Færsluflokkur: Kjaramál

Dulin skýring á lágu raforkuverði frá íslenzkum virkjunum

Auk opinberra gjalda má skipta orkureikningi landsmanna í þrennt: orkuverð frá virkjun, flutningsgjald frá virkjun til dreifiveitu og dreifingargjald dreifiveitu til notanda.  Tveir síðari liðirnir eru tiltölulega háir á Íslandi m.v. önnur lönd, en fyrsti liðurinn af þremur er lágur, mjög lágur nú um stundir m.v. önnur lönd.

Margir halda, að skýringarinnar á hinu síðast nefnda sé að leita í verðinu á því, sem knýr virkjanir landsmanna, þ.e. í vatnsaflinu og jarðgufunni. Þeir, sem láta sér þessar skýringar lynda, komast aldrei til botns í málinu, og það er hætt við, að samtökin Landvernd, sem gert hafa tillögu um virkjanastopp og í staðinn að draga úr þeirri orku, sem seld er samkvæmt langtímasamningum til stóriðju, hafi ekki skilið til fulls, hvers vegna landsmenn njóta lágs raforkuverðs.  Í stuttu máli er það vegna nýtingar á auðfengnum endurnýjanlegum orkulindum og vegna tiltölulega jafns álags á kerfið innan sólarhrings, viku og árs.  Það er jafnara álag hér en annars staðar þekkist og nauðsynlegt að viðhalda því með almannahag í huga.   

Það er hverjum manni skiljanlegt, að til að borga upp vél, sem aðeins framleiðir með hálfum hámarksafköstum yfir árið, þarf að selja vöruna frá vélinni á hærra verði en væri hún keyrð á 95 % af hámarksafköstum.  Það er meira álag á raforkukerfið á köldum vetrardegi en á hlýjum sumardegi, en sá munur er t.d. miklu meiri í Noregi en á Íslandi, af því að norskt húsnæði er yfirleitt hitað upp með rafmagni, en íslenzkt húsnæði í flestum tilvikum með jarðhitaveitu eða varmadælum. Það, sem þó munar langmest um til jöfnunar heildarálags, er verksmiðjuálag, þar sem unnið er allan sólarhringinn allan ársins hring í verksmiðjunum og leitzt við að viðhalda framleiðsluafköstunum.  Þessi stöðugleikaorka til verksmiðjanna nemur nú um 3/4 af heild. 

    Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, varpaði sögulegu ljósi á þessa skýringu lágs orkuverðs, sem vafizt hefur fyrir ýmsum, einkum þeim, sem fjargviðrast yfir lágu raforkuverði til þessara verksmiðja, í Morgunblaðsgrein 12.11.2022.  Það er hægt að sýna fram á, að verksmiðjurafmagnið stendur fyllilega undir sinni kostnaðarhlutdeild raforkugeirans og skapar skilyrðin, sem gera raforkugeiranum kleift að bjóða heimilum og almennum fyrirtækjum rafmagn á miklu betri kjörum en ella. Það má orða þetta þannig, í stéttastríðsanda, að verksmiðjurnar greiði niður raforkuverð til heimilanna, en afturhaldið í landinu hefur alla tíð snúið þessari staðreynd algerlega á haus. Fyrirsögn téðrar greinar var: 

"Lágt raforkuverð ekki sjálfgefið".

Hún hófst þannig:

"Hér á Fróni prísum við okkur sæl að vera ótengd evrópska raforkukerfinu, enda orðin vön ódýru rafmagni.  Hverju megum við þakka lágt raforkuverð, og getum við tekið því sem gefnu í framtíðinni ?"

Tækniframfarir, bætt stjórnun og þekking geta unnið upp á móti óhagstæðari virkjunarkostum frá náttúrunnar hendi, svo að stofnkostnaður MUSD/MW, fari aðeins hægt hækkandi í rauntölum (að teknu tilliti til verðbólgu í US).  Af árlegum kostnaði vegna vatnsaflsvirkjunar er  hlutdeild stofnkostnaðar yfirgnæfandi eða um 96 %, og rekstrarkostnaður er um 4 % af árlegum heildarkostnaði. 

Þótt orkuvinnslukostnaður jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé um þessar mundir svipaður, eru innbyrðis kostnaðarhlutföll ólík.  Árleg hlutdeild stofnkostnaðar jarðgufuvirkjana er um 68 % og rekstrarkostnaðar 32 %, enda þarf að kljást við tæringu og niðurdrátt í gufuforðabúrinu, svo að 2 viðhaldsþættir séu nefndir.   

Það er engum blöðum um það að fletta, að innleiðing vindorkuþyrpinga hérlendis mun valda raforkuverðshækkun til almennings.  Búast má við, að vinnslukostnaður sé allt að 50 % hærri en í nýjum  hefðbundnum íslenzkum virkjunum, og gætu árleg kostnaðarhlutföll stofnkostnaðar og rekstrar verið um 93 % og 7 %. Ef hér verður innleitt uppboðskerfi raforku að hætti ESB, þótt Ursula von der Leyen hafi lýst það óbrúklegt, munu vindmylluþyrpingar verða ráðandi um verð á raforkumarkaðinum, því að hæsta samþykkta verð gildir.  Þetta síðast nefnda taldi von der Leyen óboðlegt neytendum í skortástandi á markaði, og hið sama á við á Íslandi.  

Til þess að varðveita lágt raforkuverð til almennings á Íslandi þarf að hafna umsóknum um uppsetningu og tengingu vindmylluþyrpinga, og það þarf að koma í veg fyrir umtalsvert lægra nýtingarhlutfall orkumannvirkja í rekstri en nú er.  Það er hægt með tvennu móti; annars vegar að bæta við jöfnu álagi og hins vegar að dreifa álagi almennings yfir sólarhringinn og vikuna.  Þetta verður unnt eftir uppsetningu snjallorkumæla með verðstýringu, þ.e. að einingarverð orkunnar verði lægra til almennings á nóttunni og um helgar en á öðrum tímum. Þá er hægt að forrita hleðslu bílsins eða gang þvottavélarinnar að hefjast, þegar álagið og þar með verðið hefur lækkað nægilega að mati viðskiptavinar.  

"Þetta tímabil [1937-1965] einkenndist af rafmagnsóöryggi og skammtímalausnum.  Raforkukerfið þjónaði nánast eingöngu almennum notendum, og aflskortur blasti við, þegar árleg nýting vélarafls náði 60 %." 

Þessi þrönga staða blasti við Íslendingum á téðu tímabili.  Hún hefði dæmt landsmenn til að búa við veikt og dýrt raforkukerfi mjög lengi að óbreyttu, en þá varð það þeim til happs, að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks komst til valda síðla árs 1959.  Í henni sátu hæfileikaríkir stjórnendur og hugsjónamenn að auki, sem höfðu kraft og þor til að brjóta forstokkað haftaafturhald og einangrunarsinna vinstri kants stjórnmálanna á bak aftur.

Viðreisnarstjórnin ásamt ráðgjöfum sínum, t.d. formanni Stóriðjunefndar, dr Jóhannesi Nordal, Seðlabankastjóra, braut Íslendingum leið út úr sjálfheldu veiks raforkukerfis og hás orkuvinnslukostnaðar. Hún fékk til landsins öflugan fjárfesti, svissneska verksmiðjueigandann Alusuisse, sem hóf mikla uppbyggingu í Straumsvík við Hafnarfjörð 1967 og var stærsti raforkukaupandi landsins frá 1969 í yfir 30 ár. 

Þar með gafst einnig kostur á að reisa öflugt flutningskerfi á 220 kV spennu, svo að  raforkuöryggi landsmanna batnaði stórum með stórum virkjunum í Þjórsá/Tungnaá, hringtengingu 220 kV kerfisins og í kjölfarið lækkaði raunorkuverðið.  Ástæður hins síðar nefnda voru nokkrar, t.d. hagkvæmni stærðar, hag virkjana og lína, hagstæð lán til framkvæmdanna vegna tryggrar orkusölu langt fram í tímann og tiltölulega jafns álags í Straumsvík, sem gaf góða nýtingu á fjárfestingunum, því að sveiflur almenns álags heimila og fyrirtækja vógu lítið m.v. meðalálagið.

Ástandinu fyrir stóriðjutímabilið lýsir Steinar Ingimar þannig: 

"Eftir gangsetningu [Ljósafossstöðvar 04.10.1937] féll heildarnýting vatnsafls í raforkukerfinu niður í 12 %.  Til að auka eftirspurn voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu hvattir til að fá sér fleiri heimilistæki.  T.d. veitti Rafmagnsveita Reykjavíkur afslátt af rafmagnsverði fyrir heimili, sem keyptu sér rafmagnseldavél.  En á augabragði breyttist eftirspurnin við komu brezka hersins." 

Téður afsláttur rafmagnsverðs hefur verið öllum hagfelldur, þar til toppálagið náði aflgetu kerfisins. Þar sem heimilisálag og álag fyrirtækja í u.þ.b. 10 klst á virkum dögum er ríkjandi, er þessi nýting aðeins um 60 %, þ.e. þar til toppálag stangar aflgetu kerfisins.  Til samanburðar er meðalnýting Búrfellsvirkjunar (270 MW, 2300 GWh/ár) yfir árið 97 % vegna ríkjandi álags verksmiðja, sem starfa allan sólarhringinn árið um kring.  Virkjanir Landsvirkjunar mala af þessum sökum landsmönnum gull, enda hafa elztu virkjanirnar verið að mestu bókhaldslega afskrifaðar núna. 

"Á meðan Írafossstöð var í undirbúningi, var 7,5 MW gufuaflsstöð reist við Elliðaár (Toppstöðin), sem brenndi olíu og kolum.  Hún var dýr í rekstri.  Árið 1953 komst Írafossstöð (48 MW) í gagnið, þökk sé Marshallaðstoðinni.  Árið eftir hóf Áburðarverksmiðja ríkisins rekstur og með henni fékkst fljótt góð nýting virkjunar.  Ekki löngu síðar hófst bygging Steingrímsstöðvar (27 MW), sem hóf rekstur 1959.  Hún varð að veruleika vegna orkusölusamnings við bandaríska varnarliðið, en samningurinn stóð að miklu leyti undir afborgunum af lánum.  Segja má, að útlenzkir herir og Áburðarverksmiðjan hafi verið fyrstu stórnotendur rafmagns á Íslandi. Þeir gerðu Sogsvirkjunum kleift að bjóða höfuðborgarbúum rafmagn á hagstæðara verði en ella.  Orkuöryggið var þó áfram misjafnt."

 Á þessum árum var efnahagslífið í viðjum innflutnings- og fjárhagshafta, sem áreiðanlega hefur haft hamlandi áhrif á hagvöxtinn og þróun atvinnulífsins.  Efnahagslífið var miðstýrt í anda Ráðstjórnar og veikt, svo að innviðauppbygging gekk brösuglega, eins og dæmin um fjármögnun Sogsvirkjana með tekjum af orkusölu til setuliðsins; með Marshall-aðstoð og með raforkusölu til herstöðvarinnar í Keflavík, sýna.  Þess ber að geta, að á sama tíma stóð yfir hitaveituvæðing í Reykjavík, svo að orkunotkun þar dreifðist á tvenns konar orkulindir.  Í stuttu máli var það yfirleitt einn "stórnotandi" raforku, sem gerði nýja virkjun mögulega á Íslandi. Nú hefur raforkukerfi landsmanna vaxið svo fiskur um hrygg, að ekki þarf að bíða eftir nýjum notanda, þótt virkjað sé meðalstórt (u.þ.b. 100 MW), enda bíða orkunotendur í landinu eftir meiri orku.  Það er raforkuskortur.

Í Noregi fór rafvæðing landsins líka fram með verksmiðjuuppbyggingu vítt og breytt um landið.  Í Noregi var húsnæðið rafkynt samhliða rafvæðingunni, sem olli miklu meiri raforkuþörf en hér og betri nýtingu orkumannvirkja, en fyrir vikið var löngum skortur á toppafli. Það var leyst með tvöföldum orkumæli.  Mældi annar heildarorkunotkun og hinn orkunotkun, þegar aflþörfin fór yfir umsamin mörk, og var sú orka afar dýr, þannig að slökkt var á ofnum, þegar eldað var.

"Þetta tímabil [1965-2020] er kennt við stórvirkjanir og stóriðnað.  Þegar Sogið var fullvirkjað, voru aðeins 2 kostir í boði til að afla rafmagns fyrir höfuðborgarsvæðið; annars vegar virkjun Hvítár á Suðurlandi og hins vegar virkjun Þjórsár.  Seinni kosturinn var utan seilingar, nema stóriðja tæki til starfa á Íslandi. Allir vita, hver niðurstaðan varð: bygging Búrfellsstöðvar og álvers í Straumsvík.  Bygging Hrauneyjafossstöðvar og Sigöldustöðvar ásamt lagningu Byggðalínunnar varð svo grunnurinn að góðu aðgengi að rafmagni fyrir fyrir flesta landsmenn.  Þessar stórframkvæmdir voru lykillinn að því, að landsmenn fengu rafmagnið á enn hagstæðari kjörum en áður þekktist."

Þetta er rétt ályktað, en samt barðist minnihlutinn á Alþingi, sem þá samanstóð aðallega af þingmönnum Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, á hæl og hnakka gegn þessum framfaramálum, sem áttu eftir að bylta lífskjörum í landinu til hins betra. Þá, eins og nú, voru margir þingmenn glámskyggnir á raunverulegan hag umbjóðenda sinna, en hengdu hatt sinn á tittlingaskít, sem engu máli skipti, er frá leið. Það er einfaldlega þannig með aðgerðir og framkvæmdir, að allt orkar tvímælis, þá gert er, en það eru meginlínurnar í málatilbúnaðinum, sem skipta sköpum.  Þetta er ofvaxið skilningi þröngsýnispúka á þingi og annars staðar, sem hafa asklok fyrir himin og kunna alls ekki að greina hismið frá kjarnanum.  Hvernig halda menn, að komið væri málum Íslendinga núna, ef tekið hefði verið mark á úrtöluröddum ofangreinds uppbyggingarskeiðs og t.d. unnið eftir hinum fjallheimskulega frasa: "náttúran verður að njóta vafans", sem reyndar hafði ekki séð dagsins ljós í þá daga. 

Reykjavík og stjórnun hennar er svo kapítuli út af fyrir sig.  Sogsframkvæmdir, sem raktar voru hér að ofan, voru að frumkvæði þáverandi bæjarstjórnar Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn réði lögum og lofum um áratugaskeið.  Hvernig halda menn, að komið væri málum Reykvíkinga nú og raunar landsmanna allra, ef rugludallarnir, sem nú mynda meirihluta borgarstjórnar, hefðu verið við völd í Reykjavík á tímabilinu 1937-1965 ?   Bókstaflega ekkert framkvæmdamál í Reykjavík, sem til heilla horfir fyrir framtíðina, þokast nú hænufet, heldur þvælast afturhaldssinnar, nú í valdastólum, fyrir þeim öllum, og borgarskipulagið sjálft er algerlega í skötulíki, svo að ekki sé nú minnzt á hörmungina miklu, fjármálaóreiðu Reykjavíkurborgar. Að kjósa gapuxa, draumóramenn og sérvitringa til valda yfir málefnum almennings, endar sem voveiflegur bjúgverpill.   


Orkustefnan og hagsmunir verkalýðs

Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, reit athygliverða Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið í sumar, 6. júlí 2022, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að stefna landverndarsinna mundi óhjákvæmilega leiða til lífskjaraskerðingar almennings.  Höfundar þessarar stefnu virðast draga dám af höfundum bókarinnar um Endimörk vaxtar (Limits to Growth), sem boðuðu afturhvarf til fortíðar til að bjarga jörðunni. Þeir reyndust vera falsspámenn, þótt margir hafi síðar orðið til að feta í fótspor þeirra, t.d. framkvæmdastjóri Landverndar á Íslandi. 

Það er ástæða til að halda þessari grein hagfræðingsins á lofti nú, þegar kjaramál eru í brennidepli.  Kjaraskerðing almennings á Íslandi er hjóm eitt m.v. þær hrikalegu holskeflur, sem orkuskortur hefur leitt yfir önnur Evrópulönd. Sú staðreynd ætti að leiða öllum landsmönnum fyrir sjónir, hversu farsæl stefna hefur verið við lýði í landinu við nýtingu orkulinda landsins, en öfgasjónarmiðum um landvernd hefur verið gert of hátt undir höfði í löggjöfinni, svo að dýrkeyptar tafir hafa orðið við að reisa flutningsmannvirki raforkunnar með þeim afleiðingum, að alvarlegur, staðbundinn raforkuskortur ríkir.  Þá ríkir nú illskiljanleg lognmolla yfir virkjanamálum á tímum, þegar raforkueftirspurn í landinu er meiri en raforkuframboð . Ótrúleg málsmeðferð Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til virkjunar Neðri-Þjórsár (Hvammsvirkjun) hefur rýrt faglegt traust til OS, eftir að nýr Orkumálastjóri tók þar við. 

Hefst nú tilvitnun í téða Sjónarhólsgrein: 

"Á Íslandi hefur umræða um umhverfismál oft verið óskipulögð og ólíkum hugtökum blandað og ruglað saman.  Í sömu umræðu erlendis er skýr munur gerður á umhverfisvernd og landvernd.  Þar til nýlega ægði þessum hugtökum saman í íslenzkri umræðu um virkjanaframkvæmdir og raforkuframleiðslu.

Umhverfisvernd snýr fyrst og fremst að því að framleiða orku með sem minnstum tilkostnaði m.t.t. loftslagsmála.  Landvernd snýst hins vegar um, að helzt megi ekki hrófla við náttúrunni, sama hvað það kostar.

Þeir, sem tala fyrir landvernd, verða einfaldlega að vera heiðarlegir með þessa afstöðu sína og hætta að fela sig að baki merkimiðum í loftslagsmálum.  Öll orkuframleiðsla útheimtir náttúrufórnir.  Þeir, sem tala fyrir aukinni orkuframleiðslu, eiga svo ekki að vera feimnir við að segja það hreint út."

 Orkumálin eru í kyrrstöðu núna, m.a. af því að stuðningsmenn meiri nýtingar hefðbundinna íslenzkra orkulinda, vatnsafls og jarðgufu, hafa sig lítt í frammi.  Framkvæmdastjóri Landverndar hefur hins vegar talað berum orðum fyrir hönd samtaka sinna um, að þessi nýting skuli ekki aukin, heldur skuli ríkisvaldið, sem alfarið á stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, beita sér fyrir því, að dregið verði svo mjög úr orkusölu til orkusækins iðnaðar, stóriðju, að svigrúm skapist til orkuskiptanna og almennrar aukningar raforkunotkunar vegna fólksfjölgunar.  Þessi boðskapur jafngildir því ósköp einfaldlega að leggja stóriðjuna niður, líklega með því að endurnýja enga orkusölusamninga við hana, hvað þá að gera nýja slíka samninga, því að riftun gildandi samninga yrði óheyrilega dýr.

Þessi stefna Landverndar er fullkomlega ábyrgðarlaus, því að hún mun fyrr en seinna leiða til meiri einsleitni í atvinnulífinu, viðvarandi halla á viðskiptajöfnuði með gengislækkun og atvinnuleysi, einkum vestanlands og austan, sem afleiðingu. Þetta mundi ekki síður koma niður á félagsfólki verkalýðsfélaganna en öðrum landsmönnum, og þess vegna skýtur skökku við m.v., að sumir verkalýðsforingjar, sem tjá sig um allt mögulegt í þjóðfélaginu, skuli ekki hafa gagnrýnt harðlega málflutning Landverndar, sem hvetur til stjórnvaldsaðgerða, sem óhjákvæmilega mundu gera marga verkamenn, iðnaðarmenn og aðra í góðum störfum stóriðjunnar, að fórnarlömbum vanhugsaðrar hugmyndafræði. 

"Málflutningur landverndarsinna felur hins vegar í sér að skrúfa niður í lífsgæðum almennings. Fráleitt er að tala um breytta forgangsröðun í orkumálum á Íslandi og ýja að því, að taka eigi pólitíska ákvörðun um að draga úr sölu til stórnotenda og beina raforkunni þess í stað til íslenzkra heimila og fyrirtækja."  

Að félagssamtök skuli álykta með þessum hætti og kynna stefnuna sem hvern annan valkost, sem landsmenn geti valið og eigi að velja án þess, að það muni draga nokkurn dilk á eftir sér, er alvarlegt sjúkdómseinkenni.  Fjölmiðlar hafa heldur ekki spurt sérlega gagnrýninna spurninga um afleiðingarnar.  Þeir gefa sér væntanlega, að þá færu þeir í geitarhús að leita ullar.

Fyrir utan efnahagsáfall og atvinnuleysi má nefna, að traust til Íslendinga á meðal erlendra fjárfesta, sem eru að eða munu íhuga fjárfestingar á Íslandi, yrði að engu við aðfarir, sem væru einsdæmi á Vesturlöndum. Þessi hnekkir einn og sér er á við annað efnahagsáfall. Hugarfarið, sem að baki þessari tillögugerð Landverndar býr, er þess eðlis, að óþarfi er að taka nokkurn boðskap þessa félags alvarlega. Þjóðarhagur er þar látinn lönd og leið, svo að minnir á skæruliðastarfsemi. 

"Landverndarsinnum hefur tekizt að snúa sönnunarbyrðinni við í þessum efnum á liðnum árum.  Sá hópur, sem áttar sig á því, að framleiðsla og sala raforku sé ein undirstaða hagkerfisins, hefur þurft að standa í stöðugri baráttu við að benda á þá einföldu staðreynd. 

Sem betur fer virðist núna annað hljóð í strokknum.  Þeir, sem halda því fram, að uppbyggingu orkuframleiðslu á Íslandi geti verið lokið núna, verða einfaldlega að láta það fylgja máli, að slíkri stefnu fylgir afturför í lífsgæðum, minni kaupmáttur og fábrotnara líf. 

M.ö.o. boðar landverndarstefnan aukið meinlæti.  Minna handa öllum."

 Ofstækisfólk, sem oft ber mest á, leggur allar framkvæmdir í náttúrunni að jöfnu við landspjöll.  Það viðurkennir ekki afleiðingar stefnu sinnar, sem Þórður Gunnarsson telur þarna upp. Þvert á móti setur það á langar ræður um, að enginn, nema fjárfestirinn, tapi á að leggja starfsemi hans niður.  Veruleikafirringin knýr þetta fólk áfram og tálmar því sýn.  Það lifir í eigin heimi, útópíu, sem enginn verður feitur af. 

"Í ljósi alls þessa sætir furðu, að verkalýðsforystan á Íslandi [t.d. ASÍ - innsk. BJo] beiti sér ekki meira í þessari umræðu.  Þeir, sem segjast standa í stafni lífsgæðabaráttu verkafólks, ættu að vera fremst í flokki þeirra, sem knýja á um aukna uppbyggingu orkuframleiðslu og iðnaðar. 

Skýringin á afstöðuleysi flestra verkalýðsleiðtoga, sem jafnan veljast úr hópi vinstri manna, er sú, að helzti fararmáti vinstri stefnu á síðast liðnum þremur áratugum hefur verið í formi umhverfis-eða landverndarstefnu.  Enda var ekkert annað hægt en að markaðssetja vinstri stefnu undir nýjum formerkjum í kjölfar þess, að efnahagsstefna sósíalismans beið skipbrot fyrir um 3 áratugum."

Hérlendis stóð Alþýðuflokkurinn (jafnaðarmenn) með Sjálfstæðisflokkinum að kaflaskilum í iðnvæðingu landsins og virkjun fallvatna til að knýja þennan iðnað og aðra starfsemi í landinu ásamt heimilunum. Síðan hefur reiðfærið ekki staðið á vinstra liðinu til atvinnuuppbyggingar af neinu viti.  Öðru vísi hefur þessu verið háttað á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð, þar sem sósíaldemókratar (jafnaðarmenn) studdu jafnan gerð virkjana í ánum til að knýja orkusækinn iðnað í hinum dreifðu byggðum. 

Vegna þeirra sinnaskipta vinstri manna, sem Þórður Gunnarsson lýsir þarna, eru þeir rótlausir, vita vart sitt rjúkandi ráð, en stunda lýðskrumsstjórnmál til að fiska óánægjufylgi, sem kann að reka á fjörur þeirra. Síðan eru auðvitað gjalda- og skattahækkanir viðvarandi kliður hjá þeim og þar með útþensla opinbera geirans, en að hlúa að verðmætasköpuninni, sem öll verður til í fyrirtækjum landsins, fer fyrir ofan garð og neðan í loftslagsjapli og landverndarstagli. 

Samorkumenn-7-11-2012-StraumsvikAflmestu spennar landsins   

 

    


Eru áberandi verkalýðsforingjar veruleikafirrtir

Af málflutningi og skrifum sumra verkalýðsforingja nú í aðdraganda ASÍ-þings og samningagerðar um kaup og kjör á almenna vinnumarkaðinum mætti stundum ætla, að þar séu geimverur á ferð, sem aldrei hafðu heyrt minnzt á þau almennt viðteknu efnahagslögmál, sem gilda í mannheimi.  Þá virðast þeir ekkert hafa kynnt sér, hvaða aðferðarfræði er líklegust til árangurs við að bæta kjör og velferð skjólstæðinga sinna og þar með alls almennings í bráð og lengd.  Það versta við þá er þó, að þeir tala, eins og þeir telji sig hafa höndlað einhvern nýjan sannleika, sem öðrum, þ.á.m. atvinnurekendum og Peningastefnunefnd Seðlabankans, sé dulinn.  Þegar þeir þó reyna að rúlla hinu nýja hjóli, sem þeir telja sig hafa fundið upp, sjá allir, nema þeir sjálfir, að hjólið þeirra er ferkantað og er þess vegna gagnslaust og í raun hreinn brandari, ef þessir sömu menn hefðu ekki miklu meiri völd en þeir hafa vit á að fara með.  Í þessu er fólgið þjóðfélagsvandamál, sem er ekki að finna á hinum Norðurlöndunum og vart á siðmenntuðu bóli.

Hatur þessa fólks á Seðlabankanum og aðgerðum hans er lýsandi fyrir sálarástand þess og almenna skynsemi.  VR heldur úti dýrri og kjánalegri auglýsingaherferð í sjónvarpi um aðaltól Peningastefnunefndar Seðlabankans.  Foringjarnir, m.a. starfandi forseti ASÍ, halda því fram, að þeir verði að krefjast launahækkana til að vega upp á móti kjaraskerðingunni, sem af stýrivaxtahækkununum hefur leitt. Er þeim ekki ljóst, að hlutverk þessara vaxtahækkana er einmitt að draga úr kaupmætti, sem er sá hæsti í Evrópu að Sviss undanskildu, til að hemja verðbólguna ?  Höfrungahlaupið, sem þessir verkalýðsforingjar boða með þessum talsmáta, er eins heimskulegt og hugsazt getur út frá hagsmunum fólksins í verkalýðsfélögunum, en verðbólgan er versta ógnin við hagsmuni þess.  Þess vegna væri þveröfug stefna verkalýðsfélaganna gagnvart Seðlabankanum skjólstæðingum verkalýðsforingjanna mest í hag, þ.e. að leggjast á sveif með bankanum með lágmarks launakröfum í bili og þar með að kveða verðbólguna sem hraðast niður. 

Stýrivaxtahækkanir koma auðvitað niður á hag fyrirtækjanna í landinu líka, launagreiðendanna, þaðan sem öll verðmætasköpun landsins kemur.  Þannig mun draga úr fjárfestingum og þar með hagvexti og vinnuframboð minnka.  Ef verkalýðsforingjar ætla að halda stefnu sinni til streitu, munu þeir framkalla atvinnuleysi og samdrátt hagkerfisins.  Ísland er nú þegar dýrasta land í heimi að heimsækja fyrir ferðamenn, og hækki stærsti kostnaðarliðurinn enn mikið, er slíkt fallið til að gera samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina óbærilega, nema gengið falli, og þar með er fjandinn laus.  

Sumir verkalýðsforingjar og ráðgjafar þeirra hafa sett reiknifærni sína undir mæliker, þegar kemur að útreikningum á "sanngjörnum" launahækkunum í næstu kjarasamningum.  Þá hefur ekki tekið betra við, að 2 starfsmenn Viðskiptaráðs hafa í Morgunblaðsgrein 25. ágúst 2022 tekið að sér að sýna fram á alvarlegar gloppur í útreikningum verkalýðsfélaganna, í þessu tilviki Eflingar, við útreikninga þeirra að baki kröfugerðinni. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, en ekki er síður umhugsunarvert, að vitið skuli ekki duga til að draga dul á eigin skavanka.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var þessi samanburður á útreikningum Viðskiptaráðs og Eflingar dreginn samann undir fyrirsögninni:

"8,3 % neikvætt svigrúm Eflingar",

sem sýnir, að Efling skaut sig í fótinn með því að birta þessa útreikninga sem alvöru gagn í kjarabaráttunni:

"Tveir starfsmenn Viðskiptaráðs svöruðu í grein hér í blaðinu í gær sjónarmiðum Eflingar um, að "við undirritun kjarasamninga í haust hækki laun [um] sem nemur 7,5 % verðbólgu samkvæmt spá Hagstofu auk spár um 2 % framleiðniaukningu, samtals að meðaltali 9,5 % með flatri hækkun upp á 66.000 kr/mán fyrir alla tekjuhópa.  Fullyrt er, að svigrúm sé til þessa.  Jafnframt er því haldið fram [af Eflingu], að þessar launahækkanir muni ekki hafa áhrif á verðlag."

Þarna gösslast Efling fram á ritvöllinn og sýnir annaðhvort af sér vanþekkingu á staðreyndum, sem þarf að leggja til grundvallar heiðarlegri kröfugerð verkalýðsfélaga, eða virðingarleysi fyrir staðreyndum og ásetning til blekkingarstarfsemi í aðdraganda kjarasamninga í von um, að einfeldningar lepji vitleysuna upp eftir þeim. 

"Útreikningar Eflingar horfi aðeins til þessa árs [2022], en, eins og greinarhöfundar [Viðskiptaráðs] benda á, þarf að horfa til þróunar frá síðustu kjarasamningum árið 2019." 

Aðeins geimverum, sem ekkert kunna fyrir sér í þessum efnum og ekkert hafa lært á þessu sviði, dettur í hug að miða útreikninga á launahækkanaþörf aðeins við lokaár gildandi kjaratímabils.

"Samkvæmt forsendum Eflingar [afar hæpnar-innsk. BJo] er innistæðan til launahækkana þessi að mati greinarhöfunda: "Frá ársbyrjun 2019 og til loka ársins 2022 má vænta samtals 22 % verðbólgu, 2,7 % hagvaxtar og 8,1 % fólksfjölgunar m.v. nýjustu spár.  Framleiðni hagkerfisins samkvæmt skilgreiningu Eflingar mun því fyrirsjáanlega dragast saman um 5,4 % [2,7 %-8,1 % = -5,4 %].

Svigrúm til launahækkana yfir þetta tímabil er því 16,6 % [22 %-5,4 % = 16,6 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar.  Laun hafa aftur á móti þegar hækkað um 24,9 % frá undirritun síðustu kjarasamninga, langt umfram þróun verðlags og framleiðni.

Svigrúm til launahækkana við gerð næstu kjarasamninga ætti því að vera neikvætt um 8,3 % [16,6 %-24,9 % = -8,3 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar." 

Þegar forysta Eflingar fór að reikna, endaði það auðvitað með þeim ósköpum, að hún sýndi fram á, að ekkert svigrúm er til launahækkana á þessu ári, og þannig skaut hún sig í fótinn.  Þess var að vænta m.v. andlegt atgervi þar á bæ, þar sem leðjuslagur liggur betur við þeim en greiningarvinna. 

Glíman við verðbólguna er umfjöllunarefni forystugreinar Morgunblaðsins 29. ágúst 2022 undir heitinu: 

"Við höfum val".

Hún endaði þannig:

"Verðbólgan verður ekki kveðin í kútinn með slíkum ráðum [boðum og bönnum - innsk. BJo]. Hana þarf að sigra með því að auka framboð, þar sem framboð skortir og aukning er möguleg [t.d. lóðaframboð sveitarfélaga - innsk. BJo], og svo þarf að stíga á bremsuna á öðrum sviðum [almenn neyzla - innsk. BJo]. Seðlabankinn hefur réttilega gert það með hækkun vaxta, en aðrir verða að gera það einnig, bæði þeir, sem stýra opinberum útgjöldum og þeir, sem semja um kaup og kjör á almennum og opinberum vinnumarkaði. 

Með sameiginlegu átaki af þessu tagi er hægt að tryggja, að verðbólguskeiðið verði stutt og skerði kaupmátt almennings lítið og jafnvel ekki. Verði reynt að vinna bug á verðbólgunni með því að hella olíu á eldinn eða skekkja markaðsstarfsemina enn frekar en verðbólgan hefur gert, þá er tryggt, að glíman verður löng og endar með ósköpum."

Þarna er ritað af heilbrigðri skynsemi, reynslu og þekkingu á málefninu.  Af málflutningi áberandi verkalýðsforingja að dæma virðast þeir ætla að verða í því hlutverki að hella olíu á eldinn.  Hvers vegna í ósköpunum ?  Verkalýðshreyfingin virðist alls enga alvöru greiningarvinnu hafa gert um það, hvers konar ráðstafanir henta nú bezt til að verja einn hæsta kaupmátt í Evrópu.  Ætla má, að stefnumörkun með vinnuveitendum og stjórnvöldum í þá veru að draga úr verðbólgu og halda háu atvinnustigi í landinu muni koma launþegum bezt og mun betur en illa ígrundaðir lýðskrums óskalistar, sem birtir hafa verið.

Verðbólgan á Íslandi er enn þá einna lægst í Evrópu og má rekja það til þess, að um 85 % orkunnar, sem hér er notuð, á sér innlendan uppruna, sem er óháður orkuverði erlendis.  Norðmenn eru í svipaðri stöðu, en þar hefur raforkuverðið u.þ.b. tífaldazt á einu ári sunnan Dofrafjalla.  Hvers vegna er það ?  Þar eru markaðsöflin að verki, þar sem raforkukerfi Noregs (vatnsorkukerfi) er tengt með öflugum aflsæstrengjum við meginland Evrópu og England og stjórnun þessara raforkuflutninga lýtur orkulöggjöf Evrópusambandsins, þ.e. s.k. Orkupakka 3. Af hinu síðara leiðir, að stjórnvöld Noregs hafa ekki heimild til að grípa inn í þessi viðskipti, þótt þau augljóslega ógni afkomu margra heimila og fyrirtækja í Noregi.  Þau hafa hins vegar gripið til fjárhagslegra stuðningsaðgerða, eins og víðast hvar annars staðar í EES á sér stað um þessar mundir.

Norðan Dofrafjalla, þar sem verðlagsáhrifa sæstrengjanna gætir lítið vegna flöskuháls í flutningskerfinu þar, hafa verðhækkanir raforku ekki orðið neitt í líkingu við hækkanir sunnan við.  Það sannar verðlagsáhrif sæstrengjanna.  Þann 29. ágúst 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóra Storm Orku, undir fyrirsögninni:   

"Ástæða hærra raforkuverðs í Evrópu".

Hún endaði þannig:

"Þessar tölur sýna svart á hvítu, að orsök hás raforkuverðs í Evrópu og Bretlandi [Bretland hefur alltaf verið hluti af Evrópu - innsk. BJo] er hækkun á verði á gasi, sem notað er til húshitunar og raforkuframleiðslu.  Mikill misskilningur er að halda, að skýringuna sé að finna í orkupakka EB [svo !] eða afleiðingum af innleiðingu orkupakkans og að ástæða þess, að raforkuverð hækki ekki á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar sé vegna þess, að landið er ekki tengt öðrum mörkuðum með sæstreng.  Það er fjarri sanni.  

Aðalástæða þess að Íslendingar sjá ekki viðlíka hækkanir hér er hátt hlutfall grænnar raforku, sem framleidd er án þess, að nota þurfi gas til framleiðslunnar.  Þriðji orkupakkinn eða sæstrengur er ekki orsökin."

Hvernig ætlar höfundur þessarar hrákasmíði að nota hana til að útskýra þróun raforkuverðs í Noregi á árinu 2022 ?  Í Suður-Noregi er ekki notað jarðgas við raforkuvinnslu, heldur vatnsafl. Verðþróun raforku í Evrópusambandinu á þessu tímabili er flóknari en svo, að einvörðungu megi útskýra hana með verðbreytingum á jarðgasi.  Frakkar hafa t.d. þurft að draga tímabundið mikið úr raforkuafhendingu frá mörgum kjarnorkuvera sinna vegna viðhalds og viðgerða.  Hreinn skortur á jarðgasi til raforkuframleiðslu vegna mikillar minnkunar á framboði frá Rússlandi og vegna fyrirskipunar stjórnvalda um að safna vetrarbirgðum vegur þó þungt í verðlagningu raforkunnar, einkum þegar lítið blæs á vindmyllurnar.  Það væri hins vegar stórfurðulegt og bryti viðtekin efnahagslögmál, ef öflug tenging íslenzka raforkukerfisins við kerfi ESB og eða Bretlands hefði ekki veruleg áhrif til verðhækkunar rafmagns hérlendis.  Orkupakki 3 stjórnar ekki verðinu (hver heldur því fram ?), en hann stjórnar því, hvernig flutningunum eftir sæstrengjunum er háttað.  Þannig gætu íslenzk stjórnvöld ekki reynt að hafa áhrif á raforkuverðið innanlands með því að hlutast til um flutningana til og frá útlöndum, t.d. með því að stöðva þá tímabundið, nema í neyð, ef lónin væru að tæmast. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Vatnsdalsvirkjun - góð hugmynd

Ekki er í fyrirsögn vísað til hinnar fögru sveitar Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem höfundur þessa pistils ól manninn í 7 sumur við störf og leik og kynntist þar hefðbundnum landbúnaði landsmanna, sem þá var í óða önn að vélvæðast, heldur er átt við hérað Hrafna-Flóka á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Orkubú Vestfjarða hefur kynnt til sögunnar miðlungs stóra virkjun, þar sem virkjunartilhögunin fellur með eindæmum ljúflega að umhverfinu.  Kerfislega er staðsetningin alveg kjörin, og virkjunin (20 MW) er hagkvæm, því að þar má framleiða raforku inn á svelt Vestfjarðakerfið fyrir um 4,9 ISK/kWh m.v. upplýsingar í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 3. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Knúið á um Vatnsdalsvirkjun".

Hún hófst þannig:

"Hugsanleg Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði mun hafa mjög jákvæð áhrif á raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Hún hefði tiltölulega lítil umhverfisáhrif að mati orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða [OV].  Umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi er í vinnslu hjá Orkustofnun [OS].  Forsenda þess, að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar er þó, að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlands verði breytt."

Orkustofnun mun nú hafa haft téða umsókn OV til meðhöndlunar í tæpt ár.  Þessi langi meðgöngutími OS er óhæfilega og reyndar óbærilega langur í ljósi mikilvægis þess að skýra línur í orkuöflunarmálum Vestfirðinga.  Ekki verður séð, að skilvirkni stofnunarinnar hafi aukizt nokkurn skapaðan hlut, síðan stjórnmálafræðingurinn tók við starfi Orkumálastjóra, enda ekki við því að búast.  Menntun núverandi orkumálastjóra hjálpar henni ekkert við afgreiðslu þessa máls.  Hvað sem því líður er seinagangur OS við afgreiðslu tiltölulega einfaldra mála (s.s. þetta og virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun) óþolandi og ljóst er, að tilfinning stjórnenda þar á bæ fyrir brýnni úrlausn (e. sense of urgency) er ekki fyrir hendi. 

 "Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að tenging Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði við flutningskerfið sé aðeins um 20 km.  Með 20 MW grunnvirkjun þar og með því að framkvæma áform Landsnets um hringtengingar þaðan og um sunnan- og norðanverða Vestfirði væri hægt að draga úr straumleysistilvikum á þéttbýlisstöðum um 90 %.  Slík grunnvirkjun gæti kostað um mrdISK 10 og komizt í gagnið í lok árs 2028.  Elías bætir því við, að með því að auka afl virkjunarinnar í 30 MW án mikillar viðbótar framleiðslu [í GWh/ár - innsk. BJo] væri hægt að stýra kerfinu þannig, að ekki þyrfti að grípa til keyrslu olíuknúins varaafls, þótt tengingin við landskerfið rofnaði í einhverjar vikur.  Virkjun með auknu afli væri því hjálpleg í loftslagsbókhaldi landsins."

Hér eru álitlegar og efnilegar hugmyndir Vestfirðinga og Landsnets á ferðinni, og eins og áður sagði eru þær arðsamar, jafnvel með 10 MW viðbótar vél, þótt hún mundi nýtast aðallega í neyðarrekstri, þegar Vesturlína er straumlaus, og á meðan hin vél Vatnsdalsvirkjunar er frátengd kerfi vegna viðgerða eða viðhalds.  Keyrsla varavéla á olíu rímar ekki við stefnu yfirvalda í loftslagsmálum.  Vatnsdalsvirkjun getur orðið mikilvægur tengipunktur flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, sem mæta mun sjálfsögðum kröfum íbúa og fyrirtækja þar um aukið afhendingaröryggi.  Þess vegna er brýnt að veita þessum góðu hugmyndum brautargengi.  Eins og fyrri daginn reynir nú á yfirvöld orkumála, sem verða að fara að hrista af sér slenið. 

"Orkubú Vestfjarða sótti um rannsóknarleyfi vegna Vatnsdalsvirkjunar um mitt síðasta ár.  Elías segir, að Orkustofnun sé að leita umsagna.  Bendir hann á, að Orkustofnun hafi áður veitt fyrirtækinu leyfi til rannsókna í friðlandinu.  Það var vegna Helluvirkjunar, en hún er miklu minni og reyndist ekki [vera] hagkvæm."

Það er kyndugt að leita umsagna í heilt ár vegna umsóknar um rannsóknarleyfi.  Hjá OS eiga að vera sérfræðingar, sem leitt geta slíka umsókn til lykta á 1-2 mánuðum.  Áhuginn hjá stofnuninni á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu er greinilega ekki lengur fyrir hendi. 

"Spurður um áhrif á friðlandið segir Elías, að umhverfisáhrif yrðu lítil á láglendi.  Hins vegar yrði rask á landi ofan við 250 m yfir sjávarmáli við byggingu stíflu og stækkun lóna og styrkingu og lengingu vegslóða, en það sjái enginn neðan úr dalnum.  Hann bætir því við, að svæðið sé þegar raskað vegna raflína, sem þar liggi yfir.  Elías bendir á, að lagning nýs vegar um Dynjandisheiði hafi þegar valdið mun meira raski en búast megi við í Vatnsdal.  "Við teljum, að út frá náttúruverndarsjónarmiðum  yrði þetta rask talsvert minna en við sambærilegar framkvæmdir víða annars staðar."   

Tvö lítil stöðuvötn, Flókavatn og Hólmavatn, munu fara undir miðlunarlónið, svo að breytingin á ásýnd landsins yrði lítil.  Stöðvarhúsinu má koma snoturlega fyrir innst í dalnum og verður þá áreiðanlega aðdráttarafl fyrir ferðamanna.  Það er staðreynd, að virkjanir á Íslandi eru vinsælir áningarstaðir ferðamanna.  Vatnsdalsvirkjun mundi bæta aðgengi ferðamanna að náttúru landsins.  Slíka þætti ber að meta meira en forstokkuð fordæmingarviðhorf þeirra, sem dæma áður en virkjunartilhögun er fyrir hendi.

Að lokum stóð í þessari athyglisverðu frétt:

"Elías segir heimilt samkvæmt lögum að aflétta kvöðum í friðlýsingarskilmálum, ef ríkir almannahagsmunir krefjist.  Telur hann, að svo hátti til með Vatnsdalsvirkjun, þegar litið sé til orkuöryggis Vestfjarða og möguleika á orkuskiptum á næstu árum og áratugum.  Þótt friðlýsingarskilmálum yrði breytt, er það engin trygging fyrir því, að verkefnisstjórn rammaáætlunar gefi grænt ljós á virkjun í Vatnsdal.  Einnig á eftir að vinna umhverfismat og fá önnur nauðsynleg leyfi."

Eins og fram kemur í þessari frétt, hefur orkubússtjórinn mikið til síns máls.  Hagsmunir Vestfirðinga eru svo ríkir í orkumálum að duga til að rökstyðja endurskoðun friðlýsingarskilmála á þessu virkjunarsvæði.

 


Að eiga ekkert erindi

 

Vinstra moðverkið í stjórnarandstöðunni hérlendis á ekkert erindi við íslenzka kjósendur.  Það sýndu úrslit Alþingiskosninganna 25. september 2021.  Þessir flokkar voru gerðir algerlega afturreka með stefnumál sín.  Að hætti kreddumanna neitaði jafnaðarmannatrúðurinn Logi Einarsson að viðurkenna, að stefnan væri röng, heldur hefði aðferðarfræðin brugðizt. Kosningabarátta Samfylkingarinnar var að vísu algerlega misheppnuð, en aðalatriðið er, að kjósendur höfnuðu fikti við Stjórnarskrána, fikti við Evrópusambandið og fikti við sjávarútveginn.  Kjósendur vita, að forysta Samfylkingarinnar er óhæf til að fást við þessi mál og höfnuðu þess vegna flokkinum. 

Svipaðar ástæður liggja til grundvallar slöku gengi Viðreisnar.  Úr þeim herbúðum heyrast ásakanir á hendur Seðlabankastjóra fyrir að hafa minnkað byr í segl Viðreisnar með því að mæla algerlega gegn þeirri fullyrðingu formanns Viðreisnar, að auðvelt sé og áhættulítið vegna öflugs gjaldeyrisvarasjóðs að tengja gengi ISK við EUR, og að slíkt muni bæta hag launþega og fyrirtækja. Málflutningur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í þessa veru er algerlega órökstuddur og aðeins reistur á innantómum fullyrðingum hennar og samanburði við Króatíu, sem er algerlega út í hött.  Í stuttu máli veltir Viðreisn sér upp úr hreinni þvælu og er ekkert annað en leppur ESB.  Það skín í gegn um sjávarútvegsstefnu hennar, sem er afrit af grænbók ESB um CFP (Sameiginlega fiskveiðistefna framtíðarinnar). Leita þarf allt til sósíalista til að finna ókræsilegra framboð. 

Meginboðskapur pírata, ef boðskap skyldi kalla, var borgaralaun á alla.  Þessi boðskapur fór fyrir ofan garð og neðan hjá kjósendum, sem að þorra til skilja lögmál efnahagslífsins betur en píratar, sem reyndust algerir ratar við að útskýra hugarfóstur í þokuheimum. Einhver hefur sagt þeim, að sjálfvirknivæðing 4. iðnbyltingarinnar muni leiða til fjöldaatvinnuleysis.  Þetta er reginmisskilningur á eðli tæknivæðingar.  Við hana verða ný störf til, en fólki fækkar í öðrum. Nýsköpun og hagvöxtur á grundvelli framleiðniaukningar leiðir til aukinnar spurnar eftir vinnuafli af ýmsu tagi.  Lýðfræðileg þróun þjóðfélagsins veldur fjölgun umönnunarstarfa, og fækkun fæðinga á hverja konu niður fyrir 2,1 (er núna nálægt 1,6 á Íslandi) veldur senn minnkun aukningar framboðs vinnufúsra handa og huga og mun á endanum valda fækkun á vinnumarkaði, eins og þegar er komin fram í Japan.  Skilningsleysi pírata á eðli þess þjóðfélags, sem þeir lifa í, veldur því, að framboð þeirra til forystu í þjóðfélaginu er ekki til annars fallið en skellihláturs. 

Öðru máli gegnir um sósíalistana.  Gagnvart byltingarhjali þeirra og stóryrðum, t.d. um að breyta Valhöll í almenningssalerni og ryðja Hæstarétt, er rétt að vera á varðbergi, því að undanfari slíks hlýtur að vera ofbeldisástand og lögleysa í samfélaginu.  Ekki þarf að fjölyrða um fullyrðingaflaum og sögufalsanir strigakjaftsins Gunnars Smára, enda gengur sá maður varla heill til skógar.  Alla vega áttuðu vissir kjósendur sig í tíma á því, að hann ætti ekkert erindi á þing, og rötuðu heim til föðurhúsanna í VG.

Þann 23. september 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækja í sjávarútvegi, og Ólaf Marteinsson, formann þeirra samtaka, en sjávarútvegurinn mátti sæta linnulausum hótunum af hálfu Samfylkingar, Viðreisnar, pírata o.fl., um aðför stjórnmálamanna að rekstri þessara fyrirtækja með því að ræna þau nýtingarrétti á sjávarauðlindinni í íslenzkri lögsögu, sem fyrirtækin hafa keypt sér eða þau áunnið sér með veiðireynslu, með þjóðnýtingu eða að stórhækka veiðigjöldin, sem eru sérskattur á þessa atvinnugrein og nema þriðjungi hagnaðar, sem er hátt hlutfall.  Viðundrið í formennsku hjá Viðreisn, sem ekki hefur gripsvit á sjávarútvegi, sendi útgerðarmönnum þá köldu kveðju fyrir kosningar, að með núverandi veiðigjaldakerfi væri verið "að verðlauna skussana".  Hvers konar hugarfar býr að baki svona orðaleppum hjá fyrrverandi sjávarútvegsráðherra (þeim versta) ?

"Íslenzkur sjávarútvegur hefur nú þegar náð markverðum árangri í loftslagsmálum.  Á undanförnum árum hefur sjávarútvegur notað helmingi minna af olíu en hann gerði á 10. áratugi síðustu aldar.  Í samanburði við olíunotkun greinarinnar á fyrsta áratugi þessarar aldar nemur samdrátturinn 40 %.  Vissulega er olíunotkun háð framleiðslu á hverjum tíma, en almennt stækkar kolefnisspor atvinnugreina með auknum umsvifum.  Sjávarútvegi hefur á hinn bóginn tekizt að draga úr olíunotkun og minnka kolefnisspor sitt án þess, að það komi niður á framleiðslu og gott betur.  Lykilþáttur í þessari þróun er afgerandi, en hann felst í fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem sjávarútvegurinn byggist á."

Sjávarútvegurinn er markaðsdrifinn og er ekki, fremur en önnur atvinnustarfsemi, rekinn til að þjóna einhverjum réttlætishugmyndum sérlundaðra stjórnmálamanna, sem telja sig handhafa réttlætishugtaksins.  Þetta er ekki hlutverk sjávarútvegsins, og þetta er heldur ekki hlutverk stjórnmálamanna með réttu. Frá náttúrunnar hendi býr sjávarútvegurinn við óstöðugleika, eins og alkunna er, og með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er leitazt við að veita stjórnkerfi hans hámarksstöðugleika, en hið sama verður ekki sagt um sjálfskipaða sérfræðinga á sviði fiskveiðistjórnkerfa.  Þannig verður heildaróvissu fyrirtækja, starfsmanna og byggðarlaga haldið í lágmarki.  Þetta hafa kjósendur skilið, því að þeir lýstu frati á þá stjórnmálaflokka, sem sækjast eftir að setja sjávarútveginn í uppnám.

Enginn vafi er á því, að verði farið að rýra aflaheimildir útgerðanna umfram það, sem núverandi löggjöf heimilar í því skyni að hámarka afrakstur miðanna til langs tíma, þá verður fjármagnsflótti úr greininni, enda er hlutfallslegur hagnaður hennar nú þegar minni en að meðaltali í öðrum atvinnugreinum landsins. Slíkt mun strax leiða til minni fjárfestinga í greininni, sem hægja mun á tækniþróuninni þar.  Það er einmitt hún, sem er undirstaða hins góða árangurs í eldsneytismálum, sem lýst er hér að ofan. Það hefur verið sjávarútveginum hagfellt að stunda þessa tækniþróun, og þess vegna hefur hann náð frábærum árangri við að minnka kolefnisfótspor sitt í t CO2íg/t afla.  Þessu mun hann halda áfram, því að á mörkuðum hans fer fram samanburður á milli samkeppnisaðila á kolefnisfótspori lokaafurðar. 

 

Óvíst er með hagkvæmni framleiðslu metanóls eða annarra s.k. "rafeldsneytisafbrigða", en ef olíuafurðir úr repju og nepju væru framleiddar í meiri mæli hérlendis, mundi sjávarúrvegurinn vafalítið geta notfært sér þær olíuafurðir í talsverðum mæli áður en lokaskrefið verður stigið í orkuskiptum um borð, hvernig sem þau verða. Framleiðsla sjávarútvegsins (án fiskeldis) mun vonandi fara vaxandi og hann samt verða kolefnishlutlaus á næsta áratugi.   

 "Virðisaukning vegna vinnslu á fiski af Íslandsmiðum fer að langmestu leyti fram á Íslandi, og svo mun verða, [á] meðan samkeppnisstaðan er tryggð.  Hina miklu áherzlu á fullvinnsku hér heima má glögglega sjá í mikilli fjárfestingu sjávarútvegsfyrirtækja í hátæknivinnslum víða um land.  Þess þarf hins vegar að gæta, að opinber gjöld úr hófi á heimavígstöðvunum verði vinnslunni ekki fjötur um fót." 

Það er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun í landinu og viðhald blómlegrar byggðar, þar sem útgerð er stunduð að ráði, að fullvinnsla fari þar fram. Til að sú fullvinnsla sé sjálfbær (varanleg), verður hún að fara fram á viðskiptalegum grundvelli, þ.e. að vera samkeppnishæf við erlendar fiskvinnsluverksmiðjur. Launakostnaður er mun hærri á Íslandi en í samkeppnislöndunum, og þess vegna verður samkeppnishæfni ekki náð á þessu sviði hérlendis án mikillar sjálfvirknivæðingar.  Hún útheimtir miklar fjárfestingar, og aðeins fjárhagslega öflugir bakhjarlar með viðunandi tryggingu um stöðugleika í rekstrarumhverfi treysta sér í slíkar fjárfestingar.  Lykilatriði í þessu sambandi er góð nýting framleiðslutækjanna, og þá þarf fjárfestirinn að ráða aðgangi að hráefni. Með ótímabundnum nýtingarrétti á miðunum innan ramma aflamarks í hverri tegund á hverjum tíma og markaðssetningu á einni hendi er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. að hámarka nýtingu framleiðslutækja á sjó og landi og að hámarka afurðaverðið með því að skipuleggja starfsemina út frá þörfum markaðarins. Þetta er íslenzka kerfið, og það hefur einfaldlega gefizt bezt m.t.t. að hámarka afrakstur fiskveiðiauðlindarinnar. 

Nokkrir stjórnmálamenn hafa ekki fellt sig við þetta fyrirkomulag, talið sig handhafa réttlætisins og kokkað upp eða afritað misheppnað fyrirkomulag annars staðar frá í nafni réttlætisins.  Það er hins vegar ekki hlutverk neins atvinnurekstrar að reyna að fullnægja einhverju tilbúnu og umdeilanlegu réttlæti. Allur atvinnurekstur á að standa jafnt að vígi gagnvart lögunum, þ.m.t. skattalögunum. Íþyngjandi sérákvæði gagnvart einni atvinnugrein ganga í bága við stjórnarskrárgrein um atvinnufrelsi. Hins vegar er almenn sátt um, að löggjöf fiskveiðistjórnunar setji sjávarútvegsfyrirtækjum ramma um nýtingu auðlindarinnar, sem reist er á vísindalegri ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu og langtíma hámarksafrakstur.

Eitt af þessum afstæðu "réttlætismálum" (eins réttlæti er þá á kostnað annars) er að þvinga allan afla á markað.  Hængurinn við þetta er, að umboðsmenn erlendra fiskverkenda geta þá yfirboðið íslenzkar fiskvinnslur, af því að kostnaðurinn erlendis er lægri.  Ef þetta gengi eftir, stæðu miklar fjárfestingar vannýttar og afkomugrundvelli fjölda fólks í traustum sjávarbyggðum yrði kippt undan því.  Þannig gæti þetta afstæða réttlæti virkað.  Réttlæti stjórnmálamanna virkar yfirleitt með þessum hætti.  Af kosningaúrslitunum hérlendis í september 2021 má ráða, að almenningur er sér meðvitaður um, að slíkt afstætt réttlæti gagnast ekki hagsmunum hans.  Það, sem gagnast hagsmunum hans, er hámarks atvinnuframboð og hámarks verðmætasköpun í landinu sjálfu.  Á ensku kallast þetta "non nonsense politics" eða stjórnmál án vitleysu. 

"Það, sem hér hefur verið upp talið [um starfsemi sjávarútvegsins], byggist á því, að sjávarútvegsfyrirtæki hafa haft fyrirsjáanleika og trygga úthlutun aflaheimilda. Væri ekki svo, myndu fyrirtækin ekki fjárfesta til langframa, enda væri með því mjög óvarlega farið. Fyrirtæki fjárfesta ekki, þegar sú hætta vofir yfir, að stórfelldar breytingar verði gerðar á rekstrarumhverfinu.  Það segir sig sjálft.  Ef sjávarútvegur hættir að fjárfesta, mun ekki aðeins draga úr samkeppnishæfni, heldur munu mörg önnur fyrirtæki, starfsmenn þeirra og landshlutar, ekki fara varhluta af því."  

Það er grundvallaratriði fyrir vöxt og viðgang sjávarbyggðanna og þar með í raun landsbyggðarinnar, að sjávarútvegurinn hafi bolmagn til mikilla fjárfestinga.  Hann hefur það aðeins, ef sú atvinnugrein gefur sambærilegan hagnað og önnur starfsemi yfirleitt.  Undanfarin ár hefur hagnaður í sjávarútvegi verið undir meðaltali annarra atvinnugreina.  Til sannindamerkis um það, sem Heiðrún og Ólafur rita hér að ofan, er, að strax eftir síðustu kosningahelgi varð veruleg hækkun á markaðsvirði fyrirtækja í Kauphöll Íslands, einkum sjávarútvegsfyrirtækja.  Líkur minnkuðu mjög á pólitískum asnaspörkum í sjávarútveginn, og fyrirtækjunum barst þarna fjármagn, sem þau geta nýtt til fjárfestinga.   

Eigandi gengur betur um eign sína    

 

 


Alvarlegur undirtónn

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, ritaði grein í Morgunblaðið 10. apríl 2021 undir heitinu:

"Tækifæri í kreppunni".

Það var alvarlegur undirtónn í þessari grein framkvæmdastjórans, sem vonandi hefur ýtt við ýmsum.  Atvinnulífið stefnir í óheillavænlega átt með stöðuga hækkun kaupmáttar launa og vaxandi atvinnuleysi.  Þessi kaupmáttaraukning á krepputíma með 6,6 % samdrátt landsframleiðslu 2020 og framleiðniaukningu, sem er mun lægri en kaupmáttaraukningin, er ósjálfbær. Það þýðir einfaldlega, að hún mun gufa upp í verðbólgu. Samfélagið lifir á lánum, sem halda uppi fölskum lífskjörum.  Af þessari óheillabraut verður að hverfa hið fyrsta.  Ella bíður há verðbólga og lífskjarahrun handan við hornið. Landsmenn lifa nú um efni fram, því að fyrirtækin eru veik og ráða ekki við gegndarlausar kostnaðarhækkanir vegna starfsmanna sinna.  Það leiðir til verðlagshækkana.  Hvaða stjórnmálaflokkum er bezt treystandi til að fást við þetta ójafnvægi, sem fram er komið ?

Lausnin hlýtur að felast í að draga úr launakostnaði fyrirtækjanna í hlutfalli af verðmætasköpun þeirra. Þetta hlutfall gæti verið hið hæsta í heimi núna, sem boðar ekki gott. Ef hlutfallið lækkar, er von til þess, að fyrirtækin fari að fjárfesta og ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá.  Mikið atvinnuleysi er versta þjóðfélagsbölið núna og skapar óþolandi óréttlæti.  Ef einhver veigur er í verkalýðsfélögunum, hljóta þau að vilja leggjast á eitt með SA til að móta stefnu, sem getur dregið úr þessu alvarlega óréttlæti.

Grein Halldórs Benjamíns hófst þannig:

"Fólk, sem stöðu sinnar vegna er tekið alvarlega [t.d. titill prófessors og aðild að Peningastefnunefnd Seðlabankans - innsk. BJo], hefur nýverið haldið fram þeirri firru [t.d. í Kastljósi RÚV - innsk. BJo], að staðan í atvinnulífinu væri góð.  Einungis 10 % hagkerfisins væri í vanda [þótt landið missti 1/3 gjaldeyristekna sinna - innsk. BJo].  En þá gleymdist að geta þess, að landsframleiðslan dróst saman um mrdISK 200 í fyrra [árið 2020, u.þ.b. 6,6 % brottfall verðmætasköpunar - innsk. BJo], hvað þá, að ríkissjóður verður rekinn með ríflega mrdISK 500 halla á árunum 2020-2021 með tilheyrandi skuldasöfnun eða að Seðlabankinn hefur selt gjaldeyri fyrir mrdISK 170 frá ársbyrjun 2020 [á 5 ársfjórðungum hefur 1/4 gjaldeyrisvaraforðans verið varið til að halda sæmilegum gengisstöðugleika - innsk. BJo].  Það gleymdist reyndar líka að nefna, að um 25 þúsund einstaklingar eru á skrá um atvinnulausa með öllum þeim áhyggjum, sem því fylgja fyrir fólkið og félagslegum afleiðingum.  Þess var heldur ekki getið, að atvinnuþátttaka á Íslandi hefur ekki verið minni í áratugi."

 

Atvinnulausir í meira en eitt ár hafa ekki verið fleiri en núna áratugum saman eða tæplega 7000, og er fjöldinn enn vaxandi, þótt heildarfjöldinn lækki aðeins.  Heilsufarslegar afleiðingar eru miklar fyrir þennan hóp og grafalvarlegar fyrir um 3 % þessa hóps eða um 200 manns samkvæmt athugunum austan hafs og vestan. 

Þetta langtíma atvinnuleysi er vegna þess, að ferðageirinn hefur lagzt í dvala, og þrátt fyrir gos á sprungu frá Geldingadölum og upp fyrir Meradali á Reykjanesi virðast erlendir ferðamenn ekki munu ná viðmiðunartölu fjárlaganna 2021 með öllum þeim neikvæðu áhrifum á efnahaginn, sem af því leiða.  Reikna má með, að strangar hömlur á landamærunum, þar sem mest munar um 5 daga sóttkvína, hafi leitt til helmingsins af þessu langtíma atvinnuleysi eða um 100 grafalvarlegra tilvika heilsumissis.  Þetta er líklega svipaður fjöldi og sá, sem látizt hefur af völdum C-19 og lent í langtíma einkennum, sem rakin eru til sýkingarinnar.

Af þessu sést, að við ákvörðun alls konar hamla í þjóðfélaginu í sóttvarnarskyni verður að taka neikvæðar afleiðingar þeirra með í reikninginn, því að þær geta vegið upp gagnsemina af fækkun smita.  

Þegar strangar hömlur innanlands voru settar á 24. marz 2021 voru engin smit utan sóttkvíar, og þau hafa síðan haldizt á bilinu 0-2 fyrir utan einn sólarhring, 30. marz, þegar þau mældust 5 talsins, og 24. apríl, þegar þau voru 8 talsins.  Lokanir þessa tímabils, t.d. á sundstöðum, þreksölum og íþróttaæfingum barna, hafa líklega verið allsendis óþarfar, enda hóf boðuð 4. bylgja aldrei flugið hér, og þótt 4. bylgjan hefði látið á sér kræla, hefðu afleiðingarnar orðið minni en í 1. og 2. bylgju vegna ónæmis.  Hræðsluáróður virðist hafa hrint mjög íþyngjandi lokunum af stað.  Þetta sýnir, að sóttvarnaryfirvöld eru á röngu róli hérlendis og valda jafnvel meira tjóni en gagni. 

Áfram með Halldór Benjamín:

"Nú er spáð yfir 5 % atvinnuleysi næstu 5 ár. Þorri Íslendinga hefur hingað til ekki sætt sig við mikið og langvinnt atvinnuleysi, og það viðhorf hefur ekki breytzt.  Aðilar vinnumarkaðarins verða að horfast í augu við staðreyndir og bregðast við af raunsæi.  Samfélagslegur kostnaður atvinnuleysis er of mikill, og aðstæður fólks eru óviðunandi.  Því miður hafa samningsaðilar brugðizt hlutverki sínu.  Kaupmáttur launa starfandi fólks batnar stöðugt, en atvinnulausir sitja eftir.  Laun hafa hækkað of mikið og fjölgað fólki án vinnu."

Þetta er þungur áfellisdómur yfir viðsemjendum SA, og virðist framkvæmdastjórinn vera svartsýnn á, að tauti verði komið við þá.  Þó er það sameiginlegt hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins að nýta framleiðslutæki og framleiðslukrafta atvinnulífsins upp undir 100 %, en því fer fjarri að meðaltali núna, þótt vissir geirar séu fullnýttir, a.m.k. staðbundið.

Þegar svo er komið, að samningsaðilar á vinnumarkaði hafa brugðizt hlutverki sínu, verða þjóðkjörnir fulltrúar á löggjafarsamkomunni að grípa til sinna ráða.  Eitt af úrræðunum kann að vera stöðvun allra samningsbundinna launahækkana frá ákveðnum tíma og þar til tekizt hefur að ráða bug á atvinnuleysinu. 

"Í aðdraganda alþingiskosninga hljóta stjórnmálaflokkar að setja atvinnumál á oddinn, og þá með öðrum hætti en innihaldslausum tillögum um fjölgun starfa hjá hinu opinbera [eins og t.d. Samfylking hefur gert sig seka um - innsk. BJo]. Annars bregðast þeir kjósendum sínum og sérstaklega þeim, sem eru án atvinnu.  

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna eftir 18 mánuði.  Það ætti öllum að vera ljóst, að ekki verður haldið áfram á þeirri braut að hækka laun hér á landi margfalt meira en svigrúm er fyrir og fela Seðlabankanum að stuðla að stöðugu verðlagi á sama tíma.  Mótsögnin er augljós og afleiðingarnar þekktar."

Ef svo fer fram sem horfir, verður lunginn úr gjaldeyrisvarasjóðnum horfinn við lok samningstímabilsins.  Það eitt skapar óstöðugleika í gjaldeyrisviðskiptunum og hreinlega hættu á stöðutöku gegn ISK.  Þess vegna er brýnt, að innstreymi gjaldeyris fari nú að aukast til að bæta viðskiptajöfnuðinn.  Það mun þó tæpast gerast fyrr en lönd flestra ferðamanna hingað verða græn á Covid-landakortinu.  

Það er hárrétt hjá Halldóri Benjamín, að eðlilegast er að stjórnmálaflokkarnir verji drjúgum hluta kosningabaráttunnar í að gera kjósendum grein fyrir afstöðu þeirra til atvinnumálanna.  Það þarf að koma fram, hvaða ráðum stjórnmálaflokkarnir hyggjast beita á næsta kjörtímabili á þingi og/eða í ríkisstjórn til að koma nýtingu atvinnutækja og vinnukrafts aftur upp undir 100 %. Kjósendur munu þá dæma um, hvað er lýðskrum, og hvað er raunhæft.  Þá verða auðvitað að koma hugmyndir frá flokkunum með tímasettri áætlun um að ná jafnvægi á ríkisbúskapinn. 

"Fyrirtæki og atvinnulífið í heild skapa verðmætin, sem standa undir samneyzlu og velferðarkerfi.  Heilbrigð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði, hóflegir skattar og gegnsæjar reglur eru forsendur þróttmikils atvinnulífs.  Fjárfestingar, vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn er eina færa leiðin til að skapa verðmæti og leggja grunn að fjölgun starfa, auknum tekjum fólks og skatttekjum hins opinbera. Sem dæmi er nýliðin loðnuvertíð gríðarleg innspýting í lykilbyggðarlög á krefjandi tíma."

Segja má, að þarna leggi framkvæmdastjóri SA fram sitt mat á því, hvaða rekstrarumhverfi þarf að búa atvinnulífinu til að komast út úr núverandi efnahagsþrengingum. Það blasir við, að vinstri flokkarnir í landinu eru óhæfir til að skapa þessi skilyrði, því að þeirra tilhneiging er jafnan að blóðmjólka mjólkurkýrnar, og forystumenn þar á bæ virðast ekki gera sér grein fyrir til hvers það óhjákvæmilega leiðir. 

Fyrirtækin sjá um sig sjálf, ef þau fá aðstöðu til að dafna.  Þá munu þau fjárfesta og ráða til sín fólk.  Kostnaðarhækkanir nú og á næstu misserum, hækkanir launakostnaðar eða opinberra gjalda, munu aðeins magna kreppuna. 

Í lokin skrifaði Halldór Benjamín:

"Það má láta sig dreyma um álíka samstöðu um leið út úr atvinnuvandanum og ríkt hefur gegn kórónuveirunni.  Þótt slík samstaða sé ekki í augsýn, kæmi hún atvinnulausum bezt og stuðlaði að sjálfbærri þróun á komandi árum.  En sporin hræða." 

Ríkisstjórn og Alþingi hafa skuldbundið ríkissjóð fyrir gríðarlegum kostnaði vegna þessarar kórónuveiru, sem nemur a.m.k. andvirði einna fjárlaga.  Skuldina þarf að greiða, og það er bezt að gera sem hraðast af nokkrum ástæðum.  Ef skuldinni er bara ýtt á undan sér, eins og vinstri flokkarnir eru líklegir til að gera, mun hún hlaða utan á sig þungri vaxtabyrði og lenda á unga fólkinu, sem er ósiðleg ráðstöfun.  Afleiðingin verður þá líka sú, að þjóðin verður vanbúin fjárhagslega til að taka á sig næsta efnahagsskell á eftir Kófinu, og ábyrgðarhluti þeirra, sem taka ákvörðun um slíkt, er mikill.

Eina raunhæfa ráðið er að þrengja ýstruólina aðeins, tímabundið, og nýta allar færar leiðir, þar með nýja nýtingu náttúruauðlinda, til að knýja fram góðan hagvöxt með viðbótar gjaldeyrissköpun eða gjaldeyrissparnaði.  Orkuskiptin (núverandi) munu t.d. fela í sér a.m.k. mrdISK 150 gjaldeyrissparnað, þegar þau verða að fullu um gerð gengin, ef fjörið í samgöngunum verður ekki minna en fyrir Kóf.  

 

 

 

  

 


Fraunhofer og samkeppnishæf framleiðsla

Það er einkenni stjórnarhátta núverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa nefndir eða kaupa skýrslugerð af ráðgjafarfyrirtækjum, iðulega útlendum, þegar komast þarf til botns í málum.  Við þetta setur ráðuneytið nokkuð niður, því að það ætti að vera í stakkinn búið til að leiða slíka vinnu hérlendis og kalla til aðstoðar við sig sérfræðinga eftir þörfum. 13. nóvember 2020 birti ráðuneytið skýrslu, sem var ekki af lakara taginu, enda verktakinn rannsóknarfyrirtækið Fraunhofer Institut í Karlsruhe.  Væri fróðlegt að vita, hvað afurðin, skýrsla um samkeppnishæfni orkukræfs iðnaðar á Íslandi m.t.t. raforkukostnaðar, kostaði íslenzka skattgreiðendur. Mun þessi skýrsla borga sig ?

Í skýrslunni er mikill fróðleikur, en hún er með böggum hildar frá verkkaupanum.  Hún fjallar ekki um heildarsamkeppnishæfni fyrirtækjanna orkukræfu, og hversu hár raforkukostnaður hvers þeirra eða hvers geira má vera, að öðrum liðum óbreyttum m.v. ákveðna tímasetningu, til að fyrirtækin skili lágmarks arðsemi að mati ráðgjafans. Sú arðsemi er við núverandi aðstæður sjálfsagt talsvert lægri en 7,5 %/ár, sem ríkissjóður krefst af Landsvirkjun. Fyrir vikið er óvíst, að skýrslan komi að miklum notum, og fyrstu ummæli iðnaðarráðherra um niðurstöðu skýrslunnar lofa ekki góðu í þeim efnum.

Til að setja stóriðjuna í sögulegt samhengi er nytsamlegt að skoða ritsmíð prófessors Jónasar Elíassonar í Morgunblaðinu 3. júní 2020: 

"Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?"

"Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu. Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið. Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð. 

Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga. Stóriðjan hefur reynzt ágætur viðskiptavinur og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð."

Viðreisnarstjórnin og Seðlabankastjóri þess tíma, dr Jóhannes Nordal, stóðu að og framkvæmdu þá stefnumörkun á 7. áratug 20. aldarinnar að semja við erlenda fjárfesta um stórsölu á rafmagni og fjármagna þannig uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins til langrar framtíðar.  Þetta tókst vel, en það var erfitt að komast yfir þann háa þröskuld, að Ísland og Íslendingar voru þá óþekkt stærð varðandi afhendingu á raforku.  Íslendingar stóðust prófið, þótt oft reyndist mjög mótdrægt að útvega verksmiðjunum nægt rafmagn í erfiðu tíðarfari, þegar veikir innviðir brustu, t.d. Búrfellslína 1 á hafinu yfir Hvítá.   

Þegar traustið jókst með öflugri innviðum og meiri þekkingu, myndaðist svigrúm til að sækja á um hærra raforkuverð, og það var hækkað á 9. áratuginum. Á 10. áratuginum hækkaði það enn meir, og þá var jafnframt tekin upp verðtenging við nokkra álmarkaði, sem gerði tvennt fyrir íslenzku orkubirgjana.  Hún tryggði þeim lágmarksverð til að standa straum af fjárfestingum sínum í mögrum árum, og hún tryggði þeim hlutdeild í hagnaði álfyrirtækjanna í góðæri.  

Það ríkti góð sátt um þetta fyrirkomulag til 2010, þegar nýir valdhafar komu að Landsvirkjun. Því var ranglega haldið fram, að álverðstenging við raforkuverð skapaði orkubirgjunum of mikla áhættu.  Því var þveröfugt farið.  Hún skóp stöðugleika. Hinir nýju stjórnendur Landsvirkjunar höfðu ekkert umboð til að kollvarpa farsælli stefnu, sem Alþingi hafði mótað og aldrei breytt.  Nú er þessi markaður í uppnámi og gæti lent aftur á byrjunarreit, eins og prófessor Jónas Elíasson getur um. 

"Aðrir [en Kínverjar - innsk. BJo] reyna að þrauka á lágmarksgangi.  Þessi þróun er sýnileg hjá ISAL, sem var í viðkvæmri stöðu fyrir [COVID-19]. Þeir eru með nýjasta raforkusamninginn [svo ?], og samkvæmt honum hefur orkuverð til þeirra hækkað talsvert, en verðmæti framleiðslunnar minnkað.  Þeir íhuga stöðvun, en eiga ekki hægt um vik, því [að] stærsti hlutinn af raforkusamninginum er háður kaupskyldu."

Það hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum um endurskoðun raforkusamningsins á milli ISAL og Landsvirkjunar, sem gekk í gildi 2011 með afl- og orkuminnkun árið 2014, af því að Rio Tinto guggnaði á straumleiðaraeflingu í kerskálum 1 & 2, sem gert hefðu kleift að hækka kerstrauminn upp í um 200 kA. Norðurál samdi við Landsvirkjun um Nordpool-viðmiðun 2016, og árið 2019 kvað gerðardómur upp úrskurð um verð í orkusamningi Elkem Ísland og Landsvirkjunar. Nú býður Norðurál Landsvirkjun verðhækkun frá gildandi Nordpool og upp í meðalverð stóriðju, um 26 USD/MWh samkvæmt Fraunhofer, gegn langtímasamningi og álverðstengingu, en Landsvirkjun þursast við.  Samt hangir allt að mrdISK 15 fjárfesting á spýtunni.  Málið er svo alvarlegt, að fjármála- og efnahagsráðherra verður að grípa inn í þessa atburðarás, svo að útkoman verði vitleg.

Landsvirkjun hélt því fram í sumar (2020), að hún hefði lækkað verðið tímabundið til stórnotenda vegna Kófsins.  Það raungerðist ótrúlega seint í Straumsvík, en átti þó ásamt álverðshækkun þátt í viðsnúningi afkomunnar til hins betra í ágúst-október 2020, og vonandi verður seinni árshelmingurinn jákvæður fyrir reksturinn.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt með núverandi raforkusamning í gildi, og segir það alla söguna um, hversu samkeppnishæft raforkuverðið er. Með þessu áframhaldi mun eigandi ISAL segja raforkusamninginum upp við fyrsta tækifæri, sem þýðir líklega endanlega stöðvun 2024 samkvæmt ákvæðum orkusamnings.  Er skynsamlegt af ríkisfyrirtækinu að halda svona á spöðunum gagnvart hinum erlenda fjárfesti ? Vonandi sjá menn að sér fyrr en seinna.

"Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra sé að auka verðmæti auðlindarinnar.  Þetta er illframkvæmanlegt, nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar.  Þetta hefur tekizt, þó að ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða."

Nú er Kófskreppa og atvinnulífið þarfnast sárlega innspýtingar.  Þetta skilja stjórnendur á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar. Í Noregi getur stóriðjan nú gert 5 ára samninga upp á 28 USD/MWh með flutningsgjaldi.  Það þýðir, að hér þarf verð frá virkjun að vera um 22 USD/MWh með viðmiðunarálverð LME um 1900 USD/MWh. Íslenzka ríkið verður að vera sjálfu sér samkvæmt um ráðstafanir til viðspyrnu í Kófinu og lækka ávöxtunarkröfu sína til Landsvirkjunar verulega, t.d. um helming. Vextir í Evrópu eru við 0, og almennt raforkuverð hefur hríðlækkað á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu og víðast hvar annars staðar í ár, og stjórnvöld hafa niðurgreitt langtímasamninga.  Íslenzk stjórnvöld hins vegar hreyfa hvorki legg né lið, e.t.v. af ótta við að brjóta EES-samninginn, en aðrir hafa látið hann lönd og leið í Kófinu. Þetta heitir að vera kaþólskari en páfinn. 

Í lok greinar sinnar dró prófessor Jónas upp sviðsmyndina, sem leiðir af aðgerðarleysi íslenzkra stjórnvalda:

"Eftir situr þjóðin á reit nr 1 með um 20.000 manns án fyrirvinnu [í rústum íslenzks áliðnaðar - innsk. BJo].  Auðvitað er þetta helstefna.  Það þarf að reyna að koma eitthvað til móts við þennan iðnað, sem er búinn að þjóna landinu vel í 50 ár, gera einhverja marktæka tilraun til þess a.m.k. Núverandi ríkisstjórn er búin að taka fyrir það að leggja sæstreng til Evrópu, enda er raforkumarkaðurinn í Evrópu algerlega glataður fyrir Íslendinga, strengurinn alltof langur  og dýr og reglur uppboðsmarkaðar ESB, sem búið er að skylda okkur inn á (Nordpool), fjárhagslegt fen. 

Að sigla hingað með hráefni og vinna fyrir erlendan markað með umhverfisvænni náttúruorku er það, sem stefna ber að. Hér eftir sem hingað til.  Ef á að henda þeirri stefnu fyrir borð, verður að spyrja: hvað veldur ?" 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, skrifaði pistil í Morgunblaðið 15.11.2020.  Það, sem þar kemur fram, bendir ekki til, að ný skýrsla Fraunhofer Institut að hennar beiðni hafi opnað augu hennar fyrir því, að raforkuverð á Íslandi er ósamkeppnishæft um þessar mundir og fyrirsjáanlega á næstu árum.  Að tala um, að meðaltalið sé samkeppnishæft, er orðhengilsháttur og engum til góðs, því að þetta meðalverð, um 26 USD/MWh, stendur engum kaupanda til boða.  Hvers vegna brettir ráðherrann ekki upp ermarnar og fer að moka flórinn ?  Hún ætti að hefjast handa í Landsvirkjunarfjósinu.  

Nú verður vitnað í téðan pistil ráðherrans:

 

 

"Samkeppnishæfni Íslands snýst um bætt lífskjör":

"Meginniðurstaða úttektarinnar [Fraunhofer] er, að raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum, sem voru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýzkaland.  Fyrri löndin tvö eru stærstu álframleiðendur Vesturlanda og því ljóst, að við samanburðinn var ekki ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur."

Um þennan texta má segja, að þeir, sem ekki kunna að lesa skýrslur, ættu ekki að kaupa þær fyrir skattfé. Hvers vegna er gjörsamlega marklaust að draga þá ályktun af meðalorkuverði til stóriðju á Íslandi, að það sé samkeppnishæft ?  Það er  vegna þess, að það stendur engum til boða.  Hvers vegna gerir verkkaupinn, ráðherrann, það þá að aðalályktun sinni út frá þessari Fraunhofer-skýrslu, að Ísland sé samkeppnishæft á þessu sviði ?  Önnur skýring en sú að afsaka aðgerðaleysi iðnaðarráðherra á meðan Róm brennur er ekki í sjónmáli. Þurfum við á svona fulltrúum að halda á Alþingi ?  

Það hefur komið opinberlega fram hjá forstjóra Norðuráls, að fyrirtæki hans vill ráðast í allt að mrdISK 15 fjárfestingar í steypuskála sínum til að auka verðmæti framleiðslu sinnar með stangasteypu, en þarf til þess traustan raforkusamning a.m.k. til 15 ára og orkuverð í nánd við núverandi meðalverð Landsvirkjunar til orkukræfs iðnaðar.  Opinberar undirtektir Landsvirkjunar hafa ekki verið uppörvandi, og skýtur það skökku við orðagjálfur ráðherranna um nauðsyn nýsköpunar og nýrra fjárfestinga til að skapa efnahagslega viðspyrnu í Kófinu. Hér er ekki um umtalsvert aukna orkuþörf að ræða, og raforkuverð til fyrirtækisins mundi hækka verulega frá núverandi "Nordpool" verði, ef af slíkum samningum yrði.  Í þessu ljósi er aðgerðarleysi ráðherranna gagnvart ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun algerlega óboðlegt. Það sjá menn, hvar í flokki sem þeir standa. 

"Engum dettur í hug að gera lítið úr þeim áskorunum, sem stóriðja á Vesturlöndum stendur frammi fyrir vegna aðstæðna á heimamörkuðum og samkeppni frá öðrum heimshlutum.  Við ættum ekki eingöngu að hafa áhyggjur af þeirri stöðu út frá efnahagslegu sjónarhorni, heldur líka umhverfislegu.  Ef stóriðja hér á landi flyttist til annarra landa og yrði þar knúin jarðefnaeldsneyti, yrði það skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar; öll viðleitni okkar í orkuskiptum myndi blikna í samanburði við slíka þróun."

Þetta er einkennilegur útúrdúr í ljósi grafalvarlegrar stöðu atvinnu- og efnahagsmála hérlendis.  Ef t.d. starfsemi allra álveranna flyttist utan, þangað sem jarðgas knýr raforkuvinnsluna, mundi heimslosun koltvíildis aukast um u.þ.b. 10 Mt/ár, sem er um tvöföld heildarlosun frá starfsemi á Íslandi (án flugs).  Það er um 0,03 % af heildarlosun frá starfsemi á jörðunni. Að kalla það "skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar" er anzi djúpt í árinni tekið og má telja til "upplýsingaóreiðu" eða "fake news". 

Uppbyggilegra en þetta þvaður úr ráðuneytinu var viðtal við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls, o.fl. í Fréttablaðinu 14. nóvember 2020:

"Telja að úttekt gefi ranga mynd af stöðu raforkumarkaðar innanlands". 

"Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, segir, að meðalverð til stóriðju, eins og það kemur fram í uppgjörum Landsvirkjunar, sé vissulega samkeppnishæft, og að skýrsla Fraunhofer staðfesti það:

"Hins vegar hefur ítrekað komið fram í skrifum forsvarsmanna Landsvirkjunar, að það verð er einfaldlega ekki í boði lengur við endurnýjun samninga; nú síðast hjá upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar í fjölmiðlum fyrir helgi.  Með þeirri verðstefnu er augljóst, að samkeppnishæfni íslenzkrar stóriðju til framtíðar er ógnað", segir Gunnar."

Þetta er rétt mat á stöðu orkumarkaðarins núna, og Fraunhofer-skýrslan var óþörf til að komast að þeirri niðurstöðu.  Endalausar skýrslupantanir iðnaðarráðherra eru tafaleikir og skálkaskjól fyrir úrræðalítinn ráðherra.  Þessi skortur á samkeppnishæfni Íslands er hins vegar óþarfur tilbúningur og afleiðing okurstefnu fáokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er að rústa íslenzkum iðnaði og getur leitt til eyðileggingar Landsvirkjunar sjálfrar.

"Bjarni Már Gylfason, samskiptafulltrúi ISAL í Straumsvík, segir, að fyrirtækið muni ekki tjá sig um einstök atriði í skýrslu Fraunhofer.  "En almennt getum við sagt, að hún endurspeglar ekki þann veruleika, sem ISAL býr við.  Það er gott, að stjórnvöld beini sjónum að orkuverði, sem er lykilþáttur í samkeppnishæfni áliðnaðar.  ISAL og áliðnaðurinn á Íslandi vegur þungt í efnahagslífi þjóðarinnar, og það er mikilvægt, að ISAL geti orðið fjárhagslega sjálfbært og samkeppnishæft", segir Bjarni."

Verðið til ISAL um þessar mundir er um 40 % hærra en meðalverðið, sem Fraunhofar kveður samkeppnishæft.  Ofan á þetta bætist svo flutningsgjald til Landsnets.  Ef raforkuverð í Noregi lækkaði um allt að 67 % árið 2020 í Noregi, eins og Fraunhofer skrifar, er það um þessar mundir um 15 USD/MWh, sem er rúmlega 40 % af raforkuverðinu til ISAL án flutningsgjalds.  Það er óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli ekki grípa í taumana hér. 

Hér verður svo að taka með í reikninginn, að vegna lengri flutningaleiða verður stóriðja á Íslandi ekki samkeppnishæf við stóriðju í Noregi, nema raforkuverðið sé hér lægra.  Í fljótu bragði verður ekki séð, að Fraunhofer-skýrslan skipti sér af því, enda virðist ráðuneytið (verkkaupinn) ekki hafa ætlazt til, að öll sagan væri sögð.

Ekki tekur betra við, þegar kemur að gagnaverunum, enda hefur starfsemi þeirra á Íslandi dregizt saman vegna okurs á raforkumarkaði:

""Það er ákveðið áhyggjuefni, að ráðuneytið skuli í tilkynningu sinni draga þá ályktun, að raforkuverð til gagnavera á Íslandi sé samkeppnishæft við t.d. Noreg, þegar það er hreinlega tekið fram í skýrslunni, að raforkuverð í Noregi sé töluvert lægra en á Íslandi, eins og allir þeir vita, sem eru að skoða raforkuverð á þessum tveimur mörkuðum", segir Jóhann Þór Jónsson, formaður stjórnar gagnavera á Íslandi.  Jóhann nefnir einnig, að heimildavinnu skýrslunnar sé oft og tíðum ábótavant. Á einum stað í skýrslunni sé þannig talað um langtíma raforkuverð til norskra gagnavera í Noregi, en eina heimildin, sem þar er stuðzt við, er blaðagrein frá 2013.  "Stærsta áhyggjuefnið er hins vegar sú staðreynd, að orkunotkun íslenzkra gagnavera hefur dregizt saman um næstum því helming síðan 2018 og aðrir stórnotendur á landinu virðast stefna í svipaða átt. Það er ekki að gerast vegna þess, að raforkuverð er svo samkeppnishæft", segir Jóhann."

Þrátt fyrir fagurgala iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar verður ekki hjá því komizt að lýsa íslenzkum raforkumarkaði sem sviðinni jörð um þessar mundir.  Það versta er, að hvorki ráðuneytisfólk né stjórn Landsvirkjunar virðast átta sig á hættunni, sem við blasir, heldur telja við hæfi að fremja hundakúnstir og barbabrellur til að slá ryki í augu almennings. Það verður skammgóður vermir.

 ipu_dec_5-2011

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Kófið og ríkissjóður

Nú ríður á að auka atvinnuna í landinu aftur.  Með tvöfalda skimun fyrir alla komufarþega til landsins mun ferðageirinn ekki lifna við, eins og ríkisstjórnin þó reiknar með í fjármálaáætlun sinni.  Nýgengi smita er tiltölulega hátt á Íslandi þrátt fyrir þetta kverkatak á ferðaþjónustunni. Að herða bönn, lokanir og athafnatakmarkanir, þegar nýgengið fer lækkandi, er illa ígrunduð ráðstöfun, sem tekur ekkert tillit til fórnarkostnaðarins. Þegar nýgengið tekur að lækka í þeim löndum, hvaðan ferðamenn mega koma hingað, ætti að láta einfalda skimun fyrir aðra en íbúa hérlendis duga.  

Alvarleg staða er hjá mörgum fyrirtækjum í þjónustugeirum og fiskvinnslu út af Kófinu, og ætti ríkissjóður að beita sér fyrir sjóðsstofnun, sem fjárfesti í lífvænlegum fyrirtækjum á þessum sviðum, og e.t.v. öðrum,í því augnamiði að koma atvinnusköpun og verðmætasköpun í gang aftur, en taka fyrirtæki hins vegar af ríkisspenanum. Það verður þegar í stað að hægja á skuldasöfnun ríkissjóðs. Áhyggjur fjármálamarkaðarins út af endurgreiðslugetu ríkissjóðs eru þegar komnar fram í hækkun langtímavaxtaálags ríkisskuldabréfa.  Þetta mun brátt smita yfir á almennan fjármálamarkað, draga enn úr fjárfestingum og keyra fleiri í þrot. Þessa vaxtaálags verður ekki vart enn á hinum Norðurlöndunum, svo að þetta er hættumerki hér. 

Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun verður að semja um verðlækkun á raforkunni, svo að fjárfestingar hefjist af alvöru aftur, t.d. í stóriðjunni.  Norðurál er tilbúið að fara strax í mrdISK 10-20 fjárfestingu, og ISAL og Elkem Ísland hafa lengi haldið að sér höndum vegna þess, að raforkuverð til þeirra skapar ólífvænlega afkomu. Ekki kæmi á óvart, að þessi fyrirtæki mundu að fengnum viðunandi langtímasamningi um raforku fljótlega fara í um mrdISK 10 fjárfestingu alls, enda uppsöfnuð þörf mikil.  Ef Landsvirkjun lækkar sitt orkuverð til almenningsveitnanna, mun það örva allt atvinnulífið. Orð og athafnir stjórnmálamanna um nauðsyn þess að koma hjólunum í gang verða að fara saman. Eitt öflugasta tæki þeirra er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun.  Ekki þarf að hafa áhyggjur af ESA, því að í Kófinu hefur ekki verið amazt við neyðarafskiptum ríkisvalds á raforkumarkaði EES.

Um daginn var athyglisverð frétt úr Reykjanesbæ um, að þreifingar væru á milli Samherja og Norðuráls um kaup þess fyrr nefnda á kerskálum í Helguvík til að setja þar upp landeldi fyrir fisk.  Slíkt þarf talsvert rafmagn og mikið vatn, hitaveituvatn og ferskvatn, ásamt hafnaraðstöðu.  Það mundi verða stórkostleg lyftistöng fyrir bágborið atvinnuástand á Suðurnesjum, ef slíkar framkvæmdir færu af stað í Helguvík, og þetta gæti orðið brautryðjandi framkvæmd á sínu sviði. Ef ríkisvaldið getur eitthvað liðkað til fyrir þessum samningum, ætti það ekki að hika við það vegna neyðarástands, sem nú ríkir í atvinnumálum Suðurnesjamanna. Þótt Kófið leiki laxaframleiðendur grátt um þessar mundir, er hér um að ræða skilvirka próteinframleiðslu með lítið kolefnisspor og þar af leiðandi bjartar framtíðarhorfur.  

Nú er framleiðslugeta fiskeldis á og við Ísland um 30 kt/ár.  Með áhættugreiningum hefur Hafrannsóknarstofnun sett ramma um leyfisveitingar upp á um 100 kt/ár.  Líklega mun burðarþolsmat leyfilegra fiskeldisfjarða við Ísland, þegar það hefur verið gert, nema um 200 kt/ár. Síðan mun taka við úthfseldi, eins og Norðmenn eru að feta sig áfram með núna í risalaxeldiskvíum. Nú þarf að flýta leyfisveitingum án flausturs til að flýta þróuninni hérlendis og til að skapa enn meiri vinnu og verðmæti á þessu sviði, sem gríðarleg þörf er á.

Hörður Ægisson hefur ritað mjög áhugaverðar forystugreinar í Fréttablaðið í Kófinu. Þann 23. október 2020 braut hann enn blað og ritaði þungvæg aðvörunarorð um skuldasöfnun ríkissjóð, sem reynast mun landsmönnum fjötur um fót á næstu árum vegna þungrar vaxtabyrði.  Í þetta sinn mun ekki koma neinn björgunarpakki úr þrotabúum fallinna banka, heldur verða launamenn og atvinnurekstur í landinu að axla byrðarnar af þeirri óábyrgu skuldasöfnun, sem nú á sér stað.  Varðhundar sósíalisma og útþenslu ríkisbáknsins blása á aðvörunarorð Viðskiptaráðs og beita í því sambandi útþvældum orðaleppum á borð við "nýfrjálshyggju", en þeir munu skríða ofan í holur sínar, þegar að skuldadögunum kemur.

Téð forystugrein bar fyrirsögnina:

"Ábyrgðarleysi":

"Þingmaður VG [Kolbeinn Proppé] afgreiddi þannig í vikunni nýútgefið rit Viðskiptaráðs, þar sem settar eru fram hófsamar tillögur um, hvernig megi forgangsraða í ríkisfjármálum til stuðnings verðmætasköpun og nýta fjármagn hins opinbera betur, sem "úrelta hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar [...] frá því fyrir hrun". Ekki er að sjá, að margir hafi áhyggjur af því, hvaða áhrif þúsund milljarða skuldsetning ríkissjóðs á komandi árum, sem þarf að fjármagna með lántökum á markaði, kunni að hafa á hagvaxtarhorfur og vaxtabyrði skattgreiðenda." 

Hættan er sú, að ríkissjóður lendi í vítahring, sem endað getur með ósköpum.  Til að stöðva skuldasöfnun og standa undir greiðslubyrðinni muni þurfa að skera niður útgjöld/fjárfestingar ríkissjóðs og hækka skatta, sem aftur dregur úr hagvexti.  Þessi neikvæða þróun mun framkalla verra lánshæfismat, sem gerir lán ríkissjóðs enn dýrari.  "Stagflation" eða stöðnun og verðbólga mun þá keyra lífskjörin niður í svaðið.  Slíkar eru afleiðingar óábyrgrar fjármálastjórnar ríkisins.  "There is no free lunch in this world."  Það er enginn ókeypis hádegisverður til eða "Æ sér gjöf til gjalda". Vinstri sósíalistar hafa enn ekki skilið það. Þeim eru hins vegar hugleiknar "úreltar hagfræðikenningar", því að þeir eru pikkfastir í gjaldþrota hugmyndafræði Karls Marx.

Forystugreininni lauk Hörður Ægisson þannig:

"Þróunin á skuldabréfamarkaði ætti að vera flestum tilefni til að staldra við.  Áhyggjur af því, hvernig fjármagna eigi gríðarlegan hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga, ásamt þrýstingi stjórnmálaafla á enn meiri útgjöld án þess, að nokkur ráðdeild komi á móti, hefur valdið því, að langtímavextir á markaði - grunnur fyrir vaxtakjör heimila og fyrirtækja - hafa snarhækkað á örfáum vikum og eru komnir á sama stað og í janúar [2020].  

Sú þróun er grafalvarleg og skýtur skökku við, enda hafa stýrivextir Seðlabankans á sama tíma lækkað úr 3 % í 1 %.  Árlegur vaxtakostnaður ríkisins m.v. núverandi fjárlagafrumvarp stefnir af þeim sökum í að verða yfir 2 % af landsframleiðslu, eða um mrdISK 60, sem er á pari við Grikkland.  Það er óásættanlegt, og við því þurfa stjórnvöld að bregðast."

Það er allt á huldu um framtíðar tekjur atvinnuveganna og þar af leiðandi um einkaneyzlu og opinberar fjárfestingar.  Spár um efnahagslegan viðsnúning á næsta ári eftir e.t.v. 6 % samdrátt landsframleiðslu á þessu ári, eru óraunhæfar.  Hagvöxtur á mann verður sáralítill, ef veiruófétinu leyfist áfram að drepa hér allt í dróma.  Þá er komin hér uppskrift að grísku ógæfunni, sligandi opinberar skuldir og hagkerfi með sáralitlum fjárfestingum, sem hjakkar í sama farinu. Verður einhver stjórnmálaflokkanna fær um að veita leiðsögn út úr þessari blöndu ytra áfalls og sjálfskaparvítis ?  Það mun koma í ljós í komandi kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningar.  


Hræðsluáróður og raunsæi

Það er mikil áherzla lögð á það af hálfu sóttvarnaryfirvalda nú í s.k. Bylgju 2 af COVID-19 að fækka smitum, sem berast inn í landið. Er það skynsamleg stefnumörkun í ljósi kostnaðar af hverju smiti og þeirra gríðarlegu fórna, sem færa þarf til að fækka smitum inn í landið með aðferð stjórnvalda, þ.e. tveimur skimunum með um 5 daga sóttkví þar til upplýsingar berast ferðalangi um neikvæða niðurstöðu seinni skimunar ?  Nei, fórnarkostnaðurinn er allt of hár m.v. ávinninginn.  

Ferðamönnum til landsins hefur líklega fækkað um 70 % - 80 % við þá breytingu sóttvarna á landamærum að krefjast tveggja skimana og 5 daga sóttkvíar í stað einfaldrar skimunar við komu og smitgátar fram að niðurstöðu eða 14 daga sóttkvíar. Ef notað er lægra hlutfallið og búizt við 3500 farþegum á sólarhring að hausti og vetri (í Kófinu) með einfaldri skimun, þá nemur fækkun ferðamanna 2450 manns á sólarhring.  Ef hver ferðalangur, sem hættir við að koma til landsins, veldur nettó tekjutapi íslenzka þjóðarbúsins upp á kISK 100 (100 þúsund krónur), þá nemur nettó tapið 245 MISK/dag (M=milljón). 

Hver er ávinningurinn af tvöfaldri skimun ?  Hann er háður fjölda smitaðs fólks, sem sleppur inn í landið með einfaldri skimun, en ekki með tvöfaldri skimun.  Hér þarf að taka tillit til þess, að samkvæmt Sóttvarnalækni eru 60 % þeirra, sem greinast með virk smit á landamærunum búsett á Íslandi.  Sennilega er smithætta frá þeim a.m.k. þreföld að jafnaði á við smithættu frá erlendum ferðamönnum hér innanlands.  Þess vegna er rétt, að þessi hópur haldi áfram að fara í tvöfalda skimun við komuna til landsins. Fjöldi þeirra, sem greinzt hafa neikvæðir í fyrra skiptið og jákvæðir í seinna skiptið, kemur fram í neðangreindri tilvitnun í ágæta grein Þorsteins Siglaugssonar í Morgunblaðinu 11. september 2020: 

"Þegar fókusinn brenglast",

Þar stendur m.a. þetta:

"Í annarri skimun á landamærum hefur 21 smit greinzt.  Því færri ferðamenn, því færri smit greinast. Og því færri ferðamenn, því færri störf.  Það er kaldhæðnislegt, að því betri sem "árangur" aðgerðanna verður - færri ferðamenn og færri greind smit - því fleiri dregur atvinnuleysið til dauða fyrir hvert smit, sem forðað er."

 

 Í ljósi fremur lítils álags á heilbrigðiskerfið í s.k. Bylgju 2, þar sem aðeins 1 sjúklingur hefur þurft í senn á sjúkrahúsvist að halda og enginn hefur látizt, orkar mjög tvímælis, að yfirvöld landsins skuli þvermóðskast við að halda íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum sínum á landamærunum og innanlands til streitu.  Eins og fram gengur af tilvitnuninni hér fyrir ofan, liggur fólk í valnum vegna þarflausra aðgerða stjórnvalda.  

M.v. upplýsingarnar hér að ofan um fjölda smitaðra, sem seinni skimun hefur gripið, en ekki sú fyrri, má ætla, að meðalfjöldi þeirra, sem með einfaldri skimun slyppu inn í landið smitaðir sé 3,9 á sólarhring, en af þeim eru aðeins 1,6 erlendir ferðamenn. Miðað við tiltölulega litla smithættu af þeim, mundi daglegum smitum fjölga um 3.  Ætla má, að sparnaðurinn, sem það leiðir af sér að komast hjá þessum smitum, nemi 9,3 MISK/dag, en skimunarkostnaðurinn við seinni skimunina er aftur á móti um 15 MISK/dag (sóttkvíarkostnaði á milli skimana sleppt).  Tekjutap og auka skimunarkostnaður er að lágmarki 260 MISK/dag og hlutfallið 260/9,3=28 er algert lágmark á milli kostnaðar og sparnaðar af tvöfaldri skimun m.v. einfalda skimun.  Þessi ráðstöfun er ekki verjanleg, eins og s.k. Bylgja 2 hefur lengst af þróazt hérlendis.

Grein sína hóf Þorsteinn Siglaugsson þannig:

"Þann 19. ágúst [2020] var Íslandi í raun lokað fyrir ferðamönnum.  Ferðaþjónusta hefur nánast stöðvazt.  Verzlun og þjónusta verður fyrir miklum skakkaföllum.  Fasteignafélög lenda í vanda.  Bankarnir fá skuldirnar í fangið.  Skatttekjur ríkisins hrynja.  Getan til að halda uppi mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi skerðist. Þúsundir missa vinnuna, enda stór hluti starfa háður ferðaþjónustu.  Margir hafa hvatt til, að aðgerðirnar verði endurskoðaðar.  Viðbrögðin lofa ekki góðu." 

Ríkisstjórnin hefur stórlaskað hagkerfi landsins með ráðstöfunum sínum í sóttvarnarmálum, sem gerðar eru í nafni lífs og heilsu landsmanna, en ógna lífi og heilsu fleira fólks í landinu en þær verja.  Þetta blasir við, en forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra virðast heillum horfnar og þar með ríkisstjórnin öll, þótt einhverjir ráðherrar maldi í móinn. 

Nokkru síðar í greininni færði Þorsteinn rök fyrir skaðsemi ráðstafananna á líf og heilsu fólks.  Samtök atvinnulífsins hafa lítið gagnrýnt stjórnvöld nú í s.k. Bylgju 2, og einkum hefur skort á, að samtök launþega taki upp hanzkann fyrir sína félagsmenn. Þar á bæ er talið mikilvægara að berjast við "kapítalismann", sem nú er á hnjánum sums staðar, t.d. í ferðageiranum, og þar af leiðandi hafa mörg störf farið í súginn og öðrum ógnað.  Forgangsröðun verkalýðsforkólfa er óskiljanleg, og almennt ræður hjarðhegðun för í þjóðfélaginu á röngum forsendum, eins og oft áður.

"Það er löngu sannað, að atvinnuleysi veldur dauðsföllum. Hjartasjúkdómar eru fyrirferðarmestir.  Samkvæmt nýlegri rannsókn veldur 1 % aukning atvinnuleysis 6 % aukningu á dánarlíkum ári síðar.  Fjöldi annarra rannsókna víða um heim sýnir slíkt samhengi."  

Í júlí 2020 voru 17´100 manns atvinnulaus.  Ef hinar vanhugsuðu aðgerðir stjórnvalda í sóttvarnarmálum, einkum á landamærum, valda atvinnumissi 4000 manns, þá vex atvinnuleysið um a.m.k. 20 %.  Samkvæmt því samhengi aukningar atvinnuleysis og dánarlíkinda atvinnuleysingja ári síðar, má ætla, að dánarlíkur yfir 20´000 manns á næsta ári aukist um 120 %, ef ekki rætist verulega úr atvinnuástandinu fljótlega.  Dettur einhverjum í hug, að dánarlíkur einhvers annars 20´000 manna hóps á landinu meira en tvöfaldist við það að slaka á sóttvarnaraðgerðum í landin, sem sannanlega eru fyrirtækjum svo mikill fjötur um fót, að þau neyðast til að fækka starfsfólki ?

Þorsteinn Siglaugsson hélt áfram:

"Enginn má leggjast á spítala vegna Covid-19.  En enginn hefur misst vinnuna til að fækka í þeim 25.000 manna hópi, sem árlega þarf að leggjast á spítala af öðrum orsökum.  Enginn krefst allsherjarútgöngubanns til að fækka þeim 2300 dauðsföllum, sem verða af öðru en Covid-19.  Hvers vegna þetta hrópandi misræmi ?"

Ætli fjöldi innlagna á spítala af völdum COVID-19 verði ekki undir 100 á árinu 2020.  Það er 0,4 % af öllum innlögnum.  Dauðsfallahlutfallið af völdum COVID-19 af öllum dauðsföllum verður líklega svipað á þessu ári.  Stærsta atvinnugrein landsins er ein rjúkandi rúst, ríkissjóður safnar skuldum, sem nálgast mrdISK 1000, viðskiptajöfnuðurinn er í járnum og nú gengur á gjaldeyrisvarasjóðinn til að verja ISK, sem fallið hefur um næstum fimmtung frá upphafi Kófs.  Allt er þetta með miklum ólíkindum og þarfnast sennilega alþjóðlegrar, geðfræðilegrar rannsóknar.  Þorsteinn Siglaugsson nálgaðist útskýringu fyrir sitt leyti:

"Ástæðan er, að fókusinn á það, sem máli skiptir, er horfinn.  Eitthvað eitt fær skyndilega vægi úr öllum takti við tilefnið.  Þetta er ekki í fyrsta sinn.  Í galdrafárinu varð galdrakukl, sem miðaldakirkjan leit á sem hindurvitni og fæstir höfðu áhyggjur af, skyndilega undirrót alls ills."

Það, sem máli skiptir hér og það, sem stjórnvöld hafa algerlega misst sjónar af, er að lágmarka hið samfélagslega tjón af þessum veirufaraldri. Í upphafi faraldursins var lítið vitað um hegðun veirunnar SARS-CoV-2 og áhrif hennar á líkamann, og þess vegna hilltust yfirvöld víða til að setja sóttvarnaraðgerðir á oddinn án tillits til alvarlegra efnahagslegra afleiðinga, sem aftur munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og lífslíkur fjölmennra hópa ásamt þjónustugetu heilbrigðiskerfisins.  Það ríkti og ríkir enn allt of mikil þröngsýni og skammsýni í þessum efnum með hrikalegum afleiðingum fyrir efnahag hins opinbera og margra fyrirtækja og einstaklinga. 

Höfuðábyrgðina á þessum stórskaðlegu stjórnarháttum ber forsætisráðherra.  Hún er ekki ábyrg fyrir kreppunni, en hún er ábyrg fyrir því, að ekki náðist viðspyrna í ferðaþjónustunni í sumar, heldur hélt allt áfram að síga á ógæfuhliðina f.o.m. 19. ágúst 2020. 

"Yfirlýsingar forsætisráðherra um "meintan" árangur sýna, hvernig stjórnmálamenn geta misst sjónar á ábyrgð sinni gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins.  Ekkert skiptir lengur máli, nema fjöldi smita.  Hið upphaflega markmið að tryggja afkastagetu heilbrigðiskerfisins og verja um leið þá hópa, sem viðkvæmastir eru, er löngu fokið út í veður og vind hérlendis."

Þegar hin göfugu stefnumið, sem Þorsteinn nefnir, fuku út um gluggann, og við tóku óljós stefnumið um "veirulaust" Ísland, þá tók að bera á gagnrýnisröddum, enda blasir við mörgum, að slíku má jafna við baráttu don Kíkóta við vindmyllurnar forðum, nema barátta ríkisstjórnarinnar er bein ógn við fjármálastöðugleikann í landinu, en barátta don Kíkóta fór mest fram í hans ruglaða höfði. 

 Frásögn Þorgerðar Önnu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu 11. september 2020 af upplýsingafundi Almannavarna um stöðu farsóttarinnar var með óttalegri fyrirsögn:

"Hlutfall virkra smita við landamæri tífaldast"

og hófst þannig:

"Hlutfall  þeirra, sem greinast með virk smit  við landamærin fer vaxandi, og skýrist það líklega af vaxandi útbreiðslu kórónaveirunnar erlendis.  Hlutfall þeirra, sem höfðu virk smit við greiningu á landamærunum í júní og júlí var 0,03 %, en undanfarnar 3 vikur er hlutfallið 0,3 %."

Því ber að halda til haga, að vegna mikillar fækkunar komufarþega frá 19. ágúst 2020 hefur sýktum lítið sem ekkert fjölgað, þótt hlutfall þeirra hafi hækkað mikið.  Er 0,3 % sýktra af COVID-19 í þýði hátt hlutfall á íslenzkan mælikvarða ?  Því er hæpið að halda fram, því að það er aðeins 1/3 af hlutfalli íslenzku þjóðarinnar, sem talið er hafa smitazt af veirunni. 

Ef nýgengið á landamærunum er athugað á tímabilinu 12. ágúst - 11. september 2020, þá hækkar það til 20. ágúst upp í 12,5, en lækkar síðan nánast stöðugt í 6,8 þann 11. september 2020.  Þetta er hærra gildi en í júní - júlí, en þarf ekki að skjóta neinum skelk í bringu. Nýgengið á landamærunum er aðeins um helmingur af nýgenginu innanlands. Nýgengið á landamærunum um miðjan september 2020 var orðið svipað og í sumar. 

Niðurstaðan er sú, að lítið aukin smithætta stafi yfirleitt af erlendum ferðamönnum, þótt seinni skimun og 5 daga sóttkví verði afnumin, t.d. fyrir þá, sem koma frá og eru frá landi með nýgengisstuðul NG<50, en væri þá haldið til streitu fyrir aðra, og öllum lögmætum ferðamönnum jafnframt heimiluð för til landsins. Einnig er rétt að viðhalda tvöfaldri skimun og sóttkví fyrir þá, sem búsettir eru hérlendis, því að smithættan frá þeim er mun meiri en frá öðrum.  Það kom fram í téðri frétt Þorgerðar Önnu, að 60 % þeirra, sem greindir eru með virk smit á landamærunum, eru búsett á Íslandi, og 24 % eru íslenzkir ríkisborgarar.  Í fréttinni stóð þetta einnig:

"Að sögn Þórólfs er skynsamlegast að fara mjög hægt í að aflétta takmörkunum á landamærum, og að ekki sé rétt að aflétta ráðstöfunum samtímis innanlands og á landamærum.  Vinna við framtíðarútfærslu á skimunum m.t.t. mismunandi hagsmuna þarf að fara fram sem fyrst að sögn Þórólfs."

Það er almenn regla, þegar tilraunastarfsemi á sér stað, að breyta aðeins einni stærð í einu til að geta lagt mat á áhrif þeirrar breytingar.  Þegar efnahagslegir hagsmunir landsins eru teknir með í reikninginn, er ekki hægt að skrifa undir það, að skynsamlegast sé að draga á langinn að létta á mest íþyngjandi ferðahömlununum á landamærunum, enda er ekki sama, hvernig það er gert.  Það ætti að setja í forgang breytingar á sóttvarnaraðgerðum á landamærunum, og taka þar með aðra mikilvæga hagsmuni með í reikninginn, eins og Þórólfur segir. M.v. hina jákvæðu þróun ferðamannastraums til landsins í ágúst, sem stjórnvöld eyðilögðu með einu pennastriki 19. ágúst 2020, má gera ráð fyrir nettótapi gjaldeyristekna  mrdISK 20-30 frá 19.08-31.12.2020.  Það er líklegt, að ferðamenn leiti í auknum mæli eftir fámennum áfangastöðum í löndum með tiltölulega litla smithættu.  Það er þess vegna ekki hægt að draga ályktanir fyrir Ísland af þróun ferðalaga t.d. til Spánar, eins og sézt hefur bregða fyrir.  

 

 

 

 

 

 


Lífeyrissjóðirnir eru kjölfesta velferðarkerfisins

Það hefur verið óviðkunnanlegt, jafnvel hráslagalegt, að fylgjast með gjamminu í sumum verkalýðsleiðtogum landsins gagnvart t.d. Icelandair, sem er hryggjarstykkið í íslenzkri ferðaþjónustu. Þar róa stjórnendur og starfsfólk nú lífróður.  Heyrist þá ekki það hljóð úr horni, að verkalýðsleiðtogar muni beita áhrifum sínum til að refsa Icelandair fyrir aðgerðir sínar á vinnumarkaði með því að lífeyrissjóðir, t.d. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, muni ekki fjárfesta meira í Icelandair ?  Þessi málflutningur er fyrir neðan allar hellur, er brot á stjórnarháttayfirlýsingu lífeyrissjóðsins, og slíkt athæfi varðar sennilega við lög.  Sumir verkalýðsleiðtogar nútímans virðast vera úti á þekju og ekki skilja núverandi stöðu íslenzka hagkerfisins. Þeir virðast ennfremur telja sig hafna yfir lög og rétt eða geta tekið geðþóttaákvörðun um það, hvenær þeim þóknast að hunza lagafyrirmæli og aðrar leikreglur þjóðfélagsins.  Slíkt vitnar um alvarlega persónuleikabresti, sem eru lítt til forystu fallnir.  

Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, er hins vegar réttur meður á réttum stað.  Hann er með fingurinn á þjóðarpúlsinum og hefur tjáð sig opinberlega með snöfurmannlegum hætti um, að tilburðir verkalýðsforkólfa til að skuggastjórna lífeyrissjóðunum séu fullkomlega óboðlegir og að girða verði með lögum fyrir möguleika þeirra til ógnarstjórnar, en þeir hafa hótað nú og áður látið verða af hótun sinni um að afnema umboð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum, af því að gjörðir þeirra væru verkalýðsforkólfum ekki þóknanlegar. 

Eftir nýjasta frumhlaup Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í þessum efnum hefur hann að vísu dregið í land og virðist nú vera einhvers konar ómerkingur á flæðiskeri staddur.  Þetta varð Herði Ægissyni tilefni leiðaraskrifa í Fréttablaðið 24. júlí 2020 undir yfirskriftinni:

"Skaðinn skeður".

Þar stóð m.a.:

"Ákvörðun lífeyrissjóðanna, sem komu síðast að endurreisn Icelandair fyrir hartnær áratug, að leggja félaginu til aukið fjármagn, getur aðeins verið tekin á viðskiptalegum forsendum með arðsemismarkmið að leiðarljósi.  Hagsmunir sjóðsfélaga, sem treysta stjórnendum sjóðanna fyrir því ábyrgðarmikla hlutverki að ávaxta skyldusparnað sinn, eru þar undir.

Sumir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir þessu samhengi hlutanna.  Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar, sem er hvað öðru vanstilltara í ofstæki sínu, hefur lagt sitt af mörkum í að leggja stein í götu björgunartilrauna flugfélagsins [Icelandair].  Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur þar farið fremstur í flokki með því að beina því til fulltrúa stéttarfélagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn fjárfestingu í útboði Icelandair vegna óánægju með, hvernig staðið var að kjaraviðræðum við FFÍ. Færu fulltrúar VR ekki að þeim tilmælum, yrði þeim skipt út.  Engu breytir, þótt formaður VR hafi síðar dregið í land, eftir að samningar náðust við flugliða.  Skaðinn er skeður, og vegið hefur verið að sjálfstæði stjórnar lífeyrissjóðsins.  Það má ekki standa án eftirmála. 

 

Augljósir tilburðir formanns VR til skuggastjórnunar með því að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum eru ekki nýmæli.  Aðeins rúmt ár er síðan Fjármálaeftirlitið beindi því til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að endurskoða samþykktir sjóðsins sérstaklega með það í huga, hvort og við hvaða aðstæður hægt væri að skipta út stjórnarmönnum.  Var það gert, eftir að fulltrúaráð VR hafði afturkallað umboð stjórnarmanna stéttarfélagsins í stjórn og sett inn nýja stjórnarmenn til bráðabirgða vegna ákvörðunar um vexti verðtryggðra sjóðfélagalána, sem stjórn og fulltrúaráð VR voru ósammála um.  Með því að ætla enn á ný að hafa áhrif á ákvörðunartöku lífeyrissjóðs, sem er ekki í eigu eða undir stjórn VR, hefur Ragnar Þór sýnt Fjármálaeftirliti Seðlabankans lítilsvirðingu og skeytt ekkert um þau tilmæli, sem stofnunin hefur sent frá sér."

   Það er jafnan eins og téður Ragnar Þór sé nýdottinn ofan úr tunglinu, því að annaðhvort skilur hann ekki þær leikreglur, sem gilda í samfélaginu, eða hann vill ekki skilja þær.  Téðum Ragnari verður hins vegar tíðrætt um spillinguna í samfélaginu.  Hvað er spilling ?  Felst hún ekki einmitt líka í því að gefa skít í leikreglurnar með eigin hag eða skjólstæðinga sinna í fyrirrúmi ?  Hvað er þá hegðun þessa verkalýðsforkólfs annað en spilling, því að hann er augljóslega að slá sig til riddara í augum félagsmanna sinna og annarra verkalýðsfrömuða með athæfi sínu ? Þetta eru auðvitað ótæk vinnubrögð af hálfu formanns verkalýðsfélags, enda hefur nú Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, brugðizt við þessum flumbruhætti.  Við hann var viðtal í Fréttablaðinu 24. júlí 2020 undur fyrirsögninni:

"Höfum slæma reynslu af skuggastjórn":

Ásgeir Jónsson er ómyrkur í máli, enda hefur verkalýðsforkólfurinn Ragnar Þór Ingólfsson orðið að gjalti.  Óprúttið framferði hans er VR til skammar:

""Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna.  Ég tel, að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa", segir í samtali við Fréttablaðið."

Miðað við einarða afstöðu Óla Björns Kárasonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í Morgunblaðsgrein hans, 22. júlí 2020:

"Grafið undan lífeyrissjóðum",

má hiklaust reikna með, að þingið verði góðfúslega við óskum Seðlabankastjóra um lagasetningu til að girða fyrir sóðaleg vinnubrögð varðandi það gríðaröfluga og mikilvæga velferðarkerfi, sem lífeyrissjóðir landsmanna eru orðnir.  Aðeins í Danmörku og Hollandi, af öllum löndum heims, er lífeyrissparnaður meiri m.v. verga landsframleiðslu, og hún er enn tiltölulega há hér.  

"Ásgeir segir, að tilmæli stjórnar VR séu þörf áminning um mikilvægi þess að þétta varnir í kringum sjálfstæða ákvarðanatöku innan lífeyrissjóðanna."

Þetta er hverju orði sannara hjá Seðlabankastjóra í ljósi þess feiknamikilvæga þjóðhagslega hlutverks, sem lífeyrissjóðirnir eiga að gegna.  Að lýðskrumandi fúskarar úti í bæ geti fjarlægt stjórnarmenn og sett aðra sér þóknanlega þar í staðinn áður en skipunartíminn rennur út, býður hættunni heim fyrir hagsmuni sjóðfélaganna. 

"Það er óþolandi, ef sjóðsfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geti ekki gengið að því vísu, að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra", 

sagði Seðlabankastjóri.  Þegar furðufuglar, sem skolað hefur á fjörur stjórna verkalýðsfélaga fyrir tilstilli lítils minnihluta félagsmanna vegna lítillar kosningaþátttöku, fá þá flugu í höfuðið, að þeir séu handhafar eignarhalds á lífeyrissjóðunum, þá verður Fjármálaeftirlitið auðvitað að geta sett þeim stólinn fyrir dyrnar.  Þá þýðir nú lítið sú aumkvunarverða vörn, sem téður Ragnar hefur uppi með allt á hælunum, að hann hafi málfrelsi. 

""Það mega ekki skapast nein tækifæri til að stofna sjálfstæði stjórnarmanna í hættu.  Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum.  Sérstaklega í ljósi þess, hve sjóðirnir eru stórir og umsvifamiklir í íslenzku atvinnulífi", segir Ásgeir."

Þetta er kjarni málsins.  Ábyrgðarlausir aðilar á þessu sviði, verkalýðsformenn og aðrir "úti í bæ", geta gasprað að vild, en það á ekki að hafa áhrif á fjármálavafstur stjórnenda lífeyrissjóðanna.  Lífeyrissjóðirnir eru allra aðila umsvifamestir í fjármögnun íslenzks atvinnulífs og mynda hryggjarstykkið í mörgum öflugum félögum.  Stjórnir þeirra sinna vandasömum og ábyrgðarmiklum störfum og verða þess vegna að fá starfsfrið. 

Að lokum verður hér vitnað í fróðlega og skelegga grein Óla Björns, sem áður var nefnd til sögunnar:

"Okkur Íslendingum hefur tekizt það, sem fáum öðrum þjóðum hefur auðnazt; að byggja upp lífeyriskerfi, sem launafólk hefur getað treyst á.  Styrkleiki lífeyriskerfisins er einn mikilvægasti hornsteinn efnahagslegrar velferðar þjóðarinnar. Hrein eign lífeyrissjóðanna í lok síðasta árs nam tæpum mrd ISK 5000.  Samkvæmt nýlegri úttekt OECD nemur lífeyrissparnaður á vegum lífeyrissjóðanna (samtrygging og séreign) um 167 % af vergri landsframleiðslu og um 177 % að meðtöldum sparnaði á vegum innlendra og erlendra vörzluaðila séreignarsparnaðar.  Aðeins í Danmörku og Hollandi er lífeyrissparnaðurinn meiri." 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband