Færsluflokkur: Kjaramál
25.1.2016 | 10:29
Greiðslur Tryggingastofnunar hækkað tvöfalt á við laun
Afar áhugaverð Baksviðsfrétt eftir Helga Bjarnason birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015. Stingur hún illilega í stúf við þann endemis barlóm, sem hafður hefur verið uppi um kjör skjólstæðinga Tryggingastofnunar í hinum eilífa og hvimleiða stéttasamanburði, sem landlægur er hérlendis og kynt er undir af óprúttnum lýðskrumurum, sem sumir hverjir voru við völd hér á síðasta kjörtímabili og sýndu þá landslýð hug sinn í raun og hvers þeir eru megnugir.
Forseti Alþýðusambandsins hefur einnig farið mikinn um hag skjólstæðinga Tryggingastofnunar, en allt hefur það verið í slagorðastíl hins metnaðarfulla jafnaðarmanns, sem oftar en ekki gleymir því, að hann er forseti allra félaga í ASÍ félögunum, en ekki bara félaga í Samfylkingunni. Málflutningur af þessu tagi er áróðursmönnum aðeins stundarfró í samanburði við staðreyndir málsins, sem t.d. eru bornar fram af Páli Kolbeins í Tíund Ríkisskattstjóra. Verður nú vitnað í Morgunblaðsfrétt, sem reist er á Tíund:
"Landsmenn töldu fram tæplega 838 miakr í laun og hlunnindi í framtölum 2015. Álagning 2015 er vegna tekna 2014. Launin voru liðlega 48 miakr hærri eða 6,1 % hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður. Laun og hlunnindi voru voru þá svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu. Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 miakr. Páll bendir á, að það vanti aðeins rúmlega 75 miakr upp á, að þau verði jafnhá og og þau voru árið 2007, þegar uppsveiflan náði hámarki. (Þau náðu þessu marki 2015 - innsk. BJo.)
Við launatekjur bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir, sem saman mynda tekjuskattsstofn. Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæplega 74 miakr, og hækkuðu um 10,5 % frá árinu á undan. "Það er athyglisvert, að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2 % að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4 %. Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum. Þær hafa hækkað um 27,1 %, ef miðað er við árið 2007, en launagreiðslur eru enn 8,2 % lægri en þær voru þá", skrifar Páll í Tíund."
Af þessum upplýsingum að dæma er engum blöðum um það að fletta, að á heildina litið hefur samfélagið staðið vel og rausnarlega við bakið á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, og mættu þeir, sumir hverjir á köflum, sýna meiri þakklætisvott fyrir rausnarskap ríkisins í þeirra garð en raun ber vitni um. Einhverjum gæti vissulega komið til hugar í þessu sambandi orðtakið: "sjaldan launar kálfur ofeldi".
Íþessu samhengi má ekki gleyma þætti lífeyrissjóðanna, en nú hefur verið samið um að stórefla almennu lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum til samræmis við ríkisframlag til lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Má segja, að framlag vinnuveitenda sé komið í hæstu hæðir, þegar virtur framkvæmdastjóri stórs lífeyrissjóðs setur opinberlega fram spurningu um það, hvort hærra framlag kunni hugsanlega að vera betur komið í vasa launþeganna.
Íslenzkir lífeyrissjóðir eru orðnir ein styrkasta stoð hagkerfisins og til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Sjóðfélagar fá úr þeim lífeyri í hlutfalli við framlag yfir starfsævina, og þeir eiga alfarið séreignarsparnaðinn. Blekbóndi er nýlega skriðinn yfir ellilífeyrisaldursmörkin, og þá kemur í ljós ólíkt eðli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna, því að ellilífeyrir Tryggingastofnunar, reistur á tekjuáætlun, nemur aðeins 10 % af greiðslum úr lífeyrissjóði blekbónda. Þetta sýnir, að Tryggingastofnun virkar nú sem öryggisnet, en lífeyrissjóðirnir standa undir framfærslu þeirra, sem í þá hafa greitt um starfsævina. Það er ástæðulaust að gagnrýna þetta fyrirkomulag.
Lýðfræðinni á Íslandi er í grundvallaratriðum háttað svipað og í flestum öðrum ríkjum, þannig að meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Þó að Ísland sé í þeirri góðu stöðu, að fæðingartíðni er með þeim hætti, að þjóðinni fer fjölgandi, þá fjölgar tiltölulega meira í hópi eldri borgara en yngri, sem leiðir til þess, að meiri opinberar fjárhagsbyrðar leggjast á vinnandi fólk eftir því, sem tímar líða. Þar er bæði um að ræða kostnað Tryggingastofnunar vegna annars en veikinda og kostnað Sjúkratrygginga Íslands. Sjálfbærri skattbyrði eru takmörk sett, þ.e. skatttekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, hækka upp að ákveðinni skattheimtu (álögum), en lækka, ef skattheimtan keyrir úr hófi fram. Það er þess vegna alls ekki svo, að útgjöld hins opinbera tryggingakerfis geti haldið lengi áfram að hækka hlutfallslega meira en launin, eins og reyndin hefur verið undanfarið samkvæmt upplýsingum Tíundar.
Þarna mun hið ágæta lífeyrissjóðskerfi landsmanna, sem nú er enn verið að styrkja, eins og áður segir, komið til bjargar, svo að ekki snarist á merinni hjá ríkissjóði. Lífeyrissjóðirnir eru nú þegar orðnir þungavigtaraðilar við lífsframfæri eldri borgara og sjá þeim mörgum hverjum fyrir a.m.k. helmingi framfærslufjár. Þeir, sem höfðu getu og forsjálni til sparnaðar í séreignadeildum lífeyrissjóðanna, geta að öðru jöfnu horft nokkuð björtum augum fram til elliáranna.
Sitt sýnist þó hverjum um aðferðir lífeyrissjóðanna og umsvif á markaði við ávöxtun fjár umbjóðenda sinna, en þeir eru þó á heildina litið eitt hið jákvæðasta, sem íslenzkt samfélag hefur að bjóða í samanburði við önnur lönd. Sérstaklega verður að gjalda varhug við miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í bönkum. Það er áhættusamt, eins og dæmin sanna, og lífeyrissjóðir eru stórir eignaraðilar í mörgum viðskiptavina bankanna. Nær væri að skapa þeim tækifæri til að fjárfesta í Landsvirkjun.
Nú er framundan samræming lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaðinum, og er það réttlætismál. Samhliða verða greiðslur fyrirtækja í almennu lífeyrissjóðina auknar til samræmis við hið opinbera, og verða lífeyrissjóðirnir þá enn betur í stakk búnir að fást við auknar byrðar, sem af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar stafar. Þetta er þveröfugt við óheillaþróun, sem virðist nú eiga sér stað víðast hvar í Evrópu, þar sem s.k. gegnumstreymissjóðir, fjármagnaðir af viðkomandi ríkissjóði, eru við lýði, og munu fyrirsjáanlega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar við skjólstæðinga sína, sem horfa þá fram á verri kjör en foreldrar þeirra hafa notið.
22.1.2016 | 13:27
Evruhagkerfi og krónuhagkerfi - samanburður
Olivier Blanchard er fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF. Bændablaðið rekur fimmtudaginn 22. október 2015 ummæli hans í brezka blaðinu The Telegraph:
"Evran mun verða keyrð inn í varanlegt slen, ef farið verður í nánari efnahagslegan samruna ESB-ríkjanna. Það mun ekki leiða til neinnar hagsældar í þessu kreppulaskaða bandalagi."
Bændablaðið heldur áfram:
"Í framhaldi af vandræðum Grikkja hafa margir leiðtogar í ESB lagt mikla áherzlu á myndun yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við fjármálaráðuneyti og þing. Er það talið mikilvægt til að ljúka ferli við myndun fjármála- og gjaldmiðilsbandalags, sem hófst fyrir 15 árum. Í fararbroddi fyrir þessum skoðunum hafa farið Francois Hollande, Frakklandsforseti, Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Mario Draghi, bankastjóri seðlabanka evrunnar. Orð Blanchards koma eins og köld vatnsgusa framan í þessa menn, sem haldið hafa uppi áróðri fyrir nauðsyn á myndun ofurríkis ESB (EU superstate), sem næsta skrefi samþættingar fjármálakerfisins."
Nokkru síðar í grein Bændablaðsins stendur:
"Eins hefur upptaka evrunnar alla tíð verið forsendan í rökum aðildarsinna fyrir inngöngu (Íslands) í ESB, en ljóst virðist af orðum Blanchards, að staða evrunnar er og verður mjög veik. Hvort sem er í núverandi myntsamstarfi eða eftir myndun hugsanlegs ofurríkis Evrópu."
Það er athyglivert, að allir þessir 3 tilgreindu áhugamenn um nánari samruna ESB-ríkjanna á fjármálasviðinu, eru frá rómönskum ríkjum, en enginn frá germönsku ríkjunum, hvað þá slavneskum. Það sem hangir á spýtunni er fjármagnsflutningur frá norðri til suðurs. Um það verður aldrei eining.
Vöxtur þjóðarframleiðslu (e. GDP) er ágætis mælikvarði á styrk hagkerfa. Fyrstu ár evrunnar lofuðu góðu, en síðan árið 2003 hefur sigið á ógæfuhlið fyrir evruna í samanburði við bandaríkjadal, USD, í þessum efnum, og frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, hefur keyrt um þverbak, því að "evruhagkerfið" hefur orðið stöðnun að bráð og ekki náð sér á strik, á meðan góður hagvöxtur hefur verið í BNA. Enn berst Mario Draghi og evrubanki hans við hættu, sem hann telur evruþjóðunum stafa af verðhjöðnun. Hætt er við, að "evruland" sé dæmt til stöðnunar vegna skuldasöfnunar og öldrunar samfélaganna.
Sé vísitala þjóðarframleiðslu sett á 100 í "evrulandi" og BNA árið 2000, er svo komið við árslok 2015, að þessi vísitala var 140 í BNA og aðeins 120 í "evrulandi". Meðalvöxturinn var 2,50 %/ár í BNA, en 1,25 %/ár í "evrulandi". Þessi munur getur gert gæfumuninn t.d. við að greiða niður skuldir og ná jafnvægi í opinberum rekstri.
Um miðjan desember 2015 hækkaði Seðlabanki BNA stýrivexti sína í fyrsta sinn síðan 2006, en stýrivextir evrubankans eru fastir undir núlli, og mánaðarlega úðar bankinn tugum milljarða evra yfir bankakerfi "evrulands" til að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Sjúklingurinn fær með öðrum orðum stöðugt næringu í æð án þess hann sýni nokkur merki um að hjarna við. Á sama tíma lækkar gengi evrunnar og er nú USD/EUR=0,92, en var lengi vel um 0,7. Jafnvel olíu-og gasverðslækkun hefur ekki dugað í þokkabót til að örva hagkerfi evrunnar, en olíu- og gasverðslækkun ætti að öðru jöfnu að örva Evrópu utan Rússlands og Noregs meira en BNA (Bandaríki Norður-Ameríku framleiða sjálf mikið af jarðefnaeldsneyti). Þetta bendir til, að hinir svartsýnustu fyrir hönd evrunnar hafi haft mikið til síns máls. Hún er ekki á vetur setjandi, ef hún veldur víðast hvar lakari lífskjörum en sjálfstæður gjaldmiðill mundi gera. Evran er kannski gjaldmiðilstilraunin, sem mistókst.
Sabine Lautenschläger situr í bankaráði Seðlabanka evrunnar fyrir Þýzkaland. Eftir henni hefur Bændablaðið m.a., að "varnarleysi margra ríkja innan evrusvæðisins liggi í slæmri skuldastöðu, bæði hvað varðar opinberar skuldir og skuldir í einkageiranum. Þetta myndi flöskuháls, sem komi í veg fyrir aukna framleiðni og vöxt." Þýzki seðlabankinn lagðist gegn og er mótfallinn núverandi evruspreði Mario Draghis og telur hann með því efna niður í framtíðar verðbólgu, sem er eðlilega eitur í beinum Þjóðverja, enda er hún meinvættur, hvar sem hún stingur sér niður. Þetta skyldu Íslendingar hafa ofarlega í huga, en á það skortir enn. Þó eru Íslendingar illa brenndir af verðbólgubálinu, en samt ekki eins illa og hin þýzka þjóð Weimarlýðveldisins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að skuldir íslenzkra heimila og fyrirtækja hafa lækkað mikið á yfirstandandi kjörtímabili vegna fjölþættra aðgerða stjórnvalda, bættra tekna og nýs viðhorfs til skulda. Jafnvel skuldir sveitarfélaga á Íslandi hafa lækkað að jafnaði, þótt staða sumra þeirra sé skelfileg, og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki barnanna beztur í þessum efnum. Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá íslenzka ríkinu ?
Árið 2006 námu skuldir ríkissjóðs 17 % af VLF (vergri landsframleiðslu) og jukust í krónum talið og sem hlutfall af VLF til ársins 2013 og voru í hámarki árið 2012 1495 miaISK eða 86 % af VLF. Árið 2015 lækkuðu þær um tæplega 90 miaISK, og fóru þá niður í 64 % af VLF. Það er einsýnt, að árið 2016 munu skuldir ríkissjóðs fara vel undir 60 % af VLF, sem er lægra en hjá flestum í "evrulandi", en jafnframt eitt af s.k. Maastricht viðmiðum til að verða fullgildur í s.k. EMU II samstarfi, sem er fordyri evrunnar.
Athugum, hvað Morgunblaðið, Baldur Arnarson, hefur eftir Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica, þann 22. október 2015:
"Endurgreiðsla ríkissjóðs á erlendum skuldum á síðast liðnum 12 mánuðum nemur um 98 miaISK, og eru þar af um 96,5 miaISK vegna uppgreiðslna fyrir lokagjalddaga. Áætlaður heildarsparnaður vegna þessa nemur um 4,8 miaISK. Í fjárlagafrumvarpi 2016 kemur fram, að áætlað er, að vaxtagjöld fram til ársins 2019 lækki um 14 miaISK. Það er því ljóst, að miklir hagsmunir felast í lækkun skulda ríkissjóðs á næstu mánuðum og misserum."
Af samanburði á þessum lýsingum á hagkerfum "evrulands" og Íslands má afdráttarlaust álykta, að Ísland er á allt öðru og giftusamlegra róli en ríkin á meginlandi Evrópu eru flest. Meginskýringarnar eru þrjár:
Í fyrsta lagi ganga 2 af 3 auðlindaknúnu meginútflutningsatvinnuvegunum vel.
Í öðru lagi er lýðfræði Íslands landsmönnum hagstæð, þ.e. það er þokkaleg viðkoma á mannfólkinu.
Í þriðja lagi bera Íslendingar ekki klafa hárra útgjalda til ESB og eru ekki neyddir til að sækja lykilákvarðanir um auðlindastjórnun sína til Brüssel, þar sem ákvarðanir ráðast að lokum af hrossakaupum ráðherra aðildarlandanna, sem fara með viðkomandi málaflokk, t.d. sjávarútveg. Slíkt ráðslag hefur gefizt illa og valdið ofveiði á flestum tegundum í lögsögu ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af þessu ráðslagi á samningafundum með ESB o.fl. um deilistofnana.
Í stuttu máli skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi, að landið sé ekki innan vébanda ESB. Það er nóg að vera þar með aðra löppina sem aðili að EES. Hin löppin er frjáls, og hún getur spriklað, þegar tilmæli koma frá Brüssel um viðskiptaþvinganir eða annað, sem "kommissarar" hafa kokkað upp og hlotið hefur blessun Berlínar og Parísar.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2015 | 10:25
Syrtir í álinn fyrir evrunni
Evran hefur látið undan síga allt árið 2015 og lengur, og stefnir nú í, að hún verði verðminni en bandaríkjadalur. Gjaldmiðlar lifa ekki á fornri frægð, heldur endurspegla styrk viðkomandi hagkerfis, og fer ekki á milli mála, að þar hefur bandaríska hagkerfið vinninginn í heiminum um þessar mundir á meðal stórmynta, t.d. mælt í hagvexti og atvinnuþátttöku, en nærri lætur, að atvinnuleysi á evrusvæðinu, um 11 %, sé tvöfalt meira en í BNA.
Veiking evrunnar hefur létt undir útflutningi evruríkjanna, og það hefur gefið sumum þeirra byr í seglin, t.d. Þýzkalandi og Írlandi, en enn sannast á Írlandi, sem litlu og opnu hagkerfi, að "ein stærð fyrir alla" hentar Írum illa. Lágir vextir skapa nú eftirspurnarspennu á Írlandi, fasteignabólu, sem getur sprungið illilega í andlitið á þeim.
Á árinu 2016 mun reyna á litlu hagkerfin á evru-svæðinu að þessu leyti, Eystrasaltsríkin, Kýpur, Möltu og Írland. Evrubankinn verður jafnan að taka mest tillit til stóru ríkjanna, og það getur annaðhvort valdið ofþenslu, eins og hætta er á núna, eða kreppu, hjá þeim minni, t.d. Írum. Fróðlegt verður að sjá, hvernig téðum ríkjum reiðir af að þessu leyti. Þau hafa tök á mótvægisaðgerðum, en hafa þau vilja og þrek til að beita þeim ?
Einnig er áhugavert að velta fyrir sér langtímahorfum evrunnar. Í þeim efnum verður stuðzt við greinina: "The force assaulting the euro" á síðu Free exchange í The Economist, 6. júní 2015.
Hinn hægi vöxtur og ríkissjóðshalli í flestum evru-löndunum á aðeins eftir að versna í framtíðinni af lýðfræðilegum ástæðum (aldurssamsetning). Ríkið, sem harðast verður úti, er ekki lítið Miðjarðarhafsríki, heldur eimreið myntbandalags Evrópusambandsins, ESB, Sambandslýðveldið Þýzkaland.
Hækkandi meðalaldur evru-þjóðanna, fækkun á vinnumarkaði og fjölgun ellilífeyrisþega, mun draga úr hagvexti, sem annars gæti orðið, nema framleiðni vaxi til mótvægis og ellilífeyrisaldur verði hækkaður.
Nú eru neikvæð áhrif of lítillar viðkomu, sem hófst á 8. áratugi 20. aldarinnar, og hafði aldrei áður gerzt, að koma niður á hagkerfum flestra Evrópulanda. Þetta á þó í litlum mæli við um Frakka, og á alls ekki við um Breta og Íslendinga.
Á tímabilinu 2013 - 2030 mun fækka á vinnumarkaði evru-svæðisins, 20-64 ára gamalla, um 6,2 % samkvæmt spá Framkvæmdastjórnar ESB. Mest mun fækka í Þýzkalandi, þrátt fyrir flóttamannastrauminn, sem nú veldur reyndar úlfúð, eða um 12,7 %. Næst á eftir koma Portúgal með 12,1 % fækkun og Spánn með 11,3 % fækkun. Í Frakklandi mun aðeins fækka um 0,9 %, en á Bretlandi verður 2,3 % fjölgun á vinnumarkaði samkvæmt spánni og í Svíþjóð 8,1 % fjölgun.
Þegar fækkar á vinnumarkaði, fjölgar í hópi ellilífeyrisþega, því að fólk deyr eldra en áður. Þessi tvöfaldi þrýstingur á hagkerfi (víðast hvar eru gegnumstreymissjóðir, sem ríkið fjármagnar), hækkar hið svonefnda öldrunarhlutfall, ÖH, sem skilgreint er sem hlutfall 65 ára og eldri (í teljara) og 20-64 ára (í nefnara). Um þessar mundir er ÖH yfirleitt um 30 % (20 %-35 %), en mun hækka gríðarlega til 2030 og verða yfirleitt um 45 %, þ.e. 35 % (Írland) - 52 % (Þýzkaland).
Hvort sem Grikkland verður utan eða innan evru/ESB, þá verður landið að fást við snemmbær lífeyrisréttindi þegna sinna, sem í sumum tilvikum er við hálfsextugt. Þó að evrusvæðið lagi lífeyrisréttindin að hækkandi aldri við dánardægur, þá mun hagvöxtur eiga erfitt uppdráttar á næstu 15 árum af þessum lýðfræðilegu ástæðum.
Lítill sem enginn hagvöxtur mun eiga þátt í því, að evru-þjóðunum mun reynast erfitt að fást við mikla skuldabyrði opinberra aðila og einkaaðila, og þá verða viðkomandi auðveld fórnarlömb næsta samdráttarskeiðs eða fjárhagskreppu.
Hraðfara öldrun Þjóðverja skiptir máli í þessu viðfangi vegna vægis þeirra í myntsamstarfinu. Viðnámsþróttur þýzka hagkerfisins hleypti krafti í evruna á tímum bankakreppunnar 2007-2010. Síðan þá hefur evrunni hins vegar hrakað, og megna Þjóðverjar greinilega ekki lengur að halda henni sterkri, og lýðfræði stærsta hagkerfisins innan evrunnar mun veikja hana enn meira.
Nýjustu horfur lýðfræðinnar innan ESB benda til, að Bretland verði fjölmennasta ríkið þar að því gefnu, að Sameinaða konungdæmið verði áfram eitt ríki, sem haldi áfram í ESB, árið 2050. Bretar gætu þá jafnframt búið við öflugasta hagkerfi Evrópu. Þess má geta, að Rússum fækkar nú ört, og er sú neikvæða þróun eitt þeirra stærstu vandamála.
Öldrun mun hefta kraftakarl evru-svæðisins. Þjóðverjar eiga bara eitt gott svar við því.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, ritaði fróðlega grein í Fréttablaðið, 26. nóvember 2015:
"Krónan og kjörin". Þar hafnar hann yfirborðskenndu skrafi gutlara af ólíku tagi um íslenzku krónuna, ISK, sem gera hana að blóraböggli allra "skavanka" á íslenzku efnahagslífi og jafnvel þjóðlífi. Hann færir rök að því, að evran henti ekki alls kostar vel opnum, litlum hagkerfum, sem er í samræmi við frásögn í upphafi þessa vefpistils:
"Ef við skoðum þróun lífskjara á Norðurlöndum, mælda í landsframleiðslu á mann, má sjá, að þróunin hefur verið óhagfelldust í Finnlandi, sem notar evru. Þróunin í Danmörku, sem hefur fest gengi dönsku krónunnar við evruna, er einnig slæm. Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem öll nota sína eigin mynt, hafa hins vegar komið betur út.
Færa má rök fyrir því, að í Finnlandi sé evran ein af orsökum þessarar þróunar. Útflutningsgreinar þar í landi hafa lent í erfiðleikum af þremur ástæðum:
vegna falls Nokia, minni eftirspurnar eftir pappír og efnahagserfiðleika í Rússlandi. Við slíkar aðstæður hefði gengislækkun bætt stöðu annarra útflutningsgreina og veitt þannig viðspyrnu gegn samdrætti og launalækkunum. Vegna myntsamstarfsins er það hins vegar ekki mögulegt. Þannig kom gjaldmiðill, sem endurspeglar ekki efnahagslegan veruleika Finnlands, í veg fyrir sveigjanleika, þegar hagkerfið lenti í vandræðum."
Í litlu og opnu hagkerfi, sem háð er miklum utanríkisviðskiptum, á borð við hið íslenzka, er afleit lausn á myntmálum að tengjast annarri mynt, hverrar verðmæti ræðst af hagkerfi eða hagkerfum, sem sveiflast ólíkt litla hagkerfinu. Árangursmælikvarðar á borð við þróun landsframleiðslu á mann sýna þetta. Sameiginleg mynt er stundum hvati til ofþenslu og í annan tíma dragbítur.
Hins vegar veldur, hver á heldur í litlu hagkerfi með eigin mynt. Hægt er að sníða helztu agnúa af henni með styrkri og samþættri hagstjórn, þar sem miðað er jafnan við dágóðan viðskiptajöfnuð við útlönd, allt að 5 % af VLF, óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð af stærra taginu, allt að 100 % af árlegum innflutningsverðmætum, og launaþróun í landinu, sem tekur mið af framleiðnibreytingu í hverri grein og afkomu útflutningsatvinnuveganna.
Rekstur ríkissjóðs þarf að vera sveiflujafnandi á hagsveifluna og skuldir ríkissjóðs litlar, innan við 20 % af VLF. Með þessu móti fæst stöðugleiki, sem gera mun kleift að lækka raunvexti umtalsvert í landinu, sem yrði mörgum kærkomin kjarabót. Hins vegar þarf ríkisvaldið að hvetja til almenns sparnaðar með því að heimta einvörðungu skatt af raunávöxtun yfir MISK 1,0 og þá aðeins 15 %.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2015 | 16:43
Hagkerfi sækir í sig veðrið
Líklega verður hagvöxtur ársins 2015 hvergi meiri í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en á Íslandi, þar sem honum er spáð yfir 5 %.
Hvergi í heiminum hrundi fjármálakerfið nánast til grunna fyrir 7 árum, eins og það gerði á Íslandi, eftir fall Lehmans-bræðra vegna eitraðra afleiða og vafninga með uppruna í undirmálslánum til húsnæðiskaupa í Bandaríkjunum, BNA. Skrifaðir hafa verið þykkir doðrantar til að útskýra það.
Nú, 7 árum síðar (7 mögur ár, 7 feit ár ?) hefur hagkerfið rétt úr kútnum, eignastaða flestra heimila hefur batnað mikið, svo og hins opinbera, ráðstöfunartekjur flestra heimila hafa vaxið á undanförnum 12 mánuðum meira en dæmi eru um í nýlegri sögu, og skatttekjur ríkisins hafa vaxið, þó að skattheimtan hafi lækkað, sem á "máli vinstrimanna" heitir, að ríkið afsali sér tekjum. Þetta er hinn versti orðhengilsháttur, reistur á vinstra viðhorfinu um, að ríkið eigi meiri rétt á að nýta tekjur fyrirtækja og einstaklinga en sá, sem teknanna aflaði. Það þarf ekki að orðlengja, að "hagfræði vinstri manna" nær ekki máli, leiðir til fátæktargildru miðstéttarinnar, enda er markmiðið "alræði öreiganna", en þá eru valdhafarnir búnir þurrka út miðstéttina og gera alla að öreigum. Er það enn draumastaðan ?
Eftirfarandi gaf að líta í frétt Baldurs Arnarsonar, "Fjöldi fólks vill starfa á Íslandi",
sem birtist í Morgunblaðinu 30. september 2015:
"Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar hefur launavísitalan hækkað um 7,7 % á Íslandi síðastliðna 12 mánuði. Samhliða því hefur raungengi krónu styrkst. Er því ekki ósennilegt, að laun á Íslandi, umreiknuð í evrur, séu nú orðin þau fjórðu hæstu í Evrópu. Það, ásamt stórauknu vinnuframboði, gerir Ísland eftirsóknarvert vinnuland."
Fyrir einu ári var Ísland í 8. launasæti af ríkjum OECD, svo að þessi misserin skýzt Ísland fram úr Danmörku, Hollandi, Bretlandi og Svíþjóð varðandi laun. Tíu efstu jafnaðarárslaun (miðlaun) 2014 voru sem hér segir í MISK:
- Sviss 8,8
- Noregur 6,6
- Lúxemborg 5,5
- Svíþjóð 4,9
- Bretland 4,8
- Holland 4,8
- Danmörk 4,7
- Ísland 4,5
- Finnland 4,3
- Bandaríkin 4,1
Tiltölulega gott gengi íslenzka hagkerfisins núna á sér ýmsar skýringar. Eftir Alþingiskosningarnar 2013 hafa stjórnvöld beitt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum við að losa hagkerfið úr dróma í stað ólystugs og viðbrunnins hrærigrautar löngu afdankaðrar og vonlausrar jafnaðarstefnu fyrri stjórnvalda, þar sem viðkvæðið var í stuttu máli að refsa einstaklingum og fyrirtækjum fyrir frumkvæði, dugnað og góðan árangur með endurútdeilingu verðmæta úr vösum aflafólks samkvæmt duttlungum forræðishyggjunnar.
Með því að leggja grunn að stjórnarfarslegum og hagrænum stöðugleika tókst núverandi stjórnvöldum að örva mjög fjárfestingar einkaaðila, innlendra og erlendra, á Íslandi, sem eru undirstaða hagvaxtar í bráð og lengd. Fiskveiðistjórnunarkerfið er tekið að skila þjóðarbúinu miklum tekjum með ótrúlegri vinnsluþróun og markaðssókn, en veiðistofnarnir eru líka teknir mjög að braggast. Sjávarútvegurinn varð þó fyrir um ISK 10 milljarða höggi á makrílmarkaðinum, og hætt við, að annað og mun þyngra högg bíði handan við hornið samkvæmt fréttum af loðnunni.
Eyjafjallagosið, lágt gengi krónu, lokun vinsælla ferðamannastaða og óöryggi annars staðar, t.d. fyrir Gyðinga, ásamt auknum almennum áhuga á norðurslóðum, hefur orðið ferðaþjónustunni á Íslandi gríðarleg lyftistöng, en því miður er skipulagning móttöku 1,5-2,0 milljóna ferðamanna á ári að hálfu yfirvalda í molum með slæmum afleiðingum fyrir orðstýr þjóðarinnar, náttúru landsins og öryggi gestanna. Spyrja má í hverju Ferðamálastofa sé að vasast, því að nú hefur nýtt stjórnkerfisapparat verið sett á koppinn. Allt lyktar þetta af flótta frá viðfangsefnunum.
Sök á framkvæmdaleysinu eiga ríkisvaldið (vantar varanlega fjáröflun), sveitarfélög (vantar skipulag) og ferðaþjónustufyrirtæki, sem ekki hafa lagt nægilega rækt við að dreifa ferðamönnum um landið.
Til þess m.a. að anna þjónustuþörf hins gríðarlega fjölda hefur orðið að grípa til gististarfsfólks ("Gastarbeiter"). Árið 2014 voru starfsmenn á Íslandi af erlendu bergi brotnir orðnir 16´155 talsins, en fjöldi innlendra ríkisborgara á vinnumarkaði var þá 170´018, þ.e. fjöldi erlendra af heildarfjölda á vinnumarkaði, 186´173, var 8,7 %. Enn liggur í landi, að ferðaþjónustufyrirtæki "svíni" á starfsmönnum og hinu opinbera. Tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, þykja enn óeðlilega lágt hlutfall af umsetningunni.
Fjöldi erlendra starfsmanna gæti á 4. ársfjórðungi 2015 verið farinn að nálgast 20´000. Svo gríðarlegur fjöldi hefur aldrei verið hér á vinnumarkaðinum, og ljóst er, að hann hefur margvísleg áhrif á samfélagið. Hann heldur t.d. launaþrýstingi í skefjum, þ.e. dregur úr launaskriði, og hann eykur þrýsting á húsnæðismarkaði alveg gríðarlega, sem leiðir til verðhækkunar á fasteignamarkaði og leigumarkaði, einkum minna húsnæðis. Þetta veldur ungum Íslendingum, sem vilja fara að kaupa sína fyrstu íbúð, vandræðum við að kljúfa kostnaðinn þrátt fyrir drjúga kaupmáttaraukningu þessi misserin. Þess vegna þarf að söðla um í húsnæðismálum og vinstri úrræði félagsmálaráðherra eru vonlaus.
Það er allt of lítið byggt af litlum íbúðum á bilinu 40-80 m2. Sveitarfélögin eiga að nokkru leyti sök á þessu, þar sem þau hafa ekki skilyrt byggingarleyfi við þetta, og sum þeirra, t.d. Reykjavík, okra á lóðaverði, svo að byggingarfyrirtæki hillast til að byggja frekar húsnæði yfir 100 m2 að stærð, enda hagnast þau meira á því. Kópavogsbær er þó til mikillar fyrirmyndar að þessu leyti með frumkvæði sínu í húsnæðismálum, sem m.a. snýst um að auka framboð lítilla íbúða og losa leigjendur í félagslegu húsnæði bæjarins úr fátæktargildru.
Ríkisvaldið setti á síðasta kjörtímabili nýja löggjöf um húsbyggingar, sem hafði í för með sér um 15 % kostnaðarhækkun á litlum íbúðum. Með samstilltu átaki á að vera hægt að setja á markað litlar íbúðir, stúdíoíbúðir, fyrir MISK 10. Þær mundu leysa vanda flestra, sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, hvort sem eru íslenzkir ríkisborgarar eða starfsfólk á Íslandi af erlendu bergi brotið, sem hefur atvinnuleyfi hér og kýs að ílendast, a.m.k. í 7 feit ár.
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, ritaði merka grein um húsnæðismál í Morgunblaðið 22. september 2015, "Rúmgóð ný stúdíoíbúð fyrir níu milljónir". Þar skrifaði hann m.a.:
"Skortur á minnstu íbúðum hækkar síðan markaðsvirði þeirra enn frekar, þannig að meðal-Jóninn þarf dæmigert að taka um tíu milljónum króna hærra lán fyrir sinni fyrstu íbúð, en ef þessum óþarfa lúxusþörfum hefði ekki verið þröngvað inn á hann. Þessi offjárfesting hækkar vaxta- og rekstrarkostnað íbúðarinnar um sex til átta hundruð þúsund á ári, sem er árlegur kostnaður, sem leggst á fólk megnið af lífsleiðinni og hægir verulega á, að hægt sé að leggja fyrir einhvern sparnað. Þeir einu, sem til skamms tíma græða á þessu, eru bankarnir. Til langs tíma græðir þó enginn, því of mikil skuldsetning rýfur tengsl fólks við raunveruleikann og býr til bólu, sem endist bara fram að næsta hruni."
Það er ámælisvert, að ríki og sveitarfélög skuli ekki sameinast um að auka varanlega framboð stúdíóíbúða verulega til að leysa brýnan húsnæðisvanda í þjóðfélaginu og til að slá á froðukennda þenslu í geiranum, sem ýtir undir verðbólgu. Þessir aðilar ættu að fara í smiðju til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs. Þar á bæ hafa menn greint vandann og eru að hefja lausnarvegferð á grundvelli skýrslu, sem bæjarstjórnin hefur sameinazt um. Vandamálið og lausnin eru því þekkt, en félagsmálaráðherra, sem bæði fer m.a. með húsnæðismál, sveitarfélagamál og flóttamannamál, væflast samt um með afdankaða og vonlausa vinstri slagsíðu sína og er með alls konar ranghugmyndir um að spreða út fé skattborgaranna, sem aðeins mun þó magna vandamálið. Hugmyndasnauðir ráðherrar eru ekki upp á marga fiska. Um þetta skrifaði téður Jóhannes í lok greinar sinnar:
"Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum með fjölgun félagslegra íbúða og hækkun tekjutengdra húsaleigubóta eru engin lausn. Þótt þær geti tímabundið bætt hag sumra, eru þessar aðgerðir afar hættuleg fátæktargildra, sem refsar fólki, sem reynir að afla sér meiri tekna með því að lækka bæturnar og svipta það búseturétti.
Ef sama fólki stæðu til boða ódýrar öríbúðir, gætu flestir án nokkurrar aðstoðar náð á örfáum árum að byggja upp eigið fé, sem síðan mætti nota til næstu íbúðarkaupa. Þessi aðgerð kostar ekki krónu, en skapar sjálfbjarga einstaklinga. Það eina, sem stjórnvöld þurfa að gera, er að hætta að þvælast fyrir."
Kópavogsbær ætlar að styrkja fólkið, sem Jóhannes gerir þarna að umræðuefni, með vaxtalausu láni í 5 ár fyrir 15 % af andvirði íbúðarinnar, og reiknar þá með 5 % stofnframlagi tilvonandi eiganda hins félagslega húsnæðis. Þetta er ný og róttæk hugsun hjá forráðamönnum bæjarfélags, enda er vandamálið alvarlegt. Hún er til þess fallin að fjölga húseigendum aftur, og það er velferðarmál og grundvallarmál fyrir fjárhagslegt öryggi viðkomandi á efri árum. Vel að merkja: hvað er að frétta af kosningaloforði Dags B. Eggertssonar frá í fyrra um að stórauka framboð húsnæðis ? Hefur hann gefið framvinduskýrslu nýlega, eða er hann heltekinn af því utanríkispólitíska hugðarefni sínu að klekkja á Gyðingum fyrir botni Miðjarhafs ?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2015 | 21:07
Undiralda og brimboðar
Í grípandi viðtali á Sprengisandi, öllu heldur Sprengjusandi, sunnudaginn 13. september 2015, tjáði formaður Sjálfstæðisflokksins landslýð áhyggjur sínar vegna óvissu um stöðugleika hagkerfisins. Mesta ógnin við stöðugleikann nú um stundir á meðal innlendra áhrifavalda er úrelt fyrirkomulag við að ákvarða kaup og kjör, "skipta kökunni". Það er sjúkleg samanburðarárátta við lýði á milli stétta, jafnvel mjög ólíkra stétta, og það vill brenna við, að ekki sé búið að baka kökuna, þegar farið er að ræða um að skipta henni, svo að gripið sé til samlíkingar við sígilda kennslubók í lestri.
Það var reyndar ekki minnzt á versnandi viðskiptakjör útflutningsatvinnuveganna, sem í raun eru vegna minnkandi kaupmáttar almennings víðast hvar. Það er að bera í bakkafullan lækinn að gera innflutningsbann Rússa á íslenzk matvæli að umræðuefni, en að missa rússneska markaðinn vegna klaufaskapar íslenzka utanríkisráðuneytisins er högg fyrir uppsjávarútgerðir- og vinnslu, en vonir standa þó til sterkra mjölmarkaða næstu árin vegna El Nino (barnsins) hafstraumsins og lélega ansjósugengd tengda honum.
Enn hafa fréttir borizt, sem benda til að utanríkisráðuneytið ráði ekki við hlutverk sitt að gæta viðskiptahagsmuna Íslands utan ESB. Hér er átt við frumkvæði Norðmanna um, að Norðurlöndin reyni að lagfæra tengslin við Rússland, sem hafa beðið hnekki. Það er sláandi, að þar var Ísland ekki með upphaflega. Á að trúa því, að ekki hafi verið símasamband á milli utanríkisráðuneyta Íslands og Noregs vegna stöðunnar, sem upp er komin á uppsjávarmörkuðum ?
Frumhlaup meirihluta borgarstjórnar, sem ætlaði að fyrir hönd Reykvíkinga að feta slóðir Rússa um innflutningsbann, sem að vísu átti einvörðungu að bitna á Ísrael og á flótta borgarstjóra einvörðungu að beinast gegn landnemabyggðum Gyðinga í Palestínu, svo gáfulegt sem það nú er, stefndi í að kosta landsmenn alla stórfé og olli álitshnekki um víða veröld. Viðskiptabann Íslendinga við þjóðir, sem við höfum stjórnmálasamband við, kemur ekki til greina. Viðskiptabann Íslendinga á aðra er líklegt til að valda okkur sjálfum meira tjóni en þeim, sem spjótunum er beint gegn. Viðskiptabann er oftast tóm vitleysa, en viðskipti geta aukið skilning á milli þjóða.
Stóriðjan, þ.e. orkukræfur iðnaður, t.d. áliðnaður, kísiljárnframleiðsla og kísiliðnaður, eiga undir högg að sækja vegna minnkandi hagvaxtar í Kína, sem leitt getur til samdráttar og efnahagskreppu þar ásamt stjórnmálalegum óstöðugleika. Eftirspurn í Kína hefur staðnað eða dregizt saman, og fjárfestingar minnkað. Þetta kemur mjög niður á spurn eftir málmum og kísli. Júanið hefur fallið og a.m.k. trilljón (= 1000 milljarðar) bandaríkjadalir gufað upp á verðbréfamarkaði í Kína. Í stað innflutnings á ofangreindum málmum er nú kominn útflutningur frá Kína, sem auðvitað hefur fellt markaðsverðið. Mörg vestræn álver eru nú rekin með tapi, þar á meðal á Íslandi. Tilkynnt hefur verið um lækkun raforkuverðs frá Hydro Quebec í Kanada til að tryggja áframhaldandi rekstur álveranna þar. Raforkuverðið til ISAL er ekki lengur (frá 2010) tengt vísitölu álverðs, og raforkukostnaðurinn er þess vegna fyrirtækinu mjög þungur í skauti. Samt hefur Landsvirkjun ekki léð máls á að veita tímabundinn afslátt, sem vitnar um þvergirðing á þeim bænum.
Þetta ástand í Kína smitar til iðnaðarvelda Evrópu, sem geta flutt minna út til Kína fyrir vikið, og þetta kemur niður á hag almennings, sem mun ferðast minna, þegar tekjur dragast saman. Þetta dregur líklega úr straumaukningu ferðamanna til Íslands, enda verða nokkrar verðhækkanir, þegar ferðaþjónustan verður loksins felld inn undir almenna álagningu virðisaukaskatts, þó að vonandi tímabundið sé aðeins um neðra þrepið að ræða.
Forystufyrirtæki krúnu þýzks iðnaðar, bílaiðnaðarins, sem með birgjum sínum veitir 15 % vinnandi fólks í Þýzkalandi lífsviðurværi, hefur orðið fyrir þungu höggi, sem lama mun alla dísilvélaframleiðslu Evrópu, en tæplega 50 % nýrra fólksbifreiða eru með dísilvél um þessar mundir. Sú uppljóstrun Bandaríkjamanna, að VW hafi í stýriforriti dísilbílanna skilyrt mengunarvarnir við inngjöf og hreyfingarlaust stýri er álitshnekkir fyrir nýorðinn stærsta bílaframleiðanda heims og fyrir góðan orðstýr þýzks iðnaðar, sem er svo alvarlegur, að hægja kann á eimreiðinni, sem knýr áfram hagkerfi evrusvæðisins. Auðvitað munu Þjóðverjar ná vopnum sínum á ný, bíta í skjaldarrendur og hefja gagnsókn, eins og þeir hafa alltaf gert, þegar þeir hafa þurft að láta í minni pokann.
Það eru þess vegna vissulega blikur á lofti íslenzku útflutningsatvinnuveganna, sem skapað geta þrýsting á gengið til lækkunar. Við þessar aðstæður væri glórulaust af Seðlabankanum að gera fyrirtækjum og fjölskyldum enn erfiðara fyrir með vaxtahækkunum, og það væri jafnglórulaust af "aðilum vinnumarkaðarins" að glata tækifærinu, sem þeir hafa nú til að leggja grunninn að viðvarandi kaupmáttaraukningu alls almennings í samvinnu við ríkisvaldið.
Þessi staða er enn meira áhyggjuefni vegna þess, að fyrirtæki, sem selja vörur og þjónustu á innlendum markaði, gætu freistazt til að hleypa kostnaðarhækkunum sínum út í verðlagið (hin geta það ekki), og þá er fjandinn laus. Það var ekki innistæða fyrir umsömdum launahækkunum hjá öllum fyrirtækjum, og þau, sem nú eru illa stödd, kunna að vera nægilega mörg til að endurvekja verðbólgudrauginn, sem er versti óvinur fyrirtækja, launþega og bótaþega, og því meiri ógn stafar afkomunni af honum, þeim mun lakari, sem afkoman var fyrir launahækkanir. Verðbólgan fer svo illa með atvinnulífið og rýrir svo mjög hag almennings til lengri tíma litið, að allir ættu að átta sig á, að skynsamlegt er að fórna nokkru tímabundið til að hreppa ávinning framleiðniaukningar og heilbrigðs hagvaxtar. Það gerðu Þjóðverjar 2005. Þá stöðvuðu þeir allar launahækkanir í 5 ár, verðbólgan eftir endursameiningu Þýzkalands hjaðnaði, samkeppnisstaðan batnaði, framleiðni og framleiðsla jókst og mjög dró úr atvinnuleysi. Allir græddu.
Það er allt til vinnandi að ná tökum á þessu íslenzka ástandi, stöðva þessa hringekju. Til þess dugar ekkert minna en sameiginlegt átak; samtaka á árarnar verða að leggjast samtök atvinnurekenda og launþega ásamt stjórnmálastéttinni. Markmiðið er, að landsframleiðsla á mann á Íslandi verði í þriðja til fjórða sæti í Evrópu árið 2020 og kaupmátturinn einnig. Ef við gætum þá orðið í hópi með Lúxemborg, Sviss og Noregi, eða jafnvel tekið sæti Noregs, sem nú sýpur seyðið af olíuævintýri á enda, þá væri mikill sigur unninn. Þetta er verðugt markmið allra annarra en þeirra, sem eru á móti hagvexti og telja hann af hinu illa.
Til þessa mikla árangurs þarf auðvitað miklar og arðsamar fjárfestingar, e.t.v. 25 % af VLF á ári eða um ISK 500 milljarða á ári, en grunnurinn verður að vera efnahagslegur stöðugleiki, og hann næst engan veginn án þess að stöðva höfrungahlaup á vinnumarkaði né án mikillar hófsemdar varðandi launahækkanir á tímabilinu eftir að núverandi samningstímabili lýkur.
Til þess að tryggja sem réttlátastan hlut launþega í aukningu verðmætasköpunar á hverjum tíma þarf með lagasetningu að stofna til skuldbindandi stöðugs samráðs á grundvelli söfnunar beztu upplýsinga um hag fyrirtækjanna. Allt þetta fari fram á vegum embættis Ríkissáttasemjara, sem ný lagasetning tryggi aukin völd og ábyrgð, sem dugi til að aga vinnumarkaðinn, ef hann ætlar að hlaupa út undan sér. Hér er mikið í ráðizt, en þjóðarhagur liggur við. Framtíð Íslands er í húfi.
Lykilatriði verði þó gagnaöflun á vegum embættis Ríkissáttasemjara og samráðsfundir með aðilum vinnumarkaðarins, launþegahreyfingunum og vinnuveitendum í því augnamiði að freista þess að ná fram sameiginlegum skilningi á getu hinna ýmsu atvinnugreina til launahækkana. Hér, eins og annars staðar, þar sem svipaðri aðferðarfræði er beitt, t.d. á hinum Norðurlöndunum, þarf aðallega að taka tillit til stöðu útflutningsatvinnuveganna, því að þeir eru undirstaða tekjuöflunar landsins, og dágóður jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd er nauðsynlegur fyrir traust gengi gjaldmiðilsins, sem aftur er undirstaða lágrar verðbólgu og hás kaupmáttar. Keppikeflið á að vera að skapa grundvöll fyrir svipaðri verðbólgu og í helztu viðskiptalöndunum, góðan (>3,0 %) hagvöxt og lækkun fjármagnskostnaðar, svo að hann endurspegli atvinnustig, hagvöxt og verðbólgu með svipuðum hætti og á hinum Norðurlöndunum. Eignarhald bankanna skiptir máli í þessu sambandi og ótækt að búa við eignarhald kröfuhafa gömlu bankanna, enda munu þeir væntanlega selja sinn hlut, og mun þá e.t.v. einn stóru bankanna þriggja verða í erlendri eigu, sem skapar grundvöll að almennilegri samkeppni, svo að vænta megi minni munar á útláns- og innlánsvöxtum en nú er raunin.
Opinberir starfsmenn þurfa að koma að ofangreindu samráðsferli, og samræming skyldu og réttinda félaga lífeyrissjóðanna virðist vera í bígerð í þessu sambandi. Kröfuharka ríkisstarfsmanna á þessu ári vekur athygli. Þeir hafa jafnvel reynt að leiða kjaraþróunina. Slíkt tíðkast líklega hvergi og alls ekki á hinum Norðurlöndunum, enda eru starfskjör opinberra starfsmanna að sumu leyti betri en hinna, sem auðvitað þarf að meta til launa, t.d. iðgjöld vinnuveitanda í lífeyrissjóð, tryggð ávöxtun lífeyrissjóðs og meira starfsöryggi.
Hið síðast nefnda kom berlega í ljós í efnahagskreppunni eftir hrun fjármálakerfisins, þegar 15-20 þúsund manns misstu vinnuna í einkageiranum, en sárafáir hjá hinu opinbera.
Opinberir starfsmenn, sem nú hafa lausa samninga, vitna mikið til úrskurðar Kjaradóms um laun félaga í BHM og hjúkrunarfræðinga. Langt er seilzt, þegar t.d. lögreglumenn vitna til alveg sérstaks kjarasamnings við lækna til að tryggja landinu þessa sérfræðikunnáttu á íslenzku.
Það ætti að geta orðið að samkomulagi deiluaðila, að þeir vísi kjaradeilu sinni til Kjaradóms. Hann tók í síðasta dómi tillit til sérþekkingar og þess, hvort starfsmenn hefðu dregizt aftur úr viðmiðunarstéttum, svo að hann gæti orðið þrautalending hér einnig.
Það er efni í hringavitleysu og óðaverðbólgu, ef stéttir, sem áður voru búnar að semja um hækkanir, sem flestir óvilhallir menn telja vera umfram getu meirihluta fyrirtækjanna, sem samið var fyrir, ætla við fyrsta tækifæri að rífa upp þá samninga til að heimta meira. Mál er, að linni. Þetta er hömlulaus sérgæðingsháttur á kostnað heildarhagsmuna og stríðir algerlega gegn heilbrigðri skynsemi, af því að kollsteypa hagkerfisins verður hin augljósa afleiðing slíks framferðis.
Það ríður á, að endurskoðun vinnulöggjafarinnar heppnist vel, hún feli í sér hvata til að ná samkomulagi um lágmarkslaunahækkanir, sem fyrirtæki, sem veita a.m.k. 90 % starfsmanna, sem samið er fyrir í hverju tilviki, ráða við í þeim skilningi, að þau skili eftir sem áður nægum hagnaði til eðlilegra fjárfestinga og arðgreiðslna að beztu manna yfirsýn undir verkstjórn Ríkissáttasemjara í nánu samráðsferli aðila vinnumarkaðarins. Síðan taki við staðarsamningar launþega hjá fyrirtækjum, þar sem verðmætasköpun hefur aukizt meira en lagt var til grundvallar í almennu samningunum samkvæmt niðurstöðum samráðsferlisins hjá Ríkissáttasemjara.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2015 | 10:40
Baráttan við báknið
Framlagt fjárlagafrumvarp lofar góðu um viðsnúning í ríkisrekstrinum, þar sem vaxtagjöld árið 2016 munu lækka um meira en 8 mia (milljarða) kr, og afgangur verður af rekstri ríkissjóðs u.þ.b. 2 % af tekjum hans. Boðaðar eru löngu tímabærar tollalækkanir og tekjuskattslækkanir ásamt lækkun fjármagnstekjuskatts, sem auka munu ráðstöfunartekjur heimila á árunum 2016-2017 um 1,4 %, þegar allt verður komið til framkvæmda. Þetta svarar til þess, að ríkið skili til almennings 17 miö kr, en ríkissjóður mun fá drjúgan hluta þeirrar upphæðar bættan upp með hærri tekjum af virðisaukaskatti o.fl.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lét ekki á sér standa með að taka afstöðu gegn þessari kaupmáttaraukningu almennings og með bákninu, sem hún telur hér missa af fé, sem því beri síðan að endurdreifa um þjóðfélagið eftir smekk stjórnlyndra stjórnmálamanna. Þetta eru stjórnmál af gamla skólanum, sem sífellt fjarar undan. Hún sagði það beint út, að almenningur færi nú að verzla meira, og formaður VG óttaðist þenslu í hagkerfinu þess vegna. Vinstra heimatrúboðið er samt við sig og sér skrattann í hverju horni, ef almenningur getur farið að veita sér meira af fatnaði eða öðru. Hvernig vesalings Katrín Jakobsdóttir getur fengið það út, að verðlækkanir og skattalækkanir valdi þenslu út af fyrir sig, er ekki boðlegur málflutningur, nema fyrir áhangendur villta vinstrisins. Heldur hún virkilega, að ríkisútgjöld geti ekki valdið þenslu ? Þessi gamla og ryðgaða plata villta vinstrisins gengur í raun út á, að fólkið sé til fyrir ríkið, en ekki öfugt, og að ríkisreksturinn eigi að vaxa stöðugt að umfangi, þar til sælustigi sameignarstefnunnar sé náð. Þess vegna megi aldrei skila neinu til almennings, sem ríkið hefur einu sinni komið höndum yfir. Skattalækkanir, hverju nafni, sem þær nefnast, eru eins og guðlast í huga vinstra heimatrúboðsins.
Hugarheimur Katrínar Jakobsdóttur er mengaður af stéttastríðshugmyndum, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, og tilgangur allra aðgerða er að koma höggi á "stéttaróvininn", vinnuveitandann. Þannig er alltaf hvatt til sem mestra nafnlaunahækkana í viðleitni til að draga úr hagnaði auðvaldsins, en hagur verkalýðs og borgara er algert aukaatriði í huga vinstra heimatrúboðsins. Af þessum sökum berst það ætíð gegn kaupmáttaraukningu, sem ekki er sótt í vasa vinnuveitenda. Þetta er eins andfélagslegt viðhorf og hugsazt getur.
Því miður hefur þessi sjúklegi hugsunarháttur smitað út frá sér, t.d. til embættismannakerfisins, sem iðulega setur sig á háan hest gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum, og þykist vera yfir almenning hafið. Þetta er alþekkt, og Orson Wells gerði þessu sjúklega atferli, yfirlæti, drambsemi og kúgunartilburðum, skil að sínu leyti í bók sinni, 1984.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði um þetta þarfa ádrepu í Morgunblaðið 9. september 2015, undir fyrirsögninni:
"Röng, letjandi og rotin skilaboð".
Um hroka og yfirgang embættismannastéttarinnar gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum nefnir Óli Björn seðlabankahneykslið síðasta og skrifar:
"Það hefur verið búið til andrúmsloft stjórnlyndis, þar sem það þykir ekki óeðlilegt, að stjórnkerfið gangi fram af fullkominni hörku gagnvart framtaksmönnum, sem hafa skarað fram úr. Að undirlagi Seðlabankans var gerð innrás í skrifstofur Samherja fyrir fjórum árum vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum."
Þessi ófyrirleitna framkoma er ólíðandi. Nú hefur fjármála-og efnahagsráðherra boðað framlagningu frumvarps um breytta skipan Seðlabanka Íslands. M.a. á að hverfa aftur til baka til bankastjórnar þriggja jafnsettra bankastjóra, þó að einn þeirra gegni formennsku bankastjórnar. Er þá vonandi, að ákvarðanataka á vegum bankans verði yfirvegaðri og betur ígrunduð, lögfræðilega og hagfræðilega, en hún hefur verið frá skipulagsbreytingu og ráðningu Jóhönnustjórnarinnar á núverandi húsbónda í Svörtuloftum.
Hið endurupptekna fyrirkomulag tryggir jafnframt betri samfellu í æðstu stjórn bankans, því að til undantekninga heyrir, að öll bankastjórnin hverfi í einu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir varð þó valdur að á sínum tíma og fékk þá norskan krata til að stýra fleyinu þar til hún réð núverandi gallagrip, sem síðan reyndi að fara dómstólaleiðina til að hremma laun, sem hann taldi téða Jóhönnu hafa lofað sér.
Peningamálastjórnun landsins er að nokkru leyti valdur að miklum fjármagnskostnaði við húsbyggingar og aðrar fjárfestingar í landinu. Þessi mikli fjármagnskostnaður vegna húsbygginga er miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum, svo að munar 1,5-2,5 milljónum kr á ári af 30 milljón kr láni, og er ein meginskýringin á skorti á trausti í garð hefðbundnu stjórnmálaflokkanna og flótta til sjóræningjanna að mati blekbónda. Hér eiga bæði verðtrygging og háir vextir sök. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að varða veginn til lausnar á þessu vandamáli, og fjármála- og efnahagsráðherra lét á sér skilja í ræðu sinni í umræðum á þingi um stefnuræðu forsætisráðherra, að hann gerði sér grein fyrir vandamálinu og mikilvægi góðrar lausnar á því. Líklega er pólitískur og hagfræðilegur þjóðfélagsstöðugleiki lykilatriði til lausnar.
Um skuldir unga fólksins ritar Óli Björn Kárason í téðri grein:
"Þúsundir ungmenna eru skuldum vafin eftir að hafa fleytt sér í gegnum langt nám með dýrum lánum auk atvinnutekna á sumrin, og þegar færi hefur gefist með námi. Engu skiptir, þótt í boði séu ágætlega launuð störf. Unga fólkið sér, að það á litla eða enga möguleika á því að eignast eigin íbúð í náinni framtíð. Það er búið að takmarka möguleika þess - skerða valfrelsið. Nauðugt á það ekki annan kost en að halda áfram að vera leigjendur. Engu virðist skipta, að afborganir af láni vegna þokkalegrar íbúðar séu lægri en það, sem greitt er í leigu. Kerfið er búið að loka á lánamöguleika."
Óli Björn tengir þessa alvarlegu stöðu ungs fólks, sem auðvitað smitar um allt þjóðfélagið, við lítið fylgi hefðbundinna stjórnmálaflokka. Það stendur borgaralegu stjórnmálaflokkunum næst að lagfæra þetta. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að búa í eigin húsnæði sem lengst á æviskeiðinu, og 90 % landsmanna kjósa það helzt. Þess vegna standa úrbætur Sjálfstæðisflokkinum næst, og fyrr getur hann varla vænzt verulegrar fylgisleiðréttingar en hann leggur fram trúverðuga áætlun um að skapa forsendur svipaðs fjármagnskostnaðar við húsbyggingar og á hinum Norðurlöndunum. Þar er reyndar minna um, að fólk búi í eigin húsnæði en á Íslandi. Um þetta viðfangsefni skrifar Óli Björn og er hægt að taka heils hugar undir með honum:
"Svo undrast margir, að ungt fólk sé afhuga hefðbundnum stjórnmálaflokkum ! Á meðan borgaralegir stjórnmálaflokkar leggja litla eða enga áherslu á að skapa ungu fólki a.m.k. ekki síðri tækifæri en foreldrar þess fengu til að eignast eigið húsnæði, munu þeir aldrei ná eyrum yngri kjósenda."
Að lokum er herhvöt til borgaralegra afla, ekki sízt Sjálfstæðisflokksins, um að bretta upp ermarnar í þágu ungu kynslóðarinnar og húsnæðisvanda hennar. Það er ónógt framboð húsnæðis vegna eftirspurnarleysis, sem stafar af háum fjármagnskostnaði við byggingar og að nokkru of háum byggingarkostnaði. Óli Björn:
"Stjórnmálamenn, sem vilja tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna, geta ekki setið aðgerðarlausir. Þeir geta ekki sætt sig við, að aðeins þeir, sem eiga fjárhagslega sterka bakhjarla eigi raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum að loknu námi. En með aðgerðaleysi senda þeir þau skilaboð, að helsta forsenda þess að eignast eigið húsnæði sé fjárhagslegur styrkur foreldra eða afa og ömmu."
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.8.2015 | 18:48
Joschka Fischer og vondi Þjóðverjinn
Joschka Fischer, utanríkisráðherra endursameinaðs Þýzkalands og varakanzlari 1998-2005, hefur ritað grein í kjölfar kistulagningar sjálfstæðs Grikklands aðfararnótt 13. júlí 2015, og birti Morgunblaðið hana þann 28. júlí 2015. Fyrirsögn greinarinnar boðar að vonum váleg tíðindi:
"Vondi Þjóðverjinn snýr aftur".
Greinin hefst þannig:
"Það brast nokkuð mikilvægur þáttur Evrópusambandsins hina löngu aðfararnótt 13. júlí, þegar samið var um örlög Grikklands. Síðan þá hafa Evrópubúar lifað í öðruvísi Evrópusambandi.
Það, sem breyttist þessa nótt, var það Þýzkaland, sem Evrópubúar hafa þekkt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Á yfirborðinu snerust viðræðurnar um að koma í veg fyrir, að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið (hið svonefnda "Grexit") og þær grimmu afleiðingar, sem því myndu fylgja fyrir Grikki og hina sameiginlegu mynt. Undirniðri var hins vegar verið að ræða það, hvaða hlutverki fjölmennasta land og mesta efnahagsveldi álfunnar myndi gegna í Evrópu."
Ekki er efni til að bera brigður á næmni "græningjans" JF fyrir þróun stjórnmálanna í Evrópu og sérstaklega í heimalandi hans, Þýzkalandi. Við horfum nú á "pólariseringu" Evrópu. Annars vegar eru skuldunautar, og hins vegar eru lánadrottnar. Francois Hollande, Frakklandsforseti, hefur nýlega talað fyrir stofnun Evruríkis með myndun ríkisstjórnar og þings Evruríkisins. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, og fjármálaráðherra hans, hafa tekið í sama streng. Þetta eru fulltrúar stórskuldugra landa, sem ekki ná sér efnahagslega á strik með evruna sem gjaldmiðil. Hún er enn of sterk fyrir rómönsku ríkin.
Það, sem Joschka Fischer er að segja, er, að Þjóðverjar eru nú leynt og ljóst andvígir þessum samruna ("ever closer union"). Ástæðan er auðvitað sú, að við stofnun ríkis evrulandanna mundu lánadrottnaríkin þurfa að axla byrðar skuldunautanna, og til þess eru þau ekki tilbúin, enda hefur Angela Merkel, CDU, nýlega hafnað þessum samrunahugmyndum. CSU í Bæjaralandi og fjármálaráðherrann, Wofgang Schaeuble, CDU, hafa þar með orðið ofan á innan ríkisstjórnarinnar í Berlín. Sá meirihluti endurspeglar vilja meirihluta þýzku þjóðarinnar eftir öllum sólarmerkjum að dæma.
Angela Merkel fylgir þar almenningsálitinu í Þýzkalandi og stjórnmálastöðunni þar í landi. CDU, flokkur hennar, mundi hrynja, ef hún féllist á slíka stofnun ríkis. Komnir eru fram á sjónarsviðið í Þýzkalandi stjórnmálaflokkar, t.d. AfD og hreyingin Junge Freiheit, sem hirða mundu mikið fylgi af CDU, og reyndar líka af SPD (jafnaðarmönnum), ef horfið væri inn á braut ríkjasameiningar.
Hjá hinum almenna Þjóðverja ræður ekki endilega þjóðerniskennd þessari afstöðu, heldur réttmæt vissa um, að lífskjörum í Þýzkalandi mundi hraka mikið við slíka stofnsetningu rikis. Það eru töluverðar áhyggjur núna hjá almenningi í Þýzkalandi út af kostnaði við móttöku flóttamannaflóðs. Þjóðverjar vita sem er, að þeir standa núna á hátindi efnislegrar velmegunar og stjórnmálalegra áhrifa í álfunni, en Þýzkalandi mun óhjákvæmilega hraka, eins og reyndar flestum öðrum ríkjum í Evrópu, vegna hækkandi meðalaldurs og mikillar fækkunar á vinnumarkaði. Talið er, að Stóra-Bretland með sitt sterlingspund muni að aldarfjórðungi liðnum hafa farið fram úr Þýzkalandi, hvað mannfjölda og landsframleiðslu snertir. Hins vegar eru miklar blikur á lofti hjá Bretum líka, því að ríki þeirra kann senn að sundrast og þeir (flestir) að lenda utan Innri markaðar Evrópu. Af öllum þessum fjárhagslegu ástæðum er hinn almenni Þjóðverji fullur efasemda um sjálfbærni sameiningar evrusvæðisins í eitt ríki. Hann sér fram á, að unga kynslóðin muni ekki með góðu móti geta risið undir öllum þessum byrðum.
Joschka Fischer hélt greiningu sinni áfram:
"En í Þýzkalandi í dag eru slíkar hugmyndir [stjórnmálaleg sameining Evrópu] taldar vonlausar og "Evrópu-rómantískar"; tími þeirra er liðinn. Þar sem Evrópa er annars vegar, mun Þýzkaland upp frá þessu aðallega fylgja sínum eigin þjóðarhagsmunum, alveg eins og allir aðrir.
En slík hugsun byggist á falskri forsendu. Sú leið, sem Þýzkaland mun velja á 21. öld - til "evrópsks Þýzkalands" eða "þýzkrar Evrópu" - hefur verið mesta grundvallarspurningin í sögu landsins og utanríkisstefnu þess síðustu tvær aldirnar. Og henni var svarað á þessari löngu nótt í Brussel, og þýzk Evrópa hafði betur gagnvart evrópsku Þýzkalandi."
Joschka Fischer setur stöðu Þýzkalands hér í sögulegt ljós og "dramatíserar" nokkuð til að vekja athygli á þeim vatnaskilum, sem eru að verða í utanríkismálastefnu Þýzkalands. Þá vaknar spurningin um, hvernig þessi vatnaskil snerta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Þá er þar fyrst til að taka, að setji Þjóðverjar hagsmuni sína framar hagsmunum Evrópu, eins og JF boðar, þá mun evrusamstarfið splundrast. Þjóðirnar munu aftur hverfa til sinna gömlu mynta með einum eða öðrum hætti, hugsanlega með einhvers konar myntbandalögum, t.d. Norður-Evrópu annars vegar og Suður-Evrópu hins vegar. Sterlingspundssvæðið gæti orðið þriðja myntsvæðið.
Öxullinn Berlín-París mun brotna, en við taka tveir aðrir öxlar, Berlín-London og París-Róm. Ísland mun augljóslega lenda innan áhrifasvæðis þess fyrrnefnda.
Evran mun lækka enn meir en orðið er áður en hún splundrast, og þess vegna verður ekki eins hagkvæmt fyrir Ísland að selja vörur inn á evru-svæðið og verið hefur, t.d. ál og fisk. Kína er á sama tíma í hnignun, og stjórnvöld í Peking kunna bráðlega að standa frammi fyrir gífurlegum efnahagsvanda, mengunarvanda og uppþotum. Bandaríkin (BNA) standa við þessar aðstæður uppi með pálmann í höndunum, og vöruútflutningur mun af þessum sökum aukast frá Íslandi til BNA.
Upplausn í Evrópu og átök við Rússland munu á ný auka hernaðarlegt mikilvægi Íslands fyrir NATO. Við þessar aðstæður getum við ekki sýnt hálfvelgju gagnvart Rússum, nema sýna bandamönnum okkar fingurinn um leið. Það yrði örlagaríkt, og allar greiningar, sem yrðu að vera undanfari slíkrar ákvörðunar, vantar. Ferðum flugsveita, herskipa og kafbáta hingað mun þess vegna fjölga, þó að herstöð verði ekki endurnýjuð, nema hitni enn frekar í kolunum.
Við þessar aðstæður munu ESB-áhangendur á Íslandi missa fótanna, og stjórnmálaflokkar þeirra, Samfylking og Björt framtíð, gufa smám saman upp. Sú uppgufun er þegar hafin, eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Í tvísýnu ástandi, eins og hér hefur verið lýst, er stjórnleysingjum og andstæðingum höfundarréttar, sem nú kalla sig sjóræningja eða "pírata", ekki treystandi fyrir horn.
Svikurunum, Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sat í ríkisstjórn, sem barðist fyrir innlimun Íslands í stórríkið, Evrópusambandið, ESB, mun verða refsað. Trúverðugleiki flokksins er enginn. Honum er ekki treystandi fyrir horn heldur. Flokkurinn skuldbatt sig með stefnumörkun fyrir kosningar um að styðja ekki umsókn um aðild að ESB, og allir vita um hrossakaup hans við Samfylkinguna eftir kosningarnar 2009.
Núna er minna atvinnuleysi á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, og líklega verður hagvöxturinn hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi árið 2015. Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna virðist jafnframt ætla að verða mest á Íslandi 2015. Fjárfestingar kunna að nema 25 % af landsframleiðslu 2015, og þannig er lagður traustur grunnur að framtíðinni með sjálfbærri nýtingu auðlinda.
Markmið Íslands ætti að vera að fullnægja Maastricht-skilyrðum hagstjórnar á þessu kjörtímabili; að sjálfsögðu ekki til að taka upp evru, heldur til að treysta gengi gjaldmiðils landsins, hækka lánshæfismatið umtalsvert til að lækka vaxtakostnað og treysta stöðugleika hagkerfisins í sessi. Með þessu móti styttist í, að Ísland skáki þeim þremur Evrópuþjóðum, sem lengi hafa státað af hæstu landsframleiðsluverðmætum á mann.
Það verður ekki betur séð en Íslandi vegni nú bezt allra Evrópuþjóða á batabrautinni eftir fjármálakreppuna 2008. Svo er reyndar fyrir að þakka miklum fjölda innflytjenda, sem halda atvinnulífi landsins gangandi og fara yfirleitt vel með fé, sem þeim áskotnast. Núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti hennar á hrós skilið, en þessi sami þingmeirihluti verður að sýna himpigimpum stjórnarandstöðunnar vígtennurnar, svo að þingræðið virki, eins og mælt er um í Stjórnarskrá. Minnihlutinn hefur ekkert af viti fram að færa. Hann á rétt á því að fá að sýna kjósendum á spilin sín (hundana), en hann á engan rétt á því að þvælast fyrir og jafnvel hindra, að vilji meirihluta þingsins fái framgang og verði eftir atvikum að lögum.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2015 | 09:05
Raforkuverð
Blekbónda rak í rogastans, þegar hann barði augum forsíðu Morgunblaðsins þann 16. júní 2015. Aðalfyrirsögnin þar var:
"Orkan hækkaði um 40 %", og í úrdrætti:
"Orkureikningur Ölgerðarinnar hefur hækkað mikið á árinu - Seljandi orkunnar bendir á 40 % hækkun hjá Landsvirkjun - Hækkar framleiðslukostnað á Íslandi".
Þekktar eru yfirlýsingar sumra forráðamanna Landsvirkjunar um, að raforkuverð á Íslandi ætti að hækka til jafns við hækkanir í Evrópu. Ef raforkuverð til almennings á að breytast árlega samkvæmt einhvers konar orkuverðsvísitölu í Evrópu, getur það fljótlega leitt til hærra verðs til almennings en sanngjarnt er miðað við orkuverð til stóriðju. Hlutfall orkuverðs til almennings og orkuverðs til stóriðju má ekki fara undir jaðarkostnaðarhlutfall orku í virkjun til þessara notenda, sem höfundur telur nema 47 %. Annars er hætta á, að langtímasamningar við stóriðjufyrirtæki verði baggi á almenningi.
Landsvirkjun verður að sýna meiri ábyrgðartilfinningu gagnvart viðskiptavinum sínum en að ógna þeim með því, að hún ætli að fylgja orkuverðsþróun í Evrópu. Eina vísitalan, sem máli skiptir fyrir verðþróun Landsvirkjunar, en þróun meðalkostnaðar hennar, en hann var 2,90 kr/kWh árið 2014. Er þá tekið tillit til rekstrar- og viðhaldskostnaður, afskrifta og virðisrýrnunar og fjármagnsgjalda árið 2014 m.v. meðalgengi Landsvirkjunar á árinu, 131 kr/USD. Það er fróðlegt að bera meðalkostnaðinn saman við meðalverðið, sem var 4,3 kr/kWh án flutnings. Mismunurinn er 1,4 kr/kWh eða 48 %, svo að það er borð fyrir báru hjá stærsta orkufyrirtæki allra landsmanna, sem skýrir mikinn hagnað þess.
Á þessu ári, 2015, hafa reyndar ekki orðið verðhækkanir á raforku í Evrópu, en Landsvirkjun hækkar samt suma taxta sína. Raforkuverðið í Evrópu hefur farið lækkandi síðan árið 2013, en þessa ekki gætt í verðlagningunni hérlendis, enda þessi viðmiðun út í hött, ein og sér. T.d. á orkuverð hér á skammtímamarkaði, eðli máls samkvæmt, að ráðast aðallega af stöðu miðlunarlóna og af tiltæku afli.
Orkuverð til stórnotenda ætti að ráðast af jaðarkostnaði raforku til þeirra, þegar samningar eru gerðir, þ.e. reiknuðum orkuvinnslukostnaði í næstu virkjun á eftir virkjun fyrir stórnotandann að viðbættum flutningskostnaði. Þegar kemur að endurskoðun samninga við iðjuverin á að nota endurskoðaðan jaðarkostnað til viðmiðunar, gjarna með lækkunar- og hækkunarstuðlum eftir viðurkenndri markaðsvísitölu afurðanna. Það er miklu flóknara mál að nota upplýsingar um orkuverð til annarra sambærilegra fyrirtækja erlendis, því að þá er jafnframt nauðsynlegt að hafa upplýsingar um kostnaðarmynztur og tekjumynztur þessara fyrirtækja og fyrirtækjanna á Íslandi, þ.e. þá þarf að meta alþjóðlega samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á Íslandi. Ef menn gera það ekki, missir Ísland aðdráttarafl sitt sem paradís endurnýjanlegrar orku.
Meðalverð til stóriðju árið 2014 með flutningskostnaði var 25,9 USD/MWh, og má þá áætla meðalverð til stóriðju frá virkjun 24 USD/MWh. Þá var meðalverð til almennings jafnvirði 68 USD/MWh (8,9 kr/kWh). Hlutfall þessara verða er 0,35. Það er allt of lágt m.v. áður nefnt hlutfall jaðarkostnaðar þessara notenda frá virkjun, 0,47. Það má skýlaust halda því fram, að almennir viðskiptavinir Landsvirkjunar greiði nú meira en eðlilega hlutdeild sína af heildarkostnaði Landsvirkjunar. Við svo búið má ekki standa.
Jaðarkostnaður Landsvirkjunar til stóriðju er 24,4 USD/MWh, og meðalverðið er rétt undir því, svo að það er ekki of lágt. Það er þess vegna ljóst, að orkuverð Landsvirkjunar til almennings er of hátt. Það má hæst vera Palm=24,4/0,47=52 USD/MWh=6,8 kr/kWh og þarf þess vegna að lækka um 2,1 kr/kWh.
Rekstrar- og viðhaldskostnaður vatnsaflsvirkjana er að jafnaði sáralítill, af því að virkjunareigandinn á vatnsréttindin, og er árlegur rekstarkostnaður virkjunar oft talinn nema 1 % af stofnkostnaði. Meginkostnaður Landsvirkjunar er þar af leiðandi fjármagnskostnaður. Þegar skuldir fyrirtækisins lækka, eins og gerzt hefur nánast óslitið frá gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar, eykst að sjálfsögðu hagnaður fyrirtækisins og þar með eigið fé þess og arðgreiðslugeta. Hins vegar er fyrirtækið ekki hætt að fjárfesta, og hluta framlegðarinnar ber að nýta í fjárfestingar og draga þar með úr lántökum. Tal um miklar arðgreiðslur á næstu árum er þess vegna ótímabært, nema menn sjái fram á stöðnun í nýtingu sjálfbærra orkulinda Íslendinga, eins og afturhaldsöfl berjast fyrir með kjafti og klóm, og yrði slíkt líklega einsdæmi í heiminum, enda samrýmist það engan veginn þörfinni fyrir aukna verðmætasköpun landsins í erlendum gjaldeyri.
Uppi er í þjóðfélaginu grundvallar ágreiningur um, hvernig verja beri þessu aukna fjárhagslega svigrúmi Landsvirkjunar. Hefur komið fram hugmynd frá fjármála- og efnahagsráðherra um að stofna sveiflujöfnunarsjóð fyrir arðgreiðslur frá Landsvirkjun, og er sú hugmynd góðra gjalda verð, en sterka fjárhagsstöðu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar má einnig nota til að styrkja samkeppnisstöðu íslenzka þjóðfélagsins út á við með raunverðlækkun á raforku til almenningsveitna og þar með til lífskjarabóta fyrir almenning.
Verð á raforku er samsett úr nokkrum kostnaðarþáttum, sem háðir eru eðli notkunarinnar. Það ber að gæta sanngirni í verðlagningu til ólíkra viðskiptavina, þannig að verð til þeirra endurspegli mismunandi kostnaðarmynztur við vinnslu, flutning og dreifingu fyrir þá. Það er t.d. engin sanngirni fólgin í því að bera saman einingarverð til blekbónda og til álvers. Blekbóndi kaupir orkuna frá ON á 5,18 kr/kWh, og með flutningi og dreifingu nær verðið upp í 13,00 kr/kWh án skatta eða 99 USD/MWh. Hlutfallið á milli neðalorkuverðs Landsvirkjunar með flutningi og þessa verðs er 25,9/99=0,26. Það er ekki óeðlilegt, því að kostnaðargreining jaðarkostnaðar gefur til kynna, að þar sé hlutfallið 20 %.
Víkur nú sögunni að umræddri verðhækkun Landsvirkjunar með því að skoða nánar téða forsíðufrétt.
"Rafmagnsreikningur Ölgerðarinnar, eins stærsta matvörufyrirtækis landsins, hefur hækkað um 17 % á milli ára, eða tífalt meira en almennt verðlag í landinu. Fyrirtækið kaupir raforkuna af Fallorku, og hefur Ölgerðin fengið þær upplýsingar frá seljanda, að heildsalinn, Landsvirkjun, hafi hækkað meðalverð í skammtímasamningum um 40 %. Það hafi óveruleg áhrif, að önnur gjöld, t.d. fastagjald og magngjald OR, hafi hækkað í samræmi við verðbólgu á þriggja mánaða fresti.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir fyrirtækið kaupa mikla orku. Það hafi búið við þessa miklu hækkun án þess að hækka vöruverð. Óvíst sé, hversu lengi það standi undir jafnmikilli hækkun og raun ber vitni."
Hér eru mikil fyrn á ferð í ljósi þess, að Landsvirkjun hefur svigrúm núna til umtalsverðrar orkuverðslækkunar til almenningsveitna, eins og hér hefur verið sýnt fram á. Landsvirkjun er þess vegna hér komin út á hálan ís og kyndir undir verðbólgu á tíma, þegar næg orka ætti að vera í kerfinu, og engin augljós ástæða til að hamla raforkunotkun í landinu með verðhækkunum.
Það var enginn hörgull á miðlunargetu lónanna í vetur, og aflið frá nýjustu virkjuninni, Búðarhálsi, 95 MW, ætti alls ekki að vera upp urið enn þá, því að af tæknilegum ástæðum frestaði ISAL "töku" 25 MW af umsömdum 70 MW þaðan. Í hvað fara þá 50 MW, sem Landsvirkjun ætti að hafa til reiðu núna frá Búðarhálsi ? Að vera með tilburði núna til að draga úr raforkunotkun landsmanna með miklum verðhækkunum á vissum töxtum skýtur algerlega skökku við fullyrðingar talsmanna hennar, nú síðast Óla Grétars Blöndal, framkvæmdastjóra Þróunarsviðs Landsvirkjunar, um að 2,0 TWh/a (=2000 GWh/a) séu til reiðu sem ónýtt orka í kerfinu fyrir sölu til Bretlands um sæstreng. Á ársgrundvelli eru þetta 228 MW. Jafnvel niðurdráttur í gufuforðabúri Hellisheiðarvirkjunar nemur aðeins afli, sem er 18 % af þessu. Hér rekur sig hvað á annars horn.
Landsvirkjun hlýtur að verða að draga þessar hækkanir til baka nú strax samkvæmt fyrirmælum eiganda síns, sem berst við verðbólgu á öllum vígstöðvum. Álagið er í lágmarki að sumarlagi, svo að nægt á aflið að vera, og snjóþungt er á hálendinu, sunnanverðu, svo að ekkert orkuleysi er fyrirsjáanlegt í vatnsorkukerfinu. Landsvirkjun ætti nú að kappkosta að selja sem mest af ótryggðri orku á lágu verði og sýna innanlandsmarkaðinum umhyggju í stað þess að eyða miklu púðri í gæluverkefni, sem skortir markaðslegar forsendur.
Lítum nú á, hvað Bryndís Skúladóttir, hjá Samtökum iðnaðarins, hefur um hækkunarmálið að segja í Morgunblaðinu 16. júní 2015:
"Þetta snýst um fyrirtæki, sem eru í framleiðslu, en eru ekki stóriðja. Raforkukostnaður er stór hluti af rekstrarkostnaði hjá þessum fyrirtækjum, þó að hvert og eitt sé ekki endilega stór viðskiptavinur hjá orkusölum. Mörg eru í samkeppni við innflutning. Sem dæmi eru þetta matvælaframleiðendur, prentfyrirtæki, plastframleiðsla, málmiðnaður og framleiðsla á vörum fyrir byggingariðnað, sjávarútvegur og matvælaiðnaður. Við sjáum ekki haldbærar skýringar á mikilli hækkun á stuttum tíma nú um stundir."
Þess var getið, að rafmagnsreikningur Ölgerðarinnar hefði hækkað um 17 % á einu ári. Að einhverju leyti kann það að stafa af auknu álagi, þar sem framleiðslan gengur vel, en jafnljóst er, að Landsvirkjun hagar sér nú eins og "fíll í postulínsbúð", þar sem hún er í ráðandi stöðu á markaði. Fyrirtækin, sem nota orku hennar, eiga nú mjög í vök að verjast, þar sem greiðsluþol margra þeirra er þanið til hins ýtrasta eftir kjarasamninga, sem SA hefur gert yfir höfuðið á þeim. Þjóðhagslega er réttast núna að nota fjárhagslegt svigrúm Landsvirkjunar til að vinna gegn verðbólgu, sem er hinn versti vágestur í boði verkalýðsfélaganna, og draga í land með allar hækkanir 2015 og lækka meðalverð frá 2014 um þá tölu, sem jafnar hlut almennings miðað við langtímasamninga um raforkusölu.
Útskýringar Landsvirkjunar til blaðamanns Morgunblaðsins, Baldurs Arnarsonar, eru ekki beysnar:
"... að aðrir framleiðendur raforku hefðu dregið úr framleiðslu, m.a. vegna viðhalds á virkjunum. Það hefði haft áhrif á skammtímamarkað, samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar."
Þessi rök halda ekki vatni, af því að næg umframorka og -afl eiga að vera í kerfinu frá nýjustu virkjuninni. Þar að auki ber Landsvirkjun engin skylda samkvæmt raforkulögum til að halda uppi framboði á raforku, ef einhverjir aðrir framleiðendur falla úr skaptinu. Þá verða hinir sömu að kaupa raforku á markaðinum til að vega upp það, sem fallið hefur út, eða viðskiptavinir þeirra draga úr álaginu að sama skapi, enda eru ákvæði í stóriðjusamningunum um, að 10 % samningsbundinnar orku til álveranna og allt að 50 % til Járnblendisins sé afgangsorka, sem megi skerða með ákveðnum skilyrðum.
Orkusamningar Landsvirkjunar við álverin kveða sem sagt á um 10 % svigrúm í þessum efnum, þ.e. 10 % umsaminnar orku er afgangsorka með skerðingarheimildum. Orkuverð til álveranna er þess vegna vegið meðalverð 90 % forgangsorku og 10 % afgangsorku.
Það er fjarstæðukennt að halda því fram, að vegna 40 MW brottfalls hjá ON hafi Landsvirkjun einhvern rétt til að hækka verð til sinna viðskiptavina um 17 %, eins og árshækkunin er til Ölgerðarinnar, og um 4 % að jafnaði 2015, eins og Landsvirkjun spáir sjálf nú. Hér er vegið í sama knérunn, og virðast fákeppni og stærðaryfirburðir á markaði ráðandi um misnotkun á aðstöðu.
Andstæðingar orkusölu til stóriðju innanlands hafa margir fallið í þá gryfju að bera saman einingarverð orku til stóriðju og almennings. Þetta eru ósambærilegar stærðir, enda getur þetta verðhlutfall farið allt niður að 20 % án þess, að óeðlilegt geti talizt. Þetta stafar af gríðarlegum dreifingarkostnaði frá háspenntum afhendingarstað Landsnets og að inntakstöflu notandans. Hjá blekbónda nemur dreifingarverðið 49 % af heildarverðinu 13,0 kr/kWh. Hér hafa hins vegar sambærileg verð og sambærilegur kostnaður verið tekin til athugunar, og er niðurstaðan sú, að meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju sé eðlilegt, en meðalverð hennar til almenningsveitna sé of hátt.
Jaðarkostnaðurinn var fundinn með því að reikna vinnslukostnað í nýrri 150 MW fallvatnsvirkjun, sem hefur einvörðungu almenningsveitur sem viðskiptavini, og hins vegar vinnslukostnað í sömu virkjun, sem einvörðungu framleiðir fyrir álver.
Til nokkurra fleiri atriða þarf einnig að taka tillit, þegar bera á saman orkuverð til ólíks álags, s.s. ólíks aflstuðuls, mismunandi flutningskostnaðar á MWh og dreifingarkostnaðar, sem álfyrirtækið ber allan kostnað af innan síns athafnasvæðis, en er tæplega helmingur af orkuverðinu til almennings án skatta.
Forsendur jaðarkostnaðarútreikninganna eru eftirtaldar:
- Reiknað er með stofnkostnaði 150 MW virkjunar MUSD 350 og árlegum rekstrarkostnaði MUSD 3 að jafnaði yfir afskriftartímann, 40 ár. Þessar lykilstærðir fyrir vinnslukostnað raforkunnar eru óháðar eðli álagsins.
- Uppsett afl í virkjun verður að anna toppálaginu, sem hún á að þjóna. Álag almenningsveitna er sveiflukennt og háð tíma sólarhrings, viku og árs. Álag álvers er mjög jafnt allan sólarhringinn allt árið um kring. Þar af leiðandi næst betri nýting á uppsetta aflgetu vél- og rafbúnaðar í virkjun, þ.e. meiri orkuvinnsla næst, en kostnaðarfjárhæð virkjunarinnar er háð uppsettri aflgetu, en orkuvinnslunni aðeins að mjög litlu leyti.
- Reiknað er með nýtingartíma toppálags almenningsveitna 5000 klst/ár og álvera 8000 klst/ár. Nýtingartími topps, MW, merkir þá tímalengd á hverju ári, sem virkjun væri í gangi á fullum afköstum til að framleiða alla orkuna, MWh, sem notandinn þarf á að halda á einu ári. Nýtingartími álvers er um 60 % lengri en almenningsveitna. Hár nýtingartími vatnsaflsvirkjunar skiptir sköpum um arðsemi hennar, því að tekjur hennar verða í réttu hlutfalli við nýtingartímann og framleidda orku. Vatnsaflsvirkjun og álver spila af þessum orsökum mjög vel saman og betur en t.d. jarðgufuvirkjun og álver, því að rekstrarkostnaður jarðgufuvirkjunar á hverja MWh er hærri en vatnsaflsvirkjunar og fer vaxandi á endingartímanum, ef gufuforðinn gefur eftir og aflgetan minnkar, eins og reyndin er í stærstu jarðgufuvirkjun landsins, Hellisheiðarvirkjun.
- Höfuðmáli skiptir fyrir afkomu vatnsaflsvirkjunar, að öðru jöfnu, að framleiða sem mesta raforku á afskriftatíma sínum. Þess vegna er mikilvægt fyrir árlegan meðalvinnslukostnað hennar á afskriftatímanum, að full nýting fjárfestingarinnar geti orðið á fyrsta ári starfrækslu hennar. Þannig háttar til, ef orkunotandi virkjunarinnar er álver, en séu notendurnir almenningsveitur, mundu þær ekki fullnýta þessa 150 MW virkjun á skemmri tíma en 10 árum.
- Vegna skemmri nýtingartíma árstopps og hægt stígandi orkunotkunar almenningsveitna verður meðalorkusala frá þessari 150 MW virkjun aðeins um 660 GWh/ár til almenningsveitna á afskriftatímanum, en aftur á móti 1200 GWh/ár, ef notandinn er álver. Hlutfallið er 55 % og er meginástæða þess, að orkuverð til almenningsveitna verður að vera umtalsvert hærra en til álvers til að tekjur virkjunarinnar verði hinar sömu og frá álverinu.
- Að afloknum orkusölusamningi virkjunareiganda við álverseigandann getur virkjunareigandinn gengið á fund lánastofnunar og hampað samningi til u.þ.b. 25 ára, þar sem álverið er skuldbundið til að kaupa ákveðið lágmarksmagn orku á hverju ári út samningstímabilið, t.d. 85 % af samningsbundinni orku, hvort sem það hefur þörf fyrir hana eða ekki, og er hér um að ræða forgangskröfu í þrotabú, ef eigandi álversins verður gjaldþrota á samningstímabilinu. Þetta er ígildi afkomutryggingar fyrir virkjunina lungann úr afskriftatíma hennar. Ekkert slíkt er í boði frá almenningsveitum. Þær geta valið um orkubirgja fyrirvaralítið á samkeppnismarkaði, og orkuþörf þeirra helzt í hendur við hagvöxtinn í landinu og getur þess vegna dregizt saman frá ári til árs, eins og dæmin sanna eftir fall fjármálakerfisins haustið 2008. Þá getur orðið offramboð orku og þar af leiðandi verðlækkun á markaði dregið úr tekjum virkjunar á afskriftatímanum. Af þessum sökum fær virkjunareigandinn að öðru jöfnu betri kjör á formi lægri vaxta á sínum lántökum til virkjunarinnar, ef hann ætlar að virkja fyrir álver, og er hér reiknað með 1,0 % vaxtamun í núvirðisreikningunum, og að þessum vaxtamun meðreiknuðum verður kostnaðarhlutfallið 50 %,sjá 1. lið að neðan:
- Þegar ofangreint er tekið saman, fæst nauðsynlegt orkuverð til álvers við stöðvarvegg 150 MW virkjunarinnar í þessu dæmi: Pálv = 24,4 USD/MWh, og að sama skapi nauðsynlegt orkuverð til almenningsveitna: Palm = 49,1 USD/MWh. Hlutfall þessara tveggja kostnaðarverða er 50 %.
- Það eru hins vegar fleiri atriði ólík hjá þessum tvenns konar orkunotendum, sem hafa áhrif á samanburð vinnslukostnaðar fyrir þá, og má þar nefna aflstuðulinn, cosfí. Virkjunin framleiðir tvenns konar orku, raunorku, MWh, og launorku, MVArh, en getur aðeins selt raunorkuna, þó að launorkan sé nauðsynleg til að flytja orkuna til notandans. Ef aflstuðullinn er hár, 0,98, eins og hjá álverum samkvæmt nýjum samningum við Landsnet, getur virkjunin framleitt 150 MW raunafl með rafbúnaði fyrir aðeins 153 MVA sýndarafl, en sé aflstuðullinn aðeins 0,85, eins og hjá almenningsveitum, þarf sýndaraflið 176 MVA. Stærðarmunurinn er 15 %, og rafbúnaðurinn verður þá 15 % dýrari, sem þýðir u.þ.b. 5 % sparnað í virkjunarkostnað fyrir álver. Þar með lækkar kostnaðarhlutfallið úr 50 % í 47 %.
- Flutningskerfið frá virkjun til kaupanda heildsöluorku þarf líka að hanna miðað við hámarksálag. Nýting flutningskerfisins og þar með fjárfestingarinnar verður sömuleiðis lakari við orkuflutning til almenningsveitu en álvers, og það þarf að flytja meira sýndarafl til almenningsveitna en álvers. Hlutfall jaðarkostnaðarverðanna er eftir sem áður 47 %.
- Þegar borið er saman raforkuverð til almennings og álvers, eins og því miður er oft gert með flausturslegum hætti á hundavaði, eins og um sambærilegar stærðir væri að ræða, verður að taka tillit til dreifingarkostnaðar almenningsveitu til heimilis eða fyrirtækis. Hann getur numið 124 % af orkuverði frá virkjun, en álverið, aftur á móti, á og rekur sína eigin dreifiveitu og ber þess vegna allan kostnað sjálft af dreifingu orkunnar frá stöðvarvegg sínum. Öll álverin á Íslandi kaupa raforkuna á hæstu rekstrarspennu Landsnets við stöðvarvegg sinnar aðveitustöðvar, þar sem þau eiga allan rafbúnað sjálf, nema sölumælana og fjarskiptibúnað fyrir fjarmælingu og fjarstýringar. Með því að taka tillit til kostnaðar við dreifinguna, lækkar endanlegt kostnaðarhlutfall úr 47 % í 20 %.
Eins og áður greinir frá, er áhugaverðast og eðlilegast, þegar bera á saman orkuverð til iðjuvera með langtímasamning og önnur orkuverð, að taka einvörðungu orkuverðshlutann frá virkjun til skoðunar. Samkvæmt Ársskýrslu Landsvirkjunar 2014 var meðalverð til stóriðju með flutningi þá 25,9 USD/MWh, og höfundur áætlar þá meðalverðið frá virkjun 24,0 USD/MWh. Samkvæmt sama skjali var meðalverð Landsvirkjunar í heildsölu 2014 án flutningsgjalds 4,3 kr/kWh eða 32,8 USD/MWh. Út frá hlutföllunum 20 % orku Landsvirkjunar til almenningsveitna og 80 % samkvæmt langtímasamningum, er hægt að reikna meðalverð til almenningsveitna 68 USD/MWh eða 8,9 kr/kWh. Hlutfallið 24/68=0,35 er mjög lágt m.v. hlutfall jaðarkostnaðar við orkuvinnslu fyrir notendur með svipuð álagseinkenni og hér um ræðir. Samt er meðalverð til stóriðjunnar eðlilegt m.v. líklegan vinnslukostnað til hennar í næstu virkjun.
Allt þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu, að orkuverð Landsvirkjunar frá virkjun til almennings, heimila og fyrirtækja, sé orðið ósanngjarnt og óeðlilega hátt í samanburði við stóriðjuna. Svo virðist sem fyrirtækið hafi nú einsett sér að blóðmjólka almenning, þ.e. fyrirtæki án langtímasamninga og heimilin í landinu. Fyrir þessu eru engin haldbær viðskiptaleg rök. Samkeppni á markaðinum er ekki nægilega virk, enda markaðsstaða keppinautanna ójöfn. Því ríkari ástæða er fyrir risann á markaðinum að sýna ábyrgðartilfinningu gagnvart neytendum.
Varðandi orkuafhendingu til álvera ber að hafa eitt í huga, sem ekki hefur verið tekið tillit til hér, en það er samningsbundin heimild Landsvirkjunar til að skerða 10 % aflsins og 5 % orkunnar á ársgrundvelli. Þessi sveigjanleiki er skrifaður inn í samningana til að hlífa almenningi við afl- og orkuskerðingum í bilunartilvikum og í þurrkaárum. Landsvirkjun er þess vegna aðeins skuldbundin til að afhenda álverunum 95 % umsaminnar orku sem forgangsorku á ári, en litið er á alla orku til almenningsveitna sem forgangsorku, nema samið sé um annað, t.d. um ótryggða orka til garðyrkjubænda og til mjölverksmiðja. Fyrir vikið getur Landsvirkjun sparað sér varaafl í kerfinu, sem nemur um 150 MW, og sleppur með minni miðlunargetu en ella. Kostnaður af þurrkaárum og bilunum hefur þannig lent á iðjuverunum, sem hafa orðið að draga úr framleiðslu sinni fyrir vikið. Þetta hefur reyndar lent í tiltölulega mestum mæli á Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, enda hlutfall afgangsorku þar af heildarorkusamningi verksmiðjunnar miklu hærra en hjá álverunum, eða allt að 50 %, en álverin hafa vissulega orðið fyrir barðinu á afl- og orkuskerðingum líka. Fróðlegt væri að fræðast um það, hvernig þeir, sem telja meðalorkuverð til iðjuveranna allt of lágt, hafa metið þetta atriði, því að slíkan sveigjanleika má hiklaust meta til sparnaðar á fjármagnskostnaði og greitt verð álveranna fyrir forgangsorku verður í raun hærra en meðalverðið, sem Landsvirkjun gefur upp, af því að kostnaður við að að framleiða afgangsorku er miklu minni en við að framleiða forgangsorku í vatnsorkukerfi. Þessi sveigjanleiki er ekki fyrir hendi alls staðar erlendis, enda veikir óáreiðanleiki orkuafhendingar samkeppnistöðu iðjuvera á markaði.
Ef Landsvirkjun berðist í bökkum og rekstur hennar væri í járnum, væri þessi afstaða hennar nú skiljanleg. Svo er hins vegar alls ekki, og má augljóslega þakka það hagstæðum viðskiptum hennar við álverin og stóriðjuna almennt, því að um 80 % orkuvinnslu Landsvirkjunar er fyrir iðjuver með langtímasamninga. Þar af leiðandi eru hækkanir hennar nú á orkuverði í heildsölu til sölufyrirtækjanna óverjanlegar, ekki sízt með stöðu hagkerfisins í huga, nema hún ætli að gera vindmyllurnar bókhaldslega hagkvæmar, en þá þarf hún 90 USD/MWh, en fær tæplega 70 USD/MWh við stöðvarvegg fyrir orku til almennings. Það er um 2.8 sinnum hærra hærra en fyrir orku til stóriðju að meðaltali frá Landsvirkjun, sem verður að kalla okur.
Almenningur og fyrirtækin í landinu, sem ekki eru með langtímasamning um raforkukaup, eiga þó auðvitað alls ekki að greiða hærra raforkuverð vegna vindmyllugarða, en hver á þá að bera þær óþörfu byrðar ? Er ekki rétt að spyrja Alþingi að því áður en anað er lengra út á þá braut ?
Síbylja um, að nauðsyn beri til mikillar hækkunar á raforkuverði til álvera stenzt ekki út frá kostnaðargreiningu raforkukerfisins, enda er oftast vitnað í raforkuverð til álvera erlendis til að rökstyðja hækkun hér. Þessi samanburður einn og sér við útlönd er ofeinföldun á því viðfangsefni að finna sanngjarnt verð, því að samkeppnisstaða ólíkra svæða á jörðunni er mjög misjöfn. Þetta viðfangsefni snýst um að finna raforkuverð, sem skilar Landsvirkjun hagnaði, er ekki byrði á almenningi og skilar álverunum framlegð, sem er nokkurn veginn miðgildi framlegðar álvera á stöðum, sem Ísland er aðallega að keppa við um fjárfestingar á þessu sviði. Án slíkrar greiningar ættu menn ekki að setja á langar orðræður um lágt orkuverð til álvera á Íslandi, enda er hún svo yfirborðsleg, að óboðlegt er.
Það þarf ekki að tíunda það, að staðsetning álvera á Íslandi þýðir í mörgum tilvikum aukið óhagræði og kostnaðarauka fyrir fjárfestinn, álverseigandann, sem þá verður að fá slíkt bætt upp með einum eða öðrum hætti. Á Íslandi fær hann tiltölulega umhverfisvæna raforku og þarf ekki að óttast koltvíildisskatt á hana, en hún gæti þurft að vera á lægra verði, svo að Ísland verði hlutskarpara í samkeppninni um fjárfestinguna, þegar allir kostnaðarþættir hafa verið vegnir og metnir.
Að lokum skal minnast á eitt atriði, sem frá upphafi iðnvæðingar á Íslandi á seinni hluta 20. aldar hefur verið Akkilesarhæll landsins, en það er veikt raforkukerfi. Hér er átt við gæði raforkunnar, þar sem bæði er tekið tillit til afhendingaröryggis, tíðninnar og spennustöðugleika. Fyrir aldamótin 2000 voru truflanir á orkuafhendingu til fyrsta álversins, álversins í Straumsvík, mun tíðari og langdregnari en önnur álver í hinum vestræna heimi þurftu að búa við, og lá stundum við allsherjar framleiðslustöðvun. Enn er stofnkerfið of veikt til að geta séð fyrir jafnstöðugri spennu og tíðni og álver búa yfirleitt við erlendis. Við staka truflun, t.d. rof á stórum kerskála, leikur stofnkerfið "á reiðiskjálfi", jarðgufuvirkjanir hrökkva upp af standinum klukkustundum saman, Byggðalínan rofnar, og tíðni og spenna rjúka upp úr öllu valdi, svo að skaðað getur rafbúnað. Hér er verk að vinna og ein röksemdin af mörgum fyrir nauðsyn rækilegrar styrkingar stofnlínukerfisins, sem nú er komin á eindaga.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.6.2015 | 18:50
Hvað verður um samkeppnishæfnina ?
Í Viðskiptablaðinu 28. maí 2015 er dregin upp fremur dökk mynd af samkeppnihæfni Íslands, eins og hún er metin af viðskiptaháskóla nokkrum, IMD, sem blaðið gerir ekki grein fyrir, hvar starfar. Samt hækkaði landið um eitt sæti og er árið 2015 í 24. sæti á meðal 61 lands, þ.e. 38 % samanburðarlandanna stendur enn sterkar að vígi en Ísland til að bæta lífsgæði þegnanna.
Lagt er mat á 362 atriði á sviði menntunar, færni vinnuafls, framleiðni, spillingar, réttarkerfis og félagslegs aðbúnaðar. 2/3 hlutar matsins eru reistir á mælingum og tölfræðilegum gögnum, en 1/3 á mati stjórnenda í íslenzkum fyrirtækjum, svo að niðurstaðan er ekki að öllu leyti hlutlæg, því að viðhorf stjórnenda í mismunandi löndum eru ekki samræmd.
Það þarf engu að síður að vinna að því að verða á meðal 15 % beztu á þessum lista, en í þeim hópi eru Norðurlandaþjóðirnar, Noregur (7.), Danmörk (8.) og Svíþjóð (9.). Umgjörð hagkerfisins hefur dregið Ísland niður í samkeppnihæfni, en við að aflétta fjármagnshöftum, eins og nú er búið að kynna áætlun um, mun hagur strympu vænkast. Hvaða þýðingu hefur þessi samkeppnihæfni ?
Samkeppnihæfni þjóða er mælikvarði á getu þeirra til að halda uppi hagvexti og til að auka efnisleg og óefnisleg lífsgæði íbúanna til langs tíma. Að flestra mati er mikil samkeppnihæfni af þessu tagi æskileg, en þó ekki að allra mati, t.d. græningja, og sennilega vinstri grænna og e.t.v. pírata hérlendis. Þau eru þó utanveltu með þá sérvizku sína, því að eins og harðvítugar kjaradeilur hérlendis sýna, virðist mikill meirihluti launþega vilja mikið á sig leggja til að öðlast betri kjör, og óhætt er að fullyrða, að forsenda slíks er að bæta samkeppnihæfni landsins. Krafan um betri kjör mun halda áfram, og fjölgun ómaga á samfélaginu á hvern vinnandi mann veldur því, að algerlega er óraunhæft að stefna hérlendis að einhvers konar endimörkum vaxtar í anda græningja, og þess vegna verður mikil samkeppnihæfni viðvarandi nauðsyn.
Óhóflegar launahækkanir, þvingaðar fram í verkföllum, rýra vafalaust samkeppnihæfni starfandi fyrirtækja á Íslandi, sem annaðhvort eru í samkeppni við erlend fyrirtæki með útflutningi sínum, eða þau keppa við innfluttar vörur hingað. Ekki er að efa, að verkfallsátök og kostnaðarhækkanir hafa skaðleg áhrif á þjónustu, sem á í alþjóðlegri samkeppni, t.d. á ferðaþjónustuna. Erlendu fyrirtækin verða fyrir miklu minni, ef nokkrum, kostnaðarhækkunum af völdum launa en þau íslenzku, og eru t.d. raunlaun í BNA enn á árinu 2015 1,2 % undir launastiginu árið 2009 þrátt fyrir hagvöxt á tímabilinu.
Á Bretlandi féll raungildi launa á hverju ári 2009-2014, sem er lengsta lækkunartímabil raungildis launa síðan á miðri 19. öld. Árið 2014 var miðgildi launa 10 % undir hámarki sínu, sem var árið 2008. Á Íslandi, hins vegar, hafði raungildi launa náð hámarki sínu frá 2007 á öðrum ársfjórðungi 2015, og hafði það og kaupmáttur launa aldrei verið hærra, þegar launþegar tóku sig til og heimtuðu miklu meira með afleiðingum, sem þjóðin á eftir að bíta úr nálinni með. Kökunni verður ekki í senn haldið og hún étin. Þarna er gríðarlegur munur á aðstöðu Íslendinga annars vegar og hins vegar Breta og annarra, sem fóru illa út úr Hruninu.
Jafnvel Þjóðverjar, sem vegna viðbrugðinnar ráðdeildarsemi sinnar, sem Íslendingar ættu að taka sér til fyrirmyndar og mundi þá vel farnast, mega búa við raunlaun, sem eru 2,4 % undir gildinu 2008. Undantekningar um raunlaunaþróun, aðrar en Íslendingar, eru t.d. Kanadamenn og Frakkar, en miðgildi raunlauna í Frakklandi hefur hækkað um 14 % síðan 2006, sem reyndar vekur furðu m.v. bágborið ástand franska hagkerfisins og litla samkeppnihæfni.
Í BNA hefur framleiðnin sem frálag/(unnin klst) hækkað um 12 % síðan 2006 eða um 1,5 % á ári, og atvinnuleysi var 5 % og lækkandi árið 2014. Á Bretlandi hefur framleiðnin staðið í stað síðan 2006, og atvinnuleysið var 5 % og lækkandi árið 2014. Í Frakklandi hefur framleiðnin aðeins hækkað um 3 % síðan 2006, en atvinnuleysið náði þar 10 % árið 2014 og var hækkandi.
Í þessum samanburðarlöndum virðist ekki vera samband á milli framleiðniþróunar og launaþróunar, sem þýðir, að fjármagnseigendur hafa hirt ávinning af framleiðniaukningu, þar sem hún hefur orðið. Á Íslandi er þessu þveröfugt farið, þ.e. öll framleiðniaukningin (að meðaltali) og meira til hefur skilað sér til launþega.
Aftur á móti virðist raunlaunahækkun valda auknu atvinnuleysi, t.d. í Frakklandi,og við því hefur einmitt verið varað hérlendis, en launþegafélögin hafa skellt við þeim varnaðarorðum skollaeyrum, enda hefur atvinnuleysi farið minnkandi hérlendis og er nú um 3 %. Einmitt sú staðreynd á sinn þátt í kröfuhörku verkalýðsfélaganna nú og gæti komið þeim í koll.
Eitt af því, sem er öðruvísi á íslenzka vinnumarkaðinum en víðast hvar í hinum vestræna heimi, er skylduaðild flestra launþega að verkalýðsfélögum. Það ríkir þó félagafrelsi á Íslandi samkvæmt Stjórnarskrá, sem þýðir, að einstaklingum er frjálst að stofna eða ganga í þau félög, sem þeim sýnist, og úr þeim aftur. Hér er sameignarfyrirkomulag við lýði, sem þýðir, að félagið skyldar launþegann til að ganga í verkalýðsfélagið, og vinnuveitandinn heldur eftir af launum fyrir félagsgjöldum og alls konar sjóðagjöldum. Þarna er brotið á þeim einstaklingum, sem ekki kæra sig um félagsaðild af þessu tagi. Á þessu hlýtur að verða breyting nú á á 21. öldinni, og vert væri að láta Mannréttindadómstól Evrópu fjalla um prófmál af þessu tagi.
Yfirleitt hefur aðildarhlutfallið farið minnkandi erlendis, sem gefur úreldingu þessa félagslega forræðishyggjufyrirkomulags til kynna. Hugmyndin um skylduaðild er barn síns tíma og augljóslega hugarfóstur sameignarsinna, kommúnista og jafnaðarmanna. Ef tímabilið 1960-2013 er skoðað, kemur eftirfarandi í ljós varðandi þróun aðildar fólks á vinnumarkaði að stéttarfélögum um kaup og kjör:
- Bretland, hámark 1982 í 50 %, 2013 í 26 %
- Þýzkaland, hámark 1992 í 36 %, 2013 í 18 %
- Japan, hámark 1965 í 36 %, 2013 í 18 %
- Bandaríkin, BNA, hámark 1960 í 30 %, 2013 í 11 %
- Frakkland, hámark 1970 í 22 %, 2013 í 8 %
Raunlaunahækkun undanfarið er mest í landinu með minnsta skráða aðild að launþegasamtökum, svo að áróður verkalýðsfélaganna hérlendis um versnandi stöðu verkalýðs án aðildar að verkalýðsfélagi, stenzt ekki samanburð við útlönd. Það er hégilja, að starfsemi verkalýðsfélaga hafi grundvallaráhrif á kaupmáttinn til lengdar. Þar ræður miklu meira lögmál framboðs og eftirspurnar og sú staðreynd, að einkaneyzla er hagvaxtarhvetjandi, og hár kaupmáttur er þess vegna þjóðhagslega hagkvæmur, ef hann er sjálfbær. Við endurskoðun löggjafar um stéttarfélög og vinnudeilur er brýnt að banna þvingaða aðild að verkalýðsfélögum.
Í "ríkum" löndum, t.d. G7, stendur neyzla heimilanna undir 55 % (Frakkland-háskattaland-mikil ríkisumsvif) - 68 % (BNA-lágskattaland-lítil ríkisumsvif) af landsframleiðslunni. Það er þess vegna þjóðhagslega hagkvæmt, að launþegar fái væna sneið af kökunni, sem er til skiptanna, en þetta er línudans, því að þvinguð launahækkun umfram sanngjarna skiptingu á milli launamanna og fjármagnseigenda mun koma í fang launþega sem bjúgverpill. Ef bogi greiðslugetu fyrirtækjanna er spenntur um of, munu þau draga saman seglin og fækka fólki, sem eykur ójafnræðið í þjóðfélaginu. GINI-stuðullinn hækkar.
Á Íslandi máttu almennir launþegar vel una hlut sínum fyrir kjaradeilur 2015, því að kaupmáttur launa varð á árinu 2014 tæplega 18 % hærri en aldamótaárið 2000, sem er svipað og 2008, en hann varð hæstur árið 2007 og varð þá tæplega 20 % hærri en aldamótaárið, lækkaði í kjölfar Hruns niður í rúm 6 % yfir aldamótaárinu og er væntanlega nú þegar orðinn sá hæsti, sem um getur hérlendis.
Vísitala kaupmáttar launa segir ekki alla söguna um velferðina og tekjuskiptinguna í landinu. Samkvæmt Hagstofunni var tekjuhæsti fimmtungur þjóðarinnar með 3,1 sinnum hærri laun en tekjulægsti fimmtungurinn árið 2014, og GINI-stuðullinn var það ár hinn lægsti, sem þekkist, eða 22,7, en var til samanburðar 29,6 árið 2009. Það er frábær árangur stjórnvalda og atvinnulífs að ná á sama tíma sögulega hæstum kaupmætti og mestum jöfnuði og virkilegt heilbrigðismerki á íslenzka þjóðfélaginu. Á Íslandi voru þó árið 2014 13 % fólks á atvinnualdri undir lágtekjumörkum, en það er samt lægra hlutfall en annars staðar þekkist, og var þetta hlutfall t.d. 25 % í ESB að jafnaði. Þessi hlutföll taka ekki tillit til fjármagnstekna, og þess vegna er áhugavert að skoða, hvort stærri hluti landsframleiðslunnar renni til fjármagnseigenda en í öðrum löndum. Ef tekið væri tillit til fjármagnstekna, mundi jöfnuður á Íslandi hafa aukizt mun meira en að ofan greinir, þar sem fjármagnstekjur nú eru ekki svipur hjá sjón, eins og sýnt er hér að neðan.
Fyrir samkeppnihæfni fyrirtækjanna og getu þeirra til launahækkana er mikilvægt, hversu stór hluti tekna þeirra rennur til launamanna, sem ekki vinna hjá sjálfum sér, og til greiðslu launatengdra gjalda.
Magnús Júlíusson, verkfræðingur, birti um þetta mikilsverða mál áhugaverðan samanburð í Morgunblaðinu þann 6. júní 2015,"Leikur að tölum og lífskjör Íslendinga", og er niðurstaða hans sýnd hér að neðan. Þar kemur fram samkvæmt Eurostat, Hagstofu ESB, að árið 2013 nam beinn og óbeinn launakostnaður fyrirtækja á Íslandi tæplega 60 % af tekjum þeirra, og þá hafa rúmlega 40 % verið eftir til að greiða afborganir lána, vexti, færa afskriftir fastafjármuna, greiða eigendum arð og færa annan hagnað sem eigið fé, greiða einyrkjum og öðrum starfandi eigendum laun og að greiða skatta og skyldur til sveitarsjóða og ríkissjóðs. Aðeins í tveimur löndum Evrópu er þetta hlutfall hærra, í Danmörku og í Sviss, og þykja þau bæði vera dýr. Í báðum þessum löndum er framleiðnin meiri en á Íslandi, sem vekur ugg um sjálfbærni hárra nafnlaunahækkana 2015, sem vafalaust hafa hleypt Íslandi upp fyrir Danmörku og jafnvel upp í toppsætið á þessum lista árið 2015:
Launakostnaður sem hlutfall af tekjum fyrirtækja 2013:
- Danmörk: 61,0 %
- Ísland: 58,6 %
- Finnland: 58,1 %
- Svíþjóð: 54,2 %
- ESB: 53,5 %
- Evru-lönd: 53,3 %
- Noregur: 50,4 %
- Írland: 45,1 %
- Grikkland: 36,9 %
Fullvíst má telja, að Seðlabankinn muni á árabilinu 2015-2017 hækka stýrivextina, e.t.v. um 5 %, til að hamla gegn verðlagsáhrifum aukinnar eftirspurnar. Jafnvíst er talið, að hann hefði verið í færum til að lækka stýrivextina, ef launþegar hefðu sýnt þá hófsemi og biðlund að semja um launahækkanir á bili, sem Seðlabankinn taldi ekki mundu raska stöðugleika. Það verður tilfinnanlegt fyrir mörg fyrirtæki, mun ásamt launahækkunum ríða sumum að fullu og neyða önnur til að draga saman seglin til að ná endum saman, og þar sem samkeppni er takmörkuð, sem því miður er Akkilesarhæll íslenzka hagkerfisins, verður reynt að bjarga sér með verðhækkun á afurðum fyrirtækjanna, vörum og þjónustu.
Einn er sá hópur manna, sem verst fór út úr Hruninu og hefur alls ekki náð á sér strik, eins og launþegarnir. Sumir í þessum hópi fjárfesta munu hagnast á því ástandi, sem íslenzka hagkerfið nú siglir inn í, en ekki allir.
Svartagallsrausarar á við Gunnar Smára Egilsson og aðrir boðendur bölmóðs hérlendis, sem ala á óánægju og einkum öfund á meðal almennings og halda því fram, þvert á tölfræðilegar staðreyndir, en berja samt hausnum við steininn og reyna að telja fólki trú um, að á Íslandi sé miður gott að búa, að íslenzk alþýða hafi borið byrðarnar fyrir fyrirtækin og að ráðamenn beri ekki skynbragð á kjör almennings. Verður nú vitnað orðrétt í niðurlag téðrar Morgunblaðsgreinar Magnúsar Júlíussonar um þetta efni:
"Raunveruleikinn er sá, að íslenzkir launamenn eru að jafna sig efnahagslega eftir hrunið, og eftir síðustu kjarasamninga er full ástæða til að ætla, að lífskjör á Íslandi verði betri fyrir þorra almennings en þau voru árið 2007.
Jafnframt fá íslenzkir launþegar stærri sneið af landsframleiðslunni til sín en launþegar í nær öllum öðrum löndum Evrópu.
Hitt er annað mál, að fjármagnseigendur hafa ekki náð sama flugi og árið 2007. Um eitt er hægt að vera sammála Gunnari [Smára Egilssyni-Innsk. BJo] - íslenzkir fjármagnseigendur hafa það skítt á Íslandi í dag, ef miðað er við árið 2007. Kannski er hann að skrifa til þeirra ?"
Hér að neðan er yfirlit um fjármagnstekjur á Íslandi 2000-2013:
- Ár 2000: 94,3 mia kr
- Ár 2001: 103,0 mia kr
- Ár 2002: 100,6 mia kr
- Ár 2003: 130,7 mia kr
- Ár 2004: 150,1 mia kr
- Ár 2005: 229,0 mia kr
- Ár 2006: 284,9 mia kr
- Ár 2007: 413,5 mia kr
- Ár 2008: 287,6 mia kr
- Ár 2009: 186,2 mia kr
- Ár 2010: 89,9 mia kr
- Ár 2011: 80,7 mia kr
- Ár 2012: 85,0 mia kr
- Ár 2013: 95,2 mia kr
Á tímabilinu 2007-2013 lækkuðu fjármagnstekjur landsmanna um 318 mia kr, og átti þetta fall meginþáttinn í falli heildarráðstöfunartekna eftir skatt um tæplega 400 mia kr á sama tímabili, reiknað á föstu verðlagi, og nam lækkun fjármagnstekna um 78 % af lækkun heildarráðstöfunartekna, en um 22 % stöfuðu af hærri skattheimtu, meira atvinnuleysi, minni atvinnuþátttöku (fækkun á vinnumarkaði) og styttri vinnutíma.
Bóluhagkerfið og sprenging þess er meginskýringin á samdrætti heildarráðstöfunartekna, en kaupmáttur hverrar vinnustundar hafði hins vegar fyllilega skilað sér til launþega, er vinnudeilur hófust fyrir alvöru árið 2015. Þessi mikli ávinningur launþeganna frá Hruni er hins vegar núna í uppnámi vegna óbilgjarnra launakrafna, sem taka ekkert mið af efnahagslegum stöðugleika, en eru kannski vonlaus tilraun til að láta vinnuveitendur bæta upp tap heildarráðstöfunartekna, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, en slíkri tilraunastarfsemi má jafna við leik skessanna með fjöregg þjóðarinnar, sem er handan heilbrigðrar skynsemi, og sumir telja af annarlegum rótum runninn.
Í tengslum við gerð kjarasamninga hefur ríkisstjórnin boðað nokkrar aðgerðir, t.d.:
- Tekjuskattslækkun: 16 mia kr á ári
- Niðurfelling tolla á fatnað: 2 mia kr á ári
- Félagslegt húsnæði: 5 mia kr
- _______________________________________________
- Alls 23 mia kr
Launahækkanir til ríkisstarfsmanna eru taldar geta kostað ríkissjóð 51 mia kr á ári við lok samningstímans. Hér er um að ræða heildarkostnað ríkissjóðs vegna kjarasamninga a.m.k. 74 mia kr, sem er svipuð upphæð og árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs fyrir jákvæð áhrif afnáms fjármagnshaftanna.HINGAÐ
Hins vegar mun aukin neyzla vegna launahækkana og lægri skattheimtu skila sér að nokkru leyti í ríkissjóð til baka. Nú hefur verið boðuð skattheimta á slitabú föllnu bankanna, sem ganga á til lækkunar á skuldum ríkissjóðs. Slíkt mun draga úr vaxtabyrðinni.
Það er hugsanlegt, að heildartekjuaukning ríkissjóðs muni jafna út tekjutapið og auknu útgjöldin, og slíkt er reyndar nauðsynlegt fyrir jafnvægi í ríkisbúskapinum. Hins vegar er stöðugleika hagkerfisins ógnað, þar sem spáð er yfir 6 % verðbólgu árið 2017 og minnkandi hagvexti niður fyrir 2 % sama ár. Erlendar fjárfestingar í landinu munu vonandi bjarga gjaldeyrisjöfnuðinum, því að hrynji hann, hrynur krónan. Allt er nú í hers höndum.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2015 | 18:15
Skipan vinnumarkaðar í ólestri
Að Íslendingar skuli á árinu 2015 þurfa að búa við þá stöðu, að heilbrigðiskerfið sé lamað með verkföllum vikum og mánuðum saman, tugir þúsunda leggi niður störf dag og dag, og valdi þar með stórtjóni, og verkalýðsfélög hóti ótímabundnu allsherjar verkfalli, sýnir betur en mörg orð fá lýst, að stéttabaráttan er á villigötum og brýn þörf er á endurskoðun úreltrar löggjafar um stéttarfélög og vinnudeilur og endurskipulagningar stéttarfélaga a.m.k. á hluta vinnumarkaðarins. Tiltölulega afmarkaðar breytingar gætu breytt miklu um það óheillafar, sem kjarasamningaferlið er í. Um það fjallar þessi vefgrein.
Áður en lengra er haldið er gagnlegt að kynna sér útskýringar eins frægasta, menntaðasta og reyndasta hagfræðings landsins, dr Benjamíns H.J. Eiríkssonar. Hann var einn örfárra Íslendinga, sem sá þá kumpána báða í eigin persónu, Adolf Hitler, formann NSDAP, kanzlara, forseta Þriðja ríkisins og æðsta yfirmann Wehrmacht, og Josef Djughaswili Stalin, aðalritara framkvæmdastjórnar (polytburo) miðstjórnar sovézka kommúnistaflokksins. Hann varð einnig vitni að þinghúsbrunanum í Berlín, sem téður kanzlari notfærði sér til að sölsa undir sig alræðisvald, þó að heita ætti, að hann hefði náð völdum með lýðræðislegum hætti. Í bókinni, "Í stormum sinna tíða", sem kom út 1996, er eftirfarandi greining dr Benjamíns á efnahagsvanda Íslendinga, sem á fullt erindi við landsmenn enn þann dag í dag, en heyrir vonandi brátt fortíðinni til þrátt fyrir meiri íhaldssemi á þessu sviði en á flestum öðrum sviðum samfélagsins, svo að ekki sé nú tekið svo djúpt í árinni, að stöðnun ríki í samskiptum "aðila vinnumarkaðarins":
"Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun launþegasamtakanna og foringja þeirra, að kjarabætur séu fólgnar í miklum krónutöluhækkunum. Stefna og baráttuaðferðir launþegasamtakanna, allt frá því að kommúnistar fóru að láta á sér bera eftir 1930, hafa ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir lífsins og eðli okkar þjóðfélags. Þessar aðferðir spilla hinum sönnu farsældarmálum alþýðu. [Þetta var einmitt birtingarmynd kröfugerðar stéttarfélaganna árið 2015 og spillti mjög jákvæðri þróun kaupmáttar frá árinu 2013.-Innsk. BJo]
Þessar kenningaar eru rangar, óvísindalegar með öllu. Við sjáum það í kringum okkur, ef við lítum hleypidómalaust á hlutina. Kenningin um stéttabaráttu er helstefna sálarinnar og mikil ógæfa hverri þjóð, sem verður henni að bráð. Af hennar rótum er mikið af ógæfu og erfiðleikum íslenzku þjóðarinnar sprottið, miklu meira en menn almennt gera sér grein fyrir. Hún eitrar hugarfarið. Hún torveldar sanngjarnar sættir. Hún sundrar kröftunum. [Það er orðið tímabært að leysa kenninguna um stéttabaráttuna af hólmi með kenningu um stéttasamvinnu í verki, "Stétt með stétt", þar sem seljendur og kaupendur vinnuafls, hugar og handar, setjast niður og koma sér saman um skiptingu "kökunnar" á milli arðgreiðslna og launagreiðslna með svipuðum hætti og gert er yfirleitt á hinum Norðurlöndunum og víðar. Helstefnu sálarinnar verðum við vitni að, þegar birt eru viðtöl við mótmælendur allra handa, t.d. á Austurvelli þessi misserin, eða jafnvel skoðanakannanir um stjórnmálaflokkana, þar sem lýst er frati á þingræðið, en hrifningu á stjórnleysingjum.-Innsk. BJo]
Til grundvallar allri félagsmálastarfsemi á að liggja hugsjónin um samvinnu og samhjálp, en í atvinnulífinu á að gefa athafnaþránni og atorkunni sem frjálsasta framrás. [Ríkið getur átt frumkvæði að breytingu samskiptanna á vinnumarkaði í þá átt, að aðilar vinni saman að hámörkun hagvaxtar og skiptingu kökunnar í friðsemd á grundvelli beztu upplýsinga um afkomu fyrirtækjanna og þróun launakostnaðar. -Innsk. BJo]
Hvaðan halda menn, að allar nýjungarnar komi, þessar, sem við heyrum um í útvarpi og blöðum daglega ? Frá opinberum skrifstofum ? Embættismönnum ? Sköpun þjóðarteknanna og skipting þeirra er í rauninni eitt og sama málið." [Það þarf að draga úr kostnaði fyrirtækjanna vegna skriffinnskukrafna hins opinbera og reglugerðafargans. Sköpun þjóðarteknanna á sér stað fyrir samspil fjármagns, vinnuframlags hugar og handa og markaðar. Umbun fyrir vinnuframlag markast af samkeppnisstöðu þessara þátta innbyrðis og út á við.-Innsk. BJo]
Allt, sem fram kemur hjá dr Benjamín hér að ofan á enn við árið 2015 og hefur átt við í 80 ár. Það er í sjálfu sér hryggileg staðreynd, að viðhorf verkalýðsforystunnar til viðfangsefnisins að skipta þjóðarkökunni á milli fjármagnseigenda og launþega hefur í grundvallaratriðum þróazt löturhægt síðast liðna átta áratugi, og þekking á sviði samningatækni, hverri hefur fleygt fram á téðu tímabili, hefur ekki átt nægilega greiðan aðgang að ferli kjarasamninga í Karphúsinu, en vonandi stendur það til bóta hjá nýjum Ríkissáttasemjara. Nýir vendir sópa bezt. Viðhorfin, sem dr Benjamín lýsir og vitnað er til hér að ofan, eru fullkomlega óviðeigandi á 21. öldinni, og afleiðingin eru lakari lífskjör á Íslandi en nauðsyn ber til og verkfallsbarátta, sem kemur svo harkalega niður á innviðum samfélagsins, að nauðsynlegt er að stokka spilin upp á nýtt, og snúast hugleiðingar í þessum pistli um það. Viðfangsefni kjarasamninga er að komast að því á hlutlægan hátt, hvað er til skiptanna, og þróa aðferð til að skipta því á milli fjármagnseigandans og launþegans, þannig að samkeppnisstöðu fyrirtækisins á markaði stafi ekki ógnun af. Til að raungera þetta þarf hlutlægar hagrannsóknir og traust á milli aðila vinnumarkaðar, rannsakanda og Ríkissáttasemjara. Nú er lag að brjóta ísinn.
Verðmæti til skiptanna verða ekki til í reiptogi samninganefnda við samningaborðið, og það eru meira að segja áhöld um, hvort kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar hefur stundum gert launþegum meira gagn en ógagn. Samningar verkalýðshreyfingarinnar við samtök atvinnurekenda eru lágmarkssamningar, sem eru trygging fyrir launþega um lágmarkslaun, þegar harðnar á dalnum og sneyðist um atvinnu. Umsamin lágmarkslaun geta hins vegar aukið við atvinnuleysið, en þá tekur við trygging launþega, þar sem eru atvinnuleysisbætur.
Á Íslandi er hins vegar iðulega skortur á vinnuafli, og þá verður launaskrið í frjálsri samkeppni um vinnuaflið og upp að því marki, sem hvert fyrirtæki treystir sér til. Þar koma verkalýðsfélögin hvergi nærri, svo að heildaráhrif þeirra á kjaraþróun í landinu er óvissu undirorpin. Erlendis er lítil þátttaka starfsmanna í verkalýðsfélögum, og hún fer víðast hvar minnkandi. Spurning er, hvort stjórnarskrárbundinn réttur manna til að velja sjálfir aðild að félögum er í heiðri hafður, þegar félagsaðild í verkalýðsfélögum er annars vegar, eða hvort hér tíðkast sovézk skylduaðild í ýmsum verkalýðsfélögum.
Hlutfall launa af verðmætasköpun fyrirtækja er einna hæst á Íslandi og nemur um 2/3 að jafnaði (ath.:hér er ekki átt við hlutfall af heildarkostnaði). Þar af leiðandi er svigrúm fyrirtækjanna til raunkjarabóta að öðru jöfnu einvörðungu fólgið í framleiðniaukningu fyrirtækjanna, þ.e. frálagi fyrirtækjanna m.v. framlagið, t.d. (tonn af vöru)/manntímar eða (þjóðartekjur á mann)/(unnar vinnustundir). Áhrifavaldar á þróun framleiðni eru m.a. stjórnun, kjarasamningar, vinnuviðhorf, fjárfestingar og samkeppni.
Það kom fram í skýrslu McKinsey fyrir 2-3 árum um íslenzka þjóðfélagið, að framleiðni á Íslandi væri 20 % minni en á hinum Norðurlöndunum. Þetta er þungbær dragbítur fyrir kaupmáttaraukningu á Íslandi og nauðsynlegt að ráðast að rótum vandans til að auka samkeppnihæfni landsins um vinnuafl. Gerðar hafa verið rannsóknir á samkeppnihæfni þjóða, og þar hefur komið í ljós, að Ísland er nálægt miðbiki ríkja, sem IMD hefur mælt, og hefur staðan skánað síðan 2011, þar sem landið hefur hækkað um 7 sæti upp í 24. sæti.
Helztu dragbítar Íslands samkvæmt þessari mælingu eru mikil umsvif ríkisins í atvinnulífinu, heimildir útlendinga til fjárfestinga og fjöldi vinnustunda per starfsmann. Þar sem ekki tókst í þetta skiptið að draga úr hvötum til langs vinnudags í nýgerðum kjarasamningum við verkalýðsfélögin, er ólíklegt, að þeir muni auka samkeppnihæfnina, enda verða vörur og þjónusta, sem verða til á Íslandi, dýrari eftir þá en áður. Það er brýnt til eflingar framleiðni á Íslandi að auka samkeppnina á öllum sviðum athafnalífsins. Samkeppnin knýr fyrirtæki og starfsmenn til bættrar framleiðni.
Verkskipulagningu er oft áfátt hjá fyrirtækjum, undirbúningur verka ófullnægjandi og of mikið um óþarfa snúninga.
Vinnurof með kaffitímum ódrýgja vinnutímann og draga úr afköstum. Launatengdum hvötum til afkastaaukningar mætti koma við víðar, en þeir eru öflugt tól til að auka framleiðnina. Hlutaskiptakerfi á íslenzkum fiskiskipum hámarkar afköst sjómanna, enda er framleiðni til sjós hvergi meiri í heiminum en á íslenzkum fiskiskipum. Mikil tæknivæðing hefur einnig átt sér stað í landvinnslu sjávarfangs, og þar hafa verið innleidd afkastahvetjandi launakerfi, sem hafa gefizt báðum aðilum vel.
Kulnun í starfi er böl fyrir starfsmanninn og veldur oft fjarvistum, óstundvísi og kemur niður á afköstunum. Það er skylda stjórnenda að vera á varðbergi gagnvart þessum vágesti og taka púlsinn á starfsmönnum, t.d. í árlegum starfsmannaviðtölum.
Fjárfestingar eru stundum ekki nógu hnitmiðaðar að framleiðniaukningu, heldur einhvers konar gæluverkefni, og hefur verðbólgan átt sína sök á þessari bjögun, því að val á fjárfestingarkostum verður vandaðra, þar sem efnahagslegur stöðugleiki ríkir. Fjárfestingar í nýjum tækjabúnaði hafa verið af skornum skammti undanfarin ár frá falli fjármálakerfisins og verður að skrifa það að miklu leyti á stjórnvöld síðasta kjörtímabils, sem hækkuðu skatta og gjöld á atvinnulífið fram úr hófi og lögðu útgerðina nánast í einelti. Húsnæðisfjárfestingar voru í lágmarki, enda atvinnuleysi með meira móti og horfur í atvinnulífinu óvissar. Tap Íbúðalánasjóðs varð geigvænlegt í bankahruninu.
Fjárfestingar sjávarútvegsins hafa tekið myndarlega við sér frá 2013, og er Venus á Vopnafirði í eigu HB Granda frábært dæmi um það, en þar leysa 2 ný skip 3 eldri af hólmi og hafa meiri afkastagetu, meiri geymslugetu, betra kælikerfi sjávarfangs og þurfa færri í áhöfn, þó að tveir verði um hverja stöðu, svo að fátt eitt sé talið. Aðbúnaður starfsmanna stórbatnar og er mjög til fyrirmyndar. Þarna eru dæmigerðar fjárfestingar til framleiðniaukningar á ferðinni.
Það er áhyggjuefni um allan heim, að framleiðniaukning fer nánast hvarvetna minnkandi. Kann það að stafa af aldurssamsetningu á vinnumarkaði, sem þróast nú með óvenjulegum hætti til ört hækkandi meðalaldurs. Framleiðniaukning á heimsvísu nam á árabilinu 1999-2006 að jafnaði 2,6 % á ári, en árið 2014 var hún aðeins 2,1 %. Þetta er tæplega fimmtungs rýrnun, sem mun óhjákvæmilega draga úr kjarabótum almennings að sama skapi. Hagfræðingar eru í vaxandi mæli teknir að tilgreina lága framleiðniaukningu og jafnvel minnkun hennar, t.d. á Bretlandi, sem stærstu ógnina við batnandi lífskjör bæði í ríkum og fátækum löndum. Framleiðniaukning er góður gæðamælikvarði á stjórnun fyrirtækja og stofnana, og þess vegna kann stjórnun að vera að hraka.
Fyrirtæki eru ekki lengur jafnskilvirk við að breyta vinnuframlagi, byggingum og vélum í vörur, sem veldur nú stjórnmálamönnum og öðrum hvarvetna áhyggjum. Þann 22. maí 2015 nefndi Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, litla framleiðniaukningu sem meginástæðu fyrir "lítilli hækkun launa á undanförnum árum".
Brezki fjármálaráðherrann, George Osborne, sagði eftir kosningasigur íhaldsmanna á Bretlandi í maí 2015, að aukin framleiðni væri mikilvægasta forgangsatriði nýrrar ríkisstjórnar þar. "Framtíðar hagsæld okkar veltur á því", sagði hann, hvorki meira né minna, og væri óskandi, að íslenzka ríkisstjórnin tæki mið af þessari forgangsröðun brezku stjórnarinnar, og hún sýnir í verki, að hún hefur skilning á viðfangsefninu, t.d. með því að draga úr skattheimtunni.
Nú hafa verið undirskrifaðir stefnumarkandi kjarasamningar á almenna markaðinum. Kröfugerðin var algerlega óraunhæf, og niðurstaðan eru launahækkanir umfram getu margra fyrirtækja til að taka á sinn rekstur án tekjuhækkana fyrirtækjanna, nema nú verði skyndilega mikil framleiðniaukning. Seðlabankastjórinn býst ekki við því, og blekið var varla þornað á undirskrift samninganna, þegar hann gaf fyllilega í skyn opinberlega, að Seðlabankin myndi hækka stýrivextina. Það skýrist nú innan skamms, en forseti ASÍ hefur snuprað seðlabankastjóra fyrir "að tala upp verðbólguna". Framur er þó seðlabankastjóri "að tala inn í " ógerða kjarasamninga, sem eru fjölmargir. Vaxandi verðbólga og vaxtahækkun verður sem sagt niðurstaðan, ef svo fer fram sem horfir, og hvort tveggja rýrir kaupmátt flestra launþega og dregur úr fjárfestingum þeirra og vinnuveitenda þeirra. Slíkt er alveg afleit niðurstaða og í samræmi við öngstrætið, sem dr Benjamín benti á, að kjarasamningsferlið væri í, og það verður að finna því gæfulegri farveg.
- Samkvæmt bókun við téðan kjarasamning á að stofna Þjóðhagsráð. Þetta Þjóðhagsráð ætti að fylgjast náið með launaþróun í landinu, atvinnustigi, afkomu fyrirtækjanna, samkeppnihæfni, arðgreiðslum, fjárfestingarfyrirætlunum og ráðningaáætlunum. Öll þessi gögn verði gerð embætti Ríkissáttasemjara, RSS, aðgengileg. Embættið verði eflt á hagfræðisviðinu, svo að það geti unnið úr þessum gögnum, kallað aðila vinnumarkaðarins til sín u.þ.b. hálfu ári áður en kjarasamningar renna út, og gert þeim grein fyrir stöðu fyrirtækja í samkeppni, einkum á erlendum mörkuðum, og svigrúmi þeirra til launahækkana, eins og RSS metur það. Allt verði þetta til hliðsjónar og sumt stefnumarkandi um gerð kjarasamninga. Ef aðilar neita að fallast á niðurstöðu RSS, og boða verkfall eða verkbann, þá getur RSS frestað því með því að leita álits Félagsdóms, sem getur bannað aðgerðir á þeirri forsendu, að kröfugerð sé óeðlileg miðað við aðrar stéttir, stöðu hagkerfisins og meðalhóf.
- Sett verði löggjöf, sem skyldi launþegafélög með samningsumboð fyrir starfsmenn á fjölmennum vinnustöðum, t.d. 200 manns og þar yfir, til að mynda trúnaðarmannaráð fyrir alla, sem ekki eru með einkasamninga við viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, og hafi það samningsumboð þessara starfsmanna hjá sér og komi fram fyrir þeirra hönd gagnvart viðsemjandanum, SA, ríki eða sveitarfélagi. Fyrir hönd vinnuveitandans er þá gerður einn kjarasamningur fyrir alla starfsmenn, en vitaskuld sundurliðaður eftir stéttum, starfsaldri, menntun og öðru, eins og við á. Þetta fyrirkomulag er nú þegar fyrir hendi á sumum sviðum atvinnulífsins, t.d. áliðnaðinum, og hefur gefizt vel. Með þessu er tryggt, að ein stétt getur ekki klifrað upp eftir bakinu á annarri seinna og jafnvel lamað starfsemina í kjölfar annars verkfalls á sama stað, eins og landsmenn hafa horft á með hryllingi á Landspítalanum undanfarið. Ef trúnaðarráðið og vinnuveitandinn eða þeir, sem þessir aðilar framselja samningsumboðið til, ekki ná samkomulagi, getur trúnaðarmannaráðið boðað verkfall, og taka þá við ákvæði um RSS og Félagsdóm í gr. 1 hér að ofan.
Það var frumhlaup hjá BHM að fara út í verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilna við ríkið áður en kjarasamningar höfðu verið til lykta leiddir á almenna vinnumarkaðinum. Hvarvetna eru leikreglurnar þannig, að fyrirtæki í samkeppnisgreinum gefa tóninn um, hvað er hægt að semja um. Það hafa líka verið óskráðar leikreglur hérlendis, en í þetta skiptið var álpazt út í algerlega ótímabærar vinnustöðvanir á grundvelli þess, að nota ætti aðrar viðmiðanir í samningunum við háskólamenntað fólk hjá ríkinu en í samningum við ófaglært fólk á almenna vinnumarkaðinum. Þessi herfræði hlýtur að bíða skipbrot, af þeim sökum, að frá upphafi var ljóst, að annaðhvort yrði samið um hóflegar hækkanir á línuna í anda Seðlabankans eða meiri hækkanir yrðu í neðri enda launastigans. Hagkerfið gæti engan veginn staðið undir miklum hækkunum á efri enda launastigans til viðbótar hinum, en mikil hækkun BHM, þótt í krafti meiri menntunar væri, mundi óhjákvæmilega leiða til slíks.
Slagorð BHM um, að meta skuli menntun til launa, er ekki sannfærandi. Á engan hátt skal kasta rýrð á þessa menntun. Hún er alls góðs makleg, en hún er að miklu leyti kostuð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Meiru skiptir vinnuveitandann og samfélagið, hvað launþeginn hefur fram að færa til verðmætasköpunar en lengd skólanáms og prófgráður. Að öðru jöfnu á hvort tveggja að auka færni fólks og styrkja samkeppnistöðu þess á vinnumarkaði. Það ætti þá að duga til hærri launa, en á endanum er það markaðurinn, sem ákveður, hvers virði framlag launþegans er til verðmætasköpunarinnar. Af þessum sökum er holur hljómur í slagorðinu, að menntun skuli metin til launa.
Ef ríkið hvorki getur né vill samþykkja þá kröfu, hljóta starfsmenn að falbjóða sig öðrum, og þá kemur virði þeirra í ljós. Talsmenn BHM hafa haldið því fram, að opinberir starfsmenn hafi dregizt aftur úr launaþróun annarra. Þetta er aðeins hálfsannleikur. Á síðast liðnum 10 árum hafa opinberir starfsmenn fengið 4 % minni hækkanir en starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum, en þá ber þess að gæta, að opinberir starfsmenn fá 15 % af launum sínum sem iðgjald í lífeyrissjóð, en flestum öðrum standa aðeins 12 % til boða, og lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru tryggð óskert af ríkinu, sem veitir þeim forskot í lífeyrisréttindum nú eftir Hrunið. Ríkissjóður skuldar reyndar hinu opinbera lífeyriskerfi um 400 milljarða kr um þessar mundir, sem nauðsynlegt er að fara að saxa á, þegar skuldir ríkissjóðs við lánadrottna sína hafa verið greiddar upp að mestu, vonandi innan áratugar.
Nú hafa iðnaðarmenn ákveðið að feta í fótspor BHM, en það er ótímabært af þeim. Ef meiri eftirspurn verður en framboð á markaðinum eftir vinnuafli þeirra, munu þeir geta samið um álagsgreiðslur við sína vinnuveitendur, en það væri verulega óskynsamlegt af þeim að brjóta bogann, sem þegar hefur verið spenntur of hátt. Bryddað hefur á sömu tóntegund hjá þeim og BHM um, að nýgerðir kjarasamningar taki ekki mið af þeirri menntun, sem þeir hafa umfram félagsmennina í samflotinu, sem náðu samningum, en þá ber að taka tillit til skattalækkana ríkisstjórnarinnar, sem ættu að gagnast þeim vel, svo og varnaðarorða seðlabankastjóra og fleiri.
Ástandið, sem kjaradeilur í haust, vetur, vor og sumar, hefur leitt yfir sjúklinga er fullkomlega óboðlegt siðuðu samfélagi. Svipaða sögu er að segja af öðrum fórnarlömbum þessa grimmilega stéttahernaðar, t.d. sláturdýrum og bændum. Það verður að gera róttæka tilraun til að afstýra endurtekningu á þessum ósköpum, og ofangreindar hugmyndir gætu verið nytsamleg skref í þá átt. Heilbrigðisstéttir hafa haft verkfallsrétt síðan um miðjan 8. áratug 20. aldar, svo að það er ekki sjálfsagt mál, að þær hafi þennan rétt. Þær þurfa að ræða það í sinn hóp, hvort þær kjósa þetta fyrirkomulag áfram, eða hvort þær vilja taka upp viðræður við ríkisvaldið um annað kerfi til að ákvarða laun sín.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)