Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Fyrirbærið Donald Trump

Það varð ýmsum Evrópumönnum og e.t.v. fleirum nokkurt áfall, að Repúblikaninn Donald Trump skyldi bera sigurorð af Demókratanum Kamölu Harris í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 05.11.2024.  Ekki nóg með það, heldur varð "alslemma" hjá Repúblikönum með jafnframt meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.  Höfundur þessa pistils hefur oftast fylgt Repúblikönum að málum, en gat það ekki núna.  Hegðun Donalds á lokadögum síns fyrra kjörtímabils, þegar segja má, að hann hafi sigað æstum og tapsárum lýð á þinghúsið, var siðlaus og löglaus.  Munnsöfnuður hans í þessari kosningabaráttu var smánarlegur.  Utanríkisstefna hans er þröngsýn og skammsýn, og á eftir að valda Vesturveldunum miklum vandræðum, ef og þegar henni verður hrint í framkvæmd. 

Hann virðist vilja verðlauna stríðsglæpamanninn og heimsvaldasinnann Vladimir Pútín með því að láta hann komast upp með stórfellda og dýrmæta landvinninga af Úkraínu með ólöglegri og villimannslegri innrás í Úkraínu 24.02.2022 og landvinninga árið 2014.  Þarna voru alþjóðlega viðurkennd landamæri virt að vettugi og friður, sem að mestu hefur ríkt í Evrópu síðan 1945, rofinn.  Þegar Úkraínumenn höfðu samið við vestrænt jarðefnaeldsneytisfyrirtæki um vinnslu í Austur-Úkraínu árið 2014, þá lét Pútín til skarar skríða. Hann veit, að velmegun almennings í Úkraínu grefur undan einræðisstjórn hans og tangarhaldi ólígarkanna á auðæfum Rússlands. 

Að semja við rotinn einræðisherra um landvinninga honum til handa er siðlaust og skammsýnt, því að jafnskjótt og rússneski björninn hefur sleikt sárin, fer hann aftur af stað með vopnaskak.  Það er enga varanlega samninga hægt að gera við Rússa á pólitíska og hernaðarlega sviðinu.  Þegar Úkraínumenn afhentu Rússum kjarnorkuvopn sín, var skrifað undir plagg, þar sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust óbreytt landamæri Úkraínu.  Hvernig fór ?   

Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur, hefur velt fyrir sér sigri Donalds Trump í nóvember 2024, og reit um hann grein í Morgunblaðið 8. nóvember 2024 undir fyrirsögninni:

"Af hverju sigraði TRump ?"

"Launabilið í Bandaríkjunum hefur aukizt umtalsvert undanfarna hálfa öld.  Það þýðir, að raunlaun hafa stöðugt dregizt aftur úr vinnuaflsframleiðni.  Vinnandi fólk hefur því ekki fengið réttlátan skerf af auknum afköstum sínum, en hagnaður fyrirtækja hefur aukizt jöfnum skrefum. Það sést einnig á Dow-Jones hlutabréfavísitölunni, sem hefur hækkað úr um 700 stigum árið 1970 í yfir 42.000 í dag.  Raunlaun vinnandi fólks hafa staðið í stað eða hækkað lítillega, en lágmarkslaun þeirra verst settu hafa hins vegar lækkað stórlega að raungildi. 

Þetta ástand skýrist annars vegar af útvistun vel launaðra framleiðslustarfa til fjölmennra láglaunaríkja eins og Kína og Mexíkó upp úr 1970, sem leiddi til þess, að milljónir manna færðust yfir í verr launuð þjónustustörf, og hins vegar af ógnarsterkri stöðu stórfyrirtækja á bandarískum vinnumarkaði."

 Það var mjög neikvæð þróun fyrir vinnumarkað á Vesturlöndum, þegar framleiðslustörf fluttust til Þriðja heims landa vegna þess, að af þessu hlauzt atvinnuleysi og síðar störf, sem ekki studdust við tæknigreinar og mikla framleiðni, en tækniþróunin var undirstaða raunlaunahækkana. Hins vegar olli þessi þróun kjarabyltingu í Þriðja heiminum og varð undirstaða endurreisnar Kína eftir Menningarbyltingu Maos, formanns kínverska kommúnistaflokksins. Ójöfnuður óx jafnframt í Bandaríkjunum við þetta, þ.e. launabilið óx.  Ríkur lögfræðingur fyrirtækis getur haft meira en MUSD 1,0 fyrir skatta og önnur opinber gjöld og er í 1 % efsta tekjulaginu.  Við hinn enda tekjustigans, í 20 % lægsta tekjulaginu, er einstæð móðir með árstekjur kUSD 25.  Á milli þeirra getur verið fjölskylda, t.d. vélvirki og kennari í hlutastarfi, með árstekjur alls kUSD 80 við miðgildið. Launamunur efsta 1 % og miðgildis launþega er gríðarlegur, enda er launamunur mestur í Bandaríkjunum af hinum stærri Vesturlöndum, sem gefur Gini stuðul tæplega 0,4. Þessi mikli munur knýr að einhverju leyti mikla auðsæld Bandaríkjamanna, en tekjumillifærslur hafa þó farið vaxandi.  Tekjur lögfræðingsins jukust um 110 % frá 1990-2019 samkvæmt "Congressional Budget Office - CBO".  Árið 2019 ráðstöfunartekjur hans líklega lakari en kollega hans 2007.  Hins vegar voru ráðstöfunartekjur einstæðu móðurinnar hærri árið 2019 en 2007 sem nemur 25 % eftir að millifærslur til hennar hafa verið reiknaðar með samkvæmt The Economist 19.10.2024 - "The downsides of outperformance".  Þess vegna fer á milli mála, að ójöfnuður í Bandaríkjunum hafi farið vaxandi undanfarið, þótt Þorsteinn Þorgeirsson fullyrði það í grein sinni:

 "Þessi þróun til aukins ójafnaðar hefur myndað stétt fólks, sem áður tilheyrði miðstéttinni, en telst nú til lág-miðstéttar eða lágstéttar vegna skorts á viðeigandi menntun og atvinnutækifærum. 

Ástandið hríðversnaði í fjármálakreppunni 2007-2009, og þá tók fólk að andæfa ástandinu opinberlega.  Teboðshreyfingin (2009-2010) og "Occupy Wall Street"-mótmælin (2011) voru undanfari forsetaframboðs Donalds Trumps árið 2015.  Hann gaf sig út fyrir að vilja endurreisa hag þessa þjóðfélagshóps.  Hillary Clinton kallaði hávært stuðningsfólk Trumps "hin ömurlegu" (the deplorables).  Hún virðist ekki hafa áttað sig á, að stuðningsmenn Trumps um allt landið tóku þau orð til sín og að það var stjórnarstefna Bills Clintons, forseta, eiginmanns hennar, sem hafði úrslitaáhrif í þessum efnum.  Í hans forsetatíð tók NAFTA-samningurinn gildi (North American Free Trade Agreement/Fríverzlunarsamningur Norður-Ameríku), sem átti stóran þátt í efnahagslegum hrakningum þessa fólks og síðar í aukinni skautun í samfélaginu." 

 Það er ekki tilviljun, að í þetta skiptið hlutu Rebúblikanar góða kosningu í Bandaríkjunum út á einfalda, en róttæka stefnu Donalds, sem jarðvegur var fyrir, og þessum jarðvegi lýsir Þorsteinn Þorgeirsson hér að ofan.  Flokkurinn hlaut meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og Donald fékk meirihluta greiddra atkvæða núna, en ekki síðast, þegar hann þó hlaut meirihluta kjörmanna.  Núverandi heimsfyrirkomulag alþjóðastofnana og viðskiptahátta ásamt landamærum í Evrópu og víðar eru aðallega verk sigurvegaranna í Síðari heimsstyrjöldinni, og þar lögðu Bandaríkjamenn þyngstu lóðin á vogarskálarnar.  Ef það verður nú hlutskipti Bandaríkjamanna að rífa þetta kerfi frjálsra og sem mest óheftra viðskipta, leyfa landvinninga með hervaldi í Evrópu og jafnvel útgöngu Bandaríkjanna úr varnarbandalaginu NATO, þá eru heimsmálin komin í mikil óefni og óstöðugleika. Við þessar aðstæður mun Þýzkaland undir kanzlara Friedrich Merz axla ábyrgð á óskiptu forystuhlutverki í Evrópu.  NATO-ríkin munu verða að stórauka útgjöld sín til hermála, þótt sum hafi ekki mikla burði til þess.

"Þegar Trump tók við forsetaembætti árið 2017, var loks stigið á bremsurnar með víðtækri stefnubreytingu.  Tollar voru settir á kínverskan varning árið 2018, NAFTA-samninginum var breytt í USMCA-samninginn (samning Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó) árið 2020, og skattar voru lækkaðir í viðleitni að byggja upp framleiðslustörfin á ný.

Á sama tíma var hægt á óheftu innstreymi fólks inn í landið til að draga úr undirboðum á vinnumarkaði.  Fyrir vikið tóku raunlaun þeirra lægst launuðu að hækka í stjórnartíð Trumps.  Í verðbólgukúfnum í kjölfar covid lækkuðu raunlaun hins vegar mikið, og það ýtti undir óánægju í stjórnartíð Bidens.  Það háði Kamölu Harris, að hún var talin samdauna efnahagsstefnu Bidens, forseta, sem hafði ekki skilað árangri fyrir þorra kjósenda." 

   


Skólar Vesturlanda víða á villigötum

Hvergi á Vesturlöndum hefur grunnskólanum hrakað meira en á Íslandi, ef marka má PISA-niðurstöður.  Samt skellir kennaraforystan og menntamálayfirvöld skollaeyrum, og engin viðleitni er sjáanleg til úrbóta.  Af PISA-niðurstöðum er þó ljóst, að versnandi árangur grunnskólanema er þó vandamál víðar en hér, og kann einhvers konar tízkubylgju um breytta og slakari kennsluhætti að vera um að kenna.

Í leiðara The Economist um menntamál, 13. júlí 2024, mátti m.a. lesa þetta í þýðingu ritara (ekki gervigreindar):

Það er vel þekkt, að C-19 faraldurinn truflaði skólastarfið mjög.  Á tímabilinu 2018-2022 tafðist meðaltáningur í ríku löndunum um u.þ.b. 6 mánuði m.v. áætlaða framvindu í lestri og um 9 mánuði í stærðfræði samkvæmt OECD. Það, sem er á vitorði færri, er, að vandinn hófst löngu fyrir C-19.  Dæmigerður nemandi í OECD-landi stóð jafnaldra sínum 15 árum fyrr ekki á sporði í lestri og reikningi, þegar C-19 hófst.

Í Bandaríkjunum sýna próf til margra ára í stærðfræði og lestri, að árangur náði hámarki snemma á 2. áratugi 21. aldarinnar.  Síðan þá hefur meðalárangur þar annaðhvort staðið í stað eða honum hefur hrakað. Í Finnlandi, Frakklandi, Þýzkalandi og Hollandi o.fl. löndum sýna alþjóðleg próf, að árangri hefur lengi hrakað.  Hvað hefur farið úrskeiðis ? 

Ytri áföll hafa haft áhrif.  Margir hafa viljað flytja til Bretlands, og þeir tala fæstir ensku.  Farsímar trufla nemendur, svo að þeir lesa ekki heima.  C-19 faraldurinn setti allt á annan endann.  Margar héraðsstjórnir lokuðu skólum of lengi, hvattar af stéttarfélögum kennara, og börn glutruðu niður vananum að læra. Mætingar á mörgum stöðum eru lakari en fyrir C-19.  Bekkjardeildir hafa orðið hávaðasamari. 

Engu að síður bera menntayfirvöld mikla sök á stöðnuninni.  Í Bandaríkjunum t.d. voru umbætur í skólum einu sinni sameiginlegt málefni beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Núna er hægrið heltekið af menningarstríðs málflutningi, en margir vinstra megin stunda, það sem George W. Bush nefndi "hið mjúka ofstæki lítilla væntinga" og halda því fram, að skólastofurnar séu með slagsíðu í átt að minnihlutahópum og að það sé ómögulegt og siðlaust að gera sömu kröfur til allra nemenda.  Aðrir vilja heimavinnu og próf léttari eða sleppt vegna geðheilsu nemenda. 

Tízkuhugsun er andstaða festunnar.  Ein kenning er um það, að gervigreind muni gera hefðbundinn lærdóm minna gagnlegan, svo að skólar ættu að leggja áherzlu á "að leysa viðfangsefni", "gagnrýna hugsun" og nemendur, sem gengur vel að vinna í teymi.  Á grundvelli þessa hafa lönd tekið upp námsskrár, sem einblína á óljósa "þekkingu" og gera lítið úr staðreyndalærdómi sem gamaldags.  Nokkrir, m.a. Skotar, hafa séð nemendum hraka í reikningi sem afleiðingu.  Þeim, sem staðið hafa gegn þessari nýtízku, s.s. Englendingum, hefur gengið betur.

Stjórnvöld ættu að einbeita sér að grundvallar atriðunum.  Þau ættu að verja ströng próf, vinna gegn einkunnabólgu og skapa svigrúm fyrir einkaskóla til að auka valfrelsi.  Þau ættu að greiða kennurum samkeppnihæf laun til að geta ráðið góða kennara og reka slaka kennara, þótt það stríði gegn vilja stéttarfélaga.  Þetta þarf ekki að hækka kostnað, því að fámennar bekkjardeildir eru minna mikilvægar en foreldrar ímynda sér.  Færri og betri kennarar geta náð betri árangri en margir slakir kennarar.  Japanskir nemendur slá bandarískum jafnöldrum sínum við á prófum, þótt meðalskólastofan í grunnskóla í Japan sé með 10 fleiri borð en sambærileg í Bandaríkjunum. 

Annað verkefni er að safna saman og dreifa upplýsingum um, hvers konar kennslustundir gagnast bezt - verkefni, sem margar skólastjórnir hunza.  Stéttarfélög kunna að láta sér lynda, að litið sé á góða kennslu sem of dularfulla til að mæla, en börn líða fyrir það.  Skólakerfi á heimsmælikvarða, eins og í Singapúr, eru með stöðugar tilraunir í þessum efnum, misheppnast fljótt og halda áfram.  Önnur halda áfram með það, sem ekki virkar. 

Mikið er undir.  Í ríkum löndum fækkar starfsfólki, þegar meðalaldur þjóðar hækkar.  Framleiðni verður að vaxa til að viðhalda lífskjörum.  Þörf verður á vel þjálfum hugum til að fást við ný erfið viðfangsefni af viti, frá ójöfnuði til loftslagsbreytinga.  H.G. Wells, smásagnahöfundur og framtíðarspámaður, skrifaði, að saga mannkyns væri "kapphlaup á milli menntunar og hruns".  Það er kapphlaup, sem mannkynið hefur ekki ráð á að tapa.  Þetta var leiðari úr The Economist.

Að gera lítið úr vandanum, sem íslenzki grunnskólinn stendur frammi fyrir, eru grundvallar mistök yfirvalda menntamála á Íslandi og að setjast á sundurgreindar upplýsingar um PISA-prófin er uppgjöf.  Með óbreyttri stefnu menntamálaráðuneytisins bregðast íslenzk yfirvöld æskunni og gera sig sek um vanrækslu, sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar á flestum sviðum samfélagsins, minni framleiðniaukningar en nauðsynleg er, og lakari lífsgæða. 

        

 

  

 


Stríð í Austur-Evrópu

Grimmdarlegt árásarstríð rússneska sambandsríkisins á hendur sjálfstæðu ríki nágranna þeirra, Úkraínumanna, hefur sýnt heimsbyggðinni fram á ömurlegt eðli rússneskra ráðamanna.  Eldflaugum hefur verið látið rigna yfir borgir Úkraínu og engu eirt, hvorki stærsta barnasjúkrahúsi landsins í Kænugarði né stíflu raforkuvers í suðurhluta landsins. Straumleysi hrjáir íbúa landsins á hverjum degi, og komandi vetur er verulegt áhyggjuefni. Kjarnorkuver í Zaphorizhzhia hefur verið í uppnámi, og hernámsliðið hefur stöðvað rekstur þess.  Á vígvöllunum hefur allt gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum, herskipulagið verið lélegt, miklu herliði fórnað fyrir litla landvinninga, og í átökum við úkraínska herinn hefur óhemju magn rússneskra vígtóla verið eyðilagt.  

Vart er hægt að tala um úkraínskan flota, svo að sérstaka athygli hafa vakið ófarir rússneska Svartahafsflotans, en segja má, að hann hafi verið hrakinn frá Krímskaga og til hafna við Azovshaf.  Nýjasta dæmið, þegar þetta er ritað, er um kafbátinn Rostov við Don, sem var nýkominn úr þurrkví í Sevastopol, þegar hann varð fyrir úkraínskri Neptúnus eldflaug og sökk.  

Úkraínumenn hafa sýnt mikið baráttuþrek gegn ofureflinu, hugmyndaauðgi og herkænsku. Leiftursóknin inn í Kúrsk mun komast í sögubækurnar.  T.d. hafa þeir orðið frumkvöðlar í notkun dróna bæði til könnunarferða og árásarferða.  Er skemmst að minnast árásar á herflugvöll í Murmansk, um 1800 km leið frá víglínunni í Úkraínu, þar sem rússneskar sprengjuflugvélar, sem notaðar höfðu verið til árása á Úkraínu, voru eyðilagðar.  

Vestrænir bandamenn Úkraínumanna hafa í orði stutt þá á þeim forsendum, að einræðisherra mætti ekki enn einu sinni takast að leggja undir sig nágranna sinn og þar með að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi.  Í verki hefur þessi stuðningur verið mun minni en efni standa til, og þeir hafa af ótrúlegri ragmennsku bannað notkun vopnanna á rússnesku landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að Rússar ráðast bæði á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk í Úkraínu frá rússnesku landi. Undantekning frá þessu eru þó Kúrsk, Belgorod og Bryansk-héruð.  Ef þetta þetta bann væri ekki í gildi, og t.d. Þjóðverjar hefðu látið Úkraínumönnum í té hinar langdrægu Taurus flaugar, þá væri þessu stríði sennilega lokið núna, með því að aðdrættir Rússahers hefðu verið gerðir svo erfiðir, að þá hefði brostið örendið og hörfað yfir landamærin.  Þá hefði og verið unnt að lama rússneska flugherinn í enn meira mæli en gert hefur verið.

Gríðarleg eyðilegging blasir við í Úkraínu, og ríkið rambar á barmi greiðslufalls. 

Það hefur algerlega skort skelegga forystu að hálfu Vesturlanda í baráttunni við heimsvaldastefnu Rússa.  Stjórn Bidens er hálfvolg, Trump er eins og handbendi Pútíns og ólígarka hans, og í forystu öflugasta ríkis Evrópu reyndist vera gúmmíkarl, þar sem er kratinn Olaf Scholz.  Þjóðverjar hafa þó stutt hraustlega við bakið á Úkraínumönnum, og hafa nú látið á sér skilja, að þeir styðji Úkraínumenn til sigurs. Pólverjar eru að taka forystuna í bráttunni við rússneska hernaðarógn uppbyggingu eigin hers varðar, dyggilega studdir af Eystrasaltsríkjunum.

  Það, sem nú er mikilvægast, er að mynda "stálhjálm" yfir Úkraínu, eins og er yfir Ísrael, með fjölgun loftvarnakerfa og með því að hrekja rússneska flugherinn nógu langt frá landamærunum, m.a. með F16 orrustuþotum, svo að loftvarnarkerfin hafi meira svigrúm til að skjóta árásarflaugar niður í tæka tíð. 

Þann 24. júlí 2024 birtist merkileg forystugrein í Morgunblaðinu um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Glataðir leiðtogar".

Hún hófst þannig:

"Í liðinni viku [viku 29/2024] komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar.  Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess, að víðar eru blikur á lofti.  

Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði.  En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um, að lýðræðisríki yrðu að standa saman gegn ágangi einræðisríkja [og þannig] var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja, að hugmyndin um "Vesturlönd" sé á honum reist. 

Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst, að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla.  Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.

Samt er stuðningur Evrópuríkjanna naumur, en Bandaríkin hafa borið hitann og þungann af hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Í Evrópu tala nú aðeins Bretar og Pólverjar afdráttarlaust um stuðning við Úkraínu og standa við stóru orðin, svo [að] um muni."

Það er vel til fundið að minna á Sir Winston núna, þegar Evrópa horfir framan í blóðþyrstan forseta Sambandsríkisins Rússlands, sem er sambærileg ógn við lýðræðisríkin nú og ríkisleiðtogi Stór-Þýzkalands var á dögum Þriðja-ríkisins.  Sá rak skefjalausa útþenslustefnu og hugðist skipta heiminum á milli Berlínar og Tókýó.  Frá 2014 hefur forseti Rússlands sent rússneska hermenn til árása inn í Úkraínu og frá 24. febrúar 2022 rekið allsherjar stríð gegn Úkraínumönnum með það í hyggju að leggja land þeirra undir sig.  Rússar reka útrýmingarstríð í Úkraínu og fremja þar hvern stríðsglæpinn öðrum verri.  Pólverjar og þjóðir Eystrasaltsríkjanna vita mæta vel, að Rússar reka skefjalausa útþenslustefnu og hafa gert í 300 ár.  Núverandi forseti Rússlands gefur ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfsákvörðunarrétt ríkja og landamærin, sem sigurvegarar Seinni Heimsstyrjaldarinnar sömdu um í Evrópu.  Hann hefur lýst vilja sínum til að endurreisa Ráðstjórnarríkin landfræðilega.  Þetta brjálæði verður að stöðva, og fyrsta skrefið er að kenna Rússum þá lexíu, að landamærum í Evrópu verður ekki lengur breytt með hervaldi. 

"Vestanhafs bendir margt til, að Donald Trump verði senn forseti á ný, en hann talar enga tæpitungu um, að Evrópuríkin verði sjálf að bera kostnaðinn af eigin vörnum.  Hann segist líka geta bundið enda á Úkraínustríðið á fyrsta degi í embætti, sem þá myndi eflaust kosta Úkraínu mestallt hernámssvæði Rússa.

 Það væri ömurlegt, ef Pútín auðnaðist þannig að semja sig til sigurs, réttlæta allar blóðsúthellingarnar, en auka um leið freistingu sína til frekari landvinninga."

Eins og nú horfa sakir (um miðjan ágúst 2024) er engan veginn víst, að monthananum og einangrunarsinnanum Trump takist að viðhalda forskoti, sem hann öðlaðist í skoðanakönnunum, á meðan hrumur Biden var enn í framboði.  Framboð Kamölu Harris hefur lánazt vel fram að þessu og hún náð forskoti á landsvísu, sem jafnvel dugar til meirihluta kjörmanna fylkjanna.  Vonir eru bundnar við, að Bandaríkjamenn bregðist ekki skyldum sínum gagnvart bandamönnum sínum í NATO og Úkraínumönnum, sem eðlilega dreymir um að tryggja öryggi sitt gegn uppivöðslusömum nágranna í austri með því að ganga í NATO.

Eftir þann stóratburð, sem innrás úkraínska hersins(ÚH) í Kúrsk 6. maí 2024 var, hafa orðið þær vendingar á meðal bandamanna, að Þýzkaland hefur tekið opinbera forystu í stuðninginum við Úkraínu, en Bandaríkin draga lappirnar.  Þýzkaland hefur lýst því yfir, að samkvæmt alþjóðalögum hafi Úkraína fulla heimild til að ráðast inn í Rússland.  Þar getur ÚH valdið rússneska hernum miklu tjóni og hefur þegar gert það.  Skömm Rússa er mikil, því að varnarlínan á landamærunum reyndist engin fyrirstaða, og er fjármálaspilling rússneska hersins líkleg skýring.  Pólitískur hnekkir blóðþyrsts einræðisherra í Kreml er mikill, þegar næstöflugasti er í Rússlandi reynist vera sá rússneski.

"Allt blasir það við Evrópuleiðtogunum.  Samt var ekkert um það rætt, að Evrópuríkin yrðu öll að auka eigin varnarútgjöld hraustlega og bæta í ofanálag verulega við aðstoðina til Úkraínu.  Og engum Evrópuleiðtoganna datt í hug, að rétt væri að eiga orð við Trump um lærdóma Churchills. 

Því [að] ef Úkraína verður látin sigla sinn sjó vegna stefnubreytingar vestra og sinnuleysis og sérgæzku í Vestur-Evrópu, þá missir hið pólitíska hugtak "Vesturlönd" merkingu, og heimurinn verður mun hættulegri."

Rússar vöktu mikla reiði í Þýzkalandi 2022, þegar þeir reyndu að ýta Þjóðverjum ofan í holu myrkurs og kulda (orkuleysis).  Nú gjalda Þjóðverjar gráan belg fyrir svartan með því að lýsa yfir stuðningi Þýzkalands við úkraínskan sigur, nokkuð, sem Bandaríkin hafa ekki gert enn þá.  Mun Kamala Harris taka af skarið ?

 

 

 


Útþenslustefna er feigðarflan

Otto von Bismarck, járnkanzlaranum, tókst að sameina þýzku ríkin "með eldi og blóði" undir foystu Prússa á síðari hluta 19. aldar.  Segja má, að þetta hafi verið eðlilegt framhald rómantísku stefnunnar, sem gagntók Þjóðverja í öllum þýzku ríkjunum og hertogadæmunum í kjölfar yfirgangs og stríðsbrölts Napóleons Bonaparte frá Korsíku í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789. Þá má og segja, að Bismarck hafi gripið sögulegt tækifæri til að hnekkja hefðbundinni brezkri  utanríkisstefnu um að hindra, að nokkurt ríki á meginlandinu yrði nógu öflugt til að skáka Bretlandi. Vilhjálmur 2., Þýzkalandskanzlari, klúðraði þessari jákvæðu þýzku þróun  með því að "mikið vill meira", og hann "vildi fá hlutdeild í sólskininu" með stofnun nýlendna í Afríku og flækja Þjóðverja í átök, sem urðu að Heimsstyrjöldinni fyrri 14. ágúst 1914.

Þjóðverjar börðust á austur- og vesturvígstöðvum, höfðu betur austanmegin, Nikulási 2. var steypt og kaffihúsamarxistanum Lenín trillað til Rússlands til að hella olíu á eldinn og gera friðarsamning við Þýzkaland. 

Úrslit styrjaldarinnar réðust þó á vesturvígstöðvunum, þar sem þátttaka Kanada og Bandaríkjanna með Frökkum og Bretum réði úrslitum.  Þjóðverjar töpuðu þýzkum landsvæðum og urðu að undirgangast miklar skaðabætur, sem sliguði hagkerfi þeirra og ollu óðaverðbólgu. 

Með hefndarhug var aftur lagt af stað, í raun 1938, en Vesturveldin sögðu Stór-Þýzkalandi ekki stíð á hendur fyrr en í kjölfar innrásarinnar í Pólland 01.09.1939.  Í þeim hildarleik, sem fylgdi, keyrði um þverbak. 

Nú hefur Rússland rofið friðinn í Evrópu, sem ríkt hafði frá 1945 með Balkanstríðinu sem undantekningu.  Það er stórfurðulegt, að stjórnvöld í Kreml skuli telja, að á 21. öldinni sé einfaldlega hægt að ákveða ný landamæri í Evrópu einhliða með hervaldi.  Engir lærdómar eru dregnir af sögunni á þeim bænum.  

Rússland hefur orðið sér mjög til minnkunar með gegndarlausum brotum á alþjóðalögum og lítilmannlegum beinum grimmdarárásum á almenna borgara Úkraínu. Allur stórveldisbragur er horfinn af Rússlandi, sem er að breytast í fylgiríki Kína.  Útanríkisráðuneyti Rússlands fordæmdi þá ákvörðun Ekvadors að afhenda Bandaríkjamönnum gamlan rússneskan vopnabúnað til framhaldsflutnings til Úkraínu. Ekvador tilkynnti, að landið mundi senda það, sem kallað var "úkraínskur og rússneskur brotamálmur" til Úkraínu og fá í staðinn nútíma vopnabúnað að verðmæti MUSD 200.  Hljómar líkt og samningur.  Yfirvöld í Ekvador sögðu frá því, að Moskvuvaldið hefði áður varað þau við þessu, en þau hefðu engu að síður til þess fullan rétt.  Smælki af þessu tagi vex í huga Pútíns þessi dægrin, en ekkert heyrist frá honum um hervæðingu Eystrasaltslandanna við landamærin að Rússlandi í varnarskyni, raunar ekki langt frá sumardvalarstað hans.  Ætlunin er að styrkja varnirnar, svo að hægt verði að hrinda þar innrás Rússa innan 3-4 ára.  Þau munu ekki brúka til þess vopn frá Ekvador.  Þeirra eigin verksmiðjur framleiða nú nútímavopn í fremstu röð.  Sumir Rússar sjá nú skriftina á veggnum, enda hefur utanríkisstefna Rússlands beðið skipbrot við inngöngu Finnlanda og Svíþjóðar í NATO. Pútín er mesti mistakasmiður í sögu æðstu valdamanna Kremlar, enda lifir hann í veruleikafirrtum heimi.   

Ofurstinn Alexander Khodakovsky, næst æðsti yfirmaður þjóðarvarðliðanna í Alþýðulýðveldinu Donetsk, sem hernumið er af Rússum, sagði herlið sitt ekki geta brotið úkraínska herinn á bak aftur. 

Hann kallar eftir vopnahléi, svo að Rússland geti safnað kröftum.  Gangur innrásarinnar hefur sýnt hinum ímyndunarveika Pútín, að afskipti Vestursins af stríðinu séu vegna mikilvægis þessa landssvæðis og að Vestrið (NATO) hafi augljóslega verið að ráðgera árás á hann þaðan.  Ennfremur þykir þessum Pútín kostur, að sannleikur þessa máls skyldi birtast áður en til innrásar að vestan kom, en styrjöld við NATO telur þessi afstyrmislega Rússaforysta óhjákvæmilega.  Bullið úr Pútín minnir óþyrmilega á einræður Adolfs Hitlers, þegar mistök hans voru orðin lýðum ljós. Pútín segir, að miklu erfiðara hefði orðið að taka á móti NATO-innrás en að eiga í stríði við NATO með Úkraínu sem lepp.  Þannig að allt, sem gerist, styrkir Pútín að hans eigin mati.  Hann lifir í sýndarveruleika, eins og karlinn í Bunkernum á sinni tíð. 

Við ættum að hafa hugfast, að stríðið nær langt út fyrir vopnaviðskiptin, sem fréttir greina frá daglega.  Miklir pólitískir kraftar eru þar á ferðinni, sem munu koma Úkraínumönnum og Vesturlandabúum á óvart og blása þessum aðilum kappa í kinn, enda er mikið í húfi. 

 Hvað segir Yudin í þessu sambandi ?:  "Stríðið við Úkraínu er vitlausasta stríðið í sögu okkar [Rússa] ... [reist á] gremjublandinni vanþóknun - tröllvaxinni, endalausri gremju.  Samkvæmt Pútín er engin hamingja til í lífinu ... . Í heimssýn hans eru engin landamæri [á hinum rússneska heimi].  Þessi stefna hefur orðið að opinberri stefnumörkun: Rússland endar hvergi." 

Er nema von, að Evrópa hervæðist nú á ný eftir fall Járntjaldsins, þegar þessi boðskapur berst út ? Sturlunin er við völd í Kreml. Rússland er fast í fúafeni, sem virðir mannslíf og örlög fólks einskis.  Í báðum löndum eru feður, sem munu ekki verða viðstaddir brúðkaup barna sinna; systur, sem munu aldrei sjá bróður sinn aftur; mæður, sem munu aldrei halda á börnum sínum eða heyra hlátur barnabarna sinna.  Ein ófreskja getur valdið með ólíkindum mikilli eyðileggingu.  Slíka verður að stöðva, og hún verður stöðvuð.  Hún er glæpur gegn mannkyni.   

 


Gregory Yudin heldur áfram greiningu sinni

Gregory Yudin er rússneskur fræðimaður, sem er mjög gagnrýninn á heimsvaldastefnu Rússa, sem heimurinn horfist nú í augu við og sem sumir valdamenn Vesturlanda neita að skilja, hvað merkir.  Það háttarlag heitir að stinga hausnum í sandinn, eins og strúturinn gerir, þegar honum þykir að sér sótt.  Það er furðulegt háttarlag og heimskulegt í meira lagi af "homo sapiens" að taka það upp eftir strútinum.

Að undanteknu Hvíta-Rússlandi hafa öll fyrri ríki Ráðstjórnarinnar annaðhvort greitt atkvæði með eða setið hjá við fordæmingu Sameinuðu þjóðanna á innrás Rússlands í Úkraínu og farið fram á heimkvaðningu rússneska hersins.  Jafnvel æðsti varðhundur Kremlar í Minsk, Alexander Lukashenka, hefur sagt, að "við höfum engan metnað til að berjast í Úkraínu".  85 % Hvít-Rússa eru mótfallnir því, að her þeirra gangi til liðs við Rússa í Úkraínu.  Hvít-Rússar hafa í raun komið á fót mannúðaraðstoð í Úkraínu og fyrir úkraínska flóttamenn í Hvíta-Rússlandi. 

Innrásin í Úkraínu 24.02.2022 hleypti lífi í þjóðernishreyfingar minnihlutahópa innan rússneska ríkjasambandsins, en gremjan í garð Moskvuvaldsins eða "Muscovy", eins og margir minnihlutahópar kalla það, hefur verið í áratugagerjun, og sumir mundu segja um aldir í gerjun.  Pútín hefur fundið, að þrýstingi hans til að mynda heimsveldi út frá Rússlandi hefur verið mætt með jafnstórum krafti í hina áttina: metnaði til að stofna til sjálfstæðra ríkja á meðal þeirra ríkja, sem nú eru í ríkjasambandinu. Sundrung rússneska ríkjasambandsins munu verða heimssöguleg tíðindi ekki síður en upplausn Ráðstjórnarríkjanna. 

Síðast þegar Pútín kynnti nýtt herútboð, var stofnuð hreyfingin "Ráð mæðra og eiginkvenna" ("Council of Mothers and Wives").  Ætlunarverkið var samhæfing aðgerða um allt Ríkjasambandið af hálfu aðstandenda hinna herkvöddu, þ.á.m. að þrýsta á yfirvöld að bæta úr skák, svo að menn verði ekki kvaddir ólöglega í herinn eða afhentur bilaður búnaður. 

Það var einmitt samblástur mæðra, sem leiddi til falls zarsins 1917.  Verkakonur í vefnaðariðnaðinum Vyborg-megin í Pétursborg lýstu yfir verkfalli vegna brauðskorts.  Karlarnir sameinuðust þeim og úr varð mikill mannfjöldi á Nevsky, þar sem hrópað var "brauð!" og "niður með zarinn!".  Er leið að kvöldi, voru 100.000 verkamenn komnir í verkfall, og það urðu átök við lögreglu. 

 

Allt og sumt, sem zarinn hafði úr að moða til að fást við fjöldamótmæli, voru ungir varaliðar án reynslu af að fást við múg.  Reynslulausir herkvaddir án búnaðar ... hljómar kunnuglega.  Daginn eftir héldu 150.000 verkamenn út á göturnar.  Það var þessi bylting - kvennabyltingin - sem leiddi til falls hinnar ríkjandi Romanov-ættar og opnaði nýja möguleika fyrir framtíð rússneska ríkisins, sem þá átti í stríði við m.a. Þjóðverja. 

Núverandi kvennahreyfing í Rússlandi krefst m.a. árstímatakmörkun fyrir herkvaðninguna, eða að hernum verði breytt í atvinnuher.  Hreyfingin krefst einnig réttar til þjóðfélagslegra mótmæla og fjöldasamkoma ásamt "þjóðfélagslegu réttlæti og jöfnum réttindum og skyldum þegnanna, einnig til handa herkvöddum." 

Þær eru mjög óánæggðar með fréttir af hermönnum, sem meinað hefur verið að yfirgefa herinn, þótt þeir hafi þjónað allan herskyldutímann.  "Moscow Telegraph", sem hefur næstum 90.000 áskrifendur, safnaði saman nokkrum viðbrögðum ættmenna hinna herkvöddu á samfélagsmiðlum og skrifaði: "Fjölskyldur hinna herkvöddu spá vopnaðri uppreisn".  

"Þeir munu grípa til vopna og gera uppreisn ... maðurinn minn getur ekki lengur liðið þetta", skrifaði einn "Telegram" samfélagsmiðilsnotandi.

Bandalag Rússlands við önnur ríki virðist líka liggja banaleguna.  Kínverski viðskiptabankinn Chouzhou hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, að hann sé að binda endi á öll viðskipti við þá vegna greiðsluvandkvæða af völdum vestræns viðskiptabanns.  Allir kínversku meginbankarnir hafa að sögn eflt fylgni sína við strangara vestrænt viðskiptabann, sem auglýst var í desember 2023.  Flestir kínversku meginbankarnir reka útibú í Bandaríkjunum, sem gerir þá viðkvæma fyrir framfylgd viðskiptabannsins.  Kínverjarnir vita líka, að rússneska hagkerfið er að fjara út; rússnesk rúbla er orðin verðminni en 1 USc.  Hallarekstur ríkissjóðs er að þurrka upp sparnaðarsjóði ríkisins.  Það kemur að greiðsluþroti (ríkisgjaldþroti). 

Fundir Pútíns með aðalritaranum Xi, sem mikið veður var gert af í Rússlandi, leiddu ekki til neins, nema kínverskrar innreiðar í Asíuhéruð Ríkjasambandsins Rússlands, sem áður voru hluti Kínaveldis.  Rússland er að breytast í pólitískan dverg með hegðun sinni í Úkraínu, og nú berast fregnir af því, að Moskvuvaldið hafi boðið NATO upp á friðarsamninga, þar sem megninu af Úkraínu yrði skipt á milli Rússlands, Póllands, Ungverjalands og Rúmeníu.  Veruleikafirringin í Kreml núna er ekki minni en hún var í hinum alræmda "Bunker" í Berlín 1945.    

 

 


Enn af rússneska fræðimanninum Yudin

Yudin kveður djúpstæðan klofning vera í rússneska þjóðfélaginu.  Klofning vantar ekki á Vesturlöndum, en hann er annars eðlis:

"Við erum að tala um land með ótrúlega lítið persónulegt traust á milli manna, óhemju lítinn áhuga á pólitík og sérstaklega á pólitískri þátttöku og litla trú á að geta haft áhrif á pólitíkina.  Stríðið er almennt talið koma að utan og ekkert við því að gera.  Þetta getur ekki skapað verulega einingu.  Það skapar ótta, óvissu og angist."

Hann fullyrðir, að þjóðfélaginu megi skipta í þrennt: 

Fyrsti hópurinn - minnihluti 15 % - 20 % - styðja herinn, og aðeins þeirra skoðanir eru leyfðar opinberlega.  Þeir eru í eldri kantinum; eldra fólk, sem aðhyllist þá heimssýn, sem ráðamenn setja fram.  Jafnstórum hópi fólks býður við þessu stríði og líta á það sem grundvallar mistök, sem leiða muni miklar þjáningar yfir Rússland.  Mikill meirihluti fólks er þarna á milli og er í grundvallar atiðum fús til að sætta sig við það, sem henda kann.

Annar þjóðfélagsklofningur er fólginn í tekjuskiptingunni.  Þetta er ekki aðeins stríð þeirra gömlu, heldur líka stríð hinna ríku Rússa.  Þetta er í raun stríð þeirra, sem ekki eiga á hættu að deyja.  Þeir gömlu vilja alls herjar herútboð, en þeir verða undanþegnir, þeir munu senda börnin sín á vígstöðvarnar.  Hið sama á við um tekjuhópana.  Ríkisbubbarnir verða ekki sendir á vígstöðvarnar.  Þeir munu bara senda fátæklingana.  Þessi mismunun skapar gíðarlega þjóðfélagsspennu.  Óánægjunni er ekki hleypt út vegna stríðsins, en er fyrir hendi og getur brotizt út af minnsta tilefni. 

 

Afleiðing af þessu er, að Rússland er deyjandi heimsveldi. 

Það hefur ekkert áhugavert fram að færa fyrir þau landssvæði, sem það hefur hug á að stjórna.  Hið eina, sem er í boði, er hugmyndin um endurreisn Ráðstjórnarríkjanna, sem eru aðeins hugarórar.  Þar er engin siðmenninggarleg verkefni að finna.  Þess vegna virka yfirráð Rússa mjög fráhrindandi á Úkraínumenn og aðrar þjóðir.  Þess vegna er valdbeitingin eina haldreipi Rússa. 

 

Yudin ræður frá samningaviðræðum við Pútín: stríðið snýst um, að Úkraínumenn vilja varðveita fullveldi Úkaínu.  Hugmyndin um að þvinga Úkraínumenn að samningaborðinu er öfgakennd forsjárhyggja.  Hún felur í sér að samþykkja þá sturluðu hugmynd Pútíns, að Úkraína sé ekki fullvalda ríki; að einhver utan Úkraínu setji skilmálana. 

"Í huga Pútíns snýst þetta stríð ekki um Úkraínu.  Þetta stríð er til að endurreisa heimsveldið.  Heimsveldið felur að sjálfsögðu í sér Varsjárbandalags-löndin, arfleifð Stalíns. Þar eð hann gefur ekkert fyrir hlutleysi, ætlar hann ekki að gera þessi lönd hlutlaus, heldur að færa þau aftur á áhrifasvæði Rússlands, gera þau leppa þess. Þar er Austur-Þýzkaland meðtalið.  Þetta þarf þýzka ríkisstjórnin í Berlín að gaumgæfa vel.  Ef hún hefði gert það af einhverju viti, væru Taurus flaugar nú þegar komnar í hendur úkraínska hersins og ráðgjafar (forritarar) Bundeswehr með þeim.  Það er stórhættulegt að reyna að taka á rússneska birninum með silkihönzkum. Ef Rússum tekst ætlunarverk sitt í Úkraínu, láta þeir ekki staðar numið þar.  Moldóvía er greinilega inni í hernaðaráætlun Rússa. 

Pútín á í vandræðum með það hrokafulla og ofbeldishneigða viðhorf sitt, að Úkraína sé ekki til.  Úkraínumenn geta ekki setzt niður með slíkum stjórnvöldum til samningaviðræðna, en gætu náð árangri með næstu stjórnvöldum Rússlands.  Framtíðarsýn Pútíns er óhjákvæmilegt stríð við Vestrið, við NATO.  Hann lítur ekki á það sem valkvætt, sem það er, auðvitað.  Hugarfarið, sem hann hamrar á í Rússlandi, er, að Rússar lifi í heimi án vals. 

Nú er Rússland að rifna, því að spennan av völdum óvinnandi stíðs eykst. Pútín er að missa tökin á héraðsstjórnum Sambandsríkisins. Fyrrverandi Ráðstjórnarlönd eru andstæð Kreml. Kazakhstan hefur kallað innásina í Úkraínu stríðsaðgerð og sent hjálp til Úkraínu.  Moldóvía hefur sótt um aðild að ESB, eins og Úkraína. 

 

    

 


Rússneski heimspekingurinn og félagsfræðingurinn Grigory Yudin

Nú, seint og um síðir, virðist vera að renna upp ljós fyrir Vestur-Evrópuleiðtogunum, að Evrópu stafar tilvistarhætta af Rússlandi og það verður undir hælinn lagt, hversu gagnlegur hernaðarstuðningur mun berast frá Bandaríkjunum, ef/þegar í harðbakkann slær. Nú bítur Evrópa úr nálinni með að hafa sofið á verðinum frá lokum Kalda stríðsins 1989 og hunzað heri sína.

Frakkar hafa frá forsetatíð Charles de Gaulle, hershöfðingja, þann steininn klappað, að Evrópuþjóðirnar ættu að efla herstyrk sinn, jafnvel undir sameiginlegri herstjórn, en vegna NATO hefur þetta sjónarmið ekki hlotið hljómgrunn fyrr en nú.  Samstaða um að senda evrópskt herlið inn í Úkraínu til að berjast þar við hlið Úkraínumanna hefur þó ekki náðst.  Gjammið í Kreml sem viðbögð við því er þó ekki annað en gelt í grimmum og tannlausum hundi.  Hernaðaryfirburðir NATO gagnvart Rússlandi eru 4-5 faldir á öllum sviðum hernaðar, enda er landsframleiðsla Rússlands ekki meiri en Spánar. 

Rússneski heimsspekingurinn og félagsfræðingurinn Gegory Yudin spáði því, að "stríð Rússlands gegn Úkraínu yrði hörmung (e. disaster) fyrir Rússland á allan mögulegan hátt".  Hann var einn örfárra rússneskra sérfræðinga þeirrar skoðunar í febrúar 2022, að stríð á milli Rússlands og Úkraínu væri óhjákvæmilegt. Í grein, sem birtist 2 dögum fyrir innrásina, spáði Yudin því, að meiriháttar stríð væri yfirvofandi, að Rússar mundu verða ginnkeyptir fyrir ásökunum Kremlar á hendur Vesturveldunum og að viðskiptaþvinganir hefðu engin áhrif á Pútín - allt gekk þetta eftir. 

Hann sagði, að Pútín þyrfti "viðvarandi stríð" til að halda almenningi í skefjum.  Á móti kvað hann breiðfylkingu stríðsandstæðinga mundu myndast í Rússlandi.  Nú er spurning, hvað gerist í kjölfar aftöku aðalstjórnarandstæðingsins Navalny og kosningaskrípaleiks til forsetaembættis. 

 

"Stríðið er nú endalaust.  Með því eru engin náanleg markmið, sem leitt geta til lykta þess.  Það heldur einfaldlega áfram, af því að [í hugarheimi Pútíns] eru þeir óvinir, og þeir ætla að drepa okkur, og við viljum drepa þá.  Fyrir Pútín er þetta tilvistarbarátta við óvin til að eyðileggja hann."

Yudin er prófessor í stjórnmálalegri heimsspeki í Moskvuháskóla fyrir félags- og hagfræði.  Í mótmælum gegn stríðinu var hann barinn og lagður inn á sjúkrahús. 

Hann var líka einn hinna fyrstu til að greina þýðingu uppreisnarinnar gegn Pútín, sem leidd var af foringja Wagner-málaliðanna, Yevgeny Prigozhin. 

Hann benti á, að Prigozhin hafði sakað hernaðarforystu Rússlands um lélega skipulagningu, sem leitt hefði til svika við og fórna á rússneskum hermönnum, og á sama tíma dró hann í efa rökin fyrir stríðinu í Úkaínu. Hann hélt því fram, að allt stríðið væri afleiðing innantóms þjóðernismonts Pútíns, af því að Úkraínuforseti, Volodymyr Zelensky, hefði verið opinn fyrir samningaviðræðum í upphafi. 

Við eitt tækifæri hefði Prigozhin kallað rússnesku forystuna "geðsjúka drullusokka og hálfvita" fyrir að ákveða að "fleygja aftur nokkum þúsundum rússneskra drengja inn í kjöthakkavél til að drepast eins og hundar". 

Vönduð greining Yudins á tilhneigingum og stemningu í rússnesku samfélagi leiðir til einnar ályktunar: æ fleiri Rússum finnst, að landið sé komið í blindgötu. Ennfremur kemst hann að þeirri niðustöðu, að það sé algerlega útilokað fyrir Rússland að vinna. 

Í Úkraínu er engin sýnileg leið til rússnesks sigurs, þótt handbendið Donald Trump nái markmiði sínu, því að Evrópa mun sjá Úkraínu fyrir nauðsynlegum stuðningi, þótt takmarkaður sé.  Pútín spinnur upp sviðsmyndir fyrir óhjákvæmilegan rússneskan sigur: Fyrst átti að nást auðveldur sigur með því að ýta Kænugarðsstjórninni frá völdum, síðan með því að leggja undir sig Donbas, þá með eyðileggingu lífsnauðsynlegra innviða í Úkraínu og valda alvarlegum orkuskorti í Evrópu síðast liðinn vetur, síðan með því að bíða eftir þreytu vestrænna ríkja við stuðning við Úkraínu með vopnasendingum.  Margir Rússar voru fúsir til að leggja trúnað á veruleikafirrtan spuna Pútíns, en fáir geta nú látizt trúa því, að góður endir sé í sjónmáli.  Fremur liggur ósigur í loftinu, og þótt um bannorð sé að ræða í opinberri umræðu, eins og var í Þriðja ríkinu á sinni tíð, skýtur því æ oftar upp í einkasamtölum. Við opinber tækifæri, á meðan á Prigozhin-uppeisninni stóð, ýjaði Pútín þó að möguleikanum á ósigri með því að hefja máls á "rýtingsstungu í bakið". 

Það er eftirtektarvert, að Prigozhin mætti í uppreisn sinni sáralítilli mótspyrnu frá yfirstéttinni, sem þagði að mestu í heilan sólarhring.  Almenningur fagnaði og embættismenn aðhöfðust ekkert, þegar her Prigozhins hélt til Moskvu án teljandi viðnáms rússneska hersins.  Þetta segir þá sögu, að allir séu orðnir hundleiðir á sjúklegum stjórnarháttum Pútíns.      


Úkraína og önnur lönd Evrópu

Flest Evrópuríkin hafa vanrækt varnir sínar síðan Járntjaldið féll og kommúnistastjórnir Austur-Evrópu þar með.  Þau hafa teyst á varnarmátt Bandaríkjanna og skjöldinn, sem NATO-aðildin veitir þeim.  Tvennt hefur valdið algjöru endurmati þeirra á öryggi sínu.  Gáleysisleg og algerlega ábyrgðarlaus ummæli handbendis rússneskra ólígarka, Donalds Tumps. (Þeir hafa forðað honum frá gjaldþroti einu sinni.  Hann á hvergi heima, nema á bak við rimlana.  Hvenær verður hann dæmdur fyrir landráð ?) DT lét hafa eftir sér þau ótrúlegu ummæli, sem gert hefðu út af við framavonir allra, nema hans, að yrði hann forseti BNA aftur, og Rússar réðust á NATO ríki, sem ekki hafa náð markmiði NATO um árleg útgjöld til hermála, mundi Bandaríkjaher ekki verja þau, heldur hvetja Rússa til að hertaka þau.  Þessi maður er greinilega ekki með öllum mjalla.

Hitt atriðið, sem vakið hefur Evrópu upp af Þyrnirósarsvefni hins eilífa friðar, var innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2024, sem augljóslega er tilraun gerspilltra Kremlverja til að hneppa Úkraínu í nýlenduánauð og er aðeins fyrsta skref þeirra til að hneppa öll Varsjárbandalagsríkin í nýlenduánauð.  Þessi ríki fara ekki í grafgötur um þetta óþverrabragð Kremlarfantsins og hervæðast nú sem mest þau mega.

  Eftir mikið japl og jaml og fuður eru Þjóðverjar nú loksins að taka forystu um varnir Evrópu eftir að vera lausir úr viðjum Rússa um orkuafhendingu.  Forysta Þýzkalands viðist hafa sannfærzt um hættuna, sem landinu og hagsmunum þess stafar af útþenslustefnu einræðisríkis í austri og hefur sett hertólaverksmiðjur Þýzkalands á full afköst og verið er að auka framleiðslugetuna, m.a. með verksmiðju Rheinmetall í Úkraínu. 

Á meðan mannfall Rússa í Úkraínu fer yfir 400 k, hefur óvinur þeirra, sem þeir reyna að hræða frá stuðningi við Úkraínu - Evrópa - aftur á móti brýnt sverð sitt.  Öll 31 NATO-ríkin og Svíþjóð hafa hafið æfinguna "Staðfastur varnarher" til að framkalla það, sem varnarmálaráðherra Breta, Grant Shapps, kallar "reassurance against the Putin menace". 

U.þ.b. 90 k hermenn frá öllum NATO-löndunum (Landhelggisgæzlan frá Íslandi ?) taka þátt í þessari miklu heræfingu.  Upphaflega verður einblínt á eflingu yfirráða NATO á öllu Atlantshafinu og í Norður-Íshafinu.  Í síðari þættinum verður æft að senda herlið um alla Evrópu til varnar, frá Íshafinu og að austurvæng NATO. Þetta er umfangsmesta heræfing NATO í 35 ár.  Þannig væri tíminn ranglega valinn nú hjá rússneskum varðmanni á finnsku landamæunum að hleypa "óvart" af skoti. 

Þriðjungur rússneskra hermanna á vígstöðvunum fellur, og er það sama hlutfall og í Rauða hernum í Heimsstyrjöldinni síðari.  Aðaldauðaorsökin er blóðmissir vegna útlimasárs.  Aðalupphafsmeðferð  særðra rússneskra hermanna á sjúkrahúsi er aflimun.  Að komast á sjúkahús er martröð.  Flestir særðra rússneskra hermanna eru fluttir á bílum að vígvallarsjúkrahúsum við landamæri Rússlands, og tekur ferðin að jafnaði einn sólarhring.  Eftir fyrstu aðgerð þar bíða þessir særðu hermenn eftir flugferð langt inn í Rússland, sem yfirleitt tefst.

Hreinlæti og sótthreinsun er ekki viðhaft í rússneska hernum, og heldur ekki í herteknum þorpum og borgum, t.d. Mariupol.  Faraldrar geta þess vegna hafizt þarna senn. 

Rússland hefur misst 6442 skriðdreka frá 24.02.2022 til 31.01.2024. Þetta eru fleiri skriðdrekar en tóku þátt í byrjun innrásarinnar.  Rússar nota nú 50 ára gamla skriðdreka, uppfærða frá 7. áratugi 20. aldarinnar.  Þá hafa rússar á tímabilinu misst 12090 brynvarin bardagatæki, 12691 ökutæki og eldsneytisflutningabíla, 9620 fallbyssur, 671 loftvarnarkerfi, 984 fjölflugskeytapalla, 332 flugvélar, 325 þyrlur, 7404 dróna and 25 herskip og -báta. 

Hermenn, sem fylla skörðin, eru illa þjálfaðir.

Til samanburðar misstu Ráðstjórnarríkin 15 k menn í innrásinni í Afganistan, og íbúar þeirra voru næstum tvöfalt fleiri en Rússlands nú.  

Á sjó er staða Rússa enn verri en á landi og í lofti.  Þriðjungur Svartahafsflota þeirra hefur verið eyðilagður með úkraínskum sjávardrónum, og afgangurinn hefur flúið Krímskagann og halda sig til hlés í rússneskum höfnum, og rússnesk eldflaugaskip hafa flúið út úr Svartahafi.  Svartahafið er nú á valdi Úkraínu, og kornútflutningur landsins fer nú óáreittur af hryðjuverkaríkinu um Svartahafið. 

Mistakasmiðurinn Pútín er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður og hertól.  Honum hefu tekizt að mynda almenna samstöðu gegn sér í heiminum og einkum í Evrópu, þar sem menn sjá söguna endurtaka sig að breyttu breytanda.  Þótt Frakkar hafi látið tiltölulega lítinn hernaðarstuðning í té við Úkraínumenn fram að þessu, hefur nú franski forsetinn opinberlega bryddað upp á því, að Evrópurríkin sendi hermenn sína til að berjast við hlið Úkraínumanna.  Þetta óttast Kremlarmafían mjög, enda kom strax hlægileg tilkynning úr Kremlarkjaftinum um, að þar með væri NATO komið í stríð við Rússland.  Þetta er innantóm hótun.  Rússland getur ekki unnið stríð við NATO.  Því lyki löngu áður en allsherjar herútboð gæti farið fram í Rússlandi. 

Ein milljón manns á herskyldualdri hefur flúið Rússland síðan "sérstaka hernaðaraðgerðin" hófst.  Árin 2022-2023 laut rússneski herinn á tímabili í lægra haldi fyrir úkraínska hernum með þeim afleiðingum, að Úkraínumenn náðu að frelsa 40 % af herteknu landi. 

 

Þýzki kanzlarinn, Olaf Scholz, hafði vonandi rétt fyrir sér, þegar hann kvað nýtt tímabil runnið upp, þar sem nýtt Þýzkaland kæmi fram á sjónarsviðið, sem væri reiðubúið að axla nýjar skyldur.  Þar með hefur garminum Pútín tekizt það, sem bandamönnum Þýzkalands tókst ekki: að fá Þýzkaland til að axla hernaðarlegt forystuhlutverk í Evrópu.  Í Heimsstyrjöldinni seinni átti Wehrmacht í höggi við bandarískan vopnaiðnað á  austurvígstöðvunum, sem sá Rauða hernum fyrir stórum hluta af skriðdrekum hans, flutningabílum og fallbyssum.  Það, sem heldur Rússlandi á floti núna, eru Kína og Íran.   

  

 

 

 

 


Pyrrosarsigur Rússa - að míga í skóinn sinn

Barry Gander, Kanadamaður, sem býr í Connecticut í Bandaríkjunum, ritar um samtímaatburði af þekkingu í Mastodon@Barry.  Um miðjan febrúar 2024 skrifaði hann um Úkraínustríð 21. aldarinnar, og verður hér stuðzt við grein, sem heitir: "Today it is 400.000".

Fjöldi fallinna rússneskra hermanna í Úkraínu hefur nú farið yfir 400 k síðan hin ósvífna og skammarlega innrás hófst 24.02.2022.  Þetta þýðir um 550 manns á dag og undanfarnar vikur hefur talan verið 950 á dag, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega mikla áherzlu gerspillt stjórnvöld í Kreml leggja á það að knésetja lýðræðislega kjörin stjórnvöld Úkraínu í Kænugarði. Mannfallið í bardögum um borgina Avdevka, nærri Donetsk borg, hefur verið gríðarlegt, og hún féll um miðjan febrúar 2024 í hendur Rússa, rústir einar. Brezk leyniþjónusta spáir 500 k Rússum föllnum í Úkraínu við árslok 2024.  Enginn veit, hvar víglínan verður þá, en það er ljóst, að harðstjórinn í Kreml ætlar að gera Úkraínu að nýlendu Rússlands.  Það mega Vesturlönd ekki láta kúgarann í Kreml komast upp með á 21. öld, enda væri þá öryggi og stöðugleika í Evrópu ógnað alvarlega. 

Á sama tíma og Rússar hafa misst 400 k, hafa 70 k úkraínskir hermenn fallið og aðrir 120 k særzt.  Þannig hefur 1 úkraínskur hermaður fallið á móti 5,7 Rússum, sem er hátt hlutfall og vitnar um ólíka herstjórnarlist. Staðan versnar enn fyrir Rússa, þegar málaliðar á borð við Wagner-herinn eru teknir með í reikninginn.  Tala fallinna þar er um 100 k.  Hlutfallið hækkar þá í 7,1. 

Í byrjun janúar 2024 voru meira en 320 k rússneskir hermenn í Úkraínu.  Úkraína er með 800 k framlínuhermenn í þjónustu, og 500 k verða kvaddir í herinn fyrir sumarið 2024.  Það gefur 1,3 M undir vopnum, þjálfaðir og einbeittir í að verja fósturjörðina gegn rugluðum villimönnum að austan. 

Rússar berjast með undirmönnunarhlutfall 1:2,5, en innrásarher er jafnan talinn þurfa að vera með yfirmönnunarhlutfall 3:1.  Rússar hafa hins vegar haft meira af skotfærum og ráðið í lofti, ef drónarnir eru undanskildir.  Með tilkomu F16 orrustuþotna í herafla Úkraínumanna munu þeir ná yfirhöndinni í lofti.  Þegar þeir jafnframt fá Taurus stýriflaugarnar þýzku, munu verða kaflaskil í þessum átökum austurs og vesturs.

Enginn viti borinn stjórnmálamaður með sæmilega hernaðarráðgjafa hefði ráðizt með jafnveikum herafla inn í Úkraínu og Pútín gerði 24.02.2022.  Hann er dómgreindarlaus fantur, sem lifir í óraunveruleikaheimi fortíðarþráar.  Haft er eftir Lafrov, utanríkisráðherra Kemlarklíkunnar, þegar hringt var í hann um innrásarnóttina og hann spurður, hver hefði eiginlega ráðlagt forsetanum þetta.  Lafrov sagði þá efnislega, að Pútín hlustaði aðeins á 3 ráðgjafa, og það væru Ívan grimmi, Pétur mikli og Katrín mikla. 

Leyniskýrsla frá herforingjaráði og pólitískri elítu Rússlands til Pútíns, "Conclusions of the war with NATO in Ukraine", klykkti út með, að 5 M rússneska hermenn þyrfi til að vinna slíkt stríð.  (Voru ekki 6 M í Rauða hernum, sem rak Wehrmacht til Berlínar ?) Pútín sigaði 250 k hermönnum inn í Úkraínu 24.02.2024, og þá voru 300 k í úkraínska hernum, og þeir voru betur þjálfaðir. 

Síðar þennan dag komu nokkrar tylftir olígarka saman í Kreml.  Þeir voru meðvitaðir um, að Vesturveldin mundu hrinda af stað refsiaðgerðum gegn Rússum.  "Allir voru gjörsamlega ráðþrota", er haft eftir einum fundarmanna, en þeir sáu illa fenginn auð sinn (að mestu þýfi frá rússneska ríkinu) í algjöru uppnámi. 

Það lítur út fyrir, að Pútín hafi ímyndað sér ríkisstjórn Zelenskys vera veika og óvinsæla, og almenning í Úkraínu upptekinn við vandamál fjárhagslegs eðlis.  Hann óttaðist, að rússnesk áhrif í Úkraínu færu dvínandi, einkum vegna djúptækara samstarfs Kænugarðs við Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra.  Hann leit á Evrópu sem veika og sundraða.  Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, sem hann skemmti sér við að hræða með hundum sínum, af því að hún óttaðist hunda, var að láta af völdum, Bretland væri í óreiðu eftir úrsögnina úr ESB og COVID ylli uppnámi um alla Evrópu.  Hann óttaðist ekki NATO: NATO væri veikt og sundurþykkt. Kjáninn trúði eigin áróðri.  

Allt voru þetta ranghugmyndir vitstola manns, og Rússar gjalda þær dýru verði með ógnarlegu mannfalli og hergagnatapi upp á hundruði mrdUSD.  Mannfallið og hergagnatapið í bardögunum um Avdevka, þar sem Rússar unnu nýlega Pyrrosarsigur, sýnir, að Moskva hefur ekki "lært lexíuna um, hvernig á að standa almennilega að vélahernaði", samkvæmt Riley Bailey, Rússlandssérfræðingi hjá "The Institute for the Study og War".   

Beztu deildir rússneska hersins hafa verið eyðilagðar og allt, sem eftir er af honum, eru illa þjálfaðir herkvaðningarmenn, gamlir skriðdrekar og brynvarðir bílar.  Á meðan fær Úkraínuher nútíma búnað og beztu þjálfun og herstjórnarlist.

Undirbúningsleysi jafngildir alvarlegum afleiðingum.  Í desember 2022 greindu rússneskir sálfræðingar u.þ.b. 100 k hermenn, sem þjáðust af áfallastreituröskun. Þessi fjöldi er ábyggilega meiri, af því að viðverutími hermannanna á vígvöllunum er mjög langur.  Um þetta stóð í brezkri skýrslu: 

"With a lack of care for its soldiers´ mental health and fitness to fight, Russia´s combat fighting effectiveness continues to operate at sub-optimal levels".  

 


Vesturlöndum stendur mikil ógn af glóruleysi Rússlandsstjórnar

Pútín, forseti Sambandslýðveldisins Rússlands, hefur gefið út tilskipun um, að rússneska ríkinu beri að vinna að því ná undir sig öllum löndum, sem voru innan vébanda Ráðstjórnarríkjanna, og öllum öðrum landssvæðum, sem Rússakeisari réði áður.  Til þessara svæða telst m.a. Alaska, sem Bandaríkjamenn keyptu af zarnum 1867.  Þessari tilskipun verður aðeins lýst sem geðveiki einæðisherra, en hún hlýtur að leiða til þess, að Vesturlönd, einkum Evrópuríkin, sjái skriftina á veggnum og endurhervæðist. Samþykkt Ráðherraráðs Evrópusambandsins (ESB) 01.02.2024 á mrdEUR 50 fjárhagsstuðningi við Úkraínu yfir 4 ár ber að fagna, en handbendi Pútíns, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, skipti um afstöðu til málsins, svo að samþykktin verð einróma.  

 Ef Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna, er ógnin geigvænleg, því að þessi fasisti mun svíkja Úkraínu og Eystrasaltslöndin og síðan öll önnur ríki Varsjárbandalagsins sáluga í hendur sálufélaga síns, Pútíns.  Hvernig hann bregzt við kröfunni um Alaska, er efiðara að ímynda sér.  

Nú standa Rússar blóðugir upp að öxlum i Úkraínu.  Vesturlönd verða að átta sig á því, að Úkraínumenn úthella nú blóði sínu ekki einvörðungu til varnar frelsi og sjálfstæði eigin lands, heldur allrar Evrópu. Þessi rússneska útþenslustefna og hatur á Vesturlöndum er ekki bundin við einn mann í Kreml, heldur hefur þessi vitfirring verið við lýði frá stofnun rússneska keisaradæmisins fyrir um 300 árum. Fleiri evrópsk keisaraveldi voru illa haldin af þessari áráttu á 19. og 20. öld, en 2 heimsstyrjaldir hafa læknað viðkomandi þjóðir af árásarhneigð og útþenslustefnu.

Rússneska þjóðin er fátæk og fjölmargir lifa undir fátæktarmörkum, enda viðgengst ægileg spilling og misrétti í Rússlandi.  Rússar hafa reynzt ófærir um að innleiða lýðræði hjá sér og sjúklegt hugarfar og afstaða til annarra þjóða hefur ekki breytzt þar.  Þar verður engin breyting til batnaðar, nema ríkið sundrist, sem gæti orðið við niðurlægjandi tap rússneska hersins í átökunum við úkraínska herinn.  Með óbreyttum stuðningi Vesturlanda verður það þó ekki, og afstaða Bandaríkjamanna ræður þar mestu um.  Það er ótrúlegt, að bandaríska þingið skuli ekki líta á fjárhagsstuðning á formi hergagna og annars við Úkraínu sem mjög hagkvæma fjárfestingu í framtíðinni. Ætlar skammsýnin og blindnin að verða Vesturlöndum að falli ?

Börkur Gunnarsson, kvikmyndaleikstjóri, er ýmsum hnútum kunnugur í Úkraínu og hefur dvalið þar.  Hann hefur frætt lesendur Morgunblaðsins um kynni sín af Úkraínumönnum.  Grein hans 22. janúar 2024 bar yfirskriftina:

       "Innrás Pútíns hefur allt önnur menningarleg áhrif en hann ætlaði":

"En menningarbreytingarnar í Úkraínu eru það, sem ég hef mestan áhuga á.  Sem áhugamaður um sagnfræði las ég mér mikið til um sögu þeirra ríkja, sem mynduðu Sovétríkin.  Þá var hefð [á] meðal sovézkra sagnfræðinga að gera lítið úr því, að það voru norrænir menn, sem áttu mikilvægan þátt í risi Kyiv, en margir rússneskir sagnfræðingar efuðust um heimildir, sem studdu það.  Það hentaði ekki stefnu Kremlar, að víkingar frá Norðurlöndunum ættu eitthvað í því stórveldi, sem Kyiv ríkið var frá 10. öld og fram til ársins 1240, að Mongólar sigruðu her ríkisins, myrtu flesta íbúana og brenndu höfuðborgina til grunna.  

En þegar ég tók viðtal við forstöðumann úkraínska þjóðminjasafnsins í höfuðborginni, varð mér ljóst, að í dag gera Úkraínumenn mikið úr þessum uppruna.  Kenningin er ekki aðeins rökum reist, heldur hentar hún þeim, sem nú stjórna."

Það voru aðallega sænskir víkingar í viðskiptaerindum  eftir fljótum Úkraínu á leið að Svartahafi og niður að Miklagarði, sem sáu sér hag í bandalagi við harðduglega heimamenn, sem þarna áttu í hlut, og má segja, að lengi hafi logað í gömlum glæðum ýmissa tengsla norrænna manna við Úkraínumenn.  Það hefur komið í ljós í blóðugri baráttu Úkraínumanna við arfaka Mongólaveldisins, Rússana, einkum efir innrásina 24. febrúar 2024. 

Blinda vestrænna leiðtoga lýðræðisríkja á söguna og framtíðina er tilefni til áfallastreituröskunar.  Þannig hefur það alltaf verið með þeirri afleiðingu, að hurð hefur skollið nærri hælum í 2 heimsstyrjöldum í viðureigninni við útþenslusinnuð einræðisríki. Bandaríkin komu þá til hjálpar, enda var ráðizt á þau í seinna skiptið og stríði lýst á hendur þeim, en svo bregðast krosstré sem önnur tré.  Fasistinn, sem nú um stundir stefnir hraðast á Hvíta húsið, en kann að verða settur á bak við lás og slá vegna afbrota sinna, er aðdáandi einræðisherra heimsins á borð við Pútín og hefur hótað því að draga Bandaríkin út úr NATO.  Hvers konar hrikalegt döngunar- og úrræðaleysi er það á meðal ríkisstjórna fjölmennustu þjóða Evrópu að hafa ekki nú þegar stóreflt hergagnaframleiðslu sína til að geta staðið myndarlega við bakið á Úkraínumönnum og birgt upp eigin herafla og gert hann bardagahæfan á ný ?  Á meðal Evrópuþjóðanna eru góðar undantekningar, og má þar telja Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Finna. 

Þann 23. janúar 2024 birtist önnur grein í Morgunblaðinu eftir sama höfund, Börk Gunnarsson.  Fyrirsögn hennar var þessi:

"Ekki viss um, að hann finni ástina sína í Úkraínu - Karlarnir berjast og konurnar fara".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Annar piltur, sem ég hitti, er ólmur að komast aftur á vígstöðvarnar og talar um, að það sé hneyksli, hvað Úkraína fái lítinn fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu, ungir úkraínskir menn séu að deyja fyrir Vesturlandabúa, á meðan þeir sitji bara uppi í sófa og hámi í sig kartöfluflögur. Maður fær samvizkubit yfir ræðum hans.  Því [að] það er mikið til í þeim.  Við eigum meira að segja fólk á Vesturlöndum, sem gerir lítið úr fórnum úkraínsku þjóðarinnar."

Hið síðast nefnda er hrollvekjandi staðreynd, sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Þessi lýður getur verið af tvennum toga: annars vegar Rússadindlar, sem hafa verið heilaþvegnir af áróðri Kremlar.  Þetta eru oft undanvillingar, sem af einhverjum sjúklegum ástæðum hafa fyllzt hatri á lifnaðarháttum Vesturlanda og fyrirlitningu á lýðræðisfyrirkomulaginu.  Sálfræðilega eru þetta einstaklingar svipaðrar gerðar og aðhylltust nazisma á fyrri tíð.  Hins vegar er um að ræða naflaskoðara með asklok fyrir himin og hafa þar af leiðandi engan skilning á því, hvers konar átök eiga sér stað í heiminum núna né hvers vegna Úkraínumenn leggja nú allt í sölurnar til að halda fullveldi lands síns og sjálfstæði.  Naflaskoðararnir hafa engar forsendur til að átta sig á hrikalegum afleiðingum þess fyrir eina þjóð að lenda undir járnhæl Rússa.  Í tilviki Úkraínumanna mundi það jafngilda tortímingu þjóðarinnar.  Rússneski björninn er viðundur í Evrópu 21. aldarinnar.  

Að lokum skrifaði Börkur:

"Ég hef sjaldan upplifað jafnlitla jólastemningu yfir hátíðarnar, en annað hefði verið undarlegt.  Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki aðeins leitt til dauða tugþúsunda ungra úkraínskra manna, lagt heimili hundruða þúsunda í rúst, heldur einnig rústað heilbrigði og sálarheill tugmilljóna manna þjóðar, fjölskyldum þeirra og börnum, sem munu vaxa úr gasi algjörlega trámatíseruð.  En á meðan getur íslenzkur almenningur borðað kartöfluflögur í rólegheitum í sófanum sínum og jafnvel verið með yfirlætislegar samsæriskenningar og ræktað í sér samúð með innrásarhernum, en ekki fórnarlömbunum."  

Hvernig halda menn, að fólki verði innanbrjósts, sem gengur til hvílu að kveldi vitandi, að húsið þeirra gæti orðið skotmark fjandmannanna um nóttina ?  Hernaður Rússa er eindæma lágkúrulegur.  Að gera saklausar fjölskyldur að skotmarki ónákvæmra flauga og dróna sinna í stað hernaðarmannvirkja er fyrirlitlega heigulslegt atferli, en Rússar eru til alls vísir.  Þeir eru á afar lágu plani bæði siðferðilega og tæknilega.  Fátæktin, andleg og veraldleg, er yfirþyrmandi.  

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband