Alvarlegur undirtónn

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, ritaði grein í Morgunblaðið 10. apríl 2021 undir heitinu:

"Tækifæri í kreppunni".

Það var alvarlegur undirtónn í þessari grein framkvæmdastjórans, sem vonandi hefur ýtt við ýmsum.  Atvinnulífið stefnir í óheillavænlega átt með stöðuga hækkun kaupmáttar launa og vaxandi atvinnuleysi.  Þessi kaupmáttaraukning á krepputíma með 6,6 % samdrátt landsframleiðslu 2020 og framleiðniaukningu, sem er mun lægri en kaupmáttaraukningin, er ósjálfbær. Það þýðir einfaldlega, að hún mun gufa upp í verðbólgu. Samfélagið lifir á lánum, sem halda uppi fölskum lífskjörum.  Af þessari óheillabraut verður að hverfa hið fyrsta.  Ella bíður há verðbólga og lífskjarahrun handan við hornið. Landsmenn lifa nú um efni fram, því að fyrirtækin eru veik og ráða ekki við gegndarlausar kostnaðarhækkanir vegna starfsmanna sinna.  Það leiðir til verðlagshækkana.  Hvaða stjórnmálaflokkum er bezt treystandi til að fást við þetta ójafnvægi, sem fram er komið ?

Lausnin hlýtur að felast í að draga úr launakostnaði fyrirtækjanna í hlutfalli af verðmætasköpun þeirra. Þetta hlutfall gæti verið hið hæsta í heimi núna, sem boðar ekki gott. Ef hlutfallið lækkar, er von til þess, að fyrirtækin fari að fjárfesta og ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá.  Mikið atvinnuleysi er versta þjóðfélagsbölið núna og skapar óþolandi óréttlæti.  Ef einhver veigur er í verkalýðsfélögunum, hljóta þau að vilja leggjast á eitt með SA til að móta stefnu, sem getur dregið úr þessu alvarlega óréttlæti.

Grein Halldórs Benjamíns hófst þannig:

"Fólk, sem stöðu sinnar vegna er tekið alvarlega [t.d. titill prófessors og aðild að Peningastefnunefnd Seðlabankans - innsk. BJo], hefur nýverið haldið fram þeirri firru [t.d. í Kastljósi RÚV - innsk. BJo], að staðan í atvinnulífinu væri góð.  Einungis 10 % hagkerfisins væri í vanda [þótt landið missti 1/3 gjaldeyristekna sinna - innsk. BJo].  En þá gleymdist að geta þess, að landsframleiðslan dróst saman um mrdISK 200 í fyrra [árið 2020, u.þ.b. 6,6 % brottfall verðmætasköpunar - innsk. BJo], hvað þá, að ríkissjóður verður rekinn með ríflega mrdISK 500 halla á árunum 2020-2021 með tilheyrandi skuldasöfnun eða að Seðlabankinn hefur selt gjaldeyri fyrir mrdISK 170 frá ársbyrjun 2020 [á 5 ársfjórðungum hefur 1/4 gjaldeyrisvaraforðans verið varið til að halda sæmilegum gengisstöðugleika - innsk. BJo].  Það gleymdist reyndar líka að nefna, að um 25 þúsund einstaklingar eru á skrá um atvinnulausa með öllum þeim áhyggjum, sem því fylgja fyrir fólkið og félagslegum afleiðingum.  Þess var heldur ekki getið, að atvinnuþátttaka á Íslandi hefur ekki verið minni í áratugi."

 

Atvinnulausir í meira en eitt ár hafa ekki verið fleiri en núna áratugum saman eða tæplega 7000, og er fjöldinn enn vaxandi, þótt heildarfjöldinn lækki aðeins.  Heilsufarslegar afleiðingar eru miklar fyrir þennan hóp og grafalvarlegar fyrir um 3 % þessa hóps eða um 200 manns samkvæmt athugunum austan hafs og vestan. 

Þetta langtíma atvinnuleysi er vegna þess, að ferðageirinn hefur lagzt í dvala, og þrátt fyrir gos á sprungu frá Geldingadölum og upp fyrir Meradali á Reykjanesi virðast erlendir ferðamenn ekki munu ná viðmiðunartölu fjárlaganna 2021 með öllum þeim neikvæðu áhrifum á efnahaginn, sem af því leiða.  Reikna má með, að strangar hömlur á landamærunum, þar sem mest munar um 5 daga sóttkvína, hafi leitt til helmingsins af þessu langtíma atvinnuleysi eða um 100 grafalvarlegra tilvika heilsumissis.  Þetta er líklega svipaður fjöldi og sá, sem látizt hefur af völdum C-19 og lent í langtíma einkennum, sem rakin eru til sýkingarinnar.

Af þessu sést, að við ákvörðun alls konar hamla í þjóðfélaginu í sóttvarnarskyni verður að taka neikvæðar afleiðingar þeirra með í reikninginn, því að þær geta vegið upp gagnsemina af fækkun smita.  

Þegar strangar hömlur innanlands voru settar á 24. marz 2021 voru engin smit utan sóttkvíar, og þau hafa síðan haldizt á bilinu 0-2 fyrir utan einn sólarhring, 30. marz, þegar þau mældust 5 talsins, og 24. apríl, þegar þau voru 8 talsins.  Lokanir þessa tímabils, t.d. á sundstöðum, þreksölum og íþróttaæfingum barna, hafa líklega verið allsendis óþarfar, enda hóf boðuð 4. bylgja aldrei flugið hér, og þótt 4. bylgjan hefði látið á sér kræla, hefðu afleiðingarnar orðið minni en í 1. og 2. bylgju vegna ónæmis.  Hræðsluáróður virðist hafa hrint mjög íþyngjandi lokunum af stað.  Þetta sýnir, að sóttvarnaryfirvöld eru á röngu róli hérlendis og valda jafnvel meira tjóni en gagni. 

Áfram með Halldór Benjamín:

"Nú er spáð yfir 5 % atvinnuleysi næstu 5 ár. Þorri Íslendinga hefur hingað til ekki sætt sig við mikið og langvinnt atvinnuleysi, og það viðhorf hefur ekki breytzt.  Aðilar vinnumarkaðarins verða að horfast í augu við staðreyndir og bregðast við af raunsæi.  Samfélagslegur kostnaður atvinnuleysis er of mikill, og aðstæður fólks eru óviðunandi.  Því miður hafa samningsaðilar brugðizt hlutverki sínu.  Kaupmáttur launa starfandi fólks batnar stöðugt, en atvinnulausir sitja eftir.  Laun hafa hækkað of mikið og fjölgað fólki án vinnu."

Þetta er þungur áfellisdómur yfir viðsemjendum SA, og virðist framkvæmdastjórinn vera svartsýnn á, að tauti verði komið við þá.  Þó er það sameiginlegt hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins að nýta framleiðslutæki og framleiðslukrafta atvinnulífsins upp undir 100 %, en því fer fjarri að meðaltali núna, þótt vissir geirar séu fullnýttir, a.m.k. staðbundið.

Þegar svo er komið, að samningsaðilar á vinnumarkaði hafa brugðizt hlutverki sínu, verða þjóðkjörnir fulltrúar á löggjafarsamkomunni að grípa til sinna ráða.  Eitt af úrræðunum kann að vera stöðvun allra samningsbundinna launahækkana frá ákveðnum tíma og þar til tekizt hefur að ráða bug á atvinnuleysinu. 

"Í aðdraganda alþingiskosninga hljóta stjórnmálaflokkar að setja atvinnumál á oddinn, og þá með öðrum hætti en innihaldslausum tillögum um fjölgun starfa hjá hinu opinbera [eins og t.d. Samfylking hefur gert sig seka um - innsk. BJo]. Annars bregðast þeir kjósendum sínum og sérstaklega þeim, sem eru án atvinnu.  

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna eftir 18 mánuði.  Það ætti öllum að vera ljóst, að ekki verður haldið áfram á þeirri braut að hækka laun hér á landi margfalt meira en svigrúm er fyrir og fela Seðlabankanum að stuðla að stöðugu verðlagi á sama tíma.  Mótsögnin er augljós og afleiðingarnar þekktar."

Ef svo fer fram sem horfir, verður lunginn úr gjaldeyrisvarasjóðnum horfinn við lok samningstímabilsins.  Það eitt skapar óstöðugleika í gjaldeyrisviðskiptunum og hreinlega hættu á stöðutöku gegn ISK.  Þess vegna er brýnt, að innstreymi gjaldeyris fari nú að aukast til að bæta viðskiptajöfnuðinn.  Það mun þó tæpast gerast fyrr en lönd flestra ferðamanna hingað verða græn á Covid-landakortinu.  

Það er hárrétt hjá Halldóri Benjamín, að eðlilegast er að stjórnmálaflokkarnir verji drjúgum hluta kosningabaráttunnar í að gera kjósendum grein fyrir afstöðu þeirra til atvinnumálanna.  Það þarf að koma fram, hvaða ráðum stjórnmálaflokkarnir hyggjast beita á næsta kjörtímabili á þingi og/eða í ríkisstjórn til að koma nýtingu atvinnutækja og vinnukrafts aftur upp undir 100 %. Kjósendur munu þá dæma um, hvað er lýðskrum, og hvað er raunhæft.  Þá verða auðvitað að koma hugmyndir frá flokkunum með tímasettri áætlun um að ná jafnvægi á ríkisbúskapinn. 

"Fyrirtæki og atvinnulífið í heild skapa verðmætin, sem standa undir samneyzlu og velferðarkerfi.  Heilbrigð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði, hóflegir skattar og gegnsæjar reglur eru forsendur þróttmikils atvinnulífs.  Fjárfestingar, vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn er eina færa leiðin til að skapa verðmæti og leggja grunn að fjölgun starfa, auknum tekjum fólks og skatttekjum hins opinbera. Sem dæmi er nýliðin loðnuvertíð gríðarleg innspýting í lykilbyggðarlög á krefjandi tíma."

Segja má, að þarna leggi framkvæmdastjóri SA fram sitt mat á því, hvaða rekstrarumhverfi þarf að búa atvinnulífinu til að komast út úr núverandi efnahagsþrengingum. Það blasir við, að vinstri flokkarnir í landinu eru óhæfir til að skapa þessi skilyrði, því að þeirra tilhneiging er jafnan að blóðmjólka mjólkurkýrnar, og forystumenn þar á bæ virðast ekki gera sér grein fyrir til hvers það óhjákvæmilega leiðir. 

Fyrirtækin sjá um sig sjálf, ef þau fá aðstöðu til að dafna.  Þá munu þau fjárfesta og ráða til sín fólk.  Kostnaðarhækkanir nú og á næstu misserum, hækkanir launakostnaðar eða opinberra gjalda, munu aðeins magna kreppuna. 

Í lokin skrifaði Halldór Benjamín:

"Það má láta sig dreyma um álíka samstöðu um leið út úr atvinnuvandanum og ríkt hefur gegn kórónuveirunni.  Þótt slík samstaða sé ekki í augsýn, kæmi hún atvinnulausum bezt og stuðlaði að sjálfbærri þróun á komandi árum.  En sporin hræða." 

Ríkisstjórn og Alþingi hafa skuldbundið ríkissjóð fyrir gríðarlegum kostnaði vegna þessarar kórónuveiru, sem nemur a.m.k. andvirði einna fjárlaga.  Skuldina þarf að greiða, og það er bezt að gera sem hraðast af nokkrum ástæðum.  Ef skuldinni er bara ýtt á undan sér, eins og vinstri flokkarnir eru líklegir til að gera, mun hún hlaða utan á sig þungri vaxtabyrði og lenda á unga fólkinu, sem er ósiðleg ráðstöfun.  Afleiðingin verður þá líka sú, að þjóðin verður vanbúin fjárhagslega til að taka á sig næsta efnahagsskell á eftir Kófinu, og ábyrgðarhluti þeirra, sem taka ákvörðun um slíkt, er mikill.

Eina raunhæfa ráðið er að þrengja ýstruólina aðeins, tímabundið, og nýta allar færar leiðir, þar með nýja nýtingu náttúruauðlinda, til að knýja fram góðan hagvöxt með viðbótar gjaldeyrissköpun eða gjaldeyrissparnaði.  Orkuskiptin (núverandi) munu t.d. fela í sér a.m.k. mrdISK 150 gjaldeyrissparnað, þegar þau verða að fullu um gerð gengin, ef fjörið í samgöngunum verður ekki minna en fyrir Kóf.  

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband