Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Hernaðarbrölti Rússlands verður að linna

Með hernaðarbrölti sínu í Úkraínu frá 24.02.2022 hafa Rússar staðfest, hversu frumstæðir þeir eru hernaðarlega og algerlega tillitslausir um örlög varnarlausra borgara og sinna eigin óbreyttu hermanna.  Gjörspilltir og siðlausir stjórnendur rússneska hersins og klíkan í Kreml láta sig engu skipta, hversu margir varnarlausir borgarar Úkraínu falla eða særast, og þeir etja hermönnum sínum út í opinn dauðann. Jafnvel er stór stífla vatnsorkuvers sprengd í loft upp, og stærsta kjarnorkuver Úkraínu er í öryggislegu uppnámi mánuðum saman.

Herkænsku eða nútímalegri herfræði er ekki fyrir að fara hjá Rússaher.  Allt er þar kunnuglegt frá heimsstyrjöldunum og hernaðinum í Afganistan og Sýrlandi.  Flugher Rússa hefur mistekizt að ná yfirráðum í lofti, og herþotur Úkraínumanna eru of fáar og úreltar frá Ráðstjórnartímabilinu til að þær geti haft í fullu tré við þær rússnesku.  Þess vegna hafa herirnir grafið sig niður í skotgrafir, eins og tíðkuðust í Fyrri heimsstyrjöldinni.

Öðru máli mun gegna, þegar úkraínski flugherinn tekur að beita hinum öflugu og fjölhæfu bandarísku orrustuþotum, F16.  Úkraínumenn munu þá öðlast yfirráð í úkraínskri lofthelgi, og þannig munu þeir geta beitt bryndeildum sínum af fullum þunga, en þeim hefur ekki verið beitt í neinum mæli enn þá.  Þá verður rússnesku glæpahyski og drykkjurútum sópað út úr Úkraínu, og landamærin frá 1991 endurheimt.  Hvað þá verður um stórrússneska prumpið er óvíst, en það mun þó líklega ekki bera sitt barr eftir þetta. Óþarft er að gera því skóna, að bylting hugarfarsins muni eiga sér stað og að Rússar muni taka upp lýðræðislega stjórnarhætti.  Það gætu hins vegar Hvít-Rússar gert hjá sér.  

KGB-karlfauskurinn frá Leningrad, nú Sankti-Pétursborg, hefur hótað að beita kjarnorkuvopnum, ef ósigur rússneska hersins blasir við.  Það er eintómur derringur fantsins.  Bandaríkjamenn hafa látið rússnesku valdaklíkuna vita, að þá muni NATO-flugflotinn taka völdin í rússneskri lofthelgi og leggja í rúst, það sem honum sýnist.  Kínverjar munu og hafa varað fantinn í Kreml við slíku athæfi, og hann sjálfur er of huglaus til að þora að storka eigin örlögum með þeim hætti. 

Nú hefur þessi sami siðblindingi neitað að framlengja leyfi Úkaínumanna til að skipa matvörum út í hafnarborgum sínum og að tryggja flutningaskipum frið á leiðinni yfir Svartahafið.  Hann veit, að afleiðingin verður hungursneyð í Afríku, en hann skeytir engu um mannslíf og hefur aldrei gert.  Það, sem fyrir honum vakir, er að skapa flóttamannaöldu til Evrópu, eins og hann gerði um árið frá Sýrlandi með því að sprengja upp borgir þar.  Illmennið svífst einskis. 

Joschka Fischer, fyrrverandi leiðtogi þýzkra græningja og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, viðrar mikils verð þýzk sjónarmið til grimmdarlegs hernaðar Rússlands í Evrópu, sem hófst með árás á austurhéruð Úkraínu og Krím 2014 og alls herjar innrás 24.02.2022 með stefnu Rússahers á Kænugarð.  Greinin bar vafasama fyrirsögn m.v. efnistökin:

"Aukin hætta er af veikingu Rússlands".

Þessu máli er allt öðru vísi varið.  Það mun stafa áframhaldandi stórhætta af útþenslustefnu Rússlands, ef nú verður tekið á þeim með silkihönzkum.  Til að tryggja frið og velsæld í Evrópu eftir föngum á næstu áratugum verða Vesturveldin að hrista af sér slenið, hætta að hlusta á bullið úr Kreml og láta Úkraínumönnum hið allra fyrsta í té vopnin og þjálfunina, sem þeir fara fram á, til að gera þeim kleift að hrekja illfyglin heim til sín og endurreisa þar með landamærin frá 1991. Síðan þarf strax í kjölfarið að verða við ósk Úkraínustjórnar um aðild að NATO. 

Rússland hefur opinberað ógeðslegt eðli sitt, og þegar hættunni af kínverska drekanum er bætt við, verður ljóst, að lýðræðisríkin verða að vígbúast.  Það gera þau bezt með auknum fjárveitingum til landvarna og fjárfestingum í hátæknibúnaði í því skyni.

"Hauslaust stríð Rússa í Úkraínu hefur geisað í nærri 1,5 ár, og glæpsamlegt framferði innrásarinnar hefur ekki breytzt. 

Stórt kjarnorkuveldi [gjörspillt með allt í niðurníðslu-innsk. BJo] vill neita nágranna sínum - "bræðraþjóð" um áður viðurkenndan tilverurétt.  Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur valið að heyja landvinningastríð.  Ef hann nær markmiðum sínum, verður Úkraína innlimuð í Rússland og hverfur af kortínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.  

En með hverri vikunni, sem líður, bendir sífellt [fleira] til, að áætlanirnar hafi snúizt í höndunum á honum.  Langt frá því að skila skjótum sigri er "sérsök hernaðaraðgerð" Pútíns orðin að blóðugu klúðri og þrautagöngu, sem Rússar gætu allt eins tapað. Þótt "aðgerðin" hafi vissulega kostað stórar fórnir í Úkraínu, hefur hún einnig valdið almenningi í Rússlandi miklu tjóni."

Menn verða að gera sér grein fyrir því, að við miskunnarlausa fasistastjórn í Kreml er að eiga og að þessi lýsing þýzka útanríkisráðherrans fyrrverandi á sér hliðstæðu í Þriðja ríki Adolfs Hitlers.  Leifturstríð Þriðja ríkisins voru þó árangursrík í byrjun, en í höndum afturúrkreistinga frumstæðs Rússlands alger bögglingur.  Afleiðingin af landvinningastefnu nazistastjórnarinnar í Berlín, sem háð var undir formerkjum þarfar yfirburðakynstofns fyrir "Lebensraum", reyndist alger tortíming þessarar hugmyndafræði, og eftir lá Þýzkaland í rúst.

Rússland þykist nú heyja stríð til að uppræta nazisma í Úkraínu.  Þetta bull á sér sögulegar skýringar, sem Pútín hefur kosið að draga fram til að kynda undir þjóðernistilfinningum Rússa, sem misnotaðar hafa verið til að koma því inn hjá þeim, að þeir eigi að ráða yfir öllum slavneskum þjóðum og Eystrasaltsþjóðunum að auki hið minnsta.  Þessar sögulegu rætur eru frá 1941, frá upphafi "Operation Barbarossa" í júní það ár.  Þá sáu frelsishetjur Úkraínu sér leik á borði að koma ár sinni fyrir borð hjá Wehrmacht og þýzkum stjórnvöld með því að bjóða fram aðstoð sína í hernaðinum gegn Ráðstjórnarríkjunum gegn því, að Úkraína fengi sjálfstæði eða losnaði a.m.k. úr krumlum Moskvustjórnarinnar. 

Þetta hentaði þó ekki kynþáttakenningasmiðum Þriðja ríkisins, sem voru algerlega úti að aka, og í hópi herforingja í Wehrmacht voru menn, sem eygðu gagnið, sem Wehrmacht gæti af þessu haft, enda Úkraínumenn alltaf verið orðlagðir hermenn.  Pólitískir skussar fengu því svo framgengt, að Abwehr, leyniþjónusta Wehrmacht, handsamaði forystumenn uppreisnar Úkraínumanna. 

Sjálfstæðisvitundin hefur alla tíð verið fyrir hendi á meðal Úkraínumanna frá því, að þeir illu heilli rötuðu undir illskeyttan hramm zarsins í Moskvu. Ef andskotinn sjálfur hefði ráðizt á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941, hefðu Úkraínumenn leitað bandalags við hann gegn ógnarstjórninni í Kremlarkastala.

"Á örlagatímum uppreisnar Prígosíns reyndist Rússland Pútíns vera það, sem gagnrýnendur hans höfðu lengi haldið fram: mafíuríki, sem skortir öfluga innviði - en er því miður með eitt stærsta kjarnorkuvopnabúr heims.  

Þetta var stund sannleikans, og vísun Pútíns til ársins 1917 og falls keisarans var reyndar mjög viðeigandi.  Þessi atburður minnir sannarlega á atburðina það ár, sem leiddu ekki til einnar, heldur tveggja byltinga - fyrst í febrúar og síðan í október."

Saga Rússlands er hörmuleg.  Þeir báru aldrei gæfu til að þróa stjórnarfar í átt til lýðræðis, eins og annars staðar í Evrópu, þar sem valddreifing átti sér stað frá konungi/keisara til aðalsmanna, sem smám saman lögðu meiri völd í hendur héraðsþinga og/eða þjóðþings.  Í Rússlandi hafði zarinn alla tíð öll völd að hætti Mongólanna, sem réðu yfir Rússum í 300 ár, og aðallinn stóð að skattheimtu fyrir zarinn, en lýðurinn var einskis metinn og valdalaus.  Þess vegna voru byltingarnar 1917 ferð Rússa úr öskunni í eldinn, og enn stjórnar zarinn, nú með hjálp ólígarka (auðmanna), rotnu þjóðfélagi, þar sem lýðurinn má síns einskis, enda eru þjóðfélagsvandamálin svakaleg. Rússar eiga mjög erfitt með að fóta sig í nútímanum og eru engan veginn í stakk búnir til að ráða yfir nokkurri annarri þjóð, enda hafa þeir ekkert fram að færa annað en mannhatur og spillt hugarfar. 

"Því nær sem [dregur að endalokunum], [þeim mun] meiri verður hættan á, að Kreml grípi til órökrænna aðgerða, eins og að fyrirskipa notkun kjarnorkuvopna.  Uppreisn Prígósíns gefur okkur sýnishorn af ringulreiðinni, sem bíður.

Næstum allt er hugsanlegt núna, frá upplausn Rússneska sambandsríkisins til uppgangs annarrar öfgaþjóðernisstjórnar með drauma nýkeisarasinna um endurreisn keisaraveldisins." 

Í heimsstyrjöldinni síðari greip nazistastjórnin í Berlín aldrei til gashernaðar, og hún lagði meiri áherzlu á þróun flauga Werner´s von Braun á Penemünde en á að framleiða kjarnorkusprengju.  Það er margt sameiginlegt með fyrrverandi einræðisherra í Berlín og núverandi einræðisherra í Moskvu.  Báðir bjuggu/búa við algera yfirburði andstæðingsins í lofti með undantekningu fyrstu ára Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Ógnin, sem þeim stafaði/stafar af miskunnarlausri hefnd úr lofti er svo mikil, að hvorugur þorði/þorir að grípa til gjöreyðingarvopna.  Rússar eru þó uppvísir af að beita fosfórsprengjum á óbreytta borgara Úkraínu, svo að ekki sé nú minnzt á klasasprengjurnar, sem þeir hafa beitt á óbreytta borgara, og nú fá rússneskir hermenn að finna til tevatnsins með þeirri sprengjutegund líka, þótt margfalt hærra hlutfall bandarískra klasasprengja (97 %) springi við lendingu en þeirra rússnesku (40 % - 50 %).  

Það er rétt hjá J. Fischer, að þróun mála innan Rússneska sambandsríkisins er ófyrirsjáanleg núna.  Það á ekki að draga úr einbeitingu Vesturveldanna við það verkefni að efla úkraínska herinn svo mjög, að hann nái að ganga á milli bols og höfuðs á rússneska hernum með lágmarks mannfalli í eigin röðum og reka steppuskrílinn austur fyrir lögmæt landamæri Úkraínu frá 1991. Það yrði mesta friðaraðgerð, sem nú er hugsanleg fyrir Evrópu.  Síðan getur rotin yfirstétt Rússlands borizt á banaspjótum.  

Stuðningsfólk Kremlverja á Vesturlöndum hafa þar verið nefndir "useful idiots" sem á íslenzku mætti kalla gagnlega grautarhausa - ga-ga.  Þeir finnast einnig á Íslandi.  Málflutningur þeirra er vellingur úr áróðursvél Kremlar, og undirtónninn er Bandaríkjahatur og fyrirlitning á vestrænu stjórnskipulagi og lifnaðarháttum.  Ga-ga halda því fram, að landvinningahernaður Rússa gegn Úkraínu sé NATO að kenna.  Það er álíka gáfulegur málflutningur og brennuvargsins, sem reynir að koma sökinni á eldvarnir og slökkvilið. 

Yfirleitt er ekki heil brú í málflutningi ga-ga fremur en í söguskýringum siðblindingjans í Kreml.  Vilji úkraínsku þjóðarinnar er alltaf sniðgenginn í málflutningi ga-ga.  Yfirgnæfandi meirihluti hennar, óháð móðurmáli, vill leggja allt í sölurnar til að losna úr klóm rússneska bjarnarins, sem alla tíð hefur reynt að eyða menningu Úkraínu og kúga íbúana á hinn svívirðilegasta hátt.  Mál er, að linni og að Úkraínumenn fái frið og öryggi til að lifa sem frjálsir menn og konur í eigin landi, yrkja hina frjósömu jörð sína og nýta aðrar auðlindir í lögsögu sinni og eigið hugvit til að endurskapa þjóðfélag sitt að eigin höfði með vestræn gildi í öndvegi.  Til þess þurfa þeir vernd NATO og til að njóta hennar verður land þeirra að vera þar fullgildur aðili. Það verður verðugt viðfangsefni NATO að að vernda þá og að halda austrænum steppudýrum í skefjum. 

Vesturveldin eiga alls ekki að ljá eyra við gjamminu úr Kreml, ekki frekar en ætti að leyfa sjúklegum brennuvargi að leggja orð í belg um eldvarnir, hvað þá að skipuleggja þær. Rússar eru alls staðar til bölvunar, og þeir geta einskis trausts notið. 

 

   

 


Stríð Rússa í Úkraínu er útrýmingarstríð

Hinn siðblindi og misheppnaði forseti Rússlands hefur gert hver mistökin öðrum verri, frá því að hann ákvað að siga rússneska hernum á úkraínsku þjóðina og ráðast með tæplega 200 k mannafla inn í nágrannaríkið Úkraínu til að afhöfða löglega kjörna ríkisstjórn Úkraínu, binda enda á lýðræðisþróunina í Úkraínu og innlima allt landið í rússneska ríkjasambandið.

Hann hélt, að hann kæmist upp með þetta í krafti lygaáróðurs um mátt rússneska hersins og sundrungar Vesturlanda eftir niðurlægingu Trump-tímans.  Hann hélt, að rússneskum skriðdrekum yrði fagnað með blómum úr hendi almennings, a.m.k. rússneskumælandi hluta hans, en það fór á annan veg. Þeim mættu skriðdrekabanar úkraínskra hermanna, jafnt rússneskumælandi sem hinna, og megninu af nýlegri skriðdrekum innrásarhersins virðist hafa verið grandað.  Kvað svo rammt að eymd hersins á Rauða torginu 9. maí 2023, að þar var aðeins einn skriðdreki til sýnis, og var hann úr síðari heimsstyrjöld, sem Rússar kalla Föðurlandsstríðið mikla. Rússneski herinn er rotinn frá toppi til táar, Pótemkínher, sem getur fátt annað en að níðast á varnarlausum íbúum Úkraínu.  Þetta hefur auðvitað fært úkraínsku þjóðinni heim sanninn um eðli rússneskra yfirráða og gert hana að staðföstum bandamanni Vesturlanda.  "Rússneski heimurinn" (russki mir) er baneitraður.

Rauði herinn, eins og rússneski herinn nú, stundaði á sinni tíð sömu aðferð og nú, sem kölluð er "kjöthakkavélin", að senda hverja bylgju fótgönguliða fram fyrir vélbyssukjaftana, enda var mannfallið 5:1 í "Föðurlandsstríðinu mikla". Þá var munurinn hins vegar sá, að Rauði herinn fékk gríðarlegar hergagnasendingar frá Bandaríkjamönnum, líklega að verðmæti mrdUSD 130 að núvirði, sem reið baggamuninn, en nú hefur lélegur og spilltur hergagnaiðnaður ekki undan að fylla upp í skörðin, og lýðfræðileg þróun Rússlands er ömurleg með 1,2 börn á hverja konu og lækkandi meðalaldur, einkum karla, sem eru 10 M færri en kvenfólkið. 

  Þegar rússneski herinn mætti mótlæti í Úkraínu strax veturinn 2022 og mistókst ætlunarverk sitt, hóf hann að ganga í skrokk á almennum borgurum með sérstaklega svívirðilegum hætti og gerði íbúðarhús, sjúkrahús og skóla að skotmörkum sínum, pyntaði og skaut almenna borgara af stuttu færi, eins og vegsummerki í Bucha og víðar bera vitni.  Veturinn 2022-2023 var reynt að frysta íbúana í hel með því að skjóta eldflaugum á orkumannvirki Úkraínumanna, en eftir uppsetningu loftvarnarkerfa í Úkraínu misheppnaðist þessi aðför, eins og kunnugt er.  Jafnvel ofurhljóðfráar eldflaugar Rússa af s.k. Kinzhal gerð, sem Rússar héldu, að engar varnir væru til við, hefur 40 ára gömul vestræn tækni fullkomlega ráðið við (Patriot).  

Aðfararnótt 6. júní 2023 í aðdraganda stórsóknar úkraínska hersins keyrði um þverbak í þessu djöfullega útrýmingarstríði Rússa, sem aldrei verður fyrirgefið. Þá tendruðu rússneskir hermenn kveikiþræði sprengja, sem þeir höfðu fyrir löngu komið fyrir inni í stíflu Nova Kakhovka vatnsorkuversins með voveiflegum afleiðingum fyrir a.m.k. 40 k manns, sem fyrir neðan bjuggu og hverra húsnæði varð umflotið vatni bæði austan og vestan stórfljótsins Dnieper.  Þann 10.06.2023 var upplýst, að vatnsborð miðlunarlónsins væri komið undir inntakshæð kælivatnslagnar að stærsta kjarnorkuveri Evrópu, sem staðsett er í Zaphorisja-héraðinu.  Á lóð þessa kjarnorkuvers hefur rússneski herinn komið sér upp herstöð, sem er með algerum ólíkindum.  Hér vofir yfir kjarnorkuslys, sem ylli þá enn meiri geislun en varð í Úkraínu 1986 í Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu, og það eru ekki minni líkindi á, að geislavirk ský frá þessu kjarnorkuveri reki til austurs en vesturs. 

Öll þessi hegðun rússneskra yfirvalda er svo forkastanleg og fordæmanleg, að orð fá ekki lýst.  Þetta eru glæpaverk af verstu gerð, sem hafa valdið mengun á gróðursælasta jarðvegi Evrópu, sem nú getur breytzt í eyðimörk og mun þá valda hungurdauða víða um heim.  

Strax 7. júní 2023 gerði Stefán Gunnar Sveinsson grein fyrir þessum illvirkjum í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fordæma Rússa fyrir eyðilegginguna".

Fréttin hófst þannig:

"Flytja þurfti rúmlega 40 k manns frá heimilum sínum beggja vegna Dnípró-fljótsins í Kerson-héraði í gær, eftir að Nova Kakhovka-stíflan brast í fyrrinótt.  Vatn úr uppistöðulóni stíflunnar flæddi í Dnípró-fljótið og olli umtalsverðum flóðum í héraðinu.  

Volodomir Selenskí, Úkraínuforseti, fordæmdi Rússa fyrir að hafa orðið valdir að eyðileggingu stíflunnar og sagði hana vera dæmi um hryðjuverk og stríðsglæpi Rússa, sem hefðu nú heilt lífríki á samvizkunni.  "Heimurinn verður að bregðast við.  Rússland er í stríði gegn lífi, gegn náttúrunni, gegn siðmenningunni."

Allt er þetta rétt hjá forsetanum.  Í kjölfarið hefur Ísland brugðizt við með lokun sendiráðs síns í Moskvu og rússneski sendiherrann verið gerður landrækur.  Rússneska utanríkisráðuneytið hefur brugðizt við með ódulbúnum hótunum um refsiaðgerðir að sínum hætti, og netárásir hafa dunið á Alþingi og stjórnarráðinu.  Rússneskir hermenn sáust á félagsmiðlum gorta af því að hafa sprengt stífluna í loft upp. 

Við fól eins og Rússa er útilokað að eiga í nokkrum vinsamlegum samskiptum.  Þetta er útlagaríki og verður það um fyrirsjáanlega framtíð.  Formlega eiga þeir bara í stríði við eina þjóð, en það er hollast fyrir Vesturlönd að gera sér grein fyrir því, að Úkraínumenn fórna nú blóði sínu fyrir Vesturlönd, lýðræðið og siðmenninguna. Í Rússlandi ríkir enn miðaldamyrkur einræðis, ofstækisfullrar ríkiskirkju, fátæktar fjöldans og landlægrar spillingar.   

"Þá sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins [norskur krati], að eyðilegging stíflunnar myndi tefla þúsundum mannslífa í hættu og valda umtalsverðum umhverfisskaða.

"Þetta er svívirðilegur verknaður, sem sýnir enn og aftur grimmdina, sem fylgir stríði Rússlands í Úkraínu", sagði Stoltenberg á Twitter."

Fólskuverk Rússanna eru gegndarlaus.  Þau sýna Vesturlöndum, hvað til þeirra friðar heyrir, ef rússnesk ómennska verður ekki brotin á bak aftur núna.  Rússland er ríki hins illa, einræðisríki, rotið ofan í rót, sem metur mannslíf einskis og treður siðmenninguna niður í svaðið.  Í Kreml ríkir andi Mongólanna, sem ríktu yfir Rússlandi í 300 ár og eirðu engu. Rússland lenti á allt annarri og óheillavænlegri þróunarbraut en Evrópuríkin,sem þróuðust úr miðaldamyrkri til upplýsingar og lýðræðis.  Af einræði zarsins tók við einræði kommúnistaflokksins, og nú hefur fasískt einræði fyrrum leyniþjónustuforingja kommúnistaflokksins tekið við.  Núverandi styrjöld í Úkraínu er styrjöld á milli siðmenningar og lýðræðis annars vegar og villimennsku og einræðis hins vegar.  Þess vegna var framtak utanríkisráðherra Íslands að binda enda á diplómatísk tengsl Íslands og Rússlands  mikið fagnaðarefni. 

"Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sakaði á móti Úkraínumenn um að hafa viljandi framið skemmdarverk á stíflunni.  Sökuðu Rússar jafnframt Úkraínumenn um að hafa skotið á stífluna án þess að færa fyrir því nokkrar sönnur."

 Téður Peskov er lygalaupur andskotans.  Úkraínumenn gátu ekki hafa framkvæmt slíkt á kjarnorkusprengjuheldu mannvirki, sem rússneski herinn hefur ráðið yfir frá því í byrjun stríðsins.  Sprengja varð innan frá.  Hinn siðferðilega rotni rússneski her hefur svo bitið hausinn af skömminni með því að skjóta á úkraínskt björgunarfólk á yfirráðasvæði Kænugarðsstjórnarinnar, sem var að störfum á flóðasvæðinu.  Rússarnir létu sér heldur ekki annt um fólk í neyð á sínu hernumda flóðasvæði.  Er til staður í helvíti fyrir slíka óþverra ?  

"Dmitró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði á móti ljóst, að Rússland hefði eyðilagt stífluna og þar með valdið mesta "tæknislysi Evrópu í marga áratugi og sett óbreytta borgara í hættu.  Þetta er hryllilegur stríðsglæpur.  Eina leiðin til að stöðva Rússland, mesta hryðjuverkaríki 21. aldarinnar, er að sparka því út úr Úkraínu", sagði Kúleba."

Hárrétt hjá téðum Kúleba, en það er ekki nóg, því að að fáeinum árum liðnum munu sjúklegir heimsvaldasinnar í Kreml gera aðra atlögu að sjálfstæði Úkraínu, nema Vesturlönd tryggi öryggi þessa nýja bandamanns síns.  Það verður aðeins gert með óyggjandi hætti með því að samþykkja umsóknarbeiðni landsins um aðild að NATO.  Jafnframt verður ekki annað séð en Vesturlönd verði að efla heri sína og herbúnað til undirbúnings sameiginlegri árás einræðisríkjanna Kína og Rússlands og einhverra fylgihnatta á borð við klerkaveldið í Íran á Evrópu og Tævan. Þá mun muna um Japani í vörninni.  Þetta er það gjald, sem hinn frjálsi heimur þarf að borga fyrir frelsi sitt.   


Verkalýðshreyfingin

Hérlendis er stjórnarskrárvarið félagafrelsi sniðgengið með ýmsum kúnstum, sem jafngilda í raun skylduaðild að verkalýðsfélögum.  Fyrir vikið eru verkalýðsfélög orðin fjármagnseigendur, sem sitja á digrum sjóðum.  Þessu er allt öðruvísi varið víðast hvar á Vesturlöndum, þ.á.m. á hinum Norðurlöndunum, þar sem félagafrelsið er virt. Þróun verkalýðshreyfingarinnar virðist hafa orðið með heilbrigðari hætti á hinum Norðurlöndunum en hér, svo að hún hefur tileinkað sér önnur og nútímalegri vinnubrögð í samskiptunum við atvinnurekendur, t.d. í samningum um kaup og kjör.  Hér er verkalýðshreyfingin einfaldlega föst í fornu fari upphrópana og átaka í stað vitrænnar, heildrænnar nálgunar hagsmuna launafólks, t.d. við gerð kjarasamninga.   

Verkalýðshreyfingar Vesturlanda komu margar hverjar til skjalanna um svipað leyti og rússneska byltingin átti sér stað 1917. Kommúnisminn þar var ætlaður til að verja hagsmuni smælingjanna og lyfta lífskjörum verkafólks upp á kostnað yfirstéttarinnar.  Í Rússlandi hafði zarinn verið einvaldur frá 16. öld, og valddreifing frá honum til aðalsins átti sér aldrei stað, en á Vesturlöndum leiddi sú valddreifing smám saman til þingræðis í þeirri mynd, sem við þekkjum nú. Eftir byltinguna, þar sem zarinn var drepinn og pótintátar kommúnistaflokksins urðu hin nýja yfirstétt í Ráðstjórnarríkjunum, hlaut þess vegna að koma fram nýr zar, og sá hét Jósef Stalín. Sá rak skefjalausa heimsvaldastefnu undir merkjum kommúnismans og "frelsun verkalýðsins" í öðrum löndum.  Hann beitti moldvörpum hliðhollum kommúnismanum til að grafa undan ríkisstjórnum, t.d. í Evrópu, og þegar þar var komið á öngþveiti, sendi hann Rauða herinn inn til að hernema viðkomandi land, t.d. Úkraínu, og þannig var ætlunin að fara með hin Austur-Evrópulöndin og Þýzkaland, sem var í sárum eftir Heimsstyrjöldina fyrri og afar íþyngjandi byrðar "friðarsamninganna" í Versölum 1919. 

Þetta tókst hinum grimma zar við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar landamæri í Austur-Evrópu voru færð til vesturs og Þýzkalandi var skipt upp í hernámssvæði.  M.v. framgöngu Rauða hersins í Vetrarstríðinu 1939-1940 og gegn Wehrmacht 1941-1945 má telja líklegt, að án gríðarlegra tækja-, hergagna og vistflutninga frá Bandaríkjunum til Ráðstjórnarríkjanna (Murmansk) í stríðinu hefði framvindan á austurvígstöðvunum orðið með öðrum hætti en raunin varð, svo að ekki sé minnzt á loftárásir Bandamanna á Þýzkaland, sem drógu úr framleiðslugetu Þriðja ríkisins, sem var þó ótrúlega mikil neðanjarðar.  

Lengi vel litu forkólfar íslenzku verkalýðshreyfingarinnar á Ráðstjórnarríkin sem hið  fyrirheitna land verkalýðshreyfingarinnar hérlendis, en fóru þar algerlega villur vegar og voru í raun leiksoppar heimsyfirráðastefnu, sem bar alls enga umhyggju fyrir verkalýðnum, en sá þar nytsama sakleysingja til að nota við valdarán. Þetta var upphaf íslenzkrar verkalýðsbaráttu, og enn er hún illa haldin af fjarstæðukenndri hugmyndafræði um stéttastríð verkalýðs gegn auðvaldi í stað þess að líta raunhæft á viðfangsefnið, sem er að finna sameiginlegan grundvöll með fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisvaldi til að tryggja launþegum atvinnuöryggi og sjálfbæra (samkeppnishæfa) hlutdeild í verðmætasköpuninni. 

Þann 1. maí 2023 birtist athygliverð forystugrein í Morgunblaðinu um verkalýðs- og atvinnumál undir fyrirsögninni:

"Raunsæið ræður, ekki ræðuhöldin".

Þar stóð m.a.:

"Svo [að] horft sé á stöðuna úr hinni áttinni, frá atvinnulífinu, sést, að hlutfall launa og launatengdra gjalda af verðmætasköpun er hvergi á [hinum] Norðurlöndunum jafnhátt og hér á landi.  Þetta felur í sér, að launþegar fá meira í sinn hlut hér en þar, og er þá ekki verið að miða við fátæk ríki, heldur mestu velmegunarríki veraldar.  Þetta hefur verið atvinnulífinu hér á landi afar þungt, enda þarf ákveðið jafnvægi að vera í þessum efnum, til að hægt sé að viðhalda framleiðslutækjum og almennt kröftugu atvinnulífi, en launþegahreyfingin gæti í það minnsta talið þetta góðan árangur baráttu sinnar." 

Sú stærð (verðmætasköpun) og skipting hennar á milli launþega (verkalýðs)  og atvinnurekenda (auðvalds) eru lykilatriði þessarar umræðu. Það eru atvinnurekendur og fjármagnseigendur), sem hafa með fjárfestingum sínum í nýrri tækni frá lokum 19. aldar (vélbátaútgerð) og fram á þennan dag gert launþegunum kleift að auka framleiðni launamanna.  Erfiði vöðvaaflsins hefur minnkað og vélaraflið tekið við; fyrst knúið af jarðefnaeldsneyti (1. orkubylting) og síðan af rafmagni (2. orkubylting), sem framleitt var og er í sjálfbærum virkjunum landsmanna. Með 3. orkubyltingunni var húshitunarkostnaður landsmanna, launþega, atvinnurekenda og fjármagnseigenda, lækkaður verulega með nýtingu jarðhita.  Með 4. orkubyltingunni verður svo jarðefnaeldsneyti leyst af hólmi í samgöngutækjum og vinnuvélum, og þar með sparaður mikill gjaldeyrir, sem mun styrkja gengið, öllum til hagsbóta. 

Á Íslandi fá launþegarnir um 2/3 af verðmætasköpuninni í sinn hlut og atvinnurekendur um 1/3. Þessi skipting er of ójöfn í tvennum skilningi.  Atvinnurekendur hafa úr hlutfallslega minnu að moða en samkeppnisaðilar erlendis, og þess vegna er getan til nýsköpunar og fjárfestinga í tæknivæðingu og sjálfvirknivæðingu minni hér en erlendis, sem leiðir til hærri framleiðslukostnaðar hér, sem á endanum leiðir til gjaldþrots, verðlagshækkana innanlands eða gengissigs, en launþegarnir míga í skóinn sinn og njóta skammvinns aukins kaupmáttar, þar til verðbólgan étur hann upp.

Þetta hafa stéttastríðsrekendur verkalýðshreyfingarinnar ekki viljað viðurkenna og heimta þar af leiðandi stöðuga hækkun þessa hlutfalls og hafa nú ratað í ógöngur. Færa verður verkalýðsbaráttuna hérlendis inn í nútímann með aflagningu stéttastríðshugarfars og ítarlegri umræðu um kjörhlutfall skiptingar verðmætasköpunar fyrirtækjanna á næstu árum, þ.e. hlutfall, sem tryggir sjálfbærar lífskjarabætur til lengdar. 

"Loks geta forystumenn launþegahreyfingarinnar í dag fagnað því, að varla finnst meiri launa- eða lífskjarajöfnuður en hér á landi, þó að stundum mætti ætla af pólitískri umræðu, að því sé öfugt farið.  Mælingar á jöfnuði hafa ítrekað staðfest, að fullyrðingar um mikinn ójöfnuð eiga ekki við nein rök að styðjast." 

Þetta er hverju orði sannara og eru meðmæli með þessu þjóðfélagi, þótt verið geti, að of langt hafi verið gengið í þessum efnum, því að launamunur er hvati til að gera betur og leita sér eftirsóttrar sérhæfingar. Það er t.d. váboði, að hagvöxtur er hvergi minni á hvern íbúa innan OECD en á Íslandi.  Það er of lítill kraftur í hagkerfinu vegna of lítilla fjárfestinga, afar lítilla beinna erlendra fjárfestinga og íslenzk fyrirtæki hafa ekki bolmagn í núverandi hávaxtaþjóðfélagi og með skiptingunni 2/3:1/3 á verðmætasköpuninni, sem er líklega heimsmet. Þetta er ósjálfbær skipting auðsins.  Fyrirtækin bera of lítið úr býtum fyrir sitt framlag, sem er fjármagn, þekking (starfsfólk leggur líka til þekkingu), öflun aðfanga og markaðssetning vöru eða þjónustu. 

Stéttastríðspostularnir sífra af gömlum vana þvert gegn staðreyndum um misskiptingu auðs í samfélaginu og benda þá gjarna á há laun stjórnenda og eigenda. Þessir postular skilja ekki gangverk hagkerfisins og vita lítið um, hvernig launamuni er varið erlendis, enda forpokaðir heimaalningar í flestum tilvikum.  Reyndar er síður en svo einhugur í hinni þröngsýnu verkalýðshreyfingu um launajöfnuð á milli starfsgreina.  Þar skoðar hver og einn eigin nafla.  Hvers vegna tíðkast hið alræmda "höfrungahlaup" ?  Það er vegna þess, að þeim, sem stunda sérhæfð störf, sem spurn er eftir á markaðinum, finnst launabilið ekki lengur endurspegla verðmætamun starfanna. Það er auðvitað ófært, að þjóðfélagið (vinnumarkaðurinn) refsi þeim, sem leita sér menntunar, með lægri ævitekjum en hinum. Það flækir þó málið, að menntun er mjög misverðmæt að mati markaðarins (eftirspurnarinnar).  Það er fagnaðarefni, að nú er uppi viðleitni í þá átt að efla iðnmenntun og beina tiltölulega fleiri nemendum í þá átt, enda mikill hörgull í flestum iðngreinum. 

Í pólitíkinni þrífst ákveðið sérlundað og sjálfsupphafið fyrirbrigði, sem kallar sig Samfylkingu.  Það hefur borið meginábyrgð á stjórnun Reykjavíkurborgar undanfarinn áratug og að nokkru frá 1994 eða í um 3 áratugi, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri. Auðvitað er nú allt komið í hönk í Reykjavík vegna óstjórnar, enda er þessi pólitíska sneypa algerlega ábyrgðarlaus í stefnumörkun og framkvæmd. Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var drepið á þetta:

 "Á það hefur verið bent árum saman, að Reykjavíkurborg reki ranga og stórskaðlega stefnu í húsnæðismálum, þar sem öll áherzla er lögð á þéttingu byggðar og þar með á dýra kosti, sem um leið taka langan tíma.  Þetta hefur leitt af sér íbúðaskort, sem svo magnast upp við þessa miklu fjölgun íbúa, sem landsmenn horfa nú upp á. Þá verður ekki fram hjá því litið, að með nánast óheftri komu hælisleitenda hingað til lands og gríðarlegum fjölda þeirra misserum saman, verður ástandið á fasteignamarkaði enn erfiðara.

Nú er svo komið, að það er meiri háttar vandamál, sem verður tæpast leyst með því einu að auka framboð húsnæðis.  Óhjákvæmilegt er, að stjórnvöld nái tökum á ástandinu á landamærunum og fari að stjórna því, hverjir setjast hér að.  Takist það ekki, verður ástandið á húsnæðismarkaði langtímavandamál, sem mun ýta undir verðbólgu og rýra lífskjör launafólks."

Það er auðvitað dæmigert, að Samfylkingin virðist vilja hafa landamærin opin upp á gátt fyrir hælisleitendur, einnig efnahagslegt flóttafólk undan eymd jafnaðarstefnunnar, þar sem hún er rekin ómenguð, og heitir þá víst sósíalismi, t.d. í Venezúela um þessar mundir.  Þingmenn Samfylkingar (og hjáleigunnar (pírata) tryllast af bræði, ef Útlendingastofnun vinnur vinnuna sína og vísar slíku fólki úr landi.  Samt er ekki nóg með, að húsnæði vanti fyrir allan þennan fjölda, heldur eru skóla- og heilbrigðiskerfið oflestuð og ráða ekki lengur við að veita almennilega þjónustu.  Það er alveg sama, hvar klóför Samfylkingarinnar sjást; þar skal ríkja öngþveiti.     

 

     

    


Kjarnorkuógnin

Aðfararnótt 16. maí 2023 skutu Rússar 6 ofurhljóðfráum eldflaugum af gerðinni Kh-47M2 Dagger á Kænugarð á 2 mín skeiði frá flugvélum og skipum úr 3 höfuðáttum.  Aðalskotmarkið mun hafa verið Patriot-loftvarnarkerfið, sem nýlega var sett upp í eða við Kænugarð. Því er skemmst frá að segja, að úkraínska flughernum tókst að skjóta allar þessar ofurhljóðfráu eldflaugar niður áður en þær náðu ætlaðri endastöð.  Þar mun 40 ára gömul tækni Patriot-loftvarnarkerfisins hafa komið að betri notum gegn "næstu kynslóðar" árásarvopni stríðspostulans Putins í Kreml en flestir áttu von á.  Þetta er betri árangur varnarvopnanna en menn þorðu að vona, enda lét einræðisherrann handtaka 3 vísindamenn, sem tóku þátt í hönnun Dagger-flaugarinnar, og ákæra þá fyrir landráð.  Rússneska vísindasamfélagið var ekki beysið fyrir, og vonandi tekst hryðjuverkamanninum í bunkernum að eyðileggja síðasta hvatann til afreka, sem þar kann að hafa leynzt.  

Nú lætur hann flytja bæði vígvallarkjarnorkuvopn (tactical nuclear warheads) og gjöreyðingarkjarnorkuvopn (strategic nuclear warheads) til Hvíta-Rússlands. Það er furðuleg ráðstöfun, en sýnir kannski, að hann óttast, hvað gerast mun, ef/þegar þeim verður skotið á loft.  Það er þá huggun harmi gegn vestanmegin, að bráðlega verður vissa fyrir því, að allt, sem stríðsglæpamennirnir senda á loft geta Vesturveldin (Úkraína er nú og verður í þeim hópi) skotið umsvifalaust niður. MAD (Mutually Assured Destruction), sem hefur verið skálkaskjól rússnesku herstjórnarinnar, er þess vegna ekki lengur fyrir hendi.  Yfirburðir Vesturveldanna í lofti ættu nú að vera öllum augljósir, jafnvel stríðsóðum litlum rússneskum karli í bunkernum sínum. 

Framferði rússneska hersins við stærsta kjarnorkuver Evrópu í Zaphorizia í Suður-Úkraínu ætti að hafa fært ollum heim sanninn um, að í Kremlarkastala eru nú við völd hryðjuverkamenn, sem einskis svífast og meta mannslíf einskis annarra en sjálfra sín.  Þeir hafa gerzt sekir um það fáheyrða tiltæki að breyta lóð kjarnorkuversins í víghreiður skriðdreka og stórskotaliðs, og þeir hafa skotið á og sprengt upp flutningslínur að orkuverinu.  Með þessu leika þeir sér að eldinum, því að án tengingar við stefnkerfið getur verið ekki framleitt raforku, og þá verður kæling kjarnakljúfanna algerlega háð dísilrafstöðvum.  Þetta eykur til muna hættuna á ofhitnun kjarnkljúfanna, sem þá bráðna og hættuleg geislun eða jafnvel geislavirkt rykský sleppur út í andrúmsloftið.  Svona haga aðeins samvizkulausir glæpamenn sér.  

Þann 15. maí 2023 birti Sveinn Gunnar Sveinsson ískyggilega frétt í Morgunblaðinu um mikil ítök Rússa á markaðinum fyrir úranið, sem koma má stýrðri klofnun atóma af stað í og hentar fyrir kjarnorkuver.  Þarna opinberast enn sú barnalega trú, sem Vesturveldin höfðu, að Rússum væri treystandi til að eiga við þá viðskipti að siðaðra manna hætti, en nú vita allir, sem vita vilja, að virðing þeirra fyrir gerðum samningum er svipuð og virðing þeirra fyrir mannslífum, þ.e.a.s. engin.  Orðum þeirra er ekki treystandi, þeir eru lygnari en Münchausen og sitja á svikráðum við Vesturlönd. 

Fréttin var undir fyrirsögninni:

"Uppbygging kjarnorkuvera háð Rússum",

og hófst hún þannig:

 "Uppbygging kjarnorkuvera hefur tekið nokkurn kipp á síðustu misserum, og hafa bæði Bandaríkin og svo ýmis ríki Evrópu opnað ný kjarnorkuver og/eða sett upp nýja kjarnaofna við þau ver, sem fyrir voru.  Einn helzti vandinn við áframhaldandi uppbyggingu kjarnorkuveranna er þó sá, að kjarnaeldsneytið í ofnana kemur einkum frá Rosatom, rússnesku kjarnorkumálastofnuninni."

Vesturlönd verða að taka þetta skæða vopn úr höndum Rússa, eins og þau losuðu sig við Rússa sem birgja fyrir jarðefnaeldsneyti á einu ári, og aðgerðir eru í gangi með kjarnorkueldsneytið. 

"En á sama tíma og Úkraínustríðið hefur fengið flest ríki Evrópu til þess að sniðganga jarðgas- og olíukaup frá Rússum, hefur kjarnorkan aftur komizt í "tízku" sem grænn orkugjafi.  Finnar gangsettu t.d. í síðasta mánuði stærsta kjarnaofn Evrópu, og á verið að sinna um 1/3 af orkuþörf Finnlands. 

Þá tilkynntu Pólverjar í nóvember [2022], að þeir ætluðu að reisa sitt fyrsta kjarnorkuver í samstarfi við bandaríska orkufyrirtækið Westinghouse Electric, og hyggst fyrirtækið smíða 3 kjarnaofna. Mun verkefnið kosta um mrdUSD 20 eða sem nemur um mrdISK 2775.

Stjórnvöld í Búlgaríu hafa sömuleiðis gert samkomulag við Westinghouse um kaup á kjarnaeldsneyti og um byggingu nýrra kjarnaofna.  Þá eru stjórnvöld í Slóvakíu og Ungverjalandi einnig að huga að uppbyggingu, svo [að] nokkur dæmi séu nefnd.

Vandinn er hins vegar sá, að framleiðslugeta Vesturlanda á kjarnaeldsneyti er ekki næg til að mæta þessari uppbyggingu, og áætlað er, að það geti tekið allt að áratug áður en hún verður það.  Þess í stað er treyst á eldsneyti frá rússnesku kjarnorkumálastofnuninni, Rosatom."

Bómullarpólitíkusar Evrópu og Bandaríkjanna töldu sér trú um það til hægðarauka án þess að gefa gaum að ýmsum hættumerkjum, sem m.a. birtust í hrokakenndum furðuræðum og ritgerðum Putins um mikilleika og sögulegt forystuhlutverk Rússlands í hinum slavneska heimi, að óhætt væri að afhenda Kremlverjum fjöregg Vesturlanda, orkugjafana. Þegar á fyrstu mánuðum hernámstilraunar Rússa á Úkraínu, sem hófst með allsherjar árás 24.02.2022, kom í ljós, að Kremlverjar ætluðu sér alltaf að ná kverkataki á Evrópu sem orkubirgir hennar. 

 

Á fyrstu mánuðum stríðsins, þegar vinglar í áhrifastöðum á Vesturlöndum sýndu dómgreindarleysi sitt með því að draga lappirnar við vopnaafhendingu til Úkraínumanna af ótta við viðbrögð pappírstígrisdýrsins í austri, tóku Búlgarar lofsvert frumkvæði og sendu mikið vopna- og skotfæramagn úr geymslum sínum frá Ráðstjórnartímanum ásamt dísilolíu til Póllands, þaðan sem Úkraínumönnum barst fljótlega þessi aðstoð, sem talin er hafa bjargað þeim á viðkvæmu skeiði stríðsins, en Búlgarar fengu vestræn vopn í staðinn.  Þegar Putin frétti af þessu, lét hann skrúfa fyrir jarðgasflutninga frá Rússlandi til Búlgaríu.  Þá sneru Búlgarar sér til Bandaríkjamanna, sem brugðust snöfurmannlega við og sendu strax 2 LNG skip fullhlaðin til Búlgaríu. Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfstraust og baráttuanda Vesturlanda.  Evrópa fékk svo að kenna á hinu sama um haustið 2022, en var þá tilbúin og bjargaði sér úr klóm Putins með viðskiptasamningum við Bandaríkjamenn og Persaflóaríki. Það er ekki glóra í að verða háður Rússum um nokkurn skapaðan hlut.

"Í fréttaskýringu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal (WSJ) er þessi sterka staða rússneska kjarnorkuiðnaðarins rakin til samkomulags, sem gert var árið 1993 og kallaðist "Úr megatonnum í megawött".  Tilgangur samkomulagsins var að draga úr líkunum á því, að sovézk kjarnorkuvopn mundu falla í rangar hendur, en það fól í sér, að Bandaríkin keyptu 500 t af auðguðu úrani af Rússum og breyttu því í kjarnorkueldsneyti.  

Þetta mikla magn af úrani var ígildi um 20 k kjarnaodda, og þótti samkomulagið því [vera] arðbært fyrir bæði Bandaríkjamenn og Rússa, þar sem Rússar fengu fjármagn og Bandaríkjamenn drógu mjög úr fjölda kjarnaodda, sem annars hefðu getað farið á flakk. 

Vandinn samkvæmt greiningu WSJ var sá, að hið mikla magn kjarnaeldsneytis, sem nú var komið tiltölulega ódýrt á markaðinn, hafði áhrif á aðra framleiðendur, sem neyddust fljótlega til að rifa seglin.  Áður en langt um leið sáu Rússar um nærri helming þess auðgaða úrans, sem var til sölu. Árið 2013 gerði Rosatom svo samkomulag við bandaríska einkaaðila um að veita þeim eldsneyti til kjarnaofna, og sjá Rússar því um allt að fjórðung þess [kjarnorku] eldsneytis, sem Bandaríkin þurfa. 

Orkukreppan, sem blossaði upp í kjölfar innrásarinnar í fyrra [2022], ýtti einnig upp verði á kjarnaeldsneyti, og áætlaði Darya Dolzikova hjá brezku varnarmálahugveitunni RUSI nýlega, að bandarísk og evrópsk fyrirtæki hefðu keypt slíkt eldsneyti af Rússum fyrir rúmlega mrdUSD 1 árið 2022, á sama tíma og Vesturlönd drógu stórlega úr kaupum sínum á öðrum rússneskum orkugjöfum."

Hér veitir ekki af að taka hraustlega til hendinni.  Vesturlönd verða að verða sjálfum sér næg með auðgað úran, sem hægt er að vinna áfram fyrir kjarnorkuverin á allra næstu árum. Ef takast á að auka umtalsvert hlutdeild rafmagns á markaðinum, sem ekki er framleitt með jarðefnaeldsneyti, verður að fjölga kjarnorkuverum verulega, og þar með mun spurn eftir unnu úrani vaxa.  Það er ekki hörgull á því í náttúrunni á Vesturlöndum.     

 

 


Vatnaskil í hernaðarsögunni

Rússar og Kínverjar hafa lagt áherzlu á smíði ofurhljóðfrárra (v>5 Mach) eldflauga í þeirri von að ná frumkvæði á Vesturlönd á einu sviði hergagna.  Vesturlönd hafa ekki komið sér upp þessum vígtólum, enda kostar stykkið MUSD 10.  Vesturlönd hafa hins vegar þróað varnarbúnað, t.d. bandaríska Patriot-kerfið, sem þó hafði ekki fengizt reynsla af gagnvart ofurhljóðfráum eldflaugum fyrr en við varnir Kænugarðs 16.05.2023.

Hvernig fjallar sérfróður blaðamaður Morgunblaðsins, Stefán Gunnar Sveinsson, um þetta ?  Það kom fram í Morgunblaðinu 22. maí 2023 undir fyrirsögninni:

"Loftvarnirnar valda kaflaskiptum".

Fréttin hófst þannig:

"Segja má, að kaflaskipti hafi orðið í hernaðarsögunni í síðustu viku, þegar Úkraínumenn náðu að standa af sér 2 af stærstu eldflaugaárásum sögunnar aðfararnótt þriðjudags og miðvikudags [16.-17. maí 2023].

Rússar skutu þá [urmli] eldflauga að Kænugarði, og voru allar skotnar niður eða gerðar óvirkar af loftvarnarkerfum borgarinnar fyrra kvöldið.  Var þar um að ræða 18 eld- og stýriflaugar, sem skotið var með stuttu millibili [á um 1/2 klst-innsk. BJo] úr nokkrum mismunandi áttum [úr norðri, austri og suðri - innsk. BJo] á borgina í því skyni, að eldflaugarnar myndu yfirgnæfa [yfirlesta] loftvarnir hennar.  Þess í stað var þeim öllum grandað, auk þess sem 9 drónar voru einnig skotnir niður.

Næsta kvöld sendu Rússar 30 stýriflaugar af ýmsum gerðum og 4 dróna á höfuðborgina, og voru 29 af 30 eldflaugum skotnar niður og allir drónarnir 4."

Þarna opinberaðist tæknilegur og hernaðarlegur vanmáttur Rússlands, en stjórnendurnir eru smáir í sniðum og hafa ekki þrek til að viðurkenna ófarir sínar.  Það hefur orðið Rússum sérstakt áfall, að ofurhljóðfráar (hypersonic) (v>5 Mach = 6000 km/klst) eldflaugar komust ekki gegnum loftvarnir Úkraínumanna.  Shoigu, landvarnarráðherra, hefur séð sína sæng út breidda, því að hann neitaði að viðurkenna hina nýju staðreynd, og Putin lét í bræði sinni handtaka 3 af hönnuðum Dragger (Kinzhal) eldflauganna og ákæra þá fyrir landráð. 

Ekki verður það örvandi fyrir rússneska vísindasamfélagið og mun sennilega tryggja áframhaldandi hrörnun þess. Nú er svo komið, að NATO getur skotið niður allt, sem Rússar senda á loft, og þar með má ætla, að skálkaskjól rússnesku mafíunnar í Kreml, MAD, "Mutuallly Assured Destruction", sé ekki lengur fyrir hendi.  Vitað er, að rússneski herinn var með í áætlunum sínum að nota vígvallar kjarnorkuvopn, ef NATO tækist að snúa vörn í sókn, í skjóli MAD.  Nú eru þessar fyrirætlanir hrundar, og rússneski herinn er ekki til neins.  

Hvers vegna héldu Rússar, að vestræn loftvarnakerfi réðu ekki við ofurhljóðfráar eldflaugar ?  Það er vegna þess, að við Mach 5 hefur loftið við trjónu eldflaugarinnar orðið plasmakennt, og plasmað dregur í sig allar útvarpsbylgjur, þ.á.m. frá radarbúnaði loftvarnarkerfanna, sem þá greina óvininn of seint, því að t.d. Patriot Pac-3 flaugin fer aðeins á hraðanum Mach-4. 

Hvers vegna greindi þá 40 ára gamalt Patriot kerfið við Kænugarð Dragger-flaugarnar rússnesku ?  Það er vegna þess, að kerfið var látið breyta tíðni radarsins í átt að innrauða sviðinu þar til það fann Dragger-flaugarnar, sem gefa frá sér gríðarlegan hita.  Þessi þróun kom flatt upp á staðnaða Rússa, en það er miklu meira á döfinni en þetta. 

Til að girða fyrir, að heimsvaldasinnaðir einræðisherrar geti beitt langdrægum ofurhljóðfráum eldflaugum, sem fljúga mest megnis leiðarinnar á milli heimsálfa á 20 Mach, er Geimþróunarstofnun Bandaríkjanna (US Space Development Agency) að þróa net gervitungla, sem spanna á allan heiminn og búin eru innrauðum hitanemum, sem greina staðsetningarhnit heitra hluta á ferð í þrívíðu rúmi og senda upplýsingarnar til stjórnstöðva loftvarnarkerfa á jörðu niðri.  Kerfið heitir "Tranche 1 Tracking Layer" (T1TRK) og á að taka í brúk 2025. 

Í lokin skrifaði Stefán Gunnar:

"Þá eru áhrifin [af Kænugarðsafrekinu 16.05.2023] ekki einungis einskorðuð við mögulega heimstyrjöld.  Í greiningu Daily Telegraph á þýðingu árásarinnar segir, að eitt af því, sem gæti mögulega fært Rússum aftur frumkvæðið í Úkraínu væri, ef þeir gætu tekið út loftvarnakerfi landsins, svo að flugher Rússa gæti tekið yfirráðin í lofti.  Það markmið hefur gjörsamlega mistekizt til þessa allt frá fyrstu dögum innrásarinnar, og nú virðist ljóst, að jafnvel háþróuðustu vopn Rússa munu lítt duga til. 

Þá beinir Telegraph sjónum sínum sérstaklega að Xi Jinping og Kínverjum, sem hafa varið miklu til þróunar ofurhljóðfrárra eldflauga á síðustu árum.  Er þeim ætlað að takast á við flugmóðurskip Bandaríkjanna, ef til styrjaldar kemur við þau, en einnig gætu [þær] nýtzt til árása á Taívan-eyjuna.  Er bent á, að Taívan ráði einnig yfir Patriot-kerfinu, og því muni Xi og hershöfðingjar hans þurfa að íhuga, hvaða áhrif vopn þeirra muni hafa."

Atburðirnir 16. maí 2023, þegar allar 6 ofurhljóðfráu rússnesku eldflaugarnar, sem beint var að skotmörkum í Kænugarði, voru skotnar niður á um hálftíma, gjörbreytir hernaðarstöðunni Vesturveldunum í vil.  Þeir gera um leið mun friðvænlegra í heiminum en áður, því að atburðirnir umturna hernaðaráætlunum hinna samspyrtu einræðisríkja í austri, Rússlands og Kína.  Þau sjá nú sæng sína út breidda í átökum við Vesturveldin og munu þess vegna ekki dirfast að hefja kjarnorkuárás né annars konar árás.  Þau eru nú meðvituð um, að MAD er ekki lengur fyrir hendi, því að Vesturveldin geta skotið allt niður, sem einræðisríkin kunna að senda á loft. Þess vegna er nú orðið friðvænlegra í heiminum, og síðasta hálmstrá Putins, sem hann af hreinni geðveiki hefur hótað að beita í Úkraínu og nota til þess ofurhljóðfráar eldflaugar, eru ekki lengur neinn valkostur fyrir hann í bunkernum, og fælingarmáttur kjarnorkuvopna Rússa og Kínverja er ekki lengur fyrir hendi.  Vesturveldin eiga nú alls kostar við einræðisríkin. Svo er árvekni og færni Úkraínumanna við uppsetningu og beitingu hátæknilegs vopnabúnaðar fyrir að þakka.  Rússneska ríkjasambandið er með allt niður um sig. Það kom vel á vondan.  

 

 

 


Staðnir að verki

Þann 22. september 2022 sigldi P524 Nymfen, danskt eftirlitsskip, frá Rödbyhavn, litlum hafnarbæ í Danmörku, á slóðir rússnesk-þýzku jarðgaslagnanna Nord Stream 1 og 2 í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar.  Samtímis sigldu bandarísk, þýzk og sænsk herskip inn á svæðið og eftirlitsflugvélar frá Svíþjóð og Póllandi sveimuðu yfir ásamt bandarískri eftirlitsþyrlu. Vart hafði orðið við rússnesku skipin, og tortryggni vaknað, því að þau tilkynntu sig ekki og höfðu slökkt á staðsetningarbúnaði sínum.  

Danska eftirlitsskipið sigldi fram og til baka á svæði sunnan og austan sprengingastaðar gaslagnanna og staðnæmdist loks.  Þessi vestræni liðssafnaður var þarna, af því að hópur rússneskra skipa hafði óvænt sézt þarna og komu flest frá Kaliningrad (Königsberg) án tilkynningar.  Eitt rússnesku skipanna, SS-750, hafði smákafbát um borð, sérhannaðan fyrir neðansjávar aðgerðir, jafnvel á hafsbotni. 

Ítarleg rannsókn danska blaðsins Information hefur kastað nýju ljósi á tildrög skemmdarverkanna á gaslögnunum.  Sænskur rannsakandi, Rússlandssérfræðingur og leyniþjónustusérfræðingur, Joakim von Braun, sagði þetta við Information:

"Þetta er ótrúlega áhugavert. SS-750 er sérútbúinn farkostur, sem er hannaður einmitt fyrir aðgerðir neðansjávar.  Þetta eykur trúverðugleika upplýsinga, sem áður hafa komið fram í dagsljósið.  Þessi hópur 6 rússneskra skipa er einmitt gerður fyrir aðgerðir, sem þarna áttu sér stað.  Það er mjög líklegt, að áhafnir þessara skipa hafi unnið skemmdarverkin á gaslögnunum", segir Joakim von Braun. 

"Auðvitað er sameiginleg rannsókn Danmerkur, Svíþjóðar og Þýzkalands á sprengingum Nord Stram gaslagnanna enn í gangi. Enn er ekki ljóst, hvers vegna rannsóknin er svona tímafrek, og hvers vegna ríkisstjórnirnar 3 hafa enn ekki gert nærveru Rússanna á sprengjusvæðinu kunna heiminum.  Málsatvik urðu almenningi kunn einvörðungu vegna eftirgrennslunar danska dagblaðsins og kröfu þess um aðgang "að ljósmyndum og myndbandsupptökum af rússneskum skipum, sem teknar voru um borð í P524 Nymfen þann 22. september 2022". 

SS-750 sigldi frá Kaliningrad 21.  september 2022 með slökkt á AIS-sendibúnaði sínum, sem er auðkenningarbúnaður á hafi úti.  Eftir að SS-750 hafði verið yfir Nord Stream 1 og 2 gaslögnunum, fóru þær að leka.  Hér er vert að gefa gaum að tímasetningu lekanna.  Lekans varð fyrst vart 26. september 2022, degi áður en "Pólland og Noregur opnuðu Eystrasaltslögnina, sem fer um Danmörku og flytur eldsneytisgas frá Norðursjónum" [til Póllands]. Við árslok 2022 var Noregur orðinn gasbirgir Evrópu nr 1 í stað Rússlands.  Saksóknari í þessu máli gæti sett fram eftirfarandi tilgátu um málsástæður Rússa: 

Rússneskir ráðamenn óttuðust, að norskt eldsneytisgas gæti gert Evrópu óháða Rússum um þetta eldsneyti.  Í stað þess að bíða átekta reyndu þeir að ýta Evrópu út í orkukreppu með því að vinna skemmdarverk á Nord Stream 1 og 2.  Rússar sökuðu Breta og jafnvel Bandaríkjamenn um skemmdarverkið, en það er ekki snefill af vísbendingum fyrir hendi um, að flugufótur sé fyrir þessum innantómu rússnesku ásökunum.

Einnig heyrðust hjáróma raddir í fjölmiðlum, sem reyndu að klína sök á Úkraínumenn, en þessir ásakendur útskýrðu aldrei, hvernig hópur skemmdarverkamanna gæti komizt inn á tryggilega vaktað svæði óséður, framkvæmt flókna neðansjávar aðgerð og síðan komizt óséður í burtu. 

Við vitum núna, að aðeins eitt ríkisvald, hið rússneska, sem ræður yfir nauðsynlegum búnaði, var á umræddu svæði á réttum tíma til að framkvæma þessa flóknu neðansjávar aðgerð.  Þessu má jafna við að vera staðinn að verki. 

Mikilvægi Nord Stream 1 og 2:

  • Nord Stream 1 var fullgerð 2011 og kostaði yfir mrdUSD 15.
  • Nord Stream 2 var fullgerð 2021 með dálítið lægri kostnaði en Nord Stream 1, en var aldrei tekin í notkun vegna réttmætrar tortryggni í garð rússneska ríkisins.
  • Lagnirnar 2 (báðar tvöfaldar) sáu Evrópu fyrir beinni og áreiðanlegri tengingu við gaslindir Rússlands. 
  • Nord Stream 1 flutti 35 % af öllu rússnesku gasi til Evrópusambandsins (ESB).

Rússneska ríkisgasfélagið gaf þær upplýsingar, að árið 2020 hefðu heildartekjur þess numið mrdUSD 83.  Stór hluti þeirra kom frá Nord Stream 1.

Hvers vegna ættu Rússar að stíga þetta skref ?

Þann 13. júlí 2022 stefndi fyrsti aðstoðar starfsmannastjóri Kremlar, Sergei Kiriyenko, saman rússneskum stjórnmálalegum stefnumótendum.  Á fundi þeirra skýrði hann frá því, að Rússland (les Putin, forseti) vildi grafa undan stuðningi Evrópu við Úkraínu með því að einblína á Þýzkaland.  Nord Stream 1 og 2 væru megingasæðarnar til Þýzkalands.  

Rússneski ríkismiðillinn RT lagði í kjölfarið enga dul á, hvað Rússar hefðu í hyggju: að valda svo alvarlegum eldsneytisgasskorti veturinn eftir, að þýzkt atvinnulíf mundi lamast og fólk krókna úr kulda heima hjá sér.  Þetta töldu Putin og hans glæpagengi, að snúa mundi almenningsálitinu Rússum í vil, svo að samsteypustjórnin í Berlín legðist flöt fyrir þeim, en það fór á annan veg.  Þetta varð aðeins eitt af mörgum glappaskotum og asnaspörkum Putins.

Í vetrarsókn sinni 2022-2023 gegn Úkraínumönnum, þar sem Rússar gultu afhroð og misstu m.a. lungann af sérsveitum sínum, Spetznaz, áttu hinir síðar nefndu von á, að aðstoð Þjóðverja við Úkraínumenn mundi gufa upp í sárum orkuskorti, en það fór á annan veg. Rússneska glæpagengið í Kreml vanmat Þjóðverja. Hún stórefldist með Leopard 2, Marder, stórskotakerfum, loftvarnakerfum, herflugvélum Austur-þýzka hersins o.fl. 

Rússar vissu, að ef þeir lokuðu einfaldlega fyrir gasið, fengju þeir á sig skaðabótakröfur og öflugri viðskiptahömlur.  Í staðinn fyrir að verða opinberlega skaðvaldurinn,  reyndu þeir að gera sig að fórnarlömbum skemmdarverka Vesturveldanna, en upp komast svik um síðir, og ekkert lát er á stuðningi Evrópu við Úkraínu. Þessar uppljóstranir um ósvífni rússnesku stjórnarinnar og glæpsamlegt eðli hennar mun auka samstöðu Vesturveldanna um hernaðarstuðning, fjárhagssnuðning og siðferðilegan stuðning við Úkraínu.  

Dagana eftir skemmdarverkin á gaslögnunum velti BBC fyrir sér áhrifunum á heimsmarkaðsverð eldsneytisgass. 29. september 2022 kom fram á BBC: "Hið háa gasverð kemur niður á fjárhag fjölskyldna vítt og breitt um Evrópu og hækkar framleiðslukostnað fyrirtækja.  Þetta gæti valdið hægagangi í hagkerfum Evrópu og hraðað ferðinni yfir í kreppuástand". Þjóðverjar brugðust hins vegar skjótt við haustið 2022, og þá sýndi þýzka stjórnkerfið, hvað í því býr, þegar á hólminn er komið. Settar voru upp í þýzkum höfnum móttökustöðvar fyrir fljótandi eldsneytisgas, LPG, á mettíma og samið við birgja við Persaflóann og í Bandaríkjunum um afhendingu veturinn 2023 á LPG.  Veturinn var mildur, fyrirtæki og heimili spöruðu, svo að enginn skortur varð á gasi, og verðið lækkaði aftur.  Nú skiptir Rússland engu máli fyrir kola-, olíu- og gasforða Evrópu. Þjóðverjar sýndu þarna gamalkunna snerpu og sneru á Rússana.  Þeir eru nú teknir að auka hergagnaframleiðslu sína og munu taka forystu fyrir lýðræðisríkjum Evrópu í baráttu þeirra við árásargjarna klíkuna í Kreml.

Hvers vegna er rannsókn á Nord Stream sprengingunum mikilvæg ?

Afstaða almennings til stríðsátaka skiptir höfuðmáli.  Upplýsingastríð er háð til að sá fræjum efasemda í huga almennings.  Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínumenn, sem berjast við ofurefli liðs fyrir frelsi og fullveldi lands síns og lýðræðislegum stjórnarháttum þar gegn rússneskum kúgurum, sem einskis svífast og stunda þjóðarmorð í Úkraínu.  Fyrir vikið verður Úkraína brátt tæk í NATO og ESB, en Rússneska sambandsríkið mun lenda á ruslahaugum sögunnar. Rússland var undir járnhæl Mongóla frá 1237 og í um 330 ár.  Af þessum sökum varð ekki sams konar þróun í átt til valddreifingar og þingræðis í Rússlandi og í Evrópu.  Í Rússlandi var zarinn einráður, og sama viðhorf ríkir til valdsins enn á okkar dögum.  Þetta stendur Rússum fyrir þrifum, og þjóðin er heilaþvegin af megnum áróðri á flestum miðlum. 

GRU, leyniþjónusta rússneska hersins, vinnur markvisst að því að sá tortryggni á milli Bandamanna. Nagdýrin geta nagað stuðninginn við Úkraínu með því að sá misskilningi um fyrirætlanir stríðsaðila.  Rússnesk stjórnvöld ásökuðu Stóra-Bretland beint fyrir Nord Stream sprengingarnar, og Putin-moldvörpur í vestri reyndu að klína sökinni á Bandaríkjamenn og/eða Úkraínumenn.  Sú rannsókn, sem hér er lýst, mun gera Putin-moldvörpur að gjalti.  Þær hafa snúið öllu á haus og burðazt við að gera Putin að fórnarlambinu í þessu stríði, á meðan hann fyrirskipaði innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022 og ber höfuðábyrgðina með sama hætti og Adolf Hitler fyrirskipaði Wehrmacht að ráðast inn í Pólland 1. september 1939 í kjölfar friðarsáttmála við Sovétríkin, sem réðust á Pólland um 3 vikum síðar.  Það liggur svipuð hugmyndafræði að baki hjá Hitler og Putin.  Í stað hins aríska kynstofns hjá Hitler er kominn hinn rússneski heimur hjá Putin. 

Stórir vestrænir miðlar hafa flestir hundsað stórfrétt danska dagblaðsins Information, á meðan moldvörpur Putins á Vesturlöndum hafa einfaldlega hætt að fjalla um Nord Stream sprengingarnar.  Ef/þegar téð fjölþjóða rannsókn leiðir fram málsatvik, sem negla niður þann grunaða á líkum, sem hafnar eru yfir skynsamlegan vafa, mun sá grunaði gjalda verknaðar síns, hversu langan tíma, sem það mun svo taka.  Rússland hefur þegar goldið lagnasprenginganna, og tapið út af þeim það mun halda áfram um langa framtíð eftir lok rannsóknarinnar. Úkraína sem bandamaður Vesturveldanna í NATO og ESB getur í náinni framtíð séð Evrópu fyrir jarðgasþörf hennar. 

Afleiðingarnar:

Til að vega upp á móti því að hafa glatað evrópska markaðinum, sem nam 80 % af útflutningi gasrisans Gazproms, horfir fyrirtækið nú til Kína.  Putin reyndi örvæntingarfullur að fá kínverska forsetann, Xi Jinping, til að undirrita samning um gaslögn frá Síberíu til Kína í heimsón Xis til Moskvu í apríl 2023.  Á blaðamannafundi talaði Putin, eins og samningurinn væri í höfn, en Kínverjar hafa ekki sagt annað um verkefnið en þeir myndu rýna það. Putin er rúinn trausti alls staðar.  Kínverjar hyggja á að endurheimta kínversk landsvæði í austurhluta Rússneska ríkjasambandsins.  Vladivostok var áður kínversk borg.  

Í ákafa sínum að demba Evrópumönnum ofan í pytt orkukreppu rétt fyrir veturinn 2022-2023 gæti Putin hafa skemmt fyrir viðskiptatækifærum, sem margra mrdUSD gaslagnir til Kína hefðu í för með sér fyrir Rússland.  Hver er tilbúinn til að hætta fé sínu í samstarfi við hryðjuverkamann ?  Að sjá Kína fyrir gasi var eina undankomuleið hans eftir að hafa glatað öllu viðskiptatrausti hinna vel stæðu Evrópumanna. 

Í framtíðinni mun sérhver kaupandi rússneskrar vöru hafa örlög Nord Stream í huga og þar með skilja, hvers konar fantatökum Rússar eru tilbúnir að beita viðskiptavini sína, ef þeir telja, að slík fantabrögð þjóni hagsmunum þeirra sjálfra.  Sérhver viðskiptasamningur við Rússa verður gerður í skugga neðansjávar sprenginganna við Danmörku.  Rússland mun aldrei komast hjá hinni óttalegu spurningu, "hversu háan afslátt"  rússneski birgirinn sé reiðubúinn að veita í ljósi reynslunnar af orkuviðskiptunum við Rússa, og ekkert land mun af fúsum og frjálsum vilja gera Rússland að meginbirgi sínum á neinu sviði.  Valdhafarnir í Kreml hafa með framferði sínu 2022-2023 eytt öllu trausti, sem alltaf hefur verið grundvöllur viðskipta á milli siðaðra manna.    

 

 

 

 

 


Í tilefni landvinningastríðs í Evrópu í meira en eitt ár nú

Þann 24. febrúar 2022 réðist rússneski herinn inn í Ukraínu úr 3 höfuðáttum, úr norðri, austri og suðri, svo að augljóslega var ætlun Kremlar að ná Kænugarði á sitt vald og að leggja alla Úkraínu undir sig.  Úr norðri og norð-austri var stefnt á Kænugarð, enda er hér um nýlendustríð að ræða.  Því voru Úkraínumenn óviðbúnir, en samt tókst úkraínska hernum að stöðva Rússana í útjaðri Kænugarðs, og minnast menn um 80 km langrar raðar vígtóla, aðallega bryndreka, sem stöðvaðist á leið til Kænugarðs fyrir tilverknað skriðdrekabana Úkraínumanna og skorts Rússahers á vistum, þ.m.t. á eldsneyti. Grátbrosleg sýningarþörf á ógnarmætti, sem fór fyrir lítið.  Hið gegnmorkna Rússaveldi kemst ekki upp úr spillingarfeninu, og setur þess vegna upp Pótemkíntjöld, rétt einu sinni.

Innrás Rússa var tilefnislaus og óréttlætanleg með öllu.  Kremlverjar hafa með þessum gjörningi orðið sér ævarandi til háðungar.  Rússar hafa upp skorið hatur og fyrirlitningu allrar úkraínsku þjóðarinnar, einnig í austurhéruðunum, og á meðal allra slavnesku þjóðanna í Evrópu.  Þeir hafa sýnt af sér grafalvarlega siðferðisbresti með því að taka upp á því að ganga í skrokk á varnarlausum borgurum Úkraínu, þegar sókn þeirra inn í landið mætti harðri mótspyrnu og her þeirra var stöðvaður og hrakinn til baka úr hverju héraðinu á fætur öðru.  Framganga hersins og léleg frammistaða á vígvöllunum, þótt ekki vanti vígtólin og fjöldann í eikennisbúningum, sætir furðu og sýnir, að Kremlverjar hafa gortað af herstyrk, sem er ekki fyrir hendi.  Sennilega var svipað uppi á teninginum á dögum Ráðstjórnarinnar.  Það, sem varð henni til bjargar 1941-1943 var harður vetur og gríðarlegur hergagnaflutningur frá Bandaríkjunum.  

Trúðurinn Medvedev, varaformaður öryggisráðs Rússlands og fyrrverandi forseti og forsætisráðherra, er enn með furðulegar ógnanir gagnvart fyrrum leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna.  Nýleg furðuyfirlýsing var á þá leið, að til að skapa frið í Úkraínu þyrfti að ýta pólsku landamærunum til vesturs.  Hann horfði fram hjá þeirri staðreynd, að pólski herinn er nú sá öflugasti í Evrópu, og rússneski herinn mundi ekki hafa roð við honum, ef þeim lysti saman.  Pólland þyrfti enga aðstoð NATO til að ganga frá fúnum og gjörspilltum rússneskum her, sem Úkraínumenn eru nú þegar búnir að draga vígtennurnar úr um tíma.

 

 Þann 24. febrúar 2023 birtist frábær grein í Morgunblaðinu eftir Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.  Var hún eins og hvítt og svart í samanburði við viðbjóðslegan lygaþvætting, sem birtist í Morgunblaðinu 2 dögum fyrr og sendiherra Rússlands á Íslandi var skrifaður fyrir, en það gæti verið lygi líka, því að um var að ræða ömurlega sjúklega og veruleikafirrta þvælu, sem streymir frá Kreml.  Það er öllu snúið á haus.  Þessi samsuða varð Birni Bjarnasyni, fyrrverandi Alþingismanni og ráðherra, tilefni til þess í vefpistli sínum að krefjast brottrekstrar þessa handbendis hryðjuverkamanna Kremlar af landinu, sem verða sóttir til saka fyrir stríðsglæpi í anda Nürnbergréttarhaldanna, ef/þegar réttlætið nær fram að ganga austur þar.   

Merk grein forsætisráðherra Póllands hófst þannig:

"Fyrir sléttu ári, 24. febrúar 2022, hófu rússnesk stjórnvöld stríðsrekstur sinn gegn Úkraínu og splundruðu þar með þeirri skipan, sem komst á eftir kalda stríðið.  Örygginu og hagsældinni, sem heilu kynslóðirnar í löndum Evrópu höfðu fengið áorkað, var stefnt í mikla hættu.  Rússar hafa hafið landvinningastríð sitt með aðeins eitt markmið í huga: að endurheimta áhrifasvæði Sovétríkjanna fyrrverandi, hvað sem það kostar án nokkurs tillits til fórnarlambanna.  Við verðum að gera allt, sem í okkar valdi stendur til að binda enda á þessa verstu heimspólitísku martröð 21. aldarinnar."  

Stríð eru upplýsandi um styrkleika og veikleika stríðsaðila.  Fyrsta ár þessa stríðs Rússa og Úkraínumanna hefur sýnt, að Rússland er hernaðarlegur og siðferðilegur dvergur og að Úkraína er hernaðarlegur og siðferðislegur risi.  Rússland hefur enga burði til að brjóta undir sig aðra Slava eða nágranna af öðrum uppruna og alls enga siðferðislega burði til að leiða þá og stjórna þeim.  Úkraínumenn hafa sameinazt um að berjast fyrir varðveizlu fullveldis síns og endurheimt alls lands, sem Rússar hafa með dæmalausri frekju, siðleysi, grimmd og yfirgangi lagt undir sig síðan 2014. Þessi "versta heimspólitíska martröð 21. aldarinnar" endar ekki fyrr en Úkraínumenn hafa endurheimt allt landsvæði sitt, svo að landamærin frá 1991 verði aftur virk, og gengið í NATO og Evrópusambandið.  Þar með hafa þeir fengið verðskuldaða stöðu sem sjálfstæð þjóð í samfélagi vestrænna ríkja og eiga sér vonandi glæsta framtíð sem traust lýðræðis- og menningarþjóð í auðugu landi af náttúrunnar hendi, en öll vopn snerust í höndum hins glæpsamlega árásargjarna einræðisherra í Kreml, sem hóf tortímingarstríð gegn sjálfstæðum nágranna og mun hljóta fyrir það makleg málagjöld með öllu sínu hyski. Það er engin framtíð til fyrir rússneska sambandslýðveldið í sinni núverandi mynd.  Það hefur fyrirgert tilverurétti sínum og rotnað innan frá.  Það stendur nú á brauðfótum.  

"Hvernig er staðan núna ?  Við höfum orðið vitni að fáheyrðri grimmd Rússlands í 12 mánuði. Mánuðirnir mörkuðust af reglulegum sprengjuárásum á skóla, sjúkrahús og byggingar óbreyttra borgara.  Þeir mörkuðust ekki af fjölda daga, heldur af fjölda fórnarlamba.  Rússar hafa ekki hlíft neinum og drepið karlmenn, konur, gamalt fólk og börn.  Hópmorðin í Bucha, Irpin og fleiri bæjum færa okkur heim sanninn um, að Rússar hafa framið hryllilega glæpi.  Fjöldagrafir, pyntingaklefar, nauðganir og mannrán - þetta er hin sanna ásjóna árásarstríðs Rússa."  

Rússneski herinn og stjórnendur Rússlands sýna þarna sitt rétta andlit.  Þeir eru siðblindir glæpamenn - fjöldamorðingjar.  Við þá er ekki hægt að gera neina samninga, því að þeir eru algerir ómerkingar - virða ekki nokkurn skapaðan hlut.  Eina færa leiðin er að búa Úkraínumenn sem beztum og mestum vopnum fyrir landhernað og lofthernað gegn innrásarher Rússlands í Úkraínu, svo að hann verði rekinn af löglega viðurkenndu úkraínsku landi sem fyrst.  Þannig má lágmarka blóðtöku úkraínsku þjóðarinnar og skapa grundvöll langvarandi friðar í Evrópu, ef NATO ábyrgist varðveizlu landamæranna.

Þegar nánar er að gáð, þarf ömurleg frammistaða rússneska hersins á vígvöllunum ekki að koma á óvart.  Hún hefur lengi verið þekkt.  Það voru úkraínskir kósakkar, sem brutu rússneska hernum leið í austurátt og lögðu megnið af Síberíu undir zarinn.  Það voru þeir, sem veittu hinum 600 k manna her Frakkakeisarans Napóleóns Bonaparte verstu skráveifurnar í innrásinni í Rússland 1812, einkum á undanhaldinu, enda sluppu aðeins 100 k úr þessari svaðilför Frakkahers. Rússakeisari varð fyrstur Evrópumanna til að tapa bardaga við Asíumenn 1905, þegar Japanir gjörsigruðu rússneska herinn.  Frammistaða rússneska keisarahersins í Fyrri heimsstyrjöld var mjög slök, og samið var um frið við Þjóðverja 1917.

Enn áttust þessar þjóðir við 1941-1945.  Stalín hafði látið flytja hergagnaverksmiðjur austur fyrir flugsvið Luftwaffe, og þar framleiddu Sovétríkin 100 skriðdreka á mánuði, á meðan RAF, brezki flugherinn, sprengdi upp hergagnaverksmiðjur Þriðja ríkisins.  Rússneskir herforingjar voru þá, eins og jafnan fyrr og síðar, meiri slátrarar en útsjónarsamir herstjórnendur.  Þeir sendu hverja bylgju lítt þjálfaðra ungra manna fram á vígvöllinn, eins og nú endurtekur sig í Úkraínustríðinu 2022- ?  Af heildarmannfalli Wehrmacht 1939-1945 varð 80 % á Austurvígstöðvunum, en fallnir hermenn Rauða hersins voru 4-5 sinnum fleiri.  Ætli hlutfallið í Úkraínu núna sé ekki svipað ?  

Bandaríkjamenn sendu svo mikið af vígtólum, skriðdrekum, brynvögnum, jeppum, flugvélum, sprengjuvörpum o.fl. til Sóvétríkjanna á árum Síðari heimsstyrjaldarinnar, að vafalaust hefur létt Sovétmönnum mjög róðurinn, þótt "Úlfarnir" í "die Kriegsmarine" næðu að granda nokkrum flutningaskipum með hergögn.  Andvirði hergagnanna, sem sent var frá BNA til Sovétríkjanna, er talið hafa numið mrdUSD 130 að núvirði.  Þá, eins og nú, réðu sovézkir herforingjar ekki við að beita samhæfðum hernaðaraðgerðum skriðdreka, brynvarinna vagna, fótgönguliðs og flughers, eins og Wehrmacht beitti þó eftir mætti, en skortur á hergögnum og vistum takmarkaði löngum aðgerðir Wehrmacht, og Foringinn greip oft óhönduglega fram fyrir hendur herforingjanna, svo að vægt sé til orða tekið.   

"Strax árið 2008, þegar Rússar réðust inn í Georgíu, gaf Lech Kaczynski, þáverandi forseti Póllands, út þessa viðvörun: "Við vitum mjög vel, að núna er það Georgía, sem er að veði, næst gæti það verið Úkraína, þá Eystrasaltsríkin og síðan e.t.v. landið mitt, Pólland."  Þessi orð rættust fyrr en Evrópuríkin höfðu búizt við.  Sex árum síðar, árið 2014, var Krímskagi innlimaður í Rússland. Núna verðum við vitni að allsherjar árás rússneska hersins á Úkraínu. Hvernig verður framtíðin, ef við stöðvum ekki rússnesku stríðsvélina ?"

Eftir langvinna og sára reynslu af kúgun hins frumstæða austræna valds bera Pólverjar Rússum svo illa söguna, að þeir telja þeim raunverulega ekki treystandi fyrir horn.  Við, sem vestar erum, áttum erfitt með að skilja málflutning Pólverja, en nú sjáum við og skiljum, hvað þeir meintu.  Pólverjar hafa haft rétt fyrir sér um Rússa.  Kremlverjar reka og hafa alltaf rekið harðsvíraða heimsveldisstefnu (e. imperialism), og hana verður einfaldlega að stöðva.  Það átti að gera árið 2008 eða árið 2014, en nú eru einfaldlega síðustu forvöð. Hinn uppivöðslusami einræðisherra Rússlands hefur lagt allt undir, og hann þarf nú að brjóta á bak aftur.  Afleiðingarnar verða ekki geðslegar fyrir Rússa, en það er þeirra vandamál, ekki Vesturlanda. 

Það hefur myndazt augljós öxull Washington-Varsjá.  Pólverjar hafa nú á stuttum tíma pantað hergögn frá BNA fyrir um mrd USD 10.  Bandaríkjaforseti hefur síðan 24.02.2022 heimsótt Varsjá tvisvar, en Berlín og París aldrei.  Valdamiðja ESB og NATO í Evrópu mun færast til austurs í átt að Varsjá, enda stafar meginógnin að NATO frá hinum stríðsóða nágranna austan Úkraínu.  Ef ekki tekst að varðveita landamæri Úkraínu frá 1991, verður þessi ógn enn meiri.  Að láta land af hendi fyrir "frið", er óraunhæft gagnvart landi, sem stjórnað er af yfirvöldum, sem virða enga samninga og brjóta allar reglur í alþjóðlegum samskiptum. 

"Þegar við erum í hundraða km fjarlægð heyrum við ekki sprengjugnýinn, hávaðann í loftvarnaflautunum eða harmagrát foreldra, sem hafa misst barn sitt í sprengjuárás. Við getum þó ekki notað fjarlægðina frá Kænugarði til að friða samvizkuna.  Ég óttast stundum, að á Vesturlöndum sé margt fólk, sem telji það að snæða hádegisverð á eftirlætis veitingastaðnum eða að horfa á þætti á Netflix skipta meira máli en líf og dauða þúsunda Úkraínumanna.  Við getum öll séð stríðið geisa.  Enginn getur haldið því fram, að hann eða hún hafi ekki vitað um hópmorðin í Bucha.  Við verðum öll vitni að grimmdarverkunum, sem rússneski herinn fremur.  Það er þess vegna, sem við megum ekki láta okkur standa á sama.  Heimsvaldaáform rússneskra ráðamanna ná lengra en til Úkraínu.  Þetta stríð skiptir okkur öll máli."

Sú staða er uppi, að vinveittir nágrannar Úkraínu eru flestir í NATO.  Annars hefðu þeir sennilega sumir hverjir farið með heri sína inn í Úkraínu og barizt þar við hlið Úkraínumanna gegn ofureflinu, því að hér er um að ræða stríð einræðis gegn lýðræði, kúgunar gegn frelsi, ógnarstjórn gegn persónulegu öryggi. Baráttan stendur um framtíð Evrópu. Þar af leiðandi er gjörsamlega siðlaust af þeim Evrópumönnum, sem láta sér í léttu rúmi liggja blóðtöku Úkraínumanna, að láta sem ekkert sé eða leggjast gegn hámarksaðstoð við þá. Þá eru ótalin handbendi Rússanna á Vesturlöndum, sem reyna að rugla almenning í ríminu með því að dreifa falsfréttum, sem falla að áróðri Kremlar.  Lítil eru geð guma. 

"Orkukreppan í heiminum og verðbólgan, sem við þurfum öll að glíma við, eiga rætur að rekja til landvinningastríðs rússneskra stjórnvalda.  Herská stefna Pútíns, hvað varðar gasviðskipti í júlí og ágúst 2021, var undanfari innrásarinnar í Úkraínu.  Á þeim tíma leiddi fjárkúgun Pútíns til hækkandi gasverðs á mörkuðum Evrópu.  Þetta var aðeins byrjunin.

Rússnesk stjórnvöld vonuðu, að hnignun orkugeirans myndi veikja Evrópuríkin og telja þau á að skipta sér ekki af stríðinu Úkraínu.  Þegar í upphafi var það liður í baráttuáætlun rússneskra stjórnvalda gegn Vesturlöndum að magna orkukreppuna.  Hernaður Rússa er ein af meginástæðum hækkandi orkuverðs í heiminum.  Við höfum öll mikinn kostnað af þeim ákvörðunum, sem teknar eru í Kreml. Tímabært er, að við skiljum, að Rússar kynda undir efnahagskreppu í heiminum." 

Pólverjar hafa lengi haldið því fram, að Rússar mundu beita orkuvopninu, og þess vegna beittu þeir sér hart á vettvangi ESB og í tvíhliða samskiptum við þýzku ríkisstjórnina gegn samkrulli Þjóðverja og Gazprom um lagningu Nord Stream 2.  Þar voru Pólverjar samstiga bandarísku ríkisstjórninni, en sú þýzka var blinduð af eigin barnaskap um glæpsamlegar fyrirætlanir Kremlar.  Pólverjar sömdu við Norðmenn um afhendingu jarðgass úr gaslindum Norðmanna beint til Póllands, og var sú lögn tekin í notkun um svipað leyti og Nord Stream 2 var sprengd í sundur árið 2022. 

Segja má, að hernaður glæpaklíkunnar gegn Vesturlöndum sé fjórþættur í meginatriðum: Í fyrsta lagi dreifir áróðursvél Kremlar ranghugmyndum og samsæriskenningum til Vesturlanda, sem ætlað er að grafa undan málstað lýðræðisaflanna og sundra þeim.  Enduróm þessa sjúklega þvættings má sjá og heyra á Íslandi, eins og annars staðar, t.d. á ýmsum vefmiðlum, þar sem þeir ráða ferðinni, sem af einhverjum ástæðum eru haldnir sjúklegu hatri á samfélagsgerð Vesturlanda og ímynda sér eitthvert "djúpríki", sem ráði ferðinni.  Hér eru þó ekki taldir með þeir, sem jafnan hafa verið móttækilegir fyrir hatursfullum áróðri gegn "auðvaldinu", en neita að horfast í augu við sára reynslu af því, sem gerist, þegar "auðvaldið" er afhöfðað með einum eða öðrum hætti.  Nýjasta dæmið er Venezúela, sem var ríkasta land Suður-Ameríku áður en sósíalistar innleiddu stefnu sína þar með þeim afleiðingum, að landið er eitt samfellt fátæktarbæli, sem allir flýja frá, sem vettlingi geta valdið.

Í öðru lagi hafa Kremlverjar reynt að valda tjóni og lömun innviða með netárásum.  Þeim hefur ekki sízt verið beitt gegn fyrrverandi leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna, og á þeim bar mikið í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022.  Þá má ekki gleyma gruni um tilraunir til að hafa áhrif á kosningar með stafrænum hætti, jafnvel í BNA.

Í þriðja lagi er það orkuvopnið, sem Kremlverjar beittu miskunnarlaust, aðallga gegn Evrópumönnum, og ætlað var að lama andstöðu þeirra við löglausa og tilefnislausa innrás Rússahers í nágrannaríkið Úkraínu, sérstaklega þegar kuldinn færi að bíta í lítt upphituðu húsnæði.  Það gerðist ekki af tveimur ástæðum.  Veturinn var óvenju mildur í Evrópu, og það á líka við um Úkraínu, þar sem glæpsamlegar eldflauga- og drónaárásir Rússa á virkjanir, aðveitu- og dreifistöðvar Úkraínumanna ollu oft langvinnu straumleysi og skorti á heitu vatni til upphitunar.  Auknar loftvarnir í Úkraínu, minnkandi eldflauga- og drónaforði Rússa og aðstoð Vesturlanda með neyðarrafstöðvar og viðgerðar efni til handa Úkraínumönnum hafa dregið mjög úr straumleysistíðni og -lengd.  Hin ástæðan er, að Evrópumönnum hefur orðið vel ágengt við að útvega sér eldsneytisgas annars staðar frá, og Þjóðverjar hafa á mettíma komið sér upp einni móttökustöð fyrir fljótandi gas og fleiri eru í uppsetningu. 

Í fjórða lagi hefur stríðsrekstur Rússa í Úkraínu frá 24.02.2022 gengið á afturfótunum.  Þeir hafa misst ógrynni liðs, álíka marga fallna og særða og hófu innrásina (200 k) og gríðarlegt magn hergagna.  Bardagageta landhers og flughers er miklu minni en almennt var búizt við á Vesturlöndum og annars staðar.  Fjölþættar ástæður liggja til þess, að rússneski herinn hefur þarna orðið sér til háborinnar skammar og er að ýmsu leyti í ruslflokki.  Þetta mun hafa langtíma áhrif á stöðu Rússlands í heiminum, sem er að verða eins og mús undir hinum kínverska fjalaketti.  Aðeins gorgeir, þjóðernismont, áróður og hótanir standa eftir. 

"Veikleikar Evrópu hafa verið styrkur Rússlands í nokkur ár.  Það, að Evrópuríki eru háð kolefnaeldsneyti frá Rússlandi, hafa átt vafasöm viðskipti við rússneska ólígarka og gert óskiljanlegar tilslakanir, m.a. varðandi lagningu gasleiðslunnar Nord Stream 2 - allt er þetta til marks um sjúkleg tengsl [á] milli Vesturlanda og Rússlands. Stjórnvöld margra Evrópuríkja töldu, að þau gætu gert alvanalega samninga við stjórnina í Moskvu.  Þeir reyndust þó vera samningur við djöfulinn, þar sem sál Evrópu var lögð að veði."

Það má vel kalla það sjúkleg tengsl, eins og forsætisráðherra Póllands gerir, þegar annar aðilinn telur sig eiga í ærlegum samskiptum um að skapa gagnkvæma hagsmuni með viðskiptum og bæta þannig friðarlíkur í Evrópu, en hinn situr á svikráðum, er ekkert, nema fláræðið, og spinnur upp lygaþvælu um friðarvilja sinn, en ræðst svo á nágranna sína, Georgíu 2008 og Úkraínu (Donbass og Krím 2014) og flytur þá þann óhugnanlega boðskap, sem alltaf lá undir niðri, að hin sjálfstæða og fullvalda þjóð, Úkraínumenn, séu ekki þjóð, heldur af rússneskum meiði og eigi þess vegna að verða hluti af Sambandsríkinu Rússlandi.  Þessi boðskapur er algjör lögleysa og stendst ekki sögulega skoðun, þótt Kremlverjar hafi um aldaraðir kúgað Úkraínumenn og reynt að svelta í hel úkraínska menningu og mál. Á tímum ráðstjórnar bolsévíka reyndu þeir jafnvel að svelta úkraínsku þjóðina í hel.  Sennilega eru frumstæðir Rússar haldnir minnimáttarkennd gagnvart Úkraínumönnum, og það er vel skiljanlegt, því að Úkraínumenn standa þeim framar á fjölmörgum sviðum, eru einfaldlega á hærra menningarstigi, enda einstaklingshyggjumenn frá alda öðli.

"Af þessum sökum er ekki hægt að snúa við og láta, eins og ekkert hafi í skorizt.  Menn geta ekki komið á eðlilegum tengslum við glæpastjórn.  Það er orðið löngu tímabært, að Evrópa verði óháð Rússlandi, einkum í orkumálum. Pólverjar hafa lengi lagt áherzlu á þörfina á að auka fjölbreytni í öflun olíu og jarðgass.  Nýjar leiðir til að afla slíkra afurða skapa ný tækifæri.  Uppræting pútínismans, það að rjúfa öll tengsl við einræðis- og ofbeldisvél Pútíns, er algert skilyrði fyrir fullveldi Evrópu."

Pólski forsætisráðherrann hefur lög að mæla.  Vesturlönd verða að klippa á öll viðskiptasambönd við Rússa og útiloka þá frá þátttöku í fjölþjóðlegum keppnum og viðburðum, á meðan glæpastjórn er blóðug upp að öxlum í Kreml í útrýmingarstríði gegn nágrönnum sínum. Það er alvarlegt íhugunarefni, hvort ástæða er til að samþykkja veru sendiherra slíkrar glæpastjórnar í Reykjavík, sem virðist af málflutningi sínum að dæma (í Morgunblaðsgrein í febrúar 2023) vera álíka forhertur öfugmælasmiður og umbjóðendur hans í Kreml. 

Það er ljóst, að nú fer fram barátta upp á líf og dauða á milli lýðræðis og frelsisafla annars vegar og hins vegar einræðis og kúgunarafla.  Úkraínumenn hafa fyrir löngu tekið af öll tvímæli um, hvorum megin þeir vilja standa.  Þeir hafa verið bólusettir um aldur og ævi gegn öllum vinsamlegum samskiptum við rússneska alræðisríkið.  Það eru nokkur ruddaríki, sem styðja glæpastjórnina í Kreml, og má þar nefna Íran, Norður-Kóreu og Kína.  Kínverjar stunda nú skefjalausa útþenslustefnu á Suður-Kínahafi og vilja útiloka 7 önnur aðliggjandi lönd frá lögsögu þar, sem þau eiga þó fullan rétt á samkvæmt Hafréttarsáttmálanum, og Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur staðfest í einu tilviki.  Þessi ríki hafa nú myndað bandalag gegn yfirgangi Kínverja, enda er um mikla hagsmuni að tefla undir botni þessa hafsvæðis.

Japanir hafa í ljósi uppivöðslu einræðisríkjanna Kína og Rússlands tvöfaldað útgjöld sín til hermála 2023 m.v. árið á undan. Þeir munu berjast við hlið Bandaríkjamanna og Tævana, ef einræðisstjórnin í Peking ræðst á land hinna síðast töldu.  Það er ljóst, að viðsjár á milli austurs og vesturs munu fara vaxandi á árinu 2023 áður en friðvænlegra verður aftur eða allt fer í bál og brand.  Það verður að mæta einræðisöflum af fullri hörku.  Annars ganga þau á lagið, eins og dæmin sanna. 

 

 

 


Þveræingar og Nefjólfssynir

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, ritaði skemmtilega grein í Morgunblaðið 17. janúar 2023 í tilefni af 75 ára afmæli ritstjórans, Davíðs Oddssonar.  Hann lagði þar út af kenningu sinni um rauðan þráð, sem lægi um nánast alla Íslandssöguna, varðandi viðhorf þjóðarinnar til æskilegra samskipta við erlend ríki. Kenningin er einföld og rökstudd af Hannesi með fjölda dæma af íslenzkum höfðingjum.  Má ekki ætla, að alþýðunni hafi verið svipað farið og höfðingjunum að þessu leyti ?

Fyrirsögn greinarinnar gefur til kynna meginstef hennar:

"Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar".

Hún hófst þannig:

"Landnemarnir frá Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð.  Sighvatur, skáld, Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin "íslenzku augu", sem hefðu dugað sér vel.  Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna [í hvoru landi].  Segja má, að eftir það hafi 2 ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar."

 

 Landnemarnir voru alls ekki allir frá Noregi, heldur hafa erfðafræðirannsóknir sýnt fram á, að umtalsvert hlutfall landnámsmanna var ættaður af Skotlandi og skozku eyjunum og víðar.  Margir þeirra voru kristnir og höfðu tileinkað sér bóklist (lestur og skrift).  Vestmenn þessir voru margir hverjir skáldskaparmenn, og höfðu lært til skáldskapar í skólum. Þeir urðu sérfræðingar í skáldskap, og Íslendingar héldu þessari hefð við.  Slíkir menn frá Íslandi urðu eftirsótt skáld hjá norskum höfðingjum, m.a. við hirð Noregskonungs, og má nefna Ólaf, Kolbrúnarskáld, sem var í vist hjá Ólafi, digra, barðist með honum á Stiklastöðum í Þrændalögum og mælti hin ódauðlegu orð á banastundinni, er ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi þar, og hvítar tæjur hengu á örvaroddinum: "Vel hefur konungur alið oss", en að svo búnu féll hann dauður niður. 

Vegna blandaðs og sérstaks uppruna landnámsmanna, sem hefur leitt af sér a.m.k. 2 tungumál í landinu á 10. öld eða öllu heldur nokkrar mállýzkur af norsku og gelísku, er eðlilegt, að Íslendingar hafi frá öndverðu hvorki getað litið á sig sem Norðmenn né Skota, heldur sérstaka og sjálfstæða þjóð, Íslendinga.  Afkomendur hinna heiðnu norsku landnema voru að ýmsu leyti öflugastir, og það er athyglisvert, að þeir virðast móta söguna, og sérstaklega þó, hvernig hún er rituð, með fyrstu landnámsmennina úr Norðurvegi, og Gulaþingslögin til grundvallar fyrstu íslenzku lögbókinni, en ekki var þó dregin dul á hlut skozkra höfðingja í landnáminu, t.d. Auðar, djúpúðgu, sem nam Dalina, og höfðingjar á hennar skipum námu víða land, t.d. á Norðurlandi.

"Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. [Enginn konungur stjórnaði landnáminu, heldur var það einstaklingsframtak skipstjórnarmanna víða að, sem höfðu enga þörf fyrir konung og höfðu margir hverjir orðið fyrir barðinu á konungum.  Þetta var önnur sérstaða Íslendinga, sem átti eftir að móta söguna. Innsk.-BJo.]  Í því var sérstaða landsins ekki sízt fólgin að sögn goðans á Ljósavatni.  En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar.  Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan."

Kristnitakan hefði ekki getað farið fram með pólitísku samkomulagi á Alþingi 999-1000, nema kristnir og heiðnir hefðu búið saman í landinu, blandað geði saman, bundizt blóðböndum og hagsmunaböndum í 4-5 kynslóðir og unnið saman á héraðsþingum og á Alþingi í 3-4 kynslóðir, farið í göngur og réttir og stundað viðskipti innbyrðis og við erlenda kaupmenn. Þingheimi var gert ljóst með sendiboða frá Noregskonungi, Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gætu ekki vænzt friðsamlegrar sambúðar við Noreg og norska kaupmenn, nema þeir köstuðu heiðninni fyrir róða og létu skírast til kristni. Slíkar sögur fóru af víkingakónginum Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gerðu sér grein fyrir, að kóngsi hefði bæði vilja og getu til að standa við orð sín. Þar með stóðu öll spjót á heiðna hópinum á Alþingi, og var Þorgeiri, goða á Ljósavatni, falið að semja málamiðlun, sem hann gerði með snilldarlegum hætti á 2-3 sólarhringum. Síðan er talað um leggjast undir feld, þegar leysa þarf erfið úrlausnarefni.     

 "Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnaritara [en Ara, fróða, Þorgilssonar - innsk.BJo], Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024.  Íslenzkur hirðmaður Ólafs, digra, Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd.  Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar.  Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur, digri, væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því bezt að hafa engan konung." 

Þetta var viturlega mælt hjá Einari, Þveræingi, úr fjaðurstaf Snorra Sturlusonar.  Þessi sagnameistari og höfðingi í flóknum stjórnmálaheimi Sturlungaaldar var að sönnu ekki hallur undir þann konung, sem var honum samtíða í Noregi, Hákon, gamla, en hann var heldur enginn vinur hans, eins og Einar boðaði, að Íslendingar skyldu kappkosta, enda var slíkt sennilega ógjörningur fyrir Íslendinga, þ.e. að njóta vinfengis  konungs án þess að ganga erinda hans á Íslandi.

Snorri var prestur og enginn hermaður, eins og Bæjarbardagi var til vitnis um, og hann beitti aldrei miklum áhrifum sínum á Alþingi í þágu konungs. Hann var trúr kenningu sinni, þótt margræður persónuleiki væri.  Aftur á móti var hann í vinfengi við Skúla, jarl, sem gerðist keppinautur Hákonar um æðstu völd í Noregi,en laut í lægra haldi. 

Refsivald konungs náði þá þegar til Íslands 1241, 21 ári fyrir gerð Gamla sáttmála, sem sýnir pólitíska ástandið í landinu, og mun fyrrverandi tengdasonur Snorra, Gissur Þorvaldsson í Hruna, sem var handgenginn maður konungi, hafa fengið skipun um að taka Snorra Sturluson af lífi.  Er það eitt mesta níðingsverk Íslandssögunnar, enda var þess grimmilega hefnt með Flugumýrarbrennu, þótt Gissur bjargaði sér þar naumlega ofan í sýrukeraldi. Fyrir undirgefni Haukdælahöfðingjans fékk hann jarlsnafnbót frá feigum kóngi.  

"Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipzt í 2 flokka.  Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem eiga þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir samstöðu."

 Höfundur þessa vefpistils hefur alla tíð talið það liggja í augum uppi, að ekkert vit sé í því fyrir smáþjóð langt norður í Atlantshafi að taka allt gagnrýnilaust upp eftir öðrum þjóðum, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Það hefur alla tíð verið aðall Íslendinga að hirða það úr menningu, tækni og siðum annarra, sem nytsamlegt getur talizt hérlendis, og laga það að aðstæðum okkar, laga það að siðum okkar, tungunni og lagaumhverfi. Hér var t.d. engin þörf á sameiningartákni, konungi, til að sameina höfðingjana í baráttu við erlend árásaröfl. Íslenzka kirkjan sameinaði væntanlega gelíska og germanska kirkjusiði.  Íslendingar höfnuðu Járnsíðu Magnúsar, konungs, lagabætis, og fengu í staðinn Jónsbók, sem studdist við Grágás. Heilbrigð íhaldssemi hefur reynzt Íslendingum vel.  Þeir hafa ekki verið byltingarmenn, þótt þeir hafi verið fljótir að tileinka sér nýjungar, sem þeir sáu, að gagn væri hægt að hafa af.  

Íslendingar fengu sína stjórnarskrá úr hendi Danakonungs 1874, og varð ekki verulegur ágreiningur um hana, enda var hún eiginlega samevrópsk þá og síðan hverja bragarbótina á fætur annarri á stjórnskipuninni, þar til sambandið við Danakóng var rofið með nánast einróma stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júni 1944 á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar, Jóns Sigurðssonar.

Það gekk hins vegar mikið á, þegar framsýnir og víðsýnir menn beittu sér fyrir stofnaðild landsins að varnarsamtökum lýðræðisþjóða Evrópu og Norður-Ameríku, NATO.  Andstæðingar aðildar voru af ólíku tagi, bæði einlægir Þveræingar og harðsvíraðir kommúnistar, dæmigerðir Nefjólfssynir, sem sáu Sovét-Ísland í hillingum.

Hin mikla þversögn nútímans á Íslandi, þegar stríð geisar í Evrópu, er, að forsætisráðherrann er formaður stjórnmálaflokks, sem hangir á nauðsyn varnarleysis, eins og hundur á roði eða steingervingur í Evrópu.  Slík afstaða er ekki í anda Þveræinga, sem vilja samstöðu með lýðræðisþjóðum gegn einræðisþjóðum, sem sýnt hafa glæpsamlegt eðli sitt með hryðjuverkum gagnvart varnarlausum íbúum í Úkraínu. Slík samstaða tryggir Þveræingum eftirsótt frelsi.

Slíka villimenn á valdastóli í Rússlandi verður að kveða niður, og eymdarkveinstafir þeirra um, að Úkraínumenn megi ekki skjóta á þau skotmörk í Rússlandi, þaðan sem eldflaugar og drónar eru send til að valda manntjóni og eignatjóni í Úkraínu, eru ekki svaraverðir, enda siðblindingjar, sem þar væla. Þjóðarmorð er nú framið í Úkraínu fyrir opnum tjöldum.  Hvílíkur viðbjóður !

Hótanir glæpagengis Kremlar, s.s. trúðsins Medvedevs,  um að beita í refsingarskyni kjarnorkuvopnum eru hlálegar, því að yfirburðir Vesturveldanna á sviði hernaðar eru slíkir, að þeir munu ekki komast upp með neitt slíkt, en munu kalla yfir sig slíkan eyðingarmátt, að rússneska sambandsríkið verði úr sögunni að eilífu.   

"Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenzkum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenzkir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verzlunarfrelsis.  "Þú heldur, að einhver svelgi okkur.  Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti", sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866.  "Frelsið kemur að vísu mest frá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram, nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.""

Nefjólfssynir í landinu 1262 hafa ekki samþykkt Gamla sáttmála nauðugir, heldur fúsir, enda höfðu sumir þeirra unnið að innlimum Íslands í norska konungsríkið um áratuga skeið.  Í nútímanum barðist einn kúnstugur fýr fyrir því, áður en hann umturnaðist í byltingarkenndan sósíalista, sem er önnur furðuleg hugdetta, að Ísland yrði fylki í Noregi, þótt þáverandi stjórnvöld Noregs hafi verið því algerlega afhuga, enda hugmyndin fráleit og reist á nauðhyggju Nefjólfssona um, að Íslendingar geti ekki séð sér farborða á eigin spýtum.  Þeir hafa þó rækilega sannað mátt sjálfstæðis til að knýja hér framfarir og að tryggja hér efnalega hagsæld.  

Það var áreiðanlega raunhæft og rétt viðhorf Jóns Sigurðssonar, forseta, að frelsið kemur mest frá einstaklinginum sjálfum og að verzlunarfrelsi er undirstaða frelsis samfélagsins.  Frjáls verzlun og viðskipti hafa reynzt undirstaða efnalegra framfara á Íslandi, sem hvergi í Evrópu urðu meiri en á Íslandi á 20. öldinni. Frjáls viðskipti Íslands við lönd Evrópusambandsins, ESB, eru nú bundin á klafa þvingaðrar samræmingar við löggjöf ESB, sem augljóslega átti að vera undanfari inngöngu í ESB.  Ekki er víst, að Jóni Sigurðssyni, forseta, hefði hugnazt þetta fyrirkomulag, enda varla hægt að kalla þetta frjáls viðskipti, þótt þau séu að mestu leyti tollfrjáls. Nefjólfssonum finnst, að stíga þurfi skrefið til fulls, en Þveræingar eru beggja blands í þessu máli.

 

  


Kenningin um "Wandel durch Handel" er dauð

Það er kominn tími fyrir þýzk stjórnvöld og aðra, sem tvíátta eru í afstöðunni til Rússlands, að gera sér grein fyrir í raun, að aldrei aftur verður horfið til samskipta við Rússland á viðskiptasviðinu og öðrum sviðum, eins og innrás rússneska hersins í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefði aldrei átt sér stað. Kenningin um, að með viðskiptum við einræðisríki gætu lýðræðisríkin haft áhrif á einræðisríkin til batnaðar, því að sameiginlegir viðskiptahagsmunir mundu gera einræðisríkin nægilega vinveitt lýðræðisríkjunum, til að þau mundu ekki telja verjanlegt að fara með ófriði gegn þeim, hefur reynzt loftkastalar draumóramanna. Til að breiða yfir veikleika þessarar kenningar, breiddi einn höfundanna, kratinn Willy Brandt, yfir raunveruleikann með því að kalla ósköpin "Realpolitik".  Þjóðverjar áttu eftir að fara flatt á þessari krataglópsku.

Viðskiptin styrkja einræðisríkin tæknilega og fjárhagslega, og þau reyna að beina aðkeyptri vestrænni tækni að eflingu herstyrksins, sem settur verður til höfuðs lýðræðisríkjum við fyrsta tækifæri.  Rússland er nýjasta dæmið um þetta.  Rússneski herinn hefur reyndar reynzt vera mun lélegri en nokkurn óraði fyrir, reyndar her á bak við Pótemkíntjöld.  Þegar til á að taka er þetta að mestu gamli sovétherinn. Fjárveitingar til hersins hafa skilað sér illa vegna grasserandi spillingar.  

Það voru evrópskir kratar (sósíaldemókratar) með Willy Brandt, formann SPD (Sozialistische Partei Deutschlands) í broddi fylkingar, sem beittu sér fyrir þessari vanhugsuðu stefnu, "Wandel durch Handel" í "Ostpolitik" sinni.  Dæmigerður kratismi, áferðarfalleg stefna, en stórhættuleg, af því að hún var reist á röngum forsendum og skilningsleysi á eðli einræðisríkja, einkum í ríkjum rótgróinnar nýlendustefnu og heimsvaldastefnu, eins og í Rússlandi. 

Af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur kratinn í kanzlarastóli núna, Olaf Scholz, neitað að horfast í augu við staðreyndir, þótt hann lýsti yfir vendipunkti í Reichstag skömmu eftir innrásina í Úkraínu 24.02.2022.  Kannski hefur hann hlustað á rússneskar hótanir um kjarnorkuárás á Berlín frá Kalíningrad (gamla Königsberg), ef Þjóðverjar dirfast að styðja þurfandi Úkraínumenn með öflugum vopnum, sem þeir hafa þrábeðið um. Hik og tafaleikir þýzku stjórnarinnar varðandi öflugan stuðning við Úkraínu frá Evrópuríki, sem hafði áunnið sér sess eftir algert og niðurlægjandi tap í Síðari heimsstyrjöldinni, er orðið óþolandi og vekur upp tortryggni í garð Þjóðverja undir kratískri forystu um fyrirætlanir þeirra, eftir að þeir hafa gert sig seka um barnalegt og algerlega óverðskuldað traust í garð rússneskra ráðamanna, sem leiddi til mikilla ófara.  Nú, 24.01.2023, 11 mánuðum eftir svívirðilega innrás Rússa í Úkraínu, hafur þýzka stjórnin loksins tekið af skarið með skilyrðislaust leyfi til afhendingar ótakmarkaðs fjölda (að því bezt er vitað) til Úkraínuhers af þeim 2000-3000 eintaka fjölda, sem til er af Leopard 2 skriðdrekunum í Evrópu. Ef minningar styrjaldanna við Rússa á 20. öld hafa hamlað ákvarðanatöku þýzku stjórnarinnar nú, ætti hún að minnast mikilla bardaga, sem háðir voru í Úkraínu 1941-1944, þegar Wehrmacht náði öllum helztu borgum Úkraínu á sitt vald, hernam allt landið og olli Úkraínumönnum stórtjóni. Margir Úkraínumenn börðust reyndar með Wehrmacht gegn Rauða hernum, enda voru misgjörðir Rússa á hendur Úkraínumönnum og nýlendukúgun þá þegar orðnar hrottalegar.   

Þessi skriðdrekategund, þýzki Leopard 2, er talin henta Úkraínuher bezt í viðureigninni við rússneska herinn.  Bandaríski Abrams-skriðdrekinn er að mörgu leyti talinn vera sambærilegur við Leopard 2A6, nýjustu tegund Leopard drekanna, sem Bundeswehr sendir senn til Úkraínu, en hann verður erfiðari í rekstri, krefst sérhæfðara viðhalds og brennir kerosen-þotueldsneyti í stað dísilolíu, sem knýr Leopard 2 og núverandi skriðdreka Úkraínuhers. Hann er knúinn þotuhreyfli, sem þolir illa ryk. Nú hafa Bandaríkjamenn lofazt til að senda Abrams-dreka til Úkraínu, en það var furðuskilyrði af hálfu Olaf Scholz, sem mun flækja mjög rekstur og viðhald skriðdrekasveita Úkraínuhers, en í nágrannaríkjunum verða sett upp verkstæði til að þjónusta þá.  Hann er þó ýmsu vanur í þeim efnum, og sennilega hefur aldrei nokkur her haft úr að spila jafnfjölbreytilegum hergögnum frá svo mörgum ólíkum framleiðendum og Úkraínuher nú.

Engir hafa meiri og dýrkeyptari reynslu af að fást við rússneska herinn en þýzki herinn.  Reichswehr barðist við keisaraherinn í 3 ár og Wehrmacht við Rauða-herinn í tæplega 4 ár.  Panther-skriðdrekinn var hannaður og smíðaður fyrir Wehrmacht til að fást við Rauða-herinn með sinn T-35 skriðdreka, sem Heinz Guderian, hershöfðingi í Wehrmacht, taldi þann bezta, sem smíðaður hafði verið fram að því. Ekki má heldur gleyma Tiger-drekunum þýzku.  Mesta skriðdrekaorrustu allra tíma fór fram við Kursk í sunnanverðu Rússlandi í júlí 1943. Heinz Guderian taldi áætlun þýzka herráðsins um þetta uppgjör Wehrmacht við mun fleiri rússneska skriðdreka en Wehrmacht og Waffen SS  höfðu yfir að ráða vera of áhættusama, og steininn tók úr, þegar þýzku sveitirnar voru veiktar með brottflutningum bryndreka til að mæta innrás Bandamanna á Ítalíu.  Eftir þessa bardaga við Kursk máttu þýzku vélaherdeildirnar sín lítils á austurvígstöðvunum, enda var þá helzti hugmyndasmiður Wehrmacht á þessu sviði hernaðar fallinn í ónáð hjá kanzlaranum. Fjöldinn segir ekki alla söguna.  Gæði búnaðar, þjálfun hermanna og stjórnkænska ráða för nú ekki síður en þá.  

Á dögum Kalda stríðsins æfði Rauði herinn, sem átti 20 k skriðdreka, framrás hersins vestur að Rín, og NATO taldi hættu á, að látið yrði reyna á þessar fyrirætlanir.  Í því skyni að stöðva þessa væntanlegu sókn þróuðu Þjóðverjar Leopard 1 skriðdrekann í framhaldi af reynslunni af skriðdrekum Wehrmacht, og síðan var hann uppfærður tæknilega í Leopard 2, sem er hannaður sérstaklega til að fást við rússneska skriðdrekann T-72, sem er uppistaðan í rússnesku skriðdrekasveitunum, og T-90, sem er seinni útgáfa. 

Þetta er ástæðan fyrir því, að Úkraínumenn leggja höfuðáherzlu á að fá um 300 stk. Leopard 2, og öll NATO-ríkin, nema Þýzkaland, Ungverjaland og e.t.v. Tyrkland, styðja það. Einörðust í stuðningi sínum eru NATO-ríkin, sem áður voru hernumin af Rússum, því að þau telja sig vita af biturri reynslu, að árásargjörn nýlendustefna Rússa muni beinast að þeim, eftir hugsanlegt fall Úkraínu og Moldóvu, sem þó verður vonandi aldrei.  Þar er um að ræða Pólland, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Tékkland og  Slóvakíu.  Öll þessi ríki munu eiga Leopard 2 í vopnabúrum sínum og vera fús að láta hluta þeirra af hendi við Úkraínuher, þegar Þýzkaland afléttir viðskiptakvöðum af þessum tækjum.  Eftir fund Vesturveldanna í Ramstein-flugherstöð Bandaríkjahers í byrjun þorra 2023 ríkti bjartsýni um, að það ætlaði Þýzkaland að gera hið snarasta, en það hefur ekki verið staðfest fyrr en nú í dag, 24.01.2023, eftir símtal Bandaríkjaforseta við Þýzkalandskanzlara.    

Þessi kergja kratans Scholz og tvískinnungur stefndi í að senda Þýzkaland í skammarkrók Vesturveldanna.  Einangrun Þýzkalands yrði engum til góðs, nema árásaröflunum í Kreml.  Það hlyti að hrikta illilega í ríkisstjórnarsamstarfinu í Berlín, ef lengri dráttur hefði orðið á samþykki Olafs Scholz.  Hefðu orðið  stjórnarslit þar út af þessu, mundi krataflokkurinn SPD verða sendur í langa eyðimerkurgöngu, enda á stjórnmálaflokkur, sem rekur stjórnarstefnu, sem er stórskaðleg fyrir framtíð og öryggi Vesturlanda, ekkert erindi í valdastóla.  CDU bíður eftir að taka við stjórnartaumunum.  Kratar eru aldrei til stórræðanna.  

Það verður aldrei aftur sams konar ástand í Evrópu og ríkti frá falli ráðstjórnar kommúnistaflokks Rússlands og fram til innrásarinnar 24. febrúar 2022.  Það verður sett upp járntjald á landamærum Rússlands og viðskiptum við landið haldið í lágmarki, því að einræðisöflin þar munu ekki láta af þráhyggju sinni um útþenslu yfirráðasvæðis Rússlands.  Enginn annar hefur áhuga á slíku afturhvarfi sögunnar og afturför.  Þess vegna er öruggast að veita Úkraínu inngöngu í NATO, og umsókn landsins um aðild að ESB er í vinnslu í Brüssel og Kænugarði, eins og við sjáum nú á hreinsunum vegna spillingar í Kænugarði. Rússar geta engum um kennt, nema sjálfum sér.  Þeir reka hryðjuverkaríki, útlagaríki, sem engin áhrif á að hafa á það, hvernig Vesturveldin skipa varnarmálum sínum.

Á 19. öld hrifsaði Rússakeisari til sín stór landflæmi af Kínakeisara.  Ríkisstjórn kínverska kommúnistaflokksins hefur ekki gleymt þessum þætti sögunnar og mun sennilega með einhverjum hætti reyna að endurheimta þetta land og nýta þau tækifæri, sem bjóðast með breyttri stöðu heimsmálanna og veiku Rússlandi. 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Stríð í okkar heimshluta

Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu.  Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum.  Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri.  Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.

Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á  nauðsyn NATO.  Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi.  Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum.  Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi.  Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni.  Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.   

Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan.  Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri.  Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn.  Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.  

Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu  þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:  

"Margtugga um stríð":

"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað.  Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði.  Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis.  En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju." 

Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914.  Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki.  Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu.  Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.

Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu.  Pútín og skósveinar þessa  nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum.  Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa. 

Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi.  Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði.  Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus. 

"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára.  Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans.  Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."

Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda.  Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.  

"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða.  Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar.  Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða.  Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni." 

Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan.  Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa.  Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur. 

Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar.  Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis. 

"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu.  Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum.  Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna.  Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök.  Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski.  En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."  

Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu  valdastétt Rússlands.  Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar.  Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill.  Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum.  Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið.  Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO.  Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri. 

Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki.  Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023.  Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO.  Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.  

Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki.  (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.)  Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða.  Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins. 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband