Kenningin um "Wandel durch Handel" er dauð

Það er kominn tími fyrir þýzk stjórnvöld og aðra, sem tvíátta eru í afstöðunni til Rússlands, að gera sér grein fyrir í raun, að aldrei aftur verður horfið til samskipta við Rússland á viðskiptasviðinu og öðrum sviðum, eins og innrás rússneska hersins í Úkraínu 24. febrúar 2022 hefði aldrei átt sér stað. Kenningin um, að með viðskiptum við einræðisríki gætu lýðræðisríkin haft áhrif á einræðisríkin til batnaðar, því að sameiginlegir viðskiptahagsmunir mundu gera einræðisríkin nægilega vinveitt lýðræðisríkjunum, til að þau mundu ekki telja verjanlegt að fara með ófriði gegn þeim, hefur reynzt loftkastalar draumóramanna. Til að breiða yfir veikleika þessarar kenningar, breiddi einn höfundanna, kratinn Willy Brandt, yfir raunveruleikann með því að kalla ósköpin "Realpolitik".  Þjóðverjar áttu eftir að fara flatt á þessari krataglópsku.

Viðskiptin styrkja einræðisríkin tæknilega og fjárhagslega, og þau reyna að beina aðkeyptri vestrænni tækni að eflingu herstyrksins, sem settur verður til höfuðs lýðræðisríkjum við fyrsta tækifæri.  Rússland er nýjasta dæmið um þetta.  Rússneski herinn hefur reyndar reynzt vera mun lélegri en nokkurn óraði fyrir, reyndar her á bak við Pótemkíntjöld.  Þegar til á að taka er þetta að mestu gamli sovétherinn. Fjárveitingar til hersins hafa skilað sér illa vegna grasserandi spillingar.  

Það voru evrópskir kratar (sósíaldemókratar) með Willy Brandt, formann SPD (Sozialistische Partei Deutschlands) í broddi fylkingar, sem beittu sér fyrir þessari vanhugsuðu stefnu, "Wandel durch Handel" í "Ostpolitik" sinni.  Dæmigerður kratismi, áferðarfalleg stefna, en stórhættuleg, af því að hún var reist á röngum forsendum og skilningsleysi á eðli einræðisríkja, einkum í ríkjum rótgróinnar nýlendustefnu og heimsvaldastefnu, eins og í Rússlandi. 

Af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur kratinn í kanzlarastóli núna, Olaf Scholz, neitað að horfast í augu við staðreyndir, þótt hann lýsti yfir vendipunkti í Reichstag skömmu eftir innrásina í Úkraínu 24.02.2022.  Kannski hefur hann hlustað á rússneskar hótanir um kjarnorkuárás á Berlín frá Kalíningrad (gamla Königsberg), ef Þjóðverjar dirfast að styðja þurfandi Úkraínumenn með öflugum vopnum, sem þeir hafa þrábeðið um. Hik og tafaleikir þýzku stjórnarinnar varðandi öflugan stuðning við Úkraínu frá Evrópuríki, sem hafði áunnið sér sess eftir algert og niðurlægjandi tap í Síðari heimsstyrjöldinni, er orðið óþolandi og vekur upp tortryggni í garð Þjóðverja undir kratískri forystu um fyrirætlanir þeirra, eftir að þeir hafa gert sig seka um barnalegt og algerlega óverðskuldað traust í garð rússneskra ráðamanna, sem leiddi til mikilla ófara.  Nú, 24.01.2023, 11 mánuðum eftir svívirðilega innrás Rússa í Úkraínu, hafur þýzka stjórnin loksins tekið af skarið með skilyrðislaust leyfi til afhendingar ótakmarkaðs fjölda (að því bezt er vitað) til Úkraínuhers af þeim 2000-3000 eintaka fjölda, sem til er af Leopard 2 skriðdrekunum í Evrópu. Ef minningar styrjaldanna við Rússa á 20. öld hafa hamlað ákvarðanatöku þýzku stjórnarinnar nú, ætti hún að minnast mikilla bardaga, sem háðir voru í Úkraínu 1941-1944, þegar Wehrmacht náði öllum helztu borgum Úkraínu á sitt vald, hernam allt landið og olli Úkraínumönnum stórtjóni. Margir Úkraínumenn börðust reyndar með Wehrmacht gegn Rauða hernum, enda voru misgjörðir Rússa á hendur Úkraínumönnum og nýlendukúgun þá þegar orðnar hrottalegar.   

Þessi skriðdrekategund, þýzki Leopard 2, er talin henta Úkraínuher bezt í viðureigninni við rússneska herinn.  Bandaríski Abrams-skriðdrekinn er að mörgu leyti talinn vera sambærilegur við Leopard 2A6, nýjustu tegund Leopard drekanna, sem Bundeswehr sendir senn til Úkraínu, en hann verður erfiðari í rekstri, krefst sérhæfðara viðhalds og brennir kerosen-þotueldsneyti í stað dísilolíu, sem knýr Leopard 2 og núverandi skriðdreka Úkraínuhers. Hann er knúinn þotuhreyfli, sem þolir illa ryk. Nú hafa Bandaríkjamenn lofazt til að senda Abrams-dreka til Úkraínu, en það var furðuskilyrði af hálfu Olaf Scholz, sem mun flækja mjög rekstur og viðhald skriðdrekasveita Úkraínuhers, en í nágrannaríkjunum verða sett upp verkstæði til að þjónusta þá.  Hann er þó ýmsu vanur í þeim efnum, og sennilega hefur aldrei nokkur her haft úr að spila jafnfjölbreytilegum hergögnum frá svo mörgum ólíkum framleiðendum og Úkraínuher nú.

Engir hafa meiri og dýrkeyptari reynslu af að fást við rússneska herinn en þýzki herinn.  Reichswehr barðist við keisaraherinn í 3 ár og Wehrmacht við Rauða-herinn í tæplega 4 ár.  Panther-skriðdrekinn var hannaður og smíðaður fyrir Wehrmacht til að fást við Rauða-herinn með sinn T-35 skriðdreka, sem Heinz Guderian, hershöfðingi í Wehrmacht, taldi þann bezta, sem smíðaður hafði verið fram að því. Ekki má heldur gleyma Tiger-drekunum þýzku.  Mesta skriðdrekaorrustu allra tíma fór fram við Kursk í sunnanverðu Rússlandi í júlí 1943. Heinz Guderian taldi áætlun þýzka herráðsins um þetta uppgjör Wehrmacht við mun fleiri rússneska skriðdreka en Wehrmacht og Waffen SS  höfðu yfir að ráða vera of áhættusama, og steininn tók úr, þegar þýzku sveitirnar voru veiktar með brottflutningum bryndreka til að mæta innrás Bandamanna á Ítalíu.  Eftir þessa bardaga við Kursk máttu þýzku vélaherdeildirnar sín lítils á austurvígstöðvunum, enda var þá helzti hugmyndasmiður Wehrmacht á þessu sviði hernaðar fallinn í ónáð hjá kanzlaranum. Fjöldinn segir ekki alla söguna.  Gæði búnaðar, þjálfun hermanna og stjórnkænska ráða för nú ekki síður en þá.  

Á dögum Kalda stríðsins æfði Rauði herinn, sem átti 20 k skriðdreka, framrás hersins vestur að Rín, og NATO taldi hættu á, að látið yrði reyna á þessar fyrirætlanir.  Í því skyni að stöðva þessa væntanlegu sókn þróuðu Þjóðverjar Leopard 1 skriðdrekann í framhaldi af reynslunni af skriðdrekum Wehrmacht, og síðan var hann uppfærður tæknilega í Leopard 2, sem er hannaður sérstaklega til að fást við rússneska skriðdrekann T-72, sem er uppistaðan í rússnesku skriðdrekasveitunum, og T-90, sem er seinni útgáfa. 

Þetta er ástæðan fyrir því, að Úkraínumenn leggja höfuðáherzlu á að fá um 300 stk. Leopard 2, og öll NATO-ríkin, nema Þýzkaland, Ungverjaland og e.t.v. Tyrkland, styðja það. Einörðust í stuðningi sínum eru NATO-ríkin, sem áður voru hernumin af Rússum, því að þau telja sig vita af biturri reynslu, að árásargjörn nýlendustefna Rússa muni beinast að þeim, eftir hugsanlegt fall Úkraínu og Moldóvu, sem þó verður vonandi aldrei.  Þar er um að ræða Pólland, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Tékkland og  Slóvakíu.  Öll þessi ríki munu eiga Leopard 2 í vopnabúrum sínum og vera fús að láta hluta þeirra af hendi við Úkraínuher, þegar Þýzkaland afléttir viðskiptakvöðum af þessum tækjum.  Eftir fund Vesturveldanna í Ramstein-flugherstöð Bandaríkjahers í byrjun þorra 2023 ríkti bjartsýni um, að það ætlaði Þýzkaland að gera hið snarasta, en það hefur ekki verið staðfest fyrr en nú í dag, 24.01.2023, eftir símtal Bandaríkjaforseta við Þýzkalandskanzlara.    

Þessi kergja kratans Scholz og tvískinnungur stefndi í að senda Þýzkaland í skammarkrók Vesturveldanna.  Einangrun Þýzkalands yrði engum til góðs, nema árásaröflunum í Kreml.  Það hlyti að hrikta illilega í ríkisstjórnarsamstarfinu í Berlín, ef lengri dráttur hefði orðið á samþykki Olafs Scholz.  Hefðu orðið  stjórnarslit þar út af þessu, mundi krataflokkurinn SPD verða sendur í langa eyðimerkurgöngu, enda á stjórnmálaflokkur, sem rekur stjórnarstefnu, sem er stórskaðleg fyrir framtíð og öryggi Vesturlanda, ekkert erindi í valdastóla.  CDU bíður eftir að taka við stjórnartaumunum.  Kratar eru aldrei til stórræðanna.  

Það verður aldrei aftur sams konar ástand í Evrópu og ríkti frá falli ráðstjórnar kommúnistaflokks Rússlands og fram til innrásarinnar 24. febrúar 2022.  Það verður sett upp járntjald á landamærum Rússlands og viðskiptum við landið haldið í lágmarki, því að einræðisöflin þar munu ekki láta af þráhyggju sinni um útþenslu yfirráðasvæðis Rússlands.  Enginn annar hefur áhuga á slíku afturhvarfi sögunnar og afturför.  Þess vegna er öruggast að veita Úkraínu inngöngu í NATO, og umsókn landsins um aðild að ESB er í vinnslu í Brüssel og Kænugarði, eins og við sjáum nú á hreinsunum vegna spillingar í Kænugarði. Rússar geta engum um kennt, nema sjálfum sér.  Þeir reka hryðjuverkaríki, útlagaríki, sem engin áhrif á að hafa á það, hvernig Vesturveldin skipa varnarmálum sínum.

Á 19. öld hrifsaði Rússakeisari til sín stór landflæmi af Kínakeisara.  Ríkisstjórn kínverska kommúnistaflokksins hefur ekki gleymt þessum þætti sögunnar og mun sennilega með einhverjum hætti reyna að endurheimta þetta land og nýta þau tækifæri, sem bjóðast með breyttri stöðu heimsmálanna og veiku Rússlandi. 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Ætli Rússar ráðist næst á Indland?

Russian Crude Exports from Baltic Ports See 50% Hike In January

Geir Ágústsson, 24.1.2023 kl. 21:47

2 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Góður pistill hjá þér að venju Bjarni.

Það er ekki rétt að bandaríski Abrams skriðdrekinn sé Þyngri og öflugri en þýzki Leopard 2 drekinn.  Hið rétta er að þeir eru nánast jafn þungir og slaga í 70 tonn. Afl véla er jafnt eða 1500 hestöfl.   Fallbyssurnar eru 120mm á báðum. Skot á tímaeingu er jafnt. Hér er miðað við nýjustu módelin.  

Þetta og miklu fleira er hægt að kynna sér á Wikipedia.  

Flestum sérfræðingum ber saman um að Leopard 2 skriðdrekinn hafi vinninginn og sé sá besti í heimi.  Hann er frekar byggður á þýzka Tigris skriðdrekanum heldur en Panther.

 

Öflugasti skriðdrekinn i orustunni við Kursk var Tigrisskriðdrekinn.  Rússneski skriðdrekinn T-35 átti nánast enga möguleika gegn Tigris, sem var miklu þygri og með öflugri fallbyssu og sterkari brynvörn.

Þjóðverjar hófu orustuna 5. júli 1943 með um 1100 skriðdrekum, þar af um 200 Panther 45 tonn á þyngd, 100 Tiger 55 tonn og tugi Ferdinand 70 tonn á þyngd.

Alls höfðu Þjóðverjar yfir að ráða á svæðinu um 4 þúsund skriðdrekum en Rússar um 6 þúsund. Þjóðverja höfðu algera yfirburði fyrstu viku bardaganna og grönduðu skriðdrekar þeirra um 800 skriðdrekum Rússa en misstu sjálfir margfalt færri.  Það var ekki fyrr en Hitler fékk því framgengt um viku siðar að heilu skriðdrekafylkin voru send til Ítalíu til að bregðast við innrás Breta og Bandaríkjamanna í Sikiley, þann 10. Júlí, að rússar náðu yfirhöndinni enda með fleiri fallbyssur og hermenn.

Ég bendi á mjög greinargóðar bækur eftir frakkann Raymond Cartier: Der Zweite Weltkrieg.

 

Daníel Sigurðsson, 25.1.2023 kl. 18:02

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér, Daníel, fyrir þessar upplýsingar.  Það verður í raun að taka fram gerð Leopard 2, þegar hann er borinn saman við aðrar tegundir.  Frá Bundeswehr fær Úkraínuher nú 14 stk Leopard 2A6, sem ég held, að sé nýjasta gerðin, og þeir eru nú þegar bardagahæfir.  Mér skilst Bandaríkjaher ætli að senda 30-50 stk Abrahms, sem herinn mun hafa verið búinn að leggja, en með litlu viðhaldi má gera þá tilbúna í slaginn.  Þeir munu berast Úkraínumönnum seinna en hlébarðarnir.  

Alveg ótrúlegur fjöldi skriðdreka, sem Wehrmacht og Waffen SS hefur tekizt að skrapa saman fyrir Kursk.  Það má velta fyrir sér, hvernig Þjóðverjar hefðu getað marið sigur, sem ekki var Phyrrosarsigur, ef Heinz Guderian hefði ekki orðið að láta sveitir af hendi.  

Bjarni Jónsson, 25.1.2023 kl. 18:35

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Er sammála þér að mestu. Ég hef verið að kynna mér betur mannkynssöguna á tímum Ottómanveldisins og kom margt mér á óvart. Rússar börðust við Ottómanveldið um yfirráð Krímskagans. Það sem vakti óhug minn, var að Bretar og Frakkar tóku afstöðu með Ottómanveldinu. Þeir virðast hafa talið hagsmunum sínum betur komið þannig. Rússar stilltu sér upp sem verndara kristinna eða Orþódox kirkjunnar í Palestínu, en Ottómanveldið stundaði grimmilegar ofsóknir gegn þeim. Virðingarverð afstaða, en ég veit ekki hvort það hafi verið meira í orði en á borði.

A.m.k. hefur Krímskaginn lengi verið bitbein stórveldanna. Rússar þykja sér ógnað ef þeir ráða honum ekki og Bretar og Frakkar vildu fyrir alla muni koma í veg fyrir að Rússar réðu honum, því þeir töldu það ógna sínum hagsmunum, bæði í Evrópu og í Miðausturlöndum.

Að standa með þjóðarmorðingjunum í Istanbúl, veldur mér samt ógleði. Núna er Tyrkland frekar bandamaður Rússlands, þó landið sé að nafninu til í NATÓ. Við sjáum nú hvaða usla þeir eru að valda bandalaginu núna, hvað varðar umsókn Svíþjóðar og Finnlands um inngöngu.

Neistinn sem kveikti bál fyrri heimsstyrjaldarinnar, var í Bosníu-Hersegóvínu. Kunnuglegt? Balkanskaginn hefur lengi verið púðurtunna. Austurríki-Ungverjaland hernam landið, sem enginn var hrifinn af, ekki einu sinni Þýskaland. Þeir urðu þó að standa með þeim þegar þeir lýstu yfir stríði við Serbíu og þar með voru Rússar dregnir inn í átökin sem bandamenn Serba.

Afsaka langa athugasemd, en það er áhugavert að skoða rætur sögunnar, þó ekkert réttlæti grimmdarverk Rússa núna á 3. áratug 21. aldar. Stórveldin spila sínar skákir og enginn er annars bróðir í leik (stríði.)

Theódór Norðkvist, 25.1.2023 kl. 19:18

5 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Fann þennan link frá í dag sem sýnir m.a. myndir af M1 Abrams og Leopard 2, sem búið er að samþykkja að senda til Úkraínu. Þarna kemur m.a. fram þyng o.fl.  (67 tonn hvor um sig) þeirra týpa eða gerða sem  fara í fyrstu sendingarnar:

US joins Germany in sending tanks to Ukraine (msn.com)

Já, hinir frægu herforingjar Manstein og Guderian munu hafa verið nokkuð vissir um þýzkan sigur ef Þeir hefðu fengið að ráða og fengið Hitler ofan af því að bíða í fleiri vikur eftir hinum mislukkuðu stríðstólum af færibandinu sem Ferdinand-skriðdrekarnir reyndust vera. En auðvitað verður ekkert fullyrt um þetta.

Daníel Sigurðsson, 25.1.2023 kl. 20:20

6 Smámynd: Jón Magnússon

Það er ekki rétt að Heinz Guderian hershöfðingi hafi haft herstjórn í Kursk. Það var hinsvegar Erich von Manstein sem þar var. Heins Guderian tapaði aldrei orrustu. Heinz Guderian var sá eini af háttsettum þýskum hershöfðingjum sem lagðist alfarið gegn því að Þjóðverjar mundur sækja með þessum hætti að Kursk og talddi það algjöran óþarfa og bjóða upp á þá hættu, að veikja þýsku skriðdrekasveitirnar svo illa að það mundi verða erfitt að byggja þær upp að nýju. Hann lagðist alfarið gegn Kursk áætluninni á fundi herstjórnar 5 maí og síðan í viðtali við Hitler þ. 10 maí 1943.  Mig minnir að hann hafi fengið bágt fyrir og verið settur í hálfgerðan skammakrók og ekki stýrt neinum her eftir það. 

Eftir lifir að Guderian hafði algjörlega rétt fyrir sér.

En þetta var nú ekki aðalmál færslunar. En kæri Bjarni mér finnst rétt að leiðrétta þetta með ofurhershöfðingjann Heinz Guderian.

Jón Magnússon, 25.1.2023 kl. 20:56

7 Smámynd: Hörður Þormar

Ætli Rússar séu búnir að gleyma vopnasendingum Bandaríkjamanna með skipalestunum til Múrmansk?

Hörður Þormar, 25.1.2023 kl. 22:20

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Við verðum að taka Rússland með í samstarfið, punktur. Eru einhverjir að vonast eftir að geta komið af stað Þriðju heimstyrjöldinni? Hvað sagði Einstein? Ég veit ekki með hvaða vopnum WWIII verður barist, en WWIV verður barist með prikum og steinum.

1.1.1970 | 00:00

Við verðum að taka Rússland með í samstarfið, punktur.

Eru einhverjir að vonast eftir að geta komið af stað Þriðju heimstyrjöldinni?

Hvað sagði Einstein? 

„Ég veit ekki með hvaða vopnum WWIII verður barist, en WWIV verður barist með prikum og steinum.

“I know not with what weapons WWIII will be fought, but WWIV will be fought with sticks and stones.”

Kissinger

Þó að sumir kjósi frekar "Rússland sem stríðið hefur gert getulaust" er Kissinger ósammála og heldur því fram að ekki eigi að brjóta niður "sögulegt hlutverk Moskvu".

(Að vera stuðpúði á milli Asíu og Evrópu. jg) 

Niðurrif Rússlands gæti breytt víðfeðmu landsvæði þess í "umdeilt tómarúm" þar sem "samkeppnissamfélög gætu ákveðið að leysa deilumál sín með ofbeldi" og nágrannar gætu reynt að gera tilkall til landsvæðis með valdi, allt í viðurvist "þúsunda kjarnorkuvopna". 

Slóð

Kissinger, ekki brjóta "sögulegt hlutverk Moskvu". Niðurrif Rússlands gæti breytt landsvæði í "umdeilt tómarúm" og nágrannar gætu reynt að gera tilkall til landsvæðis með valdi, þar eru "þúsundir kjarnorkuvopna"

17.12.2022 | 23:02

Egilsstaðir, 26.01.2023   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 26.1.2023 kl. 01:00

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka ykkur fyrir þennan fróðleik.  Jón: ég er sérstaklega þakklátur þér fyrir að rétta hlut meistara "leifturstríðs" með vélaherdeildum.  Ég var ekki búinn að kynna mér sögu Kursk-orrustunnar nægilega vel.  Foringinn var vanur að leggja við hlustir, þegar Heinz Guderian tjáði sig, en þarna skildu sem sagt leiðir.  Guderian lifði styrjöldina af, og ég held, að hann hafi ritað endurminningar sínar.  Hann hefur haft frá mörgu að segja.  

Bjarni Jónsson, 26.1.2023 kl. 10:24

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hef tekið mið af prýðisathugasemdum hér að ofan og þakka enn fyrir þær.  

Bjarni Jónsson, 26.1.2023 kl. 13:49

11 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það sakar ekki í þessari umræðu að taka fram að þó að Heinz Guderian hafi ekki komið að stjórn herdeilda Þjóðverja, plan Zitadelle, við Kúrsk (og Orel) þá var þeim skipt undir stjórn tveggja yfirhershöfðingja. Annars vegar Erics von Manstein og hins vegar Günthers von Kluge.

Það er rétt munað hjá þér Bjarni að Heinz Guderian lifði styrjöldina af (lést 1954) og gaf út bók um endurminningar sínar sem varð metsölubók. Hann var aldrei ákærður fyrir stríðsglæpi, ekki frekar en flestir hershöfðingjar Þjóðverja. Hann hélt því ætið fram að herir undir hans stjórn væru saklausir af slíku.

Daníel Sigurðsson, 26.1.2023 kl. 17:06

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Daníel, að deila með okkur þekkingu þinni á austurvígstöðvunum 1941-1945.  Ekki veitir af fyrir mig, sem ekki hef sökkt mér djúpt niður í efnið í háa herrans tíð, en sem menntskælingur keypti ég mér bók í Eymundsson/Austurstræti, sem hét: "Die illustrierte Geschichte des zweiten Weltkriegs".  Það var mikill doðrantur, en er nú týnd og tröllum gefin.  Hún átti að færa mér forskot í þýzkunáminu líka í MR.  Endurminningar Heinz Guderian væri spennandi lestur.  Í vorstríðinu 1940, þegar Wehrmacht vann bug á stærri her hvað varðaði fjölda hermanna og hertóla á landi og í lofti en Wehrmacht réði yfir, og gjörsigraði heri Hollendinga, Belga, Frakka og Breta með leifturstríði, reyndi í fyrsta skipti alvarlega á kenningar Guderians um "Blitzkrieg", og þær gengu upp, enda lék hann þar stórt hlutverk.  

Bjarni Jónsson, 26.1.2023 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband