Færsluflokkur: Kjaramál

Margt riðar til falls og víða

Samkvæmt AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum), sem við höfum ekki enn þurft aftur að segja okkur til sveitar hjá, og losnum vonandi við að þessu sinni, verður enginn hagvöxtur í Asíu sem heild á árinu 2020 í fyrsta skipti í 60 ár.  Þetta sýnir grafalvarlegt efnahagsástand í kjölfar Wuhan-veirunnar, SARS-CoV-2, og veitir smjörþefinn af því, sem koma skal, því að þessi veira er aðeins ein af nokkrum, sem komið hafa fram frá síðustu aldamótum í Kína, Afríku og í Mið-Austurlöndum.

Mannkynið slapp fyrir horn með SARS, MERS og ebóluna.  Ef SARS og MERS hefðu verið meira smitandi, hefðu þær getað dreifzt um heim allan.  Ebóla var bráðsmitandi, og um 60 % sýktra lézt af hennar völdum, en með stórkostlegu átaki tókst að kveða hana niður á þeim svæðum Afríku, þar sem hún herjaði.  Af þeim dæmum, sem hér hafa verið nefnd, má leiða líkum að því, að veirufaraldrar verði alvarlegasti vágestur heimsbyggðarinnar á næstu áratugum, og auðvitað hverfur þá losun CO2 í skuggann, enda munu breyttir lifnaðarhættir í kjölfar COVID-19 líklega leiða að einhverju leyti til minni losunar. Aukin áherzla á sjálfbærni samfélaga og "sjálfsþurftarbúskap" með lífsnauðsynjar (minni flutningar) kann að verða eitt af einkennum næstu ára.

Þótt smit Wuhan-veirunnar virðist af fréttum frá Kína að dæma aðallega hafa verið í héraðinu, þar sem Wuhan er aðalborgin, virðast Kínverjar hafa tekið smithættuna föstum tökum á öllum helztu framleiðslu- og viðskiptasvæðum Kína. Til marks um það er bæði árangur þeirra við að hefta útbreiðslu veirunnar og, að í fyrsta skipti frá upphafi skráninga á hagvexti í Kína 1992, skrapp verg landsframleiðsla þeirra saman á fyrsta ársfjórðungi 2020.  Þetta er gríðarlegt efnahagshögg, því að hún hefur oftast numið 6 %-12 % á ári frá 1992.  Hún minnkaði um 6,8 % á fyrsta ársfjórðungi m.v. sama tíma árið áður, en þá jókst hún um 6,0 %.

Bretar fara mjög illa út úr þessum veirufaraldri.  Þeir reyndust óviðbúnir og brugðust seint við.  Spáð er 35 % samdrætti landsframleiðslu þeirra í júní 2020.  Hagkerfi þeirra er mjög þjónustudrifið.  Þjóðverjar virðast munu fara út úr COVID-19 viðureigninni með minna tapi en Bretar, enda voru þeir betur undirbúnir ("alles muss ganz gut vorbereitet sein" er enda viðkvæði þeirra).  Smit hjá þeim eru færri en hjá öðrum meginþjóðum Evrópu, og dauðsföll í Þýzkalandi af völdum COVID-19 eru tiltölulega fá.  Undirbúningur, skipulag og þjálfun borgar sig, en mestu skiptir þolgæði og seigla í allri baráttu.

Launagreiðslur til stórs hluta atvinnulífs á Vesturlöndum eru nú á höndum ríkisins, á sama tíma og tekjur hins opinbera dragast stórlega saman.  Í ESB hefur triEUR 3 (trilljón = 1000 milljarðar) verið veitt til atvinnulífsins og í BNA var í marzlok samþykkt að veita triUSD 2 til stuðnings atvinnulífinu.  Þar hefur æðsti maður landsins ekki veitt landslýðnum gagnlega leiðsögn, og stundum hefur slegið svo alvarlega út í fyrir honum, að margir hljóta að efast um, að hann verðskuldi endurkjör í ár, þótt hinn öldungurinn í framboði sé ekki mikið gæfulegri, og þó. Hann sætir nú ásökun fyrir kynferðislega áreitni fyrir löngu.

Hér á þessu vefsetri var í einni vefgrein vitnað til Morgunblaðsgreinar Ragnars Árnasonar 21. apríl 2020:

"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld",

og verður nú gripið niður í síðari hluta greinarinnar:

"Stóra spurningin er, hvernig við sem þjóð bregðumst við þessari vondu stöðu.  Ef brugðizt er við af skynsemi og fyrirhyggju, er unnt að lágmarka tjónið, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið.  Sé hins vegar ranglega við brugðizt og rasað um ráð fram, er hætta á, að þetta upphaflega efnahagsáfall leiði til langvarandi uppdráttarsýki í þjóðarbúskapnum.  Hvað þetta snertir, er rétt að hafa hugfast, að framleiðslugeta þjóðarinnar hefur ekki minnkað. Efnahagskreppan nú stafar stafar annars vegar af minni eftirspurn erlendis og hins vegar þeim takmörkunum, sem við höfum sjálf sett á atvinnulífið innanlands til að draga úr áhrifum Covid-veirunnar.  Þjóðarframleiðslan getur því frá tæknilegu sjónarmiði vaxið aftur hratt og vel.  Hvort hún gerir það, fer eftir því, hvernig tekið verður á vandanum."

 Þetta er satt og rétt, svo langt sem það nær, og þarfnast nokkurrar útlistunar lesandans til að tengja við raunstöðuna.  Í fyrsta lagi hefur COVID-19 hjaðnað hraðar hérlendis en sóttvarnaryfirvöld áttu von á. Landlæknir boðaði það nálægt toppi faraldursins (hámarksfjölda sjúklinga), að farsóttin myndi láta hægar undan síga en hún sótti á. Það var ekki rökstutt sérstaklega, en spekin reyndist vera ættuð frá WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.  Þarna vanmátu sóttvarnaryfirvöld áhrifamátt eigin ákvarðana og fyrirmæla, en Íslendingar virðast hafa fylgt þessum fyrirmælum út í æsar, þó sjálfsagt með einstaka undantekningum.  Þetta hefur komið mörgum landsmönnum þægilega á óvart, en sams konar sögu er að segja af Grikkjum, sem ekki hafa verið þekktir af yfirþyrmandi hlýðni við yfirvöld sín. 

Í byrjun 2020 ber ekki á öðru en búið sé að uppræta smit, þótt talsverður fjöldi sé enn í sóttkví, og þá verða yfirvöld auðvitað að endurskoða fyrri áform sín og flýta afléttingu kvaða á hegðun fólks og starfsemi fyrirtækja og stofnana.  Það er t.d. óþarflega íþyngjandi að miða samkomubann við 50 eftir 4. maí 2020, og sjálfsagt að opna sundstaði sem fyrst til heilsueflingar. Nær væri að miða við t.d. 500, og þegar ekkert smit hefur greinzt í 2 vikur, ætti hreinlega að aflétta öllum hömlum af starfsemi í landinu.  Áfram munu auðvitað flutningar fólks á milli landa verða háðir sóttkví um sinn, en tvíhliða samningar um óhefta flutninga kunna að verða gerðir á milli þjóða, sem treysta sér til þess. Þó er líklegt, að við verðum í aðalatriðum að fylgja ákvörðunum Schengen-samningsins.

 Gríðarlegt fé streymir úr ríkissjóði til ferðaþjónustunnar, eins og hún var í febrúar 2020.  Þessi ferðaþjónusta var í stakk búin til að taka við 2,0 M ferðamanna á ári hið minnsta.  Það er algerlega útilokað, að svo margir erlendir ferðamenn leggi leið sína til landsins á þessu ári, og afar ólíklegt á árinu 2021.  Það er ekki sennilegt, að slíkt geti orðið fyrr en í fyrsta lagi 2023, og þá sitjum við uppi með ofvaxinn ferðamannageira í 4 ár í höndum ríkisins.  Það gengur auðvitað ekki.  Þegar reiðarslag af þessu tagi ríður yfir þjóðfélagið og af mestum þunga yfir eina atvinnugrein, er óhjákvæmilegt, að sársaukafullar breytingar og endurskipulagning eigi sér stað.  Það hefur í för með sér minnstar almannafórnir að horfast í augu við líklegustu sviðsmyndina strax, en gæla ekki lengur við snögga endurræsingu á öllum vélunum, og að rándýr auglýsingaherferð stjórnvalda og greinarinnar muni valda kraftaverki á viðhorfum væntanlegra ferðamanna. 

Prófessor emeritus í hagfræði, Ragnar Árnason, varaði reyndar við þessu sama í næstu undirgrein, þar sem hann skrifaði:

"Mikilvægt er að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu."

 Á öðrum Vesturlöndum eru þó uppi hafðir miklir tilburðir af hálfu ríkisvaldsins til að dæla fé í atvinnulífið "til að viðhalda ráðningarsambandi" á milli vinnuveitanda og launþega.  Forsendan er þó væntanlega oftast sú, að þörf verði á lítt breyttri afkastagetu viðkomandi atvinnugreinar, eftir að ósköpin eru um garð gengin.  Þeim fækkar táknum á lofti um það, að slíkt geti átt við um spurn erlendra ferðamanna eftir þjónustu á Íslandi.  Stóra spurningin í þessu viðfangsefni er þó, hvernig þróun millilandaflugsins verður, svo að úr afar vöndu er að ráða fyrir stjórnvöld. 

Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar haft var eftir formanni Framsóknarflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni, að Icelandair yrði að bjarga sér sjálft.  Þetta félag er þó eins konar grunnstoð íslenzkrar ferðaþjónustu, þannig að fjárstuðningur og ábyrgðir ríkisins til annarra ferðaþjónustufélaga virðast verða unnin fyrir gýg, ef Icelandair getur svo bara étið, það sem úti frýs.  Þarna hlýtur eitthvað að fara á milli mála.  

Í lokin reit Ragnar:

"Þjóðin á einn sjóð raunverulegra verðmæta.  Það er gjaldeyrisvarasjóðurinn.  Í honum liggur mjög há upphæð, nálægt mrdISK 800, á litlum sem engum vöxtum.  Sjálfsagt virðist að nota hluta þessa sjóðs til að brúa óhjákvæmilegan gjaldeyrishalla vegna kreppunnar og koma þar með í veg fyrir enn frekari gengislækkun krónunnar og verulega verðbólgu í framhaldinu."

Taka skal undir þetta.  Tímabundinn halli á viðskiptum við útlönd virðist nú valda allt of hröðu gengissigi fyrir kaupmáttinn innanlands. Viðsnúningur virðist reyndar orðinn. Kaupgetan er verulega skert nú hjá þorra fólks vegna tekjumissis, og ef ekki á að láta gjaldeyrisvarasjóðinn halda genginu í skefjum núna, t.d. við 10 % sig frá febrúarlokum 2020, hvenær á þá eiginlega að nota hann almenningi til hagsbóta ?

 


Millilandaverzlun dregst saman

Það blæs ekki byrlega með alþjóðlega hagkerfið um þessar mundir, þegar helztu viðskiptastórveldin stunda þá ótrúlegu iðju að grafa undan heimsviðskiptunum með því að keppast við að leggja tolla á innflutning sinn frá stórveldi, sem þegar hefur lagt á verndartolla hjá sér.  Þar eigast Vesturveldin líka við innbyrðis, og hefði enginn trúað því fyrir 5 árum.  Allt mun þetta draga dilk á eftir sér, þótt vonandi verði WTO-Alþjóða viðskiptastofnuninni bjargað. Kínverjar hafa vissulega hagað sér illa.  Yfirvöld hafa t.d. heimtað nána samvinnu ("joint venture") við kínverskt félag, ef erlent iðnfyrirtæki fjárfestir í Kína, og til að erlenda fyrirtækið fái markaðsaðgang í Kína, hefur afhending nýjustu tækniupplýsinga verið skilyrðið.  WTO hefur ekki náð tökum á þessu vandamáli fremur en því, að kínversk útflutningsfyrirtæki eru í mörgum tilvikum að miklu leyti í höndum ríkisins, og þá er samkeppnin vissulega brengluð og hætt við undirboðum.  Nú hefur soðið upp úr.  Vonandi endar þetta viðskiptastríð fljótt og með því að styrkja WTO, færa stofnuninni meiri völd í hendur til að draga fyrirtæki og ríkisstjórnir til ábyrgðar fyrir brot á nýjum reglum WTO.  

Þó að Ísland sleppi við þetta viðskiptastríð, þá lenda slæmar efnahagslegar afleiðingar af þessu gjörningaveðri hart á Íslendingum, af því að efnahagur okkar er mjög háður utanríkisviðskiptum.  Minnkandi kaupmáttur erlendis leiðir til lægra verðs fyrir vörur okkar og þjónustu og getur jafnvel dregið úr ferðamannastraumnum hingað.  Flugfélögin og hótelgeirinn eru þegar illa sett, og ferðaþjónustan hérlendis mun lenda í verulegum hremmingum, ef ferðamannafjöldinn minnkar. Ýmsum kotbóndanum mun þykja fara verða þröngt fyrir sínum dyrum, ef Lufthansa verður ríkjandi í millilandafluginu hér.   

Raungengi ISK hefur hækkað meira en gengi annarra gjaldmiðla, sem við eigum í viðskiptum við og er núna í sögulegu hámarki.  Það slæma er, að þetta sögulega hámark er ósjálfbært, og núverandi staða er þess vegna tímabundin.  Það er aðeins ein leið af toppnum, eins og kunnugt er.  Hún heitir kjararýrnun, og gorgeir einhverra verkalýðsfrömuða breytir þar engu um.  Nú þarf að snúa bökum saman í varnarbaráttu til að lágmarka tjón heildarinnar.  

Raungengi er annað hugtak en nafngengi.  Styrkist raungengið, eins og gerzt hefur undanfarin misseri, er verðlag og/eða launakostnaður að hækka hraðar innanlands en erlendis, mælt í sömu mynt.  Raungengi launa hefur hækkað um 20 %-30 % á undanförnum árum, hvað sem gaspri blöðrusela í hópi s.k. verkalýðsforingja líður og túðri um ranga útreikninga, af því að neyzluvísitala og launavísitala séu rangar.  Þeir láta sem herskáir séu fyrir hönd umbjóðenda sinna, en þessir umbjóðendur og reyndar þjóðin öll verða fórnarlömb fíflagangs, sem fólginn er í órökstuddum launakröfum, sem atvinnulífið getur ekki borið núna, því að það er tekið að halla verulega undan fæti, sbr bullandi tap í ferðamannageiranum.  Ef verkalýðsleiðtogar átta sig ekki á, hvað það þýðir fyrir umbjóðendur þeirra, þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.  

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), greindi þessa stöðu rétt þegar 27. febrúar 2018 í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu:

""Viðsnúningurinn er hraðari en spáð var.  T.d. er að hægja verulega hratt á vexti ferðaþjónustunnar. Greinin hefur vaxið um tugi prósenta á milli ára undanfarin ár.  Nú er hins vegar að hægja á vextinum.  Hagvaxtarspár hafa breytzt verulega vegna breyttra forsenda, og við teljum mikilvægt að gefa því sérstakan gaum.  Allar spár gera nú ráð fyrir 2-3 % hagvexti á næstu árum, sem er auðvitað ágætis vöxtur í alþjóðlegum samanburði.  Þær forsendur geta þó breytzt og hafa verið að breytast samfara því, sem nýjar vísbendingar koma fram", segir Ásdís."

Síðan þetta var sagt hafa horfur alþjóðlegra efnahagsmála versnað ískyggilega.  Eldsneytishækkanir hafa þyngt róður margra atvinnugreina hérlendis, þ.á.m. sjávarútvegs og ferðaþjónustu.  Samtímis stundar ríkissjóður rányrkju á fyrrnefndu greininni með veiðigjaldi úr takti við afkomuna, og meginmillilandaflugfélögin tvö hérlendis berjast í bökkum vegna gríðarlegra fjárfestinga í flugkosti og harðrar samkeppni á flugleiðum til Íslands.  Þýzkum ferðamönnum hingað hefur fækkað mikið, og almennt halda Evrópumenn fastar um budduna en áður.  Bandarískum ferðalöngum hefur hins vegar fjölgað, og ekki er farið að slá á kaupgleði Bandaríkjamanna.

  Vegna nýjustu mjög neikvæðu þróunar alþjóðamála, sem Bandaríkjastjórn hrinti af stað með viðskiptastríði við Kínverja og hárri tollalagningu á vörur frá ESB, Kanada og Mexíkó, má búast við versnandi hag Bandaríkjamanna og stöðnun eða jafnvel samdrætti ferðamennsku almennt í heiminum. Það er mikil breyting.

Meðferð Bandaríkjamanna á WTO-Alþjóða viðskiptamálastofnuninni er hryllileg.  Líklega leiðir þessi ófriður Bandaríkjamanna á viðskiptasviðinu til hrörnunar viðskiptabandalaga á borð við ESB/EES ("Festung Europa") og aukinnar þróunar í átt til tvíhliða fríverzlunarsamninga, vonandi á grundvelli WTO, sem allir ættu að virða, ekki sízt höfundarnir, Bandaríkjamenn.  

Síðan snýr Ásdís sér að þróun kaupmáttar í téðu viðtali.  Þegar málflutningur hennar er borinn saman við hótanir og háreysti s.k. verkalýðsforingja undanfarið, hvarflar að manni, að hún og þeir búi ekki í sama landi.  Ásdís reisir málflutning sinn á staðreyndum, sem eru þessum verkalýðsforingjum aðgengilegar líka, en þeir hunza þær og reyna að sá vantrausti í garð þeirra, sem matreitt hafa þessar staðreyndir. Það er flónska.  Slíkt fær almenning til að álykta, að "hávaðaseggirnir" séu með óhreint mjöl í pokahorninu, stefna þeirra snúist ekki um að bæta kjör félagsmanna sinna í bráð og lengd, heldur sé meira í ætt við pólitískt prump sósíalista, fýlubomba úr iðrum stjórnmálanna, frá blöðruselum, sem einskis svífast, en lifa samkvæmt reglunni um, að tilgangurinn helgi meðalið.

""Við höfum upplifað fordæmalausa kaupmáttaraukningu á undanförnum árum. Laun hafa hækkað verulega samtímis því, sem ríkt hefur verðstöðugleiki, sem ekki var fyrirséður.  Fyrir því eru þó ýmsar ástæður.  Í fyrsta lagi vorum við heppin með þróun viðskiptakjara.  Þau hafa verið okkur hagstæð á undanförnum árum, sem hefur veitt aukið svigrúm til launahækkana. [Nú hafa viðskiptakjör versnað með hækkun eldsneytisverðs og margra annarra innflutningsvara, en verð á útflutningsvörunum er hætt að stíga í bili-innsk. BJo.] 

Í öðru lagi styrktist krónan verulega samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar.  Það skilaði sér í verðlækkun á innfluttum vörum og þar með minni verðbólgu. [Nú eru tekjur af erlendum ferðamönnum jafnvel farnar að dragast saman-innsk. BJo.]

Í þriðja lagi kom til einskiptisaðgerða frá ríkisstjórninni, og t.d. voru gerðar breytingar á tollum og vörugjöldum, segir Ásdís og bendir á, að sú aðgerð hafi skilað lægra vöruverði."

"Við getum ekki treyst á, að allir þessir þættir endurtaki sig.  Í fyrsta lagi er óábyrgt að treysta áfram á hagstæð viðskiptakjör.  Við sjáum nú þegar, hvernig farið er að hægja á vexti ferðaþjónustunnar.  Frekari gengisstyrking krónunnar er því ólíkleg, a.m.k. í líkingu við það, sem verið hefur.  Þá getum við auðvitað ekki endurtekið leikinn aftur með breytingum á tollum og vörugjöldum."

Það er hins vegar eðlilegt í niðursveiflu að huga að skattalækkunum á einstaklinga og fyrirtæki.  Hvetja ætti til meiri sparnaðar í þjóðfélaginu með lækkun fjármagnstekjuskatts og huga ætti að lækkun virðisaukaskatts og tekjuskatts á fyrirtæki og að breytingum á fyrirkomulagi persónuafsláttar í þágu launþega með lægstu tekjurnar.

Þann 27. febrúar 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir Halldór Benjamín Þorbergsson:

"Kjarasamningar snúast um lífskjör fólks",

þar sem hann færir rök fyrir því, að tímabil minnkandi hagvaxtar sé hafið.  Greinin hófst þannig:

"Kjaraviðræður eru samningar um lífskjör fólks og um jákvæða þróun samfélagsins.  Og sú þróun hefur verið gríðarlega hagstæð á undanförnum árum.  Kaupmáttur hefur aukizt á tíma gildandi samninga frá apríl 2015 um 20 % og um 25 % hjá þeim lægst launuðu.  Það er Evrópu- og Íslandsmet."

Síðan rekur hann, að bættur hagur hafi að hluta verið nýttur til að bæta efnahagslegan mótstöðukraft gegn nýrri efnahagslægð, sem örugglega mun koma:

"Íslenzk heimili, fyrirtæki og hið opinbera, hafa nýtt uppsveifluna til að greiða niður skuldir, og eru Íslendingar nú orðnir hreinir lánveitendur til útlanda.  Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins er loksins orðin jákvæð.  Þetta er undraverður árangur, ekki sízt þegar horft er til þess, að fyrir örfáum árum glímdi Ísland við alvarlegan skuldavanda."

Þá rekur Halldór Benjamín nokkur merki um, að nú séum við á leið niður eftir þessa uppsveiflu:

"Fyrsta vísbending er vaxandi atvinnuleysi.  [Þrátt fyrir gríðarlega fjölgun í landinu vegna aðfluttra hélzt atvinnuleysi í aðeins tæplega 3,0 þar til á 2. ársfjórðungi 2017, en tók þá að hækka og er nú tæplega 4,0 %-innsk. BJo.] ...

Önnur vísbending er minnkandi spenna í efnahagslífinu.  [Sannleikurinn er sá, að aðfluttir og gengishækkun ISK hafa dregið úr framleiðsluspennu og þar með hjálpað til við að ná jafnvægi í hagkerfinu á nýjan leik. Ef jákvæður viðskiptajöfnuður minnkar mikið vegna minni útflutningstekna og meiri innflutnings, mun gengi ISK lækka, en það mun væntanlega auka verðbólgu, sem enn dregur úr atvinnu og rýrir lífskjörin-innsk. BJo.] ...

Þriðja vísbending er í ferðaþjónustu. [ Á þessu ári verður lítil fjölgun erlendra ferðamanna og sums staðar fækkun.  Tekjur af þeim hér innanlands (flug ekki meðtalið) gætu jafnvel dregizt saman í ISK-innsk. BJo.] ....

Fjórða vísbending er í fréttum úr atvinnulífinu.  Nær daglega birtast fréttir af íslenzkum fyrirtækjum, sem finna fyrir versnandi samkeppnisstöðu við útlönd.  Það, sem helzt veldur fyrirtækjunum áhyggjum, er hátt gengi krónunnar og íþyngjandi launakostnaður.  Skyldi engan undra.  Raungengi íslenzkra launa, þ.e. hlutfallslegur kaupmáttur þeirra í erlendri mynt saman borin við laun í öðrum ríkjum, hefur rokið upp á síðustu árum."

Nú þarf að leggja áherzlu á að halda sjó.  Það verður bezt gert með því að gera a.m.k. árshlé á launahækkunum á meðan í ljós kemur, hvað verður um heimshagkerfið á þessum óvissutíma.  Í versta tilviki stefnir í heimskreppu, og þá er nú aldeilis betra að rifa seglin hér í tæka tíð, en spenna ekki bogann um of á versta tíma.  Við vitum hvað það þýðir.  Kreppan verður þá enn dýpri og sársaukafyllri hér en annars staðar.

 

 

 

 

 


Lognið á undan storminum

Ekkert ber á raunhæfum úrræðum ríkisstjórnar til að létta atvinnulífinu róðurinn.  Það glímir nú við slæm rekstrarskilyrði, einkum útflutningsatvinnuvegirnir, sem glíma við minni tekjur í krónum talið á meðan kostnaður hefur aukizt hóflaust.  

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur undanfarið ár verið ötull við að skrifa blaðagreinar, þar sem hann hefur lýst hættulega mikilli rýrnun samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og jafnframt bent á úrræði, sem stjórnvöld þurfa og geta gripið til hið bráðasta.

Stýrivextir Seðlabankans eru  kapítuli út af fyrir sig, sem ríkisstjórnin ræður ekki við öðru vísi en að leggja lagabreytingu um Svörtuloftin fyrir Alþingi, sem gerir þeim skylt að líta meira til efnahagslegs stöðugleika en nú er í stað gallaðs mats á verðbólguvæntingum, sem hafa á undanförnum árum skotið hátt yfir markið.  Húsnæðisliður hefur auk þess allt of hátt vægi við verðbólguútreikninga, og þættir langt utan seilingarsviðs Seðlabankans hafa mun meiri áhrif á verðþróun húsnæðis en útlánsvextir.  

Þann 3. júlí 2018 birtist alvarleg frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fyrirtækin að fara úr landi":

""Stjórnvöld verða að bregðast við versnandi stöðu framleiðslufyrirtækja með skýrri atvinnustefnu.  Annars er hætta á, að fleiri framleiðslufyrirtæki og störf fari úr landi."  Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.  Það sé að koma á daginn, að íslenzkt hagkerfi standi ekki undir svo háum launum, nema framleiðni aukist."

Hvernig í ósköpunum má það vera, að ríkisstjórnin sitji við þessar aðstæður með hendur í skauti og aðhafist ekkert gegn aðsteðjandi vanda ?  Með því bregst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skyldum sínum.  Hún ætti nú þegar að hafa hleypt af stokkunum mótvægisaðgerðum, sem ýta undir framleiðnivöxt.  Þar er um að ræða fjárfestingarörvandi aðgerðir á borð við lækkun opinberra gjalda af fyrirtækjum, s.s. lækkun veiðigjalda, að létta kolefnisgjöldum af þeim, sem náð hafa loftslagsmarkmiðum 2030, lækkun tryggingagjalds og tekjuskatts fyrirtækja.

Hvað sagði Sigurður Hannesson meira ?:

"Það er hætt við, að iðnaður, sem fer úr landi, komi ekki aftur.  Framleiðslufyrirtæki hafa verið að hagræða og segja upp fólki í vetur.  Það segir sína sögu, þegar fyrirtæki vilja annaðhvort færa hluta starfseminnar utan eða telja sig ekki geta keppt við við erlenda keppinauta vegna þess, hversu hár innlendur kostnaður er orðinn.  Laun og vaxtakostnaður eru lægri erlendis sem og skattar og tryggingagjald.  Þessi skilyrði eru erfið fyrir ný fyrirtæki sem og þau eldri.  Hættan er sú, að ný fyrirtæki verði síður til." 

Í fréttinni kemur fram, að næst á eftir Svisslandi eru meðallaun í ISK í iðnaði og þjónustu hæst á Íslandi.  Meðallaun innan OECD eru 361,2 kISK/mán, og miðað við þau eru 5 hæstu launin innan OECD:  í Sviss 215 %, á Íslandi 205 %, í Noregi 172 %, í Lúxemborg 163 % og í Ástralíu 158 %. 

Ísland er áreiðanlega komið með hærri launakostnað en hagkerfið ræður við.  Eitt af mörgum úrræðum, sem grípa þyrfti til, til að verjast ofrisi og hrapi hagkerfisins, er lágt þak (undir verðbólgu) á allar launahækkanir í t.d. 3 ár.

Þann 13. júní 2018 birti Markaður Fréttablaðsins grein eftir Sigurð, sem bar fyrirsögnina:

"Heimatilbúinn vandi".

Hann lauk greininni þannig:

"Ein forsenda bættrar samkeppnishæfni er, að starfsumhverfi sé stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt.  Aukinn og víðtækur stöðugleiki er ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtæki, heldur allt íslenzkt samfélag.  Undanfarin ár hafa ytri skilyrði verið hagfelld, en því má ekki treysta til framtíðar litið.  Háir skattar, há laun og háir vextir í alþjóðlegu samhengi vinna þó á móti, auk þess sem lengra er gengið í innleiðingu EES-reglugerða en þörf krefur.  Það jákvæða í stöðunni er þó það, að þetta er heimatilbúinn vandi, sem stjórnvöld hafa öll tækifæri til að vinna á og efla þar með samkeppnishæfni Íslands."

Vera landsins í EES eykur verulega á óstöðugleikann í starfsumhverfi atvinnulífsins, því að framkvæmdastjórn ESB ungar stöðugt út nýjum Evrópugjörðum, lagabálkum og reglugerðum.  Það er ekkert tillit tekið til smæðar íslenzka þjóðfélagsins við innleiðingu þessara gerða, og kostnaður fyrirtækja og stjórnsýslu hérlendis af þessu skriffinnskubákni er að öllum líkindum yfir 100 miaISK/ár, þegar tillit er tekið til hamlandi áhrifa báknsins á framleiðniaukningu landsins.  Of lítil framleiðniaukning almennt hérlendis er einmitt viðurkennt vandamál. 

Til að losna við þessa byrði þarf einfaldlega að segja upp EES-samninginum.  Þá tekur við eins árs umþóttunartími.  Hafi ekki náðst að gera fríverzlunarsamning á þeim tíma, tekur gamli verzlunarsamningurinn á milli Íslands og ESB gildi, og hann var alls ekki slæmur.  

Þorbjörn Guðjónsson, cand.oecon., varpaði ljósi á hrikalega stöðu útflutningsfyrirtækis á hugbúnaðarsviði með grein í Morgunblaðinu 3. júlí 2018,

"Við erum öll í ástandinu og það er gott".

Hann sýndi áhrif verðlagsbreytinga á rekstrarniðurstöðu dæmigerðs hugbúnaðarfyrirtækis í útflutningi.  Árið 2014 námu rekstrartekjur þess MISK 350, en höfðu árið 2017 lækkað niður í MISK 285,4.  Gengishækkun, 18,5 %, innlend verðbólga, 6,7 % og launahækkanir, 27 %, höfðu breytt 3,6 % hagnaði fyrir skatt í 36 % tap.  Þetta er hrikaleg staða.  

Það er með ólíkindum, að ríkisstjórnin verðist vera stungin líkþorni og ekki hafa döngun í sér til að gefa eitt eða neitt út á þetta.  Henni ber þó að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika og að gera sitt til, að landið sé samkeppnishæft um fólk og fyrirtæki.  Vonandi vænkast hagur Strympu fyrr en síðar.  

 

 

 

 


Skiptar skoðanir um raforkumál Vestfirðinga

Þann 2. júní 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein  eftir Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa VesturVerks á Ísafirði undir fyrirsögninni,

"Dylgjur á dylgjur ofan".

Þegar Birna valdi grein sinni heiti, gæti hún hafa nýlokið við lestur greinar Tómasar Guðbjartssonar, hjartaskurðlæknis og náttúruverndarsinna, sem birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2018 undir heitinu:

"Þar sem vegur sannleikans endar".

Í raun er ekki miklu við grein Birnu að bæta; svo vel gerir hún grein fyrir því, hvers vegna Vestfirðingar og aðrir umhverfis- og framfarasinnaðir landsmenn ættu að sameinast um að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, sem eru í nýtingarhluta Rammaáætlunar, og þar sem virkjunartilhögun hefur verið rýnd af yfirvöldum og lögformlegt umhverfismat verið staðfest.  Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, eins og hún hefur verið kynnt af virkjunaraðilanum, VesturVerki, nýtur stuðnings heimamanna og sennilega langflestra Vestfirðinga.  Allt þetta eru næg rök fyrir útgáfu  framkvæmdaleyfis.  

Gerð var dólgsleg tilraun fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar til að svipta íbúana lýðræðislegu forræði sínu á framkvæmdaleyfinu.  Það var fyrirlitleg aðför að lýðræðinu, kolólögleg og heimskuleg, enda rann hún út í sandinn. Nú hafa sömu aðilar kært framkvæmd kosninganna í Árneshreppi, og eru þetta firn mikil. 

Tómas Guðbjartsson, læknir, rembist eins og rjúpan við staurinn með áróðursherferð sinni að telja Vestfirðingum og öðrum trú um, að meiri verðmæti fari í súginn með virkjuninni en hún muni skapa.  Það er mjög ósannfærandi málflutningur, reistur á hans eigin tilfinningalega mati, sem alls ekki er þó ætlunin að gera lítið úr, en á samt ekki að hafa neitt vægi við opinbera ákvarðanatöku af þessu tagi, þar sem taka þarf tillit til fjölmargra opinberra hagsmuna, hagsmuna samfélagsins á Ströndum, á Vestfjörðum í heild og hagsmuna landsins alls. 

Ef aðeins er litið á nærsamfélag virkjunarinnar, er alveg öruggt, að virkjunin mun leiða til þess, að fleiri geta og munu njóta náttúrufegurðar svæðisins.  Það er einfaldlega segin saga, að ferðamennska og íslenzkar virkjanir eiga mjög góða samleið.  

Um umhverfishlið málsins hefur Birna þetta að segja í téðri grein og hefur þar mikið til síns máls:

"Mönnum verður tíðrætt um umhverfisáhrif virkjunarinnar, enda verður aldrei hjá því komizt að skerða land vegna slíkra framkvæmda.  Það er aftur á móti leitun að vatnsaflsvirkjun af þessari stærð, sem er jafnlítið inngrip í náttúruna og Hvalárvirkjun.  Ekki verður hróflað við náttúruperlum, s.s. fossum, giljum eða árfarvegum, þótt vissulega muni rennsli minnka í þeim á ákveðnum tímum árs, líkt og gerist reyndar í náttúrunni sjálfri.  Þrjú uppistöðulón á háheiðinni ásamt stíflumannvirkjum verða helztu sjáanlegu ummerki virkjunarinnar, sem verður að öðru leyti öll neðanjarðar." 

Ekkert hefur stuðlað meir að því að auka samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi en virkjanir vatnsafls og jarðvarma, nema öll skrefin, sem tekin voru við útfærslu landhelginnar.

  Samkeppnisstaða landsins hefur látið undan síga á undanförnum misserum, og það er ávísun á lakari lífskjör og verri félagslega samkeppnisstöðu en við viljum sjá hérlendis.  Afturhaldssemi gagnvart frekari nýtingu orkulindanna með beztu fáanlegu tækni og lágmarks áhrifum á náttúruna, sem þar að auki eru öll afturkræf samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þar um, er ávísun á áframhaldandi neikvæða þróun samkeppnisstöðu landsins og þar af leiðandi aukinn ójöfnuð í samfélaginu á milli landshluta og á milli stétta.  Hvorugt viljum við hafa.

Tómas Guðbjartsson hefur fullyrt, að Hvalárvirkjun sé óþörf fyrir Vestfirðinga og fyrir landið í heild.  Þetta er kolrangt.  55 MW virkjun mun hækka skammhlaupsafl á Vestfjörðum, sem er nú svo lágt, að það stendur stöðugleika raforkukerfisins þar fyrir þrifum, sem kemur fram í miklu spennuflökti við bilanir.  Þar að auki er hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum forsenda þess, að unnt verði að færa flutnings- og dreifikerfið úr lofti í jörðu. Nægileg hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum er óhugsandi án nýrra virkjana þar. Slík aðgerð yrði tvímælalaust til mikilla bóta fyrir afhendingaröryggi rafmagns og ásýnd Vestfjarða.  

Hvalárvirkjun er ákjósanlega staðsett fyrir hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, því að með innmötun eftir aðeins einum legg, 132 kV Vesturlínu, kemur hringtenging á Vestfjörðum að mjög takmörkuðum notum.  Frá Nauteyri, sem verður mikilvæg aðveitustöð í Vestfjarðahringnum, staðsett í Ísafjarðardjúpi og með innmötun frá Hvalárvirkjun og Vesturlínu, mun koma tenging til norðurs við aðveitustöð í Ísafjarðarbæ, sem þannig mun loksins njóta bráðnauðsynlegrar 132 kV hringtengingar áður en langt um líður. Slíkt fyrirkomulag er bráðnauðsynlegt til að anna auknu álagi á norðanverðum Vestfjörðum án þess að þurfa að grípa til olíukyntrar neyðarrafstöðvar Landsnets á Bolungarvík.  

Aukning raforkunotkunar á Vestfjörðum er hlutfallslega meiri en víðast hvar annars staðar á landinu. Ástæðan er sú, að byggðin eflist nú mikið með aðflutningi fólks og góðri viðkomu.  Undirstaða þeirrar jákvæðu þróunar er sú, að nú er einkaframtakið að raungera þá stefnumörkun stjórnvalda frá því í byrjun 21. aldarinnar, að á Vestfjörðum (Austfjörðum og í Eyjafirði) yrði heimilað sjókvíaeldi á laxfiskum. 

Þar sem jarðhita skortir víðast hvar á Vestfjörðum, hefur ný atvinnugrein og mannfjöldaaukning í för með sér aukið álag á raforkukerfið og auknar kröfur um gæði raforkunnar.  Langhagkvæmast og skynsamlegast er, að alhliða uppbygging raforkukerfis Vestfjarða haldist í hendur við þessa umbyltingu atvinnuhátta.  

Því miður virkar ríkisvaldið hamlandi á þessa þróun, því að það er of seint á ferð með hringtengingu vegakerfis Vestfjarða, og það verður nú að sjá til þess, að Nauteyrarstöðin komist í fullt gagn sem fyrst eftir gangsetningu Hvalárvirkjunar.  

Tómas Guðbjartsson heldur uppi einskis nýtu pexi við virkjunaraðilann um eignarhald HS Orku og VesturVerks.  Það virðist hafa farið fram hjá honum, að öll ríki, nema ríki á borð við Norður-Kóreu, sækjast eftir beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífi sínu.  Samkeppnishæfustu lönd heims eru með meiri hlutdeild slíkra fjárfestinga en Ísland.  Ástæðan fyrir því, að þetta er þjóðunum hagstætt, er, að fjármagn kostar, og sá kostnaður lendir þá ekki á þjóðunum sjálfum, þar sem erlendar fjárfestingar eiga í hlut.  Annar vanmetinn kostur er sú stjórnunarþekking, tækniþekking og viðskiptaþekking auk viðskiptatengsla, sem  erlendri fjárfestingu fylgir. Laxeldið er gott dæmi um þetta.

Afturhalds- og einangrunarsinnar benda þá á, að erlendir fjármagnseigendur flytja ágóða sinn utan. Það gera þeir þó í enn meiri mæli á formi vaxtatekna, ef fjármögnun innanlands er með erlendum lántökum.  Fjárfestarnir beina oftast drjúgum hluta ágóða síns til endurfjárfestinga innanlands.  Tómas Guðbjartsson virðist vera málpípa þeirra sósíalistísku viðhorfa, að fjármagnseigendur eigi ekki rétt á umbun fyrir að setja fé í áhættusamar framkvæmdir í samanburði við  bankainnlán eða verðbréfakaup.  Þegar þetta blandast saman við andstöðu hans við umhverfisvænstu framkvæmdir nútímans, er ekki laust við, að holur hljómur verði í áróðrinum öllum.

Birna Lárusdóttir lýkur grein sinni með eftirfarandi orðum, sem einnig verða lokaorð þessa vefpistils:

"Ef við horfum á stóru myndina, er virkjun vatnsfalla til orkuframleiðslu ein umhverfisvænsta leiðin, sem völ er á til að stemma stigu við notkun jarðefnaeldsneytis og hlýnun jarðar.  Virkjun Hvalár er liður í því.  Um þetta ættu umhverfissinnar allra landa að geta verið á einu máli.  Á grundvelli sjálfbærrar nýtingar náttúrunnar ættum við því að geta sameinazt um að tala upp innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, þannig að íbúar þessa fámennasta landshluta Íslands fái setið við sama borð og aðrir landsmenn." 

 


EFTA-ríkin og miðstýring orkumála ESB

Í Noregi hafa miklar umræður og rannsóknir farið fram um afleiðingar þess fyrir Noreg að gangast undir vald stjórnsýslustofnunar Evrópusambandsins, ESB, á sviði orkumála, í fyrstu atrennu á grundvelli 1000 bls. laga- og reglugerðabálks ESB, 2009/72/EU. Mörgum þykir stjórnarskrárbrot blasa við og haldnar eru blysfarir til að mótmæla valdaafsali þjóðríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar á sviði orkumála.

Hérlendis er allt á rólegu nótunum enn þá, en íslenzkum almenningi kann þó að ofbjóða einnig.      Nú þegar eru í smíðum hjá ESB nokkur þúsund bls. viðbætur við téðan orkulagabálk, sem færa enn meiri völd til orkustjórnsýslustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem staðsett er í Ljubljana í Slóveníu.  Rannsóknarskýrsla norska De-facto félagsins, "EUs energiunion og norsk tilknytning til ACER ?", er afar fróðleg, og þar sem hagsmunum Íslands og Noregs gagnvart ACER svipar mjög saman, verður birt hér að neðan samantekt á skýrslunni, sem er þýðing á 2. kafla hennar. 

Með innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í EES-samninginn öðlast ACER völd til að láta leggja til Íslands aflsæstreng þaðan, sem hentugast þykir, og tengja hann við stofnkerfi í báða enda án þess að spyrja kóng eða prest hérlendis.  Eftir það verður staða Norðurlandanna tveggja gagnvart ACER og sameiginlegum raforkumarkaði ESB alveg sambærileg:

Í skýrslunni eru færð eftirfarandi rök fyrir því, að  Noregur á að nota neitunarmöguleika sinn gagnvart innlimun í Orkusamband ESB og tengingu við ACER:

  • Noregur verður með í orkusambandi, sem tekur stöðugum breytingum, og þar sem teknar eru ákvarðanir um stöðugt víðara svið orkumálanna hjá yfirþjóðlegri stofnun ESB, ACER.  Noregur missir innlenda stjórn á þessu mikilvæga stjórnunarsviði.
  • Takmark ESB er, að orka streymi frjálst yfir landamæri og að flutningsgetan verði næg, svo að verðmunur milli ólíkra svæða og landa verði minni en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh), í fyrstu atrennu innan skilgreindra svæða.
  • Aukin flutningsgeta og viðskipti með rafmagn mun hækka rafmagnsverð í Noregi.  Það kemur niður á bæði almennum notendum, iðnaði og starfsemi í einka- og opinbera geiranum.
  • Skilmálarnir um viðskipti með rafmagn um sæstrengina verða ákvarðaðir af ESB. Það getur hæglega þýtt sveiflukenndari vatnshæð í miðlunarlónum en hingað til hefur þekkzt. Stórþingið á í marz 2018 að ákveða, hvort tvær ESB-tilskipanir skuli verða teknar í norsk lög og reglugerðir - orð fyrir orð, þ.e. tilskipanirnar um viðskipti með rafmagn þvert á landamæri og um að færa völd frá Noregi til stjórnvaldsstofnunarinnar ACER.
  • Á Noreg kann að verða lögð kvöð af ESB/ACER um að leggja fleiri sæstrengi, ef raforkuverð í Noregi verður áfram meira en 0,25 ISK/kWh lægra en annars staðar á ESB-raforkumarkaðinum.  Ef flutningsgeta sæstrengja í rekstri og í undirbúningi er ekki næg til að jafna út verðmun á milli Noregs og annarra, er mögulegt að þvinga Noreg til að nota tekjurnar frá sæstrengjum í rekstri til að fjármagna nýja sæstrengi.  
  • Núverandi umframorka í norska raforkukerfinu mun hverfa, og þar með verður grundvöllur hagstæðs raforkuverðs fyrir orkusækinn iðnað rýrður verulega. Fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða varla gerðir.  Þetta getur sett þúsundir starfa á landsbyggðinni í Noregi í uppnám.  
  • Til að gjörnýta tekjumöguleika sæstrengjanna (t.d. með því að selja að deginum og kaupa að nóttunni) munu eigendur vatnsaflsvirkjana hafa hvata til að auka aflsveiflur virkjananna.  Það þýðir tíðar breytingar á rennsli ánna og hæð miðlunarlónanna, og slíkt hefur miklar neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið, náttúru- og útivistarhagsmunina.
  • Við yfirlestur þessarar skýrslu kom í ljós, að það er mikil andstaða í Noregi við frekari samþættingu í Orkusamband ESB og við tengingu Noregs við ACER í stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar.  Náttúru- og útivistarsamtök óttast afleiðingar aukinna aflsveiflna fyrir vatnskerfin.  Það kann þannig að vera meirihluti á norska Stórþinginu gegn því að færa völd yfir orkumálunum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER.
  • Það sem sameinar andstæðinga valdaframsals úr landinu til ACER, er óskin um, að völdin yfir orkumálum landsins skuli áfram vera í höndum norskra yfirvalda.  Fólk óskar ekki eftir stjórnarfyrirkomulagi, sem flytur völd frá norskum orkumálayfirvöldum til yfirþjóðlegra ESB-stofnana.
  • Varðandi ákvarðanir Stórþingsins veturinn 2018 er spurningin um innlenda stjórnun orkumálanna sett á oddinn í sambandi við hugsanlega samþykkt á tengingu Noregs við ACER.  Andófsfólk slíkrar samþykktar krefst þess, að við nýtum undanþáguákvæði EES-samningsins til að neita norskri ACER-tengingu.  
  • Andófsmenn eru þeirrar skoðunar, að hugsanleg ACER-tenging útheimti 3/4 meirihluta í Stórþinginu samkvæmt grein nr 115 í Stjórnarskránni um fullveldisframsal.  

Norska verkalýðshreyfingin er með þessum hætti á 32  blaðsíðum búin að kryfja viðfangsefnið Orkusamband ESB og tenging Noregs við ACER.  Niðurstaðan er einhlít.  Norska Stórþingið á að hafna þessum gjörningi frá ESB. Ef norski Verkamannaflokkurinn leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar, er úti um það. 

Þá vaknar spurningin hér á Íslandi, hvers vegna íslenzka verkalýðshreyfingin sofi Þyrnirósarsvefni, þegar tenging Íslands við ACER er annars vegar.  Útilokað er, að um sofandahátt eða þekkingarleysi sé að ræða.  Öllu líklegra er, að valdamikil öfl innan verkalýðshreyfingarinnar líti ACER-tengingu Íslands með velþóknun, enda sé hún aðeins enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að ESB og muni flýta fyrir væntanlegri aðild. Í raun má halda því fram, að verið sé að innlima EFTA-ríkin bakdyramegin inn í ESB með því að færa ESB-stofnun sömu völd þar og hún hefur í ESB-ríkjunum.  Sjá má nú skriftina á veggnum.   

 


Bábiljurnar ríða ekki við einteyming

Sýnt hefur verið fram á, að kosningabarátta vinstri grænna hefur snúizt um fullyrðingar, sem eru algerlega úr lausu lofti gripnar.  Það er klifað á lygum, sem eiga að réttlæta bylgju skattahækkana, ef/þegar vinstri flokkarnir ná tangarhaldi á ríkisvaldinu. Ómerkilegheitin ganga svo langt, að reynt er að telja fólki trú um, að almenningur muni ekki verða var við neinar skattahækkanir. 

"Hliðrun" byrða er bara kjaftæði. Hátekjuskattur á laun yfir 25 MISK/ár, eignaskattur á hreina eign yfir MISK 150 og eyðileggjandi hækkandi veiðileyfagjald mun tímabundið auka árlegar skatttekjur ríkissjóðs um minna en miaISK 20, sem er aðeins 10 % af fjármagninu, sem þarf í loforðaflaum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Þar eru hreinræktaðir loddarar og lýðskrumarar á ferð, sem munu ekki vita sitt rjúkandi ráð í ríkisstjórn. Nú er Katrín Jakobsdóttir farin að masa um samráð við stjórnarandstöðu á Alþingi og samráð við aðila vinnumarkaðarins, en það verður ekkert samráð um heimskupör hennar.  Þetta fjas er aðeins yfirbreiðsla á ákvarðanafælni hennar sjálfrar.

Bábiljurnar, sem hraktar hafa verið með vísun til OECD-Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París og Credit Suisse eru um, að á Íslandi sé meiri tekju- og eignaójöfnuður en annars staðar í norðanverðri Evrópu og að þetta þurfi að leiðrétta með tekjuskattshækkunum bæði á launatekjur og fjármagnstekjur, endurupptöku eignaskatts, og hver veit, nema hækkun erfðafjárskatts fái að fljóta með annarri tvísköttun.  Skattborgarans bíður ógnarstjórn villuráfandi sauða, sem vita ekkert í sinn haus.  Niðurstaðan verða hrossakaup a la Reykjavík, öll í boði skattborgaranna.

Það er dæmigert siðleysi að hálfu sossanna að reisa kosningabaráttu sína og væntanlega ríkisstjórnarstefnu á lygum.  Þegar hallað hefur á þá í rökræðunum, hafa þeir síðan sett mykjudreifarana í gang.  Það er lýsandi fyrir innrætið, því að í þeim ranni hefur jafnan gilt, að tilgangurinn helgi meðalið. Þar sem þannig háttar til, skiptir siðferði og heiðarleiki engu máli.   

Fyrir utan siðleysið þá er furðufávíslegt að leita sér ekki haldbærra upplýsinga um það, sem ætlunin er að láta kosningabaráttuna snúast um.  Hjá OECD hafa komið fram óyggjandi gögn, sem sýna svart á hvítu, að tekjujöfnuður er mestur á Íslandi af öllum ríkjum OECD, og hjá Credit Suisse hafa birzt gögn, sem sýna, að eignajöfnuður á Norðurlöndunum er mestur á Íslandi og jafnframt mestur á meðal auðugra ríkja í heiminum.

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur, benti jafnframt á þriðju bábilju hinna rakalausu og berstrípuðu vinstri flokka í Morgunblaðsgrein á bls. 29 þann 14. október 2017. Hún er sú, "að laun og auður séu með lægsta móti á Íslandi, og þar með séu lífskjör í mun verra horfi en í nágrannalöndunum.  Fyrst örlítið um ríkidæmi Íslendinga.  Samkvæmt rannsókn Credit Suisse eru auðæfi fullorðinna Íslendinga þau næstmestu að meðaltali á eftir Sviss af öllum þjóðum heims.  Ekki meira um það.

Annað - ef landsframleiðsla á mann á meðal ríkja heims er skoðuð, kemur í ljós, að áætlað er, að hún verði sú fimmta hæsta í heiminum [á Íslandi] á þessu ári.  Einungis Lúxemborg, Sviss, Noregur og Makaó búa við meira ríkidæmi á þennan mælikvarða en Ísland.  Þetta má lesa úr gögnum frá Alþjóða gjaldaeyrissjóðinum."

Það er alveg sama, hvar borið er niður.  Það stendur hvergi steinn yfir steini í málflutningi þessa lágkúrulega og brenglaða fólks, sem heldur dauðahaldi í kenningar sínar um, að íslenzka þjóðfélagið sé einhvers konar eymdarsamfélag, sem sé ekki við bjargandi án stórfelldra inngripa stjórnmálamanna til að bæta kjör alþýðunnar.  Öllum ætti að vera orðið ljóst, að þetta eru einfeldningsleg öfugmæli, sem engan veginn eiga við raunverulegar þjóðfélagsaðstæður á Íslandi, heldur ímyndað þjóðfélag slagorðaglamrarans Katrínar Jakobsdóttur og sósíalistískra fylgifiska hennar.  

Sveimhugar og grillupúkar af þessu tagi eru ófærir um að stjórna heilu þjóðfélagi.  Þess vegna mun illa fara með þetta fólk í Stjórnarráðinu. Það mun beita röngum ráðum, sem skapa munu fleiri vandamál en þau leysa.  Það er vegna þess, að sýn sósíalista á viðfangsefnin er röng og forgangsröðunin brengluð.

Það er enda eins víst og nótt fylgir degi, að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna mun minnka fljótlega eftir að áhrifa fíflagangs þeirra með tekjur og gjöld ríkissjóðs fer að gæta. 

Það er jafnframt víst, að landsmenn væru ekki í sinni frábæru stöðu nú, ef undirmálsliðið hefði vermt ríkisstjórnarstólana eftir kosningarnar 2013 og hingað til.  Nægir að nefna "skuldaleiðréttingu heimilanna", uppgjör ríkissjóðs við þrotabú bankanna með stórfelldum stöðugleikaframlögum í ríkissjóð og afnám gjaldeyrishaftanna (enn eru þó hömlur á innflæði). Fjórar marktækar einkunnagjafir eru hækkun alþjóðlegs lánshæfismats á ríkissjóði, mikil skuldalækkun hans, lækkun vaxta Seðlabankans og lág verðbólga, sem þó hefur verið mæld óþarflega há vegna of mikils vægis húsnæðisliðarins.

Einn af þeim sköttum, sem Katrín Jakobsdóttir ætlar að hækka, ef/þegar hún kemst aftur til valda, er fjármagnstekjuskattur.  Sumir hagfræðingar telja, að sú skattlagning hafi neikvæðust áhrif á hagvöxtinn.  Flokksmenn Katrínar hafa margir hverjir horn í síðu hagvaxtar, sem þeir tengja við ósjálfbæra neyzlu og ofneyzlu, og þess vegna má búast við mikilli hækkun þessarar skaðlegu skattheimtu, sem þó er áætlað, að afli ríkissjóði aðeins 3,4 % skatttekna árið 2018. Þessi skattstofn skreppur auðveldlega saman við hærri skattheimtu og stækkar að sama skapi við lægri skattheimtu. Er til of mikils mælzt, að vinstri menn hugsi einhvern tíma málið til enda, en gösslist ekki áfram að afloknum hrossakaupum í samsteypustjórninni ? 

Um víðtækar og slæmar afleiðingar þessarar skattheimtu ritaði Vilhjálmur Bjarnason, Alþingismaður, í Morgunblaðið, 13. október 2017:

"Frjáls sparnaður með frjálsri þjóð":

 

Því miður er það svo, að allir hvatar í þessu samfélagi, sér í lagi skattalegir, eru til að auka skuldsetningu og draga úr sparnaði.  Raunar er það svo, að slíkir hvatar leiða að lokum til erlendrar skuldsetningar, greiðsluhalla við útlönd og þeirra meina, sem af slíkum halla leiða, sem eru gengisfellingar og kjaraskerðingar, sem fylgja gengisfellingum.  Þeir, sem vilja draga úr peningalegum sparnaði, eru landsölumenn."

Það eru álög á veruleikafirrtum vinstri mönnum, að þeir virðast enga grein gera sér fyrir afleiðingum skattahækkana sinna á hegðun skattborgaranna. Hún getur þó hæglega leitt til landflótta og samdráttar í atvinnulífinu, sérstaklega við núverandi aðstæður, þar sem hagkerfið er takið að hægja á sér.  Að láta skattheimtuna ráðast af geðþótta stjórnmálamanna og pólitískum kennisetningum í stað skýrra hagfræðilegra raka er ótrúlega frumstætt og kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum á 21. öld.  Katrín Jakobsdóttir hefur ekki enn aflað sér grundvallar þekkingar í hagfræði og á efnahagsmálum Íslands.  Ætlar hún að læra með því að fara sársaukafullu leiðina ?  Er það ekki of mikil leti ?

Þótt skattheimtan sé að forminu til 20 % núna af fjármagnstekjum, er hún í raun miklu hærra hlutfall af raunvöxtum, sem er hið eðlilega skattaandlag, en alls ekki verðbótaþátturinn.  Ef t.d. verðbótaþátturinn er 2 % og vextir 3 % af sparifjárupphæð, þá verður skattheimtan af raunávöxtuninni 33 %.  Þetta er svo mikil skattheimta, að hún letur til sparnaðar, samfélaginu til stórtjóns.  Þessa skattheimtu ætti að lækka niður í 10 % af raunávöxtun einvörðungu.  Slík aðgerð fæli í sér jákvæðan hvata til aukins sparnaðar, og mikill sparnaður einstaklinga er undirstaða heilbrigðs hagkerfis.  Samkvæmt lögmáli Lafflers munu tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti hækka við slíka skattheimtulækkun, en þær eru áætlaðar miaISK 28,5 árið 2018.

Um þetta skrifaði Vilhjálmur Bjarnason:

"Sparnaður er aldrei hættulegur. Sparnaður er forsenda framfara og nýsköpunar. Í öllu tali um skattlagningu fjáreigna er hvatinn sá að gera útlendinga ríka.  Auðvitað á markmiðið að vera að gera Íslendinga frjálsa."

Þetta er umhugsunarvert hjá Vilhjálmi.  Frjáls er einvörðungu sá, sem nýtur fjárhagslegs sjálfstæðis.  Margir Íslendingar hafa þurft að fórna fjárhagslegu frelsi sínu tímabundið á fyrri hluta ævinnar til að öðlast slíkt frelsi síðar á ævinni.  Hægri og vinstri stjórnmálaflokka greinir aðallega á um það, hvort almenningi eigi að gefast kostur á að safna eigin fé um dagana eða hvort hið opinbera eigi jafnóðum að gera upptækt allt, sem aflögu er.  Vinstri flokkarnir hérlendis hafa skrúfað skattheimtuna upp í rjáfur, en samt boða þeir skattahækkanir eftir kosningar 28. október 2017.  Útgjaldaloforðin eru samt margföld á við þær skattahækkanir, sem nefndar hafa verið, svo að engu er líkara en vinstri flokkarnir hyggist í raun halda enn út í skuldsetningarfyllerí, þ.e. hætta að grynnka á skuldasúpu ríkissjóðs, en dýpka hana þess í stað.  Að senda börnunum reikninginn með þessum hætti væri eftir öðru hjá vinstri mönnum.  Það er hámark ábyrgðarleysis glámskyggnra stjórnmálamanna.  

Að lokum þessi tilvitnun í Vilhjálm Bjarnason um þjóðhagslegt mikilvægi sparnaðar:

"Það er nefnilega þannig, að almannatryggingakerfi, sem hér hefur verið byggt upp, greiðir einungis lágmarksbætur.  Til þess að treysta það þurfa einstaklingar að byggja upp sinn viðbótar lífeyrissparnað og að eiga frjálsan sparnað því til viðbótar.  Til þess þarf að vera hvati, en ekki, að sparnaðurinn sé einungis skattaandlag. 

Hinn frjálsi sparnaður byggir upp velferð allra í samfélaginu, ekki aðeins þeirra, sem eiga, þótt þeir njóti síðar.

Með þeirri aldursskiptingu, sem er með þjóðinni, geta bætur almannatrygginga aldrei orðið grundvöllur ellilífeyris.  Frjáls sparnaður og hvatar hans geta einungis bætt úr vanda almannatrygginga og lífeyriskerfis."

Lækkum skattheimtu af fjármagnstekjum niður í 10 % af raunávöxtun.

 

  

 


Vindmylluriddara-gengið: VG

Einkenni á málflutningi VG-félaga er, að þeir búa sér til gerviveröld og æsa sig síðan upp í hatrömmum andróðri við "óréttlætið" í þessum gerviheimi. Þessi skrýtna hegðun vinstri grænna hefur opinberazt í furðumálflutningi þeirra í yfirstandandi kosningabaráttu um jöfnuð og kaupmátt ráðstöfunartekna á Íslandi, sem hefur verið flett ofan af sem hreinum ósannindum.  VG-félagar eru furðudýr í pólitískum sýndarveruleika, án minnstu þekkingar á fjármálum íslenzka ríkisins og lögmálum efnahagslífsins.  Þeir svífa um á rauðu skýi klisja og slagorða. Sannkallaðir vindmylluriddarar.

Sósíalistar komust í sálarháska við fall Ráðstjórnarríkjanna árið 1990, og ráð þeirra út úr því hugmyndafræðilega öngstræti var að hverfa á vit sýndarveruleika.  Þá skálda þeir upp "óréttláta og spillta" gerviveröld, og sefja sig upp í hatramma baráttu gegn henni. Þetta höfum við séð í málflutningi Hugos Chavez og Nicolas Maduros í Venezúela, og þetta sjáum við á Íslandi, þar sem sósíalistar skálda upp sviðsmynd af fátækt, ójafnrétti og misskiptingu efnislegra verðmæta, sem stenzt enga skoðun.

Formaður VG, Katrín Jakobsdóttir, gaf innsýn í forneskjuleg hugarfylgsni sín á Flokksráðsfundi VG 19. ágúst 2017.  Þar varpaði hún ljósi á fáránlega sviðsmynd, sem hún hefur dregið upp af Íslandi og á sér enga stoð í raunveruleikanum:

"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."

Kjósendur ættu að velta því fyrir sér, hvaða efnahagskerfi það er, sem "litla stúlkan með eldspýturnar og púðurtunnuna" vill, að leysi núverandi efnahagskerfi af hólmi.  Niðurstaða blekbónda er sú, að það eigi ýmislegt skylt við "alræði öreiganna".  

Þarna er forsenda formanns vindmylluriddara-gengisins sú, að á Íslandi eigi sér stað "vaxandi misskipting gæðanna".  Þessi forsenda formannsins er röng.  Tekjujöfnuður er hvergi meiri á Vesturlöndum en á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum GINI-ójafnaðarstuðli, og þessi ójafnaðarstuðull hefur farið nánast stöðugt lækkandi frá tíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Þarf mikla ósvífni eða ótrúlega fávísi, og er hvorug gott vegarnesti inn á Alþingi og jafnvel í stól forsætisráðherra, til að varpa fram þessum ósannindavaðli.  

Lítum þá á eignastöðuna.  Hagstofan birti í v. 40, fyrstu viku október 2017, árlegar tölur um eigna- og skuldastöðu einstaklinga og heimila.  Eigið fé heimilanna jókst um 13 % árið 2016 og fór í rúmlega miaISK 3300 (mia=milljarður) í árslok.  Þetta sýnir minnkandi skuldsetningu og aukið efnahagslegt öryggi almennings.  Efsta eignatíund heimilanna á 62 % heildareignanna eða miaISK 2100.  Erlendis er þetta hærra hlutfall, enda er íbúðareign almennari hér en víðast hvar annars staðar, þótt sigið hafi á ógæfuhliðina í þeim efnum á þessum áratugi vegna geggjaðra verðhækkana af völdum lóðaskorts og útleigu til ferðamanna. Til að lækka verðið þarf einfaldlega að stórauka framboðið. Þá reka vinstri flokkarnir andróður gegn sjálfseignastefnu húsnæðis.  Allt hefur þetta leitt til hlutfallslegrar fækkunar fólks, sem býr í eigin íbúð.  Það er brýnt velferðarmál að snúa þessu við, svo að yfir 90 % fjölskyldna nái að koma sér eigin þaki yfir höfuðið og tryggja þannig afkomu sína til æviloka, eins og bezt verður á kosið.

Hvað eru þetta miklar hreinar eignir á mann í efstu tíund ?  100 MISK/mann (M=milljón) er meðaltalið, þ.e. hús, bíll og nokkur peningalegur sparnaður.  Það er nú allt og sumt.  Vart er hægt að hugsa sér meiri eignajöfnuð í landi, þar sem ein helzta lífeyristrygging landsmanna er eigið húsnæði, og bíll er hverjum manni nauðsyn til að komast ferða sinna.  

Annar mælikvarði á þróun eignastöðu fjölskyldnanna er breyting á fjölda með neikvætt eigið fé.  Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkaði árið 2016 um 20 % og voru 5856 í árslok með að meðaltali -MISK 5,0 í eigið fé.  Fjölskyldum í eigin húsnæði, sem ætla má, að búi við þröngan kost, fækkaði þannig um 1-2 þúsund.  Frá árinu 2010, þegar alræmd "skjaldborg heimilanna" var við lýði, hefur þessum fjölskyldum fækkað um 70 %, en þær voru þá 25´000 talsins.  Þetta er "bylting auðvaldskerfisins" til batnaðar fyrir heimilin í landinu.  

Á árabilinu 2010-2016 hefur eiginfjárstaða einstaklinga hækkað úr miaISK 1565 í miaISK 3343 eða rúmlega tvöfaldazt.  Til samanburðar hefur eiginfjárstaða eignamestu tíundarinnar "aðeins" hækkað um 53 %.  Auðvitað munu firrtir vindmylluriddarar VG stinga hausnum í sandinn við þessi tíðindi, en hvernig skyldi upplitið á þeim verða við þau tíðindi, að eigið fé 5. tíundarinnar hefur frá 2010 aukizt um 413 % og 6. tíundar um 317 %.  Fólk í tíundinni með verstu eiginfjárstöðuna hefur lækkað nettóskuldir sínar um helming.  Tveir eignatíundarhópar, 3. og 4. tíund, voru með neikvætt eigið fé árið 2010, en þessi 20 % skattgreiðenda eru nú með jákvætt eigið fé.  

Óðinn skrifar um þetta í Viðskiptablaðið 5. október 2017:

"Allt tal um, að uppgangur síðustu ára hafi verið á kostnað launafólks og bara til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur og "auðvaldið" er því úr lausu lofti gripið.  Það er gott að hafa í huga í aðdraganda enn einna kosninganna."   

Það, sem hér hefur verið dregið fram af talnastaðreyndum Hagstofunnar, sannar, að eignajöfnuður í landinu hefur batnað gríðarlega frá 2010 og hélt áfram að batna árið 2016.  Tali formanns vindmylluriddaragengisins um "vaxandi misskiptingu gæðanna" er á grundvelli ofangreindra tölulegu staðreynda bezt lýst sem helberri þvælu, sem reist er á firrtu sósíalistísku viðhorfi til raunveruleikans.

  Katrín Jakobsdóttir hefur náð talsverðri leikni sem vindmylluriddari í að draga upp falsmynd af þjóðfélaginu og síðan að ráðast á þessa falsmynd í anda byltingarsinnaðra sósíalista, nákvæmlega eins og vindmylluriddarinn "sjónumhryggi" á sinni tíð á Spáni réðist á vindmyllur, sem hann taldi illa dreka.  Það er ódýr kosningabarátta að ætla að umbylta því, sem er ekki til, og boðar ekkert gott fyrir hag landsins eftir kosningar 28. október 2017, ef vindmylluriddarar ná völdum.  Að afneita staðreyndum og húka í heimi tilbúningsins, leikritsins, hentar almenningi afskaplega illa, ef hinir firrtu sitja í Stjórnarráðinu.    

 


Eymdarvísitalan

Eymdarvísitala er einfaldur mælikvarði á lífskjör í einu landi.  Höfundur hennar er Arthur Okun, hagfræðingur, sem nefndi hana á ensku "The misery index", en sumir kalla hana "The economic discomfort index".  

Hún er reiknuð þannig út, að tekin er verðbólga síðustu 12 mánuðina, vb %, og meðaltals atvinnuleysi á sama tímabili, al %, og lagt saman:

EV = vb % + al %.

Síðan 1991 hefur EV yfirleitt verið á bilinu 5-10, en árin 2016-2017 bregður svo við, að hún er undir 5 og er um þessar mundir í sínu sögulega lægsta gildi, 4,2.  Eymdarvísitalan hefur ekki farið undir 5 síðan árið 1998. Hún náði hámarki í árslok 2008 og hefur nánast samfellt verið á niðurleið síðan.  Eymdarvísitalan er núna einna lægst á Íslandi af öllum löndum heims, enda er kaupmáttur launa hvergi hærri, nema í Sviss.  Íslendingar hafa skriðið fram úr Norðmönnum, Dönum og Lúxemborgurum, hvað kaupmáttinn varðar.  Það ríkir hins vegar óvissa um framhaldið, og nokkurrar svartsýni er tekið að gæta um, að takast muni að varðveita þennan tiltölulega háa kaupmátt.  

Um þá, sem hæst hafa skorað í Eymdarvísitölu, skrifar Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management, í Markaði Fréttablaðsins, 4. október 2017:

"Í samanburði á eymdarvísitölunni við erlend ríki má sjá, að þau, sem skora verst í eymdarvísitölunni, eru þau, þar sem efnahagsleg óstjórn og óstöðugleiki er mestur, og þar ríkir raunveruleg eymd."

 

Það er mikil hætta á því, að eftir kosningarnar 28. október 2017 stigi hér Eymdarvísitalan.  Ástæðan er sú, að þá er líklegast, að fylgi vinstri flokkanna og miðjumoðsins dugi til að mynda sams konar meirihluta um landsstjórnina og nú ríkir í Ráðhúsi Reykjavíkur, þ.e. vinstri grænir, samfylkingar og píratar, eða miðjumoð í stað hinna ókræsilegu pírata.  Í Reykjavík hafa verið mikil lausatök á fjármálum og skuldum verið safnað upp í rjáfur þrátt fyrir hámarks skattheimtu á nánast öllum sviðum.  Skuldastaða Reykjavíkur-samstæðunnar, þ.e. borgarsjóðs og dótturfyrirtækja, er ósjálfbær, þannig að nú stefnir í, að yfir Reykjavík verði settur tilsjónarmaður snemma á næsta áratugi. Er það hrikaleg lítillækkun fyrir eina höfuðborg.

Í stuttu máli má telja ástæður árangursleysis vinstri manna við stjórnun opinberra málefna þær, að þá skortir bæði þekkingu og áhuga á fjármálum og áhrifum breytinga á opinberum gjöldum á hag og hegðun almennings, og tilhneigingu þeirra til að þenja út opinber umsvif og stjórnkerfi hins opinbera auk dómgreindarleysis, sem leiðir til, að þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum og fara á flot með glórulaus gæluverkefni.   

Nú hægir á hjólum efnahagslífsins á Íslandi.  Því til sannindamerkis lækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína um 0,25 % í byrjun október 2017 , og eru þeir þá 4,25 %.  Það má þá búast við, að atvinnulausum fjölgi í vetur frá núverandi gildi, 2,8 %, þótt engar íþyngjandi kvaðir verði lagðar á fólk og fyrirtæki.  Þess vegna er rétta ráðið nú að halda áfram á braut skattalækkana.  Hækkun skatta skapar skilyrði brotlendingar hagkerfisins við núverandi aðstæður.    

Vinstri græn lögðu í vor fram hugmyndir um auknar tekjur ríkissjóðs við umræður um fjármálaáætlun ríkisstjóðs 2018-2022 upp á um miaISK 333, stighækkandi frá 53 miaISK/ár til 75 miaISK/ár.  Þetta var til að fjármagna heldur minni útgjaldahugmyndir.  VG útfærði ekki hugmyndir sínar um aukna fjáröflun fyrir ríkissjóð.  Katrín Jakobsdóttir hefur í umræðum um þetta sýnt, að hún ber mjög takmarkað skynbragð á fjármál ríkisins, því að hún hefur gert tilraun til að telja fólki trú um, að þessi tekjuöflun sé möguleg með því einvörðungu að auka skattheimtu á efstu tekjutíunduna, auðugustu heimilin og sjávarútveginn.  Þetta hefur verið hrakið rækilega, en málflutningurinn afhjúpar téða Katrínu sem loddara af ósvífnustu gerð gagnvart þjóð sinni.  Hún er þar með orðin fullkomlega ótrúverðug og í engu treystandi.  Að kaupa af henni notaðan bíl væri glapræði. 

Ef ný ríkisstjórn fjármagnar þetta með aukinni skattheimtu á almenning, sem þeim ber að gera í stað þess að senda framtíðinni reikninginn, er hér um svo gríðarlegar viðbótar álögur á fólk og fyrirtæki (um 1,0 MISK/íb) að ræða, að atvinnuleysið mun örugglega vaxa mun hraðar en ella.  

Aukið peningamagn í umferð verður fylgifiskur þess að hægja á uppgreiðslu ríkisskulda, en verja auknu fé þess í stað til rekstrar og fjárfestinga á vegum ríkisins.  Aukið peningamagn í umferð mun leiða til vaxandi verðbólgu, sem grefur undan lífskjörum almennings og þyngir skuldabyrði flestra húsnæðislána.  Hætt er við, að þetta nýja, en gamalkunnuga ástand, skapi ólgu á vinnumarkaði. Eymdarvísitalan nær þá örugglega tveggja stafa tölu.  Vitleysan í vinstri grænum getur orðið þjóðinni dýrkeypt.   

Aukin skattheimta af fyrirtækjum á tímum minnkandi hagvaxtar mun neyða þau til að draga saman seglin í mannahaldi, enda mun hækkun tekjuskatts leiða til minni eftirspurnar vöru og þjónustu.  

Þetta saman lagt mun óhjákvæmilega leiða til þess, að þessi ágæti mælikvarði á stjórnarfar í landinu, Eymdarvísitalan, mun taka stökk upp á við, þegar áhrifa nýrrar vinstri stjórnar tekur að gæta.  Miðað við hefðbundið getuleysi vinstri manna til að stjórna landinu, hirðuleysi um efnahagslögmálin og andúð á hagvexti, þá er ástæða til að óttast hækkun Eymdarvísitölunnar um 2,0/ár, þannig að hún verði komin yfir 10,0, ef vinstri stjórn endist út fullt kjörtímabil, en það er sögulega séð óvenjuhá Eymdarvísitala á Íslandi.  Það verður spennandi að fylgjast með þessu og hafa þá ríkulega í huga, að borgaralegum ríkisstjórnum hefur tekizt svo vel upp að undanförnu, að Eymdarvísitalan árið 2017 náði niður í 4,2 og var á niðurleið í október 2017.   

falkinn1_444247

  


Röng ráð við vitlausu stöðumati

Meginviðhorf vinstri grænna í þessari kosningabaráttu eru fallin um koll.  Með öðrum orðum er undirstaða áróðurs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017 reist á ósannindum. Það er mikið áhyggjuefni, ef vinstri grænum tekst að tæla fólk um hríð til stuðnings við sig á fölskum forsendum á öld upplýsinganna.  Enn meira áhyggjuefni er, að í sjálfsblekkingu sinni um stöðu samfélagsins mun VG í ríkisstjórn framkvæma, eins og sýndarveruleiki flokksbroddanna sé sannleikur.  Landsmenn eru þá í stöðu skipverja undir stjórn blinds skipstjóra með bilaðan áttavita. Hvað má verða slíkum til bjargar ?

Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum frambjóðendum VG verið eins og biluð plata, sem í síbylju fer með utan að lærðar staðleysur um óréttlætið í íslenzku samfélagi, sem stafi af mjög ójafnri tekjuskiptingu og ójafnri eignadreifingu á meðal íbúanna.  Nú er ekki lengur hægt að hækka skattana undir klisjunni: "Hér varð hrun", heldur sé nú þjóðarnauðsyn að hækka skatta til að jafna tekjuskiptingu og eignadreifingu í íslenzka samfélaginu.  Þessi málflutningur vinstri grænna er illa þefjandi "bolaskítur", hreinræktað bull, reist á samfélagslegum bábiljum vindmylluriddara. 

Það er nákvæmlega engin þörf á að hækka neina skatta núna.  Þvert á móti eru slík heimskupör stórhættuleg við núverandi efnahagsaðstæður og geta framkallað hér "harða lendingu" með "stagflation", þ.e. efnahagslega stöðnun með verðbólgu og atvinnuleysi.  Skipið er dauðadæmt með blindan skipstjóra og biluð siglingatæki í brúnni.  

Bábilja VG #1: Það er svo mikill tekjuójöfnuður á Íslandi, að nauðsynlegt er að þrepskipta tekjuskattinum enn meir og hækka jaðarskattheimtuna:

Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið hjá VG, sem sýnir, að meginmálflutningur flokksins eru lygar einar, og ráðstafanirnar verða þess vegna stórskaðlegar fyrir hagkerfið.  Flokkurinn er algerlega ótrúverðugur, því að hann reisir ekki málflutning sinn á staðreyndum, heldur hugarórum, og  flokksmenn VG stunda hreint lýðskrum.

Samkvæmt nýjustu gögnum frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, er Ísland í langneðsta sæti ójafnaðarlistans, GINI, um ójafna tekjuskiptingu, þar sem efst tróna Síle - með 47 stig, Mexíkó-46 og Bandaríkin-39, en neðst eru Ísland-23, Noregur-25 og  Danmörk-25.  Það er 10 % munur á Íslandi og Noregi.  Þetta er heilbrigðisvottorð fyrir íslenzka þjóðfélagið, og því ber að fagna, að jöfnuðurinn hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þeirrar stefnu í kjarasamningum að hækka lægstu laun tiltölulega mest.  Það er hins vegar hægt að ganga svo langt í jöfnun ráðstöfunartekna, að nauðsynlegur hvati til að klífa upp tekjustigann verði of veikur.  Þá tapar allt samfélagið, af því að slíkt kemur niður á landsframleiðslunni.  

Bábilja VG #2: Eignadreifingin er svo ójöfn á Íslandi, að nauðsynlegt er að taka upp eignaskatt, sem lygalaupar VG nefna auðlegðarskatt:

Samkvæmt gögnum frá Credit Suisse, sem Halldór Benjamín Þorbergsson vitnar til í ágætri Morgunblaðsgrein sinni 12. október 2017:

"Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi":

"Þar kemur fram, að eignajöfnuður á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi.  Í heildarsamanburði Credit Suisse er fjöldi ríkja með minni eignaójöfnuð en Ísland, en þau eiga það sammerkt að vera mun fátækari ríki.  Það er jákvæð fylgni á milli eignaójöfnuðar ríkja og ríkidæmis þeirra.  Lægra menntunarstig dregur úr [eigna] ójöfnuði.  Aukið ríkidæmi þjóða eykur hlutfallslegan [eigna] ójöfnuð vegna dreifingar fjármagns og framleiðslutækja.  Jöfn dreifing fjármagns og fjármuna hefur verið reynd; sú tilraun gekk ekki vel." 

Blautlegir draumar VG-forkólfa fjalla um þetta síðast nefnda, þ.e. að ná fram hérlendis á endanum jafnri dreifingu fjármagns og fjármuna, en það er ekki hægt, nema skapa hér fátæktarríki, alræði öreiganna.  Vinstri grænir eru úlfar í sauðargæru.  Þeir koma óheiðarlega fram, breiðandi yfir nafn og númer.

Það er þess vegna ákveðið hagstjórnarlegt afrek á Íslandi að ná einu mesta ríkidæmi heims sem þjóð og á sama tíma að vera með mesta eignajöfnuð ríkra þjóða. 

Loddarar vinstrisins halda því líka fram í þessari kosningabaráttu, þar sem hvorki er skeytt um skömm né heiður, að eignaójöfnuður fari vaxandi á Íslandi.  Þetta er rétt ein bábiljan, fullyrðing, sem er algerlega úr lausu lofti gripin.  Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands voru 62 % eigin fjár á Íslandi í eigu þeirra 10 % heimila, sem mest áttu eigið fé árið 2016.  Á velmektardögum Samfylkingar og VG, var hlutfallið hæst og náði þá 86 %, en hefur farið stöðugt lækkandi síðan. Að meðaltali tímabilið 1997-2016, 20 ára skeið, er hlutfall 10 % heimila með mest eigið fé 64 % af heildar eiginfé, svo að hlutfallið er núna undir meðaltali. 

Hvaðan hafa bullustampar Samfylkingar og VG þá vizku sína, að eignaójöfnuður á Íslandi hafi farið vaxandi að undanförnu ?  Þetta er fullkomlega ómarktækt fólk.  Málflutningur þess er reistur á sandi !

 Merki Sjálfstæðisflokksins

 

 

 


Sósíalismi er ekki svarið

Landsmenn standa frammi fyrir langtíma hagvaxtarrýrnun af völdum óhagstæðrar þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar.  Að öðru óbreyttu mun þetta leiða til hægari lífskjarabata þjóðarinnar og að lokum lífskjararýrnunar, ef fer fram sem horfir.

Svo kann að fara af þessum sökum, að landsmenn upplifi aldrei aftur viðlíka hagvöxt og í fyrra, 7,2 %, og að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi ekki mikið úr þessu. Svona svartsýni styður mannfjöldaspá Hagstofu Íslands.  Á hálfri öld, 2017-2065, mun fjöldi fólks yfir 64 ára aldri 2,4 faldast, hækka úr 50 k í 120 k.  Hið s.k. framfærsluhlutfall, þ.e. fjöldi fólks undir tvítugu og yfir 64 sem hlutfall af fjöldanum 20-64 ára mun á sama tíma hækka úr 51 % í 72 %.  Þetta er mjög íþyngjandi breyting fyrir samfélagið, því að árlegur sjúkrakostnaður fólks yfir 64 ára aldri er að jafnaði ferfaldur á við árlegan sjúkrakostnað yngri borgaranna.

Samkvæmt Sölva Blöndal, hagfræðingi hjá GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum, 23. ágúst 2017, má bást við, að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2015-2050 m.v. 3,0 % raunaukningu á ári, fara úr 7,0 % í 15,2 %.  Þetta þýðir með núverandi verðlagi og hlutdeild ríkisins í sjúkrakostnaði yfir 200 miaISK/ár útgjaldaauka ríkisins.  Hvernig í ósköpunum á að fjármagna þetta ?

Hjá OECD hafa menn komizt að því, að meðaltal ríkissjóðsútgjalda til heilbrigðismála muni árið 2060 nema 14 % af VLF og hafa orðið ósjálfbær um miðja öldina, þ.e. eitthvað verður undan að láta á útgjaldahlið ríkisfjármálanna.  Kerfið hrynur. 

Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast nú þegar til að draga úr tjóninu, sem blasir við.  Er meiri sósíalismi svarið ?  Nei, áreiðanlega ekki.  Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á nýlegum flokksráðsfundi eins og Hugo Chavez áður en hann kollsigldi ríkasta landi Suður-Ameríku í gjaldþrot:

"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."

Stefna Katrínar og hennar nóta birtist við afgreiðslu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi.  Þær fólu í sér svo mikla hækkun ríkisútgjalda á næstu árum, að þær mundu grafa undan getu ríkisins til að takast á við öldrunarvandann, sem við blasir í framtíðinni.  

Það eru aðeins tvær leiðir til að fjármagna útgjaldahugdettur vinstri manna.  Annaðhvort með skuldasöfnun eða skattahækkunum.  Hvort tveggja dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til langs tíma og er þannig ávísun á enn stórfelldari kjaraskerðingu barna okkar og barnabarna en ella verða nauðsynlegar.

Skynsamlegustu viðbrögðin núna við aðsteðjandi vanda eru þríþætt:

  1. Reyna að bæta lýðheilsuna með fræðsluátaki í skólum og í fjölmiðlum um skaðsemi óhófsneyzlu, hreyfingarleysis og óholls matarræðis.  Ef þetta leiðir til betri heilsu eldri borgara, sparast opinber útgjöld, þótt langlífi aukist.  
  2. Reyna að lækka einingarkostnað á hvers konar þjónustu hins opinbera.  Til þess hafa aðrar þjóðir nýtt einkaframtakið.  Af hverju er það talið ósiðlegt hér, sem er viðurkennd sparnaðarleið fyrir skattborgarana erlendis ?  Kasta verður kreddum og pólitískum fordómum á haf út, þegar meðferð skattfjár er annars vegar.  Um þetta skrifar Sölvi Blöndal í téðri grein: "Áskorunin felst m.a. í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar.  Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög o.fl.  Sá, sem aflar fjárins, þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni.  Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir, sem vert er að nefna, eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar."  Ef innflytjendur eiga að styrkja hagkerfið, þurfa þeir að hafa menntun og þekkingu, sem spurn er eftir hér. Ekki er víst, að afkvæmi þeirra fjölgi sér hraðar en "frumbyggjarnir".
  3. Nýta verður núverandi svigrúm ríkisfjármála til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs, því að að einum áratug liðnum mun "ellibyrðin" hafa vaxið til muna.   

 Hugmyndafræði vinstri manna er meira í ætt við trúarbrögð en stjórnmálastefnu, því að annars væri hugmyndafræði þeirra löngu dauð vegna slæmrar reynslu af henni á sviði efnahagsmála og á sviði frelsis einstaklinga og félagasamtaka.  Hugmyndafræði vinstri manna á enn verr við á 21. öldinni en áður, því að nú verður að setja aukna verðmætasköpun á oddinn sem aldrei fyrr til að "hinn öfugi aldurspýramídi" hrynji síður.  Um þetta skrifar Óli Björn Kárason, Alþingismaður, í ágætri miðvikudagsgrein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2017,

"Játning: ég mun aldrei skilja sósíalista":

"Hugmyndafræði vinstri manna - sósíalista - gefur ekkert fyrir þjóðfélag frjálsra einstaklinga, sem eru fjárhagslega sjálfstæðir.  Mælikvarði velferðar og réttlætis [þeirra] mælir umsvif ríkisins.  Íslenzkir vinstri menn - líkt og skoðanabræður þeirra í öðrum löndum - byggja á þeirri bjargföstu trú, að ríkið sé upphaf og endir allra lífsgæða.  Aukin umsvif ríkis og annarra opinberra aðila er markmið í sjálfu sér, en [eru] ekki aðeins æskileg."

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband