.  Hinn færir góð rök fyrir máli sínu og bendir á fylgni á milli laklegrar lífskjaraþróunar og evru sem þjóðargjaldmiðils. Í stærri mælikvarða er þetta afar greinilegt, þegar hagþróun fjölmennra þjóða er borin saman, t.d. Frakka og Ítala annars vegar og Breta hins vegar.  Að uppfylla Maastricht-skilyrðin er nauðsynlegt til að komast inn í myntbandalag Evrópu, og það liggur alveg beint við að móta efnahagsstefnu, sem styður við efnahagslegan stöðugleika með því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin. 

Hins vegar er annað skilyrði, sem nauðsynlegt er að uppfylla, svo að upptaka evru geti orðið til bóta fyrir hag landsmanna, og það er, að góð fylgni sé á milli hagsveiflu á Íslandi og í Þýzkalandi.  Bretar fundu á sínum tíma, að þessu færi fjarri, hvað þá varðar.  Þá geta menn ímyndað sér, hvernig staðan varðandi Ísland og Þýzkaland er að þessu leyti.  Nú er t.d. rífandi gangur á Íslandi, en evrubankinn berst við að hindra verðhjöðnun með því að dæla tæplega miaEUR 100 á mánuði inn á banka á evrusvæðinu, og hann heldur stýrivöxtum sínum neikvæðum. Væri Ísland nú hluti af þessu kerfi, mundi líklega geisa hér tveggja stafa verðbólga. 

Í öllum starfsgreinum á Íslandi er hæft fólk af ýmsum toga, sem daglega gengur til starfa sinna og leggur sig fram við að skapa sem mest verðmæti úr því, sem það er með í höndunum hverju sinni.  Að gera lítið úr verðmætasköpun sumra, t.d. í s.k. auðlindageirum, er bæði lítilmannlegt og ómaklegt.  Affarasælast er að lifa í anda kjörorðsins "stétt með stétt". 


Greiðslur Tryggingastofnunar hækkað tvöfalt á við laun

Afar áhugaverð Baksviðsfrétt eftir Helga Bjarnason birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015.  Stingur hún illilega í stúf við þann endemis barlóm, sem hafður hefur verið uppi um kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar í hinum eilífa og hvimleiða stéttasamanburði, sem landlægur er hérlendis og kynt er undir af óprúttnum lýðskrumurum, sem sumir hverjir voru við völd hér á síðasta kjörtímabili og sýndu þá landslýð hug sinn í raun og hvers þeir eru megnugir

Forseti Alþýðusambandsins hefur einnig farið mikinn um hag skjólstæðinga Tryggingastofnunar, en allt hefur það verið í slagorðastíl hins metnaðarfulla jafnaðarmanns, sem oftar en ekki gleymir því, að hann er forseti allra félaga í ASÍ félögunum, en ekki bara félaga í Samfylkingunni.  Málflutningur af þessu tagi er áróðursmönnum aðeins stundarfró í samanburði við staðreyndir málsins, sem t.d. eru bornar fram af Páli Kolbeins í Tíund Ríkisskattstjóra.  Verður nú vitnað í Morgunblaðsfrétt, sem reist er á Tíund:

"Landsmenn töldu fram tæplega 838 miakr í laun og hlunnindi í framtölum 2015.  Álagning 2015 er vegna tekna 2014.  Launin voru liðlega 48 miakr hærri eða 6,1 % hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður.  Laun og hlunnindi voru voru þá svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu.  Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 miakr.  Páll bendir á, að það vanti aðeins rúmlega 75 miakr upp á, að þau verði jafnhá og og þau voru árið 2007, þegar uppsveiflan náði hámarki. (Þau náðu þessu marki 2015 - innsk. BJo.)

Við launatekjur bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir, sem saman mynda tekjuskattsstofn.  Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæplega 74 miakr, og hækkuðu um 10,5 % frá árinu á undan.  "Það er athyglisvert, að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2 % að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4 %.  Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum.  Þær hafa hækkað um 27,1 %, ef miðað er við árið 2007, en launagreiðslur eru enn 8,2 % lægri en þær voru þá", skrifar Páll í Tíund."

Af þessum upplýsingum að dæma er engum blöðum um það að fletta, að á heildina litið hefur samfélagið staðið vel og rausnarlega við bakið á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, og mættu þeir, sumir hverjir á köflum, sýna meiri þakklætisvott fyrir rausnarskap ríkisins í þeirra garð en raun ber vitni um.  Einhverjum gæti vissulega komið til hugar í þessu sambandi orðtakið: "sjaldan launar kálfur ofeldi".

Íþessu samhengi má ekki gleyma þætti lífeyrissjóðanna, en nú hefur verið samið um að stórefla almennu lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum til samræmis við ríkisframlag til lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.  Má segja, að framlag vinnuveitenda sé komið í hæstu hæðir, þegar virtur framkvæmdastjóri stórs lífeyrissjóðs setur opinberlega fram spurningu um það, hvort hærra framlag kunni hugsanlega að vera betur komið í vasa launþeganna. 

Íslenzkir lífeyrissjóðir eru orðnir ein styrkasta stoð hagkerfisins og til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi.  Sjóðfélagar fá úr þeim lífeyri í hlutfalli við framlag yfir starfsævina, og þeir eiga alfarið séreignarsparnaðinn. Blekbóndi er nýlega skriðinn yfir ellilífeyrisaldursmörkin, og þá kemur í ljós ólíkt eðli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna, því að ellilífeyrir Tryggingastofnunar, reistur á tekjuáætlun, nemur aðeins 10 % af greiðslum úr lífeyrissjóði blekbónda.  Þetta sýnir, að Tryggingastofnun virkar nú sem öryggisnet, en lífeyrissjóðirnir standa undir framfærslu þeirra, sem í þá hafa greitt um starfsævina.  Það er ástæðulaust að gagnrýna þetta fyrirkomulag. 

Lýðfræðinni á Íslandi er í grundvallaratriðum háttað svipað og í flestum öðrum ríkjum, þannig að meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Þó að Ísland sé í þeirri góðu stöðu, að fæðingartíðni er með þeim hætti, að þjóðinni fer fjölgandi, þá fjölgar tiltölulega meira í hópi eldri borgara en yngri, sem leiðir til þess, að meiri opinberar fjárhagsbyrðar leggjast á vinnandi fólk eftir því, sem tímar líða.  Þar er bæði um að ræða kostnað Tryggingastofnunar vegna annars en veikinda og kostnað Sjúkratrygginga Íslands.  Sjálfbærri skattbyrði eru takmörk sett, þ.e. skatttekjur  hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hækka upp að ákveðinni skattheimtu (álögum), en lækka, ef skattheimtan keyrir úr hófi fram.  Það er þess vegna alls ekki svo, að útgjöld hins opinbera tryggingakerfis geti haldið lengi áfram að hækka hlutfallslega meira en launin, eins og reyndin hefur verið undanfarið samkvæmt upplýsingum Tíundar. 

Þarna mun hið ágæta lífeyrissjóðskerfi landsmanna, sem nú er enn verið að styrkja, eins og áður segir, komið til bjargar, svo að ekki snarist á merinni hjá ríkissjóði.  Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar orðnir þungavigtaraðilar við lífsframfæri eldri borgara og sjá þeim mörgum hverjum fyrir a.m.k. helmingi framfærslufjár.  Þeir, sem höfðu getu og  forsjálni til sparnaðar í séreignadeildum lífeyrissjóðanna, geta að öðru jöfnu horft nokkuð björtum augum fram til elliáranna. 

Sitt sýnist þó hverjum um aðferðir lífeyrissjóðanna og umsvif á markaði við ávöxtun fjár umbjóðenda sinna, en þeir eru þó á heildina litið eitt hið jákvæðasta, sem íslenzkt samfélag hefur að bjóða í samanburði við önnur lönd. Sérstaklega verður að gjalda varhug við miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í bönkum.  Það er áhættusamt, eins og dæmin sanna, og lífeyrissjóðir eru stórir eignaraðilar í mörgum viðskiptavina bankanna.  Nær væri að skapa þeim tækifæri til að fjárfesta í Landsvirkjun.

Nú er framundan samræming lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðinum, og er það réttlætismál.  Samhliða verða greiðslur fyrirtækja í almennu lífeyrissjóðina auknar til samræmis við hið opinbera, og verða lífeyrissjóðirnir þá enn betur í stakk búnir að fást við auknar byrðar, sem af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar stafar. Þetta er þveröfugt við óheillaþróun, sem virðist nú eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, þar sem s.k. gegnumstreymissjóðir, fjármagnaðir af viðkomandi ríkissjóði, eru við lýði, og munu fyrirsjáanlega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar við skjólstæðinga sína, sem horfa þá fram á verri kjör en foreldrar þeirra hafa notið. 

 

 

 

 

 


Evruhagkerfi og krónuhagkerfi - samanburður

Olivier Blanchard er fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF.  Bændablaðið rekur fimmtudaginn 22. október 2015 ummæli hans í brezka blaðinu The Telegraph:

"Evran mun verða keyrð inn í varanlegt slen, ef farið verður í nánari efnahagslegan samruna ESB-ríkjanna.  Það mun ekki leiða til neinnar hagsældar í þessu kreppulaskaða bandalagi."

Bændablaðið heldur áfram:

"Í framhaldi af vandræðum Grikkja hafa margir leiðtogar í ESB lagt mikla áherzlu á myndun yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við fjármálaráðuneyti og þing.  Er það talið mikilvægt til að ljúka ferli við myndun fjármála- og gjaldmiðilsbandalags, sem hófst fyrir 15 árum.  Í fararbroddi fyrir þessum skoðunum hafa farið Francois Hollande, Frakklandsforseti, Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Mario Draghi, bankastjóri seðlabanka evrunnar. Orð Blanchards koma eins og köld vatnsgusa framan í þessa menn, sem haldið hafa uppi áróðri fyrir nauðsyn á myndun ofurríkis ESB (EU superstate), sem næsta skrefi samþættingar fjármálakerfisins."

Nokkru síðar í grein Bændablaðsins stendur:

"Eins hefur upptaka evrunnar alla tíð verið forsendan í rökum aðildarsinna fyrir inngöngu (Íslands) í ESB, en ljóst virðist af orðum Blanchards, að staða evrunnar er og verður mjög veik.  Hvort sem er í núverandi myntsamstarfi eða eftir myndun hugsanlegs ofurríkis Evrópu."

Það er athyglivert, að allir þessir 3 tilgreindu áhugamenn um nánari samruna ESB-ríkjanna á fjármálasviðinu, eru frá rómönskum ríkjum, en enginn frá germönsku ríkjunum, hvað þá slavneskum.  Það sem hangir á spýtunni er fjármagnsflutningur frá norðri til suðurs.  Um það verður aldrei eining.

Vöxtur þjóðarframleiðslu (e. GDP) er ágætis mælikvarði á styrk hagkerfa.  Fyrstu ár evrunnar lofuðu góðu, en síðan árið 2003 hefur sigið á ógæfuhlið fyrir evruna í samanburði við bandaríkjadal, USD, í þessum efnum, og frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, hefur keyrt um þverbak, því að "evruhagkerfið" hefur orðið stöðnun að bráð og ekki náð sér á strik, á meðan góður hagvöxtur hefur verið í BNA.  Enn berst Mario Draghi og evrubanki hans við hættu, sem hann telur evruþjóðunum stafa af verðhjöðnun.  Hætt er við, að "evruland" sé dæmt til stöðnunar vegna skuldasöfnunar og öldrunar samfélaganna.

Sé vísitala þjóðarframleiðslu sett á 100 í "evrulandi" og BNA árið 2000, er svo komið við árslok 2015, að þessi vísitala var 140 í BNA og aðeins 120 í "evrulandi". Meðalvöxturinn var 2,50 %/ár í BNA, en 1,25 %/ár í "evrulandi".  Þessi munur getur gert gæfumuninn t.d. við að greiða niður skuldir og ná jafnvægi í opinberum rekstri.

Um miðjan desember 2015 hækkaði Seðlabanki BNA stýrivexti sína í fyrsta sinn síðan 2006, en stýrivextir evrubankans eru fastir undir núlli, og mánaðarlega úðar bankinn tugum milljarða evra yfir bankakerfi "evrulands" til að koma í veg fyrir verðhjöðnun.  Sjúklingurinn fær með öðrum orðum stöðugt næringu í æð án þess hann sýni nokkur merki um að hjarna við. Á sama tíma lækkar gengi evrunnar og er nú USD/EUR=0,92, en var lengi vel um 0,7. Jafnvel olíu-og gasverðslækkun hefur ekki dugað í þokkabót til að örva hagkerfi evrunnar, en olíu- og gasverðslækkun ætti að öðru jöfnu að örva Evrópu utan Rússlands og Noregs meira en BNA (Bandaríki Norður-Ameríku framleiða sjálf mikið af jarðefnaeldsneyti).  Þetta bendir til, að hinir svartsýnustu fyrir hönd evrunnar hafi haft mikið til síns máls. Hún er ekki á vetur setjandi, ef hún veldur víðast hvar lakari lífskjörum en sjálfstæður gjaldmiðill mundi gera.  Evran er kannski gjaldmiðilstilraunin, sem mistókst.

Sabine Lautenschläger situr í bankaráði Seðlabanka evrunnar fyrir Þýzkaland. Eftir henni hefur Bændablaðið m.a., að "varnarleysi margra ríkja innan evrusvæðisins liggi í slæmri skuldastöðu, bæði hvað varðar opinberar skuldir og skuldir í einkageiranum.  Þetta myndi flöskuháls, sem komi í veg fyrir aukna framleiðni og vöxt."  Þýzki seðlabankinn lagðist gegn og er mótfallinn núverandi evruspreði Mario Draghis og telur hann með því efna niður í framtíðar verðbólgu, sem er eðlilega eitur í beinum Þjóðverja, enda er hún meinvættur, hvar sem hún stingur sér niður. Þetta skyldu Íslendingar hafa ofarlega í huga, en á það skortir enn.  Þó eru Íslendingar illa brenndir af verðbólgubálinu, en samt ekki eins illa og hin þýzka þjóð Weimarlýðveldisins. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að skuldir íslenzkra heimila og fyrirtækja hafa lækkað mikið á yfirstandandi kjörtímabili vegna fjölþættra aðgerða stjórnvalda, bættra tekna og nýs viðhorfs til skulda. Jafnvel skuldir sveitarfélaga á Íslandi hafa lækkað að jafnaði, þótt staða sumra þeirra sé skelfileg, og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki barnanna beztur í þessum efnum. Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá íslenzka ríkinu ?

Árið 2006 námu skuldir ríkissjóðs 17 % af VLF (vergri landsframleiðslu) og jukust í krónum talið og sem hlutfall af VLF til ársins 2013 og voru í hámarki árið 2012 1495 miaISK eða 86 % af VLF.  Árið 2015 lækkuðu þær um tæplega 90 miaISK, og fóru þá niður í 64 % af VLF.  Það er einsýnt, að árið 2016 munu skuldir ríkissjóðs fara vel undir 60 % af VLF, sem er lægra en hjá flestum í "evrulandi", en jafnframt eitt af s.k. Maastricht viðmiðum til að verða fullgildur í s.k. EMU II samstarfi, sem er fordyri evrunnar.

Athugum, hvað Morgunblaðið, Baldur Arnarson, hefur eftir Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica, þann 22. október 2015:

"Endurgreiðsla ríkissjóðs á erlendum skuldum á síðast liðnum 12 mánuðum nemur um 98 miaISK, og eru þar af um 96,5 miaISK vegna uppgreiðslna fyrir lokagjalddaga. Áætlaður heildarsparnaður vegna þessa nemur um 4,8 miaISK.  Í fjárlagafrumvarpi 2016 kemur fram, að áætlað er, að vaxtagjöld fram til ársins 2019 lækki um 14 miaISK.  Það er því ljóst, að miklir hagsmunir felast í lækkun skulda ríkissjóðs á næstu mánuðum og misserum."

Af samanburði á þessum lýsingum á hagkerfum "evrulands" og Íslands má afdráttarlaust álykta, að Ísland er á allt öðru og giftusamlegra róli en ríkin á meginlandi Evrópu eru flest.  Meginskýringarnar eru þrjár:

Í fyrsta lagi ganga 2 af 3 auðlindaknúnu meginútflutningsatvinnuvegunum vel.

Í öðru lagi er lýðfræði Íslands landsmönnum hagstæð, þ.e. það er þokkaleg viðkoma á mannfólkinu.

Í þriðja lagi bera Íslendingar ekki klafa hárra útgjalda til ESB og eru ekki neyddir til að sækja lykilákvarðanir um auðlindastjórnun sína til Brüssel, þar sem ákvarðanir ráðast að lokum af hrossakaupum ráðherra aðildarlandanna, sem fara með viðkomandi málaflokk, t.d. sjávarútveg.  Slíkt ráðslag hefur gefizt illa og valdið ofveiði á flestum tegundum í lögsögu ESB.  Við höfum fengið smjörþefinn af þessu ráðslagi á samningafundum með ESB o.fl. um deilistofnana. 

Í stuttu máli skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi, að landið sé ekki innan vébanda ESB.  Það er nóg að vera þar með aðra löppina sem aðili að EES. Hin löppin er frjáls, og hún getur spriklað, þegar tilmæli koma frá Brüssel um viðskiptaþvinganir eða annað, sem "kommissarar" hafa kokkað upp og hlotið hefur blessun Berlínar og Parísar.     

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband