Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
2.8.2022 | 09:40
Rússland er hryðjuverkaríki
Mafían, sem nú stjórnar Rússlandi, er gengin af vitinu og er þegar búin að senda Sambandríkið Rússland á ruslahauga sögunnar. Hún hefur brotið allar brýr að baki sér með brotum á öllum reglum, sem gilda um samskipti ríkja. Þessi Kremlarmafía lýsti ekki yfir stríði gegn Úkraínu á innrásardaginn, heldur þvaðraði um "sérstaka hernaðaraðgerð", sem hafði það markmið að setja af lýðræðislega myndaða ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og að setja til valda þar strengjabrúðu gjörspilltrar mafíunnar, sem ekki þyrfti að sækja vald sitt til fólksins, heldur til forseta Rússlands. Vladimir Putin er síðan í stríði við stjórnkerfi lýðræðis, sem hann óttast, og lýðræðisríki heimsins með NATO-ríkin í broddi fylkingar.
Þessi rússneska mafía heldur úti umfangsmiklum lygaáróðri, meinar aldrei, það sem hún segir, og svíkur alla samninga, eins og loftárásir á höfnina í Odessa innan sólarhrings frá undirritun samninga um að heimila og hefja kornútflutning frá þessari miklu hafnarborg við Svartahafið eru nýlegt dæmi um. Annað nýlegt fyrirlitlegt dæmi var að sprengja í loft um fangelsi fyrir úkraínska stríðsfanga í Kherson-héraði, þar sem pyntingar höfðu verið stundaðar, og kenna síðan Úkraínumönnum um að hafa skotið HIMARS-skeyti á fangelsið.
Þessi glæpsamlegu yfirvöld Rússlands eru óalandi og óferjandi í samfélagi þjóðanna, gjörsamlega siðblind, eins og þau hafa sýnt með löðurmannlegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu gegn almennum borgurum, að þau eru. Þá hefur mafían orðið uppvís af að brjóta Genfarsáttmálann um meðferð stríðsfanga.
Ýmsum lygum hefur verið reynt að beita í vitfirringslegum tilraunum til að réttlæta óverjandi innrás Rússahers í Úkraínu 24. febrúar 2022. Einna afkáralegust er kenning Putins um, að bolsévikar hafi skapað úkraínska ríkið í kjölfar byltingarinnar í Rússlandi 1917, en sögulega séð sé Úkraína hluti af Rússlandi og úkraínska þjóðin ekki til. Þetta er allt saman alrangt óráðshjal, enda er Kænugarðsríkið eldra en rússneska ríkið og var lengst af sjálfstætt á miðöldum og á hærra menningarstigi en hið rússneska, þótt Kænugarðskóngur hafi oft átt í vök að verjast, t.d. á uppgangstímum pólska og litháíska ríkisins. Þjóðernistilfinning Úkraínumanna er hrein og fölkskvalaus, eins og þeir hafa sannað með framgöngu sinni við varnir landsins, en á ekkert skylt við nazisma. Mafían í Kreml heldur þeim áróðri að almenningi í Rússlandi, að rússneski herinn sé að uppræta nazista í Úkraínu. Þar sannast enn og aftur hið fornkveðna, að margur heldur mig sig.
Í innantómum gorgeir sínum héldu valdhafar Rússlands, að þeir gætu valtað yfir Úkraínumenn og að þeim hefði með undirróðri flugumanna sinna í Úkraínu tekizt að skapa andrúmsloft uppgjafar og að rússneska hernum yrði jafnvel fagnað með blómum. Hvernig sem vinfengi Úkraínumanna við Rússa kann að hafa verið háttað fyrir 24.02.2022, er alveg öruggt núna, að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hatar Rússa eins og pestina, hugsar þeim þegjandi þörfina og vill allt til vinna núna að reka þá til síns heima og ganga í raðir lýðræðisríkja Evrópu með formlegum hætti. Er vonandi, að Evrópusambandinu beri gæfa til að taka Úkraínu í sínar raðir og að NATO veiti landinu fullnægjandi öryggistryggingu gegn viðvarandi ógn frá vænisjúkum nágranna í austri.
Víðtæk skoðanakönnun í Úkraínu, sem brezka tímaritið "Spectator" birti 29.07.2022, sýndi, að 84 % Úkraínumanna eru andvígir því að láta nokkur landsvæði af hendi við Rússa fyrir frið af því landi, sem var innan landamæra Úkraínu 2014 áður en forseti Rússlands hóf landvinningastríð sín gegn Úkraínu undir fjarstæðukenndum ásökunum sínum um nazistíska eiturlyfjaþræla við stjórnvölinn í Kænugarði, sem ofsæktu rússneskumælandi fólk í Úkraínu. Ósvífni og fáránleiki þessara ásakana endurspeglast í þeirri staðreynd, að stjórnvöld Úkraínu eru lýðræðislega kjörin og forseti landsins, Volodimir Zelenski, er Gyðingaættar með rússnesku að móðurmáli sínu (ættaður úr austurhéruðunum), en tók sér úkraínsku sem aðalmál á innrásardeginum, 24.02.2022.
Vladimir Putin hefur breytt Rússlandi í fasistaríki, og rússneski herinn berst undir merki hálfs hakakross. Vesturlöndum stendur mikil ógn af þeirri stöðu, sem upp er komin í Austur-Evrópu. Kremlverjar hyggjast uppræta Úkraínu sem ríki, og draumurinn er að stofna samslavneskt ríki í Evrópu undir stjórn Kremlar. Einræðisstjórninni í Kreml stafaði pólitísk ógn af lýðræðisþróuninni í Úkraínu og þoldi ekki, að ríkisstjórnin í Kænugarði sneri við Rússum baki og horfði alfarið til vesturs um samstarf á stjórnmála- og viðskiptasviði. Það kom svo af sjálfu sér, eftir að landvinningastríð Rússa gegn Úkraínumönnum hófst 2014, að Úkraínumenn sæktust eftir samstarfi við og stuðningi Vesturlanda á hernaðarsviðinu, enda voru þeir rændir hluta af landi sínu. Hættan fyrir Rússland af NATO-aðild Úkraínu var hins vegar aldrei annað en skálkaskjól og ein af útúrborulegum "réttlætingartilraunum" á ínnrásinni 24.02.2022.
Ef Rússar meintu þetta, hvers vegna réðust þeir þá ekki á Finnland, þegar Finnar sóttu um aðild að NATO ? Þeim hefði reyndar ekki orðið kápan úr því klæðinu, því að finnski herinn er tilbúinn að taka á móti bjarndýrinu, og finnski herinn er ofjarl Rússahers m.v. lélega herstjórn hans í Úkraínu, lítt þróuð hergögn og lélegan anda innan rússneska hersins. Vladimir Putin dreymir um að sýna umheiminum það, sem hann kallar "mikilleik Rússlands", en honum hefur þvert á móti tekizt að sýna umheiminum, að rússneskir leiðtogar eru lygalaupar og grobbhænsni, og Rússland er í ruslflokki á öllum sviðum. Hvernig dettur þessu hyski í hug að leggja undir sig önnur lönd ? Það er eitthvað mongólskt í blóðinu, sem þar býr að baki.
Úkraínuher hefur nú hafið gagnsókn gegn innrásarliðinu í suðurhluta landsins og stefnir á að ná Kherson-héraði, en þar mun Katrín, mikla, 1729-1796, keisaraynja Rússlands frá Stettin í Pommern/Prússlandi, hafa unnið nokkra hernaðarsigra á sinni tíð, og í anda alræmdrar fortíðarþráar núverandi alvalds Rússlands, ætlar hann að innlima þetta svæði í Rússland. Boðuð er málamynda atkvæðagreiðsla um sameiningu við Rússland í september 2022, og hundruðir kennara hafa verið sendir frá Rússlandi til að heilaþvo blessuð börnin. Er það í samræmi við þá argvítugu Rússavæðingu, sem yfirvöld á hernámssvæðunum stunda. Hins vegar er starfandi vopnuð andspyrnuhreyfing í Kherson-héraðinu, sem taka mun höndum saman við úkraínska herinn um að reka óþverrana af höndum sér.
Andspyrnuhreyfingu virðist vera að vaxa fiskur um hrygg í Rússlandi sjálfu, þrátt fyrir ógnarstjórn Kremlar, því að eldar hafa brotizt út víðs vegar um Rússland í skráningarstöðvum hersins, í verksmiðjum - jafnvel í Moskvu, í vopnageymslum og í a.m.k. einni jarðgasvinnslustöð í Síberíu.
Ljóst er, að þungavopn frá Vesturlöndum geta snúið gangi stríðsins við Úkraínumönnum í vil, ef þau verða afhent þeim í þeim mæli, sem Úkraínumenn hafa farið fram á. HIMARS-fjölflauga, hreyfanlegi nákvæmnisskotpallurinn með 80 km drægni frá BNA er dæmi um þetta. Úkraínumönnum gætu staðið til boða 10.000 flaugar í þessa skotpalla, og þær mundu fara langt með að ganga frá getu rússneska hersins til aðgerða utan landamæra Rússlands. Úkraínumönnum hefur tekizt að eyðilegja birgðageymslur rússneska hersins og skemma aðdráttarleiðir að Kherson-borg með 8 slíkum skotkerfum. Til viðbótar eru 8 áleiðinni, en úkraínski herinn þarf a.m.k. fimmföldun núverandi fjölda skotpalla til að reka óværuna af höndum sér. Danir, Bretar og Eystrasaltsríkin hafa afhent flaugar á borð við Harpoon, sem grandað geta skipum, og hafa Úkraínumenn nú þegar valdið miklu tjóni á Svartahafsflota Rússa og tekið aftur Snákaeyju. Þjóðverjar hafa afhent Gephard loftvarnarkerfi og eru að undirbúa afhendingu á öflugasta skriðdreka nútímans, Leopard 2, en hafa verið sakaðir um seinagang og að vera tvíátta. Það er ekki nóg fyrir hinn kratíska kanzlara í Berlín að lýsa yfir í Reichstag, að vendipunktur hafi orðið í utanríkisstefnu Sambandsríkisins Þýzkalands. Verkin segja meira en nokkur orð.
Vesturlandamenn verða að gera sér grein fyrir því, að alvaldur Rússlands vill lýðræðislegt stjórnkerfi þeirra feigt og að hann er haldinn landvinningaórum um útþenslu Rússlands til vesturs með vísun til landvinninga rússneska keisaradæmisins og Ráðstjórnarríkjanna. Vesturveldin standa nú þegar í stríði við Rússland á efnahagssviðinu og á hernaðarsviðinu með milligöngu Úkraínumanna, sem bera hita og þunga blóðfórnanna í þágu fullveldis lands síns. Hættan er sú, að Vesturlönd geri sér ekki grein fyrir því í tæka tíð, að þau hafa ekki efni á því, að Úkraínumenn tapi þessu stríði við kvalara sína um aldaraðir. Hergagnaframleiðslu verður að setja í gang strax, eins og Vesturlöndum hafi verið sagt stríð á hendur. Ekki dugir að reiða sig á, að birgðirnar dugi. Þær gera það fyrirsjáanlega ekki, allra sízt birgðir Evrópuríkjanna.
Mest mæðir á Bandaríkjamönnum, og þeir hafa látið í té margháttaða verðmæta aðstoð. Stefnumörkun þeirra var látin í ljós, þegar utanríkisráðherrann, Antony Blinken, og varnarmálaráðherrann, Lloyd Austin, sneru til baka úr snöggri ferð til Kænugarðs 24. apríl 2022. Austin sagði þá:
"Úkraínumenn eru staðráðnir í að bera sigur úr býtum. Við erum staðráðnir í að hjálpa þeim til þess. Og það sem meira er: Við viljum sjá svo stóra burst dregna úr nefi Rússa, að þeir verði ekki færir um að endurtaka það, sem innrásin í Úkraínu felur í sér."
Nú er eftir að sjá, hvort þessum orðum Bandaríkjamannsins fylgja efndir. Mikið ríður á því.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.7.2022 | 11:31
Eimreiðar atvinnulífsins
Nýlega hækkaði seðlabanki evrunnar, ECB, stýrivexti sína úr -0,5 % í 0,0, og var aðgerðin sögð til að hamla verðbólgu, sem nú nemur 8,6 % á evrusvæðinu að meðaltali, en er þar á bilinu 6,5 % - 22,0 %. Verðbólgan í Þýzkalandi er 8,2 %, en á þann samræmda mælikvarða, sem þarna liggur til grundvallar, er hún 5,4 % á Íslandi og þar með næstlægst í Evrópu. Ekki kemur á óvart, að verðbólgan skuli vera lægst í Sviss, 3,2 %, enda er CHF, svissneski frankinn, fyrir nokkrum vikum orðinn verðmætari en EUR, evran. Svissneski seðlabankinn barðist lengi vel við að halda verðgildi frankans undir verðgildi evrunnar, en nú horfir satt að segja mjög óbjörgulega með evrusvæðið, enda lofaði evrubankinn að koma skuldugum ríkjum evrusvæðisins til hjálpar með skuldabréfakaupum, um leið og hann hækkaði vextina. Ríkisstjórn Marios Draghi á Ítalíu er fallin, af því að ítalska þingið neitaði að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnar hans á ríkisfjármálunum.
Deutsche Bank spáir þverrandi krafti þýzka hagkerfisins á næstu misserum. Reyndar fjarar svo hratt undan Þjóðverjum núna, að bankinn spáir jafnmiklum samdrætti þýzka hagkerfisins 2023 og íslenzka hagkerfisins 2009 eða 6 %, og er hið síðara kennt við Hrun, enda fór þá fjármálakerfi landsins á hliðina, en útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og orkukræfur iðnaður, björguðu því, sem bjargað varð. Hjá Þjóðverjum verður það væntanlega öfugt. Útflutningsatvinnuvegirnir, tækjaframleiðsla ýmiss konar, mun dragast saman, því að orkukræfir birgjar þeirra munu ekki fá þá orku, sem þeir þurfa, og það, sem þeir fá af jarðefnaeldsneyti og rafmagni, verður mjög dýrt (tíföldun frá í fyrra).
Þjóðverjar eru fastir í gildru, sem prestsdóttirin frá DDR-Deutsche Demokratische Republik, Angela Merkel, væntanlega óafvitandi, en undir áhrifum illmennisins, sem nú er blóðugur upp fyrir axlir í Úkraínu sem einvaldur í Kreml, leiddi þá í. Hún lét undir höfuð leggjast að útvega aðrar aðdráttarleiðir fyrir gas en frá Síberíu, t.d. móttökustöðvar í þýzkum höfnum fyrir LNG - jarðgas á vökvaformi, sem hægt hefði verið að flytja til Þýzkalands á skipum, en verður vart hægt fyrr en 2024. Hún lét Bundestag samþykkja lög, sem bönnuðu vinnslu jarðgass með leirsteinsbroti - "fracking", þótt mikið sé af slíku gasi í þýzkri jörðu. Putin laug því, að slíkt væri hættulegt og að þýzk heimili gætu átt á hættu að fá svartagall, jafnvel logandi, út um vatnskrana sína. Hún samþykkti Nordstream 2, sem hefði gert Þjóðverja algerlega háða jarðgasi frá Rússlandi, en þegar hún fór frá, nam hlutdeild Rússagass í heildareldsneytisgasnotkun Þýzkalands 55 %, en hefur nú í júlí 2022 minnkað niður í 30 %, enda hafa Rússar nú sýnt Þjóðverjum vígtennurnar og minnkað flæði um Nordstream 1 niður í 20 % af flutningsgetu lagnarinnar. Rússar eru nú með réttu skilgreindir sem hættulegir óvinir vestrænna bandamanna vegna villimannlegrar innrásar sinnar og löðurmannlegs hernaðar síns gegn óbeyttum borgurum þar í landi, sem flokkast undir þjóðarmorð.
Þá fékk Angela Merkel Bundestag til að samþykkja þá glórulausu ráðstöfun 2011 að loka nokkrum kjarnorkuverum, banna ný og loka síðustu kjarnorkuverunum fyrir árslok 2022. Allar þessar aðgerðir Angelu Merkel voru eins og að forskrift forseta Rússlands til að færa honum sem allra beittast orkuvopn í hendur. "Der Bundesnachrichtendienst" hefur að öllum líkindum vitað, eins og sumar aðrar vestrænar leyniþjónustur, hvað í bígerð var í Kreml (endurheimt tapaðra nýlendna með hervaldi), en Angela Merkel skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum. Það er alls ekki einleikið og grafalvarleg pólitísk blinda, en nú hervæðast Þjóðverjar að nýju og undirbúa að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu, en Þjóðverjar og Frakkar hafa hingað til þótt draga lappirnar í hernaðarstuðningi sínum við aðþrengda Úkraínumenn, og er það mikið óánægjuefni í Bandaríkjunum og í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum.
Hagkerfi allra Vesturlanda eða mikilvægir þættir þeirra eru orkuknúin. Á Íslandi er mikilvægasta útflutningsatvinnugreinin knúin innfluttri olíu, sem frá ársbyrjun 2022 hefur hækkað í innkaupum um 60 % á tonnið, þótt frá norska ríkisolíufélaginu Equinor sé. Útgerðarkostnaður hefur þannig hækkað gríðarlega og sömuleiðis flutningskostnaður á markað, en vegna tiltölulegs stöðugleika í verði innlendrar orku hefur framleiðslukostnaður neytendavöru af íslenzkum fiskimiðum þó hækkað minna.
Vegna hækkunar tilkostnaðar hefur sjávarútvegur í ESB þegið neyðaraðstoð hins opinbera í tvígang síðan 2020, og það er engin furða, þótt íslenzkar útgerðir leiti leiða til hagræðingar. Slíkt sáum við, þegar almenningshlutafélagið SVN festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík. Um þau viðskipti og fáránlegt moldviðri sumra stjórnmálamanna og blaðamanna út af þeim skrifaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Morgunblaðið 21. júlí 2022, undir fyrirsögninni:
"Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja".
Hún hófst þannig:
"Viðbrögð vinstri manna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takti við fyrri ummæli þeirra um íslenzkan sjávarútveg. Oft veit maður ekki, hvort þetta fólk talar þvert um hug sér, eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina. Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi ! Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenzkt samfélag !"
Gunnar Þórðarson hefur góða innsýn í rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs. Honum er vel ljóst, hvað léttir undir með atvinnugreininni, og hvað er íþyngjandi fyrir samkeppni hans hér innanlands um fólk og fjármagn og á fiskmörkuðum erlendis, þangað sem yfir 95 % framleiðslunnar fer. Þegar ytri aðstæður versna, hvort sem er fyrir tilstuðlan þingmanna og ráðherra, aðfanganna, flutninganna eða vegna harðari samkeppni á vörumörkuðum, verður aukin tilhneiging til að draga sig út úr starfseminni. Þetta gerðist nú síðast í Grindavík, og það er fagnaðarefni, þegar traust innlent almenningshlutafélag í sjávarútvegi ákveður að hlaupa í skarðið og efla starfsemina í nýkeyptri eign. Það ætti öllum að vera ljóst, að nýja staðsetningin er verðmæt fyrir kaupandann, en engu að síður hafa slettirekur í hópi þingmanna og blaðamanna kosið að vera með svartagallsraus um allt annað en þó blasir við og kaupandinn hefur lýst yfir.
"Ef ekkert hefði breytzt undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin, væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld, og afkoman væri slök. Svona svipað og ástandið var á 10. áratugi síðustu aldar, og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað. Þá væri sennilega allt í góðu lagi, og vinstrimenn ánægðir með ástandið !"
Hér væri allt með öðrum brag, ef afturhaldssinnar hefðu komið í veg fyrir þróun íslenzks sjávarútvegs í krafti markaðsaflanna og stjórnmálamenn sætu uppi með rekstur atvinnugreinar, sem þeir hafa ekkert vit á og engan áhuga á, nema þeir geti beitt honum fyrir sig á atkvæðaveiðunum. Lífskjör í landinu væru í samræmi við óstjórnina, og þær hræður, sem hér hefðust við, væru sennilega augnkarlar í verstöð Evrópusambandsins hér úti í Dumbshafi.
Í lokin reit Gunnar Þórðarson:
"Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim, sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzka þjóð. Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar, verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni. Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda. Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru, en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa. Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni. Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn."
Sú neikvæða umræða, sem fór af stað um þessi viðskipti, eftir að þau voru tilkynnt, sýndi ljóslega fram á, að þau, sem að henni stóðu, höfðu lítið vit á málefninu og voru ekki í stakkinn búin til að bera neitt gagnlegt á borð. Slíkt fólk er bara að fiska í gruggugu vatni undir kjörorðinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Leiðinlegast er, hvað þessir gjammarar eru orðnir fyrirsjáanlegir.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2022 | 09:55
Finnlandisering í Evrópu er liðin tíð
Dr Otto von Habsburg (1912-2011) vakti athygli á því í ræðu árið 2003, að Vladimir Putin, þá nýskipaður arftaki verkfræðingsins Borisar Jeltsin á forsetastóli Rússlands, hefði í ræðu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (Belarus) árið 2000 viðrað hugmyndir sínar um endurheimt nýlendna Rússlands í Evrópu, en útþenslukeisarar Rússlands höfðu gert Úkraínu, Eystrasaltslöndin, Finnland, Pólland o.fl. lönd að nýlendum Rússlands. Þessi kaldrifjaði og einræðissinnaði nýi forseti, þá undir sýndarmerkjum lýðræðis, en nú einvaldur til æviloka, vissi, að hann yrði að beita hervaldi til að framkvæma hugmyndafræði sína, en í svívirðilegri innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022, misreiknaði þessi ógnarstjórnandi sig herfilega. Hann ímyndaði sér, að úkraínski herinn myndi lyppast niður og leggja niður vopn og að Vesturveldin myndu líka lyppast niður og samþykkja innlimun Úkraínu á nýjan leik. Ef menn af gamla Kaldastríðsskólanum á borð við Henry Kissinger, bundnir í þrælaviðjar áhrifasvæða stórvelda, Finnlandiseringu, hefðu mátt ráða, hefði svo vafalítið orðið, en ofan á urðu réttmæt sjónarmið að alþjóðalögum um, að ekkert ríki mætti komast upp með það að beita fullvalda nágrannaríki sitt hervaldi. Putin er ofbeldismaður, sem hættir ekki fyrr en hann er stöðvaður, nákvæmlega eins og Adolf Hitler. Þess vegna ber höfuðnauðsyn til að reka rússneska herinn út úr Úkraínu, þ.m.t. Krímskaga.
Umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um NATO-aðild eru kjaftshögg á granir Kremlarherranna, sem reyndu að réttlæta óverjanlega ákvörðun sína um innrás í Úkraínu með því, að þar með væru þeir að koma í veg fyrir að fá NATO upp að vesturlandamærum sínum. Nú hafa yfirgangssamir og ósvífnir Kremlarherrar orðið að kyngja því, að handan 1300 km landamæra við Finnland verður NATO-ríki með einn öflugasta her í Evrópu og öflugasta stórskotaliðið.
Hortugar og ógnandi yfirlýsingar þeirra um, að innganga Úkraínu í NATO mundi hafa hernaðarlegar afleiðingar, eru aðeins skálkaskjól nýlenduherra í landvinningahug. Þeim stendur engin ógn af varnarbandalaginu NATO, og þeir eiga alls ekki að ráða ákvörðunum fullvalda nágranna sinna um utanríkis- og varnarmál. Það er kominn tími til að vinda ofan af þeirri vitleysu, að þessir grimmlyndu og gjörspilltu stjórnendur Rússlands hafi einhver áhrif á það, hvernig aðrar þjóðir í Evrópu haga sínum málum, enda hefur styrkur Rússlands verið stórlega ofmetinn hingað til, og Rússland hefur nú beðið siðferðislegt skipbrot og bíður vist í skammarkróki heimsins.
Rússlandsforseti hefur haldið því fram, að stækkun NATO til austurs, að þrábeiðni þjóðanna þar eftir fall Ráðstjórnarríkjanna, sé brot á samkomulagi, sem James Baker, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið Ráðstjórnarríkjunum í febrúar 1990. Margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum átu það upp eftir Kremlarherrum, að stækkun NATO til austurs væri óskynsamleg, af því að Rússum stæði ógn af slíku. Angela Merkel fór illu heilli fyrir þessum sjónarmiðum á NATO-fundi 2008, þar sem umsókn Úkraínu var til umfjöllunar og knúði Bandaríkin til undanhalds um þetta. Undirlægjuháttur hennar gagnvart Rússlandi reið ekki við einteyming.
Ef innganga Úkraínu hefði verið samþykkt, hefði Úkraínumönnum verið hlíft við þeim hörmungum, sem síðan hafa á þeim dunið fyrir tilverknað glæpsamlegra afla í Rússlandi. "Partnership for Peace" eða bandalag við NATO um frið veitir þjóðum ekki öryggistryggingu í viðsjárverðum heimi, og þess vegna sóttu Svíar og Finnar um inngöngu.
Þessi málatilbúnaður Rússa um samkomulag við Baker 1990 er að engu hafandi, enda finnst ekkert skriflegt um það. Orð Bakers áttu ekki við löndin í Austur-Evrópu, heldur var hann að tala um Austur-Þýzkaland, og við Endursameiningu Þýzkalands áttu þau ekki við lengur. Eftir upplausn Varsjárbandalagsins um 18 mánuðum eftir að orð Bakers féllu, hrundu forsendur þeirra.
Samkomulag á milli NATO og Rússlands var undirritað árið 1997, og þar voru engar hömlur lagðar á ný aðildarríki NATO, þótt stækkun hefði verið rædd þá þegar. Tékkland, Ungverjaland og Pólland gengu í NATO u.þ.b. 2 árum seinna. Samkomulagið, sem hefur verið brotið í þessu samhengi, er loforð Rússlands gagnvart Úkraínu frá 1994 (Búdapest-samkomulagið) um að beita Úkraínu hvorki efnahagsþvingunum né hernaðaraðgerðum. Samkvæmt þessu samkomulagi Úkraínumanna, Rússa og Breta afhenti Úkraína Rússlandi kjarnorkuvopnin, sem hún erfði frá Ráðstjórnarríkjunum.
NATO á fullan rétt á að stækka. Skárra væri það nú. Samkvæmt lokaútgáfu Helsinki-samningsins 1975, sem var m.a. undirritaður af hálfu Ráðstjórnarríkjanna, er ríkjum frjálst að velja sér bandamenn. Varsjárbandalagsríkin þjáðust mjög undir rússnesku ráðstjórninni. Hvers vegna skyldu aðildarríkin ekki leita skjóls gagnvart ríki, sem þau þekkja af grimmilegri kúgun ?
Í mörg ár töldu Finnar og Svíar hagsmunum sínum betur borgið utan NATO. Þetta breyttist, þegar þessi ríki horfðu upp á algert virðingarleysi Rússlands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og lögum 24. febrúar 2022. Eitt af mörgum grundvallarmálum, sem nú eru í húfi í Úkraínu, er réttur fullvalda ríkja til að ákvarða sjálf örlög sín.
Var stækkun NATO til austurs viturleg ráðstöfun ? Hún hefur hingað til tryggt öryggi þessara ríkja, sem augljóslega hefði verið í uppnámi annars samkvæmt reynslunni frá 24. febrúar 2022. Þannig var hún viturleg ráðstöfun, og að sama skapi hefði átt að skella skollaeyrum við geltinu úr Kreml 2008 og verða við ósk Úkraínu um aðild. Sífelld friðþæging Þýzkalands og Frakklands með því að henda beinum í Kremlarhundinn var óábyrg og skammsýn. Rússar láta eins og þeir hafi ástæðu til að óttast árás að fyrra bragði frá NATO, en það er helber áróður, og stækkun NATO breytir því ekki. Kaldrifjaður Putin hefur ýtt undir rússneska þjóðerniskennd og notað rétttrúnaðarkirkjuna til að efla völd sín. Hún hefur nú lýst stríð Rússlands í Úkraínu heilagt, hvorki meira né minna, enda fá Rússar að heyra, að þar stundi rússneski herinn afnazistavæðingu, sem er eitthvert vitlausasta áróðursbragð, sem heyrzt hefur frá nokkrum einræðisherra um langa hríð.
Meintar ógnanir við rússneskumælandi fólk handan landamæranna voru skálkaskjól Putins fyrir innrásinni í Georgíu 2008 og í Úkraínu 2014. Merkja menn ekki sömu klóförin hér og í Súdetahéruðum Tékkóslavikíu 1938 og í Póllandi 1939 (Danzig-hliðið og Slésía). Í báðum tilvikum höfðu stórveldi misst spón úr aski sínum og leituðust við með ólögmætum hætti að rétta hlut sinn. Í ljós hefur komið, að Wehrmacht var þó miklu öflugri en þessi Rússaher við framkvæmd skipana alræðisherrans.
NATO var ekki annar orsakavaldur í þessu sjónarspili nú en sá að veita Austur-Evrópuríkjunum, sem í það gengu, skjól gagnvart árásargirni risans í austri. Hið eina, sem stöðvar villimennina, sem þar hafa hrifsað til sín völdin með fláræði, er samstaða og einarður viðnámsþróttur Vesturveldanna og heilsteyptur stuðningur við Úkraínu á öllum sviðum.
Finnar og Svíar nutu Bandalags um frið (Partnership for Peace) við NATO, en treystu ekki lengur á, að það dygði þeim til öryggis eftir 24. febrúar 2022. Nú liggur í augum uppi, að hefði NATO hafnað aðildarbeiðnum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, mundi hafa myndazt öryggislegt tómarúm í Austur-Evrópu vestan Úkraínu, sem hefði freistað Rússa að fylla. Finnland og Svíþjóð komust að réttri niðurstöðu um það, að Rússlandsforsetinn Putin er hættulegur og ófyrirsjáanlegur - ekki vegna NATO, heldur þess, hvernig hann stjórnar Rússlandi. Umsókn þeirra ætti að samþykkja við fyrsta mögulega tækifæri, enda mun aðild þeirra styrkja NATO, einkum á Eystrasalti, við varnir Eystrasaltsríkjanna og á norðurvængnum almennt.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2022 | 10:13
Dregur til tíðinda í orkumálum Evrópu ?
Klukkan 0400 að morgni 11. júlí 2022 var lokað fyrir Nordstream 1 jarðefnaeldsneytis gaslögnina frá Rússlandi (Síberíu) til Evrópu vegna viðhalds. Þar með minnkaði gasflæðið umtalsvert til Vesturveldanna, t.d. um þriðjung til Ítalíu. Þar með verða þau að ganga á forða, sem þau voru að safna til vetrarins. Þau óttast, að Rússar muni ekki opna aftur fyrir flæðið 21. júlí 2022, eins og þó er ráðgert. Næsti vetur verður þungbær íbúum í Evrópu vestan Rússlands, ef vetrarhörkur verða.
Þegar miskunnarlaust árásareðli rússneska bjarnarins varð lýðum ljós 24.02.2022, rann um leið upp fyrir Þjóðverjum og öðrum, hvílíkt ábyrgðarleysi og pólitísk blinda einkenndi kanzlaratíð Angelu Merkel, sem bar höfuðábyrgð á því, að Þjóðverjar o.fl. Evrópuþjóðir urðu svo háðir Rússum um afhendingu á eldsneytisgasi sem raun ber vitni (allt að 50 % gasþarfarinnar kom frá Rússum). Þjóðverjar máttu vita, hvaða hætta þeim var búin, með því að atvinnulíf þeirra og heimili yrðu upp á náð og miskunn kaldrifjaðs KGB-foringja komin, sem þegar í ræðu árið 2000 gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um stórsókn Rússlands til vesturs í anda keisara á borð við Pétur, mikla, og keisaraynjuna Katrínu, miklu.
Otto von Habsburg, 1912-2011, gerði grein fyrir þessu í ræðu árið 2003, sem nálgast má í athugasemd 3 við pistilinn "Þrengist í búi", 09.07.2022.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, ritaði markverða grein á umræðuvettvangi Morgunblaðsins laugardaginn 9. júlí 2022, enda má segja, að orkumálin hafi nú bein áhrif á framvindu sögunnar. Greinin bar fyrirsögnina:
"Kjarnorka, gas og jarðvarmi".
Hún hófst þannig:
"Á þingi Evrópusambandsins voru miðvikudaginn 6. júlí [2022] greidd atkvæði um mikið hitamál. Meirihluti þingmanna (328:278 - 33 sátu hjá) samþykkti umdeilda tillögu um að skilgreina fjárfestingar í kjarnorkuverum og nýtingu á gasi sem "sjálfbærar"."
Þetta eru stórtíðindi og vitna um öngþveitið, sem nú ríkir í orkumálum ESB. Samkvæmt skilgreiningu á sjálfbærri orkuvinnslu má hún ekki fela sér, að líf næstu kynslóða verði hættulegra eða erfiðara á nokkurn hátt. Þessu er ekki hægt að halda fram um raforkuvinnslu í kjarnorkuverum, sem nýta geislavirka klofnun úrans. Þótt geislavirka úrganginn megi nota aftur til raforkuvinnslu í sama kjarnorkuveri, verður samt að lokum til geislavirkur úrgangur í aldaraðir, sem engin góð geymsla er til fyrir.
Bruni jarðgass við raforkuvinnslu eða upphitun felur í sér myndun CO2-koltvíildis, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund, sem margir telja valda hlýnun andrúmslofts jarðar.
Þetta er augsýnilega neyðarúrræði ó orkuskorti, samþykkt til höfuðs kolum og olíu, sem menga meira og valda meiri losun CO2 á varmaeiningu.
Úr því að fjárfesting í kjarnorku er orðin græn í ESB, hlýtur núverandi kjarnorkuverum í ESB að verða leyft að ganga út sinn tæknilega endingartíma, og þar með verða dregið úr tjóni flaustursins í Merkel. Þetta varpar ljósi á glapræði þeirrar fljótfærnislegu ákvörðunar Angelu Merkel 2011 að loka þýzkum kjarnorkuverum fyrir tímann og í síðasta lagi 2022. Um það skrifaði Björn:
"Þegar kjarnorkuslysið varð í Fukushima í Japan fyrir 11 árum, ákvað Angela Merkel, þáv. Þýzkalandskanzlari, á "einni nóttu" að loka þýzkum kjarnorkuverum. Við það urðu Þjóðverjar verulega háðir orkugjöfum frá Rússlandi. Reynist það nú hættulegt öryggi þeirra og Evrópuþjóða almennt. Í aðdraganda stríðsins hækkaði orkuverð í Evrópu [og] nær nú hæstu hæðum."
Með þessari fljótræðisákvörðun, sem kanzlarinn keyrði í tilfinningalegu uppnámi í gegnum Bundestag, sem fundar í þinghúsinu Reichstag í Berlín, spilaði hún kjörstöðu upp í hendur miskunnarlauss Kremlarforseta, sem þá þegar var með stríðsaðgerðir í Evrópu á prjónunum, eins og Otto von Habsburg sýndi fram á, og hugði gott til glóðarinnar að kúga (blackmail") Evrópuríkin til undirgefni með orkuþurrð, þegar hann léti til skarar skríða með sína landvinninga.
Þetta er eins konar Finnlandisering þess hluta Evrópu, sem háðastur er jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Afleiðingar af óeðlilegu pólitísku daðri austur-þýzku prestsdótturinnar við hinn grimma KGB-foringja í Dresden, sem ábyrgur er fyrir böðulshætti Rússahers í Úkraínu, eru m.a. þær í Þýzkalandi núna, að Þjóðverjar hvetja Kanadamenn til að senda Siemens-gashverfil úr Nordstream 1 úr viðgerð og til sín, og þýzkum almenningi er nú sagt, að fjarvarmaveitur geti ekki hitað ofnana á heimilum hans upp í hærra hitastig en 17°C í vetur.
Orkufyrirtæki með samninga um fast verð við sína viðskiptavini riða nú til falls, og ESB hefur veitt undanþágu frá reglum um fjárhagslegt inngrip ríkisins á orkumarkaði til stuðnings heimilum og fyrirtækjum.
Í Japan eru nú aðeins um 10 % orkunotkunarinnar úr innlendum orkugjöfum að meðtöldum kjarnorkuverum í rekstri, og þrátt fyrir að Japanseyjar séu fjöllóttar með vatnsföll og jarðhita. Hvað skrifaði Björn um Japan ?:
"Í Japan var ákveðið eftir atburðina í Fukushima [2011] að minnka stig af stigi hlut kjarnorku sem raforkugjafa. Nú standa Japanir hins vegar í þeim sporum, að óvissa ríkir um aðgang að jarðefnaeldsneyti, og orkuverð sligar efnahaginn. Vegna kosninga til efri deildar japanska þingsins hefur verið tekizt á um, hvort virkja eigi að nýju kjarnorkuver, sem staðið hafa verkefnalaus [síðan 2011]. Í kosningunum á morgun, 10. júlí [2022], er lagt í hendur kjósenda að breyta japanskri orkustefnu. Við kjósendum blasir sú staðreynd, að orkuframleiðsla Japana sjálfra stendur aðeins undir 10 % af orkuneyzlu þeirra. Stórátak er nauðsynlegt til að auka orkuöryggið."
Sjálfsagt er löngu runnið upp fyrir japönskum almenningi, að viðbrögðin við umræddu Fukushima slysi voru yfirdrifin og aðeins örfá dauðsfallanna vegna geislunar, en hin vegna flóða og óðagots, sem greip um sig. Þess vegna er litlum vafa undirorpið, að íbúarnir munu verða alls hugar fegnir að fá raforku frá nú ónotuðum kjarnorkuverum á lægra verði en nú býðst.
Flutningaskipum með LNG (jarðgas á vökvaformi) hefur undanfarna mánuði verið beint frá Asíu til Evrópu, af því að í Evrópu er hæsta orkuverð í heimi um þessar mundir. Lánið leikur ekki við Þjóðverja að þessu leyti heldur, því að þeir eiga enga móttökustöð í sínum höfnum fyrir LNG og munu ekki eignast slíkar fyrr en 2024, þótt þeir hafi nú stytt leyfisveitingaferlið til muna. Mættu íslenzk yfirvöld líta til afnáms Þjóðverja á "rauða dreglinum" í þessu sambandi.
Þessu tengt skrifaði Björn:
"Þegar litið er til þessarar þróunar [orkumála á Íslandi] allrar, sést, hve mikilvægt er í stóru samhengi hlutanna að festast ekki hér á landi í deilum, sem verða vegna sérsjónarmiða Landverndar og annarra, sem leggjast gegn því, að gerðar séu áætlanir um virkjun sjálfbærra, endurnýjanlegra orkugjafa, sem enginn getur efast um, að séu grænir."
Höfundur þessa pistils hér er sama sinnis og Björn um fánýti þess að ræða íslenzk orkumál á forsendum Landverndar. Svo fráleit afturhaldsviðhorf, sem þar eru ríkjandi, eru að engu hafandi, enda mundi það leiða þjóðina til mikils ófarnaðar að fylgja þeim eftir í reynd. Tólfunum kastaði, þegar Landvernd lagði það til í alvöru að draga úr rafmagnssölu til iðnaðarfyrirtækja með langtímasamninga um allt að 50 % til að skapa svigrúm fyrir orkuskiptin hérlendis. Sönn umhverfisverndarsamtök leggja ekki fram slíka tillögu. Hins vegar gera þeir það, sem færa vilja neyzlustig hér, og þar með lífskjör, aftur um áratugi og koma síðan á stöðnun. Þetta eru s.k. núllvaxtarsinnar, sem spruttu fram í kjölfar bókarinnar "Endimörk vaxtar" á 7. áratugi 20. aldar.
Grein sinni lauk Björn Bjarnason þannig:
"Hér er almennt of lítil áherzla lögð á að efla samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja til að efla grunnstoðir samfélagsins. Við setningu opinberra reglna, eins og nú innan ESB vegna grænna fjárfestinga í kjarnorku og við nýtingu á gasi, eru aldrei allir á einu máli. Skrefin verður þó að stíga og fylgja þeim fastar eftir við aðstæður, eins og myndazt hafa vegna stríðs Pútíns í Úkraínu.
Augljóst er, að ekki er eftir neinu að bíða við töku ákvarðana, sem búa í haginn fyrir stóraukna nýtingu íslenzks jarðvarma. Jafnframt er óhjákvæmilegt að virkja vatnsafl af miklum þunga."
Þarna er á ferðinni snjall samanburður á aðstæðum við ákvarðanatöku um orkumál á tímamótum í ESB og á Íslandi. Þeir, sem um orkumál véla í ESB eru ekki svo skyni skroppnir að skilja ekki, að hvorki jarðgas né geislavirka úraníum samsætan í hefðbundnum kjarnorkuverum eru sjálfbærar og algrænar orkulindir. Þetta eru ósjálfbærar orkulindir, þar sem kjarnorkan að vísu veldur engri losun gróðurhúsalofttegunda, og jarðgasið aðeins minni losun og minni loftmengun en olía og kol.
Í sama anda verða þeir Íslendingar, sem um orkumálin véla, að vinna á þessum alvarlegu tímum. Allar virkjanir náttúrulegra orkulinda hafa einhverjar breytingar í för með sér á virkjunarstað, og það þarf að leiða raforkuna af virkjunarstað og til notenda, en sé þess gætt að nota beztu fáanlegu tækni (BAT=Best Available Technology) við hönnun og framkvæmd verksins og ef framkvæmdin er að auki afturkræf, þá verður umhverfislegi, fjárhagslegi, samfélagslegi og þjóðhagslegi ávinningurinn nánast örugglegi mun meiri en meint tjón af framkvæmdunum. Það er nauðsynlegt, að almenningur, þingheimur, stjórnkerfið og orkugeirinn geri sér grein fyrir þessari raunverulegu stöðu orkumálanna hið fyrsta.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2022 | 14:11
Þrengist í búi
Það hefur vakið athygli í fyrirlitlegum og glæpsamlegum landvinningahernaði Rússa í Úkraínu, hversu frumstæð, illa skipulögð og mistakagjörn hervél Rússa er í baráttunni við mun fámennari her hraustra og hugrakkra Úkraínumanna, sem fram að þessu hefur skort þungavopn. Hið síðast nefnda stendur nú til bóta vegna síðbúinna vopnasendinga Vesturveldanna. Úkraínumönnum berast nú vopn, sem hermenn þeirra hafa hlotið þjálfun á, og vonir standa til, að í krafti þeirra muni Úkraínumönnum verða vel ágengt í gagnsóknum með haustinu (2022).
Stórbokkaháttur og ósvífni forystu Rússlands er með eindæmum í þessu stríði, en nýjasta stóra asnasparkið í þessum efnum kom frá Medvedev, þekktum kjölturakka Putins, í þá veru, að það stappaði nærri geggjun að ætla að saksækja forystu Rússlands, mesta kjarnorkuveldis heims, fyrir stríðsglæpi. Á öllum sviðum hernaðar hefur geta Rússlands hingað til verið stórlega ofmetin. Það hefur opinberazt í stríði þess við Úkraínu. Það er litlum vafa undirorpið, að þetta frumstæða og árásargjarna ríki færi sjálft langverst út úr því að hefja kjarnorkustríð. Það er kominn tími til að jarðsetja það yfirvarp Rússlandsforystunnar og dindla hennar, að Rússum hafi staðið slík ógn af NATO og mögulegri aðild Úkraínu að þessu varnarbandalagi, að þeir hafi séð sig til neydda að hefja innrás í Úkraínu og ekki skirrast við stríðsglæpum og þjóðarmorði þar. Þetta er falsáróður og helbert skálkaskjól heimsvaldasinnaðs og árásargjarns ríkis.
Á einu sviði hefur Rússland kverkatak á Vesturlöndum þrátt fyrir almennan vanmátt, en það er á orkusviðinu, en sú tíð verður vonandi liðin eftir 2 ár. Vesturlönd hafa stöðvað kolakaup af Rússlandi og eru þegar farin að draga úr kaupum á olíuvörum og jarðgasi þaðan og reyna að beina kaupum sínum annað og til lengri tíma að framkvæma orkuskipti, en það er víðast risaátak. Þetta hefur valdið miklum verðhækkunum á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði, sem, ásamt annarri óáran í heiminum, gæti valdið eftirspurnarsamdrætti og efnahagskreppu af gerðinni "stagflation" eða verðbólgu með samdrætti og stöðnun.
Þetta virðist nú veita þjóðarbúskap Íslendinga högg, sem óhjákvæmilega mun bitna á lífskjörum þjóðarinnar. Ef aðilar vinnumarkaðarins semja ekki um kaup og kjör í haust með hliðsjón af versnandi stöðu þjóðarbúsins, gæti brotizt hér út verðbólgubál, stórhættulegt fyrir atvinnulífið og hag heimilanna.
Tíðindi af þessum umsnúningi til hins verra bárust með Morgunblaðsfrétt 07.07.2022 undir fyrirsögninni:
"Olíuverðið farið að bíta".
Hún hófst þannig:
"Vísbendingar eru um, að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir á 2. [árs]fjórðungi [2022] samhliða hækkandi olíuverði. Höfðu þau þó ekki verið jafnhagfelld síðan haustið 2007."
Þótt hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun þjóðarinnar sé aðeins um 15 %, vegur kostnaður þess þó þungt við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og á viðskiptajöfnuðinn, einkum þegar þegar svo mikil hækkun verður á eldsneytinu, að það dregur úr kaupmætti almennings og framleiðslugetu fyrirtækja á meðal þjóða, þar sem hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun er yfir 2/3, eins og víðast er, eða jafnvel 85 %, og slíkt á við um ýmsar viðskiptaþjóðir okkar. Frá ársbyrjun 2022 til 06.07.2022 hefur verð Norðursjávarolíu hækkað úr 75 USD/tunna í 114 USD/tunna eða um 52 %. Íslendingar eru þó í þeirri kjörstöðu að geta dregið úr þessum sveiflum viðskiptakjara, en þó með töfum vegna fyrirhyggjuleysis við orkuöflun, eins og minnzt verður á hér á eftir.
""Fiskverð sem hlutfall af hráolíuverði hefur lækkað verulega á einu ári eða um rúm 30 %. Svipaða sögu er að segja af álverði, en lækkunin er ekki jafnmikil vegna hás álverðs. Bæði álverðið og olíuverðið eru kauphallarverð, en fiskverðið kemur í grunninn frá Hagstofunni, en mælikvarðinn þar er s.k. verðvísitala sjávarafurða", segir Yngvi [Harðarson hjá Analytica]."
Í þessu tilviki kann að vera um árstíðabundinn öldudal að ræða ásamt leiðréttingu á skammtímatoppi eftir Kófið, en einnig kann að vera um verðlækkun sjávarafurða og áls að ræða vegna minni kaupmáttar neytenda á mörkuðum okkar sakir mikils kostnaðarauka heimila og fyrirtækja af völdum verðhækkana jarðefnaeldsneytis, en verð afurða okkar voru reyndar í hæstu hæðum í vetur eftir lægð Kófsins.
Megnið af eldsneytisnotkun íslenzka sjávarútvegsins er á fiskiskipunum, og hann hefur tæknilega og fjárhagslega burði til að laga vélar sínar að "rafeldsneyti" eða blöndu þess og hefðbundins eldsneytis. Þessa aðlögun geta líka flutningafyrirtækin á landi og sjó framkvæmt, sem flytja afurðirnar á markað, en lengra er í það með loftförin.
Innlent eldsneyti mun draga úr afkomusveiflum sjávarútvegs og þjóðarbús og hjálpa til við að ná loftslagsmarkmiðunum, sem stjórnvöld hafa skuldbundið þjóðina til á alþjóða vettvangi án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að liðka fyrir orkuöflun virkjanafyrirtækja. Þarna er allt innan seilingar, svo að ekki er eftir neinu að bíða öðru en raforku frá nýjum virkjunum, en hún virðist raunar lítil verða fyrr en e.t.v. 2027. Það er til vanza fyrir landsmenn í landi mikilla óbeizlaðra, hagkvæmra og sjálfbærra orkulinda.
Aðra sögu er að segja af áliðnaðinum. Þar er enn ekkert fast í hendi með að verða óháður kolum, en þau eru notuð í forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna, um 0,5 t/tAl. Morgunblaðið birti 07.07.2022 útreikninga á rekstrarkostnaði álvers Century Aluminium í Hawesville, Kentucky, þar sem raforkuverðið hefur síðan í ársbyrjun 2021 stigið nánast stöðugt úr 25 USD/MWh í 100 USD/MWh í júlíbyrjun 2022. Þetta hefur skiljanlega snúið hagnaði af verksmiðjunni í rekstrartap, svo að þar verður dregið úr framleiðslu og jafnvel lokað. Þannig hefur orkukreppan náð til Bandaríkjanna, a.m.k. sumra ríkja BNA, og er þar með orðin að heimskreppu minnkandi framboðs og eftirspurnar, þar sem svimandi hátt orkuverð kæfir báðar þessar meginhliðar markaðarins.
Þetta sést bezt með því að athuga meginkostnaðarliðina í USD/t Al og bera saman við álver á Íslandi:
- Kentucky Ísland
- Rafmagnskostnaður 1500 600
- Súrálskostnaður 760 800
- Rafskautakostnaður 500 600
- Launakostnaður 200 200
- Flutningur afurða 50 150
- Alls 3010 2350
Markaðsverð LME fyrir hráál er um þessar mundir um 2400 USD/t Al, svo að rekstur íslenzka álversins með hæsta raforkuverðið slyppi fyrir horn, þótt ekkert sérvöruálag (premía) fengist fyrir vöruna, en hún er um þessar mundir um 500 USD/t Al, svo að framlegð er um 550 USD/t Al m.v. núverandi markaðsaðstæður eða tæplega fimmtungur af tekjum fyrir skattgreiðslur. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Það borgar sig ekki að halda Kentucky-verksmiðjunni í rekstri, nema þar sé kaupskylda á verulegum hluta raforkusamnings, en þar sem raforkuverðið sveiflast eftir stöðu á orkumarkaði, er álverið líklega ekki bundið af kaupskyldu. Þetta sýnir kosti þess fyrir kaupendur og seljendur raforkunnar að hafa langtímasamninga sín á milli, og það kemur líka mun betur út fyrir launþegana og þjóðarhag.
Það er yfirleitt ládeyða á álmörkuðum yfir hásumarið. Nú hafa Kínverjar heldur sótt í sig veðrið aftur við álframleiðslu, en Rússar eru lokaðir frá Evrópumarkaðinum, og álverksmiðjur víða um heim munu draga saman seglin eða þeim verður lokað vegna kæfandi orkuverðs. Þess vegna má búast við hóflegri hækkun álverða á LME, þegar líða tekur á sumarið, upp í 2700-3000 USD/t Al. Það dugar þó ekki téðu Kentucky-álveri til lífs, nema kostnaður þess lækki.
Iðnaðurinn á Íslandi er í tæknilega erfiðari stöðu en sjávarútvegurinn við að losna við losun gróðurhúsalofttegunda. Tilraunir eru í gangi hérlendis með föngun koltvíildis úr kerreyknum, og það eru tilraunir í gangi erlendis með iðnaðarútfærslu með byltingarkennt rafgreiningarferli án kolefnis. Rio Tinto og Alcoa standa saman að tilraunum með nýja hönnun í Kanada, og Rio Tinto á tilraunaverksmiðju í Frakklandi. Þar er að öllum líkindum sams konar tækni á ferðinni og frumkvöðlar á Íslandi hafa verið með á tilraunastofustigi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), reit stuttan og hnitmiðaðan pistil í Fréttablaðið, 06.07.2022, undir fyrirsögn, sem vitnar um bjartsýni um, að jarðarbúum muni með kostum sínum og göllum takast að komast á stig sjálfbærni áður en yfir lýkur:
"Bætt heilsa jarðar".
Pistlinum lauk undir millifyrirsögninni:
"Aukin orkuöflun í þágu samfélags".
"Eigi þessi framtíðarsýn [Ísland óháð jarðefnaeldsneyti 2040-innsk. BJo] að verða að veruleika, þarf að afla meiri orku á Íslandi og nýta hana betur. Til þess eru mörg tækifæri án þess að ganga um of á náttúruna. Þannig er hægt að nýta gjafir jarðar og njóta þeirra á sama tíma [jafnvel betur en ella vegna bætts aðgengis og fræðslu í stöðvarhúsum nýrra virkjana-innsk. BJo].
Vonandi verður tilefni til að fagna árangri í loftslagsmálum árið 2040. Íslenzkur iðnaður mun ekki láta sitt eftir liggja til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og að skapa aukin verðmæti."
Það er stórkostlegt, að Íslendingar skuli vera í raunhæfri stöðu til að verða nettó-núll-losarar gróðurhúsalofttegunda eftir aðeins 18 ár og auka jafnframt verðmætasköpunina. Eins og orkumál heimsins standa núna (raunverulega enginn sjálfbær, stórtækur frumorkugjafi), eru Íslendingar orkulega í hópi örfárra þjóða í heiminum, en hafa skal í huga, að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki. Íslendingar mega ekki láta villa sér sín, þegar kemur að því að velja orkulindir til nýtingar. Það má ekki skjóta sig í fótinn með því að ofmeta fórnarkostnað við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir og vanmeta samfélagslegan ábata þeirra og hrökklast síðan í neyð sinni í vindorkuveravæðingu, jafnvel úti fyrir ströndu, eins og þjóðir, sem skortir téðar orkulindir náttúrunnar. Tíminn líður, og embættismenn Orkustofnunar draga enn lappirnar við úthlutun sjálfsagðra virkjanaheimilda, og geta vissulega gert landsmönnum ókleift að standa við markmiðið um Ísland óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.6.2022 | 13:56
Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins
Rússland hefur brotið allar viðteknar alþjóðareglur um samskipti við fullvalda þjóð með skefjalausri innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2022, og hefur hagað hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, jafnt rússnesku mælandi sem mælta á úkraínska tungu, með svo grimmdarlega villimannslegum hætti, að flokka má undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Fyrir vikið er Rússland orðið "persona non grata" í lýðræðislöndum, og hvers konar viðskiptum við Rússland ber að halda í algeru lágmarki, sérstaklega á sviðum, þar sem rússneska ríkið á mikilla hagsmuna að gæta, eins og í útflutningi og jarðefnaeldsneyti og innflutningi á tæknibúnaði. Rússland er orðið útlagaríki og gæti fljótlega endað á ruslahaugum sögunnar, enda er því augljóslega stjórnað af siðblindingjum, lygalaupum og ígildi mafíósa.
Við þessar aðstæður er forkastanlegt, að forkólfar öflugustu Evrópusambandsríkjanna, ESB, Olaf Scholz, kanzlari Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skuli enn gera sig seka um einhvers konar baktjaldamakk við Vladimir Putin, Rússlandsforseta og einvald Rússlands, þótt öðrum sé ljóst, að samtöl við þann mann eru tímasóun ein; hann tekur ekkert mark á viðmælendum sínum, og hann sjálfan er ekkert að marka. Froðusnakkið í nytsömum einfeldningum Vesturlanda gefur einvaldinum "blod på tanden", því að hann túlkar slíkt sem veikleikamerki af hálfu Vesturlanda á tímum, þegar þeim er brýnt að sýna Úkraínu fullan stuðning í orði og verki.
Stríðið í Úkraínu er einstakt og örlagavaldandi, því að eins og Bretland sumarið 1940 berst nú Úkraína alein fyrir málstað lýðræðis og einstaklingsfrelsis í heiminum gegn herskáu stóru ríki í landvinningahami undir stjórn grimms og siðblinds alvalds. Til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og jafnvel víðar og til að tryggja öryggi lýðræðisríkja má Úkraína ekki tapa þessu stríði, heldur verða Vesturlönd nú að bíta í skjaldarrendur og senda Úkraínu öll þau hergögn, þjálfun á þau og fjárhagsaðstoð, sem þau megna og stjórnvöld Úkraínu óska eftir. Fyrir tilverknað færni og bardagahæfni Úkraínumanna mun þá takast að reka siðlausan Rússaher, morkinn af spillingu, út úr Úkraínu. Spangól frá Moskvu um beitingu kjarnorkuvopna er að engu hafandi, enda færi Rússland verst út úr slíkum átökum við algeran ofjarl sinn, NATO.
Í heimssamhengi er líklegasta afleiðing þessa stríðs tvípólun heimsstjórnmálanna. Annars vegar verður fylking lýðræðisríkja undir forystu Bandaríkjamanna með um 60 % heimsframleiðslunnar innan sinna vébanda og mikil viðskipti sín á milli, en hins vegar verða einræðisríkin undir forystu Kínverja. Rússar verða í þeirri fylkingu, en munu einskis mega sín og verða að sitja og standa, eins og Kínverjum þóknast.
Áðurnefnd ESB-ríki auk Ítalíu og Ungverjalands verða að fara að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og leggjast á sveif með engilsaxnesku ríkjunum, norrænu ríkjunum, Eystrasaltsríkjunum og hinum Austur-Evrópuríkjunum í einlægum og öflugum stuðningi við baráttu Úkraínumanna fyrir óskoruðu fullveldi sínu og frelsi íbúanna til að búa við frið í landi sínu og til að haga lífi sínu að vild.
Íslendingum og Þjóðverjum hefur alltaf komið vel saman og auðgazt af gagnkvæmum viðskiptum a.m.k. frá 15. öld, og Hansakaupmenn mynduðu mikilvægt mótvægi við danska kaupmenn hér fram að einokunartímanum. Íslendingar neituðu að segja Þýzkalandi stríð á hendur í seinni heimsstyrjöldinni, þótt það ætti að verða skilyrði til stofnaðildar að Sameinuðu þjóðunum, Sþ. Nú rennur mörgum hérlendis og víðar til rifja hálfvelgja þýzku ríkisstjórninnar í Berlín undir forystu krata í stuðningi sínum við Úkraínu. Þessu kann að valda ótti við, að Pútin láti loka fyrir gasflutninga til Þýzkalands, en honum er andvirðið nauðsyn til að halda hagkerfi Rússlands á floti. Þýzka stjórnin ætti að hlíta ráðleggingum manna eins og Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingja í Bundeswehr, sem e.t.v. er skyldur þeim mikla kappa, skriðdrekaási Þjóðverja, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann.
Fyrst verður vitnað í upphaf forystugreinar Morgunblaðsins, 13.06.2022:
"Laskað orðspor".
"Angela Merkel, fyrrverandi Þýzkalandskanzlari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku, eftir að 16 ára valdatíð hennar lauk. Þar var Merkel vitanlega spurð, hvort hún sæi eftir einhverju í kanzlaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beizla Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, með því að auka viðskipti Þýzkalands og Rússlands.
Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu og sagði, að þó að "diplómatían" hefði klúðrazt, væri það ekki merki um, að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta. Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu, en sagðist á sama tíma ekki hafa verið "naíf" [barnaleg] í samskiptum sínum við Pútín."
Það er sorglegt, að þessi þaulsetni kanzlari Þýzkalands, prestsdóttirin Merkel, skuli ekki iðrast gerða sinna nú, þegar öllum er ljóst, að viðskipti Þýzkalands og annarra Vesturlanda við Rússland ólu óargadýrið, sem lengi hafði alið með sér landvinningadrauma til að mynda "Stór-Rússland" í Evrópu í anda landvinningazara, sem lögðu undir sig Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland o.fl. lönd. Putin hefur látið í ljós mikla aðdáun á Pétri, mikla, með svipuðum hætti og Adolf Hitler á Friðriki, mikla, Prússakóngi. Flestir eru sammála um, að stöðug eftirgjöf við Hitler á 4. áratuginum og friðmælgi við hann hafi sannfært hann um veikleika Vestursins og að enginn gæti staðið gegn landvinningastefnu hans í allar áttir. Nákvæmlega hið sama á við einvald Rússlands. Friðþæging gagnvart sturluðum einvöldum er dauðadómur.
Í frétt Morgunblaðsins, 10.06.2022:
"Ein erfiðasta orrusta stríðsins",
er eftirfarandi haft eftir Serhí Haísaí, hérraðsstjóra Lúhansk-héraðs:
""Um leið og við fáum langdrægt stórskotalið [hábyssur og fjöleldflaugaskotpalla - innsk. BJo], sem getur háð einvígi við rússneska stórskotaliðið, geta sérsveitir okkar hreinsað borgina á 2-3 dögum", sagði Haídaí í viðtali, sem dreift var í samskiptaforritinu Telegram.
Sagði Haídaí, að varnarlið borgarinnar hefði mikla hvatningu til að halda uppi vörnum áfram, þrátt fyrir að stórskotalið Rússa léti nú rigna eldi og brennisteini yfir borgina.
Þannig skutu Rússar tvisvar á Asot-efnaverksmiðjuna, en talið er, að um 800 manns séu nú þar í felum. Skemmdi eitt flugskeytið smiðju fyrir ammóníakframleiðslu, en búið var að fjarlægja efni þaðan, sem hefðu getað valdið frekari sprengingum."
Vesturlönd hafa því miður tekið hlutverk sitt í vörnum Úkraínu fyrir fullveldisrétt sinn, frelsishugsjón og lýðræðisfyrirkomulag, sem í raun er vörn fyrir öll lönd í heiminum, hverra þjóðir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti með virkt þingræði í stað einræðis, misalvarlega. Öll ættu þau að vera sneggri í snúningum við afhendingu þess vopnbúnaðar, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir og sem þeir telja forsendu þess, að þeim takist að hrekja glæpsamlegt og villimannslegt innrásarlið útþenslusinnaðs einræðisríkis í austri með mikla landvinningadrauma af höndum sér. Árangur Úkraínuhers til þessa má mest þakka hugrekki og baráttugleði hermannanna og góðri herstjórn þeirra og pólitískri stjórn landsins, en allt kæmi það fyrir ekki, ef ekki hefði notið við dyggs hergagnastuðnings og þjálfunar Bandaríkjamanna og Breta. Stærstu Þjóðir Vestur-Evrópu, aðrir en Bretar, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, hafa hingað til valdið miklum vonbrigðum og sýnt, að þegar hæst á að hóa bregðast þær algerlega. Forystumenn þeirra hafa sumir hverjir lofað öllu fögru, en efndirnar hingað til eru litlar sem engar. Macron og Draghi hafa staðið í óskiljanlegu símasambandi við Vladimir Putin og skilja ekki enn, að við þann mann er ekki hægt að semja, honum er í engu treystandi.
Í grein The Economist 4. júní 2022: "Baráttan um Severodonetsk" er haft eftir Oleksiy Arestovych, ráðgjafa forseta Úkraínu, að stórskotalið Úkraínu hafi orðið sérlega illa úti í baráttunni. Suma dagana hafa um 200 hermenn fallið af þessum og öðrum orsökum, og þess vegna eru hendur þeirra vestrænu leiðtoga, sem geta sent öflug, langdræg vopn, en hafa tafið vopnasendingarnar, blóði drifnar.
"Við höfum einfaldlega ekki haft yfir nægum vopnabúnaði að ráða til að geta svarað þessari skothríð", segir hann. Yfirburðir í öflugum skotfærum virðast einnig hafa gert Rússum kleift að snúa við gagnsókn Úkraínuhers við Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu. Könnunarsveit úkraínska hersins þar komst að því, að landgönguliðar Eystrasaltsflota Rússa og fleiri úrvalssveitir búi nú tryggilega um sig í steyptum varnarbyrgjum.
"Þeir ætla að vera þarna lengi, og erfitt verður að stugga þeim á flótta", sagði ráðgjafinn.
"Á Vesturlöndum hafa komið upp nokkur áköll um, að efnt verði til vopnahlés hið fyrsta og jafnvel þá gefið í skyn, að Úkraínumenn verði einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut og gefa eftir landsvæði í skiptum fyrir frið.
Slík áköll hafa ekki tekið mikið tillit til óska Úkraínumanna sjálfra, en Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, sagði fyrr í þessari viku [5.-11.06.2022], að of margir Úkraínumenn hefðu fallið til þess að hægt væri að réttlæta það að gefa eftir land til Rússa.
"Við verðum að ná fram frelsun alls landsvæðis okkar", sagði Zelenski, en hann ávarpaði þá viðburð á vegum Financial Times. Zelenski var þar einnig spurður um nýleg ummæli Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sem sagði í síðustu viku [um mánaðamótin maí-júní 2022], að það væri mikilvægt að "niðurlægja" ekki Rússa til að ná fram endalokum stríðsins. "Við ætlum ekki að niðurlægja neinn, við ætlum að svara fyrir okkur", sagði Zelenski um ummæli Macrons."
Viðhorf Macrons eru dæmigerð fyrir uppgjafarsinna, sem glúpna óðara fyrir ofbeldisfullu framferði árásargjarnra einræðisseggja, eins og franska dæmið frá júní 1940 ber glöggt vitni um. Þar var árásarliðið reyndar með færri hermenn og minni vopnabúnað en lið Frakka og Breta, sem til varnar var, en bæði tækni og herstjórnarlist var á hærra stigi hjá þýzka innrásarhernum. Það er dómgreindarleysi að gera því skóna, að vitstola einræðisseggur í Moskvu 2022 muni láta af upphaflegum fyrirætlunum sínum um landvinninga, ef samþykkt verður, að hann megi halda þeim mikilvægu landsvæðum fyrir efnahag Úkraínu, sem Rússar hafa lagt undir sig með grimmdarlegum hernaði gegn innviðum og íbúum, sem lygararnir þykjast vera að frelsa. Þorpararnir munu sleikja sárin og skipuleggja nýjar árásir til framkvæmda við fyrsta tækifæri.
"Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingi í þýzka hernum [Bundeswehr] og lektor í samtímasögu við Potsdam háskóla [e.t.v. skyldur fremsta skriðdrekaási Wehrmacht, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann], ritaði grein í Die Welt í vikunni, þar sem hann sagði, að þeir, sem krefðust vopnahlés fyrir hönd Úkraínumanna, áttuðu sig líklega ekki á, hvernig umhorfs yrði á þeim svæðum, sem Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hefði lagt undir sig.
Sagði Wittmann, að engar líkur væru á, að Rússar myndu skila þeim í friðarviðræðum og að það væri vel vitað, að hernámslið Rússa tæki nú þátt í óskiljanlegum voðaverkum á hernámssvæðunum. Nefndi Wittmann þar m.a. morð, nauðganir og pyntingar, auk þess sem hundruðum þúsunda Úkraínumanna hefur verið rænt og þeir fluttir með valdi til Rússlands. Þá væru Rússar að ræna menningarverðmætum frá söfnum, eyðileggja skóla og sjúkrahús, brenna hveiti og hefna sín á stríðsföngum.
Það að gefa eftir landsvæði til Rússlands væri því að mati Wittmanns að ofurselja milljónir Úkraínumanna sömu örlögum, sem væru jafnvel verri en dauðinn. Benti Wittmann jafnframt á, að engin trygging væri fyrir því, að Pútín myndi láta staðar numið, þegar hann hefði lagt undir sig Úkraínu að hluta eða í heild.
Gagnrýndi Wittmann sérstaklega hægagang þýzkra stjórnvalda og tregðu við að veita Úkraínumönnum þungavopn, sem hefðu getað nýtzt þeim í orrustunni í [bardögum um] Donbass. Sagði hann, að Þjóðverjar þyrftu að íhuga, hvaða hlutverk þeir vildu hafa spilað [leikið].
"Ef Úkraína vinnur, viljum við vera meðal þeirra, sem lögðu mikið af mörkum ? Eða, ef Úkraína tapar og er þurrkuð út og bútuð í sundur sem sjálfstætt evrópskt ríki, viljum við segja við okkur, að stuðningur okkar var ekki nægur, því [að] hann var ekki af heilum hug - að við gerðum ekki allt, sem við gátum ?". Sagði Wittmann í niðurlagi greinar sinnar, að það þyrfti því ekki bara að hafa áhyggjur af örlögum Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig [af] orðspori Þýzkalands."
Allt er þetta satt og rétt, þótt með eindæmum sé í Evrópu á 21. öld. Villimannleg og óréttlætanleg innrás rússneska hersins í Úkraínu 24.02.2022 var ekki einvörðungu gerð í landvinningaskyni, heldur til að eyðileggja menningu, nútímalega innviði og sjálfstæðisvitund úkraínsku þjóðarinnar, svo að Úkraínumenn og lýðræðisríki þeirra mundi aldrei blómstra og verða Rússum sjálfum fyrirmynd bættra stjórnarhátta. Að baki þessum fyrirætlunum liggur fullkomlega glæpsamlegt eðli forstokkaðra einræðisafla í Rússland, sem eiga sér alls engar málsbætur og hinum vestræna heimi ber að útiloka algerlega frá öllum viðskiptum og meðhöndla sem útlagaríki, þar til skipt hefur verið um stjórnarfar í Rússlandi, því að glæpahyski Kremlar og Dúmunnar er ekki í húsum hæft í Evrópu.
"Andrzej Duda, forseti Póllands, gekk skrefinu lengra í gagnrýni sinni í gær [09.06.2022] og fordæmdi bæði Macron og Olaf Scholz, kanzlara Þýzkalands, fyrir að vera enn í samskiptum við Pútín. Í viðtali við þýzka blaðið Bild spurði Duda, hvað þeir teldu sig geta fengið fram með símtölum sínum við Pútín.
"Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni", spurði Duda. "Sagði einhver, að Adolf Hitler þyrfti að bjarga andlitinu. Að við ættum að hegða okkur á þann veg, að það væri ekki niðurlægjandi fyrir Adolf Hitler ? Ég hef ekki heyrt af því", sagði Duda.
Hann bætti við, að samtöl vestrænna leiðtoga við Pútín færðu honum einungis réttmæti þrátt fyrir þá stríðsglæpi, sem rússneski herinn hefði framið í Úkraínu og þrátt fyrir, að ekkert benti til þess, að símtölin myndu bera nokkurn árangur.
Duda gagnrýndi einnig þýzkt viðskiptalíf, sem virtist skeyta lítið um örlög Úkraínu eða Póllands og vildi helzt halda áfram viðskiptum sínum við Rússland, eins og ekkert hefði í skorizt. "Kannski trúir þýzkt viðskiptalíf ekki, að rússneski herinn geti aftur fagnað stórum sigri í Berlín og hertekið hluta Þýzkalands. Við í Póllandi vitum, að það er mögulegt.""
Sjónarmið og málflutningur forseta Póllands, Andrzej Duda, eru fullkomlega réttmæt, af því að þau eru reist á réttu stöðumati og hættumati. Viðhorf, hegðun og gerðir forystumanna stærstu ESB-ríkjanna, Þýzkalands og Frakklands, eru að sama skapi fullkomlega óréttmæt. Þau eru reist á röngu hagsmunamati, vanmati á hættunni, sem af Rússum stafar, vanvirðu við Úkraínumenn og skilningsleysi á eðli þeirra átaka, sem nú fara fram í Úkraínu.
Þar fer fram barátta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, í þessu tilviki fullvalda þjóðar, og á milli kúgunarstjórnkerfis og frelsisstjórnkerfis, þar sem í fyrra tilvikinu ríkir miðstýring upplýsingaflæðis og í síðara tilvikinu ríkir frjálst flæði upplýsinga. Hið síðast talda er undirstaða framfara á öllum sviðum, þ.á.m. í atvinnulífinu og í hagkerfinu, enda var árlegur hagvöxtur í Úkraínu 14 % á nokkrum árum fyrir innrásina, þegar hann var aðeins 2 % á ári í Rússlandi. Hefði þessi munur á hagvexti fengið að halda áfram óáreittur, mundi hagkerfi Úkraínu hafa náð því rússneska að stærð innan 21 árs. Það er þessi þróun mála, sem hefur valdið ótta í Kreml; miklu fremur en ótti við aðild Úkraínu að varnarbandalaginu NATO, enda er áróður rússnesku stjórnarinnar um það, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæði (Finnlandiseringu) við landamæri sín hruninn með væntanlegri aðild Finnlands að NATO.
Nú er stórvirkari vopnabúnaður en áður á leiðinni til Úkraínu frá Vesturlöndum. Yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu sagði fyrir um innrás Rússa með lengri fyrirvara en leyniþjónusta Bandaríkjamanna. Hann hefur spáð því, að viðsnúningur muni eiga sér stað á vígvöllunum síðla ágústmánaðar 2022 og að Úkraínumenn verði búnir að reka rússneska herinn af höndum sér um áramótinn 2022-2023 og að mannaskipti hafi þá farið fram í æðstu stjórn Rússlands, enda eru afglöp forseta Rússlands þau mestu í Evrópu síðan 01.09.1939, þegar þýzki herinn réðist inn í Pólland. Strax haustið 1940 laut Luftwaffe í lægra haldi fyrir Royal Airforce í baráttunni um Bretland, sem átti eftir að hafa forspárgildi um úrslit styrjaldarinnar þrátt fyrir hetjulega baráttu Þjóðverja við ofurefli liðs. Nú er ekkert hetjulegt við lúalega baráttu Rússahers við mun minni her og herafla Úkraínu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2022 | 17:33
Mannvonzka og lygar í öndvegi Rússaveldis
Að ganga fram með grimmúðlegu og miskunnarlausu nýlendustríði á hendur fullvalda lýðræðisríki í Evrópu árið 2022 er geðveikislegt, enda er það réttlætt af árásaröflunum með fjarstæðum á borð við upprætingu nazisma, og að fórnarlambið eigi að vera nýlenda "mikilfenglegs Rússlands" af sögulegum ástæðum og með fáránlegum söguskýringum. Þessir atburðir eru svo alvarlegir, að þeir hafa sameinað drjúgan hluta heimsbyggðarinnar undir merkjum Vesturlanda og NATO. Svíar, sem verið hafa hlutlausir í átökum Evrópu síðan á Napóleónstímanum, og Finnar, sem verið hafa á áhrifasvæði Rússa síðan í lok Síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar þeir fengu að kenna á vopnuðum yfirgangi Rússa, hafa nú sótt um NATO-aðild.
Þar með gengur einn öflugasti og nútímalegasti her Evrópu til liðs við varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO. Þetta er högg í andlit Putins og kemur vel á vondan, því að alræðisherra Rússlands hefur framkallað þessa stöðu sjálfur. Nú liggur Kola skagi vel við höggi, og auðvelt er að eyðileggja einu veg- og járnbrautartenginguna á milli Kolaskaga og annarra hluta Rússlands.
Úkraínumenn berjast nú upp á líf og dauða fyrir hinum góða málstað, þ.e. að fá að lifa í friði, sjálfstæðir í fullvalda ríki sínu, og fá að ráða stjórnarformi sínu sjálfir og þróun efnahagslífsins í þessu auðuga landi frá náttúrunnar hendi, og að fá að velja sjálfir sína bandamenn og nánu samstarfsþjóðir. Hér er líka um að ræða baráttu lýðræðis og frelsis í heiminum við einræði og illyrmislega kúgun. Málstaður Rússlands er svo slæmur, að þrátt fyrir stanzlausar áróðurslygar Kremlverja, sem dynja á rússnesku þjóðinni, og þótt sannleikurinn sé bannaður, virðist baráttuandi rússnesku hermannanna ekki vera upp á marga fiska, sem ásamt innanmeinum og rotinni spillingu í rússneska hernum og þjóðfélaginu í heild, virðist munu gera úkraínska hernum kleift að reka fjandmanninn af höndum sér, vonandi fyrir fullt og allt.
Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu á Íslandi með aðsetri í Helsinki, skrifaði upplýsandi og áhrifamikla grein til Íslendinga, sem birtist í Morgunblaðinu 28. apríl 2022, þegar Rússar höfðu níðzt á úkraínsku þjóðinni með sprengjuregni í rúmlega 2 mánuði. Þegar þetta er skrifað, er 3 mánuðir voru frá innrásinni, sem lygalaupunum þóknast að kalla "sérstaka hernaðaraðgerð", virðast hrakfarir rússneska hersins á vígvöllunum engan endi ætla að taka og að sama skapi heldur ekki lúalegar og illmannlegar árásir hans á almenna borgara.
Grein sendiherrans hét:
"Stríðsglæpamönnum skal hvergi látið órefsað".
"Um tveggja mánaða skeið hefur heimsbyggðin mátt horfa upp á miskunnarlaust þjóðarmorð Rússa á úkraínskri jörð. Mannfórnir rússnesku innrásarinnar eru skelfilegar, og sannarlega aðhafðist þjóð mín ekkert það, er ýta mætti undir þær hörmulegu stríðsaðgerðir. Konur og börn hafa týnt lífinu, þúsundir óbreyttra borgara hafa mátt flýja heimili sín undan skefjalausu ofbeldi.
Engum dylst, að með aðgerðum sínum í Úkraínu stefna stjórnarherrar Rússlands að því markmiði að eyðileggja úkraínsku þjóðina að einhverju eða öllu leyti. Að því markmiði er sótt með morðum og skefjalausu ofbeldi gagnvart Úkraínumönnum. Er þar engu eirt og börn okkar jafnvel nauðungarflutt á rússneskt landsvæði, rúmlega 121 000 börn, eins og staðan er nú, höfum við eftir áreiðanlegum heimildum."
"Sérstök hernaðaraðgerð" Vladimirs Putins, einræðisherra Rússlands, var reist á alröngum forsendum um ímyndaða ógn við Rússland og rússneskumælandi Úkraínumenn og kolröngu herfræðilegu mati rússneska herráðsins. Leiftursókn að Kænugarði misheppnaðist hrapallega, og úkraínski herinn rak illa skipulagðan, og óagaðan Rússaherinn af höndum sér frá Kænugarðssvæðinu, svo að sá undir iljar hans norður til Hvíta-Rússlands og móðurlandsins. Þaðan var þessi sigraði her fluttur til austurhéraðanna, Luhansk og Donetsk, þar sem hann veldur gríðarlegri eyðileggingu og drápi á almennum borgurum, bæði rússneskumælandi og úkraínskumælandi.
Þegar herstyrkur úkraínska hersins verður orðinn nægur til sóknar eftir vopnaflutninga Bandaríkjamanna og Breta að landamærum Úkraínu, bíður Spetsnaz og nýliðanna úr Rússaher ekkert annað en flótti heim til móður Rússlands. Á 3 mánaða afmæli ofbeldisins bárust af því fréttir, að sérsveitirnar, Spetsnaz, hefðu óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna um að sækja fram, því að loftvarnir væru ófullnægjandi. Þetta er vísbending um væntanlega upplausn rússneska hersins, enda baráttuviljinn í lágmarki, og herstjórnin afleit. Það, sem átti að sýna mátt og mikilleik Rússlands, hefur opinberað risa á brauðfótum og geltandi bolabít með landsframleiðslu á við Spán og undirmálsher, sem yrði auðveldlega undir í beinum átökum við NATO. Vladimir Putin hefur með yfirgengilegu dómgreindarleysi og siðblindu orðið valdur að fullkominni niðurlægingu Rússlands, sem mun setja svip á þróun heimsmálanna næstu áratugina.
Í suðri hefur Rússum tekizt að ná Maríupol eftir tæplega 3 mánaða umsátur, og borgin er í rúst eftir þá. Þetta er villimannlegur hernaður af hálfu Rússa og eins frumstæður og hægt er að hugsa sér. Vopnin eru miklu öflugri en hæfir þroskastigi þeirra. Margfalt fleiri óbreyttir borgarar hafa farizt í sprengiregninu á og við Maríupol á þessum tæplega 3 mánuðum en í hertöku borgarinnar og 2 ára hernámi af hálfu Wehrmacht 1941-1943. Heimurinn hefur ekki séð jafnvillimannlegar aðfarir í hernaði og af hálfu þessa Rússahers. Sárin eftir þetta stríð verða lengi að gróa, og áhrif Rússa í heiminum verða hverfandi.
"Heilar borgir eru nú rústir einar, s.s. Volnovaka, Isíum, Maríupol, Oktíra, Tsjernihív, Skastía o.fl. Innrásarherinn hefur skaddað eða eyðilagt 14 000 íbúðarhús, 324 sjúkrahús, 1 141 menntastofnun og nær 300 leikskóla auk húsnæðis trúflokka, sveitabæja, landbúnaðarfyrirtækja og stjórnsýslu- og iðnaðarbygginga. Alls hafa Rússar valdið mismiklu tjóni á um þriðjungi allra innviða landsins; má þar nefna 300 brýr, 8 000 km af vegum, sem gera hefur þurft við eða leggja upp á nýtt og tylft járnbrautarbrúa."
Kostnaðurinn við enduruppbyggingu landsins eftir vandalana, sem kappkosta að eyðileggja sem mest af þjóðarverðmætum Úkraínumanna, svo að enduruppbyggingin taki sem lengstan tíma, og mannslífin og menningarverðmætin verða aldrei bætt. Kostnaður enduruppbyggingar mun vart nema undir trnUSD 1 í allri Úkraínu. Frystar eignir Rússlands og ólígarkanna á Vesturlöndum verða vonandi nýttar í uppbygginguna. Rússar eru sjálfir að eyðileggja sem mest í Úkraínu, sem minnir á nýlendukúgun Rússa, en ný heimili, skólar, sjúkrahús, samgönguinnviðir og veitur verða reist með vestrænni tækni. Úkraína mun ganga í ESB og NATO og verða gríðarlega samkeppnishæft land með landsframleiðslu á mann, sem verður fljótt miklu meiri en í Rússlandi, þar sem hún var undir 13 kUSD/íb árið 2021. Landsframleiðsla Rússlands var þá á svipuðu róli og Spánar, sem sýnir, að krafa Kremlar um að verða talin til stórvelda með áhrifasvæði í kringum sig á sér enga stoð. Eftir ósigurinn í Úkraínu gæti landið liðazt í sundur og Kínverjar tekið ytri Mongólíu, sem var hluti Kínaveldis þar til eftir Ópíumstríðið á 19. öld.
"Rússar hafa lagt undir sig eignir og valdið eyðileggingu á m.a. innviðum rafmagns, vatns og húshitunar auk þess að standa í vegi fyrir mannúðaraðstoð og brottflutningi borgara, sem fyrir vikið líða illilegan skort lífsnauðsynja um kalda vetrarmánuði, matar, vatns, hita og heilbrigðisaðstoðar. Þetta ástand er aðeins til þess fallið að valda þjáningum og tæringu fjölda almennra borgara víða um Úkraínu, svo [að] ekki sé minnzt á nýlega flugskeytaárás á Kramatorsk-járnbrautarstöðina, sem kostaði 52 mannslíf, þar af 5 líf barna. Þar fyrir utan særðust tugir og dvelja nú á sjúkrahúsum, þ.á.m. börn, sem misstu útlimi.
Að svelta almenna borgara til ávinnings í hernaðarskyni er ekkert annað en glæpur gegn mannkyninu. Hernám borga á borð við Maríupol og Tsjernív ber þeim ásetningi Rússa vitni að ætla sér að tortíma a.m.k. hluta úkraínsku þjóðarinnar."
Rússar virðast stela öllu steini léttara á hernámssvæðum sínum í Úkraínu. Þeir stunda þar grimma "Rússavæðingu", krefjast þess, að fólk tali rússnesku og börnum er sagt, að þau fái nú ekkert sumarfrí, því að í haust taki við rússnesk námsskrá og þau þurfi að búa sig undir hana. Hér er um illkynja nýlendustríð að ræða, þar sem "ómenningu" herraþjóðarinnar á að troða upp á undirsátana, og fólk hefur verið herleitt til Rússlands, þar sem enginn veit, hvað við tekur. Nái Rússar austurhéruðunum, þar sem m.a. eru ýmis verðmæti í jörðu, verða þessi héruð skítnýtt af herraþjóðinni, og undirsátarnir fá náðarsamlegast að þræla fyrir nýlendukúgarana. Það er með eindæmum, að þessi forneskjulega atburðarás eigi sér stað framan við nefið á okkur árið 2022.
"Rússar halda því fram, að þeir ætli sér að "afvæða nasisma" [sic !?] [afnema nazisma] í Úkraínu með aðgerðum sínum. Þau orð hafa þeir notfært sér til að tengja árás sína við tortímingu "nazista", sem að þeirra skoðun búa í Úkraínu. Stjórnvöld í Rússlandi kalla þá Úkraínubúa "nazista", sem styðja hugmyndina um sjálfstæða Úkraínu og berjast fyrir framtíð landsins í samfélagi Evrópuþjóða."
Áróður Kremlverja um nazisma í Úkraínu er gjörsamlega úr lausu lofti gripinn m.v. úrslit þeirra frjálsu kosninga, sem þar hafa verið haldnar undanfarin ár, þar sem örfá % kjósenda léðu stuðning sinn við eitthvað, sem nálgast gæti þjóðernisjafnaðarstefnu. Þessi firra áróðursmanna Kremlar er einvörðungu til heimabrúks á meðal illa upplýsts lýðs, sem býr við illvíga ritskoðun og ríkisvæddar fréttir. Annars staðar grefur þessi fáránlegi málflutningur undan trúverðugleika rússneskra stjórnvalda, sem nú er enginn orðinn, þ.e.a.s. það er ekki orð að marka það, sem frá Putin og pótintátum hans kemur.
Hið þversagnakennda er, að þessi rússnesku stjórnvöld minna um margt á fasistastjórn, og hugmyndafræði Putins um Stór-Evrópurússland svipar á marga lund til hugmyndafræði foringja Þriðja ríkisins um Stór-Þýzkaland og "Drang nach Osten für Lebensraum" eða sókn til austurs fyrir lífsrými handa aríum Þriðja ríkisins, en í báðum tilvikum leikur Úkraína aðalhlutverkið, orkurík og gróðursæl (kornforðabúr Evrópu). Hernaður Rússa nú gegn almenningi í Úkraínu, sjúkrahúsum hans, skólum og menningararfleifð, ber þess vitni, að grimmlyndir Rússar með mongólablóð í æðum frá 14. öld vilja eyða þjóðareinkennum Úkraínumanna, og framkoma þeirra við Úkraínumenn ber vitni um hugarfar nýlendukúgara í landi, sem þeir vilja gera að nýlendu sinni með svipuðum hætti og Stormsveitir Himmlers komu fram við "Untermenschen" í Síðari heimsstyrjöldinni, oft í óþökk Wehrmacht.
"Heimsbyggðinni væri réttast að skella skollaeyrunum við fölskum málflutningi Rússa og hafa það hugfast að, Rússland er árásaraðili, og stjórnendur landsins eru stríðsglæpamenn. Úkraínumenn treysta á stuðning Íslendinga í sakaruppgjöri við alla þá, sem gerzt hafa sekir um hrottalega glæpi gegn mannkyni, þ.á.m. rússneska stjórnmála-, viðskipta- og hernaðarleiðtoga, er staðið hafa fyrir falsfréttum, hindurvitnum og áróðri til að fela þann hrylling, sem nú á sér stað, og hermenn og herstjórnendur, sem nauðgað hafa úkraínskum konum og jafnvel börnum og bera ábyrgð á dauða og þjáningu þúsunda. Þar skal réttlætinu fullnægt."
Kremlverjar eru algerir ómerkingar, og málflutningur þeirra er heilaspuni og lygaþvættingur, sem því miður endurómar sums staðar, jafnvel hérlendis. Þeir, sem ímynda sér, að raunhæft verði að ganga til einhvers konar "friðarsamninga" við þá um, að þeir komist upp með að ræna austurhéruðunum (Donbass) og suðurhéruðunum við Svartahafið af Úkraínu og að þeir muni láta þar við sitja varanlega, vaða í villu og svíma eða ganga beinlínis erinda ofbeldismannanna rússnesku á Vesturlöndum; eru eins konar kvislingar. Kremlverjar eru ekki einvörðungu sekir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, sem er nógu slæmt, heldur eru þeir sekir við alþjóðalög um gróft og alvarlegt brot gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki í Evrópu. Evrópa á ekki að una sér hvíldar fyrr en þetta hefur verið leiðrétt, og hún á að nýta sér og ýta undir vilja Bandaríkjamanna til að veita mikla og dýrmæta aðstoð í þessum efnum. Enginn veit, hvenær vindátt snýst á þeim bænum og stórhættuleg uppgjafar- og einangrunarstefna í anda fyrrverandi forseta, sem smjaðraði fyrir mafíuforingjanum í Kreml, verður tekin þar upp.
"Alþjóðasamfélaginu er í lófa lagið að hindra glæpina með því að banna þegar í stað öll viðskipti með olíu og gas frá Rússlandi. Orkuútflutningur Rússa er þeirra helzta hagnaðarvon og þörf annarra þjóða fyrir hann helzta trygging stjórnenda landsins fyrir því, að ríki þeirra sé ósnertanlegt. Þar með vona þeir, að heimsbyggðin sé tilbúin að líta framhjá stríðsglæpum herja þeirra. Allir rússneskir bankar eru hluti af stríðsvél landsins og styðja hana með einum eða öðrum hætti. Afnema þarf tengingu þessara banka við alþjóðahagkerfið. Það er fullkomlega óviðunandi, að þeir, sem standa á bak við helztu ógn öryggis í heiminum græði á tá og fingri."
Vingulsháttur hefur einkennt afstöðu og aðgerðaleysi stærstu Evrópusambandslandanna, Þýzkalands og Frakklands, til svívirðilegrar tilraunar fasistastjórnarinnar í Moskvu til að hernema Úkraínu og koma þar á leppstjórn. Fyrir 2 mánuðum lofuðu stjórnvöld Þýzkalands að senda Úkraínumönnum skriðdrekabanann Gephardt, en þessi tæki eru enn ekki komin á vígvöllinn, og sama er að segja um loftvarnarkerfi, sem Úkraínumenn áttu að fá frá Þýzkalandi. Vingullinn við Elysée í París hefur lítið látið af hendi rakna, og hann virðist enn halda, að hann geti gegnt einhverju hlutverki við friðarsamninga.
Ursula von der Leyen reynir mikið til að fá leiðtogaráð ESB til að fallast á olíukaupabann á Rússa, en Orban í Búdapest setur löppina fyrir, svo að ekki er hægt að loka dyrunum. Hann gengur erinda stríðsglæpamannsins í Kreml, sem virðist ætla að leggja borgir og bæi Úkraínu í rúst í sjúklegri heift yfir harðri andstöðu Úkraínumanna, úkraínskumælandi og rússneskumælandi, við valdatöku Rússa í Úkraínu, sem allir vita, að jafngilda mundi nýlendustöðu landsins gagnvart glæpsamlegum nýlendukúgara.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.5.2022 | 11:11
Stríðið veldur hungursneyð
Árásarstríð Kremlarstjórnar á hendur Úkraínu hefur snúizt upp í niðurlægingu hennar og Rússahers. Þar með er ljóst, að zarinn er ekki í neinu, þegar hann gortar af sögulegum "mikilleik Rússlands". Hernaður Rússa í Úkraínu er ömurlegur og frammistaða þeirra hræðileg, bæði á vígvöllunum sjálfum og gagnvart almennum borgurum, sem þeir níðast á. Engu er líkara en villimannlegum hernaði forseta Rússlands á hendur fullvalda, lýðræðislegu menningarríki vestan Rússlands sé ætlað að valda sem mestu tjóni á nútímalegum innviðum Úkraínu og menningarverðmætum og drepa fjölda almennra borgara. Allar hliðar þessa hernaðar Rússlands eru viðbjóðslegar og óverjandi og sýna, að engin friðsamleg samskipti eru hugsanleg við hrokafull og grimm yfirvöld þessa ríkis. Herstjórn Rússa er í skötulíki, eins og hún hefur oftast verið í sögulegu ljósi, sbr Fyrri heimsstyrjöld, þegar Austurríksmenn og Þjóðverjar unnu hvern sigurinn á fætur öðrum, en alltaf sendi keisarinn nýtt herútboð, og nýliðunum var skipað á vígvöllinn og leiddir þar til slátrunar. Þetta endaði reyndar með stjórnarbyltingu.
Það er liður í hernaði Rússlands að loka fyrir aðgengi Úkraínu að Svartahafi fyrir útflutningsvörur sínar, aðallega landbúnaðrvörur. Rússar hafa goldið þetta dýru verði, því að Úkraínumönnum hefur tekizt að sökkva nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi, þótt þeir eigi engan flota sjálfir, þ.á.m. forystuskipi Svartahafsflotans, Moskvu, með tveimur eldflaugum. Rússar beita þessu lúalega bragði í því skyni að koma höggi á Úkraínu, sem verður af útflutningstekjum, og á Vesturlönd, bandamenn Úkraínumanna, sem verða fyrir barðinu á miklum verðhækkunum. Nú er Royal Navy hennar hátignar, Bretadrottningar, á leiðinni inn á Svarthahafið til að rjúfa þetta svívirðilega, rússneska hafnbann. Verður ruddinn að gjalti, þegar stór strákur kemur til að skakka leikinn ?
Upplýst hefur verið, að í heiminum séu nú aðeins til hveitibirgðir, sem endast til júlíloka 2022, og verð birgðanna mun væntanlega stöðugt hækka, þar til framboð eykst að nýju. Nokkrar þjóðir munu ekki hafa ráð á lífsnauðsynlegum lanbúnaðarvörum á núverandi verði, hvað þá sumarverðinu 2022, og verðinu 2023, og þar mun fjölga í hópi þeirra, sem verða hungursneyð að bráð, um tugi milljóna á ári vegna þessa viðurstyggilega stríðs. Rússnesku stríðsglæpamennirnir í Kreml hafa framkallað þennan vanda og neita að létta á honum með því að hleypa kornflutningum frá Úkraínu um Svartahaf. Þetta ábyrgðarlausa framferði Rússa sýnir, að núverandi yfirráð Rússa við Svartahafið eru óviðunandi. Hrekja verður rússneska herinn austur fyrir landamæri Úkraínu, eins og þau voru staðfest með Búdapest samkomulagi Rússa, Úkraínumanna, Bandaríkjamanna og Breta 1994.
Hveiti hækkaði um 53 % frá ársbyrjun 2022 til 15.05.2022, og 16.05.2022 hækkaði það um 6 %, þegar Indverjar tilkynntu um stöðvun útflutnings á því vegna hitabylgju, sem er líkleg til að skemma uppskeru ársins 2022. Rússland og Úkraínu hafa samtals selt um 28 % af hveitinu á heimsmarkaðinum og 29 % af byggi, 15 % af maís og 75 % af sólblómaolíunni. Þessir atburðir ættu að vekja framleiðendur og yfirvöld hérlendis upp til meðvitundar um þörfina á stóraukinni akuryrkju hérlendis vegna fæðuöryggis þjóðarinnar, en einnig er innlend framleiðsla ýmissa korntegunda nú orðin fyllilega samkeppnishæf í verði. Yfirvöld ættu að steinhætta að hvetja til og greiða fyrir moldarmokstur ofan í skurði, þar sem land hefur verið þurrkað upp, sem ýmist má nýta undir akuryrkju, skógrækt eða aðra ræktun, sem einnig bindur koltvíildi.
Starfsmenn Landbúnaðarháskólans eru vel meðvitaðir um stöðuna og hafa gert matvælaráðuneytinu viðvart. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ritaði umhugsunarverðan pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 20.05.2022 undir fyrirsögninni:
"Eflum fæðuöryggi".
Hún endaði þannig:
"Í greinargerð með tillögunum [Landbúnaðarháskóla Íslands] er bent á, að innlend akuryrkja leggi aðeins til um 1 % af því korni, sem nýtt er á Íslandi. Það er óásættanlegur árangur, þegar það liggur fyrir, að hér er hægt að rækta korn, hvort sem er til manneldis eða til fóðurgerðar. Raunar var stunduð kornrækt á Íslandi um aldir, en vegna breytinga í atvinnuháttum varð hagkvæmara að flytja það eingöngu inn. Fyrir liggja skýrslur og stefnur um, að auka skuli akuryrkju. Til staðar eru rannsóknarinnviðir, þekking og reynsla bænda af því, hvernig eigi að rækta korn við norðlægar aðstæður. Það, sem þarf, er aðgerðaáætlun, sem virkjar þann kraft, sem ég tel, að búi í möguleikum akuryrkju. Greina þarf þá markaðsbresti, sem komið hafa í veg fyrir, að kornrækt eflist af sjálfu sér, þannig að á næstu árum fari af stað metnaðarfull uppbygging í akuryrkju á Íslandi. Að þessu verður unnið á komandi misserum. Þannig verði bleikir akrar stærri hluti af landslagi íslenzkra sveita."
Nú þarf aðgerðir, en ekki meiri skriffinnsku á þessu sviði, þ.e.a.s. bændur þurfa að brjóta nýtt land undir akuryrkju. Það er of seint núna að sá, en næsta vor þarf að gera það. Innflutningsverð hefur væntanlega í venjulegu árferði verið lægra en kostnaður hérlendis við akuryrkju og þreskingu o.fl, og þess vegna hefur innlend markaðshlutdeild verið jafnsáralítil og raun ber vitni um, en nú er það væntanlega breytt, ef fræin eru til reiðu.
Hins vegar kunna bændur að vera hikandi við að taka áhættuna, því að kornrækt getur vissulega brugðizt vegna tíðarfars, og þar þurfa stjórnvöld að stökkva inn á sviðið núna í nafni fæðuöryggis og veita tryggingar gegn mögulegu tjóni bænda og annarra aðila í þessu framleiðsluferli. Hvers vegna eru engar lausnir kynntar til sögunnar af hálfu ríkisins í þessu greinarkorni matvælaráðherrans ?
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2022 | 10:30
Stríð valda verðbólgu
Framleiðsla Úkraínu hefur lamazt vegna nýlendustríðs Rússa, sem telja sig eiga tilkall til þessa auðuga lands af náttúrunnar hálfu, þvert á alþjóðalög, en Úkraína er fullvalda ríki, og íbúarnir hafa einfaldlega fengið sig fullsadda af nýlendukúgurunum í austri og vilja ekkert frekar en reka þá af höndum sér út fyrir landamærin. Nýlendukúgarinn hefur augastað á fleiri fyrrverandi nýlendum sínum í Evrópu. Þetta er fornfálegt og óverjandi viðhorf á 21. öldinni, en minnir á stríð Breta við Bandaríkjamenn 1812, þegar Bretakóngur reyndi að endurheimta nýlendurnar með vopnavaldi.
Kínaforseti beitir tröllheimskulegum aðferðum við að fást við kórónaveiruna SARS-CoV-2, þ.e. lokunum heilla borgarhluta. Þetta tefur aðeins fyrir veirunni, en hún verður að hafa sinn gang, og staðan lagast ekkert fyrr en hjarðónæmi hefur verið náð, því að kínversku bóluefnin gefast ekkert betur en þau vestrænu frá Pfizer/BioNTech, Moderna og Astra Zeneca. Allt er það húmbúkk til að græða á óttanum og örvæntingunni, sem í flestum tilvikum var jafnástæðulaus og ótti við inflúensu. Hún getur drepið, en dánarhlutfallið er lágt. Bezta mótvægisaðgerðin er að hlaða vítamínum inn í líkamann.
Efnahagslegar afleiðingar sóttvarnaaðgerða Kínaforseta, sem leitar endurkjörs á flokkþingi Kommúnistaflokksins í haust, eru svo slæmar, að hagvöxtur í Kína gæti hrapað niður í 0 árið 2022. Fyrir vikið er minni orkunotkun í Kína nú en undanfarin ár, sem dregur úr verðhækkunum jarðefnaeldsneytis.
Eldsneytisverðhækkanir knýja verðbólguna upp í methæðir, en þær eiga eftir að verða meiri. Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) lagt til við ráðherraráð sambandsins að draga strax úr olíuinnflutningi frá Rússlandi og binda endi á hann fyrir árslok 2022 með fáeinum undantekningum (Ungverjaland o.fl.), en áður hefur kolainnflutningur verið bannaður þaðan. Þetta mun valda nýjum hækkunum á olíuvörum, ef samþykkt verður. Þýzkaland greiðir Rússlandi núna 116 MEUR/dag (tæplega 16 mrdISK/dag) fyrir vörur, sem er hærri upphæð en fyrir svívirðilega innrás Rússahers í Úkraínu. Þetta gerist þrátt fyrir víðtækt viðskiptabann. Eldsneytisverðhækkanir vegna stríðsins meira en vega upp á móti skerðingu eða afnámi annars innflutnings. Sú staða, sem Þýzkaland hefur komið sér í með sífelldu smjaðri og friðþægingu gagnvart útþenslusömum nýlendukúgara, er algerlega óviðunandi fyrir landið og bandamenn þess. Þýzkaland verður enn á ný að færa fórnir í stríði við Rússland. Nýbirtar upplýsingar þýzka stjórnarráðsins um afstöðu Kohls, kanzlara, og Genschers, utanríkisráðherra, bera vitni um skaðlegan undirlægjuhátt þýzkra stjórnvalda gagnvart rússneskum stjórnvöldum, þar sem þeir m.a. lögðust gegn því að samþykkja inntökubeiðni Eystrasaltsríkjanna í NATO. Þjóðverjarnir misreiknuðu Rússa herfilega. Friðsamlega sambúð við hina síðar nefndu er ekki unnt að reisa á viðskiptum, heldur einvörðungu fælingarmætti, sem felst í varnargetu. Það er rétt, sem Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir: ef Úkraínu hefði að eigin ósk verið hleypt inn í NATO 2008, þá væru ekki stórfelld hernaðarátök í Evrópu núna, og siðblindur, veruleikafirrtur einvaldur í Kreml hótandi kjarnorkuárásum, þar sem hvorki gengur né rekur hjá rotnum rússneskum her í Úkraínu.
Það er eðlilega víða meiri verðbólga en á Íslandi, því að hérlendis er aðeins um 15 % heildarorkunotkunar úr jarðefnaeldsneyti, en þetta hlutfall er víðast yfir 70 %. T.d. spáir Englandsbanki nú 10 % verðbólgu á Bretlandi í árslok 2022, en hún muni síðan fljótlega hjaðna. Bankinn hækkaði stýrivexti sína um þriðjung, úr 0,75 % í 1,00 %, um sama leyti og Seðlabanki Íslands hækkaði sína stýrivexti um rúmlega þriðjung, úr 2,75 % í 3,75 %. Til þess erum við með sjálfstæða mynt, að vaxtastigið dragi dám af efnahags- og atvinnuástandinu á Íslandi, en ekki t.d. af vegnu meðaltali á evrusvæðinu. Þar er verðbólga og atvinnuástand nú með mjög mismunandi hætti, og vaxtastig evrubankans í Frankfurt hlýtur að koma mörgum ESB-ríkjum illa. Verðbólgan er t.d. yfir 10 % í Hollandi, af því að vaxtastigið er allt of lágt m.v. efnahagsstöðuna þar, og Þjóðverjum, með sinn mikla sparnað, er ekki skemmt með háa neikvæða raunvexti í Þýzkalandi, af því að þýzk viðhorf til peningamálastjórnunar hljóta ekki brautargengi um þessar mundir í bankaráði evrubankans í Frankfurt, enda Frakki bankastjóri.
Morgunblaðið fjallaði um verðbólguna innanlands og utan í leiðara 5. maí 2022, sem hét:
"Verðbólga á uppleið".
Hann hófst þannig:
"Verðbólga er komin á kreik hér á landi og er einnig farin að láta á sér kræla í löndunum í kringum okkur, sums staðar, svo [að] um munar. Á Spáni [evruland] jaðrar verðbólgan við 10 %, og Pólverjar eru þar skammt frá. Verðbólga mældist í marz [2022] 8,5 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu 7,4 %. Ísland var þar rétt fyrir neðan með 6,7 %, en ekki má miklu muna. Reyndar mældist verðbólgan hér á landi 7,2 % í apríl [2022]."
Sá er munurinn á Íslandi og þessum upp töldu löndum og landsvæðum, að hagvöxturinn er hér þokkalegur og vaxandi, en kreppuhorfur víða annars staðar. Útflutningstekjurnar eru tiltölulega háar og líklega bæði hærri og meira vaxandi en innflutningskostnaður vegna metverðs á vörum málmiðnaðarins (stóriðju), hás fiskverðs (minna framboð vegna viðskiptabanns á Rússa) og útlits fyrir álíka marga erlenda ferðamenn og 2016, en þó betur borgandi (Asíubúa vantar að mestu). Viðskiptajöfnuður mun sennilega styrkjast á árinu, þrátt fyrir dýrari innflutning en áður og mikla ferðagleði Íslendinga erlendis (svipuð og rétt fyrir Kóf). Þess vegna mun gengið fremur styrkjast en hitt, sem hægir á verðbólgunni.
Það er hins vegar alveg bráðnauðsynlegt til að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands, að verðbólgan hér sé ekki hærri en yfirleitt erlendis. Til þess verða allir að leggjast á eitt, og er þar verkalýðshreyfingin engin undantekning. Hún getur ekki spilað sóló. Orð formanns VR eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun maí 2022 um, að hún væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni, eru alveg eins og út úr kú, gjörsamlega óábyrg og órökstudd. Gera verður kröfu um, að verkalýðsleiðtogar setji sig vel inn í málin, kynni sér í þaula orsakir og afleiðingar verðbólgu og vaxta áður en þeir móta stefnuna í kjarasamningum og séu ekki bara eins og hverjir aðrir flautaþyrlar í pissukeppni um breiðastar yfirlýsingar og hæstu kröfugerðina. Slíkt er háskalegt, óábyrgt og heimskulegt framferði.
Áfram með leiðarann:
"En innri þrýstingur hefur einnig skapazt vegna ófremdarástands á húsnæðismarkaði. Húsnæði hefur hækkað jafnt og þétt í verði með tilheyrandi þrýstingi á vísitölu. Ein meginástæðan fyrir þessu ástandi er, hvernig húsnæðismál hafa verið látin reka á reiðanum í höfuðborginni. Þar annar framboðið engan veginn eftirspurninni, og þetta dáðleysi er beinlínis farið að hafa áhrif á þjóðarhag.
Tekizt hefur að halda verðbólgu í skefjum þrátt fyrir ástandið á húsnæðismarkaði, en nú, þegar ytri aðstæður hafa snúizt við, gætu þær reynzt æði dýrkeyptar."
Undirliggjandi skýring á dáðleysi meirihluta borgarstjórnar við að bregðast með raunhæfum hætti við fjölgun þjóðarinnar og brjóta nýtt land undir lóðir og gatnagerð er þráhyggjan við að þétta byggð meðfram fyrirhugaðri legu "þungu" borgarlínunnar. Þar er allt of fátt fólk búsett til að nokkur minnsti rekstrargrundvöllur geti orðið fyrir stórfjárfestingu af tagi "þungu" borgarlínunnar. Vonleysið verður algert, þegar í ljós kemur, að þéttingin dugar borgarlínunni ekki, þótt "þéttingin" verði svipt bílastæðum. Nú er áætlað minna en eitt bílastæði á íbúð þéttingarsvæða. Allt er þetta ráðabrugg kenjótts þráhyggjufólks fullkomlega óeðlilegt og stríðir gegn hagsmunum Reykvíkinga og landsmanna allra. Ríkið hefur yfrið nóg af öðrum hagkvæmari og nauðsynlegri samgönguverkefnum til að fjárfesta í en þetta og ætti alls ekki að taka þátt í fjármögnun þessa fráleita verkefnis.
"Hinar dökku verðbólguhorfur gefa einnig tilefni til þess að fara með gát, þegar kemur að næstu kjarasamningum. Þótt í síðustu tveimur samningum hafi tekizt að ná fram miklum kjarabótum og þær hafi haldið að mestu, er ekki þar með sagt, að komið sé fram nýtt lögmál um, að það sé ávallt hægt að hækka laun rækilega án þess að hækkunin hverfi í verðbólgu."
Þvergirðingar í forystu verkalýðshreyfingar láta eins og þeir geti stundað "business as usual" og þurfi ekki að draga saman seglin, þótt stríð geisi í Evrópu. Á þessum örlagatíma gengur ekki að láta kjánalega í kjarasamningum og gera landið ósamkeppnisfært í ferðageiranum og á erlendum vörumörkuðum. Þá mun atvinnuleysi bætast ofan á verðbólguvandræðin. Fíflagangur íslenzkra verkalýðsleiðtoga er einstæður á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað. Þegar raunstýrivextir voru orðnir -4,5 %, æpti formaður VR að þjóðinni, að 1,0 % hækkun stýrivaxta væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni og að aðrir seðlabankar væru ekki að hækka stýrivexti. Hvort tveggja var kolrangt, eins og æði margt hjá þessum manni, sem virðist hafa asklok fyrir himin.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Það er góðs viti, að verðbólga hér á landi sé enn undir meðaltali evrusvæðisins (og sýnir kannski enn akkinn af því að standa utan þess, þótt það sé önnur saga). Það er fyrir öllu, að svo verði áfram, og því þurfa allir að leggjast á árar til að freista þess að halda aftur af verðbólgunni eins og framast er unnt. Ógerningur er að hafa áhrif á þann þrýsting, sem kemur utan að, en það er mikið í húfi að sjá til þess, að þrýstingurinn inni í íslenzka hagkerfinu verði ekki til þess að bæta gráu ofan á svart."
Nú er stríð í Evrópu, og framvinda atburða getur orðið allt frá allsherjar tortímingu til friðsamlegra samskipta og enduruppbyggingar Úkraínu innan landamæra hennar, sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust með Búda-Pest-samkomulaginu 1994. Við þessar aðstæður láta verkalýðsleiðtogar í Evrópu hvergi eins og óð hænsni, nema á Íslandi, þótt verðbólgan sé þar hærri, orkuverðið óbærilega hátt og seðlabankar teknir að hækka stýrivextina. Hvers vegna ? Evrópskir verkalýðsleiðtogar stunda raunverulega hagsmunagæzlu fyrir sína skjólstæðinga og vita, hvað kemur þeim bezt, enda hafa þeir víða náð góðum árangri. Þar er ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum, eins og í raun er hér. Ef launþegarnir fá ávæning af einhverjum pólitískum bægslagangi félagsleiðtoganna, þá segja þeir einfaldlega skilið við þessi félög. Íslenzkir verkalýðsleiðtogar hafa ekkert slíkt aðhald, og virðast sumir hverjir ekki hafa til að bera nægan þroska og ábyrgðartilfinningu til að fara með vald sitt, heldur eru komnir á bólakaf í pólitískan boðskap. Þetta er hrapallegt, því að þeir styðjast við mjög lítið fylgi í kosningum í sínar ábyrgðarstöður.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2022 | 11:10
Stríð í Evrópu 2022-202?
Vladimir Putin skáldar upp söguskýringar í fortíð og nútíð til að reyna að réttlæta gjörðir sínar og rússneska hersins, sem hann er æðsti yfirmaður fyrir (commander in chief). Þessar fáránlegu söguskýringar ná ekki máli og réttlæta auðvitað hvorki eitt né neitt, nema í hugum siðblindra og vanheilla. Hann heldur því fram, að innrás Rússlands í stórt nágrannaríki sitt, Úkraínu, hafi verið óhjákvæmileg 24. febrúar 2022, til að bjarga rússnesku mælandi fólki í Úkraínu frá þjóðarmorði nazista, sem væru við stjórnvölinn í Kænugarði.
Þessa endemis vitleysu og lygaþvælu telur hann þjóð sinni, Rússum, trú um í krafti alræðis síns og lokunar á öllum frjálsum fjölmiðlum. 15 ára fangelsisvist liggur við því að láta aðra túlkun í ljósi, sem nær væri sannleikanum.
Tal forseta Rússlands um nágranna sinn í vestri er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glámskyggni hans, mannfyrirlitningu og botnlausan hroka, sem viðgengizt hefur í Kreml um aldaraðir. Hann segir, að Úkraína sé ekki til sem land og því síður nokkurt ríki úkraínskrar þjóðar, heldur sé um að ræða hérað í Rússlandi.
Þetta ömurlega viðhorf er grundvöllur landvinningastefnu Rússlands, sem birtist með innrás Rússlandshers í Úkraínu 24.02.2022. Þetta vitfirringslega mat forsetans hefur síðan þá orðið sér rækilega til skammar, því að Úkraínumenn hafa sýnt og sannað, að þeir eru ein þjóð, hvort sem móðurmál þeirra er úkraínska eða rússneska. Þeir eru fúsir til að berjast til þrautar fyrir fullveldi lands síns og sjálfstæði til að taka með lýðræðislegum hætti ákvarðanir í innanríkis- og utanríkismálum.
Sízt af öllu vilja þeir lenda aftur undir hrammi rússneska bjarnarins. Þegar forseta Rússlands varð þetta ljóst, skipaði hann rússneska hernum að refsa fyrir þessa "þrákelkni", og svívirðilegar aðgerðir rússneska hersins eru mjög alvarlegir stríðsglæpir, sem jafna má við þjóðarmorð. Rússar munu ekki komast upp með þennan glæp gegn mannkyni, heldur munu gjalda með útskúfun og haldlagningu rússneskra verðmæta til að nota við uppbyggingu Úkraínu með vestrænni tækni. Úkraína mun njóta aðstoðar Vesturlanda við uppbyggingu, og lífskjör þar munu fara hratt batnandi, en versnandi í Rússlandi. DÝRÐ SÉ ÚKRAÍNU !
Það er ljóst, að Rússar lúta nú alræði siðblindingja, dómgreindarlauss fants. Hér verða nefnd til sögunnar 20 atriði, sem vitna um þetta:
#1 Viðskiptaþvinganirnar bíta mun meir en Putin bjóst við:
Putin gæti hafa búizt við kraftlausum viðskiptaþvingunum á svipuðum nótum og eftir töku Krímskagans 2014. Samt vöruðu Bandaríkin við því, að þær yrðu ósambærilegar að styrk. Putin er alræmdur fyrir hótanir sínar og hefur túlkað þessa viðvörun BNA sem innantóma hótun ráðvilltra Vesturvelda.
Síðla janúar 2022 var honum einnig tjáð, að þvinganirnar mundu einnig beinast að einstaklingum. Putin hefur ekki búizt við, að öll helztu ríki heims, nema Kína og Indland, mundu koma sér saman um fordæmalausar efnahagsþvinganir. Það er nægilegt bit í þeim, til að nokkrir ólígarkar vinna nú að því að fjarlægja Putin frá völdum. Árangursríkar efnahagsþvinganir munu draga úr getu Rússa til að halda úti þessu stríði, og þær munu þess vegna vonandi stytta stríðið.
Nú hafa borizt fregnir af því, að forysturíki Evrópusambandsins, Þýzkalands og Frakklands, hafi selt Rússum vopn fyrir hundruði milljóna EUR á tímabilinu 2015-8. apríl 2022, þegar ekki mátti einu sinni selja þeim íhluti, sem nýtzt gætu í vopnabúnað. Þetta vitnar um ótrúlega hálfvelgju og tvískinnung ESB í afstöðunni til Rússa allt fram til þessa. Aðeins fyrir árvekni og harðfylgi Eystrasaltsríkjanna og austur-evrópskra aðildarríkja tókst að binda enda á þessi skammarlegu viðskipti. Einfeldningsháttur friðþægingarinnar ríður ekki við einteyming.
#2 Zelenski-stjórnin gafst ekki upp:
Allt bendir til, að Putin hafi fastlega reiknað með snöggri uppgjöf úkraínsku ríkisstjórnarinnar, og að hún mundi flýja land. Þá ætlaði Putin að koma á leppstjórn í Úkraínu og færa hana þannig undir yfirráð Rússa. Þetta varð afdrifaríkur misreikningur Putins, og hann hefur í kjölfarið kennt FSB um mistökin og leyst starfsmenn´FSB, sem áttu að undirbúa jarðveginn og safna réttum upplýsingum þaðan, frá störfum. Siðblindir alræðisherrar viðurkenna aldrei eigin mistök. Adolf Hitler kenndi í lokin þýzku þjóðinni um ósigur Wehrmacht.
#3 Úkraínski herinn er mun öflugri en búizt var við:
Rússland hefur ranglega reitt sig á vonlausan úkraínskan her, aðeins 1/5 af innrásarhernum í fjölda hermanna og með lakari vígtól. Úkraínski herinn er í raun vel þjálfaður (að hluta af Vesturveldunum), og hann er bardagavanur eftir að hafa fengizt við rússneska herinn í austurhéruðunum í 8 ár. Hann er einbeittur að verja land sitt, beitir góðri herstjórn og er búinn öflugum léttum vestrænum varnarvopnum.
#4 Hernaðarleg frammistaða rússneska hersins hefur ekki verið upp á marga fiska:
Fyrir innrásina í Úkraínu var það hald manna, að rússneski herinn væri öflugur, tæknilega þróaður og skilvirkur. Ekkert af þessu hefur gengið eftir, og er það sennilega vegna rótgróinnar spillingar í hernum. Honum hefur verið beitt skefjalaust gegn óvopnuðum almenningi til þess gagngert að valda sem mestri skelfingu og sem mestu tjóni til að draga kjarkinn úr Úkraínumönnum. Þessi hegðun hefur gjörsamlega lagt orðstír rússneska hersins í rúst og er líkleg til að grafa undan siðferðisþreki hans og baráttugetu.
#5 Fæstir nýliðar rússneska hersins, sem gegna herskyldu, eru fúsir til að berjast í Úkraínu:
Þetta er alvarlegt vandamál, þar sem herskyldumenn mynda 80 % hersins. Sumir hafa gefizt upp, bardagalaust, og tæki þeirra, vopn og skotfæri eru nú í höndum úkraínska hersins, sem beitir þeim gegn rússneska hernum, sem er martraðarkennt ástand fyrir rússneska liðsforingja.
#6 Rússar hafa ekki náð fullum yfirráðum í lofti:
Rússar hafa á undirbúningsstigum talið sig strax mundu ná fullum yfirráðum í lofti, og þar með yrði þeim eftirleikurinn auðveldur. Þetta hefur ekki gengið eftir, og eiga Úkraínumenn enn einhverja tugi orrustuþota og herþyrlna. Mest hefur þó munað um léttu varnarvopnin á landi, eins og Stinger, sem leita fórnarlambið uppi með hitanema. Rússar hafa tapað hundruðum orrustuþota og herþyrlna, og hefur tapið örugglega komið þeim í opna skjöldu. Vandi BNA í þessu sambandi er hins vegar, að fyrir nokkrum árum var hætt að framleiða Stinger-varnarbúnaðinn. Rússar eiga greinilega einnig í erfiðleikum með að fylla upp í eyður herbúnaðarins eftir gríðarlegt tap.
#7 Almenningur í Úkraínu tekur á móti rússneska hernum sem svörnum óvinum sínum:
Rússnesku hermönnunum var tjáð fyrir innrásina af yfirmönnum sínum, að Úkraínumenn mundu taka á móti þeim sem frelsurum. Þetta mat Rússa hefur reynzt vera fjarstæða. Úkraínskur almenningur í borgum og sveitum lítur á rússneska herinn sem svæsinn óvinn, sem ætli að svipta þá frelsinu og leggja á þá rússneskt helsi. Í minnum er Mólotoff-kokkteilgerð almennings, sem myndir birtust af í upphafi stríðsins. Úkraínska þjóðin er einhuga um að berjast gegn rússneska einvaldinum, enda er saga rússneskra yfirráða í Úkraínu hrikaleg og ekkert framundan annað en eymd og volæði undir rússneskri stjórn.
#8 Tjón rússneska hersins er mikið:
Rússneski herinn hefur með grimmdaræði valdið miklu óþörfu tjóni í Úkraínu, en hann hefur líka mætt harðri mótspyrnu úkraínska hersins, og líklega hafa yfir 20 þús. rússneskir hermenn fallið síðan 24. febrúar 2022, en mun færri úkraínskir hermenn. Hergagnatjón Rússa er og gríðarlegt. Birtingarmynd þessa er flótti Rússa úr stöðum sínum við Kænugarð, þar sem í ljós hafa komið hryllilegir stríðsglæpir rússneska hersins. Fyrir vikið mun Rússland verða útlagaríki í mörg ár á kafi í eigin foraði og mega horfa fram á stóreflt NATO vegna eigin gerða.
#9 Tugþúsundir erlendra hermanna á eigin vegum til Úkraínu til að berjast við hlið Úkraínumanna:
Um 40 þús. menn erlendis frá hafa bætzt í raðir úkraínska hersins hvaðanæva að úr heiminum. Þetta hefur áhrif á gang stríðsins og var að sjálfsögðu óvænt fyrir Rússa. Úkraína hefur lofað hverjum þeim, sem kemur til að berjast fyrir Úkraínu, úkraínskum ríkisborgararétti. Eitthvað mun vera um málaliða Rússamegin, t.d. frá Tétseníu og Sýrlandi. Stóra spurningin er hins vegar um kínverska hernaðaraðstoð.
#10 Rússum hefur reynzt erfitt að halda unnum landsvæðum:
Dæmi um þetta eru borgir í norðurhlutanum og flugvöllur, sem Rússar nýttu strax til að geyma þyrlur og orrustuþotur á. Úkraínski herinn gerði gagnárás, náði flugvellinum og eyðilagði allar þyrlurnar og orrustuþoturnar.
#11 Birgðaflutningar hafa reynzt Rússum erfiðir:
Herinn hefur sums staðar orðið uppiskroppa með mat, eldsneyti og skotfæri, og varahluti hefur vantað í búnaðinn. Við hlustun á samskiptarásum á milli hermanna og liðsforingja þeirra hefur komið í ljós, að hermenn þjást af kali og sulti. Matarskammtar, sem fundust í teknum tækjum, voru árum frá ráðlögðum neyzludegi. Margir rússneskir hermenn hafa leiðzt út í rán og gripdeildir, m.a. á mat, en aðrir hafa stöðvazt fjarri mannabyggð.
#12 Rússneskir hermenn eru að komast að sannleikanum:
Hægt og sígandi komast nú rússneskir hermenn að því, að orðfæri einræðisherrans í Kreml og hershöfðingja hans, "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu er helber þvæla og að aðgerðin, sem þeir hafa verið skikkaðir í, er innrás, framkvæmd úr a.m.k. 3 áttum. Nú er lygalaupurinn Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekinn að hóta 3. heimsstyrjöld, af því að rússneska hernum gangi svo illa á vígstöðvunum í Úkraínu, og væntanlega er þessi heimskulega hótun merki um gremju út af væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO í júní 2022. Er hann svo skyni skroppinn að halda, að einhverjum á Vesturlöndum detti í hug, að Rússum muni ganga betur í hernaði gegn NATO og bandamönnum bandalagsins en gegn Úkraínumönnum einum ? Til hvers að fara í kjarnorkustríð ? Rússar hafa ekki roð við NATO, og líkur þeirra á einhvers konar sigri í kjarnorkuátökum eru engar, núll.
#13 Mótmæli gegn Úkraínustríðinu í Rússlandi eru sterk og viðvarandi:
Einvaldur Rússlands líður engin mótmæli. Þrátt fyrir þungar refsingar á borð við fangelsisvist og sektir hafa Rússar haldið áfram að mótmæla stríðsrekstrinum. Daglega fara margir út á strætin í 60 borgum í mótmælaskyni, enda eiga ýmsir Rússar vini og ættingja í Úkraínu, sem þeir hafa haft símasamband við.
#14 Rússland hefur þegar tapað "fjölmiðlastríðinu":
Nú á dögum eru stríð ekki einvörðungu háð á vígvöllunum. Sérhver með alnetsaðgang getur tjáð skoðanir sínar. Orðspor Rússlands hefur verið lagt í rúst í fjölmiðlum, aðallega með því að varpa myndum af illvirkjum Rússa á netið. Núna eru alþjóðlegir miðlar á borð við Facebook og Twitter aflæstir og bannaðir í Rússlandi, en ríkisstjórnin sviðssetur þess í stað lygaþvælu um atburðarásina. Spurning er, hversu lengi almenningur gleypir við áróðri rússneskra yfirvalda.
#15 Rússnesk yfirvöld hafa festst í eigin lygavef:
Rússar réðust á Úkraínu með áform um að setja lygaáróður sinn í stað sannleikans og villa um fyrir eigin þegnum með rangnefninu "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu undan helsi nýnazisma. Öllum heiminum utan Rússlands er nú ljóst, að um lygaþvætting Kremlverja er að ræða, og sannleikurinn er tekinn að síga inn í Rússland m.a. með særðum hermönnum, sem sennilega nema um 60 þúsund um þessar mundir. Þetta grefur um síðir undan trausti almennings á stjórnvöldum með slæmum afleiðingum fyrir skrímslið í Kreml.
#16 Heimurinn er að töluverðu leyti sameinaður í andstöðu við rússnesku innrásina í Úkraínu:
141 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddi atkvæði með fordæmingu á Rússum vegna innrásarinnar. Þetta er sjaldgæf samstaða á alþjóðavettvangi og sýnir, að Rússar hafa með ofbeldi og glæpaverkum gegn mannkyni í Úkraínu svert eigið mannorð svo mjög, að það mun liggja í svaðinu næstu áratugina, og Rússa bíður ekki annað en eymd og volæði fjárhagslegrar, viðskiptalegrar og menningarlegrar einangrunar. Núverandi Rússlandsstjórn getur engan veginn lagað þá stöðu, því að hún á aðeins heima á sakamannabekk alþjóðlegs glæpadómstóls.
#17 NATO er sterkara og sameinaðra en áður:
Putin hefur rembzt, eins og rjúpan við staurinn, síðustu 15 árin eða lengur við að sá óeiningu innan NATO og hefur rekið hræðsluáróður gagnvart ríkjum Evrópu utan NATO gagnvart því að leita inngöngu þar. Hann kom með hræðsluáróðri í veg fyrir inngöngu Úkraínu í NATO um 2007, og þess vegna þorði hann að taka Krímskagann og sneiðar af Austur-Úkraínu 2014, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin 2022. Hlutur Austur-Þjóðverjans Angelu Merkel er þar sérstaklega bágborinn.
Mörg NATO-ríkin hafa fórnað töluverðu til að setja harðar viðskiptaþvinganir á Rússland, en Þjóðverjar hafa þó ekki enn losað um hramm rússneska bjarnarins á eldsneytisgaskaupum sínum, þótt þeir stöðvuðu NORD STREAM 2. Gerhard Schröder, krati og fyrrverandi kanzlari, er orðin þjóðarskömm Þjóðverja.
#18 Nú sjá þjóðir sitt óvænna að æskja ásjár NATO:
Þjóðir á borð við Finna og að sjálfsögðu Úkraínumenn líta nú svo á, að NATO-aðild þeirra sé nauðsynleg fyrir tilveru sína sem fullvalda og sjálfstæðra þjóða til langframa. Nú bendir margt til þess, að þjóðþing Finna og Svía muni samþykkja aðildarumsókn fyrir fund forystumanna NATO í júní 2022, og umsókn þeirra verður að sjálfsögðu samþykkt eins fljótt og verða má. Þetta verður verðskuldað kjaftshögg á fjandsamlega utanríkisstefnu Rússa, sem hafa hingað til þvingað Finna til undirgefnihlutleysis, sem hlotið hefur heitið "Finnlandisering".
Rússar hafa haldið hótunum sínum áfram, nú með kjarnorkuvopnavæðingu Eystrasaltsins, en hvað hafa þeir haft um árabil í Kalíningrad, hinni fornu "Königsberg der Dichter und Denker", annað en vígtól, sem borið geta kjarnaodda ? Það er kominn tími til, að útþenslustefnu þessa grimma, víðlenda ríkis verði settar skorður. Að venju munu Rússar og málpípur þeirra æpa um sókn NATO upp að vesturlandamærum Rússlands, en þetta rotna ríki mafíunnar í Kreml á ekki lengur að komast upp með að ráða utanríkis- og varnarstefnu nágrannanna. Það er stórhættulegt.
#19 Áður hlutlaus ríki hafa nú snúizt gegn Rússlandi:
Rússar hafa misreiknað viðbrögð Vesturlanda á fjölmörgum sviðum, þ.á.m. hlutlausu þjóðanna. Þeir hafa ekki átt von á því, að Svisslendingum yrði nóg boðið og mundu taka afstöðu í þessum átökum, enda er það saga til næsta bæjar. Rússnesku ólígarkarnir hafa orðið fyrir áfalli, þegar svissneskum bankareikningum þeirra var lokað. Svíþjóð hefur líklega í um 200 ár staðið utan við vopnuð átök, en nú aðstoða Svíar Úkraínumenn með vopnasendingum og þjálfun.
Hinum siðmenntaða heimi blöskrar villimannleg framganga Rússa í Úkraínu, sem nú fylla í skörð rússneska hersins með íbúum frá Síberíu, sem minni tengsl hafa við Úkraínu en íbúar Rússlands vestan Úral.
#20 Þjóðareining Úkraínumanna hefur aldrei verið meiri en nú:
Heimskulegur, hrokafullur og fasistískur rússneskur áróður um, að Úkraína sé ekki til sem land, hefur nú skolazt niður um skolpræsið með montinu um "mikilleika Rússlands", sem fyrir víst er ekki fyrir hendi nú, hafi hann einhvern tíma verið það. Baráttuandi og baráttuþrek Úkraínumanna á vígvöllunum og þrautseigja og þolgæði almennings þrátt fyrir svívirðilegar árásir rússneska hersins á varnarlausa borgara í húsum sínum, í skólum, á sjúkrahúsum og á götum úti, hefur fært umheiminum heim sanninn um, að Úkraínumenn eru samheldin og samstæð þjóð með eigin menningu, sem einræðisherrann í Kreml vill feiga. Þessi yfirgengilegi fruntaháttur frumstæðra Rússa má ekki verða til þess, að Úkraínumenn missi land og fullveldi sitt í hendur kúgaranna. Hvort sem móðurmál Úkraínumanna er úkraínska eða rússneska vilja þeir í lengstu lög forðast að verða undir beinni eða óbeinni stjórn Rússlands. Það hafa þeir sannað með frækilegri vörn sinni, og allt annað er ekki annað en ómerkileg, rússnesk lygi, sem meira en nóg hefur verið af í þessu stríði. Beztu lyktir þessa stríðs væru, að rússneska herliðið verði hrakið til baka yfir landamærin til Rússlands, einnig frá Krímskaga, og að frystar eignir ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum verði síðan notaðar til endurreisnar Úkraínu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)