Á valdi óttans

Heilbrigðisstjórnvöldin í landinu, sem átt hafa sviðið í á annað ár, hafa orðið uppvís að undirmálsvinnubrögðum, sem verður að kenna við fúsk.  Á því ber heilbrigðisráðherrann höfuðábyrgð og má furðu gegna, að hún skuli ekki hafa verið látin sæta pólitískri ábyrgð á mistökum ráðuneytisins.  Það vitnar ekki um, að þingmenn taki eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdavaldinu ýkja alvarlega, að þingið skuli ekki taka pólitíska stöðu hennar til ítarlegrar umfjöllunar, eftir að hún gerðist brotleg við lög.  Það er ekki í fyrsta skipti, sem það gerist í hennar ráðherradómi (áður sem umhverfisráðherra). Það þarf að koma henni í skilning um, að réttarríkið er reist á því, að ríkið og aðrir hafi ekki lögin bara til hliðsjónar, þegar hentar, heldur fari eftir þeim, alltaf. Þó er eftirtektarvert, að nýjasta frumvarp heilbrigðisráðherrans varð mjög umdeilt í þinginu og afgreitt í bullandi ágreiningi undir morgun á Sumardeginum fyrsta.

Svandís Svavarsdóttir virðist vera hræðilegur gösslari í embættisfærslu sinni, sem ekki gefur neinn gaum að þeirri löggjöf, sem henni ber að starfa eftir. Katrín Jakobsdóttir og flokkssystkini hennar þvinguðu fyrr á þessu kjörtímabili dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til að segja af sér fyrir litlar sem engar sakir eða hreinan tittlingaskít í samanburði við brot heilbrigðisráðherra.  Katrínu setur hrottalega niður sem forsætisráðherra sökum þessarar grófu mismununar þessara tveggja ráðherra.  Flokkstrýnið skal ráða för hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þar fara spilltir kerfissnatar.

Heilbrigðisyfirvöldin í landinu hafa farið offari gegn veirufaraldrinum SARS-CoV-2 m.v. aðstæður og notað hvert tilefni til að mála skrattann á vegginn.  Í fyrstu mátti fyrirgefa þetta í ljósi þess, að ný staða væri uppi í landinu og að nauðsynlegt væri að ná athygli almennings til að innræta honum persónubundnar sóttvarnaraðgerðir.  Það hefur hins vegar bara verið hert á hræðsluáróðrinum um leið og opinberar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og innanlands hafa verið hertar, þótt tilefni þess verði sífellt minni.  Meintur ótti sóttvarnarlæknis og landlæknis við 4. bylgjuna, sem enn er ókomin, og rándýrar aðgerðir gegn henni, tóku út yfir allan þjófabálk.  Þessu verður að fara að linna og meira jafnvægi verður að komast á aðgerðir, enda eru mikil áhöld um gagnsemi þeirra, en neikvæðar afleiðingar skelfilegar. 

Í nýlegri frétt frá Bretlandi var sagt frá því, að fjórðungur dauðsfalla, sem skráður er vegna C-19 sjúkdómsins, hafi verið af öðrum ástæðum, þótt hinir látnu hafi verið sýktir af C-19.  Þannig hefur vafasöm og skrýtin tölfræði verið purkunarlaust brúkuð af fréttamönnum og öðrum óttamöngurum.

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, var birt í Morgunblaðinu 12. apríl 2021 umhugsunarverð áminning og árétting í þessu sambandi, þar sem hann snertir við ýmsu, sem flogið hefur um hugi margra í gjörningaviðri Kófsins á Íslandi.  Fyrirsögnin var:

"Að virkja óttann".

Greinin hófst þannig:

"Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu."

Þetta er staðreynd, og hana hafa sóttvarnaryfirvöld víða um heim, m.a. hérlendis, nýtt sér í hag til að koma í veg fyrir uppreisn af völdum grófra skerðinga á mikilvægum réttindum fólks og venjum.  Samt styðja engar vísindalegar rannsóknir þessar aðfarir ríkisvaldsins gegn borgurunum.  Einræðisstjórnin í Beijing reið á vaðið og sviðsetti fréttir af skilvirkni þessara hörðu opinberu sóttvarnaraðgerða.  Fréttamenn á Vesturlöndum átu þetta upp og spurðu rugluð yfirvöld Vesturlanda í ríminu, hvað þau ætluðu að gera til að fækka dauðsföllum vegna veirunnar. Þau treystu sér ekki til að segja: nei, út í svona frelsisskerðingar förum við ekki á Vesturlöndum, og því fór sem fór. 

Hagkerfin eru í rúst, fjöldaatvinnuleysi, mörg gjaldþrot, persónulegir harmleikir mun fleiri en áður og hratt hrakandi lýðheilsa.  Á Íslandi er verðbólgan komin af stað; er nú s.k. kjarnaverðbólga reiknuð 5,2 % á ári, aðallega af því að launþegasamtökin neituðu að fresta launahækkunum í Kófinu, sem engin innistæða var fyrir.  Það var varað við því, að fyrirtækin hefðu ekki meira bolmagn, en heimtufrekja, þröngsýni og pólitískt ofstæki tröllreið húsum verkalýðshreyfingarinnar. Hækkanirnar fóru út í verðlagið, sem þó átti að forðast.  Verðbólgan er reyndar líka komin af stað í Bandaríkjunum, þó aðeins helmingur af hérlendri, og þar er hagkerfið nú að taka vel við sér, enda yfir 40 % íbúanna bólusettir.  Evrópusambandið er Lazarus í þessu sambandi.

"Íslenzka dæmið, sem nú skellur á okkur, er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýzka dæmi [andlegt ástand í Þriðja ríkinu - innsk. BJo]. En það er af sömu tegund.  Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það, að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilegs við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni."

 

 "Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennnings við hina skaðvænlegu veiru.  Þetta fremferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu. 

Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá, sem fallast ekki á ruglið í honum.  Sigríður Andersen, alþingismaður, hitti naglann á höfuðið, þegar hún lýsti þversögninni, sem felst í því, að moldríkur orðhákurinn, sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr vesturheimi fremur en sjálfum sér."

 Það, sem hér og víðar hefur gerzt í þessu Kófi, er alvarleg aðvörun til borgaralega þenkjandi fólks um, hversu auðvelt er með tilfinningaþrungnum áróðri, sem oft er reistur á hæpnum forsendum og jafnvel falsrökum, að ganga freklega á hlut atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis í þágu einhvers málsstaðar með því að vekja ótta.  Vesturlönd sóttu fyrirmyndina til einræðisstjórnarinnar í Kína, sem ruddi braut stórfelldra frelsisskerðinga á Vesturlöndum með því að básúna frábæran sóttvarnarárangur sinn með því að loka fólk inni á heimilum sínum með valdi, eins konar herskálalokun.

Það hafa hins vegar ekki verið birtar neinar traustvekjandi niðurstöður vísindarannsókna um gagnsemi alls konar hafta á mannlega hegðun fyrir sóttvarnir. Vísbendingar frá samanburði ríkja með ólíkar hömlur benda ekki til neins sóttvarnarárangurs, en mikilla neikvæðra efnahagsáhrifa og þungbærs atvinnuleysis, þar sem miklum hömlum er beitt.  Einn slíkur samanburður er t.d. á milli Norður- og Suður-Dakóta í Bandaríkjunum, en SD beitti afar litlum hömlum og hagkerfið þar dróst ekki saman og er að taka vel við sér núna.

Nýlega var fulltrúi heilbrigðisráðherra Þýzkalands spurður um það, hvort lokunarráðstafanir þýzkra stjórnvalda styddust við vísindalegar rannsóknir.  Honum vafðist tunga um tönn og gat engu svarað.  Hér er pottur brotinn og allt of mikið af illa ígrunduðum forræðishyggjutilburðum, sem eru mjög íþyngjandi fyrir ungviði og alla aðra og hafa komið niður á lýðheilsu og efnahag. 

Á Íslandi er stjórnkerfi sóttvarnarmála veikt, þar sem einn maður mótar tillögugerð til ráðherra.  Hann gefur ekki gaum að lagaheimildum tillagna sinna, og hann virðist láta sig litlu varða fjárhagslegar afleiðingar þeirra og lýðheilsulega skaðsemi.  Þá virðist hann kikna í hnjánum, þegar "Vatnsmýrar-Trump" kveður sér hljóðs opinberlega með fjaðraþyt og stórkarlalegum spádómum og yfirlýsingum um aðsteðjandi hættu að utan, svo að loka verði bæði landamærunum og allri starfsemi innanlands, sem fólk sækir í, helzt fyrir helgi.  Þessi óvandaða stjórnsýsla tók á sig ljóta mynd 1. apríl 2021 með reglugerð, sem Héraðsdómur dæmdi ólöglega.  Það virðist alveg vera sama, hvar borið er niður í embættisverkum heilbrigðisráðherra.  Henni eru mjög mislagðar hendur, og umgengni hennar við heilbrigðiskerfið má líkja við fíl í postulínsbúð. 

Andrés Magnússon skrifaði fréttaskýringu um þetta í Morgunblaðið 12. apríl 2021:

"Stjórnsýsla í molum í heilbrigðisráðuneyti".

Hún hófst þannig: 

"Vandræðin vegna reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli, sem héraðsdómur úrskurðaði ólögmæta, hafa vakið mikla athygli, jafnvel deilur.  Þar hefur verið deilt um sjálfa aðgerðina, að allir ferðamenn frá tilteknum svæðum - þar á meðal fólk, sem hvorki er smitað né grunað um að vera smitað - séu settir í sóttkví í varúðarskyni, þótt þeir hafi í önnur, betri og eigin hús að venda.  Hins vegar hafa menn svo staldrað við aðferðina, hvernig það gat gerzt, að heilbrigðisráðherra hafi sett reglugerð, sem augljóslega átti sér ekki lagastoð. 

Á hinu fyrrnefnda getur fólk haft ýmsar skoðanir, en það er hið síðarnefnda, hvernig heilbrigðisráðuneytið rataði í þessi ótrúlegu vandræði, sem sennilega er verra og vandasamara mál." 

Það er aðeins hægt að draga þær ályktanir af þessu, að hvorki sóttvarnarlög, mannréttindi né Stjórnarskrá megi standa í veginun við setningu íþyngjandi reglugerða á sviði sóttvarna, því að ráðherra og embættismenn geri það til að vernda líf og heilsu almennings.  Þessi röksemdafærsla þeirra er stórhættuleg lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu og virðingu valdhafa fyrir einstaklingsbundnum réttindum, sem sjálft réttarríkið hvílir á.  Málið er þess vegna grundvallarmál.  Heilbrigðisráðherra ætti að hafa vit á því að fara með skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga fyrir Alþingi, en til þess brast hana andlegu spektina, virðingu fyrir lýðræðinu og  ráðgjafa með sjálfstæða hugsun.  Þess vegna er stjórnsýsla heilbrigðisráðuneytisins í molum.  Ef hún verður ekki látin sæta ábyrgð fyrir þetta, þá hljóta kjósendur að grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri, ef/þegar þeir sjá út úr Kófinu. 

"Þó vekur mesta athygli í þessum gögnum úr heilbrigðisráðuneytinu [sem þurfti að toga út með töngum - innsk. BJo], að þar er ekkert vikið að lagastoð reglugerðarinnar eða álitaefni um lögmæti hennar, heldur aðallega fjallað um framkvæmdina á reglugerðinni og ýmsan vanda henni samhliða. 

Það má heita með ólíkindum, að við reglugerðarsetningu láti ráðherra og starfsmenn hans í ráðuneytinu undir höfuð leggjast að ganga úr skugga um slíkt grundvallaratriði.  Það á að vera vinnuregla við alla reglugerðarsetningu og enn ríkari ástæða til en ella, þegar um svo stórtæka og kostnaðarsama íhlutun er að ræða, sem í ofanálag vegur að frelsi borgaranna.

Það eitt bendir til þess, að stjórnsýslan í heilbrigðisráðuneytinu sé í molum.  Setning reglugerða er eitt helzta stjórntæki ráðuneyta, og ef þær eru ekki aðeins ekki samkvæmt lögum, heldur kemur í ljós, að ráðherra sýndi ekki minnstu viðleitni til þess að tryggja, að reglugerð hefði við lög að styðjast, þá er eitthvað hræðilegt að."

Þessi lýsing á vinnubrögðum heilbrigðisráðherra ásamt þeirri staðreynd, að viðkomandi ráðherra situr enn í embætti, getur aðeins átt við um ástand, sem kennt er við bananalýðveldi.  Í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum hefðu háværar viðvörunarbjöllur klyngt, þangað til þessi ráðherra hefði verið látinn taka pokann sinn, enda ljóslega óhæfur til að gegna embætti í réttarríki. 

Einræðissinnaðir stjórnmálamenn mega ekki komast upp með að breyta landinu í "sóttvarnarríki", þar sem allt er leyfilegt í nafni sóttvarna.  Sízt af öllu má þetta viðgangast, þegar "drepsóttin" er af völdum kórónuveiru, eins og aðrar flensuveirur, sem við verðum að læra að lifa með, enda er hún lítið hættulegri en skæðar flensuveirur og leggst jafnvel vægar en þær á ungviðið. 

"Það vekur spurningar um vandvirkni, árvekni og kostgæfni æðstu embættismanna ráðuneytisins, en þó auðvitað sérstaklega æðsta embættismann þess, Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.  Í því samhengi er rétt að minnast þess, að annar ráðherra í þessari ríkisstjórn steig til hliðar af mun minna tilefni.  Það er því erfitt að trúa því, að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki komið til tals hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, hvað sem líður öllum traustsyfirlýsingum."

Þetta leiðir hugann að grófri mismunun forsætisráðherra núverandi ríkisstjórnar, sem hamaðist gegn dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, fyrir litlar sem engar sakir.  Þar var bakari hengdur fyrir smið, því að tilnefningar dómsmálaráðherra á dómaraefnum í Landsrétt voru í samræmi við lög og vegna afstöðu Alþingis um kynjajafnvægi, og bæði þingið og Hæstiréttur lögðu síðan blessun sína yfir valið.  Kæra til Mannréttindadómstólsins og úrskurðir hans um vanhæfi skipaðra dómara áttu ekki að hafa úrslitaáhrif hér, enda hefur hann ekki lögsögu á Íslandi, þótt stjórnsýslan og löggjafinn hafi hann jafnan til hliðsjónar. 

Í lok fréttaskýringarinnar stóð þetta:

"Vona verður, að þetta séu ekki viðtekin vinnubrögð í heilbrigðisráðuneytinu, en við blasir, að þetta furðulega mál hlýtur að verða til þess, að þau séu rannsökuð til hlítar og þetta mál sérstaklega.  Um það getur heilbrigðisráðherra sjálfur hvorki haft forystu né umsjón."

Hér er kallað eftir stjórnsýsluúttekt, sem er eðlilegt, eftir að stóru og fjölmennu ráðuneyti hefur orðið jafnrækilega á í messunni og hér um ræðir.  Þátt og aðkomu ráðuneytisstjórans, aðstoðarmanns ráðherra og lögfræðinga ráðuneytisins að samningu umræddrar reglugerðar og annarra þarf að kanna sérstaklega.  Losarabragurinn virðist yfirþyrmandi og ráðherra án stjórnunarhæfileika magnar vandann.  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Það þarf engvu við þetta að bæta Bjarni.

Snilldar pistill og ætti að vera skyldu lesning fyrir

þingmenn og handónýtar ráðherfur sem ekkert skilja 

hvernig lýræðilegt þjóðfélag á að starfa. 

Það er bara næstum því óskiljanlegt að hún skul ennþá vera ráðherra.

Sannar samspillinguna á þessu græna spillta skeri.

Sigurður Kristján Hjaltested, 22.4.2021 kl. 17:12

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Stjórnmálamenn, sem ekki geta fetað einstigi meðalhófs í Kófinu, eru ekki starfi sínu vaxnir.  Þeir, sem halda, að mannréttindi og einstaklingsfrelsi geti orðið skiptimynt fyrir sóttvarnaraðgerðir, afhjúpa sitt rétta eðli.

Bjarni Jónsson, 23.4.2021 kl. 09:59

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Sæll Bjarni.

Ég tek undir orð Sigurðar Kristjáns "snilldar pistill".

Ég lít svo á að kórónuveirufaraldurinn sé frá A til Ö leið yfirvalda, hvarvetna um heim allan, til að koma á ótta því að með ótta er hægt að stjórna fólki og fá það til að gera það sem annars væri ómögulegt. Þetta átti sér greinilega stað í Þýskalandi Hitlers. Óttinn er stjórntæki sem fjöldinn beygir sig undir og nánast froðufellir ef einhver er ekki sammála hinu opinbera. Allar aðgerðir í tengslum við C-19 eru til þess að veikja líf, heilsu og vilja fólks til að lifa eðlilegu lífi, það á sem sagt að segja okkur hvernig við eigum að hugsa, framkvæma og lifa, beygja okkur undir vilja elítunnar og kyngja öllu sem okkur er sagt. Þetta er ljótur leikur, við eigum ekki að láta bjóða okkur svona lagað.

Tómas Ibsen Halldórsson, 23.4.2021 kl. 12:01

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Alræðisstjórnin í Kína reið á vaðið, enda eru einstaklingsfrelsið og mannréttindi einskis metin þar, eins og kúgunin í Hong Kong er dæmi um.  Fréttamenn sáu sviðsetningarnar þar og trúðu áróðursfólki Beijing-stjórnarinnar af góðum árangri aflokunar Wuhan-borgar.  Fréttamenn hafa ötullega hvatt til og stutt frelsisskerðingar í nafni sóttvarna.  Það er umhugsunarvert.  Opinberum sóttvörnum er beitt á mjög óvalvísan hátt í stað þess að nýta þekkingu á smitstuðlum við mismunandi aðstæður.  Í þessu fámenna þjóðfélagi er meira en nóg að beita smitrakningu, sóttkví og einangrun, þar sem grunur er eða vissa um smit.  C-19 hefur opinberað, að einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi standa á brauðfótum.  Vinstri menn gefa skít í þennan grundvöll lýðræðisins.

Bjarni Jónsson, 23.4.2021 kl. 18:21

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er rétt strákar og unun að lesa pistla Bjarna,en ég var byrjuð að þakka fyrir þegar síminn truflaði og kem ég hér aftur til að ljúka því með bravör; Fálkaorðu þegar sönn trúmennsa hafa tekið við. 

Helga Kristjánsdóttir, 24.4.2021 kl. 03:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband