Eru áberandi verkalýðsforingjar veruleikafirrtir

Af málflutningi og skrifum sumra verkalýðsforingja nú í aðdraganda ASÍ-þings og samningagerðar um kaup og kjör á almenna vinnumarkaðinum mætti stundum ætla, að þar séu geimverur á ferð, sem aldrei hafðu heyrt minnzt á þau almennt viðteknu efnahagslögmál, sem gilda í mannheimi.  Þá virðast þeir ekkert hafa kynnt sér, hvaða aðferðarfræði er líklegust til árangurs við að bæta kjör og velferð skjólstæðinga sinna og þar með alls almennings í bráð og lengd.  Það versta við þá er þó, að þeir tala, eins og þeir telji sig hafa höndlað einhvern nýjan sannleika, sem öðrum, þ.á.m. atvinnurekendum og Peningastefnunefnd Seðlabankans, sé dulinn.  Þegar þeir þó reyna að rúlla hinu nýja hjóli, sem þeir telja sig hafa fundið upp, sjá allir, nema þeir sjálfir, að hjólið þeirra er ferkantað og er þess vegna gagnslaust og í raun hreinn brandari, ef þessir sömu menn hefðu ekki miklu meiri völd en þeir hafa vit á að fara með.  Í þessu er fólgið þjóðfélagsvandamál, sem er ekki að finna á hinum Norðurlöndunum og vart á siðmenntuðu bóli.

Hatur þessa fólks á Seðlabankanum og aðgerðum hans er lýsandi fyrir sálarástand þess og almenna skynsemi.  VR heldur úti dýrri og kjánalegri auglýsingaherferð í sjónvarpi um aðaltól Peningastefnunefndar Seðlabankans.  Foringjarnir, m.a. starfandi forseti ASÍ, halda því fram, að þeir verði að krefjast launahækkana til að vega upp á móti kjaraskerðingunni, sem af stýrivaxtahækkununum hefur leitt. Er þeim ekki ljóst, að hlutverk þessara vaxtahækkana er einmitt að draga úr kaupmætti, sem er sá hæsti í Evrópu að Sviss undanskildu, til að hemja verðbólguna ?  Höfrungahlaupið, sem þessir verkalýðsforingjar boða með þessum talsmáta, er eins heimskulegt og hugsazt getur út frá hagsmunum fólksins í verkalýðsfélögunum, en verðbólgan er versta ógnin við hagsmuni þess.  Þess vegna væri þveröfug stefna verkalýðsfélaganna gagnvart Seðlabankanum skjólstæðingum verkalýðsforingjanna mest í hag, þ.e. að leggjast á sveif með bankanum með lágmarks launakröfum í bili og þar með að kveða verðbólguna sem hraðast niður. 

Stýrivaxtahækkanir koma auðvitað niður á hag fyrirtækjanna í landinu líka, launagreiðendanna, þaðan sem öll verðmætasköpun landsins kemur.  Þannig mun draga úr fjárfestingum og þar með hagvexti og vinnuframboð minnka.  Ef verkalýðsforingjar ætla að halda stefnu sinni til streitu, munu þeir framkalla atvinnuleysi og samdrátt hagkerfisins.  Ísland er nú þegar dýrasta land í heimi að heimsækja fyrir ferðamenn, og hækki stærsti kostnaðarliðurinn enn mikið, er slíkt fallið til að gera samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina óbærilega, nema gengið falli, og þar með er fjandinn laus.  

Sumir verkalýðsforingjar og ráðgjafar þeirra hafa sett reiknifærni sína undir mæliker, þegar kemur að útreikningum á "sanngjörnum" launahækkunum í næstu kjarasamningum.  Þá hefur ekki tekið betra við, að 2 starfsmenn Viðskiptaráðs hafa í Morgunblaðsgrein 25. ágúst 2022 tekið að sér að sýna fram á alvarlegar gloppur í útreikningum verkalýðsfélaganna, í þessu tilviki Eflingar, við útreikninga þeirra að baki kröfugerðinni. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, en ekki er síður umhugsunarvert, að vitið skuli ekki duga til að draga dul á eigin skavanka.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var þessi samanburður á útreikningum Viðskiptaráðs og Eflingar dreginn samann undir fyrirsögninni:

"8,3 % neikvætt svigrúm Eflingar",

sem sýnir, að Efling skaut sig í fótinn með því að birta þessa útreikninga sem alvöru gagn í kjarabaráttunni:

"Tveir starfsmenn Viðskiptaráðs svöruðu í grein hér í blaðinu í gær sjónarmiðum Eflingar um, að "við undirritun kjarasamninga í haust hækki laun [um] sem nemur 7,5 % verðbólgu samkvæmt spá Hagstofu auk spár um 2 % framleiðniaukningu, samtals að meðaltali 9,5 % með flatri hækkun upp á 66.000 kr/mán fyrir alla tekjuhópa.  Fullyrt er, að svigrúm sé til þessa.  Jafnframt er því haldið fram [af Eflingu], að þessar launahækkanir muni ekki hafa áhrif á verðlag."

Þarna gösslast Efling fram á ritvöllinn og sýnir annaðhvort af sér vanþekkingu á staðreyndum, sem þarf að leggja til grundvallar heiðarlegri kröfugerð verkalýðsfélaga, eða virðingarleysi fyrir staðreyndum og ásetning til blekkingarstarfsemi í aðdraganda kjarasamninga í von um, að einfeldningar lepji vitleysuna upp eftir þeim. 

"Útreikningar Eflingar horfi aðeins til þessa árs [2022], en, eins og greinarhöfundar [Viðskiptaráðs] benda á, þarf að horfa til þróunar frá síðustu kjarasamningum árið 2019." 

Aðeins geimverum, sem ekkert kunna fyrir sér í þessum efnum og ekkert hafa lært á þessu sviði, dettur í hug að miða útreikninga á launahækkanaþörf aðeins við lokaár gildandi kjaratímabils.

"Samkvæmt forsendum Eflingar [afar hæpnar-innsk. BJo] er innistæðan til launahækkana þessi að mati greinarhöfunda: "Frá ársbyrjun 2019 og til loka ársins 2022 má vænta samtals 22 % verðbólgu, 2,7 % hagvaxtar og 8,1 % fólksfjölgunar m.v. nýjustu spár.  Framleiðni hagkerfisins samkvæmt skilgreiningu Eflingar mun því fyrirsjáanlega dragast saman um 5,4 % [2,7 %-8,1 % = -5,4 %].

Svigrúm til launahækkana yfir þetta tímabil er því 16,6 % [22 %-5,4 % = 16,6 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar.  Laun hafa aftur á móti þegar hækkað um 24,9 % frá undirritun síðustu kjarasamninga, langt umfram þróun verðlags og framleiðni.

Svigrúm til launahækkana við gerð næstu kjarasamninga ætti því að vera neikvætt um 8,3 % [16,6 %-24,9 % = -8,3 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar." 

Þegar forysta Eflingar fór að reikna, endaði það auðvitað með þeim ósköpum, að hún sýndi fram á, að ekkert svigrúm er til launahækkana á þessu ári, og þannig skaut hún sig í fótinn.  Þess var að vænta m.v. andlegt atgervi þar á bæ, þar sem leðjuslagur liggur betur við þeim en greiningarvinna. 

Glíman við verðbólguna er umfjöllunarefni forystugreinar Morgunblaðsins 29. ágúst 2022 undir heitinu: 

"Við höfum val".

Hún endaði þannig:

"Verðbólgan verður ekki kveðin í kútinn með slíkum ráðum [boðum og bönnum - innsk. BJo]. Hana þarf að sigra með því að auka framboð, þar sem framboð skortir og aukning er möguleg [t.d. lóðaframboð sveitarfélaga - innsk. BJo], og svo þarf að stíga á bremsuna á öðrum sviðum [almenn neyzla - innsk. BJo]. Seðlabankinn hefur réttilega gert það með hækkun vaxta, en aðrir verða að gera það einnig, bæði þeir, sem stýra opinberum útgjöldum og þeir, sem semja um kaup og kjör á almennum og opinberum vinnumarkaði. 

Með sameiginlegu átaki af þessu tagi er hægt að tryggja, að verðbólguskeiðið verði stutt og skerði kaupmátt almennings lítið og jafnvel ekki. Verði reynt að vinna bug á verðbólgunni með því að hella olíu á eldinn eða skekkja markaðsstarfsemina enn frekar en verðbólgan hefur gert, þá er tryggt, að glíman verður löng og endar með ósköpum."

Þarna er ritað af heilbrigðri skynsemi, reynslu og þekkingu á málefninu.  Af málflutningi áberandi verkalýðsforingja að dæma virðast þeir ætla að verða í því hlutverki að hella olíu á eldinn.  Hvers vegna í ósköpunum ?  Verkalýðshreyfingin virðist alls enga alvöru greiningarvinnu hafa gert um það, hvers konar ráðstafanir henta nú bezt til að verja einn hæsta kaupmátt í Evrópu.  Ætla má, að stefnumörkun með vinnuveitendum og stjórnvöldum í þá veru að draga úr verðbólgu og halda háu atvinnustigi í landinu muni koma launþegum bezt og mun betur en illa ígrundaðir lýðskrums óskalistar, sem birtir hafa verið.

Verðbólgan á Íslandi er enn þá einna lægst í Evrópu og má rekja það til þess, að um 85 % orkunnar, sem hér er notuð, á sér innlendan uppruna, sem er óháður orkuverði erlendis.  Norðmenn eru í svipaðri stöðu, en þar hefur raforkuverðið u.þ.b. tífaldazt á einu ári sunnan Dofrafjalla.  Hvers vegna er það ?  Þar eru markaðsöflin að verki, þar sem raforkukerfi Noregs (vatnsorkukerfi) er tengt með öflugum aflsæstrengjum við meginland Evrópu og England og stjórnun þessara raforkuflutninga lýtur orkulöggjöf Evrópusambandsins, þ.e. s.k. Orkupakka 3. Af hinu síðara leiðir, að stjórnvöld Noregs hafa ekki heimild til að grípa inn í þessi viðskipti, þótt þau augljóslega ógni afkomu margra heimila og fyrirtækja í Noregi.  Þau hafa hins vegar gripið til fjárhagslegra stuðningsaðgerða, eins og víðast hvar annars staðar í EES á sér stað um þessar mundir.

Norðan Dofrafjalla, þar sem verðlagsáhrifa sæstrengjanna gætir lítið vegna flöskuháls í flutningskerfinu þar, hafa verðhækkanir raforku ekki orðið neitt í líkingu við hækkanir sunnan við.  Það sannar verðlagsáhrif sæstrengjanna.  Þann 29. ágúst 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóra Storm Orku, undir fyrirsögninni:   

"Ástæða hærra raforkuverðs í Evrópu".

Hún endaði þannig:

"Þessar tölur sýna svart á hvítu, að orsök hás raforkuverðs í Evrópu og Bretlandi [Bretland hefur alltaf verið hluti af Evrópu - innsk. BJo] er hækkun á verði á gasi, sem notað er til húshitunar og raforkuframleiðslu.  Mikill misskilningur er að halda, að skýringuna sé að finna í orkupakka EB [svo !] eða afleiðingum af innleiðingu orkupakkans og að ástæða þess, að raforkuverð hækki ekki á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar sé vegna þess, að landið er ekki tengt öðrum mörkuðum með sæstreng.  Það er fjarri sanni.  

Aðalástæða þess að Íslendingar sjá ekki viðlíka hækkanir hér er hátt hlutfall grænnar raforku, sem framleidd er án þess, að nota þurfi gas til framleiðslunnar.  Þriðji orkupakkinn eða sæstrengur er ekki orsökin."

Hvernig ætlar höfundur þessarar hrákasmíði að nota hana til að útskýra þróun raforkuverðs í Noregi á árinu 2022 ?  Í Suður-Noregi er ekki notað jarðgas við raforkuvinnslu, heldur vatnsafl. Verðþróun raforku í Evrópusambandinu á þessu tímabili er flóknari en svo, að einvörðungu megi útskýra hana með verðbreytingum á jarðgasi.  Frakkar hafa t.d. þurft að draga tímabundið mikið úr raforkuafhendingu frá mörgum kjarnorkuvera sinna vegna viðhalds og viðgerða.  Hreinn skortur á jarðgasi til raforkuframleiðslu vegna mikillar minnkunar á framboði frá Rússlandi og vegna fyrirskipunar stjórnvalda um að safna vetrarbirgðum vegur þó þungt í verðlagningu raforkunnar, einkum þegar lítið blæs á vindmyllurnar.  Það væri hins vegar stórfurðulegt og bryti viðtekin efnahagslögmál, ef öflug tenging íslenzka raforkukerfisins við kerfi ESB og eða Bretlands hefði ekki veruleg áhrif til verðhækkunar rafmagns hérlendis.  Orkupakki 3 stjórnar ekki verðinu (hver heldur því fram ?), en hann stjórnar því, hvernig flutningunum eftir sæstrengjunum er háttað.  Þannig gætu íslenzk stjórnvöld ekki reynt að hafa áhrif á raforkuverðið innanlands með því að hlutast til um flutningana til og frá útlöndum, t.d. með því að stöðva þá tímabundið, nema í neyð, ef lónin væru að tæmast. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband