Lengi eimir eftir af Molotoff-Ribbentropp-samninginum

Molotoff og Ribbentropp voru utanríkisráðherrar einræðisherranna Stalíns og Hitlers.  Hitler sendi utanríkisráðherra sinn til Moskvu síðla ágústmánaðar 1939 til að ganga frá samningi við Kremlverja, sem innsiglaði skiptingu Evrópu á milli þessara stórvelda.  Þessi samningur var ósigur fyrir lýðræðið og sjálfsákvörðunarrétt þjóða um að haga málum sínum að vild, enda voru þjóðir Evrópu með honum dæmdar til kúgunar og þrælahalds. Það er einmitt gegn slíku þrælahaldi, sem Úkraínumenn berjast núna blóðugri baráttu, og er það ótrúlega hart nú á 21. öldinni að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum í Evrópu upp á líf og dauða.

Í Evrópu sluppu t.d. Bretar, Íslendingar, Svisslendingar, Svíar, Spánverjar og Portúgalir undan stríðsátökum.  Einörð varnarbarátta Breta bjargaði Vestur-Evrópu undan járnhæl nazismans.  Vegna einstakrar frammistöðu flughers Breta í viðureigninni við flugher Þjóðverja haustið 1940 og öflugs flota Breta tókst að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja yfir Ermarsundið.  Með aðgerðinni Rauðskeggur 21. júní 1941 splundraði Hitler þessum illræmda samningi, en það er engu líkara en hann lifi þó í hugskoti ýmissa enn. 

Afstaða Þýzkalandskanzlaranna Kohls, Merkel og Scholz ber þess merki, að þau hafi í hugskoti sínu stjórnazt af þeirri úreltu hugmyndafræði, að Þýzkaland og Rússland ættu að skipta Evrópu á milli sín í áhrifasvæði. Þýzka ríkisstjórnin var Eystrasaltsríkjunum fjandsamleg við lok Kalda stríðsins, Merkel stöðvaði áform Bandaríkjamanna 2015 um að veita Úkraínu aðild að NATO, og Scholz hefur dregið lappirnar í hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu.  Afleiðingin er ófögur. 

Jón Baldvin Hannibalsson, krati og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þegar hann, ásamt forsætisráðherranum, Davíð Oddssyni, beitti sér fyrir því, að Ísland braut ísinn á örlagaþrungnum tíma og viðurkenndi fullveldi Eystrasaltsríkjanna.  Þetta er bezti gjörningur Íslands gagnvart öðrum ríkjum á lýðveldistímanum.  Hvar værum við stödd, ef réttur þjóðríkja til óskoraðs fullveldis væri ekki virtur að alþjóðalögum ?  Barátta Úkraínumanna núna við rotið Rússland, sem stjórnað er með vitfirrtum hætti til að snúa sögunni við, snýst um rétt stórra og smárra ríkja til fullveldis og til að búa í friði í landi sínu. Þess vegna eiga Vesturlönd að styðja Úkraínu hernaðarlega án þess að draga af sér og fylgja þar fordæmi Póllands og Eystrasaltsríkjanna. 

Nú verður vitnað í grein JBH í Morgunblaðinu 30.ágúst 2022, sem hann nefndi:

"Um þá sem þora ..." 

"Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu.  Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins.  Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði neðanjarðar.  Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins.  Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO-ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: "Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi ?".  

Þarna minnist JBH ekki á eitt alsvínslegasta tiltæki rússnesku kúgaranna, sem þeir hafa beitt alls staðar, þar sem þeir hafa talið þörf á að berja niður sjálfstæðistilhneigingu þjóða og að eyðileggja þjóðareinkenni þeirra. Þeir hafa stundað hina mannfjandsamlegu kynþáttahreinsun, "ethnic cleansing", í Eystrasaltsríkjunum, og hana stunda viðbjóðirnir á herteknum svæðum Úkraínu.  Fólkið er flutt burt langt frá heimkynnum sínum og Rússar látnir setjast að í staðinn.  Þetta er glæpur gegn mannkyni, og það er ískyggilegt, að rússneska valdastéttin skuli vera á svo lágu siðferðisstigi á 21. öldinni að gera sig seka um þetta.  Þeir verðskulda ekkert minna en fulla útskúfun Vesturlanda sem hryðjuverkaríki.  

"Hinn atburðurinn [á eftir "syngjandi byltingunni" í júní 1988-innsk. BJo], sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins, var "mannlega keðjan" í ágúst 1989.  Næstum 2 milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilniusar í suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop-samninginum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur [á] milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar.  Samkvæmt samninginum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þ.m.t. Finnland - eitt Norðurlandanna."

Þannig var lenzkan á miðöldum í Evrópu, að stórveldin ráðskuðust með fullveldi minni ríkjanna og röðuðu þeim inn á áhrifasvæði sín. Enginn, nema kannski páfinn eða æðsti prestur rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu,  hafði gefið þeim þennan rétt.  Þau tóku sér hann annars með vopnavaldi. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, 1914-1918, tók þetta fyrirkomulag að rakna upp fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar.  Þá var kveðið á um rétt þjóða til að ákvarða sjálfar örlög sín, hvort þau kysu að vera í ríkjabandalagi eða afla sér sjálfstæðis um eigin mál og fullveldis.  Þá urðu t.d. Ísland og Finnland sjálfstæð ríki, og Úkraína varð sjálfstæð í öreigabyltingunni rússnesku 1917. Þetta er nú hinn ríkjandi réttur að alþjóðalögum. Vladimir Putin snýr öllu á haus, vill snúa klukkunni til baka, en það mun ekki ganga til lengdar.

"Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum.  Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok kalda stríðsins með því að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða ?  Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum - í því skyni að varðveita frið og stöðugleika ? 

Bilið [á] milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar og þeirrar stórveldapólitíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt."

Að stærri ríki hafi öll ráð hinna smærri í hendi sér, er óalandi og óferjandi viðhorf.  Valdið til að ákvarða fullveldi ríkis liggur hjá íbúum þess ríkis sjálfum og ekki hjá stjórnmálamönnum stærri ríkja, sízt af öllu gamalla nýlendukúgara eins og Rússlands. Þetta viðurkenndu Bretar og Frakkar í raun með því að segja Stór-Þýzkalandi stríð á hendur í kjölfar innrásar Wehrmacht í Pólland 1. september 1939.  Frakkland féll að vísu flestum að óvörum á undraskömmum tíma vorið 1940 fyrir leifturárás, "Blitzkrieg Guderians", en Stóra-Bretland hélt velli og stóð uppi sem sigurvegari 1945 með dyggri hernaðarhjálp Bandaríkjamanna. 

"Það var þess vegna, sem Bush, Bandaríkjaforseti, flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum.  Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn "að láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju", heldur halda Sovétríkjunum saman "í nafni friðar og stöðugleika". 

Það var þess vegna, sem Kohl, kanzlari, og Mitterand, forseti, skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa frá 11. marz 1990."

Ráðstjórnarríkin voru of rotin undir þrúgandi kommúnisma, til að þau gætu haldizt saman.  Það hefur þessum forsetum og kanzlara verið ljóst, en þeir hafa talið sig skuldbundna Gorbasjeff fyrir þátt hans í friðsamlegu hruni Járntjaldsins. Þeir höfðu hins vegar engan rétt til að slá á frelsisþrá undirokaðra þjóða, sem þráðu endurheimt frelsis síns og fullveldis. Þar kemur að hinu sögulega gæfuspori Íslands, smáríkis norður í Atlantshafi, sem öðlazt hafði fullveldi í eigin málum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar og fullt sjálfstæði við lýðveldisstofnun, sem Bandaríkjamenn studdu dyggilega í júní 1944, skömmu eftir innrás Bandamanna í Normandí. 

"En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu ?  Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi.  Þvert á móti: Ísland var háð Sovétríkjunum um innflutning á eldsneyti - sem er lífsblóð nútímahagkerfa - allt frá því, að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-1975).  Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað að leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra ?  M.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði ? 

Allt er þetta vel þekkt.  Engu að síður vorum við [Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur - innsk. BJo]  tregir til fylgispektar.  Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum.  Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin.  Hún byggðist á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna.  Ég var sannfærður um, að Sóvétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á.  Heimsveldið væri að liðast í sundur, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á seinni heimsstyrjöldinni." 

Það er eins og Vesturveldin hafi verið fús til á þessari stundu að stinga þeirri dúsu upp í Gorbasjeff að skipta Evrópu á milli tveggja stórvelda í anda Mólotoff-Ribbentropp-samningsins og Þjóðverjar stutt það leynt og ljóst sem verðandi forysturíki Evrópusambandsins.  Þetta er ólíðandi hugarfar og ekki reist á öðru en rétti, sem sá "sterki" tekur sér til að kúga og skítnýta þann "veika". Saga nýlendustjórnarfars í Evrópu leið undir lok með hruni Járntjaldsins, en nú reyna Rússar að snúa við hinni sögulegu þróun.  Það mun allt fara í handaskolum hjá þeim, enda með endemum óhönduglega og villimannslega að verki verið.  Enginn kærir sig um að þjóna slíkum herrum á 21. öldinni.

"Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisþjóða áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum notið "friðar og stöðugleika". Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök." 

 

 

 

 

 

 Brandenborgarhliðið

   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Eftir lestur þessarar ítarlegu upprifjunar, þá aðalega frækilegrar framgöngu Jóns Baldvins gegn áliti Bush, Kohl og Mitterand varðandi sjálfsstæðis drauma Eystrasaltsríkja og stutt ágrip úr átaka sögu síðustu aldar bæði austan og vestan, eða hægri eða vinstri eða hvað þeir Molotoff og Ribbentropp nú stóðu annars fyrir, þá veltir maður fyrir sér hvað aðkoma þeirra eða afrek þýða fyrir okkur í dag?

En nokkuð óvænt fjarar færslan út, án að því virðist niðurstöðu eða fyrirheits um framhald, en skilur þó eftir nokkrar spurningar til höfundar, t.a.m. hvort ekki Sovétríkin hafi í raun og veru staðið með okkur, þegar Bretar ítrekað beittu okkur valdi og viðskiptaþvingunum og t.a.m. hvort þér Bjarni finnist nú í besta lagi að synir Þriðja ríkisins annist nú loftrýmisgæslu yfir Íslandi, eins og ekkert sé eðlilegara?

Hvað stríðsátökin í Úkraínu varðar, sem virðast vera þér býsna mikið hugleikin, hefur þér þá aldrei fundist friðarsamningar, eða íbúakosningar í austur héruðunum vera valkostur, eða bara einfaldlega að framfylgja Minsk samkomulaginu, sem þú hlýtur líka að kannast við?

Jónatan Karlsson, 10.9.2022 kl. 11:25

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónatan.  Það er rétt hjá þér, það vantar botn frá mér, þ.e. samantekt og ályktun, en þessi færsla var orðin anzi löng vegna margra tilvitnana í merkilega og áhugaverða grein JBH.  Ég treysti mér ekki til að dæma það afleik í kröppum dansi landhelgisátaka að semja um viðskipti við Ráðstjórnarríkin.  Var ekki pólitískur einhugur um það á sinni tíð ?  Þjóðverjar eru bandamenn Íslendinga í NATO, og það hvarflar ekki að mér að fordæma núlifandi kynslóðir Þjóðverja fyrir syndir forfeðranna.  Þjóðverjar hafa reyndar verið til fyrirmyndar, hvað uppgjör við fortíðina varðar.  Gleymum því ekki, að þjóðernisjafnaðarmenn voru ekki kosnir til að fara með öll völd í Þýzkalandi, heldur hrifsuðu þeir völdin með ofbeldi, eftir að Hindenburg skipaði Hitler kanzlara.  Hann hafði reyndar áður sagt, að Hitler hefði ekki einu sinni hæfileika til að verða póstmálaráðherra í Weimar-lýðveldinu.  

Ég held, að Minsk-samkomulagið, sem komst á koppinn fyrir tilstilli Frakka og Þjóðverja, hafi verið meingallað.  Ég vil varðveita fullveldi Úkraínu og þar með landamæri ríkisins.   

Bjarni Jónsson, 11.9.2022 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband