Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Efnahagsátök og styrjaldarvafstur

Stríðið um Úkraínu 2022 eru mestu stríðsátök í Evrópu síðan 1945, þegar Heimsstyrjöld 2 lauk.  Það er athyglisvert, að nú eru Úkraínumenn og Rússar í aðalhlutverkunum, og þeir léku stór hlutverk í heimsstyrjöldinni 1941-1945.  Úkraínumenn voru kúgaðir og hart leiknir í ríkjasambandi Ráðstjórnarríkjanna undir Jósef Stalín, og margir þeirra tóku Wehrmacht fagnandi sem frelsurum 1941, en Schutzstaffel (SS) og GESTAPO Heinrich Himmlers gengu þannig fram á hernámssvæðunum, að Úkraínumenn snerust gegn hernámi Þriðja ríkisins, og kunni Wehrmacht framgöngu Himmlers og manna hans litlar þakkir fyrir, því að Úkraínumenn gerðu Wehrmacht lífið miklu erfiðara en ella. Nú hamrar ódámurinn Vladimir Putin á því við landsmenn sína, að Rússland eigi aftur í höggi við nazista handan landamæra sinna við Úkraínu og Eistland, og bráðum kemur áreiðanlega að Lettlandi og Lithauen o.fl.  Sannleikurinn er sá, að yfirgangur og stríðsglæpir Putins minna í mörgu á aðfarir Foringja Þriðja ríkisins.  Mannfyrirlitning þeirra og miskunnarleysi beggja er slík, að hvorugur getur talizt mennskur og má þar af leiðandi telja vitstola. 

Stríðið um Úkraínu núna er líka háð af Vesturveldunum, þótt ekki sé það enn með hermönnum á vígvellinum eða á höfunum, en að því getur hæglega komið m.v. málflutning höfuðpaurs stríðsglæpamannanna í Kreml.  NATO er núna að búa sig undir vopnuð átök við Rússland, varnarstríð, og þess vegna ættu menn fyrir löngu að vera hættir að taka mark á hótunum þorparans um, að afhendi Vesturveldin Úkraínumönnum sóknarvopn, líti hann á það sem stríðsyfirlýsingu NATO.  Vesturveldin verða að venja sig af þeim kæk að láta þetta gegnumrotna ríki stjórna gerðum sínum.  Ekkert stöðvar einræðisherra með guðlega köllun til illvirkja annað en valdbeiting máttar, sem hefur í fullu tré við fólið. 

Efnahagsþvinganir Vesturveldanna gagnvart Rússlandi eru sögulega einstæðar, og áhrif þeirra á Rússland munu ráða miklu um Úkraínustríðið og átök í heiminum næstu árin.  Þær hafa nú þegar skapað öngþveiti í þessu trnUSD 1,6 hagkerfi og valdið rétt einni hótuninni frá forseta Rússlands; í þetta sinn var það hótun um beitingu kjarnorkuvopna.  Þetta var heimskulegasta hótunin af þeim öllum og sýnir dómgreindarleysi þessa einræðisherra.  Hann skilur ekki, að hann hefur glatað stöðu sinni út á við.  Vestrænir leiðtogar skilja nú flestir loksins, að friðsamleg sambúð við stríðsglæpamennina í Kreml er útilokuð. Ef Rússar ekki losa sig við illmennið og draga sig alfarið út úr Úkraínu með sinn her, þá verður öngþveiti í Rússlandi, og landið verður þriðjaheimsland, sem mun ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið. 

Snöggum umskiptum til hins verra í Rússlandi í kjölfar efnahagsþvingana Vesturveldanna er tekið eftir um allan heim, ekki sízt í Kína, þar sem aðalritari kommúnistaflokksins ætlar að skilja eftir sig þá arfleifð að hafa fært Taiwan undir vald Kínastjórnar í Peking. Vestrið verður að vinna þetta efnahagsstríð gegn Rússlandi og síðan að koma á laggirnar lagagrundvelli, sem ávarðar skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að beita megi mismunandi stigum þessa öfluga tóls.

Þann 26. febrúar 2022 fóru Vesturveldin yfir Rúbíkon ána í anda rómverska herforingjans Júlíusar Cesars forðum, þegar efnahagsþvinganir voru settar á 11. stærsta hagkerfi heims.  Með því að gera viðskipti vestrænna fyrirtækja við rússneska banka ólögleg, nema á sviði orkuviðskipta, og útiloka þá frá alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT, stórminnkaði fjármagnsflæði yfir rússnesku landamærin.  Frysting þess hluta gjaldeyrisforða Seðlabanka Rússlands, sem geymdur er á Vesturlöndum, hindrar aðgengi rússneska ríkisins að rúmlega helmingi þessa mrdUSD 630 forða.  Rúblan féll um tæplega 30 % á fyrstu 10 dögum stríðsins, en mun eitthvað hafa hjarnað við um sinn  vegna tekna rússneskra olíu- og gasfyrirtækja, en fyrir gasið til Evrópu fá þeir um 1 mrdUSD/sólarhr. m.v. núverandi gasverð.  Meiri verðbólga geisar nú í Rússlandi en víðast hvar annars staðar og bætist við 10 % lækkun lífskjara í Rússlandi frá 2014, er Rússar lögðu undir sig Krím og fengu á sig vægar viðskiptaþvinganir.  Hlutabréfavísitalan í Moskvu  hefur lækkað um a.m.k. 90 % frá 24.02.2022, og vöruskortur hefur hafið innreið sína.

Rússland er ríki á fallanda fæti(failed state), því að það er þegar gjaldþrota pólitískt og bráðlega efnahagslega.  Það er dæmigert fasistaríki, þar sem mikilleiki Rússlands er hafinn upp til skýjanna með aðstoð rétttrúnaðarkirkjunnar, en þessi mikilleiki er innantómur, því að hann er reistur á hernaðarmætti, sem er ekki fyrir hendi.  Putin sigar hernum á lítil ríki í grennd, s.s. Georgíu og Tétseníu, og nú stærra ríki, sem hann taldi mundu verða sér auðveld bráð, alveg eins og Mússólíni á sinni tíð.  Sá var gerður afturreka úr Abbessyníu í NA-Afríku (Eþíópía-Eritrea), og Þjóðverjar urðu að bjarga ítalska hernum undan Grikkjum vorið 1941, sem tafði "Operation Barbarossa" um örlagaríkar vikur. 

Nú hefur Úkraínumönnum tekizt að eyða þriðjungi rússneska hersins, og framganga hans í Úkraínu sýnir engan mikilleika, heldur þvert á móti algera lágkúru á vígvellinum  og níðingshátt gagnvart almennum borgurum.  Það er ekkert eftir af Pótemkíntjöldum fastaleiðtogans Putins. Það er ekki hægt að gera neina samninga við hann; það er aðeins hægt að sigra hann.  

Í Kænugarði er aftur á móti fram kominn pólitískur leiðtogi Vestursins í stríði, sem líkja má við Winston Churchill 1939.  Fyrsti forsætisráðherra Rússlands eftir fall kommúnistastjórnarinnar 1991 var gagnmerkur maður, sem lézt fyrir aldur fram 2009.  Árið 2007 gaf Yegor Gaidar út bók, "Collapse of an Empire: Lessons for modern Russia".  Þar greinir hann hættuna, sem umheiminum stafar af Rússum undir einræðisstjórn.  Reynt verði með öllum tiltækum ráðum að ná ítökum á öllu yfirráðasvæði Ráðstjórnarríkjanna. Nú hefur hrollvekjuspá Yegors Gaidars rætzt. Vesturveldin verða að knýja fram skilning á því í Kreml, að öllu afli Vesturveldanna verður beitt til að koma í veg fyrir, að fasistastjórninni í Kreml, blóðugri upp að öxlum, takist ætlunarverk sitt. Ef eitt ríki fellur, bíða hinna sömu örlög.  Úkraínumenn berjast nú ekki einvörðungu fyrir föðurland sitt, heldur hinn lýðræðislega heim allan.  

Ef Vestrinu tekst að ráða niðurlögum hinna illu afla í Kreml með aðgerðum sínum (til þess þarf að draga verulega úr eldsneytiskaupum af Rússum), verða langtímaáhrifin af því veruleg.  Heimurinn er ókræsilegur, og ýmis ríki munu þá reyna að smeygja sér út úr vestrænu fjármálakerfi. Slíkt dregur úr áhrifum þvingunaraðgerða og mun leiða til breyttra heimsviðskipta (End of Globalisation).  Á 4. áratugi 20. aldarinnar var uppi ótti við viðskiptabönn samfara uppgangi einræðis og efnahagslegra áhrifasvæða. 

Óttinn við þetta efnahagsvopn verður mestur í einræðisríkjum, en á þeirra snærum er nú helmingur trnUSD 20 gjaldeyrissjóða og varasjóða ríkisstjórna heimsins.  Þótt Kínastjórn muni geta valdið Vestrinu og bandamönnum vestrænna ríkja (lýðræðisríkjunum) gríðarlegu tjóni með því að stöðva afhendingu aðfanga til þeirra, ef Kínaher ræðst á Taiwan, gæti Vestrið þá fryst varasjóð Kínastjórnar upp á trnUSD 3,3.  Jafnvel Indverjar, sem enn hafa neitað að fordæma innrás Rússa í Úkraínu, hafa ástæðu til að íhuga stöðu sína í þessu ljósi.  Á næstu 10 árum gætu tæknibreytingar leitt af sér þróun peningakerfis, sem gerir löndum kleift að sniðganga vestrænt fjármálakerfi. Kínverska stafræna mynttilraunin hefur nú 261 milljón (M) notendur.  Núna er erfitt að koma trilljónum bandaríkjadala fyrir til ávöxtunar utan vestrænna markaða, en í tímans rás munu fleiri ríki e.t.v. reyna að koma varasjóðum sínum víðar fyrir með fjárfestingum. 

Klofningur fjármálaheimsins virðist vera óhjákvæmilegur.  Með víðtækari og áhrifameiri notkun viðskiptaþvingana sem vopns í pólitískri baráttu við andstæðinga eiga Vesturveldin á hættu, að fleiri ríki reyni að rjúfa sig frá vestrænu fjármálakerfi en æskilegt þykir.  Þess vegna þurfa Vesturlönd að afloknum núverandi átökum við Rússland að leitast við að koma sér upp einhverju regluverki um þessar þvingunarráðstafanir.  Bitlitlar þvingunarráðstafanir ætti að forðast.  Víðtækar og djúptækar þvingunarráðstafanir með lömunaráhrif að hætti viðskipta- og fjármálahamlanna gegn Rússlandi ætti aðeins að vera unnt að beita gegn árásaraðila, sem hefur ólögmætt stríð að alþjóðalögum.       

      

 

 


Tilvistarhætta stafar af Rússlandi undir alræðisstjórn

Úkraínuher vann sigur á rússneska hernum í um 5 vikna stríði um Kænugarð frá upphafi svívirðilegrar innrásar Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þetta er saga til næsta bæjar, og þessum hernaðarátökum á eftir að gera góð skil, en þau munu vafalaust fara í sögubækurnar á meðal glæstustu hernaðarafreka. Sérstaklega verður fróðlegt að sjá, hversu stórt hlutverk öflug samskiptakerfi léku, AWACS-gagnaöflunar- og samskiptaflugvélar Bandaríkjamanna og drónar af öllum gerðum, jafnvel leikfangadrónar úkraínskra borgara voru notaðir til að staðsetja óvininn, svo að unnt væri að gera að honum markvissa atlögu með öflugum varnarvopnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýzkalandi og e.t.v. víðar að.

Rússaher hundskaðist laskaður norður yfir landamærin til Hvíta-Rússlands og Rússlands með skottið á milli lappanna og skildi eftir sig blóði drifna slóð.  Komið hefur í ljós, að hann hefur framið níðingsverk á varnarlausum borgurum og framið þjóðarmorð á hersetnum svæðum.  Orðstír rússneska hersins liggur í valnum, og Rússland er útskúfað og verður lengi.  Þar eru ómenni á ferð og stjórnendurnir upp til forseta Rússlands eru viðbjóðslegir stríðsglæpamenn.

Það er aumkvunarvert að heyra hérlendis enduróm endalauss lygaþvættings frá Moskvu, þar sem þrætt er fyrir meingerðir óþverranna, t.d. við óbreytta borgara í Bútsja.  Ósvífnin og forstokkunin er svo alger, að Úkraínumönnum er kennt um óhugnaðinn.  Enginn heiðvirður maður getur haft snefil af samúð með lygamörðunum í Moskvu. Þýzka leyniþjónustan hefur undir höndum hljóðupptökur af samtölum rússneskra hermanna, þar sem einn segist hafa skotið niður mann á reiðhjóli.  Mynd af þeim vettvangi í Bútsja hefur birzt í íslenzkum dagblöðum.  Þá er til myndupptaka úr dróna, sem sýnir rússneska hermenn drepa vegfarendur í Bútsja.  Andspænis þessum sönnunargögnum tjáir ekki lygalaupunum Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dimitry Peskov, málpípu Putins, að halda áfram lygavef sínum um, að rússneski herinn beini ekki vopnum sínum að saklausum borgurum.  Þvert á móti, rússneski herinn beitir skefjalausri tortímingar- og eyðileggingarstefnu í Úkraínu.   

Nú ætla óþverrarnir að sleikja sár sín og síðan að auka liðssafnaðinn í Suð-Austur-Úkraínu.  Þar er stór hluti íbúanna rússneskrar ættar, en það gildir líka um Maríupol, sem rússneski herinn hefur lagt í rústir.  Rússneskumælandi hermenn Úkraínuhers hafa ekki síður barizt af hreysti gegn rússneska innrásarhernum en þeir, sem eiga úkraínsku að móðurmáli, og rússneskumælandi borgarar hafa einnig veitt innrásarliðinu harðvítuga andspyrnu.

Rússlandsstjórn er ábyrg fyrir stríðinu, sem staðið hefur yfir í Austur-Úkraínu síðan 2014.  Nú ætlar hún að styrkja innrásarliðið þar og leggja undir Rússland enn stærri sneið af Úkraínu en henni tókst í 8 ára stríðsrekstri þar, sem hefur verið rekinn með svívirðilegum hætti, eins og engum þarf að koma á óvart núna. Það er yfirvarp eitt og haugalygi, að Rússlandsstjórn sé þar að vernda rússneskumælandi fólk gegn nazistum.  Aðfarir Rússlandsstjórnar og Rússahers minna ekki á neitt meira en aðfarir Hitlersstjórnarinnar og SS-sveita Heinrich Himmlers í Úkraínu 1941-1944.

Ástæðan fyrir ásókn Rússlands í austurhéruðin er ekki umhyggja fyrir neinum íbúum þar, heldur sú, að í Austur-Úkraínu finnast auðlindir í jörðu, sem rússneskir ólígarkar vilja koma höndum yfir, og Putin er sennilega ríkastur af þeim öllum.  Það getur enginn friður orðið um þá landvinninga, sem Vladimir Putin ætlar sér og ólígörkum sínum í Úkraínu.  Hann mun ekki láta af sjúklegri landvinningaþráhyggju sinni fyrr en hann verður stöðvaður.  Hann er þegar kominn á ruslahauga sögunnar. Það er sorglegt, að hann dregur Rússland með sér þangað. 

Þann 24. marz 2022, mánuði frá upphafi hinnar alræmdu innrásar, birtist í Morgunblaðinu afar þörf og læsileg grein eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, undir umhugsunarverðri fyrirsögn:

"Vakna Vesturlönd ?".

Fyrirsögnin er af gefnu tilefni, því að Vesturlönd hafa sofið á verðinum og rekið bláeyga friðþægingarstefnu gagnvart Rússlandi, sem hefur snúizt um að eiga sem mest viðskipti við Rússland í von um, að friðaröflum þar yxi ásmegin og að landið mundi virða landamæri í Evrópu vegna mikilla viðskiptahagsmuna, sem í húfi væru.  Skemmst er frá því að segja, að þessi fyrirætlun er öll runnin út í sandinn.  Í Kreml nærðu menn allan tímann með sér landvinningadrauma, og nú er ljóst, að Vestrið er komið í tilvistarkreppu vegna blindunnar, sem það var slegið. "Ostpolitik" kratans Willy Brandt kom ekki í veg fyrir uppgang landvinningadrauma í Kreml, og Angela Merkel, þrátt fyrir mörg samtöl við Putin á þýzku og rússnesku, setti kíkinn fyrir blinda augað og gerði Þjóðverja mjög háða Rússum á viðskiptasviðinu.

Í raun eru Úkraínumenn núna að úthella blóði sínu fyrir Vestrið og vestræna lifnaðarhætti.  Þess vegna ber varnarbandalaginu NATO og lýðræðislöndum utan þess að láta Úkraínumönnum í té allan þann stuðning, sem þau geta, á formi hergagna, loftvarnarbúnaðar, þjálfunar, mannúðaraðstoðar, hersjúkrahúsa og fjár.  Á Svartahafi getur reyndar hæglega komið til átaka á milli NATO-flota og þess rússneska.  Ef ekki tekst að reka Rússaher út úr Úkraínu, er bara tímaspurning, hvenær NATO lendir í beinum hernaðarátökum við Rússland. Þangað til Vestrið lætur Úkraínu í té næga aðstoð til að reka villimennina af höndum sér, verður að svara spurningunni í fyrirsögn Einars Hálfdánarsonar neitandi.  

Téð grein Einars S. Hálfdánarsonar hófst þannig:

"Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar (ÓRG), þar sem hann virtist kenna NATO um innrás Pútíns í Úkraínu, hafa að vonum vakið mikla athygli.  Afstaða ÓRG á sér langan aðdraganda.  Á 8. og 9. áratug áratug liðinnar aldar fór hann fyrir vinstrisinnuðum þingmannasamtökum, sem sáu þann kost vænstan að gera kröfur Rússlands í öryggismálum Vestur-Evrópu að sínum.  Vestur-Evrópa mætti ekki koma fyrir nýjum varnarbúnaði, nema Rússland leyfði.  Félagar ÓRG voru felldir af Bandaríkjaþingi, þegar Ronald Reagan komst til valda með yfirburðasigri á Carter og nýjum þingmeirihluta.-

Við tóku nýir, betri og friðsamari tímar, þar sem kommúnisminn var settur á sinn stað næstu 3 áratugina, en Arne Treholt skemur.  ÓRG er enn á sama stað (og Arne reyndar líka) og hann þá var, hvað Rússland varðar.  Heiðra skálkinn og hlýða Pútín."

 Frá því að Pútín tók við af Boris Jeltsín sem forseti rússneska sambandsríkisins, hafa Vesturlönd einmitt fylgt kjörorðinu "Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki", en 24. febrúar 2022 rann upp ljós fyrir vestrænum þjóðum, að þetta væri í grundvallaratriðum röng stefnumörkun og stórhættuleg fyrir öryggi Evrópu, því að lygalauparnir í Kreml væru bara í blekkingarleik og ætluðu sér að ráðast á nágranna sína og endurskapa Stór-Rússland, sem næði að landamærum Þýzkalands og jafnvel Ráðstjórnarríkin að járntjaldinu, sem klauf Þýzkaland.  

Rússland var látið komast upp með að hafa neitunarvald um það, hvaða löndum, sem óskuðu aðildar að NATO, yrði hleypt þar inn.  Þetta var gert á þeirri skökku forsendu, sem Angela Merkel studdi gegn vilja Bandaríkjanna (BNA), að Rússar ættu af öryggisástæðum rétt á áhrifasvæðum í kringum sig, þar sem þeim væri játað neitunarvald um öryggismál þessara áhrifasvæða.  Þetta er Finnlandisering og nær engri átt, enda er komið í ljós, að hér er aðeins um skálkaskjól Rússa að ræða til að geta fært út kvíarnar án þess að lenda strax í beinum átökum við BNA.

Það á ekki lengur að taka mark á hræðsluáróðri Rússa.  Þeir segjast núna sjá Finna, þegar þeir horfi til Finnlands, en gangi Finnland í NATO, muni þeir sjá þar óvini.  "So what" ? Er ekki orðið ljóst núna, að eina vörn nágrannalanda Rússlands er NATO og nágrannar Rússa utan NATO eru annaðhvort orðin fórnarlömb þeirra eða munu verða það, hafi þau einhvern tímann áður verið undir rússneskri stjórn.  Þannig væri óskandi, að Finnland sækti sem fyrst um aðild að NATO. Þeim verður tekið þar fagnandi.

Þannig eru það eins og hver önnur öfugmæli, ættuð úr lygamaskínu Kremlar, að NATO beri ábyrgð á innrás Rússahers í Úkraínu.  Ef Úkraínu hefði verið hleypt inn í varnarbandalagið NATO 2008, eins og BNA vildu, hefðu Rússar ekki lagt í að ráðast á þetta lögmæta fullvalda lýðræðisríki 24. febrúar 2022.

Lok ágætrar greinar Einars voru þannig:

"Nú eru síðustu forvöð fyrir Evrópu.  Ef Bretland og Bandaríkin hefðu ekki undirbúið Úkraínu fyrir innrás síðustu ár, væri draumur Pútíns orðinn að veruleika.  Draumurinn um stórríkið.  Allir, sem tengsl hafa við Eystrasaltslöndin og Úkraínu, hafa óttazt, að þeir dagar, sem upp eru runnir, kynnu að koma.  En íbúarnir auðvitað mest.  Það er súrrealískt að hlusta á Letta ræða flóttaleiðir, yrði á þá ráðizt.

Evrópubúar, ekki sízt Íslendingar, þurfa að horfast í augu við veruleikann.  Hætta umræðum um fjölda kynjanna, kynlaus klósett og búningsklefa í sundlaugunum.  Hætta að taka við ólöglegum innflytjendum, sem misnota flóttamannakerfið á kostnað flóttamanna o.s.frv.  Framtíðarkynslóðir Evrópu eiga á stórhættu að verða undir í heiminum, verði raunveruleikinn ekki viðfangsefni stjórnmálanna á nýjan leik. 

Er til of mikils mælzt, að Evrópa dragi úr hitun híbýla og minnki umferð og lækki hraða á vegum ?  Efnahagur Rússlands bíður einungis viðráðanlegt tjón, ef orkukaupin hætta ekki.  Bretland og Bandaríkin komu meginlandi Evrópu til hjálpar á síðustu öld.  Heimurinn horfði upp á fjöldamorðingjana Lenín, Stalín, Maó og Hitler leika lausum hala.  Nú hefur Pútín bætzt í þennan fríða flokk.  Ekki má láta hann endurtaka leik hinna fyrrnefndu." 

Frá 2014 hafa Úkraínumenn herzt í átökum við Rússa í Donbass- og Lughansk-héruðunum.  Þeir hafa líka sjálfir þróað varnarkerfi, skriðdrekavarnir og loftvarnarbúnað, en jafnframt fengið ómetanlegar vopnasendingar frá Bandaríkjamönnum, Bretum, Áströlum, Þjóðverjum, Pólverjum, Tékkum, Rúmenum o.fl. Ef þeir eiga að geta sótt gegn Rússum á víðerni, þurfa þeir þó miklu meira, einkum loftvarnarkerfi, eins og t.d. Ísraelar eiga, skriðdreka (hver vegna ekki Leopard II ?), flugvélar og þyrlur.  Sjálfboðaliðar af öðru þjóðerni hafa gefið sig fram til skráningar í úkraínska herinn, t.d. Hvítrússar.

Úkraínumenn úthella nú blóði sínu fyrir allan hinn frjálsa heim.  Vesturlönd verða að skilja sinn vitjunartíma, láta Úkraínumönnum í té þann vopnabúnað, sem þeir fara fram á og skera á öll viðskipti við Rússland. Ekki má gera lítið úr áhrifamætti viðskiptabannsins, sem nú þegar er í gildi, og stutt er talið vera í greiðslufall rússneska ríkisins. Eftir friðarrof einræðisherrans Putins í Evrópu og hryðjuverk rússneska hersins í Úkraínu geta Vesturlönd ekki verið þekkt fyrir nokkur samskipti við þetta útlagaríki, og það verður þriðja heims ríki, gegnumrotið af spillingu og að mestu án ungs og hæfileikaríks fólks. Keisaraveldi á 21. öld gengur engan veginn upp. 

Nú hefur um 400 rússneskum njósnurum verið vísað úr landi á Vesturlöndum.  Ef við höfum engin samskipti við Rússland lengur, til hvers höfum við þá sendiráð starfandi í Moskvu  ? Er þá ekki við hæfi að fara að fordæmi Litháa og vísa rússneska sendiherranum úr landi ? 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727Vetur á Íslandi 


Söguskoðun Pútíns er röng

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sem nú hefur breytt Rússlandi í alræðisríki, hefur greinilega misreiknað sig á öllum sviðum, sem máli skipta í hernaðinum gegn vestrænum lifnaðarháttum og stjórnarháttum, sem nú geisar í Úkraínu.  Mafíforinginn lætur nú óspart illsku sína og vesælmennsku bitna á óbreyttum borgurum Úkraínu.  Þjóðarmorð opinberaðist, þegar hersveitir Úkraínu stökktu rögum Rússum á flótta úr nærsveitum Kænugarðs.  Myndir og lýsingar frá Bútsja, norðvestan Kænugarðs, varpa ljósi á, hvílík ómenni er við að eiga í Moskvu og neðanjarðarbyrgi alræðisseggsins í Vestur-Síberíu.

Vesturlönd verða að bregðast við þeirri bráðu ógn, sem að þeim stafar, ekki aðeins með fordæmingu, heldur með því að láta Úkraínumönnum í té enn öflugri vopn og þjálfun á þau en þeir hafa nú, til að reka óþverrana af höndum sér, loftvarnarkerfi, flugvélar, herdróna, þyrlur og skriðdreka auk hersjúkrahúsa, matfanga og annars.  Söder, formaður CSU-stjórnarflokks Bæjaralands, hefur hvatt þýzku ríkisstjórnina til að banna þýzkum fyrirtækjum kaup á rússnesku gasi, og Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýzkalands, hefur hvatt Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, til að banna aðildarríkjunum að kaupa eldsneytisgas af illvirkjunum í Rússlandi. Rússland undir forystu illmennisins, sem hlaut uppeldi í KGB, leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna, er á hraðri leið á ruslahauga sögunnar, þangað sem grimm árásarríki eiga heima. 

Hugarfar Úkraínumanna er ólíkt Rússa, enda eru Úkraínumenn afkomendur Kósakkanna, sem voru hugrakkir bardagamenn og frelsisunnandi föðurlandsvinir, sem stunduðu meira lýðræði við val á forystumönnum sínum en Rússar nokkurn tímann hafa viðhaft.  Alls engin lýðræðishefð er fyrir hendi í Rússlandi, en hún er aftur á móti fyrir hendi í Úkraínu, og þeir vilja allt til vinna, eins og þeir hafa sannað síðan 24. febrúar 2022, til að fá að lifa í frjálsu og fullvalda landi, lausir undan oki hinna frumstæðu Rússa, sem lengi hafa þjakað þá, síðast á Ráðstjórnartímanum, en á Stalínstímanum var þeim sýnt algert miskunnarleysi.  Enginn vill búa við kúgun, allra sízt af hendi siðlauss undirmálsfólks. Pútín, garmurinn, sá lífskjarabatann, sem var að verða í Úkraínu undir lýðræðisstjórn, vissi að betri lífskjör í Úkraínu en í Rússlandi kynnu að vekja alvarlegar spurningar í huga rússnesks almennings um stjórnarfarið í Rússlandi, og hræddist samkeppni um lífskjörin.  Nú hrapa lífskjör hratt í Rússlandi og atgervisflótti er hafinn þaðan.  Vonandi tekst Úkraínumönnum með hjálp Vesturlanda að fleygja vörgunum á dyr, endurreisa land sitt og lifa í friði í góðu samneyti við lýðræðisríkin. 

Kósakkarnir stóðu uppi í hárinu á stórvesírum Ottómanaríkisins, sem vildu leggja undir sig Úkraínu, og sendu súltaninum í Miklagarði háðulegt svarbréf við bréfi, þar sem þeim var skipað að leggja upp laupana og gerast þegnar Tyrkjasoldáns.  Bréf þetta minnir á svar úkraínsku varðmannanna á eyju nokkurri í Svartahafi, undan strönd Úkraínu, til rússnesks herskips, sem skipaði þeim að gefast upp.  Þessir varðmenn gáfu tóninn. Nú bendir ýmislegt til, að til átaka kunni að koma á milli NATO-flotans á Svartahafi og þess rússneska, því að sá síðar nefndi er tekinn að leggja tundurdufl úti fyrir strönd NATO-ríkis (Búlgaríu).

Þá má benda á Khmelnytski-uppreisn Úkraínumanna gegn innlimun lands þeirra í Pólsk-Lithúaníska stórríkið 1648 (lokaár 30 ára stríðsins) og stofnun sjálfstæðs hertogadæmis, sem þurfti þó vernd öflugra herveldis, og var þá leitað eftir henni hjá zarnum austur í Moskvu, svo að sagan er flókin. Ef skrattanum er réttur litli fingur, tekur hann alla höndina. 

Þann 31. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Sergii Iaromenko, dósent við Hagfræðiháskóla Ódessu við Svartahafið, þar sem reynt er að varpa ljósi á þau brengluðu sögulegu viðhorf, sem gripið er til af hálfu rússnesku mafíunnar til að "réttlæta" óréttlætanlegt blóðugt ofbeldi hennar gagnvart friðsömum nágranna í suðvestri.  Fyrirsögn þessarar nýstárlegu greinar var:

  "Af hverju ræðst Rússland á Úkraínu ?              Er Kreml flækt í hjól sögunnar ?"

Hún hófst þannig:

"Sögulega réttlætingu á ofríki Rússa gagnvart Úkraínu má rekja til hugmyndarinnar um hið mikla Rússland, sem mótaðist í Moskvuríki á 14.-16. öld. Kenning þessi á sér nokkrar meginstoðir. Hin fyrsta kveður á um, að Moskvuríki eigi tilkall til þeirra landa, sem áður heyrðu undir Kænugarð og Rús.  Útþenslu Moskvuríkis voru engin takmörk sett - ekki frekar en útþenslu rússneska heimsveldisins eða Sovétríkjanna síðar meir.  Þessi gegndarlausa útþensla var afsprengi tatarskrar eða mongólskrar stjórnsýslu, sem byggði á lóðréttum valdastrúktúr; aðalkhaninn var sá, sem allir greiddu skatt, á hann reiddi fólk sig í skilyrðislausri undirgefni.  Stjórnsýsla Rússlands hefur í aðalatriðum verið rekin með sama hætti fram á þennan dag." 

Önnur meginforsendan var trúin, skrifar Sergii Iaromenko, og sú þriðja krýning keisarans.  Allt er þetta óttalega rýrt í roðinu á 21. öldinni, og þeir sem reisa landvinningakröfur á þessum forsendum eru ekki með öllum mjalla.  Úkraína hefur í seinni tíð verið fullvalda ríki frá 1991, íbúarnir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti, frelsi til orðs og athafna, og vilja þétt samstarf við Vesturlönd á sem flestum sviðum.  Allt þetta ber öllum nágrönnum landsins að virða.  Rússar hafa nú með níðingsskap sínum, fláræði og fólsku, brennt allar brýr að baki sér í samskiptum við Úkraínumenn og sameinað þjóðina gegn sér, og gildir þá einu, hvert móðurmál eða uppruni íbúa Úkraínu er.

"Vladimir Pútín lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki.  Þetta hefur ítrekað komið fram opinberlega hjá rússneskum stjórnvöldum og eins á leiðtogafundi NATO í Búkarest árið 2008 [þar sem Angela Merkel, þáverandi kanzlari Þýzkalands, kom, illu heilli, í veg fyrir aðild Úkraínu að NATO, þótt Bandaríkin styddu aðild  Úkraínu.  Friðþægingarstefna þessarar austur-þýzku prestsdóttur gagnvart Rússlandi var reist á kolröngu stjórnmálalegu mati á ríkjandi viðhorfum í Kreml.  Þáverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, núverandi forseti Sambandslýðveldisins, Frank-Walter Steinmeier, hefur viðurkennt mistök sín og beðizt afsökunar. - innsk. BJo].  Rússar verja söguskoðun sína með kjafti og klóm.  Samkvæmt Kreml er Úkraína sýsla, sem gert hefur uppreisn gegn valdamiðjunni, og nú ríður á að lægja öldurnar.  Opinber[ri] niðurlæging[u] og valdbeiting[u] hefur löngum verið beitt gagnvart fyrrum Sovétlýðveldum og héruðum rússneska keisaradæmisins."

Frammistaða og framganga rússneska hersins í Úkraínu er fyrir neðan allar hellur og hefur kallað fram fyrirlitningu og fordæmingu allra siðlegra ríkja.  Framgangan er til vitnis um gegnumrotið ríki ólígarka, sem skefjalaust skara eld að sinni köku og taka vafalaust sneiðar af fjárframlögum ríkisins til hersins.  Siðleysi og getuleysi yfirmanna hefur framkallað agaleysi og óánægju hermanna í víglínunni með miklu mannfalli þeirra og tapi hergagna. 6-10 hershöfðingjar hafa fallið, sem bendir til, að fjarskiptakerfi hersins sé í lamasessi. Siðferðileg og hernaðarleg niðurlæging Rússlands er alger, svo að búast má við, að óánægja með yfirráð Rússa muni koma upp á yfirborðið sums staðar í rússneska ríkjasambandinu, þar sem aðrir kynþættir búa. Þegar alræðisherrar vanmeta andstæðinga sína og fara í landvinningastríð, fer iðulega illa.  Þetta þekkja menn úr evrópskri sögu. 

"Hvers vegna er Pútín jafnheltekinn af sögunni og raun ber vitni [um] ?  Án efa er það vegna þess, að þannig getur hann skýrt fyrir mér, þér og Rússum, að ofríki Rússa eigi sér sögulega réttlætingu.  Lýsingar Pútíns á klofinni þjóð, sem beri að sameina, skilgreinir Úkraínumenn, sem tala rússnesku - í krafti þeirrar Rússavæðingar, sem átt hefur sér stað - sem Rússa. Þessi aðferð gerir honum kleift að viðhalda málstað hinnar þríeinu þjóðar, sem tilheyri einu og sama ríkinu.  

Á fundi öryggisráðsins í Rússlandi varð enn eina ferðina ljóst, að rússneska elítan lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki.  Undir því falska flaggi, að Lenín hafi búið til Úkraínu, leitast Pútín við að réttlæta fyrir forréttindastéttum og Rússum almennt, að Úkraína sé gerviríki, sem hafi engan tilverurétt."

Málflutningur forseta Rússlands ber merki um vitfirringu, því að það er ekki heil brú í honum, enda er hann hreint yfirvarp í áróðursskyni til að draga fjöður yfir raunverulega fyrirætlun hans, sem er að maka krókinn, krók hans og ólígarkanna hans, á auðæfum Úkraínu.  Þetta skynja Úkraínumenn, enda þekkja þeir rússnesk yfirráð af langri og biturri reynslu, og kæra sig sízt af öllu um að verða aftur þrælar rússneskrar yfirstéttar.  Allir sæmilega réttsýnir menn hljóta að styðja Úkraínumenn með ráðum og dáð við að varðveita fullveldi og frelsi lands síns síns, enda hefur nú komið í ljós meiri einhugur á meðal þjóðarinnar um að verja frelsi sitt en nokkru sinni áður, og skiptir þá móðurmál viðkomandi litlu máli, enda eru flestir tvítyngdir og úkraínska og rússneska skyld tungumál. 

ukrainian-cloth-flags-flag-15727 


Einvaldur kastar grímunni

Aðfararnótt 24. febrúar 2022 gaf forseti Rússlands, sem er einvaldur og stjórnar í skjóli leynilögreglunnar FSB að hætti Jósefs Stalín og rússneskra einvalda á undan honum, rússneska hernum fyrirskipun um að ráðast á fullvalda ríkið Úkraínu og leggja það undir Rússland. Mistækur einvaldurinn mun hafa ætlazt til leifturstríðs (Blitzkrieg að hætti Þriðja ríkisins) af hálfu Rússahers, en er nú staddur í hernaðarlegu og pólitísku kviksyndi, blóðugur upp að öxlum. Einvaldurinn er kominn í hóp verstu þorpara mannkynssögunnar, en enginn efast lengur um rétt og vilja úkraínsku þjóðarinnar til sjálfstæðis og fullveldis.  Vesturveldin eiga að taka Úkraínumönnum opnum örmum í sinn hóp og í samtök sín.

Hér er um gjörsamlega óviðunandi landvinningastríð Rússa í Evrópu að ræða að hætti fyrri einvalda Rússlands. Í Kreml hefur alltaf blundað draumur um landvinninga. Síðan 24.02.2022 hefur þessi sami rússneski hér framið fleiri stríðsglæpi gegn almennum borgurum og með árásum á kjarnorkuver en tölu verður á komið. Orðstír rússneska hersins er í tætlum, og hann á sér ekki viðreisnar von. 

Af illvirkjum rússneska hersins að dæma er einvaldur Rússlands gjörsamlega misheppnaður stjórnandi, kaldrifjaður illvirki, sem hefur haft leiðtoga Vesturveldanna að fíflum, það sem af er öldinni.  Hann hefur að hætti KGB (Leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna (sovézka kommúnistaflokksins)) stundað undirróður og lygar á Vesturlöndum og tekizt að vinna auðtrúa sálir á sitt band, sem jafnvel enn enduróma áróðurinn frá honum gegn Vesturlöndum. (Ætli spákerlingin, sem kom á flug hugarórunum um "Endurræsinguna miklu" hafi  aðsetur í Moskvu ?  Nú er því nefnilega haldið fram, að Vladimir Putin standi helzt í veginum fyrir þessari endurræsingu heimsins.  Það er ekki öll vitleysan eins.) 

Rafael Grossi, forstjóri IAEA (International Atomic Energy Agency-Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar) sagði á 8. degi innrásarinnar, þegar Zaporizhzhia kjarnorkuverið varð fyrir skothríð rússneska hersins, sem áður hafði hertekið Chernobyl-kjarnorkuverið, að  hernaður gegn kjarnorkuverum sé stríðsglæpur að alþjóðalögum:

"The IAEA principles should never be compromised, and therefore our agency must back up words with actions."

Hann ásamt teymi frá IAEA lagði síðan upp í ferð til Úkraínu, og var ætlunin að fara um öll kjarnorkuver landsins til að yfirfara rekstraöryggi veranna og varnir gegn skaðlegri geislun.

Morgunblaðið birtir dagbækur Úkraínubúa.  Fyrirsögnin 22. marz 2022 var:

"Og þeir kalla okkur nasista".

Færsla Karínar í Karkív hófst þannig

"Í dag er 26. dagur innrásar Rússa.  Við erum enn á lífi.  Stöðugar loftárásir voru í alla nótt, og við vorum mjög hrædd.  Rússar eru að skjóta langdrægum eldflaugum á borgina, og hávaðinn glymur hérna rétt hjá okkur og í fjarska.  Þessir villimenn halda óbreyttum borgurum í skelfingu.  Þeir eru að eyðileggja allt, drepa fólk og beita sálfræðilegum þrýstingi til að þvinga okkur til að ganga að kröfum þeirra.  Hræðilegar fréttir bárust á laugardaginn, þegar Boris Romanchenko, sem var 96 ára, lézt í loftárás á Karkív. Hann lifði af helförina í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni, en var drepinn af rússneskri eldflaug, og þeir kalla okkur nasista !

 Samkvæmt upplýsingum frá Ígor Terekóv, borgarstjóra Karkív, voru 972 byggingar eyðilagðar og þar af 778 íbúðabyggingar.  Það er ekki hægt að semja neitt við þetta fólk.  Eina, sem hægt er að samþykkja, er, að þessi villimannaþjóð, Rússland, verði afvopnuð og afnasistavædd.  Þeir þurfa að fara eftir samningum, sem gerðir voru eftir seinni heimsstyrjöldina."

Það eru mikil líkindi með stríðsglæpamönnunum Adolf Hitler og Vladimir Putin. Hvorugur virðir nokkra samninga, ef honum býður svo við að horfa.  Engin vettlingatök dugðu á þann fyrrnefnda, og Rússar verða að losa sig við þann síðar nefnda og hverfa síðan með öllu út fyrir landamæri Úkraínu.  Einangraður einvaldurinn virðist lífhræddari en rotta í búri, hefur sett af æðsta mann hersins, skipt um 1000 manna þjónustulið sitt og hneppt 2 háttsetta FSB-menn í stofufangelsi.  Seðlabankastjórinn er á öndverðum meiði við Putin og jafnvel hættur og sverfa tekur að Rússum víða, enda hefur kvalarinn í Kreml nú leitað á náðir forseta Kína um aðstoð. Sá leitar nú eftir 5 ára framlengingu umboðs síns frá kínverska kommúnistaflokkinum og hefur slegið úr og í.  Hvers vegna ætti hann að veita böðlinum í Kreml liðsstyrk við óhæfuverkin ?

Margar átakanlegar fréttir og myndir hafa borizt frá Úkraínu undanfarið. Ein var frá Maríupol, þar sem verið var að forða gömlum manni.  Hann mundi eftir hernaði Wehrmacht fyrir um 80 árum á sömu slóðum.  Hann hafði þá sögu að segja, að Wehrmacht og Waffen SS hefðu látið óbreytta borgara að mestu í friði, en einbeitt sér gegn Rauða hernum, en Rússaher Putins virtist mest í mun að ráðast á varnarlaust fólk. Her, sem framfylgir skipunum um níðingsverk, eins og Rússaher hefur gert sig sekan um, er dauðadæmdur.  Ekki bætir úr skák fyrir honum, að fórnarlömbin eru flest með rússnesku að móðurmáli.  Stríðið sýður saman eina úkraínska þjóð án tillits til móðurmáls. 

Nürnberg-réttarhöld blasa við forseta, ríkisstjórn og herstjórn Rússlands. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, ritaði um þetta í Morgunblaðið 22. marz 2022 undir fyrirsögninni:

 "Ísland styðji sérstaklega við rannsókn á stríðsglæpum Rússlands":

"Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt sannanir fyrir, að rússneski herinn hafi beitt klasasprengjum.  Notkun slíkra sprengja er bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum.  

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kallaði eftir því, að stríðsglæpir Rússa yrðu rannsakaðir.  Síðast en ekki sízt hefur Karim A.A. Khan, saksóknari hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sagt ástæðu til að ætla, að stríðsglæpir hafi verið framdir af hálfu rússneska hersins í Úkraínu.  Hinn 28. febrúar [2022] lýsti saksóknarinn því svo yfir, að rannsókn vegna stöðunnar í Úkraínu væri hafin."

Þann 22. marz 2022 bárust svo fréttir af því, að Rússar væru farnir að beita fosfórsprengjum gegn borgum í Úkraínu. Slíkt er stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni samkvæmt Rómarsamkomulaginu (Rome Convention). 

Hegðun Rússa gagnvart almennum borgurum Úkraínu verður því níðingslegri þeim mun verr sem þeim gengur á vígvöllunum í átökunum við úkraínska herinn.  Rússlandi er augljóslega stjórnað af mafíósum, sem einskis svífast og eru viðbjóðslegar skepnur í mannsmynd.  Við slíka er hvorki hægt að semja við né eiga við þá viðskipti. Það ber að einangra þá með öllu.

Það er með öllu óviðunandi, að ríki Evrópu með Þýzkaland í broddi fylkingar fóðri þessa mafíósa með um 800 MUSD/dag fyrir eldsneytisgas. (40 %-50 % gasnotkunarinnar er jarðgas frá Rússlandi, 55 % í Þýzkalandi.) Nú hefur þýzka ríkisstjórnin gert samning við Qatar um afhendingu LNG (Liquid Natural Gas) í stað rússneska gassins og ætlar að minnka gaskaup 2022 um 2/3 m.v. árið áður. Bygging móttökustöðva fyrir LNG í þýzkum höfnum er í undirbúningi. Það verður að einangra Rússland á öllum sviðum, þar til þar verður gerð vorhreingerning.  Peningarnir fyrir gasið hindra, að rúblan hrynji til grunna, en hún mun hafa fallið um 30 %- 40 % frá upphafi stríðs. Svartamarkaðsbrask að hætti kommúnistatímans blasir nú við almenningi í Rússlandi.   

Þann 21. marz 2022 skrifaði pastor emeritus Geir Waage grein í Morgunblaðið, sem vekur fleiri spurningar en svör.  Hún hét:

"Sýn Kissingers á Úkraínu árið 2014".

 

 

"Hann [Kissinger] heldur því fram, að Úkraína eigi hvorki að halla sjer til austurs nje vesturs, heldur að brúa bil þar á milli.  Rússar verði að virða landamæri Úkraínu og Vesturveldin verði að gæta þess, að Úkraína geti í þeirra augum aldrei orðið útland."

Það er réttur fullvalda Úkraínu að ákveða það sjálf, hvort hún hallar sér til austurs eða vesturs. Rússneskumælandi Úkraínumenn berjast nú við hlið úkraínumælandi landa sinna gegn innrásarliði Rússlands, sem með fantabrögðum reynir að leggja landið undir Rússland.  Með hetjulegri vörn sinni hefur Úkraínuher og úkraínska fólkið úthellt blóði sínu, ungra og aldinna, fyrir sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu.  Þjóðin sjálf og ríkisstjórn hennar hafa sýnt, að þau vilja allt til vinna að mega halla sér til vesturs.  Vestrið á að taka þeim fagnandi inn í samtök sín, hverju nafni sem þau nefnast, og gera Úkraínumenn fullgilda aðila þar. 

Það er fullreynt frá 2014 og 2022, að Rússum er ekki treystandi til að virða landamæri Úkraínu. Árið 1994 var gert samkomulag, kennt við Búdapest, á milli Úkraínumanna, Rússa, Bandaríkjamanna og Breta, um, að Úkraínumenn létu af hendi við Rússa kjarnorkuvopn sín, sem voru arfur frá Ráðstjórnarríkjunum 1991, gegn því, að hin ríkin tryggðu öryggi Úkraínu og virtu landamæri hennar.  Úr því að þetta samkomulag var svívirt af Rússum, hvernig á þá að tryggja öryggi Úkraínu með öðru móti en t.d. öryggi Póllands og Eystrasaltsríkjanna, þ.e. með inngöngu Úkraínu í NATO ?  

"Evrópusambandið verði að skilja, að kröfur þess um samræmingu og aðild að reglum og stefnu Evrópusambandsins setji alla samninga í uppnám."

 

"Kissingar leggur [lagði] til [2014], að allir aðilar gæti eftirfarandi sjónarmiða:

  1. Úkraínumenn velji sjálfir viðskipta- og stjórnmálatengsl sín, þ.m.t. gagnvart Evrópusambandinu.  [Þetta á við í enn ríkara mæli eftir hina örlagaþrungnu atburði 2022 - innsk. BJo.]
  2. Úkraína gangi ekki í NATO.  [Þetta á alls ekki við 2022 - innsk. BJo.]
  3. Úkraínumenn ráði sjálfir stjórnarfari sínu í samræmi við vilja þjóðarinnar.  Skynsamir leiðtogar muni leita samkomulags andstæðra fylkinga.  Á alþjóðasviði skyldu þeir fara að fordæmi Finna, sem sjeu eindregnir sjálfstæðissinnar, en starfi með vestrænum þjóðum og gæti þess að sýna Rússum enga óvild. [Kenningin um rétt Rússa til að eigna sér áhrifasvæði í kringum sig á ekki við lengur.  Hún er skálkaskjól til hernaðarlegrar atlögu, þegar Rússar telja sér henta.  Þess vegna vega og meta Finnar núna, hvort þeir eigi að ganga í NATO.  NATO er opið gagnvart þeim, sem þangað leita - innsk. BJo.]
  4. Ekki verði á það fallizt, að Rússar hafi innlimað Krím.  Þeir verði að virða fullveldi Úkraínu yfir Krím, en Úkraína verði að styrkja sjálfstjórn Krímverja, sem borin verði undir atkvæði undir alþjóðlegu eftirliti.  Staða flotastöðvar Rússa í Sevastopol verði ekki vefengd. [Þetta getur staðið áfram - innsk. BJo.]

Sýn hins reynda stjórnmálamanns og margra annarra bandarískra diplómata og háskólamanna var síðan gjörsamlega fyrir borð borin.  Evrópusambandið og NATO reri þá og æ síðan að innlimun Úkraínu í Evrópusambandið og NATO.  Sú stefna hefur nú leitt til árangurs, sem seint verður bættur."

Með þessum lokaorðum höfundarins horfir hann algerlega framhjá glæpsamlegu eðli forseta Rússlands, sem gekk á lagið og nýtti sér það, að Úkraína var ekki gengin í NATO.  Eina raunhæfa vörn Úkraínu til lengdar er NATO-aðild.  ESB-aðild dugar landinu ekki til varnar, en mun hjálpa því mikið við uppbygginguna.  Réttast er, að Rússland verði auk þess látið greiða landinu stríðsskaðabætur. 

Þann 22. marz 2022 gerði Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, stutta athugasemd við ofannefnda grein Geirs Waage undir fyrirsögninni:

"Hverju var lofað ?".

Greininni lauk Þorsteinn þannig:

"Þótt Gorbatsjov segði í viðtalinu, að hann væri ósáttur við síðari þróun mála og fjölgun NATO-ríkja, væri ekki um samningsbrot eða svik að ræða.  Fullyrðingar Pútíns um hið gagnstæða fá því ekki staðizt.  Eins og Anthony Blinken, núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið, var það höfuðatriði í stofnsáttmála NATO frá 1949, að bandalagið skyldi hafa opnar dyr.  NATO hefði aldrei gefið loforð um að neita nýjum aðilum um inngöngu.  Slíkt væri útilokað."

Málflutningur Kremlar er reistur á lygavef, og lygunum hefur bæði verið beint að íbúum Rússlands og Vesturlanda. Rússar sjálfir hafa verið heilaþvegnir, enda ríkir þar nú skoðanakúgun og einokun ríkisins á  fréttum og túlkun atburða.  Þolinmæði Rússa gagnvart einvöldum, sem tapa í vopnuðum átökum við önnur ríki, hefur aldrei verið mikil, og það mun vonandi fljótlega renna upp fyrir mörgum Rússum, að þeir hafa verið hafðir að fíflum af eigin stjórnvöldum og að mistökum þessara sömu stjórnvalda er um að kenna, að lífskjör fara nú hratt versnandi í Rússlandi, og ófarir rússneska hersins í Úkraínu verður ekki lengi hægt að dylja úr þessu.  Lygamerðir Rússlandsstjórnar á borð við Dimitry Peshkov, talsmann forsetans, sem viðtal birtist nýlega við á vestrænum fjölmiðli, er til vitnis um, að stjórn Rússlands er heillum horfin. 

 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727


Orkan og stríðið

Frá Rússlandi kemur um fjórðungur olíunnar og helmingur jarðgassins, sem Evrópa vestan Úkraínu notaði áður en Rússaher réðist með offorsi inn í Úkraínu. Þann 7. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu og sjálfsagt víða um heim áhrifarík grein eftir Oleg Ustenko, efnahagsráðgjafa Volodimirs Zelenski, forseta Úkraínu, frá maí 2019, og Simon Johnson (Project Syndicate).  Greinin hét:

"Sniðgöngum rússneska orku strax".

 "En engin af þessum refsiaðgerðum (frysting þess hluta rússneska gjaldeyrisvarasjóðsins, sem geymdur er utan Rússlands, lokun á SWIFT hjá nokkrum rússneskum bönkum, ekki öllum) hefur stöðvað innrás Rússa í Úkraínu af einni ástæðu, og engin þeirra mun gera það. 

Ástæðan er einföld: Rússar halda áfram að flytja út olíu og gas.  Reyndar hefur stríðið hækkað verðið á þessum vörum, mikilvægasta þætti rússneska hagkerfisins, til mikilla hagsbóta [fyrir þá]. Þannig er því, viku eftir að [stríðið] hófst, vestræn orkunotkun enn að fjármagna innrás Rússlands í Úkraínu, og rússneska yfirstéttin (elítan) hagnast meira en nokkru sinni fyrr.  Það er engin hjáleið í kringum verkefnið.  Það eina, sem mun stöðva yfirgang Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta, er að sniðganga alfarið allar rússneskar orkuafurðir.

Orka er burðarásinn í útflutningi Rússlands.  Aðallega sala á gasi til Vestur-Evrópu  [um lagnir] á langtíma viðskiptasamningum og sala á olíu á opnum heimsmarkaði."

Ekki þarf að draga í efa þetta mat Oleg Ustenko, enda eru Vesturveldin sama sinnis, en hafa mismunandi mikið svigrúm til athafna í þessa veru.  Bandaríkjamenn brugðust fyrstir við og tilkynntu 8. marz 2022 bann við innflutningi jarðgass, olíuvara og kola frá Rússlandi, sem nema um 8 % af notkun þeirra á þessum efnum.  Bretar búa enn að nokkru streymi gass og olíu úr botni Norðursjávar, bæði úr eigin lögsögu og Norðmanna, og ætla á nokkrum mánuðum að hætta þessum innflutningi frá Rússum. 

Þjóðverjar hafa lagt mest undir í þessum orkuviðskiptumvið Rússa og ætluðu að vaða lengra út í ófæruna með Nord Stream 2.  Þeir hafa líka sagzt ætla að hætta þessum viðskiptum við Rússa, en í áföngum og ekki að ljúka þeim fyrr en 2027.  Það mun þó sennilega verða miklu fyrr í raun.

"Undanfarinn mánuð hefur daglegt verðmæti rússnesks olíuútflutnings aukizt um nærri 100 MUSD/dag (reiknað út frá mati IEA á daglegum útflutningi Rússa [og] margfaldað með mati okkar á hækkun á raunverði fyrir Úralhráolíu).  Gjaldeyrishagnaður Rússa sl. janúar var um mrdUSD 19 eða um 50 % hærri en vanalega á sama tíma.  Oft er mánaðarlegur hagnaður mrdUSD 9-12."

Það er athyglisvert, hversu köldu andar nú frá Sádi-Arabíu til Bandaríkjanna, en þetta mikla olíuútflutningsríki gæti fyrirvaralítið aukið framleiðslu sína, a.m.k. um nokkurra mánaða skeið, álíka mikið og nemur olíuútflutningi Rússa, um 0,7 Mt/dag (4-5 Mtu/d). Það kann að stafa af gagnrýnum ummælum háttsettra bandarískra stjórnmálamanna um stjórnarfarið í þessu Arabalandi. 

Nú reyna Bandaríkjamenn að strjúka kommúnistanum Maduro í Venezúela meðhárs, en þar er allt í niðurníðslu, eins og mikill fjöldi flóttamanna frá Venezúela til Íslands er til vitnis um. Það yrði saga til næsta bæjar, ef konungsfjölskyldan í Riyadh bregst Vesturveldunum á ögurstundu og mun vart verða henni til framdráttar. 

Það er svo að sjá, að rússneska ríkið muni ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið vegna villimannslegra aðfara rússneska hersins í Úkraínu.  Líklega er pólitískur óstöðugleiki framundan í Garðaríki, og í vestrænum fjölmiðlum er farið að gera greiðslufalli rússneska ríkisins skóna.  Lífskjör um allan heim hafa þegar versnað vegna afleiðinga þessa viðbjóðslega og óafsakanlega stríðs Kremlarherranna gegn friðsamri, fullvalda og lýðræðislega þenkjandi þjóð, sem sækist eftir vestrænum lifnaðarháttum.  Í Rússlandi munu rýr lífskjör almennings hrapa, þegar VLF lækkar um 6 % eða meir og rúblan missir mikið af verðgildi sínu.  Ætli ólígarkarnir í kringum forsetann megi þá ekki fara að biðja Guð að gleypa sig ? 

"Stöðvun á orkusölu Rússa getur hafizt með algeru viðskiptabanni Bandaríkjamanna [gerðist 08.03.2022] auk afleiddra þvingana eða sekta, sem hægt er að leggja á þriðju aðila eða þjóðir, sem ekki falla beint undir viðskiptabannið, en eiga í viðskiptum, sem fara gegn tilgangi þess.

Heimsmarkaðsverð á olíu mun hækka, en verði refsiaðgerðunum að fullu framfylgt, mun hagnaðurinn af því ekki enda hjá rússneskum framleiðendum.  Í slíkri atburðarás áætlar IEA, að olíuframleiðsla um allan heim verði aukin mjög hratt - Rússland flytur út 5 Mtu/dag, en viðbótar framboð heimsins gæti orðið a.m.k. 3 Mtu/dag. Ráðstafanir til orkusparnaðar geta og ættu einnig að verða innleiddar, þar sem við á." 

Markaðsöflin munu vafalaust knýja á um aukna framleiðslu nú, þegar raunverð olíu er hærra en nokkru sinni áður og notendur munu sjá sér mikinn hag í að spara olíuna á öllum sviðum, ekki sízt bílaeigendur. Við þessar aðstæður kemur vel í ljós glámskyggni þeirra, sem bera ábyrgð á því, að á Íslandi er raforkuskortur.  Af hagkvæmniástæðum og af þjóðaröryggisástæðum ætti alltaf að vera borð fyrir báru í raforkuframboðinu, svo að hægt sé að verða við allri eftirspurn forgangsorku gegn verði, sem skilar hóflegri arðsemi raforkugeirans. Nú er Landsvirkjun að fyllast örvæntingu yfir því að verða e.t.v. að draga úr forgangsorkuafhendingu í vor vegna eigin fyrirhyggjuleysis.  Hún býðst til að greiða forgangsorkunotanda stórfé fyrir að draga úr raforkunotkun sinni nú.  Hvílíkt sjálfskaparvíti ! Nýtur slík endemisstjórn Landsvirkjunar enn stuðnings Alþingis ? 

"Auðvitað þyrfti Evrópusambandið að fylgja fast í kjölfarið.  Til að vera ekki að skafa neitt utan af hlutunum þá er það bara spurning um tíma. ESB getur annaðhvort hætt að kaupa rússneskt gas strax til að stöðva innrásina eða það getur beðið í mánuð, þar til þúsundir til viðbótar hafa fallið - og skelfilegar myndir af mannfalli óbreyttra borgara hafa flætt um alla miðla.  Það kemur að því, að Evrópubúar geti ekki lengur lifað með þeirri staðreynd, að þeir eru að fjármagna grimmdarverk Pútíns í Úkraínu." 

 Innrás Rússa í Úkraínu er fullkomlega fráleit.  Þeir eiga ekkert tilkall til landsins, og skiptir sagan þá engu máli.  Það, sem öllu máli skiptir í þessu sambandi, er, að Úkraína var frjálst og fullvalda ríki, og það hlutskipti völdu íbúarnir sér sjálfir í kosningum.  Nú hafa þeir sýnt og sannað fyrir sjálfum sér og umheiminum með hetjulegri baráttu sinni við ofureflið, sem vill leggja þá undir sig, að þeir eru tilbúnir að fórna öllu fyrir land sitt, fullveldi ríkisins og frelsi íbúanna til að ráða málum sínum sjálfir.  Það mun aldrei gróa um heilt á milli Úkraínumanna og Rússa, og þess vegna hafa hinir síðarnefndu algerlega eyðilagt alla möguleika sína til pólitískra áhrifa í landinu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Rússneskir hermenn berjast þess vegna tilgangslausri baráttu í Úkraínu, og með svívirðilegum grimmdarverkum sínum leiðir rússneski herinn þjóð sína æ lengra út í fúafen, sem hafa mun svo slæm áhrif á rússneska þjóðarsál (sjálfsvitund almennings), að langvarandi kreppa og jafnvel upplausnarástand, verra en eftir fall hins kommúnistíska þjóðskipulags árið 1991, gæti hæglega orðið reyndin í Rússlandi. Sýnir þetta glögglega í hvers konar ógöngur einræðisskipulag getur leitt þjóðir og gerir oftar en ekki, sbr Þriðja ríkið.

"IEA [International Energy Agency] hefur birt áætlun um, hvernig megi draga úr notkun Evrópu á rússnesku gasi, og teymi hjá Brügel [hugveita] hefur birt tillögur um það, hvernig hægt sé að þrauka næstu mánuði án rússnesks gass.  Allir evrópskir stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við verkefnið."

Evrópuþjóðirnar verða að setja í algeran forgang að fást við skrímslið í Kreml.  Nú vorar í Evrópu, og það er hægt með mótvægisaðgerðum að komast af án rússneskrar olíu og gass.  Því fyrr sem þjóðirnar í ESB lýsa sig reiðubúnar að taka á sig þær fórnir, sem til þarf til að stöðva stríðsvél Kremlarmafíunnar, þeim mun betra. Nokkur ríki innan ESB gerðu sig sek um að fóðra bjarndýrið og tóku með því allt of mikla áhættu, af því að þau vanmátu grimmd bjarndýrsins og ranghugmyndir um yfirráð þess.  Þau verða um skeið að súpa seyðið af því.  

"Áhrifin takmarkast heldur ekki aðeins við Evrópu.  Úkraínskur landbúnaður mun t.d. mjög fljótlega hrynja.  Enginn getur plægt akra eða sáð fræjum undir skothríð rússneskra hersveita.  Þetta mun ýta undir hækkun matvælaverðs á heimsmarkaði vegna þess, að Úkraína er 5. stærsti útflytjandi hveitis í heiminum, og hafa neikvæð áhrif á efnahag og lífskjör í lágtekjulöndum."

Úkraína er kornforðabúr Evrópu, og var sú staðreynd notuð til að telja íbúum Þriðja ríkisins trú um nauðsyn "Drang nach Osten für Lebensraum", þ.e. útþenslustefnu nazista í austurveg. Í Kreml hefur í aldaraðir ríkt útþenslustefna í allar áttir, en nú er rússneska ríkið komið að leiðarlokum í þeim efnum.  Að missa kornvörur Úkraínu út af markaðinum mun hækka verða landbúnaðarafurða, kynda enn meir undir heimsverðbólgu og auka hungursneyð í heiminum, en Bandaríkjamenn o.fl. munu e.t.v. geta aukið framleiðslu sína eitthvað á móti.  

Grein Olegs Ustenko lauk þannig:

"Það er tími kominn til að horfast í augu við þann harðneskjulega veruleika, að Pútín og félagar hans hafa gengið berserksgang.  Heimurinn getur annaðhvort sniðgengið rússneska orku með öllu til að stöðva innrásina strax eða haldið áfram að fylgjast með rússneskum hersveitum fremja hverja svívirðuna á fætur annarri - og fikra sig á hverjum degi nær yfirráðasvæði ESB-ríkja. 

Enginn í veröldinni ætti að kaupa rússneska orku.  Útskúfun fyrir það ætti að vera meiri og verri en fyrir viðskipti með blóðdemanta.  Heimurinn er að vopnavæða og hvetja grimmt og stjórnlaust skrímsli. Það verður að hætta."

Nú er rússneski flugherinn tekinn til við að gera loftárásir í Úkraínu vestanverðri.  Þar er mikið af flóttamönnum.  Þá er ekki seinna vænna fyrir NATO að setja flugbann á vestanverða Úkraínu af mannúðarástæðum og sökum nálægðar við landamæri aðildarlandanna.  

 

  

 

 

 


Stríðshörmungar

Forseti Rússlands hefur með því að etja rússneska hernum á nágrannann í vestri, Úkraínu, valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik og ofboðslegu efnislegu tjóni.  Þetta er slíkt fólskuverk, að þessi viðbjóðslegi maður hefur á fáeinum sólarhringum áunnið sér fordæmingu alls heimsins, og Rússland er að taka á sig mynd hryðjuverkaríkis. Það er líka þyngra en tárum taki.

Honum má ekki verða kápan úr því klæðinu að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi. Vladimir Putin er siðblindur ómerkingur, sem enga samninga virðir, ef honum býður svo við að horfa. Hann hefur nú (reyndar 2014 með hertöku Krímskaga) rofið samkomulag frá 1994 (The Budapest Memorandum of 1994), þar sem Bandaríkin, Rússland og Bretland hétu að ábyrgjast landamæri Úkraínu gegn því, að hún léti af hendi kjarnorkuvopn, sem hún tók að erfðum frá Ráðstjórnarríkjunum. 

Árið 1854 var 35 ára Breti að nafni Roger Fenton skipaður konunglegur stríðsljósmyndari á Krímskaga til að gera Krímstríði Breta og Rússa skil með ljósmyndum.  Nú þegar í 2. viku árásarstríðs Rússa í Úkraínu er  þessi mannlegi harmleikur líklega orðinn sá mest myndaði í sögunni, bæði mest ljósmyndaði og kvikmyndaði, og hörmungarnar eru jafnóðum færðar inn á heimili almennings um allan heim.  Þessar hörmungar vekja slíkan óhug, að fólk getur vart á heilu sér tekið.  Að brjálæði eins manns geti rétt einu sinni valdið svo miklum þjáningum, dauða og tjóni, sem þessar myndir og lýsingar stríðsfréttaritara greina frá, er með ólíkindum á 21. öldinni og sýna, að herfileg pólitísk mistök hafa átt sér stað, þar sem Vesturlönd eru einnig undir sök seld, aðallega fyrir dómgreindarleysi gagnvart hættunni, sem frá Rússlandi undir gjörspilltum einvaldi stafar. Pólverjar voru lengi búnir að vara við þessari hættu, en töluðu fyrir daufum eyrum í Evrópusambandinu, ESB, og NATO.

Mikil bjartsýni og baráttugleði ríkti hjá sendiherra Úkraínu, Olgu Díbrovu, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík, sem Morgunblaðið gerði skil 2. marz 2022:

"Olga Díbrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, segist vera örugg um það, að Rússar nái ekki Kænugarði á sitt vald, þar sem hún segir stríð ekki unnin með skotvopnum eða sprengjum, heldur með anda þjóðarinnar. Ef þörf krefur, muni úkraínska þjóðin berjast til síðasta blóðdropa." 

Orð sendiherra Úkraínu fáum við staðfest daglega á fjölmörgum myndbandsupptökum stríðsfréttaritara í Úkraínu. Birt hafa verið viðtöl við rússneska stríðsfanga, þar sem þeir upplýsa, að þeir hafi farið yfir landamæri Úkraínu á fölskum forsendum.  Þeim hafi verið sagt, að leiðangurinn væri til að frelsa úkraínskan almenning undan oki nazista, sem réðu ríkisstjórn Úkraínu.  Fáránlegri lygaþvættingur hefur ekki heyrzt í háa herrans tíð, en nú bregður svo við, að nokkrir kvislingar Rússlandsstjórnar hérlendis gleypa við þessum sjúklega málflutningi (forseti Úkraínu er rússneskumælandi Gyðingur frá austurhéruðunum). Hermönnunum var jafnframt sagt, að þeim yrði fagnað með blómum, en reyndin varð sú, að almenningur kastaði Mólotoffkokkteilum að rússnesku skriðdrekunum. 

""Úkraínska þjóðin er innblásin og sameinuð sem aldrei fyrr; meira að segja á samfélagsmiðlum sér maður, að þjóðin er tilbúin að berjast.  Já, íbúar fela sig vegna sprengjuárásanna, en þeir eru ekki hræddir", sagði Díbrova í samtali við Morgunblaðið að loknum blaðamannafundi í gær." 

Brent-olíuverðið hækkaði að morgni 7. marz 2022 um 6,1 % og fór í 125,3 USD/tunnu, sem er 80 % hækkun síðan 01.12.2021. Hækkunin á eftir að verða enn meiri út af þessu stríði, og hún mun smita yfir í plastið og nánast allar aðrar vörur, sem eiga uppruna sinn í olíu eða eru orkukræfar í framleiðslu.  Skortur verður á hveiti og öðrum korntegundum, þegar um þriðjungur framboðsins dettur út.  

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, BNA, tilkynnti sunnudaginn 06.03.2022, að á milli BNA og Evrópusambandsins, ESB, færu nú fram viðræður um innflutningsbann á rússneska olíu og jarðgas. Forseti BNA tilkynnti 08.03.2022, að BNA væri að setja slíkt innflutningsbann á. Innflutningur BNA á þessu eldsneyti er þó lítill, en 27 % af olíuinnflutningi ESB er frá Rússlandi, og  tæplega helmingur af jarðgasnotkun ESB er rússneskt gas.  Það er kaldhæðni örlaganna, að Evrópa heldur uppi fjárhagslegu bolmagni Rússlands til að halda úti stríði af því tagi, sem nú er háð í Úkraínu með eldsneytiskaupum (gas, olía, kol) af Rússum fyrir um 700 MUSD/dag eða 256 mrdUSD/ár.  Sennilega er hægt að lama efnahag Rússlands með því að hætta þessum viðskiptum við landið, en það er hægara sagt en gert. ESB tilkynnti þó 08.03.2022, að dregið yrði úr þessum innflutningi um 2/3 á örfáum árum og honum alfarið hætt fyrir 2030.  Stórtíðindi þar á ferð.  

Hvorki er hægt að hætta gaskaupunum, eins og hendi sé veifað, né geta Rússar fundið aðra viðskiptavini strax, því að það tekur tíma að leggja flutningslagnirnar annað. Þeir verða nú að fjárfesta í nýjum lögnum.  Hvar fá þeir fé til þess ?  Olíuútflutningur Rússa nam 4,5 Mtunna/dag fyrir þetta  stríð.  Það eru 5 % af heimsneyzlunni á olíu, og önnur lönd með Saudi-Arabíu í broddi fylkingar geta aukið framleiðsluna að sama skapi.  Tankskip eru líklega tiltæ, enda rýkur nú hlutabréfaverð upp í útgerðum þeirra.

Putin hefur nú hótað að draga úr streyminu eftir Nord Stream 1 til Evrópu, ef innflutningsbann verður sett á rússneska olíu.  Það kann að verða látið reyna á þá hótun einvaldsins.  

Þjóðverjar voru svo blindaðir af friðþægingarþörf sinni við Rússa, að þeir hafa ekkert plan B gagnvart bresti á gasafhendingu. Þannig er enginn búnaður í þýzkum höfnum til að taka á móti jarðgasi á vökvaformi (LNG) og breyta því aftur á gasform.  Það er samt umframafkastageta slíks búnaðar fyrir hendi í Evrópu, en hann er aðallega á Spáni.  Sennilega mætti auka jarðgasinnflutning frá öðrum á gas- og vökvaformi um jafngildi 20 % af þörfinni, og þá liggja 30 % þarfarinnar óbættar hjá garði í Evrópu, ef skrúfað verður alfarið fyrir gasið frá Rússlandi.  Það gæti komið sem LNG frá BNA og Persaflóaríkjunum, þegar móttökustöðvar LNG hafa verið reistar víðar, en þetta mun leiða til hærra gasverðs til neytenda.  Allt mun þetta flýta fyrir kjarnorkuveravæðingu rafkerfisins til að draga verulega úr gasþörfinni.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands kynnti virkjanaþörf hérlendis næstu áratugina fyrir heildarorkuskipti, þörf vaxandi þjóðar og hagvöxt.  Eru það um 25 GWh/ár eða ríflega tvöföldun núverandi virkjaðrar orku.  Hvernig hennar verður aflað, verður mikilsvert rannsóknarefni.  

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

  

 


Skefjalaus útþenslustefna Rússlandsforystunnar

Það hefur nú loksins runnið upp fyrir forystu Evrópu, Bandaríkjanna og heimsins alls, hversu stórhættuleg fyrir framtíð heimsins alls forysta Rússlands er vegna skefjalausrar útþenslustefnu sinnar, þar sem hún reynir á vitfirringslegan hátt að skrúfa rás tímans aftur um rúmlega 30 ár og jafnvel langt aftur fyrir byltingu mensévíka gegn keisaranum og bolsévíka gegn þeim.  

Það er forneskjuleg og glæpsamleg hugmyndafræði, sem forseti Rússlands hefur kynnt í ritgerðum og ræðum, að Rússlandi beri að sameina slavneskar þjóðir undir ríki sitt með svipuðum hætti og var í blóma rússneska keisaraveldisins. Frá Kalíningrad, gömlu Königsberg í Prússlandi, sem er víghreiður Rússlands við Eystrasaltið, getur rússneski herinn sótt inn í Eystrasaltslöndin, sem reyndar eru ekki slavnesk að stofni, og inn í Pólland. Þessi yfirvofandi hætta hefur nú sameinað Evrópu, Bandaríkin og nánast allan heiminn. (Kínverskur stórbanki í Shanghai, sem hefur haft milligöngu um mikil eldsneytisviðskipti Rússa, hefur nú stöðvað þau. Indverski herinn er búinn rússneskum hergögnum og hefur nú miklar áhyggjur af "gæðum" þeirra.)

Það er með ólíkindum og með öllu óviðunandi fyrir Evrópuþjóðir vestan Úkraínu, að tekin sé ákvörðun um það í Moskvu að leggja frjálst og fullvalda Evrópuland undir Rússland með villimannslegu hervaldi. Við þessa iðju sína beita Rússar ógnaraðferðum og gera óbreytta borgara að skotmörkum flugskeyta sinna og sprengjuvarpa með því að beina þeim að skólum, sjúkrahúsum, stjórnarbyggingum, torgum o.fl., þótt lygalaupurinn Pútín haldi öðru fram og sendimönnum ógnarstjórnar fyrrverandi KGB-manns sé falið að ljúga öðru upp í opið geðið á Vesturlandamönnum, sem búnir eru nú að fá upp í kok af lygaþvættingi stríðsglæpamanna ríkisstjórnar Rússlands og útsendara hennar. Að þvættingurinn frá Moskvu sé enn bergmálaður á Íslandi, er ekki einleikið.

Úkraínumenn hafa með hetjulegum varnarviðbrögðum sannað fyrir umheiminum með óyggjandi hætti, að þeir hafa fengið sig fullsadda af að vera undirsátar Rússa í eigin landi.  Þeir eru tilbúnir að berjast til þrautar við Rússa fyrir fullveldi sínu og sjálfsákvörðunarrétti. Fjöldi mæðra ungra barna hafa flúið eða eru á flótta til nágrannalanda, en feðurnir verða eftir til að berjast við ofureflið.  Fyrrverandi hermenn fara unnvörpum til föðurlands síns til að taka þátt í baráttunni.  Úkraínska hernum hefur orðið ótrúlega vel ágengt gegn fjandmanninum, sem virðist ekki vita sitt rjúkandi ráð. 

 

 

Úkraínska ríkisstjórnin og forsetinn hafa ákallað Vesturveldin um aðstoð gegn ofureflinu, og Vesturveldin hafa svarað með því að einangra Rússland á öllum sviðum og með vopnasendingum, læknabúnaði og matarsendingum, þ.e. með flestu öðru en því, sem þarf til reka fjandmanninn á flótta með skjótum hætti. Það verður samt að vona, að Rússar, sem horfast nú í augu við þá fáránlegu staðreynd, að einn maður hefur nú breytt "móður Rússía" í útlagaríki í heiminum, ýti óþokkanum frá völdum og dragi rússneska herinn inn fyrir landamæri Rússlands. 

Úkraínumenn munu hins vegar seint gleyma því eða fyrirgefa, það sem þessi nágranni þeirra hefur á hlut þeirra gert, og Úkraínumenn eiga siðferðilegan rétt á því eftir þetta, að Vesturlönd ábyrgist landamæri þeirra og þeir fái sérstakt samband við Evrópusambandið og aðgang að Innri markaðinum, eins og þeir hafa ítrekað beðið um.  Evrópa verður að standa saman að uppbyggingu Úkraínu eftir stríðið með aðstoð Bandaríkjanna. Hið gegnumrotna stjórnkerfi Rússlands, þar sem auðjöfrar og stjórnmálamenn með Vladimir Putin, gamlan leyniþjónustumann KGB á toppi pýramídans, stela auði stritandi alþýðu Rússlands, má hreinlega ekki til þess hugsa, að vestan landamæranna þróist grózkumikið hagkerfi og lýðræðislegt stjórnarfar.   

Nina L. Khrushcheva, prófessor alþjóðamála hjá "The New School", á rætur að rekja til Úkraínu, því að langafi hennar, Nikita Khrushchev, var aðalritari sovézka kommúnistaflokksins 1953-1964. Eftir hana birtist í Morgunblaðinu 28.02.2022 greinin:

"Hvað er Pútín að hugsa ?"

Þar stóð m.a. þetta:

"Aðeins slík hugsun [Mao Zedong:"pólitískt vald vex úr byssuhlaupi"-innsk. BJo] getur útskýrt aðgerðir Pútíns í Úkraínu. Hann segist vilja "afnazistavæða" Úkraínu, en merkingarleysi þeirrar fullyrðingar ætti að vera augljóst ekki sízt vegna þess, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, er Gyðingur.

Hvert er markmið Pútíns ?  Vill hann refsa NATO með því að eyðileggja hernaðarinnviði Úkraínu ?  Vonast hann til að koma á fót leppstjórn, hvort sem er með því að skipta Zelenskí út eða með því að breyta honum í úkraínskan Philippe Pétain, samstarfsleiðtoga [leppstjóra] Frakklands í síðari heimsstyrjöldinni ?

Svarið við báðum þessum spurningum gæti verið já. En raunveruleg ástæða Pútíns fyrir innrás í Úkraínu er mun óraunsærri og meira ógnvekjandi.  Pútín virðist hafa fallið fyrir sjálfhverfri þráhyggju sinni um að endurheimta valdastöðu Rússlands með eigið greinilega skilgreinda áhrifasvæði."

Sennilega hefur Khrushcheva rétt fyrir sér um það, að vitfirringsleg löngun forseta Rússlands til að endurvekja yfirráð Moskvustjórnar yfir löndum, sem zarinn réði fyrir forðum tíð, þegar veldi hans var mest, ráði gjörðum hans.  Þá varð hann að byrja á Úkraínuen Úkraínumenn hafa nú sýnt og sannað, að þeir kjósa að berjast til þrautar fyrir frelsi sínu og fullveldi landsins. 

Það hafa verið hæg heimatökin hjá þeim að bera saman þjóðfélagsgerð, tæknilegar framfarir og lífskjör austan og vestan við sig, þ.e. í Rússlandi og t.d. í Póllandi.  Þessi samanburður hefur leitt til þess, að þeir vilja eindregið horfa til vesturs, og glæpsamleg innrás Rússa í landið þeirra hefur farið langt með að sameina þá í þeirri afstöðu, og Vestrið hefur loksins vaknað upp við vondan draum.  Það verður að stöðva stríðsglæpamennina í Kreml. Jafnvel Svisslendingar hafa nú fryst eigur þeirra í Sviss.

Úkraínski flugherinn þarf nú flugvélar og flugmenn og gagneldflaugakerfi, eins og t.d. Ísraelsmenn eiga.  Flugbannssvæði yfir Úkraínu mundi þýða stríð NATO við Rússland, ef að líkum lætur. Ef vitfirringin fær að grassera í stjórn Rússlands, verður stríð við hana þó  óhjákvæmilegt.  

"Í ljósi þess, að Pútín treysti á Kína til stuðnings við að skora heimsmynd og yfirráð Bandaríkjanna á hólm, myndi það ekki hafa góð pólitísk eða stefnumótandi áhrif á Xi að ljúga að honum. Það, sem veldur svo miklum áhyggjum, er, að Pútín virðist ekki lengur fær um þá rökhugsun, sem ætti að stýra ákvarðanatöku leiðtoga.  Langt frá því að vera jafningi er Rússland nú á góðri leið með að verða eins konar kínverkst leppríki."

 Þarna lætur Khrushcheva í ljós áhyggjur margra um, að forseti Rússlands sé ekki lengur með "fulle fem", að hann gangi ekki á öllum.  Það er alveg ljóst, að  heilbrigð skynsemi hefur yfirgefið hann, hafi hann einhvern tímann búið svo vel.  Hann er búinn að keyra Rússland niður í siðferðislegan, pólitískan og efnahagslegan ruslflokk og verður nú að sitja og standa, eins og Xi Jinping þóknast.  Hann er með stórveldisdraumum sínum og landvinningastefnu að drekkja Úkraínumönnum í blóði.  Hann mun fyrir vikið uppskera fyrirlitningu og viðbjóð landsmanna sinna og alls umheimsins.  Hann er búinn að vera. 

Ungur skriðdrekahermaður, sem féll í fyrstu viku átakanna, hringdi úr farsíma sínum í móður sína skömmu áður og sagðist vera kominn í stríð í Úkraínu, en hún hélt hann vera á heræfingu á Krím.  Hann sagði, að hermönnunum hefði verið sagt, að Úkraínumenn mundu taka þeim fagnandi, en raunin væri allt önnur.  Hann skammaðist sín svo mikið fyrir hlutskipti sitt, að hann sagðist helzt vilja binda enda á eigið líf.  Þegar vika var liðin frá upphafi innrásarinnar höfðu 9000 rússneskir hermenn fallið í átökunum samkvæmt upplýsingum Úkraínustjórnar.  Þessi villimannslega innrás rússneska hersins gengur á afturfótunum. 

"Innrásin í Úkraínu hefur einnig myndað gjá [á] milli fyrrverandi bandamanna og Pútíns.  Sumir af trúföstustu lærisveinum hans á Vesturlöndum, frá forseta Tékklands, Milos Zeman, til Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, hafa fordæmt aðgerðir hans.  En, kannski enn mikilvægara, þá hafa óráðsræður Pútíns hliðsett rússnesku þjóðina.  Með villimannslegri árás á Úkraínu hefur hann fórnað áratuga langri félagslegri og efnahagslegri þróun og eyðilagt vonir Rússa um betri framtíð.  Rússland verður nú alþjóðlegt úrhrak í áratugi."

Í ljósi þessa mats, sem er ekki langsótt, heldur liggur beint við, er stórfurðulegt að sjá nokkrar hræður á samfélagsmiðlum hérlendis bera í bætifláka fyrir stríðsglæpamanninn Vladimir Putin og jafnvel ganga svo langt í fáránleikanum, að hann sé með svívirðilegum stríðsrekstri sínum að uppræta spillingu í Úkraínu.  Fólk, sem lætur svona þvætting frá sér fara, er ekki með öllum mjalla. 

Hver er afstaða forsætisráðherra Íslands og flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, til varnarbandalags lýðræðisríkja, NATO ?  Síðast, þegar fréttist, var hún og flokkurinn andsnúin veru Íslands í NATO.  Við núverandi aðstæður gengur það alls ekki, að forsætisráðherra Íslands hafi þessa afstöðu eða sé óheil í afstöðu sinni, beri kápuna á báðum öxlum.  Hvers vegna hefur hún ekki manndóm í sér til að fara að dæmi Svía og Finna, sem nú eru að endurskoða sína afstöðu, og viðurkenna villur síns vegar ?  Ætlar hún enn að halda því fram, að eitthvert hald sé að hlutleysisstefnu ríkis í varnarmálum ? Vitleysa vinstri manna á Íslandi ríður ekki við einteyming nú frekar en fyrri daginn.

"Sömuleiðis er fullyrðing um, að 73 % Rússa styðji aðgerðir Pútíns í Úkraínu, hreinn áróður.  Þúsundir safnast saman í rússneskum borgum og segja "nei við stríði", þrátt fyrir fangelsanir og lögregluofbeldi. Í þetta sinn virðast Rússar ekki líklegir til að gefast upp án andmæla.  Á næstu dögum og vikum getur heimurinn búizt við mörgum vísbendingum til viðbótar um, að Rússar vilji ekki þetta stríð."

 Það er vafalaust þyngra en tárum taki fyrir almenning í Rússlandi að sitja uppi með böðul frænda þeirra vestan landamæranna. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að engin glóra er í því fyrir Rússa að standa blóðugir upp fyrir axlir við að þvinga fram sameiningu Rússland og Úkraínu.  Það vissi alþýða Rússlands fyrir 24. febrúar 2022.  

Það er sömuleiðis ótæk hegðun með öllu að láta börn eða fullorðna, sem eru af rússnesku bergi brotin hérlendis, gjalda fyrir framferði ríkisstjórnar lands þeirra, en að mótmæla framferði þessarar rússnesku ríkisstjórnar í Úkraínu með friðsamlegum hætti er hins vegar sjálfsagt mál.

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

 

    


Kúvending við örlagaþrungna atburði

Í fyrsta sinn frá Heimsstyrjöld 2 hefur stórveldi ráðizt með hervaldi á fullvalda nágranna sinn í því skyni að ná tökum á öllu landinu. Það gerðist 24.02.2022 með innrás Rússlands í Úkraínu, þrátt fyrir fullyrðingar forseta Rússlands um, að liðssafnaðurinn við landamæri Úkraínu væri þar í æfingaskyni. Sannleikurinn vefst ekki fyrir þessum fyrrum leyniþjónustumanni, sem Kasparof, fyrrum heimsmeistari í skák, líkti nýlega við mafíuforingja. 

Sovét-Rússland réðist að vísu með her inn í Ungverjaland og hertók Búda-Pest 1956 og inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, en varla er hægt að kalla fórnarlömbin þá fullvalda ríki, enda voru þau á bak við járntjald alræðis kommúnismans í þá daga.  Þá horfði Evrópa og upp á hin hræðilegu Balkanstríð á 10. áratugi 20. aldarinnar, þegar Serbar reyndu að sameina ríkin, sem áður voru hluti Júgóslavíu, undir veldi sitt, en Serbar voru ekki stórveldi.  Þannig er hinn voveiflegi atburður að næturlagi 24. febrúar 2022 einstakur í sögunni og mun eðlilega hafa gríðarlegar, jafnvel geigvænlegar, afleiðingar. Miklar afleiðingar hafa þegar komið í ljós.  Núverandi atburðir munu móta söguna í mannsaldur eða meir. Af afstöðu Kínverja að dæma til hinnar villimannlegu innrásar í Úkraínu, er Rússland að einangrast á öllum sviðum.  Ríkisstjórn og herráð Rússlands hafa gert herfileg mistök með innrásinni í Úkraínu, herinn hefur lent í kviksyndi stríðsglæpa með árásum, einnig eldflaugaárásum, á saklausa borgara, íbúðarhús, skóla og sjúkrahús, og vakið viðurstyggð umheimsins. Óskandi væri, að bardagaþrek þessa rússneska innrásarhers þryti alveg og að hann hundskaðist heim til sín með skottið á milli lappanna.  

Við sjáum nú, að glæpsamlegt atferli lygalaupsins og ómerkingsins, sem situr enn með valdataumana í Kreml, hefur ekki aðeins náð að sameina Úkraínumenn í blóðugri baráttu gegn ofurefli liðs einræðisseggsins, heldur einnig Vesturlönd og bandamenn þeirra. Þau hafa sameinazt um hörðustu refsiaðgerðir á fjármálasviðinu, sem þekkjast, með þeim afleiðingum, að rússneska rúblan hefur hrunið ásamt rússneska verðbréfamarkaðinum, ýmsum ólígörkum í kringum forseta Rússlands hefur verið meinaður aðgangur að fjárhirzlum sínum á Vesturlöndum, bankaviðskipti Rússa hafa verið torvelduð verulega (SWIFT-takmarkanir) og síðast en ekki sízt hafa eigur rússneska seðlabankans á Vesturlöndum verið teknar eignarnámi um sinn (á meðan Vladimir Putin er við völd). Það er athyglisvert, að Svissland, með alla sína bankaleynd, tekur þátt í ströngum refsiaðgerðum gegn téðum Pútin og hirðinni í kringum hann. 

Téður Vladimir Pútín greip þá til vitlausasta svarsins, sem hugsazt gat, þ.e. að hóta kjarnorkustríði.  Rússar eiga nú engra annarra kosta völ en að fjarlægja þennan mann úr valdastóli. Æ fleiri valdamönnum í Rússlandi hlýtur að verða það ljóst, að héðan af liggur leiðin bratt niður á við fyrir Pútín, og Rússland má ekki við því að verða dregið lengra ogan í svaðið. Það er þó hægara sagt en gert að losna við einræðisseggi, eins og sannaðist með hetjulegri tilraun Claus von Stauffenbergs og félaga 20. júlí 1944 í Úlfsgreninu í Austur-Prússlandi. 

Vesturlönd standa nú sameinuð gegn Rússlandi.  Þjóðverjar hafa gert sér grein fyrir áhættunni, sem fylgir kaupum á jarðeldsneytisgasi frá Rússlandi og stöðvað leyfisveitingaferli fyrir Nord Stream 2 gasleiðslu Gazprom á botni Eystrasalts.  Þeir hafa kappkostað viðskipti við Rússa í nafni friðsamlegrar samvinnu, en hafa nú áttað sig á því, að hagsmunirnir fara ekki saman.  40 % af orkunotkun Þjóðverja á uppruna sinn í jarðgasi, og u.þ.b. helmingur þessa gass kemur frá Rússlandi.

Skyndilega er rússneska ríkið orðið fjandmaður Sambandslýðveldisins, þar sem sú ógn liggur í loftinu eftir ritgerðaskrif og ræðuhöld forseta Rússlands undanfarna mánuði, að hann sé haldinn einhvers konar köllun um að endurreisa rússneska ríkið með landvinningum, þar sem taka Úkraínu væri bara forsmekkurinn að því, sem koma skal.  Fyrir vikið hefur Sambandslýðveldið nú orðið við beiðnum Úkraínustjórnar um að senda Úkraínuher öflug varnarvopn, og munar þar e.t.v. mest um handhæg flugskeyti gegn skriðdrekum og herflugvélum/herþyrlum. Ekki hefur þó frétzt af Leopard 2. skriðdrekanum enn í Úkraínu. Er þó um að ræða hressilega viðbót við þá 5000 hjálma, sem ríkisstjórn Olaf Scholz áður sendi, og sumir litu á sem lélegan brandara, en reyndist síðasti liðurinn í friðþægingarferli Þjóðverja gagnvart Rússum, sem mafíósar túlka bara sem veikleikamerki.  Friðþægingarstefnan heyrir nú sögunni til. 

Þá var sunnudaginn 27. febrúar 2022 tilkynnt í Berlín um, að ríkisstjórnin hygðist leggja fram fjáraukalagafrumvarp fyrir Bundestag, sem kveður á um mrdEUR 100 eða rúmlega 14 trilljóna ISK (tæplega 5-föld VLF Íslands) viðbótar fjárveitingu til Bundeswehr á örfáum árum til að fullnægja strax viðmiðum NATO um a.m.k. 2,0 % af VLF til hermála á ári.  Það mundi svara til mrdISK 60 til varnarmála hérlendis. 

Þjóðverjar gera það ekki endasleppt, þegar þeir finna, að að þeim er sorfið.  Um þessa sömu helgi söðlaði ríkisstjórnin í Berlín um í orkumálunum.  Í stað þess að hvetja til fjárfestinga í vindmyllum og sólarhlöðum, sem eru í senn lítilvirk, plássfrek og óáreiðanleg framleiðslutæki, sem krafjast gasorkuvera með til að fylla í eyður slitrótts rekstrar, þá var ákveðið að leysa raforkuvanda landsins með því að flýta fyrir því að reisa kjarnorkuver, en eins og mörgum er kunnugt, ákvað Bundestag 2011 að tilhlutan fyrrverandi kanzlara CDU, Angelu Merkel, í kjölfar Fukushima hamfaranna í Japan, að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands í síðasta lagi 2022.  Þarna hafa Þjóðverjar loksins tekið raunhæfa stefnu um að verða sjálfum sér nógir með rafmagn án þess að brenna jarðefnaeldsneyti. 

Með þessum 3 ákvörðunum ríkisstjórnar og þings í Berlín, þ.e. að senda vopn til stríðandi aðila, að gera Bundeswhr vel bardagahæfan á ný og að reisa kjarnorkuver, hafa Jafnaðarmenn (SPD) kastað friðþægingarstefnu sinni gagnvart Rússum á haugana, og Græningjar hafa kastað friðarstefnu sinni (uppruni þessa flokks eru friðarhreyfingar í Þýzkalandi á 8. og 9. áratug 20. aldar) og hatrammri andstöðu við kjarnorkuver fyrir róða.  Miklir atburðir hafa orðið, og er þó innan við vika síðan hinir örlagaþrungnu atburðir hófust.   


Stríð í hjarta Evrópu 2022

Sá fáheyrði atburður hefur nú gerzt í febrúar 2022, að stórveldi hefur ákveðið að ræna nágrannaríki sitt í Austur-Evrópu réttmætu fullveldi sínu með hervaldi. Þessi siðlausi og ólögmæti ofbeldisgjörningur hófst aðfararnótt fimmtudagsins 24. febrúar 2022, þegar rússneski herinn hóf eldflaugaárásir, stórskotaliðsárásir, flugárásir og skriðdrekaframrás úr norðri, austri og suðri, á Úkraínu. 

Úkraínski herinn og úkraínskur almenningur berst hetjulegri baráttu gegn ofureflinu og sýnir þar með umheiminum, að Úkraínumenn eru tilbúnir til að berjast til þrautar fyrir sjálfstæði og fullveldi lands síns.  Ef þjóð, sem tilbúin er til að færa slíkar fórnir sem Úkraínumenn fyrir fullveldi sitt og sjálfstæði þjóðarinnar, á ekki skilið að halda fullveldi sínu, hver á það þá skilið ? 

Úkraínumenn hlutu fullveldi 1917 með sama hætti og Finnar í kjölfar rússnesku byltingarinnar, en urðu síðar hluti Ráðstjórnarríkjanna og hlutu þar slæma útreið, því að hlutskipti þeirra var að framleiða matvæli ofan í íbúa borga Ráðstjórnarríkjanna.  Stalínstjórnin tók jarðir sjálfstæðra bænda eignarnámi og drap eða flutti þá nauðungarflutningum til Síberíu eða annað, sem ekki vildu taka þátt í samyrkjubúskapinum.  Við þetta hrundi landbúnaðarframleiðsla Úkraínu, og eftirlitsmenn ráðstjórnarinnar tóku matarbirgðir bændanna og færðu þær til borganna. 

Árið 1933 varð svo hungursneyð í Úkraínu og "Holodomer", sem er úkraínska fyrir hungurdauði, þegar ráðstjórn Stalíns lét 4 milljónir manna deyja drottni sínum úr hungri.  Þessir voðaatburðir líða ekki úkraínsku þjóðinni úr minni.

Þótt Rússar og Úkraínumenn sé skyldar þjóðir, hafa Úkraínumenn margoft sýnt, að þeir vilja ekki vera í ríkjasambandi við Rússa.  Þessar þjóðir eiga ekki samleið, og Úkraínumönnum vegnar mun betur sem fullvalda þjóð en í ríkjasambandi, þar sem þeir njóta sín ekki. 

Úkraínumenn kjósa fullveldi sér til handa og lýðræðislegt stjórnarfar, sem reist er á þingræði. Þeir eru vestrænir í hugsun og háttum. Herinn, forsetinn, ríkisstjórn og þing Úkraínu hafa barizt hetjulegri baráttu við ofurefli liðs, og þjóðin hefur staðið að baki þeim, og tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa vopnazt og barizt gegn kúgunaraflinu úr austri. 

Allar þjóðir eiga rétt á að öðlast sjálfstæði, kjósi þær það, og að velja sér vini og bandamenn.  Þannig ákváðu Finnar á sínum tíma að ganga í Evrópusambandið (ESB) til að efla tengsl sín við lýðræðisríki Evrópu, en þeir hafa ekki treyst sér til að ganga í NATO, enda hafa Rússar jafnan lýst sig andvíga því. Hins vegar gengu Eystrasaltsríkin bæði í ESB og NATO.  Það hefur nú sýnt sig, að bezta og eina vörn lítilla og meðalstórra ríkja gegn grímulausri árásargirni stórveldis er aðild að NATO.

Vladimir Putin, einvaldur Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum sent frá sér ritgerðir og haldið ræður, þar sem fram koma stórhættuleg viðhorf og söguskýringar, sem gefa til kynna, að þar sé einvaldur, haldinn landvinningahugmyndum.  Hann telji hlutverk sitt að færa út yfirráðasvæði Rússa í það horf, sem það mest hefur verið.  Þetta er vitfirringsleg hugmyndafræði á okkar tímum og mun verða þess valdandi, að lýðræðisríki Evrópu munu hervæðast, eins og mest þau mega. Allt er nú gjörbreytt í Evrópu, þar sem stríð hefur brotizt út á ný. 

Þegar ríki sitja uppi með stríðsglæpamenn sem stjórnendur, verða þau að taka afleiðingunum af því.  Það er eðlilegt, að þeim, sem nú ofbýður framferði Kremlverja gagnvart Úkraínu, skeri tengsl við Rússland niður við trog, á meðan glæpsamleg hegðun gagnvart friðsömu nágrannaríki einkennir valdhafa þess. 

Lýðræðisríkin eiga að veita Úkraínumönnum alla þá aðstoð, sem verða má á meðan á þessu stríði stendur, á meðan á hernáminu stendur og á uppbyggingarskeiði landsins í kjölfarið.  Eftir að Úkraínumenn endurheimta frelsi sitt, verður að hjálpa þeim við að tryggja öryggi sitt eftir þeim leiðum, sem þeir kjósa helzt sjálfir. 

Vesturlönd hafa sofið á verðinum gagnvart yfirvofandi hættu og ekki rumskað fyrr en bjallan glumdi að morgni 24. febrúar 2022. Þetta er svipuð sviðsmynd og haustið 1939.  Líklega er meiri hætta nú á 3. heimsstyrjöldinni en nokkru sinni áður.  Eins og áður stafar hættan aðallega af einum manni, siðblindingja, sem virðir lög og reglur einskis, heldur virðir aðeins vald og styrk til valdbeitingar.  Þess vegna ríður nú á, að NATO safni liði og hergögnum í Evrópu hið snarasta og komi sem mestu af vopnabúnaði í hendur Úkraínumanna hið fyrsta.  Þótt NATO lendi ekki í beinum vopnaviðskiptum við fjandmanninn, er þó alveg ljóst, að Vesturlönd og bandamenn þeirra verða að færa fórnir í viðureigninni við árásargjarnt stórveldi til að halda frelsi sínu.    

ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 

  

 


Fullveldið er fjársjóður

Forfeðrum okkar og formæðrum í Noregi var frelsishugsjónin í blóð borin. Bændur á Vesturlandinu norska börðust gegn valdabrölti kóngsins í Víkinni (nú Ósló (lóð ásanna)), og þegar þeir sáu, að þeir höfðu ekki bolmagn til að verjast hernaðarmætti kóngsa (Haraldar hárfagra), sem vildi sameina Noreg í eitt ríki, þá seldu þeir sumir hverjir jarðir sínar, fjárfestu í rándýrum skipakosti (allt að 400 MISK/stk að núvirði) og freistuðu gæfunnar á Bretlandseyjum, Færeyjum og á Íslandi.  Með lævísi, tökum á siglingunum vegna norskra skipasmíða og hervaldi eða hótunum þar um tókst Noregskonungi síðar að ná tangarhaldi á þessum landsvæðum, byggðum afkomendum Norðmanna. Þegar Íslendingar brutust undan oki Danaveldis, sem höfðu vegna konunglegra mægða öðlazt völd í Noregi, í Færeyjum og á Íslandi auk Grænlands, sönnuðu þeir fyrir sjálfum sér og öðrum mátt og styrk sjálfstjórnunarinnar (fullveldisins), sem þeir höfðu barizt svo lengi fyrir. Ekkert hefur breytzt, sem ætti nú að leiða til betra lífs á Íslandi, gerist landið fylki í Noregi (sem ekki er í boði, nema í höfði grillupúka) eða fullgildur aðili að Evrópusambandinu (ESB). 

Engu að síður lifir frelsishugsjónin enn á meðal íbúa þessara landsvæða norska ríkjasambandsins, ekki sízt á Íslandi, og fullveldið hefur borið ríkulegan ávöxt hér.  Frelsishugsjón forfeðra okkar og formæðra var ekki bara reist á vilja þeirra til að lifa lífi sínu óháð fjarlægu valdi, sem þau höfðu enga stjórn á, heldur hafa þau áreiðanlega talið, að afkomu sinni væri bezt borgið með frelsinu til að haga málum sínum að eigin geðþótta innan marka laganna, sem ákveðin voru á héraðsþingum í Noregi (fyrirmynd íslenzkra héraðsþinga og Alþingis að breyttu breytanda).

Þegar við skoðum stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna núna, hefur tekizt ótrúlega vel til. Varnarmálunum hefur verið skipað, eins vel og kostur er fyrir herlaust land úti í Atlantshafi, hvers lega skapar talsvert hernaðarlegt mikilvægi.  Landið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum án þess að segja fyrst öxulveldunum stríð á hendur, eins og þó var krafa Vesturveldanna.  Það var farsæl ákvörðun fyrir framtíðar samskiptin við Þýzkaland, Ítalíu og Japan.

  Landið nýtur góðs af aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, og á aðild að ýmsum fríverzlunarsamningum EFTA og tvíhliða fríverzlunarsamningum, en afdrifaríkastur er EES-samningurinn, sem EFTA gerði við ESB árið 1992 og 3 af 4 ríkjum EFTA hafa innleitt í sína löggjöf. Þessi samningur er ekki venjulegur fríverzlunarsamningur, heldur gerir hann kröfu um innleiðingu löggjafar ESB, sem framkvæmdastjórn Sambandsins telur varða Innri markaðinn, og er þetta skilyrði fyrir aðild að honum.

Þetta er að sjálfsögðu viðkvæmt mál fyrir fullvalda ríki, sem stendur utan samningsins, því að innleiðing löggjafar ESB á sér alls engar lýðræðislegar rætur í EFTA-ríkjunum, og dómsvaldið er líka að nokkru leyti flutt til EFTA-dómstólsins, sem dæmir samkvæmt löggjöf ESB og fylgir dómafordæmum ESB-dómstólsins.  Það eykur vandann, að Framkvæmdastjórnin er tekin að færa út kvíarnar, hvað varðar málefni Innri markaðarins, og eru persónuverndarlöggjöfin og orkulöggjöfin (orkupakkarnir) með eigin stofnunum dæmi um þetta.  Í EES-samninginum er þó að finna ýmsa varnagla fyrir EFTA-ríkin. Við innleiðingu OP3 var innleiddur í löggjöfina sá varnagli, að Alþingi skyldi þurfa að samþykkja lagningu aflsæstrengs til Íslands, og var það vel.  Í raun og veru eiga þessir orkupakkar ESB ekkert erindi við Íslendinga, á meðan landið er ótengt við raforkukerfi ESB-ríkjanna. 

Þann 10. júlí 2021 birtist í Morgunblaðinu grein um mikilvægi þess fyrir Íslendinga að vera á varðbergi gagnvart útþynningu lýðræðis og fullveldis í nafni meints "frjálslyndis", sem eru í raun alger öfugmæli sem lýsing á stefnu þeirra, sem telja nú mestu varða fyrir Íslendinga að fela framkvæmdastjórn ESB völd til að ráðskast með málefni Íslands, eins og ráðherraráði og þingi ESB þóknast hverju sinni.  Það er með ólíkindum, að nokkur hérlendis skuli vera svo blindur á staðreyndir, sögulega lexíu og lítilla sanda og sæva að vilja fela ríkjasambandi, sem stefnir á að verða sambandsríki Evrópu, forsjá fullveldis landsins rúmlega 100 árum, eftir að það var endurheimt frá Dönum. Sem betur fer nær áróður fyrir þessari fúlu stefnu litlum hljómgrunni á meðal þjóðarinnar, en þó setja a.m.k. 2 stjórnmálaflokkar á Alþingi, Samfylkingin og Viðreisn, þetta mál á oddinn hjá sér, og píratar virðast hallir undir þennan málflutning líka, þótt þeir virðist hafa lítinn áhuga á öðru en skrumi, pólitískum upphlaupum og "nýrri stjórnarskrá", sem mikil dulúð hvílir yfir.  

Téð Morgunblaðsgrein er eftir manninn í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, Arnar Þór Jónsson- AÞJ, og nefnist:

"Höfum það sem sannara reynist".

Greinin var rituð af því tilefni, að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú innarlega á gafli hjá Viðreisn, fékk birta í Morgunblaðinu 8. júlí 2021 grein, þar sem hann með útúrsnúningi reynir að kenna baráttumál AÞJ við andstöðu við "fjölþjóðastefnu", "Evrópusamstarf" og skort á frjálslyndi, m.ö.o. einangrunarhyggju.  Það er til marks um vondan málstað ÞP og Viðreisnar að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og deila síðan á þá fyrir þær:

"Í greininni segir Þorsteinn m.a.: "Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helzta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann.  Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.""

Þetta er skrýtið hnoð hjá ÞP. Hvaða skilning ætli Þorsteinn leggi í þau hugtök, sem þarna er fleygt fram, eins og t.d. "frjálslyndur".  Bezt gæti ég trúað, að sá sé "frjálslyndur" í huga ÞP, sem er alveg sama, hvernig íslenzka stjórnarskráin, lýðveldisstjórnarskráin, sem um 96 % atkvæðisbærra manna samþykkti árið 1944, er teygð og toguð og jafnvel hundsuð.  Það er mjög afbrigðilegt viðhorf, sem ekkert erindi á við þorra þjóðarinnar. 

Orðabókin skilgreinir hins vegan frjálslyndan þannig: "víðsýnn, umburðarlyndur og í stjórnmálum er sá frjálslyndur, sem beitir sér fyrir frjálsum markaði með sem minnstum afskiptum og er yfirleitt fremur umburðarlyndur í siðferðilegum efnum".  

Þessi lýsing á ágætlega við um Sjálfstæðisflokkinn frá fornu fari, og höfuðbarátta AÞJ á stjórnmálasviðinu hefur einmitt snúizt um að hefja upphafsgildi Sjálfstæðisflokksins til vegs og virðingar á ný.  Mörgum þykir mjög tímabært að beina flokkinum inn á þær brautir í meiri mæli en verið hefur um sinn. 

Meira úr hinni ágætu grein AÞJ:

"Sú "ákvörðun" sjálfstæðismanna, sem Þorsteinn vísar þarna til, er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs, þar sem alls 4772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenzkra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu.  Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína." 

Sú klíkukennda aðferðarfræði við val á framboðslista fyrir Alþingiskosningar haustið 2021 sýnir, að flokkurinn er hallur undir valdboð að ofan og skortir lýðræðislegan þroska. Klíkunni í Viðreisn hefur farizt verkið einstaklega óhönduglega, t.d. gagnvart fyrrverandi formanni, sem sóttist eftir að leiða flokkinn í einu kjördæmanna.  Klíkan bauð honum neðsta sætið í Reykjavík. Síðan fékk klíkan pata af því, að búast mætti við klofningsframboði gamla formannsins, og þá bauð nýi formaðurinn þeim gamla 2. sætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.  Þetta ákvað sá gamli að þiggja, en þá dró sá nýi allt til baka og kvað klíkuna ekki unna honum þessa sætis.  Nú er náttúrulega hver höndin uppi á móti annarri í þessu klíkuviðrini, sem Viðreisn nefnist.  Eitt er víst, að einkunnin "frjálslyndur" fer viðrininu afar illa. 

"Eftir útgöngu Breta hefur þessi straumur [í átt að "æ nánari samruna ESB-ríkjanna"-innsk. BJo]  orðið merkjanlega þyngri, sbr. frétt Reuters 8. júní sl. um þau ummæli utanríkisráðherra Þýzkalands, að afnema ætti neitunarvald aðildarríkja ESB í utanríkismálum. Smáríkjum á þannig ekki lengur að leyfast að standa í vegi fyrir meirihlutavaldi innan ESB.  Á sama tíma berast fregnir af sambærilegri einstefnuþróun í innanríkismálum aðildarríkjanna, því [að] framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt, að hún hyggist stefna 7 ríkjum fyrir dómstól ESB vegna brota á Evrópureglum, m.a. Þýzkalandi fyrir að heimila þýzka stjórnarskrárdómstólnum að segja, að skattfé Þjóðverja skuli varið í samræmi við þýzku stjórnarskrána, en ekki samkvæmt Evrópurétti. Þeir, sem harðast vilja halda sig við ESB-draumsýnina [og á Íslandi eru ýmsir kaþólskari en páfinn-innsk. BJo], munu svara þessu með því að segja, að allar þessar málshöfðanir og valdbeiting þjóni göfugum tilgangi.  [Í Þriðja ríkinu var svipað haft á orði: "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-innsk. BJo.]  Fram hjá því verður þó ekki horft, að slíkir einstefnutilburðir Brusselveldisins misvirða ítrekað lýðræðislegan vilja aðildarþjóðanna. Í framkvæmd víkur lýðræðið þar fyrir skrifræðinu og lýðveldin fyrir skrifstofuveldinu. 

 Íslendingar þurfa ekki að rýna í neina krystalskúlu til að sjá, hver staða smáríkja í slíku fyrirkomulagi kemur til með að vera.  Stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjármagn, verða ráðandi í öllum meginatriðum."

Þróun stjórnfyrirkomulags ráðherraráðsins er í átt til atkvæðagreiðslna með veginni þyngd hvers ráðherra samkvæmt hlutfallslegum mannfjölda í ríki hans og til afnáms neitunarvalds einstakra ráðherra. Ríki verða því ofurliði borin í atkvæðagreiðslu, og atkvæði okkar ráðherra mundi vigta um 1/1000.  Við mundum týnast í mergðinni, og sjálfstæði Íslands mundi heyra fortíðinni til.  Hvers konar framtíðarsýn er það ?

Í landsöluáróðrinum hefur verið reynt að draga fjöður yfir þessa náköldu baksviðsmynd ESB-trúboðsins með hagfræðilegum vangaveltum um, að Íslendingum mundi vegna betur með EUR en ISK. Það hefur þó aldrei verið sýnt fram á það, að hagvöxtur og stöðugleiki verðlags muni vaxa í litlu hagkerfi með því að taka upp mynt stórs hagkerfis, sem sveiflast með allt öðrum hætti en litla hagkerfið.  Þeim, sem eru í vafa um hagfræðileg rök fyrir því að kjósa ISK fram yfir EUR, er bent á að lesa grein eftir Adam Glapinski, prófessor í hagfræði og forseta ríkisbanka Póllands, í Morgunblaðinu, 13.07. 2021. 

"Skrif Þorsteins bera vott um skeytingarleysi gagnvart fullveldi Íslands, því [að] hagsmunir Íslands samræmast illa þeim veruleika að vera jaðarsett og áhrifalaust smáríki gagnvart æðsta valdi innan ESB.  Hugsjónir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og alþjóðlega samvinnu eru ekki í takti við þá vaxandi einstefnu, sem nú blasir við á vettvangi ESB. Fullveldi felur í sér, að íslenzk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenzkum dómstólum. Vilji menn ofurselja íslenzka kjósendur öðru fyrirkomulagi, er sjálfsagt, að viðkomandi láti á það reyna í lýðræðislegum kosningum." 

Íslenzka stjórnarskráin takmarkar alþjóðasamvinnu nánast við þjóðréttarlegar skuldbindingar á borð við aðild að Sameinuðu þjóðunum, NATO og Hafréttarsáttmálanum, en þegar kemur að samstarfi, sem felur í sér að lúta yfirþjóðlegu valdi með innflutningi á erlendri löggjöf, sem hefur vel merkjanleg áhrif á daglegt líf íslenzkra ríkisborgara, þá vandast málið augljóslega, ekki aðeins gagnvart íslenzku stjórnarskránni, heldur einnig í Noregi gagnvart hinni norsku.

Á vettvangi EFTA/ESB við gerð EES-samningsins var brugðizt við þessum vanda með því að búa til lögfræðileg lausn, hálfgerða hrákasmíði, enda ætlað standa til bráðabirgða fram að inngöngu í ESB, sem kallast tveggja stoða fyrirkomulagið, þar sem stofnanir EFTA-ríkjanna eiga að spegla ESB stofnanir.  Þar speglar ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) Framvæmdastjórnina og EFTA-dómstóllinn ESB-dómstólinn. Evrópusambandið virðist verða æ þreyttara á þessari sérsniðnu lausn, og samhliða fjölgun stofnana þess hefur það krafizt sömu valda þeirra yfir viðkomandi málefnasviðum í EFTA-ríkjunum og á við í ESB-ríkjunum.  Dæmi um þessar stofnanir eru Persónuverndarstofnun ESB, Fjármálaeftirlitsstofnun og Orkustofnun ESB (ACER). EFTA-ríkin hafa þó ekki atkvæðisrétt í þessum stofnunum, aðeins áheyrnar- og tillögurétt. 

Þessi þróun í átt til aukinnar miðstjórnar í ESB veldur því, að EFTA-þjóðirnar verða að gæta betur að fullveldi sínu en áður var þörf á innan EES og knýja á um undanþágur í meiri mæli. Regluverkið á Íslandi er líka orðið svo íþyngjandi fyrir fyrirtæki og almenning, að það stendur framleiðniaukningu fyrir þrifum og þarfnast stórfelldrar grisjunar, eins og OECD hefur nýlega bent á. Embættismenn hafa af tillitsleysi við hagsmuni almennings plantað frumskógi reglugerða, sem erfitt og kostnaðarsamt er að rata í, sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki, og þannig eru flest fyrirtæki á Íslandi.

"Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra, sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú "augljóst", að fríverzlun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki [og við ESB-innsk. BJo].  Lausnin felst einfaldlega í gagnkvæmri viðurkenningu framleiðslustaðla, auk synjunar- og neitunarvalds, þar sem það á við.  

Hvað sem firrum Þorsteins Pálssonar kann að líða, er Íslandi þessi leið fær sem fullvalda ríki án þess að ofurselja sig erlendu lagasetningar- og túlkunarvaldi.  Þetta er hrein skynsemi og stendur nær klassísku frjálslyndi í framkvæmd en ákall Þorsteins Pálssonar um blint íhald, undirlægjuhátt, miðstýringu og órjúfanlega tryggð við ESB, allt á kostnað sjálfsákvörðunarréttar og lýðræðis.  Ég treysti kjósendum til að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi af þeim toga, sem Þorsteinn Pálsson boðar nú."

Það neistar undan hófförum ritfáks AÞJ, þar sem hann ríður á hólm við ÞP. Það er kominn tími til að hrekja af snerpu villukenningar falsspámanna um utanríkismál Íslendinga. Hvað gengur þeim til ? Í Fréttablaðinu 15.07.2021 heldur ÞP sig við firrur sínar og líkir jafnvel aðild Íslands að NATO við þá aðild að ESB, sem hann berst fyrir. Barnalegri málflutning er vart hægt að hugsa sér, og getur hann vart orðið Viðreisnarhrófinu til vegsauka, því að hann sýnir málatilbúnað án tengsla við raunveruleikann, eins og tíðkast innan raða sértrúarsafnaða.

Með NATO-aðild höfum við undirgengizt, að árás á einn er árás á alla, en er hægt að hugsa sér meiri öryggistryggingu fyrir herlaust land en slíkan samning við öflug vestræn herveldi ?  NATO semur ekki lög, sem hægt er að þröngva upp á Ísland, enda hafa aðildarlöndin neitunarvald um samþykktir varnarbandalagsins.  NATO rekur heldur ekki dómstól, sem er fordæmisgefandi um uppkvaðningu dóma, er varða Ísland.  Þessi samanburður er algerlega út í hött og sýnir, að málstaður Viðreisnar er vondur.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband