Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
17.2.2023 | 09:51
Þveræingar og Nefjólfssynir
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, ritaði skemmtilega grein í Morgunblaðið 17. janúar 2023 í tilefni af 75 ára afmæli ritstjórans, Davíðs Oddssonar. Hann lagði þar út af kenningu sinni um rauðan þráð, sem lægi um nánast alla Íslandssöguna, varðandi viðhorf þjóðarinnar til æskilegra samskipta við erlend ríki. Kenningin er einföld og rökstudd af Hannesi með fjölda dæma af íslenzkum höfðingjum. Má ekki ætla, að alþýðunni hafi verið svipað farið og höfðingjunum að þessu leyti ?
Fyrirsögn greinarinnar gefur til kynna meginstef hennar:
"Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar".
Hún hófst þannig:
"Landnemarnir frá Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð. Sighvatur, skáld, Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin "íslenzku augu", sem hefðu dugað sér vel. Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna [í hvoru landi]. Segja má, að eftir það hafi 2 ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar."
Landnemarnir voru alls ekki allir frá Noregi, heldur hafa erfðafræðirannsóknir sýnt fram á, að umtalsvert hlutfall landnámsmanna var ættaður af Skotlandi og skozku eyjunum og víðar. Margir þeirra voru kristnir og höfðu tileinkað sér bóklist (lestur og skrift). Vestmenn þessir voru margir hverjir skáldskaparmenn, og höfðu lært til skáldskapar í skólum. Þeir urðu sérfræðingar í skáldskap, og Íslendingar héldu þessari hefð við. Slíkir menn frá Íslandi urðu eftirsótt skáld hjá norskum höfðingjum, m.a. við hirð Noregskonungs, og má nefna Ólaf, Kolbrúnarskáld, sem var í vist hjá Ólafi, digra, barðist með honum á Stiklastöðum í Þrændalögum og mælti hin ódauðlegu orð á banastundinni, er ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi þar, og hvítar tæjur hengu á örvaroddinum: "Vel hefur konungur alið oss", en að svo búnu féll hann dauður niður.
Vegna blandaðs og sérstaks uppruna landnámsmanna, sem hefur leitt af sér a.m.k. 2 tungumál í landinu á 10. öld eða öllu heldur nokkrar mállýzkur af norsku og gelísku, er eðlilegt, að Íslendingar hafi frá öndverðu hvorki getað litið á sig sem Norðmenn né Skota, heldur sérstaka og sjálfstæða þjóð, Íslendinga. Afkomendur hinna heiðnu norsku landnema voru að ýmsu leyti öflugastir, og það er athyglisvert, að þeir virðast móta söguna, og sérstaklega þó, hvernig hún er rituð, með fyrstu landnámsmennina úr Norðurvegi, og Gulaþingslögin til grundvallar fyrstu íslenzku lögbókinni, en ekki var þó dregin dul á hlut skozkra höfðingja í landnáminu, t.d. Auðar, djúpúðgu, sem nam Dalina, og höfðingjar á hennar skipum námu víða land, t.d. á Norðurlandi.
"Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. [Enginn konungur stjórnaði landnáminu, heldur var það einstaklingsframtak skipstjórnarmanna víða að, sem höfðu enga þörf fyrir konung og höfðu margir hverjir orðið fyrir barðinu á konungum. Þetta var önnur sérstaða Íslendinga, sem átti eftir að móta söguna. Innsk.-BJo.] Í því var sérstaða landsins ekki sízt fólgin að sögn goðans á Ljósavatni. En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar. Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan."
Kristnitakan hefði ekki getað farið fram með pólitísku samkomulagi á Alþingi 999-1000, nema kristnir og heiðnir hefðu búið saman í landinu, blandað geði saman, bundizt blóðböndum og hagsmunaböndum í 4-5 kynslóðir og unnið saman á héraðsþingum og á Alþingi í 3-4 kynslóðir, farið í göngur og réttir og stundað viðskipti innbyrðis og við erlenda kaupmenn. Þingheimi var gert ljóst með sendiboða frá Noregskonungi, Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gætu ekki vænzt friðsamlegrar sambúðar við Noreg og norska kaupmenn, nema þeir köstuðu heiðninni fyrir róða og létu skírast til kristni. Slíkar sögur fóru af víkingakónginum Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gerðu sér grein fyrir, að kóngsi hefði bæði vilja og getu til að standa við orð sín. Þar með stóðu öll spjót á heiðna hópinum á Alþingi, og var Þorgeiri, goða á Ljósavatni, falið að semja málamiðlun, sem hann gerði með snilldarlegum hætti á 2-3 sólarhringum. Síðan er talað um leggjast undir feld, þegar leysa þarf erfið úrlausnarefni.
"Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnaritara [en Ara, fróða, Þorgilssonar - innsk.BJo], Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024. Íslenzkur hirðmaður Ólafs, digra, Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd. Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar. Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur, digri, væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því bezt að hafa engan konung."
Þetta var viturlega mælt hjá Einari, Þveræingi, úr fjaðurstaf Snorra Sturlusonar. Þessi sagnameistari og höfðingi í flóknum stjórnmálaheimi Sturlungaaldar var að sönnu ekki hallur undir þann konung, sem var honum samtíða í Noregi, Hákon, gamla, en hann var heldur enginn vinur hans, eins og Einar boðaði, að Íslendingar skyldu kappkosta, enda var slíkt sennilega ógjörningur fyrir Íslendinga, þ.e. að njóta vinfengis konungs án þess að ganga erinda hans á Íslandi.
Snorri var prestur og enginn hermaður, eins og Bæjarbardagi var til vitnis um, og hann beitti aldrei miklum áhrifum sínum á Alþingi í þágu konungs. Hann var trúr kenningu sinni, þótt margræður persónuleiki væri. Aftur á móti var hann í vinfengi við Skúla, jarl, sem gerðist keppinautur Hákonar um æðstu völd í Noregi,en laut í lægra haldi.
Refsivald konungs náði þá þegar til Íslands 1241, 21 ári fyrir gerð Gamla sáttmála, sem sýnir pólitíska ástandið í landinu, og mun fyrrverandi tengdasonur Snorra, Gissur Þorvaldsson í Hruna, sem var handgenginn maður konungi, hafa fengið skipun um að taka Snorra Sturluson af lífi. Er það eitt mesta níðingsverk Íslandssögunnar, enda var þess grimmilega hefnt með Flugumýrarbrennu, þótt Gissur bjargaði sér þar naumlega ofan í sýrukeraldi. Fyrir undirgefni Haukdælahöfðingjans fékk hann jarlsnafnbót frá feigum kóngi.
"Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipzt í 2 flokka. Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem eiga þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir samstöðu."
Höfundur þessa vefpistils hefur alla tíð talið það liggja í augum uppi, að ekkert vit sé í því fyrir smáþjóð langt norður í Atlantshafi að taka allt gagnrýnilaust upp eftir öðrum þjóðum, sem búa við allt aðrar aðstæður. Það hefur alla tíð verið aðall Íslendinga að hirða það úr menningu, tækni og siðum annarra, sem nytsamlegt getur talizt hérlendis, og laga það að aðstæðum okkar, laga það að siðum okkar, tungunni og lagaumhverfi. Hér var t.d. engin þörf á sameiningartákni, konungi, til að sameina höfðingjana í baráttu við erlend árásaröfl. Íslenzka kirkjan sameinaði væntanlega gelíska og germanska kirkjusiði. Íslendingar höfnuðu Járnsíðu Magnúsar, konungs, lagabætis, og fengu í staðinn Jónsbók, sem studdist við Grágás. Heilbrigð íhaldssemi hefur reynzt Íslendingum vel. Þeir hafa ekki verið byltingarmenn, þótt þeir hafi verið fljótir að tileinka sér nýjungar, sem þeir sáu, að gagn væri hægt að hafa af.
Íslendingar fengu sína stjórnarskrá úr hendi Danakonungs 1874, og varð ekki verulegur ágreiningur um hana, enda var hún eiginlega samevrópsk þá og síðan hverja bragarbótina á fætur annarri á stjórnskipuninni, þar til sambandið við Danakóng var rofið með nánast einróma stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júni 1944 á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar, Jóns Sigurðssonar.
Það gekk hins vegar mikið á, þegar framsýnir og víðsýnir menn beittu sér fyrir stofnaðild landsins að varnarsamtökum lýðræðisþjóða Evrópu og Norður-Ameríku, NATO. Andstæðingar aðildar voru af ólíku tagi, bæði einlægir Þveræingar og harðsvíraðir kommúnistar, dæmigerðir Nefjólfssynir, sem sáu Sovét-Ísland í hillingum.
Hin mikla þversögn nútímans á Íslandi, þegar stríð geisar í Evrópu, er, að forsætisráðherrann er formaður stjórnmálaflokks, sem hangir á nauðsyn varnarleysis, eins og hundur á roði eða steingervingur í Evrópu. Slík afstaða er ekki í anda Þveræinga, sem vilja samstöðu með lýðræðisþjóðum gegn einræðisþjóðum, sem sýnt hafa glæpsamlegt eðli sitt með hryðjuverkum gagnvart varnarlausum íbúum í Úkraínu. Slík samstaða tryggir Þveræingum eftirsótt frelsi.
Slíka villimenn á valdastóli í Rússlandi verður að kveða niður, og eymdarkveinstafir þeirra um, að Úkraínumenn megi ekki skjóta á þau skotmörk í Rússlandi, þaðan sem eldflaugar og drónar eru send til að valda manntjóni og eignatjóni í Úkraínu, eru ekki svaraverðir, enda siðblindingjar, sem þar væla. Þjóðarmorð er nú framið í Úkraínu fyrir opnum tjöldum. Hvílíkur viðbjóður !
Hótanir glæpagengis Kremlar, s.s. trúðsins Medvedevs, um að beita í refsingarskyni kjarnorkuvopnum eru hlálegar, því að yfirburðir Vesturveldanna á sviði hernaðar eru slíkir, að þeir munu ekki komast upp með neitt slíkt, en munu kalla yfir sig slíkan eyðingarmátt, að rússneska sambandsríkið verði úr sögunni að eilífu.
"Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenzkum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenzkir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verzlunarfrelsis. "Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti", sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866. "Frelsið kemur að vísu mest frá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram, nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.""
Nefjólfssynir í landinu 1262 hafa ekki samþykkt Gamla sáttmála nauðugir, heldur fúsir, enda höfðu sumir þeirra unnið að innlimum Íslands í norska konungsríkið um áratuga skeið. Í nútímanum barðist einn kúnstugur fýr fyrir því, áður en hann umturnaðist í byltingarkenndan sósíalista, sem er önnur furðuleg hugdetta, að Ísland yrði fylki í Noregi, þótt þáverandi stjórnvöld Noregs hafi verið því algerlega afhuga, enda hugmyndin fráleit og reist á nauðhyggju Nefjólfssona um, að Íslendingar geti ekki séð sér farborða á eigin spýtum. Þeir hafa þó rækilega sannað mátt sjálfstæðis til að knýja hér framfarir og að tryggja hér efnalega hagsæld.
Það var áreiðanlega raunhæft og rétt viðhorf Jóns Sigurðssonar, forseta, að frelsið kemur mest frá einstaklinginum sjálfum og að verzlunarfrelsi er undirstaða frelsis samfélagsins. Frjáls verzlun og viðskipti hafa reynzt undirstaða efnalegra framfara á Íslandi, sem hvergi í Evrópu urðu meiri en á Íslandi á 20. öldinni. Frjáls viðskipti Íslands við lönd Evrópusambandsins, ESB, eru nú bundin á klafa þvingaðrar samræmingar við löggjöf ESB, sem augljóslega átti að vera undanfari inngöngu í ESB. Ekki er víst, að Jóni Sigurðssyni, forseta, hefði hugnazt þetta fyrirkomulag, enda varla hægt að kalla þetta frjáls viðskipti, þótt þau séu að mestu leyti tollfrjáls. Nefjólfssonum finnst, að stíga þurfi skrefið til fulls, en Þveræingar eru beggja blands í þessu máli.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2023 | 20:14
Kenningin um "Wandel durch Handel" er dauð
Það er kominn tími fyrir þýzk stjórnvöld og aðra, sem tvíátta eru í afstöðunni til Rússlands, að gera sér grein fyrir í raun, að aldrei aftur verður horfið til samskipta við Rússland á viðskiptasviðinu og öðrum sviðum, eins og innrás rússneska hersins í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefði aldrei átt sér stað. Kenningin um, að með viðskiptum við einræðisríki gætu lýðræðisríkin haft áhrif á einræðisríkin til batnaðar, því að sameiginlegir viðskiptahagsmunir mundu gera einræðisríkin nægilega vinveitt lýðræðisríkjunum, til að þau mundu ekki telja verjanlegt að fara með ófriði gegn þeim, hefur reynzt loftkastalar draumóramanna. Til að breiða yfir veikleika þessarar kenningar, breiddi einn höfundanna, kratinn Willy Brandt, yfir raunveruleikann með því að kalla ósköpin "Realpolitik". Þjóðverjar áttu eftir að fara flatt á þessari krataglópsku.
Viðskiptin styrkja einræðisríkin tæknilega og fjárhagslega, og þau reyna að beina aðkeyptri vestrænni tækni að eflingu herstyrksins, sem settur verður til höfuðs lýðræðisríkjum við fyrsta tækifæri. Rússland er nýjasta dæmið um þetta. Rússneski herinn hefur reyndar reynzt vera mun lélegri en nokkurn óraði fyrir, reyndar her á bak við Pótemkíntjöld. Þegar til á að taka er þetta að mestu gamli sovétherinn. Fjárveitingar til hersins hafa skilað sér illa vegna grasserandi spillingar.
Það voru evrópskir kratar (sósíaldemókratar) með Willy Brandt, formann SPD (Sozialistische Partei Deutschlands) í broddi fylkingar, sem beittu sér fyrir þessari vanhugsuðu stefnu, "Wandel durch Handel" í "Ostpolitik" sinni. Dæmigerður kratismi, áferðarfalleg stefna, en stórhættuleg, af því að hún var reist á röngum forsendum og skilningsleysi á eðli einræðisríkja, einkum í ríkjum rótgróinnar nýlendustefnu og heimsvaldastefnu, eins og í Rússlandi.
Af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur kratinn í kanzlarastóli núna, Olaf Scholz, neitað að horfast í augu við staðreyndir, þótt hann lýsti yfir vendipunkti í Reichstag skömmu eftir innrásina í Úkraínu 24.02.2022. Kannski hefur hann hlustað á rússneskar hótanir um kjarnorkuárás á Berlín frá Kalíningrad (gamla Königsberg), ef Þjóðverjar dirfast að styðja þurfandi Úkraínumenn með öflugum vopnum, sem þeir hafa þrábeðið um. Hik og tafaleikir þýzku stjórnarinnar varðandi öflugan stuðning við Úkraínu frá Evrópuríki, sem hafði áunnið sér sess eftir algert og niðurlægjandi tap í Síðari heimsstyrjöldinni, er orðið óþolandi og vekur upp tortryggni í garð Þjóðverja undir kratískri forystu um fyrirætlanir þeirra, eftir að þeir hafa gert sig seka um barnalegt og algerlega óverðskuldað traust í garð rússneskra ráðamanna, sem leiddi til mikilla ófara. Nú, 24.01.2023, 11 mánuðum eftir svívirðilega innrás Rússa í Úkraínu, hafur þýzka stjórnin loksins tekið af skarið með skilyrðislaust leyfi til afhendingar ótakmarkaðs fjölda (að því bezt er vitað) til Úkraínuhers af þeim 2000-3000 eintaka fjölda, sem til er af Leopard 2 skriðdrekunum í Evrópu. Ef minningar styrjaldanna við Rússa á 20. öld hafa hamlað ákvarðanatöku þýzku stjórnarinnar nú, ætti hún að minnast mikilla bardaga, sem háðir voru í Úkraínu 1941-1944, þegar Wehrmacht náði öllum helztu borgum Úkraínu á sitt vald, hernam allt landið og olli Úkraínumönnum stórtjóni. Margir Úkraínumenn börðust reyndar með Wehrmacht gegn Rauða hernum, enda voru misgjörðir Rússa á hendur Úkraínumönnum og nýlendukúgun þá þegar orðnar hrottalegar.
Þessi skriðdrekategund, þýzki Leopard 2, er talin henta Úkraínuher bezt í viðureigninni við rússneska herinn. Bandaríski Abrams-skriðdrekinn er að mörgu leyti talinn vera sambærilegur við Leopard 2A6, nýjustu tegund Leopard drekanna, sem Bundeswehr sendir senn til Úkraínu, en hann verður erfiðari í rekstri, krefst sérhæfðara viðhalds og brennir kerosen-þotueldsneyti í stað dísilolíu, sem knýr Leopard 2 og núverandi skriðdreka Úkraínuhers. Hann er knúinn þotuhreyfli, sem þolir illa ryk. Nú hafa Bandaríkjamenn lofazt til að senda Abrams-dreka til Úkraínu, en það var furðuskilyrði af hálfu Olaf Scholz, sem mun flækja mjög rekstur og viðhald skriðdrekasveita Úkraínuhers, en í nágrannaríkjunum verða sett upp verkstæði til að þjónusta þá. Hann er þó ýmsu vanur í þeim efnum, og sennilega hefur aldrei nokkur her haft úr að spila jafnfjölbreytilegum hergögnum frá svo mörgum ólíkum framleiðendum og Úkraínuher nú.
Engir hafa meiri og dýrkeyptari reynslu af að fást við rússneska herinn en þýzki herinn. Reichswehr barðist við keisaraherinn í 3 ár og Wehrmacht við Rauða-herinn í tæplega 4 ár. Panther-skriðdrekinn var hannaður og smíðaður fyrir Wehrmacht til að fást við Rauða-herinn með sinn T-35 skriðdreka, sem Heinz Guderian, hershöfðingi í Wehrmacht, taldi þann bezta, sem smíðaður hafði verið fram að því. Ekki má heldur gleyma Tiger-drekunum þýzku. Mesta skriðdrekaorrustu allra tíma fór fram við Kursk í sunnanverðu Rússlandi í júlí 1943. Heinz Guderian taldi áætlun þýzka herráðsins um þetta uppgjör Wehrmacht við mun fleiri rússneska skriðdreka en Wehrmacht og Waffen SS höfðu yfir að ráða vera of áhættusama, og steininn tók úr, þegar þýzku sveitirnar voru veiktar með brottflutningum bryndreka til að mæta innrás Bandamanna á Ítalíu. Eftir þessa bardaga við Kursk máttu þýzku vélaherdeildirnar sín lítils á austurvígstöðvunum, enda var þá helzti hugmyndasmiður Wehrmacht á þessu sviði hernaðar fallinn í ónáð hjá kanzlaranum. Fjöldinn segir ekki alla söguna. Gæði búnaðar, þjálfun hermanna og stjórnkænska ráða för nú ekki síður en þá.
Á dögum Kalda stríðsins æfði Rauði herinn, sem átti 20 k skriðdreka, framrás hersins vestur að Rín, og NATO taldi hættu á, að látið yrði reyna á þessar fyrirætlanir. Í því skyni að stöðva þessa væntanlegu sókn þróuðu Þjóðverjar Leopard 1 skriðdrekann í framhaldi af reynslunni af skriðdrekum Wehrmacht, og síðan var hann uppfærður tæknilega í Leopard 2, sem er hannaður sérstaklega til að fást við rússneska skriðdrekann T-72, sem er uppistaðan í rússnesku skriðdrekasveitunum, og T-90, sem er seinni útgáfa.
Þetta er ástæðan fyrir því, að Úkraínumenn leggja höfuðáherzlu á að fá um 300 stk. Leopard 2, og öll NATO-ríkin, nema Þýzkaland, Ungverjaland og e.t.v. Tyrkland, styðja það. Einörðust í stuðningi sínum eru NATO-ríkin, sem áður voru hernumin af Rússum, því að þau telja sig vita af biturri reynslu, að árásargjörn nýlendustefna Rússa muni beinast að þeim, eftir hugsanlegt fall Úkraínu og Moldóvu, sem þó verður vonandi aldrei. Þar er um að ræða Pólland, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Tékkland og Slóvakíu. Öll þessi ríki munu eiga Leopard 2 í vopnabúrum sínum og vera fús að láta hluta þeirra af hendi við Úkraínuher, þegar Þýzkaland afléttir viðskiptakvöðum af þessum tækjum. Eftir fund Vesturveldanna í Ramstein-flugherstöð Bandaríkjahers í byrjun þorra 2023 ríkti bjartsýni um, að það ætlaði Þýzkaland að gera hið snarasta, en það hefur ekki verið staðfest fyrr en nú í dag, 24.01.2023, eftir símtal Bandaríkjaforseta við Þýzkalandskanzlara.
Þessi kergja kratans Scholz og tvískinnungur stefndi í að senda Þýzkaland í skammarkrók Vesturveldanna. Einangrun Þýzkalands yrði engum til góðs, nema árásaröflunum í Kreml. Það hlyti að hrikta illilega í ríkisstjórnarsamstarfinu í Berlín, ef lengri dráttur hefði orðið á samþykki Olafs Scholz. Hefðu orðið stjórnarslit þar út af þessu, mundi krataflokkurinn SPD verða sendur í langa eyðimerkurgöngu, enda á stjórnmálaflokkur, sem rekur stjórnarstefnu, sem er stórskaðleg fyrir framtíð og öryggi Vesturlanda, ekkert erindi í valdastóla. CDU bíður eftir að taka við stjórnartaumunum. Kratar eru aldrei til stórræðanna.
Það verður aldrei aftur sams konar ástand í Evrópu og ríkti frá falli ráðstjórnar kommúnistaflokks Rússlands og fram til innrásarinnar 24. febrúar 2022. Það verður sett upp járntjald á landamærum Rússlands og viðskiptum við landið haldið í lágmarki, því að einræðisöflin þar munu ekki láta af þráhyggju sinni um útþenslu yfirráðasvæðis Rússlands. Enginn annar hefur áhuga á slíku afturhvarfi sögunnar og afturför. Þess vegna er öruggast að veita Úkraínu inngöngu í NATO, og umsókn landsins um aðild að ESB er í vinnslu í Brüssel og Kænugarði, eins og við sjáum nú á hreinsunum vegna spillingar í Kænugarði. Rússar geta engum um kennt, nema sjálfum sér. Þeir reka hryðjuverkaríki, útlagaríki, sem engin áhrif á að hafa á það, hvernig Vesturveldin skipa varnarmálum sínum.
Á 19. öld hrifsaði Rússakeisari til sín stór landflæmi af Kínakeisara. Ríkisstjórn kínverska kommúnistaflokksins hefur ekki gleymt þessum þætti sögunnar og mun sennilega með einhverjum hætti reyna að endurheimta þetta land og nýta þau tækifæri, sem bjóðast með breyttri stöðu heimsmálanna og veiku Rússlandi.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 26.1.2023 kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.12.2022 | 11:17
Stríð í okkar heimshluta
Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu. Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum. Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri. Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.
Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á nauðsyn NATO. Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi. Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum. Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi. Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni. Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.
Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan. Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri. Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn. Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.
Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:
"Margtugga um stríð":
"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað. Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði. Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis. En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju."
Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914. Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki. Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu. Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.
Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu. Pútín og skósveinar þessa nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum. Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa.
Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi. Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði. Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus.
"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára. Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans. Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."
Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda. Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.
"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða. Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar. Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða. Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni."
Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan. Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa. Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur.
Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar. Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis.
"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu. Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum. Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna. Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök. Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski. En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."
Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu valdastétt Rússlands. Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar. Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill. Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum. Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið. Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO. Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri.
Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki. Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023. Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO. Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.
Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki. (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.) Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða. Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.9.2022 | 11:03
Lengi eimir eftir af Molotoff-Ribbentropp-samninginum
Molotoff og Ribbentropp voru utanríkisráðherrar einræðisherranna Stalíns og Hitlers. Hitler sendi utanríkisráðherra sinn til Moskvu síðla ágústmánaðar 1939 til að ganga frá samningi við Kremlverja, sem innsiglaði skiptingu Evrópu á milli þessara stórvelda. Þessi samningur var ósigur fyrir lýðræðið og sjálfsákvörðunarrétt þjóða um að haga málum sínum að vild, enda voru þjóðir Evrópu með honum dæmdar til kúgunar og þrælahalds. Það er einmitt gegn slíku þrælahaldi, sem Úkraínumenn berjast núna blóðugri baráttu, og er það ótrúlega hart nú á 21. öldinni að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum í Evrópu upp á líf og dauða.
Í Evrópu sluppu t.d. Bretar, Íslendingar, Svisslendingar, Svíar, Spánverjar og Portúgalir undan stríðsátökum. Einörð varnarbarátta Breta bjargaði Vestur-Evrópu undan járnhæl nazismans. Vegna einstakrar frammistöðu flughers Breta í viðureigninni við flugher Þjóðverja haustið 1940 og öflugs flota Breta tókst að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja yfir Ermarsundið. Með aðgerðinni Rauðskeggur 21. júní 1941 splundraði Hitler þessum illræmda samningi, en það er engu líkara en hann lifi þó í hugskoti ýmissa enn.
Afstaða Þýzkalandskanzlaranna Kohls, Merkel og Scholz ber þess merki, að þau hafi í hugskoti sínu stjórnazt af þeirri úreltu hugmyndafræði, að Þýzkaland og Rússland ættu að skipta Evrópu á milli sín í áhrifasvæði. Þýzka ríkisstjórnin var Eystrasaltsríkjunum fjandsamleg við lok Kalda stríðsins, Merkel stöðvaði áform Bandaríkjamanna 2015 um að veita Úkraínu aðild að NATO, og Scholz hefur dregið lappirnar í hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu. Afleiðingin er ófögur.
Jón Baldvin Hannibalsson, krati og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þegar hann, ásamt forsætisráðherranum, Davíð Oddssyni, beitti sér fyrir því, að Ísland braut ísinn á örlagaþrungnum tíma og viðurkenndi fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Þetta er bezti gjörningur Íslands gagnvart öðrum ríkjum á lýðveldistímanum. Hvar værum við stödd, ef réttur þjóðríkja til óskoraðs fullveldis væri ekki virtur að alþjóðalögum ? Barátta Úkraínumanna núna við rotið Rússland, sem stjórnað er með vitfirrtum hætti til að snúa sögunni við, snýst um rétt stórra og smárra ríkja til fullveldis og til að búa í friði í landi sínu. Þess vegna eiga Vesturlönd að styðja Úkraínu hernaðarlega án þess að draga af sér og fylgja þar fordæmi Póllands og Eystrasaltsríkjanna.
Nú verður vitnað í grein JBH í Morgunblaðinu 30.ágúst 2022, sem hann nefndi:
"Um þá sem þora ..."
"Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu. Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins. Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði neðanjarðar. Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins. Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO-ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: "Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi ?".
Þarna minnist JBH ekki á eitt alsvínslegasta tiltæki rússnesku kúgaranna, sem þeir hafa beitt alls staðar, þar sem þeir hafa talið þörf á að berja niður sjálfstæðistilhneigingu þjóða og að eyðileggja þjóðareinkenni þeirra. Þeir hafa stundað hina mannfjandsamlegu kynþáttahreinsun, "ethnic cleansing", í Eystrasaltsríkjunum, og hana stunda viðbjóðirnir á herteknum svæðum Úkraínu. Fólkið er flutt burt langt frá heimkynnum sínum og Rússar látnir setjast að í staðinn. Þetta er glæpur gegn mannkyni, og það er ískyggilegt, að rússneska valdastéttin skuli vera á svo lágu siðferðisstigi á 21. öldinni að gera sig seka um þetta. Þeir verðskulda ekkert minna en fulla útskúfun Vesturlanda sem hryðjuverkaríki.
"Hinn atburðurinn [á eftir "syngjandi byltingunni" í júní 1988-innsk. BJo], sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins, var "mannlega keðjan" í ágúst 1989. Næstum 2 milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilniusar í suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop-samninginum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur [á] milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Samkvæmt samninginum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þ.m.t. Finnland - eitt Norðurlandanna."
Þannig var lenzkan á miðöldum í Evrópu, að stórveldin ráðskuðust með fullveldi minni ríkjanna og röðuðu þeim inn á áhrifasvæði sín. Enginn, nema kannski páfinn eða æðsti prestur rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu, hafði gefið þeim þennan rétt. Þau tóku sér hann annars með vopnavaldi. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, 1914-1918, tók þetta fyrirkomulag að rakna upp fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar. Þá var kveðið á um rétt þjóða til að ákvarða sjálfar örlög sín, hvort þau kysu að vera í ríkjabandalagi eða afla sér sjálfstæðis um eigin mál og fullveldis. Þá urðu t.d. Ísland og Finnland sjálfstæð ríki, og Úkraína varð sjálfstæð í öreigabyltingunni rússnesku 1917. Þetta er nú hinn ríkjandi réttur að alþjóðalögum. Vladimir Putin snýr öllu á haus, vill snúa klukkunni til baka, en það mun ekki ganga til lengdar.
"Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum. Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok kalda stríðsins með því að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða ? Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum - í því skyni að varðveita frið og stöðugleika ?
Bilið [á] milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar og þeirrar stórveldapólitíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt."
Að stærri ríki hafi öll ráð hinna smærri í hendi sér, er óalandi og óferjandi viðhorf. Valdið til að ákvarða fullveldi ríkis liggur hjá íbúum þess ríkis sjálfum og ekki hjá stjórnmálamönnum stærri ríkja, sízt af öllu gamalla nýlendukúgara eins og Rússlands. Þetta viðurkenndu Bretar og Frakkar í raun með því að segja Stór-Þýzkalandi stríð á hendur í kjölfar innrásar Wehrmacht í Pólland 1. september 1939. Frakkland féll að vísu flestum að óvörum á undraskömmum tíma vorið 1940 fyrir leifturárás, "Blitzkrieg Guderians", en Stóra-Bretland hélt velli og stóð uppi sem sigurvegari 1945 með dyggri hernaðarhjálp Bandaríkjamanna.
"Það var þess vegna, sem Bush, Bandaríkjaforseti, flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum. Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn "að láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju", heldur halda Sovétríkjunum saman "í nafni friðar og stöðugleika".
Það var þess vegna, sem Kohl, kanzlari, og Mitterand, forseti, skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa frá 11. marz 1990."
Ráðstjórnarríkin voru of rotin undir þrúgandi kommúnisma, til að þau gætu haldizt saman. Það hefur þessum forsetum og kanzlara verið ljóst, en þeir hafa talið sig skuldbundna Gorbasjeff fyrir þátt hans í friðsamlegu hruni Járntjaldsins. Þeir höfðu hins vegar engan rétt til að slá á frelsisþrá undirokaðra þjóða, sem þráðu endurheimt frelsis síns og fullveldis. Þar kemur að hinu sögulega gæfuspori Íslands, smáríkis norður í Atlantshafi, sem öðlazt hafði fullveldi í eigin málum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar og fullt sjálfstæði við lýðveldisstofnun, sem Bandaríkjamenn studdu dyggilega í júní 1944, skömmu eftir innrás Bandamanna í Normandí.
"En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu ? Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi. Þvert á móti: Ísland var háð Sovétríkjunum um innflutning á eldsneyti - sem er lífsblóð nútímahagkerfa - allt frá því, að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-1975). Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað að leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra ? M.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði ?
Allt er þetta vel þekkt. Engu að síður vorum við [Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur - innsk. BJo] tregir til fylgispektar. Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum. Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin. Hún byggðist á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna. Ég var sannfærður um, að Sóvétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á. Heimsveldið væri að liðast í sundur, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á seinni heimsstyrjöldinni."
Það er eins og Vesturveldin hafi verið fús til á þessari stundu að stinga þeirri dúsu upp í Gorbasjeff að skipta Evrópu á milli tveggja stórvelda í anda Mólotoff-Ribbentropp-samningsins og Þjóðverjar stutt það leynt og ljóst sem verðandi forysturíki Evrópusambandsins. Þetta er ólíðandi hugarfar og ekki reist á öðru en rétti, sem sá "sterki" tekur sér til að kúga og skítnýta þann "veika". Saga nýlendustjórnarfars í Evrópu leið undir lok með hruni Járntjaldsins, en nú reyna Rússar að snúa við hinni sögulegu þróun. Það mun allt fara í handaskolum hjá þeim, enda með endemum óhönduglega og villimannslega að verki verið. Enginn kærir sig um að þjóna slíkum herrum á 21. öldinni.
"Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisþjóða áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum notið "friðar og stöðugleika". Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök."
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2022 | 11:08
Sannleikurinn um Rússland og Evrópusambandið afhjúpaður
Tímamótagrein um glæpsamlega nýlendustefnu Rússlands og yfirgang Frakka og Þjóðverja innan Evrópusambandsins, ESB, eftir forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál - Evrópa á krossgötum".
Pólverjar hafa í sögulegu tilliti haft bitra reynslu af bæði Rússum og Þjóðverjum og hafa í raun verið klemmdir á milli þessara evrópsku stórvelda. Málflutningur forsætisráðherra Póllands á ekki sízt í þessu ljósi brýnt erindi við nútímann, af því að hann skrifar af djúpstæðri þekkingu og skarpri rökhyggju um hegðun þessara nágranna sinna í nútímanum. Það er ófögur lýsing, sem á fullt erindi við Íslendinga, enda eru hér á Íslandi heilu stjórnmálaflokkarnir, sem leynt og ljóst vinna að því að gera Íslendinga þrælbundna stofnanaveldi ESB, þar sem smáþjóðir verða bara að sitja og standa, eins og ríkjandi þjóðir ESB telja henta "heildinni" bezt.
Grein forsætisráðherrans hófst þannig:
"Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir, sem neituðu að taka eftir því, að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu, verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd, að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimir Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli."
Það, sem nú blasir við í Rússlandi, er grímulaus fasismi undir stjórn hryðjuverkamafíu í Kreml. Útþenslufasismi er aldagamall í Rússlandi og talið er, að á dögum Ráðstjórnarríkjanna hafi neisti fasismans verið varðveittur í leyniþjónustunni KGB, og Stalín hallaði sér þangað á stríðsárunum með því að virkja þjóðerniskennd Rússa í "The Great Patriotic War". Hugmyndagræði Pútíns um yfirráð Rússa yfir slavnesku löndunum ásamt Georgíu og Eystrasaltslöndunum á sér þannig sögulegar rætur, en hún stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og sjálfsögðum sjálfsákvörðunarrétti þjóða og er fullkomin tímaskekkja. Í höndum ólígarka og hrotta í Kreml er hér um að ræða nýlendustefnu, þar sem kúga á nágrannaþjóðirnar til undirgefni og skítnýta náttúruauðævi þessara landa til auðsöfnunar ólígarkanna. Úkraína, ekki sízt austurhlutinn, er t.d. gríðarlega auðug af náttúrunnar hendi. Menntunarstig Úkraínumanna og færni er á mun hærra stigi en almennt gerist í Rússlandi, og menning Úkraínumanna ber sköpunargáfu þeirra fagurt vitni. Úkraínumenn höfðu markað sér stefnu um lýðræðislegt stjórnarfar og aðild að stofnunum Vesturlanda. Þetta þoldi Kremlarstjórnin hins vegar ekki, því að hún óttaðist, að frelsisaldan bærist austur yfir landamærin, enda hafa verið mikil samskipti þar á milli, en nú hefur Pútín gert þessar þjóðir að fjandmönnum, og mun seint gróa um heilt á milli þeirra.
Nú, eins og 1939-1945, er tíðarandinn (der Zeitgeist) frelsinu hliðhollur. Hann blæs Úkraínumönnum eldmóð í brjóst, svo að enn mun Davíð sigra Golíat. Við, sem ekki þurfum að vera á vígvöllunum, verðum vitni að stríði um framtíð Evrópu. Rússar munu ekki láta staðar numið, nái þeir Úkraínu á sitt vald, fyrr en þeir hafa skapað óstöðugleika í álfunni, lagt undir sig fleiri ríki og Finnlandíserað hin. Einangrunarhyggju gætir í Bandaríkjunum og fyrrverandi forseti BNA hótaði að draga Bandaríkin út úr NATO. Þar með verður lítil vörn í NATO í framtíðinni. Vonandi verður Úkraínulexían þó til þess að styrkja samstöðu Vesturlanda í bráð og lengd.
"Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess, að hún var ekki nægilega samþætt, heldur vegna þess, að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár. Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum, en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra, sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum, að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu, heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann."
Evrópa hefur lifað í þeirri sjálfsblekkingu, að hægt sé að tryggja friðsamlega sambúð við Rússland með viðskiptum, menningarsamskiptum og diplómatíu. Það var hægt, á meðan það hentaði Rússlandi, en þegar Rússar töldu tímann vera kominn til að láta til skarar skríða, þá létu þeir vopnin tala. Vesturlönd geta því miður aðeins tryggt fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt með því að verða grá fyrir járnum. Það er ekki notaleg framtíðarsýn, en þetta er raunveruleikinn, sem þessi nágranni Evrópu í austri býður upp á. Samskiptin verða í frosti um langa framtíð.
"Sú staðreynd, að rödd Póllands hafi verið hundsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls, sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis, en stjórnmálavenja sýnir fram á, að rödd Þýzkalands og Frakklands hefur mest áhrif. Þá er um að ræða formlegt lýðræði, sem er í raun fámennisstjórn, þar sem vald er í höndum þeirra sterkustu. Þeir sterkustu geta gert mistök, en geta ekki tekið gagnrýni frá öðrum."
Þarna beinir forsætisráðherra Póllands kastljósinu að lýðræðishallanum innan ESB. Hann er alvarlegra og djúpstæðara vandamál en komið hefur fram í umræðum hérlendis hjá efasemdarmönnum um gagnsemi þess fyrir Ísland að vera þarna aðili. Pólland er stórt land í km2 talið, og þjóðin telur um 40 M manns. Samt hlusta ráðandi ríki, Þýzkaland og Frakkland, ekki á aðvörunarorð Pólverja um mál, sem ætla má af reynslunni, að þeir hafi meira vit á en hinar ráðandi þjóðir. Þessar ráðandi þjóðir voru á stórhættulegri braut í samskiptunum við rússneska ráðamenn, sérstaklega sú, sem mestu ræður í krafti fólksfjölda og efnahagsstyrks.
Hérlendis eru gasprarar, sem reyna að halda því fram, að úr því að Íslendingar séu komnir með aðra löppina inn fyrir þröskuldinn hjá ESB (með EES-samninginum), þá sé miklu eðlilegra fyrir þá að fá sæti við borðið, þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Samkvæmt Morawiecki, sem er innanbúðarmaður hjá ESB, eru bara fulltrúar tveggja þjóða við það borð, svo að barnalegt blekkingarhjal um vald smáþjóða innan ESB fellur niður dautt og ómerkt.
Adolf Hitler talaði á sínum tíma um pólska þjóðríkið eins og Vladimir Putin talar núna (2022) um úkraínska þjóðríkið. Allt var það bull og vitleysa af hálfu einræðisherra stórveldis, sem var kominn á fremsta hlunn með að leggja viðkomandi ríki eða drjúgan hluta þess undir sig. Hvorugur þessara nazistísku einræðisherra (málflutningur og aðgerðir Putins eru liður í þjóðarmorði, þar sem reynt er að ganga af menningu og heilbrigðri þjóðernistilfinningu dauðri) hefur nokkuð til síns máls, hvað verðar tal þeirra um þessar 2 þjóðir.
"Ef mælt er með því, að aðgerðir ESB verði enn háðari Þýzkalandi, en slíku yrði komið á, ef meginregla um einróma samþykki yrði afnumin, þá nægir hér að gera stutta greiningu á ákvörðunum Þýzkalands aftur í tímann. Ef Evrópa hefði undanfarin ár hegðað sér eftir vilja Þýzkalands, værum við í dag í betri eða verri stöðu ?
Ef öll Evrópulönd hefðu fylgt rödd Þýzkalands, þá hefði fyrir mörgum mánuðum verið komin af stað ekki einungis Nord Stream 1, heldur einnig Nord Stream 2. Þá hefði Evrópa orðið svo háð rússnesku gasi, að nánast vonlaust hefði verið að losna undan því fjárkúgunartæki Pútíns, sem ógnar allri álfunni.
Ef öll Evrópa hefði samþykkt tillögu í júní 2021 um að halda leiðtogafund ESB og Rússlands, hefði það haft í för með sér, að Evrópa hefði þá viðurkennt Pútín sem fullgildan samstarfsaðila, og einnig afléttingu refsiaðgerða, sem Rússland hefur verið beitt eftir 2014. Hefði sú tillaga verið samþykkt, hefði Pútín fengið tryggingu fyrir því, að ESB gripi ekki til raunverulegra aðgerða til að verja landhelgi Úkraínu. Þau lönd, sem höfnuðu þessari tillögu þá, voru Pólland, Litháen, Lettland og Eistland."
Í ljósi sögunnar er ljóst, að forsætisráðherra Póllands hefur hér rétt fyrir sér. Þýzka ríkisstjórnin hefur tekið kolrangan pól í hæðina, séð frá hagsmunum fullvalda lýðræðisríkja Evrópu. Allt frá lokum Kalda stríðsins 1989-1991 hafa Þjóðverjar verið á röngu róli, því að mottóið var að styggja ekki Kremlverja, heldur friðþægja þá, hvað sem það kostar. Þannig var hún á móti því að viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og hún var á móti því að samþykkja inngöngubeiðni aðildarríkja sundraðs Varsjárbandalags í NATO. Henni tókst síðar að hindra inngöngu Úkraínu í NATO, sem Bandaríkin mæltu sterklega með, og hefði hindrað villimannlega styrjöld Rússa gegn úkraínsku þjóðinni frá 2014.
Utanríkisstefna Þjóðverja hefur verið reist á þröngsýni (viðskiptahagsmunum Þýzkalands), skammsýni (röngu mati á fyrirætlunum Kremlverja) og óþörfu þakklæti í garð Rússa fyrir að koma ekki í veg fyrir sjálfsagða endursameiningu Þýzkalands 1990. Rússland hefur valdið Evrópuþjóðunum miklu tjóni og á alls ekki að komast upp með að ráðskast með landamæri fullvalda ríkja, sem ákveðin voru 1945. Að hnika við landamærum Evrópu er stórhættulegt.
Utanríkisstefna Þýzkalands hefur verið lævi blandin, þótt á yfirborðinu hafi hún verið friðsamleg, því að hún hefur borið keim af stórveldapólitík, þar sem hagsmunum minni ríkja hefur mátt fórna fyrir hagsmuni öxulsins Berlín-Moskva. Nú er mál að linni, enda er þetta blindgata, sem nú hefur verið gengin til enda. Væntanlegum kanzlara Þýzkalands, Friedrich Merz, er þetta ljóst. Gangan til baka verður þrautaganga, en mun takast, ef stuðningur Bandaríkjanna bilar ekki.
"Ef Evrópusambandið hefði einnig samþykkt tillögu um reglur um dreifingu innflytjenda árið 2015 í staðinn fyrir að beita harðri pólitík, sem felst í að styrkja eigin landamæri (en það telst vera grunneiginleiki fullvalda ríkis), þá hefðum við orðið að peði í dag frekar en þátttakanda í alþjóða stjórnmálum. Það, sem Pútín kom auga á árið 2015, var einmitt möguleikinn á að nýta innflytjendur í blendingsstríði gegn ESB. Þá réðst hann ásamt Alexander Lúkasjenkó á Pólland, Litháen og Lettland. Hefðum við hlýtt talsmönnum opinna landamæra, væri viðnámsþrek okkar í dag í síðari stórkreppum enn minna."
Rússar ætluðu sér allan tímann að sigla undir fölsku flaggi, reka stöðugan blendingshernað gegn Evrópuþjóðunum til að veikja þær og sundra þeim, svo að þeir kæmust upp með beint árásarstríð án þess að lenda í miklum átökum og gætu síðan Finnlandiserað afganginn af Evrópu í krafti orkusölu þangað. Þetta er ótrúlega fjandsamleg og fífldjörf fyrirætlun gagnvart nágrönnum, enda hefur hún ekki aðeins farið í vaskinn, heldur opinberað, hversu lítils megnugir Rússar eru á flestum sviðum. Rússneski herinn hefur farið halloka fyrir úkraínska hernum. Fyrir vikið er óhætt að segja, eins og forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, sagði á þjóðhátíðardegi Úkraínu, 24. ágúst 2022, að úkraínska þjóðin er nú endurfædd.
"Að síðustu væri stríðinu löngu lokið, ef öll Evrópa hefði sent til Úkraínu vopn í þeim mæli og á þeim hraða, sem Þýzkaland gerir. Stríðinu myndi ljúka með algjörum sigri Rússlands. Og Evrópa væri á barmi annars stríðs, en Rússland héldi áfram vegna hvatningar, sem fælist í veikleikum mótherjans.
Í dag telst hver rödd, sem kemur frá Vesturlöndum, um að takmarka vopnaflutning til Úkraínu, draga úr refsiaðgerðum eða fá "báða aðila" (s.s. árásaraðilann og fórnarlambið) til að ræða saman, merki um veikleika. Þó er Evrópa miklu öflugri en Rússland."
Kratinn, Olaf Scholz, á kanzlarastóli í Berlín, hefur bitið höfuðið af skömm Þjóðverja gagnvart Úkraínu með vífilengjum varðandi afhendingu þýzkra þungavopna til úkraínska hersins. "Die Wende"-vendipunktsræða hans reyndust orðin tóm. Það er enn alvarleg meinloka í hausnum á Þjóðverjum gagnvart afstöðunni til Rússa. Rússar eru langalvarlegasta ógnin við friðinn í Evrópu, og Þjóðverjum, sem forystuþjóð þar, ber skylda til að snúast gegn þeim enn og aftur með kjafti og klóm. Átökunum við þá lauk ekki í maí 1945, því er ver.
"ESB á æ erfiðara með að virða frelsi og jafnrétti allra aðildarríkja. Við heyrum æ oftar, að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi, þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.
Frelsis- og jafnréttisskortur eru einnig áberandi á evrusvæðinu. Það að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni, sem sést t.a.m. í umframútflutningi sumra ríkja. Hún kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm."
Þetta er harðasta gagnrýnin á þróunina innan Evrópusambandsins, sem heyrzt hefur, og hún kemur frá forsætisráðherra fremur stórs ríkis innan sambandsins. Mikið hefur gengið á og örvænting gripið um sig hjá minni ríkjum sambandsins áður en gagnrýni af þessu tagi er sleppt út í eterinn. Ráðandi ríkjum innan ESB, Þýzkalandi og Frakklandi, hefur farizt forystuhlutverk sitt svo illa úr hendi, að þverbrestir eru komnir í ESB, og aðeins óttinn við Rússland og stórhættulegir tímar í Evrópu og víðar af völdum glæpahyskis í Kreml heldur nú Evrópusambandinu saman. Evran veldur vandræðum við stjórnun peningamálanna á evru-svæðinu. Hún er of veik fyrir Þýzkaland og of sterk fyrir rómönsku ríkin. Svigrúm til vaxtahækkana til að hemja verðbólguna er lítið sem ekkert hjá ECB, af því að stórskuldugur ríkissjóður Ítalíu myndi þá lenda í greiðsluþroti og óvíst er, að evran mundi lifa það af, enda er bandaríkjadalur nú orðinn verðmætari en evran og svissneski frankinn rýkur upp, sem eru vísbendingar um, hvert fjármagnið leitar nú.
Við þessar aðstæður gera sumir Íslendingar mjög lítið úr sér með því að predika fyrir löndum sínum mikilvægi þess fyrir Ísland að sækja um aðild að ESB og að ganga í myntbandalag Evrópu. Þeim er ekki sjálfrátt, taka kolrangan pól í hæðina og þá hefur nú dagað uppi sem steingervingar. Málflutningur prinsessu Samfylkingarinnar í hinu gamla leikhúsi við Tjörnina um daginn bar þess merki, að þessi bankaprinsessa hefur áttað sig á því, að ekki er vænlegt fyrir flokk hennar að hamra á aðildinni lengur. Hún orðar þetta þó í véfréttastíl um, að flokkurinn undir hennar forystu muni einblína á hagsmuni hins venjulega manns.
"Það verður æ torveldara að verja réttindi, hagsmuni og þarfir meðalstórra og smárra ríkja í árekstri við stór ríki. Um er að ræða brot gegn frelsi og þvingun, sem á sér stað í nafni meintra hagsmuna heildarinnar.
Það gildi, sem var kjarninn í stofnun Evrópusambandsins, var almannaheill. Það var drifkraftur í samþættingu Evrópu frá upphafi. Í dag er það gildi í hættu vegna sérstakra hagsmuna, sem þjóna aðallega þjóðernissjálfhverfu. Kerfið býður okkur upp á ójafnan leik á milli þeirra veikari og sterkari. Í þeim leik er pláss fyrir stærstu ríkin, sem eru efnahagsveldi, og meðalstór og lítil ríki með minna efnahagskerfi. Þeir sterkustu sækjast eftir pólitískum og efnahagslegum yfirráðum, en hinir eftir pólitískri og efnahagslegri fyrirgreiðslu. Fyrir þeim öllum verður hugtakið almannaheill meira og meira abstrakt [afstætt]. Samstaða Evrópu er að verða að merkingarlausu hugtaki, sem jafngildir því að þvinga fram samþykki á einræðisvaldi þess sterkara.
Segjum það bara beint út: skipan Evrópusambandsins ver okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því, að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn, enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari."
Það er grimmúðlegt árásarstríð Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hefur leyst grundvallarágreining úr læðingi innan ESB. Það sést með því að skoða söguna, að þýzka ríkisstjórnin, hver sem hún er, er höll undir þau sjónarmið, að Þýzkaland og Rússland eigi að skipta Evrópu á milli sín. Auðvitað verður þá fullveldi minni ríkja fórnarlambið. Bretar og Bandaríkjamenn hafa allt aðra stefnu. Rússar herða nú hálstakið, sem þeir hafa á Þjóðverjum með Nord Stream 1 og hjálparleysi Þjóðverja í orkulegum efnum, sem er fullkomið sjálfskaparvíti og sýnir bezt skipbrot utanríkisstefnu þeirra. Þeir verða nú að taka sér heiðarlega stöðu með Engilsöxunum í stuðningi við Úkraínu, ef trúverðugleiki þeirra í hópi Vesturveldanna á ekki að bíða hnekki. Þolgæði þýzku þjóðarinnar er mikið. Það sýndi hún bezt 1939-1945 og nú á þessum vendipunkti í sögu Evrópu verður afstaða þýzku stjórnarinnar í Berlín til fullveldis óskiptrar Úkraínu prófsteinn á stöðu Þýzkalands í Evrópu 21. aldarinnar.
Lokatilvitnunin í stórmerka blaðagrein forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki:
"Nú þarf að sýna Úkraínu stuðning, til að hún geti endurheimt þau landsvæði, sem hún hefur tapað, og til að hún geti þvingað rússneska herinn til að hörfa. Aðeins þá verður hægt að taka þátt í viðræðum af einhverri alvöru og fá fram raunveruleg stríðslok, en ekki einvörðungu skammvinnt vopnahlé. Aðeins slík stríðslok munu þýða, að við höfum sigrað.
Við verðum einnig að sigrast á ógn af heimsvaldastefnu ESB. Við þurfum á umfangsmiklum endurbótum að halda, þar sem meginreglur ESB endurspegli það, að almannaheill og jafnræði séu sett á oddinn á ný. Það verður ekki að veruleika að hugmyndafræði ESB óbreyttri, þ.e. ef ákvarðanir um stefnumál og forgangs hlutverk ESB verða ekki teknar af öllum aðildarríkjum fremur en af stofnunum ESB. Stofnanir eiga að þjóna hagsmunum ríkja, en ekki ríki hagsmunum stofnana. Grundvallaratriði í samstarfi verður hverju sinni að vera samkomulag fremur en yfirráð þeirra stærstu yfir hinum minni."
Stofnanavæðing ESB er sem sagt dulbúin yfirtaka Þjóðverja og Frakka á ákvarðanatöku innan ESB og eykur þannig enn við lýðræðishalla sambandsins. Íslendingar hafa kynnzt þessari stofnanvæðingu með nánu samstarfi við ESB um Innri markaðinn á grundvelli EES-samningsins, sem gildi tók 1. janúar 1994. Er skemmst að minnast kröfu ESB og þrýstings ríkisstjórnar Noregs um samþykki EFTA-landanna (utan Sviss) á orkulöggjöf um ACER-Orkustofnun ESB. Við sjáum nú, hversu fjarri þessi löggjöf er frá því að stuðla að almannaheill í Noregi vegna útflutnings á raforku frá Noregi til ESB og Englands. Hérlendis er í bígerð uppboðsmarkaður á raforku á grundvelli þessarar löggjafar, og við ríkjandi aðstæður í orkumálum á Íslandi (meiri eftirspurn en framboð) mun slíkur uppboðsmarkaður bitna á heimilum og atvinnurekstri í landinu, svo að ekki sé nú minnzt á orkuskiptin.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2022 | 11:09
Kjarnorkan mun ganga í endurnýjun lífdaganna
Fyrir villimannlega innrás Rússlands í Úkraínu var það meint loftslagsvá, sem helzt mælti með fjölgun kjarnorkuvera. Þar sem hvorki er fyrir hendi fallorka vatns né jarðgufa, er jarðefnaeldsneyti eini orkugjafinn, sem knúið getur raforkuver með stöðugu afli og umtalsverðu uppsettu afli auk kjarnorkuveranna. Við téða innrás bættust við rök fyrir kjarnorkuverum, þ.e.a.s. Rússar tóku til við að beita jarðefnaeldsneytinu, aðallega jarðgasinu, sem vopni á Evrópulöndin með því að draga úr framboðinu. Þeir, sem gerst þekktu til þankagangsins í Kreml, höfðu fyrir löngu varað við, að þetta mundi gerast, en við slíkum viðvörunum var skellt skollaeyrum, t.d. í Berlín, þar sem gjörsamlega ábyrgðarlaus stefnumörkun fór fram fyrir hönd fjölmennasta ríkis Evrópusambandsins.
Þar með hækkaði orkuverðið upp úr öllu valdi. Þorparar í Kreml kunna að skrúfa algerlega fyrir gasflæðið til Evrópu í haust með voveiflegum afleiðingum fyrir evrópsk heimili og fyrirtæki. Það er engin huggun harmi gegn, að um sjálfskaparvíti er að ræða, sem barnaleg utanríkispólitík Angelu Merkel ber sök á.
Þess vegna hefur öllum samningum vestrænna ríkja við rússnesk fyrirtæki um ný kjarnorkuver verið rift. Allt traust er horfið um fyrirsjáanlega framtíð, og djúpstætt hatur á Rússum hefur myndazt í Úkraínu og gengið í endurnýjun lífdaganna víða í fyrri nýlendum Ráðstjórnarríkjanna í Austur-Evrópu. Það geisar viðskiptastríð á milli Rússlands og Vesturlanda og blóðugt stríð á milli Rússlands og Úkraínu. Hið síðar nefnda stríð mun ákvarða örlög Evrópu á þessari öld og er í raun stríð hugmyndafræðikerfa einræðis og yfirgangs annars vegar og hins vegar lýðræðis og friðsemdar. Líklega sígur sól hins víðfeðma Rússaríkis senn til viðar. "Der Zeitgeist" eða tíðarandinn er ekki hliðhollur nýlendustefnu nú fremur en hann reyndist hliðhollur þjóðernisjafnaðarstefnu fyrir miðja 20. öldina. Hvort tveggja tímaskekkja m.v. þróunarstig tækni og menningar.
Viðskiptalíkan Þýzkalands um tiltölulega ódýra orku úr jarðefnaeldsneyti og mikla markaði fyrir iðnvarning í Rússlandi og Kína hefur lent uppi á skeri, enda var hún tálsýn um friðsamlega sambúð lýðræðisríkja og einræðisríkja með sögulega útþenslutilhneigingu. Þegar Rússland fær ekki lengur aðgang að vestrænum varningi og vestrænni tækni, mun landið verða fyrir hæfileikaleka, sem hófst þegar í febrúar 2022, og hnigna ört þess vegna og vegna margháttaðrar einangrunar. Þetta fjölþjóðaríki siglir inn í innri óstöðugleika, borgarastyrjöld, sem sennilega hefst með uppreisn í Tétsníu á þessu ári. Nokkrir baráttumenn frá Tétseníu hafa barizt með úkraínska hernum, og ætlunin er að nota tækifærið nú, eftir að rússneski herinn hefur orðið fyrir skelli í Úkraínu og er upptekinn við grimmdarverk sín þar gegn óbeyttum borgurum, til að gera uppreisn gegn leppstjórninni í Grozni.
Putin hefur lagt sig í framkróka við að sundra Vesturveldunum. Eitt af fáum handbendum hans við völd á Vesturlöndum um þessar mundir er hinn hægri sinnaði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Í sögulegu samhengi vekur afstaða hans til samstarfs við Rússa fyrir hönd Ungverja furðu. Hann hefur samþykkt áform um 2 nýja rússneska kjarnakljúfa í Paks verinu í miðju landinu, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harðlega á þeim grundvelli, að rússneskt kjarnorkuver muni veita Rússum of mikil áhrif í landinu. Nú þykir vafasamt, að Rosatom muni geta lokið verkefninu vegna viðskiptabanns Vesturveldanna. Stríð Rússa við Úkraínumenn hefur opinberað, hversu vanþróað ríki Rússland er. Ríkið stendur á brauðfótum, en hefur haldið sér á floti með útflutningi á orku og hráefnum. Það sækist eftir yfirráðum í Úkraínu til að mergsjúga Úkraínumenn, sem standa á hærra menningarstigi en steppubúarnir í austri.
Bretar eru nú að endurskoða afstöðu sína til þátttöku Kínverja í kjarnorkuverkefni í Bradwell. Einræðisríkin Rússland og Kína eru nú búin að spila rassinn úr buxunum sem áreiðanlegur viðskiptafélagi. Brot ríkisstjórnar Kína á samningi við Breta um sjálfstæði Hong Kong og móðursýkisleg viðbrögð hennar við heimsókn forseta Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, til Taiwan í ágústbyrjun 2022, sýna lögleysuna og yfirganginn, sem einkennir framferði einræðisríkja.
Ein af afleiðingum yfirstandandi orkukreppu er aukinn áhugi á kjarnorku, en Vesturveldin ætla ekki að fara úr öskunni í eldinn og afhenda Rússum, og varla Kínverjum heldur, lykilinn að þessum orkuverum. Kjarnorkuverin geta séð eigendum sínum fyrir mikilli orku með hámarks áreiðanleika. Það er ljóst, að hefði uppbyggingu kjarnorkuvera í Evrópu verið haldið áfram á síðasta áratug og þessum bæði til að draga úr loftmengun, koltvíildi í andrúmsloftinu og kverkataki Rússa á orkukerfinu, þá væri meira gas til ráðstöfunar nú fyrir iðnað og kyndingu húsnæðis í Evrópu. Þetta er ástæða þess, að Finnar, sem reitt hafa sig í talsverðum mæli á rússneskt gas, sem nú er búið að skrúfa fyrir, er umhugað um þá tækni, sem fyrir valinu verður í kjarnorkuverum þeirra.
Frakkar hafa verið leiðandi á sviði kjarnorku í Evrópu og fá meira en helming sinnar raforku frá kjarnorkuverum. Af þessum ástæðum blasir ekki sama hryggðarmyndin við orkukerfinu þar og í Þýzkalandi. Emanuel Macron lýsti því yfir 10. febrúar 2022, að Frakkar mundu senn hefja nýtt uppbyggingarskeið kjarnorkuvera í landi sínu og að nýting sjálfbærra orkugjafa (mikil vatnsorka er virkjuð í Frakklandi) og kjarnorku væri sjálfstæðasta leiðin (most sovereign) til að framleiða raforku.
Bretar hafa líka verið drjúgir í kjarnorkunni. Í apríl 2022 sagði forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í heimsókn til HPC kjarnorkuversins, sem er á byggingarstigi, að verið væri þáttur í stefnumörkun um orkuöryggi Breta:
"Við getum ekki leyft landi okkar að verða háð rússneskri olíu og gasi",
sagði hann við þetta tækifæri. Til að gefa nasasjón af byrðum almennings á Bretlandi af orkukreppu Evrópu og heimsins alls má nefna, að f.o.m. október 2022 mun meðalfjölskylda á Bretlandi þurfa að greiða 3582 GBP/ár eða um 590 kISK/ár, sem mun hækka um 19 % strax um næstu áramót. Þetta er ófremdarástand, sem eitt og sér dugir til að draga úr allri eftirspurn og keyra samfélagið í samdrátt. Bretlandi er vaxandi ólga á vinnumarkaði, enda er þar í þokkabót spáð 13 % verðbólgu síðustu 12 mánuði í október 2022. Atvinnulífið er almennt ekki í neinum færum til að bæta launþegum þessa lífskjaraskerðingu, því að fyrirtækin eru sömuleiðis mörg hver að sligast undan auknum rekstrarkostnaði og nú fjármagnskostnaði, því að Englandsbanki er tekinn að hækka stýrivexti sína ofan í þetta ástand í tilraun til að veita verðbólgunni viðnám.
Þann 24. febrúar 2022 urðu vatnaskil í sögu 21. aldarinnar, einkum í Evrópu. Markaðir gjörbreyttust og samskipti þjóða líka. Tvípólun blasir við í heimsstjórnmálum. Annars vegar Vesturveldin og önnur lýðræðisríki heims, þar sem mannréttindi og lög og réttur eru lögð til grundvallar stjórnarfarinu, og hins vegar einræðisríkin Rússland og Kína með Rússland á brauðfótum og fáein önnur löglaus einræðisríki á borð við hið forneskjulega klerkaveldi í Íran.
Markaðir Íslendinga í Evrópu fyrir fisk og ál hafa batnað fyrir vikið um hríð a.m.k vegna mun minna framboðs frá einræðisríkjunum vegna viðskiptabanns á Rússa og tollalagningar áls frá Kína og framleiðsluminnkun þar. Yfirvofandi kreppa getur þó sett strik í reikninginn hér líka. Við þessar viðkvæmu aðstæður blasir við, að engin sóknarfæri eru fyrir verkalýðshreyfinguna til að auka kaupmáttinn frá því, sem hann var um síðustu áramót og varnarsigur væri fyrir verkalýðshreyfinguna, ef tækist nokkurn veginn að varðveita þann kaupmátt að öllu samanlögðu á næstu árum. Það yrði einstök staða fyrir Ísland í samanburði við flestar þjóðir heimsins. Svisslendingar eru þó á svipuðu róli. Þar er þó félagsaðild að verkalýðsfélögum miklu lægri en hér. Eru verkalýðsfélögin hérlendis e.t.v. gengin sér til húðar ? Væru launþegar betur settir með staðbundnum samningum við sína vinnuveitendur ? Þessir vinnuveitendur eru í stöðugri samkeppni um starfsfólk.
Staðan á mörkuðunum ofan í mikla peningaprentun á Covid-tímanum (2020-2021) hefur valdið mikilli verðbólgu í heiminum. Þrátt fyrir lítinn sem engan hagvöxt í ESB og Bretlandi, hafa seðlabankarnir hækkað stýrivexti til að kveða verðbólgudrauginn niður. Þetta mun að líkindum keyra Evrópu í djúpa efnahagskreppu. Hún kemur ofan í skuldakreppu eftir Covid og getur valdið því, að ríki á evrusvæðinu fari fram á hengiflug greiðsluþrots vegna hás vaxtaálags á ríkisskuldabréf. Evrópu bíður erfiðari vetur en dæmi eru um, eftir að hungursneyðinni eftir Síðari heimsstyrjöldina linnti. Óhjákvæmilega hlýtur angi þessa grafalvarlega ástands að teygja sig til Íslands. Það er bezt að hafa eggin í körfunni ættuð sem víðast að, en frá bandamönnum þó. Heyrðist einhvers staðar í horni klisjan um, að nú sé Íslendingum brýnast að ganga í Evrópusambandið ? Eru engin takmörk fyrir vitleysunni, sem talin er vera boðleg landsmönnum ?
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.8.2022 | 16:12
Átök lýðræðis og einræðis og hlutur orkunnar
Með þungvopnaðri innrás víðfeðms vanþróaðs einræðisríkis í lýðræðisríkið Úkraínu, sem var á framfarabraut og kaus að tileinka sér stjórnarhætti og lifnaðarhætti Vesturlanda, enda menningarþjóð að fornu og nýju, hefur loks runnið upp fyrir íbúum Evrópu, hvað til þeirra friðar heyrir í samskiptunum við Rússland. Hinir ósvífnu og miskunnarlausu stjórnendur Rússlands hafa nú fellt grímuna og sýnt umheiminum, að í hópi siðaðra samfélaga eru Kremlverjar óalandi og óferjandi. Það þýðir, að engin leið er að eiga viðskipti við Rússlandi, allra sízt með orku. Kremlverjar eru nú teknir að beita orkuvopninu skefjalaust. Í stuttu máli er gasstreymið frá Síberíu nú bundið við eina lögn, Nordstream 1 undir Eystrasalt og beint til Þýzkalands, og um nokkurra vikna skeið hefur streymið um hana aðeins numið um fimmtungi afkastagetu hennar.
Þetta er ekki nægilegt til að safna nægum birgðum fyrir veturinn, svo að þá er neyðarástand fyrirsjáanlegt. Evrópusambandið hefur samþykkt 15 % minnkun notkunar fyrirtækja og heimila m.v. árstíma. Það mun draga úr framleiðslugetu landanna og magna "stagflation" eða stöðnunarverðbólgu, sem líka getur verið samdráttur hagkerfisins ásamt mikilli verðbólgu og verður nú hlutskipti ESB-ríkjanna um sinn. Heimilin munu lækka óskhitastig vistarveranna, en ekki hefur heyrzt um, að hraðatakmörkun verði sett á "Autobahnen", enda er draumur í dós að þeysa á drekum þýzkra bílasmiðja á tæplega 200 km/klst. Orkukreppan mun þó kalla á breyttan lífsstíl.
Rússar hafa borið við bilun í hverfli í Nordstream 1 lögninni. Siemens sendi hann í viðgerð í Kanada, en Kanadastjórn neitaði um hríð um leyfi til að senda hann þaðan og til Rússlands vegna viðskiptabanns, sem Kanada og Þýzkaland eru aðilar að. Eftir um vikustapp fengur Þjóðverjar þó Kanadamenn til að sniðganga bannið og senda sér hverfilinn vegna orkuneyðar sinnar. Þetta er orðið pólitískt deilumál í Kanada.
Nú ber Putin við ýmsum pappírslegum formsatriðum og neitar að taka við hverflinum vegna viðskiptabannsins. Það er engu orði treystandi frá þessum Putin og útilokað að gera við hann samning, sem heldur. Hann er tækifærissinni, ómerkingur og lygalaupur. Hann notar gasið í kúgunarskyni gagnvart Þjóðverjum o.fl. og reynir að hrekja þá til að opna Nordstream 2. Þá geti þeir fengið eins mikið og þeir vilji, því að sú lögn er spáný og tilbúin í rekstur. Að vanda er seigla í Þjóðverjum, og fremur munu þeir skjálfa úr kulda í húsum sínum í vetur en láta undan þessum fyrirlitlegu kúgurum sínum í Moskvu.
Vandi Þjóðverja o.fl. er þó í sögulegu ljósi eitt allsherjar sjálfskaparvíti. Enginn bað þá um að styrkja rússneska björninn með orkukaupum af honum, og Þjóðverjar voru meira að segja ítrekað varaðir við af Bandaríkjamönnum og ESB-þjóðum, sem áður voru austan járntjalds, að kaupa svo mikla orku af Rússum, t.d. 55 % af gasþörf sinni, að þeir yrðu illilega háðir þessum viðskiptum. Þeir, sem mesta reynslu hafa af Rússum, óttast þá og vantreysta þeim mest. Þjóðverjar, sem eru allra manna athugulastir og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig, létu meira að segja hjá líða að eiga undankomuleið vísa með því að byggja móttökustöðvar fyrir LNG - fljótandi, kælt jarðgas, í höfnum sínum. Þetta er ekki einleikið. Stjórnmálaforysta þeirra brást þeim gersamlega, vann ekki heimavinnuna sína, nýtti sér ekki leyniþjónustuupplýsingar, Engilsaxar bjuggu yfir. Það er grunnt á rígnum.
Þá hafa Þjóðverjar fest gríðarlegt fé í raforkuvinnslu, sem er afkastalítil og óviss í stað þess að efla það eina, sem verulega munar um og er kolefnisfrítt, þ.e.a.s. kjarnorkuna. Útilokunarstefnu var beitt gagnvart kjarnorkunni á þeim grundvelli, að hún væri of hættuleg. Það er falsáróður, eins og sést með því að virða fyrir sér yfirlit um fjölda dauðsfalla per TWh af framleiddri raforku 1990-2014:
Orkugjafi Dauðsföll per TWh
Kol-----------------------25
Olía----------------------18
Lífmassi-------------------4
Jarðgas--------------------3
Vatnsföll------------------2*
Vindorka-------------------0,04**
Kjarnorka------------------0,03***
Sólargeislar---------------0,02****
*Meðtalin er Banqiao stíflubilun 1975
**Raforka úr vindorku nemur aðeins 7 % af heild
***Meðtalið er Chernobyl-slysið 1986
****Raforka úr sólarhlöðum nemur aðeins 4 % af heild
Þetta yfirlit sýnir, að kjarnorkuver hafa verið álíka hættuleg og vindmyllur og sólarhlöður í dauðsföllum talið, og þau verða sífellt öruggari í rekstri. Hins vegar er Akkilesarhæll kjarnorkuveranna geislavirki úrgangurinn, sem ekki hefur tekizt að útrýma enn, þótt með endurnýtingu hafi hann minnkað stórlega á hverja TWh talið. Ógnin er óviss, því að reynt er að búa traustlega um úrganginn til geymslu.
Að sumu leyti svipar þessari framtíðarógn til ógnarinnar, sem lífríki jarðarinnar stafar af meintri hlýnun andrúmslofts. Umfang þessarar hlýnunar er umdeilt, hvað sem loftslagstrúboðinu líður, en óumdeilt er, að af mannavöldum sé koltvíildi, CO2, aðaláhrifavaldurinn, og út frá þeim áhrifum er koltvíildisjafngildið reiknað út. Í neyð sinni eru Þjóðverjar nú að gangsetja kolaorkuver, sem búið var að loka, en áhrifin af hverri framleiddri orkueiningu í kolaveri eru 200 sinnum meiri á andrúmsloftið en í kjarnorkuveri, sem þó ekki er hægt að grípa til núna vegna fáheyrðs einstrengingsháttar Angelu Merkel í kjölfar Fukushima-slyssins í Japan 2011.
Í neðangreindu yfirliti getur að líta mynduð gróðurhúsagös í tonnum af koltvíildisjafngildum á hverja GWh framleiddrar raforku:
Orkugjafi t CO2/GWh
Kol---------------------------810
Olía--------------------------720
Jarðgas-----------------------490
Lífmassi-------------------80-210*
Vatsföll-----------------------40
Sólargeislar--------------------5
Kjarnorka-----------------------4
Vindmyllur----------------------4
*Háð nýtni katlanna í verinu
Í þessu yfirliti koma fram sterk meðmæli með kjarnorkuverum m.v. þá miklu áherzlu sem vestræn ríki leggja á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að draga úr raforkunotkun. Hún mun óhjákvæmilega aukast mikið í orkuskiptunum, hvað sem heimóttarlegum áróðri Landverndar á Íslandi líður, sem nálgast heimsmet í sérvizku. Vindrellur og sólarhlöður munu aldrei geta gegnt veigamiklu hlutverki í orkuskiptum Evrópu. Þar verður að virkja kjarnorkuna.
Nýjasta kjarnorkuverið á Vesturlöndum er nú loksins að taka á sig mynd. Þegar það verður tilbúið, mun það geta sent 3,2 GW inn á raforkukerfi Bretlands og annað um 7 % af orkuþörf landsins (þetta jafngildir 640 vindmyllum, en orkugetan væri aðeins 1/3 af orkugetu kjarnorkuversins). Á þeim 4 árum, sem kjarnorkuverið Hinkley Point C (HPC) við Bristolflóa á vesturströnd Englands hefur verið í smíðum, hefur það stöðugt verið notað sem dæmi um vandann, sem að kjarnorkuiðnaðinum stafar, en þá gleymist neikvæður þáttur eftirlitsiðnaðarins, sem stöðugt hleður utan á kröfugerð sína um varabúnað, öryggiseftirlit og neyðarkerfi. Þetta olli því, að raforka frá nýjum kjarnorkuverum átti erfitt með keppa við kola- og gasorkuver, nema á þau væru lögð há koltvíildisgjöld. Nú eiga þau erfitt með samkeppnina við vindorku og sólarorku, enda engin auðlindagjöld innheimt af þeim.
Þegar brezka ríkisstjórnin undirskrifaði samninginn um HPC við franska eigandann EDF árið 2013, þá átti orkuverðið frá verinu að verða 92 GBP/MWh, þá 145 USD/MWh. Þá kostaði orkan frá vindorkuveri undan ströndu 125 GBP/MWh (36 % meira en frá HPC). 9 árum seinna er HPC 2 árum á eftir áætlun og mrdGBP 10 yfir fjárfestingaráætlun, sem mun hækka orkuverðið frá HPC, en vindmylluverið á hafi úti framleiðir fyrir aðeins 50 GBP/MWh, nú 60 USD/MWh (60 % lækkun). (Þetta skýrir áhuga fjárfesta á vindorkuverum úti fyrir SA-landi, en þá þarf aflsæstreng til Bretlands, sem hækkar raforkukostnaðinn. Orkuverð frá sólarhlöðum hefur fallið jafnvel enn meira).
Andstæðingum kjarnorkuvera vegna meintrar hættu, sem af þeim stafar, getur nú bætzt liðsauki þeirra, sem telja þau of dýr. EDF á nú í fjárhagserfiðleikum, eins og mörg önnur orkufyrirtæki Evrópu með langtímasamninga við viðskiptavini. Önnur fyrirtæki með kjarnorkuver sömu gerðar í smíðum og HPC, þ.e. s.k. EPR-kjarnorkuver, eru líka á eftir áætlun með sín verkefni.
EDF á í rekstrarerfiðleikum með sín kjarnorkuver frá 2021 vegna tæringar og hefur orðið að loka þeim vegna viðhalds og viðgerða og kaupa á meðan rándýra raforku frá gasorkuverum. Í marz 2022 lækkaði ágóði EDF um mrdEUR 11 af þessum sökum. Annað högg upp á 8,4 mrdEUR/mán kom frá frönsku ríkisstjórninni, þegar hún fyrirskipaði ríkisorkufyrirtækinu EDF að selja endurseljendum raforkuna á verði undir gildandi heildsöluverði til að verja neytendur í núverandi orkukreppu.
Þrátt fyrir allt kemur HPC vel út í samanburðinum við önnur vestræn kjarnorkuver í byggingu. Hafizt var handa við EPR-verin í Olkiluotu í Finnlandi og Flamanville C í Frakklandi árin 2005 og 2007 (í sömu röð). Bæði eru enn án tekna af sölu raforku inn á stofnkerfið. Hið sama er uppi á teninginum með Vogtle-kjarnorkuverið í Bandaríkjunum, sem er hannað með tveimur Westinghouse AP1000 kjarnakljúfum, sem hafizt var handa við 2009. Árið 2017 hafði verkefnið leitt til gjaldþrots Westingouse. Öll 3 verin eru með uppfærðar kostnaðaráætlanir, sem eru 2-3 faldar upphaflegu áætlanirnar og um áratug á eftir tímaáætlun.
Það er mjög alvarlegt mál fyrir Vesturlönd, sem krefst tafarlausrar úrlausnar með tækniþróun, að fara verður til Rússlands og Kína til að finna nýleg kjarnorkuversverkefni, sem leidd hafa verið til lykta nokkurn veginn í samræmi við áætlanir, en þá fylgja ekki sögunni ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í öryggisskyni að kröfu eftirlitsaðila, en þær eru höfuðástæða þess, hversu mjög kjarnorkuversverkefni þessarar aldar á Vesturlöndum hafa gengið á afturfótunum. Á árunum 2008-2021 hóf og lauk ríkisfyrirtækið Rosatom framkvæmdum við 5 kjarnorkuver með 10 kjarnakljúfum í Rússlandi. Kínverjar hafa reist kjarnorkuver með ýmissi tækni, þ.á.m. AP1000 og EPR. Kínverska "General Nuclear Power Group" hóf framkvæmdir við sína 2 EPR kjarnakljúfa í Taishan í Suður-Kína eftir að framkvæmdir voru hafnar í Olkiluotu og Flamanville, en lauk sínu verkefni árið 2019. Þetta hefur leitt til þess, að vestræn lönd, sem vilja fá ný kjarnorkuver hjá sér til að anna raforkuþörfinni, hafa leitað til fyrirtækja utan Vesturlanda. Í ársbyrjun 2022 voru þannig uppi áform um, að Rosatom reisti 4 kjarnakljúfa innan Evrópusambandsins, sem yrðu 7 % af þeim 70 GW, sem fyrirtækið hugðist setja upp utan landamæra Rússlands. Í febrúar 2022 samþykkti brezki kjarnorkueftirlitsaðilinn Hualong 1, kínverska kjarnorkutækni, til uppsetningar í Bradwell í Essex.
Þá skall Ukraínustríðið á. 15. febrúar 2022, þegar mikill liðssafnaður rússneskra hersveita átti sér stað við landamæri Rússlands og Hvíta-Rússlands að Úkraínu, neitaði Búlgaría Rússum alfarið um alla þátttöku í kjarnorkuveri, sem á að fara að reisa við borgina Belene í norðurhluta landsins. Efnahagsráðherra Finnlands, Mika Lintila, hefur ítrekað yfirlýsingu sína um, að það verði "algerlega ómögulegt" að veita ráðgerðu rússnesku kjarnorkuversverkefni í Hanhikivi leyfi til að halda áfram. Í marz 2022 útilokaði Tékkland rússneska kjarnakljúfa úr útboði, þar sem Rússarnir höfðu áður verið taldir líklegastir til að verða hlutskarpastir.
Það er líklegt, að rússneskum kjarnorkuiðnaði muni hnigna vegna viðskiptabanns Vesturveldanna á Rússland, en Rússar hafa keypt ýmiss konar tæknibúnað og jafnvel tækni af Vesturlöndum fyrir sinn iðnað. Vitað er, að þetta er að eiga sér stað núna við orkulindir Síberíu, þar sem olía og gas er unnið við erfiðar aðstæður. Án vestrænnar tækni virðast Rússar ekki ráða við að halda vinnslunni þar í horfinu, en eins og kunnugt er, hefur fjöldi vestrænna fyrirtækja með starfsemi í Rússlandi horfið á braut, þar sem allt traust í garð Rússa á sviði viðskipta hefur horfið í einni svipan vegna villimannlegs hernaðar þeirra gegn fullvalda nágrannaþjóð í vestri.
Ekki verður undan því vikizt hér í lokin að minnast á ótrúlegt framferði rússneska hersins gagnvart kjarnorkuverum í Úkraínu, en þeir hafa lagt á það áherzlu að hertaka þau. Hafa þeir ekki skirrzt við að beina skothríð að þessum verum og möstrum háspennulína frá þeim. Á fyrstu dögum stríðsins tóku þeir kjarnorkuver í norðurhluta landsins og ollu tjóni á athafnasvæði versins. Sem betur fór mun hernaðarbrölt Rússa ekki hafa raskað rekstraröryggi versins alvarlega í það sinn. Úkraínskir starfsmenn versins héldu því gangandi, og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin gerði úttekt á verinu.
Öðru máli gegnir um stærsta kjarnorkuver Evrópu, sem er í suðurhluta Úkraínu. Það hafa Rússar hertekið og valdið tjóni á því og flutningslínu frá því með eldflaugaárásum, svo að taka hefur orðið einn kjarnaljúfinn úr rekstri. Auðvitað reyna Rússar að ljúga þessum skemmdum upp á Úkraínumenn, en af hverju flýðu þá rússneskir starfsmenn úr verinu skömmu áður en árásin var gerð ?
Rússneski herinn hefur gert athafnasvæði þessa kjarnorkuvers að eldflaugaskotstöð sinni og hergagnabirgðageymslu. Lengra verður varla komizt í undirmálshegðun og hreinni mannfyrirlitningu á stríðstímum. Það er alveg ljóst, að Rússlandi er stjórnað af siðblindingjum, af bandittum, sem einskis svífast. Það er alveg makalaust, hversu djúpt Rússland er sokkið í fen mannvonnsku og illmennsku. Heyrzt hefur, að jafnvel rétttrúnaðarkirkjunni rússnesku, sem kallar ekki allt ömmu sína og lýsti í upphafi stríð Putins sem heilögu stríði til að sameina rússnesku og úkraínsku kirkjuna undir patríarkanum af Moskvu, sé nú nóg boðið.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2022 | 16:44
Úr sér gengið efnahagslíkan
Frá því að Járntjaldið féll með hruni kommúnismans í Austur-Evrópu 1989 og Endursameiningu Þýzkalands (die Wiedervereinigung Deutschlands) í kjölfarið, hefur efnahagskerfi Þýzkalands og þar með lifibrauð Þjóðverja verið reist á fölskum forsendum í veigamiklum atriðum. Undirstöður nokkurra þessara forsendna hafa nú brostið, og aðrar forsendur efnahagslegrar velgengni Þjóðverja og velmegunar eru í uppnámi. Þýzka valdastéttin hefur brugðizt þjóðinni, hervæðing er hafin á ný og tími þjóðfélagsóróa, vonandi ekki óreiðu, gæti verið framundan af þessum sökum. Það sést móta fyrir skepnunni nú þegar, því að verkfallshótanir hljóma nú um landið í þeim mæli, sem íbúar Sambandslýðveldsins hafa aldrei heyrt áður. Það er til vitnis um gjá þjóðfélagslegs vantrausts, sem ekki hefur sézt síðan á dögum Weimar-lýðveldisins á þýzkri foldu. Samhljómur hefur verið boðorð dagsins frá stofnun Sambandslýðveldisins, þá Vestur-Þýzkalands, 1949.
Þjóðverjum var sagt, að þeir gætu treyst á ótakmarkað, ódýrt jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi og í Rússlandi og í Kína væri óþrjótandi markaður fyrir þýzka iðnaðarframleiðslu. Pólitískt og viðskiptalegt stríð Þýzkalands og allra Vesturlanda við Rússland skall á með blóðugri styrjöld Rússa við Úkraínumenn 24. febrúar 2022. Rússar hafa beitt orkuflæðinu til Evrópu frá Síberíu sem vopni gegn Evrópumönnum í þessari baráttu á milli einræðis- og lýðræðisafla og hafa t.d. skert gasflæðið um Nordstream 1 um 80 %. Afleiðingin hefur orðið u.þ.b. tíföldun orkuverðs í Evrópu og fyrirsjáanlegur orkuskortur í vetur, þegar vetrarhörkur taka að herja á Evrópu. Þá getur komið til orkuskömmtunar, sem ekki hefur gerzt í hálfa öld þar eða síðan í fyrstu orkukreppunni á 8. áratugi 20. aldarinnar, þegar Arabar drógu verulega úr olíuframboði til Vesturlanda.
Þjóðverjar standa nú frammi fyrir endalokum tímabils, þegar þeir gátu knúið hagkerfi sitt áfram með ódýru jarðefnaeldsneyti, og þeir eru tómhentir í þessari viðureign, því að þeir hafa lokað kjarnorkuverum sínum, öllum nema þremur, og engin ný eru í byggingu. Ódýrt jarðefnaeldsneyti er ekki og verður ekki á boðstólum, og meginmarkaðir þeirra fyrir iðnaðarvörur eru nú meira eða minna lokaðir. Kalt stríð er skollið á við Kína. Mynt Evrópusambandsins, evran, stendur illa, svo að ekki sé meira sagt, og verðbólgan í Þýzkalandi slær öll met frá upphafi Deutsche Mark. Annaðhvort gliðnar þetta myntbandalag eða stofnað verður Sambandsríki Evrópu með einum ríkisfjármálum fyrir öll aðildarríkin, sbr BNA. Miklir atburðir eru í vændum.
Það eru fleiri í vandræðum, en þeir eru þó ekki bundnir á klafa evrunnar. Mjög hefur dregið úr gasstreymi úr virkjuðum lindum Norðursjávar til Bretlands, og hátt orkuverð herjar á Breta og raforkuskortur liggur í loftinu, sumpart vegna orkuskiptanna, sem eru í fullum gangi þar. Vikuna 18.-24. júlí 2022 komst London naumlega hjá straumleysi með því að borga Belgíu 9.724,54 GBP/MWh, sem mun vera 5000 % yfir venjulegu verði. Þessi litla saga gefur til kynna í hvers konar ógöngur stórar Evrópuþjóðir hafa ratað með orkumál sín. Nú verður að stokka upp efnahagslíkan og orkukerfi margra Evrópuþjóða. Þær munu örugglega draga mjög úr hlutdeild jarðefnaeldsneytis í raforkuvinnslu sinni, og þá verður að koma til skjalanna stöðugur orkugjafi. Lausn í sjónmáli eru stöðluð og fjöldaframleidd kjarnorkuver í verksmiðju, u.þ.b. 300 MW, sem flutt eru tilbúin til tengingar á byggingarstað. Heildarvinnustundum per MW má fækka til muna með þessu móti, niður í u.þ.b. 6 % við ýmsa verkþætti, og þannig má gera kjarnorkuna mun ódýrari en áður, en hár byggingarkostnaður hefur verið akkilesarhæll kjarnorkuvera um hríð.
Morgunblaðið gerði alvarlega stöðu Evrópu, m.a. orkumálanna þar, að umfjöllunarefni í forystugrein 21. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ótrúleg afturför".
Þar sagði m.a.:
"Á örfáum árum hefur staða Evrópu gjörbreytzt. Fæstir gerðu sér grein fyrir því, að öflugasta ríki álfunnar hefði misst öll tök á orkumálum eigin þjóðar og sé nú háð duttlungum þeirra, sem sízt skyldi. Framleiðslugeta þjóðarinnar hafði einnig misst að hluta styrk og yfirburði og er skyndilega háð risaveldinu Kína, sem fer sínu fram, hvað sem lýðræðislegum kröfum líður. Núverandi kanzlari Þýzkalands beitti sér af öllu afli til að gera Hamborg að þjónustuhöfn Kína á meginlandinu og tryggja, að stórveldið hefði þar ríkulegt eignarhald. Fyrirrennari hans í embætti sat á hljóðskrafi við sænska fermingarstúlku um, að þjóðirnar yrðu að kúvenda í meginmálum vegna heimshlýnunar, sem barnið var ein helzta heimild vestrænna leiðtoga um ! Þjóðverjar yrðu að láta sér kínverskar sólarsellur duga og vindmyllur, niðurgreiddar af skattborgurum, með sínum skaða á náttúrulegri umhverfismynd landsins. Og, á meðan að það gæti loks látið slíka orku duga, sem aldrei er raunhæft, þá yrðu gerðir risasamningar við Rússa, sem gerðu Þýzkaland að peði í risalúku þessa ríkis."
Þarna er reifaður sá stjórnmálalegi barnaskapur, sem varð þess valdandi, að efnahagslíf Þýzkalands, eimreiðar Innri markaðar Evrópusambandsins, stendur nú á brauðfótum. Stjórnmálaleg blinda á raunveruleika stjórnmálanna í alræðisríkjum á borð við Rússland og Kína, á ekkert skylt við "Realpolitik", sem Willy Brandt kallaði "Ostpolitik" sína og hefur sennilega ekki gert annað en að styrkja alræðisöflin í sessi og sennilega að sannfæra einræðisherrana um, að Vesturlönd væru að verða svo "dekadent" - úrkynjuð, að þau hefðu ekki burði til að verja sig. Sennilega hefur einörð stefna leikarans Ronalds Reagans, 40. forseta Bandaríkjanna 1981-1989, verið drýgsta framlag Vesturlanda til að fella "ríki hins illa", sem hann réttilega nefndi Ráðstjórnarríkin. Ekki er "ríki hins illa" síður réttnefni á ríkið, þar sem Vladimir Putin er æðsti koppur í búri sambandsríkis, sem er rotið ofan í rót, og hefur nú sigað agalausum her villimanna á saklausa þjóð, sem nú berst fyrir lífi sínu. Úrkynjun Vesturlanda nú kemur helzt fram í því, að beina ekki öllum öflugustu hefðbundnu hergögnum sínum í hendur úkraínska hersins, sem einn heldur nú uppi merki Vesturlanda í harðvítugri baráttu við villimenn af sléttum Rússlands. Það er eftirtektarvert, að sá stjórnmálamaður, sem nú heldur merki frelsishugsjóna Vesturlanda hæst á lofti og er í raun annar Winston Churchill (1874-1965) í sögunni, er líka leikari að atvinnu, Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2022 | 09:40
Rússland er hryðjuverkaríki
Mafían, sem nú stjórnar Rússlandi, er gengin af vitinu og er þegar búin að senda Sambandríkið Rússland á ruslahauga sögunnar. Hún hefur brotið allar brýr að baki sér með brotum á öllum reglum, sem gilda um samskipti ríkja. Þessi Kremlarmafía lýsti ekki yfir stríði gegn Úkraínu á innrásardaginn, heldur þvaðraði um "sérstaka hernaðaraðgerð", sem hafði það markmið að setja af lýðræðislega myndaða ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og að setja til valda þar strengjabrúðu gjörspilltrar mafíunnar, sem ekki þyrfti að sækja vald sitt til fólksins, heldur til forseta Rússlands. Vladimir Putin er síðan í stríði við stjórnkerfi lýðræðis, sem hann óttast, og lýðræðisríki heimsins með NATO-ríkin í broddi fylkingar.
Þessi rússneska mafía heldur úti umfangsmiklum lygaáróðri, meinar aldrei, það sem hún segir, og svíkur alla samninga, eins og loftárásir á höfnina í Odessa innan sólarhrings frá undirritun samninga um að heimila og hefja kornútflutning frá þessari miklu hafnarborg við Svartahafið eru nýlegt dæmi um. Annað nýlegt fyrirlitlegt dæmi var að sprengja í loft um fangelsi fyrir úkraínska stríðsfanga í Kherson-héraði, þar sem pyntingar höfðu verið stundaðar, og kenna síðan Úkraínumönnum um að hafa skotið HIMARS-skeyti á fangelsið.
Þessi glæpsamlegu yfirvöld Rússlands eru óalandi og óferjandi í samfélagi þjóðanna, gjörsamlega siðblind, eins og þau hafa sýnt með löðurmannlegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu gegn almennum borgurum, að þau eru. Þá hefur mafían orðið uppvís af að brjóta Genfarsáttmálann um meðferð stríðsfanga.
Ýmsum lygum hefur verið reynt að beita í vitfirringslegum tilraunum til að réttlæta óverjandi innrás Rússahers í Úkraínu 24. febrúar 2022. Einna afkáralegust er kenning Putins um, að bolsévikar hafi skapað úkraínska ríkið í kjölfar byltingarinnar í Rússlandi 1917, en sögulega séð sé Úkraína hluti af Rússlandi og úkraínska þjóðin ekki til. Þetta er allt saman alrangt óráðshjal, enda er Kænugarðsríkið eldra en rússneska ríkið og var lengst af sjálfstætt á miðöldum og á hærra menningarstigi en hið rússneska, þótt Kænugarðskóngur hafi oft átt í vök að verjast, t.d. á uppgangstímum pólska og litháíska ríkisins. Þjóðernistilfinning Úkraínumanna er hrein og fölkskvalaus, eins og þeir hafa sannað með framgöngu sinni við varnir landsins, en á ekkert skylt við nazisma. Mafían í Kreml heldur þeim áróðri að almenningi í Rússlandi, að rússneski herinn sé að uppræta nazista í Úkraínu. Þar sannast enn og aftur hið fornkveðna, að margur heldur mig sig.
Í innantómum gorgeir sínum héldu valdhafar Rússlands, að þeir gætu valtað yfir Úkraínumenn og að þeim hefði með undirróðri flugumanna sinna í Úkraínu tekizt að skapa andrúmsloft uppgjafar og að rússneska hernum yrði jafnvel fagnað með blómum. Hvernig sem vinfengi Úkraínumanna við Rússa kann að hafa verið háttað fyrir 24.02.2022, er alveg öruggt núna, að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hatar Rússa eins og pestina, hugsar þeim þegjandi þörfina og vill allt til vinna núna að reka þá til síns heima og ganga í raðir lýðræðisríkja Evrópu með formlegum hætti. Er vonandi, að Evrópusambandinu beri gæfa til að taka Úkraínu í sínar raðir og að NATO veiti landinu fullnægjandi öryggistryggingu gegn viðvarandi ógn frá vænisjúkum nágranna í austri.
Víðtæk skoðanakönnun í Úkraínu, sem brezka tímaritið "Spectator" birti 29.07.2022, sýndi, að 84 % Úkraínumanna eru andvígir því að láta nokkur landsvæði af hendi við Rússa fyrir frið af því landi, sem var innan landamæra Úkraínu 2014 áður en forseti Rússlands hóf landvinningastríð sín gegn Úkraínu undir fjarstæðukenndum ásökunum sínum um nazistíska eiturlyfjaþræla við stjórnvölinn í Kænugarði, sem ofsæktu rússneskumælandi fólk í Úkraínu. Ósvífni og fáránleiki þessara ásakana endurspeglast í þeirri staðreynd, að stjórnvöld Úkraínu eru lýðræðislega kjörin og forseti landsins, Volodimir Zelenski, er Gyðingaættar með rússnesku að móðurmáli sínu (ættaður úr austurhéruðunum), en tók sér úkraínsku sem aðalmál á innrásardeginum, 24.02.2022.
Vladimir Putin hefur breytt Rússlandi í fasistaríki, og rússneski herinn berst undir merki hálfs hakakross. Vesturlöndum stendur mikil ógn af þeirri stöðu, sem upp er komin í Austur-Evrópu. Kremlverjar hyggjast uppræta Úkraínu sem ríki, og draumurinn er að stofna samslavneskt ríki í Evrópu undir stjórn Kremlar. Einræðisstjórninni í Kreml stafaði pólitísk ógn af lýðræðisþróuninni í Úkraínu og þoldi ekki, að ríkisstjórnin í Kænugarði sneri við Rússum baki og horfði alfarið til vesturs um samstarf á stjórnmála- og viðskiptasviði. Það kom svo af sjálfu sér, eftir að landvinningastríð Rússa gegn Úkraínumönnum hófst 2014, að Úkraínumenn sæktust eftir samstarfi við og stuðningi Vesturlanda á hernaðarsviðinu, enda voru þeir rændir hluta af landi sínu. Hættan fyrir Rússland af NATO-aðild Úkraínu var hins vegar aldrei annað en skálkaskjól og ein af útúrborulegum "réttlætingartilraunum" á ínnrásinni 24.02.2022.
Ef Rússar meintu þetta, hvers vegna réðust þeir þá ekki á Finnland, þegar Finnar sóttu um aðild að NATO ? Þeim hefði reyndar ekki orðið kápan úr því klæðinu, því að finnski herinn er tilbúinn að taka á móti bjarndýrinu, og finnski herinn er ofjarl Rússahers m.v. lélega herstjórn hans í Úkraínu, lítt þróuð hergögn og lélegan anda innan rússneska hersins. Vladimir Putin dreymir um að sýna umheiminum það, sem hann kallar "mikilleik Rússlands", en honum hefur þvert á móti tekizt að sýna umheiminum, að rússneskir leiðtogar eru lygalaupar og grobbhænsni, og Rússland er í ruslflokki á öllum sviðum. Hvernig dettur þessu hyski í hug að leggja undir sig önnur lönd ? Það er eitthvað mongólskt í blóðinu, sem þar býr að baki.
Úkraínuher hefur nú hafið gagnsókn gegn innrásarliðinu í suðurhluta landsins og stefnir á að ná Kherson-héraði, en þar mun Katrín, mikla, 1729-1796, keisaraynja Rússlands frá Stettin í Pommern/Prússlandi, hafa unnið nokkra hernaðarsigra á sinni tíð, og í anda alræmdrar fortíðarþráar núverandi alvalds Rússlands, ætlar hann að innlima þetta svæði í Rússland. Boðuð er málamynda atkvæðagreiðsla um sameiningu við Rússland í september 2022, og hundruðir kennara hafa verið sendir frá Rússlandi til að heilaþvo blessuð börnin. Er það í samræmi við þá argvítugu Rússavæðingu, sem yfirvöld á hernámssvæðunum stunda. Hins vegar er starfandi vopnuð andspyrnuhreyfing í Kherson-héraðinu, sem taka mun höndum saman við úkraínska herinn um að reka óþverrana af höndum sér.
Andspyrnuhreyfingu virðist vera að vaxa fiskur um hrygg í Rússlandi sjálfu, þrátt fyrir ógnarstjórn Kremlar, því að eldar hafa brotizt út víðs vegar um Rússland í skráningarstöðvum hersins, í verksmiðjum - jafnvel í Moskvu, í vopnageymslum og í a.m.k. einni jarðgasvinnslustöð í Síberíu.
Ljóst er, að þungavopn frá Vesturlöndum geta snúið gangi stríðsins við Úkraínumönnum í vil, ef þau verða afhent þeim í þeim mæli, sem Úkraínumenn hafa farið fram á. HIMARS-fjölflauga, hreyfanlegi nákvæmnisskotpallurinn með 80 km drægni frá BNA er dæmi um þetta. Úkraínumönnum gætu staðið til boða 10.000 flaugar í þessa skotpalla, og þær mundu fara langt með að ganga frá getu rússneska hersins til aðgerða utan landamæra Rússlands. Úkraínumönnum hefur tekizt að eyðilegja birgðageymslur rússneska hersins og skemma aðdráttarleiðir að Kherson-borg með 8 slíkum skotkerfum. Til viðbótar eru 8 áleiðinni, en úkraínski herinn þarf a.m.k. fimmföldun núverandi fjölda skotpalla til að reka óværuna af höndum sér. Danir, Bretar og Eystrasaltsríkin hafa afhent flaugar á borð við Harpoon, sem grandað geta skipum, og hafa Úkraínumenn nú þegar valdið miklu tjóni á Svartahafsflota Rússa og tekið aftur Snákaeyju. Þjóðverjar hafa afhent Gephard loftvarnarkerfi og eru að undirbúa afhendingu á öflugasta skriðdreka nútímans, Leopard 2, en hafa verið sakaðir um seinagang og að vera tvíátta. Það er ekki nóg fyrir hinn kratíska kanzlara í Berlín að lýsa yfir í Reichstag, að vendipunktur hafi orðið í utanríkisstefnu Sambandsríkisins Þýzkalands. Verkin segja meira en nokkur orð.
Vesturlandamenn verða að gera sér grein fyrir því, að alvaldur Rússlands vill lýðræðislegt stjórnkerfi þeirra feigt og að hann er haldinn landvinningaórum um útþenslu Rússlands til vesturs með vísun til landvinninga rússneska keisaradæmisins og Ráðstjórnarríkjanna. Vesturveldin standa nú þegar í stríði við Rússland á efnahagssviðinu og á hernaðarsviðinu með milligöngu Úkraínumanna, sem bera hita og þunga blóðfórnanna í þágu fullveldis lands síns. Hættan er sú, að Vesturlönd geri sér ekki grein fyrir því í tæka tíð, að þau hafa ekki efni á því, að Úkraínumenn tapi þessu stríði við kvalara sína um aldaraðir. Hergagnaframleiðslu verður að setja í gang strax, eins og Vesturlöndum hafi verið sagt stríð á hendur. Ekki dugir að reiða sig á, að birgðirnar dugi. Þær gera það fyrirsjáanlega ekki, allra sízt birgðir Evrópuríkjanna.
Mest mæðir á Bandaríkjamönnum, og þeir hafa látið í té margháttaða verðmæta aðstoð. Stefnumörkun þeirra var látin í ljós, þegar utanríkisráðherrann, Antony Blinken, og varnarmálaráðherrann, Lloyd Austin, sneru til baka úr snöggri ferð til Kænugarðs 24. apríl 2022. Austin sagði þá:
"Úkraínumenn eru staðráðnir í að bera sigur úr býtum. Við erum staðráðnir í að hjálpa þeim til þess. Og það sem meira er: Við viljum sjá svo stóra burst dregna úr nefi Rússa, að þeir verði ekki færir um að endurtaka það, sem innrásin í Úkraínu felur í sér."
Nú er eftir að sjá, hvort þessum orðum Bandaríkjamannsins fylgja efndir. Mikið ríður á því.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.7.2022 | 11:31
Eimreiðar atvinnulífsins
Nýlega hækkaði seðlabanki evrunnar, ECB, stýrivexti sína úr -0,5 % í 0,0, og var aðgerðin sögð til að hamla verðbólgu, sem nú nemur 8,6 % á evrusvæðinu að meðaltali, en er þar á bilinu 6,5 % - 22,0 %. Verðbólgan í Þýzkalandi er 8,2 %, en á þann samræmda mælikvarða, sem þarna liggur til grundvallar, er hún 5,4 % á Íslandi og þar með næstlægst í Evrópu. Ekki kemur á óvart, að verðbólgan skuli vera lægst í Sviss, 3,2 %, enda er CHF, svissneski frankinn, fyrir nokkrum vikum orðinn verðmætari en EUR, evran. Svissneski seðlabankinn barðist lengi vel við að halda verðgildi frankans undir verðgildi evrunnar, en nú horfir satt að segja mjög óbjörgulega með evrusvæðið, enda lofaði evrubankinn að koma skuldugum ríkjum evrusvæðisins til hjálpar með skuldabréfakaupum, um leið og hann hækkaði vextina. Ríkisstjórn Marios Draghi á Ítalíu er fallin, af því að ítalska þingið neitaði að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnar hans á ríkisfjármálunum.
Deutsche Bank spáir þverrandi krafti þýzka hagkerfisins á næstu misserum. Reyndar fjarar svo hratt undan Þjóðverjum núna, að bankinn spáir jafnmiklum samdrætti þýzka hagkerfisins 2023 og íslenzka hagkerfisins 2009 eða 6 %, og er hið síðara kennt við Hrun, enda fór þá fjármálakerfi landsins á hliðina, en útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og orkukræfur iðnaður, björguðu því, sem bjargað varð. Hjá Þjóðverjum verður það væntanlega öfugt. Útflutningsatvinnuvegirnir, tækjaframleiðsla ýmiss konar, mun dragast saman, því að orkukræfir birgjar þeirra munu ekki fá þá orku, sem þeir þurfa, og það, sem þeir fá af jarðefnaeldsneyti og rafmagni, verður mjög dýrt (tíföldun frá í fyrra).
Þjóðverjar eru fastir í gildru, sem prestsdóttirin frá DDR-Deutsche Demokratische Republik, Angela Merkel, væntanlega óafvitandi, en undir áhrifum illmennisins, sem nú er blóðugur upp fyrir axlir í Úkraínu sem einvaldur í Kreml, leiddi þá í. Hún lét undir höfuð leggjast að útvega aðrar aðdráttarleiðir fyrir gas en frá Síberíu, t.d. móttökustöðvar í þýzkum höfnum fyrir LNG - jarðgas á vökvaformi, sem hægt hefði verið að flytja til Þýzkalands á skipum, en verður vart hægt fyrr en 2024. Hún lét Bundestag samþykkja lög, sem bönnuðu vinnslu jarðgass með leirsteinsbroti - "fracking", þótt mikið sé af slíku gasi í þýzkri jörðu. Putin laug því, að slíkt væri hættulegt og að þýzk heimili gætu átt á hættu að fá svartagall, jafnvel logandi, út um vatnskrana sína. Hún samþykkti Nordstream 2, sem hefði gert Þjóðverja algerlega háða jarðgasi frá Rússlandi, en þegar hún fór frá, nam hlutdeild Rússagass í heildareldsneytisgasnotkun Þýzkalands 55 %, en hefur nú í júlí 2022 minnkað niður í 30 %, enda hafa Rússar nú sýnt Þjóðverjum vígtennurnar og minnkað flæði um Nordstream 1 niður í 20 % af flutningsgetu lagnarinnar. Rússar eru nú með réttu skilgreindir sem hættulegir óvinir vestrænna bandamanna vegna villimannlegrar innrásar sinnar og löðurmannlegs hernaðar síns gegn óbeyttum borgurum þar í landi, sem flokkast undir þjóðarmorð.
Þá fékk Angela Merkel Bundestag til að samþykkja þá glórulausu ráðstöfun 2011 að loka nokkrum kjarnorkuverum, banna ný og loka síðustu kjarnorkuverunum fyrir árslok 2022. Allar þessar aðgerðir Angelu Merkel voru eins og að forskrift forseta Rússlands til að færa honum sem allra beittast orkuvopn í hendur. "Der Bundesnachrichtendienst" hefur að öllum líkindum vitað, eins og sumar aðrar vestrænar leyniþjónustur, hvað í bígerð var í Kreml (endurheimt tapaðra nýlendna með hervaldi), en Angela Merkel skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum. Það er alls ekki einleikið og grafalvarleg pólitísk blinda, en nú hervæðast Þjóðverjar að nýju og undirbúa að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu, en Þjóðverjar og Frakkar hafa hingað til þótt draga lappirnar í hernaðarstuðningi sínum við aðþrengda Úkraínumenn, og er það mikið óánægjuefni í Bandaríkjunum og í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum.
Hagkerfi allra Vesturlanda eða mikilvægir þættir þeirra eru orkuknúin. Á Íslandi er mikilvægasta útflutningsatvinnugreinin knúin innfluttri olíu, sem frá ársbyrjun 2022 hefur hækkað í innkaupum um 60 % á tonnið, þótt frá norska ríkisolíufélaginu Equinor sé. Útgerðarkostnaður hefur þannig hækkað gríðarlega og sömuleiðis flutningskostnaður á markað, en vegna tiltölulegs stöðugleika í verði innlendrar orku hefur framleiðslukostnaður neytendavöru af íslenzkum fiskimiðum þó hækkað minna.
Vegna hækkunar tilkostnaðar hefur sjávarútvegur í ESB þegið neyðaraðstoð hins opinbera í tvígang síðan 2020, og það er engin furða, þótt íslenzkar útgerðir leiti leiða til hagræðingar. Slíkt sáum við, þegar almenningshlutafélagið SVN festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík. Um þau viðskipti og fáránlegt moldviðri sumra stjórnmálamanna og blaðamanna út af þeim skrifaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Morgunblaðið 21. júlí 2022, undir fyrirsögninni:
"Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja".
Hún hófst þannig:
"Viðbrögð vinstri manna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takti við fyrri ummæli þeirra um íslenzkan sjávarútveg. Oft veit maður ekki, hvort þetta fólk talar þvert um hug sér, eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina. Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi ! Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenzkt samfélag !"
Gunnar Þórðarson hefur góða innsýn í rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs. Honum er vel ljóst, hvað léttir undir með atvinnugreininni, og hvað er íþyngjandi fyrir samkeppni hans hér innanlands um fólk og fjármagn og á fiskmörkuðum erlendis, þangað sem yfir 95 % framleiðslunnar fer. Þegar ytri aðstæður versna, hvort sem er fyrir tilstuðlan þingmanna og ráðherra, aðfanganna, flutninganna eða vegna harðari samkeppni á vörumörkuðum, verður aukin tilhneiging til að draga sig út úr starfseminni. Þetta gerðist nú síðast í Grindavík, og það er fagnaðarefni, þegar traust innlent almenningshlutafélag í sjávarútvegi ákveður að hlaupa í skarðið og efla starfsemina í nýkeyptri eign. Það ætti öllum að vera ljóst, að nýja staðsetningin er verðmæt fyrir kaupandann, en engu að síður hafa slettirekur í hópi þingmanna og blaðamanna kosið að vera með svartagallsraus um allt annað en þó blasir við og kaupandinn hefur lýst yfir.
"Ef ekkert hefði breytzt undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin, væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld, og afkoman væri slök. Svona svipað og ástandið var á 10. áratugi síðustu aldar, og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað. Þá væri sennilega allt í góðu lagi, og vinstrimenn ánægðir með ástandið !"
Hér væri allt með öðrum brag, ef afturhaldssinnar hefðu komið í veg fyrir þróun íslenzks sjávarútvegs í krafti markaðsaflanna og stjórnmálamenn sætu uppi með rekstur atvinnugreinar, sem þeir hafa ekkert vit á og engan áhuga á, nema þeir geti beitt honum fyrir sig á atkvæðaveiðunum. Lífskjör í landinu væru í samræmi við óstjórnina, og þær hræður, sem hér hefðust við, væru sennilega augnkarlar í verstöð Evrópusambandsins hér úti í Dumbshafi.
Í lokin reit Gunnar Þórðarson:
"Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim, sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzka þjóð. Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar, verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni. Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda. Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru, en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa. Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni. Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn."
Sú neikvæða umræða, sem fór af stað um þessi viðskipti, eftir að þau voru tilkynnt, sýndi ljóslega fram á, að þau, sem að henni stóðu, höfðu lítið vit á málefninu og voru ekki í stakkinn búin til að bera neitt gagnlegt á borð. Slíkt fólk er bara að fiska í gruggugu vatni undir kjörorðinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Leiðinlegast er, hvað þessir gjammarar eru orðnir fyrirsjáanlegir.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)